Tag Archive for: Kópavogur

Lækjarbotnar

Í Gömlubotnum (Lækjarbotna) er m. a. að finna tóftir bæjar Hallberu Jónsdóttur, en hún bjó skv. heimildum í Lækjarbotnum um 1870, auk Hallberuhellis. Þá er þar ekki síst að finna leifar tveggja selja; Örfiriseyjarsels og Viðeyjarsels (Bessastaðasels). Þess síðarnefnda er þó hvergi getið í fornleifaskráningum þrátt fyrir merkilegheitin – ekki einu sinni í skýrslu um „Rannsóknir á seljum í Reykjavík“ (bls. 25). – http://borgarsogusafn.is/sites/borgarsogusafn.is/files/atoms/files/skyrsla_159.pdf

Viðeyjarsel

Viðeyjarsel.

Árið 1868 var Þorsteini Þorsteinssyni gefið út nýbýlaleyfi fyrir landinu Lækjarbotnum undir Selfjalli. Fjallið dregur nafn sitt af seli jarðarinnar Örfiriseyjar á Seltjarnarnesi. Um 1870 eftirlét hann Hallberu Jónsdóttur helming jarðarinnar. Hún lenti síðan í dómsmálum við Benedikt Sveinsson á Elliðahvammi, föður Einars Bendiktssonar, eftir að Þorsteinn hafði selt honum Gömlubotna. Hallbera neitaði að greiða Benedikt leigu af jörðinni, en í undirrétti var honum dæmd jörðin öll. Yfirréttur sneri dómnum við og taldi sannað að Hallbera ætti helminginn. Eftir sem áður þurfti hún að greiða bóndanum á Elliðahvammi leigu af hálfri jörðinni – þeim helmingi er var í hans eigu.
Örfirisey átti selstöðu þar og hafði í seli og hefur svo verið vegna landleysis jarðarinnar. Selið var líklega aflagt árið 1799, þegar byggð í Örfirisey fór í eyði eftir Básendaflóðið. Lækjarbotnar var efsta byggða ból vestan Hellisheiðar og í þjóðbraut, því þarna inn við Selfjallið lá gamla leiðin um Lækjarbotna. Þetta nýbýli var því vinsæll áningarstaður bænda úr austursveitum á kaupstaðarferð til Reykjavíkur og ekki síður á austurleið. Guðmundur H. Sigurðsson bóndi í Lækjarbotnum (1876-1957) flutti húsið á árunum 1904-1910 að þjóðveginum sem lá um Fossvallaklif og rak þar greiðasölu. Í manntalinu 1910 er býlið nefnt Lögberg Lækjarbotnar og er líklegt að þá hafi verið farið að nefna eldra bæjarstæðið Gömlubotna. Guðmundur gaf Skátasambandi Reykjavíkur land í Gömlubotnum og reistu þeir þar árið 1929 fyrsta útivistarskálann á Íslandi. Hann var nefndur Væringjaskálinn og var fluttur á Árbæjarsafn árið 1962 og endurbyggður þar. Fimm fornminjar eru skráðar í Gömlubotnum: Fjárhús, rétt, sel, fjárból og rúst.

Viðeyjarsel

Viðeyjarsel (Bessastaðasel) – uppdráttur ÓSÁ.

Á Lögbergi hafði Guðmundur greiðasölu og gistingu ásamt bústýru sinni, Guðfinnu Karlsdóttur, og nefndi býlið Lögberg. Húsið var rifið þegar Suðurlandsvegurinn var lagður á sjöunda áratug 20. aldar. Á ás sunnan vegarins er gamla túnið á Lögbergi, Túnhóllinn. Þar eru bæjarstæði og fleiri rústir ásamt grafreit, en þar hvílir Guðmundur bóndi og veitingamaður, Svavar Guðmundsson. Norðan við grafreitin má sjá leifar útihúss með hlöðu í suðurenda.

Viðeyjarsel

Viðeyjar (Bessastaðasel).

Tilgangur einnar FERLIRsferðarinnar af u.þ.b. 1000 talsins var ekki síst sá að athuga hvort hægt væri að koma auga á leifar tveggja selja, sem áttu að hafa verið á þessu svæði, þ.e. auk Örfiriseyjarsels undir Selfjalli. Bæði Viðey og Lambastaðir munu hafa haft selstöður þarna efra þótt staðsetning þeirra hafi ekki legið ljós fyrir. Jafnan hefur verið gengið út frá því sem vísu að öll selin væru í Örfiriseyjarselsstað.
Í Jarðabókinni 1703 segir að Erfersey hafi haft selstöðu undir Selfjalli þar sem heitir Erferseyjarsel. Tóftir við skátaskálann sem þar er syðst í Botnunum munu að öllum líkindum vera leifar þess, sem og seinni tíma bæjarstæði, auk búskapar (beitarhús) frá Lögbergi.
Í örnefnaskrá fyrir Lækjarbotna eftir Guðlaugur R. Guðmundsson kemur m.a. fram að „býlið [Lækjarbotnar] stóð á hólnum, Bæjarhólnum, sem er til hægri, þegar þjóðvegurinn er ekinn þá í austurátt. Hóllinn reyndist það hár, þegar bílöld gekk í garð, að erfiðleikum var háð fyrir bóndann að aka upp á hólinn og leggja veg að bænum. Þar af leiðandi færði bóndinn býlið, 1907, yfir hinum megin, þar sem land var lægra, og reisti þar nýjan bæ. Hann nefndi húsið Lögberg. Þar bjó Guðmundur til dauðadags 1957.
Bóndinn treysti því og, að vatnsból gott væri rétt hjá Lögbergi, en vatnsmagn er þar mjög breytilegt í Fossvallaá og Fossvallaklifið oft þurrt. Karl segir, að aðeins árin 1921 og 1976 hafi runnið allt sumarið í ánni.
Undir Selfjalli eru Selhólar. Þar fyrir framan er Gráhóll og Pálspyttur við hann, þar sem Páll hefur líklegast farið undir ís.
Viðeyjarsel / Bessastaðasel / Örfiriseyjarsel / GömlubotnarSel frá Viðey var inn með Gömlubotnum.“ Í athugasemdir og viðbætur við Lækjarbotnaörnefnalýsinguna skráði Sigríður Jóhannsdóttir eftir Jóni I. Bjarnasyni að „Fossvallaklifið [hafi] oftast [verið] þurrt; þar rennur aldrei vatn; klifið er, þar sem gamli vegurinn var, og hraðbrautin liggur núna um klifið upp á Fossvogsvellina. Þar hefur aldrei runnið nein á. Lækurinn og pytturinn nú orðnir þurrir, síðan nýi vegurinn var lagður.
Jörðin Örfirisey var landlítil; átti selstöðu undir Selfjalli, ekki Viðey. Af því dregur fjallið nafn. Þar sem selið var, heita Selhólar; sjást rústir ennþá, nú reyndar mjög sokknar.“
Um selstöðu Reykjavíkurbæjarins segir að jörðinni hafi verið eignuð slík „þar sem heitir Víkursel undir Undirhlíðum; sumir kalla það gamla Víkursel; þar hefur jörðin brúkað hrís til eldiviðar fyrir selsins nauðsyn.“ Og þar sem Langahlíð var í sunnanverðri Öskjuhlíð var jafnvel talið að Víkursel hafi verið þar sem nú má sjá leifar. Skammt frá eru merki eftir sel frá Hlíðarhúsum.
Selstígur Viðeyjarsels og ÖrfiriseyjarselsÍ Sögu Reykjavíkur eftir Klemens Jónsson segir: „Að búskapur hefur verið mikill, má meðal annars sjá af því, að jörðin átti sel, Víkursel, er var notað með vissu ennþá um 1600, en hvar það sel hafi verið, er óljóst.“
Um selstöðu Lambastaða segir Jarðabókin að „selstöðu þykjast nokkrir heyrt hafa jörðinni eignaða þar sem heitir undir Selfjalli og kallað er Lambastaðasel.“
Í lýsingu Viðeyjar segir „selstaða er á fastalandi þar sem heitir Viðeyjarsel, og hefur það verið brúkað frá Bessastöðum.“ Í lýsingu fyrir Bessastaði er ekki minnst á selstöðu í Jarðabókinni 1703.

Meðfylgjandi er m.a. uppdráttur af minjunum í Lækjarbotnum af Viðeyjarseli (Bessastaðaseli) og Örfiriseyjarseli, auk uppdráttar af selstígnum, en þeirra er ógjarnan getið í einstökum fornleifaskráningum þegar slíkra minja er getið.

Viðeyjarsel

Viðeyjarsel (Bessastaðasel).

Vatna-Sæluhús

Eftirfarandi upplýsingar bárust FERLIR í tölvupósti: „Ég fann tvær rústir á Sandskeiðinu  þ.e. við austur endann. Þetta virðast vera hlaðnir brunnar rétt við þar sem gamla þjóðleiðin lá upp á Bolaöldurnar. Ef þið hafið áhuga á að skoða þetta, þá hefði ég ánægju af að sýna ykkur staðinn.“
HleðslurGengið var að framangreindum hleðslum skv. ábendingum viðkomandi. Þær eru á grónum mel skammt frá uppþornaðri stórri tjörn er gæti hafa tilheyrt Fóelluvatnasvæðinu, undir svonefndu Ölduhorni. Gamli akvegurinn liggur þar skáhallt upp Ölduna. Nýrri vegur hefur síðan verið gerður upp hana svolítið vestar. Aðrir vegir eru þarna, en þeir hafa verið hluti af braggahverfi, sem þarna var á stríðsárunum og tengdust Sandskeiði. Varðturn var þarna ofar við veginn og hlið.
Fyrirhuguð er stækkun á flugvallarsvæðinu á Sandskeiði til austurs. Framangreindar hleðslur eru skammt innan þess svæðis.
Þarna gæti hafa verið gömul þjóðleið  vestan við vatnasvæðið, framhjá sæluhúsi, sem er á klapparhól þar nokkru norðar. Hún gæti líka hafa legið á millum vatnanna, ofan við Neðri-Fóelluvötun að vestanverðu og síðan vestan með Efri-Fóelluvötnum og þá nokkuð austar.

Hleðsla

Hleðslurnar sjást, en eru jarðlægar. Önnur virðist hringlaga, en óreglulegri lögun á hinni. Eitt hleðslufar virðist hafa verið um að ræða. Bil milli þeirra er ca. 12 metrar. Hugsanlega gæti þarna hafa verið mörkuð brunnsvæði fyrir menn og skepnur á leið um þjóðleiðina, en hafa ber í huga að stutt hefur verið í dýpra vatn skammt austar, auk þess lækir millum vatnanna hafa verið þarna skammhendis.
Hleðslurnar eru í línu milli braggasvæðis á Ölduhorni og mannvirkjanna á Sandskeiði. Líklegt má telja að þarna hafi verið stauralína á stríðsárunum. Púkkað og hlaðið hefur verið utan um staura þarna á melnum, enda meira en tveggja metra djúp mold undir ef tekið er mið af nálægum skurði. Þegar staurarnir hafa verið fjarlægðir hefur grjótið færst til og jafnvel sigið að hluta vegna frostverkunnar og þannig smám saman myndað „brunnlaga“ hleðslu.
Þegar umhverfið var skoðað nánar beindist athyglin ekki síst að sæluhúsatóftinni fyrrenfndu.

Sandskeið

Í landamerkjalýsingu Elliðakots (Helliskots) frá Guðmundi Magnússyni, bónda þar, segir m.a.: „Að austanverðu: frá árfarinu til suðurs eptir nefndri stefnu beint í Vífilfell. Að sunnanverðu: frá Vífilsfelli niður Sandskeiðið niður fyrir Vatna-Sæluhús og svo eptir árfarinu fyrir sunnan neðri–Vötnin að þúfu, sem stendur á holtstanga fyrir neðan neðri–Vötn; þaðan eins og ræður syðsta kvíslin af Fossvallaánni…“
Hér er getið um „Vatna-Sæluhús“ á nefndum stað. Á öðrum stað er sagt frá Vatnasæluhúsinu, sbr. umfjöllun um Fóelluvötnin: „Efri- og Neðri-Fóelluvötn eru sunnan við Lyklafell og austan við Vatnaás í núverandi landi Kópavogs, samsafn smátjarna og polla í grennd við Sandskeið, kringum þjóðveg 1 ofan við Reykjavík.

Sæluhúsið

Vatnasvæðið virðist hafa tilheyrt Vilborgarkoti og Helliskoti (Elliðakoti) samkvæmt Jarðabók Árna og Páls en báðar þessar jarðir eru þar skráðar í Mosfellssveit. Í Jarðabókinni er talað um óvissu í þessum efnum, sérstaklega varðandi Vilborgarkot sem þá, í byrjun 18. aldar, hafði lengi verið í eyði. Ábúendur Helliskots (Hellirskots) í Mosfellssveit og Hólms í Seltjarnarneshreppi höfðu þá lengi nýtt land Vilborgarkots. Frá þessum tíma er því ruglingurinn kominn um nýtingu Vilborgarkotslands. Í Jarðabókinni er sagt að jörðin Vilborgarkot gæti aftur byggst upp og þyrfti þá greinilega að skoðast hve vítt landeign þessarar jarðar verið hefði sem kunnugir menn meina að ekki hafi verið alllítið (Jarðabók III:287-288).
Þorvaldur Thoroddsen nefnir vötnin Fóelluvötn. Hann segir malar- og grjótfleti þar myndaða af vatnsrásum frá Lyklafelli. Fóelluvötn flæða yfir stórt svæði í leysingum en á sumrin er þar oftast þurrt. Sæluhús var byggt við Fóelluvötn um 1835 af Jóni hreppstjóra á Elliðavatni upp á eigin kostnað en síðan var skotið saman 50 ríkisdölum því til viðhalds (Þorvaldur Thoroddsen 1958 I:125). Tryggvi Einarsson frá Miðdal nefnir vatnið Tóhelluvatn (sjá örnefnalýsingu Elliðakots í Örnefnastofnun Íslands).
Í Jarðabók Árna og Páls er Fóhölluvot nefnd (ritháttur óviss). Þar segir að engjar séu nær engar heima við bæinn Hólm í Seltjarnarneshreppi en útheyjaslægjur brúkaðar þar sem heita Fóhölluvot (Jarðabók III: 283). Aftur á móti nefnir Hálfdán Jónsson Fóelluvötn í lýsingu Ölfushrepps 1703. (Sjá meira hér um sæluhús við Efri-Fóelluvötn. Einnig HÉR og enn meira HÉR. Fjallað verður nánar um sæluhúsin á þessu svæði síðar.)
Fóella er fuglsheiti, oftast kölluð hávella (Clangula Fóellahyemalis). Þessi mynd orðsins kemur fyrst fyrir á 17. öld í fuglaþulu: „Fóellan og hænan, hafa öndina væna.“ (Íslenzkar gátur, skemtanir vikivakar og þulur IV 1898:243). Aðrar myndir þessa orðs eru fóerla (Jónas Hallgrímsson), fóvella (Skýrslur Náttúrufræðifélagsins) og e.t.v. fleiri af svipuðum toga. Uppruni er óljós, e.t.v. ummyndun á hávella. Hugsanlegur er einnig skyldleiki við fó- eins og í fóarn. Kjörlendi fóellunnar er votlendissvæði og heiðavötn. Líklegt er því að vötnin séu kennd við fuglinn þótt hann sé þar ekki áberandi lengur. Myndin Tóhelluvatn er að líkindum afbökun, tilkomin sem skýringartilraun á nafni sem hefur annars þótt torkennilegt. Sömu sögu er að segja um Fóhölluvot.
Sú þjóðtrú er enn lifandi að há vatnsstaða í Fóelluvötnum að vori boði mikið rigningasumar. Einnig er til sú sögn að til forna hafi runnið á mikil úr Þingvallavatni og hafi hún átt leið um þar sem Fóelluvötn eru nú og náð sjó á Reykjanesi. Kaldá mun eiga að vera leif af þeirri á.
Fóellutjörn er einnig til í Selvoginum.“
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimild m.a.
-óbyggðanefnd – úrskurður (Stór-Reykjavík).
-Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum – örnefni.

Sæluhús

Kópavogsþingstaður

Við Þinghól á Kópavogsþingsstað eru tvö upplýsingaskilti frá Sögufélagi Kópavogs; annað er um Kópavogsfundinn 1662 og hitt um þingstaðinn. Á fyrrnefnda skiltinu má lesa eftirfarandi texta:
Kopavogsthingstadur-22„Árið 1660 hófst breyting stjórnskipunar konungsríkisis Danmerkur til einveldis. Vald konungs jókst, erfðaréttur konungsættarinnar var lögbundin og afnumin voru viss réttindi aðalsins. Áður var koungur kjörinn á stéttaþingum.
Friðri III. Danakonungur var hylltur á Alþingi 1649, árið eftir að hann tók ríki. Þegra hann varð einvaldur 1661 skyldi staðfesta nýja eiða í löndumhans. Í þeim erindagjörðum kom Henrik Bjelke, aðmíráll og hirðstjóri á Íslandi, sumarið 1662.
Borist höfðu bréf til landsins þá um vorið um að sendir skyldu fulltrúar á Alþingi til að hylla Friðri III. sem erfðakonung. Ekki var minnst á einveldishyllingu í þeim bréfum.

Kopavogsthingstadur-23

Hingaðkoma Bjelkes hirðstjóra tafðist um þrjár vikur, þinghaldi var lokið við Öxará þegar skip hans kom að landi í Skerjafirði. Eiðarnir voru því ekki undirritaðir á Alþingi. Fyrsta verk Bjelkes 12. júlí 1662 var að senda valdsmönnum bréf; þeirra var vænst við Bessastaði 26. júlí. Daginn eftir, sem var sunnudagur, skyldu eiðarnir undirritaðir.
Árni Oddsson lögmaður setti þing í Kópavogi mánudaginn 28. júlí 1662, degi of seint. Ástæða tafarinnar liggur ekki fyrir, en vísbendingar eru um að Árni og Brynjólfyr Sveinsson biskup hafi mótmælt til varnar fornum réttindum landsins. „Var þann dag heið með sólskini“ segir í Vallholtsannál.
Á Kópavogsfundinum 28. júlí 1662 var Friðrik III. hylltur sem „einn Absolut sauverejn og erfðaherra“ þannig varð hann hvort tveggja einvaldskonungur og erfðakonungur. Undir eðana rituðu 109 menn; báðir biskuparnir, báðir lögmennirnir, 42 prestar og prófastar, 17 sýslumenn, 43 lögréttumenn og bændur, svo og landþingsskrifari, klausturhaldari og bartskeri.

Kopavogsthingstadur-24

„Og að þessum eiðum unnum og aflögðum gerði lénsherrann herra Henrich Bjelke heiðarlegt gestaboð og sæmilega veizlu öllum þar saman komnum, og stóð hún fram á nótt með trómetum, fíólum og bumbum; fallstykkjum var þar og skotið, þremur í einu, og svo á konungsskipi, sem lá í Seilunni; rachetter og fyrværk gekk þar þá nótt, svo undrum gegndi“, segir í Fitjaannál.
Á þinginu voru undirritaðar bænaskrár til konungs um að fá að halda fornum lögum og réttindum, áréttuð fátækt landsins og nýju álögum hafnað. Ekki var minnst á einveldi í bænaskránum.
Með Kópavogsfundi minnkaði vald Alþingis. Konungur tók í ríkari mæli til sín löggjafarvaldið og styrkur embættismanna konungs á Bessastöðum jókst.“
Kopavogsthingstadur-25Á síðarnefnda skiltinu má lesa eftirfarandi texta: „Land Kópavogsbæjar var áður í Seltjarnarneshreppi hinum forna. Mörk hans voru á milli Kollafjarðar og Skerjafjarðar og allt til fjalla.
Frá gildistöku lögbókarinnar Járnsíðu 1271 var sett í landi Kópavogs hreppaþing og þriggja hreppa þing fyrir Seltjarnarneshrepp, Álftaneshrepp og líklega Mosfellssveit.
Á þingstaðnum í Kópavogi gengu dómar sýslumanna í héraði og var þar dómstigið fyrir neðan Öxarárþing. Dómabækur Gullbringusýslu, þ.m.t. Kópavogsþings, eru nokkrar til í Þjóðskjalasafni, sú elsta frá 1696.
Eldri vitnisburðir um Kópavogsþing en sjálfar dómabækurnar eru féinir til. Elstu þekktu rituðu heimildir eru frá 1523. Þá fékk Hannes Eggertsson hirðstjóri forvera sinn Týla Pétursson dæmdan og tekinn af lífi eftir ránsferð Týla og Kopavogsthingstadur-26flokks hans um Bessastaðagarð í átökum um völd og embætti.
Þann 5. apríl 1574 gaf Friðrik II. Danakonungur út opið bréf um að Alþingi skyldi flutt á þingstaðinn í Kópavogi. Þessi tilskipun var, líkt og margar aðrar, hundsuð af Íslendingum.
Síðustu aftökurnar í Kópavogi fóru fram 15. nóvember 1704. Þá var hálshöggvinn Sigurður Arason og drekkt Steinunni Guðmundsdóttur frá Árbæ fyrir morðið á manni Steinunnar, Sæmundi Þórarinssyni (sjá meira HÉR).
Þjófnaðarmál frá 1749 er síðasti þekkti dómurinn á Kópavogsþingi. Þing var sett í Reykjavík árið 1751 og þar með lýkur sögu þinghalds í Kópavogi þar til embætti bæjarfógetans í Kópavogi var stofnað 1955. Lægra dómsstigið var á ný í Kópavogi og Héraðsdómur Reykjaness í Hafnarfirði settur.“

Þinghóll

Afhjúpun upplýsingaskilta við Þinghól.

 

Gæsir

Efri- og Neðri-Fóelluvötn eru sunnan við Lyklafell og austan við Vatnaás í núverandi landi Kópavogs, samsafn smátjarna og polla í grennd við Sandskeið, kringum þjóðveg 1 ofan við Reykjavík.
FóellaVatnasvæðið virðist hafa tilheyrt Vilborgarkoti og Helliskoti (Elliðakoti) samkvæmt Jarðabók Árna og Páls en báðar þessar jarðir eru þar skráðar í Mosfellssveit. Í Jarðabókinni er talað um óvissu í þessum efnum, sérstaklega varðandi Vilborgarkot sem þá, í byrjun 18. aldar, hafði lengi verið í eyði. Ábúendur Helliskots (Hellirskots) í Mosfellssveit og Hólms í Seltjarnarneshreppi höfðu þá lengi nýtt land Vilborgarkots. Frá þessum tíma er því ruglingurinn kominn um nýtingu Vilborgarkotslands. Í Jarðabókinni er sagt að jörðin Vilborgarkot gæti aftur byggst upp og þyrfti þá greinilega að skoðast hve vítt landeign þessarar jarðar verið hefði sem kunnugir menn meina að ekki hafi verið alllítið (Jarðabók III:287-288).
TóftirÞorvaldur Thoroddsen nefnir vötnin Fóelluvötn. Hann segir malar- og grjótfleti þar myndaða af vatnsrásum frá Lyklafelli. Fóelluvötn flæða yfir stórt svæði í leysingum en á sumrin er þar oftast þurrt. Sæluhús var byggt við Fóelluvötn um 1835 af Jóni hreppstjóra á Elliðavatni upp á eigin kostnað en síðan var skotið saman 50 ríkisdölum því til viðhalds (Þorvaldur Thoroddsen 1958 I:125). Tryggvi Einarsson frá Miðdal nefnir vatnið Tóhelluvatn (sjá örnefnalýsingu Elliðakots í Örnefnastofnun Íslands).
Í Jarðabók Árna og Páls er Fóhölluvot nefnd (ritháttur óviss). Þar segir að engjar séu nær engar heima við bæinn Hólm í Seltjarnarneshreppi en útheyjaslægjur brúkaðar þar sem heita Fóhölluvot (Jarðabók III: 283). Aftur á móti nefnir Hálfdán Jónsson Fóelluvötn í lýsingu Ölfushrepps 1703.
TóftinFóella er fuglsheiti, oftast kölluð hávella (Clangula hyemalis). Þessi mynd orðsins kemur fyrst fyrir á 17. öld í fuglaþulu: „Fóellan og hænan, hafa öndina væna.“ (Íslenzkar gátur, skemmtanir vikivakar og þulur IV 1898:243). Aðrar myndir þessa orðs eru fóerla (Jónas Hallgrímsson), fóvella (Skýrslur Nátt-úrufræðifélagsins) og e.t.v. fleiri af svipuðum toga. Uppruni er óljós, e.t.v. ummyndun á hávella. Hugsanlegur er einnig skyldleiki við fó- eins og í fóarn. Kjörlendi fóellunnar er votlendissvæði og heiðavötn. Líklegt er því að vötnin séu kennd við fuglinn þótt hann sé þar ekki áberandi lengur. Myndin Tóhelluvatn er að líkindum afbökun, tilkomin sem skýringartilraun á nafni sem hefur annars þótt torkennilegt. Sömu sögu er að segja um Fóhölluvot.
Sú þjóðtrú er enn lifandi að há vatnsstaða í Fóelluvötnum að vori boði mikið rigningasumar. Einnig er til sú sögn að til forna hafi runnið á mikil úr Þingvallavatni og hafi hún átt leið um þar sem Fóelluvötn eru nú og náð sjó á Reykjanesi. Kaldá mun eiga að vera leif af þeirri á.
Á Deildará í Múlahreppi A-Barð. er til Fóelluhólmi, einnig skrifað Fóetluhólmi. Fóellutjörn er til í Selvoginum.“
Sjá meira um mannvirki við Fóelluvötn HÉR.

Heimild:
arnastofnun.is (Örnefnastofnun Íslands).

Guðrúnartóft

Guðrúnartóft á Vatnaási við Fóelluvötn.

Þríhnúkar

Haldið var að Þríhnúkum með það fyrir augum að skoða gíginn og næsta nágrenni. Bönd voru með í ferðinni, en þegar á hólminn var komið reyndust þau óþörf því Björn „bergrisi“ í „Þríhnúkum“ reyndist betri en nokkurt reipi. 

Trihnukar-222

„Þríhnúkar“, eða „Insidethevolcano“ hafa verið með ferðir fyrir ferðamenn í Þríhnúkahelli. Lyftubúnaði hefur verið komið fyrir yfir opinu og eru ferðamenn ferjaðir skipulega upp og niður, alla daga sumarsins (fram til 20. ágúst). Agað og gott skipulag virðist vera á ferðunum þar sem sérstök áhersla er lögð á öryggi og ánægjulega upplifun þátttakenda. Aðstaða í nágrenni gígsins er til mikillar fyrirmyndar og naut FERLIR hennar í þessari ferð, í slagveðursrigningu eins og hún getur verið hvað verst á þessum árstíma á þessu svæði. Boðið var upp á skjól og upphitað húsnæði aukin heldur kjötsúpu og heitt kaffi.
Byrjað var að skoða umhverfi gígsins, eða öllu heldur gíganna, og m.a. komið við í Bólunni; athvarfi í hraunbólu suðvestan gíganna sem rjúpnaveiðimenn komu sér upp á sjöunda áratug síðustu aldar.
Trihnukar-224Kvikuþró er á milli gíganna og má vel sjá hvernig hraunkvikan hefur oltið upp úr Þríhnúkagíg niður hlíðar hans og fyllt tjörnina. Tjörnin hefur síðan tæmst að mestu þegar leið fyrir kvikuna opnaðist til norðurs og steyptist niður hlíðarnar og myndaði Þjófahran.
Þríhnúkagígurinn sjálfur er gígur sem liggur í norðaustasta Þríhnúknum, rúma 4 km vestur af skíðasvæðinu í Bláfjöllum. Niður frá gígopinu gengur gríðarmikill gíghellir, Þríhnúkahellir. Hann er eitt stærsta og merkasta nátturufyrirbæri sinnar tegundar á jörðinni.
Gígopið er þverhnípt og um 4 sinnum 4 metra stórt. Fyrst var sigið niður í gíghellinn 1974, og 1991 var hann svo kannaðar ítarlega og kortlagður. Þríhnúkahellir er flöskulaga ketill sem er um 150 þúsund rúmmetrar að stærð. Botninn er á stærð við fótboltavöll og er 120 metra undir yfirborði jarðar, og þaðan liggja svo gígrásir niður á um 200 metra dýpi.

Trihnukar-226

Í ljósi þess hvað hann þykir sérstakur hafa verið settar fram hugmyndir um hvernig megi bæta aðgengi að honum, sem fæli m.a. í sér að bora göng inn í hann miðjan og byggja útsýnispall inni í honum.
Á vefsíðu Náttúrfræðistofu Kópavogs (en svæðið er í umdæmi Kópavogs) má lesa eftirfarandi um gíginn og fyrirhugaðar væntingar um nýtingu hans: „Þrír litlir hnúkar standa á hálendisbrúninni um 15 km suðaustur af höfuðborgarsvæðinu. Lítt þekktir en sjást greinilega við sjóndeildarhringinn. Þetta eru Þríhnúkar. Norðaustasti hnúkurinn er gjall- og kleprakeila. Gaus hann litlu hrauni rétt eftir landnám. Gosrásirnar tæmdust að gosi loknu og ná þær nú niður á rúmlega 200 m dýpi.
Gíghvelfingin stendur vegna styrks jarðmyndana í þaki og hinum miklu klettaveggjum gígpottsins. Opið í toppi hnúksins er um 4 x 4 m að stærð. Neðan þess er 120 m djúpur flöskulaga gígur, sem mælist 48 x 60 m á botni. Fyrst var sigið í gíginn 1974. Gosrásirnar voru fullkannaðar og mældar 1991.
Þríhnúkar tilheyra Bláfjallafólkvangi, en til hans var stofnað með friðlýsingu árið 1973. Bláfjallanefnd fer með stjórn fólkvangsins. Alls 13 sveitarfélög á suðvesturhorni landsins eiga aðild að rekstri fólkvangsins. Sjálfur Þríhnúkagígur er í lögsögu Kópavogs.
Hraunhellar og jarðmyndanir þeim tengdum njóta sérstakrar verndar á Íslandi og skal forðast röskun þeirra eins og kostur er (Lög um náttúruvernd nr. 44/1999, 37. gr.).

Trihnukar-223

Gott aðgengi og fræðsla almennings er mikilvægur þáttur í skynsamlegri umgengni og verndun hraunhella. Liður í þeirri fræðslu er að gera valda hraunhella aðgengilega og koma upplýsingum þar vel og skilmerkilega á framfæri.
Hraunhellar eru eins mismunandi og þeir eru margir. Fjölmargir hraunhellar þola umferð án skaða. Myndunarferli kalkhella og hraunhella ásamt innviðum þeirra, eru mjög ólík. Hraunhellar eru yfirleitt aðgengilegri en kalkhellar. Ekki þarf að síga, nema afar takmarkað, og oft eru á þeim fjöldi opa.
Í mörgum aðgengilegum hellum eru viðkvæmar jarðmyndanir, sem hætt er við að hverfi ýmist óvart eða af ásetningi. Viðkvæmar jarðmyndanir höfðu ýmist mjög látið á sjá, eða voru að mestu horfnar úr þekktum hraunhellum hérlendis upp úr 1980. Tveim ríkulega skreyttum smáhellum, Jörundi og Árnahelli, sem fundist hafa síðan, hefur verið lokað fyrir almennri umferð vegna verndunarsjónarmiða.
Vinna að verndun og aðgengi Þríhnúkagígs er nú hafin. Þessi sýning er liður í þeirri vinnu. Verkefnið er krefjandi, en nauðsynlegur liður í þeirri þróun sem á sér stað í íslensku samfélagi á sviði náttúruverndar, útivistar og ferðamennsku. Ætlunin með sýningunni er að kynna náttúrundrið Þríhnúkagíg, fá fram viðbrögð fólks við hugmyndum um nýtingu hans og bregðast við þeim.
Árni B. Stefánsson tók ljósmyndir í gígnum á árunum 1983–1997. Árni smíðaði einnig líkanið af Þríhnúkagíg eftir gögnum sem hann safnaði og vann ásamt félögum sínum 1991.
Trihnukar-225Miklar og vaxandi skemmdir hraunhellanna, hvarf jarðmyndana og eyðilegging var að verða fólki stöðugt ljósari á uppeldisárum Árna. Jarðmyndanir bókstaflega hurfu fyrir framan augu þeirra sem til þekktu, án þess þeir fengju rönd við reist.
Ýmsar tillögur hafa komið fram um aðgang að þessum mikla gíghelli. Fyrsta raunhæfa tilllagan kom fram í grein í Morgunblaðinu 4. janúar 2004. Þar er lagt til að aðgengi verði um 200 m löng göng á svalir í hellinum. Svalirnar standa út í rýmið í miðjum gígnum á 64 m dýpi og í 56 m hæð frá botni.
Upprunalegar jarðmyndanir þekja Trihnukar-227veggina í þessari hæð. Yfir svölunum er lokuð gosrás, eða strompur upp á við. Svalirnar eru í vari fyrir hugsanlegu hruni að ofan, varðar undir slútandi bergi. Útsýn niður í gígpottinn er mikilfengleg. Tvö 20 hæða hús myndu komast fyrir neðan svalanna, ef þau mjókkuðu lítillega upp.“
Útgerðin kringum Þríhnúka er bæði mikil og kostnaðarsöm. Upplifunin er líka eftir því. Gígurinn sjálfur hefur verið upplýstur svo líta má dýrina með báðum augum eins og hún er. Annars má telja sérstakt að gestir í Þríhnúkagíg eru 98% útlendingar, eins nærtækt og jarðfræðifyrirbærið er annars innlendum.

Heimildir:
-wikipedia.org
-http://www.natkop.is/page.asp?ID=122

Þríhnúkar

Kvöldsýn frá Þríhnúkum.

Bláfjöll

Í Sveitarstjórnarmál 1980 fjallar Kristján Benediktsson um „Bláfjallafólkvang„.

Bláfjallafólkvangur

Bláfjallafólkvangur – kort.

„Hinn 31. janúar 1973 samþykkti náttúruverndarráð stofnun fólkvangsins, og með auglýsingu í Stjórnartíðindum tveimur mánuðum síðar má segja, að hann hafi verið orðinn að raunveruleika. Þau sveitarfélög, sem í upphafi stóðu að Bláfjallafólkvangi, voru Reykjavík, Kópavogur, Seltjarnarnes og Selvogur. Síðar bættust í hópinn Hafnarfjörður, Garðabær og Keflavík.
Meðfylgjandi uppdráttur sýnir vel legu Bláfjallafólkvangs og veginn á skíðasvæðin, sem tengist Austurveginum víð Sandskeið. Austurhornið er Vífilfell. Þaðan liggur línan eftir háhrygg fjallgarðsins í Kerlingahnúk á Heiðinni há. Hæsti punkturinn á fjallshryggnum er Hákollur, 702 metrar, og er hann beint upp af Kóngsgili. Frá Kerlingahnúk liggja mörkin um Litla-Kóngsfell, Stóra-Bolla og í Heiðmerkurgirðinguna við Kolhól.
Síðan eru mörkin um Heiðmerkurgirðingu að punkti, sem skerst af línu, sem dregin er milli Stríps og Stóra-Kóngsfells. Síðan liggja mörkin um Sandfell, norðvestur af Rjúpnadölum, í koll Vífilfells.

Bláfjöll

Bláfjöll – Drottning.

Innan Bláfjallafólkvangs er mikið um hraun og eldstöðvar margar. Víða í hraununum eru op og hellar og vissara að fara með gát um þau svæði og fylgja merktum gönguleiðum.

Eldborg

Eldborg (Drottning) og Stóra-Kóngsfell við Bláfjöll.

Eldborg er friðlýst náttúruvætti rétt við veginn. Hún er falleg eldstöð, sem mikið hraun hefur komið frá. Vegurinn frá brekkubrúninni norðan Rauðuhnúka og upp á skíðaslóðirnar liggur mestan part á Eldborgarhrauni.
Skammt frá Eldborginni eru tvö fell, Stóra-Kóngsfell (596 m), þar sem fjallkóngar skipta leitum, og Drottningarfell, sem bæði er lægra og minna um sig. Hvergi hef ég séð nákvæma stærðarmælingu af Bláfjallafólkvangi. Ekki mun fjarri lagi að áætla, að hann sé 70—80 km2.“

Heimild:
-Sveitarstjórnarmál 01.02.1980, Bláfjallafólkvangur, Kristján Benediktsson, bls. 7-8.

Bláfjöll

Gengið um Bláfjallasvæðið.

Garðar

„Hvað heitir landið milli Kópavogs og Hafnarfjarðar? Garðahreppur, Garðakaupstaður, Garðabær eða Garðar? Setjið X við rétt svar.
gardabear-2Rétt svar var Garðahreppur, en hreppurinn öðlaðist kaupstaðarréttindi 1976, og heitir því Garðakaupstaður. Mikið var reynt til þess að fá fólk til að nota nafnið Garðar, en bæjarstjórnin og íbúar bæjarins vilja, og nota einungis nafnið Garðabær.
Byggð hefur verið á landsvæði Garðabæjar allt frá landnámstíð. Getur Landnáma tveggja landnámsjarða á svæðinu: Vífilsstaða, þar sem Vífill, leysingi Ingólfs Arnarssonar bjó, og Skúlastaða, þar sem Ásbjörn Özurarson bjó. Hafa verið leiddar að því líkur að nafn síðarnefnda bæjarins hafi síðar breyst í Garða. Þegar hin forna hreppaskipting var tekin upp, hét allur hreppurinn Álftaneshreppur, en var skipt árið 1878, í Garðahrepp og Bessastaðahrepp. Bæjarmörkum Garðabæjar hefur nokkrum sinnum verið breytt, m.a. þegar Hafnarfjörður var gerður að sjálfstæðu sveitarfélagi og fékk kaupstaðarréttindi árið 1908.
gardabear-3Garðabær nær yfir stórt flæmi lands og t.d. er stór hluti Heiðmerkur innan bæjarmarkanna svo og hluti Álftaness. Skilin milli Hafnarfjarðar og Garðabæjar hafa ekki alltaf verið svo glögg, enda sveitarfélögin búin að skiptast oft á landspildum. Árið 1910 var íbúatala Garðabæjar 264.“
Hér má lesa frétt í Vísi 1983 um makaskipti bæjanna: „Nýlega hafa Hafnarfjarðarbær og Garðahreppur gert samkomulag um það, að Hafnarfjörður fái land, sem nú er innan marka Garðahrepps en Garðahreppur fái svæði, sem Hafnarfjörður hefur á leigu til ársins 2015. Samkomulag þetta mun færa Hafnarfirði 4200 hektara landsvæði fyrir sunnan bæinn en Garðahreppur mun fá ágætt byggingarland í Hraunsholtslandi.
gardabear-4Vísir átti tal við Hafstein Baldvinsson bæjarstjóra í Hafnarfirði um þetta mál. Hann sagði, að samkvæmt lögum frá 1936 hefði ríkisstjórninni verið heimilað að taka eignarnámi og afhenda Hafnarfjarðarbæ á leigu Hrauns holtsland gegn því að Hafnarfjarðarbær gefi eftir landssvæði fyrir sunnan Hafnarfjörð, svonefndar Hraunajarðir. Á grundvelli þessara laga hefði Hafnarfirði á árinu 1940 verið leigt umrætt land til ársins 2015 með því skilyrði að landið yrði aðeins til ræktunar en ekkert byggt á því. En land þetta er í rauninni innan lögsagnarumdæmis Garðahrepps.
Nú hefur Garðahreppur óskað eftir því að Hafnarfjörður gæfi eftir leigusamninginn gegn því, að Garðahreppur léti Hafnarfjörð í staðinn fá land úr sínu lögsagnarumdæmi sunnan Hafnarfjarðar. Hefur Hafnarfjörður samþykkt þetta með því skilyrði, að samþykkt verði ný lög um hið nýja lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar. Hafsteinn sagði, að ráðgert væri nú að bera fram frumvarp á alþingi um hin nýju mörk Hafnarfjarðarbæjar. Mundi Hafnarfjörður stækka um 4200 hektara en Hafnarfjörður er nú 6130 hektarar fyrir utan Krýsuvík en þar á Hafnarfjörður 4820 hektara.“

Heimild:
-Morgunblaðið 2. september 1983, bls. 12.
-Vísir, 2. maí 1964, bls. 1 og 6.

Flatahraun

Landamerki fyrrum – Hádegisvarða í Hafnarfjarðarhrauni.

Sandskeið

Pétur Jónsson hafði samband við FERLIR.
Sandskeid - slys-2„Sælir, var að skoða vefinn hjá ykkur og þá sérstaklega um flugvélaflök. Sá ekkert þar um leifar af vél sem er á Sandskeiði. Greinilega var um vopnaða vél að ræða þar sem brunnin og sprungin skothylki eru á svæðinu.“
Pétur var spurður hvort hann vissi eitthvað meira um sögu vélarinnar, tildrög slyssins og hverjir voru þar í áhöfn? Og hvar brakið er staðsett?“
„Veit ekkert meira um þetta flak en sá það fyrst þegar ég fór til rjúpnaveiða, sennilega árið ’83. Fór svo aftur í fyrravor og sá það aftur, það var samt töluvert af hlutum. Get vísað á staðinn.“
Farið var með Pétri á vettvang. Hann gekk óhikað að slysstaðnum. Allnokkurt smábrak var þar í gróinni brekku. Greinilegt var að flugvélin hafði rekist beint í brekkuna, eldur komið upp og vélin brunnið. Sprungin skothylki voru á vettvangi með áletruninni F A 42.
Sandskeid - slys-3Leitað var til Eggerts Nordahls og Sævars Jóhannessonar um nánari upplýsingar um flugvélina og slysið.
Eggert sagði: „
Þarna fór niður í spinni Lockheed P-38F Lightning orrustuflugvél árið 1943. Ryðfríar klemmur eru „typcal“ fyrir þá tegund.“ Eggert á í fórum sínum ýmsan fróðleik, bæði um þetta óhapp sem og mörg önnur frá þessum árum.
Á vettvangi, nú 67 árum eftir atvikið, mátti, sem fyrr sagði, sjá ýmislegt smálegt þarna í hlíð hólsins. Ekki er vitað til þess að þessi litli og venjulegi hóll í landslaginu beri neitt sérstakt nafn og mætti því, í minningu atviksins, nefna hann Flugslysahól.
Hér var um að ræða 29. flugvélaflakið frá stríðsárunum er staðsett hefur verið á Reykjanesskaganum.
P48Svifflugfélag Íslands var á þessum árum staðsett á Sandskeiði. Félagið var stofnað 10 ágúst 1936. Aðalhvatamaður var Agnar Kofoed-Hansen eftir flugnám í Danmörku. Hafði honum verið boðið til Lundby, þar var flugvöllur þar sem æft var svif og renniflug.
Veturinn 1937, þann 31. jan. var svo fyrsta svifflugsæfingin í Vatnsmýrini.
Og um haustið er Sandskeiði við Vífilsfell komið í nokun og hefur félagið verið þar síðan. Árið 1938 var samkomulag við Þjóðverja um að hingað kæmi svifflugleiðangur og var kostnaði skipt þannig að Svifflugfélagið greiddi ferðir og uppihald en þjóðverjar sköffuðu dráttarflugvél og svifflugur. Sótti Sviflugfélagið til Seltjarnarhrepps að á fá leyfi til að gera flugsvæði og að byggja flugskýli á Sandskeiði í afrétti hreppsins. Á fundi hreppsnefndar 5. maí 1938 var samþykkt erindi Svifflugfélagsins. Á þessum tíma var Kópavogur ekki til sem sjálfstætt hreppsfélag, var hluti af Seltjarnarneshreppi.
Sandskeid - slys-5V
ið hernám Breta og síðar hersetu Bandríkjamanna var Sandskeið tekið undir skotæfingasvæði og var Sandskeiðið nánast allt sundur skotið. Og en þann dag í dag má sjá sprengjugíg[a] á Sandskeiði rétt utan við girðingu á norðurenda Norður/Suðurbrautar. Bretar höfðu órökstuddan grun um að félagar í Svifflugfélaginu væru hallir undir stjórnvöld í Þýskalandi. Voru þess vegna ekkert vinsamlegir gagnvart Svifflugfélaginu varðandi svifflug og var sagt að þeir hefðu grun um að Sandskeið væri hugsamlegur flugvöllur Þjóðverja.
Haldið áfram uppbyggingu á Sandskeiði og var 1944 keypt bogaskemma „Bragginn“ sem stóð á Geithálsi ofan Reykjavíkur, var skemman tekin niður og sett upp á Sandskeiði og er í dag nýtt sem véla- og vagnageymsla.
Sævar sagði: „Atvikið varð 25. apríl 1943 kl. 15:45. Um var að ræða P38 orrustuflugvél er hrapaði og brann á „Sandkeidi range“. Flugmaðurinn, laut. F.E. Eichman, lést í slysinu“.

Heimildir:
-http://www.cec.archlight.info/?
-Eggert Nordahl.
-Pétur Jónsson.
-Sævar Jóhannesson.

Kópavogur

Herkampur við Sandskeið (Arnarþúfum).

 

 

Vífilsfell

Vífilsfell er bæði áberandi fell ofan höfuðborgarsvæðisins, auk þess sem mótun þess vekur gjarnan áhuga og ákafa fjallafólks. Stallur er austur á fellinu, stundum nefndur Litla-Sandskeið vegna þess hversu sléttur hann er. En hvernig myndaðist stallurinn á Vífilsfelli?
Fyrirboði á leið uppVífilsfell er í raun arfleifð bermyndana frá tveimur jökulskeiðum. Við gos undir jökli myndast móbergsfjöll, og nái gosið að bræða sig upp úr jöklinum þannig að ekki komist bræðsluvatn að gígnum renna hraun. Slík fjöll, með hraunlögum ofan á
móberginu, nefnast stapar. Þekktustu dæmin um stapa á Íslandi eru Hlöðufell og Herðubreið. Gönguleiðin á Vífilsfell er meðal vinsælli gönguleiða á Reykjanesskaganum. Þegar gengið er upp á fellið að austanverðu er það nokkuð létt uppgöngu þó nokkuð bratt sé síðasta spölinn upp á Stallinn. Fellið er auk þess fallegt og þaðan er gott útsýni, einkum yfir höfuðborgarsvæðið. Hækkunin er um 400 metrar, en mesta hæð er 655 m.y.s.
Reyndar eru nokkrar uppgönguleiðir á Vífilsfell. Besta leiðin er þó sem fyrr sagði norðausturleiðin, upp úr Sauðadölum, hornið við akleiðina í Jósefdal. Gengið er upp greinilegan göngustíg sem liggur upp bratta hlíðina upp á  hásléttuna fyrir ofan. Skriðan er laus á þessum slóðum en gönguleiðin hefur víða runnið af móberginu sem stendur næstum bert eftir. Nauðsynlegt er að taka vara við slíkum stöðum því þar getur verið erfitt að fóta sig.
Fyrsti áfangi leiðarinnar er þessi bratta brekka. Uppi tekur við flatlendi sem nær út að móbergklettunum sem mynda nokkurs konar öxl sem liggur að hæsta hluta Vífilsfells. Best er
að fara upp klettana á öxlina og ganga eftir henni að tindinum. Þarna er lítið um lausamöl en enn ástæða til að fara varlega því móbergið getur verið varasamt.
Af öxlinni er greið leið að tindunum sjálfum og þar er um tvær uppgönguleiðir að ræða, upp báðar þarf að handstyrkja sig.
Fyrir nokkrum árum voru þarna kaðlar til halds og trausts. Aðeins vestan við hornið er sprunga sem hægt er að nota til að klifra upp.
Uppi á toppi er hringsjá sem Ferðafélag Íslands lét koma þar fyrir um 1940 og má með aðstoð hennar átta sig á kennileitum í nágrenninu, nær og fjær.Myndun á leið á Vífilsfell
„Eitt þeirra fjalla, sem blasa við augum manna héðan frá höfuðborginni er Vifilsfellið. Það er ekki stórfenglegt til að sjá, en þegar nær er komið breytir það um svip og ýtir undir þá löngun að ganga þar á efsta tind. Og í dag skulum við framkvæma það verk. Hægt er að ganga á fjallið frá öllum áttum en stysta leiðin er úr skarðinu í mynni Jósefsdals og þar skulum við hefja gönguna. Frá Litlu kaffistofunni, sem er á mótum hins gamla og nýja vegar yfir Svínahraunið ökum við afleggjarann, sem liggur inn í Jósefsdal. Við ökum um Sauðadali, meðfram Draugahlíðum og Þórishamri og brátt erum við komin í skarðið, en það er suðaustan undir Vífilsfelli, milli þess og Sauðadalahnúka. Hér skulum við skilja bílinn eftir og hefja gönguna. Framundan er brött skriða þakin lausum jarðvegi. Best er að velja leiðina milli tveggja grunnra vatnsrása, sem liggja þar niður ofan frá brún, eða ganga eftir annarri hvorri rásinni, því þar er fastara undir fæti. Þegar komið er upp á brúnina fyrir ofan, tekur við sléttur melur. Hann er kærkominn, því brekkan en erfið og hefur komið mörgum hraustum kappanum til að blása og svitna örlítið. Við hvílum okkur nokkra stund á brúninni og litumst um, því landslagið hefur breytt um svip og útsýnið aukist að miklum mun. Síðan tekur við annar áfangi.
Handan melsins rís móbergsklettur allbrattur, sem fer lækkandi til austurs. Okkur finnst hann óárennilegur í fyrstu, en tökum samt stefnuna á hann og fikrum okkur upp eftir honum.
Er á reynir er hann auðveldari viðfangs en okkur sýndist. Þegar efstu brún klettsins er náð, blasir við útsýnið yfir Bláfjöllin og út á Flóann. En ekki höfum við enn náð efsta tindi. Einn stallur er eftir og sá brattasti. Sumir þurfa smáaðstoð við að sigra hann, en flestir “hlaupa” upp án nokkurrar aðstoðar. Þegar hann er að baki er “hæsta tindi náð” og ekkert annað eftir en “rifja upp og reyna að muna, fjallanöfnin, náttúruna” (Tómas Guðmundsson), með aðstoð útsýnisskífunnar, sem Ferðafélag Íslands kom hér upp árið 1940.
VífilsstaðirMeðan við dveljum hjá skífunni fremst á fjallinu tökum við upp nestisbitann og njótum stundarinnar. Þá er tækifæri að minnast á söguna góðu um Vífil. Þjóðsagan segir að eftir að
Ingólfur Arnarson hafði sest að í Reykjavík gaf hann Vífli þræli sínum frelsi og bústað, sem nefndur var Vífilsstaðir. Á Álftanesi er bærinn Sviðsholt. Þar bjó Sviði. Þeir félagar voru vinir og sóttu sjóinn fast, segir sagan. Síðan segir: “Langt fyrir ofan Vífilsstaði er fell eitt, sem Vífilsfell heitir. Þó það sé snöggt um lengri vegur upp að felli þessu frá Vífilsstöðum, en til sjávar, gekk Vífill allt um það á hverjum morgni upp á fellið til að gá til veðurs, áður en hann fór að róa, og reri ekki, ef hann sá nokkra skýskán á lofti af fellinu, og tók því fellið nafn af honum. En ef honum leist róðrarlega á loftslag gekk hann til skips og reri með Sviða”.

Myndun á leið á Vífilsfell

Og nú stöndum við á sömu steinunum og Vífill forðum, hér uppi á fellinu, ef marka skal sannleiksgildi sögunnar. En tæplega myndu margir á okkar öld geta leikið það eftir honum, að skjótast þessa leið frá Vífilsstöðum fram og aftur, áður en hann ýtti bátnum frá landi. En nú skulum við huga að heimferð. Sjálfsagt er að leggja smálykkju á leiðina og skjótast niður í Jósefsdalinn. Þá förum við til hægri, þegar komið er niðurfyrir klettabeltið, og göngum vestur brúnirnar. Auðvelt er að komast þaðan ofan í dalinn hvar sem er, en skemmtilegast er þó að ganga vestur fyrir dalbotninn og niður Bláfjallagilið, síðan út dalinn, sem er mjög sumarfagur, rennsléttur í botninn, en háir, brattir hnúkar á alla vegu.
Fyrrum var fjölfarin leið um Jósefsdal. Var þá komið inn í dalinn þar sem vegurinn liggur nú, en haldið áfram utan í Sauðadalahnúk og upp í annað skarð, sem er milli hans og…..
Heitir þetta skarð Ólafsskarð. Það er kennt við Ólaf Skálholtsbryta samkvæmt þjóðsögu skráðri í safni Jóns Árnasonar (sú saga er sögð í kaflanum um Lyklafell). Önnur sögn segir, að fyrrum hafi verið býli í dalnum. Hét bóndinn Jósef. Hann var góður smiður, en forsmáði guð svo með blóti og formælingum að bærinn sökk með manni og mús. Eftir það lagðist byggð af í dalnum og var ekki byggður bær þar síðan. Önnur sögn greinir frá því, að tröll hafi átt heima í dalnum á tímabili. Þessi álög hafa samt ekki hvílt lengi yfir dalnum, því í nokkra áratugi átti skíðadeild Ármanns heimili sitt í dalnum. Þeir byggðu þar myndarlegan skála og æfðu skíðaíþróttina af kappi og héldu mörg mót. En svo var ekki grundvöllur fyrir áframhaldi og mannvirkin öll rifin og starfsemin flutt í Bláfjöll, þar sem hún er nú. Við göngum austur úr dalnum, fram hjá Grettistaki, stórum steini við veginn og upp í skarðið. Þar bíður bíllinn okkar.“

Á efstu brún

Stallurinn á Vífilsfelli er stapi, það er efsti hluti hans er blágrýtislög en móberg undir. Toppurinn á Vífilsfelli er hins vegar yngri myndun sem liggur ofan á blágrýtinu og utan í vesturhlíð stapans. Hann er úr móbergi og er hluti af NV-SA gossprungu sem teygir sig frá Henglafjöllum suður fyrir Sandskeið. Þessi sprungustefna er óvenjuleg en þó ekkert einsdæmi, en ríkjandi sprungustefna á Suðurlandi er NA-SV. Vífilsfell er semsagt myndað í tveimur gosum, þar sem hið síðara varð undir þykkari jökli en hið fyrra – sennilega hvort á sínu jökulskeiði.
Síðasta ísöld hófst fyrir um 2,8 milljónum ára og lauk fyrir um 11.000 árum. Það var þó ekki stanslaus vetrarkuldi allan þann tíma heldur skiptust á kuldaskeið og hlýskeið.
Það er ekkert sem að bendir til þess að eldgos hafi verið óalgengari á ísöld en þau eru í dag. Hins vegar eru uppi hugmyndir um að á því tímabili þegar ísöld var að ganga í garð hafi eldgosum fækkað vegna aukins þrýstings frá upphleðslu íss. Að sama skapi voru eldgos tíðari þegar ísöld lauk og þrýstiléttir varð vegna ísbráðnunar.
Myndanir í VífilsfelliÁ hlýskeiðum runnu grágrýtishraun langar leiðir og oft langt út fyrir gosbeltin. Þessi hraun komu ýmist frá gossprungum, eldkeilum eða dyngjum. Á kuldaskeiðum ísaldar mynduðustu hins vegar móbergsfjöll við gos undir jökli, ýmist móbergshryggir sem hljóðust upp á sprungum en náðu yfirleitt ekki upp úr jöklinum eða móbergsstapar sem hlóðust upp úr jöklinum. Þessi fjöll setja mikinn svip á landslagið enn þann dag í dag. Sem dæmi um móbergshryggi má nefna Sveifluháls.
Á síðustu árum hafa sjónir manna beinst í vaxandi mæli að móbergsmynduninni hér vegna þess að sitthvað þykir benda til þess að slíkar myndanir sé að finna á reikistjörnunni Mars. Móbergið hefur aðallega myndast í eldgosum undir jökli, og slík gos hafa menn getað rannsakað hér á landi. Móberg myndast þannig, að 1200°C heit bráð snöggkælist í vatni. Þá hafa kristallar „ekki tíma til“ að vaxa og því myndast glersalli sem hleðst upp kringum gosopið. Þannig myndast hrúga af vatnsósa, lausri gosösku sem nefnist túff og ummyndast fljótlega í móberg (palagonít), sem er fast berg: Við 80-150°C hita hvarfast glerið við vatn, það „afglerjast“ og ýmsir kristallar myndast sem líma kornin saman og breyta túffinu í móberg.
Kannski sú bergtegund sem næst kemst því að vera séríslensk sé móbergið. Alkunn móbergsfjöll í nágrenni Reykjavíkur eru Helgafell sunnan við Hafnarfjörð, Hengill, efsti hluti Vífulsfells, Bláfjöll og
hryggirnir á Reykjanesskaga.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimild:
-visindavefurin.is
-Mbl,  ágúst 1979.

Komið upp á Stallinn á Vífilsfelli

Húshólmi

Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 1972 er umfjöllun með yfirskriftinni „Hvert munduð þér helzt halda í gönguferð á góðum sunnudegi?“ þar sem nokkrir valdir einstaklingar eru spurðir svara:

„Enga íþrótt — ef íþrótt skyldi kalla — er eins auðvelt að iðka og gönguferðir — og þær eru sannarlega ekki síður skemmtilegar að vetri en sumri. Til þeirra þarf engan útbúnað annan en hlý föt og góða skó en hollustan af þeim er ómæld. Læknar hafa um árabil hvatt menn til gönguferða, ekki einungis vegna þess, að þær eru hollar líkamanum í heild, heldur og vinna þær gegn hjartasjúkdómum, sem eru eins og allir vita, einn tíðasti sjúkdómur meðal siðmenntaðra þjóða.

Arnarvatn

Arnarvatn.

Margir hafa svo sem stundað gönguferðir án þess til þyrfti hvatningarorð lækna en enginn vafi er, að þær hafa orðið almennari á síðari árum eftir að fólk fór almennt að gera sér ljóst hvílíkir vágestir kransæðastífla og aðrir hjartakvillar er. Þannig hafa fjölmargir kynnzt umhverfi sínu á nýjan hátt, séð staði, sem voru þeim áður ókunnir og einnig séð gamalkunna staði nýjum augum.
Til gamans höfðum, við samband við nokkra menn og konur á höfuðborgarsvæðinu og báðum þau að segja okkur í fáum orðum, hvert þau mundu helzt halda í gönguferð á góðum sunnudegi, þegar þau ættu frí frá amstri og erfiði hversdagsins.

Hlíðar Heiðmerkur (Jónas Haralz, bankastjóri)
Jónas HaraldzVið sem búum í Reykjavík og nágrenni höfum þá einstöku aðstöðu að finna fagurt, tilkomumikið og marg breytilegt landslag eftir 10—15 mínútna akstursleið — og jafnvel- enn nœr bústöðum okkar. Þarna getum við verið algerlega út af fyrir okkur — er víða sem sjaldnast sést nokkur maður á vetrardegi. Við hjónin notum okkur þetta oft og eftirlætisstaður okkar er með hlíðunum í Heiðmerkurlandinu.

Á Helgafell eða fjörur (Halldóra Thoroddsen, skrifstofustjóri)
Það er vandi að velja á milli, því að margir skemmtilegir staðir eru í nágrenni Reykjavíkur og óþarfi að aka langt burt úr bænum til að finna fallegar gönguleiðir. Til dæmis er einkar gaman að ganga fyrir sunnan Heiðmörkina og Hafnarfjörð og minnist ég þá sérstaklega skemmtilegrar leiðar, sem Eysteinn Jónsson lýsti fyrir nokkrum áratugum, það er göngu ferð á Helgafell. Ég gekk einu sinni eftir hans fyrirsögn og er viss um að sú leið svíkur engan.
Halldóra Thoroddsen
Skemmtilegast finnst mér þó að ganga með sjó fram og þá er ekki langt að aka suður í Krýsuvík eða Grindavík — nú — svo standa fjörurnar á Stokkseyri og Eyrarbakka alltaf fyrir sínu. Þessum gönguferðum fylgir sá kostur, að maður þarf ekki að kjaga upp eða niður brekkur. Helzt mundi ég þó kjósa á góðviðrissunnudegi að setjastá hestbak og ríða inn með Esjunni og upp að Tröllafossi — það er mátuleg sunnudagsferð fyrir mann og hest.

Kaldársel (Gísli Sigurðsson, varðstjóri)
Ég hef haft þann sið frá þvi fyrir 1930 að ganga um nágrennið og upp úr 1950 fór ég að safna örnefnum hér í kring og hef verið að ganga á þessa staði. Það er því um margt að velja. Úr Reykjavík er til dæmis gott að ganga upp að Elliðavatni og Vatnsendavatni og þar um kring, m.a. i Heiðmörkinni. Svo ég tali nú ekki um að bregða sér í fjöllin í Mosfellssveitinni, þar er indælt að vera og horfa yfir sundin, eyjarnar og nesin.
Gísli SigurðssonÚr Garðahreppi er einfaldast að fara beint inn hjá Vífilsstöðum, inn á hálsana, inn með Vífilsstaðahlíð, inn í Grunnuvötn og inn á Hjalla.
Úr Kópavogi er sjálfsagt að ganga inn úr byggðinni, upp og umhverfis Vatnsenda hæð, inn í Selás, inn fyrir Geitháls, — ég tala nú ekki um að fara inn á Sandskeiðið og þar í kring.
Við Hafnfirðingar eigum ekki langt að fara, getum gengið umhverfis bæinn, um Urðarfosshraunið, Setbergshlíðina inn að Kaldárseli og kringum Helgafell, suður um Ásfjall og þar um kring. Þetta eru svona tveggja til þriggja tíma leiðir, sem er gott að ganga eftir hádegi. Þarna er víða ónumið land, sem er indælt til hvíldar og gönguferða. Mér finnst ekkert taka þeim fram.

Gamla Krýsuvík (Björn Steffensen, endurskoðandi)
Björn SteffesenFerðinni er heitið í Húshólma til þess að skoða tóftir „Gömlu Krýsuvíkur“: Ekið er sem leið liggur suður Reykjanesbraut þar til komið er suður fyrir Hvaleyrarholt að beygt er til vinstri, á Krýsuvíkurveg. Ekið um Kapelluhraun og austur jaðar Almennings, yfir Vatnsskarð að Kleifarvatni. Haldið áfram suður með vatninu; farið fram hjá hverasvæðinu við Ketilstíg og áfram fram hjá Grænavatni. Tæpum 1 kílómetra sunnar eru, til hægri handar, vegamót Grindavíkurvegar. Er ekið eftir honum gegjnum túnið í Krýsuvík og áfram, um 4 kilómetra í vestur, þá er komið að austurjaðri Ögmundarhrauns. Þá er Mælifell á hægri hönd.
Hér hefst gönguferðin og er þá fyrst farið niður með jaðri hraunsins. Auðvelt er að aka jeppa niður með hrauninu, en við förum þetta gangandi.
Þegar gengið hefur verið um 2 kílómetra niður með hraunjaðrinum verða fyrir tvö vörðubrot á hraunbrúninni. Hér liggur stígur upp á hraunið. Er þessum stíg fylgt yfir að hraunrima, sem er sem næst 1/2 kílómetri á breidd og er þá komið í Húshólma.
Húshólmi er gróin spilda, nokkrir tugir hektara að stærð, umlukt apalhrauni, nema við sjó er dálítil fjara.

Húshólmi

Skálatóft í Húshólma í Gömlu-Krýsuvík.

Haldið er vestur yfir Húshólmann og stefnt dálítið ská hallt í átt til sjávar. Þegar komið er að hraunbrúninni vestan við gróðurspilduna er stefna tekin suður með hrauninu unz fyrir verður gróið túngarðsbrot, sem liggur skáhallt út undan hrauninu. Er þetta brot af túngarði „Gömlu Krýsuvíkur“. Sunnan við túngarðsbrotið er gengið upp á hraunið og verða þá fyrir tóftirnar af húsum „Gömlu Krýsuvíkur“.
Hér gefur á að líta tóftir af bæjarhósum, sem hraun (Ögmundarhraun) hefur runnið allt í kringum og að nokkru yfir. Ég held að hvergi á Íslandi sé hægt að sjá þessu líkt, nema ef vera kynni í Reykjahlíð við Mývatn. Talið er að Ögmundarhraun hafi runnið um miðja 14. öld.
Munnmæli herma að hér hafi Krýsuvík upphaflega verið. Þetta mun að vísu aðeins vera tilgáta til að skýra nafn bœjarins, sem eftir hraunflóðið á að hafa verið fluttur á þann stað, þar sem hann nú er, um 4 kílómetra frá sjó og engin vík í landi jarðarinnar. Krýsuvík er nú í eyði, bæjarhús fallin, en lítil timburkirkja stendur.

Básendar

Básendar – festarhringur.

Orð fer af því hve nágrenni Reykjavíkur sé hrjóstrugt. Þar á móti kemur að kannski er hvergi á Íslandi jafn fjölbreytt náttúra. Auk þess eru hér á næstu grösum margvíslegar minjar frá liðnum öldum, sem gaman er að kynnast, svo sem seljatóftirnar í hrauntungunni milli Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar, sunnan Kapelluhrauns (Almenningur), festarjárnin digru á Básendum, sjóbúðatóftirnar og fiskbyrgin á Selatöngum, og fallegar fjárborgir á víð og dreif, svo að nokkuð sé nefnt. Er ómaksins vert fyrir þá, sem eiga ráð á bíl og eru rólfærir, að gefa þessu gaum.

Hlíðar Esjunnar (Áki Jakobsson, lögfræðingur)
Áki JakobssonÍ haust sem leið var tíðin rysjótt og fá tækifæri gáfust til þess að fara í gönguferð í þurru veðri.
Sunnudag einn hringdi til mín kunningi minn og spurði hvort ég væri ekki til í að koma í göngutúr. Ég játaði því með þökkum og fór í gönguskó og svo lögðum við af stað. Við ókum upp að Stardal og lögðum bílnum þar en lögðum land undir fót. Gengum við svo til vesturs frá Stardal meðfram undirhlíðum Esjunnar. Síðan sveigðum við til norðurs og stefndum að Móskarðshnúkum. Leiðin lá yfir allvíðlend an mýrarslakka, sem grafinn hefur verið í sundur með skurðum, sem virðist vera orðin árátta, þó að ekki eigi að fullrækta. Á leiðinni yfir mýrina, sem var mjög blaut eftir rigningarnar í sumar, og því ekki beint þægileg til göngu, rákumst við á mink, sem faldi sig i skurði. Þegar hann varð var mannaferða tók hann til fótanna og hafði sýnilega engan áhuga á að kynnast okkur frekar. Við veittum honum nokkra athygli og virtist augljóst, að þarna væri um hlaupagikk að ræða, nýsloppinn út, enda er þarna skammt frá eitt af hinum nýju minkabúum, sem stofnuð voru eftir að minkabannið var afnumið illu heilli. Við vorum ekki í neinum minkaveiðihugleiðingum og kvöddum hann því og héldum leið okkar. Stefndum við nú á vestasta Móskarðshnúkinn. Veður var bjart þessa stundina, þó ekki sól, en líparitið í hnúkunum gerði þetta að sólskinslandslagi og fjallasýnin var heillandi.

Móskarðshnúkar

Móskarðshnúkar.

Stefndum við nú upp til fjallanna og ekki leið á löngu þar til við komum upp á veginn úr Kjósinni, sem liggur um Svínaskarð. Fylgdum við nú veginum til vesturs, þar til hann sveigir til suðurs við vestasta hnúkinn. Þá fórum við af veginum og stefndum upp á leið, upp á mjög einkennilega klettaborg, sem stendur upp úr skriðunum neðanvert í fjallinu. Nú gerði á okkur skyndilega rigningu og er ekki að orðlengja það, að við urðum holdvotir á nokkrum mínútum. Við létum þetta þó ekki aftra okkur og héldum áfram. Eg er nú ekki orðinn mikill fjallgöngumaður, en upp á klettaborgina komst ég þó. Þá bregður svo við, að það er eins og risahönd sópi burt rigningarskýjunum og við fáum sólskin. Við fengum alveg stórkostlega útsýn, einkum til Esjunnar, en þar blasir við auganu hæsti tindur hennar. Þessi fjallasýn var svo heillandi, að mér fannst við í henni einni fá ríkuleg laun fyrir erfiði okkar. Því hefur ekki einhver af málurum okkar sett þetta stórkostlega „motiv“ á léreft, varð mér á að hugsa. Það get ur nú verið að það hafi verið gert, þó að ég hafi ekki séð þá mynd.

Móskarðshnúkar

Móskarðshnúkar.

Sólskinið stóð ekki lengi. Þung rigningarský lögðust að á ný og aftur var komin hellirigning. Eftir þessa útsýn á hamraborgunum, gerði þetta að sól inni, fannst okkur ekki vera hægt að vænta nýrra ævintýra í þessari ferð og hröðuðum okkur nú niður og vildum komast úr rigningunni sem fyrst. Við fórum niður á veginn úr Kjósinni og fylgdum honum, en komum þá að girðingu, sem liggur meðfram veginum og beinir honum í aðra átt en við þurftum að komast.
Brugðum við nú á það ráð að fara yfir girðingu þessa, til þess að stytta okkur leið. En við höfðum ekki lengi gengið þegar við gengum fram á tvö heljarmikil naut. Við höfðum sem sagt lent í nautagirðingu. Við höfðum engan kjark til þess að fara að kljást við naut. Nautin höfðu ekki orðið vör við okkur, svo við læddumst til baka sömu leið og komum okkur út úr girðingunni. Við fórum svo krókinn af mestu þolinmæði og komum að bílnum aftur eftir röskra fjögurra tíma göngu. Við vor um að vísu holdvotir, en höfðum átt mjög skemmtilegan dag.

Yfir Sveifluháls (Bergþóra Sigurðardóttir, læknir)
Bergþóra SigurðardóttirSveifluháls eða Austurháls nefnist hæðardragið norðan Kleifarvatns og eru hæstu tindar hans tæpir 400 m á hæð. Er hann innan þess svæðis, sem Náttúruverndarnefnd Reykjavíkur og borgarráð leggja til að verði fólkvangur.
Reyndar kæmi sér vel fyrir okkur gönguglöð, að fá til fylgdar einhvern fótfúinn, sem sætti sig við að aka okkur í átt að Djúpavatni og biða okkar síðan í Krýsuvík. Gætum við þá gengið þvert yfir hálsinn, sem er þarna um 2,5 km á breidd. En ekkert er á móti því að ganga í hring og koma niður sömu megin. Við ókum Krýsuvíkurveg í átt að Kleifarvatni, en beygjum til hægri áður en við komum í Vatnsskarð, þar sem heitir Móhálsaleið. Ruðningsvegur liggur yfir hraunið með nyrðri hlíð Sveifluháls í átt að Djúpavatni. Þar er silungsveiði og snoturt veiðihús stendur við vatnið. Yfirgefum við farartækin, þar sem vegurinn sveigir að Djúpavatni.
Sveifluháls er móbergshryggur, sem hlaðizt hefur upp í sprungustefnu (SV—NA) á siðasta jökulskeiði. Hann er því lítið rofinn og landslag tilbreytingaríkt. Aðallitir landsins þarna eru rauðbrúnn litur móbergsins og grámi gamburmosans. Göngum við suður og upp á við yfir urð og grjót. Í maí sjást þarna í mosa og móabörðum bleikar breiður sem minna fákunnandi á lambagras, en þarna skartar vetrarblómið sínum fegursta skrúða. Er upp á hálsinn er komið er fallegt að sjá til norðurs yfir hraunið og Djúpavatn, en handan þess Grænadyngja og Trölladyngja. Í suðaustri sjást gufustrókar frá hverum milli Hatts og Hettu, en það eru hæstu hnúkarnir á hálsinum í suðri.

Grænavatn

Grænavatn.

Á miðjum hálsinum er tjörn, sem Arnarvatn nefnist. Við göngum vestan hennar í sendnu fjöruborðinu, en reiðvegurinn til Krýsuvíkur liggur austan megin. Móbergskambur skýlir okkur á aðra hönd, en handan hans tekur við flatlent mýrlendi og norðaustan þess gnæfir Arnarnípa 340 m á hæð. Er yfir mýrina kemur tekur við holt, en síðan fer að halla undan fæti og við sjáum suður á sjálft Atlantshafið. Lítið fell, Arnarfell, sunnan Krýsuvíkur er fallegt til að sjá. Við sjáum að Grænavatn er réttnefni, en það glitrar eins og smaragður séð frá hálsinum.
Við fikrum okkur svo niður gilið að hverasvæðinu, þar sem hitaveita Hafnarfjarðar hefur um árabil bullað út í loftið.
Þar sem Grænavatn var svona fallegt til að sjá, hyllumst við til að skoða það nánar. Er það rétt sunnan við akveginn. Grænavatn er dýpsti sprengigígur á landinu, 44 m á dýpt og á barmi þess getum við fundið hnyðlinga úr gabbró. Gestastaðavatn, vestan vegarins er einnig í gömlum sprengigíg, en aðeins 2,6 m á dýpt. Enn sunnar eru tvær smátjarnir eru Augu nefnast og myndaðar á sama máta. Liggur veg urinn milli Augnanna og ljúkum við þar göngu okkar.“

Heimild:
-Morgunblaðið-sunnudagsblað 26.11.1972, Hvert munduð þér helzt halda í gönguferð á góðum sunnudegi?, bls. 36-37.

Arnarfell

Arnarfell.