Færslur

Vífilsfell

Vífilsfell er bæði áberandi fell ofan höfuðborgarsvæðisins, auk þess sem mótun þess vekur gjarnan áhuga og ákafa fjallafólks. Stallur er austur á fellinu, stundum nefndur Litla-Sandskeið vegna þess hversu sléttur hann er. En hvernig myndaðist stallurinn á Vífilsfelli?
Fyrirboði á leið uppVífilsfell er í raun arfleifð bermyndana frá tveimur jökulskeiðum. Við gos undir jökli myndast móbergsfjöll, og nái gosið að bræða sig upp úr jöklinum þannig að ekki komist bræðsluvatn að gígnum renna hraun. Slík fjöll, með hraunlögum ofan á
móberginu, nefnast stapar. Þekktustu dæmin um stapa á Íslandi eru Hlöðufell og Herðubreið. Gönguleiðin á Vífilsfell er meðal vinsælli gönguleiða á Reykjanesskaganum. Þegar gengið er upp á fellið að austanverðu er það nokkuð létt uppgöngu þó nokkuð bratt sé síðasta spölinn upp á Stallinn. Fellið er auk þess fallegt og þaðan er gott útsýni, einkum yfir höfuðborgarsvæðið. Hækkunin er um 400 metrar, en mesta hæð er 655 m.y.s.
Reyndar eru nokkrar uppgönguleiðir á Vífilsfell. Besta leiðin er þó sem fyrr sagði norðausturleiðin, upp úr Sauðadölum, hornið við akleiðina í Jósefdal. Gengið er upp greinilegan göngustíg sem liggur upp bratta hlíðina upp á  hásléttuna fyrir ofan. Skriðan er laus á þessum slóðum en gönguleiðin hefur víða runnið af móberginu sem stendur næstum bert eftir. Nauðsynlegt er að taka vara við slíkum stöðum því þar getur verið erfitt að fóta sig.
Fyrsti áfangi leiðarinnar er þessi bratta brekka. Uppi tekur við flatlendi sem nær út að móbergklettunum sem mynda nokkurs konar öxl sem liggur að hæsta hluta Vífilsfells. Best er
að fara upp klettana á öxlina og ganga eftir henni að tindinum. Þarna er lítið um lausamöl en enn ástæða til að fara varlega því móbergið getur verið varasamt.
Af öxlinni er greið leið að tindunum sjálfum og þar er um tvær uppgönguleiðir að ræða, upp báðar þarf að handstyrkja sig.
Fyrir nokkrum árum voru þarna kaðlar til halds og trausts. Aðeins vestan við hornið er sprunga sem hægt er að nota til að klifra upp.
Uppi á toppi er hringsjá sem Ferðafélag Íslands lét koma þar fyrir um 1940 og má með aðstoð hennar átta sig á kennileitum í nágrenninu, nær og fjær.Myndun á leið á Vífilsfell
“Eitt þeirra fjalla, sem blasa við augum manna héðan frá höfuðborginni er Vifilsfellið. Það er ekki stórfenglegt til að sjá, en þegar nær er komið breytir það um svip og ýtir undir þá löngun að ganga þar á efsta tind. Og í dag skulum við framkvæma það verk. Hægt er að ganga á fjallið frá öllum áttum en stysta leiðin er úr skarðinu í mynni Jósefsdals og þar skulum við hefja gönguna. Frá Litlu kaffistofunni, sem er á mótum hins gamla og nýja vegar yfir Svínahraunið ökum við afleggjarann, sem liggur inn í Jósefsdal. Við ökum um Sauðadali, meðfram Draugahlíðum og Þórishamri og brátt erum við komin í skarðið, en það er suðaustan undir Vífilsfelli, milli þess og Sauðadalahnúka. Hér skulum við skilja bílinn eftir og hefja gönguna. Framundan er brött skriða þakin lausum jarðvegi. Best er að velja leiðina milli tveggja grunnra vatnsrása, sem liggja þar niður ofan frá brún, eða ganga eftir annarri hvorri rásinni, því þar er fastara undir fæti. Þegar komið er upp á brúnina fyrir ofan, tekur við sléttur melur. Hann er kærkominn, því brekkan en erfið og hefur komið mörgum hraustum kappanum til að blása og svitna örlítið. Við hvílum okkur nokkra stund á brúninni og litumst um, því landslagið hefur breytt um svip og útsýnið aukist að miklum mun. Síðan tekur við annar áfangi.
Handan melsins rís móbergsklettur allbrattur, sem fer lækkandi til austurs. Okkur finnst hann óárennilegur í fyrstu, en tökum samt stefnuna á hann og fikrum okkur upp eftir honum.
Er á reynir er hann auðveldari viðfangs en okkur sýndist. Þegar efstu brún klettsins er náð, blasir við útsýnið yfir Bláfjöllin og út á Flóann. En ekki höfum við enn náð efsta tindi. Einn stallur er eftir og sá brattasti. Sumir þurfa smáaðstoð við að sigra hann, en flestir “hlaupa” upp án nokkurrar aðstoðar. Þegar hann er að baki er “hæsta tindi náð” og ekkert annað eftir en “rifja upp og reyna að muna, fjallanöfnin, náttúruna” (Tómas Guðmundsson), með aðstoð útsýnisskífunnar, sem Ferðafélag Íslands kom hér upp árið 1940.
VífilsstaðirMeðan við dveljum hjá skífunni fremst á fjallinu tökum við upp nestisbitann og njótum stundarinnar. Þá er tækifæri að minnast á söguna góðu um Vífil. Þjóðsagan segir að eftir að
Ingólfur Arnarson hafði sest að í Reykjavík gaf hann Vífli þræli sínum frelsi og bústað, sem nefndur var Vífilsstaðir. Á Álftanesi er bærinn Sviðsholt. Þar bjó Sviði. Þeir félagar voru vinir og sóttu sjóinn fast, segir sagan. Síðan segir: “Langt fyrir ofan Vífilsstaði er fell eitt, sem Vífilsfell heitir. Þó það sé snöggt um lengri vegur upp að felli þessu frá Vífilsstöðum, en til sjávar, gekk Vífill allt um það á hverjum morgni upp á fellið til að gá til veðurs, áður en hann fór að róa, og reri ekki, ef hann sá nokkra skýskán á lofti af fellinu, og tók því fellið nafn af honum. En ef honum leist róðrarlega á loftslag gekk hann til skips og reri með Sviða”.

Myndun á leið á Vífilsfell

Og nú stöndum við á sömu steinunum og Vífill forðum, hér uppi á fellinu, ef marka skal sannleiksgildi sögunnar. En tæplega myndu margir á okkar öld geta leikið það eftir honum, að skjótast þessa leið frá Vífilsstöðum fram og aftur, áður en hann ýtti bátnum frá landi. En nú skulum við huga að heimferð. Sjálfsagt er að leggja smálykkju á leiðina og skjótast niður í Jósefsdalinn. Þá förum við til hægri, þegar komið er niðurfyrir klettabeltið, og göngum vestur brúnirnar. Auðvelt er að komast þaðan ofan í dalinn hvar sem er, en skemmtilegast er þó að ganga vestur fyrir dalbotninn og niður Bláfjallagilið, síðan út dalinn, sem er mjög sumarfagur, rennsléttur í botninn, en háir, brattir hnúkar á alla vegu.
Fyrrum var fjölfarin leið um Jósefsdal. Var þá komið inn í dalinn þar sem vegurinn liggur nú, en haldið áfram utan í Sauðadalahnúk og upp í annað skarð, sem er milli hans og…..
Heitir þetta skarð Ólafsskarð. Það er kennt við Ólaf Skálholtsbryta samkvæmt þjóðsögu skráðri í safni Jóns Árnasonar (sú saga er sögð í kaflanum um Lyklafell). Önnur sögn segir, að fyrrum hafi verið býli í dalnum. Hét bóndinn Jósef. Hann var góður smiður, en forsmáði guð svo með blóti og formælingum að bærinn sökk með manni og mús. Eftir það lagðist byggð af í dalnum og var ekki byggður bær þar síðan. Önnur sögn greinir frá því, að tröll hafi átt heima í dalnum á tímabili. Þessi álög hafa samt ekki hvílt lengi yfir dalnum, því í nokkra áratugi átti skíðadeild Ármanns heimili sitt í dalnum. Þeir byggðu þar myndarlegan skála og æfðu skíðaíþróttina af kappi og héldu mörg mót. En svo var ekki grundvöllur fyrir áframhaldi og mannvirkin öll rifin og starfsemin flutt í Bláfjöll, þar sem hún er nú. Við göngum austur úr dalnum, fram hjá Grettistaki, stórum steini við veginn og upp í skarðið. Þar bíður bíllinn okkar.”

Á efstu brún

Stallurinn á Vífilsfelli er stapi, það er efsti hluti hans er blágrýtislög en móberg undir. Toppurinn á Vífilsfelli er hins vegar yngri myndun sem liggur ofan á blágrýtinu og utan í vesturhlíð stapans. Hann er úr móbergi og er hluti af NV-SA gossprungu sem teygir sig frá Henglafjöllum suður fyrir Sandskeið. Þessi sprungustefna er óvenjuleg en þó ekkert einsdæmi, en ríkjandi sprungustefna á Suðurlandi er NA-SV. Vífilsfell er semsagt myndað í tveimur gosum, þar sem hið síðara varð undir þykkari jökli en hið fyrra – sennilega hvort á sínu jökulskeiði.
Síðasta ísöld hófst fyrir um 2,8 milljónum ára og lauk fyrir um 11.000 árum. Það var þó ekki stanslaus vetrarkuldi allan þann tíma heldur skiptust á kuldaskeið og hlýskeið.
Það er ekkert sem að bendir til þess að eldgos hafi verið óalgengari á ísöld en þau eru í dag. Hins vegar eru uppi hugmyndir um að á því tímabili þegar ísöld var að ganga í garð hafi eldgosum fækkað vegna aukins þrýstings frá upphleðslu íss. Að sama skapi voru eldgos tíðari þegar ísöld lauk og þrýstiléttir varð vegna ísbráðnunar.
Myndanir í VífilsfelliÁ hlýskeiðum runnu grágrýtishraun langar leiðir og oft langt út fyrir gosbeltin. Þessi hraun komu ýmist frá gossprungum, eldkeilum eða dyngjum. Á kuldaskeiðum ísaldar mynduðustu hins vegar móbergsfjöll við gos undir jökli, ýmist móbergshryggir sem hljóðust upp á sprungum en náðu yfirleitt ekki upp úr jöklinum eða móbergsstapar sem hlóðust upp úr jöklinum. Þessi fjöll setja mikinn svip á landslagið enn þann dag í dag. Sem dæmi um móbergshryggi má nefna Sveifluháls.
Á síðustu árum hafa sjónir manna beinst í vaxandi mæli að móbergsmynduninni hér vegna þess að sitthvað þykir benda til þess að slíkar myndanir sé að finna á reikistjörnunni Mars. Móbergið hefur aðallega myndast í eldgosum undir jökli, og slík gos hafa menn getað rannsakað hér á landi. Móberg myndast þannig, að 1200°C heit bráð snöggkælist í vatni. Þá hafa kristallar „ekki tíma til“ að vaxa og því myndast glersalli sem hleðst upp kringum gosopið. Þannig myndast hrúga af vatnsósa, lausri gosösku sem nefnist túff og ummyndast fljótlega í móberg (palagonít), sem er fast berg: Við 80-150°C hita hvarfast glerið við vatn, það „afglerjast“ og ýmsir kristallar myndast sem líma kornin saman og breyta túffinu í móberg.
Kannski sú bergtegund sem næst kemst því að vera séríslensk sé móbergið. Alkunn móbergsfjöll í nágrenni Reykjavíkur eru Helgafell sunnan við Hafnarfjörð, Hengill, efsti hluti Vífulsfells, Bláfjöll og
hryggirnir á Reykjanesskaga.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimild:
-visindavefurin.is
-Mbl,  ágúst 1979.

Komið upp á Stallinn á Vífilsfelli

Húshólmi

Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 1972 er umfjöllun með yfirskriftinni “Hvert munduð þér helzt halda í gönguferð á góðum sunnudegi?” þar sem nokkrir valdir einstaklingar eru spurðir svara:

“Enga íþrótt — ef íþrótt skyldi kalla — er eins auðvelt að iðka og gönguferðir — og þær eru sannarlega ekki síður skemmtilegar að vetri en sumri. Til þeirra þarf engan útbúnað annan en hlý föt og góða skó en hollustan af þeim er ómæld. Læknar hafa um árabil hvatt menn til gönguferða, ekki einungis vegna þess, að þær eru hollar líkamanum í heild, heldur og vinna þær gegn hjartasjúkdómum, sem eru eins og allir vita, einn tíðasti sjúkdómur meðal siðmenntaðra þjóða.

Arnarvatn

Arnarvatn.

Margir hafa svo sem stundað gönguferðir án þess til þyrfti hvatningarorð lækna en enginn vafi er, að þær hafa orðið almennari á síðari árum eftir að fólk fór almennt að gera sér ljóst hvílíkir vágestir kransæðastífla og aðrir hjartakvillar er. Þannig hafa fjölmargir kynnzt umhverfi sínu á nýjan hátt, séð staði, sem voru þeim áður ókunnir og einnig séð gamalkunna staði nýjum augum.
Til gamans höfðum, við samband við nokkra menn og konur á höfuðborgarsvæðinu og báðum þau að segja okkur í fáum orðum, hvert þau mundu helzt halda í gönguferð á góðum sunnudegi, þegar þau ættu frí frá amstri og erfiði hversdagsins.

Hlíðar Heiðmerkur (Jónas Haralz, bankastjóri)
Jónas HaraldzVið sem búum í Reykjavík og nágrenni höfum þá einstöku aðstöðu að finna fagurt, tilkomumikið og marg breytilegt landslag eftir 10—15 mínútna akstursleið — og jafnvel- enn nœr bústöðum okkar. Þarna getum við verið algerlega út af fyrir okkur — er víða sem sjaldnast sést nokkur maður á vetrardegi. Við hjónin notum okkur þetta oft og eftirlætisstaður okkar er með hlíðunum í Heiðmerkurlandinu.

Á Helgafell eða fjörur (Halldóra Thoroddsen, skrifstofustjóri)
Það er vandi að velja á milli, því að margir skemmtilegir staðir eru í nágrenni Reykjavíkur og óþarfi að aka langt burt úr bænum til að finna fallegar gönguleiðir. Til dæmis er einkar gaman að ganga fyrir sunnan Heiðmörkina og Hafnarfjörð og minnist ég þá sérstaklega skemmtilegrar leiðar, sem Eysteinn Jónsson lýsti fyrir nokkrum áratugum, það er göngu ferð á Helgafell. Ég gekk einu sinni eftir hans fyrirsögn og er viss um að sú leið svíkur engan.
Halldóra Thoroddsen
Skemmtilegast finnst mér þó að ganga með sjó fram og þá er ekki langt að aka suður í Krýsuvík eða Grindavík — nú — svo standa fjörurnar á Stokkseyri og Eyrarbakka alltaf fyrir sínu. Þessum gönguferðum fylgir sá kostur, að maður þarf ekki að kjaga upp eða niður brekkur. Helzt mundi ég þó kjósa á góðviðrissunnudegi að setjastá hestbak og ríða inn með Esjunni og upp að Tröllafossi — það er mátuleg sunnudagsferð fyrir mann og hest.

Kaldársel (Gísli Sigurðsson, varðstjóri)
Ég hef haft þann sið frá þvi fyrir 1930 að ganga um nágrennið og upp úr 1950 fór ég að safna örnefnum hér í kring og hef verið að ganga á þessa staði. Það er því um margt að velja. Úr Reykjavík er til dæmis gott að ganga upp að Elliðavatni og Vatnsendavatni og þar um kring, m.a. i Heiðmörkinni. Svo ég tali nú ekki um að bregða sér í fjöllin í Mosfellssveitinni, þar er indælt að vera og horfa yfir sundin, eyjarnar og nesin.
Gísli SigurðssonÚr Garðahreppi er einfaldast að fara beint inn hjá Vífilsstöðum, inn á hálsana, inn með Vífilsstaðahlíð, inn í Grunnuvötn og inn á Hjalla.
Úr Kópavogi er sjálfsagt að ganga inn úr byggðinni, upp og umhverfis Vatnsenda hæð, inn í Selás, inn fyrir Geitháls, — ég tala nú ekki um að fara inn á Sandskeiðið og þar í kring.
Við Hafnfirðingar eigum ekki langt að fara, getum gengið umhverfis bæinn, um Urðarfosshraunið, Setbergshlíðina inn að Kaldárseli og kringum Helgafell, suður um Ásfjall og þar um kring. Þetta eru svona tveggja til þriggja tíma leiðir, sem er gott að ganga eftir hádegi. Þarna er víða ónumið land, sem er indælt til hvíldar og gönguferða. Mér finnst ekkert taka þeim fram.

Gamla Krýsuvík (Björn Steffensen, endurskoðandi)
Björn SteffesenFerðinni er heitið í Húshólma til þess að skoða tóftir „Gömlu Krýsuvíkur”: Ekið er sem leið liggur suður Reykjanesbraut þar til komið er suður fyrir Hvaleyrarholt að beygt er til vinstri, á Krýsuvíkurveg. Ekið um Kapelluhraun og austur jaðar Almennings, yfir Vatnsskarð að Kleifarvatni. Haldið áfram suður með vatninu; farið fram hjá hverasvæðinu við Ketilstíg og áfram fram hjá Grænavatni. Tæpum 1 kílómetra sunnar eru, til hægri handar, vegamót Grindavíkurvegar. Er ekið eftir honum gegjnum túnið í Krýsuvík og áfram, um 4 kilómetra í vestur, þá er komið að austurjaðri Ögmundarhrauns. Þá er Mælifell á hægri hönd.
Hér hefst gönguferðin og er þá fyrst farið niður með jaðri hraunsins. Auðvelt er að aka jeppa niður með hrauninu, en við förum þetta gangandi.
Þegar gengið hefur verið um 2 kílómetra niður með hraunjaðrinum verða fyrir tvö vörðubrot á hraunbrúninni. Hér liggur stígur upp á hraunið. Er þessum stíg fylgt yfir að hraunrima, sem er sem næst 1/2 kílómetri á breidd og er þá komið í Húshólma.
Húshólmi er gróin spilda, nokkrir tugir hektara að stærð, umlukt apalhrauni, nema við sjó er dálítil fjara.

Húshólmi

Skálatóft í Húshólma í Gömlu-Krýsuvík.

Haldið er vestur yfir Húshólmann og stefnt dálítið ská hallt í átt til sjávar. Þegar komið er að hraunbrúninni vestan við gróðurspilduna er stefna tekin suður með hrauninu unz fyrir verður gróið túngarðsbrot, sem liggur skáhallt út undan hrauninu. Er þetta brot af túngarði „Gömlu Krýsuvíkur”. Sunnan við túngarðsbrotið er gengið upp á hraunið og verða þá fyrir tóftirnar af húsum „Gömlu Krýsuvíkur”.
Hér gefur á að líta tóftir af bæjarhósum, sem hraun (Ögmundarhraun) hefur runnið allt í kringum og að nokkru yfir. Ég held að hvergi á Íslandi sé hægt að sjá þessu líkt, nema ef vera kynni í Reykjahlíð við Mývatn. Talið er að Ögmundarhraun hafi runnið um miðja 14. öld.
Munnmæli herma að hér hafi Krýsuvík upphaflega verið. Þetta mun að vísu aðeins vera tilgáta til að skýra nafn bœjarins, sem eftir hraunflóðið á að hafa verið fluttur á þann stað, þar sem hann nú er, um 4 kílómetra frá sjó og engin vík í landi jarðarinnar. Krýsuvík er nú í eyði, bæjarhús fallin, en lítil timburkirkja stendur.

Básendar

Básendar – festarhringur.

Orð fer af því hve nágrenni Reykjavíkur sé hrjóstrugt. Þar á móti kemur að kannski er hvergi á Íslandi jafn fjölbreytt náttúra. Auk þess eru hér á næstu grösum margvíslegar minjar frá liðnum öldum, sem gaman er að kynnast, svo sem seljatóftirnar í hrauntungunni milli Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar, sunnan Kapelluhrauns (Almenningur), festarjárnin digru á Básendum, sjóbúðatóftirnar og fiskbyrgin á Selatöngum, og fallegar fjárborgir á víð og dreif, svo að nokkuð sé nefnt. Er ómaksins vert fyrir þá, sem eiga ráð á bíl og eru rólfærir, að gefa þessu gaum.

Hlíðar Esjunnar (Áki Jakobsson, lögfræðingur)
Áki JakobssonÍ haust sem leið var tíðin rysjótt og fá tækifæri gáfust til þess að fara í gönguferð í þurru veðri.
Sunnudag einn hringdi til mín kunningi minn og spurði hvort ég væri ekki til í að koma í göngutúr. Ég játaði því með þökkum og fór í gönguskó og svo lögðum við af stað. Við ókum upp að Stardal og lögðum bílnum þar en lögðum land undir fót. Gengum við svo til vesturs frá Stardal meðfram undirhlíðum Esjunnar. Síðan sveigðum við til norðurs og stefndum að Móskarðshnúkum. Leiðin lá yfir allvíðlend an mýrarslakka, sem grafinn hefur verið í sundur með skurðum, sem virðist vera orðin árátta, þó að ekki eigi að fullrækta. Á leiðinni yfir mýrina, sem var mjög blaut eftir rigningarnar í sumar, og því ekki beint þægileg til göngu, rákumst við á mink, sem faldi sig i skurði. Þegar hann varð var mannaferða tók hann til fótanna og hafði sýnilega engan áhuga á að kynnast okkur frekar. Við veittum honum nokkra athygli og virtist augljóst, að þarna væri um hlaupagikk að ræða, nýsloppinn út, enda er þarna skammt frá eitt af hinum nýju minkabúum, sem stofnuð voru eftir að minkabannið var afnumið illu heilli. Við vorum ekki í neinum minkaveiðihugleiðingum og kvöddum hann því og héldum leið okkar. Stefndum við nú á vestasta Móskarðshnúkinn. Veður var bjart þessa stundina, þó ekki sól, en líparitið í hnúkunum gerði þetta að sólskinslandslagi og fjallasýnin var heillandi.

Móskarðshnúkar

Móskarðshnúkar.

Stefndum við nú upp til fjallanna og ekki leið á löngu þar til við komum upp á veginn úr Kjósinni, sem liggur um Svínaskarð. Fylgdum við nú veginum til vesturs, þar til hann sveigir til suðurs við vestasta hnúkinn. Þá fórum við af veginum og stefndum upp á leið, upp á mjög einkennilega klettaborg, sem stendur upp úr skriðunum neðanvert í fjallinu. Nú gerði á okkur skyndilega rigningu og er ekki að orðlengja það, að við urðum holdvotir á nokkrum mínútum. Við létum þetta þó ekki aftra okkur og héldum áfram. Eg er nú ekki orðinn mikill fjallgöngumaður, en upp á klettaborgina komst ég þó. Þá bregður svo við, að það er eins og risahönd sópi burt rigningarskýjunum og við fáum sólskin. Við fengum alveg stórkostlega útsýn, einkum til Esjunnar, en þar blasir við auganu hæsti tindur hennar. Þessi fjallasýn var svo heillandi, að mér fannst við í henni einni fá ríkuleg laun fyrir erfiði okkar. Því hefur ekki einhver af málurum okkar sett þetta stórkostlega „motiv” á léreft, varð mér á að hugsa. Það get ur nú verið að það hafi verið gert, þó að ég hafi ekki séð þá mynd.

Móskarðshnúkar

Móskarðshnúkar.

Sólskinið stóð ekki lengi. Þung rigningarský lögðust að á ný og aftur var komin hellirigning. Eftir þessa útsýn á hamraborgunum, gerði þetta að sól inni, fannst okkur ekki vera hægt að vænta nýrra ævintýra í þessari ferð og hröðuðum okkur nú niður og vildum komast úr rigningunni sem fyrst. Við fórum niður á veginn úr Kjósinni og fylgdum honum, en komum þá að girðingu, sem liggur meðfram veginum og beinir honum í aðra átt en við þurftum að komast.
Brugðum við nú á það ráð að fara yfir girðingu þessa, til þess að stytta okkur leið. En við höfðum ekki lengi gengið þegar við gengum fram á tvö heljarmikil naut. Við höfðum sem sagt lent í nautagirðingu. Við höfðum engan kjark til þess að fara að kljást við naut. Nautin höfðu ekki orðið vör við okkur, svo við læddumst til baka sömu leið og komum okkur út úr girðingunni. Við fórum svo krókinn af mestu þolinmæði og komum að bílnum aftur eftir röskra fjögurra tíma göngu. Við vor um að vísu holdvotir, en höfðum átt mjög skemmtilegan dag.

Yfir Sveifluháls (Bergþóra Sigurðardóttir, læknir)
Bergþóra SigurðardóttirSveifluháls eða Austurháls nefnist hæðardragið norðan Kleifarvatns og eru hæstu tindar hans tæpir 400 m á hæð. Er hann innan þess svæðis, sem Náttúruverndarnefnd Reykjavíkur og borgarráð leggja til að verði fólkvangur.
Reyndar kæmi sér vel fyrir okkur gönguglöð, að fá til fylgdar einhvern fótfúinn, sem sætti sig við að aka okkur í átt að Djúpavatni og biða okkar síðan í Krýsuvík. Gætum við þá gengið þvert yfir hálsinn, sem er þarna um 2,5 km á breidd. En ekkert er á móti því að ganga í hring og koma niður sömu megin. Við ókum Krýsuvíkurveg í átt að Kleifarvatni, en beygjum til hægri áður en við komum í Vatnsskarð, þar sem heitir Móhálsaleið. Ruðningsvegur liggur yfir hraunið með nyrðri hlíð Sveifluháls í átt að Djúpavatni. Þar er silungsveiði og snoturt veiðihús stendur við vatnið. Yfirgefum við farartækin, þar sem vegurinn sveigir að Djúpavatni.
Sveifluháls er móbergshryggur, sem hlaðizt hefur upp í sprungustefnu (SV—NA) á siðasta jökulskeiði. Hann er því lítið rofinn og landslag tilbreytingaríkt. Aðallitir landsins þarna eru rauðbrúnn litur móbergsins og grámi gamburmosans. Göngum við suður og upp á við yfir urð og grjót. Í maí sjást þarna í mosa og móabörðum bleikar breiður sem minna fákunnandi á lambagras, en þarna skartar vetrarblómið sínum fegursta skrúða. Er upp á hálsinn er komið er fallegt að sjá til norðurs yfir hraunið og Djúpavatn, en handan þess Grænadyngja og Trölladyngja. Í suðaustri sjást gufustrókar frá hverum milli Hatts og Hettu, en það eru hæstu hnúkarnir á hálsinum í suðri.

Grænavatn

Grænavatn.

Á miðjum hálsinum er tjörn, sem Arnarvatn nefnist. Við göngum vestan hennar í sendnu fjöruborðinu, en reiðvegurinn til Krýsuvíkur liggur austan megin. Móbergskambur skýlir okkur á aðra hönd, en handan hans tekur við flatlent mýrlendi og norðaustan þess gnæfir Arnarnípa 340 m á hæð. Er yfir mýrina kemur tekur við holt, en síðan fer að halla undan fæti og við sjáum suður á sjálft Atlantshafið. Lítið fell, Arnarfell, sunnan Krýsuvíkur er fallegt til að sjá. Við sjáum að Grænavatn er réttnefni, en það glitrar eins og smaragður séð frá hálsinum.
Við fikrum okkur svo niður gilið að hverasvæðinu, þar sem hitaveita Hafnarfjarðar hefur um árabil bullað út í loftið.
Þar sem Grænavatn var svona fallegt til að sjá, hyllumst við til að skoða það nánar. Er það rétt sunnan við akveginn. Grænavatn er dýpsti sprengigígur á landinu, 44 m á dýpt og á barmi þess getum við fundið hnyðlinga úr gabbró. Gestastaðavatn, vestan vegarins er einnig í gömlum sprengigíg, en aðeins 2,6 m á dýpt. Enn sunnar eru tvær smátjarnir eru Augu nefnast og myndaðar á sama máta. Liggur veg urinn milli Augnanna og ljúkum við þar göngu okkar.”

Heimild:
-Morgunblaðið-sunnudagsblað 26.11.1972, Hvert munduð þér helzt halda í gönguferð á góðum sunnudegi?, bls. 36-37.

Arnarfell

Arnarfell.

Kópavogur
Fornleifaskráning fór fram í hluta af landi Kópavogs árið 2000 undir umsjón Bjarna F. Einarssonar, fornleifafræðings. Þó voru staðir eins og Þingnes ekki skráðir að öllu leiti. Staðurinn er í raun bæði í landi Reykjavíkur og Kópavogs og hann hefur verið rannsakaður í nokkur skipti, en aldrei að fullu. Margt bendir til þess að eldra nafn á staðnum sé Krossnes, en heitið Þingnes hefur fest sig í sessi á seinni tímum og verður væntanlega notað eftirleiðis.
ÁlfhóllÞað var annars einkennandi fyrir Kópavog, líkt og svo marga aðra staði á landinu, hversu gengið hafði verið óhikað á fornminjar og þeim ýmist eytt (meðvitað eða ómeðvitað), en seinni tíma iðrun einungis orðið til þess að opinbera vitund fólks um mistökin án þess að beinilínis hafi sést merki um að það hafi dregið dýrmætan lærdóm af þeim, sbr. Hjónadysina og Systkinaleiðin við Þinghól – og það þrátt fyrir fomlega friðlýsingu frá hinu háverðuga Alþingi Íslendinga. Þeir staðir, sem þó hafa verið varðveittir til framtíðar og teljast verða merkilegir, eru hins vegar ómerktir. Hér á eftir er byggt á skýrslu Bjarna, en jafnframt gerðar við hana smávægilegar athugasemdir. Hingað til hefur það ekki þekkst að gerðar séu athugasemdir eða ábendingar við fornleifaskráningarskýrslur, en kominn er tími til að breyta því, a.m.k. þeim er lúta að Reykjanesskaganum. Sumar hverjar virðast verulega ábótavant og aðrar beinlínis rangar. Þrátt fyrir það byggja opinberir aðilar mikilvægar ákvarðanir sínar m.a. á þeim gögnum.

Þinghóll

Afhjúpun upplýsingaskilta við Þinghól.

Í skýrslu Bjarna (frá árinu 2000) kemur m.a. fram að “ef velja á fornleifar sem eru einkennandi fyrir ákveðið hérað eða svæði er mikilvægt að vita hvaða fornleifar eru til svo hægt sé að velja.”
Einnig kemur fram að “í hugum nútímafólks er Kópavogur tiltölulega sögulaust sveitarfélag, sem á upphaf sitt að rekja til 20. aldar. Sveitarfélagið sjálft var ekki stofnað fyrr en 1948, en þétting byggðar hafði hafist nokkrum árum áður eða um 1936. Kaupstaðarréttindi fengust svo árið 1955. Á seinustu tveimur öldum var Kópavogur ekki í brennidepli og þótti jafnvel ekki búsældarlegt um að litast. Segir danski fræðimaðurinn Kristian P.E. Kålund svo frá jörðinni Kópavogi í ferðalýsingu sinni er birtist á prenti árin 1877-82: „Bærinn er áleiðum og ömurlegum stað; umhverfis hann eru lág grýtt hæðardrög eða dökkleitar þýfðar mýrar.“ Kópavogsjörðin var lang rýrasta jörðin af þeim jörðum sem eru í Kópavogslandi. Ekki er víst að jarðirnar hafi talist eftirsóknarverðar til ábúðar. Það að nafnið á Hvammi breyttist í Hvammskot árið 1552 gefur vísbendingar um það. Hvammskotsnafninu var svo breytt um 1875 af Þorláki Guðmundssyni alþingismanni í Fífuhvamm. Ekki hefur þó þróunin alltaf verið neikvæð því í jarðarbókum 17. aldar og Jarðamati Johnsens árið 1847 og yngri jarðamötum, hækkaði jarðarmat allra jarða innan bæjarlandsins nema Digraness.
Borgarholt Elsta ritaða heimild um byggð í landi Kópavogs er frá árinu 1234. Þá bregður Vatnsenda fyrst fyrir í Máldagaskrá um eignir Maríu kirkju og staðar í Viðey. Segir m.a. svo í skránni: „hvn a oc Elliðavatz land hálft. Oc allt land at vatzenda. Með þeim veiðvm oc gæðvm er þeim hafa fylgt at fornv. … Hamvndur gaf til staðarins holm þann. Erliggr j elliða am. niðr fra Vatzenda holmi.“ Heimildir segja svo ekkert um svæðið fyrr en árið 1313, í skrá um leigumála á jörðum Viðeyjarklausturs. Þá eru nefndir til sögunnar bæirnir Hvammur og Digranes, auk Vatnsenda. Segir m.a. svo um leigumálana í skránni: „At vatz ennda iij merkur.J hvamme c leigv.J digranesi iij merkur:“ Nafnið Kópavogur kemur fyrst fyrir í heimildum árið 1523. Er þar átt við Kópavogsþingstaðinn og tilefnið var dómur yfir Týla Péturssyni hirðstjóra, sem fundinn var sekur um morð o. fl. Bærinn Kópavogur kemur ekki fyrir í rituðum heimildum fyrr en1553, þá í afgjaldareikningum Eggerts hirðstjóra Hannessonar á Bessastöðum. Er þar afgjald Þorsteins ábúanda tilgreint, en það var „viijalne vatmell.“ Til eru aðrar og eldri heimildir um byggð í Kópavogi, en það eru fornleifarnar sem þar finnast. Margt er enn ósagt um þær, aðeins nokkrar þeirra hafa verið rannsakaðar og engar þeirra til fulls.

Elsta mannvirki sem í ýtarlegri sögu Kópavogs má lesa í Sögu Kópavogs I-III, sem Lionsklúbbur Kópavogs gaf út árið 1990 og endurminningum Huldu Jakobsdóttur “Við byggðum nýjan bæ”, sem Gylfi Gröndal ritaði árið 1988.
M.a. hefur fundist í Kópavogi jarðhýsi eitt, sem staðsett er undir minjum hins gamla Kópavogsþingstaðar, norðanvert við árósa Kópavogslækjar. Jarðhýsið er C-14 aldursgreint og var niðurstaðan óleiðrétt 1180 ± 130 BP. Sé niðurstaðan hins vegar leiðrétt með 95,4% vissu, er niðurstaðan sú að húsið hafi verið í notkun einhverntíma á bilinu 600 – 1200. Talið er að jarðhýsið geti jafvel verið frá 9. öld. Ofan á áðurgreindu jarðhýsi fannst smiðja, sem var mun eldri en frá 1500 miðað við afstöðu gjóskulaga, en reyndist vera frá því um 1800 samkvæmt C-14. Ástæðan fyrir þessu misræmi hlýtur að vera sú að viðurinn sem var aldursgreindur hefur borist í húsið á seinni tímum eða mistök átt sér stað á tilraunastofunni. Talið er að smiðjan geti verið frá 12. öld. Skammt suður af jarðhýsinu var byrgð þró. Viðarkolasýni úr henni var aldursgreint og niðurstaða þeirrar greiningar 900 ± 70 BP.

Latur

Latur – „Gamlar“ sagnir eru um að steinninn sé álfabústaður. Einnig kemur hann nokkuð við sögu Jóns bónda Guðmundssonar í Digranesi. Mun hann hafa setið við steininn og sungið þegar hann kom heim úr sollinum í Reykjavík á fyrri helmingi tuttugustu aldar.

Rannsóknin á Kópavogsþingstað sýnir svo að varla verður um villst að búseta hefur hafist á staðnum þegar á landnámsöld, kannski við upphaf hennar í lok 9. aldar. Jarðhýsi finnast nær aldrei ein og sér, þau eru ævinlega á bæjarstæðum, verslunarstöðum, þingstöðum eða eins og ýmislegt bendir til, á kumlateigum. Ekki er líklegt að jarðhýsið í Kópavogi hafi tilheyrt neinu öðru en bæjarstæði, sem er þá elsta bæjarstæði Kópavogs sem vitað er um í dag. Hvar bærinn hefur nákvæmlega staðið er ekki gott að segja, en þau jarðhýsi sem fundist hafa á bæjarstæðum hérlendis eru öll nálægt bæjarhúsunum, varla meira en 10 m frá þeim. Jarðhýsið í Kópavogi sker sig þó úr öðrum jarðhýsum hér á landi hvað tvö atriði varðar. Húsið er aðeins grafið niður um 20 sm í jökulruðninginn, sem er mjög lítið miðað við öll önnur jarðhýsi hér heima og erlendis. [Hér er í raun um vafamál að ræða, því hæpið er að kalla þetta “jarðhýsi”, svo grunnt sem það er og því fellur frekari rökstuðningur um nálægð við aðra bæjarhluta um sjálfan sig]. Á gólfinu er steinalögn sem gæti verið eldstæði, öll eða hluti hennar. Smiðjan ofan á jarðhýsinu segir okkur einnig að skammt frá hafi verið býli um 1200. Smiðjur virðast stundum hafa verið einhvern spöl frábæjarhúsum í öndverðu en færst svo nær býlunum, trúlega í upphafi miðalda, sbr. Stöng o.fl. bæi.Við önnur bæjarstæði í Kópavogi, Hvamm (Fífuhvamm), Digranes og Vatnsenda, eru/voru vafalítið mjög fornar minjar. Fífuhvammur er horfinn að mestu leyti, ef ekki öllu, og Digranes horfið að talsverðu leyti þó ýmislegt markvert kunni að leynast þar enn undir grasrótinni. Við Vatnsenda er enn búið og bæjarstæðið og nánasta umhverfi þess geymir örugglega mikið af upplýsingum um forsögu þess bæjar sem gæti hafa verið talsverð, samanber orðalag Máldagaskrá Viðeyjarkirkju. Í raun má segja að núverandi íbúðarhús standi á bæjarhól, en slíkir hólar geyma yfirleitt gríðarlegt magn upplýsinga um búskaparhætti á liðnum öldum. Niðurstaðan er því sú að þó að ritaðar heimildir segi ekki mikið um mannlífið á Kópavogsbæjunum að fornu og að svæðið virðist ekki hafa komið við sögu helstu atburða Íslandssögunnar, þá geyma fornleifarnar gríðarlegt magn af upplýsingum sem eru enn mikilvægari þegar hinar rituðu heimildir skortir. Í tilviki Kópavogs eru þær að sumu leyti einu heimildirnar sem við höfum um mannlíf og sögu svæðisins fyrstu aldirnar.

Þinghóll Í Sögu Kópavogs I segir að þegar klóak hafi verið grafið fyrir neðan Kópavogshælið, meðfram Fífuhvammsvegi, hafi verið fylgst með verkinu af fornleifafræðingi og hann skráð og teiknað upp eftir þörfum. Skilti á staðnum sýnir að hreinsað hefur verið ofan af gólfum og veggir lagaðir eitthvað til. Að öðru leyti virðist bærinn ekki hafa verið rannsakaður frekar. Skammt frá Digranesi stóð rúst sem líklega var fjárhús frá bænum. Var rústin fjarlægð með vélgröfu undir eftirliti Þjóðminjasafns.
Árið 1988 voru tvær dysjar rannsakaðar er gengu undir heitinu Hjónadysjar. Kom í ljós að þar hvíldu maður og kona og getum að því leittað þau hafi verið Sigurður Arason frá Árbæ og Steinunn Guðmundsdóttir, einnig frá Árbæ sem dæmd voru árið 1704 fyrir morð á eiginmanni Steinunnar, Sæmundi Þórarinssyni.
Í Kópavogi hafa 53 staðir verið skráðir og á þeim voru meir en 75 minjar. Þá eru rústir á Þingnesi ekki taldar með, en þær eru fleiri en 18 og a.m.k. fjórar þeirra eru í landi Kópavogs.

Þinghóll

Minningarsteinn um erfðahyllinguna 1662 á Þinghól.

Fjórir staðir eru friðlýstir. Eru þeir Kópavogsþingstaður, Hjónadysjar, Systkinaleiði og Þingnes. Allir staðirnir voru friðlýstir árið 1938. Þingnes er þó að mestu leyti í landi Reykjvíkur, en hið friðhelga svæði nær þó eitthvað inn í land Kópavogs og vafalítið eru nokkrar rústir í landi Kópavogs (þær vestustu). Í friðlýsingu Kópavogsþingstaðar segir: 1. Þinghússtóft syðst á túninu og fangakofatóftir skammt frá. 2. Dysjar austan túns, nefndar Hjónadysjarnar og Systkinaleiðin. Ekki er svæðið tilgreint nánar. Rústir við sjálfan þingstaðinn eru taldar friðlýstar í fornleifaskrá, þó ekki sé víst hvernig lögin taki á þeim. Rústir fyrir utan þingstaðinn eru ekki taldar friðlýstar í fornleifaskrá. Þyrfti að endurskoða friðlýsinguna og friðlýsa allt svæðið. Í friðlýsingu Þingness segir að friðlýstar fornleifar séu: Mannvirkjaleifar á hinum forna Kjalarnessþingstað í Þingnesi, sem gengur út í Ellliðavatn að sunnanverðu.
Þinghústóftin (þingbúð) á Kópavogsþingstað var rannsökuð árin 1973-76, auk nokkurra minja undir henni. Rústin virðist síðan hafa verið endurhlaðin á staðnum. Hjónadysjar voru rannsakaðar og fjarlægðar árið 1988, en Systkinaleiði hvarf á fyrri helmingi þessarar aldar án nokkurra rannsókna. Á Þingnesi hófst rannsókn sumarið 1982 og stóð yfir í nokkur sumur. Ekki er víst að rannsóknum þar sé lokið.

Kópavogur

Álfhóll.

Af 53 stöðum sem skráðir voru töldust fjórir hafa hátt minjagildi, 17 talsvert, 32 lítið og enginn ekkert minjagildi. Staðir geta haft hátt minjagildi þó einstakar fornleifar við þá hafi talsvert, lítið eða ekkert minjagildi. 22 fornleifar á 19 stöðum eru horfnar, þ.m.t. þær sem voru rannsakaðar og fjarlægðar. Flestar, ef ekki allar, hafa horfið á þessari öld og aðeins tvær þeirra eru rannsakaðar, en það eru Hjónadysjarnar. Ástæður fjarlægingar eru m.a. athafnir setuliðsins á stríðsárunum og vöxtur bæjarins. Af 53 stöðum eru 11 í mikilli hættu, 9 í lítilli og 15 í engri hættu. Mikill meirihluti minjanna finnast stakar og lítið er um heilar heildir. Einu heildirnar eru Kópavogsþingstaðurinn ásamt bæjarstæðinu þar og Þingnes við Elliðavatn. Þessi staðreynd eykur gildi þessara tveggja staða.

Merkilegustu fornleifarnar í Kópavogi eru eftirfarandi fornleifar í númeraröð:
1. Jarðhýsi.
2. Smiðja.
3. Þingbúð. I –VIII: Skurðir. (Guðrún Sveinbjarnardóttir 1986:21). Kópavogsþingstaður og Kópavogsbærinn. Staðurinn býr yfir afarmiklum upplýsingum sem ná frá nútíma allt aftur á landnámsöld. Ekki er mikið til ritað um staðinn og þeim mun mikilvægari eru þær heimildir sem geymdar eru undir sverðinum. Þarna má ímynda sér að skálabyggingar, fjós og önnur hús séu geymd í heilu lagi eða í brotum. Þessu fylgir mikið magn af upplýsingum sem felast í gripum, beinum og jarðveginum sjálfum.
4. Álfhóllinn. Hóllinn er trúlega þekktasti álfhóll Kópavogs og hefur skapað sér slíkan sess í skipulagi bæjarins að varla verður honum hnikað héðan af. Hann er sýnilegt dæmi um þjóðtrú Íslendinga og hve sterk hún hefur verið allt fram á þennan tíma.

Kópavogur

Digranesbærinn.

5. Digranesbærinn. Hér stóð eitt sinn höfuðbýli Kópavogs. Hluti af bænum stendur enn ásamt tröðinni, kálgarðinum og ýmsum minjum undirsverðinum allt í kring. Vandamálið er hve nálægt skóla staðurinn er og hve ágengni er mikil. Þessu mætti snúa í andhverfu sína og gera það að höfuðgildi staðarins, þ.e. að tengja hann kennslu grunnskólabarna með beinum hætti.
5. Selstaða? Staðurinn er skammt frá bæjarstæði Fífuhvamms. Nálægðin bendir til þess að hér sé ekki selstaða, en þó er ekki loku fyrir það skotið að hér hafi verið haft í seli svo nálægt bæ. Örnefnin Selflatir,Selvellir og Selhryggur eru nokkuð langt frá til að geta verið í tengslum við þessar rústir. Hvort sem um er að ræða selstöðu eða annað þá eru rústirnar (mjög) fornlegar að sjá. Þær eru býsna nálægt fjölbýlishúsum og við þær liggja stígar. [Ef grannt er skoðað er ljóst að tóftirnar eru ekki leifar sels. Meiri líkur benda til beitarhúsatófta, enda vottar fyrir heykumli aftan við ílanga megintóftina. Sel Fífuhvamms má enn sjá norðan í Rjúpnahæð þar sem byggðin hefur enn ekki náð til þess og þess er getið í heimildum. Selsins er hins vegar ekki getið í fornleifaskráningarskýrslunni, sjá annars á vefsíðunni; Fífuhvammur – Fífuhvammssel].

Landamerkjasteinn

Landamerkjasteinn.

6. Landamerkjasteinninn Markasteinn. Fallegasti landamerkjasteinninn í Kópavogi. Hann hefur fengið nýtt hlutverk á seinni tímum, auk síns gamla, en það er að vera hluti af girðingu utan um Rjúpnahæð.
7. Beitarhús suður af Litlabás. Eins og algengt er þá er beitarhúsið ekki langt frá landamerkjum Vatnsenda og Vífilsstaða. Þannig var hægt að nýta betur sitt eigið land og jafnvel land nágrannans einnig. Húsið er eitt tveggja beitarhúsa í Kópavogi (eða á hinu skráða svæði) og það elsta. [Hér ber að hafa í huga fyrri umfjöllun um beitarhús því tóftir meints sels skammt frá Fífuhvammi virðast eldri en hér um ræðir].
BeitarhúsÍ þéttbýli Kópavogs og næsta nágrenni eru sem fyrr segir 53 staðir skráðir sem fornleifar og geyma þeir 75 stakar fornleifar. Kópavogur á sér ekki mjög mikla sögu sem lesa má um í rituðum heimildum, en fornleifarnar geyma býsna spennandi sögu sem nær að líkindum allt aftur til landnámsaldar. Eitt megin hlutverk þessarar fornleifaskrár er að hjálpa skipulagsyfirvöldum að standa vörð um fornleifarnar og marka stefnu í skipulagsmálum/minjavernd sem tekur mið af þessum fornleifum. Fornleifaskráningu lýkur í raun aldrei og hana þarf að endurskoða reglulega. Þegar einhverjar áður óþekktar fornleifar finnast við jarðrask ber að færa slíka staði inn á fornleifaskrá auk ákvæðanna um tilkynningu í þjóðminjalögum.”
Rétt er að taka undir og árétta orð Bjarna um mikilvægi fornleifanna með hliðsjón af menningarlegu mikilvægi þeirra því þau geta, ef vel er að verki staðið, sagt engu minni sögur en þær sem skráðar hafa verið með fjaðurstaf á hinu fornu skinnhandrit – og jafnvel bætt um betur.
Meginheimildir:
-Fornleifaskrá Kópavogs – Bjarni F. Einarsson – 2000.Aðrar heimildir m.a.:
-Bjarni F. Einarsson (a). The Settlement of Iceland; a Critical Approach. Granastaðir and the Ecological Heritage. Reykjavík 1995.
-Bjarni F. Einarsson (b). Fornleifaskrá Reykjavíkur. Skýrslur Árbæjarsafns XLVI. Reykjavík 1995.
-Bjarni F. Einarsson (c). „Um fornleifaskráningu á Íslandi, upphaf og ástæður. Fyrrigrein: Upphafið og lögin.“ Sveitarstjórnarmál. 1. tbl. 1996.
-Bjarn F. Einarsson. „Um fornleifaskráningu á Íslandi, upphaf og ástæður. Síðari grein: Skyldur okkar gagnvart fortíðinni. Sveitarstjórnarmál. 2. tbl.1996.
-Bjarni F. Einarsson. „Fornleifaskráning á Íslandi: Forsendur og markmið.“ Fréttabréf safnmanna. 6. árg. 1. tbl. 1997.
-Frásögur um fornaldarleifar 1817- 1823. Fyrri hluti. Sveinbjörn Rafnsson bjó til prentunar. Reykjavík 1983. Guðlaugur R. Guðmundsson.
-Hinar fornu jarðir Kópavogsþingstaðar. Örnefnastofnun. Handrit 1970.
-Guðmundur Ólafsson. „Sakamannadysjar í Kópavogi.“ LesbókMorgunblaðsins 23. mars 1996.
-Guðmundur Ólafsson. „Þingnes by Elliðavatn: The first Local Assembly in Iceland. “Proceedings of the Tenth Viking Congress. Universitetets Oldsaksamlings Skrifter. Ny Rekke. Nr. 9. Ósló 1987.
-Guðrún Sveinbjarnardóttir. Rannsókn á Kópavogsþingstað. Meðviðaukum. Kópavogur 1986.
-Íslenskt fornbréfasafn. Fyrsta bindi. Kaupmannahöfn 1857-76.
-Íslenskt fornbréfasafn. Annað bindi. Kaupmannahöfn 1888.
-Íslenskt fornbréfasafn. Níunda bindi. Reykjavík 1909-13.
-Íslenskt fornbréfasafn. Tólfta bindi. Reykjavík 1923-32.
-Kaalund, Kristian P.E. Íslenskir sögustaðir I. Sunnlendingafjórðungur. Reykjavík 1984.
-Lýður Björnsson. „Kópavogur 1936 – 1955.“ Saga Kópavogs II. Frumbyggð og hreppsár 1935 – 1955. Safn til sögu byggðarlagsins. Ritstjóri Adolf J.E. Petersen. Kópavogur 1990.
-Magnús Þorkelsson (a). „Af Kópavogsbæjum frá fyrri öldum.“ Saga Kópavogs I. Saga lands og lýðs á liðnum öldum. Safn til sögubyggðarlagsins. Ritstjóri Árni Waage. Kópavogur 1990.
-Magnús Þorkelsson (b). „Þingstaðir í Kópavogslandi.“ Saga Kópavogs I. Saga lands og lýðs á liðnum öldum. Safn til sögu byggðarlagsins. Ritstjóri ÁrniWaag. Kópavogur 1990.
-Matthías Þórðarson. „Nokkrar Kópavogsminjar.“ Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1929. Reykjavík 1929.
-Orri Vésteinsson. „Fornleifaskráning og fornleifarannsóknir.“ Fréttabréf safnmanna. 5. árg. 4. tbl. 1996.
-Skipulags- og byggingalög 1997, nr. 73, 28. maí.
-Þjóðminjalög 1989, nr. 88, 29. maí. Með síðari breytingum.
-Þór Magnússon. „Skýrsla um Þjóðminjasafnið 1986.“· Árbók Hins ísl.fornleifafélags 1986. Reykjavík 1987

Klofasteinn

Eftirfarandi umfjöllun er dæmi um hversu litla virðingu nútímafólkið ber fyrir fortíðinni. Á einum mannsaldri hafa sögulegar minjar verið nánast afmáðar, ýmist vegna vanþekkingar og/eða hugsunarleysis:

Í “Fornleifaskrá Kópavogs – Endurskoðuð”, skráð af Bjarna F. Einarssyni 2019 segir m.a. um landamerkjasteininn Klofastein:

Klofasteinn vestri

Klofasteinn

Klofasteinn.

“Vestan í malarstíg, um 14 m N af Fossvogslæk. Innan skógræktargirðingar Skógræktarfélags Reykjavíkur.
Steinn, um 1×1,6 m stór og 0,9 m hár. Mosavaxinn. Steinninn liggur í vegkanti og hefur efni í veginum runnið að steininum austanverðum.
Um 10 m N af steininum er austasti hluti Faxakeldu (Faxafens), sem teygir sig svo nokkra tugi metra til vesturs. Hún er um 50 m löng og 5 m breið það sem hún er breiðust í vestri. Skurðir hafa verið grafnir við kelduna og einkenna þeir hana nú. Mætast tveir skurðir þar sem hún er breiðust. Einnig kallaður Norðlingasteinn, Klofningssteinar og Klofningur.”
Klofasteinn er í skóglendi skammt norðan Fossvogslækjar.

Í Örnefnaskrá – Örnefni í heimalandi Kópavogskaupstaðar og næsta nágrennis þess; safnað hefur Adolf J.E. Petersen – Handrit. Örnefnastofnun segir um Klofastein:
“Er í beinni merkjalínu milli Kópavogs – og Digranesjarða, þó innan skógræktargirðingarinnar”.

Faxafen

Faxafen (Faxakelda).

Í “Örnefni í bæjarlandi Kópavogs. Jarðirnar Digranes, Fífuhvammur, Kópavogur og Vatnsendi, eftir Guðlaug R. Guðmundsson segir: “Kaupmannsklettur (Kaupmannaklettur): “Er nefndur í landamerkjalýsingu Eggerts Guðmundssonar frá 1826: “Þessum læk (Fossvogslæk) er fylgt og keldu þeirri sem gengur fram allt á móts við Kaupmannsklett á Bústaðamelnum.” Keldan er að líkindum Faxakelda (Faxafen). Svo virðist sem Kaupmannsklettur sé annað nafn á svokölluðum Klofasteinum eystri sem Benedikt Grönddal sýnir á korti sínu um landamerki Bústaða, en kort hans er gert samkvæmt mælingum og teikningu Sveins Sveinssonar búfræðings, dagsettri 17. júlí 1891.”
Faxafen (Faxakelda) hefur nú að mestu verið þurrkuð upp með fráveituskurði og fyllt upp með afklippungum frá Skógræktarstöðinni.

Kaupmannsklettur (Kaupmannaklettur)

Klofningssteinn

Klofningssteinn eystri.

“Er nefndur í landamerkjalýsingu Eggerts Guðmundssonar frá 1826: “Þessum læk (Fossvogslæk) er fylgt og keldu þeirri sem gengur fram allt á móts við Kaupmannsklett á Bústaðamelnum.” Keldan er að líkindum Faxakelda (Faxafen). Svo virðist sem Kaupmannsklettur sé annað nafn á svokölluðum Klofasteinum eystri sem Benedikt Grönddal sýnir á korti sínu um landamerki Bústaða, en kort hans er gert samkvæmt mælingum og teikningu Sveins Sveinssonar búfræðings, dagsettri 17. júlí 1891. Á kortinu eru klofasteinar eystri sýndir norðan við Fossvogslæk, rétt sunnan við núverandi Haðaland.”
Klofninssteinninn eystri er enn sunnan fráveituskurðar neðan Hörgslands. Skammt norðvestar eru svonefndir “Klofningar”.

Klofasteinar eystri

Benedikt Gröndal

Bendikt Grönddal (1826-1907).

Eru merktir á kort Benedikts Gröndals frá 1891 (sjá Klofastein vestri) um landamerki Bústaða, við Fossvogslæk, rétt sunnan við núverandi Haðaland. Hér gæti verið um sama landamerki að ræða og Eggert Guðmundsson nefnir í landamerkjalýsingu sinni árið 1826: “Þessum læk (Fossvogslæk) er fylgt og keldu þeirri sem gengur fram allt á móts við Kaupmannsklett á Bústaðamelum.” Vorið 1856 fluttist biskupsetrið frá Laugarnesi aftur til Reykjavíkur. Þá var gerð landamerkjalýsing jarðarinnar og segir þar m.a.: “…úr Hanganda uppí Faxakeldu; úr Faxakeldu uppí Klofningssteina, þaðan og í stein þann, sem stendur fyrir vestan og sunnan Bústaðaborg og þaðan í Bústaðaborg.” Nær samhljóða [er] landamerkjalýsing í Skjalas. Reykjav. aðfnr. 1359 með hendi Péturs Guðjónssonar. Þessar lýsingar hafa ættarmót landamerkjalýsinga 1605, 1747 og 1785. Vel má álykta af þessu að Klofasteinar eystri, Kaupmannsklettur og Klofningssteinar séu á svipuðum slóðum ef ekki sömu steinarnir.

Klofastein vestri

Klofningsstein

Klofningssteinn vestari.

“Er sýndur á korti Benedikts Gröndals frá árinu 1891 við Fossvogslæk neðanverðan, líklegast gamla landamerki Kópavogs og Digraness. Í flestum merkjalýsingum liggur línan frá Tjaldhóli fyrir austan Norðlingavað á Fossvogslæk og í stein þann sem er inni í Skógræktargirðingunni. Steinninn eða steinarnir sem miðað var við hafa fengið mörg nöfn í landamerkjadeilum. Ditlec Thomsen keypti Bústaði árið 1840. Sonur hans H.Th.A. Thomsen vildi færa sér í nyt hinar óljósu landamerkjalýsingar og stækka Bústaðaland. Hann hóf deilur um landamerki við bæjarstjórn Reykjavíkur árið 1890. Í því máli fullyrtu vitni að steininn við vaðið á Fossvogslæk héti Norðlingasteinn og vaðið Norðlingavað. Thomsen taldi aftur á móti að steininn héti Klofningssteinn (Skjalas. Reykjavíkur. aðfnr. 1366). Bæjarstjórn Reykjavíkur dró fram fornar heimildir um landamerki, vitnisburði Örnólfs Sturlaugssonar og Þórhalls Odssonar frá 9. og 25. febrúar 1605. Samkvæmt þeim var Klofningssteinn fyrir norðan Faxakeldu, í Fossvogsmýri þar sem fer að halla upp hinum megin. (Skjalas. Reykjav. aðfnr. 1359). Í landamerkjadeilunum 1891-1893 er landamerki þetta einnig nefnt Klofningar og Klofningssteinar. Benedikt Gröndal teiknaði og lagði fram uppdrátt þar sem þrætulandið er sýnt samkvæmt mælingum og teikningum Sveinssonar búfræðings, dagsettri 17. júlí 1891. Á kortinu er Klofasteinn sýndur neðarlega við Fossvogslæk en Klofasteinar eystri ofar og austar. Til þess að rugla málið enn meira má geta þess að bræðurnir Guðmundur og Kristján Ísakssynir töldu að Tvísteinar innan skógræktargirðingarinnar væru hið forna landamerki. Í örnefnaskrá Adolfs J.E.P segir að Klofasteinn sé í beinni merkjalínu milli Kópavogs og Digranesjarðar, þó innan skógræktargirðingar.”

Klofasteinn (Klofningssteinar) – Klofasteinn vestri

Einbúi

Einbúi.

Í skrá Adolfs J.E.P. er fullyrt að Klofningssteinar séu nú horfnir en hafi verið austantil við Borgarspítalann. Á korti Benedikts Gröndals frá 1891 er merktur steinn á svipuðum slóðum og nefndur Einbúi.

Faxakelda (Faxafen) er í Fossvogsmýri”. Samkvæmt lýsingu Eggerts Guðmundssonar frá 1826 (Skjalas. Reykjav.m aðfnr. 1359) nær keldan frá læknum vestanverðum að Kaupmannskletti (líklega Klofasteinum eystri). Um Faxakeldu segir Adolf J.E.P.: “Líka nefnd Faxafen. Það er lítil tjörn í Fossvogsdal, norðan við býlið Lund.”

Einbúi

Einbúi.

„Einbúi er austarlega í Fossvogsdal, miðja vegu milli gróðrarstöðvarinnar Merkur og Smiðjuvegar, gefur að líta sérkennilegar grjóthrúgur. Við nánari skoðun sést að steinarnir eru kantaðir og hafa verið klofnir með fleygum og höggnir til. Þetta eru minjar um tíma þegar hugmyndir voru stórar en atvinna lítil. Upp úr 1930 hafði heimskeppan mikil áhrif á Íslandi og margir misstu vinnu sína. Ríki og sveitarfélög réði þá menn í s.k. atvinnubótavinnu, einkum að vetrarlagi. Á þessum tíma voru uppi hugmyndir um að leggja járnbraut milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, á svipuðum slóðum og Reykjanesbrautin liggur nú. Steinunum var ætlað að vera undirstöður fyrir járnbrautarteinana sem aldrei voru lagðir. Sambærilegt grjótnám fór fram við Einbúa við Skemmuveg, en atvinnubótavinnunni var hætt árið 1936″.

Í Byggðakönnun Minjasafns Reykjavíkur fyrir Háleiti 2014 segir m.a.:

Bústaðir

Bærinn Bústaðir (túnakort frá 1916) staðsettur á nýlega loftmynd.

“Bústaðaborg: Samkvæmt gömlum landamerkjalýsingum lágu vesturmörk jarðarinnar [Laugarness] frá steini nokkrum á Kirkjusandi að Ámundaborg, sem talin er hafa verið fjárborg milli Grensáss og Rauðarárholts, og þaðan suður yfir Kringlumýri og Mjóumýri ofan í klettinn Hanganda í botni Fossvogs. Þaðan munu mörkin hafa legið til austurs um Fossvogsmýri að upptökum Fossvogslækjar í Faxakeldu svokallaðri og þaðan til norðausturs eftir Bústaðamelum að Bústaðaborg, sem var fjárborg í lægðinni milli Bústaðaholts og Grensáss. Frá Bústaðaborg lá landamerkjalínan norður um Sogamýri í svonefnda Þrísteina, sem munu hafa verið skammt frá þar sem nú eru gatnamót Suðurlandsbrautar og Skeiðarvogs, og þaðan fram eftir Laugarási í Líkavörðu skammt sunnan við Vatnagarð.”
“Bústaðaborg, var fjárborg í lægðinni milli Bústaðaholts og Grensáss. Talið er líklegt að býlið Brekka hafi verið síðar á sama stað”.

Í Landsyfirréttardómi og hæstaréttardómi í íslenskum málum 01.01.1895 má dóm nr. 47/1892: H. Th. A. Thomsen gegn bæjarstjórn Reykjavíkur:

Fossvogur

Fossvogur – landamerki.

“Mál þetta, sem er út af ágreiningi um landamerki milli Bústaða, eignarjarðar áfrýjandans, og Laugarness, er Reykjavíkurkaupstaður á, var dæmt í landamerkjadómi Kjósar- og Gullbringusýslu 7. desembr. 1891.
Samkvæmt fornum skjölum, lögfestum og vitnisburðarbrjefum, er legið hafa fyrir merkjadóminum og málsaðilar hafa báðir tekið gildi í því efni, eiga landamerki milli Laugarness og Bústaða að vera þessi: úr Þrísteinum sjónhending í Bústaðaborg, þaðan í stein fyrir vestan og sunnan Bústaðaborg og þaðan í Klofningssteina. Málsaðilar hafa einnig verið sammála um pað, hvar Þrísteinar sjeu og Bústaðaborg, en ágreiningurinn er um, hvar merkjasteinninn fyrir vestan og sunnan Bústaðaborg sje og hvar Klofningssteinar sjeu, og vill áfrýjandinn telja merki þessi töluvert vestar en hin stefnda bæjarstjórn. Merkjadómurinn hefur nú dæmt merkin vera um Klofningssteina þá, er hin stefnda bæjarstjórn telur vera hina rjettu Klofningssteina, þannig, að þeir myndi hornmark Laugarnesslands að sunnan og austan gegnt Bústaðalandi, og verður það ákvæði dómsins eigi átalið, þar sem full vitnasönnun virðist framkomin í málinu fyrir því, að örnefnið Klofningssteinar, sem er hið viðurkennda hornmark Laugarness að sunnan gegn Bústöðum, sje þar, sem dómurinn setur það.

Fossvogur

Fossvogur – Klofasteinn.

Að því er snertir hitt markið, sem þrætan er um, steininn fyrir vestan og sunnan Bústaðaborg, þá hefur merkjadómurinn eigi getað fundið neinn stein í þeirri stefnu frá Bústaðaborg, er eðlilega geti talizt merkjasteinn, og áleit því eigi hægt að miða merkin við neinn slíkan stein, en þar sem byggja þótti mega á því, hvar Klofningssteinar hinir rjettu væru og hver væri aðalstefna markalínunnar upp úr voginum norður eptir, þá áleit merkjadómurinn rjettast, að draga stefnuna úr tjeðum Klofningssteinum, sem eru fyrir sunnan girðingar áfrýjandans, beint norður í Bústaðaborg.
Umboðsmaður hinnar stefndu hæjarstjórnar krafðizt þess fyrir merkjadóminum, að merkin væru ákveðin úr Bústaðaborg í stein, er hann tiltók og áleit vera fyrir vestan og sunnan borgina, og úr steininum í Klofningssteina. Áfrýjandinn heldur því nú, samkvæmt því sem áður er sagt, fram, að bein lína úr Bústaðaborg falli töluvert austar en um tjeðan markastein hinnar stefndu, og þannig liggi merkjalína dómsins lengra inn í sitt land heldur en krafa stefndu hafi verið til, en þessu er mótmælt af hálfu stefndu.

Fossvogur

Fossvogur – Klofningar.

Um afstöðu hjerumræddra örnefna og merkja sín á milli verður engin ályktun dregin af legu þeirra á uppdráttum þeim, er fram hafa komið í málinu, því að þeir hafa eigi verið álitnir nákvæmir að þessu leyti, hvorki af málsaðilum eða dómendum; en merkjadómendurnir hafa vottað það í dómi sínum 28. júní 1890, er þetta sama mál var fyrr dæmt, að steinn sá, er bæjarstjórnin miðaði merkin við og átti að hennar áliti að vera fyrir vestan og sunnan Bústaðaborg, væri því nær í hásuður frá borginni, og eptir uppdráttum beggja málsaðila, einkanlega uppdrætti þeim, er áfrýjandinn hefur lagt fram eru Klofningsteinar (eystri) nokkuð vestar en í hásuður frá Bústaðaborg; en ef þetta hvorttveggja er rjett, leiðir þar af, að bein lína úr Bústaðaborg í Klofningssteina verður fremur fyrir vestan en fyrir austan optnefndan markastein bæjarstjórnarinnar. Þegar á þetta er litið, og Þar sem áfrýjandinn hefur ekki fært neinar sannanir fyrir þessu kæruatriði sínu, verður eigi álitið sannað, að merkjadómurinn hafi gjört sig sekan í lögleysu í þessu efni, og með því að eigi eru aðrar ástæður til að ónýta dóminn, ber að staðfesta hann í öllum greinum.”

Trjáræktarsvæðið í Fossvogsdal

Fossvogur

Skógrækt Reykjavíkur í Fossvogi.

Svæðið sem um ræðir er milli lands Lundar í Fossvogsdal og svæðis sem Skógræktarfélag Reykjavíkur átti til skamms tíma. Erfðafestusamningur fyrir þetta land sem nefnt var Digranesblettur 8 var undirritaður árið 1945 af Geir Gunnlaugssyni í Eskihlíð (síðar Lundi) og Hermanni Jónassyni fyrrverandi forsætisráðherra. Áður hafði landið verið nytjað frá kaupstað og er þess getið í fasteignamati árið 1940. Hlutur Geirs var 10,98 ha en Hermanns 2,25 ha. Síðar eignaðist Skógræktarfélag Reykjavíkur hlut Hermanns, norðurhluta svæðisins, en landið er nú í einkaeign. Á þessum slóðum rennur Fossvogslækurinn að mestu í sínum náttúrulega farvegi, en á kafla hafa bakkar hans verið hlaðnir úr grjóti. Umtalsverð trjárækt er á svæðinu, elsti hlutinn er verk Hermanns frá 5. áratug síðustu aldar.

Sem fyrr segir er Klofasteinn vestri sýndur á korti Benedikts Gröndals frá 1891 við Fossvogslæk neðanverðum (Skjalas. Reykjav. aðfnr. 1366). FERLIR óskaði eftir afriti af uppdrættinum við skjalas. Reykjavíkur fyrir nokkrum mánuðum síðan, en svar hefur enn borist.

Heimildir:
-Örnefnaskrá. Örnefni í heimalandi Kópavogskaupstaðar og næsta nágrennis þess. Safnað hefur Adolf J.E. Petersen. Handrit. Örnefnastofnun.
-Örnefni í bæjarlandi Kópavogs. Jarðirnar Digranes, Fífuhvammur, Kópavogur og Vatnsendi. Guðlaugur R. Guðmundsson skráði og staðsetti örnefnin. Handrit. Örnefnastofnun. 1990.
-Byggðakönnun – Borgarhluti 5 – Háaleiti, Reykjavík 2014. Minjasafn Reykjavíkur, Skýrsla nr. 164, bls. 10-11.
-Guðlaugur R. Guðmundsson: „Örnefnalýsing Laugarness, Klepps og Rauðarár“, Reykjavík: miðstöð þjóðlífs, bls. 295-302 – Þorgrímur Gestsson: Mannlíf við Sund, bls. 16. – https://www.sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=1393650
-Landsyfirréttardómar og hæstaréttardómar í íslenskum málum 01.01.1895, bls. 346-349. – https://timarit.is/page/3524089?iabr=on#page/n385/mode/2up
-https://is.wikibooks.org/wiki/Fossvogur
-Axel Birgir Knútsson, starfsmaður Skógræktar Reykjavíkur í Fossvogi.

Klofasteinn

Klofasteinn – Axel Birgir Knútsson, starfsmaður Garðræktar Reykjavíkur við steininn 2022.

Sandskeið

Í Sunnudagsblaði Tímans árið 1966 er m.a. fjallað um hellarásir á Mið-Bolöldu ofan Sandskeiðs:
bolalda“Sunnan við þjóðveginn á Mið-Bolaöldunni er hellir, sem ég veit ekki til, að hafi verið rannsakaður. Við, símalagningar-menn 1909, urðum til þess að sprengja göt tvö niður í gegnum þakhvelfingu hellisins og reistum síðan í þeim tvo símastaura með 50 metra millibili, en op hans, sem er mjög lítið og sést varla, er um 25 metra fyrir vestan vestara staurgatið. Hann náði fyrir víst um 30 m. austur fyrir eystra staurgatið. Þar beygði hann eitthvað til suðurs. Ljóslausir vorum við og gátum því ekki athugað hann lengra heldur en skíman frá stauragötunum í loftinu leyfði. Hann var nálægt mannhæðar hár, hvelfingarmyndaður til beggja hliða og virtist vera þannig alla leið þessa rúma 100 metra.
Þetta var nú innskot, sett hér til þess, að upplýsingar um helli þennan verði til handa einhverjum þeim, er sjá kynnu og vildu athuga hellinn nánar og vera útbúnir til þess.”
bololduhellir-1Einn FERLIRsfélaga hafði leitað nokkrum sinnum að framangreindum stauraopum eftir að honum hafði tekist að rekja leifar línunnar meðfram gamla þjóðveginum upp frá Sandskeiði um Mið-Bolöldu með Fossvallaklifi.
“Er ekki búinn að gefast upp að finna hellinn. Held að staurarnir sem ég fann í dag séu gamla línan það passar við Herforingjakortið og ef hann er að segja rétt um að hellirinn er fyrir sunnan veginn þarf ég að leita neðar því línan krossar veginn rétt fyrir neðan staurana og fer suður fyrir hann. Held ég sé líka búin að sjá á landslaginu hvar þessar öldur eru og þá ætti þetta að passa.”
Úr sömu lýsingu og sagt er frá hellinum segir:
Rétt er að minnast á það hér, að þar, sem lagði vegurinn lá, á sínum tíma, upp af Fossvöllunum, upp í Fossvallaölduna — dálítið sunnar (til hægri á austurleið)— stóð nokkuð stór steinn á klöppum,og var á hann höggvið (klappað) ártal það, þegar lagði þjóðvegurinn var kominn það langt frá Reykjavík.
Ekki man ég nú átalið, en minnir það vera 1884 eða 1886.
Heryði ég sagt, að  norskur verkstjóri, er stjórnað hafði vegarlagningunni þangað, hefði klappað ártalið á steininn, er hann hætti þarna það haust.
bololduhellir-2“Værir þú til í að tékka hvort fjallað er um þennan helli í stóru hellabókinn? Nyrðri endinn er það stór og rétt við þjóðveginn að hann hlýtir að heita eitthvað. Við opið á þakinu er lítil varða (og staur í) örugglega til að vara við þar sem gatið er ekki nema rúml meter í þvermál og svo eru e.t. v. þrír til fjórir metrar niður í botn hellisins. Það var líka vitað um þann syðri þegar síminn var lagður 1909 þannig mér finnst skrítið ef ekki er fjallað um hellana í þessari hraunrás. Samkvæmt lýsingu mundi ég halda að ég hefði fundið vestara stauragatið en það austara sennilega skemmt vegna vegarins upp í námurnar. Þætti ágætt ef þú mundir kíja á þetta með mér við tækifæri og þannig gætum við áttað okkur á þessu.”
Í stórvirkinu Íslenskir helllar segir Björn Hróarsson svo frá hellinum þegar hann fjallar um Leitarhraun (Skari (LET-07)): “Sunnan vegarins nær miðja vegu milli Sandskeiðs og Litlu-kaffistofunnar er yfir 300 metra langur hellir. Hann er mjög bololduhellir-3hruninn um miðbikið og efsti hluti hans er fylltur jarðvegi. Efsti og neðsti hluti hellsisins standa vel uppi. Í neðri hlutanum má skríða inn um þröngan munna nálægt gamla bílveginum. Fyrstu 40 metrarnir eru ógreiðfærir. Um 50 metrum innan við munnann er um þriggja metra djúpt niðurfall sem er um 2 metrar í þvermál. Staur er á brún niðurfallsins. Hellisgöngin neðan við niðurfallið eru lítið hrunin allt í botn en þangað er um 40 metrar og lofthæðin á þeim kafla er tveir til þrír metrar. Efsti hluti hellisins stefnir til suðvesturs frá munna og er mjög lítið hruninn. Framan til er hellirinn hálffullur af aur sem eykst eftir því sem innar dregur. Um 50 metrum innan við munnan er hann orðið svo lágt undir loft að ekki verður lengra skriðið. Göngin ná þó sýnilega miklu lengra og fyrir skófluglaða bíður því þarna pennandi verkefni. Hellisgólfið er hvergi sjáanlegt en breidd þess er vart undir tíu metrum. Faðir Inga Óskarssonar hellismanns sýndi Inga þennan helli fyrir margt löngu og nefndi Ingi hellinn Skara eftir karli föður sínum.”
Ef finnandinn hefði áttað sig á að “niðurföllin” inni í hellinum væru eftir símastaura hefði hann án efa skírt hann “Staurahelli”. En honum til vorkunnar má geta þess að stauragötin sjást ekki ofanjarðar, þó svo sjá megi púkkið með staurunum, sem nú eru horfnir á þessum tilgreindu stöðum, en búta þeirra má sjá bæði ofar og neðar í stauralínunni.

Heimild:
-Tíminn Sunnudagsblað 30. okt. 1966, bls. 932-933.
-Íslenskir hellar, bls. 279.

Bolöldur

Bolöldur – kort. Lega gamla vegarins að Svínahrauni um Bolöldur.

Vatnsendahæð

Í dagbók lögreglunnar í Gullbringu- og Kjósarsýslu (lögreglunnar í Hafnarfirði) er þann 16. júlí 1944 skráð eftirfarandi: “Kl. 01:20 var tilkynnt um að mikill eldur sæist nálægt Vífilsstaðavegi, er liggur frá Reykjanesbraut. Lögregluþj. nr. 90 fór, ásamt U.S.A. lögreglu á staðinn. Hafði herflugvél hrapað þarna, og kviknað í henni. Hún brann alveg upp.”
SlysstaðurinnÍ skýrslu ameríska hersins (Record of Events) frá þessum degi árið 1944 má sjá eftirfarandi bókun: “At 0202 hours an RAF “Hudson” aircraft crashed and burned about fine miles Southeast of Reykjavik airport. The crew of five were all killded.”
Þegar leitað var eftir fólki, sem kynni að muna eftir atvikinu fyrir 65 árum (skrifað 2009) var úr vöndu að ráða því það fólk væri nú a.m.k. á níræðisaldri. Reynt var að staðsetja vettvanginn m.v. framangreind viðmið. Af loftmyndum að dæma virtist staðsetningin vera á eða við Vatnsendahæð.
Á vettvangiLeitað var til fólks frá Vatnsendabænum, en allt kom fyrir ekki – þangað til FERLIR hitti fyrir fyrrum vinnumann á bænum. Aðspurður um hvort hann þekkti vel til staðhátta á svæðinu sagðist hann gjöra það öðrum fremur því hann hefði smalað svæðið meira og minna frá árinu 1973. Vildi hann jafnframt geta þess að svonefnd Vatnsendahæð væri ekki sú þar sem fjarskiptamöstrin hefðu verið heldur héti það Vatnsendahvarf þrátt fyrir það sem stæði jafnan á landakortum. Vatnsendahæðin væri í suður frá bænum, en Vatnsendahvarf í vestri. Þá hefði suðurhluti Elliðavatns ekki heitið það framan af heldur Vatnsendavatn – og hana nú.
SkotfæriHér var greinilega kominn maðurinn, sem leitað var að. Aðspurður um hvort hann hefði séð brak úr flugvél á svæðinu sagðist hann vissulega hafa gert það. Á fyrstu árum sínum að Vatnsenda hefði hann stundum farið út í Vatnsendahæð til að leita að braki og skotfærum úr flugvélinni. Eftir rigningar hefði glampað á brakið svo auðveldara var að leita á svæðinu. Brakið hefði verið mjög dreift um afmarkaðan stað í hlíðinni. Þar hefðu fyrrum verið berir melar, en nú væru þar gróningar með lúpínu á milllum. Sjálfur hefði hann hirt nokkur skothylki af tveimur stærðum. Eitt hefði verið ósprungið með öllu, 29 árum eftir óhappið, en önnur báru þess greinileg merki að hafa brunnið. Þau voru án kúlu.
Viðkomandi bauðst til að fylga FERLIR á vettvang. Þegar þangað var komið gekk hann öruggum skrefum upp á mela í hlíð Vatnsendahæðar, staðnæmdist, benti og sagði: “Hér var þetta, gæti verið spölkorn ofar, en brakið var dreift hér um svæðið”.
Þegar svæðið var leitað sáust engin ummerki eftir slysið, enda 36 ár liðin frá því að viðkomandi var á svæðinu, auk þess sem bæði mold var í undirlagi og sáð hafði verið á yfirborðið, bæði lúpínu og öðrum yfiborðsþekjandi gróðri.
Hnit voru tekin á staðinn með það fyrir augum að leita svæðið betur síðar. Hlutaðeigandi fylgdi FERLIR heim á leið, náði í fyrrgreind skothylki og bauðst til að lána þau til frekari skoðunar. Á minna hylkinu, 8,5 cm langt, mátti á botni sjá bókstafina “L” og “C” og tölustafina “42”. Skothylkið var óskemmt. Á stærra skothylkinu, 13,0 cm langt, mátti á botni sjá bóktafina “L” og “C” og tölustafinn “4”.
SkotfærinÞar með virtist hafa tekist að staðsetja enn eitt flugvélaflakið (slysstaðinn) á Reykjanesskaga frá stríðsárunum. Enn er þó eftir að staðsetja tvö, þ.e. Douglasvél, sem fór niður á “hraunssléttu SA Helgafells” 1944 og aðra, sem fórst í Lönguhlíðarfjöllum, Hudson eða Douglas sama ár. Líklega er þó um eitt og sama atvikið að ræða. Sævar sagðist muna eftir vélbyssum um þessu slysi. Þær væru í höndum tiltekins aðila, sem auðvelt væri að nálgast. Það gat hins vegar stangast á við flugvélartegundina.
Þegar FERLIR leitaði til Eggerts Norðahls og bar þetta undir hann stóð ekki á svari: “Vélin sem fór niður á austanverði Vatnsendahæð var bandarísk orrustuvél, Curtis P-40C Warhawk 30. júní 1943 (fann staðinn sjálfur löngu áður en byggt var á svæðinu og þar var enn smá brak þá) en ekki Hudson 16. júlí 1944. Hann fór niður þar sem er Maríulaut, nú er þar Klaustrið í Garðabæ.”
P-40Skv. upplýsingum Eggerts Norðdahls mun P-40C flugvélin í Vatnsendahæð að öllum líkindum hafa komið niður talsvert sunnar og vestar, í kartöflugarð, sem þar var. Hann hafi talað við eiganda kartöflugarðsins og skoðað vettvang árið 1977, en ekkert fleira hefði komið í ljós við það.
Þegar skothylkin voru borin undir hann var svarið: “Ef þessi skothylki eru .303 og .50 Cal þá var P-40C Warhawk með 2 x 2 byssur af þessum stærðum. Hudson var einungis með 4 x .303 (7,62 mm) byssur, hafði því ekki .50 cal eins og mér sýnist stærri gerðin vera.”
Hér var sem sagt um ameríska orrustuvél að ræða afgerðinni Warhawk 40C. Í skýrslu ameríska hersins (Record of Events) segir um atvikið 30. júní 1943: “A P-40, flown by Major Theodore J. Lemke, 33d Fighter Sq. crashed athet north end of Vatnsendi Ridge at 1122 hours. The plane, out of control in a flat spin, crashed from approximately 6000 feet and was competely destryed. Major Lemke was killed instantly”.
WarhawkÞá var ætlunin að skyggnast eftir flugvél, sem hrapað hafði átt í hraunið suðaustur af Hafnarfirði, sbr. “11. júní 1944: Íslenskur fjárhirðir tilkynnti um hrap flugvélar í hraunið u.þ.b. 8 mílur suðvestur af Hafnarfirði. Um var að ræða breska flugvél, C-47, er saknað var síðan 7. mars sama sama ár.” Sennilega er þetta sama vélin og sögð er hafa farist efst í Kerlingargili. Sú vél átti að hafa verið Douglasvél, en leifar hennar má m.a. sjá í Óbrinnishólabruna norðvestan Lönguhlíða.
Frábært veður. 

Heimild m.a.:
-Eggert Norðahl.
-Sævar Jóhannsson.
-HH.
-Lögregluskýrslur lögreglunnar í Gullbringu- og Kjósarsýslu.
-Dagbókafærslur ameríska hersins hér á landi 1944 og 1945.

Vatnsendi

Svæðið.

Lögberg

Í Ísafold árið 1908 má lesa eftirfarandi um stofnun nýbýlis á Lögbergi: “Lögberg nefni eg greiðasöluhús mitt, nýtt og vandað steinhús, bygt við Fossvallaklif, fyrir ofan Lækjarbotnabæinn sem eg hefi lagt í eyði. – 15. des. 1908. – Guðni H. Sigurðsson.”
logberg 1958Í Sunnudagsblaði Alþýðublaðsins árið 1963 er fjallað um Lögberg: “Sögu Lögbergs er lokið. Síðustu árin hefur húsið staðið autt og yfirgefið, það hafa margir átt leið um veginn eins og áður, en enginn ber að dyrum, enginn á þangað erindi lengur. Ekki alls fyrir löngu átti ég leið þarna framhjá. Það var á sunnudegi. Veður var kyrrt og bjart og fagurt til fjalla. Þó mátti sjá, að haustið var á næstu grösumum. Lyngið í Selfjallinu var orðið eldrautt í brekkum og kvosum, grasviðurinn gulur, það sló brúnleitum blæ á ásana í heiðinni. Hengillinn og Esjan höfðu líka skipt um lit og fengið hvítan koll um nóttina. Undanfarnar vikur hafði verið unnið að. því að rífa Lögbergshúsið gamla. Verkinu var langt komið og þennan morgun hafði verið kveikt í tróði og rusli í hústóttinni og steig reykurinn frá rústunum hátt til lofts í góðviðrinu. Framundan dyrunum lá spýtna brakið úr húsinu í hrúgu. Sú var tíðin, að öðruyísi var hér um að litast og meiri reisn yfir staðnum, sól skein á þil og glugga, blár eldhúsreykur liðaðist vingjarnlega upp frá bænum undir Fossvallaklifinu, dyrnar stóðu opnar, en húsráðendur biðu á hlaði úti og fögnuðu gestum af alúð og innileik. Ei framar spyr að föllnum garði.
Strætisvagninn á Lögbergsleiðinni er auðkenndur Lækjarbotnar. Sumir hafa furðað sig á þessu. Þetta er þó. ekki út í hött. Býlið heitir Lækjarbotnar frá fprnu fari, og nafnið er líklega talsvert gamalt. Það er dregið af nokkrum lækjum og sytrum, sem eiga upptök sín þarna í heiðinni eða spretta fram undan hrauninu og sameinast í eina á, sem nokkru neðar liðast fram milli grænna bakka norðan og vestan við Rauðhóla og heitir Bugða. Lögbergsnafnið er hinsvegar nýtt af nálinni að kalla, orðið til eftir síðustu aldamót þegar íbúðarhúsið, sem nú er nýrifið, var reist. Hálfgerð tilviljun réði nafngiftinni.
Guðmundur Helgi Sigurðsson, sem lét reisa húsið, ætlaði upphaflega að kalla það Berg, enda á bjargi byggt og klappir allt um kring. Hann fékk Stefán nokkurn Eiríksson til að skera nafnið á fjöl til að festa á húsið. Stefáni mun hafa þótt nafnið stuttaralegt og stakk upp á því að kalla húsið Lögberg og á það féllst Guðmundur.  Saga Lögbergs hefst því í raun og veru ekki fyrr en eftir að Guðmundur flytur á jörðina og reisir húsið. Enda er það einmitt hann, sem gerir garðinn frægari.
logberg-2Leiðin suður yfir Hellisheiði og austur fyrir fjall er jafngömul byggð landsins. „Ingólfur fór um várit ofan um Heiði”, segir í Landnámu. Leiðin um heiðina þótti löngum erfiður og hættusamur fjallvegur að vetrarlagi í snjó og hríðarveðrum, áður en akvegur var lagður milli byggða, og ótaldir eru þeir, sem villzt hafa þar af réttri leið eða örmagnast í ófærðinni og sofnað á heiðinni svefninum hinum langa. En áreiðanlega hefur margur, sem af fjallinu kom, orðið skjólinu feginn, þegar hann náði Lækjarbotnum, sem var efsta byggt ból vestan heiðar, þangað til gistihús var reist á Kolviðarhóli. Þó mun vegurinn fyrrum hafa legið nokkru norðar og var þá komið í byggð hjá Elliðakoti í Mosfellssveit.
Elzta heimild um sæluhús á þessum fjallvegi er hinsvegar frá 1703, en þá getur Hálfdán Jónsson lögréttumaður um sæluhús á norðanverðum Hvannadölum. Sæluhús þetta mun hafa staðið skamt framan við Húsmúlann við tjörn eina, sem nefnd er Draugatjörn! Átakanlegt dæmi úr slysasögu þessa fjallvegar er eftirfarandi saga, sem bundin er við þetta sælu hús og lifir hann í minnum manna austan fjalls. Skúli Gíslason hefur ekið hana upp í Kolviðarhólssögu sína og er hún þar á þessa leið:
logberg-3„Gömul sögn úr Ölyesi hermir að eitt sinn hafi ferðamaður um vetur í vondu veðri komið austan yfir Hellisheiði. Hann hafði náttstað í sæluhúsinu, lokaði dyrum að sér og lagðist til svefns. Áð nokkurri stundu liðinni heyrði hann að komið var við hurðina og gerð tilraun að komast inn. Sá, er inni var, hugði það draug ytra og opnaði ekki. Heyrði hann um hríð þrusk utan við hurðina, en svo þagnaði það. Um morguninn, þegar maðurinn leit út, brá honum ónotalega við. Utan dyra lá dauður maður. Var það sá, er um kvöldið hafði knúið hurðina og maðurinn haldið vera draug. —”þetta spurðist víða og þóttu hörmuleg mistök. Eftir það “hafði alvarlega yerið brýnt fyrir ferðamönnum að loka aldrei húsinu að sér um nætur.”
Nokkru fyrir 1840 var svo byggt sæluhúsið neðan við Sandskeið eða skammt frá Fóelluvötnum, sem ýmsir núlifandi menn muna og um svipað leyti var Hellukofinn reistur, sunnanvert á miðri heiðinni, þar sem áður stóð svokölluð Biskupsvarða og stendur hann enn í dag. Árið 1844 yar svo loks reist sæluhús á Kolviðarhóli undir Hellisskarði, en gistihúsið þar rís hinsvegar ekki af grunni fyrr en haustið 1877.

Lögberg

Lögberg – stríðsminjar norðan Suðurlandsvegar.

Ekki fara margar eða miklar sögur af Lækjarbotnum á fyrri tímum, enda ekki um stóran stað að ræða. Jörðin túnlítil og slægnalaus að kalla, reytiskot langt uppi í heiði. Þó er talið, að þar hafi verið a. m. k. sex eða sjö ábúendur á undan Guðmundi Sigurssyni, en upphaflega var kotið byggt sem nýbýli úr afréttarlandi Seltirninga. Hallbera nokkur byggði fyrst í Lækjarbotnum og stóð bær hennar allmiklu sunnan við ferðamannagötuna gömlu, sem lá af Sandskeiði meðfram Selfjalli og Hólshrauni og til Hafnarfjarðar. Er um stundarfjórðungsgangur þangað frá Lögbergi. Seinna var bærinn færður, þegar nýr vegur var lagður austur, og byggður sunnan vegarins á grasi grónum hól þar sem fjárhúsin nú standa.
Fróðlegt er að lesa frásögn Willam Lord Watts, Vatnajökulsfara, um ferðalag hans austur yfir fjall árið 1875, en þá liggur leið hans einmitt um Lækjarbotna. Hann segir m. a.:” „Fyrst er þá” farið um gömul hraun, þar sem kindaskjátur í tvennum reyfum voru að kroppa í sig reytingslegan gróður. Þær höfðu rifið af sér ullina á hraunnibbunum svo að hún hékk á þeim í óhreinum dræsum og gerði þær ámóta ömurlegar ásýndum og landið, sem þær gengu á, enda var mesta leiðindaveður þennan dag. Um hádegi bar okkur að örreytiskoti, sem kallast Lækjarbotnar. Þar var ekkert að sjá nema örbirgð, harðfisk og óhreina krakka.

Lögberg

Lögberg – loftmynd 1953.

Ég veit ekki, hverju það sætir, að öll býli í næsta nágrenni Reykjavíkur eru fátækari og niðurníddari en nokkru tali tekur. Að vísu eru heimalönd þeirra lélegri en gengur og gerist í öðrum héruðum en fólkið er líka allt öðruvísi. Enginn kemst hjá því að taka eftir hinni sinnulausu nægjusemi í svip þess, enda vart við öðru að búast, eins og högum þess er háttað, en hvergi hef ég séð eins bláskínandi armúð og á þessu heimili.
En allt um það, hestarnir okkar grípa niður, og við vözlum forina framan við þessi hrúgöld úr grjóti, torfi og grjóti sem virðist með öllu óhugsandi að kalla heimili, hvernig svo sem það hugtak væri teygt eða túlkað. Hestarnir urðu að feta niður bratta og sleipa forarbrekku, sem ekki gerir aðkomuna eða brottförina frá Lækjarbotnum aðgengilegri. Þannig létum við þetta aðsetur eymdarinnar að baki og lögðum á heiðina í þoku svækju og kuldastrekkingi, hvar sem smugu var að finna.”

lögberg

Lögberg.

Ég brá mér einn daginn nýlega upp að Lögbergi og hitti að máli Guðfinnu Sigríði Karlsdóttur, en hún hefur átt þar heima samfleytt í meira en hálfa öld, lengst af ráðskona Guðmundar eða þangað til að hann lézt fyrir tæpum sex árum. Nú býr hún í litlu, snotru húsi, sem stendur í hlýlegri brekku ofan við Fossvallakvíslina, örskammt frá Lögbergshúsinu gamla. Þarna er símstöð og endastöð strætisvagnanna, sem ganga í Lækjarbotna, og eiga vagnstjórar vísan kaffisopann hjá gömlu konunni, þegar uppeftir kemur, því að gestrisnin er enn hin sama og áður. En hún ber þeim líka vel söguna.
Guðfinna er fjölfróð um Lækjarbotna og Lögberg sem vænta má, og varð ég margs vísari um sögu staðarins og ábúendurna, meðan ég sat þarna yfir rjúkandi kaffibolla og kökum. Guðmundur Sigurðsson var fæddur að Gröf í Mosfellssveit 17. des. 1876. Foreldrar hans voru Sigurður Guðmundsson og Guðrún Þorleifsdóttir, bæði ættuð að austan. Hann var yngstur af sautján systkinum. Hann missti heilsuna á unglingsárum sínum og lá þá rúmfastur um sex ára skeið og beið þess aldrei bætur. Eftir að hann komst til sæmilegrar heilsu, fluttist hann til Reykjavíkur og fékkst þar við ýnis störf, m. a. blaðaafgreiðslu hjá Einari Benediktssyni skáldi og síðar Sig. Júl. Jóhannessyni skáldi, en eftir það lærði hann rakaraiðn og stundaði hana um skeið. En starfið átti ekki vel við hann, enda þoldi hann illa stöðurnar til lengdar, svo hann venti sínu kvæði í kross og keypti landspildu uppi við Rauðavatn með aðstoð góðra manna, reisti þar skála, sem hann nefndi Baldurshaga og rak þar kaffistofu um tveggja ára skeið. Árið 1907 leigði hann síðan Baldurshagann, en keypti Lækjarbotna af Erasmusi Gíslasyni bróður Gísla Gíslasonar silfursmiðs í Reykjavík.

Fossvallaklif

Fossvallaklif.

Guðmundur var alla tíð mikill áhuga- og framkvæmdamaður, þrátt fyrir vanheilsu sína. Hann hófst þegar handa um byggingu íbúðarhúss í Lækjarbotnum og aðrar jarðabætur, enda voru kofarnir að falli komnir og kotið túnlaust að heita mátti. Gömlu bæjarhúsin stóðu, eins og áður er sagt, á hólnum sunnan vegarins, en með tilliti til umferðarinnar ákvað hann að velja nýja húsinu stað norðan við veginn, á klöppinni rétt sunnan við Fossvallarkvíslina. Hann lét kljúfa grágrýti í veggina á húsinu og felldi þar síðan í steinlím í hleðslunni. Þetta var erfitt verk og seinunnið og kostaði mikið fé. En húsið reis af grunni og Lögberg blasti við öllum, sem um veginn fóru að sunnan og austan. Þetta varð allmikið hús áður en lauk méð endurbótum og viðbyggingum, í því voru hvorki meira né minna en tuttugu vistarverur, þegar allt var talið. Enda varð þetta fljótlega fjölsóttur staður. Kolviðarhóll og Lögberg voru á þessum árum fastir áningarstaðir flestra þeirra, sem um Hellisheiði fóru, og náttstaður margra. Erfitt er um túnrækt í Lækjarbotnum, samt tókst Guðmundi að tífalda töðufallið og koma því upp í um 150 hesta. En auk þess falaði hann sér heyja annarsstaðar að, m. a. austan yfir fjall enda hafði hann 12 kýr í fjósi og á annað hundrað fjár á jörðinni, þegar flest var. Jafnframt búskapnum rak hann svo greiðasölu.- Framan af búskapartíð Guðmundar var mikil gestakorma að Lögbergi.
raudholl-229Fjárrekstrarmenn kormu á haustin austan úr sveitum á leið til Reykjavíkur og vermenn á veturna og vorin. Þeir komu venjulega nokkrir saman, gangandi, með þungar byrðar á baki, í misjafnri færð og veðri, sumir hráktir og illa til reika, og áttu stundum líf sitt að launa húsaskjóli og aðhlynningu heimilisfólksins á Lögbergi. Varð bft iitið um svefriihn hjá heimafólkinu, þegar vakið var upp, stundum tvisvar þrisvar á nóttu. Mikið var líka um vöruflutningá um heiðina, en um helgar á sumrin brugðu bæjarmenn sér upp að Lögbergi á hestum og var þá stundum glatt á hjalla. Svo gekk bílaöldin í garð og með henni fækkaði þeim, sem viðkomu höfðu á Lögbergi. Snemma á hernámsárunum settust Bretar að 4 Lögbergi, en seinna Bandaríkjamenn við veginn, þegar komið er upp úr skarðinu.
Höfðu þeir þarna heljarmikið bakarí. Þeir tóku allmikla spildu af túninu undir byggingarnar, en annars fór vel á með þeim og heimafólkinu á Lögbergi. Þeir létu líka byggja skjólvegginn mikla, sem er norðan við húsin. Vann 40 manna flokkur að hleðslunni í fullar sjö vikur og er þetta talinn einhver dýrasti veggur sinnar tegundar sem hlaðinn hefur verið á Íslandi. En vel er veggurinn hlaðinn, svo að Steinar í Hlíðum undir Steinahlíðum hefði jafnvel verið fullsæmdur af verkinu, enda voru vegghleðslumennirnir íslenzkir og sjálfsagt ættaðir að austan. Samt hefur þessi veggur aldrei áunnið sér virðingu í hlutfalli við fyrirhöfn og tilkostnað. Enn standa þarna leifar af varðturninum og nokkrir ryðgaðir braggaskrokkar frá hernámsárunum.

Guðmundur var mjög heilsulítill síðustu árin, sem hann lifði, og leigði þá öðrum jörðina, en dvaldi þar þó áfram sjálfur til dauðadags. Hann andaðist 4. nóv. 1957, rúmlega áttræður að aldri. Hann var jarðsettur í heimagrafreit á túnhólnum sunnan við veginn, þar sem gamli Lækjarbotnabærinn stóð.

Tröllabörn

Tröllabörn – loftmynd 1953.

Fannveturinn mikla 1919—1920 var gífurlegur snjór á Hellisheiði sást hvergi á dökkan díl að kalla. Þá var allt í kafi á Lögbergi pg gengt af húsþakinu upp á hæðina fyrir ofan, en snjógöng grafin frá dyrunum. Í vorleysingunum verða þarna mikil umskipti. Bláar skúrir leiðir með fjöllunum og allt bráðnar og rennur sundur, nýtt líf kemur í Fossvallakvíslina, sem annars er gersamlega þurr, og fellur hún þá beljandi rétt meðfram bæjarveggnum á Lögbergi en neðar flæðir hún út yfir alla bakka og ber með sér aur og leir fram á jafnlendið fyrir neðan. Mörgum finnst sumarfrítt í Lækjarbotnum, þótt Vatnajökulsfaranfum gætist ekki allkostar að landinu, þegar hann fór þar um í þoku og rigningssudda, enda lætur það lítið vfir sér við fyrstu kynni. Þar eru þó margar hlýlegar og vinsælar dældir og kvosir, vaxnar grasi og lyngi, og mosagrænt hraunið lumir á ýmsri óvæntri fegurð. Þetta er ákaflega rólegt og notalegt landslag, enda er þarna krökkt orðið af sumarbústöðum út um allt. Ég er ekkert hissa á því, þótt gamla konan, sem bráðum hefur átt hér heima samfleytt í 54 ár, eigi erfitt með að slita sig héðan, og er henni þó ekki sársaukalaust að horfa upp á eyðileggingu gamalla mannvirkja á staðnum. En umhverfið er þó altént hið sama, Nátthaginn og Selfjallið, ám og hraunið og allt þetta nafnlausa í náttúrunni, sem yljar og hlýjar um hjartaræturnar. Það er ósköp auðvelt að skilja sjónarmið og tilfinningar gömlu konunnar. „Ég vil helzt ekki flytja héðan fyrr en ég fer alfarin.”

trollaborn-221

En Lækjabotnar eiga sér einnig aðra sögu en hér hefur verið rakin, miklu eldri sögu, sem skráð er á klappirnar og klungrin umhverfis Lögberg. Ísaldarjökullinn, sem á sínum tíma þakti meginhluta landsins hefur skriðið þarna fram um heiðina og sorfið og rispað grágrýtisklappirnar og loks skilið eftir heljarmikil grettistök á víð og dreif, þegar aftur tók að hlýna. Slíkar jökulminjar sjást víðsvegar á holtunum og hæðunum upp af Lögbergi, sunnan og norðan vegarins. Löngu seinna, eftir að ísöld lauk og jökullinn var horfinn eða fyrir um það bil fimm þúsund árum, hefur orðið mikið hraungos þarna austur með fjöllunum á báða bóga, til austurs og vesturs. Hraunelfan, sem til vesturs leitaði, hefur fundið sér farveg niður um skarðið milli grágrýtisholtanna ofan við Lækjarbotná, þar sem vegurinn nú liggur, og runnið allt til sjávar í Elliðavog. Í þessu hraunflóði er talið, að Rauðhólar haft myndazt og Tröllbörnin orðið til, en.svo heita nokkrir smágígar meðfram veginum rétt neðan við Lögberg. Þannig hafa eldur og ís á sínum tíma merkt og mótað landið í Lækjarbotnum eins og víða annarsstaðar á Íslandi. Bakgrunnurinn að sögusviði þeirrar f arsælu lífsbaráttu, sem gerði garðinn frægan og hér hefur verið lítillega lýst, er stórfenglegur og eftirminnilegur. En það er einnig ákveðin reisn yfir þeim, sem settust að þarna við veginn í trássi við öll afkomulögmál, græddu bera klöppina, reistu skála að segja um þjóðbraut þvera, af myndarskap, en litlum efnum, hýstu gest og gangandi og áunnu sér þakklæti og virðingu vegfarenda. Nú er sviðið autt og yfirgefið og spýtnabrakið á bæjarhellunni, hinni fimm þúsund ára gömlu klöpp, staðfestir í raun réttri einungis það, sem áður var nokkurn veginn ljóst, að sögu Lögbergs er lokið.” – Gestur Guðfinnsson.

Í Vísi árið 1962 er frétt: “Lögberg selt til niðurrifs“:

Lögberg

Lögberg 1931-1935. Í forgrunni er nokkuð stór fólksbíll af eldri gerð og er barn að hlaupa að honum. Í bakgrunni er stórt hús og viðbyggingar frá því, aðallega t.h. Á húsinu má lesa nafnið LÖGBERG. Á bakhlið myndarinnar er skrifað: Erik körte med Adam til Stokkesyer (Stokkseyri) med bilen fra mejeriet, skulle hente varer til mejeriet.

“Fyrir nokkru auglýsti bæjarverkfrœðingur Kópavogs bygginguna Lögberg að Lækjarbotnum til sölu til niðurrifs og brottflutnings.
Lögberg, eða Lækjarbotnar, eins og staðurinn hét forðum, er gamall áningar- og greiðasölustaður, en síðustu árin hefir staðurinn eiginlega ekki þjónað öðrum tilgangi en að vera endastöð fyrir Strætisvagna Reykjavíkur, sem hafa þjón að íbúum í Kópavogskaupstað, er nær þarna upp eftir, með því að flytja þá úr bænum og í.

Lækjarbotnar

Lækjarbotnar – Friðrik VIII. á för sinni um landið 1907.

Bæjarverkfræðingur Kópavogs, Páll Hannesson, hefir skýrt Vísi svo frá, að allmargir aðilar hafi látið í ljós áhuga á Lögbergi, er það var auglýst, en niðurstaðan verður sú, að tveir menn úr Kópavogi, Jóhann Kristjánsson og Sigurður Jakobsson, hafa hreppt húsið, og munu þeir fá húsið fyrir að rífa það og flytja á brott, en ætlun þeirra mun vera að nota efnið til innréttingar á vinnuskála, sem þeir nota.
Engin bygging mun koma í stað gamla hússins, sem þarna verður rifið, því að vegagerð ríkisins mun fá hússtæðið til sinna þarfa. Ætlunin er að gera breytingu á lagningu þjóðvegarins austur yfir fjall, þar sem hann kemur niður brekkuna við Lögberg, svo að vegarstæðið flytzt til og fer yfir þann stað, þar sem húsið stendur nú.”

Í Morgunblaðinu árið 1966 fjallar Guðmundur Marteinsson í Velvakanda um “Aðeins eitt Lögberg”:

Lögberg

Lögberg – athöfn.

“Í fimmtudagsblaði Morgunblaðsins (25. 8.) er sagt frá nýbyggingu Suðurlandsvegar vestan Svínahrauns, og er skýrt frá því, að nýr vegur verði lagður frá vegarendanum við hraunið og niður að Lögbergi, og einnig að nýi og gamli vegurinn eigi að koma saman við Lögberg.
Það var fyrir rúmlega hálfri öld, að norðan við veginn, gegnt býlinu Lækjarbotnum, var reist hús, sem var gefið heitið Lögberg, rétt um svipað leyti og Lækjarbotnar fóru í eyði. Þetta hús var rifið fyrir nokkrum árum, og er því ekkert sem heitir Lögberg á þessum stað lengur.
Ráðamenn Strætisvagna Reykjavíkur breyttu fyrir nokkrum árum heitinu á strætisvagninum, sem fer þangað upp eftir, úr Lögberg í Lækjarbotnar, og þótti mörgum það smekkvíslega gert. Það var raunar gert áður en húsið Lögberg var rifið.
Ég sendi þér þessar línur, Velvakandi góður, og bið þig að koma þeim á framfæri. sem ábendingu til blaðamanna og amnarra um að afmá nafnið Lögberg á þessum stað. Það á aðeins heima á einum stað — á Þingvöllum.” – 27. 8. 1966; Guðmundur Marteinsson.

„Kirsten Henriksen einn gefanda er fædd 1920 og lést 2009.“ (VHP 2018)

Í Skátablaðinu árið 1985 segir Reynir Már Ragnarsson frá “Væringjaskálanum í Lækjarbotnum“, sem þá hafði verið fluttur á Árbæjarsafnið.

Lögberg

Lögberg – hestamenn á leið austur. Væringjaskálinn í bakgrunni.

“Einn er sá staður í nágrenni Reykjavíkur sem margir skátar eiga eflaust góðar minningar frá en það eru Lækjarbotnar. Þar hefur verið skátaskáli síðan 1920 og eru þeir því orðnir nokkuð margir skátarnir sem hafa verið þar í útilegu. Minningar tengjast oft skálanum, því andrúmslofti sem þar er og stemmingunni sem þar myndast. Oftar en ekki halda menn tryggð við skálann sem minningarnar eru tengdar við.

Væringjaskálinn

Væringjaskálinn á Lögbergi.

Líflaus og tómur með hlera fyrir gluggum í sumar fór ég að skoða Árbæjarsafn og tók þá eftir litlu húsi sem
stendur skammt frá safnhúsunum. þetta einmana hús reyndist vera gamli Lækjarbotnaskálinn – Væringjaskálinn. Hann má nú muna sinn fífil fegri. Söngurinn er þagnaður og leikir og ærsl eru víðs fjarri. Mætti hann tala hefði hann frá mörgu að segja. En nú er hann einn og yfirgefinn, hurðin læst og hlerar fyrir gluggum. Ég gisti þennan skála aldrei sjálfur en fyrir hönd þeirra sem það hafa gert og reyndar fyrir hönd skátahreyfingarinnar skammaðist ég mín. Af hverju er hann ekki opnaður og komið einhverju lífi í hann?

Væntanlegt útileguminjasafn eða tómur áfram?

Væringjaskálinn

Væringjaskálinn á Árbæjarsafni – mynd: Saga Væringjaskálans – Sumarið 1919 fór stjórn Vœringjafélagsins að leita að stað undirfyrirhugaðan skála. Eftir nokkra leit komst stjórnin að þeirri niðurstöðu að Lækjarbotnar vœru heppilegasti staðurinn. Þar hafði áður verið býli, sem var áningarstaður ferðamanna sem voru á leið austurfyrirfjall. Bygging skálans hófst snemma sumars 1920 og 5. september sama ár var hann vígður þótt byggingunni væri ekki að fullu lokið. Fáni var þá í fyrsta sinn dreginn að hún á stönginni við skálann.
Í byrjun voru hliðarveggir skálans hlaðnir úr grjóti og torfi, en það þótti slæmt til lengdar og voru því hlöðnu veggirnir rifnir burt. Sumarið 1929 var byrjað að girða lóðina kringum skálann og gróðursett voru tré og aðrar jurtir. Þessu verki var lokið 1931. Skálinn kostaði alls uppkominn nær 7000 krónum.

Ég hafði samband við Ragnheiði Þórarinsdóttur, borgarminjavörð og sagði hún að skálanum væri haldið við og áætlað væri að flytja hann nær safnhúsunum. Mikill áhugi væri fyrir að opna hann almenningi, en áður þyrfti að safna hlutum sem tengdust útilegustarfi fyrri ára og koma þeim fyrir í skálanum. Hún taldi best að skátarnir hefðu frumkvæði að þeirri söfnun. Árbæjarsafn væri tilbúið að varðveita hlutina og lagfæra ef með þyrfti.”

Heimildir:
-Ísafold 19. desember  1908, bls. 315
-Sunnudagsblað Alþýðublaðsins 20. október 1963, bls. 74-75 og  86-87.
-Vísir, 278. tbl. 10.12.1962, Lögberg selt til niðurrifs, bls. 7.
-Morgunblaðið, 199. tbl. 02.09.1966, Aðeins eitt Lögberg – Guðmundur Marteinsson, bls. 4.
-Skátablaðið, 1. tbl. 01.02.1985, Væringjaskálinn í Lækjarbotnum – Reynir Már Ragnarsson, bls. 34-35.

Tröllabörn

Tröllabörn.

Víkingaskip

Í Lesbók Morgunblaðsins árið 1951 fjallar Árni Óla um “Skilnað Reykjavíkur og Seltjarnarneshrepps” í sögulegu samhengi. Spurning Árna er hvers vegna, þrátt fyrir allar tilfæringarnar á landamerkjum, geti landnámið Vík ekki verið í dag eitt og hið sama.

Árni Óla

Árni Óla.

“Upphaflega var Reykjavík stærsta jörð, sem nokkru sinni hefir verið á Íslandi. Land hennar náði yfir Kjósarsýslu, Gullbringusýslu og fjóra hreppa Árnessýslu, Wngvallasveit, Grafning, Ölfus og Selvogshrepp. En brátt saxast á land þetta, þyí að Ingólfur var óspar á að miðla öðrum af landnámi sínu. Eru táldir 18 landnámsmenn, er hann fekk lönd, og er þá svo komið að land Reykjavíkur nær ekki yfir meira en Seltjarnarneshrepp og vestasta hluta Mosfellssveitar. Og enn skerðist þetta land, því að sjálfstæðar jarðir rísa þar upp snemma, svo sem Nes við Seltjörn og Laugarnes. Örlyndi Ingólfs, sem kemur fram í því hvernig hann brytjar niður landnám sitt, verður trauðlega skýrt á annan veg en þann, að hann hafi ætlað sjer og afkomendum sínum að vera höfðingjar í þessu landi. En höfðingi gat enginn orðið nema sá, er hafði mannaforráð. Og að þeir feðgar hafi haft mannaforráð um alt landnámið, sjest á því er Þorsteinn Ingólfsson stofnar Kjalarnesþing.
Landnám Ingólfs
Reykjavík var enn góð jörð, þrátt fyrir alt, og höfuðból hefir hún verið fyrstu aldirnar. Hafa þar um ráðið hin miklu hlunnindi hennar, svo sem selalátur í Örfirisey, trjáreki, æðarvarp í eyjunum, laxveiði í Elliðaánum. Þá hafa og verið hjer ágæt fiskimið og fiskur oft gengið inn í Sundin. Þess vegna hefir jörðin getað framfleytt fjölda fólks og þess vegna rísa stöðugt upp nýar jarðir í landi hennar, þangað til svo er komið, að þetta höfuðból er orðið að kotjörð, hlunnindin hafa lent hjá öðrum eða farið forgörðum, og avo verður Danakonungur eigandi jarðarinnar. Niðurlægingarsagan er löng og ömurleg. Og þegar konungur gefur svo verksmiðjunum heimajörðina, þá er það ekki annað en kvosin, þar sem Miðbærinn stendur nú. Reykjavík var þá jörð í Seltjarnarneshreppi. En árið 1803 er hún gerð að sjerstöku lögsagnarumdæmi og fær sjerstakan bæjarfógeta. Lögsagnarumdæmið var miklu stærra en verslunarlóðin, því að innan þess voru Þingholt, Stöðlakot, Skálholtskot, Melshús, Melkot, Götuhús og Grjótaþorpið, og brátt bættist Landakot við.

Landnám Ingólfs

Landnám Ingólfs.

Þrátt fyrir þetta helst enn sambandið við Seltjarnarnes að nokkru leyti, því að fátækramálin voru sameiginleg og voru til þess alveg sjerstakar ástæður. Þegar eftir að verksmiðjurnar voru reistar hjer, og þó einkum eftir að verslunin var gefin frjáls og Reykjavík fekk kaupstaðar rjett indi, fór fólk að flykkjast þangað í atvinnuleit og margir settust þar að og komu sjer upp tómthúsbýlum, eða hinum svonefndu kotum. Margt af þessu fólki var blásnautt og upp á aðra komið hvenær sem versnaði í ári. Jukust því sveitarþrengsli óðum af þessum sökum.

Sölvhóll

Sölvhóll á Arnarhóli. Teikning eftir Árna Elfar.

Kotin voru ekki öll innan lögsagnarumdæmis Reykjavíkur, því að mörg höfðu verið reist í löndum Hlíðarhúss, Sels og Arnarhóls, en þær jarðir voru í Seltjarnarneshreppi. Þeir, sem í þessum kotum bjuggu, höfðu aðalatvinnu sína hjá kaupfnönnum bæjarins, og það var sú atvinnuvon, sem hafði dregið þá hingað. En þegar nú þessir menn gátu ekki sjeð fyrir sjer og sínum og urðu bónbjargarmenn, þótti það ekki sanngjarnt, að Seltjarnarneshreppur kostaði framfærslu þeirra. Myndi það hafa orðið honum ofraun fjárhagslega, ef hann hefði orðið að setja þessu bjargþrota fólki farborða. Þótti því sanngjarnt að Reykjavík tæki þátt í framfærslu þess, þar sem hún naut vinnukrafta þess. Þessi var megin ástæðan til þess að bær og hreppur höfðu sameiginlegt fátækraframfæri um langt skeið.
Seltjarnarnes
Það er dálítið einkennilegt, að vaxandi bygð varð upphaflega til þess að þröngva svo kosti Reykjavíkur, að höfuðbólið varð að kotjörð. Og nú þegar Reykjavík er orðin sjerstakt lögsagnarumdæmi, þá er það vaxandi bygð, sem þröngvar enn kosti hennar. Óáran og fiskleysi hjálpaði þar einnig til. Og árið 1806, eða þremur árum eftir að bærinn var gerður að sjerstöku lögsagnarumdæmi, er ástandinu hjer lýst á þennan hátt: „Fjöldi tómthúsmanna er hjer allrar bjargar laus, jafnvel bændur og það ekki einn, heldur allur fjöldi, sem við vissum að fyrir fáum árum voru velmegandi og áttu drjúga peninga fyrirliggjandi, eru nú ekki alleina fjelausir, heldur komnir í stórskuldir. Verslun öll hin versta. Kaupmenn neita um lán og halda vörum sínum dýrum, sjer í lagi móti peningum, sem þeir nú hafa sett niður um 10—20% móti sveitar og sjávarvörum“. Þá voru innan lögsagnarumdæmisins 446 íbúar, þar af ekki nema 134 vinnufærir menn. Þótti forráðamönnum nú þunglega horfa og var gripið til þess ráðs, sem enn þykir hið mesta þjóðráð á ýmsum stöðum, að reyna að hefta aðflutning fólks, og þá einnig að koma þurfamönnum af höndum sjer.

Finnur magnússon

Finnur Magnússon.

Finnur Magnússon var þennan vetur settur bæjarfógeti í stað Frydensberg, sem var ytra. Hann gaf út auglýsingu í mars og var hún kynt almenningi með því að lesa hana í prjedikunarstóli kirljunnar. Þar er öllu útánveitarfólki í kaupstöðum og tilheyrandi kotum“ skipað að hafa sig á burt fyrir fardaga, ef það geti ekki sannað að það sje sjálfbjarga. Ennfremur er öllum húsráðendum í kaupstaðnum og kotunum stranglega bannað að hýsa utansveitarfólk, nema með samþykki bæjarfógeta. Afleiðingin af þessu varð sú, að á næstu tveimur árum fækkaði fólki hjer um 90 manns, eða rúmlega 20 af hundraði. En þrátt fyrir það jukust sveitarþyngsli meira en um helming.

Um þessar mundir var það að Gunnlaugur Briem sýslumaður kom frarn með þá uppástungu að leggja Seltjarnarneshrepp undir Reykjavík. Vildi hann að embættismenn fengi jarðirnar á Seltjarnarnesi til afnota, svo að þeir gæli haft þar búskap og framleitt landbúnaðarafurðir. Jafnframt yrði þá lokið allri óánægju út af fátækramálunum. En þeir Frydensberg bæarfógeti og Trampe stiptamtmaður snerust báðir öndverðir gegn þessari tillögu.

Gunnlaugur Briem

Gunnlaugur Briem.

Trampe var algjörlega mótfallinn því að embættismenn fengi bújarðir, en Frydensberg óttaðist að sveitarþyngsli mundu mjög aukast. Er líklegt að hann hafi þá borið fyrir brjósti hag hinna dönsku kaupmanna, því að þeir voru altaf að rífast út af því að þurfalingar settust hjer að. Er álit Frydensberg mjög í samræmi við álit kaupmannanna, að til Reykjavíkur og Seltjarnarness flykkist allskonar hrakmenni (Uuskud) þegar vel fiskast, hlaði þar niður börnum, og þar sem fæðingarhreppur hafi framfærslu skyldu, þá sitji hreppurinn og bærinn uppi með það alt þegar harðnaði í ári. Tveimur árum seinna hófst ófriðurinn milli Dana og Englendinga og var þá alt á hverfandi hveli hjer og menn höfðu um annað að hugsa en þessa smámuni, sem samband Reykjavíkur og Seltjarnarnesshrepps um framfærslu þurfamanna. Dýrtíð og vöruskortur svarf meir og meir að fólkinu og eru þar um hörmulegar sögur.
Árið 1813 segir bæjarfógeti svo í skýrslu til stjórnarinnar, að þá gangi neyðin nær mönnum heldur en hann viti til af eigin reynd og nú stórsjái á 2/3 af íbúunum í Reykjavík. Castenskjöld var þá orðinn stiftamtmaður, og hóf hann nú máls á því, að rjett væri að slíta sambandi Reykjavíkur og Seltjarnarnesshrepps. En bæjarfógeti var því andvígur og kvað það ekki geta komið til mála, því að aldrei hefði ástandið verið alvarlegra en nú. Og við það sat í það skifti.

Arnarhóll

Arnarhóll.

Leið nú og beið fram til ársins 1834. Á því ári öndverðu voru gefnar út reglur um fátækramálefni. Segir þar að hver hreppur skuli vera sjerstök framfærslusveit, með þeirri undantekningu að Reykjavík skuli vera í sambandi við Seltjarnarnesshrepp um fátækramál. Segir þó, að ef ráðlegt teljist að þessu sje breytt þá skuli amtmaður senda álit og tillögur um það til Kansellí.
Árið eftir gerist svo það, að lögsagnarumdæmi Reykjavíkur er stækkað að mun. Er þá bætt við það Hlíðarhúsum, Ánanaustum, Seli, Örfirisey, Arnarhóli og Rauðará, ásamt öllum kotum í landi þeirra. Urðu þá takmörk lögsagnarumdæmisins þessi: Að vestan lönd Eiðis og Lambastaða, að sunnan Skildinganesland, að austan Laugarnessland. Með þessari breytingu fékk Reykjavík í sinn hlut flesta þá tómthúsmenn, er hjer höfðu sest að.

Landnám

Landnám Ingólfs – skipting.

Reykjavík var nú orðin svo stór, að full ástæða þótti til að hún fengi reglugerð um bæjarmálefni sín. Því var það á öndverðu ári 1839 að amtmaðurinn í Suðuramtinu skrifaði Kansellíbrjef um þetta og sendi með frumvarp að slíkri tilskipun. Var hún alveg sniðin eftir tilskipun um bæjarmálefni í Danmörk, nema hvað gert var ráð fyrir því að enn heldist samband kaupstaðarins og hreppsins um fátækramálefni. Kansellí sendi frumvarpið til embættismannanefndarinnar, sem settist á rökstóla þá um sumarið, og bað um álit hennar. Nefndin varð sammála um að gera þá höfuðbreytingu á frumvarpinu, að sambandi Reykjavíkur og Seltjarnarness skyldi slitið og fjárskifti fara fram að bestu manna yfirsýn. Nefndin rökstyður þetta á þann hátt, að ástæðan fyrir fjelagi bæar og hrepps um fátækramál hafi fallið niður um leið og lögsagnarumdæmi Reykjavíkur var stækkað. Áður hefði það ekki verið nema sanngjarnt að Reykjavík tæki þátt í fátækraframfærslu tómthúsmanna, sem bjuggu utan lögsagnarumdæmisins en stunduðu vinnu í bænum.

Landnámið

Landnám Ingólfs – sveitarfélög.

Áður en tillögur embættismannanefndar væri sendar Kansellí, leitaði stiftamtmaður álits bæjarstjórnar Reykjavíkur og hreppstjórans í Seltjarnarnesshreppi. Álit bæjarstjórnar fór í þveröfuga átt við skoðanir embættismannanefndarinnar. Segir svo í því: „Áður en lögsagnarumdæmi Reykjavíkur var stækkað var fult af þurfamönnum á næstu bæjum, Hlíðarhúsum, Ánanaustum, Sauðagerði, Seli, Rauðará o.s.frv. Voru þeir aðallega hjer úr sýslunni, en þó víðs vegar að af landinu. Það gerði ekki svo mikið til á meðan fátækraframfærslan var sameiginleg, þótt lögsagnarumdæmi Reykjavíkur væri stækkað, en hefði menn þá grunað að aðskilnaður fátækramálefnahreppsins og bæjarins væri aðsigi, hlutu menn að sjá að stækkun lögsagnarumdæmisins yrði til tjóns fyrir bæinn og mjög þungbær, því að á þessu svæði býr fjöldi þurfamanna úr sýslunni.
Reykjavík
Það hefði því verið happadrýgst fyrir Reykvíkinga, að lögsagnarumdæmið hefði ekki verið stækkað, því að þótt hreppurinn tæki nú við öllum þeim þurfamönnum, sem þar eru, þá er hætt við að fátæktin verði þar svo arfgeng, að fjöldinn allur af þeim tómthúsmönnum, sem eftir verða, muni þurfa á mikilli fátækrahjálp að halda, einkum ef harðnar í ári. Vjer teljum því, að skilnaður bæjar og hrepps muni verða bænum mjög þungbær þegar fram í sækir, nema því aðeins að lögsagnarumdæmi Reykjavíkur verði aftur minkað, og látið vera eins og það var fyrir breytnguna 1835“, Hjer kemur allgreinilega fram sú einangrunarstefna, sem þá ríkti hjer í bænum, og átti eflaust upptök sín hjá hinum dönsku kaupmönnum, sem sáu eftir hverjum eyri til almenningsþarfa, þótt þeir lifðu sjálfir í sukki og sællífi. Bænum var orðin hin mesta nauðsyn á því að færa út kvíarnar en samt vildi bæarstjórn nú vinna það til fyrir meðlag nokkurra þurfamanna að marka bænum sinn upphaflega bás á landi jarðarinnar Víkur. Þetta var þó aðeins fljótfærni hjá bæjarfulltrúunum, eins og þeir sáu síðar.

Arnarhóll

Arnarhóll og nágrannajarðir 1703.

Vegna þessarar afstöðu bæjarfulltrúanna þótti Kansellí viðsjárvert að fara fram á skilnað bæjar og hrepps. Sendi það því frumvarpið aftur til embættismannanefndarinnar og bað hana að taka það til athugunar að nýju. Jafnframt ljét Kansellí þess getið að það teldi að Seltjarnarneshreppur mundi bíða tjón af skilnaðinum, er Reykjavík græða á honum. Hœtta væri og ef til vildi á því, að Reykjavík reyndi að stjaka mönnum frá sjer og fá þá til að setjast að í Hreppnum, og geta þannig haft hagnaðinn af vinnu þeirra, en varpað framfærsluþunganum yfir á hreppinn.
Áður en stiftamtmaður lagði frumvarpið að nýju fyrir embættismannanefndina (1841), leitaði hann álits bæjarfulltrúa og fátækrastjórnar bæjar og hrepps. Og nú brá svo undarlega við, að þeir æsktu allir eftir skilnaði. Hafði fátækrastjórnin athugað útgjöld bæar og hrepps til þurfamanna seinustu 12 árin, og á þeim tíma höfðu Reykvíkingar greitt 5181 rdl., en hreppurinn 2220 rdl. Eftir því gæti skifting farið fram eftir hlutfallinu 26:11 og væri sú tala líka rjétt, ef tekið væri tillit um mannfjölda í hrepp og bæ.

Seltjarnarnes

Mörk Seltjarnarness og Reykjavíkur árið 1700. Eiði og Örfirisey.

Með þessu var hnúturinn leystur að kalla, áður en málið kæmi til embættismannanefndarinnar. Ræddi hún því aðallega um hvernig skilnaðinn skyldi framkvæma að öðru leyti. Taldi hún víst að í fyrstu myndi rísa upp ýmis vafamál, en á hitt bæri fremur að líta, að eftir skilnaðinn yrði stjórn fátækramálanna einfaldari og óbrotnari og „stjórnendur fátækramálefnanna fengi meira ráðrúm og næði og meiri festu í störf sín en ella.“

Mosfellssveit

Mosfellssveit og Mosfellsheiði – mörk (rauð) 2022.

Eitt af vandamálum skilnaðarins var það, hvar ætti að lenda þeir þurfamenn, sem dvalist höfðu sitt á hvað í hreppnum og bænum. „Nefndin áleit að leysa mætti þetta þannig, að bæinn og hreppinn væri í tilliti til annara hreppa að álíta hin fyrstu árin eftir skiftin sem eitt, en að því leyti vafi væri á hvort hreppur eða bær ætti að annast einhvern þurfaling, þá skyldi þessi vera þar sveitlægur er hárin hefði dvalist hinn mesta hluta af 5 árum, ellegar þó heldur sjerhver þurfamaður verða sveitlægur þar sem hann væri, þó hann eftir skilnaðinn þyrfti á styrk að halda, þegar hann fyrir og eftir skilnaðinn hefði dvalist til samans í bænum og hreppnum um 5 ára tíma“. Lagði nefndin svo til að sjerstakri nefnd yrði falið að sjá um skilnaðinn og skiftin og ætti í henni að vera þáverandi fátækrastjórn og nokkrir dánumenn, sem amtmaður tilnefndi.

Reykjavík

FYRIR nær réttum 160 árum, í október, var kveðinn upp úrskurður sem leiddi af sér að torfbæir hurfu úr miðbæ Reykjavíkur. Það var Stefán Gunnlaugsson bæjarfógeti sem kvað upp þennan dóm í framhaldi af því að Jóhannes Zoëga ætlaði að laga hesthúskofa og torfbæ sinn. Faðir þessa Jóhannesar var Jóhannes Zoëga eldri sem að sögn Árna Óla í bókinni, Reykjavík fyrri tíma, var ættaður frá Slésvík. Frá honum og konu hans, Ástríði Jónsdóttur, er Zoëgaættin komin. Hinn 29. maí 1839 hafði Friðrik VI gefið út opið bréf um stofnun byggingarnefndar í Reykjavík, sem ekki var vanþörf á, því áður höfðu menn getað byggt þar sem þeim sýndist. Það var í verkahring byggingarnefndar að sjá um skipulag bæjarins, ákveða hvar götur og torg skyldu vera og úthluta lóðum undir byggingar. Í Suggersbæ Jóhannesar Zoëga, 90 ára torfbæ, var þakið tekið að leka og vildi eigandinn gera við það en hóf framkvæmdir án þess að bíða álits byggingarnefndar. Byggingarnefnd skaut málinu til yfirvalda sem kváðu upp fyrrnefndan úrskurð. Út af þessu máli var svo bannað að byggja torfkofa í miðbænum í Reykjavík og jafnframt ákveðið að uppistandandi torfbæir skyldu rifnir þegar þeir þörfnuðust viðgerðar.

Það er sennilega Stefáni Gunnlaugssyni mest að þakka að svo hljóðalítið náðist samkomulag um þetta mál. Hann var einn í þeirri nefnd er embættismannanefndin fól að athuga málið, og hann var einnig bæjarfógeti hjer og formaður bæjarstjórnar. Hann hafði frá öndverðu talið að báðir aðilar hefði hag af skilnaðinum og gat beitt áhrifum sínum í embættismannanefndinni og bæði gagnvart bæarfulltrúum og fátækrastjórn. Hitt hefir hann ekki látið sig neinu skifta hvað kaupmannaklíkan í bænum vildi.
Málið var nú aftur sent Kansellí. Það ráðgaðist við Rentukammer um það, og var Rentukammer því fylgjandi að skilnaður færi fram. En málið var þó saltað um sinn, vegna þess að nú stóð til að endurreisa Alþingi og mun Kansellí hafa þótt rjett að málið kæmi til þess kasts.
Alþingi kom svo saman sumarið 1845. Stjórnin lagði þá fyrir það frumvarp til reglugerðar um stjórn bæarmálefna í Reykjavík, og segir svo í 1. gr. þess: Kaupstaðurinn Reykjavík skal framvegis eins og áður eiga þing sjer með takmörkum þeim, sem þinghánni eru sett í konungsúrskurði 24. febr. 1835. Skal þó sambandi því, sem er á milli fátækrastjórnar kaupstaðarins og Seltjarnarnesshrepps slitið. Skal skilnaður þeirra hefjast um byrjun hins fyrsta reikningsárs eftir að þessi tilskipun vor er flutt til Reykjavíkur. Upp frá þessum tíma skal fátækramálefnum í Seltjarnarneshreppi stýrt á sama hatt, sem í öðrum hreppum, en í Reykjavík skal stjórn á fátækramálefnum löguð samkvæmt reglum þeim, sem settar eru í reglugerð um fátækrastjórnir hvorutveggja, þó skulu í nefnd þeirri, er stjórn hefir á hendi, einungis sitja dómkirkjuprestur, bæjarstjóri og 2 fátækrastjórar. — Fje því, er fátækrahrepparnir eiga saman, svo og álögum, skal skift eftir hlutfalli 26:11. — Þessi skifti skulu gerð af nefnd þeirri, er hefir haft sameiginlega fátækrastjórn í báðum hreppum, ásamt 5 dánumönnum, 2 úr Reykjavík og 3 úr Seltjarnarneshreppi og skal amtmaður kjósa þá.

Arni Helgason

Árni Helgason.

Þingið kaus þegar í upphafi nefnd 5 kunnugra manna til þess að athuga málið og voru í henni Þorgr. Thomsen skólaráðsmaður, Árni Helgason stiftprófastur, Helgi G. Thordersen prófastur, J. Johnsen assesor og Jón Sigurðsson stúdent. Var og farið fram á það að Jón Guðmundsson veitti nefndinni aðstoð sem sá maður er best vit hefði á þessu. Helstu breytingar sem nefndin gerði voru þær, að fátækrafulltrúar í Reykjavík, yrði þrír, og að amtmaður tilnefndi ekki menn í skilanefndina heldur yrði þeir kosnir af bæjarstjórn og hreppsbúum, „þar eð vjer getum ekki treyst amtmanni eins vel og hverjum þessara fyrir sig til að kjósa þá, sem best sje kjörnir til þessa starfa“. Konungsfulltrúi lagðist fast á móti því, að Seltirningar fengi sjálfir að kjósa fulltrúa sína, en því var ekki skeytt og frv. samþykt með þessum breytingum. Konungur staðfesti síðan frv. eins og Alþingi gekk frá því (27. nóv. 1846).

Helgi G. Thodrarensen

Helgi G. Thodrarensen.

Þá lá næst fyrir að kjósa skilanefndina. Reykvíkingar kusu þá Jón Markússon kaupmann og Sveinbjörn Jakobsen kaupmann, en Seltirningar kusu Helga G. Thordersen, Þórð Sveinbjörnsson háyfirdómara og Pjetur bónda Guðmundsson í Engey. Sjálfkjörnir í nefndina voru bæarfógeti, bæjargjaldkeri, Moritz Biering kaupmaður, Ásgeir Finnbogason í Bráðræði og Sigurður Ingjaldsson í Hrólfsskála, en þeir höfðu fram að þessu stjórnað sameiginlegum fátækramálum.
Nefndin hélt fyrsta fund sinn á Jónsmessu 1847 og varð þegar nokkurn veginn ásátt um það hvernig skiftum skyldi haga. Þá voru hjer 33 ómagar, en auk þess fengu 12 heimilisfeður nokkurn styrk. Alls var fátækraframfærið 106% tunna af rúgi, og tók Seltjarnarneshreppur að sjer ákveðna ómaga og heimilisfeður, sem fengið höfðu 32 tunnur af rúgi, en Reykjavík sat með hina. Um haustið (5. nóv.) fóru svo fullnaðarskifti fram. Sameiginlegar eignir voru taldar 2650 rdl. 12 sk. Urðu menn vel ásáttir um skiftin og komu 1862 rdl. 24 sk. í hlut Reykjavíkur, en 787 rdl. 84 sk. í hlut hreppsins. Var samningur þessi staðfestur af stjórninni og þar með var fullkomnaður skilnaður Reykjavíkur og Seltjarnarnesshrepps.

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – herforningjaráðskort frá 1908.

En svo hafa örlög þeirra verið nátengd, að skiftingin hlaut að leiða til margskonar árekstra. Seltjarnarnesshreppur varð mesta uppgangssveit, en Reykjavík óx henni þó yfir höfuð og varð æ voldugri og ágengari nágranni, vegna þess að henni var lífsnauðsyn á útþenslu. Hefir þetta aðallega bitnað á Seltjarnarnesshreppi og er nú svo komið að manni verður á að spyrja hvort ekki hefði verið happadrýgst fyrir báða aðila að tillaga Gunnlaugs sýslumanns Briem um sameiningu kaupstaðar og hrepps hefði náð fram að ganga fyrir tæpum 150 árum. Eftir öllum sólarmerkjum hlýtur þessi sameining að fara fram. Viðburðarásin stefnir öll að því og skal hjer drepið á hið helsta.

Reykjavík

Reykjavík – lögbýli 1703.

Þegar hið forna Kjalarnesþing skiftist í tvær sýslur fengu þær ný nöfn og var önnur nefnd Gullbringusýsla en hin Kjósarsýsla. Sýslumörkin voru Elliðaár, Hólmsá upp í Vötn og þaðan í Lyklafell að sýslumörkum Árnessýslu. Halda margir enn í dag að þessi sje sýslumörkin og þar mætist þrjár sýslur. En svo er ekki. Sýslumörkin færðust vestur í Bláfjöll, vegna þess að Seltjarnarneshreppi var svo að segja rænt frá Gullbringusýslu og honum skeytt við Kjósarsýslu. En um það er þessi saga.
Sýslurnar höfðu um nokkurt skeið verið sameinaðar og var sýslunefnd þannig skipuð að í henni voru 3 fulltrúar frá Kjósarsýslu en 9 frá Gullbringusýslu. Urðu stundum ýmsar greinir í með fulltrúunum vegna þess hvað atvinnuhættir voru ólíkir í sýslunum. Í Kjósarsýslu stunduðu allir landbúnað, en í Gullbringusýslu var mest treyst á sjóinn. Og er nú kom að því að útlend skip spiltu svo veiðum í Faxaflóa að afli brást á opna báta og bágindi urðu meðal Suðurnesjamanna, þá tóku Kjósarmenn að ókyrrast. Út af því var það, að sjera Þórarinn Böðvarsson bar fram á Alþingi 1877, að þeirra ósk, frumvarp um skilnað sýslanna.

Mosfellsbær

Mosfellsbær.

Það féll í Neðri deild með jöfnum atkvæðum og varð því það að fótakefli að málið hafði ekki verið borið undir sýslunefnd. Tveimur árum seinna kom frv. aftur fram á Alþingi, en dagaði uppi. Þá var farið með málið til sýslunefndar og felst hún á það 1880 að skilnaðurinn færi fram og skyldi hin gömlu sýslumörk haldast. Enn kom málið fyrir Alþingi 1881 og var fyrst tekið til meðferðar í neðri deild. Þingmenn litu svo á að Kjósarsýsla yrði alt of lítil, aðeins 3 hreppar og bættu því inn í frumvarpið að Seltjarnarshreppur skyldi leggjast við Kjósarsýslu. Þegar til efri deildar kom var frumvarpið felt vegna þessarar breytingar og sýslunefnd tjáði sig einnig mótfallna því að hinum gömlu sýslumörkum væri raskað.

Kópavogur

Kópavogur – umdæmismörk 2020.

Nú lá málið niðri þangað til árið 1903. Þá bar Björn Kristjánsson fram frv. á Alþingi um skilnað sýslanna og skyldu ráða hin gömlu sýslumörk. En þá reis landshöfðingi og sagði að það væri fásinna að gera 3 hreppa að sýslu. Kvaðst hann mundu verða á móti frv. ef Seltjarnarnesshreppi væri ekki bætt við Kjósarsýslu. Var svo farið að vilja hans og málið afgreitt sem lög. Sýslunefnd var nú alls ekki spurð hvort henni þætti betur eða ver, og enginn mælti gegn frv. nema Skúli Thoroddsen. Vildi hann að hreppsbúar á Seltjarnarnesi væri að því spurðir hvort þeir vildu heldur vera í Kjósarsýslu eða Gullbringusýslu, en því var ekki sint.

Kjósarhreppur

Kjósarhreppur – bæir og mörk (rauð lína).

Þannig skeði það rjettum 100 árum eftir að Reykjavík var gerð að sjerstöku lögsagnarumdæmi, að Seltjarnarnes, sem altaf hafði verið í Gullbringusýslu, var lagt undir Kjósarsýslu án þess að sýslunefnd og hreppsbúar fengi þar neitt um að segja.

Seltjarnarnes

Nes og Neskirkja fyrrum.

Upphaflega voru þrjár kirkjusóknir í Seltjarnarnessókn, Nessókn, Víkursókn og Laugarnessókn. Víkurkirkjan var aðalkirkja, hitt voru annexíur. Árið 1794, þegar byrjað var á dómkirkjusmíð í Reykjavík, var birt konungleg tilskipun um að leggja niður Laugarnesskirkju, vegna þess að hún væri komin að hruni, og bæta sókninni við Víkursókn. Þremurr árum seinna kemur svo annar Konunglegur úrskurður um það að Neskirkja skuli lögð niður og sókninni bætt við Víkursókn. Segir Jón biskup Helgason að Seltirningar hafi tekið þessu dauflega, en ekki fengið við ráðið, Neskirkja hafði þá verið endurbygð fyrir skömmu og var hið stæðilegasta hús. En í ofviðrinu mikla hinn 9. janúar 1799 (þegar sjávarflóð sópaði burt Básendakauptúni) fauk Neskirkja.
Upp frá því var Dómkirkjan eina guðshúsið á Seltjarnarnesi og þangað áttu allir hreppsbúar kirkjusókn upp frá því, svo að í kirkjumálum hefir samband hrepps og kaupstaðar haldist síðan.

Reykjavík

Reykjavík – Laugarnes 1836.

Næst er svo að segja frá útþenslu Reykjavíkur.
1894 voru sett lög um það, að jarðirnar Laugarnes og Kleppur skyldu lagðar undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur frá fardögum. Höfðu Seltirningar þó barist með hnúum og hnefum gegn því.
1923 voru sett lög um það, að jarðirnar Breiðholt, Bústaðir og Eiði skyldu lagðar undir lögsagnarumdæmi og bæarfjelag Reykjavíkur, og jafnframt heimilaðist Seltjarnarneshreppi vatn og rafmagn frá Reykjavík, gegn því að greiða kostnað við að koma því þangað. „Frá sama tíma var og rafmangsstöðin við Elliðaár ásamt íbúðarhúsi og lóð, svo og Elliðaárnar með árhólmanum, árfarvegunum og landi á austurbökkum ánna er þarf til byggingar þeirra mannvirkja, er þurfa þykir framvegis til hagnýtingar vatnsorkunnar að fullu og vegna laxveiðinnar og starfrækslu hennar, úr landi jarðanna Ártúns og Árbæjar í Mosfellssveit, lögð undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur“.

Seltjarnarnes

Nesstofa – Esja í bakgrunni.

Eftir þessa breytingu var Seltjarnarnesshreppur orðinn einhver einkennilegasti hreppur á landinu, vegna þess hvað hann var í mörgum molum. Fyrst var nú Framnesið sjálft, svo var Skildinganes umlukt Reykjavíkurlandi, svo voru bæirnir Digranes, Kópavogur og Fífuhvammur á einni skákinni, á fjórðu skákinni voru bæirnir Vatnsendi, Elliðavatn, Hólmur og Lækjarbotnar, og svo voru eyjarnar hjer úti fyrir.
1929 voru svo jarðirnar Ártún og Árbær að fullu innlimaðar lögsagnarumdæmi Reykjavíkur.

Elliðavatn

Elliðavatn – bærinn.

1931 voru enn sett lög um stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur. Þá voru undir hana lagðar jarðirnar Þormóðsstaðir og Skildinganes „ásamt öllum lóðum og löndum, sem seldar hafa verið frá þeim, svo og verslunarstaðurinn Skildinganes við Skerjafjörð“. Var svo ákveðið að fyrir árslok 1932 skyldu fara fram endanleg fjárskifti milli Reykjavíkur og Seltjarnarnesshrepps, þar á meðal væntanleg skaðabótagreiðsla til hreppsins og Kjósarsýslu vegna laga þessara, og Reykjavík var gert að skyldu að kaupa vatnsveitu Skildinganesskauptúns.

Vatnsendi

Vatnsendi.

1942 voru sett lög um að Reykjavík mætti taka eignarnámi spildu af landi jarðarinnar Vatnsenda í Seltjarnarnesshreppi til þess að auka við fyrirhugað friðland Reykvíkinga á Heiðmörk.
1943 fer svo fram mesta stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur. Þá eru undir hana lagðar jarðirnar Elliðavatn og Hólmur í Seltjarnarnesshreppi, „ásamt lóðum og löndum, er úr þeim hafa verið seldar, svo og spilda sú úr landi Vatnsenda, er Reykjavík kann að taka eignarnámi“. Ennfremur jarðirnar Grafarholt (að svo miklu leyti sem eignarnámsheimild nær til), Gufunes, Keldur, Eiði, Knútskot, Korpúlfsstaðir, Lambhagi, nýbýlið Engi, Reynisvatn og jarðarhlutinn Hólmsheiði í Mosfellssveit ásamt öllum lóðum og löndum, sem seldar hafa verið úr þeim.

Landnám

Landnám Ingólfs – hluti af Íslandskorti 1550.

Skömmu eftir að þetta var, fer Digranesháls að byggjast, alt út á Kársnes. Ríkissjóður á þetta land og úthlutaði því til ræktunar, en ekki var til þess ætlast upphaflega að þar risi bygð, nema hreppsnefnd Seltjarnarness leyfði. Mikil eftirsókn var að löndum þarna og fengu færri en vildu. Sýnir það best hvað Reykvíkingar eru sólgnir í að fá land til ræktunar og komast í samband við gróðurmoldina, því að það voru Reykvíkingar, sem lögðu Digranesháls undir sig. Til þess að geta hagnýtt löndin urðu þeir að byggja þar skýli, og vegna húsnæðiseklunnar í Reykjavík, urðu brátt úr skýlunum íbúðarhús. Þau þutu þarna upp, hvað sem hreppsnefndin sagði, og hún rjeði ekki neitt við það hverjir fluttust inn í hreppinn á þennan hátt. Út af þessu varð svo óánægja, sem leiddi til þess, að nýbýlahverfið sagði sig úr lögum við Seltjarnarnesshrepp. Var þar stofnaður sjerstakur hreppur árið 1947 og heitir Kópavogshreppur, og undir hann lagðar jarðirnar Digranes, Kópavogur, Fífuhvammur, Vatnsendi, Geirland, Gunnarshólmi og Lögberg (Lækjarbotnar). Hreppur þessi er í þremur skákum, nesið sjálft, Vatnsendaland umkringt Reykjavíkurlandi og efst þrjú býli út af fyrir sig. En Seltjarnarnesshreppur er nú ekki orðinn annað en totan fyrir framan Lambastaði og svo eyjarnar.
Þess getur áreiðanlega ekki orðið langt að bíða, að lögsagnarumdæmi Reykjavíkur verði látið ná yfir alt Seltjarnarnes, og hverfur þá Seltjarnarnesshreppur úr sögunni. En Kópavogshreppur hinn nýi á líka að sameinast Reykjavík. Hann er hvort sem er ekki annað en úthverfi Reykjavíkur og verður að byggja tilveru sína á Reykjavík. Þar eru engin atvinnufyrirtæki, er geti veitt íbúunum atvinnu. Hana verða þeir að sækja til Reykjavíkur. Þeir eru og algjörlega upp á Reykjavík komnir með vatn og rafmagn, og eðlilegast er að Reykjavík sjái þeim fyrir bættum samgöngum.

Íslandskort

Íslandskort (Nova et accurata Islandiæ delineatio) frá árinu 1670, gert af Þórði Þorlákssyni biskupi í Skálholti. Fyrir neðan Íslandskortið er Lofkvæði til Kristjáns konungs V, skrifað í fjóra dálka, á latínu, dönsku og íslensku með venjulegu letri og rúnaletri. Efst á kortinu eru myndir af sjávardýrum og skjaldarmerki Íslands, sem er flattur þorskur borinn af tveimur fuglum, í hægra horni, þar fyrir neðan er titill. Í neðra horni vinstra megin er skjöldur með táknmyndum og tileinkun til Kristjáns V. Danakonungs. 

Rás örlaganna verður ekki stöðvuð. Sá búhnykkur Magnúsar Stephensen landshöfðingja, að taka Seltjarnarnesshrepp af Gullbringusýslu og skeyta honum við Kjósarsýslu, hefir ekki reynst haldbært nje heppilegt fyrirtæki. Lögsagnarumdæmi Reykjavíkur er komið sem fleygur milli sýslanna, alt suður að takmörkum Árnessýslu í Bláfjöllum, en með smáblettum inn á milli, sem enn teljast sjerstakir hreppar. Að því hlýtur að koma, áður en langt um líður, að þessir blettir allir hverfi inn í lögsagnarumdæmi Reykjavíkur.
Innilokunarstefnan hefti mjög vöxt og viðgang Reykjavíkur fyrrum. Sumum finst nú nóg um frjálsræðið, þar sem svo virðist að hver sem vill geti sest hjer að. En þetta tímanna tákn hefir haft endaskifti á fyrri reynslu. Aðstreymi fólks og vaxandi bygð er áður kom Reykjavík í kútinn, hefir nú reist hana á legg til meiri virðingar en nokkuru sinni áður. Hún hefir þurft og þarf enn aukið alnbogarúm. Og alt bendir til þess, að þess verði ekki langt að bíða, að land hennar nái yfir alt land jarðarinnar Víkur, eins og það var á Ingólfs dögum, eftir að hann hafði skift landnámi sínu milli þeirra manna, er seinna komu.” – Á.Ó.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 4. tbl. 28.01.1951, Skilnaður Reykjavíkur og Seltjarnarneshrepps – Árni Óla, bls. 45-51.
Landnám

Lækjarbotnar

Eftirfarandi frásögn af Eyvindi og Magréti má lesa í Frjálsri þjóð árið 1962:
laekjarbotnar-992“Á
rið 1677 voru dæmd til líkamlegrar refsingar á Kópavogsþingi hjú tvö úr Árnessýslu, karl og kona. Var maðurinn kvæntur, en hafði strokið frá heimili sínu og lagzt út með stúlku, er hann lagði hug á. Maðurinn hét Eyvindur Jónsson, stundum kallaður Eyvindur eldri, til aðgreiningar frá alnafna sínum, hinum víðkunna Fjalla-Eyvindi. Alþingisbókin 1678 segir í stuttu máli hina dapurlegu örlagasögu þessara tveggja mannvera, sem virðast hafa lagt allt í sölurnar til að mega njótast. Sú frásögn er á þessa leið:
„Í sama stað og ár og dag (29. júní 1678) auglýsti valdsmaðurinn Jón Vigfússon eldri þann héraðsdóm, sem hann hafði ganga látið í Bakkárholti í Ölfusi í Árnessýslu það ár 1677 2. nóvembris undir 12 manna útnefnd áhrærandi þær stórbrotamanneskjur Eyvind Jónsson og Margrétu Símonardóttur, sem úr þeirri sýslu burthlaupið höfðu vel fyrir tveimur árum og í opinberum hórdómi orðið sín á millum með barneign, hann eigingiftur, en hún í einföldum hórdómi áður fundin. Höfðu téðar persónur á þessum tveggja ára tíma saman haldið sig fyrir ektahjón… urðu svo höndlaðar í einum helli suður undir Örfiseyjarseli í Kjalarnesþingi og teknar þann 20. oktobris með fola og nautakjöti og öðrum hlutum. Voru þá ofanskrifuðum Eyvindi og Margrétu dæmdar þrjár refsingar hvoru um sig á Bakkárholtsþingstað fyrir þeirra hórdómsbrot og burthlaup úr héraðinu sem og heilagrar aflausnar og sakramentis forröktun, hverjar þrjár refsingar valdsmaður Jón Vigfússon rigtuglega bevísaði á þær lagðar vera.
laekjarbotnar-993Einnig auglýsti velaktaður Oluf Jónsson Klou, að fyrrnefndar persónur, Eyvindur og Margrét, hefðu úttekið líkamlega refsing í Kópavogi 3. decembris 1677 fyrir útileguna og þar að hnígandi þjófnaðar atburði, svo sem dómur þar um auglýstur útvísar, og svo hefði kona Eyvindar Ingiríður hann til hjónabands aftur tekið. Að því gerðu voru þessar manneskjur afleystar af æruverðugum biskupinum mag. Þórði Þorlákssyni undir þeirra sakramentis meðtekning í dómkirkjunni að Skálholti. Nú er síðan svo til fallið upp á ný, að þessar vandræða persónur tóku sig aftur til útilegusamvista og fundust báðar í einni rekkju og einu hreysi undir bjargskúta í Ölvesvatnslandeign af Þorsteini Jónssyni og öðrum átta mönnum. Voru svo teknar og síðan í fangelsi forvaraðar á valdsmannsins heimili Stórólfshvoli og nú hingað til Öxarárþings í járnum færðar með fimm fiskum og tveim mathnífum, sem í hreysinu fundust.”
Eyvindur og Margrét voru síðan bæði dæmd til dauða á Alþingi, og fór aftakan fram á Þingvöllum 3. júlí.”

Heimild:
-Frjáls þjóð, 11. árg. 1962, 43. tbl., bls. 4.

Lækjarbotnar

Aðsetur útilegumanna fyrrum – Hellisopið.

Kópavogskirkja
Í Kópavogi eru nokkrir staðir, sem hafa skírskotun til sagna og munnmæla. Þeim hefur flestum verið hlíft við raski. Má þar nefna stekk nálægt Fífuhvammsvegi og sel í Rjúpnahæð. Jafnframt eru í bænum nokkrir staðir s.s. Álfhóll, Víghólar, Borgarholt, Latur og Þinghóll þar sem fyrrum er talinn hafa verið þingstaður. Kórsnesið eða Kársnesið, þar sem ormurinn langi bjó í helli, er þó horfið undir landfyllingu – og þar með gull hans.
Mikilvægt er að gæta þess vel að spilla ekki sagnatengdum stöðum, hvorki með jarðraski né skógrækt, eins og svo allt of mörg sorgleg dæmi eru um. Ástæðulaust er þó að sýta súrt, en gleðjast yfir því sem til er og nýta það til fróðleiks og ánægju.

Álfhóll

Álfhóll

Álfhóll í Kópavogi.

Álfhóllinn er líklega kunnasti bústaður álfa í Kópavogi. Hann stendur sunnanvert við Álfhólsveg skammt þar frá sem Digranesskóli er nú. Hóllinn, sem er nokkuð aflíðandi, mun vera um það bil þriggja metra hár ef mælt er frá götu.
Álfhóll er jökulsorfinn klapparhóll sem nýtur bæjarverndar sem bústaður álfa. Hóllinn er dæmi um þjóðtrú Íslendinga og hve sterk hún hefur verið allt fram á þennan dag. Því er haldið fram að álfar hafi fjórum sinnum haft áhrif á framkvæmdir við hólinn.
Hann er að miklu leyti hulinn grasi og mosagróðri, sérstaklega að norðan og austan. Í Álfhólnum er nokkurt stórgrýti sem líkist litlum klettastöllum og liggja þessir smáklettar að mestu um sunnanverðan og vestanverðan hólinn.

Kópavogur

Álfhóll.

Lengi hefur verið talað um að álfar hafi tekið sér búsetu í Álfhólnum og margir segjast hafa séð þá með vissu. Ekki er ljóst hve gamlar þær sögusagnir eru; engar heimildir eru til um atburði fyrr en nokkuð er liðið á þessa öld.
Seint á fjórða áratug þessarar aldar var hafist handa við að leggja Álfhólsveginn. Byrjað var á honum við Hafnarfjarðarveg og ætlunin var að halda áfram í austurátt þar til komið væri að Álfabrekku sem skyldi tengja Álfhólsveginn við Nýbýlaveg. Vegurinn átti að liggja þar um sem Álfhóllinn er en hann yrði jafnaður við jörðu eftir því sem framkvæmdum miðaði. Vel gekk að leggja veginn austur eftir Digranesinu að Álfhólnum.

Kópavogur

Álfhóll.

Þegar kom að því að sprengja hólinn gerðust atburðir sem leiddu til þess að ekkert varð af sprengingu. Vildi svo til að fjármagn það, sem veitt hafði verið til lagningar Álfhólsvegarins, var á þrotum. Féllu þá framkvæmdir niður við ólokið verk og Álfhóllinn stóð óhaggaður.
Árið 1947 var á ný hafist handa og átti að leggja veginn áfram í gegnum Álfhólinn. Þegar vinna hófst á hólnum komu upp vandamál sem áttu sér ókunnar og dularfullar orsakið að margra áliti. Vinnuvélar biluðu og ýmis verkfæri skemmdust eða hurfu jafnvel. Varð það úr að vegurinn var lagður í bugðu fram hjá hólnum norðanverðum en ekki í gegnum hann eins og ætlunin hafi verið. Sagt er að þá hafi framkvæmdir gengið eins og venja var til og hafi álfarnir ekki gert vart við sig að sinni.
Talið er að áhrifa álfa hafi einnig gætt við uppbyggingu lóðarinnar nr. 102 við Álfhólsveg en hún liggur næst hólnum. Eigandi lóðarinnar skilaði lóðinni og vildi ekki byggja þar og fellur lóðin ásamt hólnum nú undir bæjarvernd.

Borgarholt

Kópavogur

Kópavogskirkja á Borgarholti.

Holtið þar í kring, sem Kópavogskirkja stendur nú, hefur verið nefnt Borgarholt. Þar hefur álfabyggð verið talin hvað blómlegust í Kópavogi.
Þegar Borgarholtsbraut var lögð á sínum tíma þurfti að sprengja nokkuð í Borgarholtinu á þeim slóðum sem álfar bjuggu. Um það leyti er fréttist að fyrirhugað væri að leggja veg um Borgarholtið mun maður að nafni Sveinn hafa gengið út á holtið og aðvarað álfana.
Segir sagan að íbúar Borgarholtsins hafi tjáð honum að þeir myndu ekki hindra framkvæmdir heldur flytja sig um set. Kom það á daginn að greiðlega gekk að leggja Borgarholtsbrautina og urðu þar engin óhöpp eða undarlegir atburðir.
Nokkrar heimildir eru um álfabyggðina í Borgarholti og segjast skyggnir menn hafa séð þar bústaði og byggingar álfanna. Hefur húsum álfanna verið lýst nokkuð nákvæmlega og eru til teikningar af þeim eftir lýsingu hinna skyggnu. Þá hefur það borið við að börn frá leikskóla þar í grenndinni hafi séð álfa í holtinu og jafnvel tekið þá tali.

Latur

Latur

„Gamlar“ sagnir eru um að steinninn sé
álfabústaður. Einnig kemur hann nokkuð við sögu Jóns bónda Guðmundssonar í Digranesi. Mun hann hafa setið við steininn og sungið þegar hann kom heim úr sollinum í Reykjavík á fyrri helmingi tuttugustu aldar.

Latur er nokkuð stór steinn í sunnanverðum Digraneshálsi þar sem nú liggur gatan Hlíðarhjalli. Stendur steinninn enn óhreyfður innst í einum af botnlöngum Hlíðarhjalla en áður mun Digranesbærinn hafa verið skammt norðan við steininn.
Sagnir um stein þennan tengjast fremur Jóni Guðmundssyni bónda í Digranesi en álfum en sagt er að á steininum hafi Jón hvílt sig á ferðum sínum um jarðeignina. Þá mun Jón einnig hafa setið eða staðið á steininum og sungið allt hvað af tók er hann var drukkinn sem oft kom fyrir.
Gamlar sagnir eru til um að steinninn Latur hafi verið álfabústaður og mun það sérstaklega hafa verið á vitorði manna er bjuggu í Fífuhvammslandi. Eitt sinn gerðist það að börn, sem voru á ferð við steininn, sáu huldukonu þar á sveimi en er hún varð þeirra vör hvarf hún þeim sjónum við steininn.
Annars er Latur hinn ágætasti drykkjarsteinn.

Þinghóll

Þinghóll

Þinghóll.

Þinghóll er hóllinn sem stendur við Kópavogsbotn hjá gamla þingstaðnum í Kópavogi. Helsta sögnin af Þinghólnum er tengd nafni hans. Það hefur verið trú manna að á hólnum hafi álfar haldið sitt eigið þing á svipuðum tíma og mannfólkið. Eiga álfarnir að hafa komið þar saman og þingað en ekki fóru aftökur þar fram enda þekkist það ekki á meðal álfa.
Til er önnur sögn tengd Þinghólnum en hún segir að þar í grennd hafi sést til huldukonu einnar og mun það hafa verið á sama tíma á hverjum degi. Sást hún ganga frá Þinghólnum í átt að Borgarholtinu.
Kópavogur var einn af fjórum þingstöðum Gullbringusýslu og fyrir margar sakir þeirra frægastur. Mikill fjöldi mála voru tekin fyrir á Kópavogsþingi og dómar felldir. Mun nálægð við Bessastaðavaldið hafa ráðið þar miklu um.

Þinghóll

Afhjúpun upplýsingaskilta við Þinghól.

Elstu varðveittu rituðu heimildirnar um þing í Kópavogi eru frá 1523. Árið 1574 gaf Friðrik II Danakonungur út tilskipun þess efnis að Alþingi skyldi flutt í Kópavog en til þess kom þó aldrei. Merkasti atburður sem tengist þingstaðnum er erfðahyllingin 28. júlí 1662. Þá neyddi danski höfuðsmaðurinn Hinrik Bjelke íslenska forystumenn til að undirrita einveldisskuldbindingu og að sverja Friðriki III Danakonungi hollustueiða meðan hermenn hans hátignar stóðu yfir þeim alvopnaðir. Síðasta aftakan sem fór fram á þinginu í Kópavogi var þann 15. nóvember 1704. Þá voru Sigurður Arason og Steinunn Guðmundsdóttir frá Árbæ tekin af lífi fyrir morð. Var hann höggvinn skammt norðan við þinghúsið en henni drekkt í Kópavogslæk. Árið 1753 var þinghald aflagt í Kópavogi.

Þinghóll

Minningarsteinn um erfðahyllinguna á Þinghól.

Á fyrri hluta aldarinnar bjó sérkennileg kona á Skjólbraut í vestanverðum Kópavogi. Var hún komin nokkuð á efri ár en heilsuhraust þó og skörp í hugsun. Ekki var hún þekkt fyrir annað en að vera góðhjörtuð og hjálpleg á allan hátt en mörgum þótti hún dularfull enda vissu menn að hún var skyggn. Sagði hún stundum sögur af sérkennilegum atburðum og var fullviss um tilvist huldufólks.
Það var á flestra vitorði að gamla konan hefði séð álfa og huldufólk. Eitt þótti öðru merkilegra en það var að um sama leyti hvern einasta dag sá hún huldukonu á gangi. Var huldukonan í svörtu pilsi og með gráa hyrnu á höfði. Ætíð gekk hún sömu leið sem lá frá Þinghól og upp að Borgarholtinu í austri þar sem Kópavogskirkja stendur nú. Hvarf hún gömlu konunni þar sjónum.
Ekki hefur heyrst af öðru fólki sem sá þessa dularfullu konu á gangi og ekki eru allir á sama máli um hver hún var. Telja sumir að hún tengist dysjum sem eiga að vera víða í grenndinni. Þeir eru þó fleiri sem segja að þarna hafi verið huldukona á ferð og hafi hún annaðhvort búið í Þinghólnum sjálfum eða í Borgarholtinu.

Einbúi

Einbúi

Einbúi.

Einbúi er hóll sem rís austan í Digraneshálsi í austasta hluta Kópavogsbæjar fast við Reykjanesbraut. Við hólinn eru stakir steinar en þar hjá munu áður hafa legið landamerki.
Hólnum tengist sú saga að þar hafi búið álfur eða huldumaður. Ekki skal hér fullyrt um hvort hann búi þar enn. Þegar framkvæmdir stóðu yfir við byggingu iðnaðarhúss sem þar átti að rísa skammt frá er sagt að íbúi hólsins hafi látið á sér kræla. Hafi hann séð til þess að vélar biluðu með þeim hætti að ómögulegt var að beita þeim á hólinn.
Sagan segir að þegar lóðaúthlutun stóð sem hæst í Kópavogi var húsbyggjanda fengin lóð við hól í austurbæ Kópavogs sem kallaður var Einbúi. Fékk hann lóðina með því skilyrði að hann kæmi ekki nærrri hólnum er hann færi að grafa fyrir húsinu. Þótti húsbyggjanda sjálfsagt að verða við þeirri bón.
Einhvern tíma á föstudegi var komið að því að grafa fyrir grunni og fékk húsbyggjandinn jarðýtu á staðinn til að sinna því verki. Gekk verkið vel og var langt komið þegar vinnu var hætt um kvöldið. Næsta dag var haldið áfram þar sem frá var horfið en þegar nokkuð var lliðið á daginn þurfti lóðareigandinn að bregða sér frá. Varð það að samkomulagi að ýtustjórinn lyki verkinu en húsbyggjandinn tók honum vara fyrir því að fara of nærri hólnum.

Einbúi

Einbúi.

Ekki hafði ýtustjórinn verið lengi að er honum varð það á að bakka utan í hólinn. Stöðvaðist jarðýtan þar við hólinn og bilaði vél hennar svo að ekki var hægt að koma henni í gang. Kallaði stjórnandi ýtunnar til viðgerðarmenn sem komu þar á staðinn. Eftir að hafa skoðað vélina voru viðgerðarmennirnir sammála um að bilunin væri mikil og alvarleg. Var því kallað á dráttarvagn og ýtan færð á verkstæði til viðgerðar.
Þegar húsbyggjandinn hafði lokið verkum sínum í bænum og kom á staðinn sá hann enga jarðýtu og greinilegt var að ekkert hafði þokast við bygginguna síðan hann fór. Segir ýtustjórinn honum hvernig komið er og verður húsbyggjandinn óánægður með gang mála. Fara þeir saman á verkstæðið. Þegar þangað kom sneri húsbyggjandinn sér að ýtustjóranum og bað hann að setjast í ýtuna og kanna hvort hún færi ekki í gang. Þrátt fyrir vantrú sína verður ýtustjórinn við óskinni og ræsir vélina. Við það hrekkur hún í gang eins og ekkert hafi í skorist. Urðu menn þá mjög undrandi en þó mest viðgerðarmennirnir sem höfðu skoðað ýtuna.
Er nú aftur farið með ýtuna út að Einbúa þar sem framkvæmdum er haldið áfram. Reyndist hún þá í góðu lagi. Fór lóðareigandinn aldrei frá verkinu eftir það og urðu upp frá því engin vandræði. Þóttust menn vissir um að íbúi hólsins hefði hér átt hlut að máli og séð til þess að Einbúinn fengi að standa óhreyfður.

Víghólar

Víghólar

Víghólar.

Víghólar voru friðlýstir sem náttúruvætti árið 1983. Þeir eru í um 70 m hæð yfir sjó og er víðsýnt af þeim. Víghólar eru jökulsorfnar grágrýtisklappir með ávölum hvalbökum og jökulrákum sem bera vitni um legu og skriðstefnu jökulsins sem lá yfir Kópavogi fyrir um tíu þúsund árum. Bergið tilheyrir yngri grágrýtismyndun Íslands, en þær jarðmyndanir runnu einkum sem dyngjuhraun á hlýskeiðum ísaldar fyrir um 100.000– 700.000 árum. Upptök grágrýtisins í Víghólum eru óviss, en gætu verið á Mosfellsheiði. Aldurinn er líklega 300.000–400.000 ár. Af hvalbökum og jökulrákum á Víghólum má ráða að jökullinn sem síðast gekk yfir Kópavog hafði stefnuna NV-SA. Líklega hafa ísaskil jökulsins legið austan Bláfjalla og skriðjöklar gengið frá honum bæði út í Faxaflóa og niður í Ölfus.

Kórsnesormurinn

Kársnes

Kársnes.

Skammt undan ysta odda Kársness er sker sem vel má greina þegar fjarar. Sögur eru til sem segja frá miklum ormi er bjó í skerinu. Lá hann þar á gulli og beit í sporðinn á sér. Mun skerið hafa verið nokkru stærra og meira en nú er og hafi þá frekar talist hólmi. Hólmi þessi var heimili ormsins en þar hélt hann til í hellisskúta einum sem kallaður var kór. Þar lá hann ófrýnilegur mjög og gætti fjársjóðs síns.
Sagt er að nesið allt hafi verið kennt við kór þennan. Hafi það því ekki alltaf verið nefnt Kársnes heldur kallað Kórsnes. Þá var oftar en ekki talað um kórinn í nesinu.
Nú er Kórsnesið/Kársnesið horfið undir landfyllingu – og sennilega hvílir ormurinn undir henni.
Sjá meira HÉR og HÉR.

Heimild m.a.:
-http://www.ismennt.is/
-http://www.kopavogur.is/

Þinghóll

Þinghóll – minjar.