Færslur

Kópavogskirkja
Í Kópavogi eru nokkrir staðir, sem hafa skírskotun til sagna og munnmæla. Þeim hefur flestum verið hlíft við raski. Má þar nefna stekk nálægt Fífuhvammsvegi og sel í Rjúpnahæð. Jafnframt eru í bænum nokkrir staðir s.s. Álfhóll, Víghólar, Borgarholt, Latur og Þinghóll þar sem fyrrum er talinn hafa verið þingstaður. Kórsnesið eða Kársnesið, þar sem ormurinn langi bjó í helli, er þó horfið undir landfyllingu – og þar með gull hans.
Mikilvægt er að gæta þess vel að spilla ekki sagnatengdum stöðum, hvorki með jarðraski né skógrækt, eins og svo allt of mörg sorgleg dæmi eru um. Ástæðulaust er þó að sýta súrt, en gleðjast yfir því sem til er og nýta það til fróðleiks og ánægju.

Álfhóll

Álfhóll

Álfhóll í Kópavogi.

Álfhóllinn er líklega kunnasti bústaður álfa í Kópavogi. Hann stendur sunnanvert við Álfhólsveg skammt þar frá sem Digranesskóli er nú. Hóllinn, sem er nokkuð aflíðandi, mun vera um það bil þriggja metra hár ef mælt er frá götu.
Álfhóll er jökulsorfinn klapparhóll sem nýtur bæjarverndar sem bústaður álfa. Hóllinn er dæmi um þjóðtrú Íslendinga og hve sterk hún hefur verið allt fram á þennan dag. Því er haldið fram að álfar hafi fjórum sinnum haft áhrif á framkvæmdir við hólinn.
Hann er að miklu leyti hulinn grasi og mosagróðri, sérstaklega að norðan og austan. Í Álfhólnum er nokkurt stórgrýti sem líkist litlum klettastöllum og liggja þessir smáklettar að mestu um sunnanverðan og vestanverðan hólinn.

Kópavogur

Álfhóll.

Lengi hefur verið talað um að álfar hafi tekið sér búsetu í Álfhólnum og margir segjast hafa séð þá með vissu. Ekki er ljóst hve gamlar þær sögusagnir eru; engar heimildir eru til um atburði fyrr en nokkuð er liðið á þessa öld.
Seint á fjórða áratug þessarar aldar var hafist handa við að leggja Álfhólsveginn. Byrjað var á honum við Hafnarfjarðarveg og ætlunin var að halda áfram í austurátt þar til komið væri að Álfabrekku sem skyldi tengja Álfhólsveginn við Nýbýlaveg. Vegurinn átti að liggja þar um sem Álfhóllinn er en hann yrði jafnaður við jörðu eftir því sem framkvæmdum miðaði. Vel gekk að leggja veginn austur eftir Digranesinu að Álfhólnum.

Kópavogur

Álfhóll.

Þegar kom að því að sprengja hólinn gerðust atburðir sem leiddu til þess að ekkert varð af sprengingu. Vildi svo til að fjármagn það, sem veitt hafði verið til lagningar Álfhólsvegarins, var á þrotum. Féllu þá framkvæmdir niður við ólokið verk og Álfhóllinn stóð óhaggaður.
Árið 1947 var á ný hafist handa og átti að leggja veginn áfram í gegnum Álfhólinn. Þegar vinna hófst á hólnum komu upp vandamál sem áttu sér ókunnar og dularfullar orsakið að margra áliti. Vinnuvélar biluðu og ýmis verkfæri skemmdust eða hurfu jafnvel. Varð það úr að vegurinn var lagður í bugðu fram hjá hólnum norðanverðum en ekki í gegnum hann eins og ætlunin hafi verið. Sagt er að þá hafi framkvæmdir gengið eins og venja var til og hafi álfarnir ekki gert vart við sig að sinni.
Talið er að áhrifa álfa hafi einnig gætt við uppbyggingu lóðarinnar nr. 102 við Álfhólsveg en hún liggur næst hólnum. Eigandi lóðarinnar skilaði lóðinni og vildi ekki byggja þar og fellur lóðin ásamt hólnum nú undir bæjarvernd.

Borgarholt

Kópavogur

Kópavogskirkja á Borgarholti.

Holtið þar í kring, sem Kópavogskirkja stendur nú, hefur verið nefnt Borgarholt. Þar hefur álfabyggð verið talin hvað blómlegust í Kópavogi.
Þegar Borgarholtsbraut var lögð á sínum tíma þurfti að sprengja nokkuð í Borgarholtinu á þeim slóðum sem álfar bjuggu. Um það leyti er fréttist að fyrirhugað væri að leggja veg um Borgarholtið mun maður að nafni Sveinn hafa gengið út á holtið og aðvarað álfana.
Segir sagan að íbúar Borgarholtsins hafi tjáð honum að þeir myndu ekki hindra framkvæmdir heldur flytja sig um set. Kom það á daginn að greiðlega gekk að leggja Borgarholtsbrautina og urðu þar engin óhöpp eða undarlegir atburðir.
Nokkrar heimildir eru um álfabyggðina í Borgarholti og segjast skyggnir menn hafa séð þar bústaði og byggingar álfanna. Hefur húsum álfanna verið lýst nokkuð nákvæmlega og eru til teikningar af þeim eftir lýsingu hinna skyggnu. Þá hefur það borið við að börn frá leikskóla þar í grenndinni hafi séð álfa í holtinu og jafnvel tekið þá tali.

Latur

Latur

„Gamlar“ sagnir eru um að steinninn sé
álfabústaður. Einnig kemur hann nokkuð við sögu Jóns bónda Guðmundssonar í Digranesi. Mun hann hafa setið við steininn og sungið þegar hann kom heim úr sollinum í Reykjavík á fyrri helmingi tuttugustu aldar.

Latur er nokkuð stór steinn í sunnanverðum Digraneshálsi þar sem nú liggur gatan Hlíðarhjalli. Stendur steinninn enn óhreyfður innst í einum af botnlöngum Hlíðarhjalla en áður mun Digranesbærinn hafa verið skammt norðan við steininn.
Sagnir um stein þennan tengjast fremur Jóni Guðmundssyni bónda í Digranesi en álfum en sagt er að á steininum hafi Jón hvílt sig á ferðum sínum um jarðeignina. Þá mun Jón einnig hafa setið eða staðið á steininum og sungið allt hvað af tók er hann var drukkinn sem oft kom fyrir.
Gamlar sagnir eru til um að steinninn Latur hafi verið álfabústaður og mun það sérstaklega hafa verið á vitorði manna er bjuggu í Fífuhvammslandi. Eitt sinn gerðist það að börn, sem voru á ferð við steininn, sáu huldukonu þar á sveimi en er hún varð þeirra vör hvarf hún þeim sjónum við steininn.
Annars er Latur hinn ágætasti drykkjarsteinn.

Þinghóll

Þinghóll

Þinghóll.

Þinghóll er hóllinn sem stendur við Kópavogsbotn hjá gamla þingstaðnum í Kópavogi. Helsta sögnin af Þinghólnum er tengd nafni hans. Það hefur verið trú manna að á hólnum hafi álfar haldið sitt eigið þing á svipuðum tíma og mannfólkið. Eiga álfarnir að hafa komið þar saman og þingað en ekki fóru aftökur þar fram enda þekkist það ekki á meðal álfa.
Til er önnur sögn tengd Þinghólnum en hún segir að þar í grennd hafi sést til huldukonu einnar og mun það hafa verið á sama tíma á hverjum degi. Sást hún ganga frá Þinghólnum í átt að Borgarholtinu.
Kópavogur var einn af fjórum þingstöðum Gullbringusýslu og fyrir margar sakir þeirra frægastur. Mikill fjöldi mála voru tekin fyrir á Kópavogsþingi og dómar felldir. Mun nálægð við Bessastaðavaldið hafa ráðið þar miklu um.

Þinghóll

Afhjúpun upplýsingaskilta við Þinghól.

Elstu varðveittu rituðu heimildirnar um þing í Kópavogi eru frá 1523. Árið 1574 gaf Friðrik II Danakonungur út tilskipun þess efnis að Alþingi skyldi flutt í Kópavog en til þess kom þó aldrei. Merkasti atburður sem tengist þingstaðnum er erfðahyllingin 28. júlí 1662. Þá neyddi danski höfuðsmaðurinn Hinrik Bjelke íslenska forystumenn til að undirrita einveldisskuldbindingu og að sverja Friðriki III Danakonungi hollustueiða meðan hermenn hans hátignar stóðu yfir þeim alvopnaðir. Síðasta aftakan sem fór fram á þinginu í Kópavogi var þann 15. nóvember 1704. Þá voru Sigurður Arason og Steinunn Guðmundsdóttir frá Árbæ tekin af lífi fyrir morð. Var hann höggvinn skammt norðan við þinghúsið en henni drekkt í Kópavogslæk. Árið 1753 var þinghald aflagt í Kópavogi.

Þinghóll

Minningarsteinn um erfðahyllinguna á Þinghól.

Á fyrri hluta aldarinnar bjó sérkennileg kona á Skjólbraut í vestanverðum Kópavogi. Var hún komin nokkuð á efri ár en heilsuhraust þó og skörp í hugsun. Ekki var hún þekkt fyrir annað en að vera góðhjörtuð og hjálpleg á allan hátt en mörgum þótti hún dularfull enda vissu menn að hún var skyggn. Sagði hún stundum sögur af sérkennilegum atburðum og var fullviss um tilvist huldufólks.
Það var á flestra vitorði að gamla konan hefði séð álfa og huldufólk. Eitt þótti öðru merkilegra en það var að um sama leyti hvern einasta dag sá hún huldukonu á gangi. Var huldukonan í svörtu pilsi og með gráa hyrnu á höfði. Ætíð gekk hún sömu leið sem lá frá Þinghól og upp að Borgarholtinu í austri þar sem Kópavogskirkja stendur nú. Hvarf hún gömlu konunni þar sjónum.
Ekki hefur heyrst af öðru fólki sem sá þessa dularfullu konu á gangi og ekki eru allir á sama máli um hver hún var. Telja sumir að hún tengist dysjum sem eiga að vera víða í grenndinni. Þeir eru þó fleiri sem segja að þarna hafi verið huldukona á ferð og hafi hún annaðhvort búið í Þinghólnum sjálfum eða í Borgarholtinu.

Einbúi

Einbúi

Einbúi.

Einbúi er hóll sem rís austan í Digraneshálsi í austasta hluta Kópavogsbæjar fast við Reykjanesbraut. Við hólinn eru stakir steinar en þar hjá munu áður hafa legið landamerki.
Hólnum tengist sú saga að þar hafi búið álfur eða huldumaður. Ekki skal hér fullyrt um hvort hann búi þar enn. Þegar framkvæmdir stóðu yfir við byggingu iðnaðarhúss sem þar átti að rísa skammt frá er sagt að íbúi hólsins hafi látið á sér kræla. Hafi hann séð til þess að vélar biluðu með þeim hætti að ómögulegt var að beita þeim á hólinn.
Sagan segir að þegar lóðaúthlutun stóð sem hæst í Kópavogi var húsbyggjanda fengin lóð við hól í austurbæ Kópavogs sem kallaður var Einbúi. Fékk hann lóðina með því skilyrði að hann kæmi ekki nærrri hólnum er hann færi að grafa fyrir húsinu. Þótti húsbyggjanda sjálfsagt að verða við þeirri bón.
Einhvern tíma á föstudegi var komið að því að grafa fyrir grunni og fékk húsbyggjandinn jarðýtu á staðinn til að sinna því verki. Gekk verkið vel og var langt komið þegar vinnu var hætt um kvöldið. Næsta dag var haldið áfram þar sem frá var horfið en þegar nokkuð var lliðið á daginn þurfti lóðareigandinn að bregða sér frá. Varð það að samkomulagi að ýtustjórinn lyki verkinu en húsbyggjandinn tók honum vara fyrir því að fara of nærri hólnum.

Einbúi

Einbúi.

Ekki hafði ýtustjórinn verið lengi að er honum varð það á að bakka utan í hólinn. Stöðvaðist jarðýtan þar við hólinn og bilaði vél hennar svo að ekki var hægt að koma henni í gang. Kallaði stjórnandi ýtunnar til viðgerðarmenn sem komu þar á staðinn. Eftir að hafa skoðað vélina voru viðgerðarmennirnir sammála um að bilunin væri mikil og alvarleg. Var því kallað á dráttarvagn og ýtan færð á verkstæði til viðgerðar.
Þegar húsbyggjandinn hafði lokið verkum sínum í bænum og kom á staðinn sá hann enga jarðýtu og greinilegt var að ekkert hafði þokast við bygginguna síðan hann fór. Segir ýtustjórinn honum hvernig komið er og verður húsbyggjandinn óánægður með gang mála. Fara þeir saman á verkstæðið. Þegar þangað kom sneri húsbyggjandinn sér að ýtustjóranum og bað hann að setjast í ýtuna og kanna hvort hún færi ekki í gang. Þrátt fyrir vantrú sína verður ýtustjórinn við óskinni og ræsir vélina. Við það hrekkur hún í gang eins og ekkert hafi í skorist. Urðu menn þá mjög undrandi en þó mest viðgerðarmennirnir sem höfðu skoðað ýtuna.
Er nú aftur farið með ýtuna út að Einbúa þar sem framkvæmdum er haldið áfram. Reyndist hún þá í góðu lagi. Fór lóðareigandinn aldrei frá verkinu eftir það og urðu upp frá því engin vandræði. Þóttust menn vissir um að íbúi hólsins hefði hér átt hlut að máli og séð til þess að Einbúinn fengi að standa óhreyfður.

Víghólar

Víghólar

Víghólar.

Víghólar voru friðlýstir sem náttúruvætti árið 1983. Þeir eru í um 70 m hæð yfir sjó og er víðsýnt af þeim. Víghólar eru jökulsorfnar grágrýtisklappir með ávölum hvalbökum og jökulrákum sem bera vitni um legu og skriðstefnu jökulsins sem lá yfir Kópavogi fyrir um tíu þúsund árum. Bergið tilheyrir yngri grágrýtismyndun Íslands, en þær jarðmyndanir runnu einkum sem dyngjuhraun á hlýskeiðum ísaldar fyrir um 100.000– 700.000 árum. Upptök grágrýtisins í Víghólum eru óviss, en gætu verið á Mosfellsheiði. Aldurinn er líklega 300.000–400.000 ár. Af hvalbökum og jökulrákum á Víghólum má ráða að jökullinn sem síðast gekk yfir Kópavog hafði stefnuna NV-SA. Líklega hafa ísaskil jökulsins legið austan Bláfjalla og skriðjöklar gengið frá honum bæði út í Faxaflóa og niður í Ölfus.

Kórsnesormurinn

Kársnes

Kársnes.

Skammt undan ysta odda Kársness er sker sem vel má greina þegar fjarar. Sögur eru til sem segja frá miklum ormi er bjó í skerinu. Lá hann þar á gulli og beit í sporðinn á sér. Mun skerið hafa verið nokkru stærra og meira en nú er og hafi þá frekar talist hólmi. Hólmi þessi var heimili ormsins en þar hélt hann til í hellisskúta einum sem kallaður var kór. Þar lá hann ófrýnilegur mjög og gætti fjársjóðs síns.
Sagt er að nesið allt hafi verið kennt við kór þennan. Hafi það því ekki alltaf verið nefnt Kársnes heldur kallað Kórsnes. Þá var oftar en ekki talað um kórinn í nesinu.
Nú er Kórsnesið/Kársnesið horfið undir landfyllingu – og sennilega hvílir ormurinn undir henni.
Sjá meira HÉR og HÉR.

Heimild m.a.:
-http://www.ismennt.is/
-http://www.kopavogur.is/

Þinghóll

Þinghóll – minjar.

Skútaklettur

Skútaklettur var fyrrum hornmark á landamerkjum Fífuhvamms og Arnarness. Kletturinn, eða steinninn öllu heldur, er skammt vestan gatnamóta Dalssmára og Arnarsmára í Kópavogi. Í bókinni “Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar” eftir Guðlaug Rúnar Guðmundsson er fjallað um “landamerkjalýsingar og örnefnaskrár“. Þar segir um Skútaklett:
“Hornmark Arnarness, Kópavogs og Fífuhvamms er í öllum lanamerkjalýsingum þessara jarða Skútuklettur og á hann að vera merktur stöfunum L.M. Skútinn (sem Skútaklettur er kenndur við) er norðan í Nónhæðinni.”

Skútaklettur

Skútaklettur.

Í “Örnefnalýsingu fyrir Arnarnes“, sem Ari Gíslason skráði, er getið um Skútaklett:
“Jörð í Garðahreppi næst norðan Hofstaða. Upplýsingar gaf Gísli Jakobsson á Hofstöðum og Guðmundur Ísaksson frá Fífuhvammi.
Móti Garðakirkjulandi eru merkin Arnarneslækur upp undir Stórakrók, úr því keldudragi, sem þar er, svo beint yfir mýrina upp í Dýjakrók. Arnarnes heitir svo nesið, sem gengur hér fram milli Arnarnesvogs að sunnan og Kópavogs að norðan. Litla-Arnarnes heitir svo nefið sunnan við brúna á Kópavogslæk; þar var móhellubakki.

Skútaklettur

Skútaklettur – LM.

Svo eru merki móti Kópavogi varða á Skotmóa, þar sem hann er hæstur, sunnan við brúna á Kópavogslæk, svo um holtið norðanvert, sem er sunnanvert við Grænadý. Þar á miðri hæðinni er á merkjum Skútaklettur, en upp undir hann nær Skotmóinn. Skútaklettur er suður af svonefndri Engjaborg. Þegar landið hækkar, tekur við Nónhæð. Á henni eru Tvísteinar að sunnanverðu; þar undir, norðan við Arnarneslæk, er Borgarmýri. Þar var tekinn mór. Gvendarbrunnur er á há-Arnarneshálsi.”

Í “Fornleifaskrá Kópavogs“, endurskoðuð 2019, er sagt að hornmarkið sé horfið. Þó segir að “Skútaklettur er oft nefndur í landamerkjaskjölum 1870 – 1890.“ (Örnefni í bæjarlandi Kópavogs).

Heimildir:
-Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar, landamerkjalýsingar og örnefnaskrár, Guðlaugur Rúnar Guðmundsson, bls. 26-28.
-Örnefnalýsing fyrir Arnarnes – Ari Gíslason skráði.
-Fornleifaskrá Kópavogs, endurskoðuð, 2019.

Skútaklettur

Skútaklettur – staðsetning.

Vatnsendi

Stefnan var tekin á Vatnsendahlíð. Ætlunin var að skoða þar sitt hvora fornleifina, báðar leifar breitarhúsa.

Beitarhúsatóftin

Beitarhús frá Vatnsenda á Vatnsendaheiði.

Árið 1807 var með konungsboði sett á laggirnar nefnd til varðveislu fornminja í Danmörku og nýlendum hennar. Árni Helgason (1777 – 1869), dómkirkjuprestur í Reykavík árin 1814 – 1825, svaraði nefndinni árið 1821. Í fornleifaskýrslu sinni telur hann upp þrjá gripi, alla tilheyrandi Dómkirkjunni í Reykjavík. Í bréfi til Finns Magnússonar, dags. 1. mars sama ár, barmar Árni sér yfir fátækt sóknarinnar. Hann segir: “Hún er fyrst ein sú fátækasta á landinu af gömlum Menjagripum, þad sem hingad hefur komid, er jafnodum burtflutt til Kaupenhavnar af þeim utlendu er hellst hafa reist um sudurland. Af Sogum vorum er ecki ad ráda ad her á Nesi hafi nockud Hof verid i fornöld, þes siást ej heldur Menjar. Eingin veit her til Hauga, nema Óbóta manna sem dysiadir eru nálægt Kopavogi, Þingstad fornum her i Sveit. Þad er furdulegt ad í þeim stad sem fyrst bygdist á landinu skuli hvérgi siást neitt þeirra handaverk og nærri hvergi í Sögum getid þeirra sem hér hafa búid.”

Beitarhúsatóftin - syðsti hlutinn

Beitarhús frá Vatnsenda á Vatnsendaheiði.

Lýsingar af þessu tagi voru algengar um allt land og ekkert einsdæmi að prestar teldu sínar sóknir skorta fornaldarminjar jafnt sem önnur gæði. Í bréfi sem Árni prestur sendi með skýrslu sinni dagsettu þann 20. júní 1821 skýrir hann nánar út ástæður þess að á hans ófrjósama landshorni finnist ekkert markvert, þrátt fyrir að sjálfur Ingólfur Arnarson hafi numið þar land. Hafa ber í huga þegar þetta var skrifað í byrjun 19. aldar voru þær minjar, sem nú eru friðlýstar og þykja merkilegar, hluti af “nútímanum” og því lítt merkilegar. “Til eru aðrar heimildir en skriflegar um byggð í Kópavogi, en það eru fornleifarnar sem þar finnast. Margt er enn ósagt um þær, aðeins nokkrar þeirra hafa verið rannsakaðar og engar þeirra alveg til fulls.”

Vatnsendaheiði

Beitarhús á Vatnsendaheiði.

Í Fornleifaskrá Kópavogs, 2000, eftir Bjarna F. Einarsson, er getið um tvær fornleifar á hæðum ofan Vatnsenda, auk tveggja varða, á og við Vatnsendahlíð. Hin fyrrnefnda er “rúst (stekkur?) undir Vatnsendahvarfi. Rústin er fornleg að sjá. Ekki er sennilegt að um stekk sé að ræða, mun heldur beitarhús frá Vatnsenda. Uppblástur er einhver við rústina og tryggja þarf að hún verði honum ekki að bráð, annaðhvort með því að stöðva uppblásturinn eða rannsaka rústina. Með vaxandi byggð mun rústinni stafa ákveðin hætta og áður en að hún fer að verða fyrir spjöllum þarf að rannsaka hana til að komast að tegund hennar og aldri.

Vatnsendi

Beitarhús frá Vatnsenda við Litlabás.

Fallegar hleðslur

Vegghleðsla í beitarhúsinu á Vatnsendaheiði.

Hin er beitarhús suður af Litlabás. “Eins og algengt er þá er beitarhúsið ekki langt frá landamerkjum Vatnsenda og Vífilsstaða. Þannig var hægt að nýta betur sitt eigið land og jafnvel land nágrannans einnig. Húsið er eitt tveggja beitarhúsa í Kópavogi (eða á hinu skráða svæði) og það elsta. Svæðið í kring um beitarhúsið er kjörið útivistarsvæði og mætti hugsa sér að nýta það til að segja sögu fjárbúskapar fyrr á öldum.” Um þessa fornleif ofan við Litlabás segir ennfremur: “Beitarhús, engin hætta á raski, ágætt ástand, aldur 1550-1900 og minjagildi talsvert.”
Rústin stendur nokkuð hátt í grasi gróinni hæð. Af byggingarlagi að dæma má telja líklegt að rústin, sem er þrískipt; tvö fjárhús og heimkuml, sé frá því á seinni hluta 19. aldar. Veggir eru vandlega hlaðnir og tiltölulega sléttu mógrjóti, sem líkega er meginástæða staðsetningarinnar, auk þess sem vænlegt hefur þótt að hafa hana á vinsælum stað svo snjó festi síður við húsin. Þá hefur svæðið allt og verið kjarri vaxið og því ekki mörgum öðrum stöðum til að dreifa en þarna á hæðinni. Veggir standa nokkuð vel og má vel sjá byggingarlagið. Hlaðinn garður er eftir miðju syðstu tóftarinnar. Vandað hefur verið til verka. Fróðlegt væri að vita hver, eða hverjir, hafi verið þarna að verki. Líklegt má telja að fjárhús þetta hafi verið frá Vatnsenda. Mun stærri fjárhústóftir frá Elliðavatni erekki svo langt frá, suðaustan við Vatnsendavatn, sjá HÉR.

Vatnsendi

Beitarhúsið við Litlabás.

Í skýrslunni (frá 2000) kemur m.a. fram að í Kópavogi eru nú; “22 fornleifar á 19 stöðum horfnar, þ.m.t. þær sem voru rannsakaðar og fjarlægðar. Flestar, ef ekki allar, hafa horfið á þessari öld og aðeins tvær þeirra eru rannsakaðar, en það eru Hjónadysjarnar við ósa Kópavogslækjarins og Kópavogsþingsstaður. Ástæður fjarlægingar eru m.a. athafnir setuliðsins á stríðsárunum og vöxtur bæjarins.
GuðmundarlundurEins og fram hefur komið eru fornleifar sbr. lögum 100 ára eða eldri. Af þessu leiðir að fljótlega munu fleiri minjar teljast til fornleifa svo sem minjar um fyrstu þéttingu byggðarinnar upp úr 1936, minjar um hersetuna,samgönguminjar o.s.frv. Trúlega verða fleiri minjar skilgreindar sem fornleifar síðar enda á það sama við okkur sem lifum í dag og Árna prest Helgason upp úr 1800, við sjáum ekki lengra en skilningur og þekking okkar leyfir.”
“Í hugum margra er Kópavogur tiltölulega sögulaust sveitarfélag, sem á upphaf sitt að rekja til 20. aldar. Það má vissulega til sanns vegar færa þar sem sveitarfélagið sjálft er ekki stofnað fyrr en 1948, en þétting byggðar hafði hafist nokkrum árum áður eða um 1936 (Lýður Björnsson 1990:46 og 146). Kaupstaðarréttindi fengust svo árið 1955. Á seinustu tveimur öldum var Kópavogur ekki í brennidepli og þótti jafnvel ekki búsældarlegt um að litast. Segir danski fræðimaðurinn Kristian P.E. Kålund svo frá jörðinni Kópavogi í ferðalýsingu sinni er birtist á prenti árin 1877-82: „Bærinn er á leiðum og ömurlegum stað; umhverfis hann eru lág grýtt hæðardrög eða dökkleitar þýfðar mýrar.“ (Kålund 1984:15).
SitkagreniðKópavogsjörðin var lang rýrasta jörðin af þeim jörðum sem eru í Kópavogslandi. Ekki er víst að jarðirnar hafi talist eftirsóknarverðar til ábúðar (Magnús Þorkelsson 1990(a):160). Það að nafnið á Hvammi breyttist í Hvammskot árið 1552 gefur vísbendingar um það. Hvammskotsnafninu var svo breytt um 1875 af Þorláki Guðmundssyni alþingismanni í Fífuhvamm (Guðlaugur R. Guðmundsson 1970:26 og 29).
Elsta ritaða heimild um byggð í landi Kópavogs er frá árinu 1234. Þá bregður Vatnsenda fyrst fyrir í Máldagaskrá um eignir Maríu kirkju og staðar í Viðey. Segir m.a. svo í skránni: „hvn a oc Elliðavatz land hálft. Oc allt land at vatzenda. Með þeim veiðvm oc gæðvm er þeim hafa fylgt at fornv. … Hamvndur gaf til staðarins holm þann. Er liggr j elliða am. niðr fra Vatzenda holmi.“ (Ísl. fornbréfasafn I 1857-76:507). Heimildir segja svo ekkert um svæðið fyrr en árið 1313, í skrá um leigumála á jörðum Viðeyjarklausturs. Þá eru nefndir til sögunnar bæirnir Hvammur og Digranes, auk Vatnsenda. Segir m.a. svo um leigumálana í skránni: „At vatz ennda iij merkur. J hvamme c leigv. J digranesi iij merkur:“ (Ísl. fornbréfasafn II 1888:377).
Nafnið Kópavogur kemur fyrst fyrir í heimildum árið 1523. Er þar átt við Kópavogsþingstaðinn og tilefnið var dómur yfir Týla Péturssyni hirðstjóra, sem fundinn var sekur um morð o. fl. (Ísl. fornbréfasafn IX 1909-13:139-142). Bærinn Kópavogur kemur ekki fyrir í rituðum heimildum fyrr en 1553, þá í afgjaldareikningum Eggerts hirðstjóra Hannessonar á Bessastöðum. Er þar afgjald Þorsteins ábúanda tilgreint, en það var „viij alne vatmell.“ (Ísl. fornbréfasafn XII 1923-32:577).
Danska nefndin fyrrnefnda fékk nafnið Commissionen for oldsagers opbevaring. Nefndin sendi spurningalista til allra sókna konungsveldisins og til Íslands bárust þessir listar árið 1809, á dönsku.

Í Guðmundarlundi

Í bréfi sem Árni prestur Helgason sendi með skýrslu sinni dagsettu þann 20. júní 1821 skýrir hann nánar út ástæður þess að á hans ófrjósama landshorni finnist ekkert markvert, þrátt fyrir að sjálfur Ingólfur Arnarson hafi numið þar land. Árni skrifar: Vel tog Ingolf den förste Landnamsmand sig Boepæl i Reykevig; men baade dadlede hans Folkl da strax, denne hans Beslutning, og sagde de havde reist over alt for frugtbare Strækninger for at nedsætte sig her paa den nögne Kyst; og tillige fortælles at Jngolf siden efter, fandt det raadeligt at flytte her fra til Ølveset i sine ældre Aar, hvor hans Gravhöj ogsaa er at see. … Hof eller Tingstæd tales ikke heller om i dette Sogn; de som boede her sögte först Kialarnes, og siden til Hofstad på Alftenes … Her af synes jeg det er rïmeligt at paa dette Sted skulle man ikke vænte at finde Oldsagers Levninger.
GuðmundarlundurÁ þessum árum var skilgreining manna á fornleifum talsvert önnur en í dag og rústir í venjulegum skilningi ekki taldar til fornleifa. Yfirleitt áttu menn við leifar frá hinum glæsta þjóðveldistíma, sérstaklega tengdar þinghaldi og trúarbrögðum.”
Skammt frá Litlabás er Stóribás. Þar er nú hinn myndalegasti skógræktarlundur. Á skilti við Lundinn segir: “
Guðmundur Halldór Jónsson varð snemma áhugasamur um ræktun landsins.
Hann er vaxinn úr grasi í fallegri sveit noðrur í Fljótum í Skagafirði, þar sem vetur eru snjóþungir og harðir, en jörð vaknar gjarnan iðagræn að vori undan hvítum feldi. Sú náttúrusýn hefur án efna haft sterk og mótandi áhrif á Guðmund. Hann hleypti ungur heimdraganum, en ann sínum bernskustöðvum og hefur á síðari árum kostað kapps að græða sárin foldar norður þar með umsvifamikilli skógrækt á jörð sinni Minna-Grindli.
GuðmundarlundurÞað er óhætt að segja að aðdragandi stofnunar Byggingavöruverslunar Kópavogs árið 1962, sem Guðmundur reisti og rak ásamt Hjalta Bjarnasyni mági sínum, hfi verið ræktunarstarf hans í landi Vatnsenda. Þar tók Guðmundur á leigu landspildu snemma á sjöunda áratugnum. Ásamt fyrri konu sinni Önnu Bjarnadóttur og börnum braut hann ófrjóa jörð og setti niður kartöflur og rófur. Uppskeran var síðan seld og ágóðanum varið í uppbyggingu verslunarrekstursins.

Guðmundarlundur

Guðmundarlundur.

Árið 1967 voru fyrstu trjáplöntur gróðursettar í Stórabásinn eins og þetta land heitir, þar á meðal sitkagrenisplanta, sem Guðmundur hljóp með upp í hlíðina og gróf niður mót suðvestri. Þetta tré er í dag mjög áberandi og gróskumikið þar sem það breiðir út sígrænar greinar og býður gesti og gangandi velkomna í Guðmundarlund. Af brennandi áhuga og óbilandi elju ræktaði Guðmundur upp þetta örfoka land, sem nú er orðið að sannkallaðri vin. Þegar illa áraði og harðir vetur brutu niðu rog eyðilögðu fyrri ræktunarstörf eða frostnætur á sumri felldu viðkvæmar plöntur, þá var horft til grenitrésins góða og byrjað upp á nýtt af tvíeffldum krafti.

Guðmundarlundur

Guðmundarlundur.

Um árabil var plastgróðurhús í Stórabási eða Garðinum, því innan fjölskyldunnar var alltaf talað um að fara upp í Garð. Í þessu gróðurhúsi var eplatré ásamt perutré, sem bæði náðu að bera ávöxt og einnig heilmikil jarðaberjaræktun. Það er Guðmundi og fjölskyldu hans mikils virði að vita af þessum reit í höndum Skógræktarfélags Kópavogs og megi hann vaxa og dafna og veita bornum og óbornum ómældar yndisstundir.”
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a:
-Skilti Skógræktarfélags Kópavogs við Guðmundarlund.
-Bjarni F. Einarsson – Fornleifaskráning Kópavogs 2000.

Í Guðmundarlundi

Þríhnúkar

Áætlanir eru um að gera stærsta hraunhelli í heimi, Þríhnúkahelli, aðgengilegan ferðamönnum. Að þessu sinni var gengið um Þríhnúka og athyglinni séstaklega beint að gígaröð, gjám og misgengi suðaustan við þá. Við athugun á berglögum við Þríhnúka komu í ljós fjögur misgömul hraun. Grágrýtishraunin eldri eru 4000-4500 en þau yngri 2900-3400 ára. Síðarnefndu hraunin eru úr Þríhnúkagígunum, en þau eldri úr gígaröðinni fjær. Þar eru góðir gróninga, fallegir gígar og dulin op.
ThrihnukagígurHellirinn í Þríhnúkum er um 115 m djúpur niður á grjótbing, en um 200 m djúpur að meðtöldum rangala sem gengur til SV niður úr aðalhvelfingunni. Þríhnúkar eru gjarnan kallaðir Vesturhnúkur, Miðhnúkur og Þríhnúkagígur sá austasti. Á skilti við Þríhnúkagíg segir að gosið hafi í gígnum um landnám.
Í jarðfræðirannsókn Kristjáns Sæmundssonar jarðfræðings um Þríhnúkagíg og nágrenni kemur m.a. eftirfarandi fram:
“Berggrunnur kringum Þríhnúka er móberg (elst), grágrýti og hraun. Hraunin eru ber eða mosavaxin, en þó eru sums staðar á þeim jarðvegsflákar, jafnvel þýfðir, í raklendum flögum og eins í lægðum, lautum og jarðföllum. Norðvestan undir fjallinu eru þessi sömu hraun lynggróin í brekkum og lautun, en þykkar mosaþembur á milli. Þar er um að ræða aðallega Þríhnúkahraun I. Þótt bratt sé niður af fjallinu vestan megin eru fjallskriður óvíða nema niður undan móbergi í Vesturhnúknum. Innar er brekkan að mestu þakin hrauni og lausaskriðan á því þunn og ekki samfelld.
Þríhnúkagígur er á gosrein með nokkrum samsíða gígaröðum sem ná yfir um 500 m breitt bil og síðan eru 750 m austur að næstu gosrein sem byrjar við Kóngsfell. Á Þríhnúkareininni koma hér við sögu 4 hraun með gíg og gígröðum. Ef gera skal upp á milli gosmenja er þar merkast Þríhnúkahraunin og gígarnir í þeim með hellishvelfingunni miklu undir þeim yngri, en aflöng hrauntjörn í þeim eldri og hraunrás frá henni.
ÞríhnúkarÞrjár móbergseiningar koma fyrir í nánd við gígasvæðið, og tvær í viðbót allangt norðaustan þess. Bergið í þeim er mismunandi að gerð, en í öllum er það ferskt. Vestastur Þríhnúka er stuttur móbergshryggur með NA-SV-stefnu (Vesturhnúkur).
Frá Þríhnúkagíg eru 250 m að brekkufæti hans. Hann er úr móbergs-breksíu og túffi, nokkuð feldspatdílóttu, en bólstraberg kemur einnig fyrir, t.d. vestan í honum undir breksíunni. Breksían er fremur laus í sér þar sem mest er af basaltbrotum í henni (kjarninn í hnúknum), en fastari í sér þar sem hún er túffrík.

Gígaröðin

Gangar eru norðaustan í háhnúknum og kambinum norðaustur af honum. Grágrýti er efst utan í háhnúknum, en einnig á tveim stöðum þar sem lægra er, þ.e. sunnan í honum á smástalli, og austan í kambinum norðaustan hans, dílótt eins og móbergið. Móberg kemur fram neðarlega í vesturhlíð hnúksins undan lausaskriðu og myndar þar dálítinn stall. Þriðja móbergseiningin kemur fram miðhlíðis og ofarlega í vesturhlíð fjallsins norður frá Þríhnúkagíg. Líklega sér þarna í kaffærðan móbergshrygg. Móbergslag kemur fram í hlíðinni neðan undir suðvestasta gígnum í gígaröð H-147 nyrst á Spors-stapanum. Loks sést í móberg eða öllu heldur bólstraberg neðst í brekkunni austan við gígaröð H-147. Það myndar smáhól sem hraun frá gígunum hylur alveg nema á kafla austan megin.
Grágrýti kemur fram á nokkrum stöðum í nánd Þríhnúkagíg. Upptök þess eru í stórri gígskál sem Jón Jónsson (1978) nefndi Spor. Grágrýtið er ekki mjög rofið uppi á hásléttunni. Efsta frauðið er þó af, en víða eru varðveittir á því skafnir hraunhólar (push ups), annars er það uppbrotið af frostveðrun og lausagrjót og blokkir á yfirborðinu.

Þríhnúkar

Jökulrákir eru lítt sýnilegar, finnast þó sé eftir þeim leitað. Stórgrýtisbjörg úr móbergi og jökulbergi liggja ofan á grágrýtinu í brekkunni og ofan brúnar austan við H-147-gígana. Þau eru jökulborin, en ekki úrkast úr gígum. Frá Þríhnúkagíg er styst í grágrýtisopnur 600 m austar og sunnar, en fleiri eru fjær norðan og norðaustan hans. Frá grágrýtisfláka norðaustan við Spor teygir sig álma vestur í átt að Þríhnúkagíg svo einungis vantar 200 m að hugsanlegum gangamunna.
Suðvestan við Vesturhnúkinn er grágrýtið stöllótt. Skilin fara lækkandi þaðan vestur í Kristjánsdalahorn. Skil þessi marka stöðu vatnsborðs í jökullóni á þeim tíma sem grágrýtishraunið rann. Hæðin á skilum sem þessum getur verið nokkuð breytileg eftir því hversu bræðsluvatn rennur greiðlega burt.
Fullvíst má telja að grágrýtið sé yngra en móbergshryggirnir. Hvort tveggja er að lítið stendur af þeim upp fyrir grágrýtið, en þó fremur hitt að Þríhnúkagígurvik kemur í stapann þar sem Vesturhnúkurinn og kaffærði hryggurinn norðaustan hans stóðu fyrir rennslinu sunnan frá. Líklega er Spors-stapinn yngri en stóru staparnir vestar á Reykjanesskaga, þ.e. yngri en Fagradalsfjall og Lönguhlíðar-stapinn, líkast til frá síðasta jökulskeiði og myndaður við töluvert minni jökulþykkt en hinir tveir.
Elst hraunanna er það sem Jón Jónsson (1978) auðkennir H-143. Það er býsna gamalt, fáð af veðrun og uppbrotið. Það rann úr gígaröð sem byrjar um 500 m suðaustur af Þríhnúkagíg og liggur þaðan til suðvesturs yfir Sporsgíginn. Hraunbrúnin er mjög lág, 10-30 cm á grágrýtinu norðan og austan við. Hraunið er eftir því þunnt þarna nyrst þar sem það endar. Hraun þetta gæti hafa náð að Þríhnúkagíg og væri þá næst ofan á grágrýtinu. Næst að aldri er hraun sem Jón Jónsson (1978) auðkennir H-144. Það rann úr gígaröð sem er í tveim pörtum og byrjar 500 m suðvestan við Þríhnúkagíg, rétt suðvestan við hrauntjörnina í Þríhnúkum.

Þríhnúkar

Hraunið er uppbrotið af veðrun og mjög þunnt til jaðranna sem vel sést þar sem það hefur runnið út á H-143-hraunið og grágrýtið. Hraun þetta gæti náð til Þríhnúkagígsins. Þá er komið að Þríhnúkum sjálfum. Í þeim hafa komið upp tvö hraun sem Jón Jónsson (1978) auðkenndi H-145 og H-146. Upptök þess eldra, Þríhnúkahrauns I, eru í hrauntjörn sem er 400 m löng og sveigist lítið eitt til í meginstefnu NA-SV. Gígop hefur verið austan undir gjallhól, íhvolfum þeim megin sem snýr að hrauntjörninni. Gíghóllinn (Miðhnúkurinn) er úr ólivíndílóttu rauðagjalli og kleprum. Þótt mestallt hraunið sem nú sést hafi komið upp í gíghólnum (Miðhmúknum) hefur gosið hafist á sprungu með NA-SV-stefnu. Stubbur af henni sést norðan í móbergshryggnum M-2 með gjalldrílum og ganghlein sem stendur upp úr móberginu og sjást af henni um 50 m. Jón Harðarson o.fl. (1983) nefna þessa gíga.

Kristján

Austan í Miðhnúknum sést neðarlega hraunborð, jafnhátt barmi hrauntjarnarinar, greinilegt þó aðeins nyrst. Innveggir hennar eru annars úr 10-15 cm þykkum hraunskánum og bergið ólivínríkt, svo til án feldspatdíla eins og í gjallhólnum. Bunga hefur hlaðist upp kringum gígtjörnina og hraunrás, sem liggur austur frá henni. Hún hefur byggst upp er hraun vall yfir barmana og má telja víst að hún sé öll úr þess háttar hraunskánum, ella hefði hún ekki byggst upp, jafnbrött og hún er, úr þunnfljótandi hrauni. Fyrir utan hraunskvetturnar hefur nokkuð runnið úr hrauntjörninni til norðurs og fram af fjallinu þar, en meira þó eftir hraunrásinni til austurs og síðan áfram til NA uns hún þverbeygir til NV. Hraunrásin er efst í endilangri, ávalri og jafnhallandi hraunbungu sem hlaðist hefur upp út frá rásinni við skvettur líkt og bungan kringum hrauntjörnina sjálfa. Hraunrásin er mjó á NA-SV-kaflanum, þ.e. á bilinu 10-20 m yfir barma, og mesta dýpi hennar 15-20 m. Ofan til eru hraunskánirnar eða -beltin einnig þunn í veggjum rásarinnar, mældust algeng á bilinu 15-50 cm, en niðri í henni eru þau þykk, oft 1-2 m. Hraunrásin endar spölkorn norðvestan við þverbeygjuna. Þaðan hefur hraunið breiðst út og síðan vestur af fjallinu. Á þverbeygjunni og þar sem hraunrásin endar eru hraunbólur þar sem flætt hefur upp úr henni. Í fjallshlíðinni sem er um 120 m há er hraunið víða samfellt, jafnvel þar sem bratt er, annars sundurlaust, en lausahroðinn á því er hvergi þykkur nema þá neðst þar sem grjót hefur borist niður með leysingavatni og við hrun.

Merking

Talað hefur verið um hraunrásina sem hrauntraðir og þannig er hún sýnd á kortum. Það er þó ekki alveg rétt, því að hún hefur verið lokuð, alla vega á síðustu stigum. Þetta sést á því að víða eru heil höft yfir hana, en kaflarnir á milli fallnir niður. Það sem sést af eldstöðinni sjálfri er gjall- og klepragígur. Kleprabrynja utan á kambinum sem gengur norðaustur frá vesturhnúknum vitnar um strókavirkni. Dyngjulögun hefur hraunið ekki, en yfirborð þess er þó með eindregnum dyngjueinkennum, þ.e. helluhraun með klofnum hraunhólum þegar kemur niður undir Kristjánsdalahorn. Grafið var á hraun þetta á nokkrum stöðum, bæði uppi á fjallinu og neðan undir því þar sem jarðvegur er þykkri og lynggrónar lautir og brekkur. Þar þekktust neðst í
moldinni tvö Kötlulög (mynd 2) sem víða má finna á þessum slóðum. Aldur þeirra er allt að 2900 ár og 3400 ár (Bryndís G. Róbertsdóttir (1992).

Skilti

Þríhnúkagígur er fast austan við hrauntjörnina. Ekki er að sjá hraunborð utan í honum þar sem veit að henni. Hún hefur verið komin áður en gaus og gíghóllinn hefur byggst upp yfir barm hennar.
Ljóst er því að það hraun (H-146) tilheyrir sérstöku gosi. Í jarðvegssniði sunnan við Þríhnúkagíg fannst aðeins efra Kötlulagið, ofan á Þríhnúkahrauni II. Á eldra hrauninu er neðra og þykkara Kötlulagið einnig að finna (mynd 2) og undir því 5-7 cm þykkt moldarlag. Aldursmunur hraunanna gæti verið um eða yfir 1000 ár. Aldur Þríhnúkahrauns I má áætla um 4500-5000 ár, en Þríhnúkahrauns II amk. 3500 ár. Í skýrslu Helga og Magnúsar (2001) er “Þríhnúkahraun yngra” sem svo er kallað sýnt eldra en Heklulagið HA (um 2500 ára). Í athugasemd í hraunatöflu kemur fram að þeir grófu á það við Kristjánsdalahorn, en þar nokkru austar eru bæði Kötlulögin ofan á Þríhnúkahrauni I sem eitt nær vestur að Kristjánsdalahorni.

Í Þríhnúkagíg

Misgengi og gjár Misgengi og gjár í nánd við Þríhnúkagíg sjást aðeins í grágrýtinu og elsta hrauninu (H-143). Svo er að sjá sem sprunguhreyfingar hafi ekki orðið á þessum hluta Brennisteinsfjallakerfisins eftir að Þríhnúkahraun I og II runnu fyrir 3500-5000 árum. Gjár sjást hins vegar í Þríhnúkahrauni I vestan undir fjallinu í NA-framhaldi af brotunum í Kristjánsdalahorni. Eftirtekjan varðandi gjár og misgengi sem orðið gætu á gangaleiðum er rýr. Þar er fyrst að nefna misgengi/gjá í framhaldi af gígum og gjá í H-143 hrauninu, en hún stefnir nærri gangamunna eða öllu heldur skurði ef komið yrði austan frá (sjá meðfylgjandi kort). Brot gæti komið fram í NA-framhaldi af gígaröðunum í H-144 hrauninu. Hliðrun er á þeim suðvestan við Þríhnúkagíg og stefnir eystri greinin nánast beint á gíginn. Brot í framhaldi hinnar myndu verða fyrir á gangaleið vestan frá.

Þríhnúkagígur

Þríhnúkagígur er yngsta eldstöðin á ~500 m breiðri gosreinin sem framar greindi, en aldur hans er nokkuð yfir 3000 ár. Yngri hraun eru vestur við Brennisteinsfjöll og austur við Kóngsfell. Þau yngstu, þ.á.m. Kóngsfellshraun, runnu fyrir 1000-1100 árum (Jón Jónsson 1978). Eldvirkni á Reykjanesskaga kemur í lotum sem ganga yfir eldstöðvakerfin á um það bil 300 ára tímabili. Þar á milli er hlé á gosum en skjálftavirkni á plötuskilunum. Eina hléið sem er bærilega vel tímasett er það síðasta sem stóð í um það bil 800 ár (Kristján Sæmundsson og Haukur Jóhannesson 2006). Núverandi goshlé hefur staðið í ~750 ár. Í Brennisteinsfjallakerfinu hefur síðasta goshlé varað í um það bil 1000 ár. Aðrir kaflar í Brennisteinsfjallakerfinu en Þríhnúkareinin myndu teljast líklegri til að gjósa í næstu goslotu ef álykta mætti að gosin endurtækju sig á sömu reinum og í síðustu goslotu, og raunar þeirri næstsíðustu líka.
Það var nefnt hér að framan að gjár og misgengi koma ekki fram í yngstu hraununum í Þríhnúkareininni. Þar hafa brotahreyfingar af því tagi ekki átt sér stað í meira en 3000 ár. Hins vegar eru opnar gjár og misgengi í Þríhnúkahrauni I, á sprungurein sem liggur frá Brennisteinsfjöllum yfir Kristjánsdalahorn og hraunin norðan undir Þríhnúkum og Spors-stapanum. Fjarlægðin milli jaðarsins á henni og Þríhnúkagígs er um 1 km. 

Í Þríhnúkagíg

Ekki er vitað um norð-suðlægar sprungur, virkar á skjálftatímabilum, nær en norður frá Hvalhnúkum og austur við Rjúpnadalahnúka. Á þeirri fyrrnefndu varð skjálfti yfir 6 að stærð árið 1929. Hún stefnir um það bil 2 km vestan við Þríhnúkagíg. Hin er álíka langt austan við hann (austan í Kóngsfelli). Óefað verður hrun úr hellishvelfingunni í slíkum skjálftum. Líklegt er að grjótbingurinn á botninum sé fyrst og fremst þannig myndaður.
Athugum þá hvaða berglög myndu koma fram í hellinum undir Þríhnúkagíg. Hann er um 115 m djúpur niður á grjótbing, en um 200 m djúpur að meðtöldum rangala sem gengur til SV niður úr aðalhvelfingunni Árni B. Stefánsson (1992).
Í hellinum Í Þríhnúkagígættu skil á milli hrauna og grágrýtis að vera í rétt rúmlega 480 m h.y.s. eða 65-70 m neðan við topp gígsins (sjá jafnhæðarlínur á korti og teikningu Árna B. Stefánssonar (1992). Reikna má með að Þríhnúkahraun I nái niður í 510-515 m hæð, en þar taki við Þríhnúkahraun II niður í rúmlega 480 m hæð og síðan hugsanlega H-143-hraunið, etv um 1 m þykkt með þunnu moldarlagi ofan á. Hraunin eru líkast til þunnbeltótt næst gígnum og hrauntjörninni, en beltin líklega þykkari næst hraunrásinni. Þykkt grágrýtisins er ekki þekkt en skiptir efalaust nokkrum tugum metra. Skv. því sem séð verður í grágrýtinu vestur frá gígasvæðinu eru hraunbeltin í því nokkuð þykk, algeng rúmir 2 m. Árni B. Stefánsson (1992) sýnir þau hins vegar miklu þykkri í hellinum sjálfum. Neðst í honum að norðvestan er móberg sem nær frá 433 m hæð um það bil 10 m upp í vegginn og því hallar bratt til suðausturs (Árni B. Stefánsson 1992).

Í Þríhnúkagíg

Innveggir hellisins eru húðaðir hraunskel þar sem hann er mjóstur, og raunar töluvert þar niður fyrir. Neðst er hún 10-30 cm þykk (Árni B. Stefánsson 1992). Talað er um að illa sjáist út í veggina þar sem hvelfingin er víðust (50-60 m?), stundum amk. vegna þokuúða af vatni sem drýpur úr lofti hennar. Botninn er þakinn stórgrýti og grjót mylsnu sem myndar lága bungu í miðjum hellinum og skriðu sums staðar með veggjum, hallandi upp að þeim. Mest er það hrun úr slútandi hvelfingunni.
Nokkrar hugmyndir hafa komið upp um gangaleiðir að hellinum. Sú raunhæfasta gerir ráð fyrir aðkomuvegi og lögnum (rafmagn og vatn) frá Bláfjöllum. Hún verður skoðuð hér á eftir sem besti kostur, en einnig fjallað um aðkomu norðaustan og norðvestan frá. Stefnt er að því að göngin opnist inn í hellinn þar sem hraunskel er á innvegg hans og ekkert hefur hrunið frá síðan þarna gaus. Skelin er líkast til viðkvæm. Verði ákveðið að velja innkomu þar sem hún þekur þarf að standa þannig að verki að hún brotni ekki frá kringum opið. Innkoma í hellinn er hér við það miðuð að hafa sem mest af göngunum í hrauni (Þríhnúkahrauni I) sem að miklu leyti mætti líklega vinna án sprenginga. Síðasti spölurinn er hugsaður niðri við skilin milli grágrýtis og hrauns. Innkoma í hellinn yrði þá í kringum 480-485 m hæð y.s.”
Gangan tók 4 klst og 4 mín. Frábært veður.

Heimild:
-Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur, Jarðfræðirannsókn á Þríhnúkagígum, 2006.

Þríhnúkur

Þríhnúkahellir

Lagt var af stað frá Bláfjallavegi neðan við Eyrað. Reyna átti að komast niður í Þríhnúkarásarhelli. Hellirinn er u.þ.b. 10 djúpur og verður ekki komist niður í hann – og upp aftur – nema á bandi eða með aðstoð stiga.
Þríhellir Ekki vitað til þess að farið hafi verið niður í rásina, en hún er hluti af mikilli hrauntröð er liggur til austurs sunnan austasta Þríhnúkagígsins og austan þess í miðið – frá kvikutjörn, sem þar hefur verið milli gíganna. Spurningin er hvort þar kunni að liggja leið áleiðis að Svartholinu. Einnig var ætlunin að reyna við Þríhelli, sem er um 700 m langur. Fleiri hellar eru á svipuðum slóðum, enda komu nokkur op í ljós á leiðinni. GPS-punktar voru teknir jafnóðum – og skráðir samviskusamlega.
Þegar staðið er uppi í hlíðinni norðvestan við gíganna má vel sjá hvernig hraunið hefur runnið þar niður á tveimur stöðum. Vestari hraunstraumurinn hefur verið þunnfljótandi og lagst yfir Þjófadalina fyrir neðan þar sem Kristjánsdalahornið beindi því til norðurs. Þar í miðju helluhrauninu hefur myndast kvikutjörn. Rás sú er Úr ÞríhelliÞríhellir er í rann með jaðri hraunsins, þ.e. milli þess og hlíðarinnar, en smám saman hefur hraunið lagst þéttar að hlíðinni. Rásin greinist í tvennt nokkru neðar, en kemur síðan saman á ný. Austari hrauntaumurinn rann eftir stóru hrauntröðinni til austurs og beygði síðan til norðurs og norðvesturs þar sem hann féll fram af hlíðinni. Þar var um kaldari hraunkviku að ræða er legið hafði um stund í kvikutjörninni milli gíganna áður en hún náði nægilegu fóðri til að mata tröðina. Hraunið var úfnara þegar það loksins kom niður á sléttlendið undir hlíðinni, enda sjást skilin mjög vel. Ekki er líklegt að langur tími hafi liðið milli laganna því trúlega er um sama gosið að ræða. Kvikutjörnin er nú aflangur dalur milli gíganna, sem fyrr segir, en gígarnir sjálfir eru Þríhnúkagígur og félagi hans milli hinna Þríhnúgagíganna tveggja. Hraunin hafa þó verið skilgreind sem Þríhnúkahraun I og II. Um aldur þeirra er ekki vitað, en talið er að þau séu frá því skömmu eftir landnám, líkt og Tvíbollahraun. Um er að ræða sömu sprungurein.
Þríhellir hefur nokkur op. Neðsta opið er u.þ.b. 15 metrum sunnan við “hið opinbera” op. Við það er gamall tréhæll. Þegar inn er komið má sjá tvær heilar rásir til vesturs. Þær koma síðan saman skammt neðar. Í þeirri syðri eru fallegir dropsteinar og fleira flúr. Til austurs er nokkuð hrun, en sjá má bein af löngu dauðri kind á milli steina. Hægt er að feta sig upp eftir hruni og heillegum ráshlutum um ca. 150 metra, en skemmtilegra er að færa sig yfir í næsta jarðfall. Þar er heilleg rás, sem Þríhellirgreinist í nokkra anga. Þröngt niðurfall er í rásinni, síðan hrun, skrið og hrun – þá heill kafli með rýmilegum helli. Skammt norðar eru tvö jarðföll þar sem komast má niður í hliðarrásir. Stærsti geimurinn er í þriðja efsta opinu – í stóru og aðgengilegu jarðfalli. Þar er lofthæðin um 12 metrar og lengd milli veggja um 10 metrar. Þar þrengist rásin til vesturs. Efra er um lágar rásir að ræða. Þessi mikli geimur bendir til þess að safnast hafi mikið kvikumagn við fyrirstöðu áður en hún hefur náð að bræða sig áfram, t.d. að kvikuþrónni fyrrnefndu.
Það verður að segjast eins og er að óhefðbundin gangan upp bratta hlíðina var “þrautarganga”, en jafnframt kærkomin áskorun. Að öllu jöfnu er þessi leið ekki valinn. Hún er þó vel fær – og sennilega sú stysta að Þríhnúkum. “Þríhnúkamóðir”, steinvaxin, vakir efra.
Þegar komið var upp að gígbörmum Þríhnúka mátti vel sjá yfir kvikutjörnina í kvöldskímunni. Austasti gígurinn er sá merkilegasti – þessa stundina a.m.k. – einfaldlega vegna þess að hann er aðgengilega opinn. Eldstöðin rís um 40 metra yfir yfirborðið. Þessa stundina var hún böðuð í kvöldsólinni og skær regnbogi myndaði listskrúðuga umgjörð um hann. Rautt gjall er í börmunum og víða má sjá hraunklepra og -klessur. Gígopin eru tvö, en einungis annað er nú opið og sýnilegt. Nú er búið að marka göngustíg um opið og koma fyrir aðgengilegum upplýsingum um gíginn.
Þríhnúkagígurinn er næststærsta og dýpsta hraunhvelfing heims og eitt merkasta náttúruundur landsins.Guðmundur Löve Útsýnifjallar um Þríhnúkagíg í MBL. 7. júlí 1991, bls. 15-16. Árni B. Stefánsson er höfundur mynda með greininni. Í henni segir m.a. að “stærsti þekkti hraunhellir landsins og jafnvel sá rúmtaksmesti í heiminum var fullkannaður og mældur í vor. Þar voru að verki áhugamenn um hellarannsóknir, sem sigu í Þríhnúkagíg nálægt skíðalöndunum í Bláfjöllum á Reykjanesi. ÞríhnúkagígurFyrir þeim vakti að svipta hulunni af leyndardómum gígsins er hafði verið þekktur lengi en aldrei fullkannaður. Niðurstöðurnar voru vægast sagt mikilfenglegar”.
Jafnframt segir að “Þríhnúkar standa á hálendisbrúninni, 3 kílómetra norðvestan skíðalandanna í Bláfjöllum. Þeir eru ekki ýkja áberandi þar sem þeir standa 250 metra upp fyrir Búrsfellsbrunann og Heiðmörkina fyrir neðan, en hafa engu að síður að geyma stórbrotið náttúruundur. Austasti hnúkurinn er yngstur, sennilega um 1000-2000 ára gömul eldkeila, og í honum er Þríhnúkagígur sem einnig hefur verið nefndur Svartholið eða Gatið í Þríhnúkum…
Þríhnúkagígur er í raun tóm eldstöð. Þegar gosi lauk hefur hraunkvikan sigið niður, jafnvel alla leið niður í sjálft kvikuhólfið, og eldgígurinn tæmst. Það er merkilegt að hann skuli ekki hafa fallið saman við þetta eins og yfirleitt gerist, en þó hefur orðið töluvert hrun úr veggjunum sem safnast hefur fyrir á botni gígsins. Mér er hins Þríhnúkarvegar ekki kunnugt um að til séu aðrar eldstöðvar af þessari stærðargráðu sem hafa tæmst á þennan hátt og er þetta því sennilega einstakt fyrirbæri í heiminum.
Ástæðan til þess að hvelfingin féll ekki saman er fyrst og fremst sú að geysilega þykk hraunlög, allt að 15-20 metrar á þykkt, styrkja veggina og hafa að einhverju leyti varnað hruni. Þar fyrir utan er hér um að ræða tiltölulega litla eldstöð, svo átökin hafa verið takmörkuð… Það sem gerir hraunhvelfinguna í Þríhnúkagíg einstaka í sinni röð er því fyrst og fremst stærðin.
Samkvæmt útreikningum okkar myndi Víðgelmir, hraunhellir sá er Íslendingar telja stærstan í heimi, rúmast allur í aðalhvelfingu Þríhnúkagígs, og er þá ótalið rúmmál hliðarganga og gosrása út frá henni. Af þessu leiðir að hellirinn í Þríhnúkagíg er sennilega stærsti hraunhellir í heiminum. Aðalhraunhvelfingin er margfalt stærri en nokkur þekkt hraunhvelfing, og er mér heldur ekki kunnugt um aðra dýpri hraunhella.Fyrsta tilraun til að síga í gíginn var gerð árið 1958, en hætt var við eftir nokkra tugi metra þegar slokknaði á ljóskeri sem var haft meðferðis til að meta hættu á koltvísýringseitrun. Félagar úr hjálparsveitum lóðuðu síðan dýpið árið 1967 eða ´Opið68, en hættu við tilraunir til að síga í hann vegna erfiðra aðstæðna… Eftir að Bláfjöllin opnuðust upp úr 1970 fór Einar Ólafsson að sýna fólki hella á þessums lóðum, sem hann hafði sjálfur fundið, og í leiðinni benti hann fólki á Þríhnúkana og minntist á gatið…
Svæðið er einstakt í sinni röð og tel ég bráðnauðsynlegt að friða Þríhnúkana. Auk þess er rétt að koma upp nokkrum upplýsinga- og aðvörunarskiltum umhverfis gígopið, því það getur verið hættulegt ókunnugum, þó aldrei hafi orðið slys… Auk þess má ætla að eftir þá kynningu sem nú hefur átt sér stað megi búast við aukinni umferð fólks um þetta svæði, og er rétt að brýna fyrir fólki að fara varlega og ganga vel um. Hér er um að ræða stórmerkilega og um leið stórhættulega náttúrumyndun sem ber að umgangast með tillýðilegri virðingu”.
Í grein Árna B. Stefánssonar í MBL 4. janúar 2004 fjallar hann um Þríhnúkagíg. Þar segir hann að Þríhnúkagígur sé stærsta hraunhvelfing í heimi og eitt merkilegasta náttúrundur á Íslandi. Gígurinn var ókannaður þangað til á Jónsmessu 1974. Þá seig árni niður á botn gígsins. “Ofnar siglínur voru farnar að koma á markað á þessum tíma, en voru stjarnfræðilega dýrar. Frændi minn og félagi, Páll Gunnlaugsson, hafði samband við Magnús Gústafsson, forstjóra Hampiðjunnar, og útvegaði Magnús 200 metra langan 20 mm kaðal. Ég smíðaði létt stálkefli fyrir kaðalinn, hannaði öflugt sigbelti og það sem var mest um vert, segulnagla á Í Þríhnúkahellibeltið sem varnaði því að sigmaður snerist með þegar yndist ofan af kaðlinum. Mótorhjólahjálmur og bólstur á axlir var til varnar hugsanlegu hruni. Við ætluðum okkur svo í Tintron á Gjábakkahálsi vorið 1974.Með þetta í farteskinu, járnkarl, bjartsýni og tvær UHF-talstöðvar, héldum við af stað á Jónsmessunótt 1974, tíu frændur, vinir og kunningjar. Auk mín þeir Ólafur Stefánsson, bróðir minn, Jón Ingi Haraldsson, Páll Gunnlaugsson, Gylfi Gunnarsson, Sveinbjörn Garðarsson, Bjarni Björnsson, Örn Magnússon og tveir félagar hans (að mig minnir). Við ókum upp í Bláfjöll og gengum í björtu veðri móti sólarlaginu þá 4-5 km sem eru að gígnum…
Það varálveg ólýsanleg tilfinning að síga þarna niður. Einkennileg tómleikakennd fyllti mig neðarlega í gíghálsinum, tilfinning blönduð sérkennilegri gleði og eftirvæntingu þegar risavaxin gíghvelfingin opnaðist fyrir augum mér. Ef til vill ekki ósvipað þeirr heimnesku sælu sem þeir sem vaktir eru úr dái lýsa. sálin svífur þá yfir eigin líkama, horfir á skrokkinn ofanfrá og er í þann mnd að hverfa á vit eilífðarinnar og ljóssins. Ég varð bergnuminn í orðsins fyllstu merkinu. Dinglaði eins og dordingull úr hlöðulofti, á leið niður í þetta ótrúlega stóra gímald.”
Þegar niður var komið lýsir Árni aðstæðum: “Söðullaga hrun var í botni, hallaði það niður til Na og SV og upp til NV og SA. Er það tilkomið vegna hruns úr langveggjum elsprungunnar.
Vonbrigðin voru mikil. Að vísu eru efri 60-70 metrar gígrásarinnar fagurlega skreyttir með upprunalegri Í Þríhnúkahellihraunhúð. Rauðleitt hraunfoss, sem lekið hefur niður í dropasteina sömu gerðar, skreytir lóðrétta hliðarrás, eða stromp, upp til NA og umhverfi hans. Í meginrásinni litlu ofan við strompinn opnaðist þröng hraunrás frá NA. Neðst í gígpyttinum voru aðeins berir klettaveggir, tugi metra upp, engar upprunalegar hraunmyndanir. Í botni var aðeins grjóturð. Þetta var hreinlega eins og grjótnám. Þvílík vonbrigði. Engin afrennslisrás, engar hraunmyndanir. Aðeins ómerkilegur risastór klettapyttur. Í mínum augum var þetta bara djúp ljót hola og alls ekki ferðarinnar virði. Engar myndir voru teknar, enda áttum við ekki myndavélar. Eitthvað spurðist út, en við gerðum ekkert úr þessu. Það sem eftir sat og situr enn í huganum er tilfinningin einkennilega; eigin smæð og þessi hrikalega – hrikalega stærð.”Annar leiðangur var farinn í Þríhnúkagíg 17. júní 1977. Það voru félagar úr Hjálparsveit skáta í Vestmannaeyjum. Árni fór öðru sinni í gíginn vorið 1991.
“Í gegnum tíðina hef ég og fleiri oft leitt að því hugann hvernig gera má hellinn aðgengilegan svo almenningur og ferðamenn geti notið þessarar einstæðu myndunar án skaða á hellinum eða mynduninni sjálfri. Við ritun orðanna “að hanga þar eins og dordingull” fæddist raunhæf hugmynd sem hér er kynnt. Að setja þar, á 56-60 m dýpi, útsýnispall á hellisvegginn. Aðgengi að honum yrði um jarðgöng upp á yfirborð jarðar. Pallurinn yrði úr stálgrind og kleift að horfa niður í gegnum grindina og af grindinni niður og upp. Á þessum stað, í miðju eldgígsins, er upplifun þessa tröllaukna gímalds svo sterk, að með ólíkindum er. Hæðin niður á urðarsöðulinn er svipuð og séð niður úr Hallgrímskirkjuturni, eða af þaki 20 hæða háhýsis. Er hæðin meiri til hliðanna. Gígrásirnar beint upp eru álíka. Eða eins og að horfa af Skólavörðuholti upp á útsýnissvalir kirkjunnar.
Vídd gígráÍ Þríhnúkahellisarinnar er á þessum stað nægileg til að rúma töluverðan fjölda fólks. Upprunalegar hraunmyndanir eru þarna hvað sérstæðastar. Engin hætta er að fólk skaði þarna viðkvæmar myndanir. Jarðgöngin, eitt eða tvö pínulítil 3-4 metra op á gígveggnum, skaða gíginn ekki miðað við stærðargráðu hans, svalirnar ekki heldur. Frá þessu sjónarhorni nýtur lokaði strompurinn upp af NA hluta hvelfingarinnar sín afar vel. Hann er skreyttur rauðleitu hraunfrussi sem hangir fagurlega niður í stuttum dropasteinsdrönglum á stóru svæði. Hvergi í veröldinni er hægt að horfa upp um gosrásir af þessari stærðargráðu. Þó stærri hvelfingar finnist í kalksteinshellum er þetta aldeilis engu líkt. Nákvæmlega á þessum stað er gígurinn svo magnaður að vart verður með orðum lýst. Upplifunin slík, að ólíklegt er að nokkur, sem af fréttir, muni vilja láta slíkt fram hjá sér fara, hafi hann færi á.Ekki má raska norðaustasta Þríhnúknum, eða upprunalegum hraunmyndunum í gígrásunum, á nokkurn hátt, ef undan eru skilin jarðgangaopin og svalirnar í gíghálsinum. Satt að segja þarf að lagfæra nokkuð. Hreinsa þarf til á yfirborði og girða kringum opið. Gera þarf stíg á hnúkinn að norðan og afmarka hann með stikum, línum eða keðjum. Sjá þarf til þess að viðkvæmur gróður í hlíðum hnúksins jafni sig. Setja þarf upp skilti með helstu upplýsingum um gíginn á viðeigandi stað. Útsýn frá Þríhnúkum til Reykjavíkur og Snæfellsness er hreint frábær. Rétt er að geta þess að þarna er á takmörkuðu svæði mikið af skoðunarverðum náttúruminjum, eldgígum, hrauntröðum og fleiru. Gosminjarnar eru margar hverjar innan við 1000 ára, eða frá því eftir landnám.
Að standa inni í miðjum eldgíg af þeirri stærðargráðu sem Þríhnúkagígur er, er einfaldlega með ólíkindum. Líklegt er að mikill fjöldi Íslendinga og stÍ Þríhnúkahelliór hluti erlendra ferðamanna muni heimsækja tröllaukna gíghvelfinguna. Með nálægð sinni við Reykjavík er gígurinn innan seilingar. Líklegt er að bæði gíghvelfingin sjálf og það afrek sem framkvæmdin í raun er, muni hafa ófyrirséð áhrif á íslenska ferðaþjónustu. Þetta fyrirbæri gæti mögulega haft meira aðdráttarafl en nokkuð annað náttúrufyrirbrigði á landinu. Varðveisla myndunarinnar verður að sitja í fyrirrúmi og mannvirki að standast ýtrustu kröfur um öryggi og útlit. Tilfinning sú sem hver upplifir við gígopið og í gígnum mun gera þann sama næmari fyrir eigin smæð og forgengileik. Hún mun um leið auka virðingu hans fyrir þeirri jörð sem hann byggir. Náttúruvernd er ekki alltaf fólgin í því að gera ekkert, þó slíkt geti vissulega átt við, í völdum tilvikum. Náttúruvernd er að sýna náttúrunni virðingu og skilja ætíð svo við, að hún og þeir sem landið erfa, njóti.
Sú hugmynd sem hér er sett fram um aðgengi Þríhnúkagígs byggist á persónulegri reynslu við könnun gígsins og er ávöxtur áratugapælinga. Vinir höfundar, frændur hans, kunningjar og fjöldi annarra lagði hönd á plóg. Þeim sé þökk. Án þeirra hefði þessi hugmyÍ Þríhnúkahellind ekki orðið til.Mér fannst rétt að varpa hugmyndinni fram á þann hátt sem raun ber vitni og án þess að vinna henni fyrst fylgis á annan hátt. Hún hefur verið kynnt í handriti fyrir einstaklingum í Hellarannsóknafélagi Íslands, við Náttúrurfræðistofnun, Norrænu Eldfjallastöðina og hjá Bláfjallanefnd og þeir beðnir um athugasemdir. Fróðlegt verður að fá viðbrögð, sérstaklega þeirra sem eru tilbúnir að koma að framkvæmdinni, stuðla að fjárveitingum eða koma að málinu á annan hátt. Þetta er vel framkvæmanlegt. Verði af framkvæmdum er rétt að geta þess að höfundarréttur gildir um myndir, teikningar og þær hugmyndir sem hér eru settar fram.
Varðveisla gígsins sjálfs og umhverfis hans er í fyrirrúmi. Þannig og aðeins þannig má njóta hans til fullnustu. Sé fyrir þessu pólítískur vilji og fáist grænt ljós á lagningu vegar og rafmagns er undirritaður ásamt félögum sínum tilbúinn að koma að þessu. Hann hefur ásamt þeim, næga þekkingu til að koma að verkefni sem þessu og ljúka því. Alþjóðleg tengsl í hellarannsóknum og varðveislu hella eru fyrir hendi. Hafa þarf samvinnu og samráð við Náttúruvernd Ríkisins, Hellarannsóknafélag Íslands, sem höfundur er auðvSkiltiitað meðlimur í, og fjölda annarra aðila.
Þríhnúkagígur og nánasta umhverfi hans á fullt erindi á heimsminjaskrá. Mikilvægi hans nær langt út fyrir landsteinana. Okkur Íslendingum ber að varðveita hann í þágu mannkyns.
Varðveisla gígsins og aðgengi almennings að þessu stórkostlega náttúruundri fer vel saman í þeim hugmyndum sem hér hafa verið kynntar.” Árni B. Stefánsson ritaði grein um Þríhnúkagíg í Náttúrufræðinginn (61:229-242). Þar lýsir hann ítarlega jarðfræðiupplýsingum um svæðið og framangreindum ferðum sínum í gíginn. Helsta viðbótin þar eru útskýringarmyndir af gígnum, sem nú má sjá á útskornar við hann.
Árni skrifaði einnig grein um “Þríhnúkagígsferðina” í Surt, ársrit 1991, 10-15, 1991. Þegar staðið var við Þríhnúka þessa kvöldstund var litadýrðin einstök – útvortis. Rauðleit kvöldsólin myndaði baksvið Keilis og Trölladyngu í suðvestri. Hún beindi geislum sínum að efstu brún Þríhnúkagígsins og næsta umhverfis. Snæfellsjökull sást í fjarska sem og ljósum baðað höfuðborgarsvæðið nær. Regnboginn fyrrnefndi vildi líkt og undirstrika litadýrðina við þessa tilkomumiklu kvöldstund.
Frá Þríhnúkagíg mátti vel sjá hvernig hrauntröðin lá úr kvikuþrónni og í sveig fram af hlíðarbrúninni. Þríhnúkarásarhellir er því einungis hluti af henni. Dýptin vekur athygli, en ekki er vitað til þess að sigið hafi verið þangað niður þrátt fyrir að nokkrum sinnum hafi verið farið með sigbúnað á svæðið. Hann er því enn ókannaður.
Á leiðinni til baka, niður austanverða hlíðina var gengið fram á vænlegt op (6400288-02142172). Það var ekki skoðað að þessu sinni.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.
   Þríhnúkar

Kópavogskirkja

Kópavogur dregur nafn af voginum sunnan Kársness og samnefndu býli sem stóð norðan Þinghóls þar sem var annar af tveimur þingstöðum í heimalandi Kópavogsbæjar. Ekki er vitað til að þar hafi verið Þinghóllþinghald á þjóðveldisöld en þar fór erfðahyllingin fram 1662. Á gamla þingstaðnum er friðlýst þinghústótt og skammt frá henni er minningarsteinn um erfðahyllinguna, reistur 1962.
Kópavogur var einn af fjórum þingstöðum Gullbringusýslu og fyrir margar sakir þeirra frægastur. Mikill fjöldi mála voru tekin fyrir á Kópavogsþingi og dómar felldir. Mun nálægð við Bessastaðavaldið hafa ráðið þar miklu um. Elstu varðveittu rituðu heimildirnar um þing í Kópavogi eru frá 1523. Árið 1574 gaf Friðrik II Danakonungur út tilskipun þess efnis að Alþingi skyldi flutt í Kópavog en til þess kom þó aldrei. Merkasti atburður sem tengist þingstaðnum er erfðahyllingin 28. júlí 1662. Þá neyddi danski höfuðsmaðurinn Hinrik Bjelke íslenska forystumenn til að undirrita einveldisskuldbindingu og að sverja Friðriki III Danakonungi hollustueiða meðan hermenn hans hátignar stóðu yfir þeim alvopnaðir. Síðasta aftakan sem fór fram á þinginu í Kópavogi var þann 15. nóvember 1704.

Digranesbærinn

Þá voru Sigurður Arason og Steinunn Guðmundsdóttir frá Árbæ tekin af lífi fyrir morð. Var hann höggvinn skammt norðan við þinghúsið en henni drekkt í Kópavogslæk. Árið 1753 var þinghald aflagt í Kópavogi.
Upphaf byggðar í Kópavogi var í landi jarðanna Kópavogs og Digraness sem voru í eigu ríkisins uns búskap var hætt. Í sveitarstjórnarkosningum sumarið 1946 náðu íbúar Kópavogs meirihluta í hreppsnefnd Seltjarnarneshrepps og öll stjórnsýsla fluttist til Kópavogs.
Digranes er sennilega elsta bújörð í Kópavogi. Búskapur hófst á jörðinni á árunum 1300 og 1313 en lagðist af árið 1936. Digranes var stór jörð en hefur sjálfsagt ekki verið eftirsóknarverð, eins og gæðum hennar er lýst í úttektarbók 

Kópavogur

Jarðabókarnefndar frá október 1703. Konungur var skráður eigandi jarðarinnar og landsskuld hennar var 90 álnir sem ábúandinn greiddi með fiski í kaupstað, leigukúgildi í smjöri eða fiski til Bessastaða. Árið 1950 var búið að úthluta 10 löndum undir nýbýli og 146 smábýlalöndum úr landi Digraness. Smábýlalöndin voru fyrst og fremst ætluð sem ræktunarlönd en ekki til fastrar búsetu. Á þessu varð þó fljótlega breyting og lönd þjóðjarða urðu fyrsti vísir þéttbýlismyndunar í Kópavogi.
Íbúar Seltjarnarness knúðu á að eigum Seltjarnarneshrepps yrði skipt upp. Skipting sveitarfélagsins fór fram um áramótin 1947-48 og efnt var til kosninga í hinum nýja Kópavogshreppi í janúar 1948. Sama ár var reytumMerki Seltjarnarneshrepps skipt. Jarðirnar Kópavogur, Digranes, Hvammkot (Fífuhvammur), Vatnsendi, Geirland, Gunnarshólmi og Lögberg (Lækjarbotnar) voru lagðar undir Kópavogshrepp.
Fyrri hluta árs 1955 var Kópavogshreppur gerður að kaupstað með sérstökum lögum á Alþingi. Kópavogskaupstaður keypti Fífuhvammsland árið 1980 af ríkinu en þar og á Nónhæð, í Digraneshlíðum og Kópavogsdal hefur hin síðari ár verið aðalbyggingarsvæði Kópavogs.
Kópavogur hefur vaxið afar hratt á stuttum tíma – þróast frá því að vera nokkur hús án nokkurrar þjónustu í að verða næststærsta sveitarfélag landsins með alla þjónustu.
KvöldÁrið 1945 voru íbúar í Kópavogi 521 að tölu. 11. maí 1955, þegar Kópavogur fékk kaupstaðarréttindi, voru íbúar 3.783. 1. desember árið 2000 voru íbúar Kópavogs 23.578.
Merki bæjarins er sótt til fyrstu kirkjunnar á staðnum, Kópavogskirkju.
Kópavogskirkja var teiknuð af Herði Bjarnasyni, húsameistara ríkisins. Hún var vígð árið 1962, fögur bygging og sérstæð, þar sem hún stendur hátt í Borgarholtinu í miðjum bænum. Steindir gluggar í kirkjunni eru eftir Gerði Helgadóttur myndhöggvara.
Um þjóðsögur og sagnir, sem eiga rætur í Kópavogi, hefur lítið verið ritað. Það var því mjög þarft verk sem þær Anna Hedvig Þorsteinsdóttir og Inga Þóra Þórisdóttir tóku sér fyrir hendur er þær söfnuðu þjóðsögum og sögnum úr Kópavogi og gáfu síðan út í samnefndri bók árið 1995.
Örfáar þjóðsögur úr Kópavogi hafa áður komist á prent . Í bókinni Þjóðsögur og sagnir úr Kópavogi eru sögur um álfabyggðir og huldufólk, draugasögur, sögur um álagabletti og “reynslusögur”, en það eru sögur fólks af atburðum úr eigin lífi eða annarra.

Heimild:
-www.ismennt.is

Kópavogur

Kópavogur.

Þinghóll

“Í fyrra (23. mars, 1996) birtist í Lesbók grein um morð við Skötufoss í Elliðaám árið 1704. Sakborningarnir, Sigurður Arason og Steinunn Guðmundsdóttir voru teknir af lífi á Kópavogsþingi sama ár. Fornleifarannsókn var gerð á svonefndum Hjónadysjum við Kópavogslæk 1988 og eru hér leiddar líkur að því að þar hafi fundist jarðneskar leifar Steinunnar og Sigurðar.

Þinghóll

Þinghóll.

Fyrir nokkru var ágæt frásögn í Lesbók Morgunblaðsins eftir Helga M. Sigurðsson um gamalt morðmál frá 1704. Tildrög málsins voru þau að Sæmundur Þórarinsson, sem bjó í Árbæ ásamt 44 ára gamalli konu sinni, Steinunni Guðmundsdóttur, móti Sigurði Arasyni, 26 ára gömlum manni, og móður hans, fannst þann 22. september 1704 látinn í Elliðaá. Skömmu síðar vaknaði grunur um að hann hefði verið myrtur og við yfirheyrslur hjá Paul Beyer landfógeta játaði Sigurður að hafa myrt Sæmund að undirlagi Steinunnar. Þau Steinunn voru tekin af lífi á Kópavogsþingi sama ár. Henni var drekkt í Kópavogslæk og hann var hálshöggvinn. Í Vallaannál er þess jafnframt getið að höfuð Sigurðar hafi verið sett á stöng við gröf hans. Mál þeirra hefur orðið kveikja að draugasögu í nokkrum gerðum og er afturgangan ýmist nefnd Selsmóri, Sviðholtsdraugur eða Þorgarður.

Kópavogur

Kópavogur – herforingjaráðskort.

Í niðurlagi fyrrnefndrar Lesbókargreinar segir að annað sé ekki vitað um afdrif þeirra Steinunnar og Sigurðar en talið að grafir þeirra hafi fundist við vegagerð á fyrri hluta aldarinnar. Verður hér reynt að bæta nokkru við þá frásögn.
Munnmæli og sagnir um dysjar þeirra sem teknir voru af lífi á Kópavogsþingi hafa jafnan fylgt svæðinu og sést enn móta fyrir dys við gamla veginn sem liggur frá Kópavogslæk upp Arnarnesið sunnan læksins.
Frásagnir um beinafundi sem taldir hafa verið úr sakamannadysjum hafa einnig minnt á aftökurnar. Nokkrum sinnum hafa t.d. mannabein fundist í grennd við Gálgakletta í Garðabæjarhrauni. Þá er, eins og áður er getið, til frásögn um að vegagerðarmenn hafi árið 1938 fundið höfuðkúpu með miklu hári við Kópavogslæk og aðra beinagrind höfuðlausa. Þessi bein munu hafa verið sett aftur á sinn stað, en ekki var fundarstaðurinn staðsettur neitt nánar.

Kópavogur

Þinghóll – dysjar.

Í þessari grein, sem er stytt útgáfa greinar sem birtast mun í næsta hefti tímaritsins Landnám Ingólfs, er sagt frá fornleifarannsókn sem gerð var á svonefndum Hjónadysjum við Kópavogslæk vorið 1988 í sambandi við breikkun Hafnarfjarðarvegar. Leitt er að því líkum að þar hafi fundist jarðneskar leifar Steinunnar og Sigurðar.
Fyrir rannsókn sást dálítil þúst í krikanum milli Hafnarfjarðarvegar og Fífuhvammsvegar sem talin var vera dys. Fyrirsjáanlegt var að nýi vegurinn hlyti að fara yfir hana að hluta eða öllu leyti. Auk greinarhöfundar unnu fornleifafræðingarnir Sigurður Bergsteinsson og Lise Bertelsen við rannsóknina.
hjonadysjar-1Við rannsókn komu fyrst í ljós tvær smásteinahrúgur rétt undir yfirborði, um 3 x 1,5 m að ummáli hvor um sig, og var um 1 m á milli þeirra. Hér voru greinilega fundnar tvær grafir sem í upphafi höfðu verið þaktar steinhnullungum. Í efri lögunum voru margar smávölur sem vegfarendur hafa kastað í dysina um leið og þeir áttu leið framhjá, en samkvæmt gamalli þjóðtrú var það talið geta komið í veg fyrir óhöpp að henda þremur steinum í dys þegar farið var framhjá henni í fyrsta sinn.

Arnarnes

Litla-Arnarnes- bæjarstæði.

Undir neðsta steinalaginu var beinagrind og vantaði á hana höfuðkúpu og þrjá hálsliði. Hendur lágu yfir magann. Fætur voru krosslagðir. Gröfin, sem lá frá norðvestri til suðausturs, var 1,62 m löng og um 0,7 m þar sem hún var breiðust, mjókkaði til austurs og var um 0,4 m breið til fóta. Hún hafði upphaflega verið grafin niður um hálfan metra.

Fyrstu dauðadómar sem heimildir eru til um frá Kópavogsþingi, og sem jafnframt eru elstu rituðu heimildir um þingstaðinn, er frægur tylftardómur frá 1. júní 1523 yfir Týla Péturssyni. Týli sem var fyrrverandi hirðstjóri á Bessastöðum, hafði tvívegis snúið aftur til Bessastaða, tekið hirðstjórann Hannes Eggertsson til fanga um skeið, rænt fé úr Bessastaðakirkju og sköttum konungs. Eftir að hann hafði verið tekinn fastur og dæmdur var hann leiddur “austur yfir Bessastaði” þar sem hann var hálshöggvinn ásamt syni sínum, þar sem kallaðist Týlshóll síðan.
hjonadysjar-2Greinarhöfundi er ekki kunnugt um legu Týlshóls. Af orðalagi heimilda má ætla að hann hafi verið í túni austan Bessastaða, en þar er ekkert slíkt örnefni varðveitt. Líklegra má telja að þeir feðgar hafi verið teknir af lífi á Kópavogsþingstað og dysjaðir þar. Hinrik Kules var þýskur maður sem dæmdur var til dauða og tekinn af lífi á Kópavogsþingstað, þann 23. febrúar árið 1582, fyrir að hafa drepið Bjarna Eiríksson á Bessastöðum á jólanótt. Talið hefur verið að Kules hafi verið dysjaður efst á Arnarneshæð, vestan við gamla veginn og mun þar lengi hafa mótað fyrir gróinni dys. Árið 1664, þann 25. janúar, var Þórður Þórðarson dæmdur til dauða í Kópavogi fyrir þjófnað á verslunarvarningi. Systir hans Guðrún kærði dóminn á Alþingi 1665. Í athugasemd með afskrift af dómnum sem færður er í alþingisbók 1666 kemur fram að Þórður hafi verið hengdur.
Í desember 1677 voru maður og kona dæmd fyrir sams konar afbrot. Árið 1703 voru tveir flökkuþjófar dæmdir til dauða og hengdir. Að lokum er þess getið að Sigurður Arason og Steinunn Guðmundsdóttir hafi verið dæmd og tekin af lífi á Kópavogsþingi árið 1704.
Ekki hef ég fundið fleiri heimildir um dauðadóma sem framfylgt hefur verið á Kópavogsþingstað en þessa 10 einstaklinga sem hér voru taldir upp að framan.
Kópavogsþingstaður var fluttur til Reykjavíkur árið 1753 og þá er hlutverki hans lokið. Eftir því sem næst verður komist virðast að minnsta kosti 4 karlmenn hafa verið hálshöggnir og 4 hengdir á þeim tíma sem þingstaðurinn var í notkun. Ein kona virðist hafa verið hengd og einni var drekkt.
Enda þótt það komi ekki fram af fornleifafræðilegum rökum, má telja líklegast að konunni hafi verið drekkt í Kópavogslæk.
Breikkun Hafnarfjarðarvegar við Kópavogslæk og rannsókn á dysjunum þar hefur orðið til þess að rifja upp fornt sakamál.

Heimild:
-Laugardaginn 23. mars, 1996 – Lesbók Morgunblaðsins, bls. 6-7, eftir Guðmund Ólafsson.

Kópavogur

Svæðið.

Einbúi

“Einbúi er hóll austan í Digraneshálsi. Um hólinn lágu landamerki jarðanna Breiðholts, Bústaða, Digraness og Fífuhvamms. Í hólnum sjást leifar tilhöggvinna grágrýtissteina sem ætlaðir voru í undirstöður undir járnbraut sem fyrirhugað var að leggja þar sem Reykjanesbrautin liggur nú. Um var að ræða atvinnubótavinnu á kreppuárunum.

Einbúi

Einbúi.

Talið er að í hólnum hafi búið álfur eða huldumaður. Því til stuðnings er eftirfarandi frásögn frá því þegar verið var að grafa fyrir grunni á aðliggjandi lóð.
Þegar verið var að grafa fyrir húsgrunni á lóð við hólinn Einbúa var húsbyggjandinn beðinn að fara ekki nálægt hólnum. Það vildi samt svo óheppilega til að jarðýtustjórinn bakkaði að hólnum en í því draps á vélinni. Það var sama hvað hann reyndi, ýtan vildi ekki í gang aftur og var flutt á verkstæði. Þar varð þó ekkert um viðgerðir því ýtan rauk í gang í fyrstu tilraun.”

Einbúi

Einbúi.

Gálgaklettar

Í ritinu “Keflavíkurgangan“, 1. tbl. 19.06.1960, er “Samtíningur um Suðurnes” eftir Björn Þorsteinsson:

Landið
“Helztu jarðfræðileg atriði á leiðinni frá Keflavík til Reykjavíkur. — Að mestu samkvæmt frásögn Guðmundar Kjartanssonar jarðfræðings.

Grímshóll

Á Grímshól.

Eitt helzta kennileiti á leiðinni er Vogastapi; hann er úr grágrýti, svipuðu Hafnarfjarðar- og Reykjavíkurgrágrýtinu. Á hæstu bungu hans, Grímshól, stefna jökulrispur til norðurs, en yzt á kjálkanum til vesturs, og eru þær eldri. Þær jökulrákir sýna, að á ísöld hefur Faxaflói verið hulinn jökli, en í lok hennar hefur flóinn myndazt og jöklar ekizt út af Suðurkjálkanum til norðurs og suðurs. Upp af Njarðvíkum sjást skýr fjörumörk á stapanum í um 20 metra hæð yfir núverandi sjávarmál. Á Hvaleyrarholti við Hafnarfjörð eru slík fjörumörk í 33 m hæð, en 45 m hæð við Reykjavík. Þetta sýnir, að landið hefur risið úr sjó því meir sem innar dregur, en jökulfargið hefur auðvitað hvílt þyngra á miðbiki þess en útnesjum.

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur – gígurinn.

Inn af stapa taka við Vatnsleysustrandarhraun. Þau eru einna forlegust hrauna á Suðurkjálka, sennilega um 8000 til 9000 ára; helztu aldursmerki eru m. a. fjörumörk hjá Kúagerði í um 10 m hæð. Það er eini staðurinn á Íslandi, þar sem þess sjást merki, að sjór hafi staðið hærra en nú á hrauni, sem runnið er eftir ísöld. Hrafnagjá og Aragjá, stóra og litla, vitna einnig um aldur hraunsins, því að þær hverfa undir önnur hraun yngri. Vatnsleysustrandarhraun eru runnin frá mikilli dyngju nafnlausri suður af Keili. Hún er mjög flöt, svo að ófróðum mönnum sést yfir, að hér er um eldfjall að ræða.

Kúagerði 1912

Í Kúagerði 1912.

Um Suðurkjálka liðast engar ár, þar falla ekki einu sinni lækir; regn hripar í gegnum hraunin, og jarðvatn fellur eftir neðanjarðaræðum til sjávar. Við Straum eru miklar uppsprettur í fjörunni, en Vatnsleysuströndin ber nafn með rentu, því að þar er víða ekkert ferskt vatn að fá nema regnvatn af þökum. Við Kúagerði er dálítil tjörn; þar er forn áningarstaður, en betra þótti ferðamönnum að hafa eitthvað meðferðis til þess að blanda drykkjarvatnið.
Norður af Höskuldarvöllum við Trölladyngju er snotur eldborg, en úr henni hefur Afstapahraun runnið. Höskuldarvellir eru eitt mesta graslendi Suðurkjálka, og var vegur lagður þangað fyrir nokkrum árum og tekið að rækta vellina; því miður var þá gígnum spillt með malarnámi.

Víkingaskip

Víkingaskip í Afstapahrauni.

Afstapahraun mun runnið nokkru fyrir landnámsöld, og hefur þá sennilega nefnzt Hvassahraun, samnefnt bæ sem stendur austan við hraunið. Vafasamt er, hvernig heitið Afstapahraun er til orðið. Handan Afstapahrauns taka við fornleg hraun að nýju, þó hvergi nærri jafngömul og Vatnsleysustrandarhraunin. Þau munu runnin frá ýmsum eldstöðvum undir Sveifluhálsi, m. a. við Mávahlíðar.
Við Straum er einna náttúrufegurst á leiðinni sunnan af strönd. Þa r eru miklar uppsprettur í fjöru, eins og áður segir.

Kapellan

Kapellan – sjá má leifar Alfaraleiðarinnar, sem lá framhjá henni.

Kapelluhraun nefnist hraunflákinn norðan vegar austur af Straumi, en heildarnafn á hrauni þessu er Bruninn. Það nefnist Nýjahraun í Kjalnesingasögu og máldögum fornum og mun runnið á fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Það er komið upp í um 7 km langri gossprungu við Undirhlíðar norðaustur frá Vatnsskarði. Kapelluhraun dregur nafn af kapellu, dálitlu byrgi við gamla veginn í hrauninu. Við rannsókn fyrir fáum árum fannst þar lítið líkneski heilagrar Barböru. Á þeim stað hefur voveiflegur atburður gerzt fyrir siðaskipti, en engar öruggar sögur greina þar frá tíðindum. — Hraunið hefur steypzt fram af sjávarhömrum, en ægir lítt unnið á því til þessa, af því hve það er ungt.
Milli Hvaleyrarholts og Brunans er Hvaleyrarhraun, fremur flatt helluhraun og mjög ellilegt. Til marks um aldur þess eru bergstallar, sem sjór hefur klappað í hraunið í flæðarmáli, þar sem heitir Gjögrin. Þar eru miklar lindir, sprettur fram vatn 4.3° heitt sumar og vetur. Trúlegt er, að þar komi fram vatnið úr Kaldá, sem hverfur í hraunið upp af Hafnarfirði, eins og kunnugt er.

Hvaleyri

Hvaleyri t.v., Holtið í miðið og Hraunhóll lengst t.h.

Austast í Hvaleyrarhrauni við vegamót Krísuvíkurvegar er gryfja, sem nefnist Rauðhóll. Þarna var áður lítið snoturt eldfjall, eflaust eitt hið minnsta hér á landi, og er víst réttar að tala um gíghól. Hann hefur nú verið numinn burt til vegagerðar, en gígtappinn stendur þó eftir. í miðju eldvarpinu, hefur reynzt mokstrarvélum of harður undir tönn. Rauðhóll er eða raunar var eldri en Hvaleyrarhraun, því að það lá utan á honum á alla vegu og ofan á rauðamölinni, en þunnt moldarlag og brunnir lyngstönglar finnast á mótum malar og hrauns. Undirlag rauðamalarinnar er barnamold, sem myndazt hefur í ósöltu vatni. Þarna hefur því verið tjörn endur fyrir löngu, en undir barnamoldinni er ægisandur með skeljabrotum, svo að hingað hefur ægir einhverntíma teygt arma sína.
Þá hefst Hvaleyrarholt með fjörumörkum í 33 m hæð. Er þar komið í Hafnarfjarðarblágrýtið, en það nær austur yfir Hamarinn að Hamarskotslæk, sem fellur með suðurjaðri Hafnarfjarðarhrauns. Það er runnið úr Búrfellisgíginn af Helgadal og greinist að nöfnum í Vífilsstaðahraun, Hafnarfjarðarhraun, Garðahraun og Gálgahraun. Ef til vill var Álftanes eyja, áður en Hafnarfjarðarhraun rann og fyllti sundið milli lands og eyjar. Hraunsholtslækur, sem fellur úr Vífilsstaðavatni fylgir norðurbrún hraunsins.

Sagan

Oddur. Gíslason

Séra Oddur V. Gíslason.

Um aldaraðir hafa Íslendingar lagt leið sína suður með sjó, þrammað þar eftir götutroðningum oft með drápsklyfjar í illri færð um miðjan vetur á leið í verið og haldið til baka með mikinn eða lítinn afla að vori. Á síðustu öld var ein ferð suður á nes öðrum frægari. Haustið 1870 fór Oddur Vigfús Gíslason prestaskólakandidat gangandi úr Reykjavík suður í Njarðvíkur eins og margir aðrir og kom þar að Þórukoti til Björns vinar síns síðla dags. Oddur var 34 ára og hafði lagt gjörva hönd á margt, meðal annars unnið við lýsisbræðslu suður í Höfnum. Þar hafði hann kynnzt Önnu Vilhjálmsdóttur, 19 ára heimasætu í Kirkjuvogi, og felldu þau hugi saman. Svo kom, að Oddur bað meyjarinnar, en Vilhjálmur Hákonarson, faðir hennar, synjaði honum ráðahagsins, taldi Odd lítinn reglumann, efnalausan og eigi Iíklegan til auðsælda. Vilhjálmur var héraðshöfðingi suður þar, þótti ráðríkur og bar ægishjálm yfir sveitunga sína.
Erindi Odds kvöldið góða var að fá Björn í Þórukoti til þess að aðstoða sig við að nema Önnu í Kirkjuvogi að heiman næstu nótt. Björn léði honum tvo röska menn til fararinnar. Þeim tókst að ná önnu og komast með hana inn í Njarðvíkur undir morgun. Þegar þangað kom, hafði Björn hrundið fram sexæringi albúnum til siglingar. Þau Oddur stigu strax á skip, en í sömu svifum bar þar að eftirreiðarmenn Vilhjálms bónda, en þeir fengu ekkert að gert. Oddur sigldi með heitmey sína til Reykjavíkur og voru þau þar gefin saman af dómkirkjuprestinum á gamlársdag 1870.

Erlendar bækistöðvar, ofríki og orustur

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Klaustrið ofar á Ófriðarhæð.

Fæstar ferðir manna suður með sjó hafa verið jafnrómantískar og séra Odds. Þótt Suðurkjálkinn sé ekki ýkjafrjósamur, þá hefur hann um langan aldur haft töluvert seiðmagn sökum auðsældar. Þar og í Vestmannaeyjum hafa erlend ríki og erlendir menn verið ásælnastir og ágengastir á Íslandi, og eru af því langar frásögur. Á 15. öld settust Englendingar að i hverri krummavík á Suðurnesjum og sátu þar sums staðar innan víggirðinga eins og til dæmis í Grindavík. Eftir nærfellt 150 ára setu tókst að lokum að flæma þá burt, en það kostaði blóðfórnir. Hæðin, sem klaustrið í Hafnarfirði stendur á, hét að fornu Ófriðarhæð. Eigi er vitað, hve sú nafngiftar mötur koma til Njarðvíkur eftir skipan umboðsmannsins á Bessastöðum fluttar með bændanna kostnað bæ frá bæinn að Bessastöðum, en flytjast frá Ytri Njarðvík á hestum til Stafness yfir heiðina. — En nú að auki — setti umboðsmaður bát hingað — í fyrstu með bón og síðan með skyldu, tveggja manna far, sem ganga skyldi um vertíð, en ábúandinn að vertíðarlokum meðtaka skipsábata, verka hann og vakta til kauptíðar, ábyrgjast að öllu og flytja í kaupstað. Item hefur ábúandinn til þessa báts svo oft sem nauðsyn hefur krafið, orðið að leggja árar, keipla, drög, dagshálsa og austurtrog, og fyrir allt þetta enga betaling þegið”. — Við Innri-Njarðvík segir m. a.: „Kvaðir eru mannslán um vertíð suður á Stafnes. — Hér að auk að gegna gisting þeirra á Bessastöðum, umboðsmannsins, sýslumannsins og þeirra fylgdarmanna, hvenær sem þá að ber, vetur eða sumar, vor eða haust, og hvað fjölmennir sem eru, hafa þeir í næstu 16 ár með sjálfskyldu þegið mat, drykk og hús fyrir menn, hey, vatn og gras fyrir hesta svo langa stund og skamma, sem sjálfir þeir vilja”, auk margra annarra kvaða. Þannig voru álögurnar á hverri jörð nema kirkjustaðnum.

Kaupþrælkun

Hólmfastskot

Tóftir Hólmfastskots.

Á dögum illræmdrar kaupþrælkunar voru Suðurnesjamenn oft hart leiknir af hálfu kaupmanna. Alkunn er sagan um Hólmfast Guðmundsson, hjáleigumann á Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd, en bærinn stendur milli Kálfatjarnar og Voga. Hann drýgði það ódæði að selja 3 löngur, 10 ýsur og 2 sundmagabönd í Keflavík árið 1698, en samkvæmt kaupsvæðaskiptingu átti hann að verzla í Hafnarfirði, en kaupmaður hans þar vildi ekki nýta þessa vöru. Fyrir þennan glæp var Hólmfastur húðstrýktur miskunnarlaust, bundinn við staur á Kálfatjarnarþingi í viðurvist Múllers amtmanns, af því að hann átti ekki annað til þess að greiða með sektina en gamalt bátskrifli, sem kaupmaður vildi ekki líta við. Hinn dyggðum prýddi Hafnarfjarðarkaupmaður, sem stóð fyrir málshöfðun og refsingu hét Knud Storm. Nokkru siðar lét hann menn á sama þingstað veita sér siðferðisvottorð, þar sem segir m. a., “að Knud Storm hafi umgengizt frómlega og friðsamlega við sérhvern mann og sína kauphöndlun haldið og gjört í allan máta eftir Kgl. Mts. taksta og forordningum og sérhvers manns nauðsynjum jafnan góðviljuglega gegnt og tilbærilega hjálpað og fullnægt með góðri kaupmannsvöru í allan máta, svo sem sérhver óskað hefur og sérhverjum af oss er vitanlegt. Hvers vegna vér sklduglega viljum gjarna óska, að fyrr vel nefndur kaupmaður mætti vel og lengi með lukku og blessun sömu höndlan fram halda og hljóta (bæði hér á landi og annars staðar) guðs náð og gleðileg velfelli til lífs og sálar æ jafnan fyrir Jesum Kristum”.

Návígi

Jón Thorkellis

Jón Thorchilius – minnismerki.

Ekkert hérað á Islandi hefur jafnrækilega fengið að kenna á alls konar erlendri áþján og siðspillingu að fornu og nýju og Suðurnesin. En allir dagar eiga kvöld. Suðurnesjamenn hafa skapað þessari þjóð mikinn auð með afla sínum og alið henni marga ágætismenn á ýmsum sviðum. Sveinbjörn Egilsson rektor var frá Innri-Njarðvíkum, Jón Thorchillius rektor frá sama stað, svo að tveir afburðamenn séu nefndir. Hér hafa Íslendingar löngum staðið í návígi við ofureflið, en ávallt unnið sigur að lokum, þess vegna er íslenzk þjóð til í dag. Það eru til margs konar orustuvellir á Íslandi, en utan Suðurnesja eru þeir eingöngu tengdir minningum um bræðravíg, hryggilega sundrungu Islendinga sjálfra, sem leiddi til þess að þeir fóru flokkum um landið og drápu hverir aðra. Hér réðust þeir gegn erlendum óvinum og báru ávallt að lokum sigur úr býtum.

„Gullkista”

Vogastapi

Kvíguvogabjarg.

Suðurkjálkinn eða Reykjanesskaginn eins og sumir kalla hann skagar eins og tröllaukinn öldubrjótur út á einhver beztu fiskimið veraldar. Hann er þakinn eldhraunum, flestum runnum nokkru fyrir landnámsöld, hrjóstrugur og grettur, en þó einhver mesta landkostasveit á Islandi. Um Suðurkjálkann liðast engar ár, og þar er jarðvegur svo grunnur, að engjalönd eru nær engin og túnrækt hefur verið miklum erfiðleikum bundin til þessa; hér þarf jafnvel að flytja mold að til þess að hægt sé að hylja kistur í kirkjugörðum. Engu að síður eru kjarngóð beitilönd á Suðurkjálkanum og bújarðir góðar. Þar hefur búpeningur gengið sjálfala á vetrum allt frá dögum Ingólfs Arnarsonar, þangað til Herdísarvíkur-Surtla féll fyrir hundum og mönnum sællar minningar. En skorti hér túnstæði og akurlönd, þá hafa löngum verið hér gullkistur í hafinu við túnfótinn. Eitt frægasta kennileiti á leiðinni suður á nes er Vogastapi, sem nefnist Kvíguvágabjörg í Landnámu, en Gullkista í sóknarlýsingu frá 19. öld “af því mikla fiskiríi, er tíðkað var á færi á hrauninu þar rétt upp undir í útilegum á nóttum”. Skúli Magnússon landfógeti segir í Lýsingu Gullbringu- og Kjósarsýslu: ,,Nú á tímum eru beztu fiskimið í Gullbringusýslu á vetrarvertíð á svæðinu frá Keflavík um Njarðvík, Stapa og inn eftir ströndinni til Brunnastaða. En bezt eru þau talin undir stapa, þar sem þorskurinn gýtur jafnvel á þriggja faðma dýpi; tekur hann þar beztu beitu að næturlagi, þegar dimmt er. Þarna hafa fiskiveiðar tekið miklum framförum síðan 1756, vegna þess að þorskanet hafa verið tekin
í notkun”.
Löngum hefur margs konar hjátrú verið tengd stapanum, hann verið talinn bústaður álfa, og þar hefur þótt reimt; einhverra þeirra sagna verður siðar getið.
Undir Vogastapa eru Njarðvíkur, einn af þeim fáu stöðum á landi hér, sem kenndur er við auðsæla siglingaguðinn Njörð. Sennilega hefur þeim, sem nafnið gaf, þótt guð auðsældarinnar eiga hér nokkurn samastað. En tímarnir breytast og mennirnir með. Botnvörpungar eyðilögðu miðin á flóanum og menn tóku til við vígvallargerð á Miðnesheiði og mál er að linni.

Stapadraugur og steinar

Stapadraugurinn

Stapadraugurinn.

Löngum hefur verið talið reimt mjög á Vogastapa, en afturgöngur þar eru taldar drauga kurteisastar, taka jafnvel ofan höfuðin fyrir tækni nútimans. Á fyrri helmingi 19. aldar bjó Jón Daníelsson hinn ríki á Stóru-Vogum. Þá voru þar miklir reimleikar. Þeir voru þannig til komnir, að bóndinn, sem bjó á Vogum á undan Jóni, úthýsti manni, köldum og svöngum í misjöfnu veðri, en sá var á leið út í Njarðvíkur.
Þessi maður varð úti á Vogastapa nærri Grímshól. Líkið var borið heim að Vogum, og varð bónda svo bilt, er hann leit það, að hann hneig niður. Sumir segja, að hann hafi rankað við aftur, en aldrei orðið jafngóður og andazt skömmu síðar, en aðrir, að hann hafi orðið bráðkvaddur. Sá er úti varð gekk aftur og gerði mönnum skráveifur, en að lokum flæmdi Jón Daníelsson draugsa að búð einni í Vogum, sem hét Tuðra.
„Þar kom hann honum fyrir og bað hann sökkva þar niður til hins neðsta og versta helvítis, þaðan sem hann væri kominn, og gera aldrei framar mein af sér í Vogum”. Eftir það hurfu reimleikarnir, og telja menn draugsa hafa hlýtt fyrirmælunum.
Voga-Jón var talinn framsýnn og margfróður. Eitt sinn á gamalsaldri kom til hans maður, sem jafnan var óheppinn með afla, og bað hann kenna sér ráð gegn óheppninni. Jón sagði honum að fara með austurtrog út í Mölvík undir Vogastapa, en hún er niður undan Grímshól, og koma með það fullt af malarsteinum, og færa sér. Sá óheppni gerði svo. Jón leitaði í austurtroginu, brá steinunum í munn sér og þefaði af þeim. Loks fann hann einn stein, sem honum líkaði, og fékk manninum, og sagði að hann skyldi jafnan hafa hann með sér er hann réri til fiskjar. Eftir þetta brá svo við, í hvert skipti, sem maðurinn reri, að hann dró stanslausan fisk með háseta sínum, en hann var jafnan við annan mann. Þegar svo hafði gengið um hríð, sagði karl hásetanum, hvað Jón Daníelsson hefði gefið sér og sýndi honum steininn. Eftir það brá svo við, að hann fékk aldrei bein úr sjó, og kenndi hann það mælgi sinni.

Hafnarfjörður

Hvaleyri

Minnismerki um Hrafna-Flóka á Hvaleyri.

Til Hafnarfjarðar bar Herjólf og Hrafnaflóka fyrsta manna endur fyrir löngu og fundu þeir hvali á eyri einni, er við þá er kennd. Ekki er vitað hvort Flóki hefur skírt fjörðinn, en þar hefur löngum þótt góð höfn. Hafnarfjörður er í senn eitt elzta og yngsta kauptún landsins. Þar var höfuðbækistöð Englendinga hér á 15. öld og helzti verzlunarstaður landsins. Um 1470 tóku Þjóðverjar eða Hansamenn, eins og kaupmenn þeirra nefndust í þann tíð, að venja hingað komu sína og boluðu Englendingum smám saman burt úr Hafnarfirði. Talið er, að úrslitaorustan hafi staðið um 1518. Eftir það réðu Þjóðverjar einkum frá Hamborg mestu í Hafnarfirði um skeið, og þar mun siðabót Lúthers fyrst hafa fest rætur hér á landi. Árið 1537 stendur þar vönduð kirkja, sem Þjóðverjar höfðu reist. Um þær mundir og lengi síðan var Reykjavik bóndabýli, venjulega nefnd Vík á Seltjarnarnesi.
Bjarni SívertsenFram til loka 18. aldar var utanríkisverzlun Íslendinga og aðflutningur til landsins nær eingöngu í höndum útlendinga, sem sátu hér í helztu verzlunarhöfnunum. Íslenzk borgarastétt á upphaf sitt í Hafnarfirði eins og svo margt annað.

Fyrsti íslenzki kaupmaðurinn, Bjarni Sivertsen, hóf verzlun í Firðinum 1793. Hann stundaði einnig útgerð og skipasmíðar, og hljóp fyrsta skipið af stokkunum í skipasmíðastöð hans árið 1803. Atvinnusaga Íslendinga var um skeið mjög tengd Hafnarfirði. Allt um það er borgin ung, því að kaupstaðarréttindi fær hún fyrst árið 1907.
Flensborgarskólinn er elzti gagnfræðaskóli landsins, stofnaður 1877, kenndur við verzlunarhús kaupmanna frá Flensborg. Þau stóðu út með firði að sunnan, og var skólinn þar fyrst til húsa. — Í Hafnarfirði var sett fyrsta rafmagnsstöðin hér á landi, 1904.

Milli Hafnarfjarðar og Kópavogs

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir fyrrum.

Þegar kemur út úr Hafnarfjarðarhrauni við Engidal, hefst Garðahreppur og hverfið Silfurtún. Uppi á ásnum við Vífilsstaðaveg standa Hofstaðir. Þar hefur verið hof í heiðni; Ingólfur Arnarson og niðjar hans hafa gengið þar að blótum. Þarna er sennilega elzti helgistaður i nágrenni höfuðborgarinnar. Þaðan blasir Helgafell vel við, en menn trúðu því sennilega hér um slóðir, að þeir settust þar að eftir dauðann.
Vífilsstaðir eru kenndir við leysingja Ingólfs, en sá fann að lokum öndvegissúlur húsbónda síns reknar fyrir neðan heiði.

Vífilsfell

Vífilsfell.

Þjóðsögur herma, að hann hafi brugðið sér á morgnana upp á Vífilsfell til þess að skyggnast til veðurs, en litist honum það bærilegt, tók hann annað Maraþonhlaup út á Gróttu til róðra. — Vífilsstaðahælið tók til starfa 1910.
Hraunið gegnt Bessastöðum austan Lambhúsatjarnar nefnist Gálgahraun, en Gálgaklettar eru allháir nær hraunbrúninni. Þeir blasa vel við úr stofugluggum á Bessastöðum, og er sagt, að þessi aftökustaður hafi verið ákveðinn, til þess að höfðingjar staðarins þyrftu ekki að ómaka sig að heiman, en gætu fylgzt með athöfnum við Gálgakletta úr híbýlum sínum. Í nágrenni klettanna hefur fundizt mikið af mannabeinum.

Dysjar sakamanna

Arnarnes

Gamla þjóðleiðin frá Kópavogi yfir Arnarnesháls. Litla-Arnarnes t.v. og Kópavogsþingstaður þar fyrir ofan.

Arnarneslækur fellur í Arnarnesvog, en býlið Arnarnes stóð við vogsbotn. Uppi á nesinu stendur steinstólpi mælingamanna, en skammt frá er dálítil þúst; þar er huslaður Hinrik nokkur Kules, þýzkur maður, en hann drap mann nokkurn á Bessastöðum á jólanótt 1581, og var sjálfur tekinn af „á almennilegu þriggjahreppa þingi” í Kópavogi.
Arnarnes, Hofstaðir og Vífilsstaðir eru í Garðahreppi, en Kópavogur og Fífuhvammur í Kópavogskaupstað, og verða mörk kaupstaðar og hrepps á landamerkjum þessara jarða.

Þorgarðsdys

Þorgarðsdys.

Nokkru utar við Hafnarfjarðarveg liggur „gamli vegurinn” yfir Arnarnesið, en kotið Litla-Arnarnes stóð við Kópavog, og sér þar móta fyrir tóftum. Austan gamla vegar ofan við Litla-Arnarnes er dys, sem nefnist Þorgarður. Þar á að liggja vinnumaður frá Bústöðum, er Þorgarður hét. Talið er að vingott hafi verið með honum og húsfreyju, nyti Þorgarður góðs atlætis heima í koti er húsbónda mæddi vosbúð við gegningar.
Þegar bóndi fannst drukknaður í Elliðaám, var Þorgarður tekinn og kærður fyrir morð. Ekkert sást á líkinu og Þorgarður þrætti. Hann var þó dæmdur til dauða af líkum, en leyfðist að leysa höfuð sitt með allhárri fjárhæð, af því að sönnunargögn skorti. Ekki átti Þorgarður fé, og í nauðum leitaði hann til bóndans á Seli á Seltjarnarnesi og hét að þjóna honum og niðjum hans af trú og dyggð meðan sér ynnist aldur og orka, ef hann leysti líf sitt. Bónda gekkst svo hugur við vandræðum Þorgarðar, að hann tók fram sjóði sína, en hann var ríkur, og fór að telja fram lausnargjaldið. Í því kom kona hans inn í stofuna og spurði, hvað hann vildi með allt þetta fé. Bóndi segir sem var. Gekk þá konan að borðinu, tók upp bæði svuntuhorn sín að neðan og sópar með annarri hendinni öllum peningunum þar ofan í og segir: „Líði hver fyrir sínar gjörðir.” Þorgarður segir: „Ekki mun hér skilið með okkur, því að ekki er það meira fyrir mig að sjá svo um, að kveðja mín fylgi ykkur hjónum og ætt ykkar í níunda lið.” — Hann var tekinn af, en gekk aftur og fylgdi Selsfólkinu og hlaut afturgangan af því nafnið Sels-Móri.

Kópavogseiðar

Kópavogur

Kópavogsþingstaður – skilti.

Þingstaður við Kópavog lá undir handarjaðri danska valdsins á Bessastöðum; þess vegna bauð Friðrik II. 1574 að flytja alþingi frá Þingvelli til Kópavogs, en Islendingar hlíttu aldrei þeim konungsboðskap. Hér voru hinir illræmdu Kópavogseiðar unnir, mánudaginn 28. júlí 1662. Þar setti Árni lögmaður Oddsson þing, en Hinrik Bjelke höfuðsmaður, sem þá var nýkominn til landsins á herskipi, lét vopnaða hermenn standa hringinn í kringum þingheim. Höfuðsmaður beiddist af þingheimi, að hann hyllti Friðrik konung III., og virðist það hafa gengið fram mótspyrnulítið. Þá lagði Bjelke fram eiðyaldsskuldbindinguna til staðfestingar, en þar „staðfestum og styrkjum vér (Íslendingar) honum (konungi) allir og einhver til samans með öðrum hans Majestatis trúum undirsátum með þessu voru opnu bréfi háverðugri hans Majst sem einum fullkomnum einvaldsstjóra og arfaherra hans arfsrétt til Íslands og þess undirliggjandi insuler og eyjar, sem og allan Majestatis rétt og fullkomna stjórnun og allt konungsvald, sem hans konungl. Majst. og hans Majst. skilgetnum lífserfingjum og skilgetnu afkvæmi og eftirkomendum svo lengi sem nokkur af þeim er til í karllegg eða kvenlegg, er í fyrrnefndum act og gjörningi bæði af Danmerkur og Norvegsríkis stéttum er gefið og eftir látið.

Kópavogur

Minningarsteinn um erfðahyllinguna á Kópavogsþingstað.

Hér með afleggjum vér fyrir oss og vora erfingja og eftirkomendur allt það, sem í fyrri vorum fríheitum, landslögum, Recess og Ordinanzíu kann finnast stríða í móti Majestatis rétti ellegar maklega má þýðast að vera í mót Majestatis réttri einvaldsstjórn og fullkomnum ríkisráðum.”

Brynjólfur biskup Sveinsson virðist fyrstur hafa orðið fyrir svörum af hálfu landsmanna, og tjáði hann Bjelke höfuðsmanni, að Íslendingar væru ófúsir að afsala sér öllum réttindum í hendur annarra. Bjelke svaraði biskupi einungis með því að spyrja, hvort hann sæi ekki hermennina. Eftir það fara ekki sögur af neinum mótþróa biskups eða klerka hans gegn staðfestingu einveldisins. Árni Oddsson lögmaður stóð þá á sjötugu. Hann neitaði að skrifa undir og stóð svo allan daginn. Loks kom svo, að hann lét undan hótunum höfuðsmanns og skrifaði undir tárfellandi. — Var þá slegið upp ypparlegri veizlu, sem stóð langt fram á nótt. Þeir sýsluðu upp á hljóðfæri til veizlunnar, trometa, filur og bumbur og hleyptu skotum af feldstykkjum 3 í senn. — Þá gengu rachetter og fýrverk af um nóttina. —

Kópavogur

Kópavogur – minjar.

Neðst í túninu á Kópavogi við veginn eru rústir hins fræga Kópavogsþings: Þinggerði og Þinghústóft. Fyrstu sögur af Kópavogsþingi eru frá fyrri hluta 16. aldar og tengdar landsölumáli. Kristján II. Danakonungur hafði lagt sig allan fram um það að selja hinum fræga Hinriki VIII. Englandskonungi eyjuna Ísland með öllum gögnum, gæðum og réttindum. Einhverjir samningar virðast hafa tekizt laust eftir 1520. Þá kemur hingað Týli Pétursson frá Flensborg og telur sig hafa eitthvert umboð yfir landi. Ekki leizt Íslending- […?] fullkominni óbótamaður á Kópavogsþingi og síðar tekinn af lífi; sumar heimildir segja, að aftakan hafi verið framkvæmd heima á Bessastöðum. Þegar Hinrik frétti þetta, sendi hann vini sínum, Kristjáni II. orðsendingu þess efnis, að hann væri afhuga öllum Íslandskaupum, af því að sér væri orðið kunnugt, að Íslendingar væru búnir að drepa alla styrktarmenn þeirrar höndlunar.
Kópavogur
Við vegbrúnina austur af Þinghústóft er aflöng dys, gróin grjóthrúga, og nefnist Hjónadysjar, en þar rétt norðaustur af voru svonefnd Systkinaleiði. Þau hafa nú lent undir húsum við Fífuhvammsveg. Í Hjónadysjum er talið, að þjófar tveir liggi, maður og kona, sem Árni Magnússon segir, að legið hafi í Hraunhelli fyrir sunnan gamla örfiriseyjarsel um 1677, en náðust og voru tekin af. Engar áreiðanlegar sagnir eru um, hverjir hafi átt að hvíla í Systkinleiðum, en ágizkanir greina frá sakafólki frá Árbæ. Um 1700 bjó þar ungur og ókvæntur maður með móður sinni, Sigurður Arason að nafni. Á móti honum sátu jörðina Sæmundur Þórarinsson og Steinunn Guðmundsdóttir. Er ekki orðlengja, að ástir takast með Sigurði og Steinunni. Þann 21. sept. 1704 fannst Sæmundur örendur í Skötufossi í Elliðaám; Sigurður var grunaður um morð, tekinn og meðgekk hann að hafa unnið á Sæmundi að undirlagi konu hans. Steinunn játaði hlutdeild sína og voru þau tekin af 15. nóv. 1704, „Sigurður höggvinn skammt frá túngarði í landnorður frá þinghúsinu, en Steinunni drekkt í læknum þar fyrir austan. Hafði höggstaðurinn ávallt áður verið uppi á hálsinum, en drekkt i Elliðaá syðri,” segir í gömlum annál.
Árbæjarmálið minnir óneitanlega mjög á þjóðsögurnar um Þorgarð.
Allmiklar heimildir eru til um fólk, sem lét lífið á þessum stað á dögum erlendrar harðstjórnar og kaupþrælkunar, sumt fyrir engar sakir að okkar dómi. Þannig fæddi Guðrún Oddsdóttir vinnukona í Kirkjuvogi andvana barn, en faðir þess var giftur maður. Hún reyndi að leyna fæðingunni, en upp komst og var hún tekin af lífi, drekkt sennilega í Elliðaám.
Hér var fjallað um hin illræmdu Hvassafellsmál og Swartskopfsmál, morðmál á Bessastöðum. En það skiptir ávallt nokkru hverjir glæpina drýgja. Höfðingjarnir, sem létu sálga Appolloniu Swartskopf voru auðvitað sýknaðir. Um þetta mál fjallar Guðmundur Daníelsson í skáldsögunni Hrafnhetta.”

Heimild:
-Keflavíkurgangan, 1. tbl. 19.06.1960, Samtíningur um Suðurnes – Björn Þorsteinsson, bls. 42-50.

Latur

Í Tímanum 1996 er grein um “Frumbyggja í Kópavogi og yngri kynslóðir sem eiga sér þjóðsögur líkt og aðrir”. Anna Hedvig Þorsteinsdóttir og Inga Þóra Þórisdóttir segja frá:

“Rótarýklúbburinn í Kópavogi hefur gefið út bókina Þjóðsögur og sagnir úr Kópavogi, sem Anna Hedvig Þorsteinsdóttir og Inga Þóra Þórisdóttir söfnuðu af elju meöal eldri Kópavogsbúa. Einnig fengu þær að láni spólur frá Stofnun Árna Magnússonar með viðtölum Hallfreðar Arnar Eiríkssonar við eldri Kópavogsbúa, sem tekin voru upp árið 1967. Bókin er unnin upp úr lokaritgerb Önnu og Ingu úr Kennaraháskóla Íslands og eru sögurnar býsna
fjölbreyttar. Þar má finna sögur af hinum fræga Jóa á hjólinu, draugum, karlinum sem býr orðið einn í Álfhólnum, Jóni í Digranesi, Kársnesorminum og huldufólki, svo eitthvað sé nefnt. Hér á síðunni birtist ein huldufólkssagan. Hún segir frá huldukonunni á peysufötunum sem safnararnir höfðu eftir Kristni Hallssyni.

Huldukonan á peysufötunum

Latur

Latur.

Á fyrri hluta þessarar aldar var byggð ekki mikil í Kópavogi. Mátti þó sjá bústaði, sem fólk hafði reist sér til sumardvalar, og einnig var farið að bera á því að bústaðir þessir væru nýttir sem íbúðarhúsnæði árið um kring. Í Digraneslandi stóðu nokkrir þessara bústaða neðst í sunnanverðri Digraneshlíð þar sem Digraneslækur rennur.
Þá bjó í Reykjavík ungur drengur ásamt fjölskyldu sinni og hét Kristinn Hallsson. Drengurinn þótti söngvinn með eindæmum og síðar varð hann landsfrægur söngvari. Foreldrar Kristins áttu sumarbústað niðri við Digraneslækinn og dvöldu þar jafnan sumarlangt með börnum sínum.
Áslaug Ágústsdóttir hét móðursystir Kristins, hávaxin kona og grönn. Hafði hún þann sið að heimsækja fjöskylduna og kom þá ætíð fótgangandi eftir Fossvogsdalnum og yfir Digraneshálsinn sem leið lá að sumarbústaðnum. Brá hún aldrei af þeirri leið.
Dag nokkurn um miðsumar var von á Áslaugu til Kópavogs. Börnin voru þá úti við leiki. Láta þau fljótlega af þeirri iðju og halda af stað til móts við Áslaugu. Fara þau hægt yfir og tína upp í sig ber á leiðinni upp hæðina. Uppi á hæðinni var mikill steinn, sem eldri menn sögðu vera álagastein. Mun þetta hafa verið steinninn Latur, sá sami og Jón bóndi í Digranesi var vanur að sitja á þegar hann var kenndur og syngja, sem frægt var á hans tíma. Var steinninn á gönguleið Áslaugar.

Latur

Latur.

Barnahópurinn var nú staddur skammt frá honum og var Kristinn Hallsson í broddi fylkingar eins og venjulega. Sjá börnin öll hvar kona ein birtist skammt undan steininum. Var hún í peysufötum líkum þeim sem Áslaug klæddist jafnan. Há var hún og grannvaxin líkt og Áslaug og taldi Kristinn að móðursystir sín væri þar á ferð, enda ekki von á öðrum mannaferðum. Þegar ekki er lengra en tíu fet á milli konunnar og barnanna, sér Kristinn að þetta er ekki Áslaug eins og þau áttu von á. Þá fyrst er sem konan verði þess vör að börnin veiti henni athygli. Nemur hún snögglega staðar, setur upp undrunarsvip og síðan hræðslusvip. Snýr hún snögglega á braut og tekur til fótanna upp hlíðina og hverfur sjónum skammt frá steininum. Fylgja börnin konunni eftir uns þau koma upp á hálsinn þar sem útsýni er allgott yfir Fossvoginn. Ekki var þar sálu að sjá svo langt sem augað eygði. Fátt var um felustaði og var engu líkara en að jörðin hefði gleypt konuna. Leituðu þau þá allt í kringum steininn, en án árangurs.
Gengu nú börnin heim á leið og sögðu fólki frá atburðinum og konunni í peysufötunum. Flestir urðu undrandi yfir þessum tíðindum, en margir hinna eldri létu sér fátt um finnast. Sögðu þeir að þarna á Digraneshálsinum hefði verið á ferð huldukona. Mun henni hafa brugðið er hún varð þess vör að börnin sáu hana. Í það sinnið hefur hún gleymt að setja upp huliðshjálminn, eins óg kallað var.”

Heimild:
-Tíminn, 131. tbl. 13.07.1996, Frumbyggjar í Kópavogi og yngri kynslóðir eiga sér þjóðsögur líkt og aðrir, Anna hedvig Þorsteinsdóttir og Inga Þóra Þórisdóttir, bls. 6.

Digranes

Digranes – gamla bæjarstæðið t.h.