Tag Archive for: Krýsuvík

Stóra-Eldborg

Þorvaldur Thoroddsen skrifaði um „Ferðir um Suðurland sumarið 1883„. Skrifin birtust m.a. í Andvara 1884:

„Frá Geitahlíðarenda og vestur að Ögmundarhrauni er hraunlaus kafli og er það fásjeð á Reykjanesi. Þetta hraunlausa svæði nær frá Kleyfarvatni suður í sjó milli Sveifluháls og Lönguhlíðarfjallanna, en undir eins og Sveifluháls sleppur, taka við eilíf brunahraun. Í Geitahlíð, sem er suðvesturhlutinn af Lönguhlíð, eru dóleríthamrar efst, en móberg undir; svo er jarðmyndunin frá Herdísarvík norður að Grindaskörðum.

Grænavatn

Grænavatn.

Nyrzt í dældinni milli Lönguhlíðar og Sveifluháls er Kleifarvatn; fram með því liggur vegur úr Hafnarfirði, en nú var eigi hægt að fara hann, því svo mikill vöxtur var í vatninu. Menn hafa tekið eptir því, að Kleifarvatn vex og þverrar á víxl, og vex jafnvel mest, þegar þurrkar ganga — að því er menn segja — hvernig sem því er nú varið; í því er engin veiði, engin branda nema hornsíli. Sunnar, nálægt Krýsuvík, eru tvö mjög einkennileg vötn, Grænavatn og Geststaðavatn, litlu fyrir neðan námurnar; þau eru bæði kringlótt og mjög djúp; sagt er, að sextugu færi hafi verið rennt í Grænavatn og eigi náð botni. Vötn þessi eru á flötum melum og melgarður eða melbryggja hringinn í kringum þau. Skálar eða katlar líkir þessum, en minni og vatnslausir, eru þar í kring.

Krýsuvík

Krýsuvík – Baðstofa framundan; Krýsuvíkurnámurnar sunnan Seltúns.

Krýsuvíkurnámur eru utan í Sveifluhálsi, norður af Krýsuvík, og dálítið fyrir neðan hann. Móberg er í hálsinum öllum, og brennisteinsblettir og sundursoðinn leir allvíða í honum; en mest kveður þó að því við Krýsuvík. Hinar súru gufur koma upp um sprungur í móberginu; í giljum og vatnsræsum, er ganga niður í fjailið, hefir jarðvegurinn við það soðnað allur í sundur; móbergið er orðið að marglitum leir og gegnumofið af brennisteinssúrum steinsamböndum.

Baðstofa

Hverasvæðið norðan Baðstofu í Krýsuvík.

Víða eru þar stórir, bullandi leirkatlar, sem alltaf sýður í; fremur lítið er þar samt um brennistein, og miklu minna en í námurnar fyrir norðan í Þingeyjarsýslu. Móbergið er víða upplitað og orðið hvítleitt af gufunum, en hraunmolarnir úr því liggja lausir kolsvartir ofan á, af því að soðnað hefir í kringum þá. Undarlegt þykir mjer, ef það getur borgað sig að vinna þær. Ensku fjelögin, sem hafa námurnar, og ætla sjer að taka þar brennistein, kopar og buris, eru byggð í lausu lopti á hlutabrjefum. Englendingur nokkur, J. W. Busby, keypti fyrst Krýsuvíkurnámur 1858 fyrir milligöngu Dr. Jóns Hjaltalíns; sjera S. B. Sivertsen og Sveinn Eiríksson bóndi í Krýsuvík seldu fyrir 1400 dali; eptir kaupbrjefinu mega Englendingar taka allan brennistein í Krýsuvíkurtorfu og Herdísarvíkurlandi, ásamt öllum málmiðartegundum, or þar kynni að finnast; auk þess hafa þeir ýms rjettindi önnur. Síðan hafa námurnar farið hendi úr hendi og verið seld í þeim hlutabrjef.

Frá Krýsuvík fórum við snöggva ferð upp í Trölladyngju, sem jeg þá skoðari miklu nákvæmar seinna um sumarið, og síðan niður að Kaldárseli. Vegurinn liggur um Ketilstíg, síðan norður með Sveifluhálsi að vestan og svo fram með Undirhlíðum.

Ketilsstígur

Ketilsstígur – í hlíðinni hægra megin við Ketilinn.

Sveifluháls er allur úr móbergi, og á honum ótal tindar og hnúkar; hvergi hefir gosið í þessum hálsi, og engin eru þar eldmerki, nema mjög gamlir gígir við suðurenda hálsins nálægt Mælifelli. Hálsinn er víða sundursoðinn af súrum eldfjallagufum, og þeir hafa, ef til vill, einmitt þess vegna engin gos komið, af því að gufurnar höfðu þar stöðuga útrás; annars eru öll fjöllin og dalirnir í kring sundurrótaðir af jarðeldum og eintómar gígaraðir fram með hverri hlíð. Undirhlíðar eru nokkurs konar áframhald af Sveifluhálsi, eða þó öllu heldur hjalli, er gengur út undan norðurenda hans, og halda þær áfram norður fyrir Helgafell.

Gvendarselshæðargígar

Nyrstu Gvendarselshæðargígarnir norðvestan Helgafells.

Fram með Undirhlíðum eru margar gígaraðir, og eru sumir eldgígirnir upp á rönd þeirra rjett við Helgafell. Frá gígum þessum hafa mikil hraun runnið. Undir miðjum hlíðunum eru mjög nýlegir gígir; þeir hafa hlaðizt upp úr uppblásnum hraunsteinum, sem er tyldrað hverjum ofan á annan, og eru þeir því fjarska brattir. Aðalgígurinn er 70 fet á hæð og hefir 40—50° halla út á við. Úr pessum gígum hefir Kapelluhraun runnið niður í sjó sunnan við Hafnarfjörð. Þetta hraun hefir eflaust runnið síðan land byggðist; útlit þess bendir til þess, og í fornum bókum er það kallað Nýja-hraun, þannig t. d. í Kjalnesingasögu, og í íslenzkum annálum er sagt frá því, að skip hafi brotnað 1343 við Nýja-hraun fyrir utan Hafnarfjörð.

Kapelluhraun

Kapelluhraun norðanvert – eldvörp og gamlar sprungur.

Kapelluhraun hefir runnið niður með hlíðunum fyrir neðan Kaldársel niður að Stórhöfða, en beygir þar frá þeim til vesturs og norðurs. Sumir eldgígarnir og hraunstraumarnir við Helgafell eru mjög nýlegir. Á einum stað sá jeg þar mjög einkennilegan, sjerstakan hraunblett; hraunið hafði runnið út úr smáholum utan í litlu melbarði og fossað niður í smálækjum eins og uppsprettur; engir gígir höfðu samt myndazt, eins og vant er að vera við hraun, heldur hafði hraunleðjan beinlíns ollið á nokkrum stöðum út úr sprungu í melbarðinu; sprungan sjest eigi, en opin eru í vanalega stefnu, eins og aðrir gígir þar í nánd, frá norðaustri til suðvesturs; kringum uppvörpin er dálítil hrúga af hraunsteinum og svo hraunpípur niður úr; hraunbletturinn, sem komið hefir úr opum þessum, er mjög lítill, á að gizka 300 faðma langur og 10—20 faðma breiður.

Búrfellsgjá

Búrfellsgjá.

Ásarnir, sem ganga niður undir Hvaleyri, eru nokkurs konar álma út úr Undirhlíðum og skilur hún Kapelluhraun frá Hafnarfjarðarhrauni. Hafnarfjarðarhraun er mjög gamalt; það virðist hafa komið úr stórum gömlum gíg norður af Helgafelli og vestur af Húsfelli, en síðan hefir landið milli þess gígs og Setbergshlíðaenda sokkið, og sjest vel í gjábarminum vestri allt norður undir Elliðavatn. Önnur gjá hefst rjett fyrir vestan Húsfell og gengur í suðvestur með Helgafelli suður um hraun þau, er komin eru frá Grindaskörðum; hún heitir Gullkistugjá; yfir hana verður eigi komizt nema á einstöku stað.“

Heimild:
-Andvari, 1. tbl. 01.01.1884, Ferðir um Suðurland sumarið 1883, Þorvaldur Thoroddsen, bls. 25-28.

Gullkistugjá

Gullkistugjá.

Búðarvatnsstæðið

Í Örnefnalýsingu fyrir Krýsuvík segir Þorsteinn Bjarnason frá Háholti m.a. frá Búðarvatnsstæðinu:

Búðarvatnsstæðið

Búðarvatnsstæðið.

„Frá Dagon er landamarkalínan í Núphlíð. Austan í henni, syðst, er Skalli, en austan undir Núphlíð er Sængurkonuhellir. Frá Núphlíð eru landamerki sjónhending í vesturrætur á Trölladyngjum, frá þeim í Markhelluhól við Búðarvatnsstæði. Að norðan eru mörkin sjónhending úr Markhelluhól, norðvestan við Fjallið eina, öðru nafni Eldborgarhellir, í Melrakkagil, sem kemur niður úr Undirhlíðum.“

Búðarvatnsstæðið

Búðarvatnsstæðið.

Í Örnefnalýsingu fyrir Krýsuvík sem Ari Gíslason skráði segir m.a:
„Norður frá Mávahlíðum rís upp Mávahlíðarhnúkur. Héðan til norðausturs liggur leiðin um hraun að Búðarvatnsstæði.“

Merkhella

Markhella – áletrun.

Í skráningu „Menningarminja í Vatnsleysustrandarhreppi“, svæðisskráningu, sem Sædís Gunnarsdóttir skráði árið 2006 segir:
„Búðarvatnsstæði – heimild um vatnsból
Þaðan liggur landamerkjalínan í norður um mitt Búðarvatnsstæði og Búðarhól, sem er Hraunhóll.” segir í örnefnaskrá “Gömul hestagata iggur meðfram hrauninu og við fylgjum henni í austurátt fyrir tunguna og að Búðarvatnsstæðinu. Um vatnsstæðið endilangt liggur gamla sauðfjárveikivarnargirðingin sem hefur vísað okkur veginn hingað til. Vatnsstæðið er nokkuð stórt og virðist hafa verið lagað til af mannahöndum.” “Það kúrir í grasbletti ofan við úfið hraunið og þaðan er útsýnið vítt og fallegt til suðurs og austurs. Örnefnið er sérkennilegt og gæti bent til þess að við vatnsstæðið hafi verið áningarstaður og þá jafnvel yfir nótt, þ.e. einhverskonar “búðir”. Ekki er ólíklegt að þeir sem unnu við kolagerð í Almenningi hafi hafist við tímabundið við Búðarvatnsstæðið og af því sé nafnið dregið.”

Markhella

Markhella – áletrun.

Í Örnefnalýsingu fyrir Hvassahraun eftir lýsingu Gísla Sigurðssonar og upplýsingum, sem Guðmundur Sigurðsson gaf í viðtali á Örnefnastofnun 16. júlí 1980 segir m.a.:
„Er þá komið á Dyngjuháls. Austur af honum eru Mávahlíðar, en þar um liggur landamerkjalínan milli Hvassahraunslands sunnanvert og Krýsuvíkur. Austur af Lambafellum eru Einihlíðar, og vex þar einir. Ofan eða sunnan þeirra er Einihlíðabruni. Sunnan Einihlíða lá landamerkjalína Hvassahrauns og Krýsuvíkur í Markaklett, sem er austur af Búðarvatnsstæði. Hann er nefndur Markhelluhóll í landamerkjalýsingu. Stafirnir Hvassa.- Ótta. – Krv. eru þar markaðir á hellu, sem snýr við norðaustri [hellan snýr reyndar við norðvestri]. Á hólnum er varða, sem mun heita Markhelluhólsvarða. Þaðan liggur landamerkjalínan í norður um mitt Búðarvatnsstæði og Búðarhól, sem er hraunhóll. Þar vestur af er lægð í hrauninu, sem nefnist Helgulaut. Þar hafði kona að nafni Helga orðið úti.“

Í Örnefnalýsingu fyrir Óttarsstaði, lýsingu Gísla Sigurðssonar segir m.a.:

Markhella

Markhella – áletrun.

„Úr Markhelluhól liggur merkjalínan um vestasta hluta Sauðabrekkugjár, en þá um Búðarvatnsstæði, og skiptist það jafnt milli Óttarsstaða og Hvassahrauns. Norður og niður af vatnsstæðinu nefnast Búðarhólar. Mörkin liggja líklega gegnum þá.“

Markhelluhóll

Markhelluhóll við Búðarvatnsstæðið.

Búðarvatnsstæðið er á sléttu hrauni undir nýrri hraunbrún. Á brúninni, á svonefndum Markhelluhól, eru tvær vörður, önnur lítil og hin mosavaxin; greinilega fornar. Um vatnsstæðið lá fyrrum sauðfjárveikigirðing og má enn sjá staura hennar við og í nágrenni við það. Girðingin var þá á mörkum Krýsuvíkur, Hvassahrauns og Óttarsstaða. Hvers vegna framangreindir stafir hafi verið grafnir á steinvegg Markhellu, í eins og hálfs kílómeters fjarlægð frá Búðarvatnsstæðinu til austurs, hefur aldrei verið skýrð að fullu. Ekki er ólíklegt að ætla að einhver á ströndinni hafi látið sér detta í hug að krota nöfnin þarna, enda í skjóli frá mögulegri umferð Krýsuvíkurbænda um ofanverð fáfarin hraunin. Landamerkjalýsingin um Markhelluna á þessum stað kemur a.m.k. ekki heim og saman við fyrri lýsingar.

Heimildir:
-Örnefnalýsing fyrir Krýsuvík – Þorsteinn Bjarnason frá Háholti safnaði og skráði.
-Menningarminjar í Vatnsleysustrandarhreppi, svæðisskráning; Sædis Gunnarsdóttir, 2006.
-Örnefnalýsing fyrir Hvassahraun; lýsing Gísla Sigurðssonar, víða tekin upp orðrétt. Upplýsingar, sem Guðmundur Sigurðsson gaf í viðtali á Örnefnastofnun 16. júlí 1980. Hann hafði áður borið lýsingu Hvassahrauns undir Gústaf Brynjólfsson frá Eyðikotinu. Guðmundur er fæddur á Hvassahrauni árið 1919.
-Örnefnalýsing – Óttarsstaðir; lýsing Gísla Sigurðssonar var borin undir Gústaf Brynjólfsson frá Eyðikoti og síðan samin upp úr henni ný lýsing. Gústaf er fæddur í Reykjavík 1906, en ólst upp í Eyðikotinu í Hraununum og var þar til 1937.

Búðarvatnsstæðið

Búðarvatnsstæðið.

TF-VEN

Í Morgunblaðiðinu 1.07.1995 segir frá flugslysi í Geitahlíð; „Flugmaðurinn látinn þegar að var komið„:

Partenavia P68

Partenavia P68.

„Flugvélin TF-VEN fórst í norðanverðri Geitahlíð, skammt suður af Kleifarvatni, síðdegis í gær.
Flugmaðurinn, sem lést, var einn í vélinni. Það var fjögurra manna leitarflokkur úr Hjálparsveit skáta í Hafnarfirði sem fann vélina um kl. 19.00 í gærkvöldi. Leitarflokkurinn var um kyrrt á slysstað meðan beðið varstarfsmanna loftferðaeftirlits og rannsóknanefndar flugslysa, en óskaði ekki frekari aðstoðar.

Herdísarvíkursel

Herdísarvíkursel – byrgi refaskyttu. Geitahlíð fjær.

Að sögn leitarmanns á svæðinu er flugvélarflakið efst í fjallinu. Hann sagði leitina hafa verið erfiða, skyggni ekki nema 40-50 metrar og stundum minna og að fjallshlíðin sé brött skriða. Flokkurinn lagði upp af þjóðveginum sunnan Geitahlíðar og leitaði einn og hálfan tíma þar til komið var á slysstaðinn.
Flugvélin fór frá Reykjavík kl. 14.10 og var ferðinni heitið til Selfoss. Samkvæmt upplýsingum frá Flugmálastjórn var flugmaðurinn reyndur en ekki með blindáritun. Hann áætlaði að fljúga Krýsuvíkurleiðina suður yfir fjöll og síðan austur til Selfoss í sjónflugi. Lágskýjað var á þessum slóðum í gær og versnaði skyggnið þegar leið á kvöldið.
Síðast var haft fjarskipta- og radarsamband við flugvélina kl. 14.15 þar sem hún var stödd við Kleifarvatn og amaði þá ekkert að. Flugvélin hafði flugþol til kl. 16.10.

Geitafell

Slysstaðurinn.

Þegar flugvélin kom ekki fram á tilsettum tíma hóf Flugstjórn þegar eftirgrennslan. Flugvél flugmálastjórnar hóf strax leit og sama gerðu þyrla Landhelgisgæslunnar og einkaflugmenn frá Selfossi. Allar tiltækar björgunarsveitir í Reykjavík, Reykjanesi og á Suðurlandi voru kallaðar út og leituðu 400-500 manns í kringum Krýsuvík og á Bláfjallasvæðinu.
Engin merki bárust frá neyðarsendi flugvélarinnar og gerði það leitina erfiðari en ella. Leitin beindist því ekki síður að vötnum en landi. Leitarmenn fóru á bátum bæði um Djúpavatn og Kleifarvatn og kafarar voru til reiðu.

Geitahlíð

Geitahlíð.

TF-VEN var tveggja hreyfla af gerðinni Partenavia P68 og í eigu Flugfélags Vestmannaeyja. Flugvélin var nýyfirfarin og vel búin tækjum.“

Í Morgunblaðiðinu daginn eftir segir: „Orsakanna að leita í lélegu skyggni“.
„Flugmaðurinn, sem lést þegar flugvél hans fórst í norðanverðri Geitahlíð, skammt suður af Kleifarvatni, á föstudag, hét Gunnlaugur Jónsson, til heimilis að Heiðmörk 1 á Selfossi.
Gunnlaugur var þrítugur, fæddur 4. apríl 1965 og starfaði sem flugmaður hjá Flugfélagi Vestmannaeyja. Hann lætur eftir sig unnustu og einnig níu ára dóttur.
Starfsmenn loftferðaeftirlitsins og rannsóknarnefndar flugslysa fóru á slysstað efst í Geitahlíð í gær. Sveinn Björnsson, sem sæti á í flugslysanefndinni, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að á þessu stigi rannsóknar benti ekkert til að slysið mætti rekja til bilunar í tækjabúnaði vélarinnar. Hins vegar hefði verið mikil þoka og afar lélegt skyggni og líklega væri orsakanna þar að leita.“

TF-VEN
Í skýrslu Flugslysanefndar, M-08595/AIG-07, segir m.a.:
„Slysstaður: NV-hlið Geitahlíðar við sunnanvert Kleifarvatn.
Skrásetning: TF-VEN; farþegaflug.
Farþegi: Enginn.
Dagur og stund: Föstudagur 30. júni 1995, kl. um 14:16.

Geitahlíð

Geitahlíð.

Yfirlit: Föstudaginn 30. júní 1995 var ákveðið að ferja flugvélaina TF-VEN, sem er í eigu [yfirstrikað] frá Reykjavíkurflugvelli til Selfossflugvallar. Flugmaðurinn áætlaði að fljúga sjónflug og þar sem lágskýjað var hugðist hann fljúga um Kleifarvatn suður um Reykjanesfjallgarðinn og þaðan að Selfossi. Flugtak frá Reykjavíkurflugvelli var kl. 14:09.
Síðast heyrðist í flugmanni TF-VEN kl. 14:17:25, þegar hann taldi sig vera að komast yfir fjallgarðinn. Flugvélin kom ekki fram á Selfossi og leit hófst á áætlaðri flugleið hennar. Flak flugvélarinnar fannst í norðurhlíð fjallsins Geitahlíð, sem er sunnan Kleifarvatns. Flugmaðurinn hafði látist samstundist og flugvélin gerðeyðilagðist.
Rannsókn slyssins bendir til þess, að líklegasta orsök slyssins hafi verið sú, að flugmaðurinn hélt of lengi áfram sjónflugi við versnandi skilyrði, eða þar til í óefni var komið og ekki varð aftur snúið. Flugvélin var í klifri eða lágflugi, þegar hún rakst á fjallshlíðina.
Staðreyndir: Kl. 14:16:55 spurði flugumferðarstjórinn flugmanninn hvernig gengi. Flugmaðurinn sagði þá: „Það gengur bara mjög vel, ég er kominn yfir hálsinn og það er bara bjart hérna hinum megin“.

Geitahlíð

Geitahlíð. Slysið var efst í fjallinu lengst t.v.

Slysstaður: 6352420-2200420. Flugvélin rakst fyrst á lítið barð, rétt ofan við klettabrúnina við efstu hjalla fjallsins. Flugvélin virtist hafa verið í klifri og báðir hreyflar gengið á miklu afli. Flugvélin kastaðist um 25 metra upp aflíðandi grýttan mel og stöðvaðist. Skrokkur vélarinnar lagðist saman, framendi hans vöðlaðist inn undir sig og framendinn með vængjunum var á hvolfi, en stélið var á réttum kili. Mikill eldur kom upp í flakinu og um 15o m2 svæði á jörðu, aðallega hlémegin eða til norðausturs frá flakinu, var brunnið og sótlitað.
Greining þátta: „Flugmaðurinn kom inn yfir Kleifarvatn í um 800 feta hæð yfir sjávarmáli, eða í 400 feta hæð yfir [Kleifarvatni]. Yfir vatninu var heldur bjartara að sjá, en ský voru það lítið eitt hærra yfir jörð en sunnan vatnsins og flugmaðurinn hélt sjónflugi áfram suður yfir vatnið. Skýjahæðin fór lækkandi til suðurs, mishæðir á borð við Geitahlíð voru umvafðar þoku að rótum og flugmaðurinn átti æ erfiðara með að staðsetja sig. Hann vissi að skýjatopparnir voru í 5000-6000 feta hæð. Því gaf hann hreyflunum mikið afl og hugðist klifra upp úr skýjunum, en flaug á fjallið Geitahlíð, í um það bil 320 m. (1050 feta) hæð yfir sjávarmáli – með framangreindum afleiðingum.“

Heimildir:
-Morgunblaðið, 146. tbl. 01.07.1995, Flugmaðurinn látinn þegar að var komið, bls.60.
-Morgunblaðið, 147.tbl. 0207.1995, Orsakanna að leita í lélegu skyggni, bls. 44.
-Skýrla um Flugslys, Flugslysanefnd, M-08595/AIG-07 – http://www.rnsa.is/media/4589/skyrsla-um-flugslys-tf-ven-thann-30-juni-1995-personuupplysingar-afmadar-af-rnsa.pdf

Æsubúðir

Geitahlíð.

Selalda

Eftirfarandi fréttir tveggja dagblaða um væntanlegan urðunarstað sorps í „Selöldu í Krýsuvík“ er ágætt dæmi um fávitahátt þeirra er hlut áttu að máli – og hversu stutt er á milli glapræðis og skynsemi. Selalda er eitt af djásnum Reykjanesskagans, bæði hvað jarð- og menningarminjar varðar.

Í Dagblaðiðinu Vísi árið 1987 segir eftirfarandi um fyrirhugaða sorpurðunarstað í Selöldu:

Nýir sorphaugar í Selöldu við Krýsuvík?

Selalda - sorp„Ruslið af höfuðborgarsvæðinu á Íslandi er heimsmet. Um 110.000 tonn falla til af því á ári. Eftir þrjú ár verður sorpstæðið við Gufunes yfirfullt. Líklegast er, eftir miklar athuganir, að flytja verði höfuðborgarruslið til urðunar í Selöldu, út við sjó sunnan Krýsuvíkur. Það er 40 kílómetra leið í staðinn fyrir þá fjóra kílómetra sem nú þarf að aka frá Elliðaárbrúnum.

Sorpvinnsla óarðbær

Þetta er niðurstaða nefndar frá átta sveitarfélögum á þessu svæði. Hún lét kanna eina fimm möguleika á vinnslu sorpsins til orkuframleiðslu og síðan leita uppi hugsanlega urðunarstæði. Á tímabili leit ekki illa út að vinna sorpið í köggla til varmaframleiðslu í verksmiðjum, til dæmis fiskimjölsverksmiðjum. Þetta féll um sjálft sig þegar olían snarlækkaði í verði.
Aðrir orkuvinnslukostir reyndust of dýrir eða að ekki fannst markaður fyrir orkuna. Þá var urðunarleiðin eftir. Augu nefndarmanna beindust að 74 hektera, fjögurra metra djúpri mýri á Álfsnesi í Kjalarneshreppi og 120 hektara, tveggja metra djúpri mýri í Saltvík í sama hreppi. En hreppsnefndin og hreppsbúar hafa lagst gegn þessari notkun jarðanna og þar við situr að svo komnu.
Til þessara jarða eru 15-20 kílómetrar frá Elliðaárbrúnum. Enginn sérstakur stofnkostnaður er áætlaður vegna urðunar á þessum svæðum. Rekstrarkostnaður vegna sorpflutninga og -urðunar í Saltvík er metinn um 115 milljónir króna á ári eða 1145 krónur á sorptonnið.

Selalda líklegust

Selalda

Minjar við Selöldu; Krýsuvíkursel og bærinn Eyri.

Næsti kostur til urðunar, að mati nefndarinnar, er eldstöðin Selalda í landi Krýsuvíkur, nær sjónum. Þar er móberg í yfirborðinu. Þangað eru 40 kílómetrar og rekstrarkostnaður vegna sorpflutninga þangað og urðunar er áætlaður 137 milljónir króna á ári eða 1.365 krónur á tonnið. Þar að auki þarf að endurbæta Krýsuvíkurveginn eða leggja nýjan veg fyrir 75-125 milljónir króna. Veginn þarf raunar að bæta hvort sem er.

Krýsuvík

Krýsuvík – herforingjaráðskort.

Ókannað er að hve miklu leyti þessi kostnaður félli á sveitarfélögin annars vegar og ríkið hins vegar. Landið er í eigu Hafnarfjarðar.
Um leið og urðun á sorpi af höfuðborgarsvæðinu færist fjær því telur nefndin að koma verði fyrir móttöku á jarðvegsefni, svo sem úr húsgrunnum, í hverju sveitarfélagi. Eins verði að koma á móttókuhusum í byggðinni þar sem sorpinu verði safnað dags daglega og það pressað til flutnings á sérstökum farartækjum á urðunarstaðinn. Aðalmóttökustöð myndi kosta um 50 milljónir króna en útibú frá henni 10-20 milljónir.

Sorphlutafélag

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg neðan Selöldu.

Sorpnefndin leggur loks til að aukarusl frá heimilum og minni fyrirtækjum eigi griðastaði í gámum sem nú þegar er farið að koma fyrir hingað og þangað. Hún fjallar um gjaldtöku vegna sorpeyðingarinnar og undirstrikar mikilvægi þess að hún verði í sem mestu samræmi milli sveitarfélaganna.
Upp úr þessu nefndarstarfi á nú að stofna hlutafélag, Sorpeyðingu höfuðborgarsvæðisins hf. Það er næsta skrefið í málinu. Fyrsta verkefni þess verður að velja sorpeyðingarúrræði, líklegast urðun í Selöldu með öllu tilheyrandi.“ – HERB

Í Þjóðviljanum árið 1988 segir um sama efni:

Sorpið stefnir í Selöldu

Selalda - sorp
„Gufunes tekur við í tvö ár enn. Tvœr móttökustöðvar reistar. Ingi U. Magnússon; Óvíst hvað verður gert við bílhrœ og annað brotajárn í framtíðinni.
Allt bentir nú til þess að að sorp frá höfuðborgarsvæðinu verði í framtíðinni urðað í Selöldu við Krýsuvík. En sá staður er einn af þremur sem stjórn byggðarsamlagsins Sorpeyðing höfuðborgarsvæðisins hafði í huga sem framtíðar sorphauga þegar hætt yrði að taka móti sorpi í Gufunesi.

Selalda

Selalda.

– Sorphaugarnir í Gufunesi taka ekki við nema í tvö ár í viðbót svo það er mjög þarft að fara að huga að þessum málum. Fari svo að Selalda verið valin sem framtíðar sorphaugar, eftir að Kjalnesingar höfnuðu beiðni félagsins um að fá að urða sorp í Álfsnesi, verður að koma upp móttökustöðum þar sem sorpið verður bögglað og flutt þannig í Selöldu, sagði Ingi Ú. Magnússon en hann á sæti í stjórn félagsins.
Ingi sagði að ljóst væri að hér þyrfti að koma upp aðstöðu til að pressa bílhræ og annað brotajárn, þannig að hægt verið að senda það úr landi til endurvinnslu. – Við leituðum eftir samstarfi við fyrirtækið Sindra sem fengist hefur við svona lagað áður, við vorum jafnvel tilbúnir að borga með þessum rekstri. Þeir gerðu okkur ákveðið tilboð sem við höfnuðum. Íslenska stálfélagið hefur líka verið inni í myndinni, sagði Ingi, en bætti við að engar ákvarðanir hefðu verið teknar um hvað ætti að gera við brotajárnið.

Selalda

Selalda.

Fari svo að Selalda verði valin verða þeir sorphaugar ekki opnir almenningi eins og nú er heldur verða reistar tvær móttökustöðvar, önnur væntanlega á lóð gömlu sorpeyðingarstöðvarinnar í Ártúnshöfða. Þar verður sorpið pressað og síðan ekið með það út í Selöldu við Krýsuvík.“ -sg

Sem betur fer varð framangreind tillaga ekki að veruleika – landinu og afkomendum þess til heilla.

Heimildir:
-Dagblaðið Vísir-DV, 108. tbl. 15.05.1987, Nýir sorphaugar í Selöldu við Krýsuvík?, bls. 4.
-Þjóðviljinn, 147. tbl. 01.07.1988, Sorpið stefni í Selöldu, bls. 2.

Selalda

Selalda – berggangar.

Krýsuvík

Ólafur Þorvaldsson skrifaði um „Krýsuvíkurkirkju“ í Lögberg-Heimskringlu árið 1962:

Ólafur Þorvaldsson„Þegar þess var farið á leit við mig, að ég skrifaði fyrir þetta blað nokkuð um Krýsuvíkurkirkju, varð mér fyrst ljóst, hve lítið það er, sem ég veit í þessu efni, — en menn fara stundum enn þá í geitarhús að leita ullar. Ég er því smeykur um, að svipað hafi hent vin minn, þegar hann villtist til mín með þetta efni.
Og nú detta mér í hug sem oftar, þegar svipað stendur á sem hér, hendingar í einu kvæði Fornólfs, þar sem hann segir: „Þótt einhver verði ýtingin, er óviss lendingin“.
Ég er því miður illa að mér í sögu kirkna á Íslandi frá fornu og nýju, uppruna þeirra, endurbyggingu eða tilfærslu, og allt þar á milli. Það mun mála sannast, að erfitt mun vera að rekja sögu margra kirkna okkar frá fyrstu tíð, þótt sjálfsagt mætti fá úr mörgu skorið í því efni, en til þessa hefur mig skort hvort tveggja, tíma og tækifæri.
Eftir öllum líkum mun óhætt að segja, að kirkja hafi verið í Krýsuvík úrfallalítið í átta til níu aldir. Ég held, að Krýsuvíkurkirkja sé ein af þeim kirkjum, að erfitt sé að rekja sögu hennar í það minnsta fyrstu aldirnar, svo öruggt samhengi fengist í þá sögu.

Húshólmi

Húshólmi – Kirkjulágar; meint kirkjutóft vinstra megin.

Ég skal aðeins nefna eitt, upphaf þeirrar sögu. Ég held að margur myndi hnjóta um það spursmál, hvar fyrsta kirkja Krýsuvíkur hafi verið reist, hvenær og hver hana lét gera. Við þessum spurningum höfum við hvergi getað fengið fullnægjandi svar. Síðar kem ég lítillega að þessu óráðna spursmáli, ef rúm leyfir.
Lesendur þessa blaðs munu litlu nær um Krýsuvíkurkirkju af formálanum einum. Þess vegna skal nú sagt hér það helsta, sem ég veit og man um nefnda kirkju, og er því bezt að byrja á byrjuninni.

Landnám

Landnám Þóris haustmyrkurs.

Í Landnámabók Ara Þorgilssonar segir svo: „Þórir haustmyrkur nam Selvog og Krýsuvík.“ Einar Arnórsson prófessor telur líklegt, að Þórir haustmyrkur hafi komið nokkuð seint út. Fyrir þessu færir hann þau helst rök, að „Súgandi“, þriðji maður frá Þóri, ætti að vera uppi um 1000.

Landnám Þóris er því að nokkru í Gullbringusýslu, en þau sýslumörk komu löngu síðra. Líklegt má telja, að kirkja hafi ekki löngu eftir kristnitöku verið byggð í Krýsuvík. Yfir hinu mun hvíla algjör óvissa, svo sem fyrr er á minnst, hvar og af hverjum sú kirkja var byggð.
Elsta heimild, sem mér er kunn um kirkju í Krýsuvík er, að um 1200 er hennar getið í kirknaskrá Páls biskups. Kirkjan er talin Maríukirkja, og á heimaland allt ásamt Herdísarvík og níu mæla lands á Þorkötlustöðum auk ítaka.

Krýsuvík

Krýsuvík 1810.

Eftir það, er Krýsuvíkurkirkju getið í ýmsum máldögum allt fram undir 1600. Flestir máldagarnir fjalla um eignir kirkjunnar fastar og lausar, ítök o. fl. og ber víðast fátt þar á milli utan þá orðalag. Á tíma þeim, sem máldagarnir ná yfir, hefur lausafé kirkjunnar ekki ávallt verið það sama, munir gengið úr sér, og stundum aðrir komið í þeirra stað. Lifandi peningi fækkað, þar til horfinn var með öllu, og má segja, að svo hafi farið um flesta muni kirkjunnar.
Til að sýna megin efni í lestra máldaganna tek ég upp kafla úr máldaga Gísla biskups Jónssonar fré 1577 (í F. XV. 3, bls. 641). Þar segir:… „Ennfremur 6 kýr og 5 ásauðar kúgildi, (þ. e. 30 ær). Einnig þrjá hesta og eitt hross (þ.e. hryssa). Innan kirkju tvenn messuklæði alfær og kantara kápu eina. Einnig tvenn altarisklæði. Ein brún. Einn kaleik, þrjár klukkur, koparstiku með þremur pípum. Glóðker. Einn ampli. Paxspjald . Vatnsklukka. Kirkjustokkur, Þrjár merkur vax. Bækur nokkrar. — Innanstokks tvær skálar, tvo spæni, tvö trog, hægindi, hvíluvoðir og áklæði.“

Krýsuvíkurkirkja

Innansmíð Krýsurvíkurkirkju – teiknað árið 1810.

Allt bendir til, að Krýsuvíkurkirkja hafi aldrei rík verið að lausafé. Hitt mun heldur mega telja, að fram eftir öldum hafi hún eftir öllum bréfum að dæma mátt heita allvel á vegi í föstum eignum, þar sem hún hefur átt allt land sóknarinnar, byggt og óbyggt, og meira þó, þar eð hún átti einnig Herdísarvíkina, beztu verstöð í Selvogi, landríka vildisjörð, og lágu lönd saman. Auk þessa ýms ítök. Hitt er ljóst bæði af íslenzkum heimildum svo og ferðabókum erlendra, sem um landið reistu og til Krýsuvíkur fóru sem flestir munu hafa gert til athugunar á jarðhita og brennisteini, að meðal sóknarmanna hafi þar oftar ríkt fátækt en auður, jafnvel svo að til landauðnar dró á tímabili. Ég skal nefna hér eitt dæmi þessu til stuðnings.
Árið 1553—54 telur Marteinn biskup „kirkju þar góða, — en enginn bær er þá í sókninni“. Eitthvað hefur þetta ömurlega hlutskipti þessa byggðarlags varað, því að með bréfi 27. sept. 1563 leggur Páll Stígsson hirðstjóri í samráði við Gísla Jónsson biskup í Skálholti niður sóknarkirkju Krýsuvík og leggist hún og eitt kot, sem þar er hjá, til Strandarkirkju í Selvogi. Þó skal í Krýsuvík standa lítið húskorn Guðs vegna og þess heimilisfólks, sem þar kann að vera sjúkt eða gamallt. Og herra Gísli skyldi nokkur kúgildi til leggja, svo að Guðs orðs þénari mætti þar hvíld nætursakir hafa, þá hann þar kæmi eða þyrfti þar að koma Guðlegrar hjarðar að vitja.“

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1810.

Krýsuvíkurkirkja virðist þó standa eftir sem áður. Árni Magnússon telur hana útkirkju frá Strönd. Svo er og í kirkjuskrá 1748, og enn í prestakallaskipunarlögum frá 1880.
Með prestakallalögum 1907 er Krýsuvíkursókn lögð til Staðarprestakalls í Grindavík. Loks er með stjórnarráðsbréfi 21. okt. 1929 Krýsuvíkurkirkja lögð niður og sóknin sameinuð Grindavík (Stjt. 1929 B. 305).
Með þessari síðustu ráðstöfun mætti ætla, að lokið væri sögu Krýsuvíkurkirkju hinnar fornu. Þó má segja enn sem fyrr, að kirkjan stendur eftir sem áður, — en mennirnir viðurkenndu hana ekki lengur. — Ég fæ ekki betur séð en við þetta yfirgefna hús, sem einu sinni var guði vígt, hafi komið fram hinn sami ,,huldi verndar kraftur“, sem Jónas kveður um í Gunnarshólma, um „hólmann, þar sem Gunnar snéri aftur“, við að forða því frá að afmást með öllu svo enginn sæi þess lengur stað.

KrýsuvíkÞað má segja, að frá 1563—1929 hafi Krýsuvíkursókn verið í útlegð eða í 366 ár. Í 344 ár var hún á vist hjá Strandarkirkju í Árnessýslu og í tuttugu og tvö ár hjá Staðarkirkju í Grindavík, þ.e. frá 1907—1929. Það ár er kirkja lögð niður í Krýsuvík. Eftir það eiga Krýsvíkingar kirkjusókn til Grindavíkur. Löng kirkjuganga það.
KrýsuvíkÁrið 1929, þegar kirkjan er lögð niður, eru þrjár fjölskyldur í sókninni, ein mannmörg, tvær miðlungi stórar. Þá mun hafa verið búið að ákveða vegarlagningu um Krýsuvík, ef hún hefur ekki þegar verið hafin. Og vegurinn kom. Með veginum kom fólkið og nokkrar framkvædir, þótt eitthvað af þeim hafi farið nokkuð á annan veg en skyldi, — en þetta kemur í hendi, sagði karlinn. Vegurinn var kominn um eina samfellda stóra gróðursvæðið í hinni miklu hraunbreiðu Reykjanesskagas. Land með mikla möguleika í jörð og á allmikil hlunnindi við sjó, þótt enginn vilji nýta í dag.

Krýsuvík

Krýsuvík – Suðurtúnið.

Svo fóru gömlu Krýsvíkingarnir alfarnir. Flestir fóru þeir eftir hinum aldagömlu slóðum, sem þeir höfðu farið margir alla ævina, aðrir skemur. Svo kom nýtt fólk eftir nýja veginum, sumir til búsetu, aðrir sem farfuglar. Það var því enn komið fólk í hina fornu Krýsuvíkursókn, — en „kirkja fyrirfannst engin á staðnum“, en til staðar mun hann ekki hafa verið, sá sem fyrir kúgildunum hefur séð, — en síðustu prestar þar voru það ekki.

Magnús Ólafsson

Magnús Ólafsson – síðasti ábúandinn í Krýsuvík.

Eftir að síðasti ábúandinn var fluttur veikur burt frá Krýsuvík og átti þangað ekki afturkvæmt, var lokið allri umhirðu um hina fornu kirkju, er hann hafði búið í mörg síðustu árin þar. Það beið heldur ekki lengi, þar til þar fyrirfannst hvorki gluggar né hurð. Hurðarleysið kom sér líka betur fyrir þá hjörð, sem þá tók að sækja þetta forna guðshús. Þar inni fann skjól í hrakviðrum fjöldi nautgripa og hesta, er þarna voru til hagagöngu á sumrin. Flestir, sem þarna voru kunnugir, töldu víst, að um þetta forna vanhirta hús færi þá og þá sömu leiðina, sem önnur hús staðarins, hryndi í rúst eða fyki burt. Nei, hin forna, yfirgefna kirkja fauk hvorki né hrundi. Hún stóð af sér öll stórviðri og alla „hverakippi“. Hún bara beið, beið eftir sveini, er leysti hana úr böndum. Og sveinninn kom. Fyrir hans tilverknað stendur í dag á hlaði hinnar fornu stórjarðar fegurra hús heldur en þar hefur áður staðið og bíður nú þess að vígjast í kirkju eða kapellu Krýsuvíkursóknar. Vonandi bíður þess húss aldrei önnur eins niðurlæging sem hinnar síðustu kirkju staðarins.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja – legsteinn Árna Gíslasonar, sýslumanns.

Áður er þess getið í grein þessari, að óvíst væri hvar hin fyrsta Krýsuvíkurkirkja hafi staðið. Þótt allt þar um sé í mikilli óvissu enn sem komið er en sem ég veit að á eftir að skýrast áður en langt um líður, þá tel ég, að ekki sé hægt að skrifa svo um Krýsuvík og kirkju þar, að gengið sé með öllu fram hjá hinni aldagömlu sögu, að sú Krýsuvík, sem við þekkjum í dag hafi ekki í upphafi byggðarinnar verið þar sem nú er.

Til fróðleiks skal ég tilfæra hér í sem stytztu máli það helzta, sem vísinda og fræðimenn hafa um þetta efni skrifað.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Eggert Ólafsson segir í ferðabók sinni um jarðelda í Trölladyngju: „Að minnsta kosti er það víst, að Krýsvíkingar kunna að segja frá ægilegum jarðeldi, er brann í fjöllum þessum í fornöld.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – kort.

Eldflóðið féll í sjó niður og eyddi nokkrum bæjum á því svæði, sem nú heitir Ögmundarhraun. Meðal þeirra var kirkjustaður, sem Hólmastaður hét, og sjást þar enn minjar kirkjugarðsins og húsatóftanna“. Hér er vitanlega átt við þann stað, sem nú heitir Húshólmi. Hólmastaðar hef ég hvergi heyrt getið utan í bók Eggerts. Fullvíst má telja, að þetta nafn hafi til orðið eftir að hraunið hólmaði þennan blett af.
Þorvaldur Thoroddsen segir í ferðabók sinni I. bls. 186, um rústirnar í Húshólma: „Ein sú lengsta er 49 fet, en breidd hennar sést ei fyrir hrauni“.

Húshólmi

Húshólmi – meintur grafreitur.

Og enn segir hann: „Þessar tóttir, sem hraunið hefur runnið yfir, eru full sönnun fyrir því, að það hefur myndast síðan land byggðist, þótt hvergi finnist þess getið í sögum eða annálum“. Einnig getur Þorvaldur Thoroddsen um alllanga garða, sem sjáist þar enn. Þorvaldur Thoroddsen segir um Ögmundarhraun, að Jónas Hallgrímsson hafi gizkað á, að það hafi runnið kringum 1340, „án þess þó að færa heimildir fyrir því“.
Brynjólfur Jónsson frá Minna-Núpi skrifar í Árbók Hins ísl. fornleifafélags 1903 um Húshólma og fornminjar þar. Getur hann þa r garða og húsarústa á svipaðan hátt og Þorvaldur Thoroddsen. Í grein sinni kemst Brynjólfur þannig að orði á einum stað:

Húshólmi

Húshólmi og Gamla-Krýsuvík.

„Krýsuvík hefur til forna staðið niður undir sjó fyrir vestan endann á Krýsuvíkurbergi. Nafnið Krýsuvík bendir til þess“. Brynjólfur er sá eini af þessum þremur fræðimönnum, sem minnist á og telur víst, að Krýsuvík hafi verið upphaflega þar sem nú er Húshólmi. Það sem einkum styður þá kenningu, að Krýsuvíkin hafi í upphafi staðið við sjó, er aðallega þetta:

Krýsuvík

Krýsuvík – strandlínan fyrrum; tilgáta.

Nafn byggðarinnar — Krýsuvík eins og Brynjólfur Jónsson bendir á, því að lítt hugsanlegt er, hafi byggðin staðið frá landnámi þar sem nú er að hún hefði þá fengið þetta nafn því að þar er ekki um neina vík að ræða, ekki einasta að byggðin sé það nærri Kleifarvatni, að nafnið gæti þaðan verið komið. Í öðru lagi eru það hinar miklu húsarústir og önnur verksummerki í Húshólma með nöfnum svo sem Kirkjuflöt og Kirkjulág. Nöfn þessi benda til, að þar hafi kirkja verið en aldrei mun getið nema einnar kirkju í Krýsuvík.
Rúmsins vegna verð ég að láta staðar numið hér, en um þetta má nánar lesa í bókinni „Harðsporar“ frá 1951, bls. 109.
Vel veit ég, að í framangreindar frásagnir vantar vísindalegar sannanir og er það rétt svo langt sem það nær og þá er að afla þeirra. — Í Húshólma munu svo merkilegar fornminjar vera, að óvíst er hverju þær við rannsókn gætu aukið við hinar fornu sögu okkar. Þegar hér er komið lestri má vera, að einhverjum detti í hug þessi spurning: Hvað kemur þessi týnda byggð ef til hefur verið Krýsuvíkurkirkju við? Hér ber allt að einum brunni. Um þetta vantar aðeins órækar sannanir.
Eggert Ólafsson hafði engar sannanir þá hann skrifaði orð þau, sem að framan getur. En líkurnar hafa honum sýnst svo ljósar, að þar væri ekki um efamál að ræða.

Húshólmi

Húshólmi – einn hinna fornu garða.

Hafi fyrsta byggð Krýsuvíkur verið niður við sjó svo sem hin aldna saga hermir og minjar þar benda til, hefur vitanlega ekki liðið langur tími þar til þar hafi kirkja risið. Svo stór hefur Krýsuvíkurkirkja aldrei þurft að vera, að efni til hennar hafi skort, þar eð reka fjörur eru miklar og rekasælar, svo sem við vestasta hluta Krýsuvíkurbergs allt til Selatanga vestur.

Húshólmi

Húshólmi – kirkjugarður?

Skal nú vikið nokkrum orðum aftur til ársins 1200. Þá er sem fyrr segir Krýsuvíkurkirkju getið í kirknaskrá Páls biskups, og þar þess getið að kirkjan sé Maríukirkja svo og landaeigna hennar. Hér hefur þess ekki þótt þurfa við að tilgreina nánar hvar kirkjan væri staðsett, því vitanlega hefur það verið svo sem nafn hennar bendir til í Krýsuvík, og þá var engin nauðsyn að geta þess, hvar sú Krýsuvík væri vegna þess, að aldrei hefur verið nema ein byggð með því nafni, — en hvar var sú Krýsuvík, sem Páll biskup minnist á um árið 1200? Þessari gömlu og nýju spurningu er enn þá ósvarað, en við verðum að vona, að svarið komi von bráðar.

Húshólmi

Húshólmastígur um Ögmundarhraun.

Ef það væri nú svo, að Ögmundarhraun hafi runnið kringum 1340 svo sem Jónas Hallgrímsson gizkar á, er ekkert líklegra en að fólkið sem flýði eldana hafi leitað áður en eldurinn lokaði leiðum upp í landið inn milli fjallanna, þar sem eldar sem þá brunnu náðu því ekki. Vegarlengdin var ekki nema röskur stundargangur. Þetta land var þess heimaland, sjálfsagt fyrr nytjað á margan hátt. Þar var búsmali þess hagvanur, heyskaparlíkur meiri og betri, svörður til eldsneytis í mýrum og ef til vill fleira, sem nú er ekki gott að segja um.
Til endurbyggingar húsatimbur á víðáttumiklum rekafjörum, — en dálítið lengra til dráttar. Hafi þetta svona verið þá hefur fólkið flutt með sér nafn þeirrar byggðar, sem það af illri nauðsyn varð að yfirgefa og þá von bráðar komið sér upp kirkju, sem hefur verið Krýsuvíkurkirkja jafnt sem áður.

Krýsuvíkurkirkja

Þótt erfitt sé að fullyrða, hvar fyrsta kirkja þeirra fyrstu Krýsvíkinga hafi staðið, mun aftur á móti óhætt að telja fullvíst, að margar síðustu aldirnar hafi kirkja þeirra staðið þar sem hún stóð fram á þessa öld, — og stendur í rauninni enn.

Eggert Sigfússon

Eggert Sigfússon á Fongötu vestan Vogsósa.

Þeim mun nú óðum fækka, sem við messugerð voru hjá séra Eggert Sigfússyni presti Selvogsþinga, þá hann messaði í Krýsuvíkurkirkju, því eins og fyrr segir þá var Krýsuvíkurkirkja útkirkja frá Strönd til 1907. Sá er þetta skrifar var við eina guðsþjónustu í Krýsuvík hjá séra Eggert 1901. Margt var vel um séra Eggert þótt alleinkennilegur þætti í ýmsu. Ágætur ræðumaður var hann talinn á tækifærisræður, enda var hann gáfaður lærdómsmaður.
Aftur á móti voru flestar kirkjuræður hans mjög stuttar og var sem hohum lægi mikið á við flest verk í kirkju og viðurkenndi þetta sjálfur svo sem þetta dæmi sýnir. Eitt sinn þá hann kom úr kirkju í Krýsuvík segir hann strax þegar hann kom í bæinn: „Nú gerði ég það gott, nú hafði ég faðirvorið í einu andartaki.“

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja.

Margt mætti um séra Eggert segja og allt gott sérdeilis sem mann. Hann var vammlaus maður og heiðarlegur fram í fingurgóma. Hann var einn þeirra, sem samtíðin misskildi, þótt þar væru undantekningar. Á öðrum vettvangi gefst mér ef til vill tækifæri til að segja nánar frá þessum sérkennilega manni.

Ég ætla, að ég hafi verið við síðasta prestsverk, sem framkvæmt var í Krýsuvíkurkirkju, það um árið 1917. Þá var jarðsunginn þar síðasti maður í Krýsuvíkurkirkjugarði, og var ég einn af líkmönnunum. Verkið framkvæmdi sóknarpresturinn séra Brynjólfur Magnússon frá Stað.
Þessi síðasta Krýsuvíkurkirkja, sem hér um ræðir, mun að öllum líkindum vera fyrsta kirkja þar, er byggð er af timbri einu saman. Þessi kirkja var byggð 1857. Síðan er hennar getið í mörgum prófastavísitasíum og ávallt nefnd „timburhús“.

Krýsuvík

Krýsuvík 1920.

Í biskupsvísitasíu árið 1875 er Krýsuvíkurkirkju lýst all nákvæmlega. Þar kvartar biskup yfir, að ekki hafi þá verið gert við galla þá, sem á kirkjunni hafi verið við síðustu vísitasíu hans. Sér í lagi er það ytri klæðning á þaki, sem sé orðin léleg og þurfi endurnýjunar við.

Brynjólfur Magnússon

Brynjólfur Magnússon.

Hvenær viðgerð sú, er Pétur biskup hvetur til 1875 hefur fram farið hefur mér ekki auðnast að grafa upp, en á síðasta fjórðungi síðustu aldar hefur það verið gert. Þótt mér hafi ekki tekizt að finna reikninga yfir kirkjusmíðar 1857 má fullvíst telja að þar hafi aðalsmiður verið Benteinn Stefánsson bóndi að Arnarfelli í Krýsuvík og má heita skemmtileg tilviljun, að dóttursonur hans Sigurbent varð til þess að gera nú upp hina gömlu kirkju af nákvæmni og hagleik, sem þeim frændum mun báðum hafa verið í blóð borið. Með endurnýjun þessa rösklega hundrað ára gamla húss, sem lengst af var kirkja, hefst nýr kapítuli í sögu kirkjunnar í Krýsuvík, sem verður ekki sagður hér. Í þeim kapítula hlýtur ávallt að gnæfa hæst nafn þess manns, sem af svo mikilli höfðingslund og óeigingirni og þó í algerri kyrrþey hefur látið gera þetta hús eins og það er í dag, ásamt umbótum á kirkjugarðinum, algeriega fyrir fé úr eigin vasa. Maður þessi er Björn Jóhannesson fyrrverandi bæjarfulltrúi í Hafnarfirði. Þá mun heldur ekki gleymast nafn þess, sem verkið leysti af hendi, þjóðhagans Sigurbents Gíslasonar í Hafnarfirði. Verk það, sem þessir tveir menn hafa innt af hendi í Krýsuvík á síðustu árum, lofar báða þessa meistara.

Björn Jóhannesson

Björn Jóhannesson.

Ég hygg, að með húsi því í Krýsuvík, sem nú hefur verið þar endurbyggt og innan skamms mun albúið til vígslu á ný til guðsþjónustuhalds, hafi Björn Jóhannesson unnið það lofsverða verk, sem fá dæmi munu finnast fyrir hér á landi í seinni tíð, — og trúað gæti ég að „Fáir muni eftir leika“, og mætti þó gjarnan verða hrakspá.
Að lokum skal hér getið þeirra presta, sem kunnugt er um að þjónað hafi Krýsuvík og setið þar meðan sérstakt prestakall var, en talið er að prestur hafi verið þar allt til 1641. Prestarnir voru þessir: Kálfur Jónsson 1375, Þórarinn Felixson 1447, Guðmundur Steinsson 1525, Björn Ólafsson um 1528 til um 1580, Tómas Björnsson 1586 til um 1602, Bjarni Gíslason 1603, Gísli Bjarnason 1606, Eiríkur Stefánsson 1609.
Eftir að Krýsuvíkursókn var lögð til Strandar í Selvogi þjónuðu þar ýmsir prestar og munu margir enn kannast við nöfn margra þeirra. Má þar til nefna Eirík Magnússon hinn fróða, Jón Vestmann og síðast Eggert Sigfússon. Allir sátu þessir að Vogshúsum. Af síðari tíma prestum, er þjónuðu Krýsuvík um lengri eða skemmri tíma, má nefna Odd Gíslason að Stað í Grindavík, Kristján Eldjárn Þórarinsson að Stað, Ólaf Ólafsson að Vogshúsum síðar fríkirkjuprestur í Reykjavík, og Hafnarfirði og síðast Brynjólf Magnússon að Stað, er síðastur vann prestsverk í Krýsuvík.“ – (Tekið saman í janúar 1961 – Ólafur Þorvaldsson).

Sjá einnig hér frásögn Ólafs Þorvaldssonar um Krýsuvíkurkirkju að fornu og nýju í Alþýðublaði Hafnarfjarðar – jólablað 1961.

Heimild:
Lögberg-Heimskringla, 45. tbl. 22.11.1962, Krýsuvíkurkirkja, Ólafur Þorvaldsson, bls. 4 og 7
Lögberg-Heimskringa, 46. tbl. 29.11.1962, Krýsuvíkurkirkja, Ólafur Þorvalddson, bls. 1, 2 og 7.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1964.

Geldingadalir

Í Lesbók Morgublaðsins 1962 fjallar Gísli Halldórsson um jarðfræði undir fyrirsögninni „Er jarðskurnin að springa undir Íslandi?“

Áður héldu menn, að jörðin vœri að kólna og dragast saman —
en nú segja þeir sérfróðu: Hún er að hitna og þenjast út.

Er jarðskurnin að springa undir Íslandi?
Flekaskil
„Krýsvík er gamalkunnugt hverasvæði. Þar eru bæði gamlar og líka nýjar hverastöðvar og þar hafa orðið miklar gossprengingar sbr. t.d. Grænavatn. Jörð er þarna víða sundursoðin og jarðhiti virðist megn og upprunalegur, á litlu dýpi.
Sveifluhálsinn liggur, eins og helztu eldfjallasprungur hér á landi, frá suðvestri til norðausturs. Sé farið meðfram hálsinum austanverðum, má sjá ótal gufuhveri, bæði við rætur hálsins og í hlíðum hans, allt upp undir efstu brúnir. Einnig má sjá hveri hinum megin hálsins.

Flekaskil

Jörðin.

Og um 4 km vestar er Trölladyngja, sem er gamalt jarðihitasvæði, er liggur í framhaldi af Vesturhálsi. Í sömu stefnu og hálsarnir, en norðar og austar, liggja Sauðabrekkugjá og Fjallgjá og á milli þeirra margar sprungur, allar samhliða. Skammt sunnan og vestan við Sveifluháls, sem einnig er nefndur Austurháls, er Engihver og Nýihver, ekki alllangt frá Grænavatni. Þá er og laug sunnan við Kleifarvatn.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – kort.

Næsta stórsprunga virðist vera allmiklu austar, þar sem heita Brennisteinsfjöll. Liggur sú sprunga einnig samhliða hálsunum og gjánum sem fyrr voru nefndar.
Ekki verður efast um það, að allt þetta svæði er í nánum tengslum við heit jarðlög, og er líklegt að geysimikil sprunga sé undir þessu svæði og nái inn úr jarðskorpunni.
Samkvæmt þeim hugmyndum, sem menn hafa síðast gert sér um eðli jarðskorpunnar og fram komu á hinni alþjóðlegu jarðeðlisfræðiráðstefnu, sem fyrr var nefnd, er skurn jarðar lagskipt. Er yzta lagið aðeins um 5—7 km á þykkt, þar sem það liggur undir sjávarbotni. Og er það haldið vera að mestu úr basalti. En undir meginlöndunum er lag þetta miklu þykkara, eða líklega um 35—60 km á þykkt, og úr léttu graníti. Innan við þetta lag tekur við hin svokallaða yzta skurn jarðhjúpsins. Og nær um 50 km dýpi, undir höfum, en um 100 km dýpi undir meginlöndum. Þar tekur við innra lag skurnarinnar. En samtals eru þessi lög um 3000 km á þykkt. Ofan á jarðlög þau, sem í sjó liggja, hafa sezt létt lög af botnfalli, en niður í gegn um þessi lög ganga þau berglög, sérstaklega undir fjöllum, sem virðast fljóta eins og ísjakar í jarðskorpunni.

Flekaskil

Flekaskil jarðar.

Vegna þeirra átaka, sem jarðskurnin verður sífellt fyrir, breytir hún iðulega um lögun. Stafa átök þessi að nokkru leyti frá tunglinu, í formi aðdráttaraflsins, og frá hitabreytingum, hitastraumum og misþennslu, innanfrá.

Fjallið eina

Fjallið eina.

Þá getur mikill ísþungi þrýst niður jarðlögum og jarðlögin á ný flotið upp, eða lyfzt, þegar ísinn bráðnar. Loks hlaðast upp heil lönd og fjallgarðar, af gosefnum innan úr jörðinni. En stundum ná þessi efni ekki upp á yfirborðið og lyfta þá landinu sem ofan á liggur upp. Á öðrum stöðum myndast holrúm og landið fellur niður. Fylgja þessu oft jarðskjálftar.
Það hefur lengi verið skoðun jarðfræðinga, að jörðin væri að kólna og við kólnunina að dragast saman, og að fyrir bragðið myndi skurnin hafa tilhneingu til að mynda fellingar, og að bær fellingar væru orsök hinna ýmsu fjallgarða. En þótt finna megi fjöll, sem virðast hafa myndazt við fellingar, þá telja ýmsir nú að síðustu rannsóknir bendi til þess, að mestu fjallgarðar heimsins hafi ekki myndazt vegna samdráttar skorpunnar, og séu ekki fellingar.

Jörðin að þenjast út

Flekaskil

Flekaskilin um Ísland.

Fremur mun það nú álit manna, að jörðin sé að hitna að innan og að orsök fjallamyndana séu geysilegar sprungur, sem ná langt inn í skorpu jarðar. Er álitið að undir meginlöndum falli þessar sprungur, með 30° halla, allt niður í 300 km dýpi, en breyti þá um halla, allt niður í 700 km dýpi.
Undir eyfjöllum mynda sprungurnar hins vegar 60° halla, allt í 700 km dýpi. En þegar komið er í þetta dýpi er bergið orðið mjög holt og fljótandi og þrýstingur á því geysilegur. Sprungur við eyfjöll eru taldar koma app sjávarmegin fjallsins.
Þriðja tegund sprungna er loks talin vera undir eldfjöllum á Mið-Atlantshafsfjallgarðinum, sem Ísland liggur á. Eru þær sprungur, sem næst lóðréttar og mjög grunnar, e.t.v. aðeins 20—30 km.
Frá sprungum þessum í Mið-Atlantshafsfjallgarðinum ganga ótal hliðarsprungur skáhallt upp á við, og vella þar upp hraun og heit jarðlög.

Flekaskil

Norður-Atlanfshafshryggurinn.

Á hinu svokallaða jarðeðlisári, sem ábur var á minnst, komust menn fyrst að raun um, hve geysilega víðáttumikill Mið-Atlantshafs-fjallgarðurinn er, því að hann nær óslitinn, heimskautanna á milli. Og er frá 500 til 2000 km á breidd.
Eftir honum endilöngum, og þar sem Ihann rís hæst, gengur sprunga, sem sker hann í sundur og er allt að 50 km að breidd. Stafa hverir bæði á Íslandi og á Azoreyjum, frá varmanum sem berst upp um þessa sprungu. Fjallgarður þessi tekur yfir nær 1/3 hluta Atlantshafsins. Í Kyrrahafinu, sunnanverðu, beygir Austur-Kyrrahafs-fjallgarðurinn, eða neðansjávar-hásléttan, sem, svo mætti nefna og sem er nær 5000 km á breidd, í kringum Ástralíu og tengist Mið-Atlantshafs-fjallgarðinum. Og saman ná þessir tveir fjallgarðar, að mestu neðansjávar, yfir 64,000 km lengd og grípa umhverfis gjörvalla jörðina.
Mælt hefur verið, að varmauppstreymið í skorpunni yfir neðansjávarhásléttunni, undir Galapagos og Páskaeyjum, reyndist sjöfallt meira en þekkist í jarðskorpunni annars staðar. Og æ fleiri rök hníga nú að því, að fjallmyndun fari fram, ekki með samdrætti og fellingum, heldur með þeim hætti, að efni berist innan úr jörðinni, upp í gegnum sprungur í jarðskorpunni og að land þar ofan á rísi þá smám saman úr sjó, en eins og vitað er. Þá nær sjór yfir meir en 70% af yfirborði jarðar.

Skurnin að springa undir Íslandi?

Flekaskil

Flekaskil og eldsumbrot á jörðinni síðustu milljón árin.

Ef skoðanir þær, sem hér hefur yfirborð, eða efsta skurn jarðar umhverfis Krýsuvík, sé þanið, eins og ef teygt væri á landinu til norðvesturs og suðausturs, þvert á sprungurnar, sem við þetta hafa myndazt.

Seltún

Hverasvæðið í Seltúni.

En Ísland virðist einmitt hafa orðið til, og vera sífellt að rísa hærra, vegna jarðhræringa og gosa, sem stafa frá hinni miklu sprungu í Mið-Atlantsbafs-fjallgarðinum. Þessi mikla sprunga skiptir jarðskurninni í rauninni í tvo helminga og er eins konar öryggis- og þensluloki fyrir hið heita berg, sem helzt undir miklum þrýstingi innan við skurnina. Þetta berg kann að endurnærast af ofsa heitum bergstraumum innan úr jörðinni, sem þenjast út þegar ofar dregur og fargið minnkar, undir þunnri jarðskorpu.
Í ljósi þessa skilnings má gizka á, að hitinn undir Krýsuvíkurlandi eigi sér upptök á ekki miklu dýpi, e.t.v. á aðeins 20—25 kílómetra dýpi. Einnig að aðalsprungurnar séu brattar eða lóðréttar, en hliðarsprungur greinist frá þeim, með langtum minni halla. Því miður eru jarðlög í Krýsuvík þannig, að erfitt er með hitamælingum að finna aðalupptök varmans.
En þetta gerir jarðboranir vandasamar, vegna þess hve erfitt er að staðsetja heppilega borstaði.“ – Gísli Halldórsson

Heimild:
-Lesbók Morgublaðsins, 4. tbl. 11.03.1962, Er jarðskurnin að springa undir Íslandi?, Gísli Halldórsson, bls. 9 og 15.

Flekaskil

Flekaskilin um Ísland.

Krýsuvíkurkirkja

Ný glæsileg Krýsuvíkurkirkja er nú komin á grunn sinn á Krýsuvíkurtorfunni þar sem eins kirkja var upphaflega byggð þar 1957.

Var kirkjan hífð á sinn stað rétt yfir kl. 11 laugardaginn 10. okt. 2020 í blíðskaparveðri og gekk hífingin eins og í sögu. Stóran krana þurfti til að hífa kirkjuna sem er 6,8 tonn að þyngd.

Krýsuvíkurkirkja

Flutningur á nýju kirkjunni gekk vel undir öruggri lögreglufylgd.

Þegar kirkjan var komin á sinn stað ávarpaði Jónatan Garðarsson, formaður Vinafélags Krýsuvíkurkirkju viðstadda og sr. Gunnþór Ingason var með stutta helgistund.

Ný Krýsuvíkurkirkja, sem verið hefur í smíðum um tíu ára skeið hjá nemendum trésmíðadeildar Tækniskólans í Hafnarfirði, var í vikunni hífð af jörðu og sett á dráttarvagn.

Kirkjan var síðan flutt með dráttarbifreið frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur daginn áður en hún var híft á stæði gömlu kirkjunnar norðan Ræningjahóls.

Fyrri kirkja í Krýsuvík var byggð árið 1857 en brann til kaldra kola í eldsvoða af völdum íkveikju 2. janúar 2010. Strax í kjölfarið kom fram áhugi meðal stjórnenda Iðnskólans í Hafnarfirði, sem þá var, á að smíði nýrrar kirkju yrði verkefni trésmíðanema skólans. Hljómgrunnur var fyrir slíku og þar með komst málið á hreyfingu milli stjórnenda skólans og kirkjunnar fólks.

Nákvæmum fyrirmyndum hefur verið fylgt við smíði kirkjunnar, en starfsmenn Þjóðminjasafnsins tóku þá gömlu út mjög nákvæmlega árið 2003; mældu, mynduðu og skráðu. Hafa þær upplýsingar í raun gert þessa vandasömu smíði gerlega, en hún hefur tekið rúman áratug.

Kirkjan stóð við hlið Krýsuvíkurbæjarins en það sem eftir var af honum var jafnað við jörðu með jarðýtu um 1960 ásamt fleiri minjum.

Þann 25. febrúar 1964 samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar að afhenda Krýsuvíkurkirkju ásamt kirkjugarði og öðrum mannvirkjum tilheyrandi staðnum Hafnarfjarðarsókn til fullrar eignar og varðveislu, ásamt landspildu umhverfis kirkjuna, samtals 7.096 m² að stærð.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja híft á gamla kirkjustæðið.

Kirkjan, sem byggð var 1857 af Beinteini Stefánssyni smið, hafði þá verið í mjög lélegu ástandi, var þá endurbyggð og friðuð.

Hún var sóknarkirkja allt fram undir 1910 en aflögð 1917. Hún var notuð m.a. til íbúðar frá 1929.

Engir gamlir kirkjumunir hafa varðveist og innanstokksmunir af nýlegri og einfaldari gerð. Mjög var farið að sjá á kirkjunni um 1980, rúður brotnar og bárujárn ryðgað í gegn. Skátar í Skátafélaginu Hraunbúum, sem voru með mótssvæði sitt undir hlíðum Bæjarfells, gerðu við helstu skemmdir, lokuðu húsinu og máluðu kirkjuna en Þjóðminjasafn greiddi fyrir efni. Þá var svæðið allt girt af en áður hafði fé gengið frítt um kirkjugarðinn.

Krýsuvíkurkirkja

Nýja kirkjan komin á gamla kirkjustæðið.

Viðamiklar viðgerðir hófust svo 1986 og var kirkjan færð til upprunalegri gerðar. Var kirkjan vinsæll áningarstaður og fleiri þúsund komu í kirkjuna árlega og skrifuðu í gestabók sem þar var.

Stofnað var Vinafélag Krýsuvíkurkirkju árið 2010 með það að markmiði að byggja nýja kirkju í upprunalegri mynd en góðar teikningar voru til af kirkjunni. Þjóðminjasafnið gaf Vinafélaginu tryggingabætur fyrir kirkjuna til að kosta efni í endurbygginguna.

Byggingarfulltrúi samþykkti 11. ágúst sl. byggingarleyfi fyrir kirkjuna og Ríkiseignir, fyrir hönd ríkissjóðs, hafa óskað eftir að gefa aftur lóð Krýsuvíkurkirkju til Hafnarfjarðarkaupstaðar, 7.097 m² lóð.

Hafnarfjarðarkaupstaður mun gera lóðarleigusamning við Hafnarfjarðarkirkju um lóð umhverfis kirkjuna sambærilegan og gerður er við aðrar kirkjur þar sem sveitarfélag er eigandi.

Eftirfarandi helgistund undir handleiðslu séra Gunnþórs Þ. Ingasonar fór fram við Krýsuvíkurkirkju eftir að hún hafði verið hífð á grunn gömlu kirkjunnar:

Signing og bæn: „Í nafni Guðs, föður og sonar og heilags Anda, Amen. Himneski faðir, ver þínu húsi, nýsmíðaðri Krýsuvíkurkirkju í Anda þínum og verndarkrafti í Jésú nafni. Amen.“

Gunnþór Ingason

Séra Gunnþór Þ. Ingason í Krýsuvík.

Guðspjall: Matt; 5.1-10. Forn ísrk/keltnesk trúarjátning frá 7. öld: Um það bil 670 e. Kr. hóf ísrskur biskup að nafni Tírechán söfnun heimilda og frásagna af heilögum patreki í bók sína Collectanea (samsafn). Þar segir hann frá því að Patrekur hittir fyrir tvær dætur konungsins í Tara (hákonungs Íra) við uppsprettulind. Önnur þeirra spyr Patrek um Guð kristinna manna. Sem svar setur Tírechán fram eftirfarandi trúarskilgreiningu/trúarjátningu fyrir munn Patreks. Ekkert er vitað hvaðan hún er komin en hún ber augljós merki þess að hafa verið viðhöfð í liturgíunni, helgisiðum ískrar kristni:  „Guð er Guð allra manna, Guð himins og jarðar, Guð sjávar og fljóta. Guð sólar og tungls. Guð allra himneskra vera. Guð hárra fjalla, Guð lágra dala. Guð er himnum ofar og hann er í himninum og hann er undir himnunum. Himinn, jörð og haf og allt í þeim er honum bústaður. Hann andar á allt og feur öllu líf og er þó öllu ofar og undir öllu. Hann tendrar loga sólar, hann glæðir ljós nætur og stjarna. Uppsprettur býr hann til á þurru landi og eyjar í sjó. Og hann lætur stjörnur þjóna æðri ljósum. Hann á sér son sem á sér eilífð með honum og er líkur honum í hverri grein. Og hvorki er snonurinn yngri föðurnum né faðirinn eldri syninum og andi heilagur andar í þeim.
Faðir og Sonur og Heilagur Andi eru óaðskiljanlegir.“ [þýð. Gunnþór Þ. Ingason.]

Krýsuvíkurkirkja

Verkinu lokið.

Bæn: „Himneski faðir. Þökk fyrir nýsmíðaða Krýsuvíkurkirkju og að hún skuli vera komin á sitt helga kirkjustæði í Krýsuvík. Þökk fyrir hve vel hefur tekist að smíða hana og færa hana hingað og koma henni uðð á kirkjuhólinn á sinn rétta stað, þar sem fyrri kirkjur í Krýsuvík hafa löngum staðið. Þökk fyrir alla þá er komu að verkunum sem til þessa hefur leitt, Vinafélagi kirkjunnar sem hefur staðið fyrir þeim verkum, og Iðnskólanna og Tækniskólann, er sáu um kirkjusmíðina meðs ínu góða starfsliði, og aðra að auki sem liðsinnt hafa. Og nú biðjum við þig um að vernda kirkjuna, bægja hættum frá henni, blessa vígslu hennar og vernda og blessa kirkjuna á komanda tíð sem helgað Guðshús, sem verndað er og varðveitt af umhyggju og elsku þinni. Og blessa þú helgihald endurreistrar Krýsuvíkurkirkju og gildi hennar og vægi fyrir kristni og þjóðmenningu hér á landi og kristni í heimi í Jesú nafni. Faðir vor“…

Krýsuvíkurkirkja

Ný Krýsuvíkurkirkja kominn á systravettvang.

Keltnesk blessu:
Djúpur friður berist þér í bylgjuflæði,
friður í streymandi andblænum,
friður frá jarðarkyrrð,
friður frá skínandi himinsstjörnum,
djúpur friður frá friðarsyninum góða.
Blessun Guðs gefist þér og reynist.

Framangreind athöfn styrkir vantrúaða í þeirri vissu að „Guð“ er í eðli sínu myndlíking. Uppspretta hins eiginlega „guðs“ er að finna í náttúrunni; allt umleikis – frá upphafi lífs til loka þess. Allt líf dafnar og hrærist í henni og hún er óumflýjanlegur hluti af tilverunni. Krýsuvíkurkirkja verður í framtíðinni tákn staðfestu þess…

Hér má sjá nokkrar myndir af endurbyggingu Krýsuvíkurkirkju s.l. tíu ár sem og flutningi hennar á á gamla kirkjustæðið.

Heimildir m.a.:
-https://www.mbl.is/frettir/innlent/2020/10/08/krysuvikurkirkju_lyft_a_vorubilspall/ – 08.10.2020.
-https://www.fjardarfrettir.is/frettir/ny-krysuvikurkirkja-komin-i-krysuvik

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja hífð á gamla kirkjustæðið.

Tag Archive for: Krýsuvík