Færslur

Örfirisey

Í Fornleifaskráningu fyrir Örfirisey og Grandinn er m.a. getið um tvo letursteina, sem fluttir voru frá Örfirisey í Árbæjarsafn; Apótekarasteinninn og Álnasteinninn. Auk þess má enn sjá áletranir á klöppum á svonefndu Reykjanesi nyrst á Grandanum.
Orfirisey-222“Örfirisey var ein af sex eyjum Kollafjarðar, grösug og frjósöm. Hinar eru Akurey, Engey,
Viðey, Þerney og Lundey. Búið var í þeim öllum nema Akurey og Lundey. Það sem gerir Örfirisey sérstæða er grandinn út í hana, en gæta þurfti sjávarfalla til að komast út í hana. Við byggingu Grandagarðs árið 1913 varð breyting á og aðgengi út í eyju varð betra. Örfirisey og Grandinn afmarka vestur hluta Reykjavíkur en Lauganestanginn austurhluta hennar. Talið er að Örfirisey hafi verið stærri áður, en minkaði vegna ágangs sjávar. Áður en Grandagarður var gerður, lá malarif eða grandi út undan Brunnstíg til norðnorðausturs, þar til komið var mitt á milli lands og eyjar. Þar sveigði hann til austurs og lá í norðaustur út í suðurenda Örfiriseyjar. Þessi grandi hét Örfiriseyjargrandi.
Orfirisey-223Reykjanes er nyrst á eyjunni. Árni Magnússon hefur þær sögusagnir eftir Seltirningum að súlur Ingólfs hafi rekið þar á land, en Ingólfi hafi aftur á móti ekki litist á staðinn, brennt súlunnar og numið land á þeim stað þangað sem reykinn lagði eða í Reykjavík. Trúlegra er að nafnið á Reykjanesi sé tilkomið vegna heitrar gufu sem steig upp um glufu í klettunum á stórstraumsfjöru.
Nyrst á Örfirisey er Reykjanes, einn af fáum stöðum sem enn eru óraskaðir. Þar er að sjá
lítið rústarbrot sem ekki er vitað hvað var. Talið var að álfar ættu sér þar bústað í klöppunum. Á klöppunum fyrir neðan rústina er að finna mikið af áletrunum, þær elstu frá síðari hluta 18. aldar. Þar er helst að nefna mjög merkilegar áletranir eftir Henrik Hansen kaupmann og syni hans. Henrik Hansen var verslunarmaður í Hólmi meðan verslunarhús voru í Örfirisey. 

Orfirisey-225

Á Reykjarnesi má sjá eiginhandaáritun hans slegna í klöpp. Hann var kaupmaður á Básendum, er verslunarstaðinn tók af þar í flóðinu mikla 9. janúar 1799. Synir hans voru kallaðir Básendabræður. Þeir voru Hans Símon Hansen og Símon Hansen sem átti Hansenhús/Smiðshús sem nú er á Árbæjarsafni. Bræðurnir settu fangamörk sín á klappirnar á Reykjanesi ekki langt frá áletrun föður síns árið 1828. Aðra áletranir eru flestar yngri. Þar má nefna fjölmargar frá árunum 1945 – 1948, tengdar veru bandaríska hersins auk fangamarka nokkurra Íslendinga frá árunum 1958 – 62.
Tveir áletraðir steinar voru fluttir á sínum tíma frá Örfirisey á Árbæjarsafn þegar ljóst þótti að þeir myndu lenda undir uppfyllingum. Annar steinninn er kallaður Apótekarasteinn. Á hann er rist einföld mynd af keri 60 x 63 cm að ummáli, og á því miðju er fangamarkið HCB og ártalið 1747. Ekki er vitað af hverju steinninn dregur nafn sitt. Hinn steinninn er kallaður Álnarsteinn. Á hann er rist lína, um 53 cm að lengd. Sýnir hún lengdareiningu þess tíma, sem var alin. Fyrir neðan álnarlínuna er latneskt máltæki rist í steininn: „memento mori“, sem útleggst á íslensku „Minnstu dauðans“. Talið er að báðar þessar áletranir hafi komið til á tíma verslunarstaðarins í Örfirisey.
Apotekarasteinn-22Nokkru eftir að verslunin var flutt úr eynni urðu þarna miklar hamfarir þegar ofsaveður gekk yfir eyna árið 1799 í svokölluðu Básendaveðri. Eyddist þar öll byggð um sinn en búseta hófst þar aftur nokkru síðar. Sú byggð var þó aðeins svipur hjá sjón og lagðist síðan niður með öllu 1861. Síðustu ábúendur í Örfirisey munu hafa heitið Jón og Kristín, en þau fluttust þaðan 1861.”
Þrátt fyrir að byggð hafi lagst af í Örfirisey er þar nú fjölbreytt athafnalíf, auk þess sem Grandinn hefur verið gerður landfastur með miklum uppfyllingum. Einungs nyrsti hluti hans, Reykjanesið, er að mestu ósnert, sem fyrr sagði.
Í Alþýðublaðinu 1963 segir m.a. um Apótekarasteininn: “
Fyrrnefndur apótekarasteinn er úr Örfirisey. Á honum stendur ártalið 1747 og áletrunin HBC. 

Alnasteinn-2

Utan um þetta er mótuð apótekarakrukka, sem gefur steininum nafn sitt. Hann er einn af merkilegustu steinunum í Örfirisey og er frá dögum verzlunarinnar þar. Danskir verzlunarstjórar hjuggu oft nöfn í steinana á eyjunni. Apótekarasteinninn lá við sjávarmálið og á góðri leið með að eyðileggjast er hann var fluttur til safnsins.”
Í Alþýðublaðinu 1963 var rætt við Lárus Sigurbjörnsson, forstöðumann Skjala- og minjasafns Reykjavíkurborgar. Í viðtalinu segir hann m.a.: “Hann sagði annan stein hvað merkilegastan. Í steininn er klöppuð sjálenzk alin, en þetta mál finnst nú hvergi nema í kirkju einni á Sjálandi. Hún hefur verið höggvin í steininn 1660. Neðar á stendur orðið „memento”, sem útleggst „mundu”. Undir þessu hafa svo upphaflega staðið tveir stafir O.P., en síðar hefur einhver bætt M fyrir framan þá, gert P að R og höggvið í aftast. Kemur þá út orðið „mori”, sem þýðir dauði. Hefur einhver gert þetta af skömmum sínum. „Memento mori” þýðir þá „Mundu að þú átt að deyja”.
Apótekarasteinn stendur við húsið Þingholtsstræti 9 á Árbæjarsafni, en Álnasteinninn við Kornhúsið.

Heimild:
-Anna Lísa Guðmundsdóttir – Fornleifaskráning fyrir Örfirisey og Grandinn, Reykjavík 2009.
-Alþýðublaðið 3. sept. 1963, forsíða.
-Alþýðublaðið 30. júní 1963, bls. 16.

Apótekarasteinn

Apótekarasteinninn – áletrun.

Öskjuhlíð

Þrír letursteinar með áletruninni “Landamerki 1839” afmörkuðu jörðina Skildingarnes frá Víkurbænum í Reykjavík.
Öskjuhlid-223Í grein í Morgunblaðinu 17. apríl 2005 er umfjöllun um byggðina undir yfirskriftinni “Skildinganes-kauptún”. Þar segir m.a.: “Sunnan í Skildinganeshólum stóð veglegt steinhús, þar átti heima frú sem hét Margrét. Börnum stóð stuggur af frúnni og kölluðu krakkarnir hana Hóla-Möngu. Þegar Margrét, sem alltaf var prúðbúinn utandyra, sást fara með strætó niður í bæ, áræddu krakkarnir að leika sér sunnanmegin í hólunum. Þar efst var steinn sem í var grafið LANDAMERKI 1839.”
Í Morgunblaðinu 9. ágúst 1994 sagði Magnús Sigurðsson í umfjöllun um Skerjafjörð – sjálfstæða byggð með sérstæðu yfirbragði: “Um Skildinganeshóla lágu áður mörk milli jarðarinnar Skildinganess og Reykjavíkur og þar var m. a. landamerkjasteinn frá 1839, sem nú er varðveittur í Árbæjarsafni.”
Í Fornleifaskráningu fyrir vestanvert Öskjuhlíðarsvæðið frá árinu 2006 segir m.a.: “Nokkur saga er tengd landamerkja-steininum. Skildinganes var um miðbik 16. aldar orðin sjálfstæð jörð, engu að síður voru landamerki hennar og Reykjavíkur ekki skýrt afmörkuð fyrr en árið 1787. Þá hafði Reykjavík fengið kaupstaðarréttindi og var land jarðarinnar ákvarðað í tengslum við það. Voru þá mörk Skildinganess og Reykjavíkur dregin frá Lambhól við Skerjafjörð, upp í Skildinganeshóla við Suðurgötu (Hjónagarða), þaðan austur í vörðu við Öskjuhlíð og að lokum í Fossvog við Hangahamar að austan, við Nauthólsvík. Fljótlega var reynt að hnekkja þessari niðurstöðu og spannst af því mikil deila sem leystist ekki fyrr en með sáttagerð árið 1839. Var hún í flestu samhljóða útmælingunni frá 1787. Til að taka af öll tvímæli var landamerkjalínan vörðuð þremur steinum, einum við Lambhól, öðrum í Skildinganesi og þeim þriðja í Öskjuhlíð. Á alla steinanna var höggvið orðið „Landmerke“ og ártalið 1839.
Oskjuhlið-223Lýsing: Steinninn er jarðföst klöpp með áletruninni “Landamerke 1839”, klappaðri á eina hliðina. Ofan á hann er merkt X. Hann er um 1,5 m á lengd og 1 m á hæð.
Á vísindavef HÍ er fjallað um örnefnið Ökjuhlíð: “Öskjuhlíð getur verið gamalt nafn. Hún hefur vafalaust tilheyrt landnámsbænum Vík (Reykjarvík) frá upphafi. Nafnið Víkurholt, sem nefnt er í máldaga Víkur frá 1379 gæti átt við Skólavörðuholt en þó fremur Öskjuhlíð, þar sem segir: “Víkurholt með skóg og selstöðu”.
Elín Þórðardóttir hét síðasta selráðskonan í Víkurseli. Árið 1828 gaf hún vitnisburð um landamerki Reykjavíkur og Skildinganess, meðal annars með þessum orðum: “Sel hafði faðir minn og allir hans forfeður vestan og sunnan undir Öskjuhlíð”. Nafnið hefur stundum verið stytt því að í áreiðargerð vegna landamerkja, þar sem farið er eftir landamerkjum jarða til upprifjunar eða staðfestingar, frá 1787 er talað um “Trevarder paa Hlidin”. Jónas Hallgrímsson nefnir Öskjuhlíð í dagbók sinni frá 1840.

Landamerkjasteinn 1839

Að minnsta kosti frá því um miðja 19. öld bar hæðin einnig nafnið Eskihlíð. Á korti frá 1850 er nafnið Öskjuhlíð aðalnafnið en Eskihlíð smáletrað. Býlið Eskihlíð (síðar við Miklatorg) var þó ekki stofnað fyrr en 1891.
Eski (eskigras) hefur fundist í hlíðinni en líklegra er að nöfnin Öskjuhlíð/Eskihlíð séu dregin af líkingu við öskjur, sem höfðu kúpt lok og voru notaðar meðal annars til að geyma í lín (einkum höfuðbúnað kvenna). Orðin askja, eski og eskja merkja hið sama, oft notað í fleirtölu, trafaöskjur = trafeskjur. Eski er upphaflega trjátegundin askur, en síðan haft um ílát úr þeim viði. Tvímyndir nafnsins kunna því að hafa þekkst frá fornu fari: Eskihlíð og Öskjuhlíð, samanber Eskiholt (Eskjuholt) og Öskjuholt á Mýrum.

letursteinn-222

Í Alþýðublaðinu 1963 var rætt við Lárus Sigurbjörnsson, forstöðumann Skjala- og minjasafns Reykjavíkurborgar. Í viðtalinu kom eftirfarandi m.a. fram:  “Þá sagði hann okkur frá öðrum merkilegum steini, sem nú stendur í heygarðinum fyrir norðan Árbæ. Er það landamerkjasteinn Reykjavíkur og Skildinganess. Var þessi steinn settur 1839 eftir miklar landamerkjadeilur. Voru tveir aðrir settir, annar í Eskihlíð og hinn á Lambholt. Sá sem er í Árbæ var á Skildinganesshólnum. Lárus hefur leitað að hinum steinunum, en ekki fundið. Sá, sem var á Skildinganesshólnum hafði verið bylt, líklega á stríðsárunum. Á honum stendur „Landamerki 1839″.”
Skv. nýjustu upplýsingum (2011) mun landamerkjasteinninn frá Skildinganesi hafa verið fluttur aftur á Skildingarneshóla fyrir 1994 sbr. Fornleifaskrá Bjarna F. Einarssonar. Þegar FERLIR kíkti á staðinn nýlega (2012) lá steinninn þar efst á hólnum, ekki á hvolfi sem fyrrum, en hallaði þó letrinu “undir flatt”.

Heimildir:
-http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1012796/
-Bjarni F. Einarsson, Fornleifaskrá Reykjavíkur, 1995.
-http://www.arbaejarsafn.is/Portaldata/12/Resources/skjol/skyrslur/skyrsla_130.pdf
-http://www.mbl.is/greinasafn/grein/149422/
-Anna Lísa Guðmundsdóttir, Fornleifaskráning lóðar Háskóla Reykjavíkur, Öskjuhlíð – Nauthóll, 2006.
-http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=5169
-http://skerjafjordur.blog.is/blog/skerjafjordur/entry/101846/
-Alþýðublaðið 30. júní 1963, bls. 16.
-Helgi M. Sigurðsson og Yngvi Þór Loftsson, Öskjuhlíð, náttúra og saga. Reykjavík 1993, bls. 7-24.
-Íslenskt fornbréfasafn III, bls 340.
-Íslenskt fornbréfasafn XV, bls. 258.
-Ólafur Lárusson, Byggð og saga. Reykjavík 1946, bls. 106.
-Jónas Hallgrímsson, Ritverk II (1989), bls. 364.

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð – landamerki.

Flókaklöpp

Litið var á rúnasteinana á Hvaleyrartanga. Rúnir eru vel sýnilegar á a.m.k. þremur steinanna. Fundist hafa nokkrar gamlar umsagnir um steinana og áletranirnar, sem margar hverjar virðast mjög gamlar. Jónas Hallgrímsson gengur svo langt að segja að innan um þær séu fangamerki áhafnar Hrafna-Flóka, sem kom við á Hvaleyrinni (Herjólfshöfn) á leið sinni út. Nefnir hann steininn þann Flókaklöpp.

Flókaklöpp

Flókaklöpp.

Aðrir hafa bent á að fátt sé því til stuðnings að þarna megi merkja áletranir nefndrar skipshafnar. Bæði sýna dæmin að letur á klöppum endist ekki nema tímabundið. Þannig hafa ekki fundist eldri letursteinar á Reykjanesskaganum en frá því um 1500. Steinninn eyðist smám saman vegna veðrunar (vatn, frost og vindur) og letrið afmáist því óhjákvæmilega. Á steinunum eru hins vegar margar áletranir, sumar eldri en aðrar. Breski herinn var með aðstöðu þarna á stríðsárunum og ljóst er að einhverjir hermannanna hafa bætt við fyrri skrif. Þeir notuðu m.a. einn steinninn sem pall til að að hræra steinsteypu. Ber hann þess enn merki.
Ýmis ártöl má lesa af steinunum og sumir stafirnir líkjast rúnum.

Flókaklöpp

Áletrun á Flókaklöpp.

Hvað sem öllu tali og vangaveltum um að áhöfn Hrafna-Flóka hafi klappað fangamörk sín á steinana, sem alls ekki er með öllu útilokað, er greinilegt letur á þeim og sumt af því eldra en annað.
Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi minnist ekki á Flókaklöppina í skrifum sínum um Hvaleyri í Árbók hins íslenska fornleifafélags árið 1903 – Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902. Þar segir hann m.a. með vísan í Landnámu: “Flóki kom í Hafnarfjörð. Þeir fundu hval á eyri einni út frá firðinum ok kölluðu þar Hvaleyri”. Síðan segir hann: “Þar hefir Herjólfur leitað lendingar og svo kennt höfnina við nafn hans: Herjólfshöfn. Á Hvaleyri er að sjá að kirkja hafi verið 1650, því á 2 ljósastökum, sem Krýsuvíkurkirkja á, stendur, að það ár hafi Helmer Dirichsen Roode, undirkaupmaður í Hafnarfirði, gefið þá Hvaleyrarkirkju.”

Flókaklöpp

Flókaklöppin í dag.

 

 

Básendar

Farið var aftur á Básenda. Ljóst var að þar hlyti að vera mun meira að sjá en talið hafði verið í fyrstu. Reyna átti að leita að áletrunum er kynnu að leynast þar víða á klöppum úti í skerjum, en auk þess var litið á nokkra festarhringi og kengi í klöppum, sem nú eru í skerjum, en voru þó enn á 18. öldinni hluti af fastalandinu. Með í för var G. Sigurbergsson, en hann hefur áður borið fyrrnefndar áletranir augum.

Básendar

Svæðið hlýtur augljóslega að vera forvitnilegur vettvangur fornleifafræðinga því bæði á Básendum og í næsta nágrenni, Þórshöfn, er að finna áhugaverðar fornminjar, bæði áletranir og arfleið verslunarsögunar sem og einstaka þátta Íslandssögunnar. Í Þórshöfn var verslunarstaður. Þar eru áletranir frá þeim tíma og þar fyrir utan rak upp timburflutningaskipið Jamestown árið 1881.
Nefndar áletranir eru í Arnbjargarhólma. Á háhólmanum mátti bæði lesa skrifstafi og ártöl á klöppunum, en auk þess, þegar vel var leitað, mátti sjá slíkar áletranir á lausum steinum, sem virtust hafa verið á hólmanum áður fyrr, er hann var landfastur og væntanlega gróinn vel, en skolast til þegar sjórinn náði að aðskilja hann fastalandinu og leika frjálslegar um hólmann.
Í ljós kom að á einum lausa steininum stóð nafnið “BERTELANDERS” og ártalið 1700. Á öðrum lausum steini var m.a. áletrað MVL og XX þar sem ör lá upp frá ártalinu 1590. Á klöppum mátti bæði lesa bókstafi er virtust vera upphafsstafir manna og ártöl, s.s. 1640, 1650, 1651 og 1694. Þessar áletranir á þessum stað benda til þess að þarna hafi verið athafnasvæði verslunar danskra kaupmanna, en þeir höfðu höfnina eftir 1602 út af fyrir sig. Þjóðverjar og Englendingar kepptust um hana fram yfir 1532 (Grindarvíkurstríðið) svo áletrunin Bertelanders gæti verið eftir einhvern kaupmanninn á Endunum eða hugsanlega nafn á skipi hans. Fróðlegt væri fyrir sagnfræðinga að reyna að grafa eitthvað upp um þetta.

Líklegt má telja að fleiri áletranir og ártöl kunni að leynast við Básenda er kunna að varpa ljósi á veru framangreindra á staðnum í gegnum aldirnar.
Básendar Samkvæmt gömlum uppdrætti af Básendahöfninni voru kaupskipin svínbundin (þríbundin) bæði á innri höfninni í Brennitorfuvík og á ytri höfninni. Samkvæmt teikningunni eiga að vera a.m.k. sex festahringir í klöppunum við Básenda.
Jón Ben Guðjónsson, eldri bróðirinn Stafnesbænda, sagðist hafa séð a.m.k. sjö festarkengi í og við höfnina. Sá sjöundi væri í skeri norðan við Básendatangann.
Við skoðun á vettvangi kom eftirfarandi í ljós: Þrír kengir eru í austanverðum Arnbjargarhólma. Sá syðsti er dýpstur. Í honum er hringur. Sá í miðið stendur hærra, á klöpp undir steini. Í honum er hringur. Nyrsti kengurinn er yst á skerinu. Í hann vantar hringinn.
Básendamegin, vestan við tóftirnar af verslunarstaðnum, eru tveir kengir. Annar, sá syðri er beint fyrir vestan þar sam kaupmannshúsið stóð. Sjá má grunn þess og stéttina framan við útidyrnar. Næsti grunnur er sunnar og austar. Á honum mótar einnig fyrir lítilli stétt þar sem dyrnar voru. Þriðja húsið var enn sunnar og austar. Að því liggur flóraður stígur upp frá flóruðu athafnasvæði ofan við höfnina. Hinn kengurinn er skammt norðar og mun neðar. Hann sést einungis á stórstraumsfjöru og þá helst um það leyti er flæðir frá. Í honum er hringur.
Þá er hringur úti í skeri, vestast í því, beint norður af víkinni. Í honum er hringur.
Á fyrrnefndum uppdrætti af höfninni sést vel innsiglingarleiðin; beint til suðurs vestan Básenda með stefnu á Gálga. Þegar komið var upp undir land var stefnan tekin til austurs innan skerja á Stóra Básendahól. Þá var komið inn á ytri höfnina. Beint á móti innri höfninni í Brennitorfuvíkinni er Brennitorfan. Á henni eru hleðslur þar sem sagnir kveða á um brennur þegar skyggja tók. Segja má að á hólnum hafi verið með fyrstu vitum hér á landi.

Básendar Í viðræðum við Leif Ölver Guðjónsson, yngri bóndabróðurinn á Stafnesi, kom fram að dýpið innan skerjanna er um 20-30 metrar, þó grynnst næst skerjunum. Einhverju sinni hafi verið kafað í víkinni og þá komið í ljós flök af tveimur verslunarskipum frá þeim tíma er Þjóðverjar og Englendingar nýttu höfnina. Á að hafa komið til átaka millum þeirra með þeim afleiðingum að skipum var sökkt. Liggja þau þarna á hafsbotni og mátti greina a.m.k. nokkrar fallbyssu á botninum. Sjór væri hins vegar ókyrr á þessum slóðum og umtalsverðir straumar. Þó bæri við stilltari sjór og þá væri lag að skoða þetta nánar, ef vilji væri fyrir hendi. Eitt slíkt fallstykki hefði skolað á land nokkru utar fyrir nokkrum árum og væri það nú við bæinn Nýlendu III utan við Stafnes. Tækifærið var notað í bakaleiðinni og fallstykkið skoðað. Lítið fer fyrir því þar sem það stendur við bæinn með skotstefnu til vesturs. Þarna er um greinilega fallbyssu af skipi að ræða. Á Nýlendu býr Arnbjörn Eiríksson. Hann sagði fallstykkið vera úr Jamestown, sem strandaði utan við Þórshöfn. Gripurinn hafi verið þarna heima við svo lengi sem hann myndi eftir sér, eða í 50 ár a.m.k.

Trébátsflak er ofan við Arnbjargarhólma. Að sögn Ölvers er það af bátnum Vörður ÞH er strandaði í Stóru Sandvík um 1960. Bátinn rak út þar sem hann klofnaði í tvennt. Rak annan helminginn þarna upp og sá sjórinn til þess að hann yrði þar fólki til sýnis um ókomin ár.

Básendar Ofan við Stafnes vakti athygli FERLIRsfélaga fjöldi grjóbyrgja, flest fallin. Jón Ben sagði það gömul fiskbyrgi. Þau væru sennilega þarna samtals á milli 30 og 40 talsins. Þarna hafi verið verkaður og þurrkaður fiskur Stafnesbænda um aldir. Svæðið er tiltölulega afmarkað og ætti að hafa varðveislugildi sem slíkt. Um aldamótin 1900 voru u.þ.b. 30 bæir á Stafnesi.
Aðspurður um Hallgrímshelluna svonefndu, sem FERLIRsfélagar hafa leitað að og m.a. notið ábendinga Guðmundar frá Bala á Stafnesi (sjá aðra FERLIRslýsingu), sagði Jón Ben eftirfarandi:
“Ég man vel eftir þessari hellu. Hún var í vörðu á Prestsklöpp þar sem prestar, og þar á meðal sr. Hallgrímur Pétursson, var sagður hafa beðið sjófars yfir Ósana til að geta þjónusta Hafnafólkið. Prestsklöpp var einnig nefnd Hallgrímshella. Hella þessi var þríhyrningslöguð, ekki stærri en svo að hægt var að taka hana í fangið. Áletrunin HPS var í hellunni og ógreinilegt ártal; 163?. Tilgreindur lögreglumaður á Keflavíkurflugvelli mun hafa bent einhverjum á helluna á sínum tíma. Síðan eru liðin a.m.k. 30 ár. Mig grunar að hellan hafi komist inn í geymslur Þjóðminjasafnsins og “gleymst” þar.”
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Letursteinn

Básendar

Á Básendum fundust nýlega áletranir frá því á 17. öld. Ætlunin var að fara þangað við hagstæðar aðstæður fljóðs og fjöru og vöðluvaða út í hólma og sker með það fyrir augum að líta þar á áletranir á klöppum. Einnig var ætlunin að leita að hugsanlega fleiri áletrunum í skerinu. Það er ekki heiglum hent að vaða út í sker og feta þara á hálum klöppum, en FERLIRsfélagar láta sér fátt fyrir brjósti brenna. Með í för var G. Sigurbergsson, en hann hafði komið auga á þessar áletranir af tilviljun fyrir nokkru síðan og tók þá m.a. meðfylgjandi myndir.

Básendar

Á leiðinni út að Básendum eru tveir myndarlegir grónir hólar á leiðinni á hægri hönd. Sá eystri er Stóri-Básendahóll og sá vestari Litli-Básendahóll.
Nafnið Básendar er ekki vafalaust. Kemur það fyrir í þremur myndum; Bátsenda (danskir skrifuðu það Botsendar), Bátsandar og loks Básendar (eða Bassendar). Nafnið kemur fyrst fyrir í Fornbréfasafninu 1484. Þar er ritað “Bátsendum”.
Básendar urðu verslunar- og útgerðarstaður strax á 15. öld. Framan af voru þeir í eigu Viðeyjarklausturs en eftir siðaskiptin tók konungsvaldið útgerðina í sinar hendur og máði hún hámarki að fyrstu tugum 18. aldar en um þær mundir voru konungsbátar í Gullbringusýslu milli 80 og 100 talsins. Rekstur konungsútgerðarinnar var þó ekki burðugri en svo að árið 1769 var hún lögð niður. Enn um sinn héldu þó danskir einokunarmenn áfram að stunda verslun frá staðnum og voru margir þeirra afar illa þokkaðir. Í kvæðinu Básendapundarinn eftir Grím Thomsen segir frá útistöðum Skúla fógeta við einn slíkan.
Básendar Í fornleifaskráningu um Básenda segir m.a. að “í Stafnesslandi, á hraunnefi milli tveggja víka sunnarlega á vestanverðu Miðnesi sunnar en Stafnes, heita Básendar. Þar var ein af höfnum einokunarverslunar Dana og náði verslunarsvæðið yfir Hafnir, Stafnes og Miðnes. Aðfaranótt 9. janúar 1799 gerði óveður usla allt frá Þjórsá og vestur um Seltjarnarnes, kirkjur fuku, skip brotnuðu, jarðir í Staðarsveit urðu óbyggilegar og Seltjarnarnes varð eyja í flóðinu. Grótta á Seltjarnarnesi varð að eyju til frambúðar en áður var hún landfastur tangi. Á Básendum gerði flóðið þó líklega mestan usla. Flest ef ekki öll hús kaupstaðarins sópuðust burt, roskin og veikburða kona drukknaði en annað heimilisfólk bjargaðist við illan leik. Atburður þessi hefur síðan verið kallaður Básendaflóðið.
Höfnin á Básendum var lón mjótt og langt inn í Brenntorfuvíkina. Skipaleiðin inn í leguna var nokkuð löng, fyrst bein sigling á Gálga, en síðan var vent í vinkil til vinstri með stefnu á vörðu utan við hólana og rennan tekin til norðurs milli skerja og inní höfnina. Þar voru skipin svínbundin, ýmist á ytri höfninni eða innri höfninni. Á teikningu frá 18, öld má sjá bæði siglingaleiðina sem og staðsetningu festarhringjanna í landi.

Á Básendum má einnig enn sjá leifar kaupstaðarins, þ.á.m. minjar um landfestar, varir, fiskbyrgi og verslunar- og birgðahús auk búsetuminja. Þar standa ágætlega varðveittar leifar af rétt, hlöðu og fjósi. Einnig má finna þar leifar garðs sem hlaðinn var í hálfhring utan um verslunarstaðinn. Samanburður heimilda og húsaleifa á vettvangi bendir til að fjórar rústir geti verið leifar lifrarbræðsluhúss, skemmu, lýsisbúðar og vörugeymslu. Loks skal getið kaupstaðavegarins. Hann er nær því óskertur frá Kirkjuvogi heim að Básendum. Minjagildi hans er verulegt, ekki einungis vegna þess að fáar ef nokkrar fornar leiðir eru svo stórkostlega vel varðveittar, heldur er hann sýnilegur í landinu með upphækkuðum brúnum og vel til gönguferða fallinn.”

Básendar

Básendar komu við sögu í aðdraganda Grindavíkurstríðsins, eða Fimmta þorskastríðsins, eins og það er stundum nefnt.
Árið 1480 kom stórt þýskt vöruflutningaskip og lá við landfestar við Straumsvík. Sex ensk herskip komu og tóku skipið, fluttu það út og seldu áhöfnina m.a. í ánauð. Englendingar fluttu sig til Grindavíkur, en Þjóðverjar til Básenda. Sú regla gilti að sú áhöfn sem fyrst kom að höfn að voru átti einkaaðstöðu þar það sumarið. Upp spratt verslunarstétt, nefnd “verslunarduggarar”. Þeir fóru að sigla til Íslands, ekki bara yfir sumarmánuðina, heldur alveg fram í nóvember. Íslendingar unnu hjá þeim og sáum um veiðar og vinnslu aflans, t.d. í Grindavík, á Básendum og í Hafnarfirði.
Eftir að Englendingar byrjuðu að sigla hingað komu þeir sér upp umboðsmönnum. Í Grindavík var það Marteinn Einarsson frá Stað. Stjórnaði hann verslun Englendinga hér. Systir hans var gift Englendingi. Lærði Marteinn m.a. listmálun í Englandi. Eftir að Þjóðverjar lögðu undir sig Hafnarfjörð fóru þeir að herja á Englendinga annars staðar, t.d. á Básendum við Stafnes (sem hét Starrnes til forna).
Hinrik VIII. var við völd í Englandi. Aðalhafnir Englendinga voru á Básendum og í Grindavík. Þegar Þjóðverjar komu til landsins 2. apríl 1532 fóru þeir ekki til Grindavíkur heldur inn á Básenda. Fyrirliði þeirra, Ludtkin Smith, hafði sagst ætla að vinna eina höfn af Englendingum, en hann mun hafa verið skyldur fyrirliða þeim er enskir hertóku við Straumsvík og færðu í þrældóm. Samkvæmt reglunni átti hann rétt á aðstöðunni (fyrstur að vori).

Básendar Básendar var aðalhöfnin á Romshvalanesi. Keflavík var ekki einu sinni orðið þorp. Skömmu síðar komu Englendingar að Básendum, réru í land og báðu um að fá að hafa þar aðstöðu. Ludtkin hafnaði beiðni þeirra, sagðist ætla að bíða eftir væntanlegu öðru þýsku skipi þangað. Englendingar virtust taka þessu furðu vel og réru til baka út í skip sitt. Skömmu síðar kom annað enskt skip þar að. Þá breyttist framkoma Englendinganna gagnvart Þjóðverjum. Annað skipið sigldi inn í höfnina og réðst á Þjóðverjana. Héldu Englendingar að þeir hefðu í fullu tré við þá. En þeir vissu ekki eitt, Bróðir Ludtkins, Hans Smith, hafði haft vetursetu á Básendum, varðveitt fiskistafla, sem ætlunin var að flytja út að vori, og vingast við heimamenn. Þegar Þjóðverjar sáu hvert stefndi, söfnuðu þeir liði, aðallega Íslendingum, og mikil orrusta verður með fylkingunum. Þjóðverjum og Íslendingum tókst að gersigra Englendinga. Öðru skipinu var sökkt, en Þjóðverjar náðu hinu.
Þótt nú sé fátt á Bátsendum (Básendum) er sýnt getur augljóslega aðstæður þar þennan örlagaríka dag árið 1799 má þó enn sjá ýmislegt ef vel er að gáð. Brunnurinn er t.d. ofan við það sem húsin stóðu, sökkla timburhúsanna má sjá þar, tóftir ofan við vörina, festarkengina frá tímum konungsverslunarinnar og Brennuhól (Brenntorfuna) þar sem eldur var kynntur til leiðsagnar sjófarendum, auk þess sem aðstæður við Bátsenda gefa fólki mynd af því hvernig gæti hafa verið umhorfs þarna fyrr á öldum þegar umsvifin voru hvað mest. Garðar eru hlaðnir utan og ofan við Básenda um túnbleðla, þar er nokkuð heilleg hlaðin rétt og tóftir má sjá nálægt brunninum.
Básendar Tóftir síðasta Básendabæjarins eða sjóbúðarinnar, sem líklegra er, sést enn fremst á tanganum austan Brennitorfuvíkur og neðan hennar er lendingin. Til skamms tíma mátti í henni sjá för eftir kili árabátanna, sem þar voru dregnir upp.
Skoðaðar voru fundamental kaupmannshússins, leifar lýsisbræðslunnar, réttin, sem er nýlegra mannvirki, brunnurinn og garðarnir umhverfis. Þá var litið á Brennitorfuhól, eða Brennihól eins og hann var einnig nefndur. Á honum var tandrað bál þegar rökkvað var orðið og ekki allir bátar komnir inn til lendingar. Draughóll er skammt sunnar. Á honum er talið að hafi verið dys, en það mun ókannað.
Þar sem staðið er á flóraðri stétt sölubúðarinnar á Básendum, sem enn sést, má vel gera sér grein fyrir hvernig þarna var umhorfs fyrr á öldum. Húsið hefur verið í vinkil, fremur lítið. Vestan við það hefur vöruhúsið staðið. Sér þar fyrir grunni, um 20 m á lengd og 12-15 m á breidd. stærra hús. Austan við sölubúðina hefur kaupmannshúsið staðið staðið, en framan og til hliðar við húsin hefur lýsisbræðslan verið. Planið framan við húsin er flórað og sést drjúgur hluti þess enn. Ljóst er að mikill umgangur hefur verið um planið, enda vel máð. Neðan þess er vik í klappirnar, rétt sunnan festarkengs, sem þar er. Annar kengur var í klöpp skammt vestar, en virðist nú horfinn. Hugsanlega er þarna um að ræða leifar lendingar smærri báta, sem ferjað hafa varning að og frá kaupskipinu, sem bundið var í innri víkinni, neðan verslunarhúsin. Léttari varningur hefur væntanlega verið dregin í land á lyftuböndum.

Básendar Sjóbúðin vestast á tanganum virðist í fljóti bragði hafa verið bær, en það getur þó varla verið. Til hliðar við búðina, sem hefur staðið með gaflinn mót hafi (vestri), eru afhýsi, líklega notuð til geymslu varnings og veiðarfæra. Ólíklegt er að áhafnir hafi haldið til í búðinni, en hún mun þó líklega hafa hafst þar við á meðan róðralotur stóðu yfir, en þess á milli dvalið heima hjá sér eða á nærliggjandi bæjum.
Norðaustar er hlaðinn rétt eða kálgarður með hesthúsi að baki, en hlöðuveggir eru þar laust norðvestan við. Austan við brunninn hefur verið kálgarður, tvíhlaðinn úr úrvalsgrjóti. Frá þessum stað má sjá að kaupstaðurinn hefur verið alveg afgirtur að sjó. Fiskabyrgi, lítil og kringlótt eða sporlaga, úr einhlöðnu grjóti, hafa verið á klettum og hólum víðsvegar að ofanverðu.
Mikið útræði var lengi á Stafnesi og nærliggjandi bæjum, enda stutt á miðin. Vörin er beint fyrir neðan sjóbúðina. Um aldamótin 1900 er því lýst að þar hafi mátt sjá merki eftir kjöl bátanna, sem þar voru dregnir upp.
Þegar Básendar eru gaumgæfðir út frá minjunum, örnefnum og aðstæðum vakna þeir ósjálfrátt til lífsins og auðvelt er að gera sér í hugarlund hvernig mannlífið, sjósóknin og verslunin hafa gengið fyrir sig þótt ekki séu þar enn heil hús eða búðir.
Vöruhúsið á Básendum var flutt til Keflavíkur árið 1800 og stóð við Hafnargötuna sunnan við Norðfjörðsgötu og kallað Svarta pakkhúsið.
Ætlunin er að fara fljótlega aftur að Básendum og gaumgæfa skerin.
Frábært veður.

Básendar

Básendar – letur.

Örfirisey

Laugardaginn 12. maí 2007, kl. 10:35, mátti sjá eftirfarandi bókin í Dagból lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu: “Útkall, óskaði P.G. útivarðstjóri eftir aðstoð TD vegna tilkynningar um fundar á hugsanlegum mannabeinum við olíutankana við Granda. Tilkynnandi vísaði okkur á staðinn sem merktur er á minjaskrá Árbæjarsafns og um var að ræða eitt langt og mjótt bein sem stóð út úr hól. Beinið aflaga og tilheyrir ekki skepnu sem gengur upprétt. Ekki frekari aðgerðir af hálfu lögreglu.”

Hóllinn í Örfirisey

Í framhaldi af því var lögð fram eftirfarandi fyrirspurn til Árbæjarsafnsins: “Getur þú sagt eitthvað um nefndan stað – hvers vegna hann er á minjaská Árbæjarsafns?” Anna Lísa Guðmundsdóttir svaraði f.h. safnsins: “Þarna eru skráðar bergristur sem eru á klöppunum. Ef þetta eru dýrabein þá er örugglega eitthvað meira þarna í hólnum.” Með fylgdu nánari upplýsingar úr SARPI: “Í minjaskrá Árbæjarsafns er getið um 3-4 m háa klöpp, um 100 m2, er skagar út í sjó norðan við olíugeymanna í Örfirisey. Þær eru frá ýmsum tímum og eru víða á klöppinni og nokkrum stórum steinum. Margar þeirra eru nú máðar af ágangi sjávar. Risturnar eru mjög misdjúpt ristar. Hér er ekki getið nafna eða ártala rista eftir síðustu heimsstyrjöld, en þær eru allmargar. Um 6-7 m. sunnan við flæðamálið er rista: HSH – 1828.”

Beinið í hólnum

Jafnframt kom fram að svokallaður Apótekarasteinn á að hafa verið fluttur á sínum tíma frá Örfirisey til Árbæjarsafns. Er hann við húsið Þingholtsstræti 9 á Árbæjarsafni. Á steininn er klappað HCB. A 1?91. Í Safni til sögu Reykjavíkur 1786-1836, bls. 64-65, er getið um Mimore Morti-steininn, en hann var fluttur úr Örfirisey í Árbæjarsafn 1977 og stendur nú vestan við Vopnafjarðarhúsin í safninu. Árið 1981 töldust 10-20 ristur vera á klöppunum í Örfirisey, en 1994 höfðu fundist a.m.k. 43 slíkar.
Þegar staðurinn var skoðaður nánar kom í ljós að honum hafði verið hlíft einhverra hluta vegna. Mikill sjóvarnargarður er með allri ströndinni, nema á stuttum kafla ofan við klappirnar. Í garðlínunni er gróinn lágur hóll með grasi efst og mold undir. Í hann er rekinn fótur með skilti frá Árbæjarsafni. Í moldinni vottar fyrir hleðslum að austanverðu. Bein stóð út úr hólnum, sem sjórinn hefur náð að naga.

Ristur á klöpp

Myndir voru teknar á vettvangi og ein þeirra send starfsmanni á Keldum með spurningu um af hvaða dýri beinið gæti verið.
Líklegt má telja að sléttur klapparhóllinn eigi sér einhverja sögu, auk þess sem gömul lending virðist vera þarna skammt austar. Önnu Lísu voru því sendar myndir af vettvangi með von um nánari upplýsingar. Þær komu líka um hæl: “Þetta var næstvestasta eyjan í Kollafirði, nú tengd með land fyllingu. Talið er að Örfirisey hafi allsnemma orðið sjálfstæð jörð en litlum sögum fer af henni framan af. Þess er þó getið í heimildum frá 1397 að Víkurkirkja hafi átt þar ,,landsælding” og selalátur. Bendir hið fyrrnefnda til að kornyrkja hafi þá verið í eyjunni því landslæðingur mun þýða akurland. Örfirisey var eign klaustursins í Viðey en þó ekki fyrr en tiltölulega skömmu fyrir siðaskipti eftir því sem best er vitað. Síðan varð eyjan konungseign eins og aðrar klausturjarðir. Í Jarðarbókinni frá 1703 eru, auk aðalbýlisins sem stóð norðarlega á eyjunni, taldar fjórar hjáleigur. Þar kemur fram að vatnsból sé í ,,…lakasta máta, þrýtur bæði sumar og vetur og þarf þá að sækja vatn til lands á skipum að sækja eður sæta sjávarfalla að þurr megi ganga um fjörurif það sem kallað er Grandi”( Árni Magnússon og Páll Vídalín 255). Nokkru seinna eru býlin í Örfirisey orðin níu… Þegar hafnar gerðin Apótekarasteinninnhófst 1913 var lagður grjótgarður eftir Grandanum út í eyjuna. Var grjótið flutt á járnbraut sem lögð var sérstaklega í þessu skini frá Öskjuhlíð að Granda.”
Gróni hóllinn á klöppunum er ekki stór og væri tilvalið viðfangsefni fyrir fornleifafræðing að skoða hann nánar.
Elsta og fallegasta áletrunin er sennilega rituð af Hendrik Handsen sem var verslunarmaður í Örfirisey á dögum Kóngsverslunarinnar. Hendrik þessi hafði áður verið kaupmaður á Básendum en hraktist þaðan eftir sjávarflóðið 1799. (Skv. Árna Óla – Gamla Reykjavík)

Reykjavík

Skólavörðuholt og eyjarnar utan Reykjavíkur.

Flekkuleiði

Á Mbl.is 20. mars 2002 birtist eftirfarandi undir fyrirsögninni; “Leita að letusteinum“.

Letursteinar

Letursteinar – yfirlit.

“FERLIR, ferða- og útivistarhópurinn, hefur að undanförnu verið að skoða og leita letursteina nálægt Keflavík og vill fá upplýsingar um fleiri. Ferlisfélagar segja að vitað sé um ýmsar áletranir og hægt að ganga að þeim vísum.

Ferlisfélagar segja að vitað sé um ýmsar áletranir og hægt að ganga að þeim vísum. Nefna þeir sálmavers sem er klappað á stein við Prestsvörðuna (séra Sigurðar Sívertsen) ofan við Leiru, áletranir á steinum við Básenda, stafi sem klappaðir eru í bergið við Helguvík og á klöpp á Keflavíkurbjargi, ártal og stafi á klöpp í Másbúðarhólma, ártöl og stafi á klapparsteini ofan við Þórshöfn, stafi á hellu yfir fornmannagröf í Garði, rúnir á steini við Kistugerði og ártal á steini í Fuglavík sem og stafi sem eru á klöpp þar í fjörunni og ártal og stafi undir Stúlknavörðunni.

Þá eru nokkur dæmi um svonefnda LM-steina (landamerkjasteina) sem og leturhellur.

Í fréttatilkynningu frá Ferli kemur fram að auk þessara áletrana séu til heimildir um letur á klöpp eða hellu yfir smalagröf innan við forna túnhliðið á Hólmi, leturstein á Draughól við Garð, en áletrunin á að vera tengd handtöku manna Kristjáns skrifara á Kirkjubóli, áletrun við eða á Dauðsmannsvörðu norðan Vegamótahóls (við Sandgerðisveginn forna) og ártal á steini í eða við Kolbeinsvörðuna á mörkum Voga og Njarðvíkur. Ef einhver getur upplýst hvar áletranir þessar geta verið eða hefur séð þær er viðkomandi beðinn um að láta Ómar Smára Ármannsson vita (omarsmari@simnet.is), einnig um annað það er málið varðar og kann að þykja merkilegt.”

Básendar

Letursteinn við Básenda.

Áletranir á steinum eða klöppum geta verið minningarmörk, ártöl, ártöl sögulegra viðburðir, landamerki eða hvaðaneina, allt annað en grafskriftir í kirkjugörðum.

Hallgrímshellan

“Hallgrímshellan” í geymslum Þjóðminjasafnsins.

Þjóðminjasafnið hefur dregið til sína allnokkra steina með áletrunum þar sem þeir eru jafnan geymdir í hinum dýpstu dýflissum safnsins. Að sjálfsögðu ættu slíkir steinar að vistast á þeim stöðum, sem þeir áttu uppruna sinn í hinu sögulega samhengi eða hjá hlutaðeigandi byggða- eða minjasafni.

Stóra-Knarrarnes

Stóra-Knarrarnes – letursteinn.

Á Reykjanesskaganum er að finna a.m.k. 125 þekkta letursteina í mismunandi ásigkomulagi. Nauðsynlegt er að viðhalda þeim ásamt því að varðveita vitneskju um sögu þeirra. Til þess að það sé hægt er nauðsynlegt að skrá staðsetningu, munnmæli og sögur þeirra sem þekkja til steinanna ásamt því að halda utan um og taka saman helstu heimildir um þá.

Heimild:
-Mbls 20. mars 2002 – Leita að letusteinum.
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/658213/

Fuglavík

Fuglavík – elsti ártalssteinninn á Reykjanesskagnum.

Kaldársel

Farið var með Þórarni Björnssyni um Kaldársel, en hann er að vinna að bók um sögu staðarins.

 Kaldársel

Áletrun við Kaldársel.

Þórarinn sýndi þátttakendum það sem hann hafði grafið upp um  staðinn og FERLIRsfólk sýndi honum annað, s.s. Gvendarsel undir Gvendarselshæð, fjárhellana norðan við Borgarstand, Nátthagann í Nátthaga, Þorsteinshelli vestan Selgjár o.fl. Þórarinn benti m.a. á letursteinana við Kaldá, en á nokkra þeirra eru klappaðar sálmatilvitnanir. Á einu er vísað í Davíðssálma þar sem segir að það tré, sem gróðursett er við lind og fær næga næringu, dafnar vel. Þetta mun hafa verið sett á steinana á 5. áratug 20. aldar af aðstandendum KFUMogK í Kaldárseli með vísan til megintilgangs sumarbúðanna á sínum tíma.
Kaðalhellir er þarna skammt norðvestar sem og Hreiðrið. Gamla gatan frá Kaldárseli til Hafnarfjarðar er mörkuð í klöppina á kafla sem og gamla gatan frá Kaldárseli til Krýsuvíkur.
Þetta var róleg ferð, en fróðleg. Nokkrir áhugasamir slógust í hópinn.
Veður var frábært.

Áletrun

Viðey

Í Morgunblaðinu árið 1990 er grein um Viðey. Í henni er kafli undir fyrirsögninni “Ástarsaga afhjúpuð?” Fjallað er um þrjá letursteina  vestan í eynni sunnan við svonefndan Hulduhól. Ein áletrunin á svonefndum Dvergasteini og önnur á klöpp við Nautahúsin.

“Fundist hafa áletranir frá fyrrihluta síðustu aldar á jarðföstum steinum á vesturhluta Viðeyjar og voru nokkrar þeirra áður óþekktar.

Viðey

Mögulegt er að á einum steininum séu ristir upphafsstafir ungra frændsystkina af Stephensens-ættinni sem bjó í eynni á þessum árum, líklega merki um stutt ástarævintýri. Á öðrum steini er aðeins ártalið 1810 í rómverskum tölum og á þriðja steininum, sem kunnugir hafa reyndar lengi vitað um, eru nöfn tveggja manna ásamt krossmarki og ártali.

Forgengileg ást klöppuð í stein?

Magnús Sædal Svavarsson, byggingastjóri í Viðey, kom fyrir skömmu auga á áletranir sem klappaðar höfðu verið í jarðfasta steina í Viðey. Ein þeirra gæti verið þögult vitni um ástarævintýri ungra frændsystkina í eynni á fyrrihluta síðustu aldar. Séra Þórir Stephensen staðarhaldari skoðaði nýlega steinana með blaðamanni og ljósmyndara Morgunblaðsins.
„Þegar ég sá þessa áletrun fyrst bjóst ég náttúrulega við að hér hefði einhver vinnumaðurinn verið á ferð, hefði verið við gegningar í húsunum,” segir séra Þórir þegar við skoðum stein í nánd við Nautahúsin svonefndu, norðaustan til á Vestureynni. Þar sést stafurinn M og síðan TH sem stundum var notaður í stað íslenska bókstafsins Þ. „Hann gæti hafa verið að dunda við þetta í tómstundum sínum. Svo fór ég í manntalið 1821; það er enn til. Þar er ekkert mannsnafn sem þetta fangamark á við. Ég fór að velta því fyrir mér hvort tveir vinnumenn hefðu verið að verki.
ViðeyÞegar ég ræddi þetta við aðra var mér bent á að ég væri ekki nærri nógu rómantískur! Þegar einhver eða einhverjir séu að krota svona i stein geti það ekkert síður verið elskendur. Ég íhugaði þetta og fór aftur í manntalið. Vorið 1821 kemur Magnús Stephensen, sonur Stefáns amtmanns og bróðursonur Magnúsar Stephensens konferensráðs, heim frá Kaupmannahöfn, þá nýútskrifaður kandídat í lögfræði. Hann hafði alist upp hjá Magnúsi konferensráði frá því hann var á fyrsta ári. Hann elst upp með Þórunni, dóttur Magnúsar, en þau hafa ekki sést í nokkur ár er Magnús kemur heim. Kannski, og ég ítreka kannski, er þessi áletrun merki um það að með þeim hafi kviknað einhver ástarhugur, hún skrifað stafinn hans, Magnús skrifað fangamark hennar og ártalið.
Hann fer aftur að heiman 1823, fær sýslumannsembætti í Skaftafellssýslum 2. september. Magnús er þá svo fátækur að ekki kemur til greina fyrir hann að kvænast; fyrst þurfti hann að koma undir sig fótunum. Næsta ár kemur Hannes bróðir hans heim frá Höfn með guðfræðipróf; hann varð seinna einn af forystumönnum sjálfstæðisbaráttunnar við Dani. Segir sagan að hann hafi verið einn af þrem þingmönnum sem dönsku dátarnir, er voru sendir hingað vegna þjóðfundarins 1851, hafi átt að drepa ef nauðsyn krefði. Á Jónsmessunni 1825 giftist Þórunn Hannesi.
Magnús sýslumaður kvæntist ekki fyrr en 1828, þá prófastsdóttur úr Mýrdalnum.”

Heimild:
-Morgunblaðið, 112. tbl. 19.05.1990, Forgengileg ást klöppuð í stein?, bls. 18-19.
Viðey

Apótekarasteinn

Sunnan við húsið Þingholtsstræti 9 á safnlóð Árbæjarsafns er grágrýtissteinn ættaður úr Örfirisey, kallaður Apótekarasteinn.
ApótekarasteinnSteinninn lá við sjávarmálið og var á góðri leið með að eyðileggjast þegar hann var fluttur á safnið árið 1963. Steinninn dregur nafn sitt af apótekarakeri sem er dregið utan um ártal, en vafalaust tengist hann verslunarstaðnum í Örfirisey á 18. öld. Þekkt var að danskir verslunarstjórar hjuggu nöfn í steinana á eyjunni.
Lýsing: Steinninn er 1,6 x 1,5 m að stærð og á hann er rist einföld mynd af keri, 60 x 63 cm og á því miðju er fangamarkið HCB og ártalið 1747. Letrið er orðið mjög óljóst.

Apótekarsteinn

Apótekarasteinninn í Árbæjarsafni.