Tag Archive for: letursteinn

Garður

Skammt frá bænum Vegamótum í Garði, sem nú er kominn í eyði, er stór steinn, hellulaga, og eru undir honum þrír steinar, sem hann hvíldi áður á. Munnmæli eru um, að eitthvert letur hafi verið á steininum, en það hef ég aldrei séð og veit ekki af neinum, sem hefur séð það, og ekki er mér heldur kunnugt um að neinn fróðleiksmaður hafi athugað steininn til að ganga úr skugga um hvort letrið sé þar enn. En sögn er, að undir þessum steini hvíli fornmaður nokkur, og steininn megi alls ekki hreyfa.

Garður

Garður – haugur fornmannsins.

Nú er það á öldinni sem leið, að á Lykkju í Garði bjó Þorsteinn Ólafsson, faðir Björns hafnsögumanns í Hafnarfirði og afi sér Þorsteins Björnssonar fríkirkjuprests í Reykjavík. Þorsteinn Ólafsson var framkvæmdamaður mikill og kappsfullur. Eitt sinn stóð hann í einhverjum byggingum og vantaði tilfinnanlega stóran stein. Kom honum þá í hug að steinninn á leiði fornmannsins mundi henta sér ágætlega. Þorsteinn vissi þó hverjar sagnir gengu um steininn, að hann mætti ekki hreyfa, því að þá mundi illt hljótast af. En hann var maður ófælinn og kjarkmikill og lét sér ekki smámuni fyrir brjósti brenna, enda var hann hið mesta karlmenni. Varð það svo úr, að hann safnaði mönnum til að bera steininn heim, og urðu þeir 8 saman. En steinninn var svo þungur, aðþeir áttu fullt í fangi með hann, enda þótt þeir væru svo margir. Eftir mikið og langt erfiði komu þeir honum þó á þann stað, en Þorsteinn hafði ætlað honum.

Garður

Fornmannaleiðið í Garði – letursteinn.

Eftir að þessu stórvirki var lokið, var Þorsteinn að vinna eitthvað úti við. Skyndilega syfjaði hann þá svo mjög, að hann mátti ekki halda sér vakandi. Fór hann því heim, gekk upp á baðstofuloft, hallaði sér upp í rúm og var þegar sofnaður. Dreymir hann þá, að upp úr baðstofustiganum kemur maður, stór og aðsópsmikill, og skipar honum harðalega að skila steininum þangað sem hann var tekinn. Þorsteinn hrökk upp við þetta og þóttist sjá á eftir manninum niður stigann.

Var Þosteinn nú glaðvaknaður. Ekki setti hann þetta neitt fyrir sig, heldur fór á fætur og gekk út til vinnu sinnar, sem hann hafði frá horfið.

Garður

Letursteinninn í Garði.

En hér fór sem áður, að skyndilega sækir hann svefn svo að hann má ekki halda sér vakandi. Lagðist hann þá út af og sofnaði skjótt. Kemur þá sami maðurinn að honum aftur og er nú enn byrstari í bragði, er hann skipar Þorsteini að skila steininum. Þorsteinn hrekkur upp við þetta og íhugar draum sinn. En vegna þess að hann trúði ekki á neina fyrirburði, ætlaði hann að humma þetta fram af sér. Og enn fer hann til vinnu sinnar.
Fór nú sem fyr, að brátt syfjar hann svo, að hann má ekki annað en leggjast til svefn og sofnar þegar. Kemur hinn ókunni maður þá til hans í þriðja sinn og er nú ærið gustmikill. Gengur hann að Þorsteini, tekur um fót hans og kreistir fast og segir að honum skuli hefnast fyrir, vilji hann ekki skila steininum.

Garður

Garður – Fornmannaletursteinn.

Nú vaknar Þorsteinn og er honum þá nokkuð brugðið. Finnst honum sem hinn ókunni maður haldi enn heljartaki um fót sinn. Og rétt á eftir laust æðisverk í fótinn, svo hann mátti varla bera þær kvalir hljóðalaust.
Hann sagði nú konu sinni frá draumum sínum, en hún sagði að steininn skyldi þegar flytja á sinn stað. Þorsteini var ekki um það, vildi ógjarna láta undan því er hann kallaði draumarugl. En ú varð konan að ráða.

Voru þá fengnir menn til að flytja steininn aftur á sinn stað, og urðu þeir fjórir saman.
Einn af þessum mönnum hét Stefán Einarsson og var frá Króksvelli í Garði. Hann sagði mér svo frá síðar, að þeim hefði virzt steinninn mjög léttur og veitzt miklu auðveldara fjórum að bera hann en þeim 8, sem höfðu sótt hann.
Síðan hefur enginn hróflað við steininum.

Garður

Garður – grafið í fornmannagröf.

En af Þorsteini er það að segja, að hann tók svo mikið fótamein, að hann varð að liggja vikum saman.
(Sögn Unu Guðmundsdóttur, Gerðum – 1960).

Garður

Garður – uppgröftur.

Í þjóðsögu einni „Steinninn haugbúans í Lykkju“ segir að steinninn hafi staðið á öðrum þremur, en þegar hann hafi verið færður á sinn stað aftur hafi einungis tveir aðrir stutt við hann. Þannig mun hann vera enn þann dag í dag.

Garður

Garður – letursteinninn.

Í ferð FERLIRs um Garð var m.a. kíkt á letursteininn. Greinileg merki um leturröð eru eftir honum miðjum. Með því að núa snjó í letrið mátti þó greina einstaka rúnastafi. Erfitt er að greina einstök tákn eða stafi, en þar til gerðir fræðingar gætu eflaust komist að því hvers konar letur er um að ræða. Áletrunin er greinilega mjög forn. Ofan við steininn er manngerður haugur.

Garður

Garður – uppgröftur í haug „Haugbúans“.

Þess skal getið að þegar FERLIR gróf í „Hauginn“ árið 2010 komu í ljós berar klappir undir einhlaðinni steinhleðslu.

-Álög og Bannhelgi eftir Árna Óla, útg.: Setberg, bls. 230.
-Sigfús II 136

Garður

Áletrun á „Fornmannasteininum“…

Grafarsel

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns (1703) er m.a. fjallað um jörðina Gröf, sem þá tilheyrði Mosfellssveit.

Grafarsel

Grafarsel.

Talsverðar kvaðir hafa verið á jörðinni sbr.: „Kvaðir eru mannslán, hestlán bæði til alþingis og annarstaðar, jafnvel stundum norður í land og ýmsar áttir, og þetta stundum til samans á einu ári. Dagslættir tveir. Hríshestar tveir. Móhestar einn eður tveir. Torfskurður. Hest til að flytja lax úr Elliðaám. Skipaferðir. Timbur í Þingvallaskóg að sækja. Húsastörf á Bessastöðum. Fóður mikið eður lítið; allar þessar kvaðir so undir komnar og með slíkum skilorðum sem áður er sagt. Mesta fóður það menn muna var hestur útgjörður um allan veturinn, sem ekki þreifst og drapst frá heyjum um sumarmálaskeið, hann mátti bóndinn betala Jóhann Klein, og í tíð Heidemanns gamalt naut.
Engjar mjög litlar. Kvikfjenaður vi kýr, i kvíka tvævetur, viii ær með lömbum, ii hestar, i hros.“ Þá segir að „selstöðu á jörðin í hemalandi, sem nauðsynlegt er, því jörðin stendur á horni landsins, en er mjög landljett heima.“
Þann 30. maí 1987 var Grafarselið friðlýst (þinglýst 26.06.’87). Það stendur á fallegum stað undir Selbrekkum norðaustan austurenda Rauðavatns. Selbrekkur eru sunnan Grafarheiði. Umhverfið er dæmigert fyrir sel er lögðust hvað síðast af á Reykjanesskaganum; grónar en greinilegar tóftir og grasvænar brekkur umhverfis. Tóftirnar, sem eru þrjú rými, þ.a. tvö samtengd, standa í skjóli vestan undir brekkunum, í skjóli fyrir austanáttinni. Skammt neðan þeirra er hóll, sem líklega geymir kvína. Gamall uppþornaður lækjarfarvegur er norðan við selið og hefur hann sennilega verið ástæða staðsetningar þess þarna í brekkunum.

Letursteinn

Letursteinn.

Selstæðið er mjög fallegt og á góðum stað. Það má eiginlega segja að það sé komið inn í borgina því byggðin hefur nánast teygt sig upp að því. Einmitt þess vegna eru staðsetningin og tóftirnar sérstakar. Þá eru þær og ágætur fulltrúi seljanna (af þeim 173 sem skoðuð hafa verið) á Reykjanesskaganum. Það er miðlungsstórt af seli að vera. Stekk er hins vegar ekki að sjá í nágrenni við selstöðuna.
Bæði hefur trjám verið plantað nálægt selinu og birkið hefur náð að vaxa upp í brekkunum. Ofar er holt.
Í Rauðavatnsskógi eru bæði góðir göngustígar og nægt rými. Umhverfið er hið fallegasta. Umfeðmingur, blágresi og smjörgras ásamt fleir blómategunum vaxa þar utan barr- og birkitrjáa.
Skógræktarfélag Reykjavíkur var stofnað var 1946, en undanfari þess var Skógræktarfélag Íslands, stofnað 1930, sem þá breyttist í landssamtök skógræktarfélaga. Fyrsta skógræktarfélagið var raunar stofnað upp úr aldamótum en starfsemi þess lognaðist út af nokkrum árum síðar, þótt brautryðjendastarf frumherjanna gleðji nú gest og gangandi við Rauðavatn.

Grafarsel

Grafarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Rauðberjalyng (Vaccinium vitis-idaea) er mjög sjaldgæft á Íslandi, þótt það sé með algengasta berjalynginu í Noregi og Svíþjóð (Sæ: tyttebær). Það líkist nokkuð sortulyngi, en blöðin eru ofurlítið tennt, þynnri en á sortulyngi og með niðurorpnum röndum. Berin eru rauð og safarík. Heimkynni rauðberjalyngsins á Íslandi eru á Austfjörðum, en einnig vex það á þrem stöðum í Öxarfirði.
Á síðari árum hefur það einnig fundizt í Þrastarskógi og í furulundinum við Rauðavatn, og gæti það á báðum þeim stöðum verið aðflutt með skógrækt.
Sauðahús er allnokkuð sunnan Grafarsels, í landi Hólms. Hún er u.þ.b. 20 metra löng, tvískipt. Innri og minni hlutinn hefur hýst hlöðu. Vel sést móta fyrir henni í hlíðinni fast ofan skógarmarkanna. Neðan hennar, inni í skóginum eru greinilegir garðar er mynda ferkantað gerði.
Á móhól skammt sunnan við Rauðavatn er fjárborg. Vel sést móta fyrir henni á hólnum. Hún hefur verið gerð úr nokkuð stórum steinum neðst, en síðan hefur hún verið tyrfð. Borgin er á fallegum stað, en líklega vita fáir, sem þarna eiga leið um, hvaða mannvirki þetta gæti hafa verið.
Þá er hlaðin rétt um 170 metrum sunnan fjárhússtóftarinnar, ca. 5×5 m. Hún er ferköntuð og án dilka. Í veggnum að norðanverðu er letursteinn með ártali frá 19. öld og áletrun.

Heimild m.a.:
-Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, þriðja bindi, Kaupmannahöfn 1923-1924 (endurprentað í Odda 1982), bls. 205.

Grafarsel

Grafarsel.

Smalaholt

Valdimar Samúelsson fann „tvær holur upp á Smalahól/hæð fyrir ofan Garðabæ og norðan við Vífilstaðavatn. Önnur var á bergi undir steini sem var auðsjáanlega grunnur ásamt öðrum steinum af ókláraði vörðu en hin var austan til í hæðinni sem snýr að radíómöstrunum. Hjá þeirri holu var auðsjáanlega mjög gömul meitluð mynd að krjúpandi meyju í bænastöðu. Við þennan stað voru líka tveir skútar, líklega fyrir smalastráka eða ferðamenn.“

Myndin

FERLIR fór á staðinn til að skoða aðstæður sem og verksummerki.
Smalaholt er að mestu leyti (vestanvert) í landi Garðabæjar, upp af Vífilsstaðavatni, en austasti hluti þess er í Kópavogi. Mörkin eru um háhæðina (steinsteyptur stöpull – hæðarpunktur). Af henni sést vel til vesturs niður að Vífilsstöðum. Vestan við landamerkjastöpulinn eru hleðslur vestan undir hloti. Þær eru greinilega nýlegar og lítt vandað til verksins.
Í austur frá stöplinum (Kópavogsmegin) er afmörkuð lág klapparhæð í holtinu mót Rjúpnahæð. Klöppin er jökulsorfin líkt og aðrar klappir þarna – en vel afrúnuð. Hallar undan til austurs, að Rjúpnahæð. Þannig er klapparholtið hæst mót austri. Útsýni er þarna allt til Vífilsfells.
Þar sem klappirnar eru hæstar í holtinu er klöppuð nokkuð stór mynd á vegginn. Myndin er af sitjandi konu að því er virðist á bæn. Hún er formleg og vandað hefur verð til verksins. Myndin er duglega klöppuð í harða grágrýtisklöppina. Inn með henni er sprunga – gott skjól. Austan við hana er lítill skúti, sem myndast hefur þegar jökullinn færði til og lagði stein yfir annan.
Staðsetning myndarinnar á bergveggnum er sennilega engin tilviljun. Hún hefur verið meitluð þarna í ákveðnum tilgangi. Um aldur hennar er erfitt að segja, en hún virðist hvorki vera mjög gömul né nýleg. Vegna þess hve djúpt myndin er mörkuð og útlínur, t.d. höfuðsins þar sem þurft hefur til góð áhöld, er sennilegt að hún hafi verið gerð á fyrri hluta eða um miðja 20. öldina. Annars væri fróðlegt að fá upplýsingar frá einhverjum sem þekkir til eða veit umtilvist þessarar myndari á klapparholti Smalaholts. Ekki er ólíklegt að hún geti tengst einhverju (einhverri) er dvaldi vegna berklasjúkdóms að Vífilsstöðum og hefur viljað eiga þarna stund með sjálfum sér.
Svæðið Árið 1906 var Heilsuhælisfélagið stofnað að forgöngu Guðmundar Björnssonar þáverandi landlæknis með það að markmiði að reisa fullkomið heilsuhæli fyrir berklasjúklinga. Miklu fé var safnað á skömmum tíma víðs vegar um land og jafnvel Íslendingar í Vesturheimi tóku þátt í fjársöfnunni. Hælinu var valinn staður á Vífilsstöðum og gengu framkvæmdir það vel að hægt var að vígja það árið 1910. Árið 1916 tók hið opinbera við rekstri hælisins en fram að því sá Heilsuhælisfélagið um reksturinn með styrk úr landssjóði. Vífilsstaðir voru byggðir fyrir um 80 sjúklinga en árið 1922 voru sjúklingar að meðaltali 130 á dag og átti þeim en eftir að fjölga. Á árunum 1919-1920 var byggt íbúðarhús fyrir yfirlækni en við það jókst húsnæði á hælinu og barnadeild tók til starfa. Börn urðu oft fórnarlömb berklanna. Töluvert bar á því að fólk sem hafði fengið góðan bata eftir langa hælisvist, veiktist aftur af völdum lélegs aðbúnaðar. Kom því upp sú hugmynd meðal berklasjúklinga að stofna samtök sem myndu vinna að hagsmunamálum sjúklinga. Stofnuð voru hagsmunasamtök berklasjúklinga á Vífilsstöðum þann 24. október árið 1938 og fengu hin nýju samtök nafnið Samtök íslenskra berklasjúklinga, skammstafað SÍBS. Fyrsti yfirlæknir hælisins var Sigurður Magnússon.
HoltiðVífilsstaðir voru berklahæli fram undir 1970 en þá var nafninu breytt í Vífilsstaðaspítala. Vífilsstaðir eru nú hluti af Landsspítala – háskólasjúkrahúsi og eru þar starfræktar nokkrar deildir t.d lungnadeild og húðlækningadeild.
Ástæða myndarinnar gæti t.d. verið sú að þarna hafi einhverjum (einhverri), líklega frá heilsuhælinu að Vífilsstöðum, þótt við hæfi að eiga hljóða stund með sjálfum (sjálfri) sér, ekki síst vegna veikinda sinna. Myndin hefur þá verið til áminningar eða áheits um væntingar viðkomandi. Hún gæti og verið til minningar um atburð eða upplifun eða jafnvel, sem ekki er ólíklegt miðað við höfuðumbúnað myndarinnar, að einhver hafi, eftir upplifun eða skynjun, viljað benda öðrum á að þarna kynni að búa vera eða verur, sem ástæða væri til að sýna nærgætni, t.d. álfar eða huldufólk.
Víða í Kópavogi eru m.a. þekktir búsetustaðir álfa og huldufólks, s.s. í Einbúa, Álfhól, Digranesi og Kársnesi. Bæjaryfirvöld og íbúar bæjarins hafa staðið dyggan vörð um þá staði, sem þeirra hefur orðið vart, og gætt þess að raska þeim ekki umfram brýnustu nauðsyn.
MyndinVegna staðsetningarinnar, jafnvel þótt myndin hafi verið gerð í kristni, er við hæfi að rifja upp elstu og nærtækustu sagnir Smalaholtsins, enda útsýni þaðan frábært til yfirlits þeirrar söguskoðunnar.
Eins og flestum er orðið kunnugt þá var Vífill annar þræll Ingólfs, þess fyrsta norræna landnámsmanns á þessu svæði, og var augljóslega sáttari en Karli þrælsfélagi hans við þau heimkynni sem öndvegissúlurnar ákvörðuðu. Vífill fékk frelsi af húsbónda sínum og farnaðist honum vel. Við hann eru kennd Vífilsfell og Vífilsstaðir þar sem hann átti bú. Er hann í Landnámu kallaður „skilríkr maðr“, líkt og svo margir Garðbæingar er á eftir komu.
Í Landnámu (Sturlubók) segir um Vífil þennan: „Sumar það, er þeir Ingólfur fóru til að byggja Ísland, hafði Haraldur hárfagri verið tólf ár konungur að Noregi; þá var liðið frá upphafi þessa heims sex þúsundir vetra og sjö tigir og þrír vetur, en frá holdgan dróttins átta hundruð (ára) og sjö tigir og fjögur ár…
Vífill og Karli hétu þrælar Ingólfs. Þá sendi hann vestur með sjó að leita öndvegissúlna sinna. En er þeir komu til Hjörleifshöfða, fundu þeir Hjörleif dauðan. Þá fóru þeir aftur og sögðu Ingólfi þau tíðendi; hann lét illa yfir drápi þeirra Hjörleifs…
Þau missari fundu þeir Vífill og Karli öndvegissúlur hans við Arnarhvol fyrir neðan heiði…
Ingólfur fór um vorið ofan um heiði; hann tók sér bústað þar sem öndvegissúlur hans höfðu á land komið; hann bjó í Reykjarvík; þar eru enn öndugissúlur þær í eldhúsi. En Ingólfur nam land milli Ölfusár og Hvalfjarðar fyrir utan Brynjudalsá, milli og Öxarár, og öll nes út…
Þá mælti Karli: „Til ills fóru vér um góð héruð, er vér skulum byggja útnes þetta. Hann hvarf á brutt og ambátt með honum.
Vífli gaf Ingólfur frelsi, og byggði hann að Vífilstóftum; við hann er kennt Vífilsfell; þar bjó (hann) lengi, varð skilríkur maður.“
Í þjóðsögum Jóns Árnasonar segir af Sviða nokkrum svo og nefndum Vífli: „Eitt með dýpstu fiskimiðum á Faxaflóa er nefnt Svið. Er þangað sóttur sjór af öllum Innnesjum sem að flóanum liggja, Akranesi, Seltjarnarnesi, Álftanesi, Hafnarfirði, Hraunum og jafnvel af Vatnsleysuströnd. Sviðið hefur jafnan verið eitthvert fiskisælasta djúpmið á flóa þessum og er til þess saga sú sem nú skal greina.
Sviðholt er bær nefndur; hann stendur hér um bil á miðju Álftanesi. Það er talin landnámsjörð þó hennar sé ekki getið í Landnámu. Þar byggði sá maður fyrst er Sviði hét og kallaði bæinn eftir sér Sviðholt.
Bær heitir Vífilsstaðir og er landnámsjörð; þar gaf Ingólfur Arnarson í Reykjavík Vífil húskarli sínum bústað; en Vífill gaf bænum aftur nafn af sér og bjó þar síðan.
Vífilsstaðir er efstur bær og austastur upp með Garðahrauni að norðan og lengst frá sjó af öllum bæjum í Garðasókn á Álftanesi og hér um bil hálfa aðra mílu frá Sviðholti.
Það er mælt að þeir Vífill og Sviði hafi róið saman tveir einir á áttæringi og hafi Vífill, þó hann ætti margfalt lengri skipgötu en Sviði sem bjó á sjávarbakkanum að kalla, ávallt farið heim og heiman í hvert sinn sem þeir réru.
Sumir segja að Sviði hafi verið formaðurinn, en aðrir að Vífill hafi verið það og þykir mega marka það af því sem nú skal greina að Vífill hafi verið formaður:
Langt fyrir ofan Vífilsstaði er fell eitt sem Vífilfell heitir og liggur þjóðvegur ofan fyrir norðan það þegar farið er Hellisskarð að austan eða Lágaskarð; en rétt vestan undir fellinu liggur Ólafsskarðsvegurinn á þjóðveginn. Vífilfell er hæst af fjöllum þeim sem verða á vinstri hönd þegar riðið er yfir Hellisheiði suður í Reykjavík, og dregst það mjög að sér ofan.
VífilsstaðirÞó það sé snöggt um lengri vegur upp að felli þessu frá Vífilsstöðum en til sjávar gekk Vífill allt um það á hverjum morgni upp á fellið til að gá til veðurs áður en hann fór að róa og réri ekki ef hann sá nokkra skýská á lofti af fellinu, og tók því fellið nafn af honum.
En ef honum leist róðrarlega á loftslag gekk hann til skips og réri með Sviða, og þykir þetta benda til þess að Vífill hafi álitið það skyldu sína sem formaður að gá að útliti lofts áður en róið væri.
Einhverju sinni kom þeim lagsmönnum Vífil og Sviða ásamt um að þeir skyldu búa til mið þar sem þeir yrðu best fiskvarir. Er þá sagt að Sviði hafi kastað heiman að frá sér langlegg einum og kom hann niður fjórar vikur sjávar frá landi, og heitir þar nú Sviðsbrúnin vestri. Vífill kastaði og öðrum langlegg heiman að frá sér og kom hann niður viku sjávar grynnra eða nær landi; dró hann af því ekki eins langt út og Sviði að vegamunur er svo mikill milli Sviðholts og Vífilsstaða á landi. Þar heitir nú Sviðsbrún (hin grynnri) sem leggur Vífils kom niður. Var þannig vika sjávar milli leggjanna, eins langt og nú er talið að Sviðið nái yfir frá austri til vesturs. Allt svæðið milli leggjanna kölluðu þeir Svið og mæltu svo um að þar skyldi jafnan fiskvart verða ef ekki væri dauður sjór í Faxaflóa.“
Sagan segir að á þenna hátt mynduðust Sviðsbrúnirnar, fræg fiskimið Álftnesinga. Til fróðleiks má geta þess að ef Vífill hefur þurft að ganga á Vílfilsfell frá Vílfilsstöðum til að gá til veðurs fyrir róður hefur honum alls ekki unnist tími til róðra – jafnvel þótt hann hafi bæði vaknað snemma og farið hratt yfir. Ef Vífill hefur hins vegar látið sér nægja að ganga upp á Smalaholt, sem gæti hafa heitið Vífilsholt (-fell) fyrrum, hefur hann vel getað séð allt það skýafar eða veður er hann annars hefði séð af Vífilsfelli – snökktum styttri vegarleng, en hún hefði nægt honum til áframhald þeirra starfa svo sem sagan segir.
En aftur að Smalaholti. Skammt austan við klapparhæðina hefur verið tekin prufuhola, líklega til að kanna jarðveginn. Samkvæmt fundargerð skipulagsnefndar Kópavogs 8. mars 2006 kemur fram að breyting á aðalskipulaginu. „Breytingin felst í því að skilgreind eru ný íbúðarsvæði í Hnoðraholti, Smalaholti og Rjúpnahæð.“ Af þessum áætlunum að dæma er vá fyrir dyrum, nema vitund vakni og vandað verði til verka í næsta nágrenni holtsins margnefnda. Yfirvöldum og starfsfólki Kópavogsbæjar ætti að vera vel treystandi til þess ef tekið er mið af fyrri verkum þess.
Ljóst er að myndin á hinni litlu og afmörkuðu klöpp Smalaholts er minning, áheit, von eða áminning um eitthvað, sem hugur viðkomandi „listamanns“ hefur viljað tjá í steininn. Það er okkar, eftirlifandi við sæmilega heilsu, að virða ábendinguna og varðveita svæðið er nemur klapparholtinu.

Heimildir m.a.:
-Landnáma (Sturlubók).
-http://saga.khi.is/valkostir/heilsuhaelin.htm
-gardabaer.is
-kopavogur.is

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir.

Kálfatjörn

Leitað var ártalssteins í Kálfatjarnarvör. Í 9. tbl. Ægis árið 1936 segir að „þar við vörina hafi verið steinn í byrgi og á hann höggvið ártalið 1677.

Kálfatjörn

Ártalssteinn í fjörunni þar sem hann fannst.

Steinninn hafi “fallið úr byrginu fyrir nokkru í brimi. Erlendur Magnússon á Kálfatjörn lét leita hans í grjóthrúgunni og fannst hann; er hann nú múraður í vegg byrgisins”. Nú er sjórinn einnig búinn að taka nefnt byrgi, en tvö heilleg eru þarna vestar, ofan fjörunnar.
FERLIR hafði farið nokkrar leitarferðir í fjöruna við Kálfatjörn. Leitin virtist vonlaus því grjót er þarna við hvert fótmál og engin lýsing á þessu tiltekna grjóti lá fyrir. Hins vegar mátti gefa sér, með því að skoða grjótið í hinum byrgjunum, að það hlyti að vera ferkantað og að tiltekinni stærð fyrst það var notað í vegghleðslu sjóbúðar og síðan byrgis. Með því var a.m.k. hægt að nota útilokunaraðferðina. Vopnaðir henni og með öll augu galopin var nú fjaran gauðmgæfð aldrei sem fyrr.
Sjórinn var greinilega búinn að brjóta talsvert land ofan við vörina, þar sem sjóbúðin gamla átti að hafa verið ofan við. SteinninnByrgið var, sem fyrr sagði, að mestu farið, en þó mátti enn sjá einn vegg þess að hluta (2003). Þarna nærri eru og leifar garðhleðslna gamallar fjóstóftar með hálfuppistandandi veggjum. Greinilegt var að jarðýtu hafði verið ekið út með ofanverðri fjörunni fyrir skömmu síðan. Og fyrir algera tilviljun fannst steinninn í öðru beltafarinu. Í ljós kom að áletrunin var ekki 1677, heldur A° 1674. Hún var vel greinileg og læsileg. Svo virðist sem tölustafurinn 4, sem er stærri en hinir, geti einnig verið tákn, þ.e. segl og kross.
 Steinninn var hulinn til að koma í veg fyrir frekari skemmdir. Upplýsingum um hann var síðan komið til menningarnefndar Vogamanna, sem lét því miður færa hann úr sínu „nálæga umhverfi“ upp að safnarheimili Kálfatjarnarkirkju þar sem hann liggur, ekki svipur hjá sjón – einmana og tilgangslaus í umkomuleysi sínu. Auðvitað (og án nokkurs vafa) á steinn sem þessi, það eina sem eftir er, ætlaður sem hornsteinn í hlaðinni sjóbúð niður við ströndina, að fá áfram að minna á uppruna sinn; tilgang, gamla atvinnuhætti og fólkið sem þar var. Þetta kenndi FERLIR að vera ekkert að láta umkomuaðila vita sérstaklega af uppgötvunum sínum. Kannski verður svo að „sjóbúðarsteinninn“ verði síðar færður á veglegan stall nærri uppruna sínum.
Um er að ræða einn elsta ártalsstein á Reykjanesskaganum, sem vitað er um. Steinninn í Fuglavík, sem heimild segir að þar var í yfirbyggðum brunni og síðan í bæjarstéttinni, er þó eldri, en hann er enn ófundinn þegar þetta er ritað. (Hann fannst þó skömmu síðar eftir umleitan FERLIRs – sjá umfjöllun um Fuglavík). Elstu áletranir er á einum Hvaleyrarsteinanna (1657) og á klöppum við Básenda (16. öld), en aðrar áletranir, sem sumir telja eldri, eru rúnir (Kistugerði og fornmannasteinninn í Garði). Flekkuvíkurrúnarsteinninn er þó sennilega frá 16. eða 17. öld. Ekki er vitað um aldur rúnasteinsins í Kisturgerði.
Að loknu góðu síðdegisverki var skoðaður ártals- og skósteinn í hlaðinni brú á gömlu kirkjugötunni vestan LetursteinninnKálfatjarnarkirkju. Á honum átti að vera, skv. heimildum, ártalið 1700, en á honum er áletrunin A°1709 (sjá Kálfatjörn – letursteinn (1709).Â
Hornsteinar búða, bæja eða byrgja voru oftlega með táknum eða ártölum, líkt og þessi steinn í sjóbúðinni við Herdísarvík; ártal er myndar segl og kross. Í Krýsuvíkurbúð í Herdísarvík var merki á steini; kross og bogi undir er myndaði ankeri. Steinninn var lengi í brunnstæðinu við heimreiðina að gamla bænum. FERLIR tók mynd af honum á sínum tíma, en lét hann liggja áfram óhreyfðan. Annað dæmi er við dyr bæjar syðst í vestanverðum Skorradal; tvöfaldur kross á einum legg. Eflaust mætti finna slík tákn víðar, ef vel væri að gáð.
Allar hafa þessar áletranir kristnileg tákn er benda til beinna tengsla við sjómennsku og væntanlega vernd (öryggi), bæði til handa búðum og ábúendum. Í rauninni er um að ræða leifar heiðinnar trúar. Þetta er þekkt fyrirbæri allt frá því á frumlífsöld (fyrir 12.000 – 7.000 árum f. Kr. – Catal Hüyük og Lepenski Vir) er menn tóku sér fyrst fasta bólfestu og byrjuðu að búa í húsum er mynduðu þorp. Þeir grófu látna ættingja sína undir gólfinu til að tryggja Endurbyggingað óviðkomandi færu ekki inn af ótta við hina dauðu (dauðann), þ.e. færðu hina náttúrulegu og fyrrum villtu efnismenningu inn í híbýli sín). Með svipaðri hugsun voru hinir fyrstu látnu landnámsmenn hér á landi grafnir á ystu landamerkjum jarða þeirra. Tilgangurinn var að tryggja vitund manna um hver mörkin væru og auk þess að fæla nágrannana, sem og aðra, að ásælast landið. Óttinn við dauðann og hina dauðu var mikill. Hann var í rauninni hornsteinn frumgerðistrúarbragðanna er kristnin byggði síðan grunn sinn á, sbr. Jesús krist, upprisuna og afturhvarf mannsins til alsælu himnaríkis.
Þeir sem reyttu hina dauðu til reiði áttu ekki von á góðu. Grunnhugsunin hefur í rauninni lítið breyst í gegnum árþúsundin þótt efnismenningin, vegna sífelldra áhrifa umhverfis og aðstæðna, aukinna krafna, tækni og nýrra möguleika, hafi tekið breytingum frá því sem áður var. Og þótt efnislegar leifar geti lýst áþreifanlegu afsprengi hugsunar, frá einum tíma til annars, geta þær þó lítið sagt til um hugsunina sjálfa. Líklegt má þó telja að hún hafi jafnan tekið mið af gildum og viðurkenningu fjöldans hverju sinni. Því má spyrja; hver voru gildin hér á landi fyrr á öldum?
Þetta voru nú einungis svolitlar vangaveltur í tilefni af opinberun letursteinsins í nálægð við guðshúsið að Kálfatjörn á Vatnsleysuströnd. Hugmyndin er að koma ártalssteininum A°1674 fyrir í endurgerðri Skjaldbreið við Kálfatjörn (sjá HÉR).
Kálfatjörn

Básendar

Farið var að Stafnesi, rifjuð upp sagan af gamla manninum og tilurð nafnsins, skoðaður dómhringurinn og brunnurinn við hið gamla Lindarkot.

Básendar

Kengur á Básendum.

Á Básendum var litið á einn stálkenginn, sem konungsskipin voru bundin við fyrr á öldum og gengið um garða og tóttir gamla bæjarins, sem var “dæmigerður íslenskur torfbær”. Skoðaðar voru undirstöðurnar undir gömlu verslunarhúsin og Básendaflóðið 1799 rifjað upp, en í óveðrinu lögðust flest húsin af sem og mörg hús önnur við suðvesturströndina, bátar flutu upp og brotnuðu og fólk og skepnur drápust.
Haldið var að Gálgum, sem eru tvær klettaborgir og forn aftökustaður innan verndarsvæðisins. Þaðan var haldið niður að Þórshöfn. Brimið fór mikinn og í gegnum það glytti í Hafnir sunnan Ósa. Útsýnir var stórbrotið og skýheft sólarbirtan gaf umhverfinu dulrænan blæ. Eftir nokkra leit fannst jarðfasti klapparsteinninn með áletruninni HP auk annarra stafa og ártala. Gerð verður tilraun til þess síðar að rýna nánar ofan í letrið á steininum.

Kistugerði

Letursteinninn við Kistugerði.

Gengin var hin Gamla gata til baka að Stafnesi. Leitað var að „Hallgrímshellunni“ með áletrunni HP16??, en hún á að vera þarna á klapparhrygg við vörðubrot. Hún fannst ekki að þessu sinni. (Sjá nánar.) Á leiðinni fannst enn ein fjárborgin, nú ofan Básenda. Hún var staðsett og skráð á GPS-tækið.
Frá Stafnesi var haldið að Skagagarðinum mikla og hann skoðaður og metinn. Við enda hans, Útskálamegin, var gengið að fornmannagröf norðan Vegamóta. Yfir gröfinni er stór hella og áletrun yfir hana miðja. Einungis ein gömul heimild er um hellu þessa sem og þjóðsöguna, sem að henni lítur. Sagt er frá henni í annarri FERLIRslýsingu.
Farið var í Kistugerði og litið á Kistuna og rúnasteininn neðan hennar. Kistan á að vera, skv. þjóðsögum, gömul fornmannagröf. Flestir þekkja söguna af gullkistunni, sem þar á að vera. Rúnasteinninn liggur nú nokkuð frá gröfinni, en bændur, sem grófu í Kistuna færðu hann úr stað á sínum tíma. Garðbúar hafa af miklli samviskusemi merkt merka staði í grennd við Garð, þ.á.m. Kistugerði, en því miður á röngum stað.
Frábært veður.

Stafnes

Á Stafnesi.

Skagagarður

Var genginn með Jóni Ólafssyni, fyrrverandi og margfróðum skólastjóra í Gerðaskóla í Garði. Fylgdi hann hópnum frá Kirkjubóli, um Garðskaga að Vatnagörðum. Lýsti hann staðháttum við Kirkjuból er Kristján skifari var brenndur þar inni 1551 eftir að áður hafði verið kveðið á um að “jörðin og öxin” geymdu best þá Jón Arason biskup og syni, Björn og Ara.
Dóttir Jóns fékk flokk manna tikirkjubol-21l að sækja að Kristjáni og mönnum hans eftir að fréttist af ferðum þeirra á Romshvalanesi. Höfðust þeir þá við að Kirkjubóli. Bónda var gefinn kostur á að ganga úr, sem og hann þáði, áður en eldur var borinn að bænum. Voru innimenn síðan handteknir er þeir reyndu útgöngu, hver á fætur öðrum. Þolinmæði aðsóknarmanna var lítil. Drápu þeir einhverja þar sem nú heitir Draughóll (á mörkum Garðs og Sandgerðis). Þar eru gamlar heimildir (Fornbréfasafnið) um leturstein því tengdu. FERLIR hefur leitað steinsins, en Draughól hefur verið raskað verulega frá því sem var. Varnarherinn hafðist þar að um á stríðsárunum hinum síðari og eru ummerki eftir hann á svæðinu. Við Draughól er letursteinn með áletrun, er gæti verið sá er nefndur var, en sá hefur sömu áletrun og Sveinbjörn Rafnsson lýsir þar árið 1817. Steinninn var myndaður, líkt og aðrar sýnilegar minjar á Reykjanesi.

Árnarétt

Árnarétt.

Gengið var um Hafurbjarnastaði, rættið ábúanda og litið á staðsetingu fornmannagrafreitsins, sem þar er. Í kumli þar fannst m.a. kona með keltneska skartgripi. Staðfestir það þá kenningu að sumar konur landnámsmanna hafa verið af keltneskum uppruna, en segir lítið um keltneskt landnám hér á landi (a.m.k. ekki enn sem komið er).
Jón lýsti m.a. Skagagarðinum mikla og tilgangi hans, einu elsta og mesta mannvirki hér á landi. Þegra komið var að Garðskaga opnaði Ásgeir Hjálmarsson á Garðskaga Byggðasafnið fyrir FERIRsfólkinu og gekk með því um safnið, sagði frá munum og mönnum og framtíðaráformum safnsins. Þá var komið við í enn einni fjárborginni á Reykjanesi, Útskálaborg, gengið um Helgustaði og yfir síkin að Vatnagörðum, sem er eina ófallna kotið frá tímum Milljónafélagsins.
Í bakaleiðinni var gengið yfir heiðina þar sem afvelta hrútur nauð góðs af ferðinni.
Veðrið var í einu orði sagt frábært. Gangan tók 3 klst og 11 mínútur.

Draughóll

Áletrun á steini við Draughól.

Flekkuleiði

Eftirfarandi umfjöllun Árna Óla um „Rúnasteininn í Flekkuvík“ birtist í Lesbók Morgunblaðsins 1959:
„Utan við Hvassahraun á Reykjanesskaga gengur inn Vatnsleysuvík og inn úr henni utarlega skerst önnur lítil vík, sem Flekkuvík nefnist. Stendur bær samnefndur fyrir botni víkurinnar. Þar í túninu er lítill hóll, eða stór þúfa, sem kallast Flekkuleiði, og þar ofan á liggur hraunhella með rúnaletri. Stendur þar skráð: „Hér hvílir Flekka“.

Hver var Flekka?
flekka-22Sagnir herma að hún hafi verið landnámskona, komin frá Flekkufirði í Fjörðum, og eitthvað vensluð Ingólfi Arnarsyni, enda frá sama byggðarlagi og hann. Ingólfur fekk henni fyrst bústað í Kjós. Reisti hún þar bæ og heitir hann enn Flekkudalur, við hana kenndur. Hún var vitur kona og framsýn, en eigi mjög við alþýðuskap. Hún undi sér ekki í Kjósinni, vegna þess að hún sá ekki til sævar frá bæ sínum. Fluttist hún svo vestur á Vatnsleysuströnd og reisti sér þar bæ við eyðivík nokkra. Hefir víkin síðan verið við hana kennd og kölluð Flekkuvík og hlaut bærinn sama nafn. Þarna var þá afskekktur staður, víkin umgirt apalhrauni á þrjá vegu, en á hrauntöngum beggja megin víkurinn svarraði brimið og voru átök þess ekki mjúk. En í víkinni sjálfri var góð lending og mikill veiðiskapur var þar jafnan skammt undan landi. Þó var innsigling á víkina viðsjál og gat verið hættuleg, ef ekki var rétt farið. Þess vegna mælti Flekka svo fyrir, áður en hún andaðist, að sig skyjdi heygja þar efst í túni, fyrir opinni innsiglingarleiðinni. Lét hún svo um mælt, að aldrei skyldi skip farast þar á réttu sundi, meðan nokkuð sæist af kumli sínu. Hafa menn haft trú á þessu síðan.

Jónas Hallgrímsson rannsakar leiðið.

Sumarið 1841 fór Jónas skáld Hallgrímsson til Flekkuvíkur til þess að athuga rúnasteininn og rannsaka hvort hér gæti verið um fornt kuml að ræða. Mönnum kom ekki saman um hvernig lesa átti úr úr rúnunum. Að vísu gátu allir lesið nafnið Flekka, en yfir því voru skammstafanir, sem menn greindi á um hvernig skilja bæri.
sumir að lesa ætti „hér hýsi aðrir „hér hvílir“. Finnur Magnússon las: „hér hýsir“ og taldi áletrunina frá heiðni. Þótti Jónas að fýsilegt að fá úr því skorið hvort hér væri um að ræða grafreit frá fornöld, því væri rétt lesið „hvílir“, þá átti svo að vera. En Jónas rak sig á óvænta erfiðleika. Mönnum þar syðra stóð hinn mesti stuggur af komu hans þeir vissu erindið. Þeir vildu ekki láta hrófla við Flekkuleiði, því að þá væri hætt við að falla myndi úr gildi hin góðu ákvæði hennar um innsiglinguna á Flekkuvík. Jónas varð þá að útvega leyfi til rannsóknarinnar hjá séra Pétri Jónssyni á Kálfatjörn, sem kallaðist landsdrottinn, vegna þess að kirkjan á jörðina. En Páll bóndi Vigfússon í Flekkuvík mun lengi hafa verið tregur, því að Jónas segir: „Eg hét þeim að láta Flekku kyrra, ef eg fyndi hana, og kvaðst gera þetta í virðingarskyni, svo sem oft hefði verið gert við helga menn“. Lét Páll þá til leiðast og samþykkti að rannsókn færi fram „móti tilhlýðilegri borgun fyrir jarðusla í óslegnu túni“.
Jónas lýsir Flekkuleiði þannig: „(Það er) í hafsuður frá bænum, 6 faðma fyrir innan túngarðinn, í þúfnareit; snýr frá útsuðri til landnorðurs og hallast þangað lítið eitt. Það er 5 alna langt og lxk flekka-21al. breitt, svo sem álnar hátt. Hraunhella ein lítil og slétt ofan liggur á miðri hæðinni, sokkin í jörðu; á henni stendur með greinilegu letri (sjá mynd). Öll grasi 
gróin, en vottar samt í brúnunum fyrir grjóti, ekki ólíkt því sem það væri hleðsla . . . Letursteinninn er nú tekinn upp og mældur: Lengd 15—16% þuml, breidd 12 þuml, þykkt 4—5 þuml. Hann er því sem sjá má, lítil og heldur ólöguleg hraunhella . . Af því hingað og þangað var að sjá steinsnyddur út úr brúnum hæðarinnar, þótti líklegt, að vera mundi steinhleðsla. Grassvörðurinn var því allur af skorinn og moldinni sópað af grjótinu; var þetta jarðlag hvergi meira en hálft fet á þykkt. — Þá kom það í Ijós, að undir var einlæg, jarðföst klöpp, eður réttara sagt hraungarður, svo þar hefir aldrei nokkur maður heygður verið. 

flekka-32

Það er því ljóst, að annaðhvort hefir Finnur Magnússon rétt að mæla, eða þetta eru brellur einar, og hefir þá einhver hrekkjakarl látið hér steininn til þess að blekkja menn trúgjarna“. Sjálfsagt hefir Páll bóndi í Flekkuvík krafizt þess fyrirfram, að gengið yrði frá leiði Flekku að lokinni rannsókn, eins og það hafði áður verið. Og þótt Jónas geti ekki um það, hefir hann orðið að gera upp leiðið að nýu, enda þótt hann væri sannfærður um, að þetta væri enginn merkisstaður. Hann hefir ekki mátt ganga í berhögg við þá tröllatrú, sem menn höfðu á Flekkuleiði.
Matthías próf. Þórðarson hefir sagt, að skammstafanirnar á rúnahellunni eigi áreiðanlega að þýða „hér hvílír“, og hann álítur að áletrunin muni vera frá 17. eða 18. öld, gerð vegna munnmælanna um það, að þarna væri Flekka heygð. Flekkuleiði eins og það er nú í sumar kom eg að Flekkuvík og skoðaði Flekkuleiði, rúmum hundrað árum eftir að Jónas var þar.
Leiðið er mjög svipað og hann lýsir því, bæði að stærð og lögun, og bendir það til þess, að það hafi verið hlaðið upp þegar að rannsókn lokinni. En umhverfið er orðið breytt, þúfnareiturinn, sem Jónas talar um, er horfinn og er leiðið nú í sléttu túni. Ofan á leiðiskollinum liggur hraunhellan litla með áletruninni, og er sokkin í jörð, eins og þegar Jónas kom að henni. Af stærð hellunnar, eins og hér er að framan greint, geta menn dregið, að stafirnir sé ekki stórir. Og nú eru þeir ekki lengur „greinilegir“, eins og Jónas kallar þá. Á þessari rúmu öld hafa þeir eflaust máðst og slitnað. Kveður svo ramt að þessu, að sums staðar sér aðeins móta fyrir leggjum þeirra. Mosi og skófir hafa einnig sezt í risturnar, en yfirborð hellunnar hrufótt, svo að varla má greina á milli hvað ; eru holur í steininum og hvað er klappað. Þess verður naumast langt að bíða, að áletrunin máist af með öllu, ef stafirnir verða ekki skírðir.
flekka-41Eg reyndi að hreinsa mosa og skófir úr ristunum, eftir því sem unnt var, bar síðan krít í þær, svo að þær yrði gleggri. Því næst tók eg af þeim meðfylgjandi mynd. Ef mynd þessi er borin saman við uppdrátt Jónasar, sést nokkur munur á 4. rúninni og seinustu rúninni í nafninu. Um 4. rúnina er það að segja að Kaaland sagði að hún gæti ekki verið rétt hjá Jónasi, þar ætti ekki að standa heldur J,, eins og kemur líka fram á Ijósmyndinni. Þessi rún er nokkurn veginn glögg enn, en Jónasi hefir annaðhvort sést yfir annan skálegginn, eða þá að hann hefir ritað hana skakkt í minnisbók sína. Seinasta rúnin er nú einna máðust, og vottar aðeins fyrir stryki út úr aðalleggnum, en fráleitt held eg að þar hafi nokkurn tíma verið höggvinn bogi í líkingu við það, sem sýnt er á teikningu Jónasar. Þess má geta hér að á árunum 1937—39 ferðaðist Anders Bæksted hér um landið til að athuga rúnir og hefir skrifað bók um þær. Hann kom til Flekkuvíkur í júlí 1938 og tók mynd af Flekku-steininum og skírði síðan upp rúnastafina. Eru þeir allir eins og hér á myndinni, nema seinasta rúnin. Hann segir að rúnirnar sé „greinilegar“, en telur þær ungar, máske frá 18. öld, og miðar þá við gerð þeirra. Hann segir að annar bóndinn í Flekkuvík hafi kunnað söguna um að Flekka væri grafin þarna og vekti yfir innsiglingunni, en menn leggi nú ekki lengur trúnað á þá sögu.

Hvaðan er Flekkunafnið.
Mér finnst það augljóst á öllu, að nafnið Flekkuvík hafi komið með landnemum frá Noregi eins og fjölmörg önnur nöfn. Hér eru bæirnir Flekkudalur og Flekkuvík, og þeir eru báðir í landnámi Ingólfs Arnarsonar. Það er þegar athyglisvert, þegar þess er gætt, að suður úr Dalsfirði í Noregi. Litlu utar en þar sem Ingólfur átti heima, skerst fjörður, sem heitir Flekkufjörður. Hann er kenndur við bæinn Flekku, sem þar er. Nafnið er skrifað á ýmsan hátt í gömlum skjölum, svo sem Fleke, Flocke, Flecke og Fleche, en nú er það skrifað Flekke. Sagt er að það sé alveg einstætt meðal gamalla bæarnafna, og vita menn ekki hvað það þýðir. Sumir gizka á, að það sé dregið af „flek“ = blettur, en verði þó ekki skýrt. Getgáta hefir og komið um að það sé dregið af dílagrjóti (flekkóttu grjóti“) sem þar er, en þó þykir það ekki sennilegt, því að grjót hefði þá átt að vera í nafninu.
Annars úir og grúir af „Flekku“-nöfnum í Noregi. Þar er Flekkuvík, Flekkuós, Flekkuey, Flekkustaðir (og ýmis önnur, sem virðast dregin af karlkynsnafninu Flekkur: Flekkstveit, Flekshaug, Flekstad, Fleksvik). Ennfremur eru þar nöfn eins og Flikka, Flikke, Flikeid, Flikkerud, Flikkeshaug, Flikki, Flikkin, Flikkurud, Flikstade. Menn segja að ekki megi blanda þessum nöfnum saman við Flekkunöfnin, en bó verði þau ekki skýrð. Samt dregur bærinn Flekkefjord á Ögðum nafn sitt af bóndabænum Flikke.
flekka-45Hér skal ekkert fullyrt um hvort hér sé um einn nafngiftaflokk að ræða, en þótt Flikk-nöfnin sé undan skilin, þá eru Flekkunöfnin svo mörg, að eitthvað sérstakt mun hafa ráðið þeim. Er þá nokkur goðgá að hugsa sér að til hafi verið í forneskju einhver vættur sem Flekka hét, og við hana sé þessi staðanöfn kennd? Jafnvel að hún hafi átt sér bónda, sem Flekkur hét (sbr. nafnið Álaflekkur). Flekkuleiði ætti að varðveita Þótt Flekkuleiði sé ekki kuml, er það skemmtilegt og mætti helzt ekki glatast. Það segir sína sögu um það hvernig þjóðtrú myndast. Flekka vakir yfir útræðinu í Flekkuvík, eins og Þuríður sundafyllir vakir yfir byggðinni og miðum þeirra í Bolungavík.
Það er eflaust alþýðuskýring, að Flekkuvík dragi nafn af konu sem hét FJekka, alveg eins og menn sögðu að Krýsuvík dragi nafn af fjölkunnugri konu er þar bjó og hét Krýs. Þó er ekki loku fyrir það skotið að í Flekkuvík hafi einhvern tíma búið kvenskörungur, sem menn hafi kennt við bæ sinn og kallað Flekku. Menn hafa haft ýmsar sveiflur á því, allt fram á þessa öld, að kenna fólk þannig við bæi.
Við skulum ekki missa sjónar á þessum ímyndaða kvenskörung í Flekkuvík. Hún hefir búið þar rausnarbúi, haft margt fólk í heimili og rekið mikla útgerð. Flekkuvík hefir þá verið betri jörð og blómlegri en nú er. Þá hefir verið mikið og grösugt undirlendi fyrir botni víkurinnar og út með henni beggja vegna. Þetta land hefir sjórinn verið að brjóta um margar aldir, og í tíð þeirra manna. sem enn lifa, hefir sjórinn gert þarna mikil landspjöll. Þar sem háir heybólstrar stóðu á dögum Flekku húsfreyju, lemur nú brimið berar klappir. En útgerðin hefir þá, eins og síðar, verið helzti bjargræðisvegurinn.

Flekka-47

Húsfreyjan í Flekkuvík hefir borið umhyggju fyrir starfsfólki sínu. Ef til vill hefir einhver bátur farizt þar á víkinni, vegna þess að hann þræddi ekki rétta leið, og lenti upp á sker. Þá hefir húsfreyjan látið setja upp sundmerki, svo að slíkt slys henti þar ekki aftur. Sundmerkin hafa verið tvær vörður, önnur fram við sjó, en hin uppi í túni. Þá var rétt innsigling, ef þessar tvær vörður bar saman. Og þá hefir húsfreyjan látið svo um mælt, að aldrei mundi farast bátur á Flekkuvík, ef stýrt væri eftir sundmerkjunum.
Svo líða árin. Húsfreyjan í Flekkuvík hverfur til feðra sinna, en minning hennar lifir vegna ummæla hennar. Aldrei ferst bátur á réttri leið inn Flekkuvík. Menn skilja ekki, að það er sundmerkjunum að þakka, en halda að það sé að þakka ummælum húsfreyjunnar.
Ákvæði hennar Flekkusteinn-198haldi hlífiskildi yfir bátunum, og þau verði alltaf í gildi. Þess vegna vanrækja þeir að halda sundmerkjunum við. Neðri vörðuna tekur brimið, en efri varðan, uppi í túninu, molnar niður, af því að hún var úr torfi. Þar verður eftir dálítill hóll. Við hann er tengd minningin um Flekku húsfreyju, og þá er þess skammt að bíða að menn fari að trúa því að þessi rúst sé haugur Flekku, þarna hafi hún valið sér hvílustað til þess að geta alltaf vakað yfir innsiglingunni á víkina. Og þá hlýtur að draga að því, að menn fari að trúa, að ekki farist skip á víkinni meðan nokkur merki legstaðar Flekku sjást. Og svo kemur einhver framtakssamur maður, sem er Flekku hjartanlega þakklátur fyrir vernd hennar, höggur rúnir á litla hraunhellu og leggur helluna á leiði Flekku til þess að það gleymist aldrei.
Einhvern tíma löngu seinna eru hlaðnar nýar sundvörður. Önnur er nú niðri á sjávarbakkanum, en hin hátt uppi í hrauni. En þegar sigld er rétt leið inn á víkina og vörðurnar ber saman, þá er Flekkuleiði í beinni línu á milli þeirra.“

(Heimildir:
-O. Rygh: Norske gaardsnavne, Norsk alkunnabok (Fonna forlag).
-Jónas Hallgrímsson: Rit III, 1 og 2.
-Anders Bseksted: Islands Runeindíkriíter (Bibl Arna Magnaeana II) Á.Ó.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 20. september, 1959, Rúnasteinn í Flekkuvík, bls. 393-396.
Flekkuvík

Stóra-Vatnsleysa

Tekið var hús á Sæmundi bónda á Stóru-Vatnsleysu á Vatnsleysuströnd. Komið var kvöld. Suðaustan andvari strauk kinn. Sæmundur hafði beðið FERLIR um að reyna að leysa þá torráðnu gátu að lesa úr fornri áletrun á stökum steini í túninu, en það hafði engum tekist til þessa (svo hann vissi til a.m.k.).
LetursteinninnÞegar komið var út á hlaðið benti Sæmundur á hól í suðvestri og sagði: „Þetta er nónhóll“. Þá sneri hann sé 47° til suðurs og bætti við: „Og þarna er hádegishóll – á bak við húsin“. Hóll sá lá sunnanlægt við Keili. „Annars var venjulega miðað við Keili þegar bent var á suðrið“. Enda munaði þar litlu. Líklega hefur viðmiðið verið þvert á útnorður frá Vatnsleysu.
Þegar komið var örskammt suður fyrir núverandi íbúðarhús benti Sæmundur á hleðslur og sagði að þarna væri talið að hefði fyrrum verið kirkja (kirkja allrarheilagrarmessu), sem getið er um í annálum árið 1262. Henni hafi verið þjónað frá Kálfatjörn og bar prestinum að messa þar annan hvern helgidag – að minnsta kosti. Kirkjugatan millum jarðanna gæfi það og til kynna. Sæmundur dró fram gögn máli sínu til stuðnings. Hann sagði bæ hafa verið byggðan á rústum kirkjunnar, en sagan segir að þar hafi fólki ekki orðið vært vegna draugagangs. Kvað svo rammt að honum að hurðir hafi ekki tollað á hjörum. Bærinn var þá yfirgefinn og hann síðan rifinn. Kirkjan hefur skv. þessu staðið á hæsta hólmum ofan við Vatnsleysuvíkina. Austan við hæðina hallar hún undan. Líklegt er að þar hafi veirð kirkjugarður forðum. A.m.k. er letursteinn þar staðfestur vottur um slíkt.
Steinn þessi er stór grágrýtissteinn, sjávarbarinn. Hann er ca. 80 c, hár, 100 cm breiður og 40 cm þykkur. Skýringin á hvers vegna svona stórt lábarið grjót hafi verið langt uppi á landi kom síðar. Ekki væri ólíklegt að þarna væri grafreitur og að steinninn voru einu sýnilegu ummerkin eftir hann.
Byrjað var að skoða letursteininn, sem nú er þarna í túninu suðaustan við bæinn. Í fyrstu virtist áletrunin torráðin og í rauninni óskiljanleg, en þegar gengið var handan við steininn, varð lausnin augljós. Steininum virtist hafa verið velt um koll og áletrunin því óljós. Að þessu staðfestu komu í ljós klappaðir stafir; GI er sameinast með krossmarki að ofanverðu. Til hliðar, hægra megin að ofan, er ártalið 1643 eða 1649.

Áletrun

Enn hefur ekki verið fundið út hvert tilefni áletrunarinnar var. Þetta gæti verið legsteinn, sem fyrr sagði. Steinninn er ólíklega á upprunalegum stað því undir er klöpp, þótt gróið hafi yfir. Norðvestan við steininn eru að því er virðist leifar grjótgarðs. Sæmundur sagði þetta vera úrkast úr túninu. Ofan úrkastsins gæti kirkjugarðurinn hafa verið. Letursteinninn hefur því verið í honum, vel áberandi er hann stóð upp á rönd, en af sömu ástæðu og aðrir steinar verið færðir til í eina samfellu svo hægt væri að nýta svæðið sem slægju. Fyrr á árum þurfti að nýta sérhvern blettur með stækkandi stórgripabúum.
Þarna undir eru því bæði leifar af kirkju frá 13. öld og grafreitur. Letursteinninn bendir til þess. Steinninn er það þungur að hefur ekki verið færður langa vegarlengd með fyrri tíma tækjabúnaði.
Sæmundur kvaðst muna að þegar grafið var fyrir núverandi húsi hafi verið komið niður á hlaðinn kjallara, u.þ.b. 130 cm háan, en húsið hafi þá verið byggt nálægt fimm metrum norðar. Það stæði á ísaldarkampinum og þá hafi grafreiturinn og kirkjan einnig verið á honum þarna suður af húsinu. Hvað væri undir veginum að bænum vissi enginn, en hann hefði að hluta verið lagður ofan á jarðveginn, sem þá var. Þar væri skýringin komin á hinu lábarða grjóti svona langt uppi í landinu. Landið hafi legið lægra fyrrum er ísaldarjökullinn þrýsti því niður, en er hann hopaði lyftist landið og meðlagið sömuleiðis (þ.m. sjávargrýtið).
LetursteinnHafist var handa við að reisa letursteininn upp eins og honum hafði verið komið fyrir upphaflega. Með tveimur járnkörlum og jafnmörgum kraftakörlum vana gamalli áreynsluhefð tókst smám saman með lagni að lóðrétta láréttliggjandi letursteinninn. Þegar hann féll við, var sem ásýnd hans opinberaðist.
Áletrunin er ekki nákvæmlega efst og fyrir miðju steinsins, en ef grannt er skoðað má sjá að krossinn hefur verið gerður miðsvæðis. Gé-ið vinstra megin er stærra en I-ið hægra megin svo hlutföllin hafa eðlilega raskast miðað við miðjusetninguna.
Þegar steinninn hafði verið færður í rétta stöðu kom í ljós að fallegt listaverk er efst á honum hægra megin, ofan við ártalið, líkast fugli. Ef skoðaðir eru legsteinar í kirkjugörðum nú til dags má einmitt sjá fuglastyttur ofan á þeim. Hér gæti verið um samsvörun að ræða – 365 ára gamla.
Aðspurður um fleiri fornminjar í nágrenninu sagði Sæmundur þær vera fáar núorðið. Í norðaustri frá kirkjunni eru tún. Þar voru fyrrum nokkur kot, en þegar túnin voru sléttuð á fyrri hluta 20. aldar, auk þess sem ágangur sjávar hafi gert það nauðsynlegt, hefði öllu verið nýtilegu ýtt niður að ströndinni með það að markmiði að hindra frekari landeyðingu. Þar með hefðu leifar kotanna með öllu tilheyrandi þurrkast út á svæðinu.
Sæmundi var vinsamlegast bent á að nú mætti ekki, skv. þjóðminjalögum, raska neinu innan 20 metra radíus frá letursteininum. Hann sagði það nú lítið mál; „steinninn hefði áður verið færður svo líta mætti á staðsetninguna nú sem geymslustað fyrir hann – ef þurfa þætti“.

Vatnsleysa

Vatnsleysa – loftmynd; yfirlagt túnakort frá 1919, auk annarra bæja og vara.

Í samtali við Sæmund komu fram upplýsingar um „holustein“ ofan á jarðfastri klöpp á hugsanlegum óþekktum mörkum Ísólfsskála og Hrauns á Núpshlíðarhálsi. Lýsingin passar vel við landamerkjalýsingu Ísólfsskála. Ætlunin er að skoða vettvanginn fljótlega.
Sæmundur sagðist ekki vita að letursteininn hafi verið skráðan em „fornleif“. Honum var heldur ekki kunnugt um að fornleifayfirvöld landsins hefðu yfirleitt haft nokkurn áhuga á honum sem slíkum. Að bænum hafi fyrir einhverju sinni komið fornleifafræðingur. Sá hafi gengið um svæðið, staðnæmst stuttu austan við bæinn, bent til norðurs á hlaðna bátarétt, sem þar er og sagt: „Ég skrái þetta, það er augljóslega meira en hundrað ára“. „Þá hlýt ég að vera mun eldri en ég er“, svaraði Sæmundur, „því ég tók þátt í að hlaða þetta þegar ég var kominn fram yfir tvítugt“. Ekki er gott að segja hvort mannvirkið hafi ratað inn á fornleifaskrá eða ekki.
Frábært veður.

Letursteinninn

Njarðvíkurkirkja

FERLIR barst eftirfarandi ábending frá áhugasömum athugulum lesanda:
Letursteinn„Takk fyrir frábæran vef, þvílík fjársjóðskista sem hann er af fróðleik um Reykjanesskagann. Ég var að skoða gamla Njarðvíkurbæinn, sem nú er orðinn hluti af Byggðasafni Reykjanesbæjar og stendur við Innri Njarðvíkurkirkju. Utan  við húsið er steinn með ártalinu 1918. Neðan við ártalið er óljós áletrun. Einar G. Ólafsson, sem er einskonar staðarhaldari þarna í sumar, segir mér að ekki sé vitað hvaðan þessi steinn er kominn. Mér datt í hug hvort það gæti verið möguleiki að þarna væri kominn steininn frá Brekku undir Stapanum og auglýst var eftir á ferlir.is. Gaman væri að heyra hvort þið Ferlismenn búið yfir einhverri vitneskju um steininn í Njarðvík.“
FERLIR hafði skoðað steininn árið 2004. Þá var talið að lausnin lægi í undirletrinu „OKTU“?? Á milli ártalsins og bókstafanna er grópað  band. Bókstafirnir undir munu líklega hafa verið upphafsstafir eða tilefni. Steinninn gæti verið kominn úr kirkjugarðinum. Eða verið hornsteinn úr húsvegg. Fróðlegt var þá talið að bera þetta undir kunnuga í Innri-Njarðvík því steinninn er að öllum líkindum þaðan.
Eftir að hafa rætt við aldna Njarðvíkinga varð niðurstaðan þessi: Um er að ræða legstein, væntanlega úr kirkjugarðinum í Innri-Njarðvík eða jafnvel skammt utan hans. Ártalið á þessum litla sjávarbarða steini er 1918.

Innri-Njarvíkurkirkja

Eflaust hefur steinninn átt að vera táknrænn fyrir viðkomandi; tekinn af vettvangi þeim er fólkið þá var lifandi. Undir ártalinu er lárétt skraut (táknrænn lárviðarsveigur). Undir því vinstra megin eru upphafsstafirnir OK. Þá kemur kross. Hægra megin hans eru upphafsstafir, ógreinilegri, en gætu verið JJ. Legsteinninn virðist hafa verið á gröf tveggja einstaklinga er dáið hafa þetta árið. Hann er fátæklegur, en segir ákveðna sögu. Afkomandi einstaklinganna; sonur, dóttir, móðir, faðir, afi eða jafnvel amma, gæti hafa ákveðið að letra á steininn upphafsstafi ástvina sinna og leggja á gröfina í minningu þeirra. Líklega hefur verið um fátækt fólk að ræða er nýtt hefur sér nálægan stein og eigið afl svo minning hinna látnu mætti enn lifa um ókomin ár.
Ef um legstein er að ræða lýsir hann miklum tilfinningum í garð hinna látnu einstaklinga. Erfitt er að grópa með einföldum járnum í lábarið grágrýtið, auk þess sem sérhverju höggi hefur fylgt sár tilfinning þess er misst hefur ástvin sinn.
Lausnarinnar að áletruninni gæti verið að finna í kirkjubókum Innri-Njarðvíkurkirkju frá árinu 1918, frostavetrinum mikla. Í stað þess að hafa legssteininn við fótskör minjasafnsgesta utan garðs væri rétt að koma honum fyrir inni í kirkjugarðinum við Innri-Njarðvíkurkirkju, t.d. innan við sálnahliðið.

Njarðvík

Njarðvík 1945.

 

Kálfatjörn

FERLIRsfélagi, sem var á göngu á Vatnsleysuströnd fyrir skömmu, rak skyndilega auga í ártalsstein í fjörunni. Hann hafði margsinnis áður gengið sömu leið, en nú voru birtuskilyrðin (tilsýndarskilyrðin) hins vegar mun betri en áður, þ.e. sólin í réttu sjónarhorni svo skuggi féll á ártalið.

Ártalssteinninn

Við fyrstu skoðun virtist ártalið vera 1710, en þegar betur var að gáð varð ljóst að þarna hafði verið meitlað ártalið 1910. Nían var ógreinileg, en ef tekið er mið af öðrum ártalssteinum á Vatnsleysuströnd, t.am. ártalssteininum í gömlu sjóbúðinni við Kálfatjörn frá 1674 og kirkjubrúarsteininum frá 1790 þá er sjöan ógjarnan með þverstriki.
Hvað um það – ártalssteinn er þarna í fjörunni – og það merkilegur fyrir margra hluta sakir. Hann stendur efst í fjörunni, beint ofan við eina ákjósanlegustu og fallegustu vörina Ströndinni. Bærinn ofan við er á fornu bæjarstæði. Vörin var og notuð lengur en aðrar varir, löngu eftir að varanleg höfn var komin í Voga. Í beina línu við steininn er hleðsla; sökkull eða neðsta röð á hlöðnu húsi. Sjórinn hefur tekið annað af húsinu til sín, en eftir stendur þessi einharða röð til merkis um mannvirkið. Líklega hefur ártalssteinninn verið hornsteinn hússins eða byrgisins, en önnur slík eru allnokkur með ströndinni. Fyrrnefndur ártalssteinn neðan við Kálfatjörn er einnig dæmi um leifar af gömlu hlöðnu húsi, sem heimildir voru til um; verbúð.
SteinaröðinEf sá siður hefur haldist á Vatnsleysuströnd að ártalsmerkja verbúðirnar þá er þarna á þessu strandsvæði um að ræða leifar verbúðar frá 1910. Einungis vantar því þrjú ár upp á að þær geti talist til fornleifa. Þótt leifarnar séu í hættu vegna fyrirhugaðra framkvæmda á svæðinu hefur FERLIR ákveðið að geyma nákvæma opinberunnar hans og minjanna enn um þriggja ára skeið. Í rauninni eru þær dæmigerðar fyrir mannvirki á Ströndinni, líkt og lesa má um í heimildum manna er stunduðu vermennsku og sjósókn fyrr á öldum.
Ártalssteinninn er ágætt dæmi um fornleif, sem fengið hefur verið að vera óáreitt vegna þess að enginn hefur veitt henni sérstaka athygli. Þar með er hún orðin mikilvægur minnisvarði um aðrar slíkar, sem finna má á Vatnsleysuströnd – ef varið yrði tíma í að gaumgæfa allt það er þar mætti finna, hvort sem vegna skráðra heimilda eða einfaldlega nákvæmisleitar á svæðinu.
Ártalssteinn þessi er að vísu frá árinu 1910, en verðmæti hans eykst hins vegar í réttu hlutfalli við tilsettninguna. Hann gefur bæði til kynna að aðrar sjóbúðir á Vatnsleysuströnd hafi að öllum líkindum haft slíka hornsteina að geyma og að þá megi enn finna í nálægð leifa slíkra búða sem og í þeim búðum sem enn standa. Bara það gefur tilefni til enn einnar FERLIRsferðarinnar um strandir Vatnsleysustrandar!
Vatnsleysuströnd