Gengið var upp í Lónakotssel frá Óttarsstaðaborginni, yfir Alfaraleið, selstaðan skoðuð og síðan haldið áfram upp í Mið-Krossstapa og Hraun-Krossstapa. Litið var á grenin, sem þar eru sem og grenin undir Skógarnefi. Síðan var haldið til norðurs að Tóhólum. Kíkt var í Tóhólaskúta áður en haldið var yfir í Óttarsstaðarsel og áfram til norðurs, skáhallt niður Almenning.
Ekki verður hjá því komist að taka eftir Alfaraleiðinni þegar gengið er yfir hana. Hún er bæði breið á þessum kafla ofan við Smalaskálahæð og vel greinileg þar sem hún liðast um hraunið frá austri til vesturs – eða öfugt. Gatan er gömul þjóðleið milli Innnesja og Suðurnesja. Gatan er víða vel mörkuð í hraunhelluna eftir aldalanga notkun, en hún lagðist af þegar vélknúin farartæki tóku við hlutverki hestanna. Gatan er nú sjáanleg frá hraunbrúninni austan við Kapelluhraunið austan kapellunar, en auk þess má sjá spotta af henni við kapelluna. Lægðin austan við Smalaskálahæð nefnast Draugadalir. Síðan liðast hún að Taglhæð um Sprengilendi í áttina að Hvassahrauni. Þar skiptir leiðin um nafn og nefnist eftir það Almenningsvegur. Hann liggur um Kúagerði og Vatnsleysuströnd að Vogum. Við Vogastapa tekur Stapagatan við, en svo nefnist þjóðleiðin milli Voga og Njarðvíkur.
Þegar Lónakotsselsstígurinn er rakinn upp í gegnum hraunið, áleiðis að selinu, má víða sjá fallnar gamlar vörður er fyrrum leiddi fólk leiðina.
Lónakotssel er norðan undir Skorás, þversprunginni klapparhæð. Á ásnum er varða, sem heitir Skorásvarða, en hennar er getið í gömlum markalýsingum. Varðan sést víða að í Almenningum.
Lónakotsselshæðabyrgi er einnig þekkt undir nafninu Skorásbyrgi, því það er norðan við samnefnda hæð. Byrgið tilheyrði Lónakotsseli og gagnaðist sumur sem vetur því Lónakotsærnar voru jafnan á útigangi og smali látinn fylgja fénu árið um kring. Í jarðfallinu, sem byrgið er í, má jafnframt sjá hleðslur stekks eða réttar. Austan við Skorðásin er falleg kví.
Hleðslur eru um og við Krossstapagrenin norðvestan við Mið-Krossstapa – ofan selsins.
Meðan staldrað var við grenin heyrðist tófa gagga í norðvestri. Sest var niður, merki gefið um þögn og hún staðsett. Sást vel hvar dýrið rak af og til upp trýnið utan í steini á gróinni hæð ekki alllangt frá. Tófan var greinilega forvitin um ferðir tvífætlinganna. Vindur var af vestri. Einn þátttakendanna læddist með lægð austan við grenin og stefni hljóðlega til norðurs, í hvarfi frá tófunni. Hún var því alveg grunlaus, greyið, þegar hún leit skömmu síðar framan í mannveru, sem birtist skyndilega til hliðar við hana á hólnum.
Mórauð tófan, hvítskeggjótt og brúneygð, stóð kyrr eitt augnarblik. Hún virtist hugsa margt og um allt í einu. Tófan átti greinilega ekki von á að maðurinn gæti verið svona mikill refur. Hún tók þá ákvörðun að henda sér í áttina frá ógnvaldinum, sletta skottinu upp í lofti og láta sig hverfa inn í nærliggjandi hraunsprungu. Þetta var látið nægja að þessu sinni. Best hefði verið ef tófan hefði sýnt yfirvegun og verið um kyrrt svo hægt hefði verið að spyrja hana almæltra tíðinda – á tófumáli að sjálfsögðu, en svona eru nú dýrin nú til dags – varkár og hrædd. Þau virðast ekki lengur hafa hæfileika til að greina mannamun, enda kannski ekkert skrýtið, því maðurinn veit sjálfur ekki hvernig hann á að haga sér gagnvart dýrunum og náttúrunni.
Fyrir ofan Skorás taka við slétt mosa- og hraunsvæði allt upp að Krossstöpum. Krossstaparnir eru tveir sérkennilegir og klofnir klettastapar hvor upp af örðum með stuttu millibili. Um neðri og stærri stapann endilangan liggur gömul saufjárveikigirðing. Neðri stapinn, Mið-Krossstapi er sagður hornmark jarðanna Lónakots, Hvassahrauns og Óttarsstaða í landamerkjabréfum, en í rauninni er enginn Mið-Krossstapi sjáanlegur því staparnir eru aðeins tveir að því er virðist.
Þó telja sumir að Álfakirkjan, neðar og norðar í hrauninu, geti verið svonefndur Neðsti-Krossstapi.
Eftir að hafa skoðað Skógarnefsgrenin neðan við háhraunbrúnina nyrst í nefninu var haldið til austurs yfir tiltölulega nýlega hraunlænu. Svo virðist sem hún hafi komið úr smágíg neðan við Skógarnefið og gefið af sér litla spýju til norðurs. Hún er tiltölulega mjó. Þegar komið var í vesturjarðar Tóhólanna var gengið að Tóhólaskúta, en síðan niður í Óttarsstaðasel.
Óvenjumikið var af rjúpu á leiðinni, en auk þess skógarþröstur, maríuerla, sólskríkja, spói og þúfutittlingur.
Við skoðun í kringum selstóftina mátti sjá minna vatnsstæði í lítilli hraungjótu undir bakka skammt sunnan hennar, en meginvatnsstæðið er austan selsins.
Selsstígnum var loks fylgt niður að línuvegi og stefnan síðan tekin á Óttarsstaðaborgina þar sem hringnum var lokað. Á leiðinni varð fyrir hundur hraunkarlsins, en eins og flestum er kunnugt á sérhvert hraun sér a.m.k. einn hraunkarl, ímynd þess úr neðra er fylgjast vildi með hvað er að gerast ofanjarðar.
Frábært veður.