Tag Archive for: Mosfell

Hrísbrú

Kristian Kaalund eða Kristian Kålund, fullu nafni Peter Erasmus Kristian Kaalund (19. ágúst 1844 – 4. júlí 1919) var danskur textafræðingur, lengst af bókavörður við Árnasafn (Den Arnamagnæanske Samling) í Kaupmannahöfn.

Kristian kålund

P.E. Kristian Kålund.

Kristian Kaalund fæddist í Søllested á Lálandi. Foreldrar hans voru Caspar Ernst Kaalund (1806–1853), sóknarprestur í Søllested, og kona hans Anna Helene Riedewaldt (1817–1888).
Kaalund var 9 ára þegar hann missti föður sinn. Hann varð stúdent frá Herlúfshólmsskólanum 1863, fór svo í Háskólann í Kaupmannahöfn og tók meistarapróf í norrænni textafræði 1869, með ritgerðinni: „Familielivet paa Island i den første sagaperiode (indtil 1030)“, sem birtist í Árbókum Fornfræðafélagsins 1870. Haustið 1872 fór Kaalund til Íslands og dvaldist þar í tvö ár. Hann ferðaðist um mestan hluta landsins sumrin 1873 og 1874 til þess að kynna sér sögustaði fornritanna. Þessar rannsóknir, sem hann jók síðar með viðbótarefni úr prentuðum og óprentuðum ritum, birtust síðar í tveggja binda riti: Bidrag til en historisk-topografisk beskrivelse af Island, 1877–1882. Það er enn talið undirstöðurit um íslenskar fornleifar og ómissandi handbók fyrir þá sem lesa Íslendingasögurnar, vegna ítarlegra upplýsinga, sem hann fékk m.a. hjá staðkunnugu fólki. Ritið kom út í íslenskri þýðingu 1984–1986, undir heitinu Íslenskir sögustaðir 1–4.

Kjósarsýsla – Egill Skalla-Grímsson

Kålund

Rit Kålunds.

Kjósarsýsla hefur allt annað yfirbragð en Gullbringusýsla, og inn í hana liggur leiðin af Seltjarnarnesi. Þegar komið er yfir Elliðaár, blasir við mikill hluti Mosfellssveitar; eru þar einnig grýtt holt og ógrónir melar, en mestur hluti landsins er þó grösugur, sums staðar þýfðar mýrar eða engjadrög, en bæir með græn tún liggja dreift þar sem hærra er og þurrara, en smáfjöll og hæðir skipta bygðinni í daladrög og smábyggðir. Í fiskibyggðum er algengt, að bæir og hús standi saman í þyrpingum næstum eins og sveitaþorp í Danmörku, en upp til landsins er annar háttur á; aðeins hér og þar má sjá stóran bæ, þar sem landi hefur verið skipt og mynduð svokölluð hverfi eða þorp, heldur liggur hver bær venjulega út af fyrir sig mitt í landareign sinni.

Hrísbrú

Mosfellsdalur – Hrísbrú fremst.

En tvímælalaust er Mosfellsdalurinn, sem liggur nyrst, merkilegastur dalur í Mosfellssveit. Hann er þeirra stærstur og einnig merkilegur sögulega, því að þar dvaldist Egill Skalla-Grímsson síðustu æviár sín. Hann nær upp frá Leirvognum frá vestri til austurs. Norðan við hann er Mosfell, aflangt hvelft fjall, liggur í sömu stefnu og dalurinn, og hallast jafnt niður til austurs, nær í fremur lága heiði. Undir eða í suðurbrekku Mosfells eru þrír bæir, Hrísbrú, Mosfell og Minna-Mosfell. –

Mosfell

Mosfell.

Mosfell er myndarlegur bær, prestsetur og kirkjustaður, í miðið, Minna Mosfell. Á Mosfelli bjó að sögn Egils sögu höfðinginn Grímur Svertingsson, kvæntur Þórdísi stjúpdóttur Egils Skalla-Grímssonar og bróðurdóttur. Egill fluttist þangað eftir dauða konu sinnar, varð gamall maður og síðast með öllu blindur.
Sagan segir (297-98), að eitt sinn þegar Grímur var á Alþingi og Þórdís í seli sínu, skipaði Egill kveld eitt tveimur þrælum sínum að fylgja sér til laugar; þeir fengu honum hest. Menn sáu, að

Mosfell

Mosfell 2024.

Egill tók með sér silfurkistur sínar, sem Aðalsteinn konungur hafði gefið honum, og fór ásamt þrælunum niður túnið og hvarf bak við hæð sem þar er. Næsta morgun sáu menn að Egill hvarflaði á holtinu fyrir austan túnið (eiginlega; gerðið) og teymdi hestinn. Menn fylgdu honum heim; hann sagði að hann hefði drepið þrælana og falið kisturnar, en meira sagði hann engum. Margar ágiskanir komu síðar fram, segir sagan, hvar Egill hefði falið fé sitt. Austan við túnið á Mosfelli liggur gil mikið niður úr fjallinu; þar hafa fundist enskir peningar, er hljóp úr gilinu eftir mikla leysingu; því giska sumir á þann stað. Fyrir neðan túnið á Mosfelli eru stór og mjög djúp fen, og halda margir, að Egill hafi kastað þar í fé sínu. Sunnan við ána eru „laugar“ og skammt frá djúpar jarðholur, og ætla sumir, að þar hafi Egill falið fé sitt, því oft hefur sést þar haugaeldur. Egill lést skömmu síðar og var fluttur niður í Tjaldarnes og orpinn haugur yfir hann. En þegar Grímur á Mosfelli var skírður, lét hann reisa þar kirkju (þ.e. á Mosfelli).

Egill Skalla-Grímsson

Gröf Egils Skalla-Grímssonar.

Er sagt, að Þórdís hafi þá látið flytja bein Egils til kirkjunnar. Til þess bendir, „að síðan er kirkja var gerð á Mosfelli, en ofan tekin á Hrísbrú sú kirkja, er Grímur hafði gera látið, þá var þar grafinn kirkjugarður“, og þá fundust undir altarinu mjög stór mannabein, sem að sögn gamalla manna voru bein Egils. Bein Egils voru lögð niður í utanverðum kirkjugarðinum á Mosfelli. (Eg.s. 298-99). Meðal þeirra sem voru viðstaddir þegar þetta gerðist nefnir sagan Skafta prest Þórarinsson, en hann er telinn sá sem nefndur er lifandi árið 1143, og hafa menn því ætlað að kirkjan hafi verið flutt um miðja 12. öld.

Samkvæmt Gunnlaugs sögu (61) bjó höfðinginn Önundur nokkru síðar á Mosfelli, sem hafði goðorð „suður um nesin“, sonur hans var Hrafn, er fær að konu Helgu hinnar fögru í fjarveru sambiðils síns, Gunnlaugs ormstungu. Eftir að Gunnlaugur og Hrafn höfðu fellt hvor annan í hólmgöngu í Noregi, ríður Illugi, faðir Gunnlaugs með 30 menn til Mosfells. Önundur og synir hans komust í kirkju, en Illugi náði tveimur frændum hans og lét drepa anna, en fóthöggva hinn (Gunnlaugs saga 105).

Kýrgil

Kýrgil – uppdráttur ÓSÁ.

Sjá má á frásögn Egils sögu, að kirkja sú er Grímur reisti, hefur staðið við Hrísbrú, en hún hefur ekki getað verið sjálfstæð jörð, því sagan segir, að kirkjan hafi verið á Mosfelli, en segir sjálf síðar, að hún hafi verið að Hrísbrú. Í samræmi við þetta er það, að rétt við bæinn Hrísbrú nokkur skref til útnorðurs, er hóll, Kirkjuhóll, þar sem gamla kirkjan á að hafa staðið. En bærinn hlýtur næstum að hafa staðið þar sem kirkjan var upphaflega reist. Svo sem áður hefur verið tekið fram, má það heita föst reglu á íslenskum kirkjustöðum, að kirkjan er upphaflega sett annaðhvort gagnvart eða fast við bæjarhús, fyrirkomulag sem var mjög hagkvæmt, svo sem sjá má af tilvitnunni í Gunnlaugs sögu, að kirkjuna mátti nota sem nokkurn veginn öruggt hæli, ef óvinir sóttu að.

Hrísbrú

Hrísbrú – túnakort 1916.

Ekkert er það heldur sem mælir á mót, að bærinn á Mosfelli hafi upphaflega staðið þar sem Hrísbrú er nú, og þessi staður hefði vel getað þótt heppilegastur fyrir fyrsta ábúanda; hér er fjallshlíðin hæst og graslendið breiðast þaðan og fram að mýrinni, og miðað við þann mikla búrekstur sem einkenndi höfuðbólin í fornöld er ekkert óeðlilegt að hugsa sér, að túnið hafi náð langt austur á við og jafnvel yfir tún Mosfells og Minna-Mosfells. Bærinn hefur auðvitað ekki breytt um nafn, þó að hann væri fluttur, aftur á móti hlaut bærinn, sem byggður var úr Mosfells landi og reistur var annað hvort samstundis eða síðar á gamla bæjarstæðinu, að fá nýtt nafn, og það kann að hafa legið beint við, þar sem Hrísbrú var, því að bærinn hefur verið nefndur eftir vegi, sem var lagður hrísi, og kann að hafa verið þess ærinn þörf á leið yfir mýrina fyrir neðan bæinn.

Kýrgil

Tóft í Kýrgili.

Gilið sem sagan minnist á, þar sem Egill kynni að hafa falið fé sitt, er vafalaust Kýrgil, sem svo er nefnt; það liggur austan túns á Minna-Mosfelli; þar nær efst ofan úr fjalli niður í rætur og er alldjúpt, og rennur lítill lækur eftir botni þess. Auk þess eru tvö önnur gil, en miklu minni, í fjallinu milli Hrísbrúar og Mosfells.
Margir hafa velt fyrir sér hvar Egill hafi fólgið fé sitt, og auðvitað er það vafamál. Giskað hefur verið á (Magnús Grímsson prestur á Mosfelli hefur skrifað ritgerð; „Athugasemdir við Egils sögu Skallagrímssonar“, er hún í Safni til sögu Íslands II. Er stuðst við frásögn hans í lýsingunni hér á staðháttum í Mosfellsdalnum), að Egill hafi fyrst farið venjulega leið til laugar og þegar hann á heimleið hafi komið að „jarðholnum“ við ána, hafi hann kastað kistunum þar niður og ef til vill múta þrælunum til að þegja og síðan haldið ferð áfram, þar til hann kom að Köldukvísl, en síðan farið upp eftir árbakkanum, milli hennar og mýrarinnar blautu, sem fyrr er nefnd, þar til niðurinn í Kýrgilinu heyrist.

Minna-Mosfell

Minna-Mosfell. Fyrrum tjarnarstæði „Þrælapytts“,

Þar er um það bil niður af Minna-Mosfelli mikill og djúpur forarpyttur, er nefnist Þrælapyttur, og segja munnmæli, að þar hafi þrælarnir fundist – en ekki er það nefnt í sögunni. Hafi Egill drepið þrælana þarna, hefur hann auðveldlega getað komist þaðan að gilinu – er þá gert ráð fyrir, að vatn hafi verið í því – og síðan upp með því.
Sjá meira um Kýrgil og Þrælapytt HÉR.
Jón Ólafsson frá Grunnavík segir svo frá í stuttri íslenski ritgerð um fornminjar fundnar víðs vegar á Íslandi utan hauga“ (Addit, 44 fol.), að Erlendur bróðir hans – sýslumaður í Ísafjarðarsýslu – hefði sagt honum, að um 1725 þegar hann var á unga aldri var í þjónustu skólameistara í Skálholti, hefðu eitt sinn nokkru af földu fé Egils skolað fram í vatnavöxtum; hefðu um 3 peningar fundist, hefði hann séð einn þeirra og hefði hann verið á stærð sem tískildingur („tískildingr heill vorra tíma“); á honum hefði verið ógreinileg áletrun ef til vill ANSLAFR eða eitthvað þess háttar. Magnús Grímsson greinir frá munnmælum um, að fátækur bóndi eigi að hafa fundið fé Egils í Kýrgili, leynt fundinum, en allt að einu orðið auðugur maður.

Hrísbrúarsel

Hrísbrúarsel ofan við Selás.

Ekki er ljóst, hvar selið hefur verið þar sem Þórdís dvaldist, meðan Egill kom áformi sínu fram. Norðan við Mosfell er dálítið hæðardrag, sem heitir Selás, og telja flestir að þar sé staðurinn. Nú eru selfarir sjaldgæfar á Íslandi, til þeirra þarf mikinn mannafla, en áhöfn sjaldan svo stór, að slíkt borgi sig. Mosfell er þó einn þeirra bæja, þar sem það hefur jafnan verið stundað, en á síðari tímum hefur seljalandið verið í hallanum í Mosfellsheiði niður í Mosfellsdalinn, þar sem heita Gullbringur.

Egill Skalla-Grímsson

Höfuðkúpa Egils Skalla-Grímssonar?

Örnefnið Tjaldanes þekkist nú ekki, en lítill oddi, Víðiroddi (eftir nafni slétturnar Víðir), er þar sem árnar tvær renna saman, um 7-800 faðma suðvestan við Hrísbrú; liggur þarna yfir alfaraleið meðfram Köldukvísl, en einmitt oddinn á á vera áfangastaður sá sem nafnið Tjaldanes bendir á, og orð sögunnar „ofan í Tjaldanes“ eiga vel við staðinn; í oddanum er lítil hæð, sem gæti verið leifar af haug. Staðurinn er fallegur, og ef Egill hefur verið jarðsettur þar, hefur sannarlega verið vel valið.“

Í „Skráning fornleifa í Mosfellsbæ“ 2006 segir m.a. um Hrísbrú:
„Í Örnefnalýsingu Hrísbrúar getur um stæði kirkjunnar, sem þar var talin hafa verið: „Vestur af bæ er stór hóll, sem heitir Kirkjuhóll. Hann er norðvestur frá bæ; þar stóð kirkjan áður fyrr, og kirkjugarður var hér ofan við tröðina“ (Ari Gíslason). Svo segir Magnús Grímsson: „Þess er þegar getið, að þegar kristni var í lög leidd á Íslandi var Grímr að Mosfelli skírðr, og lét þar kirkju gjöra. En sú kirkja stóð á Hrísbrú. Er eptir því alllíklegt, að bær Gríms, sem þá var hinn eini undir fellinu, hafi staðið þar, sem Hrísbrú er nú, og skal þar um tala síðar betr. Grímr hefir byggt sína kirkju eptir árið 1000, líklega stuttu eptir, en hún stóð á sama stað þángað til í tíð Skapta prests Þórarinssonar, eðr þángað til um miðja tólftu öld. Þessi Skapti prestr Þórarinsson er að ætlan manna sá, sem talinn er meðal nokkurra presta, kynborinna íslenzkra, er uppi voru árið 1143. Og í formálanum fyrir Egils sögu (Rvík 1856, vi bls.) byggir Jón Þorkelsson á því þá ætlan sína, að kirkjuflutningurinn hafi farið fram einhvern tíma á árunum 1130-1160. Hefir því kirkjan staðið á Hrísbrú hérumbil … 150 ár“ (bls. 255). Talsverðar vangaveltur eru um hvar hinn fyrsti bær að Mosfelli hafi staðið. Kålund álítur að hann hafi upphaflega staðið á Hrísbrú ásamt kirkjunni. Síðan hafi bærinn verið fluttur að Mosfelli og kirkjan á eftir (Kålund, bls. 50). Sigurður Vigfússon ræðir þetta mál einnig en kemst að annarri niður-stöðu en Kålund. Álítur hann frásögn Egils sögu um kirkju á Hrísbrú, sem seinna var flutt að Mosfelli, rétta. Um bæjarflutning og þar með nafnbreytingu var ekki að ræða. Álítur Sigurður að kirkjan á Hrísbrú hafi verið flutt að Mosfelli á árabilinu 1130-1160 (Sigurður Vigfússon, bls. 62-74). Í útgáfu sinni að Egils sögu telur Sigurður Nordal líklegast að kirkjan hafi fyrst verið byggð fjarri bænum að Mosfelli en seinna verið flutt að bænum og hjáleigan Hrísbrú byggð á gamla kirkjustaðnum (Egils saga, bls. 298 n.m.).

Hrísbrú

Uppgröftur á Hrísbrú.

Sunnan við Köldukvísl er hluti af stykki því, sem nefnt er Víðir og er í eigu Hrísbrúar. Neðsti oddinn á Víðinum nefnist Tjaldanes en á nesi því var Egill Skalla-Grímsson heygður (Ari Gíslason). Haugurinn liggur fast við ána (Köldukvísl) að sunnanverðu, um 100 m frá oddanum, þar sem Suðurá og Kaldakvísl mætast. Um 50 m neðan (N) þjóðvegarins upp Mosfellsdal. Haugurinn er um 7,70 m langur í vestur og um 5 m í norður. Hann er á árbakkanum og sýnilegt er að áin hefur brotið talsvert af honum. Auðsætt er, að haugurinn hefur einhvern tíma náð talsvert lengra í norður, eða alveg að farveg árinnar nú. Upphafleg stærð hans hefur mjög líklega verið um 7,70 m í norður og vestur, sem jafnframt hefur verið þvermál hans í báðar áttir.

Víðir

Víðirinn – gröf Egils.

Enn sést greinilega að haugur þessi, sem svo er kallaður, hefur verið hringlaga. Sker hann sig vel frá umhverfinu og sést nokkuð langt að, sjái maður oddann á annað borð. Haugurinn er hæstur um miðjuna um 0,5 m, en er aflíðandi í suður. Norðan miðju er hann mikið skemmdur, örugglega af vatnagangi árinnar, sem framhjá rennur. Fáeinar þúfnamyndanir eru utan á haugnum. Til að sjá er haugurinn eins og lág bunga eða upphækkun fremst á bakka Köldukvíslar. Nú er girðing yfir hann endilangan frá austri til vesturs. Land það, sem hann stendur á er nú notað til hestabeitar og er allt afgirt. Haugurinn er líkastur því, sem um náttúrumyndun sé að ræða, en skal þó ekkert fullyrt í þeim efnum. Engar hleðslur eru heldur sjáanlegar þar. Um 14 m sunnan við hauginn eru undirstöður stálgrindahúss eða bragga. Vestan við haug þennan er smáþýfi, um 20-50 m, og eilítið grænna. Líklega er þetta svona frá náttúrunnar hendi, e.t.v. getur lítil tóft eða tóftir leynst þarna þótt ótrúlegt sé (Ágúst Ó. Georgsson). Í Víðisoddanum er sagt að verið hafi áningarstaður ferðamanna fyrr á tímum.“

Heimild:
-Íslenskir Sögustaðir Bidrag til en historisk-topografisk Beskrivelse af Island – 1877), P.E. Kristian Kålund, Sunnlendingafjórðungur I, Bókaútgáfan Örn og Örlygur Hf, 1984, bls. 31-37.
-Skráning fornleifa í Mosfellsbæ, Þjóðminjasafnið 2006.

Hrísbrú

Hrísbrú – uppgröftur – skáli.

Mosfellsbær

Við Mosfellskirkju eru tvö skilti. Á því fyrra má lesa eftirfarandi upplýsingar:

Mosfellsbær

Mosfellsbær – skilti við Mosfell.

„Að Mosfelli var fyrst byggð kirkja á 12. öld og löngum var hér kirkja og prestssetur í aldanna rás. Mosfellskirkja var rifin árið 1888 og ný kirkja byggð að Lágafelli eftir miklar deilur eins og sagt er frá í Innansveitarkroniku eftir Halldór laxness.

Mosfellskirkja hin nýja er teiknuð af Ragnari Emilssyni arkitekt og reist fyrir gjafafé Stefáns Þorlákssonar (1895-1959 hreppstjóra í Reykjadal. Merkustu gripir krikjunnar eru gamall kaleikur og forn kirkjuklukka sem geymd var á Hrísbrú á meðan kirkjulaust var í Mosfellsdal. Mosfellskirkja var vígð 4. apríl 1965t.

Messan á Mosfelli
Eitt þekktasta kvæði Einars Benediktssonar (1864-1940) heitir Messan á Mosfelli og greinir frá breyskum presti sem hér bjó. Yfirvöld komu ríðandi úr Reykjavík til að setja prestinn af en hann tók þá menn til bæna í Mosfellskirkju í orðsins fyllstu merkingu.
MosfellsbærEinar sagði sjálfur að kvæðið byggði á þjóðsögu og fyrirmynd skáldsins að prestinum hefur ekki fundist svo óyggjandi sé. Fyrsta og síðasta erindi þessa magnaða kvæðis eru þannig:

Ein sga er geymd og er minningarmerk

um messu hjá gömlum sveitaklerk.

Hann sat á Mosfelli syðra.

Hann saup; en hann smaug um Satans garn.

Í sál bar hann trú, en dró kjólinn í skarn,

-einn herrans þjónn og eitt heimsins barn, með hjarta, sem kunni að iðra.

MosfellsbærÞar heyrðu þeir prest – við eitt bláfátækt brauð,

og brjóst þeirra eigin fundust svo snauð,

em bróðirinn brotlegi ríkur. –

Í minnum er höfðingja heimreiðin enn.

Þeir hurfu í messulok allir senn.

Og voru hljóðir, hógværir menn,

sem héldu til Reykjavíkur.

Egils saga greinir frá því þegar Egill Skallagrímsson dvaldi hér á Mosfelli á efri árum hjá Þórdísi bróðurdóttur sinni. Samkvæmt sögunni á hann að hafa falið silfursjóð sinn hér í nágrenninu. Frá þessu er sagt í 88. kafla sögunnar:

Mosfellsbær

Mosfellsbær – skilti við Mosfell.

„Það var eitt kveld, þá er menn bjuggust til rekkna að Mosfelli, að Egill kallaði til sín þræla tvo er Grímur átti. Hann bað þá taka sér hest „vil eg fara til laugar“. Og er Egill var búinn gekk hann út og hafði með sér silfurkistur sínar. Hann steig á hest, fór ofan eftir túninu fyrir brekku þá er þar verður er menn sáu síðast.

En um morguninn er menn risu upp þá sáu þeir að Egill hvarflaði á holtinu fyrir austan garð og leiddi eftir sér hestinn. Fara þeir þá til hans og fluttu hann heim.

En hvorki komu aftur síðan þrælarnir né kisturnar og voru þar margar gátur á hvar Egill hafi fólgið fé sitt.“

Á hinu skiltinu má lesa eftirfarandi:

Mosfellsbær

Mosfellsbær – skilti við Mosfell.

„Velkomin á stikaðar gönguleiðir Mosfellsbæjar.

Mosfellsbær er um 200 ferkílómetrar að stærð. Hér eru víðáttumikil náttúruleg svæði og einstakir útivistarmöguleikar í lítt snertu landslagi upp til heiða, við vötn og ár og strandlengjuna. Áberandi eru fellin og gróðursælir dalir auk tveggja jarðhitasvæða.

Leiruvogur gengur inn úr Kollafirði og í hann falla þrjár ár; Leirvogsá, kaldakvísl og Varmá. Leiruvogur er nefndur í fornsögum, þar var alþekkt skipalægi til forna og þaðan lá leið til Þingvalla og annarra landshluta.

Gönguleiðir eru margar og fjölbreyttar í Mosfellsbæ. Fjöllin eru að vísu ekki há, það hæsta er Grímansfell, tæplega 500 m.y.s. Náttúruperlur og skoðunarverðir staðir eru víða við gönguleiðirnar. Má þar nefna Leirvogsá og Tröllafoss, sem er friðlýst náttúruvætti, Köldukvísl og Helgufoss, varmá og Álafosskvos, Nóngilsfoss og Katlagil, grettistak á Þverfelli og Seljadal. fornar þjóðleiðir, seljarústir og aðrar sögulega minjar eru einnig víða við gönguleiðirnar.

Jarðfræði

Mosfellsbær

Mosfellsbær – skilti við Mosfell.

Frá því að Stardalsmegineldstöðin kulnaði fyrir um tveimur milljónum ára hafa roföflin grafið dali og myndað það landslag sem við þekkjum í dag. Berggrunnurinn er að mestu hraun, sem runnu á hlýskeiði, og í fellunum má sjá hraunlög sem hafa hlaðist upp á löngum tíma.

Mosfellsheiði er dyngja og þaðan runnu hraunlög niður á láglendið í Mosfellssveit. Víða er jarðhiti í tengslum við virkar sprungur og misgengi sem teygja sig út frá gosbeltinu. Í Mosfellsdal er þykk setlög sem benda til þess að þar hafi verið stöðuvatn.

Gróður
Við landnám var Mosfellssveit skógi vaxin en miklar breytingar hafa orðið vegna landnýtingar og uppblásturs. Gróður teygir sig frá sjávarsíðunni, upp dalina og fellin. Ofan til eru felli gróðursnauð. Þar eru ríkjandi skófir á steinum og klöppum, mosi og hálendisplöntur. Við gönguleiðina um Stekkjargil, sunna undir Helgafelli, hafa verið merktar nokkrar tegundir úr íslenskri flóru.“

Mosfellsbær

Mosfellsbær – skilti við Mosfell.

Kýrgil

Í síðustu ferð FERLIRs þar sem metnar voru aðstæður í Bæjargili og Kirkjugili í sunnanverðu Mosfelli kom fátt fram er bent gæti til þess að silfur Egils væri þar að finna. Gilin eru, og hafa væntanlega ekki verið, vænleg til fjárfelu.
NKýrgilú var kíkt á Kýrgilið, það austasta af þremur fyrrnefndum. Gilið er jafnframt það grynnsta og lengsta af þeim. Á bökkum þess og ofar eru gróningar undir og millum mela. Þegar komið var upp fyrir brúnir, í gróningana, sáust tvær mannvistarleifar. Sú fyrri virðist vera af fornu húsi, en það efra er torráðnara. Fuglasöngur fyllti lognið við undirspil gilslækjarins. Þegar komið var að efri mannvistarleifunum tók málmleitartæki, sem hafði verið með í för í öðrum tilgangi, vel við sér – lét jafnvel svo illum látum að ekki var komist hjá því að slökkva á því til að fá viðværunæði á vettvangi.
Reglugerð um þjóðmunavörslu (374/98) segir m.a. að „yfrborðskannanir (mælingar, myndun o.þ.h.), jarðsjármælingar, kannanir með málmleitartæki (eftir leyfi þjóðminjavarðar) og aðrar þær aðgerðir á fornleifasvæðum, sem ekki hafa í för með sér jarðrask, teljast ekki til fornleifarannsókna í merkingu 54. gr. og 1. mgr. þessarar greinar.“
Í Þjóðminjalögum (107/2001) segir í 16. gr. að „óheimil er notkun málmleitartækja eða annars tækjabúnaðar við leit að forngripum í jörðu nema með sérstöku leyfi þjóðminjavarðar.“

Dularfull

Hér er reyndar um einstaklega þröngsýnt ákvæði að ræða, sett til að minnka líkur á að „einhverjir“ leiti að forngripum með málmleitartæki og „skjóti þeim undan“. Skynsamlegra væri að hvetja fólk til að nota málmleitartæki við leitir að forngripum – og að tilkynna um árangurinn. Í 19. gr. Þjóðminjalaga er t.a.m. hvati til þess að svo verði, sbr. að „nú finnst forngripur úr gulli eða silfri, þar á meðal gullpeningar eða silfurpeningar, og skal þá Fornleifavernd ríkisins meta málmverð hlutarins og leggja ofan á tíu af hundraði. Skal annar helmingur fjárhæðarinnar greiddur finnanda en hinn landeiganda…“
Í fyrsta lagi eru mjög litlar líkur á að forngripir finnist með hjálp tækjanna hér á landi (það hefur verið reynt af „sérfræðingum“) og í öðru lagi, ef slíkur gripur myndi finnast, þá má telja næsta öruggt að haft yrði samband við Þjóðminjasafnið, enda myndi hann verða lítt eigulegur hversdags og án allrar verðskuldugrar athygli. Fundurinn myndi áreiðanlega kalla á forvörslu og varðveislu, umleitan tengsla og samhengis og nánari uppljóstrun eða frekari upplýsingagjöf. Forngripir, sem finnast hér á landi, eru ekki í svo „eigulegu ástandi“ eða slíkt augnayndi að ástæða sé til að takmarka möguleika á fundi þeirra og þar með auknum líkum á almannayndi með framangreindu lagaómyndarákvæði.
TóftinMeð aukinni notkun málmleitartækja aukast hins vegar líkur á að eitthvað áhugavert finnist, sem ella myndi liggja óhreyft í jörðu og engu til gangs.
Annað ákvæði laganna (18. gr) kveður á um að „forngripir eru lausar fornminjar, einstakir hlutir, 100 ára og eldri. Þegar forngripir finnast sem liggja eða legið hafa í jörðu skal finnandi tilkynna Fornleifavernd ríkisins fundinn svo fljótt sem við verður komið.“ Hér fara reyndar ákvæði laganna og raunveruleikinn lítt saman því varla er til verri stofnun en Fornleifaverndin til að annast móttöku slíkra tilkynninga. Hafa viðbrögð hennar hingað til frekar virkað fælandi en hvetjandi. Það eitt, umfram öll boð og bönn, dregur úr áhuga fólks á að tilkynna fundi, en eykur að sama skapi líkur á að munir skili sér ekki til opinberrar varðveislu.
Til að auka líkur á afrakstri fornleifakannanna hér á landi er nauðsynlegt að skapa sameiginlegan (vinsamlegan) vettvang fræðimanna og áhugafólks þar sem víðsýni, jákvæðni og skilningur ræður ríkjum.
Spurningin er hvort minjarnar á meðfylgjandi mynd, sem var tekin í ljósaskiptunum, gæti gefið til kynna hugsanlegan hvílustað þræla þeirra er Egill átti að hafa drepið eftir að hafa komið silfursjóð sínum fyrir á „öruggum“ stað? Stærðin gefur a.m.k. vísbendingu um tvöfalt mannvistarrými.
Frábært veður – sem og útsýni og hljómlist kvöldkyrrðarinnar.

Mos

Kýrgil

Einhverjum gæti þótt sveitarfélagsmerki Mosfellsbæjar tvírætt; tákn á annarri hlið ensks silfurpeningis frá 10. öld. Hvers vegna var ekki notað táknið á hinni hliðinni? Þessi spurning gæti þess vegna verið myndlíking margra annarra sambærilegra er vaknað gætu um sama efni – silfur Egils.

Mosfellsbær

Mosfellsbær.

Í 88. kafla Egilssögu segir að „Egill Skalla-Grímsson varð maður gamall, en í elli hans gerðist hann þungfær, og glapnaði honum bæði heyrn og sýn. Hann gerðist og fótstirður. Egill var þá að Mosfelli með Grími og Þórdísi.
Það var einn dag, er Egill gekk úti með vegg og drap fæti [hrasaði] og féll. Konur nokkrar sáu það og hlógu að og mæltu: „Farinn [þrotinn að kröftum] ertu nú Egill, með öllu, er þú fellur einn saman.“
Egill varð með öllu sjónlaus. Það var einhvern dag, er veður var kalt um veturinn, að Egill fór til elds að verma sig. Matseljan ræddi um, að það var undur mikið, slíkur maður sem Egill hafði verið, að hann skyldi liggja fyrir fótum þeim, svo að þær mætti eigi vinna verk sín.
Það var enn eitt sinn, er Egill gekk til elds að verma sig, þá spurði maður hann, hvort honum væri kalt á fótum, og bað hann eigi rétta of nær eldinum.
Það var um sumarið, er menn bjuggust til þingas, þá beiddi Egill Grím að ríða til þings með honum. Grímur tók því seinlega [dræmt]. Og er þau Grímur og Þórdís töluðust við, þá sagði Grímur henni, hvers Egill hafði beitt. „Vil ég, að þú forvitnist, hvað undir mun búa bæn þessari.“
Þórdís gekk til máls við Egil, frænda sinn. Var þá mest gaman Egils að ræða við hana. Og er hún hitti hann, þá spurði hún: „Er það satt, frændi, er [að] þú vilt til þings ríða? Vildi ég, að þú segðir mér, hvað væri í ráðagerð þinni.“
„Ég skal segja þér,“ kvað hann, „hvað ég hefi hugsað. Ég ætla að hafa til þings með mér kistur þær tvær, er Aðalsteinn konungur gaf mér, er hvor tveggja er full af ensku silfri. Ætla ég að láta bera kisturnar til Lögbergs, þá er þar er fjölmennast. Síðan ætla ég að sá silfrinu, og þykir mér undarlegt, ef allir skipta vel sín á milli. Ætla ég, að þar myndi vera þá hrundingur [ryskingar] eða pústrar [löðrungar] eða bærist að um síðir [kæmi til þess að lokum] að allur þingheimurinn berðist.“
Þórdís segir: „Þetta þykir mér þjóðráð, og mun uppi, meðan landið er byggt.“
Síðan gekk Þórdís til tals við Grím og sagði honum ráðagerð Egils.
„Það skal aldrei verða, að hann komi þessu fram, svo miklum firnum.“
Og er Egill kom á ræður við Grím um þingferðina, þá taldi Grímur það allt af, og sat Egill heima um þingið. Eigi líkaði honum það vel. Var hann heldur ófrýnn.
Að Mosfelli var höfð selför [haft í seli] og var Þórdís í seli um þingið. Það var eitt kveld, þá er menn bjuggust til rekkna að Mosfelli, að Egill kallaði til sín þræla tvo, er Grímur átti. Hann bað þá taka sér hest – „vil ég fara til laugar.“ Og er Egill var búinn, gekk hann út og hafði með sér silfurkistur sínar. Hann steig á hest, fór síðan ofan eftir túninu fyrir brekku þá, er þar verður, er menn sú síðast.
En um morguninn, er menn risu upp, þá sáu þeir, að Egill hvarflaði á holtinu fyrir austan garð og leiddi eftir sér hestinn. Fara þeir þá til hans og fluttu hann heim.
En hvorki kom aftur síðan þrælarnir né kisturnar, og eru þar margar gátur á, hvar Egill hafði fólgið fé sitt.
Silfur Egils
Fyrir austan garð að Mosfelli gengur gil ofan úr fjalli, en það hefir orðið þar til að merkja [vísbendingar], að í bráðaþeyjum [asahláku] er þar vatnfall mikið, en eftir það er vötnin hafa fram fallið, hafa fundizt í gilinu enskir peningar. [Skv. þessu hefur þegar verið farið að finnast af silfri Egils fyrir miðja 13. öld. Heimild er til frá öndverðri 18. öld um, að enskir silfurpeningar hafi fundist hjá Mosfelli eftir vatnavexti. Virðist áletrun þeirra hafa bent til Ólafs Skotakonungs. Sjá Kristján Eldjárn: Gengið á reka, Akureyri 1948, bls. 96-196]. Geta sumir menn þess, að Egill muni þar féð hafa fólgið. Fyrir neðan tún að Mosfelli eru fen stór og furðulega djúp. Hafa það margir fyrir satt, að Egill muni þar hafa kastað í fé sínu. Fyrir sunnan ána eru laugar og þar skammt frá jarðholur stórar, og geta þess sumir, að Egill mundi þar hafa fólgið fé sitt, því að þangað er oftlega sénn [séður] haugaeldur. Egill sagði, að hann hefði drepið þræla Gríms, og svo það, að hann hafði fé sitt fólgið, en það sagði hann engum manni, hvar hann hefði fólgið.
Egill tók sótt eftir um haustið, þá er hann leiddi til bana. En er hann var andaður, þá lét Grímur færa Egil í klæði góð. Síðan lét hann fytja hann ofan í Tjaldanes og gera þar haug, og var Egill þar í lagður og vopn hans og klæði.“
Í 89. kafla sögunnar segir að „Grímur að Mosfelli var skírður, þá er kristni var í lög leidd á Íslandi. Hann lét þar kirkju gera. En það er sögn manna, að Þórdísi hafi látið flytja Egil til kirkju, og er það til jarðtegna að síðan er kirkja var ger að Mosfelli, en ofan tekin að Hrísbrú sú kirkja, er Grímur hafði gera látið, þá var þar grafinn kirkjugarður. En undir altarisstaðnum, þá fundust mannabein. Þau voru miklu meiri en annrarra manna bein. Þykjast menn vita að sögn gamalla manna, að mundi verið hafa bein Egils.
Þar var þá Skafti prestur Þórarinsson [var uppi á fyrri hluta 12. aldar], vitur maður. Hann tók upp hausinn Egils og setti á kirkjugarðinn. Var hausinn undarlega mikill, en hitt þótti meir frá líkindum [með meiri ólíkindum], hve þungur var. Hausinn var allur báróttur utan svo sem hörpuskel. Þá vildi Skafti forvitnast um þykkleik haussins. Tók hann þá handöxi vel mikla og reiddi annarri hendi sem harðast og laust hamrinum [skalli á öxi] á hausinn og vildi brjóta, en þar sem á kom, hvítnaði hann, en ekki dalaði [dældaðist] né sprakk, og má af slíku marka, að haus sá mundi ekki auðskaddur [auðskemmdur] fyrir höggum smámennis, meðan svörður [hársvörður] og hold fylgdi. Bein Egils voru lögð niður í utanverðum kirkjugarði að Mosfelli.“
Faðir Egils, Skallagrímur Kveldúlfsson, var norskur. Hann kom til Íslands nokkru fyrir aldamótin 900. Skallagrímur fæddist árið 863 og ólst upp á bæ föður síns og Salbjargar, konu hans, í Firðafylki í Noregi. Átti Skallagrímur einn bróður, Þórólf, sem er talinn vera 5 árum eldri.
Skallagrímur var ljótur maður, dökkur á brún og brá, berserkur mikill og skáld. Eiginlega hét hann bara Grímur en þegar hann var hálfþrítugur að aldri var hann orðinn nauðasköllóttur og fékk því viðurnefni sitt. Undir nafninu Skalla-Grímur er hann þekktastur. Þau eignuðust synina Þórólf (f. 900) og Egil (f. 910) en á milli þeirra eru dæturnar Sæunn og Þórunn. Auk þess átti Egill eina fóstursystur, Ásgerði.
Á fyrstu uppvaxtarárum Egils kemur það strax í ljós að honum muni svipa mikið til föður síns, þ.e. verða mjög ljótur, svartur á hár, dökkur yfirlitum en mjög öflugur að vígi og geysilega sterkur. En annað var með bróður hans sem var mjög myndarlegur og mikill „glansgæi“ og allstaðar velkominn. Snemma kemur upp öfund Egils í garð Þórólfs.
Þegar Egill er 17 ára fer hann í sína fyrstu utanferð með Þórólfi, bróður sínum, eftir þónokkrar erjur við bróður sinn og föður. Egill og Þórólfur verða mjög nánir á ferðalögum sínum og tekst með þeim mikill bróðurkærleikur. Það verður honum því mikill missir þegar Þórólfur deyr í fyrrnefndri orrustu Aðalsteins konungs við smákonunga á Bretlandi.
Í Egilssögu er sagt frá því, er að framan greinir, að Egill Skallagrímsson hafi eytt síðustu æviárum sínum í Mosfellsdal en talið er að hann hafi látist um árið 990.
Til eru ýmsar kenningar um fyrirkomleika silfursjóðs Egils. Telja verður ólíklegt að Egill hafi leikið sér að því að koma honum fyrir á stað, sem hann hefði ekki getað nálgast hann aftur, s.s. í heitri laug eða hyldjúpu dýi. Þá er gilið líklegri staður, enda hafa þar fundist enskir silfurpeningar eftir leysingar.
Annar möguleiki er sá að þrælarnir, væntanlega fullfrískir og burðarlegir, hafi einfaldlega látið sig hverfa með kisturnar tvær, enda Egill þá aldraður bæði orðinn sjóndapur og fótafúinn. Eflaust hefur þrælanna verið leitað, enda gætu þeir verið vísbending um felustaðinn, en hvergi er getið um að leifar þeirra hefðu fundist. Ólíklegt má telja að gamli maðurinn, heilsulaus og verkfæralaus, hafi haft tök á því að dysja þá eða hylja svo gjörsamlega.
Líkleg skýring á ástæðu þess að Egill hafi viljað grafa sjóð sinn er sú að eigandinn hafi trúað því að ef sjóðinum yrði komið í jörðina fyrir dauða sinn myndu fjármunirnir nýtast honum í öðru lífi. Einnig gæti skýringin verið sú að honum hafi sárnað skyndilega og því ekki viljað að þau sem ollu því fengju að njóta verðmætanna. Fleiri skýringar koma og til greina.
Bjarki Bjarnason í Mosfellsdal segir þetta vera flókið mál sem hann hafi hugsað mikið um. „Fyrsta spurningin er: Hvar stóð Mosfellsbærinn á dögum Eglis? Stóð hann þar sem Hrísbrú er núna? Þar hafa fundist leifar af kirkju. Gilið næst Hrísbrú hefur verið kallað Bæjargil, gilið hjá kirkjunni heitir Kirkjugil en gilið vestan við mig heitir Kýrgil.“
Í bókinni „Gengið á reka“ – tólf fornleifaþættir, eftir Kristján Eldjárn er einn þátturinn um „Kistur Aðalsteins konungs. Þar segir að „tveir íslenskir bóndasynir, Þórólfur Skallagrímsson frá Bogr og Egill bróðir hans, þá um það bil 27 ára að aldri“, hafi verið með „Aðalsteini Játvarðssyni Englakonungi er hann háði stórorustu sína við Ólaf kvaran Sigtryggsson og bandamenn hans við Brunnanburg eða Vínheiði, eins og sá staður er kallaður í Egils sögu“. Þórólfur féll í orustunni. Þetta gerðist árið 937. [Fimm skoskir konungar í blóma lífsins og sjö jarlar lágu í valnum. Aðalsteinn, eða Athelstan of Wessex, innleiddi Northumbria í ríki sitt og stýrði sameinuðu Englandi til dauðadags 27. október 939, eða tveimur árum eftir atburðina á Vínheiði.]
„Aðalsteinn efni til mikillar veislu eftir sigurinn á Vínheiði.“ Egill settist þar niður, brúnaþungur mjög. Konungur „tók gullhring af hendi sér, mikinn og góðan og dró á blóðrefilinn, stóð upp og gekk á gólfið og rétti yfir eldinn til Egils. Egill stóð upp og brá sverðinu í bug hringnum og dró að sér, gekk aftur til rúms síns; konungur settist í hásæti…
Eftir það lét konungur bera inn kistur tvær; báru tveir menn hvora; voru báðar fullar af silfri. Konungur mælti: „Kistur þessar, Egill, skaltu hafa, og ef þú kemur til Íslands, skaltu færa þetta fé föður þínum; í sonargjöld sendi ég honum; en sumu fé skaltu skipta með frændum ykkar Þórólfs, þeim er þér þykja ágætastir“.
„Á þennan hátt komust silfurkistur Aðalsteins konungs til Íslands. En það var Egill, sem tók silfrið undir sig einan og sýndi aldrei neinn lit á að skipta því, hvorki við föður sinn né aðra menn. ekki kallaði Skallagrímur heldur eftir fénu, fyrr en hann fann feigð á sér og fór að hugsa til að grafa fémuni sína í jörðu, en þann sið virðast Mýramenn hafa haft, rétt eins og menn gera erfðaskrá sína nú á dögum. Ekki vildi Egill lausar láta kisturnar, enda var Skallagrímur ekki blankari en svo, að kvöldið fyrir dauða sinn gat hann lagt inn í Krumskeldu kistu vel mikla og eirketil, hvort tveggja fullt af silfri.“
Egill „mun vera fégjarnasta skáld, sem uppi hefur verið á Íslandi, og mundu hafa orðið illt verk að deila við hann skáldastyrk, ef sú hefði verið öldin á hans dögum. Í sögu hans eru raktar fjáröflunarferðir hans víða um lönd, enda varð hann stórauðugur…
En ást þá, er Egill hafði haft á Þórólfi, lagði hann að nokkru leyti á silfurkisturnar, bróðurgjöldin. Þeirra gætti hann með afbrýðissemi og tortryggni og hafði jafnan með sér á ferðum sínum. Er engu líkara en hann hafi snemma ætlað sér eitthvað sérstakt með þetta silfur, að það skyldi koma eftirminnilega við sögu hans, lífs og liðins. Það voru þessir peningar, sem hann ætlaði að sá um Þingvöll í þeirri von, að þar mundu verða hrindingar eða pústrar eða jafnvel að allur þingheimur berðist.“ [Einnig gæti Egill hafa viljað varðveita sjóðin til minningar um atburðina á Vínheiði sem og samvista hans við Aðalstein Englakonung, sem dó einungis tveimur árum eftir að hann gaf frá sér sjóðinn].
Frásögnin um hvað varð um silfur Egils „sýnir, að fólki í Mosfellssveit hefur snemma orðið skrafdrjúgt um silfur Egils og jafnvel gert skipulegar tilraunir til að finna það. Mikið má það vera, ef sá hefur verið margur þar í sveit, er saklaus sé af því að hafa einhvern tíma dreymt stóra drauma um að finna þetta silfur, enda þóttust menn sjá loga upp af því fram á 19. öld. Og munnmæli herma, að ekki hafi allir verið jafnóheppnir, eins og eftirfarandi saga sýnir: „Þverárkot heitir bær einn í Mosfellssókn. hann stendur norðanvert við Leirvogsá, á bak við Mosfell austanhallt, sunnan undir Esjunni, skammt vestar en Svínaskarð er. Einn góðan veðurdag um vorið fór Þverárkotsbóndinn og fólk hans til kirkju að Mosfelli. En kirkjuvegur frá Þverárholti liggur um austanhallann á Mosfelli og yfir Kýrgil ofarlega. Þegar að gilinu kom, veik bóndi sér lítið eitt upp með því til að gegna nauðsynjum sínum, en fólkið hélt áfram götuna. Þegar bóndi náði því, varð vinnumaður hans þess var, að hann var moldugur á handleggnum, og spurði, hví svo væri. Bóndi svaraði fáu og vildi ekkert um það tala: féll þetta svo niður. Heim varð bóndi samferða fólki sínu og gekk til rekkju um kvöldið eins og aðrir. En um nóttina á hann að hafa leynzt einsamall frá bænum og komið afur með morgninum. Segja menn, að hann hafi fundið peningana í kirkjuferðinni, en sótt þá og komið þeim undan um nóttina. Átti bóndi þessi síðan að hafa skipt silfri þessu við Jón Ólafsson ríka í Síðumúla fyrir gjaldgenga peninga. Er sagt, að bóndi hafi á fám árum orðið ríkur í Þverárkoti, og á því er peningafundurinn helzt byggður.“
Þessi saga er í venjumegum þjóðsagnarstíl, og skal ekki fjölyrða um hana. En hún sýnir, hvert hugurinn stefndi. Séra Magnús Grímsson, þjóðsagnasafnarinn, sem prestur var að Mosfelli 1855-60, hafði hins vegar fræðimannlegan áhuga á þessu efni og hugsaði mikið um, hvar Egill hefði fólkið fé sitt…
Hér skal sagt frá smáatviki, sem styður fastlega allt í senn, að Egill hafi átt enskt silfur, að hann hafi grafið það í jörð á Mosfelli og að eitthvað af þessu silfri kunni að hafa fundizt þar í gili.
Ritari Árna Magnússonar, Jón Ólafsson frá Grunnavík, hefur látið eftir sig rit um fornleifar, og þar er að finna eftirfarandi frásögn um silfrið á Mosfelli: „Erlendur sýslumaður, bróðir minn, þá hann var ungur þénari Erlendar Magnússonar, skólameistara í Skálholti, hefur sagt mér, að hér um annó 1725 hafi í vatnavöxtum spýtt fram nokkrum þeim silfurpeningum svo fundizt hafi hé rum þrír, og hafi hann á nefndum tíma séð einn þeirra að vísu. Sagði hann peningur sá hefði verið á stærð sem tískildingur heill vorra tíma og hefði staðið á honum nokkuð krasslegt og ómerkilegt letur, kannske ANSLAFR eða þvílíkt með fleiri bókstöfum“. Þessir peningar, sem um er að ræða, fundust á Mosfelli og voru taldir vera úr kistum Egils. Jóni hefur þótt fundurinn merkilegur, því að hann getur hans einnig í öðru riti.
Peningur sá, er hér um ræðir, hefur verið sleginn fyrir Ólaf kvaran Sigtryggsson, líklega árið 937, árið sem Egill barðist á Vínheiði. Sigtryggur faðir hans hafði verið konungur í Dyflinni á Íralndi, en flúið þaðan árið 920. Hann dó árið 926 eða 927. Ólafur flýði til Írlands eftir ósigurinn fyrir Aðalsteini, eins og fyrr segir. Hann var óþreytandi að gera peninga. Jafnskjótt og hann hafðináð einhverjum lítils háttar völdum, lét hann myntara taka til peningagerðar. Fundist hafa á Bretlandseyjum margir silfurpeningar hans, er hann lét slá á Englandi, og bera þeir þrenns konar áletranir, sem hver samsvarar séstöku tímabili ís tjórn hans. Á hinum elztu stendur ANLAF CVNVNC, en hinum yngri ANLAF REX (TIUS) B(RITANNAIAE), þ.e. Ólafur konungur alls Bretlands, og ONLAF REX. Telst myntfræðingum svo til, að seinasta gerðin muni vera frá ca. 948-52, önnur frá 941-44, en hin elzta, sem ber norræna nafnið cvnvnc, þ.e. konungur, frá þeim örskamma tíma, er Ólafur sat í Jórvík fyrir orsutuna við Brunanburg 937, ellegar 926 eða 027, ef nokkur fótur væri því, að hann tæki Jórvík þá. Þó hallast enskir myntfræðingar yfirleitt að því, að peningarnir með ANLAF CVNVNC séu slegnir í Jórvík 937.
Líkindin eru svo mikil, að jafngildir fullri sönnun. Á 18. öld var myntsaga víkinganna á Englandi lítt sem ekki kunn, og hvorki Jón Grunnvíkingur né nokkur annar Íslendingur gat þá haft hugmynd um, að Ólafur kvaran hefði látið slá mynt á Rngalndi, og enn síður vissu þeir, að Ólafs nafn var Anlaf fyrir vestan haf, og loks gat þeim ekki komið til hugar að blanda Ólafi kvaran í þetta mál, því að þeir vissu ekki, að Ólafur rauði Skotakonungur, sem sagan kallar svo, væri í rauninni Ólafur kvaran… Það var handhægt fyrir Aðalstein að greiða Agli bróðurgjöldin með þessu nýfengna, hertekna silfri. Að líkindum hefur konungi verið Ólafssilfrið útfalara en silfur það, sem slegið var fyrir sjálfan hann, lögmæt ríkismynt með nafni hans. Ef til vill hefur höfðingsskapur hans gagnvart hinum erlenda sveitamanni ekki verið eins heiður og kistustærðin benti til.
Mörgum mun eflaust sýnast, að Ólafspeningurinn frá Mosfelli sanni, að sagan um silfurkistur Aðalsteins konungs og Egil Skallagrímsson sé sönn, hafi gerzt í raun og veru, eins og sagan segir.
Mörgum hefur ekki auðnazt að komast til meiri þroska en það, að þeim finnst sagan önnur og ómerkari, ef hún er skki sönn. Og þeim er vorkunn.“
Allt frá bernsku var Egill mikill ofsamaður. Hann vildi ekki láta segja sér fyrir verkum eins og kemur mjög vel fram þegar Skalla-Grímur, faðir Egils, drap ambáttina Brák, sem var í uppáhaldi hjá Agli. Egill tók þessu afar illa og gekk svo langt að drepa besta vin föður síns, sem jafnframt var húskarl hans.
Snemma koma skáldeiginleikar Egils í ljós og ljóðin og braghendingar hans voru eitt helsta tæki hans til tjáningar. Hvor Egill hafi verið tilfinningaskertur eða ekki verður seint eða aldrei vitað. Vísir að tilfinningum í garð kvenna kom ekki í ljós fyrr en Egill var kominn á þrítugsaldurinn. Þá giftist Þórólfur, bróðir Egils, Ásgerði, sem Egill hafði þekkt í fjölda ára og var mjög hrifinn af.
Egill var berserkur sem þýðir að hann komst í trylltan bardagaham þegar mest á reyndi. Þessi karlmannlegi eiginleiki Egils fylgir honum allt til dauðadags og er hann einmitt einna frægastur fyrir líkamlegt atgervi sitt, sem og bragsnilli sína.
Sem gott dæmi um hversu mikill víkingur hann var er að hann taldi víkingaferð ekki vel heppnaða nema hann næði í fúlgu fjár og dræpi sem flesta.
Það einkennir persónu Egils alla hans ævi hversu fégráðugur og lítt gjafmildur hann er. Hann reynir ávallt af fremsta megni að krækja í þá aura sem hann mögulega getur náð í, hvort sem hann eignast þá á heiðarlegan hátt eða með drápum og svikum.
Í 88. kafla Egils sögu segir að „En um morguninn, er menn risu upp, þá sáu þeir, að Egill hvarflaði á holtinu fyrir austan garð og leiddi eftir sér hestinn; fara þeir þá til hans og fluttu hann heim.
En hvorki kom aftur síðan þrælarnir né kisturnar, og eru þar margar gátur á, hvar Egill hafi fólgið fé sitt. Fyrir austan garð að Mosfelli gengur gil ofan úr fjalli; en það hefir orðið þar til merkja, að í bráðaþeyjum er þar vatnfall mikið, en eftir það er vötnin hafa fram fallið, hafa fundist í gilinu enskir peningar; geta sumir menn þess, að Egill muni þar féð hafa fólgið.“
Gilið „austan garðs að Mosfelli“ er Kýrgilið. Það ku geta leikið illum látum í leysingum. Það er því eðlilegt að athygli fólks, sem leitar silfur Egils, beinist þangað. En það að Egill „hvarflaði á holtinu fyrir austan garð“ segir ekkert um að hann hafi falið sjóð sinn í gilinu. Þar er um hreina ágiskun manna að ræða. Peningafundir í „gilinu“ hafa ýtt undir hana.
Ljóst má vera að Egill hefur falið silfurkistur sínar. Ef þrælarnir hefðu stungið af með þær hefði það haft sögulegan eftirmála, líkt og varð með þræla Hjörleifs. Egill hefur líklegast komið þeim fyrir, a.m.k. tímabundið, innan seilingar frá Hrísbrú. Svo kærkominn var honum sjóðurinn og svo vandlega hafði hann gætt hans að hann hefur áreiðanlega ekki viljað gefa hann frá sér með öllu. Egill þekkti gilin og vissi hvernig þau létu.
Gilin í sunnanverðu Mosfelli eru sárindi bólstrabergs og móbergs. Barmar þeirra eru smámulningur bólstra- og brotabergs. Fallegar klettamyndanir eru í þeim, en fáir aðgengilegir felustaðir. Ofan giljanna er berangur og melar. Í efstu hlíðum eru mosar og stærra grjót á köflum.
Grónasta gilið er Kýrgil. Fallegir hvammar og gróningar eru með því svo til upp á fjallsenda. Á austurbarmi þess mótar fyrir a.m.k. tveimur litlum tóftum eða öðrum torráðnum mannvirkjum. Auðvelt er að fara með hest upp með gilinu, allt til enda.
FERLIR hefur kannað aðstæður á og við Mosfell. Til að ganga úr skugga um og kanna einn líklegasta staðinn nálægt Mosfelli verður ekki hjá því komist að halda inn í umrætt gil – og þá enn lengra upp með því.

Heimild:
-Egilssaga – Skálholt 1967, bls. 349-354.
-Kristján Eldjárn – Gengið á reka – Kistur Aðalsteins konungs – 1948, bls. 97 – 106.
-http://www.fva.is/harpa/forn/egils/person/aevi.html
-Mbl.is – 22. nóvember 2000 –  Tilvísun í silfur Egils.

Fornleifauppgröftur

Mosfell

Guðmundur Ólafsson, fornleifafræðingur, benti FERLIR á athyglisverðar mannvistarleifar á mosagrónum jökulsruðningsmel vestan í Skógarbringum, skammt austan Mosfells. Um er að ræða bátslaga (egglaga) hleðslur á melnum. Hann hafði fyrst skoðað þetta „fyrirbæri“ á níunda áratug síðustu aldar.

Mosfell

Bátslag.

Lengd og breidd mannvirkisins var ekki mælt að þessu sinni, en innanmálið gæti verið 8×16 metrar.
Útlínur eru markaðar með svipuðum stærð af viðráðanlegum steinum, að öllu líkindum úr holtinu og/eða lækjarfarvegi, sem þar er skammt austar. U.þ.b. meter er milli steina að jafnaði. Grjótið er sokkið að 1/3 í smámalarjarðveginn. „Stefnið“ snýr í vestur. Skuturinn hefur ekki „víkingaskipalag“, heldur mun frekar „nútímabátalag“.
Spurningin er – hversu gamalt gæti fyrirbærið verið? Er það mjög fornt, eins og sumir vilja ætla, eða er það tiltölulega nýlegt?
Hafa ber í huga að herinn var með umfangsmikla starfsemi á nálægum slóðum á stríðsárunum.
Hvað ætli þessi jafnlagða hleðsla að tákna? Í Svíþjóð og Danmörku eru hliðstæðir staðir þekktir frá víkingatímanum þar sem steinar hafa verið reistir í bátslaga líki. Hér liggja þeir á jörðu, miklu, miklu mun smærri. Ekki er að sjá nein ummerki um rót eða upphækkun í miðju verksins.
Hvenær gæti hleðslan hafa verið gerð? Líklega á síðustu öld. Einhverjir, sem skoðað hafa hana gætu andmælt og borið til vitnis aðrar meintar reglulegar hleðslur í holtinu, en engin þeirra er sannanlega af mannavöldum. Meira að segja regluleg steinaröð norðan þessa gæti annað hvort verið gerð í öðrum tilgangi, s.s. vegna leiðar, eða myndast þar af tilviljun.
Þegar umhverfið er skoðað koma í ljós myndarlegar grastorfur norðaustan og austan við steinauppröðunina. Af þeim má lesa hvernig landið leit út fyrrum; vel gróið og grænt (á sumrum). Víðir er að reyna á ný að teygja anga sína upp á við og lyngið er áberandi berjavænt. Þarna hafa því áður verið skjólsælar brekkur, enda ekki heitir Skógarbringur af engu. Hleðslan hefur því ekki verið gerð á grónu landinu því þá væri hún miklu mun óreglulegri. Þegar steini í henni er velt má sjá mosaleifar undir. Það bendir til nútímatilbúnings.
Hver gæti hafa búið þetta til? Í rauninni hver sem er, en þegar horft er á steinlagninguna frá austri til vesturs má sjá hversu formlega hún er gerð. Listamaður eða hugsuður á einhverju sviði gætu komið til greina. Hafa ber í huga að á holti ofan (sunnan) Þingvallavegar sunnan Stardals er fjárborgarlíki. Það á að tákna stað er ákvarðar „sólarmerki“ milli Reykjavíkur, aðsetur hins fyrsta landnámsmanns, og hins fyrsta þingstaðar. Mannvirkið var hlaðið á seinni hluta 20. aldar af Tryggva Hansen, steinhleðslumanni. Í Þormóðsdal (heitir reyndar Seljadalur Innri) er hringlaga steinahleðsla lík þessari. Sumir hafa áætlað að þær væri Þormóðsleiði þess er getið er um í sögnum, en skv. þeim átti það að vera skammt sunnan bæjar. Það mun nú komið undir veginn upp í grjótnámurnar sunnan í Grímarsfelli.
Hvers vegna skyldi einhverjum hafa dottið í hug að búa þetta til þarna? Það er spurninginn, þ.e. hver, hvers vegna og í hvaða tilgangi.
Fróðlegt væri að fá upplýsingar um „listamanninn“ sem og tilganginn fyrir framangreindri bátlagamyndalíkandlegri hleðslu á austanverðum mel Mosfells.
Ef einhver gæti búið yfir hinni minnstu vitneskju um „listaverkið“ er hann vinsamlegast beðinn að hafa samband við ferlir@ferlir.is.

Heimild:
-Guðmundur Ólafsson.

Mosfell

Mosfell – bátslag.

Mosfell
Í 990. för FERLIRs (2006) var haldið á austanvert Mosfell í norðanverðum Mosfellsdal.
Mosfell er kirkjustaður og prestssetur í Mosfellsdal undir samnefndu fjalli. Um árið 1000 bjó söguhetjan Egill Skalla-Mosfells og KirkjugilGrímsson á Mosfelli í elli sinni og var jarðsettur í dalnum. Egilsdys við Leirvogsá mun hafa varðveitt bein hans uns þau voru færð undir kirkjugólfið í nýrri kirkju á Hrísbrú (Mosfelli), sem nú er reyndar orðin að hinni fornu kirkju. Skömmu fyrir andlát sitt faldi Egill silfursjóð í grennd við bæinn, en hann hefur aldrei fundist. Fyrst var reist kirkja að Mosfelli á 12. öld, en núverandi kirkja var vígð árið 1965, teiknuð af Ragnari Emilssyni arkitekt.
Gengið var upp með austanverðu Kýrgili austan við Brekkukot. Líkt og um svo mörg önnur lítil gil hefur ekkert verið skrifað, þrátt fyrir lángan aldur. Um gilið rennur ljúfur lækur. Venjulega enda lækir í öðrum stærri, ám, vötnum eða í sjó, en þessi litli lækur er án endimarka, umkomulaus á miðri leið. Þarna hverfur neðri endi hans niður í mölina – a.m.k. um skammar stundarsakir. Líklega er hann með því að gæta þess að tjaldsegginn skammt neðar í malarfarveiginum geti náð að klekjast út. Að því loknu mun lækurinn án efa halda för sinni áfram skv. venju og öllum viðurkenndum lögmálum. (Hér er aðeins fært í „Laxnesstílinn“, svona í tilefni staðar og stundar, en fæðingarstaður skáldsins er einungis í sjónhendingu frá gilinu).
Í Kýrgili, sem ekki lætur mikið yfir sér, eru þó fallegar stuðlabergsmyndanir, auk bólstra og annarrra bergmyndana. Litli lækurinn, sem rennur um gilið, hefður náð að áorka ótrúlega miklu á skömmum tíma, enda verður að teljast víst að á vorstundum hafi hann verið mun umfangsmeiri en nú gerðist.

Kýrgil

Gróið er í jöðrum, en ofan þeirra hafa roföflin náð að rífa upp rótina, líkt og berghismið í gilinu sjálfu. U.þ.b. miðja vegu upp í ofanverðan gilsendann eru tóftir á honum austanverðum. Báðar eru þær í skjóli fyrir austanáttinni, líkt og tóftum er svo títt á suðvestanverðu landinu. Tóftirnar eru orðnar nær jarðlægar og láta því ekki mikið yfir sér, reyndar svo lítið að reiðvegur liggur í gegnum miðja eystri tóftina. Það segir sína sögu um sjáandann. Hann hugsar venjulega um það sem stendur huga hans næst. Hjá reiðmanninum er það hesturinn og gatan. Hjá honum eru fornar tóftir varla til, nema kannski sem skjól við áfangastaði.
Svo virðist sem þessi tóft gæti hafa verið tvískipt. Syðra rýmið er vel greinilegt. Það er þó frekar lítið.
Efri, nyrðri, tóftin er greinilegri, enda ósöskuð. Hún hefur einnig haft að geyma lítið rými. Vel gróið er framan við hana og þó sérstaklega handan gilsins. Þar er þýfður túnskiki, nokkuð stór, sem nú hefur furugræðlingum verið plantað í. Líklegt má telja að þar hafi fyrrum verið góð beit.
KýrgilAf nafninu á gilinu að dæma virðist þarna hafa getað verið beitaraðstaða fyrir kýr bóndans á Mosfelli eða Minna-Mosfelli. Annað hvort hafa kýr hans verið reknar þangað að morgni að loknum mjöltum og síðan til baka síðdegis, eða þær hafi verið hafðar þarna í seli um sumarið og afurðirnar færðar til bæjar. A.m.k. hefur nægt vatn verið þarna fyrir kýrnar sumarlangt.
Leifar af hinni fyrrnefndu kirkju að Mosfelli komu nýlega í ljós við fornleifauppgröft. Mikið var fjallað um hann á sínum tíma, en Guðmundur Magnússon hafði ákveðna skoðun á þeirri opinberun. M.a. lýsti hann henni með eftirfarandi orðum: „Ekki er víst að allir taki undir með fornleifafræðingunum sem grafið hafa upp leifar þúsund ára gamallar kirkju í Mosfellsdal og halda því fram að hún sé „einstaklega vel varðveitt“.
Sannleikurinn er sá að það þarf bæði ímyndunarafl og þekkingu á fornri byggingararfleifð, sem ekki öllum er gefin, til að sjá fyrir sér kirkju þar sem nú er grjót og fátæklegar timburleifar. Það hjálpar þó að greinilega má sjá útlínur kirkjunnar í grunninum og þannig átta sig á flatarmáli hennar. Stoðholur veita ennfremur vísbendingar um Kýrgilbyggingartækni.
En við Íslendingar erum líklega orðnir nægjusamir þegar fornleifafræði á í hlut. Við vitum að varðveisluskilyrði minja eru ekki góð hér á landi vegna veðurfars og jarðvegs. Við erum fyrir löngu hættir að bíða eftir því að upp úr jörðinni komi gersemar sem við getum flaggað í viðhafnarskápum í Þjóðminjasafninu. Líklega er hið eina sem þjóðin biður um og vonast eftir – þótt ekki fari það alltaf hátt eða sé opinberlega viðurkennt – að í moldinni sem fornleifafræðingarnir róta í með teskeiðum sínum leynist nýjar sannanir fyrir því að kappar og kvenskörungar fornbókmenntanna hafi verið af holdi og blóði; verið raunverulegar persónur. Óhætt er að segja að fæstir fornleifafræðingar hafi nú orðið sterka trú á víðtækri leiðsögn fornritanna við rannsóknir á leifum frá fyrri öldum. Aftur á móti eru þeir nógu þjóðhollir – eða bara skynsamir – til að nefna persónur fornsagnanna til sögu þegar þeir rekja rannsóknir sínar fyrir almenningi og fjölmiðlum. Þannig hafa skáldið Egill Skallagrímsson og Grímur Svertingsson komist í sviðsljósið nú þegar fundist hafa leifar kirkju frá frumkristni við merkilegar rannsóknir að Hrísbrú í Mosfellsdal. Þeir kappar eru ekki nefndir til sögu vegna þess að eitthvað nýtt sé um þá að segja á grundvelli fornleifanna heldur er hér á ferðinni meinlaus og oft bráðskemmtileg undirgrein almannatengsla, iðju sem margir þekkja frá stjórnmálaflokkum og stórfyrirtækjum.

Kýrgil.

Fyrir fræðimenn eru upplýsingar um byggingarform fornra mannvirkja, sjúkdóma, mataræði og hæð fólks, sem bein hafa fundist af, eða vísbendingar um lifnaðarhætti sem lesnar verða úr jarðvegi og dýraleifum, nægileg réttlæting og hvati rannsókna. Þeim verður iðulega heitt í hamsi og komast í uppnám út af leifum og gripum sem almenningur getur ekki lesið glóru í eða tengt frásögnum á fornum bókum. Fræðimönnum finnast nafnlausar minjar ekkert síður merkilegar en hinar sem hefðin og þjóðtrúin setur nafnspjöld á. Þetta gap á milli fræðimanna og almennings er eðlilegt og óhjákvæmilegt og þekkist í einni eða annarri mynd í öllum vísindum.  Fornleifafræðingar, sem unnið hafa við rannsóknir á Íslandi, eiga hrós skilið fyrir að hafa mörgum öðrum fræðimönnum okkar fremur lagt sig í framkróka um að miðla rannsóknum sínum, hugmyndum og kenningum til almennings. Það hafa þeir einkum gert á vettvangi fornleifauppgrafta með leiðsögn, fyrirlestrum og upplýsingaskiltum. Þeir hafa líka notað netið til að koma efni til almennings svo að til fyrirmyndar er.
Við Íslendingar getum verið harla glaðir þótt okkur takist ekki nema að litlu leyti að tengja fornleifar og fornbókmenntir okkar. Við þurfum í rauninni hvorki að leita né finna hetjur og kappa sagnanna í moldinni og getum einbeitt okkur að hversdagslegri minjum sem ekki eru síður mikilvægar til skilnings á sögu genginna kynslóða. Sannleikurinn er nefnilega sá að þótt gaman væri að finna höfuðkúpu Egils Skallagrímssonar í kirkjugarðinum að Mosfelli eða Hrísbrú eru margfalt meiri verðmæti falin í „Höfuðlausn“ hans í „Egils sögu“. Við þurfum ekki að fara yfir bæjarlækinn til að sækja vatnið.“
Í frétt í Mosfellingi 2005 kom þetta m.a. fram um framangreindan fornleifafund með fyrir sögninni „Stórmerkur Bólstrifornleifafundur“: „Nú virðist ljóst að enn einn stórmerkur fornleifafundur hefur átt sér stað á Hrísbrú. Rétt í þann mund er fornleifafræðingarnir voru að ganga frá rústunum eftir vinnuna í sumar komu þeir niður á stólpa, veggi og gólf sem benda til þess að á staðnum hafi verið mjög stór bygging eða skáli.Allt er þetta einstaklega heillegt og án vafa einn merkasti fornleifafundur seinni tíma.
„Þetta er gersemi sem að maður hefði aldrei ímyndað sér að hefði varðveist svo vel“, sagði Jesse Byock fornleifafræðingur sem stýrt hefur rannsóknunum á Hrísbrú undanfarin ár.“
Á bls. 12 í blaðinu er síðan ýtarlegt viðtal við Jesse um fornleifauppgröftinn á Hrísbrú undanfarin sumur.
Eftir standa vangaveltur um tóftirnar við Kýrgil, sem gætu jafnvel reynst eldri en þær fornleifar, sem hér hefur verið sagt frá. Þær hafa þó þann annmarka að tengjast ekki sögufrægri persónu eða stað, sem áður hefur verið skrifað um og lesa má um í fornbókmenntum vorum. Þær eru þó allavega og áreiðanlega hluti af menningarafleifð svæðisins og sem slíkar eining búsetulegrar heildar þess. Og hvort sýnilegar bókmenntaafurðir mannanna séu sýnu merkilegri en önnur verk þeirra verður hver og einn að dæma um fyrir sig.
Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-http://66.249.93.104/search
-Mosfellingur – 10. tbl. 4. árg. föstudagur 19. ágúst 2005.

Mosfellskirkja

Mosfellskirkja.

Hrísbrú

Undanfarin ár hefur farið fram fornleifauppgröftur á Hrísbrú undir Mosfelli í Mosfellsdal (landnámi Ingólfs). Rannsóknin hefur m.a. verið styrkt af tímabundnum „Kristnitökusjóði“. Sjóðurinn hefur gefið fornleifafræðingum hér á landi örskots tækifæri til að „öskubuskast“, þ.e. dafna um stund upp úr undirmálsmennskunni.

Kýrgil

Kýrgil – neðsti hluti.

Ef ætlun hinna (greindu) stjórnmálamanna hefði verið að nota sjóðinn til að byggja upp öfluga fræðigrein er væri í stakk búin til að takast á við og ljósumumvarpa hið óþekkta í stað þess að leita staðfestingar á því sem þegar hafði verið skráð á skinn væri staða hennar í dag allt önnur en var fyrir aðeins nokkrum árum.
Fjármagn má nota til ýmissa nota. Því er hægt að sóa, nýta án meðvitaðrar arðsemi, eða fá þá til baka, bæði með vöxtum og verðtryggingu. Með því að fjárfesta meðvitað og markvisst í „íslenskri“ fornleifafræði má auðveldlega uppskera dýrmætar upplýsingar er varpað gætu ljósi á annars óskýrða fortíð þjóðarinnar (og það í eiginlegri merkingu). Framtíðin byggist jú á fortíðinni – uppruna, reynslu og þekkingu. Það er því ekki verra fyrir fámenna þjóð að þekkja grundvöll sinn þegar takast þarf á við stór og mikilvæg verkefni framtíðarinnar. Þá verður og heldur aldrei horft framhjá þeirri staðreynd að menningararfurinn er og verður sá hornsteinn sem samfélagið byggir tilvist sína á hverju sinni. Grundvöllur Alþingis Íslendinga (hátindar mikilfengleikans) byggir t.a.m. á þeirri hugmyndafræði.

Tjaldanes

Tjaldanes – dys Egils Skallagrímssonar.

Þegar kristni var leidd í lög „undan feldi“ á Íslandi um árið 1000 e. Kr., bjó Grímur á Mosfelli. Um það vitnar Egilssaga. Nú væri hægt að skrifa lærða grein um tilurð og meðferð handritsins, en að því slepptu var nefndur Grímur í framhaldi af því skírður til þeirrar trúar og kirkja byggð á jörðinni. Fólk sagði að Þórdís, kona hans, hefði þá flutt bein Egils Skallagrímssonar úr dys hans í Tjaldarnesi í kirkjuna þegar hún var byggð að Hrísbrú. Ef einhverjar spurningar vakna hér um hver þessi Egill hafi verið verður sá hinn sami bara að lesa Egilssögu.
Skriða hljóp á kirkjuna, segir sagan, og ný var byggð að Mosfelli. Bein Egils voru þá tekin úr gröfinni undir kirkjugólfinu og þau flutt í utanverðan kirkjugarðinn. Sagt var að beinin og gröfin í gömlu kirkjunni hafi verið stærri en að meðaltali þótti. Taldi eldra fólk almennt að þar hefðu verið um bein Egils Skallagrímssonar að ræða. Sögunni fylgja þau munnmæli að maður sá er flutti beinin á milli kirkjunnar gömlu og grafreitsins hafi viljað merkja hvort þar gætu verið um leifar Egils að ræða. Hafi hann barið duglega í hauskúpuna en hún vart látið á sjá. Hafi það verið til staðfestingar á sannleiksgildinu. Hafa ber í huga að munnmæli mann fram af manni hafa oftar en ekki leidd til árangurs – þegar betur hefur verið að gáð.

Árið 2001 gaf fornleifarannsókn á Hrísbrú til kynna ýmislegan árangur. Hann staðfesti m.a staðsetningu kirkju á staðnum sem og kirkjugarð líkt og Egilssaga greinir frá. Kirkjubyggingin hefur verið gerð úr torfi og grjóti. Landnámsöskulagið staðfestir og tímatalið. Telja má nokkuð öruggt að hún sé frá þeim tíma er sagan greinir frá. Egill mun hafa látist háaldraður á ofanverðri 10. öld.

Hrísbrú

Hrísbrú – fornleifauppgröftur á Kirkjuhól.

Í fréttum Mbl. 2004 er grein frá því að þúsund ára gömul kirkja hafi verið grafin upp í Mosfellsdal. „Í gær varið unnið að því að grafa upp beinagrind sem legið hefur í moldinni í um þúsund ár. Kirkja sem getið er um í Egilssögu hefur verið grafin upp að bænum Hrísbrú í Mosfellsdal. Kirkjan var byggð um árið 1000, strax eftir að Íslendingar tóku kristni, með merkilegum byggingarstíl og þykir einstaklega vel varðveitt. Þar hafa einnig fundist um 20 beinagrindur.
Magnús Guðmundsson sagnfræðingur segir að talið sé að þarna sé komin kirkja sem Grímur Svertingsson byggði í kringum árið 1000 þegar kristni var tekin upp á Íslandi. Kirkjan sé ein af 6-7 kirkjum sem byggðar voru á Íslandi strax við kristnitökuna. Hún hafi verið sóknarkirkja, aðallega fyrir Mosfellsdalinn og norðanvert Kjalarnes.
Kirkjan er um fjórir metrar að lengd og þrír metrar að breidd. Dagfinn Skre, prófessor í fornleifafræði við Óslóarháskóla, segir að uppgröfturinn að Hrísbrú gefi nýjar pplýsingar um kirkjubyggingar á Norðurlöndum frá þessum tíma. Ellefu kirkjur frá sama tíma hafi verið grafnar upp í Noregi, en engin þeirra sé byggð með sömu aðferð og kirkjan að Hrísbrú.

Hrísbrú

Hrísbrú – uppgröftur.

„Margar mismunandi byggingaraðferðir voru notaðar. Í fyrsta lagi eru tréstöplar í hornunum, sem voru grafnir niður og báru uppi þakið. Síðan er biti eftir endilöngu gólfinu, með rauf sem veggþiljur voru settar í. Svona gólfbiti með þiljum hefur aldrei áður fundist í norrænum kirkjum. Það er áhugavert og mikilvægt,“ segir Skre. Steinhleðsla er innan við tréþiljurnar, sem hefur borið uppi bekk meðfram veggnum fyrir kirkjugesti. Skre segir að kórinn hafi verið skör hærra en steingólf kirkjunnar og gólf hans hafi líklega verið klætt viði. Að utan var kirkjan klædd torfi.
„Það er merkilegt að sjá hvernig þiljur voru settar í grunntré. Þetta er mjög sjaldgæft,“ segir Jesse Byock. Viðarbitarnir eru enn heilir og segir Byock að nú verði þeir þurrkaðir. Viðurinn hafi varðveist jafn vel og raun ber vitni þar sem súrefni hafi ekki komist að honum. Inntur eftir því hvort unir hafi fundist inni í kirkjunni segir Byock að lítið sé um það, en smábitar úr kopar og járni hafi þó komið í ljós.
Uppgröfturinn að Hrísnesi mun síðan halda áfram, en undir kirkjunni virðast vera leifar af landnámsbæ. Byock segir að útlit sé fyrir að eldur hafi komist í kirkjuna, viðurinn sé sums staðar
sviðinn, en engar heimildir séu þó til um bruna þar.
Krabbamein og berklar þjökuðu fólkið Þá hafa um 20 beinagrindur fundist til hliðar við kirkjuna. Sumar þeirra eru mjög vel varðveittar en aðrar ekki. „Fólk var ekki við góða heilsu á þessum tíma,“ segir Byock og bætir við að fólkið hafi náð 40-45 ára aldri og verið hrjáð af ýmsum kvillum.
„Þetta fólk bjó við erfiðar aðstæður, var greinilega vannært og sumir mjög smávaxnir. Það kemur heim og saman við hluta af heimildum sem við höfum um Ísland á fyrstu öldum Íslandsbyggðar og hvernig lífið var hér,“ segir Magnús. Hann segir að beinagrindurnar séu af smávaxnara fólki en þær beinagrindur sem grafnar hafa verið upp á Íslandi frá svipuðum tíma. Augljóst sé að sumir hafi lifað mikinn skort.

Hrísbrú

Hrísbrú – fornleifauppgröftur.

Hann segir að ein beinagrindin sé af karlmanni á þrítugsaldri sem hafi greinlega látist úr krabbameini í heila. „Þeir hafa fundið meinvörp í höfuðkúpunni sem benda til þess að hann hefur dáið kvalarfullum og óþægilegum dauðdaga. Þeir eru með fleiri heimildir, telja sig jafnvel hafa fundið vísbendingar um berkla, þetta er í kringum árið 1000, og gæti bent til þess að þetta væru fyrstu vísbendingar um berkla hér á landi,“ segir Magnús. Hann segir að Egill Skallagrímsson, sem dvaldi í Mosfellsdalnum síðustu æviár sín, hafi t.d. verið með höfuðriðu, orðinn fótkaldur og getulaus og lifað frekar slæmu lífi.
„Þó hafði hann það að mörgu leyti ágætt í horninu hérna hjá Þórdísi bróðurdóttur sinni og Grími Svertingssyni. Þau bjuggu hérna, það er talið að Egill hafi búið hérna á Mosfelli frá 974-990, um það leyti deyr hann og hann er grafinn hérna niðri í Tjaldanesi [sunnan við Hrísbrú]. Þórdís tók upp beinin og færði til kirkju sem Grímur þessi Svertingsson lét reisa hér á Mosfelli árið 1000, þegar Egilssaga segir að hann hafi tekið kristni,“ segir Magnús. Hann segir að sumir telji að býlið að Hrísbrú hafi áður heitið Mosfell, en einhverjar nafnatilfærslur hafi átt sér þarna stað.

Hrísbrú

Hrísbrú.

Samkvæmt Egilssögu var kirkjan lögð niður í kringum árið 1150 og gæti það einnig vel verið raunin varðandi kirkjuna að Hrísbrú að sögn Byock.
Egla greinir frá því að bein Egils hafi þá verið tekin upp og færð að Mosfelli, en það var skylda samkvæmt kristnirétti Grágásar að færa grafir og kirkjugarða sömuleiðis ef kirkjur voru fluttar til. Magnús segir ómögulegt að segja til um hvort bein Egils séu meðal þeirra beina sem fundist hafa í uppgreftrinum. „Það vitum við ekki. Þeir hafa að vísu fundið einhver stór og mikil bein sem voru í kassa alveg við hliðina á kirkjunni, en það verður víst seint sem við getum útkljáð það. Öll erum við jú komin af Agli og vitum ekki hvort við getum útvegað þeim einhver lífssýni og séð hvort hann sé eitthvað skyldur okkur þessi maður. Egla reyndar segir að bein Egils hafi endað í utanverðum kirkjugarði að Mosfelli,“ segir Magnús.

Ekkert bólar á silfri Egils. „Nei ekki enn þá,“ segir Byock hlæjandi, þegar hann er inntur eftir því hvort ekkert hafi fundist af silfrinu hans Egils og bætir við að það sé lítil von til þess. Magnús segir að þó silfrið hafi ekki beint komist í leitinar telji margir Mosfellingar að heita vatnið sem hafi fundist í dalnum sé í raun silfur Egils. „Í það minnsta hafi þetta heita vatn verið gulls ígildi og sjálfsagt meira virði en einn lítill silfursjóður ættaður af Englandi,“ segir Magnús.
Skre telur fulla ástæðu til að endurreisa kirkjuna að Hrísbrú og gera fólki þannig kleift að bregða sér þannig aftur í aldir. „Þetta er eitt af fáum tilfellum þar sem við höfum mikið af upplýsingum um hvers konar bygging þetta var og hvernig hún var byggð þannig að það er vel hægt að gera góða eftirlíkingu,“ segir hann og bætir við að hann vonist eftir því að yfirvöld muni hrinda slíkri
endurbyggingu í framkvæmd. Slíkt segir hann að yrði gott framlag til lífsins í Mosfellsdal við upphaf Íslandsbyggðar.

Hrísbrú

Hrísbrú – fornleifauppgröftur.

Í Mosfellspóstinum frá þessum tíma segir frá því að „Stór gröf hefur fundist í kirkjustæðinu við Hrísbrú í Mosfellsdal en gröfin var undir gólfi kórsins í kirkjunni og í henni hafa fundist leifar af timbri. Jesse Byock, sem stýrir uppgreftrinum við Hrísbrú, segir ljóst að timburleifarnar séu úr líkkistu en miðað við stærð grafsögu. Í öðru lagi benda allar lýsingar Egilssögu til þess að Egill hafi verið mun hærri en flestir samtímamenn sínir og er hann meðal annars sagður „vel í vexti og hverjum manni hærri“. Jesse er þó ekki tilbúinn að fullyrða að þarna hafi Egill legið og bendir á að ekki sé hægt að segja að allt sem standi í Egilssögu sé rétt.
Við athugun kom í ljós að líkkistan hafi verið meira en tveggja metra löng. Ýmislegt bendir til þess að þetta hafi verið gröf Egils Skallagrímssonar, þó að vitaskuld sé ekki hægt að fullyrða það. Fyrir það fyrsta er talið að gröfin sé frá því í kringum árið 1000 og ef rétt reynist fer sú tímasetning ágætlega saman við frásögn Egils en uppgröftur á svæðinu hefur staðið yfir undanfarin ár og hafa fundist um 20 beinagrindur á svæðinu, þar á meðal stór og mikil bein sem gætu verið bein Egils, þótt það sé ekki víst. Þess má þó geta að í Eglu er sagt frá því að undir altarisstaðnum í kirkjunni hafi fundist mannabein, sem „voru miklu meiri en annarra manna bein“ og segir sagan að menn hafi þóst vita að þar væru bein Egils.
Byock segir að að öðru leyti gangi rannsóknir og uppgröftur vel og í sumar hafi strúktúr og er hugsanlegt að um gröf Egils Skallagrímssonar sé að ræða. Gröfin var undir gólfi kórsins í kirkjunni og í henni hafa fundist leifar af timbri.
Hrísbrú
Jesse segir ljóst að timburleifarnar séu úr líkkistu sem þar hafi legið og miðað við stærð grafarinnar sé líkkistan sú stærsta sem fundist hafi á svæðinu. Ýmislegt bendir til þess að þetta hafi verið gröf Egils, þó að vitaskuld sé ekki hægt að fullyrða það. Fyrir það fyrsta er talið að gröfin sé frá því í kringum árið 1000 og ef rétt reynist fer sú tímasetning ágætlega saman við frásögn Egilssögu. Þar er talað um að Egill hafi verið færður úr haugi við Tjaldanes og að kirkjunni, sem var að öllum líkindum byggð skömmu eftir að Íslendingar tóku kristni. Í öðru lagi benda allar lýsingar Egilssögu til þess að Egill hafi verið mun hærri en flestir samtímamenn sínir og er hann meðal annars sagður „vel í vexti og hverjum manni hærri“. Miðað við stærð grafarinnar er talið að líkkistan hafi verið meira en tveggja metra löng.

Byock er þó ekki tilbúinn að fullyrða að þarna hafi Egill legið. „Maður getur aldrei sagt,“ segir hann og bendir á að ekki sé hægt að segja að allt sem stendur í Egilssögu sé rétt. Þegar grafarstæðið fannst kom í ljós að grafin hafði verið hola í moldina sem lá yfir gröfinni. Byock segist ekki vita af hverju holan hafi verið grafin en líklegt sé að einhver hafi viljað komast að líkkistunni. Holan var hins vegar það lítil að ekki hefði verið hægt að ná kistunni upp um hana.

Í Egilssögu er sagt frá því að Egill Skallagrímsson hafi eytt síðustu æviárum sínum í Mosfellsdal en talið er að hann hafi látist um árið 990. Hann var fyrst um sinn heygður í Tjaldanesi en Þórdís, bróðurdóttir hans, lét síðar flytja hann að kirkjunni í Mosfelli, sem Grímur Svertingsson, maður hennar, lét reisa. Engin bein fundust í grafarstæðinu, sem fannst fyrir helgi. Þá hafi verið unnið að því að grafa upp veggstæði sem fannst norðanmegin við kirkjuna. Hugmyndir eru uppi um að gera líkan að kirkjunni í fullri stærð og segir Byock að arkitektar og fleiri muni koma að þeirri vinnu. „Það er samt bara hugmynd,“ segir hann.
Þegar Byock er síðan að lokum spurður þeirrar spurningar sem Íslendingar allir vilja vita svarið við, nefnilega hvar silfur Egils sé niðurkomið, svarar hann hlæjandi: „Ég er með það í vasanum!“ Hann viðurkennir þó fljótt að silfrið sé enn ófundið og að sennilega sé lítil von til að það finnist.

Staðarnafna úr dalnum er víða getið í heimildum frá landnámsöld og í Íslendingasögunum, m.a. í Eglu, Gunnlaugssögu og Hallfreðarsögu vandræðaskálds. Að sögn Mosfellsbæjar er það nær einsdæmi í norrænum fræðum að dæmi úr Íslendingasögunum séu jafn vel staðfestanleg með fornleifaminjum og komið hefur í ljós við uppgröftinn í Mosfellsdal. Við uppgröft stafkirkju að Hrísbrú hafi til að mynda verið sannreyndar upplýsingar sem koma fram í 89. kafla Egilssögu þar sem sagt er frá kirkjunni að Hrísbrú og örlögum hennar.

Ein athyglisverðasta niðurstaða um frumbyggjana í Dalnum er hve gömul bein hafa fundist í fornum kirkjugarði við Hrísbrú. Kolefnisgreining (C-14) bendir til þess að þar séu grafnir einstaklingar sem fæddir eru einhvern tíma um eða eftir aldamótin 900. Örlög þessa einstaklinga hafa einnig verið söguleg, því bein þeirra bera ummerki bardaga og þar er líklega komin fyrsta áþreifanlega vísbending hérlendis um einstakling sem hogginn hefur verið í herðar niður.
Fornleifaverkefnið Mosfell, er alþjóðlegt rannsóknarverkefni sem nýtir sér verkfæri fræðigreina eins og sagnfræði, fornleifafræði, mannfræði, norrænufræða og umhverfisvísinda til að skapa heildstæða mynd af aðlögun landnámsmanna að náttúru og umhverfisbreytingum. Rannsóknin beinist að Mosfellsdalnum sem vistkerfi allt frá tímum víkinga. Mosfellsbær hefur styrkt verkefnið samkvæmt samningi til 3ja ára og er eitt ár eftir af þeim samningi.

Innansveitarkronika Halldórs Kiljan fjallar um kirkjuna á Mosfelli eins og fyrr greinir. Um það urðu mikil átök á sínum tíma, hvort rífa skyldi kirkjuna eða ekki og byggja aðra á Lágafelli. Mosfellskirkja var rifin. Inn í sagnfræðilegan stíl fyrri hluta bókarinnar kemur þessi skemmtilega frásögn af því, þegar Ólafur bóndi Magnússon á Hrísbrú kemur að Mosfelli og stendur á hlaðinu með orf sitt reitt um öxl og veit ljásoddurinn beint upp … Nokkru utar á hlaðinu og nær sáluhliði stendur Bogi sonur hans sem gerst hafði skjaldsveinn föður síns í þessari för og hafði hrífu í hendi.“ Þeir eru að mótmæla sameiningu kirkna og niðurrifi Mosfellskirkju:
„Ég er búinn að fara til klénsmiðs, mælti þá Ólafur á Hrísbrú, en þessir ræflar eru svo úrættaðir að þeir kunna ekki leingur að smíða sverð.
Og hverjir ætla sosum að fara að berjast með sverðum núna Ólafur minn, spyr séra Jóhann.
Ólafur svarar: Til er ég og til er Bogi.
Ja það er nú það Ólafur minn, segir séra Jóhann. Mér dettur í hug hvort ég ætti ekki að vekja hana Gunnu þó í fyrra lagi sé og biðja hana að snerpa á könnunni.
Þá segir Ólafur: Heldur þú og þið anskotar að Egill Skallagrímsson frændi minn hafi farið að drekka kaffi þegar hann var í vígahug?
Því er nú ver og miður að ég á ekki öl einsog Egill var vanur að drekka, segir séra Jóhann. En gott kaffi er gott ef það er gott.“
Halldór Laxness sagði mér að séra Jóhann hefði skírt sig, þegar hann var prestur í Reykjavík. „Hann var síðasti prestur á Mosfelli áður en kirkjan var rifin. Yfirvöld létu rífa kirkjuna samkvæmt lögum um sameiningu kirkna frá 1882; þau lög voru reist á konungskipun frá 1774. Það tók því meira en hundrað ár að fá þessu boði framfylgt; guð tók stinnt í á móti í Mosfellssveit. Séra Jóhann þjónaði aldrei Lágafellskirkju, en fluttist til Reykjavíkur og varð dómkirkjuprestur og gekk í svörtum frakka og gallossíum og var með stórt nef. Hann hafði dimman og hlýjan málróm og talaði ósjálfrátt í einföldum spakmælum. Það var hann sem sagði meðal annars þessi minnisverðu orð: Góð blöð eru góð ef þau eru góð. Svona spakmæli eru þægileg og meiða engan,“ segir skáldið.
Í sögunni segir, að séra Jóhann hafi látið aftur annað augað fyrir guðssástar sakir, þegar hann gaukaði klukkunni að Ólafi á Hrísbrú, eftir að kirkjan hafði verið rifin.
„Ég hef heyrt, að kannski hafi það ekki verið að séra Jóhanni forspurðum sem klukkan hvarf,“ segir Halldór Laxness og bætir við að – „þeir höfðu gott álit á honum hér í sveitinni, enda var það líkt honum að gefa klukkuna höfuðóvininum til að dangla í, þegar honum leiddist.“ Skáldið bætir því við, að séra Jóhann hafi verið honum mjög hugleikinn.  Mér þótti feikna gaman að sjá hann á götu í Reykjavík og heyra hann skiptast á orðum við fólk. Hann kemur fyrir í Heimsljósi sem fangelsispresturinn og einnig kemur hann mikið við sögu í Brekkukotsannál. Hann er mjög ólíkur séra Jóni Prímusi, svo ég gat ekki komið honum að í Kristnihaldinu.“
Ólafur á Hrísbrú og Bjartur í Sumarhúsum eru ólíkar manngerðir, þó það sé nokkur svipur með þeim sem bændum. Viss skyldleiki er með svona bændakalla-harðhausum, eins og skáldið komst að orði. „En Bjartur er útpenslaðri en Ólafur, þ.e.a.s. meira málaður út í hörgul. Ólafur á Hrísbrú er bara teiknaður með fáum strikum; ekki útfyllt mynd; ekki rakin slóð hans frá æsku eins og Bjarts. Bjartur var fullur af rímum og skáldskap og hafði marga góða kosti umfram Ólaf. Þegar deilurnar stóðu sem hæst, lét Ólafur mikið að sér kveða hér í sveitinni og vildi fara í stríð út af kirkjunni. Þá sagði hann: Til er ég og til er Bogi.“ Þetta er nú orðtak hér í Mosfellssveit, jafnvel stundum notað hér í húsinu. Þessi orð mætti festa upp yfir dyrum Mosfellskirkju. Mosdælir hafa séð, að þau voru fyndin. Bogi, sonur Ólafs, var manna ólíklegastur til hermennsku þeirra manna sem Mosdælir þekktu.“
Í Innansveitarkroniku segir skáldið á einum stað um Íslendinga: „Því hefur verið haldið fram að Íslendíngar beygi sig lítt fyrir skynsamlegum rökum, fjármunarökum varla heldur, og þó enn síður fyrir rökum trúarinnar, en leysi vandræði sín með því að stunda orðheingilshátt og deila um tittlíngaskít sem ekki kemur málinu við; en verði skelfíngu lostnir og setji hljóða hvenær sem komið er að kjarna máls… þó er enn ein röksemd sem Íslendíngar eru fúsir að hlíta, þegar alt um þrýtur, en það er fyndni; má vera aulafyndni. Við hlægilega lygisögu mýkist þjóðfélagið og fer að ljóma upp; jarðvegur sálarinnar verður jákvæður.“ Í samtalinu bætir skáldið við: „Þessi íslenzka fyndni er mjög sérkennileg og lætur stundum átök milli manna linast.“

Hrísbrú

Hrísbrú – fornleifauppgröftur.

Allt er þetta aðdragandi sjálfrar sögunnar um Mosfellskirkju. Síðari hlutinn fjallar um það, hvernig munaðarlaus drengur, Stefán Þorláksson úr Reykjavík, sonur Ösku-Láka sem kallaður var, lenti í Mosfellsdal og leiddi af því að kirkja var endurreist á Mosfelli í okkar tíð. Þó vissi enginn til þess „að Stefán Þorláksson hefði nokkru sinni farið með gott orð í lifanda lífi; prestur nokkur hefur sagt við undirritaðan, að Stefán þessi muni hafa verið álíka trúlaus og Konstantín mikli, sem þó sannanlega bjargaði kristindóminum. Að minsta kosti mundi enn sem komið er teljast ofílagt að reikna hann með trúarhetjum í Mosfellssveit. Samt varð hann styrkari stoð sönnum kristindómi í sveit þessari, mælt í krónum og aurum, en flestir helgir menn vorir urðu hvort heldur með þöglum bænahöldum eða háværum sálmasaung eða laungum prédikunum.“ Hann var kallaður Stefi og muna hann enn margir. Einkunnarorð hans í sögunni eru: kaupa, kaupa sama hvað kostar – en að sögn skáldsins eru þessi orð upphaflega komin frá Oddi í Glæsi. „En ég hef krítað þau hjá Stefa af skáldsöguteknískum ástæðum.“

Innansveitarkronika er helgisaga eða jarteinabók að því leyti sem jarteinir eru þau undur sem guð notar til að sanna almætti sitt undir votta í einhverju sérstöku máli á einhverjum tilteknum stað. Ólíklegasta fólkið verður verkfæri til að sanna almætti guðs; Stefán, fátækur drengur með nafnmiðann sinn saumaðan inn í úlpuna sína; Guðrún Jónsdóttir, kölluð Gunna stóra, ösku- og mógrafakerling; og Ólafur á Hrísbrú, þessi rustakarl sem var sannanlega enginn dýrlingur. „Ekkert af þessu fólki virðist hafa haft nokkra trúarlega glætu. Það bara sannaði almætti guðs í Mosfellssveit.“

Hrísbrú

Hrísbrú – uppgröftur – skáli.

Kaflinn um Stefa, þegar hann kemur fyrst lítill drengur að Hrísbrú, er skáldskapur sem festist í minni. Orðaskipti hans og Ólafs bónda, sem annars ekki vék hlýlega að gestum, óttaleysi drengsins við raunveruleikann, stórfljót og fjallgarða, en barnslegur ótti hans við ímyndanir sínar svo sem ræningja og hrynjandi fjöll, allt verður þetta ógleymanlegt. Hann vildi gera ál að hákarli með því að ala hann nógu vel á hornsílum, sem sagt; vildi einlægt gera mikið úr litlu. Mosfellskirkja hin nýja fæddist af framsýni í fébrögðum Stefáns Þorlákssonar. Klukkan í hana er komin þangað aftur fyrir tilstuðlan Ólafs bónda á Hrísbrú og kaleikurinn úr rusli eftir gamla konu sem dó á hreppnum á níræðisaldri 1936. „Einginn hafði vitað til að þetta munaðarlausa gamalmenni geymdi dýrgripa frammí dauðann; þaðanafsíður hvernig þessi kaleikur var kominn í hennar vörslur.“
Hver var þessi kona?
Hún hét Guðrún Jónsdóttir eins og í sögunni og „var í raun og veru kapítalisti, því hún var aldrei vistráðin en talin lausakona“. Í samtali okkar segir skáldið ennfremur: „Það er rétt, Guðrún Jónsdóttir var kapítalisti. Hún var ekki verkamaður. Hún lifði til að skemmta sér; hún tók ekki kaup; skemmtun hennar var að taka upp mó: hún var frjáls. Þessi kona veitti öðrum mönnum af auðlegð sinni ævilangt. Þegar hún var orðin gömul og farlama fór hún auðvitað á hreppinn.“ Skáldið heldur nafni hennar í sögunni eins og nafni á öðrum persónum, sem koma við kroniku Mosfellssveitar – en auðvitað með þeim fyrirvara sem stendur aftan á titilsíðu: Skírskotanir til nafngreindra manna rita skjala staða tíma og atburða þjóna ekki sagnfræðilegu hlutverki í texta þessum.“ Halldór Laxness segir í samtalinu: „Krakki hér í sveitinni, hlustaði ég eftir öllu sem sagt var, og ég á mér ótæmandi endurminningasjóð um fólk sem ég samneytti á bernskuárum mínum. Það var ólíkt fólki sem ég kynntist síðar. Ég kom hingað á fjórða ári úr Reykjavík og þetta fólk var minn félagsskapur, þangað til ég fór að vera á vetrum í Reykjavík 12 ára við ýmiss konar nám. Guðrún Jónsdóttir var oft hjá okkur í Laxnesi, stundum misserum saman. Ég man enn eftir ýmsum orðatiltækjum hennar, og kem þeim að í sögunni. Hún sagði til að mynda þetta: Ég kann bezt við mig í einhverju benvítis síli.“ Ég hef spurt orðabókamenn og þeir kannast ekki við þetta orðatiltæki. Það hefur ekki komizt á prent, svo ég viti, og ég hef engan heyrt nota það annan. En mér dettur ekki í hug að Guðrún Jónsdóttir hafi fundið það upp. Ég held að síli sé draslvinna eða vinnubjástur.“

Hrísbrú

Hrísbrú – fornleifauppgröftur (Jesse Byock).

Guðrún Jónsdóttir kom til Þórðar Jónssonar og Kristínar Vigfúsdóttur að Æsustöðum 1926 og hafði þá verið í Laxnesi. Hún átti kindur og hryssu, þegar hún var í fyrra skipti á Æsustöðum. Hún heyjaði þá Gunnubarð, sem svo var kallað, en nú er innan túns. Hún sló sjálf og batt. Hún hafði sérstakt skap og gott að vera í návist hennar. Hún var fædd í Hamrahlíð 26. desember 1854 og lézt á Æsustöðum 24. marz 1936. Hún var greftruð á Mosfelli. Hamrahlíð er ekki lengur í byggð, en er nú undir Blikastöðum. Andlit Guðrúnar og höfuðlag allt var af mynd að dæma stórskorið eins og landið.
Í upphafi ellefta kapítula sögunnar segir svo: „29unda júní sama vor og Mosfellskirkja var rifin mátti lesa eftirfarandi grein undir fyrirsögninni „Saga af dýru brauði“ í vikublaðinu Öldinni, og má gánga þar að henni ef einhver nennir að fara á bókasöfn og lesa gamlar blaðagreinar.“ Saga þessi fjallar um villu Gunnu stóru á Mosfellsheiði, þegar hún vitjaði pottbrauðs. Ungur piltur úr sveitinni tekur hana tali og spyr um villuna, rétt eins og blaðamaður eigi samtal við sérkennilega konu – en þó verðum við að hafa á þann fyrirvara, að hvorki frásögnin í Öldinni né lýsing Gunnu stóru í samtalinu eiga rætur í raunveruleikanum, og ekki heldur samtalið sjálft. Villur Guðrúnar í Innansveitarkroniku eru uppspuni. En svipaða sögu heyrði skáldið sunnan af Suðurnesjum. Þar var stúlka að villast hátt upp í viku í hrauninu á Reykjanesskaga. Hún hafði verið að vitja pottbrauðs í hveraholu. Gunnar Eyjólfsson leikari sagði skáldinu þessa sögu. Stúlkan sem villtist var að hann minnir amma leikarans eða ömmusystir. Þetta dæmi sýnir vel að skáld leita víða fanga. „Flest verður fróðum að kvæði,“ segir máltækið. Allt verður að söguefni, þótt ekki sé það sagnfræði í venjulegum skilningi.
„Ég var að hlusta á útvarpið um daginn,“ segir skáldið. Þar kom fram maður, sem spurður var frétta úr byggðarlagi sínu. Hann byrjaði frásögnina svona: „Vorið hefur verið gott fyrir sauðfé.“ Þessi maður kom mér í gott skap.“

Hrísbrú

Hrísbrú – kirkjan; fornleifauppgröftur.

Í Innansveitarkroniku miðast allt líf og öll tilvera við sauðfé. Þegar feðgarnir á Hrísbrú taka menn tali á hlaðinu og spyrja frétta, beinist talið alltaf að sauðfé, „því alt líf í landinu var einsog þann dag í dag miðað við sauðfé. Til dæmis þegar talað var um veður þá var það eitt sjónarmið ráðandi hversu það mætti henta sauðfé. Gott veður var það veður sem var gott fyrir sauðfé. Gott ár var það þegar óx gras handa sauðfé. Fallegt landslag á Íslandi þykir þar sem góð er beit handa sauðfé. Afkoma og sjónarmið manna í lífinu voru ákvörðuð af þessari skepnu. Hrísbrúíngar höfðu fréttir af sauðfé hvaðanæva af landinu og sögðu sögur af afkomu sauðfjár í Mosfellssveit. Þeir mundu nákvæmlega hvernig viðrað hafði fyrir sauðfé ár framaf ári þrjátíu ár aftur í tímann. Þessir menn fóru aldrei í utanyfir sig, en ullartreyur þeirra og peysur héldu vatni og vindi einsog reifið á íslenskri sauðkind.“

„Nú er sveitasagnfræðin komin í blöðin,“ segir Halldór Laxness enn í samtali okkar. „Bændur romsa upp einhverjum lifandi feiknum um harðærið í sveitunum með tilheyrandi útmálun á því hvernig veðrið var í fyrra og hitteðfyrra. Þetta eru oft einu greinarnar sem ég les í blöðunum. Steini á Valdastöðum var eftirlætisblaðamaður minn. Ég las einlægt fréttirnar hans í Morgunblaðinu tvisvar, stundum í þriðja sinn upphátt fyrir heimilisfólkið. Þrátt fyrir mörg mótdræg tíðindi í sveitum var hann eini fréttaritarinn í blöðunum sem sló ævinlega huggunarríka nótu. Þegar hann var búinn að lýsa þessum feiknarlegum óþurrkum sem gengið höfðu allt sumarið bætti hann alltaf við að það væri von manna að nú færi að breytast til batnaðar upp úr höfuðdeginum.“

Hrísbrú

Hrísbrú – fornleifauppgröftur.

Fornleifarannsóknir í Mosfellsdal fylla upp í sjúkrasögu landsins. Rannsóknir á beinum sýna bæði krabbamein og berkla. Við bæinn Hrísbrústóð stafkirkja til forna og við hlið hennar heiðið brunakuml. Við bæinn Hrísbrú í Mosfellsdal fer fram mikill fornleifauppgröftur, en þar hafa fundist mannvistarleifar allt frá upphafi byggðar hér. Vísbendingar í Egilssögu urðu til þess að Jesse Byock, fornleifafræðingur og norrænufræðingur við Kaliforníuháskóla, fann þar eina af elstu kirkjum landsins, frá þjóðveldisöld. „Hérna var höfðingjasetur og kirkjan hefur sjálfsagt verið mikilfengleg, en hóllinn sem hún stóð á hefur lækkað mikið frá því á söguöld,“ segir hann.
Rétt við stafkirkjustæðið forna er smáhæð þar sem er að finna eina brunakumlið sem fundist hefur hér á landi. Þannig eru vísbendingar um byggð bæði í heiðni og kristni þarna á sama stað og jafnvel talið að nálægð greftrunarstaðanna gæti bent til að heiðni og kristni hafi þarna verið stunduð samhliða um einhvern tíma. Jesse Byock segir að ekki hafi áður fundist kirkja þar sem viðurinn hefur verið í jafngóðu ástandi og í stafkirkjunni við Hrísbrú.

Mosfell

Mosfellskirkja 1883.

„Kirkjan var yfirgefin og skilin eftir og hægt að sjá hvernig viðarhlutar hennar eru á sínum stað,“ segir hann og telur einna merkast að sjá svokallað grunntré kirkjunnar. Hann segir fundinn kenna okkur mikið um hvernig kirkjubyggingum var háttað fyrr á öldum, en byggingarlagið er í stíl við fornar stafkirkjur sem fundist hafa í Noregi.
Jesse segir sérstakt við þennan fornleifauppgröft hversu afmarkað tímabil sé verið að fást við. „Kirkjan var byggð og svo yfirgefin, en látin standa þegar sú nýja var tekin í notkun, þannig að tímabilið markast af 150 til 200 árum, frá upphafi tíundu aldar fram á elleftu öld.“ Hann segir tímamælingar á staðnum standast við rannsóknir á öskulögum sem sýni að kirkjan var byggð eftir árið 926.
Rannsóknir á beinum sem grafin hafa verið upp við kirkjustæðið hafa leitt í ljós sjúkdóma á borð við krabbamein og berkla.

„Hér fáum við miklar og góðar upplýsingar sem fylla í sjúkdómasögu þjóðarinnar,“ segir Jesse, en þarna kunna að vera fyrstu dæmin um berkla hér á landi. Hann segir rannsóknir á beinunum jafnframt leiða í ljós margvíslegar upplýsingar um mataræði og lifnaðarhætti fólks. Aðspurður taldi Jesse ekki miklar líkur á að meðal beinagrindanna sem grafnar hafa verið upp við Hrísbrú væru bein Egils Skallagrímssonar, en bein hans er sögð hafa verið grafin upp og flutt annað.
Björn Þráinn Þórðarson, sviðsstjóri fræðslu- og menningarsviðs Mosfellsbæjar, segir að bæjarfélagið hafi mikinn áhuga á að nýta sér þessar merku fornminjar sem fundist hafa þarna í Mosfellsdal
með einhverjum hætti. Nefnir hann möguleika á að stofna fræðasetur þar sem fólki gæfist kostur á að kynna sér minjarnar og sögu landsins. Hann segir þessar hugmyndir tengjast áætlunum um menningarhús til minningar um Halldór Laxness. Björn telur stofnun minjaseturs mögulega í kringum fornleifauppgröft í Mosfellsdal, forn skipalægi í Leiruvogi og minningarsetur um ritun, ritstörf og menningu í dalnum allt frá tímum Egils Skallagrímssonar til daga nóbelsskáldsins frá Laxnesi.

Mosfellsdalur

Mosfellsdalur.

Guðmundur Magnússon lýsti sjónarmiðum sínum um fornleifarannsóknirnar á Hrísbrú. „Ekki er víst að allir taki undir með fornleifafræðingunum sem grafið hafa upp leifar þúsund ára gamallar kirkju í Mosfellsdal og halda því fram að hún sé „einstaklega vel varðveitt“. Sannleikurinn er sá að það þarf bæði ímyndunarafl og þekkingu á fornri byggingararfleifð, sem ekki öllum er gefin, til að sjá fyrir sér kirkju þar sem nú er grjót og fátæklegar timburleifar. Það hjálpar þó að greinilega má sjá útlínur kirkjunnar í grunninum og þannig átta sig á flatarmáli hennar. Stoðholur veita ennfremur vísbendingar um byggingartækni.
En við Íslendingar erum líklega orðnir nægjusamir þegar fornleifafræði á í hlut. Við vitum að varðveisluskilyrði minja eru ekki góð hér á landi vegna veðurfars og jarðvegs. Við erum fyrir löngu hættir að bíða eftir því að upp úr jörðinni komi gersemar sem við getum flaggað í viðhafnarskápum í Þjóðminjasafninu. Líklega er hið eina sem þjóðin biður um og vonast eftir – þótt ekki fari það alltaf hátt eða sé opinberlega viðurkennt – að í moldinni sem fornleifafræðingarnir róta í með teskeiðum sínum leynist nýjar sannanir fyrir því að kappar og kvenskörungar fornbókmenntanna hafi verið af holdi og blóði; verið raunverulegar persónur. Óhætt er að segja að fæstir fornleifafræðingar hafi nú orðið sterka trú á víðtækri leiðsögn fornritanna við rannsóknir á leifum frá fyrri öldum. Aftur á móti eru þeir nógu þjóðhollir – eða bara skynsamir – til að nefna persónur fornsagnanna til sögu þegar þeir rekja rannsóknir sínar fyrir almenningi og fjölmiðlum. Þannig hafa skáldið Egill Skallagrímsson og Grímur Svertingsson komist í sviðsljósið nú þegar fundist hafa leifar kirkju frá frumkristni við merkilegar rannsóknir að Hrísbrú í Mosfellsdal. Þeir kappar eru ekki nefndir til sögu vegna þess að eitthvað nýtt sé um þá að segja á grundvelli fornleifanna heldur er hér á ferðinni meinlaus og oft bráðskemmtileg undirgrein almannatengsla, iðju sem margir þekkja frá stjórnmálaflokkum og stórfyrirtækjum.

Hrísbrú

Hrísbrú – fornleifauppgröftur.

Fyrir fræðimenn eru upplýsingar um byggingarform fornra mannvirkja, sjúkdóma, mataræði og hæð fólks, sem bein hafa fundist af, eða vísbendingar um lifnaðarhætti sem lesnar verða úr jarðvegi og dýraleifum, nægileg réttlæting og hvati rannsókna. Þeim verður iðulega heitt í hamsi og komast í uppnám út af leifum og gripum sem almenningur getur ekki lesið glóru í eða tengt frásögnum á fornum bókum. Fræðimönnum finnast nafnlausar minjar ekkert síður merkilegar en hinar sem hefðin og þjóðtrúin setur nafnspjöld á. Þetta gap á milli fræðimanna og almennings er eðlilegt og óhjákvæmilegt og þekkist í einni eða annarri mynd í öllum vísindum. Fornleifafræðingar, sem unnið hafa við rannsóknir á Íslandi, eiga hrós skilið fyrir að hafa mörgum öðrum fræðimönnum okkar fremur lagt sig í framkróka um að miðla rannsóknum sínum, hugmyndum og kenningum til almennings. Það hafa þeir einkum gert á vettvangi fornleifauppgrafta með leiðsögn, fyrirlestrum og upplýsingaskiltum. Þeir hafa líka notað netið til að koma efni til almennings svo að til fyrirmyndar er.
Við Íslendingar getum verið harla glaðir þótt okkur takist ekki nema að litlu leyti að tengja fornleifar og fornbókmenntir okkar. Við þurfum í rauninni hvorki að leita né finna hetjur og kappa sagnanna í moldinni og getum einbeitt okkur að hversdagslegri minjum sem ekki eru síður mikilvægar til skilnings á sögu genginna kynslóða. Sannleikurinn er nefnilega sá að þótt gaman væri að finna höfuðkúpu Egils Skallagrímssonar í kirkjugarðinum að Mosfelli eða Hrísbrú eru margfalt meiri verðmæti falin í „Höfuðlausn“ hans í Egils sögu. Við þurfum ekki að fara yfir bæjarlækinn til að sækja vatnið.“

Samkvæmt Egilssögu ætlaði öldungurinn sagnaþulni að dreifa silfursjóð sínum (sem hann mun hafa fengið að launum frá Aðalsteini konungi fyrir yrkingar sínar) yfir þingheim á Alþingi að Þingvöllum sumarið 990, en ákvað þess í stað, eftir fortölur, að fela hann nálægt Mosfelli. „Egill tók sótt eftir um haustið, þá er hann leiddi til bana“.

Heimild m.a.:
-http://66.249.93.104/search?-http://66.249.93.104/search?
-www.gljufrasteinn.is/
-Mbl. 5. apríl 2004.
-Árni Helgason – Mbl.
-Mosfellingur.
-Egilssaga – höfundur ókunnur.

Mosfell

Mosfellskirkja.

Mosfell

Í „Skráning fornleifa í Mosfellsbæ“ árið 2006 er m.a. fjallað um jarðirnar Mosfell og Minna-Mosfell: „Saga Mosfells er fyrst getið í Landnámu og oftlega í Egilssögu en einnig í fleiri fornritum svo sem Gunnlaugssögu.
Mosfell-222Um 1200 er Mosfells getið í kirknaskrá Páls biskups Jónssonar (Dipl. Isl. XII, bls. 9).
Elsta heimild um Minna-Mosfell eru Fógetareikningar frá árunum 1547-1552. Þá er jörðin komin í eigu konungs og er í reikningunum nefnd
„Mijndemosse-feldt“ (sbr. Dipl. Isl. XII).
Um miðja 15. öld er Mosfell komið í eigu Skarðverja. Greinir frá því í skiptabréfi, eftir Björn ríka Þorleifsson, frá 1467, að Mosfell komi í hlut ekkju hans, Ólafar Loftsdóttur, að Skarði á Skarðsströnd (Dipl. Isl. V, bls. 503). Ekki var Mosfell lengi í eigu Ólafar, því í kaupbréfi frá 1470 segir, að Ólöf Loftsdóttir fái Sigurði Jónssyni Mosfell í skiptum fyrir Hraungerði í Flóa (Dipl. Isl. V, bls. 503).
Á 16. öld kemst Mosfell undir Skálholt er Ögmundur biskup Pálsson kaupir jörðina.
Mosfell-223Við siðaskiptin er Mosfell, ásamt fleiri kirkjujörðum, tekið undir konung. Til vitnisburðar um það eru Fógetareikningar 1547-1552 (sbr. Dipl. Isl. XII).
Árið 1703 er Minna-Mosfell enn konungsjörð. Ábúandi er einn (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 323-324).
Árið 1704 er Mosfell „Beneficium og kirkjustaður“. Ábúandi er staðarhaldarinn, séra Þórður Konráðsson (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 324).
Jörðin er komin í bændaeigu árið 1847 og er einn leiguliði ábúandi. Í Jarðatali Johnsens frá 1847 er Mosfells getið sem kirkjujarðar. Ábúandinn er prestur. Mosfell er enn í ábúð (1980) og er kallað Mosfell I í Jarðaskrá Landnáms ríkisins. Eigandi er ríkissjóður (J. Johnsen). Egilssaga getur um kirkju á Mosfelli og er það staðfest í áðurnefndri kirknaskrá Páls biskups. Svo virðist sem kirkja hafi verið lögð niður á Mosfelli einhvern tíma fyrir miðja 14. öld. Næsta kirkja á Mosfelli er reist á fyrri hluta 16. aldar og er kirkja að Mosfelli til ársins 1888, en er þá flutt að Lágafelli. Kirkjan, sem nú stendur að Mosfelli var vígð árið 1965 (sjá nánar um kirkju að Mosfelli nr. 2).
Silfur Egils Magnús Grímsson skrifar talsvert um líklega felustaði. Segir hann á einum stað: „En þegar skammt er komið suðr fyrir Köldukvísl á Víðinn, á að geta 100 faðma, verða þar fyrir jarðholur miklar, einar þrjár eða fjórar. Eru þær víðar um sig og djúpar, með leireðju í botninum. Eru þær jafnan fullar af vatni, og sést lítill munr á því, þó þerrar gángi“. Ætlar Magnús, að þar séu komnar jarðholur þær er nefndar eru í Egilssögu. Þrælapyttur er á barði nálægt Kýrgili „… býsna stór og furðu djúpr, með forarleðju í botninum. …er mælt að þar hafi seinna fundist í þrælarnir, sem Egill drap, eðr bein þeirra.

Mosfell-225

En ekki hefir söguritarinn vitað af því að segja. … Neðan undir hólbrekkunni á Mosfelli, sem fyr er getið, er dý eitt fullt af grjóti, eigi stórt um sig, en furðulega djúpt. Þar halda sumir að fé Egils sé niðri í“. Ekki telur Magnús þetta vera líklegan stað. Telur hann líklegast að Egill hafi fólgið silfur sitt
í einhverjum pyttinum á Víðinum, fyrir sunnan ána Köldukvísl. Þó segir hann þetta ekki verða sagt með vissu. „Sagan segir og, að þángað [í jarðholunum] sé opt sénn haugeldr, og styðr það þessa ætlun, jafnvel þó eg ímynda mér slíka elda af öðrum rótum runna en fé, og því harðla marklitla í þessu efni. En slíkar sjónir sýna opt trú manna, og hygg eg, að menn hafi snemma orðið á sömu ætlan um þetta og eg er, af því líkurnar hafa þótt svo sterkar til hennar.

Mosfell-226

Einn manna hefi eg talað við, sem enn er lifandi, sem þykist hafa séð slíka elda, nálægt því svæði sem hér um ræðir, fyrir hérumbil 15 eðr 16 árum“. Endar Magnús vangaveltur sínar um hvar silfur Egils sé að finna með því að ítreka að pyttirnir, nálægt hinum forna vegi yfir Víðinn, séu líklegastir (Magnús Grímsson, bls. 266-270).
Eina sögu kveðst Magnús hafa heyrt um að silfur Egils hafi fundist: Einn góðan veðurdag var bóndinn í Þverárkoti á leið til kirkju að Mosfelli. Þegar hann kom að Kýrgili veik hann sér lítillega upp með því „að gegna nauðsynjum sínum“. Þarna átti bóndi að hafa fundið peninga en leyndi fundi sínum vel. Er sagt að hann hafi orðið ríkur á fáum árum. Silfrinu átti bóndi að hafa skipt hjá Jóni Ólafssyni ríka í Síðumúla (Magnús Grímsson, bls. 271). Í athgr. 5 í sömu heimild stendur að árið 1722 hafi fundist enskir peningar nálægt Mosfelli. Höfðu þeir skolast fram í vatnagangi.

Mosfell-227

Frásögnin um peningana er í ritgerð eftir Jón Ólafsson frá Grunnavík um íslenskar sögur. Segir Magnús, að sér þyki líklegast „að Grunnavíkr-Jón hafi eitthvað orðið áskynja um peningafund Þverárkotsbóndans, og haldið að gilið mundi hafa spýtt fram fénu.“ Ekki telur Magnús miklar líkur á, að saga þessi sé sönn. Bóndi hefði eins getað efnast í Þverárkoti án þess að hafa fundið peningana (Magnús Grímsson, bls. 276).
Aðrar upplýsingar: Seljabrekka var kölluð Jónssel upphaflega. Nafninu var breytt í Seljabrekku á árunum 1932-1938. Jónssel er nýbýli, frá 1922-1932, úr landi Mosfells. Eigandi 1979 var ríkissjóður. Leiguliði Guðmundur Þorláksson (Fasteignabækur, Jarðaskrár).“
Í framangreindu samhengi vekja tvær tóftir á bökkum Kýrgils sérstaka athygli. Ekki er óraunhæft að ætla að í gólfi annarrar þeirra hafi nefndur Egill grafið silfursjóðinn umrædda: „Um 680 m NA Minna-Mosfells og um 1,2 km norðan Lundar. Við ofanvert Kýrgil á nyrðri bakka þess. Um 200 m eftir að Kýrgil beygir til vesturs er grasi gróin brekka eða laut á norðurbrún gilsins. Þarna er gilið fremur grunnt. Sunnan gilsins sér á mela, að hluta til mosagróna (Ágúst Ó. Georgsson). Tóft þessi liggur í því sem næst N-S og er hún um 5 m á lengd og 4 á breidd að utan máli. Er hún gróin og fremur gamalleg að sjá. Suðurhluti tóftarinnar er skýrastur. Þar eru veggirnir um 40 cm háir. Norðausturhornið er næstum af, í sömu hæð og graslendið umhverfis. Samt má greina útlínur nokkurn veginn. Inngangur hefur verið í suðurgafli tóftarinnar. Ekki er gott að segja til um hlutverk rústar þessarar. Þetta gæti e.t.v. hafa verið lítil rétt eða kró fyrir lömb. – Rústin er án efa frá fráfærutímabilinu. Umhverfið er mjög grasi gróið, gott til beitar og skjólsælt. Tóftin er of lítil til að vera stekkur eða kvíar. Stendur hún á sléttum bala á norðurbrún Kýrgils. 

Mosfell-228

Fast að baki er brekka. Stekkjarúst er um 50 m austar, á brún gilsins. Er sennilegt að tóft þessi hafi verið notuð sem lambabyrgi eða kró. Guðmundur Skarphéðinsson, bóndi á Minna-Mosfelli vísaði á rúst þessa 23/7 1980 (Ágúst Ó. Georgsson).“
Um hina tóftina segir: „Á norðurbarmi Kýrgils um 150 m austar en það beygir til vesturs. Um 550 m NA Minna-Mosfells. Grasi gróin, slétt að mestu, flöt eða kvos á norðurbrún Kýrgils. Svæði þetta er skjólsælt og grasmikið. Neðan og sunnan þess taka við melar, meira og minna gróðurlausir (Ágúst Ó. Georgsson). Tóftin, sem sennilega hefur verið stekkur er ca. 3 x 5 m að utanmáli. Veggirnir eru um 70 cm háir alls staðar, nema suðurveggurinn, sem bara undirstöðusteinar eru eftir af.

Mosfell-229

Snýr stekkurinn í S-N, eða því sem næst. Er hann alveg á blábrún gilsins, sem hallar bratt í suður. Þessi brún gilsins (norðurbrún) er öll grasi vaxin en klettar eru að sunnanverðu. Inngangur í stekkinn er á eystri langhlið, eilítið norðan við hana miðja. Er tóft þessi gerð úr torfi og grjóti. Frá suðausturhorni stekksins og meðfram gilbrúninni er um 5 m langur hlaðinn grjótgarður. Að norðaustanverðu eru leifar annars grjótgarðs, sem hefur náð frá barði, þar ofan við, og að innganginum. Hin náttúrulegu skilyrði eru þarna ákjósanleg: Barðið, gilið og hinir tveir grjótgarðar hafa stýrt fénu rétta leið, þ.e. inn í stekkinn (Ágúst Ó. Georgsson). Guðmundur Skarphéðinsson segir að faðir sinn hafi skoðað þennan stað árið 1937 og voru þar þá rústir einar. Töldu þeir feðgar að um stekk hafi verið að ræða.“
Ofan tóftanna, efst á norðaustanverðu Mosfelli er Gatklettur sá er jafnan er nefndur þegar selstaðan fyrrum frá Minna-Mosfelli ber á góma. Þarna á millum, yfir ásinn, liggur forn gata, bæði norður og norðvestur fyrir Mosfell og áleiðis að Svínaskarði.

Heimild:
-Skráning fornleifa í Mosfellsbæ, Agnes Stefánsdóttir, Rúna K. Tetzschner, Guðmundur Ólafsson, Ágúst Ó. Georgsson, Kristinn Magnússon og Bjarni F. Einarsson. Skýrslur Þjóðminjasafns Íslands 2006.

Heimildaskrá:
-Ágúst Ó. Georgsson. Fornleifaskráning í Mosfellssveit 1980-1982. Skráningarbók 1604-65.
-Dipl. Isl.: Diplomatarium Islandicum. Íslenskt fornbréfasafn, sem hefir inni að halda bréf, gjörninga, dóma og máldaga og aðrar skrár, er snerta Ísland og íslenzka menn. Kaupmannahöfn og Reykjavík 1857 og áfr.
-Egils saga Skalla-Grímssonar. Sigurður Nordal gaf út. Hið íslenska fornritafélag. Reykjavík 1933.
-Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns III. Gefin út af hinu íslenzka fræðafélagi í Kaupmannahöfn. Kaupmannahöfn 1923-1924.
-Jarðaskrár 1958-1979. Landnám ríkisins hefur tekið saman eftir forðagæsluskýrslum og skýrslum hreppstjóra um jarðir í ábúð og eyði. Óprentuð. Skráin er einungis til hjá Landnámi ríkisins.
-J. Johnsen. Jarðatal á Íslandi, með brauðalýsingum, fólkstölu í hreppum og prestaköllum, ágripi úr búnaðartöflum 1835-1845, og skýrslum um sölu þjóðjarða í landinu. Kaupmannahöfn 1847.
-Landamerkjabók í afsals- og veðmálsbók fyrir Gullbringu- og Kjósarsýslu 1890.
-Magnús Grímsson. „Athugasemdir við Egilssögu Skallagrímssonar“. Safn til sögu Íslands og íslenzkra bókmennta að fornu.

Munnlegar heimildir:
-Guðmundur Skarphéðinsson bóndi á Minna-Mosfelli.

Kýrgil

Kýrgil – neðsti hluti.

Mosfellssveit

Í „Skráningu fornleifa í Mosfellsbæ“ frá árinu 2006 má lesa eftirfarandi um einstaka bæi, auk annars fróðleiks:

Blikastaðir

Blikastaðir

Blikastaðir – túnakort 1916.

Blikastaðir hafa trúlega verið teknir í ábúð snemma á miðöldum en þeirra er fyrst getið í máldaga Maríukirkjunnar í Viðey frá árinu 1234. Þar kemur fram að kirkjan og staðurinn hafi átt landið á „Blackastoðum“ (Dipl. Isl. I, bls. 5078). Næst segir í leigumála á jörðum Viðeyjarklausturs árið 1313: „Af bleikastodum hellmingur heyia þeirra sem fast“ (Dipl. Isl. II, bls. 377) og í skrá um kvikfé og leigumála klausturjarða 1395: „aa bleikastodum ij merkur“ (Dipl. Isl. III, bls. 598). Samkvæmt Fógetareikningum áranna 1547-1552 var land á „Bleckestedom“ orðið konungseign um miðja 16. öld (Dipl. Isl. XLL) og var enn þegar jarðatal var tekið árið 1704. Þá var ábúandi jarðarinnar einn en heimilismenn samtals tólf. Í bústofninum voru níu kýr, tvö geldnaut, ein kvíga tvævetur, eitt naut veturgamalt, 29 ær með lömbum, fjórir gamlir sauðir, sex þrevetrir, átta tvævetrir, 23 veturgamlir, þrír hestar, tvö hross og ein unghryssa, en fóðrast gátu sex kýr, 20 lömb og einn hestur (Jarðabók Árna og Páls).

Blikastaðir

Blikastaðir 1905-1925.

Samkvæmt jarðatali Johnsens voru þar árið 1847 þrjú kúgildi og einn leigjandi (bls. 96). Árið 1908 fluttist Magnús Þorláksson, bróðir Jóns Þorlákssonar forsætisráðherra, ásamt fjölskyldu sinni frá Vesturhópshólum í Húnavatnssýslu til Blikastaða og hóf þar búskap. Magnús bjó á jörðinni til dauðadags árið 1942 en þá tóku við dóttir hans, Helga, sem búið hafði á staðnum frá tveggja ára aldri, og maður hennar Sigsteinn Pálsson. Stunduðu þau aðallega kúabúskap til ársins 1973 en þá voru á jörðinni 60 mjólkurkýr og samtals 90 gripir í fjósi. Eftir það leigði Skarphéðinn Össurarson íbúðarhús og fjós á Blikastöðum og rak þar hænsnabú (Magnús Guðmundsson, bls. 8). Var hann skráður fyrir skepnunum 1979 (Jarðaskrár). Börn Helgu og Sigsteins hafa reist sér hús við Árnesveg og búa þar (Magnús Guðmundsson, bls. 8).

Blikastaðir

Blikastaðir.

Í Jarðatalinu frá 1704 er engin lýsing á jarðardýrleika Blikastaða (Jarðabók Árna og Páls) en í Jarðatali Johnsen árið 1847 er jörðin sögð 14 hundruð og frá 1855 er til lýsing eftir séra Stefán Þorvaldsson: „…sá bær stendur á láglendu mýrlendi, skammt fyrir norðan Lágafellshamra, austanvert við Korpúlfsstaðaá, sunnan til við Leiruvoga, gagnvart Víðinesi. Þessi jörð hefir góðan útheyjaheyskap…“ og er 15 hundraða (bls. 233). Þegar Magnús kom 53 árum síðar gáfu túnin af sér um 80 hesta af heyi þegar vel áraði. Ræktaði hann smám saman upp mela og mýrar sem ná yfir mikinn hluta þeirra túna sem nú eru á jörðinni. Voru þau orðin 42 hektarar þegar Helga og Sigsteinn tóku við og stækkuðu í 70 hektara í þeirra búskapartíð. Þá hlutu túnin og mismunandi hlutar þeirra einnig nöfn sín sem eru sérstök fyrir Blikastaði.

Blikastaðir – Hjáleigan Hamrahlíð

Hamrahlíð

Tóftir Hamrahlíðar.

Býlið Hamrahlíð var hjáleiga frá Blikastöðum og byggt um 1850. Um það segir séra Stefán Þorvaldsson árið 1855: „Afbýli eitt lítið, byggt fyrir 45 árum úr Korpúlfsstaðalandi, norðvestan undir Lágafellshömrum, skammt í suður frá Blikastöðum, er lítt byggilegt sökum landþrengsla og töðuleysis“ (bls. 235). Í Hamrahlíð er mikið fuglalíf (Magnús Guðmundsson, bls. 23).
Býlið stóð „…efst í óræktaða landinu við afleggjarann að Blikastöðum…“ (Ari Gíslason, bls. 4) við rætur samnefnds fjalls sem í Árbók Ferðafélags Íslands 1936 er talið vesturbrún Úlfarsfells með Lágafellshömrum að norðan (Ólafur Lárusson, bls. 70). Hjáleigunnar er hvorki getið í Jarðatali J. Johnsens 1847 né Jarðabók 1704. Vitað er að hún var í byggð árið 1890 (Magnús Guðmundson, bls. 3) en óvíst hvenær hún lagðist af. Hennar er ekki getið í Fasteignabók 1922. Rústir býlisins sjást enn.
Á Túnakorti, fyrir enda heimreiðarinnar, suðaustan megin í túninu, er timburhús, en skv. kortinu var búið í þeim á meirihluta býla.

(Mosfells) Bringur

Bringur

Bringur – túnakort 1916.

Í visitasíu Mosfells frá 23. ágúst 1646 var framlagður vitnisburður Guðrúnar Þorsteinsdóttur eiginkonu séra Þorsteins prests Einarssonar á Mosfelli, 1582-1625, frá 7. febrúar 1643 um: … „40 tiju ára brúkun syns Eignarmans S. Þorsteins heijtins Eynarssonar tveggia Selstadanna. Annarar heijma í Bringunum“ …
Í sömu visitasíu var lagður fram vitnisburður Árna Magnússonar í Ytri–Njarðvík frá 23. október 1626. Árni upplýsti að hann hefði samtals verið í þjónustu á Mosfelli í þrjú ár og að hann vissi: … „eij annad nie heijrdi af nockrum manne Enn Mosfelle være Eignud selstada atolulaust ad ollu ad, synu viti bædi undir Grijmansfellsfosse og onnur þar i Skögnum heijm á bringunum“ …
Undir visitasíuna skrifa Einar Ólafsson prestur á Mosfelli, Stefán Hallkelsson prestur í Seltjarnarnesþingum, Sigurður Árnason, Halldór Eiríksson, Jón Árnason og Bjarni Eiríksson.

Bringur

Bringur – neðst t.h.

Stefán Þorvaldsson ræðir um Mosfellsbringur í lýsingu Mosfells- og Gufunessókna frá 1855. Hjá honum kemur m.a. þetta fram: „Í austur fram af Mosfellsdal liggur graslendi mikið og víðlent; eru það lágar hæðir og mýrlendar, með stargresisflóum og valllendis börðum, víða greiðfærum eða sléttum. Hæðir þessar eru nefndar „Bringur“ eða „Mosfellsbringur“ og liggja undir Mosfell til selstöðu og slægna, og eru þær allgott sumarbeitarland, en örðugt að sækja þangað heyskap og enn torveldara að verja þær fyrir afréttarfénaði og stóðhrossum. Fyrir austan Bringurnar liggur „Illaklif“ svo nefnt; er það reyndar vestari brún Mosfellsheiðar.“
Þann 30. mars 1856 veitti presturinn á Mosfelli bóndanum á Völlum í Kjalarneshreppi, Jóhannesi Jónssyni Lund, leyfi til þess að byggja sér bæ á þeim hluta heiðarlands Mosfellskirkju sem kallaðist Gullbringur. Í leyfisbréfi prestsins kom fram að býli þessu skyldi fylgja eigi fullur þriðjungur alls heiðarlands kirkjunnar. Umboðsmaður Vallabóndans sendi yfirvöldum, þ.e. Trampe stiftamtmanni og Pétri Péturssyni biskupi, samninginn síðan til umsagnar. Í svarbréfi dagsettu þann 13. júní 1856 kemur fram að þeir töldu samningnum í ýmsu ábótavant. Samningurinn yrði að byggjast á áliti tveggja kunnugra manna útnefndra af sýslumanni, sem bæði mældu út landið þar sem Mosfellspresti væri skaðminnst, og tiltækju stærð og hæfilegt eftirgjald. Eftir að bætt hafði verið úr þessu samþykkti bóndinn á Völlum skilmála þá sem settir voru fyrir byggingunni. Málið barst síðan aftur inn á borð yfirvalda. Niðurstaða þeirra varð sú að hafna samningnum aftur, þ.e. enn hefði ekki öllum skilyrðum þeirra verið fullnægt. Þetta kemur fram í bréfi frá 24. september 1857.

Bringur

Bringnabærinn 1968.

Sjá má í bréfi stiftamtmannsins til Mosfellsprests frá 22. júní 1858, þar sem hann fjallar um útvísun fyrir býli við Litla-Sauðafell í Mosfellskirkjulandi, að Mosfellsprestur hefur samið á eigin vegum um bæjarbyggingu í Gullbringum.
Í fasteignamatinu 1916-1918 segir um (Mosfells) Bringur: „Afbýli úr Mosfellskirkju heiðarlandi. …
Lm. sem Mosf. kirkju. … Land, ákveðinn hluti úr heiðarlandinu, útsuðurhorn þess; rúmt og gott ætíð, er til nær, en talsvert snjóþungt. Smölun erfið (í afréttarjaðri)“.
Í bréfi sem Mosfellsprestur sendi yfirvöldum 7. febrúar 1933 vegna hugsanlegrar sölu á Mosfellsheiðarlandi kemur eftirfarandi fram: „Landamerki Mosfellsbringna eru þessi: Úr vörðu fyrir austan og ofan miðja Geldingatjörn suður beint til suðurmarkalínu Mosfellsprestakallslands. Úr sömu vörðu austan miðrar Geldingartjarnar beina línu í vörðu syðst á Blásteinsbringum, þaðan bein lína eftir uppsettum smávörðum sunnan Jónsselslækja og úr einni þeirra, er stendur á tungu á Jónsselshæð bein lína í hornstein þann, er ræður mörkum milli Mosfellslands og Laxness. Þessar uppsettu vörður bera saman við ærhúsin í Laxnesi og í íbúðarhúsið á Mosfelli (כ :gamla íbúarhúsið). Að sunnan ræður markalína Mosfellsprestakallslands“.

Bringur

Bringur 1968.

Mosfellsbringur voru undanskildar við sölu á Mosfellsheiði árið 1933. Landi Bringna var skipt út úr Mosfellstorfu árið 1939 og landamerki ákveðin. Björn Bjarnarson í Grafarholti samdi greinargerð um það mál 30. nóvember s.á. Segir hann landamerkin hafa verið ákveðin af Mosfellspresti fyrir 20-30 árum.
Landamerkjabréf jarðanna Mosfellsbringna og Seljabrekku var undirritað 7. október 1939 og því þinglýst 1940. Samkvæmt því eru landamerkin svohljóðandi: „Úr Blásteinsvörðu, sem hefir verið hlaðin í dag neðst í Blásteinsbringum, beina línu í Jakkavörðu, sem einnig hefir verið hlaðin í dag, og þaðan beina línu í Markastein, sem er landamerkjasteinn milli Mosfellsbringna, Seljabrekku og Laxness. Auk þess hefir verið hlaðin varða milli Jakkavörðu og Markasteins til leiðbeiningar um stefnu milli tveggja síðasttaldra merkja. Undir bréfið skrifa Hálfdan Helgason á Mosfelli, Hallur Jónsson í Mosfellsbringum og Guðmundur Þorláksson á Seljabrekku“.
Land hefur verið látið til Seljabrekku samkvæmt byggingarbréfi fyrir þeirri jörð 13. mars 1983 eða eins og þar segir: „Að sunnan fær Seljabrekka land, sem áður tilheyrði Bringum þannig að suðurmörk landsins verða ca 50 metrum norðan við núverandi Sogslínu frá Laxnessmörkum allt að Geldingatjarnarlæk. Geldingatjörn verður öll í landi Seljabrekku“.

Bringur

Bringur – útihús.

Í grein frá 1985 talar E.J. Stardal um að eitt af þeim nýbýlum sem risu upp við jaðra Mosfellsheiðar í landi Mosfellskirkjustaðar um miðja 19. öld hafi verið Bringur. Honum farast svo orð um jörðina: „Býlið var reist allhátt uppi í Mosfellsbringum á gilbarmi þeirrar árkvíslar er rennur um norðurhluta Mosfellsdals og sameinast suðuránni skammt neðan Hrísbrúar og heitir Kaldakvísl þaðan“.

Elliðakot (Helliskot)

Elliðakot

Elliðakot – túnakort 1916.

Kotsins er fyrst getið árið 1395 í skrá um kvikfé og leigumála á jörðum Viðeyjarklausturs. Þá er jörðin í eyði og kallast „Hellar“ (Dipl. Isl. III, bls. 598). Í heimild frá 1704 er svo talað um „Hellirs Kot“ og virðist líklegt að um sömu jörð sé að ræða (sbr. Ólaf Lárusson 1944). Hún er þá í eigu konungs með tvo ábúendur sem búa hvor á sínum helmingi hennar (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 2889). Árið 1847 er jörðin hins vegar orðin bændaeign og býr eigandinn þar einn (J. Johnsen, bls. 96). Nafnið Elliðakot var tekið upp um 1883. Að sögn Karls Nor­ahls (f. 1898) hafði jörðin verið í eyði þegar afi hans byggði þar timburhús til íbúðar árið 1887. Sam­kvæmt fasteignabókum hefur kotið lagst í eyði aftur á árunum 1938-1957 (Fasteignabók) en í heimild frá 1978 kemur fram að húsið hafi brunnið árið 1949 (Guðlaugur R. Guðmundsson, bls. 1) Samkvæmt Eyðijarðaskrá 1963 er jörðin þá í eigu dánarbús Gunnars Sigurðssonar í Gunnarshólma en þar eru engin nothæf hús og hæpið talið að leggja í kostnað til búsetu (Skýrsla um eyðijarðir 1963).
Gamli húsgrunnurinn stóð þó enn þá 1978 (Guðlaugur R. Guðmundsson).

Elliðakot (Helliskot) – Hjáleiga; Vilborgarkot

Vilborgarkot

Vilborgarkot.

Um Vilborga­kot segir í Jarðabók frá 1704: „Forn eyðijörð, og hefur í eyði legið fram yfir allra þeirra manna minni, sem nú eru á lífi, og hefur land þessarar eyðijarðar brúkað verið til beitar eftir leyfi Bessastaðamanna bæði frá Hólmi, sem liggur í Gullbringusýslu, og líka frá Helliskoti, sem í þessari sýslu liggur og er næsti bær við þessa eyðijörð. Líka hafa þar stundum ábúendur á Hólmi heyskap haft og torfskurð, en Hellirskots ábúendur hafa þar fyrir fáum árum eftir orlofi Bessastaðamanna uppbyggt fjárhús. Nú á næst umliðnum vetri kom til greina, hvort brúkun þessa eyðikots skyldi að meiri rjetti Hólms eður Hellirskotsábúendum tilheyra mega, og varð sú endíng þess eftir elstu og bestu manna undirrjetting, þeirra er hjer í nálægð voru og til vissu, að Vilborgarkot heyri til þessari sveit en ekki Seltjarnarnesshrepp, og kynni því ekki Hólmi að fylgja so sem eignarland þeirrar jarðar… Jörðin meina menn upp aftur byggjast mætti, þó með erfiði og bágindum til töðuslægna fyrst um nokkurn tíma…“. Eigandi á þessum tíma var konungur (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 287-8).

Vilborgarkot

Vilborgarkot.

Vilborgarkots er hvorki getið í Jarðatali J. Johnsens frá 1847, Nýrri Jarðabók fyrir Ísland frá 1861 né Fasteignabók 1922. Það hefur því verið byggt úr auðn einhvern tíma á árunum 1861-1900. Karl E. Nordahl kom í Vilborgarkot, barn að aldri, meðan það var enn í byggð og var baðstofan þá með skarsúð. Síðast bjó þar Pétur Ólafsson en kotið fór í eyði aftur 1905 og hann bjó síðan í Elliðakoti í 10 ár og flutti loks í Þormóðsdal (Guðlaugur R. Guðmundsson). Núna er Vilborgarkot í landareign Geitháls.
Við fornleifaskráningu árið 1981 fundust rústir frá kotinu á norðurbakka Hólmsár. Áin rennur í boga norður meðfram túni bæjarins Gunnarshólma og eru leirur þar sem hún breikkar nyrst og austast. Milli lágra stórgrýtishæða, norðaustan við ána, liggur lítill dalur niður að henni í vestur.
Vestast í dalnum, á grösugu sléttlendi sunnan í hæðinni við nyrsta sveig árinnar og um 300 m í norðaustur frá bænum, beint á móti honum, eru rústir Vilborgarkots (Guðmundur Ólafsson).

Helgadalur

Helgadalur

Helgadalur.

Í Helga­dal hefur verið búið frá því á miðöldum en hans er fyrst getið 1395 í skrá um jarðir sem koma undir Viðeyjarklaustur í tíð Páls Magnússonar ábóta (13781403): „Helgadalvr xijc“ (Dipl. Isl. III, bls. 598).
Jörðin „Helgedall“ er svo orðin konungseign þegar minnst er á hana í Fógetareikningum áranna 1547-1552 (Dipl. Isl. XII) og er enn 1704, þá með tvo ábúendur (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 319-20).
Árið 1847 er hún hins vegar komin í bændaeign og býr á henni einn leiguliði (J. Johnsen, bls. 95). Árið 1979 er eigandinn Hreinn Ólafsson og enn er búið á jörðinni (Jarðaskrár).

Helgafell 

Hlegafell

Helgafell – túnakort 1916.

Helgafell hefur trúlega verið í eigu Viðeyjarklausturs en er fyrst getið í Fógetareikningum 1547-1552 þegar það er komið í eigu konungs (Dipl. Isl. XII). Svo er enn árið 1704 og þá eru ábúendurnir tveir (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 316-17). Árið 1847 er jörðin hins vegar orðin bændaeign en ábúendur áfram tveir leiguliðar (J. Johnsen, bls. 95). Árið 1979 eru eigendurnir þessir: Jón Sv. Níelsson að Helgafelli 1, Haukur Níelsson að Helgafelli 2 og Níels M. Hauksson bifreiðastjóri að Helgafelli 3 sem er smábýli, stofnað síðar en hin (Jarðaskrá Landn. rík.).
Jörðin er enn í ábúð.

Hitta

Mosfell

Mosfell/Hitta – kort 1908.

Hittu er getið í Jarðatali 1847 og er þar þá einn ábúandi (J. Johnsen, bls. 95). Í lýsingu Mosfells og Gufunessókna segir að Hitta sé hjáleiga frá Mosfelli „…sem nú er lögð í eyði…“ og undir heimajörðina (Stefán Þorvaldsson). Í Jarðabók 1861 er hún einnig talin hjáleiga frá Mosfelli og sennilega komin í eyði þar eð einungis er getið fornrar hundraðstölu en ekki nýrrar (Ný Jarðabók…). Í heimild frá 1938 segir að Hitta sé hjá­leiga frá Mosfelli og samtúna heimajörð, „…byggð um miðja næst liðna öld…“ og hefur lengi legið undir ábúð Mosfellspresta (Björn Bjarnason, bls. 107).
Utan við bæinn Mosfell er Kirkjugil en neðarlega vestan við það var gamalt lítið kot sem hét Hitta, hjáeiga frá Mosfelli. Þar fyrir ofan einnig vestan gilsins er stykki sem heitir Merkurvöllur og var þar önnur hjáleiga samnefnd frá Mosfelli (Örnefnalýsing Mosfells).
Neðarlega í túninu á Mosfelli suðaustanverðu er lágur hóll. Sker hann sig nokkuð úr umhverfinu. Sé horft á hann úr fjarlægð sést glögglega, m.a. á litnum, að þar hafa staðið einhver hús (Ágúst Ó. Georgsson). Engar rústir eru sjáanlegar á hólnum eða við hann. Árni Magnússon, Víðibóli, sem ólst upp á Mosfelli, segir að þarna hafi verið rústir í túninu (Ágúst Ó. Georgsson).
Í ágúst 1996 grófu fornleifafræðingar frá Þjóðminjasafni Íslands á þessum stað og fundust þá leifar bæjarins. „Þeir gripir sem fundust við rannsóknina síðsumars 1996 benda ótvírætt til þess að grafið hafi verið í rústir híbýla frá 19. öld.

Hlaðgerðarkot

Hlaðgerðarkot

Hlaðgerðarkot – túnakort 1916.

Fyrst er minnst á Hlaðgerðarkot árið 1704 en þá er jörðin í eigu bóndans á Suður-Reykjum og ábúandi einn leiguliði (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 317). Árið 1847 er hún enn í bændaeign með einum leiguliða (J. Johnsen, bls. 95). Síðar var nýbýlið Reykjahlíð stofnað og breyttist nafn jarðarinnar til samræmis við það á tímabilinu 1922-32 (Fasteignabók 1992 og 1932). Frá því um 1958 var hún án ábúðar (Jarðaskrár) en komst einhvern tíma fyrir 1966 í eigu Reykjavíkurborgar. Í heimild frá því ári segir um Reykjahlíð: „Byggðahverfi í Mosfellsdal. Mikill jarðhiti og þaðan var lögð lengsta hitaveitulögn til Reykjavíkur, röskir 20 km, eftir að höfuðborgin hafði keypt jörðina. Þarna er mikið um gróðurhús“ (Þorsteinn Jósepsson, bls. 288). Frá 1968 var garðyrkjubýli á jörðinni. Árið 1979 var hún ennþá eign Reykjavíkurborgar en leigð Jóel Jóelssyni, bónda í Reykjahlíð (Jarðaskrár). Hlaðgerðarkot er hins vegar meðferðarheimili á vegum Samhjálpar.

Hraðastaðir

Hraðastaðir

Hraðastaðir – Hraðastaðir.

Hraðastaða er fyrst getið í skrá yfir kvikfé og leigumála af jörðum Viðeyjarklausturs frá 1395: „aa Hradastodvm. iij. merkur“ (Dipl. Isl. III, bls. 598). Næst er þeirra getið í Fógetareikningum áranna 1547-1552, þá komnir í eigu konungs (Dipl. Isl. XII) og voru það enn 1704, með einn leiguliða eða ábúanda (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 320-321). Árið 1847 voru Hraðastaðir hins vegar komin í bændaeigu og bjó eigandinn þar sjálfur (J. Johnsen) og við gerð Landamerkjaskrár 1890 var Nikulás Jónsson í Norðurkoti eigandi hálfrar jarðarinnar. Hraðastöðum var síðar skipt í fjögur býli.
Hraðastaðir 2 og 3 voru stofnaðir á árunum 1962-4 og sambýlið Hraðastaðir 4 á árunum 1972-3. Árið 1979 voru eigendur þessir: Kjartan Magnússon að Hraðastöðum 1 og dánarbú Bjarna Magnússonar að Hraðastöðum 2, með Bjarna Bjarnson skráðan fyrir skepnunum. Hann var einnig eigandi að Hraðastöðum 3 og Kjartan Jónsson að Hraðastöðum 4. Jörðin er enn í ábúð (Jarðaskrár).

Hraðastaðir – Legstaður; Hraðaleiði

Hraðastaðir

Hraðastaðir fyrrum.

Í fornleifaskýrslu árið 1817 staðsetur séra Markús Sigurðsson Hraðaleiði „…á Landamerkjum Mosfells og Hradastada, á grasvöxnum Areyrarbakka, hvar hærra Landslag med Móabarde umgyrder fyrir ofan so mögulegt væri, ad Áinn hafde einhvorntima runnid kríngum nefndan Hól“ (Sveinbjörn Rafnsson, bls. 258 o.þ.tilv.rit). Um
þetta ber Markúsi saman við séra Stefán
Þorvaldsson 1855: „…haugur einn er hér í dalnum, á landamerkjum milli Hraðastaða og Mosfells, á sléttu undirlendi við Suðurá, og er haugur sá nefndur Hraðaleiði“ (Stefán Þorvaldsson, bls. 240). Magnús Grímsson segir að hóllinn sé „…ofarlega á Víðinum sunnanvert, þar sem Reykjaá kemr fram úr Helgadals mynni og beygist vestr á… …á rennisléttri flöt niðr við ána að norðanverðu. Hóll þessi heitir Hraðaleiði… …og stendr í mörkum milli Mosfells og Hraðastaða…“ (Magnús Grímsson, bls. 273).
Skv. Sigurði Vigfússyni 1884-5 er hóllinn „…skammt fyrir neðan Hraðastaði, suðr við syðri ána…“ (bls. 74).

Hraðaleiði

Hraðaleiði.

Í Örnefnalýsingu 1968 segir: „Merkin móti Mosfelli eru þvert yfir Víðinn frá Köldukvísl móti Laxnesmynni, ofan við Svörtukeldu og í Hraðaleiði, sem er hóll við Norður-Reykjaá“ (Ari Gíslason). Skv. Fornleifaskráningu 1980 er þetta vestast í túninu eða í útjaðri þess, „…neðan afleggjarans inn í Helgadal… …um 600 m vestan við Hraðastaði og 2030 m norðan við Köldukvísl, nokkurn veginn fyrir miðju mynni Helgadals“ (Ágúst Ó. Georgsson).
Séra Markús lýsir Hraðaleiði svona: „Aflangr Holl, hérumbil 18 al langr og 6 ad breidd…“ (Sveinbjörn Rafnsson). Séra Stefán bætir við: „Hann er aflangur og snýr í norður og suður og ekki allstór“ (Stefán Þorvaldsson). Magnús segir: „…ílángr hóll, eigi mjög stór“ og um leiðið: „Snýr það nokkurnveginn í suðr og norðr… Að hóllinn sé af mönnum gjörðr held eg eflaust, því svo er að sjá, sem sín gjóta sé hvorumegin hans, þar sem moldin hefði verið tekin upp úr. Norðrendi leiðisins er nú uppblásinn mjög. Leiðið er frá jörðu hérumbil mannhæð, eða vart það, þar sem það heldr sér bezt, og svosem 5 eðr 6 faðma lángt, en hálfu mjórra.
Ekki er að sjá að leiði þetta hafi nokkurn tíma verið grafið upp af mönnum, og væri víst vert að gjöra það. Sama er að segja um Þormóðsleiði, sem kvað vera líkt Hraðaleiði, og stendr í Seljadalnum sunnan undir Grímmannsfelli. Í því á að liggja Þormóðr, sá er Þormóðsdalur er kenndur við“ (Magnús Grímsson). „Dálítill hóll“ segir í lýsingu Sigurðar Vigfússonar en í Örnefnalýsingu: „…stór rústarhóll, þúst eða haugur… …sem á að vera haugur Hraða…“ (Ari Gíslason). Að sögn skrásetjara sem skoðaði hólinn 1980 er hann lágur, aðeins um 1,7 m á hæð, 1012 m á lengd, um 6 m á breidd og „…dregst nokkuð að sér að austan og vestanverðunni“. Hann er allur grasi vaxin en sér þó í beran svörðinn á nokkrum stöðum. „Þar er fyrir mold, blönduð fíngerðri möl“.

Hraðastaðir

Hraðastaðir.

Skrásetjari telur ólíkt Magnúsi „…um náttúrulegan hól að ræða… Sé þetta raunverulegur haugur, þá er hann mun stærri en flest fordæmi vísa hér á landi!“ Hann vill þó ekki taka af allan vafa: Hóllinn „…sker sig óneitanlega frá umhverfinu. Enginn hóll annar er þarna nálægt, einungis lágar bungur“ (Ágúst Ó. Georgsson).
Munnmæli:
Magnús Grímsson bendir á að í Landnámu er nefndur Þorbjörn Hraðason frá Mosfelli en miðað við það hefur Hraði verið til og þá „…líklega byggt sinn bæ um sama leyti og Þórðr skeggi“ (Magnús Grímson, bls. 273).
Eftir að hafa lýst Hraðaleiði vitnar séra Stefán í munnmæli: „Það er mælt, að Hraði hafi verið þræll í fornöld, er hafi fengið frelsi, og hafi hann þá reist bæ sinn þar, er enn kallast Hraðastaðir, og sé þessi haugur yfir hann orpinn og við hann kenndur“. (Stefán Þoraldsson, bls. 240).

Hrísbrú

Hrísbrú

Hrísbrú – túnakort 1916.

Hrísbrúar er fyrst getið í Egils sögu en hún er talin rituð um 1200. Hrísbrú er með vissu komin í byggð ekki seinna en á 12. öld.
Næst kemur Hrísbrú við sögu í Fógetareikningum 1547-1548 en jörðin er þá komin í kon­ungs­eigu (Dipl. Isl. XII). Líklega hefur Hrísbrú verið í eigu Viðeyjarklausturs áður en hún komst undir konung. Árið 1704 er jörðin enn konungseign. Jón Eyjólfsson, sýslumaður á Seltjarnarnesi hefur til nota af jörðinni „tvo sjöttunga.“ Einn leiguliði hefur til ábúðar þriðjung af jörðinni (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 325-326). Í bændaeigu er jörðin 1847 og eru ábúendur tveir, eigandi og leiguliði (J. Johnsen, bls. 95).
Hrísbrú hefur eflaust verið í samfelldri ábúð frá miðöldum og í dag (1979) eru ábúendur tveir, eigandi Ingimundur Árnason og leiguliði Ólafur Ingimundarson (Jarðaskrár).
Talið er, að kirkja hafi verið á Hrísbrú og er þess getið í Egils sögu. Hún var seinna flutt að Mosfelli. Kirkja þessi var reist um árið 1000 og stóð í um 150 ár (sjá síðar, sbr. líka Mosfell).

Hrísbrú – Kirkja
HrísbrúÍ Örnefnalýsingu Hrísbrúar getur um stæði kirkjunnar, sem þar var talin hafa verið: „Vestur af bæ er stór hóll, sem heitir Kirkjuhóll. Hann er norðvestur frá bæ; þar stóð kirkjan áður fyrr, og kirkjugarður var hér ofan við tröðina“ (Ari Gíslason).
Svo segir Magnús Grímsson: „Þess er þegar getið, að þegar kristni var í lög leidd á Íslandi var Grímr að Mosfelli skírðr, og lét þar kirkju gjöra. En sú kirkja stóð á Hrísbrú. Er eptir því alllíklegt, að bær Gríms, sem þá var hinn eini undir fellinu, hafi staðið þar, sem Hrísbrú er nú, og skal þar um tala síðar betr. Grímr hefir byggt sína kirkju eptir árið 1000, líklega stuttu eptir, en hún stóð á sama stað þángað til í tíð Skapta prests Þórarinssonar, eðr þángað til um miðja tólftu öld. Þessi Skapti prestur Þórarinsson er að ætlan manna sá, sem talinn er meðal nokurra presta, kynborinna íslenzkra, er uppi voru árið 1143. Og í formálanum fyrir Egils sögu (Rvík 1856, vi bls.) byggir Jón Þorkelsson á því þá ætlan sína, að kirkjuflutníngurinn hafi farið fram einhvern tíma á árunum 1130-1160. Hefir því kirkjan staðið á Hrísbrú hérumbil … 150 ár“ (bls. 255).
Talsverðar vangaveltur eru um hvar hinn fyrsti bær að Mosfelli hafi staðið. Kålund álítur að hann hafi upp­haf­lega staðið á Hrísbrú ásamt kirkjunni. Síðan hafi bærinn verið fluttur að Mosfelli og kirkjan á eftir (Kålund, bls. 50). Sig­urður Vigfússon ræðir þetta mál einnig en kemst að annarri niðurstöðu en Kålund. Álítur hann frásögn Egils sögu um kirkju á Hrísbrú, sem seinna var flutt að Mosfelli, rétta. Um bæjarflutning og þar með nafnbreytingu var ekki að ræða. Álítur Sigurður að kirkjan á Hrísbrú hafi verið flutt að Mosfelli á árabilinu 1130-1160 (Sigurður Vigfússon, bls. 62-74).
Í útgáfu sinni að Egils sögu telur Sigurður Nordal líklegast að kirkjan hafi fyrst verið byggð fjarri bænum að Mosfelli en seinna verið flutt að bænum og hjáleigan Hrísbrú byggð á gamla kirkjustaðnum (Egils saga, bls. 298 n.m.).

Hrísbrú

Hrísbrú – uppgröftur.

Talsvert hefur verið skrifað um staðsetningu hinnar fornu Hrísbrúarkirkju. Um þetta segir Magnús Grímsson: „Það er varla von, að nein viss merki sjáist nú Hrísbrúarkirkju, eptir hérumbil 700 ára tíma. En þó eru þar nokkur vegsummerki enn, sem styðja söguna. Skammt útnorðr frá bænum á Hrísbrú, norðan til við götu þá, er vestr liggur um túnið, er hólvera ein, hvorki há né mikil um sig. Það er nú kallaðr Kirkjuhóll. Stendur nú fjárhús við götuna, landsunnanmegin í hóljaðri þessum. Þegar menn athuga hól þenna lítr svo út, sem umhverfis hann að vestan, norðan og austan, sé þúfnakerfi nokkuð, frábrugðið öðrum þúfum þar í nánd. Þetta þúfnakerfi á að vera leifar kirkjugarðsins (því kirkjan á að hafa staðið á hólnum) og er það alllíkt fornum garðarústum. Innan í miðju þúfnakerfi þessu á kirkjan sjálf að hafa staðið, og þar er varla efunarmál, að þar hafi til forna eitthvert hús verið. Eigi er hægt að ætla neitt á um stærð rústar þessarar … Tveir steinar sáust uppi á hólnum, sokknir í jörð að mestu; voru þeir teknir upp haustið 1857, og líta út fyrir að hafa verið undirstöðusteinar, óvandaðir og óhöggnir, en ekki alllitlir; má vera að þeir hafi verið í kirkjunni. Við upptekníng steina þessara sýndist svo, sem moldin í hólnum væri lausari og mýkri,(?) en í túninu fyrir utan hólinn. Það mun því efalaust, að kirkja Gríms Svertíngssonar hafi hér staðið. Annarsstaðar getur hún varla hafa verið á Hrísbrú, enda bendir og nafnið, Kirkjuhóll, á að svo hafi verið. Hefir þar og verið kirkjustæði allfagurt, en ekki mjög hátt“ (bls. 255-6).

Hrísbrú

Hrísbrú.

Um þetta segir Kålund: „… umiddelbart ved gården hrisbru et par skridt nordvest for denne påvises der en høj Kirkehol (Kirkjuhóll), hvor den gamle kirke skal have stået. Men hvor kirken oprindelig er bleven bygget, må næsten med nødvændighet gården (hoved­ården) på den til have stået. Det er, som allerede bemærket, gennemgående ved alle de islandske kirkesteder, at kirken oprindelig er bleven bygget enten lige over for eller ganska tæt ved våningshusene, en fremgangsmåde, som var så meget mere praktisk, som man ofte, hvad den oven for anførte begivenhed fra Gunl. frembyder et eksempel på, måtte benytte kirken som det eneste nogenlunde sikre tilflugtssted under fjendlige overfald“ (bls. 49-50).
Sigurður Vigfússon segir eftirfarandi um staðsetningu kirkjunnar að Hrísbrú: „…enn þar á móti sést enn nokkur vottur fyrir, þar sem kirkjan hefir átt að standa norðvestr frá bænum; þar er enn kallaðr Kirkjuhóll, og sýnist þar sumstaðar votta fyrir kirkjugarðinum umhverfis, enn það er orðið að þúfnabörðum og allr hóllinn kominn í þýfi, svo ekkert verulega sést fyrir kirkjutóttinni og engu máli verðr hér við komið; vera má; að hér hafi verið sléttað yfir og síðar alt orðið að þúfum. Síra Magnús /Grímsson, í „Athugasemdum við Egilssögu“/ segir, að hér sé öskuhaugar afarfornir og furðu miklir, þarf að grafa það alt í sundr; enn hann getr ekki um, að það hafi verið gert, enda sá eg þess engin merki…“ (bls. 65). Túninu hallar frá Mosfelli í suður. Mynda tveir hólar pall eða brún örskammt NV af bænum. Neðan við stall þennan, hallar túninu mun minna, er nánast flatt. Kirkjuhóll er þannig á miðju heimatúni. Að baki áhaldahúss eða skúrs, um 20 m vestur frá gamla íbúðarhúsinu og 50 – 60 m norðan við það nýja (Ágúst Ó. Georgsson).

Hrísbrú – Sel

Hrísbrúarsel

Hrísbrúarsel.

Í heimild frá árinu 1704 segir: „Selstöðu á jörðin í heimalandi. Landþröng er ef ei er brúkuð selstaða“ (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 325-326).
Í Örnefnalýsingu Hrísbrúar er getið um sel: „Að norðanverðu meðfram frá merkjum heita fyrst Selflatir. Þær munu hafa tilheyrt selinu í gamla daga. Þetta eru fallegar flatir, af sumum nefndar Blómsturvelli“ (Ari Gíslason).
Lítil kvos, öll grasi vaxin og áberandi græn. Sker sig þannig vel frá umhverfinu. Hvammur þessi er um 30 m breiður. Hér er um eina rúst að ræða sem telja má nokkurn veginn örugga. Stærð hennar að innan er um 2×4 m. Dyr hafa verið á miðjum vestur lang­vegg. Tóft þessi er að hluta grafin inn í brekkuna, sem er á bakvið (austanvið). Veggir eru útflattir og breiðir. Hæðin er ca. 0,5 m en þykktin ca 12 m. Við hlið þessarar rústar að norðan mótar fyrir einhverju, sem verið gæti önnur tóft. Sé hér um tóft að ræða, hefur hún verið um 2×23 m að innanmáli. Þessi „tóft“ er samsíða fyrst töldu rústinni og hefur haft dyr móti vestri. Sunnan við fyrstnefnda rúst mótar ógreinilega fyrir einhverju, sem verið gæti tóft. Sé svo hefur hún verið að innanmáli um 2×23 m. Inngangur hefur að líkindum verið á móti vestri. Um 8 m vestan við síðasttöldu rúst er eitthvað. Hér gæti verið um einhver mannaverk að ræða. Þarna virðist hafa verið grafið ofan í brekku, sem hallar lítið eitt til norðurs. Stærð þessa er um 3,5×5 m, dýptin um 0,5 m, opin til norðurs, en fyrir framan opið er nokkurn veginn slétt flöt. Allar þessar rústir eru fornlegar að sjá. E.t.v. gætu þetta verið selsrústir frá Hrísbrú (sbr. skrá um menningarminjar. Niðurgrafna tóftin hefur þá verið kvíar en hinar selið (Ágúst Ó. Georgsson).
Munnmæli:

Hrísbrú

Hrísbrúarsel – uppdráttur.

Guðmundur Þorláksson, bóndi Seljabrekku, sagði 25.7.1980: Við sunnanverða Leirvogsá, á móts við bæinn Gröf er holt eða hæð. Kveðst Guðmundur hafa séð einhverjar rústir þar. Líklega er um seljarústir að ræða en gæti þó verið stekkur. Skoðaði hann þetta ekkert nánar, heldur sá rústirnar úr fjarlægð. Á herforingjaráðskortinu danska er svæði þarna rétt hjá kallað Sveinamýri. Sagt er að svæðið sem rústirnar eru á kallist Selflatir. Ágúst Ó. Georgsson merkti Selflatir inn á ljósrit af 1:50000 korti, skv. tilsögn Guðmundar Skarphéðinssonar, bónda á Hrísbrú. Ber þeim Guðmundum saman um hvar Selflatir hafi verið. Rústin er sem sagt norðan við Mosfell (fjallið), nálægt ánni (Leirvogsá) og á móts við bæinn Gröf í Kjalarneshreppi.

Laxnes

Laxnes

Laxnes – túnakort 1916.

Laxnes hefur sennilega verið í eigu Viðeyjarklausturs áður en þess er fyrst getið í Fógetareikningum 1547-1552, þá komið undir Danakonung (Dipl. Isl. XII). Árið 1704 var þetta konungsjörð með tvo ábúendur (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 321-2) en 1847 var Laxnes komið í bændaeign og með tvo leiguliða (J. Johnsen). Það skiptist nú í Laxnes 1 og 2, og var Mosfellshreppur ásamt fleirum orðinn eigandi að Laxnesi 1 árið 1979. Jörðin er enn í ábúð (Jarðaskrár).

Laxnes – Sel (frá Mosfelli)
Upp af Gljúfrasteini „…heitir Selás; þar voru eitt sinn byggð fjárhús, sem nefnd voru Hóll“ (Ari Gísla­son).

Lágafell

Lágafell

Lágafell – túnakort 1916.

„Lágafell í Mosfellssveit er í landnámi Þórðar skeggja, en hann nam land á milli Úlfarsár og Leiruvogs“ (Landnámabók I, bls. 48). Jörðin Lágafell er fyrst nefnd í skrá um jarðir sem komið hafi undir Viðeyjarklaustur eftir að Páll ábóti kom til Viðeyjar. Lágafell er þar skráð 20 hundraða jörð. Skrá þessi er gerð 1395 (Dipl. Isl. III, bls. 598).
Árið 1541 er hin nýja kirkjuskipan samþykkt um Skálholtsbiskupsdæmi. Konungur hafði slegið eign sinni á klaustureignir í löndum sínum og svo varð einnig hér á landi. Þróunin gat því ekki orðið á annan veg en að Lágafell yrði krúnujörð.
Árið 1547 fær Jón Bárðason „lífsbréf“ af konungi fyrir ábýlisjörð sinni „Laugefeldt“ [Lágafelli] (Dipl. Isl. XI, bls. 593). Í Fógetareikningum Kristjáns skrifara og Eggerts Hannessonar frá 1547-1552 er Lágafell skráð, leiga og landskylda jarðarinnar. Leigan, landskylda og skreiðargjaldsreikningar þessir eru af konungsjörðum í Borgarfirði, Viðeyjarklaustursjörðum, öðrum konungsjörðum í Kjalarnesþingi og af Skógaog Merkureignum (Dipl. Isl. XII, bls. 111, 152, 137, 391-434).

Lágafell

Lágafell 1985.

Sumarið 1703 skrifuðu þeir Árni Magnússon og Páll Vídalín jarðabók Mosfellssveitar og í henni er eftirfarandi lýsing Lágafells: „Eigandinn kóngl. Majestat. Ábúendur Jón Ólafsson, býr á hálfri, annað Þorvaldur Teitsson, býr á hálfri. Landskuld i c. Betalast með fríðu uppá sama taxta sem áður greinir að kvikfjenaður sje hjer í sveit af Bessastaðamönnum í landskuldir tekinn. Við til húsabótar leggja ábúendur. Leigukúgildi iii. Leigur betalast í smjöri heim til Bessastaða eður Við­eyjar. Kúgildin uppýngja ábúendur. Kvaðir eru mannslán um vertíð, eitt af allri jörðinni, og gjalda ábúendur það til skiptis. Í tíð Heidemanns voru tvö mannslán, ef tveir bjuggu á jörðunni, og gaf hann þá tíu fiska þeim, er í það sinn ekki fjell til að gjalda mannslánið. Hestlán til alþingis tvö ef tveir ábúa og hestar eru til, og í tíð Jens Jurgenssonar kveðst Jón Olafsson hafa til látið í þessa kvöð hross sex vetra gamalt, og það síðan aldrei aftur fengið og öngvan betaling fyrir. Dagslættir tveir í Viðey, gjaldast in natura ella leysast með tíu fiskum og fæðir bóndinn sig sjálfur nema hvað einu sinni á dag er í tje látinn lítill mjólkurmatur. Hríshestar tveir, sinn af hverjum. Tveir hestar af digulmó og stundum fjórir. Torfskurður í mógröfum síðan Heidemanns tíð að aflögðust megin skipaferðir, en þessa kvöð hefur umboðsmaðurinn Páll Beyer í næstu tvö ár ekki kallað. Skipaferðir allt fram á Heidemanns tíð, en aflögðust þá upp hófst forpachtningin, og skip kom ekki lengur í Seyluhöfn. Timbur í Þingvallaskóg að sækja á tveimur hestum og fæða sig sjálfur.“

Lágafell

Lágafell.

Þessi kvöð hófst og endist í Heidemanns tíð. Húsastörf á Bessastöðum í Heidemannstíð, stundum í samfelda þrjá daga, og var hvorki gefinn matur nje drykkur. Fóður um vetur, aldrei minna en ein kyr að þriðjúngi og aldrei meira en ein kýr að fullu. Er þessi kvöð í fyrstu so upp komin, að í tíð foreldra þeirra, sem nú eru á lífi, voru frá Viðey skikkuð tvö lömb á bæ í sveitina og síðan smáaukið. Þessi kvöð hefur nú í ár ekki kölluð verið og ekki meir í fyrra en eins lambs fóður. Kvikfjenaður hjá Jóni viii kýr, ii kvígur veturgamlar, ii úngkálfar, xvii ær með lömbum, i geld, vi sauðir gamlir, vi þrevetrir, vii tvævetrir, xiiii veturgamlir, ii hestar, i foli veturgamall, ii hross, i unghryssa; hjá Þorvaldi vi kýr, ii kvígur veturgamlar, i naut þrevett, ii úngkálfar, xii ær með lömbum, ii sauðir tvævetrir, xi vet­urgamlir, i hestur, iii hross, i únghryssa.
Fóðrast kann á allri jörðinni x kýr, xxx lömb, ii hestar. Heimilismenn hjá Jóni vii, hjá Þorvaldi vi. Torfrista og stúnga meinslæm. Mótak til eldiviðar bjarglegt. Landþröng er mikil. Selstöðu hefur jörðin áður brúkað í Stardal. Vatnsból meinlega erfitt, þá snjóvetrar eru (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 313-315).

Lágafell

Lágafell.

Í Jarðabók fyrir Kjósarsýslu, sem undirrituð er af Jóni Eyjólfssyni, 9. nóv. 1695, er leiga Lágafells skráð eitt hundrað eins og í Jarðabók Árna Magnússonar (Björn Lárusson, bls. 130-131).
Í Nýrri jarðabók fyrir Ísland, sem samin er eftir tilskipun frá 1848, er Lágafell skráð 20 hundraða jörð að fornu mati en samkvæmt nýrra mati 24,40 h. og með hjáleigunni Lækjarkoti 28,70 h.
Í skrá um jarðir Viðeyjarklausturs frá 1395 er Lágafell talið 20 h. jörð sem og í jarða­bókinni frá 1695. Heildarmat Lágafells I samkvæmt fasteignamati í sýslum, sem öðlaðist gildi 1. maí 1957, var 239.000 kr (Ný jarðabók fyrir Ísland, bls. 4041; Fasteignabók I, bls. 416417).
Í lýsingu Mosfells og Gufunessókna 1855 eftir séra Stefán Þorvaldsson er Lágafell einnig talin 20 h. jörð (bls. 227).

Leirvogstunga

Leirvogstunga

Leirvogstunga – túnakort 1916.

Leirvogstunga hefur sennilega áður verið í eigu Viðeyjarklausturs en hennar er fyrst getið í Fógetareikningum 15471552, þá í konungs eigu. Jörðin er enn þá konungseign árið 1704 og bjó Björn Ásgrímsson þá á þrem fjórðungum hennar en ekkjan Margrét Bjarnadóttir á einum fjórðungi (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 3267). Árið 1847 var hún áfram konungsjörð með tvo ábú­endur (J. Johnsen). Leirvogstunga var í tvíbýli til ársins 1909 (Túnakort). Árið 1979 var Guðmundur Magnússon eigandi hennar og hún er enn í ábúð (Jarðaskrár).
Túnið í Leirvogstungu var allt „kargþýft“ árið 1874 en þá var byrjað að slétta litla bletti. Þegar Túnakort var gert 1916 var „…rétt allt sléttað, sem tún [var] talið og nokkuð grætt út við mel og plægður blettur ógróinn“.
Vestan við Ljósateig er „Óskiptaengi, sem var slegið til skiptis frá sambýlismönnum“ meðan tvíbýli var á jörðinni. Enn vestar „…þvert yfir tunguna…“ er „…all­mikið svæði, sem nefnt er Norðureyrar“ (Svavar Sigmundsson).
„Hjá Leirvogstungu, skammt fyrir ofan túnið, fellur“ Kaldakvísl, skv. Magnúsi Grímssyni „…í gljúfrum nokkrum, og er þar foss í henni býsna hár, sem laxinn kemst að en ekki yfir. Undir fossi þessum hafa Leirvogstúngumenn opt talsverða veiði“ (Magnús Grímsson, bls. 273).

Leirvogstunga

Leirvogstunga.

Magnús gefur þessar upplýsingar til að skýra hvers vegna fiskur gengur ekki upp í ána upp í Mosfellsdal en sagnir eru um að það sé vegna álaga sem kerling nokkur í Leirvogstungu lagði á Laxnes. Eins og bæjarnafnið bendir til á þar að hafa verið laxveiði til forna en þá bjuggu kerlingar tvær í Laxnesi og Leirvogstungu, gamlar og fornar í skapi, sem deildu um veiði í ánni „…og heituðust útaf henni. Varð Leirvogstúngu kerlingin ofaná í heitingunum og mælti svo um, að aldrei framar skyldi lax gánga upp í ána upp í dalinn. Hafa þau álög haldist æ síðan, og því er engin veiði í Mosfellsdalnum“ (Magnús Grímsson, bls. 273).

Miðdalur

Miðdalur

Miðdalur – túnakort 1916.

Miðdalur hefur trúlega verið í eigu Viðeyjarklausturs en er fyrst getið í Fógetareikningum 1547-52 sem „Mýdall“ eða „Mijdall“, þá í eigu konungs. Árið 1704 er hún ennþá konungsjörð og ábúandi einn (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 289-91). Árið 1847 er Miðdalur hins vegar kominn í bændaeign og býr eigandinn þar sjálfur (J. Johnsen).
Einhvern tíma á árunum 193857 var jörðinni skipt í Miðdal I og II. Skv. Fasteignabók 1957 er Miðdalur II þó í eyði og nýtt frá Dallandi en í Eyðijarðaskrá 1963 kemur fram að Dalland var myndað úr Miðdal II og nýtt af eiganda. Jarðaskrá Landnáms ríkisins staðfestir að Miðdalur II var ekki í ábúð þegar byrjað var að halda jarðaskrár 1958 og hefur ekki verið síðan. Miðdalur I er hins vegar ennþá í ábúð.

Miðdalur

Miðdalur.

Þess ber að geta að fyrr á öldum hafa margar hjáleigur heyrt undir Miðdal. Flestar virðast þó hafa farið í eyði snemma, jafnvel fyrir 1700. Má þar nefna Miðdalskot, Sólheimakot, Borgarholt eða Borgarkot, Búrfellskot og Búrfell.
Loks má nefna að sögulegur viðburður átti sér stað í Efri-Djúpadal í landareign Miðdals, við konungsheimsóknina árið 1907, og segir Tryggvi Einarsson bóndi frá því í Örnefnalýsingu: „…sá faðir minn Einar Guðmundsson í Miðdal að öllu leyti um aðbúnað og móttöku Friðriks VIII, Danakonungs á leið sinni til Þingvalla. Var dalurinn allur flöggum prýddur, byggður var eldhússkúr en matarveisla í tjaldbúðum. Fékk faðir minn lof fyrir stundvísi og aðbúnað allan“ (Tryggvi Einarsson).
Í Örnefnalýsingu má finna margs konar upplýsingar um búskap og landshætti í Miðdal. Austur af Dýjadalshnúk er t.d. svo kallaður Áarfoss í Seljadalsá sem hefur það sérkenni að þegar niður hans heyrist heim að bænum „…bregst ekki að heyþurrkur verður í Miðdal innan tveggja til þriggja daga“ (Tryggvi Einarsson).

Miðdalur – Hjáleiga; Miðdalskot

Miðdalskot

Miðdalskot.

Í Jarðabókinni frá 1704 er getið um Mýdalshjáleigu með einn ábúanda og er það sennilega hið svo kallaða Miðdalskot sem var hjáleiga frá Miðdal. Hún hefur hins vegar lagst í eyði þegar getið er um hana í síðari heimildum. Hvorki er minnst á hana í Jarðatali J. Johnsen frá 1847 né í Nýrri jarðabók 1861 enda hafði kotið skv. Lýsingu Mosfells og Gufunessókna frá 1855 verið „…lagt í eyði fyrir tæpum 20 árum…“, þ.e. um
1835 (Stefán Þorvaldsson, bls. 238).
Árið 1938 segir Björn Bjarnason að Mýdalskot hafi fyrir löngu verið lagt undir heimajörðina Miðdal (bls. 108). Næst er svo kotið nefnt í Örnefnalýsingu og fylgir ýtarleg upptalning tengdra Örnefna: „Í Seljadalsá er foss er Áarfoss heitir… Suður af Áarfossi er kvos er Kotadalur heitir. Nokkru ofar við Seljadalsá er allstór bergdrangur er Krummaborg heitir…. Við Krummaborg rennur lækur út í Seljadalsá er Bæjarlækur heitir. Milli Bæjarlækjar og Seljadalsár er mjór tangi er Lækjartangi heitir. Spölkorn upp með Bæjarlæknum að vestan er Miðdalskot sem var hjáleiga frá Miðdal. Sést þar vel til allra húsa, þarna er fallegur grasi vaxinn hóll er Kotahóll heitir.

Miðdalur – Hjáleiga; Sólheimakot

Sólheimakot

Sólheimakot – uppdráttur.

Sólheimakots er hvorki getið í Jarðabók Árna og Páls árið 1704 og ekki heldur í síðari tíma jarðabókum en í Lýsingu Mosfells og Gufunessókna frá 1855 segir: „Enn eru nefnd 2 eyðikot í Miðdalsheiði, nl. Sólheimakot og Búrfellskot, en ekki vita menn hve nær þau hafa lagzt í eyði, enda er mjög langt síðan“ (Stefán Þorvaldsson, bls. 238).
Á árunum 19328 varð hins vegar til nýbýlið Sólheimar en um það segir í Fasteignabók 1938: „Járnvarið timburhús, engin hlaða, nautgripir 2, sauðfé 10, hross 2“. Sama ár segir Björn Bjarnason: „Áður hjáleiga frá Miðdal, en nú endurreist nýbýli“. Virðist líklegt að hann sé að vísa til hins forna Sólheimakots og að Sólheimar hafi verið reistir í landi þess. Þeir voru þó án ábúðar a.m.k. frá 1958 og aldrei hefur verið þar mikill búskapur. Eigendur 1979 voru erfingjar Guðmundar Gíslasonar læknis að Keldum og nú er þar sumarbústaður (Fasteignabók, Jarðaskrár). Tryggvi Einarsson í Miðdal getur um rústir kotsins í Örnefnalýsingu: „Austan við Augnlæk er Sólheimamýri. Upp af norðurenda Sólheimamýrar er Háabrekka ofan við Háubrekku eru Brekkubrúnir sunnan við Brekkubrúnir er fallegur hvammur er Sauðhúsahvammur heitir. Ofan við Sauðhúsahvamm eru sauðhús er afi minn byggði. Móts við Sauðhúsahvamm er kriki er Fífukrókur heitir. Skammt suður af Fífukrók er Sólheimakot hjáleiga frá Miðdal sést þar vel fyrir veggjum. Ofan við Sólheimakot er Sólheimamelur, sunnan við Sólheimamel er mýri er Dugguósmýri heitir. Ofan við Sólheimabrúnir“.

Miðdalur – Sel; Víkursel

Víkursel

Víkursel.

Í Örnefnalýsingu segir: „Austur af Selvatnsenda er Víkursel talið vera frá Vík á Seltjarnarnesi, sést þar fyrir selstóftum. Norður af Víkurseli eru Selbrúnir“ (Tryggvi Einarsson). Þetta sel er skv. Fornleifaskráningu staðsett á örlitlum mosa og grasi grónum hól, í mýrarkvos, um 50 m austur af vatninu (Bjarni F. Einarsson).
Hóllinn sem selið stendur á er stórþýfður, ólíkt nánasta umhverfi sínu, og er selið ógreinilegt vegna mosaþúfna. Það er þó aflangt, um 4,5×9 m að stærð, veggir úr torfi, um 1,5 m á breidd og 0,30,4 m á hæð. Selið skiptist í tvennt, fremra hólf A með dyrum í norður og aftara hólf B en á því sjást engar dyr. Stefnan er NS (Bjarni F. Einarsson).

Miðdalur – Sel; Litla-Sel

Litla-Sel

Litla-Sel.

Í Örnefnalýsingu segir: „Austan við Hrútslæk skagar grýtt holt út í Selvatnið sem Bleikjunef heitir. Nokkru austar við Selvatn skagar annað holt út í vatnið, það heitir Urriðanef. Milli Bleikjunefs og Urriðanefs er vík er Litla-Selsvík heitir. Norður af Litlu-Selsvík er Litla-Sel sést aðeins móta fyrir rústum þar. Ofan við Litla-Sel er Litlaselshæð“ (Tryggvi Einarsson). Þar kemur einnig fram að Urðarlágarlækur „…rennur í austurenda Selvatns…“ og „…nokkru norðar rennur Sellækur í Selvatn…“ (Tryggvi Einarsson).

Miðdalur – Hjáleiga; Borgarkot

Borgarkot

Borgarkot.

Fyrst er minnst á „Borgar Kot“ í Jarðabók árið 1704 en skv. henni var það „Hjáleiga af Miðdal, nú í auðn og hefur nú yfir ár um kring í eyði legið, en var í fyrstu bygð í fornu fjárborgarstæði fyrir vel tuttugu árum… Fóðrast kunnu í þessari hjáleigu, fyrir utan það er af heimatúninu var lagt, ii kýr naumlega… Meina menn ei aftur byggjast kunni með sömu kostum, nema því meir að af heimajörðunni væri til lagt“ (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 291). Borgarkot hefur miðað við þetta verið í eyði frá 1703 enda hvorki getið í Jarðatali J. Johnsens frá 1847 né Jarðabók 1861. Í Örnefnalýsingu er hins vegar nefnt Borgarholt: „Norður af upptökum Hrútslækjar er Langabrekka. Milli Löngubrekku og Langamels er Langamýri. Norður af Löngumýri er Borgarholt þar var hjáleiga frá Miðdal.
Austan við Borgarholt er mýrarkriki er Borgarholtsmýri heitir. Suðvestan við Borgarholt er mýrarsund er Borgarholtskelda heitir. Suðvestan við Borgarholt er jarðfastur bergdrangur sem Borgarholt dregur nafn sitt af og heitir Borgin“ (Tryggvi Einarsson). Líklegt má teljast að Borgarholt sé hið sama og kallað er Borgarkot í eldri heimildum.

Miðdalur – Hjá­leiga; Búrfellskot

Búrfellskot

Búrfellskot.

Búrfellskots er hvorki getið í Jarðabókinni frá 1704, Jarðatali J. Johnsens 1847 né Jarðabók 1861. Í Lýsingu Mosfells og Gufunessókna frá 1855 segir að Búrfellskot sé eyðikot á Miðdalsheiði, ekki sé vitað hvenær það lagðist í eyði en það hafi verið fyrir löngu síðan (Stefán Þorvaldsson, bls. 238).
Síðar er minnst á rústir kotsins í Örnefnalýsingu: „Norðan við Mómýri og upp með Seljadalsá er Búrfellsmýri… Norðan við Búrfellsmýri er Búrfell, sunnan við Búrfell er kargaþýfður mói þar var Búrfellskot. Sést vel fyrir bæjarrústum þar. Búrfellskot var hjáleiga frá Miðdal. Sunnan í Búrfellstind er Búrfellsbrekka. Vestan í Búrfelli neðarlega eru grastorfur sem Búrfellstorfur heita… Inn með Búrfelli að norðan er Búrfellsfoss í Seljadalsá“ (Tryggvi Einarsson). Þessar rústir voru skoðaðar við fornleifaskráningu árið 1982 en þar segir að þær séu í þýflendi, neðarlega suðvestan megin í fjallshlíð. Óljóst mótar fyrir veggjum.

Miðdalur Hjáleiga; Búrfell

Búrfellskot

Búrfell – kort 1908.

Fyrst er greint frá Búrfelli í Jarðabók 1704: „Burfell, önnur hjáleiga frá sömu jörð [Miðdal] og hefur í eyði legið hjer um 8 ár… Fóðrast kunna ii kýr og ekki meira… Þessi hjáleiga var fyrst það menn til vita uppbyggð fyrir vel 20 árum, þar sem menn meina að fyrir lángri æfi muni býli verið hafa, og veit þó enginn til þess annað, en hvað fornar girðíngar og húsabrotsleifar, sem þar voru fyr en nú að nýju var uppbygt, sýna fornrar bygðar merki. Lagðist þetta kot mest í eyði fyrir óbærilegum átroðningi þjóðgötu, sem liggur í gegnum túnið, og er þetta kot ekki þess erfiðis vert, sem kosta vildi að gjöra þar bygð að nýju, sá er ágángi ferðamanna gæti af hrundið, og þykir því ei aftur byggjandi“ (bls. 2912). Búrfells er hvorki getið í Jarðatali J. Johnsens frá 1847 né í Jarðabók 1861 og hefur líklega legið í eyði frá því um 1696. Á árunum 193857 var skv. Fasteignabók 1957 stofnað nýbýlið Búrfell, hugsanlega á svipuðum slóðum og hið forna Búrfell. Jörðin hefur þó verið auð síðan þá en úr Eyðijarðaskrá 1963 fást eftirfarandi upplýsingar: Íbúðarhús „…ekkert og hefir aldrei neinn átt þar lögheimili. Býlið byggt og notað af eigendum til fjárgeymslu að vetrum“. Útihús: „Fjárhús og heygeymsla fyrir ca. 100 fjár“. Beitiland mjög takmarkað, býlið allt 30 ha. Líklega hefur aldrei verið stundaður búskapur á nýbýlinu (Skýrsla um eyðijarðir). Eigandi árið 1979 er Sigfús Thorarensen verkfræðingur (Jarðaskrár).

Minna-Mosfell

Minna-Mosfell

Minna-Mosfell – túnakort 1916.

Mosfells er fyrst getið í Landnámabók, en einnig í fleiri fornritum svo sem Egilssögu og Gunnlaugssögu. Elsta heimild um Minna-Mosfell eru Fógetareikningar frá árunum 1547-1552. Þá er jörðin komin í eigu konungs og er í reikningunum nefnd „Mijndemossefeldt“ (sbr. Dipl. Isl. XII).
Árið 1703 er MinnaMosfell enn konungsjörð. Ábúandi er einn (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 323-324).
Jörðin er komin í bændaeigu árið 1847 og er einn leiguliði ábúandi (Jarðatal J. Johnsen).
Minna-Mosfell er enn í ábúð (Ágúst Ó. Georgsson/Guðmundur Ólafsson).

Minna-Mosfell – Sel

Minna-Mosfellssel

Minna-Mosfellssel.

„Stóra og Litla-Sveinamýri eru neðarlega við Leirvogsá. Þar er allmikið flæmi öðru nafni nefnt Selflatir. Selás er við Sveinamýrar“ (Ari Gíslason). Gróðurlítill ás á syðri bakka Leirvogsár, sem liggur ca í AV. Norðurhluti hans er allgrýttur og vaxinn mosa. Svæðið milli ássins og fjallsins er þýft mýrlendi (Ágúst Ó. Georgsson). Rústin stendur á lágum hól, sem sker sig nokkuð úr umhverfinu. Hóllinn er talsvert þýfður og grasi vaxinn. Norðan hans rennur Leirvogsá um 3040 m í þá átt. Hóllinn er á mörkum graslendis og grýtts mosavaxins svæðis. Tóftin er um 2,5×4,5 m að innanmáli. Veggjaþykkt er 11,5 m. Hæð veggja er víðast um 0,4 m, nema NV-veggur, sem er um 0,7 m. Við NV-gafl á suðurlangvegg eru dyr en tóftin skiptist í tvo hluta.

Minna-Mosfellssel

Minna-Mosfellsel – uppdráttur.

Magnús Grímsson, prestur á Mosfelli (d. 1865), segir að á þessum ás hafi staðið selrúst. Skrásetjari gekk um allan ásinn og víðar þarna í nágrenninu. Var þetta eina rústin, sem fannst á eða við ásinn. Kemur lýsing Magnúsar, hvað staðsetningu varðar, vel heim og saman. Hús þetta hefur byggt verið úr torfi og grjóti (Ágúst Ó. Georgsson).
Einar Björnsson, Litla-Landi og Guðmundur Þorláksson, Seljabrekku, vissu um þessar rústir. Telja þeir, að um selrústir sé að ræða. Eru þær beint niður undan s.k. Gatkletti, sem er austan í Mosfelli og sést greinilega frá veginum sem liggur norðan við Leirvogsá. Ekki hafa þeir heyrt sagnir um, hvaða sel þetta hafi átt að vera.

Mosfell

Mosfell

Mosfell I – túnakort 1916.

Mosfells er fyrst getið í Landnámu og oftlega í Egilssögu en einnig í fleiri fornritum svo sem Gunnlaugssögu.
Um 1200 er Mosfells getið í kirknaskrá Páls biskups Jónssonar (Dipl. Isl. XII, bls. 9).
Um miðja 15. öld er Mosfell komið í eigu Skarðverja. Greinir frá því í skiptabréfi, eftir Björn ríka Þorleifsson, frá 1467, að Mosfell komi í hlut ekkju hans, Ólafar Loftsdóttur, að Skarði á Skarðsströnd (Dipl. Isl. V, bls. 503). Ekki var Mosfell lengi í eigu Ólafar, því í kaupbréfi frá 1470 segir, að Ólöf Loftsdóttir fái Sigurði Jónssyni Mosfell í skiptum fyrir Hraungerði í Flóa (Dipl. Isl. V, bls. 503).
Á 16. öld kemst Mosfell undir Skálholt er Ögmundur biskup Pálsson kaupir jörðina.

Mosfell II

Mosfell II – Túnakort 1916.

Við siðaskiptin er Mosfell, ásamt fleiri kirkjujörðum, tekið undir konung. Tilvitnisburðar um það eru Fógetareikningar 1547-1552 (sbr. Dipl. Isl. XII).
Árið 1704 er Mosfell „Beneficium og kirkjustaður“. Ábúandi er staðarhaldarinn, séra Þórður Konráðsson (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 324).
Í Jarðatali Johnsens frá 1847 er Mosfells getið sem kirkjujarðar. Ábúandinn er prestur.
Mosfell er enn í ábúð (1980) og er kallað Mosfell I í Jarðaskrá Landnáms ríkisins. Eigandi er ríkissjóður (J. Johnsen).
Egilssaga getur um kirkju á Mosfelli og er það staðfest í áðurnefndri kirknaskrá Páls biskups. Svo virðist sem kirkja hafi verið lögð niður á Mosfelli einhvern tíma fyrir miðja 14. öld. Næsta kirkja á Mosfelli er reist á fyrri hluta 16. aldar og er kirkja að Mosfelli til ársins 1888, en er þá flutt að Lágafelli. Kirkjan, sem nú stendur að Mosfelli var vígð árið 1965.

Silfur Egils

Mosfell

Mosfell – kort 1908.

Magnús Grímsson skrifar talsvert um líklega felustaði. Segir hann á einum stað: „En þegar skammt er komið suður fyrir Köldukvísl á Víðinn, á að geta 100 faðma, verða þar fyrir jarðholur miklar, einar þrjár eða fjórar. Eru þær víðar um sig og djúpar, með leireðju í botninum. Eru þær jafnan fullar af vatni, og sést lítill munr á því, þó þerrar gángi“. Ætlar Magnús, að þar séu komnar jarðholur þær er nefndar eru í Egilssögu. Þrælapyttur er á barði nálægt Kýrgili „…býsna stór og furðu djúpr, með forarleðju í botninum. …er mælt að þar hafi seinna fundist í þrælarnir, sem Egill drap, eðr bein þeirra. En ekki hefir söguritarinn vitað af því að segja. … Neðan undir hólbrekkunni á Mosfelli, sem fyr er getið, er dý eitt fullt af grjóti, eigi stórt um sig, en furðulega djúpt. Þar halda sumir að fé Egils sé niðri í“. Ekki telur Magnús þetta vera líklegan stað. Telur hann líklegast að Egill hafi fólgið silfur sitt í ein­hverjum pyttinum á Víðinum, fyrir sunnan ána Köldukvísl. Þó segir hann þetta ekki verða sagt með vissu. „Sagan segir og, að þángað [í jarðholunum] sé opt sénn haugeldr, og styðr það þessa ætlun, jafnvel þó eg ímynda mér slíka elda af öðrum rótum runna en fé, og því harðla marklitla í þessu efni. En slíkar sjónir sýna opt trú manna, og hygg eg, að menn hafi snemma orðið á sömu ætlan um þetta og eg er, af því líkurnar hafa þótt svo sterkar til hennar. Einn manna hefi eg talað við, sem enn er lifandi, sem þykist hafa séð slíka elda, nálægt því svæði sem hér um ræðir, fyrir hérumbil 15 eðr 16 árum“. Endar Magnús vangaveltur sínar um hvar silfur Egils sé að finna með því að ítreka að pyttirnir, nálægt hinum forna vegi yfir Víðinn, séu líklegastir (Magnús Grímsson, bls. 266-270).

Kýrgil

Kýrgil – neðsti hluti.

Eina sögu kveðst Magnús hafa heyrt um að silfur Egils hafi fundist: Einn góðan veðurdag var bóndinn í Þverárkoti á leið til kirkju að Mosfelli. Þegar hann kom að Kýrgili veik hann sér lítillega upp með því „að gegna nauðsynjum sínum“. Þarna átti bóndi að hafa fundið peninga en leyndi fundi sínum vel. Er sagt að hann hafi orðið ríkur á fáum árum. Silfrinu átti bóndi að hafa skipt hjá Jóni Ólafssyni ríka í Síðumúla (Magnús Grímsson, bls. 271). Í athgr. 5 í sömu heimild stendur að árið 1722 hafi fundist enskir peningar nálægt Mosfelli. Höfðu þeir skolast fram í vatnagangi. Frásögnin um peningana er í ritgerð eftir Jón Ólafsson frá Grunnavík um íslenskar sögur. Segir Magnús, að sér þyki líklegast „að Grunnavíkur Jón hafi eitthvað orðið áskynja um peningafund Þverárkotsbóndans, og haldið að gilið mundi hafa spýtt fram fénu.“ Ekki telur Magnús miklar líkur á, að saga þessi sé sönn. Bóndi hefði eins getað efnast í Þverárkoti án þess að hafa fundið peningana (Magnús Grímsson, bls. 276).

Mosfell – Hjáleiga; Merkurvöllur

Mosfell

Mosfell 1955-1965.

Merkurvallar er ekki getið í Jarða­bók 1704, ekki í Jarðatali 1847 eða í Jarðabók 1861.
Heimild frá 1938 getur um þessa „jörð“ en þær upplýsingar eru harla sparsamar. Segir þar að Merkurvöllur sé hjáleiga frá Mosfelli og hafi lengi í auðn legið. Liggja tún Merkurvallar og Mosfells saman (Björn Bjarnason, bls. 107).
Í Örnefnalýsingu Mosfells segir: „Utan við bæinn er gil, sem heitir Kirkjugil. Vestan við það gil var lítið gamalt kot, sem hét Hitta, en austan við gilið er stykki, sem heitir Merkurvöllur“ (Kristinn Guðmundsson). Á þessum stað eru engar rústir sjáanlegar.
Aðrar upplýsingar:
Árni Magnússon, prestssonur frá Mosfelli, er þar mjög vel kunnugur en segir að engar rústir hafi verið á Merkurvelli. Hið eina sem þar stóð var fjárhúskofi, sem nú er horfinn og ekkert sér eftir af. Árni þessi á hús þar sem Víðihóll heitir, er það S eða SV frá Mosfelli (Ágúst Ó. Georgsson).

Mosfell – Hjáleiga; Bakkakot

Bakkakot

Bakkakot – bæjarstæði.

Bakka­kot eða „Backakot“ var hjáleiga frá Mosfelli árið 1704. Ábúandinn, sem var einn bjó á hálfri jörðinni, hinn helmingurinn var nýttur frá Mosfelli. Bústofn: 2 kýr, 1 mylk kvíga, 4 ær með lömbum, 2 veturgamlar gimbrar, 1 hross. Fóðrast geta á jörðinni allri 4 kýr og 2 „úngneyti“. Heimilismenn samtals 3 (Jarðabók Árna og Páls).
Bakkakot lagðist í auðn einhvern tíma á árabilinu 1704-1847 (sbr. J. Johnsen og Nýja jarðabók).
Aðrar upplýsingar:
Enginn, sem spurður hefur verið, veit hvar kot þetta stóð né hefur heyrt um það talað. Bjarni Bjarnason, Hraðastöðum, stingur upp á, eða telur líklegt, að það hafi staðið á túninu sem nú er vestan við Guddulaug (nú er þetta tún í eigu Minna-Mosfells), nálægt lækjarbökkunum sem þar eru (Ágúst Ó. Georgsson).

Mosfell – Sel; Helgusel

Helgusel

Helgusel – uppdráttur.

Magnús Grímsson segir svo um sel á Mosfelli: „…víða finnast gamlar seljarústir uppi í heiðarlandi Mosfells, sem nú er. Þó eru engar þeirra eins gamlar, og rústir hins svo kallaða Helgusels. Það hefir staðið norðan undir miðju Grímmannsfelli, undir hárri og fagurri brekku niðr við Köldukvísl, á norðurbakka hennar. Eru það seljarústir miklar til og frá í hvamminum, og er auðséð, að þar hefir verið mikið umleikis. Segja sumir, að Helga, dóttir Bárðar Snæfellsáss, hafi hafzt hér við um hríð, og við hana sé selið kennt. Foss er þar í ánni skammt fyrir ofan selið, hár og fagr, sem heitir Helgufoss [Grímannsfellsfoss], og blasir hann við selinu. Fram undan selinu er hamrahóll allmikill, hérumbil þriggja til fjögurra faðma hár, toppmyndaður. Stendr hann einstakur á sléttu fram við ána sjálfa. Hann heitir Helguhóll, og á Helga að hafa gengið í hann í elli sinni, og aldrei komið út aptr. Hvammurinn allr, sem selið hefir verið í, er kallaðr Helguhvammr. Hefir hann nú mist mikið af fegurð sinni, því bæði hefir runnið á hann grjót og sandr, og víða er svörðrinn einnig blásinn í burtu. Á seinni tímum hefir sel þetta verið byggt uppi á bakkanum fyrir ofan hvamminn. [þar standa nú gömul fjárhús] Hin önnur sel, sem eg veit til í heiðarlandinu, eru öll miklu ýngri, og ómerkileg“ (bls. 272).
Bærinn Bringur var reistur skammt frá Helguseli, til móts við Helgufoss. Bringur kallar Magnús reyndar Gullbringur (Magnús Grímsson).

Helgusel

Helgusel – eldri minjar – uppdráttur.

Í Lýsingu Mosfells og Gufunessókna segir: „Í austur fram af Mosfellsdal liggur graslendi mikið og víðlent; eru það lágar hæðir og mýrlendar, með stargresisfláum og valllendis börðum, víða greiðfærum eða sléttum. Hæðir þessar eru nefndar „Bringur“ eða „Mosfellsbringur“ og liggja undir Mosfell til selstöðu og slægna, og eru þær allgott sumarbeitarland, en örðugt að sækja þangað heyskap og enn torveldara að verja þær fyrir afréttarfénaði og stóðhrossum“ (Stefán Þorvaldsson, bls. 236).
Árið 1877 segir Kålund: „Nu er sætevæsendet en undtagelse på Island … Mosfell er dog en av de gårde, hvor det jævnlig er bleven brugt, men i de senere tider har sæter landet været oppe i Mosfellshedens skråninger ned mod Mosfellsdalen, de såkalde Guldbringer (Gullbringur)“ (bls. 53). Grasi vaxinn hvammur, s.k. Helguhvammur, norðan Köldukvíslar, í gilinu eða dalskorningnum, sem er á milli Grímannsfells og Bringnatúns, neðan við Helgufoss.

Helgusel í Bringum

Helgusel í Bringum. Helgufoss (Grímannsfellsfoss) fjær.

Hvammurinn er sérlega gróðursæll og er þarna skjól í flestum áttum. Niður dalskorninginn rennur Kaldakvísl. Undirlendi er þarna svo lítið að rústirnar standa svo gott sem á árbakk­anum. Stór og mikill klettur, nokkurn veginn kúpulaga, stendur vestarlega í skorningnum og setur mikinn svip á umhverfið. Magnús Grímsson segir að hann sé kallaður Helguklettur. Halldór Laxness, skáld á Gljúfrasteini, telur að Bringnafólkið hafi aldrei kallað klettinn annað en Hrafnaklett og hafi huldufólk búið í honum. Í hvammi þessum, sem Magnús Grímsson kallar Helguhvamm, eru tvö rústasvæði. Annað austan við klettinn, hitt nánast á bak við hann (þ.e. norðan megin við hann). Magnús kallar rústir þessar Helgusel (Ágúst Ó. Georgsson).
Á bakka Köldukvíslar standa fjórar rústir eða rústahópar, öllu heldur. Virðast hópar þessir vera misgamlir og á sumt saman en annað ekki. Hér er byrjað á austustu rústinni eða rústunum. Þetta eru miklar tóftir og þær sem mest ber á. Rústirnar eru orðnar það grónar, að erfitt er að segja til með fullri vissu hvernig þær hafa litið út en þó skal reynt að segja til um hugsanlega lögun þeirra. Á þetta við allt eystra svæðið, nema tvær rústir. Austasta rústin samanstendur af þremur herbergjum. Dyr eru á miðjum suðurlangvegg. Strax þegar inn er komið greinast leiðir í þrjár áttir og inn í herbergin þrjú. Rúst þessi er að utanmáli um 6×8 m. Veggjahæð, þar sem hún er mest, er um 6070 cm. Þykkt veggja um 1 m. Tóftin er allfornleg að sjá. Líklega er hér um selsrúst að ræða. (Ágúst Ó. Georgsson).

Í Lýsingu Mosfells og Gufunessókna segir:

Mosfellssel

Mosfellssel ofan Illaklifs.

„Selstöður eru hvergi hafðar nema frá Mosfelli, við Leirvogsvatn undir Illaklifi; er þangað langur vegur og slitróttur yfirferðar“ (Stefán Þorvaldsson, bls. 237). „Örnefni benda til fleiri selja. T.d. í Mosfellskirkjulandi er mýrarfláki sem heitir Selflá. Þar voru ær hafðar í seli inni í Klifi. [Þetta mun vera Illaklif við Leirvogsvatn]. Selmatráðskona var þar Ragnhildur Þórðardóttir“ (Þjóðháttarannsókn stúdenta 1976).
Við sunnanvert Leirvogsvatn, norðan undir Illaklifi, þar sem það byrjar austanmegin, um 3040 m ofan við vatnið, er dálítil kvos eða hvammur. Frá náttúrunnar hendi er þetta ákjósanlegur staður fyrir sel. Vestan við eru skriður og lítið undirlendi neðan þeirra. Austan við eru mýrarflákar sem halla niður að vatninu. Staður þessi er greinilega ekki valinn af neinu handahófi, heldur sá besti og líklega sá eini nothæfi þarna megin við vatnið.
Svæði þetta var í Mosfellskirkjueign til 1934 en er nú í eigu Mosfellshrepps (Ágúst Ó. Georgsson).

Mosfell – Sel; Jónssel

Jónssel

Jónssel.

„Lægðin sem bærinn [Seljabrekka] stendur í hét upphaflega Jónssel, þó ekki öll. Um hana rennur lækur, sem heitir Jónsselslækur og fellur í Köldukvísl… …í Jónsseli er örlítil rúst, þar er örlítill kofi ofan við veg og utan Markúsarsels…“ (Guðmundur Þorláksson).

Mosfell- Sel; Markúsarsel

Markúsarsel

Markúsarsel.

„Norð­austur frá Leirtjörn er Markúsarsel. Þar eru miklar tættur… Graslendið sunnan Langahryggjar og upp af Leirtjörn heitir Markúsarsel, og eru þar gamlar hústættur. Sagnir eru um að þar hafi verið búið á fyrri hluta síðustu aldar“ (Guðmundur Þorláksson).
Um 800 m. NA við Selvog, við NA enda Leirtjarnar. Sumarbústaður um 150 m sunnar. Grasgefin mýri við NA enda vatnsins. Myndast þarna aflíðandi kvos niður að vatninu. Rústin er á graslendi milli tveggja lækjarskorninga (Ágúst Ó. Georgsson).

Norður-Reykir

Norður-Reykir

Norður-Reykir – túnakort 1916.

Hafi Norður-Reykir verið í byggð á 16. öld hafa þeir verið í bænda eigu því þeirra er ekki getið í skrám yfir konungsjarðir frá því um 1550 (Fógetareikningar, sbr. Dipl. Isl. XII). Þeir eru hins vegar komnir á blað í Jarðabók 1695 (Björn Lárusson, bls. 13031) og 1704 segir að jörðin öll sé 30 hundruð en skipt eignarskiptum í þrjá staði: Norður-Reyki, Hlaðgerðarkot og Æsustaði. Eigendur Norður-Reykja voru þá tveir bændur en ábúandi á jörðinni einn (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 31719). Árið 1847 var hún enn bændaeign og ábúandi einn leiguliði (J. Johnsen, bls. 95). Þegar Landamerkjaskrá Norður-Reykja var gerð 1888 voru þeir í eigu Þorleifs Þórðarsonar bónda í Hækingsdal í Kjósarhreppi. Árið 1979 voru þeir hins vegar komnir í eigu Mosfellshrepps og leiguliði Jakob Einarsson. Jörðin er enn í ábúð.

Óskot

Óskot

Óskot – túnakort 1916.

Í skrá um kvikfé og leigumála jarða Viðeyjarklausturs er Óskots fyrst getið en nefnist þá Ós: „…at Osi. ij. merkr“ (Dipl. Isl. III, bls. 598). Af því má trúlega álykta, að Óskot hefur verið lögbýli áður fyrr (sbr. Ólaf Lárusson).
Jarðabók frá 1704 hefur eftirfarandi að segja um Óskot: „Oskot, forn eyðijörð og veit enginn maður hvað lengi hún hefur í auðn verið. Nú brúka ábúendur á Reynisvatni það land til beitar og líka fyr meir til torfskurðar, sem nú er aþr eyddur. Vita menn þó ekki hvör eigandi þeirrar jarðar hafi til forna verið, og meina þó flestir kóngseign vera. Silúngsveiði sýnist þar til forna verið hafa, og enn nú vera kunna með stóru erfiði. Sýnist valla mögulegt aftur að byggja, og óvíst að jafnmikill ávinníngur sem kostnaður yrði“ (Jarðabók Árna og Páls, bls. 292).
„Óskot, suðvestanvert við Hafravatn, í vestur útnorður frá Miðdal, lagt í eyði fyrir mörgum árum, en hvað mörgum, vita menn ekki gjörla, og er landi þess skipt upp meðal nærliggjandi jarða, Þormóðsdals og Miðdals, Reynisvatns og Kálfakots“ (Stefán Þorvaldsson, bls. 238).

Óskot

Óskot – uppdráttur.

Óskots er ekki getið í Jarðatali J. Johnsens frá 1847, né í Jarðabók 1861.
Nýbýlið Óskot var stofnað árið 1889. Í dag er jörðin notuð til slægna og beitar. Eigandi 1979 er Magnús Vigfússon múrarameistari (Jarðaskrár).
Í Nýbyggjarabréfi fyrir Óskot frá amtmanninum yfir Suður­amti og Vestur­amti dagsettu 24. september 1889 segir: „…þar eð Guðmundur Kláusson frá Blikastöðum, samkvæmt tilsk. 15. Apr. 1776, hefur, með skoðunargjörð, er framkvæmd var af sýslumanninum í Gullbringu og Kjósarsýslu, með tilkvöddum 4 mönnum óvilhöllum, 23. augúst mán. þ.á., fengið útvísað land til nýbýlis í svo nefndu Óskotslandi í Mosfellssveit. Þá veitist nefndum Guðmundi Kláussyni hjer með nýbyggjararjettur yfir hinu
tilgreinda landi með þeim skyldum og rjettindum og undanþágum, sem í ofangreindri tilskipun eru heimilaðar, þó að óskertum betri rjetti sérhvers annars manns, ef sannaður verður“ (Dipl.Isl).

Reykjakot

Reykjakot

Reykjakot – túnakort 1916.

Reykjahvoll hét áður Reykjakot og varð nafnbreytingin um árið 1893. Um þetta segir Hannes Þorsteinsson: „Reykjahvoll (Reykjkot). Reykjahvoll er nýnefni, tekið upp fyrir nál. 30 árum, auðvitað án stjórnarleyfis; mun nú hafa fengið nokkra hefð, og því réttast að láta það standa sem aðalnafn“ (bls. 32).
Reykjakots getur fyrst í Jarðabókinni frá 1704. Segir þar að jörðin sé ekki minna en 100 ára gömul. Reykjakot var þá hjáleiga frá Suður-Reykjum og var ábúandi einn (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 311312). Árið 1874 bjó eigandi sjálfur í Reykjakoti (J. Johnsen 1874).
Í Örnefnalýsingu Varmár frá 1976 segir að Reykja­kot hafi verið í byggð árið 1890 (Guðlaugur R. Guðmundsson).
Í Eyðijarðaskrá 1963 segir: „Úr jörðinni er búið að leggja 3 nýbýli (Efri-Hvol, Akra og Sólvelli), eftir er lítið tún og sameign í beitilandi. Búrekstur enginn nú“ (Skýrsla um eyðijarðir).
Eigendur árið 1979 eru Helgi Ól. og Sigríður Helgadóttir. Jörðin er komin í eyði talsvert fyrir 1958. G.J. skráður fyrir 50 rollum á jörðinni 1979 (Jarðaskrár).
Jarðirnar Reykjakot og Stekkjarkot voru hjáleigur frá Reykjum. Finnbogi Árnason, afi Oddnýjar Helgadóttur á Ökrum, keypti Suður-Reyki fyrir 7.000 kr. árið 1877. Hann hætti þar búskap um 1900 og byggði hús í Reykjavík.

Reykjakot

Þúfnabani.

Björn Bjarnason hreppstjóri Mosfellshrepps og alþingismaður bjó í Reykjakoti og byggði sér þriggja herbergja hús með kjallara um 50 metra frá og nefndi Reykjahvol (Magnús Guðmundsson, bls. 5).
Á 20. öld. breyttist búskapur mikið á Reykjahvoli. Fyrr á öldum voru allir grasblettir nýttir. Áður var slegið í Hvömmunum, við Stekkjarkot, í Krókunum, Flóðunum, Uxamýri og öllum blettum heima við húsin. Slegið var annað hvert ár og beitt hitt.
Um 1945 kom frá Bandaríkjunum fyrsta dráttarvélin að Ökrum. Oddný telur að það hafi verið tólfta dráttarvélin sem kom til landsins (Magnús Guðmundsson, bls. 5).
Helgi Finnbogason faðir Oddnýjar kom að Reykjahvoli skömmu eftir aldamót, eftir að Björn Bjarnason fluttist að Gröf í Mosfellssveit. Jörðin skiptist svo eftir 1930 í nýbýlin Sólvelli, Akra og Efrihvol. Garðyrkjubýlið Blómvangur var einnig úr landi Reykjahvols. Fyrsti bóndi þar var Jóhannes Boeskov og að honum látnum tók bróðir hans Laurits við (Magnús Guðmundsson, bls. 5).
Hér á eftir er greint frá skiptingu jarðarinnar, u.þ.b. hvenær hún fór fram og hverjir voru fyrstu ábúendur á jarðarpörtunum: 1925-Blómvangur:Jóhannes Boeskov; 1930-Sólvellir: Finnbogi Helgason og Ingibjörg Bjarnadóttir; 1934-Efrihvoll: Ingveldur Árnadóttir og Vígmundur Pálsson; 1937- Akrar: Oddný Helgadóttir og Ólafur Pétursson; Reykjahvoll: Sigríður Helgadóttir og Páll Helgason (Magnús Guðmundsson, bls. 5).

Skeggjastaðir
Skeggjastaða er fyrst getið í Landnámabók. Þar bjó Þórður skeggi sem land nam í landnámi Ingólfs milli Leirvogsár og Úlfarsár (Korpúlfsstaðaár). Skeggjastaðir voru meðal jarða sem komust í eigu Viðeyjarklausturs í tíð Páls Magnússonar ábóta (1378-1403) og eru nefndir í skrá yfir þessar jarðir frá 1395: „Skeggiastader zij. c.“ (Dipl. Isl. III, bls. 598). Ekki er á þá minnst í upptalningu konungsjarða í Mosfellssveit í Fógetareikningum frá 1547-1552 (Dipl. Isl. XII) en í Jarða­bók­inni 1704 segir hins vegar: „Skieggiastader, forn jörð byggð úr auðn fyrir 16 árum… Eigandinn kóngl. Majestat. Ábúandinn Guðmundur Guðmundsson“ (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 3223). Af þessum heimildum má ráða að Skeggjastaðir hafi farið í eyði á 15. öld eða fyrri hluta 16. aldar en byggst að nýju um 1688. Síðan hefur þar verið samfelld byggð. Árið 1847 býr eigandinn sjálfur á jörðinni (J. Johnsen). Eigandi 1979 er Eiríkur Ormsson. Hús og landspilda: Eigandi: Pólarmink hf (Jarðaskrár).

Stekkjarkot

Helgafell

Helgarfell – tóftir í Stekkjargili.

Sólvellir hétu áður Stekkjarkot (Björn Bjarnason, bls. 108). Fyrsta heimildum Stekkjarkot eða „Steckiar kot“ er frá 1704. Jörðin var þá hjáleiga frá Suður-Reykjum og segir að hún sé ekki minna en 100 ára gömul. Ábúandi var einn (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 312).
Í Lýsingu Mosfells og Gufunessókna frá 1855 segir um Stekkjarkot að það sé í byggð og teljist sjö og hálft hundrað (Stefán Þorvaldsson, bls. 230). Í Jarðabók 1861 heitir hjáleigan enn Stekkjarkot (Ný jarðabók).
Nýbýlið Sólvellir var stofnað á árunum 19221923. Eigandi 1979 er Finnbogi Helgaon (Fasteignabækur, Jarðaskrár).
Af ofannefndum heimildum má ráða að Stekkjarkot hefur lagst í eyði á árabilinu 1861-1922 og ef heimildin frá 1938 er traust, nýbýli verið reist á landi þessu á árunum 1922-1923.
Örnefnalýsing Reykjahvols getur um gamalt býli er Stekkjargil hét. Hugsanlega gæti verið um nafnarugling að ræða og Stekkjargil sé sama og Stekkjarkot. Þar segir: „Niður af Stekkjargili við lækinn, Stekkjargilslæk, var fyrrum býli, er hét Stekkjargil, hafa tættur þess sést fram að þessu“ (Magnús Guðmundsson).
Í Örnefnalýsingu Varmár segir um Stekkjarkot: „Hér austar er að lokum komið að hinum fornu merkjum móti Stekkjarkoti, en þau voru Markarfoss, sem var niður við ána“.
„Niður af Stekkjargili til norðurausturs skammt frá læknum stóð býlið Stekkjarkot. Tættur þess hafa sést fram að þessu“ (Magnús Guðmundsson, bls. 4).

Suður-Reykir

Suður-Reykir

Suður-Reykir – túnakort 1916.

Elsta heimild um Suður-Reyki er máldagi kirkjunnar þar, er Þorlákur biskup Þórhallsson setti árið 1180 (Dipl. Isl. I, bls. 268).
Í Hítardalsbók, frá 1367 er getið um Þorlákskirkju að Reykjum (Dipl. Isl. III, bls. 220).
Vilchinsmáldagi frá 1397 getur einnig um Þorlákskirkju á Reykjum (Dipl. Isl. IV, bls. 112).
Máldagar Gísla biskups Jónssonar geta kirkju að Reykjum (sbr. Dipl. Isl. I, bls. 268). Í sömu heimild segir að jörðin hafi alltaf verið bænda eign. Í Jarðabókinni 1704 eru Suður-Reykir taldir kirkjustaður. Eigandinn bjó sjálfur á jörðinni. Segir að þar sé „Heima­manna gröftur“. Árið 1847 er jörðin bændaeign en ábúendur eru tveir leiguliðar (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 311, J. Johnsen, bls. 96). Af öllu að dæma hefur jörðin verið í ábúð frá því snemma á miðöldum og er það enn. Nú á dögum er talað um Suður-Reyki I, II og III.

Suður-Reykir

Suður-Reykir 1920-1930.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídal­íns segir að hjáleigur Suður-Reykja hafi verið þrjár, Reykiakot, Steckiar kot og Amsturdam (síðar í Jarðabókinni ritað Stekkjarkot, bls. 313). Þar er jörðin nefnd „Sudur­reyker“ og jarðardýrleiki sagður xl hundruð. Í sóknarlýsingu Mosfellssóknar frá 1855 segir svo um þessa bæi: „Þessir 4 bæir… …nefnast Reykjahverfi. Það var fyrrum sameign og Suður-Reykir þá höfuðból eitt með 3 hjáleigum; nú er sú sameign sundruð og margir eigendur“ (Stefán Þorvaldsson, bls. 230-231). Í þessari lýsingu hétu hjáleigurnar Reykjarkot, Stekkjarkot, hvor um sig metin á 7 1/2 hndr., og Amsturdammur 5 hndr (Stefán var prestur á Mosfelli frá 1843 til um 1855). Í Jarðatali Johnsens frá 1847 eru Suður­Reykir (Reykir) einnig taldir 40 hundruð, landskuld 2,1 hundrað, 8 kúgildi og tveir ábúendur sem voru leiguliðar (J. Johnsen, bls. 96).
Björn Bjarnason bjó í Reykjakoti fyrir aldamótin síðustu. Um 1895 byggði hann upp bæjarhúsin og færði bæinn vestar og skírði Reykjahvol, er það jafnan nefnt svo síðan. Í Jarðatali Johnsens frá 1847 er jörðin nefnd Reykjakot (bls. 96). Fór það orð af Birni að hann hafi breytt örnefnum og gefið stöðum nöfn sem þeir ekki höfðu fyrir. Arnaldur Þór sagði það Guðmundi Ólafssyni um 1983.

Suður-Reykir

Suður-Reykir.

Björn settist síðar að í Gröf (Suðu-Gröf) í sömu sveit. Þegar hann breytti bæjarstæðinu þar skírði hann bæinn Grafarholt. Björn segir eftirfarandi í lýsingu sinni á Mosfellssveit árið 1937: „Í Syðri-Reykjahverfi voru: Reykir (2 býli), Reykjakot (nú Reykjahvoll), Stekkjakot (nú Sólvellir) og Amsturdam (Amsturdammur) lagt undir Reyki“ (Björn Bjarnason, bls. 108.). Ekki kannast heimildarmenn við að jörðin hafi verið nefnd Syðri-Reykir, ef frá er talið kort Magnúsar Arasonar frá 1721-1722, eða að talað hafi verið um Syðri-Reykjahverfið, nema sem mismæli. Rétt áður hafði Björn talað um Norður-Reykjahverfið, sem heimildarmenn kannast reyndar heldur ekki við nema sem partabæina, Hlaðgerðarkot, Norður-Reykir og Æsustaðir, en þar er þó beygingin á Norður-Reykjum samkvæmt venju. Í þessari sömu lýsingu Björns talar hann um Varmárdal, sem Jón M. Guðmundsson kannast við sem svæðið norðan ár: „Þá er Varmárdalur. Í honum er (Suður) Reykja­hverfið efst, verksmiðjuhverfið við Álafoss neðar, tvær aðrar bújarðir og fimm nýbýli“ (Björn Bjarnason, bls. 103. Oddný Helgadóttir á Ökrum kannast ekki við örnefnið Varmárdal). Venju samkvæmt má ætla að hjáleigan Stekkjarkot hafi dregið nafn sitt af því að þar hafi verið stekkur. Menn kannast einnig við gamlar tóftir þar sem Stekkjarkot stóð. Á síðari árum er fremur talað um Amsterdam en Amsturdam. Elsta heimild sem fundist hefur um orðmyndina Amsterdam er í Jarðatali Johnsens frá 1847, bls. 96.

Suður-Reykir – Hjáleiga; Amsterdam

Suður-Reykir

Suður-Reykir – kort 1908.

Amsturdam var hjáleiga frá Suður-Reykjum árið 1704. Talin byggð þá fyrir rúmlega 40 árum eða um 1660. Ábúandi var einn. Bústofn: þrjár kýr (en þá gátu fóðrast þar fjórar) og eitt leiguhross. Samtals voru fjórir í heimili (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 312-313).
Svo segir í Lýsingu Mosfells og Gufunessókna 1855 (Stefán Þorvaldsson, bls. 230): „Amsturdammur, 5 hndr., skammt fyrir norðan Suður-Reyki“.
Árið 1847 var Amsturdam enn í ábúð og bjó einn leiguliði þar þá (J. Johnsen, bls. 96).
Bærinn hefur lagst í eyði á árunum 1861 1922 (sbr. Ný Jarðabók 1861 og Fasteignabók 1922).
Svo virðist sem Amsturdam hafi verið lögð undir Suður-Reyki, sem stundum eru kallaðir Reykir (Björn Bjarnason, bls. 108).

Suður-Reykir – Kirkja; Þorlákskirkja

Suður-Reykir

Suður-Reykir 1926.

Kirkju að Suður-Reykjum er fyrst getið í máldaga, er Þorlákur biskup Þórhallsson setti um 1180.  en talið að hún hafi verið A og S við núverandi íbúðarhús Jóns M. Guðmundssonar (Magnús Guðmundsson).
Elsta heimild um kirkju á Suður-Reykjum er máldagi Þorláks Þórhallssonar (1133 – 1193). Máldagi þessi er prentaður í Fornbréfasafni og segir í formála að honum: „Reykir þeir sem hér eru nefndir eru Suður-Reykir í Mosfellssveit. Þar stóð kirkja og heyrði undir Mosfell. Máldaginn er skáður árið 1180. Í máldaganum segir m.a. að messað skuli annan hvern löghelgan dag í kirkjunni á Reykjum. Fjórða hvern dag skuli syngja morgunsöng og messað skuli á hátíðum. Greiða skuli prest sem svarar hundrað álnum af vaðmáli þar af helminginn í mjöli ef ábúandi kýs það heldur. Tekjur kirkjunnar voru tíund heimamanna og ljósatollar. Samkvæmt máldaganum átti kirkjan fjögur altarisklæði, þrjár bjöllur, tvo kertastjaka, tvær mundlaugar, tvo dúka, þrjá bikara og eina kú. En nyt hennar skyldi gefa á Maríumessu til að fæða þurfamenn.
Til eru máldagar Reykjakirkju frá árunum 1367 og 1379. Kirkjunnar er einnig getið í máldaga Vilkins biskups frá árinu 1397. Í Vilkinsmáldaga kemur m.a. fram að Þorlákskirkja að Reykjum
átti jörðina Úlfarsfell. Meðal annarra eigna voru þrjár kýr, róðukross, Þorlákslíkneski, altarisklæði, mundlaug, tvær bjöllur og paxspjald.

Suður-Reykir

Suður-Reykir.

Er hún talin í máldögum Wilchins (1397) og Gísla biskups Jónssonar (1557) og kölluð hálfkirkja, en átti ekkert í heimalandi því jörðin hefir ávallt verið bóndaeign. Úlfarsfell var kirkjujörð þaðan.
Í Hítardalsbók frá 1367 stendur að „… þorlakskirkia ad reykium a land ad vlarsfelle. iij. kyr“ (Dipl. Isl. III, bls. 220).
Reykjakirkju er enn getið í máldaga Gísla biskups Jónssonar frá 1575. Auk jarðeigna átti kirkjan þá m.a. messuklæði, altarisklæði og tvær litlar klukkur.
Í júní árið 1704 ritaði Páll Jónsson Vídalín lögmaður jarðabók fyrir Mosfellssveit í viðurvist og eftir tilsögn almúgans. Þar segir að Suður-Reykir séu kirkjujörð og að þar sé „heimamanna gröftur og embættað þá fólk er til altaris“. Um jörðina Úlfarsfell er sagt að jörðin sé „kirkjueign bóndajarðar Suðurreykja“.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1704 segir að Suður-Reykir séu kirkjujörð og að þar sé „…heimamanna gröftur og embættað þá fólk er til altaris“ (bls 311). Ætla má að bænhúsið hafi verið fallið tæpri öld eftir að það var lagt niður. Ekki er vitað hvar kirkjan stóð.
Svo segir í Lýsingu Mosfells- og Gufunessókna frá 1855: „Mælt er, að bænhús hafi áður verið til forna á Suður-Reykjum“ (Stefán Þorvaldsson, bls. 238).
Kirkjan að Reykjum var ein af þeim, sem var felld af með konúngsbréfi 17. Mai 1765” (Lagasafn handa Íslandi III, bls. 525)“ (Dipl. Isl. I, bls. 268).
Séra Stefán Þorvaldsson prestur á Mosfelli segir í Lýsingu Mosfells- og Gufunessóknar frá 1855: „Mælt er, að bænhús hafi áður verið til forna á Suður-Reykjum“.
Kirkjan að Reykjum var ein af þeim sem lögð var niður með konungsbréfi 17. maí 1765.
Kirkja, kirkjugarður, var rétt sunnan við íbúðarhús Jóns Guðmundssonar. Ekkert sýnilegt. Grafreitur og kirkja var á Reykjum, austur og uppi á hól frá húsi Jóns Guðmundssonar (Guðmundur Ólafsson hefur þetta eftir Ingveldi Árnadóttur, 12. júní 1980).

Suður-Reykir – Sjúkrahúsbygging; Álafosshospital

Reykjalundur

Reykjalundur.

Í mynni Skammadals er stífla sem stíflar vatnið í Skammadalslæk. Hún var gerð af hernum um 1942 og var til vatnsöflunar fyrir „Álafosshospital“ sem var braggasjúkrahús setuliðsins, þ.e. þar sem endurhæfingarmiðstöð Reykjalundar stendur nú (Magnús Guðmundsson, bls. 12).

Úlfarsá

Úlfarsá

Kálfakot (Kálfárkot) – túnakort 19016.

Úlfarsá hét Kálfakot fram til ársins 1927 þegar núverandi nafn var tekið upp. Elsta heimild um Kálfakot er Jarðabókin frá 1584 þar sem hún er nefnd Kálfastaðakot (Kalvestaedtkaedt) (Ólafur Lárusson bls. 8384). Í Jarðabók frá 1590 er jörðin nefnd Kálfakot.
Samkvæmt Jarðabók Árna og Páls III er hún í konungseign árið 1704 og ábúendur eru tveir (bls. 293-294). Í Jarðatali J. Johnsens frá 1847 er hún komin í bændaeign og ábúandi er einn leiguliði (bls. 96).
Úlfarsá var í ábúð fram á miðja 20. öld en er nú í eigu ríkisins. Þar hefur verið meðferðarheimili frá Kleppsspítala (Jarðaskrár).

Úlfarsá

Úlfarsá 1980 – tóftir gamla bæjarins nær.

Nokkuð hefur verið ritað um nafnið Kálfakot. Um það segir Hannes Þorsteinsson árið 1923: „Kálfakot. Matsbókin nefnir Kálfá og Kálfárkot, en hvorugt finst annarsstaðar.
Kálfastaðakot nefnist jörðin í JB. Jens Söffrenssonar 1639 og í JB. 1696, og getur vel verið, að það sé upphaflega heitið, kennt við einhverja Kálfa(r)sstaði (eða Kálfsstaði), en nafnið horfið fyrir ævalöngu og Kálfakot komið í staðinn, sem heiti jarðarinnar“ (bls. 33).
Um þetta atriði hefur Ólafur Lárusson einnig farið nokkrum orðum: „Nafnið Kálfastaðakot er tilkomið fyrir nafnbreytingu þannig, að orðið kot hefir tengzt við eldra nafn Kálfastaðir, en Kálfastaðir er aftur afbökun úr eldra nafni Kálfarsstaðir, dregið af mannsnafninu Kálfarr… Mannsnafnið Kálfarr finnst nú eigi frá fornöld eða mið­öldum hér á landi, en hefir hins vegar tíðkast lítilsháttar á síðari öldum“ (bls. 8).

Úlfarsfell

Úlfarsfell

Úlfarsfell – túnakort 1916.

Úlfarsfells er fyrst getið í máldaga kirkjunnar á Suður-Reykjum árið 1367: „Þorlakskirkia ad reykium a land ad vlars­felle. iij.
kyr“ (Dipl. Isl. III, bls. 220) og síðan í máldögum sömu kirkju frá 1397 og 1557 (Dipl. Isl. I, bls. 268). Í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1704 segir um Úlfarsfell: „Kirkjueign bóndajarðar Suður­Reykja. Ábúandinn Einar Ísleifsson, sem heldur hjer fjelagsbú sitt og systra sinna, og er hann eignarmaður til jarðarinnar Suður­Reykja, sem þessi jörð, Úlfarsfell fylgir„ (bls. 310). Jörðin var bændaeign árið 1847 og bjó á henni einn leiguliði (J. Johnsen, bls. 96). Hún var í ábúð fram á 20. öld og skv. Fasteignabók er hún enn í fullri ábúð árið 1938 en hefur verið án ábúðar a.m.k. frá 1958. Síðar var jörðinni skipt í tvennt og stofnað nýbýlið Úlfarsfell 2 árin 19721973. Árið 1979 var Ragnar Guðlaugsson eigandi að Úlfarsfelli 1 en Grímur Norðdahl að nýbýlinu (Jarðaskrár).
Árið 1938 segir um Úlfarsfell í Fasteignabók: „Steinhús; tún girt.“

Varmá

Varmá

Varmá – túnakort 1916.

Fyrstu heimildir um Varmá eru frá 14. öld og er þar getið kirkju að Varmá en hún lagðist af skömmu fyrir 1600 (sbr. Sveinbjörn Rafnsson). Varmár er getið í Fógetareikningum 15471552 og er þá konungseign (Dipl. Isl. XII).
Varmá var þingstaður og er þess fyrst getið árið 1505 (Dipl. Isl. VII, bls. 801). Árið 1704 voru ábúendur tveir, eigandi er konungur (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 315).
Konungseign einnig árið 1847. Ábúendur þá tveir (J. Johnsen, bls. 95).
Skv. heimild frá 1938 var Varmá lögð undir Lágafell um 1900 (Björn Bjarnason, bls. 108). Varmá var án ábúðar árin 1922 1932 og hefur verið það síðan (sbr. Fasteignabækur). Þar er nú mikil húsaþyrping.

Álafoss

Álafoss fyrrum.

Álafoss er húsahverfi eða smáþorp við Vesturlandsveg. Húsaþyrping þessi hefur myndast umhverfis klæðaverksmiðju, sem starfrækt hefur verið síðustu áratugina. Þar var sundlaug um skeið og einnig íþróttaskóli, en sundlaugin var flutt og skólinn er hættur störfum (Þorsteinn Jósepsson, bls. 10).
Við samanburð Fasteignabóka áranna 1922 og 1932 má sjá að Álafoss var stofnað á því tímabili. Eigandi árið 1979 er Álafoss hf. (sbr. Jarðaskrár). Nýbýlið Brúarland var stofnað á árabilinu 1932-1938. Það fór í eyði á árunum 1938-1957 (sbr. Fasteignabækur).
Upplýsingar um jörðina árið 1938 skv. Fasteignabók: Steinús. Tún algirt.
Húsið stendur enn (1980) og er í notkun.

Þormóðsdalur

Þormóðsdalur

Þormóðsdalur – túnakort 1916.

Fyrsta heimild um Þormóðsdal er máldagi Maríukirkju í Viðey frá 1234. Segir þar svo: „Magnvs Gvðmvndarson gaf til staðar selför j Þormoðsdal enn efra. oc alls fiar beit bæði vetr oc svmar“ (Dipl. Isl. I, bls. 507). Næst er Þormóðsdals getið í máldagabroti Viðeyjarklausturs frá 1284: „Stadur j videy aa ok selfor j þormodz dal hinn efra“ (Dipl. Isl. II, bls. 247). Í leigumálaskrá jarða Viðeyjarklausturs árið 1313 stendur eftirfarandi: „J þormodz dal iij merkur ok xij hrossa beit“ (Dipl. Isl. II, bls. 377). Á sextándu öld kemst Þormóðsdalur, ásamt fleiri jörðum, í eigu konungs og bera Fógetareikningar 1547-1552 því vitni. Þar er ýmist talað um „Thormôndsdall“ eða „Thomondsdall“ (Dipl. Isl. XII). Árið 1704 er Þormóðsdalur enn konungsjörð. Ábúendur eru tveir (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 309310). Þormóðsdalur er líka konungsjörð árið 1847 og er ábúandi þá einn (J. Johnsen, bls. 96). Eigandi 1979 er Ríkissjóður, Rannsóknarstöð landbúnaðarins í Keldnaholti (Jarðaskrár).

Þormóðsdalur – Sel; Nærsel

Nærsel

Nærsel – uppdráttur.

„Frá Árnesi, upp með Seljadalsá að norðan er allöng valllendismóaspilda. Þar mótar fyrir seltóftum; var það nefnt Nærsel“ (Tryggvi Einarsson).

Þormóðsdalur – Sel; Nessel

Nessel

Nessel – uppdráttur.

Samkvæmt Jarðabók Árna og Páls átti Nes á Seltjarnarnesi selstöðu í Seljadal: „Selstaða er jörðinni eignuð þar sem heitir Nessel í Seljadal undir Grímafelli, og hefur um lánga stund ekki brúkuð verið“ (bls. 239).
Í Lýsingu Mosfells og Gufunessókna segir svo um Seljadal: „Seljadalur er og dalur óbyggður, sunnan undir Grímansfelli, liggur frá vestri til austurs, milli Grímnsfells að norðan og Seljdalsbrúna svonefndra að sunnan… Þar eru seltóftir gamlar, sem fyrrum verið hafa af Seltjarnarnesi. Þar heitir enn Nessel. Aths. höf.“ (Stefán Þorvaldsson, bls. 223). „Skammt fyrir austan Kambsrétt er árspræna, sem rennur niður í Seljadalsá; heitir hún Nesselsá. Upptök Nesselsár eru í sérkennilega fallegum krika undir suðvesturhorni Grímmannsfells. Heitir sá kriki Nessel, talið sel frá Gufunesi; sést þar vel fyrir seltóftum“ (Tryggvi Einarsson).

Mosfellsbær

Nessel.

Ekki mun þetta standast að sel frá Gufunesi hafi verið í Seljadal, sbr. Jarðabók Árna og Páls. Þar segir að jörðin hafi fyrrum átt selstöðu í Stardal. Kirkjunni er eignuð mánaðarbeit við Sólheimatjarnir „…og nú er kallað Keldnasel, fyrir þá orsök að bóndinn í Gufunesi skal hafa fyrir mörgum árum ljeð ábúandanum á Keldum þetta ítak til selstöðu…“ (bls. 301).

Æsustaðir

Æsustaðir

Æsustaðir – túnakort 1916.

Í Jarðabókinni frá 1704 eru Æsustaðir taldir tíu hundruð úr Norður-Reykjum. Þá var jörðin (N-Reykir) í eigu tveggja bænda. Ábúandi var einn leiguliði (Jarða­bók Árna og Páls III, bls. 318319). Árið 1847 voru Æsustaðir bændaeign og ábúandi var einn leiguliði (J. Johnsen, bls. 95). Eigandi árið 1979 var Hjalti Þórðarson. Um tíma, ca. 19631972, var talað um Æsustaði II. Var þá jafnan nafnið Árvangur haft aftan við innan sviga. Nú er ekki lengur um það að ræða, enda varð Árvangur sjálfstætt býli á árunum 1972-1973 (Jarðaskrár).

Æsustaðir – Álagablettur; Æsuleiði

Æsuleiði

Æsuleiði – Bjarki Bjarnason stendur á leiðinu.

Svo segir í Örnefnalýsingu Æsustaða: „Vestan í túnbrekkunni, neðan við Æsustaðabæ, er aflöng þúfa, er heitir Æsuleiði. Þar fyrir vestan við landamerki NorðurReykja er túnblettur, sem heitir Krókur og mýrin þar vestan túnsins var nefnd Sund, er nú tún að mestu. Sú trú hefir verið, að það megi ekki slá eða hagga við því, og er því fylgt enn“ (Ólafur Þórðarson).
Í Örnefnalýsingu sömu jarðar segir á öðrum stað: „Vestast í túnbrekkunni er Æsuleiði er ekki má slá eða snerta“ (Ólafur Þórðarson).
Aflöng þúfa eða upphækkun, sem mjókkar til beggja enda, u.þ.b. 7 m á lengd og 1,5 á breidd (yfir miðjuna). Hæðin er um 1 m. Legan er nokkurn veginn NS. Þúfa þessi er utan í lágri brekku skammt NV af bæ á Æsustöðum og liggur samsíða henni.
Æsuleiði er allgreinilegt. Milli þess og brekkunnar er grunn skora eða rás, sem afmarkar það vel frá brekkunni. Hlíf Gunnarsdóttir frá Æsustöðum segir að rásin sé gömul. Sjálf heldur hún að þar liggi landnámskonan Æsa er land nam á Æsustöðum. Líklega er þetta náttúrumyndun (Ágúst Ó. Georgsson).

Samantekt

Mosfellsdalur

Mosfellsdalur – kort 1908.

Í Mosfellsbæ voru samkvæmt Jarðatali Johnsen árið 1847 skráðir 25 bæir og miðast fornleifaskráin við þá. Að auki var eyðibýlinu Óskoti gefið sérstakt númer þó það sé ekki nefnt í ofangreindu jarðatali þar sem jörðinni hefur aldrei verið skipt upp, þó hún hafi verið nýtt af bæjunum í grennd. Einnig voru sextán hjáleigur og kotbýli sem falla undir þá bæi sem þær/þau voru upphaflega byggð úr.

Friðlýstar fornleifar

Blikastaðanes

Blikastaðanes – veslun og útgerð fyrrum.

Friðlýstar fornleifar eru á þremur jörðum í Mosfellsbæ, allar friðlýstar af Þór Magnússyni þjóðminjaverði.
Á Blikastöðum eru fornar rústir og grjótgarðar frá verslunarstað eða útræði niðri á sjávarbakkanum, yst í svonefndu Gerði. Rústir þessar voru friðlýstar árið 1978 og friðlýsingin þinglýst sama ár.
Í Laxnesi eru friðlýstar leifar af tveimur fjárborgum, Grænuborg og annarri ónefndri (stundum kölluð litla Grænaborg, sitt hvoru megin þjóðvegar skammt ofan við Gljúfrastein. Þær voru friðlýstar 1976 og friðlýsingin þinglýst sama ár.

Hafravatnsrétt

Hafravatnsrétt.

Í Þormóðsdal er friðlýst Hafravatnsrétt, hin gamla skilarétt við austurenda Hafravatns. Friðlýst 1988, þinglýst sama ár.
Allar þessar fornleifar eru í dag í fremur slæmu ástandi. Nýlega var lagður yfir rústirnar í Blikastaðagerði göngustígur sem nú hefur verið fjarlægður aftur en eftir er að ganga frá svæðinu. Girðing hefur verið sett yfir báðar fjárborgirnar í Laxnesi og er nauðsynlegt að færa hana a.m.k. 20 metra frá ystu sýnilegu mörkum rústanna. Fjárréttin við Hafravatn hefur látið mjög á sjá á síðustu árum og hefur grjót greinilega verið fjarlægt úr hleðslum. Nauðsynlegt er að setja fram stefnu um varðveislu og viðhald þessara minja.

Bæjarhólar og bæjarstæði

Óskot

Óskot.

Í Mosfellsbæ voru samkvæmt Jarðatali Johnsen árið 1847 skráðir 25 bæir. Að auki var eyðibýlið Óskot, en það er ekki nefnt í ofangreindu jarðatali þar sem jörðinni hefur aldrei verið skipt upp, þó hún hafi verið nýtt af bæjunum í grennd.

Samkvæmt Örnefnaskrá voru tóftir Amsterdam jafnaðar við jörðu um 1950. Þó er mögu­legt að rústir leynist undir sverðinum. Nú er umfangsmikil skógrækt á svæðinu og má segja að rústirnar séu í umtalsverðri hættu af þeim sökum. Amsterdam var upphaflega hjáleiga frá Reykjum.

Blikastaðir

Blikastaðir 1985.

Núverandi bæjarstæði Blikastaða virðist svo til á sama stað og bær sem sést á Túnakorti frá 1916. Hús þar eru vegleg og líklegt að stór hluti bæjarhólins hafi eyðilagst er þau voru byggð, þó mögulegt sé að brotakenndar leifar leynist undir og við núverandi bæjarhús. Bæjarins er fyrst getið í heimildum frá árið 1234.

Undir Blikastaði fellur hjáleigan Hamrahlíð sem byggð var um 1850. Hún virðist hafa lagst í eyði fyrir 1922 og eru rústir hennar greinilegar um 100 metrum neðan Vesturlandsvegar á móts við skógræktarreit í hlíðum Úlfarsfells.

Elliðakot

Elliðakot – síðasti bærinn – uppdráttur.

Elliðakot lagðist í eyði rétt fyrir 1950. Enn eru mjög greini­legar leifar síðustu búsetu þar. Síðast var búið þar í timburhúsi sem byggt var eftir að torfbær sem þar stóð var orðinn að rústum einum. Elliðakot er utan alfaraleiðar og því ekki í teljandi hættu vegna framkvæmda. Undir Elliðakot fellur hjáleigan Vilborgarkot. Það er sagt forn eyðijörð í Jarðabók 1704.
Jörðin byggist upp aftur einhvern tíma á árabilinu 1861-1900 en lagðist aftur í eyði árið 1905.

Í Helgadal var torfbær árið 1938 en hann er nú horfinn. Samkvæmt núverandi ábúanda stóð hann líklega þar sem nú er gróðurhús, SV við núverandi bæjarhús. Grjót úr veggjum og stéttum hefur komið í ljós á því svæði við jarðrask. Bæjarins er fyrst getið í heimildum frá miðöldum.

Helgafell

Horft að bænum Helgafelli á stríðsárunum.

Bæjarstæði Helgafells er á sama stað og á Túnakorti frá 1916. Þar er nú stórt íbúðarhús auk útihúsa sem hafa líklega raskað stórum hluta gamla bæjarins. Austan við bæinn er hóll sem líklega er forn bæjarhóll. Vorið 1980 var grafið framan af hólnum og komu í ljós hleðslur í sárinu. Haft var samband við Þjóðminjasafn Íslands og kom fornleifafræðingur á staðinn. Hann teiknaði upp og skráði hólinn. Nú virðist vera búið að taka meira af hólnum og liggur vegur yfir hann að hluta.

Hitta var hjáleiga frá Mosfelli um miðja 19. öld. Þar sjást nú engar rústir. Fornleifafræðingar frá Þjóðminjasafni Íslands grófu árið 1996 á þeim stað sem Hitta er talin hafa verið og fundu þar leifar býlis sem ekki hefur verið í byggð meira en einn mannsaldur.

Hlaðgerðarkot sést á Túnakorti frá 1916 og man heimildamaður eftir bæjarhúsunum frá u.þ.b. 1936. Nú hefur verið byggt ofan í rústirnar og eru þær alveg horfnar.

Hraðastaðir

Hraðastaðarétt.

Á Hraðastöðum er nú allmikil byggð og líklegt að gamla bæjarstæðið sé horfið. Þó er mögulegt að eitthvað leynist undir þeim byggingum sem þarna eru.

Á Hrísbrú var byggt ofan í gamla bæjarstæðið fyrir löngu. Þó er rétt að geta þess að tilgátur hafa lengi verið um að Mosfell hafi upphaflega verið byggt á þessum stað og síðar verið flutt þar sem það er nú. Nýlegar fornleifarannsóknir virðast styðja þessa tilgátu en þar hefur fundist kirkja og kirkjugarður frá því um 1000-1200. Nauðsynlegt er því að fara með gát við allar framkvæmdir á staðnum þar sem undir yfirborði gætu leynst leifar bæjar frá þessum tíma. Hrísbrúar er fyrst getið í Egils sögu Skallagrímssonar.

Laxness er fyrst getið í Fógetareikningum 1547–1552 og er þá í eigu konungs en var trúlega áður í eigu Viðeyjarklausturs.

Bárðartóft er um 1 km austan við Gljúfrastein. Þar á einsetumaður að hafa búið um tíma, líklega um aldamótin 1900.

Laxnestunga er hjáleiga sem hefur lagst í eyði fyrir 1916 en þá voru rústirnar mjög greinilegar. Við fornleifaskráningu 1980 fundust tóftirnar ekki þrátt fyrir mikla leit. Gera má þó ráð fyrir að þær séu enn til staðar í túni því sem kallast Laxnestunga en sléttað hafi verið yfir þær.

Lágafell

Lágafellskirkja 1901 – brúðkaup.

Á Lágafelli hefur alveg verið sléttað yfir bæjarstæðið og sjást engar tóftir á yfirborði. Samkvæmt ljósmyndum stóð síðasti bærinn þar sem nú er bílastæði við hlið kirkjugarðsins og að hluta til undir honum. Ekki er ólík­legt að rústir leynist undir sverðinum og ber því að fara með gát við allar framkvæmdir. Lækjarkot var hjáleiga frá Lágafelli sem fyrst er getið í heimildum frá 1855 og hefur lagst í eyði einhvern tíma á árabilinu 1861-1922. Lækjarkot virðist hafa horfið undið byggð sem nú er neðan Vesturlandsvegar undir Lágafelli.

Engar leifar gamla bæjarins í Leirvogstungu eru nú sjáanlegar og virðist mikið hafa verið sléttað í og við bæjarstæðið.

Miðdals er fyrst getið í Fógetareikningum 1547–1552 og er það þá í eigu konungs en var trúlega áður í eigu Viðeyjarklausturs.
Núverandi bæjarhús virðast á mjög svipuðum stað og húsin sem sjást á Túnakorti frá 1916. Þó er ekki ólíklegt að leifar gamla bæjarins leynist þar. Mikill trjágróður er nú á svæðinu og gerir það erfiðara að greina mögu­legar fornleifar. Sex hjáleigur eru skráðar undir Miðdal. Miðdalskot er nefnt í jarðabók 1704 en er komið í eyði um 1835. Rústir þess fundust við fornleifaskráningu SA í Kotahól, um 240 m SV Hafravatnsleiðar.
Í heimild frá 1855 segir að Sólheimakot og Búrfellskot hafi lagst í eyði fyrir mjög löngu síðan. Nýbýlið Sólheimar var reist 19328 en hefur verið án ábúðar frá 1958. Rústir Búrfellskots eru í kargaþýfðum móa sunnan við Búrfell. Býlið Geitháls var reist einhvern tíma á árunum 1861-1922 en hefur ekki verið í ábúð að minnsta kosti frá 1958. Tóftir bæjarhúsanna fundust við Hólmsá, um 25 m suður af Suðurlandsveginum. Borgarkot hefur samkvæmt Jarðabók verið í eyði frá 1703 en virðist einungis hafa verið í byggð 20 ár þar á undan. Nákvæm staðsetning er ekki þekkt. Annað kot sem hefur verið í byggð svipuðum tíma er Búrfell. Jarðabók 1704 segir að Búrfell hafi legið í eyði í átta ár en var fyrst uppbyggð fyrir um 20 árum.

Minna-Mosfell

Minna-Mosfell.

Gamla bæjarstæðið á Minna-Mosfelli var þar sem hlaðið er núna. Mögulegt er þó að rústir leynist undir.
Yngstu bæjarhúsin á Mosfelli eru nú líklega að einhverju leyti horfin undir kirkju og kirkjugarð en þó má minna á texta að ofan um Hrísbrú. Mosfells er fyrst getið í Land­námu og oft í Egils sögu Skallagrímssonar. Í heimild frá 1938 segir að Merkurvöllur sé hjáleiga frá Mosfelli og hafi lengi í auðn verið. Engar aðrar heimildir eru um þessa jörð og engar rústir eru á þeim stað sem nú heitir Merkurvöllur. Bakkakot var hjáleiga frá Mosfelli árið 1704. Hennar er ekki getið í Jarðatali Johnsen frá 1847 og hefur því lagst í eyði einhvern tíma á því tímabili. Ekki er vitað hvar hjáleiga þessi stóð. Bringur (einnig kallaðar Gullbringur) voru reistar í landi Mosfells vorið 1856. Bringur fóru í eyði árið 1966 og hefur bæjarstæðið verið sléttað með jarðýtu.

Norður-Reykja er fyrst getið í Jarðabók 1695. Bæjarhúsin standa enn á sama stað og á Túnakorti frá 1916.

Óskot

Óskot.

Óskots er fyrst getið í skrá um kvikfé og leigumála jarða Viðeyjarklausturs en nefnist þá Ós. Árið 1704 er hennar getið sem fornrar eyðijarðar og hún er ekki nefnd í Jarðatali frá 1847. Árið 1889 er nýbýli stofnað á jörðinni. Í dag er jörðin komin aftur í eyði en er nýtt til slægna og beitar. Rústir síðasta bæjarins á Óskoti eru mjög greinilegar í dag og einnig er líklegt að finna megi tóftir forna bæjarins. Ein tilgáta er að hann hafi verið þar sem nú er lágur hóll í túninu og virðist mega greina túngarð kringum hann á gömlum loftmyndum. Það er því nauðsynlegt að fara með gát við allar framkvæmdir á jörðinni.
Í Jarðabók 1704 er fyrst getið um Reykjakot og sagt að það sé ekki minna en 100 ára gamalt. Reykjakot var hjáleiga frá Reykjum. Árið 1893 eða þar um bil er nafni jarðarinnar breytt í Reykjahvol, á sama tíma og hætt var að búa í gamla torfbænum og
byggt stein­hús um 50 metra frá.

Skeggjastaðir

Skeggjastaðir 1924.

Skeggjastaðir eru fyrst nefndir í Landnámabók. Þar bjó Þórður skeggi sem land nam milli Leirvogsár og Úlfarsár í landnámi Ingólfs. Skeggjastaðir virðast hafa lagst í eyði á tímabilinu frá því einhvern tíma á 15. öld eða byrjun 16. aldar og fram til 1688. Hætt var að búa í torfbæ og steinhús byggt í staðinn einhvern tíma á milli áranna 1932 og 1938. Engar leifar gamla torfbæjarins sjást nú en vitað er hvar hann stóð og líklegt er að leifar hans séu varðveittar undir sverðinum. Samkvæmt Örnefnaskrám eru Ketilsstaðir austan við bæinn, við Leirvogsá.

Í Jarðabók 1704 er fyrst getið um Stekkjarkot og sagt að það sé ekki minna en 100 ára gamalt. Stekkjarkot var hjáleiga frá Reykjum og lagðist í eyði á árabilinu 1861-1922. Nýbýlið Sólvellir var svo reist á jörðinni 1922-1923.

Elsta heimild um SuðurReyki er máldagi kirkjunnar sem Þorlákur biskup Þórhallsson setti þar árið 1180. Samkvæmt Túnakorti frá 1916 hefur bærinn þá staðið á sama eða mjög svipuðum stað og hann stendur núna. Gera má ráð fyrir að núverandi íbúðarhús hafi að minnsta kosti að einhverju leyti raskað eldri bæjarhúsum.

Úlfarsá

Úlfarsá (Kálfakot) – tóftir.

Úlfarsá hét Kálfakot fram til ársins 1927 þegar núverandi nafn var tekið upp. Elsta heimild um Kálfakot er Jarðabókin frá 1584 þar sem hún er nefnd Kálfastaðakot. Gamla bæjarstæðið er um 100 m NNA við núverandi íbúðarhús á Úlfarsá. Þar var síðast kartöflugarður og lítið sýnilegt á yfirborði.

Úlfarsfells er fyrst getið í máldaga kirkjunnar á Suður-Reykjum árið 1367. Það er þá kirkj­ueign. Í túninu á nýbýlinu Fellsmúla eru tveir lágir flatir rústahólar en þar á að hafa verið lítið kot eða hjáleiga frá Úlfarsfelli.
Fyrstu heimildir um Varmá eru frá 14. öld. Varmá var lögð undir Lágafell um 1900 og hefur verið án ábúðar frá því einhvern tíma á árabilinu 1922-1932. Rústir gamla bæjarins eru greinilegar um 40 50 metra SA og A gagnfræðaskólans.

Þormóðsdalur

Þormóðsdalur – minjar.

Fyrsta heimild um Þormóðsdal er máldagi Maríu­kirkju í Viðey frá 1234 þar sem fram kemur að Viðeyjarklaustur eigi selför í Þormóðsdal hinum efri. Núverandi bæjarhús virðast standa á sama stað og bæjarhús á Túnakorti frá 1916.

Æsustaðir eru nefndir í Jarðabókinni frá 1704 og eru þá sagðir byggðir úr Norður-Reykjum. Gamli bærinn á Æsustöðum stóð u.þ.b. 20 – 30 metrum framar á hlaðinu en núverandi íbúðarhús Æsustaða I.

Heimildir:
-Skráning fornleifa í Mosfellsbæ, Þjóðminjasafn Íslands 2006.
-https://obyggdanefnd.is/wp-content/uploads/04_2004-2_urskurdur.pdf

Úlfarsfell

Úlfarsfell.

Gljúfrasteinn

Í „Skráningu fornleifa í Mosfellsbæ„, unna af Þjóðminjasafni Íslands árið 2006, var reynt að setja saman á einn stað flest það sem þegar var vitað um fornleifar á svæðinu, en minna reynt að setja þær í samhengi við búskaparhætti og tíma. T.d. er getið um Stóru- og Litlu-Grænuborg ofan Gljúfrasteins. Í heimildum kemur fram að Litla-Grænuborg hafi verið stekkur, en ekki reynt að tengja hann við fyrrum selstöðu frá Mosfelli, sem átti landið, þrátt fyrir að getið sé heimilda um að bærinn hafi átt sel þarna í ásnum, sem reyndar heitir Selás. Selstaðan hefur verið heimasel, enda stutt til bæjar. Í heimaseljum eru jafnan ekki aðrar minjar en stekkurinn. Þá er ekki reynt að greina einstakar minjar frá misvísandi heimildum, s.s. Selás og Hólshús, sem var ekki á ásnum heldur skammt austan Laxness.

Laxnes

Laxnes – fjárhús ofan bæjar.

Laxnes hefur sennilega verið í eigu Viðeyjarklausturs áður en þess er fyrst getið í Fógetareikningum 1547-1552, þá komið undir Danakonung (Dipl. Isl. XII). Árið 1704 var þetta konungsjörð með tvo ábúendur (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 321-2) en 1847 var Laxnes komið í bændaeign og með tvo leiguliða (J. Johnsen). Það skiptist nú í Laxnes 1 og 2, og var Mosfellshreppur ásamt fleirum orðinn eigandi að Laxnesi 1 árið 1979. Jörðin er enn í ábúð (Jarðaskrár).

Litla-Grænaborg

Litla-Grænaborg.

Í Örnefnalýsingu segir: „Nokkuð upp frá bænum, þegar landið hækkar, var Rétt, og er sýnd svo á korti; þar er nú Gljúfrasteinn, þar sem Halldór Kiljan býr. Þar upp af til norðurs heitir Selás…“ (Ari Gíslason).

Upp af Gljúfrasteini „…heitir Selás; þar voru eitt sinn byggð fjárhús, sem nefnd voru Hóll“ (Ari Gíslason).

Hólshús

Hólshús

Hólshús.

Í Örnefnalýsingu segir að upp af Gljúfrasteini, þar sem áður var Rétt heiti Selás og „…þar voru eitt sinn byggð fjárhús, sem nefnd voru Hóll“ (Ari Gíslason). Virðist líklegt að það séu fjárhúsin sem Halldór Laxness kallaði Hólshús og könnuð voru við fornleifaskráningu árið 1980. Skv. skrásetjara er þetta í gömlu túni eða grasi vöxnu stykki á melöldunum norðaustan við Laxnes. Landið er lítt gróið nema rétt umhverfis rúsirnar og hallar svolítið til vesturs frá þeim. Nánar tiltekið er þetta 25 m norðan við sumarbústað. Í raun er um að ræða stóra byggingu sem samanstendur af fjárhúsum, hlöðu, heytóft, tveimur fjárréttum og hrossarétt (Ágúst Ó. Georgsson).

Hólshús

Hólshús.

Fjárhúsin eru tvö (I) , um 9 x 10 m að stærð, og snúa í suður með innganga þeim megin. Eystra húsið hólfast í tvennt að endilöngu með grjóthlöðnum garða sem endar um 2 m frá norðurgafli og beygir hornrétt inn að eystri vegg. Í vestara húsinu eru leifar kofa (VII) sem byggður hefur verið utan í millivegginn sunnan megin eftir að hætt var að nota fjárhúsin. Þvert á afturgafl fjárhúsanna liggur hlaða (II) og virðist hafa verið inngangur í hana úr eystra húsinu. Hún er um 5×10 m að stærð. Við hlið hennar er svo heytóft eða heykuml (III), 2-3×7-8 m að stærð, með inngang að austanverðu. Veggjahæð er um 1,4 m í fjárhúsum og hlöðu en nokkru lægri í heykumlinu.

Hólshús

Hólshús – uppdráttur.

Vestan við húsin eru tvær réttir. Myndast austurhlið þeirra af afturstöfnum hlöðu, heytóftar og langvegg vestara fjárhússins. Nyrðri réttin (IV) er heldur stærri, um 10×12 m, en sú syðri (V) minni, um 4×13 m að stærð. Inngangar eru vestan megin, inngangur stærri réttarinnar þrengri og alveg upp við millivegg réttanna. Veggjahæð er um 48-50 sm. Auðsætt er að réttirnar hafa verið í notkun á sama tíma og fjárhúsin en nokkuð eldri er þriðja réttin (VI) sem nær utan um þær og betur til, um 20×28 m að stærð. Hún er ekki eins vel varðveitt, veggirnir lágir, um 20 cm, sums staðar útflattir eða, eins og í suðvesturhorninu, alveg horfnir. Glöggt sér þó móta fyrir öllum útlínum (Ágúst Ó. Georgsson).

Halldór Laxness sagði Guðjón föður sinn hafa byggt Hólshús og gat bent á einstaka hluta þeirra. Voru innri réttirnar fyrir fráfærur, sú stærri (IV) rétt Laxnesmanna en sú minni (V) sundurdráttarrétt Mosfellinga (Ágúst Ó. Georgsson). Þessu ber saman við upplýsingar úr Þjóðháttarannsókn stúdenta 1976: „Það var smalað sameiginlega til fráfæra á vorin, þegar Heiðin var smöluð. Það var farið eftir gamalli venju. Allur dalurinn rak í rétt í Laxnesi og í Helgadal“ Skv. Halldóri var stóra réttin (VI) utan um fjárréttirnar hins vegar hrossarétt (Ágúst Ó. Georgsson).

Stóra-Grænaborg

Stóra-Grænaborg

Stóra-Grænaborg.

Í Örnefnalýsingu segir að „Rétt sé þar sem nú er Gljúfrasteinn“ og „…þar upp af til norðurs heitir Selás“ og Hóll. „Þarna nokkuð ofan við Gljúfrastein, fast við veginn, er Grænaborg, allmikill rústarhaugur; þar skammt ofar… …er Bárðartóft“. Enn fremur: „Borgarholt er holt upp af Laxnessbæ og nær að Grænuborg“ (Ari Gíslason).
Skv. Fornleifaskráningu 1980 er Stóra-Grænaborg í lágum hól sem er hæstur að norðanverðu og hallar til suðurs, í uppnöguðu og lítt grónu holti. Um 30-40 m sunnan hennar rennur lækur og handan vegarins, í NV, er mýri. Nánar tiltekið eru rústirnar rétt sunnan megin við þjóðveginn til Þingvalla, um 400 m ANA frá Gljúfrasteini og um 850 m ASA frá Laxnesi (Ágúst Ó. Georgsson).

Stóra-Grænaborg

Stóra-Grænaborg.

Hóllinn er um 25×30 m að stærð og nálgast það að vera hringlaga. Vegurinn hefur tekið af honum nyrsta hlutann en sennilega einungis bláhornið. Á norðurhluta hólsins mótar fyrir hringlaga rúst. Ekki er hægt að giska nema nokkurn veginn á stærð hennar, um 8-9 m í þvermál. Taldi Halldór Laxness rústina vera af fjárborg og sem slík er hún skráð í friðlýsingarskjali. Rústin er mjög gróin og talin gömul, í yngsta lagi frá 19. öld (Ágúst Ó. Georgson). Við skoðun 2001 kom í ljós að girðing liggur þvert yfir rústina.

Stóra-Grænaborg

Stóra-Grænaborg – uppdráttur.

Í Örnefnalýsingu virðist gert ráð fyrir að Grænaborg sé nafn á rústarhaugnum eða hólnum þar sem auk fjárborgarinnar er rúst af yngra fjárhúsi (Ari Gíslason).
Í Friðlýsingaskrá segir við Laxnes: „Leifar af tveimur fjárborgum, Grænuborg og annarri ónefndri, hvorri sínum megin þjóðvegar skammt ofan við Gljúfrastein. Skjal undirritað af Þ[ór] M[agnússyni] 16.09.1976. Þinglýst 04.10.1976“ (Fornleifaskrá, bls. 16). Skv. Halldóri Laxness heitir fjárborgin í rústarhólnum Stóra-Grænaborg og sú sem er hinum megin vegarins Litla-Grænaborg (Ágúst Ó. Georgsson).

Upp við Stóru-Grænuborg, sunnar á rústahólnum mótar óljóst fyrir aflangri tóft. Sennilega hafa þetta verið fjárhús með heytóft við gaflinn norðan megin. Fjárhúsin, um 4×8 m að stærð, virðast hafa skipst í tvennt með garða sem legið hefur eftir þeim miðjum. Inngangar eru á suðurgöflum en þvert á norðurgaflana kemur heytóftin, um 4×5 m að stærð. Rústin er óljós og erfitt að segja með vissu til um lögun húsanna. Svo virðist sem nyrsti hluti byggingarinnar hafi snert eða tekið hluta af fjárborginni (Ágúst Ó. Georgsson).

Minni-Græna­borg

Litla-Grænaborg

Litla-Grænaborg.

Skv. Fornleifaskráningu 1980 er Minni-Grænaborg í lágum hól. Í nöguðu og gróðursnauðu holti, rétt vestan við, er dálítil mýri. Nánar tiltekið er þetta á móti Stóru-Grænuborg, rétt norðan megin við þjóðveginn til Þingvalla, um 450 m NA frá Gljúfrasteini og um 850 m SAS frá Laxnesi (Ágúst Ó. Georgsson).
Þessi rúst virðist hringlaga, 10-11 m í þvermál. Hún er mun ógleggri og útflattari en Stóra-Grænaborg og engar grjóthleðslur sýnilegar. Taldi skrásetjari byggingarefnið hafa verið sniddu. Rústin er friðlýst sem fjárborg. E.t.v. hefur annað mannvirki verið byggt í henni miðri því þar virðist óljóst móta fyrir ferningslaga hústóft með inngangi, um 4×4 m að stærð. Þar eð rústin er öll mjög óljós gæti þetta þó einfaldlega verið innanmál fjárborgarinnar. Að mati skrásetjara er þessi fjárborg eldri en Stóra-Grænaborg (Ágúst Ó. Georgsson).

Mælingahóll

Mælingahóll

Mælingahóll.


Í gróðurlitlum mel í miðjum dal er svokallaður Mælingahóll. Melurinn lækkar frá honum í N og V. Nánar tiltekið er þetta um 200 m N við veginn sem liggur að sumarbústöðum í Laxneslandi, í krikanum á beygjunni á honum, um 600 m NA Gljúfrasteins og um 900 m A við Laxnes (Ágúst Ó. Georgsson).

Þetta er rúst sem er til að sjá sem gróin þúst eða stór þúfa. Ekki sjást miklar hleðslur en greina má grjót eða vörðubrot í sverðinum (Ágúst Ó. Georgsson).

Að sögn Halldórs Laxness var þetta landmælingavarða sem danskir mælingamenn frá herforingjaráðinu höfðu sem viðmiðunarpunkt við þríhyrningsmælingar í byrjun 19. aldar (Ágúst Ó. Georgsson).

Bárðartóft

Bárðartóft

Bárðartóft – uppdráttur.

Í Örnefnalýsingu segir: „Þarna nokkuð ofan við Gljúfrastein, fast við veginn, er Grænaborg… …þar skammt ofar, rétt við Jónsselslæk, er Bárðartóft. Þar sést bálkurinn, sem Bárður lá á. Þetta er beint vestur af Skákunum” í tungunni„sem eru milli Köldukvíslar og Jónsselslækjar… …yfir dyrunum lá hella” (Ari Gíslason). Skv. Fornleifaskráningu 1980-1982 er tóftin „…á smáþýfðu graslendi, sem hallar…” í suður „…niður að læknum.” Lækurinn „…rennur milli tveggja holta…” og ofan og norðan „…við tóftina er grýtt og gróðurlítið holt…”, líklega Bárðarholt „…sem Bárðar­tóft er syðst á…” skv. Örnefnalýsingu. Um 2 m vestan tóftarinnar er „grunnur vatnsskorningur”. Nánar tiltekið er þetta beint sunnan við þjóðveginn, um 1 km austan við Gljúfrastein og um 1,5 km suð­austan við Laxnes (Ari Gíslason; Ágúst Ó. Georgsson).
Rústin er um 5×8 m að stærð en innri brúnir veggja og þar með innanmál eru óörugg. Breidd veggja er þó um 1,5 m. Við norðausturgaflinn er talsvert þýfi og grjót og hefur hann því líklega verið í þykkara lagi fremur en að þarna hafi verið bakhús. Ytri veggjabrúnir eru óljósastar á þessum gafli. Hæstur er langveggurinn NV megin, um 0,7-0,8 m en veggurinn á móti er illa farinn og hefur á kafla næstum jafnast við gólfið. Inngangur er á suðvesturgafli og stefnan SV-NA. Um bálkinn og helluna í Örnefnalýsingu er einnig getið í Menningarminjaskrá en skrásetjari sá ekki móta fyrir þessu (Ágúst Ó. Georgsson).

Um Bárðartóft sagði Halldór Laxness: „Einhver einsetukall bjó þarna í kofa”. Þetta virðist ekki mjög gömul rúst eða frá því í kringum aldamótin 1900.

Heimild:
-Skráning fornleifa í Mosfellsbæ, Skýrslur Þjóðminjasafns Íslands 2006/2.

Selás Mos

Garður utan í Selási.