Tag Archive for: Mosfellsbær

Torfdalur

Stefnan var tekin á Torfdal ofan við bæinn Helgadal í Mosfellssveit (Mosfellsdal). Dalurinn er fremur stuttur. Um hann rennur Torfdalslækur, vatnslítill nema í leysingum. Neðarlega myndar hann fossagil, Stórutorfugil. Ætlunin var að staðsetja Selhól, sem getið er í örnefnalýsingu svog mögulegar selminjar af draganda nafngiftar hólsins.

Torfdalur

Torfdalur – kort.

Að sögn bóndans í Helgadag, Ásgeirs Péturssonar, eftir að hafa ráðfært sig við húsfreyjuna, er hafði sótt örnefnalýsingu jarðarinnar sér til halds og trausts, mun Selhóll skaga út úr norðvesturhorni Grímarsfells, „augljós er upp væri komið“. Að sögn lægju „gamlar götur upp frá bænum áleiðis að Selhól, sem þó virtist ekki greinanlegt í dag“.
Í Jarðabókinni 1703 segir um selstöðu frá Helgadal (bls. 317); „Landþröng er mikil, og hafði jörðin áður í lánga selstöðu í Stardal frí, en nú verða ábúendur hana út að kaupa“. Þá segir: „Vatnsskortur er margoft um vetur að stórmeini.“

Torfdalur

Torfdalur – Varða á Selhól.

Skv. Jarðabókinni á Helgadalur að hafi selstöðu í Stardal ásamt allmörgum öðrum. Selfarir voru hins vegar einungis að sumarlægi. Ef aðstæður eru skoðaðar má telja að vatnsskortur hafi aldrei háð Helgadalsábúendum því þrjár ár renna við bæjarstæðið. Lýsingin virðist því eitthvað hafa skolast til hvað þetta varðar.
Þá má telja af líkindum að Helgadalssel hafi mögulega verið þar sem nefnt hefur verið Varmársel. Í Jarðabókinni er nefnilega ekki getið um selstöðu frá Varmá í landi Stardals og reyndar er alls ekki getið þar um selstöðu frá jörðinni, enda ólíklegra út frá landfræðilegum aðstæðum.

Torfdalur

Torfdalur – gata.

Í örnefnalýsingu Helgadals um göngusvæðið segir m.a.: „Jörð í Mosfellsveit, næst austan Æsustaða. Upplýsingar gáfu Hjalti og Ólafur Þórðarsynir, Æsustöðum, einnig frá föður þeirra.
„Suður með Grímarsfelli upp af hæðinni, er graslendur dalur er heitir Torfdalur, lokast hann að sunnan af Torfdalshrygg, en vestan Torfdals tekur við Suður-Reykjaland. Í króknum, er Torfdalshryggur og Grímarsfell mætast, eru brattar grasbrekkur er heita Stóratorfa. Norðan hennar er hóll er heitir Selhóll, og þar er einnig allmikið klettagil, Stórutorfugil. Upp af Selhól eru klettar sem heita Standur.“
Í athugasemdum um lýsinguna segir m.a.: „Guðjón Sigurður Jónsson, Borgarholtsbraut 25, Kópavogi, skráði athugasemdir við örnefnaskrá Helgadals í september 1983. Þær eru ýmist ritaðar inn á ljósrit af skránni eða færðar sem svör á spurningalista.
„Stóridalur er í Þormóðsdalslandi. Grímarsfell, ekki Grímansfell.

Torfdalur

Torfdalur ofanverður.

Torf var rist í Torfdal. Reiðingur var tekinn í Torfdalnum og notaður yfir hey sem stóðu í heygörðum. Ekki er vitað um sel við Selhól og ekki hvenær síðast var haft í seli í Helgadal.“
Gata var rakin frá Helgadal upp eftir Torfdal, skammt neðan Hádegisvörðu og allt upp þangað er gil skiptu að Grímarsfelli. Sjóskaflar þökktu svæðið svo erfitt var um staðfestingu minjatilvistar þar.
Þegar horft var yfir Stórutorfu mátti telja líklegast að selminjar myndu vera undir lágum melhól norðan torfunnar. Á honum er vörðubrot. Önnur mannanna verk var ekki að sjá í Torfdal (utan framreisluskurðar undir Torfdalshrygg).
Ástæða er til að skoða Torfdalinn nánar þegar vorar.

Torfdalur

Torfdalur – gata.

Sumarið eftir var aftur gengið um Torfdalinn ofan Helgafells. Rifjuð var upp örnefnalýsing þeirra Hjalta og Ólafs: „Sunnan Helgadalsbæjar er hæð, sem nær vestur að Æsustaðafjalli. Á henni, beint suður af Helgadalsbæ er Hádegisvarða. Suður með Grímarsfelli upp af hæðinni, er graslendur dalur er heitir Torfdalur, lokast hann að sunnan af Torfdalshrygg, en vestan Torfdals tekur við Suður-Reykjaland. Í króknum, er Torfdalshryggur og Grímarsfell mætast, eru brattar grasbrekkur er heita Stóratorfa. Norðan hennar er hóll er heitir Selhóll, og þar er einnig allmikið klettagil, Stórutorfugil. (Um það rennur Norðurreykjaá.) Upp af Selhól eru klettar sem heita Standur. Austan við Stórutorfu og Stand, sunnar í fellinu, ofarlega, er dæld, sem heitir Stóridalur. Þar neðar og vestur af er urð mikil sem heitir Skollurð, er hún í Þormóðsdalslandi, og enn austar skerst djúpt gil sunnar í fellið er heitir Vondagil (mun nefnt Illagil á korti). Á háfellinu, upp af Torfdal, er kollóttur móbergshóll er heitir Kollhóll; er hann á há-Suðurfellinu vestanverðu. Enn vestar er Nóngilslækur, á merkjum Helgadals og Æsustaða. Má telja, að Suðurá byrji þegar Torfdalslækur og Nóngilslækur koma saman.
Í suðausturkrika dalsins, í Helgadalstúni og upp af því, er Bæjargil, enn vestar Torfdalsgil og Nóngil, sem er á mörkum Helgadals og Suður-Reykja. Nóngil er forn eyktamörk frá Helgadal. Í Torfdalsgili er Torfdalsfoss og í Nóngili Nóngilsfoss.“

Í athugasemdum Guðjóns Sigurðar við Örnefnalýsinguna segir m.a.: „Niður af Hádegisvörðu (á Hádegishæð) er djúpur hvammur sem nefnist Bolabás . Torf var rist í Torfdal. Reiðingur var tekinn í Torfdalnum og notaður yfir hey sem stóðu í heygörðum. Ekki er vitað um sel við Selhól og ekki hvenær síðast var haft í seli í Helgadal.“

Torfdalur

Torfdalsfoss.

Í króknum þar sem Torfdalshryggur og Grímarsfell mætast eru brattar grasbrekkur sem nefnast Stóratorfa, en „…norðan hennar er hóll er heitir Selhóll, og þar er einnig allmikið klettagil, Stórutorfugil. Upp af Selhól eru klettar sem heita Standur“ (Ólafur Þórðarson). Ekki er vitað hvort sel var við Selhól og ekki heldur hvenær síðast var haft í seli í Helgadal. Hvorki Sigurði Helgasyni, fyrrverandi bónda í Helgadal, né öðrum er kunnugt um rústir við Selhól eða sel í Torfdal.

Helgadalur

Helgadalur – Mosfellsbæ.

Líklegt má telja, ekki síst vegna þess hversu stutt er frá bæ að Selhól, að þar hafi um tíma verið heimasel. Í heimaseljum voru venjulega einungis eitt mannvirki; stekkur eða afdrep, allt eftir tilgangi selstöðunnar. Þegar framangreindri götu frá bæ var fylgt upp með Stórutorfugili austan Norðurreykjaár, upp með Hádegisvörðu og upp á Stórutorfu suðaustan Selhóls (á Selhól er varða, sem vandað hefur verið til) má sjá á einu barðinu móta fyrir mannvistarleifum. Líkast til er þar um að ræða fornan stekk eða annað mannvirki, að mestu gerður úr torfi, en þó má einnig sjá þar grjót. Minjarnar er skammt austan við ána ofan við flæður, sem í henni eru. Selstöður voru nytjastaðir, hvort sem var fyrir fé, nautgripi, fuglatekju, kolagerð, hrístöku, torfristu, mótekju eða annað þ.h. Af nafni dalsins má e.t.v. draga þá ályktun að Torfdalur dragi, líkt og svo margir nafnar hans á landinu, nafn af torfskurði, hugsanlega mótaki því að torf merkir að fornu bæði grastorf og mór („elditorf“). Þess vegna má ætla að ekki hafi verið lagt í mikil mannvirki í dalnum því stutt er heim til bæjar.
Frábært veður.

Heimildir:
-Ólafur Þórðarson frá Æsustöðum. Örnefnalýsing Helgadals, skráð 1968 sem endurbót á lýsingu Ara Gíslasonar og aftur endurbætt 22. sept. 1983.
-Athugasemdir við lýsinguna: Guðjón Sigurður Jónsson, Borgarholtsbraut 25, Kópavogi, skráði athugasemdir við örnefnaskrá Helgadals í september 1983.
-Ásgeir Pétursson, bóndi í Helgadal.
-Jarðabók ÁM 1703.

Torfdalur

Helgadalur framundan – Hádegisvarða.

Þingvallavegur

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1973 er grein um „Örnefni á Mosfellsheiði“ eftir Hjört Björnsson:

Örnefni á Mosfellsheiði
„Síðan hinn nýi vegur yfir Mosfellsheiði var lagður, fyrir Alþingishátíðina 1930, má svo heita, að ferðir um gamla veginn, sem lagður var nokkru fyrir síðustu aldamót, hafi lagzt niður. Vilja örnefni týnast og falla í gleymsku á þeim leiðum, sem nú eru sjaldfarnar eða þotið er um í bíl, þótt áður væru þær fjölfarnar, bæði af gangandi mönnum og ríðandi, og þá oft með langar og seinfærar lestir baggahesta, og síðar kerrur. — Þá var oft nægur tími fyrir ferðamanninn að virða fyrir sér það, sem fyrir augun bar, og þekkja nöfn á áningastöðum og kennileitum.
Vil jeg nú leitast við að telja upp örnefni meðfram gamla Mosfellsheiðarveginum, frá Almannagjá að Geithálsi, þar sem hann sameinast Hellisheiðarveginum. Þó má þar án efa einhverju við bæta, því að ekki geri jeg ráð fyrir, að jeg þekki þau örnefni öll, enda munu skiptar skoðanir um sum þeirra.

Skálabrekka

Fjárborg ofan Skálabrekku vestan Kárastaða.

Þegar komið er upp úr Almannagjá og farið „suður“ — en svo er alltaf að orði komizt um ofanverða Árnessýslu, þegar farið er yfir Mosfellsheiði, þó að vegurinn liggi til vesturs og jafnvel norðvesturs — þá liggur vegurinn litlu vestar yfir Breiðabala; lága, breiða upphækkun í hrauninu. Vestan við Breiðabala er „afleggjari“; liggur hann til hægri handar beint upp hraunið í malargryfjur miklar sunnan í Stórhöfða, sem er á milli Brúsastaða og Kárastaða. Var „afleggjari“ þessi lagður litlu fyrir síðustu aldamót, um líkt leyti og aðalvegurinn var gerður, til aðflutninga á ofaníburði.

Árfarið

Árfarið – gamli árfarvegur Öxarár.

Dálítið neðan við túnið á Kárastöðum liggur vegurinn yfir Árfar. Er það allbreiður, en grunnur, farvegur, sem oftast er þurr á sumrum. Nafnið kemur af því, að stundum í leysingum stíflast Öxará af krapi og íshröngli fyrir innan Brúsastaði og flæðir þá vestur hraunið, sunnan undir Stórhöfða, og hefur myndað sjer þar farveg greinilegan; sameinast hún svo lækjarseytlum, er koma úr giljunum fyrir ofan Kárastaði, og rennur svo niður hraunið út í Þingvallavatn. Þegar yfir Árfarið er komið, tekur við Kárastaðamýri vestur í Borgarskarð, sem oftast í seinni tíð er nefnt Kárastaðaskarð, því að þar sjest fyrst heim að Kárastöðum, þegar komið er austur af heiðinni. Í Borgarskarði var fyrr fjárborg, og þar talið, að Mosfellsheiði byrji. Vestan til heitir skarðið Borgardalur, en Borgardalsbrekkur lyngbrekkur miklar á hægri hönd, en til vinstri er Skálabrekkuás. Milli ássins og vegarins er lítil valllendisflöt og heitir Norðlingaflöt. Er þá komið í Bæjardal; hann er kenndur við bæinn að Skálabrekku, sem stendur sunnan undir honum, en sjest ekki af veginum.

Mosfellsheiði - kort

Norðaustanverð Mosfellsheiði – herforingjakort frá 1908.

Bæjardalur takmarkast að suðvestan af Skálabrekkuás, en að norðvestan Lyngás. Liggur vegurinn eftir endilöngum dalnum, unz hann þrýtur, og er þá farið yfir Móakotsá. Það er lítil árspræna, sem oftast er þur í þurkasumrum; kennd er hún við eyðibýlið Móakot, sem stendur á árbakkanum niður-undir Þingvallavatni. Var Móakot byggt um 50 ára skeið á síðustu öld. Vestan við Móakotsá er farið yfir hæð eina litla, Spýtuás, og taka þá bráðlega við lágar og lyngi grónar hæðir, er Þrísteinaholt heita. Liggur vegurinn milli þeirra og yfir Torfdalslæk, og þvínæst norðan undir Gíslahóli, sem venjulega er nefndur Gíslhóll. Austan undir Gíslahóli liggur rudd braut til vinstri af aðalveginum niður að Heiðarbæ og svo áfram suður Grafning.

Mosfellsheiði - kort

Mið-Mosfellsheiði – herforingjakort frá 1908.

Skömmu áður en komið er að steininum, er sýnir 40 km. vegalengd frá Reykjavík, er farið yfir litla valllendisflöt, er Harðivöllur heitir. Nokkru vestar er Ferðamannahorn, þar sem bugur verður á veginum á hæðarbrún ekki mikilli; er þá skammt að Þorgerðarflöt, sem er allstór flöt til vinstri handar. Gegnt Þorgerðarflöt eru mýradrög allmikil, er heita Vilborgarkelda. Sagt er, að keldan beri nafn af konu nokkurri, er fórst þar voveiflega, og þótti hún síðan vera þar á sveimi, er skyggja tók, og gera ferðamönnum glettingar. „Í Keldunni“, eins og oftast var komizt að orði, var mjög tíður áningastaður, og lágu langferðaraenn þar oft með lestir sínar, enda er þar haglendi fyrst, svo teljandi sje, austan aðalheiðarinnar.
Örskammt vestan við Vilborgarkeldu og Þorgerðarflöt skiptast leiðir, og liggur nýi vegurinn, sem lagður var 1928—9, þar vestur heiðina, sunnan-undir Litla-Sauðafelli og niður í Mosfellsdal. Þegar komið er fram hjá vegamótunum, er farið yfir Þórðargil, lítið gildrag, og Þórðargilsmela. Á þeim er varða, þrír steinar miklir, hver ofan á öðrum; er hún af sumum nefnd Berserkjavarða. Þaðan er nokkur spölur að Þrívörðum. Þar er land hæðótt og eru Þrívarðnalautir á milli þeirra, en vegurinn liggur yfir Þrívarðnahrygg vestur heiðina. Nokkuð sunnan við veginn á Þrívarðnahrygg sjer í tjarnir nokkrar, er Klofningatjarnir heita.

Mosfellsheiði

Suðvestanverð Mosfellsheiði – herforingjakort frá 1908.

Vestan-í Þrívarðnahrygg eru Moldbrekkur, og hallar þar niður í Lágheiði, breiða dæld, sem er þar í heiðinni. Upp frá Lágheiði er alllöng brekka, Sæluhúsbrekka, og nær hún vestur undir Sæluhús, sem stendur þar fáa metra norðan við veginn. Var það byggt um líkt leyti og vegurinn; og kom mörgum að góðum notum, bæði mönnum og skepnum, þótt ófullkomið væri. Standa ná aðeins veggir eftir, en þak og innviðir rifnir burt. Nokkru vestar er klappahóll til hægri við veginn, er heitir Rauðkuhóll. Fótbrotnaði þar hryssa, er Rauðka hjet, hjá ferðamönnum úr Þingvallasveit. Meðal þeirra var Jónas hreppstjóri Halldórsson í Hrauntúni. Hafði hann broddstaf mikinn í hendi og keyrði í enni hryssunnar, og var hún þegar dauð.

Borgarhólar

Í Borgarhólum.

Frá Rauðkuhóli er æði spölur, unz vegurinn liggur norðanundir allstórum og mörgum klappahólum, er heita Borgarhólar. Telja jarðfræðingar Mosfellsheiði gamalt hraun, og að Borgarhólar sjeu uppvörp þess, og hafi síðan jökull gengið þar yfir og sorfið. Enda sjást víða jökulruðningar miklir og ísrákir á klöppum um heiðina. Frá Borgarhólum liggja götutroðningar, sæmilega glöggir, niður með Grímmannsfelli (Grímarsfelli) austanverðu, niður hjá Bringum og niður í Mosfellsdal.
Hallar nú upp á melkoll nokkurn, Háamel, sem stundum er líka nefndur Alda. Þar liggur vegurinn hæst, og er þaðan útsýni mikið og fagurt í björtu veðri. Til austurs sjest þar austurhluti Þingvallasveitar og fjöllin þar umhverfis og allt inn á Langjökul, en Skjaldbreið fyrir miðju, og sýnist þá engu minni en frá Þingvöllum, þó að miklu muni á fjarlægðinni. Til suðvesturs sjest um Suðurnes og meðfram Reykjanessfjallgarði endilöngum og á haf út, um sunnanverðan Faxaflóa.

Heiðarblóm

Sunnan undir Háamel var eitt sumar — eða tvö — fyrir rúmum 20 árum lítill veitingaskúr, er danskur maður átti og nefndi Heiðarhlóm. Sjást þess nú nálega engin merki, að þar hafi mannabústaður verið. Þar suðvestur af taka við sljettir melar, Borgarhólamelar, og hallar úr því nokkuð jafnt niður í byggð í Mosfellssveit. Heita þar Seljadalsbrúnir, löng leið og heldur tilbreytingalítil.
Er þá Grímmannsfell allfjarri til hægri handar, en Efri-Seljadalur milli þess og heiðarinnar. Við suðurenda Efri-Seljadals eru hólar nokkrir, og heitir þar Þrengslin, en sunnan-við þau tekur við Neðri-Seljadalur. Verður þar undirlendi meira og dalhvilftin öll grynnri. Þar sunnarlega er Silungatjörn og Silungatjarnarmýri. Í Seljadölum er graslendi mikið og var þar tíður áningarstaður ferðamanna fyrrum, enda lá vegurinn um þá áður en akbrautin var lögð. Lítið sjest af veginum ofan í dalina fyr en komið er niður á móts við Silungatjörn. Þegar alllangt kemur niður eftir Seljadalsbrúnum, verða fyrir tvö lautardrög til vmstri við veginn: Efri-Hrossadalur, og litlu neðar Neðri-Hrossadalur, og enn neðar sömu megin Helgutjörn — grunnur tjarnarpollur, sem venjulega þornar upp á sumrum. Þá er til hægri handar Eiríkshóll, einstakur klappahóll, flatur að ofan, að öðru leyti en því, að fuglaþúfa hreykir sjer á honum miðjum.

Konungsvegur

Brú á Konungsveginum á Mosfellsheiði.

Litlu neðar, en lengra frá veginum, er Vörðuhóladalur, daldrag, sem lítið ber á. Tekur nú vegurinn að verða krókóttur, en hefur verið bugðulítill ofan frá Háamel, og er nú bráðlega komið að Krókatjörn, sem er við veginn til hægri. Gengur að norðan út í hana langur tangi, er skiptir henni nærri í tvennt, og er hún því af sumum nefnd Gleraugnatjörn (Það mun vera þýðing á örnefni, sem nokkrir danskir menn gáfu tjörninni fyrir 20—30 árum). Mjög litlu neðar, hinu megin við veginn, er Djúpidalur, alldjúp kvos, er áður var klædd valllendisgróðri, en hefur í seinni tíð blásið upp og jetizt af vatni. Sumarið 1907 var þar búinn morgunverður Friðriki konungi VIII. og fylgdarliði hans, er hann reið til Þingvalla og Geysis. Móts við og fyrir neðan Djúpadal er vegurinn enn krókóttari en áður, og heita þar Krókar niður að Miðdalsmýri. Liggur vegurinn yfir hana þvera og Miðdalslæk, sem rennur eftir henni, en bærinn Miðdalur stendur í halla kippkorn norðar. Þegar kemur yfir Miðdalsmýri, er vegurinn yfir háls einn lágan, en allbreiðan, og stóðu norðar á honum fjárhús frá Miðdal. Litlu sunnar, til vinstri handar, er tjörn ein lítil, er Heiðartjörn heitir, og er þá örskammt ofan af hálsinum niður Að Lynghólsmýri, og er Lynghóll norðvestan við hana. Var Lynghólsmýri einn af fyrstu blettunum, sem girtur var með gaddavír meðfram veginum, og þótti sumum ferðamönnum súrt í broti, að missa jafngóðan áningastað.

Heiðartjörn

Heiðartjörn – syðst er tjörnin Björg; áhugavert brotasvæði.

Þegar komið er fram hjá mýrinni, er enn dálítil tjörn við veginn til vinstri, er Sólheimatjörn heitir, og spölkorn vestar Hofmannaflöt, allstórar valllendisflatir til hægri við veginn. Þaðan er svo mjög skammt að Geithálsi, þar sem vegurinn sameinast Suðurlandsbrautinni. Hefur þá verið fylgt veginum austan frá Almannagjá, sem er 35—40 km. leið, og skýrt frá örnefnum eftir því.
Hjörtur Björnsson frá Skálabrekku.“ – M.Þ.

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 01.01.1973, Örnefni á Mosfellsheiði, bls. 164-167.

Gamli Þingvallavegur

Berserkjavarðan við Gamla Þingvallaveginn.

Mosfellsbær

Í Morgunblaðinu 1983 er fjallað um „Kirkjuklukku frá 13. öld…“. Þar mun vera um að ræða gamla kirkjuklukkan, sem var í Hrísbrúarkirkju, áður en hún var rifin og ný kirkja reist að Mosfelli:

Ævaforn kirkjuklukka frá Mosfelli [Hrísbrú]
Hrísbrú
Í gær kom einnig til Kjarvalsstaða ævaforn kirkjuklukka frá Mosfellskirkju [Hrísbrúarkirkju] í Mosfellssveit. Ekki er nákvæmlega vitað um aldur hennar að sögn Björns Th., hún mun ekki vera frá frumkristni á Íslandi, en þó líklega frá því á 13. öld eða í byrjun þeirrar 14. Sést aldur hennar á lagi hennar, hún er útflá í laginu. Björn kvað uppruna óvissan, líklegast væri að hún væri þýsk, en gæti þó allt eins verið ensk eða frönsk. Klukkuna taldi dr. Róbert Abraham Ottósson, söngmálastjóri þjóðkirkjunnar, hljómfegurstu klukku á landinu.
Klukka þessi kemur mjög við í Innansveitarkroniku Halldórs Laxness.
Er kirkja var lögð niður á Mosfelli og flutt að Lágafelli, vildu bændur á Hrísbrú ekki una því að kirkjuklukkan forna færðist þangað. Var hún því geymd á Hrísbrú uns aftur reis kirkja á Mosfelli, og þar er klukkan nú. — Ekki munu Hrísbrúingar þó vilja una við þá útgáfu, er Innansveitarkronika gefur um geymslustað klukkunnar á Hrísbrú, en ekki er ætlunin að blandast inn í þær deilur hér.
Björn Th. kvað þetta alls ekki elstu klukku á landinu. Sú elsta er geymd á Þjóðminjasafninu, og mun einnig verða á sýningunni nú. Það er klukka frá Hálsi í Fnjóskadal, frá því á 12. öld. „Sú klukka hefur hringt við eyrum Guðmundar biskups góða, er hann var að alast upp á Hálsi,“ sagði Björn Th.

Í Vísi 1962 birtist grein um Hrísbrúarklukkuna; „Klukkan kallar„:

Lágafellskirkja

Lágafellskirkja 1901.

Kátt tók að klingja og fast
klukkan, sem áður brast.
Alskærum ómi sló
út yfir vatn og skóg.
Mín klukka, klukkan þín
kallar oss heim til sín.– H.K.L.

Það geymast margar kynjasagnir í kristnum löndum. Um dularmátt kirkjuklukkna, hvernig þær orka ævilangt á mannlegar tilfinningar og mannleg örlög aftur á þær, líkt og klukkurnar séu gæddar lífi og sál.
Það kunna allir Íslendingar söguna af því, er Líkaböng Hóladómkirkju átti að hafa tekið að hringja sér sjálf, er lík Jóns Arasonar og sona hans voru flutt heim að Hólum. Tjéðlend frásögn hermir, að það hörmulega slys hafi hent, að fegursta stúlka þorpsins hafi fallið í mótin, þar sem verið var að bræða málminn í þorpsklukkurnar, og líkami hennar bráðnað þar. Sagan segir að fegurð hennar hafi orðið ódauðleg í hljómi klukknanna, sá hljómur sé ekki af þessum heimi.

Hrísbrúarkirkja

Mosfellskirkja – Við Mosfellskirkju sumarið 1883, enskur ferðamaður í hársnyrtingu, til vinstri er íslenskur fylgdarmaður ferðafólksins sem fékk að gista í kirkjunni. Myndin er önnur tveggja ljósmynda sem til er af þessari kirkju sem komst á hvers manns varir fimm árum síðar eins og greint er frá í Innansveitarkroniku. Kirkjan var byggð úr timbri og var eina timburkirkjan sem staðið hefur á Mosfelli.
Mosfellskirkja árið 1883. Ljósmyndari: Walter H. Trevelyan. © Brennholt.

Í einum fegursta dal Íslands, við dyr höfuðborgarinnar, er nú verið að móta í málm og stein lokaatriði ævintýralegrar og ótrúlegrar sögu, sem hófst árið 1888. Klukknahljómur er upphafs- og lokastef þessarar ljóðrænu, rómantísku frásagnar, og jafnvel á atómöld eru menn veikari fyrir rómantík en menn vilja vera láta.
Hið umrædda ár, 1888, var tekin af kirkja, sem staðið hafði í dalnum um aldaraðir. En allmargir dalbúanna máttu ekki til þess hugsa að klukknahljómurinn hyrfi úr dalnum. Þeir hófu harðar mótmælaaðgerðar gegn kirkjuyfirvöldunum og náðu á sitt vald klukkuur gömlu kirkjunni, sem jöfnuð var við jörðu. Segir sagan að þeir myndu aldrei hafa látið hana af hendi og verið þess albúnir að verja hana með afli.
Hrísbrú
Svo mikið er víst, að kirkjuklukkan er enn í dag varðveitt Í dalnum, á næsta bæ við hinn forna kirkjustað, sem tákn löngunarfullrar þrár þessa byggðarlags, hvers byggðarlags og hvers hjarta, eftir „alskærum“ helgum hljóm, þrátt fyrir allt og allt.
Á bænum með kirkjuklukkunni ólst upp drengur, sem síðar varð forvígismaður sveitarinnar. Hann lézt fyrir fáum árum, ókvæntur og barnlaus stóreignamaður og hafði þá stofnað eignum sínum sjóð, sem verja skal til að endurreisa kirkju dalbúa á hinum forna kirkjustað. Nú er þessi einstæða kirkjubygging hafin. Og fyrsti gripurinn, sem kirkjan hefur eignazt, er gamla klukkan, hið eina sýnilega tákn gömlu kirkjunnar, sem aldrei tókst að ræna frá dalbúum. Til orða hefur komið að taka upp þá venju með nýju kirkjunni, að hringja klukkum hennar út yfir dalinn á sama tíma hvert einasta kvöld. Og það er trú ýmisa, að fengi gamla klukkan ekki að hljóma með, myndi hún hringja sér sjálf.
„Mín klukka, klukkan þín kallar oss heim til sín“.

Mosfellskirkja

Mosfellskirkja.

Kirkja stóð á Mosfelli í Mosfellsdal frá ómunatíð, þar til síðsumars árið 1888. Þá voru Mosfells- og Gufunesssóknir lagðar niður og sameinaðar Lágafellssókn og ný kirkja reist miðsvæðis, það er að segja á Lágafelli. Lágafellskirkja var vígð á fyrsta góudag 1889. Þar hafði ekki verið kirkja áður, en óljósar sagnir eru um bænahús þar á 17. öld.
Það mætti mikilli andúð í Mosfellssókn, er kirkjan þar var lögð niður. Dalbúar og Inn-Kjalnesingar vildu ekki missa Mosfellskirkju, en sóknarpresturinn, séra Jóhann Þorkelsson, síðar dómkirkjuprestur í Reykjavík, kirkjuyfirvöldin í Reykjavík og meirihluti sóknarmanna voru fylgjandi þeirri breytingu, sem gerð var, enda hnigu óneitanlega að því ýmis rök. En tilfinningar dalbúa voru andstæðar þeim rökum, og gekk svo langt, að ýmsir íbúar Mosfellsdals og Inn-Kjalnesingar höfðu fullan hug á að una henni ekki og fóru þess á leit við séra Þorkel Bjarnason á Reynivöllum, að hann gerðist kjörprestur þeirra. Af bréfum, sem fóru á milli, er ljóst, að séra Þorkell tók vel í þessa málaleitan, en til þessa kom þó ekki, og mun þessi „uppreisn“ hafa verið þögguð niður af biskupi og kirkjuyfirvöldum.

Hrísbrú

Hrísbrú – kirkjan eftir fornleifauppgröft.

Harðasta andstaðan gegn því að taka af kirkju á Mosfelli var á bæjunum í kring. Andstæðingar þeirrar nýskipunar náðu í sínar vörzlur klukku úr Mosfellskirkju, þegar hún var rifin, og munu hafa verið albúnir þess að verja gerðir sínar með afli, ef á hefði verið leitað.
Elínborg Andrésdóttir, býr nú á Hrísbrú, og þar tók ljósmyndari Vísis myndina af henni með hina sögufrægu og sigursælu kirkjuklukku á dögunum.
Þótt Mosfellingar töpuðu fyrstu orustunni í stríðinu fyrir kirkju sinni, hafa aldrei þagnað að fullu þær raddir, sem gerðu tilkall til þess að Mosfellskirkja yrði endurreist.
Fyrir þremur árum andaðist hreppstjóri Mosfellssveitar, Stefán Þorláksson í Reykjahlíð, og kom í ljós, er erfðaskrá hans var opnuð, að þessu kirkjumáli var borgið. Stefán hafði alizt upp á Hrísbrú með gömlu kirkjuklukkunni og undir áhrifamætti þeirra minninga, sem við hana og Mosfellskirkju voru bundnar. Hversu máttug þau áhrif hafa verið, má bezt marka af því, að Stefán, sem var 6-kvæntur og barnlaus stóreignamaður, stofnaði með erfðaskrá sinni sjóð af þorra eigna sinna og skyldi verja honum til að endurreisa kirkju á Mosfelli Þar með var hið mikla tilfinninga- og metnaðarmál dalbúanna komið í höfn.

Hrísbrú

Hrísbrú – fornleifauppgröftur;

Stefán lét eftir sig svo miklar eignir, að talið er að þær hrökkvi eigi aðeins fyrir byggingarkostnaði, heldur og fyrir viðhaldi og reksturskostnaði kirkjuhússins í framtíðinni. Meðal eigna þeirra, er Stefán arfleiddi kirkjusjóðinn að, er gróðrarstöð, þar sem einvörðungu eru ræktuð blóm og kirkjubyggingarsjóður rekur í samvinnu við garðyrkjumann, og má því með sanni segja, að blómin leggi sitt af mörkum til kirkjubyggingarinnar.

Mosfell

Mosfell – gamli bærinn og kirkjan.

Á sl. ári var efnt til verðlaunasamkeppni um teikningu að nýju kirkjunni og þrenn verðlaun veitt að tillögu dómnefndar, sem fjallaði um teikningarnar. Ekki var þó byggt eftir neinni verðlaunateikningunni, heldur eftir teikningu, sem Ragnar Emilsson gerði. Framkvæmdir við kirkjubygginguna hófust strax og klaki fór úr jörðu í vor. Nú hefur verið steyptur grunnur undir kirkjuna og verið er að slá upp fyrir kirkjuskipinu og kórnum. Nokkur hluti kirkjunnar er byggður inn í gamla kirkjugarðinn. Þar kom upp töluvert mikið af mannabeinum. Þeim var öllum safnað saman í stóra kistu, sem grafin var undir kórgólfi nýju kirkjunnar.

Hrísbrú

Mosfellsdalur – Hrísbrú fremst.

Stjórn dánargjafar Stefáns Þorlákssonar skipa sóknarpresturinn, sýslumaður og biskup landsins. Þá starfar og sérstök kirkjubyggingarnefnd, sóknarpresturinn, séra Bjarni Sigurðsson, formaður, og sést af því, hve mikið hvílir á hans herðum við þetta endurreisnarstarf.
Með honum eru í byggingarnefndinni Jónas Magnússon, safnaðarfulltrúi í Stardal, Ólafur Þórðarson, sóknarnefndarformaður Varmalandi, Ólafía Andrésdóttir, húsfreyja, Laugabóli, og Ólafur Ólafsson, læknir, Reykjalundi.
Mikil og almenn ánægja og áhugi ríkir fyrir þessari kirkjusmíði í Mosfellssveit, eins og allur aðdragandi þessa byggingarmáls hefur tilefni til, og mun vart ofmælt, að fáar nútímakirkjur á Íslandi eigi jafn sögulegan aðdraganda.
Hin nýja kirkja á Mosfelli á að rúma 110 manns í sæti. Hún stendur á brekkubrún og sér þaðan yfir dalinn. Grunnflötur forkirkjunnar myndar þríhyrning, forhliðin er þríhyrnd og allir fletir byggingarinnar þríhyrndir. Turninn verður 23 metra hár og víkur frá venju að því leyti, að hann rís upp af austurenda kirkjunnar, það er að segja upp af kórnum. Í samræmi við aðrar línur kirkjunnar, er turninn þrístrendur og opinn að nokkrum hluta.“ – E.Bj.

Í Morgunblaðinu 2004 er sagt frá „Kirkju að Hrísbrú nefnda í Eglu„:

Kirkjan að Hrísbrú er nefnd í Eglu, sbr. 89. kafla:

Hrísbrú

Hrísbrú; skáli og kirkja – tilgáta.

„Grímur að Mosfelli var skírður, þá er kristni var í lög leidd á Íslandi; hann lét þar kirkju gera. En það er sögn manna, að Þórdís hafi látið flytja Egil til kirkju, og er það til jartegna, að síðan er kirkja var gerð að Mosfelli, en ofan tekin að Hrísbrú sú kirkja, er Grímur hafði gera látið, þá var þar grafinn kirkjugarður. En undir altarisstaðnum, þá fundust mannabein; þau voru miklu meiri en annarra manna bein. Þykjast menn það vita af sögn gamalla manna, að mundu verið hafa bein Egils. Þar var þá Skafti prestur Þórarinsson, vitur maður; hann tók upp hausinn Egils og setti á kirkjugarðinn; var hausinn undarlega mikill, en hitt þótti þó meir frá líkindum, hve þungur var; hausinn var allur báróttur utan svo sem hörpuskel. Þá vildi Skafti forvitnast um þykkleik haussins; tók hann þá handöxi vel mikla og reiddi annarri hendi sem harðast og laust hamrinum á hausinn og vildi brjóta, en þar sem á kom, hvítnaði hann, en ekki dalaði né sprakk, og má af slíku marka, að haus sá mundi ekki auðskaddur fyrir höggum smámennis, meðan svörður og hold fylgdi. Bein Egils voru lögð niður í utanverðum kirkjugarði að Mosfelli.“

Í Mosfellingi 2005 er fjallað um „Fornleifauppgröft að Hrísbrú„:

Margir hafa velt vöngum um afdrif beina Egils

Hrísbrú

Stefán Þorláksson (1895-1959) hreppstjóri í Reykjadal í Mosfellssveit. Stefán var sonur Þorláks nokkurs, sem kallaður var Ösku-Láki og konu úr Eyjafirði, sem Sólrún hét. Hann ólst upp á Hrísbrú í Mosfellsdal.

„Egilssaga fjallar um þetta og víðar hefur það verið gert. Halldór Laxness stúderaði sögu Mosfellsdals á sínum tíma og færði í frásögn með sínum hætti í Innansveitarkróniku: „Kirkja hafði að öndverðu verið reist undir Mosfelli á þeim stað sem síðar hefur heitið Hrísbrú, og stóð þar uns skriða hljóp á túnið á 12tu öld; var þá flutt á hól einn leingra inn með fjallinu, Mosfellsstað sem nú heitir. Hrísbrú varð leigukot í Mosfellstúni vestan skriðunnar.
Þegar kirkjan var flutt fundust, að því er skrifað er, mannabein undir altarisstað í Hrísbrúarkirkju hinni fornu; voru þau miklu meiri en annarra manna bein og fluttu Mosdælir þau til Mosfells ásamt með kirkjunni og þóttust gamlir menn kenna þar bein Egils Skallagrímssonar.“

Í Skírni 1999 má lesa um „Kotunga í andófi„:
„Kannski birtast náin tengsl heilinda og andófs hvergi skýrar en í Innansveitarkroniku (1970). Hún er skopleg, hálf-heimildabundin lýsing á þrákelknislegu andófi bænda á Hrísbrú í Mosfellssveit gegn flutningi kirkju þeirra. Kergja Knúts gamla og Hrísbrúinga kallast á, en er ekki öll þar sem hún er séð. Erfiði var óþekkt Hrísbrúingum, þeir unnu öll sín verk áreynslulaust svo þeir sáust varla hreyfast, kunnu hvorki að flýta sér né vera of seinir og um sláttutíma var dengingarhljóðið í undarlegum samhljómi við næturkyrrðina, vakti góðar undirtektir fugla og er sú músík sem menn muna tíræðir. Hún minnir á eilífðarhljóminn í „Fugli ágarðstaurnum“. Þessir hæglátu menn brugðust ókvæða við þegar átti að taka niður Mosfellskirkju en kyndugt andóf þeirra var til einskis. Og þó ekki. Lengst inni í bænum var enn ein af þessum dularfullu og ójarðnesku konum sem víða bregður fyrir í sögum Laxness, Finnbjörg (nafnið á Boggu, ráðskonu Kjartans á Skáldstöðum), sem hafði hönd í bagga með öllum aðgerðum feðganna og andi hennar svífur yfir endurreisn kirkjunnar. Yfir rúmi hennar tifaði klukka með eilífðarhljómi.
Innansveitarkronika er einföld á ytra borði og virðist sundurlaus í byggingu. Hún rétt tæpir á söguþræði og bregður upp svipmyndum sem sögumaður í líki forvitins fróðleiksgrúskara tínir
saman. Um leið er sagan í andstöðu við hefðbundið form skáldsögunnar og leggur á borðið þá huglægni sem í frásagnaraðferðinni liggur. Sögumanni hefur tekist sá galdur að tengja fróðleiksatriði sem virðast lítilsverð. Samt er það svo að „heimildirnar“ sem virðast svo brotakenndar fá mál með sérstæðum hætti. Þegar upp er staðið blasir við margræð heildarmynd sem ekki er hægt að túlka á einn veg. Þess í stað eru margar raddir, mörg merkingarsvið í einni hljómkviðu. Innansveitarkronika er meðal annars, á sama hátt og „Fugl á garðstaurnum“, kýnískur útúrsnúningur á hugmyndafræði, stjórnkerfi, kennivaldi og auðhyggju. Í bakgrunni heyrist eilífðartónninn í túnslætti Hrísbrúarfeðga, klukku Finnbjargar og kvaki fugla.

Egill Skalla-Grímsson

Höfuðkúpa Egils Skalla-Grímssonar?

Haus Egils Skallagrímssonar breiðir tíma sögunnar yfir alla Íslandssöguna, bein hins heiðna skálds sem flutt voru í utanverðan kirkjugarðinn á Mosfelli herða kergjuna í Hrísbrúingum. Og í sögulok er sagan kölluð jarteinabók sem þýðir að hún er röð kraftaverka sem lyfta merkingunni yfir hið hversdagslega, gefur þannig til kynna að fleira búi undir. Sagan hefur innri byggingu áþekka Biblíunni, hnig og ris, ferli frá þjáningu til upprisu. Fuglinn sem Hrísbrúingar ólu hjá sér í tuttugu ár, erkikapítalistinn Stefán Þorláksson, var eins konar lausnari, því við lát hans reis ný kirkja á Mosfelli, hún var því rifin og endurreist. Klukkan og kaleikurinn eru trúarleg eilífðartákn. Þegar kirkjan er rifin er klukkunni sökkt til heljar, í forarpyttinn á Hrísbrúarhlaði, en hún rís upp aftur gljáfægð til að hringja Finnbjörgu til grafar og er loks sett upp í nýju kirkjunni. Kaleikurinn, graal sögunnar, er geymdur á rúmbotnum heilagra kerlinga, og hann birtist í þann mund sem lesandinn fer að undrast um hann og endar eins og klukkan, í nýju kirkjunni. Þannig er sagan full af trúarlegum vísunum og myndmáli en fáu slegið föstu um þann guðdóm sem yfir sögusviðinu svífur. Í lokin, þegar kirkjan er byggð og vígð, vefast þræðirnir saman eins og af hálfkæringi, hauskúpa Egils, Hrísbrúingar og sauðfé, kvakandi fuglar, gömlu kerlingarnar, kaleikurinn og klukkan, Íslandsklukkan með hljóm síðan úr fornöld. Og jarteinabókinni lýkur með því að spurning gömlu konunnar er endurtekin: „Getur nokkur nokkurntíma verið nokkrum trúr nema sjálfum sér“ – (Innansveitarkronika: 181-82).

Á vefsíðu Héraðskjalasafns Mosfellsbæjar má lesa eftirfarandi um Ólaf Magnússon á Hrísbrú:

Merkisbóndinn á Hrísbrú

Ólafur Magnússon

Ólafur magnússon á Hrísbrú (1831-1915).

Ólafur Magnússon bóndi á Hrísbrú var einarður andstæðingur þess að Mosfellskirkja yrði rifin og kirkjuklukkan komst í vörslu hans eftir niðurrif kirkjunnar. Hún var geymd á Hrísbrú í meira en mannsaldur eða allt þar til ný kirkja var vígð á Mosfelli árið 1965.
Ólafur og Finnbjörg Finnsdóttir kona hans eru mikilvægar persónur í Innansveitarkroniku.

Hrísbrú

Hrísbrú – uppgröftur – skáli og kirkja.

Ljósmyndin af Ólafi er tekin í Austurstræti í Reykjavík snemma á 20. öld en engin ljósmynd hefur varðveist af Finnbjörgu.
Eyjólfur Guðmundsson frá Hvoli lýsir Hrísbrúarhjónunum þannig í endurminningum sínum: „Hvergi í Mosfellsdal hafði ég meira gaman af að koma en að Hrísbrú. Hjónin þar hétu Ólafur og Finnbjörg, kona roskin. Fyrst í stað voru þau nokkuð gróf og forneskjuleg, en glöð og gestrisin, þegar marka mátti. Það var ánægjulegt að bíða þar, meðan Finnbjörg hitaði ketilinn, og hlusta á Ólaf gamla. Var þá jafnan tilfyndnast það sem húsmóðirin lagði til málanna. Ekki var orðræðan hefluð né blíð, heldur oft stóryrt og krydduð velvöldum fornyrðum, stundum klúr.“
Ólafur barðist hatramlega gegn niðurrifi kirkjunnar að Mosfelli en varð að lúta í lægra haldi fyrir yfirvöldum árið 1888. Hann tók gömlu klukkuna úr kirkjunni til varðveislu og var hún geymd á Hrísbrú í meira en mannsaldur eða þangað til henni var komið fyrir í Mosfellskirkju sem vígð var árið 1965.
Ólafur og Finnbjörg voru hluti af aðalsögupersónum í bók Halldórs Laxness, Innansveitarkróniku.
Myndin af Ólafi er líklega tekin í kaupstaðaferð í Reykjavík kringum aldamótin 1900. Ekki er vitað til að mynd hafi varðveist af Finnbjörgu.“

Á vefsíðu Mosfellsbæjar má lesa eftirfarandi um kroniku Laxness – Innansveitarkronika – Einstök meðal verka Halldórs:

Hrísbrú

Hrísbrúarklukka í Mosfellskirkju.

„Innansveitarkronika er sérkennileg blanda af sagnfræði og skáldskap og einstök meðal verka skáldsins. Efniviðurinn er sóttur í Mosfellssveit og byggir m.a. á deilu sem varð vegna kirkjumála í Mosfellssveit á ofanverðri 19. öld. Þá náði sveitin niður að Elliðaám og kirkjur voru í Gufunesi og á Mosfelli. Kirkjuyfirvöld ákváðu hins vegar að leggja þær niður og byggja nýja kirkju miðsvæðis í sveitinni, að Lágafelli. Ekki voru allir hrifnir af þessum ákvörðunum, einkum var mikil andstaða í Mosfellsdal gegn niðurrifi Mosfellskirkju sem var alls ekki gömul bygging, byggð 1852. Ákvörðun yfirvalda varð ekki hnekkt, Mosfellskirkja var rifin árið 1888 og sama árið reis Lágafellskirkja af grunni. Hins vegar skiluðu einstakir gripir kirkjunnar sér ekki, menn söknuðu bæði kaleiks og kirkjuklukku sem var ævaforn. Kaleikurinn fannst seinna í fórum vinnustúlkunnar Guðrúnar Jónsdóttur en klukkan var geymd að Hrísbrú í tæp 80 ár. Að Hrísbrú ólst upp Stefán Þorláksson (1895-1959). Hann þekkti söguna um klukkuna og kirkjuna frá blautu barnsbeini og honum var endurreisn Mosfellskirkju mjög hugleikin þótt ekki þætti hann neinn sérstakur trúmaður. Sem fulltíða maður bjó Stefán Þorláksson lengstum í Mosfellsdal, bæði í Reykjahlíð og Reykjadal, hann komst vel í álnir og auðgaðist m.a. á sölu á heitu vatni. Samkvæmt erfðaskrá Stefáns skyldu eigur hans renna til endurreisnar Mosfellskirkju. Hún var vígð árið 1965 eins og greint er frá í síðasta kafla Innansveitarkroniku:
„4ða apríl 1965 þegar Mosfellskirkja hin nýa var vígð, gjöf Stefáns Þorlákssonar, ein fegurst kirkja og best búin sem nú stendur á Íslandi, þá bárust henni ýmsar veglegar gjafir. Flestar komu gjafir þessar frá ættmennahópum í sókninni, niðjum þeirra manna er fyrir eina tíð höfðu séð kirkju sinni er þeir trúðu á jafnað við jörð hér á hólnum.“
Fremst í Innansveitarkroniku getur höfundur þess sérstaklega að „Skírskotanir til nafngreindra manna rita skjala staða tíma og atburða þjóna ekki sagnfræðilegu hlutverki í texta þessum“. Þetta er vert að hafa í huga við lestur bókarinnar, Halldór færir til atburði og persónur í tíma og rúmi og aðlagar því verki sem hann er að skapa, og var þetta reyndar alþekkt aðferð úr verkum hans.
Eitt besta dæmið um slíkt í Innansveitarkroniku er 11. kafli bókarinnar sem heitir Sagan af brauðinu dýra. Þar segir frá vinnukonu prestsins á Mosfelli, Guðrúnu Jónsdóttur, sem hélt yfir Dalinn til að baka hverabrauð en villtist upp á Mosfellsheiði og fannst loks eftir nokkur dægur. Brauðið, sem henni hafði verið trúað fyrir, hafði hún ekki snert. Þessi kafli er nokkurs konar dæmisaga um að vera trúr yfir litlu en hér sækir Halldór hins vegar efniviðinn alls ekki í Mosfellsdal heldur á Suðurnes og var það allt önnur kona en Guðrún sem lenti í þeim hremmingum sem lýst er í bókinni.
Þrátt fyrir skáldsögulegt yfirbragð dregur Innansveitarkronika upp trúverðuga mynd af samfélaginu í Mosfellssveit á ofanverðri 19. öld. Þannig háttar til með fleiri skáldögur Halldórs Laxness, þær eru oft traustar heimildir um þá tíma sem þær gerast á.“

Guðrún Jónsdóttir

Hrísbrú

Guðrún Jónsdóttir frá Hamrahlíð (1854-1936). Ljósmyndari óþekktur. Héraðsskjalasafn Mosfellsbæjar úr safni Guðmundar Magnússonar.

Guðrún Jónsdóttir er þekkt persóna úr Innansveitarkroniku. Hún var fædd árið 1854 á bænum Hamrahlíð, sem var kotbýli í grennd við Blikastaði, og stundaði alla tíð vinnumennsku á ýmsum bæjum í Mosfellssveit.
Guðrún andaðist á Æsustöðum í Mosfellsdal árið 1936 og hvílir í Mosfellskirkjugarði.
Gripir úr eigu hennar eru varðveittir á bókasafni Varmárskóla.

Í Innansveitakroniku Laxness segir í 20. kapítula „Af haugbroti“:
„Þegar Finnbjörg var látin sendi Ólafur karl Andrés son sinn á fund sóknarprests Lágafellskirkju, þeirrar kirkju niðrí sveit sem var laungu orðin sóknarkirkja mosdæla að lögum. Kvaðst Ólafur vera orðinn of sjóndaufur til að grilla Lágafellspresta svo hann næði til þeirra að berja þá. Það var ennfremur í erindum Andrésar að tjá presti að faðir sinn væri í því ráðinn að grafa konu sína í mosfellskirkjugarði og réði lágafellsprestur því hvort hann hunskaðist þángað á tilteknum degi og kasta rekunum; að öðrum kosti mundi hann, Ólafur á Hrísbrú, gera það sjálfur. Er þar skemst frá að segja að ekki var tekið óljúflega í þetta mál af þartilbærum yfirvöldum.
Nú er lík húsfreyu hefur verið lagt í kistu og borið til skemmu og bærinn tómur og alt á enda kljáð, sagði Stefán Þorláksson, og líður að útfarardegi, þá kallar Ólafur bóndi á sonu sína og fósturson og leggur fyrir þá þraut.
Þess var áður getið hér á blöðunum að svöð hafi verið eigi allsmá fyrir framan hlaðstétt á Hrísbrú og hefði einginn mælt þeirra dýpt og ekki heldur verið augljós mörkin milli þeirra og fjóshaugs mikils ásamt með hlandfor sem þar vall og hafði ollið leingi. Hafði forin ekki verið tæmd til fullnustu svo menn ræki minni til. Nú bregður svo við að Ólafur bóndi sendir lið sitt í for þessa með verkfæri þau sem þurfti og lætur hefja austur og gröft; segir að eigi skal láta staðar numið fyren þeir komi niður á dýrgrip sem fólginn sé djúpt í hauginum.
Nú fara þeir til og brjóta hauginn og er gagnslaust að lýsa slíku verki hér svo lángt sem um er liðið og einginn maður veit leingur hvað hlandfor er á Íslandi. Mundi ekki svipað gilda um óþrifaleg verk einsog fyr var ritað um erfið verk? Áður fyr voru eingin verk kölluð sóðaleg nema þau sem unnin voru án vandvirkni af kæríngarlausum verkamanni og lýstu handbragði skussa og ómennis.
Hvort sem ausið var eða grafið leingur eða skemur í Hrísbrúarsvöð, þá er ekki að orðleingja það, nema seinast koma menn það lángt niður í þessari voðalegu torfæru að rekuna tekur niðri og saung í málmi þar sem hún snart við. Menn hafa hendur á gripnum og losa um hann og bera burt úr forinni og uppá dyrakamp. Nú velta þeir grip þessum fyrir sér uns þeim kemur saman um að kveðja til Ólaf bónda og spyrja hann ráða. Hann þreifar á gripnum innvirðulega um stund uns hann kennir að þetta er kirkjuklukka. Hann segir að þessa klukku skal þvo vandlega og síðan fægja. Þvínæst fór hann inní bastofu og fann kólfinn úr klukkunni á kistubotni húsfreyar sinnar.

Hrísbrú

Hrísbrúarklukka í Mosfellskirkju.

Stefán Þorláksson hefur sagt frá þeim morni er hann fór með Ólafi fóstra sínum í undanrás að Mosfelli að búa í haginn áður en líkfylgdin kæmi. Þetta var um sumarsólstöður. Gamli Rauður var sóttur í hagann og stendur á hlaðinu ærið vambmikill. Það var lagður á hann hnakkur fyrir utan opna skemmuna en þar hafði öllu drasli verið rýmt burt svo rúmt væri um kistuna. Synir Ólafs leiddu föður sinn útúr bænum en hann bar sjálfur klukkuna í fángi sér, og var klukkan fljót að fá aftur þá spansgrænu sem fylgir sönnum kristindómi.
Synir Ólafs héldu í ístaðið hjá föður sínum og hjálpuðu honum á bak þeim rauða. Síðan létu þeir klukkuna í fáng honum þannig að hann gat samt haldið sér í faxið á hestinum. Fóstursyni fólksins var síðan sagt að teyma undir gamla manni sem leið lá heim að Mosfelli og láta staðar numið þar á hólnum fyrir utan sáluhliðið í mosfellskirkjugarði. Sveitin var ekki meirensvo risin úr rekkju og vorfuglinn heiðló hljóp samsíða þeim yfir Skriðuna og blés í veika flautu en kólfurinn í klukkunni var laus og gall við með skjöllu málmhljóði þegar Rauður hnaut við steinvölu í götunni. Ólafur bóndi gerði sín ekki vart heima á Mosfellsbænum en lét fósturson sinn leiða sig að sáluhliðinu og bar enn klukkuna í fánginu. Hann sagði að binda skyldi Rauð við garðstaur svo hann færi ekki í túnið, því síðan hér hættu að vera mínir prestar beiti ég aldrei á Mosfellstún, sagði hann.

Hrísbrú

Hrísbrúarklukkan í Mosfellskirkju – upphengjan.

Þeir njörvuðu klukkuna með snærum við dyradróttina í sáluhliðinu. En með því ramböld vantaði sem bjalla verður að hafa svo hún leiki laus þegar tekið er í klukkustreinginn, og hríngíngin fái lángan tón af sveiflu, þá varð Ólafur á endanum að gera kólfinn lausan og dángla utaní klukkuna með honum. En þó hríngíng væri hljómlítil og ögn bundin var þetta þó klukknahljóð og hljómur Mosfellskirkju. Þegar líkfylgdin nálgaðist tók hann til að hríngja.

Mosfell

Þessa mynd tók Bjarki Bjarnason sumarið 1963, af sáluhliðinu í Mosfellskirkjugarði. Þann dag var jarðsett á Mosfelli, þótt engin væri þar kirkjan. Klukkunni, sem hafði verið varðveitt á Hrísbrú frá því á 19. öld, var ætíð hringt við greftranir á Mosfelli og krókurinn á sáluhliðinu var smíðaður sérstaklega fyrir hana.
Tveimur árum síðar var Mosfellskirkja hin nýja vígð og síðan hefur klukkan verið varðveitt þar. Í Innansveitarkroniku segir: „Það er einginn efi á því að þessi klukka geymir hljóm síðan úr fornöld. Presturinn sagðist ætla að hringja henni sjálfur við barnaskírnir af því hljómurinn í henni væri svo fallegur meðan hann væri að deya út.“

Hann linti ekki hríngíngu meðan kistan var borin um sáluhliðið. Hann hríngdi meðan fólkið var að tínast inní garðinn. Hann hríngdi meðan kistunni var sökt í jörðina og meðan presturinn var að kasta rekunum og fólkið að tínast burt frá gröfinni en rétti annars hugar þá höndina sem laus var þeim sem kvöddu hann og samhrygðust honum, uns fóstursonur hans sem sat á þúfu sagði honum að nú væri seinasti maður farinn og alt búið. Þannig hríngdi Ólafur kallinn á Hrísbrú alla sveitina inn í kirkjugarðinn á Mosfelli og útúr honum aftur.

Viku seinna fór Ólafur aftur sömu leið, að því sinni í fjórum skautum, að finna konu sína. Bogi sonur hans bar nú klukkuna á sjálfum sér fyrir kistu föður síns, festi hana í dyradróttina á sáluhliðinu einsog faðir hans hafði gert í vikunni á undan og hríngdi einsog faðir hans hafði hríngt uns lokið var, leysti síðan klukkuna af dyradróttinni og bar hana heim aftur að Hrísbrú.“

Á vefsíðu Lágafellskirkju, sbr. Mosfellskirkju er getið um „Teikningu af Mosfellskirkju„:

Teikning af Mosfellskirkju – erindi 15, mars 2015:
„Vegfarendur um Mosfellsdal veita athygli sérkennilegri byggingu sem vakir yfir byggðinni í dalnum á hinum forna kirkjustað, Mosfelli. Þetta óvenjulega guðshús, sem senn verður hálfrar aldar gamalt, er með athyglisverðari dæmum í þróunarsögu kirkjubygginga hér á landi. Sagan af því hvernig að kirkjuhúsið fékk á sig þessa mynd er ekki síður forvitnileg en aðdragandinn að byggingunni sjálfri. Svo vel vill til að fundargerðarbók byggingarnefndar hefur varðveist, samviskusamlega skráð af Jónasi Magnússyni í Stardal. Fundargerðirnar eru mikilvæg heimild um tilurð teikningarinnar af Mosfellskirkju, en flestum lýkur þeim með eftirfarandi orðum: „Fleira ekki tekið fyrir – fundi slitið. Síðan sest að kaffidrykkju í boði prestshjónanna á Mosfelli.“

Mosfell

Mosfellskirkja.

Alkunn er sagan af því hvernig það kom til að Mosfellskirkja var eldurreist fyrir 50 árum síðan. Kirkjurnar að Mosfelli og Gufunesi voru aflagðar og rifnar árið 1888 þegar sóknirnar voru sameinaðar. Ný, sameiginleg kirkja reis ári síðar á Lágafelli, misvæðis í byggðinni. Gamla Mosfellskirkjan, sú sem rifin var, var timburkirkja, smíðuð 1853 af Bjarna Jónssyni snikkara. Hann smíðaði tvær kirkjur í Grímsnesi sem enn standa, Mosfellskirkju og Búrfellskirkju.

Mosfell

Mosfellskirkja 2022.

Sameining sóknanna og niðurrif kirkjunnar á Mosfelli var andstæð vilja margra bænda í Mosfellsdal. Þessi saga er rauður þráður í seinni hluta Innansveitarkróníku Halldórs Laxness, en í þeirri bók er kirkjan að Mosfelli ein aðalpersóna verksins. Munaðarlaus drengur, Stefán Þorláksson að nafni, ólst upp á Hrísbrú þar sem klukka hinnar horfnu kirkju var geymd. Hann eignaðist jörðina Reykjahlíð árið 1933 og seldi hana Reykavíkurbæ 1947 ásamt heitavatnsréttindum. Á þessum og fleiri viðskiptum efnaðist hann vel og byggði sér íbúðarhúsið Reykjadal í Mosfellsdal, ásamt gróðurhúsum. Hann var hreppstjóri um skeið, framtakssamur og vinsæll í sinni sveit. Stefán, sem var ókvæntur og barnlaus, lést í júlí 1959. Í erfðaskrá gaf hann meirihluta eigna sinna til kirkjubyggingar að Mosfelli í Mosfellsdal.“

Sjá einnig HÉR.

Heimildir:
-Morgunblaðið, 57. tbl. 10.03.1983, Kirkjuklukka frá 13. öld…, bls. 24-25.
-Vísir, 112. tbl. 17.09.1962, Klukkan kallar, bls. 9 og 10.
-Morgunblaðið, 210. tbl. 05.08.2004, Kirkja að Hrísbrú nefnd í Eglu, bls. 6.
-Mosfellingur, 10. tbl. 19.08.2005, Fornleifauppgröftur að Hrísbrú, bls. 12-13.
-Skírnir 01.09.1999, Kotungar í andófi, bls. 278-281.
-Héraðskjalasafn Mosfellsbæjar – http://www.hermos.is/forsida/frettir/frett/2017/09/25/Olafur-Magnusson-1831-1915-fra-Hrisbru/
-Bókasafn Mosfellsbæjar – http://www.bokmos.is/laxnessvefur/kronikan/
-Innansveitakrinika – http://innansveitarkronika.is/kafli/20
-Egilssaga – 20. kafli.
-https://www.lagafellskirkja.is/kerfi/wp-content/uploads/2015/04/Mosfellskirkja.pdf

Mosfellskirkja

Mosfellskirkja.

Helgufoss

Í Mosfellingi 2014 segir af „Stofnun fólkvangs í landi Bringna í Mosfellsdal – 18.6 hektarar við Helgufoss„:

„Umhverfis- og auðlindaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, Kristín Linda Árnadóttir forstjóri Umhverfisstofnunar og Haraldur Sverrisson bæjarstjóri hafa staðfest friðlýsingu fólkvangs á hluta af jörðinni Bringum, efst í Mosfellsdal við Helgufoss.
Helgufoss

Samtals er hið friðlýsta svæði um 18,6 hektarar að stærð. Markmið friðlýsingarinnar er að vernda hluta jarðarinnar Bringna til útivistar almennings, náttúruskoðunar og fræðslu. Friðlýsingin verndar auk þess sérstakar náttúru- og menningarminjar.

Mosfellsbær

Mosfellsbær – Bringur; uppdráttur ÓSÁ.

Bújörðin Bringur varð til sem nýbýli úr landi prestsetursins að Mosfelli árið 1856 en fór í eyði árið 1966. Jörðin er staðsett norðan Köldukvíslar, en þaðan er víðsýnt yfir Mosfellsdal og allt til hafs. Í Köldukvísl, rétt við túngarðinn, er Helgufoss. Vestan við fossinn er Helguhvammur, rústir Helgusels og Helguhóll, sem einnig er nefndur Hrafnaklettur.
Samþykkt á 25 ára hátíðarfundi bæjarsjórnarFriðlýsingin/stofnun fólkvangsins er að frumkvæði bæjarstjórnar Mosfellsbæjar sem samþykkti á hátíðarfundi á 25 ára afmæli bæjarins að stefna að friðun fossa í Mosfellsbæ. Markmiðið er að tryggja vernd mikilvægra náttúru- og söguminja og um leið gott aðgengi almennings til að njóta þeirra. Er þetta í samræmi við aðalskipulag Mosfellsbæjar og þau markmið sem sett eru fram í stefnumótun bæjarins um sjálfbært samfélag þar sem stefnt skal að frekari friðlýsingu svæða og náttúrufyrirbæra í sveitarfélaginu.
Við stofnun þessa fólkvangs eru auk hans í Mosfellsbæ eitt friðlýst náttúruverndarsvæði (Friðland við Varmárósa), fjögur svæði á náttúruminjaskrá (Leiruvogur, Úlfarsá og Blikastaðakró, Varmá og Tröllafoss) og tveir friðlýstir fossar (Tungufoss og Álafoss, sem friðlýstir voru á síðasta ári).
Undirritunin fór fram í Bringum við Helgufoss þriðjudaginn 20. maí og hefur friðlýsingin nú þegar öðlast gildi.“

HelgafellÍ tímaritinu Helgafelli 1942 og 1943 rekur Ólafur Lárusson „Ýmislegt um Bárðar sögu Snæfellsáss“ í tveimur greinum. Hér verður tekið út það er varðar Helgu Bárðardóttir er fyrrnefndur Helgufoss er kenndur við:

„Það er sjaldgæft, að örnefni séu talin til skrauts. En til eru hér á landi örnefni svo tíguleg og fögur, að þau geta talizt til listaverka. Þau bera þess vitni, að þeir, sem gáfu þau, höfðu glöggt auga fyrir fegurð náttúrunnar, hvort sem hún birtist í blíðum yndisþokka eða í mikilfenglegum hrikaleik.

Minningarnar, sem við örnefnin eru tengdar, eru með margvíslegum hætti, sumar fornar og aðrar nýjar, sumar bjartar og aðrar dapurlegar. Sumar þeirra eru ofboð hversdagslegar. Þær lúta að einhverjum þætti í hinum daglegu störfum fólksins á bænum, eins og þau eru nú, eða eins og þau voru áður. Þarna er t. d. Seljadalur. Nafnið minnir á, að þar var haft í seli fyrir langa löngu, fyrir minni allra, sem nú lifa, meðan selfarir tíðkuðust, og hugurinn hverfur aftur til þeirra tíma, og myndum úr lífinu í selinu bregður upp fyrir sjónum hans, af selstúlkunni, er sat þar sumarlangt í einveru og kyrrð og gat þó mætt ótrúlegum og örlagaríkum ævintýrum í nábýli sínu við huldufólk og aðrar dularvættir.
Minningarnar hafa tendrað bál sín hér á landi, bál, sem lýst hafa út í

Bárður Snæfellsás

Bárður Snæfellsás.

myrknættið, og bjarmann af þeim hefur lagt á sálir mannanna og gert líf þeirra fyllra og auðugra. Ótalmargar örnefnasögur eru enn við líði, og sjálfsagt eru þær þó enn fleiri, sem glataðar eru og gleymdar. Margar þessara sagna eru einber skáldskapur. Samband við hið liðna er engin nýjung hér á landi, það sýna fornbókmenntirnar bezt. Þær sýna m.a., að það er langt, síðan örnefnasagnir tóku að ganga manna milli hér á landi. Hefur varla liðið langt frá landnáminu sjálfu, þar til þær urðu til. Þessar sagnir hafa alltaf verið eign alþýðunnar. Það hafa allir tekið meira og minna hlut í þeim fróðleik. En innan um hafa ávallt verið einstöku menn, sem lagt hafa sérstaklega mikla rækt við þessi fræði, hafa lagt á minnið allt, sem þeir heyrðu um þau efni, og haft yndi af öllu slíku, örnefnum, örnefnasögnum og öðrum sögnum. En því miður hefur mest af fróðleik flestra þeirra farið í gröfina með þeim sjálfum.
Einn slíkur fræðaþuIur var uppi á Snæfellsnesi fyrir sex hundruð árum. Vér kunnum nú eigi að nefna hann með nafni, en hann hefur augljóslega haft mikinn áhuga og ást á sagnafróðleik átthaga sinna, örnefnum, örnefnasögnum og öðrum þjóðsögum. Þessi maður settist við og færði í letur sögu landvættar héraðsins, Bárðar Snæfellsáss. Síðar hélt annar maður sögunni áfram og jók við hana frásögnum af Gesti Bárðarsyni, og þannig hefur hún geymzt til vorra daga. Hin eiginlega Bárðarsaga er 10 fyrstu kapítular sögunnar, eins og hún er nú, og mun hún enn vera óbreytt frá því, sem höfundurinn gekk frá henni, að öllu verulegu.

Helgusel

Helgusel – uppdráttur ÓSÁ.

Bárðarsaga er ofin úr þjóðsögum, sem gengið hafa í munnmælum á utanverðu Snæfellsnesi á dögum höfundarins. Ber þar ekki hvað sízt á örnefnasögum. Í sögunni er fjöldi örnefna, tiltölulega miklu fleiri en í nokkurri annarri sögu. Mörg þeirra nefnir höfundurinn sýnilega eingöngu til þess að geta komið að sögnum um uppruna þeirra. Flest eru örnefnin úr yztu byggðunum, milli Búðahrauns og Ólafsvíkurennis, og mun höfundurinn hafa verið upprunninn á þeim slóðum. Hann hefur í öllu falli verið gagnkunnugur þar. Flest eru örnefni þessi kunn enn í dag. Guðbrandur Vigfússon kom fram með þá undarlegu skoðun, að söguhöfundurinn myndi hafa búið þessi örnefni til, og héraðsbúar síðan tekið þau upp eftir sögunni. Er þetta næsta ólíkleg tilgáta, og hitt miklu sennilegra, að nöfnin séu eldri en sagan, en sagan hefur að líkindum síðar átt sinn þátt í því, að þau varðveittust svo vel sem raun er á.

Helgusel

Helgusel.

Finnur Jónsson segir um Bárðarsögu, að „Indholdet af den er meget ubetydeligt“. Það mál er eins og það er virt. Sagan hefur aldrei verið talin til stórvirkjanna eða snilldarverkanna í íslenzkum bókmenntum, enda á hún það ekki skilið.

Helgusel í Bringum

Helgusel í Bringum. Helgufoss fjær.

Höfundur lætur t. d. Helgu Bárðardóttur fæðast, meðan Haraldur hárfagri er í æsku, flytjast á barnsaldri til Íslands með föður sínum snemma landnámstíðar, hrekjast, fáum árum síðar, til Grænlands og hafa þar þá veturvist með Eiríki rauða. Þó hefur höfundurinn verið nokkuð bókfróður. Hann hefur t. d. haft Landnámu með höndum og notað hana og farizt það laglega. Hann hefur ekki reynt að skyggnast neitt inn í sálarlíf persónanna í sögunni, þar er aðeins að finna nokkur drög til einnar slíkrar mannlýsingar, og þau drög hefur hann sennilega fengið annars staðar að. En sagan er létt rituð og lipurt, þótt hvergi séu nein tilþrif í stíl höfundarins, og mál hans er fornt og gott. En það, sem gefur sögunni gildi, er þó einkum efni hennar. Hún er eins konar þjóðsagnasafn, safn af almúgasögnum, sem gamla fólkið hefur frætt unglingana á í bæjum og verbúðum þessa útskaga snemma á 14. öld, og vér myndum kjósa, og vilja gefa mikið fyrir, að eiga fleiri slík söfn frá þeim tíma og þótt yngri væru.
Í 5. kapítula sögunnar er frá því sagt, er Helga Bárðardóttir var í Grænlandi, að hún stóð úti einn dag og litaðist um og kvað vísu:

Sæl væra ek,
ef sjá mættak
Búrfell ok Bala,
báða Lóndranga,
Aðalþegnshóla
ok Öndvertnes,

Heiðarkollu
ok Hreggnasa,
Dritvík ok möl
fyrir dyrum fóstra.

Vísan er tilfærð hér, eins og hún er prentuð í útgáfu Guðbrands Vigfússonar af Bárðarsögu (1860).

Viðey

Viðey – örnefni.

Söguhöfundurinn leggur Helgu Bárðardóttur vísu þessa í munn, en það fær varla staðizt, eftir því sem honum að öðru leyti segist frá. Vísa þessi lætur ekki mikið yfir sér. Hún virðist vera lítið annað en upptalning á örnefnum.

Viðey

Viðey.

En í öllum einfaldleik sínum er hún samt perla. Hún angar af heimþrá og hjartahlýju, af ást til átthaganna og bernskuheimilis og snertir strengi í brjósti hvers manns, sem hefur verið slitinn upp frá æskustöðvum sínum og dreymir síðan um þær og þráir þær.
Stúlkan, sem vísuna kvað, — því að vísan er ort af konu, hvort sem hún hefur heitið Helga Bárðardóttir eða öðru nafni, — hefur ef til vill alizt upp í Dritvík, og er það enda líklegast, því að jafnvel leshátturinn „Dritvík ok möl“ bendir nánast til þess. Bernskuheimili hennar hefur þá verið búðsetumannsheimili. Í Dritvík hafa aldrei aðrir búið en búðsetumenn, sem ekki hafa haft annað sér til lífsbjargar en stopulan sjávaraflann. Þeir hafa allar aldir verið fátækir. Skorturinn hefur staðið sífelldlega við dyrustaf þeirra og oftlega þokað sér innfyrir hann, jafnvel alla leið inn á gafl. Samt hefur hún elskað og þráð þetta fátæka æskuheimili sitt og hið hrikalega og óblíða umhverfi þess. Getur það verið íhugunarefni fyrir þá menn, er ætla, að ættjarðar- og átthagaást manna sé undir því komin, hversu mikið er í pyngjunni eða hversu mikilla ytri lífsþæginda menn njóta.

Viðey

Viðey – Helguörnefni.

Í Bárðarsögu eru nafngreindar þrjár dætur Bárðar og fyrri konu hans, Helga, Þórdís og Guðrún. Fluttust þær til Íslands með föður sínum og uxu upp hjá honum á Laugarbrekku og urðu bæði ,,miklar ok ásjáligar“.

Helgusker

Helgusker (Geirshólmi).

Á Arnarstapa bjó Þorkell RauSfeldsson, hálfbróðir Bárðar. Þorkell átti tvo sonu, Sölva og Rauðfeld. Þessi frændsystkin léku sér saman á vetrum á svellunum við Barnaár. Var kapp mikið milli þeirra í leikjunum, og vildu hvorug vægja fyrir hinum.
Eitt sinn lágu hafísar þar við land. Voru þau þá að leik niðri við sjóinn, og sló í kapp með Rauðfeldi Þorkelssyni og Helgu Bárðardóttur. Endaði leikurinn svo, að Rauðfeldur hratt Helgu á sjó út á ísjaka. Þoka var á og vindur hvass af landi, og rak jakann út til hafíssins. Helga komst upp á ísinn, en hina sömu nótt rak ísinn undan landi og á haf út. Rak hann svo ört, að Helga komst innan sjö daga með ísnum alla leið til Grænlands. Grænlendingum þótti hún hafa komið með undarlegu móti „ok fyrir þat var hún tröll kölluð af sumum mönnum“. Hún var kvenna vænst og svo þroskuð, að hún var karlgild að afli til hvers, sem hún tók.

Kollafjörður

Kollafjörður – Helgusker.

Helga fékk vist hjá Eiríki rauða í Brattahlíð, en dvölin þar varð henni örlagarík. Hún hitti þar fyrir íslenzkan mann, Skeggja Bjarnarson frá Reykjum í Miðfirði (Miðfjarðar-Skeggja). Skeggi tók Helgu að sér og hafði við hana fylgjulag. Um veturinn komu tröll og óvættir ofan í Eiríksfjörð. Voru þau þrjú saman, karl og kerling og sonur þeirra. Gerðu þau mönnum margs konar mein, en Skeggja tókst að ráða þau af dögum, og naut hann þá hjálpar Helgu, sem „gaf honum náliga líf“. Næsta sumar fór Skeggi með Helgu til Noregs, og voru þau þar veturlangt, en síðan fór hann heim til Íslands, til bús síns á Reykjum, og Helga með honum. Bárður, faðir hennar, frétti til hennar og kom um haustið norður að Reykjum og sótti hana og hafði heim með sér, enda var Skeggi þá kvæntur.

Kollafjörður

Kollafjörður – kort 1903.

Helga varð aldrei söm eftir þetta. „Engu undi hún sér, síðan er hún skildi við Skeggja; mornaði hún ok þornaði æ síðan“. Hún undi ekki heima og hvarf þaðan á burt. Fór hún víða um landið og festi hvergi yndi, var alls ötaðar með dul og oftast fjarri mönnum og oft í hreysum og hólum. Söguhöfundurinn segir, að Helguhellir í Drangahrauni sé við hana kenndur, „ok miklu víðar eru örnefni við hana kennd um Ísland“. Annars segir sagan aðeins frá einu sérstöku atriði úr lífi hennar á þessum hrakningum. Hún þáði veturvist að Hjalla í Ölfusi hjá þeim feðgum, Þóroddi goða og Skafta lögsögumanni. Var hún þar sem annars staðar með dul og lá í yztu sæng í skála og hafði fortjald fyrir. Hún sló þar hörpu nær allar nætur, því að henni varð ekki svefnsamt. Heimafólkið leiddi getum að, hver kona þessi myndi vera. Austmaður var þar á vist, er Hrafn hét. Hann forvitnaðist eina nótt undir tjaldið og sá, að Helga sat uppi í einum serk, og sýndist honum konan fríð mjög. Vildi hann upp í sængina til hennar, en hún varnaði þess, og tókust þau á, og urðu þær lyktir, að annar fótleggur og annar handleggur austmannsins gengu sundur, en Helga hvarf þaðan litlu síðar.

Ölfus

Hjalli 1898.

Fleira segir höfundur Bárðarsögu oss ekki frá Helgu. En sá, sem jók þætti Gests Bárðarsonar við söguna, leiðir Helgu aftur snöggvast fram á sjónarsviðið. Hann segir frá því, hversu Bárður hefndi dóttur sinnar á Skeggja. Hann kom að Reykjum haustkveld eitt, í dulargervi, og nefndist Gestur. Falaði hann veturvist þar og fékk hana fyrir atbeina Eiðs Skeggjasonar. Um veturinn tældi hann Þórdísi, dóttur Skeggja, fimmtán vetra gamla. Ól hún sveinbarn um haustið eftir í seli föður síns og nefndi drenginn Gest, eftir hinum horfna föður hans. Næsta dag kom ókunnug kona í selið og bauð að taka við sveininum og fóstra hann, og lét Þórdís það eftir.
Tólf árum síðar kom hin sama kona með drenginn til Þórdísar, sagði henni, að hún væri Helga Bárðardóttir Snæfellsáss, og Bárður, faðir sinn, væri einnig faðir drengsins. Hafði Helga alið hann upp, „en víða höfum vit Gestr verit, því at heimili mitt er eigi í einum stað“. Hvarf hún síðan á brott, og er þess eigi geti, að Þórdís sæi hana síðar. Að öðru sinni getur höfundur þáttarins Helgu, er hann telur hana meðal boðsgestanna í tröllaveizlunni miklu, er Hít tröllkona í Hítardal hélt, en ekki er Helgu að öðru neitt getið við þá atburði, er gerðust í veizlu þessari.

Geldinganes

Geldinganes – Helguhóll.

Höfundur Bárðarsögu segir sögu Helgu aðeins í stórum dráttum. Er það sönnun þess, að sú saga er ekki skáldskapur hans sjálfs. Ef hann hefði sjálfur búið sögu þessa til, myndi hann hafa sagt hana miklu nákvæmar og greint fleiri einstaka atburði úr ævi hennar. Hann hefði þá eigi látið sér nægja að segja, að hún hefði „náliga“ gefið Skeggja líf í viðureign hans við tröllin í Eiríksfirði. Hann hefði sagt, með hvaða hætti hún hefði hjálpað honum. Hann myndi hafa sagt frá fleiri atburðum úr ferðum hennar um landið en viðureign hennar við austmanninn á Hjalla einni saman. Hann myndi hafa greint fleiri örnefni, sem við hana væru kennd, en Helguhelli einn, úr því að hann á annað borð fór að geta þess, að örnefni væru við hana kennd víðar um landið en á Snæfellsnesi. Allt bendir til þess, að það, sem sagan segir af Helgu, sé aðeins ágrip af ítarlegri sagnaþætti, sem af henni hefur gengið og höfundurinn hefur þekkt. En einhverra hluta vegna hefur hann annaðhvort ekki talið þörf á að segja þá sögu ítarlegri en hann hefur gert eða ekki talið sér það fært. Vegna þessarar tregðu hans kunnum vér nú ekki meira úr sögunni af Helgu Bárðardóttur en það, sem greinir í hinu stutta ágripi hans, og er hér sem oftar, að vér eigum þá sök á hendur höfundinum að telja, að hann hefur sagt oss færra en hann gat sagt og færra en vér myndum kjósa, að hann hefði sagt.

Helgustekkur

Helgustekkur – loftmynd.

En aðalatriðin úr sögunni af Helgu Bárðardóttur hefur höfundurinn þó sagt og nóg til þess, að vér getum skilið, að sú saga hefur verið nokkuð sérstæð meðal hinna fornu sagna vorra, þeirra, er vér nú kunnum skil á. Saga Helgu er harmsaga konu, er beið tjón á sálu sinni. Hún hafði fengið að njóta alsælu ástar sinnar um stund, en brátt var hún svipt þeirri sælu, og síðan bar hún brostinn streng í sálu sér.

Helgustekkur

Helgustekkur í Grafarvogi.

Tapað hefur seggurinn svinni, sumarlangt gleðinni minni, kvað ókunn skáldkona fyrir löngu síðan. Skeggi tapaði gleði Helgu, ekki sumarlangt, heldur ævilangt. Hún reikaði eirðarlaus stað úr stað, einræn og mannfælin, var með dul, þegar hún var meðal manna, en oftar var hún þó fjarri mönnum, ein með sorg sinni. Þegar harmar hennar bönnuðu henni svefn, lék hún á hörpu sína, tjáði sorg sína og leitaðist við að sefa hana með tónum hörpunnar. Þessi var harmsaga Helgu Bárðardóttur, og er hún þó ekki fullsögð.
Sagan segir ekkert um hug Skeggja til hennar, hvort hann hefur fest ást á henni eða aðeins tekið hana til sín, sér til stundargamans á ferðum sínum erlendis, og hún segir ekkert um það, hvers vegna hann lét hana eina. En það er eins og vér getum lesið á milli línanna, að þessi örlög Helgu hafi verið henni ásköpuð. Þau Skeggi voru hvort af sínum heimi og Helga þó af fleiri heimum en einum. Hún var ekki mennsk nema að nokkru. Dumbur, föðurfaðir hennar var tröllaættar að móðerni, og móðir hennar var dóttir Dofra jötuns úr Dofrafjöllum. Tröllið og maðurinn hafa togazt á í sál hennar. Hin fagra og glæsilega kona, sem knúði hörpu sína í lokrekkjunni á Hjalla, og sumir héldu, eins og síðar verður vikið að, að væri sjálf Guðrún Gjúkadóttir, hin stolta drottning úr heimi hetjukvæðanna, sat líka veizluna hjá Hít tröllkonu, með Jóru úr Jórukleif, Surti af Hellisfitjum, Ámi og Glámi úr Miðfjarðarnesbjörgum og mörgum öðrum tröllum víðsvegar af landinu, svo langt og vítt sem bilið þó var milli Niflunga og bergþursa. Þegar tveir svo ólíkir eðlisþættir mætast í einni mannssál, þá er viðbúið, að það sé fyrirboði harmsögu, og sú varð raunin á um Helgu.

Helgustekkur

Helgustekkur – uppdráttur.

Saga Helgu Bárðardóttur er bæði forn og ný. „Flúinn er dvergur, dáin hamratröll“, kvað Jónas Hallgrímsson, og í einni yngstu tröllasögunni í íslenzkum þjóðsögum er frá því sagt, að þá voru einar tvær tröllkonur eftir hér á landi, og þær sáu fram á það, að tröllakynið yrði aldauða í landinu með sér, og nú eru þær sjálfsagt báðar dauðar fyrir löngu. Sá sem er einn á ferð á milli Bjólfells og Búrfells, þarf ekki að kvíða því, að hann heyri tröllkonurnar í fjöllum þessum kallast á um pottlán til að sjóða hann í, eins og kom fyrir Gizur á Lækjarbotnum forðum. Ferðamönnum, sem leita sér skjóls í kafaldsbyljum í einhverju djúpu hamragili inni á öræfum, stoðar ekki að kveða Andrarímur, þótt þá langi í heitan graut, því að nú er þar enginn, sem réttir þeim grautarausu að kvæðalaunum. En þótt tröllin séu horfin úr hömrum og hellum, er ekki örgrannt um, að finna megi vott af eðli þeirra hjá mannfólkinu. Enn á það sér stað, að manneðli og trölleðli togast á í sálum manna, og enn sem fyrr verða þau átök upphaf að margs konar harmsögum.

Helguklettur

Helguhóll í Bringum.

Sagan um Helgu Bárðardóttur hefur ekki verið staðbundin á Snæfellsnesi. Hún hefur verið kunn víða um landið, ef til vill um land allt. Höfundur Bárðarsögu segir, að Helguhellir í Drangahrauni sé við hana kenndur. Er þetta í heimahögum hans sjálfs. Drangahraun er hraunið fyrir utan Dagverðará, og dregur það nafn af Lóndröngum. En hann getur þess einnig, að miklu víðar séu örnefni við hana kennd um Ísland, og allt niður á síðustu öld geymdust munnmæli um Helgu í öðrum héruðum og örnefni kennd við hana. Síra Magnús Grímsson getur þess, að sagnir séu um það, að Helga Bárðardóttir hafi um hríð hafzt við í Helguseli í Mosfellsdal, og sé það við hana kennt. Sel þetta stóð norðan undir miðju Grímmannsfelli niðri við Köldukvísl. Helgufoss er í ánni, skammt fyrir ofan selið, Helguhvammur heitir hvammurinn, sem selið stóð í, og Helguhóll er hamrahóll fram undan selinu. Síra Magnús telur, að öll þessi nöfn séu kennd við Helgu, og í Helguhól á hún að hafa gengið í elli sinni og aldrei komið út aftur.
Helgufell heitir í fjöllunum milli Hítardals og Dunkárdals. Helgusæng er lág þar uppi í fjallinu og Helguhóll stór hóll í miðjum flóa neðanvert við Dunkárdal. Örnefni þessi eiga öll að vera kennd við Helgu Bárðardóttur. Hún á að hafa búið í Helgufelli, haft legurúm sitt í Helgusæng og verið heygð í Helguhól, er hún andaðist.
Mér þykir ekki líklegt, að þessi munnmæli og nöfn stafi frá Bárðarsögu. Hitt er sennilegra, að þau séu frá þeim tímum, er saga Helgu enn gekk í munnmælum, fyllri en hin ritaða saga.

Helgusel

Helgusel – uppdráttur ÓSÁ.

Þegar landnámsmennirnir sáu Ísland rísa úr sæ, hið ókunna land, sem átti að verða heimkynni þeirra og niðja þeirra, og þegar þeir stigu þar á land og svipuðust um, er líklegt, að þær hugsanir hafi hvarflað að þeim flestum eða öllum, hvers konar vættir myndu byggja landið, hvers þeir myndu þurfa að gæta til þess að gera sér þær hollar, og hvað þeir þyrftu að varast til þess að styggja þær ekki.

Skjaldarmerki

Skjaldarmerki Íslands – landvættirnir.

Á landnámsöld var trúin á landvættir enn í fullum blóma á Norðurlöndum. Hún átti sér þar djúpar rætur og langan aldur, og er líklega eitt af því, sem frumlegast er og elzt í fornum átrúnaði Norðurlandabúa. Víða um lönd hafa frumstæðar þjóðir trúað því, að ýmiss konar dularvættir drottnuðu yfir jörðinni, hver í sínu ríki. Menn trúðu því, að vættir byggju í fjöllum og fossum, í hömrum og steinum, í lindum og lundum, og þeir töldu það vera eitt hið mesta vandamál mannanna að kunna að haga réttilega sambýli sínu við vættir þessar. Fræðimenn greinir á um upptök trúar þessarar. Ætla sumir, að landvættirnar séu í fyrstu andar framliðinna manna. Aðrir telja, að þær hafi, a.m.k. sumar, verið náttúruvættir frá upphafi vega, og til þess getur það m.a. bent, að landnámsmennirnir íslenzku bjuggust við að hitta landvættir fyrir í hinu mannlausa landi, er þeir hugðust að nema. Vér sjáum enn nokkrar minjar af trú forfeðra vorra á landvættir, bæði í fornbókmenntunum og í örnefnum. Þær minjar eru þó mjög í brotum, og þekking vor á þessu máli er því ófullkomin. En eitt af því, sem oss er kunnugt um í þessu efni, er það, að menn trúðu því, að vættir byggju í fjöllum. Sönnun þess er t.d. nafnið Ármannsfell í Þingvallasveit. Fellið hefur hlotið þetta nafn vegna þess, að menn trúðu því, að landvættur (ármaður) byggi í því.

Helgusel

Helgusel – stekkur o.fl. – Uppdráttur ÓSÁ.

Landnámsmennirnir hafa fljótlega gengið úr skugga um það, að Ísland var ólíkt öðrum löndum, er þeir þekktu. Þeir sáu hér náttúrufyrirbrigði, sem þeir höfðu hvergi séð annars staðar, svo sem eldfjöll og hraun, hveri og laugar. Auk þess var margt, sem þeir þekktu annars staðar að og hittu fyrir hér, með nýjum brag. Fjöllin íslenzku voru t. d. með allt öðrum svip en fjöllin, er þeír þekktu í fjalla- og fjarðabyggðum Noregs.

Garður

Spil við Helgustaði í Garði.

Landnámsmönnum, er sigldu að landi með Snæfellsjökul fyrir stafni, hefur ekki dulizt það, að slíkt fjall höfðu þeir hvergi séð í löndum þeim, er þeir komu frá. Þótt þeir kunni að hafa litið öðrum augum á náttúruna en vér nútímamenn gerum og lagt annað mat á fegurð hennar og tign en vér gerum, þá fer varla hjá því, að þeim hafi þótt Jökullinn tilkomumikill, þar sem hann gnæfði við loft, höfði hærri en hnjúkarnir allir, sem fylkt var að baki honum inn eftir endilöngu nesinu, stóð þar eins og fyririrliði í brjósti fylkingar sinnar og horfði út til hafs af yztu þröm skagans. Fer varla hjá því, að þeir hafi hugsað eitthvað á þá leið, að í slíku fjalli hlyti mikil vættur að búa, að ás Snjófells hlyti að vera bæði voldugur og máttugur. Þeir, er námu land umhverfis Jökulinn, settust að í umhverfi, sem alls staðar var svipmikið og stórfenglegt, og sums staðar jafnvel ægilegt og ógnandi. Þeim hefur litizt svo á, sem þetta nýja umhverfi þeirra væri líklegt til að vera aðsetur margs konar vætta og sumra, sem eigi mundu reynast mönnunum hollar. Kynni þeirra af hamförum hafs og storma og baráttan, sem þeir urðu að heyja við þessi trylltu náttúruöfl, hafa enn styrkt þá í trúnni á vættirnar.
Í slíku landi gat mönnunum verið ærin þörf á hjálp hollvætta, er haldið gátu illvættunum í skefjum. Var þá eigi önnur vættur líklegri til hjálpar en ás fjallsins mikla, er lyfti ægishjálmi sínum hátt á loft yfir byggðum þessum. Það er því ekki ótrúlegt, að trúin á Snæfellsásinn sé jafngömul byggðinni á nesinu.

Helgufoss

Helgufoss.

Annars verðum vér að hafa það hugfast, að ekki er ólíklegt, að þriggja alda kristni hafi breytt nokkuð hugmyndum manna um landvættirnar og þær hafi því, er Bárðarsaga var rituð á 14. öld, verið orðnar ólíkar því, sem þær voru í landnámsöld. Vera má enn fremur, að höfundur sögunnar hafi bætt einhverju frá sjálfum sér inn í sagnirnar, sem hann skráði, og ef til vill breytt einhverju í svip Bárðar frá því, sem munnmælin höfðu lýst honum.

Sturlaugur

Sturlaugur við áletrun á berginu ofan Helguvíkur við Keflavík.

Hjá Bárði mættust þannig ólíkir eðlisþættir, og svo fór, að trölleðli hans fékk yfirtökin um stund. Hvarf Helgu, dóttur hans, leiddi til byltingar í sálarlífi hans. Hann trylltist, er hann fékk fréttina um það, spratt þegar upp og gekk inn að Arnarstapa, tók bróðursyni sína undir sína hönd hvorn, fleygði Rauðfeldi niður í Rauðfeldsgjá í Botnsfjalli og Sölva fram af Sölvahamri, og létu þeir báðir líf sitt. Munnmæli síðari tíma bæta þriðja bróðurnum við, Þóri, er hann hafði fleygt fram af Þórishamri í Hamrendafjalli. Síðan átti Bárður illskipti við Þorkel, bróður sinn, og beinbraut hann, og skildust þeir bræður með fullkomnum fjandskap, en Þorkell flutti úr héraðinu. Eftir þetta gerðist Bárður „bæði þögull ok illr viðskiptis, svá at menn höfðu engar nytjar hans síðan“. Hann skildi það sjálfur, að hann bar „eigi náttúru við alþýðu manna“, og tók það ráð að hverfa úr mannheimum og gerast dularvættur. Þá komst aftur jafnvægi á skapferli hans, máske svo að risaeðlið hefur sætt manninn og tröllið í honum. Hann sættist við Þorkel, bróður sinn, og varð hollvættur héraðs síns.“

Eftirfarandi fróðleikur um örnefni í Keldnalandi eru tekin saman af Halldóri Vigfússyni laugardaginn 27. ágúst 1949 í viðræðum við við Björn gamla Bjarnarson (93 ára) í Grafarholti. Þar kemur m.a. fram staðsetning á hringmyndaðri rúst er nefnd hefur verið Helguhjáleiga, Helgustekkur eða Helgutóft.
Um þann stað er sú þjóðsaga, að þar hafi búið Helga Bárðardóttir Snæfellsáss og sótt sér í soðið með því að renna færi fram af Helgukletti, nyrst á Geldinganesi“. Helgusel í Helguhvammi neðan við Helgufoss undir Bringum heitir einnig eftir henni. Auk þess Helguhóll í Viðey og Helgusker í Kollafirði. Helgustekkur hefur verið látinn óáreittur og er nú við göngustíg er liggur aftan (austan) við háu fjölbýlishúsin við Frostafold. Fleiri minjar, sem minnst er á, má enn sjá í Keldnalandi.

Helgusel

Helgusel – upplýsingaskilti í Bringum.

Við Helgusel í Bringum er upplýsingaskilti. Á því stendur m.a.: „Hér í svonefndum Helguhvammi eru rústir Helgusels. Landssvæðið og selið tilheyrðu prestsetrinu á Mosfelli á fyrri tíð og var selið notað á sumrin til að mjólka lambær og framleiða mjólkurafurðir, t.d. smjör og skyr.
GöBringur-6mul munnmæli herma að Helgusel sé kennt við Helgu Bárðardóttur, en frá henni segir í Bárðar sögu Snæfellsáss. Helga yfirgaf mannlegt samfélag og eigraði um landið eins og segir í sögunni: „Litlu síðar hvarf Helga þaðan í burt og fór víða um Ísland og festi hvergi yndi. Var hún og alls staðar með dul, en oftast fjarri mönnum.“
Fleiri örnefni tengjast Helgu á þessum slóðum, Helgufoss blasir við okkur og hér við ána er grjóthóll, sem heitir Helguhóll (einnig nefndur Hrafnaklettur). Þar á að vera Huldufólksbyggð og segir sagan að helga Bárðardóttir hafi horfið í hólinn í elli sinni og ekki komið út síðan.“

Helgustekkur

Helgustekkur.

Helgustekkur er á grænu svæði sem er á milli húsana Frostafoldar 14 og 18 og Jöklafoldar 23-33. Svæðið er grasi gróið. Um hann segir í Örnefnalýsingu: „Á hábungunni beint vestur af Keldum er hringmynduð rúst, kölluð Helguhjáleiga, Helgustekkur eða Helgutóft. Um þann stað er sú þjóðsaga, að þar hafi búið Helga Bárðardóttir Snæfellsáss og sótt sér í soðið með því að renna færi fram af Helgukletti nyrst á Geldinganesi. Einnig. „Skrýtilegt er það, að vestast á Viðey er klettadrangur sem heitir Helguhóll eða Helguklettur, og Helgusker er í Kollafirði.“

Heimildir:
-Mosfellingur, 8. tbl. 22.05.2014, Stofnun fólkvangs í landi bringna í Mosfellsdal, 18.6 hektarar við Helgufoss, bls. 12.
-Helgafell, 8.-10. tbl. 01.12.1942, Undir Jökli, Ólafur Lárusson; Ýmislegt um Bárðar sögu Snæfellsáss, bls. 337-348.
-Helgafell, 1.-3. tbl. 01.01.1943, Undir Jökli, Ólafur Lárusson; Ýmislegt um Bárðar sögu Snæfellsáss, bls. 51-62.
-http://www.keldur.hi.is/um_ornefni.htm?detail=1003119&name=frettasida
-Örnefnskrá Halldórs Vigfússonar yfir Keldur, eftir frásögn Björns Bjarnarsonar. (Ö.Keldur.1).
-Örnefnastofnun. Keldur. H.V. Skráð 1949. Örnefnastofnun Gufuness.
-Fornleifaskrá Reykjavíkur, Bjarni F. Einarsson, 1995.

Helgusel

Helgusel.

Konungsvegurinn

Í Fréttablaðiðinu 31. júlí 2018 er stutt umfjöllun um komu Friðrik VIII, Danakonungs, til landsins árið 1907:
„Friðrik áttundi Danakonungur gekk á land í Reykjavík þann 30. júlí 1907. Nákvæmlega 33 árum áður hafði faðir hans, Kristján níundi, sótt Ísland heim fyrstur ríkjandi Danakonunga þegar hann færði Íslendingum stjórnarskrá.

Friðrik VIII

Konungskomuna 1907 má rekja til þess að árið áður hafði öllum alþingismönnum verið boðið til Danmerkur og vildu þeir endurgjalda gestrisnina með því að bjóða konungi og nokkrum fjölda danskra þingmanna til Íslands.
Heimsóknin vakti gríðarlega athygli og segir í samtíma frásögnum að aldrei fyrr hafi Reykjavík verið jafn fánum skrýdd og aldrei jafn mikil viðhöfn sést.
Konungur og föruneyti hans heimsóttu meðal annars Þingvelli, Gullfoss og Geysi. Á heimleiðinni hafði konungur svo viðkomu á Ísafirði, Akureyri og í Seyðisfirði.
Ákveðið var að ráðast í miklar vegaframkvæmdir fyrir konungskomuna og var kostnaður vegna þeirra um 14 prósent af útgjöldum ríkissjóðs það árið.“!

Í riti, útg. árið 2007, sem ber fyrirsögnina; „Aukinn skilning mun hún færa oss, þessi Íslandsferð“ – Heimsókn Friðriks VIII Danakoungs til Íslands 1907, í tilefni að öld var liðin frá komu hans til Íslands, fjallar Emelía Sigmarsdóttir um aðdraganda og annað henni tengdri. Þar segir m.a.:
„Leiðin lá upp hjá Rauðavatni og Geithálsi og síðan Hafravatnsveg í Djúpadal á Mosfellsheiði en þar byrjaði hinn eiginlegi Þingvallavegur. Ýmsar vegabætur höfðu farið fram á fyrirhugaðri leið konungs. Lagður hafði verið vagnfær vegur til Þingvalla og þaðan austur að Geysi og áfram í Þjórsártún. Menn höfðu búist við að konungur myndi ferðast um í vagni en hann vildi miklu frekar fara ríðandi á hestbaki. Friðriki VIII voru ætlaðir fjórir hvítir gæðingar, honum líkaði vel við tvo þeirra og reið þeim til skiptis. Við hlið hans var Hannes Hafstein, oftast á rauðskjóttum hesti sínum, Glæsi…

Konungsvegur…Mánudagskvöldið 5. ágúst komu konungur og fylgdarlið að Þjórsárbrú. Þar stóð stór tjaldborg en fjöldi bænda hafði stefnt þangað á konungsfund.
Þegar lagt var stað til Reykjavíkur eftir hádegi 6. ágúst riðu konungur og Hannes Hafstein í fararbroddi hlið við hlið. Þegar fylkingar fóru yfir hengibrúna á Þjórsá þurfti að gæta varúðar en svo hleyptu menn á sprett eftir rennisléttum þjóðvegi sem lá beint í vestur í áttina til Reykjavíkur. Stefnan var tekin á Ingólfsfjall. Eftir tveggja stunda ferð kom konungsfylgdin að brúnni á Ölfusá við Selfoss. Gist var á bökkum Ölfusár við Arnarbæli.

Kolviðarhóll

Konungur við Kolviðarhól 1907.

Daginn eftir var lagt á Hellisheiði. Áð var á Kolviðarhóli en frá honum til Reykjavíkur er fimm klukkustunda reið. Á Kolviðarhóli hélt Friðrik VIII ræðu þar sem hann sagði meðal annars: „Látum þessa ferð tengja fast band milli hinnar íslenzku og hinnar dönsku þjóðar og mín! Markmið mitt er sannleikur og réttlæti báðum ríkjum mínum til handa.“ Orð konungs um „bæði ríkin sín“ vöktu mikla athygli meðal Dana og Íslendinga. Eftir heimkomuna til Danmerkur tók forsætisráðherra málið upp og hótaði að fara frá völdum nema konungur ómerkti orð sín. Konungur varð við því og sagðist hafa mismælt sig, hann hafi ætlað að segja „bæði löndin mín“.

Vegagerð við erfiðar aðstæður
Konungsvegur
Þegar ákveðið var að konungur myndi leggja land undir fót í Íslandsheimsókn sinni 1907 var ljóst að gera þyrfti stórátak í vegamálum landsins. Hluti leiðarinnar sem fyrirhugað var að fara var ekkert nema þröngar og ógreiðfærar reiðgötur. Ýmsar vegabætur þurftu því að fara fram. Vegagerðin fyrir konungskomuna var mikið framtak því ekki var hægt að notast við annað en handaflið. Skóflur og hakar voru helstu verkfærin sem notuð voru til að ryðja leið gegnum hraun og kjarrlendi. Kostnaður vegna vegagerðarinnar var um 14% af ársútgjöldum ríkissjóðs.
Sigurður Kristmann Pálsson var einn af vegagerðarmönnunum. Hann fæddist 13. febrúar 1886 og lést 6. janúar 1950. Hann lét eftir sig handrit þar sem hann lýsir vegagerðinni. Hér á eftir eru birt brot úr því með góðfúslegu leyfi ættingja Sigurðar.

Konungsvegur

Konungsvegur að Skógarkoti um Þingvallahraun.

Vorið 1907 réði eg mig til vegagjörðarvinnu í Þingvallahrauni; hugði eg gott til fararinnar á margan hátt; einkum þráði eg að kynnast betur hinum forna sögustað landsins.
Þar vissi eg og að andrúmsloftið var óspilt af kolareyk og hlandforarólyfjan, eins og nú tíðkast það í höfuðstað vorum, og þótt þessi daunillu efni séu blönduð öðrum ilmríkari efnum, er gjöra bæjarlífið svo aðlaðandi fyrir þorra manna, þá bætir það lítið úr skák.
Þá þótti mér verkið og göfugs eðlis, þareð það var hvorki meira né minna en greiða götu konungs vors, er þetta sumar skyldi heimsækja landið; og þótt hann hafi ekki, það eg til veit, greitt götu mína í lífsbaráttunni, að neinu leyti, enn sem komið er þá fann eg þó skyldu mína í þessu efni sem aðrir góðir menn er götu hans greiddu að einhverju leyti.
Sögukorn þetta mun ekki verða auðugt af stórhrikalegum viðburðum, en það fylgir jafnan þeim sögum er sannar eru.

Konungsvegur

Konungsvegur í Þingvallahrauni við Skógarkot.

Um 6 tugir manna voru í Þingvallahrauni, þá er flestir voru. Var þeim skift í flokka, og hafði hver flokkur sína búð. Eigi voru jafnmargir í flokki. Voru flestir 7 en fæstir 3. Als voru þar 9 búðir, auk einnar er geymd voru í vopn og annar útbúnaður, er þurfti til að ryðja úr vegi björgum og blágrýti, og öðru illþýði, er þar var nóg af.

Hrafnagjá

Vagnvegurinn um Hrafnagjá.

Yfir hvern flokk var settur foringi eða flokkstjóri. Hann skyldi stjórna atlögum öllum úr sínum flokki; svo og hrópa heróp manna, en það var það sama yfir allan herinn, og var: „Klukkan.“
Guðjón Bachmann … var til þess kjörinn af aðalhöfðingja verklegra framkvæmda í landssjóðsþarfir, Jóni Þorlákssyni, að mæla veginn frá Þingvöllum að Brúarhlöðum við Hvítá. Þar að auki skyldi hann setja upp steina við hverja 5 kílómetra (kílómetrasteina). Sér til aðstoðar þurfti hann einn mann. Var af hans hendi útvalinn Sigurður Pálsson, skýjaglópurinn, sem fyr var nefndur og höfundur sögu þessarar. …

Þegar að Hrafnagjá var komið byrjaði mælingin, og fórum við þá með sæmilegum hraða yfir landið; sem ég skal nú skýra betur.
Annar okkar sté nú af baki, en hinn tók við reiðhesti hans og klyfjahestinum. Þarnæst tók sá fyrrnefndi mælistikuna í hönd sér og tók að mæla. Mælistikan var þannig útbúin: að skeyttar voru saman tvær grannar tréálmur þannig að bilið á milli þeirra neðst var 2 metrar. Mjókkaði það stöðugt er ofar dró, þar til það hvarf í odda þeim er þær voru skeyttar saman í. Uppaf samskeytunum var sívöl spýta eða handfang.

Hrafnagjá

Hrafnagjá – reiðgatan.

Var nú stikunni snúið í hendi sér, líkt og þegar hringmáli er snúið (cirkli). Taldi sá er gekk metrana, þar til komnir voru 50. Lét hann þá uppi töluna við þann er á eftir var með hestana, og færði hann hana samstundis í bók er hann hélt á. Hann varð því ávalt að vera á hælum þess er mældi, en aldrei fara á undan.
Er nú auðskilið að hægt hefir verið farið, og að vinnan var fremur hæg fyrir þann er sat, og hestana. Hvarflaði þá oft hugur minn til félaganna í Þingvallarhrauni, er nú urðu að þola hinn brennandi sólarhita við erfiða vinnu, en ég gat notið góðviðrisins á hinn þægilegasta hátt.“

Í Morgunblaðiðinu 4. ágúst 2007 segir frá konungsheimsókninni:

Frá Reykjavík til Þingvalla

Konungsvegur

Konungsvegurinn á Mosfellsheiði.

„Miðað við þau frumstæðu skilyrði til ferðalaga sem voru á Íslandi á þessum tíma var enginn hægðarleikur að skipuleggja vikulanga ferð um 200 manna riddaraliðs með konung í fararbroddi. Það þurfti að útvega nokkur hundruð hesta til að flytja menn og farangur. Einnig kerrur fyrir tjöld og matföng, hnakka, klyfsöðla, beisli og ferðakoffort. Það voru Axel Tulinius, sýslumaður Suður-Múlasýslu, og móttökunefndin sem sáu að mestu um undirbúning ferðarinnar. Leiðsögumenn voru meðal annars þeir Guðmundur Björnsson landlæknir og Jón Magnússon, síðar forsætisráðherra.

Konungsvegur

Sæluhús við Konungsveginn á Mosfellsheiði.

Árla morguns fimmtudaginn 1. ágúst var lagt af stað. Konungur og Haraldur prins stigu á bak reiðskjótum sínum við latínuskólann. Konungur klæddist bláum búningi sjóliðsforingja, bar derhúfu á höfði og gekk í hnéháum reiðstígvélum. Á meðan gerðu ríkisþingmenn sig ferðbúna fyrir framan Hótel Reykjavík. Sérhver þeirra hafði fengið að gjöf frá alþingi svipu og ferðabikar til að hafa í ól um axlir. Ýmsir hinna eldri meðal þingmanna fengu sæti á léttivögnum á tveimur hjólum.

Konungsvegur

Brú á Konungsveginum á Mosfellsheiði.

Það voru ekki bara konungur og ríkisþingmenn og föruneyti þeirra sem lögðu af stað til Þingvalla þennan fimmtudagsmorgun, stór hluti bæjarbúa hugsaði sér til hreyfings. Þegar konungur reið um götur bæjarins í austurátt fylgdi í kjölfarið 3-4 þúsund manna hópur ásamt hestum, kerrum og trússi. Víða á leiðinni til Þingvalla slógust ríðandi hópar bænda með í konungsfylgdina. Á hinn forna þingstað hafði aldrei haldið jafnstór fylking síðan á söguöld.

KonungsvegurLeiðin lá upp hjá Rauðavatni og Geithálsi og síðan Hafravatnsveg í Djúpadal á Mosfellsheiði en þar byrjaði hinn eiginlegi Þingvallavegur. Ýmsar vegabætur höfðu farið fram á fyrirhugaðri leið konungs. Lagður hafði verið vagnfær vegur til Þingvalla og þaðan austur að Geysi og áfram í Þjórsártún. Menn höfðu búist við að konungur myndi ferðast um í vagni en hann vildi miklu frekar fara ríðandi á hestbaki. Friðriki VIII. voru ætlaðir fjórir hvítir gæðingar, honum líkaði vel við tvo þeirra og reið þeim til skiptis. Við hlið hans var Hannes Hafstein, oftast á rauðskjóttum hesti sínum, Glæsi.

Þjóðhátíð á Þingvöllum

Konungsvegur

Konungur og föruneyti á Þingvöllum.

Eftir átta stunda ferðalag um sjöleytið hinn 1. ágúst kom konungsfylgdin til Þingvalla sem skörtuðu sínu fegursta. Þegar konungur reið niður Almannagjá höfðu fylkingar Dana og Íslendinga skipað sér í óslitna röð hægra megin vegarins. Síðan kallaði mannfjöldinn: „Lengi lifi konungur vor, Friðrik hinn áttundi!“ Og á eftir fylgdi nífalt húrra.
Á Þingvöllum voru risnar tjaldborgir, við Valhöll mátti sjá stór tjöld til borðhalds og vistar fyrir marga tugi gesta en þar norður af voru tíu tjöld alveg eins í laginu og voru þau ætluð fyrir fólk úr fylgdarliði konungs. Þá var búið að reisa tvö timburhús, annað mun minna. Litla timburhúsið var konungsskáli, íbúðarhús konungs, en það stærra gildaskáli sem nota átti til veisluhalda og sem næturstað fyrir ríkisþingmenn og nánasta föruneyti konungs.

Konungsvegur
Næsta morgun var farið að rigna en það aftraði konungi ekki frá því að ganga um Þingvelli í fylgd Björns M. Ólsens prófessors sem fræddi gestina um sögu staðarins.
Að loknum hádegisverði var blásið til mannsafnaðar. Þá átti þingheimur, hátt á sjötta þúsund manns, að raða sér í eina fylkingu og fara í Lögbergsgöngu í upphafi þjóðhátíðarhalda. Þegar konungur kom á Lögberg hófst þjóðhátíðin með ræðum og söng. Upphaf máls frá Lögbergi á þessari hátíðarstundu var konungsminni Hannesar Hafsteins. Síðan flutti konungur ræðu. Á milli ræðuhalda söng kór ný kvæði eftir Matthías Jochumsson og Steingrím Thorsteinsson. Kappglíma helstu glímumanna landsins þótti hinum erlendu gestum afar skemmtilegt innskot í hátíðahöldin. Um kvöldið var hátíðarverður í gildaskálanum. Fyrir miðju borði sat konungur í hásæti og hafði hann J.C. Christensen forsætisráðherra sér til hægri handar en Hannes Hafstein til vinstri. Ragnheiður Stefánsdóttir Hafstein var eina konan sem sat veisluna.

Geysir og Gullfoss
konungsvegur

Snemma morguns 3. ágúst lagði konungsfylgdin, um tvö hundruð ríðandi menn, af stað frá Þingvöllum. Fjöldi lausra hesta fór á eftir hópnum enda þurfti oft að skipta um á langri leið. Tvær konur voru með í för, það voru Ragnheiður Hafstein og ung dóttir Klemensar Jónssonar landritara. Farangur hafði farið á undan um nóttina ásamt matarbirgðum.

Konungsvegur

Lagt af stað frá Þingvöllum.

Það voru fleiri sem byrjuðu þennan morgun á því að tygja sig til brottferðar. Mannfjöldinn mikli sem sótti þjóðhátíðina á Þingvöllum hélt heim á leið til Reykjavíkur, ýmist fótgangandi eða á hestbaki. Nokkrir dönsku gestanna, sem treystu sér ekki til að sitja á hestbaki næstu daga, slógust í för með honum suður.

Konungsfylgdin reið um Skógarkotsveg og Gjábakkastíg. Áð var á Laugarvatnsvöllum undir Kálfstindum.
Við Geysi í Haukadal hafði stór skáli verið reistur handa ríkisþingmönnum inni á miðju hverasvæðinu. Aðeins ofar bjuggu konungur og Haraldur prins í minna húsi. Stórt tjald fyrir veisluhöld var á flötinni hjá Geysi, ekki langt frá sjálfum skálarbarminum.

Konungsvegur

Minningarsteinn við Geysi í tilefni komu Friðriks VIII.

Daginn eftir, eða 4. ágúst, gaus Geysir loks fyrir konung eftir að hundrað pund af Marseille-sápu höfðu verið sett í hann og þótti hinum erlendu gestum það tignarleg sjón. Eftir gosið flutti Þorvaldur Thoroddsen fyrirlestur um hin ýmsu náttúruundur Íslands.
Klukkan eitt þennan sama dag var blásið til brottferðar að Gullfossi og haldið af stað á góðum spretti. Eftir rúma klukkustundarferð kom konungsfylgdin að fossinum enda stutt leið frá Geysi að Gullfossi. Vegurinn að fossinum var aðeins mjóir troðningar eftir hesta og farið var yfir Tungufljót á bráðabirgðabrú.
Eftir að hafa skoðað Gullfoss lá leiðin aftur að Geysi. Þar áttu menn að hvíla sig vel áður en lagt væri í langt ferðalag næsta dag suður á bóginn að Þjórsárbrú.

Búfjársýning við Þjórsárbrú

Konungsvegur

Konungur á Þjórsárbökkum 1907.

Þegar konungur var að kveðja hverasvæðið að morgni 5. ágúst gaus Strokkur skyndilega eftir 11 ára dvala og þóttu mönnum það mjög merkileg tíðindi.
Leiðin lá yfir nýja brú á Hvítá og eftir eystri bakka árinnar um nýruddan veg meðfram hæðadrögum. Frá Geysi að Þjórsárbrú átti að fara á einum degi, lengsta áfanga ferðalagsins. Frá Þjórsárbrú liggur síðan þjóðbraut vestur til Reykjavíkur en þá leið skyldi konungsfylgdin fara síðasta dag ferðarinnar.
Á leiðinni átti að skoða sveitabæi og kynnast búskaparháttum bænda við akuryrkju og kvikfjárrækt á einu mesta landbúnaðarsvæði Íslands. Bærinn Skipholt var meðal annars skoðaður en hann var nýtísku sveitabær með reisulegum timburhúsum. Heldur þótti hinum erlendu ferðamönnum íslenskur landbúnaður skammt á veg kominn. Sömuleiðis þótti sérstakt í meira lagi að plógar, herfi, rakstrarvélar og önnur álíka hjálpartæki voru óþekkt hugtök í kolli ýmissa bænda.

Mánudagskvöldið 5. ágúst komu konungur og fylgdarlið að Þjórsárbrú. Þar stóð stór tjaldborg en fjöldi bænda hafði stefnt þangað á konungsfund og jafnframt til að skoða búfjársýningu sem halda átti næsta dag. Á sýningunni fékk konungur að skoða sauðfé, nautpening og hesta auk þess sem íslensk smjörframleiðsla var kynnt fyrir honum.
Konungsvegur
Þegar lagt var stað til Reykjavíkur eftir hádegi 6. ágúst riðu konungur og Hannes Hafstein í fararbroddi hlið við hlið. Þegar fylkingar fóru yfir hengibrúna á Þjórsá þurfti að gæta varúðar en svo hleyptu menn á sprett eftir rennisléttum þjóðvegi sem lá beint í vestur í áttina til Reykjavíkur. Stefnan var tekin á Ingólfsfjall. Eftir tveggja stunda ferð kom konungsfylgdin að brúnni á Ölfusá við Selfoss. Gist var á bökkum Ölfusár við Arnarbæli.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1907.

Daginn eftir var lagt á Hellisheiði. Áð var á Kolviðarhóli en frá honum til Reykjavíkur er fimm klukkustunda reið. Á Kolviðarhóli hélt Friðrik VIII. ræðu þar sem hann sagði meðal annars: „Látum þessa ferð tengja fast band milli hinnar íslenzku og hinnar dönsku þjóðar og mín! Markmið mitt er sannleikur og réttlæti báðum ríkjum mínum til handa.“ Orð konungs um „bæði ríkin sín“ vöktu mikla athygli meðal Dana og Íslendinga. Eftir heimkomuna til Danmerkur tók forsætisráðherra málið upp og hótaði að fara frá völdum nema konungur ómerkti orð sín. Konungur varð við því og sagðist hafa mismælt sig, hann hafi ætlað að segja „bæði löndin mín“.

Aftur í Reykjavík

Konungskoman

Samkoma við Konungshúsið á Þingvöllum 1907.

Reykvíkingar tóku vel á móti konungi og föruneyti hans þegar hann kom aftur til bæjarins miðvikudaginn 7. ágúst eftir viku ferðalag um landið. Sægur karla og kvenna á hestbaki slóst í för með konungsfylgdinni síðasta spölinn. Það má segja að ferðamennirnir hafi litið út eins og flakkaralýður því sumir þeirra voru að nokkru leyti óþekkjanlegir af völdum ryks og óhreininda eftir langa reið.
Daginn eftir komuna til Reykjavíkur fór konungur í skoðunarferð í dómkirkjuna, ýmsa spítala bæjarins og hegningarhúsið. Á síðastnefnda staðnum náðaði hann unga stúlku, Jónu Ágústu Jónsdóttur, sem hafði fyrirfarið barni sínu og átti að fara að afplána 4 ára betrunarvist. Að lokum var farið í heimsókn til elsta íbúa Reykjavíkur, Páls Melsteð, 95 ára að aldri. Gladdi þessi virðingarvottur gamla manninn svo mjög að hann kyssti hönd konungs hvað eftir annað.

Konungsvegur
Loks rann upp síðasti dagur Reykjavíkurdvalar konungs, föstudagurinn 9. ágúst. Í síðasta veislufagnaðinum áður en Friðrik VIII. yfirgaf bæinn hélt hann ræðu þar sem hann bað viðstadda að minnast þingmannafararinnar árið áður. Með henni hefðu myndast meiri tengsl milli Íslendinga og Dana en mörg undanfarin ár hefðu megnað að skapa. Konungur sagði einnig:
Að svo tókst til um betri kynni, þakka ég þremur merkisatburðum, en það eru alþingismannaförin til Danmerkur, lagning sæsímans til Seyðisfjarðar og loks heimsókn ríkisþingmanna og mín til Íslands nú í ár. Það er von mín innileg, að þessir samfundir efli möguleika á samstarfi í sambandslaganefndinni, sem sett var á laggirnar til að ryðja úr vegi hugsanlegum misskilningi og búa í haginn fyrir framtíðina. Megi störf sambandslaganefndarinnar verða mínu ástkæra Íslandi og ríkisheildinni til blessunar. Ísland lifi!“

Gísli Sigurðsson skrifaði um Konungsveginn í Lesbók Morgunblaðsins 1978:
Konungsvegur
„Konungsvegurinn var lagður frá Þingvöllum að Geysi og Gullfossi og þótti merk framkvæmd og afrek til samgöngubóta fyrir 70 árum. Nú sést næsta lítið eftir af þessum minjum um hestvagnaöldina utan grónir troðningar, sem jafnvel kúasmalar nota ekki lengur.
Fyrst var hann konungsvegur, síðan vagnvegur og reiðvegur; loks voru það einkum kýrnar, sem gert höfðu götur i hjólförunum og mjökuðust þar hátiðlega á leið heim í mjaltir. Síðan komu til sögunnar jarðýtur og þurrkuðu burtu ásýnd hans af landinu, þegar nýr vegur var lagður. Eftir eru aðeins meira og minna uppgrónir götuslóðar, sem hægt er að fylgja austast úr Laugardal, upp með Hlíðum að Geysi.
Konungsvegur
Þegar hans hátign, Friðrik konungur áttundi, af guðs náð konungur Íslands og Danmerkur, efndi til Íslandsfarar sumarið 1907, var honum tekið með kostum og kynjum og þótti sjálfsagt að konungurinn og fylgdarlið hans riði með pomp og pragt austur að Geysi og Gullfossi. Þá var upp runnin hestvagnaöld á Íslandi; merkilegur millikafli í samgöngumálum og átti eftir að standa allt til síðari stríðsáranna eftir 1940. En menn voru þess vanbúnir að taka við hestvagninum. Aðeins voru þá reiðgötur fyrir. Hér varð að vinna stórvirki með skólfum og hökum. Þegar hér var komið sögu, þótti ekki vagnfært frá Þingvöllum austur að Geysi og var nú ráðizt í að ryðja þá braut með handafli, sem lengi síðan var kölluð einu nafni Konungsvegurinn. Þeir menn eru trúlega allir komnir undir græna torfu, sem svitnuðu við skófluna og hakann í þessari vegargerð og voru orðnir verkfærir menn árið 1907. Aðeins einn maður austur í sveitum gat komið til greina: Kristján Loftsson á Felli, sem er liðlega níræður og manna elztur í Biskupstungum. Þó hann ætti um tíma heima í Haukadal, hafði hann ekki unnið við gerð Konungsvegarins, en Helgi Ágústsson frá Birtingaholti, sem lézt nú í vetur, kvaðst ungur að árum hafa verið lánaður austan úr Hrepp að vinna í veginum. Þar var unninn langur vinnudagur, sagði Helgi, enda voru menn því vanastir á þeim árum að vinna myrkranna á milli og þótti ekkert sérstakt við það.

Sigurður Greipsson

Sigurður Greipsson.

Meðal fárra núlifandi manna, sem vel muna eftir konungskomunni 1907, er Sigurður Greipsson, fyrrum glímukóngur og skólastjóri í Haukadal. Hann varð áttræður á síðasta ári, — og þó ungur væri árið 1907, hafði hann veður af tilurð Konungsvegarins og hann fylgdist gerla með þeim undirbúningi, sem fram fór við Geysi. Guðjón Helgason í Laxnesi, faðir Halldórs Laxness, var þá vegavinnuverkstjóri á Þingvallaveginum og Sigurður minnist þess, að hann kom austur að Haukadal, gisti þar og átti lengi tal við Greip bónda. Telur Sigurður, að Guðjón í Laxnesi hafi verið verkstjóri við gerð Konungsvegarins. Nokkru áður, annaðhvort 1901 eða 1902 var byggð timburbrúin á Brúará, þar sem steinboginn hafði áður staðið og brytinn í Skálholti lét fella eftir sögn. Áður hafði aðeins verið brúarfleki yfir gjána, sem skerst inn í fossinn ofan við brúna og þótti erlendum ferðamönnum eftirminnilegt að fara þar yfir. En gamla brúin, sem löngum er nefnd svo, stendur enn og er hluti Konungsvegarins.
Konungsvegur
Önnur brúargerð var nauðsynleg til þess að konungur kæmist án mannrauna að Gullfossi. Leiðin liggur yfir Tungufljót austan við Haukadal og fljótið er ekki árennilegt þar. Guðmundur Einarsson múrari úr Reykjavík var fenginn til að hlaða stöpla úr tilhöggnu grjóti og síðan komið upp timburbrú sumarið 1907. Hún stóð til 1929, að jökulhlaup í fljótinu varð henni ofraun. Skammt frá brúarstaðnum stendur enn steinn, sem þá var reistur og á hann letrað 105 km. Þess konar steinar voru víðar meðfram Konungsveginum og talan sýndi vegalengdina úr Reykjavík. Sigurður Greipsson telur, að Guðjón í Laxnesi hafi mælt leiðina og látið setja upp steinana.
Þó ekki komi það Konungsveginum beinlínis við, að var ráðizt á þá framkvæmd sumarið 1907 að reisa tvö hús á hverasvæðinu við Geysi. Var það annarsvegar stór skáli handa dönsku ríkisþingmönnunum og hins vegar hús handa konungi. Þingmannaskálinn var rifinn og seldur á uppboði haustið eftir, en Konungshúsið stóð lengi; var notað til greiðasölu á sumrin, en flutt að Laugarási sem læknisbústaður 1923.

Konungsvegur

Konungsvegur að Skógarkoti um Þingvallahraun.

Verkstjóri og yfirsmiður við þessar húsbyggingar hjá Geysi, var Bjarni Jónsson úr Reykjavík og er Bjarnaborgin við hann kennd. Bjarni gegndi líka því hlutverki að vera einskonar siðameistari á staðnum; hann undirbjó heimafólk undir þann vanda að heilsa konungi þegar hann riði í hlað og kveðst Sigurður Greipsson hafa skemmt sér vel við þá tilburði. Og um vegagerðina segir hann: „Sjálfur var ég lítill karl, en tíndi þó nokkra steina úr götunni frá Múla að Geysi“. Það var nefnilega búizt við því, að konungur kysi sér fremur þau þægindi að sitja í kerru en ferðast ríðandi. Raunar voru margir hinna erlendu gesta alsendis óvanir því að ferðast ríðandi um langa vegu. Því var það að nokkrar sérsmiðaðar kerrur voru fluttar inn frá Englandi til þessara nota; þar á meðal var sérstakur vagn handa konungi. Þaulvanur ökumaður, Guðmundur Hávarðsson, sem bjó í Norðurpólnum í Reykjavík, hafði verið valinn ökumaður konungs og hefur vafalaust þótt töluverð upphefð. En svo fór, að konungur steig aldrei upp í vagninn; hann fékk úrvals reiðhesta og kaus að ferðast ríðandi. Um þetta var kveðið:

Gvendur með kóngsvagninn setti undan sól
á svipstundu komst hann langt út fyrir Pól,
en hann var nú banginn og helzt útaf því
að hátignin fannst hvergi vagninum í.

Konungsvegur

Konungsvegurinn um Brekku- og Miðhúsaskóg.

Hestar til fararinnar komu víðsvegar að af landinu, en kerrurnar voru hafðar með í förinni, ef óhapp bæri að höndum. Allt gekk þó slysalaust. Stöku sinnum duttu hestar og menn ultu af baki; meðal þeirra var Hannes Hafstein ráðherra. Christensen forsætisráðherra Dana brosti og sagði, að við þessu mættu þeir ráðherrarnir alltaf búast, — að falla. Einhvern tíma heyrði ég, að þeir Böðvar á Laugarvatni og Páll skáld á Hjálmstöðum hefðu tekið að sér að flytja farangur kóngsfylgdarinnar frá Þingvöllum að Geysi, — og verið vel við skál allan tímann, enda gleðimenn. En á þessu hef ég ekki getað fengið staðfestingu.
Vegurinn lá og liggur enn austur um Gjábakkahraun og hefur aldrei nálægt Lyngdalsheiði komið, en hún sést af honum í suðri. Yfir Gjábakkahraun og aftur austan við Brúará, þurfti að ryðja brautina á hrauni, sem þar að auki var kjarri vaxið og seinunnið með handverkfærum. Þessi braut varð strax niðurgrafin og verður þá um leið farvegur fyrir vatn, sem grefur sig niður á köflum, þar sem mold er og sandur, en eftir standa berar klappir. Var framundir 1950 varið einhverri upphæð til þess af vegafé, að nema á brott stórgrýti og bera ofan í — með hestvögnum — þar sem mikið hafði runnið úr. Síðasti „vegamálastjóri“ á Konungsveginum var Jón eldri Jónsson á Laug í Tungum og virtist höfundi þessa pistils hann réttilega líta á það sem virðulegt embætti. Síðustu árin var þetta orðið einhverskonar formsatriði og „yfirreið“ og hætt að hreyfa við grjótinu, sem sífellt stakk upp kollinum. Umdæmi Jóns á Laug var frá Múla í Tungum og út að Brúará.

Konungsvegur

Konungsvegurinn um Brekku- og Miðhúsaskóg.

Alltaf voru áhöld um, hvort Konungsvegurinn væri bílfær. Ýmist var brúin á Brúará að niðurfalli komin, ellegar einhversstaðar hafði runnið svo mjög úr veginum, að hann var tilsýndar líkastur djúpum skurði. Vörubílar voru að vísu látnir þrælast út með Hlíðum, en sátu títt fastir í hinum konunglegu skorningum. Um árabil átti greinarhöfundur mörg spor á þessari grýttu slóð; ýmist að flytja mjólk ellegar að reka heim kýr. Varð mikil músik þegar skrönglast var yfir klappirnar með tómu brúsana, en á köflum þungfær aurvilpa, þegar klakinn var að fara úr á vorin. Aftur á móti var ekki teljandi slit á þessum vegi að vetrarlagi, hann fylltist þegar í fyrstu snjóum og var uppfrá því ófær til vors.
Í aldarfjórðung eða fram yfir 1930 að upphleyptur vegur var lagður upp Grímsnes og Tungur að Geysi, var Kongungsvegurinn sjálfur þjóðvegurinn á þessari fjölförnu slóð. Þar mátti sjá hestvagnalestir í vor- og haustferðum; þar var sláturfé rekið til slögtunar allar götur suður til Reykjavíkur og á sumrin komu skarar reiðmanna með töskuhesta. Þá stóð jóreykurinn hátt til lofts, þegar moldin þornaði og hófaskellirnir heyrðust um langa vegu, þegar kom á hraunið og harðar klappirnar undir fæti.
Mig rétt rámar í þetta tímabil áður en bílar urðu alls ráðandi í mannflutningum. Þá þótti ævintýralegt að sjá skara reiðmanna fara um veginn á fallegum sumardegi, en nú líta krakkarnir ekki einu sinni upp, þegar bílarnir fara um þjóðveginn. Stundum voru þeir menn á ferðinni á Konungsveginum, sem báru allt sitt á bakinu og fóru um fótgangandi. Þesskonar ferðalagar eru nefndir þumalputtaferðamenn núna, en í þann tíð urðu þeir einvörðungu að treysta á fæturna.

Konungsvegur

Konungsvegurinn á Mosfellsheiði að Þingvöllum.

Konungsvegurinn var án efa skemmtilegur reiðvegur og eftirminnleg gönguslóð. Þar voru og eru fallegir kaflar með fjölbreyttum gróðri og fögru útsýni: Austur yfir Gjábakkahraun, yfir Reyðarbarm og Laugarvatnsvelli, hlíðarnar niður að Laugarvatni, inn í „Krók“ og raunar Laugardalurinn allur, austur yfir Brúará og Miðhúsahraun, ofan við Úthlíð, gegnum Hrauntúnsskóg og svo framvegis. Einkum og sér í lagi var Konungsvegurinn rómantískur á stöku stað í Laugardal og ofan við Hrauntún, þar sem birkihríslurnar seildust yfir hann.
En rómantíkin fór af á vorin, þegar menn voru að flytja áburð, fóðurbæti eða aðra þungavöru á hestvögnum og vagnarnir brotnuðu undan álaginu. Ég man enn hvað hestarnir svitnuðu og mæddust og lögðust í aktygin, — og sigu með hægð upp Hrauntúnsbrekkuna, sem var einna erfiðust. Sumarið 1952 fór ég þar í síðasta sinn með æki; þá var upp runnin öld traktoranna og í þetta sinn var verið á heimleið með hlaðinn heyvagn. En traktorinn lagðist ekki í aktygin með sama lagi og klárarnir höfðu gert; hann spólaði bara þar sem brattast var og ég varð að taka megnið af vagninum og bera baggana sjálfur upp brekkuna.
Konungskoman 1907Síðar hef ég komið þar og gengið um sem gestur og fylgzt með því, hvernig vegurinn grær upp frá ári til árs. Nú liggja sumsstaðar girðingar þvert á hann og á leiðinni frá Gjábakka að Laugarvatni hefur nýr vegur verið ruddur svo að segja í sömu slóðina. Kýrnar nota hann ekki lengur; þeim er nú orðið haldið sumar langt á túnum, en á kaflanum frá Brúará og austur til byggðar í Tungum hafa myndast fjárgötur í hjólförunum.
Konungsvegurinn var á sinni tíð fjölfarnastur ferðamannavegur á Íslandi, þegar frá er talinn vegurinn úr Reykjavík til Þingvalla. Öll fyrirgreiðsla við ferðamenn var þá frumstæð, enda ekki einu sinni sími til að láta vita um komur ferðamanna. Var það til dæmis eitt sinn, að fólkið á Laug hafði verið beðið að hafa til niðursoðinn mat handa farþegum af millilandaskipinu Ceres, sem einhverntíma var von á. Eina leiðin var að vera sífellt á vakt og huga að mannaferðum á Konungsveginum vestur með Bjarnarfelli. Svo er það eitt sinn, að mikil þyrping birtist þar á veginum og Jón heitinn á Laug kemur með írafári inn í bæ og segir: „Stína, skerðu strax upp lambatungudósirnar, — Ceres er að koma.“ Nú var gengið í að hafa til matinn, en hópurinn þótti lengi síðasta spölinn og þegar betur var að gáð, voru það raunar kýrnar frá Múla, sem þarna voru á ferðinni.
KonungsvegurNútíminn var eins og dagrenning á austurhimni, þegar Friðrik konungur áttundi reið austur til Geysis með fríðu föruneyti í ágúst 1907; landsmenn búnir að fá sinn eigin ráðherra fyrir þremur árum og mikil bjartsýni ríkjandi. En þróunin fór sér hægt og nútíminn og vélamenningin komu ekki fyrr en rúmum þrjátíu árum síðar.
Eftir hugnæmar ræður á Þingvöllum þar sem sjóli lands vors var beðinn að stíga heilum fæti á helgan völl, lagði konungsfylgdin af stað til Gullfoss og Geysis og segir svo frá ferðinni í Lögrjettu þann 12. ágúst 1907.
„Veðrið var yndislegt allan laugardaginn, sólskin með skýjaskuggum á strjálingi. Komið var á Laugarvatnsvelli kl. 10 3/4. Þegar þangað kom voru þar tjöld fyrir, matreiðslumenn og stúlkurnar (30) er fylgja oss alla leið og ganga um beina. Umbúnaður allur var sem í Djúpadal, (áningarstaður á leið konungs til Þingvalla) borðað standandi í stóru tjaldi. Allir hafa dáðst að því, hvernig matreiðslufólk og þjónustufólk hefur leyst starf sitt af hendi; stúlkurnar virðast þurfa minni svefn en fugl, eru alltaf jafn kvikar og röskar í störfum sínum, svo ánægja er á að horfa. Hvar sem kemur fáfangastað eru þær fyrir og veit enginn hvenær þær sofa, eða hvernig þær komast leiðar sinnar á undan öllum, þó þær séu með hinum síðustu úr hlaði. Við morgunverð var þess minnst, að Hákon Noregskonungur átti þennan dag afmæli. Áður en riðið var af stað, fór konungur upp að Laugarvatnshelli til þess að skoða hann. Veður var indælt austur í Laugardal og þótti ferðamönnum fagurt að líta yfir „engjanna grasflæmi geysivítt þönd, með glampandi silfurskær vatnanna bönd, og bláfjöll og blómgaða velli“.
Til Geysis var komið kl. 6 1/2. Þar var allt í bestu reglu. Jón Magnússon skrifstofustjóri hafði riðið þangað deginum áður til að líta eftir öllu og sá þess ljós merki.
Konungur bjó í húsi því, er honum var búið, en dönsku þingmennirnir, útlendu blaðamennirnir og nokkrir ísl. þingmenn í skála miklum, er þar hefur verið reistur. Hinir í tjöldum. Borð var í stóru tjaldi á flötinni hjá Geysi. Sváfu menn vel um nóttina.“
Ísafold og Reykjavíkin segja frá konungsförinni á svipaðan hátt; ekki er þar minnst einu orði á veginn og framtak þeirra, sem búnir voru að gera þessa erfiðu leið vagnfæra.
Trúlega væri minna afrek að leggja malbikaðan veg þarna austur um þessar mundir og verður að telja fréttamennsku blaðanna harla glompótta á því herrans ári 1907.
Konungskoman 1907 hefur annars margoft verið upp rifjuð, enda góðar heimildir um hana í blöðum þessa tíma og ekki ástæða til að tíunda hana frekar í smáatriðum. Eftir dagsför til Gullfoss, var riðið austur yfir Hvítá á Brúarhlöðum, niður Hrunamannahrepp, áð á Álfaskeiði og skoðaður bærinn að Reykjum á Skeiðum. Þaðan lá leiðin niður með Þjórsá á fund Rangvellinga við Þjórsárbrú, en haldið þaðan til Arnarbælis í Ölfusi og gist þar. Síðan var riðið suður sem leið liggur upp Kamba, dagverður snæddur á Kolviðarhóli og „komu allir suður svartir í framan eins og sótarar“ segir í Lögrjettu, því svo mikið var rykið á reiðveginum. Hannes Hafstein skáld og ráðherra reið með konungi og var kvæðið Gullfoss eftir Hannes lesið upp á Kambabrún og skál skáldsins drukkin.
Mikill ljóðalestur virðist hafa einkennt þessa heimsókn og ort í þeim anda, sem nú þætti full hástemmdur og jafnvel barnalegur. Í lokahófi las séra Matthías Jochumsson upp kveðjukvæði til konungs. Þar er allt á hástemmdum nótum eins og þetta erindi sýnir:

„Vor göfuga saga gullin-óðvor guðleg tunga Háva-ljóð
þeim virta fylki færi.
Hans koma táknar tímamót —
hún táknar nýja siðabót,
sem allir strengir stæri!
Berfaldinn hátt, legg fjöll í krans.
ó fóstra vor, og konung lands
kveð svo það hjörtum hræri!“

Konungskoman
Friðrik áttundi hefur verið duglegur ferðamaður, en andagiftin líklega ekki að sama skapi og engum sögum fer af því hvernig honum líkaði danska þýðingin á hinni mærðarfullu samsetningu séra Matthíasar, sem forsætisráðherrann tók að sér að lesa upp.
Konungur gerði heiðarlegar tilraunir til þess að vera alþýðlegur og talaði svolítið einstaka sinnum við blessaða alþýðuna. Gaf hann fé blindum karli í fjósi í Skipholti og þáði (ílenzkan blómvönd af konu við Efra-Langholt.
Samkvæmt fornsögum þóttu Íslendingar „djarfmæltir við tigna menn“ á dögum Egils Skallagrímssonar. En nú var það allt fyrir bí og alþýðumenn með skottið milli fótanna og litt upplitsdjarfir. Reykjavíkin gerir þetta að umtalsefni 10. ágúst 1907: „Annars kunni fólk sig lítt þar sem konungur fór hjá, konurstóðu eins og dæmdar og karlmennirnir að vanda þegjandi með hendur í vösum. Er það ljótur siður og leiðinlegur“.
Það var helst á mölinni, að menn reyndu að tileinka sér hið ljúfa líf samkvæmt erlendum fyrirmyndum. Í þessum sömu blöðum Ísafoldar, Lögrjettu og Reykjavíkur, auglýsir Karl Peterson & Co vindil Friðriks konungs „með Havanna og Brasilíutóbaksblöðum, með rósflúruðum umbúðum og hring með mynd af Hans Hátign“. Thomsens Magasín auglýsir veðreiðar á Melunum og engin hætta að ekki verði allt með tilhlýðilegum elegans eins og á veðreiðunum í Derby, því Verzlunin Edinborg auglýsir í sama blaði stráhattana „marg-eftirspurðu“.
Konungsvegur
Þeir sem héldu áfram að nota Konungsveginn voru aftur á móti sárasjaldan með stráhatta og yfirhöfuð lítill glæsibragur á ferðinni, þegar menn voru í misjafnri færð og veðrum að brjótast áfram með nauðsynjar, — stundum með sameinuðu vöðvaafli manna og hesta. Nú grær grasið yfir þessi spor og fólkið, sem fer í sunnudagsbíltúrana hefur ekki hugboð um troðningana, sem liggja einatt í allskonar krókum og stundum uppi í hlíðum. Eitt er þó sameiginlegt með ferðum þeirra, sem áður héldu Konungsveginn og þeirra, sem nú aka þjóðveginn austur að Geysi. Ryk- og molarmökkurinn, sem upp stígur um leið og þornar af steini og minnir okkur á eftir sjötíu ár, að vanþróunarbragurinn á fjölförnustu vegum okkar er ekki minni en hann var þá.“

Heimilir:
-Fréttablaðið – https://www.frettabladid.is/timamot/fririk-attundi-gengur-a-land-reykjavik/ – Sighvatur Arnmundsson, þriðjudagur 31. júlí 2018.
-„Aukinn skilning mun hæun færa oss, þessi Íslandsferð“ – Heimsókn Friðriks VIII Danakoungs til Íslands 1907. Emelía Sigmarsdóttir f/Landsbókasafnið, 2007.
-Morgunblaðið 4. ágúst 2007 – https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1158434/
-Lesbók Morgunblaðsins, 11. tbl. 02.04.1978, Konungsvegurinn, Gísli Sigurðsson, bls. 8-11.

Konungsvegur

Konungsvegurinn liggur undir nýrri veg á Þingvöllum.

Mosfellskirkja

Árið 2018 fór fram fornleifarannsókn vegna framkvæmda við bílaplan við Mosfellskirkju. Í framhaldinu var skrifuð skýrsla; „Mosfell í Mosfellsdal – Framkvæmdir við bílaplan austan við kirkjuna„. Höfundur var Ragnheiður Traustadóttir.

Saga Mosfells

Mosfell

Mosfellskirkja 2022.

Í skýrslunni „Skráning fornleifa í Mosfellsbæ„, sem var gefin út árið 2006 er rakin saga Mosfells og er bæjarstæðið skráð ásamt kirkjunni sem stóð þar. Þessi skýrsla var unnin upp úreldri skráningargögnum. Skipuleg skráning fornleifa í Mosfellsbæ hófst árið 1980 og var það fyrsta skráning sinnar tegundar á Íslandi. Í skýrslunni er að finna góðar lýsingar á fornleifum í sveitarfélaginu en hún er háð þeim takmörkunum að minjar voru ekki allar settar á kort og þær sem hafa ratað inn á vefsjá sveitarfélagsins eru oft ekki nákvæmt staðsettar enda voru mælingartæki á þeim tíma ekki jafn nákvæm og þau eru í dag. Lýsingar úr fornleifaskráningunni á bæjarstæðinu og kirkjunni er að finna í skýrslunni:

Mosfellsbær

Mosfell – minnismerki Magnúsar Grímssonar.

„Magnús Grímsson segir í athugasemdum við Egilssögu: „Bærinn á Mosfelli stendr á 122 austr-hala hóls þess, sem kirkjan stendr á. Hóll þessi er hæstr að vestan, næst Merkrvallargili, og að sunnan, sem fram veit að Köldukvísl; þar er brekka framan í honum, há og allfögur tilsýndar.

Fellsmegin við hól þenna er landslag nokkru lægra. Hæstr er hóllinn þar, sem kirkjan nú stendur á honum, og þar norðan undir er lægðin milli hans og fjallsins mest, þar sem kirkjan stóð áður.

Austur af hólnum er jafnaflíðandi, og þar er nú bærinn; ætla eg að hann hafi þar staðið síðan hann var fluttur af Hrísbrú, því engar rústir eru þær þar nærlendis, sem bendi á annað, enda eru og hér öskuhaugar miklir og fornir.

Mosfell

Mosfell – Gamli preststaðurinn á uppgraftarsvæðinu.

Eru þeir hér, eins og á Hrísbrú, beint fram undan bæjardyrum og skammt frá þeim, svo stórir, eins og smáhólar. En að Minna-Mosfell sé laungu síðar byggt, byggi eg meðal annars á því, að þar eru engir fornir öskuhaugar að sjá.

Mosfell

Mosfell.

En það bregzt sjaldan að þeir sé til, jafnvel grasi vaxnir hólar, á fornum stórbæjum á Íslandi, og eins við fornarbæjarrústir, optast nær beint framundan bænum. Gæti þeir opt verið til góðs leiðarvísis, ef uppskyldi grafa slíkar rústir, sem á mörgum stöðum væri án efa vel gjörandi. Eitt það, sem eg byggi áætlan mína um það er þegar sagt er, um bæjarflutninginn frá Hrísbrú að Mosfelli …“.

Sigurður Vigfússon segir svo um öskuhauga: „…enn á Mosfelli veit eg að það hefir prófazt viðhúsbyggingar og umrót; þar fannst mikil aska, bæði undir bænum og í kálgörðunum fram undan bænum“.

Mosfell
Í Lýsingu Mosfells- og Gufunessókna segir svo: „Mosfell (Stóra Mosfell) stendr á hæð lítilli, sunnan undir Mosfelli (Mosfellsfjalli), norðanvert í Mosfellsdal“ .

Seinna var bærinn fluttur: „Mosfell, prestssetrið, var sunnan í fellinu, en nú er bærinn fluttur suður yfir Köldukvísl á Víðinn, til að geta hitað húsin með hveravatni frá Norður Reykjum…“.

Mosfell

Bæjarhúsin skv. túnakortinu 1916 sett inn á uppgraftarsvæðið.

Á Túnakorti frá 1916 sést bærinn rétt austan við grafreitinn. Bæjarhúsin samanstanda af íbúðarhúsi úr timbri, eldhúsi úr torfi og skemmu úr torfi með timburþili. Þessi bæjarhús eru nú líklega að einhverju leyti horfin undir núverandi kirkju og kirkjugarð.

Mosfell

Mosfell – túnakort 1916.

Nokkur orð um Mosfellsprestakall: Kirkja var fyrst reist að Hrísbrú þegar kristni var lögtekin á Íslandi. Sú kirkja var seinna flutt að Mosfelli. Getið er kirkna að Varmá, í Þerney, talað var um bænhús að Lágafelli fyrir 1700, kirkja var að Suður-Reykjum og var hún lögð niður 1765. Kirkjan að Varmá er með vissu niðurlögð fyrir 1600 (sbr. síðar). Með konungsbréfi 6/1 1774 var skipað að setja kirkju á Lágafelli og leggja þangað Mosfells- og Gufunessóknir, en það var afturkallað með kgbr. 7/6 1776. Viðey var lögð til Mosfells 1847. Árið 1880 er Brautarholtssókn lögð undir Mosfell. Með landshöfðingjabréfi 21/9 1886 eru Mosfells- og Gufunessóknir sameinaðar og ákveðið að reisa eina kirkju fyrir báðar að Lágafelli. Árið 1901 er Mosfellsprestakall lagt niður og Lágafells- og Viðeyjarsóknir lagðar undir Reykjavík en Brautarholtssókn til Reynivalla. Þetta kom þó aldrei til framkvæmda og 1927 er Mosfellsprestakall tekið upp á ný,óbreytt.

Mosfell

Mosfell – túnakort 1916; uppgraftarsvæðið.

Í Egilssögu er getið um að kirkja sem reist var á Hrísbrú, er kristni var lögtekin, hafi verið flutt að Mosfelli.

Segir dr. Jón Þorkelsson að kirkjuflutningurinn hafi líklega verið á árunum 1130-1160. Segir Sigurður Vigfússon það eftir honum í grein sinni „Rannsókn í Borgarfirði 1884“.

Sama kemur fram í Prestatali og prófasta og er líklega einnig haft eftir Jóni Þorkelssyni. Nokkrar umræður urðu um staðsetningu hinnar fyrstu kirkju og bæjarins að Mosfelli. Vildu sumir meina að bæði kirkja og bær hafi verið flutt fráHrísbrú og að Mosfelli. Jafnframt hafi nafnið flust (þ.e. Hrísbrú hafi upphaflega heitið Mosfell). Helstutalsmenn þessarar kenningar voru Magnús Grímsson og Kålund.

MosfellskirkjaÁ annarri skoðun eru t.d. Sigurður Vigfússon í grein sem hann birti í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1884-1885 og Sigurður Nordal íútgáfu sinni að Egilssögu 1933, þ. e. að einungis hafi verið að ræða um flutning kirkjunnar. Í Prestatali og prófasta eru taldir upp allir prestar á Mosfelli frá upphafi. Skafti Þórarinsson er fyrsti prestur þar, sem heimildir geta um. Hann var prestur að Mosfelli fyrir 1121 og til um 1143 en þá tekur næsti prestur við og þjónaði hann til um 1180. Kirkju er getið að Mosfelli í kirknaskrá Páls biskups frá um 1200 yfir kirkjur í Skálholtsbiskupsdæmi, sem presta vantaði að.
Af heimildum að dæma leggst kirkjan á Mosfelli niður snemma á miðöldum og er jörðin komin í eigu leikmanna á 15. öld.

Mosfell

Mosfell – framkvæmdarsvæðið.

Næst er kirkja reist að Mosfelli á fyrri hluta 16. aldar, ef marka má heimildir, og er prests getið þar um 1536 .
Er nú kirkja samfellt að Mosfelli fram til ársins 1888 að hún er rifin og ný kirkja reist að Lágafelli.
MosfellsbærKirkja var vígð að Mosfelli 4. apríl 1965 og stendur sú kirkja enn.
Úttekt var gerð á Mosfellskirkju árið 1887 að skipan prófastsins í Görðum og er úttektarskjalið til enn. Segir í því, að kirkjan hafi verið 11 álnir og 11 þumlungar að lengd innan gafla, en það mun vera um 7metrar. Breiddin var 9 álnir og 12 þumlungar, innan veggja, en það er um 5,7 metrar. Kirkjan hefur því verið rétt tæpir 40 fermetrar.

Um staðsetningu kirkjunnar segir Magnús Grímsson: „Kirkjan stendr enn í dag á Mosfelli, en ekki er hún þar nú í sama stað og hún hefir fyrst verið sett á. Kirkjan stendur nú á háum hól fyrir vestan bæinn.

Mosfell

Mosfell – eldra íbúðarhús.

Áður hefir hún staðið norðanvert við hól þenna, eða í norðrjaðri hans. Norðanvert við kirkjugarðinn, sem nú er á Mosfelli, sér enn til kirkjugarðsrústar hinnar fornu… Kirkjan sjálf hefir staðið austast í garðinum, og verður ekkert ráðið í um stærð hennar, því rúst hennar er, eins og garðsins alls, og öllu fremr, gjörfallin og grasi vaxin… Hafi bærinn á Mosfelli staðið þar, sem nú er hann, sem ekki er ólíklegt, þegar kirkjan var hingað flutt, þá hefir kirkjan verið sett viðlíka lángt frá bænum og öldúngis í sömu átt frá honum, eins og kirkja Gríms áður á Hrísbrú, og er það ekki með öllu óeptirtektan vert… Enga veit eg ástæðu til þess, hví kirkjan og kirkjugarðurinn hafa hér verið færð úr stað, né heldr nær það hefir verið gjört. En rústin sýnir að lángt muni vera síðan… Vera má hið forna kirkju stæði ekki þótt fagrt, því það liggr heldr lágt, og miklu hrósar kirkjan sér betr uppi á hólnum þar sem nú er hún.“

MosfellUm staðsetningu kirkjunnar segir Kålund: „Nu står kirken – som sædvanligt midt i kirkegården – på enhøj, der falder temmelig brat af mod mosen, men tidligare har kirken og kirkegården, af hvilken endnulævninger ses, været lidt nordligere umiddelbart nord for den nuvær ende“.

Í Örnefnalýsingu Mosfells segir: „Stór hóll var þar sem kirkjan var, og heitir hann Kirkjuhóll“.

Mosfell

Mosfell – loftmynd 2023.

„Norðanvert við kirkjugarðinn, sem nú er á Mosfelli, sér enn til kirkjugarðsrústarinnar fornu; er hún auðséð að vestan, norðan og austanverðu, en að sunnanverðu hefir garðrinn gengið að eða inn í kirkjugarðinn, sem nú er, og sést því ekki til hans þar; ætla ég, að þessi kirkjugarðr hafi verið ferskeyttr, hérum-bil 18 eðr 20 faðmar á lengd austr og vestr, en 12 eðr 14 faðma breiðr norðr og suðr. Kirkjan sjálf hefir staðið austast í garðinum, og verðr ekkert ráðið í um stærð hennar, því rúst hennar er, eins og garðsins alls, og öllu fremr, gjörfallin og grasi vaxin. Í þessum garði sjást enn glögg merki til leiða, sem snúa í austr og vestr, sumstaðar í skipulegum röðum. Enginn steinn sést hér neinstaðar, nema einn eða tveir hleðslusteinar norðanvert í garðsrústinni.

Mosfell

Mosfell – loftmynd 2023.

Gata vestr úr túninu á Mosfelli liggr nú sunnan til um garð þenna, norðan undir hinum nýja kirkju garði… Enga veit eg ástæðu til þess, hví kirkjan og kirkju garðurinn hafa hér verið færð úr stað, né heldr nær það hefir verið gjört. En rústin sýnir, að lángt muni vera síðan.Mjög eru og bæði leiði og gröptur forn orðinn í þeim kirkjugarði, sem nú er, og sá garðr mjög útgrafinn; er hann þó allstór (hérumbil 72 faðmar umhverfis í átthyrningsmynd). Vera má hið forna kirkjustæði ekki þótt fagrt, því það liggr heldr lágt, og miklu hrósar kirkjan sér betr uppi á hólnum þar sem nú er hún. Svolítr og út, sem hinn forni kirkjugarður hafi verið mjög útgrafinn orðinn, og má vera, að hann hafi verið fluttr af því, að þar hafi ekki orðið jarðsett lengr“.

Mosfell

Mosfell – fyrirhugað rannsóknarsvæði eftir að hafa verið raskað með stórtækum vinnuvélum.

Magnús ræðir nokkuð hvar bein Egils Skalla-Grímssonar hafi verið lögð niður eftir að þau voru tekin úr haugi hans. Munnmæli um að þau séu í kirkjugarðinum „sem nú er“ telur hann ósennileg. Síðar segir hann: „Þó er ekki svo vel, að munnmæli þessi sé öldúngis viss í, hvar helzt á hólnum leiði Egils muni vera, hvort heldr undir kirkjunni, sem nú er, eðr skammt suðr frá henni. Er þar og ekkert að sjá, sem á þetta bendi með vissu, hvorki í hinum forna kirkjugarði, né hinum nýja; því hin fornu leiði eru hvort öðru lík, en engir eru steinar neinstaðar ofanjarðar, sem neina upplýsing gefi“.

MosfellÍ Mosfellskirkjugarði eru þrír legsteinar frá 17. öld, legsteinn Jarþrúðar Þórólfsdóttur, dáin 1606 og legsteinn bróður hennar Þorvarðar Þórólfssonar, auk legsteins Arnórs Jónssonar.

Þar er einnig legsteinn Magnúsar Grímssonar, dáinn 1860 (Morgunblaðið, 4. nóvember 1962, einnig er steinsins getið í Innansveitarkroniku Halldórs Laxness). Í sömu grein í Morgunblaðinu, og áðan var vitnað til, er einnig getið um, að á Mosfelli hafi fundist steinkola árið 1962. Ekki er sagt neitt frá kringumstæðum, nema að kolan hafi verið grafin úr jörðu.“

Þess má geta að framangreind framkvæmd, þ.e. að kalla á fornleifafræðinga eftir að fyrirhuguðu rannsóknarsvæði hefur verið raskað með stórtækum vinnuvélum, verður að telja lítt til eftirbreytni.“

Heimild:
-Mosfell í Mosfellsdal – Framkvæmdir við bílaplan austan við kirkjuna; Ragnheiður Traustadóttir, 2018.
-Morgunblaðið, 247. tbl. 04.11.1962, „Góður orðstír er manninum auði tryggari, bls. 10-11.

Mosfell

 

Mosfell

Í Mosfellingi árið 2006 er fjallað um „Kirkjuna á Hrísbrú“. Ekki er úr vegi, að því tilefni, að fjalla svolítið um einn þekktasta íbúann þar sem og spurninguni hvað varð um silfursjóð hans á gamals aldri.

Kirkjan á Hrísbrú

Hrísbrú

Mosfellsdalur – Hrísbrú fremst.

„Undanfarin ár hefur staðið yfir fornleifauppgröftur að Hrísbrú í Mosfellsdal. Rannsóknin hefur leitt margt merkilegt í ljós m.a. um kirkju á Hrísbrú. Hrísbrú er ein af fimm jörðum í Mosfellsbæ þar sem heimildir eru fyrir að kirkja hafi staðið. Á tveimur jörðum stendur kirkja enn þann dag í dag, á Lágafelli og á Mosfelli. Hinar jarðirnar eru Suður-Reykir og Varmá.
Í Egilssögu segir að kirkja sem reist var á Hrísbrú er kristni var lögtekin hafi verið flutt að Mosfelli.
Í gegnum tíðina hafa verið nokkrar vangaveltur um hvar fyrsti bærinn á Mosfelli stóð. Kristian Kålund segir í verki sínu Bidrag til en historisktopografi sk Beskrivelse af Island, sem gefin var út 1877 að hann álíti að bærinn hafi upphaflega staðið á Hrísbrú ásamt kirkjunni. Síðan hafi bærinn verið fluttur að Mosfelli og kirkja á eftir. Sigurður Vigfússon ræðir þetta mál einnig í Árbók hins íslenska fornleifafélags 1884-1885, en kemst að annarri niðurstöðu en Kålund. Álítur hann, frásögn Egilssögu um kirkju á Hrísbrú, sem seinna var flutt að Mosfelli, rétta.
Um bæjarflutning og þar með nafnbreytingu var ekki að ræða. Í útgáfu sinni að Egils sögu (Rvk. 1933) telur Sigurður Nordal líklegast, að kirkjan hafi fyrst verið byggð fjarri bænum að Mosfelli, en seinna verið flutt að bænum og hjáleigan Hrísbrú byggð á gamla kirkjustaðnum.
Menn hafa leitt að því líkur að kirkja hafi staðið á Hrísbrú í um 150 ár. Hún var reist er kristni var lögtekin, þ.e. í kringum árið 1000.
Hrísbrú
Kirkja var hins vegar risin á Mosfelli í tíð Skapta prests Þórarinssonar sem uppi var um miðja 12. öld og því hafa menn ályktað sem svo að þá hafi verið búið að flytja kirkjuna frá Hrísbrú. Talsvert hefur verið skrifað um staðsetningu hinnar fornu Hrísbrúarkirkju. Um þetta segir Magnús Grímsson í Safni til sögu Íslands og íslenzkra bók mennta að fornu og nýju, sem gefin var út í Kaupmannahöfn og Reykjavík árið 1886: „Það er varla von, að nein viss merki sjáist nú Hrísbrúarkirkju, eptir hérumbil 700 ára tíma. En þó eru þar nokkur vegsummerki enn, sem styðja söguna. Skammt útnorðr frá bænum á Hrísbrú, norðan til við götu þá, er vestr liggur um túnið, er hólvera ein, hvorki há né mikil um sig. Það er nú kallaðr Kirkjuhóll. Stendur nú fjárhús við götuna, landsunnan megin í hóljaðri þessum. Þegar menn athuga hól þenna lítr svo út, sem umhverfis hann að vestan, norðan og austan, sé þúfnakerfi nokkuð, frábrugðið öðrum þúfum þar í nánd. Þetta þúfnakerfi á að vera leifar kirkjugarðsins (því kirkjan á að hafa staðið á hólnum) og er það alllíkt fornum garðarústum. Innan í miðju þúfnakerfi þessu á kirkjan sjálf að hafa staðið, og þar er varla efunarmál, að þar hafi til forna eitthvert hús verið. Eigi er hægt að ætla neitt á um stærð rústar þessarar …
Tveir steinar sáust uppi á hólnum, sokknir í jörð að mestu; voru þeir teknir upp haustið 1857, og líta út fyrir að hafa verið undirstöðusteinar, óvandaðir og óhöggnir, en ekki alllitlir; má vera að þeir hafi verið í kirkjunni. Við upptekníng steina þessara sýndist svo, sem moldin í hólnum væri lausari og mýkri,(?) en í túninu fyrir utan hólinn. Það mun því efalaust, að kirkja Gríms Svertíngssonar hafi hér staðið. Annarsstaðar getr hún varla hafa verið á Hrísbrú, enda bendir og nafnið, Kirkjuhóll, á að svo hafi verið. Hefir þar og verið kirkjustæði allfagrt, en ekki mjög hátt.“
Á árunum upp úr 1980 fór fram fornleifaskráning í Mosfellsbæ á vegum Þjóðminjasafns Íslands. Þar er sagt frá einni sporöskjulaga rúst og tveimur ferhyrningslaga tóftum á Kirkjuhóli. Allar eru tóftirnar þó ógreinilegar. Um það segir skrásetjari: „Almennt má segja um Kirkjuhól, að hann er mjög rústalegur að sjá. Mjög erfitt er samt að koma öllu heim og saman. Er hólkollurinn allþýfður og eflaust má sjá það út úr þessu, sem menn langar helst til.“
Nú er sem sagt fengin niðurstaða í málinu. Þær fornleifarannsóknir sem stundaðar hafa verið á Hrísbrú undir stjórn Jesse Byock á undanförnum árum hafa leitt í ljós að kirkja var reist á Hrísbrú í frumkristni og að hún stóð á Kirkjuhóli.“ – Kristinn Magnússon, fornleifafræðingur.

Í Mosfellingi árið 2005 er fjallað um fornleifauppgröftinn að Hrísbrú:
Hrísbrú
„Margir hafa velt vöngum um afdrif beina Egils.
Egilssaga fjallar um þetta og víðar hefur það verið gert. Halldór Laxness stúderaði sögu Mosfellsdals á sínum tíma og færði í frásögn með sínum hætti í Innansveitarkróniku: „Kirkja hafði að öndverðu verið reist undir Mosfelli á þeim stað sem síðar hefur heitið Hrísbrú, og stóð þar uns skriða hljóp á túnið á 12tu öld; var þá flutt á hól einn leingra inn með fjallinu, Mosfellsstað sem nú heitir. Hrísbrú varð leigukot í Mosfellstúni vestan skriðunnar. Þegar kirkjan var flutt fundust, að því er skrifað er, mannabein undir altarisstað í Hrísbrúarkirkju hinni fornu; voru þau miklu meiri en annarra manna bein og fluttu Mosdælir þau til Mosfells ásamt með kirkjunni og þóttust gamlir menn kenna þar bein Egils Skallagrímssonar.“

Eins og flestir vita hefur staðið yfir á Hrísbrú í Mosfellsdal stórmerkur fornleifauppgröftur undanfarin sumur. Uppgreftrinum hefur verið stjórnað af fornleifafræðingnum Jesse Byock. Jesse er prófessor í norrænum fræðum við Kaliforníuháskóla og kom til íslands í fyrsta skipti fyrir um það bil 30 árum. Þess má geta að á síðasta ári veitti Alþingi honum íslenskan ríkisborgararétt.
Mosfellingur náði tali af Jesse á Brúarlandi þar sem fornleifafræðingarnir hafa haft aðsetur undanfarin sumur.

Hvenær hófst þú störf við uppgröftin á Hrísbrú?
Hrísbrú
„Árið 1995 gerði ég forkönnun að Mosfelli og á fleiri stöðum í Dalnum. Það var svo árið 2001 sem starfið hófst að fullum krafti á Hrísbrú með aðkomu og stuðningi Mosfellsbæjar að verkefninu“.
Ert þú ánægður með þann árangur sem hefur náðst fram að þessu?
„Það er óhætt að segja að hann sé framar björtustu vonum. Síðastliðiðið sumar fannst kirkja sem að öllu líkindum er reist skömmu eftir Kristnitöku árið 1000. Um er að ræða stafkirkju, einstaka að því leyti að varðveist hafa betur en áður hefur sést stólpar og grunntré hússins, ásamt hleðslum. Þessi fundur er verulegur hvalreki fyrir byggingarsögu íslands, enda kemur í ljós að frágangur og vinnubrögð við byggingu benda til séríslenskra úrlausna við bygginguna sem ekki þekkjast á Norðurlöndum frá sama tímabili. Það er því Ijóst að fundur stafkirkjunnar er stórmerkur. Þá er ljóst að kirkjan hefur verið staðsett á stað sem fyrir kristnitöku hefur verið notaður við greftranir eða brennu látinna, því þar hefur fundist eina brunagröfin sem fundist hefur á Íslandi. Niðurstöður rannsókna sýna með óyggjandi hætti að maður hefur verið brendur á Hulduhól, skipslöguðum hóli sem liggur skammt frá kirkjugarðinum. Það er ekki ólíklegt að einn af fyrstu höfðingjum Mosfellsbæjar hafi verið brendur þarna.
Í garðinum kringum kirkjuna hefur fundist fjöldi beinagrinda. Frá því uppgröftur hófst höfum við fundið 22 beinagrindur sem m.a. hafa gefið okkur margvíslegar vísbendingar um lifnaðarhætti fólksins, það er t.d. um: næringu, sjúkdóma, ofbeldi og hvar fólkið er fætt, enda beinist rannsóknin ekki síst að lífsskilyrðum og siðum fyrir og eftir Kristnitöku.
Með því að beita hátæknilegum mælingum á ísótópum, sem er ný greiningartækni í fornleifafræði, er hægt að mæla í beinum og tönnum hlutfall næringar á fyrstu æviárum einstaklinga. Niðurstaða hefur leitt í ljós að sjávarnitjar voru greinilega mikil uppistaða í fæðu á þessum tíma í kringum 1000. Við höfum einnig getað rakið sjúkdóma eins og berkla og krabbamein frá þessum tíma og við höfum séð merki mikils ofbeldis. Þar vegur þyngst fundur okkar í fyrrasumar af hauskúpu sem bar greinileg einkenni þess að hafa orðið fyrir þungu höggi eggvopns. Enn fremur hefur verið rannsakað hvort einstaklingar eru fæddir hérlendis eða erlendis. Niðurstaðan er sú að að svo virðist sem að allir þeir sem bera bein sín í kirkjugarðinum á Hrísbrú hafi verið fæddir hérlendis.
Með samvinnu fjölda vísindamanna úr margvíslegum fræðigreinum, svo sem almennri líffræði, frjókornafræði, réttarlæknisfræði, sagnfræði, fornleifafræði, jarð- og landafræði hefur verið leitað eftir upplýsingum svo hægt sé að draga heildarmynd af búsetuskilyrðum frá þessum tíma, en það er meginmarkmið rannsóknarinnar.
Rannsóknir síðastliðinna fimm ára eru líka farnar að skila verulegum árangri, sem styrkir þekkingu manna á smáatriðum og heildarmynd af lífi á íslandi á landnámsöld. í sumum tilfellum er um að ræða þekkingu sem ekki hefur komið fram áður.“

Eigum við eftir að finna silfur Egils?
Hrísbrú„Það er eðlilegt að spurningar sem tengjast Agli Skallagrímssyni og Egilssögu komi upp. Vísindamenn vilja gjarnan víkja sér undan óyggjandi svörum um slíkt, en samsvörun fundar á kirkju og kirkjugarði við stóra kafla í Egilssögu eru sláandi, því er ekki að neita. Nú í sumar var farið undir kirkjugólfið og þar finnst gröf, en kistan hafði verið fjarlægð, enda finnast leifar hennar. Sá sem í gröfinni hefur legið hefur greinilega verið stór og mikill eins og fram kemur í öllum lýsingum, enda gröfin sú stærsta af þeim sem við höfum fundið á Hrísbrú.“

Fundur skálans hefur vafalaust verið skemmtilegur endir á vinnu sumarsins?
„Það var ánægjulegt að finna þetta og án vafa er þessi viðbótarfundur til að styrkja þá skoðun mína að hér sé um einn merkasta fornleifafund seinni tíma að ræða, þegar horft er til þessa tímabils, ekki bara eftir íslenskum mælikvarða heldur einnig þegar horft er til heiminum. Það dæmi ég alla vega af viðbrögðum kollega minna víða úr heiminum. Þetta gerðist þannig að við vorum að fara að ganga frá eftir vinnu sumarsins þegar þessi bygging kom í Ijós. Ljóst er að hún hefur varðveist svo vel vegna skriðunnar sem féll á hana. Það hefur verið ótrúlegt að finna þetta allt og sjá á einum stað og ég tel það einstakt.“

Koma fleiri en fornleifafræðingar að þessum rannsóknum?
„Að þessum rannsóknum hefur hópur vísindamanna komið frá fjölda landa og má til gamans geta þess að nú eru þegar fjórir af þeim að gera doktorsritgerð vegna þessa verkefnis við Háskólann í Kaliforníu. Þessi hópur hefur verið afar samstilltur og frábært að vinna með. Af þessu leiðir að um er að ræða margþættar rannsóknir svo hægt sé að ná þeim árangri að varpa ljósi á líf og lifnaðarhætti á landnámsöld, á mörkum kristni og heiðni og rannsóknin skipar sér þar með í hóp með stærri fornleifauppgröftum.“

Í Ólafíu, riti Fornleifafræðingafélags Íslands árið 2007, er fjallað um „Valdamiðstöðina í Mosfellssdal – Rannsóknir á fornleifum frá tímum víkinga að Hrísbrú að Mosfelli“:

Niðurstöður:

Hrísbrú

Hrísbrú – uppgröftur – skáli.

Landslag frá heiðni til kristni Fornleifarannsóknir í Mosfellsdal hafa leitt í ljós verulegar sannanir á því að umtalsverð byggð hefur verið þar frá landnámsöld fram yfir kristnitöku, og áfram allt fram á 12. öld. Með rannsóknarniðurstöðunum er að myndast vel skrásett mynd af flókinni sambúð og samskiptum heiðinna manna og kristinna á fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Á Hrísbrú hafa fornleifafræði og fornar ritheimildir hjálpast að við að sýna fram á mikilvægi staðbundinna minja, sem og rannsóknir á áþreifanlegum minjum í nánum tengslum við ritaðar miðaldaheimildir.
Mikilvægur þáttur í rannsóknunum á Hrísbrú hefur falist í því að skoða og skilja hvernig greftrunarsiðir og trúarbrögð hafa blandast við kristnitöku.

Uppi hafa verið margar tilgátur í víkingaaldarfræðum um hætti, menningarleg gildi og trúarhegðun Norðurlandabúa á þeim tíma þegar skipt var frá heiðnum sið til kristni. Margt bendir til þess að breyting hafi átt sér stað frá heiðni til kristni á sérstökum helgistöðum en lítið er um skýrar fornleifafræðilegar sannanir þessu til staðfestingar. Niðurstöður okkar á Mosfelli gætu skipt máli í tengslum við þessa alþjóðlegu umræðu.

Hrísbrú

Hrísbrú – fornleifauppgröftur.

Nálægð heiðinnar líkbrennslu á Hulduhól við kristna kirkju og kirkjugarð á Kirkjuhól sýnir einstaklega heillega mynd af trúarlegum greftrunarstað og veitir okkur tækifæri til að skoða hvernig eitt ákveðið samfélag á víkingaöld kristnaðist. Sú staðreynd að kirkjan á Kirkjuhóli hafi verið byggð svo nálægt hinni heiðnu hæð á Hulduhóli segir okkur margt um félagslega og menningarlega hætti á þessum tíma og það er afar sjaldgæft í dag að finna minjastað með tveimur jafnvel varðveittum grafhaugum. Rannsóknarniðurstöðurnar benda til þess að heiðið og kristið samfélag hafi búið hlið við hlið á tímum kristnitökunnar.
Fornleifarnar á Mosfelli/Hrísbrú eru sérstaklega mikilvægar í sambandi við túlkun á Íslandssögunni vegna þess að fyrir rannsóknina höfðu aðeins verið til ritaðar heimildir um fólkið sem þar bjó.
Grímur Svertingsson er gott dæmi um þetta. Hann bjó þar við kristnitöku og var lögsögumaður á árunum strax eftir hana. Grímur var giftur Þórdísi, dóttur voldugs höfðingja frá Borg í Borgarfirði, og var einn af áhrifamestu mönnum á Íslandi á þeim tíma. Margir sagnfræðingar hafa lengi haldið því fram, og byggt það á rituðum heimildum, að margir voldugir höfðingjar á Íslandi, og þar á meðal Grímur, hafi tekið kristni til þess að halda völdum. Vegna þessa hafi margir höfðingjar reist kirkjur á jörðum sínum um árið 1000 til þess að fá vígða jörð á landareign sinni. En eru einhverjar sannanir fyrir þessu?
HrísbrúNiðurstöður fornleifarannsókna á Hrísbrú benda til þess að á landnámsöld hafi staðurinn verið bústaður höfðingja og staðsetning hans áhrifamikil í samfélagi og menningu íbúa Mosfellsdals.
Egils saga segir frá því að Grímur Svertingsson hafi reist sér eigin kirkju og kirkjugarð að Hrísbrú í kjölfar kristnitökunnar. Áþreifanlegar fornleifar sem fundist hafa í rannsóknunum styðja þetta. Með byggingu kirkjunnar eftir kristnitöku staðfestu Mosfellingar, sú fjölskylda sem mestu réði á þeim tíma í dalnum, eignarhald sitt á landinu, sjálfsmynd sína og stöðu. Steinar og grafir að Hrísbrú sýna fram á miðpunkt í menningarlegu og raunverulegu landslagi á meðan áþreifanlegar minjar úr gröfunum veita okkur upplýsingar um heilsu og lifnaðarhætti, auk þess að staðfesta ofbeldi í samfélagi íbúanna á Mosfelli/Hrísbrú. Þessar áþreifanlegu minjar eru vitnisburður um tilraun voldugrar höfðingjaættar til þess að koma sér vel fyrir í breyttu trúarlegu og félagslegu umhverfi fyrstu tvö hundruð ár landnáms á Íslandi. Rannsóknir okkar benda til þess að landsvæðið hafi verið notað í trúarlegum tilgangi og til greftrunar bæði fyrir og eftir kristnitöku; bæði heiðnir og kristnir hafi viljað hafa forfeður sína nálægt sér.“

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1884 skrifar Sigurður Vigfússon um „Rannsókn í Borgarfirði 1884“. Þar fjallar hann m.a. um Mosfell:

Hrísbrú„Þriðjudaginn, 2. sept., fór eg af stað úr Reykjavík, síðara hluta dags, og upp að Mosfelli, var þar um nóttina. Hér kemr stax til Egils s. Skallagrímssonar, og síðan til landnáms pórðar Skeggja. Þetta þurfti eg að athuga betr. Grímr Svertingsson bjó að Mosfelli víst mestallan siðara hluta 10. aldar, og fram yfir 1000. Hann var ættstór maðr og göfugr og lögsögumaðr um hríð ; hann átti Þórdísi Þórólfsdóttur Skallagrímssonar; þegar Egill seldi af höndum bú að borg, fór hann suðr til Mosfells til pórdisar bróðurdóttur sinnar og var þar i elli sinni og andaðist þar, og hér fal Egill fé og koma hér fram í sögunni ýmsar staðlegar lýsingar.

Hrísbrú

Hrísbrú – fornleifauppgröftur.

Síra Magnús heitinn Grímsson, sem var prestr á Mosfelli, hefir skrifað ritgerð um þetta efni, „Athugasemdir við Egils sögu“ í Safni til sögu Íslands, Kaupmh. 1861, II. bl. 251—76. Ritgerð þessi er mikið fróðleg og skemmtilega skrifuð, og vel lýst mörgu landslagi á Mosfelli og þar í kring; þarf eg því ekki svo mjög að tala um það. Síra Magnús heldr, að bœrinn Mosfell hafi í fyrstu staðið þar sem Hrísbrú nú er, sem er lítilfjörlegt kot, skamt fyrir utan túnið á Mosfelli, og að Grímr Svertingsson hafi búið þar; hann ímyndar sér, að bœrinn hafi verið fluttr — líklega einhvern tíma fyrir miðja 12. öld — frá Hrísbrú og þangað sem hann nú stendr, og hafi þá nafnið flutzt á þenna nýja bœ, enn nafnið Hrísbrú verið gefið þeim stað, þar sem hið forna Mosfell stóð; meðal annars um þetta bls. 255 og 260—261. Allar þessar getgátur byggir höfundurinn einkannlega á því, sem stendr í Egils s. Reykjavíkr útg. um flutning á kirkju þeirri, er Grímr Svertingsson lét byggja að Mosfelli, eða sem stóð þar sem síðar hét á Hrísbrú, og flutt var síðar heim að bœnum. Eg get nú ekki vel fallizt á alt þetta.
Mosfell hefir snemma bygzt, sem eðlilegt er, því að uppi í Mosfellsdalnum hefir verið mjög byggilegt. Landn. segir, bls. 53 : „Fiðr enn auðgi Halldórsson, Högnasonar, fór úr Stafangri til Íslands; hann átti Þórvöru dóttur Þorbjarnar frá Mosfelli Hraðasonar; hann nam land“ o.s.frv. Það má ætla, að bœrinn Mosfell hafi verið bygðr ekki miklu eftir 1000, þar sem landnámsmaðr átti dóttur Þorbjarnar, sem þar er fyrst getið, enn ekki sést það, hvort hann hefir fyrst bygt þar, svo að Mosfell getr verið enn eldra. Grímr Svertingsson að Mosfelli er oft nefndr, fyrst í Íslendingabók, og oft í Landnámu og Egils s. og ávalt er hann kallaðr „Grímr at Mosfelli“, þegar nefnt er, hvar hann hafi búið; Landn. mundi vissulega geta um það, hefði Mosfellsbœrinn fyrst staðið úti á Hrísbrú og það í hálfa þriðju öld, og síðan verið fluttr þangað, sem hann nú er.

Mosfell

Mosfell – Kýrgil fjær.

Öllum handritum ber saman um, að við þenna kirkjuflutning á Mosfelli hafi verið staddr Skafti prestr Þórarinsson, og öllum ber þeim líka saman um, að kirkjan, sem var ofan tekin, hafi verið sú kirkja, er Grímr Svertingsson lét byggja; þar af er þá ljóst, að kirkja Gríms hefir þá enn staðið, og hefir hún þá orðið um 150 ára gömul. Það má finna mörg dæmi þess, hvað hús stóðu ákaflega lengi bæði í fornöld og á miðöldunum. Þetta er og eðlilegt, þvíað annaðhvort bygðu menn af rekaviði, sem endist svo lengi, eins og kunnugt er, eða menn gátu valið viðinn í Noregi, þ.e. sóttu hann þangað ; þá voru ekki mjög sparaðir skógarnir ; menn bygðu og sterkt, þegar menn vildu vanda eitthvert hús. Það sýna þær leifar, sem bæði eg og aðrir hafa séð, og eins má sýna viðargœðin.

Kýrgil

Tóft ofan við Kýrgil.

Eg hefi verið nokkuð langorðr um þetta efni, því að mér þótti þess þurfa sögunnar vegna, og mætti þó fleira tilfœra; enn eg skal vera því stuttorðari um, hvar Egill hafi fólgið fé sitt, og lofa einum sem öðrum að hafa sínar ímyndanir, getgátur og munnmælasögur. Þær geta verið mikið góðar, þar sem þær eiga heima, enn eg er þeirrar meiningar, að ekki verði á þeim bygt, þegar um rannsókn er að rœða. Höfundar Egils s. vita sjálfir einu sinni ekki, hvar Egill muni hafa fólgið féð, og vóru þeir þó nær því enn vér; enn þess er ekki von, því að Egill sagði það engum manni.
Sá, sem ritað hefir það handrit, sem liggr til grundvallar fyrir Kh.útg.=Rv.útg., getr til á þremr stöðum bls. 228. Eg skal geta þess hér, að hvorki Hrappseyjarútg. né handr. geta neitt um það, þegar Egill ætlaði að sá silfrinu að lögbergi; þau sleppa alveg þeim kafla ; eg verð að taka hér þenna stað einungis til þess að sýna, hvað öllu er hér rétt lýst, og sem sýnir hvað ritari sðgunnar hefir verið kunnugr, bls. 227—8: „Þat var eitt kveld, er menn bjuggust til rekkna at Mosfelli, at Egill kallaði til sín þræla tvá, er Grímr átti. Hann bað þá taka sér hest. „Vil ek fara til laugar, ok skulu þér fara með mér“, segir hann. Ok er Egill var búinn, gekk hann út ok hafði með sér silfrkistur sínar. Hann steig á hest.
Fóru þeir síðan ofan eptir túninu, ok fyrir brekku þá, er þar verðr,er menn sá síðast. En um morguninn, er menn risu upp, þá sjá þeir, at Egill hvarflaði á holtinu fyrir austan garð, ok leiddi eptir sér hestinn. Fara þeir þá til hans og fluttu hann heim. En hvártki komu aptr síðan þrælarnir né kisturnar, ok eru þar margar getur at, hvar Egill hafi fólgið fé sitt.“

Skv. framansögðu hafa margir ætlað, með allskyns margflóknum ályktunum að Egill hafi falið silfur sitt í nágrenninu og drepið þrælana tvo, en fáir virðast hins vegar gera ráð fyrir þeim möguleika, sem eðlilegri má telja; að þrælarnir (yngri og betur á sig komnir) hafi áttað sig á aðstæðum, stolið silfrinu, hrakið gamla manninn frá með svo niðurlægjandi hætti að hann hafi ekki viljað viðurkenna mistök sín, og þeir síðan látið sig hverfa með allt heila klabbið, bæði fjársjóðinn og farskjótana. A.m.k. virðist enginn hafa haft rænu á að leita, hvorki farskjótana þriggja og þrælanna í framhaldinu. Nýlega teknar grafir eða önnur ummerki í og með Mosfelli hefðu án efa vakið alveg sérstaka athygli á þeim tíma – ekki síst í ljósi þessa merka atburðar; (ályktun ritstjóra FERLIRs). Hvers vegna fór ekki fram rannsókn í framhaldinu, eða a.m.k. athugun, á atburðinum. Gallinn við frásagnar“sérfræðinga“ seinni tíma er að þeir voru svo meðvirkir sagnaskýringunum fyrrum að þeir sáu ekki til sólar. Meðaumkunin var öll Egils. Hér virðist vera um eitt merkilegasta óleysta sakamál Íslandssögunnar að ræða.

Hrísbrú

Ólafur Magnússon, bóndi á Hrísbrú.

Merkisbóndinn Ólafur Magnússon og Finnbjörg, eiginkona hans, bjuggu á Hrísbrú. Ólafur barðist hatramlega gegn niðurrifi kirkjunnar að Mosfelli, eins og fyrr er getið, en varð að lúta í lægra haldi fyrir yfirvöldum árið 1888. Hann tók gömlu klukkuna úr kirkjunni til varðveislu og var hún geymd á Hrísbrú í meira en mannsaldur eða þangað til henni var komið fyrir í Mosfellskirkju sem vígð var árið 1965.
Eyjólfur Guðmundsson frá Hvoli lýsir Hrísbrúarhjónunum þannig í endurminningum sínum: „Hvergi í Mosfellsdal hafði ég meira gaman af að koma en að Hrísbrú. Hjónin þar hétu Ólafur og Finnbjörg, kona roskin. Fyrst í stað voru þau nokkuð gróf og forneskjuleg, en glöð og gestrisin, þegar marka mátti. Það var ánægjulegt að bíða þar, meðan Finnbjörg hitaði ketilinn, og hlusta á Ólaf gamla. Var þá jafnan tilfyndnast það sem húsmóðirin lagði til málanna. Ekki var orðræðan hefluð né blíð, heldur oft stóryrt og krydduð velvöldum fornyrðum, stundum klúr.“
Ólafur og Finnbjörg voru hluti af aðalsögupersónum í bók Halldórs Laxness, Innansveitarkróniku.
Myndin af Ólafi er líklega tekin í kaupstaðaferð í Reykjavík kringum aldamótin 1900. Ekki er vitað til að mynd hafi varðveist af Finnbjörgu.

Heimild:
-Mosfellingur, Kirkjan á Hrísbrú, 12. tbl. 08.09.2006, Kristinn Magnússon, bls. 10.
-Mosfellingur, 10. tbl. 19.08.2005, Fornleifauppgröfturinn að Hrísbrú, bls. 12-13.
-Ólafía; rit Fornleifafræðingafélags Íslands, 2. árg. 01.05.2007, Valdamiðstöð í Mosfellssdal – Rannsóknir á fornleifum frá tímum víkinga að Hrísbrú að Mosfelli, bls. 84-105.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 01.01.1884, Rannsókn í Borgarfirði 1884, Sigurður Vigfússon, Mosfell, bls. 62-74.
-http://www.hermos.is/forsida/frettir/frett/2017/09/25/Olafur-Magnusson-1831-1915-fra-Hrisbru/

Hrísbrú

Hrísbrú – uppgröftur – skáli.

Stardalur

Margrét Björk Magnúsdóttir skrifaði skýrslu um „Rannsóknir á seljum í Reykjavík“ fyrir Minjasafn reykjavíkur árið 2011. Þar fjallaði hún m.a. um selin ellefu í Stardal og nágrenni:

Stardalur – Selstöður sunnan undir Svínaskarði (Stardal)

Stardalur

Sel í Stardal og nágrenni.

Sunnan undir Svínaskarði á jörðunum Stardal, Sámsstöðum og Hrafnhólum var höfð selstaða frá ellefu bæjum samkvæmt Jarðabók Árna og Páls sem sjá má í töflu 1. Selstöður gætu hafa verið fleiri því á svæðinu er að finna mikið og gott beitiland. Bærinn Stardalur stendur við mynni samnefnds dals, norðanvert við Leirvogsá, suðaustan undir Skálafelli. Sámstaðir eru um 1,5 km neðar með Leirvogsá neðan við klettabeltinu Stiftamt. Hrafnhólar eru svo um 2,5 km neðar einnig norðan við Leirvogsá sunnan undir Haukafjöllum á móts við Skeggjastaði uppá hól, en bærinn stóð áður aðeins ofar með ánni undir brekkunum.

Stardalur

Sel í Stardal og nágrenni.

Heimildir eru um 11 selstöður bæja undir Svínaskarði en flestir voru í Mosfellssveit eða 7 talsins og 4 í Kjalarneshrepp. Árið 2010 tilheyra 7 af þessum bæjum Reykjavík, en 4 í Mosfellsbæ eins og sjá má í töflu 5. Af þeim 11 selstöðum sem heimildir eru fyrir eru nú aðeins þrjár sjáanlegar og fylgja þeim enn örnefni bæjanna sem nýttu þau, en þetta eru Þerneyjarsel, Varmársel og Esjubergssel.

Stardalur

Stardalur.

Stardalur var framan af í eigu Brautarholtskirkju og Þerneyjarkirkju. Fram kemur í máldaga Brautarholtskirkju frá 1497-1518 að hún eigi hálfan Stardal. Í máldaga Þerneyjarkirkju til ársins 1269 segir að kirkjan eigi helming í selför í Stardal og afrétt. Samkvæmt Jarðabókinni var Stardalur ekki byggður fyrr en um 1674 en þar segir; „Nýlega uppbyggð fyrir þrjátíi árum, og kemur hjer sá enginn fram. Sem þykist vita að þar hafi fyrri nokkurn tíma bygt ból verið.“… „Hitter almennilega kunnugt úngum og gömlum, að þar sem nú er þessi nýi bær, Stardalur, hafa um lánga æfi selstöður verið frá mörgum bæjum í Mosfellssveit, sem Jarðabókin í þeirri sveit vottar, og so frá Þerney, sem hjer er áður getið.“ Árið 1704 er Stardalur í konungs og tveir ábúendur eru á jörðinni.“

Sámsstaðir
Hrafnhólar voru líka eyðijörð þegar Jarðabók Árna og Páls er gerð og þar er jörðin nefnd „…Hafnhoolar, sumir kalla Hafnabjörg, og segja það nafn eldra.” Þá er jörðin sögð forn eyðijörð og veit engin hversu lengi þar til sextán árum áður að byggður var nýr bær fram á fardaga 1703 að jörðin lagðist aftur í eyði. Jörðin var í konungseign þegar Jarðabókin var gerð sumarið 1704 og dýrleiki hennar óviss.

Tóftir Sámsstaða.

Sámsstaðir eru forn eyðijörð á milli Hrafnhóla og Stardals sem heyrir nú undir Stardal. Við gerð Jarðarbókarinnar 1704 voru Sámsstaðir eign konungs og brúka ábúendur konungsjarða alla grasnaut og talað er um eina selstöðu á jörðinni Esjubergssel.

Blikastaðir standa á láglendu mýrlendi skammt norðan Lágafellshamra, austan við Korpúlfsstaðaá, sunnan við Leiruvoga á móti Víðinesi. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Selstaða hefur til forna brúkuð verið í Stardal.“ Þá er jörðin í eigu konungs.

Esjuberg stendur á skriðuvæng uppi undir rótum Esju og uppaf bænum er Gljúfurdalur. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Selstöðu á jörðin undir Svínaskarði að sunnan, og er þar berjalestur nokkur.“ Þá er jörðin í eigu konungs. Í Jarðabókinni kemur einnig fram þar sem fjallað er um Sámstaði að Esjubergssel var talið í landi þeirra ….„sem þessari jörðu halda menn tilheyrt hafa,…“. En Sámsstaðir var talin forn eyðijörð sem engin vissi hver hafði verið eigandi að og konungur hafði eignað sér og nýtt „…um langa æfi…“.

Þerneyjarsel - uppdráttur

Þerneyjarsel – uppdráttur.

Gufunes stendur skammt vestan við bæinn Eiði á litlu flatlendu nesi á milli Geldinganess og Gufuneshöfða. Gufuness er getið í Landnámu og virðist snemma hafa orðið sjálfstæð jörð. Þar var komin kirkja um 1150 og var þar til 1886 þegar hún var lögð niður. Gufunes varð eign Viðeyjarklausturs eftir 1313 og varð konungseign við siðaskipti. Gufunes var keypt af bæjarsjóð Reykjavíkur árið 1924 ásamt Eiði, Knútskoti og Geldinganesi. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Selstaða hefur til forna brúkuð verið í Stardal, þar sem nú stendur býli það, er Stardalur kallast, eftir sögn þeirra manna, er að undirrjettingu foreldra sinna vita til yfir hundrað ár.“ Þá er jörðin í eigu konungs.

Helgafell stendur undir útsuðurhorni Helgafells. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Landþröng er mikil, og hafði jörðin áður í lánga tíma selstöðu í Stardal frí, en nú verða ábúendur hana út að kaupa.“ Þá er jörðin í eigu konungs.

Varmársel

Varmársel – uppdráttur.

Korpúlfsstaðir standa á sléttum melum skammt í suðvestur frá Blikastöðum, vestan við Korpúlfsstaðaá. Korpúlfstaða er fyrst getið í Kjalnesingasögu. Þeir voru sjálfstæð jörð árið 1234, þá orðnir eign Viðeyjarklausturs, og urðu konungseign um siðaskipti. Reykjavíkurbær keypti jörðina árið 1942. Í Jarðabók segir; „Selstöðu hefur jörðin til forna brúkað í Stardal.“ Þá er jörðin í eigu konungs.

Lambhagi er jörð suðvestan undir rótum Hamrahlíðar, austan við Korpúlfsá þar sem hún fellur í bug og fer að stefna norður. Lambhagi hefur orðið eign Viðeyjarklausturs á tímabilinu 1378-1395 og konungseign við siðaskipti. Reykjavíkurbær keypti jörðina árið 1942. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Selstöðu hafði jörðin að fornu í Stardal.“ Þá er jörðin í eigu konungs.

Lágafell stendur vestan undir Lágafelli. Í Jarðabók segir; „Selstöðu hefur jörðin áður brúkað í Stardal.“ Þá er jörðin í eigu konungs.

Esjubergssel

Esjubergssel – uppdráttur.

Móar standa á flatlendi neðan þjóðvegar, sunnan frá Esjubergi nær sjó. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Selstaða hefur hjeðan brúkast hjá Esjubergsseli og vita menn ei hvort að láni Esjubergsmanna eður eign þessarar jarðar.“ Þá er jörðin í eigu konungs.

Varmá stóð skammt í vestur frá Helgafelli, vestan Varmár, skammt í landsuður upp frá Leiruvogum, austan við núverandi Gagnfræðaskóla Mosfellsbæjar. Í Jarðabókinni er ekki getið um sel eða selstöðu en erþess getið í Örnefnalýsingu fyrir Stardal; „Austan við Tröllalága er Varmársel og sést vel fyrir því.“ Þá er jörðin í eigu konungs.

Skrauthólar standa hátt nálægt Esju, austan Vallár. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Selstaða er, hefur hjeðan lengi brúkuð verið frí þar sem heitir undir Haukafjöllum, nálægt Hrafnhólum.“ Þá er jörðin í eigu konunds.

Þerney er í vestur frá Álfsnesi ekki stór en grasivaxin. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Selstöðu hefur jörðin til forna um lánga æfi brúkað í Stardal, og fæst hún nú ekki síðan þar var bygð sett.“ Þá er jörðin í eigu konungs. Máldagi kirkjunnar í Þerney með sundum í Kjalarnesþingi, sem Magnús biskup Gissurarson setti um 1220 segir svo; „Kirkia a at helmingi selfor j Stardal ok sva afreit. Ok sva þess hlutar fiorv j krossa vik er þerney fylger, halft þriðia kvgilldi bvfiar.“ Í máldaga Þerneyjarkirkju sem Árni biskup Þorláksson setti haustið 1269 segir; „Kirkia a helming j selfor j Starrdal: og svo afret.“

Stardalur

Sel við Stardal og nágrenni.

Af þessum máldögum og síðar má sjá að ekki hefur verið búið í Stardal fyrrum.

Á þessu landsvæði sunnan undir Svínaskarði eru nú þrjár sýnilegar selstöður. Tvær þeirra Varmársel og Þerneyjarsel eru norðan við Leirvogsá austan við Tröllalágar. Esjubergssel er töluvert ofar og nær Svínaskarði á rana út frá Skopru sem gengur útí Esjubergsflóa. Tóftirnar eru allar grasi og mosavaxnar.
Af þessari samantekt má sjá að töluverður efniviður er til staðar til frekari rannsókna á seljum og selstöðum. Tóftir seljanna eru mikilvægar menningarminjar og vitnisburður um þátt í atvinnusögu okkar allt frá landnámi framá 20. öld. Það er því mikilvægt að gerðar verði nákvæmar athuganir á þeim, en frekari rannsóknir geta gefið svör við ýmsum spurningum.
Náttúrufegurð er mikil á öllum selstöðusvæðunum innan borgarmarkanna og eru þau kjörin til útivistar. Þar sem tóftir selja eru enn vel greinanlegar auka þær á upplifun landsins þar sem þær kúra að því er virðist samvaxnar landinu.

Sjá meira um Rannsókn á seljum í Reykjavík HÉR og HÉR.

Sjá skýrsluna HÉR.

Heimild:
-Margrét Björk Magnúsdóttir, Rannsókn á seljum í Reykjavík – Reykjavík 2011, Minjasafn Reykjavíkur – Skýrsla nr. 159, bls. 15-19.

Esjubergssel

Esjubergssel – uppdráttur ÓSÁ.

Tungufoss er fallegur foss neðarlega í Köldukvísl í Mosfellsbæ, á móts við Leirvogstungu og dregur fossinn nafn sitt af bæjarnafninu. Við Tungufoss má sjá leifar af heimarafstöð sem var reist árið 1930 af bóndanum í Leirvogstungu og bræðrum hans og framleiddi stöðin rafmagn fyrir bæinn fram til ársins 1958.

Tungufoss

Tungufoss.

Tveir fallegir hylir eru neðan við Tungufoss: Kerið, sem er beint fyrir neðan fossinn, og Klapparhylur litlu neðar. Nærsvæði fossins er vinsælt til útivistar en hið friðlýsta svæði er 1,4 hektarar að stærð.

Tungufoss og nágrenni voru friðlýst sem náttúrvætti þann 25. apríl 2013. Friðlýsta svæðið er 1. 4 hektarar að stærð og nær yfir fossinn og töluvert svæði ofan og neðan hans.

Tungufoss

Upplýsingaskilti við Tungufoss.

Tungufoss er fallegur foss neðarlega í Köldukvísl í Mosfellsbæ á móts við Leirvogstungu og dregur fossin nafn sitt af bæjarnafninu. Við Tungufoss má sjá leifar af heimarafstöð, sem var reist árið 1930 af bóndanum í Leirvogstungu og bræðrum hans. Stöðin var nýtt til rafmagnsframleiðslu fram til ársins 1958. Tveir fallegir hyljir eru neðan við Tungufoss; Kerið, sem er beint fyrir neðan fossinn, og Klapparhylur litlu neðar.

Tungufoss

Tungufoss.

Markmiðið með friðlýsingu Tungufoss sem náttúruvættis er að vernda fossinn sjálfan sem og menningarminjar innan þess. Svæðið hefur mikið útivistargildi enda fjölsótt bæði af bæjarbúum og öðrum gestum og mikilvægt að treysta útivistar- og fræðslugildi þess.

Almenningi er heimil för um náttúrvættið en skylt að ganga vel og snyrtilega um svæðið.

Aðgengi að fossinum að fossinum er ágætt, ef fylgt er stígum beggja vegna árinnar.

Tungufoss

Tungufoss.

Álafoss

Álafoss er fallegur foss í Varmá þar sem hún liðast í gegnum Álafosskvos í Mosfellsbæ. Varmá er á náttúruminjaskrá frá upptökum til ósa en áin og fossinn tengjast ríkulega atvinnu- og íþróttasögu Mosfellsbæjar. Árið 1896 hófst ullarvinnsla við Álafoss og vegna þeirrar starfsemi var áin stífluð ofan við fossinn. Myndaðist þá talsvert dýpi í ylvolgri Varmánni sem notað var til sundiðkunar og dýfinga. Má enn sjá leifar af tveimur dýfingarpöllum ofan við fossinn sem og leifar af stíflunni.

Álafoss

Álafossverksmiðjan um 1920. Fremst á myndinni er gripahús, en búrekstur var lengi stundaður á Álafossi jafnhliða verksmiðjurekstrinum. Fjær er verksmiðjuhúsið, sem reist var árið 1896 og stendur enn. Greinilega má sjá rörið, sem liggur frá stíflunni niður í verksmiðjuhúsið, en vatnsaflið var notað við ullarvinnsluna. Fólk er á ferli í kringum Álafosslaugina, en í fjarska má greina fjallsnípuna Reykjaborg, en skammt þaðan á Varmá upptök sín.

Markmiðið með friðlýsingu Álafoss sem náttúruvættis er að vernda fossinn sjálfan, nánasta umhverfi hans sem og menningarminjar sem tengjast sögu og þróun Mosfells­bæjar. Svæðið er fjölsótt, bæði af bæjarbúum og öðrum gestum og mikilvægt að treysta útivistar- og fræðslugildi þess.

Álafoss

Dýfingar við Sundlaugina ofan við Álafoss.

Álafoss og nágrenni voru friðlýst sem náttúruvætti þann 25. apríl 2013. Friðlýsta svæðið er 1. 4. hektarar að stærð og nær yfir fossinn og næsta nágrenni hans, þar á meðal Álanes, sem er einn af eldri skógum bæjarins.

Álafoss er fallegur foss í Varmá þar sem hún liðast í gegnum Álafosskvos í Mosfellsbæ. Varmá er á náttúruminjaskrá frá upptökum til ósa, en áin og fossin tengjast ríkulega atvinnu- og íþróttasögu Mosfellsbæjar. Árið 1896 hófst urrarvinnsla við Álafoss og vegna þeirrar starfsemi var áin stífluð ofan við fossinn. Vatn var leitt í sveru röri niður í tóvinnuhúsið, sem enn stendur neðar í brekkunni. Myndaðist þá talsvert dýpi í ylvolgri Varmánni, sem notað var til sundiðkunar og dýfinga. Hægt var að synda um 100 metra án þess að snúa við og haft var á orði á sínum tíma að á Álafossi væri lengsta sundlaug í heimi. Þegar innilaug var vígð að Álafossi árið 1933 dró smám saman úr notkun útilaugarinnar, enda tók áin að kólna verulega vegna virkjunarframkvæmda í Reykjahverfi.
Má enn sjá leifar af stíflunni og tveimur dýfingapöllum ofan við fossinn.

Almenningi er heimil för um náttúruvætti Álafoss, en fylgja skal merktum stígum og leiðum.

Álafoss

Álafoss.