Tag Archive for: Norðurkot

Bræðrapartur

Guðmundur Björgvin Jónsson skrifaði bókina „Mannlíf og mannvirki í Vatnsleystrandarhreppi“, sem hann gaf út árið 1987. Bókin er merkileg heimild um framangreint í hreppnum.

Formáli
Guðmundur BjörgvinGuðmundur Björgvin er fæddur að Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd 1. október 1913, en þar bjuggu þá foreldrar hans, Jón Einarsson útvegsbóndi, d. 1929, og Margrét Pétursdóttir, d. 1918. Hann var því ungur að árum er hann missti móður sína, aðeins 5 ára, og föður sinn á 7. ári. Hann ólst upp hjá móðursystur sinni Guðríði Pétursdóttur að Brekku undir Vogastapa og manni hennar Magnúsi Eyjólfssyni.
Í bók Guðmundar, „Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi“, sem hann gaf út árið 1987, koma m.a. fram fróðlegar upplýsingar um fólk og aðbúnað þess á Vatnsleysuströndinni fyrrum.

Í Landnámu er sagt frá Steinunni hinni gömlu, er gaf Eyvindi fóstra sínum land milli Hvassahrauns og Kvígu-Vogabjargs og er það land nú nefnt Vatnsleysustrandarhreppur.
Um nafnið Vatnsleysuströnd hefur verið nokkur meiningarmunur. Oftast er nafnið tengt við vatnsleysi, sbr. að varla sjáist rennandi vatn. Önnur skýring er til, sú að vatn renni laust og óbundið neðanjarðar og er hún trúlegri. Vatnið er í miklum mæli flæðandi undir þunnum hraunhjnúp, eftir opnum æðum og sprungum (gjám) frá hálendinu þar til það fellur í sjó fram og er vel greinanlegt meðfram allri strandlengunni í Vatnsleysustrandarhreppi, að vísu einungis á lágum sjó, fjöruvötnum.

Bræðrapartur
Bræðrapartur
Syðsta grasbýlið í Vogum er Bræðrapartur (áður nefnt Krúnutóft) og er hann hluti núr Suðurkots- og Stóru-Vogalandi. Það var og er enn umdeilt hvort það var grasbýli eða með jarðarréttindi, þ.e. afréttar- og beitarréttindi utan heimagirðingar, en um langan tíma hefur það verið rekið sem bújörð og er svo gert enn í dag.
Í þeim tíma er Varnarliðið á Keflavíkurflugvelli fékk skotæfingasvæði til afnota í Vogaheiði um 1960, var deilt um það hvort Bræðrapartur ætti að fá leigugjald í hlutfalli við aðra landeigendur í Vogum, og svo fór að þáverandi ábúandi fékk sinn hlut í landleigunni.
BræðraparturÁrið 1929 byggði Guðmundur Kotsson nýtt hús í Bræðraparti. Eitt var öðru fremur merkilegt við húsið því á því var innsiglingarmerki inn í Vogahöfn. Eftir að Vogavík fékk löggildingu sem höfn árið 1893 voru settir upp tveir staurar um 3 metrar á hæð og stóð annar við suðvesturhornið á Bræðraparti, um 10 metra frá húsinu, en hinn var niður við sjó sunnan við sjávarhúsið. Þessir staurar þurftu að bera saman svo rétt væri siglt inn í höfnina. Í myrkri var ljósker sett á staurana sem sýndu rétta leið. Nokkru eftir að nýja húsið var byggt var ljósker sett í loftglugga er sneri til sjávar og þannig gert að ekki þurfti staurana. Svo þegar húsinu var breytt árið 1947 og sett á það brotið þak, var kvistur settur á á vesturþekjuna og þar í gluggli með ljóskerinu. Þetta þótti nauðsynlegt fyrir skipaferðir, þar til hafnarsvæðið var tekið til endurskoðunar og mælt upp að nýju, Þá kom í ljós að gamla innsiglingaleiðin var talin ónothæf miðað við nýja leið inn í höfnina, er þáverandi vitamálastjóri Axel Sveinsson fann og mældi út. Eftir það voru sett upp ný innsiglingaljós 200 metrum suður af Bræðraparti. Eru það tveir ljósastaurar með sjálfvirku ljósnæmi á 100 metra millibili.

Stóru-Vogar

Í máldaga frá 1367 í Fornbréfasafninu 3. bindi bls. 221 segir: „Maríukirkja og hins heilaga Þorláks biskups í Kvígubogum“, ennfremur segir í bréfi frá 1533, 9. bindi bls. 660, „að Erlendur lögmaður Þorvarðarson hafi slegið prest með könnu til blóðs í hálfkirkjunni í Vogum“.

Stóru-Vogar

Stóru-Vogar 2020.

Trúlega er hér átt við Stóru-Voga og bendir allt til þess að þar hafi verið kirkja fram undir siðaskiptin.
Stóru-Vogarústirnar bera vott um stóran hug og stórverk. Húsið var byggt árið 1871 af Jóni, bróður Magnúsar Waage, og byggingameistari var Sverrir Runólfsson steinsmiður, sá hinn sami er byggði Skólavörðuna í Reykjavík og Þingeyrarkirkju í Austur-Húnavatnssýslu. Allar byggingar Sverris bera vott um vandvirkni vel hugsandi manns. Þess má geta hér að Sverrir gerði tillögu til borgarstjórnar Reykjavíkur árið 1870, um að byggja veitingahús í Tjarnarhólmanum og leggja brú frá Lækjargötu og út í hólmann, en meirihluti í borgarstjórn felldi þá hugmynd Sverris.
Stóru-VogarÞað Stóru-Vogahús, sem áður er getið, var ein hæð og íveruris, en árið 1912 lét Sigurjón J. Waage byggja nýtt hús á sama grunni og var hann kjallari nýja hússins. Hluti grunnsins stendur enn, þó stutt sé orðið í að þetta mikla verk hrynji í sjóinn. Nýja Stóra-Vogahúsið var með glæsilegustu húsum á Suðurnesjum. Smiður þess var Skúli Högnason úr Keflavík. Húsið var rifið árið 1965.
Stóru-Vogar áttu helming Vogalands á móti Minni-Vogum. Um aldamótin 1900 voru nær allar jarðir og tómthús í Suður-Vogum nýttar af Waageættinni eða niðjum Jóns Daníelssonar, föður Magnúsar Waage. Allir Suður-Vogabúendur greiddu landskuld til Stóru-Voga, þar með Stapabúð, Brekka og Hólmabúðir, nema þeir er voru orðnir sjálfseignabændur og höfðu keypt sig úr Stóru-Voga tofunni.
Þegar minnst er á Stóru-Vogaættina, er gjarnan nefndur sem forfaðir hennar Jón Daníelsson „hin ríki og- eða sterki“. Var hann f. 23. mars 1771, d. 16. nóv. 1855.
Í dag á Vatnsleysustrandarhreppur Stóru-Vogajörðina að undanskildum hluta heiðarlands, sem erfingjar Jóns Eyjólfssonar Waage á Seyðisfirði tóku undan við söluna á sínum tíma, og eru eigendur að.

Minni-Vogar
Minni-Vogar

Í Minnivogum bjuggu hjónin Klemens Egilsson, f. 31. okt. 1844, og kona hans Guðrún Þórðardóttir, f. 1846. Klemens var einn af stórbændum hreppsins.

Klemens lét byggja upp Minni-Voga árið 1922, smiður var Þorbjörn Klemensson úr Hafnarfirði. Húsið var byggt sem tvíbýli.

Minni-Vogar

Minni-Vogar. Verkið er eftir B. Hrein Guðmundsson en í eigu Sigríðar Jakobsdóttur.

Klemens Egilsson ýmist keypti eða lét smíða skip, sem m.a. fluttu vörur milli landa. Hann og Sigurjón J. Waage létu smíða dekkbát í Noregi og þegar hann var tilbúinn til afgreiðslu, þá sigldi framleiðandinn honum til Íslands. Þetta skip hét Sörli. Skipstjóri var Sigurjón J. Waage, vélstjóri var Sæmundur Klemensson í Minni-Vogum. Útgerðin gekk vel að jafnaði, en Sörli var brellinn. Hann slitnaði tvívegis frá bátalegunni, í fyrra skiptið náðist hann og var fluttur heim, eins og hver annar strokuhestur, en í seinna skiptið tók breskur togari hann og ætlaði að færa hann til Keflavíkur. Hafði áhöfn togarans bundið dráttartaugina um mastrið og talið það öruggt, en Sörli sökk í þessari ferð. Togarinn dró inn dráttartaugina og mastrið fylgdi með. Það komast til eigendanna og mun nú vera notað fyrir ljósastaur við Vogabryggju.

Austurkot
Austurkot
Í manntali árið 1703 er sagt að búið hafi verið á sitt hvorum helmingi jarðarinnar í Minni-Vogum, eða hálflendum sem þá var kallað. Mun þar átt við tvíbýli, en norðurhverfið allt var var Minni-Voar og því síðan skipt í hálflendur, þannig að Minni-Vogar héldu 2/3 af heildinni og Austurkot 1/3 og er svo enn í dag. Að auki er nokkur hluti landsins beggja eign, s.s. Norðurkot, Grænaborg og óunnið land að mörkum Brunnastaðahverfis.

Norðurkot
Norðurkot
Norðurkot var lítið grasbýli í landi Minni-Voga og Austurkots. Ábúandi þar var Nikulás Jónsson, f. um 1830. Hann var af Stóru-Vogaættinni. Kona hans var Guðrún Gísladóttir frá Kröggólfsstöðum í Ölfushreppi, Árnessýslu.
Nikulás var dugnaðarmaður. Hann átti og gerði út marga báta þegar best lét og gerði einnig út með öðrum, s.s. Klemensi í Minni-Vogum. Hann átti lengi lítinn bát sem hann kallaði Þurfaling, enda var sagt að Nikulás berði lóminn manna best, þó talinn væri ríkur. Hann lét breyta opnu skipi sínu í dekkbát og var sá bátur kallaður Lásabátur.
Norðurkot
Nikurlás lét byggja röð af húsum, þannig að fimm stafnar stóðu fram að hlaði. Þótt ekki sé mér kunnugt um hvenær það var gert, þá tel ég að hann hafi látið gera það eftir að hann efnaðist og þó ekki fyrr en eftir að hann eignaðist sitt fyrsta barn árið 1856. Húsin gætu þá hafa verið reist um 1860. Í rústum þeim sem eftir standa má vel sjá að vandað hefur verið til verksins, því nokkrir veggir standa enn sem nýhlaðnir nema hvað gróður hefur fest rætur á þeim. Hluti húsanna eru þó hruninn fram á sjávarbakkanum. Var því byggt nýtt hús úr timbri árið 1882, (úr James-Town strandinu). Var Nikulás þá um fimmtugt.

Grænaborg
Grænaborg
Grænaborg var byggð árið 1881 í landi Minni-Voga að 2/3 hluta og Austurkots að 1/3 hluta. Húsið byggði Ari Egilsson frá Austurkoti og bróðir Klemensar í Minni-Vogum. Þarna hafði verið bær er Hólkot hét, en hann brann, og eru litlar sagnir til um þann bæ. Grænaborg hefur varla verið byggð á sama stað og Hólkot, því sagnir eru til um að á þessum stað ætti hús að brenna þrisvar.
Ari Egilsson var lærður skipstjóri og stjórnaði bæði eigin skútum og bróður síns og föður frá Minni-Vogum. En stutt var dvölin í þessu vandaða nýja húsi, því það brann voru 1883, þá tveggja ára gamalt. Þá voru þar vermenn auk heimilisfólks og komust allir af, nema ein vinnukona er brann inni.
Grænaborg
Grænuborgartóftin stóð opin í 35 ár, eða til ársins 1816, að Benjamín Halldórsson og kona hans Þuríður Hallgrímsdóttir frá Austurkoti, síðar í Stóra-Knarrarnesi 2, fengu leyfi Klemensar í Minni-Vogum til að byggja upp Grænuborg.
Grænaborg brann síðan þriðja sinni 2002.

Sjá meira HÉR.

Heimild:
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi eftir Guðmund Björgvin Jónsson – útgefið af höfundi 1987.

Grænaborg

Grænaborg brann þriðja sinni árið 2002.

Norðurkot

Skoðað var umhverfi Norðurkots á Vatnsleysuströnd. Ætla mætti af áhuganum að dæma að þar hafi verið um höfuðbýli að ræða, en eittvað öðru nær – og miklu merkilegra. Norðurkot var dæmigert kotbýli frá höfuðbýlinu Þórustöðum. Þrátt fyrir það var á Brunnurstaðnum stofnsettur einn fyrsti barnaskóli landsins, auk þess sem staðurinn á sér bæði fagurt og blómlegt mannlíf frá fyrri tíð. Í Norðurkoti hafa varðveist heillegar grunnhúss- og garðhleðslur dæmigerðs kotbýlis þar sem ábúendur byggðu afkomu sína á sjósókn og dæmigerðu búfjárhaldi;  2 kýr og 12 ær á vetur setjandi. Síðasta íbúðarhúsinu var lyft af grunni sínum árið 2007 og flutt á fyrirhugað húsminjasvæði við Kálfatjörn – á nútímalegan steinsteyptan grunn.
Lýsingu þessa af Norðurkoti sömdu bræðurnir frá Kálfatjörn, Ólafur og Gunnar Erlendssynir. Báðir eru þeir gagnkunnugir í Norðurkoti. Ólafur er fæddur í Tíðagerði 23. október 1916. Hann kemur að Kálfatjörn fjögra ára gamall og elst þar upp til tvítugs. Gunnar er fæddur í Tíðagerði 7. febrúar 1920. Hann flytur að Kálfatjörn nokkurra vikna gamall og hefur búið þar síðan. Þá ræddu þeir bræður við Jón Björnsson frá Norðurkoti og Egil Kristjánsson frá Hliði. Lýsingin er skráð í nóvember 1976. Kristján Eiríksson gekk frá handriti.

Uppdráttur

„Á torfunni milli Kálfatjarnar og Þórustaða eru m.a. tóftir býlanna Hliðs, Tíðargerðis og Norðurkots. Hlið var byggð úr Kálfatjarnarlandi, en Tíðargerði og Norðurkot voru byggð úr Þórustaðalandi og liggur milli þess og Kálfatjarnartorfunnar, eins og fram kemur í landamerkjabréfi. „Örnefni virðast hér heldur fá. Ofan við bæinn, á mörkum milli Þórustaða og Norðurkots, er Tíðhóll. Neðan við bæinn er Stórhóll. Álfabyggð var talin í honum. Vatnagarður nefnist blautlendur mói, sem er neðan Norðurkotstúns; nær hann óslitið ofan kampsins að Goðhólsmörkum. Uppsátrið í Norðurkoti er í svokölluðum Krókavörum. Þær eru  neðan undan bænum, nokkurn veginn miðja vegu milli syðri og nyrðri landamerkja. Þar átti einnig Tíðagerði uppsátur. Framundan vörunum, hið næsta, er dálítið sandlón í skerjaklasanum, upp við kampinn. Þar er kallað Lónið. Framan við Lónið eru allhá þangsker og aðeins eitt mjótt skarð í, og flýtur þar nokkru síðar en í Lónum. Þar kallast Þröskuldur.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – túnakort 1919.

Þá tekur Legan við og Kálfatjarnarsund. Þarna við vörina eru skiparéttir og fiskbyrgi, þar á meðal stæðileg tóft mjög vel hlaðin úr löguðu grjóti, lögð í sement. Það var fiskbyrgi.

(Ath.: Naustin voru alltaf á sjávarkampinum, venjulega með hlöðnum veggjum a.m.k. á tvo vegu. Í þau voru skipin sett þegar búizt var við vondu veðri og einnig að lokinni vertíð. Var það kallað að nausta. Stundum voru naustin notuð sem skiparéttir. Þær stóðu þó oftast hærra yfir sjávarmál. Var lögun þeirra svipuð og naustanna. Upphaflega hafa þær líklega verið hlaðnar á þrjá vegu þótt á seinni tíð hafi þær verið alla vega. Í skiparéttunum var bátunum hvolft yfir veturinn.)
Við sjávargötuna, skammt ofan við naustin, var pyttur einn, er Árnapyttur nefnist. Steinsnar norðaustan við bæinn í Norðurkoti stóð býlið Tíðagerði, byggt úr Norðurkotslandi. Því tilheyrði kálgarður neðan við bæinn, allstór.  Skiptist hann að nokkru um klapparbala. Neðan hans var kálgarðurinn kallaður Leynir.
FiskbyrgiTíðagerðistúnið er ofan og austan við bæinn. Um það eru hlaðnir grjótgarðar. Djúp graslaut er rétt norðan við bæjarstæðið í Tíðagerði. Hún var kölluð Lautin. Á klöppinni norðan við Lautina, rétt utan við túngarðinn, er vatnsstæði, Klapparvatnsstæði.
Sunnan við garðinn, sem skilur á milli Norðurkotslands og Goðhóls, neðan Hliðs, eru rústir býlisins Harðangurs. Þar er lítill túnblettur innan garða, sennilega kálgarðar upphaflega.“
Ari Gíslason skráði örnefni í Norðurkoti. „Jörð í eyði, næst við Þórustaði á Vatnsleysuströnd, er í eyði. Uppl. eru frá Erlendi Magnússyni, Kálfatjörn, en er eitthvað málum blandið. Neðan við Tíðhól sem nefndur var hjá Þórustöðum og er mjög nærri merkjum heitir Tíðagerði. Þá er þar frammi í sjó tvö sker sem heita Stóri-Geitill og Litli-Geitill, þessi sker fara í kaf um flóð. Milli þeirra og nafnlausra skerja sem tilheyra Þórustaðatöngum heitir Geitlasund. Þá eru hér þrjár lendingar; Krókar, þar var lent frá norðurbæ Þórustaða, Norðurkoti og Tíðagerði.

Sjávargata

Fram af Markkletti er flúð sem heitir Sigga, í Kálfatjarnarlandi. Goðhóll er í landi Kálfatjarnar, niður af er Goðhólsvör og Goðagljá. Auðnagljá og Þórustaðagljá eru sandpollar þar sem skipin lágu. Hlíð var eyðibýli á merkjum. Vatnsstæðisklöpp er fyrir neðan Tíðagerði, neðst á Vatnagörðum er Árnapyttur. Gljárnar eru framan við hnýflana en fremstur allra hnýfla er Þórustaðahnýfill.
Frá landi skiptast sker í fjóra flokka eftir gerð og lögun. Næst landi eru sker, þau eru allavega löguð. Næst eru flúðir, það eru yfirleitt flöt, mikil um sig og koma upp um fjöru. Hníflar, háir hólmyndaðir, koma upp um fjöru, eru ekki klapparbalar heldur grjót og oft vaxnir geysistórum þönglum (graðhestaþönglum). Boðar eru lengst frá landi, utastir allra, allavega lagaðir og stundum án þess að koma upp úr um stórstraumsfjörur.“

NorðurkotGísli Sigurðsson skráði einnig örnefni í Norðurkoti. „Norðurkoti við Þórustaði tilheyrir land allt innan girðingar sem nær frá Merkjagarði þeim sem er í milli Kálfatjarnar og Tíðagerðis að norðanverðu við hinn svonefnda Vatnagarð, allt suður að vírgirðingu þeirri sem Björn Jónsson hefur sett yfir túnið milli Norðurkots og Austurbæjarparts Þórustaða.
Úr neðri enda girðingar eru mörkin beina stefnu í útnorður niður á sjávarbakkann sem er fyrir neðan, í austurhornið á girðingunni sem þar er á bakkanum, gjörð kringum túnblett sem Eyjólfur á Þórustöðum hefur ræktað þar upp úr gömlum tóftum. Túnmörk þessi stefna beint á Geitil en þannig nefnist útsker sem er norðanvert við Þórustaðatanga.
Innan áðurnefndrar girðingar fylgir túnið og Vatnagarðurinn nefndu býli, Norðurkoti, allt frá túngarði þeim sem hlaðinn er landsunnan megin við býlið, allt beint niður á Sjávarkamp.
NorðurkotSamt er hér frá undanskilið tún það og hússtæði og kálgarður sem útmælt hefur verið býlinu Tíðagerði sem liggur innan fyrrnefndra girðinga og er það á stærð hér um bil 2400 ferfaðmar, fyrir utan útfærslu þá sem síðan var útmæld, landsunnan megin við Tíðagerðistúnið handa því býli.
Í óskiptu heiðalandi utan túns hafa nefnd býli, Norðurkot og Tíðagerði, beitarrétt fyrir fénað sinn sem tiltölu við ¾ hluta Þórustaðatorfunnar. Landamerki þessi eru þannig samin af mér undirskrifuðum eiganda að Norðurkoti, Tíðagerði og Austurbæjarparti Þórustaða – Fjármálaráðuneytið 26.8. 1927.“

Norðurkot

Norðurkot – gamla skólahúsið. -RS

Norðurkot virðist að venjulega hafi verið talið með Þórustöðum og tilheyrði því Norðurkotstún. Á norðurmörkum voru Merkjagarður og Vatnagarður og túnmörk milli Norðurkots og Þórustaða-Austurbæjarparts. Úr þessum túnmörkum með girðingu liggur lína niður á sjávarbakkann við girðingu, kringum túnblett Eyjólfs á Þórustöðum. Túnmörkin stefna síðan í útnorður á Geitil sem ekki mun heyra til býli þessu að neinu leyti. Vatnagarðurinn er talinn fylgja nefndu býli en í honum er Árnapyttur og svo tilheyrir þessu býli Vatnsstæðisklöpp. Norðurkot virðist vera í eyði nú.
Tíðagerði var býli, þurrabúð með Tíðagerðislóð eða Tíðagerðistún. Býlinu fylgdi garður, matjurtagarður, og svo var heiðarlandið óskipt en leyfi til beitar eftir stærð heimalandsins en Tíðagerði átti 2400 ferfaðma land.

Heimildir:
-Örnefnalýsing Ólafs og Gunnars Erlendssonar.
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar.
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar.

Norðurkot

Norðurkot

Í bók Guðmundar Björgvins Jónssoar, „Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi“ má lesa eftirfarandi um gamla skólahúsið í Norðurkoti, sem síðar var híft af stalli og síðan staðsett og endurreist vestan við Kálfatjarnarkirkju í sama hverfi.

Norðurkot

Norðurkot – skólahúsið.

Það var árið 2003 þegar skólahúsið í Norðurkoti stóð enn þar sem það upprunalega var, að Rafn Sigurðsson fór til þess að skrásetja það með myndum áður en “húsið” myndi grotna niður og verða að ónýtum kofahjalli. Það mátti ekki tæpara standa því 2005 var húsið flutt í heilu lagi að Kálfatjörn.

„Norðurkot er hjáleiga úr landi kirkjujarðarinnar Kálfatjarnar.
NorðurkotFyrir aldamótin bjuggu í Norðurkoti hjónin Erlendur Jónsson og kona hans, Oddný Magnúsdóttir. Erlendur var hálfbróðir Helga Sigvaldasonar í Litlabæ. Hjónin í Norðurkoti áttu Ólaf fyrir son, trésmið, er síðar fór til Ameríku og týndist þar fyrir fullt og allt.

Árið 1903 var Norðurkot byggt upp eins og það er í dag. Það var skólanefnd og hreppurinn sem létu gera það og var húsið notað sem skólahús fyrir „Innstrendinga”. Húsið var úr timbri, ein hæð og portris.

Norðurkot

Norðurkot – gamla skólahúsið.

Kennslunni var ætluð neðri hæðin, en risið var hugsað til leigu og í þá íbúð fluttu hjónin Björn Jónsson og kona hans, Halla Matthíasdóttir. Höfðu þau dvalið í gamla bænum í nokkur ár, en Erlendur og Oddný voru farin þegar nýja húsið var byggt. Björn og Halla voru hin skemmtilegustu heim að sækja og var oft komið við í Norðurkoti eftir kirkjuathafnir. Norðurkot var grasbýli, auk þess sem Björn gerði út bát sem ég man að hét Eining. Var sú útgerð smá í sniðum, en bjargaði með öðru. Barnakennsla var aflögð í Norðurkoti árið 1910 og snemma á árinu 1911 keypti Guðmundur í Landakoti Norðurkotið af hreppnum og leigði Birni þá allt húsið.

Norðurkot

Norðurkot – skólahúsið.

Snæbjörn Reynisson, skólastjóri Stóruvogaskóla, segir að fyrsta árið hafi verið nítján börn í skólanum, á aldrinum átta til fjórtán ára, úr Kálfatjarnarhverfi og nágrenni.

Síðasta ári sem kennt var í Norðurkoti voru þrír skólar í Vatnsleysustrandarhreppi. Eftir að skólahald lagðist af var búið í Norðurkoti um tíma, fram á fjórða áratuginn. Síðan hefur það staðið autt eða verið notað sem geymsla. Það voru afkomendur Erlendar Magnússonar, bónda á Kálfatjörn, sem gáfu Minjafélagi Vatnsleysustrandarhrepps Norðurkotshúsið á síðasta ári og stóð félagið fyrir flutningi þess (24. mars 2005) að Kálfatjörn með styrk frá Alþingi og stuðningi verktaka.

Norðurkot

Norðurkot skömmu fyrir flutninginn.

Talsvert átak var að flytja húsið. Þannig þurfti að leggja veg að því svo dráttarbíll og krani kæmust að.

Húsið var sett niður til bráðabirgða við gömlu hlöðuna á Kálfatjörn en það verður sett á grunn á bak við hlöðuna. Birgir Þórarinsson, hjá Minjafélagi Vatnsleysustrandarhrepps, segir að vegna þess hversu langt er síðan búið var í húsinu hafi því lítið verið breytt að innan. Ætlunin sé að koma þar upp safni þar sem saga hússins verði sögð. Þangað verði til dæmis hægt að fara með börn úr grunnskólum og sýna þeim hvernig skólahald fór fram í upphafi síðustu aldar. Ingibjörg Erlendsdóttir frá Kálfatjörn gaf félaginu ýmsa muni sem tengjast skólahaldi og verða þeir notaðir við uppsetningu sýningar í húsinu.“

Sjá meira um Norðurkot HÉR og HÉR.

Heimildir:
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi, Guðmundur Björgvin Jónsson, útg. 1987, bls. 312-315.
-https://icelandphotogallery.com/project/gamla-skolahusid-i-nordurkoti-fyrir-flutning/

 

Norðurkot

Norðurkoti lyft af grunni sínum og síðan flutt að Kálfatjörn.

Kálfatjörn

Kálfatjörn er bær, kirkjustaður og fyrrum prestsetur á Vatnsleysuströnd á Suðurnesjum. Kirkjan tilheyrir [nú] Tjarnaprestakalli í Kjalarnesprófastsdæmi.

Kálfatjörn

Kálfatjarnarkirkja 2023.

Kálfatjarnarkirkja er sóknarkirkja Vogabúa. Núverandi kirkjubygging var vígð þann 13.júní árið 1893 og var ein stærsta sveitakirkja á landinu en hún rúmaði öll sóknarbörnin í einu. Umhverfi hennar á sér merka sögu en hlaðan Skjaldbreið sem hlaðin var snemma á 19.öld stendur á hlaðinu við kirkjuna. Kirkjan þykir mikil völundarsmíð en Guðmundur Jakobsson húsasmíðameistari (1860-1933) var forsmiður og Þorkell Jónsson bóndi í Móakoti sá um tréverk og útskurð. Nikolaj Sófus Bertelsen (1855-1915) sá um að mála kirkjuna en hann málaði einnig Iðnó og Dómkirkjuna. Altaristaflan er eftirmynd af altaristöflu Dómkirkjunnar, en Sigurður Guðmundsson (1833-1874) málaði hana árið 1866. Hún sýnir upprisuna. Talið er að kirkja hafi verið á Kálfatjörn frá upphafi en Kálfatjarnarkirkja er talin upp í kirknatali Páls biskups frá 1200. Kirkjan er friðuð.

Guðmundur Björgvin Jónsson fjallaði um Kálfatjörn í bók sinni „Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi„:
Kálfatjörn„Um kirkjustaðinn Kálfatjörn hefur mikið og margt verið rætt og ritað og þá gjaman í samhengi, kirkjan og ábúandi kirkjujarðarinnar, enda vandi að skipta ritefninu í tvo flokka, um það andlega og veraldlega, án þess að binda það hvort við annað. Pó mun hér reynt að sneiða hjá því andlega og koma að því síðar.
Síðasti prestur og jafnframt bóndi á Kálfatjörn var séra Árni Þorsteinsson frá Úthlíð í Biskupstungum.
KálfatjörnKona hans var Ingibjörg Valgerður Sigurðardóttir. Tók séra Árni við búinu og embættinu af séra Stefáni Thorarensen og konu hans, Steinunni Járngerði Sigurðardóttur. Árni stundaði útgerð og landnytjar, auk þess að vera prestur og barnakennari í nokkrum tilvikum. Hann var áhugasamur um unglingafræðslu svo sem fyrirrennari hans. Utan þess hafði hann mikinn og virkan áhuga á héraðsmálum. Hann mun hafa verið fyrstur manna hér í hreppi sem sá þörf á því að bændur gerðu með sér samtök um mjólkursölu, þó ekki kæmist það í framkvæmd fyrr en ári eftir andlát hans, eða árið 1920.
KálfatjörnUm séra Árna Þorsteinsson og það heimili segir Erlendsína Helgadóttir, sem þá var unglingur í Litlabæ: „Prestshjónin voru greiðasöm og alþýðleg og vildu öllum gott gera. Séra Árna þótti sjálfsagt, að ef ekki væri skírt í kirkju að, skírn færi fram þar sem móðirin átti heima, þó léleg væru oft húsakynnin. En til vom þeir prestar sem gengu ekki inn í hvers manns kot til slíkra athafna. Séra Árni var á undan sinni samtíð í mörgu. Þá þótti það nýlunda, að séra Árni leyfði leiguliðum sínum að auka við nytjalönd sín (færa út), þeim sjálfum til búbóta, en það höfðu þeir ekki þekkt áður.“

Bakki

Bjarg.

„Á mínu heimili“, segir Erlendsína, „var borðað hestakjöt. Hefur sennilega komið þar tvennt til, annarsvegar oft þröngt í búi og hinsvegar að fólkið var að vaxa upp úr miðaldatrúnni og þorði að fara sínar leiðir. En aldrei var móður minni um þessa fæðu og notaði stundum aðstöðu sína til að læða annarskonar kjötbita í súpuna sem hún ætlaði sjálfri sér. Foreldrar mínir höfðu heyrt að presti þætti ekkert athugavert við að neyta hestakjöts og þó hann hefði aldrei borðað það sjálfur, væri hann til með að smakka á þessari áður forboðnu fæðu.

Bakki

Bakki í Kálfatjarnarhverfi 2023.

Því var það einu sinni, þegar hestakjöt var í pottinum heima, að prestshjónunum var boðið í mat sem þau og þáðu, en ekki voru efnin meiri á mínu heimili, né víða annarsstaðar, að hnífapör voru ekki til, en önnur áhöld þóttu ekki viðeigandi í þetta sinn. Svo móðir mín hvíslaði að maddömunni, hvort ekki mætti senda eftir hnífapörum á prestssetrið og var það auðsótt. Þarna var þá borðað hestakjöt og kjötsúpa með, en þá var venjan að sjóða í súpu. Eftir þetta var hestakjöt oft á borðum á prestsetrinu Kálfatjörn.
KálfatjörnEitt sinn er séra Árni kom í húsvitjun að Bjargi, rétt fyrir jól, spyr hann yngri drenginn þar, Ingvar Helgason, hvort hann muni ekki koma í kirkju um jólin, en móðir hans segir að það geti ekki orðið, því hann hafi ekki þann klæðnað sem hægt sé að láta sjá sig í við kirkju. Segir þá Árni: „Ég spái því nú samt að þú komir þangað á jólunum.“ Nokkru seinna, nær jólunum, eru drengnum send ný alföt frá presti og þar með var kirkjuferðinni bjargað.“
Þannig lýsir samtíðarfólkið séra Árna Porsteinssyni, en konu hans, Ingibjörgu, bar minna á, enda nóg að gera á barnmörgu heimili og prestssetri að auki. Börn þeirra hjóna voru: 1) Gróa, 2) Sesselja, f. um 1880, 3) Steinunn Guðrún, f. 1882, 4) Þorsteinn f. 1883, 5) Sigurður f. 1885, 6) Arndís f. 1887, 7) Margrét f. 1889. Einnig ólu þau upp Kristinn Árnason frá Bergskoti, f. 1894.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – sjóbúð við Kálfatjarnarvör fyrrum.

Séra Árni var sjúklingur síðustu árin, þó hann þjónaði fram á andlátsárið. Hann lét, með aðstoð hreppsins, flytja Móakotshúsið og setja það austan við prestshúsið og þar dvaldi hann sjálfur, en lét Kálfatjörn eftir handa leiguliða, tímabundið. Sá er þá kom að Kálfatjörn hét Helgi Jónsson, (síðar oft nefndur Helgi Kálfatjamar, eða Helgi frá Tungu) og mun hann hafa verið þar um 1918-1920. Kona Helga var Friðrika Þorláksdóttir. Helgi var síðast með útgerð í Kotvogi í Höfnum og fórst í eldi ásamt barni sínu, sem hann var að reyna að bjarga þegar Kotvogur brann árið 1939. Dóttir hans er m.a. Sveinbjörg, kona séra Garðars Þorsteinssonar, prests á Kálfatjöm (1932-1966).

KálfatjörnÁrið 1920 fluttu að Kálfatjörn Erlendur Magnússon frá Tíðagerði og kona hans, Kristín Gunnarsdóttir frá Skjaldarkoti. Höfðu þau byrjað búskap í Tíðagerði, foreldrahúsum Erlendar, um 1915 og þar fæddust fimm börn þeirra. Meðan þau bjuggu í Tíðagerði fór Erlendur austur á firði á sumrin í atvinnu og fetaði í fótspor margra Strandaringa, auk þess sem hann stundaði vetrarvertíð heima. Ætla ég að Erlendi hafi fallið betur landbúnaður en sjómennska, enda þótt hann hafi rekið eigin útgerð um tíma, en aflagt hana um 1946.

Kálfatjörn

Kálfatjörn um 1960.

Þó miklu og vel væri stjórnað af þeim Kálfatjarnarhjónum, innan og utan veggja heimilisins, þá munu störf Erlendar í héraðsmálum og félagasamtökum lengst verða minnst. Hann var bæði áhugasamur og úrræðagóður hvort sem var í málum kirkjunnar, hreppsins eða bændastéttarinnar. Þá var hann í mörgum málum fulltrúi sveitar sinnar út í frá og kom þá í hlut húsfreyjunnar, Kristínar, að vera bæði bóndi og bústýra á stóru heimili.

Kirkjuathafnir tengdust heimilinu með margskonar þörfum, enda heimilið rómað fyrir gestrisni og góðar úrlausnir til handa öllum er þangað leituðu. Erlendur keypti Norðurkot (sjá Norðurkot) árið 1934 og bjó þar með fjölskylduna meðan hann byggði upp á Kálfatjörn, það hús sem nú stendur [1967], en gamla húsið var rifið samtímis. Smiður var Gestur Gamalíelsson, húsasmíðameistari frá Hafnarfirði.
KálfatjörnBörn Erlendar og Kristínar eru: 1) Ingibjörg, kennari, býr í Reykjavík, 2) Ólafur, brunaliðsmaður, býr í Reykjavík, 3) Herdís, ógift og barnlaus bústýra á Kálfatjöm, 4) Magnús, ókvæntur og barnlaus, starfar í Hafnarfirði, 5) Gunnar, ókvæntur og barnlaus, bóndi á Kálfatjörn síðan árið 1971. Auk þessara bama ólu þau upp tvö böm: Kristín Kaldal, sem er fæddur þar, og Lindu Rós frá 9 ára aldri.
í Kálfatjarnarlandi er mannvirki nokkurt er heitir Staðarborg. Það er um 3 km frá Kálfatjörn, beint til fjalls að sjá frá kirkjustaðnum. Borgin er hringlaga og hlaðin úr grjóti. Er þessi bygging svo einstök að gerð, að hún er friðlýst frá árinu 1951, samkvæmt lögum um verndun fornminja frá 16. nóv. 1907.“

Heimild:
-https://is.wikipedia.org/wiki/K%C3%A1lfatj%C3%B6rn
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi eftir Guðmund Björgvin Jónsson, útgefið af höfundi 1987.

Staðarborg

Staðarborg.

Norðurkot

Í ferð FERLIRs um Norðurkot sást snáð stílabók fjúka fram og aftur um hlaðið, eins og hún vildi með því vekja athygli á sér. Þegar litið var í bókina kom í ljós handrituð kennsluritgerð, sem Ingibjörg Erlendsdóttir frá Kálfatjörn, hafði skráð sem verkefni í Kennaraskólanum árið 1942. Eftirfarandi er efnið, sem skráð var upp úr bókinni, áður en henni var komið fyrir að nýju í hinu vind- og vatnsumgegna Norðurkoti. Birtist það hér öðrum til fróðleiks, en flest það er þar er skráð er enn í fullu gildi ef vel er að gáð. Hér er um að ræða nokkrar forsendur og grunnreglur barnaskólastarfs.

Ingibjörg Erlendsdóttir
III. b. – Kennaraskólinn

Kennsluritgerð 1942:
Nokkrir meginþættir í stjórn og starfi barnaskóla.

Kálfatjörn

Kálfatjarnarkirkja. Norðurkotshúsið var fært að Kálfatjörn, lengst til vinstri.

Efnisyfirlit:
I.     Inngangur – Um uppeldi.
II.    Tilgangur skóla.
III.   Stjórn skóla.
IV.    Niðurskipan skólastarfs.
V.     Refsingar.
VI.    Kennsla og kennsluaðferðir.
VII.   Námið og gildi þess.
VIII. Kennarinn og hlutverk hans.

I. Inngangur.

Norðurkot

Norðurkotsbrunnur.

Frá aldaöðli hefur mannkynið verið þeim örlögum háð, að fæðast í heiminn, sem ósjálfbjarga börn og þar af leiðandi þurft mikillar hjálpar og umönnunar. Samkvæmt lögmáli lífsins sjálfs er þessi umönnun í té látin af foreldrunum. Dýrin annast afkvæmi sín, hví skyldi maðurinn, miklu fullkomnari vera, ekki gera slíkt hið sama.

Öllum lifandi verum, hversu ófullkomnar sem þær fæðast, er það áskapað að þroskast og ná þeirri fullkomnun, sem þeim er ætluð, samkvæmt lögum náttúrunnar. Þessi þroski er röð af samfeldum breytingum, sem fara fram á ákveðinn hátt og eftir föstum lögum. Við sjáum ekki líkama barnsins vaxa með áberandi rykkjum og við getum ekki stækkað hann eftir eigin geðþótta. Þroskinn er lögmálsbundinn. Hið sanna verður okkur ljóst er við lítum á andlegan þroska.
Þroski mannsins er þó jafnframt bundinn ytri skilyrðum sem eru svo nauðsynleg, að ef þau vantar verður hann enginn, en því betri sem þau eru því betri verður hann.
Barninu er fullkomin nauðsyn að fá að hreyfa sig frjálst og óþvingað. Heilbrigt lítið barn er á sífelldu iði og hreyfingu. Allur þessi fyrirgangur þess, er merki um vöxt þess og þroska. Það getur oft valdið fullorðna fólkinu óþægindum og sumir eru því miður svo heimskir að þvinga barnið til að sitja og standa eins og því þóknast án tillits til eðlis barnsins, þroska þess og getu. Það barn, sem er líkamlega heilbrigt og fær að njóta orku sinnar á eðlilegan hátt, hefur skilyrði til að þroskast eðlilega, á sál og líkama. Sál barnsins iðar í öllum líkama þess. Heilbrigði líkamans er skilyrði fyrir heilbrigði sálarinnar, þroski líkamans skilyrði fyrir þroska sálarinnar.
Leikir eru börnum eðlilegir og nauðsynlegir. Meðal frumstæðra þjóða veitir náttúran sjálf börnunum ótakmörkuð skilyrði til margvíslegra leikja.
Börn menningarþjóðanna eiga margfalt erfiðara uppdráttar að þessu leyti. Leikir barna eru smækkuð mynd af störfum fullorðna fólksins. Í leiknum er best hægt að kynnast eðli barnsins og kynnast lífi þess. Þeir eru þýðingarmeiri þáttur í lífi barnsins, en margur hyggur. Í leiknum er lagður grundvöllurinn að námi barnsins og starfi síðar meir, þar er rakinn áhugi þess, vinnugleði og þolgæði.
Börn vilja rannsaka, athuga og læra sjálf. Aðeins leikurinn getur á fyrsta skeiði ævinnar veitt þeim möguleika til þessa. En einmitt þessir eiginleikar verða síðar aðaluppistaðan í námi þeirra og störfum.
Það þarf margs að gæta í uppeldi barnsins, ef vel á að fara. Það er því engan veginn ábyrgðarlítið starf, sem foreldrunum er á herðar lagt með fæðingu lítils barns í þennan heim.
Uppeldið er sá þáttur mannlífsins sem mest veltur á. Þrátt fyrir ólíkt upplag, allt frá fæðingu og arfgenga eiginleika er það þó uppeldið, sem miklu, ef til vill, mestu varðar um lífskjör mannanna. Meðfætt eðli og uppeldi í sameiningu gera hvern mann
[að því] sem hann verður. Uppeldið á að stuðla að því, að hvert barn verði svo mikill og góður maður, sem framast er unnt.
Heimilið er sú stofnun þjóðfélagsins sem annast uppeldi barnsins fyrstu ár ævinnar. Þar ber að leggja grundvöllinn. Þar er spurningunum svarað, fyrsti leiðbeiningar látnar í té. Áður var heimilið að mestu leyti eitt um uppeldi og fræðslu þá sem barnið hlaut. En þegar farið var að gera meiri kröfur til afkasta einstaklingsins í þjóðfélaginu, fór mönnum brátt að skiljast að heimilið var ekki einfært um uppeldi barnsins, þ.e. það hafði ekki skilyrði til að veita þann undirbúning, sem hinn verðandi maður og þjóðfélagsborgari þurfti að fá.
Heimilið þarfnaðist aðstoðar í starfi sínu. Nýjar stofnanir risu upp er tóku að sér hlutverk heimilanna á því sviði er getu þeirra þraut. Þessar stofnanir eru skólarnir.

II. Tilgangur skóla.

Norðurkot

Norðurkot – uppdráttur ÓSÁ.

Í öllu starfi er best að vita að hvaða marki stefnir, hvers vegna það er unnið og hver er tilgangurinn með því.
Skólar er frá öndverðu stofnanir til hjálpar heimilunum. Starf þeirra er að leiða börnin inn á þær brautir er heimilin síst hafa aðstöðu til, láta þeim í té þá fræðslu er þroski þeirra getur tekið við. Þeir eiga að taka á móti börnum á þeim aldri er lög mæla fyrir að skuli njóta kennslu á slíkum stofnunum. En með öllum menningarþjóðum er nú lögboðið að börn á vissu aldursskeiði skuli ganga í skóla. Það nefnist skólaskylda.
Meginþáttur þess sem skólinn lætur nemendunum í té er þekking. Barnafræðslan verður þó fremur að teljast lykill að þekkingunni um þekkinguna sjálfa. Hún er grundvöllur þeirrar þekkingar sem hver einstaklingur síðar kann að afla sér.
Tökum t.d. lestarkunnáttuna. Hún veitir aðgang að þekkingu og lærdómi gegnum bækur. Hún er sá grundvöllur er byggja má á. Þessi grundvöllur er þó ekki einhlýtur, til þess að geta lifað lýtilegu lífi og koma fram sem siðuðum manni sæmir. Mönnum verðir oft um of starsýnt á þekkinguna eins og hún væri eina menntunin og allt með henni fengið. Þekkinguna má nota jafnt til ills og góðs (kunnáttan er eins og tvíeggjað sverð sem nota má til gagns eða tjóns). Vel læst barn getur notað kunnáttu sína til að lesa spillandi bækur jafnt sem góðar.
Hlutverk skólanna er að beina huga nemendanna á hollar og góðar brautir. Þeir eiga að leita uppi hvern góðan neista í sál barnsins og glæða hann sem best, veita starfskröftum þeirra í þroskandi farvegi, æfa það í sjálfsstjórn, vekja hjá því hjálpfýsi og bróðurhug, og hvetja til hugsunar og framkvæmda.
Þroski og þekking er sitthvað. Þekking er skilyrði til að geta afkastað einhverju. Þroskinn er skilyrði til þess að vinna það vel, sem þekkingin veitir möguleika til að vinna. Enginn getur gefið öðrum þroska. Þroskinn er lögmálsbundinn og kemur innanað, frá einstaklingnum sjálfum. Hann er sá gróður lífsins er hver maður á í sér fólginn. Að þroska aðra er ekki hægt, en það er hægt að glæða þroskann. Það er hlutverk skólanna.
Skólarnir eiga að skapa vaxtarskilyrði fyrir þroska nemendanna, alhliða þroska þekkingar og siðgæðis. Það á [ ]líf þeirra að mótast og þroskast, andlegur sjóndeildarhringur þeirra að víkka.
Skólarnir eru ekki reknir vegna einstaklinganna eingöngu, heldur og vegna heildarinnar. Þjóðfélaginu er það hinn mesti hagur að hver maður verði eins mikill og góður og honum er áskapað að verða.
Það er því tilgangur og höfuðmarkmið hvers skóla að búa nemendurna sem best undir þau störf er lífið síðar meir kann að leggja þeim á herðar. Veita undirbúning undir þann skóla, en stundum alla ævi, skóla lífsins. Enginn veit hve miklu sá undirbúningur veldur um árangur allrar þeirra skólagöngu.

III. Stjórn skóla.

Tíðagerði

Tíðagerði og Norðurkot – uppdráttur ÓSÁ.

Góð stjórn er meginskilyrði hvers skóla. Hún veldur mestu um uppeldisáhrif skólans, auk þess sem hætt er við að mikið af því sem kennarinn segir börnunum, fari fram hjá þeim, ef ekki tekst að beina eftirtekt þeirra að umræðuefninu.
Til þess að halda uppi stjórn er nauðsynlegt að hafa ákveðnar reglur til að styðjast við. Kennari verður því í upphafi að setja reglur um það, sem hann þykir máli skipta og hann hyggst koma í framkvæmd í starfi sínu. best er að þær séu fáar, skýrar, en réttlátar og settar með heill nemendanna fyrir augum. Ekki skulu þær skráðar í lagaformi, með hótun um refsingu ef útaf er brugðið en umbuna að öðrum kosti. Sú stjórn er best sem minnst ber á. Ofstjórn er ill stjórn.
Kennari verður að hugsa ráð sitt vel og velja þær reglur einar er hann telur nauðsynlegar og hollar og treystir sér að fylgja fram. Síðan verða þær að koma fram í starfi hans með festu og samkvæmni.
Þess verður að gæta að börnin hlýði þeim reglum sem settar eru. Eftirgjöf á slíku er skaðleg og veikir viljann.
Barnið verður að læra að hlýða, bæði sjálfs síns vegna og annarra. Það á eftir að reyna ýmislegt í lífinu, sem það verður að beygja sig fyrir og því er gott að það venjist snemma á að hlýða. Auk þess sem brýna nauðsyn ber til að krefjast hlýðni í skólastarfinu. Barninu mun finnast eðlilegt að hlýða, aðeins ef fyrirmælin séu gefin á réttan hátt og á réttu augnabliki. Barninu er eðlilegt að leita stuðnings hjá þeim sterkari. Því myndi finnast það áttavilt og ruglað ef því væri ekki að einhverju leyti stjórnað eftir föstum reglum.
En kennarinn verður ávallt að gera sér ljóst hvers vegna hann krefst hlýðni af barninu. Það dugar ekki að krefjast hlýðni af barni aðeins af gömlum vana eða duttlungum kennarans. Með slíkri framkomu er ekki að vænta mikils árangurs þegar nauðsyn krefur.
Til eru þrjár leiðir til stjórnar nemendunum, en ekki eru þær allar jafn gæfuríkar og verður hver kennari að gera sér ljósa kosti þeirra og lesti.
Til er sú leið að segja: “Þú skalt” og standa síðan uppi í hárinu á þeim sem óhlýðnast og óskapast yfir slæmu uppeldi og illu innræti. Með slíkri framkomu, sem sýnir lítinn skilning á eðli barnsins, er tekin sú stefna, sem hlýtur að leiða til glötunar, því að hún drepur viljann, sljóvgar hugsunina og vekur mótþróa.
Önnur leið er sú að láta barnið haga sér eins og því sýnist og skipta sér ekkert af því. Þessi aðferð er fráleit. Því til hvers er barnið komið í skólann og hvert er hlutverk kennarans?
Þá er þriðja leiðin, sú sem uppeldis- og sálfræðingar telja besta og brjóstvit og þekking kennarans rökstyður. Hún er sú að kennarinn leiðir barnið og hjálpar því. Hann leitast við, með starfi sínu, að koma því í skilning um réttlæti þeirra reglna, sem settar eru, gildi þeirra og að nauðsyn beri til að fylgja þeim.
Kennarinn veit að barnið á ótamda krafta, sem þarfnast útrásar. það hefur ekki þorska né skilning til að leiða þessa krafta fram á réttan hátt. Því brjótast þeir út í óþekkt. Hann leitast því við að leiða það á réttar brautir, veita framtakslöngun þess útrás á heppilegan hátt, og veita kröftum þess næg og hentug viðfangsefni.
Ekki er öllum kennurum jafnsýnt um að skapa hlýðni og góðan aga, innan skóla síns. Virðist í fljótu bragði sem sumum kennurum sé gefið dularfullt vald eða töfrasproti, er þeir geti brugðið á loft með þeim árangri að nemendur þeirra vaka yfir hverri bendingu frá þeim til þess að geta fylgt henni. Slíkir kennarar eru öfundverðir. En ef til vill eiga þeir að baki sér erfiða baráttu.
Kennari verður margs að gæta áður en hann kemur fram fyrir nemendur sína í fyrsta sinn og hann verður alltaf að vanda framkomu sína í viðurvist barnanna. Hann verður að vera sú fyrirmynd er þau vilja líkast, sá foringi er þau geta treyst. Takist kennaranum að ná virðingu barnanna og tiltrú er auðvelt fyrir hann að skapa innan skólans þann anda, sem æskilegt er að þar ríki, og sem getur orðið börnunum hollur förunautur á lífsleiðinni. Þá er auðvelt að fá börnin til að haga sér samkvæmt settum reglum af fúsum vilja. En það er einmitt það sem keppa ber að, að skapa innan skólans fastar venjur, sem ekki kostar sífelldrar baráttu að halda uppi.

IV. Niðurskipun skólastarfs.

Norðurkot

Norðurkot.

“Reglusemin stjórnar heiminum”. Þessi orð mætti með réttu heimfæra upp á skólana. Kennari verður í upphafi að ákveða niðurröðun kennslustunda og námsefni. Kennarinn þarf að vera börnunum til fyrirmyndar í allri reglusemi, annars getur hann ekki með réttu krafist hennar af þeim. Stundvísi er eitt af því sem hverjum kennara ber að temja sér og krefjast af nemendum sínum.
Börnin eiga að ganga stillt og skipulega inn í kennslu og að sætum sínum, þegar kennarinn gefur merki. Þau eiga að hafa sitt ákveðna sæti allan veturinn og ber kennara strax á haustin að sjá um að þau fái hentug sæti. Þau börn sem eru lægst vexti ættu að sitja framar en hin stærri aftar til að fyrirbyggja að þau skyggi á. Þá er nauðsynlegt að þau börn sitji framarlega, sem hafa slæma sjón eða heyrn.
Nauðsyn er að venja börn á reglusemi með áhöld sín og bækur, “hver hlutur á sínum stað og staður fyrir hvern hlut”, er regla, sem fylgja ber í skólastarfinu.
Fullkomin stjórn í kennslustund er skilyrði fyrir því að hún komi að notum. Takist ekki að halda eftirtekt barnanna vakandi er tímanum varið ver en til einskis. Kennarinn verður að vera vakandi í starfi sínu, annars gæti hann óafvitandi stofnað til ástands, sem væri miður æskilegt. Augu og eyru þarf hann að hafa allstaðar og vera viðbragðsfljótur og hittinn að finna einhverja brellu til að vekja eftirtekt barnanna ef hún er farin að dofna.
Best er að kennari venji sig á að vera viðmótsþýður og alúðlegur, en komi samt alltaf fram eins og honum er eðlilegt. Öll stæling fer illa, hánotaðar fjaðrir vilja fjúka og hætt er við að gríman gleymist einhvern tímann, svo að hið rétta andlit komi í ljós.
Kennari þarf að venja sig á að tala í þeim rómi er hann finnur að hafi best áhrif á börnin og honum er tamast að beita, án allrar tilgerðar.
Kennari sem hefur fullt vald yfir nemendum sínum og finnur að hann nær tökum á viðfangsefni sínu getur vonglaður haldið áfram því starfi er hann hefur valdið sér, í trú á góðan árangur.
Enginn má missa þolinmæðina þótt ekki gangi allt að óskum fyrst í stað. Þá er að leta fyrir sér í hverju mistökin liggja og gera nýja tilraun. “Aðeins mikil áreynsla skapar stóra sál”.
Aldrei má kennari þó nota börnin sem “tilraunadýr”. Börnin eru viðkvæmir einstaklingar og sá kennari sem finnur að hann veldur ekki viðfangefni sínu ætti að hætta þegar í stað og hefja starf á öðru sviði (“ef þú getur ekki spennt bogann er hann ekki þinn”).

V. Refsingar.

Auðnar

Auðnar, Höfði, bergskot, Landakot, Hellukot, Þórustaðir, Norðurkot og Tíðagerði – túnakort 1919.

Refsingar hafa lengi verið álitnar nauðsynlegar til þess að halda uppi stjórn ís kólum. refsingar eiga að koma í veg fyrir brot á reglum séu endurtekin, kenna börnum stjórn á sjálfum sér og venja þau af ósiðum.
Allir eru sammála um að kennari beri siðferðileg og uppeldisleg skylda til að refsa barni, ef hann álítur þess brýna nauðsyn og að þessi refsing geti orðið barninu til góðs. En þá vaknar spurningar: Hvaða refsingar hafa mest uppeldisgildi? Með hverju, fyrir hvað og hvernig og hvenær á að refsa?
Þessar spurningar hljóta að valda hverjum góðum og samviskusömum kennara mikillar umhugsunar.
Eigi refsingar að hafa betrandi áhrif á barn, – sem er tilgangurinn, verður hún að vera þannig að barninu finnist, að þetta eigi það skilið. Tilfinning barnsins fyrir réttu og röngu er furðu næm. Barn á skólaaldri á að geta gert sér grein fyrir sambandi orsaka og afleiðinga. Fyrsta skilyrði þess að refsing komi að notum er, að hún sé bein afleiðing af broti barnsins eða yfirsjón. Kennarinn má aldrei refsa í bræði eða reiði, en með festu og alvöru. Hefnigirni eða persónuleg móðgun má aldrei koma fram í afstöðu kennarans til barnsins. Refsingin er neyðarúræði er kennarinn grípur til ef hann sér siðferðilegri velferð barnsins það fyrir bestu.
Áður en kennari refsar verður hann að gera sér fulla grein fyrir hvort ástæða sé til slíkra aðgerða, og hvaða aðferð skuli beitt. Kemur þá til greina skapgerð barnsins og þroski þess. Undir hvaða atvikum brotið er framið og hvaða orsakir liggja til þess. Fullan mun verður kennari að gera á þeim yfirsjónum sem framdar eru af hugsunarleysi eða fyrir áhrif og eggjan annarra og þeim sem barn fremur að yfirlögðu ráði. hann verður að reyna að skilja orsakirnar og er þá athugun á sálarlífi barnsins nauðsynleg.
Þá kemur spurningin: Hvaða refsingar hafa mest uppeldisleg gildi? Franskur uppeldisfræðingur hefur sagt: “Kjarni refsingarinnar er ávítunin. Að refsa er að ávíta, og besta hegningin er sú, sem lætur í ljósi á skýrastan og hagkvæmastan hátt, ávíturnar sem refsing felur í sér”.
Kjarni refsingarinnar er því ávítunin, en barnið verður að viðurkenna réttmæti þessarar ávítunar ef hún á að hrífa. Ávítunin verður að vekja samvisku barnsins, vekja hjá því löngun til að bæta fyrir brot sitt og styrkja vilja þess til að bæta sig. Þetta eru skilyrði fyrir því að ávítunin missi ekki marks.
Gamall málsháttur segir: “Enginn verður óbarinn biskup”. Væri er ekki eins hægt að snúa honum við og segja: “Enginn verður barinn til biskups”. Það er glæpur að refsa barni fyrir ósjálfráðan veikleika og vangetu. Slík börn þarfnast öllu fremur sterkrar en mildrar handleiðslu og leiðsagnar.
Forðast skal refsingar eins og hægt er. Það er vandi að beita þeim þannig að þær komi að tilætluðum notum. Þær geta í meðferð kennarans, sem hefur litla æfingu í sjálfsstjórn og ónóga þekkingu á sálarlífi barnsins, haft þveröfug áhrif við það sem þeim ber að hafa. Þær geta þá vakið hjá barninu þrjósku og löngun til að hefna sín á þeim sem það finnst hafa beitt sig órétti.
Best er að geta stjórnað þannig að aldrei þyrfti að koma til refsinga. Allar refsingar verða því áhrifaminni sem þeim er oftar beitt. Ætti það einnig að styðja þá skoðun að refsingin á aldrei að vera annað en örþrifaráð, sem grípa verður til þegar önnur uppeldisráð duga ekki, eða barn hefur gert sig brotlegt í yfirsjón og skaðleg stjórn og starfi skólans.
Framkoma kennarans, persónuleiki og samstarf hans og barnanna, er það sem mestu máli skiptir í stjórn skólans. Hátterni hans allt, persónuleiki, hreimur raddarinnar og það hversu hann snýst við þeirra vandamálum er að steðja markar dýpstu áhrifin á sálarlíf barnsins og veldur mestu um framkomu þess.
Rannsóknir hafa leitt í ljós að áhrif ávítanna hafa neikvæð áhrif, þar sem áhrif viðurkenninga eru jákvæð.
Kennari á því að vera örari á lof en löst. Það vekur allan metnað. Uppörvunin leysir úr læðingi nýja krafta, en sífelld aðfinnsla lamar.
“Leyndardómur uppeldisins er fólginn í lotningu fyrir barnseðlinu”.

VI. Kennsla og kennsluaðferðir.

Norðurkot

Norðurkot – Norðurkotsskóli.

Umgerðin að skólastarfinu er lögð með lögum og reglum stjórnvalda. Þessi lög leggja skólum að nokkru starfsáætlun. Þau ákveða aldurstakmark barna, hvert ber að komast í hverri námsgrein áður en lokið er fullnaðarprófi og hvaða námsgreinar skulu kenndar. Þessi lög verður kennari að kynna sér áður en hann hefur starfs sitt.
Kennara er samt sem áður nauðsynlegt að leggja niður fyrir sér að hvaða marki hann ætlar að keppa og hvernig hann hyggst ná því.
Verkefni kennslunnar á að verða “að skipa í röð skynáhrifum allt frá þeim einföldustu til hinna samsettu”. Þannig að á hverjum tíma sé samræmi milli áhrifanna og þroskastigs barnsins.
Grundvöllur allrar þekkingar, er það sem maðurinn sjálfur og hugurinn finnur, þ.e. allar skynleiðir hans, “kenndir vorar eru steinarnir í heimsmynd vorri”.
Til að taka tillit til alls þess í kennslunni voru tekin upp átthagafræðileg vinnubrögð í skólunum. Þar er gengið út frá því þekkta til hins óþekkta. Byrjað í heimahögunum og haldið lengra út. Hið óþekkta ávallt borið saman við hið þekkta.
Kennslan á að byrja á því létta og halda til þess sem þyngra er. Hún á að miðast við það að vekja börnin til umhugsunar, glæða hæfileka þeirra og löngun til að afla sér þekkingar. Börnin eiga innibyrgða krafta. Það er hlutverk kennslunnar að glæða starfshvötina, gefa börnum tækifæri til að láta hönd og auga vinna með huganum. Kenna börnunum að starfa sem mest að því sjálft að afla sér þekkingar og kunnáttu, til þess að gera þau sem mest sjálfbjarga einstaklinga. Sú regla að börnin eigi sem mest að starfa að náminu sjálf, byggist á því lögmáli náttúrunnar, að framför og þroski næst ekki nema með því að beita kröftunum. Enginn getur gefið öðrum þroska. Þekkingin verður einnig að byggjast á því sem fyrir er. Sú þekking er haldbetri og minnistæðari en einstaklingurinn aflar sér með fyrirhöfn, en sú er hann þiggur fyrirhafnarlaust.
Kennsluaðferðir eru með mörgu móti og verður hver kennari að finna sér út að nokkru leyti sjálfur þá aðferð er honum tekst best að nota. Einn getur komið með aðferðir, sem honum gefst vel, en þegar annar ætlar að fara að nota þá sömu aðferð, getur allt farið í handarskolum. Einstaklingarnir eru svo ólíkur að þeir geta ekki allir notað sömu aðferðir og verða því að skapa sér þá aðferð er best hæfir einstaklingseðli þeirra. Ekki hæfir heldur sama aðferð öllum námsgreinunum.
Ein er sú aðferð er mikið er notuð í kennslu eldri barna, en það er frásögn. Til þess að þessi aðferð beri árangur þarf kennarinn að kunna vel að segja frá, svo a’ börnin hafi ánægju af og fylgist með af lífi og sál. Frásögnin þarf að vera sýr og greinileg og svo lifandi að börnunum finnist þau sjá og heyra þá atburði er frá er sagt. Aðferð þessi getur orðið þreytandi til lengdar og er því ekki rétt að beita henni lengi í einu. Gott er að flétta spurningar inn í frásögnina til að halda eftirtekt barnanna betur vakandi og tryggja sér að frásögnin nái hugarheimi þeirra. Aðferð þessi ber því aðeins árangur að kennarinn kunni vel að segja frá og á því máli er nær best til skilnings barnanna. Allir barnakennarar ættu að temja sér þá list.
Í sumum námsgreinum er nauðsynlegt að beita sýnikennslu, eins og t.d. undirstöðuatriðum reiknings, skrift, teikningu o.fl. Myndir og áhöld eru nauðsynleg tæki í kennslustarfinu.
Spurningar eru nauðsynlegur þáttur í kennslu og námi. Þeim er beitt til að kanna þekkingu barna og glöggva skilning þeirra og ályktunargáfu. Þær þurfa að vera skýrar og beinar, svo að börnin séu ekki í vafa um, við hvað er átt. Kennarar ættu að varast að spyrja “já” og “nei”, spurninga.

VII. Námið og gildi þess.

Norðurkot

Norðurkot.

Börnin koma í skólann til að nema. Eitt meginatriði í kennslu barna er það að gera námið skemmtilegt. Börnin eru skylduð til að vera í skólanum. Þau hafa því að öðru jöfnu minni áhuga fyrir náminu en þeir nemendur, sem fara í skólann af fúsum vilja. Auk þess eru þau óþroskaðri en aðrir nemendur og áhugasvið þeirra oft fjarri skólanum.
Kennarinn verður því að gera þeim skólavinnuna sem skemmtilegasta og aðgengilegasta. Starf, sem unnið er af litlum áhuga eða engum hefur minni árangur, en það sem unnið er af áhuga og ánægju.
Ekki má þó gera námið alveg erfiðleikalaust. Það á ekki að vera alvörulaus leikur heldur skemmtilegt, en þó alvarlegt starf. Fyrsta skylda kennarans er að vera skemmtilegur í starfi sínu. Það er oft erfitt en á því byggist að námið verði aðgengilegt og veki áhuga og ánægju hjá börnunum.
Sú aðferð hefur mjög tíðkast í skólastarfinu að leggja áherslu á að efnið sem numið er, sé munað sem nákvæmast og því sé skilað sem líkustu því er í bókinni stendur. Hitt lagði skólinn minni áherslu á hvort nemendurnir skyldu það efni sem munað var. Hvort þeir skyldu samhengið milli orsaka og afleiðinga og annað sem fyrir kom. Í þessu efni var þululærdómurinn kunnastur. Það er hægt að læra utanað ýmislegt það, sem orkar á fegurðarsmekk og tilfinningarnar, en án þess að efni hins lærða sé skilið, t.d. vísur.

Gildi utanbókarlærdómsins má þó ekki fordæma með öllu. Í sumum námsgreinum er hann nauðsynlegur. Kvæði verður að læra utanað, ártöl þarf að muna, ýmislegt úr landafræði og reglur í reikningi. Í reikningi á sér oft stað minni án skilnings og hefur gildi.
Efni sem skilið er hefur þó margfalt meira gildi en minnisnámið eitt. Skilningurinn getur oft komið til sögunnar þó að minnið bili og rifjað upp það sem annars hefði glatast.
Skilningurinn vekur hugsun, opnar útsýn og gefur margfalt betri árangur. Ártöl sögunnar eru lítils virði ef ekkert atriði er til að skýra í sambandi við þau. Skilningur og minni þurfa ávallt haldast í hendur) að fara saman ef góður árangur á að nást.
Talað er um tvenns konar gildi námsins; menningarlegt gildi og hagnýtt gildi. menningarlegt gildi náms glæðir og eflir vitsmunina, skerpir viljann og gerir manninn að siðmenntaðri manni. Hagnýtt gildi hefur nám að því leyti að það á að gera einstaklinginn færari í lífsbaráttunni, veita honum skilyrði til betri afkomu.
Allar námsgreinar ber að kenna með þetta tvennt fyrir augum. Engin námsgrein hefur svo mikið menningargildi í sér, að það geti ekki farist í meðferð lélegs kennara. Allar námsgreinar hafa mikið gildi, séu þær kenndar með menningarleg og hagnýt sjónarmið fyrir augum. Skólanám á að auka manngildi nemandans og hæfi hans til að lifa lífinu og vinna störf sín vel og einlæglega.

VIII. Kennarinn og hlutverk hans.

Norðurkot

Norðurkot – sjóhús.

“Kenn þeim unga þann veg sem hann á að ganga og þegar hann eldist mun hann ekki ef honum beygja”.
Þessi orð eru ekki sögð út í bláinn, því ef svo væri hefðu þau ekki staðist próf þeirra alda, sem liðin eru síðan þau voru sögð. Svo mikið hefur það að segja að vandað sé til þess vegarnestis sem barnið fær með sér út í lífið að undir því er kominn lífshamingja manna allt til elliára.
“Af því læra börnin málið að það sé fyrir þeim haft”. Það er á valdi hinna fullorðnu, hvernig það mál er, hvernig þær venjur eru, sem barnið á við að búa, hvernig sá andi er sem umhverfis það ríkir.
“Æskan er á öllum tímum það akurlendi mannlífsins sem besta umönnun þarfnast”.
Allur gróður þarfnast umhirðu og nærgætni, einkum sá sem er ungur og veikbyggður. Þetta vita garðyrkjumennirnir og breyta samkvæmt því.
Kennararnir eru garðyrkjumenn á akri mannlífsins. Þeir eiga að vernda gróður mannlífsins og hlúa að honum á viðkvæmasta skeiði ævinnar. Þeir eiga að búa barnsálirnar undir lífið og gróðursetja fræin, sem framtíð þjóðarinnar sprettur upp af.
Þeir eiga að vekja til lífsins hæfileika barnanna og blundandi krafta og beina þeim í rétta átt.
Á kennurunum hvíla miklar skyldur gagnvart börnunum. Meðan barnið dvelur í skólanum hefur kennarinn mikil áhrif á uppeldi þess. Sá kennari, sem hefur sama barnið undir höndum í marga vetur á áður en yfir lýkur, mikil ítök í huga þess.
Kennurum ber skylda til að rækja starf sitt af bestu getu, skyldu við þjóð sína, nemendur sína og samvisku sína.
Kennari, sem veit hlutverk sitt, gerir sér ljóst að það er mikilvægt ábyrgðarstarf. Hann leitast við að gera sér grein fyrir þroskaferli barnsins og miðar störf sín á hverjum tíma við að getu nemenda sinna. (Hann veit að hann þarf að þekkja þau vel og kynnast einstaklingseðli þeirra hvers fyrir sig).
Kennarinn þarf að þekkja börnin vel. Hann þarf að þekkja einstaklingseðli hvers barns er hann hefur undir höndum. “Það er kennarans sök ef barnið lærir ekki”, sagði [Gormenins]. Kennarinn verður að gera sér ljóst hvers hægt er að krefjast af barninu og haga starfi sínu eftir því.
Góður kennari setur sér það takmark að leiða nemendur sína á rétta braut. Vekja áhuga þeirra, starfslöngun, vilja og manndóm, vekja þá til umhugsunar og leitast við að benda þeim á hið góða og fagra í lífinu. Sá kennari, sem getur skilið við börn sín ánægð, og sjálfur ánægður yfir vel unnu starfi, hann má vita að hann hefur unnið landi sínu og þjóð gæfuríkt starf.

Heimildarrit:
-Uppeldismál eftir Magnús Helgason,
-Þroskaliðinn eftir S. Jóhann Ágústsson,
-Fyrirlestar Hallgríms Jónassonar í Kennaraskólanum.

 ÓSÁ skrifaði upp.

Norðurkot

Norðurkoti lyft af grunni sínum og síðan flutt að Kálfatjörn.

Fuglavík

Farið var að Bjargarhúsum þar sem Sigurður Eiríksson frá Norðurkoti tók vinsamlega á móti FERLIRsfélögum.

Sigurður Eiríksson

Sigurður Krsitinn Eiríksson

Sigurður bauð þeim inn og upp á kaffi og meðlæti. Meðlætið kryddaði hann með fróðleik – og það miklum. Hann benti á Helluhúsið (Bjarghús) og Rafnklesstaðabátinn er hvorutveggja standa ofan við hlýlegan bústað hans austan við þjóðveginn milli Sandgerðis og Stafness, gegnt Norðurkoti. Helluhúsið er lítið, en einstakt hús, hlaðið af Einari Gestssyni úr jafnþykkum hellum er reistar hafa verið upp á rönd og steypt á milli. Húsið er ágætur vitnisburður um vilja byggjandans til að reyna lóðrétta notkun steinhellna í stað láréttar, eins og þá hafði tíðkast frá upphafi Íslandsbyggðar. Væntanlega hefur þurft kjark og krafta til slíkra hluta í þá daga þegar sérhver sá er gerði hlutina með óhefðbundunum hætti gæti auðveldlega átt það á hættu að verða álitin skrýtinn. Báturinn er eftirlíking af hinum merka Rafnskelsstaðabáti, sem Sigurði er einum lagið við að lýsa.

Bjarghús

Brunnlokið.

 Við Bjarghús má einnig sjá brunnlok úr hraunhellu. Á það er klappað gat og í því handmótaður steintappi, einnig eftir Einar Gestsson.
Frá Sigurði var haldið að Fuglavík þar sen Nína Bergmann og bræðurnir frá Nesjum, Magnús og Sigurbjörn Stefánssynir, tóku vinalega á móti hópnum. Tilefni ferðarinnar var m.a. að leita að ártalssteini, sem vera átti skv. gömlum sögnum í fornum yfirbyggðum brunni við Fuglavík, en átti að hafaverið færður til og settur í stéttina framan við gamla bæinn þar sem íbúðarhúsið stendur nú. Steinn þessi átti að bera ártalið 1538.

Fuglavík

Fuglavík og Norðurkot neðst t.h.

Útlendur maður, Pípin að nafni, hafði klappað ártalið í steininn, en þá var steinninn í brunni bæjarins, sem fyrr sagði, en var síðan færður í stéttina skv. sömu heimild. Getið er um steininn í Árbók Hins ísl. Fornleifafélags frá árinu 1903 eftir að Brynjúlfur Jónsson hafði farið um svæðið og fengið spurnir af steininum. Hann ritaði um hann og fleira markvert á Suðurnesjum í nefnt ársrit.
Fuglavíkurfólkið sýndi hópnum gömul lóð frá konungsversluninni, sem fundist höfðu eftir að Sigurður í Norðurkoti hafði farið að minna á FERLIRsheimsóknina fyrir skemmstu þegar hin fyrri tilraun var gerð til að hafa uppi á ártalssteininum, en án árangurs. Á lóðunum eru greinileg merki Kristjáns V. sem og þyngdareining í LBs-um. Sennilega er þarna um merkan fund að ræða.

Fuglavík

Fuglavíkursteinninn í stéttinni – 1581.

Til að gera langa sögu stutta hafði ártalssteinninn fundist á hlaðinu. Nína hafði af tilviljun verið að ganga um hlaðið og þá rekið tærnarí steininn, af einskærri tilviljun eftir að farið var að tala um hann. Ártalið 1580 er á honum, en þó er aftasti tölustafurinn orðinn nokkuð óskýr. Steinninn er á þeim stað þar sem ekið er heim að nýja húsinu og hafði verið færður í kaf með ofaníburði. Um er að ræða elsta ártalsstein á Reykjanesi, sem heimildir eru um og enn hefur fundist.
Eftir að hafa skoðað og myndað steininn fylgdi Sigurður FERLIRshópnum síðan um Fuglavíkurveg og inn um gat á Varnargirðingunni. Ætlunin var að leita hugsanlegra tófta undir hinu forvitnilega nafni Selhólar.

Fuglavík

Fuglavíkurleiðin gengin.

Gengið var framhjá Selhólavörðunni, sem er gömul hlaðin varða á fiskimið. Þegar haldið var þaðan til austurs var gengið fram á tóftir undir nefndum Selhólum. Um er að ræða gamalt sel undir holti, en enn austar fannst gömul fjárborg, stór og vel gróin. Utan í henni eru tóftir. Var hún formlega nefnd Fuglavíkurborgin því hún er í landi Fuglavíkur. Hvorki Sigurður né Fuglavíkurfólkið, sem einnig var með í för, hafði áður séð þessa fjárborg og hafði það þó farið þarna um áður en varnargirðingin kom til. Hnit hennar eru færð inn á fjárborgaryfirlitið. Dimm þoka grúfði yfir svæðinu er varði hún leiðangursfólkið fyrir ásýnd Varnarliðsins.

Fuglavíkurleið

Gengin Fuglavíkurleið.

Þá var haldið til baka og í kaffiveitingar í Fuglavík þar sem veitt var af kostgæfni. Fuglavíkurfólkið var síðan hvatt með fyrirheit um að koma nú fljótt aftur í heimsókn því enn væru eftir óskoðaðar minjar, m.a. í Másbúðar

hólma (sjá FERLIR-203) þar sem fyrir er letur og ártöl á klöppum frá árinu 1696, en ekki er að sjá að áður hafi verið ritað um það eða þetta skráð. Út í Másbúðarhólmann hefur verið hlaðin brú svo hægt hafi verið að ganga út í hann þurrum fótum á flóði. Enn má sjá móta fyrir henni.

Bjarghús

Bjarghús. Rafnkelsstaðabáturinn fremst.

Í bakaleiðinni var gamli vegurinn, sem liggja átti yfir heiðina sunnan Melabergs, skoðaður, en hætt var við hann af einhverjum ástæðum. Vegurinn átti að vera það breiður að tveir hestvagnar gætu mæst á honum, en það þótti nýlunda í þá daga. Enn má sjá móta fyrir veginum norðan nýja vegarins að Hvalsnes. Þá var genginn Melabergsvegur til austurs og beygt af honum til suðurs að Melabergsborg. Borgin er greinileg og stendur á klapparhól. Allnokkuð er fokið yfir borgina, enda mikil gróðureyðing allt um kring.
Veður var með ágætum – hlýtt og stillt. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Bjarghús

Bjarghús.

Sigurður K. Eiríksson, bóndi í Norðurkoti í Fuglavíkurhverfi utan við Sandgerði á utanverðum Reykjanesskaganum, er á níræðisaldri. Honum er ýmislegt til lista lagt.
Siggi-2Auk þess að verja æðarvarpið fyrir varginum með nýstárlegum aðferðum hefur hann m.a. dundað sér við að tálga eftirmyndir af fuglum í smækkaðri mynd. Þó hafa a.m.k. tvö verka hans fengið að njóta stærðarinnar, en það eru geirfuglar, sem hann hefur unnið nokkuð nákvæmar eftirmyndir af. Hafði hann m.a. geirfuglseintakið fræga á Náttúrufræðisafninu sem fyrirmynd.
„Fuglar náttúrunnar hafa verið mér hugleiknir, allt frá því að ég  var barn“, sagði Sigurður þegar hann var spurður um þennan áhuga á fuglum, „geirfuglinn sem mennirnir náðu reyndar að gera aldauðan hér ekki langt undan, er einn af þeim. Geirfuglinn er nú minnisvarði um hvernig á ekki að standa að verki þegar náttúran og lifandi verur eru annars vegar“.

Siggi-3

Þegar Sigurður var spurður að því hvernig honum litist á að sýna fuglana svaraði hann: „Æi, verður þetta þá bara ekki eins og vitlausa umfjöllunin um hina geirfuglana tvo, listaverkin úti á Reykjanesi og úti við Skildingarnes. En hvernig er svo sem hægt að gera eftirmyndir af fugli öðruvísi en hann er, eða var í þessu tilviki?“
Sigurður er jafnvígur á tré og járn svo það er fátt sem hann getur ekki búið til. Ef fólk á erindi um Stafnesveginn milli Sandgerðis og Ósabotna er tilvalið að sækja Sigurð heim og fá að skoða fuglana sem og hið áhugaverða umhverfi sem þar er að finna.

Sigurður Eiríksson

Sigurður Eiríksson með geirfuglana.

 

Norðurkot

Gengið var um Kálfatjarnarsvæðið í fylgd staðþekkjaranna Sesselju Guðmundsdóttur og Sigrúnar Frjóns, en koma átti eftir í ljós að ekki var til sá blettur á landssvæðinu, sem þær ekki þekktu eða höfðu skoðað.

Litlibær

Litlibær – brunnur.

Byrjað var á því að ganga veginn niður að Liltabæ, Bjargi, Bakka og Gamla-Bakka austan Kálfatjarnar. Tekið var hús á Geir á Litlabæ, sem bauð þátttakendum til sólstofu. Þaðan var ágætt útsýni vestir að Bakka, norðvestur að Bjargi og norður að Gamla-Bjargi, eða öllu heldur tóttum þess bæjar, sem nú eru á sjávarkambinum. Eftir stutta dvöl var Geir kvaddur með fyrirheitum um að bera fljótt að garði aftur. Gengið var að tóttum Gamla-Bakka, en þar má vel sjá hleðslur garðs og tóttir bæjarins, sem sjórinn er nú smám saman að brjóta niður. Undir bakkanum mátti t.d. sjá gamlar ryðgaða hurðarlamir og bein úr haug.

Gengið var vestur tún Kálfatjarnar, að Móakoti. Í kringum tóttir kotsins eru allmiklar garðhleðslur og hlaðinn brunnur með steyptu loki vestan þeirra. Sjá mátti tóttir Fjósakots sunnar í túninu. Gengið var áfram að hól þeim, sem Hólkot stót eitt sinn á. Suðvestan undir hólnum er Víti, vatnsstæði, sem sjaldan þverr. Nú var það reyndar að mestu þurrt. Nafninu Víti var einhvern tímann komið á Hólkot með vísu er fjallaði um áfengi og munu menn hafa villst á vitum. Haldið var áfram til vesturs sunnan Kálfatjarnarinnar, að sjóbúð, sem þar er heilleg á hól, áfram til vesturs yfir Síkið og Rásina að hlaðinni bátarétt. Við enda heillegasta garðsins eru leifar gamla bátaspilsins, en Sigrún benti síðar á hvar afgangur þess var niður kominn. Litið vará hlaðin fjárhús á sjávarkampinum, ofan við Kálfatjarnarvörðina, en neðan þeirra hafði fjósið eitt sinn verið og skammt vestar Kálfatjarnabyrgið. Sjórinn hefur nú hirt hvorutveggja. Vestar er Hausaréttin gamla. Enn sér móta fyrir henni. Neðan hennar fannst Kálfatjarnarártalssteininn (A° 1674) fyrir nokkrum misserum síðan eftir að sjórinn hafði velgst með hann um 30 metra leið frá þeim stað, sem hann hafði síðast sést fyrir nokkrum áratugum síðan.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – ártalssteinn úr sjóbúð.

Gengið var til suðvesturs að sundvörðu á hól og fjárhústótt skammt vestar. Norðvestan hennar er Norðurkotsbyrgið og Tíðargerðisbyrgið norðan þess, alveg fram á sjávarkampinum.
KálfatjörnGoðhólstóttirnar voru skoðaðar, en hún er enn allheilleg. Norðaustan þeirra eru tveir hlaðnir garðar, gamlir matjurtargarðar. Gengið var yfir garða og þá komið að fallegum hringlaga hlöðnum brunni. Þar er Norðurkotsbrunnurinn, smart gerður, eins og Vala Matt myndi sagt hafa. Komið var að Tíðargerði. Gengið var að Norðurkoti, en þar mun fyrrum hafa verið barnaskóli. Inni er margt forvitnilegt að sjá.
Til baka var gengið yfir að Hliði, um garðana þar, að hlaðinni brú á kirkjugötu, sem í er ártalssteinn (A°1790) og að Landabrunni ofan Landa, fallegu vatnsstæði. Loks var komið við í Hestaréttinni. Þegar litið var yfir golfvöllinn á Kálfatjörn mátti sjá nokkra sjónumhrygga golfara leita kúlna. Eina (það einasta eina), sem þeir einblíndu á, voru litlar holur í sléttu grasinu – og allar eins.
Til ferðardrýginda var kíkt í gömlu hlöðuna á Kálfatjörn og þátttakendum sýnt þar fornt lóð er bar merki Kristjáns kóngs fimmta, sbr. meðfylgjandi mynd. Því mun hafa verið bjargar undan sjónumhryggum fyrr á árum. Skemmtileg leiðsögn um sagnaríkt og merkilegt svæði.
Veður var frábært – köflótt sól með vistvænum vindi. Gangan tók um 2 klst. Gerður var uppdráttur af svæðinu.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – uppdráttur ÓSÁ.

Norðurkot

Gengið var með frískum hóp um Kálfatjörn. Ein í hópnum hafði verið svo forsjál að fá léðan lykil af Kálfatjarnarkirkju. Eftir að hafa lokið upp kirkjudyrum var þátttakendum boðið inn fyrir. Þar rakti hlutaðeigandi það helsta sem fyrir augu bar, s.s. hina sérstöku málningarvinnu dansksins Bertelsens, sem enst hefur í meira en öld, og rennismíði Þorkels Jónsson, ábúandi í Móakoti, auk þess sem hún lýsti einstökum munum.
Fram kom að Kálfatjarnarkirkja var helguð kalfatjornPétri postula, en elstu haldbærar heimildir um kirkjuna eru í fornum máldögum og kirkjuskrá Páls biskups Jónssonar frá árinu 1200. Kirkjan var einnig nefn Maríukirkja og kirkja hins heilaga Þorláks biskups í Vogum fyrir 1367. Síðasti staðarprestur á Kálfatjörn var séra Árni Þorsteinsson, en eftir að hann lést árið 1920 tók við jörðinni Erlendur Magnússon frá Tíðargerði og kona hans Kristín Gunnarsdóttir frá Skjaldarkoti. Þau hófu búskap í Tíðargerði en fluttu að Kálfatjörn 1920 og bjuggu þar allan sinn búskap eða allt til ársins 1975. Erlendur var fyrsti og eini kirkjubóndinn á Kálfatjörn. Synir þeirra hóna voru Magnús, Ólafur, Gunnar og Erlendur og dæturnar hétu Herdís og Ingibjörg. Herdís bjó áfram á Kálfatjörn eða þangað til íbúðarhúsið brann með dularfullum hætti.
Efst á kirkjuturninum er ártalið 1893, en það er smíðaár timburkirkjunnar, sem nú stendur. Teiknari og yfirsmiður var Guðmundur Jakobsson, en við grunnbygginguna vann Magnús Árnason steinsmiður frá Holti, viðurkenndur hagleiksmaður. Kirkjan var reist á 14 mánuðum, en þá var kirkjuturninn öðruvísi útlits en nú er.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – ártalssteinn úr sjóbúð.

Þá var gengið niður með hinni aldargömlu hlöðu á kirkjuhlaðinu, framhjá tóttum fjóssins, hinu botnlauslausa Víti og Hólkoti, niður með Kálfatjörn með sjóbúðina á vinstri hönd og síðan áfram til vesturs með ströndinni. Þar var gamla bátagerðið skoðað ásamt fjárhúsunum og Hausaréttinni. Á steinum réttargarðsins voru áberandi hvítar og gular skófir. Einn þátttakenda kunni eðlilega skýringu á því, en hún var eftirfarandi í mjög styttri útgáfu: Bóndakona týndi snældu, en gat ekki endurheimt hana nema greiða fyrir hana með mikið af graut. Dugði það ekki til og þurfti því að taparinn enn og aftur að punga út stiga til viðbótar svo þyggjandinn gæti komið umframgrautnum til Maríu meyjar. Á leiðinni þangað með grautinn hrapaði sá ferðaglaði og lenti að lokum á jörðinni. Hvítu og gulu skófirnar á grjótinu eru síðan ævarandi merki um heilaslettur hlutaðeigandi og grautinn góða“. Engin ástæða er til að draga þessa sögu í efa frekar en margar aðrar.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – skósteinn með ártali.

Gengið var upp að Goðhól og húsin þar skoðuð sem og garðar og annað markvert. Haldið var yfir að Norðurkoti, litið á hlaðinn brunninn og síðan kíkt inn í gamla skólahúsið. Þar voru gömlu kennslubækurnar enn á borðum, bæði orðsins bækur svo og draumabækur unga fjósamannsins. Fengin var að tímabundnu láni handskrifuð Kennsluritgerð Ingibjargar Erlendsdóttur frá árinu 1942 um „nokkra meginþætti í stjórn og starfi barnaskóla“. Ritgerðin skiptist í: I. Inngang og uppeldi, II. Tilgangur skóla, III. Stjórn skóla, IV. Niðurskipan skólastarfsins, V. Refsingar, V. Kennsla og kennsluaðferðir, VII. Námið og gildi þess og VIII. Kennarinn og hlutverk hans. Tilefnið var notað og lesin hluti ritgerðarinnar, en hún verður tölvuritfærð fljótlega og send viðkomandi til gagns og gamans. Ritgerð þessi hefur aldrei áður birst á prenti – sjá HÉR.
Gengið var niður gamla flóraða götu með garðinum að Norðurkotsbyrginu á sjávarkambinum. Þar mun hafa verið salthús. Síðan var ströndin gengin til vesturs og fjaran skoðuð. Komið var að völundar spili í fjörunni og síðan tók fagurhvít sandfjara við, sbr. meðfylgjandi mynd. Staðnæmst var í fjörunni neðan við Landakot, litið á Landakotsbrunninn og síðan gengið var til baka með ofanverðri ströndinni. M.a. var litið á leturssteininn [A° 1690] í kirkjubrúnni á gömlu kirkjugötunni að Kálfatjarnarkirkju og Landabrunninn, hið forna þvottastæði Kálfatjarnarfólksins. Kvenkrían lét í sér heyra að venju á meðan karlkrían tók lífinu með stóískri ró. Golfararnir voru hljóðlátari en jafnan. Þekktu kannski orðið söguna og tilurð vallarins.
Veður var frábært – logn og sól.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – uppdráttur ÓSÁ.