Einn FERLIRsfélaganna, Jón Svanþórsson, hafði verið að skoða „Austurleiðina“ svonefndu (Hellisheiðargötuna), þ.e. hina fornu leið frá Reykjavík austur um Hellisskarð, Helluheiði og áfram austur um sveitir (og öfugt). Leiðirnar voru reyndar fimm, en athygli hans hefur sérstaklega beinst að leiðinni frá Elliðakoti (Helliskoti) yfir á Bolavelli (Hvannavelli) að Draugatjörn annars vegar og að Dyraveginum hins vegar.
Fyrrnefnd gata er vörðuð norðan við Nátthagavatn og ofan Lyklafells. Austar greinist gatan í annars vegar um Dyraveginn og hins vegar um hina fornu leið um Hellisskarð. Mikil umferð hefur verið um þessar leiðir fyrrum, en þrátt fyrir það virðast þær bæði gleymdar og tröllum gefnar. Ætlunin var að reyna að rekja Austurleiðina frá Nátthagavatni (Elliðakoti) að gatnamótum Dyravegar norðaustan við Lyklafellið. Þar eru gatnamót. Liggur önnur Austurgata þar til vesturs sunnan við Lyklafellið áleiðis niður að Lækjarbotnum. Ætlunin er að reyna að rekja hana fljótlega.
Haldið var upp frá Elliðakoti. Gamla gatan er ekki auðrakin í fyrstu. Í raun eru leiðirnar þarna tvær; sumargata og vetrargata. Sú síðarnefnda er vörðuð og liggur á hryggjum. Margar varðanna eru þó fallnar. Vetrarleiðin er ávallt sunnan við sumarleiðina, sem liggur, líkt og aðrar gamlar þjóðleiðir, aflíðandi og nánast hvergi yfir hæðir eða hryggi. Vörðurnar á vetrarleiðinni sjást vel af sumarleiðinni, en þó síst þar sem fjarlægðin er mest norðan Lyklafells.
Í fyrstu virtist gatan liggja austar en raunin varð á. Ástæðan var sú að vörðunum var fylgt í fyrstu, en það leiðréttist á bakaleiðinni. Þegar komið var inn á götuna við „pípuveginn nýja“ mátti auðveldlega rekja hana upp að vatnsbóli í Miðdalsheiðinni (sem nú var þurrt).
Þaðan lá hún áfram upp heiðina til austurs með norðan hallanda. Farið var yfir brú á mikili sprungu og götunni síðan fylgt upp fyrir Lyklafellið. Þar eyddist gatan, en fannst aftur. Ofar er hið ágætasta vatnsból með aðliggjandi götum. Varða (Lykilvarða) bendir á vatnsbólið, sem virðist afskekkt og úleiðis.
Þegar götunni var fylgt til baka áleiðis að Elliðakoti var auðveldara að sjá leguna. Ofan við brúna á gjánni er um 90° beygja sem og neðan við hana, í öfuga átt. Þaðan liggur gatan sem leið liggur niður hallandann. Hlið á girðingu er afvegaleiðandi því gatan liggur í sneiðing svolítið norðar og þaðan niður fyrir neðasta holtið ofan við brúnirnar ofan Elliðakots. Þar kemur gatan niður í sneiðinginn fyrrnefnda ofan við kotið.
Í Lesbók Morgunblaðsins 1973 segir Árni Óla m.a. um austurleiðirnar: „Hjá Fóelluvötnum og upp undir Lyklafell var um aldaraðir áningarstaður þeirra, sem fóru milli Innnesja og Suðurlands-undirlendisins og ferðuðust annaðhvort fótgangandi eða á hestum. Og þaðan lágu fjórar leiðir „austur fyrir Fjall“. Syðst var Ólafsskarðsleið, sem byrjaði í skarði milli Sauðadalshnúks vestri og Ólafsskarðahnúka, skammt fyrir ofan Vífilsfell. Þegar sú leið var farin austur, var komið niður að Litlalandi eða Hlíðarenda í Ölfusi. Næst var svo: Þrengslaleið og þar er nú kominn akvegur. Þriðja leiðin var um Lágaskarð úr Hveradölum og farið fyrir austan Stóra-Meitil og var þá komið niður að Hjalla eða Hrauni í Ölfusi. Fjórða leiðin var svo um Hellisskarð hjá Kolviðarhóli og var þá komið niður að Reykjum í Ölfusi.
En skammt fyrir norðan Lyklafell lá svo alfaraleið um Dyraveg og það var komið niður hjá Nesjavöllum í Grafningi. Sú leið taldist vera yfir Mosfellsheiði. Var þarna aðalvegur þeirra, sem bjuggu í uppsveitum Árnessýslu er þeir ferðuðust til byggðanna við Faxaflóa.“
Lyklafellið er áberandi kennileiti í heiðinni. Björn Bjarnason í Grafarholti taldi að Lyklafell hefði fyrrum heitið Litlafell, en afbakast í framburði. Í Lesbók Morgunblaðsins 1979 er fjallað um Lyklafellið og fleira á þessum slóðum. „Fyrrum lá leiðin milli Reykjavíkur og sveitanna fyrir austan fjall, yfir Hellisheiði, um Hellisskarð (Uxaskarð, Öxnaskarð), hjá Kolviðarhóli, meðfram Lyklafelli og niður hjá Elliðakoti í Mosfellssveit. Þetta var áður en akvegurinn var lagður um Lækjarbotna, Fossvelli, Sandskeið og Svínahraun að Kolviðarhóli. Það gerðist á síðustu áratugum 19. aldar. Í þetta sinn göngum við eftir þessari gömlu leið, frá Lyklafelli að Elliðakoti.
En hvernig standi á þessu nafni. Menn hafa greint á um það og þekki ég tvær sögur. Sú fyrri segir, að einhverju sinni hafi verið bryti í Skálholti er hét Ólafur. Bar hann alla lykla staðarins á sér, en þeir voru á einni kippu. Honum sinnaðist við ráðskonuna, en þar sem hún kunni nokkuð fyrir sér, tryllti hún Ólaf, svo hann tók á rás og hljóp vestur fyrir Hellisheiði að Lyklafelli með alla lykla staðarins á sér Þar týndi hann kippunni. Hún fannst þar löngu síðar og var fellið svo kennt við lyklana. Þaðan hljóp hann til baka um Jósefsdal og suður úr dalnum um skarð, sem síðar heitir Ólafsskarð. Eftir það linnti hann ekki sprettinum fyrr en austur á Mælifellssandi. Þar kom hann að vatnsfalli, er hann ætlaði að stökkva yfir. Stökkið mistókst, hann féll í ána og drukknaði. Hún heitir síðan Brytalækir.
Hin sagan greinir frá því, að einhverju sinni áttu hungraðir förumenn leið um þennan veg að næturlagi og gengu þá fram á tjaldbúðir Skálholtsmanna, sem voru þar á ferð með marga hesta og mikinn farangur. Höfðu þeir valið sér þarna náttstað. Förumennirnir sáu, að bunga var á einni tjaldsúðinni og hugðu þeir að þar fyrir innan væri sekkur fullur af mat. Ákváðu þeir að ná honum. Tók einn þeirra upp hníf, og skar á tjaldið, þar sem bungan var. En um leið og hnífsblaðið skar á dúkinn, kvað við hátt og skerandi öskur innan úr tjaldinu. Í stað þess að stinga í matarsekkinn, var hnífnum stungið í sitjandann á ráðsmanni Skálholtsstóls, sem svaf þar fyrir innan. Í fátinu og írafárinu sem varð nú í tjaldbúðunum við þetta óhappaverk, týndist lyklakippa ráðsmannsins og fannst ekki fyrr en löngu síðar. Þannig skýra sagnir nafnið á Lyklafellinu.
Gengið var yfir farveg Lyklafellsár, sem fellur hér fram í leysingum á vorin, en síðla sumars er hann þurr að öllum jafnaði. Af Lyklafelli er gott útsýni yfir nágrennið þótt ekki sé það hátt yfir sjó (281 m).
Eftir góða hvíld uppi á fellinu leggjum við aftur af stað í áttina að Elliðakoti. Er gott að hafa raflínuna til viðmiðunar. Við sjáum nokkur vörðubrot, sem vísa leiðina og svo hér og þar gróna götuslóða, sem lítt hafa verið troðnir í hartnær öld. Eftir drjúga göngu stöndum við á brekkubrúninni fyrir ofan Elliðakot, sem hét fyrrum Helliskot.
Bærinn stóð í skeifulöguðum hvammi móti vestri í skjóli fyrir austanáttinni. Nú er hann tóttir einar, því ekki hefur verið búið þar um árabil. Fyrrum var búið hér snotru búi, en mikil örtröð hefur örugglega verið af umferð ferðamanna árið um kring, ekki síst á vetrum þegar ofan af heiðinni komu lítt búnir, örþreyttir og hraktir ferðamenn og leituðu að húsaskjóli. Hér fæddist Páll Jónsson vegagerðarmaður, sem Jón Helgason rithöfundur hefur gert verðug skil í bók sinni: Orð skulu standa.
Við skulum skreppa heim að þessum gömlu rústum og skoða þær vel, minnug þess, að þeir hnútar, sem traustast eru bundnir láta ávallt undan er tímans tönn tekur að sverfa að þeim.“
Sá, sem skrifaði framangreint, virðist ekki hafa gengið gömlu götuna heldur línuveginn, sem liggur um heiðina.
Gísli Sigurðsson skrifar um Kolviðarhól og nágrenni í Lesbókina árið 2001: „Þjóðleiðin forna úr Árnessýslu til Mosfellssveitar lá úr Ölfusi upp Kamba og þaðan vestur á Hellisheiði, austan við Hurðarás, en þaðan í sjónhendingu í Hellisskarð ofan við Kolviðarhól. Upp og niður úr skarðinu var hægt að komast með klyfjahesta, en alls ekki með hestvagna. Þegar komið var niður úr Hellisskarði lá leiðin um Bolavelli, vestur með Húsmúla og síðan um norðanvert Svínahraun, framhjá Lyklafelli og oft var komið í byggð hjá Elliðakoti í Mosfellssveit.
Þessi leið milli byggða var talin rösk þingmannaleið, eða um 35 km. Í lýsingu Ölfushrepps frá 1703 er leiðinni lýst og segir þar að vestari partur Hellisheiðar sé „víða með sléttum hellum og hraungrjóti, án gatna sem (sem) hestanna járn gafa gjört, og auðsjáanlegt er…“
Þessar hestagötur sem markast hafa í hraunhelluna af umferð járnaðra hesta sjást mjög greinilega á þriggja km kafla, en eftirtektarvert er, að þær skuli hafa verið orðnar svo greinilegar fyrir 300 árum. Hurðarás var aftur á móti svo nefndur vegna þess, að þegar þangað kom á austurleið yfir heiðina var allt í einu eins og hurð væri opnuð og víðerni Suðurlands blöstu við, allt til Vestmannaeyja.
Sveinn Pálsson náttúrufræðingur minnist á hestagötuna í hrauninu í lýsingu sinni frá 1703 og finnst gatan með ólíkindum regluleg og bein. Tilgáta hans, að öll Hellisheiði hafi gosið í einu er þó fjarri lagi; það vita menn nú. Eins er Sveinn á villigötum þegar hann segir þetta fyrst hafa gerst árið 1000 „og síðan margsinnis“. Kristnitökuhraunið frá árinu 1000 rann úr Eldborg, en var reyndar síðasta hraunið sem runnið hefur á þessum slóðum. Öll önnur hraun eru eldri.
Svínahraun hafði runnið úr Leitinni, eldstöð skammt frá hinni, fyrir um 4800 [5350 skv. nýjustu mælingum] árum; fyrst í norður í áttina að Kolviðarhóli, en síðan eftir mjóum farvegi í vestur, allar götur niður í Elliðaárvog. Þetta hraun náði ekki alveg norður að fjöllunum. Milli þeirra og hraunsins urðu með tímanum til grösugir vellir sem vel sjást frá Kolviðarhóli. Enda þótt þeir kunni að virðast búsældarlegir lagði enginn í að nema þar land.
Við Bolaöldu, vestan hraunsins, eru sýslumörk; Kolviðarhóll var og er í Árnessýslu. Norðvestur frá Kolviðarhóli rís Húsmúlinn, Skarðsmýrarfjall er í norðaustur, en Reykjafell þegar litið er til suðurs. Útsýnið af hólnum þar sem gistihúsið stóð er opið vestur yfir Svínahraun og yfir Miðdalsheiði. Þegar frá eru skildar grasflatir, fyrrum tún á Kolviðarhóli, er útsýnið mestan part yfir hraun og fjöll, en grýtt brekkan í Hellisskarði að baki.
Öldum saman höfðu menn farið alfaraleiðina yfir Hellisheiði án þess að nokkur von væri um húsaskjól þar til 1830 að Þórður bóndi á Tannastöðum hlóð birgi uppi á heiðinni sem enn stendur. En elzta heimild um sæluhúskofa í námunda við Kolviðarhól er eftir Hálfdán Jónsson lögréttumann í lýsingu Ölfushrepps frá 1703. Þar er minnst á sæluhús á Hvannavöllum (nú Bolavöllum) og segir þar svo:
„Á norðanverðum Hvannavöllum, er strax taka við fyrir neðan skarðið, stendur sæluhús (ei langt frá veginum) svokallað, hverju allt til þessa tíma Ölvesbyggjarar hafa uppi haldið, vegfarandi fólki harla nauðsynlegt á vetrartímum til innivistar, er og lofsvert að þetta sæluhús ei niður falli.“
Sveinn Pálsson náttúrufræðingur minnist á sama sæluhús hátt í öld síðar; segir að þar sé lítill kofi hlaðinn úr hraungrýti með torfþaki og að margir hafi dáið í þessum kofa, örmagna af hungri og kulda.
Skammt frá kofanum var dálítil tjörn, nefnd Draugatjörn, og töldu margir svo reimt í kofanum að þar væri naumast vært. Hafði Magnús bóndi á Fossi í Grímsnesi heldur betur fengið að kenna á því, annálað hraustmenni og gerði grín að draugatrú og myrkfælni.
Gisti hann við annan mann í kofanum og brá sér út að tjörninni. Þar réðst að honum ófreskja og komst hann við illan leik, rifinn og tættur, inn í kofann. Sár á nefi greri aldrei, enda var það eðli sára sem draugar veittu, og Magnús varð aldrei samur maður eftir.
Eiríkur bóndi í Haga í Eystrihreppi komst mun betur frá viðskiptum við sæluhúsdrauginn. Hann var á ferð til skreiðarkaupa, hafði sezt að í myrkri í kofanum og tók til matar síns. Þá fór hann að sjá eldglæringar í hinum endan kofans og sagði bara sísona: „Kveikið þið, kindur sælar, svo Hagakarlinn sjái til að rífa roðbitann sinn.“ Hættu þá glæringarnar og svaf Eiríkur þar rótt um nóttina. Svo skráði Brynjúlfur frá Minna-Núpi.
Sögur af þessu tagi urðu til þess að menn voru dauðsmeykir við að gista í kofanum, einkum ef þeir voru einir á ferð og einu sinni hafði sú hræðsla alvarlegar afleiðingar. Gömul sögn úr Ölfusinu greinir frá því, að eitt sinn hafi ferðamaður leitað skjóls í kofanum og lokað kirfilega að sér að innanverðu. Um nóttina heyrði hann traðk utandyra og rjálað við hurðina eins og reynt væri að opna hana. Hirti hann ekki um það; hefur ugglaust búizt þar við draugi og verið hræddur. Um morguninn brá þessum ferðalang ónotalega þegar hann opnaði og sá að utandyra lá dauður maður. Eftir það var gengið frá því að ekki væri hægt að loka kofanum að innanverðu með slagbrandi.
Kofinn við Draugatjörn var ísköld og ömurleg vistarvera, en þó sá skúti sem betri var en úti. Lengdin að innanverðu var aðeins 2,5 m og breiddin 1,5 m. Við annað gaflhlaðið var hlaðinn grjótbálkur, mýktur með torfi. Yfir dyrum var lítil gluggabora með gleri. Tóftin sést enn ef vel er að gáð.
Fleira gat verið varasamt á þessari óbyggðaleið en illviðri og draugar. Bolavellir og Bolasteinn minna á söguna um Skeiða-Otta og nautið ógurlega sem gekk í sumarhögum á völlunum við Kolviðarhól. Otti var bóndi austur á Skeiðum og átti erindi til Reykjavíkur þegar komið var að slætti og reið miklum kostahestum sem leið liggur vestur yfir Hellisheiði. Hann vissi um illræmdan griðung frá Viðey í högum hjá Kolviðarhóli og hafði hann orðið tveimur eða þremur mönnum að bana.
Nautið lá við Bolastein og hóf þegar eftirför en Otti þeysti undan sem mest hann mátti. Samt dró saman með þeim og tók Otti þá það til ráðs að hann snaraðist af baki, tók upp hníf og lagðist niður milli krappra þúfna. Þar fleygði boli sér yfir hann en Otti skar hann á kvið og helltust yfir hann innyflin. Drapst bolinn þar en Otti gat haldið ferð sinni áfram.
Kolviðarhóll undir Hellisskarði var vinsæll og nauðsynlegur gististaður þeirra mörgu, sem fóru um Hellisheiði fyrrum. Aðalleiðin lá um Hellisskarð en þjóðvegurinn liggur um Hveradali, þar sem skíðaskálinn er nú.
Sæluhús var byggt að Kolviðarhóli 1844 og síðar gistihúsið. Valgerður Þórðardóttir (1871-1957) og Sigurður Daníelsson (1868-1935) voru síðustu gestgjafarnir þar. Þau byggðu stórt og myndarlegt gistihús og voru þjóðkunn fyrir höfðingsskap. Þau voru grafin í heimagrafreit að Kolviðarhóli.
Árið 1938 keypti Íþróttafélag Reykjavíkur Kolviðarhól af Valgerði til að gera hann að miðstöð íþróttalífs, aðallega vetraríþrótta og reka samt áfram þjónustu við ferðamenn.
Þessi starfsemi gekk ekki upp, þannig að henni var hætt 1952. Húsin urðu spellvirkjum að bráð og þau brunnu. Árið 1977 voru þau jöfnuð við jörðu.
Þau tímamót urðu 1844 að þá reis í fyrsta sinn hús uppi á sjálfum Kolviðarhólnum. Þá hafði farið fram fjársöfnun austan heiðar og vestan, og þótti vænlegast að reisa húsið á hólnum neðan við Hellisskarð. Séra Páll Matthíasson í Arnarbæli valdi staðinn og hafði forgöngu um málið ásamt Jóni Jónssyni á Elliðavatni. Nýja sæluhúsið var allt úr timbri og stóð á sökkli sem hlaðinn var úr grjóti. Grunnflöturinn var 16 fermetrar og loft yfir þar sem viðbótargistirými fékkst. Járnrimlar voru fyrir gluggum, líklega til að koma í veg fyrir rúðubrot skemmdarvarga. Hurðir var jafnt hægt að opna utan- og innanfrá; nú voru menn minnugir atviksins við kofann fyrrum. Nýja sæluhúsið var allt úr timbri, tjörubikað, og þar gátu gist í einu 24 menn á loftinu og komið inn 16 hestum niðri. Í Reykjavíkurpóstinum frá þessum tíma má sjá að þetta hefur þótt merk framkvæmd.
Enn urðu tímamót 1876 þegar ákveðið var að hefja vegarlagningu um Svínahraun. Þremur árum síðar var tekið annað skref og segir svo í Þjóðólfi: „Vegagjörðin yfir Kamba á Hellisheiði skal byrja í sumar.“ Eiríkur í Grjóta fór með flokk manna sumarið 1880 og lagði veg vestur yfir Hellisheiði, nokkru norðar og nær hinni fornu þjóðleið en núverandi Suðurlandsvegur.
Í Mbl árið 1981 er fjallað um Dyraveginn: „Allt til þessa dags hefur þeim leiðum, sem forfeður okkar, mann fram af manni, fetuðu eftir í aldaraðir, verið lítill sómi sýndur.
Við leggjum mikla áherslu á söfnun gamalla muna og varðveislu fornra bygginga og er það vel, en er það nokkur fjarstæða að viðhalda á sama hátt þessum gömlu götum, sem nú víða eru horfnar með öllu, en bera á sinn hátt þögult vitni um þá hörðu baráttu, sem þjóðin háði fyrir tilveru sinni? Í þeim flokki er Dyravegur. Frá fornu fari lá leiðin frá Þingvöllum sður með vatninu að vestan til Nesjavalla. Þeir sem bjuggu austan við Sogið komu einnig að Nesjavöllum, eftir að hafa sundlagt hestana og farið á ferju yfir fljótið fyrir neðan Dráttarhlíð, þar sem Steingrímsstöð er nú. Þessa leið fóru Skálholtsmenn fyrrum, þegar þeir fluttu vistir að og frá biskupsstólnum, en sá staður þurfti mikils við, þegar umsvifin þar voru sem mest. Enda hlaut þessi leið nafnið Skálholts-mannavegur.
Þegar þessar tvær leiðir höfðu sameinast á Nesjavöllum, lá hún vestur yfir Dyrafjöllin, þvert yfir Sporhelludal og Dyradal. Við Húsmúla greindist leiðin aftur. Þeir sem ætluðu til Reykjavíkur og Hafnarfjarðar tóku stefnuna á Lyklafellið, en þeir sem ætluðu í Selvog eða á sunnanvert Reykjanes héldu suður með Húsmúlanum og stefndu á Lágaskarð austan við Stórameitil. Í þessari ferð skulum við kynnast Dyraveginum nokkru nánar.
Við yfirgefum bílinn sunnan undir Húsmúlanum og göngum eftir Bolavöllum, sem eru að vestan við hann. Þar komum við fljótlega á grasivaxna götutroðninga, sýnileg merki þeirrar umferðar sem hér var fyrr á tímum. Troðningarnir eru skýrir og auðvelt að fylgja þeim, sem við gerum að sjálfsögðu. Brátt komum við inn í Engidal. Eftir honum fellur Engidalsáin, sem myndast úr smá lænum og uppsprettum er koma úr vesturhlíðum Hengilsins. Lengsta kvísl hennar kemur frá Marardal. Þangað liggur götuslóði, en annars er gamla gatan vestan við Marardalinn, en við tökum á okkur krók og heimsækjum dalinn. Það er þess virði.
Marardalur er sigdæld, neðanundir Skeggja, en svo nefnist hæsti tindur Hengilsins. Brattar hlíðar liggja að honum á alla vegu, botn hans er rennisléttur og um grundirnar liðast fagurtær lækur. Smá skarð í dalsbrúnina er í suðvesturhlið hans. Um það rennur lækurinn. Skarðið er svo mjótt, að menn verða að ganga þar inn í einfaldri röð. Merki um grjótgarðshleðslu er þar, því áður fyrr voru naut og önnur geldneyti höfð þar að sumarlagi og lokuð þar inni með þessum grjótgarði. Við höldum inn eftir dalnum og fikrum okkur svo upp bratta brekkuna og upp á norðurbrún hans. Þar blasir við allbreitt vik eða dalskvompa sem gengur inn í fjallið. Þar komum við aftur á gömlu götuna og henni fylgjum við eftir það.
Úr þessu hækkar gatan og liggur upp brekkurnar til austurs og upp á vesturbrún Dyradalsins. Hann er ekki ósvipaður Marardal, hlíðabrattur og rensléttur í botninn. Hér er gatan skýr og glögg, sem einkum skal þakka sauðkindinni, sem ræður hér ríkjum í sumarhögunum. Gatan liggur þvert yfir dalinn og stefnir í skarð, milli tveggja kletta, í austurhlið hans. Þar komum við að hinum nafnkenndu dyrum, sem þessi leið er kennd við. Smálækur fellur um um Dyrnar, sem eru ekki nema ca. 2 m á breidd Líklega á hann einhvern þátt í myndun Dyranna, en annars eru öll fjöll hér um slóðir mynduð úr móbergi, sem vatn og vindar vinna á jafnt og þétt.
Tafsamt hefur verið að koma hestalestunum í gegn um dyrnar. Menn hafa orðið að taka klyfjarnar ofan, teyma hestana síðan í gegn um skarðið og láta svo aftur upp. En um það var ekki að fást, þetta var hluti af striti dagsins. Austan við Dyrnar eru einir þrír smádalir með bröttum hálsum á milli. Yfir þá liggur leiðin og hefur margur klyfjahesturinn trúlega svitnað ærlega á þeirri leið. En er þeir eru að baki opnast skyndilega nýtt útsýni. Þar blasa Nesjavellir við augum, Þingvallavatn og fjallahringurinn í norðri og austri. En sunnar bera hverareykir Hengilssvæðisins við loft.“
Þar sem staðið var við Lyklafell og horft til suðurs yfir hraunin þótti ástæða til að rifja upp aldur þeirra. Svínahraunsbruni rann árið 1000 og segir frá því í Landnámu. Svínahraunið er undir brunanum og því mun eldra, eða 5350 ára gamalt (KS).
Þessa leið þarf Orkuveitan og/eða hlutaðeigandi sveitarfélög að taka í fóstur og merkja milli Kolviðarhóls og Elliðakots. Líklegt má telja að hún kunni að verða ein sú vinsælasta í landnámi Ingólfs (Reykjanesskaganum) enda bæði auðveld yfirferðar og einstaklega falleg. Geta má þess að engin fornleifaskráning, hvorki um línur né leiðslur, getur framangreindra fornleifa er lýst hefur verið hér að framan (mögulega þó fáeinna varða á stangli.) Heilstætt mat á svæðinu m.t.t. fornleifa hefur opinberlega farið fram – þrátt fyrir yfirstandandi framkvæmdir.
Frábært veður. Gangan (fram og til baka) tók 6 klst og 6 mín. Við leitina voru gengnir 17.8 km, en leiðin millum Elliðakots og Lyklafells er um 6 km.
Heimildir:
-Árni Óla – Lesbók Morgunblaðsins 14.19.1973, bls. 10-11 og 14
-Mbl. júlí-ágúst 1979
-Mbl. 25. júlí 1981
-Gísli Sigurðsson – Laugardaginn 31. mars, 2001 – Menningarblað/Lesbók Morgunblaðsins).