Tag Archive for: Reykjanes

Önglabrjótsnef

Í grein „Um rekamörk og örnefni á Reykjanesi“ er birtist í Blöndu 1921-1923 má lesa eftirfarandi um örnefni á suðvestanverðu Reykjanesi:

Reykjanes-ornefni„Prentað eptir frumritinu í AM. 453 fol.
Af bréfi frá Þorkeli Jónssyni í Innri-Njarðvlk til Árna Magnússonar 30. janúar 1704 í þessu sama hdr. (453 fol.) sést, að þessi örnefnaskrá er samin af honum, því að hann segir í bréfinu: „Í sama máta sendist yður blaðkorn upp á rekaörnefni á Reykjanesi frá Höfnum til Skarfaseturs á Reykjanesi; og hef eg heyrt af mér eldri mönnum þessi rekatakmörk svo nefnd, sem innfærð eru, en þar eð eg skrifa ei framar um takmörkin en að Skarfasetri er ei minn mótvilji, heldur veldur því ókunnugleiki minn og nokkurn part þeir, er um kunnugt er, eru mér ei svo þénustuviljugir, að mér þar um sannferðugt segja vilji, og væri svo, að minn herra vildi enn framar á nýtt uppspyrja láta rekatakmörk á Reykjanesi, væri bezt fallið, að þar til kvaddir væru úr Grindavlk Eyjólfur Jónsson á Þorkötlustöðum, sem og Ólafur Pálsson á Tóptum, svo og Runólfur Þórðarson á Býjaskerjum, sem eg hygg skýrasta í þessu“ etc. — Þorkell í Njarðvík andaðist í stórubólu 1707, 49 ára gamall. Hann var, eins og kunnugt er, faðir Jóns Skálholtsrektors Þorkelssonar. (H. Þ.)
Þetta eru rekamörk og örnefni með sjávarsíðunni á Reykjanesi í Gullbringusýslu allt frá Marflösum í Skiptivík (hver Skiptivík og Marflasir að eru í milli Merkiness og Kalmanstjarnar í Höfnum) og að þeim fremsta tanga á Reykjanesi og sumir kalla eða nefna Skarfasetur, og kallast þetta á sunnanverðu Reykjanesi svo sem eptir fylgir:
1° Fyrst frá Marflösum (sem áður eru nefndar) á Kalmanstjörn allan reka (fráteknu alslags vogreki, sem kongl. Majst. tilheyrir) alt að Leguvörðu, sem er nærri Draugagjá, er liggur á milli Kalmanstjarnar og Kirkjuhafnar.
2° Frá Leguvörðu á Kirkjuhöfn allan reka (með fyrra skilorði) á miðjan klett þann, gem stendur í milli norðari Sandhafnar og Kirkjuhafnarlendinga, og sá sami klettur er nefndur Stjóraklettur. Eitt örnefni í áðursögðu Kirkjuhafnar rekatakmarki er Flyðruhella.
3° Fra Stjóraklett og til vörðu þeirrar, sem stendur á Lendingarmelum, allt kongsreki, sem tilheyrir Sandhöfnum báðum og nú liggur og legið hefur í langan tíma til Viðeyjarklausturs. Örnefni í þessu plássi eru: 1. Stærri Sandhöfn. 2. Minni Sandhöfn. 3. Litið vik norðan við eyraroddann, kallað Kápa. 4. Eyrin sjálf, sem er lítill tangi fram í sjóinn og þar framundan í sjó Eyrarsker. 5. Svarti klettur. 6. Tveir háir klettar, kallast í Klauf. 7. Steinn þar framundan, umflotinn, kallast Murlingur. 8. Hafnaberg, hvar undir að eru Hellrabásar. 9. Á miðju Hafnabergi einn snasaklettur, sem kallast Strákur. 10. Boðinn, sem er rekapláss á landi og þar framundan fiskimið, sem sjómenn kalla Líkaboða. 11. Þaðan eru Lendingarmelar allt að áðursagðri vörðu.
Hafnarberg-214° Frá Lendingarmelavörðu og til Valahnúka er skiptireki til helminga á hvölum og viðum (nema vogrekum öllum) milli Sandhafna (eður Viðeyjarklausturs) og Kirkjuhafnar, (því að Kirkjuhöfn með hennar reka er nú að sali og kaupi samanlögð við Kalmanstjöru). Örnefni innan þessara takmarka eru þessi: 1. Skjótastaðir, sam sagt er áður hafi bær verið, og enn sjást nokkur merki af garðlagssteinum. 2. Stóra Sandvík, hvar eð með hverju flóði uppkemur flæðarvatn, svo langt frá sjómáli, sem svarar 120 föðmum, og það vatn verður að stærð meir en þriðjung mílu allt umkring.
3. Litla Sandvík, og skilur þessar víkur einn klettur, er stendur í sandinum við sjávarmál.
4. Koma smábásar, sem nú eru almennilega kölluð gjögur, og er allt rekapláss. 5. Mölvík. 6. Kistuberg. 7. Þistlingasteinn. 8. Hvasst bergnef, kallað Aunglabrjótur, öðru nafni Kinn; þar framundan eru nefnd Strenglög þau norðari (af Reykjanesröst). 9. Lítill bás í þessum Strenglögum, kallaður Laurentiusbás. 10. Kerlingarbás. 11. Það nafnkunnuga örnefni á Keykjanesi Kerling. 12. Karl, nokkuð langt frá landi, svo fiskur gengur og dregst fyrir innan; hann stendur nær því í suður frá Kerlingu (máske nokkuð vestar). 13. Selahella sú norðari, landföst. 14. Valahnúkar; framan undir þeim eru tveir litlir rekabásar, og hafa sumir annan þeirra (þó að óvissu) kallað Kirkjuvogsbás. 15. Valahnúkamöl. 16. Selahella hin syðri, framundan miðri Valahnúkamöl, sem uppi er ætíð um fjörur en fellur jafnan flóð yfir. 17. Oddbjarnargjá. 18. Blasiusbás framan í því hvassasta nefi eðor tanga Reykjaness, er sumir kalla Skarfasetur. Þar framan undan eru Strenglög þau hin syðri. Frá þessu hvassa nefi er berg og engin rekafjara allt að grastorfu þeirri (og þó lengra), sem er á þessu bergi þar það er hæst, og gamlir menn hafa nefnt Skarfasetur og er það 19. örnefni í tilteknu plássi.
Veitir þá síðan landinu til austurs landsuðurs; það allt til Staðar í Grindavík.“

Heimild:
-Blanda, 2. bindi 1921-1923, bls. 48-50.

Valahnúkur

Valahnúkar og Valahnúkamöl.

Lesbók Morgunblaðsins 1943

Lesbók Morgunblaðsins, 7. tbl. 21.02.1943, Hreindýr og hreindýraskyttur – Kristleifur Þorsteinsson, bls. 53-54.

Hreindýr

Hreindýr.

„Miklu verri lífsskilyrði fyrir hreindýr hafa verið á Reykjanesfjallgarði heldur en í Múlasýslum, bæði hvað snertir vetrarbeit og veðurfar. Þar var líka mannabygð á báðar hliðar og dýrin á stöðugum flótta. Samt voru þau orðin nokkuð mörg um miðbik 19. aldar, en fráleitt hefir fengist nokkur vissa fyrir því á hvaða árum þau urðu flest eða hvað tala þeirra varð hæst. —

Skjaldarkot

Skjaldarkot – tóftir.

Er tveir fellisvetur hafa höggvið stærsta skarðið í þau, einkum, veturinn 1859, sem kendur var við hörðu föstuna. Ágúst í Hala koti á Vatnsleysuströnd segir í endurminningum sínum, að þann vetur hafi dýrin leitað skjóls og bjargað sér niður við bæi á Ströndinni og hafi þrettán hreindýr þá verið skotin, sem stóðu við hjallana í Skjaldakoti. Hafa þau öll verið að dauða komin. En svo kom annar fimbulvetur 1880—1881, sem var bæði lengri og harðari. Þá var jeg um vetrarvertíð á Vatnsleysuströnd. Fjell þar þá því nær hver einasta sauðkind, sem hvorki var ætlað hús eða hey. Svo hefir verið með hreindýrin, að ekki hefir nema lítill hluti þeirra afborið slík harðindi. En þá voru þau víst orðin fá, samanborið við það, sem var um miðja öldina. Og í grennd við mannabústaði varð þeirra þá ekki vart. Þegar komið var fram undir aldamótin 1900, þótti það í frásögur færandi, ef hreindýr sáust á þessum stöðum. Vorið 1895 kom til mín kaupmaður austan úr Þorlákshöfn. Taldi hann það merkilegasta sem fyrir hann bar á leiðinni, að á Hellisheiði sá hann fimm hreindýr á beit ekki langt frá alfaravegi.
En hvenær síðasta dýrið hefir sjest þar uppistandandi, veit jeg; ekkert um, en ekki hefir það verið löngu eftir síðustu aldamót.

Tvö hreindýr í einu skoti

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir fyrrum.

Ekki þótti það gerlegt að, skjóta hreindýr með öðru en kúlurifflum, en þeir voru þá í fárra höndum. Samt veit jeg eitt dæmi til þess, að maður banaði tveimur dýrum í sama skoti úr haglabyssu. Það var Jón Sigurðsson á Vífilsstöðum, síðar í Efstabæ í Skorradal. —
Var jeg samtíða honum margar vertíðir við sjó. Hugði jeg þá að hann hlyti að verða stórbóndi og sveitarhöfðingi svo vel þótti mjer hann til foringja fallinn. En hann, þessi frábæra skytta, beið bana af byssuskoti, þegar hann var í broddi lífsins. Var hann þá á rjúpnaveiðum frá Efstabæ. Jeg gat ekki sneitt hjá því að minnast þessa fornvinar míns hjer, af því hann var sá eini maður, sem jeg hefi áreiðanlega heimild fyrir að skyti tvö hreindýr með einu rjúpnaskoti.
Ekki er mjer kunnugt nema um, tvo menn sem urðu nafnkendir fyrir hreindýraveiðar á Reykjanesfjallgarðinum. Voru það Guðmundur Jakobsson frá Húsafelli og Guðmundur Hannesson frá Hjalla í Ölfusi. Verður þeirra hjer að nokkru getið.

Hreindýraskyttan Guðmundur Hannesson

Móakot

Móakot.

Guðmundur Jakobsson var elstur af tólf börnum þeirra Húsafellshjóna Jakobs Snorrasonar og Kristínar Guðmundsdóttur, fæddur 1794. Hann var talinn gáfumaður, þjóðhagasmiður, rammur að afli og alt var honum vel gefið. Þegar hann var fulltíða maður fluttist hann frá foreldrum sínum suður að Elliðavatni og giftist þar frændkonu sinni Valgerði Pálsdóttur, þau voru systrabörn. Valgerður, var alsystir sjera Páls í Hörgsdal, sem fjölmenn ætt er frá komin. Guðmundur bjó á Vatnsenda, síðar á Reykjum í Ölfusi og síðast í Lambhúsum í grennd við Bessastaði. Guðmundur fór að búa á þeim jörðum, sem lágu að því svæði er hreindýr hjeldu sig í þá daga. Hann var æfð skytta frá æsku og neytti hann nú þeirrar listar, þegar hreindýr gengu honum úr greipum. Var hann að líkindum sá fyrsti og næstum sá eini maður á þriðja og fjórða áratug 19. aldar, sem talinn var frækin hreindýraskytta. Mynduðust þá margar sögur af honum, bæði um skotfimi hans og hreysti, bárust sögur mann frá manni ýktar og endurbættar að gömlum þjóðar sið. Til dæmis um krafta hans var sagt, að hann hefði eitt sinn skotið hreindýr uppi í Henglafjöllum og borið það á herðum sjer til Hafnarfjarðar. Vildu Hafnfirðingar er þetta mundu, fullyrða að þetta væri satt. Einn sagði að til merkis um skotfimi Guðmundar, að hann hefði hæft dýr á 900 faðma færi og byssukúlan hefði farið inn um krúnuna og komið út hjá dindlinum. Sjálfur hafði Guðmundur verið rauplaus maður og voru sögur þær annara verk, sem af honum bárust. En sannleikur var það að hann var rammur að afli. Það sagði sjera Þórður í Reykholti mjer, að þegar hann var í Bessastaðaskóla hefði Guðmundur búið í Lambhúsum.

Lambhús

Lambhús – tóftir.

Myndaðist góð vinátta milli hans og sumra skólapilta, sem þótti gaman að líta heim til þessa glaða og gáfaða bónda. En ekki þótti þeim hann árennilegri en ísbjörn til fangbragða, enda þreyttu þeir þau aldrei við hann. Þegar ég var á barnsaldri man jeg Skagfirðinga, sem voru í skreiðarferðum suður með sjó, sögðust hafa gert sjer erindi til Guðmundar Jakobssonar, bara til þess að sjá þennan mann, sem svo margar sögur gengu um. Og Einar á Mælifelli föðurfaðir dr. Valtýs Guðmundssonar, gerði sjer ferð norðan úr Skagafirði og suður á Álftanes. Sagði hann það væri erindið að sjá Guðmund Jakobsson. Einar var gáfumaður með frábærri elju að afrita bækur. Einar heimsótti foreldra mína í þessari ferð. Var hann spurður, er hann var á heimleið, hvernig honum hefði þótt að heimsækja Guðmund og um hvað þeir hefðu helst talað. Lofaði hann Guðmund mikið fyrir gáfur og fróðleik og sagði að lokum: — Mest töluðum við um skáldskap gamlan og nýjan og aflraunir fornar.
Guðmundur flutti síðast að Móakoti í Garðahverfi til Helgasonar síns og Rannveigar konu hans. Meðal barna þeirra hjóna er Helgi Helgason verslunarstjóri og einn meðal nafnkendustu Reykjavíkurbúa. Það sagði frú Rannveig mjer, að Guðmundur tengdafaðir sinn hefði verið sá glaðasti og skemtilegasti maður, sem hún hefði kynst um æfina. Hann dó í Móakoti 1. jan. 1873, kominn að áttræðu.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir – tóftir.

Vigdísarvellir hjet heiðarbýli eigi langt frá Keili, en fjarri öllum bygðum bólum. Þegar jeg var sjómaður á Vatnsleysuströnd frá 1878 til 1888, bjó þar maður að nafni Guðmundur Hannesson. Strandarmenn sögðu mjer að hann væri einn af þeim 29 börnum, sem Hannes bóndi á Hjalla hefði eignast með konum sínum, en bókfærðar heimildir hefi jeg engar fyrir þessu. Jeg sá þennan Guðmund nokkrum sinnum og líka þekti jeg mörg systkin hans, sem voru víðsvegar þar syðra, bæði hjú og búendur, meðal þeirra var Sæfinnur vatnsberi í Reykjavík, er gárungar kölluðu Sæfinn með sextán skó. Þessi systkini voru fyrir mínum augum ekki meiri en miðlungsfólk, og báru sum þeirra vitni þess, að vanlíðan í æsku hefði markað þroska þeirra. Einkum var það einn bræðranna, sem Helgi hjet, er talinn var lítilmenni. En Sæfinnur og Guðmundur voru þeirra burðugastir.

Sæfinnur

Sæfinnur Hannesson.

Ágúst í Halakoti lýsir Guðmundi Hannessyni sem frábæru karlmenni og bestu skyttu, og er það enginn efi að svo hafi verið, hafi hann skotið sjötíu hreindýr eins og Ágúst fullyrðir. Til dæmis um frækleik Guðmundar og hreysti, segir hann sögu af því, að eitt sinn hafi helskotinn tarfur, sem ekki átti undankomu auðið, ráðist á hann. Guðmundur brá sjer þá upp á svíra dýrins og banaði því með beittum hnífi. Þessu nákvæmlega samhljóða sögu heyrði jeg í bernsku minni um Guðmund Jakobsson. Kemur mjer til hugar, að það sama atvik sje fært á milli manna. Ekki var Guðmundur Hannesson jafn stórmannlegur í mínum augum, eins og í lýsingu þeirri sem Ágúst í Halakoti gaf af honum og efast jeg um að allar heimildir um dýraveiðar hans sjeu óyggjandi, því bygðar eru þær á sögnum, er gengið hafa mann frá manni. Jeg hefi spurt Herdísi Sigurðardóttur húsfrú á Varmalæk, sem þekti Guðmund vel, er hún átti heima á Vífilsstöðum og Krýsivík, hvort það geti komið til mála að hann hefði skotið sjötíu hreindýr. Hún þorði ekki að mótmæla því með öllu, að svo hefði getað verið þótt henni virtist líklegra að einhverju hefði verið krítað í þá tölu. En það vissi hún að hann var talinn góð skytta og skaut bæði refi og hreindýr, þegar tök voru á. Að öllum líkindum hefir hann lagt fleiri hreindýr að velli á Reykjanessfjallgarði, en nokkur annar maður.
Það væri fróðlegt að vita nöfn allra þeirra manna, sem skutu hreindýr á þessu svæði og tölu þeirra dýra, sem fjellu fyrir skotum, en um það er ekkert að finna nema í munnmælum, sem færast úr lagi og gleymast síðan með öllu.
Nú á dögum líta ýmsir svo á, að það hafi verið mesta goðgá að leggja þessi friðsömu fjalldýr að velli. En þau áttu ekki ætíð sjö dagana sæla. —
Þegar allt fór saman, vetrarbyljir, stórregn og hagleysi, þá hlutu þau að lokum að hníga að velli helfrosin og hungurmorða. Við allar þær nauðir losnuðu dýrin, sem fengu skot í höfuð eða hjarta og hlutu þar með bráðan bana. Má því líta svo á, að þessir markvissu veiðimenn hafi unnið miskunnarverk með því að leggja dýrin hreinlega að velli. Og með þeim færðu þeir líka oft þurfandi fjölskyldu góða björg í búið. Þá var heldur ekki um lagabrot að ræða, þótt hreindýr væru unnin á þeim árum, sem frásagnir þær gerðust sem hjer eru skráðar.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 7. tbl. 21.02.1943, Hreindýr og hreindýraskyttur – Kristleifur Þorsteinsson, bls. 53-54.

Hreindýr

Hreindýr.

Jarðfræðikort

Gengið var um svæðið ofan við Voga á Vatnsleysuströnd – ofan Reykjanesbrautar. Ekki var ætlunin að skoða hinar fjölmörgu minjar á svæðinu heldur að skoða þau merkilegu jarðfræðifyrirbæri, sem þar eru; flekaskilin (landrekið/höggunina) og misgengin.

Wegenerstöpull

Wegenerstöpull – Wegenerstöpull er annar tveggja steinstöpla (svipaður stólpi var reistur í Öskjuhlíð) sem reistur var af Alfred Wegener, þýskum vísindamanni, hér á landi vafalaust til viðmiðunar til að sýna fram á landrekskenninguna sína. Stöpulinn reisti Wegener í aprílmánuði árið 1930. Árið 2000 voru settar plötur með söguágripi á stöpulinn. Stöpullinn er ferkantaður, steyptur og rúmlega 3 m hár. Flatarmál er 1 x 1 m. Hann stendur við gangstétt efst á götunni Hegranes við gatnamót Arnarnes og Hegranes.

Eins og kunnugt er stendur landið á Reykjaneshryggnum, sem er úthafshryggur, á mótum tveggja jarðskorpufleka, Evrasíuflekans í austri og Ameríkuflekans í vestri. Flekana rekur um 1 cm í hvora átt á ári að meðaltali. Nýlega hefur verið reynt að gefa fólki kost á að kynnast þessu með einföldum hætti þar sem “brúnni á milli heimsálfa” hefur verið komið fyrir yfir eina gjána ofan við Stóru-Sandvík. Brúna hefði þess vegna mátt setja upp yfir eina gjána á Vogaheiði eða hvar sem er annars staðar á svæðinu.

Eldvirkni er að mestu bundin við flekaskilin sem liggja þvert yfir landið, frá Reykjanesi í suðvestri að Tjörnesi í norðaustri, en einnig á jaðargosbeltum. Fyrir vikið finnast yngstu jarðmyndanirnar á sömu svæðum og framleiðni gosefna er þar mest, þótt þess sjáist ekki endilega merki í Vogaheiðinni að undanskildum Þráinsskyldi. Merkin eru hins vegar gleggri beggja vegna. Jarðskorpuflekarnir fljóta á deigu möttulefni sem líkja má við það þegar ísjakar fljóta á vatni.

Stampar

Stampagígaröðin.

Með „landrekskenningunni“ er venjulega átt við þá kenningu sem þýski jarðeðlisfræðingurinn Alfred Wegener (1870-1930) setti fram í bókinni Myndun meginlanda og úthafa árið 1915. Annað afbrigði kenningarinnar kom fram 1964 og nefnist „botnskriðskenningin“ og loks þriðja afbrigðið 1968, „flekakenningin“.
Meginmunurinn á upphaflegu kenningunni og hinum síðari er sá, að í bók sinni (1915 og síðar) gerði Wegener ráð fyrir því að meginlöndin fljóti í hafsbotnsskorpunni, sem sé stöðug, en meginlöndin hreyfist (reki) um hana.
Samkvæmt síðari kenningunum berast meginlöndin með hafsbotninum, sem er á hreyfingu.

Flekaskil

Eldsumbrot á jörðinni síðustu milljón árin.

Wegener reyndi að skýra kenningu sína um hreyfingu meginlandsflekanna um hnöttinn. Í fyrsta lagi benti hann á hve vel Suður-Ameríka og Afríka falla saman, líkt og kubbar í púsluspili. Í annan stað sýndi Wegener fram á það að ýmsar jarðmyndanir frá mismunandi tímum falla saman, eða halda áfram, sitt hvoru megin við höfin, til dæmis fornar ísaldarmenjar í Suður-Afríku og á Suðurskautslandinu. Í þriðja lagi mátti skýra útbreiðslu ýmissa dýrategunda, sem nú eru aðskildar af breiðum höfum, með því að löndin hefðu fyrrum legið saman. Og í fjórða lagi gerði hann, ásamt veðurfarsfræðingnum Köppen, tengdaföður sínum, mikla samantekt á útbreiðslu ýmissa loftslagsbundinna jarðmyndana í jarðsögunni.

Háibjalli

Háibjalli.

En allt kom fyrir ekki, því engum tókst að benda á krafta sem væru nógu öflugir til að flytja meginlöndin. Árið 1960 setti bandaríkjamaðurinn Harry Hess (1906-1968) fram þá tilgátu, studda góðum rökum, að það séu hafsbotnarnir sem hreyfist: Þeir myndist við gliðnun á miðhafshryggjum en eyðist í djúpsjávarrennum. Kraftarnir sem hreyfa meginlöndin eru því iðustreymi í jarðmöttlinum. Meginlandsflekarnir dragast ýmist eða fjarlægjast hvern annan. Dæmi um fleka, sem dragast að hvorum öðrum eru afleiðingar flóðbylgjunnar í Indlandshafi á annan dag jóla 2004. Hér á landi eru flekarnir að fjarlægjast eins áður hefur komið fram.

Wegener

Prof. Dr. Alfred Wegener, ca. 1924-1930.

Svo undarlega vill til að sumarið 1912 ferðaðist Wegener ríðandi frá Akureyri um Dyngjufjöll, Kverkfjöll og Brúarjökul suður í Esjufjöll og til baka aftur — nefnilega þvert yfir íslenska sprungubeltið, sem er talandi dæmi um gliðnun skorpuflekanna. Ekki er ólíklegt að hann hafi og skoðað hinar augljósu ummerki þessa á Reykjanesskaganum og á Þingvöllum.
Reykjanesskaginn er allur mjög sprunginn. Á liðnum öldum hafa miklar jarðskorpuhreyfingar átt sér stað á skaganum. Þessar hreyfingar eiga sér enn stað og munu einnig eiga sér stað í framtíðinni.
Stöðug og hæg hreyfing í jarðskorpunni veldur spennu í bergi. Spennan getur orðið svo mikil að bergið þolir hana ekki lengur og berglögin bresta og þá verða jarðskjálftar.
Bruin-26Sprungubarmarnir sem koma fram við hreyfinguna kippast þá yfirleitt til í gagnstæðar áttir og standa mishátt. Sprungur sem myndast á þennan hátt nefnast misgengi. Á Íslandi eru misgengi og gjár með SV-NA stefnu algengastar sunnanlands en hins vegar er S-N stefna ríkjandi norðanlands. Dæmi þess má einnig sjá syðst á Reykjanesskaganum, s.s. í Þorbirni.
Á Háabjalla, sem er ákjósanlegt skoðunarsvæði fyrir þá, sem hafa áhuga á að skoða misgengi. Á svæðinu eru misgengisþrep sem liggja hvert upp af öðru. Samtals eru þau 4 eða fimm á Vogasvæðinu, Stapinn þar með talinn. Brúnir mynda nokkrar stórar og dálítið óreglulegar brotalínur.

Hrafnagjá

Hrafnagjá.

Fyrir austan meginbrotalínuna hefur landið sigið og margbrotnað upp. Hreyfingin er stöðug á þessu svæði og benda mælingar til þess að höggunin nemi að jafnaði um 2.8 millimetrum á ári eða 28 cm á einni öld. Frá Háabjalla má vel sjá hvernig brotabeltið á flekaskilunum hefur færst til beggja átta og sigið. Gjárnar, Hrafnagjá að norðanverðu og Huldugjá, Klifgjá, Aragjár og aðrar slíkar að sunnanverðu gliðna og ekki er óraunhæft að ætla að á þessu svæði geti glóandi hraun hvenær sem er fundið sér leið upp á yfirborðið.
Þátttakendur gengu af einhverjum ástæðum mun hraðar til baka.

Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mínútur.

Heimild m.a. http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=749.

Bruin-25

Misgengi á Reykjanesi.

Orkuverið Jörð

Eftirfarandi upplýsingar birtust í Fréttablaðinu árið 2009 undir fyrirsögninni „Sólkerfi á Reykjanesi“.
orka-3„Unnið er að því hörðum höndum að setja upp pláneturatleik um Reykjanesið í tengslum við sýninguna Orkuverið Jörð. „Stöplarnir fyrir pláneturnar eru komnir upp, en það á eftir að setja pláneturnar á þá,“ segir Róbert Kjartansson, sýningarstjóri Orkuversins Jarðar, í tengslum við svokallaðan pláneturatleik sem verið er að setja upp. Eftirlíkingu af plánetunum verður dreift um Reykjanes. Sólin er staðsett fyrir utan stöðvarhús Reykjanesvirkjunar og verða aðrar plánetur í hlutfallslega réttri fjarlægð frá sólinni. „Hægt verður að keyra á milli plánetanna en hugmyndin er sú að stilla reikistjörnunum upp svo að hægt verði að fylgja þeim inn í Reykjanesbæ.
Ég geri ráð fyrir orka-10því að þær verði allar komnar upp í sumar.“ Ratleikurinn er settur upp í tengslum við sýninguna Orkuverið Jörð sem er í stöðvarhúsi Reykjanesvirkjunar. „Sýningin fjallar um orku. Það má segja að henni sé skipt upp í fjóra hluta og er byrjað á kenningunni um Miklahvell. Þá er farið yfir í reikistjörnurnar í sólkerfinu og þeim öllum stillt upp í réttum stærðarhlutföllum. Næsti hluti er saga mannsins og orkunnar saman, allt frá því að við virkjum eldinn og fram á okkar daga. Svo er það orkunotkunin í heiminum. Þar er farið yfir það hvaðan við fáum orkuna, hvort sem það er úr jarðefnaeldsneyti, fallvötnum eða jarðvarma. Síðasti hluti sýningarinnar er virkjunin sjálf og orkuframleiðslan,“ útskýrir Róbert.
Þegar Róbert er spurður hvers vegna ákveðið hafi verið að orka-4ráðast í þetta verkefni segir hann að í rauninni hafi tækifærið bankað upp á. „Það komu hingað tveir herramenn, þeir Simon Hill frá Bretlandi og Björn Björnsson frá List og sögu, með þá hugmynd að setja upp þessa sýningu og þá var miðað við orkutengda ferðaþjónustu. Hugmyndin var að setja upp þessa sýningu við hliðina á orkuverinu sjálfu,“ segir Róbert og bætir við að hægt sé að sjá inn í orkuverið frá sýningunni því einn veggur þess sé gerður úr gleri.

Orka er líf
orka-5Inngangur sýningarinnar leiðir okkur í gegnum kenninguna um upphaf alheimsins með Miklahvell. Fyrir um 13,7 milljörðum ára var alheimurinn ekki stærri en greipaldin en sprakk svo út á ógnarhraða; slíkum ógnarhraða að ljósið sem fer með um 300.000 km hraða á sekúndu, ferðast ekki eina blýantslengd á þeim tíma. Ljósið fer 7 ½ hring um jörðina á einni sekúndu.
Þegar við höfum hafið ferð okkar með látum í Miklahvell leiðir Albert Einstein okkur inn í sýninguna. En hann var einn af þeim frumkvöðlum sem kom okkur í skilning um lögmál alheimsins. Vitanlega stóð hann á herðum risanna eins og Newton orðaði það sjálfur; Pýþagóras lagði fram kúlulaga jörð og reikistjörnur sem ferðuðust í hringi umhverfis mikinn eld. Aristóteles teiknaði upp heimsmynd með jörðina í miðju alheimsins og Aristarkos staðsetti allar sýnilegar reikistjörnur í réttri röð í sólkerfinu.
Kópernikus setti sólina miðju í staðinn fyrir jörðina („himnarnir snúast ekki, við orka-6gerum það“) og Johannes Kepler nýtti sér stærðfræðina og reiknaði út að kenningarnar áttu samleið með útreikningum.
Galileo Galilei horfði í gegnum sinn stjörnukíki og sannaði með sínum eigin augum. Newton setti fram þyngdarlögmálið sem heldur öllu saman og lagði stærðfræðilegan grunn með bók sinni Principia. Einstein setti fram afstæðiskenninguna, útvíkkun alheimsins, svartholin, hvítholin og raðaði öllu saman. Georges Lemaître steig fram og alheimurinn fæddist og síðan kom Hubbel og sá hann allan á einni nóttu.
Eftir að gestir hafa farið í gegnum sköpun alheimsins liggur leiðin inn í fyrsta hluta safnsins í gegnum vetrarbrautina okkar og inn í sólkerfið sem við tilheyrum. Sýningin skiptist í 4 hluta og eru þeir aðgreindir með veggjum sem líkja eftir hverfilblöðum:

Sólkerfið okkar
orka-7Stjörnufræðingar hafa varpað því fram að jörðin sé eins og eitt sandkorn á öllum ströndum jarðar í samræmi við stærð alheimsins. Þannig að smæð okkar sólkerfis er gríðarleg í samanburði við þær kenningar sem leiða líkur að því að 100.000 – 200.000 milljón sólir séu í vetrarbraut okkar (Milky Way). Gagnvirkur skjár leiðir gesti í gegnum allar reikistjörnurnar í okkar sólkerfi og sérstök líkön sýna hverja plánetu fyrir sig. Þú getur kynnst því hversu heitt er á Merkúr og hvað Júpiter hefur mörg tungl og allt þar á milli.

Maðurinn og orkan
orka-8Hvernig maðurinn hefur virkjað orkuna sér til framdráttar er kjarninn í þessum sýningarhluta. Hér getur að líta hvernig tækniþróunin er alltaf að verða hraðari og hraðari eftir því sem tíminn líður.
Gagnvirkur skjár gefur gestum tækifæri á að kynna sér helstu uppgötvanir ásamt því að sérstakur sýningargripur sýnir hvernig orkan breytist úr einu formi yfir í annað; snigill Arkimedesar breytir hreyfiorku mannsins í fallorku, þaðan í vindorku sem loks hellir upp á.

Mismunandi orkugjafar
Í þessum hluta safnsins kynnast sýningargestir mismunandi orkugjöfum og því hvernig maðurinn nýtir sér orkuna til að knýja daglegt líf. Sólarorka, vindorka, kjarnorka, vetni, etanól, jarðefnaeldsneyti (kol, olía, gas). Nánast öll staðbundinn orka á Íslandi kemur frá umhverfis-vænum orkugjöfum (vatnsfallsvirkjunum eða jarðvarmavirkjunum).
Því er öðruvísi farið í flestum öðrum löndum þessa heims. T.d. kemur yfir 90% af allri raforkuframleiðslu bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum frá jarðefnaeldsneyti og kjarnorku.

Virkjun jarðvarma á Íslandi
orka-9Í síðasta hluta sýningarinnar er greint frá því á hvern hátt HS Orka virkjar jarðvarma á Reykjanesi. Glerveggur gefur gestum tækifæri á að sjá inn í vélasal virkjunarinnar þar sem tveir gufuhverflar framleiða hvor um sig 50 megavött af rafafli. Sú orka nægir til að knýja Reykjavíkurborg á góðum sumardegi. Hver hverfill um sig kostar 3 milljarða og eru það dýrustu og afkastamestu sýningargripirnir. Jarðskjálftahermi er að finna í þessum sýningarhluta.

Allir, sem leið eiga út á Reykjanes, ættu að koma við í Orkuverinu Jörð með það fyrir augum að skoða og fræðast um það sem sýningin hefur upp á að bjóða.

Heimild:
-Fréttablaðið 10. júní 2009, bls. 26.
-www.hsorka.is/kynningarefni.

Reykjanesvirkjun

Í Reykjanesvirkjun.

Hverasvæði

Hvera- og jarðhitasvæðin eru nokkur á Reykjanesskaganum, enda landsvæðið bæði tiltölulega ungt á jarðfræðilegan mælikvarða auk þess sem flekaskil liggja um skagann endilangann. Þau skiptast í háhita- og lághitasvæði.
Helstu háhitasvæðin eru í Brennisteinsfjöllum, á Hengilssvæðinu, yst á Reykjanesi, í Krýsuvík, við Trölladyngju, við Stóru Sandvík, í Eldvörpum og í Svartsengi. Sum svæðanna tengjast innbyrðis að einhverju leyti.

Háhitasvæði
Á vefnum Wikipedia.org er fjallað almennt um háhitasvæði:
„Háhitasvæði eru svæði þar sem hiti á 1 km dýpi er yfir 200°C. Jarðhitasvæðum er skipt eftir hámarkshitastigi í efsta lagi jarðskorpu en það er gjarnan metið með mælingu á hitastigli svæðisins. Háhitasvæði eru iðulega að finna á virkum gos- og rekbeltum, ýmist á flekamótum eða flekaskilum. Þar er jarðskorpan heitust og fer kólnandi eftir því sem fjær dregur og jarðlögin jafnframt eldri. Ummerki um háhitasvæði á yfirborði jarðar eru brennisteinshverir, gufuhverir, leirhverir og vatnshverir.

Háhitasvæði
Hitastig í miðju jarðar í kjarna hennar er um 7000°C. Uppruni þessa hita er tvíþættur. Sú orka sem átti þátt í myndun jarðarinnar fyrir 4600 milljónum ára umbreyttist í varma. Hins vegar myndast varmi í möttli og jarðskorpu vegna klofnunar geislavirkra samsæta á borð við þóríum 232Th, úraníum 238U og kalíum 40K0 og berst hann til yfirborðsins með varmaburði og varmaleiðni.

Laugardalur

Laugardalur – þvottalaugarnar.

Talið er að maðurinn hafi öldum saman nýtt sér jarðhita til að mæta ýmsum þörfum. Þar má nefna notkun til baða, þvotta, matseldar og iðnaðar. Ein frægasta laugin á Íslandi er líklega Snorralaug. Þá bendir ýmislegt til þess að jarðhiti hafi verið notaður til ylræktar til dæmis í Hveragerði og á Flúðum. Eins og nafn þeirra bendir til, voru Þvottalaugarnar í Laugardalnum lengi vel notaðar til þvotta og upp úr 1930 var farið að nota þær til húshitunar. Laugardalurinn telst þó til lághitasvæða. Þegar olíukreppa skall á árið 1970 hófst mikil vinna við að finna orkugjafa sem leysti olíu og kol af hólmi til kyndingar. Í dag eru opinberar hitaveitur á fjórða tug og litlar sveitahitaveitur tæplega tvö hundruð.

Ítalir voru fyrstir til að nýta jarðhita til raforkuframleiðslu en þá var gufuvél tengd við rafal sem framleiðir rafmagn. Í kjölfarið var fyrsta jarðhitavirkjun heims reist þar með 250 kW afköstum. Í dag er afl virkjunarinnar rúmlega 700 MW og til stendur að stækka hana í 1200 MW.  Íslendingar hafa lengi verið í fremstu röð hvað varðar jarðhitarannsóknir og jarðhitanýtingu.“

Á vefsíðum Orkustofnunnar og ÍSOR má lesa eftirfarandi um háhitasvæðin:
Megineldstöðvar
„Mið-Atlantshafshryggurinn liggur í gegnum Ísland, sem skýrir dreifingu jarðhitans um landið. Öflugustu háhitasvæðin liggja öll í gosbeltinu sem hefur myndast á flekaskilum. Þar eru skilyrði sérlega góð til myndunar jarðhitakerfa vegna nægra varmagjafa í formi heitra kvikuinnskota og margsprunginnar og vel vatnsgengrar jarðskorpu. Hringrás vatnsins flytur smám saman varma frá dýpri hlutum skorpunnar upp undir yfirborð þar sem hún þéttir að nokkru leyti yfirborðsjarðlögin með útfellingum og myndar jarðhitageyma eins og þekktir eru frá borunum niður á 1 – 3 km dýpi.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – aðkoman upp frá Fagradal – ÓSÁ.

Jarðhitasvæðið í Brennisteinsfjöllum liggur í 400–500 m hæð yfir sjó. Í eldstöðvakerfinu sem kennt er við Brennisteinsfjöll er skýrt afmörkuð gos- og sprungurein með stefnu NA-SV. Kjarninn í henni er á milli Heiðarinnar há og Bláfjalla að austan og Lönguhlíðarstapans að vestan. Bláfjöll eru oft felld undir þetta sama eldstöðvakerfi sem sérstök gosrein með móbergshryggjum, dyngjum og fáeinum gígaröðum, mikilli gosframleiðslu, en furðulítið er þar um brot. Jarðhitasvæði er ekki sýnilegt í Bláfjallareininni. Brennisteinsfjöll voru á náttúruverndaráætlun 2003-2008. Þau þykja sérstök vegna óvenju fjölbreyttra jarðmyndana og þá einkum gosmenja. Bent er á að Brennisteinsfjöll og umhverfi eru meðal fárra slíkra svæða nærri höfuðborgarsvæðinu sem mega heita ósnert. Hins vegar er land þar niðurnítt af beit og uppblásið með flögum og vatnsgrafningum.
Viðnámsmælingar benda til þess að svæðið sé um 18 km2 á 700 m dýpi undir sjávarmáli, um 1200 m undir yfirborði þar sem jarðhita verður vart.

Jarðhitasvæðið í Brennisteinsfjöllum

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – námusvæðið.

Virkur jarðhiti kemur fram sem gufur í um 450 m hæð en köld ummyndun er á fjórum stöðum og vitnar um meiri virkni á fyrri tíð. Jarðhiti á yfirborði er óverulegur og miðað við útbreiðslu jarðhita og ummyndunar er svæðið um 3 km2. Háhitasvæðið í Brennisteinsfjöllum liggur í samnefndri sprungurein og hefur gosið þar a.m.k. 30–40 sinnum eftir að ísöld lauk. Brotalínur eru ungar á svæðinu frá sjó og norður á Mosfellsheiði og verða oft jarðskjálftar á um 5 km breiðu og um 40 km löngu belti. Jarðskjálftar í Brennisteinsfjöllum geta orðið nokkuð stórir.
Megingerð jarðlaga er móberg og þar sem gosstöðvar hafa náð upp úr jökli hafa runnið hraun og myndast stapar eða hraunahryggir. Allar bergmyndanir eru basalt og ekkert súrt eða ísúrt berg hefur fundist á yfirborði.

Hengilssvæði

Hengilssvæðið

Horft yfir Hengilssvæðið að hluta.

Hengilssvæðið er með stærstu jarðhitasvæðum á landinu, eða um 140 km2. Það er þó ekki allt einn og sami suðupotturinn. Vesturhlutinn tengist eldstöðvarkerfi Hengilsins. Innan hans eru vinnslusvæðin á Nesjavöllum og á Hellisheiði. Austan Hengils er Ölkeldu­hálssvæðið, sem tengist Hrómundar­tindseldstöðinni. Sunnan þess er Hverahlíð og ný gögn benda til að vinnanlegur jarðhiti geti verið við Gráuhnúka og Meitil. Austasti hluti háhita­svæðisins tengist Hveragerðiseldstöðinni sem er útdauð og sundurgrafin.

Hellisheiðavirkjun nýtir jarðhitavökva frá Hellisheiði og Hverahlíð. Alls er talið að Hengilssvæðið geti staðið undir um 700 MWe rafafli og enn meira varmafli.

Jarðhiti á Hengilssvæðinu

Hengilssvæðið

Á Hengilssvæðinu.

Hengilssvæðið nær yfir tvær megineldstöðvar og nágrenni þeirra. Önnur, Hveragerðiseldstöðin, er útdauð og sundurgrafin. Hin er virk og nær yfir Hengil og Hrómundartind. Gosmyndanir á svæðinu eru um 800.000 ára gamlar. Elstu jarðlögin er að finna í ásunum suðaustan við Hveragerði en yngst eru hraunin sem flætt hafa frá gosreininni gegnum Hengil.

Gosmyndanir á Hengilssvæðinu eru fjölbreyttar. Aðalgerðir eldstöðva eru þó einungis tvær, tengdar sprungugosum og dyngjugosum. Jarðskorpuhreyfingar í gliðnunarbelti, eins og verið hefur á Hengilssvæði allan þann tíma sem jarðsaga þess spannar, sýna sig í gjám og misgengjum og hallandi jarðlögum á jaðarsvæðunum. Skjálftabelti Suðurlands gengur austan til inn í Hengilssvæðið.

Henglafjöll

Henglafjöll.

Á vestanverðu Hengilssvæðinu er landslagið mótað af gosmyndunum sem hafa hlaðist upp á síðasta jökulskeiði og á nútíma. Austan til hafa roföflin hins vegar mótað það.

Laus jarðlög þekja sléttlendi og fjallshlíðar eru hvergi mjög skriðurunnar nema þar sem þykk hraunlög eru í brúnum eða fjöllin eingöngu úr bólstrabergi. Um vatnafar á Hengilssvæðinu skiptir í tvö horn. Á því vestanverðu eru stöðugar lindir og lækir einungis þar sem jarðlögin eru svo ummynduð að þau halda vatni. Annars sígur þar allt vatn í jörð. Á austanverðu svæðinu renna ár og lækir árið um kring.

Hengilssvæðið er með stærstu jarðhitasvæðum á landinu, eða um 100 km2. Það er þó ekki allt einn og sami suðupotturinn, heldur er það a.m.k. þrískipt:

Grændalur

Í Grændal.

Suðaustasti hluti þess er í Hveragerðiseldstöðinni (Grændalur). Hún er hætt gosum og þegar nokkuð rofin. Boranir í Hveragerði og upp með Varmá hafa sýnt að þar er á ferðinni afrennsli af heitara svæði norðar eða norðvestar. Vinnsla umfram það sem núverandi borholur gefa myndi því byggjast á borunum í Grændal. Ef nefna ætti eitthvert séreinkenni þessa svæðis, þá væru það kísilhverirnir í Hveragerði og á Reykjum, eða hinar fjölmörgu laugar sem spretta fram úr berghlaupum í Grændal. Innan um eru gufuhverir sem gjarnan fylgja sprungum tengdum Suðurlandsskjálftum. Mörg dæmi eru um hverabreytingar á þessu svæði, bæði fornar og nýjar. Svæðið er þægilega lágt í landinu, um og innan við 200 m. Aðgengi útheimtir vegalagningu yfir skriðurnar vestan megin í dalnum án þess að spilla hverum eða laugasvæðum.

Reykjadalur

Í Reykjadal.

Ölkelduhálssvæðið sker sig úr fyrir kolsýrulaugarnar sem eru í þyrpingu frá Ölkelduhálsi suður í Reykjadal og í Hverakjálka. Jarðhitinn þar fylgir gosrein með misgömlum móbergsfjöllum og stökum hraungígi, Tjarnarhnúki.
Loks er jarðhitasvæðið í Henglafjöllum. Það nær frá Nesjavöllum suðvestur í Hveradali og Hverahlíð. Jarðhitinn er mestur og samfelldastur utan í Hengli alls staðar nema norðvestan megin. Brennisteinshverir eru mestir vestan til í Henglafjöllum, þ.e. í Sleggjubeinsdölum, norðan við Innstadal og ofan við Hagavíkurlaugar. Austan megin eru kalkhverir og kolsýrulaugar algengar. Jarðhitanum á Henglafjöllum má hugsanlega skipta í nokkur vinnslusvæði, sem öll gætu verið innbyrðis í þrýstisambandi: Nesjavelli, Sleggjubeinsdal, Hellisheiði, Hverahlíð, Þverárdal, Innstadal og Fremstadal.
Landslag á svæðinu er fjöllótt og vinnsla jarðhita fer mjög eftir aðgengi að viðkomandi svæðum. Einnig eru jarðhitasvæðin misjafnlega heppileg til nýtingar, sem aðallega fer eftir hita og kolsýruinnihaldi.

Reykjanessvæði

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræðikort ÍSOR.

Á Reykjanesi kemur gliðnunarbelti Reykjaneshryggjarins úr sjó. Eystri hluti Reykjaness er klofinn af misgengjum og opnum gjám, en vestari hlutinn að mestu hulinn yngri hraunum úr Stamparöðinni. Úr henni hefur gosið 3-4 sinnum á síðustu 5 þúsund árum, síðast 1226. Líklegt er að tvær aðskildar sprungureinar séu á Reykjanestá, og að háhitakerfið sé tengt þeirri eystri en nái ekki yfir í þá sem vestar liggur, þ.e. Stampareinina. Viðnámsmælingar gefa til kynna að jarðhitakerfið sé bundið við þrönga uppstreymisrás eða sprungu og heitt afrennsli út frá henni á 2–300 m dýpi í allar áttir. Þegar rýnt er í viðnámsmyndina neðan lágviðnámskápunnar niður á 5 km dýpi má sjá svæði eða strók með lægra viðnámi en umhverfis. Vökvinn í jarðhitakerfinu er jarðsjór og hiti fylgir suðumarksferli yfir 300°C. Stærð svæðisins er talin um 9 km2 og vinnslugeta er metin 45 MWe.

Framkvæmdasvæðið er innan svæðisins Reykjanes-Eldvörp-Hafnaberg sem er á Náttúruminjaskrá, ekki síst vegna merkilegra jarðmyndana. Einnig njóta jarðmyndanir á svæðinu sérstakrar verndar skv. 37. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013. Það á við um nánast öll hraun á svæðinu, fjölda gíga, Stamparöðina og Skálafell og hvera­svæðið við Gunnuhver.

Jarðhitasvæðið á Reykjanesi

Gunnuhver

Á Reykjanesi – Gunnuhver og nágrenni.

Jarðhitasvæðið á Reykjanesi (á hælnum) er um það bil 1 km2 að stærð sé einungis miðað við hverina og önnur sýnileg jarðhitamerki. Viðnámsmælingar benda til að það sé a.m.k. fjórfalt stærra og teygist auk þess út í sjó til suðvesturs. Jarðhitasvæðið er að mestu þakið hraunum en móbergs- og bólstrabergshryggir standa upp úr. Einn þeirra, Rauðhólar, nær inn á jarðhitasvæðið. Þar voru fyrstu vel heppnuðu vinnsluholurnar boraðar.

Tvær gosreinar liggja yfir “hælinn” á Reykjanesi og er jarðhitinn á þeirri eystri milli Skálafells og Litla-Vatnsfells. Vestar er Stampareinin með yngstu hraununum. Á henni er ekki jarðhiti en viðnámsmælingar gefa til kynna að jarðhitakerfið nái einnig til hennar.

Stampar

Stampar.

Á Reykjanesi er að finna mörg jarðfræðileg fyrirbæri sem vert er að skoða. Þar ber af öskugíg með berggöngum þar sem Stampagígarnir ganga fram í sjó. Á jarðhitasvæðinu hafa goshverir komið upp endrum og eins, raunar tvisvar á síðustu öld í tengslum við jarðskjálftahrinur. Þeir gjósa jarðsjó en hafa reynst skammlífir.

Kísilhóll

Kísilhóll h.m.

Langlífari hefur verið goshver í svo kölluðum Kísilhól sem nú er óvirkur. Hann er úr móbergi með metraþykku kísilhrúðri ofan á. Þar má einnig sjá sprungu sem reif sig upp í skjálftahrinu fyrir 35 árum og sýnist enn fersk þar sem hún liggur norðaustur frá Gunnuhver. Það sem gefur Reykjanessvæðinu mest gildi er vitundin um að þar koma plötuskil Reykjaneshryggjarins á land.

Ferðamenn sem fara út á Reykjanes staldra hjá Valahnúkum til að skoða brimið og hjá Gunnuhver sem er leirpyttaklasi norðan undir Kísilhólnum.

Höyer

Búsetuminjar við Gunnuhver.

Búseta á Reykjanesi hefur skilið eftir sig ummerki (bú vitavarðar og nýbýlið Hveravellir). Garðrækt hefur lengi verið stunduð, efnistaka í vegi, boranir og verksmiðjurekstur og því hróflað við mörgu. Ný fyrirbæri hafa skapast. Merkast af þeim eru kísilpaldrarnir vestan undir Rauðhólum í afrennslinu frá saltverksmiðjunni.

Reykjanessvæðið er eitt best rannsakaða háhitasvæði landsins. Grunnurinn að þeim rannsóknum var lagður á árunum fyrir 1970. Þá var nýafstaðin öflug skjálftahrina og við hana færðist líf í hveri. Síðan hefur virknin dvínað töluvert.

Reykjanessvæðið er með þeim heitustu sem nýtt eru hér á landi. 30 ára vinnsla hefur ekki haft nein merkjanleg áhrif á forðann í jarðhitakerfinu. Efnainnihald í jarðsjónum skapar vanda við nýtingu en jafnframt seljanlega vöru.

Krýsuvíkursvæðið – Seltún

Seltún

Hverasvæðið í Seltúni.

Krýsuvíkursvæðið nær yfir jarðhitasvæðin á Austurengjum, í Krýsuvík, í Köldunámum, Trölladyngju, og við Sandfell. Krýsuvík er hluti af Fólkvangi á Reykjanesskaga. Land í Krýsuvík er í eigu Hafnarfjarðarbæjar. Á Austurengjum er jarðhitinn aðallega á einni rák sem nær frá Austurengjahver norður í Kleifarvatn.

Meginsvæðið er um 80 km2 að flatarmáli. Umfangsmiklar rannsóknir standa yfir en segja má að miðja uppstreymis sé enn ekki staðsett. Í Trölladyngju eru tvær borholur. Í báðum er um 250°C hiti ofarlega, síðan hitalækkun, en dýpri holan endar í 330°C hita á rúmlega 2 km dýpi. Í Krýsuvík er hveravirknin samfelldust í Hveradölum og við Seltún og nokkuð upp á Sveifluhálsinn, með gufu- og leirhverum. Í Krýsuvík hefur dýpst verið borað um 1200 m. Hæstur hiti í borholum þar er í Hveradölum um 230°C og nærri suðuferli niður á um 300 m dýpi en þar neðan við kólnar.

Viðnámsmælingar gefa vonir um að rafafl svæðisins sé 440 MWe og varmaafl öllu meira. Svæðið er metið 89 km2 og rafafl 445 MWe. Óvissa ríkir um vinnslugetu meðan miðja uppstreymis er ekki fundin með rannsóknarborunum.

Jarðhitasvæðið Krýsuvík

Austurengjar

Hveraummyndanir á Austurengjum.

Krýsuvíkursvæðið nær yfir jarðhitasvæðin á Austurengjum, í Krýsuvík, Köldunámum, Trölladyngju og við Sandfell. Fjögur þau fyrsttöldu sýna sig samfelld í viðnámsmælingum en Sandfellssvæðið er laust frá. Meginsvæðið er hringlaga um 50 km2 að flatarmáli innan 10 ohmm jafnlínu. Sandfellssvæðið er mælt á sama hátt um 4 km2. Sveifluháls og Vesturháls með Trölladyngju eru móbergshryggir samsettir úr mörgum goseiningum og ná mest í 300-400 m hæð. Nútímahraun þekja allt sléttlendi vestan við hálsana og á milli þeirra. Upptök þeirra eru í gossprungum báðum megin við og utan í Vesturhálsi og Trölladyngju. Gossprungur eru einnig austan í Sveifluhálsi og sprengigígar á öldunum vestan hans en hraunmagn úr öllum er lítið. Gosvirknin hjaðnar þaðan til NA og verður að lægð þar sem Kleifarvatn er. Jarðmyndanir milli Sveifluháls og Austurengja eru eldri en vestur í hálsunum og á hraunasvæðunum. Efnismiklar móbergsmyndanir úr öðru eldstöðvakerfi eru austan við Kleifarvatn og öldurnar þar suður af.

Hveravirknin á fyrrnefndum fjórum jarðhitasvæðum er að ýmsu leyti ólík.

Baðstofa

Í Baðstofu.

Í Krýsuvík er hveravirknin samfelldust í Hveradölum og við Seltún og nokkuð upp á hálsinn, með gufu- og leirhverum. Þar er nokkuð um brennisteinshveri og miklar gifsútfellingar. Hverir eru einnig í Grænavatni. Frá Grænavatni og Gestsstaðavatni liggja gossprungur með fleiri gígum til norðurs, og stefnir önnur upp í Hveradali en hin á hverina við Seltún. Hæstur hiti í borholum er í Hveradölum um 230°C. Dýpst hefur verið borað um 1200 m. Hiti er nærri suðuferli niður á ~300 m dýpi en þar neðan við kólnar. Engar mælingar eru til úr borholum neðan 400 m.

Austurengjahver

Austurengjahver.

Á Austurengjum er jarðhitinn aðallega á einni rák sem nær frá Austurengjahver norður í Kleifarvatn. Töluverð ummyndun sést í bergi alllangt út frá beggja vegna. Auk jarðhitans eru á þessari hitarák nokkrir sprengigígar sem gosið hafa gjalli og smáhraunum með úrkastinu. Sá stærsti er um 100 m í þvermál skammt norðaustur af Stóra-Lambafelli og mikil gjalldreif austur frá honum. Gígar þessir eru frá því snemma á nútíma. Ein 600 m djúp borhola er við Kleifarvatn um 150 m vestan við hverarákina. Hæstur hiti í henni er um 160°C. Síðsumars 1924 lifnaði Austurengjahver við jarðskjálfta en var áður lítilfjörlegur. Stórir hverasprengigígar eru norður frá honum en eldri, sem bendir til að grunnt sé á jarðhitakerfi nærri suðu líkt og í Krýsuvík.

Köldunámur

Köldunámur.

Köldunámur heita vestan í Sveifluhálsi langt norður frá jarðhitanum í Krýsuvík. Þar skammt vestur af eru gufuaugu í hraunbolla og nokkur brennisteinn (Leynihver) en í hlíðinni köld jarðhitaskella. Gifsmulningur sést sem bendir til að þar hafi einhvern tíma verið brennisteinshverir.

Leynihver

Leynihver.

Í Trölladyngju eru hverir og ummyndun samfelldust á skák sem nær austan frá Djúpavatni vestur á Oddafell. Hveravirkin er fremur dauf, tveir hverir upp við Sogin, gufur með smávegis brennisteini og hverasprengigígur neðan undir hálsinum og hitaskellur í Oddafelli. Sprengigígar og miklir gjallgígar eru á gossprungum þar sem þær liggja yfir fyrrnnefnda A-V-skák. Ummyndun er mest í Sogum þar sem stórt svæði er ummyndað í klessuleir. Vestan í hálsinum frá Sogum, suður á móts við Hverinn eina, er móbergið einnig ummyndað en hvergi nærri eins og í Sogum. Þar eru stórir sprengigígar frá ísöld og vatn í sumum. Djúpavatn er myndað á sama hátt.

Hverinn eini

Hverinn eini.

Kalkhrúður finnst á tveim stöðum. Hitarák með gufuhverum liggur frá Trölladyngju um Eldborg norður í Lambafell, bundin nánast við eina sprungu. Hverinn eini er í hrauni skammt suðvestur af SV-endanum á Oddafelli. Gufuauga með smávegis brennisteini er í hraunbolla og gufur á smásvæði í kring. Þar hjá er dálítil hrúðurbunga (kísill) og kaldar hveraholur í henni. Í Trölladyngju eru tvær borholur, önnur við hverasprunguna norðan undir henni og hin á hverasvæðinu vestan undir hálsinum. Báðar gefa um 260°C hita ofarlega, síðan hitalækkun, en dýpri holan endar í 320°C hita á rúmlega tveggja km dýpi.

Sogin

Í Sogum.

Jarðhitinn sem kenndur er við Sandfell er í hrauni norðaustan undir fellinu. Þar stígur gufueimur máttleysislega upp á nokkrum stöðum. Á bletti er leirkennd ummyndun í jarðvegi og þar hefur hiti mælst nærri suðumarki. Móbergið í Vesturhálsi er nokkuð ummyndað á móts við Sandfell og inn með Selvöllum og þar eru grónar hlíðar með rennandi lækjum. Uppi á háhálsinum gegnt gufunum við Sandfell er allstór, leirgul hveraskella en alveg köld. Svæðið gæti samkvæmt því verið stærra en sýnist af yfirborðsmerkjunum.

Hitalækkun í borholum eftir að nokkur hundruð metra dýpi er náð hefur vakið spurningu um hvar uppstreymis sé að leita. Boranirnar í Trölladyngju benda til að þar sé þess að leita undir Sogum. Í Krýsuvík væri þess helst að leita undir Sveifluhálsi. Austurengjahitinn er í útjaðri jarðhitakerfisins skv. viðnámsmælingum, líkt og Trölladyngjuholurnar vestan megin. Svæðið þar sem viðnámsmælingar skynja hátt viðnám undir lágu þarf ekki að lýsa núverandi ástandi því þær sjá ekki mun á því sem var og er >240°C heitt.

Stóra Sandvík

Stóra Sandvík

Stóra Sandvík.

Niðurstöður djúpviðnámsmælinga gefa til kynna að jarðhita kunni að vera að finna á Stóru Sandvíkursvæðinu. Ekki er unnt að meta stærð hugsanlegs jarðhitageymis því veru­legur hluti hans gæti legið utan við ströndina. Boranir þarf til að fullvissa sig um hvort nýtanlegur hiti sé á svæðinu. Líklegt er að jarðhitakerfið sé tengt jarðhitakerfinu á Reykjanesi og því mætti líta á Stóru Sandvík sem annan virkjunarstað á Reykjanessvæðinu.

Eldvörp – Svartsengi

Eldvörp

Í Eldvörpum.

Í Svartsengi hefur verið rekin jarðhitavirkjun frá 1977 og er núverandi afl hennar 70 MWe. Í Eldvörpum liggur fyrir hugmynd um að virkja 30-50 MWe í fyrsta áfanga. Borhola, EG-2 var boruð þar árið 1983 niður í 1265 m dýpi. Hún hefur aldrei verið nýtt, en hefur verið blástursprófuð og eftirlitsmæld nær árlega alla tíð síðan. Hún sýnir náin tengsl við jarðhitasvæðið í Svartsengi, og niðurdælingasvæði Svartsengis liggur mitt á milli svæðanna. Svæðið Eldvörp-Svartsengi er talið um 30 km2 og rafafl þess er metið 150 MWe.“

Lághitasvæði

Ölfus

Ölfusölkelda á Hengilssvæðinu.

Í Wikipedia.org er einnig fjallað um lághitasvæði:
„Lághitasvæði eru skilgreind svæði með jarðhita þar sem hiti er lægri en 150°C á 1-3 km dýpi í jörðu. Lághitasvæði Íslands eru fjölmörg en þau eru misdreifð um landið. Mikill lághiti er á Vestfjörðum, í Borgarfirði og víða um Suðurland og Miðnorðurland. Lítið er um lághita á Austfjörðum og í Skaftafellssýslum. Leit að heitu vatni á lághitasvæðum til húshitunar, garðyrkju, fiskeldis eða annarra nota beinist að því að finna heitt vatn á sem ódýrastan hátt. Lághitavatn keppir við aðra orkugjafa til húshitunar.

Lághitasvæði eru stundum talin nálægt 250 á landinu, og eru þau mjög misstór, allt frá einstökum volgrum og upp í nokkra tugi uppsprettna. Oft er erfitt að skera úr hvað skuli teljast til eins og sama lághitasvæðis, og geta slíkar skilgreiningar breyst með tímanum eftir því sem þekking eykst á einstökum svæðum.“

Á vef ÍSOR segir um lághitasvæði:
Lághitasvæði„Lághitasvæði landsins eru utan við virka gosbeltið sem nær frá Reykjanestá norður um landið út í Öxarfjörð. Þau ná frá jöðrum gosbeltanna, út um allt land og út á landgrunnið. Að vísu má ná ágætis lághitavatni innan gosbeltisins, hvort heldur er til húshitunar, garðyrkju eða fiskeldis, og eru Reykjanesskaginn og Öxarfjörður gott dæmi þar um.

Lághitarannsóknir

Ölkelda

Ölkelda í Hengladölum – nú horfin.

Leit að heitu vatni á lághitasvæðum til húshitunar, garðyrkju, fiskeldis eða annarra nota gengur út á að finna heitt vatn á sem ódýrastan hátt. Lághitavatn keppir við aðra orkugjafa til húshitunar. Einstaklingar og smærri byggðarlög eiga því nokkuð undir högg að sækja þar sem samanlagður jarðhitaleitar- og vinnslukostnaður má ekki fara yfir ákveðið hámark á einhverjum ásættanlegum afskriftatíma, þó í reynd njóti nokkrar kynslóðir góðs af stundum áhættusamri jarðhitaleit.

Með breyttri tækni í jarðborunum hefur þróast upp ný leitartækni hjá ÍSOR sem kallast hefur jarðhitaleit á köldum svæðum (þurrum svæðum) og gengur slík leit út á að gera fjölda viðnámsmælinga eða bora margar 50-60 m djúpar ódýrar hitastigulsholur á tilteknu landsvæði og finna þannig út hvar grynnst er á nýtanlegan jarðhita til húshitunar (helst >60°C). Ef álitlegur valkostur finnst er nokkur hundruð metra djúp vinnsluhola boruð.“

Reykir
Lághitasvæði á Reykjanesskaganum eru t.d. yst á Reykjanesi, á Krýsuvíkursvæðinu, í Ölfusdölum, á Hengilssvæðinu og á Reykjavíkursvæðinu, s.s. á Reykjum í Mosfellsbæ og í Hvammsvík í Kjós.

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/H%C3%A1hitasv%C3%A6%C3%B0i
-https://orkustofnun.is/jardhiti/jardhitasvaedi-a-islandi/hahitasvaedi/
-https://www.isor.is/jardhitasvaedid-i-brennisteinsfjollum
-https://www.isor.is/jardhiti-hengilssvaedinu
-https://www.isor.is/jardhitasvaedid-reykjanesi
-https://www.isor.is/jardhitasvaedid-krysuvik
-https://is.wikipedia.org/wiki/L%C3%A1ghitasv%C3%A6%C3%B0i
-https://www.isor.is/laghiti

Hverasvæði

Á hverasvæði Reykjaness.

Kristinn Benediktsson

Í Víkurfréttum 1994 er stutt grein eftir blaðamanninn og ljósmyndarann Kristinn Benediktsson undir fyrirsögninni „Reykjanes; sækum það heim„:

Saga svæðisins

Krýsuvík

Krýsuvík 1810.

„Allur Reykjanesfólkvangur er í hinu upprunalega landnámi Ingólfs Arnasonar, en brátt komu aðrir til sem segir í Landnámu.
Þórir Haustmyrkur nam þá Krýsuvík ásamt Selvogi. Gamli bærinn þar sem nú heitir Húshólmi í Ögmundarhrauni, sem eftir síðustu rannsóknum dæmist hafa runnið á fyrri helmingi 11. aldar. Þá hefur verið hörfað með bæjarhúsin uppundir Bæjarfellið þar sem þau stóðu öldum saman og þar stendur kirkjan enn. Bæjarrústir eru í Húshólma og rústir gamalla fjárborga í Óbrennishólma nokkru vestar í hrauninu.

Húshólmi

Skálatóft í Húshólma í Gömlu-Krýsuvík.

Krýsuvík var höfuðból og kirkjustaður og fylgdu henni margar hjáleigur. Alls eru til heimildir um 13 býli í Krýsuvíkurlandi að höfuðbólinu meðtöldu.
Þetta var byggðahverfi og kirkjusókn um aldir. Krýsuvík var mikil jörð, beitiland mikið og heyskapur góður, að minnsta kosti þegar ekki var mikið í Kleifarvatni, sem átti það til að standa hátt í kvos sinni árum saman en lækka síðan, allt eftir áhrifum úrkomunnar- því afrennsli hélst jafnt og það eingöngu neðanjarðar. Hlunnindi voru mikil og telur jarðabók Arna Magnússonar og Páls J. Vídalín skóg til kolagerðar fyrir ábúendur, móskurð, fjörugrös sem ábúendum nægi, eggjatekju og fuglaveiði í bergi, selveiði, rekavon í betra lagi og sölvatekju nokkra og útræði fyrir heimamenn á Selatöngum. Selstöður eru taldar tvær, önnur til fjalla en hin niður við sjó.

Krýsuvíkurleið

Gamli Krýsuvíkurvegurinn.

Krýsuvík var öldum saman í alfaraleið. Þar lágu leiðir milli Suðurlands og Suðurnesja og Grindavíkur, um Móhálsa (Vigdísarvelli) og Selvelli á Suðurnes og Ketilsstíg (Sveifluháls norðan Arnarvatns) inn til kaupstaðanna við Faxaflóa. Þarna fóru m.a. miklir vöruflutningar fram, skreið og landafurðir.
Á Bleiksmýri austur af Arnarfelli var fastur áningastaður lestanna. Farið var um Deildaháls ofan Eldborgarinnar undir Geitahlíð, sem merki sjást um enn í dag. Svo fór þó að Krýsuvík gerðist afskekkt. Ný viðhorf komu til í samgöngum, búskap og sjávarútvegi og býlin fóru í eyði hvert af öðru. Nú er Krýsuvík aftur í þjóðbraut síðan akvegur var lagður þar um á árunum 1934-40 og 1944-48. Hafnarfjarðarbær keypti hluta af landi Krýsuvíkur 1941. Í vesturhlíðum Vesturháls (Núpshlíðarháls) og vestan undir honum og Trölladyngju liggja lönd Grindvíkinga og Vatnsleysustrandamanna.

Hraunssel

Hraunssel – uppdráttur ÓSÁ.

Þetta voru afréttalönd og löngum notuð til selstöðu. Í Þrengslum var sel frá Hrauni í Grindavík og á Selvöllum voru sel frá öðrum bæjum í Grindavík. Í Sogunum vestast voru sel frá Kálfatjörn og Bakka t.d. Sogasel og stóðu þau í Sogaselsgíg. Á þessum slóðum eru stærstu samfelld gróðurlönd á Reykjanesi svo sem Selvellir í fólkvanginum og Höskuldarveilir, sem liggja við vesturjaðar fólkvangsins. Norður frá löndum Vatnsleysustrandamanna og Krýsuvíkur tóku við afréttarlönd Álftaneshrepps, Undirhlíðar og landið umhverfis Helgafell norður undir Víðistaðahlíð.
Sjá má af heimildum, að á þessu landi hefur mikill skógur vaxið og af honum hafðar miklar nytjar og óspart á hann gengið, hann höggvinn og rifinn til kolagerðar og eldiviðar, ofan af honum slegið á vetrum til fóðurs og beitar.

Geldingadalir

Geldingadalir í Krýsuvíkum.

Þarna gekk búpeningur mjög sumar og vetur og hellar hafðir til fjárgeymslu og skjóls fjármönnum á vetrum, þegar henta þótti. Heyskapur var lítill á þessum slóðum. Varð því að bjargast á vetrarbeitinni og kom það hart niður á þessu landi. Ekki bætti það úr skák að hrískvöð var á öllum jörðum á Reykjanesi til Bessastaða og Viðeyjar og gekk svo, þangað til svo nærri var gengið að breyta varð hrískvöðinni í fiskikvöð.
Í dag eru helstu akvegir um fólkvanginn Krýsuvíkurvegur úr Vatnsskarði suður í Krýsuvík og áfram austur í Selvog, Nesvegur, sem er þjóðvegurinn milli Krýsuvíkur og Grindavíkur og Bláfjallavegur af Krýsuvíkurvegi við Óbrynnishóla og norður á Suðurlandsveg. Fyrir nokkrum árum var lagður vegur fær fólksbílum að Djúpavatni og áfram suður um Vigdísarvelli og á Nesveg, og opnast þannig hringleið um suðurhluta svæðisins. Af þessum akvegum má komast á fjölbreyttar gönguleiðir í fólkvangnum.“- KB

Heimild:
-Víkurfréttir, 28. tbl. 14.07.1994, Reykjanes; sækjum það heim, Kristinn Benediktsson, bls 11.

Ketilsstígur

Ketilsstígur.

Reykjanesviti

Áhugaverðri sýningu um Reykjanesvita og sögu sjóslysa á Reykjanesi hefur verið komið upp í „Radíóhúsinu“ neðan við vitann undir yfirskriftinni „Leiðarljós í lífhöfn„.

Reykjanesviti

Reykjanesviti – upplýsingaskilti.

Eftirfarandi umfjöllun um sýninguna birtist í Víkurfréttum 23. okt. 2021:
„Þetta er skemmtilegt verkefni sem við byrjuðum á árið 2018 þegar við settum upp skjöldinn á Reykjanesvita og í framhaldi af því tókum við þetta húsnæði á leigu og höfum verið að taka það í gegn. Það hefur verið málað að utan sem innan og skipt um glugga.

Hallur J. Gunnarsson

Hallur J. Gunnarsson við nafnatöflu þeirra u.þ.b. 3400 Íslendinga, sem fórust á sjó á 20. öld.

Það er alveg draumur að sjá að þetta sé að smella,“ segir Hallur J. Gunnarsson sem fer fyrir Hollvinasamtökum Reykjanesvita. Félagsskapurinn opnaði sýninguna Leiðarljós í lífhöfn – Saga Reykjanesvita og sjóslysa í gamla vélarhúsinu við Reykjanesvita á safnahelgi á Suðurnesjum. Sýningin er samstarfsverkefni Hollvinasamtaka Reykjanesvita og nágrennis og Byggðasafns Reykjanesbæjar. Sýningarstjóri og hönnuður er Eiríkur P. Jörundsson.

Reykjanesviti

Upplýsingar um nöfn látinna Íslendinga á sjó á 20. öldinni.

Hallur bauð FERLIRsfélögum að skoða sýninguna, en hann fékk m.a. til liðs við Hollvinasamtök Reykjanesvita við uppsetningu sýningarinnar.

Reykjanesviti

Reykjanesviti – sýningin er í húsinu lengst t.h.

Sýningin á Reykjanesi er í húsi sem var byggt 1936 sem radíóviti en hefur lengi vel verið kallað vélarhús. Nú stendur til að merkja húsið sem radíóvita en auk sýningarrýmis er í húsinu salernisaðstaða fyrir ferðafólk sem leggur leið sína að Reykjanesvita.

Gríðarlegur tollur til Ægis konungs

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Eiríkur P. Jörundsson kom að uppsetningu sýningarinnar um Reykjanesvita og sögu sjóslysa við Reykjanesskagann. Hann segir efnið vera á sínu áhugasviði en Eiríkur skrifaði meistararitgerð um fiskveiðar við Faxaflóa og vann í áratug á Sjóminjasafninu í Reykjavík. „Ég þekki þessi mál vel og hef kynnst þeim og það hefur verið mjög gaman að taka þátt í þessu verkefni. Þetta er svo gríðarlega mikil saga þegar við tökum sjóslysin inn í þetta og tengjum það við samfélagið sem er að breytast og uppbygging á þessu neti vita í kringum landið og hvernig menn hafa verið að bæta öryggi sjófarenda. Þetta var rosalegt á síðustu öld og reyndar um aldir. Árabátarnir fórust hér alveg umvörpum og þetta var mikið högg fyrir þessi litlu samfélög.

Reykjanesviti

Reykjanesviti – fjölmargir sjóskaðar hafa orðið við Reykjanesið í gegnum tíðina.

Á vegg hér á sýningunni verðum við með nöfn allra þeirra sem fórust í sjóslysum við Íslandsstrendur ár 20. öldinni. Það er gert sem virðingarvottur og að fólk átti sig á því hvað þetta er mikið fyrir þessa litlu þjóð. Megnið af þessum sjósköðum urðu á fyrri hluta aldarinnar. Þetta eru um 3.400 manns sem fórust á síðustu öld en það eru að jafnaði 35 manns á ári alla síðustu öld og þætti mikið í dag. Á fyrri hluta síðustu aldar voru þetta 54 sem fórust að meðaltali á ári á árunum 1900 til 1950 og þá var íslenska þjóðin innan við 180.000 manns. Þetta voru gríðarlegir tollar sem við vorum að greiða Ægi konungi fyrir afnot af hafinu og fiskimiðunum.“

Engum datt í hug að sigla til Íslands á veturna

Reykjanesviti

Reykjanesviti. Efnisöflun fór landleiðina. Gjótið í fyrsta vitann, sem og í þann síðari, var unnið úr hraunhellu vestan Valahnúks.

Hversu mikið mál var það árið 1878 að reisa fyrsta vita landsins hér á Reykjanesi og af hverju var hann staðsettur hér?

Reykjanesviti

Reykjanesviti – Valahnúkur.

„Það er gaman að segja frá því að þegar Íslendingar fengu sjálfstjórn og sitt eigið löggjafarþing og fjárveitingarvald árið 1874, þá var þetta eitt af fyrstu málunum á fyrsta þinginu að samþykkja byggingu vita. Fram að þeim tíma höfðu bara verið siglingar til landsins á sumrin og það datt engum í hug að sigla hingað frá Evrópu á veturna. Með vaxandi kaupmannastétt í lok 19. aldar þá fer að koma þörf fyrir vita því það vildi enginn sigla hingað yfir vetrarmánuðina nema það væri viti og í raun kom hvergi annars staðar til greina að setja vita en hér á Reykjanestánni. Hér koma menn upp að landinu og mikilvægt að það sjáist strax hér hvað þú ert staddur. Það var því ráðist í það strax að koma upp þessum vita því þessi siglingaleið fyrir Reykjanesið er hættuleg og flest skip sem voru að koma frá Evrópu voru á leið til Reykjavíkur. Menn fóru því í þetta brölt og fengu Dani með sér í lið. Danskur verkfræðingur hannaði vitann og sá um framkvæmdir hérna 1878 en þeir voru hérna allt sumarið og fram á haust. Þetta var gríðarlega erfitt. Þetta var afskekkt og hér var ekkert nálægt. Það var ekki hægt að lenda bátum í fjörunni og hestar þurftu að fara yfir úfið hraun. Það var ekki hægt að nota neitt grjót hér í kring því hér er bara hraun. Það þurfti því að flytja allt um langan veg. Það sem kom að utan var sett á land í Keflavík. Það var flutt á litlum bátum í land í Keflavík og þar dröslað upp á hesta sem fluttu það hingað á Reykjanes. Hér hýrðust menn í tjöldum, hátt í tuttugu manns allt sumarið, og sá danski kvartaði yfir því meira og minna allt sumarið að það væri alltaf kolvitlaust veður. Þetta gekk því ekki eins hratt og menn ætluðu sér en þetta tókst og það var kveikt á vitanum 1. desember 1878 og þá var fyrsti viti landsins kominn í gagnið,“ segir Eiríkur.

Margir að uppgötva þetta svæði í dag

Reykjanesviti

Reykajnesviti 1915.

Hallur fer fyrir Hollvinasamtökum Reykjanesvita og segist hafa haft áhuga á sögu og minjum allt frá barnæsku. Í gegnum Sögu- og minjafélag Grindavíkur hafi áhuginn á Reykjanesvita vaknað. Fyrir nokkrum árum hafi hann, ásamt Ólafi Sigurðssyni, farið og skoðað konungsskildina sem voru á Reykjanesvita á Bæjarfelli þegar hann var reistur. Þar hafi boltinn farið að rúlla og ákveðið að stofna sérstakt félag um verkefnið á Reykjanesi, sem var uppsetning á konungsskjöldunum, sýningin í radíóvitanum og framtíðardraumurinn er, að sögn Halls, að semja við Vegagerðina, sem á og rekur Reykjanesvita, um að þar verði leyfilegt að taka á móti fólki og hleypa því upp í vitann.

Reykjanesviti

Reykjanesviti – grjóthleðsla neðan Valahnúks.

„Svo vitum við að Reykjanes Geopark er búinn að undirbúa gönguleiðir um svæðið en á þessu svæði er hægt að gera svo margt skemmtilegt. Það eru til dæmis ennþá til steinar hérna úr fyrsta vitanum sem mætti færa til, raða upp og gera eitthvað skemmtilegt með,“ segir Hallur og Eiríkur bætir við: „Það eru margir að uppgötva þetta svæði í dag. Við erum hérna í október og það er stöðugur straumur af fólki hérna, ferðamönnum. Þegar við fórum að grúska í þessari sögu þá kemur í ljós að vitinn hérna varð strax vinsæll til heimsókna. Menn voru að koma hérna á sumrin og fá að skoða vitann. Ásóknin var svo mikil að vitaverðir voru farnir að kvarta undan þessu því það tók frá þeim tíma að vera alltaf að taka á móti gestum og svo þurfti að bjóða uppá kaffi og með því, þannig að þetta voru heilmikil útgjöld fyrir vitaverðina. Vitaverðir sóttu því um heimild fyrir því að selja inn í vitana. Það var leyft og jafnframt var sett reglugerð hvernig á að meðhöndla þessa gesti.“

Í gegnum tíðina hafa orðið hér mörg alvarleg sjóslys.
„Já og við verðum með sjóslysakort hérna sem var unnið fyrir okkur og munum sýna alla sjóskaða sem orðið hafa við Reykjanesið og þeir eruu gríðarlega margir því ég held að það hafi hvergi á landinu orðið fleiri sjóskaðar en við Reykjanes. Þetta var algeng siglingaleið og svo var vetrarvertíðin hér í skammdeginu og versta veðrinu,“ segir Eiríkur.

Stórslys á forsíðum blaðanna

Reykjanesvit

Reykjanesviti – Frásögn af slysi Jóns forseta.

Á sýningunni í Radíóvitanum á Reykjanesi eru m.a. forsíður dagblaða frá síðustu öld þar sem sagt var frá stórum sjóslysum. Meðal annars er sagt frá strandi Jóns forseta á Stafnesi. Þar fórst öll áhöfnin en í landi stóðu menn og horfðu á og gátu ekkert gert. Slysið við Stafnes varð endanleg kveikja þess að stofnaðar voru slysavarnadeildir um allt land.

Reykjanesviti

Fróðleikur um fyrrum vitaverði á Reykjanesi.

Á sýningunni á Reykjanesi er fjöldi ljósmynda og upplýsandi og fróðlegur texti. Sýndar eru myndir af fyrsta vitanum á Valahnúk og einnig frá byggingu vitans á Bæjarfelli. Eins og í dag þá höfðu jarðskjálftar áhrif á Reykjanesi í gamla daga. Fljótlega, eða um ttuttugu árum síðar, var farið að huga að nýjum vita á Bæjarfelli því jarðskjálftar og brim höfðu áhrif á Valahnúk. Hrunið hafði úr klettinum og ef ekkert hefði verið að gert þá hefði vitinn fallið fyrir björg og í hafið.

Fyrsti vitavörðurinn

Reykjanesviti

Reykjanesviti – fyrsti vitavörðurinn.

Reykjanesviti þurfti mikla umhirðu fyrstu áratugina eins og vitar almennt á þeim tímum. Þar að auki var hann byggður á afskekktum stað og torfarið að komast að og frá vitanum. Því var ekki annað til ráða en að hafa starfandi vitavörð í fullu starfi sem byggi á staðnum og sinnti vitanum.

Reykjanesviti

Reykjanesviti 1910.

Þar sem vitagæslan þurfti að vera stöðug varð ekki komist hjá því að hafa þar a.m.k. tvo menn að störfum. Arnbirni Ólafssyni, fyrsta vitaverðinum, var skylt að halda aðstoðarmann og greiða honum kaup af árslaunum sínum. Honum þótti hins vegar launin lág og þegar haustið 1879 var kominn í hann brottfararhugur. Í bréfi hans til Jóns Jónssonar landritara segir hann að hann sé alltaf að sjá betur og betur að ómögulegt sé að „komast af með 2 menn til að gæta vitans, vegna þess að verði eitthvað að öðrum þeirra, eða þurfi að leita til byggða einhverra orsaka vegna, þá er ef til vill ekki fært öðrum en fullröskum karlmanni og þó valla að komist verði til baka aptur sama dag þegar stuttur er dagur. Þess vegna er óumflýjanlega nauðsynlegt að hafa 3ja mann yfir veturinn …“.

Þá féll Arnbirni illa að búa í þeirri miklu einangrun sem fylgdi vistinni. Þegar við bættist að brunnurinn varð stundum vatnslaus á veturna svo heimilisfólkið varð að láta sér nægja „klaka og skítugan snjó“ svo dögum skipti og torfþakið á vitavarðabænum lak svo hann varð fullur af sagga varð vistin lítt eftirsóknarverð. Arnbjörn sagði endanlega upp og fékk lausn frá embættinu 1. ágúst 1884. Við stöðunni tók Jón Gunnlaugsson skipasmiður og gegndi starfinu til ársins 1902.

Reglur um heimsóknir gesta í vita

Reykjanesviti

Í Stjórnartíðindum frá 1897 eru birtar reglur um heimsóknir í vita. Þar segir m.a.: „Vitavörður verður að leggja ríkt að við aðkomendur að snerta ekki á nokkrum áhöldum vitans, gæta þess að þeir séu ekki í votum klæðum, taki ekki með sjer göngustafi eða regnhlífar í vitann. Tóbaksreyking er öllum fyrirboðin í vitanum, bæði vitamönnum og öðrum; vitavörður skal biðja menn um að þurka af sjer á gólfmottunum, áður en þeir ganga um vitann, og brýna fyrir þeim að þeir megi ekki hrækja á gólfin, og hundar mega alls ekki koma í vitann. Það er fyrirboðið að leyfa nokkrum ölvuðum manni að ganga í vitann, eða þeim, sem eru ræflalega til fara.“

Veturnir voru oft langir og tilbreytingasnauðir á afskekktum vitastöðum líkt og lengi var á Reykjanesvita – en vitarnir urðu fljótt vinsælir til heimsókna á sumrin og jafnvel svo að vörðum þótti nóg um. Vitaverðir við Faxaflóavitana kvörtuðu undan því að þeir yrðu fyrir umtalsverðum töfum frá vinnu og hefðu þar að auki „eigi allsjaldan önnur óbeinlínis útgjöld við slíkar gestakomur samkvæmt gamalli íslenskri siðvenju“. Þeir fóru fram á heimild til að taka gjald af gestum og var það samþykkt árið 1910. Nokkrum árum fyrr höfðu verið gefnar út sérstakar reglur varðandi heimsóknir gesta í vitana, eins og fram kemur í Stjórnartíðindum frá 1897. Þar segir m.a.:

Reykkjanes

Skipsströnd utan við Reykjanes.

„Aðkomumenn skulu rita nöfn sín, stöðu og heimili í þar til gjörða bók, áður en þeim er sýndur vitinn. Ekki má hleypa fleirum inn í vitann en rúm leyfir. Vitavörður verður að leggja ríkt að við aðkomendur að snerta ekki á nokkrum áhöldum vitans, gæta þess að þeir séu ekki í votum klæðum, taki ekki með sjer göngustafi eða regnhlífar í vitann. Tóbaksreyking er öllum fyrirboðin í vitanum, bæði vitamönnum og öðrum; vitavörður skal biðja menn um að þurka af sjer á gólfmottunum, áður en þeir ganga um vitann, og brýna fyrir þeim að þeir megi ekki hrækja á gólfin, og hundar mega alls ekki koma í vitann. Það er fyrirboðið að leyfa nokkrum ölvuðum manni að ganga í vitann, eða þeim, sem eru ræflalega til fara. Vitavörður skal vera þægilegur í viðmóti við þá, sem óska að sjá vitann, og skýra þeim frá ásigkomulagi allra vitafæranna. Á þeim tíma, er logar á vitanum, leyfist engum aðkomandi manni að ganga í vitann.“

Um sýninguna á Reykjanesi

Reykjanesviti

Reykjanesviti ~1960.

Um aldir, líkast til alveg frá landnámi, hafa Íslendingar þurft að færa Ægi konungi miklar fórnir. Annars vegar veitti hafið landsmönnum greiða för milli staða og landa og í djúpin sóttu menn í gullkistuna sem fiskimiðin hafa ætíð verið hér við land. Hins vegar voru siglingar og veiðar hættuspil, ekki síst yfir skammdegið þegar allra veðra var von. Sjóskaðar og manntjón voru daglegt brauð og oft voru hoggin stór skörð í lítil samfélög þegar skip og bátar fórust.

Bygging Reykjanesvita á Valahnúk árið 1878 markaði tímamót í siglingsögu landsins. Það sýnir vel þá þörf sem landsmenn höfðu fyrir vita og öruggari siglingar að og umhverfis Ísland að frumvarp um byggingu vita var lagt fyrir á fyrsta löggjafarþinginu árið 1874, eftir að Íslendingar fengu stjórnarskrá og Alþingi fékk löggjafar- og fjárveitingavald. Ekki er að sjá að komið hafi til greina að reisa fyrsta vita á Íslandi annars staðar en á Reykjanesi, enda munu langflest skip sem til Íslands komu hafa átt erindi fyrir Reykjanes og leituðu því upp að suðvesturhorni landsins.

Reykjanesviti

Reykjanesviti í dag, okt 2021, „Radíohúsið“ t.h.

Þúsundir og aftur þúsundir Íslendinga hafa farist á sjó í gegnum aldirnar og sjómenn eiga skilið að þeirra fórna sé minnst. Þessi saga er hrikaleg og erfið oft á tíðum að meðtaka en um leið er þetta saga hugrekkis og krafta sem tekst að leysa úr læðingi þegar aðstæður krefjast og menn þurfa að snúa bökum saman.

Reykjanesviti

Árið 1905 var svo komið að jarðskjálftar og brim höfðu brotið svo mikið úr Valahnúk að hætta var talin á að Reykjanesviti félli í hafið. Var því ákveðið að reisa nýjan vita. Á árunum 1907-1908 var byggður nýr viti á Bæjarfelli á Reykjanesi. Gamli vitinn var felldur með sprengingu þann 16. apríl 1908. Alþingi veitti fé til byggingar vitans til að flýta fyrir framkvæmdum.
Vitinn er byggður úr tilhöggnu grjóti og steinsteypu. Þeir Frederik Kiørboe arkitekt og Thorvald Krabbe verkfræðingur teiknuðu vitann. Framkvæmum lauk á Þorláksmessu 1907 og kveikt var á vitanum 20. mars 1908.

Sýningunni er ætlað að veita örlitla innsýn í mikla og mikilvæga sögu sjóslysa og uppbyggingar á vitum til að auka öryggi sjófarenda. Um leið gera aðstandendur hennar sér vonir um og fyrirætlan að sýningin vaxi og geri sögunni betri skil til lengri tíma. Til stendur að reisa þjónustu- og upplýsingamiðstöð í því magnaða umhverfi og náttúru sem umlykur Reykjanesvita og þangað á slík sýning mikið erindi.“

Heimild:
-Víkurfréttir – Laugardagur 23. október 2021 kl. 06:03; Leiðarljós í lífhöfn, Áhugaverð sýning um Reykjanesvita og sögu sjóslysa á Reykjanesi.
-Hallur J. Gunnarsson.

Reykjanesviti

Reykjanesviti – upplýsingaskilti.

Reykjanes

Léo M. Jónsson í Höfnum skrifaði grein í Faxa árið 2008, sem hann nefndi „Ökuferð um Hafnarhrepp„. Í henni fjallar Léo m.a. um staðhætti, örnefni og sagnir á „hinu eiginlega Reykjanesi“ og nágrenni:

Leó M. Jónsson

Leó M. Jónsson.

„Þegar haldið er lengra suður eftir veginum er komið á hæð þar sem vegurinn sveigir til austurs. Beint af augum er gamalt eldfjall, Sýrfell, en á milli þess og Reykjanessvita, sem stendur á hinu 50 m háa Vatnsfelli, í suðvestri, en fellið heitir eftir stórri tjörn sem er við það, eru Rauðhólar og Sýrfellsdrög. Vitinn er 28 m a hæð og því 78 m yfir sjávarmáli. Mannvirkin norðvestan við Rauðhóla er Sjóefnavinnslan (oft ranglega nefnd Saltverksmiðjan). Einnig blasir við nýreist Reykjanesvirkjun. Hér blasir hið raunverulega Reykjanes við augum sem Reykjanesskaginnerkenndurvið. Sérkennilegi hnjúkurinn með u-laga skarði í, sem sést héðan vestan vitans, nefnist Valahnjúkur. Lengst til hægri sést strýtan á móbergsdrangi sem nefnist Karl en hann stendur í sjónum skammt suður af vestasta tanga Reykjanessins sem nefnist Önglabrjótsnef og teygir sig út í sjóinn í átt til Eldeyjar. Þjóðsagan segir að tröllkarl og kerling, sem bjuggu í Eldey hafi vaðið til lands og haldið á kú að leiða til nauts. Tókst ekki betur til en svo að vegna tafa dagaði þau uppi og urðu að steini. Karlinn stendur þarna enn úti í sjó en Kerling, hátt eldvarp, sem stóð sunnar uppi á landi, brotnaði niður fyrir löngu.

Eldey

Eldey

Eldey.

Eldey er sérkennileg 77 m há þverhnípt klettsey sem liggur tæpa 15 km frá landi og er talin m.a. vera mesta súlubyggð Evrópu (alfriðuð). Milli Eldeyjar og Reykjaness er Húllið – fjölfarin siglingaleið.

Stóra-Sandvík

Stóra-Sandvík. Mynd EG.

Vegarslóði á hægri hönd liggur niður í Stóru-Sandvík og að gamla Reykjanessveginum þar sem heitir Skjótastaðir en það er hár höfði norðan við víkina og mun þar hafa verið byggð fyrr á öldum. Annar vegarslóði liggur í Stóru-Sandvík niðri í dalverpinu framundan. Frá útskoti (6,7) við enda beygjunnar til austurs sést ofan í Stóru-Sandvík vaxna melgresi. Handan hennar í suðri tekur við talsvert hraun, kolsvart og sviðið með foksand í flákum. Stamparnir þrír, sem blasa við framundan handan víkurinnar, eru sérkennilegir eldgígar og eftir þeim nefnist hraunið Stampahraun og nær fram í sjó. (Hér voru reist háspennumöstur, þrátt fyrir að upphaflega hafi verið gert ráð fyrir jarðstreng frá virkjuninni að Sýrfelli. Sú breyting er vondur vitnisburður um menningarstig Suðurnesjamanna að mati höfundar!).

Eldey

Eldey.

Eldgígarnir tveir sem sjást suðvestar, lengra til hægri og utar á nesinu, nefnast Eldborgir. Eins og við er að búast eru þessir upptyppingar notaðir sem mið til staðsetningar fiskiskipa úti á Eldeyjarbanka.
Sú Eldborganna sem sést af grynnra vatni nefnist Eldborg grynnri og stendur sunnar og nær sjó. Eldborg dýpri nefnist sú sem sést af dýpra vatni. Er hún stærri og stendur vestar. Þar heitir Eldborgahraun. Fjær til norðausturs eru mikil ummerki eldsumbrota. Eru það nefnd Eldvörp. Hafnamenn nefna það einnig í daglegu tali hörzl, þ.e. ójöfnur. Stamparnir, Eldborgirnar og aðrar eldstöðvar, eru eins og misstórir hnútar á svörtu bandi í landslaginu og setja ógnþrunginn svip á umhverfið, jafnvel svo að sumt fólk verður hrætt og þorir ekki að dvelja lengi á svæðinu af ótta við eldgos – enda er hér eldur undir, sem sést m.a. á hverasvæðinu, gufuaflsvirkjuninni og blásandi borholum austan Reykjanesvita.

Mönguselsgjá

Stóra-Sandvík

Stóra-Sandvík og gjárnar ofanverðar.

Þar sem vegurinn sveigir aftur til suðurs gengur stór gjá upp frá sjó og inn í landið. Hún nefnist Mönguselsgjá og liggur nyrst upp úr Stóru-Sandvík. Gjáin er ein af mörgum sem mynda sprungubelti.

Reykjanes

Reykjanes – Brú milli heimsálfa yfir Mönguselsgjá.

Jarðskorpan gliðnar hér á miklum hrygg og jarðeldasvæði sem liggur í miðju Atlantshafi frá suðri til norðurs. Landsig sést greinilega þegar horft er um öxl til Mönguselsgjár eftir að komið er upp á Stampahraun. Yfir Mönguselsgjá (ekki Tjaldstaðagjá sem er stærri og sunnar) hafa lafafrakkamenn, úr Keflavík, byggt brú til að drýgja tekjur sínar af erlendum ferðamönnum með því að telja þeim trú um að þarna séu meginlandaflekar Ameríku og Evrópu að reka hvor frá öðrum. Greinarhöfundur er einn þeirra Hafnabúa sem hafa skömm á tiltækinu og líta á þetta sem pretti – í skásta falli fiflagang og Suðurnesjamönnum til vansæmdar enda hafa jarðvísindamenn bent á og staðfest að landrekið kemur ekki fram á þessum stað heldur miklu austar (nánar tiltekið austur í Hreppum).

Tjörn gerð af mannavöldum

Stóra-Sandvík

Stóra-Sandvík – Tjörnin manngerða.

Nú komum við að syðri troðningnum sem liggur niður í Stóru-Sandvík. Hér var melgresi sáð um 1950 til að hefta sandfok. Eins og sjá má hefur það tekist vel. Tjörnin sem prýðir svæðið og laðar að sjó og vaðfugla í stórum flokkum, myndaðist ekki fyrr en melgresið hafði stöðvað fokið. Hún er því gerð af mannavöldum! Afleiðingar hrikalegra náttúruhamfara blasa við í Stampahrauni í suðvestri og Eldvörpum í austri. Ævagamlar heimildir segja að árið 1000 hafi mest allt Reykjanes sokkið í sjó og Geirfuglasker komið upp. Þá átti landið að hafa legið Iangt út fyrir Eldey í norðvestur en Eldey og drangar við hana hafi áður verið fjöll á Reykjanesskaganum. Til að girða fyrir misskilning skal aftur ítrekað að Reykjanesskagi og Reykjanes er tvennt ólíkt þótt skaginn dragi nafn af þessu litla nesi yst á honum.

Heimildir um landskjálfta

Stampar

Stampar.

Annálar greina frá eldsumbrotum með stuttum hléum á og úti fyrir Reykjanesi á 12. og 13. öld. Samkvæmt þeim hefur gosið á Reykjanesi árið 1118, og a.m.k. 13 sinnum á 13. öld. Sagt er að sumum eldgosum hafi fylgt miklir landskjálftar og þess getið að svartamyrkur hafi verið um annars hábjartan dag (1226) og að Reykjanesið hafi brunnið (1210 og 1211). Í hamförum á fyrri hluta 13. aldar er talið að byggð hafi eyðst á Reykjanesi en merki um hana sjást m.a. við Skjótastaði norðan Stóru-Sandvíkur.

Stampar

Stampahraun í mótun.

Í annál er þess getið að 18 manns hafi farist á Reykjanesi í landskjálfta og eldi árið 1118. Næsta lítið er vitað um sögu Hafna á 14. og fram á síðari hluta 16. aldar eins og margra annarra staða á landinu, m.a. vegna þess að kirkjubækur, sem geymdar voru í Viðey, eyðilögðust í bruna. Þó munu vera til heimildir um mikinn landsskjálfta 1389 og að 1390 hafi hálft Reykjanesið brunnið. Til mun vera heimild um að eldur hafi komið upp í hafi fyrir Reykjanesi 1420 og að þá hafi skotið upp landi. Einnig er getið um eld fyrir Reykjanesi 1422 og aftur 1584. í annál er greint frá eldi í „Grindavíkurfjöllum“ árið 1661 oghafi séstoft, fyrir og eftir jól, á Norðurlandi. Til er heimild um að árið 1706 hafi komið upp eldur í sjó fyrir Reykjanesi og einnig 1783 fyrir sunnan Geirfuglasker. Kom þá upp land sem sökk aftur (Nýey). Síðasta gos sem minnst er á í annálum, á eða fyrir Reykjanesi, á að hafa verið árið 1830 en þá sigu Geirfuglasker í sjó. Síðustu eldsumbrot sem heyrst hefur um fyrir Reykjanesi eiga að hafa átt sér stað í kringum 1930. Á þá að hafa gosið á sjávarbotni nálægt Eldey. (Athygli er vakin á því að í ljósi niðurstaðna jarðfræðirannsóknir á svæðinu, m.a. á vegum HÍ, hafa tímasetningar eldsumbrota verið endurskoðaðar 2005).

Forsetahóll

Reykjanes

Reykjanes. Forsetahóllinn efst til vinstri.

Á mótum vegar að Reykjanessvita eru um 11 km frá syðri hraðahindruninni í Kirkjuvogshverfi. Vegurinn liggur fyrst í vestur að Sjóefnaverksmiðjunni, síðan í norðvestur fram hjá gúanóverksmiðju en skammt þaðan er vinkilbeygja til vinstri á veginum að vitanum og út að Valahnjúki.

Reykjanesviti

Reykjanes – Forsetahóll.

Þessar verksmiðjur eru hér vegna jarðhita sem fæst úr borholum en þær eru með öflugustu borholum landsins um og yfir 10 megavött hver. Spölkorn frá kröppu beygjunni er grasi vaxinn hóll eða fell á vinstri hönd sem nefnist Litlafell og einnig Forsetahóll (en þennan hól gáfu bræðurnir Ketill og Oddur Ólafssynir frá Kalmanstjörn forsetaembættinu í tíð Sveins Björnssonar, að hans raði (en ekki Hafnamenn sem þakklæti fyrir veg út á Reykjanes eins og ég hafði áður haldið fram og haft ákveðna heimildarmenn að) – til að forsetinn gæti aðstoðað þá við að fá ruddan slóða út á Reykjanes – sjá bréf Marons heitins Vilhjálmssonar frá Merkinesi sem birt er hér aftan við greinina). Suðaustan við Litlafell, í hvarfi frá veginum, er mjög fallegt stórt blátt lón. Sé gengið upp á Litlafell blasir lónið við og hverasvæði upp af því, að sunnanverðu.

Reykjanes

Reykjanes – Forsetahóll.

Ekið er um hlað vitavarðarhússins (þar er snyrtiaðstaða fyrir ferðafólk) og áfram út að Valahnjúki. Við strönd Reykjaness og báðu megin nessins hafa orðið mörg og mikil sjóslys á þessari öld. (Greinarhöfundur hefur skrifað sögu Björgunarsveitarinnar Eldeyjar í Höfnum. Þar er m.a. fjallað nokkuð ítarlega um stærri sjóslys á þessu svæði. Greinin er einnig birt á vefsíðu höfundar www.leoemm.com). Við Reykjanes strandaði m.a. eitt af stærstu skipum sem strandað hefur við Ísland, olíuskipið Clam. Það var 28. febrúar 1950. Skipið varð vélarvana eftir að hafa rekið upp í fjöru í Reykjavík og á leið til útlanda dregið af dráttarbáti, sem það slitnaði frá í ofsaveðri. Um borð voru 50 skipverjar. Hvers vegna 50 manns voru um borð í vélarvana skipi sem draga átti til útlanda af dráttarbáti bíður sagnfræðinga að rannsaka. Þarna fórust 27 manns en 23 tókst að bjarga.

Niðurlag

Reykjanes

Brú milli heimsálfa yfir Mönguselsgjá.

Mörkin á milli gamla Hafnahrepps (nú Reykjanessbæjar) og Grindavíkur liggja á Reykjanesi í línu frá tindi Sýrfells í þúfu í Valbjargargjá strax sunnan Valahnjúks og þaðan í kamb Valahnjúksmalar. (Eftir þinglýstu skjali nr. 240479 dags. 16/1/79).

Álfar

Álfur á Reykjanesi.

Ástæða er til að geta þess að í þessari grein er stuðst við upplýsingar staðfróðra heimamanna í Höfnum um örnefni. Mest munar þar um örnefnasafn og lýsingu Hinriks í Merkinesi á staðháttum í gamla Hafnahreppi sem hann vann fyrir Örnefnastofnun 1978. Á nokkrum stöðum eru önnur heiti notuð á sumura kortum Landmælinga ríkisins en í þessari grein. Þau eru eftirfarandi: Á korti stendur Valahnjúkar. Í Höfnum er aðeins talað um einn Valahnjúk. Á korti eru 5 Stampar sagðir í Stampahrauni. Í Höfnum eru 3 gígar næst vegi nr. 425 nefndir Stampar. Þeir tveir sem eru sunnar á nesinu nefnast Eldborg grynnri og Eldborg dýpri og þar er Eldborgahraun. Á korti stendur Eldvarpahraun. Í Höfnum er talað um Eldvörp á þeim stað. Norðarlega upp af Hafnabergi er hóll sem nefndur er Berghóll á korti. Í Höfnum heitir þessi hóll Bjarghóll (hann er við Sigið (á Siginu) þar sem sigið var í bjargið). Á korti er hluti strandarinnar undir Valahnjúki nefnd Miðgarðamöl. Í Höfnum heitir þessi staður Valahnjúksmöl (eins og er á a.m.k. einu kortanna í mkv. 1:100.000). Gjáin sem gengur upp úr Stóru Sandvík (sú sem hefur verið brúuð við hlið vegarins!) nefnist Mönguselsgjá eftir Möngu frá Kalmanstjörn sem var selsstúlka fyrrum en ummerki selsins er að finna austarlega í gjánni. Þessi gjá hefur ranglega verið nefnd Tjaldstæðagjá í fréttatilkynningum frá Ferðamálaskrifstofu Reykjanesbæjar. Sú gjá nefnist réttu nafni Tjaldstaðagjá. Hún er breiðari en Mönguselsgjá og liggur spölkorn sunnar.“

Með greininni fylgir bréf frá Ron (maron) frá Cooktown í Ástralíu:

Bréf frá Astralíu: Cooktown 15.3.04
Blessaður Leó!

Reykjanes

Reykjanes – Forsetahóll.

Þú ert kannski hálfundrandi á að fá bréf á íslensku frá Ástralíu. Í eina tíð hét ég Maron í Merkinesi, fæddur þar og uppalinn.
Ástæðan fyrir þessu bréfkorni er Leiðarlýsing þín um Hafnir. Ég er þér sammála um flest eins og t.d. „skrímslið“ en hugmynd þín um Forsetahólinn er alröng. Mundu að ég þekkti Kedda Ólafs (Ketil Ólafsson frá Kalmanstjörn) frá barnæsku. Sagan er sú – beint frá Kedda – að hann var búinn að klára allan sandinn í Hundadalnum og vantaði leið suður eftir. Hann (Keddi) og Oddur voru búnir að ræða við Vegamálastjóra, ýmsa ráðherra og embættismenn um akfæra braut svo hægt væri að koma liði og tækjum nálægt strandstað en ekkert gekk; þeir vísuðu hver á annan, eins og embættismanna er vandi, þangað til hraut út úr Kedda:

Reykjanesviti

Reykjanes – Forsetahóll. Steyptir hliðarstólpar fremst.

„Andskotinn, – við verðum víst að tala við forsetann sjálfan“! Oddur þagði smástund og svaraði svo: „Já, við erum búnir að tala við alla aðra.“ Þeir tóku strikið út á Álftanes og knúðu dyra á Bessastöðum. Sveinn Björnsson tók vingjarnlega á móti þeim og hlustaði á mál þeirra. (Oddur var talsmaðurinn). Forsetinn íhugaði málið um stund en sagði svo: „Já, þetta er greinilega ábyrgðarmál en sjálfur get ég ekkert gert, ég er bara forseti. Skiljið þetta eftir hjá mér og ég skal athuga hvort ég eigi ekki hönk upp í bakið á einhverjum þessarra svokölluðu ráðamanna.“

Reykjanes

Reykjanes – kort frá 1903.

Stuttur tími leið þangað til forsetinn hringdi í Odd á Reykjalundi og sagði honum „það er engin leið að fá neitt af viti frá þessum pólitískusum, einfaldasta bakferlið er að þið gefið forsetaembættinu sumarbústaðarland á Reykjanesi.“ Bræðurair voru til í það og gáfu hólinn, sem nú er kallaður „Forsetahóll“. Það var góður slóði frá Kistu til vitans en hin hraunin þurfti að ryðja. Eftir að embættið hafði þegið gjöfina gat Sveinn forseti farið fram á að slóðinn yrði ruddur. Vegurinn kom nokkrum árum seinna og vann ég við hann, þrettán ára að aldri, en það er allt önnur saga.
Sem sagt, forseti fékk hólinn í gegn um „bakdyramakk“ en fékk hann ekki í þakklætisskyni.
Kveðjur,
Ron:

Heimild:
-Faxi, 1. tbl. 01.02.2008, Ökuferð um Hafnarhrepp – Leó M. Jónsson, bls. 9-11.

Stóra-Sandvík

Stóra-Sandvík. Mynd EG.

Reykjanes

Magnús Á. Sigurgeirsson skrifar „Þátt úr gossögu Reykjaness“ í Náttúrufræðinginn árið 2004. Þar fjallar hann m.a. um Eldra-Stampahraunið, Önglabrjótsnef og nágrenni á ysta hluta Reykjanesskagann.
Jarðsagan er óvíða augljósari en einmitt þarna; samspil bergganga, gíga, gjalls, ösku og hrauns. Þá er sagt frá strandi þýsks togara við Önglabrjótsnef 1951.

Eldra-Stampahraun og Tjaldstaðagjárhraun

Magnús Á. Sigurgeirsson

Magnús Á. Sigurgeirsson. 

„Eldra Stampahraun kemur frá um 4,5 km langri gígaröð, Eldri-Stampagígaröðinni, sem liggur til norðausturs frá Kerlingarbás, inn á land. Gígaröðin er mjög slitrótt enda umflotin og sums staðar kaffærð af Yngra Stampahrauninu, yngsta hrauni Reykjaness. Eldra Stampagosið má flokka sem blandgos þar sem veruleg gjóskuframleiðsla átti sér stað samhliða hraunrennsli. Á norðurhluta gossprungunnar var kvikustrókavirkni og gjallmyndun ásamt hraunrennsli einkennandi en á suður Wuta sprungunnar, sem lá neðansjávar, var hins vegar öskumyndun ráðandi. Gosaska frá Eldra-Stampagosinu barst inn til landsins og finnst nú í jarðvegi á vestanverðum Reykjanesskaga. Öskulagið er nefnt R-3.
ÖnglabrjótsnefUm aldur Eldra Stampahrauns hafa fengist vísbendingar með hjálp öskulagatímtals og 14C-aldursgreininga. Öskulög hafa ekki fundist í jarðvegi undir hrauninu en hins vegar er afstaða þekktra öskulaga til R-3 vel þekkt. Elsta þekkta öskulag ofan R-3 er um 1400 ára gamalt Heklulag og næsta lag neðan R-3 er um 2000 ára gamalt Kötlulag. Kolefnisaldursgreining á mó undan R-3 bendir til að lagið sé minna en 2200 ára gamalt.

Önglabrjótsnef

Reykjanes – kort. Tjaldstaðagjá er merkt á kortið.

Út frá þessum vísbendingum er dregin sú ályktun að Eldra Stampagosið hafi orðið fyrir um 1800-1900 árum.
Skammt austur af Eldra Stampahrauni er hraun sem nefnist Tjaldstaðagjárhraun og er víðáttumesta hraun á Reykjanesi. Upptök þess eru á um 1 km langri gígaröð sem liggur í framhaldi af Stampagígaröðinni til norðausturs. Aldur hraunsins hefur verið nokkuð á reiki en öskulagarannsóknir hafa staðfest forsögulegan aldur þess.
Stampar
Elsta gjóskulag sem fundist hefur ofan á Tjaldstaðagjárhrauni er fyrrnefnt 1400 ára gamalt Heklulag en ekki hefur tekist að finna jarðveg undir hrauninu.
Afstaða Tjaldstaðagjárhrauns til Eldra Stampahrauns sýnir að það hefur runnið síðar en Stampahraunið. Á milli þeirra er einungis foksandur en enginn jarðvegur. Bendir flest til að hraunin séu af líkum aldri og hafi runnið á sama gosskeiði, ef til vill í sömu eldum, fyrir tæpum tvö þúsund árum.

Reykjaneseldar fyrir tvö þúsund árum

Önglabrjótsnef

Berggangur í Kerlingarbás, öskulög og hraunhella efst.

Þar sem Eldri Stampagígaröðin liggur að sjó í Kerlingarbás hafa myndast jarðlagaopnur af völdum sjávarrofs sem gefa færi á að skoða hraun, gíga og gjóskulög frá ýmsum tímum í þversniði (2. og 3. mynd). Segja má að megindrættirnir í gossögu Reykjaness síðustu árþúsundin blasi þarna við augum. Ekki verður öll sú saga rakin hér heldur aðeins það sem viðkemur Eldra Stampagosinu.
Stampar
Fyrstu merki um virkni á Eldri Stampagígaröðinni er þunnt fínkorna öskulag sem liggur næst undir syðsta gjallgíg gígaraðarinnar og hrauntaumum frá honum. Af kornagerð öskunnar að dæma hefur hún myndast í neðansjávargosi. Askan hefur ekki fundist í jarðvegssniðum og bendir það til lítillar dreifingar á landi. Af þessu má ráða að upphaf Eldra Stampagossins hafi verið í sjó. Upptakagígurinn er nú með öllu horfinn. Vísbendingar eru um að gossprungan hafi einnig verið virk á landi um svipað leyti. Ofan á öskulagið R-2 hleðst síðan myndarlegur gjallgígur, um 20 m hár. Gosrás gígsins, sem nú er bergstandur, gengur upp í gegnum öskulagið.
Haun frá þessum gíg og öðrum nærliggjandi hafa byggt upp Önglabrjótsnef, en þar er hraunið að minnsta kosti fimm metra þykkt. Gosvirknin hefur einkennst af kvikustrókavirkni og hraunrennsli.

Önglabrjóstnef

Önglabrjótsnef. Kerlingarbás, Valahnúkar og Karlinn fjær.

Hraunrröð liggur frá gígnum út eftir Ónglabrjótsnefi. Þegar hraungosinu linnti færðist virknin að nýju á neðansjávarhluta gossprungunnar og þeytigos varð í sjó með tilheyrandi öskumyndun og þá myndaðist öskulagið R-3, sem fyrr er nefnt. Af þykkt öskunnar á landi að dæma, en hún er allt að 1,2 m, hafa upptökin verið innan við 1 km frá núverandi strönd í beinu framhaldi af Eldri Stampagígaröðinni. Athuganir leiddu í ljós að öskulagið R-3 er yfirleitt mjög rofið og að upphafleg þykkt þess hafi því verið mun meiri en nú mælist. Varlega áætlað gæti lagið hafa verið rúmlega þriggja metra þykkt við Kerlingarbás.
Skýr merki eru um að askan hafi kaffært hraun og gíga næst ströndinni. Á Önglabrjótsnefi myndar R-3 víða 10-20 cm þykka túffskán ofan á Eldra Stampahrauninu. Af þykktardreifingu gjóskunnar að dæma hefur gígrimi upptakagígsins að öllum líkindum náð inn á ströndina við Kerlingarbás. Útbreiðsla öskulagsins R-3 inn til landsins hefur einkum verið til norðausturs, í áttina að Njarðvíkum (1. mynd). Öskufall yfir hafsvæði er óþekkt en hefur vafalítið verið talsvert.
Önglabrjóstnef
Í lokaþætti þessara elda rann Tjaldstaðagjárhraun, nokkrum árum eða áratugum eftir Eldra-Stampagosið. Hraunið rann frá um 1 km langri gígaröð um 1 km norðaustur af Eldri Stampagígaröðinni. Hraunið er mestmegnis úfið apalhraun en dálítil spilda af helluhrauni myndaðist þó einnig. Samanlagt eru gígaraðirnar báðar um 6 km að lengd. Sjáanlegt flatarmál hraunanna er um 11,4 km2. Hins vegar má hækka þessa tölu um allt að 4 km2, eða sem nemur því landsvæði sem þakið er Yngra Stampahrauninu.
Heildarflatarmál hraunanna gæti legið nærri 15 km2. Rúmmál hraunanna gæti verið um 0,1 km3, miðað við 5 metra meðalþykkt. Nokkur landauki var af Eldra Stampahrauninu við norðvesrurströnd Reykjaness, frá Önglabrjótsnefi, um Kinnaberg og austur að Stóru-Sandvík.
Varlega áætlað má telja að um 500 m breið og um 4 km löng ræma hafi bæst við þáverandi strönd.

Önglabrjótsnef
Um miðja Stampagígaröðina eru tveir gígar sem bera þess merki að hafa hlaðist upp nærri fjöruborði en innan um gjall í þeim má finna núna fjörusteina (6. mynd). Út frá gerð gjóskunnar má fara nokkru nærri um myndunarsögu gíganna. Upphaf gosvirkninnar hefur einkennst af gufusprengingum þegar sjór streymdi að gosopunum. Gosefnin hafa þá einkum verið fínkorna aska en síðar, þegar tekur fyrir aðstreymi sjávarins, verður gjallframleiðsla ráðandi. Að síðustu hefur hraun runnið frá gígunum. Líklegt verður að telja að þessir gígar séu frá upphafi Eldra Stampagossins og gætu því verið samtíma öskulaginu R-2, sem fyrr er nefnt. Á gömlum loftljósmyndum sést að þessir gígar hafa eitt sinn verið stærstu gígar Eldri-Stampagígaraðarinnar. Nú eru þarna gapandi tóftir eftir langvarandi gjallnám.

Stampar

Gígar í Yngra- Stampahrauni.

Mikið sandfok hefur verið á Reykjanesi eftir Eldra Stampagosið og má reikna með að gjóskulagið R3 ásamt upptakagíg þess hafi verið meginuppspretta þess. Lagið er mjög rofið, eins og fyrr segir, og víða í sköflum. Við Stóru-Sandvík, þar sem jaðrar Eldra Stampahrauns og Tjaldstaðagjárhrauns mætast, sést að þykkir skaflar hafa hlaðist upp við jaðar Stampahraunsins áður en yngra hraunið rann upp að því. Af jarðvegssniðum að dæma var jarðvegur á Reykjanesi sendinn og rýr öldum saman eftir eldana.“

Í Tímanum árið er fjallað um strand þýsks togara við Önglabergsnef undir fyrirsögninni „Þýzkur togari strandar við Önglahrjótsnef – Losnaði af grunni, sökk á skammri stundu, en áhöfnin bjargaðist í annan togara“:

„Klukkan 6.40 í gærmorgun strandaði þýzki togarinn Karlsburg Danh við Önglabrjótsnef, nyrðri tá Reykjaness, sunnanvert við Sandvíkurnar. Losnaði hann af grunni tæpum tveimur stundum síðar, en sökk síðan innan lítillar stundar.
Forðuðu skipverjar, tuttugu menn, sér í björgunarbátana, og komust þeir í annan þýzkan togara, Hans Böchler, er var í námunda við strandstaðinn.

Fyrstu fregnir af strandinu

Önglabrjótsnef

Önglabrjótsnef – brim.

Loftskeytastöðin í Reykjavík náði fyrst fregnum af strandinu, og lét hún Slysavarnafélagið þegar vita. En það sneri sér til björgunarsveitarinnar í Grindavík og vitavarðarins á Reykjanesi, Sigurjón Ólafssonar, er var einn karlmanna á bænum. — Brá hann þegar við og fór á strandstaðinn með línubyssu og annan útbúnað, er til björgunar þurfti. Dró hann þetta eftir sér á sleða.
Meðan þessu fór fram var slysavarnadeildin Þorbjörn í Grindavík að senda hina öruggu björgunarsveit sína af stað á stórum bifreiðum, en torfæri var yfir að fara og færðin hin versta. Björgunarsveit úr Höfnum lagði einnig af stað.

Samband við skip

Önglabrjótsnef

Þýskur togari líkur Karlsburg Danh.

Loftskeytastöðin í Reykjavík var í stöðugu sambandi við annan þýzkan togara, Schütting, er var á þessum slóðum, og tilkynnti hann, að Karlsburg Danh væri strandaður við Önglabrjótsnef, og voru önnur skip látin vita um þetta. Klukkan 8.20 tilkynnti Schütting, að hinn strandaði togari hefði losnað af grunni og hefði getað hreyft vél sína, en mikill leki væri kominn að skipinu. En eftir þetta segir ekki af skipinu, því að það sökk að skammri stundu liðinni.
Hans Böchler kom með skipsbrotsmennina til Reykjavíkur um miðjan dag í gær. Voru þeir allir hressir. Slysavarnarfélagið tók á móti þeim.“
Sjá meira un strandið HÉR.

Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn, 1.-2. tbl. 01.03.2004, Þáttur úr gossögu Reykjaness – Magnús Á Sigurgeirsson, bls. 21-28.
-Tíminn, 33. tbl. 09.02.1951, Þýzkur togari strandar við Önglahrjótsnef, bls. 1 og 7.

Stampahraun

Stampahraun. Í dag má sjá leifar hraunsins undan ströndinni, þ.e. Karlinn. Strákur, Stelpa og Kerling eru horfin í sjáinn. Þó má enn sjá móta fyrir gíg Kerlingar í Kerlingarbás.

Gunnuhver

Gunnuhver er gufuhvera- og leirpyttaklasi á Reykjanesi, en svo nefnist ysti oddi Reykjanesskagans. Gufu- og leirhverir stafa af suðu í jarðhitageymi. Gufan leitar upp og blandast yfirborðsvatni. Henni fylgja gastegundir. Þær gera vatnið súrt. Af því umbreytist hraungrýti og móberg í leir með tilheyrandi sílitabreytingum.
Gufustreymið jókst áberandi á tímabili er þrýstingur lækkaði í jarðhitageyminum við vinnslu vatns og gufu úr honum. Stærsti leirhver landsins, nú með digrum suðustólpa í 20 m víðum stampi, er efst í brekkunni. Um tíma náði gosstólpinn um 10 m hæð og slettur úr honum hlóðust á barmana.

Gunnuhver

Gunnuhver og nágrenni.

Óróasamt er á Reykjanesi af völdum jarðskjálfta. Þeir koma í hrinum en eru vægir, þeir stærstu rúmlega 5 að stærð. Í helstu hrinunum hefur sprunga sem liggur frá Valbjargagjá til norðausturs um Gunnuhver hreyfst til, síðast fyrir um 40 árum. Við slík umbrot hefur hveravirkni aukist um tíma og efnaríkt vatn úr jarðhitageyminum náð til yfirborðs og myndað goshveri með útfellingum af hverahrúðri. Þetta voru sjóhverir. Kísilhóll er nefndur eftir kísilhellu efst á honum. Í henni eru skálar eftir kulnaða goshveri. Kulnaður bolli „Hversins 1919“ er um 100 m sunnar, ofan vegar. Hann var síðast virkur kringum 1970. Skammt þar suðvestan við var Geysir (Reykjanes-Geysir);  virkur kringum aldamótin 1900 og framan af 20. öld. Engin merki sjást um hann nú.

Gunnuhver

Gunnuhver – litadýrð.

Á þessu sumri (2021) hefur hverasvæðið nálægt Gunnuhver tekið verulegum breytingum, einkum vegna þess að jarðsjórinn á hverasvæðinu hefur þornað svo um munar; fagurlituð ölkelda, sem þarna var um tíma, er nú horfin og svo mætti lengi telja.

Einhverjum hálfvita hefur látið sér detta í huga að koma upp skiltum umleikis Reykjanesvita með áletrunni „Payzone“ þar sem krafist er kr. 1000 greiðslu fyrir að leggja bifreið um stund á svæðinu. Á skiltunum er vakin athygli á rafrænu eftirliti. Framangreint hefur gert það að verkum að Íslendingar leggja ekki nálægt vitanum.

Hverasvæðið er síbreytilegt og þurrkarnir að undanförnu hafa aukið verulega á litadýrðina – sjá MYNDIR.

Gunnuhver

Við Gunnuhver.