Færslur

Reykjanes

Léo M. Jónsson í Höfnum skrifaði grein í Faxa árið 2008, sem hann nefndi “Ökuferð um Hafnarhrepp“. Í henni fjallar Léo m.a. um staðhætti, örnefni og sagnir á “hinu eiginlega Reykjanesi” og nágrenni:

Leó M. Jónsson

Leó M. Jónsson.

“Þegar haldið er lengra suður eftir veginum er komið á hæð þar sem vegurinn sveigir til austurs. Beint af augum er gamalt eldfjall, Sýrfell, en á milli þess og Reykjanessvita, sem stendur á hinu 50 m háa Vatnsfelli, í suðvestri, en fellið heitir eftir stórri tjörn sem er við það, eru Rauðhólar og Sýrfellsdrög. Vitinn er 28 m a hæð og því 78 m yfir sjávarmáli. Mannvirkin norðvestan við Rauðhóla er Sjóefnavinnslan (oft ranglega nefnd Saltverksmiðjan). Einnig blasir við nýreist Reykjanesvirkjun. Hér blasir hið raunverulega Reykjanes við augum sem Reykjanesskaginnerkenndurvið. Sérkennilegi hnjúkurinn með u-laga skarði í, sem sést héðan vestan vitans, nefnist Valahnjúkur. Lengst til hægri sést strýtan á móbergsdrangi sem nefnist Karl en hann stendur í sjónum skammt suður af vestasta tanga Reykjanessins sem nefnist Önglabrjótsnef og teygir sig út í sjóinn í átt til Eldeyjar. Þjóðsagan segir að tröllkarl og kerling, sem bjuggu í Eldey hafi vaðið til lands og haldið á kú að leiða til nauts. Tókst ekki betur til en svo að vegna tafa dagaði þau uppi og urðu að steini. Karlinn stendur þarna enn úti í sjó en Kerling, hátt eldvarp, sem stóð sunnar uppi á landi, brotnaði niður fyrir löngu.

Eldey

Eldey

Eldey.

Eldey er sérkennileg 77 m há þverhnípt klettsey sem liggur tæpa 15 km frá landi og er talin m.a. vera mesta súlubyggð Evrópu (alfriðuð). Milli Eldeyjar og Reykjaness er Húllið – fjölfarin siglingaleið. Vegarslóði á hægri hönd liggur niður í Stóru-Sandvík og að gamla Reykjanessveginum þar sem heitir Skjótastaðir en það er hár höfði norðan við víkina og mun þar hafa verið byggð fyrr á öldum. Annar vegarslóði liggur í Stóru-Sandvík niðri í dalverpinu framundan. Frá útskoti (6,7) við enda beygjunnar til austurs sést ofan í Stóru-Sandvík vaxna melgresi. Handan hennar í suðri tekur við talsvert hraun, kolsvart og sviðið með foksand í flákum. Stamparnir þrír, sem blasa við framundan handan víkurinnar, eru sérkennilegir eldgígar og eftir þeim nefnist hraunið Stampahraun og nær fram í sjó. (Hér voru reist háspennumöstur, þrátt fyrir að upphaflega hafi verið gert ráð fyrir jarðstreng frá virkjuninni að Sýrfelli. Sú breyting er vondur vitnisburður um menningarstig Suðurnesjamanna að mati höfundar!).

Eldey

Eldey.

Eldgígarnir tveir sem sjást suðvestar, lengra til hægri og utar á nesinu, nefnast Eldborgir. Eins og við er að búast eru þessir upptyppingar notaðir sem mið til staðsetningar fiskiskipa úti á Eldeyjarbanka.
Sú Eldborganna sem sést af grynnra vatni nefnist Eldborg grynnri og stendur sunnar og nær sjó. Eldborg dýpri nefnist sú sem sést af dýpra vatni. Er hún stærri og stendur vestar. Þar heitir Eldborgahraun. Fjær til norðausturs eru mikil ummerki eldsumbrota. Eru það nefnd Eldvörp. Hafnamenn nefna það einnig í daglegu tali hörzl, þ.e. ójöfnur. Stamparnir, Eldborgirnar og aðrar eldstöðvar, eru eins og misstórir hnútar á svörtu bandi í landslaginu og setja ógnþrunginn svip á umhverfið, jafnvel svo að sumt fólk verður hrætt og þorir ekki að dvelja lengi á svæðinu af ótta við eldgos – enda er hér eldur undir, sem sést m.a. á hverasvæðinu, gufuaflsvirkjuninni og blásandi borholum austan Reykjanesvita.

Mönguselsgjá

Stóra-Sandvík

Stóra-Sandvík og gjárnar ofanverðar.

Þar sem vegurinn sveigir aftur til suðurs gengur stór gjá upp frá sjó og inn í landið. Hún nefnist Mönguselsgjá og liggur nyrst upp úr Stóru-Sandvík. Gjáin er ein af mörgum sem mynda sprungubelti. Jarðskorpan gliðnar hér á miklum hrygg og jarðeldasvæði sem liggur í miðju Atlantshafi frá suðri til norðurs. Landsig sést greinilega þegar horft er um öxl til Mönguselsgjár eftir að komið er upp á Stampahraun. Yfir Mönguselsgjá (ekki Tjaldstaðagjá sem er stærri og sunnar) hafa lafafrakkamenn, úr Keflavík, byggt brú til að drýgja tekjur sínar af erlendum ferðamönnum með því að telja þeim trú um að þarna séu meginlandaflekar Ameríku og Evrópu að reka hvor frá öðrum. Greinarhöfundur er einn þeirra Hafnabúa sem hafa skömm á tiltækinu og líta á þetta sem pretti – í skásta falli fiflagang og Suðurnesjamönnum til vansæmdar enda hafa jarðvísindamenn bent á og staðfest að landrekið kemur ekki fram á þessum stað heldur miklu austar (nánar tiltekið austur í Hreppum).

Tjörn gerð af mannavöldum

Stóra-Sandvík

Stóra-Sandvík – Tjörnin manngerða.

Nú komum við að syðri troðningnum sem liggur niður í Stóru-Sandvík. Hér var melgresi sáð um 1950 til að hefta sandfok. Eins og sjá má hefur það tekist vel. Tjörnin sem prýðir svæðið og laðar að sjó og vaðfugla í stórum flokkum, myndaðist ekki fyrr en melgresið hafði stöðvað fokið. Hún er því gerð af mannavöldum! Afleiðingar hrikalegra náttúruhamfara blasa við í Stampahrauni í suðvestri og Eldvörpum í austri. Ævagamlar heimildir segja að árið 1000 hafi mest allt Reykjanes sokkið í sjó og Geirfuglasker komið upp. Þá átti landið að hafa legið Iangt út fyrir Eldey í norðvestur en Eldey og drangar við hana hafi áður verið fjöll á Reykjanesskaganum. Til að girða fyrir misskilning skal aftur ítrekað að Reykjanesskagi og Reykjanes er tvennt ólíkt þótt skaginn dragi nafn af þessu litla nesi yst á honum.

Heimildir um landskjálfta

Stampar

Stampar.

Annálar greina frá eldsumbrotum með stuttum hléum á og úti fyrir Reykjanesi á 12. og 13. öld. Samkvæmt þeim hefur gosið á Reykjanesi árið 1118, og a.m.k. 13 sinnum á 13. öld. Sagt er að sumum eldgosum hafi fylgt miklir landskjálftar og þess getið að svartamyrkur hafi verið um annars hábjartan dag (1226) og að Reykjanesið hafi brunnið (1210 og 1211). Í hamförum á fyrri hluta 13. aldar er talið að byggð hafi eyðst á Reykjanesi en merki um hana sjást m.a. við Skjótastaði norðan Stóru-Sandvíkur. Í annál er þess getið að 18 manns hafi farist á Reykjanesi í landskjálfta og eldi árið 1118. Næsta lítið er vitað um sögu Hafna á 14. og fram á síðari hluta 16. aldar eins og margra annarra staða á landinu, m.a. vegna þess að kirkjubækur, sem geymdar voru í Viðey, eyðilögðust í bruna. Þó munu vera til heimildir um mikinn landsskjálfta 1389 og að 1390 hafi hálft Reykjanesið brunnið. Til mun vera heimild um að eldur hafi komið upp í hafi fyrir Reykjanesi 1420 og að þá hafi skotið upp landi. Einnig er getið um eld fyrir Reykjanesi 1422 og aftur 1584. í annál er greint frá eldi í „Grindavíkurfjöllum” árið 1661 oghafi séstoft, fyrir og eftir jól, á Norðurlandi. Til er heimild um að árið 1706 hafi komið upp eldur í sjó fyrir Reykjanesi og einnig 1783 fyrir sunnan Geirfuglasker. Kom þá upp land sem sökk aftur (Nýey). Síðasta gos sem minnst er á í annálum, á eða fyrir Reykjanesi, á að hafa verið árið 1830 en þá sigu Geirfuglasker í sjó. Síðustu eldsumbrot sem heyrst hefur um fyrir Reykjanesi eiga að hafa átt sér stað í kringum 1930. Á þá að hafa gosið á sjávarbotni nálægt Eldey. (Athygli er vakin á því að í ljósi niðurstaðna jarðfræðirannsóknir á svæðinu, m.a. á vegum HÍ, hafa tímasetningar eldsumbrota verið endurskoðaðar 2005).

Forsetahóll

Reykjanes

Reykjanes. Forsetahóllinn efst til vinstri.

Á mótum vegar að Reykjanessvita eru um 11 km frá syðri hraðahindruninni í Kirkjuvogshverfi. Vegurinn liggur fyrst í vestur að Sjóefnaverksmiðjunni, síðan í norðvestur fram hjá gúanóverksmiðju en skammt þaðan er vinkilbeygja til vinstri á veginum að vitanum og út að Valahnjúki. Þessar verksmiðjur eru hér vegna jarðhita sem fæst úr borholum en þær eru með öflugustu borholum landsins um og yfir 10 megavött hver. Spölkorn frá kröppu beygjunni er grasi vaxinn hóll eða fell á vinstri hönd sem nefnist Litlafell og einnig Forsetahóll (en þennan hól gáfu bræðurnir Ketill og Oddur Ólafssynir frá Kalmanstjörn forsetaembættinu í tíð Sveins Björnssonar, að hans raði (en ekki Hafnamenn sem þakklæti fyrir veg út á Reykjanes eins og ég hafði áður haldið fram og haft ákveðna heimildarmenn að) – til að forsetinn gæti aðstoðað þá við að fá ruddan slóða út á Reykjanes – sjá bréf Marons heitins Vilhjálmssonar frá Merkinesi sem birt er hér aftan við greinina). Suðaustan við Litlafell, í hvarfi frá veginum, er mjög fallegt stórt blátt lón. Sé gengið upp á Litlafell blasir lónið við og hverasvæði upp af því, að sunnanverðu.

Reykjanes

Reykjanes – Forsetahóll.

Ekið er um hlað vitavarðarhússins (þar er snyrtiaðstaða fyrir ferðafólk) og áfram út að Valahnjúki. Við strönd Reykjaness og báðu megin nessins hafa orðið mörg og mikil sjóslys á þessari öld. (Greinarhöfundur hefur skrifað sögu Björgunarsveitarinnar Eldeyjar í Höfnum. Þar er m.a. fjallað nokkuð ítarlega um stærri sjóslys á þessu svæði. Greinin er einnig birt á vefsíðu höfundar www.leoemm.com). Við Reykjanes strandaði m.a. eitt af stærstu skipum sem strandað hefur við Ísland, olíuskipið Clam. Það var 28. febrúar 1950. Skipið varð vélarvana eftir að hafa rekið upp í fjöru í Reykjavík og á leið til útlanda dregið af dráttarbáti, sem það slitnaði frá í ofsaveðri. Um borð voru 50 skipverjar. Hvers vegna 50 manns voru um borð í vélarvana skipi sem draga átti til útlanda af dráttarbáti bíður sagnfræðinga að rannsaka. Þarna fórust 27 manns en 23 tókst að bjarga.

Niðurlag

Reykjanes

Brú milli heimsálfa yfir Mönguselsgjá.

Mörkin á milli gamla Hafnahrepps (nú Reykjanessbæjar) og Grindavíkur liggja á Reykjanesi í línu frá tindi Sýrfells í þúfu í Valbjargargjá strax sunnan Valahnjúks og þaðan í kamb Valahnjúksmalar. (Eftir þinglýstu skjali nr. 240479 dags. 16/1/79). Ástæða er til að geta þess að í þessari grein er stuðst við upplýsingar staðfróðra heimamanna í Höfnum um örnefni. Mest munar þar um örnefnasafn og lýsingu Hinriks í Merkinesi á staðháttum í gamla Hafnahreppi sem hann vann fyrir Örnefnastofnun 1978. Á nokkrum stöðum eru önnur heiti notuð á sumura kortum Landmælinga ríkisins en í þessari grein. Þau eru eftirfarandi: Á korti stendur Valahnjúkar. Í Höfnum er aðeins talað um einn Valahnjúk. Á korti eru 5 Stampar sagðir í Stampahrauni. Í Höfnum eru 3 gígar næst vegi nr. 425 nefndir Stampar. Þeir tveir sem eru sunnar á nesinu nefnast Eldborg grynnri og Eldborg dýpri og þar er Eldborgahraun. Á korti stendur Eldvarpahraun. Í Höfnum er talað um Eldvörp á þeim stað. Norðarlega upp af Hafnabergi er hóll sem nefndur er Berghóll á korti. Í Höfnum heitir þessi hóll Bjarghóll (hann er við Sigið (á Siginu) þar sem sigið var í bjargið). Á korti er hluti strandarinnar undir Valahnjúki nefnd Miðgarðamöl. Í Höfnum heitir þessi staður Valahnjúksmöl (eins og er á a.m.k. einu kortanna í mkv. 1:100.000). Gjáin sem gengur upp úr Stóru Sandvík (sú sem hefur verið brúuð við hlið vegarins!) nefnist Mönguselsgjá eftir Möngu frá Kalmanstjörn sem var selsstúlka fyrrum en ummerki selsins er að finna austarlega í gjánni. Þessi gjá hefur ranglega verið nefnd Tjaldstæðagjá í fréttatilkynningum frá Ferðamálaskrifstofu Reykjanesbæjar. Sú gjá nefnist réttu nafni Tjaldstaðagjá. Hún er breiðari en Mönguselsgjá og liggur spölkorn sunnar.”

Með greininni fylgir bréf frá Ron (maron) frá Cooktown í Ástralíu:

Bréf frá Astralíu: Cooktown 15.3.04
Blessaður Leó!

Reykjanes

Reykjanes – Forsetahóll.

Þú ert kannski hálfundrandi á að fá bréf á íslensku frá Ástralíu. Í eina tíð hét ég Maron í Merkinesi, fæddur þar og uppalinn.
Ástæðan fyrir þessu bréfkorni er Leiðarlýsing þín um Hafnir. Ég er þér sammála um flest eins og t.d. „skrímslið” en hugmynd þín um Forsetahólinn er alröng. Mundu að ég þekkti Kedda Ólafs (Ketil Ólafsson frá Kalmanstjörn) frá barnæsku. Sagan er sú – beint frá Kedda – að hann var búinn að klára allan sandinn í Hundadalnum og vantaði leið suður eftir. Hann (Keddi) og Oddur voru búnir að ræða við Vegamálastjóra, ýmsa ráðherra og embættismenn um akfæra braut svo hægt væri að koma liði og tækjum nálægt strandstað en ekkert gekk; þeir vísuðu hver á annan, eins og embættismanna er vandi, þangað til hraut út úr Kedda:

Reykjanesviti

Reykjanes – Forsetahóll. Steyptir hliðarstólpar fremst.

„Andskotinn, – við verðum víst að tala við forsetann sjálfan”! Oddur þagði smástund og svaraði svo: „Já, við erum búnir að tala við alla aðra.” Þeir tóku strikið út á Álftanes og knúðu dyra á Bessastöðum. Sveinn Björnsson tók vingjarnlega á móti þeim og hlustaði á mál þeirra. (Oddur var talsmaðurinn). Forsetinn íhugaði málið um stund en sagði svo: „Já, þetta er greinilega ábyrgðarmál en sjálfur get ég ekkert gert, ég er bara forseti. Skiljið þetta eftir hjá mér og ég skal athuga hvort ég eigi ekki hönk upp í bakið á einhverjum þessarra svokölluðu ráðamanna.”

Reykjanes

Reykjanes – kort frá 1903.

Stuttur tími leið þangað til forsetinn hringdi í Odd á Reykjalundi og sagði honum „það er engin leið að fá neitt af viti frá þessum pólitískusum, einfaldasta bakferlið er að þið gefið forsetaembættinu sumarbústaðarland á Reykjanesi.” Bræðurair voru til í það og gáfu hólinn, sem nú er kallaður „Forsetahóll”. Það var góður slóði frá Kistu til vitans en hin hraunin þurfti að ryðja. Eftir að embættið hafði þegið gjöfina gat Sveinn forseti farið fram á að slóðinn yrði ruddur. Vegurinn kom nokkrum árum seinna og vann ég við hann, þrettán ára að aldri, en það er allt önnur saga.
Sem sagt, forseti fékk hólinn í gegn um „bakdyramakk” en fékk hann ekki í þakklætisskyni.
Kveðjur,
Ron:

Heimild:
-Faxi, 1. tbl. 01.02.2008, Ökuferð um Hafnarhrepp – Leó M. Jónsson, bls. 9-11.

Stóra-Sandvík

Stóra-Sandvík. Mynd EG.

Reykjanes

Magnús Á. Sigurgeirsson skrifar “Þátt úr gossögu Reykjaness” í Náttúrufræðinginn árið 2004. Þar fjallar hann m.a. um Eldra-Stampahraunið, Önglabrjótsnef og nágrenni á ysta hluta Reykjanesskagann.
Jarðsagan er óvíða augljósari en einmitt þarna; samspil bergganga, gíga, gjalls, ösku og hrauns. Þá er sagt frá strandi þýsks togara við Önglabrjótsnef 1951.

Eldra-Stampahraun og Tjaldstaðagjárhraun

Magnús Á. Sigurgeirsson

Magnús Á. Sigurgeirsson. 

“Eldra Stampahraun kemur frá um 4,5 km langri gígaröð, Eldri-Stampagígaröðinni, sem liggur til norðausturs frá Kerlingarbás, inn á land. Gígaröðin er mjög slitrótt enda umflotin og sums staðar kaffærð af Yngra Stampahrauninu, yngsta hrauni Reykjaness. Eldra Stampagosið má flokka sem blandgos þar sem veruleg gjóskuframleiðsla átti sér stað samhliða hraunrennsli. Á norðurhluta gossprungunnar var kvikustrókavirkni og gjallmyndun ásamt hraunrennsli einkennandi en á suður Wuta sprungunnar, sem lá neðansjávar, var hins vegar öskumyndun ráðandi. Gosaska frá Eldra-Stampagosinu barst inn til landsins og finnst nú í jarðvegi á vestanverðum Reykjanesskaga. Öskulagið er nefnt R-3.
ÖnglabrjótsnefUm aldur Eldra Stampahrauns hafa fengist vísbendingar með hjálp öskulagatímtals og 14C-aldursgreininga. Öskulög hafa ekki fundist í jarðvegi undir hrauninu en hins vegar er afstaða þekktra öskulaga til R-3 vel þekkt. Elsta þekkta öskulag ofan R-3 er um 1400 ára gamalt Heklulag og næsta lag neðan R-3 er um 2000 ára gamalt Kötlulag. Kolefnisaldursgreining á mó undan R-3 bendir til að lagið sé minna en 2200 ára gamalt.

Önglabrjótsnef

Reykjanes – kort. Tjaldstaðagjá er merkt á kortið.

Út frá þessum vísbendingum er dregin sú ályktun að Eldra Stampagosið hafi orðið fyrir um 1800-1900 árum.
Skammt austur af Eldra Stampahrauni er hraun sem nefnist Tjaldstaðagjárhraun og er víðáttumesta hraun á Reykjanesi. Upptök þess eru á um 1 km langri gígaröð sem liggur í framhaldi af Stampagígaröðinni til norðausturs. Aldur hraunsins hefur verið nokkuð á reiki en öskulagarannsóknir hafa staðfest forsögulegan aldur þess.
Stampar
Elsta gjóskulag sem fundist hefur ofan á Tjaldstaðagjárhrauni er fyrrnefnt 1400 ára gamalt Heklulag en ekki hefur tekist að finna jarðveg undir hrauninu.
Afstaða Tjaldstaðagjárhrauns til Eldra Stampahrauns sýnir að það hefur runnið síðar en Stampahraunið. Á milli þeirra er einungis foksandur en enginn jarðvegur. Bendir flest til að hraunin séu af líkum aldri og hafi runnið á sama gosskeiði, ef til vill í sömu eldum, fyrir tæpum tvö þúsund árum.

Reykjaneseldar fyrir tvö þúsund árum

Önglabrjótsnef

Berggangur í Kerlingarbás, öskulög og hraunhella efst.

Þar sem Eldri Stampagígaröðin liggur að sjó í Kerlingarbás hafa myndast jarðlagaopnur af völdum sjávarrofs sem gefa færi á að skoða hraun, gíga og gjóskulög frá ýmsum tímum í þversniði (2. og 3. mynd). Segja má að megindrættirnir í gossögu Reykjaness síðustu árþúsundin blasi þarna við augum. Ekki verður öll sú saga rakin hér heldur aðeins það sem viðkemur Eldra Stampagosinu.
Stampar
Fyrstu merki um virkni á Eldri Stampagígaröðinni er þunnt fínkorna öskulag sem liggur næst undir syðsta gjallgíg gígaraðarinnar og hrauntaumum frá honum. Af kornagerð öskunnar að dæma hefur hún myndast í neðansjávargosi. Askan hefur ekki fundist í jarðvegssniðum og bendir það til lítillar dreifingar á landi. Af þessu má ráða að upphaf Eldra Stampagossins hafi verið í sjó. Upptakagígurinn er nú með öllu horfinn. Vísbendingar eru um að gossprungan hafi einnig verið virk á landi um svipað leyti. Ofan á öskulagið R-2 hleðst síðan myndarlegur gjallgígur, um 20 m hár. Gosrás gígsins, sem nú er bergstandur, gengur upp í gegnum öskulagið.
Haun frá þessum gíg og öðrum nærliggjandi hafa byggt upp Önglabrjótsnef, en þar er hraunið að minnsta kosti fimm metra þykkt. Gosvirknin hefur einkennst af kvikustrókavirkni og hraunrennsli.

Önglabrjóstnef

Önglabrjótsnef. Kerlingarbás, Valahnúkar og Karlinn fjær.

Hraunrröð liggur frá gígnum út eftir Ónglabrjótsnefi. Þegar hraungosinu linnti færðist virknin að nýju á neðansjávarhluta gossprungunnar og þeytigos varð í sjó með tilheyrandi öskumyndun og þá myndaðist öskulagið R-3, sem fyrr er nefnt. Af þykkt öskunnar á landi að dæma, en hún er allt að 1,2 m, hafa upptökin verið innan við 1 km frá núverandi strönd í beinu framhaldi af Eldri Stampagígaröðinni. Athuganir leiddu í ljós að öskulagið R-3 er yfirleitt mjög rofið og að upphafleg þykkt þess hafi því verið mun meiri en nú mælist. Varlega áætlað gæti lagið hafa verið rúmlega þriggja metra þykkt við Kerlingarbás.
Skýr merki eru um að askan hafi kaffært hraun og gíga næst ströndinni. Á Önglabrjótsnefi myndar R-3 víða 10-20 cm þykka túffskán ofan á Eldra Stampahrauninu. Af þykktardreifingu gjóskunnar að dæma hefur gígrimi upptakagígsins að öllum líkindum náð inn á ströndina við Kerlingarbás. Útbreiðsla öskulagsins R-3 inn til landsins hefur einkum verið til norðausturs, í áttina að Njarðvíkum (1. mynd). Öskufall yfir hafsvæði er óþekkt en hefur vafalítið verið talsvert.
Önglabrjóstnef
Í lokaþætti þessara elda rann Tjaldstaðagjárhraun, nokkrum árum eða áratugum eftir Eldra-Stampagosið. Hraunið rann frá um 1 km langri gígaröð um 1 km norðaustur af Eldri Stampagígaröðinni. Hraunið er mestmegnis úfið apalhraun en dálítil spilda af helluhrauni myndaðist þó einnig. Samanlagt eru gígaraðirnar báðar um 6 km að lengd. Sjáanlegt flatarmál hraunanna er um 11,4 km2. Hins vegar má hækka þessa tölu um allt að 4 km2, eða sem nemur því landsvæði sem þakið er Yngra Stampahrauninu.
Heildarflatarmál hraunanna gæti legið nærri 15 km2. Rúmmál hraunanna gæti verið um 0,1 km3, miðað við 5 metra meðalþykkt. Nokkur landauki var af Eldra Stampahrauninu við norðvesrurströnd Reykjaness, frá Önglabrjótsnefi, um Kinnaberg og austur að Stóru-Sandvík.
Varlega áætlað má telja að um 500 m breið og um 4 km löng ræma hafi bæst við þáverandi strönd.

Önglabrjótsnef
Um miðja Stampagígaröðina eru tveir gígar sem bera þess merki að hafa hlaðist upp nærri fjöruborði en innan um gjall í þeim má finna núna fjörusteina (6. mynd). Út frá gerð gjóskunnar má fara nokkru nærri um myndunarsögu gíganna. Upphaf gosvirkninnar hefur einkennst af gufusprengingum þegar sjór streymdi að gosopunum. Gosefnin hafa þá einkum verið fínkorna aska en síðar, þegar tekur fyrir aðstreymi sjávarins, verður gjallframleiðsla ráðandi. Að síðustu hefur hraun runnið frá gígunum. Líklegt verður að telja að þessir gígar séu frá upphafi Eldra Stampagossins og gætu því verið samtíma öskulaginu R-2, sem fyrr er nefnt. Á gömlum loftljósmyndum sést að þessir gígar hafa eitt sinn verið stærstu gígar Eldri-Stampagígaraðarinnar. Nú eru þarna gapandi tóftir eftir langvarandi gjallnám.

Stampar

Gígar í Yngra- Stampahrauni.

Mikið sandfok hefur verið á Reykjanesi eftir Eldra Stampagosið og má reikna með að gjóskulagið R3 ásamt upptakagíg þess hafi verið meginuppspretta þess. Lagið er mjög rofið, eins og fyrr segir, og víða í sköflum. Við Stóru-Sandvík, þar sem jaðrar Eldra Stampahrauns og Tjaldstaðagjárhrauns mætast, sést að þykkir skaflar hafa hlaðist upp við jaðar Stampahraunsins áður en yngra hraunið rann upp að því. Af jarðvegssniðum að dæma var jarðvegur á Reykjanesi sendinn og rýr öldum saman eftir eldana.”

Í Tímanum árið er fjallað um strand þýsks togara við Önglabergsnef undir fyrirsögninni “Þýzkur togari strandar við Önglahrjótsnef – Losnaði af grunni, sökk á skammri stundu, en áhöfnin bjargaðist í annan togara”:

“Klukkan 6.40 í gærmorgun strandaði þýzki togarinn Karlsburg Danh við Önglabrjótsnef, nyrðri tá Reykjaness, sunnanvert við Sandvíkurnar. Losnaði hann af grunni tæpum tveimur stundum síðar, en sökk síðan innan lítillar stundar.
Forðuðu skipverjar, tuttugu menn, sér í björgunarbátana, og komust þeir í annan þýzkan togara, Hans Böchler, er var í námunda við strandstaðinn.

Fyrstu fregnir af strandinu

Önglabrjótsnef

Önglabrjótsnef – brim.

Loftskeytastöðin í Reykjavík náði fyrst fregnum af strandinu, og lét hún Slysavarnafélagið þegar vita. En það sneri sér til björgunarsveitarinnar í Grindavík og vitavarðarins á Reykjanesi, Sigurjón Ólafssonar, er var einn karlmanna á bænum. — Brá hann þegar við og fór á strandstaðinn með línubyssu og annan útbúnað, er til björgunar þurfti. Dró hann þetta eftir sér á sleða.
Meðan þessu fór fram var slysavarnadeildin Þorbjörn í Grindavík að senda hina öruggu björgunarsveit sína af stað á stórum bifreiðum, en torfæri var yfir að fara og færðin hin versta. Björgunarsveit úr Höfnum lagði einnig af stað.

Samband við skip

Önglabrjótsnef

Þýskur togari líkur Karlsburg Danh.

Loftskeytastöðin í Reykjavík var í stöðugu sambandi við annan þýzkan togara, Schütting, er var á þessum slóðum, og tilkynnti hann, að Karlsburg Danh væri strandaður við Önglabrjótsnef, og voru önnur skip látin vita um þetta. Klukkan 8.20 tilkynnti Schütting, að hinn strandaði togari hefði losnað af grunni og hefði getað hreyft vél sína, en mikill leki væri kominn að skipinu. En eftir þetta segir ekki af skipinu, því að það sökk að skammri stundu liðinni.
Hans Böchler kom með skipsbrotsmennina til Reykjavíkur um miðjan dag í gær. Voru þeir allir hressir. Slysavarnarfélagið tók á móti þeim.”
Sjá meira un strandið HÉR.

Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn, 1.-2. tbl. 01.03.2004, Þáttur úr gossögu Reykjaness – Magnús Á Sigurgeirsson, bls. 21-28.
-Tíminn, 33. tbl. 09.02.1951, Þýzkur togari strandar við Önglahrjótsnef, bls. 1 og 7.

Stampahraun

Stampahraun. Í dag má sjá leifar hraunsins undan ströndinni, þ.e. Karlinn. Strákur, Stelpa og Kerling eru horfin í sjáinn. Þó má enn sjá móta fyrir gíg Kerlingar í Kerlingarbás.

Gunnuhver

Gunnuhver er gufuhvera- og leirpyttaklasi á Reykjanesi, en svo nefnist ysti oddi Reykjanesskagans. Gufu- og leirhverir stafa af suðu í jarðhitageymi. Gufan leitar upp og blandast yfirborðsvatni. Henni fylgja gastegundir. Þær gera vatnið súrt. Af því umbreytist hraungrýti og móberg í leir með tilheyrandi sílitabreytingum.
Gufustreymið jókst áberandi á tímabili er þrýstingur lækkaði í jarðhitageyminum við vinnslu vatns og gufu úr honum. Stærsti leirhver landsins, nú með digrum suðustólpa í 20 m víðum stampi, er efst í brekkunni. Um tíma náði gosstólpinn um 10 m hæð og slettur úr honum hlóðust á barmana.

Gunnuhver

Gunnuhver og nágrenni.

Óróasamt er á Reykjanesi af völdum jarðskjálfta. Þeir koma í hrinum en eru vægir, þeir stærstu rúmlega 5 að stærð. Í helstu hrinunum hefur sprunga sem liggur frá Valbjargagjá til norðausturs um Gunnuhver hreyfst til, síðast fyrir um 40 árum. Við slík umbrot hefur hveravirkni aukist um tíma og efnaríkt vatn úr jarðhitageyminum náð til yfirborðs og myndað goshveri með útfellingum af hverahrúðri. Þetta voru sjóhverir. Kísilhóll er nefndur eftir kísilhellu efst á honum. Í henni eru skálar eftir kulnaða goshveri. Kulnaður bolli “Hversins 1919” er um 100 m sunnar, ofan vegar. Hann var síðast virkur kringum 1970. Skammt þar suðvestan við var Geysir (Reykjanes-Geysir);  virkur kringum aldamótin 1900 og framan af 20. öld. Engin merki sjást um hann nú.

Gunnuhver

Gunnuhver – litadýrð.

Á þessu sumri (2021) hefur hverasvæðið nálægt Gunnuhver tekið verulegum breytingum, einkum vegna þess að jarðsjórinn á hverasvæðinu hefur þornað svo um munar; fagurlituð ölkelda, sem þarna var um tíma, er nú horfin og svo mætti lengi telja.

Einhverjum hálfvita hefur látið sér detta í huga að koma upp skiltum umleikis Reykjanesvita með áletrunni “Payzone” þar sem krafist er kr. 1000 greiðslu fyrir að leggja bifreið um stund á svæðinu. Á skiltunum er vakin athygli á rafrænu eftirliti. Framangreint hefur gert það að verkum að Íslendingar leggja ekki nálægt vitanum.

Hverasvæðið er síbreytilegt og þurrkarnir að undanförnu hafa aukið verulega á litadýrðina – sjá MYNDIR.

Gunnuhver

Við Gunnuhver.

Reykjanes

Í grein í Faxa árið 2008 skrifar Leó M. Jónsson um “Ökuferð um Hafnahrepp” og getur þar um skilgreininguna á “Hinu raunverulega Reykjanesi”, sem er að öllu leyti rétt, bæði skv. örnefnalýsingum og kortum fyrri tíðar:

Hið raunverulega Reykjanes

Leó M. Jónsson

Leó M. Jónsson.

Þegar haldið er lengra suður eftir veginum er komið á hæð þar sem vegurinn sveigir til austurs. Beint af augum er gamalt eldfjall, Sýrfell, en á milli þess og Reykjanessvita, sem stendur á hinu 50 m háa Vatnsfelli, í suðvestri, en fellið heitir eftir stórri tjörn sem er við það. Vitinn er 28 m a hæð og því 78 m yfir sjávarmáli. Mannvirkin norðvestan við Rauðhóla er Sjóefnavinnslan (oft ranglega nefnd Saltverksmiðjan). Einnig blasir við nýreist Reykjanesvirkjun. Hér blasir hið raunverulega Reykjanes við augum sem Reykjanesskaginn er kenndur við. Sérkennilegi hnjúkurinn með u-laga skarði í, sem sést héðan vestan vitans, nefnist Valahnjúkur. Lengst til hægri sést strýtan á móbergsdrangi sem nefnist Karl en hann stendur í sjónum skammt suður af vestasta tanga Reykjanessins sem nefnist Önglabrjótsnef og teygir sig út í sjóinn í átt til Eldeyjar. Þjóðsagan segir að tröllkarl og kerling, sem bjuggu í Eldey hafi vaðið til lands og haldið á kú að leiða til nauts. Tókst ekki betur til en svo að vegna tafa dagaði þau uppi og urðu að steini. Karlinn stendur þarna enn úti í sjó en Kerling, hátt eldvarp, sem stóð sunnar uppi á landi, brotnaði niður fyrir löngu.”

Heimild:
-Faxi, 1. tbl. 01.02.2008, Ökuferð um Hafnahrepp, Leó M. Jónsson, bls. 9.

Reykjanes

Reykjanes – kort frá 1908.

Eldgos

Í Dagblaðið Vísir árið 2001 er haft eftir Ara Trausta Guðmundssyni, jarðeðlisfræðingi, að “Það muni verða eldgos á Reykjanesskaganum“:

Þéttbýlasta svæði landsins óþægilega nálægt virkum eldstöðvum

Ari Trausti Guðmundsson

Ari Trausti Guðmundsson.

Það mun verða eldgos á Reykjanesskaganum – segir Ari Trausti Guðmundsson en vill engu spá um hvar eða hvenær.

„Ljóst er að sumar byggðir á þéttbýlasta svæði landsins eru óþægilega nálægt virkum skjálftasprungnum eldstöðvakerfum gosbeltanna fjögurra á Reykjanesskaga, eða nálægt misgömlum gossprungum í þeim.” Þetta segir Ari Trausti Guðmundsson jarðeðlisfræðingur m.a. í nýrri bók sinni „íslenskar eldstöðvar” sem kemur út í þessari viku. Þar er m.a. fjallað ítarlega um eldstöðvakerfi Reykjanesskagans sem talið er líklegt að láti á sér bæra, jafnvel í náinni framtíð.
Í niðurlagi kaflans um Reykjanes segir:
„Enn fremur er vitað að rek- og goshrinur ganga yfir í kerfunum á 700-1000 ára fresti. Nú er langt liðið á kyrrðartímabil hvað jarðeldinn varðar. Þess vegna verður t.d. að gera ráð fyrir að eldar, svipaðir Reykjanes-, Bláfjalla- og Nesjavallaeldum, geti valdið tjóni og óþægindum á Reykjanesskaga á næstu öldum. Áhrif hvers eldgoss ræðst m.a. af legu gossprungna, magni gosefna, aðstæðum á nálægu landsvæði og gosháttum. Hraungos í kerfunum virðast flest vera fremur lítil en skaginn er ekki breiður og ávallt er hætta á að hraun nái af hálendi hans út á láglendið og jafnvel til sjávar. Lítil gjóska fylgir slíkum gosum. Gjóskugos verða helst í sjó undan Reykjanesi eða lengra úti á hryggnum. Gjóskumagnið er þó venjulega fremur takmarkað en gæti samt valdið óþægindum og jafnvel tjóni. Ástæða er til að vinna áætlanir um viðbrögð, meta vel hættur og goslíkur og vakta eldstöðvakerfin á skaganum. Allt þetta hefur verið gert og unnið er áfram að því að draga úr áhættunni við að búa á „landlægum” hluta plötuskilanna í Norður-Atlantshafinu.”

Líkurnar aukast
Eldstöðvakerfi
Jarðfræðingar hafa á síðustu árum og misserum ítrekað gefið í skyn að gos í einhverju hinna fjögurra eldstöðvakerfa Reykjanesskagans séu ekki mjög langt undan. Þannig sagði Ragnar Stefánsson jarðskjálftafræðingur í samtali við DV fyrir skömmu að menn velti því fyrir sér núna hvort við séum hugsanlega að sigla inn í nýtt gostímabil.
Við stóru jarðskjálftana á Suðurlandi á og eftir 17. júní varð keðjuverkun jarðskjáifta vestur eftir Reykjanesskaga. Áhrif þeirra urðu m.a. mjög sýnileg er Kleifarvatn fór að leka ört niður um sprungur sem þá opnuðust. Jarðskjálftar á Hengilssvæðinu undanfarin ár hafa líka vakið athygli. Hvort það séu vísbendingar um að stórir atburðir séu í aðsigi virðist þó erfitt að henda reiður á. Það lá því beinast við að spyrja bókahöfundinn sjálfan, Ara Trausta Guðmundsson, hvernig hann mæti möguleikana á eldgosi á svæðinu í náinni framtíð.

Það mun verða eldgos
Eldstöðvakerfi
„Það mun verða eldgos á Reykjanesskaganum, það er alveg á hreinu. Það sem bæði jarðfræðingar og leikmenn hafa síðan áhuga á að vita er hvar og hvenær slíkt gos verður. Þegar jarðvisindamenn eru að fjalla um svona mál eru þeir ekki endilega að velta upp öllum hugsanlegum möguleikum. Það er sjaldan hægt að útiloka nokkurn hlut í náttúrunni en menn velta helst fyrir sér því sem líklegast er að gerist. Menn notast við mæligögn, söguna og það sem almennt er vitað um eldvirkni til að leggja upp möguleika í stöðunni. Þá er helst til að taka að við vitum um þessi fjögur eldstöðvakerfi sem liggja skáhalt vestur eftir Reykjanesskaganum.

Ekki allur Reykjanesskaginn undir

Brennisteinsfjöll

Í Brennisteinsfjöllum.

Við þorum nánast að fullyrða að eldgos verði ekki utan þessara kerfa, heldur einungis innan þeirra.
Þar með erum við að segja að á nánast helmingi flatarmáls skagans verða ekki eldgos. Það verður sjaldan eða aldrei eldgos á milli þessara reina sem greinilega má sjá á korti.
Í öðru lagi er hægt að sjá nokkuð ákveðna tíðni í eldgosahrinum. Þetta eru yfirleitt rek- og goshrinur eins og Kröflueldar voru. Það verður jarðgliðnun og það koma og fara eldgos á kannski nokkurra áratuga tímabili. Það virðist vera að það séu um 700 til 1000 ár á milli slíkra lotuhrina í einhverjum af þessum fjórum kerfum á skaganum.”
Ari Trausti segir að á sögulegum tíma hefur eldvirknin þó ekki byrjað í austasta svæðinu sem er Hengilskerfið. Það hefur ekki látið á sér bæra í 2000 ár. Gosvirkni byrjaði hins vegar í næstaustasta kerfinu sem kennt er við Brennisteinsfjöll. Síðan fór virknin í næsta kerfi sem er Trölladyngukerfið og síðast gaus í vestasta kerfinu sem er Reykjaneskerfið. Þegar slík eldvirknitímabil fara af stað virðast þau standa yfir í nokkra áratugi eða aldir í fleiri en einu kerfi. Á sögulegum tíma stóð það siðast seint á tíundu öld og fram yfir miðja þrettándu öld.

Líkt og Kröflueldar
Stampahraun
„Það sem er þó nokkur huggun harmi gegn er að þessi eldgos sýnast ekki vera mikil hvert um sig. Þetta eru sprungugos með hraunflæði og lítilli gjóskumyndun, ekki ólík siðustu Kröflugosum. Það er útilokað á þessari stunda að segja til um hvort svona hrinur byrji eftir ár, einn eða fleiri áratugi eða jafnvel ekki fyrr en eftir eina öld.
Við erum að tala um að 700 til 1000 ár líði á milli hrina og nú eru um 750 ár síðan síðasta hrina gekk yfir.”
Líkindl á gosl á Hengilssvæðinu – Nú hefur ekki gosið á Hengilssvæðinu í um 2000 ár. Er þá ekki kominn tími á það, ekki síst ef menn líta til kvikusöfnunar sem vitað er af undir eldstöðinni fram á mitt ár 1999?
„Jú, ef maður hugsar í líkindum þá er auðvitað rétt að meiri líkindi eru á að Hengilskerfið taki við sér næst frekar en önnur þar sem það hefur verið sofandi dálítið lengi. Við vitum að þar hafa gengið yfir að minnsta kosti þrjár goshrinur á síðustu nokkur þúsund árum, síðast fyrir um 2000 árum. Það er því nokkuð líklegt að það geti tekið við sér.
Landris og kvikusöfnun sem var undir Henglinum í lok tíunda áratugarins sýnir svart á hvítu að þarna er heilmikið líf. Þau áhrif sem Suðurlandsskjálftar valda hafa síðan mest áhrif á Hengilskerfið af öllum þessum eldstöðvakerfum. Sem betur fer stoppaði þetta landris 1999. Menn reiknuðu þá út að þetta hafi verið um 100 milljón rúmmetrar af kviku sem hafi risið upp undir Grafarholtshverfinu. Í því er hætta á mun minni skjálftum.

Grindavík, Hveragerði og Hafnarfjörður

Eldgos

Eldgos í Geldingadölum ofan Grindavíkur 2021.

-Hver er hættan á þétfbýlissvæðum Reykjanesskagans?
„Ég tel ekki að um yrði að ræða umtalsvert tjón af völdum jarðskjálfta á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Varðandi eldgos er matið öðruvísi. Við getum þó afskrifað gjósku sem alvarlegan tjónvald. Hraunin geta hins vegar runnið langt út frá gossprungum.
Hættan á gosum á Hengilssvæðinu er fyrst og fremst fyrir sumarbústaðasvæði allra syðst við Þingvallavatn. Fyrir Nesjavallavirkjun, mannvirki á Hellisheiðinni og síðan Hveragerði. Ég tel ekki nokkrar líkur á að hraun úr slíku gosi næði fram til Reykjavíkur.
Í Bláfjalla- og Brennisteinsfjallakerfinu er hættan ekki mikil á suðurhluta svæðisins. Hins vegar er viss hætta með skiðamannvirki í Bláfjöllunum. Ekki er mikil hætta á að hraun úr þessu kerfi næðu til þéttbýlissvæða.

Trölladyngjukerfið er einna hættulegast

Trölladyngja

Horft til Trölladyngju og Grænadyngju frá Helgadal. Mökkur frá gösstöðinni í Geldingadal t.h.

Trölladyngjukerfið er hins vegar einna hættulegast af þessum kerfum, vegna legunnar. Innan þess er t.d. Grindavík, ný mannvirki í Trölladyngju og Svartsengi er í námunda við þetta svæði. Þá er möguleiki á því að hraun úr nyrðri hluta svæðisins nái til sjávar nálægt Hafnarfirði. Þar yrði álverið í Straumsvík í hættu og Keflavíkurvegurinn á kaflanum frá Kúagerði að Hafnarfirði. Þarna hafa runnið hraun á sögulegum tíma.
Reykjaneskerfi er hins vegar fjær allri byggð. Hættan væri hugsanlega varðandi mannvirki á Reykjanesi og í Eldvörpum. Síðan er Svartsengi nálægt þessu kerfi líka eins og Trölladyngjukerfinu. Hins vegar er möguleiki á sprengigosi líku Surtseyjargosi í sjó við Reykjanes. Þar gaus t.d. á þrettándu öld. Sú gjóska getur fallið á allan Reykjanesskagann og víða á Suðvesturlandi. Ekki eru þó líkur á miklu tjóni af þess völdum.”
Í bók Ara Trausta er einmitt lýst þegar Snorri Sturluson missti naut sín í Svignaskarði af völdum öskufalls úr gosi við Reykjanes árið 1226. Þetta öskulag er kallað miðaldarlagið og er notað sem viðmiðun við fornleifarannsóknir. Drangurinn Karl undan vitanum á Reykjanesi er það sem enn má sjá af gígnum.
Ari Trausti Guðmundsson vill engu spá, frekar en aðrir jarðfræðingar, um hvar og hvenær næsta gos verður. Möguleikar til að spá fyrir slíku eru þó alltaf að batna. Fyrirvarinn sem menn hafa er hins vegar æði misjafn og fer algjörlega eftir eðli hvers eldgosasvæðis fyrir sig – kannski hálftími, jafnvel einhverjir klukkutímar eða dagar. – HKr.

Heimild:
-Dagblaðið Vísir 275. tbl. 28.11.2001, Það mun verða eldgos á Reykjanesskaganum – Ari Trausti Guðmundsson, bls. 8-9.

Eldgos

Eldgos á Reykjanesskaganum 2021.

Reykjanes

Í Faxa árið 2020 er fjallað um “Skáldin í vitanum”:

Reykjanesviti
“Á Reykjanesi má finna þrettán vita. Þeir eru ekki einungis sögulegt kennileiti heldur leiðarminni í sögu þjóðar sem allt fram á þennan dag hefur átt afkomu sína undir því að draga fisk úr sjó. Vitarnir voru logandi líflína til lands, ljósberar sem leiddu menn heim af hafi.
Með tilkomu vita varð til starf vitavarðar sem gat verið einmanalegt. Svo hagaði til að tvö skáld gegndu starfi aðstoðarvitavarðar þessum elsta vita landsins en það eru atómskáldið Steinn Steinar og Hannes Sigfússon.

Reykjanesviti

Reykjanesviti

Reykjanesviti, byggður 1908 – nýrri vitavarðarhúsin nær.

Reykjanesviti var reistur árið 1878 og var þá fyrsta stórframkvæmdin sem ráðist var í eftir að Íslendingar fengu heimastjórn frá Dönum. Vitinn laskaðist í jarðskjálfta en sá viti sem nú stendur var tekinn í notkun 1908. Vitinn stendur á Bæjarfelli upp af Valahnjúk, þar sem fyrsti vitinn stóð.
Reykjanesviti var eini viti landsins um nærri tveggja áratuga skeið og hafði vitavörður aðsetur á Reykjanesi sem var víðs fjarri mannabyggð þar sem enginn vegur lá yfir auðnina. Það var langur spölur frá vitavarðarhúsinu að gamla vitanum og þurfti hetjudug til starfsins.

Steinn Steinarr

Steinn Steinarr

Steinn Steinarr (fæddur Aðalsteinn Kristmundsson, 13. október 1908, dáinn 25. maí 1958) var íslenskt ljóðskáld og meðal áhrifamestu ljóðskálda Íslendinga á 20. öld.

Starf vitavarðarins gat verið einmanalegt en hann hafði þó með sér aðstoðarvitavörð og skiptu þeir með sér verkum. Það var héraðslæknir Keflvíkinga, Sigvaldi Kaldalóns, sem útvegaði ungum vini sínum Steini Steinari starf aðstoðarvitavarðar á Reykjanesi en þá var vitavörður Jón Ágúst Guðmundsson.
Steinn hafði oft dvalist í Grindavík hjá tónskáldinu ásamt helstu listamönnum þess tíma. Steinn var þá aðeins 22 ára gamall og ekki gerður fyrir erfiðsvinnu vegna vöðvarýrnunar í handlegg. Framtíðarhorfur hans virtust því ekki glæsilegar enda hafði skólaganga hans verði stutt. Í misjöfnum vetrarveðrum þurfti oft að hafa mann næturlangt uppi í vitanum til að hreinsa af snjó sem vildi festast á rúðurnar í ljósaklefanum, Kom það gjarnan í hlut Steins. Má gera sér í hugarlund að þar hafi orðið til ljóð þegar leiðindi sóttu að honum á þessum löngu og köldu vetrarnóttum og hann þurfti að halda á sér hita. Steinn starfaði í vitanum einn vetur frá 1930 til 1931 en hans fyrsta ljóðabók Rauður loginn brann kom út þremur árum síðar eða 1934. Þar mátti finna róttæk ljóð um hlutskipti lítilmagnans og bar mikið á vonleysi og trega enda þjóðin í kreppu og atvinnuleysi mikið.

Hannes Sigfússon

Hannes Sigfússon

Hannes Sigfússon skáld fæddist í Reykjavík 2. mars 1922. Foreldrar hans voru Sigfús Sveinbjarnarson, f. 11.3. 1866, d. 11.9. 1931, prentari og fasteignasali í Reykjavík, og Kristín Jónsdóttir, f. 22.4. 1887, d. 19.3. 1970, húsfreyja.

Rithöfundurinn Hannes Sigfússon var aðstoðarmaður vitavarðarins, Sigurjóns Ólafssonar, þegar olíuskipið Clam fórst við Reykjanes þann 28. febrúar árið 1950. Starfið hafði hann fengið í gegnum gott orð frá vini sínum og læriföður, Steini Steinarr.
Hannes var þá 28 ára gamall og hafði gefið út sína fyrstu bók, Dymbilvöku, árinu áður sem er eitt hans þekktasta verk. Skipið var það stærsta til þess að stranda við Íslandsstrendur og voru 50 menn í áhöfn þess þegar það strandaði þétt upp við hamravegginn sunnan Valahnúks. Hluti áhafnarinnar sem var að mestum hluta Kínverjar fór í björgunarbáta sem ýmist brotnuðu við skipshlið eða hvolfdu í briminu. Af þeim fórust 27 manns en fjórum mönnum skolaði upp í klettana þaðan sem þeim var bjargað. Þeim mönnum sem héldu kyrru fyrir um borð í skipinu var öllum bjargað af björgunarsveitinni Þorbirni frá Grindavík, en skipið brotnaði fljótlega í spón á staðnum. Hannes bjargaði sjálfur tveimur mönnum úr flæðarmálinu og skrifaði síðar um atburðinn í skáldsögu sinni Strandið 1955. Þar segir frá olíuskipinu Atlantis sem rekur stjórnlaust undan veðri og straumum að hrikalegri klettaströnd. Við kynnumst áhöfn skipsins, Kínverjum, Evrópubúum og Bandaríkjamanni og við kynnumst vitaverðinum á Reykjanesi sem rækir einmanaleg skyldustörf í vetrarmyrkri og bíður þess sem verða vill. Bókin fékk ekki góða dóma en Hannes var eitt helsta ljóðskáld sinnar kynslóðar og brautryðjandi í íslenskri ljóðagerð.
Ekki er vitað hvaða áhrif myrkrið og víðáttan á Reykjanesi hafði á skáldin og vinina Stein og Hannes en báðir voru þeir byltingarmenn og ortu um manninn í óræðri og dularfullri veröld þar sem vitundin ein er gegn alheiminum. Í miðju svartnætti ljóðanna leiftra óræðar blikur um mannlega reisn og jafnvel hina innstu vitund.”

Heimild:
-Faxi, 1. tbl. 2020, Skáldin í vitanum. bls. 29.

Clam

Mynd frá vettvangi er [..] olíuskipið Clam strandaði við Reykjanes árið 1950. Af 50 manna áhöfn fórust 27 en 23 tókst að bjarga.

Ferlir

Þegar fjallað er um Reykjanesskagann á vefmiðlum, s.s. á vefsíðu Reykjaness á https://www.visitreykjanes.is er verulegur skortur á raunhæfri umfjöllun um Skagann. Einungis lögð áhersla á fallegar myndir, sem segja fátt um allar dásemdirnar.

Reykjanes

Frá Reykjanesi.

Þá er verulega hallað á umfjöllun um svæðið á https://reykjanesgeopark.is/. Báðar síðurnar er dæmigerðar fyrir sjálfstýringar til friðþægingar hagsmunaaðila, en segja lítið um allt hið merkilegasta er svæðið í heild býður upp á – allt það ósagða, sem mestu máli skiptir.
Og þegar fjallað er um Reykjanesskagann í fjölmiðlum er jafnan getið um Reykjanes en ekki Skagann, sem rétt er – https://ferlir.is/reykjanes-og-reykjanesskagi/
Einu áreiðanlegu heimildirnar um yfirlit sögu og minjar á Reykjanesskaganum er að finna á www.ferlir.is.

Rauðshellir

Í Rauðshelli í Helgadal.

Reykjanesviti

Ritblindu slær oft í augu blaðamanna og fleirri er fjallað er um Reykjanesskagann.

Reykjanes

Reykjanes.

Í umfjöllun þeirra er skaginn í heild jafnan nefndur “Reykjanes”. Reykjanes er hins vegar einungis ysta táin á Reykjanesskaganum. Nesið er eldbrunnið, þar eru lág fjöll og hnúkar úr móbergi, jarðhiti, klettótt strönd og hraun runnið í sjó fram. Á Reykjanesi ber mest á Skálafelli, sem er hæsta fellið, og Valahnúk eða Valahnúkum, sem er(u) yst. Mikið brotnar úr Valahnúk á hverju ári, enda brýtur hafaldan úr honum nánast í hverju roki. Yst á tánni eru svokallaðar Skemmur. Þar hefur sjór brotið hella undir efsta hraunlagið og hafa hellisþökin sums staðar brotnað niður. Þetta veldur því að þegar hvasst er og álandsvindur (suðvestan) þá brotnar hafaldan með miklum dyn inn í hellana og standa svo gosstrókar upp um götin. Er þetta oft mikið sjónarspil.

Reykjanesviti

Reykjanesviti á Vatnsfelli.

Sunnan og austan við Valahnúk er gjá nokkur, sem nefnd er Valborgargjá. Í henni er hraungjóta nokkur eða sprunga með vatni, sem áður var volgt. Yfir hana var byggt hús eða skúr snemma á 20. öld og þar kennt sund áður en sundlaugar komu til sögu í byggðarlögunum á utanverðum Reykjanesskaga og man enn margt eldra fólk eftir því er það var að læra að synda þar. Á ströndinni utan við Valbjargargjá er Valahnúkamöl, stórgrýtt fjara þar sem allir steinarnir eru lábarðir og núnir. Margir telja að nafnið Valbjargargjá sé afbökun, því að Valahnúkur heitir líka Valabjörg, og gæti gjáin þá augljóslega heitið Valabjargagjá, sem hefði afbakast í Valbjargargjá og Valborgargjá.
Á Reykjanesi var fyrsti viti á Íslandi reistur árið 1878. Hann var uppi á Valahnúk. Árið 1896 urðu jarðskjálftar sem röskuðu undirstöðu vitans og varð þá ljóst að byggja varð nýjan vita. Hann var reistur á Bæjarfelli um 400 m frá Valahnúk. Þeirri staðsetningu fylgdi þó sá galli, að Skálafell skyggir á vitann séð úr suðaustri. Þess vegna var reistur annar lítill viti (Litliviti) úti á Skemmum og kalla sumir hann hálfvitann. Frá Reykjanesi er óslitið haf allt til Suðurskautslandsins.

Rafnkelsstaðaberg

Gatklettur í Rafnkelsstaðabergi.

Fyrir Reykjanes liggur erfið siglingaleið, sem er sú fjölfarnasta við strendur landsins. Það er sundið á milli Reykjaness og Eldeyjar, sem heitir Húllið. Í Húllinu er Reykjanesröst, sem er straumþung og getur bára orðið þar mjög kröpp í vissum áttum og eftir sjávarföllum.
Reykjanes hefur löngum verið slysasamt fyrir sæfarendur. Eitt mesta strand þar varð árið 1950 er olíuskipið Clam strandaði þétt upp við hamravegginn sunnan Valahnúks. Um 50 manns voru í áhöfn, helmingur Kínverjar og helmingur Englendingar. Hluti áhafnarinnar fór í björgunarbáta, en hluti var um kyrrt í skipinu. Allir sem fóru í björgunarbáta fórust, en hinum var öllum bjargað af björgunarsveitinni Þorbirni frá Grindavík, en skipið brotnaði í spón á staðnum innan skamms. Þessi atburður var rótin að skáldsögunni Strandið eftir Hannes Sigfússon, en hann var einmitt á Reykjanesvita þegar þessir atburðir gerðust.
Reykjanesskagi er suðvesturhluti Íslands, sem skagar eins og ólögulegur fótur til vesturs út úr meginlandinu. Skaginn er sunnan Faxaflóa, sem er stærsti flói við Ísland. Jarðfræðilega er Reykjanesskagi allt svæðið austur að Ölfusá, Sogi, Þingvöllum og í Hvalfjarðarbotn. Hins vegar er í daglegu tali oftast átt við svæðið vestan (sunnan) Hafnarfjarðar og frá Krýsuvík og vestur (suður) úr, þegar talað er um Reykjanesskagann. Venjulega er talað um að fara suður þegar haldið er út skagann, en inn þegar farið er til baka. Suðurnesjamenn fara inn eftir til Reykjavíkur og eru þeir því einir landsmanna sem ekki fara suður til Reykjavíkur, heldur suður heim til sín. Ysti hluti skagans heitir Reykjanes (það er hællinn á fætinum).
Gróft séð er skaginn um 50 km langur og 20 km breiður eða um 1000 ferkílómetrar, sem samsvarar lauslega reiknað 1% af landinu. Hann einkennist af fjöllum, sem eru flest frekar lág móbergsfjöll, mynduð við gos undir jökli á ísöld, og hraunum, sem runnið hafa bæði fyrir landnám og á sögulegum tíma. Skaginn er frekar gróðursnauður en þó má finna þar ótrúlegan tegundafjölda ef vel er að gáð. Jarðfræðilega er svæðið mjög athyglisvert og ennfremur er það kjörið til útivistar og gönguferða.

Valahnúkur

Valahnúkur.

Helstu fjöll á Reykjanesskaga vestanverðum eru Langahlíð (sem blasir við frá Reykjavík), Vatnshlíð (austan við Kleifarvatn), Sveifluháls og Núpshlíðarháls (sem einnig heita Austurháls og Vesturháls) og er norðurendi þess síðarnefnda Trölladyngja og Grænadyngja, Keilir, Fagradalsfjall, Þorbjörn (Þorbjarnarfell) og Festarfjall. Mörg fleiri mætti nefna, en þau eru smærri.
Á Reykjanesskaga eru mörg byggðarlög. Að slepptu höfuðborgarsvæðinu öllu (sem fræðilega tilheyrir skaganum) eru þar Vatnsleysuströnd og Vogar, Reykjanesbær (Keflavík, Ytri- og Innri Njarðvík og Hafnir), Garður, Sandgerði og Grindavík auk Keflavíkurflugvallar, en þar er allstórt byggðarlag á íslenskan mælikvarða. Einu nafni eru þessi byggðarlög oft nefnd Suðurnes og er heildaríbúafjöldi um 16000 manns og fer vaxandi og þar að auki bandarískir hermenn og skyldulið þeirra á Keflavíkurflugvelli. Atvinnulífið byggist mest á sjósókn og fiskvinnslu í smærri byggðunum, en á iðnaði, þjónustu og verslun í Reykjanesbæ, sem er eins konar höfuðstaður svæðisins.
Öll þessi byggðarlög eru kynnt með heitu vatni frá Hitaveitu Suðurnesja í Illahrauni. Hún er reyndar oft kennd við Svartsengi, þar sem fyrstu tilraunaholur voru boraðar áður en vinnsla hófst, en á endanum var orkuverið reist í Illahrauni, sem ber nafn með rentu. Affallsvatn frá Hitaveitunni myndar Bláa lónið, sem nú er einhver fjölsóttasti ferðamannastaður á Íslandi bæði af innlendum og erlendum ferðamönnum. Lónið þykir vera heilsulind og er meðal annars notað við lækningu á sjúkdómnum psoriasis og ýmsum húðútbrotum og exemum.

Að lokum má geta þess, að gefnu tilefni, að Grindavík er og hefur aldrei verið á Suðurnesjum.

Heimild m.a.:
-http://is.wikipedia.org/wiki/Reykjanesskagi

Reykjanesskagi

Reykjanesskaginn – fyrrum landnám Ingólfs.

Eldgos

Í Bæjarblaðinu, útgefnu af Stapaprenti, árið 1991 er fjallað um mögulegan “Suðurlandsskjálfta árið 2020” sem og “Drauma og fyrirboða um náttúruhamfarir á Reykjanesi“:

“Eigum við á suðvesturhorninu yfir höfði okkar það gífurlegar náttúruhamfarir, að Reykjanesskaginn klofni frá landinu? Allir hafa einhvern tímann heyrt minnst á hinn svokallaða Suðurlandsskjálfta; stóra jarðskálftann, sem talið er að snarpur og öflugur, að af hljótist þær gífurlegu hamfarir sem að ofan greinir. Og það sem meira er; stóri skjálftinn gæti venð á næsta leiti.
Við skulum til fróðleiks líta örlítið á jarðfræðilega gerð Reykjanesskagans annars vegar og hins vegar á drauma og fyrirboða um stóra skjálftann.

Glöggt samband á milll sprungureina og jarðskjálfta

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – sprungureinar.

Sagt er að hugsanlegur stórskjálfti muni kljúfa Reykjanesskagann austan frá Grindavík að Hafnarfirði en þar liggur stór sprungurein. Eins er líklegt að skaginn klofni frá Önglabrjótsnefi, skammt norður af Reykjanestánni, en þar liggur sprungurein í Norðaustur til Suðvesturs, og glöggt samband er á milli þessara sprungureina og jarðskjálfta á Reykjanesi. Þegar skoðað er jarðfræðikort af svæðinu kemur þetta betur í ljós. Telja má líklegt að þessi gliðnun muni frekar gerast á löngum tíma en í einu vettfangi.
Draumspakt fólk segir hins vegar að þetta gerist í einu vettvangi, fyrirvaralaust, eins og fram kemur á eftir.
Á Reykjanesi eru sex aðskildar sprungureinar, en ein þeirra er hin svokallaða Eldeyjarrein. Hún liggur norðan Sandvíkur og nær norðaustur undir Vogaheiði. Þetta er norðurendi reinar sem teygir sig suðvestur fyrir Eldey. Miðja hennar er að líkindum á Eldeyjarsvæðinu. Engar gosmyndarnir hafa fylgt þessari rein uppi á landi, en oft hefur gosið á henni neðansjávar undir Reykjanesi, nú síðast í haust. Í lok októbermánaðar mældist gífurleg jarðskjálftahrina u.þ.b. 150 kílómetra suðvestur af Reykjanestá. Stóð hrinan yfir í sólarhring og mældust skjálftarnir allt að 4,8 stig á Richterskvarða.

Jarðskjálftar

Jarðskálftasvæði Reykjanesskagans.

“Þetta er það mesta sem við höfum sé í áratugi”, sagði Ragnar Stefánsson, jarðeðlisfræðingur, í samtali við DV þann 2. nóvember 1990. Önnur óvenjulega kröftug jarðskjálftahrina á Reykjaneshryggnum stóð yfir dagana 8. – 9. september síðastliðinn.
Þeir skjálftar áttu upptök sín um 100 kílómetra suðvestur af Reykjanestá. Sterkustu kippirnir mældust 5,5 – 6 stig. Svipað gerðist í maí 1989 á stað milli hinna tveggja framangreindra eða á 900 – 1000 metra dýpi um 500 kílómetra frá Íslandi Þeir kippir mældust 5 stig á Richter. Þessar þrjár óvenjukröftugu jarðskjálftahrinur hafa því mældst í beinni línu suðvestur af landinu á rúmlega 800 kílómetra belti út frá Reykjanesskaga, og þessi virkni færist nær og nær landi.
Fjórða og síðasta hrinan mældist síðan um miðjan nóvember í aðeins 50 kílómetra fjarlægð frá landi. Sterkustu kippirnir í þeirri hrinu mældust 4,5 á Richter.

Samfelld sprungubelti

Karlsgígurinn

Stampahraunið á Reykjanesi.

Lítum aðeins á sprungukerfin á Reykianesskaganum. Þar kemur ýmislegt athyglisvert í ljós sem styður kenninguna um gliðnunina. Í skýrslu eftir Hauk Jóhannesson jarðfræðing segir: NA-SV sprungureinarnar eru mest áberandi á skaganum og ráða mestu um jarðfræðilega gerð hans. Þegar betur er að gáð, koma í ljós aðrar sprungur sem einnig gegna þýðingarmiklu hlutverki í sama tilliti.
Þetta eru sprungur sem stefna norður – suður og eru yfirleitt lítið áberandi. Þær raða sér saman í stuttar reinar sem ekki eru skýrt afmarkaðar en skera sig þó nokkuð úr NA-SV-sprungunum. Þær eru tiltölulega stuttar eins og áður er nefnt, um 5-10 km. Þessar N-S reinar virðast vera framhald af þeim sprungum sem Suðurlandsskjálftarnir eiga upptök sín í og má e.t.v. líta svo á að þessar sprungur myndi nær samrellt belti frá Suðurlandsundirlendi og út á Reykjanes, þótt ekki sjáist sprungur á því öllu.
Þegar dreifíng N-S sprunganna er borin saman við dreifingu jarðskjálfta á Reykjanesi, kemur mjög glöggt samband í íjós. N-S sprungurnar falla nær alveg saman við skjálfta á Reykjanesi á árabilinu 1971-75. Skjálftarnir raða sér á mjótt belti sem liggur nær austur-vestur þvert á NA-SV reinarnar. Af þessu má draga þá ályktun að N-S brotabeltið sé í orsakasambandi við skjálftana.
Á Suðurlandsundirlendi er einkar glöggt samband milli “-Sprungureinanna og jarðskjálfta. Slíkt samband er einnig hægt að sjá á Reykjanesi. Í skjálftahrinu sem varð á tímabilinu 3. ágúst til 13. september 1972 yst á Reykjanesi, urðu flestir skjálftanna á Reykianesrein en þar sem NS-sprungurein sker hana austan á Reykjanestánni leiddu skálftarnir út í N-S sprungurnar.
Reykjanesskaginn er hluti af sprungukerfi, sem liggur um Atlandshaf endilangt og tengir saman svonefndan Reykjaneshrygg, þar sem áðurnefndir skálftar voru í haust, og gosbelti Íslands. Sprungureinarnar einkennast af opnum sprungum og gjám. Þær eru mislangar, 25 – 50 km og yfirleitt 5-7 km. breiðar. Svæðið er því allt “sundurskorið” og sprungubeltin eru stærst þar sem talið er að Reykjanesskaginn muni klofna frá meginlandinu.
Þá er ónefnd ein sprungurein, sem veita ber athygli með hliðsjón af draumafrásögnunum hér til hliðar. Það er hin svonefnda Krýsuvíkur – Trölladyngjurein. Reinin er mjög löng, eða a.m.k. 60 km og nær allt upp í Mosfellssveit.

Draumar og fyrirboðar -um náttúruhamfarir á Reykjanesi

Jarðfræði

Jarðfræði Reykjaness.

Fjölmargt fólk með dulskyggnigáfu hefur fengið vitranir eða draumfarir um stórbrotnar náttúruhamfarir á Reykjanesi og benda draumarnir allir í sömu átt.

Í bókinni Framtíðarsýnir sjáenda, sem kom út árið l987, er sérstakur kafli um þetta. Þar skýra sjáendur frá upplýsingum sem þeim hefur vitrast í draumi, og það er einkar athyglisvert hvað draumum fólksins ber saman.

Náttúruhamfarir árið 2020

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – hraun.

Draumspakur maður og dulskyggn með forspárgáfu, segir frá draumi sínum, sem er á þá leið að farið var með hann í flugferð ” um svæðið næst höfuðborginni”. Honum var sagt að þáverandi tímatal væri 2020 og honum voru sýndar breytingarnar sem orðnar voru. Hið helsta úr lýsingunni var það, að Hafnarfjörður var kominn undir hraun að miklu leyti.
Byggðin á Seltjarnarnesinu öllu var eydd og gamli miðbær Reykjavíkur sokkinn í sæ. Þéttasta byggðin átti hins vegar að vera kominn í Mosfellsdalinn.
Reykjanesið klofnar frá meginhluta landsins Annar maður varð fyrir svipaðri reynslu í draumsvefni. Hann segir svo frá:
“Draumurinn var á þá lund, að ég þóttist sjá landabréf af Íslandi, sem var svarthvítt og flatt að öðru leyti en því, að Reykjanesið var marglitt og upphleypt eins og plastkortin líta út.
Þetta var reyndar í fyrsta sinn að ég sá upphleypt kort, þ.e. í draumnum. Mörkin milli litaða svæðisins og þess svarthvíta á kortinu voru lína sem lá í suðvestur-norðaustur og lá nokkurn veginn með Kleifarvatni endilöngu og síðan í norður í átt til Straumsvíkur. Eftir því sem ég heyrði fleiri frásagnir af draumum varðandi þetta mál allt, þýddi ég drauminn á þann veg að Reykjanesið muni klofna frá meginhluta landsins í stórbrotnum náttúruhamförum”. Sami aðili segir að atburðarrásin verði þannig: “Eftir Vestmannaeyjagosið verður gos í Kröflu. Þar á eftir verður svo Suðurlandsskjálfti og Kötlugos. Nokkru síðar verður gos í Bláfjöllum”.

Grindavík horfið með öllu

Grindavík

Grindavík – loftmynd.

Kona sem er skyggn sá Reykjavík og nágrenni í framtíðarsýn. Henni virtist Reykjanesið hafa orðið fyrir stórfelldri jarðfræðilegri röskun.
Hún segist ekki geta fullyrt hvenær þetta verði, né hvort breytingarnar gerist með snökkum hætt eða smám saman. Frásögn hennar er á þessa leið: “Stór hluti Reykjavíkur er kominn undir sjó. Öskjuhlíðin og Langholtið eru óbyggðar eyjar.
Valhúsarhæðin og ýmsir aðrir staðir standa líkt og sker upp úr sjónum. Það er byggð í útjaðri Breiðholts, en þó fyrst og fremst við Úlfarsfell, upp Mosfellsdalinn og meðfram Kjalarnesinu. Égsé að það hafa orðið miklar jarðhræringar og eldsumbrot á Bláfjallasvæðinu. Það leggur hraunstraum niður Elliðaárdalinn. Hafnarfjörður er í eyði og Grindavík hefur horfið með öll. Það er engu líkara en að Reykjanesið hafi færst til í gífurlegum náttúruhamförum”.

Gerist fyrirvaralaust – stutt í atburðinn

Reykjavíkursvæðið

Reykjavíkursvæðið – Viðeyjargígur.

Ung kona sem er berdreyminn og hefur margsinnis orðið fyrir sálrænum viðburðum, segir frá reynslu sinni á þennan veg:
“Áður en Vestmannaeyjagosið varð dreymdi mig það í þrjár nætur samfellt. Síðustu nóttina sá ég hvernig fólkið flúði í átt að bryggjunni og þegar ég vaknaði um morguninn leið mér vel því ég vissi að enginn hafði farist.
Skömmu síðar var ég á ferð um landið og var þá bent á þá staði þar sem yrðu eldsumbrot. Ég vissi að eftir Vestmannaeyjagosið yrði gos í Kröflu og því næst í Heklu. Þá verður einnig mikið eldgos nálægt Reykjavík.
Rúmlega tvítug bjó ég í Efra-Breiðholti og dreymdi á þennan draum: Mér rannst ég rísa úr rúmi mínu og ganga fram í stofu, að stofuglugganum. Þá sá ég sjón sem ég gleymi ekki á meðan ég lifi. Ég sá fólk flýja skelfingu lostið í átt að Mosfellssveit. Í áttina að Hafnarfirði var eldur og óhugnanlegur reykjamökkur, sem færðist nær með braki og brestum. Vegna þess að flest af því sem mig hefur dreymt um framtíðina hefur komið fram, varð ég mjög óttaslegin vegna þessa draums. Í margar vikur á eftir hafði ég alltaf til taks það allra nauðsynlegasta, ef til þess kæmi að ég þyrfti að flýja.
Í nóvember árið 1987 dreymdi mig aftur Reykjavíkurgosið. Í Elliðaám sá ég glóandi hraunstraum. Þetta gerist að nóttu til án nokkurs fyrirvara. Rafmagnið fer og og ég skynjaði hvernig undarleg og óþægileg lykt mengaði andrúmsloftið. Margir verða að flýja heimili sín. Mér finnst vera stutt í þennan atburð”.

Suðurlandsskjálftinn 2000

Afleiðingar Suðurlandsskjálftans 17. júní árið 2000.

Í Árbók VFÍ/TFÍ árið 2001 er sagt frá Suðurlandskjálftunum 17. júní og 21. júní 2000:
“Suðurlandsskjálftarnir 17. júní og 21. júní 2000.
Í júní 2000 urðu tveir stórir jarðskjálftar á Suðurlandi með upptök nálægt Þjórsárbrú. Fyrri skjálftinn var 17. júní, kl. 15:40. Hann var af stærðinni 6,6 (Mw) með upptök nálægt Skammbeinsstöðum í Holtum (63,97°N og 20,36°V) um 16 km norðaustur af brúarstæðinu. Upptakadýpi var um 6,3 km. Jarðskjálftinn var svokallaður hægri handar sniðgengisskjálfti og mátti sjá merki um yfirborðssprungur á um 20 km löngum kafla.”

Ekki er minnst á svipuðan jarðskjálfta undir Sveifluhálsi við Kleifarvatn nokkrum mínútum á eftir framangreindum skjálfta.

“Seinni jarðskjálftinn var 21. júní, kl. 00:51. Þessi skjálfti var af stærðinni 6,5 (Mw) og með upptök rétt sunnan við Hestfjall á Skeiðum (63,97° N og 20,71° V) um 5 km norðvestur af brúarstæðinu. Upptakadýpi skjálftans var 5,1 km. Jarðskjálftinn var eins og sá fyrri hægri handar sniðgengisskjálfti og mátti sjá merki um yfirborðssprungur á um 23 km löngum kafla.”

Heimildir:
-Bæjarblaðið. 4. tbl. 30.01.1991, Suðurlandsskjálfti árið 2020? og Draumar og fyrirboðar um náttúruhamfarir á Reykjanesi, bls. 10-11.
-Árbók VFÍ/TFÍ, 1. tbl. 01.06.2001, Suðurlandskjálftarnir 17. júní og 21. júní 2000, bls. 302.

Viðeyjareldstöðin

Viðeyjareldstöðin.

Reykjanesskaginn

Í Faxa árið 1998 fjalla nemendur FS á Suðurnesjum um “Áhugaverða staði í Reykjanesfólkvangi“. Frásögnin er ekki síst áhugaverð í ljósi þess að nemendurnir hafa að öllum líkindum lítið kynnt sér vettvangsaðstæður sem og hina fjölmörgu möguleika, sem Reykjanesskaginn hefur upp á bjóða innan fólkvangsins, en taka þarf viljan fyrir verkið því það er jú niðurstaðan hverju sinni er mestu máli skiptir þegar upp er staðið.

Faxi“Náttúran á Reykjanesi er frekar rýr ef bera á hana saman við náttúru annars staðar á landinu vegna þess að svæðinu hefur einfaldlega verið misboðið í svo langan tíma. Þó svo að ekki hafi alltaf verið farið vel með svæðið þá er ýmislegt að sjá ef áhuginn er fyrir hendi. Of margir Suðurnesjabúar og íbúar á höfuðborgarsvæðinu leita oft langt yfir skammt þegar njóta á íslenskrar náttúru. Vill það gleymast að Reykjanesið er spennandi svæði að ferðast um og kynnast. Það er öðruvísi en margir staðir á landinu vegna þess að þar er hægt að sjá mjög greinilega hvernig Reykjaneshryggurin kemur inn í landið. Allt umhverfi okkar er mótað vegna Reykjaneshryggsins því þar hafa orðið mörg eldgos fyrr á tímum og enn í dag er þar mikil eldvirkni í jörðu þó svo ekki hafi gosið á þessu svæði í nokkurn tíma.

Gróður á Reykjanesi er í slæmu ásigkomulagi samanborið við það sem hann var fyrir landnám og þeir sem vilja sjá mikinn gróður fara því á aðra staði á landinu. Allir verða að kynnast auðninni til þess að geta gert sér það ljóst að ekki má halda áfram eins og fram horfir án þess að illa geti farið. Það vekur kannski ekki áhuga margra að ferðast um Reykjanesið en ef vel er að gáð má þó finna eitthvað fyrir alla. Skemmtilegar gönguleiðir eru víðsvegar um svæðið, hraunmyndanir og háhitasvæði eru víðsvegar og reyndar er hægt að finna þar mikinn gróður þó á takmörkuðum svæðum sé. Fuglabjörg eru einnig á svæðinu og einnig er hægt að komast í silungsveiði með alla fjölskylduna. Þegar fólk ætlar að njóta náttúrunnar er oftast farið á þá staði sem eru meira þekktir og þykja merkilegir s.s Þingvelli, Gullfoss og Geysi eða önnur þekkt svæði. Hér á eftir verður fjallað um þau svæði sem okkur þykja merkilegust í Reykjanesfólkvangi.

Höskuldarvellir

Höskuldarvellir

Höskuldarvellir.

Þegar Reykjanesbrautin er ekin blasir Keilir við á hægri hönd ef komið er frá Keflavík. Ef beygt er til hægri og ekið sem leið liggur frá Kúagerði og upp að fjöllunum þá er þar komið að mikilli grassléttu. Þessi grasslétta heitir Höskuldarvellir og eru þeir stærsta samfellda graslendið í Gullbringusýslu eða um 100 ha. Í leysingum liggur lækur úr Sogunum fyrir sunnan Trölladyngju og er talið að lækurinn hafi smám saman borið jarðveg niður á sléttlendið. Frá Höskuldarvöllum eru margar skemmtilegar gönguleiðir t.d á frægasta fjall Suðurnesja, Keili. Einnig er hægt að ganga á Mávahlíðar en það er mjór hryggur sem er brattur á báða vegu og sést hann því vel í næsta umhverfi. Þegar komið er á staðinn er best að velja gönguleiðir um svæðið eftir áhuga og getu hvers og eins.
Mjög fallegt er í kringum Höskuldarvelli á sumrin þegar allt er í blóma en þó er ekki síðra þar á veturna þegar snjór liggur yfir öllu svæðinu.

Trölladyngja

Trölladyngja

Trölladyngja og Sogaselsgígur nær.

Trölladyngja er ekki langt frá Höskuldarvöllum og er því alveg tilvalið að ganga þangað og skilja bílinn eftir undir fjallshlíðinni við Höskuldavelli. Trölladyngja er móbergsfjall í Reykjanesfjallgarði norður af Núpshlíðum eða Vesturfjalli. Á Trölladyngju eru tveir móbergshnjúkar. Austan við Trölladyngju er annað móbergsfjall, Grænadyngja. Nefnast þær saman Dyngjunnar. Í dyngjunum eru miklar eldstöðvar, bæði að sunnan- og norðanverðu. Norðan og sunnan við dyngjurnar eru gígar og gígaraðir. Norður af Trölladyngju eru síðan gufuhverir sem vert er að skoða. Jarðhiti er mikill í Trölladyngju. Sunnan hennar er litskrúðugur skorningur, svokallað Sog. Gaman er að ganga um svæðið og virða fyrir sér þá sérkennilegu liti sem em í dyngjunum. Þar eru mörg litaafbrigði og eru þau breytileg eftir því hvernig veður- og birtuskilyrði eru. Lítill lækjarfarvegur liggur í gegnum dyngjurnar og hefur hann í tímans rás grafið sig sífellt neðar. Dýptin er sumstaðar komin yfir tvær mannhæðir.
Stórkostlegt er að litast þarna um og njóta þeirrar fjölbreytni sem náttúran hefur upp á að bjóða í litavali.
Slæmur vegur liggur áleiðis að Trölladyngju frá Höskuldarvöllum. Frá Trölladyngju er síðan hægt að aka að Grænavatni og Djúpavatni.
Víðsvegar á þessu svæði er jörðin illa farin eftir umferð og nýjar slóðir eru sífellt að myndast og jörðin er á mörgum stöðum uppspóluð. Þetta er til skammar fyrir Reykjanesið og þeir sem aka utanvega ættu að skammast sín fyrir að eyðileggja marga fallegustu staði á Suðurnesjum sem seinna meir gætu orðið ferðamannastaðir sem myndu skapa miklar tekjur fyrir Suðurnesjabúa. Best er að ferðast um svæðið gangandi þegar á það er komið því þannig fæst best yfirlit yfir svæðið, við það skemmist það ekki og einnig er ganga heilsusamleg og nauðsynleg.

Spákonuvatn

Spákonuvatn

Spákonuvatn. Keilir fjær.

Mjög skemmtileg gönguleið er eftir Vesturhálsi þegar gengið er til suðurs frá Sogunum. Þá er komið að vatni uppá fjallinu og heitir það Spákonuvatn. Vatnið hefur myndast við það að hraun hefur lokað dalverpi og það hefur orðið til þess að vatn safnaðist þar fyrir. Það er mjög sérkennilegt að sjá það með eigin augum hvernig hraunið hefur runnið þannig að dalurinn hefur lokast og vatnið myndast. Ekki er fiskur í Spákonuvatni.

Grænavatn

Grænavatn

Grænavatn.

Vegurinn sem liggur frá Trölladyngju að Grænavatni er aðeins fyrir jeppa því hann er erfiður yfirferðar. Grænavatn er í dalverpi sunnan við Trölladyngju. Það er frekar grunnt og lítið vatn en þó er einhver veiði í því. Umhverfið er allsérstætt og fallegt vegna þess hversu stórgrýttar hlíðarnar eru.

Djúpavatn

Djúpavatn

Djúpavatn.

Djúpavatn er sprengigígur sem hefur fyllst af vatni. Við Djúpavatn er skáli sem hægt er að gista í ef veiðileyfi er keypt. Þó nokkur veiði er í vatninu og hafa þar veiðst ágætlega vænir silungar. Það er því alveg þess virði að kaupa veiðileyfi í vatnið og fara með fjölskylduna og reyna að krækja í þann stóra. Ekki er síðra að dorga á veturna þegar ís er á vatninu. Vatnið er mjög djúpt og af því er nafnið dregið.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir – Krýsuvíkur-Mælifell fjær.

Vigdísarvellir er dálítil grasslétta austan undir Núpshlíðarhálsi. Þar er oftast skjól af fjöllunum í nágrenninu. Á Vigdísarvöllum var byggður bær árið 1830 og búið þar fram til ársins 1905 en þá hrundu húsin í jarðskjálfta.
Bæjarrústirnar eru þó nokkuð stórar og þar sést einnig móta fyrir gömlum garði sem hefur verið hlaðinn til að halda skepnunum á sínum stað.
Það er athyglisvert að nokkur hafi lagt það á sig að búa svona langt frá byggð því að lífið hefur sjálfsagt verið erfitt þama eins og annarsstaðar á landinu á þessum tíma. Þó svo að þetta svæði sé langt upp í fjöllum þá er þar ótrúlega mikill gróður á þessu svæði og því er það kannski ástæðan fyrir því að menn vildu búa þarna.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg (Heiðnaberg).

Hentugasta leiðin að Krísuvfkurbergi frá Vigdísarvöllum liggur meðfram Núpshlíðarhálsi. Þaðan er beygl til austurs eftir þjóðveginum og síðan er beygt til sjávar eftir auðsjáanlegum slóða. Krýsuvíkurberg er mesta fuglabjargið á svæðinu. Það er um 7 km langt og 40 – 50 metra hátt.
Áhugavert er að ganga um svæðið, einkum á vorin og snemma sumars þegar fuglalífið er áberandi mest. Hverjum manni væri það gagnlegt að sjá fuglana í sínu náttúrulega umhveifi og geta virt þá fyrir sér í ungauppeldinu og baráttunni við náttúrulega óvini. Tveir lækir falla til sjávar fram af berginu, Eystrilækur og Vesturlækur. Eystrilækur myndar háan foss sem steypist fram af berginu. Í berginu verpa um 57 þúsund sjófuglapör en það er um 65% allra bjargfugla á svæðinu.

Eldborgir

Stóra-Eldborg

Stóra Eldborg.

Eftir að Krísuvíkurberg hefur verið skoðað liggur leiðin að Eldborgum. Eldborgir eru undir Geitahlíð austan Krýsuvfkur. Þær eru tvær og heita Stóra og Litla Eldborg. Þjóðvegurinn liggur á milli þeirra. Stóra Eldborg er einn allra fallegasti gígur á Suðvesturlandi, um 50 metra hár, hlaðinn úr hraunskánum og gjalli. Frá Stóru Eldborg liggur hrauntröð þar sem hraunið hefur runnið til sjávum 50 metra. Vesturlækur fellur til sjávar í Hælsvík og myndar einnig fallegan foss.
Gróðureyðing fyrir ofan Krýsuvíkurberg er óvíða ljótari á Skaganum. Þar skiptast á blásnir melar og rofabörð.
Gróðurfar á þessu svæði er mjög slæmt vegna ofbeitar. Litla Eldborg er austar en hin og öllu fyrirferðanninni, Hún er hluti af stuttri gígaröð eins og Stóra Eldborg. Hraunið frá Litlu Eldborg hefur lagst yfir hraunið frá Stóru Eldborg að hluta og er gaman að virða þetta fyrir sér á góðvirðisdegi. Jarðvegur á þessu svæði er frekar rýr og er mosaþemba aðal gróðurinn á svæðinu.

Krýsuvík

Krýsuvík

Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Hverasvæðin á Krísuvíkursvæðinu eru mjög fallegur ferðamannastaður en því miður eru það fáir sem leggja leið sína um svæðið en þangað er fólksbílafært og ekki langt frá höfuðborgarsvæðinu. Krísuvíkursvæðið er stórt háhitasvæði með mörgum gufuhverum og leirhverum. Á svæðinu eru tvö gígvötn, Grænavatn og Geststaðavatn, sitt hvoru megin við veginn. Vötnin eru merkileg fyrir þær sakir að þau eru gamlar eldstöðvar sem hafa fyllst af vatni í tímans rás. Grænavatn hefur mjög sérkennilegan lit vegna þess hversu mikill þörungagróður er í vatninu.

Gullbringuhellir

Gullbringuhellir

Bæli í Gullbringuhelli.

Fyrir þá sem þora er gaman að fara í hellaskoðun. Þægilegasta leiðin að hellinum er frá þjóðvegi 42 sem er vegurinn sem við förum á leið okkar austur með Kleifarvatni og þarf að ganga síðasta spölinn að hellinum. Gullbringuhellir er eini hellirinn sem er þekktur í hrauninu við Kleifarvatn. Hann er norðaustan við fjallið Gullbringu. Hellirinn er um 170 metra langur en frá opinu liggur hann í tvær áttir. Mjög athyglisvert er að skoða hellinn því að í honum eru hraunstrá og þar er vítt til veggja og hátt til lofts og því þægilegt að ferðast um hann. Þessi hellir er aðgengilegur og því ætti fólk á öllum aldri að geta skoðað hann.

Kleifarvatn

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Kleifarvatn er þriðja stærsta stöðuvatnið á Suðurlandi, um 10 km2 og eitt dýpsta stöðuvatnið á Íslandi um 97 metrar að dýpt. Það er á miðjum skaganum inn í Reykjanesfólkvangi. Kleifarvatn hefur írennsli en ekkert sýnilegt frárennsli. Vatnsmagnið í Kleifarvatni er breytilegt og breytist mest vegna úrkomu. larðhiti er syðst í vatninu og er stundum hægt að sjá hverina ofan af Vatnshlíð, þeir eru öðruvísi á litinn og skera sig því út úr. Á veturna sér maður vakir vegna hitamismunar en annars staðar er vatnið ísi lagt. Silungsveiði er talsverð í vatninu og er gaman að fara með fjölskylduna að veiða í Kleifarvatni vegna þess hversu stutt er að fara úr amstri hófuðborgarinnar og einnig vegna þess að svæðið er öðruvísi en menn eiga að venjast. Það má kannski geta þess að einn af síðustu stórbændunum í Krýsuvík tók silung úr Elliðavatni og flutti yfir í Kleifarvatn svo að hann á heiðurinn af því að þarna er hægt að veiða silung. Við vatnið er fallegt útsýni en þar er mikið af sérkennilegum klettamyndunum.

Hellirinn eini

Maístjarnan

Í Hellinum eina.

Eftir að hafa skoðað Kleifarvatn höldum við áfram eftir þjóðveginum og stoppum hjá Fjallinu eina. Í næsta nágrenni við það eru tveir hellar, annar þeirra heitir Hellirinn eini og hinn heitir Híðið. Hellirinn eini er um 170 metra langur, hann er víða lágur til lofts en víðast hvar er hann þó manngengur. Það eru dropasteinar og hraunstrá í hellinum. Miklar sprungur skerast þvert á hellinn og mynda litla afhella. Jarðfræðilega séð telst þessi hraunrásarhellir merkilegur fyrir það að hann er skorinn af þessum mörgu og stóru sprungum. Mikil litadýrð er í hellinum sem gerir hann áhugaverðari fyrir vikið.

Híðið

Híðið

Í Híðinu.

Híðið er um 500 metra frá Hellinum eina og því getur verið gaman fyrir þá allra hörðustu að skoða hann líka. Híðið er um 155 metra langur hellir og þröngur, hæstur er hellirinn um 2 metrar að hæð en víðast hvar töluvert minni. Erfitt er að fara um hellinn því sums staðar þarf að leggjast niður og skríða. Mikið er um fallega dropasteina og hraunstrá í hellinum, dropasteinarnir eru nokkur hundruð og hraunstráin talsvert fleiri. Híðið er alveg ósnortið vegna þess að hingað til hafa aðallega hellaáhugamenn farið þangað. En það vill oft fara þannig að vinsælir ferðamannastaðir fara illa út úr mikilli umferð ferðafólks sem því miður gengur oft ekki nógu vel um fallega og athyglisverða staði.

Þetta er síðasti viðkomustaður okkar á þessu skemmtilega ferðalagi um Reykjanesfólkvang og héðan er ekki löng keyrsla upp á Reykjanesbrautina aftur en þaðan ættu allir að rata heim til sín á ný. Þessi upptalning er ekki tæmandi fyrir allt það sem hægt er að skoða á svæðinu en við vonum að við lestur þessarar ritgerðar geti lesandi gert sér það ljóst að á heimaslóðunum leynist ýmislegt skoðunarvert í náttúrunni.
Sá misskilningur virðist vera allsráðandi að það þurfi að aka mörg hundruð kílómetra út fyrir höfuðborgina til að komast í spennandi landslag og fallega náttúru. Þetta svæði hefur upp á allt að bjóða sem íslensk náttúra getur á annað borð boðið upp á. Ef fólk gefur sér tíma til að skoða sitt nánasta umhverfi verður það alveg örugglega hissa á því að sjá hversu margt er í boði. Þarna má sjá bæði spillta og óspillta náttúru, gróðumikil svæði og auðnir, háhitasvæði, fuglavarp, hraunhella og vötn. Til þess að skoða svæðið þarf að vera með opinn huga því að mörgum finnst það í rauninni ekki vera neitt ferðalag að fara svona stutt frá heimahögunum. En eins og áður sagði vill það gerast með Íslendinga að þeir leiti langt yfir skammt.
Hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér, kannski verður það þannig að landinn taki við sér og sjái alla fegurðina sem er við bæjardyr höfuðborgarbúa. Kannski verður það þannig að innan fárra ára verði Reykjanesið eitt mest sótta ferðamannasvæði landsins.”

Heimild:
-Faxi, 2. tbl. 1998, Áhugaverðir staðir í Reykjanesfólkvangi, bls. 28-30.

Reykjanesskaginn

Reykjanesskaginn.