Færslur

Prestastígur

Nafnið Prestastígur er nýlegt heiti á fornri og fyrrum fjölfarinni þjóðleið á Reykjanesi. Sú skýring á nafninu er þó líkleg að með prestakallalögum frá 1907 var Kirkjuvogssókn í Höfnum lögð til Staðarprestakalls í Grindavík og hefur því Staðarprestur oft átt erindi um þessa fornu leið.

Prestastígur Þegar þessi forna þjóðleið er farin frá Höfnum liggur leiðin frá Kalmanstjörn um Hafnarsand fyrir norðan Presthól og um Kinn, þar sem farið er ofan í sigdalinn upp af Stóru Sandvík, þaðan hjá Haug og yfir Haugsvörðugjá og síðan með rótum Sandfellshæðar. Þar fylgir gatan hraunjaðri Eldvarpahrauns. Á vegi okkar verður þá nýlegur vegaslóði sem er tilkominn vegna lagningar ljósleiðara. Þegar kemur á móts við Rauðhól er farið yfir hraunhaft að hólnum og síðan hjá Eldvörpum og yfir Hrafnagjá og þaðan að Húsatóftum í Staðarhverfi.
Öll þessi leið [15 km] er vel vörðuð og ber þess merki að þar hefur verið fjölfarið um aldir. Víða sést hvar umferðin hefur markað alldjúpar götur í hraunið og lausagrjót hefur verið tínt úr götunni og lagt til hliðar. Þetta var aðalleið vermanna af Suðurlandi, sem sóttu sjó frá Höfnum og af Rosmhvalanesi og þar hafa skreiðarlestir verið á ferð. Eins hafa Grindvíkingar lagt leið sína þarna um á þeim tíma sem þeir þurftu að sækja verslun til Básenda, þótt þeir hafi einnig farið sjóleiðina, en á 17. og 18. öld urðu þeir að sæta því í nokkra áratugi að sækja verslun þangað sökum þess að kaupmenn treystu sér ekki til að sigla til Grindavíkur vegna skipskaða sem urðu þar á fyrri hluta 17. aldar. Þá hefur Sigvaldi Sæmundsson póstur verið þarna á ferð á leið sinni milli Básenda og Grindavíkur en hann var fyrsti póstur sem ráðinn var með skriflegum samningi til póstferða árið 1785.

Hafnir voru fyrr á öldum blómlegur útgerðarstaður og var þar stundaður umfangsmikill búskapur bæði til lands og sjávar. Vermenn fjölmenntu þangað á vertíðum og eru sagnir til um stórfellda útgerð Ketils VarðaKetilssonar í Kotvogi, en hann gerði út þrjú skip á árunum 1870 – 1880 og voru þá um 50 sjómenn á hans vegum auk 22 annarra heimilismanna. Ketill var meðal auðugustu manna landsins á sínum tíma. Hann byggði steinkirkju þá sem enn stendur á Hvalsnesi, en Ketill átti m.a. alla Hvalsnestorfuna og Járngerðarstaði í Grindavík.
Landkostum hefur á síðari árum hrakað mjög í Höfnum vegna sandágangs og margir bæir farið í eyði af þeim sökum, þar á meðal Haugsendar, sem fóru snemma í eyði. Haugsendar voru milli Kirkjuvogs og Merkisness, tún þar voru mikil, húsaskipan vegleg og myndarlega búið. Sagnir um mannlíf þar lifa í gömlum húsgangi:

Á Haugsendum er húsavist
sem höldar lofa.
Þar hefur margur glaður gist,
og gleymt að sofa.

Í seinni tíð er farið að nefna þessa fornu þjóðleið Prestastíg en hvergi finnast þess merki í gömlum heimildum. Geir Bachmann lýsir þeim þjóðleiðum sem frá Grindavík liggja í sóknarlýsingu frá 1840. Hann nefnir með nafni fyrstu þrjá aðalvegi yfir hraunin en segir svo: “Sá fjórði og síðasti vegur sem úr sókninni liggur og alþjóðarvegur má kallast, liggur upp frá Húsatóftum í útnorður ofan í Hafnirnar og er hann sá einni sem héðan farinn verður þangað”. Þetta er eini vegurinn frá Grindavík sem Geir nefnir ekki með nafni.
Jarðfræði (Haukur Jóhannesson)

PrestastígurPrestastígur liggur milli tveggja heimsálfa þar sem hann liggur yfir flekaskilin milli Evrópu- og Norðurameríkuflekanna, sem svo eru nefndir. Því má segja, að þegar Prestastígur er genginn, þá fari ferðalangar frá Ameríku og til Evrópu. Reykjanes er að vissu leyti einstakt í sinni röð þar sem þar er eini staðurinn á jarðríki þar sem sést greinilega hvernig úthafshryggur gengur á þurrt land. Best er að skoða sprungukerfið í Stóru-Sandvík eða sunnan við Valahnúk.
Þegar farið er frá Kalmanstjörn er gengið yfir nokkuð slétt, uppblásið helluhraun. Helluhraun þetta er hluti af stórri dyngju sem jarðfræðingar nefna Sandfellshæð. Í Sandfellshæð er stór gígskál, Sandfellsdalur, og þar á hraunið upptök sín. Hraunið er talið hafa runnið fyrir um 12 þúsund árum. Þegar norrænir menn komu til Íslands, síðla á níundu öld, var svæði þetta allt vel gróið en eftir mikil eldsumbrot og öskufall á Reykjanesi á öðrum fjórðungi þrettándu aldar hófst uppblástur á svæðinu. Ef grafið er niður í sandbollana í hrauninu þá er komið niður í jarðveg. Í hrauninu ber mikið á hraunhólum sem eru sprungnir í kollinn.

Þar sem Prestastígur liggur hæst er komið fram á gjábrún. Þar heitir Haugsvörðugjá. Uppi á bakkanum vestan megin eru gjallgígahrúgöld og nefnist þar Haugur. Í kringum gígana er þunnt gjallkennt hraun og er það eldra en 8000 ára.
Ef veður er gott er þess virði að taka stuttan útúrdúr og ganga á Einiberjahól sem er ævagamall, stakur gígur skammt sunnan við Prestastíg, suðvestur af Sandfellshæð.
HúsatóftirSunnan undir Sandfellshæð er stakur gíghóll, Rauðhóll og frá honum hefur runnið hraun til suðurs og suðvesturs og er Prestastígur milli hrauns og hlíðar, þ.e. liggur um slakkann þar sem Rauðhólshraunið rennur upp að Sandfellshæð. Rauðhólshraun er 2000-3000 ára.

Gengið er framhjá Rauðhól og austan við hann tekur við mosagróið apalhraun. Það er yngsta hraunið á svæðinu og rann árið 1226. Þá opnaðist liðlega 10 km löng gossprunga og nefnist hún Eldvörp. Meðal jarðfræðinga er hraunið nefnt einu nafni Eldvarpahraun en í tali heimamanna hétu einstök svæði þess ýmsum nöfnum, m.a. Sundvörðuhraun. Gígarnir í Eldvörpum eru fjölmargir og margir þeirra fallegir. Flestir eru gjall- eða klepragígar og eru nær allir óskertir og er gígaröðin ein af fáum á Reykjanesskaganum sem hefur [að mestur] verið hlíft við efnistöku. Um tveimur kílómetrum norðar en þar sem Prestastígur Prestastígurfer yfir gígaröðina er allnokkur jarðhiti og þar hefur verið borað á vegum Hitaveitu Suðurnesja. Eldsumbrotin á þrettándu öld yst á Reykjanesskaganum stóðu með hléum frá um 1210 til 1240. Mest gekk á árið 1226. Þessi hrina er nefnd Reykjaneseldar af fræðimönnum.

Þar sem Prestastígur fer yfir þetta sögulega hraun er það um 1,5 km á breidd. Þá er komið ofan í kima upp í hraunið og fyrst ber þar við stór og mikil gjá er nefnist Hrafnagjá og er hún í svonefndum Tóttarkrókum. Hraunið sem tekur við er blásið helluhraun og úr Sandfellshæð eins og vestar. Í Tóttarkrókum eru forn hlaðin byrgi sem menn vita nú ekki til hvers voru notuð. Austan við Eldvarpahraunið og niður að Húsatóftum ber mikið á stórum opnum gjám. Fyrr er nefnd Hrafnagjá og næst er Miðgjá og næst Húsatóftum er Baðstofa.

Heimild um jarðfræði: Kristján Sæmundsson. Jarðfræðikort af Svartsengi, Eldvörpum og Reykjanesi, blað 2. Unnið af Orkustofnun fyrir Hitaveitu Suðurnesja.

Ólafur Sigurgeirsson, var verslunarmaður í Reykjavík og um árabil einn af fararstjórum Ferðaf. Íslands.

Prestastígur

Keflavíkurflugvöllur

Eftirfarandi “Tilkynning frá ríkisstjórninni” birtist í Morgunblaðinu árið 1942:

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur, vígsla.

“Í því skyni að ameríska hernum megi takast að verja Ísland og draga sem mest úr áhættu landsmanna, er aðeins takmörkuð umferð leyfð um svæði það á Reykjanesi, sem sýnt er á hjer birtum uppdrætti.
Á Reykjanesi norðvestanverðu alt það svæði, sem afmarkast af línu dreginni yfir nesið, og liggur hún þannig; hefst í Litlu-Sandvík og liggur þaðan austur á við h.u.b. 6.3 km. til staðar, sem liggur um 1 km. í suður frá Sandfellshæð, þaðan í norðaustlæga átt h.u.b. 13 km. vegalengd upp á brún hæðar þeirrar, er nefnist Litla-Skógfell, þaðan í norður átt h.u.b. 6.3 km. vegalengd til strandarinnar skamt innan við Grímshól á Vogastapa.
Land það, sem aðeins takmörkuð umferð er leyfð um, skal ekki taka yfir Innri Njarðvík, Ytri Njarðvík, Keflavík, Leiru, Garð, Sandgerði, Hvalsnes, Stafnes, Hafnir, nje heldur tiltekin landsvæði ræktuð eða umbætt og eru þau sýnd utan merkjalínu greinds svæðis á áðurgreindum uppdrætti.
Auk þess eru neðangreindir vegir innan svæðis umferðatakmörkunarinnar undanskildir takmörkuninni, svo sem sýnt er á uppdrættinum, sem hjer er prentaður með:
1. Vegurinn um Njarðvíkur, Keflavík, Leiru. Garð, Sandgerði og Stafnes.
2. Vegurinn frá Innri-Njarðvík til Hafna.
3. Vegurinn til Grindavíkur.
Landamerki þessara kauptúna og svæða verða auðkend með staurum máluðum rauðum og hvítum.

BANNSVÆÐI
Bannsvaedi-221Allir þeir staðir, þar sem tæki eru sett upp, mannvirki reist eða hernaðarstörf framkvæmd, innan þess svæðis, sem aðeins takmörkuð umferð er leyfð um, eða eru afgritir og merktir sem slíkir, eru bannsvæði.
Íslendingar mega ekki fara inn á áðurnefnd svæði, sem bönnuð eru eða leyft takmörkuð umferð um, nema þeir hafi í höndum tilhlýðileg vegabrjef. Vegabrjef samþykt af íslensku ríkisstjórninni fást, þegar um þau er beðið hjá bæjarfógetanum í Hafnarfirði og lögreglustjóranum í Keflavík og munu þeir leiðbeina umsækjanda til hlutaðeigandi ameríks starfsmanns. Umsókninni skulu fylgja tvær myndir af umsækjanda, 5×5 cm. á stærð. Umsóknin skal tilgreina þann sjerstaka hluta takmarkaðs eða bannaðs svæðis, sem umsækjandinn óskar að fara um, og sömuleiðis á hvaða tíma eða tímum og í hverjum tilgangi hann hygst að fara þar um. Sá sem fer um takmarkaða eða bannaða svæðið skal ávalt bera á sjer vegabrjef sitt.
Engar ljósmyndavjelar eða myndatökuáhöld má fara með inn á takmarkað eða bannað svæði nje geyma þar.
Vegabrjef þurfa Íslendingar ekki til þess að ferðast um neðangreinda vegi:
1. Veginn um Njarðvíkur, Keflavík, Leiru, Garð, Sandgerði og Stafnes.
2. Veginn frá Innri-Njarðvík til Hafna.
3. Veginn til Grindavíkur.
Þar sem vegir þessir liggja um þau svæði, sem umferð er takmörkuð um, er frjáls að fara um veginn, en hvorki má farartæki nje maður staðnæmast þar nje dvelja.
Íslenskar flugvjelar mega ekki fljúga yfir áðurgreind svæði, sem umferð er takmörkuð um, og eigi nær þeim en í 24 km. fjarlægð. – Reykjavík 18. maí 1942.”

Heimild:
-Morgunblaðið 21. maí 1942, bls. 6

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur.

Keflavík

Í þremur tölublöðum Faxa árin 1947 og 1948 eru birtir “Þættir úr sögu verslunar á Suðurnesjum” eftir Mörtu V. Jónsdóttur:

“Það hafa löngum farið litlar sögur af Rosmhvalanesi eða Suðurnesjum, eins og Skaginn er kallaður í daglegu tali, eða því fólki, er þar hefur búið fyrr og síðar. Þó mun mörg sagan, ef geymst hefði, hafa borið Suðurnesjabúum vitni um snilli sjómennsku, drengskap og áræði, þrek og þorí hinum mörgu mannraunum liðinna alda. Svo munu þeir er bezt þekkja liðna kynslóð geta mælt. En það er eins og örlögin hafi frá upphafi byggðar séð um, að þaðan væri engra fregna að leita.

Básendar 1726

Básendahöfn og Keflavíkurhöfn 1726.

Tvisvar hafa verið ritaðir annálar á Suðurnesjum á fyrri öldum svo vitað sé. Báðir hafa þessir annálar glatast.
Sennilegt er, að íbúar Skagans hafi snemma dregið björg í bú, ekki einungis handa sér og sínum, heldur einnig handa öðrum. Hefur þar af myndast visir til verzlunar. Og einhverja góða og gilda ástæðu hefur Steinunn gamla landnámskona haft, þegar hún keypti landið af Ingólfi frænda sínum. Mætti geta þess til, að hún hafi þá þegar verið búin að sjá, hver gullkista lá úti fyrir ströndinni, er hún fór þangað til bús.
Það er sennilegt, að Keflavík hafi snemma á öldum orðið aðsetur verzlunar og viðskipta. Hefur lega staðarins valdið þvi, þar sem á báðar hliðar eru hin aflasælu fiskimið á vestanverðum Faxaflóa og jafnvel á sjálfri Keflavíkurhöfn oft og einatt uppgripa afli.

Höfnin í Keflavík, er liggur fyrir opnu hafi mót austri, var reyndar aldrei talin örugg  höfn, þótt akkerisbotn væri góður og dýpi nóg (14 faðmar), var skipum er þar lágu, hætta búin, er austan-suðaustan stormur geisaði. Var og talið allt fram á ofanverða 19. öld, að engri björgun yrði við komið, ef skip ræki upp að Berginu, enda urðu þar skipsakaðar nokkrir.
Aðrar hafnir á Skaganum voru áður fyrri Grindavík (Staðarsund), Þórshöfn norðan Ósbotna og Bátsendar sunnan við Stafnes. En allar þessar hafnir hurfu úr sögunni um og eftir aldamótin 1800 og varð Keflavík þá einvöld á Skaganum.
Keflavík
Svo sem kunnugt er, ráku Englendingar, Þjóðverjar og Hollendingar verzlun og fiskiveiðar hér við land fyrr á öldum. Koma þessar þjóðir, einkum Englendingar og Þjóðverjar, því mikið við sögu Skagans.
Nýi annáll getur þess, að enskt skip hafi komið til Suðurlands 1412. Mun það vera elzta heimild um siglingar Englendinga hingað til lands. Sumarið 1415 er aftur getið 6 enskra skipa, er lágu í Hafnarfirði og verzluðu við landsmenn. Eitt þeirra „reyfaði” skreið á Rosmhvalanesi og sést af því, að þeir hafa verzlað við suðurhafnirnar og er harla líklegt, að Keflavík hafi verið ein þeirra.
Aðalhöfn Englendinga við Faxaflóa, var Hafnarfjörður. En Hamborgarkaupmenn, er líka vildu fleyta rjómann af verzlun við Íslendinga, urðu Englendingum þungir í skauti og var oft æði róstursamt þeirra í milli.

Hollenskt kaupfar

Hollenskt kaupfar frá 15. öld.

Árið 1518 var orusta háð í Hafnarfirði milli Englendinga og Hamborgarmanna. Höfðu hinir síðarnefndu dregið saman mikið lið. Er sagt, að þá hafi komið til móts við þá 48 þýzkir menn sunnan frá Vatnsleysu, Keflavík, Bátsendum og Þórshöfn. Á þessu sést greinilega, að Þjóðverjar hafa þá verið búnir að leggja undir sig hafnirnar á Suðurnesjum.
Í orustu þessari sigruðu Þjóðverjar og náðu þá yfirráðum í Hafnarfirði. Hafa þeir eftir það orðið svo til einráðir á Faxaflóa.
Englendingar höfðu eftir þetta aðsetursstað í Grindavík um nokkurt skeið. En þetta var stundarfriður. Árið 1532 réðust Þjóðverjar að enskum kaupmanni, er þá verzlaði í Grindavík og hafði gjört sér vígi ‘á Járngerðarstöðum. Drápu Þjóðverjar kaupmanninn og allt lið hans. Hafa það án efa verið erfiðir dagar fyrir alþýðu manna að búa við sífelldar óeirðir og ójöfnuð útlendra manna. Þó hefur þjóðin orðið að þola margfalt meira, er konungsverzlun Dana varð hér einvöld árið 1602. Að visu hafa aðrar þjóðir verzlað við landsmenn eftir sem áður á laun, en eftir því sem lengur leið, urðu verzlunarsamböndin sterkari og böl landsmanna ægilegra.

Staður

Grindavíkurhöfn og Staður í Grindavík. Hafnarkort Dana frá 1751.

Á einokunartímabilinu var hverri höfn úthlutað vissu umdæmi, var hverjum manni innan þess umdæmis, skylt að verzla við sinn verzlunarstað. Ef út af þessu var brugðið og upp komst, voru harðar refsingar dæmdar þeim, er framið hafði þá óhæfu að verzla við aðra en sinn kaupmann.
Alræmd varð sagan um Hólmfast Guðmundsson, bláfátækan búðarsetumann í Brunnastaðahverfi á Vatnsleysuströnd. Hafnarfjarðarkaupmaður taldi hverfi þetta til síns umdæmis. Voru þó mörkin ekki glögg og oft um deild. Hólmfasti hafði orðið á sú skyssa að selja Keflavíkurkaupmanni 3 löngur, 10 ýsur og 2 sundmagabönd. Hefur ef til vill fengið betra verð. Mál út af þessu tiltæki Hólmfasts var tekið fyrir á Kálfatjarnarþingi sumarið 1699 og var hann dæmdur sekur. Ekkert átti hann til að borga með sektina, nema bát sinn, er talinn var svo ónýtur að hann væri ekki gjaldgengur. Var Hólmfastur því húðstrýktur á þinginu að viðstöddum amtmanni, HafnarfjarSarkaupmanni og öllum þeim, er þingið sóttu. Sætti hann þar hinni grimmilegustu meðferð. Á þessu sama Kálfatjarnarþingi lét sá hinn sami, Hafnarfjarðarkaupmaður, alþýðu gefa sér vitnisburð mjög lofsamlegan um verzlun og viðskifti þeirra í milli. Er augljóst, að alþýða manna hefur þá verið svo þrautpínd, að enginn hefur þorað að hreyfa andmælum, er þeir gáfu honum slíkan vitnisburð. En tíðum hafa Íslendingar verið langminnugir og svo mun hafa verið um þá menn, er þoldu óréttinn á þessu Kálfatjarnarþingi.

Hólmfastskot

Tóftir Hólmfastskots.

Á Vatnsleysuströndinni, einmitt á þeim sama stað er atburður þessi gjörðist, lifði sagan um Hólmfast á vorum alþýðu fram undir síðustu aldamót og varð fastur liður í þeim sæg rökkursagna, er fullorðna fólkið sagði börnum og unglingum.
Nálega tveim öldum síðar en atburður þessi gjörðist, heyrði ég söguna sagða eina slíka rökkurstund. Maður sá, er söguna sagði, kunni frá mörgu að greina. Hann hafði alið allan sinn aldur á Vatnsleysuströnd og var af góðum ættum á Suðurnesjum hið næsta. Hann sagði, að Hólmfastur hefði eftir atburð þennan flutzt út í Njarðvíkur. Hefði bóndinn í Innri-Njarðvík tekið hann í sína umsjá og hefði Hólmfastur dvalið þar til æviloka. Sögumaður endaði með þessum orðum: „Þessari sögu megum við aldrei gleyma”.
Þótt þessi gerð sögunnar séu munnmæli ein, eru líkur fyrir því, að rétt sé hermt. Í manntalinu 1703, eða 4 árum síðar en atburður þessi gjörðist, búa á einni Innri-Njarðvíkurhjáleigunni: Hólmfastur Guðmundsson 56 ára, Solveig Sigurðardóttir kona hans 38 ára og Þorsteinn sonur þeirra II ára gamall. Býli þetta er nafnlaust í manntalinu, en lítill vafi er á því, að nafn Hólmfasts hefur festst við býlið. Mun það vera sama býlið, sem enn í dag heitir Hólmfastskot.

Skip 1600-1700

Skip – 1600-1700.

Um aldamótin 1700 var svo þrengt orðið kosti landsmanna, að ekki þótti viðunandi. Var Lárus Gottrúp lögmaður fenginn til utanfarar með erindisbréf, eða bænaskrá til konungs, er fjallaði um hörmungar landsmanna og harðdrægni kaupmanna. Lögmaður sigldi með Keflavíkurskipi og með honum kona hans og barn þeirra ásamt þjónustufolki.
Þegar lögmaðurinn var kominn suður til Keilavíkur, ásamt fólki sínu, albúinn til ferðar, heimtaði kaupmaður, að hann legði fram mat til fararinnar. Lögmaður ætlaði þá að kaupa kjöt og smjör af bændum þar syðra, því sjálfur hafði hann bú á Þingeyrum og voru auðvitað engin tök á að nálgast mat þaðan, en skipið lá albúið til siglingar á Keflavíkurhöfn.

Leiran

Leiran – uppdráttur ÓSÁ.

Er kaupmaður vissi um fyrirætlanir lögmanns, fyrirbauð hann bændum að selja lögmanni og hótaði þeim stórum refsingum, ef þeir voguðu slíkt. Þorðu bændur þá ekki að selja fyrr en lögmaður hafði heitið þeim, að taka alla sökina á sig. Keypti lögmaður svo af bændum það, er hann þurfti og sigldi með skipinu. Þetta gerðist sumarið 1701. Er þetta glöggt dæmi um verzlunarhætti og átök milli landsmanna og kaupmanna. Svo er sagt að Hamborgarar hafi fyrst sett verzlunarbúðir sínar á hólma nokkurn skammt frá landi í Keflavík (Jón Aðils – Einokunarverzlun Dana á Íslandi 1602—1787). Það er mjög ólíklegt, að hólmi þessi hafi verið í Keflavíkurhöfn. Dýpi hafnarinnar er mikið og hvergi sker eða grynningar, sem gefa til kynna, að land hafi staðið þar upp tir sjó. Engin munnmæli eru til þar syðra um sokkinn eða eyddan hólma. Hefði þó verið eðlilegt, að sögn um slík umbrot hefði varðveitzt. En fyrir framan Leiruna, næstu byggð fyrir utan Keflavík, er hólmi, er var aðsetur þýskra endur fyrir löngu.

Sigurður Sívertssen

Sigurður Sívertsen.

Árið 1840 ritaði séra Sigurður Sivertsen, prestur á Útskálum, lýsingu á prestakalli sínu. Þar segir svo um Leiruhólma: „ — Hann var áður grasi vaxinn, sem ennþá sér vott til. Höfðu þar þýskir haft fyrr meir verzlunarbúðir sínar á sumrum og lagt skipum sínum: hafa rúsir eftir þá allt til skamms tíma sést”. Gæti hólmi þessi, sem Íslendingar nefna ennþá Leiruhólma, hafa orðið í munni útlendings að Keflavíkurhólma, einkum ef þeir hafa þá samtímis verzlað á Keflavíkurhöfn. Eru mörg dæmi þess, að útlendingar breyttu staðanöfnum hér eftir geðþótta.
Skúli landfógeti Magniísson segir í hinni merku ritgerð sinni um Gullbringu- og Kjósarsýslu, er hann samdi árin 1783—85, að Vatnsnesvík hafi verið verzlunarstaður til forna „— en sennilega áður en verzlun hófst í Keflavík”. Á þessum stað, sunnanvert við Vatnsneskletta, eru nú hafnarmannvirki Keflavíkur.
Árið 1787 var verzlunin hér á landi gefin frjáls, en einungis við alla þegna Danakonungs. Konungsverzlun Dana, sem hér hafði setið að völdum frá 1602, seldi þá, og næstu ár, verzlanir sínar. Danskir kaupmenn, sennilega margir þeirra er verið höfðu verzlunarfulhrúar fyrir konungsverzlunina, keyptu þá verzlanirnar og ráku þær áfram. Munu verzlunarhættir lítið hafa breytzt fyrst í stað, en smátt og smátt hefur farið að rofa til, enda risu þá upp fleiri verzlanir við hverja höfn.

Keflavík
Kaupmaður sá, er keypti Keflavíkurverzlun, hét Christian Adolph Jacobæus, þá kaupmaður í Keflavík. Kaupverð verzlunarhúsa, lóðar og varnings var 10265 ríkisdalir 17% skildingur í „kurant”-mynt. Christian Adolph var fæddur í Keflavík 1767 og hefur ungur tekið við verzlunarforstöðu eftir föður sinn, Holgeir gamla Jacobæus, sem var kóngskaupmaður í Keflavík.
Haustið 1785 kom Jacobæus upp frá Danmörku með Hafnarfjarðarskipi og var þá veikur af bólusótt. Hafði hann farið utan um vorið í verzlunarerindum, en tekið sóttina um það leyti, er hann lagði í haf. Barst bólan eftir þetta um landið og varð af mikið mannfall.

Keflavík

Keflavík 1800.

C. A. Jacobæus kvæntist 1794 danskri konu, Reginu Magdalenu, er var fædd í Kaupmannahöfn 1769. Þau áttu mörg börn, þar á meðal Holgeir Jacobæus, sem varð kaupmaður í Keflavík eftir föður sinn og Sophiu, er átti Ebbesen verzlunarstjóra í Rvík.
Jacobæus stofnaði verzlun í Reykjavík 1795, ásamt Ludvigsen stórkaupmanni í Kaupmannahöfn. Var hann annar elzti kaupmaður í Reykjavík. Hefur hann þá átt mikinn húsakost í Keflavík, því hann lét flytja tvö af Keflavíkurhúsum sínum til Reykjavíkur og byggja þau þar, við Hafnarstræti. Var annað húsið sölubúð og íbúð sitt í hvorum enda; hitt var vörugeymsluhús, stórt og mikið, og eflaust vel byggt, því það hús stóð hér í Reykjavík til 1935 og var síðast alllengi notað fyrir bílaviðgerðarverkstæði.

Peter Duus

Peter Duus.

Jacobæus bjó eftir sem áður í Keflavík, en hafði verzlunarstjóra í Reykjavík, þar á meðal Ebbesen tengdason sinn og Peda Duus, er löngu síðar varð kaupmaður í Keflavík og kemur þar mikið við sögu.
Aðra verzlun átti Jacobæus í Hafnarfirði. Sú verzlun varð síðar Linnetsverzlun, er lengi starfaði í Hafnarfirði og var góðfræg. Hans Linnet var fyrst verzlunarstjóri Jacobæusar í Hafnarfirði, en keypti svo verzlunina 1836. Kona hans var Regina Magdalena Secrup, systurdóttir C.A. Jacobæusar í Keflavík. Eiga því niðjar þeirra Linnetshjóna ætt sína að rekja til Holgeirs Jacobæusar hins síðasta kóngskaupmanns í Keflavík. C. A. Jacobæus hefur haft umfangsmikla verzlun í Keflavík. Það sýnir meðal annars, hve margt fólk var á heimili hans.
Árið 1790 voru þar 38 manns. Jacobæus var þá ókvæntur, en danskur beykir Hoeg að nafni, kona hans einnig dönsk og dóttir þeirra, er var matreiðslukona, munu hafa séð um kaupmannsheimilið. Vinnufólkið mun hafa búið í öðru húsi, enda var þar einnig önnur ráðskona, er Ingveldur hét Einarsdóttir.
Þar var einn „undirassistent”, einn búðardrengur, einn afhendingarmaður, einn smiður. Það var Jóri Sighvatsson, er síðar varð útvegsmaður og merkisbóndi í Höskuldarkoti við Ytri Njarðvík. Fjórtán vinnumenn, sjö vinnukonur og fjögur börn, er vinnufólkið átti, auk þess einn gamall maður örvasa og þrír danskir vetursetumenn. Næstu ár fór fólki heldur fækkandi, og 1801 voru ekki nema 14 manns í heimili.
KeflavíkEftir Chr. A. Jacobæus, varð Holger sonur hans kaupmaður í Keflavík 1836. Kona hans, Charlotte Marie, var dönsk. Þau áttu 15 börn. Voru 10 þeirra á lífi, er þau fluttu af landi brott 1843 og 1844. Þessar fjölskyldur bjuggu allar í sama húsinu, hver eftir aðra, en það er gamla Duushúsið, er svo mun vera nefnt enn í dag.
Séra Sigurður Sívertsen prestur á Útskálum, hefur ritað smákafla um þá Jacobæusarfeðga inn í húsvitjunarbók prestakallsins 1827—1847 við árið 1837. Hann segir svo um Holger Jacobæus: „Foreldrar kaupmanns Jacobæusar var kaupmaður Chresten Jacobæus og Md Regina Magdalena, bjuggu þau hjón fyrr í Keflavík, átti hann þar kaupstað; líka höndlun í Hafnarf. og Rvík og var einn sé merkasti maður á sinni tíð. Faðir hans var Holgeir gamli Jacobæus, sem var kóngskaupmaður í Rvík. Holger yngri fékk Keflavík keypta af föðurnum eða til láns, en varð að láta af hendi aftur. Varð hann þá factor hins nýorðna eiganda kaupm. J. J. Benediktsen. Varð þó seinna að láta þá forþénustu lausa og sigldi árið 1843 til Færeyja hvar hann fékk forþénustu í brauði Clausens í Ólafsvík. Kona hans og börn sigldu ári seinna og áttu þau saman 15 börn en hann hafði eignlengi mjög örðuga lífsútkomu. Þau hjón eignast 1 son áður, Karl að nafni”.
Jens Jakob Benediktssen varð eigandi Keflavíkurverzlunar 1841, en bjó þar aldrei. Hann var sonur Boga sagnfræðings á Staðarfelli Benediktssonar, átti verzlanir á Ísafirði, Grundarfirði og Vestmannaeyjum, en bjó lengst af í Kaupmannahöfn. Verzlunarstjóri hans í Keflavík, eftir að Jacobæus hvarf burtu, var Marteinn Smith, er síðar var kaupmaður og konsúll í Reykjavík og var giftur Ragnheiði systur Jens Jakobs. Þau fluttu til Keflavíkur 1844 og bjuggu þar 4 ár. En 1848 fluttu þau til Kaupmannahafnar og seldi Smith þá Duus kaupmanni Keflavíkurverzlun.”

Heimild:
-Faxi, 10. tbl. 01.12.1947, Þættir úr sögu verslunar á Suðurnesjum – Marta V. Jónsdóttir, bls. 9.
-Faxi, 1. tbl. 01.01.1948, Þættir úr sögu verslunar á Suðurnesjum – Marta V. Jónsdóttir, bls. 4-5.
-Faxi, 2. tbl. 01.02.1948, Þættir úr sögu verslunar á Suðurnesjum – Marta V. Jónsdóttir, bls. 3-4.

Keflavík

Vatnshólavarða

Gengið var eftir Melabergsleið (Hvalsnesleið), upp að Vatnshólavörðu og síðan var leiðinni fylgt áfram um Miðnesheiðina að hringtorginu austan við Leifsstöð.

Melaberg

Melaberg.

Vatnshólavarðan sést vel frá Melabergsvötum. Þegar komið var framhjá þeim blasti Leifsstöðin við – inngöngudyr ferðamanna til Íslands. Á leiðinni var tækifærið notað og vöngum velt yfir stöðu og framtíð ferðaþjónustunnar á svæðinu.
Undanfarin ár hefur ferðamönnum fjölgað verulega hér á landi. Fjöldi þeirra er nú um 360.000 á ársgrundvelli og hefur verið að fjölga um 12-14% að jafnaði á milli ára. Ekki er því langt að bíða þangað til fjöldi þeirra verður kominn í milljónamarkið. Áður en það verður þurfa hagsmunaðilar ferðaþjónustunnar þó væntanlega að vera búnir að ákveða hvernig þeir vilja stýra ferðamennskunni og ferðum gestanna hér um land með hliðsjón að undirbúningi á einstökum svæðum.

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkuflugvöllur.

Í ljósi breytinga í atvinnumálum og nær ótæmandi möguleikum á Suðurnesjum er ljóst að mikilvægt er að stuðla að eflingu atvinnulífsins t.d. með verulega aukinni þjónustu. Það er m.a. hægt að gera með því að nýta þá ótrúlegu kosti sem svæðið býður upp á. Aðstaðan er einnig mjög góð til fiskeldis, og svo er nauðsynlegt að hlúa að þeirri starfsemi sem fyrir er, þ.á.m. sjávarútvegi og iðnaði. Til að mæta samdrætti í starfsemi á Keflavíkurflugvelli þarf að skapa ný störf í öðrum greinum, einkum iðnaði og þjónustu, ekki síst ferðaþjónustugreinum.

Melabergsleið

Melabergsleið – vörður.

Eitt af forgangsverkefnunum er að að skapa Suðurnesjum jákvæða ímynd í hugum fólks og nýta vel þá kosti sem svæðið hefur upp á bjóða, s.s. alþjóðaflugvöllinn og nágrenni hans, orkulindir til iðnaðarframleiðslu, ágæta hafnaraðstöðu og hina einstöku sagnfræðilegu, náttúru- og jarðfræðilegu möguleika til að stórefla ferðaþjónustu, helsta vaxtarbroddinn í íslensku atvinnulífi.
Hingað til hefur mikið verið fjallað um vilja til aðgerða. Sumu hefur og verið komið í framkvæmd. Í skýrslum, sem gerðar hafa verið og gefnar út á undanförnum árum um þetta efni, má t.d. lesa um;
a) hugleiðingar Samgönguráðuneytisins frá árinu 2002 þar sem fjallað er um framtíðarsýn í íslenskri ferðaþjónustu og m.a. fjallað um ímynd Íslands, umhverfismál, gæða- og öryggismál, menntamál, samgöngumál, byggðamál, skipulag ferðamála, rekstrarumhverfi og markaðsmál. Þá segir að meginþættir ferðaþjónustu séu fjórir: ferðafólkið, fyrirtæki og stofnanir, opinber þjónusta og áfangastaðurinn. Hugmyndafræði sjálfbærrar þróunnar er lögð til grundvallar framtíðarsýninni.

Brimketill

Brimketill.

b) efni Ferðamálaráðs Íslands 2002 um Auðlindina Ísland með hliðsjón af ferðaþjónustusvæðum þar sem markaðssvæðin eru skilgreind, sérstaða þeirra dregin fram, teknar saman fyrirliggjandi upplýsingar, seglar skilgreindir og tillögur gerðar.
c) framsetningu Samgönguráðuneytisins um íslenska strandmenningu árið 2004 þar sem er fjallað um gæðaferðaþjónustu, markaðsrannsóknir og frumkvöðlastarf.
d) fróðleik frá samgönguráðuneytsiins um menningartengda ferðaþjónustu 2002 þar sem er fjallað um íslenska menningu og ferðaþjónustu sem og nútímamenningu Íslendinga og nauðsyn stefnumörkunar.
e) tillögur samgönguráðuneytisins um stefnumörkun íslenskrar ferðaþjónustu 1996 þar sem er kannað með áhuga og möguleika hinna einstöku þjóða að nýta sér Ísland sem ferðamannaland.
f) og einnig má sjá rit frá ferðamálaráðstefnu Reykjavíkurborgar 2004 þar sem ræddir voru styrkleikar og veikleikar Reykjavíkur skilgreindir og gerðar tillögur um markaðassetningu borgarinnar til ferðamanna.

Melabergsvegur

Melabergsvegur.

En svo virðist sem eitt nærtækasta, en jafnframt eitt áhugaverðasta ferðamannasvæðið (a.m.k. fyrir Íslendinga), hafi orðið mikið til útundan, þ.e. Suðurnesin og Reykjanesskaginn allur. Yfirleitt er getið um að þar sé “útsýni mikið og fagurt”, þar megi finna “áhugaverða staði” og eru þrír slíkir jafnan nefndir til sögunnar, þ.e. Svartsengi, Bláa lónið og Reykjanesviti. Jafnframt að á svæðinu sé fuglalíf og strandir.
Í raun býður svæðið upp á allflest það sem aðrir landshlutar hafa upp á að bjóða, hvort sem lýtur að jarðfræði, náttúru, menningu eða sögu. Dvalartími útlendinga er að styttast og margir koma hingað í öðrum tilgangi en áður, þ.e. til ráðstefnu eða fundarhalda eða í viðskiptaerindum. Þetta fólk þarf oft að bíða hálfan eða heilan dag eftir flugi. Hvaða svæði er þá nærtækara til að nota því til handa en Suðurnesin? Þar er hægt að fara í stuttar ferðir, hvort sem er akandi eða gangandi, skoða fallega hraunhella, þjóðsagnakennda staði, ómótstæðilega náttúru, fuglabjörg, minjar frá upphafi búsetu, nútímahraun, gamlar leiðir markaðar í bergið, eldgíga, atvinnu- og byggðasöguna, verstöðvar, sjóslys, drauga- og huldufólksstaði og svona mætti lengi telja – eða einfaldlega njóta útiveru í fallegu umhverfi. Þá eru afþreyingarmöguleikar sennilega hvergi meiri en á þessu svæði.
En þetta er s.s. allt vitað – og meira til – og eflaust munu hlutaðeigandi aðilar ætla að nýta sér þetta allt til handa framtíðargestunum að utan sem og landsmönnum öllum.
Umhverfið rann saman við vangavelturnar og ferðahugleiðingarnar á leiðinni, en veðrið var frábært.
Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Reykjanes

Á Reykjanesi.

Junkaragerði

Gengið var um Junkaragerði í Höfnum sunnan Skiptivíkur, skoðaðar tóftir Sólheima og Traðarhúss, auk Kalmanstjarnar, sem brann ekki alls fyrir löngu. Annars eru Junkaragerðin tvö á Suðurnesjum; annars vegar þessi í Höfnum og hins vegar ofan og vestan við Stórubót í Grindavík. Hér verður á göngunnu m.a. rifjaðar upp sagnir og þjóðsögur úr Junkaragerðinu í Höfnum.

Junkaragerði

Junkaragerði.

Sagt er að bærinn heiti eftir 12-18 erlendum mönnum sem þar áttu að hafa búið og kallaðir voru junkarar. Voru þeir taldir ölkærir, karlmenni mikil en óeirðarmenn um kvennafar. Vildu landsmenn koma þeim af höndum sér og nótt eina söguðu þeir næstur sundur nefjur (ræðin) á hástokkum báts þeirra. Reru junkarar svo fyrir dag en er líða tók á morgun gerði hvassan vind og hrukku nefjurnar í sundur. En ekki náðist tilætlaður árangur því að junkarar reru við hné sér og björguðu sér þannig í land. Næst leystu menn skautana af árunum, söguðu þeir meir en til miðs og negldu skautana aftur svo að ekki sáust verksummerki. Nokkru síðar reru junkarar, gerði þá andvirði mikið og brotnuðu árarnar hver af annari. Spurðist ekki til þeirra síðan.

Kalmannstjörn

Kalmannstjörn – brunnur.

Sagnir af Galdra-Jóni eru tengdar Junkaragerði í Höfnum. Bærinn var var fyrrum hjáleiga frá Kalmanstjörn og hefur verið búið þar samfleytt í margar aldir. Var það eitt með elstu býlum í Höfnum. Jón Þórðarson í Junkaragerði varð fullra 70 ára, dó líklega 1819. Hann var gáfaður en dulur og harður í horn að taka. Sem unglingur flæktist hann með kaupfari til Noregs og komst alla leið norður til Finnmerkur og dvaldist þar eitt eða tvö ár og var það mál gamalla manna að Jón hefði numið fræði sín hjá Finnum.

Sögurnar af Jóni voru á hvers manns vörum í gamla daga. Með afbrigðum var Jón sagður mikill aflamaður til sjávarins og þótti það ekki einleikið hve drjúg var stundum kösin á skiptivellinum. Þá er hásetar Jóns fóru að gera að afla sínum, var það álit þeirra allra að fiskurinn væri stundum miklu meiri en þeim hafði virst hann vera í skipinu.

Kalmannstjörn

Kalmannstjörn.

Jón var hinn mesti hófsemdarmaður í hvívetna. Neytti hann aldrei víns nema á hátíðum, og aldrei gaf hann hásetum sínum í staupinu eða út í kaffið, sem kallað var; en það var þó algengur siður í Höfnum, að húsbændur gáfu hjúum og hásetum vel í kaffið, er vel fiskaðist eða mikið var að gera í landi, og var þá unnið með brennivínskrafti, sem kallað var.
Eitt sinn svaraði Jón gamli því til er hann var spurður hvaðan hann hafi fengið brennivín það er ölvaði hann. Jón gamli hló við og sagði:
Kalmannstjörn“Keflavíkurkaupmennirnir sjúga blóðið úr Suðurnesjabændunum, en ég sýg brennivínið úr beykikoppum þeirra í staðinn.”
Jón Þórðarson var smiður góður, en mest fékkst hann þó við járnsmíðar. En þó að hann væri alla daga í smiðjunni, þá þurfti hann aldrei að kaupa kol. Sótti hann þau árlega á hestum suður á Reykjanes, en hvernig sem reynt var að njósna um ferðir Jóns, er hann fór í þessar kolaferðir, þá tókst mönnum aldrei að rekja slóð hans þrátt fyrir það, þótt öll leiðin sé ægisandur einn. Vissu menn aldrei um þessar ferðir Jóns, fyrr en hann var kominn aftur með kolin. Er það óyggjandi sannleikur, að karlinn sótti kolin á Reykjanes, og voru margir menn í Höfnum, er sáu kolin hjá Jóni.

Gömlu-Hafnir

Hafnarsandur – Herforingjaráðskort 1903.

Meðal þeirra var Brandur Guðmundsson í Kirkjuvogi, sem sagði að hann hefði oftar en einu sinni séð kolin hjá Jóni. Sagði Brandur, að þetta hefðu verið falleg steinkol, en aldrei gat hann fremur en aðrir fengið það upp úr Jóni, hvar á Reykjanesi kolin væru að finna. Þó var það eitt sinn, að bóndanum á Kalmanstjörn tóks að gjöra Jón gamla vínhreifan um jólin, og var þá ekki dregið úr hömlu að reyna að veiða karlinn, en þó að karl væri kenndur, varðist hann allra frétta, en sagði þó svo að lokum, að ekki þyrfti að leita langt frá Sýrfelli. Annað hafðist aldrei upp úr Jóni gamla um kolin á Reykjanesi.
Fyrir austan bæinn Junkaragerði er hæð sú, er nefnist Stóri-Dilkur. Hæð þessi er gróðurlaus á alla vegu, há og glögg frá umhverfinu af sjó að sjá.

Junkaragerði

Sólheimar, Junkaragerði, Traðarhús og Kalmannstjörn fyrir sunnan Hafnir. Séð til norðausturs.

Í gamla daga bjó einhverju sinni í Junkaragerði bóndi sá er Eyvindur hét. Hann var vænn yfirlitum, mikill að vexti og burðum og fáskiptinn um hag annarra. Hann var ókvæntur er saga þessi gerðist og stundaði sjó sumar og vetur og græddist fé. Hann var talinn hafa draumkonu, er varaði hann við veðrum og þóttust hjú hans hafa séð hana hverfa stundum frá svefnstofu hans á nóttum. Fór það þá stundum þannig að búsýsla hans og sjósókn varð mjög næturblendin.
Eitt sinn er Eyvindur leitaði til Dilksins. Sá hann þá bygging er hann gat eigi lýst. Var það líkast mörgum húsum er stóðu í röðum hvert aftur af öðru, og æ hærra, er aftar dró. Það næsta og mesta var opið og bjart þar inni. Þar stóð bláklædd og fögur kona. Var hálsmál hennar, ermar og faldur bryddað rauðum borðum. Hún bauð Eyvind velkominn og leiddi hann inn í stóran sal. Þar voru rósofnir stólar með háum bökum og drekahöfðum til hliða en úr loftinu héngu skálar í löngum festum og loguðu ljós í hring á börmunum. Alls staðar bar skraut fyrir augað en umhverfis ríkti annarlegur blær sem eins og eyddi öllum hávaða.
Álfkona reyndi að freysta hans, en allt kom fyrir ekki. Eyvindur þóttist þá ætla að grípa til hennar, en við það sortnaði honum fyrir augum og áköf suða greip eyru hans en þegar það hvarf, stóð hann utan í Dilkinum og við það hraðaði hann sér sem mest hann mátti heim til bæjar.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; varða við gömlu þjóðleiðina. Junkaragerði framundan.

Eftir þessa nótt var Eyvindi brugðið. Hann festi eigi hugann við neitt og allt fór úrhendis í búskap hans. Oft lagði hann leiðir sínar til Dilksins, en allt kom það fyrir ekki. Þá var það vetrarkvöld eitt árið eftir að Eyvindur kom heim neðan frá naustum og lagði sig. Jafnskjótt og hann gleymdi sér, dreymdi hann að aldraður maður kæmi að rúmi hans og mælti:
“Illa ferst dóttur minni við þig er hún hefir gert þig afhuga öllu öðru en sér en læsir þó jafnframt fyrir þér bústað sínum. Skaltu nú minnast þess að sjáir þú eitthvað óvenjulegt á himninum í vetur, skalt þú þann sama dag, seint að kvöldi, ganga til Dilksins og mun ég þá greiða þar fyrir þér.”
Leið svo tíminn fram yfir Kyndilmessu. Þetta kvöld á vökunni brá Eyvindur sér út en kom ekki aftur. Var hans leitað oft og lengi en aldrei fannst hann né kom fram eftir þetta og var það hald manna að hann hefði náð til álfkonunnar í Dilkinum og hún tekið hann í fulla sátt. Nokkrum vikum seinna bar svo við, er komið var út í skemmu Eyvindar að þar var veizlumatur mikill er enginn kannaðist við og var það álitin sending úr brúðkaupi hans til hjúa sinna. En lengi var það svo í Junkaragerði að rifjuð var upp sagan um Eyvind og hvarf hans í bústaði álfanna í Stóra-Dilkinum.
Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-http://www.reykjanes.is/Um_Reykjanes/Ahugaverdir_stadir/Junkaragerdi/
-http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=231
-http://www.leoemm.com/hafnahreppur.htm

Junkaragerði

Junkaragerði – loftmynd.

Stóra-Sandvík

Skjótastaðir voru fornt býli á strönd Reykjaness, skammt frá og fyrir ofan þar sem nú er svonefndur Lendingamelur. Á landakortum hefur staðurinn einhverra hluta vegna verið settur örskammt norðan við Stóru-Sandvík, en þar skeikar verulegu.
HleðslurÍ örnefnalýsingu fyrir Kalmanstjörn segir um Skjótastaði: “Þá er komið í Stóru-Sandvík. Þar gengur sjórinn nokkuð langt inn í landið, og er sandur á miklu svæði hér upp frá sjónum. Þar fjarar mikið út, svo að með hverju flóði kemur upp flæðivatn, sem svarar 120 föðmum frá sjávarmáli, og er það ekki neitt smávatn. Verður nú ekki haldið lengur með ströndum fram að sinni, nema hvað talið er, að bærinn Skjótastaðir eða Skjóthólastaðir hafi staðið þar upp frá víkinni norðanverðri, nærri sjó. Ekki sjást hér neinar rústir, en vel geta þær verið horfnar í sand.”
Þegar gengið var til norðurs frá Stóru-Sandvík var augljóst að bæjarstæði eða verbúð gæti ekki hafa verið þar. Í víkinni sjálfri er slæm lending í brimi þrátt fyrir mjúka og sendna ströndina. Utar er hins vegar bakki, sem ýfir Ægir svo um munar þegar eitthvað er að veðri. Svo er einnig með ströndinni að Lendingamel. Sjórinn brýtur á boðum og skerjum utan við hana, allt þangað til komið er að nyrðri básnum í Melunum. Utan við hann og alla leið að landi er alger ládeyða þegar eitthvað er að sjó, líkt og nú var.

Hleðsla

Á loftmynd af svæðinu ofan við Lendingamel mótar fyrir löngum görðum og jafnvel þremur tóftum miðsvæðis. Ætlunin var að skoða svæðið nánar. Ljóst er að það hefur tekið miklum breytingum á löngum tíma.
Annálar greina frá eldsumbrotum með stuttum hléum, á og úti fyrir Reykjanesi á 12. og 13. öld. Samkvæmt þeim hefur gosið á Reykjanesi árið 1118, og a.m.k. 13 sinnum á 13. öld. Sagt er að sumum eldgosum hafi fylgt miklir landskjálftar og þess getið að svartamyrkur hafi verið um annars hábjartan dag (1226) og að Reykjanesið hafi brunnið (1210 og 1211). Í hamförum á fyrri hluta 13. aldar er talið að byggð hafi eyðst á Reykjanesi en merki um hana sjást m.a. við Skjótastaði norðan Stóru-Sandvíkur. Í annál er þess getið að 18 manns hafi farist á Reykjanesi í landskjálfta og eldi árið 1118. Næsta lítið er vitað um sögu Hafna á 14. og fram á síðari hluta 16. aldar eins og margra annarra staða á landinu, m.a. vegna þess að kirkjubækur, sem geymdar voru í Viðey, eyðilögðust í bruna. Þó munu vera til heimildir um mikinn landsskjálfta 1389 og að 1390 hafi hálft Reykjanesið brunnið. Til mun vera heimild um að eldur hafi komið upp í hafi fyrir Reykjannesi 1420 og að þá hafi skotið upp landi. Einnig er getið um eld fyrir Reykjanesi 1422 og aftur 1584. Í annál er greint frá eldi í ,,Grindavíkurfjöllum” árið 1661 og hafi sést oft, fyrir og eftir jól, á Norðurlandi.

Garður

Til er heimild um að árið 1706 hafi komið upp eldur í sjó fyrir Reykjanesi og einnig 1783 fyrir sunnan Geirfuglasker: Kom þá upp land sem sökk aftur (Nýey). Síðasta gos sem minnst er á í annálum, á eða fyrir Reykjanesi, á að hafa verið árið 1830 en þá sigu Geirfuglasker í sjó. Síðustu eldsumbrot sem heyrst hefur um, fyrir Reykjanesi, eiga að hafa átt sér stað í kringum 1930. Á þá að hafa gosið á sjávarbotni nálægt Eldey.
Ofan við Lendingamel sjást hleðslur á nokkrum stöðum. Landið lækkar þarna mikið millim Hafnabergs og misgengisins norðan Sandvíkur og má segja að um aflangt “dalverpi” sé að ræða, skjólgott við öllum áttum nema hafáttinni. Þar sem “tóftir” sjást á loftmyndinni eru nú miklir gróningar, eldri en þeir umhverfis. Ekki er ólíklegt að þarna kunni að leynast bæjarleifar Skjótastaða ef betur væri að gáð.
VarðaVörðubrot eru á nálægum hólum og virðast þau allgömul. Efst í brúninni, sem ber við suðurhimininn, er há varða, sem haldið hefur verið við. Hún er svo að segja í beina stefnu frá básnum fyrrnefnda og þvert um “bæjarstæðið”.
Fálki fylgdi ferðalöngum um svæðið. Ekki var annað hægt en að dáðst að hversu vel hann nýtti sér uppstreymið við ströndina. Utar æddi hver báran af annarri á land, líkt og allar vildu þær yfirgefa hafið.
Þrátt fyrir berangurslegt svæði nú má vel ímynda sér hvernig það hefur litið út fyrrum. Ætla mætti jafnvel að þarna gæti hafa verið búsældarlegt, enda af nægu að taka þar sem hafið og Hafnabergið eru annars vegar; fiskur og fugl ómælt.
Melgras hafði sest í jarðlægan garð, sem liggur upp frá ströndinni norðan við Lendingamel. Meint bæjarstæði er þar sem dalverpið fer að hækka til austurs. Suðaustan þess eru hleðslur. Sandur hefur fokið í flest skjól og umverpt mannvistarleifar að mestu. Þó má, ef vel er að gáð, enn sjá verksummerki, auk þess sem lendingin í Lendingamel gefur nokkuð góða vísbendingu um búsetuna fyrrum.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Kalmanstjörn.
-Leó M. Leósson.

Lendingamelur

Kirkjuvogskirkja

Freyja Jónsdóttir ritaði um Kirkjuvogskirkju í Höfnum í Dag árið 1999:
“Hafnir eru á vestanverðu Reykjanesi, sunnan Miðness. Í bókinni „Landið þitt Ísland”, eftir Þorstein Jósepsson og Steindór Steindórsson segir að Hafnir skiptist í þrjú hverfi, Kirkjuvogshverfi, Merkineshverfi og Kalmanstjarnarhverfi. Einnig segir í sömu bók að stórbýli sveitarinnar hafi verið þrjú, Kirkjuvogur, Kotvogur og Kalmanstjörn. Sandhöfn og Kirkjuhöfn voru einnig stórbýli á árum áður og mun nafnið Hafnir vera dregið af þeim.
kirkjuvogskirkja-221Vitað er að kirkja var í Kirkjuhöfn um 1350 en talið er að hún hafi lagst af nokkru síðar. Þá er getið um hálfkirkju að Glámatjörn. Síðar var sóknarkirkja Hafnanna að Vogi. Þegar Svarti dauði geisaði 1402 var kirkja í Vogi. Heimildir herma að kirkjan hafi verið flutt að Kirkjuvogi laust fyrir 1575 en frá því ári eru heimildir um að Gísli biskup hafi vísiterað þar. Þegar kirkjan var flutt frá Vogi að Kirkjuvogi voru bein flutt frá Kirkjuhöfn í Kirkjuvogsgarð.
Þegar Brynjólfur biskup í Skálholti vísiteraði í Höfnum árið 1642 segir hann að kirkjan í Kirkjuvogi sé að mestu ný, með sex stafgólfum og kapellu inn af. Þá áttu sókn að kirkjunni nokkur stórbýli sem mest hlunnindin höfðu eins og Vogar, Ytri-Njarðvík, Innri-Njarðvík, Narfakot, Merkines, Gálmatjörn, Sandhöfn og Kirkjuhöfn. Þá er þess getið að kirkjan hafi fengið stórar gjafir frá Hákoni Brandssyni, sem gaf kirkjunni læsta kistu, og Erlendi Hjaltasyni sem gaf kaleik og messuklæði.
Brandur Guðmundsson hreppstjóri, sem þá bjó í Kirkjuvogi, ritaði sóknarlýsingu Kirkjuvogssóknar árið 1840 eftir beiðni séra Sigurðar Sívertsen á Útskálum. Brandur var fæddur á Rangárvöllum 1771. Faðir hans var Guðmundur Brandsson, bóndi á Brekku á Rangárvölum, sonarsonur Bjarna Halldórssonar á Víkingalæk. Guðmundur flutti suður að Kirkjuvogi og drukknaði á góu árið 1801. Brandur sonur hans þótti siðavandur, smiður góður og smíðaði fjölda skipa, bæði stór og smá. Hann andaðist í Kirkjuvogi, 74 ára gamall. Gróa Hafliðadóttir hét kona hans, orðlögð fyrir heppni í starfi en hún var ljósmóðir. Gróa lést árið 1855.
kirkjuvogskirkja-224Hákon Vilhjálmsson fæddist í Kotvogi árið 1753, sonur Vilhjálms Hákonarsonar og Ingiríðar Tómasdóttur sem ólst upp í Miðbænum í Kirkjuvogi. Hann var hreppstjóri og hafnsögumaður á Básendum. Hann byggði nýja kirkju í Kirkjuvogi árið 1805 fyrir 239 ríkisdali. Í ofsaveðrinu mikla 1799 þegar Bátsendakaupstað tók af, skemmdist kirkjan í Kotvogi mikið sem líklega hefur orðið til þess að ný kirkja var reist. Hákon gaf nýja söngtöflu í kirkjuna og var fjárhaldsmaður hennar alla sína tíð. Hákon Vilhjálmsson lést 1820. Ketill Jónsson (elsti Ketill í Kotvogi) og Guðni Ólafsson í Merkinesi gáfu kirkjunni nýja prestshempu og hökul af rauðu flaueli með gullnum krossi og knipplingum umhverfis.
Ketill Jónsson sem tók við kirkjunni eftir að Hákon lést, lét endurbæta kirkjuna árin 1844, 1848 og 1851. Hann lét einnig steypa silfurkaleik og gaf kirkjunni til minningar um konu sína, Önnu Jónsdóttur. Árið 1859 afsalar Ketill Jónsson sér kirkjunni til Vilhjálms Hákonarsonar, en Vilhjálmur byggði hana í þeirri mynd sem hún er nú. Tómas faðir Ingigerðar konu Vilhjálms Hákonarsonar byggði Kirkjuvogsbrunninn sem lengi var vatnsból byggðarinnar. Brunnurinn er nú aflagður og búið að fylla hann af grjóti, þó enn sjáist vel hvar hann var.
Kirkjan í Höfnum var annexía frá Útskálum, áður lá hún til Hvalsnesprestakalls. Prófasturinn á Kjalarnesi skoðaði kirkjuna 24. ágúst árið 1862. Þá er byggingu hennar lokið og tekið fram að hún sé öll máluð að innan. Í húsvitjunarbókum frá árinu 1865 sem prófasturinn í Kjalarnesþingi skráði, þegar hann vísiteraði í Höfnum í byrjun septembermánaðar, segir að kirkjan sé í prýðisástandi eins og hirðing hennar til sóma. Þá skuldaði kirkjan 685 ríkisdali sem þótti ekki mikið vegna byggingar hennar því talið er að bygging kirkjunnar hafi kostað 1800 ríkisdali. Stefán Sveinsson á Kalmarstjörn gaf kirkjunni nýja kirkjuklukku. Kaupmaður P. Duus í Keflavík gaf kirkjunni glerhjálm og Vilhjálmur Kristinn Hjálmarsson gaf nýtt altarisklæði, gert af rauðu silkiflosi með gullnum krossi og leggingum, einnig gaf hann hvítan altarisdúk með blúndu í kring. Gjöfin var talin afar höfðingleg og tekið er fram að hún hafi kostað yfir 50 ríkisdali.
kirkjuvogskirkja 222Prófastur endar lýsingu á heimsókn sinni í hið veglega guðshús með því að þakka höfðinglegar gjafir. Þá er tekið fram að sóknarbörn munu taka að sér að halda við hurð og dyraumbúnaði á kirkjunni og sáluhliði. Árið 1866 lét Vilhjálmur byggja kór og fordyri við kirkjuna. Kostnaðurinn við bygginguna varð rúmlega 605 ríkisdalir. Vilhjálmur gaf altaristöfluna sem enn er í kirkjunni og máluð af Sigurði Guðmundssyni málara. Einnig gaf hann kaleik og stærri kirkjuklukkuna og flest það sem kirkjuna vanhagaði um. Vilhjálmur var kirkjuhaldari til dauðadags. Hann andaðist í Kirkjuvogi 20. september 1874. Vilhjálmur hafði tvívegis fengið heiðursmerki, frá Danakonungi árið 1852 fyrir giftusamlega björgun sjómanna, og heiðursmerki frá Napoleon Frakklandskeisara. Danebroksmaður varð hann 1869. Eftirlifandi kona hans, Þórunn Brynjólfsdóttir, tók við kirkjunni og stjórnaði henni af mikilli rausn. Hún greiddi niður skuldir kirkjunnar og stjórnaði öllu með miklum skörungsskap í þrettán ár. Steinunn, dóttir Vilhjálms og Þórunnar, tók við stjóminni af móður sinni til ársins 1890. Steinunn gaf kirkjunni stórfé og varð kirkjan skuldlaus í hennar tíð.
Kirkjuvogskirkju var fyrst þjónað frá Hvalsnesi, síðan Útskálum og frá 1907 frá Grindavíkurprestakalli. Íbúar í Höfnum hafa alltaf verið stoltir af sóknarkirkju sinni og hugsað vel um hana enda er hún ákaflega falleg bygging. Helmingur loftsins er með hvolfþaki sem prýtt er með hundrað og einni stjörnu. Hinn hluti loftsins er með bitum. Kirkjan tekur sjötíu manns í sæti og er með fjórtán bekkjum. Í gegnum árin hafa sóknarbörnin gefið kirkjunni flestar eigur hennar, eins og skírnarfont sem séra Jón Thorarensen gaf, maðurinn sem hefur skrifað mest af öllum mönnum um sögu Hafnanna. Jón var alinn þar upp hjá Hildi Jónsdóttur Thorarensen, föðursystur sinni og manni hennar Katli Ketilssyni (yngsti Ketill) í Kotvogi. Ketill var fæddur á Hvalsnesi en faðir hans átti jörðina og byggði þar tvær kirkjur.
Á kirkjuturninum er járnstöng, efst á henni er plata með fangamarki Vilhjálms Kristins Hákonarsonar og ártalinu 1861. Kirkjan er dökkmáluð með rauðu þaki og hvítmáluðum gluggakörmum, dyraumbúnaði og hurð. Hún stendur á hæð í vel grónu túni. Í kringum hana er vel hirtur garður með hvítri girðingu. Í austurhluta garðsins er leiði þeirra Vilhjálms Kristins Hákonarsonar og Þórunnar Brynjólfsdóttur. Í kringum það eru fagurlega smíðaðar grindur.
Heimildir eru úr Suðumesjaannál, Jarðahók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, Blöndu II, Lýsingum Skúla Magnússonar á Gullbringu- og Kjósarsýslu og viðtal við Borgar Jónsson í Höfnum.”

Heimild:
-Dagur 18. desember 1999, bls. 1 og 3.
Hafnir

Keflavík

Gengið var frá höfninni í Keflavík neðan við Stekkjarhamar sunnan Vatnsness yfir að Grófinni, fæðingarbletti hins gamla bæjarhluta og rót byggðarinnar norðan Njarðvíkur.

Keflavíkurhöfn

Keflavíkurhöfn – 1959-1960.

Mikil verslun var stunduð í Keflavík sem gerði hana með tímanum að stærsta þorpinu á Suðurnesjum. Höfuðstaður svæðisins var þó eftir sem áður í Grindavík á sunnanverðu nesinu þar sem fólkið átti sér lengri undangenginn uppruna og betri samsvörun með landinu. Í Keflavík vann fólkið aðallega við sjósókn og fiskveiðar, líkt og í Grindavík þar sem fólkið þekkti auk þess menningu í raun, en faldi hana þó lengst af fyrir öðrum – undir steini. Menningin í Keflavík var af öðrum toga. Hún var lengi vel að mestu tengd versluninni og staupgjafmildi kaupmanna, en síðar barst hún niður í byggðalagið með öldum ljósvakans yfir girðingu umleikis Háaleiti.

Keflavík

Keflavík – Norðfjörðsverslunin.

Rekja má verslunarsögu Keflavíkur allt til upphafs 16. aldar og er vitað um þýska kaupmenn þar árið 1518. Undir lok 16. aldar komu Hamborgarkaupmenn til Keflavíkur en þegar Danir settu einokunarverslunina á 1602 féll Keflavík í hendur Kaupmannahafnarkaupmönnum. Þessi dönsku áhrif í verslun í bænum héldust svo alveg fram á 20. öld, þó svo að einokunarverslunin hafi um síðir liðið undir lok. Sjósókn var þar jafnan mikil, einkum eftir árið 1800 og þegar fyrsti vélbáturinn var keyptur 1907 markaði það tímamót í þróun staðarins.
Keflavíkurhreppur var stofnaður 1908 og þann 22. mars 1949 fékk Keflavík kaupstaðaréttindi.

Vatnsnesviti

Vatnsnesviti.

Frá því að Keflavík varð kaupstaður hefur hann verið stærsti kaupstaðurinn á Reykjanesinu. Afkoma bæjarins byggist enn nokkuð á sjósókn og vinnslu sjávarafla en einnig á margvíslegri þjónustu ekki síst í tengslum við Keflavíkurflugvöll, en vægi fiskvinnslu og útgerðar er ekki mikið í atvinnulífi bæjarins í dag.
Keflvíkingar voru mjög framarlega í saltfiskvinnslu og í byrjun 9. áratugarins var Keflavíkurhöfn önnur mesta útflutningshöfn sjávarafurða landsins. En í kjölfar kvótakerfisins fór að síga á ógæfuhliðina í þessari undirstöðuatvinnugrein á svæðinu og hefur bátum fækkað og flest fiskvinnslu- og frystihús hætt störfum.
Sjósókn Suðurnesjamanna á sér langa sögu. Frá Keflavík, Garði, Leiru, Njarðvíkum og Ströndinni var lengst af gert út fremur litla báta, tveggja manna för, fer- og sexæringa, og sóttu þeir mest í Garð- eða Leirusjó. Verslunin H.P. Duus í Keflavík keypti fyrstu skútuna til staðarins árið 1898, en útgerð hennar, og fleiri skipa sem verslunin eignaðist, var að mestu flutt til Reykjavíkur. Vélbátaútgerðin varð fljótlega mun mikilvægari fyrir Keflavík, en fyrsti vélbáturinn, Júlíus, var keyptur til staðarins frá Borgundarhólmi árið 1908, og frá árinu 1910 stækkaði flotinn ört.
Fyrir 1920 komu fáar nýjunar fram í fiskverkuninni, og mestallur afli sem átti að selja var saltaður og sólþurrkaður. Útvegsbændur lögðu fiskinn inn hjá kaupmönnum á ýmsum verkunarstigum.

KeflavíkÍ Lesbók Morgunblaðsins, 23. ágúst 2003 er grein um “Hugsunarlaust örlæti hafsins”. Í henni segir m.a. að “Íslendingar hafa átt í aldalöngu, óttablöndnu ástarsambandi við sjóinn. Öldum saman hafði þjóðin framfæri sitt aðallega af jörðinni, hún var bændaþjóð, svo að sjósókn skipti ekki miklu máli fyrir afkomu landsmanna. Bændur reru sumir til fiskjar handa sjálfum sér, en bátar þeirra voru jafnan litlir og leyfðu þeim ekki að róa langt frá landi. Þegar fram liðu stundir, stækkuðu bátarnir og sjósókn efldist verulega og varð sums staðar að álitlegri aukabúgrein meðfram ströndum landsins. Þó urðu ekki umtalsverð brögð að bátaútgerð fyrr en um miðja 19. öld; orðið útvegsbóndi birtist ekki á prenti fyrr en þá. Um þær mundir var vistarbandið enn við lýði. Bændur gátu beitt vinnuhjú sín hörðu og gerðu það margir, enda áttu þau ekki í önnur hús að venda. Vinnumenn voru gerðir út til fiskjar á opnum bátum og beinlínis sendir út í opinn dauðann í stórum stíl. Mannfallið var gríðarlegt: staðtölur sýna, að tíunda hverju karlmannslífi lauk með drukknun talsvert fram eftir öldinni sem leið”.

Keflavíkurhöfn

Keflavíkurhöfn fyrrum.

Halldór Laxness skrifaði magnaða ritgerð um málið lýðveldisárið 1944 og nefndi hana ,,Hvert á að senda reikninginn?” Þar lýsir hann því, hversu ,,mannfólkinu er kastað í sjóinn gegndarlaust eins og ónýtu rusli. Þessi sóun mannslífa er talin nokkurs konar sjálfsagður skattur, sem þjóðin greiðir útgerðinni.” Hann heldur áfram: ,,Upp og ofan er heimsstyrjöld meinlaust grín hjá því að veiða fisk á Íslandi. Hvern er verið að afsaka og fyrir hverjum að hræsna með því að prýða þessa sóun mannslífa með heitinu ,,fórn” og öðrum hátíðlegum nöfnum? Væri ekki nær að spyrja: Hvar er morðinginn?”

KeflavíkSjósókn á vondum bátum hjó djúp skörð í þjóðlífið. Þess voru ófá dæmi, að feður færu í sjóinn með fullorðnum sonum sínum og skildu ekkjurnar eftir með lítil börn. Það kom fyrir, að sjávarpláss misstu flestar fyrirvinnur sínar í einni og sömu sjóferðinni. Eigi að síður héldu menn áfram að æða til sjós í óhæfum bátum.
Hvers vegna? Ætli skýringin sé ekki sú, að menn þekktu ekki annað. Þessum ósið – að halda til hafs á ófærum bátum – var í fyrstu þröngvað upp á ófrjálsa vinnumenn í krafti vistarbandsins. Mannfallið komst í vana. Og þegar vinnumenn voru loksins orðnir frjálsir að því að velja sér búsetu og verkveitendur á eigin spýtur og vélbátar höfðu leyst skúturnar af hólmi, þá var ósiðurinn búinn að taka sér bólfestu í vinnumenningunni og þjóðarsálinni, nokkurn veginn eins og drykkjuskapur, skuldasöfnun og slagsmál á okkar dögum.

Keflavík

Fiskvinnsla í Keflavík fyrrum.

Sjávarútvegur átti drjúgan þátt í umsköpun íslenzks samfélags á öldinni sem leið, enda þótt forsenda framsóknarinnar í efnahagslífinu væri aukin verkmenning og menntun og fiskivæðing landsbyggðarinnar hæfist ekki fyrir alvöru fyrr en eftir 1970. Fram að þeim tíma var Reykjavík helzti útgerðarstaður landsins. Gjafir náttúrunnar geta þó reynzt vera blendin blessun. Ofveiði á tækniöld sýnir að örlæti getur snúist upp í andhverfu sína. Mikið mannfall við sjósókn á sinni tíð ýtti undir umburðarlyndi gagnvart þessum atvinnuvegi. Slíkt var hugsunarlaust örlæti hafsins.”
Gengið var framhjá Vatnsnesvita, en hann var byggður 1922 og mun vera 89 metra hár.

KeflavíkÞegar komið var að Stokkavör var rifjuð upp lýsing þess er Hallgrímur Pétursson steig þar á land 1637 ásamt nokkrum öðrum þeim, sem leystir höfðu verið úr haldi Tyrkjanna, þ.á.m. Guðríði Símonardóttur. Þar er og minnismerki um sjómenn þá, sem fórust í lendingu við Stokkavör 6. apríl árið 1930. Þegar komið var að Grófinni voru þátttakendur komnir með saltbragð í munninn og búnir að fá nokkuð góða tilfinningu fyrir aðstæðum sjómanna fyrr á öldum, þótt ekki hafi verið fjallað um verklagið eða fiskvinnsluna að þessu sinni.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Heimildir m.a. :
-Lesbók Morgunblaðsins, 23. ágúst 2003.
-Saga Íslands á 20. öld eftir Helga Skúla Kjartansson.
-Saga Keflavíkur, Bjarni Guðmarsson.

Keflavík

Saga Keflavíkur.

Helguvík

Gengið var upp á Keflavíkurbjarg norðan við Grófina og síðan sem leið lá yfir og framhjá Helguvík, yfir á Hólmsberg og að Stakksnípu. Þar undir er kletturinn Stakkur í sjónum, en af honum dregur fjörðurinn nafn sitt. Þjóðsaga tengist klettinum. Þá var gengið áfram til norðurs eftir bjarginu þangað til komið var að Helguvík.

Keflavíkurberg

Vatnsskál á Keflavíkurbergi.

Fremst á berginu, eftir að skoðaðir höfðu verið drykkjarsteinn og handgerður brunnur, tóftir og Stekkjarlág, fyrrum samkomustaður Keflvíkinga, var komið að Brennunípu. Líklegt er að nafnið sé tilkomið líkt og önnur brenninefni, s.s. Brennuhóll og Brenna, en slíkir staðir eru venjulega gegnt gömlum innsiglingum við varir eða lendingar. Kveikt var í bálkesti á þessum hólum þegar farið var að rökkva eða myrkur var skollið á til að leiðbeina þeim, sem enn voru á sjó og voru að róa í land, réttu leiðina. Einnig stærri skipum, sem enn var von á af hafi, við sömu aðstæður.
Stakksfjörður, sem er hafssvæðið utan við bergið (bergin), er breiður og djúpur fjörður sem gengur til suðurs úr Faxaflóa og afmarkast að austan af Keilisnesi á Vatnsleysuströnd en af Stakksnípu í Hólmsbergi að vestan.

Stakkur

Hellunef er skammt norðar. Þar eru mörk hinnar gömlu Keflavíkur. Náðu mörkin til suðurs að Stekkjarhamri þar sem Ytri-Njarðvík tók við. Gengið var áfram til norðurs á bjarginu, að Helguvík. Hún er lítil hamravík þar sem nú er ætlunin að byggja upp blómlegt atvinnulíf í kringum stórskipahöfn, loðnubræðslu, loðnuflokkunarstöð, sementssölu, steypustöð og malbikunarstöð. Til stendur að fjölga enn stórum fyrirtækjum í Helguvík. Víkin var áður falleg hömrum girt náttúruvík, sniðin af eðlilegum ástæðum, en nú er hún dæmi um niðurbrotna hugmyndastefnu.

Hólmsbergsviti

Stakksnípuviti.

Norðan við Helguvíkina tekur Hólmsbergið við. Syðst á því er Stakknsípa. Undir henni er klettadrangurinn Stakkur. Viti er á Stakksnípu, reistur 1958. Stakksfjörður dregur nafn af Stakki.
Í þjóðsögunni af Rauðhöfða, sem gerast á í fornöld, segir m.a. að löngum aðdraganda gegnum er gerist á Hvalsnesi og varðar afleiðingar hans í samskiptum við álfkonu í Geirfuglaskeri, að hann tók undir eins á rás og æddi sem vitstola norður eftir þangað til hann kom fram á Hólmsberg, en berg það er fram við sjó, býsna hátt og þverhnípt. Þegar hann kom fram á bergsbrúnina staldraði hann við.

Keflavíkurberg

Keflavíkurberg – Stekkjalág.

Varð hann þá allt í einu svo stór og þrútinn að bergið sprakk undir fótum honum og hljóp fram klettur mikill úr hamrinum. Stakkst maðurinn þar fram af í sjóinn og varð í sama augnabragði að feikilega stórum hvalfiski með rauðan haus því maðurinn hafði haft rauða húfu eða hettu á höfðinu þegar hann brást í hvalslíkið. Af þessu var hann síðan kallaður Rauðhöfði. En kletturinn sem fram hljóp með hann í sjóinn stendur enn fram í sjónum austarlega undir Keflavíkurbergi og er kallaður Stakkur. Eftirmálar af sögunni urðu síðan í Hvalfirði.
Önnur saga segir að þegar upp komust svik mannsins varð hann óður og steypti sér í sjóinn og breyttist í hrosshveli og kölluðu menn hann Faxa. Af því nafni dregur Faxaflói nafn sitt

Keflavíkurborg

Keflavíkurborg.

Í enn annarri frásögn segir að er upp komast svik mannsins, er hér nefnist Helgi, segir hann allt af létta og fer síðan inn þvera heiði og fram af Hólmsbergi. Um leið og hann stakk sér féll úr berginu klettur og er hann hér um 100 faðma fyrir framan bergið og heitir Stakkurinn til þessa dags.
Gangan endaði að þessu sinni við við vitann á Hellisnípu. Þar undir að norðanverðu er Selvík. Hægt er að ganga niður í víkina og er hún hin fallegasta – í góðu verði.
Ofan Grófarinnar er Keflavíkurborg, gömul fjárborg við Sandgerðisveginn fyrrum.
Í rauninni er þetta svæði ein hin dýrmætasta útivistarperla Keflvíkinga, en of fáir þeirra virðast því miður gera sér grein fyrir því. Fjölmargt er að skoða á annars ekki lengri leið.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a.:
-http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=226
-Jón Árnason I 82.

Keflavíkurberg

Brunnur á Keflavíkurbergi.

Hafnir

Sveitarfélögin Keflavík, Njarðvík og Hafnir runnu saman í eitt sveitarfélag og nefnast nú einu nafni Reykjanesbær. Byggð í Keflavík og Njarðvík hefur lengi legið saman og voru bæjarmörk ekki ljós, nema tekið væri eftir skiltum við vegarbrúnir, sem gáfu þau til kynna.

Keflavík

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; varnargarður.

Mikil verslun var stunduð í Keflavík sem gerði hana að stærsta þorpinu á Suðurnesjum. Má rekja verslunarsögu Keflavíkur allt til upphafs 16. aldar og er vitað um þýska kaupmenn þar árið 1518. Undir lok 16. aldar komu Hamborgarkaupmenn til Keflavíkur en þegar Danir settu einokunarverslunina á 1602 féll Keflavík í hendur Kaupmannahafnar. Þessi dönsku áhrif í verslun í bænum héldust svo alveg fram á 20. öld, þó svo að Einokunarverslunin hafi um síðir liðið undir lok.
Þekktasti kaupmaðurinn á árum áður var H. P. Duus og stendur enn hluti af húsum hans, svokölluð Duushús. Þar er nú mjög góður veitingastaður við smábátahöfnina með bergið andstpænis upplýst, þegar dimma tekur á kvöldin. Mikil útgerð og öflug fiskvinnsla var í Keflavík um áraraðir en nú er þjónusta og iðnaður burðarás atvinnulífs staðarins. Keflavík er nú hluti af sameinuðu sveitarfélagi, Reykjanesbæ.

Keflavík

Gamli Keflavíkurbærinn.

Ekki er vitað hvenær byggð hófst í Keflavík en fyrstu vitneskju um að byggð sé þar er að finna í annálum, þar sem segir frá Grími Bergssyni, sem vað þar bráðkvaddur árið 1649, en hann bjó þá í Ytri-Njarðvík. Talið er að verzlun hafi verið í Keflavík frá því um 1500, en árið 1518 er talað um þýzka kaupmenn þar. Hansarkaupmenn settust þar að 1579 og sama ár gaf Danakonungur út fyrsta verzlunarleyfið fyrir staðinn.
Við upphaf einokunarverslunar á Íslandi árið 1602 var kaupmönnum í Kaupmannahöfn afhent Keflavík og mynduðu þeir samlög um verzlunina. Fyrsti togarinn var keyptur til Keflavíkur árið 1944. Hét hann Hafsteinn. Hann var gerður út frá Hafnarfirði, vegna slæmra hafnarskilyrða í Keflavík.

Gamlabúð

“Bryggjuhúsið fékk nýtt hlutverk eftir að nýjir eig. tóku við Duus-eigninni 1920. Þurrkun saltfisks hófst þar (um 1930?) og þá var reikst ketilshús úr steypu sunnan við, hvítt að lit. Húsið var brotið nál. 1969 – 1970. Myndin tekin eftir lagningu Vesturbrautar nálagt 1941. Skífur úr steini á þaki gömlu búðar og bryggjuhúss. Skífur af bryggjuhúsi rafnar af og fleygt niður í fjöruna líkl.1968-1970 þegar ketilhúsið var rifið og þakið járnklætt í fyrsta sinn.”

Fyrsta íshúsið var byggt árið 1897 og fyrsta frystihúsið 1929.

Hröð aukning hefur verið í ferðaþjónustu og eru þar nú hótel í háum gæðaflokki og úrvals veitingastaðir sem og önnur gisting og tjaldsvæði. Keflavík hefur löngum verið nefndur bítlabærinn en þar má segja að sé vagga rokksins og bítlaæðisins hérlendis. Ein fyrsta, og vinsælasta, rokkhljómsveit landsins, Hljómar, var stofnuð í Keflavík og er ávallt kennd við staðinn. Hin árlega Ljósanótt í Reykjanesbæ nýtur sívaxandi vinsælda.
Keflavíkurhreppur var stofnaður 1908 og þann 22. mars 1949 fékk Keflavík kaupstaðaréttindi.

Stjáni blái

Verk Erlings Jónssonar keypt og sett upp í tilefni 40 ára afmælis Keflavíkurkaupstaðar árið 1989.
Það var frú Vigdís Finnbogadóttir forseti Íslands sem afhjúpaði verkið 1. apríl þetta sama ár. Kvæði Arnar Arnarsonar um Stjána bláa varð höfundi listaverksins tilefni til hugleiðinga, sbr. „austur af sól og suður af mána, sýður á keipum himinlind.”

Í Keflavík má m.a. sjá minnismerki um Stjána blá, eftir Erling Jónsson. Við Vatnsnes er samnefnt hús í eigu Byggðasafnsins. Bjarnfríður Sigurðardóttir gaf húseigina til eflingar safns á svæðinu og þar innan dyra er nú nokkuð hefðbundið byggðasafn með margvíslegum gripum. Gamli skólinn hýsir nú Miðstöð símenntunarr á Suðurnesjum. Við bygginguna er listaverkið Laxnesfjöðurin eftir Erling Jónsson. Í skrúðgarðinum er sérstakur skúlptúr er kallast “Hvorki fugl né fiskur”, eftir Erling Jónsson, þar sem greipt eru nöfn þeirra sem hafa hlotið menningarverðlaun Reykjanesbæjar.

Við Hafnargötuna er minnismerki íslenskra sjómanna eftir Ásmund Seinsson. Beint upp af minnismerkinu er Keflavíkurkirkja, vígð árið 1915. Rögnvaldur Ólafsson teiknaði hana. Við enda Hafnargötunnar er Grófin og jafnframt elsti hluti Keflavíkur. Hér má sjá nokkur merkileg hús. Fyrst er að telja hús byggt 1971, sem hlotið hefur nafnið Svarta Pakkhúsið. Það er skýrt í höfuðið á enn eldra húsi, sem var á þessum slóðum og minnir á þá tíð þegar pakkhús og bryggjur kaupmannanna í Keflavík einkenndu víkina auk stakkstæða til saltfiskþurrkunnar.
Leifar síðustu bryggjunnar má enn sjá beint framundan, og heitir sú bryggja Miðbryggja. Næst er svokallað Fischerhús, sem reist var árið 1881, sem verslunar- og íbúðarhús Fischers kaupmanns. Á hluta fyrstu hæðar hefur hópur handverksfólks hreiðrað um sig og rekur þar Galerý Björg.

Keflavík

Keflavík – listaverk.

Handan götunnar er lítið hús sem kallast Gamla búð, sem byggð var árið 1871 af Duus kaupmanni. Þar beint á móti er síðan Duushúsalengjan. Bryggjuhúsið var fyrst reist 1877 af sama manni, Bíósalurinn er byggður við og reistur 1890, en sagnir erum að þat hafi verið bíósýningar þegar um aldamót. Síðan er byggt við þessi hús upp úr 1950 þrjár einingar sem fiskverkunarhús. Búið er að gera upp tvær þeirra og eru þetta nú sýningarsalir.
Ofan við Duushúsin eru tóftir gamla Keflavíkurbæjarins. Jörðin Keflavík var konungseign, en var rýr bújörð og búskapur á jörðinni var alltaf smár. Upphaflega mun jörð þessi eða kot hafa verið í eigu Skálholtsstóls. Við siðaskiptin um 1550 verður hún eign konungsins eins og aðrar jarðir biskupsstóls.

Keflavík

Upplýsingaskilti við gamla Keflavíkurbæinn.

Ekki er vitað hvenær búskapur hefst í Keflavík, en hann er örugglega hafinn á 16. öld því árið 1587 greiðir bóndinn landsskuld sína til Bessastaða. Kvaðir á bóndann áttu að vera mannslán til Bessastaðavaldins, en féll niður, vegna bónar kaupmannsins í Keflavík, fyrir vöktun búðanna. Búskapur á jörðinni leggst niður fyrir 1780. Bæjarhúsin voru jöfnuð út rétt fyrir aldamótin 1900.

Í landi jarðarinnar eru eftirtaldar minjar friðlýstar ákvörðun þjóðminjavarðar árið 1987: Hið gamla bæjarstæði jarðarinnar Keflavík, sem afmarkast af Grófinni að norðan, af Duusgötu og lóð Duusgötu 5 að austan, af Vesturbraut að sunnan og lóðunum Vesturbraut 6 og Grófinni 5 að vestan. Ber eigendum að sjá til þess að ábúanda sé jafnan kunnugt um friðlýsinguna.
Fjölmörgu öðru má geta um Keflavík fyrrum, sem síðar verður lýst á vefnum.

Keflavík

Frá Keflavík fyrrum.

Keflavík byggðist upp við Grófina. Upp frá henni liggja gamlar leiðir til nágrannabyggðalaganna vestan og norðan á Nesinu. Ofan við Grófina er Keflavíkurborgin og Rósasel við Rósaselsvötn.
Sorphirðustöð Reykjanesbæjar heitir Kalka eftir kalkaðri vörðu, sem stóð utan í stórum fallegum eldgíg efst á Háaleiti. Þegar Keflavíkurflugvöllur var lagður var gígurinn flattur út, líkt og svo margt annað á þeim tíma.

Njarðvík

Njarðvík

Frá Innri-Njarðvík.

Njarðvík var fyrrum hluti af Vatnsleysustrandarhreppi en fékk sjálfstæði sem sveitarfélag 1889. 1908 rann Keflavík saman við Njarðvík undir merkjum Keflavíkurhrepps en Njarðvíkingar klufu sig frá á ný 1942 og tóku á ný að starfa sem sjálfstætt sveitarfélag og fékk Njarðvík kaupstaðarréttindi 1. jan 1976.

Njarðvík

Minnismerki um Thorkelli í Innri-Njarðvík.

Sveitarfélögin Njarðvík, Keflavík og Hafnir runnu saman í eitt sveitarfélag og nefnast nú einu nafni Reykjanesbær. Njarðvík var áður skipt í Innri- og Ytri Njarðvík, sem seinna mynduðu eitt sveitarfélag. Byggðin í Njarðvík og Keflavík hefur lengi legið saman og voru bæjarmörk ekki sjáanleg nema tekið væri eftir skiltum við vegarbrúnir, sem gáfu það til kynna. Aðalatvinnuvegur Njarðvíkinga hefur löngum verið sjósókn og fiskvinnsla en iðnaður hefur vaxið mjög sem og þjónusta við Keflavíkurflugvöll, stærsta flugvöll á landinu. Njarðvík er breið vík sem gengur til suðurs úr Stakksfirði. Byggðin í Njarðvík skiptist í Ytri – og Innri-Njarðvík. Ekki er ljóst hvenær sú skipting varð en það var snemma á öldum.

Njarðvíkurkirkja

Innri-Njarðvíkurkirkja.

Talið er að kirkja hafi verið reist í Njarðvík á 11. öld. Eftir það var víkin kölluð Kirkju-Njarðvík.
Fram til 1515 var Njarðvík í bændaeign en eftir það í eigu konungs að minnsta kosti til loka 18. aldar. Sveinbjörn Egilsson rektor bjó í Innri-Njarðvík. Fram til 1889 var Njarðvík hluti Vatnsleysustrandahrepps, en varð þá sjálfstætt sveitarfélag.
Árið 1908 var Njarðvíkurhreppur sameinaður Keflavíkurkauptúni, enda var þar hluti verzlunarlóðar Keflavíkur innan Njarðvíkurhrepps. Njarðvíkurnar fengu þá sjálfkrafa verzlunarréttindi og hreppurinn fékk nafnið Keflavíkurhreppur. Árið 1942 var hreppunum skipt og Njarðvík varð aftur sjálfstætt sveitarfélag. Í Njarðvík er byggðasafn staðarins og þar hefur þurrabúðin Stekkjarkot verið endurbyggð.

Bolafótur

Bolafótur í Njarðvík – bústaður Hallgríms Péturssonar.

Hallgrímur Pétursson, prestur í Hvalsnesi, bjó um tíma á Bolafæti þar sem nú er skipasmíðastöðin. Öllum minjum þar hefur verið spillt. Í Reykjanesbæ er mikil körfuboltaiðkun og lið Njarðvíkinga er talið eitt hið bezta á landinu og keppir nær alltaf um Íslandsmeitaratitilinn, oftast við sveitunga sína frá Keflavík og Grindavík. Ferðaþjónusta er mjög vaxandi og stærsta verzlun á Suðurnesjum er í Njarðvík. Vegalengdin frá Reykjavík er 47 km.

Stekkjarkot

Stekkjarkot.

Stekkjarkot er tilgátuhús, byggt eftir tilsögn konu, sem bjó þar í kringum 1920. En kotið er að stofninum til frá 19. Öld. Þetta er eitt af hinum fjölmörgu smákotum, sjávarbýlum, sem einkenndu byggðina hér áður fyrr. Kotbúar lifðu aðallega á sjósókn sinni, en flestir stunduðu einhvern búskap samhliða þótt eflaust hafi einnig verið svokallaðar þurrabúðir þar sem eingöngu var lifað af því sem sjórinn gaf.
Fitjarnar eru að ganga í gegnum umbreytingu þar sem stefnt er að gera þær aðlaðandi til útivistar og í framtíðinni mun Naust Íslendings rísa á þessum slóðum. En það er stefna bæjaryfirvalda að þessi staður verði fyrsti og síðasti viðkomustaður ferðamanna sem fara um leifsstöð.

Hafnir

Kotvogur

FERLIRsfélagar á ferð í Höfnum.

Hafnir byggðust upp í kringum mikið útræði. Hefur byggðin nafn sitt af tveimur fyrrum stórbýlum, Sandhöfn og Kirkjuhöfn, sem nú eru í eyði. Var fjölmenn byggð í Höfnum og útræði mikið á stórum bátum allt fram til aldamótanna 1900.
Hafnir, Keflavík og Njarðvík runnu saman í eitt sveitarfélag og nefnast nú einu nafni Reykjanesbær. Hafnir eru annað landstærsta sveitarfélagið á Reykjanesi en byggð þar er fámenn nú miðað við það sem áður var. Árið 1881 (26. júní) rak timburskip, Jamestown, upp við við Hvalsnes á milli Hestakletts og Þórshafnar í Ósunum gegnt Kotvogi (sjá nánar). Það var mannlaust og virtist hafa verið lengi á reki, því að reiði og seglbúnaður var horfinn.

Gömlu Hafnir

Gömlu Hafnir.

Fjölmargir húsbyggjendur á Suðvesturlandi nutu góðs af timburfarmi skipsins (sjá Sandgerði) og akkeri skipsins er nú varðveitt framan við fyrrum sæfiskasafn í Höfnum við Nesveg.
Hafnaberg er suður af Höfnum og er þar skemmtileg og vel vörðuð gönguleið en þar eru nokkrir af beztu stöðum til fuglaskoðunar á landinu. Frá Hafnabergi má einnig oft sjá smáhveli í ætisleit rétt við landsteina.

Kirkjuvogshverfið nefnist Hafnir í daglegu tali en þar hafa búið 80-120 manns sl. 2 áratugi. Fyrr á öldum voru Hafnir ein af stærstu verstöðvum landsins en þær eru samheiti fyrir 3 hverfi (lendingar), þ.e. Kalmanstjörn, Merkines og Kirkjuvog. Nú er byggðin öll í gamla Kirkjuvogshverfinu auk íbúðarhúss í Merkinesi og í Junkaragerði.
Á 19. öld var Kotvogur í Höfnum eitt stærsta býli landsins. Þar bjuggu m.a. 3 forríkir útvegsbændur mann fram af manni, þeir hétu allir Ketill og eru oftast nefndir Katlarnir þrír.

Kotvogur

Kotvogur og Kirkjuvogur.

Annað stórbýli var Kirkjuvogur í Höfnum þar sem búið hafa margir höfðingjar. Á 19. öldinni bjó í Kirkjuvogi dannebrogsmaðurinn Wilhjálmur (Christinn) Hákonarson (1812-1871), en þannig er nafn hans stafað á leiði hans í Kirkjuvogskirkjugarði. Vilhjálmur átti 2 dætur. Önnur þeirra hét Anna. Heimiliskennari í Kirkjuvogi var þá ungur menntamaður, Oddur V. Gíslason, og felldu þau Anna hugi saman. Þegar ungi maðurinn bað um hönd dótturinnar brást faðir hennar hinn versti við og þvertók fyrir ráðahaginn. Afleiðingin varð eitt frægasta og æsilegasta brúðarrán Íslandssögunnar. Sættir tókust þó síðar. Oddur varð prestur í Grindavík við mikinn orðstír og var m.a. upphafsmaður að sjóslysavörnum á Íslandi. Af honum er mikil saga sem endar í Bandaríkjunum.

Kirkjuvogskirkja

Kirkjuvogskirkja 1960.

Vilhjálmur Kr. Hákonarson reisti þá kirkju sem nú stendur í Höfnum. Hún er úr timbri og var vígð árið 1861. Vilhjálmur lést 10 árum seinna 59 ára að aldri. Ekkert er eftir af Kirkjuvogsbænum en kirkjan stendur nánast á bæjarhlaðinu enda nefnist hún Kirkjuvogskirkja og sóknin Kirkjuvogssókn. Ketill Ketilsson (1823-1902) dannebrogsmaður og útvegsbóndi í Kotvogi, stundum nefndur Mið-Ketill vegna þess að hann tók við búi af föður sínum og Ketill sonur hans tók svo við búi af honum, hefur ekki viljað vera minni maður en Vilhjálmur í Kirkjuvogi og byggði kirkju úr timbri á Hvalsnesi í Miðneshreppi, en þá jörð átti hann. Kirkjuna lét hann síðar rífa og byggja aðra stærri og íburðarmeiri úr tilhöggnu grjóti. Sú kirkja var vígð 1887 og stendur enn.

Hafnir

Kirkjuvogur 1873.

Sem dæmi um stærð Kotvogs á dögum Mið-Ketils á 19. öld má nefna að þá var bærinn alls 16 hús og mörg þeirra stór, 38 hurðir á lömum og 72 í heimili á vertíðinni. Bærinn í Kotvogi var enn reisulegur og stór um aldamótin 1899/1900. Hinn 3. apríl 1939 brann íbúðarhúsið og fórst þrennt í brunanum. Pakkhús úr timbri var austast og fjærst eldinum og skemmdist því ekki . Því var breytt í íbúðarhús og notað sem slíkt til 1984. Það stendur enn ásamt nokkrum útihúsum en allt er það illa farið og ekki svipur hjá sjón (stendur á kampinum strax vestan við Sæfiskasafnið). Stór grasi vaxinn hóll rétt hjá Kotvogi hægra megin götunnar þegar horft er í vestur nefnist Virkishóll.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – kort.

Gamli Hafnahreppur var stærsta sveitarfélagið á Suðurnesjum mælt í ferkílómetrum – víðáttumikil hraunúfin flatneskja og sandflæmi að stórum hluta. Nyrðri hluti landsins er nokkuð gróið hraun en syðri hlutinn eldbrunnið, uppblásið og hrikalegt svæði. Strandlengjan er einn stærsti skipalegstaður landsins, hrikalegir klettar, sker og boðar þar sem þung úthafsaldan myndar oft tilkomumikið og rosalegt brim.

Á sl. 25 árum hefur hraunið ofan við Hafnir tekið stakkaskiptum vegna aukins grasvaxtar sem er árangur landgræðslu sem stunduð hefur verið með flugvélum á Reykjanesskaganum auk þess sem sáð hefur verið í vegkanta af starfsmönnum Vegagerðar ríkisins. Í hrauninu upp af Ósum má enn sjá leifar landgræðslugirðingar sem mun hafa verið lokið við um 1939 en hún skipti Reykjanesskaganum í 2 svæði. Girðingin lá eftir hrauninu og niður í Merkinesvör og hefur verið mikið mannvirki á sínum tíma. Sunnan hennar var sauðfé bannað. Síðar var svæðið stækkað með því að sett var horn á girðinguna uppi í hrauninu og girt norður að Ósum og sá hluti girðingarinnar sem lá fram í sjó að vestanverðu var lagður niður.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; fiskbyrgi.

Mikið og fjölbreytt fuglalíf er í hrauninu, m.a. talsvert af rjúpu í góðum árum, talsvert af kjóa og einstaka smyrill. Nokkuð er um æðarfugl við Ósa en æðarvarp er ekki svipur hjá sjón eftir að minnkurinn kom á svæðið. Mikið er um sjófugl og mest byggð í Hafnabergi og Eldey.
Hafnir eru eitt af mestu veðravítum landsins og þar er sjaldan logn. Hvöss austanátt með rigningu getur staðið svo dögum og vikum skiptir, einkum á haustin og eirir engu sökum vindálags. Oft bresta stórviðri á fyrirvaralaust eins og hendi sé veifað. Mest og hættulegust veður nefna Hafnamenn ,,aftakastórveltu af suðvestri” (í einni slíkri eyðulögðust tún að vestanverðu í Kirkjuvogshverfi og í Merkinesi). Hríðarbyljir og skafrenningur eru algengir að vetri – snjói á annað borð. Og þótt ekki séu nema 9 km frá Höfnum til Njarðvíkna er veðurfar gjörólíkt.
Kirkjuvogskirkja í Höfnum var vígð 1861. Á túninu fyrir aftan kirkjuna hafa nú fyrir skömmu fundist elstu mannvistarleifar bæjarfélagsins. Það er skáli (íbúðarhús). Við aldursgreiningu kom í ljós að skálinn er ekki yngri en frá árinu 900.

Kirkjuvogskirkja

Kirkjuvogskirkja.

Nýr uppbyggður vegur var lagður frá Höfnum út á Reykjanes um miðjan 9. áratug nýliðinnar aldar. Það tekur einungis um 10 mínútur að ganga yfir holtið frá bílastæðinu ofan Laxeldisstöðvarinnar og niður á gamla veginn skammt sunnan Kalmanstjarnartúns. Af gamla veginum þar sjást 5 áberandi stórir grasi vaxnir hólar. Þessir hólar koma við sögu í bókum Sr. Jóns Thorarensens, (Litla skinnið, Rauðskinna, Marína ofl.) en sögusvið þeirra er Hafnir (Jón var ættaður og ólst upp í Kotvogi). Nyrstur og næst Kalmanstjörn er Stekkhóll hægra megin vegarins. Annar stærri hóll er sunnar, einnig hægra megin vegarins. Sá heitir Kirkjuhafnarhóll. Vinstra megin vegarins er lægri hóll og sést garðhleðsla í jöðrum hans að norðan- og austanverðu. Þetta er talinn vera gamall kirkjugarður Kirkjuhafnar og mun hann hafa lagst af um miðja 14. öld. Suðvestan Kirkjuhafnarhóls, nær sjó, eru 2 graxi vaxnir hólar og eru sýnilegar rústir í syðri hólnum. Hólarnir nefnast Sandhafnarhólar. Sandhöfn og Kirkjuhöfn voru fyrr á öldum þekkt stórbýli og helsta útræði í Höfnum. Talið er að býlin hafi farið í eyði á 17. öld.

Kotvogur

Kotvogur.

Til eru heimildir um stærð Kirkjuhafnar sem segja að þar hafi verið miklar byggingar, m.a. 50 hurðir á hjörum, en sá mælikvarði var algengur áður. Umhverfis Sandhafnarhóla, en þar munu hús einnig hafa verið mörg og stór, eru bæði hleðslur og rústir.
Mikill útvegur var frá Höfnum. Fjöldi vermanna kom víðs vegar að af landinu á vetrarvertíð, sem hófst snemma árs á hverju ári um aldir. Verstöðvarnar voru fjölmargar á svæðinu öllu, en þar skipti mestu máli nálægðin við hin gjöfulu fiskimið.
Hafnahreppi er að venju skipt í þrjú svæði; Kirkjuvogshverfið, Merkineshverfið og Kalmannstjarnarhverfið. Sú skiptin markast af gömlu lögbýlunum. Þeim fylgdi síðan fjöldi hjáleiga, sem sumar hverjar áttu stutta lífdaga, en aðrar uxu höfuðbýlinu yfir höfuð, eins og t.d. Kotvogur. Það var talið fullvíst að lögbýlin hafi verið fleiri, enda mörg örnefni sem benda til þess að svo hafi verið. En með Reykjaneseldum á 13. öld eyddist byggðin sunnan Kalmannstjarnar.

Heimildir m.a.:
-www.nat.is
-www.leoemm.com
-Sigrún Ásta Jónsdóttir, Byggðasafni Reykjanesbæjar.

Keflavík

Frá Keflavík fyrrum.