Færslur

Reykjanes

Magnús Á. Sigurgeirsson skrifar “Þátt úr gossögu Reykjaness” í Náttúrufræðinginn árið 2004. Þar fjallar hann m.a. um Eldra-Stampahraunið, Önglabrjótsnef og nágrenni á ysta hluta Reykjanesskagann.
Jarðsagan er óvíða augljósari en einmitt þarna; samspil bergganga, gíga, gjalls, ösku og hrauns. Þá er sagt frá strandi þýsks togara við Önglabrjótsnef 1951.

Eldra-Stampahraun og Tjaldstaðagjárhraun

Magnús Á. Sigurgeirsson

Magnús Á. Sigurgeirsson. 

“Eldra Stampahraun kemur frá um 4,5 km langri gígaröð, Eldri-Stampagígaröðinni, sem liggur til norðausturs frá Kerlingarbás, inn á land. Gígaröðin er mjög slitrótt enda umflotin og sums staðar kaffærð af Yngra Stampahrauninu, yngsta hrauni Reykjaness. Eldra Stampagosið má flokka sem blandgos þar sem veruleg gjóskuframleiðsla átti sér stað samhliða hraunrennsli. Á norðurhluta gossprungunnar var kvikustrókavirkni og gjallmyndun ásamt hraunrennsli einkennandi en á suður Wuta sprungunnar, sem lá neðansjávar, var hins vegar öskumyndun ráðandi. Gosaska frá Eldra-Stampagosinu barst inn til landsins og finnst nú í jarðvegi á vestanverðum Reykjanesskaga. Öskulagið er nefnt R-3.
ÖnglabrjótsnefUm aldur Eldra Stampahrauns hafa fengist vísbendingar með hjálp öskulagatímtals og 14C-aldursgreininga. Öskulög hafa ekki fundist í jarðvegi undir hrauninu en hins vegar er afstaða þekktra öskulaga til R-3 vel þekkt. Elsta þekkta öskulag ofan R-3 er um 1400 ára gamalt Heklulag og næsta lag neðan R-3 er um 2000 ára gamalt Kötlulag. Kolefnisaldursgreining á mó undan R-3 bendir til að lagið sé minna en 2200 ára gamalt.

Önglabrjótsnef

Reykjanes – kort. Tjaldstaðagjá er merkt á kortið.

Út frá þessum vísbendingum er dregin sú ályktun að Eldra Stampagosið hafi orðið fyrir um 1800-1900 árum.
Skammt austur af Eldra Stampahrauni er hraun sem nefnist Tjaldstaðagjárhraun og er víðáttumesta hraun á Reykjanesi. Upptök þess eru á um 1 km langri gígaröð sem liggur í framhaldi af Stampagígaröðinni til norðausturs. Aldur hraunsins hefur verið nokkuð á reiki en öskulagarannsóknir hafa staðfest forsögulegan aldur þess.
Stampar
Elsta gjóskulag sem fundist hefur ofan á Tjaldstaðagjárhrauni er fyrrnefnt 1400 ára gamalt Heklulag en ekki hefur tekist að finna jarðveg undir hrauninu.
Afstaða Tjaldstaðagjárhrauns til Eldra Stampahrauns sýnir að það hefur runnið síðar en Stampahraunið. Á milli þeirra er einungis foksandur en enginn jarðvegur. Bendir flest til að hraunin séu af líkum aldri og hafi runnið á sama gosskeiði, ef til vill í sömu eldum, fyrir tæpum tvö þúsund árum.

Reykjaneseldar fyrir tvö þúsund árum

Önglabrjótsnef

Berggangur í Kerlingarbás, öskulög og hraunhella efst.

Þar sem Eldri Stampagígaröðin liggur að sjó í Kerlingarbás hafa myndast jarðlagaopnur af völdum sjávarrofs sem gefa færi á að skoða hraun, gíga og gjóskulög frá ýmsum tímum í þversniði (2. og 3. mynd). Segja má að megindrættirnir í gossögu Reykjaness síðustu árþúsundin blasi þarna við augum. Ekki verður öll sú saga rakin hér heldur aðeins það sem viðkemur Eldra Stampagosinu.
Stampar
Fyrstu merki um virkni á Eldri Stampagígaröðinni er þunnt fínkorna öskulag sem liggur næst undir syðsta gjallgíg gígaraðarinnar og hrauntaumum frá honum. Af kornagerð öskunnar að dæma hefur hún myndast í neðansjávargosi. Askan hefur ekki fundist í jarðvegssniðum og bendir það til lítillar dreifingar á landi. Af þessu má ráða að upphaf Eldra Stampagossins hafi verið í sjó. Upptakagígurinn er nú með öllu horfinn. Vísbendingar eru um að gossprungan hafi einnig verið virk á landi um svipað leyti. Ofan á öskulagið R-2 hleðst síðan myndarlegur gjallgígur, um 20 m hár. Gosrás gígsins, sem nú er bergstandur, gengur upp í gegnum öskulagið.
Haun frá þessum gíg og öðrum nærliggjandi hafa byggt upp Önglabrjótsnef, en þar er hraunið að minnsta kosti fimm metra þykkt. Gosvirknin hefur einkennst af kvikustrókavirkni og hraunrennsli.

Önglabrjóstnef

Önglabrjótsnef. Kerlingarbás, Valahnúkar og Karlinn fjær.

Hraunrröð liggur frá gígnum út eftir Ónglabrjótsnefi. Þegar hraungosinu linnti færðist virknin að nýju á neðansjávarhluta gossprungunnar og þeytigos varð í sjó með tilheyrandi öskumyndun og þá myndaðist öskulagið R-3, sem fyrr er nefnt. Af þykkt öskunnar á landi að dæma, en hún er allt að 1,2 m, hafa upptökin verið innan við 1 km frá núverandi strönd í beinu framhaldi af Eldri Stampagígaröðinni. Athuganir leiddu í ljós að öskulagið R-3 er yfirleitt mjög rofið og að upphafleg þykkt þess hafi því verið mun meiri en nú mælist. Varlega áætlað gæti lagið hafa verið rúmlega þriggja metra þykkt við Kerlingarbás.
Skýr merki eru um að askan hafi kaffært hraun og gíga næst ströndinni. Á Önglabrjótsnefi myndar R-3 víða 10-20 cm þykka túffskán ofan á Eldra Stampahrauninu. Af þykktardreifingu gjóskunnar að dæma hefur gígrimi upptakagígsins að öllum líkindum náð inn á ströndina við Kerlingarbás. Útbreiðsla öskulagsins R-3 inn til landsins hefur einkum verið til norðausturs, í áttina að Njarðvíkum (1. mynd). Öskufall yfir hafsvæði er óþekkt en hefur vafalítið verið talsvert.
Önglabrjóstnef
Í lokaþætti þessara elda rann Tjaldstaðagjárhraun, nokkrum árum eða áratugum eftir Eldra-Stampagosið. Hraunið rann frá um 1 km langri gígaröð um 1 km norðaustur af Eldri Stampagígaröðinni. Hraunið er mestmegnis úfið apalhraun en dálítil spilda af helluhrauni myndaðist þó einnig. Samanlagt eru gígaraðirnar báðar um 6 km að lengd. Sjáanlegt flatarmál hraunanna er um 11,4 km2. Hins vegar má hækka þessa tölu um allt að 4 km2, eða sem nemur því landsvæði sem þakið er Yngra Stampahrauninu.
Heildarflatarmál hraunanna gæti legið nærri 15 km2. Rúmmál hraunanna gæti verið um 0,1 km3, miðað við 5 metra meðalþykkt. Nokkur landauki var af Eldra Stampahrauninu við norðvesrurströnd Reykjaness, frá Önglabrjótsnefi, um Kinnaberg og austur að Stóru-Sandvík.
Varlega áætlað má telja að um 500 m breið og um 4 km löng ræma hafi bæst við þáverandi strönd.

Önglabrjótsnef
Um miðja Stampagígaröðina eru tveir gígar sem bera þess merki að hafa hlaðist upp nærri fjöruborði en innan um gjall í þeim má finna núna fjörusteina (6. mynd). Út frá gerð gjóskunnar má fara nokkru nærri um myndunarsögu gíganna. Upphaf gosvirkninnar hefur einkennst af gufusprengingum þegar sjór streymdi að gosopunum. Gosefnin hafa þá einkum verið fínkorna aska en síðar, þegar tekur fyrir aðstreymi sjávarins, verður gjallframleiðsla ráðandi. Að síðustu hefur hraun runnið frá gígunum. Líklegt verður að telja að þessir gígar séu frá upphafi Eldra Stampagossins og gætu því verið samtíma öskulaginu R-2, sem fyrr er nefnt. Á gömlum loftljósmyndum sést að þessir gígar hafa eitt sinn verið stærstu gígar Eldri-Stampagígaraðarinnar. Nú eru þarna gapandi tóftir eftir langvarandi gjallnám.

Stampar

Gígar í Yngra- Stampahrauni.

Mikið sandfok hefur verið á Reykjanesi eftir Eldra Stampagosið og má reikna með að gjóskulagið R3 ásamt upptakagíg þess hafi verið meginuppspretta þess. Lagið er mjög rofið, eins og fyrr segir, og víða í sköflum. Við Stóru-Sandvík, þar sem jaðrar Eldra Stampahrauns og Tjaldstaðagjárhrauns mætast, sést að þykkir skaflar hafa hlaðist upp við jaðar Stampahraunsins áður en yngra hraunið rann upp að því. Af jarðvegssniðum að dæma var jarðvegur á Reykjanesi sendinn og rýr öldum saman eftir eldana.”

Í Tímanum árið er fjallað um strand þýsks togara við Önglabergsnef undir fyrirsögninni “Þýzkur togari strandar við Önglahrjótsnef – Losnaði af grunni, sökk á skammri stundu, en áhöfnin bjargaðist í annan togara”:

“Klukkan 6.40 í gærmorgun strandaði þýzki togarinn Karlsburg Danh við Önglabrjótsnef, nyrðri tá Reykjaness, sunnanvert við Sandvíkurnar. Losnaði hann af grunni tæpum tveimur stundum síðar, en sökk síðan innan lítillar stundar.
Forðuðu skipverjar, tuttugu menn, sér í björgunarbátana, og komust þeir í annan þýzkan togara, Hans Böchler, er var í námunda við strandstaðinn.

Fyrstu fregnir af strandinu

Önglabrjótsnef

Önglabrjótsnef – brim.

Loftskeytastöðin í Reykjavík náði fyrst fregnum af strandinu, og lét hún Slysavarnafélagið þegar vita. En það sneri sér til björgunarsveitarinnar í Grindavík og vitavarðarins á Reykjanesi, Sigurjón Ólafssonar, er var einn karlmanna á bænum. — Brá hann þegar við og fór á strandstaðinn með línubyssu og annan útbúnað, er til björgunar þurfti. Dró hann þetta eftir sér á sleða.
Meðan þessu fór fram var slysavarnadeildin Þorbjörn í Grindavík að senda hina öruggu björgunarsveit sína af stað á stórum bifreiðum, en torfæri var yfir að fara og færðin hin versta. Björgunarsveit úr Höfnum lagði einnig af stað.

Samband við skip

Önglabrjótsnef

Þýskur togari líkur Karlsburg Danh.

Loftskeytastöðin í Reykjavík var í stöðugu sambandi við annan þýzkan togara, Schütting, er var á þessum slóðum, og tilkynnti hann, að Karlsburg Danh væri strandaður við Önglabrjótsnef, og voru önnur skip látin vita um þetta. Klukkan 8.20 tilkynnti Schütting, að hinn strandaði togari hefði losnað af grunni og hefði getað hreyft vél sína, en mikill leki væri kominn að skipinu. En eftir þetta segir ekki af skipinu, því að það sökk að skammri stundu liðinni.
Hans Böchler kom með skipsbrotsmennina til Reykjavíkur um miðjan dag í gær. Voru þeir allir hressir. Slysavarnarfélagið tók á móti þeim.”
Sjá meira un strandið HÉR.

Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn, 1.-2. tbl. 01.03.2004, Þáttur úr gossögu Reykjaness – Magnús Á Sigurgeirsson, bls. 21-28.
-Tíminn, 33. tbl. 09.02.1951, Þýzkur togari strandar við Önglahrjótsnef, bls. 1 og 7.

Stampahraun

Stampahraun. Í dag má sjá leifar hraunsins undan ströndinni, þ.e. Karlinn. Strákur, Stelpa og Kerling eru horfin í sjáinn. Þó má enn sjá móta fyrir gíg Kerlingar í Kerlingarbás.

Gunnuhver

Gunnuhver er gufuhvera- og leirpyttaklasi á Reykjanesi, en svo nefnist ysti oddi Reykjanesskagans. Gufu- og leirhverir stafa af suðu í jarðhitageymi. Gufan leitar upp og blandast yfirborðsvatni. Henni fylgja gastegundir. Þær gera vatnið súrt. Af því umbreytist hraungrýti og móberg í leir með tilheyrandi sílitabreytingum.
Gufustreymið jókst áberandi á tímabili er þrýstingur lækkaði í jarðhitageyminum við vinnslu vatns og gufu úr honum. Stærsti leirhver landsins, nú með digrum suðustólpa í 20 m víðum stampi, er efst í brekkunni. Um tíma náði gosstólpinn um 10 m hæð og slettur úr honum hlóðust á barmana.

Gunnuhver

Gunnuhver og nágrenni.

Óróasamt er á Reykjanesi af völdum jarðskjálfta. Þeir koma í hrinum en eru vægir, þeir stærstu rúmlega 5 að stærð. Í helstu hrinunum hefur sprunga sem liggur frá Valbjargagjá til norðausturs um Gunnuhver hreyfst til, síðast fyrir um 40 árum. Við slík umbrot hefur hveravirkni aukist um tíma og efnaríkt vatn úr jarðhitageyminum náð til yfirborðs og myndað goshveri með útfellingum af hverahrúðri. Þetta voru sjóhverir. Kísilhóll er nefndur eftir kísilhellu efst á honum. Í henni eru skálar eftir kulnaða goshveri. Kulnaður bolli “Hversins 1919” er um 100 m sunnar, ofan vegar. Hann var síðast virkur kringum 1970. Skammt þar suðvestan við var Geysir (Reykjanes-Geysir);  virkur kringum aldamótin 1900 og framan af 20. öld. Engin merki sjást um hann nú.

Gunnuhver

Gunnuhver – litadýrð.

Á þessu sumri (2021) hefur hverasvæðið nálægt Gunnuhver tekið verulegum breytingum, einkum vegna þess að jarðsjórinn á hverasvæðinu hefur þornað svo um munar; fagurlituð ölkelda, sem þarna var um tíma, er nú horfin og svo mætti lengi telja.

Einhverjum hálfvita hefur látið sér detta í huga að koma upp skiltum umleikis Reykjanesvita með áletrunni “Payzone” þar sem krafist er kr. 1000 greiðslu fyrir að leggja bifreið um stund á svæðinu. Á skiltunum er vakin athygli á rafrænu eftirliti. Framangreint hefur gert það að verkum að Íslendingar leggja ekki nálægt vitanum.

Hverasvæðið er síbreytilegt og þurrkarnir að undanförnu hafa aukið verulega á litadýrðina – sjá MYNDIR.

Gunnuhver

Við Gunnuhver.

Reykjanes

Í grein í Faxa árið 2008 skrifar Leó M. Jónsson um “Ökuferð um Hafnahrepp” og getur þar um skilgreininguna á “Hinu raunverulega Reykjanesi”, sem er að öllu leyti rétt, bæði skv. örnefnalýsingum og kortum fyrri tíðar:

Hið raunverulega Reykjanes

Leó M. Jónsson

Leó M. Jónsson.

Þegar haldið er lengra suður eftir veginum er komið á hæð þar sem vegurinn sveigir til austurs. Beint af augum er gamalt eldfjall, Sýrfell, en á milli þess og Reykjanessvita, sem stendur á hinu 50 m háa Vatnsfelli, í suðvestri, en fellið heitir eftir stórri tjörn sem er við það. Vitinn er 28 m a hæð og því 78 m yfir sjávarmáli. Mannvirkin norðvestan við Rauðhóla er Sjóefnavinnslan (oft ranglega nefnd Saltverksmiðjan). Einnig blasir við nýreist Reykjanesvirkjun. Hér blasir hið raunverulega Reykjanes við augum sem Reykjanesskaginn er kenndur við. Sérkennilegi hnjúkurinn með u-laga skarði í, sem sést héðan vestan vitans, nefnist Valahnjúkur. Lengst til hægri sést strýtan á móbergsdrangi sem nefnist Karl en hann stendur í sjónum skammt suður af vestasta tanga Reykjanessins sem nefnist Önglabrjótsnef og teygir sig út í sjóinn í átt til Eldeyjar. Þjóðsagan segir að tröllkarl og kerling, sem bjuggu í Eldey hafi vaðið til lands og haldið á kú að leiða til nauts. Tókst ekki betur til en svo að vegna tafa dagaði þau uppi og urðu að steini. Karlinn stendur þarna enn úti í sjó en Kerling, hátt eldvarp, sem stóð sunnar uppi á landi, brotnaði niður fyrir löngu.”

Heimild:
-Faxi, 1. tbl. 01.02.2008, Ökuferð um Hafnahrepp, Leó M. Jónsson, bls. 9.

Reykjanes

Reykjanes – kort frá 1908.

Reykjanes

Í Faxa árið 2020 er fjallað um “Skáldin í vitanum”:

Reykjanesviti
“Á Reykjanesi má finna þrettán vita. Þeir eru ekki einungis sögulegt kennileiti heldur leiðarminni í sögu þjóðar sem allt fram á þennan dag hefur átt afkomu sína undir því að draga fisk úr sjó. Vitarnir voru logandi líflína til lands, ljósberar sem leiddu menn heim af hafi.
Með tilkomu vita varð til starf vitavarðar sem gat verið einmanalegt. Svo hagaði til að tvö skáld gegndu starfi aðstoðarvitavarðar þessum elsta vita landsins en það eru atómskáldið Steinn Steinar og Hannes Sigfússon.

Reykjanesviti

Reykjanesviti

Reykjanesviti, byggður 1908 – nýrri vitavarðarhúsin nær.

Reykjanesviti var reistur árið 1878 og var þá fyrsta stórframkvæmdin sem ráðist var í eftir að Íslendingar fengu heimastjórn frá Dönum. Vitinn laskaðist í jarðskjálfta en sá viti sem nú stendur var tekinn í notkun 1908. Vitinn stendur á Bæjarfelli upp af Valahnjúk, þar sem fyrsti vitinn stóð.
Reykjanesviti var eini viti landsins um nærri tveggja áratuga skeið og hafði vitavörður aðsetur á Reykjanesi sem var víðs fjarri mannabyggð þar sem enginn vegur lá yfir auðnina. Það var langur spölur frá vitavarðarhúsinu að gamla vitanum og þurfti hetjudug til starfsins.

Steinn Steinarr

Steinn Steinarr

Steinn Steinarr (fæddur Aðalsteinn Kristmundsson, 13. október 1908, dáinn 25. maí 1958) var íslenskt ljóðskáld og meðal áhrifamestu ljóðskálda Íslendinga á 20. öld.

Starf vitavarðarins gat verið einmanalegt en hann hafði þó með sér aðstoðarvitavörð og skiptu þeir með sér verkum. Það var héraðslæknir Keflvíkinga, Sigvaldi Kaldalóns, sem útvegaði ungum vini sínum Steini Steinari starf aðstoðarvitavarðar á Reykjanesi en þá var vitavörður Jón Ágúst Guðmundsson.
Steinn hafði oft dvalist í Grindavík hjá tónskáldinu ásamt helstu listamönnum þess tíma. Steinn var þá aðeins 22 ára gamall og ekki gerður fyrir erfiðsvinnu vegna vöðvarýrnunar í handlegg. Framtíðarhorfur hans virtust því ekki glæsilegar enda hafði skólaganga hans verði stutt. Í misjöfnum vetrarveðrum þurfti oft að hafa mann næturlangt uppi í vitanum til að hreinsa af snjó sem vildi festast á rúðurnar í ljósaklefanum, Kom það gjarnan í hlut Steins. Má gera sér í hugarlund að þar hafi orðið til ljóð þegar leiðindi sóttu að honum á þessum löngu og köldu vetrarnóttum og hann þurfti að halda á sér hita. Steinn starfaði í vitanum einn vetur frá 1930 til 1931 en hans fyrsta ljóðabók Rauður loginn brann kom út þremur árum síðar eða 1934. Þar mátti finna róttæk ljóð um hlutskipti lítilmagnans og bar mikið á vonleysi og trega enda þjóðin í kreppu og atvinnuleysi mikið.

Hannes Sigfússon

Hannes Sigfússon

Hannes Sigfússon skáld fæddist í Reykjavík 2. mars 1922. Foreldrar hans voru Sigfús Sveinbjarnarson, f. 11.3. 1866, d. 11.9. 1931, prentari og fasteignasali í Reykjavík, og Kristín Jónsdóttir, f. 22.4. 1887, d. 19.3. 1970, húsfreyja.

Rithöfundurinn Hannes Sigfússon var aðstoðarmaður vitavarðarins, Sigurjóns Ólafssonar, þegar olíuskipið Clam fórst við Reykjanes þann 28. febrúar árið 1950. Starfið hafði hann fengið í gegnum gott orð frá vini sínum og læriföður, Steini Steinarr.
Hannes var þá 28 ára gamall og hafði gefið út sína fyrstu bók, Dymbilvöku, árinu áður sem er eitt hans þekktasta verk. Skipið var það stærsta til þess að stranda við Íslandsstrendur og voru 50 menn í áhöfn þess þegar það strandaði þétt upp við hamravegginn sunnan Valahnúks. Hluti áhafnarinnar sem var að mestum hluta Kínverjar fór í björgunarbáta sem ýmist brotnuðu við skipshlið eða hvolfdu í briminu. Af þeim fórust 27 manns en fjórum mönnum skolaði upp í klettana þaðan sem þeim var bjargað. Þeim mönnum sem héldu kyrru fyrir um borð í skipinu var öllum bjargað af björgunarsveitinni Þorbirni frá Grindavík, en skipið brotnaði fljótlega í spón á staðnum. Hannes bjargaði sjálfur tveimur mönnum úr flæðarmálinu og skrifaði síðar um atburðinn í skáldsögu sinni Strandið 1955. Þar segir frá olíuskipinu Atlantis sem rekur stjórnlaust undan veðri og straumum að hrikalegri klettaströnd. Við kynnumst áhöfn skipsins, Kínverjum, Evrópubúum og Bandaríkjamanni og við kynnumst vitaverðinum á Reykjanesi sem rækir einmanaleg skyldustörf í vetrarmyrkri og bíður þess sem verða vill. Bókin fékk ekki góða dóma en Hannes var eitt helsta ljóðskáld sinnar kynslóðar og brautryðjandi í íslenskri ljóðagerð.
Ekki er vitað hvaða áhrif myrkrið og víðáttan á Reykjanesi hafði á skáldin og vinina Stein og Hannes en báðir voru þeir byltingarmenn og ortu um manninn í óræðri og dularfullri veröld þar sem vitundin ein er gegn alheiminum. Í miðju svartnætti ljóðanna leiftra óræðar blikur um mannlega reisn og jafnvel hina innstu vitund.”

Heimild:
-Faxi, 1. tbl. 2020, Skáldin í vitanum. bls. 29.

Clam

Mynd frá vettvangi er [..] olíuskipið Clam strandaði við Reykjanes árið 1950. Af 50 manna áhöfn fórust 27 en 23 tókst að bjarga.

Ósabotnar

Í Faxa 1984 fjallar Jón Thorarenssen um “Örnefni með ströndinni frá Básendum suður um Ósabotna og Hafnir og allt suður að Skarfasetri á Reykjanesi”.

“Árbók Ferðafélags Íslands 1984 er helguð Reykjanesskaganum vestan Selvogsgötu og mun þá átt við Selvogsgötu í Hafnarfirði.
ÓsabotnarÁður fyrr höfðu Selvogsbúar mikil verslunarviðskipti í Hafnarfirði og munu hafa komið af Selvogsheiði niður á þessa Hafnarfjarðargötu er þeir fóru í kaupstað og ber hún síðan nafn þeirra.
Öll er Árbók þessi hin vandaðasta að efni og útliti og hin forvitnilegasta fyrir okkur Suðurnesjamenn. Höfundar eru fjórir, þeir séra Gísli Brynjólfsson, vel þekktur hér á Suðurnesjum, hann skrifar um byggðir Suðurnesja. Jón Jónsson, jarðfræðingur, skrifar kaflann „Um heiðar og hraun”. Hann er mjög kunnur jarðfræði Skagans hefur lengi stundað þar rannsóknir. Þá skrifa náttúrufræðingarnir Hörður Kristinsson og Arnþór Garðarsson í ritið. Hörður um gróðurskilyrði en Arnþór um björgin og fuglalíf, sem er fjölskrúðugra hér en víðast hvar annarsstaðar á landinu. Ég hvet Suðurnesjabúa til að eignast og lesa þessa ágætu Árbók.
Við sem búum norðanverðu á Skaganum erum flestir kunnugir þeim miklu athöfnum og jarðarbótum sem Hestamannafélagið Máni hefur unnið að. Iðgræn tún hylja nú stór landssvæði, sem áður voru fokmelar vegna hrjúfra handa er þar höfðu um gengið. Svipað má segja um Leiruna þar sem Golfklúbbur Suðurnesja hefur gert stórvirki í fegrun og ræktun lands sem bændur höfðu yfirgefið þar sem aðal afkomuleið Leirubúa, fiskveiðar, var brostin en landkostir rýrir.
Ég vona að séra Gísli Brynjólfsson bregðist ekki illa við þó að ég taki hér upp eftir honum þar sem frásögn hans um Leiru hefst.
“Miðja vegu milli Keflavíkur og Útskála liggur við sjávarsíðuna Leiran, sem er eitthvert það besta fiskiver, með því að þar má sækja sjó á báðar hendur” segir í sóknarlýsingu 1839. En nú mun langt síðan nokkurri fleytu hefur verið róið til fiskjar úr Leirunni enda hefur hún sannarlega fengið öðru hlutverki að gegna en sjósókn nú hina síðari áratugi. En fyrst nokkur orð um byggðaþróun í Leirunni samanborið við næsta nágrennið, Keflavík. Árið 1816 bjuggu 54 menn á 6 heimilum í Leiru en 39 menn á 3 heimilum í Keflavík.
Árið 1880 voru nákvæmlega jafnmargir íbúar í Keflavík og Leiru eða 154. Nú búa 2 menn í Leirunni en í Keflavík eru íbúar 6747.”
Þessi stutta tilvitnun í Árbókina sýnir okkur glöggt hve sveiflurnar í tilverunni eru hraðar. Það sem var brúnn melur í gær getur verið iðgrænt engi á morgun og sjórinn sem var fullur af lífsbjörg á báðar hendur fyrir fáum árum er sem dauðahaf í dag. Allt er þetta athöfnun okkar mannanna að þakka eða kenna. Hugsum því fyrir morgundeginum.” – J.T.

Básendar 1726

Básendahöfn 1726.

“Skúli Magnússon, landfógeti, segir í sýslulýsingu sinni um Básenda: “Verzlunarhöfnin Básendar er í Stafneslandi. Þar er höfn 2 skipum á milli lands og skerjagarðsins, en þó hættuleg, einkum í véstanstormum, þegar hásjávað er. Nokkur skip hafa farist þar, einkum fyrrum, enda var ekki siglt á þessa höfn um hríð. Höfnin er því eigi örugg, nema um hásumar og með því að nota járnhringa þá, sem reknir hafa verið bæði í kletta í skerjagarðinum, og í jarðfasta fjöruklettana. Eru þeir festir með blýi, svo að hægt sé að binda skipin í þá. í innra skipalæginu eru 4 járnhringar og 3 í hinu ytra. Í fyrrnefndu skipalægi er dýpið 2 1/2 faðmur um fjöru, en 4 1/2 faður í hinu síðarnefnda. Þarna hækkar og lækkar í sjónum um 9 fet, þegar stórstreymt er. Innsiglingin er hættuleg, og verður að gefa nánar gætur að siglingamerkjunum á landi. Kringum hinar lágu klappir, sem verzlunarhúsin standa á, er allt þakið svörtum sandi, og eru aðstæður því illar til fiskverkunar”.

Þórshöfn

Þórshöfn – loftmynd.

Nokkru sunnar er Þórshöfn. Þar er hin forna höfn verzlunarskipa á síðari hluta 19. aldar. Samkvæmt lýsingu Skúla fógeta, er leiðin 170 faðmar inn, en breidd 51 faðmur, ef skip rista 6 fet. Þessi höfn var notuð er Hansakaupmenn og Þjóðverjar ráku verzlun hér, en árið 1601 var síðasta verzlunarár brim væri, því að skerjagarður að þeirra þar. Flest gátu 5 skonnortur legið þar í einu, allar bundnar. Þarna í Þórshöfn gerðist sá atburður á árunum 1890-1895, að útvegsbændur á Suðurnesjum komu þar saman til þess að ræða fiskverð. Segja má að hér hafi verið eins konar upphaf íslenzkrar kjarabaráttu sjómanna um fiskverð. Þarna var mættur Ketill dbrm. í Kotvogi með sonum sínum og Salómon Björnsson frá Kirkjuvogi, Einar Sveinbjörnsson í Sandgerði, Jón Sveinbjörnsson frá Húsatóftum, Magnús Bergmann í Fuglavík, og úr Grindavík Sæmundur Jónsson og Tómas Guðmundsson.
Rétt austan við Þórshöfn er Hvalvík og Hvalvíkurhólmi þar ytra. Nokkru austar og innar er komið að hinum gamalkunna og merka stað Bárðarvör (sjá Útnesjamenn), sem áður var stundum kölluð Prestatorfa, þegar Hvalsnessprestar þjónuðu Kirkjuvogssókn, en Hvalsnes var lagt niður sem prestsetur árið 1811.
Fram til þess tíma var Bárðarvör ferjustaður Hvalsnesspresta yfir Ósana í Kirkjuvogsvör, og þessa leið notaði síra Hallgrímur Pétursson stöðugt á árunum 1644-1651, þegar hann þjónaði Kirkjuvogskirkju frá Hvalsnesi. Eftir það var Bárðarvör kölluð Grímsvör um tíma, en það nafn hvarf fljótt og frá síðustu aldamótum er óhætt að segja, að vörin hafi aldrei verið kölluð annað en Bárðarvör. Bárðarvör er smá vík, er skerst inn norðan við Einbúa, sem er hár hringmyndaður grashóll, og sést víða að, bæði á landi og af sjó, og er því mikið kennimerki sjósóknarmanna.
Fyrir utan Bárðarvör er Hestaklettur (sjá Útnesjamenn), stór og mikil klettaborg. Við austurhorn Hestakletts var ætíð farið, þegar ferjað var yfir Ósa. Á austurhorni Hestakletta sitja ætíð dílaskarfar og blaka vængjum til að þurrka sig.

Vörðuhólmi

Einbúi og Vörðuhólmi.

Nokkuð austur af Hestakletti er Selsker, hættulegt sker. Það er alltaf talið hættulegt að fara nærri því. Þar drukknaði síra Árni Hallvarðsson og sjö manns með honum 31 . marz 1748.
Einbúi er eins konar löng eyja frá norðri til suðurs og umflotin sjó, en á f jörum má víða vaða yfir rásina, sem umlykur hann, en strax með aðfalli er það ekki hægt. Suðurendinn heitir Vörðuhólmi. Við suðurenda hans fellur sjór með útfallinu frá þessari löngu eyju, en skammt frá er Runkhólmi, svo þrengslin verða mikil með útfirinu í þessum þrönga ósi, og beljandinn ofsalegur, en stórsteinar, strýtumyndaðir, hér og þar í botninum, svo að þetta ér stórhættulegur staður fyrir báta. Einu sinni fór ég niður þennan ós, einn á tveggja manna fari. Ég var að grafa sandmaðk og mig langaði að fara niður beljandann. Ég hef líklega verið 16 ára, sterkur og liðugur þá, og mér fannst ég geta allt. Þar hallaði niður í ósinn eins og brekku. Ég lagði í ósinn, en straumkastið tók strax af mér ráðin og fyrir Guðs mildi slapp ég lifandi, en ég skammaðist mín mikið fyrir þetta tiltæki. Það er fyrst nú að ég segi frá þessu, sem gerðist fyrir 65 árum.
Fyrir utan Runkhólma er svokallaður Síðutangi, þá Skotbakki. Að Síðutanga og Skotbakka bárust hlutir eða partar úr hinu fræga strandi „James Town”. (Við Einbúa og Skotbakka var ágætur maðkasandur).
Fyrir austan Skotbakka er svo Gamli Kirkjuvogur, sem hét fyrrum Vogur á Rosmhvalanesi, vegna þess, að öll ströndin frá Stafnesi, inn með öllum Ósum að Hunangshellu er á Rosmhvalanesi. Það sýnir bezt breytta landskosti í tímanna rás, að Espólín segir frá því í 2. deild Árbókarinnar, að árið 1467 hafi Björn Þorleifsson, hirðstjóri, selt Eyjólfi Arnfinnssyni nokkrum Voga á Rosmhvalanesi fyrir 5 jarðir á Vestfjörðum.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – uppdráttur ÓSÁ.

Í jarðabók Árna Magnússonar segir að 1703 hafi Gamli Kirkjuvogur legið í auðn lengur en 120 ár, en það bæjarstæði var í Kirkjuvogslandi. Af þessum orðum Árna Magnússonar, að bæjarstæðið hafi verið í Kirkjuvogslandi má ætla, að landamerkin milli Stafness og Kirkjuvogs hafi ekki verið um Djúpavog, heldur um Bárðarvör, eða Runkhólmaós, þó kannski heldur, eftir því sem gamalt fólk í Höfnum og fóstri minn, Ketill, töluðu um.
Fyrir innan Gamla Kirkjuvog kemur svo Djúpivogur, þar næst Beinanes, þá Seljavogur, þá Stóra-Selhella, þá Stóru-Selhelluvogur, þá Litla-Selhella, þá Litlu-Selhelluvogur, þá Brunnvogsklettar, þá Steinbogi og svo loks hin fræga varða Hunangshella, sem nú er hálf hrunin og brot af vörðunni eftir.

Ósabotnar

Ósabotnar – kort.

Hér endar Rosmhvalanes, því að Hunangshella var og er landssvæðavarða. Lína sem hugsaðist dregin frá Hunangshellu í Háaleitsþúfu (var norðaustast á Keflavíkurflugvelli, en er horfin nú), og frá Háaleitisþúfu í Duusgróf í Keflavík. Allt fyrir norðvestan þessa hnu er Rosmhvalanes. Það er stór hluti Reykjanesskagans.
Hunangshella dregur nafn sitt af sögu, sem prentuð er hjá Jóni Arnasyni, þjóðsagnasafnara, (1. b., bls. 613). Það var skrímsli grimmt, hættulegt og skotharðast allra dýra. Maður einn tók sig til og bar hunang á helluna, því óvætturin var sólgin í það. Maðurinn lá svo í leyni þar hjá. Óvætturinn kom og tók að sleikja hunangið af hellunni. Þá skaut maðurinn skrímslið með vígðum silfurhnöppum. Það hreif. Síðan heitir staðurinn Hunangshella. Hjá Hunangshellu endar Rosmhvalanes, eins og áður er sagt.
Hjá Hunangshellu enda Ósabotnar. Hunangshella er merkur staður. Varðan þar í hellunni er í ólagi. Ég skora á útivistarmenn eða einhver félagasamtök, eða Lionsmenn á Suðurnesjum, að reisa þessa gömlu vörðu við á björtum og blíðum sumardegi. Það er ræktarsemi við gamla tímann og virðing fyrir hinum gömlu landamerkjum Suðurnesjamanna, sem eru milli Rosmhvalaness og Reykjanes skagans. Ennþá eiga Suðumesin gott fólk, hraust og afkastasamt til að gera þetta.

Hunangshella

Varða á Hunangshellu.

Þegar farið er frá Hunangshellu suður koma næst Þríhólar þá Leirdalur og Leirdalshólmi, þá Stekkir, Stekkjarnes og Stekkjarneshólmar, þá Hellisvik, innan við Hellishæð (hjá Hellisviki beið Oddur V. Gíslason eftir því að Anna Vilhjálmsdóttir kæmi til sín á vökunni 30. des. 1870). Þá kemur Torfdalsvík síðan Torfdalur, þar á tanganum er hin ævaforna sundvarða sveitarinnar. Þá kemur Maðkasandur, Maðksandsklöpp, þá Bótin, Langaklöpp, Svartiklettur, síðan Þvottaklettar, sem eru austan við Kirkjuvogsvör. Nú er þar ekkert skip og engin mannaferð. Kirkjuvogsvör má muna sinn fífil fegri, þegar um og yfir 100 ungra manna réru úr vörinni á hverjum róðrardegi á vertíðum. Upp af Kirkjuvogsvör voru tvö naust, austurnaust, sem voru víð og stór og rúmuðu marga teinæringa, og svo vesturnaust, sem rúmuðu í mesta lagi þrjá teinæringa. Bæði voru þessi naust vel varin fyrir sjógangi, veðrum og vindum. Fyrir vestan og utan Kirkjuvogsvör er Kirkjuskerið, stórt sker og hátt, sem er aðalskjólið fyrir Kirkjuvogsvör og hlífir henni í briminu. Þar utar, en fast við Kirkjusker, er Flatasker, sem hlífir sömuleiðis. Með aðfalli fór strax að koma lá í Kirkjuvogsvör, þegar Flatasker var komið í kaf. Kirkjuvogssund er langt. Sundið er tekið þegar Bælið er um Junkaragerði, en Keilir um Svartaklett. Þegar komið er inn fyrir Flataskersenda og Einbúa og Kiðaberg úti á Stafnesheiði ber saman, þá er vinkilsnúið inn í vörina.
Ingigerður Tómasdóttir, húsfreyja í Kotvogi, d. 1804, sagði, að full sáta af heyi hefði fengist síðast af Kirkjuskerinu og grastónni þar, sem síðast var á kollinum á skerinu. Sömuleiðis hefði í þá tíð varla verið klyfjafært milli Þvottakletta og heimatúnsins. Nú er þar stórt og breitt svæði. Sýnir þetta hver ósköp landið hefur eyðst á liðnum tímum.
Vestan við Kirkjuvogsvörina eru Þvottavötnin, bergvatnsuppspretta úr lágri klöpp. Þar var ætíð skolaður þvottur og þvegin ull. Þá kemur sker fyrir vestan, sem heitir Fúsi, sem við krakkarnir veiddum við varaseiði. Músasund heitir sundið á milli Kirkjuskersins og lands. í sundinu er smá sker, sem heitir Árarbrjótur, smá tangi á móts við Kotvog. Hola nefnist lendingin fyrir neðan Kotvogsbæinn. Þá kemur Skellisnoppa vestar, sker sem brim skellur mikið á, en í mínu ungdæmi kallað Skellir, hitt nafnið mun eldra. Við Skelli er bundin smá frásögn, er nú skal greina: Árið 1912, seint í maí, var sem oftar háskólaborgari einn gestur í Kotvogi nokkrar nætur. Dýrafræði og grasafræði voru eftirlætisgreinar hans. Hann eyddi dögum sínum seint og snemma í fjörunni.

Kotvogur

Kotvogur.

Dag einn, er var orðið nokkuð hásjávað, sá hann steypireiði mikla koma á mikilli ferð að sunnan og þræða rétt utan við ystu sker. Kom hún rétt af Skelli, vinkilbeygði þar og tók stefnu norður og djúpt út af Stafnestöngum, og svo var ferðin mikil á skepnunni, að hún var brátt horfin úr augsýn norður í Nesdjúpið svokallaða. Þennan dag var hányrðingur, ládeyða og hreinviðri. Nú hafa þessi dýr verið svo ofsótt, að þau þræða ekki við ystu sker Íslands lengur.
Sunnan við Skelli og lengra úti eru Hásteinar, sérstæðir klettar, sem ekki sjást nema um stærstu fjörur. Þar hafa skip oft farist, og árið 1872 varð þar skipsskaði og manntjón frá Kirkjuvogi í tíð Þórunnar Brynjólfsdóttur, er átti skipið og gerði það út (sjá Rauðskinnu, Guðmundur í Réttarhúsum, stórmerk frásögn). Sunnar í fjörunni, Snoppa, stór klöpp ofarlega í fjörunni, með djúpa sprungu eftir endilöngu í áttina til hafs. Fyrir neðan Snoppu er brúðhjónasæti álfanna í klettahrygg þar. Sunnar eru svo Haugsendafjörur þar var þangskurður ágætur og var ég þar oft í þangfjörum á unglingsárum mínum. Þar er Markasker og Haugsendavarðan aðeins sunnar uppi á kampinum. Hún er sundmerki fyrir Merkines, og þegar hana ber við Bræður, klofinn hól þar efra, þá er farið inn Merkinessund.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir – uppdráttur ÓSÁ.

Við höldum stöðugt áfram suður með ströndinni. Þá koma næst Merkinesklettar, Skiptivík, Dilkar, hár hóll og annar minni fyrir innan Junkaragerði, þá Junkaragerðisklettar, klakkar norðan við Kalmanstjarnarsund þá Hólmi, Draugar, Stekkjarvikið (sbr. Marínu), Kirkjuhafnarvikið, Kirkjuhöfn, Sandhöfn, Sandhafnarlending, Kópa, Eyrarvík og Eyrarbær, þar sér fyrir bæjarrústum, nálægt sjávarbakkanum og grasi gróið umhverfis. Þar er mjög fallegt. Lendingin beint niður af bænum, örstutt nokkrir metrar. Stutt hefur verið að sækja fisk þaðan, meðan hann var nógur við landið, og hægt hefur verið að kalla heim að bænum, þegar veður voru góð. Eyri eða Hafnareyri, eins og sóknarpresturinn á Hvalsnesi kallaði bæinn, var síðasti byggður bær fyrir sunnan Kalmanstjörn, á Eyrartanganum rétt við norðurendann á Hafnabergi. Bærinn fór í eyði árið 1776.
Til gamans set ég hér húsvitjun sóknarprestsins á Hvalnesi 1773, sem er á þessa leið: Hafnareyri 1773: Ormur Þórarinsson, húsbóndi, 46 ára., Gunnvör Árnadóttir, húsfreyja, 49 ára., Katrín Hjaltadóttir, 20 ára., Magnús Hjaltason, 10 ára., Bartólomeus Jónsson, lausamaður, 61 árs.
Út af Eyraroddanum er röst, Eyrarröst, og stórt sker, Eyrarsker, rétt sunnan við tangann. Ég spurði Bjarna Guðnason, sem var í Kotvogi og formaður í 50 ár, hvar hann hefði fengið verstan sjó á allri formannstíð sinni. Hann svaraði: i ,Það var í Eyrarröstinni, þó var ég þá með teinæring”. Þetta var um Eyrarbæinn, en nú held ég áfram örnefnaröðinni.

Hafnaberg

Hafnaberg.

Næst fyrir sunnan norðurenda Hafnabergs kemur svo skerið Murtungur (Guðmundur Salórnonsson, fræðimaður, bóndi og meðhjálpari Kirkjuvogskirkju um í áraraðir, kallar sker þetta Murling. Þetta getur verið réttara, því að hann var talinn fróður og minnu gur, og eftir hann er afbragðs ritgerð í 3. bindi Rauðskinnu). Þá kemur Klaufln, sprungnir klettar, þá Hafhaberg. Berg þetta er um hálfa viku sjávar á lengd og rúmir 20 faðmar þar sem hæst er, en ógengt. Í berginu er stór geigvænlegur hellir, sem heitir Dimma. Þá kemur Stráksrif (Bjarghóll þar upp af), þá Boðinn, Lendingarmelar, Rekavík, Skjótastaðir (eyðijörð), Stóra-Sandvík, Litla-Sandvík, Mölvík, Kistuberg, Þyrslingasteinar, Kinnarberg, þá Önglabrjótanef. Út af þessu nefi er norðurstrengur Reykjanesrasta rinnar, sem talin er sterkari en suðurstrengurinn, þá Karlinn, klettur hrikalegur í sjó fram. Einu sinni í sumarblíðu og logni var ég á háti, er fór milli Karlsins og lands.

Valahnúkur

Valahnúkur.

Þá er næst Kerlingarbás, Kirkjuvogsbás, Valahnjúkur (þar sem fyrsti vitinn var), Valahnjúksmöl, Skarfasetur, þar út af þessu nefi er suðurstrengur Reykjanesrastarinnar, og er hann talinn minni en norðurstrengurinn, eins og áður Segir. Rétt fyrir austan Skarfasetur er Blásíðubas.
Þar með endar þessi örnefnakeðja, sem fylgt hefur verið eftir minni og bestu vitund.” – Lokadagur 11. maí 1984 – Jón Thorarensen.

Heimild:
-Faxi, 6. tbl 01.07.1984, Jón Thorarenssen, Örnefni með ströndinni frá Básendum suður um Ósabotna og Hafnir og allt suður að Skarfasetri á Reykjanesi, bls. 207-211.
Faxi

Kotvogur

Í bókinni “Hafnir á Reykjanesi”, skrifaða af Jóni Þ. Þór, er saga byggðar og mannlífs í Höfnum rakin í ellefu hundruð ár.

Jón Þ. Þór

Jón Þ. Þór.

“Fornar heimildir eru fáorðar en gagnorðar um upphaf mannvistar í Höfnum. Í Sturlubók Landnámu segir stutt en laggot; Herjólfr hét maðr Bárðarson, Herjólfssonar, frændi Ingólfs landnámsmanns. Þeim Herjólfi gaf Ingólfr land milli Vágs ok Reykjaness (Íslensk fornrit I,1 (1968, 132).
Miklu stuttorðari gat þessi frásögn vart verið, en önnur gerð Landnámu, Hauksbók, hermir, að Herjólfur hafi verið “frændi Ingólfs ok fóstbróðir”, og því hafi Ingólfur gefið honum landið.
Um Herjólf Bárðarson, landnámsmanns í Höfnum, er lítið vitað umfram það, sem segir í áðurtilvitnaðri Landnámugrein. Við vitum ekki, hvort hann var kvæntur, er hann kom til Íslands og settist að í Höfnum, ekki heldur hvort hann kom á eigin skipi með eigin föruneyti. Má þó telja hvort tveggja mjög líklegt. Um stöku afkomendur hans vitum við hins vegar öllu meira, og í hópi þeirra var maður, sem frægur er í þjóðarsögunni, og reyndar í gjörvallri sögu siglinga og landkönnunar við norðanvert Atlantshaf.
Sonur Herjólfs hét Bárður, og kemur hann hvergi við sögu, nema þar sem hans er getið sem föður sonar síns. Sonurinn var skírður Herfólfur, í höfuðið á afa sínum í Höfnum, og segir í Grænlendinga sögu, að hann byggi á Drepstokki, en sú jörð var skammt vestan Eyrarbakka. Kona hans hét Þorgerður, og sumarið 985, eða 986, afréðu þau að bregða búi á Drepstokki og héldu til Grænlands með Eiríki rauða. Á Grænlandi reistu þau sér bæ á Herjólfsnesi og bjuggu þar (Íslendingasögur I (1953), 365-366).
Hafnir
Þau Herjólfur og Þorgerður á Drepstokki áttu son, sem Bjarni hét, og varð hann án alls efa nafnkenndastur allra afkomenda Herjólfs Báraðarsonar landnámssmanss í Höfnum. Hann þótti snemma mannvænlegur og fýsti ungan utan, svo sem títt var um tápmikla unga menn á þeim tíma. Vegnaði honum vel í förum, og leið ekki á löngu, uns hann stýrði eigin skipi á milli landa. Siglingartækni 10. aldar gerði það að verkum, að farmenn komust sjaldan nema aðra leiðina á milli Íslands og Noregs á sumri hverju, og hermir Grænlendinga saga, að Bjarni hafi veriðð ” sinn vetr hvárt, útan lands eða með feðr sínum” (Íslendingasögur I (1953), 365). Síðasta veturinn, sem hann dvaldist í Noregi, brugðu foreldrar hans búi á Drepstokki og héldu til Grænlands. Er Bjarni kom heim sumarið eftir, spurði hann tíðinda. Af viðbrögðum hans og því, sem á eftir fór, segir í Grænlendinga sögu. Frásögn hans af ferð hans og áhfnar hans til Ameríku, án þess þó að stíga þar á land, varð til þess að landi hans, Leifur Eiríksson, hélt að leita landa í vestri.
Hafnir
Lengra komumst við ekki með sögu afkomenda Herjólfs Bárðarsonar, þeirra sem fæddir eru á Íslandi. Víkur þá sögunni aftur til landnámsins í Höfnum.
Af frásögn Lannámu verður ekki ráðið með neinni vissu, hvenær Herjólfur kom til Íslands. Hann gæti hafa komið með Ingólfi, jafnvel verið skipverji hans, eða að hann gæti hafa komið nokkrum árum síðar og þá væntanlega á eigin skipi með eigin föruneyti. Erfitt er að skera úr um, hvor möguleikinn sé líklegri, en flest bendir til þess, að Herfjólfur hafi numið land fremur snemma á landnámsöld, að öllum líkindum fyrir 900.
Engar nákvæmar lýsingar eru til á landnámi Herjólfs Bárðarsonar. Orðalagið “á milli Vágs og Reykjaness” tekur ekki af tvímæli, en bendir til þess að hann hafi þegið strandlengjuna norðan frá Ósabotnum, suður og austur [?] að Reykjanestá, að gjöf frá frænda sínum. Vafalítið hefur hann þó helgað sér stærra landsvæði en strandlengjuna. Hversu stórt það var vitum við ekki, en hugsanlegt er að Herjólfur hafi fylgt þeirri aðferð er Haraldur konungur hárfagri lagði fyrir menn að fylgja við helgun lands: “Menn skyldu eld gera, þá er sól væri í austri; þar skyldi gera aðra reyki, svá at hvára sæi frá öðrum, en þeir eldar, er gjörvir váru, þá er sól var í austri, skyldi brenna til nætr; síðan skyldu þeir ganga til þess, er sól væri í vestri, ok gera þar aðra elda” (Íslensk fornrit I,2 (1968), 337-339).
Landshættir hljóta að hafa ráðið nokkru um umfang og takmörk landnáms Herjólfs og ekkert var eðlilegra en að suður- og austurmörk þess væru við Reykjanestá og Stapafell, norður- og vesturmörk við Ósabotna [?].
Hafnir
Enga vitnesku er um það að hafa af fornum heimildum, hve margt fólk var í för með Herjólfi er hann settist að í landnámi sínu, og við vitum ekki, hvar hann reisti sér bú. Hafi hann komið til Íslands á eigin skipi, getur sú tilgáta þó trauðla talist ósennileg, að í föruneyti hans hafi verið q.m.k. tíu til tólf manns. Það fólk hefur trúlega fylgt honum suður í Hafnir og þegið af honum land. Má þá hugsa sér, að byggð hafi fyrst risið þar sem mynduðust þrjú hverfi, í Kirkjuvogi við Ósabotna, á Merkinesi og Kalmanstjörn. Á öllum þessum stöðum var búsældarlegt á landnámsöld, útræði bærilegt og hagar fyrir búfé að líkindum góðir. Hvar Herjólfur sjálfur settist að, vitum við hins vegar ekki með vissu, en hugsanlegt er, að hann eða einhverjir förunauta hans hafi reist sér bú nálægt þeim stað, sem nú er Kirkjuvogshverfi í Höfnum.
Haustið 2002 sást við athugun á loftmyndum. sem teknar voru á þessu svæði, “greinilegt skálalaga form skammt austur af kirkjunni í Höfnum”. Bjarni F. Einarsson, fornleifafræðingur, gróf stuttu síðar tvær prufuholur á stað, u.þ.b. 80 metra ANA af Kirkjuvogskirkju og benda fyrstu niðurstöður þeirar rannsóknar til þess, að þarna séu leifar af skála frá landnámsöld.

Hafnir

Hafnir – uppgröftur.

Fátt verður fullyrt af þessari rannsókn um hina fyrstu byggð í Höfnum og varasamt að draga of víðtækar ályktanir af henni á þessu stigi. Frekari fornleifarannsóknir geta þó trúlega varpað ljósi á byggð á þessum slóðum á landnámsöld.
Hreppar voru stofnaðir hér á landi á þjóðveldisöld og voru hvort tveggja í senn, framfærslu- og stjórnunareiningar. Ekki er fulljóst, hvenær landinu var skipy í hreppa né hvaða reglum var fylgt við skipunina, en flest bendir til þess, að hreppaskiptingin hafi komist á fyrir lögtöku tíundar árið 1097, og víðast hvar virðast landshættir hafa ráðið hreppamörkum. Hið síðara var þó ekki algilt og má ef til vill hafa Hafnahrepp til marks um það.

Hafnir

Hafnir – fornleifauppgröftur.

Engar heimildir hafa varðveist, er segi sérstaklega frá stofnun Hafnahrepps, og hljótum við að hafa fyri satt, að hann hafi orðið til sem sjálfstæð framfærslu- og stjórnunareining er hreppaskipting komst á. Hann hefur þó vafalaust verið meðal minnstu hreppa landsins, og óvíst, að tuttugu þingfararkaupsbændur hafi verið búsettir innan endimarka hans.
Þegar þannig stóð á, þurfti sérstakt leyfi lögréttu til hreppastofnunar (Íslensk fornrit I,2 (1968), 180). Við vitum að sönnu ekkert um fjölda bænda í Höfnum á þjoðveldisöld, en árið 1703 var aðeins getið seex lögbýla í Hafnahreppi, og voru þrjú þeirra í eyði, og höfðu verið lengi (JÁM III, 26-34). Býli geta vissulega hafa verið fleiri í hreppnum fyrr á öldum, en óvíst er, hvort þau voru svo mörg, að hreppurinn hafi uppfyllt áðurnefnt skilyrði Grágásalaga um fjölda þingvararkaupsbænda. Ber þó að hafa í huga, að vel getur hreppurinn hafa verið fjölbyggðari fyrir Reykjaneselda á 13. öld.
Líklegast er, að Hafnahreppur hafi í upphafi orðið til úr landnámi Herjólfs Bárðarsonar og að mörk hans hafi lítið sem ekki breyst í aldnanna rás. Vilhjálmur Hinrik Ívarsson í Merkinesi lýsti hreppamörkum eins og þau voru árið 1934 með þessum orðum: “Hafnahreppur takmarkast af Miðneshrepp að norðan, Njarðvíkurhrepp að austan, en Grindavíkurhrepp að sunnan” (Örn. 2502).
Þannig hafa hreppamörkin að líkindum verið frá fyrstu tíð, og þótt þau hafi breyst lítilsháttar á seinni tímum, einkum á 20. öld, gefa þau þá dágóða hugmynd um landnám Herjólfs Bárðarsonar í Höfnum og stærð þess.”

Heimild:
-Hafnir á Reykjanesi – Jón Þ. Þór, sga byggðar og mannífs í ellefu hundruð ár. Reykjanesbær 2003.
Hafnir

Grænás

Eftirfarandi frásögn Skúla Magnússonar um álfa og huldufólk í klettunum í Njarðvíkurásum ofan við Ytri-Njarðvík birtist í Faxa árið 2008.

“Lengi hefur legið orð á því meðal fólks í Njarðvík og Keflavík að álfar eða huldufólk væri í klettunum sem næstir liggja utan við Grænásbrekkuna, að norðan og ofan við hús íslenskra aðalverktaka. Ekki man ég þó eftir sögnum um slíkar verur í Njarðvíkurásunum í elstu og stærstu þjóðsagnasöfnum Íslendinga, hvorki hjá Jóni Árnasyni, Ólafi Davíðssyni né Sigfúsi Sigfússyni. Óljóst er hve gömul þessi trú manna í Keflavík og Njarðvík er þar sem heimildir um hana sem ég þekki eru ekki eldri en frá 20. öld.
Sagnirnar um Háaleitisdrauginn og Guðmund Klárt. virðast þó vitna um að gömul dulræna og forn átrúnaður hafi loðað við Háaleitið, þótt sagnir um það hafi ekki verið skráðar fyrr en á 19. og 20. öld.

Sagnir um huldufólk í Njarðvíkurásunum
NjarðvíkurásarÞau dæmi sem ég þekki um frásagnir af huldufólkinu i Njarðvíkurásum eru öll frá 20. öld. Rétt er að benda á frásögn Helgu Kristinsdóttur frá Akri í Inni-Njarðvík sem birtist í jólablaði Faxa 2007. Þar minnist Helga, sem er látin fyrir stuttu, á örnefnið Álfakirkju, sem talið var tilheyra álfum sem bjuggu í Ásunum.
Álfakirkjan var efst í brekkunni upp af húsi Babtistakirkjunnar amerísku sem þarna stendur. Ekki verður ráðið af frásögn Helgu hve gamalt örnefnið Álfakirkja er, en átrúnaður á það virðist þó vera kominn upp a.m.k. á seinni hluta 19. aldar, að því er skrif Helgu benda til.
Þegar ég var innan við tíu ára gamall heyrði ég föður minn segja sögur af tveimur atvikum sem hentu hann sem stálpaðan krakka inn í Njarðvíkurásum. Það sem einkum togaði krakka og unglinga þangað upp eftir var góð berjaspretta. Lögskilarétt fyrir Hafnir og hreppana yst á Rosmhvalanesi, Ásarétt, var líka hlaðin úr grjóti uppi á hömrunum í Grænási, skammt neðan við lögreglustöðina sem þar stendur, og þarna voru réttir hvert haust allt frá því að réttin var þarna hlaðin árið 1900 eða 1901, eins og lesa má um í fundargerðabók sýslunefndar Gullbringusýslu. Þegar herinn tók þetta landi til afnota var það lýst bannsvæði og réttirnar hurfu og heyra nú sögunni til.
Útiskemmtanir og upphaf þeirra í Ásunum Auk réttanna sem haldnar voru hvert haust í Ásunum voru útiskemmtanir haldnar þar uppi er líða tók á 20. öld og sótti þær fólk úr Njarðvík og Keflavík. Almenningur hafði því allmikli kynni af Ásunum og þær stundir lifða enn í minningu þeirra sem muna timann fyrir stríðið 1940. Ungmennafélag Keflavíkur hélt líka árlega íþróttakeppni og skemmtanir í Hjallatúni, líklega frá um 1930, og allt þar til herinn tók landið 1940. Þá var efnt til keppna og skemmtana í kvosinni í Keflavík, þar sem nú er stóra fánastöngin í skrúðgarði bæjarsins. Upphaf þess garðs má rekja til útiskemmtananna í Hjallatúni sem féllu niður við hernámið.

Huldufólkið hopaði ekki úr Ásunum
En huldufólkið hopaði ekki úr Njarðvíkurásunum þótt fólkið hyrfi þaðan að mestu. Ystu mörk línu þeirrar sem myndaði bannsvæði hersins austan á Háaleiti var dregin skammt ofan við klettabeltið í Ásunum og hið gamla Hjallatún féll líka undir bannsvæðið, en þar niður af komu síðar olíutankar hersins. Á mörkum þess var svo reist meira en mannhæðarhá girðing með gaddavír og vék hún loks ofar í heiðina þegar smíði nýrrar flugstöðvar hófst 1985-1987 og nýr vegur var lagður þangað af Njarðvíkurfitjum. Hluti af þessu svæði, ofan við og í Hjallatúnum, var þó áfram innan girðingar fram að því að herinn hugðist fara á brott alfarinn á árunum 1993-2001.
Huldufólkið hélt tryggð við heimahaga sína í Ásunum og fór hvergi þrátt fyrir allann þann gauragang sem fylgdi vígvélum og vinnutólum næstu árin í nágrenni við bústaði þess. Líklegt er að huldufólkinu hafi liðið þar vel.

Frásagnir föður míns
NjarðvíkurásarFyrri frásögn föður míns um atvik sem hann sagði mér frá og gerðist i Njarðvíkurásum varð líklega þegar hann var 9 eða 10 ára, 1933 eða 34 og fram um fermingu. Svo vildi til að faðir minn og eldri bróðir hans, Snorri Sólon (f. 1916 – d. 1944) fóru saman hjólandi á reiðhjólum sínum inn í Ása til að týna þar krækiber einn sólskinsdag. Líklega var þetta nær þeim tíma þegar faðir minn var á fermingaraldri. Snorri hefur þá verið um tvítugt eða tæplega það. Berjaferðinni lauk fyrr en ætlað var og með skjótari hætti. Bræðurnir hjóluðu eins og leið lá inn undir klettana í Grænási, skildu hjólin eftir við veginn og gengu upp undir klettana þar efra. Þeir gleymdu sér við berjatínsluna og urðu brátt viðskila. I miðju kafi varð Magnúsi föður mínum snögglega litið upp og sá þá torkennilegan mann sem hann bar engin kennsl á. Hann sat á steini skammt frá, horfði út á sjóinn og reykti pípu. Við þetta brá föður mínum svo að hann tók þegar til fótanna, hljóp niður á veg, náði í hjólið og hélt heim á leið. Snorra brá í brún við þessi hlaup og hjólaði á eftir bróður sínum uns hann náði honum og fékk skýringar á háttalagi hans. Sagði Magnús þá Snorra alla söguna en sjálfur hafði Snorri ekki séð neinn mann þar uppfrá meðan á berjatínslunni stóð.
Þegar faðir minn sagði mér þessa sögu rúmum 20 árum seinna hafði óttinn vikið fyrir skilningi á að huldar vættir væru til í ríki nátturinnar. Að mati hans bar mönnum að umgangast huldufólk með virðingu og það viðhorf mótaði mig frá bernsku þótt ég hefði aldrei séð það sjálfur því skyggn var ég ekki.
Hin sagan sem faðir minn sagði mér af torkennilegum verum í Njarðvíkurásum gerðist fyrir stríðið 1939. Þá var hann ásamt fleiri strákum á ferð til Keflavíkur þegar þeir komu auga á konu upp við Ásana. Hún vakti athygli þeirra því hún var að tína eitthvað í svuntu sína við klettana og leit út eins og hún hefði snöggvast brugðið sér af bæ. Sem fyrr segir er töluverður spotti neðan úr byggð í Ytri-Njarðvík á þessum árum og engan mann sáu drengirnir koma þar neðan að. Í hvorugt skiptið gat faðir minn þó um hvernig fólkið var klætt og hvort klæði þess væru í sterkum litum, t.d. rauð, græn eða blá. En helst er að sjá að þetta hvortveggja hafi birst skyndilega þeim sem til sáu. Við fyrstu athugun gæti litið út sem hér hefði verið ósköp venjulegt mennskt fólk á ferð en ekki huldar verur.
Slíkt mætti líka álykta af sögunni „Konan í Hafnaheiðinni” sem Jón Thorarensen skráði eftir frásögn Ólafs Ketilssonar og birti í Rauðskinnu. En þessa ókunnugu og torkennilegu veru sá Ólafur á ferð sinni yfir Hafnaheiði um 1906 en fékk aldrei skýringar á hvernig á ferðum hennar stóð. Klæðnaður hennar stakk í stúf við allt umhverfi og aðstæður þarna suður frá. Ekki var konan þó klædd í litklæði. Á þessum slóðum eru allskemmtilegar samfelldar klappir ekki langt frá leiðinni yfir Hafnaheiðina sem ekki sjást þó frá bílveginum. Aðstæður þar minna mjög á Ásana enda er sagt að huldufólk búi einatt í gömlu bergi, ekki nýrra eldhrauni sem víða má sjá á Reykjanesskaga.

Rauðklæddi maðurinn

Njarðvíkurásar

Njarðvíkurásar.

Að morgni þriðjudags 26. ágúst sl. hélt ég frá stöðvarhúsi SBK í Grófinni með áætlunarbíl. Ég sat fremst í bílnum hægra megin næst aðaldyrum og sá eins vel út úr bílnum og fram fyrir hann og kostur var. Auk mín og bílstjórans komu í rútuna ensk hjón við upphaf ferðar en síðan bættist í hópinn íslensk kona. Enginn var í biðskýlinu í Ytri-Njarðvík svo við héldum áfram að hringtorginu sem er við gatnamót Reykjanesbrautar, Sjávargötu og Gónhóls.
Þegar rútan beygði inn á hringtorgið varð mér litið upp eftir þar sem Ásarnir blöstu við. Þá kom ég skyndilega auga á rauðklæddan mann sem stóð framan við klettana. Mér varð starsýnt á þennan mann bæði vegna klæðnaðar hans og vaxtarlags. Ég hélt strax að þarna væri einhver íbúi úr húsunum neðan við Ásana á morgunrölti en ýmislegt mælti gegn því. Frá bílnum að sjá var hann í dökkrauðum kufli eða mussu sem virtist samfelld frá hálsi niður á fætur og með sérkennilega rauða húfu sem liktist alpahúfu listamanns á 19. öld. Maðurinn var dvergvaxinn og hélt ég fyrst að hann sæti á hækjum sér fremur en að hann stæði uppréttur, en fljótlega sá ég að hann virtist þó keikur og hnarreistur þar sem hann var fyrir framan klettavegginn. Ég sá síðan að hann stóð uppréttur við klettinn. Hann stóð þarna grafkyrr og horfði beint til austurs yfir byggðina og út á sjó. Ég sá vel á milli hans og klettanna og því á bak hans að hluta og gat ráðið af því að hann stóð uppréttur.
Þennan morgun var veðrið milt og gott, suðvestan átt með stuttum hellidembum en glaðasólskini inn á milli. Fjölbreytileiki birtunnar gerði allt umhverfið dulúðugt, fínn suddinn spilaði saman við sílglitrandi, nýfallna og litfagra daggardropana og varpaði dularblæ yfir umhverfið, hæðir og lægðir í umhverfinu og landinu öllu en jörðin merlaði í úðanum í ótal litbrigðum. Þegar ég sá Rauðklæðung leit út fyrir regnbogaveður og síðar þennan dag mynduðust fagrir regnbogar á himni.

Mennskur maður af holdi og blóði?
Hann hvarf síðan þegar við ókum áfram upp brekkuna að húsum Keilis þar sem hópur fólks beið rútunnar. Enginn í bílnum virtist hafa veitt honum athygli nema ég, þótt litirnir á fötum hans hefðu verið svo sterkir að mér datt ekki annað í hug en að allir í rútunni sæju manninn þarna eins og ég enda datt mér ekki annað í hug, meðan við ókum upp Grænásbrekkuna, en að þarna færi mennskur maður af holdi og blóði. Ég gerði því engum vart við sýn mína enda aðrir farþegar það aftarlega að ógjörningur var fyrir mig að ná til þeirra. Enginn annar en ég virtist hafa séð rauðklædda manninn því enginn mælti orð af vörum meðan við ókum þessa stuttu leið.

Áhrifamikil sýn
Rauðklæddi maðurinn minnti mig helst á dverginn sem lék hlutverk álfsins í alþekktri kvikmynd Óskars Gíslasonar, Síðasti bærinn í dalnum. Það átti bæði við um vaxtarlagið og andlitið. Hann var greinilega ófríðari en gengur, skegglaus, andlitið mjög dökkleitt og nefið frekar uppbrett. Höfuðið var sverara og digrara en almennt gerist og þrátt fyrir smæð sína var hann allur meiri um sig og þéttvaxnari en maður á að venjast. Sérstaka athygli vakti hinn sterki dökkrauði litur á klæðnaði hans og að sjá þennan skæra lit innan um dökka klettana og grængresi var svo áhrifamikið að því gleymi ég aldrei.
Ég hélt í fyrstu að ég hefði séð einn af íbúum við göturnar neðan við Ásana en þegar við ókum til Reykjavíkur rann það upp fyrir mér að ég hefði sennilega séð einn af íbúunum í Ásunum og væri hann hvorki af holdi og blóði. Sögur föður míns virtust staðfesta þetta og einnig þjóðsögur fyrri tíma. Fomlegur og sérkennilegur klæðnaður styrkti mig í þessari trú. Mér varð skemmt í huga gömul ósk mín að sjá huldufólk hafði skyndilega ræst og þetta var eins og í ævintýrunum.
Þegar ég kom aftur heim til Keflavíkur um kvöldið og rútan ók niður Grænásbrekkuna sátu tveir strákar á fermingaraldri undir klettunum skammt frá þeim stað þar ég hafði séð Rauðklæðung. En hann var hvergi sjáanlegur þá stundina að minnsta kosti.”

Heimild:
-Faxi, Rauðklæddi maðurinn í Njarðvíkurásum, Skúli Magnússon, 4. tbl. 01.12.2008, bls. 10.

Njarðvíkurásar

Njarðvíkurásar.

Stafnes

Í Árbók Hins ísl. fornleifafélags árið 1903 er að finna grein Brynjúlfs Jónssonar; Rannsókn í Gullbringusýslu og Ánessýslu sumarið 1902. Fjallar hann þar m.a. um Stafnes, Básenda, Þórshöfn og Gamla Kirkjuvog við Ósa.

Stafnes

Stafnes

Stafnes – uppdráttur ÓSÁ.

er í fornum máldögum oftast kallað »Starues«, og ef það er upprunanafn bæjarins, bendir það til þess, að þar hafi í fyrri daga verið starengi. En hafi svo verið, þá er líklegast, að það sé uú komið í sjó. Skal eg ekkert um það segja. En sannfróðir eru menn um það, að þar hafa margar hjáleigur lagzt í eyði og þar af sumar af sjógangi.
Nokkrar af eyðihjáleigunum heyrði eg nefndar, og eru þær þessar: Urðabær, Sandhús, Refabær, Hólmabær, Gosa (Gosabær=Gottsvinsbærr), Vallarhús, Lodda (þ. e. Loðvíksstofa). Þar hefir víst verið einna bezt lýsing um aldamótin 1800, því þangað flúði Bátsendakaupmaður er kaupstaðurinn fór af. Nú sjást varla merki til tófta í Loddu, því öskuhaugur hefir seinna verið borinn ofan á þær og gróið upp sem hóll í túninu hjá heimabænum.

Stafnes

Stafnes – dómhringur.

Í túninu er ein at þessum hringmynduðu fornbyggingum, sem kallaðar eru »lögréttur«. Þessi er líka kölluð það. Hún er einkennileg og frábrugðin öllum öðrum, er eg hefi séð, að því leyti, að á henni eru 6 dyr eða hlið, sem skifta henni í 6 jafna parta. Mundi svara því að 2 sæti hefði verið undir hverjum parti. Að öðru leyti er ekki hægt að gizka á hvaða tilgang hlið þessi hafa haft. Og því óskiljanlegri eru þau, ef maður vill geta þess til, að hringurinn sé sáðgarður eða fjárrétt. Og ekki lítur þó út fyrir, að það séu skörð. Þau eru hér um bil jafnstór og jafnlangt milli þeirra, eins og þau séu skipulega sett af mönnum. Annað er hér þó ekki, sem bendir á þingstað, hvorki munnmæli né búðatóftir. Þær gætu að vísu verið horfnar. Sumstaðar hefir sandfok sléttað túnið.
Sumstaðar geta kot verið bygð ofan á búðatóftir. Á tveim stöðum, skamt frá »lögréttunni«, var eins og vottaði fyrir tóftum, en mjög var það óglögt, enda var þá þessi hluti túnsins ósleginn. Skal eg ekkert frekara um þetta segja.

Bátsendar

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

heita skamt fyrir austan Stafnes. Þar liggur strandlengjan til austurs inn í Ásabotna. Á Bátsendum var kaupstaður, sem kunnugt er, og stóð á hraunnefi milli tveggja mjórra víka. Var höfnin á eystri víkinni. Var innsigling fremur vandasöm, en höfn trygg er inn var komið, þó svo, að binda varð skipin á 3 vegu, en með því móti gátu 2 skip legið þar undir eins. Sér enn um fjöru, járnbolta þá, sem greiptir cru í klappirnar, til að festa skipin við. Hafa verið höggnar holur í klappirnar fyrir þá og blýi rent utan með þeim. Hraunnefið, sem kaupstaðurinn stóð á, er hæst framantil og var þar bær. Sér þar enn nokkuð af rúst bæjarins á grastorfu lítilli. Þar fyrir ofan er lægð yfir þeim þvert milli víkabotnanna og í þeirri lægð sér leifar af undirstöðum verzlunarhússins. Hefir það verið hér um bil 12 fðm. langt og 6 fðm. breitt. Þó er ekki öldungis víst, að það hafi verið alt eitt hús, svo óslitin er undirstaðan ekki. En útlit er til þess. Af kaupstaðnum sjást nú ekki aðrar leifar en nú hefir verið sagt. En miklar girðingar hafa verið þar fyrir ofan, líklega bæði túngarðar og jurtagarðar. En nú er þar alt blásið.

Básendar

Festarkengir á Básendum.

Kaupstaðurinn eyddist í flóðinu mikla nóttina fyrir 9. jan. 1800. Fólkið komst nauðulega undan, nema ein gömul kona, sem heldur kaus að verða eftir og taka því er guð vildi verða láta, en að reynt yrði að hrökklast með hana heim að Stafnesi. Síðasti kaupmaður á Bátsendum er nefndur I Hansen, danskur að ætt. Hann flúði til Loðvíksstofu, sem fyr getur. Um vorið fór hann utan og kom eigi aftur til Íslands.
Nafnið »Bátsendar« er óviðkunnanlegt og óefað afbökun. En hvað hefir það þá upprunalega veriðr Naumast getur það hafa verið »Bátsandar« (af: sandur), því að, þó þar sé blásið nú, þá hefir það eigi verið fyrrum, þá er nafnið var gefið. Og enn eru þar meiri klappir en sandar, bæði með sjónum og fyrir ofan, svo ástæðulítið virðist að gefa þar örnefni af söndum. Líklegra virðist mér, að þágufallsmyndin: »á Bátsendum« sé afbökun úr þágufallsmyndinni: að Bátsundum (af: sund). Það nafn hefði getað átt við sjávarsund þar fyrir framan. Og alkunnugt er, að bæjarnöfn og önnur örnefni eru langoftast nefnd í þágufalli hér á landi. Verður það því jafnan, eí þágufallið afbakast, að sú afbökun verður ósjálfrátt fram einnig í öðrum föllum.

Þórshöfn

Þórshöfn

Þórshöfn.

heitir vík ein, löngum spöl fyrir innan Bátsenda.

Hallgrímshellan

“Hallgrímshellan” í geymslum Þjóðminjasafnsins.

Þar er þrautalending og óbrigðul höfn í öllum norðlægum áttum. Þó eru þar engin mannvirki að sjá, enginn vottur þess, að þar hafi bygð verið, enda er engin sögn um það. En því get eg Þórshafnar, að mér þykir það líklegt, að sveitarnafnið »Hafnir* sé þannig myndað, að miðað hafi verið við Þórshöfn og Kirkjuhöfn, sem eru andspænis hvor annari út með Hafnavík, sín hvorumegin. Mun þeirri sveit hafa verið tileinkað alt svæðið milli þessara hafna.

Milli Bátsenda og Þórshafnar var mér vísað á vörðubrot, er steinnværi í með áhöggnu fangamarki Hallgríms Péturssonar og ártali. Það er og svo; íangamarkið er HP; en ártalið er 1728.

Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – uppdráttur ÓSÁ.

hefir til forna staðið langt inn með Ósum að norðanverðu. Ósarnir eru sem dálítill fjörður, sem gengur til austurs inn úr Hafnavík. Inst skiftist hann í smávoga, og kallast þeir Ósabotnar. Er löng bæjarleið frá Þórshöfn inn að KirkjuVógi forna. Þar sem bærinn var, er rústabunga mikil. Þar er alt nú blásið hraun, þó er rústin að nokkru leyti grasgróin. Er eigi hægt að sjá grein á húsaskipun og eigi sést með vissu hvar kirkjan hefir verið. En kunnugir menn vita það, því mannabein hafa fundist þar, er kirkjugarðurinn blés upp. Voru þau flutt að Kirkjuvogi. Var það nálægt aldamótunum 1800, að bein voru síðast flutt þaðan, en sagt er að nokkuð hafi verið flutt áður, smátt og smátt.”

Heimild:
-Árbók Hins ísl. fornleifafélags, 01.01.1903, Rannsókn í Gullbringusýslu og Ánessýslu sumarið 1902 eftir Brynjúlf Jónsson, bls. 39-41.

Ósabotnar

Ósabotnar – götukort.

Keflavík

Í umfjöllun um Duus-verslunina í Keflavík hafa vaknað ýmsar spurningar, ekki síst í tengslum við tilteknar “eftirlifandi” minjar á svæðinu.

Duus-hús
“Peter Duus kaupir verslunina í Keflavík 3. júní 1848 af Martin Smith sem hafði rekið þar verslun um árabil. Peter Duus var kvæntur Ástu Tómasdóttur Bech. Þau voru ung þegar þau kynntust í Reykjavík. Foreldrar Ástu bjuggu á Kjalarnesi. Ásta hafði búið lengi í Kaupmannahöfn þegar þau Peter Duus hittast. Þau giftu sig fljótlega og fóru til Kaupmannahafnar en stoppuðu ekki lengi þar því Peter bauðst verslunarstjórastaða í Reykjavík.

Duus

Duus – bryggjuhús.

Þaðan fara þau til Skagastrandar og síðan til Eyrarbakka þar sem þau efnuðust vel. Þegar þau frétta að verslunin í Keflavík var til sölu hafa þau trúlega verið fljót að grípa tækifærið, því þá var Keflavík stærsti verslunarstaðurinn á suð-vesturlandi. Þegar þau kaupa verslunina eru fyrir í Keflavík tvær verslanir, K-nudtzons verslun og Verslun Sveinbörns Ólafssonar (Miðverslun). Seinna kom Ziemsen, sem við þekkjum sem Ziemsen í Rvík. Kaupverð eignanna var 3.700 ríkisdalir. Ef miðað er við verkamannalaun í þá daga og í dag, myndi eignin reiknast á kr.19.824.000.

Duus-hús

Duus-hús fyrrum.

Peter Duus og Ásta innleiddu ýmsar nýjungar í Keflavík t.d létu þau gera stóran matjurtagarð við íbúðarhús sitt og ræktuðu þar ýmsar káltegundir. Deilur hlutust af við Leirubændur og dómsmál vegna landamerkja, en kartöflugarður hjónanna utan í Hólmsbjargi reyndist vera innan Leirulands.
Peter Duus og Ásta eignuðust 4 börn sem hétu, Hans Pétur, Lovísa Henrietta Florentina, Anna Guðrún og Lúðvík Tómas Henrik.
Áfram reka þau verslunina með miklum myndarbrag til ársins 1868 eða í 20 ár. Þóttu þau hin mestu sómahjón og segir Sr. Sigurður Sívertsen á Útskálum svo um Ástu: „Hún var mikill kvenskörungur. Mesta reglukona, stjórnssöm, utanhúss sem innan.” Um Peter Duus sagði Sigurður: „Hann var reglu- og atorkumaður, áreiðanlegur, stjórnsamur, vandaður húsfaðir og tápmikill.”

Duus-verslun

Peter Duus.

Hans Pétur Duus tók við Duusverzlun eftir föður sinn Pétur Duus. Hafði faðir hans selt honum verzlunina í hendur 1864 og var verzlunin þá metin á 15000 ríkisdali. Hann rak verslunina í 4 ár.

Árið 1868 taka við versluninni sonur þeirra Hans Peter, og tengdasonur Daníel Johnsen. Þeir ráku verslunina saman í 6 ár en þá kaupir Hans Peter Daníel mág sinn útúr fyrirtækinu.

Hans Peter Duus kvæntist Kristjönu Sveinbjarnardóttur. Hún var dóttir Sveinbjarnar Ólafssonar sem var kaupmaður í Keflavík þegar Peter og Ásta koma hér fyrst. 15 ára aldursmunur var á Kristjönu og Hans Peter. Þegar þau taka við versluninni þá er Kristjana 24 ára en Hans Peter 39 ára.
Kristjana var mikil kjarnorkukona. Jón biskup Helgason frændi Hans Peters sagði að hún hafi verið „einstök mannkosta- og merkiskona”. Hann segir um frænda sinn Hans Peter að hann hafi verið „einstakt valmenni sem öllum var hlýtt til sem hann þekktu.”

Duus-verslun

Hans Pétur Duus.

Árið 1896 keypti H. P. Duus verzlun verzlunarfasteign N. H. Knudtzons í Keflavík ásamt íbúðarhúsi fyrir 8 þús. krónur, einnig saltgeymsluhús í Kotvogi í Höfnum og annað á Járngerðarstöðum í Grindavík fyrir 2 þús. krónur.
Hús Knudtzonsverzlunar voru: Íbúðar- og verzlunarhús, er snéri gafli að götu, var sölubúð í norðurenda, en íbúð í suðurenda. Það hús er nú Ungmennafélagshúsið við Hafnargötu, en í þá daga æfinlega nefnt Norðfjörðshús, eftir síðasta verzlunarstjóra Knudtzonsverzlunar. Skammt frá austurhlið hússins voru 3 vörugeymsluhús, neðsta hýsið snéri gafli að götu, hin þar upp af og mynduðu þau til samans vegg upp með íbúðarhúsinu og byrgðu mjög fyrir birtu og sól. Fjórða húsið var austast og byggt við götuna, það snéri hlið að götu. Mun það ennþá standa. Þá voru stakkstæði nokkur fyrir austan húsin. Eftir að Duusverzlun varð eigandi að eigninni, lét Ólafur Ölavsen stækka þau og umbæta.

Duus

Duus 1882 – eitt glæislegasta hús á Suðurnesjum.

Árið 1900 keypti Duusverzlun eignir og hús Fichersverzlunar í Keflavík. Var sú verzlun í miðri Keflavík. Stendur aðalhúsið ennþá og er nú eign h.f. Keflavík. Mið bryggjan og nokkur gömul vörugeymsluhús fylgdu eign þessari, voru þau flest rifin, enda voru þau næsta hrörleg, en „pakk”-húsið, sem stóð fyrir enda bryggjunnar var látið standa og för þá þegar fram mikil viðgerð á því.
Næsta haust var hafist handa um byggingu sjóvarnargarða. Hafði sjór gengið mjög á landið, þar sem lægst var og flætt upp á Hafnargötuna í stórstreymi.
Var Símon Eiríksson steinsmiður fenginn til verksins og var byrjað við norðanverða miðbryggju. Á næstu árum voru byggðir varnargarðar með sjó fram alla leið út í gróf. Þá var byrjað á að byggja miðbryggjuna úr steini (var áður timburbryggja). Var unnið að þeirri smíð árum saman. Um líkt leyti var byrjað á byggingu steingarðsins mikla, er umlukti á tvo vegu hina stóru lóð fyrir ofan Duusverzlun, er þá var flutt í Fichersbúðina.”

Duus

Duus-listasafn.

Í Duushúsum, þessum gömlu verslunar- og fiskvinnsluhúsum, er nú rekið fjölbreytt menningarstarf. Saga þeirra nær aftur á 19. öld en elsta húsið, Bryggjuhúsið, var reist árið 1877 af Duus-verslun. Byggingarsaga húsalengjunnar er því vel yfir aldarlöng. Byggt var við húsin eftir þörfum hverju sinni. Um miðja 20. öld hætti verslunin rekstri og voru húsin þá notuð í tengslum við útgerð. Undir lok síðustu aldar keypti bærinn húsin fyrir safna- og menningarstarf. Nú hefur öll lengjan verið endurbyggð en því verki lauk árið 2014.
Í Duus-húsum eru níu sýningarsalir af misjafnri stærð. Þar af eru tveir salir helgaðir sérstaklega Lista- og Byggðasafni Reykjanesbæjar. Byggðasafnið er með grunnsýningu sína um sögu svæðisins á Miðlofti Bryggjuhúss. Þar svífur sagan frá tímum dönsku verslunarinnar yfir vötnum.

HPD-steinninn

HPD-steinninn úr fyrrum Duus-húsum.

Framangreint er skrifað vegna þess að þegar Duus-húsin voru endurbyggð um og eftir síðustu aldarmót fannst í grunni þeirra letursteinn. Letursteinninn er með áletruninni “HPD”, sem væntanlega má rekja til framangreinds Hans Péturs Duus. Líklega hefur hann á sínum tíma verið hornsteinninn í Bryggjuhúsabyggingu Hans Péturs.

Helguvík

Sturlaugur Björnsson við HPP-áletrun á berginu við Helguvík. Þessi áletrun hefur nú verið eyðilögð vegna áhugaleysis minjayfirvalda.

Ekki virtist vera áhugi á að varðveita steininn þann við endurbygginguna svo safnari, sem þekkti gildi hans, tók hann til tímabundinnar varðveislu.
HPD-steinninn er nú varðveittur á góðum stað í nálægð Keflavíkur – í hæfilegri fjarlægð frá Þjóðminjasafninu.
Sérstakt má telja að áletrunin “HPD” gæti mögulega verið að einhverju leyti verið skyld þeirri og sjá má á “Hallgrímshellunni” svonefndu, sem fulltrúar Þjóðminjasafnsins fjarlægðu á sínum tíma í óþökk heimamanna úr vörðu við gömlu kaupstaðagötuna milli Básenda og Þórshafnar. Ártalið 1628 á henni hefur hins vegar vakið verulegar vangaveltur, sem ekki hefur enn verið séð fyrir endann á.

Þórshöfn

Þórshöfn – áletranir á klöpp.

Duus virðist koma fyrst við sögu Keflavíkur á ofanverðri 19 öld. Gæti verslunarsaga Duus á svæðinu hafa átt sér enn lengri rætur? Fyrrum voru þarna verslunarstaðir á Básendum og Þórshöfn norðan Ósa. Við báða staðina eru fjölmargar áletranir og letursteinar. Ein þeirra, óútskýrð; “HP”, á klöpp við Þórshöfn gæti mögulega verið svarið…

Sjá meira

Heimild:
-Faxi 01.06.1948, Marta V. Jónsdóttir, Duus kaupmaður, bls. 2.
-Faxi 17.06.1948, Marta V. Jónsdóttir, Duusverslun, bls. 3-4.
-https://is.wikipedia.org/wiki/Duus_Safnah%C3%BAs
-https://sofn.reykjanesbaer.is/duushus/um-safnid/um-safnid

HP

HP á klöpp ofan Þórshafnar. Stafagerðin líkist fyrrum einkennismerki Duus.

Reykjanesviti

Í Morgunblaðið 2003 ritaði Kristján Sveinsson, sagnfræðingur, um “Fyrsta vitann á Íslandi”:

Reykjanesviti

Reykjanesviti og vitavarðahúsið 1908.

“Um þessar mundir [2003] eru liðin 125 ár frá því að fyrst var tendrað vitaljós á Valahnúk á Reykjanesi. Kristján Sveinsson segir frá tildrögum vitabyggingarinnar, fyrsta vitanum og fólki sem við þessa sögu kom.

Næturmyrkrið lagðist yfir Reykjanesið og Valahnúkinn um nónbilið 1. desember 1878. Eins og um aldir og árþúsundir rökkvaði og kennileiti landsins máðust smám saman út í samfelldan sorta. En þetta var tímamótadagur á Reykjanesinu og þótt það væri ekkert um veisluhöld eða tilhald á Valahnúknum, svo langt sem hann nú var frá öllum byggðum bólum, hefur áreiðanlega verið hátíðarsvipur á Arnbirni Ólafssyni vitaverði einni klukkustund eftir sólarlag þegar hann stóð í ljóshúsi hins nýbyggða Reykjanesvita og kveikti á olíulömpunum 15 í ljóstæki hans, hverjum á eftir öðrum, því þetta var vígsludagur vitans og formlegt upphaf vitaþjónustu á Íslandi.

Íslensk síðþróun í vitamálum

Reykjanes

Reykjanes.

Vitar höfðu logað árhundruðum saman á ströndum Evrópulanda þegar Reykjanesvitinn var byggður og hvernig stóð á þessu seinlæti í vitamálum hinnar norðlægu eyjar?
Jú, landið var afskekkt, strjálbýlt og fámennt, efnahagur íbúanna oftast ekki ýkja beysinn og atvinnuhættir fábreyttir og frumstæðir. Þessar skýringar hafa oft heyrst og sést áður í mati á fortíðinni, jafnvel svo oft að þær hljóma gjarnan sem klisja, en hvað vitana áhrærir eru ekki aðrar nærtækari.

Reykjanesviti

Brunnur undir Bæjarfelli.

Það má auðvitað velta því fyrir sér hversvegna stjórnvöld í Danmörku höfðu ekki frumkvæði að vitabyggingum á Íslandi því Danir voru meðal fremstu vitaþjóða í Evrópu. En áhrif og atbeini danskra stjórnvalda hér á landi voru í raun ætíð takmörkuð og það átti við á þessu sviði einnig. Og auk þess hafði stjórn danska ríkisins um langt skeið þá stefnu að byggja ekki vita fyrir almannafé annars staðar en þar sem þeir þjónuðu almennri skipaumferð og leit þá einkum til hinna fjölförnu skipaleiða um sund og belti við Danmörku.

Reykjanesviti

Upplýsingaskilti við Valahnúk.

Sveitarfélög í Danaveldi urðu að standa straum af innsiglingar- og hafnarvitum og vitum sem einkum komu fiskimönnum að notum. Það sem skýrir byggingu elsta Reykjanesvitans árið 1878 eru kröfur Íslendinga um siglingar millilandaskipa að vetrarlagi. Þær áttu sér rætur í því að efnahagur landsmanna fór batnandi á síðari hluta 19. aldar eftir því sem sjávarútvegur efldist og þróaðist og verslun jókst.

Þéttbýlisstaðir fóru að myndast og vaxa við ströndina þar sem þorskurinn í sjónum og krambúðir kaupmanna löðuðu til sín vaðmálsklætt sveitafólkið sem brá sér í skinnklæði sjómanna og sótti golþorska á fiskimiðin sem urðu að gullþorskum og síðan að kaffi, hveiti, silki, sirsi, tóbaki og tölum í krambúðum kaupmannanna. Eitt af meginöflum nútímans komst á kreik – tískan. Það var annað lag á dönsku skónum í ár en í fyrra. Gaberdínið með öðru móti í vor en síðasta haust svo ekki væri nú minnst á slifsin og hattana. Það var alveg orðið ólíðandi að þurfa að þrauka allan veturinn án þess að það kæmi nýr varningur í verslanirnar.

Reykjanesviti

Gata vitavarðar á milli bústaðar og gamla vitans á Valahnúk.

Það voru bæði kaupmenn og viðskiptavinir sammála um. Og það var ekki nóg að endurnýjast hið ytra með skæðum og klæðum. Sálartetrið þurfti líka sína hressingu og endurlífgun. Já, einmitt, fréttir. Umræðuefni. Það gat ekki náð nokkurri átt að það skyldu geta liðið þrír eða fjórir mánuðir án þess að tíðindi bærust utan úr þeim heimi handan úthafsins sem sífellt fleiri Íslendingar höfðu áhuga á. Það lá við að heilu stríðin færu fram hjá fólki og kóngar og keisarar gátu legið dauðir vikum og mánuðum saman áður en hægt var að segja svo mikið sem „jahá“ eða „jamm“ yfir því á Íslandi, hvað þá biðja vesalingnum fararheilla í eilífðina. Nei, það var ekki hægt að þola það lengur í þorpi og bæ að póstskipið sigldi ekki yfir veturinn.

En var þá ekki bara hægt að láta kaupskipin og póstskipið sigla á veturna? Nei. Norður í þetta órofa heimskautamyrkur stefndi enginn heilvita maður skipi.

Reykjanesviti

Gamli Reykjanesvitinn.

Jafnvel ekki þótt rausnarlegt endurgjald væri í boði því hvern fýsir að verða skipreika við úfna, illviðrasama, mannauða og koldimma strönd, en á því voru mestar líkur ef lagt var í svona háska töldu skipstjórar og forráðamenn skipafélaga. Þarna norðurfrá var hvergi ljósglætu að sjá og vindgnauðið oftast svo mikið að það heyrðist ekki í brimgarðinum fyrr en rétt áður en komið var í hann. Hvernig á að varast svo fláa strönd? Hvað ef það væri viti, spyrja kaupmenn og póststjórn. Jú, það myndi breyta málinu svara skipstjórar og útgerðarmenn. Þó að það væri ekki nema einn svo það sé í það minnsta hægt að finna þennan Faxaflóa sem flestir fara til þarna uppi.

Vitamál hefjast á Alþingi

Reykjanesviti

Merki Friðriks VIII, á Reykjanesvita.

Með setningu stöðulaganna árið 1871 og stjórnarskránni sem Kristján IX Danakóngur hafði með sér til Íslands í sumarheimsókn sinni árið 1874 fékk Alþingi fjárveitingarvald og gat farið að taka sjálfstæðar ákvarðanir um framkvæmdir í landinu. Fyrsta þingið sem þetta vald hafði kom saman í húsakynnum Lærða skólans í Reykjavík sumarið 1875 og þar hófust íslensk vitamál.
Þetta upphaf fólst á rökréttan hátt í því að tveir þingmenn, þeir Snorri Pálsson þingmaður Eyfirðinga og Halldór Kristján Friðriksson þingmaður Reykjavíkur, fluttu frumvarp til laga um vitagjald þótt enginn væri vitinn. Hinir varfærnu þingmenn vildu með þessu tryggja fjárhagslegan grundvöll vitabyggingar og vitareksturs áður en þeir legðu til að tekist væri á við þau verkefni. Frumvarp þeirra datt raunar upp fyrir á þessu þingi, en varð til þess að farið var að undirbúa byggingu á vita á Reykjanesi.
Vert er að veita þingmönnunum tveimur og bakgrunni þeirra nokkra athygli, en báðir komu þeir af þéttbýlustu svæðum landsins þar sem uppgangur var í sjávarútvegi og verslun.

Reykjanesviti

Hús fyrsta vitavarðarins.

Snorri Pálsson (1840–1883) hafði bæði fengist við verslunarrekstur og útgerð fiskiskipa við Eyjafjörð auk þess sem hann hafði verið forstöðumaður fyrir Siglufjarðardeild „Hins eyfirzka ábyrgðarfélags“ sem var tryggingarfélag fyrir fiskiskip við Eyjafjörð. Snorri var því vel kunnugur því hversu torvelt það var að fá skip til að sigla til Íslands að vetrarlagi.

Reykjanesviti

Reykjanesviti á Valahnúk.

Hann var einnig vel kunnugur hættunum sem fylgdu því að sækja sjóinn við Ísland. Í lok maí 1875, aðeins nokkrum vikum áður en Snorri tók sæti á Alþingi í fyrsta skipti, fórst eitt af hákarlaskipum hans í aftakaveðri sem þá gerði við Norðurland og með því 11 menn. Alls fórust 25 manns úr nágrenni Snorra í þessu veðri, þar á meðal bróðir hans.

Halldór Kristján Friðriksson (1819–1902) var kennari og yfirkennari við Lærða skólann en auk þess bæjarstjórnarmaður í Reykjavík og alþingismaður um langt skeið. Áhugamál hans voru fjölþætt og hann lét víða að sér kveða í félagsmálum, meðal annars var hann lengi forseti „Húss- og bústjórnarfélags suðuramtsins“, en ef að líkum lætur voru það einkum afskipti hans af bæjarmálefnum í Reykjavík sem ollu því að hann gerðist talsmaður vitabygginga því siglingaleysið yfir veturinn stóð orðið atvinnulífi í bænum fyrir þrifum.

Reykjanesvitinn 1878

Reykjanesvit

Reykjanesviti 1878.

Vitagjaldsfrumvarp þeirra Snorra Pálssonar og Halldórs Kr. Friðrikssonar varð til þess að farið var að huga að byggingu vita á Íslandi fyrir alvöru. Ekki er að sjá að komið hafi til álita að reisa fyrsta vita landsins annars staðar en á Reykjanesi, enda komu langflest skip úr hafi upp að suðvesturhorni landsins. Málið var borið undir C.F. Grove, vitamálastjóra Dana, sem lýsti þeirri skoðun sinni að einmitt af fyrrgreindum ástæðum væri mikilvægt að hefja vitavæðingu Íslands á Reykjanesinu.
Alþingismenn reyndust áhugasamir um að byggja vita á Reykjanesi með hliðsjón af hugmyndum danska vitamálastjórans en sameiginlegir sjóðir landsmanna voru rýrir að vöxtum og þekking á vitatækni var engin í landinu. Því var leitað til Dana um aðstoð og það féll í hlut skáldsins Gríms Thomsens, sem var formaður fyrstu fjárlaganefndar Alþingis, að greiða úr álitamálum í samskiptum Dana og Íslendinga á þessu sviði. Vitamál heyrðu undir danska flotamálaráðuneytið (Marineministeriet) þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að danska ríkissjóðnum bæri engin skylda til að standa straum af kostnaði við vitabyggingu á Íslandi en þar sem áformaður viti myndi gagnast dönskum kaupskipum væri flotamálaráðuneytið tilbúið til að styrkja Íslendinga í þessari fyrirætlan. Varð sú niðurstaðan að hæfilegt framlag fælist í ljóshúsi úr eir og vitatæki, en vitabygginguna sjálfa yrðu Íslendingar að sjá um.
Sumarið 1876 var notað til að kanna væntanlegt vitastæði á Reykjanesi og aðstæður til byggingar þar. Tveir undirforingjar af varðskipinu Fyllu fóru þangað í könnunarferð í lok maí og leist best á að byggja vitann á Valahnúk, yst á Reykjanesinu. Nóg var þar af hraungrjóti til byggingarinnar, skrifuðu undirforingjarnir í greinargerð sinni, og rekaviður í fjörum sem bæði mætti nota við vitasmíðina og til eldsneytis.
Vorið 1877 tilnefndi flotamálaráðuneytið danskan verkfræðing, Alexander Rothe, til að undirbúa vitabygginguna á Reykjanesi og fór hann þá um sumarið til Íslands og tvær rannsóknarferðir á Reykjanesið áður en hann afhenti tillögu sína að vita og vitavarðarbústað á Reykjanesi. Bæði Alþingi og danska þingið samþykktu fjárframlög til verksins og 10. apríl skrifaði Nellemann Íslandsmálaráðherra Hilmari Finsen landshöfðingja og tilkynnti honum að samið hefði verið við Alexander Rothe um byggingu steinhlaðins vita og vitavarðarbústaðar á Reykjanesi.

Reykjanesviti

Reykjanesviti 1908.

Rothe og vinnuflokkur hans tóku til starfa 6. júní 1878. Með verkfræðingnum kom danskur múrarameistari, Lüders að nafni, sem hafði annast byggingu Hegningarhússins við Skólavörðustíg árið 1872, en aðrir starfsmenn voru Íslendingar. Vitastæðið hafði verið ákveðið á Valahnúk og Rothe gerði ráð fyrir að nota hraungrjótið sem þarna er gnótt af. En þegar Lüders múrarameistari tók að láta hamra og meitla gnauða á grjótinu molnaði það og reyndist alveg ónýtt byggingarefni.

Reykjanesviti

Gata niður að grjótnámu við Reykjanesvita.

Þá var tekið til bragðs að flytja stuðlaberg neðan úr fjörunni um alllangan veg sem ásamt ýmsum öðrum töfum varð til þess að vitabyggingin gekk nokkuð hægar en Rothe hafði gert ráð fyrir. Honum þótti til dæmis vinnukrafturinn helst til óáreiðanlegur því karlarnir áttu það til að þjóta fyrirvaralaust úr steinhögginu í fiskiróður eða heyskap, og svo var veðurfarið á þessum útkjálka með eindæmum örðugt og óhagstætt fannst honum. Kannski var eitthvað til í því. Frásögn Gríms Thomsens bendir til þess, en fjárlaganefndarformaðurinn skáldmælti gerði sér ferð á Reykjanesið um sumarið að líta á vegsummerki og ritaði síðan í blaðið Ísafold sem hann ritstýrði um þessar mundir: Það er engin hægðarleikur að draga grjót að sjer upp á Valahnjúkinn og það steina sem 6–10 manns þarf til að hnosa þar upp; ekki er heldur ládeyðan þar dagslega, þegar lenda þarf með eitthvað, sem til vitans þarf, svo sem kalk og steinlím, vistir og áhöld. Þá gekk langur tími til að ná í vatn, gjöra brautir, höggva grjót niðri í fjöru, ef fjöru skyldi kalla, þar sem brimið beljar ár og síð, og verst af öllu hefur það reynzt, að margir dagar hafa fallið út, af því að ekki gat orðið úr verki uppi við vitaturninn fyrir stormi og óveðri. Það viðrar öðruvísi upp á Valahnúknum en niðri á Austurvelli.

Reykjanesviti

Persónur er komu við sögu fyrsta vitans.

Þótt Rothe yrði ýmislegt mótdrægt við byggingarframkvæmdirnar tókst að ljúka þeim um haustið og var þá risinn á Valahnúknum steinhlaðinn viti, límdur með steinlími sem í var Esjukalk, en á þessum tíma var kalknám í Esjunni og brennsluofn í Reykjavík sem Kalkofnsvegur dregur nafn sitt af. Einnig hafði verið byggður á Reykjanesinu bær fyrir vitavörðinn og fjölskyldu hans.

Reykjanesviti

Reykjanesvitinn á Valahnúk.

Reykjanesvitinn frá 1878 var áttstrendur, um 4,5 m í þvermál og 6,2 m á hæð. Turninn skiptist í tvær hæðir, jarðhæð og efri hæð þar sem vaktherbergi vitavarðarins var.
Ljóshúsið var úr steypujárni og umhverfis það svalagólf sem girt var með járnhandriði. Ljóstæki vitans var upphaflega samansett úr 15 olíulömpum og að baki hverjum þeirra var holspegill úr messing sem magnaði ljósið. Þremur lömpum með speglum var bætt í ljóstækið árið eftir að vitinn var tekinn í notkun til að bæta lýsingu hans. Þetta ljóstæki var í vitanum fram til ársins 1897, en þá var sett í hann 500 mm snúningslinsa, sem enn er til, og steinolíulampi með tveimur hringlaga kveikjum. Vitinn stóð fram til ársins 1908.
Eins og kunnugt er þá er Reykjanesið jarðskjálftasvæði og urðu jarðskjálftar og ágangur sjávar á Valahnúkinn til þess að laska svo vitann og undirstöðu hans að talin var hætta á að hann félli í hafið og vitavörður neitaði að standa þar vaktir. Nýr viti, sá sem enn stendur, var reistur veturinn 1907–1908 og þann 16. apríl 1908 var gamli vitinn felldur með sprengingu.

Vitavörðurinn

Reykjanesviti

Arinbjörn Ólafsson, vitavörður.

Bygging og starfræksla fyrsta vitans í óbyggðum Reykjanessins hafði það í för með sér að til varð ný starfsgrein á Íslandi – vitaverðirnir. Starf þeirra var bindandi því ekki varð hjá því komist að halda stöðugan vörð um vitaljósið á logtíma vitans meðan notaðir voru olíulampar. Þess utan þurfti vitavörður að fægja og þrífa, fylla olíu á lampa og gæta vitans í hvívetna. Stundum var gestkvæmt og þá var ekki annað en sjálfsagt að leyfa „mönnum er skýra frá nöfnum sínum og heimilum, og sem ekki er ástæða til að gruna um neina ósiðsemi, að skoða vitabygginguna“. Það sagði erindisbréf vitavarðarins, en ölvaðir menn, óuppdregnir dónar sem hræktu á gólfin og hundspott þeirra máttu ekki stíga fæti í vitann.

Reykjanesviti

Arinbjörn og Þórunn.

Fyrsti íslenski vitavörðurinn hét Arnbjörn Ólafsson, trésmiður að iðn og hafði unnið við byggingu vitans sumarið 1878. Hann var fæddur 24. maí 1849 og var því rétt að verða þrítugur þegar hann flutti búferlum á Reykjanesið ásamt Sesselju systur sinni, en hún hafði einnig starfað við vitabygginguna þar sem hún var ráðskona. Áður en Rothe verkfræðingur hvarf af landi brott hafði hann veitt Arnbirni einhverja tilsögn í umhirðu vitans og meðferð vitatækjanna, en það er af varðveittum bréfum vitavarðarins að sjá að þessi kennsla hafi verið hálfgert í skötulíki og hann taldi sig vanbúinn til starfans af þeim sökum. Alþingi brást við beiðnum Arnbjörns um frekari vitamenntun og lét honum í té fjárupphæð til Danmerkurfarar. Þangað hélt hann vorið 1879 og nam vitavörslu fram eftir sumri.

Reykjanes

Reykjanesviti og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Reykjanesið var sannarlega afskekkt á þessum tímum og orðið nokkuð langt síðan þar var búið þegar vitavörðurinn settist þar að. Varla að það væri reiðvegur þangað út eftir og hægur vandinn að villast í hraunbreiðunni ef skyggni brást eitthvað. Jón Jónsson landritari og vitaeftirlitsmaður lét þetta þó ekki aftra sér frá því að takast á hendur heimsókn til vitavarðarins á jólunum árið 1880. Þessi ötuli embættismaður lagði upp frá Reykjavík á Þorláksmessu, gisti í Höfnunum og var kominn að vitanum síðdegis á jóladag. Þangað hafði hann fikrað sig í stjörnubjörtu veðri og skemmt sér við að telja vörðurnar á leiðinni. Þær voru alls 61 og á heimleiðinni kom sér vel að vita þetta því þá var snjóbylur og ágætt að geta talið vörður til að vita hvar maður var staddur. En það myndi ekki veita af einum 50 vörðum til viðbótar, taldi hann, ef menn ættu að geta verið vissir um að rata í hvaða veðri sem væri.

Reykjanes

Reykjanes – uppdráttur ÓSÁ.

Jón landritari sá vitaljósið við níundu vörðu frá Höfnum talið og var harla ánægður með hvað það var skært. Það var öryggi og staðfesta í þessu ljósi sem róaði landritarahugann, en aðkoman, þegar í vitavarðarbústaðinn kom um kvöldmatarleytið, kom heldur betur róti á embættismanninn. Það kom nefnilega í ljós að þar sat hvert mannsbarn á bænum og át sinn jólamat, hver sem betur gat, líka vitavörðurinn og aðstoðarmaður hans. Arnbjörn vitavörður reyndi að afsaka sig með jólahátíðinni en landritari lagði ekki eyru við slíku hjali heldur benti honum á að „úr því eptirlitið ljeti ekki jólahátíðina aptra sjer að gæta skyldu sinnar væri vitaverðinum engin vorkunn að gera slíkt hið sama“. Hann fékk skriflega nótu og varð svo að skunda á vitavaktina.

Það var alla tíð gerð rík krafa um árvekni og samviskusemi vitavarða og flestir stóðu þeir vel undir því, einnig Arnbjörn Ólafsson þrátt fyrir jólamálsverðinn. Hins vegar hentaði ekki öllum sú mikla einangrun sem fylgdi búsetunni á vitavarðarstöðunum og það átti við um hann og fjölskyldu hans. „Það er annað vorhugi en vetrar,“ skrifaði Arnbjörn Jóni landritara haustið 1879 og vetrarkvíðinn er greinilegur í þessu bréfi hins unga vitavarðar sem hafði kvænst jafnöldru sinni, Þórunni Bjarnadóttur úr Skagafirðinum, um sumarið. Hvernig myndi ástinni reiða af í vetrarríki Reykjanessins?Reykjanesviti

Reykjanesviti á Valahnúk

Það gekk bara vel því þau Arnbjörn og Þórunn héldu saman meðan bæði lifðu. En árið 1884 höfðu þau fengið nóg eftir sex ára dvöl á Reykjanesinu og Arnbjörn sagði upp vitavörslunni. Hann fluttist þá til Reykjavíkur en nokkrum árum síðar til Keflavíkur þar sem hann stundaði verslunarstörf og rak bakarí.
Um aldamótin 1900 átti Arnbjörn mikil viðskipti við enska togara og varð frumkvöðull í íslenskri togaraútgerð þegar hann fór fyrir hópi Íslendinga sem keypti fyrsta togarann, Coot að nafni, til Íslands árið 1905. Vegna viðskipta Arnbjörns áttu þau Þórunn heimili sitt erlendis um skeið, bæði í Danmörku og Englandi. Þórunn féll frá árið 1912 og Arnbjörn tveimur árum síðar.” -KS

Sjá meira HÉR.

Heimild:
-Morgunblaðið 30. nóv. 2003, Kristján Sveinsson – Fyrsti vitinn á Íslandi, bls. 20-21.

Reykjanesviti

Reykjanesvitar – fyrr og nú.