Tag Archive for: Reykjanesbær

Keflavík

„Herra Óskar Halldórsson hefur tekist það á hendur, sem mörgum hefur óað við. Það er hvorki meira né minna en að koma hafskipabryggju eða bryggju fyrir í Keflavík.

Keflavik-gamalt-21

Er sagt, að verkið vinnist vel og munu flestir óska þess, að Óskari heppnist að fullgera og leiða til lykta þetta fyrirtæki sitt. Það eru mörg ár síðan farið var að ræða um hafskipabryggju í Keflavik, og eflir því sem aflabrögð urðu meiri á Suðurnesjum, eftir því óx þörfin, að hún kæmi þar. — Á Fiskiþingum hefur mál þelta verið rætt, kostnaðaráætlun og ýmsar mælingar gerðar, en allt hefur staðið við sama. Salt hefur oftast orðið  dýrara og flutningur á sjávarafurðum til kaupenda sömuleiðis, allt vegna bryggjuleysis. Bryggjur þær, sem Óskar lætur gera, verða tvær og er önnur að mestu fullger, þegar þetta er ritað (8. júlí). —
Ætlast hann til að við hvora megi afgreiða togara, en vöruskip, sem lengri eru, liggi við báðar, þannig, að losa eða ferma megi úr 2—3 lúkum. Landssmiðjan hefur að mestu verk þetta með höndum og leggur til kafara, sem gengur frá neðri endum stálbjálka á hafsbotni, sem eru aðal-máttarstoðir bryggjunnar. Auk þess vinna þar nokkrir smiðir úr Hafnarfirði.“

Heimild:
-Ægir, 25. árg. 1932, 7. tbl. bls. 164.
Keflavík

Prestastígur

Nafnið Prestastígur er nýlegt heiti á fornri og fyrrum fjölfarinni þjóðleið á Reykjanesi. Sú skýring á nafninu er þó líkleg að með prestakallalögum frá 1907 var Kirkjuvogssókn í Höfnum lögð til Staðarprestakalls í Grindavík og hefur því Staðarprestur oft átt erindi um þessa fornu leið.

Prestastígur Þegar þessi forna þjóðleið er farin frá Höfnum liggur leiðin frá Kalmanstjörn um Hafnarsand fyrir norðan Presthól og um Kinn, þar sem farið er ofan í sigdalinn upp af Stóru Sandvík, þaðan hjá Haug og yfir Haugsvörðugjá og síðan með rótum Sandfellshæðar. Þar fylgir gatan hraunjaðri Eldvarpahrauns. Á vegi okkar verður þá nýlegur vegaslóði sem er tilkominn vegna lagningar ljósleiðara. Þegar kemur á móts við Rauðhól er farið yfir hraunhaft að hólnum og síðan hjá Eldvörpum og yfir Hrafnagjá og þaðan að Húsatóftum í Staðarhverfi.
Öll þessi leið [15 km] er vel vörðuð og ber þess merki að þar hefur verið fjölfarið um aldir. Víða sést hvar umferðin hefur markað alldjúpar götur í hraunið og lausagrjót hefur verið tínt úr götunni og lagt til hliðar. Þetta var aðalleið vermanna af Suðurlandi, sem sóttu sjó frá Höfnum og af Rosmhvalanesi og þar hafa skreiðarlestir verið á ferð. Eins hafa Grindvíkingar lagt leið sína þarna um á þeim tíma sem þeir þurftu að sækja verslun til Básenda, þótt þeir hafi einnig farið sjóleiðina, en á 17. og 18. öld urðu þeir að sæta því í nokkra áratugi að sækja verslun þangað sökum þess að kaupmenn treystu sér ekki til að sigla til Grindavíkur vegna skipskaða sem urðu þar á fyrri hluta 17. aldar. Þá hefur Sigvaldi Sæmundsson póstur verið þarna á ferð á leið sinni milli Básenda og Grindavíkur en hann var fyrsti póstur sem ráðinn var með skriflegum samningi til póstferða árið 1785.

Hafnir voru fyrr á öldum blómlegur útgerðarstaður og var þar stundaður umfangsmikill búskapur bæði til lands og sjávar. Vermenn fjölmenntu þangað á vertíðum og eru sagnir til um stórfellda útgerð Ketils VarðaKetilssonar í Kotvogi, en hann gerði út þrjú skip á árunum 1870 – 1880 og voru þá um 50 sjómenn á hans vegum auk 22 annarra heimilismanna. Ketill var meðal auðugustu manna landsins á sínum tíma. Hann byggði steinkirkju þá sem enn stendur á Hvalsnesi, en Ketill átti m.a. alla Hvalsnestorfuna og Járngerðarstaði í Grindavík.
Landkostum hefur á síðari árum hrakað mjög í Höfnum vegna sandágangs og margir bæir farið í eyði af þeim sökum, þar á meðal Haugsendar, sem fóru snemma í eyði. Haugsendar voru milli Kirkjuvogs og Merkisness, tún þar voru mikil, húsaskipan vegleg og myndarlega búið. Sagnir um mannlíf þar lifa í gömlum húsgangi:

Á Haugsendum er húsavist
sem höldar lofa.
Þar hefur margur glaður gist,
og gleymt að sofa.

Í seinni tíð er farið að nefna þessa fornu þjóðleið Prestastíg en hvergi finnast þess merki í gömlum heimildum. Geir Bachmann lýsir þeim þjóðleiðum sem frá Grindavík liggja í sóknarlýsingu frá 1840. Hann nefnir með nafni fyrstu þrjá aðalvegi yfir hraunin en segir svo: „Sá fjórði og síðasti vegur sem úr sókninni liggur og alþjóðarvegur má kallast, liggur upp frá Húsatóftum í útnorður ofan í Hafnirnar og er hann sá einni sem héðan farinn verður þangað“. Þetta er eini vegurinn frá Grindavík sem Geir nefnir ekki með nafni.
Jarðfræði (Haukur Jóhannesson)

PrestastígurPrestastígur liggur milli tveggja heimsálfa þar sem hann liggur yfir flekaskilin milli Evrópu- og Norðurameríkuflekanna, sem svo eru nefndir. Því má segja, að þegar Prestastígur er genginn, þá fari ferðalangar frá Ameríku og til Evrópu. Reykjanes er að vissu leyti einstakt í sinni röð þar sem þar er eini staðurinn á jarðríki þar sem sést greinilega hvernig úthafshryggur gengur á þurrt land. Best er að skoða sprungukerfið í Stóru-Sandvík eða sunnan við Valahnúk.
Þegar farið er frá Kalmanstjörn er gengið yfir nokkuð slétt, uppblásið helluhraun. Helluhraun þetta er hluti af stórri dyngju sem jarðfræðingar nefna Sandfellshæð. Í Sandfellshæð er stór gígskál, Sandfellsdalur, og þar á hraunið upptök sín. Hraunið er talið hafa runnið fyrir um 12 þúsund árum. Þegar norrænir menn komu til Íslands, síðla á níundu öld, var svæði þetta allt vel gróið en eftir mikil eldsumbrot og öskufall á Reykjanesi á öðrum fjórðungi þrettándu aldar hófst uppblástur á svæðinu. Ef grafið er niður í sandbollana í hrauninu þá er komið niður í jarðveg. Í hrauninu ber mikið á hraunhólum sem eru sprungnir í kollinn.

Þar sem Prestastígur liggur hæst er komið fram á gjábrún. Þar heitir Haugsvörðugjá. Uppi á bakkanum vestan megin eru gjallgígahrúgöld og nefnist þar Haugur. Í kringum gígana er þunnt gjallkennt hraun og er það eldra en 8000 ára.
Ef veður er gott er þess virði að taka stuttan útúrdúr og ganga á Einiberjahól sem er ævagamall, stakur gígur skammt sunnan við Prestastíg, suðvestur af Sandfellshæð.
HúsatóftirSunnan undir Sandfellshæð er stakur gíghóll, Rauðhóll og frá honum hefur runnið hraun til suðurs og suðvesturs og er Prestastígur milli hrauns og hlíðar, þ.e. liggur um slakkann þar sem Rauðhólshraunið rennur upp að Sandfellshæð. Rauðhólshraun er 2000-3000 ára.

Gengið er framhjá Rauðhól og austan við hann tekur við mosagróið apalhraun. Það er yngsta hraunið á svæðinu og rann árið 1226. Þá opnaðist liðlega 10 km löng gossprunga og nefnist hún Eldvörp. Meðal jarðfræðinga er hraunið nefnt einu nafni Eldvarpahraun en í tali heimamanna hétu einstök svæði þess ýmsum nöfnum, m.a. Sundvörðuhraun. Gígarnir í Eldvörpum eru fjölmargir og margir þeirra fallegir. Flestir eru gjall- eða klepragígar og eru nær allir óskertir og er gígaröðin ein af fáum á Reykjanesskaganum sem hefur [að mestur] verið hlíft við efnistöku. Um tveimur kílómetrum norðar en þar sem Prestastígur Prestastígurfer yfir gígaröðina er allnokkur jarðhiti og þar hefur verið borað á vegum Hitaveitu Suðurnesja. Eldsumbrotin á þrettándu öld yst á Reykjanesskaganum stóðu með hléum frá um 1210 til 1240. Mest gekk á árið 1226. Þessi hrina er nefnd Reykjaneseldar af fræðimönnum.

Þar sem Prestastígur fer yfir þetta sögulega hraun er það um 1,5 km á breidd. Þá er komið ofan í kima upp í hraunið og fyrst ber þar við stór og mikil gjá er nefnist Hrafnagjá og er hún í svonefndum Tóttarkrókum. Hraunið sem tekur við er blásið helluhraun og úr Sandfellshæð eins og vestar. Í Tóttarkrókum eru forn hlaðin byrgi sem menn vita nú ekki til hvers voru notuð. Austan við Eldvarpahraunið og niður að Húsatóftum ber mikið á stórum opnum gjám. Fyrr er nefnd Hrafnagjá og næst er Miðgjá og næst Húsatóftum er Baðstofa.

Heimild um jarðfræði: Kristján Sæmundsson. Jarðfræðikort af Svartsengi, Eldvörpum og Reykjanesi, blað 2. Unnið af Orkustofnun fyrir Hitaveitu Suðurnesja.

Ólafur Sigurgeirsson, var verslunarmaður í Reykjavík og um árabil einn af fararstjórum Ferðaf. Íslands.

Prestastígur

Keflavíkurflugvöllur

Eftirfarandi „Tilkynning frá ríkisstjórninni“ birtist í Morgunblaðinu árið 1942:

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur, vígsla.

„Í því skyni að ameríska hernum megi takast að verja Ísland og draga sem mest úr áhættu landsmanna, er aðeins takmörkuð umferð leyfð um svæði það á Reykjanesi, sem sýnt er á hjer birtum uppdrætti.
Á Reykjanesi norðvestanverðu alt það svæði, sem afmarkast af línu dreginni yfir nesið, og liggur hún þannig; hefst í Litlu-Sandvík og liggur þaðan austur á við h.u.b. 6.3 km. til staðar, sem liggur um 1 km. í suður frá Sandfellshæð, þaðan í norðaustlæga átt h.u.b. 13 km. vegalengd upp á brún hæðar þeirrar, er nefnist Litla-Skógfell, þaðan í norður átt h.u.b. 6.3 km. vegalengd til strandarinnar skamt innan við Grímshól á Vogastapa.
Land það, sem aðeins takmörkuð umferð er leyfð um, skal ekki taka yfir Innri Njarðvík, Ytri Njarðvík, Keflavík, Leiru, Garð, Sandgerði, Hvalsnes, Stafnes, Hafnir, nje heldur tiltekin landsvæði ræktuð eða umbætt og eru þau sýnd utan merkjalínu greinds svæðis á áðurgreindum uppdrætti.
Auk þess eru neðangreindir vegir innan svæðis umferðatakmörkunarinnar undanskildir takmörkuninni, svo sem sýnt er á uppdrættinum, sem hjer er prentaður með:
1. Vegurinn um Njarðvíkur, Keflavík, Leiru. Garð, Sandgerði og Stafnes.
2. Vegurinn frá Innri-Njarðvík til Hafna.
3. Vegurinn til Grindavíkur.
Landamerki þessara kauptúna og svæða verða auðkend með staurum máluðum rauðum og hvítum.

BANNSVÆÐI
Bannsvaedi-221Allir þeir staðir, þar sem tæki eru sett upp, mannvirki reist eða hernaðarstörf framkvæmd, innan þess svæðis, sem aðeins takmörkuð umferð er leyfð um, eða eru afgritir og merktir sem slíkir, eru bannsvæði.
Íslendingar mega ekki fara inn á áðurnefnd svæði, sem bönnuð eru eða leyft takmörkuð umferð um, nema þeir hafi í höndum tilhlýðileg vegabrjef. Vegabrjef samþykt af íslensku ríkisstjórninni fást, þegar um þau er beðið hjá bæjarfógetanum í Hafnarfirði og lögreglustjóranum í Keflavík og munu þeir leiðbeina umsækjanda til hlutaðeigandi ameríks starfsmanns. Umsókninni skulu fylgja tvær myndir af umsækjanda, 5×5 cm. á stærð. Umsóknin skal tilgreina þann sjerstaka hluta takmarkaðs eða bannaðs svæðis, sem umsækjandinn óskar að fara um, og sömuleiðis á hvaða tíma eða tímum og í hverjum tilgangi hann hygst að fara þar um. Sá sem fer um takmarkaða eða bannaða svæðið skal ávalt bera á sjer vegabrjef sitt.
Engar ljósmyndavjelar eða myndatökuáhöld má fara með inn á takmarkað eða bannað svæði nje geyma þar.
Vegabrjef þurfa Íslendingar ekki til þess að ferðast um neðangreinda vegi:
1. Veginn um Njarðvíkur, Keflavík, Leiru, Garð, Sandgerði og Stafnes.
2. Veginn frá Innri-Njarðvík til Hafna.
3. Veginn til Grindavíkur.
Þar sem vegir þessir liggja um þau svæði, sem umferð er takmörkuð um, er frjáls að fara um veginn, en hvorki má farartæki nje maður staðnæmast þar nje dvelja.
Íslenskar flugvjelar mega ekki fljúga yfir áðurgreind svæði, sem umferð er takmörkuð um, og eigi nær þeim en í 24 km. fjarlægð. – Reykjavík 18. maí 1942.“

Heimild:
-Morgunblaðið 21. maí 1942, bls. 6

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur.

Keflavík

Í þremur tölublöðum Faxa árin 1947 og 1948 eru birtir „Þættir úr sögu verslunar á Suðurnesjum“ eftir Mörtu V. Jónsdóttur:

„Það hafa löngum farið litlar sögur af Rosmhvalanesi eða Suðurnesjum, eins og Skaginn er kallaður í daglegu tali, eða því fólki, er þar hefur búið fyrr og síðar. Þó mun mörg sagan, ef geymst hefði, hafa borið Suðurnesjabúum vitni um snilli sjómennsku, drengskap og áræði, þrek og þorí hinum mörgu mannraunum liðinna alda. Svo munu þeir er bezt þekkja liðna kynslóð geta mælt. En það er eins og örlögin hafi frá upphafi byggðar séð um, að þaðan væri engra fregna að leita.

Básendar 1726

Básendahöfn og Keflavíkurhöfn 1726.

Tvisvar hafa verið ritaðir annálar á Suðurnesjum á fyrri öldum svo vitað sé. Báðir hafa þessir annálar glatast.
Sennilegt er, að íbúar Skagans hafi snemma dregið björg í bú, ekki einungis handa sér og sínum, heldur einnig handa öðrum. Hefur þar af myndast visir til verzlunar. Og einhverja góða og gilda ástæðu hefur Steinunn gamla landnámskona haft, þegar hún keypti landið af Ingólfi frænda sínum. Mætti geta þess til, að hún hafi þá þegar verið búin að sjá, hver gullkista lá úti fyrir ströndinni, er hún fór þangað til bús.
Það er sennilegt, að Keflavík hafi snemma á öldum orðið aðsetur verzlunar og viðskipta. Hefur lega staðarins valdið þvi, þar sem á báðar hliðar eru hin aflasælu fiskimið á vestanverðum Faxaflóa og jafnvel á sjálfri Keflavíkurhöfn oft og einatt uppgripa afli.

Höfnin í Keflavík, er liggur fyrir opnu hafi mót austri, var reyndar aldrei talin örugg  höfn, þótt akkerisbotn væri góður og dýpi nóg (14 faðmar), var skipum er þar lágu, hætta búin, er austan-suðaustan stormur geisaði. Var og talið allt fram á ofanverða 19. öld, að engri björgun yrði við komið, ef skip ræki upp að Berginu, enda urðu þar skipsakaðar nokkrir.
Aðrar hafnir á Skaganum voru áður fyrri Grindavík (Staðarsund), Þórshöfn norðan Ósbotna og Bátsendar sunnan við Stafnes. En allar þessar hafnir hurfu úr sögunni um og eftir aldamótin 1800 og varð Keflavík þá einvöld á Skaganum.
Keflavík
Svo sem kunnugt er, ráku Englendingar, Þjóðverjar og Hollendingar verzlun og fiskiveiðar hér við land fyrr á öldum. Koma þessar þjóðir, einkum Englendingar og Þjóðverjar, því mikið við sögu Skagans.
Nýi annáll getur þess, að enskt skip hafi komið til Suðurlands 1412. Mun það vera elzta heimild um siglingar Englendinga hingað til lands. Sumarið 1415 er aftur getið 6 enskra skipa, er lágu í Hafnarfirði og verzluðu við landsmenn. Eitt þeirra „reyfaði“ skreið á Rosmhvalanesi og sést af því, að þeir hafa verzlað við suðurhafnirnar og er harla líklegt, að Keflavík hafi verið ein þeirra.
Aðalhöfn Englendinga við Faxaflóa, var Hafnarfjörður. En Hamborgarkaupmenn, er líka vildu fleyta rjómann af verzlun við Íslendinga, urðu Englendingum þungir í skauti og var oft æði róstursamt þeirra í milli.

Hollenskt kaupfar

Hollenskt kaupfar frá 15. öld.

Árið 1518 var orusta háð í Hafnarfirði milli Englendinga og Hamborgarmanna. Höfðu hinir síðarnefndu dregið saman mikið lið. Er sagt, að þá hafi komið til móts við þá 48 þýzkir menn sunnan frá Vatnsleysu, Keflavík, Bátsendum og Þórshöfn. Á þessu sést greinilega, að Þjóðverjar hafa þá verið búnir að leggja undir sig hafnirnar á Suðurnesjum.
Í orustu þessari sigruðu Þjóðverjar og náðu þá yfirráðum í Hafnarfirði. Hafa þeir eftir það orðið svo til einráðir á Faxaflóa.
Englendingar höfðu eftir þetta aðsetursstað í Grindavík um nokkurt skeið. En þetta var stundarfriður. Árið 1532 réðust Þjóðverjar að enskum kaupmanni, er þá verzlaði í Grindavík og hafði gjört sér vígi ‘á Járngerðarstöðum. Drápu Þjóðverjar kaupmanninn og allt lið hans. Hafa það án efa verið erfiðir dagar fyrir alþýðu manna að búa við sífelldar óeirðir og ójöfnuð útlendra manna. Þó hefur þjóðin orðið að þola margfalt meira, er konungsverzlun Dana varð hér einvöld árið 1602. Að visu hafa aðrar þjóðir verzlað við landsmenn eftir sem áður á laun, en eftir því sem lengur leið, urðu verzlunarsamböndin sterkari og böl landsmanna ægilegra.

Staður

Grindavíkurhöfn og Staður í Grindavík. Hafnarkort Dana frá 1751.

Á einokunartímabilinu var hverri höfn úthlutað vissu umdæmi, var hverjum manni innan þess umdæmis, skylt að verzla við sinn verzlunarstað. Ef út af þessu var brugðið og upp komst, voru harðar refsingar dæmdar þeim, er framið hafði þá óhæfu að verzla við aðra en sinn kaupmann.
Alræmd varð sagan um Hólmfast Guðmundsson, bláfátækan búðarsetumann í Brunnastaðahverfi á Vatnsleysuströnd. Hafnarfjarðarkaupmaður taldi hverfi þetta til síns umdæmis. Voru þó mörkin ekki glögg og oft um deild. Hólmfasti hafði orðið á sú skyssa að selja Keflavíkurkaupmanni 3 löngur, 10 ýsur og 2 sundmagabönd. Hefur ef til vill fengið betra verð. Mál út af þessu tiltæki Hólmfasts var tekið fyrir á Kálfatjarnarþingi sumarið 1699 og var hann dæmdur sekur. Ekkert átti hann til að borga með sektina, nema bát sinn, er talinn var svo ónýtur að hann væri ekki gjaldgengur. Var Hólmfastur því húðstrýktur á þinginu að viðstöddum amtmanni, HafnarfjarSarkaupmanni og öllum þeim, er þingið sóttu. Sætti hann þar hinni grimmilegustu meðferð. Á þessu sama Kálfatjarnarþingi lét sá hinn sami, Hafnarfjarðarkaupmaður, alþýðu gefa sér vitnisburð mjög lofsamlegan um verzlun og viðskifti þeirra í milli. Er augljóst, að alþýða manna hefur þá verið svo þrautpínd, að enginn hefur þorað að hreyfa andmælum, er þeir gáfu honum slíkan vitnisburð. En tíðum hafa Íslendingar verið langminnugir og svo mun hafa verið um þá menn, er þoldu óréttinn á þessu Kálfatjarnarþingi.

Hólmfastskot

Tóftir Hólmfastskots.

Á Vatnsleysuströndinni, einmitt á þeim sama stað er atburður þessi gjörðist, lifði sagan um Hólmfast á vorum alþýðu fram undir síðustu aldamót og varð fastur liður í þeim sæg rökkursagna, er fullorðna fólkið sagði börnum og unglingum.
Nálega tveim öldum síðar en atburður þessi gjörðist, heyrði ég söguna sagða eina slíka rökkurstund. Maður sá, er söguna sagði, kunni frá mörgu að greina. Hann hafði alið allan sinn aldur á Vatnsleysuströnd og var af góðum ættum á Suðurnesjum hið næsta. Hann sagði, að Hólmfastur hefði eftir atburð þennan flutzt út í Njarðvíkur. Hefði bóndinn í Innri-Njarðvík tekið hann í sína umsjá og hefði Hólmfastur dvalið þar til æviloka. Sögumaður endaði með þessum orðum: „Þessari sögu megum við aldrei gleyma“.
Þótt þessi gerð sögunnar séu munnmæli ein, eru líkur fyrir því, að rétt sé hermt. Í manntalinu 1703, eða 4 árum síðar en atburður þessi gjörðist, búa á einni Innri-Njarðvíkurhjáleigunni: Hólmfastur Guðmundsson 56 ára, Solveig Sigurðardóttir kona hans 38 ára og Þorsteinn sonur þeirra II ára gamall. Býli þetta er nafnlaust í manntalinu, en lítill vafi er á því, að nafn Hólmfasts hefur festst við býlið. Mun það vera sama býlið, sem enn í dag heitir Hólmfastskot.

Skip 1600-1700

Skip – 1600-1700.

Um aldamótin 1700 var svo þrengt orðið kosti landsmanna, að ekki þótti viðunandi. Var Lárus Gottrúp lögmaður fenginn til utanfarar með erindisbréf, eða bænaskrá til konungs, er fjallaði um hörmungar landsmanna og harðdrægni kaupmanna. Lögmaður sigldi með Keflavíkurskipi og með honum kona hans og barn þeirra ásamt þjónustufolki.
Þegar lögmaðurinn var kominn suður til Keilavíkur, ásamt fólki sínu, albúinn til ferðar, heimtaði kaupmaður, að hann legði fram mat til fararinnar. Lögmaður ætlaði þá að kaupa kjöt og smjör af bændum þar syðra, því sjálfur hafði hann bú á Þingeyrum og voru auðvitað engin tök á að nálgast mat þaðan, en skipið lá albúið til siglingar á Keflavíkurhöfn.

Leiran

Leiran – uppdráttur ÓSÁ.

Er kaupmaður vissi um fyrirætlanir lögmanns, fyrirbauð hann bændum að selja lögmanni og hótaði þeim stórum refsingum, ef þeir voguðu slíkt. Þorðu bændur þá ekki að selja fyrr en lögmaður hafði heitið þeim, að taka alla sökina á sig. Keypti lögmaður svo af bændum það, er hann þurfti og sigldi með skipinu. Þetta gerðist sumarið 1701. Er þetta glöggt dæmi um verzlunarhætti og átök milli landsmanna og kaupmanna. Svo er sagt að Hamborgarar hafi fyrst sett verzlunarbúðir sínar á hólma nokkurn skammt frá landi í Keflavík (Jón Aðils – Einokunarverzlun Dana á Íslandi 1602—1787). Það er mjög ólíklegt, að hólmi þessi hafi verið í Keflavíkurhöfn. Dýpi hafnarinnar er mikið og hvergi sker eða grynningar, sem gefa til kynna, að land hafi staðið þar upp tir sjó. Engin munnmæli eru til þar syðra um sokkinn eða eyddan hólma. Hefði þó verið eðlilegt, að sögn um slík umbrot hefði varðveitzt. En fyrir framan Leiruna, næstu byggð fyrir utan Keflavík, er hólmi, er var aðsetur þýskra endur fyrir löngu.

Sigurður Sívertssen

Sigurður Sívertsen.

Árið 1840 ritaði séra Sigurður Sivertsen, prestur á Útskálum, lýsingu á prestakalli sínu. Þar segir svo um Leiruhólma: „ — Hann var áður grasi vaxinn, sem ennþá sér vott til. Höfðu þar þýskir haft fyrr meir verzlunarbúðir sínar á sumrum og lagt skipum sínum: hafa rúsir eftir þá allt til skamms tíma sést“. Gæti hólmi þessi, sem Íslendingar nefna ennþá Leiruhólma, hafa orðið í munni útlendings að Keflavíkurhólma, einkum ef þeir hafa þá samtímis verzlað á Keflavíkurhöfn. Eru mörg dæmi þess, að útlendingar breyttu staðanöfnum hér eftir geðþótta.
Skúli landfógeti Magniísson segir í hinni merku ritgerð sinni um Gullbringu- og Kjósarsýslu, er hann samdi árin 1783—85, að Vatnsnesvík hafi verið verzlunarstaður til forna „— en sennilega áður en verzlun hófst í Keflavík“. Á þessum stað, sunnanvert við Vatnsneskletta, eru nú hafnarmannvirki Keflavíkur.
Árið 1787 var verzlunin hér á landi gefin frjáls, en einungis við alla þegna Danakonungs. Konungsverzlun Dana, sem hér hafði setið að völdum frá 1602, seldi þá, og næstu ár, verzlanir sínar. Danskir kaupmenn, sennilega margir þeirra er verið höfðu verzlunarfulhrúar fyrir konungsverzlunina, keyptu þá verzlanirnar og ráku þær áfram. Munu verzlunarhættir lítið hafa breytzt fyrst í stað, en smátt og smátt hefur farið að rofa til, enda risu þá upp fleiri verzlanir við hverja höfn.

Keflavík
Kaupmaður sá, er keypti Keflavíkurverzlun, hét Christian Adolph Jacobæus, þá kaupmaður í Keflavík. Kaupverð verzlunarhúsa, lóðar og varnings var 10265 ríkisdalir 17% skildingur í „kurant“-mynt. Christian Adolph var fæddur í Keflavík 1767 og hefur ungur tekið við verzlunarforstöðu eftir föður sinn, Holgeir gamla Jacobæus, sem var kóngskaupmaður í Keflavík.
Haustið 1785 kom Jacobæus upp frá Danmörku með Hafnarfjarðarskipi og var þá veikur af bólusótt. Hafði hann farið utan um vorið í verzlunarerindum, en tekið sóttina um það leyti, er hann lagði í haf. Barst bólan eftir þetta um landið og varð af mikið mannfall.

Keflavík

Keflavík 1800.

C. A. Jacobæus kvæntist 1794 danskri konu, Reginu Magdalenu, er var fædd í Kaupmannahöfn 1769. Þau áttu mörg börn, þar á meðal Holgeir Jacobæus, sem varð kaupmaður í Keflavík eftir föður sinn og Sophiu, er átti Ebbesen verzlunarstjóra í Rvík.
Jacobæus stofnaði verzlun í Reykjavík 1795, ásamt Ludvigsen stórkaupmanni í Kaupmannahöfn. Var hann annar elzti kaupmaður í Reykjavík. Hefur hann þá átt mikinn húsakost í Keflavík, því hann lét flytja tvö af Keflavíkurhúsum sínum til Reykjavíkur og byggja þau þar, við Hafnarstræti. Var annað húsið sölubúð og íbúð sitt í hvorum enda; hitt var vörugeymsluhús, stórt og mikið, og eflaust vel byggt, því það hús stóð hér í Reykjavík til 1935 og var síðast alllengi notað fyrir bílaviðgerðarverkstæði.

Peter Duus

Peter Duus.

Jacobæus bjó eftir sem áður í Keflavík, en hafði verzlunarstjóra í Reykjavík, þar á meðal Ebbesen tengdason sinn og Peda Duus, er löngu síðar varð kaupmaður í Keflavík og kemur þar mikið við sögu.
Aðra verzlun átti Jacobæus í Hafnarfirði. Sú verzlun varð síðar Linnetsverzlun, er lengi starfaði í Hafnarfirði og var góðfræg. Hans Linnet var fyrst verzlunarstjóri Jacobæusar í Hafnarfirði, en keypti svo verzlunina 1836. Kona hans var Regina Magdalena Secrup, systurdóttir C.A. Jacobæusar í Keflavík. Eiga því niðjar þeirra Linnetshjóna ætt sína að rekja til Holgeirs Jacobæusar hins síðasta kóngskaupmanns í Keflavík. C. A. Jacobæus hefur haft umfangsmikla verzlun í Keflavík. Það sýnir meðal annars, hve margt fólk var á heimili hans.
Árið 1790 voru þar 38 manns. Jacobæus var þá ókvæntur, en danskur beykir Hoeg að nafni, kona hans einnig dönsk og dóttir þeirra, er var matreiðslukona, munu hafa séð um kaupmannsheimilið. Vinnufólkið mun hafa búið í öðru húsi, enda var þar einnig önnur ráðskona, er Ingveldur hét Einarsdóttir.
Þar var einn „undirassistent“, einn búðardrengur, einn afhendingarmaður, einn smiður. Það var Jóri Sighvatsson, er síðar varð útvegsmaður og merkisbóndi í Höskuldarkoti við Ytri Njarðvík. Fjórtán vinnumenn, sjö vinnukonur og fjögur börn, er vinnufólkið átti, auk þess einn gamall maður örvasa og þrír danskir vetursetumenn. Næstu ár fór fólki heldur fækkandi, og 1801 voru ekki nema 14 manns í heimili.
KeflavíkEftir Chr. A. Jacobæus, varð Holger sonur hans kaupmaður í Keflavík 1836. Kona hans, Charlotte Marie, var dönsk. Þau áttu 15 börn. Voru 10 þeirra á lífi, er þau fluttu af landi brott 1843 og 1844. Þessar fjölskyldur bjuggu allar í sama húsinu, hver eftir aðra, en það er gamla Duushúsið, er svo mun vera nefnt enn í dag.
Séra Sigurður Sívertsen prestur á Útskálum, hefur ritað smákafla um þá Jacobæusarfeðga inn í húsvitjunarbók prestakallsins 1827—1847 við árið 1837. Hann segir svo um Holger Jacobæus: „Foreldrar kaupmanns Jacobæusar var kaupmaður Chresten Jacobæus og Md Regina Magdalena, bjuggu þau hjón fyrr í Keflavík, átti hann þar kaupstað; líka höndlun í Hafnarf. og Rvík og var einn sé merkasti maður á sinni tíð. Faðir hans var Holgeir gamli Jacobæus, sem var kóngskaupmaður í Rvík. Holger yngri fékk Keflavík keypta af föðurnum eða til láns, en varð að láta af hendi aftur. Varð hann þá factor hins nýorðna eiganda kaupm. J. J. Benediktsen. Varð þó seinna að láta þá forþénustu lausa og sigldi árið 1843 til Færeyja hvar hann fékk forþénustu í brauði Clausens í Ólafsvík. Kona hans og börn sigldu ári seinna og áttu þau saman 15 börn en hann hafði eignlengi mjög örðuga lífsútkomu. Þau hjón eignast 1 son áður, Karl að nafni“.
Jens Jakob Benediktssen varð eigandi Keflavíkurverzlunar 1841, en bjó þar aldrei. Hann var sonur Boga sagnfræðings á Staðarfelli Benediktssonar, átti verzlanir á Ísafirði, Grundarfirði og Vestmannaeyjum, en bjó lengst af í Kaupmannahöfn. Verzlunarstjóri hans í Keflavík, eftir að Jacobæus hvarf burtu, var Marteinn Smith, er síðar var kaupmaður og konsúll í Reykjavík og var giftur Ragnheiði systur Jens Jakobs. Þau fluttu til Keflavíkur 1844 og bjuggu þar 4 ár. En 1848 fluttu þau til Kaupmannahafnar og seldi Smith þá Duus kaupmanni Keflavíkurverzlun.“

Heimild:
-Faxi, 10. tbl. 01.12.1947, Þættir úr sögu verslunar á Suðurnesjum – Marta V. Jónsdóttir, bls. 9.
-Faxi, 1. tbl. 01.01.1948, Þættir úr sögu verslunar á Suðurnesjum – Marta V. Jónsdóttir, bls. 4-5.
-Faxi, 2. tbl. 01.02.1948, Þættir úr sögu verslunar á Suðurnesjum – Marta V. Jónsdóttir, bls. 3-4.

Keflavík

Vatnshólavarða

Gengið var eftir Melabergsleið (Hvalsnesleið), upp að Vatnshólavörðu og síðan var leiðinni fylgt áfram um Miðnesheiðina að hringtorginu austan við Leifsstöð.

Melaberg

Melaberg.

Vatnshólavarðan sést vel frá Melabergsvötum. Þegar komið var framhjá þeim blasti Leifsstöðin við – inngöngudyr ferðamanna til Íslands. Á leiðinni var tækifærið notað og vöngum velt yfir stöðu og framtíð ferðaþjónustunnar á svæðinu.
Undanfarin ár hefur ferðamönnum fjölgað verulega hér á landi. Fjöldi þeirra er nú um 360.000 á ársgrundvelli og hefur verið að fjölga um 12-14% að jafnaði á milli ára. Ekki er því langt að bíða þangað til fjöldi þeirra verður kominn í milljónamarkið. Áður en það verður þurfa hagsmunaðilar ferðaþjónustunnar þó væntanlega að vera búnir að ákveða hvernig þeir vilja stýra ferðamennskunni og ferðum gestanna hér um land með hliðsjón að undirbúningi á einstökum svæðum.

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkuflugvöllur.

Í ljósi breytinga í atvinnumálum og nær ótæmandi möguleikum á Suðurnesjum er ljóst að mikilvægt er að stuðla að eflingu atvinnulífsins t.d. með verulega aukinni þjónustu. Það er m.a. hægt að gera með því að nýta þá ótrúlegu kosti sem svæðið býður upp á. Aðstaðan er einnig mjög góð til fiskeldis, og svo er nauðsynlegt að hlúa að þeirri starfsemi sem fyrir er, þ.á.m. sjávarútvegi og iðnaði. Til að mæta samdrætti í starfsemi á Keflavíkurflugvelli þarf að skapa ný störf í öðrum greinum, einkum iðnaði og þjónustu, ekki síst ferðaþjónustugreinum.

Melabergsleið

Melabergsleið – vörður.

Eitt af forgangsverkefnunum er að að skapa Suðurnesjum jákvæða ímynd í hugum fólks og nýta vel þá kosti sem svæðið hefur upp á bjóða, s.s. alþjóðaflugvöllinn og nágrenni hans, orkulindir til iðnaðarframleiðslu, ágæta hafnaraðstöðu og hina einstöku sagnfræðilegu, náttúru- og jarðfræðilegu möguleika til að stórefla ferðaþjónustu, helsta vaxtarbroddinn í íslensku atvinnulífi.
Hingað til hefur mikið verið fjallað um vilja til aðgerða. Sumu hefur og verið komið í framkvæmd. Í skýrslum, sem gerðar hafa verið og gefnar út á undanförnum árum um þetta efni, má t.d. lesa um;
a) hugleiðingar Samgönguráðuneytisins frá árinu 2002 þar sem fjallað er um framtíðarsýn í íslenskri ferðaþjónustu og m.a. fjallað um ímynd Íslands, umhverfismál, gæða- og öryggismál, menntamál, samgöngumál, byggðamál, skipulag ferðamála, rekstrarumhverfi og markaðsmál. Þá segir að meginþættir ferðaþjónustu séu fjórir: ferðafólkið, fyrirtæki og stofnanir, opinber þjónusta og áfangastaðurinn. Hugmyndafræði sjálfbærrar þróunnar er lögð til grundvallar framtíðarsýninni.

Brimketill

Brimketill.

b) efni Ferðamálaráðs Íslands 2002 um Auðlindina Ísland með hliðsjón af ferðaþjónustusvæðum þar sem markaðssvæðin eru skilgreind, sérstaða þeirra dregin fram, teknar saman fyrirliggjandi upplýsingar, seglar skilgreindir og tillögur gerðar.
c) framsetningu Samgönguráðuneytisins um íslenska strandmenningu árið 2004 þar sem er fjallað um gæðaferðaþjónustu, markaðsrannsóknir og frumkvöðlastarf.
d) fróðleik frá samgönguráðuneytsiins um menningartengda ferðaþjónustu 2002 þar sem er fjallað um íslenska menningu og ferðaþjónustu sem og nútímamenningu Íslendinga og nauðsyn stefnumörkunar.
e) tillögur samgönguráðuneytisins um stefnumörkun íslenskrar ferðaþjónustu 1996 þar sem er kannað með áhuga og möguleika hinna einstöku þjóða að nýta sér Ísland sem ferðamannaland.
f) og einnig má sjá rit frá ferðamálaráðstefnu Reykjavíkurborgar 2004 þar sem ræddir voru styrkleikar og veikleikar Reykjavíkur skilgreindir og gerðar tillögur um markaðassetningu borgarinnar til ferðamanna.

Melabergsvegur

Melabergsvegur.

En svo virðist sem eitt nærtækasta, en jafnframt eitt áhugaverðasta ferðamannasvæðið (a.m.k. fyrir Íslendinga), hafi orðið mikið til útundan, þ.e. Suðurnesin og Reykjanesskaginn allur. Yfirleitt er getið um að þar sé „útsýni mikið og fagurt“, þar megi finna „áhugaverða staði“ og eru þrír slíkir jafnan nefndir til sögunnar, þ.e. Svartsengi, Bláa lónið og Reykjanesviti. Jafnframt að á svæðinu sé fuglalíf og strandir.
Í raun býður svæðið upp á allflest það sem aðrir landshlutar hafa upp á að bjóða, hvort sem lýtur að jarðfræði, náttúru, menningu eða sögu. Dvalartími útlendinga er að styttast og margir koma hingað í öðrum tilgangi en áður, þ.e. til ráðstefnu eða fundarhalda eða í viðskiptaerindum. Þetta fólk þarf oft að bíða hálfan eða heilan dag eftir flugi. Hvaða svæði er þá nærtækara til að nota því til handa en Suðurnesin? Þar er hægt að fara í stuttar ferðir, hvort sem er akandi eða gangandi, skoða fallega hraunhella, þjóðsagnakennda staði, ómótstæðilega náttúru, fuglabjörg, minjar frá upphafi búsetu, nútímahraun, gamlar leiðir markaðar í bergið, eldgíga, atvinnu- og byggðasöguna, verstöðvar, sjóslys, drauga- og huldufólksstaði og svona mætti lengi telja – eða einfaldlega njóta útiveru í fallegu umhverfi. Þá eru afþreyingarmöguleikar sennilega hvergi meiri en á þessu svæði.
En þetta er s.s. allt vitað – og meira til – og eflaust munu hlutaðeigandi aðilar ætla að nýta sér þetta allt til handa framtíðargestunum að utan sem og landsmönnum öllum.
Umhverfið rann saman við vangavelturnar og ferðahugleiðingarnar á leiðinni, en veðrið var frábært.
Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Reykjanes

Á Reykjanesi.

Stóra-Sandvík

Skjótastaðir voru fornt býli á strönd Reykjaness, skammt frá og fyrir ofan þar sem nú er svonefndur Lendingamelur. Á landakortum hefur staðurinn einhverra hluta vegna verið settur örskammt norðan við Stóru-Sandvík, en þar skeikar verulegu.
HleðslurÍ örnefnalýsingu fyrir Kalmanstjörn segir um Skjótastaði: „Þá er komið í Stóru-Sandvík. Þar gengur sjórinn nokkuð langt inn í landið, og er sandur á miklu svæði hér upp frá sjónum. Þar fjarar mikið út, svo að með hverju flóði kemur upp flæðivatn, sem svarar 120 föðmum frá sjávarmáli, og er það ekki neitt smávatn. Verður nú ekki haldið lengur með ströndum fram að sinni, nema hvað talið er, að bærinn Skjótastaðir eða Skjóthólastaðir hafi staðið þar upp frá víkinni norðanverðri, nærri sjó. Ekki sjást hér neinar rústir, en vel geta þær verið horfnar í sand.“
Þegar gengið var til norðurs frá Stóru-Sandvík var augljóst að bæjarstæði eða verbúð gæti ekki hafa verið þar. Í víkinni sjálfri er slæm lending í brimi þrátt fyrir mjúka og sendna ströndina. Utar er hins vegar bakki, sem ýfir Ægir svo um munar þegar eitthvað er að veðri. Svo er einnig með ströndinni að Lendingamel. Sjórinn brýtur á boðum og skerjum utan við hana, allt þangað til komið er að nyrðri básnum í Melunum. Utan við hann og alla leið að landi er alger ládeyða þegar eitthvað er að sjó, líkt og nú var.

Hleðsla

Á loftmynd af svæðinu ofan við Lendingamel mótar fyrir löngum görðum og jafnvel þremur tóftum miðsvæðis. Ætlunin var að skoða svæðið nánar. Ljóst er að það hefur tekið miklum breytingum á löngum tíma.
Annálar greina frá eldsumbrotum með stuttum hléum, á og úti fyrir Reykjanesi á 12. og 13. öld. Samkvæmt þeim hefur gosið á Reykjanesi árið 1118, og a.m.k. 13 sinnum á 13. öld. Sagt er að sumum eldgosum hafi fylgt miklir landskjálftar og þess getið að svartamyrkur hafi verið um annars hábjartan dag (1226) og að Reykjanesið hafi brunnið (1210 og 1211). Í hamförum á fyrri hluta 13. aldar er talið að byggð hafi eyðst á Reykjanesi en merki um hana sjást m.a. við Skjótastaði norðan Stóru-Sandvíkur. Í annál er þess getið að 18 manns hafi farist á Reykjanesi í landskjálfta og eldi árið 1118. Næsta lítið er vitað um sögu Hafna á 14. og fram á síðari hluta 16. aldar eins og margra annarra staða á landinu, m.a. vegna þess að kirkjubækur, sem geymdar voru í Viðey, eyðilögðust í bruna. Þó munu vera til heimildir um mikinn landsskjálfta 1389 og að 1390 hafi hálft Reykjanesið brunnið. Til mun vera heimild um að eldur hafi komið upp í hafi fyrir Reykjannesi 1420 og að þá hafi skotið upp landi. Einnig er getið um eld fyrir Reykjanesi 1422 og aftur 1584. Í annál er greint frá eldi í ,,Grindavíkurfjöllum“ árið 1661 og hafi sést oft, fyrir og eftir jól, á Norðurlandi.

Garður

Til er heimild um að árið 1706 hafi komið upp eldur í sjó fyrir Reykjanesi og einnig 1783 fyrir sunnan Geirfuglasker: Kom þá upp land sem sökk aftur (Nýey). Síðasta gos sem minnst er á í annálum, á eða fyrir Reykjanesi, á að hafa verið árið 1830 en þá sigu Geirfuglasker í sjó. Síðustu eldsumbrot sem heyrst hefur um, fyrir Reykjanesi, eiga að hafa átt sér stað í kringum 1930. Á þá að hafa gosið á sjávarbotni nálægt Eldey.
Ofan við Lendingamel sjást hleðslur á nokkrum stöðum. Landið lækkar þarna mikið millim Hafnabergs og misgengisins norðan Sandvíkur og má segja að um aflangt „dalverpi“ sé að ræða, skjólgott við öllum áttum nema hafáttinni. Þar sem „tóftir“ sjást á loftmyndinni eru nú miklir gróningar, eldri en þeir umhverfis. Ekki er ólíklegt að þarna kunni að leynast bæjarleifar Skjótastaða ef betur væri að gáð.
VarðaVörðubrot eru á nálægum hólum og virðast þau allgömul. Efst í brúninni, sem ber við suðurhimininn, er há varða, sem haldið hefur verið við. Hún er svo að segja í beina stefnu frá básnum fyrrnefnda og þvert um „bæjarstæðið“.
Fálki fylgdi ferðalöngum um svæðið. Ekki var annað hægt en að dáðst að hversu vel hann nýtti sér uppstreymið við ströndina. Utar æddi hver báran af annarri á land, líkt og allar vildu þær yfirgefa hafið.
Þrátt fyrir berangurslegt svæði nú má vel ímynda sér hvernig það hefur litið út fyrrum. Ætla mætti jafnvel að þarna gæti hafa verið búsældarlegt, enda af nægu að taka þar sem hafið og Hafnabergið eru annars vegar; fiskur og fugl ómælt.
Melgras hafði sest í jarðlægan garð, sem liggur upp frá ströndinni norðan við Lendingamel. Meint bæjarstæði er þar sem dalverpið fer að hækka til austurs. Suðaustan þess eru hleðslur. Sandur hefur fokið í flest skjól og umverpt mannvistarleifar að mestu. Þó má, ef vel er að gáð, enn sjá verksummerki, auk þess sem lendingin í Lendingamel gefur nokkuð góða vísbendingu um búsetuna fyrrum.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Kalmanstjörn.
-Leó M. Leósson.

Lendingamelur

Kirkjuvogskirkja

Freyja Jónsdóttir ritaði um „Kirkjuvogskirkju í Höfnum“ í Dag árið 1999:
„Hafnir eru á vestanverðu Reykjanesi, sunnan Miðness. Í bókinni „Landið þitt Ísland“, eftir Þorstein Jósepsson og Steindór Steindórsson segir að Hafnir skiptist í þrjú hverfi, Kirkjuvogshverfi, Merkineshverfi og Kalmanstjarnarhverfi. Einnig segir í sömu bók að stórbýli sveitarinnar hafi verið þrjú, Kirkjuvogur, Kotvogur og Kalmanstjörn. Sandhöfn og Kirkjuhöfn voru einnig stórbýli á árum áður og mun nafnið Hafnir vera dregið af þeim.
kirkjuvogskirkja-221Vitað er að kirkja var í Kirkjuhöfn um 1350 en talið er að hún hafi lagst af nokkru síðar. Þá er getið um hálfkirkju að Glámatjörn. Síðar var sóknarkirkja Hafnanna að Vogi. Þegar Svarti dauði geisaði 1402 var kirkja í Vogi. Heimildir herma að kirkjan hafi verið flutt að Kirkjuvogi laust fyrir 1575 en frá því ári eru heimildir um að Gísli biskup hafi vísiterað þar. Þegar kirkjan var flutt frá Vogi að Kirkjuvogi voru bein flutt frá Kirkjuhöfn í Kirkjuvogsgarð.
Þegar Brynjólfur biskup í Skálholti vísiteraði í Höfnum árið 1642 segir hann að kirkjan í Kirkjuvogi sé að mestu ný, með sex stafgólfum og kapellu inn af. Þá áttu sókn að kirkjunni nokkur stórbýli sem mest hlunnindin höfðu eins og Vogar, Ytri-Njarðvík, Innri-Njarðvík, Narfakot, Merkines, Gálmatjörn, Sandhöfn og Kirkjuhöfn. Þá er þess getið að kirkjan hafi fengið stórar gjafir frá Hákoni Brandssyni, sem gaf kirkjunni læsta kistu, og Erlendi Hjaltasyni sem gaf kaleik og messuklæði.
Brandur Guðmundsson hreppstjóri, sem þá bjó í Kirkjuvogi, ritaði sóknarlýsingu Kirkjuvogssóknar árið 1840 eftir beiðni séra Sigurðar Sívertsen á Útskálum. Brandur var fæddur á Rangárvöllum 1771. Faðir hans var Guðmundur Brandsson, bóndi á Brekku á Rangárvölum, sonarsonur Bjarna Halldórssonar á Víkingalæk. Guðmundur flutti suður að Kirkjuvogi og drukknaði á góu árið 1801. Brandur sonur hans þótti siðavandur, smiður góður og smíðaði fjölda skipa, bæði stór og smá. Hann andaðist í Kirkjuvogi, 74 ára gamall. Gróa Hafliðadóttir hét kona hans, orðlögð fyrir heppni í starfi en hún var ljósmóðir. Gróa lést árið 1855.
kirkjuvogskirkja-224Hákon Vilhjálmsson fæddist í Kotvogi árið 1753, sonur Vilhjálms Hákonarsonar og Ingiríðar Tómasdóttur sem ólst upp í Miðbænum í Kirkjuvogi. Hann var hreppstjóri og hafnsögumaður á Básendum. Hann byggði nýja kirkju í Kirkjuvogi árið 1805 fyrir 239 ríkisdali. Í ofsaveðrinu mikla 1799 þegar Bátsendakaupstað tók af, skemmdist kirkjan í Kotvogi mikið sem líklega hefur orðið til þess að ný kirkja var reist. Hákon gaf nýja söngtöflu í kirkjuna og var fjárhaldsmaður hennar alla sína tíð. Hákon Vilhjálmsson lést 1820. Ketill Jónsson (elsti Ketill í Kotvogi) og Guðni Ólafsson í Merkinesi gáfu kirkjunni nýja prestshempu og hökul af rauðu flaueli með gullnum krossi og knipplingum umhverfis.
Ketill Jónsson sem tók við kirkjunni eftir að Hákon lést, lét endurbæta kirkjuna árin 1844, 1848 og 1851. Hann lét einnig steypa silfurkaleik og gaf kirkjunni til minningar um konu sína, Önnu Jónsdóttur. Árið 1859 afsalar Ketill Jónsson sér kirkjunni til Vilhjálms Hákonarsonar, en Vilhjálmur byggði hana í þeirri mynd sem hún er nú. Tómas faðir Ingigerðar konu Vilhjálms Hákonarsonar byggði Kirkjuvogsbrunninn sem lengi var vatnsból byggðarinnar. Brunnurinn er nú aflagður og búið að fylla hann af grjóti, þó enn sjáist vel hvar hann var.
Kirkjan í Höfnum var annexía frá Útskálum, áður lá hún til Hvalsnesprestakalls. Prófasturinn á Kjalarnesi skoðaði kirkjuna 24. ágúst árið 1862. Þá er byggingu hennar lokið og tekið fram að hún sé öll máluð að innan. Í húsvitjunarbókum frá árinu 1865 sem prófasturinn í Kjalarnesþingi skráði, þegar hann vísiteraði í Höfnum í byrjun septembermánaðar, segir að kirkjan sé í prýðisástandi eins og hirðing hennar til sóma. Þá skuldaði kirkjan 685 ríkisdali sem þótti ekki mikið vegna byggingar hennar því talið er að bygging kirkjunnar hafi kostað 1800 ríkisdali. Stefán Sveinsson á Kalmarstjörn gaf kirkjunni nýja kirkjuklukku. Kaupmaður P. Duus í Keflavík gaf kirkjunni glerhjálm og Vilhjálmur Kristinn Hjálmarsson gaf nýtt altarisklæði, gert af rauðu silkiflosi með gullnum krossi og leggingum, einnig gaf hann hvítan altarisdúk með blúndu í kring. Gjöfin var talin afar höfðingleg og tekið er fram að hún hafi kostað yfir 50 ríkisdali.
kirkjuvogskirkja 222Prófastur endar lýsingu á heimsókn sinni í hið veglega guðshús með því að þakka höfðinglegar gjafir. Þá er tekið fram að sóknarbörn munu taka að sér að halda við hurð og dyraumbúnaði á kirkjunni og sáluhliði. Árið 1866 lét Vilhjálmur byggja kór og fordyri við kirkjuna. Kostnaðurinn við bygginguna varð rúmlega 605 ríkisdalir. Vilhjálmur gaf altaristöfluna sem enn er í kirkjunni og máluð af Sigurði Guðmundssyni málara. Einnig gaf hann kaleik og stærri kirkjuklukkuna og flest það sem kirkjuna vanhagaði um. Vilhjálmur var kirkjuhaldari til dauðadags. Hann andaðist í Kirkjuvogi 20. september 1874. Vilhjálmur hafði tvívegis fengið heiðursmerki, frá Danakonungi árið 1852 fyrir giftusamlega björgun sjómanna, og heiðursmerki frá Napoleon Frakklandskeisara. Danebroksmaður varð hann 1869. Eftirlifandi kona hans, Þórunn Brynjólfsdóttir, tók við kirkjunni og stjórnaði henni af mikilli rausn. Hún greiddi niður skuldir kirkjunnar og stjórnaði öllu með miklum skörungsskap í þrettán ár. Steinunn, dóttir Vilhjálms og Þórunnar, tók við stjóminni af móður sinni til ársins 1890. Steinunn gaf kirkjunni stórfé og varð kirkjan skuldlaus í hennar tíð.
Kirkjuvogskirkju var fyrst þjónað frá Hvalsnesi, síðan Útskálum og frá 1907 frá Grindavíkurprestakalli. Íbúar í Höfnum hafa alltaf verið stoltir af sóknarkirkju sinni og hugsað vel um hana enda er hún ákaflega falleg bygging. Helmingur loftsins er með hvolfþaki sem prýtt er með hundrað og einni stjörnu. Hinn hluti loftsins er með bitum. Kirkjan tekur sjötíu manns í sæti og er með fjórtán bekkjum. Í gegnum árin hafa sóknarbörnin gefið kirkjunni flestar eigur hennar, eins og skírnarfont sem séra Jón Thorarensen gaf, maðurinn sem hefur skrifað mest af öllum mönnum um sögu Hafnanna. Jón var alinn þar upp hjá Hildi Jónsdóttur Thorarensen, föðursystur sinni og manni hennar Katli Ketilssyni (yngsti Ketill) í Kotvogi. Ketill var fæddur á Hvalsnesi en faðir hans átti jörðina og byggði þar tvær kirkjur.
Á kirkjuturninum er járnstöng, efst á henni er plata með fangamarki Vilhjálms Kristins Hákonarsonar og ártalinu 1861. Kirkjan er dökkmáluð með rauðu þaki og hvítmáluðum gluggakörmum, dyraumbúnaði og hurð. Hún stendur á hæð í vel grónu túni. Í kringum hana er vel hirtur garður með hvítri girðingu. Í austurhluta garðsins er leiði þeirra Vilhjálms Kristins Hákonarsonar og Þórunnar Brynjólfsdóttur. Í kringum það eru fagurlega smíðaðar grindur.
Heimildir eru úr Suðumesjaannál, Jarðahók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, Blöndu II, Lýsingum Skúla Magnússonar á Gullbringu- og Kjósarsýslu og viðtal við Borgar Jónsson í Höfnum.“

Heimild:
-Dagur 18. desember 1999, bls. 1 og 3.
Hafnir

Keflavík

Gengið var frá höfninni í Keflavík neðan við Stekkjarhamar sunnan Vatnsness yfir að Grófinni, fæðingarbletti hins gamla bæjarhluta og rót byggðarinnar norðan Njarðvíkur.

Keflavíkurhöfn

Keflavíkurhöfn – 1959-1960.

Mikil verslun var stunduð í Keflavík sem gerði hana með tímanum að stærsta þorpinu á Suðurnesjum. Höfuðstaður svæðisins var þó eftir sem áður í Grindavík á sunnanverðu nesinu þar sem fólkið átti sér lengri undangenginn uppruna og betri samsvörun með landinu. Í Keflavík vann fólkið aðallega við sjósókn og fiskveiðar, líkt og í Grindavík þar sem fólkið þekkti auk þess menningu í raun, en faldi hana þó lengst af fyrir öðrum – undir steini. Menningin í Keflavík var af öðrum toga. Hún var lengi vel að mestu tengd versluninni og staupgjafmildi kaupmanna, en síðar barst hún niður í byggðalagið með öldum ljósvakans yfir girðingu umleikis Háaleiti.

Keflavík

Keflavík – Norðfjörðsverslunin.

Rekja má verslunarsögu Keflavíkur allt til upphafs 16. aldar og er vitað um þýska kaupmenn þar árið 1518. Undir lok 16. aldar komu Hamborgarkaupmenn til Keflavíkur en þegar Danir settu einokunarverslunina á 1602 féll Keflavík í hendur Kaupmannahafnarkaupmönnum. Þessi dönsku áhrif í verslun í bænum héldust svo alveg fram á 20. öld, þó svo að einokunarverslunin hafi um síðir liðið undir lok. Sjósókn var þar jafnan mikil, einkum eftir árið 1800 og þegar fyrsti vélbáturinn var keyptur 1907 markaði það tímamót í þróun staðarins.
Keflavíkurhreppur var stofnaður 1908 og þann 22. mars 1949 fékk Keflavík kaupstaðaréttindi.

Vatnsnesviti

Vatnsnesviti.

Frá því að Keflavík varð kaupstaður hefur hann verið stærsti kaupstaðurinn á Reykjanesinu. Afkoma bæjarins byggist enn nokkuð á sjósókn og vinnslu sjávarafla en einnig á margvíslegri þjónustu ekki síst í tengslum við Keflavíkurflugvöll, en vægi fiskvinnslu og útgerðar er ekki mikið í atvinnulífi bæjarins í dag.
Keflvíkingar voru mjög framarlega í saltfiskvinnslu og í byrjun 9. áratugarins var Keflavíkurhöfn önnur mesta útflutningshöfn sjávarafurða landsins. En í kjölfar kvótakerfisins fór að síga á ógæfuhliðina í þessari undirstöðuatvinnugrein á svæðinu og hefur bátum fækkað og flest fiskvinnslu- og frystihús hætt störfum.
Sjósókn Suðurnesjamanna á sér langa sögu. Frá Keflavík, Garði, Leiru, Njarðvíkum og Ströndinni var lengst af gert út fremur litla báta, tveggja manna för, fer- og sexæringa, og sóttu þeir mest í Garð- eða Leirusjó. Verslunin H.P. Duus í Keflavík keypti fyrstu skútuna til staðarins árið 1898, en útgerð hennar, og fleiri skipa sem verslunin eignaðist, var að mestu flutt til Reykjavíkur. Vélbátaútgerðin varð fljótlega mun mikilvægari fyrir Keflavík, en fyrsti vélbáturinn, Júlíus, var keyptur til staðarins frá Borgundarhólmi árið 1908, og frá árinu 1910 stækkaði flotinn ört.
Fyrir 1920 komu fáar nýjunar fram í fiskverkuninni, og mestallur afli sem átti að selja var saltaður og sólþurrkaður. Útvegsbændur lögðu fiskinn inn hjá kaupmönnum á ýmsum verkunarstigum.

KeflavíkÍ Lesbók Morgunblaðsins, 23. ágúst 2003 er grein um “Hugsunarlaust örlæti hafsins”. Í henni segir m.a. að “Íslendingar hafa átt í aldalöngu, óttablöndnu ástarsambandi við sjóinn. Öldum saman hafði þjóðin framfæri sitt aðallega af jörðinni, hún var bændaþjóð, svo að sjósókn skipti ekki miklu máli fyrir afkomu landsmanna. Bændur reru sumir til fiskjar handa sjálfum sér, en bátar þeirra voru jafnan litlir og leyfðu þeim ekki að róa langt frá landi. Þegar fram liðu stundir, stækkuðu bátarnir og sjósókn efldist verulega og varð sums staðar að álitlegri aukabúgrein meðfram ströndum landsins. Þó urðu ekki umtalsverð brögð að bátaútgerð fyrr en um miðja 19. öld; orðið útvegsbóndi birtist ekki á prenti fyrr en þá. Um þær mundir var vistarbandið enn við lýði. Bændur gátu beitt vinnuhjú sín hörðu og gerðu það margir, enda áttu þau ekki í önnur hús að venda. Vinnumenn voru gerðir út til fiskjar á opnum bátum og beinlínis sendir út í opinn dauðann í stórum stíl. Mannfallið var gríðarlegt: staðtölur sýna, að tíunda hverju karlmannslífi lauk með drukknun talsvert fram eftir öldinni sem leið“.

Keflavíkurhöfn

Keflavíkurhöfn fyrrum.

Halldór Laxness skrifaði magnaða ritgerð um málið lýðveldisárið 1944 og nefndi hana ,,Hvert á að senda reikninginn?” Þar lýsir hann því, hversu ,,mannfólkinu er kastað í sjóinn gegndarlaust eins og ónýtu rusli. Þessi sóun mannslífa er talin nokkurs konar sjálfsagður skattur, sem þjóðin greiðir útgerðinni.” Hann heldur áfram: ,,Upp og ofan er heimsstyrjöld meinlaust grín hjá því að veiða fisk á Íslandi. Hvern er verið að afsaka og fyrir hverjum að hræsna með því að prýða þessa sóun mannslífa með heitinu ,,fórn” og öðrum hátíðlegum nöfnum? Væri ekki nær að spyrja: Hvar er morðinginn?”

KeflavíkSjósókn á vondum bátum hjó djúp skörð í þjóðlífið. Þess voru ófá dæmi, að feður færu í sjóinn með fullorðnum sonum sínum og skildu ekkjurnar eftir með lítil börn. Það kom fyrir, að sjávarpláss misstu flestar fyrirvinnur sínar í einni og sömu sjóferðinni. Eigi að síður héldu menn áfram að æða til sjós í óhæfum bátum.
Hvers vegna? Ætli skýringin sé ekki sú, að menn þekktu ekki annað. Þessum ósið – að halda til hafs á ófærum bátum – var í fyrstu þröngvað upp á ófrjálsa vinnumenn í krafti vistarbandsins. Mannfallið komst í vana. Og þegar vinnumenn voru loksins orðnir frjálsir að því að velja sér búsetu og verkveitendur á eigin spýtur og vélbátar höfðu leyst skúturnar af hólmi, þá var ósiðurinn búinn að taka sér bólfestu í vinnumenningunni og þjóðarsálinni, nokkurn veginn eins og drykkjuskapur, skuldasöfnun og slagsmál á okkar dögum.

Keflavík

Fiskvinnsla í Keflavík fyrrum.

Sjávarútvegur átti drjúgan þátt í umsköpun íslenzks samfélags á öldinni sem leið, enda þótt forsenda framsóknarinnar í efnahagslífinu væri aukin verkmenning og menntun og fiskivæðing landsbyggðarinnar hæfist ekki fyrir alvöru fyrr en eftir 1970. Fram að þeim tíma var Reykjavík helzti útgerðarstaður landsins. Gjafir náttúrunnar geta þó reynzt vera blendin blessun. Ofveiði á tækniöld sýnir að örlæti getur snúist upp í andhverfu sína. Mikið mannfall við sjósókn á sinni tíð ýtti undir umburðarlyndi gagnvart þessum atvinnuvegi. Slíkt var hugsunarlaust örlæti hafsins.”
Gengið var framhjá Vatnsnesvita, en hann var byggður 1922 og mun vera 89 metra hár.

KeflavíkÞegar komið var að Stokkavör var rifjuð upp lýsing þess er Hallgrímur Pétursson steig þar á land 1637 ásamt nokkrum öðrum þeim, sem leystir höfðu verið úr haldi Tyrkjanna, þ.á.m. Guðríði Símonardóttur. Þar er og minnismerki um sjómenn þá, sem fórust í lendingu við Stokkavör 6. apríl árið 1930. Þegar komið var að Grófinni voru þátttakendur komnir með saltbragð í munninn og búnir að fá nokkuð góða tilfinningu fyrir aðstæðum sjómanna fyrr á öldum, þótt ekki hafi verið fjallað um verklagið eða fiskvinnsluna að þessu sinni.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Heimildir m.a. :
-Lesbók Morgunblaðsins, 23. ágúst 2003.
-Saga Íslands á 20. öld eftir Helga Skúla Kjartansson.
-Saga Keflavíkur, Bjarni Guðmarsson.

Keflavík

Saga Keflavíkur.

Orkuverið Jörð

Eftirfarandi upplýsingar birtust í Fréttablaðinu árið 2009 undir fyrirsögninni „Sólkerfi á Reykjanesi“.
orka-3„Unnið er að því hörðum höndum að setja upp pláneturatleik um Reykjanesið í tengslum við sýninguna Orkuverið Jörð. „Stöplarnir fyrir pláneturnar eru komnir upp, en það á eftir að setja pláneturnar á þá,“ segir Róbert Kjartansson, sýningarstjóri Orkuversins Jarðar, í tengslum við svokallaðan pláneturatleik sem verið er að setja upp. Eftirlíkingu af plánetunum verður dreift um Reykjanes. Sólin er staðsett fyrir utan stöðvarhús Reykjanesvirkjunar og verða aðrar plánetur í hlutfallslega réttri fjarlægð frá sólinni. „Hægt verður að keyra á milli plánetanna en hugmyndin er sú að stilla reikistjörnunum upp svo að hægt verði að fylgja þeim inn í Reykjanesbæ.
Ég geri ráð fyrir orka-10því að þær verði allar komnar upp í sumar.“ Ratleikurinn er settur upp í tengslum við sýninguna Orkuverið Jörð sem er í stöðvarhúsi Reykjanesvirkjunar. „Sýningin fjallar um orku. Það má segja að henni sé skipt upp í fjóra hluta og er byrjað á kenningunni um Miklahvell. Þá er farið yfir í reikistjörnurnar í sólkerfinu og þeim öllum stillt upp í réttum stærðarhlutföllum. Næsti hluti er saga mannsins og orkunnar saman, allt frá því að við virkjum eldinn og fram á okkar daga. Svo er það orkunotkunin í heiminum. Þar er farið yfir það hvaðan við fáum orkuna, hvort sem það er úr jarðefnaeldsneyti, fallvötnum eða jarðvarma. Síðasti hluti sýningarinnar er virkjunin sjálf og orkuframleiðslan,“ útskýrir Róbert.
Þegar Róbert er spurður hvers vegna ákveðið hafi verið að orka-4ráðast í þetta verkefni segir hann að í rauninni hafi tækifærið bankað upp á. „Það komu hingað tveir herramenn, þeir Simon Hill frá Bretlandi og Björn Björnsson frá List og sögu, með þá hugmynd að setja upp þessa sýningu og þá var miðað við orkutengda ferðaþjónustu. Hugmyndin var að setja upp þessa sýningu við hliðina á orkuverinu sjálfu,“ segir Róbert og bætir við að hægt sé að sjá inn í orkuverið frá sýningunni því einn veggur þess sé gerður úr gleri.

Orka er líf
orka-5Inngangur sýningarinnar leiðir okkur í gegnum kenninguna um upphaf alheimsins með Miklahvell. Fyrir um 13,7 milljörðum ára var alheimurinn ekki stærri en greipaldin en sprakk svo út á ógnarhraða; slíkum ógnarhraða að ljósið sem fer með um 300.000 km hraða á sekúndu, ferðast ekki eina blýantslengd á þeim tíma. Ljósið fer 7 ½ hring um jörðina á einni sekúndu.
Þegar við höfum hafið ferð okkar með látum í Miklahvell leiðir Albert Einstein okkur inn í sýninguna. En hann var einn af þeim frumkvöðlum sem kom okkur í skilning um lögmál alheimsins. Vitanlega stóð hann á herðum risanna eins og Newton orðaði það sjálfur; Pýþagóras lagði fram kúlulaga jörð og reikistjörnur sem ferðuðust í hringi umhverfis mikinn eld. Aristóteles teiknaði upp heimsmynd með jörðina í miðju alheimsins og Aristarkos staðsetti allar sýnilegar reikistjörnur í réttri röð í sólkerfinu.
Kópernikus setti sólina miðju í staðinn fyrir jörðina („himnarnir snúast ekki, við orka-6gerum það“) og Johannes Kepler nýtti sér stærðfræðina og reiknaði út að kenningarnar áttu samleið með útreikningum.
Galileo Galilei horfði í gegnum sinn stjörnukíki og sannaði með sínum eigin augum. Newton setti fram þyngdarlögmálið sem heldur öllu saman og lagði stærðfræðilegan grunn með bók sinni Principia. Einstein setti fram afstæðiskenninguna, útvíkkun alheimsins, svartholin, hvítholin og raðaði öllu saman. Georges Lemaître steig fram og alheimurinn fæddist og síðan kom Hubbel og sá hann allan á einni nóttu.
Eftir að gestir hafa farið í gegnum sköpun alheimsins liggur leiðin inn í fyrsta hluta safnsins í gegnum vetrarbrautina okkar og inn í sólkerfið sem við tilheyrum. Sýningin skiptist í 4 hluta og eru þeir aðgreindir með veggjum sem líkja eftir hverfilblöðum:

Sólkerfið okkar
orka-7Stjörnufræðingar hafa varpað því fram að jörðin sé eins og eitt sandkorn á öllum ströndum jarðar í samræmi við stærð alheimsins. Þannig að smæð okkar sólkerfis er gríðarleg í samanburði við þær kenningar sem leiða líkur að því að 100.000 – 200.000 milljón sólir séu í vetrarbraut okkar (Milky Way). Gagnvirkur skjár leiðir gesti í gegnum allar reikistjörnurnar í okkar sólkerfi og sérstök líkön sýna hverja plánetu fyrir sig. Þú getur kynnst því hversu heitt er á Merkúr og hvað Júpiter hefur mörg tungl og allt þar á milli.

Maðurinn og orkan
orka-8Hvernig maðurinn hefur virkjað orkuna sér til framdráttar er kjarninn í þessum sýningarhluta. Hér getur að líta hvernig tækniþróunin er alltaf að verða hraðari og hraðari eftir því sem tíminn líður.
Gagnvirkur skjár gefur gestum tækifæri á að kynna sér helstu uppgötvanir ásamt því að sérstakur sýningargripur sýnir hvernig orkan breytist úr einu formi yfir í annað; snigill Arkimedesar breytir hreyfiorku mannsins í fallorku, þaðan í vindorku sem loks hellir upp á.

Mismunandi orkugjafar
Í þessum hluta safnsins kynnast sýningargestir mismunandi orkugjöfum og því hvernig maðurinn nýtir sér orkuna til að knýja daglegt líf. Sólarorka, vindorka, kjarnorka, vetni, etanól, jarðefnaeldsneyti (kol, olía, gas). Nánast öll staðbundinn orka á Íslandi kemur frá umhverfis-vænum orkugjöfum (vatnsfallsvirkjunum eða jarðvarmavirkjunum).
Því er öðruvísi farið í flestum öðrum löndum þessa heims. T.d. kemur yfir 90% af allri raforkuframleiðslu bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum frá jarðefnaeldsneyti og kjarnorku.

Virkjun jarðvarma á Íslandi
orka-9Í síðasta hluta sýningarinnar er greint frá því á hvern hátt HS Orka virkjar jarðvarma á Reykjanesi. Glerveggur gefur gestum tækifæri á að sjá inn í vélasal virkjunarinnar þar sem tveir gufuhverflar framleiða hvor um sig 50 megavött af rafafli. Sú orka nægir til að knýja Reykjavíkurborg á góðum sumardegi. Hver hverfill um sig kostar 3 milljarða og eru það dýrustu og afkastamestu sýningargripirnir. Jarðskjálftahermi er að finna í þessum sýningarhluta.

Allir, sem leið eiga út á Reykjanes, ættu að koma við í Orkuverinu Jörð með það fyrir augum að skoða og fræðast um það sem sýningin hefur upp á að bjóða.

Heimild:
-Fréttablaðið 10. júní 2009, bls. 26.
-www.hsorka.is/kynningarefni.

Reykjanesvirkjun

Í Reykjanesvirkjun.

Keflavík

Í áfangaskýrslu fyrir Reykjanesbæ um byggða- og húsakönnun gamla hverfisins í Keflavík frá árinu 2012 má lesa eftirfarandi um sögu þess og byggðaþróun:

Sögubrot
Keflavík
„Keflavíkur er fyrst getið í rituðum heimildum um 1270 og þá í sambandi við reka og skipti á hval á Romshvalanesi. Þá er staðarins getið um 1420 þegar enskir fiskimenn fóru að venja komur sínar á Suðurnesin og sóttu þaðan á fiskimið.
Um 1450 voru Þjóðverjar komnir á þessar slóðir og hófu verslun. Skömmu eftir 1600 tóku Danir við og einokunarverslunin hófst formlega árið 1602.
Upphaflega mun jörðin Keflavík hafa verið í eigu Skálholtsstóls, en verður eign konungs við siðaskiptin. Keflavíkurjarðarinnar er fyrst getið í jarðamatsbókum árið 1597. Þá er hún konungsjörð og gjöld af henni greidd til Bessastaða. Hún tilheyrði Rosmhvalaneshreppi til ársins 1908 þegar Keflavík og Njarðvíkurhreppur hinn eldri voru sameinaðir í Keflavíkurhrepp. Búskapur lagðist niður á jörðinni árið 1780.

Keflavík

Duushús og tóftir gamla Keflavíkurbæjarins neðst.

Með einokunarverslun Dana var mælt fyrir að siglt skyldi á tuttugu hafnir á landinu og var Keflavík ein þeirra. Verslun komst þá í hendur kaupmanna frá Kaupmannahöfn.
Efling fiskveiða varð að frumkvæði danskra kaupmanna og ráðamanna. Sem dæmi um hve Keflavík hefur verið eftirsóttur verslunarstaður er að árið 1624 er aðeins einn verslunarstaður með meiri ágóða, þ.e. Ísafjörður.
Fyrsti búfasti kaupmaðurinn í verslunarþorpinu Keflavík var Jacobæus sem þangað fluttist samkvæmt ákvörðun Almenna verslunarfélagsins árið 1787, í lok einokunarverslunarinnar, en Danir héldu uppi verslun í Keflavík allt fram til ársins 1919.
Keflavík
Segja má að Jacobæus hafi lagt grunn að framtíðarbyggð, en þrjú hús voru í Keflavík og komin forsenda varanlegs þéttbýlis.
Um 1800 kom breskur ferðamaður, Henry Holland, til Keflavíkur og segir þar vera 15-20 timburhús og nokkra torfbæi.
Á fyrstu áratugum 19. aldar byggðist upp þorp í Keflavík. Verslunarþorpið dró að sér handverksmenn og ýmsa þjónustu auk þess fólks sem stundaði sjómennsku og fiskverkun.

Keflavík

Keflavík 1890.

Jacobæus lét reisa sjóvarnargarð og uppskipunarbryggju. Þá lét hann stækka tún og gera matjurtargarða og girti af með grjóthleðslum.
Í tengslum við verslunina voru reist verslunar- og pakkhús og og á síðasta áratugi 19. aldar voru þar þrjár verslanir sem sjá má merki um í dag, þ.e. Knudzon, Duus og Fischers verslanir.
Útræði var ekki mikið í Keflavík fyrr en eftir 1800, þegar verslun hafði verið gefin frjáls. Fram að þeim tíma var róið út frá verstöðvum í kring, í Höfnum, Njarðvíkum, Miðnesi og Görðum. Í kjölfar aukinnar útgerðar fjölgaði íbúum ört og fór úr 35 manns um 1800 í 130 manns um 1830. Áramótin 1900 voru íbúar um 300 talsins. Um helmingur íbúa kom úr öðrum sýslum og nærsveitum.Keflavík
Skaftáreldar sköpuðu slíka neyð að fólk flúði heimahaga sína og flutti fjöldi fólks af Suðurlandi til Suðurnesja. Til Keflavíkur fluttist margt fólk utan að landi sem taldi hag sínum og fjölskyldu sinnar betur borgið í Keflavík þar sem uppgangur var, m.a. vegna útgerðar. Þá komu menn til útræðis annars staðar að s.s. frá Mýrum og Borgarfirði.
Keflavík
Mikil fátækt var í Keflavík á 19. öld. Íbúar voru annarsvegar fátækir daglaunamenn og hinsvegar verslunarstjórar og kaupmenn. Framan af bjó alþýðan í torfhúsum eða tómthúsum. Tómthúsmannabyggðirnar voru einkum sunnan og vestan Duushúsa. Ekki eru til neinar minjar um þá byggð nú, en elsta byggð Keflavíkur stendur á því svæði. Árið 1800 eru talin 30 kot í Keflavík, mest torfbæir með timburgafli og 6 hús eingöngu úr timbri Hans Duus keypti Keflavíkurverslun um 1850. Duus verslun starfaði fram til ársins 1919. Þá var verslunin búin að kaupa upp aðrar verslanir ásamt lóðum og lendum og átti því mest allt land undir húsum Keflvíkinga. Árið 1920 lýkur að fullu danskri verslun í Keflavík. Kaupfélag Suðurnesja var stofnað árið 1928.

Keflavík

Vegna hafnleysis var útgerð þilskipa ekki vænleg og sjósókn eingöngu á opnum árabátum fram til 1907, þegar fyrsti vélbáturinn var keyptur til Keflavíkur. Hafnaraðstaðan var þó slæm og lágu bátarnir við bauju á Keflavík milli róðra.
Árið 1905 var kauptúnum sem töldu fleiri en 300 íbúa heimilað að verða sérstakt sveitarfélag og árið 1908 varð Keflavíkurhreppur til. Stærsti útgjaldaliður hins nýja sveitarfélags var fátækraframfærsla. Verkefnin voru ærin svo sem atvinnumál, brunavarnir, hafnargerð og umbætur í vatnsbólum svo eitthvað sé nefnt. Vegna aðstæðna í Keflavík var erfitt með vatnsöflun. Framan af var einungis einn brunnur í þorpinu sem staðsettur er inni í Bryggjuhúsi Duusverslunarinnar.

Keflavík

Keflavík – brunnurinn við Brunnstíg.

Árið 1907 lét Duusverslun grafa brunn við Brunnstíg og dregur gatan nafn sitt af honum.
Um 1930 voru byggðar steinbryggjur á Vatnsnesi og í Grófinni. Í kjölfar þessara hafnarbóta fjölgaði vélbátum. Á fjórða tug 20. aldar var fyrsta hraðfrystihúsið reist og fjölgaði þeim hratt og voru orðin fimm þegar mest varð. Hafskipabryggja var byggð í Keflavík árið 1932 og hófst þar með bygging núverandi hafnar.
Árið 1949 fékk Keflavík kaupstaðarréttindi. Gífurlegur vöxtur hljóp í byggðina á árunum eftir 1950 vegna uppbyggingar Keflavíkurflugvallar og veru varnarliðsins þar.

Þróun byggðar

Keflavík

Keflavík – húskönnunarsvæðið 2012.

Keflavík byggðist upp meðfram strandlengjunni eins og flest sjávarþorp á Íslandi. Hús verslananna stóðu meðfram götu sem síðar var nefnd Hafnargata. Þar fyrir ofan reis hin eiginlega íbúðarbyggð.
Um aldamótin 1900 var byggð tekin að myndast sem tengd var saman með gatnakerfi. Byggðin afmarkaðist af Vesturgötu í norðri, Kirkjuvegi til vesturs, Tjarnargötu til suðurs og strandlengjunni til austurs. Skólinn stóð við Íshússtíg, miðsvæðis í byggðinni á milli verslananna.
KeflavíkKauptúnið skiptist í tvö hverfi sem kölluð voru austurplássið og vesturplássið. Mikið tún, Norðfjörðstún, kennt við Ólaf Norðfjörð, faktor, klauf byggðina í tvennt. Eftir aldamótin 1900 fór byggðin að færast lengra suður og upp á melinn til vesturs. Edinborgarverslun ásamt bryggju reis við Hafnargötu og vegurinn í byggðina frá Reykjavík var að öllum líkindum úr suðri.
Að undirlagi Matthíasar Þórðarsonar þjóðminjavarðar og eiganda Keflavíkurjarðarinnar gerði prófessor Guðmundur Hannesson læknir skipulagsuppdrátt að Keflavík árið 1920. Var uppdrátturinn fyrsti vísir að skipulagi fyrir Keflavík. Þar voru teiknaðar götur yfir Norðfjörðstún þar sem nú eru Túngata, Norðfjörðsgata og Vallargata. Árið 1935 var Norðfjörðstúnið nánast fullbyggt.
Árið 1929 var fyrst kosið í sérstaka byggingarnefnd hreppsins. Engin byggingarsamþykkt var þá til í Keflavík en nefndinni var falið að kveða á um hvar og hvernig byggingum skyldi háttað. Árið 1930 fól hreppsnefnd byggingarnefnd að gera skipulagsuppdrátt að Keflavík.
KeflavíkJón J. Víðis mældi og dró upp Keflavík 1932 fyrir Skipulagsnefnd (Íslands). Um sama leiti var hafist handa við að semja byggingarsamþykkt fyrir Keflavík og tók hún gildi 27. júlí 1932. Þar kom fram að gerður yrði skipulagsuppdráttur samkvæmt skipulagslögum og færi skipulag kauptúnsins að því búnu eftir honum og ákvæðum skipulagslaga. Allar byggingar í kauptúninu skyldu vera samkvæmt uppdrættinum á því svæði sem hann næði yfir en annarstaðar skyldi byggingarnefnd ráða legu gatna og húsa. Sérstakt leyfi byggingarnefndar þurfti til að gera íbúðir í kjöllurum. Kröfur voru settar um að allar íbúðir nytu birtu og að hverri íbúð skyldi fylgja nokkur lóð.
Þegar Guðmundur Hannesson vann að skipulagi Keflavíkur 1932 skrifaði hann greinar í Morgunblaðið þar sem hann dró upp eftirfarandi mynd af bænum: „Keflavík er allstór og myndarlegur bær og hefur vaxið mikið á undanfarandi árum. [….] Ég hafði séð bæinn fljótlega fyrir nokkrum árum. Virtist mér hann þá skipulagslítill og bjóst því við, að ekki yrði hlaupið að því að gera þar skipulag. En þegar ég fékk nú tækifæri til þess að athuga hann nánar, þá reyndist mér hann hálfu betri en ég hafði búist við.
KeflavíkBæjarstæðið er tiltölulega flatlent og götur hafa verið lagðar út og suður og austur og vestur. Flestar göturnar eru 15m breiðar, ef mælt er milli húshliða, og er það meira en víðast í Reykjavík. Byggingareitir hafa ríflega breidd. Þeir hafa ekki verið skyni skroppnir mennirnir sem sáu um allt þetta, jafnvel séð lengra en Reykvíkingar þó sums staðar hafi þeim mistekist. Það varð þá fyrir, eins og vant er, að hyggja að bryggjunum og þörfum útvegsins.
Aðstaðan við sjóinn er erfið, höfnin ekki annað en opin vík, og lítil von um að þar verði fyrst um sinn gerð góð höfn. Við land er fremur útgrunnt í sjálfri víkinni, hraun undir og skerjótt við ströndina. Það búa margir við betra en bjargast þó miður en Keflvíkingar.
Aðalbryggjan er utan til í víkinni og er þar nóg dýpi fyrir báta um háfjöru. Önnur bryggja er þar utar, kynlega lögð og hlykkjótt, en með háfjöru er hún á þurru landi. Hún verður vafalaust lengd áður langt um líður, og getur þá komið að gagni. […….]
Keflavík
Sjálfur [er] bærinn ærið fyrirferðarmikill. Það er nálega 20 mínútna gangur eftir honum endilöngum. Þessi dreifing byggðarinnar er varasöm, því götur verða þá dýrar, ekki síst er ræsi og vatnsveita verða lögð. Hér, eins og víðar, er orsök dreifingarinnar sú, að lóðir fást ódýrari í suðurhluta bæjarins og þar vex því byggðin, en hins vegar eru húsin hvergi sambyggð, þó bæði sé það ódýrara og hlýrra“.
Skipulagsnefndin vann áfram með skipulagshugmyndir Guðmundar Hannessonar. Lögð var áhersla á að aðgreina íbúðar- og atvinnusvæði.

Keflavík
Útgerðinni var ætlað svæði í Grófinni og á Vatnsnesi nærri hafnarmannvirkjum. Iðnaði var valinn staður á Vatnsnesi.
Verslunin átti að vera áfram við Hafnargötu þar sem gert var ráð fyrir sambyggðum húsum með vörugeymslum bakatil. Gert var ráð fyrir íbúðarbyggð á svæði sem afmarkaðist af Vesturgötu til norðurs, Hringbraut til vesturs, Vatnsnesvegi til suðurs og Hafnargötu til austurs. Teiknuð var ný íbúðarbyggð á Duus-túni þar sem fyrir var byggð. Götur lágu í beinum línum frá austri til vesturs og norðri til suðurs. Skipulagið var auglýst eins og lög gerðu ráð fyrir og gerðu hagsmunaaðilar, byggingarnefnd og sjálf hreppsnefndin athugasemdir. Voru menn ósáttir við breytingar frá upphaflegum hugmyndum Guðmundar Hannessonar sem flestar væru til þess að gera uppbyggingu dýrari. Ósátt var um að á helmingi svæðisins væri gert ráð fyrir tvílyftum húsum og sambyggðum húsum.
KeflavíkAðkoman að bænum var um Hafnargötu sem þá þegar var orðin aðalgata bæjarins og hefur ávalt verið það síðan. Skipulagið gerði ráð fyrir tveim opnum svæðum, annars vegar við kirkjuna við Kirkjuveg og hins vegar við bæjarvöll sem afmarkast af Suðurgötu, Tjarnargötu, Sólvallagötu og Skólavegi. Lögð var áhersla á að hagkvæmis[-] og fegurðarsjónarmið skyldu höfð að leiðarljósi við framtíðaruppbyggingu. Fyrsta skipulag Keflavíkur var staðfest í júní 1934.
Á vegum Skipulags ríkisins og Samvinnunefndar um skipulagsmál Keflavíkur, Njarðvíkur og Keflavíkurflugvallar voru síðan unnar aðalskipulagsáætlanir sem staðfestar voru 1973 og 1983 svo Aðalskipulag Reykjanesbæjar 1995-2015.

Keflavík

Keflavík – loftmynd 1954.

Í núgildandi Aðalskipulagi Reykjanesbæjar 2008 – 2024 segir: “Þéttbýli í Reykjanesbæ hefur markast af byggð í Keflavík, Innri Njarðvíkum, Ytri Njarðvíkum og Höfnum. Fram til þessa hefur byggðin fyrst og fremst verið austan og norðan Reykjanesbrautar. Þessi fyrrum sveitarfélög voru sameinuð í Reykjanesbæ árið 1994. Njarðvíkurfitjar mynda afgerandi skil í byggðinni, en eru um leið dýrmæt náttúruperla sem gefur bænum ómetanlegt gildi.
Byggð í Reykjanesbæ er fremur lág og eru einnar til þriggja hæða hús áberandi. Bygging hærri húsa hefur þó farið vaxandi á síðast liðnum misserum með allt að sjö til átta hæða húsum við strandlengju.
Fjölbýlishúsahverfi frá sjöunda áratug er í suðurhluta gömlu Keflavíkur og stórt fjölbýlishúsahverfi í norðri frá níunda áratuginum. Þéttleiki byggðar er nokkuð mismunandi eftir hverfum, á bilinu 10 til 30 íbúðir á hektara. Gott samhengi er í ákveðnum bæjarhlutum og fjölbreytni er í húsa- og íbúðargerðum, sérbýli og fjölbýli.
Keflavík
Heildstæður byggðarkjarni eldri timburhúsa er upp af gömlu Keflavík, en elstu hús bæjarhlutans eru timburhús frá því kringum aldamótin 1900. Bærinn byggðist á sínum tíma nokkuð þétt út frá víkinni í eins konar geislum. Uppgangstíma í útgerð má m.a. sjá í íbúðarbyggingum á fimmta áratuginum. Vaxtarkippur varð svo í íbúðarbyggingum á sjötta áratuginum með komu varnarliðsins og aftur í byrjun sjöunda áratugarins þegar fólk flutti frá Vestmannaeyjum eftir gos.

Keflavík

Keflavík – Hafnargata 2020.

Hafnargata, Hringbraut og Njarðarbraut eru helstu götur bæjarins með líflegan bæjarbrag og öflugan þjónustukjarna með blandaðri byggð. Hafnargata og Njarðarbraut mynda upphaf lífæðar bæjarins sem teygir sig til austurs að Tjarnarbraut og Dalsbraut, þar sem ný íbúðarbyggð hefur risið undanfarin ár og er enn í byggingu. Þar er mikilvægi lífæðarinnar fyrir samhengi byggðarinnar fylgt eftir, svo sem við mótun göturýmis, í húshæðum og þéttleika, sem er mestur við lífæðina. Í Höfnum eru elstu íbúðarhúsin frá um 1920 og nokkur ný hús hafa verið byggð á þremur síðastliðnum áratugum.
Trjágróður er ekki áberandi í bæjarlandinu, en víða má sjá myndarleg tré í húsagörðum. Nálægðin við sjó, hafnir, heiðar og berg gefur bæjarumhverfinu sérkenni og margbreytileika”.“

Heimild:
-Reykjanesbær – byggða- og húsakönnun, áfangaskýrsla, febrúar 2012.

Keflavík

Keflavík – loftmynd 1954.