Tag Archive for: Reykjanesbær

Skessuhellir

Í Fréttablaðinu árið 2008 mátti lesa eftirfarandi um Svartahelli í Reykjanesbæ (Keflavík):
svartihellir-1Nýverið flutti óvenjulegur nýr íbúi inn í helli í Hólmsbergi við smábátahöfnina í Gróf í Reykjanesbæ. Það er fimm metra há og fjögur hundruð ára gömul skessa sem þó er með barnshjarta.
Það var Herdís Egilsdóttir rithöfundur sem skapaði skessuna og hún átti líka hugmyndina að því að skessuhellirinn yrði reistur á Reykjanesi nú. „Víða um lönd hafa verið gerð söfn í kringum sögupersónur úr barnabókum. Ég nefndi þetta við Árna Sigfússon bæjarstjóra og hann tók verkefnið strax upp á sína arma.“
Fjöllistahópurinn Norðanbál vann verkefnið í samstarfi við Ásmund Friðriksson verkefnisstjóra og réð útliti og stærð hellisins. Hann er hlaðinn í kringum smá skúta sem heitir Svartihellir en byggingin kostar tæplega sautján milljónir.
Allt sem tengist safninu er stórt í sniðum. Krakkar geta farið ofan í skóna hennar og stór fótsporin. Innanstokksmunir hellisins eru í sama stærðarflokki, borð, stólar og risarúm sem má skríða upp í. „Augu skessunnar eru á stærð við fótbolta og þau hreyfast. Svo andar hún og situr í ruggustól og prjónar þannig að safnið verður líflegt,“ segir Herdís. „Svo er hugmyndin að hengja fötin hennar á snúru meðfram veginum og mála sporin hennar á götur Reykjanesbæjar svo krakkarnir sjái hvar hún hafi verið.“
Herdís hefur skrifað fimmtán bækur um skessuna og vinkonu hennar hana Siggu. Nú er ný bók á leiðinni sem mun fjalla um ævintýri skessunnar í nýja bústaðnum á Suðurnesjum.

Heimild:
-Fréttablaðið 29 ágúst 2008, bls. 42.

Reykjanesbær

Svartihellir (Skesuhellir).

Hafnir

Við kirkjugarðsvegg Kirkjuvosgkirkju að vestanverðu er skilti. Á því er Höfnum og kirkjum byggðalagsins lýst í máli og myndum:

Hafnir
Elstu ritheimild um byggð í Höfnum er að finna í landnámu þar sem greint er frá því að Ingólfur Arnarson hafi gefið Herjólfi Bárðarsyni, frænda sínum og fóstbróður, land á milli Vágs og reykjaness. landssvæði sem er líklega nálægt stærð gamla Hafnahrepps. Herjólfur var langafi Bjarna Herjólfssonar, sæfaranda, sem talið er að hafi ásamt áhöfn sinni, fyrstur Evrópumanna, litið meginland Norður-Ameríku augum. Fjölskylda Bjarna á Íslandi hafði flutt að Drepstokku við Eyrarbakka og þaðan til grænlands og var ástæða ferða Bjarna sú að hann var að heimsækja foreldra sína, en villtist af leið.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Ávallt hefur verið talið að landnámsbýlið Vogur hafi verið norðan Ósa, þar sem heitir Gamli Kirkjuvogyr. Þegar skáli með landnámslagi fannst í túninu fyrir aftan Kirkjuvogskirkju kom fram sú tilgáta að þar væru að finna landnámsbæinn og fékk hann því nafnið Vogur.

Hafnir

Kotvogur.

Við fornleifarannsóknir hafa hins vegar vaknað efasemdir um að skálarústin sé bændabýli og hefur sú tilgáta verið sett fram að um sé að ræða rústir útstöðvar eins konar könnunarbúða líkt og á L’Anse aux Meadows á Nýfundnalandi.
Hafnir
Hafnir eru taldar hafa nafn sitt af tveimur fyrrum stórbýlum, Kirkjuhöfn og Sandhöfn, sem stóðu talsvert sunnar en núverandi byggð, en þar var búseta fram á 17. öld. Á síðari tímum hafa Hafnir verið samheiti fyrir 3 hverfi, þ.e. Kalmanstjörn, Merkines og Kirkjuvogshverfi. Byggðin í Höfnum hefur mótast mjög af erfiðum náttúruskilyrðum en þó er líklegt að fyrstu árhundruðin hafi verið búsældarlegra um að litast.
Í kjölfar Reykjaneselda, mikillar jarðeldahrinu á Reykjanesi á 13. öld, tók land að eyðast vegna sandfosk. Byggðin hefur hopað og nú er svo komið að byggð er fyrst og fremst í Kirkjuvogshverfinu auk Merkiness. Eftir því sem landgæði rýrnuðu fór vegur sjávarútvegs vaxandi og varð helsti bjargræðiskostur Hafnamanna. Fiskimiðin voru svo gjöful að efnamenn sóttust mjög eftir jörðum í hreppnum og í gegnum aldirnar voru Hafnir ein af stærstu verstöðvum landsins.
HafnirÁ 18. öld fór íbúum í þéttbýliskjarnanum í Kirkjuvogshverfi að fjölga og var mikill vöxtur fram á 20. öld. Þá var rekin mikil útgerð stórra áraskipa, bæði frá Kotvogi og Kirkjuvogi. Á 19. öld þótti Kotvogur eitt reisulegasta býli landsins. Blómaskeiðið tók enda er vélbátar fóru að ryðja sér til rúms og fjarlægð á mið fór að skipta minna máli og krafa jókst um bætt hafnarskilyrði.
Nú er byggðin að mestu í gamla Kirkjuvogshverfinu sem nefnist Hafnir í daglegu tali en þar hafa búið 80-120 manns undanfarna áratugi.

Kirkjur í Höfnum

Kirkjuvogskirkja

Kirkjuvogskirkja.

Kirkja hefur verið [í] Hafnahreppi að minnsta kosti frá 14. öld, en fyrstu sagnir um kirkju eru frá árinu 1332. Miðaldakirkjan stóð hins vegar norðan Ósa en afar lítið er vitað um sögu hennar. Enn má sjá móta fyrir rústum bæjar- og kirkjustæðis og leifum sem gæti verið kirkjugarður og mögulega kæmi fram ný þekking ef rústir Gamla-Kirkjuvogs yrðu rannsakaðar. heimildir eru um að mannabein hafi verið flutt þaðan að Kirkjuvogi eftir uppblástur allt fram að aldamótum 1800. Þessarar gömlu jarðar er getið í Jarðarbók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 en kirkjan hafði verið flutt á núverandi stað árið 1575.
Núverandi kirkja, Kirkjuvosgkirkja, var vígð 26. nóvember 1861. Fordyr og kór var bætt við nokkrum árum síðar. Árið 1970 var ákveðið að fara í viðarmiklar viðgerðir á kirkjunni en í ljós kom að byggingin var í afar slæmu ástandi. Að tilstuðlan Þórs Magnússonar, þjóðminjavarðar, voru Hörður Ágústsson og Þorsteinn Gunnarsson fengnir til að stýra verkinu með það að markmiði að færa kirkjuna nær því sem hún var á 19. öld. Söfnuðurinn var fámennur en með útsjónasemi tókst að ljúka viðgerðum og endurvígði dr. Sigurbjörn Einarsson biskup kirkjuna 10. desember 1972. Á þessum tíma var húsfriðunarsjóður að taka sín fyrstu skref og sást mjög glögglega hve mikil þörf var á þeim sjóði í þess konar verkefni.
Kirkjuhöfn er bær sem stóð aðeins sunnar en Kalmanstjörn. Nafnið bendir til að þar hafi verið kirkja en heimildir eru fátæklegar. Þegar Árni Magnússon skráði efni í jarðarbókina árið 1703, kemur fram að jörðin hafi verið í eyði í um 40 ár. Nokkur ummerki eru um byggð á þeim slóðum sem bærinn mun hafa staðið og talið er að þar hafi einnig verið kirkjugarður en sagnir eru um að bein hafi verið flutt þaðan í kirkjugarðinn í Kirkjuvosghverfinu.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir – uppdráttur ÓSÁ.

 

Reykjanes

Léo M. Jónsson í Höfnum skrifaði grein í Faxa árið 2008, sem hann nefndi „Ökuferð um Hafnarhrepp„. Í henni fjallar Léo m.a. um staðhætti, örnefni og sagnir á „hinu eiginlega Reykjanesi“ og nágrenni:

Leó M. Jónsson

Leó M. Jónsson.

„Þegar haldið er lengra suður eftir veginum er komið á hæð þar sem vegurinn sveigir til austurs. Beint af augum er gamalt eldfjall, Sýrfell, en á milli þess og Reykjanessvita, sem stendur á hinu 50 m háa Vatnsfelli, í suðvestri, en fellið heitir eftir stórri tjörn sem er við það, eru Rauðhólar og Sýrfellsdrög. Vitinn er 28 m a hæð og því 78 m yfir sjávarmáli. Mannvirkin norðvestan við Rauðhóla er Sjóefnavinnslan (oft ranglega nefnd Saltverksmiðjan). Einnig blasir við nýreist Reykjanesvirkjun. Hér blasir hið raunverulega Reykjanes við augum sem Reykjanesskaginnerkenndurvið. Sérkennilegi hnjúkurinn með u-laga skarði í, sem sést héðan vestan vitans, nefnist Valahnjúkur. Lengst til hægri sést strýtan á móbergsdrangi sem nefnist Karl en hann stendur í sjónum skammt suður af vestasta tanga Reykjanessins sem nefnist Önglabrjótsnef og teygir sig út í sjóinn í átt til Eldeyjar. Þjóðsagan segir að tröllkarl og kerling, sem bjuggu í Eldey hafi vaðið til lands og haldið á kú að leiða til nauts. Tókst ekki betur til en svo að vegna tafa dagaði þau uppi og urðu að steini. Karlinn stendur þarna enn úti í sjó en Kerling, hátt eldvarp, sem stóð sunnar uppi á landi, brotnaði niður fyrir löngu.

Eldey

Eldey

Eldey.

Eldey er sérkennileg 77 m há þverhnípt klettsey sem liggur tæpa 15 km frá landi og er talin m.a. vera mesta súlubyggð Evrópu (alfriðuð). Milli Eldeyjar og Reykjaness er Húllið – fjölfarin siglingaleið.

Stóra-Sandvík

Stóra-Sandvík. Mynd EG.

Vegarslóði á hægri hönd liggur niður í Stóru-Sandvík og að gamla Reykjanessveginum þar sem heitir Skjótastaðir en það er hár höfði norðan við víkina og mun þar hafa verið byggð fyrr á öldum. Annar vegarslóði liggur í Stóru-Sandvík niðri í dalverpinu framundan. Frá útskoti (6,7) við enda beygjunnar til austurs sést ofan í Stóru-Sandvík vaxna melgresi. Handan hennar í suðri tekur við talsvert hraun, kolsvart og sviðið með foksand í flákum. Stamparnir þrír, sem blasa við framundan handan víkurinnar, eru sérkennilegir eldgígar og eftir þeim nefnist hraunið Stampahraun og nær fram í sjó. (Hér voru reist háspennumöstur, þrátt fyrir að upphaflega hafi verið gert ráð fyrir jarðstreng frá virkjuninni að Sýrfelli. Sú breyting er vondur vitnisburður um menningarstig Suðurnesjamanna að mati höfundar!).

Eldey

Eldey.

Eldgígarnir tveir sem sjást suðvestar, lengra til hægri og utar á nesinu, nefnast Eldborgir. Eins og við er að búast eru þessir upptyppingar notaðir sem mið til staðsetningar fiskiskipa úti á Eldeyjarbanka.
Sú Eldborganna sem sést af grynnra vatni nefnist Eldborg grynnri og stendur sunnar og nær sjó. Eldborg dýpri nefnist sú sem sést af dýpra vatni. Er hún stærri og stendur vestar. Þar heitir Eldborgahraun. Fjær til norðausturs eru mikil ummerki eldsumbrota. Eru það nefnd Eldvörp. Hafnamenn nefna það einnig í daglegu tali hörzl, þ.e. ójöfnur. Stamparnir, Eldborgirnar og aðrar eldstöðvar, eru eins og misstórir hnútar á svörtu bandi í landslaginu og setja ógnþrunginn svip á umhverfið, jafnvel svo að sumt fólk verður hrætt og þorir ekki að dvelja lengi á svæðinu af ótta við eldgos – enda er hér eldur undir, sem sést m.a. á hverasvæðinu, gufuaflsvirkjuninni og blásandi borholum austan Reykjanesvita.

Mönguselsgjá

Stóra-Sandvík

Stóra-Sandvík og gjárnar ofanverðar.

Þar sem vegurinn sveigir aftur til suðurs gengur stór gjá upp frá sjó og inn í landið. Hún nefnist Mönguselsgjá og liggur nyrst upp úr Stóru-Sandvík. Gjáin er ein af mörgum sem mynda sprungubelti.

Reykjanes

Reykjanes – Brú milli heimsálfa yfir Mönguselsgjá.

Jarðskorpan gliðnar hér á miklum hrygg og jarðeldasvæði sem liggur í miðju Atlantshafi frá suðri til norðurs. Landsig sést greinilega þegar horft er um öxl til Mönguselsgjár eftir að komið er upp á Stampahraun. Yfir Mönguselsgjá (ekki Tjaldstaðagjá sem er stærri og sunnar) hafa lafafrakkamenn, úr Keflavík, byggt brú til að drýgja tekjur sínar af erlendum ferðamönnum með því að telja þeim trú um að þarna séu meginlandaflekar Ameríku og Evrópu að reka hvor frá öðrum. Greinarhöfundur er einn þeirra Hafnabúa sem hafa skömm á tiltækinu og líta á þetta sem pretti – í skásta falli fiflagang og Suðurnesjamönnum til vansæmdar enda hafa jarðvísindamenn bent á og staðfest að landrekið kemur ekki fram á þessum stað heldur miklu austar (nánar tiltekið austur í Hreppum).

Tjörn gerð af mannavöldum

Stóra-Sandvík

Stóra-Sandvík – Tjörnin manngerða.

Nú komum við að syðri troðningnum sem liggur niður í Stóru-Sandvík. Hér var melgresi sáð um 1950 til að hefta sandfok. Eins og sjá má hefur það tekist vel. Tjörnin sem prýðir svæðið og laðar að sjó og vaðfugla í stórum flokkum, myndaðist ekki fyrr en melgresið hafði stöðvað fokið. Hún er því gerð af mannavöldum! Afleiðingar hrikalegra náttúruhamfara blasa við í Stampahrauni í suðvestri og Eldvörpum í austri. Ævagamlar heimildir segja að árið 1000 hafi mest allt Reykjanes sokkið í sjó og Geirfuglasker komið upp. Þá átti landið að hafa legið Iangt út fyrir Eldey í norðvestur en Eldey og drangar við hana hafi áður verið fjöll á Reykjanesskaganum. Til að girða fyrir misskilning skal aftur ítrekað að Reykjanesskagi og Reykjanes er tvennt ólíkt þótt skaginn dragi nafn af þessu litla nesi yst á honum.

Heimildir um landskjálfta

Stampar

Stampar.

Annálar greina frá eldsumbrotum með stuttum hléum á og úti fyrir Reykjanesi á 12. og 13. öld. Samkvæmt þeim hefur gosið á Reykjanesi árið 1118, og a.m.k. 13 sinnum á 13. öld. Sagt er að sumum eldgosum hafi fylgt miklir landskjálftar og þess getið að svartamyrkur hafi verið um annars hábjartan dag (1226) og að Reykjanesið hafi brunnið (1210 og 1211). Í hamförum á fyrri hluta 13. aldar er talið að byggð hafi eyðst á Reykjanesi en merki um hana sjást m.a. við Skjótastaði norðan Stóru-Sandvíkur.

Stampar

Stampahraun í mótun.

Í annál er þess getið að 18 manns hafi farist á Reykjanesi í landskjálfta og eldi árið 1118. Næsta lítið er vitað um sögu Hafna á 14. og fram á síðari hluta 16. aldar eins og margra annarra staða á landinu, m.a. vegna þess að kirkjubækur, sem geymdar voru í Viðey, eyðilögðust í bruna. Þó munu vera til heimildir um mikinn landsskjálfta 1389 og að 1390 hafi hálft Reykjanesið brunnið. Til mun vera heimild um að eldur hafi komið upp í hafi fyrir Reykjanesi 1420 og að þá hafi skotið upp landi. Einnig er getið um eld fyrir Reykjanesi 1422 og aftur 1584. í annál er greint frá eldi í „Grindavíkurfjöllum“ árið 1661 oghafi séstoft, fyrir og eftir jól, á Norðurlandi. Til er heimild um að árið 1706 hafi komið upp eldur í sjó fyrir Reykjanesi og einnig 1783 fyrir sunnan Geirfuglasker. Kom þá upp land sem sökk aftur (Nýey). Síðasta gos sem minnst er á í annálum, á eða fyrir Reykjanesi, á að hafa verið árið 1830 en þá sigu Geirfuglasker í sjó. Síðustu eldsumbrot sem heyrst hefur um fyrir Reykjanesi eiga að hafa átt sér stað í kringum 1930. Á þá að hafa gosið á sjávarbotni nálægt Eldey. (Athygli er vakin á því að í ljósi niðurstaðna jarðfræðirannsóknir á svæðinu, m.a. á vegum HÍ, hafa tímasetningar eldsumbrota verið endurskoðaðar 2005).

Forsetahóll

Reykjanes

Reykjanes. Forsetahóllinn efst til vinstri.

Á mótum vegar að Reykjanessvita eru um 11 km frá syðri hraðahindruninni í Kirkjuvogshverfi. Vegurinn liggur fyrst í vestur að Sjóefnaverksmiðjunni, síðan í norðvestur fram hjá gúanóverksmiðju en skammt þaðan er vinkilbeygja til vinstri á veginum að vitanum og út að Valahnjúki.

Reykjanesviti

Reykjanes – Forsetahóll.

Þessar verksmiðjur eru hér vegna jarðhita sem fæst úr borholum en þær eru með öflugustu borholum landsins um og yfir 10 megavött hver. Spölkorn frá kröppu beygjunni er grasi vaxinn hóll eða fell á vinstri hönd sem nefnist Litlafell og einnig Forsetahóll (en þennan hól gáfu bræðurnir Ketill og Oddur Ólafssynir frá Kalmanstjörn forsetaembættinu í tíð Sveins Björnssonar, að hans raði (en ekki Hafnamenn sem þakklæti fyrir veg út á Reykjanes eins og ég hafði áður haldið fram og haft ákveðna heimildarmenn að) – til að forsetinn gæti aðstoðað þá við að fá ruddan slóða út á Reykjanes – sjá bréf Marons heitins Vilhjálmssonar frá Merkinesi sem birt er hér aftan við greinina). Suðaustan við Litlafell, í hvarfi frá veginum, er mjög fallegt stórt blátt lón. Sé gengið upp á Litlafell blasir lónið við og hverasvæði upp af því, að sunnanverðu.

Reykjanes

Reykjanes – Forsetahóll.

Ekið er um hlað vitavarðarhússins (þar er snyrtiaðstaða fyrir ferðafólk) og áfram út að Valahnjúki. Við strönd Reykjaness og báðu megin nessins hafa orðið mörg og mikil sjóslys á þessari öld. (Greinarhöfundur hefur skrifað sögu Björgunarsveitarinnar Eldeyjar í Höfnum. Þar er m.a. fjallað nokkuð ítarlega um stærri sjóslys á þessu svæði. Greinin er einnig birt á vefsíðu höfundar www.leoemm.com). Við Reykjanes strandaði m.a. eitt af stærstu skipum sem strandað hefur við Ísland, olíuskipið Clam. Það var 28. febrúar 1950. Skipið varð vélarvana eftir að hafa rekið upp í fjöru í Reykjavík og á leið til útlanda dregið af dráttarbáti, sem það slitnaði frá í ofsaveðri. Um borð voru 50 skipverjar. Hvers vegna 50 manns voru um borð í vélarvana skipi sem draga átti til útlanda af dráttarbáti bíður sagnfræðinga að rannsaka. Þarna fórust 27 manns en 23 tókst að bjarga.

Niðurlag

Reykjanes

Brú milli heimsálfa yfir Mönguselsgjá.

Mörkin á milli gamla Hafnahrepps (nú Reykjanessbæjar) og Grindavíkur liggja á Reykjanesi í línu frá tindi Sýrfells í þúfu í Valbjargargjá strax sunnan Valahnjúks og þaðan í kamb Valahnjúksmalar. (Eftir þinglýstu skjali nr. 240479 dags. 16/1/79).

Álfar

Álfur á Reykjanesi.

Ástæða er til að geta þess að í þessari grein er stuðst við upplýsingar staðfróðra heimamanna í Höfnum um örnefni. Mest munar þar um örnefnasafn og lýsingu Hinriks í Merkinesi á staðháttum í gamla Hafnahreppi sem hann vann fyrir Örnefnastofnun 1978. Á nokkrum stöðum eru önnur heiti notuð á sumura kortum Landmælinga ríkisins en í þessari grein. Þau eru eftirfarandi: Á korti stendur Valahnjúkar. Í Höfnum er aðeins talað um einn Valahnjúk. Á korti eru 5 Stampar sagðir í Stampahrauni. Í Höfnum eru 3 gígar næst vegi nr. 425 nefndir Stampar. Þeir tveir sem eru sunnar á nesinu nefnast Eldborg grynnri og Eldborg dýpri og þar er Eldborgahraun. Á korti stendur Eldvarpahraun. Í Höfnum er talað um Eldvörp á þeim stað. Norðarlega upp af Hafnabergi er hóll sem nefndur er Berghóll á korti. Í Höfnum heitir þessi hóll Bjarghóll (hann er við Sigið (á Siginu) þar sem sigið var í bjargið). Á korti er hluti strandarinnar undir Valahnjúki nefnd Miðgarðamöl. Í Höfnum heitir þessi staður Valahnjúksmöl (eins og er á a.m.k. einu kortanna í mkv. 1:100.000). Gjáin sem gengur upp úr Stóru Sandvík (sú sem hefur verið brúuð við hlið vegarins!) nefnist Mönguselsgjá eftir Möngu frá Kalmanstjörn sem var selsstúlka fyrrum en ummerki selsins er að finna austarlega í gjánni. Þessi gjá hefur ranglega verið nefnd Tjaldstæðagjá í fréttatilkynningum frá Ferðamálaskrifstofu Reykjanesbæjar. Sú gjá nefnist réttu nafni Tjaldstaðagjá. Hún er breiðari en Mönguselsgjá og liggur spölkorn sunnar.“

Með greininni fylgir bréf frá Ron (maron) frá Cooktown í Ástralíu:

Bréf frá Astralíu: Cooktown 15.3.04
Blessaður Leó!

Reykjanes

Reykjanes – Forsetahóll.

Þú ert kannski hálfundrandi á að fá bréf á íslensku frá Ástralíu. Í eina tíð hét ég Maron í Merkinesi, fæddur þar og uppalinn.
Ástæðan fyrir þessu bréfkorni er Leiðarlýsing þín um Hafnir. Ég er þér sammála um flest eins og t.d. „skrímslið“ en hugmynd þín um Forsetahólinn er alröng. Mundu að ég þekkti Kedda Ólafs (Ketil Ólafsson frá Kalmanstjörn) frá barnæsku. Sagan er sú – beint frá Kedda – að hann var búinn að klára allan sandinn í Hundadalnum og vantaði leið suður eftir. Hann (Keddi) og Oddur voru búnir að ræða við Vegamálastjóra, ýmsa ráðherra og embættismenn um akfæra braut svo hægt væri að koma liði og tækjum nálægt strandstað en ekkert gekk; þeir vísuðu hver á annan, eins og embættismanna er vandi, þangað til hraut út úr Kedda:

Reykjanesviti

Reykjanes – Forsetahóll. Steyptir hliðarstólpar fremst.

„Andskotinn, – við verðum víst að tala við forsetann sjálfan“! Oddur þagði smástund og svaraði svo: „Já, við erum búnir að tala við alla aðra.“ Þeir tóku strikið út á Álftanes og knúðu dyra á Bessastöðum. Sveinn Björnsson tók vingjarnlega á móti þeim og hlustaði á mál þeirra. (Oddur var talsmaðurinn). Forsetinn íhugaði málið um stund en sagði svo: „Já, þetta er greinilega ábyrgðarmál en sjálfur get ég ekkert gert, ég er bara forseti. Skiljið þetta eftir hjá mér og ég skal athuga hvort ég eigi ekki hönk upp í bakið á einhverjum þessarra svokölluðu ráðamanna.“

Reykjanes

Reykjanes – kort frá 1903.

Stuttur tími leið þangað til forsetinn hringdi í Odd á Reykjalundi og sagði honum „það er engin leið að fá neitt af viti frá þessum pólitískusum, einfaldasta bakferlið er að þið gefið forsetaembættinu sumarbústaðarland á Reykjanesi.“ Bræðurair voru til í það og gáfu hólinn, sem nú er kallaður „Forsetahóll“. Það var góður slóði frá Kistu til vitans en hin hraunin þurfti að ryðja. Eftir að embættið hafði þegið gjöfina gat Sveinn forseti farið fram á að slóðinn yrði ruddur. Vegurinn kom nokkrum árum seinna og vann ég við hann, þrettán ára að aldri, en það er allt önnur saga.
Sem sagt, forseti fékk hólinn í gegn um „bakdyramakk“ en fékk hann ekki í þakklætisskyni.
Kveðjur,
Ron:

Heimild:
-Faxi, 1. tbl. 01.02.2008, Ökuferð um Hafnarhrepp – Leó M. Jónsson, bls. 9-11.

Stóra-Sandvík

Stóra-Sandvík. Mynd EG.

Reykjanes

Magnús Á. Sigurgeirsson skrifar „Þátt úr gossögu Reykjaness“ í Náttúrufræðinginn árið 2004. Þar fjallar hann m.a. um Eldra-Stampahraunið, Önglabrjótsnef og nágrenni á ysta hluta Reykjanesskagann.
Jarðsagan er óvíða augljósari en einmitt þarna; samspil bergganga, gíga, gjalls, ösku og hrauns. Þá er sagt frá strandi þýsks togara við Önglabrjótsnef 1951.

Eldra-Stampahraun og Tjaldstaðagjárhraun

Magnús Á. Sigurgeirsson

Magnús Á. Sigurgeirsson. 

„Eldra Stampahraun kemur frá um 4,5 km langri gígaröð, Eldri-Stampagígaröðinni, sem liggur til norðausturs frá Kerlingarbás, inn á land. Gígaröðin er mjög slitrótt enda umflotin og sums staðar kaffærð af Yngra Stampahrauninu, yngsta hrauni Reykjaness. Eldra Stampagosið má flokka sem blandgos þar sem veruleg gjóskuframleiðsla átti sér stað samhliða hraunrennsli. Á norðurhluta gossprungunnar var kvikustrókavirkni og gjallmyndun ásamt hraunrennsli einkennandi en á suður Wuta sprungunnar, sem lá neðansjávar, var hins vegar öskumyndun ráðandi. Gosaska frá Eldra-Stampagosinu barst inn til landsins og finnst nú í jarðvegi á vestanverðum Reykjanesskaga. Öskulagið er nefnt R-3.
ÖnglabrjótsnefUm aldur Eldra Stampahrauns hafa fengist vísbendingar með hjálp öskulagatímtals og 14C-aldursgreininga. Öskulög hafa ekki fundist í jarðvegi undir hrauninu en hins vegar er afstaða þekktra öskulaga til R-3 vel þekkt. Elsta þekkta öskulag ofan R-3 er um 1400 ára gamalt Heklulag og næsta lag neðan R-3 er um 2000 ára gamalt Kötlulag. Kolefnisaldursgreining á mó undan R-3 bendir til að lagið sé minna en 2200 ára gamalt.

Önglabrjótsnef

Reykjanes – kort. Tjaldstaðagjá er merkt á kortið.

Út frá þessum vísbendingum er dregin sú ályktun að Eldra Stampagosið hafi orðið fyrir um 1800-1900 árum.
Skammt austur af Eldra Stampahrauni er hraun sem nefnist Tjaldstaðagjárhraun og er víðáttumesta hraun á Reykjanesi. Upptök þess eru á um 1 km langri gígaröð sem liggur í framhaldi af Stampagígaröðinni til norðausturs. Aldur hraunsins hefur verið nokkuð á reiki en öskulagarannsóknir hafa staðfest forsögulegan aldur þess.
Stampar
Elsta gjóskulag sem fundist hefur ofan á Tjaldstaðagjárhrauni er fyrrnefnt 1400 ára gamalt Heklulag en ekki hefur tekist að finna jarðveg undir hrauninu.
Afstaða Tjaldstaðagjárhrauns til Eldra Stampahrauns sýnir að það hefur runnið síðar en Stampahraunið. Á milli þeirra er einungis foksandur en enginn jarðvegur. Bendir flest til að hraunin séu af líkum aldri og hafi runnið á sama gosskeiði, ef til vill í sömu eldum, fyrir tæpum tvö þúsund árum.

Reykjaneseldar fyrir tvö þúsund árum

Önglabrjótsnef

Berggangur í Kerlingarbás, öskulög og hraunhella efst.

Þar sem Eldri Stampagígaröðin liggur að sjó í Kerlingarbás hafa myndast jarðlagaopnur af völdum sjávarrofs sem gefa færi á að skoða hraun, gíga og gjóskulög frá ýmsum tímum í þversniði (2. og 3. mynd). Segja má að megindrættirnir í gossögu Reykjaness síðustu árþúsundin blasi þarna við augum. Ekki verður öll sú saga rakin hér heldur aðeins það sem viðkemur Eldra Stampagosinu.
Stampar
Fyrstu merki um virkni á Eldri Stampagígaröðinni er þunnt fínkorna öskulag sem liggur næst undir syðsta gjallgíg gígaraðarinnar og hrauntaumum frá honum. Af kornagerð öskunnar að dæma hefur hún myndast í neðansjávargosi. Askan hefur ekki fundist í jarðvegssniðum og bendir það til lítillar dreifingar á landi. Af þessu má ráða að upphaf Eldra Stampagossins hafi verið í sjó. Upptakagígurinn er nú með öllu horfinn. Vísbendingar eru um að gossprungan hafi einnig verið virk á landi um svipað leyti. Ofan á öskulagið R-2 hleðst síðan myndarlegur gjallgígur, um 20 m hár. Gosrás gígsins, sem nú er bergstandur, gengur upp í gegnum öskulagið.
Haun frá þessum gíg og öðrum nærliggjandi hafa byggt upp Önglabrjótsnef, en þar er hraunið að minnsta kosti fimm metra þykkt. Gosvirknin hefur einkennst af kvikustrókavirkni og hraunrennsli.

Önglabrjóstnef

Önglabrjótsnef. Kerlingarbás, Valahnúkar og Karlinn fjær.

Hraunrröð liggur frá gígnum út eftir Ónglabrjótsnefi. Þegar hraungosinu linnti færðist virknin að nýju á neðansjávarhluta gossprungunnar og þeytigos varð í sjó með tilheyrandi öskumyndun og þá myndaðist öskulagið R-3, sem fyrr er nefnt. Af þykkt öskunnar á landi að dæma, en hún er allt að 1,2 m, hafa upptökin verið innan við 1 km frá núverandi strönd í beinu framhaldi af Eldri Stampagígaröðinni. Athuganir leiddu í ljós að öskulagið R-3 er yfirleitt mjög rofið og að upphafleg þykkt þess hafi því verið mun meiri en nú mælist. Varlega áætlað gæti lagið hafa verið rúmlega þriggja metra þykkt við Kerlingarbás.
Skýr merki eru um að askan hafi kaffært hraun og gíga næst ströndinni. Á Önglabrjótsnefi myndar R-3 víða 10-20 cm þykka túffskán ofan á Eldra Stampahrauninu. Af þykktardreifingu gjóskunnar að dæma hefur gígrimi upptakagígsins að öllum líkindum náð inn á ströndina við Kerlingarbás. Útbreiðsla öskulagsins R-3 inn til landsins hefur einkum verið til norðausturs, í áttina að Njarðvíkum (1. mynd). Öskufall yfir hafsvæði er óþekkt en hefur vafalítið verið talsvert.
Önglabrjóstnef
Í lokaþætti þessara elda rann Tjaldstaðagjárhraun, nokkrum árum eða áratugum eftir Eldra-Stampagosið. Hraunið rann frá um 1 km langri gígaröð um 1 km norðaustur af Eldri Stampagígaröðinni. Hraunið er mestmegnis úfið apalhraun en dálítil spilda af helluhrauni myndaðist þó einnig. Samanlagt eru gígaraðirnar báðar um 6 km að lengd. Sjáanlegt flatarmál hraunanna er um 11,4 km2. Hins vegar má hækka þessa tölu um allt að 4 km2, eða sem nemur því landsvæði sem þakið er Yngra Stampahrauninu.
Heildarflatarmál hraunanna gæti legið nærri 15 km2. Rúmmál hraunanna gæti verið um 0,1 km3, miðað við 5 metra meðalþykkt. Nokkur landauki var af Eldra Stampahrauninu við norðvesrurströnd Reykjaness, frá Önglabrjótsnefi, um Kinnaberg og austur að Stóru-Sandvík.
Varlega áætlað má telja að um 500 m breið og um 4 km löng ræma hafi bæst við þáverandi strönd.

Önglabrjótsnef
Um miðja Stampagígaröðina eru tveir gígar sem bera þess merki að hafa hlaðist upp nærri fjöruborði en innan um gjall í þeim má finna núna fjörusteina (6. mynd). Út frá gerð gjóskunnar má fara nokkru nærri um myndunarsögu gíganna. Upphaf gosvirkninnar hefur einkennst af gufusprengingum þegar sjór streymdi að gosopunum. Gosefnin hafa þá einkum verið fínkorna aska en síðar, þegar tekur fyrir aðstreymi sjávarins, verður gjallframleiðsla ráðandi. Að síðustu hefur hraun runnið frá gígunum. Líklegt verður að telja að þessir gígar séu frá upphafi Eldra Stampagossins og gætu því verið samtíma öskulaginu R-2, sem fyrr er nefnt. Á gömlum loftljósmyndum sést að þessir gígar hafa eitt sinn verið stærstu gígar Eldri-Stampagígaraðarinnar. Nú eru þarna gapandi tóftir eftir langvarandi gjallnám.

Stampar

Gígar í Yngra- Stampahrauni.

Mikið sandfok hefur verið á Reykjanesi eftir Eldra Stampagosið og má reikna með að gjóskulagið R3 ásamt upptakagíg þess hafi verið meginuppspretta þess. Lagið er mjög rofið, eins og fyrr segir, og víða í sköflum. Við Stóru-Sandvík, þar sem jaðrar Eldra Stampahrauns og Tjaldstaðagjárhrauns mætast, sést að þykkir skaflar hafa hlaðist upp við jaðar Stampahraunsins áður en yngra hraunið rann upp að því. Af jarðvegssniðum að dæma var jarðvegur á Reykjanesi sendinn og rýr öldum saman eftir eldana.“

Í Tímanum árið er fjallað um strand þýsks togara við Önglabergsnef undir fyrirsögninni „Þýzkur togari strandar við Önglahrjótsnef – Losnaði af grunni, sökk á skammri stundu, en áhöfnin bjargaðist í annan togara“:

„Klukkan 6.40 í gærmorgun strandaði þýzki togarinn Karlsburg Danh við Önglabrjótsnef, nyrðri tá Reykjaness, sunnanvert við Sandvíkurnar. Losnaði hann af grunni tæpum tveimur stundum síðar, en sökk síðan innan lítillar stundar.
Forðuðu skipverjar, tuttugu menn, sér í björgunarbátana, og komust þeir í annan þýzkan togara, Hans Böchler, er var í námunda við strandstaðinn.

Fyrstu fregnir af strandinu

Önglabrjótsnef

Önglabrjótsnef – brim.

Loftskeytastöðin í Reykjavík náði fyrst fregnum af strandinu, og lét hún Slysavarnafélagið þegar vita. En það sneri sér til björgunarsveitarinnar í Grindavík og vitavarðarins á Reykjanesi, Sigurjón Ólafssonar, er var einn karlmanna á bænum. — Brá hann þegar við og fór á strandstaðinn með línubyssu og annan útbúnað, er til björgunar þurfti. Dró hann þetta eftir sér á sleða.
Meðan þessu fór fram var slysavarnadeildin Þorbjörn í Grindavík að senda hina öruggu björgunarsveit sína af stað á stórum bifreiðum, en torfæri var yfir að fara og færðin hin versta. Björgunarsveit úr Höfnum lagði einnig af stað.

Samband við skip

Önglabrjótsnef

Þýskur togari líkur Karlsburg Danh.

Loftskeytastöðin í Reykjavík var í stöðugu sambandi við annan þýzkan togara, Schütting, er var á þessum slóðum, og tilkynnti hann, að Karlsburg Danh væri strandaður við Önglabrjótsnef, og voru önnur skip látin vita um þetta. Klukkan 8.20 tilkynnti Schütting, að hinn strandaði togari hefði losnað af grunni og hefði getað hreyft vél sína, en mikill leki væri kominn að skipinu. En eftir þetta segir ekki af skipinu, því að það sökk að skammri stundu liðinni.
Hans Böchler kom með skipsbrotsmennina til Reykjavíkur um miðjan dag í gær. Voru þeir allir hressir. Slysavarnarfélagið tók á móti þeim.“
Sjá meira un strandið HÉR.

Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn, 1.-2. tbl. 01.03.2004, Þáttur úr gossögu Reykjaness – Magnús Á Sigurgeirsson, bls. 21-28.
-Tíminn, 33. tbl. 09.02.1951, Þýzkur togari strandar við Önglahrjótsnef, bls. 1 og 7.

Stampahraun

Stampahraun. Í dag má sjá leifar hraunsins undan ströndinni, þ.e. Karlinn. Strákur, Stelpa og Kerling eru horfin í sjáinn. Þó má enn sjá móta fyrir gíg Kerlingar í Kerlingarbás.

Gunnuhver

Gunnuhver er gufuhvera- og leirpyttaklasi á Reykjanesi, en svo nefnist ysti oddi Reykjanesskagans. Gufu- og leirhverir stafa af suðu í jarðhitageymi. Gufan leitar upp og blandast yfirborðsvatni. Henni fylgja gastegundir. Þær gera vatnið súrt. Af því umbreytist hraungrýti og móberg í leir með tilheyrandi sílitabreytingum.
Gufustreymið jókst áberandi á tímabili er þrýstingur lækkaði í jarðhitageyminum við vinnslu vatns og gufu úr honum. Stærsti leirhver landsins, nú með digrum suðustólpa í 20 m víðum stampi, er efst í brekkunni. Um tíma náði gosstólpinn um 10 m hæð og slettur úr honum hlóðust á barmana.

Gunnuhver

Gunnuhver og nágrenni.

Óróasamt er á Reykjanesi af völdum jarðskjálfta. Þeir koma í hrinum en eru vægir, þeir stærstu rúmlega 5 að stærð. Í helstu hrinunum hefur sprunga sem liggur frá Valbjargagjá til norðausturs um Gunnuhver hreyfst til, síðast fyrir um 40 árum. Við slík umbrot hefur hveravirkni aukist um tíma og efnaríkt vatn úr jarðhitageyminum náð til yfirborðs og myndað goshveri með útfellingum af hverahrúðri. Þetta voru sjóhverir. Kísilhóll er nefndur eftir kísilhellu efst á honum. Í henni eru skálar eftir kulnaða goshveri. Kulnaður bolli „Hversins 1919“ er um 100 m sunnar, ofan vegar. Hann var síðast virkur kringum 1970. Skammt þar suðvestan við var Geysir (Reykjanes-Geysir);  virkur kringum aldamótin 1900 og framan af 20. öld. Engin merki sjást um hann nú.

Gunnuhver

Gunnuhver – litadýrð.

Á þessu sumri (2021) hefur hverasvæðið nálægt Gunnuhver tekið verulegum breytingum, einkum vegna þess að jarðsjórinn á hverasvæðinu hefur þornað svo um munar; fagurlituð ölkelda, sem þarna var um tíma, er nú horfin og svo mætti lengi telja.

Einhverjum hálfvita hefur látið sér detta í huga að koma upp skiltum umleikis Reykjanesvita með áletrunni „Payzone“ þar sem krafist er kr. 1000 greiðslu fyrir að leggja bifreið um stund á svæðinu. Á skiltunum er vakin athygli á rafrænu eftirliti. Framangreint hefur gert það að verkum að Íslendingar leggja ekki nálægt vitanum.

Hverasvæðið er síbreytilegt og þurrkarnir að undanförnu hafa aukið verulega á litadýrðina – sjá MYNDIR.

Gunnuhver

Við Gunnuhver.

Reykjanes

Í grein í Faxa árið 2008 skrifar Leó M. Jónsson um „Ökuferð um Hafnahrepp“ og getur þar um skilgreininguna á „Hinu raunverulega Reykjanesi„, sem er að öllu leyti rétt, bæði skv. örnefnalýsingum og kortum fyrri tíðar:

Hið raunverulega Reykjanes

Leó M. Jónsson

Leó M. Jónsson.

Þegar haldið er lengra suður eftir veginum er komið á hæð þar sem vegurinn sveigir til austurs. Beint af augum er gamalt eldfjall, Sýrfell, en á milli þess og Reykjanessvita, sem stendur á hinu 50 m háa Vatnsfelli, í suðvestri, en fellið heitir eftir stórri tjörn sem er við það. Vitinn er 28 m a hæð og því 78 m yfir sjávarmáli. Mannvirkin norðvestan við Rauðhóla er Sjóefnavinnslan (oft ranglega nefnd Saltverksmiðjan). Einnig blasir við nýreist Reykjanesvirkjun. Hér blasir hið raunverulega Reykjanes við augum sem Reykjanesskaginn er kenndur við. Sérkennilegi hnjúkurinn með u-laga skarði í, sem sést héðan vestan vitans, nefnist Valahnjúkur. Lengst til hægri sést strýtan á móbergsdrangi sem nefnist Karl en hann stendur í sjónum skammt suður af vestasta tanga Reykjanessins sem nefnist Önglabrjótsnef og teygir sig út í sjóinn í átt til Eldeyjar. Þjóðsagan segir að tröllkarl og kerling, sem bjuggu í Eldey hafi vaðið til lands og haldið á kú að leiða til nauts. Tókst ekki betur til en svo að vegna tafa dagaði þau uppi og urðu að steini. Karlinn stendur þarna enn úti í sjó en Kerling, hátt eldvarp, sem stóð sunnar uppi á landi, brotnaði niður fyrir löngu.“

Heimild:
-Faxi, 1. tbl. 01.02.2008, Ökuferð um Hafnahrepp, Leó M. Jónsson, bls. 9.

Reykjanes

Reykjanes – kort frá 1908.

Reykjanes

Í Faxa árið 2020 er fjallað um „Skáldin í vitanum„:

Reykjanesviti
„Á Reykjanesi má finna þrettán vita. Þeir eru ekki einungis sögulegt kennileiti heldur leiðarminni í sögu þjóðar sem allt fram á þennan dag hefur átt afkomu sína undir því að draga fisk úr sjó. Vitarnir voru logandi líflína til lands, ljósberar sem leiddu menn heim af hafi.
Með tilkomu vita varð til starf vitavarðar sem gat verið einmanalegt. Svo hagaði til að tvö skáld gegndu starfi aðstoðarvitavarðar þessum elsta vita landsins en það eru atómskáldið Steinn Steinar og Hannes Sigfússon.

Reykjanesviti

Reykjanesviti

Reykjanesviti, byggður 1908 – nýrri vitavarðarhúsin nær.

Reykjanesviti var reistur árið 1878 og var þá fyrsta stórframkvæmdin sem ráðist var í eftir að Íslendingar fengu heimastjórn frá Dönum. Vitinn laskaðist í jarðskjálfta en sá viti sem nú stendur var tekinn í notkun 1908. Vitinn stendur á Bæjarfelli upp af Valahnjúk, þar sem fyrsti vitinn stóð.
Reykjanesviti var eini viti landsins um nærri tveggja áratuga skeið og hafði vitavörður aðsetur á Reykjanesi sem var víðs fjarri mannabyggð þar sem enginn vegur lá yfir auðnina. Það var langur spölur frá vitavarðarhúsinu að gamla vitanum og þurfti hetjudug til starfsins.

Steinn Steinarr

Steinn Steinarr

Steinn Steinarr (fæddur Aðalsteinn Kristmundsson, 13. október 1908, dáinn 25. maí 1958) var íslenskt ljóðskáld og meðal áhrifamestu ljóðskálda Íslendinga á 20. öld.

Starf vitavarðarins gat verið einmanalegt en hann hafði þó með sér aðstoðarvitavörð og skiptu þeir með sér verkum. Það var héraðslæknir Keflvíkinga, Sigvaldi Kaldalóns, sem útvegaði ungum vini sínum Steini Steinari starf aðstoðarvitavarðar á Reykjanesi en þá var vitavörður Jón Ágúst Guðmundsson.

Reykjanes - viti

Yngri Reykjanesvitinn á Vatnsfelli.

Steinn hafði oft dvalist í Grindavík hjá tónskáldinu ásamt helstu listamönnum þess tíma. Steinn var þá aðeins 22 ára gamall og ekki gerður fyrir erfiðsvinnu vegna vöðvarýrnunar í handlegg. Framtíðarhorfur hans virtust því ekki glæsilegar enda hafði skólaganga hans verði stutt. Í misjöfnum vetrarveðrum þurfti oft að hafa mann næturlangt uppi í vitanum til að hreinsa af snjó sem vildi festast á rúðurnar í ljósaklefanum, Kom það gjarnan í hlut Steins. Má gera sér í hugarlund að þar hafi orðið til ljóð þegar leiðindi sóttu að honum á þessum löngu og köldu vetrarnóttum og hann þurfti að halda á sér hita. Steinn starfaði í vitanum einn vetur frá 1930 til 1931 en hans fyrsta ljóðabók Rauður loginn brann kom út þremur árum síðar eða 1934. Þar mátti finna róttæk ljóð um hlutskipti lítilmagnans og bar mikið á vonleysi og trega enda þjóðin í kreppu og atvinnuleysi mikið.

Hannes Sigfússon

Hannes Sigfússon

Hannes Sigfússon skáld fæddist í Reykjavík 2. mars 1922. Foreldrar hans voru Sigfús Sveinbjarnarson, f. 11.3. 1866, d. 11.9. 1931, prentari og fasteignasali í Reykjavík, og Kristín Jónsdóttir, f. 22.4. 1887, d. 19.3. 1970, húsfreyja.

Rithöfundurinn Hannes Sigfússon var aðstoðarmaður vitavarðarins, Sigurjóns Ólafssonar, þegar olíuskipið Clam fórst við Reykjanes þann 28. febrúar árið 1950. Starfið hafði hann fengið í gegnum gott orð frá vini sínum og læriföður, Steini Steinarr.
Hannes var þá 28 ára gamall og hafði gefið út sína fyrstu bók, Dymbilvöku, árinu áður sem er eitt hans þekktasta verk. Skipið var það stærsta til þess að stranda við Íslandsstrendur og voru 50 menn í áhöfn þess þegar það strandaði þétt upp við hamravegginn sunnan Valahnúks. Hluti áhafnarinnar sem var að mestum hluta Kínverjar fór í björgunarbáta sem ýmist brotnuðu við skipshlið eða hvolfdu í briminu. Af þeim fórust 27 manns en fjórum mönnum skolaði upp í klettana þaðan sem þeim var bjargað. Þeim mönnum sem héldu kyrru fyrir um borð í skipinu var öllum bjargað af björgunarsveitinni Þorbirni frá Grindavík, en skipið brotnaði fljótlega í spón á staðnum. Hannes bjargaði sjálfur tveimur mönnum úr flæðarmálinu og skrifaði síðar um atburðinn í skáldsögu sinni Strandið 1955. Þar segir frá olíuskipinu Atlantis sem rekur stjórnlaust undan veðri og straumum að hrikalegri klettaströnd. Við kynnumst áhöfn skipsins, Kínverjum, Evrópubúum og Bandaríkjamanni og við kynnumst vitaverðinum á Reykjanesi sem rækir einmanaleg skyldustörf í vetrarmyrkri og bíður þess sem verða vill. Bókin fékk ekki góða dóma en Hannes var eitt helsta ljóðskáld sinnar kynslóðar og brautryðjandi í íslenskri ljóðagerð.
Ekki er vitað hvaða áhrif myrkrið og víðáttan á Reykjanesi hafði á skáldin og vinina Stein og Hannes en báðir voru þeir byltingarmenn og ortu um manninn í óræðri og dularfullri veröld þar sem vitundin ein er gegn alheiminum. Í miðju svartnætti ljóðanna leiftra óræðar blikur um mannlega reisn og jafnvel hina innstu vitund.“

Heimild:
-Faxi, 1. tbl. 2020, Skáldin í vitanum. bls. 29.

Clam

Mynd frá vettvangi er [..] olíuskipið Clam strandaði við Reykjanes árið 1950. Af 50 manna áhöfn fórust 27 en 23 tókst að bjarga.

Grænás

Eftirfarandi frásögn Skúla Magnússonar um álfa og huldufólk í klettunum í Njarðvíkurásum ofan við Ytri-Njarðvík birtist í Faxa árið 2008.

„Lengi hefur legið orð á því meðal fólks í Njarðvík og Keflavík að álfar eða huldufólk væri í klettunum sem næstir liggja utan við Grænásbrekkuna, að norðan og ofan við hús íslenskra aðalverktaka. Ekki man ég þó eftir sögnum um slíkar verur í Njarðvíkurásunum í elstu og stærstu þjóðsagnasöfnum Íslendinga, hvorki hjá Jóni Árnasyni, Ólafi Davíðssyni né Sigfúsi Sigfússyni. Óljóst er hve gömul þessi trú manna í Keflavík og Njarðvík er þar sem heimildir um hana sem ég þekki eru ekki eldri en frá 20. öld.
Sagnirnar um Háaleitisdrauginn og Guðmund Klárt. virðast þó vitna um að gömul dulræna og forn átrúnaður hafi loðað við Háaleitið, þótt sagnir um það hafi ekki verið skráðar fyrr en á 19. og 20. öld.

Sagnir um huldufólk í Njarðvíkurásunum
NjarðvíkurásarÞau dæmi sem ég þekki um frásagnir af huldufólkinu i Njarðvíkurásum eru öll frá 20. öld. Rétt er að benda á frásögn Helgu Kristinsdóttur frá Akri í Inni-Njarðvík sem birtist í jólablaði Faxa 2007. Þar minnist Helga, sem er látin fyrir stuttu, á örnefnið Álfakirkju, sem talið var tilheyra álfum sem bjuggu í Ásunum.
Álfakirkjan var efst í brekkunni upp af húsi Babtistakirkjunnar amerísku sem þarna stendur. Ekki verður ráðið af frásögn Helgu hve gamalt örnefnið Álfakirkja er, en átrúnaður á það virðist þó vera kominn upp a.m.k. á seinni hluta 19. aldar, að því er skrif Helgu benda til.
Þegar ég var innan við tíu ára gamall heyrði ég föður minn segja sögur af tveimur atvikum sem hentu hann sem stálpaðan krakka inn í Njarðvíkurásum. Það sem einkum togaði krakka og unglinga þangað upp eftir var góð berjaspretta. Lögskilarétt fyrir Hafnir og hreppana yst á Rosmhvalanesi, Ásarétt, var líka hlaðin úr grjóti uppi á hömrunum í Grænási, skammt neðan við lögreglustöðina sem þar stendur, og þarna voru réttir hvert haust allt frá því að réttin var þarna hlaðin árið 1900 eða 1901, eins og lesa má um í fundargerðabók sýslunefndar Gullbringusýslu. Þegar herinn tók þetta landi til afnota var það lýst bannsvæði og réttirnar hurfu og heyra nú sögunni til.
Útiskemmtanir og upphaf þeirra í Ásunum Auk réttanna sem haldnar voru hvert haust í Ásunum voru útiskemmtanir haldnar þar uppi er líða tók á 20. öld og sótti þær fólk úr Njarðvík og Keflavík. Almenningur hafði því allmikli kynni af Ásunum og þær stundir lifða enn í minningu þeirra sem muna timann fyrir stríðið 1940. Ungmennafélag Keflavíkur hélt líka árlega íþróttakeppni og skemmtanir í Hjallatúni, líklega frá um 1930, og allt þar til herinn tók landið 1940. Þá var efnt til keppna og skemmtana í kvosinni í Keflavík, þar sem nú er stóra fánastöngin í skrúðgarði bæjarsins. Upphaf þess garðs má rekja til útiskemmtananna í Hjallatúni sem féllu niður við hernámið.

Huldufólkið hopaði ekki úr Ásunum
En huldufólkið hopaði ekki úr Njarðvíkurásunum þótt fólkið hyrfi þaðan að mestu. Ystu mörk línu þeirrar sem myndaði bannsvæði hersins austan á Háaleiti var dregin skammt ofan við klettabeltið í Ásunum og hið gamla Hjallatún féll líka undir bannsvæðið, en þar niður af komu síðar olíutankar hersins. Á mörkum þess var svo reist meira en mannhæðarhá girðing með gaddavír og vék hún loks ofar í heiðina þegar smíði nýrrar flugstöðvar hófst 1985-1987 og nýr vegur var lagður þangað af Njarðvíkurfitjum. Hluti af þessu svæði, ofan við og í Hjallatúnum, var þó áfram innan girðingar fram að því að herinn hugðist fara á brott alfarinn á árunum 1993-2001.
Huldufólkið hélt tryggð við heimahaga sína í Ásunum og fór hvergi þrátt fyrir allann þann gauragang sem fylgdi vígvélum og vinnutólum næstu árin í nágrenni við bústaði þess. Líklegt er að huldufólkinu hafi liðið þar vel.

Frásagnir föður míns
NjarðvíkurásarFyrri frásögn föður míns um atvik sem hann sagði mér frá og gerðist i Njarðvíkurásum varð líklega þegar hann var 9 eða 10 ára, 1933 eða 34 og fram um fermingu. Svo vildi til að faðir minn og eldri bróðir hans, Snorri Sólon (f. 1916 – d. 1944) fóru saman hjólandi á reiðhjólum sínum inn í Ása til að týna þar krækiber einn sólskinsdag. Líklega var þetta nær þeim tíma þegar faðir minn var á fermingaraldri. Snorri hefur þá verið um tvítugt eða tæplega það. Berjaferðinni lauk fyrr en ætlað var og með skjótari hætti. Bræðurnir hjóluðu eins og leið lá inn undir klettana í Grænási, skildu hjólin eftir við veginn og gengu upp undir klettana þar efra. Þeir gleymdu sér við berjatínsluna og urðu brátt viðskila. I miðju kafi varð Magnúsi föður mínum snögglega litið upp og sá þá torkennilegan mann sem hann bar engin kennsl á. Hann sat á steini skammt frá, horfði út á sjóinn og reykti pípu. Við þetta brá föður mínum svo að hann tók þegar til fótanna, hljóp niður á veg, náði í hjólið og hélt heim á leið. Snorra brá í brún við þessi hlaup og hjólaði á eftir bróður sínum uns hann náði honum og fékk skýringar á háttalagi hans. Sagði Magnús þá Snorra alla söguna en sjálfur hafði Snorri ekki séð neinn mann þar uppfrá meðan á berjatínslunni stóð.
Þegar faðir minn sagði mér þessa sögu rúmum 20 árum seinna hafði óttinn vikið fyrir skilningi á að huldar vættir væru til í ríki nátturinnar. Að mati hans bar mönnum að umgangast huldufólk með virðingu og það viðhorf mótaði mig frá bernsku þótt ég hefði aldrei séð það sjálfur því skyggn var ég ekki.
Hin sagan sem faðir minn sagði mér af torkennilegum verum í Njarðvíkurásum gerðist fyrir stríðið 1939. Þá var hann ásamt fleiri strákum á ferð til Keflavíkur þegar þeir komu auga á konu upp við Ásana. Hún vakti athygli þeirra því hún var að tína eitthvað í svuntu sína við klettana og leit út eins og hún hefði snöggvast brugðið sér af bæ. Sem fyrr segir er töluverður spotti neðan úr byggð í Ytri-Njarðvík á þessum árum og engan mann sáu drengirnir koma þar neðan að. Í hvorugt skiptið gat faðir minn þó um hvernig fólkið var klætt og hvort klæði þess væru í sterkum litum, t.d. rauð, græn eða blá. En helst er að sjá að þetta hvortveggja hafi birst skyndilega þeim sem til sáu. Við fyrstu athugun gæti litið út sem hér hefði verið ósköp venjulegt mennskt fólk á ferð en ekki huldar verur.
Slíkt mætti líka álykta af sögunni „Konan í Hafnaheiðinni“ sem Jón Thorarensen skráði eftir frásögn Ólafs Ketilssonar og birti í Rauðskinnu. En þessa ókunnugu og torkennilegu veru sá Ólafur á ferð sinni yfir Hafnaheiði um 1906 en fékk aldrei skýringar á hvernig á ferðum hennar stóð. Klæðnaður hennar stakk í stúf við allt umhverfi og aðstæður þarna suður frá. Ekki var konan þó klædd í litklæði. Á þessum slóðum eru allskemmtilegar samfelldar klappir ekki langt frá leiðinni yfir Hafnaheiðina sem ekki sjást þó frá bílveginum. Aðstæður þar minna mjög á Ásana enda er sagt að huldufólk búi einatt í gömlu bergi, ekki nýrra eldhrauni sem víða má sjá á Reykjanesskaga.

Rauðklæddi maðurinn

Njarðvíkurásar

Njarðvíkurásar.

Að morgni þriðjudags 26. ágúst sl. hélt ég frá stöðvarhúsi SBK í Grófinni með áætlunarbíl. Ég sat fremst í bílnum hægra megin næst aðaldyrum og sá eins vel út úr bílnum og fram fyrir hann og kostur var. Auk mín og bílstjórans komu í rútuna ensk hjón við upphaf ferðar en síðan bættist í hópinn íslensk kona. Enginn var í biðskýlinu í Ytri-Njarðvík svo við héldum áfram að hringtorginu sem er við gatnamót Reykjanesbrautar, Sjávargötu og Gónhóls.
Þegar rútan beygði inn á hringtorgið varð mér litið upp eftir þar sem Ásarnir blöstu við. Þá kom ég skyndilega auga á rauðklæddan mann sem stóð framan við klettana. Mér varð starsýnt á þennan mann bæði vegna klæðnaðar hans og vaxtarlags. Ég hélt strax að þarna væri einhver íbúi úr húsunum neðan við Ásana á morgunrölti en ýmislegt mælti gegn því. Frá bílnum að sjá var hann í dökkrauðum kufli eða mussu sem virtist samfelld frá hálsi niður á fætur og með sérkennilega rauða húfu sem liktist alpahúfu listamanns á 19. öld. Maðurinn var dvergvaxinn og hélt ég fyrst að hann sæti á hækjum sér fremur en að hann stæði uppréttur, en fljótlega sá ég að hann virtist þó keikur og hnarreistur þar sem hann var fyrir framan klettavegginn. Ég sá síðan að hann stóð uppréttur við klettinn. Hann stóð þarna grafkyrr og horfði beint til austurs yfir byggðina og út á sjó. Ég sá vel á milli hans og klettanna og því á bak hans að hluta og gat ráðið af því að hann stóð uppréttur.
Þennan morgun var veðrið milt og gott, suðvestan átt með stuttum hellidembum en glaðasólskini inn á milli. Fjölbreytileiki birtunnar gerði allt umhverfið dulúðugt, fínn suddinn spilaði saman við sílglitrandi, nýfallna og litfagra daggardropana og varpaði dularblæ yfir umhverfið, hæðir og lægðir í umhverfinu og landinu öllu en jörðin merlaði í úðanum í ótal litbrigðum. Þegar ég sá Rauðklæðung leit út fyrir regnbogaveður og síðar þennan dag mynduðust fagrir regnbogar á himni.

Mennskur maður af holdi og blóði?
Hann hvarf síðan þegar við ókum áfram upp brekkuna að húsum Keilis þar sem hópur fólks beið rútunnar. Enginn í bílnum virtist hafa veitt honum athygli nema ég, þótt litirnir á fötum hans hefðu verið svo sterkir að mér datt ekki annað í hug en að allir í rútunni sæju manninn þarna eins og ég enda datt mér ekki annað í hug, meðan við ókum upp Grænásbrekkuna, en að þarna færi mennskur maður af holdi og blóði. Ég gerði því engum vart við sýn mína enda aðrir farþegar það aftarlega að ógjörningur var fyrir mig að ná til þeirra. Enginn annar en ég virtist hafa séð rauðklædda manninn því enginn mælti orð af vörum meðan við ókum þessa stuttu leið.

Áhrifamikil sýn
Rauðklæddi maðurinn minnti mig helst á dverginn sem lék hlutverk álfsins í alþekktri kvikmynd Óskars Gíslasonar, Síðasti bærinn í dalnum. Það átti bæði við um vaxtarlagið og andlitið. Hann var greinilega ófríðari en gengur, skegglaus, andlitið mjög dökkleitt og nefið frekar uppbrett. Höfuðið var sverara og digrara en almennt gerist og þrátt fyrir smæð sína var hann allur meiri um sig og þéttvaxnari en maður á að venjast. Sérstaka athygli vakti hinn sterki dökkrauði litur á klæðnaði hans og að sjá þennan skæra lit innan um dökka klettana og grængresi var svo áhrifamikið að því gleymi ég aldrei.
Ég hélt í fyrstu að ég hefði séð einn af íbúum við göturnar neðan við Ásana en þegar við ókum til Reykjavíkur rann það upp fyrir mér að ég hefði sennilega séð einn af íbúunum í Ásunum og væri hann hvorki af holdi og blóði. Sögur föður míns virtust staðfesta þetta og einnig þjóðsögur fyrri tíma. Fomlegur og sérkennilegur klæðnaður styrkti mig í þessari trú. Mér varð skemmt í huga gömul ósk mín að sjá huldufólk hafði skyndilega ræst og þetta var eins og í ævintýrunum.
Þegar ég kom aftur heim til Keflavíkur um kvöldið og rútan ók niður Grænásbrekkuna sátu tveir strákar á fermingaraldri undir klettunum skammt frá þeim stað þar ég hafði séð Rauðklæðung. En hann var hvergi sjáanlegur þá stundina að minnsta kosti.“

Heimild:
-Faxi, Rauðklæddi maðurinn í Njarðvíkurásum, Skúli Magnússon, 4. tbl. 01.12.2008, bls. 10.

Njarðvíkurásar

Njarðvíkurásar.