Tag Archive for: Reykjavík

Grásteinn

„Grásteinn nefnist klofinn steinn við Vesturlandsveg austan Grafargils og hafa álfar verið sagðir búa í honum.
Grásteinn 1989Vegna vegaframkvæmda á árunum 1970-1971 var hann fluttur þangað sem hann stendur nú, en óhöpp voru sett í samband við þann flutning og álfasögur kviknuðu og fengu byr undir báða vængi.
Af þessum sökum var Grásteinn tekinn með við fornleifaskráningu Þjóðminjasafns Íslands á svæðinu árið 1983. Af því leiddi að steinninn var talinn njóta verndar þjóðminjalaga. Var Vegagerð ríkisins bannað að færa steininn aftur nema hún fengi samþykki fornleifanefndar fyrir því. Vegna áforma um að breikka Vesturlandsveg óskaði vegagerðin eftir slíkri heimild árið 1998, og fékk hana, en með því skilyrði, að áður skyldi leita allra leiða til að komast hjá því að hrófla við steininum.
Grásteinn 1989Álitamál er hvort steinninn eigi að vera verndaður, en kastljósi fjölmiðla hefur fremur verið beint að deilunni um tilvist álfa í honum. Tilgangurinn með þeirri athugun, sem hér verður greint frá, var að grafast fyrir um hvort Grásteinn tengdist þjóðtrú að því leyti, að hann heyrði með réttu og lögum samkvæmt undir þjóðminjavörsluna.
Segja má að hér kristallist ýmis vandamál sem minjavarslan í landinu stendur andspænis vegna síaukins eftirlits með skipulags- og umhverfismálum.
Elsta heimild um Grástein mun vera ítarleg örnefnalýsing sem Björn Bjarnason í Gröf (síðar Grafarholti) ritaði fyrir jörð sína og gaf Landsbókasafninu 2. maí 1918. Ekki er annað sagt um steininn í þeirri lýsingu en hvar hann stóð.
Grásteins virðist svo hvergi vera getið síðan fyrr en í sambandi við vegaframkvæmdirnar við Vesturlandsveg árið 1971 – og þá í fyrsta sinn í tengslum við huldufólk.

Grásteinn 2008

Greindi frá því á forsíðu Vísis hinn 29. júlí það ár hvernig álfatrú tengd steininum hafði áhrif á vegavinnuna. Hafði hann þá verið fluttur af þeim stað sem hann stóð frá fyrstu tíð:
„Vegavinnumennirnir fullyrða nú, að þeir sem áttu þátt í að flytja steininn um áramótin hafi allir orðið fyrir einhverjum óhöppum og slysum. – Sá kvittur kom upp fyrir skömmu að nú ætti að flytja steinana á nýjan leik, en vegavinnumennirnir eru ekki hrifnir af þeirri hugmynd, og þeir, sem Vísir talaði við, sögðu afdráttarlaust, að þeir myndu neita að koma nálægt því verki.“
Í grein á innsíðum blaðsins segir m.a. að steinarnir séu þrír að tölu: „Klettarnir voru fluttir úr stað um síðustu áramót, en þá voru þeir í vegi fyrir framkvæmdunum. Þrjár kröftugar jarðýtur sáu um um að róta þeim til, en ekki nógu langt, því að nú eru klettarnir fyrir enn einu sinni.“
Fram kemur í vitaði með umfjölluninni að þrír menn hafi slasast eftir að þeir áttu við steinana, þar af einn alvarlega á fæti. Stærsti steinninn hafi heitið Grásteinn 2008Grásteinn en sá minnsti Litli bróðir. Kristín Bæringsdóttir, húsfreyja í Grafarholti í 29 ár kannaðist ekki við að huldufólk tengdist steinunum að öðru leyti en því að fólk hefði sagt að í svona stórum steinum hlyti að vera huldufólk. Í endurminningum Skúla Pálssonar í Laxalóni kemur fram að 90 þúsund laxaseiði hefðu brepist þegar jarðýtustjóri tók í sundur vatnsinntak fiskeldis hans í nóvember árið 1970, daginn eftir að Grásteinn hafði verið færður til. Sumir töldu ástæðuna fyrst og fremst hafa verið að ræða fljótræði ýtustjórans. Ágúst Ólafur Georgsson, þjóðháttafræðingur, hafði sumarið 1980 efir Jóel Jóelssyni, bónda í Reykjahlíð II, að Halldór Laxnes, skál í Gljúfrasteini, teldi að umræddur steinn væri álagasteinn. Â Fornleifadeild Þjóðminjasafnsins setti steininn í svokallaðan A-flokk fornleifa í fornminjaskrá, þ.e. með þeim minjum sem hafa mest minja- og varðveislugildi.
Grásteinn 2008Grásteinn var aftur í fréttum í júní 1994 vegna þess að hann var fyrir áformuðum vegaframkvæmdum, er breikka átti Vesturlandsveginn. Í fréttþættinum 19.19 á Stöð 2 sagði frá því hinn 20. júní það ár að færa þyrfti steininn um 25 m leið, en Erla Stefánsdóttir, sem þjóðkunn sé fyrir tengsl sín við huldufólk, sæi hús í báðum steinunum og í þeim litlar verur glaðlegar. Var haft eftir Erlu að þessar verur hefðu flutt í steininn eftir að hann var síðast færður.
Var nú kyrrt um þetta mál til ársins 1998 að vegagerðin vildi ráaðst í framkvæmdir við Vesturlandsveg. Við mat á umhverfisáhrifum vegna breikkunar vegarins benti Árbæjarsafn á að veglínan færi nærri Grásteini, en taka yrði tillit til hans með því að hann væri á Fornleifaskrá Reykjavíkur.
Verkfræðistofa komst að raun um að færa þyrfti Grástein. Borgarminjavörður féllst á þá niðurstöðu.
Grásteinn varð enn á ný fréttaefni í janúar 1999, þegar leyfi til að flytja hann var fengið. Helgi Hallgrímsson, vegamálstjóri, sagði í Morgunblaðinu að steinninn væri fluttur til af tveimur meginástæðum, annarsvegar þar sem um skemmtilegt og nokkuð áberandi kennileiti væri að ræða, en hins vegar vegna sögusagna um álfabyggð í steininum.
Í sömu grein er haft eftir Sigurði Sigurðssyni, dýralækni, sem býr í grennd við steininn, að þegar hann var færður fyrra sinnið hefði hann klofnað og snúist, þannig að það sem áður sneri upp snúi nú niður.
Grásteinn 2008Málið snýst ekki um hvort álfar búi í Grásteini í Grafarholti, heldur hvort álagatrú á hann eigi rætur sínar að rekja svo langt aftur í tíma að hann skuli telja með fornleifum í skilningi 16. greinar þjóðminjalaga og þar með heyra undir þjóðminjavörsluna. Heimildakönnun bendir eindregið til þess að álfasögur hafi ekki verið tengdar Grásteini fyrr en í lok árs 1970. Af því leiðir að Grásteinn getur hvorki talist til fornleifa fyrr en í fyrsta lagi árið 2070. – þegar álagtrú á steininn á sér að minnsta kosti aldarlanga sögu – , né heyrt undir þjóðminjavörsluna í landinu, nema hann verði friðlýstur skv. 16. og 18. gr. þjóðminjalaga.
Grásteinn er og hefur fyrst og fremst verið áberandi kennileiti í landslaginu frá ómunatíð. Ekkert bendir til að hann hafi tengst trú álfa fyrr en í seinni tíð. Engar sagnir eru þekktar um hann eldri en 30 ára. Steinninn stendur ekki á upphaflegum stað, en hefur verið færður, a.m.k. tvisvar, við lagningu Vesturlandsvegar árin 1970 og 1971. Bjargið er talið vera um 50 tonn að þyngd, en þegar því var bylt klofnaði það.
Grásteinn var fluttur mánudaginn 18. október 1999 um 37 m til norðurs og vesturs. Flutningurinn tók um fjórar klukkustundir. Allt gekk vel utan hvað ein tréskófla brotnaði. Stærra bjargið vóg 35 tonn og hið minna 15 tonn. Álfanna vegna var þeim komið fyrir á sama hátt og þau stóðu síðast, – á hvolfi.“

Heimild:
-Ragnheiður Traustadóttir, Grásteinn í Grafarholti, um minjagildi ætlaðs álfasteins – Árbók fornleifafélagsins 1998, bls. 151-164.

Grásteinn 2008

Árvellir

Ætlunin var að skoða fornminjar við Grundará undir Kerhólakambi Esju, öðru nafni Búa. Þar mun móta fyrir görðum Grundar, Esjubergs og Árvalla sem og tóftum bæjanna og öðrum mannvirkjum frá fyrri tíð. Þessar minjar virðast vera lítt þekktar þrátt fyrir að skammt frá hafi um langan aldur verið ein fjölfarnasta þjóðleið landsins (Vesturlandsvegurinn).

Forn gata ofan Esjubergs - Búi fjærÍ Kjalnesingasögu segir frá Esju á Esjubergi. Ofan núverandi bæjarstæðis þess bæjar er að sjá bæði forna garða og tóftir. Tilgangurinn var m.a. að skoða hvorutveggja og auk þess átti að freysta uppgöngu um einstigi þess fræga Búahellis (sem sumir segja að sé ekki til) í Búa.
Þá lágu fyrir heimildir um kirkju að Esjubergi. Sumir segja hana hafa verið þá fyrstu hér á landi. Á túninu átti, skv. fyrirliggjandi upplýsingum, að móta fyrir ferköntuðum garði og tóft.
Áður en lagt var af stað var auk þessa lagst yfir örnefnalýsingar af Esjubergi með góðri aðstoð frá Jónínu Hafsteinsdóttur á Örnefnastofnun Íslands. Í þeim kemur m.a. fram að (hafa ber í huga að þjóðvegurinn hefur verið færður, t.d. liggur hann nú undir Leiðhamra, en ekki upp Kleifina svonefndu og inn með Esjurótum eins og áður var): „
Vesturmörkin, milli Esjubergs og Skrauthóla, eru um Gvendarbrunn í Flóðará og beint upp Esju. Milli Móa og Saltvíkur eru merkin Móalækur um Gvendarbrunn og upp í há-Esju um Laugarnípu, sem er há nípa upp af Árvelli. Leiðhamrar eru þrír talsins. Austasti hluti þeirra tilheyrir Esjubergi, en hitt Móum. Úr honum er línan í Varmhóla, þar sem þeir eru hæstir, en það er hólaþyrping hér upp af. [Aths. Odds Jónssonar við Esjuberg.

 

Stekkur frá Grund neðan GljúfurdalsDys var upp af Varmhólum.] Upp af Leiðhömrum er mýri, þar sem tekinn var upp mór frá Esjubergi. Upp af Leiðvelli er flöt, er nefnist Kirkjuflöt. Þar var sagt, að hefði verið bænhús eða kirkja. Viðurinn í hana átti að hafa verið fluttur um Leiðvöll. [Hér er komin önnur vísbending um hugsanlega staðsetningu kirkju í landi Esjubergs.]
Ofan við veg er landið miklu breiðara, enda á Esjuberg land ofan vegar með Flóðará. Við gamla veginn, þegar kemur upp úr Kleifunum í Mógilsárlandi, er dys, sem nefnd er Dyngja. Þar átti að kasta steini í, er farið var framhjá. [Athugasemdir Sigríðar Gísladóttur, húsfreyju á Esjubergi við örnefni jarðarinnar. Sigríður er uppalin á Esjubergi og hefur átt þar heima óslitið frá árinu 1957. Dysin er/ var í landi Esjubergs. Var eyðilögð með stórvirkum vinnuvélum vorið 1981.]
Holtið, sem það er í, heitir Dyngjuholt. Austur af Dyngjuholti er mýri, sem kölluð er Dyngjumýri. Þar var tekinn mór, fyrst frá Grund og síðar frá Esjubergi, og sjást grafirnar þar vel ennþá.
Stekkur frá Árvöllum - Lauganípa fjærEinu sinni endur fyrir löngu stálu tveir strákar messuklæðum úr Móakirkju og skáru þau niður í skóna sína. Þeir voru síðan hengdir í Sjálfkvíum í Móanesi og dysjaðir þar allri alþýðu til viðvörunar. Sjálfkvíar eru klettar niður við sjó [skammt neðan við núverandi þjóðveg]. Dálítið bil er á milli þeirra, og fellur sjór þar inn um flóð.
Austur af bænum á Esjubergi er hóll í túninu, sem heitir Bænhúshóll. Rétt hjá, var sagt, að væri kirkjugarður, og mótaði fyrir honum í æsku G. S.  Austur af bænum og túninu er eyðibýlið Grund. Það tók af í skriðuhlaupi seint á 19. öld. Á Grund var byggt fjárhús og fjárrétt, þar sem fjósið hafði áður staðið.
Mýrin fyrir vestan melinn, niður af Stekkjarhól, heitir Grundarflóð. Þar vestur af heitir Hólmi. Austan og neðan við Esjuberg er Laug. Úr henni kemur lækur, sem heitir Laugarlækur, en heitir Móalækur, þegar kemur niður að Móum. Austur af Grund er hóll, sem heitir Grundarhóll, rétt austur af Grundarbæ.
Neðan við gamla veginn uppi í brekkunni rétt utan við Stekkjarhól er Rauðistígur og Rauðastígsbrekkur, 3 brekkur niður af Rauðastíg. Um Rauðastíg er hægt að fara upp klettana um smágil. Er þá komið upp á Skörð upp á Gljúfurdal. Farið er á tveim stöðum upp á Gljúfurdal, upp af Grund  um Grundarsneiðingu og upp af Árvelli um Árvallasneiðingu. Í Gljúfrinu er grjótdrangur, sem nefnist Hryggur.
Kirkjutóftin á Esjubergi?Vestur af bæ og heldur ofar er eyðibýlið Árvöllur. Utan við Árvöll er dalur, sem heitir Árvallardalur. Í honum er blettur, sem kallaður er Jarðföll, eins og uppgrónar torfur og vatnspyttir á milli. Austan við bæinn heita Skörð og Skarðabrún. Skörðin ná frá Festi í Mógilsárlandi að Búa, sem er hnúkurinn austan við Gljúfurdalsmynnið rétt upp af Grund. Þar undir er Búahellir framan í klettunum, en niðri í Gljúfrunum heitir Litlibúi. Það er hólhnúkur upp af Stórabúa, en þaðan er nokkuð langt upp í Þverfell.
Að vestan var línan um Gvendarbrunn, sem var uppsprettulind rétt neðan við gamla veginn fyrir vestan Árvallardal. Þar eru merki milli Esjubergs og Skrauthóla.“
Í Jarðabókinni 1703 kemur fram að skriða hafi spillt jörðinni og auk þess að; „Skriður fordjarfa tún, engjar og úthaga merkilega, so að hætt er bæði mönnum, húsum og fjenaði… Selstöðu á jörðin undir Svínaskarði að sunnan, og er þar berjalestur góður… Afbýlismaður heima við bæinn þar sem kallast Litla Esjuberg.“ Um Arvöllur segir m.a.: „Skriða fordjarfar so sem sagt er um heimajörðina“.
Bræðurnir Árni og Gísli Snorrasynir eru aldir upp að Esjubergi. Gísli sagði tóftir Árvalla vera ofan við Esjubergsbæinn, en leifar Grundar væru varla sýnilegar því bærinn hefði farið undir skriðu.  Tóftin við Grundarána væri sennilega rétt.

Túngarður á Esjubergi

Árni sagði bæjartóftirnar ofan við Esjuberg standa í svonefndu Árvallatúni. Tóftirnar beggja vegna Grundaáar væru sennilega leifar Grundar. Áin hefði áður runnið til vesturst með fjallsrótunum, en í miklum skriðum um 1830 hefði hún breytt sér og Grund þá lagst í eyði. Þá sagði hann máttlitla fornleifarannsókn hafa farið fram í garðinum vestan við Esjuberg, en hann vissi ekki hvað hefði komið út úr því. Gísli taldi hins vegar að þar hefðu fundist bein.
Í  Kjalnesinga sögu er talað um bæinn Esjuberg þar sem landnámsmaðurinn Örlygur Hrappsson bjó þegar hann kom til Íslands frá Suðureyjum í Skotlandi. Í sögunni er sagt frá því að írsk kona að nafni Esja hafi komið í Kollafjörð og hafa menn þá leitt að því líkum að nafnið sé írskt að uppruna. Bærinn Esjuberg á Kjalarnesi er einnig nefndur á nokkrum stöðum í Landnámu án þess að vikið er að skýringu á nafninu.
Í Kjalnesingasögu er sagt frá því að írskir menn hafi komið á skipi í Leiruvog í Kollafirði. Meðal þeirra var kona, Esja að nafni, og var hún sögð ekkja og mjög auðug. Hún tók við bæ Örlygs og bjó að Esjubergi.
Brautarholtskirkja á Kjalarnesi telja menn afkomanda fyrstu kirkju á Íslandi, þeirrar kirkju sem suðureyski landnámsmaðurinn Örlygur Hrappsson reisti á Esjubergi skömmu fyrir árið 900 og frá segir í Landnámu og víðar.
Í samantekt um „Rannsóknir og rannsóknaskýrslur fornleifadeildar og Þjóðminjasafns 1974 – 2004“ kemur fram að GÓ hafi annast rannsóknir 1981 á Esjubergi á Kjalarnesi. Um hafi verið að ræða rannsókn á svonefndri kirkju Örlygs. Að þessum upplýsingum fengnum var leitað til Guðmundar og hann spurður um niðurstöður rannsóknarinnar. Þær helstu eru tíundaðar hér á eftir.
Í Landnámu (Sturlubók segir í 12. kafla: „Örlygur hét son Hrapps Bjarnarsonar bunu; hann var að fóstri með hinum (helga) Patreki byskupi í Suðureyjum.  

Minjar í túninu suðvestan Esjubergs

(Hann) fýstist að fara til Íslands og bað, að byskup sæi um með honum. Byskup lét hann hafa með sér kirkjuvið og járnklukku og plenárium og mold vígða, er hann skyldi leggja undir hornstafina. Byskup bað hann þar land nema, er hann sæi fjöll tvö af hafi, og byggja undir hinu syðra fjallinu, og skyldi dalur í hvorutveggja fjallinu; hann skyldi þar taka sér bústað og láta þar kirkju gera og eigna hinum helga Kolumba.
Með Örlygi var á skipi maður sá, er Kollur hét, fóstbróðir hans, annar Þórólfur spör, þriðji Þorbjörn tálkni og bróðir hans, Þorbjörn skúma; þeir voru synir Böðvars blöðruskalla.
Þeir Örlygur létu í haf og fengu útivist harða og vissu eigi, hvar þeir fóru; þá hét Örlygur á Patrek byskup til landtöku sér, að hann skyldi af hans nafni gefa örnefni, þar sem hann tæki land. Þeir voru þaðan frá litla hríð úti, áður þeir sáu land, og voru komnir vestur um landið. Þeir tóku þar, sem heitir Örlygshöfn, en fjörðinn inn frá kölluðu þeir Patreksfjörð. Þar voru þeir um vetur, en um vorið bjó Örlygur skip sitt; en hásetar hans námu þar sumir land, sem enn mun sagt verða.
Örlygur sigldi vestan fyrir Barð; en er hann kom suður um Snæfellsjökul á fjörðinn, sá hann fjöll tvö og dali í hvorutveggja. Þar kenndi hann land það, er honum var til vísað.
Árvellir - loftmyndHann hélt þá að hinu syðra fjallinu, og var það Kjalarnes, og hafði Helgi bræðrungur hans numið þar áður.
Örlygur var með Helga hinn fyrsta vetur, en um vorið nam hann land að ráði Helga frá Mógilsá til Ósvíf(ur)slækjar og bjó að Esjubergi. Hann lét þar gera kirkju, sem mælt var.
Örlygur átti margt barna; hans son var Valþjófur, faðir Valbrands, föður Torfa, annar Geirmundur, faðir Halldóru, móður Þorleifs, er Esjubergingar eru frá komnir. Þeir Örlygur frændur trúðu á Kolumba. Dóttir Örlygs hins gamla var Vélaug, er átti Gunnlaugur ormstunga, sonur Hrómundar í Þverárhlíð; þeirra dóttir var Þuríður dylla, móðir Illuga hins svarta á Gilsbakka.“
Esjuberg er, eins og að framan er lýst, getið í Landnámu sem jörð landnámsmannsins Örlygs Hrappssonar. Á Esjubergi stóð kirkja samkvæmt kirknaskrá Páls biskups Jónssonar frá því um 1200. Esjuberg var á meðal jarða Viðeyjarklausturs eins og sjá má af skrá frá árinu 1395 um kvikfé og leigumála á jörðum klaustursins. Jarðarinnar er getið í fógetareikningunum frá 1547-1552 og er þá komin í eigu konungs.
Lögfesta fyrir Esjuberg var lesin upp á manntalsþingi þann 9. júní 1801 en inntak hennar ekki skráð.
Björn Stephensen dómsmálaritari bjó á Esjubergi frá því um 1814 til dauðadags, þann 17. júní 1835. Eftir hann liggur Grund - loftmyndlýsing á landamerkjum Esjubergs og Mógilsár. Í Jarðatali Johnsens frá 1847 kemur fram að hjáleigur Esjubergs eru tvær; Grund (Austurbær) og Árvöllur, báðar 10 hundruð að dýrleika. Neðanmáls er greint frá því að engar upplýsingar er að finna í jarðabókum um hjáleigurnar nema hvað 1802 er Austurbæjar getið getið sem Johnsen telur að sé sama jörð og sýslumaður og prestur kalla Grund.
Í fasteignamatinu 1916-1918 eru Árvellir og Grund taldar með Esjubergi.
Í opinberri Skrá um friðlýstar fornleifar frá 1990 segir um framangreindar kirkjuminjar að Esjubergi: „Esjuberg. I) Kirkjugrunnur forn, skamt austur frá bænum
. Sbr. Árb. 1902: 33-35. Skjal undirritað af MÞ 25.10.1930. Þinglýst 17.11.1938. II).“
Einnig er tiltekin „Grjótdys, sem kölluð hefur verið Dyngja, við gamla reiðveginn, á mel 2 km austur frá bænum. Skjal undirritað af KE 28.07.1964. Þinglýst 04.08.1964.“ [Þá dys segir SG hafa verið eyðilagða 1981, líkt og að framan greinir].
Gísli upplýsti í samtalinu að framangreind Dyngja hefði verið mokað í burtu á örskotsstund þegar byrjað var að nota malarnámusvæðið austan við Leiðhamra við norðanverðan Kollafjörð. Hann vissi ekki til þess að nokkur maður, hvað þá stofnun, hefði æmt eða skræmt vegna þessa.
Örnefnalýsingarnar af Esjubergi gáfu von um hugsanlega lausn að aldagamalli gátu, þ.e. hvar hin fyrsta kirkja hér á landi var reist.

Malartökusvæðið ofan við Leiðhamra - gamla þjóðleiðin sést til hægri

Svæðið umhverfis Bænhúsahól hefur verið rannsakað (GÓ 1981), en svo virðist sem ekkert hafi verið litið á Kirkjuflöt ofan Leiðhamra. Þar á loftmynd er að sjá gamla tóft. Þá staðfesta bræðurnir Árni og Gísli Snorrasynir frá Esjubergi tilvist Grundar, er mun hafa farið undir skriðu um 1830. Við hana sjást enn minjaleifar, auk þess sem Grundarhóll (41) staðfærir fyrrum bæjarstæðið nokkuð örugglega. Leiðinlegast er þó að Dyngjunni, gamalli vegdys á friðlýsingarskránni, var raskað með einu vélskóflutaki, án þess að nokkur æmti né skræmti, hvorki fólk né tilheyrandi stofnun (sjá athugasemdir við örnefnalýsinguna). Dæmigert – jafnvel nú á dögum.
Í grein Brynjúlfs Jónssonar í Árbók hins íslenska fornleifafélags 1902 er rakin frásögnin í 12. kafla Landnámu. Þá segir: „Í túninu á Esjubergi, austur frá bænum er rúst, sem frá ómunatíð hefur verið kölluð kirkjutóft eða stundum bænhústóft. Og girðing sem, sem er áföst við hana, er kölluð kirkjugarður. Rústin snýr frá austri til vesturs, nál. 4 fðm. löng og nær 3 fðm. breið. Hornin eru hér um bil rétt. Utantil er hleðsla, eigi mjög aflöguð; enda er hæðin aðeins tvö steinalög, eð sumstaðar þrjú, hvert ofan á öðru. Grjótið er hnöllungagrjót, en þó eigi mjög hnöttótt og sumt er með nokkrum köntum.
Að ofan er rústin ávöl af grjóti. Lítur út fyrir, að ofan á hana hafi verið kastað lausum steinum, annaðhvort sem fallið hafi úr henni sjálfri – Grjóthraukur í gerðinuhafi hún verið hærri, – eða sem skriðuhlaup hefði kastað þangað. Eigi haggaði eg við rústinni, er eg skoðaði hana í voru (1901). Var það bæði, að þá var annríkt hjá mönnum og verkamenn óhægt að fá, enda ilt að gjörða vegna rigninga. Þóttist eg sjá, að það mundi mikið verk, en ósýnt um árangur. Þó lét eg grafa með öllum vesturgaflinum, í þeirri von, að þar sæi merki dyra. En þeirra sást enginn vottur. Undirstaðan sýndist óhögguð yfir um þvert og lá á skriðugrjóti – sem þar er alstaðar undir jarðvegi… eins og rústin kom mér fyrir sjónir, gat eg varla talið hana líklega til að vera hústóft. Hitt gæti verið, að hér hefði verið hærri bygging; hústóft, nfl. staðið ofan á því sem nú er eftir. Þó leizt mér svo á brúnir rústarinnar að þær mundu ójafnari en þær eru, ef ofan á þeim hefði verið hærri hleðsla, sem hefði fallið. Eg hefi síðan hugsað um þetta, og hefir nú komið í hug, að rústin muni vera upphækkun eða „grunnur“ undan kirkjunni Örlygs, og hafi hún verið gjör af viði einum, – eins og t.a.m. skáli Gunnars á Hlíðarenda…
Girðingin, sem kölluð er kirkjugarður, er fyrir austan rústina; er austurgafl hennar áfastur suðvesturhorn girðingarinnar. Hún er 11 faðma breið frá austri til vesturs, og 12 fðm. löng frá norðri til suðurs. Sér glögt til hennar öllum megin; hefir þó skriða runnið fram á norðurvegg hennar. Framhald af honum gengur vestur á móts við kirkjutóftina og verður þar smá-girðing við norðurgafl tóftarinnar, 4 fðm. frá austri til vesturs og 6 fðm. frá norðri til suðurs, en gengur að sér vestantil…“.
Uppkast úr gerði austan EsjubergsGuðmundur Ólafsson gróf í þessa tóft, eins og fram hefur komið. Þegar hann var spurður um niðurstöður rannsóknarinnar svaraði hann eftirfarandi: „
Ég byrjaði á smá rannsókn þarna árið 1981. Tilefnið var ósk um rannsókn frá kirkjunnar mönnum í tilefni af því að þá var kristniboðsár. Ég flaug líka yfir svæðið og tók myndir. Rannsóknarsvæðið var í skriðum nokkru austan við bæinn, þar sem talið var að væru leifar kirkjunnar. Fljótlega kom í ljós að rústirnar voru mun yngri en frá landnámsöld, þannig að þetta gátu ekki verið leifar af Kirkju Örlygs.  Steinhleðslurnar sem sagðar voru vera leifar kirkjunnar voru að öllum líkindum frá 16. eða 17. öld.  Nokkru neðar voru mannvistarlög sem bentu til eldri byggðar, eða allt frá 11. – 12. öld, en það voru leifar sem bentu frekar til íveruhúsa en kirkju (móöskudreif og viðarkolaaska). Það var líka augljóst að skriður höfðu farið yfir allt þetta svæði og að það yrði afar erfitt að finna og grafa upp frekari minjar á þessu svæði. Þá var líka ljóst að rústin væri ekki leifar af  kirkju Örlygs og að hennar yrði að leita annars staðar. Rannsókn var því hætt.“
Af ummerkjum á vettvangi að dæma er ljóst að hver skriðan á eftir annarri hefur hlaupið yfir það úr Gljúfurdal. Eldri minjar eru og verða því grafnar undir þeim yngri. Líklegt er því að niðurstaða Guðmundar sé skynsamleg, auk þess sem hún er byggð á rannsóknum.
Tóft norðan gerðisinsÞegar FERLIR gekk um svæðið „austan“ Esjubergs með hliðsjón af lofmyndum af svæðinu virtist áhugaverðasta svæðið samt sem áður vera órannsakað. Hafa ber í huga að munnmæli sögðu kirkjutóftina vera austan við bæinn og jafnan var bent á líklegustu staðsetningu hennar m.v. eðlilegt sjónarhorn frá bænum. Ekki er vitað hversu glöggar upplýsingar seinni tíma ábúendur höfðu fengið frá fyrri ábúendum um nákvæma staðsetningu tóftarinnar og annarra örnefna eða hvort einhverju sinni hefði einhver giskað á hana að þeim óvörðuspurðum, líkt og dæmi eru um. Hafa ber í huga að í lýsingum er gjarnan notuð önnur viðmið en eiginlegar höfuðáttir. Var t.d. gjarnan miðað við útnorður á Reykjanesskaganum, þ.e. beint út á sjó. Ef tekið er mið af því ætti „austur“ af bænum Esjubergi að vísa á fyrrnefnt svæði. Þegar gengið var um það mátti vel sjá að „grundvöllurinn“ lá lægra en landið umhverfis.

Esjuberg um 1900

Óljóst mótaði fyrir leifum af hlöðnum veggjum, ferningslaga. Beygur fylgdi göngunni yfir reitinn. Upphleyingar voru á stöku stað – og niðurgróningar á öðrum. Hlaðnir grjóthraukar voru auk þess á stangli, mögulega uppsöfnun úr gröfum. Hvorutveggja bentu því til gamalla grafstæða. Norðan garðsins var forn tóft með vestur/austur legu. Við austurenda hennar var þvertóft er gæti gefið heykuml til kynna. Samt sem áður kom vöknuðu efasemdir um að þarna hafi verið fjárhús. Þau voru einfaldlega ekki með þessu lagi fyrrum og auk þess samræmdist byggingarlagið ekki slíkum mannvirkjum frá seinni tíð. Það virtist líkara skálum þeim er reistir voru til forna.
Jarðirnar Grund og Árvellir fóru í eyði eftir skriðuföll 2. september árið 1886. Þá urðu 9 jarðir á Kjalarnesi fyrir stórskemmdum.
Ákveðið var að freysta ekki uppgöngu í Búahelli að svo komnu máli. Slíkt þrekvirki krefst mun meiri undirbúnings – og áræðis.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir m.a.:
-Landnáma (Sturlubók), 12. kafli.
-Kjalnesingasaga, 2. kafli.
-Árni Snorrason.
-Gísli Snorrason.
-Páll Eggert Ólason.
-Fasteignamat.
-Skrá um friðlýstar fornleifar 1990.
-Ari Gíslason – Örnefnastofnun Íslands – Esjuberg.
-Kjalnesingar – frá 1890, 1998.

Garður í túninu Esjubergi

Hlemmur

Hlemmur
Í skýrslu Minjasafns Reykjavíkur (Árbæjarsafns); „Húsakönnun Snorrabraut – Hverfisgata – Rauðarárstígur – Laugavegur“ árið 2004 eftir Páll V. Bjarnason, arkitekts, og Helgu Maureen Gylfadóttir, sagnfræðings, má lesa eftirfarandi um Hlemmtorg og nágrenni:
Vatnsþróin um 1920„Á mótum Rauðarárstígs, Hverfisgötu og Laugavegar er svokallað Hlemmtorg sem í daglegu tali kallast Hlemmur. Þar rann Rauðará (Rauðarárlækur) til sjávar. Á ofanverðri 19. öld var gerð brú yfir lækinn til að greiða fyrir umferð en ekki þótti hún merkileg og var því jafnan nefnd Hlemmur. Mikilvægi svæðins í kringum Hlemm jókst til muna eftir því sem byggð þokaðist austur á bóginn og umferðaþunginn varð meiri. Fyrsti vísir að torgi var kominn eftir 1930 og tengist það því að árið 1931 var leið númer 1 hjá Strætisvögnum Reykjavíkur með endastöð við vatnsþróna hjá Hlemmi. Svo var það árið 1970 að ákveðið var að aðalmiðstöð Strætisvagna Reykjavíkur skyldi vera á Hlemmi og jókst þá umferðin til muna um þetta svæði.
Vatnsþróin var reist árið 1912 rétt austan við Hlemm. Hún var úr steinsteypu og tæpur meter á hæð og þrír metrar á Vatnsþróinlengd. Í henni var rennandi vatn enda vatnsveitan þá tekin til starfa í Reykjavík. Vatnsveitan kom árið 1909 og voru þá gerðar þrjár opinberar vatnsþrær til að brynna hestum. Ein var við hestaréttina að Laugavegi 16, önnur á Lækjartorgi og hin þriðja við Hlemm. Fleiri vatnsþrær voru í Reykjavík en sú við Hlemm var einna kunnust enda var hún í alfaraleið.
Ýmsar hugmyndir hafa verið um endurbætur á Hlemmtorgi í gegnum tíðina. Á sjötta áratugi 20. aldar voru uppi hugmyndir um að endurgera vatnsþróna og setja upp styttu til minningar um að Hlemmur hafi verið áningarstaður fyrir hestalestir áður en haldið var úr bænum. Pantaði Reykjavíkurborg verk eftir Sigurjón Ólafsson í tilefni af fimmtugsafmælis listamannsins og átti að setja verkið upp á Hlemmtorgi. Verk Sigurjóns nefnist Klyfjahesturinn. Ekki varð þó úr að styttan væri sett upp á Hlemmtorgi eins og til stóð heldur endaði hún á tungunni milli Suðurlandsbrautar og Miklubrautar.

Gasstöð Reykjavíkur
KortEitt af þeim húsum sem hér er kannað er íbúðarhús stöðvarstjóra Gasstöðvar Reykjavíkur, Hverfisgata 115. Um aldamótin 1900 fóru menn að huga að öðrum orkugjöfum í Reykjavík en olíu og kolum. Í bæjarstjórninni var mjög tekist á um hvort hinn nýji orkugjafi skildi vera raforka eða gas. Snemma kom til tals að virkja Elliðaárnar en það þótti dýrt auk þess sem raforkuver fyrir bæjarfélög í Noregi og Englandi, að svipaðri stærð og Reykjavík, voru rekin með tapi. Helsu rökin með byggingu gasstöðar voru þau að allur almennngur í Reykjavík hefði frekar efni á að taka inn gas en rafmagn. Fór svo að tilboði frá fyrirtækinu Carl Francke í Bremen í Þýskalandi var tekið í byggingu gasstöðvar. Framkvæmdir hófust í ágúst 1909 og var lokið í september 1910.

Gasstöðin

Gasstöðinni var fundin staður á svæðinu fyrir ofan Rauðarárvík á Elsumýrarbletti, en nyrsti hluti Norðurmýrar var kallaður Elsumýri. Elsumýri heitir eftir Elsu Ingimundardóttur en hún var umsvifamikil mósölukona eftir miðja 19. öld.9 Á lóðinni var reistur stór gasgeymur, verksmiðjuhús og íbúðarhús gasstöðvarstjóra. Í húsi gasstöðvarstjóra var íbúð á efri hæðinni en á neðri hæðinni var verslun með gasáhöld og skrifstofur fyrirtækisns. Fjarlægð íbúðarhússins frá gasstöðvarhúsunum var ca. 60 álnir/37.6 m.
Fyrsti gasstöðvarstjórinn var Erhard Schoepke, umboðsmaður þýska fyrirtækisins. Hann hafði áður verið gasstöðvarstjóri í Noregi. Gasstöðin var rekin fyrir eigin reikning fyrirtækisins til 1916, er bæjarstjórnin tók yfir reksturinn. Schoepke staldraði stutt við en gasstöðvarstjórarnir á eftir honum voru ávallt þýskir, þangað til í heimstyrjöldinni fyrri að Englendingar neituðu að selja gasstöðinni kol nema skipt yrði um stöðvarstjóra. Þá varð Brynjólfur Sigurðsson, sem þá nam tæknifræði í Noregi, ráðinn gasstöðvarstjóri og hélt hann því starfi þangað til stöðinni var lokað árið 1955.
Klyfjahesturinn

Gasnotkun í Reykjavík hafði þá farið minnkandi frá 1937 er Sogsvirkjun tók til starfa. Fljótlega upp úr heimsstyrjöldinni fyrri varð Reykvíkingum ljóst að vatnsaflvirkjun í Elliðaám eða jafnvel Soginu var grundvöllur frekari framfara.
Gasstöðin var þar sem nú er aðalstöð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu við Hverfisgötu 113-115.

Nafngiftir gatnanna
Nafngiftir gatnanna sem hér um ræðir eiga rætur sínar að rekja víða.
Snorrabraut er kennd við Snorra Sturluson en gatan var til ársins 1948 austasti hluti Hringbrautar.
Hverfisgata var upphaflega aðalstígurinn í Skuggahverfi og byggðist fyrst sá hluti götunnar sem liggur milli Vatnsstígs og Vitastígs. Gatan var síðan lengd að
Klapparstíg og um 1900 náði hún niður að Lækjartorgi. Götunnar var fyrst getið í manntali árið 1898.
Rauðarárstígur er kenndur við jörðina Rauðará. Rauðarárholt er klapparholtið milli Kringlumýrar og Norðurmýrar en Klyfjahesturinnbæjarhúsin á Rauðará stóðu suðaustur af holtinu. Götunnar var fyrst getið í manntali árið 1906.
Laugavegur kemur fyrst fram í manntali árið 1888. Gatan dregur nafn sitt af Þvottalaugunum í Laugardalnum og var upphaflega gerð til að greiða fyrir þeim sem áttu erindi inn í Laugardal til að þvo þvotta. Fram á 9. áratug 19. aldar náði vegurinn þó ekki lengra en upp að Klapparstíg, en þá var hann lengdur í austur. Um 1905 má segja að Laugavegurinn hafi verið fullbyggður inn að Barónsstíg.“

Heimildir:
-Páll Líndal: Reykjavík, Sögustaður við Sund, H–P, bls. 44–45.
-Páll Líndal: Reykjavík, Sögustaður við Sund, R–Ö, bls. 138.
-Guðjón Friðriksson: Saga Reykjavíkur, bls. 56 – Páll Líndal: Reykjavík, Sögustaður við Sund, R–Ö, bls. 138.
-Æsa Sigurjónsdóttir: Listaverk Sigurjóns Ólafssonar í alfaraleið sýningarskrá LSÓ, 2004
-Páll Líndal: Reykjavík, Sögurstaður við Sund, R–Ö, bls. 175.
-Guðjón Friðriksson: Saga Reykjavíkur, bls. 381 – Páll Líndal: Reykjavík, Sögustaður við Sund, H–P, bls. 67–68.
-Páll Líndal: Reykjavík, Sögustaður við Sund, H–P, bls. 68.
-Kort af svæðinu úr Borgarvefsjánni.
-Árni Óla: „Nafngiftir gatna í Reykjavík“, bls. 333.
-Páll Líndal: Reykjavík, Sögustaður við Sund, R–Ö, bls. 8.
– Árni Óla: „Nafngiftir gatna í Reykjavík“, bls. 337.
-Páll Líndal: Reykjavík, Sögustaður við Sund, H–P, bls. 128–129.
-Árni Óla: „Nafngiftir gatna í Reykjavík“, bls. 336.
-1730.07.2004, http://www.borgarvefsja.is/website/bvs/bvs.html
-Stefán Pálsson: Við Hlemmtorgið gnæfir gasstöðin þeirra svo hátt, bls. 33–34.
-Páll Líndal: Reykjavík, Sögustaður við Sund, A–G, bls. 126.
-Stefán Pálsson: Við Hlemmtorgið gnæfir gasstöðin þeirra svo hátt, bls. 34.
-Páll Líndal: Reykjavík, Sögustaður við Sund, H–P, bls. 68.
-Stefán Pálsson: Við Hlemmtorgið gnæfir gasstöðin þeirra svo hátt, bls. 40–41 og bls. 43–44.
-Páll Líndal: Reykjavík, Sögustaður við Sund, R–Ö, bls. 73.

Hlemmur

Hlemmur 2015.

Ármúlaskóli

Við Ármúlaskóla í Reykjavík er álfhóll. Hóllinn er aflíðandi brekka norðaustan við skólann með lágu klettabelti er vísar í áttina að honum. Við norðvesturhornið er einnig stakur steinn, sem látinn hefur verið óhreyfður. Á hann er klappað ártalið 1941. Á þessu svæði munu hafa verið grjótnámur á árunum 1940-1950 skv. upplýsingum Minjasafns Reykjavíkur.
Letursteinn„Auk Grásteins við Vesturlandsveg (Grafarholti) eru fjórar álfabyggðir skráðar í Fornleifaskrá Reykjavíkur, álfabyggð við Ármúlaskóla (nr. 105), álfhóll sunnan við fjölbýlishúsið við Vesturberg 2-6, huldumannasteinar við Háaleitisbraut 9 og álfhóll við Breiðagerðisskóla. Til að mynda var skipulagi breytt vegna álfhólsins við Vesturberg.“
„Trúin á huldufólk og álfa er jafngömul þjóðinni og ekki útdauð enn. Dæmi eru um að gerð séu kort af álfabyggðum og sjáendur kvaddir til áður en ráðist er í bygginga- eða vegaframkvæmdir til þess annað hvort að ganga úr skugga um hvort jarðbúar sitji í fleti fyrir eða hvort unnt sé að ná samningum við þá um raskið, sem af framkvæmdunum hlýst.
Ekki er fátítt að álfasögur verði til, þegar stórvirkar vinnuvéla bila eða virðast ekki vinna á steinum og klettum. ÁletrunGott dæmi um það er álfhóllinn við Álfhólsveg í Kópavogi. Var vegurinn fremur látinn sveigja fram hjá hólnum en að hann yrði fjarlægður. vegagerðin hefur enda ítrekað á undanförnum árum verið vöruð við að raska ákveðnum blettum vegna álagatrúar og reynt að taka tillit til þess.
Staðir tengdir þjóðtrú, þar á meðal ætluð híbýli álfa, voru ekki sérstaklega verndaðir með lögum fyrr en árið 1990 að ný þjóðminjalög tóku gildi. Tilgangur þeirra er að tryggja eins og bezt verður á kosið varðveislu menningarsögulegra minja þjóðarinnar, þar á meðal fornleifa.“

Álfhóll

Erla Stefánsdóttir, sjáandi, sagði eftirfarandi um álfa í viðtali við Lesbók Morgunblaðsins 1986:
„Þar eru til fjölmargar tegundir álfa, þannig að þetta mál er kannski ekki svo einfalt, sagði Erla. Mér finnst huldufólkið hafa sérstöðu og líklega eiga flestir við huldufólkið þegar talað er um álfa. Huldufólkið er nefnilega ekki ólíkt mannfólkinu, það virkar dálítið þunglamalegt. Þetta er lágvaxið fólk og yfirleitt mjög skrautgjarnt.
Í þessu sambandi verður svo að hafa annað í huga, tíminn, sem okkur þykir svo sjálfsögð vídd í tilveru okkar, getur spilað dálítið með okkur þegar álfar eru annars vegar. Þó tíminn sé óhjákvæmileg staðreynd í daglegu lífi okkar er hann blekking frá öðru sjónarmiði og Guð, skapari alls, er handan tíma og rúms. Næmt fólk skynjar iðulega það sem lðið er, sér þá kannski fyrri kynslóðum bregða fyrir við ýmis störf. Ég heldÁlfar að slíkar fortíðarsýnir hafi oft verið misskildar og sjáendurnir álitið að um álfa eða huldufólk væri að ræða. Þannig hafa sennilega margar af þessum sögum orðið til um að huldufólks stundi búskap, færi í kaupstað o.s.frv. Sumt huldufólk virðist að vísu fást við svipuð störf og við mennirnir, en ég held þó að líf þess sé töluvert öðruvísi og meira í samræmi við náttúruna.“
Þessar verur virðast vera á þróunarleið til hliðar við mannþróunina. Sjálfsagt stefna þær allar að auknum þroska eins og við. Huldufólkið er líkt mannfólkinu að því leyti að það virðist vera miklar félagsverur – ég sé það aldrei eitt sér heldur lifir það alltaf saman í bæjum. Álfar búa hins vegar margir einir sér og eins eru tvívarnir, sem eru mjög háþróaðar verur, venjulega út af fyrir sig.
Ef til vill er auðveldast fyrir menn að komast í snertingu við huldufólkið af öllum þessum verum þar sem því virðist svipa til okkar að mörgu leyti, eins og ég sagði áðan. Huldufólkið virðist þurfa að hafa töluvert fyrir lífi sínu, það stritar eins og við og allmikill munur virðist vera á efnum þess sem ráða má af klæðnaði og híbýlum.“
Kannski álfaranir eða huldufólkið í álfhólnum við Ármúlaskóla stundi eitthvert nám þar með öðrum nemum?

Heimild:
-Árbók fornleifafélagsins 1998, bls. 158.
-Erla Stefánsdóttir, Morgunblaðið 24. ágúst 1986.

Álfhóllinn

Esja

Esja er fjall við ofanvert Kjalarnes í Reykjavík og er eitt af einkennunum á norðanverðu höfuðborgarsvæðisins. Fjallið ræður veðri og vindum auk þess sem útsýni yfir fjallið hefur í gegnum tíðina haft áhrif á fasteignaverð á svæðinu. Til er fólk sem segist geta spáð fyrir um veðrið út frá litunum í fjallinu svo hvernig þaulsetnir snjóskaflar haga sér í giljum.
Hæsti tindur Esjunnar er 914 metrar y.s. Nokkrar gönguleiðir eru upp á fjallið og þar eru vinsæl útivistarsvæði. Það er syðsta blágrýtisfjall á Íslandi.
Búahellir ofan við EsjubergÍ Kjalnesinga sögu er talað um bæinn Esjuberg þar sem landnámsmaðurinn Örlygur Hrappsson bjó þegar hann kom til Íslands frá Suðureyjum í Skotlandi. Í sögunni er sagt frá því að írsk kona að nafni Esja hafi komið í Kollafjörð og hafa menn þá leitt að því líkum að nafnið sé írskt að uppruna. Bærinn Esjuberg á Kjalarnesi er einnig nefndur á nokkrum stöðum í Landnámu án þess að vikið er að skýringu á nafninu.
Í Kjalnesingasögu er sagt frá því að írskir menn hafi komið á skipi í Leiruvog í Kollafirði. Meðal þeirra var kona, Esja að nafni, og var hún sögð ekkja og mjög auðug. Hún tók við bæ Örlygs og bjó að Esjubergi. Fjallsnafnið er þar ekki nefnt.
Vegna þessara sagna hefur sú tilgáta komið fram (W. Craigie) að nafnið Esja sé af keltneskum uppruna, dregið af Ésa eða Essa (sjá Hermann Pálsson: Keltar á Íslandi. Reykjavík 1996:170).
Flestir hafna þó þessari skýringu og telja að kvenmannsnafnið sé til orðið á eftir bæjarnafninu og fjallsheitinu. Helgi Guðmundsson (Um haf innan 1997:193-94) hefur bent á að í Lewis (Ljóðhúsum) í Suðureyjum séu varðveitt norræn örnefni í gelísku sem komi heim og saman við röð örnefna frá Akranesi og suður í Kollafjörð. Meðal þeirra er Esjufjall. Hugsanlega hafa örnefnin verið gefin um sama leyti á báðum stöðum og flust með norrænum mönnum vestur á bóginn.
Esjan - nafngiftin hefur jafnan verið þjóðsagnakenndLíklegasta skýringin á Esja er því sú að um norrænt nafn sé að ræða. Ásgeir Blöndal Magnússon (Íslensk orðsifjabók 1989:157) bendir á að í eldra máli hafi verið til orðið esja í merkingunni ‘flögusteinn, tálgusteinn’. Í norsku er til esje í sömu merkingu. Af sama uppruna eru norska orðið esje í merkingunni ‘eimyrja’, sænska orðið ässja í sömu merkingu en einnig í merkingunni ‘smiðjuafl’ og síðastnefnda merkingin kemur fram í danska orðinu esse ‘smiðjuafl’. Ásgeir Blöndal telur upphaflega merkingu orðsins esja í íslensku vera ‘eldstæði’ og ‘steintegund höfð til eldstæðis- og ofngerðar’. Fjallsnafnið væri þá af sama stofni.
Í 2. kafla Kjalnesingasögu segir m.a.frá írskum manni, Andríð, sem kemur til landsins og fær að reisa sér bæ í landi Helga og skammt frá honum. Fer vel með honum og sonum Helga þeim Þorgrími og Arngrími og sverjast þeir í fóstbræðralag. Með sama skipi og Andríður kemur Esja, kona forn í brögðum og sest að á bæ Örlygs.“ Í 3. kafla segir að Esja bjóði Búa, einni aðalpersónu sögunnar, til fósturs og elst hann upp hjá henni. Í 4. kafla segir frá því er Búi kemur heim til Esju eftir átökin við þá Þorstein og hún brýnir hann til dáða og lofar að hjálpa honum. Búi ákveður því að láta til skarar skríða gegn Þorsteini; drepur hann í hofinu og brennir hofið. Búi lýsir víginu á hendur sér og heldur til Esju sem felur hann í helli skammt frá bænum þar sem erfitt er að sækja að honum. Esja býr sig svo undir eftirreið Þorgríms með því að fylla hús sín af reyk og remmu.
Í 5. kafla er sEsjuberg - hér mótar fyrir fornum görðumagt frá því er Þorgrímur safnar liði og heldur að Esjubergi til að hafa hendur í hári Búa. Að sjálfsögðu mætir honum þar ekkert nema reykjarsvæla og enginn Búi. Þorgrímur sakar Esju um undirferli, en Esja nýr Þorgrími það um nasir að hann sé enginn jafningi Helga föður síns. Þorgrímur verður að láta reiði sína koma einhvers staðar niður og fer og drepur Andríð föður Búa og fóstbróður sinn. Fer það gegn ríkjandi siðferði að drepa fóstbróður sinn og verður það Þorgrími til minnkunnar.
Í 6. kafla víkur sögunni að Austmanni einum sem Örn nefnist. Kemur hann í Kollafjörð og verður hrifinn af Ólöfu dóttur Kolla. Esja hefur sitthvað við það að athuga og vill að Búi fari og geri hosur sínar grænar fyrir Ólöfu. Hún hafi nefnilega ætlað Búa hana fyrir konu. Eins og fyrri daginn kvað Búi hana ráða skyldu og fer til Kolla og gerist þar þaulsetinn. Sátu þeir tveir Örn og Búi svo um grey stúlkuna að hvorugur fékk neitt sagt við hana án þess að hinn heyrði. Í 7. kafla bætist bætist enn einn galgopinn við í umsátrið um Ólöfu. Er það Kolfinnur, sonur Þorgerðar á Vatni [Elliðavatni], sem fram að því hafði verið álitinn stórskrýtinn vitleysingur. Eins og Búi þá er það móðir Kolfinns, Þorgerður sem brýnir hann af stað. Er hún fjölkunnug eins og Esja en þó engin jafnoki hennar í þeim efnum. Gengur þetta þannig fyrir sig allan veturinn að þeir sitja þrír um Ólöfu. Ólöf greyið virðist ekki hafa verið manneskja til að taka af skarið og segir að hún hafi svarað þeim öllum kurteislega.
Í 8. kafla fer Erni Austmanni að leiðast þetta þóf allt saman og ákveður að ráðast gegn Kolfinni og drepa hann. Fer það ekki betur en svo að Kolfinnur drepur Örn. Kolfinnur verður sár í átökunum og leitar á náðir móðurbróður síns Korpúlfs sem hjúkrar honum til heilsu. Esja segir Búa frá viðureign þeirra Arnar og Kolfinns og vill að hann klæði sig betur. 

Tóftir í Esjuhlíðum ofan Esjubergs

Það sama ráðleggur Korpúlfur Kolfinni, sem ákveður að nú skuli sverfa til stáls með honum og Búa. Í 9. kafla segir Kolfinnur Búa að hætta að finna Ólöfu eða ganga á hólm við sig ella. Búi tekur áskoruninni og er ákveðið að hólmgangan fari fram daginn eftir. Þegar Kolfinnur segir Korpúlfi hvað standi til líst honum ekki á blikuna. Segir hann fáa hafa riðið feitum hesti í glímu við Esju. Hann fær honum sverð fyrir átökin. Esja undirbjó Búa eftir kúnstarinnar reglum og sú tilfinning magnast hjá lesandanum að átökin standi ekki milli Kolfinns og Búa, heldur Esju annars vegar og þeirra systkina Korpúlfs og Þorgerðar hinsvegar. Það fer svo að Búi særir Kolfinn og gerir han óvígan. Eftir hólmgönguna heldur Búi rakleitt til Kollafjarðar, sækir Ólöfu og fer með hana heim í hellinn sinn. Hreyfir hún engum mótmælum við en ekki kemur heldur fram nein gleði hjá henni.

Tóftir Grundar við Grundará í Esjuhlíðum

Í 10. kafla grær Kolfinnur sára sinna, safnar liði og heldur við fimmtánda mann að helli Búa við Esjuberg og vill sækja Ólöfu. Leggja þeir þó ekki í að fara upp einstigið að sjálfum hellinum. Kolfinnur reynir að storka Búa með því að kalla hann Berkvikindi og Búi er næstum rokinn út í opinn dauðann, en þá grípur Esja í taumana og setur að Búa þvílíkan augnverk að hann fær sig hvergi hrært. Kolfinnur og menn hans snúa á braut og undi hann illa við sína ferð. Í 11. kafla kemur fram að Esja vill að Búi haldi utan og viti hvað þar bíði hans, enda dæmdum skóggangsmanninum varla vært heima fyrir. Ólöf skyldi bíða hjá föður sínum Kolla í þrjú ár eftir honum.
Í 17. kafla snýr Búi aftur til Esjubergs þar sem Esja fagnar honum og fer síðan og hittir móður sína. Þorgrímur er orðinn gamall maður og góðir menn koma á sáttum á milli hans og Búa. Búi kvænist Helgu dóttur Þorgríms og Helgi Arngrímsson fær Ólafar Kolladóttur. Og nú verður aftur tvöfalt brúðkaup í að Hofi. Þegar Esja deyr sest Búi að á Esjubergi. Þau Helga og Búi eignast þrjú börn, Ingólf, Þorstein og Hallberu. Þegar Þorgrímur deyr tekur Búi við sem höfðingi héraðsins.
Af fornsögunum að dæma virðist fjallið fá nafn sitt frá fyrrnefndri Esju, sem verður að teljast til marks um mikilleik hennar því sjaldan munu svo stór fjöll hafa heitið eftir konum í upphafi landnáms hér á landi. Bær hennar var nefndur eftir henni skv. sögunni, enda sjálf bústýran. Ekki er ólíklegt að ætla að Búi hafi að henni genginni nefnt fjallið eftir henni, sem hafði reynst honum svo vel er raun bar vitni. Líklegt má því telja að lík hennar hafi verið brennt undir rótum þess eða það verið sett þar í haug á efstu mörkum eftirlifendum til ævarandi verndar.
Fornar tóftir bæjarins Grundar eru á suðurbakka Grundaráar er kemur ofan úr Gljúfurdal undir Kerhólakambi í Esjunni vestanverði, ofan við Esjuberg. Ofan þeirrar jarðar, í Esjuhlíðum, má einnig sjá móta fyrir fornum tóftum. Þangað verður ferðinni heitið innan skamms.

Heimildir m.a.:
-Vísindavefurhi.is
-Wikipedia.org
-kjalarnes.is
-Kjalnesingasaga, 2. – 17. kafli.

Esjan

Hlíðarhús

Búskapur „Reykjavíkurbænda“ setti svip á höfuðstaðinn alveg fram á sjöunda áratuginn. Enda þótt sárafáir Reykvíkingar hefðu viðurværi sitt af landbúnaði eftir síðari heimsstyrjöldina og bændurnir væru ekki margir í hlutfalli við aðra íbúa hafði búsýsla þeirra áhrif á þróun bæjarins og dreifingu byggðarinnar. Þeir sem stunduðu einhvers konar búskap réðu yfir stórum og smáum túnum, yfirleitt svokölluðum erfðafestulöndum, sem voru fyrirferðarmikil í bæjarlandinu.
ReykjavíkurjarðirFraman af 19. öld höfðu einstaklingar yfirleitt leigt nytjatún bæjarins en þar sem færri komust að en vildu leið fljótt að því að þörfin rak menn til þess að rækta nálæga móa, en bærinn þurfti að hafa þar hönd í bagga, enda eigandi landsins. Upp úr miðri 19. öld lögðu bæjaryfirvöld grunninn að erfðafestuskilmálum síðari tíma. Blettirnir voru afhentir gegn árlegri leigu en leigutakar voru hins vegar skyldaðir til þess að láta af hendi byggingarlóðir gegn niðurfærslu á árgjaldinu að mati óvilhallra manna. Á síðasta aldarfjórðungi 19. aldar varð erfðafestan eina fyrirkomulagið á úthlutun lands sem var stærra en lóðir. Undir lok aldarinnar var síðan dregin skýr markalína milli lóða og erfðafestulanda.
Kringlumýri Framan af 20. öld var reglum um erfðafestulöndin breytt á ýmsa vegu, m.a. tryggði bæjarstjórn eign sína á bæjarlandinu með nýjum skilmálum árið 1909, lög um rétt kaupstaða og kauptúna gagnvart þeim sem áttu stórar óbyggðar lóðir tryggðu ennfremur rétt bæjarins og rannsókn sem gerð var árið 1928 leiddi í ljós að bærinn væri hinn eiginlegi eigandi eldri landa og að réttur erfðafestu hafa væri einungis ræktunarréttur. Eftir að þessi niðurstaða fékkst átti enginn að velkjast í vafa um hver ætti erfðafestulöndin.
Lögsagnarumdæmi Reykjavíkur á þeim tíma var talið um 100 km² en landið vestan við Elliðaár aðeins um fimmtungur þess. Á nærri þriðjungi svæðisins voru erfðafestulönd.
VesturbærUm miðja 20. öld einkenndist bæjarland Reykjavíkur því fremur af víðum grasvöllum og óræktuðu landi en húsum og götum og öðru því sem talið er dæmigert fyrir borgir.
Náttúran setti því enn sterkan svip á umhverfi bæjarbúa, ekki aðeins melar og móar, urð og grjót, grasvellir og óræktarland heldur var fjallahringurinn víður og enn sást haf nánast hvaðanæva úr bænum. Að þessu leyti tók Reykjavík vel á móti fólki sem þangað fluttist og hafði búið í sveit. Og líklega hefur fjöldi býlanna í bænum ekki spillt fyrir.

Klambrar

Býlin vestan Elliðaánna stóðu mörg á því svæði sem nýju hverfin í bænum röðuðu sér utan um. Í Laugardalnum var hvert býlið af öðru með grænum túnum. Á milli Rauðarárholts og Laugardals var einnig rekinn þróttmikill búskapur. Í Kringlumýrinni voru Kringlumýrarblettir þar sem fjöldi ábúenda stundaði dálítinn búskap. Við Suðurlandsbrautina, ekki langt frá þeim stað þar sem Hótel Esja reis síðar, stóð býlið Lækjarhvammur.
Ný byggð þrengdi víðar að erfðafestuhöfum. Í Langholti, Laugarási og Laugarnesi var talsvert um slíkt. Ný íbúðarhús sóttu einnig að býlum í jaðri Öskjuhlíðar.
Við Háteigsveg stóð Sunnuhvoll og skammt þar frá var bærinn Klömbur, sem Klambratún var kennt við en því var síðar gefið nafnið Miklatún. [Daninn Cristiian Christensen keypti býlíð Klömbrur 1934 og rak þar fyrst búskap en síðar svínasláturhús og reykhús. Húsið á Klömbrum var rifið 1965.]

Skólavörðuholt 1968

Vestur í bæ voru jafnframt erfðafestulönd og býli, einnig í Skerjafirði. Alifuglabú bakarameistara var í Háaleiti og í Sogamýri voru nokkur nýbýli. Mýrin hafði verið þurrkuð upp og breytt í tún og þar var fjöldi erfðafestulanda, Sogamýrar- og Sogablettir. Í nágrenninu voru Bústaðir, þar var búið þar til í upphafi áttunda áratugarins. En á sjötta áratugnum voru á bænum tólf kýr mjólkandi og áttatíu ær. Bóndinn á Bústöðum, Ragnar Þ. Jónsson, réð yfir talsverðum túnum en „hafði glatað í greipar bæjaryfirvalda úthaga og engjum og þótti sárt við að sættast.“ Sumum gömlum sveitamönnum, sem komu í fjárhúsin á Bústöðum um miðja öldina og sáu sauðfé á garða, þótti sómi að því fé. Fleiri býli og erfðafestulönd voru í bæjarlandinu og í nágrenni bæjarins, í Kópavogi og á Seltjarnarnesi, var blómlegur búskapur.“
Til að gera langt mál stutt má segja að eftir þetta hafi Reykjavík breyst úr sveit í bæ. En í stað stekkjar varð bærinn að þeirri borg, sem við nú þekkjum.

Heimild:
-Eggert Þór Bernharðsson – ÞÆTTIR ÚR SÖGU REYKJAVÍKUR FRÁ 1940 – Sveit, bær, borg.

Skólavörðuholtið í dag

Kirkjusandur

Samkvæmt sumum heimildum náði Kirkjusandur frá Laugarnesi að Fúlalæk en aðrar heimildir segja að hann hafi náð allt vestur að Rauðarárvík.

Kirkjusandur

Kirkjusandur.

Fúlilækur var þar sem Kringlumýrarbrautin er nú og er hann með öllu horfinn eins og reyndar sandfjaran sem Kirkjusandur dregur nafn sitt af en hún er komin undir uppfyllinguna sem Sæbrautin er er á. Kirkja var í Laugarnesi allt frá árinu 1170 og til loka 18. aldar og ef til vill er sandurinn kenndur við hana en hann gæti líka dregið nafn af kirkjunni í Vík. Sú kirkja stóð þar sem nú er Fógetagarðurinn við Aðalstræti og var hún undanfari Dómkirkjunnar. Í Oddgeirsmáldaga frá árinu 1379 segir að Jónskirkja í Vík eigi allan  reka á Kirkjusandi.
Útræði hefur líklega verið frá fornu fari frá Kirkjusandi og á tuttugustu öldinni voru þar fiskverkunarhús. Um aldamótin 1900 voru Th. Thorsteinsson og Íslandsfélagið með fiskverkun á sandinum og voru þar tvær bryggjur. Seinna voru Júpiter og Mars með frystihús þar en Ísfélagið frá Vestmannaeyjum keypti húseignir þeirra og tók við rekstrinum eftir gosið í Heimaey. Á Kirkjusandi eru einnig bækistöðvar strætisvagna höfuðborgarsvæðisins og Sambands íslenska samvinnufélaga var þar með mikil umsvif þar eftir miðja síðustu öld. Þar voru aðalskrifstofur SÍS í byggingu þar sem nú eru aðalstöðvar Glitnis og þar var einnig byggt stórhýsi sem átti að verða sláturshús og kjötvinnsla en hýsir nú myndlistadeild Listaháskóla Íslands.
Á meðfylgjandi mynd má m.a. sjá holdsveikraspítalann á Laugarnesi (lengst til vinstri) og Laugarnesbæinn, fjærst.

Heimild:
-Hverfablaðið Laugardalur 2007.

Hús á Kirkjusandi og í Laugarnesi á fyrri hluta síðustu aldar

Kollafjarðarrétt

Kollafjarðarrétt er hlaðin fjárrétt ofan Kollafjarðar á Kjalarnesi. Auk gerðis eru þar 15 dilkar. Þegar FERLIR heimsótti réttina [2007] var ekki að sjá að hún hafi verið notuð um skeið. Veggir eru hlaðnir úr mógrjóti af vettvangnum, vel þykkir og standa enn vel.

Kollafjarðarrétt

Kollafjarðarrétt – loftmynd.

Ekki er kunnugt um aldur réttarinnar,  Steinunn Guðmundsdóttir, húsfreyja á Heiðarbæ í Þingvallasveit, fæddist í Kollafirði, en flutti þaðan árið 1961. Hún kvaðst muna eftir réttinni, en líklega væri Magnús í Stardal fróðari um hana.  Aðspurður kvaðst Magnús Jónasson muna eftir því að réttin lagðist af um það  leiti sem Kjalarnes sameinaðist Reykjavík [1998]. Faðir hans, Jónas Magnússon, hefði verið þar réttarstjóri og auk þess Oddur gamli í Þverákoti (kom þangað 1916- eða ’17). Kjalarnesrétt hefði legið mjög vel við Mosfellsbæ, Kjalarnesi og Kjós, auk þess sem bændum úr Þingvallasveit hafi verið skipað til réttar þar. Magnús kvaðst ekki vita hversu gömul réttin væri, en hún væri a.m.k. frá 19. öld. Eftir að hætt var að rétta þar hefðu hestamenn notað réttina og hefðu þá hleðsluveggirnir skemmst talsvert vegna ágangs hrossanna. Vonaðist hann til að réttin yrði einhvern tímann hlaðin upp að nýju.
Úr KollafjarðarréttUndir réttarveggnum voru rifjuð upp skáldsöguleg tengsl hennar við frumburð skáldsögunnar hér á landi. Rétt þessi þykir nefnilega ekki síst merkileg fyrir það að hún kemur fyrir í skáldsögunni Piltur og stúlka eftir Jón Thoroddsen (1818-1868) frá árinu 1850, sbr. meðfylgjandi: „
Það var einn dag um þetta leyti og skömmu eftir að Ormur var suður kominn, að veður var fagurt, en vegir þurrir, og var réttað upp í Kollafjarðarrétt, og reið margt fólk úr Víkinni sér til skemmtunar upp í réttirnar, bæði konur og flestar gervistúlkur bæjarins, svo og margir karlmenn, sem við voru látnir. Gjörðist þá mikill skortur reiðskjóta í bænum, og urðu margir að setjast aftur, sem höfðu ætlað að fara. Kaupmaður Á. og kona hans fóru. Guðrún hafði einhvers staðar getað aflað sér hests, en Sigríði vantaði reiðskjóta, og leit út fyrir, að hún yrði heima að sitja, en þó langaði hana til að fara, því hún hafði aldrei komið þar upp eftir. Möller átti hest gráan, það var gæðingur, norðlenskur að kyni, af Bleikáluætt úr Skagafirði, er þá var mest orðlögð um landið. Hesturinn var stríðalinn á hverjum vetri, en lítið riðið á sumrin, því sjaldan kom nokkur annar maður honum á bak en eigandi, og ekki hlýddi nokkrum að biðja um hann til láns, hvað sem við lá. Líður nú fram að hádegi, og ríða allir á stað, sem hesta höfðu fengið, en ekki hafði Sigríður enn getað útvegað sér neinn reiðskjóta, en Guðrún beið hennar þó, ef verða mætti, að eitthvað réttist úr fyrir henni.

Kollafjarðarrétt

Í Kollafjarðarrétt.

Nú er hvergi fyrir sér að leita, Sigríður mín! Ég býst við, að þú verðir að sitja kyrr, nema þú viljir biðja hann kaupmann Möller um hann Grána hans; ég held það sé eini hesturinn, sem til er hérna eftir í Víkinni, sagði Guðrún.
Það gjöri ég ekki, og ég get ekki ætlast til þess, að hann ljái mér hann, þar sem hann vill ekki ljá nokkrum öðrum hann.
Veit ég það, að hann hefur afsagt þeim þremur eða fjórum hérna í morgun um hann, en hvar kemur það þá fram, sem hann segir um þig, ef hann gjörir sér ekki mannamun? Og farðu, Sveinki litli, og skilaðu við hann kaupmann Möller, að hún Sigríður, sem er hjá honum kaupmanni Á., biðji hann að ljá sér hann Grána sinn upp að réttunum í dag.

Sveinn litli fór og kom aftur að lítilli stundu liðinni og teymdi þá Grána og sagði, að kaupmaður hefði beðið sig að skila, að hann hefði ekki vitað, að hún ætlaði að fara, ella mundi hann hafa boðið henni hann að fyrra bragði.
KollafjarðarréttSér þú nú, góða mín, sagði Guðrún, hvernig Möller er, þar sem hann tekur því, enda vissi ég það, hvernig fara mundi, ef hann fengi boð frá þér, en ekki hefði hann gjört það fyrir aðrar hérna í Víkinni; því það er eins og ég segi þér, þó þú trúir því ekki.
Ekki trúi ég því nú heldur fyrir að tarna, sagði Sigríður, en nú er þá best að ríða á stað, fyrst reiðhesturinn er fenginn.
Síðan ríða þær stöllur, og með því hestarnir voru góðir, náðu þær flokknum, sem á undan var riðinn, skammt fyrir innan Hellisárnar; og brá þá mörgum í brún, er þeir sáu Sigríði koma þeysandi á Grána Möllers og varð mönnum harla fjölrætt um það, hverju það sætti, að Sigríður hefði orðið fyrir þeirri mildi að fá hann. Um daginn skemmtu menn sér við réttirnar, en sneru heim um kvöldið, og var þá komið fram á nótt, er menn komu aftur til Reykjavíkur.“
Svo mörg voru þau orð, en myndirnar segja kannski svolítið meira um það sem allflestir eru ómeðvitaðir um í „örskotsfjarlægð“ frá fjölmennstu byggðasvæði landsins.

Heimild m.a.:
-Piltur og stúlka – skáldsaga – Jón Thoroddsen.

Kollafjarðarrétt

Kollafjarðarrétt – uppdráttur ÓSÁ.

Breiðagerðisskóli

Í Mbl árið 1984 birtist svonefnd umfjöllun um álfhól við Breiðagerðisskóla í Reykjavík:
Breiðagerðisskóli„Árið 1956 var hafin bygging barnaskóla við Breiðagerði og fékk nafnið Breiðagerðisskóli. Arkitektarnir Einar Sveinsson og Gunnar Ólafsson teiknuðu húsið. Á þeirri lóð, sem húsinu var valinn staður, var hóll, sem margir kölluðu Alkhól, en það nafn var af sumum talin afbökun úr Álfhól. Hins vegar bendir margt til þess að hóllinn hafi heitið Borgarhóll og var oft miðstöð fyrir vetrarleiki barna frá Bústöðum og síðar. Allt í kringum hólinn voru grösug tún, en ekki var hóllinn sleginn þar sem talið var að hann væri bústaður álfa. Sagt var að ljós sæjust þar stöku sinnum.
Það var því ýmissa manna mál að við hólnum mætti ekki hrófla, þetta væri álagahóll. En hver sem trú ráðamanna var um byggingu skólans var húsið þannig teiknað að ekki var í fyrstu við hólnum hreyft. Var skólinn byggður og var allt kyrrt um sinn.
En þegar kom að því, að leggja þurfti heimkeyrslu að dyrum á norðvesturhorni skólans, þurfti aðeins að skerða jaðar hólsins og var það talið fljótunnið verk. En það fór á aðra leið.
Starfsmönnum leikvalla var falið að vinna verkið og hafði Bjarnhéðinn Hallgrímsson, sem hafði og hefur umsjón með framkvæmdum á leikvöllum borgarinnar, umsjón með verkinu.
ÁlfhóllinnHann segir svo frá:
Kristínus Arndal var þá einn af flokkstjórum vallanna. Hann taldi þetta létt og fljótunnið verk en reyndin varð hins vegar önnur. Varla var verkið hafið og Kristínus að stíga sín fyrstu skref inn á vinnusvæðið er hann missteig sig illa og brákaðist á fæti og gekk haltur lengi eftir það en hélt þó áfram stjórn verksins. Var nú fengin vinnuvél til að grafa út úr hólnum, en þegar hún tók fyrstu fylli úr hólnum kvað við brestur og hafði eitthvað brostið í lyftubúnaði tækisins. Varð að fara með tækið til viðgerðar og tafðist verkið í einn dag. Þegar verkið gat hafist á ný reyndist tækið ekki betur en svo, að skiptibúnaður þess bilaði það alvarlega að verkfærðið var úr sögunni um langa hríð. Var þá fengin til verksins öflug og spánný vélgrafa af stærstu gerð sem þá hafði komið til landsins. Hún virtist ætla að fara létt með verkið, en fljótlega brast eitthvað í nýja tækinu og þótti þá mörgum furðu gegna og kunnu engar skýringar á.
Var eftir það ógerlegt að fá verkfæri til að vinna verkið. Var þar látið við sitja og jafnað undir malbik með handverkfærum. Síðan var ákveðið að taka ekki meira úr hólnum og hann jafnaður í það horf sem hann er í dag og hefur ekki borið þar á fleiri furðum eða óhöppum síðan.“

Heimild:
Mbl, lesbók, laugardaginn 7. júlí 1984 – Sigurður Þór Salvarsson.

Breiðagerðisskóli

Glóra

Á Álfsnesi á Kjalarnesi eru tóftir þriggja bæja, Álfsness, Glóru og Niðurkots. Lítið er til af heimildum um þessi gömlu kot, en talsverðar leifar sjást enn eftir búsetu á Nesinu.
Bæði Glóra og Niðurkot eru í raun ágæt dæmi um heilstæðar

Álfsnes

Álfsnes – loftmynd.

búsetuminjar, annars vegar frá 19. öld og hins vegar frá 17. öld. Flestar eldri minjar við bæinn Álfsnes eru horfnar undir núverandi íbúðar- og útihús, en þessar minjar hafa fengið að vera svo til óraskaðar allt fram á þennan dag.
SORPA er með urðunarstað á Álfsnesi, en ekki er að sjá að þar hafi verið hróflað við minjum. Þær minjar, sem næst standa, eru 19. aldar fjárhústóft frá Álfsnesi. Háir moldarbakkar eru fast við tóftina, en hún hefur fengið að standa vestan í Háheiðarmýrinni, austan við Álfsnesbæjarins.

Nýr Vesturlandsvegur; Sundabrautin svonefnda, á að liggja um þetta svæði. Við það mun verða verulegt rask og ef ekki verður að gætt munu minjar framangreindra bæja (hjáleiga), hverfa eins og aðrar slíkar á Stór-Reykjavíkursvæðinu.

Álfsnes

Álfsnes – Glóra / Urðarkot; loftmynd.

Segja má að minjar nær allra bæja, sem núverandi byggð stendur á, hafi verið þurrkaðar út (að Árbæ undanskyldum). Dýrmætustu minjasvæðin, sem eftir eru næst höfðuborgarsvæðinu, eru Þorbjarnarstaðir í Hraunum, sunnan Hafnarfjarðar, og þessir bæir, sem hér er fjallað um. Stundum þarf einungis örlitla hugsun og frumkvæði til að koma í veg fyrir varanlegan skaða. Ágætt dæmi voru framkvæmdirnar við Tjarnargötu í Reykjavík á fimmta áratug síðustu aldar. Ef einungis einn maður hefði staðið keikur gegn byggingaráformum Hjálræðishersins og húss Happdrættis Háskólans; og sagt sem svo: „Færum okkur 50 metra ofar í landið“ þá ættu landsmenn nú elstu minjar búsetu hér á landi (talið er víst að bær Ingólfs hafi verið þar sem fyrrnefnd hús standa nú).

Brunnur Glóru

Oft munar ekki meiru milli feigs og framtíðar þegar minjarnar eru annars vegar. Allt og oft hafa misvitrir forsvarsmenn skipulagsmála fengið að ráða ferðinni. Þeir hinir sömu virðast, af dæmum að meta, hvorki hafa þekkingu né áhuga á fortíðinni og hafa því, hingað til a.m.k., komist upp með að eyðileggja ómetanlega sögulega verðmætasköpun framtíðarinnar.
Þegar FERLIR kom á svæðið var dagsbirtan u.þ.b. að sigra næturmyrkrið á einum dimmasta degi ársins. Við blöstu urðunarhaugarnir og lyktin var eftir því. Loftmyndir af svæðinu voru dregnar fram og líkleg mannvirki áætluð.

Álfsnes

Niðurkot / Sundakot – loftmynd.

Minjasvæðin virtust aðallega tvö; Glóra og Niðurkot. Ofarlega á túnum Víðinsess vitist móta fyrir tóftum. Annars er það kapítuli út af fyrir sig hversu erfitt það getur verið fyrir áhugasama einstaklinga að nálgast upplýsingar og fróðleik hjá annars kostnaðarsömum ríkisfyrirtækjum. Að vísu er Örnefnastofun Íslands (Svavar og Jónína) alger undantekning þar frá, en aðrar opinberar stofnanir og fyrirtæki virðast „gleypa“ allar upplýsingar og leggja sig fram við að torvelda öðrum aðgengi að þeim. Rándýrar fornleifaskráningar eru sumar hverjar ekki aðgengilegar nema gegn gjaldi og ef fá á eina loftljósmynd frá Landmælingum Íslands þá kostar hún þúsundir króna.

Túngarður Glóru

Að vísu hefur þetta ekki bitnað svo mjög á FERLIR því á þeim bænum hafa þeir einkaðailar, sem leitað hefur verið til, verið einkar hjálpsamir, auk þess sem þátttakendur hafa jafnan verið sjálfum sér nægir, þ.e. þeir hafa leitað og lesið úr torveldum landfræðilegum upplýsingum líkt og aðrir lesa texta í bókum. Aukinheldur hafa þeir sýnt frábæran árangur, bæði í starfi og námi. Einn nemanna fékk t.a.m. 10.0 í fornleifaskráningu við HÍ. Hinar fjölmörgu lýsingar á vefsíðunni eru ágætt dæmi um þetta. Í dag er svo komið að fornleifafræðingar nota vefsíðuna við störf sín og vita til hennar, bæði í myndum og texta.
Áður en lagt hafði verið af stað var leitað til Bjarka Bjarnasonar, höfundar Sögu Mosfellsbæjar. Hann er auk þess sá aðili er hvað best gjörþekkir sögu og minjar bæjarlandsins. Reyndar tilheyrir svæðið nú sameinuðu Kjalarneshreppi og Reykjavík (frá árinu 1998).

Álfsnes

Tóftir Glóru.

Bjarki Bjarnason svaraðir fyrirspurninni eftirfarandi: „Ég kannast við bæjarnafnið Glóru en hins vegar er hvorki Glóra né Niðurkot nefnt í Jarðabókinni [1703] og hafa væntanlega ekki verið í byggð þá. Aftur á móti eru tvær hjáleigur nefndar í jarðabókinni, annars vegar Landakot, sem þá var nýfarið í eyði, og hins vegar Sundakot. Þessi kot virðast hafa verið hjáleigur frá Þerney“.
Þegar lengra er haldið virðist ljóst að Landakot var hjáleiga Þerneyjar í eyjunni sjálfri. Sundakot virðist að öllum líkindum hafa verið umrætt Niðurkot enda benda tóftirnar til þess að þar hafi verið byggð áður en Jarðábókin var skrifuð (sjá uppdrátt).
Minjar á Glóru - gervitunglamynd
Í Jarðabókinni 1703 er getið um Landakot, Sundakot, Vidernes, Alsnes (Alfsnes), Urðarkot (Hallsneshjáleiga/Glóra) og Háheide, auk Þerneyjar. Um síðastnefndu jörðina segir m.a.: „…Hestlán eitt til alþingiss. Dagslættir tveir til Viðeyjar hvort sem á býr einn eður fleiri, og fæðir bóndinn sig sjálfur síðan í tíð Jóhanns Klein; alt þángað til var þar matur gefinn þrímælt, en nú alleina lítilsháttar af mjólk, tveimur eður þrem, sem lítt mætti einum nægja í senn. Hrísshestar tveir og kann bóndinn þeirra ekki að afla nær en suður í Almenningum, og kostar það þriggja daga tíma.

Þerney

Þerney – bæjarstæðið.

Móhestar oftast tveir, skjaldan einn. Móskurður til eldiviðar, síðan aflögðust skipaferðir í Heidemanns tíð; skal bóndinn skera tíu fóta breiða gröf og þrjátíu fóta lánga… Torfrista og stúnga er eydd í eyjunni að mestu og því sókt á fastaland, og liggur þar annar helmingur þessarar jarðar… Heimræði er árið um kring þegar fiskur gekk til sunda, en verstaða hefur hjer aldrei verið fyrir aðkomandi sjófólk… Selstöðu hefur jörðin til forna um lánga æfi brúkað í Stardal, og fæst hún nú ekki síðan þar var bygð sett… Kirkjuvegur lángur og erfiður.“

Uppdráttur af Glóru

Um Landakot segir: „Hjáleiga, nú í auðn og hefur so verið í 3 ár. Hún var bygð að nýju, þar sem ei hafði fyr býli verið fyrir vel þrjáríi árum… Kvaðir voru mannslán ár um kring og dagsláttur einn, hvortveggja til heimabónda. Item að styrkja til móskurðar á Bessastöðum bóndans vegna… Þessi hjáleiga stendur á eyjunni.“
Um Sundakot segir: „Önnur hjáleiga á fastalandi… Ábúandinn Magnús Hákonarson… Kvaðir eru mannslán árið um kring utan sláttar. einn dagsláttur. Hvortveggja til heimabóndans… Sjávarhlunnindi hefur hjáleigan engin. Átroðningur er mikill. Þessi hjáleiga er eldri en menn til minnast.“
Um Vidernes (Víðines) segir: „Heimræði árið um kring þegar fiskur gekk til sunda, en skipgata löng.“ Víðines er á sunnanverðu Álfsnesi. Bendir þetta til þess að gert hafi verið út frá Þerney þó svo að lending sé víða góð við vestanvert Álfsnes. enda voru kvaðir á jörðinni sbr.: „Kvaðir eru mannslán um vertíð og hálfur skiphlutur utan vertíðar, ella mannslán árið um kring utan sláttar…“

Kjalarnes

Kjalarnes – bæir.

Um Alsnes (Alfsnes/Álfsnes) segir: „Tún og engi meinþýft… Landþröng eru mikil og því er þessari jörð til beitar og annara nytja forn eyðijörð hjer nær, sem kallast Háheiði, segja menn, að þá hafi hjer landskuld aukin verið til helminga fyrir þessarar eyðijarðar brúkun. Stórviðri skaðar stundum hús og hey. Kirkjuvegur er lángur og erfiður. Vatnsból er slæmt en skortir þó ekki fyrir pening. Neysluvatn þarf annarstaðar að sækja.“
Um hjáleiguna Urðarkot (Glóru) segir: „Jarðardýrleiki reiknast með heimajörðinni… Vatnsból er á heimajörðinni. (Í Jarðabókinni er á lausu blaði brjef um Urðarkot og hljóðar svo:
Landskuld í Hallsnesshjáleigu, sem kölluð er Urðarkot eður Glóra, betalast með fiski ef til er eður peningum uppá fiskatal).
Glóra - Álfsnes fjærHér virðist Urðarkot, Hallsneshjáleiga og Glóra vera ein og sama bújörðin, auk þess sem Niðurkot og Sundakot virðast vera þær sömu. Af landamerkjavörðum að dæma er að sjá að Niðurkot hafi tilheyrt Þerney sem og Gunnunes. Þá er ljóst að Víðines hafi verið þess megin fyrrum.
Allt eru þetta hinar merkilegustu upplýsingar í ljósi þeirra minja, sem enn má finna á vestanverðu Álfsnesinu.
Við Glóru má sjá bæði tvöfalda fjárhústóft með miðjugörðum, sauðakofa, matjurtargarða o.fl. Af ummerkjum að dæma virðist Glóra hafa verið byggð upp úr eldri hjáleigu (Urðarkoti og Hallsneshjáleigu), en öll núverandi ummerki benda til 19. aldar býlis (reglulaga með fjórum stöfnum mót vestri), auk þess sem túngarðurinn er enn „reisulegur“ á köflum. Hlaðið er um brunnstæðið norðaustan bæjarins og matjurtargarður gefa góða vísbendingu um síðaldur bæjarins.

Rétt suðvestan Niðurkots

Niðurkot (Sundakot) er augljóst dæmi um 17. aldar bæ, sem fyrr segir. Hann er ekki óreglulegur, en ekki heldur reglurlegur. Fjós er norðan í húsaþyrpingunni, sem er af einfaldri gerð. Baðstofa og búr eru mót vestri, þótt dyr baðsofunnar snúi að Þerney. Lendingin er og var neðan bæjarins, sem bendir til þýðingu hjáleigunnar sbr. Jarðabókina 1703. Haðinn garður og gerði eru vestan, sunnan og austan bæjarins. Tóft, sennilega sauðakofi, er skammt suðaustar (innan túngarðs), og einfalt fjárhús sunnar. Það virðist byggt eftir seinni tíma forskrift og hefur því væntanlega tilheyrt Niðurkoti frekar en Sundakoti. Norðvestar virðist vera hleðsla af fiskgeymsluhúsi og mun vestar er hlaðin rétt í gróningum ofan við ströndina. Vörin og aðallending Þerneyjar er neðan við bæinn, malarfjara, sem enn er notuð til flutnings fólks út í Þerney. Bæjarstæðið þar „kallar“ á lendinguna, enda hefur bæði þörfin og mikilvægið augljóslega verið mikið fyrrum. 

Niðurkot

Í Þerney var kirkja á 13. öld. Á 18. öld var leiguliði bóndans verðlaunaður með konungsúrskurði fyrir haglega gerða garðhleðslu.
Sigurður Sigurðarson dýralæknir, Keldum, hefur m.a. skrifað um „Uppruna íslensku kýrinnar og innflutning á lifandi nautgripum og erfðaefni“. Þar segir kemur Þerney við sögu sbr.: „Um landnám mun svipaður nautgripastofn hafa verið á öllum Norðurlöndunum. Samkvæmt tiltækum upplýsingum, sem greint er frá hér á eftir, virðist íslenska kúakynið vera af norskum uppruna. Það er trúlega eitt af örfáum eða jafnvel eina kynið í heiminum sem haldist hefur lítt eða ekki blandað öðrum kynjum jafn lengi eða allt frá því á landnámsöld.
Í Íslandslýsingu sinni frá því um 1590 getur Oddur Einarsson biskup þess, að flestir nautgripir á Íslandi séu hyrndir en kollótt naut komi þó fyrir. Nautgripir frá Danmörku voru nokkrum sinnum fluttir til landsins á 19. öld. Áhrif þess Uppdráttur af Niðurkotiinnflutnings eru talin mjög lítil. Norskur fræðimaður, O. Bæröe, sem ferðaðist um Ísland árið 1902, taldi íslenska nautgripi líkjast mest nautgripum á Þelamörk og í Austurdal í Noregi. Umfangsmiklar blóðrannsóknir voru gerðar á íslensku nautgripunum árið 1962 og samanburður gerður við nautgripakyn í Noregi. Niðurstaðan var sú að íslenskir nautgripir höfðu mjög svipaða blóðflokkagerð og gömlu landkynin í Noregi, þ.e. Þelamerkur-, Dala- og Þrændakýr.
Í „Lýsingu Íslands“, sem út kom árið 1919, getur Þorvaldur Thoroddsen þess að lengi hafi verið talað um nauðsyn þess að bæta kúakynið, en ekki hafi orðið af framkvæmdum nema það að menn fengu sér við og við útlendar kýr á 18. og 19. öld. Innflutningur á 19. öld, sem Þorvaldur nefnir er þessi: 1816 fékk Magnús Stephensen frá konungsbúum Sjálandi rauða kvígu og bola. 1819. Fékk hann veturgamlar 2 kvígur frá Holtsetalandi (óvíst um innfl. M.Steph. 1831).

Túngarðurinn við Niðurkot

Magnús gerði tilraunir með dönsku nautgripina í Viðey. Fyrir 1840 voru danskar kýr fluttar til nokkurra staða á Íslandi skv. sóknarlýsingum. 1933 komu til landsins frá Skotlandi 5 nautgripir af 4 mismunandi holdakynjum. Sagt er frá þessum innflutningi í bókinni „Þættir um innflutning búfjár og Karakúlsjúkdóma“, sem út kom 1947. Gripirnir komu með Brúarfossi til Reykjavíkur hinn 4. júlí 1933 og voru fluttir samdægurs í einangrun til Þerneyjar, en þá var þar bóndi, Hafliði að nafni, með fjölskyldu sína og hafði búið þar m.a. við nautgripi og sauðfé.

Álfsnes

Álfsnes og nágrenni.

Dýralæknirinn í Reykjavík var fjarverandi vegna framboðs til Alþingis, þegar gripirnir komu og var aðstoðarmaður hans Guðmundur Andrésson (ekki dýralæknislærður) fenginn til að skoða nautgripina áður en þeir voru teknir úr skipinu. Taldi hann þá heilbrigða, en ekkert vottorð var gefið út um það. Hinn 10. júlí sama ár voru fluttar til Þerneyjar 20 Karakúlkindur frá Þýskalandi. Ásgeir Þ. Ólafsson dýralæknir í Borgarnesi var fenginn til að gera læknisskoðun á fénu og framkvæmdi hann skoðunina þegar kindurnar voru teknar í land í Þerney og síðan skoðaði hann tarfana, sem þangað voru komnir áður, en kvíguna náðist ekki í til skoðunar. Ásgeir taldi tarfana heilbrigða og hina prýðilegustu að útliti. Samkvæmt skýrslu Hannesar Jónssonar dýralæknis fóru að koma hrúðraðir hárlausir blettir á eitt nautið u.þ.b. einni viku eftir að gripirnir komu til Þerneyjar og fylgdi því mikill kláði.

Þerney - loftmynd

Eftir 3-4 vikur voru allir gripirnir komnir með útbrot. Hannes taldi sjúkdóminn vera Hringorm (Hringskyrfi, Herpes tonsurans) og var sú sjúkdómsgreining seinna staðfest á Rannsóknarstofu Háskólans. Eftir að upplýsingar höfðu fengist erlendis frá og talsverðar vangaveltur var ákveðið að lóga gripunum. Heimanautgripir í Þerney smituðust einnig og voru felldir vorið eftir. Fólk í Þerney smitaðist einnig af hringskyrfi en hvorki sauðfé né hross, sem þar voru. Lógað var öllum innfluttu gripunum 5 að tölu og var það gert hinn 9. janúar 1934, en kálfur undan Gallowaykúnni þá tæplega vikugamall hafði verið tekinn úr karinu og fluttur inn í eldhús. Galloway-kálfurinn í Þerney var fluttur samkvæmt leyfi stjórnvalda í land hinn 16. febrúar 1934. Hann var hafður í einangrun í kjallara á bænum Blikastöðum til 27. apríl sama ár. Hann sýktist ekki og hringskyrfi var upprætt í Þerney.
Glóra (Urðarkot) fór í eyði 1896, tíu árum á eftir Niðurkoti (Sundakoti).
Gengið var um Gunnunes og til baka. Í bakaleiðinni voru m.a. ígrunduð landamerki Þerneyjar o.fl. (3:03).

Heimildir m.a.:
-Jarðabókin 1703, bls. 329-335.
-Sigurður Sigurðarson dýralæknir, Keldum.
-Bjarki Bjarnason.
-Kjalnesingar, 1989.

Álfsnes

Álfsnes – Glóra.