Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1917 er grein um örnefni eftir Björn Bjarnarson, skrifuð í Grafarholti, 9. des. 1914. Í greininni getur hann m.a. um „Árbæjarsel“ og gamlar leiðir út frá Reykjavík, sbr.:
„229. Selás (líkl. nafn af Árbæjarseli).
Um notkun fornveganna má fræðast af rúnum þeim, sem hestafæturnir hafa rist á jörðina, þar sem tönn tímans eigi hefir til fulls afmáð þær eða útskafið, og sumstaðar hjálpa örnefnin til að skilja. Greinilegastar eru rúnir þessar sem spor í klappir, gatnafjöldi í grónu valllendi, sem ekki hefir legið undir árensli, og troðningar í móum. Þó þeir sé grónir aftur sjást göturnar af því, að þar eru geilarnar dýpri og beinni í sömu stefnu, en annarsstaðar. Í melum og lausagrjótsholtum má einnig finna fornvegina, stundum sem laut eða skoru, en þó einkum með því að athuga grjótið. í götunni er það troðið, máðar af því nybbur líkt og brimsorfnu grjóti. Af því stafa litaskifti, sem sjást á því, þar sem umferð hefir verið, þó hún sé hætt fyrir löngu. En á Soginu var almenningsvað, oftast fært, yfir Álftavatn, fram um miðja næstlíðna öld. Þaðan lá leiðin upp Grafning, Dyraveg og Mosfellsheiði til Almannadals. Þessi leið var einnig beinust fyrir þá, sem fóru Hvítá á Tunguvaði og út Tungur, eða á ferjum þar fyrir neðan alt að Laugardælum.
Á allri þessari leið er aðeins ein brekka, svo teljandi sé, og hún ekki há, upp á Dyrafjöllin að austan hjá Nesjavöllum, lítið um votlendi og engin hraun nema stuttan spöl á tveim til þrem stöðum. Þenna veg hafa t. d. Skálholtslestirnar farið til Suðurnesja öldum saman, og hefir munað um sporin þeirra. Allstaðar er graslendi og hagar góðir með þessum vegi. Þar sem vegurinn liggur yfir Dyrafjöllin eru þau aðeins lítill háls með ásum og vellisdölum. Á einum ásnum verður að fara yfir hallandi klöpp, sem nefnd er Sporhella. Hefir myndast sporaslóð í bergið, efst fyrst, en sporin síðan stigist niður eftir klöppinni. Eru nú sporarákarnar með bálkum á milli orðnar um 2 fðm. að lengd (líkist tönnum í greiðu). Vegur þessi hefir nú lengi verið sjaldfarinn. Dyrnar, sem nafnið er dregið af, eru á veginum milli Dyradals og Skeggjadals; er rétt klyfjagengt milli standklettanna. Af vestasta ásnum blasir við útsýn yfir Faxaflóa og Nesin. Vestur eftir Mosfellsheiði sést enn dökk, breið rák eftir umferðina. Þar eru víðir mosamóar, sem margar götur hafa myndast í, og eru enn ekki að fullu grónar. Og þessi vegur hefir á fyrri öldum legið um Hofmannaflöt til Almannadals.
Önnur aðalleiðin austanað hefir verið út með sjó, sunnan Flóa, um Sandhólaferju og Óseyrarferju, og þeir, sem áttu leið vesturyfir heiði, hafa einkum farið Ólafsskarðsveg. Hann er því nær brekkulaus og hrauna. Hellisheiði og Lágaskarð hafa verið sjaldfarnari. Þeir vegir koma saman á Bolavöllum, »Völlum hinum efri« liggja norðan Svínahrauns, um »Völlu hina neðri«, og saman við Dyraveg hjá Lykla (Litla-?) -felli, og þar litlu neðar hefir Ólafsskarðsvegur einnig komið saman við þá. Nú veit enginn hvar Viðeyjarsel hefir verið, þar sem þeir, er sendir voru úr Hafnarfirði eftir Ögmundi biskupi að Hjalla, áðu áður en þeir lögðu á Ólafsskarð). En mér þykir líklegt að það hafi verið við Selvatn, rétt hjá þessum vegi, sem þar er sameiginlegur fyrir allar áðurnefndar leiðir, og að Elliðárkoti.
Úr Almannadal hefir legið:
1) vegur til norðurs hjá Reynisvatni niður til veiðistöðvanna við sunnanverðan Kollafjörð, í Blikastaðagerði (þar sjást enn fiskbyrgin), Geldinganesi og Gufunesi, og til verzlunar við kaupmenn, sem þar hafa legið á hinum góðu höfnum (t.d. Hallfreð vandræðaskáld á Leiruvogi), og til Viðeyjar;
2) vegur til vesturs um Árbæ til Seltjarnarness;
3) vegur til útsuðurs yfir Elliðaár á (Vatnsenda-) Skygnisvaði um Vatnsenda, Vífilsstaði til Hafnarfjarðar, Álftaness og suður með sjó;
4) vegur fyrir ofan Rauðhóla og sunnan Elliðavatn, er farinn hefir verið þá er Elliðaár þóttu torfærar á vöðunum fyrir neðan Vatn;
5) vegurinn austur frá öllum fyrrnefndum stöðum, sameiginlegur upp undir Lyklafell, hverja leið er svo skyldi fara austur yfir hálendið (= fjallið), eins og fyr segir. Einnig til selfara upp í heiðina; Nessel, frá Nesi við Seltjörn, var t.d. í Seljadal í Þormóðsdalslandi, Viðeyjarsel við Selvatn? o.s.frv.
Þá hefir Almannadalur borið nafnið með réttu. En hvenær vegarstefnurnar hafa breyzt má sjálfsagt finna með sögurannsókn, sem eg hefi eigi hentugleika til. Það hefir líklega orðið um sama leyti sem stefnu Mosfellsheiðarvegarins var breytt og hann lagður um Seljadal. Þá hefir Dyravegur hallast norður saman við hann hjá Miðdal (Mýrdal?). Mosfellsheiðarvegur lá áður um Illaklyf sunnan við Leirvogsvatn og ofan Mosfellsdal. Í Illaklyfi eru djúp spor í klappirnar og vegurinn auðrakinn alla leið, þó sjaldan hafi farinn verið á síðari öldum. Á þeirri leið er Tjaldanes, þar sem Egill fyrst var heygður, (nú nefnt Víðiroddi).
229. Sel hefir verið suð-vestan undir ásnum. Það er í Árbæjarlandi.“ Um sama efni skrifaði Björn um nýútkomna bók, „Saga Reykjavíkur“ í Lesbók Morgunblaðsins árið 1930. Þar getur hann m.a. um hinar gömlu leiðir sem og fornar selstöður ofan Reykjavíkur með yfirskriftinni „Hvar var Víkursel?“:
Bls. 9-10… jörðin átti sel, Víkursel, er var notað með vissu ennþá um 1600, en hvar það sel hafi verið, er óljóst …. hefir mjer helst dottið í hug, að það hafi verið upp í Seljadal …. Víkursel er á einum stað (Jb.A.M.) nefnt „undir Undirhlíðum“, og kynni það að benda á Öskjuhlíð. Eftir (Oddgeirsmáldaga átti kirkjan Víkurholt með skóg og selstöðu. Virðist það geta bent á, að selið hafi verið í nánd við holtið.“
Bls. 17: (úr Jb. Á. M.): „Selstaða er jörðinni eignuð þar sem heitir Víkursel undir Undirhlíðum. Sumir kalla það gamla Víkursel. Þar hefir jörðin brúkað hrís til eldiviðar fvrir selsins nauðsyn.“
Bls. 45: „Dóttir Narfa (Ormssonar bónda í Reykjavík) ein hjet Þórey; hún átti Gísla prest Einarsson, bróður Odds biskups. „Þótti sú gifting af rasandi tilhlaupi sjálfs hans. Reið um Mosfellsheiði um sumarið, gisti í Víkurseli. Smalamaður reið heim um nóttina, sagði bónda gestkomuna. Hann brá skjótt við, kom að selinu óhentuglega, þótti fleira í sæng dóttur sinnar heldur en von átti á. Sýndist gestinum skárst afráðið, að lofa eiginorði. Síðan var hún sótt frá Skálholti til að læra siðu og sóma; veitti tregt, því samur (= ramur.? er barns vani.“ — (Þetta síðasta er sjálfsagt prestatilbúningur frá þeim tíma: þeim hefir þótt bróðir biskupsins taka ógurlega niður fyrir sig, að eiga selstúlkuna. En Þórey hefir verið mikilhæf. eins og hún átti kyn til, snarráð og harðfylgin sjer). Það kemur ekki til mála, sem höf. sögunnar þó virðist hugsa, að sel stórbýlisins Víkur hafi verið í heimalandi. Slík fjenaðarmörg bú, höfðu selin í nokkurri fjarlægð, þar sem sumarland var gott.
Smærri býlin höfðu selin oft í útjöðrum heimalands, eins og að Hlíðarhús áttu sel sunnan undir Öskjuhlíð. En t. d. Se]tjarnar-Nes átti selið upp í Seljadal, fyrir ofan Kamb, þar sem heitir Nessel. Viðeyjarsel er enn svo nefnt við Fóelluvötn, uppi undir Lyklafelli (= Litlaf.). Esjuberg átti sel uppi við Svínaskarð, fyrir ofan Haukafell, Gufunes sel í Stardal, o.s.frv. Reykjavíkurkirkju-ítakið „Víkurholt með skógi og selstöðu“ hefir einnig verið í nokkurri fjarlægð. „Gamla Víkursel“ má telja víst að hafi verið þar sem enn heita Undirhlíðar (fornt; undir Hlíðum), sunnan Hafnarfjarðar, fyrir ofan hraun. Þar eru enn hrískjörr nokkur. Er líklegt, að kunnugir menn þar um slóðir geti vísað á seltóftirnar. Seljatófta er aðeins þar að leita, sem trygt vatnsból er í nánd. En Víkursel það hið yngra, eða síðari tíma sel Víkur — er Gísli gisti í, hefir verið selið við Selvatn, í vesturjaðri Mosfellsheiðar, milli Miðdals og Elliðakots. Það er eina selið nálægt þeim vegi, sem þá var farinn milli Skálholts og Inn-nesja (Álftaness og Seltjarnarness), annað en Grafarsel við Rauðavatn. Frá því Víkurseli (við Selvatn) er til Reykjavíkur ea. tveggja stunda reið, eins og vegurinn lá í þá daga. Það hefir því verið leikur einn fyrir Narfa, að ná Gísla í rúmi.
Þá, á ofanverðri 16. öld, lágu tveir vegir yfir Mosfellsheiði, hinn nyrðri nyrst um hana, úr Þingvallasveit um Vilborgarkeldu, Þrívörðuás, Moldbrekkur, Illaklif, sunnan Geldingatjarnar, niður með Köldukvísl, Langholt, Mosfollsdal, um Tjaldanes, um syðri Leirvogstungubakka, Hestaþingshól, og suður Mosfellssveit neðanverða (gamla voginn frá Korpúlfsstöðum). Syðri Mosfellsheiðarvegurinn (Skálholtsmannaleið) lá: yfir Ölvesá á Alftavatnsvaði, upp eftir Grafningi, yfir Hengilhálsinn, um Sporhellu og Dyraveg, yfir Brekku og nyrðri Bolavelli, vestur heiðina hjá Sýsluþúfu, fyrir norðan Lykla-(Litla)-fell, sunnan Selvatn, um Sólheima. Hofmannaflöt, Hestabrekku, Almannadal, hjá Rauðavatni; það skiptust leiðir eftir því, hvort fara skyldi til Hafnarfjarðar og Álftaness (þá farið hjá Vatnsenda, Vífilsstöðum) eða til Seltjarnarness og eyjanna.
Það var ekki fyrm en ea. öld síðar, að nyrðri vegurinn var lagður um Sedljadal. syðri vegurinn var tíðfarinn fram á 18. öld.
Þórey Narfadóttir hefir verið eftirmynd föður síns, eftir því er sagan lýsir honum. Þegar hún varð þess vís, að Gísli ætlaði að gista í selinu hjá henni, hefir hún sjeð sjer leik á borði að krækja þar í álitlegt gjaforð. En til þess hefir hún sjeð að nauðsynlegt var, að hinn kappsfulli, harðdrægi karl faðir hennar kæmi til, og stæði Gísla að sök; því hefir hún sent smalamanninn. Og Narfi „brá við skjótt “ — og svo gekk alt eins og í sögu! Hún varð prófastsfrú í Vatnsfirði. — Einkennilegt er að sjá öll skapgerðareinkenni Narfa Ormssonar í Vík ósljófguð hjá afkomanda hans í 9. lið, þeim er sagan tilgreinir.
Þegar eftir útkomu „Sögu Reykjavíkur“,sendi jeg höfundinum athugasemdir um Víkursel og fleira, nokkru fyllri en hjer. En þar sem hann er nú látinn, býst ég ekki við, að þær komi þar til greina.
Grh., 15. okt. B. B.“
Heimildir:
-Um örnefni.Eftir Björn Bjarnarson. Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 29. árg., 1917, bls. 9-16.
-Lesbók Morgunblaðsins, 26. okt. 1930, bls. 333-334.
Árbæjarsel á Nónhæð – uppdráttur ÓSÁ.