Tag Archive for: Reykjavík

Lækjarbotnar

Í Lækjarbotnum er hellir skammt ofan við tóftir Örfiriseyjasels.
Þar munu þau Margrét Símonardóttir og Eyvindur Jónsson hafa hafst við um tíma á ofanverðri 18. öld. Þau höfðu verið strýkt Laekjarbotnar-4veturinn fyrir og látin þá laus, en tóku sig saman, þá voraði og lögðust á nýju á fjöll segir í Setbergsannál, ÍA IV, 119-1220.  Dauðadómurinn er prentaður í Alþingisbókum Íslands VII, 403 og segir þar að þau skötuhjú hafi verið höndluð „í einum hellir suður undan Erfiseyjarseli í Kjalarnesþingi og teknar þann 20. Octobris [1677] með fóla af nautakjöti og öðrum hlutum [voru síðan dæmd fyrir 3 hórdómsbrot og burthlaup úr héraðinu á Bakkárholtsþingi og úttóku líkamlega refsingu á Kópavogi 3.12.1677 fyrir útileguna og þar af hnígandi þjófnaðar aðburði, þar eftir voru þau afleyst af biskupinum og Eyvindur tekinn aftur af konu sinni]. Nú er síðan svo til fallið upp á ný, að þessar vandræðapersónur tóku sig aftur til útilegusamvista og fundust báðar í einni rekkju og einu hreysi undir bjargskúta nokkrum í Ölvesvatns landeign af Þorsteini Jónssyni og öðrum átta mönnum. Voru svo teknar og síðan í fangelsi forvaraðar [og voru þau svo ströffuð af lífinu eftir Stóradómi 3.“
Laekjarbotnar-5Í Engidal í Hengli er hellir sem einnig er talinn vera útilegumanna-bústaður. Talið er að fyrrnefnd Eyvindur Jónsson og Margrét Símonardóttir hafi hafst við í þessum helli í seinni útleigð þeirra, vorið 1678. Eyvindur þessi kom um einni öld á undan þeim Fjalla-Eyvindi sem flestir kannast við. En þeir voru alnafnar.
Hellir þessi er efst í móbergshnúknum og snýr hellisskútinn í suður og blasir hann við frá sæluhúsinu. Hellirinn er um 5 m breiður og 1,20 m á dýpt. Hæðin er um tveir metrar og nokkuð jafn. Hleðslurnar sem hafa verið fyrir opinu að hellinum eru að miklu leyti hrundar en þó eru um 50 sm há hleðsla sem stendur eftir.
Lýður Björnsson segir svo um hleðslu fyrir hellismunnanum í Engidal. „Móbergsklettarani gengur af Marardal meðfram Engidalsá. Hann er mjög veðraður og hæðóttur. Veggur hafði verið hlaðinn fyrir munann, og var talsverður hluti hans enn uppistandandi. Dyr voru á veggnum. Efsti hluti veggjarins var þó hruninn. Nokkur gróður hafði fest rætur milli steina í hleðslunni“. Laekjarbotnar-6
Annar hellir er aðeins 40 metrum frá „stóra“ hellinum og aðeins neðar. Sá hellir er mun þrengri og dýpri, um 3 m langur, 2 m breiður og 1,25 m hár. En hleðslur eru fyrir mynni þessa hellis einnig. Mjög gott skjól hefur verið úr þessum helli og hefur hann verið ákjósanlegt svefnstæði en hann er mjög þrifalegur og mjúk möl er á gólfi hellisins. Ekki eru neinar mannvistarleifar í helli þessum.
Lýður minnist á að mögulegt sé að hleðslur þessar hafi verið skjól fyrir hreindýraveiðimenn eða skýli fyrir nautreka en trúlegast finnst honum þó að þessir hellar hafi verið skjól fyrir Fjalla-Eyvind og Margréti í seinni útlegð þeirra, vorið 1678. Minnst er á það ár í annálum: „Eyvindur nokkur, giptur, hljóp úr Ölfusi með annars manns konu vestur, og töldu sig fyrir ektahjón: náðust, voru húðstrýkt og aðskilin.  Þau tóku sig aptur saman, lögðust út í Henglafjöllum, náðust og voru réttuð á þessu alþingi.“ Fitjaannáll  ÍA II, 247.  sbr. Hestsannál ÍA II, 512.  1678: „Höggvinn maður á alþingi, hét Eyvindur Jónsson, er hlaupið hafði úr Ölvesi frá konu sinni meða aðra konuvestur undir Jökul og héldu sig þar fyrir hjón, fóru síðan þaðan og fundust við hellir á Mosfellsheiði fyrir ofan Mosfellssveit og lifðu við kvikfjárstuld. Konan hét Margrét Símonsdóttir; henni drekkt í Öxará.“
Í þessari frásögn er minnst á helli á Mosfellsheiði, hér á hugsanlega átt við umræddu hella í Engidal.

Engidalur

Skjól í Engidal.

 

 

Lögberg

Í Ísafold árið 1908 má lesa eftirfarandi um „Stofnun nýbýlis á Lögbergi“: „Lögberg nefni eg greiðasöluhús mitt, nýtt og vandað steinhús, bygt við Fossvallaklif, fyrir ofan Lækjarbotnabæinn sem eg hefi lagt í eyði. – 15. des. 1908. – Guðni H. Sigurðsson.“
logberg 1958Í Sunnudagsblaði Alþýðublaðsins árið 1963 er fjallað um Lögberg: „Sögu Lögbergs er lokið. Síðustu árin hefur húsið staðið autt og yfirgefið, það hafa margir átt leið um veginn eins og áður, en enginn ber að dyrum, enginn á þangað erindi lengur. Ekki alls fyrir löngu átti ég leið þarna framhjá. Það var á sunnudegi. Veður var kyrrt og bjart og fagurt til fjalla. Þó mátti sjá, að haustið var á næstu grösumum. Lyngið í Selfjallinu var orðið eldrautt í brekkum og kvosum, grasviðurinn gulur, það sló brúnleitum blæ á ásana í heiðinni. Hengillinn og Esjan höfðu líka skipt um lit og fengið hvítan koll um nóttina. Undanfarnar vikur hafði verið unnið að. því að rífa Lögbergshúsið gamla. Verkinu var langt komið og þennan morgun hafði verið kveikt í tróði og rusli í hústóttinni og steig reykurinn frá rústunum hátt til lofts í góðviðrinu. Framundan dyrunum lá spýtna brakið úr húsinu í hrúgu. Sú var tíðin, að öðruyísi var hér um að litast og meiri reisn yfir staðnum, sól skein á þil og glugga, blár eldhúsreykur liðaðist vingjarnlega upp frá bænum undir Fossvallaklifinu, dyrnar stóðu opnar, en húsráðendur biðu á hlaði úti og fögnuðu gestum af alúð og innileik. Ei framar spyr að föllnum garði.
Strætisvagninn á Lögbergsleiðinni er auðkenndur Lækjarbotnar. Sumir hafa furðað sig á þessu. Þetta er þó. ekki út í hött. Býlið heitir Lækjarbotnar frá fprnu fari, og nafnið er líklega talsvert gamalt. Það er dregið af nokkrum lækjum og sytrum, sem eiga upptök sín þarna í heiðinni eða spretta fram undan hrauninu og sameinast í eina á, sem nokkru neðar liðast fram milli grænna bakka norðan og vestan við Rauðhóla og heitir Bugða. Lögbergsnafnið er hinsvegar nýtt af nálinni að kalla, orðið til eftir síðustu aldamót þegar íbúðarhúsið, sem nú er nýrifið, var reist. Hálfgerð tilviljun réði nafngiftinni.
Guðmundur Helgi Sigurðsson, sem lét reisa húsið, ætlaði upphaflega að kalla það Berg, enda á bjargi byggt og klappir allt um kring. Hann fékk Stefán nokkurn Eiríksson til að skera nafnið á fjöl til að festa á húsið. Stefáni mun hafa þótt nafnið stuttaralegt og stakk upp á því að kalla húsið Lögberg og á það féllst Guðmundur.  Saga Lögbergs hefst því í raun og veru ekki fyrr en eftir að Guðmundur flytur á jörðina og reisir húsið. Enda er það einmitt hann, sem gerir garðinn frægari.
logberg-2Leiðin suður yfir Hellisheiði og austur fyrir fjall er jafngömul byggð landsins. „Ingólfur fór um várit ofan um Heiði“, segir í Landnámu. Leiðin um heiðina þótti löngum erfiður og hættusamur fjallvegur að vetrarlagi í snjó og hríðarveðrum, áður en akvegur var lagður milli byggða, og ótaldir eru þeir, sem villzt hafa þar af réttri leið eða örmagnast í ófærðinni og sofnað á heiðinni svefninum hinum langa. En áreiðanlega hefur margur, sem af fjallinu kom, orðið skjólinu feginn, þegar hann náði Lækjarbotnum, sem var efsta byggt ból vestan heiðar, þangað til gistihús var reist á Kolviðarhóli. Þó mun vegurinn fyrrum hafa legið nokkru norðar og var þá komið í byggð hjá Elliðakoti í Mosfellssveit.
Elzta heimild um sæluhús á þessum fjallvegi er hinsvegar frá 1703, en þá getur Hálfdán Jónsson lögréttumaður um sæluhús á norðanverðum Hvannadölum. Sæluhús þetta mun hafa staðið skamt framan við Húsmúlann við tjörn eina, sem nefnd er Draugatjörn! Átakanlegt dæmi úr slysasögu þessa fjallvegar er eftirfarandi saga, sem bundin er við þetta sælu hús og lifir hann í minnum manna austan fjalls. Skúli Gíslason hefur ekið hana upp í Kolviðarhólssögu sína og er hún þar á þessa leið:
logberg-3„Gömul sögn úr Ölyesi hermir að eitt sinn hafi ferðamaður um vetur í vondu veðri komið austan yfir Hellisheiði. Hann hafði náttstað í sæluhúsinu, lokaði dyrum að sér og lagðist til svefns. Áð nokkurri stundu liðinni heyrði hann að komið var við hurðina og gerð tilraun að komast inn. Sá, er inni var, hugði það draug ytra og opnaði ekki. Heyrði hann um hríð þrusk utan við hurðina, en svo þagnaði það. Um morguninn, þegar maðurinn leit út, brá honum ónotalega við. Utan dyra lá dauður maður. Var það sá, er um kvöldið hafði knúið hurðina og maðurinn haldið vera draug. —“þetta spurðist víða og þóttu hörmuleg mistök. Eftir það „hafði alvarlega yerið brýnt fyrir ferðamönnum að loka aldrei húsinu að sér um nætur.“
Nokkru fyrir 1840 var svo byggt sæluhúsið neðan við Sandskeið eða skammt frá Fóelluvötnum, sem ýmsir núlifandi menn muna og um svipað leyti var Hellukofinn reistur, sunnanvert á miðri heiðinni, þar sem áður stóð svokölluð Biskupsvarða og stendur hann enn í dag. Árið 1844 yar svo loks reist sæluhús á Kolviðarhóli undir Hellisskarði, en gistihúsið þar rís hinsvegar ekki af grunni fyrr en haustið 1877.

Lögberg

Lögberg – stríðsminjar norðan Suðurlandsvegar.

Ekki fara margar eða miklar sögur af Lækjarbotnum á fyrri tímum, enda ekki um stóran stað að ræða. Jörðin túnlítil og slægnalaus að kalla, reytiskot langt uppi í heiði. Þó er talið, að þar hafi verið a. m. k. sex eða sjö ábúendur á undan Guðmundi Sigurssyni, en upphaflega var kotið byggt sem nýbýli úr afréttarlandi Seltirninga. Hallbera nokkur byggði fyrst í Lækjarbotnum og stóð bær hennar allmiklu sunnan við ferðamannagötuna gömlu, sem lá af Sandskeiði meðfram Selfjalli og Hólshrauni og til Hafnarfjarðar. Er um stundarfjórðungsgangur þangað frá Lögbergi. Seinna var bærinn færður, þegar nýr vegur var lagður austur, og byggður sunnan vegarins á grasi grónum hól þar sem fjárhúsin nú standa.
Fróðlegt er að lesa frásögn Willam Lord Watts, Vatnajökulsfara, um ferðalag hans austur yfir fjall árið 1875, en þá liggur leið hans einmitt um Lækjarbotna. Hann segir m. a.:“ „Fyrst er þá“ farið um gömul hraun, þar sem kindaskjátur í tvennum reyfum voru að kroppa í sig reytingslegan gróður. Þær höfðu rifið af sér ullina á hraunnibbunum svo að hún hékk á þeim í óhreinum dræsum og gerði þær ámóta ömurlegar ásýndum og landið, sem þær gengu á, enda var mesta leiðindaveður þennan dag. Um hádegi bar okkur að örreytiskoti, sem kallast Lækjarbotnar. Þar var ekkert að sjá nema örbirgð, harðfisk og óhreina krakka.

Lögberg

Lögberg – loftmynd 1953.

Ég veit ekki, hverju það sætir, að öll býli í næsta nágrenni Reykjavíkur eru fátækari og niðurníddari en nokkru tali tekur. Að vísu eru heimalönd þeirra lélegri en gengur og gerist í öðrum héruðum en fólkið er líka allt öðruvísi. Enginn kemst hjá því að taka eftir hinni sinnulausu nægjusemi í svip þess, enda vart við öðru að búast, eins og högum þess er háttað, en hvergi hef ég séð eins bláskínandi armúð og á þessu heimili.
En allt um það, hestarnir okkar grípa niður, og við vözlum forina framan við þessi hrúgöld úr grjóti, torfi og grjóti sem virðist með öllu óhugsandi að kalla heimili, hvernig svo sem það hugtak væri teygt eða túlkað. Hestarnir urðu að feta niður bratta og sleipa forarbrekku, sem ekki gerir aðkomuna eða brottförina frá Lækjarbotnum aðgengilegri. Þannig létum við þetta aðsetur eymdarinnar að baki og lögðum á heiðina í þoku svækju og kuldastrekkingi, hvar sem smugu var að finna.“

lögberg

Lögberg.

Ég brá mér einn daginn nýlega upp að Lögbergi og hitti að máli Guðfinnu Sigríði Karlsdóttur, en hún hefur átt þar heima samfleytt í meira en hálfa öld, lengst af ráðskona Guðmundar eða þangað til að hann lézt fyrir tæpum sex árum. Nú býr hún í litlu, snotru húsi, sem stendur í hlýlegri brekku ofan við Fossvallakvíslina, örskammt frá Lögbergshúsinu gamla. Þarna er símstöð og endastöð strætisvagnanna, sem ganga í Lækjarbotna, og eiga vagnstjórar vísan kaffisopann hjá gömlu konunni, þegar uppeftir kemur, því að gestrisnin er enn hin sama og áður. En hún ber þeim líka vel söguna.
Guðfinna er fjölfróð um Lækjarbotna og Lögberg sem vænta má, og varð ég margs vísari um sögu staðarins og ábúendurna, meðan ég sat þarna yfir rjúkandi kaffibolla og kökum. Guðmundur Sigurðsson var fæddur að Gröf í Mosfellssveit 17. des. 1876. Foreldrar hans voru Sigurður Guðmundsson og Guðrún Þorleifsdóttir, bæði ættuð að austan. Hann var yngstur af sautján systkinum. Hann missti heilsuna á unglingsárum sínum og lá þá rúmfastur um sex ára skeið og beið þess aldrei bætur. Eftir að hann komst til sæmilegrar heilsu, fluttist hann til Reykjavíkur og fékkst þar við ýnis störf, m. a. blaðaafgreiðslu hjá Einari Benediktssyni skáldi og síðar Sig. Júl. Jóhannessyni skáldi, en eftir það lærði hann rakaraiðn og stundaði hana um skeið. En starfið átti ekki vel við hann, enda þoldi hann illa stöðurnar til lengdar, svo hann venti sínu kvæði í kross og keypti landspildu uppi við Rauðavatn með aðstoð góðra manna, reisti þar skála, sem hann nefndi Baldurshaga og rak þar kaffistofu um tveggja ára skeið. Árið 1907 leigði hann síðan Baldurshagann, en keypti Lækjarbotna af Erasmusi Gíslasyni bróður Gísla Gíslasonar silfursmiðs í Reykjavík.

Fossvallaklif

Fossvallaklif.

Guðmundur var alla tíð mikill áhuga- og framkvæmdamaður, þrátt fyrir vanheilsu sína. Hann hófst þegar handa um byggingu íbúðarhúss í Lækjarbotnum og aðrar jarðabætur, enda voru kofarnir að falli komnir og kotið túnlaust að heita mátti. Gömlu bæjarhúsin stóðu, eins og áður er sagt, á hólnum sunnan vegarins, en með tilliti til umferðarinnar ákvað hann að velja nýja húsinu stað norðan við veginn, á klöppinni rétt sunnan við Fossvallarkvíslina. Hann lét kljúfa grágrýti í veggina á húsinu og felldi þar síðan í steinlím í hleðslunni. Þetta var erfitt verk og seinunnið og kostaði mikið fé. En húsið reis af grunni og Lögberg blasti við öllum, sem um veginn fóru að sunnan og austan. Þetta varð allmikið hús áður en lauk méð endurbótum og viðbyggingum, í því voru hvorki meira né minna en tuttugu vistarverur, þegar allt var talið. Enda varð þetta fljótlega fjölsóttur staður. Kolviðarhóll og Lögberg voru á þessum árum fastir áningarstaðir flestra þeirra, sem um Hellisheiði fóru, og náttstaður margra. Erfitt er um túnrækt í Lækjarbotnum, samt tókst Guðmundi að tífalda töðufallið og koma því upp í um 150 hesta. En auk þess falaði hann sér heyja annarsstaðar að, m. a. austan yfir fjall enda hafði hann 12 kýr í fjósi og á annað hundrað fjár á jörðinni, þegar flest var. Jafnframt búskapnum rak hann svo greiðasölu.- Framan af búskapartíð Guðmundar var mikil gestakorma að Lögbergi.
raudholl-229Fjárrekstrarmenn kormu á haustin austan úr sveitum á leið til Reykjavíkur og vermenn á veturna og vorin. Þeir komu venjulega nokkrir saman, gangandi, með þungar byrðar á baki, í misjafnri færð og veðri, sumir hráktir og illa til reika, og áttu stundum líf sitt að launa húsaskjóli og aðhlynningu heimilisfólksins á Lögbergi. Varð bft iitið um svefriihn hjá heimafólkinu, þegar vakið var upp, stundum tvisvar þrisvar á nóttu. Mikið var líka um vöruflutningá um heiðina, en um helgar á sumrin brugðu bæjarmenn sér upp að Lögbergi á hestum og var þá stundum glatt á hjalla. Svo gekk bílaöldin í garð og með henni fækkaði þeim, sem viðkomu höfðu á Lögbergi. Snemma á hernámsárunum settust Bretar að 4 Lögbergi, en seinna Bandaríkjamenn við veginn, þegar komið er upp úr skarðinu.
Höfðu þeir þarna heljarmikið bakarí. Þeir tóku allmikla spildu af túninu undir byggingarnar, en annars fór vel á með þeim og heimafólkinu á Lögbergi. Þeir létu líka byggja skjólvegginn mikla, sem er norðan við húsin. Vann 40 manna flokkur að hleðslunni í fullar sjö vikur og er þetta talinn einhver dýrasti veggur sinnar tegundar sem hlaðinn hefur verið á Íslandi. En vel er veggurinn hlaðinn, svo að Steinar í Hlíðum undir Steinahlíðum hefði jafnvel verið fullsæmdur af verkinu, enda voru vegghleðslumennirnir íslenzkir og sjálfsagt ættaðir að austan. Samt hefur þessi veggur aldrei áunnið sér virðingu í hlutfalli við fyrirhöfn og tilkostnað. Enn standa þarna leifar af varðturninum og nokkrir ryðgaðir braggaskrokkar frá hernámsárunum.

Guðmundur var mjög heilsulítill síðustu árin, sem hann lifði, og leigði þá öðrum jörðina, en dvaldi þar þó áfram sjálfur til dauðadags. Hann andaðist 4. nóv. 1957, rúmlega áttræður að aldri. Hann var jarðsettur í heimagrafreit á túnhólnum sunnan við veginn, þar sem gamli Lækjarbotnabærinn stóð.

Tröllabörn

Tröllabörn – loftmynd 1953.

Fannveturinn mikla 1919—1920 var gífurlegur snjór á Hellisheiði sást hvergi á dökkan díl að kalla. Þá var allt í kafi á Lögbergi pg gengt af húsþakinu upp á hæðina fyrir ofan, en snjógöng grafin frá dyrunum. Í vorleysingunum verða þarna mikil umskipti. Bláar skúrir leiðir með fjöllunum og allt bráðnar og rennur sundur, nýtt líf kemur í Fossvallakvíslina, sem annars er gersamlega þurr, og fellur hún þá beljandi rétt meðfram bæjarveggnum á Lögbergi en neðar flæðir hún út yfir alla bakka og ber með sér aur og leir fram á jafnlendið fyrir neðan. Mörgum finnst sumarfrítt í Lækjarbotnum, þótt Vatnajökulsfaranfum gætist ekki allkostar að landinu, þegar hann fór þar um í þoku og rigningssudda, enda lætur það lítið vfir sér við fyrstu kynni. Þar eru þó margar hlýlegar og vinsælar dældir og kvosir, vaxnar grasi og lyngi, og mosagrænt hraunið lumir á ýmsri óvæntri fegurð. Þetta er ákaflega rólegt og notalegt landslag, enda er þarna krökkt orðið af sumarbústöðum út um allt. Ég er ekkert hissa á því, þótt gamla konan, sem bráðum hefur átt hér heima samfleytt í 54 ár, eigi erfitt með að slita sig héðan, og er henni þó ekki sársaukalaust að horfa upp á eyðileggingu gamalla mannvirkja á staðnum. En umhverfið er þó altént hið sama, Nátthaginn og Selfjallið, ám og hraunið og allt þetta nafnlausa í náttúrunni, sem yljar og hlýjar um hjartaræturnar. Það er ósköp auðvelt að skilja sjónarmið og tilfinningar gömlu konunnar. „Ég vil helzt ekki flytja héðan fyrr en ég fer alfarin.“

trollaborn-221

En Lækjabotnar eiga sér einnig aðra sögu en hér hefur verið rakin, miklu eldri sögu, sem skráð er á klappirnar og klungrin umhverfis Lögberg. Ísaldarjökullinn, sem á sínum tíma þakti meginhluta landsins hefur skriðið þarna fram um heiðina og sorfið og rispað grágrýtisklappirnar og loks skilið eftir heljarmikil grettistök á víð og dreif, þegar aftur tók að hlýna. Slíkar jökulminjar sjást víðsvegar á holtunum og hæðunum upp af Lögbergi, sunnan og norðan vegarins. Löngu seinna, eftir að ísöld lauk og jökullinn var horfinn eða fyrir um það bil fimm þúsund árum, hefur orðið mikið hraungos þarna austur með fjöllunum á báða bóga, til austurs og vesturs. Hraunelfan, sem til vesturs leitaði, hefur fundið sér farveg niður um skarðið milli grágrýtisholtanna ofan við Lækjarbotná, þar sem vegurinn nú liggur, og runnið allt til sjávar í Elliðavog. Í þessu hraunflóði er talið, að Rauðhólar haft myndazt og Tröllbörnin orðið til, en.svo heita nokkrir smágígar meðfram veginum rétt neðan við Lögberg. Þannig hafa eldur og ís á sínum tíma merkt og mótað landið í Lækjarbotnum eins og víða annarsstaðar á Íslandi. Bakgrunnurinn að sögusviði þeirrar f arsælu lífsbaráttu, sem gerði garðinn frægan og hér hefur verið lítillega lýst, er stórfenglegur og eftirminnilegur. En það er einnig ákveðin reisn yfir þeim, sem settust að þarna við veginn í trássi við öll afkomulögmál, græddu bera klöppina, reistu skála að segja um þjóðbraut þvera, af myndarskap, en litlum efnum, hýstu gest og gangandi og áunnu sér þakklæti og virðingu vegfarenda. Nú er sviðið autt og yfirgefið og spýtnabrakið á bæjarhellunni, hinni fimm þúsund ára gömlu klöpp, staðfestir í raun réttri einungis það, sem áður var nokkurn veginn ljóst, að sögu Lögbergs er lokið.“ – Gestur Guðfinnsson.

Í Vísi árið 1962 er frétt: „Lögberg selt til niðurrifs„:

Lögberg

Lögberg 1931-1935. Í forgrunni er nokkuð stór fólksbíll af eldri gerð og er barn að hlaupa að honum. Í bakgrunni er stórt hús og viðbyggingar frá því, aðallega t.h. Á húsinu má lesa nafnið LÖGBERG. Á bakhlið myndarinnar er skrifað: Erik körte med Adam til Stokkesyer (Stokkseyri) med bilen fra mejeriet, skulle hente varer til mejeriet.

„Fyrir nokkru auglýsti bæjarverkfrœðingur Kópavogs bygginguna Lögberg að Lækjarbotnum til sölu til niðurrifs og brottflutnings.
Lögberg, eða Lækjarbotnar, eins og staðurinn hét forðum, er gamall áningar- og greiðasölustaður, en síðustu árin hefir staðurinn eiginlega ekki þjónað öðrum tilgangi en að vera endastöð fyrir Strætisvagna Reykjavíkur, sem hafa þjón að íbúum í Kópavogskaupstað, er nær þarna upp eftir, með því að flytja þá úr bænum og í.

Lækjarbotnar

Lækjarbotnar – Friðrik VIII. á för sinni um landið 1907.

Bæjarverkfræðingur Kópavogs, Páll Hannesson, hefir skýrt Vísi svo frá, að allmargir aðilar hafi látið í ljós áhuga á Lögbergi, er það var auglýst, en niðurstaðan verður sú, að tveir menn úr Kópavogi, Jóhann Kristjánsson og Sigurður Jakobsson, hafa hreppt húsið, og munu þeir fá húsið fyrir að rífa það og flytja á brott, en ætlun þeirra mun vera að nota efnið til innréttingar á vinnuskála, sem þeir nota.
Engin bygging mun koma í stað gamla hússins, sem þarna verður rifið, því að vegagerð ríkisins mun fá hússtæðið til sinna þarfa. Ætlunin er að gera breytingu á lagningu þjóðvegarins austur yfir fjall, þar sem hann kemur niður brekkuna við Lögberg, svo að vegarstæðið flytzt til og fer yfir þann stað, þar sem húsið stendur nú.“

Í Morgunblaðinu árið 1966 fjallar Guðmundur Marteinsson í Velvakanda um „Aðeins eitt Lögberg“:

Lögberg

Lögberg – athöfn.

„Í fimmtudagsblaði Morgunblaðsins (25. 8.) er sagt frá nýbyggingu Suðurlandsvegar vestan Svínahrauns, og er skýrt frá því, að nýr vegur verði lagður frá vegarendanum við hraunið og niður að Lögbergi, og einnig að nýi og gamli vegurinn eigi að koma saman við Lögberg.
Það var fyrir rúmlega hálfri öld, að norðan við veginn, gegnt býlinu Lækjarbotnum, var reist hús, sem var gefið heitið Lögberg, rétt um svipað leyti og Lækjarbotnar fóru í eyði. Þetta hús var rifið fyrir nokkrum árum, og er því ekkert sem heitir Lögberg á þessum stað lengur.
Ráðamenn Strætisvagna Reykjavíkur breyttu fyrir nokkrum árum heitinu á strætisvagninum, sem fer þangað upp eftir, úr Lögberg í Lækjarbotnar, og þótti mörgum það smekkvíslega gert. Það var raunar gert áður en húsið Lögberg var rifið.
Ég sendi þér þessar línur, Velvakandi góður, og bið þig að koma þeim á framfæri. sem ábendingu til blaðamanna og amnarra um að afmá nafnið Lögberg á þessum stað. Það á aðeins heima á einum stað — á Þingvöllum.“ – 27. 8. 1966; Guðmundur Marteinsson.

„Kirsten Henriksen einn gefanda er fædd 1920 og lést 2009.“ (VHP 2018)

Í Skátablaðinu árið 1985 segir Reynir Már Ragnarsson frá „Væringjaskálanum í Lækjarbotnum„, sem þá hafði verið fluttur á Árbæjarsafnið.

Lögberg

Lögberg – hestamenn á leið austur. Væringjaskálinn í bakgrunni.

„Einn er sá staður í nágrenni Reykjavíkur sem margir skátar eiga eflaust góðar minningar frá en það eru Lækjarbotnar. Þar hefur verið skátaskáli síðan 1920 og eru þeir því orðnir nokkuð margir skátarnir sem hafa verið þar í útilegu. Minningar tengjast oft skálanum, því andrúmslofti sem þar er og stemmingunni sem þar myndast. Oftar en ekki halda menn tryggð við skálann sem minningarnar eru tengdar við.

Væringjaskálinn

Væringjaskálinn á Lögbergi.

Líflaus og tómur með hlera fyrir gluggum í sumar fór ég að skoða Árbæjarsafn og tók þá eftir litlu húsi sem
stendur skammt frá safnhúsunum. þetta einmana hús reyndist vera gamli Lækjarbotnaskálinn – Væringjaskálinn. Hann má nú muna sinn fífil fegri. Söngurinn er þagnaður og leikir og ærsl eru víðs fjarri. Mætti hann tala hefði hann frá mörgu að segja. En nú er hann einn og yfirgefinn, hurðin læst og hlerar fyrir gluggum. Ég gisti þennan skála aldrei sjálfur en fyrir hönd þeirra sem það hafa gert og reyndar fyrir hönd skátahreyfingarinnar skammaðist ég mín. Af hverju er hann ekki opnaður og komið einhverju lífi í hann?

Væntanlegt útileguminjasafn eða tómur áfram?

Væringjaskálinn

Væringjaskálinn á Árbæjarsafni – mynd: Saga Væringjaskálans – Sumarið 1919 fór stjórn Vœringjafélagsins að leita að stað undirfyrirhugaðan skála. Eftir nokkra leit komst stjórnin að þeirri niðurstöðu að Lækjarbotnar vœru heppilegasti staðurinn. Þar hafði áður verið býli, sem var áningarstaður ferðamanna sem voru á leið austurfyrirfjall. Bygging skálans hófst snemma sumars 1920 og 5. september sama ár var hann vígður þótt byggingunni væri ekki að fullu lokið. Fáni var þá í fyrsta sinn dreginn að hún á stönginni við skálann.
Í byrjun voru hliðarveggir skálans hlaðnir úr grjóti og torfi, en það þótti slæmt til lengdar og voru því hlöðnu veggirnir rifnir burt. Sumarið 1929 var byrjað að girða lóðina kringum skálann og gróðursett voru tré og aðrar jurtir. Þessu verki var lokið 1931. Skálinn kostaði alls uppkominn nær 7000 krónum.

Ég hafði samband við Ragnheiði Þórarinsdóttur, borgarminjavörð og sagði hún að skálanum væri haldið við og áætlað væri að flytja hann nær safnhúsunum. Mikill áhugi væri fyrir að opna hann almenningi, en áður þyrfti að safna hlutum sem tengdust útilegustarfi fyrri ára og koma þeim fyrir í skálanum. Hún taldi best að skátarnir hefðu frumkvæði að þeirri söfnun. Árbæjarsafn væri tilbúið að varðveita hlutina og lagfæra ef með þyrfti.“

Heimildir:
-Ísafold 19. desember  1908, bls. 315
-Sunnudagsblað Alþýðublaðsins 20. október 1963, bls. 74-75 og  86-87.
-Vísir, 278. tbl. 10.12.1962, Lögberg selt til niðurrifs, bls. 7.
-Morgunblaðið, 199. tbl. 02.09.1966, Aðeins eitt Lögberg – Guðmundur Marteinsson, bls. 4.
-Skátablaðið, 1. tbl. 01.02.1985, Væringjaskálinn í Lækjarbotnum – Reynir Már Ragnarsson, bls. 34-35.

Tröllabörn

Tröllabörn.

Reykjavík

Í Lögbergi 1949 fjallar Árni Óla um „Reykjavíkurhúsin„:
torfbaer-221Reykjavík fékk kaupstaðarréttindi árið 1786. „Um 1940 voru talin vera rúmlega hundrað torfbýli í borginni. Um 1840 hafa þau verið nokkru fleiri, en þá voru íbúðarhús úr timbri um 40 að tölu. Mannfjöldi í Reykjavík var þá 900 og þar af áttu 300 heima í timburhúsum, en hálfu fleiri í „kotunum“. Fólkinu var altaf að fjölga. „Kotin“ voru hinn íslenzki hluti höfuðstaðarins, en Miðbærinn, aðal verzlunarlóðin, bygð að mestu dönsku og hálfdönsku fólki.
Ekki var torfbæjaöldin á enda um þessar mundir, því að enn voru reistir margir torfbæir. Tók Skuggahverfið aðallega að byggjast eftir 1840 og svo bættust við nokkrir bæir í Þingholtunum og Vesturbænum. Mun láta nærri að milli 40 og 50 nýir torfbæir væri reistir á tímabilinu frá 1840—1890. Upp úr því breyttist byggingarlagið algjörlega og bar einkum tvent til þess.
storasel-221Árið 1874 flyst hingað fyrst þakjárn, þykt og vandað, og varð Geir Zoega kaupmaður fyrstur manna til þess að láta setja það á hús sitt. Þetta þak er enn við líði, hefir dugað öll þessi ár og má af því marka hvað það hefir verið vandaðra heldur en þakjárn það, sem flust hefir á senni árum. Þakjárnið olli byltingu í byggingarmálum Reykjavíkur. Eftir að það kom var ekki sett torfþak á íbúðarhús og menn fóru að rífa torfþökin af bæjunum og setja járnþök á í staðinn. Má því segja að næst torfbæjaöldini hefjist hér bárujárnsöldin. Menn létu sér ekki nægja að hafa járn á þaki á timburhúsum, heldur klæddu þau öll með járni og helzt þetta þangað til sementsöldin (eða steinhúsaöldin) tók við, eða 30—40 ára skeið.
Önnur höfuðorsök þess að torfbæjaöldin leið undir lok, var sú, að þegar Alþingishúsið var bygt, lærðu margir steinsmíði, og upp frá því var hætt við að hafa veggi bæjanna úr grjóti og torfi. Þá komu hinir svonefndu „steinbæir“, sem margir standa enn í dag, með útveggjum úr höggnu og límdu grjóti.

Torfbær

Tofbær í Reykjavík 1925.

Eins og fyr er getið samdi Jón Brúnsbær var upphaflega beykisíbúð og vinnustofa innréttinganna. En 1791 keypti mad. Gristine Brun (ekkja Bruns tugt meistara) kofana og bjó þar til æviloka. Var bærinn kendur við hana. 1808—09 bjó þar Peter Malmquist beykir, sem kunnur varð af fylgi sínu við Jörund hundadagakóng, og hjá honum bjuggu þeir Jörundur og Savignac fyrst er þeir komu hér, prentari skýrslu sína 1886. Þá var liðin torfbæjaöldin, sem staðið hafði um 90 ár. Það virðist því svo, sem honum hefði átt að vera innan handar að telja einnig alla þá torfbæi, er risu upp eftir 1840 og gera þannig fullkomna skrá um alla þá torfbæi, sem reistir voru í Reykjavík. En þótt hann hafi ekki gert það, er samt mikill fengur að skýrslu hans því að, hún sýnir hvernig úthverfin voru bygð þegar Reykjavík var fimtug. „Kotin“ voru hinn íslenzki hluti höfuðstaðarins, en Miðbærinn, aðal verzlunarlóðin, bygð að mestu dönsku og hálfdönsku fólki.

Midsel-221

Það lætur að líkum, að mismunandi hafi „kotin“ verið bæði um frágang á byggingu og umgengni ytra og innra. Sum hafa verið örgustu greni og sennilega hefir þar oft farið saman sóðaskapur og hirðuleysi íbúanna. Aðrir bæir hafa verið snotrir bæði að frágangi og umgengni, þótt ekki væri þeir háreistir og til sannindamerkis um það höfum vér ummæli Jóns biskups Helgasonar. Hann sagði í einu riti sínu, að sér sé í barnsminni mörg heimili efnalítilla tómthúsmanna, bæði fyrir austan bæ og vestan, þar sem myndarskapur blasti við manni þegar inn var komið, þótt fátt væri þeirra innanstokksmuna, sem á vorum dögum teljast ómissandi á hverju heimili. Og hann getur sérstaklega um nokkur fyrirmyndaheimili í torfbæjunum. Þessi nefnir hann í Austurbænum: Sölvahól, Steinsstaði, Stafn, Pálsbæ, Loftsbæ, Eirnýjarbæ, Suðurbæ, Söðlakotsbýlin og Skálholtskot. En þessi í Vesturbænum: Melkot, Skólabæ, Hákonarbæ, Hákot, Arabæ, Vigfúsarkot, Hól, Nýjabæ, Hlíðarhúsabæina, Miðsel, Garðhús. „Og svona mætti lengi telja áfram“, segir hann.
steinbaerReykjavík var torfbæjaborg, þegar hún var fimtug. Á hundrað og fimtíu ára afmæli hennar voru allir torfbæirnir horfnir. En þeir eiga sinn kafla í sögu bæjarins. Það er hverju orði sannara að torfbæirnir höfðu sína annmarka.
En þótt nútíma menningin fordæmi þá niður fyrir allar hellur, þá er ekki víst að þeir hafi verið verri mannabústaðir heldur en skúrarnir, braggarnir og kjallararnir eru nú á dögum. Það er að minnsta kosti víst, að fólkið, sem bjó í torfbæjunum og ólst þar upp, var engu óhraustara né kvellisjúkara en fólk er nú á dögum.
Helzti munurinn á torfbæjarkynslóðinni og steinhúsakynslóðinni mun vera sá, að unglingar eru bráðgjörri nú en þá, en það stafar miklu fremur af bættu viðurværi heldur en bættum húsakynnum.“ – Á.Ó. — Lesbók Mbl.

Heimild:
-Lögberg 22. desember 1949, bls. 2.

Litla Brekka

Litla Brekka – síðastai torfbærinn í Reykjavík. Bærinn stóð við Suðurgötu.

Vatnsendi

Gengið var um vestanvert Elliðavatnsland ofan við Vatnsvík við suðaustanvert Vatnsendavatn (Elliðavatn). Þar eru fjárhústóftir frá Elliðavatni.
Miðrýmið í fjárhústóftinniTóftirnar standa hátt á grónum hól ofan við skógræktarlund og sjást vel víða að. Líklega er það tilviljun ein að mikil plöntuárátta hlutaðeigandi hefur ekki náð að hylja tóftirnar með trjám líkt og sjá má svo víða. Á hólnum eru heillegar vegghleðslur. Þrjú rými eru í tóftunum. Þrjú snúa gafli mót Vatnsenda (vestri) og eitt til suðurs (aftan við tvær hinar fremri). Garðar eru í fyrrnefndu rýmunum, en sú aftari gæti hafa verið umleikis heystæði (heykuml). Fjárhúsin munu, af ummerkjum að dæma, hafa verið hlaðin í lok 19. aldar eða byrjun 20. aldar, eða fyrir rúmri öld. Þau eru merkilegur vitnisburður um fyrri tíma búskaparháttu, örskammt frá þéttbýlinu, sem hefur verið að teygja sig óðfluga að rótum þeirra – og mun væntanlega eyða þeim með öllu þegar fram líða stundir (m.v. núverandi áhuga- og viljaleysi hlutaðeigandi yfirvalda í þeim efnum).
Fjárhústóftirnar hafa verið mjög nálægt mörkum Vatnsenda og Elliðavatns. Skammt vestan þeirra er tvískipt tóft, sennilega sauðakofi.
FjárhústóftirnarÖrnefnaskrá Elliðavatns er „eftir Ara Gíslason (heimildarmaður Eggert Norðdahl, Hólmi) og athugasemdir varðandi örnefni Elliðavatns, eru skráðar af Ragnari Árnasyni (eftir Christian Zimsen), með Christian Zimsen, lyfsala, í júlí 1983. Í henni er og stuðzt að litlu leyti við blaðagrein eftir Karl E. Norðdahl, úr Mbl. frá 29. júní 1967.  C.Z. telur allt, sem þar er sett fram, vera hárrétt.
Christian Zimsen (f. 26. september 1910) þekkti vel til á Elliðavatni. Faðir hans, Christen Zimsen (1882-1932), keypti 1/4 jarðarinnar árið 1916 af Einari Benediktssyni. Sama ár keyptu Þórður á Kleppi 1/8 jarðarinnar (á móti borginni, sem átti 1/8) og Emil Rokstad (kenndur við Bjarmaland) helming hennar. Emil Rokstad rak búið til 1927, en þá var jörðin öll seld borginni – eða Rafveitunni. Rokstad fékk þá 10 ára ábúð, þ.e. til 1937, en eftir það for jörðin í eyði. Elliðavatn var í Seltjarnarneshreppi, en er nú innan lögsagnarumdæmis Reykjavíkur.
Christen Zimsen byggði sumarbústað á Elliðavatni árið 1919. Dvalizt hann þar meira og minna á sumrin alla tíð.  Ennfremur var hann sumarstrákur á Elliðavatni, þannig að hann hafði aðstöðu til að læra örnefni jarðarinnar. Hann lærði þau helzt af ráðsmönnum Emils Rokstad, Arnbirni Guðjónssyni, sem var lengst þar, og Guðbirni Sigurjónssyni frá Króki í Flóa.

Tóftin á mörkunum

Á Elliðavatni var rekið stórt bú, fjárbú (flest um og yfir 500 fjár). Kýrnar voru á Bjarmalandi, en á Elliðavatni á sumrin.  Veiði var einnig stunduð; þá var mikil veiði í vatninu. Rokstad reisti tvö klakhús, sem rústir sjást enn eftir. Eftir að Elliðavatn fór í eyði, var starfrækt þar heimili, útibú frá Kleppi. Síðar var byggt upp þar. Nú nýtir Skógræktarfélag Reykjavíkur húsið; þar dvelur vörzlumaður Heiðmerkur“.
Í örnefnalýsingunni segir m.a. um fjárhústóftina: „Árið 1884 var dæmt í landamerkjadeilum á milli ábúenda Elliðavatns og Vatnsenda. Málsaðilar komu sér saman um, að Strípur í jaðri Strípshrauns væri hornmark fyrir landeignir jarðanna og væri því rétt að ákveða merki þaðan.
Í Dómabókinni segir: „Dómurinn hefur nú komizt að Varða vestan við Stríp þeirri niðurstöðu, að frá Stríp eigi merki jarðanna að vera eftir beinni stefnu yfir tóftarbrot suðvestanvert við Elliðavatnsfjárhús í Vatnsendavatn, þannig að enginn bugur sé á merkjunum við nefnda tóft, að þaðan séu mörkin með Vatnsendavatni að austan og norðaustan norður í Þingnestá, að úr Þingnestá ræður bein stefna norður yfir Þingnesál, þá ræður enn Vatnsendavatn vestur með Elliðavatnsengjum í Dimmuós, að þá skilur áin Dimma lönd jarðanna niður að Gjávaði…
C.Z. þekkir merkin ekki vel. Mönnum kom aldrei saman um þau. Hann er þó ekki sáttur við, að mörkin séu þau, sem lýst var hér að framan. Honum er tamt að líta þannig á, að Bugða, eins og hún var, hafi verið á mörkum og síðan Dimma, að ós hennar. Úr Dimmuós hafi mörkin legið þvert yfir Vatnsendavatn í Syðra-Vatnsendavatnsvik og þaðan í vestari vörðuna af tveimur, vestur af Elliðavatnsfjárhúsinu, og þaðan upp í Stríp. Að öðru leyti telur hann, að landamerkjalýsingin eigi að vera rétt.
Þannig tilheyrði u.þ.b. 1/4 Vatnsendavatns StrýpurElliðavatni. Vörður þær, sem um ræðir.eru fallnar, og eru litlar sem engar leifar eftir af þeim. Þær voru rifnar á stríðsárunum. Fyrir vestan Elliðavatnsfjárhús er tóft eftir ærhús frá Elliðavatni yfir 240 ær. Þar voru þrjár krær og hlaða á bak við tvær þeirra.  Vörðurnar voru vestur af tóftunum, önnur 90 faðma frá því, en hin 60 faðma, en í gömlum lögum er ákvæði um, að hús skyldu standa 90 faðma frá landamerkjalínu, ef dyr sneru að henni, en annars 60 faðma frá, þ.e. ef dyr sneru frá.“
Svolítill ónákvæmni er í lýsingunni undir lokin því fjárhúsið, sem var ærhús, gat hýst 240 fjár. Vestan þess er tóft sú er að framan greinir.

Áður en tóftin fyrrnefnda á mörkunum var yfirgefin var kjörið tækifæri að setjast niður í góðvirðinu, horfa heim að Vatnsendabænum sem og Hvammskoti (Elliðahvammi) og rifja svolítið upp forsöguna.
Árið 1847 var Vatnsendi konungseign. Í Fornbréfasafni er máldagaskrá um eignir Maríukirkju og staðar í Viðey á dögum Þorvalds Gissurarsonar. Skráin er talin frá 1234 og er eftir máldagabókum frá Skálholti í safni Árna Magnússonar. Í Fornbréfasafni segir, að hún sé fremst af öllum hinum elztu Viðeyjarskrám og ritað við á spássíu: „gamall máldagi“. Í skránni segir; Hvn a oc Elliðavatz land hálft og allt land at vatzenda með þeim veiðvm og gæðm er þeim hafa fylgt at fornv. Staðr a oc Klepps land allt, oc laxveiði j Elliða ar at helmingi við Lavgnesinga. Hamvndr gaf til staðarins holm þann, er liggr j elliða am niðr frá Vatzenda holmi. Í skrám um leigumála á jörðum Viðeyjarklausturs árið 1313 segir: At vatx ennda iij merkur. Í skránni frá 1395 um leigumála á jörðum klaustursins segir: at Vatzenda half fjorda mork. Í reikningi Kristjáns skrifara 1547-1548 er eftirfarandi ritað um Vatnsenda: Item met Vatzende iiij legekiór landskyld x óre frj oc xij thónder kuoell ij lege vij fóringer smór dt. her er ij foder en 3 vet nót oc ij landskydt iij for met lame oc 2 ar gamle for oc xij thónder kuóll. Í hlutabók eða sjávarútgerðarreikningi Kristjáns skrifara 1548-1549 segir: Item mett Vatzende iiij legekiór landskyldt x aure frj oc xij thónder kuell. ij lege en vet smór dt. oc ij landskyldt xij tónder kuoell oc desse x aurer tog Halvarder ij sijt kop.

Merkjavarða

Í reikningum Kristjáns skrifara 1549-1550 er ritað um Vatnsenda: Item mett Watzende iiij kiór landskyldt x óre frj oc xij toonder kúoell ij lege j vet smór etc. her er j foder ar gamel nód oc iiij lamb oc xij tonder koel etc. tog Haluarder thene landskyldt j sit kop. Í reikningum Eggerts fógeta Hannessonar, sem dagsettir eru á Bessastöðum 24. júní 1552, er eftirfarandi skráð um Vatnsenda: Item mett Wassende iiij legequiller landskyldt x óre frijj oc xij tonder koll. ik leger j vett smór. dt. och ij landskyldt x óre och tog Pouell Gurensón den ij sijt kop. oc xij toder kull. dt. Í jarðaskrá Björns Lárussonar (The Old Icelandic Land Registers, Lund, 1967) er Vatnsendi talinn konungseign, jarðadýrleiki 22 hundruð, landskuld 112 álnir og leigukúgildi fjögur. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 segir um Vatnsenda: „Jarðadýrleiki er óviss. Eigandinn kóngl. Majestat. […]“ Í skrá um sölu konungsjarða 1760-1846 sést, að Vatnsendi hefur verið seldur 11. september 1816 með fjórum kúgildum. Söluverð var 1384 rd.

Strípur

Samkvæmt Jarðatali á Íslandi (Kh 1847) er jarðardýrleiki 22 hundruð, landskuld hundrað álnir og leigukúgildi fjögur. Í Nýrri jarðabók fyrir Ísland 1861 er jarðardýrleiki einnig talinn 22 hundruð, en ný hundraðstala 24,4 hundruð. [..].“ segir í Örnefnum í landi Kópavogskaupstaðar.
Heimildir, svo sem fasteignamat 1849 og 1916-1918, staðfesti að Vatnsendi hafi frá öndverðu verið landmikil jörð, með mikla og góða sauðfjárhaga en jafnframt að hluta erfið yfirferðar. Fjárhúsin á hæðinni suðaustan við vatnið gefa til kynna að síst hafi dregið úr veldi ábúendanna á síðari öldum. Líklega hefur skógur efrum torveldað aðgengið þótt þess sjáist ekki ummerki nú.
Löngum hafa verið deilur um landamerki Vatnsenda, s.s. milli landeigenda og Reykjavíkurbogar, sem eiganda svokallaðs „eignarnámslands í Heiðmörk. Á því svæði liggur Vatnsendi að Garðakirkjulandi til vesturs, jörðinni Elliðavatni til austurs og að Elliðavatni til norðurs. Að suðvestan og sunnanverðu nær landsvæði þetta Vatnsenda, í Húsfell, Þríhnúka og Stóra-Kóngsfell. Landsvæðið má skipta í annars vegar gróið láglendi og hins vegar hraunfláka. Vestan og sunnan stöðuvatnsins er láglendi, þ. á m. Heiðmörk, gróðursælt og afgirt svæði í 70-150 metra hæð yfir sjávarmáli. Heiðmörkin teygir sig frá vestri til austurs og tekur til landsvæðis innan merkjalýsinga bæði Vatnsenda og Elliðavatns, auk fleiri jarða.
StrípurFyrir u.þ.b. miðri Heiðmörk er Strípur, „hvass hraundrangi“, að sögn. Þangað var einmitt ætlunin að stefna í þessari FERLIRsferð.
Fótstefnan var tekin til suðausturs upp Heiðmörkina, að svonefndum Stríp er Strípshraun dregur nafn sitt af. Hraunið, þakið þykkum hraungambra (er bendir til þess að undirlagið hafi orðið til öðru hvoru við landnám norrænna manna hér á landi), er fremur lítið af hrauni að vera og hefur runnið á sögulegum tíma. Aldur þess hefur ekki verið ákvarðaður af neinni nákvæmni. Hraunið, líkt og flest önnur nútímahraun, sem runnið hafa um Heiðmerkursvæðið, eru komin frá eldvörpum á svæðinu milli Bláfjalla og Þríhnúka. Elstu hraunin í Heiðmörk eru um 7200 ára og hin yngri frá sögulegum tíma.
Íslenska ríkið hefur haldið því fram (í þjóðlendakröfum sínum) að með merkjalýsingum Elliðavatns og Vatnsenda frá 1883 hafi eigendur þessara jarða eignað sér sinn hvorn hlutann úr sameiginlegum afrétti. Þessum lýsingum hafi aldrei verið þinglýst. Þó er vísað til þess í dómi aukaréttar Kjósar- og Gullbringusýslu frá 1884 um merki þessara jarða. Þar segir að Strípur sé hornmark fyrir landareignir jarðanna.

Strípur

Það mun líklega vera nálægt lagi því ekkert kennileiti á svæðinu er jafn augljóst til upplandsins frá bæjunum og Strípur í miðju Strípshrauni. [Hér hefur ekki verið höfð í huga þau eðlilegu samskipti ábúenda og nágranna er jafnan höfðu náð til að skipta löndum sínum rétt m.v. þörf á hverjum tíma].
Í suðvestri blasti Vatnsendaborgin við uppi á Hjöllunum. Fyrstu og einu heildstæðu lýsinguna á landamerkjum Elliðavatns er að finna í yfirlýsingu eiganda jarðarinnar, dags. 20. júní 1883. Merkjum Elliðavatns að suðvestanverðu er lýst „frá sýslumörkum að austnorðanverðu við Kóngsfell og þaðan beina stefnu norður í svokallaðan Stríp …“. Yfirlýsing þessi er einungis undirrituð af eiganda Elliðavatns og henni hefur ekki verið þinglýst. Skjal þetta var meðal málsskjala í áðurnefndum landamerkjaágreiningi á milli eigenda Vatnsenda og Elliðavatns. Svo sem segir í kafla 6.12. eru einnig slíkir ágallar á þessari merkjalýsingu að hún getur ekki talist lögformlegt landamerkjabréf. Sé tekið mið af merkjalýsingu Vatnsenda, eins og hún hljóðar eftir þá breytingu sem áður greindi, miða báðir jarðeigendur við Stríp og í Kóngsfell. Í dómi aukaréttar Gullbringu- og Kjósarsýslu 19. maí 1884 um merki Vatnsenda og Elliðavatns segir m.a. svo „Málsaðilar hafa orðið ásáttir um, að Strípur í jaðri Strípshrauns sé hornmark fyrir landeignir jarðanna og er því rétt að merki séu ákveðin þaðan.“ Dómurinn sker síðan úr um merki jarðanna frá Stríp og til norðurs.

Vatnsendaborgin

Landsvæðið þar sunnan við, þ.e. línan á milli Stríps og Kóngsfells var þannig ekki til umfjöllunar í málinu og ekki tekin afstaða til þess af hálfu dómsins hvort merki jarðanna næðu þangað. Orðalagið „hornmark“ í forsendum dómsins verður ekki talið ráða úrslitum að þessu leyti. Ljóst er hins vegar að eigendur jarðanna hafa verið sammála um þá merkjalínu, hvort sem það hefur verið strax við gerð merkjalýsinga Vatnsenda og Elliðavatns í maí og júní 1883, eða þegar yfirlýsingu Vatnsenda var breytt. Samkvæmt framangreindu hefur lýsing austurmerkja í yfirlýsingu eiganda Vatnsenda frá 1883 stuðning af dómi Gullbringu- og Kjósarsýslu 1884 suður í Stríp en lína sú sem dregin er úr Stríp í Kóngsfell, styðst einungis við yfirlýsingu eiganda Elliðavatns. Lýsing vesturmerkja í sömu heimild stangast á við þinglýstar merkjalýsingar aðliggjandi landsvæða en merkjum á milli syðstu punkta til vesturs og austurs er ekki lýst. Eigandi Vatnsenda afmarkar kröfusvæði sitt svo sem að framan greinir með Stóra-Kóngsfelli að suðaustanverðu og Þríhnjúkum að suðvestanverðu og til suðurs með línu þar á milli. Sunnan þessarar línu er suðvesturhorn þess landsvæðis og nefnt Afréttur Seltjarnarneshrepps hins forna. Þar hafa sveitarfélögin Kópavogur, Reykjavík og Seltjarnarnes gert kröfu um eignarland. Kröfusvæði þessara sveitarfélaga vegna afréttarins tekur þó til mun stærra svæðis, nánar tiltekið stórs hluta af svæðum eigenda Vatnsenda og Elliðavatns, auk landsvæðis suðaustan jarðarinnar Lækjarbotna. Ekki hafa komið fram neinar sjálfstæðar merkjalýsingar fyrir afrétt Seltjarnarneshrepps hins forna og verður afmörkun hans því fyrst og fremst ráðin af merkjum aðliggjandi landsvæða, þ.á.m. Vatnsenda.

Kort af svæðinu

Af framangreindu má sjá a.m.k. tvennt; annars vegar ágreining um landamerki, sem reyndar er ekkert nýtt hér á landi, og hins vegar mikilvægi Stríps sem kennileitis. Auk þess dregur dularfullt hraun nafn sitt af kennileitinu. Þá er ekki síðra að bæði er Strípur í miðju friðlandi höfuðborgarsvæðisins og auk þess er hann mikilvægt, áberandi, en næsta óþekkt kennileiti á verndarsvæðinu.
Þegar gengið var upp að Stríp svo til beint upp frá fjárhústóftinni virtist einungis einn klettadrangur koma til greina – með beina stefnu á Kóngsfellið. Þegar nær dró birtust tvær vörður á neðri efri brúnum hraunsins skammt vestan Stríps. Þær virtust nýlega hlaðnar, en hafa áreiðanlega verið gerðar í ákveðnum tilgangi. Líklegt má telja að þar hafi einhverjir verið að  verki er undirstrikað hafa vilja þeirra afstöðu til greindra marka jarðanna. Þær röskuðu þó ekki fyrri lýsingum af Stríp, sem er þar skammt austar. Á gróinni hæð austan við dranginn kom í ljós að undir gróningunum voru greinilegar leifar af gamalli vörðu. Steinar úr henni lágu og út frá fætinum.
Frá Stríp var hið ágætasta útsýni, hvort sem um varð að ræða niður að Vatnsenda og Elliðahvammi eða upp til Kóngsfells.
Á óvart kom (og þó ekki) hversu landakort voru misvísandi á bæði örnefnaheiti og staðsetningar á þeim. T.d. voru bæði örnefnin „Heykriki“ og „Strípur“ augljóslega ranglega staðsett á kortunum. Því miður er hér ekki um einstök dæmi um að ræða. Tilgangurinn með ferðinni var hins vegar ekki að leysa úr landamerkjaágreiningi, enda hefur FERLIR jafnan gefið slík tilefni frá sér þrátt fyrir eftirgangssemi í þeim efnum. Ætlunin var, líkt og í upphafi var boðað, að skoða hina heillegu fjárhústóft ofan Vatnsvíkur sem og að líta hinn mikilvæga Stríp augum. Í ferðinni, líkt og svo oft áður, heilsaði „hraunkarlinn/-konan“ í Strípshrauni þátttakendum. Áratuga löng reynsla þátttakenda hefur kennt þeim að taka slíku með jafnaðargeði, þ.e. sjálfsögðum hlut.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a.:
-Landamerkjabréf.
-Örnefnalýsingar.

Strípur

Alþingishúsið

„Á Alþingi 1867 var samþykkt ályktun um að minnast þúsund ára Íslandsbyggðar með þjóðhátíð árið 1874 og með því að reisa í Reykjavík alþingishús af íslenskum steini. Til að hrinda því í framkvæmd var skorað á stiftamtmann, biskup og landfógeta að ganga í nefnd með tveimur alþingismönnum til Althingi-221að veita viðtöku og ávaxta það fé sem inn kæmi með almennum samskotum, en hver alþingismaður skyldi gangast fyrir árlegum almennum samskotum í kjördæmi sínu. Næstu ár safnaðist nokkurt fé, en 1871 þótti sýnt að það nægði hvergi nærri til að hrinda af stað byggingu alþingishúss. Var þá m.a. rætt um að verja því til að rita sögu Íslands, en frestað ákvörðun um hvernig því skyldi varið. Fyrsta löggjafarþingið kom saman samkvæmt nýrri stjórnarskrá árið 1875 og á þriðja þinginu, árið 1879, var samþykkt „að á fjárhagstímabilinu 1880-1881 sje byggt hús handa alþingi og söfnum landsins. Ferdinand Meldahl húsameistara og forseta Listaháskólans í Kaupmannahöfn var falið að gera teikningu að húsinu. Tryggva Gunnarssyni var falið að ráða yfirsmið og útvega efni til byggingarinnar en hann hélt á þessum árum heimili í Kaupmannahöfn og dvaldi þar á vetrum.
althingi-222Talsverðar deilur urðu um staðsetningu hins nýja húss. Arnarhólstún var í eigu ríkisins og lögðu Grímur Thomsen og Árni Thorsteinson til að húsið skyldi reist á hólnum. Hilmar Finsen landshöfðingi var eindregið á móti þessari ráðagerð og hafði meiri hluta nefndarmanna með sér. Í deilunni var látið að því liggja að eiginhagsmunir Hilmars hefðu ráðið ferðinni en hann nytjaði túnið. Að lokum var afráðið að reisa alþingishús norðan við Bakarastíg milli lóðanna sem nú heita Bankastræti 7 og Laugavegur 1.
Haustið 1879 var hafist handa við að grafa fyrir grunni og einnig að höggva grjót til byggingarinnar. Kostnaðurinn við undirbúninginn í Bakarabrekkunni varð 2.200 krónur.
F. Bald sem ráðinn hafði verið yfirsmiður og samverkamenn hans, steinsmiðir frá Borgundarhólmi og múrarar frá Kaupmannahöfn, komu til landsins vorið 1880. Bald lagðist þvert gegn því að húsið yrði reist í hallanum í Bakarabrekkunni og var nú aftur rætt um Arnarhól, en einnig Austurvöll, sem althingi-223hugsanlegan byggingarstað.
Í byrjun maí var enn fundur í byggingar-nefndinni um staðsetninguna og samþykkt að húsið skyldi standa vestan við Dómkirkjuna. Var þar með ráðist í kaup á kálgarði Halldórs Kr. Friðrikssonar alþingismanns og yfirkennara undir húsið. Halldóri voru greiddar 2.500 krónur fyrir lóðina og þótti hátt verð. Er sagt að þetta hafi verið fyrsta lóð sem seld var í Reykjavík. Ætlunin var að Alþingishúsið stæði sunnar í lóðinni og væri norðurhlið þess í beinni línu við suðurhlið Dómkirkjunnar. En þegar hafist var handa við að grafa fyrir grunni taldi Bald yfirsmiður að traustara væri og minni leðja undir ef húsið stæði norðar.
althingi-224Talið er að um 100 Íslendingar hafi fengið vinnu við Alþingishúss-smíðina. Grjótið í Alþingishúsið var aðallega tekið úr Þingholtunum þar sem nú er Óðinsgata. Var það klofið með járn- eða stálfleygum eða sprengt með púðri. Grjótið var síðan flutt í vinnuskúr og höggvið til og ýmist ekið á vögnum eða dregið á sleðum að Alþingishússgrunninum.
Vinna við húsið gekk greiðlega. Um sumarið var vinnu við húsið haldið áfram af kappi og um haustið var það komið undir þak. Miklar frosthörkur einkenndu veturinn 1880-1881 en engu að síður var unnið á hverjum degi við húsið að innan. Á hornsteini Alþingishússins (1881) stendur; „Sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa.“
Frá 1881 hefur Alþingi haldið alla fundi sína í Alþingishúsinu ef frá eru taldir hátíðarfundirnir á Þingvöllum árin 1930, 1944, 1974, 1994 og 2000. Þegar þingi var slitið 27. ágúst 1881 var hafist handa við að flytja Stiftsbókasafnið (Landsbókasafnið) í Alþingishúsið. Var safnið opnað almenningi 6. mars 1882 og var í fyrstu opið þrjá tíma á dag þrjá daga vikunnar.
althingi-226Forngripasafnið (Þjóðminjasafnið) var flutt í húsið haustið 1881 og haft til sýnis tvisvar í viku. Það var til húsa á þriðju hæð og ætlað allgott rými. Á hæðinni var einnig herbergi sem geymdi húsbúnað Jóns Sigurðssonar forseta sem Tryggvi Gunnarsson hafði fest kaup á í Kaupmannahöfn og flutt til Íslands. Forngripasafnið var flutt í nýreist Landsbankahús árið 1899 og fékk Landsskjalasafnið (Þjóðskjalasafnið) þá þriðju hæð Alþingishússins til afnota.
Listasafnið bættist við í Alþingishúsinu þegar fyrstu verkin sem gefin höfðu verið til safnsins bárust til landsins árið 1885. Veturinn 1908-1909 fluttu Landsbókasafnið og Landsskjalasafnið svo í nýreist safnahús við Hverfisgötu. Listasafnið jókst smám saman að vöxtum og var verkum í eigu þess komið fyrir í ýmsum opinberum byggingum en mörg voru áfram til sýnis í Alþingishúsinu, allt fram til ársins 1950 þegar safnið fékk til umráða eigið húsnæði í húsi Þjóðminjasafnsins á háskólalóðinni.
Árið 1908 var Kringlan byggð við Alþingishúsið. Hún er á tveim hæðum og undir þeim kjallari þar sem komið var fyrir miðstöð fyrir allt húsið.
althingi-229Háskóli Íslands var stofnaður 1911 og hóf starfsemi sína í Alþingishúsinu. Þröngbýlt þótti í Alþingishúsinu við komu stúdentanna. Árið 1912 var horfið frá því að hafa vetrarþing og þingtíminn færður á sumarið þegar Háskólinn starfaði ekki. Alþingi og Háskólinn voru í sambýli þar til skólinn fluttist í eigin byggingu 1940. Menntaskólinn í Reykjavík fékk næsta vetur litla kennarastofu og tvær kennslustofur á fyrstu hæð fyrir gagnfræðadeild, en sumarið 1941 tók Alþingi fyrir þingflokka herbergin sem höfðu verið kennslustofur, en ríkisstjóri og síðar forseti Íslands skrifstofur þar sem verið hafði kennarastofa Háskólans og skrifstofa rektors. Skrifstofur forsetaembættisins voru fluttar úr Alþingishúsinu í Stjórnarráðshúsið árið 1973.
Þingmennirnir 63 hafa hver sitt sæti í þingsalnum. Bak við stól forseta er gengið út á svalirnar.
Í áranna rás hafði húsið tekið breytingum, til dæmis með tilkomu nýrrar tækni, svo sem síma, rafmagns, miðstöðvarkyndingar og tölvubúnaðar og oft var lítt hugað að áhrifum breytinganna á útlit hússins. Úreltar lagnir voru hreinsaðar burtu og gengið sem snyrtilegast frá nýjum. Eftir er að endurgera loftræstikerfi hússins.“

Alþingishúsið

Alþingishúsið.

 

 

Þjóðminjasafnið

Þjóðminjasafnið telst stofnað 24. febrúar 1863.
Þann dag færði Jón Árnason stiftsbókavörður stiftsyfirvöldum bréf frá Helga Sigurðssyni á Jörfa í Kolbeinsstaðahreppi þar sem hann býðst til að thjodminjasafn-221gefa Íslandi 15 gripi með þeirri ósk „að þeir verði fyrsti vísir til safns íslenskra fornmenja.” Íslenskir gripir höfðu fram að þessu einkum verið varðveittir í dönskum söfnum. Þórður Jónasson stiftamtmaður og Helgi Thordersen biskup þágu gjöfina skriflega samdægurs. Þeir fólu Jóni Árnasyni umsjón safnsins en hálfu ári seinna fékk hann að ráða Sigurð Guðmundsson málara sem annan umsjónarmann, en Sigurður hafði fyrstur sett fram hugmynd um stofnun safns af þessum toga.
Safnið var oftast nefnt Forngripasafnið fram til 1911 að það hlaut lögformlega það nafn sem enn gildir. Það var fyrstu áratugina til húsa á ýmsum háaloftum, Dómkirkju, Tukthúsi, Alþingishúsi og Landsbanka uns það fékk inni í risi Landsbókasafns við Hverfisgötu (nú Þjóðmenningarhúsi) 1908 og var þar fulla fjóra áratugi. Við stofnun lýðveldis 1944 ákvað Alþingi að reisa safninu eigið hús og var flutt í það um 1950.
thjodminjasafn-222Fyrstu níu áratugina var einkum leitast við að safna jarðfundnum forngripum, kirkjugripum og öðrum listgripum frá síðari öldum. Hálfri öld eftir að frumgripirnir 15 komu til varðveislu voru safnfærslurnar orðnar yfir sex þúsund.
Í tilefni Alþingishátíðarinnar 1930 afhentu dönsk yfirvöld um 200 íslenska dýrgripi úr dönskum söfnum og fjöldi íslenskra listgripa barst einnig frá Noregi. Nú má telja muni safnsins í tugum eða hundruðum þúsunda. Erfitt er reyndar að tilgreina nákvæma tölu því að í einu safnnúmeri geta verið margir gripir.
Almennum nytjahlutum sem ekki voru jafnframt listgripir var ekki byrjað að safna fyrr en eftir 1950, enda hafði húsrými verið takmarkað. Fjöldi ýmissa verkfæra og búsáhalda hefur stóraukist í safninu á síðari áratugum og upp úr 1970 var hafist handa við að safna tækniminjum.
Hlutverk Þjóðminjasafnsins er margþætt enda er því lögum samkvæmt ætlað að vera miðstöð þjóðminjavörslu.
Þjóðminjasafninu er einnig ætlað að stunda rannsóknir á thjodminjasafn-223menningarsögulegum minjum jafnframt því að miðla þekkingu á menningararfi þjóðarinnar. Á vegum safnsins starfa því sérfræðingar í fjölmörgum greinum, s.s. forvörslu, fornleifafræði, byggingarsögu, þjóðháttafræði, sagnfræði, listfræði og fleiri greinum. Minjavarslan felst í því að safna, varðveita, rannsaka og miðla þekkingu á þjóðararfinum í víðum skilningi, enda spanna minjar í vörslu safnsins allt frá þjóðháttum, húsbúnaði, fatnaði, listgripum, kirkjugripum, verkfærum og atvinnuminjum, til húsasafnsins sjálfs sem telur 43 hús vítt og breitt um landið.
Árið 1998 var ráðist í gagngera viðgerð og breytingar á safnhúsinu við Suðurgötu. Allir gripir voru fluttir í vandaðar geymslur, en starfsfólk fékk aðstöðu á tveimur stöðum í Kópavogi og Garðabæ. Nýuppgert Þjóðminjasafn með nýjum grunnsýningum og sérsýningum opnaði á ný þann 1. september 2004.
Þjóðminjasafnið

Á Þjóðminjasafninu.

 

Stjórnarráðið

„Hugmynd um byggingu hegningarhúss á Íslandi mun fyrst hafa komið fram árið 1734, þegar stiftamtmaður bauð amtmanni að reifa málið á alþingi í framhaldi af konungsbréfi um fangavist í stað líflátshegningar áður. Amtmaður taldi það annmörkum háð að koma hér á fót slíkri stofnun, og þegar lögmenn og sýslumenn vísuðu málinu frá vegna kostnaðar, féll það niður um sinn.
Stjornarradid-221Á árunum 1751-58 fóru gripdeildir og þjófnaður mjög í vöxt vegna hallæris í landinu. Málið kom til kasta Magnúsar Gíslasonar amtmanns sem taldi að öruggasta ráðið til þess að losna við vandræði af völdum þjófa væri að reisa í landinu hegningarhús. Og í sama streng tók stiftamtmaður. Nokkrum árum áður hafði Skúli Magnússon landfógeti orðað sömu hugmynd í erindi til stjórnarinnar og lagt til að fangarnir yrðu látnir vinna að spuna og öðrum störfum fyrir innréttingarnar nýju.
Hinn 20. mars 1759 var gefinn út konungsúrskurður um byggingu tugthúss á Íslandi og tilgreindir tveir tekjustofnar til þess að standa undir kostnaði, annars vegar leiga af sakeyri, lögð fram af konungi, og hins vegar skattur af fasteignum, greiddur af eigendum. Þótt sjöttungur skattsins, sem Íslendingar kölluðu tugthústollinn, væri áætlaður af konungseign, var augljóst að landsmenn yrðu sjálfir að greiða ríflega helming byggingarkostnaðar.
Þegar hér var komið sögunni, tók Magnús Gíslason að huga að framkvæmdum. Lagði hann til við stjórnina, að sakamönnum yrði gert að vinna að smíð hússins, og að henni lokinni, sem hann áætlaði að taka mundu fjögur ár, yrðu þeim gefnar upp sakir. Þá lagði hann einnig til að höfðu samráði við Skúla fógeta, að húsinu yrði valinn staður á Arnarhóli við Reykjavík. Þarf ekki að efa, að við staðarvalið hefur þeim Skúla gengið það helst til, að þeir sáu, að með því móti myndi auðveldast að nýta vinnu fanganna í þarfir innréttinganna.
Reykjavik 1860Vorið 1761 var hafist handa um undirbúning að byggingu hússins, aflað tækja og varnings og slegið upp skýli fyrir sakamenn, sem hófu þegar að draga að grjót og grafa fyrir veggjum, en umsjón með verkinu hafði Gissur Jónsson, lögréttumaður á Arnarhóli. Teikning að fangahúsinu hefur ekki varðveist, svo vitað sé, en fullvíst má telja, að hún hafi verið gerð af Georg David Anthon hirðhúsameistara. Í mars 1764 tók Anthon saman skrá yfir byggingarvörur til fangahússins og áætlaði kostnað við trésmíða- og snikkaravinnu að upphæð 1827 rd. og 16 sk. fyrir utan flutningskostnað til Íslands. Sigurður Magnússon trésmíðasveinn var ráðinn til að vinna tréverkið og Christopher Berger múrarasveinn, sem vann að múrverki á Bessastöðum, til að standa fyrir múrsmíðinni.
Verulegur skriður komst ekki á byggingu fangahússins fyrr en sumarið 1765. Olli miklu um það, að innansleikjan við frágang Bessastaðastofu reyndist drýgri en Magnús áætlaði í fyrstu. En ekki var frágangi hennar fyrr lokið en Berger hóf að reisa fangahúsið ásamt tveimur af þeim Íslendingum, sem höfðu lært hjá honum múrverk á Bessastöðum.

stjornarrad-3

Þá réð hann tvo Íslendinga til viðbótar og hugðist kenna þeim steinhöggvaraiðn, en verkamenn hans og handlangarar voru tugthúslimir, eins og áður segir. Allt að einu miðaði verkinu hægar en Magnús gerði ráð fyrir. Þó mun það hafa verið trúa manna í ársbyrjun 1767, að þess yrði ekki langt að bíða, að fulllokið yrði. Hinn 17. ágúst 1767 finnur nýr amtmaður, Ólafur Stefánsson, sig knúinn til að tilkynna rentukammeri, að Berger múrsmiður verði enn eitt ár að vinna við fangahúsið. Sama ár var sent til landsins timbur í þakið, sem var þó ekki byrjað að reisa fyrr en 1769. Smíði hússins var að fullu lokið veturinn 1770-71. Tugthúsið er talið geta rúmað 16 stórglæpamenn og 54 venjulega fanga.
Fljótlega eftir að Danir höfðu dregist inn í Napóleonsstyrjaldirnar 1807 gekk hagur Íslendinga allur saman vegna siglingateppu og vöruskorts. Þetta kom hart niður á föngum í tugthúsinu, og 1813 tilkynnti stiftamtmaður tugthússtjórninni, að til þess að bæta úr yfirvofandi neyð almennings hefði hann orðið að hætta rekstri tugthússins um sinn og ákveðið að limirnir, sem þar voru geymdir, skyldu sendast á sínar sveitir „inntil frekari ráðstöfunar“. Ári síðar staðfesti stjórnin þessa ákvörðun stiftamtmanns og 3. maí 1816 var tugthúsið formlega lagt niður með kóngsbréfi.
stjornarrad-2Árið 1819 bar það helst til tíðinda, að hér urðu stiftamtmannsskipti. Tók þá við embættinu Moltke greifi, 29 ára að aldri, og kom hingað út ásamt konu sinni að kynna sér aðstæður. Þótti honum yfirréttarhúsið, sem stjórnin hafði keypt fyrir embættið, bæði óhentugt og fátæklegt, og sótti því um leyfi til að breyta hinu „ónotaða tugthúsi“ í embættisbústað. Er skemmst frá því að segja að erindi hans fékk skjóta afgreiðslu: Í apríl var gefinn út konungsúrskurður, sem heimilaði breytingarnar, og í framhaldi af honum var gerður vandaður uppdráttur að nýrri herbergjaskipan. Ole Peter Möller, kaupmanni í Reykjavík, var falið að sjá um breytingarnar á húsinu og lét hann vinna verkið veturinn 1819-20. Hinn 2. mars 1820 taldist verkinu lokið með ítarlegri úttekt sem staðfesti að viðgerð og innrétting var í samræmi við tilgreind fyrirmæli.
Mikill kvistur var settur vestan á húsið sumarið 1866. Var kvisturinn notaður fyrir skrifstofur embættisins og skjalasafn.
Hinn 1. apríl 1873 tók Hilmar Finsen við nýstofnuðu embætti landshöfðingja skv. konungsúrskurði 4. maí 1872. Meðan sú skipan stóð, eða á tímabilinu 1873-1904, var húsið við embættið kennt og nefnt Landshöfðingjahús.
stjornarradid-4Hinn 1. febrúar 1904 gekk ný stjórnskipun í gildi, er landshöfðingjadæmið var lagt niður en heimastjórnin tók við. Þá tók Hannes Hafstein, fyrsti íslenski ráðherrann, við stjórnartaumum úr hendi Magnúsar Stephensens, sem gegnt hafði landshöfðingja-embættinu í átján ár og flutti nú í nýbyggt hús sitt við Skálholtsstíg. Þar með var sögu hússins sem embættisbústaðar lokið. Samkvæmt stjórnskipunarlögunum, sem staðfest höfðu verið 3. október 1903, voru veittar 11.000 kr. „til að breyta hinum núverandi landshöfðingjabústað í stjórnarráðskrifstofur og búa þær út“. Magnús Th. S. Blöndahl trésmiður, síðar útgerðarmaður og alþingismaður og sá hinn sami og byggt hafði hús landshöfðingja við Skálholtsstíg (Næpuna), var ráðinn til að sjá um framkvæmd verksins.
Þegar ráðherrarnir urðu þrír árið 1917, varð að stækka Stjórnarráðshúsið, til þess að þeir gætu allir komizt þar fyrir, auk þess sem störf Stjórnarráðsins höfðu aukizt það mikið á stríðsárunum, að með réttu mátti segja, að veruleg þörf hafi líka af þessari ástæðu verið orðin á rýmra húsnæði fyrir skrifstofur þess. Stjórnin hefur því ekki séð sér annað fært en að stækka húsið með því að byggja kvist á austurhlið þess, sem samsvaraði kvistinum á vesturhliðinni. Í kvistinum fengust tvö rúmgóð skrifstofuherbergi fyrir atvinnumálaráðherra og fjármálaráðherra.
Hér verður að lokum getið nokkurra helstu breytinga, sem gerðar hafa verið á húsinu á tímabilinu 1964-1996. Eftir að utanríkisráðuneytið flutti úr húsinu og skrifstofu forseta Íslands var komið þar fyrir 1973, var tekinn burt veggur milli skrifstofanna tveggja norðanmegin í vesturhelmingi hússins. Árið 1984 var hlaðið upp í glugga þann á suðurgafli hússins, sem settur var á húsið 1912.
Sumarið 1995 voru gerðar endurbætur á frágangi þaks. Þá var tekinn niður reykháfur, sem settur hafði verið á húsið í upphafi aldarinnar, en hinir tveir, sem verið hafa á húsinu frá öndverðu, voru klæddir flögusteini, eins og gert hafði verið þegar þakið var hellulagt laust upp úr miðri 19. öld.
Eftir að skrifstofa forseta Íslands flutti úr húsinu, var ákveðið að ráðast í gagngerar endurbætur á húsinu í þeim tilgangi að laga innra fyrirkomulag að breyttri notkun, endurskoða öryggismál og bæta tæknilegt ástand einstakra byggingarhluta.“ –
Þorsteinn Gunnarsson tók saman.

Stjórnarráðið

Stjórnarráðið.

Ráðherrabústaðurinn

Húsið við Tjarnargötu 32 sem nefnt er Ráðherrabústaðurinn var reist af Hannesi Hafstein, fyrsta ráðherra Íslands, árið 1906 og flutti hann þangað inn með fjölskyldu sína 26. mars 1907.
radherrab-221Húsið var upphaflega reist af Norðmanninum Hans Ellefsen hvalveiðiforstjóra á Sólbakka við Önundarfjörð árið 1892 en hann flutti starfsemi sína þaðan 1901 og bauð síðar vini sínum, Hannesi Hafstein sem verið hafði sýslumaður Ísfirðinga, húsið að gjöf að því er talið er eða til kaups á eina krónu, aðrir segja 5 krónur. Var húsið þá tekið sundur og flutt suður en það hafði verið einlyft bjálkahús með myndarlegum miðjukvisti, líklega upphaflega keypt tilsniðið frá Noregi.
Í Reykjavík var húsið endurbyggt með nýju lagi. Nú var það tvílyft með hærra og brattara þaki en áður og með þremur kvistum eða burstum á framhlið. Húsið er dæmigert fyrir svokallaðan bárujárnssveitser en drekaskrautið gefur því þjóðlegan rómantískan blæ.
Eftir að Hannes Hafstein lét af embætti 1909 beitti Björn Jónsson sem þá tók við embætti ráðherra Íslands sér fyrir því að Landssjóður keypti húsið í því skyni að gera það að föstum ráðherrabústað.
radherrab-222Ráðherrar Íslands bjuggu í Ráðherra-bústaðnum eftir þetta. Jón Magnússon, sem myndaði fyrsta íslenska ráðuneytið 1917 og bar því fyrstur heitið forsætisráðherra, kaus ekki að flytjast í Ráðherrabústaðinn en fékk hann samráðherrum sínum til bústaðar. Frá 1926 bjuggu allir forsætisráðherrar í Ráðherrabústaðinn til ársins 1942.
Fyrir Alþingishátíðina 1930 voru gerðar breytingar á neðri hæð hússins.
Ólafur Thors sem tók við af Hermanni Jónassyni sem forsætisráðherra 1942 flutti ekki í Ráðherrabústaðinn eins og forverar hans og ekki heldur Björn Þórðarson sem tók við af honum. Hermann fékk því að búa þar áfram allt fram í nóvember 1943. Nokkrum dögum seinna eða 1.des 1943 var haldin þar hin árlega þingmannaveisla.
radgerrab-223Þegar utanríkisráðuneytið var stofnað 1944 var Ráðherrabústaðurinn afhentur því. Einungis einn utanríkisráðherra notaði þó húsið til íbúðar en það var Bjarni Benediktsson á árunum 1947-1948. Síðar bjó þar í nokkur ár Hans G. Andersen þá skrifstofustjóri utanríkisráðuneytis.
Ráðherrabústaðurinn var upp frá þessu notaður sem móttökuhús utanríkisráðherra og ríkisstjórnar. Allt fram til 1972 hafði ríkisstjórnin opið hús í Ráðherrabústaðnum fyrir gesti og gangandi á 17. júní.

Árið 1956 urðu nokkur tímamót í sögu Ráðherrabústaðarins. Þá stóð fyrir dyrum fyrsta opinbera heimsókn erlends þjóðhöfðingja á lýðveldistímanum. Þetta voru dönsku konungshjónin, Friðrik IX og Ingiríður, og þótti mjög áríðandi að hafa móttökurnar sem höfðinglegastar. Ákveðið var að þau skyldu búa í Ráðherra-bústaðnum. Hann var rækilega gerður upp, keypt ný húsgögn og veggir prýddir listasverkum eftir fremstu listamenn þjóðarinnar, þar á meðal var stórt Kjarvalsmálverk sem Íslendingar gáfu Alexandrine drottningu árið 1930 en hún skilaði svo Íslendingum aftur í arfleiðsluskrá. Íbúð konungshjónanna sem útbúin var 1956 var á efri hæðinni.
Skömmu fyrir 1980 komst Ráðherrabústaðurinn aftur í umsjón forsætisráðuneytisins.  Enn gegnir Ráðherrabústaðurinn miklu hlutverki sem móttökuhús og fundarstaður.
Sólbakki

Húsið Sólbakki á Flateyri fyrir miðju 1898 – síðar Ráðherrabústaðurinn við Tjarnargötu í Reykjavík.

Skálafell

Í Stardal, dalnum ofan bæjarins Stardals í Kjalarneshreppi, eru a.m.k. fornar tóftir á tveimur stöðum; selstaða ofan Stardalsáar og u.þ.b. 14 metra langur skáli ofan dalsins (í Skálafelli). Við síðarnefndu tóftina má einnig sjá tóftir af öðrum minjum. Bendir það til þess að báðir staðirnir hafi verið fornir nytjastaðir. Vestari hluti dalsins er mýrar og keldur, en sá austari er öllu þurrari; svonefndir Akurvellir.
Stardalur-339Ari Gíslason skráði örnefni í Stardal. „Austasta jörð í Kjalarneshreppi. Upplýsingar um jörðina og nágrennið gaf Jónas Magnússon, verkstjóri og bóndi þar. Einnig er sóknarlýsing Bókmenntafélagsins 1840 höfð til hliðsjónar og aukið skýringum eftir henni. Þess skal geta, að á austurjaðri landsins er ekki farið eftir merkjum jarðarinnar, heldur farið þar austur á heiðina smávegis. Er það sökum þess, að Jónas er þar allra manna kunnugastur, og sé ég ekki ástæðu til að skilja það frá að sinni.
Þetta er fallegur dalur, sléttlendur og grasgefinn í botni.  Er þetta því mikið engjaland og dalurinn, sem gefið hefur bænum nafn sitt.  En áður mun bærinn hafa heitið  Múli. Hallur goðlaus bjó í Múla.  Gæti það hafa verið hér og nafnið svo breytzt, er jörðin fór í eyði og var lengi í auðn.  Inni í Stardal virðast vera byggðarleifar, og til er nafn á einu slíku, Akurvellir, innarlega í dalnum, milli Bolagils og Beinagils.  Þarna voru tættur, sem áin er að rifa niður. Neðan við Flágil voru einnig tættur sýnilegar, hvort sem það er eftir bæ eða sel.“
Stardalur-337Í annarri örnefnalýsingu framangreinds Jónasar Magnússonar segir m.a.: „Þessa örnefnaskrá hefur samansetta Egill Jónasson Stardal f. 14. sept. 1926 í Stardal, sonur Jónasar Magnússonar, bónda þar og Kristrúnar Eyvindsdóttur k. h. Höfundur er alinn upp á þessum stað. Hér er notast við þá þekkingu sem hann nam af föður sínum frá barnæsku en Jónas dvaldi frá fjögurra ára aldri í Stardal til elliára, var bóndi þar frá 1914 til 1965 að hann afhenti jörðina syni sínum Magnúsi sem nú býr þar. Magnús Sigurðsson, faðir Jónasar, bjó einnig í Stardal, frá árinu 1894 til dauðadags árið 1910,  en faðir hans Sigurður Guðmundsson frá Breiðavaði í Langadal í Húnavatnssýslu eignaðist jörðina og bjó þar á undan um nokkurt skeið eða frá 1871- 1888. Fyrir daga Sigurðar árin 1850-1871, sat og átti jörðina annar Húnvetningur, Jónas Jónasson frá Gafli í Svínadal, og voru þeir Sigurður og Jónas áður kunnir að norðan.
Stardalur-338Jörðin hefur þannig verið í eigu sömu fjölskyldu síðan 1871 og þar á undan í eigu vinafólks hennar í nær aldarfjórðung eða frá 1850. Líklegt verður að telja að flest merkustu örnefni hafi varðveist mann fram af manni á þessu tímabili en ógjörningur er að segja um aldur þeirra fyrir þann tíma, nema þeirra fáu sem varðveist hafa í rituðum eldri heimildum. Þessi skrá hefur verið borin undir bræður skrásetjara, Magnús Jónasson, bónda og eiganda jarðrinnar, og Eyvind Jónasson verkstjóra, Glæsibæ 3 Reykjavík. Auk þess hefur verið haft til hliðsjónar handrit um örnefni í eigu Magnúsar Jónassonar, samið eftir lýsingu og drögum að örnefnaskrá Jónasar Magnússonar. Þá hefur verið stuðst við skrá í eigu Örnefnastofnunar sem samin er af Ara Gíslasyni, að því hann segir eftir forsögn Jónasar Magnússonar, en sú skrá er full af missögnum og auk þess er þar grautað saman örnefnum jarðarinnar og annarra jarða eða landareigna utan marka hennar án þess að sjáist glöggt hvað sé hvað.“
Hvað sem framangreindu líður eru mjög fornar tóftir í Stardal ofanverðum, jafnvel þær elstu hér á landi, sem ástæða er til að rannsaka m.t.t. aldurs og notagildis.

Heimildir:
-Örnefnalýsingar fyrir Stardal – ÖÍ.

Stardalur

Bærinn í Stardal brann í janúar 1918.

Víkingaskip

Í Lesbók Morgunblaðsins árið 1951 fjallar Árni Óla um „Skilnað Reykjavíkur og Seltjarnarneshrepps“ í sögulegu samhengi. Spurning Árna er hvers vegna, þrátt fyrir allar tilfæringarnar á landamerkjum, geti landnámið Vík ekki verið í dag eitt og hið sama.

Árni Óla

Árni Óla.

„Upphaflega var Reykjavík stærsta jörð, sem nokkru sinni hefir verið á Íslandi. Land hennar náði yfir Kjósarsýslu, Gullbringusýslu og fjóra hreppa Árnessýslu, Wngvallasveit, Grafning, Ölfus og Selvogshrepp. En brátt saxast á land þetta, þyí að Ingólfur var óspar á að miðla öðrum af landnámi sínu. Eru táldir 18 landnámsmenn, er hann fekk lönd, og er þá svo komið að land Reykjavíkur nær ekki yfir meira en Seltjarnarneshrepp og vestasta hluta Mosfellssveitar. Og enn skerðist þetta land, því að sjálfstæðar jarðir rísa þar upp snemma, svo sem Nes við Seltjörn og Laugarnes. Örlyndi Ingólfs, sem kemur fram í því hvernig hann brytjar niður landnám sitt, verður trauðlega skýrt á annan veg en þann, að hann hafi ætlað sjer og afkomendum sínum að vera höfðingjar í þessu landi. En höfðingi gat enginn orðið nema sá, er hafði mannaforráð. Og að þeir feðgar hafi haft mannaforráð um alt landnámið, sjest á því er Þorsteinn Ingólfsson stofnar Kjalarnesþing.
Landnám Ingólfs
Reykjavík var enn góð jörð, þrátt fyrir alt, og höfuðból hefir hún verið fyrstu aldirnar. Hafa þar um ráðið hin miklu hlunnindi hennar, svo sem selalátur í Örfirisey, trjáreki, æðarvarp í eyjunum, laxveiði í Elliðaánum. Þá hafa og verið hjer ágæt fiskimið og fiskur oft gengið inn í Sundin. Þess vegna hefir jörðin getað framfleytt fjölda fólks og þess vegna rísa stöðugt upp nýar jarðir í landi hennar, þangað til svo er komið, að þetta höfuðból er orðið að kotjörð, hlunnindin hafa lent hjá öðrum eða farið forgörðum, og avo verður Danakonungur eigandi jarðarinnar. Niðurlægingarsagan er löng og ömurleg. Og þegar konungur gefur svo verksmiðjunum heimajörðina, þá er það ekki annað en kvosin, þar sem Miðbærinn stendur nú. Reykjavík var þá jörð í Seltjarnarneshreppi. En árið 1803 er hún gerð að sjerstöku lögsagnarumdæmi og fær sjerstakan bæjarfógeta. Lögsagnarumdæmið var miklu stærra en verslunarlóðin, því að innan þess voru Þingholt, Stöðlakot, Skálholtskot, Melshús, Melkot, Götuhús og Grjótaþorpið, og brátt bættist Landakot við.

Landnám Ingólfs

Landnám Ingólfs.

Þrátt fyrir þetta helst enn sambandið við Seltjarnarnes að nokkru leyti, því að fátækramálin voru sameiginleg og voru til þess alveg sjerstakar ástæður. Þegar eftir að verksmiðjurnar voru reistar hjer, og þó einkum eftir að verslunin var gefin frjáls og Reykjavík fekk kaupstaðar rjett indi, fór fólk að flykkjast þangað í atvinnuleit og margir settust þar að og komu sjer upp tómthúsbýlum, eða hinum svonefndu kotum. Margt af þessu fólki var blásnautt og upp á aðra komið hvenær sem versnaði í ári. Jukust því sveitarþrengsli óðum af þessum sökum.

Sölvhóll

Sölvhóll á Arnarhóli. Teikning eftir Árna Elfar.

Kotin voru ekki öll innan lögsagnarumdæmis Reykjavíkur, því að mörg höfðu verið reist í löndum Hlíðarhúss, Sels og Arnarhóls, en þær jarðir voru í Seltjarnarneshreppi. Þeir, sem í þessum kotum bjuggu, höfðu aðalatvinnu sína hjá kaupfnönnum bæjarins, og það var sú atvinnuvon, sem hafði dregið þá hingað. En þegar nú þessir menn gátu ekki sjeð fyrir sjer og sínum og urðu bónbjargarmenn, þótti það ekki sanngjarnt, að Seltjarnarneshreppur kostaði framfærslu þeirra. Myndi það hafa orðið honum ofraun fjárhagslega, ef hann hefði orðið að setja þessu bjargþrota fólki farborða. Þótti því sanngjarnt að Reykjavík tæki þátt í framfærslu þess, þar sem hún naut vinnukrafta þess. Þessi var megin ástæðan til þess að bær og hreppur höfðu sameiginlegt fátækraframfæri um langt skeið.
Seltjarnarnes
Það er dálítið einkennilegt, að vaxandi bygð varð upphaflega til þess að þröngva svo kosti Reykjavíkur, að höfuðbólið varð að kotjörð. Og nú þegar Reykjavík er orðin sjerstakt lögsagnarumdæmi, þá er það vaxandi bygð, sem þröngvar enn kosti hennar. Óáran og fiskleysi hjálpaði þar einnig til. Og árið 1806, eða þremur árum eftir að bærinn var gerður að sjerstöku lögsagnarumdæmi, er ástandinu hjer lýst á þennan hátt: „Fjöldi tómthúsmanna er hjer allrar bjargar laus, jafnvel bændur og það ekki einn, heldur allur fjöldi, sem við vissum að fyrir fáum árum voru velmegandi og áttu drjúga peninga fyrirliggjandi, eru nú ekki alleina fjelausir, heldur komnir í stórskuldir. Verslun öll hin versta. Kaupmenn neita um lán og halda vörum sínum dýrum, sjer í lagi móti peningum, sem þeir nú hafa sett niður um 10—20% móti sveitar og sjávarvörum“. Þá voru innan lögsagnarumdæmisins 446 íbúar, þar af ekki nema 134 vinnufærir menn. Þótti forráðamönnum nú þunglega horfa og var gripið til þess ráðs, sem enn þykir hið mesta þjóðráð á ýmsum stöðum, að reyna að hefta aðflutning fólks, og þá einnig að koma þurfamönnum af höndum sjer.

Finnur magnússon

Finnur Magnússon.

Finnur Magnússon var þennan vetur settur bæjarfógeti í stað Frydensberg, sem var ytra. Hann gaf út auglýsingu í mars og var hún kynt almenningi með því að lesa hana í prjedikunarstóli kirljunnar. Þar er öllu útánveitarfólki í kaupstöðum og tilheyrandi kotum“ skipað að hafa sig á burt fyrir fardaga, ef það geti ekki sannað að það sje sjálfbjarga. Ennfremur er öllum húsráðendum í kaupstaðnum og kotunum stranglega bannað að hýsa utansveitarfólk, nema með samþykki bæjarfógeta. Afleiðingin af þessu varð sú, að á næstu tveimur árum fækkaði fólki hjer um 90 manns, eða rúmlega 20 af hundraði. En þrátt fyrir það jukust sveitarþyngsli meira en um helming.

Um þessar mundir var það að Gunnlaugur Briem sýslumaður kom frarn með þá uppástungu að leggja Seltjarnarneshrepp undir Reykjavík. Vildi hann að embættismenn fengi jarðirnar á Seltjarnarnesi til afnota, svo að þeir gæli haft þar búskap og framleitt landbúnaðarafurðir. Jafnframt yrði þá lokið allri óánægju út af fátækramálunum. En þeir Frydensberg bæarfógeti og Trampe stiptamtmaður snerust báðir öndverðir gegn þessari tillögu.

Gunnlaugur Briem

Gunnlaugur Briem.

Trampe var algjörlega mótfallinn því að embættismenn fengi bújarðir, en Frydensberg óttaðist að sveitarþyngsli mundu mjög aukast. Er líklegt að hann hafi þá borið fyrir brjósti hag hinna dönsku kaupmanna, því að þeir voru altaf að rífast út af því að þurfalingar settust hjer að. Er álit Frydensberg mjög í samræmi við álit kaupmannanna, að til Reykjavíkur og Seltjarnarness flykkist allskonar hrakmenni (Uuskud) þegar vel fiskast, hlaði þar niður börnum, og þar sem fæðingarhreppur hafi framfærslu skyldu, þá sitji hreppurinn og bærinn uppi með það alt þegar harðnaði í ári. Tveimur árum seinna hófst ófriðurinn milli Dana og Englendinga og var þá alt á hverfandi hveli hjer og menn höfðu um annað að hugsa en þessa smámuni, sem samband Reykjavíkur og Seltjarnarnesshrepps um framfærslu þurfamanna. Dýrtíð og vöruskortur svarf meir og meir að fólkinu og eru þar um hörmulegar sögur.
Árið 1813 segir bæjarfógeti svo í skýrslu til stjórnarinnar, að þá gangi neyðin nær mönnum heldur en hann viti til af eigin reynd og nú stórsjái á 2/3 af íbúunum í Reykjavík. Castenskjöld var þá orðinn stiftamtmaður, og hóf hann nú máls á því, að rjett væri að slíta sambandi Reykjavíkur og Seltjarnarnesshrepps. En bæjarfógeti var því andvígur og kvað það ekki geta komið til mála, því að aldrei hefði ástandið verið alvarlegra en nú. Og við það sat í það skifti.

Arnarhóll

Arnarhóll.

Leið nú og beið fram til ársins 1834. Á því ári öndverðu voru gefnar út reglur um fátækramálefni. Segir þar að hver hreppur skuli vera sjerstök framfærslusveit, með þeirri undantekningu að Reykjavík skuli vera í sambandi við Seltjarnarnesshrepp um fátækramál. Segir þó, að ef ráðlegt teljist að þessu sje breytt þá skuli amtmaður senda álit og tillögur um það til Kansellí.
Árið eftir gerist svo það, að lögsagnarumdæmi Reykjavíkur er stækkað að mun. Er þá bætt við það Hlíðarhúsum, Ánanaustum, Seli, Örfirisey, Arnarhóli og Rauðará, ásamt öllum kotum í landi þeirra. Urðu þá takmörk lögsagnarumdæmisins þessi: Að vestan lönd Eiðis og Lambastaða, að sunnan Skildinganesland, að austan Laugarnessland. Með þessari breytingu fékk Reykjavík í sinn hlut flesta þá tómthúsmenn, er hjer höfðu sest að.

Landnám

Landnám Ingólfs – skipting.

Reykjavík var nú orðin svo stór, að full ástæða þótti til að hún fengi reglugerð um bæjarmálefni sín. Því var það á öndverðu ári 1839 að amtmaðurinn í Suðuramtinu skrifaði Kansellíbrjef um þetta og sendi með frumvarp að slíkri tilskipun. Var hún alveg sniðin eftir tilskipun um bæjarmálefni í Danmörk, nema hvað gert var ráð fyrir því að enn heldist samband kaupstaðarins og hreppsins um fátækramálefni. Kansellí sendi frumvarpið til embættismannanefndarinnar, sem settist á rökstóla þá um sumarið, og bað um álit hennar. Nefndin varð sammála um að gera þá höfuðbreytingu á frumvarpinu, að sambandi Reykjavíkur og Seltjarnarness skyldi slitið og fjárskifti fara fram að bestu manna yfirsýn. Nefndin rökstyður þetta á þann hátt, að ástæðan fyrir fjelagi bæar og hrepps um fátækramál hafi fallið niður um leið og lögsagnarumdæmi Reykjavíkur var stækkað. Áður hefði það ekki verið nema sanngjarnt að Reykjavík tæki þátt í fátækraframfærslu tómthúsmanna, sem bjuggu utan lögsagnarumdæmisins en stunduðu vinnu í bænum.

Landnámið

Landnám Ingólfs – sveitarfélög.

Áður en tillögur embættismannanefndar væri sendar Kansellí, leitaði stiftamtmaður álits bæjarstjórnar Reykjavíkur og hreppstjórans í Seltjarnarnesshreppi. Álit bæjarstjórnar fór í þveröfuga átt við skoðanir embættismannanefndarinnar. Segir svo í því: „Áður en lögsagnarumdæmi Reykjavíkur var stækkað var fult af þurfamönnum á næstu bæjum, Hlíðarhúsum, Ánanaustum, Sauðagerði, Seli, Rauðará o.s.frv. Voru þeir aðallega hjer úr sýslunni, en þó víðs vegar að af landinu. Það gerði ekki svo mikið til á meðan fátækraframfærslan var sameiginleg, þótt lögsagnarumdæmi Reykjavíkur væri stækkað, en hefði menn þá grunað að aðskilnaður fátækramálefnahreppsins og bæjarins væri aðsigi, hlutu menn að sjá að stækkun lögsagnarumdæmisins yrði til tjóns fyrir bæinn og mjög þungbær, því að á þessu svæði býr fjöldi þurfamanna úr sýslunni.
Reykjavík
Það hefði því verið happadrýgst fyrir Reykvíkinga, að lögsagnarumdæmið hefði ekki verið stækkað, því að þótt hreppurinn tæki nú við öllum þeim þurfamönnum, sem þar eru, þá er hætt við að fátæktin verði þar svo arfgeng, að fjöldinn allur af þeim tómthúsmönnum, sem eftir verða, muni þurfa á mikilli fátækrahjálp að halda, einkum ef harðnar í ári. Vjer teljum því, að skilnaður bæjar og hrepps muni verða bænum mjög þungbær þegar fram í sækir, nema því aðeins að lögsagnarumdæmi Reykjavíkur verði aftur minkað, og látið vera eins og það var fyrir breytnguna 1835“, Hjer kemur allgreinilega fram sú einangrunarstefna, sem þá ríkti hjer í bænum, og átti eflaust upptök sín hjá hinum dönsku kaupmönnum, sem sáu eftir hverjum eyri til almenningsþarfa, þótt þeir lifðu sjálfir í sukki og sællífi. Bænum var orðin hin mesta nauðsyn á því að færa út kvíarnar en samt vildi bæarstjórn nú vinna það til fyrir meðlag nokkurra þurfamanna að marka bænum sinn upphaflega bás á landi jarðarinnar Víkur. Þetta var þó aðeins fljótfærni hjá bæjarfulltrúunum, eins og þeir sáu síðar.

Arnarhóll

Arnarhóll og nágrannajarðir 1703.

Vegna þessarar afstöðu bæjarfulltrúanna þótti Kansellí viðsjárvert að fara fram á skilnað bæjar og hrepps. Sendi það því frumvarpið aftur til embættismannanefndarinnar og bað hana að taka það til athugunar að nýju. Jafnframt ljét Kansellí þess getið að það teldi að Seltjarnarneshreppur mundi bíða tjón af skilnaðinum, er Reykjavík græða á honum. Hœtta væri og ef til vildi á því, að Reykjavík reyndi að stjaka mönnum frá sjer og fá þá til að setjast að í Hreppnum, og geta þannig haft hagnaðinn af vinnu þeirra, en varpað framfærsluþunganum yfir á hreppinn.
Áður en stiftamtmaður lagði frumvarpið að nýju fyrir embættismannanefndina (1841), leitaði hann álits bæjarfulltrúa og fátækrastjórnar bæjar og hrepps. Og nú brá svo undarlega við, að þeir æsktu allir eftir skilnaði. Hafði fátækrastjórnin athugað útgjöld bæar og hrepps til þurfamanna seinustu 12 árin, og á þeim tíma höfðu Reykvíkingar greitt 5181 rdl., en hreppurinn 2220 rdl. Eftir því gæti skifting farið fram eftir hlutfallinu 26:11 og væri sú tala líka rjétt, ef tekið væri tillit um mannfjölda í hrepp og bæ.

Seltjarnarnes

Mörk Seltjarnarness og Reykjavíkur árið 1700. Eiði og Örfirisey.

Með þessu var hnúturinn leystur að kalla, áður en málið kæmi til embættismannanefndarinnar. Ræddi hún því aðallega um hvernig skilnaðinn skyldi framkvæma að öðru leyti. Taldi hún víst að í fyrstu myndi rísa upp ýmis vafamál, en á hitt bæri fremur að líta, að eftir skilnaðinn yrði stjórn fátækramálanna einfaldari og óbrotnari og „stjórnendur fátækramálefnanna fengi meira ráðrúm og næði og meiri festu í störf sín en ella.“

Mosfellssveit

Mosfellssveit og Mosfellsheiði – mörk (rauð) 2022.

Eitt af vandamálum skilnaðarins var það, hvar ætti að lenda þeir þurfamenn, sem dvalist höfðu sitt á hvað í hreppnum og bænum. „Nefndin áleit að leysa mætti þetta þannig, að bæinn og hreppinn væri í tilliti til annara hreppa að álíta hin fyrstu árin eftir skiftin sem eitt, en að því leyti vafi væri á hvort hreppur eða bær ætti að annast einhvern þurfaling, þá skyldi þessi vera þar sveitlægur er hárin hefði dvalist hinn mesta hluta af 5 árum, ellegar þó heldur sjerhver þurfamaður verða sveitlægur þar sem hann væri, þó hann eftir skilnaðinn þyrfti á styrk að halda, þegar hann fyrir og eftir skilnaðinn hefði dvalist til samans í bænum og hreppnum um 5 ára tíma“. Lagði nefndin svo til að sjerstakri nefnd yrði falið að sjá um skilnaðinn og skiftin og ætti í henni að vera þáverandi fátækrastjórn og nokkrir dánumenn, sem amtmaður tilnefndi.

Reykjavík

FYRIR nær réttum 160 árum, í október, var kveðinn upp úrskurður sem leiddi af sér að torfbæir hurfu úr miðbæ Reykjavíkur. Það var Stefán Gunnlaugsson bæjarfógeti sem kvað upp þennan dóm í framhaldi af því að Jóhannes Zoëga ætlaði að laga hesthúskofa og torfbæ sinn. Faðir þessa Jóhannesar var Jóhannes Zoëga eldri sem að sögn Árna Óla í bókinni, Reykjavík fyrri tíma, var ættaður frá Slésvík. Frá honum og konu hans, Ástríði Jónsdóttur, er Zoëgaættin komin. Hinn 29. maí 1839 hafði Friðrik VI gefið út opið bréf um stofnun byggingarnefndar í Reykjavík, sem ekki var vanþörf á, því áður höfðu menn getað byggt þar sem þeim sýndist. Það var í verkahring byggingarnefndar að sjá um skipulag bæjarins, ákveða hvar götur og torg skyldu vera og úthluta lóðum undir byggingar. Í Suggersbæ Jóhannesar Zoëga, 90 ára torfbæ, var þakið tekið að leka og vildi eigandinn gera við það en hóf framkvæmdir án þess að bíða álits byggingarnefndar. Byggingarnefnd skaut málinu til yfirvalda sem kváðu upp fyrrnefndan úrskurð. Út af þessu máli var svo bannað að byggja torfkofa í miðbænum í Reykjavík og jafnframt ákveðið að uppistandandi torfbæir skyldu rifnir þegar þeir þörfnuðust viðgerðar.

Það er sennilega Stefáni Gunnlaugssyni mest að þakka að svo hljóðalítið náðist samkomulag um þetta mál. Hann var einn í þeirri nefnd er embættismannanefndin fól að athuga málið, og hann var einnig bæjarfógeti hjer og formaður bæjarstjórnar. Hann hafði frá öndverðu talið að báðir aðilar hefði hag af skilnaðinum og gat beitt áhrifum sínum í embættismannanefndinni og bæði gagnvart bæarfulltrúum og fátækrastjórn. Hitt hefir hann ekki látið sig neinu skifta hvað kaupmannaklíkan í bænum vildi.
Málið var nú aftur sent Kansellí. Það ráðgaðist við Rentukammer um það, og var Rentukammer því fylgjandi að skilnaður færi fram. En málið var þó saltað um sinn, vegna þess að nú stóð til að endurreisa Alþingi og mun Kansellí hafa þótt rjett að málið kæmi til þess kasts.
Alþingi kom svo saman sumarið 1845. Stjórnin lagði þá fyrir það frumvarp til reglugerðar um stjórn bæarmálefna í Reykjavík, og segir svo í 1. gr. þess: Kaupstaðurinn Reykjavík skal framvegis eins og áður eiga þing sjer með takmörkum þeim, sem þinghánni eru sett í konungsúrskurði 24. febr. 1835. Skal þó sambandi því, sem er á milli fátækrastjórnar kaupstaðarins og Seltjarnarnesshrepps slitið. Skal skilnaður þeirra hefjast um byrjun hins fyrsta reikningsárs eftir að þessi tilskipun vor er flutt til Reykjavíkur. Upp frá þessum tíma skal fátækramálefnum í Seltjarnarneshreppi stýrt á sama hatt, sem í öðrum hreppum, en í Reykjavík skal stjórn á fátækramálefnum löguð samkvæmt reglum þeim, sem settar eru í reglugerð um fátækrastjórnir hvorutveggja, þó skulu í nefnd þeirri, er stjórn hefir á hendi, einungis sitja dómkirkjuprestur, bæjarstjóri og 2 fátækrastjórar. — Fje því, er fátækrahrepparnir eiga saman, svo og álögum, skal skift eftir hlutfalli 26:11. — Þessi skifti skulu gerð af nefnd þeirri, er hefir haft sameiginlega fátækrastjórn í báðum hreppum, ásamt 5 dánumönnum, 2 úr Reykjavík og 3 úr Seltjarnarneshreppi og skal amtmaður kjósa þá.

Arni Helgason

Árni Helgason.

Þingið kaus þegar í upphafi nefnd 5 kunnugra manna til þess að athuga málið og voru í henni Þorgr. Thomsen skólaráðsmaður, Árni Helgason stiftprófastur, Helgi G. Thordersen prófastur, J. Johnsen assesor og Jón Sigurðsson stúdent. Var og farið fram á það að Jón Guðmundsson veitti nefndinni aðstoð sem sá maður er best vit hefði á þessu. Helstu breytingar sem nefndin gerði voru þær, að fátækrafulltrúar í Reykjavík, yrði þrír, og að amtmaður tilnefndi ekki menn í skilanefndina heldur yrði þeir kosnir af bæjarstjórn og hreppsbúum, „þar eð vjer getum ekki treyst amtmanni eins vel og hverjum þessara fyrir sig til að kjósa þá, sem best sje kjörnir til þessa starfa“. Konungsfulltrúi lagðist fast á móti því, að Seltirningar fengi sjálfir að kjósa fulltrúa sína, en því var ekki skeytt og frv. samþykt með þessum breytingum. Konungur staðfesti síðan frv. eins og Alþingi gekk frá því (27. nóv. 1846).

Helgi G. Thodrarensen

Helgi G. Thodrarensen.

Þá lá næst fyrir að kjósa skilanefndina. Reykvíkingar kusu þá Jón Markússon kaupmann og Sveinbjörn Jakobsen kaupmann, en Seltirningar kusu Helga G. Thordersen, Þórð Sveinbjörnsson háyfirdómara og Pjetur bónda Guðmundsson í Engey. Sjálfkjörnir í nefndina voru bæarfógeti, bæjargjaldkeri, Moritz Biering kaupmaður, Ásgeir Finnbogason í Bráðræði og Sigurður Ingjaldsson í Hrólfsskála, en þeir höfðu fram að þessu stjórnað sameiginlegum fátækramálum.
Nefndin hélt fyrsta fund sinn á Jónsmessu 1847 og varð þegar nokkurn veginn ásátt um það hvernig skiftum skyldi haga. Þá voru hjer 33 ómagar, en auk þess fengu 12 heimilisfeður nokkurn styrk. Alls var fátækraframfærið 106% tunna af rúgi, og tók Seltjarnarneshreppur að sjer ákveðna ómaga og heimilisfeður, sem fengið höfðu 32 tunnur af rúgi, en Reykjavík sat með hina. Um haustið (5. nóv.) fóru svo fullnaðarskifti fram. Sameiginlegar eignir voru taldar 2650 rdl. 12 sk. Urðu menn vel ásáttir um skiftin og komu 1862 rdl. 24 sk. í hlut Reykjavíkur, en 787 rdl. 84 sk. í hlut hreppsins. Var samningur þessi staðfestur af stjórninni og þar með var fullkomnaður skilnaður Reykjavíkur og Seltjarnarnesshrepps.

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – herforningjaráðskort frá 1908.

En svo hafa örlög þeirra verið nátengd, að skiftingin hlaut að leiða til margskonar árekstra. Seltjarnarnesshreppur varð mesta uppgangssveit, en Reykjavík óx henni þó yfir höfuð og varð æ voldugri og ágengari nágranni, vegna þess að henni var lífsnauðsyn á útþenslu. Hefir þetta aðallega bitnað á Seltjarnarnesshreppi og er nú svo komið að manni verður á að spyrja hvort ekki hefði verið happadrýgst fyrir báða aðila að tillaga Gunnlaugs sýslumanns Briem um sameiningu kaupstaðar og hrepps hefði náð fram að ganga fyrir tæpum 150 árum. Eftir öllum sólarmerkjum hlýtur þessi sameining að fara fram. Viðburðarásin stefnir öll að því og skal hjer drepið á hið helsta.

Reykjavík

Reykjavík – lögbýli 1703.

Þegar hið forna Kjalarnesþing skiftist í tvær sýslur fengu þær ný nöfn og var önnur nefnd Gullbringusýsla en hin Kjósarsýsla. Sýslumörkin voru Elliðaár, Hólmsá upp í Vötn og þaðan í Lyklafell að sýslumörkum Árnessýslu. Halda margir enn í dag að þessi sje sýslumörkin og þar mætist þrjár sýslur. En svo er ekki. Sýslumörkin færðust vestur í Bláfjöll, vegna þess að Seltjarnarneshreppi var svo að segja rænt frá Gullbringusýslu og honum skeytt við Kjósarsýslu. En um það er þessi saga.
Sýslurnar höfðu um nokkurt skeið verið sameinaðar og var sýslunefnd þannig skipuð að í henni voru 3 fulltrúar frá Kjósarsýslu en 9 frá Gullbringusýslu. Urðu stundum ýmsar greinir í með fulltrúunum vegna þess hvað atvinnuhættir voru ólíkir í sýslunum. Í Kjósarsýslu stunduðu allir landbúnað, en í Gullbringusýslu var mest treyst á sjóinn. Og er nú kom að því að útlend skip spiltu svo veiðum í Faxaflóa að afli brást á opna báta og bágindi urðu meðal Suðurnesjamanna, þá tóku Kjósarmenn að ókyrrast. Út af því var það, að sjera Þórarinn Böðvarsson bar fram á Alþingi 1877, að þeirra ósk, frumvarp um skilnað sýslanna.

Mosfellsbær

Mosfellsbær.

Það féll í Neðri deild með jöfnum atkvæðum og varð því það að fótakefli að málið hafði ekki verið borið undir sýslunefnd. Tveimur árum seinna kom frv. aftur fram á Alþingi, en dagaði uppi. Þá var farið með málið til sýslunefndar og felst hún á það 1880 að skilnaðurinn færi fram og skyldi hin gömlu sýslumörk haldast. Enn kom málið fyrir Alþingi 1881 og var fyrst tekið til meðferðar í neðri deild. Þingmenn litu svo á að Kjósarsýsla yrði alt of lítil, aðeins 3 hreppar og bættu því inn í frumvarpið að Seltjarnarshreppur skyldi leggjast við Kjósarsýslu. Þegar til efri deildar kom var frumvarpið felt vegna þessarar breytingar og sýslunefnd tjáði sig einnig mótfallna því að hinum gömlu sýslumörkum væri raskað.

Kópavogur

Kópavogur – umdæmismörk 2020.

Nú lá málið niðri þangað til árið 1903. Þá bar Björn Kristjánsson fram frv. á Alþingi um skilnað sýslanna og skyldu ráða hin gömlu sýslumörk. En þá reis landshöfðingi og sagði að það væri fásinna að gera 3 hreppa að sýslu. Kvaðst hann mundu verða á móti frv. ef Seltjarnarnesshreppi væri ekki bætt við Kjósarsýslu. Var svo farið að vilja hans og málið afgreitt sem lög. Sýslunefnd var nú alls ekki spurð hvort henni þætti betur eða ver, og enginn mælti gegn frv. nema Skúli Thoroddsen. Vildi hann að hreppsbúar á Seltjarnarnesi væri að því spurðir hvort þeir vildu heldur vera í Kjósarsýslu eða Gullbringusýslu, en því var ekki sint.

Kjósarhreppur

Kjósarhreppur – bæir og mörk (rauð lína).

Þannig skeði það rjettum 100 árum eftir að Reykjavík var gerð að sjerstöku lögsagnarumdæmi, að Seltjarnarnes, sem altaf hafði verið í Gullbringusýslu, var lagt undir Kjósarsýslu án þess að sýslunefnd og hreppsbúar fengi þar neitt um að segja.

Seltjarnarnes

Nes og Neskirkja fyrrum.

Upphaflega voru þrjár kirkjusóknir í Seltjarnarnessókn, Nessókn, Víkursókn og Laugarnessókn. Víkurkirkjan var aðalkirkja, hitt voru annexíur. Árið 1794, þegar byrjað var á dómkirkjusmíð í Reykjavík, var birt konungleg tilskipun um að leggja niður Laugarnesskirkju, vegna þess að hún væri komin að hruni, og bæta sókninni við Víkursókn. Þremurr árum seinna kemur svo annar Konunglegur úrskurður um það að Neskirkja skuli lögð niður og sókninni bætt við Víkursókn. Segir Jón biskup Helgason að Seltirningar hafi tekið þessu dauflega, en ekki fengið við ráðið, Neskirkja hafði þá verið endurbygð fyrir skömmu og var hið stæðilegasta hús. En í ofviðrinu mikla hinn 9. janúar 1799 (þegar sjávarflóð sópaði burt Básendakauptúni) fauk Neskirkja.
Upp frá því var Dómkirkjan eina guðshúsið á Seltjarnarnesi og þangað áttu allir hreppsbúar kirkjusókn upp frá því, svo að í kirkjumálum hefir samband hrepps og kaupstaðar haldist síðan.

Reykjavík

Reykjavík – Laugarnes 1836.

Næst er svo að segja frá útþenslu Reykjavíkur.
1894 voru sett lög um það, að jarðirnar Laugarnes og Kleppur skyldu lagðar undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur frá fardögum. Höfðu Seltirningar þó barist með hnúum og hnefum gegn því.
1923 voru sett lög um það, að jarðirnar Breiðholt, Bústaðir og Eiði skyldu lagðar undir lögsagnarumdæmi og bæarfjelag Reykjavíkur, og jafnframt heimilaðist Seltjarnarneshreppi vatn og rafmagn frá Reykjavík, gegn því að greiða kostnað við að koma því þangað. „Frá sama tíma var og rafmangsstöðin við Elliðaár ásamt íbúðarhúsi og lóð, svo og Elliðaárnar með árhólmanum, árfarvegunum og landi á austurbökkum ánna er þarf til byggingar þeirra mannvirkja, er þurfa þykir framvegis til hagnýtingar vatnsorkunnar að fullu og vegna laxveiðinnar og starfrækslu hennar, úr landi jarðanna Ártúns og Árbæjar í Mosfellssveit, lögð undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur“.

Seltjarnarnes

Nesstofa – Esja í bakgrunni.

Eftir þessa breytingu var Seltjarnarnesshreppur orðinn einhver einkennilegasti hreppur á landinu, vegna þess hvað hann var í mörgum molum. Fyrst var nú Framnesið sjálft, svo var Skildinganes umlukt Reykjavíkurlandi, svo voru bæirnir Digranes, Kópavogur og Fífuhvammur á einni skákinni, á fjórðu skákinni voru bæirnir Vatnsendi, Elliðavatn, Hólmur og Lækjarbotnar, og svo voru eyjarnar hjer úti fyrir.
1929 voru svo jarðirnar Ártún og Árbær að fullu innlimaðar lögsagnarumdæmi Reykjavíkur.

Elliðavatn

Elliðavatn – bærinn.

1931 voru enn sett lög um stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur. Þá voru undir hana lagðar jarðirnar Þormóðsstaðir og Skildinganes „ásamt öllum lóðum og löndum, sem seldar hafa verið frá þeim, svo og verslunarstaðurinn Skildinganes við Skerjafjörð“. Var svo ákveðið að fyrir árslok 1932 skyldu fara fram endanleg fjárskifti milli Reykjavíkur og Seltjarnarnesshrepps, þar á meðal væntanleg skaðabótagreiðsla til hreppsins og Kjósarsýslu vegna laga þessara, og Reykjavík var gert að skyldu að kaupa vatnsveitu Skildinganesskauptúns.

Vatnsendi

Vatnsendi.

1942 voru sett lög um að Reykjavík mætti taka eignarnámi spildu af landi jarðarinnar Vatnsenda í Seltjarnarnesshreppi til þess að auka við fyrirhugað friðland Reykvíkinga á Heiðmörk.
1943 fer svo fram mesta stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur. Þá eru undir hana lagðar jarðirnar Elliðavatn og Hólmur í Seltjarnarnesshreppi, „ásamt lóðum og löndum, er úr þeim hafa verið seldar, svo og spilda sú úr landi Vatnsenda, er Reykjavík kann að taka eignarnámi“. Ennfremur jarðirnar Grafarholt (að svo miklu leyti sem eignarnámsheimild nær til), Gufunes, Keldur, Eiði, Knútskot, Korpúlfsstaðir, Lambhagi, nýbýlið Engi, Reynisvatn og jarðarhlutinn Hólmsheiði í Mosfellssveit ásamt öllum lóðum og löndum, sem seldar hafa verið úr þeim.

Landnám

Landnám Ingólfs – hluti af Íslandskorti 1550.

Skömmu eftir að þetta var, fer Digranesháls að byggjast, alt út á Kársnes. Ríkissjóður á þetta land og úthlutaði því til ræktunar, en ekki var til þess ætlast upphaflega að þar risi bygð, nema hreppsnefnd Seltjarnarness leyfði. Mikil eftirsókn var að löndum þarna og fengu færri en vildu. Sýnir það best hvað Reykvíkingar eru sólgnir í að fá land til ræktunar og komast í samband við gróðurmoldina, því að það voru Reykvíkingar, sem lögðu Digranesháls undir sig. Til þess að geta hagnýtt löndin urðu þeir að byggja þar skýli, og vegna húsnæðiseklunnar í Reykjavík, urðu brátt úr skýlunum íbúðarhús. Þau þutu þarna upp, hvað sem hreppsnefndin sagði, og hún rjeði ekki neitt við það hverjir fluttust inn í hreppinn á þennan hátt. Út af þessu varð svo óánægja, sem leiddi til þess, að nýbýlahverfið sagði sig úr lögum við Seltjarnarnesshrepp. Var þar stofnaður sjerstakur hreppur árið 1947 og heitir Kópavogshreppur, og undir hann lagðar jarðirnar Digranes, Kópavogur, Fífuhvammur, Vatnsendi, Geirland, Gunnarshólmi og Lögberg (Lækjarbotnar). Hreppur þessi er í þremur skákum, nesið sjálft, Vatnsendaland umkringt Reykjavíkurlandi og efst þrjú býli út af fyrir sig. En Seltjarnarnesshreppur er nú ekki orðinn annað en totan fyrir framan Lambastaði og svo eyjarnar.
Þess getur áreiðanlega ekki orðið langt að bíða, að lögsagnarumdæmi Reykjavíkur verði látið ná yfir alt Seltjarnarnes, og hverfur þá Seltjarnarnesshreppur úr sögunni. En Kópavogshreppur hinn nýi á líka að sameinast Reykjavík. Hann er hvort sem er ekki annað en úthverfi Reykjavíkur og verður að byggja tilveru sína á Reykjavík. Þar eru engin atvinnufyrirtæki, er geti veitt íbúunum atvinnu. Hana verða þeir að sækja til Reykjavíkur. Þeir eru og algjörlega upp á Reykjavík komnir með vatn og rafmagn, og eðlilegast er að Reykjavík sjái þeim fyrir bættum samgöngum.

Íslandskort

Íslandskort (Nova et accurata Islandiæ delineatio) frá árinu 1670, gert af Þórði Þorlákssyni biskupi í Skálholti. Fyrir neðan Íslandskortið er Lofkvæði til Kristjáns konungs V, skrifað í fjóra dálka, á latínu, dönsku og íslensku með venjulegu letri og rúnaletri. Efst á kortinu eru myndir af sjávardýrum og skjaldarmerki Íslands, sem er flattur þorskur borinn af tveimur fuglum, í hægra horni, þar fyrir neðan er titill. Í neðra horni vinstra megin er skjöldur með táknmyndum og tileinkun til Kristjáns V. Danakonungs. 

Rás örlaganna verður ekki stöðvuð. Sá búhnykkur Magnúsar Stephensen landshöfðingja, að taka Seltjarnarnesshrepp af Gullbringusýslu og skeyta honum við Kjósarsýslu, hefir ekki reynst haldbært nje heppilegt fyrirtæki. Lögsagnarumdæmi Reykjavíkur er komið sem fleygur milli sýslanna, alt suður að takmörkum Árnessýslu í Bláfjöllum, en með smáblettum inn á milli, sem enn teljast sjerstakir hreppar. Að því hlýtur að koma, áður en langt um líður, að þessir blettir allir hverfi inn í lögsagnarumdæmi Reykjavíkur.
Innilokunarstefnan hefti mjög vöxt og viðgang Reykjavíkur fyrrum. Sumum finst nú nóg um frjálsræðið, þar sem svo virðist að hver sem vill geti sest hjer að. En þetta tímanna tákn hefir haft endaskifti á fyrri reynslu. Aðstreymi fólks og vaxandi bygð er áður kom Reykjavík í kútinn, hefir nú reist hana á legg til meiri virðingar en nokkuru sinni áður. Hún hefir þurft og þarf enn aukið alnbogarúm. Og alt bendir til þess, að þess verði ekki langt að bíða, að land hennar nái yfir alt land jarðarinnar Víkur, eins og það var á Ingólfs dögum, eftir að hann hafði skift landnámi sínu milli þeirra manna, er seinna komu.“ – Á.Ó.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 4. tbl. 28.01.1951, Skilnaður Reykjavíkur og Seltjarnarneshrepps – Árni Óla, bls. 45-51.
Landnám