Tag Archive for: Reykjavík

Stórasel

„Nafn býlisins Sels bendir til þess, að þar hafi upphaflega verið selstaða frá Vík.“ Áður fyrr voru stundum útihús í högum oft langt frá bæjum, þar sem búfénaður var látinn ganga á sumrum. Slík hús voru nefnd sel og var þetta kallað að hafa í seli.
Storasel 201Árið 1367 er Sel talið sem eign Jónskirkju postula í Vík, samkvæmt Hítardalsbók. Litlum sögum fer af Seli næstu aldirnar. Í Jarðbókinni frá 1703 er jarðadýrleiki óviss, ábúandi er einn Ólafur Benediktsson. Heimilismenn 8 og níundi heilsuveikur mágur bóndans, torfrista, stunga og móskurður í Víkurlandi frí. Heimræði er árið um kring og lending sæmileg, ganga skip ábúandans eftir hentugleikum.
Jarðardýrleki er en óviss um 1835-1845 þegar Johnsen skráir, en þá er Bráðræði skráð sem hjáleiga Sels. 1803 segir fyrst frá Bráðræði, sem hjáleigu frá Seli, og Litla-Sel nefnir bæjarfógeti einn, sem hjáleigu þaðan. Prestur telur 5 býli á öllu Seli, en bæjarfógeti telur eigi ábúendur. Prestur, en enginn annar telur Sauðagerði með 5 býlum.
Seint á 18. öld bjó í Seli Þorfinnur Þorbjarnarson frá Skildinganesi. Hann var lögréttumaður um skeið og er þess getið í heimildum að hann hafi setið á Alþingi á tímabilinu 1787-1793. Með konungsúrskurði 1809 var ákveðið að prestsetur skyldi vera í Seli. Þangað fluttist Brynjólfur Sigurðsson (Sívertsen) dómkirkjuprestur (d. 1837). Sel var innlimað í Reykjavík 1835. Það átti jarðamörk að Hlíðarhúsum og Reykjavík. Sels bæirnir voru síðast fimm. Á lóðinni Holtsgata 41b stendur Stóraselsbærinn enn, reistur um 1885. Ívarssel, nú Vesturgata 66b, reis um 1870. Litlasel og Jórusel eru sambyggð hús á lóðinni Vesturgata 61. Litlasel mun vera reist fyrir aldamót en Jórusel síðar.
Litlasel 201Hér voru varir, Litla-Selsvör, og aðeins suðvestar, norðan við Sóttvarnarhúsið, sem nú er Mið- Selsvör, suðvestan hennar er svo Stóra-Selsvör, og Lágholtstangi gengur hér fram í sjó.
Á mbl.is árið 2005 segir eftirfarandi: „ÍVARSSEL kvaddi Vesturgötuna í nótt. Húsið þurfti að víkja af sinni upprunalegu lóð vegna fyrirhugaðs deiliskipulags á svæðinu. Húsið, sem var byggt árið 1869, var flutt á Árbæjarsafnið þar sem það mun standa sem sýningarhús.
Ívarssel var einn af Selsbæjunum svokölluðu en hinir nefndust Stórasel, Litlasel og Jórunnarsel. Húsið mun vera elsta hús í vesturbæ Reykjavíkur, vestan Garðastrætis.
Þau tómthúsbýli sem byggðust upp í landi Sels drógu mörg nafn af heimajörðinni og breyttist nafn Sels þá í Stórasel. Selsbæirnir voru síðast taldir fimm og voru, auk Stórasels, Miðsel, Litlasel, Jórunnarsel og Ívarssel. Síðasta bæjarhús Stórasels, steinbær sem reistur var 1884, stendur enn á lóðinni Holtsgötu 41b. Einn ábúandi var í Seli 1703. Heimili í Stóra-Seli voru 3 samkvæmt manntalinu 1845 og er eitt af þeim Pálshús. Steinbærinn frá 1884 stendur enn á dálítilli torfu á sameiginlegri baklóð Sólvallagötu 80-84, Ánanausta 15 og Holtsgötu 31-41.
Er stærstur hluti bakgarðsins tekinn undir bílastæði og virðist Jorunnarsel 201hann hafa verið lækkaður eitthvað ef miðað er við hæð torfunnar sem bærinn stendur á. Sé um að ræða elsta bæjarstæði Sels, þá verður það að teljast nokkuð raskað, en vegna þeirrar torfu sem enn er eftir í kringum steinbæinn og að um er að ræða bæ með nokkuð langa búsetu er mögulegt að enn geti verið að finna nokkuð þykk mannvistarlög á þessum slóðum.
Býlin Litlasel og Miðsel munu hafa byggst upp í tíð Steingríms Ólafssonar sem var bóndi á Seli í kringum 1840. Litlasels er fyrst getið sem hjáleigu frá Seli í jarðalista bæjarfógeta frá árinu 1844. Árið 1848 var sonur Steingríms, Ólafur, talinn eigandi að þeim hluta Selslands þar sem Litlasel var byggt. Á Litlaseli munu um tíma hafa verið mörg býli og bjó Ólafur Steingrímsson á einu þeirra, á öðru Jakob bróðir hans, á þriðja býlinu bræðurnir Jón og Grímur Guðnasynir og á því fjórða Ívar Jónatansson, en það býli var alltaf kallað Ívarssel til aðgreiningar frá hinum. Árið 1881 byggði Magnús Pálsson tómthúsmaður timburhús rétt suðvestan við bæinn á Litlaseli sem síðar var kennt við Jórunni Eiríksdóttur ekkju og kallað Jórunnarsel.
Þremur árum síðar reisti Grímur Jakobsson íbúðarhús úr bindingi og múrsteini austan við Litlasel, nálægt því þar sem Vesturgata og Seljavegur mætast nú. Ivarssel 201Árið 1885 seldi Ólafur Steingrímsson syni sínum, Guðmundi Kristni Ólafssyni skipstjóra, hálfan Litlaselsbæinn og fjórum árum síðar fékk Guðmundur leyfi til að „byggja um bæ sinn á sama stað og með sama lagi og áður“. Þá byggði hann steinbæinn sem enn stendur á lóðinni.
Árið 1895 seldi Guðmundur eign sína Sigurði Einarssyni útvegsbónda. Tíu árum síðar var Sigurður látinn en ekkja hans, Sigríður Jafetsdóttir, bjó enn í Litlaseli ásamt dætrum þeirra. Litlasel var þá einnig heimili Magnúsar Einarssonar og fjölskyldu hans en í Jórunnarseli bjuggu Jóhann Þorbjörnsson tómthúsmaður, Halldóra kona hans og tveir synir. Árið 1913 seldi Sigríður Jafetsdóttir eign sína Karveli Friðrikssyni sjómanni og árið 1924 voru Litlasel og Jórunnarsel virt saman sem húseign hans. Ári síðar lét ekkja Karvels, Guðbjörg Kristjánsdóttir, stækka og endurbæta Litlasel og var þá innréttuð sérstök íbúð í risinu. Árið 1935 eignuðust Axel R. Magnússen og Margrét Ólafsdóttir húsin að Vesturgötu 61 og bjuggu þar síðan lengi og afkomendur þeirra eftir þau. Á síðari hluta 19. aldar og fram á 20. öld höfðu íbúar Litlasels og Jórunnarsels flestir framfæri sitt af fiskveiðum, líkt og ábúendur hinna Selsbæjanna. Þeir sem gerðu út árabáta réru frá þremur vörum á þessum slóðum, Litlaselsvör sem var rétt neðan við vesturenda Vesturgötu, Miðselsvör dálítið suðvestar, neðan Miðselstúns, og Stóraselsvör enn suðvestar, þar sem göturnar Hringbraut og Eiðsgrandi mætast nú. Ekki er ljóst hvort húsin frá 1881 og 1889 sem eru númer 61 við Vesturgötu eru á elsta bæjarstæði Litla-Sels. Þó má gera því skóna að þau séu á svipuðum slóðum ef marka má textann úr skráningargögnum Minjasafns Reykjavíkur hér að framan þar sem segir að þau hafi verið byggð „á sama stað og með sama lagi“ og eldri bæir.
Miðsel, steinhús reist 1874, er nú horfið en stóð þar sem nú er húsið nr.19 við Seljaveg… Býlin Litlasel og Miðsel munu hafa byggst upp í tíð Steingríms Ólafssonar sem var bóndi á Seli í kringum 1840. Eru örlitlar líkur á að einhverjar leifar Miðselsbæjarins sé að finna í bakgarðinum fyrir aftan Seljaveg 19 eða í götunni fyrir framan húsið.“

Heimildir:
-mbl.is, 4. maí 2005 (lesið 14. mars 2012).
-Húsakönnun, drífa Kristín Þrastardóttir og Guðný Gerður Gunnarsdóttir, Minjasafn Reykjavíkur 2007.
-Páll Líndal, Reykjavík. Sögustaðir við Sund. 3 bindi, bls.38.
-Íslenskt fornbréfasafn III. bindi, bls.220.
-J.Johnsen. Jarðatal, bls.121..neðanmálsgrein.
-Pál Líndal. Reykjavík. Sögustaður við Sund. 3. bindi, bls. 39.
-Vigfús Guðmundsson (1936).
-Ari Gíslason. Örnefnaskrá Reykjavíkur og Seltjarnarnes.
-Drífa Kristín Þrastardóttir og Guðný Gerður Gunnarsdóttir. Húsakönnun. Seljavegur-Ánanaust-Holtsgata-Vesturgata. Minjasafn Reykjavíkur. Skýrsla nr. 135, bls. 10-11.
-J. Johnsen: Jarðatal á Íslandi, bls. 121, 462.
-Jón Helgason: Reykjavík. Þættir og myndir úr sögu bæjarins 1786-1936, bls. 47.
-Klemens Jónsson: Saga Reykjavíkur. 1. bindi, bls. 269.
-Guðjón Friðriksson: Indæla Reykjavík, bls. 79.
-Borgarskjalasafn: Skjöl byggingarfulltrúa (B) fyrir Vesturgötu 61 (B-nr. 1560) – Borgarskjalasafn: Aðf. 751-757. Brunatrygging húsa 1896-1943 (Br.nr. 200 og 327;; – -Guðjón Friðriksson: Indæla Reykjavík, bls. 79.
-Ágúst Jósefsson (1959) Minningar og svipmyndir úr Reykjavík, bls. 85 -Ari Gíslason. Örnefnaskrá Reykjavíkur og Seltjarnarness –Páll Líndal. Reykjavík. Sögustaður við Sund. 4. bindi, Lykilbók, bls. 66-67.
-Guðjón Friðriksson (1991). Saga Reykjavíkur. Bærinn vaknar. 1870-1940. Fyrri hluti, bls. 87.
-Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns. 3. bindi. Gullbringu- og Kjósarsýsla, bls. 252.
-Borgarskjalasafn: Skjöl byggingarfulltrúa (B) fyrir Vesturgötu 61 (B-nr.1560).

Sel

Heimildir eru um Sel frá 14. öld og var það lengst af kirkjujörð auk þess sem útræði var mikið úr Selsvör, enda upphaflega um sel frá Víkurbænum að ræða. Bærinn var síðar oft nefndur Stóra-Sel. Steinbær var reistur þar árið 1884 sem stendur enn.
Uppdráttur Hoffgards frá árinu 1715 sýnir m.a. Sel enda eitt af höfuðbýlum á þessu svæði og prestsetur. Nýlegar fornleifarannsóknir sýna að undir steinbænum eru leifar af torfbæ. Selsbærinn stóð þar sem í dag er Holtsgata 41b.

Sölvhóll

Nafnið Sölvhóll vísar að öllum líkindum til gamalla búskaparhátta. Mikið var um sölvatekju í Örfirisey eða á Víkurfjörum. Vel má hugsa sér að Sölvhóllinn hafi verið notaður til að þurrka söl. Eldri orðmynd gæti þá hafa verið Sölvahóll.

Solvholl-1

Bærinn Arnarhóll var um aldir næsta bújörð við býlið Reykjavík, en eftir að jörðin var lögð undir tugthús hrakaði búskapnum hratt. Elstu heimildir um búsetu á Sölvhóli, sem þá hefur verið hjáleiga Arnarhóls, eru úr tíundarreikningum og fólkstali frá 1779.

Tímamót urðu í sögu býlisins árið 1834. Þá settist þar að Jón Snorrason hreppstjóri í Seltjarnarneshreppi og reisti nýjan og veglegan torfbæ. Ári síðar var Arnarhólsland flutt undir Reykjavíkurkaupstað og Sölvhóll þar með. Jón var kjörinn í fyrstu bæjarstjórn Reykjavíkur árið 1836 sem fulltrúi tómthúsmanna.

Solvholl-2Bærinn sem Jón reisti stóð uppi í tæpa öld. Búið var að Sölvhóli fram á þriðja áratug tuttugustu aldar, en stöðugt þrengdi að býlinu. Mest þó árið 1919 þegar Samband íslenskra Samvinnufélaga reisti höfuðstöðvar sínar við gafl Sölvhólsbæjarins, í gamla kartöflugarðinum.

Nokkrum árum síðar fluttu síðustu ábúendurnir úr húsinu. Það var rifið árið 1930, ef til vill í tengslum við komu Danakonungs og Alþingishátíðina sama ár. Ekki hefur þá verið talið við hæfi að hinir tignu gestir þyrftu að horfa upp á lúinn torfbæ í bæjarlandinu.

Gatan Sölvhólsvegur í Reykjavík dregur nafn sitt af bænum Sölvhóli.

Heimild:
-wikipedia.com

Sölvhóll

Blikastaðakró

Ætlunin var að ganga um Blikastaðanes milli Leiruvogar og Blikastaðakróar. Blikastaða er getið í tengslum við friðlýsingu fornra minja í Mosfellssveit. Á nesinu eru „fornar rústir og grjótgarðar frá verslunarstað eða útræði frá 14.-15. öld, niðri á sjávarbakkanum yst í svonefndu Gerði. (Skjal undirritað af ÞM 08.11.1978. Þinglýst 20.11.1978.).

Kort

Þá átti að skoða búðarústir fá 16. öld við Þerneyjarsund á Álfsnesi. Mönnum, þ.á.m. Kristjáni Eldjárn, hefur greint á á um staðsetningu búðanna. Ummerkin segja þó sína sögu.
„Helstu minjar um sjósókn Mosfellinga á fyrri öldum eru friðlýstar rústir í svonefndu Gerði fremst á Blikastaðanesi. Rústirnar eru grjóthlaðnar af smáhýsum og görðum. Engar ritaðar heimildir eru um mannaferðir þarna á fyrri öldum en rústirnar benda þó til þess að hér hafi verið útræði. Björn Bjarnason í Grafarholti var ekki í neinum vafa um það og segir að vegur liggi til norðurs „niður til veiðistöðvanna við sunnanverðan Kollafjörð, í Blikastaðagerði (þar sjást enn fiskbyrgin)…“
GerðinÁ sínum tíma gerði Kristján Eldjárn (1916-1982) staðfræðilega athugun í Blikastaðanesi. Rústirnar voru ekki grafnar upp en Kristján leiddi að því líkur að hér væri um sjóbúð og fiskbyrgi að ræða og gerðin hafi verið hlaðin á síðmiðöldum í tengslum við fiskverkun. Hann útilokaði þó ekki að þarna hafi verið kaupstefnustaður, rústirnar gætu verið frá tíð kaupmanna á þessum stað og gerðin jafnvel líka, enda var stutt á milli skreiðarverkunar og verslunar á miðöldum. Þá hafa skip legið við stjóra við mynni Úlfarsár og vörur ferjaðar að og frá landi. Skammt vestan við Blikastaðanes er Korpúlfstaðahólmi en hann hefur einni verið nefndur sem hugsanlegur verslunarstaður á miðöldum.
Sjórinn hefur í aldanna rás nagað grassvörðinn fremst á Blikastaðanesi þar sem áður risu tjöld kaupmanna. Kannski hafa fiskbyrgin verið birgðaskemmur Viðeyjarklausturs sem safnaði fiski frá jörðum sínum og verstöðvum á Suðurnesjum og geymdi hann í nesinu þar til kaupskipin komu og sóttu varninginn. Blikastaðir voru ein fyrsta jörðin sem klaustrið eignaðist í Mosfellssveit og meðal hlunninda þar var æðarvarp eins og nafnið gefur til kynna. Annars vera dúntekja á flestum jörðum sveitarinnar sem áttu land að sjó.
Samkvæmt aðalskipulagi Mosfellsbæjar frá 1994 „skal stefnt að því að kanna möguleika á uppbyggingu aðstöðu fyrir stærri báta (seglbáta og minni vélbáta) í Blikastaðanesi.“
Gerði á BlikastaðanesiÁ 14. -15. öld færðist verslun á nýjar slóðir sem lágu betur við sjósókn. Þá færðist höfnin úr Leiruvogi að Gufunesi og í Þerneyjarsund sem liggur milli Þerneyjar og Gunnuness á Kjalarnesi.
Árni Magnússon getur um vallgrónar búðir við Þerneyjarsund snemma á 18. öld: „Fyrir austan Þerney milli eyjar og lands heitir Þerneyjarsund. Þar hefur skipalega verið í gamla daga og sér til búðastæða á landinu fyrir austan sundið, þar sem menn segja kaupstefnuna hafa verið. Búðastæðin eru vallgróin.“
Kristján Eldjárn taldi líklegt að rústirnar austan við Þerneyjarsund bentu til þess að þar hefðu verið fiskbyrgi (skreiðarbyrgi) og búðastæði [Kristján BrunnurEldjárn. Leiruvogur og Þerneyjarsund. Staðfræðileg athugun. Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1980.]
. Ætla má að þar hafi verið útgerð og verslunarstaður og má nærri geta að Mosfellingar hafa komið á þessar slóðir þegar kaupskip komu af hafi. Hinar vallgrónu rústir, sem Árni Magnússon nefndi, hafa ekki verið rannsakaðar ítarlega en nafni hans Hjartarson f: 1949) jarðfræðingur var á ferð í Þerney fyrir nokkrum árum og fann í fjörunni stóran granítstein sem hæglega gæti hafa verið kjölfesta úr erlendu kaupfari.
Fornleifarannsóknir við Þerneyjarsund gætu sagt okkur meira um merka verslunarsögu á fyrri öldum en nú eru uppi hugmyndir um að leggja svonefnda Sundabraut um þessar slóðir.
Þessi, einn helsti verslunarstaðurinn í þessum landshluta, fluttizt upp í Hvalfjörð. Þerney var í ábúð fram á 20. öld og fyrrum var þar líka kirkja. Árið 1933 voru fjórir tarfar af Galloway holdakyni og kálffull kvíga sótt til Skotlands. Þessum gripum var komið fyrir úti í Þerney í einangrun, sem var skynsamleg ráðstöfun, því að einn tarfanna bar með sér sveppasjúkdóm, hringorm eða hringskyrfi.

Gerði

Kálfur kvígunnar var geymdur í eldhúsinu á bænum í eyjunni. Þessum gripum var öllum lógað í janúar 1934 eftir mikið japl, jaml og fuður milli ráðuneyta.
Helstu sjávarjarðirnar í Mosfellssveit voru Viðey, Gufunes, Eiði, Korpúlfsstaðir, Blikastaðir og Lágafell.
Kristján Eldjárn fjallar um búðirnar á Blikastaðanesi og við Þerneyjarsund í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1980. Greinin heitir „Leiruvogur og Þerneyjarsund, staðfræðileg athugun“.
Merki„Stutt er á milli skipalægjanna gömlu og þar með kaupstefnustaðanna í Leiruvogi (eða Leiruvogum) í Mosfellssveit og við Þerneyjarsund á Kjalarnesi. Má vera að báðir staðir hafi að nokkru verið notaðir samtímis, en hitt virðist þó ekki ósennilegt að Þerneyjarsund hafi leyst Leiruvog af hólmi, og kynni það að hafa stafað að nokkru af því að hafnarskilyrði hafi versnað í Leiruvogi vegna þess að áin bar sífellt meira og meira í hann og olli því að hann fór grynnkandi.“ Þá getur Kristján  þess að breytingin hafi og getað stafað að breyttri skipagerð „sem aðstæður allar á síðari staðnum hentuðu betur“.
Leiruvogs er nokkrum sinnumgetið í fornritum en ekki í annálum og skjölum, en Þerneyjarsund er ekki nefnt í fornsögum (nema Kjalnesinga sögu) en hins vegar nokkrum sinnum í annálum og skjölum. Þetta kynni að segja sína sögu.
Fornritin eru frá 13. öld. Engar heimildir eru til um Blikastaðaminjarnar í staðfræðiritum, hvorki í bók Kålunds né í annarri heimild. „Nefndir hann þó Leiruvog“.  Ummerki má þó sjá þar eftir aðsetur kaupmanna. „Það er þar sem Gerði í Blikastaðalandi, rétt á neshnúanum sem verður þar sem suðurströnd Leruvogs sveigir til suðurs inn með Blikastaðakró. Fólkið á Blikastöðum þekkir ekki annað nafn á staðnum en Gerði, en Björn Bjarnason frá Grafarholti kallar Blikastaðagerði í Árbók 1914.
Minjar þær sem senn verður lýst eru alveg fram á sjávarbakkanum – af þeim góðu og gildu ástæðum, að sjór er að brjóta landið og hefur trúlega lengi þann stein klappað, þótt hægt fari. Helga á Blikastöðum telur að ekki hafi mikið gerst síðan 1908, þegar faðir hennar Magnús Þorláksson keypti Blikastaði og fluttist þangað með fjölskyldu sína.“

Minjasvæðið

Stórgrýttur grandi er nú framan við nesið. „Raunar er ekki ólíklegt og þá hefði verið grassvörður vel getað verið á söguöld út eftir öllum þeim stórgrýtta granda eða tanga sem gengur vestur af minjastaðnum og nú ber mikið á með fjöru. Ef þetta er rétt – sem ekkert mælir gegn – hefði þarna verið einstaklega geðugur kaupstefnustaður, þurr, sléttur og þokkalegur. Sennilega ágætt skipalægi rétt fyrir framan. Hafi kaupmenn haft búðir sínar þarna mundu þær flestar Eða allar?) komnar í sjó fyrir löngu. Víst er að minjar þær sem nú verður lýst (hvað semþær eru í raun og veru) eru sumpart orðnar sjónum að bráð og það sem eftir er á sömu örlög í vændum fyrr eða síðar. Minjunum má lýsa svo að ógröfnu:
A. Syðra gerðið. Syðst er grjótgirðing (gerði) og hefur verið ferhyrnd, 22 m löng að utanmáli frá suðri til norðurs eða samhliða sjónum. Veggstúfar ganga frá þessum austurvegg og fram á sjávarbakkann. Sjávarbakkinn hefur sjálfur komið í veggjar stað. Slíkt má vera að hefði sparað grjóthleðslu á einn veg. Inni í gerðinu sjást hellulagnir. Dyr eru á nyrðri veggstúfnum.
Grjótþúst nokkur (byrgi) er austan við syðra gerðið og lílega svolítil girðing en þetta er óskýrt.
B. Búðartóft. Rétt norðan við vestra gerðið er grasi gróin tóft, sem enginn kunnugur íslenskum Vallgrónartóftum mundi hika viðað tekja mjög líklega búðartóft. Þetta er mjög snyrtileg tóft (9×4.5m að utanmáli).
C. Nyrðra gerðið. Um 30 m fyrir norðan búðina er annað gerði úr grjóti eins og hitt, en ekki að öllu leyti líkt því. Í báðum gerðunum eru grjótveggirnir skýrir vel og ógrónir, en samt þesslegir að talsvert gamlir séu.
D. Byrgi. Rétt norðan við nyrða gerðið er svolítill grjóthlaðinn kofi, að nokkur grafin í jörð. Má vel kalla þetta byrgi og ef til vill hefur verið fiskbyrgi.
Þá er lýst þessum minjum eins og þær koma nú fyrir sjónir (skoðað 1978). Vitanlega mætti fá af þeim skýrari mynd með því að grafa í þær og fróðlegt væri það minjafræðilega. Ekki virðist útilokað að búðin að minnsta kosti gæti verið frá tíð kaupmanna á þessum stað og gerðin jafnvel líka. En hugsanlegt er að búðin sé sjóbúð frá Blikastöðum og gerðin standi í sambandi við fiskverkun.

Fiskbyrgi

Það virðist Björn í Grafarholti hafa haldið. Ef einhverntíma yrði grafið í þessar minjar þyrfti að setja þær í samt lag aftur, enda eru þær friðlýstar og mjög skemmtilega á að horfa eins og þær eru.“
Nú lýsir Kristján minjum við Þerneyjarsund. Vitnar hann m.a. í lýsingu Skúla Magnússonar um Gullbringu- og Kjósarsýslu (Landnám Ingólfs I, Reykjavík 1935-36, bls. 37) og bætir við: „Þerneyjarsunds er aðeins einu sinni getið í fornsögum, nefnilega í Kjalnesinga sögu, sem er skrifuð snemma á 14. öld og talin með öllu ósöguleg en eigi að síður góð staðfræðileg heimild. Um Örlyg segir söguhöfundur: Hann tók í Þerneyjarsundi höfn. (Ísl. fornrit XIV, 4), og ætti þett að vera fullgild heimild þess að Þerneyjasund hafi verið vel þekkt sem skipalægi þegar sagan er rituð, og er elsta dæmið um að þess sé getið í ritum.

Þúfukollar

En að sjálfsögðu hefur höfundur einnig kunnað góð skil á Leiruvogi sem höfn, ef til vill bæði í veruleikanum og úr sögum. Hann segir: „Á ofanverðum dögum Konofogors kom skip í Leiruvog; þar voru á írskir menn (Ísl. fornrit XIV,5).“ Fleiri dæmi tekur Kristján þessu til staðfestingar.
Árni Magnússon ritar eftirfarandi í Chorographica Islandica (útg. 1955): „Fyrir austan Þerney milli lands heitir Þerneyjarsund. Þar hefur skipalega verið í gamla daga og sér til búðastæða á landinu fyrir austan sundið, þar sem menn segja kaupstefnuna hafa verið. Búðarstæðin vallgróin.“
Ástæða er til að renna þakklátum huga til Árna Magnússonar fyrir þessa minnisgrein. Annaðhvort hefur hann sjálfur svipast um eftir búðastæðum við Þerneyjarsund ellegar haldið uppi spurnum um þau og má hið síðarnefnda líklega teljast sennilegra. Hvort heldur sem er er frásögnin merkileg. Um 1700 telja menn á Kjalarnesi sig vita hvar á landinu austan við sundið kaupstefnan hafi verið í gamla daga og enn sjái þar til vallgróinna búðastæða.

Búðartóft

Nú er það í rauninni svo, að einhversstaðar á strandlengjunni andspænis Þerney hlýtur kaupstaðurinn að hafa verið. Og ekki er um langan spotta að ræða. Fyrst við lága hamrahöfðann (sem víst heitir einfaldlega Höfði) með fiskbyrgjunum sunnan við lægðina sem bæirnir tveir eru í (Álfsnes og Glóra), byrjar hið eiginlega Þerneyjarsund og nær þangað suður sem Gunnunes sveigir til austurs og verður þar næstum rétthyrnt nef á. Þessi vegalengd – hið eiginlega Þerneyjarsund – er ekki nema tæpur hálfur annar kílómetri.“
Þá reyndir Kristján að staðsetja búðastaðinn nánar. „Þessi lýsing á einkum og sér í lagi við einn stað við Þerneyjarsund og þar tel ég yfirgnæfandi líkur til að lendingarstaðurinn hafi verið og þar með aðsetur kaupmanna meðan kauptíð stóð.
NiðurkotÞetta er hvammurinn sem kotið Niðurkot stóð í, það sem áður hét Sundakot og hefur verið í eyði síðan 1886. Rústir þessar láta talsvert á sér bera, bæjarhús, útihús, hjallur? niður við sjóinn og túngarður í kringum allt saman. Á þessum stað er skemmst milli eyjar og lands, þar er malarkambur allhár við sjó, en fyrir innan hann dálítið sléttlendi og einnig þýfi mikið, og reyndar er Niðurkotstúnið mjög þýft og grýtt.
Þarna næstum því hlýtur kaupstaðurinn að hafa verið. Í fyrsta lagi af því að enginn annar staður við Þerneyjarsund kemur til greina. Í öðru lagi af því að þarna eru skilyrði mjög sæmileg, búðastæði eða tjaldstæði innan við malarkambinn, góð lendingarfjara framan við hann, aðgangur að vatni, mjóddin á sundinu, enginn bær svo nærri að bændur yrðu fyrir ágangi vegna athafnasemi á staðnum.

Fiskbyrgi

En þá vaknar spurningin: Hvað eru vallgrónu búðastæðin, sem bændur sögðu Árna Magnússyni frá fyrir hartnær þremur öldum og hann sá ef til vill sjálfur?
Í íslenskum staðfræðiritum hefur enginn getið um neinar rústir við Þerneyjarsund síðan Árni leið. Innan við malarkambinn [neðan við Niðurkot] eru stórgerðir þúfnaklasar, sem minna talsvert á húsarústir, og á tveimur eða þremur stöðum svo mjög, að maður þykist sjá nokkra skilsmynd á. En þess ber að minnast að náttúrulegir þúfnaklasar geta oft minnt glettilega mikið á rústir og stundum meira að segja kallaðar „rústir“ manna á meðal. Þess vegna verðu fljótfærnislegt að fullyrða að þúfurnar við Þerneyjarsund séu í raun og veru búðatóftir.
Munu sennilega á þykja að Bátaréttþúfnaklasar þessir séu þau vallgrónu búðastæði, sem Árni greinir frá. Það er mergurinn málsins. Það er ekki einleikið að einmitt á þeim stað sem líklegastur er sem kaupstaður, skuli þessar einkennilegu þúfur vera.
Niðurkot allt og þar með þúfurnar eru nú friðlýstar minjar oghægurinn hjá að rannsaka þetta þegar til vinnst. Mannshöndin hefur þarna engu breytt frá öndverðu.
En þess ber að lokum að minnast, að enda þótt hér sé um náttúrulegar þúfur að ræða, er staðurinn engu að síður kaupstaðurinn við Þerneyjarsund, með búðum eða búðalaus. Þegar talað er um samkomustaði, hvort sem eru kaupstaðir eða þingstaðir, er full ástæða til að minna á mila notkun tjalda í fornöld og á miðöldum og tjöld láta engin merki eftir sig. Þessi staður er einn af fyrirrennurum Reykjavíkur og á að varðveitast eins og hann er.“
Rúst„Greinarauki – Framanskráðar athuganir gerði ég í júli 1978 og gekk frá greininni strax á eftir. Í september sá ég svo handrit að prýðisgóðum fyrirlestri sem Helgi Þorlákssom sagnfræðingur hafði flutt í þeim mánuði á fornleifafræðingafundi á Gotlandi og kallast „Havner på Island í middelalderen“. Um Þerneyjarsund vitnar hann til Árna Magnússonar og segir síðan: „Foruten svake spor boder kan man finna levninger av mange smaåskur, og de leder tanken hen på opbevaring av törrfisk.“
Þessar litlu byggingar sem Helgi talar um eru áreiðanlega grjótbyrgin á Höfðanum (nefnd hér að framan) suðvestan við Álfsnesvíkina. Mér taldist til að þau væru 8 eða 9, nokkuð dreifð, en þó ekki um stórt svæði. Þrjú þeirra eru alveg frammi á sjávarbakkanum en hin lengra frá sjó. Þau eru misstór, en öll lítil, gerð úr eintómu grjóti, sum nokkurn veginn kringlótt, frumstæð að gerð. Eins og Helgi tel ég fullvíst að þetta séu fiskbyrgi, og það telur Björn Þorsteinsson einnig, en hann nefnir byrgi þessi í „Reykjavík miðstöð þjóðlífs“, Rvík 1977, bls. 14, og í „Á fornum slóðum og nýjum“, Rvík 1978, bls. 28, og birtir ljósmynd af einu þeirra.

Valllendi

En að þau séu forn er alls óvíst, Slík byrgi voru notuð langt á aldir fram. Og þau koma ekki kaupstöðunum við heldur útgerðinni og fiskverkuninni. Byrgin á Höfðanum eru líka það langt frá kaupstaðnum (?) hjá Niðurkoti að þar er ekkert samband á milli.“
Eins og máltækið segir: „Oft verður stysta ferðin sú fróðlegasta“. Við skoðun á rústunum á Blikastaðanesi (2009) kom í ljós að svo virtist sem einungis hefði verið tekinn hluti þeirra inn í framangreinda vettvangsúttekt. Gerðin tvö, búð á millum og rúst norðar eru allt greinilegar minjar eins og sjá má á uppdrættinum í Árbókinni 1980. Hins vegar má, ef vel er greint, sjá móta fyrir rúst norðaustan við nyrðra gerðið. Skammt norðar á nesinu eru leifar byrgis og búðar skammt austar. Á milli og ofan þeirra er hlaðinn brunnur. Enn ofar (sunnar) er stórt gerði og tvær rústir austan þess. Af þessu má sjá að mun meiri umsvif hafa verið þarna er ætlað hefur verið, auk þess sem ætla má að sjórinn hafi brotið af ströndinni og tekið til sín allmikil mannvirki í tengslum við athafnasemina þarna fyrri á öldum. Bætt var við fyrrnefndan uppdrátt sem nam framangreindum minjum. Þá mátti sjá fornleifar á tveimur stöðum á sunnanverðu nesinu austan Gerðisins.

Fiskbyrgi

Sunnarlega á Blikastaðanesi er hallandi holt með klöppum. Ekki er ólíklegt að þarna kunni að vera sögulegur staður. Eftir er að skoða örnefnaskrá fyrir Blikastaði. Ef eitthvað forvitnilegt finnst þar verður bætt hér við textann sem því nemur.
Rétt er að koma því að hér að merkingar, eða réttara sagt merkingaleysi (upplýsingaskortur) á vettvangi er hlutaðeigandi stjórnvöldum til vansa. Í friðlýstum fornleifum á Blikastaðanesi er tréstaur, sem einhvern tímann hefur borið skilti „friðlýstra fornleifa“. Það er löngu horfið. Ekkert er á vettvangi er upplýst getur áhugasamt fólk hvað þarna kann að LEYNAST.
BlikiÞá var haldið yfir á Álfsnesið. Við athugun á nesinu sunnan Álfsnestjarnar ofan Álfsnesvíkur mátti vel greina vallgrónar búðartóftir undir Höfðanum. Búðarleifar eru á tveimur stöðum. Ofan þeirra er tóft og enn sunnar a.m.k. 10 fiskbyrgi, nokkuð dreifð um holtið ofanvert. Enn sunnar eru tóftir Niðurkots. Neðan þess eru þúfukollar þeir er Kristján nefnir í grein sinni í Árbókinni 1980.
Svo er að sjá, þrátt fyrir að Kristján og Helgi hafi ekki verið sammála um staðsetningu kaupvagnsins við Þerneyjarsund, sem báðir hafi haft rétt fyrir sér. Þeir eru í sínum skrifum ekki að fjalla um sama staðinn, en það ætti ekki að skipta máli því svo er að sjá sem kaupvangir við Þerneyjarsund hafi verið á fleiri en einum stað og jafnvel fleiri en tveimur.
Svæðið skiptist í tvennt; annars vegar Tóftkaupvangana og hins vegar fiskbyrgin. Þau eru mun dreifðari en sjá má á Blikastaðanesi. Það gæti gefið til kynna dreifaðri eignaraðild við Þerneyjarsund. Líklega hefur einn aðili, Viðeyjarklaustur, haft aðstöðu á Blikastaðanesi og því haldið sig á tiltölulega afmörkuðu svæði. Við Þerneyjarsund eru byrgin mun dreifaðri, sem fyrr sagði. Það bendir til þess að verslunarstaðurinn hafi verið færður vegna breytinga á verslunarhaldinu (Viðeyjarklaustur leggst af) en ekki vegna breytinga í Leiruvogi vegna framburðar Leiruvogsár eins og áður hefur verið haldið fram (t.d. í „Sögu Mosfellsbæjar“).
FERLIR á eftir að skoða fornleifaskráningarskýrslur af báðum fyrrnefndum svæðum og bera niðurstöðurnar saman við framangeinda athugun. Ef að líkum lætur á margt forvitnilegt eftir að koma í ljós við nánari skoðun. Telja verður misráðið að hafnar hafi verið framkvæmdir við stækkun golfvallarins á Korpúlfsstöðum á Blikastaðanesi því greinilegt er að þær hafa að nokkru þegar spillt hinu heilstæða minjasvæði er lítur að verslun og fiskverkum á svæðinu.

Skel

Er það mikil synd því fáir slíkir minjastaðir óraskaðir eru enn til í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Ekki þarf að fjölyrða um verðmæti slíkra minja, jafnvel inni á miðjum golfvelli, því ætla má að á meðal iðkenda leynist áhugasamt fólk um sögu og land.
Sömu sögu verður að segja um Álfsnesið því þar á fyrirhuguð Sundabraut að liggja. Mun hún fara yfir fyrrnefnt minjasvæði að hluta.
Eftir að skoðaðar höfðu verið rústir á Höfðanum milli Niðurkots og Álfsnesstjarnar (hún heitir Tjörnin skv. örnefnalýsingu) var gengið til baka um Dýratorfur og eiðið milli Tjarnar og Álfsnesvíkur. Á henni er hlaðin skiparétt. Neðan hennar má sjá leifar að fortímanlegri bryggju. Margt forvitnilegt annað bar og fyrir augu.
Á Álfsnesi eru hlaðnir garðar og tóftir húsa, sem ekki verður lýst hér.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.
Heimild:
-Bjarki Bjarnason og Magnús Guðmundsson, Mosfellsbær, Saga byggðar í 1100 ár, Pjaxi 2005, bls. 141.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1980, Leiruvogur og Þerneyjarsund, Kristján Eldjárn, bls. 25-35.

Álfsnesvík

 

Skötufoss

Í Lesbók Morgunblaðsins árið 1995 birtist eftirfarandi grein eftir Helga M. Sigurðsson um „Morð við Skötufoss„:
„Gömlu bæjarhúsin í Árbæ, býlinu þar sem minjasafn Reykjavíkur nú stendur, þykja fara vel þar sem þau lúra á hæðarbrún með gróin þök og þunglamalega, hæfilega skakka grjót veggi. Þegar gestir líta þau augum á björtum sumardegi dettur víst fáum í hug að þar hafi ríkt annað en friðsæld og kærleikur í aldanna rás, kannski í bland við örlítil vanefni á köflum. Fólska og illvirki virðast víðs fjarri. Samt sem áður komst bærinn í annála fyrir mannvíg sem þar var bruggað, ástríðumorð, og þótti einhver óhugnanlegasti atburður þess tíma. Áður en vikið er að morðinu sjálfu verður farið nokkrum orðum um baksviðið.
skotufoss-1Líklegt er að búskapur hafi byrjað í Elliðaárdal fljótlega eftir landnám, bæði vegna gróðursældar og hlunnindanna sem fólust í laxveiðinni. Árbær er þó ekki nefndur í heimildum fyrr en á 15. öld og var þá hjáleiga í eigu Viðeyjarklausturs. Hafði hann líkast til verið færður klaustrinu gefandanum til sáluhjálpar. Konungsjörð varð bærinn síðan við siðaskiptin, 1550. Fyrstu glöggu myndina af Árbæ og búendum hans er að finna í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1704. Vill svo til að þá bjó þar hið ógæfusama fólk, sem kom við sögu fyrrgreinds mannvígs. Lýsing á Árbæ og kvöðum sem honum fylgdu ber ekki með sér að hann hafi verið eftirsóknarverður til búsetu. Meðal annars segir orðrétt í jarðabókinni: „Tún meinlega grýtt og þýfð. Engi mjög lítið . . . Torfskurður til húsagjörðar nægur, en til eldiviðar tekur hann mjög að þverra.“ Samt sem áður var tvíbýli í Árbæ. Annar ábúandinn hafði þrjár kýr, kvígu og tvo hesta. Hinn ábúandinn hafði einnig þrjár kýr, naut, kálf og einn hest. Hvorugur þeirra hafði sauðfé. Af bæjarhúsum eru lýsingar litlar, en þó ljóst að húsin sem nú eru í Árbæ eru líkust höll miðað við það sem þá var.
Álögur á búendur voru þungar þrátt fyrir að ekki virtist af miklu að taka. Kaþólska kirkjan hafði þótt óvægin í skattpíningu á leiguliðum sínum, en verri reyndust þó konungsmenn á Bessastöðum. Landskuld, þ.e. leiga af jörðinni sjálfri, var greidd með fé á fæti eða fiski. Af bústofninum, sem einnig var konungseign, greiddist leiga í smjöri. Ofan á þetta bættust umtalsverðar vinnukvaðir: Við sjóróðra frá Örfirisey, veiðar í Elliðaánum, heyskap í Viðey, mótekju, hrístekju og fleira. Einnig bar landsetum að lána hross til ýmissa verka. Konungur hafði slegið eign sinni á laxveiði í Elliðaánum og lágu þung viðurlög við veiðiþjófnaði þar.
skotufoss-2Á þesum tíma, árið 1704, bjó að hálfum Árbæ maður er Sæmundur hét, Þórarinsson, 41 árs gamall, grímsneskur að ætt. Kona hans hét Steinunn Guðmundsdóttir, 43 ára, og var Sæmundur þriðji eiginmaður hennar. Hjá þeim voru þrjú börn hennar af fyrra hjónabandi. Á móts við þau bjuggu Sigurður Arason, 26 ára gamall, ókvæntur, og móðir hans. Um fólk þetta er mjög lítið vitað annað en það sem varðar ytri hagi. Og vafalaust hafði það hugann að mestu leyti við að framfleyta sér frá degi til dags. Þó er ljóst að sterkar tilfinningar leyndust undir yfirborðinu, því að kærleikar miklir urðu með þeim Sigurði og Steinunni. Fór svo að hún eggjaði hann til að fyrirkoma bónda sínum með einhverju móti. Heimildir greina hins vegar ekki frá því hvað rak hana til slíks örþrifaráðs.
Sunnudagskvöld eitt í septembermánuði fóru þeir Sigurður og Sæmundur til veiða í Elliðaánum. Ekki verður betur séð en þeir hafi gert það í heimildarleysi, sbr. eignarhald konungs á ánni og veiðibann sem fyrr greinir. Er tvímenningarnir voru staddir við Skötufoss, neðarlega í ánum, gekk Sigurður aftan að Sæmundi, sló til hans með einhverju barefli og hratt honum fram í hylinn. Við yfirheyrslu síðar sagðist hann einungis hafa ýtt Sæmundi fram af fossinum með svonefndu dútré, sem er lítil tréfjöl, og hefur sjálfsagt með því viljað draga úr óhugnaði verknaðarins.
hjonadysjar-5Daginn eftir að þetta gerðist lét Sigurður þau boð ganga til sveitunga sinna að Sæmundur væri saknað. Söfnuðust menn saman til leitar og fannst lík Sæmundar fljótlega í ánni. En hann var ekki bólginn eins og þeir er drukkna og þótti sýnt að hann hefði dáið á þurru landi. Líkið var nú grafið og leið síðan nokkur stund.
Smám saman kom upp orðrómur um að Sigurður væri annaðhvort valdur að dauða Sæmundar eða byggi yfir vitneskju um afdrif hans. Var nú gengið á hann og er hótað var að grafa upp líkið gekkst hann við morðinu. Var þá einnig gengið á Steinunni og viðurkenndi hún þátttöku sína eftir nokkrar umtölur yfirvaldsins. Athyglisvert er hve auðvelt virtist að fá játningu þeirra því að hún jafngilti líflátsdómi. Játning Sigurðar rennir stoðum undir að hann hafi verið verkfæri í höndum Steinunnar og iðrast gerða sinna. Einnig ber að hafa í huga að á þessum tíma var fólk guðhrætt í orðsins fyllstu merkingu og trúði á elda vítis. Þau voru tekin af lífi í Kópavogi skömmu síðar. Sigurður var höggvinn en Steinunni drekkt. „Fengu þau bæði góða iðran og skildu vel við“ segir í Vallaannál.
Ekki er ljóst hvar þau Sigurður og Steinunn voru grafin. Árið 1938 gerðist það hins vegar að vegagerðarmenn rákust á dys við Kópavog, örskammt fyrir austan Hafnarfjarðarveg, þar sem voru tvö lík. Var annað þeirra síðhært, en hitt höfuðlaust.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 21. október 1995, bls. 11.

Elliðaárdalur

Skötutjörn.

Blesaþúfa

Við Blesugróf er Blesaþúfa, leifar af fornri óseyri.
„Í Elliðaárdal er nokkuð mikið af setmyndunum jökla frá lokum ísaldar, en henni lauk fyrir um 10 Blesaþúfa-2þúsund árum. Þá hófu jöklar að hörfa af Bláfjallahálendinu og Hengilssvæðinu þar sem skriðjökullinn, sem lá yfir Elliðaárdal, átti upptök sín. Á þessum tíma hafði þykkur jökulísinn myndað mikið farg sem olli því að land þrýstist niður um tugi metra. Þegar jökullinn hörfaði varð sjávarstaða til skamms tíma mun hærri en þekkt er í dag. Við árósa og annars staðar, þar sem mikill framburður lausra efna frá bráðnandi jöklinum hlóðst upp, mynduðust malarhjalla og setfyllur. Í Elliðaárdal má finna menjar um hærri sjávarstöðu frá ísaldarlokum, setmyndanir tengdar henni og frárennsli bráðnandi jökuls. Á þessum tíma mynduðust sandfjörur og malareyrar sem teygðu sig út með Blesugróf og Árbæjarhverfi. Þessar myndanir sem nefndar eru strandhjallar og óseyrar benda til að sjávarstaðan hafi verið 40 m hærra en nú er. Glöggt dæmi um fornar strandlínur má t.d. finna innan við Ártún. Á þessum tíma voru Elliðaár beljandi jökulfljót, en ekki kyrrlátar lindár eins og nú er.“

Blesaþúfa

Blesaþúfa.

 

Gamli Þingvallavegur

Í byrjun ágúst árið 1907 hefði verið vandalaust að feta sig slóð Friðriks 8. og 200 manna fylgdarliðs hans. Fyrst var riðið á Þingvöll, svo austur að Laugarvatni, að Geysi og Gullfossi, yfir Hvítá á nýrri brú við Brúarhlöð. Síðan niður Hreppa hjá Álfaskeiði, yfir Stóru- Laxá og að Þjórsárbrú. Þaðan um Ölfusárbrú í Arnarbæli í Ölfusi, upp Kambana, yfir Hellisheiði á Kolviðarhól, niður hjá Lækjarbotnum og til Reykjavíkur aftur. Vandlætingafólk þess tíma taldi að fikra mætti sig Kóngsveginn svonefnda eftir tómum kampavínsflöskum.

Þingvallavegur

Brú á Gamla Þingvallaveginum.

Víst er um það að ríkisþingmenn fengu fyrir brottför silfurslegna svipu að gjöf frá Alþingi og ferðabikar í ól til að smeygja um öxl sér. En að þetta hafi verið einhver fyllirístúr er af og frá, menn kannski fengið sér í annan fótinn en ekki mikið meira, flestir. Sérstök gullplata var á svipu konungs og hafði Árni Gíslason grafið á hana – Ísland 1907.
Ferðin á Þingvöll hófst 1. ágúst og var lagt af stað frá Latínuskólanum í Reykjavík.
Friðrik VIIIKonungur reið gráum hesti og var í búningi sjóliðsforingja með derhúfu að hætti aðmiráls og í uppháum leðurstígvélum. Hannes Hafstein Íslandsráðherra var á léttvígum, rauðskjóttum gæðingi Glæsir að nafni, kallaður Ráðherra-Skjóni. Seinna í ferðinni reið hann brúnum hesti en konungur hélt sig við gráa litinn enda hafði honum verið ætlaðir fjórir í þeim lit í ferðina. Þegar til kom líkaði honum aðeins við tvo þeirra. Eggert Benediktsson bóndi í Laugardælum, stórbýli rétt fyrir austan Selfoss, skaffaði þessa gráu hesta. Haraldur prins var í húsarabúningi. Þarna voru líka Axel Tulinius sýslumaður Suður-Múlasýslu, aðalskipuleggjari ferðarinnar, Rendtorff yfirhestasveinn konungs í rauðum búningi, J.C. Christensen forsætisráðherra og Rosenstand leyndaretatsráð svo að einhverjir séu nefndir.

Mosfellsheiði

Gamli Þingvallavegurinn.

Leiðsögumenn voru m.a. þeir Guðmundur Björnsson landlæknir og Jón Magnússon skrifstofustjóri, síðar forsætisráðherra. Jón var hæglætismaður og frekar orðfár, en hvar sem hann sýndi sig fóru hjólin að snúast.
Það þurfti töluverða skipulagshæfileika til að henda reiður á öllu því hafurstaski sem fylgdi þessu liði, kerrur með tjöld og matföng og trússhestar, klyfsöðlar, hnakkar, beisli, lyfjaskrín, hattaöskjur og ferðakoffort. Að morgni fyrsta dags voru allir að ganga af göflunum og þá var notalegt að hafa Jón Magnússon með sína góðu nærveru. Hófaskellirnir á götum Reykjavíkur þennan dag komu öllum í ferðaham og góðhestarnir sem bændur sunnanlands og norðan höfðu lánað af þessu tilefni voru ekki af verri endanum. Flestar sýslur landsins lögðu til 18 hesta hver landssjóði að kostnaðarlausu, en einnig voru fjöldinn allur af leiguhestum.

Gamli-Þingvallavegur

Gamli-Þingvallavegur – ræsi.

Af lista yfir íslenska alþingismenn sem varðveist hefur er svo að sjá, að flestir þeirra hafi fengið tvo hesta til afnota. Númer 13 á listanum er Hannes Hafstein, 1. þingmaður Eyfirðinga, Tjarnargötu. Hann fékk bara einn hest enda lagði hann sjálfur til Ráðherra-Skjóna. Björn M. Olsen, 3. konungskjörinn þingmaður, Lækjargötu 8, fékk 3 hesta. Tryggvi Gunnarsson 1. þingmaður Reykvíkinga fékk 2 hesta og sömuleiðis Þórhallur Bjarnarson, þingmaður Borgfirðinga, síðar biskup yfir Íslandi.
Þar sem riðið var upp Hverfisgötu blakti danski fáninn við hún. Farið var upp hjá Rauðavatni og Geithálsi og síðan Hafravatnsveg í Djúpadal á Mosfellsheiði, en þar byrjar hinn eiginlegi gamli Þingvallavegur. Svipusmellir fylltu loftið og öllum mátti vera ljóst að þetta var enginn venjulegur reiðtúr. Á leiðinni bættust í hópinn bændur sem höfðu hlaupið frá búum sínum til að skoða kónginn. Þegar til kom gátu þeir ekki stillt sig um að slást í för á Þingvöll. Sumir voru ekki einir á ferð heldur með allt sitt hyski, konu og krakka. Í Djúpadal var framreiddur hádegisverður.

Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegurinn – ræsi og varða framundan.

Eins og allir vita þá eru Danir fyrst í essinu sínu þegar matur er annars vegar. Þeir borða ekki eingöngu til að lafa á fótunum. Virkilega siðaður Dani getur rifjað upp matseðla áratugi aftur í tímann af jafn mikilli nákvæmni og veðurglöggur Íslendingur lýsir skýjafari.
Nema hvað í Djúpadal hafði Franz Håkansson, bakari og conditori, Austurstræti 17 látið senda 150 rúnstykki, 7 rúgbrauð og 12 franskbrauð. Pagh veitingastjóri var staðráðinn í því, að hvað sem öðru liði þá myndi Friðrik 8. Danakonungur ekki verða hungurmorða í ferðinni og þyrstur yrði hann ekki, enda sést í skjölum að Thomsens Magasin lét senda 4000 flöskur vestur að Rauðamel. Þar var tappað ölkelduvatni á flöskurnar. Þetta ölkelduvatn var haft til hressingar í heimsókn konungs. Að loknum málsverði þumlungaðist hersingin áfram fyrir norðan Borgarhóla í áttina að Þrívörðum og sunnan við Vilborgarkeldu á Mosfellsheiði, sem er forn áningarstaður. Þaðan var ekki langt í Ferðamannahorn, en það heitir svo vegna þess að þar sést fyrst til langferðamanna að koma á Þingvöll. Svo lá leiðin um Kárastaðastíg og niður í Almannagjá.

Þingvallavegur

Þingvallavegur – ræsi.

Þegar konungur reið niður gjána hrópaði fólkið sem hafði raðað sér þar upp nífalt húrra, ég endurtek nífalt, minna mátti ekki gagn gera.
Ekki er minnst á sæluhúsin við Gamla Þingvallaveginn á Mosfellsheiði.
Friðrik 8. var fæddur árið 1843 og dó árið 1912. Hann ríkti frá árinu 1906 til 1912. Faðir hans var Kristján 9. Þann stutta tíma sem Friðrik var við völd ferðaðist hann mikið um ríki sitt og komst í nána snertingu við þjóð sína. Hann beitti sér m.a. fyrir bættum samskiptum við Íslendinga.

Heimild m.a.:
-http://www.847.is/index4.php?pistill_id=35&valmynd=3
-Höfundur: Örn H. Bjarnason.

Gamli Þingvallavegur

Varða við gatnamót Gamla Þingvallavegar og Seljadalsvegar.

Reynisvatn

Í „Þjóðsögur og munnmæli“ skráðum af Jóni Þorkelssyni segir m.a. um Reynisvatn: CXVI. „Reynisvatn – [Landsbókasafn 528. 4to með hendi Jóns Árnasonar].
Reynisvatn 2Reynisvatn heitir bær í Mosfellssveit. Hann dregur nafn af stöðuvatni því, sem þar er rétt við túnið, og af manni þeim, sem þar bjó fyrstur og hét Reynir. Reynir bóndi hafði smiðju sína langt frá bænum fyrir handan vatnið, undir svo kölluðum Nónás; varð hann að krækja öðruhvoru megin við vatnið, þegar ekki lá ís á því, til að komast í smiðjuna. En í vatninu var afbragðs silungsveiði. Einu sinni um vetur þegar vatnið var farið að leggja, ætlaði Reynir að stytta sér leið og ríða yfir vatnið til smiðjunnar, en vök var á vatninu og drukknaði hann þar. Dóttir Reynis var stödd úti og sá ófarir föður síns. Henni varð skapbrátt af því hún gat ekki hjálpað honum, og lagði á vatnið, að allur silungur í því skyldi verða að pöddum og hornsílum, og hafa þau ummæli haldizt síðan. En það er frá bóndadóttur að segja, að hún tók til fótanna eptir ummæli sín, hljóp í sömu vökina, sem faðir hennar fórst í, og týndi sér þar.“

Heimild:
-Þjóðsögur og munnmæli, Jón Þorkelsson skráði, 1899, bls. 155-156.

Reynisvatn

Reynisvatn.

Þórufell

Í Morgunblaðinu 2. október 1987 er minningargrein um Þóru P. Jónsdóttur. Þóra fæddist í Breiðholti og bjó lengi við Reynisvatn. Hún var vel kunnug á sínum heimaslóðum, líkt og lesa má:

Þóra P. Jónsdóttir

Þóra P. Jónsdóttir (13.05.1891-21.09.1987).

„Ástkær tengdamóðir mín, Þóra Petrína Jónsdóttir frá Reynisvatni, er látin í hárri elli. Hún átti ekki nema fjögur ár ólifuð til að fylla heilt árhundrað. Með Þóru er fallinn í valinn verðugur fulltrúi þeirrar kynslóðar, sem lifað hefur tímana tvenna. Í minningu tengdamóður minnar get ég ekki látið hjá líða að fara um hana nokkrum orðum og endurgjalda henni að nokkru þann hlýhug og velvilja sem hún sýndi mér alla tíð.
Þóra var fædd 13. maí 1891 í Breiðholti. Foreldrar hennar voru þau Jón Jónsson, bóndi þar og kona hans Björg Magnúsdóttir, en þau hjón áttu miklu barnaláni að fagna og var Þóra yngst þrettán barna sem þeim hjónum varð auðið. Þrátt fyrir alla ómegðina, tókst Jóni og Björgu alla sína hjúskapartíð að sjá börnum sínum farborða.
Jón og Björg bjuggu myndarlegu búi að Breiðholti og víst er að þar hefur oft verið gestagangur mikill í sláturtíðinni, er vinnumenn og bændur af Suðurlandi komu slæptir ofan af Hellisheiði með reksturinn til slátrunar í bæinn, enda lá Breiðholtsbýlið um þjóðbraut þvera.
Breiðholt
Eftir að Jón féll frá 1897, tók Björg við búrekstrinum, sem henni fórst vel úr hendi. Björg stýrði búi í Breiðholti í ein sex ár eða til 1903 er hún brá búi og fluttist til Reykjavíkur með þau barnanna sem ekki voru að fullu vaxin úr grasi. Þá var Þóra á þrettánda ári og var talan þrettán þar enn á ný áhrifavaldur í lífi hennar. Eins og títt var með börn og unglinga á upphafsáratugum aldarinnar, varð Þóra snemma að sjá sér farborða og leggja til með sér til heimilishaldsins. Eftir að hún fluttist til Reykjavíkur vann hún í fiskvinnu, verksmiðjuvinnu og kaupavinnu uppí Borgarfirði og austur í Fljótshlíð.

Stöðlakot

Stöðlakot [Stuðlakot] við Bókhlöðustíg.

Þóra kynntist í Reykjavík lífsförunauti sínum, Ólafi Jónssyni, múrarameistara frá Stuðlakoti [Stöðlakoti], miklum ágætis- og hagleiksmanni. Þau gengu í það heilaga 14. október 1913 og lágu leiðir þeirra saman eftir það í rúm fimmtíu ár, eða þar til Ólafur andaðist 25. september 1965, þá rétt kominn á efri ár.
Fyrst um sinn bjuggu Þóra og Ólafur í Stuðlakoti, æskuheimili Ólafs. Stuðlakot kannast óefað margir Reykvíkingar við, en það er steinbærinn við Bókhlöðustíginn, beint fyrir sunnan latínuskólann gamla, en bærinn hefur fyrir skemmstu verið gerður upp í upphaflegri mynd. Í Stuðlakoti og á Bókhlöðustig 6a, húsi sem Ólafur reisti, bjuggu þau í rúm tíu ár, eða þar til þau festu sér jörðina Reynisvatn í Mosfellssveit til ábúðar.

Reynisvatn

Reynisvatn – túnakort 1916.

Eftir að þau brugðu búi og fluttust að Reynisvatni 1924, þurfti víða að taka til hendinni. Húsakostur á Reynisvatni var bæði rýr og lélegur og túnið lítið og þýft. Það var því í nógu að snúast fyrstu búskaparárin. Ólafur byggði nýtt og rúmgott íbúðarhús og braut ódeigur mikið land til rætkunar. Ólafur var búhöldur góður, og hafði á fóðrum margt fjár, sem var bæði vænt og fallegt.
Þrátt fyrir óbilandi áhuga Ólafs fyrir búskapnum, var hann þó trúr og tryggur þeirri iðn sem hann hafði menntast til, múrverkinu. Hann stundaði múrverk jöfnum höndum með búskapnum allt fram yfir 1950, er hann lagði múrskeiðina á hilluna og snéri sér alfarið að búskapnum. Meðal þeirra bygginga sem Ólafur vann við og tók þátt í byggingu á voru ýmis stórhýsi, s.s. Landspítalinn, Landsbankinn, Hafnarhúsið, Hótel Borg og Gamla Bíó.

Reynisvatn

Reynisvatn – minjar.

Án efa hefur mikið mætt á Þóru á frumbýlisárum hennar og Ólafs að Reynisvatni. Þegar hér var komið við sögu höfðu þau eignast fimm börn, sem öll voru ung að árum og fjögur önnur bættust í barnahópinn næstu árin. Þær stundir sem bóndinn dvaldi fjarri heimilinu í Reykjavík við múrverkið, hafði Þóra í mörgu að snúast, barnauppeldi og búverkum. Eflaust hefur jafnlyndi og æðruleysi Þóru og væntumþykja fyrir börnum og ferfætlingum átt stóran þátt í því að bústörfin gengu sinn vanagang, þótt Ólafur væri við störf í Reykjavík.
Börn þeirra Þóru og Ólafs urðu níu talsins. Eftir að börnum voru vaxin úr grasi, fyllti næsta kynslóð upp í það tóm sem verður þegar börnin eru farin að heiman. Öll barnabörnin, sem eru 17 að tölu, dvöldu langdvöldum á Reynisvatni hjá ömmu og afa meðan hans naut við.

Þórufell

Þórufell í Breiðholtshverfi.

Enn á ný 1980 urðu breytingar á högum Þóru. Hún seldi Reykjavíkurborg landareignina og húsakostum á Reynisvatni og fluttist búferlum að Mávahlíð í Reykjavík, þar sem hún eyddi ævikvöldinu.
Þrátt fyrir háan aldur og margt viðvikið á langri ævi, hafði Þóra fótavist allt fram á síðasta dag og fylgdist vel með öllu þó líkamlegt þrek væri farið að minnka.
Alla ævi hafði Þóra mjög sterkar taugar til æskustöðva sinna í Breiðholtinu. Þegar embættismenn á vegum Reykjavíkurborgar voru að finna götum í Breiðholtinu nöfn, var Þóra höfð með í ráðum, enda óvíst að aðrir eftirlifandi hafi verið kunnugri örnefndum og staðháttum á þeim slóðum en hún. Borgaryfirvöldum þótti við hæfi að nefna þrjár götur í höfuðið á Þóru og tveimur systrum hennar, göturnar Þórufell, Lóuhólar og Maríubakki. Ræktarsemi Þóru við Breiðholtið kom ekki síst fram í því að henni var umhugað um varðveislu örnefna í Breiðholtinu, þótt gömlum kvíastæðum og stekkjarbrotum væri valið það hlutskipti að lenda undir undirstöðum íbúðarhúsa og háhýsa. Þóra brást því glöð við þeirri beiðni starfsmanna Örnefnastofnunar að fylla í eyður stofnunarinnar um örnefni á bernskuslóðum hennar og næsta nágrenni.
Þóra var um margt einstæð kona. Hún var hjartahlý og ráðagóð og vildi úr hvers manns vandkvæðum ráða. Hún var mikill dýravinur og náttúrunnandi, hún unni öllu því sem lífsandinn hrærði.“ – Þorgeir Þorkelsson

Heimild:
-Morgunblaðið, 2. október 1987, Þóra P. Reynisdóttir, f: 13.05.1891, d. 21.09.1987, bls. 39.

Breiðholt

Breiðholt – örnefni.

Björn Bjarnason

Í skýrslu Árbæjarsafns um „Grafarvog – minjar og sögu“ frá árinu 1998 er fjallað um Gröf (Grafarholt), Grafarkot (Holtsstaði), Oddgeirsnes, Keldur og Keldnakot (Lausingjastaði):

Gröf – Grafarholt
„Jörðin Gröf fékk nafnið Grafarholt þegar bærinn var fluttur á núverandi stað 1907.

Grafarholt

Grafarholt – byggt 1907.

Ekki er Grafar getið í Landnámu en byggð hefur trúlega hafist þar fljótt. Fyrst er hennar getið í máldaga Maríukirkju á Bessastöðum 1352 og seinna sem eign Viðeyjarklausturs 1395. Árið 1503 er gefið út skiptibréf þeirra Áma ábóta í Viðey og Halldórs Brynjólfssonar ájörðunum Strönd í Hvolhreppi og Gröf í Mosfellssveit. Við siðaskipti um 1550 sló konungurinn eign sinni á allar klausturjarðir á Íslandi og varð Gröf í Mosfellssveit því konungsjörð.

Björn Bjarnason

Björn Bjarnason 90 ára. Hér þakkar hann fyrir góðar kveðjur honum til handa.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns 1704 er konungur talinn eigandi, en ábúandi er Einar Þórðarson. Leiga var greidd konungi í smjöri til Bessastaða. Kvaðir um mannslán, hestlán til Þingvalla og annarra staða, jafnvel stundum norður í land og í ýmsar áttir. Skila átti tveimur dagsláttum, tveimur hríshestum og einum eða tveimur móhestum. Skera átti torf, flytja lax úr Elliðaánum, sjá um skipaferðir, sækja timbur til Þingvalla, hússtörf á Bessastöðum og fleira. Engjar jarðarinnar voru mjög litlar.
Kvikfénaður er skráður 6 kýr, 1 kvíga tvævetur, 8 ær með lömbum og 4 hestar. Heimilismenn eru skráðir 10. Kostir jarðarinnar eru taldir litlir. Hjáleigur eru taldar tvær, það eru Grafarkot sem byggðist upp þá fyrir 50 árum og hét hugsanlega Holtsstaðir áður og hjáleigan Oddgeirsnes sem er búin að vera eyðijörð í allra manna minni.
Litlum sögum fer af jörðinni en skömmu fyrir 1840 er hún seld eins og flestar konungsjarðir á þessum slóðum. Gröf var mjög landstór jörð.

Grafarholt

Fjölskyldan í Grafarholti. Efri röð frá vinstri: Kristrún Steindórsdóttir (1915-1998), Björn Steindórsson (1921-1974), Einar Þórir Steindórsson (1916-1991), Steindór Björnsson (1885-1972), Gunnar Steindórsson (1918-1966) og Guðni Örvar Steindórsson (1913-1981). Neðri röð frá vinstri: Steinunn María Steindórsdóttir (1922-2005), Vignir Guðbjörn Steindórsson (1919-1945), Rúnar Geir Steindórsson (1925-2012) og Guðrún Eybjörg Steindórsdóttir (1921-1948).

Framan af öldinni bjó í Grafarholti bændahöfðinginn Björn Bjarnason hreppstjóri og um skeið alþingismaður, fróðleiksmaður mikill, en sérkennilegur í mörgu.
Árið 1943 var jörðin Grafarholt lögð undir Reykjavík samkvæmt lögum og meginhluti hennar síðan tekin eignarnámi 1944.

Keldur

Keldur

Keldur.

Jörðin Keldur er norðaustan við Grafarvog. Bærinn sjálfur hefur alla tíð verið á svipuðum stað eða þar sem tilraunastöðin í meinafræðum er núna. Ekki er vitað hvenær byggð hófst á Keldum, en jörðin var talin meðal eigna Viðeyjarklausturs árið 1395, verður síðan konungseign við siðaskiptin eins og aðrar klausturjarðir. Litlar sögur fara af ábúendum í gegnum aldirnar. Samkvæmt Jarðabók árið 1704 voru ábúendur á Keldum, Sveinn Jónsson og ekkjan Vigdís Ketilsdóttir sem bjuggu á sitthvorum helmingi jarðarinnar.

Keldnasel

Keldnasel.

Leigajarðarinnar átti að borgast með smjöri til Bessastaða eða Viðeyjar. Kvaðir um mannslán voru eitt frá báðum, hestlán til alþingis meðan hestar voru til, hafa reipi, reiðinga og klyfbera til fyrir alþingisreiðina, dagslættir í Viðey tveir, hríshestar tveir og móhestar einn frá báðum, fóðra misjafnt eitt sinn hest og eitt sinn naut og ekki minna en tvö lömb, auk fleiri hvaða. Landþraung var mikil. Sveinn átti tvær kýr, tvær ær með lömbum, tvo veturgamla sauði, einn kálf og eitt hross. Vigdís átti fjórar kýr, einn kálf, þrjár ær með lömbum og ein gelda, einn sauð tvævetur og tvo veturgamla. Heimilismenn hjá Sveini voru fjórir en fimm hjá Vigdísi. Torfskurður til húsagerðar var nógur, en til eldiviðar var mótekja lök. Um vetur leggur bæ allan í fönn.

Keldnakot

Keldnakot.

Hjáleiga Keldna var Keldnakot. Það hafði árið 1704 verið í eyði í 20 ár en byggð þar fyrir um 20 ár. Sagt er í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns að þar hafi forn jörð verið og heitið Lausingjastaðir að sögn gamalla manna.

Jörðin var seld skömmu fyrir 1840 og var í einkaeign rúmlega eina öld þar til ríkissjóður kaupir hana árið 1941. Ýmsar byggingar hafa risið þar síðan á vegum háskólans, t.d. tilraunastöðin í meinafræðum sem reist var á árunum 1945-1948.“

Sjá meira um svæðið HÉR.

Björn Bjarnason

Björn Bjarnason (14.08.1856-
15.03.1951).

Í Morgunblaðinu 21. mars 1951 segir: „Björn Bjarnason í Grafarholti jarðsunginn í dag„:

„Hinn landskunni bændaöldungur, Björn Bjarnarson í Grafarholti verður jarðsunginn í dag að Lágáfelli í Mosfellssveit. Hann var á 95. aldursári, fæddur 1856 í Skógarkoti í Þingvallasveit.
Hann var einn þeirra Íslendinga, sem seint á öldinni, sem leið stunduðu bufræðinám við búnaðarskólann að Stend í Noregi og hóf síðan búskap hjer heima samkvæmt þeirri hagnýtu þekkingu, er hann aflaði sjer við þessa ágætu menntastofnun norskra bændaefna.
Nokkru eftir að hann kom heim, gerðist hann forgöngumaður að stofnun Hvanneyrarskólans. Á hann hlóðust fjölmörg trúnaðarstörf, sem of langt yrði upp að telja. Hreppstjóri Mosfellshrepps var hann í áratugi og þátttakandi í flestum meiri háttar fjelagssamtökum sunnlenskra bænda, er stofnað var til um og upp úr síðustu aldarmótum.

Grafarholt

Guðrún Björnsdóttir (1889-1935) árið 1911 – húsfreyja.

Björn heitinn var fæddur gætinn umbótamaður er unni þjóð sinni, velgengni hennar og bar hagsmuni sveitarfjelags síns mjög fyrir brjósti. Um tíma var hann þingmaður Borgarfjarðarsýslu.
Er hann hafði látið af búskaparstörfum og flestum trúnaðarstörf fyrir fyrir aldurssakir lagði hann stund á ýms íslensk fræði, málvöndun og hagnýtan fróðleik er hann hugði að komið gæti bændum og búaliði að gagni.
Hann átti lengi sæti á Búnaðarþingi og var árið 1932 kjörinn heiðursfjelagi Búnaðafjelags Íslands eftir 50 ára fjelagsstarf.
Á langri æfi átti hann í fórum sínum meira af lifandi fróðleik úr sögu íslenskrar bændastjettar en aðrir samtíðamenn hans.“

Heimild:
-Grafarvogur, Borgarhluti 8 – Minjar og saga, Reykjavík 1998 (Skýrslur Árbæjarsafns).
-Morgunblaðið 21. mars 1951, Björn Bjarnason í Grafarholti jarðsungin í dag, bls. 2.

Keldur

Keldur og Grafarholt – loftmynd.

Rjúpnadyngjuhraun

Í sérprentun úr Árbók Ferðafélags Íslands 1985 fjallar Jón Jónsson jarðfræðingur um „Jarðsögu svæðisins milli Selvogsgötu og Þrengsla„.
Efnið er hið fróðlegasta um mótunarsögu landsins. Þar segir Eyram.a. um Rjúpnadyngju: „Í þessum hraunupptökum er fátt um venjuleg einkenni gígs. Á sléttunni vestanverðri er kringlótt niðurfall um 60 m í þvermál og 4-6 m djúpt. Lítið eitt norðar eru tveir lágir gjallhólar. Líklegt þykir að niðurfallið sé yfir uppstreymisrás hraunsins.
Allt landslag þarna í kring er ærið tröllslegt en vel þess virði að grannskoða. Frá eldvarpinu hefur hraun runnið norður og niður í átt að Hjalla, báðum megin við Húsfell, að Kaplatóm, og háa hrauntungan rétt austan við Búrfellsgíginn er hluti af þessu hrauni. Sýnt hefur verið fram á að hraun þetta hefur runnið eftir að norrænt landnám hófst hér á landi.“
Ætlunin var m.a. að finna og skoða hið stóra niðurfall í þessu mikla kargahrauni norðan Stóra-Kóngsfells. Fáir hafa farið um hraunin allt frá því að það síðasta rann fyrir rúmlega 1100 árum. Rjúpnadyngjuhraun hangir hátt yfir höfuðborgarsvæðinu og er í senn bæði stórbrotið í eiginlegri merkingu og greiðfært – ef rétt er að farið.

Eyra

Í sérprentinu segir m.a. um jarðsvæðið um miðjan Reykjanesskagans:
„Eins og getið er í Árbók F.Í. 1984 er næsta ljóst að Reykjanesskagi hefur byggst upp austan frá, eða öllu heldur norðaustan. Hann er því eldri á því svæði en vestar. Aldur yfirborðslaga er minni en 700 þúsund ár. Ofan á eldri myndanir, móberg, grágrýti (forn hraun) og jökulberg, koma hraun sem runnið hafa á nútíma og allt fram á sögulegan tíma.

Sporið

Á það hefur veriðbent að mikil eldvirkni hafi verið á Reykjanesskaga frá ómunatíð og raunar á hann eldvirkninni tilurð sína að þakka. Hún virðist ekki hafa tekið róttækum breytingum í aldanna rás því sams konar eldstöðvar og sams konar bergtegundir er að finna innan gosmyndana frá elstu tímum til dagsins í dag. Ekki verður séð að eldvirknin fari dvínandi né heldur fundin rök fyrir því að svo muni verða í náinni framtíð. Á þessu svæði hafa haldist í hendur eldvirkni og tíðir jarðskjálftar.
BollarEf upptök jarðskjálfta eru færð inn á kort 
kemur í ljós að þau liggja eftir Atlantshafshryggnum endilöngum, eftir gosbeltinu þvert yfir landið og eru sérstaklega áberandi á Reykjanesskaga.
Tvenns konar myndanir eru mest áberandi sem hvor um sig virðist tímabundin. Á nútíma virðist röðin þessi: Fyrstu gosin mynda tiltölulega litla hraunskildi (píkrit-dyngjur), sem lagt hafa til um 4.9% rúmmáls allra hrauna á skaganum. Næst koma stóru hraunskildirnir með um 7.8% og loks yngstu hraunin, sem komin eru úr sprungugosum (gígaröðum) eða einstökum gígum, með um 16.6%. Hraun þekja 1064 km2 eða sem næst 52% af flatarmáli skagans.

Af Grindaskörðum
GrindarskörðÞegar kemur austur fyrir Grindaskörð eru norðurhlíðar fjallsins að mestu huldar nútímahraunum. Á fjallsbrún er hár móbergshnúkur með hraunhettu á kolli og er því myndaður sem stapi. Hraunið er unglegt og enginn efi að þetta er eldstöð frá jökultíma. Á kortum er fellið í heild nefnt Stóri-Bolli, en hér hlýtur að vera um nafnabrengl að ræða. Bollanafnið á vafalaust við stóran gíg sem er norðan í fellinu. Hann er frá nútíma og frá honum eru mikil hraun komin, sem runnið hafa í norður. Af kolli þess hnúks er hið besta útsýni niður yfir hraunflóðin sem fallið hafa út frá fjallinu til beggja hliða, en einkum er útsýnið mikið til norðurs. Frá Stóra-Bolla, sem segja má að sé við rætur fjallsins, hafa mikil hraun runnið norður og breiðst eins og blævængur út frá gígnum. Þau hafa runnið að verulegu leyti í neðanjarðarrásum og hafa þannig skapað fjölda hella. Hraunin ná til Undirhlíða og Helgafells en ekki verður séð hvað þau hafa náð lengra tilnorðurs.
Aðeins vestan við Stóra-Bolla eru Tvíbollar. Það eru tvíburagígir samvaxnir sem hafa gosið snemma á landnámsöld. Grágrýtislög þekja svæðið norðaustar. Ein eldstöð á þessum slóðum gæti komið til greina en hana hef ég nefnt Spor. Það Þríhnúkarer niðurfall sem er um 800×380 m að ummáli og 15-25 m djúpt þar sem dýpst er. Leifar af sjálfum gígnum má óljóst greina miðsvæðis í niðurfallinu en yngri gígaröð með hrauni hefur síðan farið í gegnum það. Það liggur beint við að ætla að grágrýtishraunin næst í kring séu frá þessu eldvarpi, þar á meðal þau er mynda Kristjánsdalahorn.

Þríhnúkar

Þríhnúkar

Þessi eldstöð er næsta sérstæð bæði að útliti og efni. Þarna hefur gosið tvisvar á nútíma. Eins og nafnið bendir til eru hnúkarnir þrír, tveir eru nútímagosmyndanir en einn er úr móbergi og stendur á og er raunar hluti af fjallsbrúninni. Þarna hefur gosið á þrem stöðum en líklega bara tvisvar. Elsta og stærsta eldvarpið er hraundalur, um 450 m langur frá norðaustri til suðvesturs. Breiddin er um 50 m og hann er 8-10 m djúpur eins og hann er núna (sjá síðar). Út frá miðri suðausturhlíð þessa dals gengur eldrás mikil (hrauntraðir) til norðausturs og myndar háan hrygg., Þríhnúkahala, en hraunlænur hafa hér og þar runnið út af og byggt upp bakka hraunárinnar sem þarna er. Loks hefur meginhraunáin beygt þvert til vestur og fallið í bröttum fossi til norðvesturs út af fjallinu. Fyrir neðan fjallið má rekja hraunið vestur fyrir Kristjánsdalahorn og loks kemur það fram við Helgafell og Valahnúka og hefur náð vestur í Mygludali. Þetta hefur verið allmikið hraungos.

Gígar

Í beinni stefnu frá þessum gíg er annar og mjög reglulegur gígur alveg við rætur fjallsins. Hann er skeifulaga, um 150 m í þvermál, og opinn til norðurs. Vegna lögunar hef ég nefnt hann Eyra í dagbókum mínum, en ekki er það nafn staðfest. Hraunið sem hefur runnið frá þessum gíg hverfur strax undir yngri hraun en kemur fram aftur neðar í reglulegum, allháum hrauntanga sem nær niður ínorðanverða Heiðmörk og heitir þar Strípshraun. Ég hallast að þeirri skoðun að Þríhnúkar, þ.e. aðaleldvarpið sem áður er frá greint, og þetta hraun séu í í raun réttri eitt og hið sama og líta beri á þetta sem eina heild.

Stóru-Kóngsfellsgígar

Á fjallsbrún milli þessara eldvarpa er stutt og nokkuð mikið veðruð gígaröð. Einn gíganna er í lögun eins og skjólgarður, sem hallar fram yfir sig, og er að innanverðu úr fagurrauðu samanbræddu gjalli með alls konar furðumyndunum. Frá honum liggur hraunpípa niður hlíðina og má sjá inn í hana á stöku stöðum. Í gígnum er gott skjól fyrir austanátt og þaðan má njóta útsýnis yfir hraunið við Hjalla, Búrfells og yfir þéttbýlið niður við strönd.
Einn Þríhnúka er um 40 m hár og brattur gígur, hlaðinn úr hraunkleprum og slettum. Hann er risavaxinn strompur sem nálgast skal með varúð og ætti raunar að girða af svo hættulegur sem hann er ef ekki er varlega farið. Hann er op mikið (upprunalega hafa þau verið tvö) niður í hina skugglegu undirveröld gosstöðvanna, með ókleifa gígveggi sem halar fram yfir sig. Sagt er að gímaldið sé um 110 m djúpt. Ljóst er að frá þessum gíg hefur hraun runnið inn í eldri gíginn. Það þekur nú botn hans og í upprunalegt útlit hans verður ekki ráðið. Það hefur runnið ofan í hrauntraðirnar miklu, sem áður er getið, og lokað þeim á kafla, runnið svo norður með þeim að vestan og loks fallið í allbreiðum, bröttum fossi vestur af fjallinu, en nær aðeins skammt út á eldra hraunið neðan við hlíðina. Tveir smágígir, sem líklega eru frá sama tíma, eru utan við gígdalinn að sunnanverðu.

Stóra-Kóngsfell og Eldborg

Stóra-Kóngsfell

Stóra-Kóngsfell tilheyrir móbergsfjöllunum og er úr móbergi og bólstrabergi. Það er klofið að endilöngu af tveim sprungum og sú þeirra sem norðar er hefur gosið hrauni. Megingígirnir eru við suðvesturendann á fellinu og eru hinir myndarlegsutu en smágígir teygja sig upp í noðrurhlíð fjallsins. Loks eru þrír smágígir nokkru vestar og slitnir frá aðalgígaröðinni. Hraun hefur runnið til beggja hliða við fellið, önnur kvíslin til norðurs með fellinu að austan. Hraunstraumarnir sameinast norðaustan við fellið og falla svo vestur með fjallinu niður með Kritsjánsdalahorni og skamt vestar fellur hraunið út í Tvíbollahraun, sem er frá sögulegum tíma. Þar með er ljóst að Kóngsfellsgígarnir hafa gosið eftir að landnám hófst og jafnframt að það er yngsta hraunið á þessu vsæði, en nánar er ekki vitað um aldur þess.

Varða

Af Kóngsfelli er útsýni hið besta norðvestur um Faxaflóa og til Snæfellsness, yfir hraunstraum-ana sem liðast hafa niður eftir landinu niður í Heiðmörk og mynda risavaxna keilu sem ber hæst vestan við Bláfjöll. Skammt suðaustan við Stóra-Kóngsfell er annað fell, minna um sig og lægra. Það er almennt kallað Drottning.
GjallhóllAustan megin við Drottningu rís eldstöð með nokkuð sérkennilegu útliti og ber nafnið Eldborg.
Þær munu reyndar vera átta nöfnurnar á Reykjanesskaga. Gosstöðin er sprunga sem í heild er um 1.5 km löng. Sjálfur gígurinn er um 200 m í þvermál og vel 30 m djúpur. Meginhraunið hefur runnið niður með Selfjalli að vestan og niður í Lækjarbotna þar sem það endar í allhárri brún. Önnur álma úr því hefur runnið austur með Rauðhnúkum að norðan og niðurá sléttlendið vestan við Vífilsfell, þar sem það myndar yngstu hrauntunguna. Ekki hefur tekist að grafast fyrir um aldur þessa hrauns, en ljóst er að það er ungt og vel hugsanlegt að það hafi runnið einhvern tíma á fyrstu áratugum Íslandsbyggðar.
Í RjúpnadyngjuhrauniRauðahnúkar eru móbergshryggur vetsur af Bláfjöllum. Norðan í þeim er röð að smágígum. Þar norður af eru Rjúpnadalahnúkar en vetsra Sandfell og loks Selfjall, sem er ofan við Lækjarbotna. Norðan í Selfjalli er grágrýtis-
hnúkur sem gæti verið bergstapi í fornri gosrás. Um skarðið milli Sandfells og Selfjalls hefur hraunið runnið niður í Lækjarbotna og fram á brún Fossvallaklifs norðan Þjóðvegar. Það er úr Strompum.
Norðan undir Rauðuhnúkum og vestan í Vífilsfelli eru fornleg eldvörp. Frá þessum eldvörpum hefur runnið hraun niður á Sandskeið og stendur skáli Svifflugfélagsins á því.

Rjúpnadyngja

Rjúpnadyngjuhraun

Í þessum hraunupptökum er fátt um venjuleg einkenni gígs. Á sléttunni vestanverðri er kringlótt niðurfall um 60 m í þvermál og 4-6 m djúpt. Lítið eitt norðar eru tveir lágir gjallhólar. Líklegt þykir að niðurfallið sé yfir uppstreymisrás hraunsins.
Allt landslag þarna í kring er ærið tröllslegt en vel þess virði að grannskoða. Frá eldvarpinu hefur hraun runnið norður og niður í átt að Hjalla, báðum megin við Húsfell, að Kaplatóm, og háa hrauntungan rétt austan við Búrfellsgíginn er hluti af þessu hrauni. Sýnt hefur verið fram á að hraun þetta hefur runnið eftir að norrænt landnám hófst hér á landi.
[Líklegra er að gígurinn í Rjúpnadyngjuhrauni sé skammt norðaustan við nefndan gíg, þ.e. hæst á hæðinni. Umleikis hann eru gjallhólarnir, sem Jón minnist á. Gígurinn, sem hefur verið dyngja, hefur verið allstór, ekki ósvipaður dyngjunni í Hrútagjárdyngju.]

Hólmshraun
Hraunið er komið úr Eldborginni, sem fyrr er nefnd, og Strompum.  Svo virðist sem þetta hraun sé nokkuð gamalt, þó er það yngra en 4600 ára, og svo eru raunar öll þau fimm hraun sem ganga undor einu nafni Hólmshraun.

Heiðmörk
StrípshraunBergrunnur Heiðmerkursvæðisins er grágrýti, enda þótt nokkurt skilgreiningarspursmál sé hvað telja skal berggrunn. Grágrýtið á þessu svæði er næstum örugglega komið sunnan frá og væntanlega úr eldstöð sem verið hefur einhvers staðar á svæðinu milli sunnanverðra Bláfjalla og Grindarskarða, en líklegt er að nú sé sú eldstöð hulin yngri myndunum. Grágrýtisklappirnar bera ljós merki þess að jökull hafi farið yfir þær á leið sinni niður á láglendi og út á Faxaflóa. Á einstaka stað liggja steinar ofan á klöppunum og komið getur fyrir að finna megin stein þann er rispaði klöppina, en þarna liggja steinar eins og jökullinn skildi við þá fyrir þúsundum ára. Jökulberg sést vel norðan við Búrfellshraun. Jökull síðasta kuldaskeiðs hefur borið stykki af þessu jökulbergi vestur á við og er því fullljóst að það er eldra en frá síðasta jökulskeiði.
RjúpnadyngjuhraunMikil eldvirkni hefur verið í fjöllunum suður af Heiðmörk eftir að ísa leysti af þeim og hefur hún átt drjúgan þátt í að skapa það landslag sem setur mestan svip á þetta svæði. A.m.k. átta mismunandi hraunflóð hafa runnið inn á það svæði sem nú heitir Heiðmörk. Nokkur hafa náð alveg niður á sléttlendið austur af Elliðavatni og runnið þar út á Leitarhraun. Þar með er ljóst að þau eru yngri en það, en um aldur þess er áður getið. Sex hraunanna í Heiðmörk eru því yngri en 4600 ára. Eitt hraunanna í Heiðmörk hefur sérstöðu hvað varðar samsetningu. Það er Strípshraun sem mun komið úr þeim stóra gíg norðaustur af þríhnúkum [Eyra] sem áður er getið. Það hefur runnið beint niður eftir og endar í tanga rétt sunnan við nyrðri veginn austur um Heiðmörk. Hraunstraumar hafa síðan runnið þvert yfir það, þar á meðal tveir sem eru frá sögulegum tíma, nefnilega Rjúpnadyngjuhraun og Kóngsfellshraun. Af því og fleiru má ráða að hraunið sé allgamalt en um aldur þess er ekki að öðru leyti vitað.
RjúpnadyngjuhraunÁður en Leitarhraun rann hefru Elliðavatn líklega verið stærra en síðar varð, en sennilega hafa vötnin verið tvö og úr þeim runnu forn-Elliðaár um skógi vaxinn dal til sævar. Þegar hraunflóðið rann fyllti það vötnin og það mynduðust gervigígar, en meðal þeirra eru Rauðhólar mestir. Vestasti hluti vatnsins slapp þó en hraunið féll fram dalinn til sævar.  Eftir varð Elliðavatn eins og það var frá náttúrunnar hendi áður en árnar voru stíflaðar.

Bláfjöll og Vífilsfell
BláfjöllBláfjöllin eru byggð upp sem stapi, þ.e. hafa hlaðist upp undir jökli og hefur þá myndast bólstraberg, en þegar gosið hafði brætt sig upp í gegnum ísinn rann venjulegt hraun og þakti það sem komið var.
Við norðurenda Bláfjalla er Vífilsfell. Toppur þess er úr móbergstúffi en til norðvesturs út frá honum ganga móbergshnúkar nefndir Arnarþúfur. Svo er að sjá sem þeir séu myndaðir við gos undir jökli og hefur það þá orðið á sprungu sem stefnir norðvestur-suðaustur eða m.ö.o. sem næst hornrétt á hina venjulegu stefnu gígaraða og brota á þessu svæði.
Í framhaldi af Bláfjöllum til suðvesturs eru Vesturásar sem greinilega eru gömul eldstöð og má þar sjá gígtappa og berganga út frá honum. Þessar gosstöðvar eru misgamlar sem sjá má á því að á einum stað liggur gangur inn undir móbergstúff. Virðist gangurinn hafa verið talsvert rofinn þegar móbergið lagðist yfir hann.

Eldborgir – Leiti
Í RjúpnadyngjuhrauniFrá Eldborgunum liggja hraunstraumar með eldrásum (hrauntröðum) austur á við og kallast Svínahraunsbruni. Nyrðri-Eldborg er eitthvað eldri en sú syðri því hraunið frá þeirri syðri hefur runnið út á hitt, en sennilega er að aldursmunur skipti ekki nema dögum eða vikum. Landnámslagið er undir þeim. Af þeim sökum, sem og vegna þess að það hraun sem talið var vera frá jarðeldi þeim sem getið er um í Kristnisögu, hefur reynst vera miklu eldra, sýnist nú nær öruggt að Svínahraunsbruni séu hið raunverulega Kristinitökuhraun og því það fyrsta sem sögu-legar heimildir eru fyrir hér á landi.
Rauðhólar, Tröllabörn og Raufarhólshellir eru í Leitarhrauni sem rann fyrir um 4600 árum. Tröllabörn hafa að sögn verið notuð sem fjárskýli og jafnvel sem sæluhús. Leitarhraun nær um Reykjanesskaga þveran eða sem næst frá hafi til hafs.

Geitafell og Sandfell
RjúpnadyngjuhraunGeitafell er stapi. Austurpartur fjallsins hefur sigið. Sandfell er líklega leifar af eldvarpi frá því seint á jökultíma enda er það að miklu leyti úr ösku.

Krossfjöll – Dimmadalshæð
Austan við Litla-Meitil er Eldborg sú er ranglega hefur verið talin vera frá gosinu sem varð árið 1000 samkvæmt Kristnisögu. Gosstöðin er miklu eldri. Raunar eru eldborgirnar þar tvær og hrauntraðir á milli þeirra. Hraunið sem frá þeim rann hefur að vísu stefnt á „bæ Þórodds goða“, bara nokkrum öldum áður en nokkur Þóroddur tók sér þar bólfestu. Samkvæmt aldursákvörðunum hefur það líklega verið um 175 árum fyrir upphaf okkar tímatals. Eins og áður er getið er líklegt að Svínahraunsbruni sé hið raunverulega Kristnitökuhraun.
Sunnan undir Krossfjöllum er Dimmadalshæð. Í kolli hennar er dalur. Dalurinn er gígur og rásin frá henni hrauntröð sem myndaðist þegar þatna gaus. Hraunið er eldra en Leitarhraun, sem sjá má á því að það hverfur undir það í Torfdal.

Búrfell í Ölfusi
Búrfell er lítill hraunskjöldur með tvo gígi saman í toppi. Hraunið hverfur undir yngri hraun strax neðan við fjallið og sýnir það að langt er nú liðið frá þessu gosi.

Ásar
Hæðin milli Breiðabólstaðar og Litlalands er gosstöð af sömu gerð og Dimmadalshæð og byggð upp á sama hátt. Uppvarpið er hringlaga laut á hæðinni miðri og þaðan hefur hraun streymt til allra átta en fljótt orðið að nema staðar við sjávarhamra sem það hefur hlaðist upp að norðan megin. Þetta hefur verið dæmigert hraungos. Eldvarpið er eldar en Dimmidalur.

Selvogsheiði
SelvogsheiðiAustan við Hlíðarvatn er mjög reglulegur hraunskjöldur með þessu nafni [Hnúkar]. Hér hefur verið um dæmigerð hraungos að ræða. Þau hafa væntanlega orðið snemma á  nútíma og er ekki ólíklegt að þau hafi byrjað meðan sjór náði enn upp að Herdísarvíkurfjalli og Urðarfelli. Sjávarstaða hefur þá verið lægri en síðar varð. Ljóst er að Selvogsheiði er eldri en Heiðin há.
Vestan undir Selvogsheiði eru þrjú eldvörp sem hér er litið á sem aukagígi frá aðaleldvarpinu. Þau eru Vörðufell, Strandarhæð og hraununga sem ég hef til bráðabirgða nefnt Hellishæð sökum þess að út frá henni liggur hraunrás sem ýmist er hellir, hrauntraðir eða niðurfallin rás sem rekja má góðan spöl niður eftir. Gígmyndun þessi er suður af Svörtubjörgum.
Á þessa þrjá gígi er litið sem aukagígi frá Selvogsheiði eb ekki sjálfstæð eldvörp. Merkilegust þeirra er Strandarhæð. Úr þessum gíghefur verið talsvert hraunrennsli. Ekki sér votta fyrir gjalli í eða í kringum uppvarpið, sem er allstórt niðurfall, og svo virðst sem hellir, líklega allstór, liggi út frá því í átt til gígsins í heiðinni.

Heiðin há
DraugahlíðagígurVið suðvesturenda Bláfjalla er hraunskjöldur sá sem mesturhefur orðið á nútíma á Reykjanesskaga. heiðin há er sú eldstöð nefnd. Gígur fjallsins hefur verið a.m.k. 400 m í þvermál. Nú er hann fylltur hrauni og eru útlínur hans óljósar en á börmum hans eru háar hraunstrýtur og sýna nokkurn veginn mörk gígsins. Hraunin hafa fallið í allar áttir út frá gígnum en áttu skammt eftir til Bláfjalla og féllu einkum til suðurs og í sjó austan við Selvogsheiði. Yngri hraun eru yfir hrauni úr Heiðinni há vestan Bláfjalla. Þorlákshöfn stendur á hraunum úr Heiðinni há. Um aldur þessarar miklu gosstöðvar er ekki annað vitað en  að hún er yngri en Selvogsheiði en aftur á móti eldri en Leitarhraunin, en sú gosstöð er um 4600 ára eins og áður segir.“
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

 

Heimild:
-Jón Jónsson, Jarðasaga svæðisins milli Selvogsgötu og Þrengsla, sérprent úr Árbók Ferðafélags Íslands 1985.

Leggjabrjótshraun

Leggjabrjótshraun.