Færslur

Hlemmur

Í Morgunblaðinu 1981 skrifar Gunnar M. Magnússon “Hundrað ára minningu Þorláks V. Bjarnar, síðasta bóndans á Rauðará“:

“Séra Björn Halldórsson, hinn kunni klerkur og sálmaskáld, bjó í Laufási við Eyjafjörð. Hann var fæddur 1823. Kona hans var Sigríður Einarsdóttir frá Saltvík á Tjörnesi, fædd 1819. Þeirra börn voru Vilhjálmur, fæddur 1846, Svava, fædd 1854, og Þórhallur, fæddur 1855.

Vilhjálmur Bjarnason

Vilhjálmur ólst að mestu upp hjá afa sínum, séra Halldóri Bjarnasyni, prófasti á Sauðanesi.
Sextán ára að aldri hóf hann smíðanám hjá Tryggva Gunnarssyni, timburmeistara á Hallgilsstöðum í Fnjóskadal. Að námi loknu, tók hann upp tvíþætt störf: stundaði smíðar á veturna, en hóf ræktunarstörf að vorinu og stjórnaði búi foreldra sinna að sumrinu. Þótti þá þegar sýnt, að hinn ungi prestssonur væri afbragð annarra manna, þrekmikill, kappsamur til hvers konar starfa, logandi af fjöri, opinn fyrir framförum, góðgjarn og óádeilinn og lagði hverju góðu máli lið.
Rúmlega tvítugur að aldri sigldi Vilhjálmur til Danmerkur, dvaldist árlangt í Kaupmannahöfn og lagði stund á málaraiðn. Þegar heim kom, tók hann að stunda þess iðn til jafns við fyrri störf og málaði nokkrar kirkjur á Norðurlandi, ein þeirra var Grímseyjarkirkja.
Árið 1872 gekk Vilhjálmur að eiga Sigríði Þorláksdóttur prests á Skútustöðum Jónssonar. Hún var fædd 1853. Nokkru síðar keypti séra Björn jörðina Kaupang í Eyjafirði og ungu hjónin fluttust þangað. Vilhjálmur hætti nú að mestu störfum út á við, en einbeitti atorku sinni að búi sínu og heimili. Hann tók að byggja uþp á jörðinni, smíðaði allstórt timburhús og vönduð peningshús, stækkaði tún og hóf töðufall til muna.

Rauðará

Rauðará um 1900 – hús Shiederbergs.

Vilhjálmur var fjörmaður og lagði oft saman nótt með degi, einkum við vorverk og heyannir. Á þeim árum sló hann dagsláttuna á rúmum sex klukkustundum, og þótti ekki heiglum hent að leika það eftir honum. Hann komst brátt í röð fremstu og gildustu bænda við Eyjafjörð og hlotnaðist sú viðurkenning að fá verðlaun úr heiðurssjóði Kristjáns konungs IX.
En mitt í þessum blóma skeði sá atburður að hjónin í Kaupangi seldu eigur sínar og fluttust úr héraðinu. Í stað þess að berast með straumnum til Vesturheims, héldu þau með fjórum börnum sínum suður að Kollafirði og settust þar að á Rauðará, örreytiskoti austan Reykjavíkur. Börn þeirra voru Þóra, Halldór, Laufey og Þorlákur.

Rauðará

Rauðará um 1950. Holdveikraspítalinn á Laugarnesi fjær.

Rauðará var fornt býli, en hvorki stórt né nytjagott. Reykjavík varð snemma stórbýli og bendir allt til þess, að á 10. öld hafi hún verið eitt af stærstu höfuðbólum landsins.
Í lýsingu Árna Magnússonar og Páls Vídalíns í jarðabók frá árinu 1703 segir að á Rauðará hafi verið fimm kýr, ein kvíga veturgömul, sex ær, fimm sauðir veturgamlir, tvö lömb og eitt hross. Engjar voru engar, en torfrista, stunga og móskurður nægjanlegur í heimalandi. Fjörugrasatekja lítil. Rekavon lítil. Hrognkelsafjara lítil mjög. Skelfiskafjara næstum engin. Murukjarna, bjöllur og þess konar má finna, ef vill. Heimræði er árið um kring, en langræði mikið. Kvaðir eru þó ýmsar og á þessari litlu og kostarýru jörð: Mannslán um vertíð, dagslættir tveir til Viðeyjar. Hríshestar tveir heim til Bessastaða. Hestlán einn dag til að flytja Viðeyjar-eldiviðartorf af þerrivelli til skips. Skipaferðir, þegar Bessastaðamenn kalla. Heyhestur einn til fálkanna, síðan þeir sigldu í Hólminn. Og þó var ekki allt upptalið.

Rauðará

Rauðará.

Það var vorið 1893 að Vilhjálmur Bjarnarson keypti þessa jörð af Schierbeck landlækni fyrir 4500 krónur. Vilhjálmur var þá 47 ára að aldri og Sigríður, kona hans, stóð á fertugu.
Jörðinni fylgdi landsvæði, um 30 dagsláttur alls, en mestur hluti þess var óræktaður, nema túnið, sem í bestu nýtingu gaf af sér eitt hundrað hesta eða tæplega það. Kringum túnskikann voru mýradrög og fúafen, en annars staðar blásinn melur eða klapparholt.

Rauðará

Rauðará – Árið 1891 reisti Hans J. G. Schierbeck landlæknir steinhlaðið hús á jörðinni. Árið 1908 reif Vilhjálmur Bjarnarson niður gamla íbúðarhúsið og reisti nýtt í þess stað.” – Húsaskrá Borgarsögusafns. Sjá má gamla bæinn á Rauðará v.m.

Lítið steinhús var á Rauðará, þegar Vilhjálmur og Sigríður settust þar að. Bakvið það var gamall bær og fornfálegur.
Goshóll var norðan við túnið, þar var grásteinsnáma. Þar sat löngum Magnús steinsmiður og klauf grjót í legsteina. Fyrir neðan Goshól var Gvendarbrunnur. Þar var grjótruðningur, er líktist dys. Ágætt drykkjarvatn spratt þar upp. Mótak átti Rauðará austur í mýri, þar sem nú er Nóatún.
Rauðará
Af hlaðinu á Rauðará sá stök og smá býli í átt til bæjarins. Leiðin ofan úr sveitum til Reykjavíkur lá talsvert sunnar, en annar vegur frá bænum lá með sjónum inn að Rauðará og Laugarnesi. Þessi stígur fyrir ofan fjöruna var kallaður ástarbrautin. Þar var fáförult „inn á Hlemm”. En Hlemmur var brúin á Rauðarárlæknum, þar sem hann fellur til sjávar. Þessi lækur átti upptök sín í dýjadrögum inn við Kringlumýri. Þar seytluðu vætlurnar í vesturátt. Og í drögunum norðan Öskjuhlíðar sameinuðust þær öðrum vætlum og mynduðu svolítinn læk, þegar dró niður í Norðurmýrina. Þaðan hallaði svo til fjarðarins. Þar heitir nú Hlemmtorg.

Greinarhöfundur hefur áður skrifað um Rauðarárævintýrið. Verður hér birt orðrétt lýsing úr þeim skrifum: „Bóndinn á Rauðará varð þess brátt áskynja, að hér þurfti víða höndum til að taka. Hann var kominn í nýtt landnám, stóð í þýfðu túni, sem teygði skækla út í óræktina, og þegar til kom, var jörðin ekki nema smáskák, miðað við það land, sem hann hafði áður fórnað kröftum sínum. Hann greip torfristuljáinn hverju sinni, er tóm gafst til, og tók að slétta þúfurnar í túninu. Linnti hann ekki, fyrr en túnið var orðið slétt til allra átta, svo langt sem það náði. Þá tók hann að færa túnið út, eftir því sem föng voru á, vakti upp grjót og sléttaði yfir, en hlóð vallarfarið úr hnullungunum. Hann sótti mold langar leiðir í hjólbörum og myndaði jarðveg, þar sem þunnt var á klöppunum. Og forarfen ræsti hann fram og fyllti upp. Hann sýndi að hann var jarðræktarmaður, svo að þess voru fá dæmi, vann sem ungur væri og var sífellt með ný verkefni á prjónunum. Þannig stækkaði túnið ár frá ári, en jafnframt fann hann nauðsyn þess að fá meira olnbogarúm. Þar í kring var landinu skipt í stykki, sem ýmsir embættismenn í Reykjavík áttu. Þar austur af Rauðará var Hagastykki, síðan Jónsjenssonarstykki, og enn austar var jarðarskikinn Fúlatjörn.

Einar Benediktsson

Schierbeck landlæknir átti Rauðará, svo sem fyrr er sagt frá, Jón Jensson yfirdómari átti vitanlega Jónsjenssonarstykkið, og Halldór Danielsson átti Fúlutjörn.
Svo komu aðrir menningarfrömuðir og menntamenn til að fala þessi stykki. Þannig var það til dæmis með lögfræðinginn Einar Benediktsson skáld. Hann langaði til að eignast Fúlutjörn og bað bæjarfógetann að selja sér skikann. Þetta ætlaði bæjarfógetinn að gera. Þegar samningarnir um þetta voru tilbúnir, svo að ekki var eftir annað en að skrifa undir, segir Einar: – Þetta er eiginlega afleitt nafn, það verður að slá af verði á jörð með svona ljótu nafni.
Halldór Danielsson þykktist við af þessari athugasemd, og mælti: – Jæja, þá skulum við láta það vera að/skrifa undir. Og þar við sat.
Þetta atvik varð til þess, að Halldór bæjarfógeti bauð Vilhjálmi á Rauðará Fúlutjörn til kaups. Vilhjálmur hugsaði sig ekki lengi um og festi samstundis kaup á jarðarpartinum.
Börnum Vilhjálms fór líkt og Einari Benediktssyni. Þeim þótti nafnið óviðfeldið og tóku að kalla þennan nýja landauka Lækjarbakka. En Vilhjálmur var á öðru máli.
– Mér þykir nú eins vænt um að kalla það Fúlutjörn, sagði hann, – því að einmitt fyrir nafnið fékk ég landið.

Rauðará
Bóndinn á Rauðará lét ekki þar við sitja með jarðarkaupin. Allmikið erfðafestuland festi hann sér til viðbótar og fékk sér það mælt út hjá bæjarstjórn. Þar að auki keypti hann slægnaland upp við Elliðavatn, og færði nýræktina út jafnt og þétt.”
Vilhjálmur bóndi átti því láni að fagna, að öll fjölskylda hans var honum samhent við búskapinn. Þó ber einkum að nefna Þorlák, son hans. Hann hafði frá unga aldri fyrir norðan verið þátttakandi í búskapnum á Kaldbak og var rúmlega tvítugur að aldri, þegar fjölskyldan fluttist að Rauðará. Upp úr aldamótunum voru börnin komin á manndómsár og héldu sínar leiðir út í lífið. Þóra, sem var elst barnanna, fluttist norður og giftist Stefáni Jónssyni á Munkaþverá í Eyjafirði, Halldór fór utan og lærði búfræði, varð síðar skólastjóri á Hvanneyri. Hann var kvæntur Svövu Þórhallsdóttur, frændkonu sinni, Laufey giftist Guðmundi Finnbogasyni, landsbókaverði, og Þorlákur kvæntist eftir lát föður síns, árið 1919, og gekk að eiga Sigrúnu Sigurðardóttur frá Flóagafli í Árnessýslu.

Rauðará

Rauðará – Ljósmyndin er af námunni fyrir norðan Sjómannaskólan árið 1944, þar var Grjótnám Reykjavíkur.
Hús á þessum stað tilheyrði líklega Grjótnámi Reykjavíkur, í húsaskrá er hús skráð við Suðurlandsbraut/Laugarveg. Það var byggt 1926 og hefur verið rifið fyrir 1956. Var þar sem nú er Skipholt 33.
Náman í Rauðaárholti varð síðar eign bæjarins og árið 1923 voru um 60 manns í atvinnubótavinnu í grjótnáminu. Sama ár var keypt ný grjótmulningsvél á vegum bæjarins (Grjótnám Reykjavíkur) og var hún staðsett í námunni. Námunni var síðan lokað árið 1945 og voru þá vélarnar fluttar í nýja námu við Elliðaárvog.

Þorlákur var hinn efnilegasti maður, skýr og greinagóður, hneigður til rannsókna og áhugasamur við ræktunar- og önnur búnaðarmál. Hann vann með föður sínum að öllum framkvæmdum og tók snemma að skrifa hjá sér athuganir um líf húsdýranna og draga þar af lærdóma um búnaðinn. Hann leitaðist við að finna á hvern hátt væri hagkvæmast að nytja bústofninn. Birti hann skýrslur um þetta í Búnaðarritinu.
Upp úr aldamótunum sendi Vilhjálmur Þorlák son sinn í landbúnaðarskóla í Danmörku.
Þegar Þorlákur kom heim að námi loknu, tók hann við bústjórn á Rauðará. Haft var eftir Vilhjálmi, að sá námskostnaður hefði komið inn á einu ári. – Kýrnar bættu því meira við sig, sem betur var kunnað með þær að fara, sagði hann. Búskapur þeirra feðga á Rauðará hafði snemma vakið athygli. Áður var litið á Rauðará sem kot, en innan fárra ára var þarna risið stórbýli. Rauðarármjólkin varð fræg sem mesta kostamjólk, auk þess tóku Rauðarárkýrnar að setja mjólkurmet, hvert af öðru. Búgarðurinn, sem þarna hafði risið, varð einnig stolt Reykjavíkur.
RauðaráBæjarbúar áttu nú kost á meiri og betri mjólk en áður tíðkaðist, og litið var með virðingu til mannsins, sem þarna hafði sáð og uppskorið. Hann fékk nú öðru sinni opinbera viðurkenningu fyrir störf sín, að þessu sinni verðlaun úr Ræktunarsjóði.
Árið 1908 var lokið við að reisa mikið og vandað íveruhús á Rauðará. Þaðan mátti líta yfir fagurgræna túnbreiðuna til allra átta, — 35 dagsláttur, sem ræktaðar höfðu verið til viðbótar við gamla túnið, mest sáð sléttur og einnig matjurtagarðar. Heyskapur á heimatúni hafði sexfaldast á fyrsta áratugnum, var nú 5—600 hestar, kýrnar voru orðnar tuttugu eða rúmlega það, hestar fimm og allmargt sauðfjár.
Vilhjálmur Bjarnarson lést árið 1912, 66 ára að aldri, en Sigríður, kona hans, andaðist 1933, áttræð að aldri.
Á leiði þeirra hjóna voru settir bautasteinar úr Rauðarárlandi.
Þorlákur V. BjarnarÞorlákur hafði nú alla búsforustu í sínum höndum. Tvö systkini hans voru farin af heimilinu, en Laufey var enn heima. Auk þess var á heimilinu Theódór, hálfbróðir hans og Anna Nordal. Bjó Þorlákur með móður sinni, þar til hann kvæntist árið 1919 Sigrúnu Sigurðardóttur frá Flóagafli í Sandvíkurhreppi. Foreldrar hennar voru hjónin Ingibjörg Þorkelsdóttir og Sigurður Þorsteinsson bóndi, síðar fasteignasali í Reykjavík. Systkini Sigrúnar voru Árni fríkirkjuprestur, Ásgeir skipstjóri, Þorkell vélstjóri, Sigurður Ingi, lengi sveitarstjóri á Selfossi og Steinunn, búsett í Reykjavík.
Sigrún var glæsileg stúlka. Hún var fædd 1896, og þegar hún tók við búsforráðum á Rauðará reyndist hún mikil húsfreyja á alla lund. Þau bjuggu með myndarbrag og héldu uppi heiðri Óðalsins. En í þeirra tíð tók borgin mjög að sækja að Rauðará. Byggðin færðist hröðum skrefum inn og austur, og þar kom, að Reykjavík tók að heimta skika jarðarinnar undir götur og hús. Og mitt í þessari ásókn féll Þorlákur í valinn, langt fyrir aldur fram, árið 1932, fimmtíu og eins árs að aldri.
Sigrún S. BjarnarÞau Sigrún og Þorlákur eignuðust fjögur börn. Elstur var Vilhjálmur, sem fluttist vestur um haf og gerðist umsjónarmaður Fiske-safnsins við Cornell-háskóla í Íþöku í New York-ríki. Hann er kvæntur Dóru Eiríksson, vesturíslenskri konu. Annað barn þeirra Sigrúnar og Þorláks var Ingibjörg, er giftist Jóni K. Hafstein tannlækni. Hún lést 1959.
Þriðji í röðinni er Þorsteinn, sem er kvæntur Elfu Thoroddsen, og yngst barnanna er Sigríður Aðalbjörg, gift Sigurði H. Egilssyni stórkaupmanni.
Sigrún hélt uppi búskapnum af dugnaði og kom börnum sínum til mennta.
„En borgin hélt áfram hinni miskunnarlausu sókn að Rauðará.
Að lokum var jörðin umkringd, og um stund stóð húsið eins og einmana vin í eyðimörk.” Fólkið varð að flýja. Sigrún fluttist að Laugabrekku, sem er nokkru austar við Suðurlandsbraut. Þar bjó hún með Þorsteini syni sínum til ársins 1966, er þau létu af búskap og fluttust vestur á Kvisthaga. Sigrún lést 10. ágúst 1979.
Þorlákur Bjarnar var fæddur 10. desember 1881. Og í dag minnumst við hundrað ára afmælisdags þessa íðilmennis.
Og borgin þrengdi sér nær og nær, þrýsti loks að hjartarótunum, skóf burtu hina glæsilegu viðreisn aldamótaáranna, nagaði hverja rót, eins og hungrað dýr.
Hula tímans og skurn borgarinnar liggur nú yfir gömlu Rauðará.”

Rauðará.
Í Óðni 1909 er einnig fjallað um Vilhjálm og Sigríði:  “Vorið 1893 kaupir Vilhjálmur Rauðará við Reykjavík af Schierbeck landlækni, fyrir 4500 kr. Í kaupinu var lítið steinhús til íbúðar. Erfðafestulandið var fast að því 30 dagsláttur, en minstur hluti ræktaður og heyfengur ekki 100 hestar.
Nú hefur Vilhjálmur 20 kýr á Rauðará, eða fleiri, og hesta. Allmikið erfðafestuland hefur hann keypt til viðbótar og fengið mælt sjer hjá bæjarstjórn. Slægnaland á hann og uppi á Elliðavatni. Heyskapur heima er orðinn 5—600 hestar. Hann mun hafa sljettað hjer syðra einar 35 dagsláttur; mest er það sáðsljettur hin síðari ár. Nytina í sumar bætti hann við 3 dagsláttum. Nú er Þorlákur sonur hans fyrir búinu. Hann gekk fyrir 8 árum síðan á landbúnaðarskóla í Danmörku, og segir Vilhjálmur, að sá námskostnaður hafi komið inn á einu ári. Kýrnar bættu það við sig, er betur var kunnað með að fara. Þorlákur hefur um allmörg ár sett í Búnaðarritið fóður- og mjólkurskýrslur frá Rauðará, og sýna þær að kýrnar hafa gert gott gagn. Alt er það af aflafje á Rauðará, að Vilhjálmur hefur reisl hið mikla og vandaða íveruhús sitt, sem myndin er af hjer í blaðinu. Það var reist sumarið 1908. Öll eru húsin virt 28,000 kr. Alt er það dropinn úr kúnum. Nú mun það rjett samhljóða dómur og reynsla þeirra hjer í bæ, sem stundað hafa kúarækt með nýju og nýju fólki hvert árið, að vart hafi svarað kostnaði, og er það ljóst dæmi þess, hvaða munur er á því að kunna með að fara og ekki.
Rauðará
Búnaðarmálaritgerð á Vilhjálmur í 18. ári Búnaðarritsins: »Nýir siðir með nýjum tímum«, og þótti greinin bæði viturleg og stórhuga.
Sá, sem þetta ritar, spurði Vilhjálm, hverju hann þakkaði það, að honum hefur búnast svo vel um dagana. Hann hugsaði sig dálítið um, og sagði ekki annað en það: »Jeg hef tímt að bera á«.
Vilhjáhnur ljek sjer að því í Kaupangi á yngri árum að slá dagsláttuna í túni á 6 klukkustundum, svo var kappið og fjörið.
Heldur leiddi Vilhjálmur hjá sjer almenn mál. En margir leituðu ráða og liðs hjá honum. Og varla var annar bóndi vinsælli í Eyjafirði. Eldri dóttir þeirra hjóna, Þóra, er gift Stefáni bónda Jónssyni á Munka-Þverá í Eyjafirði. Laufey er kennari í Reykjavík. Elstur sona hans er Halldór skólastjóri á Hvanneyri.”

Rauðará

Rauðará – Myndin sýnisr bílinn Re-24 og prúðbúið fólk á ferð, árið 1924, á bak við er Gasstöðin og nær er Laugavegur og brú yfir Rauðarárlæk; “Hlemmur”.

Í Heimsmynd 1990 segir frá “Stórbóndanum á Rauðará og syninum á Hvanneyri“: “Þá er komið að bróður Þórhalls Bjarnarsonar biskup og afkomendum hans sem ekki hafa verið taldir upp til þessa. Hann var Vilhjálmur Bjarnarson (1845-1912) bóndi á Rauðará í Reykjavík. Vilhjálmur lærði smíðar hjá Tryggva Gunnarssyni, síðar bankastjóra, og koma þar til enn ein tengsl Laufásfjölskyldunnar við þann merka mann. Hann sigldi til Kaupmannahafnar og lærði þar einnig málun og málaði nokkrar kirkjur nyrðra eftir að hann kom heim. Sumarið 1872 kvæntist Vilhjálmur Sigríði, dóttur Þorláks prests á Skútustöðum Jónssonar, en hann var einn hinna þekktu Reykjahlíðarsystkina sem Reykjahlíðarætt er talin frá. Fimm árum síðar reistu þau bú í Kaupangi í Eyjafirði og fékk hann þá verðlaun fyrir búnaðarframkvæmdir.
Vilhjálmur keypti Rauðará í útjaðri Reykjavíkur árið 1893 og gerði það að stórbýli á íslenskan mælikvarða, rétt eins og Þórhallur biskup, bróðir hans, Laufás. Hin glæstu hús á Rauðará stóðu þar sem nú er Frímúrarahöll við Borgartún, rétt við endann á Rauðarárstíg.
Rauðará
Vilhjálmur og Sigríður áttu fjögur börn en auk þeirra átti Vilhjálmur eitt utan hjónabands. Elstur var fyrrnefndur Halldór Vilhjálmsson (1875-1936) skólastjóri á Hvanneyri. Hann var búnaðarfræðingur frá Landbúnaðarskólanum í Kaupmannahöfn, en skólastjóri og jafnframt stórbóndi á Hvanneyri 1907 til dauðadags. Halldór gerði miklar kröfur til sín og nemenda sinna en kjörorð hans var: “Hollur er heimafenginn baggi”. Þess vegna voru nægtir matar í búrunum á Hvanneyri. Sagt var um skólastjórann að hann ætti viðkvæma lund undir harðri skel. Kona hans var Svava Þórhallsdóttir, frænka hans, eins og áður sagði.”

Í bókinni “Strand Jamestown” segir Halldór Svavarsson frá því að “timbrið úr Jamestown hafi einnig verið notað í brýr, en mismikill metnaður var í smíði þeirra eins og gengur. Þannig voru plankar lagðir yfir Rauðará, svo að brúin líktist í raun eins konar hlemmi. Upp frá því var sú brú kölluð Hlemmurinn. Það heiti festist í hugum Reykvíkinga og er það nú eitt af helstu kennileitum Reykjavíkur, samanber Hlemmtorg”.

Heimildir:
-Morgunblaðið, 273. tbl. 12.12.1981, Hundrað ára minning Þorláks V. Bjarnar, síðasta bóndans á Rauðará eftir Gunnar M Magnúss, bls. 50-51.
-Óðinn, 4. tbl. 01.07.1909, Vilhjálmur Bjarnason, bls. 25-26.
-Heimsmynd, 4. tbl. 01.05.1990, Stórbóndinn á Rauðará og sonurinn á Hvanneyri, bls. 95-96.
-Hamar, jólablað des. 2021 – Hús í Hafnarfirði byggð úr timbri strandaðs skips – Halldór Svavarsson (Strand Jamestown), bls. 6.
Rauðará

Óskot

Ætlunin var að skoða tóftir Óskots norðvestan við Hafravatn, ganga að Langavatni upp á Óskotsheiði, en skoða áður tóftir útihúsa hins gamla bæjar, njóta útsýnisins yfir vatnið af Langavatnsheiði undan Þverbrekkum og halda síðan að Reynisvatni.
Tóftir ÓskotsNýbyggðin hefur teygt sig að vatninu, en milli hennar og þess eru tóftir gamla bæjarins að Reynisvatni. Aflað hafði verið örnefnalýsinga af svæðinu, en þrátt fyrir lögformlega fornleifaskráningu af því vegna framkvæmdanna þá hafa upplýsingar af þeim vængnum verið af skornum skammti.
Í örnefnalýsingu fyrir Óskot, sem Ari Gíslason skráði kemur m.a. eftirfarandi fram: “
Jörð í Mosfellssveit, liggur vestan við Hafravatn. Jörðin liggur sunnan við Úlfarsá. Þar sem áin kemur úr vatninu, heitir Ós, sem bærinn dregur nafn af. Nafnið er gamalt, frá því fyrir svartadauða; svo er mýri inn með vatninu, sem heitir Mómýri, og stórt, ávalt holt milli hennar og bæjarins heitir Holt. Austur af Holtinu er lítill lækur, sem heitir Rás…
Svo er suðvestur af henni Þórðargjóta, smádæld grasi vaxin. Þar varð úti smalamaður frá Miðdal. Þá er þar næst Þórðargjótuhryggur, sem er þar næst, og þá kemur Óskotsheiði; þar upp af er svo Langavatn. Suður af bæ fram í vatnið er nafnlaus tangi. Svo eru Efri-Þverbrekkur, grasflatir, er liggja fram undir frá vatninu suður í heiðina. Þá er smámelbunga, er heitir Fjárhúsmelur, liggur þvert á Þverbrekkurnar; svo eru Gömluhús, þar voru beitarhús áður fyrr í heiðarbrúninni. Vestast í túni er Stóristeinn, huldufólkssteinn.”
StóristeinnHaldið var yfir Hafravatn (76 m.y.s.) frá réttinni norðan við vatnið á ís – og landi náð neðan við Vörðuholt. Við vatnið hefur myndast allnokkur sumarbústaðabyggð með tímanum svo klofa þurfti yfir nokkrar girðingar á leiðinni upp að Óskoti. Tóftir bæjarins, sem hefur verið hlaðinn að hluta, er ofan Holtsins. Skammt vestar er myndarlegt gróið gerði. Norðvestan í því eru tóftir, sennilega frá fjárhúsi. Skammt vestar er fyrrnefndur Stóristeinn. Ekki var með öllu hægt að útiloka að a.m.k. örlítil birta kæmi innanúr honum þennan skammdegisdag – ef sérstaklega var að hugað. Á millum mótar fyrir görðum og tóftum. Erfitt var að greina hvorutveggja við þær aðstæður, sem í boði voru.
Ljóst er að búið hefur verið í Óskoti fram á 20. öld. Ummerki bera þess vitni. Rafmagn hefur verið leitt í húsið, auk þess sem tún hafa verið ræst fram og heyvinnuvélar eru enn á túnum.
Kirkjan á LangavatnsheiðiÞann 5. ágúst 1887 var dæmt í máli sem Guðmundur Einarsson í Miðdal höfðaði gegn umboðsmanni þjóðjarðarinnar Þormóðsdals. Réttarkrafa Guðmundar var sú að allt það land sem áður fylgdi eyðijörðinni Óskoti yrði með merkjadómi dæmt undir eignarjörð hans Miðdal og að Þormóðsdal yrði frádæmt ítak í sömu eyðijörð. Guðmundur byggði kröfu sína á Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1704 en þar taldi hann koma fram að Óskot hefði verið hjáleiga Miðdals. Dómurinn gat hins vegar ekki tekið undir þetta sjónarmið og taldi að Jarðabókin bæri ekki með sér að Óskotsland væri hluti af landi Miðdals né að það hefði gengið undir það. Hins vegar mætti sjá á sömu heimild að Óskot væri talin konungseign og hafi verið notað af Reynisvatni. Guðmundur gæti því ekki stutt tilkall sitt til Óskotslands með tilvísan í Jarðabók Árna og Páls né öðrum afleiddum heimildum. Þar sem Guðmundur gat ekki reitt fram aðrar heimildir fyrir því að Óskotsland væri löglega runnið undir Miðdal virtist dómnum næst að ætla, eftir því sem fram var komið í málinu, að Óskotsland væri enn í eigu konungs, þ.e. almenningseign líkt og 1704.
Göngumaður á LangavatnsheiðiSannað þótti með vitnaleiðslum frá 1842, sem lagðar voru fyrir dóminn, að Óskotsland hafði frá ómunatíð verið notað óátalið, afgjaldslaust og eftir þörfum af fjórum jörðum, þ.e. Miðdal, Þormóðsdal, Kálfakoti og Reynisvatni. Ekki hafði neitt komið fram í málinu sem sýndi að breyting hafði orðið þar á síðan 1842. Málinu var því vísað frá.
Haldið var upp með vegi áleiðis að Langavatni um Óskotsheiði. Þar ofar, í Langavatnsheiðinni, eru tveir sumarbústaðir og stendur kirkja, lítil en reisuleg, suðaustan þeirra. Einn FERLIRsfélaga hafði fyrir ferðina sent inn eftirfarandi upplýsingar: “Langar ykkur ekki til að finna kirkju sem enginn þekkir né veit af? Í tilefni gönguferðarinnar á morgun vek ég athygli þína á kirkju sem er á miðri Langavatnsheiðinni. Hún ætti ekki að fara fram hjá ykkur á leiðinni frá Óskoti og að Langavatni. Falleg timburkirkja í íslenskum sveitastíl. Þessi kirkja er reyndar inni á einkalóð og væntanlega reist af einhverjum einkaaðila. Ég hef hvergi séð þessarar kirkju getið né séð hana skráða. Hún er því líklegast reist af einkaaðila eða einhverjum sérsöfnuði. Ég hef einu sinni komið inn í hana á gönguferð um svæðið. Engir kirkjubekkir né altari en fáeinar styttur eða höggmyndir.”
Þarna var að sjá timburkirkju, væntanlega í einkaeigu, ófullgerða að innan. Hún er ekki frábrugðin Krýsuvíkurkirkju að öðru leyti en því að á þessari er lítill turn. Við bústaðinn Reynivelli eru nokkur listaverk úr steinsteypu. Þarna virðist mikið hagleiksfólk hafa unað frísínum stundum, því ýmislegt annað bar og fyrir augu, s.s. vindmyllumastur, fornfálegur traktor, o.fl. o.fl.
Vatnsberi á LangavatnsheiðiÍ lýsingum af gömlum reiðleiðum segir m.a.:
Frá Álafossi er farið í áttina að Suður-Reykjum, en þaðan stutt frá liggja götur út með hlíðinni og að Hafravatni. Fyrir suðvestan Hafravatn skammt þar frá sem Úlfarsá rennur úr vatninu til vesturs er eyðibýlið Óskot og liggja troðningar þar hjá og áfram um Óskotsheiði og suður á Langavatnsheiði og Reynisvatnsheiði. Þá er komið á veg, sem liggur að Reynisvatni. Þess má geta að Úlfarsá verður seinna að Korpu og síðan Blikastaðaá, sem rennur til sjávar hjá Blikastaðakró.
Ekki veit ég til þess að ortur hafi verið óður til Óskotsheiðar líkt og Laxness gerir til Mosfellsheiðar. Í Kvæðakveri útgefið 1949 birtist ljóð eftir hann, sem byrjar svona: “Ó Mosfellsheiði.” Seinna í kvæðinu lofsyngur Halldór sauðkindina og lömbin svöng. Hann minnist líka á fuglakvak og döggvatár. Sú árátta sumra að rakka niður sauðkindina, hefur lengi farið í taugarnar á mér. Það er því nokkur huggun að lesa í kvæði Laxness, að honum finnst sauðkindin “yndisleg? og ?trú og trygg.” Og hann talar um veislu sem hefur varað í þúsund ár. Við sem höfum setið við þetta veisluborð, ættum að sjá sóma okkar í því að tala ekki ílla um aðal gestgjafann.
En aftur að Óskotsleið. Skammt þar hjá sem hún kemur á veginn niður að Reynisvatni liggja ágætar moldargötur um Reynisvatnsheiði að Rauðavatni. Einnig liggja götur um Hólmsheiði. Því miður hef ég aldrei almennilega getað áttað mig á því hvar ein heiðin hættir og sú næsta tekur við. Þarna efra er talsverð bleyta á veturna, en á vorin og yfir sumarið eru þarna vildisgötur. Þetta vita þeir best, sem eru með hesta sína í Fjárborginni, en hún er fyrir austan Almannadal.
Hestur á LangavatnsheiðiÍ Almannadal mættust fjölfarnar leiðir fyrrum m.a. aðalleið skreiðarlesta austan úr sýslum til Suðurnesja, að sækja skreið í skiptum fyrir búvörur. Einnig leið til norðurs hjá Reynisvatni til Gufuness og verstöðvanna við Kollafjörð. Niðurgrafnar moldargötur þarna uppi á heiðunum bera vott um þetta. Þeir sem áhuga hafa á gömlum reiðleiðum ættu að skoða sérstaklega gömlu skreiðarleiðirnar, sem lágu til veiðistöðvanna víðsvegar um land. Þær mörkuðu aðal vegakerfi landsins á sinni tíð.
Hestur á LangavatnsheiðiÞess skal getið að í Trippadal milli Rauðavatns og Fjárborgar á að rísa nýtt hesthúsahverfi Fáksmanna. Þaðan verður væntanlega aðal tengingin við Mosfellssveitina um Óskotsleið. Reiðgötur hjá Grafarholti ættu samt áfram að haldast opnar, þó svo að þær liggi ansi nálægt golfvellinum hjá Korpúlfsstöðum. Golfleikarar er einn háttvísasti þjóðfélagshópur landsins, svo að ekki þurfum við að kvarta undan nábýli við þá. Það heyrir til undantekninga ef golfleikari bíður ekki með að slá kúlu sína sjái hann hestafólk nálgast. Frá þessu væntanlega hesthúsahverfi liggja einnig ágætar reiðgötur um Rauðhóla og hringinn í kringum Elliðavatn.
En aftur að Óskoti. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 er þess getið, að Óskot sé forn eyðijörð og enginn viti hversu lengi hún hafi verið í auðn. Talið er að hún hafi verið í konungseign. Ábúendur jarðarinnar Reynisvatn notuðu hana til beitar og torfskurðar. Einhver silungsveiði mun hafa verið þarna.
Við LangavatnSeinna hefst búskapur á Óskoti og er síðasti bóndinn þar Janus Eiríksson. Afi hans í móðurætt, Guðmundur Kláusson. kom sunnan með sjó og keypti þetta kot. Janus er fæddur árið 1922 og er enn lifandi. Faðir hans, Eiríkur Einarsson, dó þegar Janus var aðeins 15 ára gamall. Móðir hans vildi ekki flytja frá Óskoti og það varð því úr að þau bjuggu þarna saman. Þau voru með kýr, kindur og hænsni, en Janus hætti búskap eitthvað í kringum 1970. Hann segir mér að gríðarleg umferð hafi verið hjá Óskoti um Gamla veginn svonefnda, sem lá austur á Þingvöll.
Venjulega er riðinn bílvegurinn að Reynisvatni, en skammt frá honum má sjá móta fyrir gamla Þingvallaveginum, sem liggur í Seljadal og áfram um Vilborgarkeldu á Þingvöll, en Vilborgarkelda er forn áningarstaður austast á Mosfellsheiði.
Úr því að minnst er á leiðina um Seljadal skal þess getið, að ekki langt frá henni og skammt frá Hafravatni stendur bærinn Búrfell. Minnst er á eyðibýli með sama nafni í Jarðabók Árna Magnússonar frá 1703. Bærinn hafði þá verið í eyði í 8 ár og var þetta hjáleiga frá Miðdal. Í Jarðabókinni segir:

Fálkavarða

“Lagðist þetta kot mest í eyði fyrir óbærilegum átroðningi þjóðgötu, sem þar liggur í gegnum túnið, og er þetta kot ekki þess erfiðis vert, sem kosta vildi að gjöra þar bygð að nýju, sá er ágangi ferðamanna gæti af hrundið, og þykir því ei aftur byggjandi.” Þessi setning skýrir að nokkru rótgróna tortryggni bænda gagnvart hestafólki. Ferðamönnum fylgdi átroðningur hér áður fyrr. Við hestafólk eigum vissulega rétt á að ferðast um þetta land, en á okkur hvílir sú skylda að hlífa gróðri eins og kostur er þar sem við eigum leið um.
Milli Hafravatns og Langavatns heitir á einum stað Þórðargjóta. Þar varð eitt sinn úti smalamaður frá Miðdal. [Erfitt var að staðsetja gjótu þessa við þær aðstæður er nú voru fyrir hendi; hnédjúpur snjór að jafnaði og enn dýpri í lægðunum.] Hjá Reynisvatni er tekið vel á móti hestafólki og er þar gerði fyrir hesta og selt kaffi. Ég veit að Fákskonur hafa oft riðið þarna upp eftir úr Víðidal á vorin. Ekki skyldu menn verða á þeirra leið þegar þær eru að beisla gandinn.
Um jörðina Reynisvatn segir í Jarðabókinni, að þar sé nægilegur torfskurður til húsagerðar og eldiviðar, en að vatnsból þrjóti í stórharðindum og að skepnum stafi hætta af foruðum. Laxveiðiréttindi á jörðin í Korpu, en veiði er lítil. Kirkjuvegur er langur. Leigan greiddist með smjöri ýmist til Bessastaða eða Viðeyjar.
Tóft norðan ReynisvatnsÍ Sýslu- og sóknalýsingu frá því um miðja 19. öld er þess getið að aðalkirkja sóknarinnar hafi verið á Mosfelli, en einnig var kirkja í Gufunesi. Messað var 3ja hvern helgan dag á veturna en 2 hvern á sumrin. Einnig virðist hafa verið messað 10da hvern helgan dag í Viðey. Engin hætta var á því að þeir á Reynisvatni kæmu of seint til messu. Ef þeir vildu vita hvað klukkan var þurftu þeir ekki annað en að gá til sólar og miða hana við kennileiti í náttúrunni. Austast er Árdegisás, því næst Hádegishæð og vestast Nónás. Aldrei stöðvaði þetta sólarúr. Gussi sá til þess að halda því gangandi.
Síðasti bóndinn á Reynisvatni var Ólafur Jónsson. Hann var múrari og byggði m.a. Hótel Borg. Eitthvað lengur mun hafa verið búið á Reynisvatni en Óskoti.”

Mælipunktur við Fálkavörðu

Haldið var til vesturs eftir Langavatnsheiðinni ofan við Þverbrekkur, með útsýni yfir Langavatn (99 m.y.s.), og stefnan tekin á Reynisvatn með viðkomu hjá Fálkavörðu. Varðan stendur enn heilleg. Upphaflega hefur hún líklega verið hlaðin sem  merkjavarða. Suðaustar er önnur minni og norðan hennar er myndarleg fuglaþúfa. Fálkavarða er reist á sléttri jökulsorfinni klöpp á hæstu hæð. Við hlið hennar hefur verið málaður hringur og á hann járnbandsfest mælistika. Að öllum líkindum er um að ræða hæðarpunkt fyrir hinar nýju framkvæmdir, sem þarna hafa átt sér stað og munu eiga sér stað. Þegar hefur t.d. verið gert ráð fyrir sérstakri byggð undir norðvestanverðum Reynisvatnsási. Reyndar eru gjarnan reynt að selja byggðakjarna þessa undir þeim formerkjum að boðið er upp á búsetu “í nánd við náttúruna”, en hver heilvita maður, sem fylgst hefur með þróun byggðar, veit að boðið verður innan skamms upp á annað sambærilegt hverfi utar [sem einnig verður auglýst með framangreindum fornmerkjum]. Staðreyndin er og hefur verið sú að borgir og bæir vaxa ÚT Á VIÐ. Bæjarkjarni Ingólfs Arnarssonar norðvestan við Tjörnina var fyrrum “í tengslum við náttúruna”. En ekki lengur. Breiðholtshverfið var byggt “í nánd við náttúruna”, en ekki lengur. Vitað er að verktakar ásælast lágheiðarlendur vatnanna austan Reykjavíkur. Ljóst er að byggðin mun þróast til upplandsins því ekki er ætlunin að bjóða upp á staurabyggð í sjónum með fjörunni. Þá mun sérhver nýbyggð verða “í tengslum við náttúruna” – í skamman tíma.
Þegar ný svæði eru tekin undir byggð fer m.a. fram fornleifaskráning v/gamalla minja, örnefna, leiða og annarra merkilegheita á svæðinu. Allt þekkt er samviskusamlega skráð, teiknað, myndað og fært til bókar. Skýrsla um efnið er gefin út – og hent út í horn. Hingað til hefur ekki vottað fyrir svo litlu nema örlítilli hugsun í þá áttina að eflaust væri ástæða til að varðveita a.m.k. hluta þessa eða jafnvel meira sem hluta af heild. Fólk virðist alltaf þurfa að vakna upp við vondan draum – löngu seinna – og þá of seint.
Ætlunin er að ganga heiðina sunnan við Langavatn og umhverfis vatnið við tækifæri. Frá Reynisvatnsásnum er Hlaðinn garðhluti við Reynisvatnhið ágætasta útsýni yfir vatnið. Búsetan var vestan við það, en á leiðinni var gengið fram á tóft á lægri ás norðan við vatnið. Hún var merkt Minjavernd Reykjavíkur. Svo virðist sem Minjaverndin merki sumar tóftir, en horfi fram hjá öðrum, ekki síður merkilegum. Ástæðan gæti verið sú að um stórt svæði er að ræða og tíma getur tekið að finna allar minjar, sem ástæða er til að halda til haga. Má í því sambandi nefna tóftir Keldnasels austan við Langavatn. Þær sjást ágætlega, en eru ómerktar, enda hafa ökumenn stærri bíla dundað sér við að aka yfir þær á ferðum sínum um heiðina.
Nokkrar tóftir eru enn greinlegar við Reynisvatn, s.s. stök tóft, hlaðnir veggir o.fl.
Í framangreindri lýsingu reiðleiða segir auk þess: “Frá Reynisvatni er riðið meðfram vegi framhjá Engi niður að Vesturlandsvegi. Riðið er meðfram Vesturlandsvegi og undir brúna á Korpu. Þaðan er svo farið eftir nýjum reiðgötum yfir vað á Korpu og hjá golfvellinum hjá Korpúlfsstöðum. Aftur er farið yfir Korpu ýmist á brú eða vaði og svo skömmu síðar riðið um árfarveginn á Blikastaðaá stuttan spöl og svo yfir Ferðamannavað á Blikastaðaá og er þá aftur komið á Blikastaði. Á Blikastaðaá voru þrjú Tóft vestan við Reynisvatnnafngreind vöð. Blikastaðavað var á götunni að Korpúlfsstöðum beint á milli bæjanna. Ferðamannavað er þar sem gamli vegurinn liggur niður undir sjó og það neðsta niður við sjó en ofan klettanna. Það heitir Króarvað.”
Líkt og á Reynisvatnsási einkennist umhverfi Reykjavíkur af jökulsorfnum grágrýtisholtum með dældum á milli sem víða mynda stöðuvötn, til dæmis Rauðavatn. Hins vegar er grágrýtið samsett úr mörgum hraunstraumum frá mismunandi tímum, og Reynisvatn er í kvos á mótum hraunstrauma. Útfall hefur verið úr vatninu til norðurs en hlaðið hefur verið í það og vatnsborðið þannig hækkað.
Í örnefnalýsingu fyrir Reynisvatn segir m.a.: “Upplýsingar gaf Anna Ólafsdóttir, er átt hefur heima á Reynisvatni í 52 ár, eða frá því hún var 3ja ára gömul. Bærinn Reynisvatn stendur við samnefnt vatn, sunnan við Úlfarsá. Kúagirðing heitir mýri meðfram Úlfarsá, norðaustanvert við bæinn. Reynisás eða Reynisvatnsás er ás austan við Reynisvatn, og uppi á honum er Fálkavarða. Milli Almannadals og Valla, sem er bær undir vesturenda Kistufells er holt og laut, sem kallað er Gráskjalda.” Þá er vitað að eyðibýlið Höfði á að vera í heiðinni sunnan við Langavatn.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Örn H. Bjarnason – Gamlar götur-Reynisvatnshringur um Óskot.
-Selvogs- og Ölfusafréttir, dags. 24.9.1889.
-visindavefurinn.is
-Haukur Ólafsson.
-Örnefnalýsingar fyrir Reynisvatn og Óskot – ÖÍ.

Reynisvatn

Hellisheiðarvegur

Gengið var frá Draugatjörn, framhjá Kolviðarhól, upp Hellisskarð, litið á Búastein, haldið eftir Gamla veginum um Hellisheiði og áfram áleiðis niður Kambana. Austarlega á Hellisheiði eru gatnamót Skógarvegar (Skógarmannagötu) er liggur til suðurs um Stóradal og Háaleiti áleiðis niður að Hjalla í Ölfusi.

Hellukofinn

Hellukofinn.

Hellisheiði er heiðin sunnan Henglafjalla. Hellisheiði er mjög eldbrunnin en víða er mosagróður og lyng á hrauninu. Er talið að yngsta hraunið hafi runnið við eldgos á 6 km langri gossprungu um árið 1000. Heiðin hefur öldum saman verið mjög fjölfarin. Hin forna leið var kölluð Gamli vegurinn, en hún lá á öðrum stað en nú er farið. Að austan lá hún upp Kamba, yfir Hurðarás og þaðan sjónhendingu á Hellisskarð fyrir ofan Kolviðarhól. Síðan lá leiðin niður af heiðinni um Hellisskarð, þaðan um Bolavelli vestur með Húsmúla, um norðanvert Svínahraun hjá Lyklafelli og var oft komið í byggð hjá Elliðakoti í Mosfellssveit.

Hellisheiði

Hellisheiði – gömul gata.

Leiðin liggur um klappir vestan til á heiðinni og er gatan þar víða mörkuð allt að 20 sm djúp í stálhart hraungrjótið. Þessi leið var öll vörðuð og standa margar vörðurnar vel enn í dag. Þekkt er Biskupsvarða sem stóð á klapparhól vestarlega á heiðinni. Vörðunnar er getið í heimild frá 1703 og mun hún hafa verið ævaforn og mikið mannvirki, krosshlaðin svo að hafa mætti skjól við hana í öllum áttum. Hún stóð fram á 19. öld. Nálægt 1830 var byggður sæluhúskofi á sömu klöppinni og var grjótið úr Biskupsvörðu notað í hann.
Kofinn stendur enn, nefndur Hellukofi enda eingöngu byggður úr hellum. Er fullri vegghæð er náð dregst hleðslan saman og myndar þakið en efst er stór hella sem lokar opinu. Kofinn tók 4-5 menn. Hellukofinn var friðaður 1. janúar 1990. Þórður Erlendsson bóndi á Tannastöðum, d: 1872, reisti Hellukofann en hann var víst “snillingur í öllum handtökum”. Gamli þjóðvegurinn sker núverandi þjóðveg en stór hluti af þessari gömlu leið er enn vörðuð. Enn má sjá djúp för í jörðinni, um hraunklappirnar nálægt kofanum, því að á sumum stöðum hefur umferðin markað allt að 20 sm djúp för.

Hellisheiðarvegur

Austurvegurinn 1900.

Á árunum 1879-1880 var lagður upphlaðinn vegur upp Kamba og vestur Hellisheiði, nálægt hinni fornu þjóðleið, en á árunum 1895-1896 var lagður vagnfær vegur yfir Hellisheiði, nokkru vestar en eldri leiðir, niður í Hveradali og vestur fyrir Reykjafell en ekki niður Hellisskarð.

Gangan hófst við réttina sunnan við Draugatjörn, sunnan Húsmúla. Önnur rétt er þar skammt suðaustar, fast við gamla þjóðveginn upp að Kolviðarhól. Áður en haldið var inn á gömlu þjóðleiðna, sem liggur að Hellisskarði, var komið við í sæluhústóft austan við tjörnina.

Hellisheiði

Gata um Hellisheiði.

Árið 1703 var hún talin nauðsynleg á vetrartímanum til innivistar. “Er og lofsvert, að þetta sælhús skuli ei niður fallið (1793)”. Hann var ætlaður þeim, sem ferðast þarna á vetrardegi, og kallaðist sæluhús. Margir hafa dáið í þessum kofa, því oft hafa þeir ekki fundið hann fyrr en þeir voru örmagna af hungri og kulda. Í örnefnalýsingu segir að í ekkert hús var að venda [á leiðinni yfir Hellisheiði] nema smákofa, er var í Svínahraunstöglum, sem ganga út á Norðurvellina. Kofi þessi var illa ræmdur fyrir draugagang, og mynduðust meðal manna hinar fáránlegustu sögur um kofa þennan.

Draugatjörn

Draugatjörn – sæluhúsið.

Árið 1845 var nú kofinn í Svínahrauni fluttur upp á Kolviðarhól. Hafði nýtt sæluhús verið byggt á Kolviðarhóli 1844. Ýmsar sagnir eru um menn sem hafa tekist á við drauga í kofa þessum, t.d. um Grím á Nesjavöllum en hann var á ferð þar um 1820 og kljáðist við afturgöngur þriggja manna sem höfðu orðið þar úti nokkrum árum áður. Þar kemur fram að bálki hafi verið í suðurenda kofans.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1910.

Stuttur gangur er eftir gömlu götunni að Kolviðarhól. Áður var farið yfir læk úr Mógili í Húshólma og framhjá síðarnefndu réttinni, áfram eftir suðaustanverðum Bolavöllum og að hólnum. Bú var fyrst reist á Kolviðarhóli 1883. Um vorið settist þar að Jón bóndi frá Stærribæ í Grímsnesi. Byggði hann sér bæ framan í hólnum. Kolviðarhóll er 4-5 m hár, gróinn, melhóll við norðurenda á lágum rana eða ási sem gengur norður úr Reykjafelli, beint neðan (vestan) við Hellisskarð. Ekkert vatnsból er sýnilegt en hefur væntanlega verið í brunni.

Húsmúlarétt

Húsmúlarétt.

Undirstöður síðustu húsanna á Kolviðarhóli sjást enn vel og hafa sumar verið steyptar en aðrar eru úr tilhöggnum sandsteini, sem víða má finna í Reykjafelli beint ofan við hólinn. Framan í nyrðri hluta hólsins (norðan við bæjarstæðið) hefur verið hlaðinn pallur úr hraungrýti og er hann mjög heillegur að sunnanverðu og að vestan en norðurhornið er hálfhrunið. Lítill heimagrafreitur er þarna með steyptum veggjum. Árið 1910 voru tvö hús á Hólnum, timburhús og steinhús, þar að auki næg búpeningshús. Einu útihúsaleifarnar sem nú sjást er steypuhrúgald austan í norðanverðum hólnum. Þjóðsaga segir að “almenn sögn segi, að í þessum hól sé heygður Kolfinnur, sem nefndur er í Kjalnesinga sögu.”

Hellisskarð

Gengið um Hellisskarð.

Haldið var upp Hellisskarð. Í frásögn árið 1703 segir að “upp í hnúknum fyrir norðan fyrrnefnt Hellisskarð er sá stóri steinn einstakur, er Búasteinn kallast, við hvörn stein varðist Búi Esjufóstri, sem saga hans til vísar.” Um það bil í miðri heiðarbrekkunni til vinstri, nokkuð hundruð fet uppi er stór teningslaga steinn; Búasteinn. Er hann settur í samband við frásögn Kjalnesinga. Stór þverhníptur sandsteinsklettur og er aðeins gengt upp á hann að ofan (austan). Talsvert rof er í kringum steininn af vatnsflaumi en einnig af mannaferð.
Ofan við Hellisskarðið eru gatnamót. Til norðausturs liggur leið er gekk undir nafninu “milli hrauns og hlíða”, um Skarðsmýri og upp á gömlu þjóðleiðina til norðurs frá Hveragerði.

Þegar komið er upp á heiðina úr Hellisskarði, verður fyrir samfelld hraunbreiða, og er aðeins eitt einstigi yfir hana.

Húsmúlarétt

Húsmúlarétt.

Hraunið er að mestu flatar og sléttar hellur, en grjót og melar hér og hvar. Svo mætti virðast, sem einstigi þetta væri höggvið af manna höndum í hraunstorkuna, því þar er svo beint og reglulegt. Víða mælist það allt að 1/2 feti, og má af því marka, hve geysigamall þessi vegur er og fjölfarinn. Rásin er misgreinileg. Samfellda kafla má rekja lengst um 50 metra en yfirleitt mun styttra en á milli liggur leiðin sumstaðar um djúpar rásir þar sem grjóti hefur verið rutt úr veginum en víðar gufar slóðin alveg upp á milli. Á nokkrum stöðum má greina að slóðin er tvö- eða jafnvel þreföld.

Hellisheiði

Hellisheiði – vörður.

Austur frá Reykjafelli (Stóru-Reykjafell) eru Hellurnar, eru þær sléttar klappir, liggja yfir þær djúpar götur eftir hestafætur. Sanna göturnar að yfir þessar sléttu klappir hefur umferð verið allt frá fyrstu byggð hér á landi.” segir í örnefnalýsingu. Allt frá því að komið er upp úr Hellisskarði er hálfbert helluhraun austur að miðri heiðinni eða þangað til að fer að halla austur í Ölfus. Fleiri vörður eru og við veginn til leiðarvísis. Á Hellisheiði eru yfir 100 vörður. Vegir hafa legið yfir Hellisheiði frá ómunatíð. Gata lá upp Kamba, yfir Hurðará og í stefnu á Gíga ofan við Hellisskarð. Í klöppum á þeirri leið eru víða djúpar götur, gengnar á liðnum öldum.

Eiríksbrú

Eiríksbrú á Hellsiheiði.

Síðar var lagður upphlaðinn vegur, kenndur við Eirík í Grjóta, sömu leið.”Það mun hafa verið nálægt 1880-1881, að Eiríkur Ásmundsson í Grjóta lagði steinilagðan veg um Kamba, yfir allar hæðir og lautir, svo að hann yrði þráðbeinn. Vegna brattans víðast hvar og þess, að ekkert var borið ofan í veg þennan, var hann sjaldan eða aldrei farinn.
Framhald vegar Eiríks í Grjóta um Svínahraun, lagður 1877-78, lá upp um Hellisskarð fyrir ofan Kolviðarhól. Þar er enn efst í skarðinu lítt hrunin hleðslan í vegköntunum. Vegirnir voru lagðir á þann hátt, að þeir útilokuðu þann möguleika að menn hæfu vagnferðir eftir þeim. Til þess var brattinn í Hellisskarði og Kömbunum of mikill og einnig vantaði akfæran veg frá Reykjavík upp að Svínahrauni. Við þetta ástand sat að mestu fram yfir 1890.

Búasteinn

Búasteinn neðan Hellisskarðs.

Á herforingjaráðskorti frá 1909 liggur norðurendi Lágaskarðsleiðar útaf Hellisheiðarvegi undir neðstu brekkum Reykjafells og yfir hraunhólana neðan við Hveradalaflöt. Á kortinu kvíslast leiðin við Lönguhlíð og liggur ein slóð til Breiðabólstaðar en önnur til Hrauns. Um grasi grónar hlíðar og slétt helluhraun, mosagróið, mjög greiðfær leið. Vegurinn er lengstaf aðeins kindastígur en nokkur vörðutyppi eru í sjálfu skarðinu (á helluhrauninu) og gætu sum þeirra verið gömul. Á nokkrum stöðum má ímynda sér að hestaumferð hafi gert för í hraunhelluna, en hvergi er það skýrt. Þessi leið mun nú ganga undir nafninu Lákastígur. Steindór Sigurðsson lýsir Lágaskarðsleið í Árbók Ferðafélagsins 1936.

Grafningur

Ölfusvatnslaugar.

Margrét útilegumaður hafðist við í Nesjalaugum eða Ölfusvatnslaugum, en síðan í ýmsum stöðum nálægt þjóðveginum á Hellisheiði og stal þar af ferðamönnum. Um þá lýsingu má lesa annars staðar á vefsíðunni.

Lákastígur

Varða við Lákastíg.

Þegar gengin hafði verið 2/3 af leiðinni um Gamla veg var komið að gatnamótum Skógarvegar. Í örnefnaslýsingu segir að “á þessum fjallgarði, er fyrir norðan þessa byggð sveitarinnar liggur, eru þrír vegir vestur á Suðurnes, nefnilega Ólafsskarð, Lágaskarð og Sanddalavegur, hvorir allir saman koma í einn veg á vestanverðu fjallinu, þá byggðarlönd taka til Suðurnesjajarða. Sanddalir eru neðan og suðaustan við Lágaskarð og mætti ætla að um sömu leið væri að ræða, en hér mun sennilega verið átt við leið “frá Hjallahverfi um Kálfabergsstíg, Káfadali, Hálsa, Vegarbrekkur, Lakadal, Stóradal, á þjóðveg í Hveradölum.” Skógarvegur liggur hins vegar til suðurs af Hellisheiðavegi og niður að Hjalla um Stóradal og Háaleiti suðaustan undir Skálafelli (verður genginn síðar).

Skógargata

Skógargatan.

Í örnefnalýsingu 1703 segir að “upp á Hverahlíð er Skálafell, með vatnsstæði. Á þessu felli var skáli Ingólfs Arnarssonar, fyrsta landnámamanns, hvar af þetta fell hefur sitt nafn dregið, sem Landnáma á víkur. Skógarmannavegurinn austan Skálafells er frá þeim tíma, er Hjallamenn sóttu skógarnytjar í Nesjaskóg í Grafningi. Einnig nefnd Suðurferðagata, milli Háaleita, við Hlíðarhorn, – á þjóðveginn á Hellisheiði vestan við Loftið (40 km steininn).” Nefndur steinn er við Skógarveginn, eða Skógarmannaveginn, skammt sunnan núverandi þjóðvegar.

Frá þessum gömu gatnamótum sést vel niður að Kömbum sem og yfir Ölfusið allt – í góðu skyggni.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimild m.a.:
-Bæjarbókasafn Ölfuss.

Reykjafellsrétt

Reykjafellsrétt í Dauðadal.

Elliðavatn

Gísli Sigurðsson skrifar um Elliðavatn í Lesbók Morgunblaðsins árið 2000:
“Bújörðin Elliðavatn í Seltjarnarneshreppi var lengst af meðal þekktustu bújarða í nágrenni Reykjavíkur. Vatn eins og bærinn var gjarnan nefndur var þó ekki höfuðból; til þess að svo væri þurftu jarðir að vera 60 hundruð, en Vatn var aðeins 12. Hlunnindin voru engjarnar fyrrnefndu sem nú sjást ekki lengur, kvistbeit í hraununum og veiði í vatninu og ánum Dimmu og Bugðu.
Ellidavatn-881Elliðavatn var í landnámi Ingólfs og því ekki landnámsjörð. Ef til vill hefur Ingólfur ráðstafað; þessari blómlegu og kjarri vöxnu engjajörð til frændfólks eða vina, en um það er ekkert vitað.
Engar heimildir eru til um upphaf bæjarins á Elliðavatni, en í máldaga frá 1234 segir að Viðeyjarklaustur eigi hálft land jarðarinnar. Getið er um Elliðavatn í Kjalnesingasögu, sem skrifuð
var á 14. öld, en telst full ævintýraleg til þess að vera treystandi sem heimild. Þar segir að á þeim bæ „er heitir að Vatni, er síðan er kallat Elliðavatn” hafi búið kona sem Þorgerður hét. Hún átti son þann er Kolfinnur hét og var Kolbítur, eða með öðrum orðum: Hann lá í öskustó og hafðist lítt að. Þetta fyrirbæri er vel þekkt úr ævintýrum. Ef til vill þjáðist hann af þunglyndi, en síðan hefur bráð af honum; hann reis úr öskustónni og tók að líta í kringum sig eftir konuefni. Með tilliti til þess að kolbítar voru ekki í miklu áliti, verður að teljast að Kolfinnur hafi ekki ráðizt á garðinn þar sem hann var lægstur með því að leita eftir ástum Ólafar vænu, dóttur Kolla bónda í Kollafirði. Urðu vígaferli vegna bónorðsins og kolbíturinn sýndi að það voru töggur í honum, því hann nam Ólöfu á brott og hafði hana með sér heim að Elliðavatni.
ellidavatn-882Ekki hélst honum þó lengi á konunni. Ástmaður hennar, sá mikli kappi Búi Ástríðsson sem Kjalnesinga saga greinir frá, gerði sér lítið fyrir og felldi Kolfinn. Við konunni leit hann ekki meir, „síðan Kolfiðr hefir spillt henni”.
Klausturjarðir urðu konungseign eftir siðaskiptin og þeirra á meðal var Elliðavatn. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín sem gerð var skömmu eftir 1700 segir að eigandinn sé „kóngl. Majestat.” Jarðardýrleiki er sagður óviss og á jörðinni er þá þríbýli. Ábúendur eru Einar Eyvindsson á hálfri jörðinni, Tómas Vigfússon á fjórðungi og sá þriðji er Snorri Snorrason, og býr hann á þeim fjórðungi jarðarinnar, sem áður var hjáleigan Vatnskot. Allir eru þeir leiguliðar hjá kónginum og er landskuld goldin með ,4ii vættum fiska eður í fríðu og átta tunnum kola” (viðarkol). Margvíslegar kvaðir eru og á jörðinni, enda þótti ekki gott að búa í næsta nágrenni við Bessastaðavaldið. Sem dæmi um þessar kvaðir má nefna að eitt mannlán er um vertíð, hestlán til alþingis eða austur á Eyrarbakka; einn hestur frá hverjum ábúanda. Enn gætir yfirráðanna frá Viðey, „tveir dagslættir” renna þangað. Hægt er að kalla menn til formennsku á bátum ef þeir eru til þess hæfir og fá þeir formannskaup „ef þeim heppnast afli.” Tvo til þrjá hríshesta verður jörðin að láta af hendi og tvö til þrjú lömb skulu tekin í fóður og láta verður tvo heyhesta „til fálkafjár í Hólmskaupstað”. Tólf kýr má fóðra á allri jörðinni segir Jarðabókin, en rifhrís til eldiviðar og kolagjörðar „fer mjög í þurð”. Þrönglendi er í högum, engjar spillast af vatnsgángi, en torfrista og stúnga „lök og lítt nýtandi”.
ellidavatn-883Þessi lýsing bendir ekki til mikillar búsældar á Elliðavatni. Segir nú fátt af búskap á Vatni þar til brautryðjandinn Skúli Magnússon kom upp Innréttingum sínum í Reykjavík eftir 1750. Meðal verkefna þar var ullarvinnsla og þurfti þá að koma upp fjárræktarbúi, bæði til þess að tryggja vinnslunni næga ull, en einnig var ætlunin að bæta hana með blöndun á útlendu sauðfé. Elliðavatn varð fyrir valinu og má ætla að ástæðan hafi einkum verið sú að þar hefur verið talin bezta fjárjörðin í nágrenni Reykjavíkur vegna beitarinnar í skóglendinu þar sem Heiðmörk er nú. Vegna kynbótanna voru fluttir inn hrútar af enskum sauðfjárstofni, en sænskur barón, Hastfer að nafni, átti að stýra kynbótunum fyrsta kastið. Ekki er alveg ljóst hvers vegna þessi kynbótatilraun var flutt að Helliskoti, skammt frá Elliðavatni árið 1757. En þar var reist „mikil stofa” þó ekki sjái hennar stað, en einnig að sjálfsögðu vandaðasta fjárhús landsins, „meira en flestar kirkjur hér á landi og afþiljað”. En ekki dugði þetta afburða fjárhús til þess að bægja óláninu frá, sem fólst í að upp kom veiki í fénu: Fjárkláði sem breiddist ört út og olli gífurlegum búsifjum. Á einum áratugi frá 1760-1770 hrapaði sauðfjáreign landsmanna úr 360 þúsundum í 140. Uggjaust er það eitthvert mesta efnahagsáfall sem Íslendingar hafa orðið fyrir, svo háðir sem þeir voru sauðfjárbúskap. Fjárræktarævintýrinu á Elliðavatni lauk
með þessu; búið var lagt formlega niður 1764. Ber nú lítt til tíðinda fram til 1815 að fjöldi konungsjarða var seldur og Elliðavatn þar á meðal.
ellidavatn-885Merkir gestir á Elliðavatni Sextán árum síðar, 1836, var Paul Gaimard í öðrum Íslandsleiðangri sínum. Hann var maður ferðavanur; hafði þá tvívegis farið kringum hnöttinn. Í leiðangurinn til Íslands hafði hann með sér lið valinkunnra manna og þar á meðal yar teiknarinn Auguste Mayer. Hann gerði fjölda teikninga og skyssa á Íslandi sem eru ómetanleg heimild, ekki sízt um húsakynni landsmanna, og þar á meðal er teikning af Elliðavatnsbænum. Mayer var frábær teiknari, en ætla má að oft hafi hann fullunnið baksviðið, fjöll og annað úr umhverfi bæja, eftir að heim var komið. Fyrir kemur að þekkt kennileiti eru óþekkjanleg og þar á meðal er hæðin ofan við Elliðavatnsbæinn. Ætla má þó að myndin sé trúverðug heimild um bæinn og hún er einnig allnokkur vísbending um að Elliðavatn hafi þá þótt markverður bær. Kirkja var þó aldrei á Vatni; bærinn átti kirkjusókn að Laugarnesi ásamt Breiðholtsbænum, Vatnsenda, Bústöðum, Kleppi, Rauðará, Hólmi, Hvammskoti, Digranesi og Kópavogi.
Á teikningu Mayers af Elliðavatnsbænum er aðeins að sjá eina stæðilega byggingu. Hún er með hefðbundnu lagi torfbæja eins og það varð á síðustu öld og snýr stafninum fram. Prýði þessa húss er vindskeið og hefur verið lagður metnaður í að hafa hana viðhafnarlega. Slíkar vindskeiðar voru ekki á bæjum almennt. Skýringuna má ef til vill finna í því, að ábúendur á Elliðavatni voru þá Jón Jónsson silfursmiður og Ragnheiður Guðmundsdóttir. Kynni að vera að listrænn metnaður silfursmiðsins kæmi þarna í ljós. Að öðru leyti sýnir myndin venjulega og fremur bágborna torfkofa, en hjallur úr timbri stendur sér. Tröðin heim að bænum liggur meðfram hlöðnum grjótvegg sem sveigist til suðurs, enda var algengasta leiðin úr Reykjavík að Elliðavatnsbænum sunnan við vatnið. Hægt var að fara aðra leið norðan vatnsins, en þá þurfti að komast yfir Elliðaárnar, Bugðu og álinn úr Helluvatni.
Bærinn á teikningu Mayers hefur trúlega verið á Elliðavatni 1841 þegar náttúrufræðingurinn og skáldið Jónas Hallgrímsson kom þar til að sjá og teikna upp minjar um þingstaðinn Þingnes sunnan við vatnið. Þaðan hélt Jónas för sinni áfram til Þingvalla og Skjaldbreiðar og lenti í frægri villu og útilegu, sem fór þó vel og gaf af sér eitt vinsælasta kvæði Jónasar.
Ellidavatn-887Þingstaðurinn var þó ekki á sjálfu nesinu sem skagar út í vatnið, heldur í hallanum ofan við nesið. Þar hafa fornleifarannsóknir farið fram; stórt rannsóknarsvæði var grafið upp og komu í ljós leifar af stórum, hringlaga garði. Innan hans sást móta fyrir fleiri mannvirkjum. Garður og rústir voru taldar vera frá 11.-12. öld og undir þeim reyndust vera minjar frá 10. öld. Frá vegamótum austan við Elliðavatnsbæinn liggur vegur sem nefndur er Þingnesslóð út með vatninu og er ökufært alla leið að Þingnesi. Sunnan vegarins er Myllulækur og samnefnd tjörn, sem samkvæmt uppdrættinum frá 1916 virðist ekki hafa verið til þá, enda hefur hún orðið til við framkvæmdir Vatnsveitunnar. Ætla má að kornmylla hafi einhverju sinni verið við Myllulæk. Þingnes er talinn einn merkasti sögustaður í nágrenni Reykjavíkur, jafnvel á landsvísu og hafa fleiri en Jónas Hallgrímsson rannsakað hann. Þeirra á meðal er Sigurður Guðmundsson málari, sem gerði uppdrátt af staðnum, Brynjólfur frá Minna-Núpi, Daniel Bruun, Finnur Jónsson prófessor, svo og Þjóðminjasafnið að sjálfsögðu. Ari fróði segir í Íslendingabók sinni, að Alþingi hafi verið sett „at ráði Úlfljóts ok allra landsmanna þar es nú es, en áður var þing á Kjalarnesi, þat es Þorsteinn Ingólfssonr landnámsmanns, faðir Þorkels mána lögsögumanns, hafði þar ok höfðingjar þeir es at því hurfu”.
ellidavatn-890Því er verr, að ekki eru til neinar heimildir um það hvar Kjalarnessþing var háð, en vísir menn hafa talið að um tíma hafi það verið í Þingnesi. Rannsóknir sem fóru fram 1984 benda eindregið til þess að þar hafi mannfundir farið fram. Dr. Jakob Benediktsson telur ljóst í Sögu Íslands, 1. bindi sem út kom 1974, að Kjalarnesþing hafí verið eins konar undanfari Alþingis, enda þótt það hafi ekM verið löggjafarþing, heldur aðeins dómþing og „sennilegt sé að upptakanna að stofnun Alþingis sé að leita í hópi þeirra höfðingja, sem stóðu að þinginu á Kjalarnesi.” Sé þetta rétt er Þingnes hinn allra merkasti staður á bökkum Elliðavatns og nöturlegt til þess að vita að hluti þingstaðarins lenti undir vatni þegar stíflað var. Þá verður það naumast talið til fyrirmyndar að sumarbústaður hefur verið fast uppi við hinn forna þingstað og skilti með nafni Þingness virðist vera hlið að sumarbústaðarlandinu.
Algengt er að sjá í bókum aðra mynd af Elliðavatnsbænum en þá sem Mayer teiknaði og er sú mynd sögð vera teiknuð aðeins 9 árum eftir að Mayer var þar á ferðinni. Vegna Heklugossins 1845 kom náttúruvísindaleiðangur undir forustu Danans J.C. Schiitte til rannsókna á Íslandi og með í för var ungur myndlistarmaður, Emanuel Larsen, sem var ígildi ljósmyndara og vann sitt verk dyggilega.
Teikning, sem oft hefur birst og eignuð er Schiitte þessum, er sögð vera af Elliðavatnsbænum en er þó fremur grunsamleg. Enda þótt skammt sé um liðið frá því bær silfursmiðsins var teiknaður er ekM annað hægt að sjá en að sá bær hafi verið rifinn svo til grunna að enginn kofi hafi eftir staðið, en annar bær byggður með gerólíku lagi; þó ekki burstabæjarstílnum sem ruddi sér til rúms á 19. öldinni. Þarna er kominn þverstæður bær með bæjardyrum fyrir miðju og tveim gluggum sín hvorum megin við þær. Ætla má að loft hafi verið á þessum bæ yfir baðstofu og stofu; að minnsta kosti eru tveir litlir gluggar á þekjunni. Óvenjulegt verður að tefja að þarna er snyrtileg steinhleðsla utan með bænum sem einungis virðist vera til prýði, en grjótgarðar voru yfirleitt ekki hlaðnir öðruvísi en í ákveðnum tilgangi, til dæmis utanum tún eða gerði.
ellidavatn-891Í forgrunni myndarinnar er mjó vík sem er harla ósennilegt er að hafi nokkru sinni getað verið þarna og ennþá síður stenzt það, að sá bratti sem var og er frá bæjarstæðinu niður að vatninu er nánast ekkert til þarna. Ótrúlegast er samt að hvorki standa eftir tangur né tetur af bæ silfursmiðsins eftir svo fá ár. Jafnvel ennþá síður marktæk er teikning af þriggja bursta steinbæ á Elliðavatni, sem birt er í ritröðinni, Reykjavík – sögustaður við Sund. Þar er sagt að þetta muni vera húsið sem Sverrir Runólfsson byggði á Elliðavatni. Það var steinhús sem Sverrir byggði og ekkert svipað burstabænum á myndinni. Árið 1860 beinist kastljósið í fásinni hins íslenzka bændaþjóðfélags í svo ríkum mæli að Elliðavatni, að staðurinn verður á hvers manns vörum. Benedikt Sveinsson, alþingismaður og yfirdómari í Reykjavík, kaupir þá jörðina af ekkjunni Guðrúnu Jónsdóttur með það fyrir augum að gera hana að stærstu bújörð á Íslandi; jafnvel að þar yrði „fyrirmyndarbýli” eins og Benedikt orðaði það í bréfi til Jóns Sigurðssonar:
„Eg skal gjöra Elliðavatnið að Mönstergaard…” Benedikt var stórhuga maður, forframaður úr laganámi í Kaupmannahöfn og þótti höfðinglegra að búa á fallegri jörð en í hinni hálfdönsku Reykjavík, enda sagði hann: „…ég vil heldur láta dysja mig lifandi niður í grænan hól en svelta og kafna hérna á mölinni þar sem enginn kraftur, líkamlegur eða andlegur þrífst.” Kaupverðið var 3.000 ríkisdalir, mikið fé fyrir mann sem var fremur skuldugur en auðugur. Þessu var þó hægt að koma í kring með því að Katrín kona Benedikts, skagfirzk höfðingjadóttir, fékk fyrirfram greiddan arf frá foreldrum sínum á Reynistað. Fyrir utan rúmlega 2.000 ríkisdali gat Katrín lagt með sér til búsins fjórar mjólkandi kyr, 15 fullorðna sauði, 50 veturgamlar gimbrar, 4 hesta með reiðingum, 20 lömb og þar að auki sængur og kodda. Eitt var víst: Hafi sá áratugar gamli torfbær, sem heldur vafasöm teikning sýnir að hafi staðið á Elliðavatni, þá ætlaði assessorinn ekki að flytja í hann. Úti í Kaupmannahöfn hafði hann kynnst Sverri Runólfssyni steinhöggvara, sem síðar byggði Þingeyrakirkju í Húnaþingi og Íþöku, bókhlöðu Lærða skólans í Reykjavík. Benedikt linnti ekki látum fyrr en hann fékk Sverri til að flytjast heim frá Danmörku; borgaði farið og hét honum ríflegum árslaunum. Það urðu þó vanefndir á launagreiðslunum og Sverrir fór í fússi frá verkinu áður en húsið var risið. Það er því ekki hægt að telja Elliðavatnshúsið eitt af verkum Sverris, en það er engu að síður eitt af elztu steinhlöðnu húsunum á landinu. Eins og fram kom í fyrri greininni var þetta ekki steinbær með burstum, heldur hús með venjulegu lagi og fjórum gluggum á suðurhlið, 50 fermetrar að stærð, kjallari, hæð og loft. Þetta hús stendur enn á Elliðavatni, bárujárnsklætt að vísu og búið að byggja við það.
ellidavatn-892Á árinu 1861 er assesorinn fluttur að Elliðavatni með fjölskyldu sína og bústofninn er þá 200 fjár, 8 kýr og 7 hestar. Í heimili eru 16 manns með vinnukonum og vinnumönnum, en frú Katrín flutti hálfnauðug uppeftir og leið eins og hún væri í fangelsi. Það hafa líka verið mikil viðbrigði fyrir hana að láta af sínu hógværa yfirstéttarlífi í Reykjavík og fara að stýra búi. Það hefur hún orðið að gera því húsbóndinn fór ríðandi til vinnu sinnar í Reykjavík að morgni og það sem verra var: Hann kom oft seint heim og var þá drukkinn.
Benedikt Sveinssyni var margt vel gefið. En í aðra röndina var hann eins og bandvitlaus maður. Áföllin létu heldur ekki á sér standa á Elliðavatni. Fjárkláði tók sig upp og það var reiðarslag. Benedikt missti trú á lækningum og gerðist ákafur niðurskurðarsinni. En fjárbú sitt missti hann og í framhaldi af því lét hann eins og óður maður og réðist ákaflega á stjórnvöld í blaði sínu, Íslendingi. Heimatilbúinn ófriður magnaðist þegar Benedikt hugðist bæta Elliðavatnsengjar með áveitu. Hann lét stífla Dimmu og Bugðu og Elliðaárnar þornuðu. Það gat hann vitað fyrirfram og þar með að Thomsen kaupmaður, sem átti laxveiðiréttinn, biði stórtjón. Af þessu spratt langvarandi málaþras.
Elliðavatnsbóndinn herti á drykkjunni samfara öllu þessu. Myrkfælni hans var fræg. Bágt átti hann með að ríða upp að Elliðavatni á kvöldin eftir að dimmt var orðið; varð jafnvel að drekka í sig kjark til þess. Menn höfðu orðið úti á þessum slóðum, illa búnir í vetrarveðrum. Til dæmis rakst ég á heimild um að langalangafi minn, Eyvindur bóndi í Miðdalskoti í Laugardal, hafði drukknað í Bugðu í marzmánuði 1823. Ekki sýnist Bugða þó vera neitt skaðræðis vatnsfall.
ellidavatn-893Á fyrstu búskaparárum Benedikts og Katrínar á Elliðavatni varð Magnús nokkur frá Lækjarbotnum úti við vatnið. Líkið var látið standa uppi í Elliðavatnsbænum og var því um kennt að mikill reimleiki fór að gera vart við sig. Hafði fólk stundum ekki svefnfrið vikum saman fyrir söng og drykkjurausi á frönsku, höggum og hurðaskellum. Ýmsan annan óskunda gerði þessi afturganga Magnúsar, til að mynda sligaði hún tvö hross. Mest sótti þessi draugur þó að vinnumanninum Erlendi, sem verið hafði drykkjufélagi Magnúsar. Eftir að Erlendur fór frá Vatni færði draugurinn sig í beitarhús og loks út í mýri þar sem Magnús hafði orðið úti. Var hann eftir það nefndur Mýrardraugurinn. Átti hann sinn þátt í því að Benedikt bjóst sífellt við því að mæta draugi á leiðinni upp að Vatni.
Gæfan varð ekki samferða þessari fjölskyldu að Elliðavatni. Það voru líkt og álög talsvert löngu síðar, 1. júní 1900, þegar sonur þeirra hjóna, efnismaðurinn Ólafur Sveinar Haukur, þá 28 ára gamall, átti leið heim að Elliðavatni til að vera viðstaddur úttekt á jörðinni fyrir hönd erfingja. Þetta var greið og hættulaus leið ef farið er sunnan vatnsins, en norðan megin þurfti að komast vfir Elliðaárnar, Bugðu og álinn milli Elliða- og Hellisvatns. Þeim megin fór Ólafur Sveinar og kallaði á ferju við álinn, en fékk ekki svar. Hann ákvað að sundríða, klæddur þungri kápu og skjöl tók hann úr hnakktösku og stakk inn á sig. En eitthvað óvænt kom fyrir; hesturinn steyptist í álinn og flæktist í taumnum. Ólafur varð undir og þótt hann væri vel syndur dugði það ekki; hann sökk og drukknaði.
ellidavatn-894Gæfan brosti hinsvegar við þeim Elliðavatnshjónum 31. október 1864 þegar frú Katrín varð léttari löngu fyrir tímann og drengur fæddist. Hann var skírður Einar og varð á fullorðinsárum svo frægur og umtalaður með þjóð sinni sem stórskáld og ævintýramaður, að núna, 60 árum eftir að hann lézt, selst ævisaga hans eins og heitar lummur. Nútíminn hefur ekki lengur ljóðin hans á hraðbergi eins og menn höfðu á fyrri hluta 20. aldarinnar, en hann dáist að skáldinu og manninum sem lifði eins og greifi í útlöndum á því að stofna hlutafélög og gera út á vonir og bjartsýni. Svo segjum við núna: Sem betur fer sluppu hinir fögru fossar okkar frá þessu óskaddaðir. Sama ár og þjóðskáldið tilvonandi fæddist varð assessorinn á Elliðavatni þingmaður Árnesinga. Samtímis átti hann að sinna störfum sínum í húsi Landsyfirdóms við Austurstræti. Uppi á Elliðavatni mátti frú Katrín una með börnin þeirra; stolt höfðingskona með eigin reikning í verzluninni Glasgow. Það var í hæsta máta óvenjulegt. Þar kom að eyðslusemi hennar gekk fram af húsbóndanum og þóttist hann til neyddur að loka fyrir úttektir frúarinnar á munaðarvöru. En um hlöðin á Elliðavatni vappaði Einar litli; þar liggja bernskuspor hans og ugglaust niðri við vatnið sem ævinlega hefur mikið aðdráttarafl á unga sveina með ævintýrahug. Hann var þriggja ára þegar hann eignaðist systurina Kristínu, en ári síðar kom dauðinn og sótti Svein litla bróður hans, sem þá var bara 6 ára. Það voru bæði skin og skúrir á Elliðavatni.
ellidaar-1880Það sem næst bar til tíðinda á Vatni var að hingað til lands kom danskur áveitumeistari, Niels Jörgensen, árið 1869. Næsti draumur í draumalandinu var að hann kæmi á stórkostlegri áveitu; nú skyldu Elliðavatnsengjar bættar svo um munaði. Þá voru 60 menn ráðnir í vinnu við að hlaða kílómetra langan stíflugarð sem náði þvert yfir Dimmu, útrennslið úr Elliðavatni. Með því vannst tvennt: Assessorinn gat veitt vatni á engjarnar og haft vatnsrennslið í Elliðaánum á valdi sínu. Honum þóknaðist að skrúfa fyrir um leið og laxveiðitíminn hófst sumarið 1869 og allt varð vitlaust.
Áður en lögbanni hafði verið komið á hleypti Benedikt úr stíflunni og vatnsflóðið sópaði
laxastiganum burt. Þá hefur verið gaman á Elliðavatni. En ekki til langframa. Reiðarslagið dundi yfir 19. ágúst 1870 þegar Benedikt Sveinsson var sviptur embætti fyrirvaralaust. Ugglaust var það ekid að ástæðulausu og ekki fékk hann góða einkunn hjá Jóni Sigurðssyni: „Bensi var efnilegur, en hann er strax grunnskemmdur, – og svo er það fylleríið!”
Næsti draumur á Elliðavatni snerist um prentsmiðju og blaðaútgáfu. En til þess vantaði fé og næst var Elliðavatnsbóndinn önnum kafinn við fjársöfnun í þessu augnamiði. Sumir gamlir samherjar töldu hann nú genginn af göflunum og ekki var það fjarri sanni, því sjálfur hirti hann hluta þess fjár sem tókst að skrapa saman.
Blaðið Þjóðólfur birti þá frétt 9. marz 1872 að leturstokkar og pressa væru í smíðum á Elliðavatni, en von væri á pappír, letri og svertu með næsta skipi. Meinið var, að leyfi þurfti til prentsmiðjureksturs og slíkt leyfi hafði Elliðavatnsbóndinn ekki.
Heima á Vatni beið prentari verkefnalaus og fór að verða óþolinmóður. Hann fór að prenta ýmislegt
smálegt í leyfisleysi, sem varð til þess eins að sýslumaðurinn kom og innsiglaði græjurnar. Leyfið fékkst aldrei.
einar ben um sextugtBensi var sagður þrotinn að kröftum eftir þetta, en þó ekki meir en svo að sumarið 1872 fæddist þeim hjónum sonurinn Ólafur Sveinar Haukur sem áður er frá sagt. Um haustið hafði frú Katrín fengið nóg og flutti til Reykjavíkur með tvö börn sín og varð þar með hálfgerð betlikerling. En mælirinn var fullur og formlega var gengið frá skilnaði þeirra hjóna í desember 1872. Einsi litli varð eftir hjá hinum galna föður sínum á Elliðavatni.
Nú var fátt um fína drætti í steinhúsinu á Elliðavatni. Búskapurinn hafði drabbast niður og slægjur á hinum rómuðu engjum voru leigðar út til manna í Reykjavík. Sárast hefur verið að húsmóðurina vantaði. Hjón voru fengin til að sjá um heimilishald, en voru ekki vandanum vaxin og sóðaskapurin gekk út yfir allan þjófabálk. Einar litli undi hag sínum illa, enda varð afleiðingin af sóðaskapnum sú að hann fékk sull. Faðir hans unni honum mjög, en hann var út og suður á ferðalögum og gat ekki sinnt börnunum, Einari og Kristínu. Sjálfsagt hefur það bjargað Einsa litla að hann var um tíma sendur í fóstur til Gríms Thomsens, skálds og bónda á Bessastöðum. En það var ekki til frambúðar.
Þjóðhátíðarsumarið 1874 ferðbjuggust þeir feðgar frá Elliðavatni og riðu yfir fjöll og firnindi norður í land, því Benedikt hafði verið skipaður sýslumaður Þingeyinga. Búið á Elliðavatni fól hann í hendur Jóni bróður sínum. Svo fór eftir mikið þras, að hann hélt ekki Elliðavatninu lengur, enda hafði hann slegið lán fyrir stærstu, gjaldföllnu veðskuldunum og ekki staðið í skilum með afborganir. Haustið 1876 urðu eigendaskipti þegar lánveitandinn, Sæmundur Sæmundsson í Reykjakoti í Ölfusi, fékk landshöfðingjaritarann til að ljúka málinu.
Kastljós fréttanna hafði oft beinzt að Elliðavatni í hálfan annan áratug. Nú komu þeir tímar að Elliðavatnsbændur voru ekki fréttaefni. Um 1907 keyptí Páll Stefánsson Elliðavatn fyrir andvirði nokkurra jarða sem hann hafði erft. En honum búnaðist ekki þar; hann seldi jörðina og flutti að Ásólfsstöðum í Gnúpverjahreppi árið 1917 og varð vel metinn sunnlenzkur höfðingi með hökutopp á
ljósmynd sem Pétur Brynjólfsson tók af Elliðavatnsbænum 1910 má sjá að búið er að byggja tímburhús vestan við steinhúsið og má gera ráð fyrir að Páll hafi byggt það. Líklega hefur steinhúsið verið kalt, enda var þá ekki um neina góða einangrun að ræða, helzt að mór væri notaður til þess eða moð.
Timburhúsið sem sést á myndinni frá 1910 stendur ennþá, en annað hús var byggt vestan við
það 1946, einnig úr timbri. Þá var sett upp kúabú, sem kann að virðast undarleg ráðstöfun á túnalausri jörð, en tilgangurinn var sá að koma á fót vistheimili fyrir vinnuhæfa sjúklinga af Kleppsspítala. Þeir unnu við búið og sú starfsemi stóð til 1960. Á ljósmynd Péturs Brynjólfssonar má sjá skúr niðri við vatnið, sem greinilega hefur verið búið í, en menn vita ekki lengur deili á honum. Þarna sést steinbrú sem notuð var til að stikla yfir álinn og auðvelda mönnum að komast á engjarnar. Þar sést einnig bátur á leið yfir álinn; fínir menn og spariklæddir á ferð.
Síðasti ábúandinn á Elliðavatni, sem bjó þar á hefðbundinn hátt, hætti 1941. Þá hafði verið kippt
grundvelli undan þeim búskap á jörðinni, sem reistur var á engjaheyskap og túnið var eftir sem
áður afar lítið. Þessi umstópti urðu með því að Rafmagnsveita Reykjavíkur keypti jörðina á árunum
1923-28 af Krisjáni Ziemsen, bæjarstjóra í Reykjavík, Þórði Sveinssyni, lækni á Kleppi, og Emil Rockstad, sem var norskur verzlunarmaður. Ugglaust hefur þessi þrenning verið með einhverjar fyrirætianir um nýtingu á jörðinni – eða vatninu, en ekki er vitað hverjar þær voru. Þeir fengu hver um sig að halda eftir einum hektara lands.
En hversvegna sóttist Rafveitan eftir Elliðavatni?
Forsaga þess er virkjun Elliðaánna, sem hafði verið á döfinni frá 1914, en fram að þeim tíma hafði gas orðið ofaná sem ljósgjafi. Elliðaárnar voru virkjaðar 1920, en veruleg óþægindi urðu á næstu árum af völdum ísmyndunar í ánum annarsvegar og hinsvegar af vatnsskorti yfir
sumartímann. Lausnin var vatnsmiðlun með stíflu við ELliðavatn og stækkun vatnsins um !
helming. Fyrsta tilraun í þessa veru var 600 metra langur torfgarður uppi á Elliðavatnsengjum, en 1928 var gerð jarðvegsstífla með timburþili og grjótvörn. Síðar var stíflan steypt og hækkuð og þá hafði vatnsborð Elliðavatns hækkað til muna.

Heimildir:
-Lesbók Morgunblaðsins 12. febrúar 2000, bls. 10-12.
-Lesbók Morgunblaðsins 19. febrúar 2000, bls. 10-12.

Elliðavatn

Elliðavatn.

Höfði

Gils Guðmundsson ritstjóri hefur tekið saman mikið verk um þjóðskáldið og að hafnamanninn Einar Benediktsson, og nefnist bók hans Væringinn mikli – ævi og örlög Einars Benediktssonar.
Margt hefur verið skrifað um þennan stórbrotna og fjölhæfa jöfur orða og athafna, sem oft var langt á undan samtíð sinni. Hér er því víða leitað fanga til að fá sem fyllsta mynd af þeim Islendingi sem var stærri í sniðum en flestir samtíðarmenn hans. Væringinn mikli var skáld og framkvæmdamaður, draumóramaður og ofurhugi, og Gils rekur sögu hans ítarlega frá bernsku til æviloka. Þar ríkti aldrei lognkyrrð. Nokkrir kaflar úr bókinni fara hér á eftir.
einar ben ungur“… Þetta ár og hið næsta keyrði um þverbak hjá Benedikt Sveinssyni. Þegar hér var komið sögu var hann einatt á ferð og flugi og staðnæmdist vart heima hjá sér stundinni lengur. Eirðarleysi, drykkjuskapur og önnur óregla einkenndi allt hans framferði. Hann fór hvað eftir annað til útlanda, ýmist út af málaferlum sínum eða í sambandi við ýmis stórvirki, sem hann hafði á prjónunum. Meðal þeirra má nefna öflun fjár til að hefja blaðaútgáfu og prentsmiðjurekstur, draumsýnir um stórfelld verslunarviðskipti við Norðmenn og miklar samgöngubætur á sjó, kostaðar af norsku fé. Þegar heim kom, lagði hann upp í langa leiðangra innanlands til að safna liði og fjárstyrk til stuðnings áformum sínum og baráttumálum. Og þess á milli sat hann langtímum saman í Reykjavík. Allar voru þessar hugdettur og fyrirætlanir meiri eða minni skýjaborgir, með lítil tengsl við raunveruleikann. Meðan þessu fór fram mátti húsfreyja Benedikts hins vegar sitja með börn sín ung að Elliðavatni, við þröngan fjárhag og búskap í algerri upplausn. Eins og fyrr segir mun hún á sínum tíma hafa verið algerlega mótfallin því að flytja úr höfuðstaðnum og taka að sér búsforráð í sveit. Fara af því sögur, að hún hafi alla tíð verið óánægð á Elliðavatni. Kom þar margt til, erfíðleikar í samskiptum við vinnufólk, þröngur efnahagur er á leið, en þó öðru fremur hátterni húsbóndans. Loks kom þar, að þolinmæði Katrinar var með öllu þrotin. Vorið 1*72, eftir 13 ára hjónaband, flytur hún frá Elliðavatni til Reykjavíkur, og krefst jafnframt skilnaðar.
Einar Benediktsson um sextugt. Þá mun Benedikt hafa verið lagður af stað í enn eina utanferðina. Katrín Einarsdóttir var nú þritug og komin langt á leið að síðasta barni þeirra hjóna. Leitaði hún fyrst skjóls hjá Þorbjörgu ljósmóður mágkonu sinni, systur Benedikts. Þar ól hún sveinbarn í júlímánuði, og hlaut það nafnið Ólafur Sveinar Haukur. Ekki varð dvöl Katrínar löng hjá Þorbjörgu. Munu þær mágkonur ekki alls kostar hafa átt skap saman þegar til lengdar lét. Settist Katrín að í næsta húsi, Litla Holti, og bjó þar í nokkur ár. Að Elliðavatni kom hún aldrei eftir þetta.
einar ben ungur IIÍ skilnaðarmáli þeirra hjóna leitaði prestur sátta, svo sem lög gerðu ráð fyrir. En í stað þess að málið færi síðan fyrir sáttanefnd var haldinn sáttafundur hjá Hilmari Finsen stiftamtmanni. Fór hann fram 14. desember 1872, og var þar ákvörðun tekin um skilnað Katrínar og Benedikts að borði og sæng og svofellt samkomulag gert milli þeirra: Sátt var reynd milli þeirra hjóna til framhalds hjónabandssambúðar en árángurslaust og bæði óskuðu hjónabandssambúð slitið. Með tilliti til fjárskipta með þeim tjáðust þau vera ásátt um meðfylgjandi skilmála; að maðurinn taki við búi þeirra með öllum skuldum, sem á því hvíla, og að maðurinn skuldbindur sig tií að borga henni 15 ríkisdali mánaðarlega frá 1. október þessa árs, að borga fyrsta dag hvers mánaðar um separations tímann, samt um sama tíma að leggja henni kýrfóður af heyi árlega hér á staðnum. Af sameiginlegum börnum hjónanna verða tvö hin elstu hjá manninum, hin tvö hjá konunni. Þegar þessir atburðir gerðust, var Einar Benediktsson á áttunda aldursári. Steingrímur J. Þorsteinsson segir: Það lætur að líkum, að uppeldisáhrif þau, sem Einar Benediktsson bjó við á Elliðavatni fyrsta áratug ævi sinnar, hafa engan veginn verið eins og best yrði á kosið, Vegna heimilisóreiðunnar átti Einar meiri mök en ella hefði orðið við vinnufólkið, misjafnt eins og gengur, og hlýddi mjög á tal þess og sögur, sem voru ekki allar fallnar til barnafræðslu. Sagði Einar eitt sinn á elliárum sínum, er honum varð tilrætt um orðbragð þessara fóstra sinna. „Heldurðu .að þetta hafi haft góð áhrif á mig? Eg, sem var allur eitt skilningarvit!” Um eitt af hjúum föður síns á Elliðavatni orti Einar fyrstu vísuna sem til er eftir hann. Þá hefur hann að líkindum verið átta ára gamall. Jósep hét einn vinnumanna Benedikts, hinn mesti matmaður. Um hann kvað Einar: Jósep er og hundur hans hungraðir að vana, seggur þessi sunnan lands segist kominn að bana.
ellidavatn-991Síðasta vetur Katrínar á Elliðavatni var Jón Ólafsson skáld og ritstjóri þar til heimilis. Var hann þá nýkominn úr vist sinni í Noregi, en þangað hafði hann flúið vegna málaferlanna út af Íslendingabrag. Nú var Benedikt efst í huga að koma upp prentsmiðju á Elliðavatni og stofna blað. Skyldi Jón vera ritstjóri eða meðritstjóri við blaðið. Jafnframt var Jóni falið að veita börnum þeirra Benedikts og Katrínar tilsögn. Varð hann fyrsti kennari Einars, og samkvæmt kirkjubókum var Einar orðinn læs um jólaleytið 1871, þá sjö ára gamall.
Árið eftir að Katrín hvarf að heiman, kom Benedikt Einari fyrir hjá Grími Thomsen á Bessastöðum og Jakobínu konu hans. Dvaldist hann þar árlangt, enda mun heimilið á Elliðavatni þá hafa verið í algerri upplausn. í húsvitjunarbók Garðaprestakalls er talinn að Bessastöðum 1873 „Einar Benediktsson, tökupiltur, 9 ára, búinn” (þ.e. að læra kverið)., Á Bessastöðum var Einari haldið strangt til vinnu, og hefur honum brugðið við eftir sjálfræðið á Elliðavatni. Einar þótti rumlatur, og fann vinnufólk á Bessastöðum að því við hann. Þá orti Einar: Vont er fólkið við mig hér, að vilja ekki lofa mér að lúra dálítið lengur. Fara skal á fætur samt, forlaganna þiggja skammt eins og duginn drengur. Grímur bóndi og skáld var strangur húsbóndi og hirtingasamur. Eftir Bessastaðadvölina lá Einari hlýrra orð til frú Jakobínu en Gríms. Öðrum þræði hafa þau hjón komið fram við Einar fremur sem fósturson en tökubarn, létu hann jafnan matast með gestum er þá bar að garði, svo og þegar boð voru haldin. Virti Einar það við Grím æ síðan.
… Nú hófst námsferill Einars Benediktssonar. Undir skóla lærði hann einkum hjá séra Guttormi Vigfússyni á Svalbarði í Þistilfírði, síðar presti á Stöð í Stöðvarfirði, ágætum latínumanni. Einar var heilsuveill í æsku, og á Svalbarði veiktist hann hastarléga og lá vetrarlangt og fram á surnar. Upp frá því var hann aldrei heilsuhraustur. Bæði var hann veill fyrir brjósti og gekk með sullaveiki, sem hann losnaði að líkindum aldrei við til fulls. Á efri árum nefndi Einar þessi veikindi sín við Svein Benediktsson framkvæmdastjóra.
einar ben á sextugsaldriSveinn segir: Einar ræddi nokkrum sinnum um sullaveiki, sem hann hefði sýkst af á bernskuskeiði á Elliðavatni. Kenndi hann um sóðaskap vinnufólksins eftir að foreldrar hans skildu. Sagði hann að hundar hefðu verið látnir sleikja askana, eins og þá mun ekki hafa verið óalgengt hér á landi. Af þessum sökum hafði hann sýkst af sullaveiki og liðið miklar þjáningar og átt við langvarandi vanheilsu að stríða af hennar völdum. Man ég að hann sagði, að hann gengi enn með steingerða sulli. Vorið 1878 var Einar fermdur í Húsavíkurkirkju. Við það tækifæri er honum gefinn þessi vitnisburður í prestþjónustubók: „Les, kann og skilur ágætlega og hegðar sér dável.”
Ýmsar sögur eru til, sem lýsa samúð Einars og hjálpsemi við fátækt fólk og minni háttar, bæði frá æsku hans og fullorðinsárum. Eftirminnileg er sagan sem Jakobína Jósíasdóttir segir frá fermingu Einars: Síðustu dagana fyrir fermingu dvaldist Einar um kyrrt á Húsavík, þar sem hann hafði verið til spurninga. Dreng einn úr Vilpu, koti sunnarlega í þorpinu, vantaði fermingarföt, enda var fólk hans bláfátækt. Einar átti spariföt og hafði auk þess fengið ný föt fyrir ferminguna. Hafði hann fermingarfötin með sér, en sparifötin voru heima á Héðinshöfða. Einar bauð drengnum að lána honum spariföt sín til fermingarinnar, og skyldi sýslumannsfólkið færa honum þau, er það kæmi til kirkju á fermingardaginn. En það var stundum seint fyrir, og svo fór í þetta sinn. Þverneitar Einar þá að ganga til kirkju, meðan faðir sinn sé ókominn, og ber ekki öðru við. Var nú ekki um annað að ræða en bíða, þar sem sýslumannssonurinn átti í hlut. Stóð Einar heima við prestssetrið hjá drengnum úr Vilpu, þangað til sást til ferða Héðinshöfðafólks með fötin. Einar varð æfur við föður sinn fyrir seinlætið.
Þrátt fyrir veikindi Einars í æsku, var hann fjörmikill og gerðist snemma einráður og áræðinn. Sýnir það atburður sá sem nú skal frá sagt. Haustið 1879 sendir Benedikt Einar son sinn fjórtán ára gamlan með áríðandi bréf til Akureyrar. Hafði ekki verið á annað minnst en Einar kæmi austur aftur að loknu erindi og læsi heima næsta vetur undir skóla. Á Akureyri hitti Einar nokkra pilta, sem voru á förum suður til náms og biðu strandferðaskipsins Diönu.
einar ben um sextugtEinar grípur nú áköf löngun til að slást í hópinn, en til þess sér hann engin ráð, síst fjárhagsleg. Þá vill svo til að hann mætir á götu á Akureyri Tryggva Gunnarssyni, góðkunningja fóður síns. Ber hann þegar upp vandkvæði sín við Tryggva, og kveður fjárskort hamla því að hann komist suður í skólann. Tryggvi kveðst geta bætt eitthvað úr þessu og lánar Einari ríflega fyrir farinu suður. Hefur Einar nú enga vafninga, skrifar föður sínum, siglir suður með piltum, fer til Þorbjargar föðursystur sinnar, gengur undir inntökupróf, stenst það með prýði og sest þegar í fyrsta bekk Latínuskólans. Skömmu síðar skrifar Benedikt Tryggva Gunnarssyni, og er í senn undrandi og stoltur yfir uppátæki sonar síns. Þakkar hann Tryggva lánið til „Einsa litla” og segir síðan: Víst var um það, að ég hafði eigi ætlað honum að fara í skólann í þetta sinn, mest vegna þess að ég treysti ekki heilsu hans, en hann lá í allan fyrri vetur og fram á sumar. En nú hefur drengurinn ráðist í þetta, og þú getur því nærri, að ég er þér þakklátur fyrir hjálpina – að hverju sem hún verður honum.
Á fyrstu árum hinnar nýju aldar fór efnahagur Einars Benediktssonar verulega batnandi. Enda þótt Benedikt faðir hans hefði oft verið í peningaþröng og mesta basli, kom í ljós við skipti eftir hann látinn að eignir dánarbúsins voru töluverðar. Komu til skipta samtals rúmar 37 þúsund krónur eða 9300 krónur í hlut hvers hinna fjögurra erfingja. Einar erfði nokkrar jarðir eftir föður sinn, Elliðavatn, Korpúlfsstaði o.fl. Jafnframt” fór hann nú að sækjast eftir að kaupa jarðir, fyrst aðallega vegna veiðiréttinda, en hann hafði löngum hinn mesta ahuga fyrir veiðiskap. En brátt tóku jarðakaupin ekki síður að beinast að öflun vatnsréttinda með virkjanir í huga, sem síðar verður frá greint.
einar ben-112Á þessum árum aflaði Einar tekna með margvíslegum hætti. Málflutningsstörfin við Landsyfirréttinn voru að vísu ekki mjög ábatasöm, en lögfræðileg og viðskiptaleg ráðgjöf ýmiss konar gaf drjúgt af sér og fasteignaviðskiptin voru veruleg tekjulind. Um skeið runnu og til Einars umtalsverðir fjármunir frá Marconifélaginu í Lundúnum fyrir ýmsan erindrekstur í þess þágu. Sagði Einar frá því síðar, að árstekjur sínar á þessu skeiði hefðu komist upp í 25 þúsund krónur, en það voru þreföld eða fjórföld embættismannslaun. Eitt árið kærði hann útsvar sitt til hækkunar, þar eð hann leit svo á að of lágt útsvar rýrði álit sitt sem fjármálamanns! Til er skemmtileg frásögn af fasteignaviðskiptum Einars. Ber hún það með sér að hann var bæði framsýnn og ráðhollur, þegar ungur og vaskur athafnamaður átti í hlut. Thor Jensen segir þessa sögu í minningabók sinni. Hann hafði árið 1901 stofnað verslun í Reykjavík í gamla biskipshúsinu við Pósthússtræti. Húsið var á besta stað í bænum, en engan veginn nógu stórt og hentugt fyrir nýtísku verslun. – Thor Jensen segir: Einar Benediktsson var á þessum árum málafærslumaður í Reykjavík. Við höfðum kynnst á ferðalögum og fallið sérlega vel á með okkur. Var gaman að ræða við hann um framfaramál og framtíð íslands. Einar kom nú til mín og bauð mér til kaups gamla pósthúsið, sem var eign dánarbús Óla Finsens póstmeistara, en Einar annaðist sölu á eignum þess. Sagði Einar, að ,jafn stórhuga maður þyrfti meira olnbogarúm handa fyrirtæki sínu”. Féllst ég á þetta og keypti gamla pósthúsið af honum fyrir 15 þúsund krónur. Þetta var mjög hentugt, þar eð það var næsta hús fyrir. sunnan verslun mína, og því fylgdi mikil og góð lóð. Á heimleið úr utanfór sumarið 1903 hitti Einar Eggert Claessen, sem var á heimleið að nýloknu lögfræðiprófi. Leist Einari vel á hinn unga mann og tókst með þeim vinátta sem entist ævilangt. Bað Einar Claessen nú að taka við málflutningsstörfum sínum við Landsyfírréttinn og réðst það með þeim. Gegndi Einar þeim ekki eftir þetta, þótt hann segði starfinu fyrst lausu árið eftir.
Störf Einars höfðu verið ákaflega erilsöm um sinn og reynt mjög á hann, enda heilsan aldrei sterk. Hann þráði ekki hvað síst að fá betra næði til að gefa sig sem mest að skáldskap sínum. Hann vildi komast í fast og ekki of annasamt embætti, þar sem hann gæti skapað sér og vaxandi fjölskyldu framtíðarheimili.
valgerdur kona einarsHaustið 1904 losnaði sýslumannsembættið í Rangárvallasýslu, það hið sama og Einar hafði sótt um en ekki hlotið tíu árum áður. Ákvað Einar að sækja, þótt ósýnt væri um árangur, þar eð hann átti lítilli stjórnarhylli að fagna. Hannes Hafstein, skáldbróðir Einars, var nú orðinn ráðherra og fór með veitingavaldið. Gekk Einar á fund ráðherra. – Valgerður Benediktsson segir: Einar dáðist alla tíð mjög mikið að Hannesi Hafstein bæði sem skáldi og glæsimenni, en vegna mismunandi stjórnmálaskoðana var kunningsskapur þeirra mjög kulnaður um þessar mundir. Hannes tók umsókn Einars fálega í fyrstu og lét í ljós við hann það hugboð sitt, að nú mundi Einar fyrir alvöru ætla að fara að gefa sig að stjórnmálum, er hann væri orðinn sýslumaður, og komast á þing og vinna á móti sér. Einar svaraði því til, að hann mundi að vísu alltaf láta í ljós skoðanir sínar á þjóðmálum, er honum þætti ástæður til, en til þingsetu hugsaði hann ekki. Lét Hannes sér þetta vel líka og veitti Einari sýsluna.
Þjóðsagnapersóna, Skúli Skúlason, síðar ritstjóri, prestssonur í Odda á Rangárvöllum, var 14 ára unglingur þegar Einar kom austur. Hann hefur skrifað skemmtilegar minningar frá þessum tíma. Birfust þær í Lesbók Morgunblaðsins, 33. tbl. 1964. Þar segir: Einar var orðinn að þjóðsagnapersónu áður en hann kom í héraðið og það álit færðist í aukana þessi fáu ár er hann var þar og enn meir eftir það. Og ég tel efamál, hvort nokkur þjóðsagnapersóna hafi verið eins umrædd í sýslunni.
Allir könnuðust við nafnið. Þetta er skáld og hafði gefið út sögur og kvæði og þýtt „Pétur Gaut” og selt hvert eintak á hundrað krónur! Hann hafði ort magnað draugakvæði um síra Odd í Miklabæ, en margir héldu því fram, að mest af kveðskap hans væri „hálfgert hnoð, sem enginn skildi”. Og svo hafði hann gefið út blað og stofnað stjórnmálaflokk. Hvernig átti svona maður að geta verið sýslumaður? Og ofan á allt þetta var nýi sýslumaðurinn „þjóðhættulegur braskari”, sem á skömmum tíma mundi setja sýsluna á hausinn og alla Rangæinga á rassinn nema þá, sem voru á honum áður. En hugkvæmur var hann, mannskrattinn. Hann hafði selt jarð skjálfta. Hver veit nema hann gæti selt Heklugos líka? Og þá hlypi kannski á snærið fyrir Rapgæingum. Skeggræðendunum kom saman um, að andvirðið ætti að renna í sýslusjóð og notast til brúargerðar í sýslunni… Það var mikið glæsimenni, sem komið var í sýslumannsembættið. Ég hugsa, að aldrei hafi Einar Benediktsson verið fríðari sýnum en um þær mundir og glæsilegri í allri framkomu. Ég man að hann var í sútuðum leðurjakka þegar hann kom fyrst að Odda, en slíka flík hafði ég aldrei séð á nokkrum manni nema Hvítárvallabaróninum. Og eigi síður var konan hans, Valgerður, glæsileg. Hún var svo tignarleg, að þjóðsagan var búin að segja manni að Einar hefði látið gera faldbúning handa henni og farið með hana til London og „sýnt hana þar fyrir peninga”. Það væri gaman að vita, hvort þetta var fyrirboði fegurðarsamkeppna nútímans?
hlin johnsonSamskipa Einari utan um haustið var Guðmundur Hlíðdal, síðar póst- og símamálastjóri. Hann hafði um vorið komið heim til Islands að loknu prófi í rafmagnsverkfræði í Þýskalandi. Um sumarið hafði hann birt í landvarnarblaðinu Ingólfi grein, sem hann nefndi Notkun fossanna. Þar galt hann mönnum varhug við að selja útlendingum fossa fyrir smánarverð og án allra skilyrða, en hvatti til að leigja eða jafnvel selja þeim fossa, ef upp úr því sprytti iðnaður, sem orðið gæti okkur til hagnaðar. Þyrfti að búa svo um hnúta í samningum, að landeigendur hlytu sæmilegan hagnað af, er til framkvæmda kæmi, en full umráð fossanna á ný, yrðu þeir ekki virkjaðir innan hóflegs tíma.
Einari hafði getist vel að grein þessari og haft samband við höfundinn eftir birtingu hennar. Kynntust þeir nú nánar á ferðinni utan og fór vel á með þeim. Einar stóð stutt við í Edinborg, þar sem hann kom fjölskyldu sinni fyrir, en hélt til Kaupmannahafnar. Þar hitti hann Guðmund Hlíðdal og fékk hann til að koma með sér til Kristianiu í því skyni að takast á hendur vatnsorkumælingar fyrir fossafélög, sem þar skyldi stofna. Þangað fóru þeir nú saman. Löngu síðar lýsti Guðmundur Hlíðdal dvölinni í Noregi þessa haustdaga. Segir hann svo frá, að mörg kvöld hafi þeir félagar setið í dýrlegum veislum norskra fjáraflamanna og lögfræðinga, þar sem Einar naut sín ákaflega vel og var miðdepill hvers samkvæmis. Hann var alger bindindismaður þennan tíma í Kristianiu, að sögn Guðmundar, enda þótt allt flyti í hinum dýrustu vínum. Milli veisluhaldanna voru fundir haldnir með þessum fésýslumönnum þar sem Einar lýsti fossafli Íslands fyrir þeim og beitti óspart einstæðum frásagnatöfrum sínum. Flest var stórt í sniðum í frásögn hans, en óhjákvæmilegt var að viðurkenna, að margt væri enn lítt rannsakað, svo sem fallhæð fossa. Með orðfimi reyndi Einar að forðast fullyrðingar, svo sem að nefna nákvæmar tölur, en dró þó hvergi úr.
hlin johnson IIHlín kemur til sögu í febrúarmánuði 1927 kom nýr gestur á heimili Einars Benediktssonar og Valgerðar konu hans að Þrúðvangi í Reykjavík og drakk kaffisopa með þeim hjónum. Gesturinn var kona, Hlín Johnson að nafni. Þannig stóð á gestkomunni að konan hafði hitt Val, elsta son skáldsins, á samkomu í Reykjavík. Hlín var ættuð frá Sandhaugum í Bárðardal, og hafði faðir hennar, Jón Eldon Erlendsson frá Garði í Kelduhverfi, verið skrifari Benedikts Sveinssonar á Héðinshöfða um tveggja ára skeið, þega Einar var um fermingaraldur. Bar hann æ síðan hlýjan hug til þessa skrifara föður síns.
Valur sagði nú föður sínum frá því, að hann hefði hitt þessa þingeysku konu, og kynni hún mörg ljóð hans utan að og væri ákafur aðdáandi þeirra. Bað Einar þá son sinn að koma kveðju til dóttur Jóns Eldons, og bjóða henni að heimsækja sig í Þrúðvang.
Hlín Johnson stóð á fimmtugu þegar hún fékk boðin um að ganga inn fyrir dyr Einars Benediktssonar. Hún hafði aðeins einu sinni séð hann áður, þá innan við fermingu, en kvaðst aldrei hafa getað gleymt honum. Hann var þá með föður sínum á þjóðmálafundi á Ljósavatni, ungur og fríður.
herd-221Í viðtali við Matthías Johannessen komst Hlín svo að orði: Ást mín á honum hefur haldist frá því ég heyrði fyrsta ljóðið eftir hann, tólf ára gömul, íslandsljóð. Það birtist í einhverju blaðinu, líklega Sunnanfara, sem var sendur norður eins og hver annar pappír. Og þegar fóstri minn las ljóðið, stökk ég á fætur og hrópaði: „Svona hefur enginn kveðið áður!” En ég var skömmuð fyrir að þykjast hafa vit á skáldskap, og það var reynt að þagga niður í mér og líklega hefur það tekist, en ég sagði satt! Og nú hefur Hlín Johnson fengið boð um það, að koma á fund skáldsins. Hún segir: Eg fór upp í Þrúðvang, og um leið og augu okkar mættust, var eins og við hefðum þekkst alla ævi. Ekki fer það á milli mála, að næstu árin eftir skilnaðinn við Valgerði voru Einari erfið á marga lund. Jónas Jónsson fer svofelldum orðum um skáldið á þessu tímabili: Þegar fokið var í flest skjól um fjárafla tók hann sér til hressingar að neyta áfengis meira en góðu hófi gegndi. Var hann þá um stund heimilislaus og án nokkurs verulegs stuðnings frá frændum og vinum. Gátu höfuðstaðarbúar stundum séð þá sorgarsjón að höfuðskáld þjóðarinnar, sem auk þess hafði um langt skeið verið mest glæsimenni á landinu, við hlið Hannesar Hafsteins, ráfaði einmana um götur bæjarins, fátæklega búinn og undir áhrifum áfengis.
Á þessum tímum einsemdar og erfiðleika kynnist Einar lífsreyndri og viljasterkri konu, sem hafði dáðst að honum og unnað ljóðum hans allt frá ungum aldri. Hann fann þar athvarf og skjól.
En hverjar voru tilfinningar konunnar, sem nú fyrst tók að umgangast draumaprinsinn, og sá með opnum augum jafnt veikar sem sterkar hliðar hans? Einar var nú orðinn 63 ára, stoltur maður en bitur og kominn sár og móður af vígvelli lífsins. Varð hún ekki fyrir vonbrigðum? Matthías Johannessen spyr Hlín Johnson hálfníræða um samband þeirra Einars:
— Þetta var ást, Hlín.
— Sú eina ást, sem ég hef þekkt, og miklu meira en það… Fyrir það er ég þakklát alla tíð.
— En hvernig er hægt að elska mann gegnum kvæði?
— Það er ósköp einfalt. Maður elskar sálina, sem birtist í ljóðunum. Og svo þegar ég kynntist henni, varð ég ekki fyrir vonbrigðum, þvert á móti, því sjálfur var hann jafnvel stærri en verk hans. Að vísu átti hann það til að vera ruddalegur og nota stór orð, ef hann bragðaði vín eða talaði um pólitík, en það kom mér ekki við, því ég var ekki pólitísk.”

Heimild:
-Morgunblaðið 16. desember 1990, bls. 20-21.

Herdísarvík

Herdísarvík.

Elliðaárdalur
Dalurinn, eða öllu heldur dalirnir, frá Kópavoginum og upp að Elliðavatni er hið ákjósanlegasta göngusvæði. Bæði er hægt að halda sig á sléttum göngustígum og ekki síður víkja af þeim og skoða það sem svæðið hefur upp á bjóða, hvort sem um er að ræða minjar, gróður eða dýralíf. Um er að ræða 5-6 km langa göngu við bestu aðstæður. Þótt svæðið sé í miðri byggð ríkir þar ró að jafnaði og hin mikla skógrækt eykur á litbrigði og umbreytingar ástíðanna, vor, sumar, haust og vetur.
Hópur silfurtoppa er nú orðinn fastagestur í trjám dalanna, skógarfuglarnir sækja í gjafir íbúanna á vetrum og andartegundir eru óvíða fleiri á höfuðborgarsvæðinu.

Kópavogsdalur
ElliðaárdalurÚtivistarsvæðið í Kópavogsdal nær frá Kópavogsleiru við Hafnarfjarðarveg, upp með Kópavogslæk að bæjarmörkum í suður-Mjódd og er um 2 km að lengd og um 60 ha að flatarmáli.
Á nokkrum stöðum teygir svæðið sig upp í Digraneshálsinn. Nokkrir gamlir trjáreitir frá tímum sumarbústaðanna eru í Kópavogsdal og er reiturinn við Dvöl og nágrenni þeirra merkastur. Þar eru ein elstu merki trjáræktar í Kópavogi og við Barmahlíð eru merkilegar hleðslur frá 4. áratugnum, þær einu sem eftir eru í bænum sinnar tegundar.
Miklar framkvæmdir hafa verið í Kópavogsdal undanfarinn áratug, en tekist hefur að halda allstórum hlutum dalsins lítt röskuðum. Þar er fjöldi villtra plantna sem ásamt trjálundunum laðar að sér fjölbreytt fuglalíf.

Kópavogslækur
er enn að mestu í upprunalegum farvegi sínum en er nú mun vatnsminni en áður fyrr. Í miklum rigningum geta þó komið í hann flóð, þar sem regnvatni er veitt í lækinn. Enn kemur það öðru hverju fyrir að skólp berist í Kópavogslæk vegna rangtenginga frárennslislagna. Heilbrigðiseftirlitið
hefur í hyggju að vakta lækinn með þeim hætti að taka þar reglulega gerlasýni.
ElliðaárdalurVestast í dalnum hefur verið gerð tjörn í Kópavogslæk sem er vinsæl meðal fólks og fugla. Stöku silungur slæðist inn í tjörnina en í læknum eru bæði álar og hornsíli. Í deiliskipulagi fyrir dalinn er gert ráð fyrir að fleiri tjarnir komi í Kópavogslæk.
Í Kópavogslæk, sunnan Fífuhvamms, er móbergsklöpp sem er hluti af elsta móbergi á höfuðborgarsvæðinu 4-500.000 ára, mun eldra en s.k. Reykjavíkurgrágrýti.
Mikið hefur verið gróðursett í Kópavogsdal undanfarin ár og nú er nær fulllokið við að koma upp góðu stígakerfi um dalinn þveran og endilangann. Vestast í Kópavogsdal er félagssvæði
Breiðabliks og Tennishöll og skammt þar frá er aðsetur Vinnuskólans og garðyrkjudeildar bæjarins. Austar eru fjöldi leiksvæða og áningastaða ásamt skólagörðum.

Fossvogsdalur
Dalurinn er um 2,5 km langur og nær frá Fossvogsleiru í vestri að Blesugróf í austri.
Útivistarsvæðið í Fossvogsdal er að hluta til í lögsögu Reykjavíkur (um 25%), en um 60 ha eru Kópavogsmegin. Dalurinn var áður að mestu landbúnaðarsvæði og flatlend tún og
framræsluskurðir settu svip sinn á hann. Fossvogslækur rennur í framræsluskurði að mestu leyti nema vestast, en þar er lækurinn og umhverfi hans undir bæjarvernd. Á þeim slóðum er
“skógræktin”, fyrrum aðsetur Skógræktarfélags Reykjavíkur, og laðar skógurinn að sér mikinn fjölda fugla af ýmsum tegundum.
Um miðbik dalsins er HK með félagssvæði sitt og þar er einnig lóð Snælandsskóla gæsluvöllur og skólagarðar. Í austurhlutanum er sleðabrekka og stígarnir eru mikið notaðir til skokks og skíðagöngu. Austast í dalnum er einnig mikill trjágróður og þar er kominn vísir að trjá- og runnasafni (arboretum). Þar eru einnig garðlönd sem leigð eru bæjarbúum. Á svæðinu austan
ElliðaárdalurKjarrhólma eru söguminjar um grjóthögg, líkt og við Einbúa.
Lundur – Birkihlíðarreitur (nýbýli og merkilegir trjáreitir)
Fyrirhugaðar eru framkvæmdir við Fossvogslæk um miðbik dalsins þar sem lækurinn verður færður úr framræsluskurði og myndaðar tjarnir. Samhliða því er fyrirhugað að loka hluta framræsluskurða með gerð grjótræsa. Einnig verður aukin trjárækt í dalnum.
Aðgengi að Fossvogsdal er gott sem og tengingar yfir dalinn, enda eru göngustígarnir vel nýttir.

Elliðaárdalur
Elliðaárdalurinn er eitt vinsælasta útivistarsvæði Reykvíkinga. Daglega njóta hundruð Reykvíkinga útivistar í dalnum og ekki þarf lengi að fara þar um til þess að sjá fólk á ferli um dalinn þveran og endilangan enda er vel búið að útivistarfólki, stígar og brautir fyrir gangandi og hjólandi umferð.
Elliðaárnar hafa oft verið nefndar perla Reykjavíkur, enda einstakt að laxveiðiá renni í gegnum höfuðborg. Reykjavíkurborg keypti Elliðaárnar árið 1906, ekki til laxveiða heldur beislunar vatnsafls og rafstöðin var reist um 1920. Um það leyti hefur líklega hafist trjárækt í Elliðaárdalnum en árið 1951 hóf Rafmagnsveita Reykjavíkur skógræktar- og uppgræðslustarf í árhólmanum, sem er eitt mesta aðdráttarafl dalsins.
Fuglalíf er fjölskrúðugt í Elliðaárdal og þar hafa einnig fundist fornminjar, m.a. frá tíð Innréttinganna.

Heimild m.a.:
-Kópavogur – stöðumat 2000.

Eliðaárdalur

Elliðaárdalur.

Bláfjöll

 Gengið var um hið stórbrotna eldsumbrotahverfi sunnan Drottningar og Stóra-Kóngsfells vestan Bláfjalla.
Venjulega er Skjól við Þríhnúkasvæðið látið afskipt af útivistarfólki, en aðstæður nú til skoðunar þess voru einkar hagstæðar. Allnokkrir hellar eru norðan undir svonefndum Hellisgíg, sem er nyrstur Strompanna í Strompahrauni. Litið var í Langahelli (um 700 m langur), en þrátt fyrir lítinn snjó hafði hið litla, sem komið hafði á svæðið, skafið duglega í öll op svo erfitt var að komast inn. Á svæðinu eru nokkrir aðrir hellar, s.s. Djúpahellir (um 300 metra langur), Goðahellir, Rótahellir (um 210 metra langur), Tanngarðshellir (um 190 metra langur), Djúpihellir (um 150 metra langur), Ranghali (um 100 metra langur),  Rósahellir (um 70 metra langur), Bátahellir (um 30 metra langur), Smáhellir (um 20 metra langur) og Krókudílahellir.

Skammt vestar átti að vera hægt að sjá leifarnar af Bresku gránu. Þá var ætlunin að kíkja á Þríhnúkagíga og húsið undir þeim.
Morgunroðinn lýsti upp fjallabakið og sló gylltum roða á framsýnina. Hið stóra op Djúpahellis hafi fyllst af Sýnishorn af Þríhnúkagígnumsnjó. Sama má segja um nyrðra op Langahellis. Þegar komið var að syðra opinu mátti sjá öndun svo hægt var að útvíkka snjóopið og komast niður. Haldið var spölkorn inn eftir hellinum, sem hefur haldist ótrúlega heillegur þrátt fyrir umgang. Mikið er af dropsteinum á gólfinu ofarlega í hellinum og hraunstrá eru í loftum. Ekkert hrun er norðan við syðra opið í Langahelli og því er hann tilvalinn fyrir þá, sem eiga erfitt með að fóta sig í skriðum og lausu grjóti.
Þá var stefnan tekin á Þríhnúka, sem böðuðu sig í morgunroðanum. Á leiðinni var reynt að líta eftir flakinu af Bresku Gránu, en án árangurs. 
Hið fegursta útsýni var af Þríhnúkum yfir höfuðborgarsvæðið.
Skammt sunnan við Hnúkana er hraunbóla með hurð fyrir. Þegar opnað var kom í ljós að framendinn hafi fyllst af snjó. Hægt var þó að komast innfyrir með lagni og skoða ummerkin. Hið fegusta útsýni var yfir að gígunum suðvestan við Stóra-Kóngsfell. Ekki er vitað til þess að þeir hafi fengið nafn – heita líklega Eldborgir líkt og svo margir sambærilegir á landinu.
Gangan tók 
3 klst og 3 mín. Frábært veður.
Þríhnúkar

Rauðavatn

“Kveikjan að þessari frásögn er grein Sigurðar G. Tómassonar í síðasta Skógræktarriti. Árið 2007 var gerð úttekt á skerðingarsvæði Suðurlandsvegar við Rauðavatn vegna fyrirhugaðrar breikkunar vegarins þar. Í framhaldi af henni vakti úttektarmaður athygli á leifum girðingar sem þar væru að finna og gerði m.a. Landbúnaðarsafni Íslands á Hvanneyri viðvart um minjar þessar. Þann 11. september 2008 fórum við tveir félagarnir á vettvang með þau áform að Raudavatn-hornstaurbjarga frá áformuðum vegarframkvæmdum þeim girðingarstaur sem næstur var þjóðveginum og yrði í öllum tilvikum að víkja. Breikkun Suðurlandsvegar á þessum stað lenti í útideyfu en það er önnur saga.
Nú kann einhverjum að þykja sem hátt hafi verið reitt til höggs fyrir einn girðingarstaur, en svo einfalt er málið ekki því að girðingin um Rauðavatnsstöðina – hvað elstu minjar um skógrækt í Reykjavík – virðist á sínum tíma hafa verið svo vönduð að við fátt jafnast er síðar þekktist á því sviði. Áður en sagt verður frá minjabjörgunaraðgerðum okkar félaga er rétt að rifja upp nokkuð af því sem vitað er um sjálfa girðinguna – mannvirkið.
Frá fyrstu framkvæmdum skógræktarmanna við Rauðavatn er meðal annars sagt í skýrslu Flensborgs, hins danska skógræktarstjóra landsins, fyrir árið 1902. Við þýðum lauslega orð skógræktarstjórans: “Spildan við Rauðavatn var girt sams konar girðingu og hin nýfengnu svæði að Hálsi og á Hallormsstað… Spildan var girt með járnstaurum og gaddavír og sléttum vír til skiptis [afvekslende Pigtraad og glat Traad]. Ég legg með nánari upplýsingar um girðinguna, sem áhugaverð kann að þykja, þar sem hlutur girðinga mun skipta miklu fyrir skóga framtíðarinnar…”
Síðan lýsti Flensborg girðingarefni og -aðferð af mikilli nákvæmni; “hér er aðeins getið helstu atriða er vörðuðu undirbúning verksins: Finna þarf girðingarefni sem er ódýrt og auðvelt í flutningum og uppsetningu, er sterkt og heldur úti sauðfé og hrossum. Eikarstaurar og gaddavír duga vel, en hver hestur ber aðeins 4 staura, auk þess sem staurarnir taka mikið pláss í skipunum…”
Þar eð í ár skyldi girða um það bil 40 tunnur landsins á þremur stöðum var um að ræða mikið efni. Við leituðum því tilboða ýmissa framleiðenda í Kaupmannahöfn á grundvelli fastrar áætlunar. Athugað var hvort gömul gasrör kæmu til álita… Einnig var leitað til Englands… og fór svo að samið var við Jones & Bayliss í London um 4500 stika langa girðingu (um 4.100 m). Rækileg lýsing Flensborgs á hinni ensku girðingu er upplögð æfing í „ólesinni“ dönsku, svo við látum hana koma orðrétta: “Hegnet, som har 4 Pigtraade og 3 glatte Traade med 3–10 Tommers Afstand, tættest forneden, er 4 Fod højt over Jorden. Det opstaaende Materiel udgøres af: Hjørnestolper, massive, firkantede Jernstøtter, som forneden bærer en stor Plade og i Jordoverfladen et Kors af mindre Plader, og som støttes af 2 Skraastivere ligeledes med Jordplade paa den nederste Ende.
raudavatn-staur-1Dernæst Strammestolper, dannede af 2 Stkr. svært Pladejern og forsynede med Plader som Hjørnestolperne. Endvidere Mellemstolper af dobbelt T-Jern, hvorpaa der fæstes en Plade i Jordoverfladen, parallelt med Hegnslinien. Og
endelig Dropper, Vinkeljern, som kun gaar til Jordoverfladen. Der sættes en Hjørnestolpe i hvert vandret eller lodret skarpt Knæk paa Hegnslinien samt ellers for hver 6–800 Fod; en Strammestolpe indsættes for hver 3–400 Fod, en Mellemstolpe for hver 24 Fod og endelig for hver 6 Fod en Dropper. Paa Hjørne- og Strammestolper sidder der Strammeruller med Palhjul og Nøgletap; i Mellemstolper og Dropper er der Indsnit til Traaden, som fastholdes med drejelige Lukkehager og med Splitter. De fornødne Laager hænge mellem 2 Strammestolper med Skraastivere. Alle Stolper graves 2 Fod ned i Jorden.”
Og efnið kom frá Leith vorið 1902, sjóleiðis að sjálfsögðu. Flutningur þess til Norður- og Austurlands tafðist vegna hafísa, er bæði jók kostnað við efnisaðdrætti og seinkaði girðingavinnunni. En girðingin um gróðrarstöðina (planteskolen) við Rauðavatn komst upp og síðan liðu ein 106 ár. Segir nú af athugun okkar eins og frá henni var greint í verksskýrslu: “Í fyrsta lagi gengum við hluta hins gamla girðingarstæðis, austur og upp í holtið þar sem „Planteskolen“ á að hafa verið, sbr. loftmynd af svæðinu. Þar uppi er afar vandaður hornstaur. Staurinn er jarðfastur og hefur ekki gefið sig á neinn veg. Undir girðinguna virðist hafa verið hlaðið jarðvegi og þarna nærri má sjá skýran garð í girðingarstæðinu, sbr. lýsingu Flensborgs: „Planteskolen skal omgives med en 3 Fod Jordvold, af hvilken Allerede en Del er bygget“, Ákveðið var að láta borgarminjavörð vita um minjar þessar svo þær mætti færa á skrá. Þannig væri helst hægt að forða þeim frá eyðileggingu vegna mannvirkjagerðar síðari tíma. Sem stendur eru minjarnar það langt frá umferð að þeim er sennilega fremur lítil hætta búin. Vel mætti líka stinga þarna niður merki sem héldi til haga merkri skógræktar- og girðingasögu.
Í öðru lagi var það svo ´kraftstaur´ (strammestolpe) er varðveist hafði á girðingarlínunni meðfram Suðurlandsvegi, gengt bensínstöð Olís er þarna stendur. Þessi og áðurnefndur hornstaur virtust við fyrstu skoðun okkar félaganna vera einu staurarnir úr girðingunni, sem eftir eru. Kraftstaurinn stóð traustum fótum og hreyfðist lítt þótt skekinn væri. Við ákváðum að bjarga staurnum en ljóst var að hann myndi verða í vegi framkvæmda kæmi að þeirri breikkun Suðurlandsvegar sem áformuð var.
Sýnilega hafði verið grafið fyrir staurnum og púkkaraudavatn-girdingastaur-2ð vel að honum með hnullungsgrjóti. Eftir að hafa fjarlægt
nokkra steina úr púkkinu tókst okkur að hreyfa staurinn töluvert en upp vildi hann ekki. Fengum við þá dráttarvél Skógræktarfélagsins til aðstoðar. Reynt var að hífa staurinn lóðrétt upp en þá slitnaði borði, sem átti að sögn ekils dráttarvélarinnar, að þola fimm tonna átak. Fjarlægðum við þá enn meira grjót úr púkkinu. Tókst þá loks að lyfta staurnum. Kom þá í ljós hvað hélt honum niðri: Allstór platti sem boltaður var við staurinn en ofan á hann hafði grjótinu verið púkkað. Hefðum við betur kannað lýsingu Flensborgs nákvæmar áður en við vörðum öllum svitadropunum til verksins. Kraftstaurinn reyndist vera 222 cm langur. Á honum eru sjö strekkirúllur fyrir vír; um það bil 90 cm af staurnum voru neðanjarðar. Ber þessum málum vel saman við lýsingu Flensborgs nema hvað staurinn hefur sennilega verið settur dýpra í jörð en þar var sagt. Líka kann að gæta þar áhrifa áfoks. Áðurnefndur platti er um 45 x 31 cm að stærð og á langhlið hans er 11 cm hornrétt ´uppábrot´. Kraftstaurinn er, eins og hornstaurinn, ótrúlega heill eftir allan þennan tíma. Á málminum, sem að mestu virðist vera steypt járn, sá undralítið.
Það er af staurnum að segja að hann var tekinn til athugunar er í Landbúnaðarsafnið kom. Reyndist hann sáralítið ryðgaður, helst þó þar sem jarðaryfirborð hafði verið. Strekkihjól voru heil að mestu. Staurinn var forvarinn með Jóhannesar-olíu og honum síðan komið fyrir gestum safnsins til sýnis. Það er ljóst að mjög hefur verið vandað til þessarar fyrstu skógræktargirðingar á SV-landi. Minjarnar sýna líka að a.m.k. girðingarstaurum má koma þannig fyrir hérlendis, bæði um efni og frágang, að þeir standi lengur en í heila öld!
Við samningu þessarar greinar kom upp í huga höfunda hvort útséð væri með að fleiri staurar – hvort sem væru hornstaurar eða kraftstaurar – gætu leynst einhversstaðar í upprunalegu girðingarlínunni. Til að ganga úr skugga um það fór annar höfundur í reisu meðfram gömlu girðingunni núna í lok ágúst 2013. Og viti menn, í þéttum skógi ofan við gömlu gróðrarstöðina (planteskolen) fannst einn kraftstaur sem virðist vera alveg í jafngóðu ástandi og staurinn góði sem nú er á Landbúnaðarsafninu.
Ekki fundust fleiri staurar þrátt fyrir nokkra leit meðfram upprunalega girðingarstæðinu. Það er þó ekki hægt að útiloka að fleiri standi þarna enn, enda skógurinn mjög þéttur á köflum. Ekki er vafi á því að þessar minjar eru býsna merkilegar í ræktunarsögu þjóðarinnar. Girðingaöld Íslendinga var að hefjast á fyrstu árum tuttugustu aldar og það sama átti við um skógræktina. Minjarnar eru hluti af upphafi þeirrar sögu. Full ástæða er því til þess að gæta vel skógræktarminjanna þarna við Rauðavatn.”

Heimild:
-Skógræktarritið 2013 2. tbl.- Bjarni Guðmundsson og Jón Geir Pétursson – Rauðavatnsstöðin – sögubrot af vandaðri girðingu, bls. 68-71.

Rauðavatn

Rauðavatn.

Brautarholtskirkja

Í Morgunblaðinu 22. febrúar 1998, bls. 20 og 22, fjallar Elín Pálmadóttir um “Látnu óvinina í Brautarholtskirkjugarði á Kjalarnesi:

Brautarholt 1“Í kirkjunni í Brautarholti á Kjalarnesi vekur forvitni tréskjöldur með áletrun um þakklæti þýskra mæðra – og feðra til Ólafs Bjarnasonar bónda þar fyrir umhyggju hans. Elín Pálmadóttir leitast hér við að rekja merkilega sögu, sem liggur að baki, um 13 þýska flugmenn sem voru jarðsettir þar í kirkjugarðinum undir steinum með einfaldri áletrun kirkjugarðinum undir steinum með einfaldri áletrun „E.D.” (Enemy Dead), látinn óvinur.

HUGSUNARHÁTTUR og tilfinningar í stríðinu eru orðin okkur býsna framandi. Hafa líklega alltaf verið það, jafnvel eftir að grimmt stríð barst að okkar ströndum og upp á land.
Hiklaus viðbrögð Ólafs Bjarnasonar, bónda í Brautarholti, á stríðsárunum bera þess merki. Enda segir á viðarskildinum í Brautarholtskirkju að aldrei gleymist góðs manns verk. Það góða verk hefur samt ekki farið hátt í þá hálfu öld sem liðin er síðan. Enda var þá stríð og bann við öllum fréttaflutningi af flugvélum sem skotnar voru niður. Nær ekkert verið um þetta skrifað á Íslandi síðan. En þýskir blaðamenn skýrðu frá þessu og höfum við tvær slíkar greinar úr þýskum blöðum með fyrirsögnunum: „Hinir óþekktu í kirkjugarðinum í Brautarholti” og Flugmannagrafreitur við Faxaflóa”.
Sú fyrri frá 1953 og sú síðari í tilefni þess að þýskur hermannagrafreitur var vígður í Fossvogskirkjugarði 1958 og haustið áður fluttir þangað þýsku flugmennirnir 13 úr kirkjugarðinum í Brautarholti, svo og fjórir þýskir flugmenn úr Búðareyrarkirkjugarði á Reyðarfirði.
Börn Ólafs Bjarnasonar, sem lést 1970, Jón Ólafsson, bóndi í Brautarholti, og Ingibjörg, systir hans, rifjuðu upp með blaðamanni þennan atburð úr æsku sinni, þegar stríðið kom í Brautarholt og lík þýskra flugmanna fengu skjól í kirkjugarðinum þeirra.
Jón gekk með blaðamanni út í kirkju, sem er einstaklega falleg, byggð 1858. Hún var gerð upp fyrir áratug í samráði við Hörð Ágústsson, sem telur að predikunarstóllinn sé 300 ára gamall. Dönsk altaristafla er frá 1868 en marmaraskírnarfontur með loki frá 1948 er til minningar um Bjarna Ólafsson, bróður þeirra systkina. Okkar athygli beinist að viðarskildinum útskorna til Ólafs Bjarnasonar frá Íslandsvinafélaginu í Hamborg og Félagi um hermannagrafir á veggnum aftan við kirkjubekkina. Þar má lesa: „Þýskar mæður og feður þakka þér fyrir umhyggju þína” og þar fyrir neðan “Aldrei gleymist góðs manns verk. Við heiðrum Ísland og Íslendinga með þessari töflu til yðar”. Taflan var afhent Ólafi 1953 og síðar var hann í þakklætisskyni sæmdur heiðursmerki þýska ríkisins fyrir hiklausa viðtöku þessara ungu, þýsku manna í kirkjugarðinn og umhyggju og varðveislu leiðanna. Taflan hékk alltaf á heimili þeirra hjóna, Ólafs og konu hans, Ástu Ólafsdóttur, en var eftir lát hans flutt í kirkjuna með samþykki prestsins. Úr kirkjuglugganum blasir við kirkjugarðurinn og efst í honum voru þýsku leiðin.

LÍK Á HRAKHóLUM
Brautarholt 2Eitt hvassviðriskvöld var barið að dyrum í Brautarholti. Ólafur gekk út. Liðsforingi stóð á tröppunum og spurði hvort Ólafur gæti leyst vandræði þeirra. Þýsk flugvél hefði verið skotin niður með 7 þýskum fiugmönnum. Málið væri komið í algert óefni. Ekki hefði verið leyft að grafa þá í kirkjugarðinum í Reykjavík, því menn veigruðu sér við að grafa óvinahermenn á sama stað og sína eigin. Þá var nærtækasti staðurinn Lágafell, en þar gat enginn veitt leyfi. Thor Jensen var í húsi sínu en hafði ekkert með kirkju eða garð að gera. Nú spurðu þeir hvort þeim yrði leyft að grafa þýsku flugmennina í kirkjugarðinum í Brautarholti. Ekki væri lengur til setunnar boðið. Ólafur sagði að kirkjugarðurinn væri svo til útgrafinn, eitt og eitt rými eftir á stangli, en til stæði að stækka garðinn til norðurs út á hólinn. Ef þeir vildu þiggja að grafa þá þar, gæti hann veitt leyfið strax.
Ingibjörg segir að hann hafi svo haft samband við sr. Hálfdán Helgason. Ólafur var formaður sóknarnefndar, kirkjuráðsmaður, umsjónarmaður kirkju og kirkjugarðs, hreppstjóri og um tíma líka oddviti. Hann gat því tekið þessa ákvörðun á eigin spýtur og sá strax hvernig hann gæti leyst málið á staðnum.
Jón var 10 ára gamall og stóð við stafngluggann í gamla húsinu þegar komið var með líkamsleifar fyrstu þýsku flugmannanna sjö, sem skotnir höfðu verið niður yfir Hvalfirði 21. júní 1941. Komið var með þá á börum og teppi breidd yfir. En þeir sem komu seinna voru jarðsettir í kistum. Hermennirnir komu sjálfir með prest, sem jarðsetti og blessaði yfir grafirnar og skotið var heiðursskotum.
Þjóðverjunum var sýnd full virðing að hermanna sið. Á hvert leiði var lagður lítill steinn og á honum messingplata með áletruninni E.D., sem stendur fyrir Enemy Dead, og númeri, sem eflaust hefur verið af málmplötunni sem hermenn hafa um hálsinn. Eftir stríð var farið að leita að fjölskyldum þeirra og virðist hafa gengið misjafnlega, svo sem fram kemur síðar. Tveir þeirra voru Jósep Lutz, 24 ára, og Friedrich Harnisch, 27 ára.
Steinarnir eru ekki lengur til, því starfsmenn kirkjugarðanna í Fossvogi mokuðu þeim ofan í með moldinni þegar þeir sóttu líkin síðar. Þetta var seinni hluta viku og eldri systkinin tvö, Ingibjörg, sem þá hefur verið 14 ára, og Ólafur (landlæknir), 13 ára, voru í skólanum, en yngri bræðurnir Páll og Jón heima. Þegar systkinin komu heim á laugardeginum var auðvitað mikið um þetta talað.
Þau gerðu sér grein fyrir að þetta væri mikill viðburður, en voru ekkert að tala um það út á við. Ingibjörg heldur að hún hafi ekki sagt frá

 því í skólanum. Það var stríð og ekkert slíkt nefnt í blöðum. Ekki er getið um hvaða flugvél þetta var, sem svo snemma í stríðinu var skotin niður yfir Hvalfirði. Þjóðverjar sendu hingað flugvélar við mjög erfið skilyrði frá Stavanger í Noregi til ljósmyndaflugs og í veðurathugunarflug.
Vorið 1941 bjuggu Bretar sig undir að verjast loftárásum á skipalægið í Hvalfirði og sendu hingað sérbúna sveit með loftvarnabyssur, sem kom sér fyrir þar. En frá fyrsta degi hernámsins vorið 1940 höfðu Bretar tekið sér stöðu beggja megin Hvalfjarðar.

STRÍÐIÐ KEMUR Í HLAÐ
Brautarholtskirkja 4Ekki var óeðlilegt að bresku hermönnunum dytti í hug að leita til Ólafs í Brautarholti í vandræðum sínum með legstað fyrir Þjóðverjana. Þeir voru öllum hnútum kunnugir þar á bæ, þekktu kirkju og kirkjugarð frá fyrsta degi. Brautarholt stendur yst á Kjalarnesi með útsýni yfir innsiglinguna að Reykjavfkurhöfn og inn í Hvalfjörð, þar sem voru alltaf miklar skipaferðir og flutningar.
Ingibjörg minnist þess þegar herinn kom 10. maí 1940. Pabbi hennar var alltaf árrisull og sá herskipin sigla inn. Hann vissi ekki hvort þetta væru Bretar eða Þjóðverjar að hernema landið. Ekki var kominn sími á hvern bæ, en í Brautarholti var stöð svo hann gat hringt og fékk staðfest að þetta væru Bretar. Ólafur dreif sig þá í bæinn, því hann var þar í ábyrgðarstörfum, m.a. í stjórn Mjólkurfélags Reykjavfkur og formaður í Landssambandi íslenskra bænda. Nú þurfti að ýmsu að hyggja.
Klukkan fimm um daginn hringdi Kolbeinn í Kollafirði í Brautarholt og sagði að heil bílalest væri á leiðinni til þeirra eftir Vesturlandsvegi, 7 rútur frá BSR fullar af hermönnum. Ásta var ein heima með börnin og leist ekki á blikuna. Hún hringdi í Ólaf í bænum. Hann brá við og hafði samband við Thor Jensen á Lágafelli, sem leyfði honum að beina hermönnunum í Arnarholt. Þar voru stórar byggingar og svo vel vildi til að þær stóðu auðar. Þarna var sumarfjós Thors, en kýrnar ekki komnar þangað frá Korpúlfsstöðum í sumarbeitina.
Ekki leið á löngu þar til rúturnar sjö óku í hlað, hermenn streymdu út úr þeim og byrjuðu að afferma til að búa um sig á kirkjuhólnum í tjöldum. Ásta húsfreyja var svo heppin að þar var danskur karl, sem varð henni til trausts og halds. Niðurstaðan varð sú að hermennirnir hættu við að tjalda og rúturnar óku í Arnarholt, þar sem varð aðalbækistöð þeirra. En þeir héldu beint niður í nesið við sjóinn þar sem þeir byggðu bragga, grófu skotgrafir og bjuggu sér varnarvígi. Og þeir héldu stöðuga vakt á kirkjuhólnum og í kirkjugarðinum frá fyrsta degi og allt stríðið. Um sumarið byggðu þeir fimm bragga aftan við kirkjuna, þar sem þeir bjuggu, en voru fyrst í tjöldum.
„Af þessu var svo mikill ágangur þarna fyrst og mamma hálfhrædd,” segir Ingibjörg, „svo pabbi ákvað að hún flytti með okkur krakkana og stúlkurnar út í Klébergsskóla, sem var laus eftir að skóla lauk í maí.” Ólafur og karlmennirnir komu sér fyrir í kjallara íbúðarhússins og var sendur matur frá Klébergi, enda voru þeir við heyskap. En yfirmenn Bretanna komu sér fyrir á hæðunum.
Hermennirnir fóru illa með húsið, sem þurfti viðgerðar við um haustið. Þá flutti fjölskyldan heim, enda var þá búið að byggja braggana á kirkjuhólnum fyrir alla þá sem stóðu vaktina til að óvinurinn kæmist ekki óséður á land. Hermennirnir voru því þarna rétt á hlaðinu hjá þeim allt stríðið en samskiptin gengu vel. Ólafur stóð fyrir sínu og gætti þess að ekki væri ágangur á fjölskylduna og Bretarnir virtu hann. Þeir voru því sestir þarna að þegar þeir þurftu að finna stað og fá leyfi til að grafa þýsku flugmennina.
Því má bæta við að þetta varð endirinn á sumadvöl kúnna frá Korpúlfsstöðum í Arnarholti. Herinn var þar allan tímann og 1946 keypti Reykjavíkurborg jörðina. „Hvað við vorum heppin að Arnarholt var laust og Thor Jensen létti hernum af okkur. Við vorum svo hrædd,” segir Ingibjörg þegar hún rifjar þetta upp.

TVÆR ÞÝSKAR FLUGÁHAFNIR Í VIÐBÓT
Brautarholt 3Í október árið 1942 komu liðsforingjar aftur til Ólafs sömu erinda. Nú með þrjú lík af þýskum flugmönnum, sem höfðu verið skotnir niður 18. október. Og enn árið eftir þegar þrír þýskir flugmenn höfðu verið skotnir niður 24. apríl 1943. Ólafur sagði sem fyrr sjálfsagt, grafið þá í garðinum hér hjá okkur. Þá voru grafirnar orðnar 13, í röð nyrst í garðinum. Þar var jarðsettur við hliðina á þeim Bjarni, sonur Ólafs og Ástu 1948, og var allur garðurinn með stækkuninni endurvígður af sr. Hálfdáni Helgasyni. Samkvæmt dagsetningunni 1942 hefur þetta verið vél af Jungergerð, sem Bretar eltu og löskuðu svo að hún hrapaði í Svínaskarði innan við Esjuna og féllu hlutar úr vélinni til jarðar í Grafardal. Flugmennirnir voru samkvæmt nöfnum sem skrifuð hafa verið á afrit af grein þýsku blaðamannanna er komu í garðinn 1953: Frans Kirchmann, 22 ára, Josef Ulsamer, 24 ára, og Harald Osthus, þrítugur. Þeir höfðu er þeir skrifuðu grein sína fundið nöfn þeirra þriggja sem fórust árið eftir, 24. apríl 1943: Werner Gerhard Bullerjahn, 31 árs, Theodor Scholtyssek, 23 ára, og Karl Martin Bruck, 25 ára, sem var „lautenant”. Junkers 88 flugvél þeirra eltu Bandaríkjamenn og löskuðu yfir Faxaflóa og lenti hún í hrauni á Strandaheiði. Þrír fórust en loftskeytamaðurinn bjargaðist í fallhlíf og var tekinn til fanga. Þetta voru því allt ungir menn sem hlutu legu í Brautarholtskirkjugarði.
Systkinin muna vel eftir þessum 13 gröfum í röð efst í kirkjugarðinum og þegar komið var með líkin í þremur áföngum, fyrst sjö 1941, þrjú 1942 og aftur þrjú 1943. Faðir þeirra hugsaði alltaf vel um grafirnar og lét slá á þeim grasið hvert sumar. Eftir 1943 voru ekki fleiri þýskir flugmenn grafnir þar, enda höfðu varnir hér verið stórefldar og ferðir þýskra flugvéla að leggjast af. Eftir stríð voru Þjóðverjar Ólafi í Brautarholti ákaflega þakklátir, svo sem marka má af þakkartöflunni, sem prófessor dr. F. Danmeyer afhendi honum 1953 í viðurvist þýska sendiherrans dr. Kurt Opplers. Þá var messað í kirkjunni, að viðstöddum kaþólskum og lúterskum prestum, og síðan settur upp við þýsku leiðin trékross að frumkvæði Gísla Sigurbjörnssonar á Elliheimilinu. Á krossinn var letrað: „Hér hvíla 13 óþekktir þýskir flugmenn.”

LÍKIN FLUTT
FossvogskirkjugarðurNú voru Þjóðverjar búsettir hér, sendiráðsfólk og þýskir ferðamenn farnir að heimsækja grafreitinn á hverjum „þjóðarsorgardegi” Þjóðverja til að leggja blómsveig að krossinum að aflokinni messu. En þeim þótti staðurinn nokkuð afskekktur og fyrirhafnarsamt að komast þangað eftir vondum vegum og í misjöfnum veðrum. Einkum þó í annan grafreit á Reyðarfirði þar sem hvíldu fjórir þýskir flugmenn. Því ákváðu Þjóðverjar að gera sérstakan hermannagrafreit í Fossvogskirkjugarði og flytja þangað líkamsleifar þýsku flugmannanna, sem var gert 1957.
Man Jón Olafsson vel eftir því þegar menn frá Fossvogskirkjugarði komu í slagveðri miklu og grófu upp líkamsleifar þýsku flugmannanna þrettán. Segir í grein, sem birtist um þetta í fréttablaði Sambands félaga um varðveislu þýskra hermannagrafreita árið eftir, þegar reiturinn hafði verið formlega tekinn í notkun, að tveir menn hafi átt mestan þátt í að flytja hina föllnu í aðalkirkjugarðinn í höfuborg íslands, Gísli Sigurbjörnsson forstjóri, sem hafi látið sér mjög annt um grafreitina og séra Horst Schubrig frá Giessen-Wieseck, sem fyrst frétti af hinum föllnu á ferð til Íslands 1951 og skýrði Sambandinu frá gröfunum, auk þess sem sendiráðið í Reykjavík sýndi málinu skilning.
Þar segir að haustið 1957 hafi allir erfiðleikar verið að baki. Flugmennirnir 17 séu ekki lengur „óþekktir flugmenn” eins og stóð á krossinum í Brautarholti. Fólk þekkti nöfn þeirra og aðstandendur þeirra höfðu verið látnir vita. Þá hefði ekki enn tekist að ná til aðstandenda nokkurra þeirra.
Sama dag og mennirnir þrettán í Brautarholti voru fluttir til Reykjavíkur, 20. september 1957, komu líkamsleifar hinna fjögurra frá Búðareyri við Reyðarfjörð með vélskipinu Heklu, en útgerð skipsins tók á sig kostnaðinn við flutninginn. Þýsku flugmennirnir fjórir höfðu hvílt í kirkjugarðinum á Búðareyri frá því flugvél þeirra af Henkel-gerð fórst á uppstigningardag 1941 er hún lenti á fjallinu Snæfugli norðan við Reyðarfjörð. Könnunarflug Þjóðverja yfir Austurlandi munu einkum hafa miðað að því að aðgæta um liðssafnað sem hugsanlega miðaði að innrás í Noreg. Fólk á nálægum bæ varð slyssins vart og Íslendingar fundu líkin. Flugvélin lá á svonefndum Völvuhjalla og mátti til skamms tíma sjá þar leifar af þessari þýsku flugvél. Allir flugmennirnir fjórir fórust, foringinn Joakim Durfeld, Brauer yfirliðþjálfi, Leitz undirliðsforingi og Hornisch loftskeytamaður. Heimildir eru um þetta flugslys á Reyðarfirði og hefur verið um það skrifað.
Þegar 50 ár voru liðin frá hernáminu átti blaðamaður Morgunblaðsins, Guðrún Guðlaugsdóttir, viðtal í Þýskalandi við systur Joakims Durfelds, sem hafði fengið málmmerki hans, sem á var grafið nafn hans, type HE 11 og númer flugvélarinnar, 1291 R. Þannig merki hafa allir flugmennirnir eflaust haft um hálsinn og þar fengin númerin á leiðunum í Brautarholti. Hans Joakim Durfeld hafði, að sögn Ilse systur hans, verið myndarlegur, glaðlyndur maður, 31 árs gamall, nýkvæntur, foringi í þýska flughernum og átti eftir eitt ár af herskyldu. Fyrstu fregnir af afdrifum hans sögðu að hann hefði ekki snúið aftur úr flugi til Englands, en í október 1941 barst systrum hans tilkynning frá pplýsingaskrifstofu hersins þess efnis að hann hefði farist í flugslysi á Íslandi. Ilse var mjög þakklát að heyra að vel hefði verið hugsað um gröf bróður síns í kirkjugörðunum hér öll þessi ár.

ÞRÍR VOLDUGIR KROSSAR
Fossvogskirkjugarður 2Líkin 17 voru grafin við hljóðláta athöfn við grafreitinn, sem þýska sendiráðinu hafði verið úthlutaður í kirkjugarðinum í Fossvogi, að viðstöddum nokkrum starfsmönnum þýska sendiráðsins og þýskum Reykvíkingum, prestar beggja kirkjudeilda báðu bænir og kransar voru lagðir. Endanlegur og varanlegur frágangur minningarreitsins fór svo fram á vegum þýska ríkisins og var lokið sumarið eftir. Þar höfðu verið steyptir þrír voldugir krossar og skráð á vegginn um grafreitinn þekkt nöfn þeirra sem þar hvíla. Var reiturinn vígður á þjóðarsorgardag Þjóðverja 1958 við hátíðlega athöfn, að viðstöddum Þjóðverjum á Íslandi, dómprófastinum Jóni Auðuns og kaþóska biskupnum Pater Hacking, menntamálaráðherra Íslands, ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins, fulltrúa aðalræðismanns Austurríkis, forseta Germaníu og íslenskum Þýskalandsvinum, þeirra á meðal Gísla Sigurbjörnssyni, segir í greininni í fréttabréfi Sambands félaga um varðveislu þýskra hermannagrafa. En Gísli hafði haft mikil afskipti af þessum málum öllum og voru færðar þakkir. Svo heppilega stóð á að frægur þýskur organisti, Wilhelm Stollenwer, var einmitt á tónleikaferð á Íslandi og lék við minningarathöfnina í kapellunni þar sem Dómkórinn söng. Hans Richard Hirschfeld sendiherra lagði blómsveig á grafirnar, svo og aðalræðismaður Austurríkis. Og séra Horst Schubrig frá Giessen-Wieseck, sem kom flugleiðis á eigin vegum til vígslu grafreitsins í Reykjavík, fann þau orð sem náðu til hjartans þegar hann talaði um „fórnardauða milljóna manna sem létu líf sitt vegna pólitískrar sannfæringar eða vegna þess að þeir voru af ákveðnum kynþætti, sem féllu í vígstöðvunum, í sprengiregni loftárásanna eða á endalausum flótta”.
Þarna höfðu þá hlotið með viðhöfn varanlega gröf 17 ungir menn, sem sogast höfðu inn í stríðsátök. Að vísu ekki þar sem hvíldi þeirra vagga heldur norður á Íslandi. Sinn hlut í því átti stórbóndinn íslenski Ólafur Bjarnason, sem lét sig engu varða hvorum megin þessir piltar voru að stríða og geymdi þá í íslenskri mold meðan ósköpin liðu hjá.”
Ólafur í Brautarholti bjó yfir þeim fágæta hæfileika manna að kunna að meta vanda nútíðar til lausnar komandi framtíðar.

Heimild:
Morgunblaðið 22. febrúar 1998, bls. 20 og 22 – Elín Pálmadóttir – Látnu óvinirnir í Brautarholtskirkjugarði.

Brautarholt

Brautarholtskirkjugarður – grafir þýskra flugmanna.

Hólmsheiði

Gengið var um vestanverða Hólmsheiði, austan og norðaustan við Rauðavatn. Á þessu svæði er m.a. finna búskapsleifar frá Hólmi, s.s. réttir, áletranir, fjárborgir og fjárhús auk sels (Grafarsel) frá bænum Gröf, sem var skammt sunnan við Keldur.

Áletrun í réttinni

Allt svæðið tilheyrði Gröf (Grafarholti 1703)., en jörðin átti þá land að Reynisvatni í austri, Hólmi í suðaustri, Elliðavatni í suðri, Árbæ í vestri og Keldum og Lambhaga í norðri. Þrátt fyrir mikla skógrækt ofan við Rauðavatn allt frá árinu 1899 og fram til þessa dags hafa minjarnar að mestu verið látnar í friði. Þó hefur mátt sjá hvar trjáplöntum hefur verið plantað í einstaka þeirra, en þær þá jafnan rifnar upp og plantað utan minjanna. Sumar minjanna eru merktar “Borgarminjar”, en þó ekki allar.
Byrjað var á því að ganga í rétt (borg) við gömlu þjóðleiðina austur fyrir fjall. Hún er í leirblandaðri hlíð, Borgarholti, mót suðri, skammt fyrir ofan leiðina, ómerkt. Réttin hefur verið hlaðin úr stórum steinum, sem enn standa – sumir hverjir. Allt svæðið er nú umlukið lúpínu svo mannvirkið hverfur jafnan þegar líða tekur á sumrin. Norðan í réttinni er flatur steinn. Á hann hefur verið markað ártalið 1818 og SG undir. Ofan við áletrunina er krossmark. Hvort sem “réttin” hefur verið hlaðin til minningar um mann eða konu, sem þarna hefur látist, eða viðkomandi látist þarna í réttinni, er ekki gott að segja. Eflaust er einhvers staðar til lýsing á tilurð áletrunarinnar.
Þá var haldið upp með norðausturbrún skrógræktarinnar í sunnanverðum Úlfhildarbrekkum. Þar utan í henni (reyndar inni í henni nú orðið) er fjárhústóft (sauðatóft). Austan í henni, samfast, er heykuml. Hleðslur standa í því, en hleðslur fjárhússins standa grónar. Gafl hefur verið mót vestri. Frá þessum stað sést vel yfir Rauðavatnið.
Fjárhústóft utan í HólmsheiðiRauðavatn er í jökuldæld austan Seláss. Austasti hlutinn nefnist Austurvík. Suðurvík er syðst og Jaðar á millum. Fyrstu tilraunir með trjáplöntur voru m.a. gerðar við vatnið skömmu fyrir aldamótin 1900. Áhugamannafélag um skógrækt var stofnað árið 1901 og keypti svæði úr landi Grafarholts austan vatnsins. Tilraunir til skógræktar þar brugðust vonum manna og var hætt. Skógræktarfélag Íslands tók við resktrinum og árið 1946 Skógræktarfélag Reykjavíkur. Nokkrir sumarbústaðir er byggðir voru um og eftir stríðsárin stóðu við vatnið. Aðalskipulag Reykjavíkurborgar árið 1982 gerði ráð fyrir íbúðabyggð við vatnið en að loknum sveitarstjórnakosningum sama ár var hætt við þessa fyrirætlan. Ástæðan var ekki síst aðvörun jarðfræðinga um sprungubelti á þessu svæði. Árið 2005 hófst íbúðabyggð á svokölluðu Norðlingaholtssvæði, milli Rauðavatns og Elliðavatns, þannig að byggð færist æ nær vatninu. Ein stærsta prentsmiðja landsins stendur nú á “sprungusvæðinu” sem og höfuðstöðvar áreiðanlegasta dagblaðs landsins.
NorðurljósasætiðSkógurinn við Rauðavatn er hluti að “Græna trefillinum” svonefnda, sem er samheiti yfir skógræktar- og útivistarsvæði á útmörk sveitarfélaganna sjö á höfuðborgarsvæðinu, Reykjavíkur, Mosfellsbæjar, Seltjarnarness, Kópavogs, Garðabæjar, Álftaness og Hafnarfjarðar. Á þessu svæði búa tæplega 230.000 íbúar eða rúm 60% þjóðarinnar. Samstarf skógræktar- og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu við uppbyggingu útivistarsvæða innan og á jaðri byggðar á sér langa sögu. Má rekja hana allt aftur til ársins 1903 þegar gróðursetningin hófst skipulega við Rauðavatn. Hugmyndin um að líta á svæðið sem eina heild er þó mun yngri og er fyrst farið að nota hugtakið „Græni trefillinn“ upp úr 1990. Árið 1985 gaf Skipulagsstofa höfuðborgarsvæðisins út metnaðarfullt rit sem nefndist „Átak í trjárækt á
höfuðborgarsvæðinu“ sem innlegg í væntanlegt svæðisskipulag. Veturinn 1993 – 94 létu skógræktarfélögin á höfuðborgarsvæðinu vinna drög að sameiginlegum markmiðum með skógrækt í upplandi svæðisins. Jafnframt voru unnin frumdrög að samræmdu umferðarkerfi á svæðinu
jafnt fyrir gangandi, hjólandi, ríðandi sem akandi útivistarfólk. 

Sumarhúsið

Með þessu frumkvæði vildu skógræktarfélögin leggja fram drög að svæðisskipulagi útivistar og skógræktar í þeirri von að tillögurnar yrðu fléttaðar inn í aðalskipulags- og framkvæmdaáætlun viðkomandi sveitarfélags. Árið 2003 var undirritaður formlegur samningur um Græna trefilinn milli
skógræktarfélaganna. Við gerð Svæðisskipulags fyrir höfuðborgarsvæðið 2001-20241 var Græni trefillinn staðfestur í skipulagi. Græni trefillinn hefur einnig verið tekinn inn í aðalskipulag einstakra sveitarfélaga. Ekki hefur þó enn verið unnið skipulega að því að tengja svæðin saman eða formgera framkvæmd þessa verkefnis.
Að öllum líkindum var fjárhúsið (sauðahúsið) frá Hólmi. Þjóðjörðin Hólmur fær eftirfarandi umsögn í fasteignamatinu 1916-1918: “Land mikið og gott, hagsamt, skjólótt, kvistlendi + hrís á nokkru (Hólmsheiði ekki hér með talin, sjá Mosf.sv.). Kostir: … (nú leigð fyrir slægjur frá Elliðav.,Rauðh.). … Ath. Beitarland, nefnt Hólmsheiði, er liggur í Mosfellsveit (norðan Bugðu) en fylgir nú Hólmi, er metið sérstaklega …”
Í sömu heimild segir um Hólmsheiði: “Beitarland, sunnan við Reynisvatnsland (og talið af því tekið), milli Geitháls og Grafarholtslanda (norðan við ána Bugðu), fylgir nú þjóðjörðinni Hólmi í Seltjarnarnesshreppi og notað þaðan til beitar; má stundum slá vellisbletti í því. Fremur hagsælt og allgott sauðland. Með því áin, Bugða, er talin skilja sveitirnar, telzt land þetta í Mosfellssveit.”
Skammt norðaustar í heiðinni, uppi á ísaldarsorfnu klapparholti Úlfhildarbrekkna, einnig fast við skógræktarreit, er önnur rétt (borg). Hún hefur verið svipuð að stærð og sú fyrrnefnda og lega hennar er svipuð. Ástæðan fyrir tilvist réttarinnar þarna er gömul leið, sem lá þarna með holtinu til austurs, áleiðis upp að Lyklafelli. Með því að fara þessa leið, norðan við Rauðavatn, hafa ferðalangar komist hjá því að ösla mýrar neðra því þeir hafa fljótlega komist í hæð, sem hefur haldist að mestu langleiðina að Hellisskarði, eða  undirhlíðum Hengilsins ef farið hefur í þá áttina eftir gamalli þjóðleið er þar liggur. Ekki var að sjá áletrun á steini í þessari rétt.
GrafarselÁ holti skammt sunnar er líkt og skorsteinn frá braggabyggð, sem var þarna í heiðinni á stríðsárunum. Þegar nánar var að gætt kom í ljós stuttur hlaðinn himnastigi eða hátt hásæti. Þar við var áletrun. “Norðurljósasæti – Erla Þórarinsdóttir, með aðstoð unglinga í Vinnuskóla Reykjavíkur – Landlist við Rauðavatn 2000”. Kunnugir sögðu að listaverkið hefði verið liður í menningarverkefni Reykjavíkurborgar. 17 myndlistarmenn unnu að sýningunni með aðstoð Vinnuskólans. Um er að ræða um 20 listaverk, sem komið var upp við Rauðavatn og á Hólmsheiði. Hvert þeirra er merkt með nafni og höfundar getið. Auk Norðurljósasætisins (nr. 16) er annað (nr. 15) ofan við Grafarsel. Það ber nafnið “Sumarhús” og er eftir Borghildi Óskarsdóttur. Um verkið segir m.a.: “Sumarhús er línuteikning, náttúran/heimurinn er utan og innan línunnar. “Sumarhús það er heimurinn” sagði Bjartur í Sumarhúsum.” Fjárborg suðaustan Rauðavatns
Í Mbl frá árinu 200 segir m.a. um þessa list við Rauðavatn: “Land List er sýning á verkum allt að tuttugu myndlistarmanna sem verður opnuð við Rauðavatn þann 16. júlí.Það eru margir vel þekktir myndlistarmenn taka þátt í sýningunni, sem er framlag Vinnuskóla Reykjavíkur til dagskrár menningarborgarinnar. Skólinn fékk Samband íslenskra myndlistarmanna til að aðstoða við skipulagningu hennar. Hugtakið landlist (land art) er notað um listaverk sem unnin eru úti í náttúrunni og úr náttúrunni. Framlag Vinnuskólans felst m.a. í að 16 ára unglingar í sumarvinnu aðstoða höfundana við að útfæra verkin. Myndlistarmenn sendu inn hugmyndir að verkum sem sýningarnefnd valdi úr. Við val á tillögum til útfærslu var ekki eingöngu haft í huga listrænt gildi verkanna, heldur einnig að þau tækju mið af staðháttum og hentuðu til útfærslu fyrir nemendur skólans. Nú þegar er lokið við gerð tveggja verka, en hægt er að fylgjast með listamönnunum vinna með aðstoð unglinganna að útfærslu annarra frá 13. júní og fram að opnunardegi.”
Listaverkin eru unnin voru úti í náttúrunni og með náttúruna sem efnivið.
Mörk lögbýla árið 1703 - grátt er GröfSkammt sunnan við listaverkið “Sumarhús” er Grafarsel í Selbrekkum. Ofan þess er Selholt. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns (1703) er m.a. fjallað um jörðina Gröf, sem þá tilheyrði Mosfellssveit. Talsverðar kvaðir hafa verið á jörðinni sbr.: “Kvaðir eru mannslán, hestlán bæði til alþingis og annarstaðar, jafnvel stundum norður í land og ýmsar áttir, og þetta stundum til samans á einu ári. Dagslættir tveir. Hríshestar tveir. Móhestar einn eður tveir. Torfskurður. Hest til að flytja lax úr Elliðaám. Skipaferðir. Timbur í Þingvallaskóg að sækja. Húsastörf á Bessastöðum. Fóður mikið eður lítið; allar þessar kvaðir so undir komnar og með slíkum skilorðum sem áður er sagt. Mesta fóður það menn muna var hestur útgjörður um allan veturinn, sem ekki þreifst og drapst frá heyjum um sumarmálaskeið, hann mátti bóndinn betala Jóhann Klein, og í tíð Heidemanns gamalt naut.
Engjar mjög litlar. Kvikfjenaður vi kýr, i kvíka tvævetur, viii ær með lömbum, ii hestar, i hros.” Þá segir að “selstöðu á jörðin í hemalandi, sem nauðsynlegt er, því jörðin stendur á horni landsins, en er mjög landljett heima.”
Þann 30. maí 1987 var Grafarselið friðlýst (þinglýst 26.06.’87). Það stendur á fallegum stað undir Selbrekkum norðaustan austurenda Rauðavatns. Selbrekkur eru sunnan Grafarheiði. Umhverfið er dæmigert fyrir sel er lögðust hvað síðast af á Reykjanesskaganum; grónar en greinilegar tóftir og grasvænar brekkur umhverfis. Tóftirnar, sem eru þrjú rými, þ.a. tvö samtengd, standa í skjóli vestan undir brekkunum, í skjóli fyrir austanáttinni. Skammt neðan þeirra er hóll, sem líklega geymir kvína. Gamall uppþornaður lækjarfarvegur er norðan við selið og hefur hann sennilega verið ástæða staðsetningar þess þarna í brekkunum.

Göngusvæðið

Selstæðið er mjög fallegt og á góðum stað. Það má eiginlega segja að það sé komið inn í borgina því byggðin hefur nánast teygt sig upp að því. Einmitt þess vegna eru staðsetningin og tóftirnar sérstakar. Þá eru þær og ágætur fulltrúi seljanna (af þeim [250] sem skoðuð hafa verið) á Reykjanesskaganum. Það er miðlungsstórt af seli að vera. Stekk er hins vegar ekki að sjá í nágrenni við selstöðuna.
Bæði hefur trjám verið plantað nálægt selinu og birkið hefur náð að vaxa upp í brekkunum.
Fjárborg er á holti suðaustan við Rauðavatn. Leiðigarður liggur frá henni til suðurs. Búið er að planta trjám yfir hann að hluta.
Á móhól skammt sunnan við Rauðavatn er önnur fjárborg. Vel sést móta fyrir henni á hólnum. Hún hefur verið gerð úr nokkuð stórum steinum neðst, en síðan hefur hún verið tyrfð. Borgin er á fallegum stað, en líklega vita fáir, sem þarna eiga leið um, hvaða mannvirki þetta gæti hafa verið.

Hólmsheiði

Hólmsheiði.