Færslur

Garðhús

Í Morgunblaðinu 30. okt. 2021 er fjallað um “Alþýðustúlkuna sem varð greifaynja”. Það segir meira um frásegjandann en húsið þar sem alþýðustúlkan átti heima:
Húsið er steinbærinn nr. 9 við Bakkastíg í Reykjavík, nú við Lagargötu 2. Steinbærinn var friðaður af mennta- og menningarmálaráðherra 1. febrúar 2012, með vísan til 1. mgr. 4. gr. laga um húsafriðun, nr. 104/2001. Friðun nær til ytra byrðis hússins.

Garðhús

Garðhús – upplýsingaskilti.

Steinbærinn Garðhús var byggður af Bjarna Oddssyni hafnsögumanni árið 1884 en áður stóð þarna torfbær með sama nafni. Bærinn taldist lengst af til Bakkastígs, enda lá sú gata áður framhjá húsinu og niður að sjó, og var raunar einnig kölluð Garðhúsastígur. Um tíma taldist húsið til Lagargötu en nýlega fékk það staðfangið Mýrargata 24.

Lóðin var mæld út úr Ánanaustalandi. Hliðaveggir bæjarins eru hlaðnir úr höggnum grásteini, en stafnar eru úr bindingi sem í er hlaðið múrsteini. Litlar breytingar hafa verið gerðar á steinbænum, þó viðbyggingar hafi verið byggðar við hann, þeim breytt og teknar niður.

Garðhús

Garðhús 1948.

Árið 1903 keyptu hjónin Þorsteinn J. Sveinsson skipstjóri og hafnsögumaður og Kristín Tómasdóttir Garðhús. Eftir að Þorsteinn lést úr spænsku veikinni árið 1918 bjó Kristín ekkja hans áfram í Garðhúsum með börnum þeirra fimm. Hún hafði m.a. aðstöðu til fiskþurrkunar og matjurtaræktunar á lóðinni og leigði út hluta af húseigninni. Tvö herbergi og eldhús með kolaeldavél voru niðri í bænum og þrjú herbergi á loftinu. Inngönguskúr var byggður við vesturhlið hússins árið 1923. Kristín bjó í Garðhúsum allt til um 1941 er hún seldi Hraðfrystistöðinni eignina.

Önnur hús sem byggð höfðu verið við bæinn, lágreist íbúðarhús úr timbri sem byggt var við norðurgafl hans í lok 19. aldar (Bakkastígur 9b) og skrifstofu- og geymsluhús úr timbri sem byggt var vestan við inngönguskúrinn árið 1942 (Bakkastígur 9a), voru rifin fyrir um 20 árum og endurbætur gerðar á gamla bænum. Bærinn sjálfur er mjög upprunalegur að gerð. Hann hefur eins og aðrir steinbæir í Reykjavík sérstakt menningar- og byggingarsögulegt gildi

Þuríður Dýrfinna

Þuríður Dýrfinna.

Bjarni starfaði sem hafnsögumaður og stundaði því ekki búskap og var því tómthúsmaður. Eiginkona Bjarna var Þuríður Eyjólfsdóttir. Hún þótti hinn mesti skörungur, stórgáfuð og mikill persónuleiki. Hún var vel að sér í íslenskum fræðum og kunni býsn af ljóðum. Hún safnaði ljóðabókum, sem hún batt inn í gott band. Undir hennar verndarvæng áttu skáld og menntamenn athvarf og því fór oft fram lífleg umræða í Garðhúsum þar sem bókleg mennt var í hávegum höfð og mikið lesið. Eftir að eiginmaður hennar lést flutti hún í viðbyggingu við Garðhús, einlyft timburhús. Það hús var rifið árið 1997.
Hjónin Þorsteinn J. Sveinsson skipstjóri og hafnsögumaður og Kristín Tómasdóttir keyptu Garðhús árið 1903. Eftir að Þorsteinn lést úr spænsku veikinni árið 1918 bjó Kristín áfram í Garðhúsum með börnum þeirra fimm allt til áranna 1941-1942 þegar hún seldi Garðhúsaeignina.
Árið 1923 var búið að byggja inngönguskúr úr timbri við vesturhlið steinbæjarins.

Þurríður

Þurríður, lengst til vinstri í neðstu röð.

Tvær viðbyggingar voru við húsið, Bakkastígur 9a og 9b. Bakkastígur 9a stóð við vesturhlið hússins og var reist árið 1942.
Það var skrifstofu- og geymsluhús. Árið 1944 var virt undir br.nr. 264 í fyrsta sinn íbúðarhús við norðurgaflinn
(Bakkastígur 9b) og er stafl. b í virðingunni. Bakkastígur 9b var reistur í kringum 1896. Árið 1997 var óskað eftir leyfi til að
rífa viðbyggingarnar og lagðist Árbæjarsafn ekki gegn niðurrifi þeirra.
Árið 1942 var Garðhúsaeignin komin í eigu Hraðfrystistöðvarinnar hf. Það ár var byggt skrifstofu- og geymsluhús úr bindingi við vesturgafl steinbæjarins. Sú viðbygging var einnig rifin árið 1997. Nú eiga Faxaflóahafnir ehf. steinbæinn.
Bakkastígur var einnig nefndur Garðhúsastígur.
Árið 2002 hófust endurbætur á steinbænum.

Garðhús

Garðhús.

Garðhús tengjast íslenskri alþýðustúlku sem varð greifynja de Grimaldi, en sú saga er mörgum gleymd. Stúlkan hét Þuríður Þobjarnardóttir. Hún giftist Henri de Grimaldi, afabróður Alberts fursta af Mónakó.

„Þuríður fæddist 30. október 1891 en hún missti föður sinn ung og var fyrir vikið alin upp hjá einstæðri móður og afa sínum og ömmu, sem öll bjuggu í Garðhúsum í Reykjavík. Húsið stendur enn og er friðað, en þau eru ekki mörg húsin hér á landi sem enn standa og eru beintengd við sögu kvenna. Þetta er stein­bær sem var sjómannshús við sjávarsíðuna og byggt í anda torfbæjanna. Garðhús voru alþýðuheimili en mikið menningarhús. Þuríður ólst upp við mjög menningarlegar aðstæður á alþýðuvísu en amma hennar og nafna, Þuríður Eyjólfsdóttir, var hafjór af fróðleik og áberandi í bæjarlífi á þessum tíma sem ein helsta menningarkona bæjarins. Í Garðhús sóttu skáld og þar þótti líf og fjör. Af þessu sést í hvaða umhverfi hin unga Þuríður elst upp og hún fékk að fara í Kvennaskólann, tók tvo bekki saman á einum vetri, 1911-1912.“

Garðhús

Þuríður Þorbjarnardóttir Grimaldi og Henri de Grimaldi, afabróðir Alberts fursta af Mónakó. Myndin er tekin 1925, dánarár Þuríðar.

Þuríður hafði gott vald á tungumálum.
„Hún talaði dönsku, ensku og frönsku og hún starfaði um tíma í verslun á Búðum og í skartgripaverslun Jóns Sigmundssonar á Laugavegi. Eflaust hefur hún þurft að nota erlend tungumál í því sem hún sinnti fyrir þessi tvö fyrirtæki. Afi hennar var hafnsögumaður, en til að geta orðið slíkur í Reykjavík á þessum tíma þurftu menn að kunna hrafl í erlendum tungumálum, þeir þurftu að geta bjargað sér þegar erlend skip komu. Tungumál hafa því væntanlega ekki verið framandi í Garðhúsum, á æskuheimili Þuríðar.“

Þurríður

Morgunblaðið 23. ágúst 2005, bls. 9.

Sigrún seg­ir að þegar Þuríður var 29 ára hafi hún verið fengin til að starfa á Hótel Skjaldbreið, hið örlagaríka ár í lífi hennar fyrir hundrað árum, 1921.

„Þá var mikið að gerast í Reykjavík og fólk bjóst við erlendum ferðamönnum og þá veitti ekki af að hafa stúlku í móttöku hótelsins sem kunni erlend tungu­mál. Þar hitti hún markgreifann, Henri de Grimaldi, afabróður Alberts fursta af Mónakó, ekkjumann sem var þrjátíu árum eldri og tilheyrði elstu kon­ung­s­ætt Evrópu. Sagt er að hann hafi verið mjög háttprúður og stórgáfaður maður, hafi meðal annars haft þrettán tungumál á valdi sínu, en hann var mál­vís­indamaður og lagði meðal annars stund á norræn mál og talaði og skrifaði íslensku. Henri hafði kynnst Guðmundi Finnbogasyni landsbókaverði þegar hann var í Sorbonnehá­skóla í Frakklandi og fyrir hvatningu hans kom Henri til Íslands. Væntanlega hefur verið stórkostleg uppgötvun fyrir greifann að hitta fyrir á Hót­el Skjald­breið hana Þuríði, unga glæsilega reykvíska stúlku, sem var vel að sér í bókmenntum og menningu. Hún hafði gott menningarlegt nesti úr Garðhúsum, þar sem skáld voru fastagestir og amman lifði í fornum riddarasögum. Sagt er að greifinn hafi hrifist af glæsileika, menntun og háttvísi Þuríðar. Hann gisti á hótelinu og svo getum við í eyðurnar. Þetta er mikið ástarævintýri þar sem erlendur stórefnaður konungborinn greifi og alþýðustúlka á Íslandi verða ástfangin við upphaf tuttugustu aldar.“

Garðhús

Garðhús.

Þuríður sigldi með Gullfossi af landi brott með greifanum 23. október 1921, fyrir um 100 árum.
„Þau sigldu héðan með Gullfossi til Kaupmannahafnar og kannski hélt hún upp á þrítugsafmælið um borð í Gullfossi. Þau fóru svo frá Kaupmannahöfn til Hamborgar, þaðan til Parísar og að lokum til Lissabon þar sem greifinn bjó. Þeim auðnaðist því miður ekki að vera samvistum nema í fjögur ár og eignuðust engin börn, en Þuríður dó úr berklum í Brussel árið 1925, þá tæplega 34 ára. Hún hefur mögulega borið berklana með sér héðan frá Íslandi, því það var þó nokkuð um berkla í hennar móðurætt.“
„Þuríður skrifaði bréf heim til Íslands til vinkonu sinnar Ragnhildar Sigurðardóttur, öll þessi fjögur ár sem hún bjó erlendis. Fyrsta bréfið skrifaði hún rétt rúm­um mánuði eftir að hún fór héðan. Þar kemur fram að með þeim er ung stúlka, Gunnlaug Briem, 19 ára dóttir Valdimars Briem prests, en það voru tengsl á milli fjölskyldnanna. Gunnlaug var hjá þeim í Lissabon í heilt ár og Auður Finnbogadóttir, systurdóttir Þuríðar, kom eftir það og var líka ár hjá þeim sér til heilsubótar. Greifinn vildi gjarnan að Þuríður hefði íslenska konu sér til félagsskapar, til halds og trausts,“ segir Sigrún og bætir við að deilur hafi verið í fjölskyldu greifans um hver væri rétti prinsinn af Mónakó.

Garðhús

Garðhús.

„Um þetta skrifar Þuríður í einu bréfanna og þar segir orðrétt: „Hann er voða ríkur maður og það er gremjulegt að sjá allt hans skraut og auðæfi sem eru í kringum hann og hann á alls engan rétt á að hafa. Ekki svo að skilja að það sé leiðinlegt fyrir mig, því ef greifinn væri í rétti sínum að vera prins af Mónakó, væri ég að öllum líkindum ekki gift honum, sem í raun og veru er stórt lán fyrir mig, ekki satt.“

„Hún var alltaf að vonast til að komast aftur til Íslands í heimsókn. Í einu bréfinu segist hún því miður ekki komast það sumarið, því hún þurfi að fara á heilsuhæli í Belgíu. Hún segist vera mikið innan um hefðarfólk í fínum húsum, en að hana langi meira til að vera samvistum við alþýðufólk. Í einu bréfinu segir hún orðrétt: „Mikið vildi ég heldur vera í einhverju húsinu í Reykjavík.“

Íslensk kona í Íslendingafélaginu í Brussel, Guðrún Högnadóttir Ansiau, htók sig til og fór að grafast fyrir um líf Þuríðar eftir að hún fluttist út.
„Hún heimsótti ættingja greifans og hefur fengið margskonar upplýsingar frá Grimaldiættinni. Guðrún hefur lagt mikið á sig við þessa vinnu og hún hafði einnig uppi á legsteini Þuríðar þar sem hún er jarðsett í Brussel, undir kórónu Grimaldiættarinnar. Guðrún heillaðist af sögu Þuríðar og hefur annast um grafreit hennar af stakri prýði.“

Garðhús

Garðhús.

Á legsteini í Brussel í Belgíu er legsteinn og á honum er skjaldarmerki Grimaldi aðalsættarinnar, en undir hvílir greifynjan Þuríður Marquise de Grimaldi d´ Antibes et de Cagne. Í áletrunina er mörkuð sagan hennar.

Þuríður fæddist 30. október 1891 í Garðhúsum við Bakkastíg í Reykjavík; dóttir Guðbjargar Bjarnadóttur og Þorbjarnar Jónassonar. Þuríður þótti snemma efnileg stúlka og hneigð til bókar. Fer þó fáum sögum af uppvexti hennar fram til 1911, en þann vetur tók hún tvo efstu bekki Kvennaskólans og lauk prófi þaðan vorið 1912. Starfaði hún síðan ýmist við verslunarstörf eða kennslu og nýttist þar vel óvenjuleg hæfni hennar til að nema tungumál, einkum dönsku og ensku. Á sumrin dvaldi hún einatt við sveitastörf.

Sumarið 1921, þá er Þuríður stóð á þrítugu, brá hún út af föstum vana um störf í sveit, réði sig á Hótel Skjaldbreið, og varð fljótt altalandi á frönsku. Á hótelinu dvöldu oft útlendingar og kom í hlut Þuríðar að annast samskipti við þá. Meðal hótelgesta þetta sumar var markgreifinn Henri Charles Raoul Marquis de Grimaldi d´Antibes et de Cagne, stóreignamaður í Lissabon, afsprengi elstu konungsættar í Evrópu og náinn ættingi þjóðhöfðingjans í Mónakó. Greifinn, sem þá var liðlega sextugur ekkjumaður, heillaðist mjög af hinni ungu íslensku konu, glæsileik hennar, menntun og háttvísi. Var sú hrifning gagnkvæm, þótt aldursmunur væri vissulega mikill. Fór enda svo að Þuríður hét honum eiginorði, eftir mikil heilabrot, en hjúskapur við greifann boðaði gríðarleg umskipti í lífi hennar. Var hið lúthersk/kaþólska par gefið saman við borgaralega vígslu í Reykjavík 15. október 1921 og viku síðar veitt kirkjuleg vígsla í Landakotskirkju.

Garðhús

Brúðkaupið hlaut mikla umfjöllun reykvískra blaðamanna, enda fátítt að svo tignir menn sem markgreifinn heiðruðu höfuðstað Íslands með nærveru sinni, hvað þá að þeir kvæntust dætrum þjóðarinnar. Var annars lítið vitað um þennan tigna gest og ærið örðugt um heimildaöflun, ólíkt því sem nú er. Samtímaheimildir geta þess þó að hér hafi verið á ferð einstakt prúðmenni, víðförull, afburðagreindur og vel menntaður, sérlega mikill tungumálamaður og mikill áhugamaður um norræn fræði og kveðskap. Er hermt, að greifinn hafi verið talandi á 13 tungumál. Þess er og getið að greifinn hefði kynnst Guðmundi Finnbogasyni, dr. phil síðar landsbókaverði, þegar sá síðarnefndi var við nám í París um 1910 og hann kennt greifanum íslensku, enda hugur greifans staðið til þess að geta lesið hin fornu kvæði á frummálinu. Fór enda svo að greifinn náði góðu valdi á íslensku innan fárra ára og ritaði hana sem íslenskur væri. Liggja eftir greifann allmörg bréf þessu til staðfestu, sem hann sendi vinum og ættingjum Þuríðar greifynju, hið síðasta 11. maí 1940, skömmu fyrir andlát hans 10. desember sama ár.

Sunnudaginn 23. október 1921 lét Gullfoss úr höfn í Reykjavík, og með skipinu hin nýbökuðu hjón. Þuríður kvaddi föðurlandið íklædd dökkblárri dragt og ljósri blússu, með lítinn rósavönd í hendi; grönn og teinrétt, en alvörugefin á svip. Með í för var 19 ára snót, Gunnlaug Briem, sem greifinn hafði boðið henni að taka með sér til samfylgdar og samneytis á nýju heimili í Portúgal. Hefur Þuríði vart grunað, þá er Esjan hvarf henni sjónum, að hún myndi aldrei aftur fjallið líta.

Garðhús
Greifahjónin hófu búskap sinn í Lissabon, en þar hafði Henri greifi mikil umsvif, og undi Þuríður hag sínum vel. Var haft á orði, að einkennilegt þætti að greifynjan kynni bæði að baka smákökur og sauma kjóla, og hún spurð af ráðskonu sinni hvort hún hefði lært til slíkra verka sökum fátæktar á Íslandi. Má ætla, að dugur íslenskra kvenna hafi þá enn ekki borist mikið út fyrir landsteina. Vorið 1922 sneri Gunnlaug heim til Íslands og í hennar stað kom til hjónanna Auður Finnbogadóttir systurdóttir Þuríðar. Hafði þá harðnað mjög á dalnum sökum byltingar og síðar kreppu í Portúgal og greifahjónin misst lungann af eignum sínum. Lýsir Þuríður ástandinu glöggt í bréfum til góðvinar síns, sr. Friðriks Friðrikssonar; hefur helst áhyggjur af lasleika eiginmanns síns, en er æðrulaus um eigin krankleika, svo sem kvenna er gjarnan siður. Haustið 1923 fluttu greifahjónin til Frakklands, síðan til Spa í Belgíu, og þaðan aftur til Lissabon, áður en þau settust að í Brussel vorið 1925, við Avenue Montjoise í Uccle. Sama vor sneri Auður heim til Íslands og stóð til að greifahjónin myndu fylgja á eftir í kynnisför um landið, en þau höfðu yndi af því að ferðast og höfðu víða farið á hjúskaparárunum. En af Íslandsför varð ekki; Þuríður veiktist, líklega af berklum, sem voru tíðir í móðurætt hennar. Dvaldist hún síðan ýmist á heilsuhælum í Spa eða Brussel, uns hún lést 10. október 1925, aðeins 34 ára. Til eru bréf frá margreifanum til Auðar Finnbogadóttur, þar sem hann skýrir frá veikindum og síðar andláti konu sinnar og eru þau öll á vandaðri íslensku. Sá er þetta skrifar hefur lesið umrædd bréf, en af þeim er einsætt að greifinn hafi unnað Þuríði heitt og að sorgin yfir missi hennar hafi fylgt honum til æviloka. Segir þannig í bréfi 23. ágúst 1939 að greifinn sé „kraftlítill, gamall og sorgbitinn“ og skömmu síðar ritar hann að stríð sé að skella á og að nú vildi hann öllu helst vera búsettur á Íslandi, en hafi því miður ekki lengur fjárráð til. Minningu eiginkonu sinnar heiðraði greifinn með því að reisa veglegt minnismerki á gröf hennar og þar hvíla nú hjónin hlið við hlið.

Þuríður

Leiði Þuríðar Marquise de Grimaldi d´Antibes et de Cagne.

Víkur þá sögunni að Guðrúnu og Charles Ansiau, sem varið hafa ómældum tíma í að grafast fyrir um lífshlaup greifynjunnar og koma í veg fyrir að hjúpur gleymskunnar leggist yfir hið ljúfsára ævintýri hennar á erlendri grund. Er þeim rannsóknum hvergi nærri lokið, en við þær hafa Ansiau hjónin kynnst ættmennum markgreifans í Bretlandi, Frakklandi og Mónakó, sem deilt hafa sama eldmóði við að upplýsa um líf greifahjónanna. Meðal þess sem komið hefur í ljós er að markgreifinn var afabróðir Alberts Grimaldi fursta af Mónakó frá 1889-1922, en sonarsonur furstans var enginn annar en Rainier III, sá hinn sami og kvæntist leikonunni Grace Kelly 1956. Komið hefur og í ljós að markgreifinn hafi átt erfðarétt til furstadæmisins í Mónakó, en afsalað honum til yngri bróður síns, svo hann gæti helgað sig fræðistörfum í stað þess að annast um rekstur hins þjóðrekna spilavítis. Má því segja að brennandi áhugi markgreifans á Íslandi og íslenskri menningu hafi komið í veg fyrir að við eignuðumst okkar eigin furstaynju á borð við Grace Kelly.

Íslandsfélagið í Belgíu hyggst á vormánuðum 2013 heiðra minningu Þuríðar Marquise de Grimaldi d´Antibes et de Cagne, með því að boða til gönguferðar í kirkjugarðinn sem hún hvílir í, og munu félagsmenn njóta þar leiðsagnar hinna ágætu Ansiau hjóna. Er aldrei að vita nema hjónin verði þá búin að komast að því sem enn er sveipað dulúð, nefnilega hver eða hverjir leggi enn fersk blóm á grafreit greifynjunnar íslensku.

Heimildir:
-Jónas Jóhannsson forseti Íslandsfélagsins í Belgíu, Brussel, 9. janúar 2013.
-Björg Einarsdóttir, Úr ævi og starfi íslenskra kvenna II, Rvík 1984.
-Björg Einarsdóttir, Grimaldi Greifafrú, Húsfreyjan, Rvík, október-desember 1984, 4. tbl., 35. árg.
-Samtöl við Guðrúnu Ansiau og lestur bréfa greifahjónanna
-https://www.mbl.is/frettir/innlent/2021/10/30/althydustulkan_sem_vard_greifynja/

Garðhús

Garðhús, byggt 1884.

Esjuberg

Í skýrslu um “Breikkun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi milli Varmhóla og vegamóta Hvalfjarðarvegar” árið 2020 eru fornleifalýsingar. Ein þeirra getur um Esjuberg, sbr. eftirfarandi:

“Bærinn á Esjubergi stendur á skriðuvæng upp undir rótum Esju. Mörk jarðarinnar eru á móti Skrauthólum að vestan og Mógilsá að austan. Á Esjubergi voru áður fyrr samþykktir og kveðnir upp dómar. Finna má dóm í Íslensku fornbréfasafni sem kveðinn var upp 1480 og þar var þingstaður 1541 og 1746 þegar Jón Oddsson Hjaltalín gerði Lýsingu Kjósarsýslu.
Örnefnin Leiðhamar og Leiðvöllur, sem eru á mörkum Mógilsár og Esjubergs, benda til þess að þar hafi verið haldin leiðmót, leiðarþing eða héraðsþing sem haldið var að afloknu Alþingi þar sem greint var frá störfum þess og birtar tilkynningar. Fyrsta símstöðin í Kjalarneshreppi var á Esjubergi, sennilega komin 1912.

Esjuberg

Esjuberg – tóft á Bænhúshól.

Esjuberg var landnámsjörð Örlygs gamla Hrappssonar Bjarnarsonar bunu. Landnámabók segir frá því að Helgi bjóla Ketilsson hafi gefið frænda sínum, bræðrungi, Örlygi Hrappssyni hluta af landnámi sínu, frá Mógilsá að Ósvífslæk. Landnáma getur þess einnig að Örlygur hafi búið á Esjubergi og látið gera þar kirkju sem fóstri hans Patrekur biskup í Suðureyjum hafði sagt fyrir um, en Patrekur hafði sent hann með kirkjuviði, járnklukku, plenáinum og vígða mold til að setja undir hornstafina. Kirkjan gæti hafa verið tileinkuð heilögum Kolumba.
Kirkja Örlygs er talin vera fyrsta kirkjan á Íslandi. Kirkjunnar er einungis getið í kirkjuskrá Páls biskups frá því um 1200.
Esjuberg
Reyndar segir frá kirkjunni í Kjalnesingasögu sem er talin rituð á tímabilinu 1300-1320. Þar segir frá því að Helga Þorgrímsdóttir, eiginkona aðalsöguhetjunnar Búa, hafi látið grafa hann undir syðri kirkjuveggnum og segir „[þ]á stóð enn kirkja sú at Esjubergi, er Örlygr hafði látit gera“. Eftir þessu að dæma hefur kirkjan ekki verið uppistandandi á ritunartíma sögunnar um 1300 og gæti hafa verið niðurlögð á fyrri hluta 13. aldar. Hvers vegna er ekki vitað og margt getur komið til greina. Kirkjur voru stöðutákn svo höfðingi gæti hafa dáið eða misst stöðu sína til annars. Kirkjan gæti líka hafa verið lögð niður vegna skriðufalla.
Jarðarinnar er getið nokkrum sinnum í skjölum sem varða hvalreka Viðeyjarklausturs á milli Esjubergs og Valagnúpa, fyrst í skrá varðandi hvalskipti á Rosmhvalanesi um 1270, svo um 1270 í bréfi Runólfs ábóta í Viðey um hvalrekann, og aftur 1285 um skipti á hvalreka á milli Valagnúpa og Esjubergs. Esjuberg kemur fram í skrá um kvikfé og leigumála á jörðum Viðeyjarklausturs frá árinu 1395.
Esjuberg kemur fram í skýrslu Hannesar Pálssonar umboðsmanns og kapelláns Danakonungs, um allskonar óskunda og yfirgang, rán, vígaferli og löglausa verslun Englendinga á Íslandi á árunum 1420-1425.
Árið 1480 var úrskurðað í Esjubergsdómi í eignarmálum Soffíu Loftsdóttur og Gunnlaugs Teitssonar. Árið 1497 gaf Böðvar prestur Jónsson vitnisburð um reka Viðeyjarklausturs á milli Klaufar og Esjubergs. Á Esjubergsþingi þann 30. september 1541 var felldur dómur um lögmæti bréfs Alexíusar ábóta í Viðey um jarðirnar Skrauthóla og Bakka í Brautarholtssókn. Þá kemur jörðin fram í fógetareikningum 1547-1552. Á Esjubergi voru kveðnir upp dómar um beit og fjárrekstur 1565-1566.

Esjuberg

Esjuberg, kort frá 1908.

Jarðarinnar er getið á minnisblöðum Vigfúsar Jónssonar sýslumanns Kjalarnesþings árið 1569 og þjófnaðardómur var kveðinn upp þar 14. janúar 1657.
Jörðin var ein af jörðum Viðeyjarklausturs 1686-1695 og þá metin á 40 hundruð. Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704 var Esjuberg í eigu konungs en jarðardýrleiki óviss. Kvaðir voru meðal annarra um mannslán á vertíð suður á Stafnes. Þá var hægt að fórðra sjö kýr, tólf lömb og þrjá hesta. Jörðin hafði þá haft til langs tíma fría afrétt fyrir hesta og geldnaut á Mosfellsheiði. Torfrista og stunga var góð en mótak til eldiviðar slæmt. Silungsveiði hafði jörðin í Leirvogsá lengst af. Rekavon var nokkur og skelfiskfjara var á Leiðvallargranda. Selstöðu átti jörðin undir Svínaskarði að sunnan og þar var berjalestur nokkur. Helstu ókostir voru að úthey voru lítil og skriður ógnuðu bæði mönnum, húsum og skepnum. Stórviðrasamt var á Esjubergi og stóð mönnum og skepnum ógn af skriðum sem ollu þar tjóni.

Esjuberg

Esjuberg – örnefni.

Tvær hjáleigur voru þá á Esjubergi. Litla Esjuberg sagt afbýli heima við bæ og Árvöllur önnur hjáleiga og reiknaðist jarðardýrleiki beggja með heimajörðinni. Þegar Jón Oddson Hjaltalín gerði lýsingu Kjósarsýslu 1746 var þingstaður á Esjubergi. Kaupverð Esjubergs með Grund (Austurbæ) og Árvöllum árið 1816 þegar jörðin var seld úr eigu konungs var 2100 ríkisdalir.
Þegar Jarðatal Johnsens var tekið saman 1847 var Esjuberg í bændaeigu, metið á 40 hundruð og með einum ábúanda. Í neðanmálsgrein er sagt að jarðabækurnar geti ekki um hjáleigurnar nema árið 1802, en þá er getið Austurbæjar sem er líklega sama hjáleiga og sýslumaður og prestur kalla Grund. Jörðin var metin á 40 forn hundruð í Jarðarmati á Íslandi 1849-50. Hjáleigurnar lögðust báðar af eftir mikið ofanflóðaveður 2. september 1886.
Innan úttektarsvæðisins sem skráð er undir Esjuberg er einstakur minjastaður sem var þingstaður en hann er horfinn. Aðrar minjar eru herminjar á Leiðhömrum, ekki er talið líklegt að þær verði fyrir áhrifum framkvæmdarinnar.
Leiðvöllur er örnefni sem var á malarkambi við Kollafjörð norðanverðan. Ef loftljósmynd frá 1946 er borin saman við nýlegar loftmyndir má sjá að á svæðinu hafa orðið miklar breytingar vegna landsigs, sandnáms og vegagerðar. Vegna þessara þátta hafa grjóteyrin og tjörnin horfið.

Esjuberg
Staðhættir
: „Vestar er Leiðvöllur, sem talinn er vera hinn gamli þingstaður Kjalarnesþings. Nú er þar aðeins malareyri, sem fellur yfir í flóðum. Ofar var Leiðtjörn, en sandnámið hefur nú eyðilagt hana nema austast. Í hana rann Markagil.“ Leiðvöllur er örnefni sem var á malarkambi niður við sjó út með Kollafirði norðanverðum, á mörkum jarðanna Esjubergs og Mógilsár.
Örnefnið bendir til þess að þarna hafi verið haldin héraðsþing að loknu alþingi. Ofar var Leiðtjörn og kirkjuflöt var ofan við hana en þar var sagt að hefði verið bænhús eða kirkja og viðirnir í hana verið fluttir um Leiðvöll. En talið hefur verið líklegra að sagnir eigi við um kirkjuna á Esjubergi. Örnefnin Leiðvöllur, Leiðtjörn og Leiðhamrar sem þarna eru gefa vísbendingar um að þarna hafi verið haldin leiðamót, leiðaþing eða héraðsþing. Leiðvöllur er fornt nafn og merkir „völlur þar sem haldin eru leiðamót“. Staðurinn gæti því hafa dregið nafn sitt af leiðaþingi sem haldið var að loknu Alþingi til að greina frá störfum þess og birta tilkynningar.
Lengi hefur verið talið að Kjalarnesþing, sem var sett á fyrir stofnun Alþingis um 930, og talið undanfari þess, hafi fyrst verið á Leiðvelli. Fram kemur í Íslendingabók að fyrir stofnun Alþingis að áður „… vas þing á Kjalarnesi, þat es Þorsteinn Ingólfsson landnámamanns, faðir Þorkels mána lögsögumanns, hafði þar ok höfðingjar þeir es at því hurfu.“101 Í Landnámu er tekið í sama streng og staðkunnugur höfundur Kjalnesinga sögu virðist hafa horft á tóftir búðanna sem sáust enn suður við sjóinn um 1300. Þorsteinn Ingólfsson var útnefndur allsherjargoði á Alþingi og báru afkomendur hans titilinn eftir það svo það er ekki ólíklegt að hann hafi sett það. Þegar kristni var lögfest árið 1000 var Þormóður Þorkelsson sonarsonur hans allsherjargoði.
Þegar Kristian Kålund kom á Leiðvöll 1873 taldi hann staðinn svara til lýsinga í Kjalnesinga sögu um Kjalnesingaþing, flöt og löng grasræma á norðurströnd Kollafjarðar. Eyrin var þá að mestu þakin sjávarmöl og sjór gekk stundum yfir hana. Kålund taldi lítil og óglögg merki búðartófta að sjá þar, helst vestast og innst á eyrinni undir hallanum. Þar voru ef til vill nokkrar lágar upphækkanir sem gátu líka verið grónar skriður eða þúfur.
Sigurður Vigfússon forngripavörður kom á Leiðvöll 20. júlí 1880. Þá blasti við honum breið grjóteyri sem gekk út í sjó með malarkamb fyrir framan og langs fyrir ofan eyrina lá síki. Austan og uppaf því var lítil graseyri sem hét Kirkjuflöt og þar sáust leifar af lítilli tóft. Það var eina mannvirkið sem hann fann þrátt fyrir mikla leit.”

Heimild:
-Breikkun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi milli Varmhóla og vegamóta Hvalfjarðarvegar – fornleifalýsing; Esjuberg, 2020.

Esjuberg

Esjuberg neðan við Grund – útialtari; til minningar um fyrstu kirkjuna hér á landi.

Landnám

Í Lesbók Morgunblaðsins 1969 fjallar Árni Óla um Kjalarnesþing og Alþingi hið forna:

“Fundur landsins og landnám eru vitanlega að því leyti merkustu viðburðir í sögu landsins sem þeir eru nauðsynlegur undanfari alls þess, sem hér hefir síðar gerzt. Og vafalaust hafa margir landnámsmenn vorir unnið afreksverk um byggingu landsins. En landnámin eru þó eigi svo margþætt né svo mikil vitraun sem setning Alþingis var, stofnun allsherjarríkis og setning laga handa landsmönnum öllum. Það er hið ágætasta verk og hafa margir góðir menn að því unnið, enda þótt Úlfljótur hafi mest í því átt. Það hefir kostað mikinn tíma og fyrirhöfn, og hefir útheimt margar skýringar og fortölur. Hafa höfðingjar þeir, sem Úlfljótur ráðfærði sig við áður en hann sigldi, sennilega unnið nokkuð fyrir málið, og svo Grímur geitskör, er hann fór um landið. — Svo sagði Einar prófessor Arnórsson, (Skírnir 1930).

Árni Óla

Ingólfur hét maður norrænn, er sannlega er sagt, að færi fyrstur þaðan til Íslands, þá er Haraldur hinn hárfagri var sextán vetra gamall, en í annað sinn fám vetrum síðar. Hann byggði suður í Reykjarvík. —
Svo segir Ari ífróði í Íslendingabók. En í Hauksbók Landnámu segir svo: Ingólfur tók sér bústað, þar sem öndvegissúlur hans höfðu á land komið. Hann bjó í Reykjarvík. Þar eru enn öndvegissúlur þær í eldhúsi. En Ingólfur nam land milli Ölfusár og Hvalfjarðar og öll nes út. Hann var frægastur allra landnámsmanna, því að hann kom hér að auðu landi og byggði fyrst landið, og gerðu það aðrir landnámsmenn eftir hans dæmum síðan. Ingólfur átti Hallveigu Fróðadóttur, systur Lofts hins gamla. Þeirra son var Þorsteinn, er þing lét setja á Kjalarnesi, áður alþingi væri sett.
Ingólfur var frægastur allra landnámsmanna vegna þess að hann nam hér fyrstur land. En ekki ætti hann síður að vera frægur fyrir hitt, að afkomendur hans og venslamenn stjórnuðu landinu fram að kristnitöku, eins og enn mun sagt verða.
Dr. Guðbrandur Vigfússon leit svo á, að þótt talið væri að Ísland hefði byggzt úr Noregi, þá hefði komið hingað á landnámsöld álíka margt fólk af keltnesku kyni eins og norsku. En norska kynið var „herraþjóðin” í landinu, eins og glöggt má sjá af fornsögunum, og þær sýna líka að norsk menning og norskur hugsunarháttur hefir verið hér yfirgnæfandi. Í Noregi var byggð hagað öðruvísi en í öðrum germönskum nágrannalöndum. Í Svíþjóð, Danmörku og Þýzkalandi bjuggu menn í þorpum, en í Noregi voru sérstök bændabýli, og sama varð reglan hér á landi.

Landnám

Ingólfur og öndvegissúlurnar í Reykjavík.

Þeir, sem fyrstir komu, námu mjög víð lönd, en byggðu þau svo skipverjum sínum og öðrum er seinna komu. Með þessu móti höfðu þeir nokkurn liðsstyrk, ef á þá yrði ráðizt og jafnframt voru þeir þá höfðingjar, hver í sínu landnámi. Vegna þessa stefndi allt að því, að hér risi upp smáríki, eins og var í Noregi áður en Haraldur hárfagri lagði land allt undir sig.
Þessir fyrstu héraðshöfðingjar stjórnuðu svo landinu um hríð, án þess að nokkur sameiginleg lög væru hér gildandi. Að vísu komu þeir með nokkrar norskar venjur viðvíkjandi eignarhaldi einstaklinga, kaupskap, hjúskap, um erfðir, hefndir fyrir víg o.s.frv. En þetta gat orðið breytilegt eftir héruðum er fram í sótti og sáu framsýnir menn hver voði var búinn innanlandsfriði ef framvindan yrði slík. Nauðsyn væri að stofna hér þjóðfélag áður en í óefni væri komið. Þá var það, að Þorsteinn Ingólfsson stofnaði Kjalarnesþing og „höfðingjar þeir, er að því hurfu”, eins og Ari fróði kemst að orði. Tveir aðrir af stofnendum þingsins eru nefndir Helgi bjóla, tengdasonur Ingólfs og Örlygur gamli á Esjubergi, og voru þeir báðir kristnir. En svo hafa aðrir höfðingjar bætzt í hópinn og þeir hafa átt heima í Borgarfirði og Árnessýslu. Þetta þing skyldi setja lög er giltu á yfirráðasvæði þess og dæma um mál manna.

Hvenær var Kjalarnesþing stofnað?
Það skiptir nokkru máli ef unnt er að ákveða hvenær þing þetta var stofnað, því að með hverju ári fjölgaði mikið fólki í landinu og þá um leið ýfingum og ófriði milli manna. Meðan engar reglur voru til að fara eftir í viðskiptum manna, var óhægt um vik að setja niður deilur.
Leiðvöllur
Kjalarnessþings er getið í Íslendingabók, Landnámu Grettis sögu, Harðarsögu og Kjalnesingasögu, en hvergi er þess getið hvenær það var stofnað. Í Grettissögu segir, að skömmu eftir útkomu Önundar tréfótar, sem bjó í Kaldbaksvík á Ströndum, „hófust deilur þeirra Ófeigs grettis og Þorbjarnar jarlakappa og lauk svo, að Ófeigur féll fyrir Þorbirni í Grettisgeil hjá Hæli. Þar varð mikill liðsdráttur að eftirmáli með sonum Ófeigs. Var sent eftir Önundi tréfæti og reið hann suður um vorið”. Önundur var tengdasonur Ófeigs grettis. Á leiðinni suður gisti hann í Hvammi hjá Auði djúpúðgu. Hún bað að Ólafur feilan sonarsonur sinn mætti ríða með honum suður til að biðja Alfdísar hinnar barreysku, og að hann styddi það mál. Tók Önundur því vel. Þegar hann hitti svo vini sína og mága, var talað um vígamálin, „og voru þau lögð til Kjalarnessþings, því að þá var enn eigi sett alþingi. Síðan voru málin lögð í gerð, og komu miklar fébætur fyrir vígin, en Þorbjörn jarlakappi var sekur gerr. . . .Þetta haust fékk Ólafur feilan Alfdísar hinnar barreysku. Þá andaðist Auður hin djúpúðga, sem segir í sögu Laxdæla”.

Heiðni

Heiðnir víkingar og kristnir keltar virðast hafa lifað í sátt í upphafi landnámsins.

Í Tímatalsritgerð sinni telur dr. Guðbrandur Vigfússon, að Auður djúpúðga muni hafa andast á árunum 908—910. Nokkru fyrir þann tíma hlýtur Kjalarnesþing því að hafa verið stofnað. Af frásögn Ara fróða í Íslendingabók mætti ráða, að Kjalarnesþing hefði upphaflega aðeins verið fyrir landnám Ingólfs Arnarsonar, því að þar segir, að Þorsteinn Ingólfsson hafi haft þetta þing, „og höfðingjar þeir, er að því hurfu”. Er þar með gefið í skyn, að smám saman hafi honum bætzt samþingsmenn, og gat það vel tekið nokkur ár að þingháin næði alla leið austur að Þjórsá.
Hér verður því að álykta svo sem Kjalarnesþing hafi verið stofnað rétt upp úr aldamótum 900. Nú telur og dr. Guðbrandur Vigfússon að Ingólfur Arnarson muni hafa dáið um 900 og getur þess að menn ætli að þingið hafi verið stofnað eftir hans dag. Bendir það til þess, að þingstofnunin hafi verið fyrsta verk Þorsteins Ingólfssonar eftir að hann tók við mannafonnráðum í héraði. Þing þetta mun hafa verið stofnað að fyrirmynd norsku fylkjaþinganna á Frosta, Gula og Eiðsvelli, og það mun hafa verið orðið aldarfjórðungs gamalt þegar alþingi var stofnað.

Hvar var þingið háð?
Aðeins á einum stað er þess getið, hvar Kjalarnesþnig var háð. Nú þekkist þetta örnefni ekki lengur.
Landnám Ingólfs
Vegna nafns þingsins héldu menn lengi vel, að það hefði verið háð á Kjalarnesi. Jónas Hallgrímsson tók sér fyrir hendur sumarið 1841 að finna þingstaðinn og leitaði upplýsinga víða. Honum var bent á Leiðvöll, sem er skammt frá Móum á Kjalarnesi. Fór Jónas þangað, en sannfærðist fljótt um, að þar hefði aldrei verið háð þing, heldur hefði þar aðeins verið leið. Svo fékk hann fregnir af því að í Þingnesi í Elliðarvatni væru margar og glöggvar búðatóftir, og þangað fór hann við áttunda mann til þess að rannsaka staðinn. Þar fann hann rúmlega 20 búðatóftir. Hann byrjaði á því að grafa upp stærstu tóftina, og segir hann að það hafi verið sú stærsta búðartóft, sem hann hafi séð á Íslandi, um 100 ferálnir að innanmáli. Veggir höfðu verið hlaðnir úr völdu grjóti og taldi hann að þeir mundu hafa verið um sex feta háir.
Því næst rannsakaði hann grjótdyngju nokkra utan við búðirnar, því að honum sýndist sem mannvirki mundi vera, en fann þar ekki annað en stóra steina og vissi ekki hvað þetta var. Þá réðist hann á merkasta staðinn, sjálfan dómhringinn. Þar var hringhlaðinn grjótgarður og taldi Jónas að hann mundi upphaflega hafa verið um tveggja álna þykkur neðst og álíka hár. Þvermál hringsins var 43 fet. Í miðjum hringnum var grjóthrúga og gat grjótið ekki verið komið úr hringgarðinum, og hélt hann því að þar mundu dómendur hafa setið.
Þingnes
Ekki var Jónas í nokkrum vafa um, að hér hefði hann fundið hinn gamla þingstað Þorsteins Ingólfssonar. Skammt þaðan voru einnig aðrar rústir, sem Jónas skoðaði ekki. Handan vatnsins, gegnt Þingnesi, undir holtinu sem Bugða rann fram með og heitir Norlingaholt, voru fram á þessa öld miklar búðatóftir og voru þær nefndar Norlingabúðir. Þarna hafa Borgfirðingar þeir, er þingið sóttu haft búðir sínar og bendir nafnið til þess, því að um aldir voru Borgfirðingar kallaðir Norlingar hér um nesin.
Þingnes heldur enn nafni sínu enda þótt það sé nú orðið að ey í vatninu, síðan vatnsborð Elliðavatns var hækkað vegna rafmagnsstöðvarinnar hjá ánum. Nesið gekk út í vatnið að sunnan, hér um bil miðja vegu milli bæjanna Elliðavatns og Vatnsenda. Var fyrrum aðeins mjótt sund milli þess og engjanna fyrir norðan.
Þarna er einn af sagnmerkustu stöðum Íslands, en þó hefir verið farið illa með hann. Laust eftir seinustu aldamót, þegar ræktunaráhugi vaknaði meðal manna hér á landi, var ráðizt á Þingnes með plógum og öðruum jarðræktarverkfærum, öllum búðatóftum byllt um og eins dómhringnum, svo að þar var ekkert að sjá nama moldarflag. Norðlingabúðir vonu seinna kaffærðar, þegar afrennsli vatnsins var stíflað og yfirborð þess hækkað. Og þar með voru þurrkaðar út seinustu sýnilegu minjarnar um Kjalarnesþing.

Kristið þing
Heimildir fornsagnanna herma, að Örlygur gamli og Helgi bjóla hafi verið aðalhvatamenn að stofnun þingsins með Þorsteini. Þeir voru báðir kristnir og trúræknir vel. Örlygur hafði verið sendur hingað af Patreki biskupi á Iona með trúboðserindum. „Biskup lét hann hafa með sér kirkjuvið og járnklukku og plenaríum og mold vígða, er hann skyldi leggja undir hornstafina” (Landn). Örlygur bjó á Esjubergi og reisti þar þegar kirkju hina fyrstu er sögur fara af hér á landi.

Esjuberg

Esjuberg á Kjalarnesi.

Helgi bjóla átti Þórnýju dóttur Ingólfs Arnarsonar og var því mágur Þorsteins. Einn af sonum þeirra Þórnýjar var nefndur Kollsveinn og mun það bafa verið auknefni, því að svo voru kallaðir sveinar þeir er fareldrar færðu guði nýfædda.
Þeir Helgi hjóla og Örlygur eru taldir meðal göfugustu landnámsmanna í Sunnlendingafjórðungi. Er því líklegt að þeir hafi ráðið miklu við stofnun þingsins og hvernig það var helgað. Er þá líklegt að þeir hafi látið helga það með tákni krossins og þar af sé komið nafnið Krossnes á þingstaðnum. Og þá er eigi ólíklegt, að grjótdyngjan sem Jónas Hallgrímsson fann þar í nesinu og vissi ekki hvennig á stóð, hafi verið leifar af stöpli, sem hlaðinn hefir verið undir krossmerkið. En er þing lagðist niður á þessum stað, hafi Kristnesnafnið horfið úr mæltu máli, og nesið síðan verið kallað Þingnes, eins og það heitir enn í dag.
Um þær mundir er Kjalarnesþing var stofnað voru engar trúarbragðadeilur hér á landi. Kristnir menn og heiðnir höfðu dreifzt um land allt og bjuggu þar í nábýli og fyrst í stað bar þeim ekki á milli í trúmálum. Og hafi nú verið — sem allar líkur benda til — að kristnir mennn hafi ráðið miklu á fyrsta Kjalarnesþingi, þá er eðlilegt að þeir réðu því hvernig þingið var helgað. En um þinghelgun með krossi má lesa í Kristnisögu, þar sem sagt er frá krossunum á alþingi árið 1000.

Lagasetning og dómnefna
Ætla má að hlutverk þingsins hafi að upphafi verið tvíþætt: lagasetning og dómnefna.
Um lagasetningu hefir verið farið eftir þeim réttarfarsvenjum, en mennn hafa alizt upp við í Noregi, og þó með þeim breytingum, er hæfðu breyttum aðstæðum. Hafa svo ný lög verið sett smám saman, eftir því sem hentaði og reynslan kenndi mönnum að nauðsynlegt var. En engin lög þessa þings gátu gilt annars staðar en í þinghánni.
Þingnes
Um dómaskipan verður ekkert sagt með vissu. Líklegt er að dómendur hafi verið kosnir af þingheimi hverju sinni og menn valdir eftir metorðum og mannviti. Dómhringurinn í Þingnesi sýnir, að dómar hafa farið þar út, enda vitum vér um tvo dóma, sem þar voru kveðnir upp. Fyrri dómurinn vax í vígsmáli Ófeigs grettis og hefir þegar verið sagt frá honum, en því má við bæta, að þeim dómi hefur verið fullnægt. Þorbjörn jarlakappi varð að fara utan og mun ekki hafa komið til Íslands aftur, og ekki heldur Sölmundur sonur hans. En Kári sonur Sölmundar kom til Íslands og segir frá því í Njáls sögu.
Frá hinum dómnum segir Ari fróði í Íslendingabók: „Maður hafði orðið sekurr um þrælsmorð eða leysings, sá er land átti í Bláskógum. Hann er nefndur Þórir kroppinskeggi, en dóttursonur hans er nefndur Þorvaldur kroppinskeggi, sá er fór síðan í Austfjörðu og brenndi þar inni Gunnar bróður sinn. Svo sagði Hallur Órækjusonur. En sá hét Kolur er myrður var. Við hann er kennd gjá sú, er þar er kölluð síðan Kolsgjá, sem hræin fundust. Land það varð síðan allsherjarfé, en það lögðu landsmenn till alþingisneyslu. Af því er þar almenning að viða til allþingis í skógum og á heiðum hagi til hrossahafnar. Svo sagði Úlfheðinn oss”.
(Bláskógar kallast nú Þingvallasveit. Hallur Órækjuson var systursonur Kolskeggs hins fróða, sem margt sagði fyrir um landnám á Austurlandi.
Úlfljótsvatn
Nafnið Kolsgjá er nú týnt, en menn halda að gjáin sé uppi á Leirunum. Ulfheðinn mun vera Úlfhéðinn Gunnarsson lögsögumaður). Þessi dómur hefir verið kveðinn upp áður en það væri afráðið hvar alþingi skyldi háð, og því aðeins var hægt að leggja landið til allþingisneyzlu að það var áður orðið almenningseign. Þórir hefir verið dæmdur sekur á Kjalarnesþingi en landi hans ekki ráðstafað á annan hátt en þann, að það skyldi vera almenningur.
Nauðsynlegt hefir verið á Kjalarnesþingi, eins og á alþingi síðar, að velja mann til að segja upp lög þau er samþykkt höfðu verið, og sjá um að dómum væri fullnægt. Engar sagnir höfum vér um, hver sá lögsögumaður hafi verið, en eflaust hefir hann átt heima í landnámi Ingólfs Arnarssonar. Og engin goðgá er þótt gizkað sé á, að það hafi verið Úlfljótur, hinn sami og seinna samdi allsheriarlög fyrir Ísland.
Konrad Maurer hefir það eftir séra Símoni Beck á Þingvöllum, að þar í sveitinni lifi þau munnmæli, að Úlfjótur lögsögumaður hafi upphaflega átt heima á Úlfljótsvatni í Grafningi.
Í Landnámu og fornsögum er aðeins getið um tvo menn, er hétu þessu nafni. Annar er talinn landnámsmaður norður í Skagafirði, og ekkert fleira um hann sagt, en hinn er Úlfljótur lögsögumaður, en ekkert getið um bústað hans fyrr en hann keypti Bæ í Lóni af Þórði skeggja, eftir að Þórður fluttist hingað suður í Mosfellssveit.

Kjalarnesþing

Þingin voru fyrst fornfáleg – haldin undir berum himni.

Nafnið Úlfljótsvatn er gamalt, því að það kemur fyrir í Harðarsögu, og enginn vafi er á, að það hefir verið kennt við einhvern mann, sem ÚlfLjótur hét. Þessi bær var í landnámi Ingólfs.
Ulfljótur var kynborinn, sonur Þóru, dóttur Hörða-Kára, sem talinn var ágætur maður, og segir Snorri, að á dögum Ólafs konungs Tryggvasonar hafi ættbogi hans verið mestur og göfgastur á Hörðalandi. Hjörleifur fóstbróðir Ingólfs var einnig komimin af Hörða-Kára, og er því líklegt, að vinátta hafi verið með Úlfljóti og þeim feðgum Ingólfi og Þorsteini.
Forn munnmæli, sem engar öfgar fylgja skyldu menn ekki sniðganga. Ritaðar heimildir bera heldur ekki á móti því, að Úlfljótur hafi fyrst í stað átt heima á Úlfjótsvatni. Þeim ber aftur á móti saman um, að hann hafi keypt Lónslönd af Þórði skeggja þegar hann fluttist suður í Mosfellssveit, en Þórður hafi búið þar alt að 15 ár áður en hann fór hingað og þess vegna líklega ekki komið að Skeggjastöðum fyrr en eftir 900, eða í þann mund er Kjalarnesþing var stofnað. Þá hefði Úlfljótur enn átt að vera búandi á Úlfljótsvatni, og verið einn af þeim „vitru mönnum”, er stofnuðu þingið með Þorsteini Ingólfssyni.
Það getur varla talizt getgáta, að hugmyndin um stofnun allsherjarríkis á Íslandi og alþingis hafi verið frá Þorsteini runnin, því að engum manni er betur trúandi tii þess en honum að hugsa svo stórmannlega. Hugmyndina mun hann þá fyrst hafa borið fram er honum þótti Kjalarnesþing orðið nógu öflugt til þess að vera bakhjall hennar, og allir helztu höfðingjar frá Hvítá í Borgarfirði austur á Rangárvelli höfðu heitið stuðningi sínum. Hið fyrsta, sem þurfti að gera, var að finna hentugan stað fyrir allsherjarþingið. Þetta var nauðsynlegt til þess að ekki yrði reipdráttur um það um allt land, að hver höfðingi vildi hafa hann hjá sér. Það gat hæglega spillt því, að málið næði fram að ganga.

Almannagjá

Almannagjá 1862 – málað af Bayard Taylor, 1862.

Misskilningur er það að Grímur geitskör hafi valið þingstaðinn. Það hafa höfðingjar á Kjalarnesþingi gert. Og hafi Úifljótur verið lögsögumaður þingsins, þá virðast fyrstu ráðin um undirbúning að stofnun alþingis vera frá honum komin. Hann mun hafa ráðið því, þá er Þórir kroppinskeggi var gerður sekur og útlægur, að landið í Bláskógum væri ekki dæmt sektarfé handa einstökum mönnum (t.d. dómendum), heldur gert að almenningi. Það er skammt á milli Úlfljótsvatns og Þingvalla og hefir Últfljótur eflaust verið kunnugur staðháttum á Þingvöllum, og þess vegna lagt til að alþingi skyldi háð þar. Er líklegt að hann hafi dregið fram kosti landsins líkt og gert er í Íslendingabók og haft eftir Úlfhéðni Gunnarssyni lögsögumanni, að þar mættu allir „viða til alþingis í skógum, og á heiðum hagi til hrossahafnar”. Aðrir þingmenn fallast á þetta og svo er ákveðið að þingstaðurinn skuli vera þarna. Margt fleira hefir staðnum að vísu veriðfundið til ágætis, og þá ekki sízt það að hann var þegar orðinn almenningseign.
Úlfljótur hefir gert meira. Hann hefir fengið því framgengt að Grímur geitskör, fóstbróðir hans, væri sendur um land allt til þess að hafa tal af höfðingjum og fá þá til aðfallast á hugmyndina um stofnun allsherjarríkis á Íslandi og alþing í Bláskógum. Var nauðsynlegt að vita hug höfðingja tiL þessa máls áður en fullnaðaðarákvörðun um ríkisstofnun væri tekin. Sagt er að Grímur hafi verið þrjú ár í þessu ferðalagi um landið og kæmi hann aftur erindi feginn, því að flestir eða allir höfðingjar hefðu verið málinu fylgjandi.
Og nú var komið að því, sem vandasamast var, að semja stjórnarskrá fyrir hið tilvonandi ríki. Og þá er Úlfljóti falið þetta vandaverk. Enginn aðili annar en Kjalarnesþing, var fær um að fela honum það. Þetta þing hafði tekið að sér forustu um stofnun allsherjarríkis og unnið að undirbúningi þess máls og þingmenn sjálfsagt komið sér saman um hvernig stjórnarskráin ætti að vera í höfuðdráttum. Það hafði ekki öðrum á að skipa að svo komnu máli, heldur en einhverjum af þingmönnum sínum. Og hver var þá líklegri til þess að verða fyrir vailnu, heldur en sjálfur lögsögumaðurinn — Úlfljótur. Hér virðast allar líkur benda í eina átt að Úllfljótur hafi átt heima á Úlfljótsvatni, eins og munnmælin herma; að hann hafi verið einn af þingmönnum Þorsteins Ingólfssonar; og verið kjörinn lögsögumaður Kjalarnessþings. Þetta gæti einnig stuðst við þessa frásögn Íslendingabókar: „Því nær tók Hrafn lögsögu Hæings sonur landnámamanns, næstur Úlfljóti”, því að Úlfljótur var aldrei lögsögumaður alþingis og væri hér bent til þess að hann hefði verið lögsögumaður Kjalarnessþings. Samkvæmt lögsögumannatali Ara fróða í Ísendingabók, hefir fyrsta alþingi 930 kosið Hrafn lögsögumann þegar er þingstörf gátu hafizt.

Þingvellir

Kjalarnesþing fól Úlfljóti að semja stjórnarskrána, en enda þótt höfðingjarnir þar hefðu komið sér saman um hvernig hún ætti að vera í aðalatriðum, hefir þeim þótt réttara að hafa hliðsjón af norskri löggjöf. Þess vegna fór Úlfljótur utan og er þrjá vetur í Noregi, kemur svo út með allsherjarlögin 929 og voru þau fyrst kölluð Úlfljótslög „en þau voru flest sett að því, sem þá voru Gulaþingslög eða ráð Þorleifs spaka Hörða-Káraasonar voru til, hvar við skyldi auka eða af nema eða annan veg setja”. — Svo sagði Teitur Ísleifsson biskups (Ísl. bók).
Næsta sumar var „alþingi sett að ráði Úljóts og allra landsmanna, þar sem nú er, en áður var þing á Kjaiarnesi” (Ísl. bók). Á þessu orðalagi má sjá, að Kjalarnesþing hefir verið talið upphaf, eða fyrirrennari alþingis og samband þessara þinga svo náið, að rétt var að segja að Hrafn Hængsson tæki lögsögu næstur Úlfljóti, því að lögsögu Úlfljóts var lokið með stofnun alþingis. Hann var þá 63 ára að aldri og mun hafa dregið sig í hlé eftir þetta afrek og farið austur í Lón.
Þingnes
Reykvíkingar fá æðstu völd Á þessu fyrsta allsherjarþingi var skipuð fyrsta embættismannastétt landsins. Þá var landinu skipt í 36 goðorð og goðarnir voru héraðsstjórar hver í sínu umdæmi; þeir voru einnig þingmenn og dómarar á alþingi. Eitt goðorðið var framar öllum hinum og kallað allsherjargoðorð. Það var goðorð Reykvíkinga og fylgdi því það heiðursstarf að helga alþingi.
Þorsteinn Ingólfsson mun hafa helgað þetta fyrsta alþing og hefir þótt sjálfkjörinn til þess sem stofnandi Kjalarnessþings og frumkvöðull að stofnun alþingis. Sést hér enn sambandið milli þessara tveggja þinga. Síðan fylgdi helgun alþingis goðorði Reykvíkinga og hefir það verið sérstakur virðingarvottur við minningu fyrsta landnámsmannsins og til heiðurs Þorsteini syni hans fyrir að vera stofnandi fyrsta þings á Íslandi og driffjöðrin í stofnun alþingis.
Með nýju allsherjarlögunum varð lögsögumaðurinn forseti alþingis og helzti embættismaður hins nýja ríkis, því að framkvæmdavaldið var í höndum hans, eins og sést á því, er Ari fróði segir um Skafta Þóroddsson lögsögumann: „Á hans dögum urðu margir höfðingjar og ríkismenn sekir eða landlótta of víg eða barsmíðar af ríkis sökum hans og landstjórn”.

Ingólfur

Ingólfur Arnarsson – minnismerki á Arnarhóli í Reykjavík.

Fyrsti lögsögumaður alþingis varð Hrafn Hængsson og hefir það ef til vill verið af því að faðir hans og bræður hafi stutt drengilega stofnum alþingis.
Jón Sigursson telur að Hrafn muni hafa verið fæddur 879 og „ef til vill fyrsti maður, sem fæddur er á Íslandi” (Safn til sögu Íslands I). Hafi svo verið, gat það nokkru ráðið um lögsögumannskjör hans, að mönnum hafi þótt vel við eiga að fyrsti innborni Íslendingurinn skipaði æðsta embætti á hinu nýja alþingi, þar sem hann var líka göfugur höfðingi og ættstór. Hrafn gegndi embættinu um 20 ár, eða fram til 950, en eftir það ráða Reykvíkingar lögsögumannskjöri allt fram að kristniöku og hafa því verið valdamestu menn landsins á þeim tíma.
Árið 950 tekur Þórarinn Raga bróðir við lögsögu, en hann var mægður Reykvíkingum, því að Ragi bróðir hans mun hafa verið kvæntur systur Þorsteins Ingólfssonar og búið í Laugarnesi. Þórarinn gegndi embættinu í 20 ár, fram til 970, en þá tekur við Þorkell máni sonur Þorsteins Ingólfssonar og gegnir því um 15 ára skeið. Þá tekur við Þorgeir Ljósvetningagoði, en þeir Þorkell máni voru að öðrum og þriðja og er sú ættfærsla þannig: Þorkell máni var sonur Þóru dóttur Hrólfs rauðskeggs á Fossi á Rangárvöllum, en móðir Þorgeirs Ljósvetningagoða var Þórunn dóttir Ásu Hrólfsdóttur rauðskeggs. Þorgeir andaðist tveimur árum eftir kristnitöku og þá gekk lögsögumannsstarfið úr ættum Reykvíkinga, en goðorði þeirra fylgdi enn lengi helgun alþingis.”

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 25. tbl. 06.07.1969, Kjalarnesþing og Alþingi hið forna, Árni Óla, bls. 6-7.
Þingnes

Esjuberg

Fyrir neðan bæinn Grund á Kjalarnesi, vestan Esjubergs, er útialtari. Á skilti við altarið má lesa eftirfarandi texta, auk svilitlum viðbótafróðleik:

“Þá stóð enn kirkja sú að Esjubergi er Örlygur hafði látið gera”.

Esjuberg

Esjuberg, kort frá 1908.

Hér í landi Esjubergs verður reist útialtari sem minnismerki um merkan kristinn kirkjustað. Sagnir herma að fyrsta kirkja á Íslandi fyrir kristnitöku hafi verið reist á Esjubergi á Kjalarnesi. Mun það hafa verið um árið 900. Ekki er vitað hvar í landi Esjubergs kirkjan stóð. Næsta líklegt er að skriðuföll í Esju hafi spill vegsummerkjum eftir hana en þau breyttu ásýnd jarðarinnar og huldu flestar minjar á Esjubergi sem þar höfðu staðið um aldir og m.a. svonefnda kirkjurúst.

Fornleifarannsókn fór fram árið 1981 á þeim stað á Esjubergi þar sem menn töldu að kirkja hefði staðið og kirkjugarður. Ekkert fannst sem gat staðfest að kirkja hefði staðið á þeim stað.

Í Landnámu (Sturlubók) segir að Örlygur Hrappsson hafi fengið frá Patreki Suðureyjarbiskupi “kirkjuvið ok járnklukku ok penárium ok mold vígða” til að nota í kirkju sem reisa skyldi þar [sem] hann næmi land og eigna hinum helga Kolumba. örlygur reisti kirkju á Esjubergi.

Esjuberg

Esjuberg – örnefni.

[Í 1, kafla Kjalnesingasögu segir: “Maður hét Örlygur. Hann var írskur að allri ætt. Í þann tíma var Írland kristið. Þar réð fyrir Konofogor Írakonungur. Þessi fyrrnefndur maður varð fyrir konungs reiði.

Hann fór að finna Patrek biskup frænda sinn en hann bað hann sigla til Íslands “því að þangað er nú,” sagði hann, “mikil sigling ríkra manna. En eg vil það leggja til með þér að þú hafir þrjá hluti. Það er vígð mold að þú látir undir hornstafi kirkjunnar og plenarium og járnklukku vígða. Þú munt koma sunnan að Íslandi. Þá skaltu sigla vestur fyrir þar til er fjörður mikill gengur vestan í landið. Þú munt sjá í fjörðinn inn þrjú fjöll há og dali í öllum. Þú skalt stefna inn fyrir hið synnsta fjall. Þar muntu fá góða höfn og þar er spakur formaður er heitir Helgi bjóla. Hann mun við þér taka því að hann er lítill blótmaður og hann mun fá þér bústað sunnan undir því fjalli er fyrr sagði eg þér frá. Þar skaltu láta kirkju gera og gefa hinum heilaga Kolumba. Far nú vel,” sagði biskup, “og geym trú þinnar sem best þóttú verðir með heiðnum.”

Eftir það býr Örlygur ferð sína og er frá ferð hans það fyrst að segja að allt gekk eftir því sem biskup sagði. Hann tók í Þerneyjarsundi höfn. Síðan fór hann að finna Helga bjólu og tók hann vel við honum. Reisti Örlygur þar nú bú og kirkju og bjó þar síðan til elli.”]

Esjuberg

Esjuberg – uppfærð örnefni.

Í kirknaskrá Páls Jónssonar, biskups, frá 1200, er getið kirkju á Esjubergi: “Kirkja at Esjubergi.

Þá er og getið um kirkju á Esjubergi í Kjalnesingasögu frá 14. öld: “Þá stóð enn kirkja sú að Esjubergi er Örlygur hafði látið gera. Gaf þá engi maður gaum að henni.

Þrátt fyrir áþreifanleg ummerki um kirkju á Esjubergi hafi ekki enn fundist á Esjubergi hafa Kjalnesingar hin síðari ár haft um hönd helgihald á staðnum í júnímánuði ár hvert.

Tilgangurinn með uppsetningu útialtaris og minnismerkis í landi Esjuergs er að vekja verðskuldaða athygli á merkum kristnum sögustað. Útilaltarið verður notað við kristið helgihald og ýmsar athafnir eons og brúðkaup pg skírnir.

Esjuberg

Esjuberg – útialtari.

Fyrsta skóflustunga var tekin að altarinu 8. maí 2016 af biskupi Íslands, prófasti Kjalarnesprófastsdæmis, formanni Sögufélagsins Steina, formanni sóknarnefndar Brautarholtssóknar og einu fermingarbarni vorsins 2016.

[Biskup Íslands, frú Agnes M. Sigurðardóttir tók þar skóflustungu að útialtari ásamt sr. Þórhildi Ólafs. prófasti Kjalarnessprófastsdæmis, Hrefnu Sigríði formanni Sögufélagsins Steina, Birni Jónssyni
formanni sóknarnefndar Brautarholtskirkju og fermingarbarninu Benedikti Torfa Ólafssyni.
Prófasturinn sr. Þórhildur Ólafs, leiddi helgistundina að keltneskum sið.]

Altarið sjálft verður sótt í Esjubergsnámur og upp úr því mun standa um tveggja metra hár keltneskur kross.

Sögufélagið Steini á Kjalarnesi hefur haft forystu í máli þessu í samvinnu við ýmsa aðila.

[Guðni Ársæll Indriðason smíðaði mót fyrir krossinn sem rísa mun í miðju útialtarisins. Ákveðið er að hafa þrenningartákn, keltneska fléttu öðru megin og þrjá fiska hinu megin. Bjarni hefur verið í sambandi við Steinsmiðjuna S. Helgason sem ætla að sjá um smíðina á plötunum sem síðan verða festar á krossinn.]

Þetta söguskilti er sett upp hér til bráðabirgða en veglegra skilti verður síðar komið fyrir.

Esjuberg
[Kirkja Örlygs hefur sennilega aldrei verið við bæinn Esjuberg, miklu frekar í landi Esjubergs, er náði allt vestur í Kolafjörð. Þegar möguleg staðsetning framangreindrar kirkju gæti hafa verið þarf því að líta gagnrýnum augum í fyrirliggjandi örnefnalýsingar m.t.t. áttalýsinga, og horfa sérstaklega til örnefnanna “Leiðhamar” og “Leiðvöllur”, sbr.:

Vesturmörkin [austurmörkin], milli Esjubergs og Skrauthóla, eru um Gvendarbrunn í Flóðará og beint upp Esju. Milli Móa og Saltvíkur eru merkin Móalækur um Gvendarbrunn og upp í há-Esju um Laugarnípu, sem er há nípa upp af Árvelli. Leiðvöllur hefur verið nefndur fyrr. Það er malarkambur niður við sjóinn. Áður var þar tjörn fyrir innan, en nú er þar sandnám. Vestan [austan] hans taka við hamrar, sem nefndir eru Leiðhamrar. Þeir eru þrír talsins. Austasti hluti þeirra tilheyrir Esjubergi, en hitt Móum. Úr honum er línan í Varmhóla, þar sem þeir eru hæstir, en það er hólaþyrping hér upp af. Upp af Leiðhömrum er mýri, þar sem tekinn var upp mór frá Esjubergi. Upp af Leiðvelli er flöt, er nefnist Kirkjuflöt. Þar var sagt, að hefði verið bænhús eða kirkja. Viðurinn í hana átti að hafa verið fluttur um Leiðvöll.)

Upp af Leiðvelli var Kirkjuflöt. Þar er líklegt að kirkja Örlygs hafi verið reist í árdaga, þ.e. á Kirkjuflöt. Nánast öllu svæðinu ofan Leiðvallar hefur nú verið raskað með námugreftri. Upp af  Kirkjuflöt var Kirkjunýpa, gamalt örnefni, sem nú virðist vera horfið.
Esjuberg

Helluvatn

Örnefni eru ekki bara örnefni. Þau geta einnig verið rangnefni í minni annarra er telja sig veita betur. Örnefni eiga það nefnilega til að breytast, bæði mann fram af manni sem og á milli manna í gegnum tíðina. Fólk flytur á brott og nýtt flytur að. Örnefni skráð á einum tíma af tilteknum aðila haft eftir öðrum slíkum geta haft gildi sem slík, en þau þurfa hvorki að vera hin einu réttu frá upphafi né endanleg. Þegar fjallað er opinberlega um örnefni á tilteknu landssvæði má telja víst að ekki verða allir sammála.

Í Morgunblaðinu í maí 1957 er grein; “Svipast um eftir sumrinu”, á bls. 5.:

“Sumrinu hefur dvalizt á leið sinni til Reykjavíkur. Tré standa nakin í görðum og knattspyrnuvellir nýorðnir færir.

Svipast um eftir sumrinu

Mynd með meðfylgjandi grein í Mbl.

Fréttamenn Morgunblaðsins ákváðu þess vegna að leggja land undir fót og svipast um eftir fyrsta þætti sumarsins. Ekki höfðu þeir lengi farið er vestanblærinn og fuglar sungu. Á lítilli tjörn í mýrinni austan Rauðhóla voru ung svanahjón á sundi og fögnuðu blíðunni. Þau voru feimin við gestkomuna, litust á, hófu sig af pollinum og flugu hratt til heiða.
Hretleifar í Hengli blikuðu í sólskini og bliknuðu. Skýjaslitur hurfu hvert af öðru austur fyrir fjall. Drengir stóðu að silungsveiðum í Hólmsá. Fiskurinn var latur í birtunni og sinnti ekki táli. Það lagast með kvöldinu.
Árið er stór sólarhringur. Á morgni þess vaknar landið, skríður undan hvítum næturfeldi og klæðist gróðri, fuglum og ferðamönnum.
Fólkið í landinu hristir af sér skammdegisdrungann og fyllist verkmóði og lífsgleði á ný. Borgarbúar fara um helgar að dytta að sumarhreiðrinu síðan í fyrra eins og maríuerlan. Fátt bragðast þeim ljúfar en bröndur, sem þeir hafa veitt sjálfir, soðnar á primus uppi í hrauni og étnar með jurtum úr eigin garði. Lömbin fylgja sumrinu. Þau brölta klaufalega umhverfis mæður sínar, þegar nálin birtist í túnum, dafna með henni, verða stríðin og státa og hlaupa spretti í hóp um á lygnum síðkvöldum.
Þegar sumri lýkur eru þau ekki lengur lömb, þau eru vísast vaxin mæðrum sínum yfir höfuð. Þá fáum við dilka kjöt og sultu.
Engir fagna sumrinu jafnmjög og nautgipir. Rosknar kýr, síðvembdar og stirðfættar eftir kyrrsetur vetrarins taka á rás eftir gljúpum túnum og vita halar upp. Kálfar, sem aldrei hafa séð víðari veröld en fjósið, staðnæmast ráðvana og litast um áður en þeir hlaupa í fyrsta sinn. Eftir nokkra stund róast hópurinn og fer að bíta sinuvafinn nýgræðing.
Skuggar teygjast í austur þegar fréttamenn komu þreyttir úr sumarleit sinni. Þeir höfðu erindi sem erfiði.

Hrauntúnstjörn og nágrenni

Hrauntúnstjörn og nágrenni.

Í Morgunblaðinu í júní 1967 skrifaði Rg eftirfarandi í velvakanda, í framhaldi af framangreindri grein, undir fyrirsögninni “Litast um eftir réttu máli (íslensku) og réttum örnefnum”: “Í Morgunblaðinu í dag (11. maí) er á 5. síðu efst mynd af á og tveim lömbum hennar, sem horfa upp yfir skilrúm í kró. Undir er svo smágrein: „Svipast um eftir sumrinu”. Þar standa eftirfarandi setningarhlutar, sem ég gjarna ætla að gjöra við smá athugasemdir höfundi til athugunar, en þó aðallega honum og öðrum, sem lesa kunna þessi orð mín, til umhugsunar eftirleiðis og fróðleiks.
Því bæti ég við einu málfræðilegu hugtaksatriði, sem ég hjó eftir í upphafi greinar í fylgiriti, er lá innan í Morgunblaðinu. Þetta eru athugunarklausur mínar. Eru þær merktar bókstöfum a) til c). — Þær gefa aðallega tilefni til að skjalfesta til athugunar nokkur örnefni og notkun fárra orða og hugtaka.

Hólmur

Hólmur og nágrenni.

a) „Á lítilli tjörn í mýrinni austan Rauðhóla voru…svanahjón”. Eftir þessum orðum að dæma (og framhaldi þeirra) virðist greinarhöfundur hafa skroppið suður yfir Bugðu á brúninni, sem setuliðið — hér á árunum eftir 1940 — lagði yfir ána af Tryppanefsoddanum, og þá um leið veginn beggja vegna að brúnnni, og fluttu síðan eftir vegi og brú Rauðhólana burtu. (Því að nú er aðeins lítill hluti eftir af Rauðhólunum eins og þeir voru frá náttúruinnar hendi). Brú þessi er handriðalaus hleri, en slíkar trébrýr yfir smáár, læki og vegaræsi voru á áratugunum í kringum síðustu aldamót, nefndar: „hlemmur”. (Þaðan er nafnið: Hlemmtorg neðan við Laugarveginn, þar sem Rauðaráin féll niður áður en hún var leidd í rör neðanjarðar, því á henni var „hlemmur” þar sem Laugavegurinn lá yfir ána (lækinn réttara).
Verið getur að „litla tjörnin”, sem höf. nefnir þarna, sé Hrauntúnsvatn, nema um smátjörn, nánast vorleysingapoll sé að ræða, en af þeim er venjulega töluvert þarna í Hólmsengjunum um þetta leyti árs og lengi fram – eftir, því alfestaðar er hraun undir.

Hrauntún

Hrauntúnsvatn – minjar eru við vatnið miðsvæðis.

Hrauntúnsvatn (Hrauntún mun hafa verið þarna — um eitthvert skeið — smáhjáleiga frá Hólmi) er stærst af vötnunum þarna og liggur rétt suður af austurenda Rauðhólanna. Í vatnið, og áður gegnum Helluvatn, rennur Suðurá (nafngift frá Hólmi). Hún kemur austan og ofan fyrir Silungapoll, og með afrennsli úr honum. Það kom einnig með vatnsmagnið úr Gvendarbrunnum áður en það var gert að neyzluvatni. Reykvík (ekki „vis”) inga, (sbr.: Reykvískur). Aðeins sunnan við Hrauntúnsvatn er Kirkjuhólmatjörn hjá Jaðri í Heiðmörk. Vatnsmagn það, er rann úr þessum vötnum, myndaði nokkuð vatnsmikla á, er hét „Dimma” og fellur hún í Elliðavatn. Brúin á veginum að bænum Elliðavatni, að Jaðri og þeim megin í Heiðmörk, er yfir Dimmu. En nú er venjulega haft svo hátt í Elliðavatni (Rafmagnsupphitaða stífla), að árinnar gætir ekki.

Hólmur

Hólmur og nágrenni.

b) „Drengir stóðu að silungsveiðum í Hólmsá”. Hvorki af þessum orðum höf. né þeim, er á undan standa eða á eftir koma er hægt að sjá hvar þetta var. Þarna nálægt Rauðhólunum er engin á, sem heitir Hólmsá — réttu nafni. En norðan við hólana og fast norðan við túnið á bænum Hólmi rennur áin Bugða, sem ég hef nefnt hér á undan, og sem með einni af þeim óteljandi bugðum myndar Tryppanefið áður nefnda. — Áin er ekki löng. Hún var aðeins um 10 km. áður en Rafmagnsuppistöðustíflan var gerð fyrir neðan Elliðavatn, en við það var Bugða leidd inn í lónið, nú Elliðavatn, um tveim km. ofar.
Bugða myndast af tveimur vatnsföllum: Fossvallaá, sem kemur alla leið austan undan Hengilfjöllunum, af Bolavöllum og víðar og fellur vestur og niður milli bæjanna Lækjarbotna í Seltjarnarnesshreppi, og Elliðakots í Mosfellssveit, síðast um skeið í tveimur kvíslum og rennur sú nyrðri í gegn um Nátthagavatn, lítið vatn skammt sunnan við túnið að Elliðakoti. Í einum farvegi mætir hún þó Selvatnslæk (öðru nafni: Selvatns-ÓS) beint norður af Neðrahraunsnefinu fyrir neðan Lækjarbotna, — en vestan í og á Neðra-Hrautjarnnefinu er nýbýlið (frá um 1925) Gunnarshólmi. — Um 2 km. neðar var vað á Bugðu, þar lá Suðurlands(Austurlands-) vegurinn yfir ána. Þeir ferðamenn, sem komu austan yfir „Heiði” og ætluðu til Reykjavíkur, Bessastaða, Hafnarfjarðar og Suðurnesja, sáu aðeins einn bæ nokkurn spöl neðar með ánni:
Hólm. Vaðið var því nefnt: Hólmsvað á Bugðu. En flestir létu sér nægja að segja aðeins: Hólmsá. Þannig er þetta ranga nafn komið inn í málið, og hefur því líka verið klínt inn á kortin. Brúin, sem vegurinn liggur nú um, var gerð á ána fast ofan við vaðið og sér enn fyrir vaðinu á árbökkunum beggja vegna. Neðri endi (ós) Bugðu mætti Dimmu þar neðan við er hún féll aftur úr Elliðavatni, rétt suður af suðurenda slakkans, sem liggur suður frá skörpu beygjunni á Rauðavatni, þar sem vegurinn liggur yfir vatnshlykkinn. Þar, sem árnar komu saman, stendur enn dálítil hraunstrýta; heitir hún Hólmaskyggnir. Er þar nú sumarbústaður og hafa verið gerðir stallar neðst um skyggninn og plantað í stallana. Það er vatnsmagin Dimmu og Bugðu, sem þarna myndar Elliðaárnar. Þarna féllu þær strax fram í tveimur kvíslum þegar ekki var sáralítið vatn í ánum, en þó aðalkvíslin að suðvestan. Sléttlendið, — upp gróið hraun, — á milli kvíslanna, heitir: Vatnsendahólmar; þaðan er nafnið á Hólmaskyggni. Rangnefnið á Bugðu mun líklega reynast nokkuð lífseigt eins og títt er um margar málvitleysur og drauga. En fáir munu veita því athygli að áin sýnir og skrifar sjálf með rennsli sínu að hún heitir Bugða.

Hólmur

Hólmur og nágrenni.

c) „Rosknar kýr, síðvembdar og stirðfættar eftir kyrrsetur (auðkennt hér) vetrarins”. Segið mér! Hefur nokkur séð kýr sitja? Ég man ekki til þess að ég hafi nokkru sinni séð kýr eða aðrar nautkindur sitja á rassinum — ótilneyddar. Man ekki betur en að þær leggist niður með því að krjúpa á kné framfóta og láti síðan afturhlutan hníga á eftir níður á aðrahvora hliðina. Og upp minnir mig að þær rísi aftur með afturhlutan á undan. Minnir að hitt sé undantekning og þá af einhverjum sérstökum ástæðum. Nei, Ég held að „kyrrsetakreppa” (Stgr. Th.) mannfólksins eigi ekki við um húsdýrin — eða dýr yfirleitt — heldur kyrrstöðu stirðnun (sem kallað var: innistaða) vetrarins, og sé kyrrstaðan sízt betri, er til lengdar lætur. Munu ýmsir menn, bæði karlar og konur, geta um það borið, þeir er mikið verða að vinna standandi, — t.d. prentararnir, handsetjararnir við leturkassanna.
Þá vil ég loks benda á eitt orðatiltæki, sem ég aldrei get fellt mig við, en sem mikið kveður að bæði í ræðu og riti, og líklega hjá þorra manna, því að það mun vera orðið gamalt í málinu okkar. Eitt af því marga, sem við höfum látið okkur sæma að apa hugsunarlaust, og að óþörfu, eftir Dönum. Sannast hér sem jafnan að „auðlærð er ill danska”, og það bókstaflega.
Ég tek þetta hér með af því að ég hnaut um þetta orðatiltæki strax í annarri línu og efst á síðu í fjórblöðungi, er lá innan í Morgunbl. í dag (11/5) — (í réttri íslenzkri merkingu, en ekki í ensku merkingunni: today, sem flestir virðast nú hafa gleypt til notkunar bæði í ræðu og riti, íslenzku máli til stórskemmda af því að íslenzkan: „í dag” þýðir alveg bundinn tíma, en ekki lítt takmarkaðan tíma, bæði fram og aftur, eins og enskan: „today” gerir).
Orðatiltækið er: „menn og konur. ” Seg mér (og öðrum) hver þú, sem geitur: Hvaða dýrategund eru konurnar fyrst að taka þarf fram svona skýrt að þær séu ekki menn?
Ég þarf ekki að skrifa meira um þetta. Hver einasti heilvita og hugsandi maður, hvort sem er karl eða kona (orðin: karl þýðir ekki gamal karlmaður og kona þýðir ekki aðeins gift kona, slíkt eru síðari tíma rangtúlkanir orðanna) getur svarað spurningunni sjálfur rétt, ef hann aðeins vill hugsa út fyrir áunnin vanatakmörk, sem eru í raun og veru heimska.”
Vinsamlegast,
Rg”.

Í Morgunblaðinu nokkrum dögum síðar skrifar Karl E. Norðdahl, bóndi á Hólmi athugasemdir við áður fram komnar athugsasemdir undir fyrirsögninni “Ár, vötn og örnefni umhveris Hólm”:
„Velvakandi!

Hólmur

Hólmur – Karl E. Norðdahl lengst til hægri.

Í dálkum þínum fimmtudaginn 15. júní sl. er birt langt bréf frá bréfritara, sem nefnir sig Rg., og ber það yfirskriftina „Litazt um eftir réttu máli (íslenzku) og réttum örnefnum.” Tilefni ritsmíðar Rg. er smágrein, sem birtist í Mbl. 11. maí sl. Rg. hefur fundið sig knúinn til að „fræða” höfund þeirrar greinar sem og aðra lesendur Mbl. um ýmis örnefni umhverfis Hólm og gengur honum vafalaust gott eitt til. Því miður hefur Rg. þó ekki ekkert betur til en svo, að óhjákvæmilegt er að leiðrétta fjölmörg atriði í grein hans.
Nafnið Hólmsá er mjög gamalt. Árið 1887 var fyrst byggð brú á Hólmsá, þar sem núverandi Hólmsárbrú er (og þjóðvegur austur fyrir fjall). Þá brú, sem var 18 álna löng, tók af í vetrarflóði 1888, sbr. Árferði Íslands í þúsund ár, eftir Þorvald Thoroddsen. Upptök Hólmsár eru við Elliðakotsbrekkur. Fossvallaá, sem Rg. talar um er nú ekki nema nafnið eitt.
Fyrir 1920 rann hún meiri hluta ársins en undanfarna áratugi hefur hún verið þurr nærri allt árið, rennur aðeins í stórleysingum.” Upptök Fossvallaárinnar (hún hét reyndar Lyklafellsá austan Fóelluvatna) voru í Engidal og Marardal í Hengli (ekki á Bolavöllum) og heitir hún þar Mará. Sú á hverfur í jörð á Norðurvöllum.

Hólmur

Hólmur og nágrenni.

Rg. talar um Selvatnslæk (öðru nafni Selvatnsós). Þau örnefni eru ekki til og hafa aldrei verið það. Afrennsli Selvatns heitir einungis Ós og fellur um Gljúfur og Elliðakotsmýrar í Hólmsá, þar sem heitir Óskjaftur. Þaðan rennur Hólmsá norðan við bæinn Gunnarshólma (hann var byggður 1928) undir Hólmsárbrú suður um Heiðartagl. Þar féll Ármótakvísl (stífluð 1961) úr Hólmsá í Suðurá. Hólmsá fellur síðan sem leið liggur vestur með þjóðveginum norðan við bæinn Hólm. Áin heitir Hólmsá, ekki Bugða, allt vestur á móts við Baldurshaga. Síðan heitir hún ýmist Hólmsá eða Bugða þar til hún fellur í Rafveitulónið. Nafnið Bugða á þessum hluta árinnar var notað af ábúendum Elliðavatns og Grafar (Grafarholts). Vegagerð ríkisins brúaði Hólmsá og lagði veg af Suðurlandsvegi í Rauðhóla árið 1926, ekki „setuliðið hér á árunum eftir 1940″, eins og greinarhöfundur Rg. kemst að orði.
Rg. talar um vað á Hólmsá (eða Bugðu, eins og komizt er að orði) fast neðan við núverandi Hólmsárbrú, og að þar hafi þjóðleiðin áður legið. Þetta er rangt. Þarna befur aldrei verið vað. Þjóðleiðin lá hér áður fyrr yfir Ármótakvísl, sunnan við bæinn Hólm og yfir Hólmsá um 1/2 km neðan við Hólm.

Hólmur

Hólmur og nágrenni.

Hraunsnef er aðeins eitt, ekki tvö eins og greinarhöfundur telur. Í Silungapoll fellur Hraunlækur að norðan og kem ur upp í Hraunsnefi. Úr Silungapolli fellur Silungapollsá sunnan við Höfuðleðurhól, jökulnúna grágrýtisklettaborg. Silungapollsá sameinast Ármótakvísl við Ármót og heitir eftir það Suðurá. Stóra tjörnin vestur af Gvendarbrunnum heitir Hrauntúnsvatn og því síður Helluvatn eins og Rg. talar um. Helluvatn er vatnið sunnan Rauðhóla. Segja má að Rg. sé nokkur vorkunn að rugla saman örnefnunum Hrauntúnstjörn og Helluvatni, þar sem nafnavíxl hafa orðið á þessum vötnum á herforingjaráðskortinu frá 1908 af þessu svæði. Og enn gengur þessi sama vitleysa aftur á endurskoðuðu korti Landmœlinga Íslands frá útgefnu korti 1966 (blað 27, mælikvarði 1:100000). Má því segja, að erfiðlega ætli að ganga að kveða þennan draug niður. Suðurá féll áður í Hrauntúnstjörn í tveimur kvíslum um Hrauntúnshólma. Sunnan Hrauntúnstjarnar má enn sjá tóftarbrot af eyðibýlinu Hrauntúni. Úr Hrauntúnstjörn féll Krikjuhólmakvísl til norðvesturs í Helluvatn og Kirkjuhólmakvísl til norðvesturs í Helluvatn og Kirkjuhólmaá til suðvesturs í Kirkjuhólmatjörn og þaðan í norðvestur í Helluvatn. Á milli þessara kvísla er Kirkjuhólmi.

Hólmur

Hólmur og nágrenni.

Helluvatn (suður af Rauðhólum) dregur nafn af Hellunni, sléttri hraunklöpp í Helluvaði, sem er neðst í Kirkjuhólmaá. Þar sem sú á fellur í Helluvatn, er mjög djúpur
hylur (um 4:—5 faðmar á dýpt) og heitir Helluvatnsker eða Kerið, kunnur veiðistaður. Vatnsveita Reykjavíkur hefur nú „lokað” Hrauntúnstjörn og hefur hún hvorki að- né frárennsli. Hefur Suðurá nú venð veitt beint í Helluvatn, Áin, sem fellur úr Helluvatni í Elliðavatn heitir alls ekki Dimma eins og Rg. heldur fram og hefur aldrei heitið, heldur Elliðavatnsáll oftast nær kölluð aðeins Állinn. Yfir hann liggur brú af Sundholti og þaðan vegur í Heiðmörk. Áður fyrr voru vötnin tvö, Elliðavatn og Vatnsendavatn. Tanginn Þingnes (nú eyja) skipti þeim að sunnan. Úr Vatnsendavatni féll Dimma og dró nafn af djúpum og dökkum hyljum. Nú er þetta breytt. Rafmagnsveita Reykjavíkur hefur gert stíflu þvert yfir Elliðavatnsengjar og báðar árnar (Dimmu og Bugðu) og myndað eitt stórt stöðuvatn núverandi Elliðavatn.
Greinarhöfundur Rg. virðist ekki vita, að slakkinn frá Rauðavatni til suðurs, þar sem vegurinn liggur yfir vatnshornið, heitir Margróf (það ðrnefni vantar rcyndar einnig á kort af Reykjavík og nágrenni, sem út kom í fyrra) og hann talar um dálitla hraunstrýtu með nafninu Hólmaskyggnir þar, sem árnar komu saman. Ekki er þetta hraunstrýta, heldur melhóll, og nafnið mun vera Vatnsendaskyggnir, en ekki Hólmaskyggnir.
Mun nú látið staðar numið að sinni, en margt er enn ósagt um örnefni á þessum slóðum.”
Með þökk fyrir birtinguna.” – Karl E. Norðdahl – Hólmi.

Heimildir:
-Morgunblaðið, 133. tbl. 15.06.1967, Litast um eftir réttu máli (íslensku) og réttum örnefnum, Rg, bls. 4.
-Morgunblaðið, 143. tbl. 29.06.1967, Ár, vötn og örnefni umhveris Hólm – Karl E. Norðdahl, bls. 4.
-Morgunblaðið, 104. tbl. 11. 05. 1957, Svipast um eftir sumrinu, bls. 5.

Hrauntúnstjörn

Hrauntúnstjörn – minjar.

Viðey

Í Tímanum 1986 er umfjöllun Ingólfs Davíðssonar; “Hugsað til Viðeyjar“:

“”Víkur hann sér í Viðeyjarklaustur, víða eg trúi hann svamli sá gamli”. Svo kvað Jón biskup Arason árið 1550.
Langt er síðan munkar gengu þar um garða, en um skeið var Viðeyjarklaustur eitt hið auðugasta á Íslandi og átti jarðeignir miklar.

Skúli Magnússon

Skúli Magnússon.

Skúli Magnússon landfógeti, sem nefndur hefur verið faðir iðnaðar og þar með kaupstaðar í Reykjavík, bjó lengi í Viðey. Mætti segja að hann hafi þar reist sér minnisvarða með byggingu Viðeyjarkirkju og stofu. Mun Viðeyjarstofa elsta hús í lögsagnarumdæmi Reykjavíkur. Þrír frægir menntamenn þ.e. Bjarni Pálsson, Eggert Ólafsson og Sveinn Pálsson dvöldu oft á vetrum í Viðey hjá Skúla og unnu að hinum stórmerkilegu ferðabókum sínum.
Eftir Skúla tók við veldi Stefánsunga.

Löngum hefur verið rekið stórbú

Viðey

Viðey.

Í Viðey og um skeið var þar mikil útgerðarstöð. Þorsteinn Erlingsson kvað: „Í logninu fuglinn um fjörurnar þaut og flaug upp um engjar og tún. Hann veitti þar eggjunum unað og skraut og Ólafi Stephensen dún”.
Í jarðabók 1703 segir: „Engi yfirfljótanlega mikið og gott ef nýtt og ræktað er. Hagbeit um sumar og vetur hin allra besta.” Og í sýslulýsingum 1852 stendur: „Viðey sögð öll grasivaxin, en mjög þýfð, einkar grasgefin. Æðarvarp mikið og afbragðsmikill heyskapur og einhver hinn besti heykostur.”
Nokkur tilraunastarfsemi var í Viðey á fyrr öldum. Voru nokkrar trjátegundir gróðursettar þar 1752, en allar dóu þær út á næsta ári. Grenifræi var sáð í óræktað land hingað og þangað, einkum í klettunum við sjóinn, en allar plönturnar dóu á þriðja ári. Telur Skúli tilraunirnar ekki hafa verið gerðar af nægilegri þekkingu.

Reynihríslur í Viðey

Viðey

Viðey.

Arthur Dillon lávarður, sem dvaldi í Reykjavík 1834-1835, getur um hríslur í Viðey. Hann ritar á þessa leið um för sína og franskra manna út í Viðey: „Við lentum við brattar steintröppur. Milli þeirra og hússins var grasflötur og þar voru gróðursett um 50 tré. Þó þau væru mjög ung voru þau orðin meira en 12 fet á hæð og munu sennilega dafna betur en flest önnur, þar sem þau vaxa í skjóli hússins og hæða til beggja handa. Húsið var á stærð við stiftamtmannshúsið og lítil kirkja við annan endann.” Dillon nefnir ekki trjátegundina, en líklega hafa þetta verið reyniviðir eins og hjá stiftamtmanninum í landi á sama tíma.
Skyldi Magnús Stephensen hafa gróðursett þessi tré, eða Ólafur Stephensen? Sennilega hafa tré ekki haldist lengi við í Viðey.

Kornrækt í Viðey og Reykjavík

Skúli Magnússon

Skúli Magnússon.

Getið er kornræktar í Viðey á 12. öld og einu sinni kvað hafa þurft Þorlák helga til að setja niður músagang, sem át kornið! Í Sturlungu er sögð kornyrkja í Gufunesi árið 1220. Víkurkirkja átti akurlendi í Örfirisey 1397. Örnefnið Akurey er sennilega gamalt og segir sína sögu. Sennilega hefur einhver kornyrkja haldist allt frá landnámsöld og fram á síðari hluta 16. aldar. Kornyrkjan lagðist niður bæði vegna kólnandi veðurfars og innflutnings á ódýru korni.
Upp úr miðri 18. öld var farið að reyna kornrækt aftur. Fyrir áeggjan Skúla Magnússonar o.fl. sendi Friðrik Danakonungur fimmti 15 jóskar og norskar bændafjölskyldur til landsins, einkum til að gera akuryrkjutilraunir á ýmsum stöðum, aðallega á árunum 1752-1757. Einn bóndinn var settur niður í Reykjavík, annar var í Viðey. Á báðum stöðum var brotið land til kornyrkju árið 1752 og stóðu tilraunir í 5 ár. Reyndar var vetrarrúgur og vorrúgur, bygg, hafrar og blendingskorn og óx það best, en þar næst bygg. Lítið af korninu náði fullum þroska og voru flestir kjarnar linir að hausti. Kornið var því ekki þreskt, en gefið skepnum eins og hvert annað hey. Þótti kornið þrífast heldur skár í Viðey en í Reykjavík.
Næst reyndi Schierbeck landlæknir kornrækt í Reykjavík og fékk m.a. sáðkorn frá nyrstu héruðum Noregs. Þroskaðist bygg sæmilega hjá honum sum árin (1884-1893). Síðan varð hlé uns Klemenz Kristjánsson hóf tilraunir í kornrækt í Gróðrarstöðinni í Reykjavík 1923-1927, og síðar lengi á Sámstöðum í Fljótshlíð. Prentsmiðja var í Viðey á vegum Magnúsar Stephensen 1819-1844. Sjaldgæfar eru Viðeyjarbækur nú og í fárra höndum.

Stórbúskapur í Viðey

Viðey

Austanverð Viðey á tímum Milljónafélagsins.

og mikil útgerð í byrjun þessarar aldar varð Viðey eign þeirra feðga séra Eiríks Briem og Eggerts sonar hans. Var þá umfangsmikill búskapur og búið í Viðeyjarstofu. Á árunum 1907-1914 voru mikil umsvif „Milljónafélagsins” í Viðey, gerð hafnarmannvirki, rekin mikil útgerð og fiskvinnsla. Síðan tók við Kárafélagið fram að kreppuárunum; þá fjaraði atvinnulífið út og þorpið sem hafði myndast fór í eyði 1943. Þar höfðu búið um 100 manns og helmingi fleiri á vertíðinni þegar best lét.
Margir merkismenn hafa átt heima í Viðey Styrmir hinn fróði, vinur Snorra Sturlusonar, var ábóti í Viðey 1235-1245. Styrmir samdi Ólafs sögu helga, og mun hafa átt þátt í nú glataðri frumgerð Landnámabókar. Ögmundur Pálsson, síðar biskup í Skálholti, var ábóti í Viðey um skeið. Á síðari hluta 18. aldar bjó Skúli Magnússon í Viðey, áhrifamikill höfðingi. Hann stofnaði mikið iðnaðarfyrirtæki (Innréttingarnar) í Reykjavík og átti í stríði við einokunarverslunina og barðist fyrir bættri verslun.
Viðey
Við af honum tók í Viðey mikill rausnarmaður, Ólafur Stephensen. Er hans og lífsins í Viðey á þeim tíma, getið í ýmsum útlendum ferðabókum. Útlendum ferðamönnum var oft vísað til Viðeyjar og róma gestirnir höfðingsskap Ólafs og stórkostlegar veislur. Sonur Ólafs, Magnús Stephensen gerði og garðinn frægan í Viðey. Hann var valdamesti maður á Íslandi bæði í veraldlegum efnum og menningarmálum um sína daga.
Saga Viðeyjar er sannarlega viðburðarík. Byggð mun hafa lagst af í Viðey um 1970. Búsældarlegt og gróskumikið hefur jafnan verið í Viðey. Þar fann undirritaður 126 jurtategundir við lauslega athugun 1938. Sjá Náttúrufræðinginn 1939. Sennilega finnast fleiri tegundir við nákvæma leit. Nú er Viðey nýorðin eign Reykjavíkurborgar.”

Í Tímanum 1988 fjallar Ingólfur Davíðsson um “Viðey á dagskrá“:

Viðey
“Nú er Viðey eign Reykjavíkurborgar. Kirkja og stofa hafa verið lagfærð með myndarskap, o.fl. mun vera á prjónunum. Talsverðar fornleifarannsóknir hafa verið gerðar í Viðey hin síðustu ár og margt merkilegt komið í ljós, einkum frá klausturtímabilinu 1226-1550. Viðeyjarklaustur var lengi menntasetur og hafa margir merkismenn gengið þar um garða. Styrmir hinn fróði, vinur Snorra Sturlusonar, var ábóti í Viðey 1235-1245. Hann samdi Ólafs sögu helga og mun hafa átt þátt í nú glataðri frumgerð Landnámabókar. Ögmundur Pálsson hinn voldugi Skálholtsbiskup, samtíðarmaður Jóns biskups Arasonar, var ábóti í Viðey á yngri árum.
Í framtíðinni verður Viðey eflaust fjölsóttur ferðamannastaður, bæði vegna sögu sinnar og legu.”

Í Lesbók Morgunblaðsins 1996 fjallar Sigurlaugur Brynleifsson um “Viðeyjarklaustrið“:

Viðey“Þáttaskil í sögu Viðeyjar verða 1750, þegar Skúli Magnússon er skipaður landfógeti. Ætlunin var að stiptamtmaður og landfógeti sætu báðir í Viðey, en svo fór að. landfógeti sat þar. Efnt var til stórbyggingar sem ætluð var báðum, en byggingin var minnkuð nokkuð eftir að stiptamtmaður hvarf frá búsetu. Hafist var handa við byggingu Viðeyjarstofu 1753 og henni lokið 1755. Nefnt Slotið í Viðey – þá stærsta hús á Íslandi. Með þessum framkvæmdum og stórbúskap ásamt búnaðartilraunum, hefst Viðey til helstu stórbúa landsins á þeirra tíma mælikvarða. Samfara þessu var hafinn undirbúningur að viðreisn landsins með „Innréttingunum” og margvíslegustu tilraunum til aukins afraksturs í landbúnaði og sjávarútvegi.
Með þessum áætlunum og framkvæmdum hófst nýr þáttur í atvinnusögu landsmanna. Og Viðey var höfuðstöð þessara umbreytinga hér á landi og önnur höfuðstöðin var Kaupmannahöfn, en þaðan barst meginhluti þess fjár sem varið var til viðreisnarinnar, úr sjóðum stjórnarinnar. Valdamiklir menn innan dönsku stjórnarinnar studdu Skúla í Viðreisnartilraunum hans, Thott greifi, Molkte og Rantzau stiptamtmaður voru stuðningsmenn hans.
Margt varð til þess að áætlanirnar um viðreisn landsins náðu ekki þeim árangri sem stefnt var að. Harðindi, Skaftáreldar 1783-84 og andúð úrtölumanna og fjandmanna Skúla meðal kaupmanna. En þrátt fyrir það urðu þessar tilraunir til þess að sanna landsmönnum að gjörlegt var að framkvæma það, sem áður var talið vonlaust.
Skúli Magnússon bjó í Viðey í um 40 ár.
Viðey
Ólafur Stephensen stiptamtmaður tók við Viðey og bjó þar við mikla rausn. Mikill munur var að litast um í Viðey í tíð Skúla og Ólafs eða árið 1703, þegar eyjan var í eyði, niðurnídd.
Magnús Stephensen keypti Viðey 1817 og flutti þangað Leirárgarða – og síðar Beitistaðaprentsmiðju 1819. Þar með hefst aftur bókagerð í Viðey. Magnús rak prentsmiðjuna til dánardags 1833 og sonur hans Ólafur sekreteri til 1844. Þeir ættmenn bjuggu í Viðey þar til 1901 og seldu þá eyna.”

Nokkur upplýsingaskilti eru í Viðey umleikis Viðeyjarstofu og Viðeyjarkirkju:

Viðeyjarstofa

Viðey

Viðeyjarstofa frá tíma Skúla Magnússonar.

“Skúli Magnússon landfógeti fékk eyna til aðseturs árið 1751. Skúli var merkisberi nýrra tíma á Íslandi. hann setti á stofn Innréttingarnar í Reykjavík og hugðist þannig koma á fót iðnaði á Íslandi. Hann hefur oft verið nefndur faðir Reykjavíkur en í kringum Innréttingarnar óx fyrst upp þéttbýli í Reykjavík

Viðeyjarstofa

Upprunaleg teikning að Viðeyjarstofu upp á tvær hæðir.

Skúli reisti Viðeyjarstofu sem embættisbústað landfógeta en stofan er fyrsta steinhúsið sem byggt var á Íslandi. Hún er að mestu úr grágrýti en einnig úr íslenskum sandsteini og var smíði hennar lokið árið 1755. Arkitekt stofunnar var Nicolai Eigtved en hann teiknaði margar sögufrægar byggingar í kaupmannahöfn og er Amalienborg þeirra þekktust.
ViðeyNæsti ábúandi Viðeyjar á eftir Skúla var Ólafur Sthephensen, fyrsti íslenski stiftamtmaðurinn. Ólafur bjó í Viðey frá 1794 til dauðadags 1812. Hann var merkur framfarasinni og með búsetu hans úi í eynni varð hún æðsta embættissetur landsins um níu ára skeið. hann hélt ófáar veislur í Viðey og eru til margar frásagnir af þeim.
Arftaki Ólafs í Viðey var sonur hans, Magnús Stephensen konferensráð og dómstjóri. Magnús var, eins og Skúli Magnússon, maður upplýsingar og framfara. Hann réð yfir prentsmiðju, hinni einu á landinu á þeim tíma. Hún var starfrækt í Viðey á árunum 1819-1844. Magnús bjó í Viðey til dauðadags 1833. Hann keypti eyjuna af Danakonungi árið 1817 fyrir stórfé og var hún í eigu ættarinnar út nítjándu öld”.

Viðeyjarkirkja
Viðey
“Viðeyjarkirkja var reist að frumkvæði Skúla Magnússonar landfógeta. Hún er byggð úr grágrýti úr Viðey og var vígð árið 1774 af sr. Árna Þórarinssyni, þá sóknarpresti í Reykjavík en síðar biskupi á Hólum. Arkitekt kirkjunnar er ókunnur en gæti hafa verið Georg David Anton, eftirmaður N. Eigtveds, höfunar Viðeyjarstofu. Viðeyjarkirkja er næst elsta kirkja landsins og geymir elstu upprunalegu kirkjuinnréttingu, sem hér er til. Hóladómkirkja er elst, vígð 1763, en þar er endirgerð innrétting.
Það er einkum þrennt, sem atgygli vekur í þessari gömlu innréttingu. Fyrst má nefna að prédikunarstóllinn stendur fyrir ofan altarið. Slíkt er sjaldgæft hérlendis, en var ekki óalgengt á Norðurlöndunum á þessum tíma. Þetta hefur þá táknrænu merkingu, að boðun Guðs skuli skipa hærri sess í guðsþjónustunni en altarissakramentið.

Viðey

Stóllinn í Viðeyjarkirkju.

Annað sem vekur athygli er stóllinn sem stendur hægra megin við altarið. Hann er einstæður gripur í lúterskri kirkju á Íslandi, eini skrifastóllinn frá gamalli tíð. Fram á miðja 19. öld fengu menn ekki að fara til altaris hér á landi nema þeir hefðu skriftað fyrst, Þeir, sem ætluðu til altaris, fóru út í kirkju með prestinum nokkru áður en messa skyldi hefjast. Presturinn settist í stólinn. En skriftabörnin krupu eitt í einu á knébeð, sem var fyrir framan stólinn og fóru þar með utanbókarlærða almenna syndajátningu og fengu þá aflausn hjá prestinum.
Þriðja atriðið varðar kirkjubekkina. Konur sátu fyrr vinstra megin í kirkju, þegar inn er horft, en karlar hægra megin, svo sem enn tíðkast við brúðkaup. Í Viðeyjarkirkju er bekkirnir kvennamegin 7 sendtimetrum lægri en bekkir karlanna”.

Fornleifarannsóknir á bæjarhól Viðeyjar
Viðey
“Í tilefni af 200 ára afmæli Reykjavíkurborgar árið 1986 fékk borgin að gjöf Viðeyjarstofu og Viðeyjarkirkju frá ríkinu. Við endurgerð Viðeyjarstofu var byggt stórt jarðhýsi við húsið norðanvert. Vegna þeirra framkvæmda hófst fornleifarannsókn á bæjarhólnum árið 1986. Í fyrstu var um björgunaruppgröft að ræða á um 400 fermetra svæði, en árið 1989 var rannsóknarsvæðið stækkað til norðurs um 600 fermetra og rannsóknaruppgröftur hafinn. Fornleifauppgröfturinn var á vegum Árbæjarsafns og stóð til ársins 1995.
Fyrstu ritheimildir um byggð í Viðey eru frá 12. öld, þegar Þorlákur helgi Þórhallsson (1133-1193) var fenginn til að bregðast við músagangi í einni. “Hann vígði vatn og stökkti yfir eyna – uatn um eitt nes”. Á þeim tíma var komin kirkja í Viðey. Árið 1225 stofnaði Þorvaldur Gissurason, með stuðningi Snorra Sturlusonar, klaustur í Viðey af reglu heilags Ágústínusar. Viðeyjarklaustur var starfrækt til ársins 1539, en þá var það rænt af mönnum Danakonungs, munkarnir reknir á brott og Viðey lýst eign konungs.
Eftir að klaustrið var lagt niður var í Viðey rekið bú og “hospital” sem var einskonar vistheimili fyrir farlama fólk, Hospitalið var síðan flutt til Gufuness, þegar Skúli Magnússon landfógeti settist að í Viðey árið 1751.
Uppgröfturinn í Viðey var einn sá viðarmesti sem farið hefur fram á Íslandi á sínum tíma og sá fyrsti sem gerður var á klaustursstað. Hluti af kirkju, kirkjugarði og klausturhúsunum voru rannsökuð. Jarðsjármælingar hafa sýnt að framan við Viðeyjarstofu og -kirkju hafa verið byggingar, sem trúlega voru hluti af klausturhúsunum. Í elstu jarðlögunum komu í ljós leifar bæjar frá 10. öld. Í honum var langeldur, um þriggja metra langur.
Við fornleifarannsóknina fundust um 20.000 gripir, margir athyglisverðir. Mannvistarlög í bæjarhól Viðeyjar eru 2-3 metra þykk og sýna að þar hefur verið byggð allt frá 10. öld fram til 20. aldar. Stór svæði á bæjarhólnum eru ókönnuð og munu rannsóknir í framtíðinni skýra enn betur uppbyggingu húsakosts og lifnaðarhætti Viðeyinga”.

Kúabúið í Viðey
Viðey
“Hér stóð það sem var á sínum tíma eitthvert stærsta og glæsilegasta fjós á Íslandi. Það var byggt skömmu fyrir aldamótin 1900, þegar hjónin Eggert Briem og Katrín Thorsteinsson Briem reistu stórbú í Viðey. Fjósið rúmaði 48 kýr og var sambyggt hlöðu sem tók um 3000 hestburði af heyi. Húsið var úr timbri og bárujárni, með steyptum og hlöðnum undirstöðum. Á hverjum degi var mjólkin flutt til Reykjavíkur og seld í mjólkurbúð Viðeyjarbændanna í húsinu Uppsölum á horni Túngötu og Aðalstrætis, en hún hefur verið nefnd fyrsta mjólkurbúðin í Reykjavík.
Viðey
Á Viðeyjarbúinu störfuðu aldrei færri en 20 manns yfir veturinn og enn fleiri þegar heyjað var á sumrin. Fjósverkin hófust klukkan sex á morgnanna. Fimm stúlkur sáu um mjaltirnar og mjólkuðu 10-12 kýr hver. Strax að loknum mjöltum var siglu með mjólkurbrúsana yfir sundið inn í Laugarnes og þeim ekið þaðan til Reykjavíkur.
Mjólkin þurfti helst að vera komin í mjólkurbúðina fyrir klukkan tíu. Þar var einnig unnið úr henni smjör, rjómi og skyr. Viðeyjarmjólkin þótti góð, enda voru kýrnar vel hirtar og fyllsta hreinlætis gætt við alla mjólkurvinnsluna. Heimilisfólkið í Viðey var stolt af búskapnum og þegar frúr úr Reykjavík eða vestan af fjörðum heimsóttu húsmóðurina fór hún gjarnan með þær í skoðunarfeð út í fjós.
Mjólkurneysla var mun minni í Reykjavík í upphai 20. aldar en síðar varð. Mjólkin var dýr, kýr voru tiltölulegar fáar í bænum og samgöngur við nágrannasveitirnar torveldar. Mjólkurflutningarnir úr Viðey voru líka erfiðir, sérstaklega yfir háveturinn. Á öðrum áratug 20 aldar reisti Eggert Briem annað fjós í Reykjavík, þar sem nú mætast Njarðargata og Smáragata, hafði kýrnar í Viðey á sumrin en í Briemfjósi í Reykjavík á veturna.
Eggert Briem lést árið 1939, skömmu eftir að hann seldi Viðey nýjum eigendum. Seinni kona hans. Halla Briem, lifði hann, en Katrín Thorsteinsson Briem lést 1919. Fjósið og hlaðan í Viðey stóðu lengi enn, en byggingin var rifin um 1900 í kjölfar endurbóta á Viðeyjarstofu”.

Garðrækt Skúla Magnússonar
Viðey
“Á síðari hluta 18. aldar var Skúli Magnússon húsráðandi í Viðey. Hann fékk eina til aðseturs þegar hann var skipaður landfógeti á Íslandi árið 1750 og hér bjó hann til dauðadags árið 1794.
Skúli Magnússon var einn af frumkvöðlunum að stofnun Innréttinganna svokölluðu árið 1751, en það var félag um viðreisn landshaga á Íslandi. Innréttingarnar stóðu fyrir margvíslegri nýsköpun í íslensku atvinnulífi með stuðningi Danakonungs. Þar á meðal beindu forsvarsmenn þeirra augum sínum að möguleikum til aukinnar jarðræktar á Íslandi.
Almenningur var hvattur til þess að koma sér upp kálgörðum og stjórnvöld vildu líka stuðla að trjárækt í landinu. Embættismenn skyndu ganga á undan með góðu fordæmi. Þar lét Skúli Magnússon ekki sitt eftir liggja og ræktaði bæði tré og fjölbreyttar matjurtir við heimili sitt í Viðey.

Viðey

Heyskapur í Viðey 1906.

Árið 1753 pantaði Skúli ólíkar frætegundir til ræktunar. Þar voru til dæmis kastaníurunnar, átján askar, níu rifsberjarunnar, níu stikilsberjarunnar (fjórir að vísu dauðir, en fimm í góðu ástandi) og nokkur ávaxtatré, þar á meðal tvö perutré. Næstu ár voru hins vegar köld og þá er talið að flest trén hafi drepist.
Skúli gerði tilraunir með ræktun á hör og hampi, rúgi og höfrum. Hann freistaði þess að rækta baunir og tóbaksrækt reyndi nann í svokallaðri Tóbakslaut, en hvort tveggja bar lítinn árangur. Betur gekk honum að rækta kartöflur og kúmen. Kúmenið vex enn um alla Viðey og er tínt seint á hverju sumri, þegar það er orðið þroskað”.

Heimildir:
-Tíminn, 222. tbl. 30.09.1986, Hugsað til Viðeyjar, Ingólfur Davíðsson, bls. 12.
-Tíminn, 195. og 196. tbl. 27.08.1988, Viðey á dagskrá, Ingólfur Davíðsson, bls. 27.
-Lesbók Morgunblaðsins 28.09.1996, Viðeyjarklaustrið – Siglaugur Brynleifsson, bls. 5.
-Nokkur upplýsingaskilti eru í Viðey umleikis Viðeyjarstofu.

Viðey

Viðey

Í Morgunblaðinu árið 1990 er grein um Viðey. Í henni er kafli undir fyrirsögninni “Ástarsaga afhjúpuð?” Fjallað er um þrjá letursteina  vestan í eynni sunnan við svonefndan Hulduhól. Ein áletrunin á svonefndum Dvergasteini og önnur á klöpp við Nautahúsin.

“Fundist hafa áletranir frá fyrrihluta síðustu aldar á jarðföstum steinum á vesturhluta Viðeyjar og voru nokkrar þeirra áður óþekktar.

Viðey

Mögulegt er að á einum steininum séu ristir upphafsstafir ungra frændsystkina af Stephensens-ættinni sem bjó í eynni á þessum árum, líklega merki um stutt ástarævintýri. Á öðrum steini er aðeins ártalið 1810 í rómverskum tölum og á þriðja steininum, sem kunnugir hafa reyndar lengi vitað um, eru nöfn tveggja manna ásamt krossmarki og ártali.

Forgengileg ást klöppuð í stein?

Magnús Sædal Svavarsson, byggingastjóri í Viðey, kom fyrir skömmu auga á áletranir sem klappaðar höfðu verið í jarðfasta steina í Viðey. Ein þeirra gæti verið þögult vitni um ástarævintýri ungra frændsystkina í eynni á fyrrihluta síðustu aldar. Séra Þórir Stephensen staðarhaldari skoðaði nýlega steinana með blaðamanni og ljósmyndara Morgunblaðsins.
„Þegar ég sá þessa áletrun fyrst bjóst ég náttúrulega við að hér hefði einhver vinnumaðurinn verið á ferð, hefði verið við gegningar í húsunum,” segir séra Þórir þegar við skoðum stein í nánd við Nautahúsin svonefndu, norðaustan til á Vestureynni. Þar sést stafurinn M og síðan TH sem stundum var notaður í stað íslenska bókstafsins Þ. „Hann gæti hafa verið að dunda við þetta í tómstundum sínum. Svo fór ég í manntalið 1821; það er enn til. Þar er ekkert mannsnafn sem þetta fangamark á við. Ég fór að velta því fyrir mér hvort tveir vinnumenn hefðu verið að verki.
ViðeyÞegar ég ræddi þetta við aðra var mér bent á að ég væri ekki nærri nógu rómantískur! Þegar einhver eða einhverjir séu að krota svona i stein geti það ekkert síður verið elskendur. Ég íhugaði þetta og fór aftur í manntalið. Vorið 1821 kemur Magnús Stephensen, sonur Stefáns amtmanns og bróðursonur Magnúsar Stephensens konferensráðs, heim frá Kaupmannahöfn, þá nýútskrifaður kandídat í lögfræði. Hann hafði alist upp hjá Magnúsi konferensráði frá því hann var á fyrsta ári. Hann elst upp með Þórunni, dóttur Magnúsar, en þau hafa ekki sést í nokkur ár er Magnús kemur heim. Kannski, og ég ítreka kannski, er þessi áletrun merki um það að með þeim hafi kviknað einhver ástarhugur, hún skrifað stafinn hans, Magnús skrifað fangamark hennar og ártalið.
Hann fer aftur að heiman 1823, fær sýslumannsembætti í Skaftafellssýslum 2. september. Magnús er þá svo fátækur að ekki kemur til greina fyrir hann að kvænast; fyrst þurfti hann að koma undir sig fótunum. Næsta ár kemur Hannes bróðir hans heim frá Höfn með guðfræðipróf; hann varð seinna einn af forystumönnum sjálfstæðisbaráttunnar við Dani. Segir sagan að hann hafi verið einn af þrem þingmönnum sem dönsku dátarnir, er voru sendir hingað vegna þjóðfundarins 1851, hafi átt að drepa ef nauðsyn krefði. Á Jónsmessunni 1825 giftist Þórunn Hannesi.
Magnús sýslumaður kvæntist ekki fyrr en 1828, þá prófastsdóttur úr Mýrdalnum.”

Heimild:
-Morgunblaðið, 112. tbl. 19.05.1990, Forgengileg ást klöppuð í stein?, bls. 18-19.
Viðey

Eyrað

Jón Jónsson, jarðfræðingur, skrifaði um “Hólmshraunin fimm”, hraun í nágrenni Reykjavíkur, í Náttúrufræðinginn 1972:

Inngangur

Jón Jónsson

“Þegar farið er sem leið liggur frá Reykjavík austur yfir Hellisheiði, eða austur yfir Fjall, eins og oft er komist að orði, blasir við manni á hægri hönd grámosagróinn hraunfláki, sem nær frá Jaðri austur að Selfjalli og hverfur til suðurs milli efstu brúna. Nyrzt, eða nánar tiltekið milli Selfjalls og Heiðmerkur, gengur þessi hraunbreiða undir nafninu Hólmshraun.
Við athugun kemur í ljós, að um a. m. k. fimm mismunandi og misgamla hraunstrauma er að ræða, sem auðveldlega má greina að norðantil á svæðinu. Er sunnar dregur verður það illgerlegt eða ómögulegt með öllu, enda koma þar fyrir enn fleiri hraun, sem hlaðizt hafa hvert yfir annað. Þau eru öll komin úr Þríhnúkum og svæðum milli þeirra og Hákolls í sunnanverðum Bláfjöllum.
Eldstöðvar á þessu svæði eru a.m.k. átta vel sýnilegar. Ekki er ólíklegt að einhverjar séu nú huldar yngri hraunum, og engan veginn er útilokað að neðst í þessum hraunlagastafla séu hraun frá Heiðinni há, sem runnið hafi til norðurs vestan Bláfjalla.
Ég hef valið að halda því nafni, sem notað er á kortinu (1:50000), en gefa síðan hverju hrauni númer eftir aldursröð á meðan ekki er hægt að tengja hvert og eitt þeirra við ákveðna eldstöð sem hlotið hefur nafn.

Hólmshraun I

Hólmshraun

Hólmshraun – upptök.

Hólmshraun I er elzt þessara hrauna. Það kemur fram austan við Gvendarbrunna og hefur þar runnið út á og nærri þvert yfir Leitahraun (Jónsson 1971, bls. 52), og er því a. m. k. eitthvað yngra. Rekja má það til austurs báðum megin Suðurár um 1,5 km austur frá Gvendarbrunnum, en nyrzta tunga þess endar rétt sunnan við Hólm. Hefur það því næstum náð að renna þvert yfir Leitahraun á þessum stað.
Lítið ber á þessu hrauni þarna, en bergið í því er þó svo frábrugðið Leitahrauni, að mögulegt er að rekja það á þeim grundvelli. Þetta hraun kemur einnig fram efst í Heiðmörk. Hús „Nordmannslaget” stendur einmitt á þessu hrauni. Hraunið er fínkornótt feldspatpyroxen hraun með ofurlitlu ólívíni.
Með því að mæla hlutfall steintegunda í tveim þunnsneiðum úr þessu hrauni fékkst eftirfarandi útkoma: Um aldur hraunsins er ekki vitað annað en það sem þegar er sagt, að það er yngra en Leitahraun og elzt Hólmshraunanna.

Hólmshraun II

Hólmsborg

Hólmsborg er í Hólmshrauni.

Þetta hraun kemur fram á 11 stöðum á því svæði sem kortið nær yfir, en lítið fer fyrir því á þeim flestum. Mesta samfellda spildan er kvísl sú sem fallið hefur um skarðið milli Self jalls og Sandfells, niður með Selfjalli að austan og niður í Lækjabotna. Nyrzti tangi þess myndaði háa og mjög áberandi brún rétt austan við gamla gististaðinn Lögberg, en nú hefur sú brún verið rifin niður og jöfnuð út fyrir hinn nýja veg. Þó má ennþá auðveldlega sjá það á brekkubrúninni aðeins nokkra metra norðan við veginn. Þarna hefur það runnið út á Leitahraun. Nokkur hluti af þessari hraunkvísl hefur fallið vestur með Selfjalli að norðan og myndar þar tvo tanga. Stendur skátaskálinn gamli á þeim syðri og nær hann lengst þeirra vestur.
Hólmshraun kemur víða fyrir á Heiðmerkursvæðinu, bæði syðst, suðvestur af Silungapolli, og rétt austan við Jaðar.
Vestasta hraunröndin þar er þó ekki þetta hraun, heldur yngra hraun, Hólmshraun III. Hólmshraun II myndar því hólma við rönd yngra hraunsins rétt vestan við Gvendarbrunna. Auk þess kemur Hólmshraun II fram nyrzt í kverkinni suður af Selfjalli. Í borholu austan við Gvendarbrunna varð og vart við það undir yngra hrauni.
Hraunið er tiltölulega grófkornótt feldspat-ólívín-dílótt hraun og mjög auðþekkt á því, en annað er þó, sem ekki síður er einkennandi fyrir það, en það er að í því er mesti aragrúi hnyðlinga. Er sums staðar, t.d. í áðurnefndri hraunkvísl austan við Selfjall, svo mikið af þeim, að naumast er hægt að brjóta úr því mola svo að ekki sé í honum hnyðlingur (Jónsson 1963). Þetta eru gabbro-hnyðlingar líkir þeim, sem fundizt hafa á fjölmörgum stöðum á Reykjanesi og víðar hin síðari ár.

Hólmshraun III

Rjúpnadyngjuhraun

Rjúpnadyngjuhraun.

Þetta hraun tekur yfir mun stærra svæði en nokkurt hinna hraunanna. Mestri útbreiðslu nær það í austanverðri Heiðmörk og nær þar óslitið frá Silungapolli og vestur fyrir Jaðar. Nyrzti tanginn á þeim hluta hraunsins nær langleiðina norður að Hólmsá skammt suðvestan við brúna. Brúnin á Hólmshrauni III er mest áberandi hraunbrúnin austan við Gvendarbrunna og allt austur að veginum inn í Heiðmörk, enda liggur það á þessu svæði næst ofan á Hólmshrauni I eða þá ofan á Leitahrauni. Tanginn suðaustan við Gunnarshólma sem Suðurlandsvegur liggur um er Hólmshraun III.

Drottning

Drottning í Bláfjöllum – gígur.

Vegurinn sker þar yfir nyrzta tanga þess. Það þekur svo allstóra spildu þar suður af og fyrir austan og sunnan Silungapoll, en er næst Selfjalli hulið yngra hrauni, Hólmshrauni V, en til vesturs hverfur það undir Hólmshraun IV, sem myndar mjótt belti ofan á því suðvestur af Silungapolli og nær út í tjörnina sem þar er. Þegar sunnar kemur hverfur Hólmshraun III algerlega undir yngra hraun, og það syðsta sem sést af því er nærri beint vestur af Selfjalli ofan og austan við Heiðmörk. Þar fyrir sunnan er mjög erfitt eða ómögulegt að greina milli einstakra hraunstrauma, en geta má þess þó hér, að á svæðinu frá Húsafelli og austur að Heiðmörk hef ég talið mig geta greint a.m.k. 3 mismunandi hraun. Eru þá Hólmshraunin, sem hér er um rætt, ekki meðtalin. Sé nú Búrfellshraun ásamt Leitahrauni og hraununum næst vestan við Vífilsfell talin með kemur í ljós, að gosið hefur yfir tuttugu sinnum á svæðinu milli Lönguhlíðar og Bláfjalla frá því að jöklar hurfu af þessu svæði. Nokkrar líkur benda til þess að flest þessara hrauna séu yngri en Búrfellshraun, en samkvæmt rannsóknum Guðmundar Kjartanssonar er það um 7200 ára gamalt. Sýnir þetta, að eldvirkni hefur verið mikil á svæðinu milli Lönguhlíðar og Bláfjalla eftir að Heiðin há hætti gosum og eftir að Búrfellshraun rann.
Hólmshraun III er ekki ósvipað Hólmshrauni I fljótt á litið, en inniheldur miklu meira ólívín, og er á því auðvelt að greina þessi hraun að. Hnyðlingar finnast í þessu hrauni en ekki er mikið um þá. Einstaka stórir feldspatdílar koma fyrir í hrauninu.

Hólmshraun IV

Silungapollur

Silungapollur.

Þetta hraun hefur fallið í samfelldum straumi yfir Hólmshraun III frá vesturhorni Selfjalls, og endar í mjóum tanga við tjörnina vestur af Silungapolli. Það nær óvíða 500 m breidd og er norðan til aðeins um 200 m og þaðan af minna. Það er áberandi meira dílótt en Hólmshraun I og Hólmshraun III. Nokkuð er um ólívíndíla í því og má vel greina þá með berum augum. Á því svæði sem hér um ræðir kemur Hólmshraun IV ekki fyrir nema á ofannefndu svæði.

Hólmshraun V

Þríhnúkar

Í gíg Þríhnúka.

Síðast í röð þessara hrauna er Hólmshraun V. Það liggur ofan á Hólmshrauni IV vestur a£ Selfjalli, en klofnar þar á því, og fellur svo í tveim kvíslum báðum megin við það. Vestri kvíslin endar rétt sunnan og austan við skála þann, sem „Nordmannslaget” hefur í Heiðmörk, og áður er minnst á. Önnur kvísl úr sama hrauni er svo nokkru vestar, en sú kvísl nær aðeins á einum stað fast að girðingunni sunnan við Heiðmörk.
Austasta kvíslin hefur svo fallið norður með Selfjalli að vestan og alla leið niður í Lækjabotna. Þetta er mjór hraunstraumur, sem fallið hefur upp að fjallinu eftir lægð, sem myndazt hefur milli þess og eldri hraunstrauma. Svo virðist, sem þetta sé yngst allra hraunanna á svæðinu milli Þríhnúka og Hákolls í Bláfjöllum, þó ekki verði það fullyrt að svo stöddu. Sé það hins vegar rétt sýnist og líklegt, að það sé komið úr stuttri gígaröð vestan undir Kóngsfelli. Aðalgígirnir eru tveir, en röð af smágígum liggur upp í fellið að norðvestan. Hrauntraðir stórar liggja frá þessum gígum suður fyrir Kóngsfell og austur með því að sunnan.

Rjúpnadyngjuhraun

Í Rjúpnadyngjuhrauni.

Þá hefur hraunið fallið norður milli Kóngsfells og Rjúpnadalshnúka, en önnur kvísl austur að Bláfjöllum, og er það yngsta hraunið sem endar í allhárri brún vestur af Vífilsfelli og á kortinu er nefnt Vífilsfellshraun. Greinilegt er, að hraunið úr gígunum við Kóngsfell er yngra en hraunin úr Eldborg við Drottningu, en mjög líklega er eitthvað af Hólmshraunum komið úr þeim gíg. Hólmshraun V er gráleitt, fremur fínkornótt basalthraun.
Eins og áður hefur lauslega verið drepið á eru margar eldstöðvar milli Bláfjalla og Lönguhlíðar. Hafa hraun frá þeim flestum runnið norður af og mynda þá mikla hraunbreiðu, sem á kortinu er nefnd Húsfellsbruni, en hraun þau, sem nefnd eru Hólmshraun og Skúlatúnshraun eru raunar hluti af þessum mikla hraunfláka. Nokkrar þessara eldstöðva eru stórkostlegar myndanir eins og t. d. Hólmshraun
Eldborg austan við Drottningu. Tæpum 3 km sunnar eru eldvörp, sem á kortinu hafa ekkert nafn. Þar eru 8 gígir á nær hringlaga svæði, og er einn þeirra mestur. Einn gígur er svo nokkuð utan við þessa þyrpingu. Ég held, að líta verði á þessa gígaþyrpingu sem eina eldstöð, því hraunrennsli virðist a. m. k. á tímabili hafa verið úr öllum þessum gígum, en óvíst er að það hafi verið samtímis. Hraunin frá þessum eldvörpum hafa runnið norður af vestan Bláfjalla og lítið eitt vestur ávið yfir hraun frá Heiðinni há, en þau hverfa brátt undir yngri hraun og er ekki vitað að til þeirra sjáist eftir það. Líklegt er, að eitthvað af hrauni frá Heiðinni há hafi líka runnið norður af vestan við Bláfjöll, en óvíst er með öllu hversu langt þau hafa náð. Geta má þess hér, að hraun það í Heiðmörk, sem á kortinu er nefnt Strípshraun, hygg ég vera úr Þríhnúkum komið.
Þess skal hér með þakklæti getið, að kort það, er grein þessari fylgir, hefur Jón Eiríksson jarðfræðinemi teiknað fyrir mig með frábærri nákvæmni.”

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 3. tbl. 01.11.1972, Hraun í nágrenni Reykjavíkur II – Hólmshraunin fimm, Jón Jónsson, bls. 131-139.

Hólmshraun

Hólmshraunin – og önnur nærliggjandi (Ísor.is).

Kjalarnes

FERLIR skoðaði Esjuberg og nágrenni m.t.t. mögulegra sögulegra minja, s.s. fyrrum fyrstu kirkju á Íslandi árið 910 og þingstað Kjalnesinga:

Esjuberg – sagan

Esjuberg

Esjuberg á Kjalarnesi.

Bærinn á Esjubergi stendur á skriðuvæng upp undir rótum Esju. Mörk jarðarinnar eru á móti Skrauthólum að vestan og Mógilsá að austan. Á Esjubergi voru áður fyrr samþykktir og kveðnir upp dómar. Í Íslensku fornbréfasafni má finna dóm sem var kveðin upp 1480 og þar var þingstaður 1541 og 1746 þegar Jón Oddsson Hjaltalín gerði Lýsingu Kjósarsýslu. Örnefnin Leiðhamar og Leiðvöllur, sem er á mörkum Mógilsár og Esjubergs, benda til að þar hafi verið haldin leiðmót, leiðarþing eða héraðsþing sem haldið var að afloknu Alþingi þar sem greint var frá störfum þess og birtar tilkynningar. Þá var fyrsta símstöðin í Kjalarneshreppi á Esjubergi, sennilega 1912.

Esjuberg

Esjuberg.

Esjuberg var landnámsjörð Örlygs gamla Hrappssonar Bjarnasonar bunu. Landnámabóksegir frá því að Helgi bjóla Ketilsson hafi gefið frænda sínum, bræðrungi, Örlygi Hrappssyni hluta af landnámi sínu, frá Mógilsá að Ósvífslæk. Landnáma getur þess einnig að Örlygur hafi búið á Esjubergi og látið gera þar kirkju sem fóstri hans Patrekur biskup í Suðureyjum hafði sagt fyrir um, og að Patrekur hafi sent hann með kirkjuviði, járnklukku, plenáinum og vígða mold til að setja undir hornstafina. Kirkjan gæti hafa verið tileinkuð Kolumba en Örlygur og frændur hans trúðu á hann. Kirkja Örlygs er talin vera sú fyrsta á Íslandi. Kirkjunnar er einungis getið í kirkjuskrá Páls biskups frá því um 1200.

Esjuberg

Margt er á huldu á og við Esjuberg.

Reyndar segir frá kirkjunni í Kjalnesingasögu sem er talin rituð 1300-1320. Þar segir frá því að Helga Þorgrímsdóttir, eiginkona aðalsöguhetjunnar Búa, hafi látið grafa hann undir syðri kirkjuveggnum og „[þ]á stóð enn kirkja sú at Esjubergi, er Örlygr hafði látit gera“. Eftir þessu að dæma hefur kirkjan ekki verið uppistandandi á ritunartíma sögunnar um 1300 og gæti hafa verið niðurlögð á fyrri hluta 13. aldar. Hvers vegna er ekki vitað og margt getur komið til greina. Kirkjur voru stöðutákn svo höfðingi gæti hafa dáið eða misst stöðu sína til annars. Kirkjan gæti líka hafa verið niðurlögð vegna skriðufalla?
Jarðarinnar er getið nokkrum sinnum í skjölum sem varða hvalreka Viðeyjarklausturs á milli Esjubergs og Valagnúpa, fyrst í skrá varðandi hvalskipti á Rosmhvalanesi um 1270, aftur um 1270 í bréfi Runólfs ábóta í Viðey um hvalrekann, og aftur 1285 um skipti á hvalreka á milli Valagnúpa og Esjubergs. Esjuberg er í skrá um kvikfé og leigumála á jörðum Viðeyjarklausturs frá árinu 1395.
Nafnið kemur fram í skýrslu Hannesar Pálssonar umboðsmanns og kapelláns Danakonungs, um allskonar óskunda og yfirgang, rán, vígaferli og löglausa verslun Englendinga á Íslandi á árunum 1420-1425.
Árið 1480 var úrskurðað í Esjubergsdómi í eignarmálum Soffíu Loftsdóttur og Gunnlaugs Teitssonar. Árið 1497 gaf Böðvar prestur Jónsson vitnisburð um reka Viðeyjarklausturs á milli Klaufar og Esjubergs.

Esjubergssel

Esjubergssel – uppdráttur ÓSÁ.

Á Esjubergsþingi þann 30. september 1541 var felldur dómur um lögmæti bréfs Alexíusar ábóta í Viðey um jarðirnar Skrauthóla og Bakka í Brautarholtssókn. Þá kemur jörðin fram í fógetareikningum 1547-1552. Á Esjubergi voru kveðnir upp dómar um beit og fjárrekstur 1565-1566.
Jarðarinnar er getið á minnisblöðum Vigfúsar Jónssonar sýslumanns Kjalarnesþings árið 1569 og þjófnaðardómur var kveðinn upp þar 14. janúar 1657.
Jörðin var ein af jörðum Viðeyjarklausturs 1686-1695 og þá metin á 40 hundruð.
Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704 var Esjuberg í eigu konungs en jarðardýrleiki óviss. Kvaðir voru meðal annarra um mannslán á vertíð suður á Stafnes. Þá var hægt að fórðra sjö kýr, tólf lömb og þrjá hesta. Jörðin hafði þá haft til langs tíma fría afrétt fyrir hesta og geldnaut á Mosfellsheiði. Torfrista og stunga var góð en mótak til eldiviðar slæmt. Silungsveiði hafði jörðin í Leirvogsá lengst af. Rekavon var nokkur og skelfiskfjara var á Leiðvallargranda. Selstöðu átti jörðin undir Svínaskarði að sunnan og þar var berjalestur nokkur. Helstu ókostir voru að úthey voru lítil og skriður ógnuðu bæði mönnum, húsum og skepnum. Stórviðrasamt var á Esjubergi og stóð mönnum og skepnum ógn af skriðum sem ollu þar tjóni. Tvær hjáleigur voru þá á Esjubergi. Litla-Esjuberg sagt afbýli heima við bæ og Árvöllur önnur hjáleiga og reiknast jarðardýrleiki beggja í heimajörðinni.
Þegar Jón Oddson Hjaltalín gerir lýsingu Kjósarsýslu 1746 þingstaður á Esjubergi 1746. Kaupverð Esjubergs með Grund (Austurbæ) og Árvöllum var 2100 ríkisdalir þegar jörðin var seld úr eigu konungs 1816. Þegar Jarðartal Johnsens var tekið saman 1847 var Esjuberg í bændaeigu, metið á 40 hundruð og með einum ábúanda. Í neðanmálsgrein er sagt að jarðabækurnar geti ekki um hjáleigurnar nema árið 1802, en þá er getið Austurbæjar sem er líklega sama hjáleiga og sýslumaður og prestur kalla Grund. Sú hjáleiga var nefnd Litla-Esjuberg 1704. Jörðin var metin á 40 forn hundruð í Jarðarmati á Íslandi 1849-50. Hjáleigurnar lögðust báðar af eftir mikið ofanflóðaveður 2. september 1886.

Esjuberg

Esja – skriða ofan Leiðhamra.

Umhverfi við Esjuberg ber með sér merki um skriðuföll sem valdið hafa nokkrum búsifjum. Fitjaannáll 1662 segir frá því að í kjölfar mikils regns hafi miklar skriður hlaupið fram víða, bæði á tún, engjar og úthaga. Þrjár jarðir fóru sérstaklega illa út úr þessu vatnsveðri: Esjuberg, þar sem mikið tók af túninu og Vellir og Mógilsá, þar sem tók af þriðjung túna. Haustið 1668 greinir Fitjaannáll frá því að haustið hafi verið venju fremur rigningarsamt. Þá féllu víða skriður á tún og haga, sérstaklega á Esjubergi, svo bóndinn Sigurður Núpsson flutti sig þaðan í burtu. Jarðabók Árna og Páls segir frá skriðum 1704 sem „fordjarfa, engjar og úthaga merkilega, so að hætt er bæði mönnum, húsum og fjenaði.“

Esja

Esja ofan Leiðvalla.

Blaðið Norðanfari sagði frá skriðu sem hljóp úr Esju 4. júlí 1871 og tók af mestan part af túninu á Esjubergi og gerði usla á engi.
Þann 2. september 1886 gerði aftakarigningu sem olli miklum skriðuföllum. Þá urðu níu jarðir á Kjalarnesi fyrir stórskemmdum og ein jörð í Mosfellssveit. Á Esjubergi fór skriða yfir hluta túnsins og 60-70 hesta af heyi. Einnig fór sandur og leir yfir mestanpart og besta part engjanna og restin varð óslæg vegna leirs í rót. Þá féll skriða á bæjarhús hjáleigunnar Grundar sem fór í eyði eftir þetta.
Litla Esjuberg Var afbýli heima við bæinn þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704, er ekki getið í öðrum heimildum. Dýrleikin reiknaðist með heimajörðinni. Kvaðir voru um skipsáróður allt árið utan sláttar. Hægt var að fóðra eina kú og fimm lömb. Afbýlið hafði torfskurð og eldiviðartak í heimalandinu.

Esjuberg
Í Örnefnalýsingu Ara Gíslasonar um Esjuberg segir m.a.: “Jörð í Kjalarneshreppi, næst vestan við Mógilsá. Merkin móti Mógilsá eru frá Leiðvelli beint við vesturhorn á sléttri flöt upp í Markagil, (Stangargil eða Festargil. Vestan við Fálkaklett eftir miðju gilinu um Skarðsdali efri og Skarðsdali neðri, eins og lækurinn ræður, upp í Þverfell. Móti Móum er varða á landsuðurhorni Varmhóla, síðan vestur þá og í vörðu hæst á þeim, beina sjónhendingu í Brautarholtsborg eða beint í Villingavað á Móalæk. Þetta voru gömlu merkin. En nú ræður vegurinn milli Saltvíkur og Esjubergs. Melur er norður af Varmhólum, milli þeirra og Dyngjuholts, sem heitir Varmhólamelur.
Vesturmörkin, milli Esjubergs og Skrauthóla, eru um Gvendarbrunn í Flóðará og beint upp Esju. Milli Móa og Saltvíkur eru merkin Móalækur um Gvendarbrunn og upp í há-Esju um Laugarnípu, sem er há nípa upp af Árvelli. Leiðvöllur hefur verið nefndur fyrr. Það er malarkambur niður við sjóinn. Áður var þar tjörn fyrir innan, en nú er þar sandnám. Vestan hans taka við hamrar, sem nefndir eru Leiðhamrar. Þeir eru þrír talsins. Austasti hluti þeirra tilheyrir Esjubergi,en hitt Móum. Úr honum er línan í Varmhóla, þar sem þeir eru hæstir, en það er hólaþyrping hér upp af. Upp af Leiðhömrum er mýri, þar sem tekinn var upp mór frá Esjubergi. Upp af Leiðvelli er flöt, er nefnist Kirkjuflöt. Þar var sagt, að hefði verið bænhús eða kirkja. Viðurinn í hana átti að hafa verið fluttur um Leiðvöll.”

Í Wikipedia.org segir um Kjalarnesþing:

Esja

Mögulegur þingstaður fyrrum Kjalarnesþings.

“Kjalarnesþing var staðbundið þing sem starfaði fyrir stofnun Alþingis og var að einhverju leyti undanfari þess. Það hefur sennilega upphaflega verið á Kjalarnesi en var lengst af haldið á Þingnesi við Elliðavatn.

Þinghald tíðkaðist meðal germanskra þjóða löngu fyrir landnám Íslands, þar á meðal í Noregi, og landnámsmenn hafa því þekkt það úr heimalöndum sínum og fljótlega séð nauðsyn þess að hafa einhvers konar sameiginlegar reglur og dómstóla. Heimildir geta um tvö staðbundin þing fyrir stofnun Alþingis, Kjalarnesþing og Þórsnesþing, en þau kunna að hafa verið fleiri. Ari fróði segir í Íslendingabók að Þorsteinn, sonur Ingólfs Arnarsonar, hafi stofnað þingið: „áðr var þing á Kjalarnesi, þat er Þorsteinn Ingólfssonr landnámamanns, faðir Þorkels mána lögsögumanns, hafði þar ok höfðingjar þeir, er at því hurfu.“

Ekki er ljóst hve stórt þingsvæði Kjalarnessþings var en það kann að hafa náð austur að Ölfusá. Sumir telja að Alþingi sé stofnað út frá Kjalarnesþingi. Þorsteinn Ingólfsson helgaði hið fyrsta Alþingi og var útnefndur allsherjargoði og þann titil báru afkomendur hans síðan.

Jónas Hallgrímsson skáld og náttúrufræðingur gróf í búðarústirnar á Þingnesi 1841 og aðrir rannsökuðu þær síðar en 1981 hófst þar uppgröftur á vegum Þjóðminjasafnsins og var þá grafinn upp fjöldi búðarústa, dómhringur (lögrétta) og fleira. Elstu rústirnar voru frá því um 900 en þær yngstu líklega frá því um 1200, enda hefur Kjalarnesþing áfram verið héraðsþing þrátt fyrir stofnun Alþingis.”

Í Vinnuskýrslu fornleifa 2004 lýsir Guðmundur Ólafsson, fornleifafræðingur, Kjalarnesþingi (Rannsóknarsaga 1841-2003):
Leiðvöllur
“Á Þingnesi við Elliðavatn er dálítil þyrping fornra rústa sem lætur ekki mikið yfir sér þegar gengið er um staðinn. Til skamms tíma var staðurinn einnig ómerktur og áttu margir jafnvel erfitt að átta sig á hvar minjarnar væru, þó að þeir gengju um svæðið. Margt bendir til þess að þessar minjar séu hins vegar með merkustu minjum landsins, og að þarna séu hugsanlega leifar Kjalarnessþingstaðar, sem var fyrsti þingstaður landsins og líklega settur á fót rétt fyrir eða um 900.
Þrátt fyrir mikilvægi Kjalarnessþings féll staðurinn algerlega í gleymsku, eins og flestir hinna fornu héraðsþingstaða og í dag er ekki vitað með vissu hvar þingið var haldið.
Með vaknandi þjóðerniskennd á 18. og 19. öld fóru ýmsir að svipast um eftir frægum stöðum sem nefndir voru í Fornsögum, þar á meðal Kjalarnesþingi. Nafnið “Kjalarnesþing” bendir óneitanlega til þess að það hafi staðið á Kjalarnesi, og þar hófu menn fyrst leit að staðnum.
Þingnes
Á 18. öld getur Árni Magnússon um örnefnið “Þingeyri” í Kollafirði. Um 1880 virðist Þingeyri týnd en í staðinn talar Sigurður Vigfússon um “Leiðvöll” á Kjalarnesi. Af lýsingunni að dæma virðist um sama stað að ræða. E.t.v. eru þessi örnefni (Þingeyri og Leiðvöllur) aðeins tilraunir viðkomandi fræðimanna á 18. og 19. öld til þess að finna Kjalarnesþingi líklegan stað og varasamt að byggja of mikið á þeim.
Spyrja má hvernig mönnum datt í hug að tengja Kjalarnesþing við stað eins og Þingnes sem er augljóslega ekki á Kjalarnesi. Meginástæðan fyrir því að farið var að leita að öðrum stöðum sem bent gætu til þinghalds á svæðinu kring um Faxaflóa er væntanlega sú að á Kjalarnesi hafa ekki fundist eða varðveist minjar sem bent gætu til þingstaðar.
Jónas Hallgrímsson, skáld og náttúrufræðingur, vakti fyrstur athygli manna á búðarústum í Þingnesi við Elliðavatn, og getur sér til að þar sé fundinn hinn forni Kjalarnesþingstaður, sem svo lengi hafði verið týndur.

Þingnes
Í kjölfar þessa spunnust næstu áratugina miklar umræður um staðsetningu Kjalarnessþings meðal fræðimanna og stóð sú umræða meir og minna yfir fram yfir aldamótin 1900. Þá höfðu margir innlendir og erlendir fornfræðingar þess tíma heimsótt staðinn, mælt hann upp og lýst honum og sumir jafnvel grafið í rústirnar í rannsóknarskyni, eins og greint verður nánar frá hér á eftir. Rannsóknarsaga Þingness er því lengri og fjölbreyttari en en flestra annara minjastaða á Íslandi.
Allir sem könnuðu staðinn voru sammála um að þar væru um 15 – 20 rústir í þyrpingu, hringlaga mannvirki á miðju svæðinu, og að staðurinn væri líklega þingstaður. Árið 2003 hófust á nýjan leik rannsóknir á Þingnesi á vegum Þjóðminjasafns og Háskóla Íslands, sem liður í verklegri kennslu í fornleifafræði.

Í þessari ritgerð er safnað saman á einn stað helstu ritheimildum um Kjalarnesþing og Þingnes og hin merkilega rannsóknarsaga staðarins rakin frá upphafi. Til þess að gefa sem besta innsýn í umræðuna og leifa röksemdum sem notaðar voru í umræðunni að njóta sín, eru hér endurbirtar helstu greinar þeirra fræðimanna sem mest létu sig þetta mál varða. Gerð er grein fyrir hverju mannvirki fyrir sig sem rannsakað var á árunum 1981 – 2003. Rætt er um niðurstöður rannsókna í ljósi núverandi vitneskju, aldur og hugsanlegt hlutverk minjanna á Þingnesi.

Þingnes
Í þeirri umræðu sem átti sér stað á síðari hluta 19. aldar og fyrri hluta 20. aldar um Kjalarnessþing og Þingnes komu fram flest þau rök sem halda að mestu enn í dag. Umræðurnar eru bæði skemmtilegar og áhugaverðar og mikilvægt innlegg í rannsóknarsögu staðarins. Ástæðan fyrir því að þetta mál komst yfirleitt á dagskrá á sínum tíma er sú að Kjalarnessþings er getið í Íslenskum fornritum sem hins fyrsta þingstaðar á Íslandi.

Samkvæmt frásögn Landnámu og Íslendingabókar á Þorsteinn Ingólfsson, sonur Ingólfs Arnarsonar, að hafa stofnað til þings áður en Alþingi var stofnað á Þingvöllum árið 930. Stofnun Kjalarnessþings er sennilega einn af merkustu atburðum landnámsaldar. Þá er mönnum greinilega orðið ljóst að ekki verði búið í landinu án þess að sett séu almenn lög og samskiptareglur og helstu höfðingjar virðast taka höndum saman um að koma á fót þessum fyrstu drögum að þinghaldi í landinu.

Um þennan atburð segir svo í þriðja kafla Íslendingabókar: ,,Alþingi var sett að ráði Úlfljóts og allra landsmanna þar sem nú er, en áður var þing á Kjalarnesi, það sem Þorsteinn Ingólfssonur landnámsmanns, faðir Þorkels mána lögsögumanns, hafði þar og höfðingjar þeir er að því hurfu.”
Í neðanmálsgrein um þessa frásögn segir Jakob Benediktsson að ágreiningur hafi verið meðal fræðimanna hvort að Kjalarnesþing hafi verið héraðsþing eða vísir að allsherjarþingi. Hann tekur ekki afstöðu til þess, hvort sé rétt, en telur líklegt að á Kjalarnesþingi hafi farið fram undirbúningur að stofnun Alþingis.

Þingnes
Í Landnámabók er frásögnin með svipuðum hætti: “Ingólfur átti Hallveigu Fróðadóttur, systur Lopts ins gamla. Þeirra sonur var Þorstein, er lét setja þing á Kjalarnesi, áður Alþingi var sett”. Í Þórðarbók stendur ekki á Kjalarnesi, heldur “á Krossnesi”, sem talið er að Þórður hafi bætt inn í handritið. Í neðanmálsgrein greinir Jakob Benediktsson frá því að í viðbæti Þórðarbókar standi eftirfarandi klausa úr Melabók: ,,Þorsteinn Ingólfsson lét setja fyrstur manna þing á Kjalarnesi, áður alþingi var sett, við ráð Helga bjólu og Örlygs að Esjubergi og annarra viturra manna, og fylgir þar enn sökum (þess) því goðorði alþingishelgun”.

Kjalnesinga sögu, sem er reyndar ekki talin með áreiðanlegustu sögum, ber ekki saman við þessar frásagnir um stofnun Kjalarnesþings. Þar segir: “Þorgrímr (sonur Helga Bjólu landnámsmanns) lét setja várþing á Kjalarnesi suðr við sjóinn; enn sér stað búðanna; þar skyldi öll mál sækja og þau ein til alþingis leggja, er þar yrði eigi sótt eða stærst væri”.
Litlum sögum fer af þessu merka þingi. Aðeins eru tvær frásagnir varðveittar um mál sem borin voru upp á Kjalarnesþingi. Annars vegar er frásögn í Kjalnesinga sögu um að Þorsteinn Þorgrímsson á Hofi á Kjalarnesi, stefndi Búa Andríðssyni um rangan átrúnað til Kjalarnessþings og lét varða skóggang. Sótti hann málið og varð Búi sekur skógarmaður. Segir sagan, að hann hafi þá verið 12 vetra. Hins vegar er um að ræða vígamál sem spunnust út af deilum Ófeigs grettis og Þorbjarnar jarlakappa, sem lauk með því að Þorbjörn felldi Ófeig í Grettisgeil hjá Hæli.
Leitað var til Önundar tréfóts til þess að reifa málið. Hann fékk til liðs við sig Ólaf feilan, sonarson Auðar djúpúðgu. Í Grettissögu er frásögnin af málinu á þessa leið “og reið Ólafur suður með honum, og er Önundur hitti vini sína og mága, þá buðu þeir honum til sín. Var þá talað um málin og lögð til Kjalarnessþings, því að þá var enn eigi sett alþingi. Síðan voru málin lögð í gjörð, og komu miklar bætur fyrir vígin, en Þorbjörn jarlakappi var sekur gjörr”. Þessir atburðir munu líklega hafa átt sér stað um 906 – 908.

Þingnes

Þingnes – Uppdráttur G.Ó.

Þegar fornritum sleppir er elstu vísbendingu fyrir því að þingstaður hafi getað verið á Kjalarnesi, líklega að finna hjá Árna Magnússyni, handritasafnara. Í riti sínu Chorographica Islandica sem er tekið er saman á löngu árabili í upphafi 18. aldar birtir hann lauslega afstöðumynd af nokkrum örnefnum í Kollafirði. Þar er örnefnið Þingeyri merkt við nes á kortinu sem gengur út í miðjan Kollafjörð að norðanveru. Í athugasemd nefnir Árni m.a. að í landi Esjubergs sé enn sýndur fyrsti þingstaður á Sandeyri í Kollafirði.

Kort Árna Magnússonar af Kollafirði þar sem skráð eru örnefnin: Helguskier, ÞingEyre, Kollafiörður, og áttavísanirnar suður og austur. Engar minjar hafa fundist á þessu svæði sem bent gætu til þingstaðar.

Jónas Hallgrímsson, skáld og náttúrufræðingur fékk áhuga á að finna Kjalarnesþing hið forna. Þegar hann hefur rannsóknir sínar virðist almennt hafa verið talið að þingstaðinn væri að finna á Kjalarnesi sjálfu, en að enginn vissi nákvæmlega hvar. Honum var sagt að vestan við bæinn Móa á Kjalarnesi væru leifar þingstaðar niður við sjó, en að þar væru engar sýnilegar minjar. Það eina sem þar minni á þingstað sé örnefnið Leiðvöllur. Hann fékk síðan upplýsingar um minjasvæðið við Elliðavatn og gerði út leiðangur til þess að rannsaka staðinn árið 1841 og fann þá 18 – 20 búðir og dómhring. Rannsókn hans er afar merkileg og með nokkrum sanni má segja að þessi rannsókn marki upphaf fræðilegra rannsókna á Íslandi, þó að frumstæð sé. Mér er ekki kunnugt um aðrar eldri rannsóknir á fornleifum sem gerðar hafa verið á Íslandi af fræðimönnum.

Esja

Meintur kirkjuhóll á “Kirkjuflöt” ofan Leiðvalla.

Niðurstöður Jónasar birtust í Rit eftir Jónas Hallgrímsson III. Dagbækur, yfirlitsgreinar og fleira. Annars vegar undir fyrirsögninni: ,,Tvær litlar rannsóknarferðir: 1. Þingnes í Elliðavatni”, og hins vegar ,,Uddrag af dagböger fra en rejse i Island Sommaren 1841, for saa vidt angaar Antikvariske iagttagelser”. Frásagnirnar eru mjög svipaðar en til þess að halda saman öllu sem Jónas skrifaði um rannsóknina eru þær báðar birtar hér eins og þær birtust á dönsku í dagbókum hans: “Da jeg i næstafvigte Vinter for Alvor begyndte at forespørge mig om Stedet, hvor det gamle Kjalarnesþing havde staaet, saa var der ingen, som kunde give mig nogen Oplysning derom. Vel sagde man, at etsteds paa Kjalarnæsset, vesten for Gaarden Moar, ved Stranden, nok var Levninger af et Tingsted, men at man ikke saa der nogen Budetomter. Stedet kaldes desuden, vel at mærke, Leiðvöllur. Dette førte mig naturligvis til den Tanke, at Kjalnæsingerne vel i sin Tid havde holdt det aarlige »leiðarþing« paa dette Sted, men at det derfor ikke var afgjort, at Herredstinget nogen Sinde havde været der. Omtrent til samme Tid fik jeg at vide, at ved Elliðavatn, – en fiskerig Indsø, der ligger oven for Seltjarnarneset, paa de gamle Grænser af Kjosar- og Guldbringe-Sysseler og midt i Herredet Kjalarnessþing —, skulde der findes mange og anselige Tomter i et Næs, der gaar ud i bemeldte Indsø, midt i mellem Gaardene Vatns-endi og Vatn. Efter en foreløbig Undersøgelse tog jeg fra Reikevig til dette Sted om Aftenen den 20. Juni, da jeg næste Dag agtede at foretage der en Del Eftergravninger, i Haab om paa denne Maade at komme til et Resultat med Hensyn til bemeldte Tomters tidligere Bestemmelse.

Esja

Esja – stekkur oafn Leiðvalla.

Niðurstöður Jónasar hleyptu af stað miklum vangaveltum og nokkrum deilum um staðsetningu Kjalarnessþings sem stóðu fram yfir aldamótin 1900, en lognuðust svo útaf vegna skorts á frekari sönnunargögnum. Það kann að þykja einkennilegt að ekki hafi fundist nein ný sönnunargögn sem skorið gætu úr þessari deilu þegar þess er gætt að enginn staður á Íslandi hefur verið rannsakaður jafn oft og rústirnar í Þingnesi. Þarna grófu nefnilega bæði íslenskir og erlendir fornfræðingar þess tíma hver á fætur öðrum án þess að takast að ráða gátu staðarins. Ástæða þess er sú að hann er óvenju erfitt viðfangsefni, eins og vikið verður að síðar. Af helstu fræðimönnum sem þarna grófu auk Jónasar má nefna Angus Smith, skoskan fornfræðing sem rannsakaði staðinn árið 1872; Sigurð Vigfússon árið 1889; Daniel Bruun og Björn M. Olsen árin 1896 – 1897.
Að auki könnuðu allir helstu fornfræðingar landsins staðinn og gerðu athuganir á honum. Þar á meðal Kristian Kaalund, Sigurður Guðmundsson, Sigurður Vigfússon og Brynjúlfur frá Minna Núpi.
Sú umræða um Kjalarnesþing sem spratt af rannsóknum Jónasar er mjög skemmtileg og er afar áhugavert að kynnast hugmyndum og sjónarmiðum þesarra fræðimanna sem um hann fjölluðu fyrir rúmum hundrað árum.
Þrátt fyrir að ályktanir og niðurstöður taki gjarnan mið af því að verið er að reyna að útskýra hvernig Kjalarnesþing sé upp við Þingnes en ekki á Kjalarnesi, er engin ástæða til að rengja glöggskyggni rannsóknarmanna í lýsingum sínum á sjálfum minjunum.”

Esja

Minjakort Minjasafns Reykjavíkur. Hér er Kirkjuflöt ranglega staðsett.

Af framangreindu mætti ætla, í fljótu bragði, að kirkja Örlygs gamla hafi verið á Esjubergi. Ef betur er lesið er ljóst að hún var á flöt; Kirkjuflöt “ofan við Leiðvöll” í Kollafirði. Á örnefnamynd Minjasafns Reykjavíkur er Kirkjuflöt staðsett beint ofan við Leiðvöll, þar sem nú eru malargryfjur. Ljóst má þó vera að þar hafi aldrei verið flöt sú, sem fjallað er um. “Ofan við Leiðvöll” hefur miklu líklegra verið á reiðleiðinni þaðan áleiðis að Esjubergi. Þar ofan við er sléttur gróinn melur, skammt ofan Leiðhamra. Á flötum melnum er aflangur gróinn hóll, sem snýr frá austri til vesturs. Ekki mótar fyrir veggjum í hólnum. Skammt norðan við hann eru tóftir fjárhúss (heykuml, hús og gerði).
Telja má ólíklegt að Örlygur gamli hafi ráðið að reisa fyrstu kristnu kirkjuna heima við bæ sinn á Esjubergi þrátt fyrir almenna stundarsátt millum trúarbragða á þeim tíma. Slík framkvæmd gat boðið hættunni heim. Hafa ber í huga að Ísland var heiðið á þessum tíma og þótt kristið fólk hafi sest hér að, ekki síst á Kjalarnesi, verður að teljast hæpið að hann hafi viljað storka örlögunum með svo augljósum hætti, en afráðið þess í stað að láta reyna á þolgæði samlandanna og reist hið táknræna trúboð við alfaraleið á ystu mörkum landnámsins þar sem ólíkar hefðir blönduðust sameiginlegum hagsmunum, þ.e. mikilvægum siglingum millum anda. Örlygur hefur ólíklega afráðið að reisa kirkjuna á meintum stað Kjalarnesþings ofan Leiðvalla, sem stofnað hafði verið nokkrum árum fyrr. Minjastaður meintar kirkju er í skjóli fyrir erfiðum vindáttum ofan af Esjunni. Skammt sunnan við meintan minjastað er orpinn hóll, mögulega dys. Kjalnesingasaga segir að Búi hafi verið grafinn sunnan við kirkjuna, sem þá hafði verið aflögð.
Í Esjunni ofan við meint kirkjustæði er örnefnið “Kirkjunýpa”, sem hingað til hefur ekki ratað í nútíma örnefnalýsingar einhverra hluta vegna.
Esjuberg
Telja má sennilegt að kirkjan á Kirkjuflöt ofan Leiðvalla hafi síðar verið flutt að bænum Esjubergi, líkt og lesa má í síðari heimildum.  Þar fór fram fornleifauppgröftur fyrir nokkrum árum, en skilaði ekki tilhlíðanlegum árangri. Sú, eða þær kirkjur, sem nálægt bænum kunna að finnast, geta því varla talist til elstu kirkju landsins. Vitað er að hvorki timburkirkjur né torfkirkjur hafi varað til eillífðar, heldur þvert á móti; þær hefur þurft að endurbyggja með reglulegu millibili, mögulega á 20-50 ára fresti.
Skammt sunnar í hlíðinni, allnokkuð ofan Leiðvallar, er óglöggt minjasvæði. Sést þar móta fyrir veggjum.

Gamli Kjalarnesvegurnn – Minjasafn Reykjavíkur.

Heimildir:
-Bæir á Kjalarnesi – ritgerð.
-https://is.wikipedia.org/wiki/Kjalarnes%C3%BEing
-Vinnuskýrsla fornleifa 2004 lýsir Guðmundur Ólafsson, fornleifafræðingur, Kjalarnesþingi (Rannsóknarsaga 1841-2003).
-Gamli Kjalarnesvegur – Minjasafn Reykjavíkur.
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar um Esjuberg.

Esja

Esjan ofan Leiðvallar. Svæðinu neðanverðu hefur verið mikið raskað í gegnum tíðina.

Esjuberg

Á vefsíðu kirkjunnar 18. júní 2021 má lesa eftirfarandi um útialtari á Esjubergi:

“Sunnudaginn 20. júní verður útialtarið á Esjubergi, Kjalarnesi, vígt af biskupi Íslands, sr. Agnesi M. Sigurðardóttur. Með henni þjóna sóknarpresturinn sr. Arna Grétarsdóttir og sr. Hans Guðberg Alfreðsson, prófastur Kjalarnessprófastsdæmis. Kór Reynivallaprestakalls syngur og organisti er Guðmundur Ómar Óskarsson. Athöfnin hefst kl. 14.00.

Esjuberg

Esjuberg – Biskup Íslands vígir útialtarið.

Sögufélagið Steini á Kjalarnesi hefur haft veg og vanda af útialtarinu og mun formaður félagsins, Hrefna Sigríður Bjartmarsdóttir, flytja ávarp við vígsluna.

Hátt í fjórir áratugir eru liðnir frá því að fyrst var hreyft þeirri hugmynd að koma upp á Esjubergi minnismerki í tilefni þess að sagnir herma að þar hafi verið reist fyrsta kirkjan á Íslandi og þá þegar fyrir kristnitöku árið 1000. Það var svo árið 2014 að var flutt tillaga á kirkjuþingi þjóðkirkjunnar af tveimur Kjalnesingum um að reist yrði útialtari að Esjubergi. Tillögunni var vel tekið á þinginu en henni var vísað heim í hérað. Sögufélagið Steini á Kjalarnesi tók svo málið í sínar hendur og hefur haft yfirumsjón með verkinu. Allar götur síðan hefur Sögufélagið Steini unnið jafnt og þétt að uppbyggingu útialtarisins. Þjóðkirkjan, ýmis félagasamtök, sjóðir og fjöldi einstaklinga hafa lagt fram fé til þess að þetta minnismerki yrði að veruleika. Stjórnarmenn í Sögufélaginu og velunnarar þess hafa lagt fram mikla vinnu við útialtarið. Fyrsta skóflustungan að útialtarinu var tekin 8. maí 2016.

Esjuberg

Biskup Íslands og sr. Arna Grétarsdóttir sóknarprestur Reynivallarprestakalls.

Nú er útialtarið tilbúið og er mannvirkið hið glæsilegasta. Útialtarið er hringur, með fjórum inngöngum sem snúa til höfuðátta, veggir eru hlaðnir af hleðslumeisturum sem og sæti. Upp úr níu tonna altarissteininum rís tveggja metra keltneskur kross sem steyptur var af hagleiksmanninum Guðna Ársæl Indriðasyni. Krossinn ber ýmis keltnesk tákn og á ytra borði hans eru steinvölur sem börn úr Klébergsskóla tíndu úr fjörunni á Kjalarnesi sem og steinar frá skosku (keltnesku) eyjunum Lindisfarne og Iona.

Útialtarið á Esjubergi er einstakur kristinn helgistaður og þar verða eflaust ýmsar athafnir hafðar um hönd, eins og skírnir, hjónavígslur og helgistundir.

Hvar er útialtarið?

Esjuberg

Esjuberg – skilti til leiðbeiningar að útialtarinu.

Þegar komið er upp úr Kollafirði blasir við skilti sem á stendur Kerhólakambur og einnig Útialtarið – og slaufumerkið um að þar sé að finna athyglisverðan stað til að skoða. Á vígsludaginn verður fánaborg við innkeyrsluna og ætti hún ekki að fara fram hjá neinum. Mælt er með því að fólk leggi bílum sínum til hliðar við innkeyrsluna og gangi að altarinu, en það eru 0.7 km. Spáð er ágætisveðri.” – hsh

Á MBL.is 19. júní 2021 var eftirfarandi umfjöllun um útialtarið á vefmiðlinum:

Biskup vígir keltneskt útialtari á Esjubergi
Talið er að fyrsta kristna kirkja Íslands hafi staðið við Esjuberg og á hún að hafa verið reist um árið 900 en hennar er getið í íslenskum ritheimildum. Þrátt fyrir fornleifarannsóknir á svæðinu hafa aldrei fundist ummerki um kirkjuna, en regluleg skriðuföll úr Esjuhlíðum hafa hulið svæðið.

Sögufélagið Steini á Kjalarnesi hefur undanfarin ár staðið að því að reisa minnisvarða um kirkjuna og nú á sunnudag mun biskup Íslands vígja útialtari að keltneskri fyrirmynd á Esjubergi.

Esjuberg

Sr. Hans Guðberg Alfreðsson prófastur Kjalarnesprófastdæmis.

„Þjóðkirkjan hefur talað um það í áratugi að gera eitthvað þarna til að minnast þessa atburðar, en ekkert bólaði á framkvæmdum,“ segir Bjarni Sighvatsson, varaformaður félagsins. „Þá fékk okkar litla sögufélag þá fáránlegu hugmynd að þetta væri verðugt verkefni fyrir félagið að halda á lofti nöfnum Kelta í íslenskri sögu,“ segir Bjarni í léttum tón í Morgunblaðinu í dag.

Og þann 21. júní s.á. mátti lesa:

“Biskup Íslands vígði á sunnudag útialtari að keltneskri fyrirmynd á Esjubergi. Sögufélagið Steini á Kjalarnesi hefur undanfarin ár staðið að því að reisa minnisvarða um kirkju sem talin er hafa verið fyrsta kristna kirkja Íslands, reist árið 900 og stóð við Esjuberg.

Kirkjunnar var getið í íslenskum ritheimildum en þrátt fyrir fornleifarannsóknir á svæðinu hafa aldrei fundist ummerki um kirkjuna, en regluleg skriðuföll úr Esjuhlíðum hafa hulið svæðið.

Eins og kom fram í frétt Morgunblaðsins sagði Bjarni Sighvatsson, varaformaður félagsins, að „þjóðkirkjan hafði talað um það í áratugi að gera eitthvað þarna til að minnast þessa atburðar en ekkert hafði bólað á framkvæmdum“.”

Heimildir:
-https://kirkjan.is/frettir/frett/2021/06/18/Vigt-a-sunnudaginn/
-Mbl.is Innlent | Morgunblaðið | 19.6.2021 og
Innlent | mbl | 21.6.2021 | 21:02

Esjuberg

Esjuberg – útialtarli.