Tag Archive for: Sel

Í Morgunblaðinu á aðfangadag 1928 birtist eftirfarandi um kirkjubyggingu í Reykjavík. Þar kemur m.a. fram um horfna selstöðu í Víkurholti:
Reykjavik 229
Hin fyrsta kirkja í Vík á Seltjarnarnesi fjekk stórgjafir – Tryggvi pórhallason forsætisráðherra skrifar: „Þegar kirkja var reist hjer í Reykjavík — Vík á Seltjarnarnesi sem lengi var kölluð — þá hlúði sóknarfólkið að henni með stórgjöfum: Kornakrar voru henni gefnir í örfirisey og Akurey, reki á Kirkjusandi og víðar, skógur og selstaða í Víkurholti, sem nú mun kallað Skólavörðuholt og jörðin Sel, og fjölmarga ágæta gripi, skrúða og bækur átti kirkjan. Voru þá þó aðrar kirkjur á næstu grösum, svo sem á Nesi, Engey og Laugarnesi, auk hins mikla klausturs í Viðey. Á þeim tímum var allmikill hluti jarðarinnar Víkur seldur fyrir smájörð norður í Akrahreppi í Skagafirði. Nú er hjer höfuðstaður Íslands, sóknarfólkið hundruðum sinnum fleira en þá. Liggur öllum í augum uppi nauðsyn nýrrar kirkju og eins hitt hversu ljett átak væri fyrir sóknarbúa nú að reisa og hlúa að nýrri kirkju að einhverju leyti í líkingu við það sem gert var á fyrri tíð.“ Undir þetta ritar Tryggvi Þórhallsson.
Oskjuhlid-225Víkurkirkja var kirkja í Reykjavík, líklega frá upphafi kristni á Íslandi þar til Dómkirkjan í Reykjavík var vígð 1796. Elstu heimildir sem nefna kirkjuna eru kirknatal Páls Jónssonar frá um 1200 og elsti máldagi hennar er frá 1379. Kirkjan var torfkirkja sem stóð í Kvosinni á horni Aðalstrætis og Kirkjustrætis í miðjum kirkjugarðinum gegnt Víkurbænum.
Í Oddgeirsmáldaga frá árinu 1397 stendur skrifað, „að Jónskirkja í Vík eigi Víkurholt með skóg og selstöðu.“
Hákon Bjarnason vill meina að Víkurholt hafi verið þar sem nú er Öskjuhlíð með vísan til leifa Víkursels sem þar er að finna.

Heimildir:
-Morgunblaðið, „Við þurfum að byggja nýja kirkju, ummæli 16 Reykvíkinga um kirkjubyggingarmálið“, 24. des. 1928, bls. 5.
-Wikipedia.
-Morgunblaðið, „Skógræktin í Öskjuhlíð“, Hákon Bjarnason, 7. janúar, 1979, bls. 10.

Víkursel

Víkursel í Öskjuhlíð.

Í „Skýrslu um landshagi á Íslandi 1861„, kaflanum „Brauðamat á Íslandi“, er getið um selstöðu frá Görðum á Álftanesi: „Garðar á Alptanesi – Brauð þetta hefir ekki verið metið, en frá sóknarprestinum hefir komið uppteiknun yfir allmargar af tekjugreinunum, og verður henni hér fylgt, þó í mörgu hljóti að vera ábótavant.
Kaldarsel-223Tekjur – 1. Tekjur af jörðum, sem prestakallinu fylgja og sem eru: a) Prestssetrið Garðar. Dýrl. óviss. Kúgildi heima. Jörðin tjáist að fóðra 8 kýr; henni telst til gildis: aflavon af sjó meiri part ársins; sauðganga góð á vetrum í fjöru, »ef mátulega margt er haft«. Sumarhagar litlir, og örðugleiki á mótaki. »Kirkjan á land fyrir ofan Setbergs, Áss, Ófriðarstaða- og Hvaleyrarlönd, sem getur verið góð selstaða«; en það tjáist að öðru leyti svo fjarlægt, að illt sé að nota, sem og að verja skógarló þá sem þar er.“
Hér er væntanlega átt selstöðu í Kaldárseli og/eða í Helgadal.

Heimild:
Skýrslur um landshagi á Íslandi, 2. árg. 1861, 2. bindi, bls. 626-627.

Selgjá

Stekkur í Selgjá.

Stórasel

„Nafn býlisins Sels bendir til þess, að þar hafi upphaflega verið selstaða frá Vík.“ Áður fyrr voru stundum útihús í högum oft langt frá bæjum, þar sem búfénaður var látinn ganga á sumrum. Slík hús voru nefnd sel og var þetta kallað að hafa í seli.
Storasel 201Árið 1367 er Sel talið sem eign Jónskirkju postula í Vík, samkvæmt Hítardalsbók. Litlum sögum fer af Seli næstu aldirnar. Í Jarðbókinni frá 1703 er jarðadýrleiki óviss, ábúandi er einn Ólafur Benediktsson. Heimilismenn 8 og níundi heilsuveikur mágur bóndans, torfrista, stunga og móskurður í Víkurlandi frí. Heimræði er árið um kring og lending sæmileg, ganga skip ábúandans eftir hentugleikum.
Jarðardýrleki er en óviss um 1835-1845 þegar Johnsen skráir, en þá er Bráðræði skráð sem hjáleiga Sels. 1803 segir fyrst frá Bráðræði, sem hjáleigu frá Seli, og Litla-Sel nefnir bæjarfógeti einn, sem hjáleigu þaðan. Prestur telur 5 býli á öllu Seli, en bæjarfógeti telur eigi ábúendur. Prestur, en enginn annar telur Sauðagerði með 5 býlum.
Seint á 18. öld bjó í Seli Þorfinnur Þorbjarnarson frá Skildinganesi. Hann var lögréttumaður um skeið og er þess getið í heimildum að hann hafi setið á Alþingi á tímabilinu 1787-1793. Með konungsúrskurði 1809 var ákveðið að prestsetur skyldi vera í Seli. Þangað fluttist Brynjólfur Sigurðsson (Sívertsen) dómkirkjuprestur (d. 1837). Sel var innlimað í Reykjavík 1835. Það átti jarðamörk að Hlíðarhúsum og Reykjavík. Sels bæirnir voru síðast fimm. Á lóðinni Holtsgata 41b stendur Stóraselsbærinn enn, reistur um 1885. Ívarssel, nú Vesturgata 66b, reis um 1870. Litlasel og Jórusel eru sambyggð hús á lóðinni Vesturgata 61. Litlasel mun vera reist fyrir aldamót en Jórusel síðar.
Litlasel 201Hér voru varir, Litla-Selsvör, og aðeins suðvestar, norðan við Sóttvarnarhúsið, sem nú er Mið- Selsvör, suðvestan hennar er svo Stóra-Selsvör, og Lágholtstangi gengur hér fram í sjó.
Á mbl.is árið 2005 segir eftirfarandi: „ÍVARSSEL kvaddi Vesturgötuna í nótt. Húsið þurfti að víkja af sinni upprunalegu lóð vegna fyrirhugaðs deiliskipulags á svæðinu. Húsið, sem var byggt árið 1869, var flutt á Árbæjarsafnið þar sem það mun standa sem sýningarhús.
Ívarssel var einn af Selsbæjunum svokölluðu en hinir nefndust Stórasel, Litlasel og Jórunnarsel. Húsið mun vera elsta hús í vesturbæ Reykjavíkur, vestan Garðastrætis.
Þau tómthúsbýli sem byggðust upp í landi Sels drógu mörg nafn af heimajörðinni og breyttist nafn Sels þá í Stórasel. Selsbæirnir voru síðast taldir fimm og voru, auk Stórasels, Miðsel, Litlasel, Jórunnarsel og Ívarssel. Síðasta bæjarhús Stórasels, steinbær sem reistur var 1884, stendur enn á lóðinni Holtsgötu 41b. Einn ábúandi var í Seli 1703. Heimili í Stóra-Seli voru 3 samkvæmt manntalinu 1845 og er eitt af þeim Pálshús. Steinbærinn frá 1884 stendur enn á dálítilli torfu á sameiginlegri baklóð Sólvallagötu 80-84, Ánanausta 15 og Holtsgötu 31-41.
Er stærstur hluti bakgarðsins tekinn undir bílastæði og virðist Jorunnarsel 201hann hafa verið lækkaður eitthvað ef miðað er við hæð torfunnar sem bærinn stendur á. Sé um að ræða elsta bæjarstæði Sels, þá verður það að teljast nokkuð raskað, en vegna þeirrar torfu sem enn er eftir í kringum steinbæinn og að um er að ræða bæ með nokkuð langa búsetu er mögulegt að enn geti verið að finna nokkuð þykk mannvistarlög á þessum slóðum.
Býlin Litlasel og Miðsel munu hafa byggst upp í tíð Steingríms Ólafssonar sem var bóndi á Seli í kringum 1840. Litlasels er fyrst getið sem hjáleigu frá Seli í jarðalista bæjarfógeta frá árinu 1844. Árið 1848 var sonur Steingríms, Ólafur, talinn eigandi að þeim hluta Selslands þar sem Litlasel var byggt. Á Litlaseli munu um tíma hafa verið mörg býli og bjó Ólafur Steingrímsson á einu þeirra, á öðru Jakob bróðir hans, á þriðja býlinu bræðurnir Jón og Grímur Guðnasynir og á því fjórða Ívar Jónatansson, en það býli var alltaf kallað Ívarssel til aðgreiningar frá hinum. Árið 1881 byggði Magnús Pálsson tómthúsmaður timburhús rétt suðvestan við bæinn á Litlaseli sem síðar var kennt við Jórunni Eiríksdóttur ekkju og kallað Jórunnarsel.
Þremur árum síðar reisti Grímur Jakobsson íbúðarhús úr bindingi og múrsteini austan við Litlasel, nálægt því þar sem Vesturgata og Seljavegur mætast nú. Ivarssel 201Árið 1885 seldi Ólafur Steingrímsson syni sínum, Guðmundi Kristni Ólafssyni skipstjóra, hálfan Litlaselsbæinn og fjórum árum síðar fékk Guðmundur leyfi til að „byggja um bæ sinn á sama stað og með sama lagi og áður“. Þá byggði hann steinbæinn sem enn stendur á lóðinni.
Árið 1895 seldi Guðmundur eign sína Sigurði Einarssyni útvegsbónda. Tíu árum síðar var Sigurður látinn en ekkja hans, Sigríður Jafetsdóttir, bjó enn í Litlaseli ásamt dætrum þeirra. Litlasel var þá einnig heimili Magnúsar Einarssonar og fjölskyldu hans en í Jórunnarseli bjuggu Jóhann Þorbjörnsson tómthúsmaður, Halldóra kona hans og tveir synir. Árið 1913 seldi Sigríður Jafetsdóttir eign sína Karveli Friðrikssyni sjómanni og árið 1924 voru Litlasel og Jórunnarsel virt saman sem húseign hans. Ári síðar lét ekkja Karvels, Guðbjörg Kristjánsdóttir, stækka og endurbæta Litlasel og var þá innréttuð sérstök íbúð í risinu. Árið 1935 eignuðust Axel R. Magnússen og Margrét Ólafsdóttir húsin að Vesturgötu 61 og bjuggu þar síðan lengi og afkomendur þeirra eftir þau. Á síðari hluta 19. aldar og fram á 20. öld höfðu íbúar Litlasels og Jórunnarsels flestir framfæri sitt af fiskveiðum, líkt og ábúendur hinna Selsbæjanna. Þeir sem gerðu út árabáta réru frá þremur vörum á þessum slóðum, Litlaselsvör sem var rétt neðan við vesturenda Vesturgötu, Miðselsvör dálítið suðvestar, neðan Miðselstúns, og Stóraselsvör enn suðvestar, þar sem göturnar Hringbraut og Eiðsgrandi mætast nú. Ekki er ljóst hvort húsin frá 1881 og 1889 sem eru númer 61 við Vesturgötu eru á elsta bæjarstæði Litla-Sels. Þó má gera því skóna að þau séu á svipuðum slóðum ef marka má textann úr skráningargögnum Minjasafns Reykjavíkur hér að framan þar sem segir að þau hafi verið byggð „á sama stað og með sama lagi“ og eldri bæir.
Miðsel, steinhús reist 1874, er nú horfið en stóð þar sem nú er húsið nr.19 við Seljaveg… Býlin Litlasel og Miðsel munu hafa byggst upp í tíð Steingríms Ólafssonar sem var bóndi á Seli í kringum 1840. Eru örlitlar líkur á að einhverjar leifar Miðselsbæjarins sé að finna í bakgarðinum fyrir aftan Seljaveg 19 eða í götunni fyrir framan húsið.“

Heimildir:
-mbl.is, 4. maí 2005 (lesið 14. mars 2012).
-Húsakönnun, drífa Kristín Þrastardóttir og Guðný Gerður Gunnarsdóttir, Minjasafn Reykjavíkur 2007.
-Páll Líndal, Reykjavík. Sögustaðir við Sund. 3 bindi, bls.38.
-Íslenskt fornbréfasafn III. bindi, bls.220.
-J.Johnsen. Jarðatal, bls.121..neðanmálsgrein.
-Pál Líndal. Reykjavík. Sögustaður við Sund. 3. bindi, bls. 39.
-Vigfús Guðmundsson (1936).
-Ari Gíslason. Örnefnaskrá Reykjavíkur og Seltjarnarnes.
-Drífa Kristín Þrastardóttir og Guðný Gerður Gunnarsdóttir. Húsakönnun. Seljavegur-Ánanaust-Holtsgata-Vesturgata. Minjasafn Reykjavíkur. Skýrsla nr. 135, bls. 10-11.
-J. Johnsen: Jarðatal á Íslandi, bls. 121, 462.
-Jón Helgason: Reykjavík. Þættir og myndir úr sögu bæjarins 1786-1936, bls. 47.
-Klemens Jónsson: Saga Reykjavíkur. 1. bindi, bls. 269.
-Guðjón Friðriksson: Indæla Reykjavík, bls. 79.
-Borgarskjalasafn: Skjöl byggingarfulltrúa (B) fyrir Vesturgötu 61 (B-nr. 1560) – Borgarskjalasafn: Aðf. 751-757. Brunatrygging húsa 1896-1943 (Br.nr. 200 og 327;; – -Guðjón Friðriksson: Indæla Reykjavík, bls. 79.
-Ágúst Jósefsson (1959) Minningar og svipmyndir úr Reykjavík, bls. 85 -Ari Gíslason. Örnefnaskrá Reykjavíkur og Seltjarnarness –Páll Líndal. Reykjavík. Sögustaður við Sund. 4. bindi, Lykilbók, bls. 66-67.
-Guðjón Friðriksson (1991). Saga Reykjavíkur. Bærinn vaknar. 1870-1940. Fyrri hluti, bls. 87.
-Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns. 3. bindi. Gullbringu- og Kjósarsýsla, bls. 252.
-Borgarskjalasafn: Skjöl byggingarfulltrúa (B) fyrir Vesturgötu 61 (B-nr.1560).

Sel

Heimildir eru um Sel frá 14. öld og var það lengst af kirkjujörð auk þess sem útræði var mikið úr Selsvör, enda upphaflega um sel frá Víkurbænum að ræða. Bærinn var síðar oft nefndur Stóra-Sel. Steinbær var reistur þar árið 1884 sem stendur enn.
Uppdráttur Hoffgards frá árinu 1715 sýnir m.a. Sel enda eitt af höfuðbýlum á þessu svæði og prestsetur. Nýlegar fornleifarannsóknir sýna að undir steinbænum eru leifar af torfbæ. Selsbærinn stóð þar sem í dag er Holtsgata 41b.

Hraunssel

Á vefsíðunni „Wikipedia.org“ er fjallað um sel hér á landi. Vitnað er í bók Birnu Lárusdóttur, „Mannvist“ (2011).

Sel

Sel á Reykjanesskaga – yfirlit 2022.

FERLIRSfélagar hafa löngum leitað uppi sel á Reykjanesskaganum, í fyrrum landnámi Ingólfs. Samantekt á fjölda seljanna telur nú 407 slík. Selin hafa jöfnum höndum fundist með vísan í skriflegar heimildir, við leitir á þekktum örnefnastöðum, eftir fróðra manna/kvenna lýsingum og á göngum um líklegar selstöðuslóðir. Í flestum seljum á svæðinu eru þrjú hús; baðstofa, búr og eldhús, stekkur, vatnsból eða lækur, varða, nátthagi, smalabyrgi, fjárskjól og að sjálfsögðu stígur að og frá aðstöðunni. Sumsstaðar er um þyrpingu selja að ræða. Heimasel, sem voru nálægt bæjum, höfðu önnur einkenni, þ.e. einungis stekk við vatnsból sem og skjól. Selshúsin voru yfirleit í skjóli vestan undir hlíð, hól, hamravegg eða hæð til að losna við álag fyrir vindum og regni austanáttarinnar.
Fleiri en ein selstaða gat verið frá sama bæ, allt upp í fjórar, á mismunandi stöðum. Jafnan voru selin á ystu mörkum bæjanna líkt og jarðeigandinn vildi með því undirstrika eingnarhald sitt á landssvæðinu. Þá voru selstöður hafðar í skiptum, þ.e. bóndi fékk útræði eða önnur hlunnindi frá öðrum í staðinn fyrir selstöðu i eigin landi.
Þótt selin á Reykjanesskaganum virðast lík að uppbyggingu og gerð má bæði sjá mun á þeim m.t.t. mismunandi aldurs og landshluta. Þannig eru selin í nyrðri fjalla- og heiðarhlutanum ólík þeim í suðurhlutanum þar sem hraunin réðu mestu um gerð og staðsetningu. Hraunin nýttust t.d. betur til nýtingar fjárskjóla og nátthaga, auk þess erfiða var þar um vatnsöflun.
Sel voru einning nýtt til annarra hluta, s.s. til kolagerðar, fugla- og eggjatekju, heyöflunar og og móskurðar. Þó eru þó tiltölulega fá á Skaganum.

„Sel voru hús sem voru nýtt til seljabúskapar á Íslandi og víðar um Evrópu, einkum í fjallendi. Á Íslandi var seljabúskapur stundaður frá landnámi fram á 19. öld en var á undanhaldi snemma á 18. öld eða jafnvel fyrr. Í seljabúskap fólst það að mjólkandi skepnur, aðallega ær en í einhverjum tilvikum kýr, voru reknar í sel snemma sumars og hafðar á beit þar yfir sumarmánuðina.

Fólk af bænum, gjarnan vinnukonur ásamt smala, höfðust við í selinu á meðan og hirtu um skepnurnar. Sel voru gjarnan fjarri bæjunum, t.d. í afskekktum fjalladölum, og nýttu þannig beitiland sem annars hefði verið óaðgengilegt; þannig voru selin eins konar árstíðabundin útibú bæjanna.

Einkenni selja
Samkvæmt ritheimildum var dæmigert að sel skiptust í þrjá hluta: íveruhús, búr og mjólkurhús. Utandyra voru yfirleitt kvíar skammt frá, afgirt svæði þar sem hægt var að mjólka skepnurnar. Seljarústir sem rannsakaðar hafa verið af fornleifafræðingum staðfesta þetta að nokkru leyti, því algengt er að rústirnar skiptist í þrjú hólf. Í tíunda hluta rústanna er þó aðeins eitt hólf en í sumum geta verið fleiri en tíu. Sel hafa því verið nokkuð breytileg að stærð, væntanlega eftir efnum bæjanna, fjölda vinnufólks eða annarra staðbundinna þátta.

Uppgreftir
Aðeins einn uppgröftur hefur farið fram á rústum sem teljast hafa verið sel: Pálstóftir við Kárahnjúka, en uppgröfturinn fór fram áður en svæðinu var sökkt í Hálslón vegna virkjunarframkvæmda við Kárahnjúka. Selið hafði verið í notkun á tímabilinu 950-1070 og samanstóð af einni þrískiptri rúst og annari stakri, auk einhvers konar fjárrétta fyrir utan. Regluleg áfokslög milli gólflaga bentu til að selið hafi (eðlilega) aðeins verið í notkun árstíðabundið. Einnig fundust merki þess að íbúar selsins hafi stundað veiðar á fuglum, jafnvel til að safna vetrarbirgðum. Þó er ólíklegt að selið hafi í raun aðeins verið veiðikofi því þar fundust einnig ýmis konar áhöld, myntir og skartgripir sem höfðu verið smíðaðir á staðnum, en þetta bendir til langtímadvalar á staðnum.

Fleiri líklegar selrústir hafa verið rannsakaðar að einhverju marki, t.d. Hólasel í Eyjafirði og fjórar selrústir í Mývatnssveit: Arnarvatnssel, Gautlandasel, Sellandasel og Sandvatnssel, auk tveggja selja í Kjarardal, Borgarfirði, sem heyrðu undir Reykholt. Aldursgreining á þessum rústum bendir til að selin hafi verið byggð fyrir 1300.

Dreifing
Ritheimildir, t.d. Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, benda til að sel hafi verið mjög misalgeng eftir landshlutum, t.d. hafi meira en helmingur bæja í Dalasýslu haft sel en aðeins 8% í Rangárvallasýslu. Þessi munur kemur hins vegar ekki heim og saman við könnun fornleifa og örnefni, en örnefni tengd seljum eru algeng um allt land. Rétt eins og sel virðast hafa verið breytileg að gerð og stærð, er einnig mjög misjafnt hversu langt þau eru staðsett frá þeim bæjum sem þau heyrðu undir. T.d. er sel við Laxamýri í S-Þingeyjarsýslu aðeins 1 km frá bænum en Garðar og Innri Hólmur á Akranesi áttu sel í allt að 30 km fjarlægð.

Hnignun

Selsmatsselja

Selsmatsselja.

Fornleifafræðingum er ekki að fullu ljóst hvers vegna seljabúskapur lagðist af á Íslandi á 18.-19. öld. Mögulegir þættir sem bent hefur verið á er t.d. fólksfækkun vegna stórubólu, sem gekk yfir landið 1707-1709; eða það að fráfærur lögðust af á sama tíma, samfara aukinni kjötframleiðslu. Undir lok 18. aldar þótti ýmsum sýnilega miður að seljabúskapurinn væri að leggjast af og reyndu að halda á lofti kostum hans í riti.“

Af 407 seljum á Reykjanesskaganum hafa einungis 5 verið eyðilögð; öll vegna misskilnings eða vanþekkingar. Mikilvægt er að gæta vel að varðveislu þessara minja, sem hafa verið fylgifiskar búsetu allt frá því að land byggðist. Þótt margir hafi komið að rannsóknum á seljabúskap hér á landi eru mörgu enn ólokið í þeim efnum.

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Sel

Litla-Botnssel

Litla-Botnssel.

Rauðhólssel

Hér veður fjallað um „Seljabúskap á Suðurnesjum„. Upplýsingarnar eru fengnar úr skýrslu Óbyggðanefndar frá árin 2004 um úrskurði Grindavíkur- og Vatnsleysustrandarlands.

Selsvellir

Selsvellir – tóftir.

Í lýsingu Skúla Magnússonar á Gullbringu- og Kjósarsýslu árið 1781 er í XI. kafla fjallað um hverja kirkjusókn fyrir sig og m.a. fjallað um tölu og ásigkomulag bújarða. Um Krýsuvík segir m.a.: „Bær þessi er tvær mílur frá lendingarstað sínum og telst því fremur sveitajörð en sjávar. Landrými er mikið; … Jörðin er vel fallin til sauðfjárræktar og til mikils sauðfjárbótabús með yfir 1000 sauðfjár.
Um Staðarsókn í Grindavík segir Skúli Magnússon árið 1781: „Þarna eru býlin fast með ströndinni, og liggur ekkert engi eða slægjuland undir þau nema túnin ein, sem er eigi unnt að auka, … En 2 mílur í norðaustur frá byggðarlaginu, inni á milli fjallanna, eru góðir hagar. Hafa menn þar selstöður. En eigi eru þar skilyrði fyrir nýbýli“.

Kirkjuvogssel

Kirkjuvogssel.

Skúli Magnússon tekur fram um Kirkjuvogssókn árið 1781 að selstöður séu 1 1/2 mílu norðaustur frá bæjunum, en engar selstöður séu í Hvalsness- og Útskálasóknum. Hins vegar eru taldar selstöður í Njarðvíkursókn. Um Kálfatjarnarsókn segir Skúli: „Frá flestum bæjum eru selstöður uppi til fjalla. Í sókninni er hvergi hagfelldur staður til nýbýla, en eitthvert hið bezta land til sauðfjárræktar, það er ég hefi séð á Íslandi, á fjögra mílna svæði samhliða bæjunum. Á breiddina nær það svæði 2 mílur frá sjónum upp að háfjöllunum, sem greina Gullbringusýslu frá Árnesssýslu. Þannig tekur svæði þetta yfir 8. fermílur“.
Geir Bachmann, prestur á Stað í Grindavík, samdi sóknalýsingu Staðarsóknar í Grindavík árin 1840-1841. Þar segir hann eftirfarandi um selstöðu Staðar: „Eftir jarðabókinni 1760 á Staður selstöðu á Selsvöllum, þó það nú sýnist orðið almennings selstaða úr allri Grindavík“.

Selsvellir

Selsvellir – tóftir.

Geir fjallar síðar nánar um selstöður í Staðarsókn í svari við 31. spurningu sóknarlýsinganna (selstöðum): „Þess er áður getið, að Staður eigi selstöðu á Selsvöllum. Selsvellir eru héðan í landnorður upp í fellum, og er Keilir, þegar í sel þetta er komið, rétt í útnorður. Stendur selið í Strandarmannalandi eður fyrir norðan Grindavíkur landamerki. Þar er all-grösugt, en bízt fljótt upp, því allir bæir í sókninni nema Hraun hafa þar í seli, og þó að engu goldið Staðarprestinum. Vilja menn hér gjöra þessa selstöðu almenning, og þyrfti þó ei að vera. Litlu vestar en Selsvellir er selstaða frá Hrauni; hér er árlega haft í seli frá bæ þessum, og eru landamerkin milli seljanna í svo kölluðum Þrengslum. Flestir bæir í Grindavík hafa haft í seli einhver staðar til fjalla; er mér sagt, að vatnsleysi olli því, að allar þær eru afræktar og getur vel verið sannleiki. Sú mun og orsök, að allir hafa þyrpzt á Selsvelli, því þar er dálítill rennandi lækur rétt við selið. … 32. Ekkert er hér afréttarland; allt fé ungt og og gamalt, lömb og sauðir er rekið í selið og þar smalað á hverju máli; lömbin eru kefluð. Þó eru réttir í Stóru-Vogum, sóttar af Ströndinni, Rosmhvalaness-, Hafna- og Grindavíkurhreppum“.

Baðsvallasel

Baðsvallasel.

Síðar átti Geir eftir að kvarta undan ágengni nágranna sinna í sellandi eins og kemur fram í grein Guðrúnar Ólafsdóttur Sel og selstöður í Grindavíkurhreppi sem birtist í afmælisrit Ólafs Hanssonar Söguslóðir árið 1979. Þar segir: „Til enn frekari áréttingar um mikilvægi þessara hlunninda [þ.e. selstöðu Grindvíkinga] má tilfæra bréf frá árinu 1844 frá sr. Geir Bachmann til biskups, þar sem hann kvartar yfir því, að allir nágrannar sínir noti selstöðuna á Selsvöllum án þess að greiða honum leigu fyrir, þótt hún sé sannanlega eign prestssetursins samkvæmt jarðabókinni 1760“. Telur hann, að bændurnir hafi komist upp á að nota selstöðuna, þegar fyrirrennarar hans í prestsembættinu hafi verið svo fénaðarfáir, að þeim hafi ekki þótt svara kostnaði og fyrirhöfn, að viðhalda selhúsum og hafa fólk yfir litlum fénaði og þess vegna leyft öðrum afnot af henni gegn leigu, sem síðan hafi fallið niður vegna hirðuleysis. Nú sé svo komið, að fyrir utan hann, sem hafi byrjað að nota selið 1837, þ. e. tveimur árum eftir að hann fékk brauðið, eigi sex búendur þar selhús og hafi þar allan sinn fénað og taki auk þess sumir fénað af öðrum til göngu og hirðingar. Telur hann, að sumarið áður hafi að minnsta kosti 500 fjár, ungt og gamalt, og 30 nautgripir auk inntökupenings gengið á völlunum og geti menn getið sér þess nærri, að þvílíkur urmull af kúm og kindum geri „ærið usla og jarðnag í beitilands þrengslum”. Vegna hagleysis verði að reka allan fénað, sem tíðum sé kominn í selhagana löngu fyrir fráfærur í 7. viku sumars, heim á miðjum selvinnutímanum, …

Njarðvíkursel

Njarðvíkursel.

Pétur Jónsson, prestur á Kálfatjörn, fjallar lítið um selstöður í lýsingu Njarðvíkur- og Kálfatjarnarsóknar árið 1840. Hann nefnir selstöðu frá Innri-Njarðvík, sem verið hafi við veginn frá Vogum að Grindavík, en síðar segir Pétur um Hvassahraun: „Hér hefir verið selstaða fyrrum eins og á öllum Strandarhrepps lögbýlum, en öll af lögð á seinni tímum; þau hafa öll eður flest vatnslaus verið og staðið hér um í miðri heiði, milli fjalls og fjöru“.
Árni Óla blaðamaður samdi bók sem fjallar um Vatnsleysuströnd og Voga, Strönd og Vogar, og kom út árið 1961. Árni víkur þar á tveimur stöðum að seljum á svæðinu en getur ekki heimilda nema hann vitnar í seinna skiptið til frásagnar Benjamíns Halldórssonar: „Um alla heiðina eru rústir af gömlum seljum, … Flekkuvíkursel lagðist ekki niður fyrr en um 1870, en þá höfðu öll hin selin verið lögð niður fyrir löngu“. …
Hér verða nú taldar seljarústirnar í Vogaheiði og Strandarheiði, og er aðallega stuðzt við frásögn Benjamíns Halldórssonar og lýsingar hans á staðháttum.
1. Selhólar heita skammt fyrir ofan. Voga. …
2. Nýjasel er við Snorrastaðatjarnir ofanverðar. …
3. Þórusel er skammt austur af Vogum. …

Arahnúkasel

Arahnúkasel.

4. Arahnúkssel er hjá Stóru-Aragjá … og er þangað röskur hálfrar stundar gangur frá Vogum. Í Arahnúksseli eru glöggar seltóftir og allstórt seltún þar umhverfis, … Túnið var seinast slegið 1917.
5. Gamla-Vogasel er austast í svonefndu Vogaholti. Þar eru greinilegar seltóftir og nokkuð stórt seltún…
6. Dalsel er í Fagradal við samnefnt fjall. Þar hafa sézt seltóftir til skamms tíma, en Fagridalur er nú uppblásinn fyrir löngu. Dalselið mun hafa verið notað frá Grindavík (Járngerðarstöðum). …
7. Gjásel er um 3/4 klukkustundargang frá Brunnastöðum. Þar eru glöggar seltóftir, en lítið seltún. …
8. Brunnastaðasel er austur af Gamla-Vogaseli. Mitt á milli þessara selja er Markhóll, sem skiptir löndum milli Voga og Brunnastaða. Þarna eru margar og allglöggar seltóftir og allstórt seltún, en ekkert vatn. Þangað mun vera um klukkustundar gangur frá Brunnastöðum. …

Hlöðunessel

Hlöðunessel.

9. Hlöðunessel er austur af Brunnastaðaseli. Þar eru litlar og ógreinilegar seltóftir og lítið seltún. …
10. Knarranessel er norðaustur af Hlöðunesseli, um stundar gang frá Knarrarnesi. … Þarna er stórt seltún og allmikið vatn í nokkuð stóru leirflagi. Í miklum þurrkum hefir vatn þetta þornað, og svo var fyrir 1920, en þá var grafin niður í leirflagið nokkuð djúp hola. Komu menn þar niður á mó, er reyndist góður eldiviður, en mósvæðið takmarkast á alla vegu af hraunklöppum og var mórinn því fljótt upp urinn. …
11. Auðnasel er austur af Knarrarnesseli. Þar eru margar greinilegar seltóftir og allstórt seltún. …
12. Kolgrafaholt heitir um hálfrar stundar gang frá Þórustöðum. … [Árni Óla segir engar seltóftir sjást þarna en virðist giska á að þarna sé selstaða Þórustaða, Fornuselshæðir, sem Jarðabók Árna og Páls nefnir].

Flekkavíkursel

Flekkavíkursel.

13. Flekkuvíkursel eru um 1/2 stundar gang frá Flekkuvík. Þar eru glöggar seltóftir, en ekki margar. Eru þær við berghamar hjá Hrafnagjá, … Í Flekkuvíkurseli er lítið seltún, en nokkrar grasi grónar flatir austur og vestur frá selinu, …
14. Rauðhólssel átti Stóra-Vatnsleysa. Það er við hraunjaðarinn, sem liggur frá Kúagerði, en vestur af Snókafelli, sem er úti í hrauninu. Í Rauðhólsseli eru glöggar seltóftir og allstórt seltún, …
15. Oddafell heitir milli Keilis og Trölladyngju. Þar átti Minni-Vatnsleysa selstöðu. …
16. Sogasel. Það er uppi í Vesturhálsi og í landi Stóru Vatnsleysu, en þar höfðu Kálfatjörn og Bakki selstöðu. Er þangað um 2 1/2 klukkustundar gangur frá Kálfatjörn. …

Sogasel

Sogasel.

17. Hvassahraunssel var vestast í Almenningum. …
Í áðurnefndri grein Guðrúnar Ólafsdóttur frá 1979 er gert ráð fyrir að selstöður, sem Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns nefnir og jarðir í Grindavíkurhreppi nýttu, hafi verið innan marka hreppsins. Miðar Guðrún við kort Landmælinga Íslands, blað 27, Reykjavík, útgefið 1977, og blað 29, Krýsuvík, gefið út 1969. Stangast það á við umsögn Geirs Bachmanns í sóknalýsingunni 1840-1841, sem segir Selsvelli í Strandamannalandi, og greinargerð Sesselju Guðmundsdóttur, sem oft hefur verið vitnað til hér að framan.
Guðrún telur hugsanlegt að ásókn Grindvíkinga í selstöðuna á Selsvöllum megi að einhverju leyti skýra með því að þeir höfðu ekki lengur haft innhlaup í selstöðurnar í Krýsuvíkurlandi eins og var á 18. öld. Þrjú nýbýli hafi risið í Krýsuvíkurlandi á 19. öld, öll í fyrri seljalöndum. Vigdísarvellir og Bali á Vigdísarvöllum og Fitjar í svonefndri Selöldu [sem er utan kröfusvæðis]. Telur hún ólíklegt að Krýsuvíkurbændur hafi leigt út selstöður eftir að þessi býli byggðust.

Þórkötlustaðasel

Þórkötlustaðasel við Vigdísarvelli – uppdráttur ÓSÁ.

Guðrún Ólafsdóttir reynir að tímasetja hvenær selfarir í Grindavíkurhreppi hafi hætt og vitnar til bókar Gísla Brynjólfssonar, „Mannfólk mikilla sæva – Staðhverfingabók” (útgefinni 1973) og Ferðabókar Þorvalds Thoroddsens (útgefinni 1913), en Þorvaldur kom að Hraunseli, Selsvöllum, Baðsvöllum og Vigdísarvöllum árið 1883. Samkvæmt því hefðu selfarir hætt milli 1850 og 1883. En í þjóðháttasöfnun árið 1976, hefði Magnús Hafliðason frá Hrauni (fæddur 1891) sagt foreldra sína haft í seli í Hraunseli og talið að því hefði verið hætt um 1890.
Svo virðist sem Grindvíkingar hafi enn haft í seli um 1870 ef dæma má af bréfum hreppstjóra Vatnsleysustrandarhrepps 15. og 21. janúar 1870, sem telur mann, sem sýslumaður segir búsettan á Vigdísarvöllum, heimilisfastan á Vatnsleysuströnd, þó að hann flytji sig og fé sitt um sumartímann á Vigdísarvelli, líkt og þegar Grindavíkurmenn hafi í seli á Selsvöllum.

Heimild:
Úrskurður Óbyggðanefndar 2004 – Grindavík og Vatnsleysuströnd.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – stekkur.

Vífilsstaðasel

Eftirfarandi er úr erindi ÓSÁ um sel og selstöður á Vatnsleysustrandareheiði, sem flutt var á Sagnakvöldi í Kálfatjarnarkirkju 19. janúar 2006:

Gjásel Ætlunin er að reyna að gefa svolitla innsýn í 10 alda sögu seljanna ofan við Kálfatjörn og Ströndina á innan við 20 mínútum. Stikklað verður á stóru.
Byggðin á Vatnsleysuströnd var frá upphafi svo til öll með sjávarsíðunni. Útvegsbændurnir höfðu fjárbúskap samhliða útvegum. Fá býlin höfðu kýr og þá yfirleitt fáar. Bændur stærri og landmeiri bæja höfðu fé sitt í seli yfir sumarið. Selin voru í jaðri jarðanna til að nýta mætti landið sem best, þ.e. hlífa heimatúnum, sem almennt voru lítil, og heimahögum, en beittu úthagann. Lífið á Ströndinni hér áður fyrr, eins og svo víða annars staðar á Reykjanesskaganum, snerist fyrst og fremst um fisk og fé. Fólkið hélt lífinu í fénu og féð hélt lífinu í fólkinu. Erfiðara var að ganga að fiskinum vísum.
Á Reykjanesi, sem telur í dag um 168 sýnilegar selstöður, þ.e. á milli Suðurlandsvegar og Stampa yst á Reykjanesi, voru selin tímabundar nytjaútstöðvar útvegsbændanna með ströndinni.
Samkvæmt jarðabókinni 1703 voru þá a.m.k. 18 sel og selstöður í notkun frá Vatnsleysustrandarbæjunum. Það hefur því oft verið talsvert líf í heiðinni, eða um 40-60 manns að staðaldri yfir sumarmánuðina.
Mjög lítið hefur verið skrifað um sel og selsbúskap hér á landi og nær ekkert á þessu svæði. Ástæðan er fyrst og fremst sú að yfirleitt var ekki skrifað um það sem þótti bæði eðlilegt og sjálfsagt í daglegu lífi fólks. Þannig var t.d. ekki skrifað um það hvernig hin fornu handrit, hin dýrmæta arfleið, voru gerð eða hvað þurfti að gera til að koma texta á bókfell. Eftir standa ósögð orðin og lýsingarnar – líkt og selstóftirnar í heiðinni. Á sama hátt skiptu afurðir seljanna meiru en hvernig þær urðu til. Við vitum líka hverjar afurðinar voru og ef seljabúskapurinn stæði okkur ekki svo nálægt í tíma og raun ber vitni væri harla fátt vitað um hvernig hann hafi verið í framkvæmd. Á sama hátt og handritin eru áþreifanlegur vottur handbragðsins fyrrum tengja minjar seljanna okkur beint við þá gömlu búskaparhætti, sem þar tíðkuðust í gegnum aldir.
Í heimildum um sel segir m.a. á einum stað: “Í seljum þessum störfuðu venjulega 2-3 menn; selsmalinn og selráðskonan og oft einn unglingur þeim til aðstoðar, ýmist piltur eða stúlka. Áður fyrr voru þar gerðir úr mjólkinni, ostar, skyr, smjör og sýra….sótt var í selið tvisvar í viku; skyr, mysa og smjör og flutt heim á hestum”.
Fé yfirleitt haft í seli yfir sumarið, venjulega frá 6. – 16. viku sumars. en í þá tíð var árdagatalið miðað við meginárstíðarnar, sumar og vetur. Vegna ótíðar gat seljatíðin færst til um viku eða svo.
Selja er stundum getið í örnefnalýsingum, s.s. þessi af Hvassahraunsseli: “Heiman úr Tröðum liggur troðningur suður um Hellur, suður á hraunið. Það er Hvassahraunsselsstígur eða Selsstígur. Stígur þessi lá áfram suður hraun allt til Krýsuvíkur. Upp af Brennhólum er Hálfnaðarhæð. Þar er hálfnuð leið frá bænum í Selið. Þá tekur við sunnar nokkuð Selskrínshæð og þar sunnar er Viðunarhóll, skógi eða hrísi vaxinn. Þá er komið í Selið eða Hvassahraunssel, sem er vestan undir Selásum. Veggirnir standa enn nokkurn veginn uppi, og gróður er þar í kring. Vatnsbólið er undir skúta, eiginlega beint austur af Selinu, og er erfitt að finna það.”
Brunnaselstöðunni er t.d. lýst svo árið 1703: ”….Selstöðu hefur jörðin við fjallgarð, er þar hagar litlir, en vatnsskortur að miklu meini, þegar þerrar gánga”. Þessi heimild segir okkur margt um erfiða búskaparhætti og ástand gróðursins í heiðinni á þessum tíma. í Brunnastaðaseli hafa þá verið 30-40 kindur og er það hreint ekki lítið.
Oft bera selin nöfn þeirra bæja, sem gerðu þau út. Flekkuvíkursel var frá Flekkuvík og Hvassahraunssel var frá Hvassahrauni o.s.frv. Þó eru dæmi um að selin hafi dregið nöfn sín af staðháttum, s.s. Sogasel í Sogagíg og Selsvallasel af Selsvöllum, eða öfugt, þ.e. örnefnin er tilkomin vegna seljanna.
Í örnefnaslýsing segir og um Flekkuvíkursel: „Gunnar og Ólafur Erlendssynir nefna Flekkuvíkursel í örnefnaskrá árið 1976 og segja: “Herdís Jónsdóttir frá Flekkuvík, f: 1858, kom í selið sem barn og voru þar þá bæði smali og selráðskona. Í selinu voru þá eingöngu hafðar kindur”.
Auk þess sem flestra seljanna er getið í gömlum heimildum og örnefnalýsingum má sjá nokkur þeirra, a.m.k. þeirra stærstu, á gömlum kortum, s.s. dönsku herforingjakortunum svonefndu, en annað það er gefur vísbendingu um að sel hafi verið að ræða á tilteknum stöðum eru nafngiftir tengdar þeim, s.s. Selháls, Selshæð, Selsvallafjall, Selsvellir, Selsfjall, Seljahlíð, Selalda, Selstígur og Selshóll.
Stekkur í Brunnastaðaseli – Á Reykjanesskaganum var selið og önnur mannvirki í seli oftast í skjóli fyrir austanáttinni, rigningaráttinni, þ.e. í skjóli við hól, hæð eða gjábakka mót vestri.
Samkvæmt jarðabókinni 1703 voru þá a.m.k. 18 sel og sennilega fleiri selstöður í notkun frá Vatnsleysustrandar-bæjunum. Það hefur því oft verið talsvert líf í heiðinni, eða um 40-60 manns að staðaldri yfir sumarmánuðina.
Það virðist vera ríkjandi viðhorf meðal fólks að “minjar hér á landi séu bæði óskýrar og óskiljanlegar. En er það svo í raun?
Í ljóðinu fylgd eftir Guðmund Böðvarsson er getið um sel; “En frammi á fjöllum háum – fjarri sævi bláum – sefur gamalt sel”. Þessar línur geta vel átt við selin á Vatnleysustrandarheiðinni.
Sögur tengdar seljafólkinu eru nokkrar til, þá aðallega tengdar barnshafnandi seljamatsseljum eftir að huldumenn eða útilegumenn komust í tæri við þær. Þá gleymdist oft að bóndinn á bænum fór reglulega upp í selið á tveggja eða þriggja daga fresti til að sækja afurðirnar og færa þangað matarkyns, talsverður samgangur var á milli seljanna og auk þess var nokkur umferð fólks um heiðina yfir sumartímann, á leið hingað og þangað um Innnesin og Útnesin. Ekki fóru allir Almenningsleiðina.
Sigurlín Sigtryggsdóttir lýsir í handritinu “Upp til selja” lífi smala í seli í Eyjafirði:
“Mjög þótti það áríðandi að hafa trúa og ötula selsmala. Ærnar máttu helst ekki missa máls, en svo var það kallað, er vantaði af ánum til að mjalta. Vantaði á fékk smalinn að eta skömmina.
Smalinn var vakinn kl. 3-4 á nóttunni til smalamennskunnar og einnig var farið að smala um svipað leyti, kl. 3-4, að degi til. Smalinn hélt alltaf til í selinu.
Smalastarfið var erfitt, en samt minnast þeir margir hverjir starfans með lotningu og telja það jafnvel ánægjulegustu reynslu lífs síns.
“Áhugi fólks á minjum kviknar fyrst eftir að grafið hefur verið í þær”. “Rannsóknir virkja staði” sagði kennari minn í fornleifafræði við Háskólann okkur í tíma í gær. Þetta er að sumu leyti rétt, eins og dæmin sanna.
Sagt hefur verið að til þess að áhugi annarra á menningu svæðis vakni þurfi áhugi heimamanna á henni að vera fyrir hendi.
Þegar staðið er í tóftum fornra selja og horft á húsin, stekkinn, kvína, vatnsbólið, nátthagann og gömlu göturnar má vel sjá selsráðskonuna mjólka ærnar og vinna mjólkina, smalann færa féð frá og að seli kvölds og morgna, bóndann koma með viðurværi og færa nytjarnar til bæjar, heyra hávært jarmið við fráfærurnar og ímynda sér kyrrðina í heiðinni á fögrum og björtum sumarkvöldum.
Sagt hefur verið um hin fornu handrit: “Þessar minjar á að umgangast með tilhlýðilegri virðingu og hátíðlegu fasi, helst í sparifötunum”. Hvers vegna ekki minjarnar líka?
Í og við hvert sel má sjá selsstíg, selsvörðu, þrískipt hús (eldhús-íverustað og búr, stekk, kví, skjól, vatnsstæði/brunn, nátthaga, fjárskjól og mikinn gróanda.
Selstígurinn lá upp frá bænum að selinu. Hann var venjulega u.þ.b. Klukkustundar langur, stundum styttri, stundum lengri. Stundum markaður í klöppina.
Ágætt dæmi m draugagang í seli er Rauðhólssel. Í lýsingu þess segir að fyrir hafi komið að horfið hafi verið fyrr úr selinu en ætlað var vegna draugagangs, en líklegt er þó að vatnsskortur aðallástæðan.
Selsbúskapurinn leggst af á ofanverðri 19. öld. Ástæðan er ekki ein heldur nokkrar; fólki tók að fækka á einstökum bæjum, aukin áhersla var lögð á útveg, kýr voru nyjaðar í auknum mæli líkt og féð áður, þ.e. unnir ostar, smér og aðrar afurðir, og breytingar urðu á samfélagsmyndinni. „Um miðja 19. öld breyttist útgerð í Vogum og á Vatnsleysuströnd sem og víðasthvar annars staðar. Áður höfðu þar nær eingöngu verið smáfleytur, en nú koma stærri skip. Þeir sem eignuðust þessi skip fóru að græða á tá og fingri og brátt risu þarna upp nokkrir útvegsmenn sem báru höfuð og herðar yfir fjöldann.“ Féð var nýtt heima við framan af sumri, en síðan rekið á afrétt til sumarbeitar, en smalað að hausti.

Selsvellir

Á Selsvöllum.

Síðast mun hafa verið haft í seli á Skaganum árið 1914. Í dag má sjá móta fyrir 43 selstöðum í 26 seljum í heiðinni. Sum þeirra eru mun eldri en frá 1703.
Heiðin lítur öðruvísi út í dag en hún gerði þegar selsbúskapurinn var í sem mestum blóma. Telja má víst að landsnámsmenn hafi komið með selsbúskaparhættina með sér frá Noregi og haldið þeim þegar hingað var komið að teknu tilliti til aðstæðna hér. Þau munu skv. því hafa verið við lýði hér í um 1000 ára skeið. Selsbúskapurinn hefur því verið stór þáttur í búskaparháttum þessa landsvæðis, en er nú að mestu gleymdur. Hins vegar eru minjar seljanna enn vel sýnilegar í heiðinni og standa þar sem minnismerki um hið liðna – fortíðina – sem við þurfum að geta borið virðingu fyrir. Þau tala máli fólksins, forfeðra okkar og mæðra, sem hér bjó, stritaði og dó, en skyldu eftir sig dýrmæta arfleið – okkur.
Kannski verður einhvern tímann grafið í selstóftir í Strandarheiðinni og áhugi fólks vakinn á tilvist og hlutverki þeirra í fyrrum búskaparháttum svæðisins – fornleifin virkjuð, eins og kennarinn sagði. Hver veit?

[Erindið byggðist upp á myndasýningu].

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Mosfellssel

Þorvaldur Thoroddsen skrifaði í Andavara árið 1916 um „Endalok seljabúskaparins“ hér á landi:
„Menn höfðu til forna miklu meira í seljum en nú og sel voru víða hátt til fjalla og heiða; þau lögðust Selsvellir-229niður, ekki vegna þess að landkostir rýrnuðu, heldur af breytingu á búskaparlagi og af vinnufólkseklu, það hefir altaf smátt og smátt orðið örðugra og dýrara að búa á stóru jörðunum af því vinnukrafturinn varð dýrari, ekki að eins kaupgjaldið, hækkun þess hefir eigi alténd verið eins tilfinnanleg eins og kostnaðurinn við að fæða fólkið eftir að kröfurnar urðu meiri, og eyðslan hefir jafnan vaxið fljótar en afraksturinn. Svo þegar harðindi bætast ofan á örðuga verzlun og búskaparbasl, slær óbug á menn, þeir leggja árar í bát, þrekið linast og hugurinn á að bjarga sér; þetta er sérstaklega augljóst á 17. öld.
Utan til á hálendinu og í afdölum upp til heiða eru margar rústir af smábýlum frá ýmsum öldum; þessi fjallakot hafa eyðst af ýmsum orsökum, oft vegna harðinda, eldgosa og drepsótta; á þeim hafa jafnan búið fátæklingar, sem ekkert mótstöðuafl höfðu þegar móti blés. Fæst af þessum fjallakotum á hálendinu hafa verið bygð í fornöld, fæst virðast hafa verið tekin upp á seinni öldum á 14., 15. og 16. öld, en mörg þeirra hafa fljótt aftur lagst í eyði.“

Heimild:
-Andvari 41. árg. 1916, 1. tbl., Þorvaldur Thoroddsen, bls. 73-74.

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Selhólar

Á vefsíðu Minjastofnunar Íslands 26. mars 2021 árið 2021 er fjallað um „Náttúruvá á Reykjanesi:

Minjastofnun Íslands„Það hefur ekki farið fram hjá neinum að fyrir viku síðan hófst eldgos á Reykjanesi. Starfsmenn Minjastofnunar hafa síðustu vikur unnið að því að taka saman gögn um þekktar minjar á svæðinu og hófst sú vinna eftir að ljóst varð að minjum gæti stafað hætta af yfirvofandi náttúruvá. Í ljós kom að töluverður hluti af þeim minjum sem skráður hefur verið á hættusvæðinu var ekki uppmældur, sem er í dag hluti af þeim gögnum sem þarf að liggja fyrir til þess að fornleifaskráning teljist fullnægjandi samkvæmt þeim stöðlum sem Minjastofnun setur. Því var ákveðið að fara á þessa staði og mæla minjarnar upp, auk þess að taka þar nýjar ljósmyndir sem og drónamyndir ef veður leyfði.

Þegar eldgosið braust út í Geldingadal að kvöldi föstudagsins 19. mars hafði fornleifafræðingum hjá Minjastofnun tekist að heimsækja og mæla upp stóran hluta þeirra minja sem taldar voru í mestri hættu vegna yfirvofandi eldsumbrota. Má þar nefna að meginþorri minja í hættu á Ísólfsskála höfðu verið mældar upp sem og minjar við Keilisveg og fjöldi minja á og við Vogaheiði sunnan Reykjanesbrautar.

Sel á Reykjanesi

Gjásel

„Sel, eða selstöður, voru staðir sem nýttir voru á sumrin – stundum einnig kölluð sumarhús. Þangað var farið með búsmala, kindur og/eða kýr, til að halda þeim frá heimatúnum á meðan grassprettan var sem mest. Í seljum voru skepnurnar mjólkaðar og mjólkin unnin. Einnig eru vísbendingar um að fleiri athafnir hafi farið fram í seljum, s.s. nýting á öðrum auðlindum í umhverfinu.

Sel - tilgáta

Selshús – tilgáta ÓSÁ.

Í seljum voru hús sem hýstu þá sem þar dvöldu auk kvía/aðhalds (til að smala skepnunum í til mjalta); eldhús, geymslur/búr og jafnvel fleiri rými. Venjan var að hver bær ætti sitt sel, þótt stundum hafi þau verið samnýtt, og eru selin því oft nefnd eftir heimabænum. Í góðum seljalöndum má oft finna mörg sel, frá mörgum bæjum en jafnvel einnig frá mismunandi tímum. Seljabúskapur hófst á Íslandi snemma eftir landnám og var stundaður allt til aldamóta 1900, en þó mislengi eftir landshlutum. Seljabúskapur var ekki eingöngu stundaður fyrir efnahagslegan ávinning og betri landnýtingu heldur einnig sem hluti af samfélagslegri hefð sem tekin var að heiman með fyrstu landnámsmönnunum en var haldið við hér í nýju landi. Selin hafa einnig haft pólitíska þýðingu en með þeim gátu menn helgað sér land, jafnvel langt frá bæ og þannig sýnt vald sitt. Seljabúskapur hefur því margar hliðar sem áhugavert er að skoða í samhengi við samfélag, efnahag og landslag hvers svæðis fyrir sig.

Selstöður

Brunnastaðasel
Á Vogaheiði er að finna leifar a.m.k. 20 selja, bæði frá bæjum sunnan- og norðanvert á Reykjanesskaganum. Sum selin eru einföld að gerð og þeim hafa aðeins tilheyrt ein til tvær litlar byggingar en önnur eru stærri og augljóst að þar hefur margvísleg starfsemi farið fram. Vegna þess hve heimahagar við bæi á Vatnsleysuströnd voru almennt rýrir, hefur verið nauðsynlegt að hafa í seli að sumri, þá sérstaklega kýr. Vatnsskortur á heiðinni hefur án vafa aftrað veru selsmala og annarra sem í seli voru en í Jarðabókinni er sagt frá því að fólk hafi þurft að flytja heim úr seli vegna vatnsleysis og uppblásturs. Heimildir eru til um vatnsflutninga á hestum til selja í Hafnahreppi og einnig að bræða hafi þurft snjó úr gjám til að fá vatn. Hið sama hefur án efa átt við um selstöðurnar í Vatnsleysustrandarhreppi þegar þurrviðrasamt var.

Ótrúlegt er að hugsa til þess að í þessu hrjóstruga landslagi sem ríkjandi er á Vogaheiðinni, leynist allur þessi fjöldi af seljum. En þegar betur er að gáð eru þar fjölmargir grænir grasbalar, oft undir hól eða klettabarði á skjólsælum stað. Hér verður skýrt frá nokkrum völdum seljaminjum á svæðinu en ljóst er að af nægu er að taka.

Fornasel

Fornasel – uppdráttur ÓSÁ. Úr BA ritgerð um „Sel vestan Esju“.

Fornasel er lítil selstaða, staðsett rétt um 700 m sunnan við Reykjanesbrautina. Selið stendur á lítilli hæð á grónu svæði. Heimildum ber ekki saman um frá hvaða bæ var haft þarna í seli. Ein heimild segir selið vera frá Þórustöðum en önnur heimild segir selið vera frá Landakoti og að það heiti Litlasel. Fornasels er ekki getið í Jarðabókinni 1703 eða annars sels á þessum slóðum en bókin nefnir þó Fornuselshæðir, sem líklega eru nokkuð ofar í heiðinni. Tóftir selsins standa mót vestri og sjást þar þrjár tóftir, allar vel greinanlegar, auk þess sem ein stök kví stendur litlu neðar. Rétt fyrir ofan hólinn, að austanverðu, er lítið vatnsból með grjóthleðslu í kring.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – uppdráttur ÓSÁ. Úr BA ritgerð um „Sel vestan Esju“.

Knarrarnessel er u.þ.b. á miðri Vogaheiðinni, um 2 km suðvestur af Fornaseli. Í Knarrarnesseli er mest flatlendi umhverfis sel miðað við aðrar selstöður á heiðinni. Selstaðan er stórt með mörgum tóftum en líklegt er að flestir bæir í Knarrarnesshverfi hafi haft selstöðu þar og útskýrir það því fjölda bygginga sem þar hefur staðið. Því til stuðnings nefna heimildir að auk Knarrarness hafi Litla-Knarrarnes og Ásláksstaðir haft í seli í selstöðunni. Vatnsból selsins er í hól, um 100 m norðvestan við selið. Þegar loftmynd af svæðinu er skoðuð má sjá hvernig selrústirnar raðast á þennan litla grasbala í auðninni, sem einungis er um 150 m í þvermál.

Gjásel

Gjásel í Vogaheiði – uppdráttur ÓSÁ. Úr BA ritgerð um „Sel vestan Esju“.

Gjásel er staðsett á miðri Vogaheiðinni og rétt ofan við það er Gjáselsgjá. Ekki er vitað með vissu frá hvaða bæ var haft þar í seli en selstaðan er staðsett nálægt austurmörkum Brunnastaðasels. Í sumum heimildum er sagt frá því að selið hafi verið frá Brunnastöðum en aðrar heimildir nefna Hlöðunes í því samhengi. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 segir að selstaða Hlöðuness, sem staðsett var ofar í heiðinni, sé aflögð vegna uppblásturs en Brunnastaðir eru þá enn með nothæfa selstöðu. Af því má leiða líkur að Gjásel hafi verið frá Hlöðunesi eftir að Hlöðunessel er lagt af. Stærð Gjásels gæti reyndar bent til þess að fleiri en einn bær hafi haft þar í seli en þar er að finna tóftir af átta húsum sem standa þétt í beinni röð undir gjárveggnum og mælast tóftirnar rúmir 30 m á lengd. Í öðrum seljum á heiðinni eru byggingar yfirleitt í pörum eða í mesta lagi þríhólfa byggingar. Tóftirnar eru vel greinanlegar og veggir enn uppistandandi sem bendir til þess að selið sé í yngra lagi, jafnvel með þeim yngstu á heiðinni.

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ. Úr BA ritgerð um „Sel vestan Esju“.

Þó að gosið, sem hófst í Geldingadölum að kvöldi 19. mars, hafi enn ekki eyðilagt neinar fornminjar má nefna að vísindamenn telja líklegt að gosið geti verið upphafið að nýju gostímabili. Ef svo reynist vera er nokkuð ljóst að minjar munu áfram vera í hættu og þá á öllu Reykjanesinu. Við mat á fjölda þeirra fornminja, sem settar voru í hættuflokk í tengslum við gosóróann sem hófst í byrjun mars 2021, var stuðst við gögn stofnunarinnar um minjar sem þekktar eru á svæðinu og heimilda hafði verið aflað um. Það er þó alveg ljóst að þau gögn eru ekki tæmandi listi þar sem heildarskráning fornleifa á svæðinu hefur ekki farið fram. Sé einungis talað út frá seljaminjum má nefna að talið er líklegt að á Reykjanesskaga öllu sé að finna minjar um 250 selstaða og eru þá ótaldir allir aðrir minjaflokkar sem á skaganum er að finna. Því er ljóst að mikið verk er fyrir höndum við að rannsaka og skrá þessar minjar, áður en illa fer.“

Framangreindar hugleiðingar Minjastofnunar Íslands eru að mörgu leiti svolítið skondnar og því ástæða til að gera við þær nokkrar athugasemdir:

Reykjanes

Reykjanes – kort frá 1903.

Í fyrsta lagi virðist vera um einhverja hugtakavillu í höfðum starfsfólks Fornleifastofnunar Íslands þegar fjallað er um „Reykjanes“; Reykjanes er einungis ysti hluti Reykjanesskagans. Allt austan þess tilheyrir Skaganum og ber því réttilega að ritast allt slíkt; á „Reykjanesskaganum“.

Sel vestan Esju

Sel vestan Esju. BA-ritgerð frá 1994.

Í öðru lagi hefur vitneskja um selsminjarnar á Reykjanesskaganum ávallt legið fyrir fótum þeirra er hafa haft vilja til að kanna þær. Ekki þurfti eldgos til. Minjastofnun lætur líta svo út að starfsfólkið sé að forskrá óskráðar minjar á svæðinu. Því fer víðs fjarri.

Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd

Örnefi og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd – Sesselja Guðmundsdóttir.

Í þriðja lagi liggur ljóst fyrir að Fornleifastofnun Íslands hefur fram að þessu dregið lappirnar varðandi nauðsynlegar skráningar fornleifa á Reykjanesskaganum, eins og svo margsinnis hefur verið bent á í gegnum tíðina.
Í fjórða lagi eru selin á Reykjanesskaganum ekki „um 250“ talsins. Þau eru u.þ.b. 400 talsins.

Sel vestan esju

Sel vestan Esju – BA-ritgerð 2007.

Í fimmta lagi hafa öll sel „Vestan Esju“ þegar verið skráð – sjá m.a. fyrirliggjandi BA-ritgerð um sel á vestanverðum Reykjanesskaga. Í þeim skrifum kemur t.d. fram allt framangreint og fjölmargt annað að auki.
Í sjötta lagi er augljóst að starfsfólk Minjastofnunar virðist haldið einhvers konar minnimáttarkennd gagnvart öðrum er best þekkja til svæðisins. A.m.k. hefur það ekki leitað til þeirra er gerst þekkja til þeirra minja er það geymir.

Sýrholt

Sel í Sýrholti (Fornusel).

Í sjöunda lagi er augljóst, m.v. fyrirliggjandi skráningu starfsfólks Minjastofnunar, að margar minjar á svæðinu er ekki að finna í þess skrám. Það þarf því að gera betur.
Í áttunda lagi virðist vera um handahófskennda leit að þegar skráðum fornleifnum hafði verið að ræða. Ekki hafa verið gerðar tilraunir til að leita uppi óskráðar fornleifar, sem víða leynast.
Hægt væri að halda lengi áfram með ábendingar þær er betur mætti fara í framangreindum starfsháttum Minjastofnunar Íslands…

Heimild:
-Minjastofnun Íslands, apríl 2021.

Kolhólssel

Kolhólssel.

Búrfellsgjáarrétt

Fjárréttir á Reykjanesskaganum eru 222 talsins og ekki svo gömul fyrirbrigði. Þær elstu eru frá því í lok 19. og byrjun 20. aldar. Reyndar eru til minjar um eldri réttir, en þær tengjast venjulega rúningum eða fráfærum. Til eru litlar safnréttir, en þá venjulega nálægt bæjum, enda ekki rekið á afrétt fyrr en eftir að selstöðurnar lögðust af um og eftir 1870. Hugtakið „afréttur“ hefur breyst mikið frá fyrri tíð þegar fé var haldið upp frá bæjum á afmörkuðum svæðum uns bændur tóku sig saman og ráku fé upp til heiða í byrjun sumars og söfnuðu því síðan saman að hausti til úrdrátta.

Garðastekkur

Garðastekkur, tóftin óljós lengst til vinstri, og Garðarrétt. Fjárborg ofan við réttina, sennilega frá stekkjartímanum.

Sérhver bóndi hafði fé sitt í seli, að jafnaði frá 6. til 16. viku sumars. Í selinu, sem oftast var ofarlega eða jafn yst á landamerkjum, gætti smali fjárins og selsmatsseljan mjólkaði og vann afurðirnar. Fátt fjár var þá á bæjunum, enda flestir kotbýli er byggðu afkomu sína á útvegi.

Hlíðarborg

Hlíðarborg. Síðar stekkur.

Við endalok selsbúkaparins færðist vinna smalans og selsmatsseljunnar heim á bæ. Selsstekkurinn færðist þangað. Stundum var hann heimfærður upp á „heimasel“. Stekkjartíminn var einhver skemmtilegasti tími vorsins og jafnvel alls ársins. Eftir Jónsmessuna komu fráfærurnar, þá var það einn góðan veðurdag, að ærnar voru reknar heim af stekknum og ekki hleypt til lambanna framar, heldur voru þær mjólkaðar í kvíunum og reknar síðan í haga og setið þar yfir þeim, líkt og í seljunum fyrrum. Sumir heimastekkjanna urðu síðar að réttum. Þannig varð Garðastekkur, sem enn sést þótt grasi gróinn sé orðinn, að rétt fyrir Garðabæina.

Arnarfellsrétt

Arnarfellsrétt.

Geldfé var hins vegar sleppt á vorin, bæði sauðum og gemlingum, svo snemma sem tök voru á, þar sem það var ekki látið eiga sig úti mestan hluta vetrarins. Því var smalað á vorin, oftast um faradagaleytið, og rúið.
Í dag er „afréttur“ landsvæði utan byggðar sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfé. Þannig hefur búskaparháttum verið varið í u.þ.b. 150 ár á Reykjanesskaganum. Síðustu árin hefur fé í auknum mæli verið haldið í afmörkuðum beitarhólfum. Hefðir og aðferðir hafa breyst frá einum tíma til annars.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – Stekkurinn, síðar rétt.

Á Skaganum eru allmargar grjóthlaðnar fjárréttir, sumar hverjar meistara vel gerðar. Má þar t.d. nefna Vörðufellsréttina, Girðingarréttina og Geitafellsréttina (Gjáréttina) í Selvogsheiði, Bakkarétt og Þingvallarétt, Árnakróksrétt ofan Selvatns, Eldborgarrétt, Arnarfellsrétt og Bæjarfellsrétt í Krýsuvík, Borgarhraunsréttina ofan Ísólfsskála, Búrfellsgjárréttina og Selflatarétt í Grafningi. Nýlegri réttir eru t.d. Fossárréttin í Kjós, Þórkötlustaðaréttin í Grindavík, Hafravatnsrétt og Skógarhólarétt á Þingvöllum.

Stóri-Hamradalur

Rétt í Stóra-Hamradal.

Rúningsréttir má finna víða nálægt bæjum. Fær er rúningsréttin í Stóra-Hamradal, Kálfellsrétt, Þorbjarnarstaðarétt, Straumsrétt, Óttarsstaðarétt og Dísurétt.
Minjar fjárréttanna, þótt þær séu ekki mjög gamlar, eru mikilvægur vitnisburður um búskaparhættina fyrrum og ber því að varðveita sem slíkar. Nokkrar réttanna hafa verið annað hvort eyðilagðar eða beinlíns verið fjarlægðar líkt og Hraunsréttin ofan Hafnarfjarðar og Meðalfellsvatnsréttin í Kjós. Aðrar hafa orðið skógrækt að bráð, s.s. gamla Fossárréttin.
Réttir á Reykjanesskagnum eru 204 talsins. Sjá myndir af mörgum þeirra HÉR.

Heimild:
-Íslenskir þóðhættir, Jónas Jónasson frá Hrafnagili, Ísafoldarprentsmiðja 1961, bls. 172.

Hafravatnsrétt

Hafravatnsrétt.

Straumssel

Hraunin
Hraunajarðirnar, millum Hvaleyrar og Hvassahrauns, hafa, líkt og aðrar jarðir á Reykjanesskaganum, haft fé í seli að sumarlagi svo lengi sem sögur herma. Jarðirnar byggðust upp allnokkru eftir landnám og þar hefur að öllum líkindum verið kotbúskapur til að byrja með þar sem ábúendur lifðu aðallega á sjávarútvegi og fáeinum kindum og sauðum. Kýr hafa þar heyrt til undantekninga í fyrstu, en eftir því sem kotin urðu að bæjum jukust umsvifin.

Kúarétt

Kúarétt í Kúadal.

Engin kúasel eru þekkt á Hraunasvæðinu, en örnefni tengd tengd kúabúskap eru kunn, s.s. Kúarétt vestan Straums – í landi Óttarsstaða. Þar var nátthagi fyrir kýr og augljóslega stöðull ef tekið er mið af grjóthlöðnum mannvirkjum.
Sennilega er fyrst haft í seli frá Straumi á 14. öld og þá í Fornaseli. Forn selstígur, markaður í hraunhelluna á kafla, liggur upp frá bænum, upp með túngarði Þorbjarnarstaða og áfram upp gróin hraunin austan Almennings, að Fornaseli. Stígurinn er varðaður alla leiðina með litlum mosagrónum vörðum. Ábúendur á Þorbjarnarstöðum hafa síðar notað stíginn upp að þeirra selstöðu í Gjáseli, jafnvel samtímis um einhvern tíma. Straumsselsstígurinn liggur hins vegar upp frá Straumi skammt vestan Þorbjarnarstaða, um hraunið vestan Draughólshrauns og kemur að Straumsseli að norðvestan. Hann er varðaður með litlum vörðum, en gatan hverfur á köflum í mosagróningum. Báðum framangreindum stígum verður betur lýst hér á eftir.

Fornasel

Fornasel – uppdráttur BFE.

Fornasel – prufuholur
Í skýrslu Bjarna F. Einarssonar, fornleifafræðings; „Fornasel – Prufuholugröftur í seljarústir suður af Straumsvík“ frá árinu 2001, segir m.a.: „Selsins er hvergi getið í rituðum heimildum og er aðeins nefnt í Örnefnaskrá.

Fornasel

Fornasel í Hraunum.

Um nafngiftina er ekkert vitað en hún hlýtur að vísa í fornt sel eða að annað sel hafi tekið við þessu (Nýjasel?) og nýtt nafn fest á hið gamla!“.
Ekki er minnst á Fornasel í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Straum. Hins vegar er getið um Fornasel í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar við sama bæ. Þá er og sagt frá Fornaseli í örnefnalýsingu Gísla fyrir Þorbjarnarstaði, en þar er það staðsett þar sem heitir Gjásel, sem var sel frá þeim bæ. Í Jarðabókinni 1703 er Gjásel tiltekin sem selstaða frá Þorbjarnarstöðum.
Þegar selstaðan í Straumsseli er skoðuð er ljóst að hún hefur ekki verið þar um langa tíð. Bæði eru húsatóftir í selinu augljósleg yngri en í Fornaseli og auk þess hafa þær ekki verið endurbyggðar margsinnis eins og t.d. sjá má í Óttarsstaðaseli (hár og umfangsmikill tóftahóll). Húsin í Fornaseli líkjast eldri tegundum húsa í seljum á þessu landssvæði; stök sundurlaus hús, sem hvert um sig þjónaði ákveðnum hlutverki, s.s. baðstofa, búr og eldhús, en húsin í Straumsseli líkjast hins vegar nýrri tegunum húsa; sambyggð með reglulegum hætti þar sem baðstofa og búr eru sambyggð og eldhúsið hliðstætt.

Fornasel

Vatnsstæði í Fornaseli.

Vatnsból í Fornaseli hefur þótt að jafnaði gott, en er opið og hefur eflaust þornað upp á þurrviðrasömum sumrum.
Í Óttarsstaðasseli er vatnsbólið líkt því í Fornaseli, en húsin hafa verið endurbyggð aftur og aftur, enda endast slíkir bústaðir, sem einungis hafa verið ætlaðir sem skjól í skamman tíma að sumarlagi og lítt verið vandað til, ekki nema takmarkað. Ef grafið yrði í tóftahólinn í Óttarsstaðaseli munu að öllum líkindum koma í ljós eldri stakkennd rými neðst. Þau nýjustu eru lík þeim, sem sjá má í Straumsseli.

Fornasel

Fornasel – uppdráttur ÓSÁ.

Í niðurstöðum rannsóknar Bjarna í Fornaseli segir: „Allt bendir til þess að haft hafi verið í seli að Fornaseli frá því um 1600 og fram á 19. öld. Hús 1 og 2 hafa verið byggð ofan í dálítilli sprungu í hrauninu og með tíð og tíma hefur sprunga þessi fyllst af áfoki, mannvistarlögum og mold og selið hækkað hægt og bítandi við hverja endurbyggingu sem átt hefur sér stað. Slíkar endurbyggingar virðast allavega hafa verið þrjár. Þessi mikla jarðvegsmyndun sem átt hefur sér stað bendir frekar en ekki til þess að selstaðan eigi sér langa sögu frekar en að áfok sé mikið á staðnum. Kannski er sú saga lengri en C-14 niðurstaðan gefur tilefni til að ætla.
Hús 1 og 2 virðast bæði vera mannabústaðir. Hús 3 gæti verið það, en hólfið sem var kannað í því var ekki mannabústaður heldur trúlega búr. Varla hafa öll húsin verið í notkun samtímis, eða að þau hafi haft breytilega notkun. Þegar eitt þeirra var nýtt sem mannabústaður, var annað eða önnur nýtt sem búr, eldhús eða annað. Hús 1 minnir mest á húsin frá Færeyjum og gæti því gerðþróunarlega séð verið það elsta. Öll eru húsin hlaðin úr hraungrjóti og hellum.

Hraunin

Hraunin – selstígar.

Staðsetning selsins, og annarra selja á svæðinu, er all óvenjuleg fyrir þær sakir að þar er ekki rennandi vatn og selin kúra ekki utan í fjalshlíð eins og alvanalegt er. Vatnsleysið er vandamál á svæðinu öllu og það var leyst með rigningarvatni í vatsbólinu. En að selið skuli ekki vera í Undirhlíðum, er undarlegt, en skýringin gæti verið að þar er ekki rennandi vatn og jarðvegur of gljúpur til að hægt sé að safna því með góðu móti. Eins gætu eignarhald verið skýringin (ekki kannað nú). Þessi staðreynd virðist gilda fyrir öll sel á svæðinu svo sem Straumssel, Óttarsstaðasel, Lónakotssel og Hvassahraunssel.“

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel – uppdráttur.

Bjarni telur að Fornasel gæti hafa verið eldra en frá því um 1600 og er það að öllum líkindum rétt hjá honum. Einnig gæti selstaðan hafa verið nýtt eitthvað áfram þrátt fyrir að hún hafi verið færð upp í Straumsel. Hins vegar er staðsetning selsins, sem og annarra selja á svæðinu, alls ekki óvenjuleg. Sel á Reykjanesskaganum, sem eru vel á annað hundrað talsins, „kúra“ sjaldnast undir fjallshlíðum heldur yfirleitt undir hraunhólum, -hæðum eða gjám.

Oft eru þau við vötn og læki, einkum á austanverðu svæðinu, en jafnoft við vatnsstæði, bæði náttúruleg og handgerð. Á vestanverðu svæðinu voru t.d. selin á Selsvöllum vestan undir Núpshlíðarhálsi og Sogasel í Sogaselsgíg sunnan Trölladyngju við læki.

Brunntorfur

Fornasel – fjárskjól.

Skammt sunnan við Fornasel er hlaðið fjárskjól í litlu jarðfalli. Skjólið er ekki ólíkt því og finn má í kringum Straumssel. Vestan við Gjásel er fjárskjól (Gránuskjól) með fyrirhleðslum framan við. Sunnan og vestan við Óttarsstaðasel eru einnig fjárskjól (Rauðhólsskjól og Þúfhólsskjól).
Hraunajarðirnar áttu ekki land í Undirhlíðum.

Örnefnin við Óttarsstaðasel

Óttarsstaðaborg

Borgin – Óttarsstaðaborg.

Í Örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrir Óttarsstaði segir m.a.: „Nú er að fara upp fyrir þjóðveginn. Þar er ofan við gamla veginn hátt hraunholt, sem heitir Smalaskáli. Á því, á gjárbarmi, eru leifar eftir smalahús. Í þennan hól austanverðan er ker. Smalaskálahæðir heitir hæðin hér í kring. Þar aðeins ofar er lægð, og ofan hennar taka við aðrar hraunhæðir, Löngubrekkuhæðir, og meðfram þeim eru Löngubrekkur. Meðfram þeim lá vegur hér áður fyrr. Austur af Smalaskálahæðum er svo Rauðimelur sá, sem nú er að mestu fluttur burt og kominn í vegi. Vestur af Löngubrekkuhæðum er gömul fjárborg glögg, sem heitir Borg, og þar vestar og niður að vegi er hóll, Sauðaskjól.

Brennisel

Brennisel í Brenniselshæðum – brúkað til kolagerðar frá Óttarsstöðum.

Nú er á honum hár rafmagnsstaur. Norðvestur frá Sauðaskjóli eru Högnabrekkur í Lónakotslandi.
Ofan við Borgina eru svonefndir Litluskútar, og þar ofar liggur þar þvert yfir svonefndur Breiðiás, hraunbreiða, sér hæð, er með keri ofan í. Vestur af Litluskútum er í Lónakotslandi Skjöldubali. Upp af Löngubrekkum, í norðaustur af Breiðás, er Litliás rétt ofan við gamla veginn. Þar austur af honum heita Brenniselshæðir (62), og austan við Löngubrekkur er svo Gvendarbrunnshæð í Straumi.
Austur af Lónakotsseli eru tveir klettar, nefndir Valklettar, og þar austur af er sérkennilegur hóll með helli undir, sem heitir Steinkirkja. Upp af Brenniselshæðum heitir Bekkur og í hrauninu þar hjá Bekkjarhellir. Upp af þessu er svo Óttarsstaðasel, og þar austur af heita Tóhólar. Á þeim er Tóhólavarða.

Skorás

Skorás – selsvarða.

Upp af Lónakotsseli tekur við einn ásinn, sem heitir Skorás. Þar upp og vestur er svo Bjarnarás, og efstur er Snjódalaás. Upp af Bekkjum (svo), milli þeirra og Óttarsstaðasels, er Sveinshellir; vont er að finna hann – varða við hann á flata hrauninu. Þar var hægt að hafa á þriðja hundrað fjár. Neðan Bekkja, ofan við Gvendarbrunnahæð (svo), er Seljahraun.
Nokkuð langt upp af Tóhólum heita Merarhólar. Þetta eru allháir hólar. Neðan við þá er Rauðhóll. Þetta er mikill hóll upp af Tóhólum. Niður af honum er Rauðhólstagl. Þar er fjárhellir.“

Í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Óttarsstaðasel segir m.a.: „Frá Gvendarbrunni liggur gamla hestaslóðin (fyrsti Keflavíkurvegurinn) vestur framan við Gvendarbrunnshæð og áfram suður með Löngubrekkum. Vegurinn er nú uppgróinn fyrir löngu, en þó sést víða móta fyrir honum. Víða voru hlaðnar vörður á klapparhólum með veginum, og standa sumar þeirra enn.
Seljahraun er lágt brunahraun upp af Gvendarbrunnshæðinni. Þar var mikið bláberjalyng og var mikið farið þangað til berja í gamla daga. Landamerkjalínan lá frá Gvendarbrunni suður yfir Seljahraun og þaðan upp í Mjósundavörðu.

Bekkjaskúti

Bekkjaskúti.

Skammt vestur af vörðunni eru Bekkir og fyrir ofan þá Bekkjahraun. Þar var gríðarmikill fjárhellir, hlaðinn og reft yfir, kallaður Bekkjaskútinn . Er hann í alldjúpri laut eða jarðfalli, sem kallast Bekkjahraunsker. Framan við hellinn óx fyrrum mikil birkihrísla. Hana kól í frostunum 1918, en rafturinn er þarna enn. Töluvert vestur af Bekkjunum eru Brenniselshæðir. Þar eru tveir fjárskútar, kallaðir Brenniselshellrar. Annar er feiknastór og var yfirreftur, en nú er það fallið niður. Jarðfall uppgróið er fyrir framan hann. Þar suður og upp af er stakur klapparhóll, klofinn, kallaður Steinkirkja. Norðan í henni er upphlaðinn fjárskúti. Suðvestur af Steinkirkju eru hólar, sem Valklettar heita. Vestur og niður af þeim er hæð, sem nefnist Breiðás. Skammt suður frá fjárbyrginu eru Litluskútar og þar austur af slétt hæð, sem nefnist Litliás.

Skógargata

Gerði við Skógargötu.

Skógargatan liggur suður rétt við Rauðumelana, vestan við Gvendarbrunnshæð, áfram yfir Seljahraun og upp Mjósundin. Þá liggur stígurinn á brún grunnrar lægðar. Í henni, rétt suður af Bekkjahrauninu, er hellir, sem nefndur er Sveinshellir. Ekki er vitað um tilefni nafnsins. Hellirinn er feiknastór, en sést ekki, fyrr en að er komið, því að opin er svo þröngt. Fyrir munnann er vaxin birkihrísla mikil. Hellirinn er hvergi manngengur, og fé fór ekki inn í hann nema rétt inn fyrir opið. Varða, sem nefnd er Sveinsvarða, er á klapparbrún yfir hellisopinu.

Óttarsstaðasel

Meitilsskúti.

Sunnanverðu við götuna eru klettar, sem nefnast Meitlar, Stóri-Meitill og Litli-Meitill. Í þeim stærri er stór fjárskúti, sem kallaður er Meitilshellir eða Meitilsskúti. Austur frá Meitlum eru Stórhæðir í Straumslandi. Skammt sunnan við Meitla er komið í laut nokkuð langa og blasir þá við Óttarsstaðasel. Þar endar Skógargatan. Rústir eru eftir tvö sel, þrjár byggingar í hvoru. Snúa dyr austur og vestur. Gríðarmikið graslendi er hjá selinu. Vestan við túnið er hæð og vestan í henni gríðarstór hellir. Hefur sýnilegar verið reft yfir þetta skjól og það þá verið bezta fjárskýli. Efst í túninu er klapparker með vatni, á annan metra að dýpt. Vatnið þornar mikið upp á sumrin og verður tómt grugg í þurrkum. En vestan í smáhæð vestast í túninu er hola í klöpp og í henni mikið vatn og tært, sem aldrei þornar. Við holuna lá alltaf flaska í gamla daga, til þess að ferðamenn gætu fengið sér vatnssopa.
Í suður frá selinu sér í op á miklum hraunbás. Þar er ævagömul rétt, sem stendur óhögguð enn í dag. Réttin stendur á klöpp og eru veggir hlaðnir frá hvorum kersbarmi og allrúmgott, þegar inn er komið. Sennilega hefur verið haft þar fé á nóttunni.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel – nátthagi.

Suðaustur frá selinu taka við klapparhæðir á stóru svæði, nefndar Bjarnarklettar. Þar er grasi gróið jarðfall, sem nefnt er Bjarnarklettaker. Þar fennti oft fé. Þar suður af eru kölluð Klungur í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar, nafnið haft eftir Sveini í Eyðikoti. Gústaf þekkir ekki þetta nafn, en telur óhætt að treysta Sveini. Landamerkjalínan liggur suður og upp úr Mjósundavörðu, yfir hraunflatneskju, sem nefnd er Flatahraun. Þar vestarlega er smájarðfall, grasi gróið. Eru þar tvö op nær samliggjandi. Ekkert vatn er þarna nema í frostum. Upp frá hraunbreiðu þessari eru brekkur, sem nefnast Bringur). Neðst í þeim er lítill klapparhóll, sprunginn, nefndur Steinhúsið. Efst í Bringum er Markaklettur (nefndur Klofaklettur í landamerkjalýsingu). Á hann eru klappaðir stafirnir Ótta., Str. Landamörkin liggja þar um og upp í Eyjólfshól. Á honum er varða, sem kallast Eyjólfshólsvarða, en kringum hólinn eru mosahæðir, sem nefnast Mosar. Línan liggur áfram suður í Markastein.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðasel – Þúfhólsskjól.

Vestur frá Óttarsstaðaseli er Þúfhóll í Þúfhólshrauni. Vestan í því er Þúfhólsskjól, allgott skjól. Framan við það er kolagröf svo ætla má að skjólið hafi verið notað til geymslu kola.
Suðvestur frá selinu blasa við miklar hæðir, sem nefnast Tóhólar. Á hæsta hólnum er varða, sem kölluð er Tóhólavarða. Vestur frá hólunum gengur Tóhólatagl og niðri í því er Tóhólaskjól við Tóhólaskúta. Suðvestur frá Tóhólavörðu er stór klapparhóll með þúfu uppi á, nefndur Rauðhóll. Smáskúti er vestan í honum. Kringum hólinn er Rauðhólshraun. Suður frá Rauðhól eru litlir hólar, Merarhólar, á stóru svæði. Vestur af þeim eru lægðir og efst í þeim stakur hóll, Einirhóll. Er þá komið mjög nálægt mörkunum við Hvassahraun.“

Örnefnin við Straumssel

Draughólshraun

Draughólshraun.


Í Örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrir Straumssel segir m.a.: „Ofan við Grenigjár tekur svo við hraunssvæði sem heitir Draughólshraun og efst af því er svo stór hóll sem heitir Draughóll. Vestan við Draughólshraun að Óttarstaðamerkjum er skógur og kvistur sem heitir Mjósund, ofan við þetta strax upp af hrauninu heitir Straumssel, milli Draughóls og Straumsels eru höfðar sem heita Straumsselshöfðar og þar niður af með hraunjaðrinum á Draughólshrauni niður að Grenigjá heitir Katlar. Neðan við þá eru Tobbuklettar.“

Tobburétt

Tobburétt vestari – uppdráttur ÓSÁ.

Í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Straumssel segir m.a.: „Suðsuðaustur frá Mjósundum blasir við hóll í hrauninu, nefnist Draughóll. Kringum hann er úfið hraun og nefnist það Draughólshraun. Af Tókletti lá landamerkjalínan suður yfir Seljahraun í Tobbuklett vestari. Þar uppi á klettunum er Tobbuklettsvarða. Í skrá G.S. segir, að þarna hafi einnig verið Tobbuklettsrétt. Nafnið þekkist nú ekki lengur, en þó sést enn fyrir réttum í Grenigjám litlu vestar. Vestur frá Tobbuklettum eru klettar miklir og margsprungnir. Óvíst er um heiti þeirra, en vestan þeirra eru Grenigjár. En suður frá Tobbuklettum liggur landamerkjalínan um Flárnar eða Flárnar nyrðri eða Neðri-Flár allt upp í Jónshöfða og síðan um Flárnar syðri eða Efri-Flár. Straumsselsstígurinn hefur legið vestan landamerkjalínunnar spotta og spotta. Annars liggur hann að miklu leyti austan línu í landi Þorbjarnarstaða.

Tobbuklettarvarða eystri

Tobbuklettavarða eystri.

Þegar Flánum sleppir, tekur við mikil brekka og hraunið, úfið mjög. Þar taka við svonefndir Katlar, djúpir hraunbollar og hraunhryggir. Ofar taka svo við Straumsselshöfðar. Sunnarlega í höfðunum er Höfðavatnsstæði uppi á hól. Þar er á sumrum drykkur fyrir tvo smala og hunda þeirra. Þá er skammt í Straumssel, sem er eitt merkasta selið hér um slóðir, því þar var búið 15 til 20 ár um miðja öldina, sem leið. Selstætturnar eru í Straumsselstúni. Þarna stóð bær fram á þessa öld, sem Tjörvi lét reisa, en ekki var þar stöðug búseta, því að bærinn brann. Seltúnsgarðar liggja um nokkurn hluta túnsins. Fjárhús er hér innan garðs, og hér er Selsgarðurinn, matjurtagarður. Austur frá Selinu var Selsbrunnurinn eða Straumsselsvatnsstæði, sem er ker, og þrýtur þar aldrei vatn. Suður og upp frá selinu er Straumsselshæð. Þar á er Straumsselshæðarvarða og sunnan í hæðina er Straumsselshæðarskjól.

Efri-Straumsselshellar

Straumselshellar syðri.

Úr Jónshöfða liggur landamerkjalínan um Katlana og höfðann og um svokallaðar Stórhæðir, og þaðan liggur línan í Hafurbjarnarholt. Þar uppi er svo Hafurbjarnarholtsvarðan. Síðan liggur línan í Steininn, stóran og mikið sprunginn. Síðan í Nyrzta-Höfða og um Nyrzta-Slakka og svo í Mið-Höfða og Miðhöfðaslakka og síðan í Fremsta-Höfða. Þar á eru þrjár vörður, sem Gísli Sigurðsson nefnir Lýritti, en það nafn þekkja ekki heimildarmenn sr. Bjarna. Suður í garði frá Selinu liggur Straumshellnastígur suður að Straumshellum nyrðri, miðja vegu milli Gömluþúfu og Straumssels, og þaðan liggur stígurinn í Straumshellana syðri. Hér eru allgóð fjárskjól, og hafði Tjörvi þarna fé. Við syðri hellana er Gerðið, sem notað var til samrekstrar.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel.

Suðvestur og upp er allmikil hæð, sem ekki ber sérstakt nafn, en þar er þúfa mikil, sem nefnist Gamlaþúfa. Vestur af henni liggja Bringurnar. Þar er Steinhús, klapparhóll mikill og áberandi. Rétt austan við það er fjárskjól eða skúti, sem mun ekki hafa neitt sérstakt nafn. Í skrá Gísla Sigurðssonar er skúti þessi nefndur Gústafsskjól. En þetta nafn hafði Gísli sjálfur gefið, þegar hann var í örnefnaleiðangri ásamt Gústaf Brynjólfssyni. Áður höfðu þeir Gústaf gefið þessu nafnið Steinhússkjól.“

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel – tilgáta.

Óttarsstaðasel og Straumssel eru dæmigerðar selstöður á Reykjanesskaganum.

Búseta í Straumsseli
Almennt var hætt að hafa í seli um miðja 19. öldina víðast hvar á landinu og lagðist sá siður því af í framhaldinu. Þó hélt einn og einn bóndi því áfram og eru heimildir fyrir því að Hvaleyrarbóndi hafi haft í seli við Hvaleyrarvatn lengst allra sem bjuggu í nágrenni Hafnarfjarðar. Sum selin voru ágætlega húsuð og því kjörið að nýta húsakostinn eftir að selstöður lögðust almennt af. Má þar t.d. nefna Kaldársel. Þegar Guðmundur Guðmundsson keypti Straumsjörðina af Páli Árnasyni sem hafði keypt hana 1839 af konungssjóði leigði hann heimajörðina en stofnaði sjálfur nýtt lögbýli. Guðmundur var gerður að skógarverði í Almenningi og settist að í Straumsseli og húsaði selið vel um 1847. Hjá honum var faðir hans Guðmundur Bjarnason, oft nefndur Krýsuvíkur-Gvendur. Hann andaðist aldraður maður í Lambhaga vorið 1848, en Guðmundur skógarvörður andaðist fimm árum síðar í selinu, nánar tiltekið 1853.

Straumssel

Straumssel.

Þegar Guðmundur gerði Straumssel að bústað sínum klagaði leiguliði hans í Straumi búsetuna til sýslumanns. Leiguliðinn var Bjarni Einarsson útvegsbóndi sem hafði búið þar allt frá því jörðin var í konungseigu. Honum þótti það vera skerðing á fornum rétti landseta að skipta jörðinni upp með þessum hætti. Guðmundur lofaði að fjölga ekki býlum í Straumslandi meðan Bjarni byggi þar. Bjarni gekk að sáttinni að því tilskyldu að bygging hins gamla Straumssels væri sér með öllu óviðkomandi, skyldu yfirvöld kæra búsetuna. Föst búseta var í Straumsseli í ein 40 ár með hléum, enda vatnsstæði lélegt og erfið búsetuskilyrði. Meðal ábúenda í selinu voru hjónin

Straumssel

Straumssel – tilgáta.

Kolfinna Jónsdóttir og Siguður Halldórsson sem bjuggu þar á tímabilinu 1853-1863. Eftir það fluttu þau í Hafnarfjörð og bjuggu í Kolfinnubæ sem stóð þar sem nú er Strandgata nr. 41. Farnaðist þeim vel í selinu þó kjörin væru kröpp. Bjarni sonur þeirra fæddist í Straumsseli 1857. Talið er að síðast hafi verið búið í Straumsseli 1890-1895. Bærinn Guðmundur lét reisa í Straumsseli stóðu fram undir aldamótin 1900 eða aðeins lengur en þá mun hann hafa brunnið. Selið fór eftir það í eyði en bæjartóftirnar eru all myndarlegar og vel greinilegar ásamt hlöðnum görðum umhverfis Seltúnið. Rými bæjarins eru þrjú, auk hlaðins garðs að norðvestanverðu. Brunnurinn er þar norðaustanvið.

Straumsselsstígur.

Straumselsstígur.

Selstígar í Hraunum
Í seinni tíma lýsingum er talað um tvær götur upp í Straumssel. Straumsgatan liggur frá Straumi að vestanverðu til suðurs, skammt austan við Straumsréttina. Frá götunni liggur stígur, hér nefndur Straumsstígur, yfir Alfaraleiðina austan Draugadala, upp í gegnum Seljahraunið og áfram upp í gegnum Mjósundið. Gatan fylgir vestanverðu Gráhelluhrauninu og Draughólshraun, upp með vestanverðum Straumsselshöfða og upp í Straumssel að vestanverðu. Auðvelt er að rekja þessa götu upp frá Straumi þar sem hún liggur til suðurs austan Straumsréttar og undir Reykjanesbrautina og áfram til suðvesturs. Ofan við Mjósundið hverfur stígurinn á kafla undir kjarr, sem hefur gróið þar vel upp, en kemur fljótlega aftur í ljós skammt sunnar.

Fornaselsstígur

Fornasels og Gjálselsstígur.

Straumsselsstígsins er getið í örnefnalýsingu. Hann liggur til suðurs vestan Sölvhóls og áfram fast við vestanverðan túngarð Þorbjarnastaða. Grunsemdir eru um að þessi stígur, sem síðan liggur beint út frá Þorbjarnastaðartúninu til suðurs og áfram upp í Gjársel og Fornasel, sem voru sel frá Þorbjarnastöðum og hugsanlega Straumi, hafi verið forn gata þaðan. Þessi sel lögðust af fyrr en Straumsselið. Túngarðurinn var hlaðinn um og eftir 1900 og þá hafði selsbúskapur í Hraunum lagst af. Þess vegna er ekki hlið á garðinum þar sem selsstígurinn mætir túninu. Eystri selstígurinn er merktur að hluta.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – Stekkurinn.

Þessi selsstígur liggur til suðsuðausturs vestan við Stekkinn sunnan Þorbjarnastaða, yfir Mið-Seljahraunið (þau eru fjögur á þessu svæði), framhjá Miðmundarhæð (á hægri hönd), um “grennsta” haftið á Seljahrauni og áfram til suðausturs austan Grenigjáa, upp með Eystri Tobbuklettum, um Flárnar, meðfram austanverðu Draughólshrauni og upp meðfram Jónshöfða. Stígurinn hlykkjast um hraunið og er ýmist í landi Þorbjarnastaða eða Straums. Við Laufhöfða eru gatnamót. Þar beygir Straumsselsstígur til suðurs þar sem hann liggur um Katlana. Skammt þar austan við er Kápuhellir, í landi Þorbjarnarstaða. Norðan undir Straumsselshöfða beygir stígurinn til vesturs og kemur vestan og sunnan hans upp í selið. Reyndar skiptist gatan undir norðurhorni höfðans, en þaðan liggur gata áleiðis að Straumsselshæð og inn í selið að norðaustanverðu.
Á leiðinni sást vel yfir að Tobbuklettum og vörðu við Grenigjár, en í þeim er nokkuð stór rétt innan hraunhólaþyrpingar. Selsstígurinn er vel markaður í klöppina á kafla, einkum neðst í Flánum. Einnig er hægt að komast inn á hann eftir stíg af Gerðarstíg, sem er austastur þessara stíga. Hann liggur til suðurs austast í Seljahraununum.

Straumssel

Straumsselshæðarvarða.

Fyrir ofan Straumssel er Straumsselshæð og á henni Straumsselshæðarvarða. Ofar og sunnar eru Stórhæðir. Efst austan til er Fremstihöfði en í suðvestur sér í hæstu hæð Gömluþúfu. Í því er Gömluþúfugrenið.
Sunnarlega í Straumselshöfða er Höfðavatnsstæðið, uppi á hól. Þar á sumrum var drykkur fyrir tvo smala og hunda þeirra.
Straumsselið er eitt hið merkilegasta á Reykjanesskaganum. Seltætturnar eru í Straumselstúni. Þarna stóð bær fram á síðustu öld, sem Guðmundur Tjörvi lét reisa. Bærinn brann síðan. Áður var faðir hans, Guðmundur (sonur Krýsuvíkur-Gvendar) um tíma skógarvörður í Almenningum og hélt þá til í selinu.

Straumssel

Straumssel – Höfðavatnsstæðið.

Seltúnsgarðar liggja um nokkurn hluta túnsins. Fjárhús eru hér innangarðs sem og Selsgarðurinn, matjurtargarður. Vatnsstæði er í skúta norðan við þær, Selsbrunnurinn. Hlaðin hestarétt er vestan við Selstúnið.
Í Straumsseli var búið stundum á 19. öldi. Síðast á árunum 1890-1895. Bæjarhúsin eyddust af bruna og hefur ekki verið búið þar síðan sem áður sagði. “Í suðri sést í Hafurbjarnaholt, kennt við Björn Gnúps-Bárðarson, Hafur-Björn, sem samninginn gerði við bergbúann forðum. Gerðu þeir helmingaskipti í fjáreign. Segir sagan að þá hafi komið hafur og hrútur í féð og var þá sem tvö höfuð væru á hverri skepnu. Gerðist Björn þá fjárríkasti bóndi á Suðurnesjum”.

Straumssel

Straumssel – bærinn og garðar umleikis.

Seltúngarðar liggja um nokkurn hluta túnsins. Innan selsgarðsins um seltóftirnar var matjurtargarður.
Ofan og austan við Straunmsselið er Straumsselshæð. Sunnan í henni er Straumsselshæðarskjólið.
Straumsstígurinn kemur í selið ofan við hestaréttina. Líklega hefur hún verið notuð af hestafólki, t.d. þeim sem þurftu að hitta Guðmund skógarvörð í Straumsseli á meðan hrístakan stóð yfir. Einnig hefur heimilisfólk í selinu notað hesta fyrir utan auðvitað vöruflutninga. Hin gatan, Straumsselsstígur, sem nú er stikuð, hefur frekar verið farin af gangandi fólki, ef þetta er yfirhöfuð mannagata því ekki er ólíklegt að ætla að hún hafi frekar verið notuð sem búsmalagata. Ekki er t.d. að sjá gamlar vörður við hana eða „hnoðaða“ steina í götunni, eins og eftir skeifur, sem jafnan sjást í selgötunum vörðulausu.

Straumssel

Straumsselið.

Suður frá garði frá selinu liggur Straumshellnastígur, suður að Straumshellum nyrðri, miðja vegu milli Gömluþúfu og Straumssels. Þaðan liggur stígur í Straumshellana syðri. Hér voru allgóð fjárskjól og hafði Tjörvi þarna fé. Við syðri hellana er Gerðið, sem notað var til samrekstar.
Norðan við neðri hellana er gott varðað vatnsstæði í hraunkvos. Í neðri hellunum er rúmgóður fjárhellir utan í holti og snýr opið til vesturs. Hlaðið er framan við munnann. [Skammt sunnan við opið mótar vel fyrir miklum hleðslum við op. Hleðslurnar eru fallnar og hafði lokast fyrir opið, en hefur nú verið opnað á ný. Þarna mun vera op á öðrum fjárhelli, sem langur gangur átti að hafa verið inn í].
Í efri hellunum er rúmgóður fjárhellir og vel manngengur. Hlaðið er fyrir munnann, en hellisopið er innan við fallega hlaðið gerði í hraunbala. Ofan við gerðið að norðanverðu er hlaðið byrgi eftir refaskyttu, sem Jónas Bjarnason og félagar hlóðu eftir miðja 20. öld, væntanlega úr grjóti réttarinnar.

Verklag í seli

Selsmatselja

Selsmatsselja í seli.

Efitt er að finna ritaðar lýsingar á verklagi því er viðhaft var í seljum á Reykjanesi. Tiltækar lýsingar eru þó í flestu samhljóða. Þótt víst megi telja að verklagið hafi tekið einhverjum breytingum í gegnum aldirnar má því eins víst vera að það hafi þó lítið breyst í grundvallaratriðum. Til að gefa einhverja innsýn í verklagið er vitnað hér í grein Ólafs Þ. Kristjánssonar, fyrrverandi skólastjóra Flensborgarskóla og kennara höfundar, sem hann ritaði árið 1978 í Ársrit Sögufélags Ísfirðinga um selsbúskap í Holtaseli í Önundarfirði, og í handriti Sigurlínu Sigtryggsdóttur, Æsustöðum í Eyjafirði, er nefnist “Upp til selja”.
Ólafur virðist hafa leitað eftir og safnað fróðleik um verklag í seljum, “en það er með Holtasel eins og fleiri sel á landinu að næsta lítið er vitað um hvernig vinnubrögðum þar var háttað og yfirleitt hvernig selið var hagnýtt”. Hann skrifaði þó eftirfarandi eftir Ágústi Guðmundssyni, bónda á Sæbóli á Ingjaldssandi, það sem hann hafði eftir móður sinni, Guðrúnu Sakaríasdóttur (hún var í Holti um 1870) um Holtasel: “2-3 stúlkur voru í selinu að jafnaði. Kýrnar voru mjólkaðar fyrst, og var það oftast búið þegar féð kom. Ein stúlkan fór að öllum jafnaði þegar búið var að mjólka kýrnar og ærnar fyrri mjölt til þess að setja mjólkina, en hinar mjólkuðu eftirmjölt. Smérið var flutt heim í krókum, en skyrið einu sinni í viku í strokkum. Drukkurinn var fluttur heim í tvíbytnum að vetrinum, dreginn á sleða”.

Mosfellsbær

Í stekknum.

Þorkell Guðmundsson, heimildamaður Ólafs lýsir selsbúskapnum svo: “Eftir fráfærur voru ærnar reknar fram í Holtasel. Yfirleitt var ekki setið hjá ánum nema kannski einn dag, heldur var þeim smalað allan fráfærutímann. Eftir mjaltir kvölds og morgna voru þær reknar fram á Heiðará á Mjóadal. Ekki er bema 7-8 mínútna gangur frá selinu fram að Heiðará eða tæplega það….”. Smalinn var vakinn kl. 3-4 á nóttunni til smalamennskunnar og einnig var farið að smala um svipað leyti, kl. 3-4, að degi til. Smalinn hélt alltaf til í selinu.
Venjulega voru 3 stúlkur í selinu, selráðskonan og 2 mjaltakonur. Selráðskonan annaðist matseld og mjólkina, renndi trogum og sá um smjörgerðina, en undanrennan var daglega flutt heim að Holti í tveimur 80 marka (40 lítra) kútum og þar var skyrið búið til. Dallur með dagssmjörinu var reiddur ofan á milli á hestunum.
Selkonurnar fóru oft heim að Holti á daginn til þess að þurrka og raka þegar svo stóð á, en voru alltaf í selinu yfir nóttina.

Færukví

Færukví – smalinn fremst; Daniel Bruun.

Í sláttarlok flutti svo fólkið úr selinu heim að Holti og tók ærnar með sér. Eftir þann tíma munu þær ekki hafa verið mjólkaðar nema einu sinni á dag. Kýr voru aldrei hafðar í selinu á æskuárum Þorkels”.
Sigurlína lýsir Hvassafellsseli og segir “mislangt í hinum ýmsu byggðarlögum síðan búsmali í seljum lagðist af. Hann hafi varað einna lengst í Eyjafirði.
Fyrsta verk í selinu var að sópa og hreinsa hátt og lágt og þvo og sjóða öll ílát. Hvassafellssel var hlaðið að mestu úr grjóti. Var það baðstofa, búr og eldhús, mjólkurbúr og skyrbúr… Voru um 120-140 ær í kvíum. Í selinu voru líka 4-5 kýr. Lágu þær úti, en voru mjólkaðar á kvíabóli. Tvær stúlkur mjólkuðu kvíærnar og kýrnar og gerðu skyr og smjör úr mjólkinni. Var flutt heim úr selinu þrisvar í viku á þremur hestum í hvert sinn. Sóttu vinnumennirnir í Hvassafelli fram í selið og komu með þurrt sauðatað á hestunum til eldiviðar.

Rauðhólssel

Rauðhólssel. Frá selinu þurfti oft að hverfa fyrr en ætlað var vegna vatnsskorts. Draugagangi var kennt um.

Venjulega stóð seltíminn yfir í mánuð til sex vikur. Sumsstaðar á Reykjanesskaganum þurfti stundum að stytta viðveruna í seljunum vegna vatnsskorts. Erfitt gat verið fyrir bændur að viðurkenna undanhaldið. Þá var oftar en ekki reimleikum, ásókn útilegumanna eða huldufólks kennt um.
Oft var glatt á hjalla í seljunum, þó mikið væri að gera. Var oft um helgar, þegar gestkvæmt var, slegið í leiki úti á sléttum velli og jafnvel glímt af konum sem körlum, því að á þeim tímum voru sumar stúlkur svo leiknar í glímum, að piltarnir máttu vara sig. Þegar komið var heim með mjólkurföngin úr selinu, var skyrið látið í stór keröld eða sái, en smjörinu drepið í hálftunnur og hvort tveggja geymt til vetrar, það sem gekk af daglegri notkun.
Mjög þótti það áríðandi að hafa trúa og ötula selsmala. Ærnar máttu helst ekki missa máls, en svo var það kallað, er vantaði af ánum til að mjalta. Ef á vantaði í hópinn við mjaltir var smálinn látinn „eta skömmina“, þ.e. hann fékk ekki mat þanni daginn. En nú eru kvíarnar og selin hrunin og fólkið horfið þaðan. Flest ungt fólk elst nú upp við léttari og betri lífsskilyrði en áður þekktist. Samt sem áður, þegar fyrrum smalar voru spurðir um fyrrum ævi sína, sögðu þeir jafnan að vinna þeirra í seljunum hafi verið besti tíminn. Þá höfðu þeir ákveðið og tiltekið hlutverk, báru ábyrgð og nutu útivistarinnar frjálsir úti í náttúrunni.

Seljabúskapur

selhús

Hús í seli.

Um selsbúskap (úr bókinni Íslenskir þjóðhættir eftir séra Jónas Jónasson):
“Alsiða var það fyrrum, einkum þar sem þröngt var um haga heim um sig, og þurfti ekki til, að hafa búsmala í seli á sumrum frá fráfærum og til tvímánaða eða til þess er nálega 16 vikur voru af sumri. Selin voru byggð til dala eða svo langt frá bæjum, að náðist til betri og kjarnmeiri haga en heima fyrir var að fá. Þangað var farið með allan ásauð og stundum flestar kýrnar. Í selinu var jafnan einn kvenmaður, selmatseljan (selráðskona), og ef fé var mjög margt, hafði hún með sér eina eða tvær unglingsstúlkur. Svo var smali, sem fylgdi fénu úr kvíunum og var yfir því nótt og dag. Ekki var mulið undir smalann í seljunum stundum. Var ekki dæmalaust, að honum væri ætlað að skala strokkinn, á meðan mjaltarkonur mjöltuðu ærnar. Þótti þá vel úr rætast, ef nokkurn veginn félli saman, að strokkurinn væri skilinn og lokið væri mjöltunum. Af því er talshátturinn; “Það stenst á endum strokkur og mjaltir”. Sagt var og, að ráðskonur hefðu haft það til, að binda strokkinn upp á bakið á smalanum við smalamennsku og láta hann hlaupa með hann, og hafi skilist þannig smjörið. En ósennilegt er, að þetta hafi verið gert, síst almennt.

Mosfellssel

Mosfellssel – tilgáta.

Selin voru venjulega þrjú hús; mjólkurhús og selbaðstofa og eldhús til hliðar eða frálaust. Oft voru og selið í beitarhúsum, ef þau voru langt frá bænum. Kvíar voru og til að mjalta í ærnar og kofi handa kúm, ef þær voru hafðar í selinu. Selmatseljan hafði nóg að starfa; að mjalta ærnar, setja mjólkina og hirða hana, búa í stokkinn og strokka hann, búa út smjörið, flóa mjólkina og gera úr henni skyr. Mjólkin var hleypt í skyr í kössum með loki. Voru þeir háir og mjóri, líkir venjulegu kofforti, og mátuleg klyf, er þeir voru fullir; þeir voru kallaðir selskrínur. Bóndinn heima eða einhver annar á bænum hafði það starf á hendi, að flytja heim úr selinu annan eða þriðja hvern dag, eftir því sem á stóð. Var skyrinu steypt í keröld heima og safnað til vetrar (söfnuðurinn).

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel – tilgáta – ÓSÁ.

Smalamaður fylgdi ánum nótt og dag, eða þá að hann fylgdi þeim á daginn, en lét þær leika lausar á nóttunni. Stundum eða sumsstaðar var þeim og sleppt í bæði mál og þá smalað kvöld og morgna. Mikið var undir því komið, að smalinn væri góður. Alltaf átti smalinn að vera kominn með ærnar í sama mund í kvíabólið kvöld og morgna, og vandist hann furðanlega á það, þó að ekki hefði hann úr í vasanum. Oftast voru unglingar hafðir við smalamennsku, og var þeim oft ætlað miklu meora en þeim var treystamdi til, því að þeim er var ekki hlíft, þó að þeir væru bæði ungir og pasturlitlir. Illt áttu þeir oft í meira lagi, er þeir áttu að fylgja fénu nótt og dag og tíð var stirð, rigningar og slagviðri. Þá byggðu þeir sér hús; byrgi eða smalabyrgi, á þeim stöðum, er fénu var mest haldið til haga, og voru þeir þar inni, þegar illt var eða þeir máttu sofna. Ærið voru þessi byrgi smá og lítilfjörleg, en þó skárri en úti.
Þegar komið var fram yfir fardaga, var farið að stía. Til þess var notaður stekkur, einhverskonar rétt, hæfilega stór fyrir ærnar. Í stekknum var kró, lambakró. Lömbin voru tínd úr stekknum og látin inn í króna. Það var gert seint á kvöldin, svo sem stundu fyrir lágnætti, og látið sitja svo um nóttina, þangað til um miðjan morgun daginn eftir. Þá var aftur farið í stekkinn og lömbunum hleypt saman við ærnar.

selhús

Selshús – teikning ÓSÁ.

Eftir Jónsmessuna komu svo fráfærurnar. Þá voru ærnar reknar heim af stekknum og ekki hleypt til lambanna framar, heldur voru þær mjólkaðar fyrst í kvíunum og reknar síðan í haga og setið þar yfir þeim.
Heldur hefir vistin verið einmannaleg fyrir selmatseljuna, þótt mikið hefði hún að gera, enda komst hjátrúin þar að, sem eðlilget var á þeim tímum. Mörg selmatseljan komst í tæri við huldumenn og urðu þungaðar við þeim; ólu þær svo börnin í seljunum, og veitti maðurinn þeim þar alla aðstoð, svo að einskis varð vart; tók han svo barnið með sér og ól það upp í álfheimum. En hann gat ekki gleymt ástmeynni úr selinu, og kom oftast einhvern tíma löngu síðar, þegar sonur þeirra var orðinn fullorðinn og selmatseljan gift kona fyrir löngu, og birtist henni til þess að endurnýja fornar ástir. En þeir samfundir verða báðum jafnan að bana. Eru margar þær harmasögur til. Stundum ólu þær börn í seljunum og báru út, og er því víða óhreint hjá gömlum seljum. Aftur er þess sjaldan getið, að útilegumenn hafi komist í tæri við selráðskonur.
Svo er að sjá, að selfarir hafi mjög verið farnar að leggjast niður, þegar kom fram á 18. öldina og eymd og ódugnaður landsmanna var kominn á hæsta stig. Gaf þá konungur út lagaboð 24. febr. 1754 að skipa öllum bændum að hafa í seli, að minnsta kosti átta vikna tíma, frá því er átta vikur væru af sumri til tvímánaðar. Lítið mun það lagaboð hafa á unnið, enda var þá landið í kaldakoli af harðindum, fé fallið og fólk að deyja úr harðrétti; og svo kom fjárkláðinn mikli rétt á eftir. Þó var mjög víða haft í seli langt fram á 19. öld, þar sem lítið var um sumarhaga heima, þangað til fólkseklan, ekki síst vegna breyttra atvinnuhátta og þéttbýlismyndunar, neyddi menn til að hætta við selfarir og jafnvel fráfærur á síðustu áratugum aldarinnar.
Selfara er víða getið, bæði í fornsögum vorum og lögum; má af því ráða, að sá siður hefir flust hingað frá Noregi og orðið hér að fastri venju. Selvenjur hafa þá verið hina sömu og á síðari tímum, nema skyr stundum verið flutt heim í húðum, skyrkyllum eða kollum í krókum, sbr. Njálu.

Vatnaborg

Vatnaborg – fjárborg ofan Vatnsleysustrandar.

Ísland hefir alla tíð verið gott sauðland, enda er þess víða getið í fornritum og sögnum, að menn hafi verið fjármargir mjög, enda gekk þá fé sjálfala í skógum, meðan þeir voru óhöggnir á landi hér. En auðvitað var hvorki hús né hey handa þessum fjárfjölda, enda hrundi það niður, þegar harðindin dundu yfir. Fram á 19. öld var það víða enn siður á Suðurlandi, að ekki voru hús yfir sauði, önnur en jötulausar fjárborgir”.
Á Reykjanesskagnum þekktist ekki að byggð væru sérstök hús yfir fé fyrr en í upphafi 21. aldar. Fram að þeim tíma var notast að mestu við fjárskjól og fjárborgir.

Einkenni seljannna á Reykjanesskaganum

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Sel á Reykjanesi eru í sumu frábrugðin seljum annars staðar á landinu. Víða utan þess voru þau oft höfð upp til dala eða upp undir hlíðum fjarri bæjum. Flest seljanna á Reykjanesi eru u.þ.b. í einnar til tveggja klukkustunda göngufjarlægð frá bænum, sem þau voru frá. Það var talið til kosta að hafa fjarlægðina ekki of mikla eins og t.d. í Grindavíkurselin á Selsvöllum og Baðsvöllum. Yfirleitt voru selin í útjaðri jarðanna eða í óskiptu landi þar sem annað hvort var sæmilegt vatnsstæði eða brunnur. Flest seljanna eru norðvestan til undir hæð eða brekku í skjóli fyrir ríkjandi rigningarátt, þ.e. suðaustanáttinni. Má í því sambandi nefna Oddafellselin, Hvassahraunsselið, Flekkuvíkurselið, Fornasel (Litlasel), Nýjasel, Brunnastaðasel, Gjásel og Arahnúkasel. Yfirleitt hafa selstóftirnar sömu einkenni og önnur sel á landinu, þ.e. samliggjandi baðstofu og búr, en eldhúsið sér. Í mörgum seljanna má sjá misgamlar tóftir, s.s. á Selsvöllum og í Hraunsseli vestan við Núpshlíðarhás. Hið síðarnefnda lagðist reyndar af síðast selja á Reykjanesi, eða árið 1914. Í lýsingu Þorvaldar Thorodsen um ferð hans um Suðurland árið 1883 virðist Hraunssel og Selsvallaselin þá þegar hafa verið aflögð . Þau gætu þó hafa verið endurreist síðar sbr. skrif Guðrúnar Ólafsdóttur um Grindavíkurselin.

Selvogsheiði

Selvogsheiði – sel og aðrar minjar (ÓSÁ).

Í Andvara, tímariti Hins ísl. þjóðvinafélags, 1884, er sagt frá ferðum á Suðurlandi sumarið 1883 eftir Þorvald Thoroddsen, bls. 48. Þar segir m.a.: “Komum við fyrst að Hraunsseli; það er nú í rústum… Selsvellir eru stórar grassléttur norður með hálsinum… Þar hefir áður verið sel frá Stað í Grindavík, en er nú af tekið; nú hafa menn þar nokkurs konar afrétt…”.
Áður hefur verið minnst á skrif Geirs Bachmanns í Lýsingu Grindavíkursóknar 1840-41 þar sem hann segir bæi í Grindavík þá hafa selstöður á Selsvöllum. Í Lýsingu Árna Helgasonar á Garðaprestakalli 1842 kemur fram að Garðar hafi haft “pening í seli til 1832”. Önnur sel þar hafi verið aflögð fyrir meira en hálfri öld.

Hraunssel

Hraunssel.

Í “Frásögur um Fornaldaleifar”, útg. af Stofnun Árna Magnússonar, 1983, eru birtar skýrslur presta o.fl. af íslenskum fornminjum til dönsku fornleifanefndarinnar á árunum 1817-1823 . Hvorki er minnst á sel í Gullbringu- og Kjósarsýslu né í Árnessýslu (Ölfusi) í skrifum til nefndarinnar. Bendir það til þess að selin hafi þá verið í “eðlilegri” notkun á þeim tíma, nýlega aflögð eða að þau sel, sem vitað var um, en lagst af, hafi ekki verið það gömul að þau hafi talist til fornminja. Hafi svo verið getur ein skýringin verið sú að búsetuminjar eða minjar tengdar atvinnuháttum hafi ekki verið taldar til fornleifa, enda var lítið skrifað um slíkt til nefndarinnar. Hafa ber í huga að sel geta hafa lagst af um tíma, en síðan verið endurreist um sinn. En af framangreindum gögnum að dæma virðist selbúskapur á Reykjanesi að mestu hafa lagst af um og eftir miðja 19. öld; fyrr í Garðasókn en t.d. í Grindavíkursókn þar sem hann tíðkaðist enn um 1840, en selin verið í rústum árið 1883 þegar Þorvald Thoroddsen var þar á ferð.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – uppdráttur ÓSÁ.

Ef taka á mið af núverandi tóftum selja á Reykjanesi eru þau líka að sjá heillegastar á Selsvöllum og í Þrengslum (Hraunssel). Einnig í Vífilsstaðaseli og Herdísarvíkurseli, Knarrarnesseli, Brunnastaðaseli og Straumsseli. Hins vegar eru seltóftir í Selvogsheiði og í Hafnaheiði greinilega mun eldri. Þá má sjá enn eldri tóftir innan um nýrri sel, s.s. Fornasel við Brunntorfur, Lónakotssel, Fornasel (Litlasel), Hlöðunessel, Baðsvallasel og Selöldusel.
Tóftir seljanna eru greinilega misgamlar. Ekki er vitað til þess að þær hafi verið aldursgreindar, en þó hefur Bjarni Einarsson, fornleifafræðingur, grafið í Fornasel vestan við Brunntorfur og taldi hann af niðurstöðum kolefnamælinga að dæma að það sel væri frá 14. eða 15. öld.

Gjásel

Gjásel – uppdráttur ÓSÁ.

Við þessi gömlu sel eru yfirleitt hlaðnir tvöfaldir stekkir og einfaldar kvíar. Vatnsstæðin eru í hraunskálum eða á klapparhólum. Nokkur dæmi eru um allnokkur sel þar sem frá varð að hverfa fyrr en ætlað var vegna vatnsskorts. Lækir eru fáir á landssvæðinu. Auk Selsvallalækjar er lækur í Króksmýri norðan Vigdísavallar, á Bleikingsvöllum suðaustan þeirra, í Sogunum sunnan Trölladyngju, Kaldá við Kaldársel og síðan Vestri- og Eystri-lækur í Krýsuvík. Sumstaðar er þó stutt í lítil vötn í gígum og skálum. Annars staðar var erfiðara um slíkt, s.s. í Lónakotsseli og í seljunum í Vatnsleysustrandarheiðinni. Aðstæður gætu þó hafa breyst frá því sem áður var. Þannig er t.d. sagt frá læk og jafnvel fossi fram af Stóru Aragjá ofan við hið sérstaka Gjásel. Það er sérstakt af því leyti að í því eru 7-8 samliggjandi raðhús í svo til beinni röð. Tveir stekkir eru við selið, en þeir gefa oft til kynna fjölda selja á hverjum stað. Þannig eru sel frá þremur bæjum í Brunnastaðaseli, fjögur í Knarrarnesseli, tvö í Flekkuvíkurseli. Selin á Selsvöllum hafa nokkra sérstöðu því þar munu hafa verið sel frá svo til öllum Grindavíkurbæjunum eftir að Baðsvallaselið norðan Þorbjarnarfells lagðist af vegna ofbeitar. Þar má sjá tóttir a.m.k. þriggja selja. Við mörg seljanna, einkum hraunsseljanna, eru fjárskjól með fyrirhleðslum, stundum fleiri en eitt, s.s. í Óttarstaðaseli og Straumsseli. Stundum eru skjólin nokkuð frá seljunum, s.s. fjárskjólið ofan Brunntorfa, en það hefur líklega upphaflega verið frá Fornaseli ofan við Gjásel.
Enn eitt einkenni selja á Reykjanesi er nálægð fjárborga og/eða fjárskjóla. Eftir skoðun á yfir 70 fjárborgum á svæðinu er að sjá sem sumar þeirra séu beinlínis byggðar með afstöðu seljanna í huga, s.s. Djúpudalaborgin í Selvogi. Hún er í nálægð við Nesselið austan við Hellisþúfu, auk þess sem efst í Hnúkunum hafa fundist tóftir, sem líklegast hafa verið fornt sel. Þær hafa ekki verið rannsakaðar og hafa reyndar hvorki verið skráðar né er þeirra getið í örnefnalýsingum. Við þær tóftir er hol hraunbóla, hraunsskúti, sem notaður hefur verið til skjóls eða annarra þarfa. Þannig háttar einnig til við Litlalandssel ofan við Ölfus. Hellar hafa víða og verið nýttir til skjóls, en selin norðaustan við Vörðufell ofan við Strandarhæð, sem greinilega eru mjög gömul, t.d. Eimuból (sel Selvogsmanna voru gjarnan nefnd ból, sbr. Þorkelsgerðisból og Bjarnastaðaból nestan undir Hnúkum). Í því er hlaðinn stekkur inni í víðri hraunrás. Skammt vestar eru tóftir og miklar niðurgönguhleðslur við stóran hraunhelli. Innst í hellissalnum er aðeins eitt bein, en annars er ekkert annað á sléttu gólfinu.

Hlíðarborg

Hlíðarborg.

Merkilegur hellir, sem Guðmundur Brynjar Þorsteinsson frá Þorlákshöfn fann nýlega, hefur gengið undir nafninu “Bólið”. Alls óljóst er til hverra nota hann var eða ætlaður. Tóftirnar við hellinn eru heldur ekki til í örnefnalýsingum svo vitað sé. Sama á við tóft við gömlu Selvogsgötuna á milli Strandardals og Strandarhæðar. Þar er tóft og hlaðinn stekkur. Einnig suðaustan undir Svörtubjörgum. Þar er greinilegt sel með nokkrum rústum, löngum stekk, kví og fjárskjóli. Inni í því eru hleðslur. Reyndar hefur Selvogsheiðin lítt verið könnuð með tilliti til hugsanlegra fornleifa. Þórarinn bóndi Snorrason á Vogsósum taldi að selið undir Svörtubjörgum hafi heitið Staðarsel og verið fráfærusel þar sem lömbin voru færð frá og aðskilin frá ánum. Hann mundi þá ekki eftir því fyrr en farið var að spyrja hann um rústirnar, sem sumar eru mjög vel greinilegar. Líklegra er að þarna sé annað hvort komið sel frá Strönd, “Strandarsel”, því bæði hefur það verið í landi kirkjujarðarinnar Strandar og auk þess hefur það verið allveglegt á meðan var, eða frá landnámsbænum Hlíð við Hlíðarvatn, sem er þarna nokkru vestar. Vestan við selið eru a.m.k. þrjár fjárborgir; Hlíðarborg, Valgarðsborg og Borgarskarðsborg. Sunnan þeirra er Vogsósasel og vestan þess “Borgirnar þrjár”; þ.e. þrjár hlaðnar fjárborgir á hól skammt austan Hlíðarvatns. Við Eimuból má sjá tóftir Vindássels, en enn austar eru Þorkelsgerðisból og Bjarnastaðaból, hvorutveggja vegleg sel með mörgum tóftum.

Bjarnastaðasel

Bjarnastaðaból – uppdráttur ÓSÁ.

Þegar leitað var að síðastnefndu seljunum var farið eftir örnefnaskrám úr Ölfusi og ábendingum fróðra manna, s.s. Kristófers Bjarnasonar, kirkjuvarðar í Strandarkirkju, en samkæmt því átti Bjarnastaðasel að vera skammt frá klöppinni “Fótalaus”, þar sem klappað er LM (landamerki) Ness og Bjarnastaða. Selið er hins vegar mun ofar undir Hnúkabrekkunum og er Þorkelsgerðisból þar skammt (10 mín) vestsuðvestar.

Við Kaldársel eru nokkrir fjárhellar og hlaðinn bálkur í einum þeirra. Í Setbergsseli er fjárhellir með mikilli hleðslu og skiptir önnur honum í tvennt. Að sunnanverðu var Hamarskotssel um tíma. Við Brunnastaðasel er hlaðin kví í gróinni gjá og er hún ennþá nokkuð heilleg. Séstæðastar eru hleðslur niðri í stóra hraunbólu vestan Hellishæðar, sem fyrr voru nefndar. Við munnan er tótt og aðrar skammt austar. Þar eru og hleðslur fyrir hraunrásir. Skammt norðar er Strandarsel [Staðarsel] undir Svörtubjörgum, en að sögn Þórarins Snorrasonar á Vogsósum mun það hafa verið fráfærusel (en annars mun hafa verið fært frá heima við bæ áður en ærnar voru reknar í sel), enda má sjá þess merki á aflöngum stekk sunnan selsins. Stakkavíkursel er ofan við Grænubrekkur. Við það er opin hraunbóla, líkt og í Hnúkum. Neðan við selið má, ef vel er að gáð, sjá merki enn eldra sels og torfstekkjar. Við nýrra selið er dæmigerður stekkur og hleðslur í fjárskjóli skammt ofan hans. Garðar höfðu í seli í Selgjá og Búrfellsgjá. Heimildir kveða á um að þar hafi verið 11 sel um tíma. Þau munu þó hafa verið aflögð alllöngu áður en Garðar hættu að hafa í seli. Margar minjar eru beggja vegna Selgjárinnar, en færri í Búrfellsgjá. Þar eru og nokkur fjárskjól með veglegum hleðslum. Mestar eru þær í svonefndum Sauðahelli syðri, skammt suðvestan við Selgjána og við Suðurhelli, sunnarlega í gjánni.

Garðaflatir

Garðaflatir – minjar.

Á Garðaflötum er getið um tóftir og garðveggi í gömlum heimildum og einnig þar má sjá, ef vel er að gáð, tóftir og veggi, greinilega mjög gamalt. Reyndar átti þar að hafa verið bær til forna, skv. sömu heimildum, en líklegra er þó að um selstöðu hafi verið að ræða. Þær tóftir hafa ekki verið kannaðar af fagfólki.

Selsvellir

Selsstígurinn að Selsvöllum.

Enn eitt einkenni seljanna eru hinir mörkuðu selsstígar. Víða má sjá þá klappaða í hart bergið eftir klaufir, hófa og fætur liðinna kynslóða. Dýpstar eru göturnar á stígunum vestan Selsvalla, enda hefur umgangur þar greinilega verið mikill um langan tíma. Straumsselsstígur er einnig vel markaður á kafla, en það er áður en hann greinist frá stíg að Gjáseli og Fornaseli, sem eru skammt norðan þess. Víða má rekja þessar götur enn þann dag í dag, en annars staðar eru þær orðnar grónar eða orðnar landeyðingu að bráð, s.s. efst í Vatnsleysstrandarheiðinni.

Fornasel

Fornasel ofan Vatnsleysustrandar – uppdráttur ÓSÁ.

Þótt sum seljanna hafi ekki verið mjög stór, s.s. Fornasel (Litlasel) ofan Vatnsleysustrandar og Hraunssel undir Löngubrekkum austan Raufarhólshellis, eru tóftirnar bæði lögulegar og vel læsilegar. Í því er flest það sem prýtt getur hefðbundið sel. Nýjasel austan Snorrastaðatjarna sem og Snorrastaðasel vestan þeirra hafa og verið lítil sel af ummerkjum að dæma. Svo hefur einnig verið um Hópsselið norðan við Selsháls, Möngusel í Hafnaheiðinni og Stafnessel austan Ósabotna. Kirkjuvogssel í Hafnaheiði hefur hins vegar verið mun stærra, líkt og Vogaselin efst í Vatnsleysustrandarheiði, fast undir Þráinsskyldi.

Merkinessel

Merkinessel.

Merkinesselin í Hafnaheiði voru tvö, hið nýrra og hið eldra, líkt og Vogaselin. Erfitt er að finna eldra selið, en það er mjög gróið, en sandauðn allt um kring. Nýrra selið er mun austar og fallega hlaðið undir gjávegg. Eitt húsanna er enn allheillegt sem og önnur mannvirki. Dæmi eru um að gömul sel hafi orðið framkvæmdum að bráð, s.s. Hraunsholtsselið undir Hádegishól í Garðahrauni, sem nú er í iðnaðarhverfi Garðbæinga á Hraunum.

Brunnastaðasel

Brunnastaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Í Jarðarbók Árna Magnússonar og Páls Vídalín koma frásagnir af selstöðum sumra bæja á Reykjanesi, en alls ekki allra. Sjá má selja getið í sóknarlýsingum, en þó virðist eins og almennt hafi ekki verið ástæða til að geta þeirra sérstaklega í eldri lýsingum af lands- og búskaparháttum. Reyndar er búskaparháttum yfirleitt lítið lýst í slíkum heimildum eða máldögum. Ein ástæðan gæti verið sú að þeir hafi þótt það sjálfsagðir og á allra vitorði að ekki hafi verið talin ástæða til að geta þeirra sérstaklega. Einungis væri vert að geta þess sem þótti merkilegt sögulega þá er þær voru skrifaðar. Heimildir og sagnir eru af mjög gömlum seljum, en flestar eru þær frá síðari öldum. Vitað er yfirleitt frá hvaða bæjum hvert sel tilheyrði og höfðu sumir saman í seli, s.s. í Knarrarnessi og Brunnastaðaseli, að ekki sé talað um Selsvellina. Margar gamlar beitarhúsatóftir eru og á Reykjanesi, s.s. í Húshöfða norðan Hvaleyrarvatns (Jófríðastaðir), við Ásfjallsrana (Ás) og vestan við Hlíðarvatn (Stakkavík), en ekki er vitað til þess að þau hafi orðið að seljum eða verið notuð sem sel eins og víða annars staðar á landinu. Sel voru frá Hvaleyri og Ási austan við Hvaleyrarvatn og sel frá Stakkavík ofan við Stakkavíkurfjall.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel.

Dæmi eru um sögur úr seljunum, s.s. frá Hvaleyrarseli þar sem nykur átti, skömmu fyrir aldarmótin 1900, að hafa ráðist á og drepið selráðskonuna í fjarveru smalans Nykurinn átti að fara á milli Hvaleyrarvatns og Urriðavatns (önnur saga segir Lambústjarnar), en frosið þar í hel frostaveturinn mikla árið 1918. A.m.k. sást ekki til hans eftir það. Í Rauðhólsseli undir Rauðhól skammt norðan við Keili var fólki ekki vært eftir tíundu viku sumars vegna draugagangs, en það sel var frá Vatnsleysu.
Tveggja selja er getið í Öskjuhlíð; Reykjavíkurselsins og Hlíðarhúsaselsins og nokkurra undir Selsfjalli við Lækjarbotna. Þar má enn sjá tóftir þessara selja nálægt skátaskálanum, en þær eru þó orðnar ógreinilegar.
Víða um land urðu sel að kotbýlum þegar fram liðu stundir. Á Reykjanesi eru líklega einungis þrjú dæmi um að sel hafi orðið að koti, þ.e. í Straumsseli, á Vigdísarvöllum og í Kaldárseli. Bærinn í Straumsseli brann fyrir aldarmótin 1900 og lagðist þá búseta þar niður, sem fyrr sagði, en bærinn á Vigdísarvöllum féll að mestu í jarðskjálfta skömmu eftir aldamótin 1900. Þar voru reyndar um tíma tveir bæir. Annar þeirra nefndist Bali og má vel sjá tóftir hans á vestanverðu túninu.

Þórkötlustaðasel

Þórkötlustaðasel við Vigdísarvelli – uppdráttur ÓSÁ.

Vigdísarvellir var í fyrstu sel frá Krýsuvík, en bæir þar höfðu auk þess í seli undir Selöldu, sbr. sagnir af ræningjunum er komu upp Ræningjastíg og veittust að selráðskonum þar. Þórkötlustaðir hafði um tíma selstöðu sunnan Vigdísavalla í skiptum fyrir útræði frá Þórkötlustaðanesi. Um tíma hafði Krýsuvík aðstöðu í Sogaseli, sem síðan fór undir Kálfatjörn, einnig í skiptum fyrir útræði á Ströndinni. Auk þess er ekki loku fyrir það skotið að einhver Krýsuvíkurbæjanna hafi um tíma nytjað Húshólmann, en inn í hann er greiður og gróinn stígur og ummerki eftir selstöðu norðvestast í hólmanum. Í Kaldárseli var sel framan af og er síðast getið um búsetu Þorsteins Þorsteinssonar þar um aldarmótin 1900, en síðan nýtti Kristmundur Þorleifsson sér fjárskjólin þar um skamman tíma. Skammt frá Kaldárseli, í Helgadal, eru tóftir selstöðu. Skammt norðaustan hennar eru mannvistarleifar selstöðunnar, s.s. hleðslur fyrir og í hraunrás og hlaðinn stekkur.

Sogasel

Sogasel í Sogaselsgíg.

Oftast bera selin nöfn þeirra bæja, sem gerðu þau út. Flekkuvíkursel var frá Flekkuvík, Hvassahraunssel var frá Hvassahrauni, Óttarstaðasel frá Óttarstöðum o.s.frv. Þó eru dæmi um að selin hafi dregið nöfn sín af staðháttum, s.s. Sogasel í Sogagíg, Selsvallasel af Selsvöllum og Gvendarsel undir Gvendarselshæð af Krýsuvíkur-Gvendi o.s.frv. Hin þrjú svonefndu Fornusel eru væntanlega nefnd svo vegna þess að ekki var ráðið í hvaðan þau höfðu verið gerð út. Þó er líklegt að Fornasel sunnan við Brunntorfur hafi verið frá Þorbjarnastöðum í Hraunum sem og Gjáselið þar skammt norðvestar. Einnig er getið þar um sel frá Lambhaga. Þorbjarnastaðafjárborgin er skammt frá seljunum. Fornasel eða Fornusel (þau eru tvö) undir Sýrholti er hins vegar á huldu, enda virðist vera mjög komin við aldur. Svo virðist sem Þórusel hafi verið þar um tíma, en frásögn af því er óljós. Flestra seljanna er getið í gömlum heimildum og örnefnalýsingum. Nokkur þeirra, a.m.k. þeirra stærstu, má sjá á gömlu kortum, s.s. dönsku herforingjakortunum svonefndu, en annað það er gefur vísbendingu um að sel hafi verið að ræða á tilteknum stöðum eru nafngiftir tengdar þeim, s.s. Selháls, Selshæð, Selsvallafjall, Selsvellir, Selsfjall, Seljahlíð, Selalda, Selstígur og Selshóll.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel – Rauðhólsskjól.

Hlaðin smalabyrgi eru við eða í nágrenni við sum selin eða nátthaga þeim tengdum. Má þar nefna gerði við Efri-Straumsselshellana, neðan við Stakkavíkursel og við Óttarstaðasel.
Lítið hefur verið fjallað um sel og selbúskap hér á landi þrátt fyrir að hann hafi skipað veigamikinn þátt í atvinnusögu og þjóðlífinu í langan tíma. Egon Hitzler, þýskur fræðmaður, skrifaði bókina “Sel – Untersuchungen zur geschichte des isländschen sennwesens seit der landnahmzeit”, sem gefin var út í Noregi árið 1979. Hann hafði dvalið hér á landi sem styrkþegi við Háskóla Íslands veturinn 1968/69 og notaði það efni í magesterritgerð sína við háskólann í Erlangen-Nürnberg árið 1972. Árin 1974-77 starfaði hann sem sendikennari við Háskóla Íslands og notaði þá tíma til þess að endurskoða, endurbæta og auka við ritgerð sína. Árangurinn liggur fyrir í nefndri bók hans. Bókin, sem er efnismikil um viðfangsefnið, er skipt upp í 8 kafla: Í fyrsta kafla fjallar höfundur m.a. um alþjóðlegar rannsóknir á seljabúskap, heiti og hugtök og fyrri rannsóknir. Í öðrum kafla er fjallað um selin, selhúsin, sel í hellum, seljaþyrpingar, kvíar, sel á eyðibýlum og breyting selja í býli. Í þriðja kafla um skipulag seljabúskaparins, seltímann, selfólkið, búsmalann, selfarir og selgötur, selflutninga og eldivið og vatnsból.

Auðnasel

Auðnasel – uppdráttur ÓSÁ.

Í fjórða kafla fjallar höfundur um seljabúskap á Íslandi á miðöldum, eðli og þýðing miðaldaheimilda, heimildir frá þjóðveldisöld og heimildir frá 14. og fram á 16. öld.
Fimmti kafli fjallar um seljabúskap á Íslandi fram á byrjun 18. aldar, selstöður í Húnavatns-, Skagafjarðar- og Eyjafjarðarsýslum, útbreiðslu, tegundir og aldur selja og leigusel.
Í sjötta kafla er lýst núverandi aðstæðum í Sauðadal (Hv) og nýtingu hans til seljabúskapar fyrr á tímum, staðhættir og helstu menjar um nýtingu, skiptingu landsins og tilkall til selstaða, heimildir frá miðöldum og jJarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns sem og tegundir selstaða og tímabundnar sveiflur í seljabúskapnum.

Kringlumýri

Kringlumýri á Sveifluhálsi.

Í sjöunda kafla er fjallað um upphaf, þróun og hvarf seljabúskapar á Íslandi, upphaf seljabúskapar á landnámsöld og einkenni hans á fyrstu öldum Íslandsbyggðar, seljabúskap og eignaraðild á síðmiðöldum, sveiflur og hnignun seljabúskapar á Íslandi, niðurlagningu seljabúskapar á Íslandi og tilraunir til þess að endurvekja hann og glæða nýju lífi.
Í áttunda og síðasta kaflanum er yfirlit og útsýn, umræður um hugtök, íslenski seljabúskapurinn sem sögulegt fyrirbæri og íslenski seljabúskapurinn og nútíminn.
Loks er viðauki um seljabúskapinn á íslandi um aldamótin 1900 og dagleg störf, íslenskt/þýskt orðasafn um seljabúskap og loks einstakar athugasemdir”.

Heildarfjöldi selja árið 1703

Nessel

Nessel; dæmigert sel á Reykjanesskaga – uppdráttur ÓSÁ.

Á vefsíðunni www.ferlir.is má sjá frásagnir um sel og selstöður, sem skráð hafa verið eða hafa fundist á Reykjanesskaganum; í fyrrum landnámi Ingólfs. Þau og þær eru yfir fjögur hundruð talsins. Hægt er að ganga að tóftum þeirra allra, utan þriggja, sem horfin eru (Reykjavíkursel í Ánanaustum, Hraunsholtssel við Flatahraun millum Garðabæjar og Hafnarfjarðar og Kalmannstjarnarsel undir Stömpum). Þá eru tilgreindar selaðstöður á a.m.k. fimm stöðum, sem ekki hefur verið skráðar hingað til (við Selöldu, í Húshólma, við Hraunsnes vestan við Lónakot og Kringlumýri í Sveifluhálsi og norðan Krossfjalla).

Hafnarsel II - Breiðabólstaðasel II

Hafnarsel II – Breiðabólstaðasel II – vatnsstæði.

Í Jarðabók Páls Vídalíns og Árna Magnússonar frá árinu 1703 er getið 63 bæja, sem höfðu selstöðu í Gullbringusýslu, auk þriggja bæja í Ölfusi, sem eru vestan við línu þá sem dregin var, þ.e. Hlíðarenda, Litlalands og Breiðabólstaðar. Ekki er getið selja frá Hrauni og Þorlákshöfn. Innan við 66 sel hafa því verið í notkun á um aldarmótin 1700 á þessu svæði, en ekki er getið um önnur jafnmörg. Margt bendir til að mörg sel hafi verið aflögð þegar upplýsingum var safnað, s.s. Fornusel í Sýrholti. Þá er líklegt að selstaða hafi verið færð til eftir landkostum eða af hagkvæmisástæðum og eldri selin þá yfirgefin. Einhver seljanna gætu hafa verið í notkun um stuttan tíma, en síðan verið aflögð og einnig gætu bændur hafa tekið sig saman um selstöðu, þ.e. að fé (og jafnvel kýr) frá fleiri en einum bæ hafi verið haft í sama selinu. Í heimildum um sel á Reykjanesi virðist lítið hafa verið um kýr í seljum. Ef þær hafa verið þar er þess jafnan getið sérstaklega, s.s. á Selsvöllum og við Snorrastaðatjarnir.

Urriðakot

Urriðakot – uppgröftur.

Við nýlegan uppgröft Ragnheiðar Traustadóttir í Urriðakoti við Urriðakotsvatn í Garðabæ kom í ljós að þar hafði um tíma verið kúasel, enda kjörlendi til slíks og selstígurinn frá Hofstöðum stuttur.
Landfræðilega aðstæður á Nesinu hafa ekki beinlínis þótt heppilegar til kúabeitar. Hins vegar eru nokkur örnefni og mannvirki ekki fjarri bæjum er benda til þess að kúm hefur verið beitt þar um tíma, s.s. Kúadalur við Grindavík og Kúadalur ofan við Brunnastaðahverfið á Vatnsleysuströnd. Þar er hlaðin rétt.
Í Jarðabókinni er ekki alltaf getið um staðsetningu seljanna, en reynt að lýsa kostum þeirra. Þannig segir frá selstöðu frá Hrauni (Grindavík): “Selstaða langt í frá og þó sæmilega góð”. Þórkötlustaðir eru sagðir brúka selstöðu í

Selalda

Selalda; Krýsuvíkursel og Eyri.

Krýsuvíkurlandi [Vigdísarvöllum]. Hóp þurfti að kaupa út selstöðu. Á á “selstöðu í heimalandi”. Ummerki eru eftir hana í Dalnum norðan við Hamranes, en þar má sjá hrunið fjárskjól með hlöðnum inngangi og grasi gríð dalverpi. Hlíðar Dalsins eru grasi grónar og seljalegar á að líta. Krýsuvík er sögð hafa tvær selstöður; “aðra til fjalls en aðra nálægt sjó, báðar merkilega góðar”. Þannig virðist Krýsuvík bæði hafa haft selstöðu á Vigdísarvöllum og líklega austan við Selöldu (eða í Húshólma). Ísólfsskáli á ekki að hafa haft selstöðu, en nafnið Selskál í Fagradalsfjalli bendir til einhverra selnota þar. Hóp er sagt hafa þurft að kaupa út selstöðu, en tóftir nýrra sels frá Hópi er norðvestan undir Selshálsi vestan Hagafell. “Gálmatjörn” (Kalmannstjörn) er sögð hafa átt selstöðu, en “nú að mestu eyðilögð fyrir sandi”. Á Stafnesi er ekki minnst á selstöðu, en þó er vitað að bærinn hafði selstöðu skammt ofan við Djúpavog við Ósa. Vindás er sagt eiga “selstöðu í heiðinni”. Stakkavík “á jörðin yfrið erfiða, svo varla er hestum fært á fjöll upp, þarf og vatn til að flytja, nema votviðri gángi því meiri, og er hún fyrir þessara ókosta sakir í margt ár ekki brúkuð”.

Gránuskúti

Í Gránuskúta við Gjásel.

Yfirleitt er þess getið að selstaða sé annað hvort vatnslaus eða “stórt mein af vatnsskorti”. Í Jarðabókinni er þess jafnan getið hvort selstaðan hafi haft aðgang að vatni, það slæmt eða alls ekkert. Er að sjá sem vatnið hafi verið ein af forsendunum fyrir vali á góðu selstæði.

Fjarlægð selja frá Hraunabæjum
Á Reykjanesskaganum voru selstöðurnar að jafnaði innan við 6 km frá bæjum. Í Hraununum voru fjarlægðirnar eftirfarandi:
Straumur – Fornasel: 5.0 km
Straumur – Straumssel: 3.5
Óttarsstaðir – Óttarsstaðasel: 4.0
Þorbjarnarstaðir – Gjásel: 3.5 km
Lónakot – Lónakotssel: 3.5 km

Niðurlag

Fjárskjól

Fjárskjól Straumsbænda í Fornaseli.

Ekki verður sagt með fullkominni vissu hvenær selbúskapur hófst hér á landi, en líklegt má þó telja að hann hafi fylgt fyrstu norrænu ábúendunum hingað til lands í kringum árið 870, en slíkur fjár- og kúabúskapur mun hafa verið vel þekktur í Noregi og á Suðureyjum á þeim tíma. Þó svo að sum mannvirkin, einkum fjárborgirnar, hafi fyrirmynd af írskum eða jafnvel skoskum hringlaga mannvirkjum, sbr. fjárborgina í Óbrennishólma í Ögmundarhrauni, er erfitt um sannanir í þeim efnum. Aðalatriðið er þó að selbúskapur var hluti af atvinnusögu landsins frá öndverðu og fram að aldarmótunum 1900, en um það leyti lögðust slíkir búskaparhættir af á Reykjanesi. Selbúskapurinn er því hluti af þjóðlífi og atvinnusögu landsins í u.þ.b. eittþúsund ár. Ástæða er til að varðveita og halda á lofti þessum þætti búskaparháttanna þar sem allt snérist um að halda lífi í sauðkindinni svo sauðkindin gæti haldið lífi í landsmönnum. Hinar fjölmörgu minjar og selsmannvirki á Reykjanesi bera þess glöggt vitni.

Hafnasel II

Hafnasel norðan Krossfjalla – uppdráttur ÓSÁ.

Guðrún Sveinbjarnardóttir ritaði grein í Acta Archaeologica 62 árið 1991, sérhefti um rannsóknir á Norður Atlantshafssvæðinu. Þar fjallar hún um einstök sel í Eyjafjallasveit, Skagafirði og Berufirði í tengslum við önnur verkefni. Hún kemst að þeirri niðurstöðu að sel á Íslandi hafi sérkenni sem eru ekki endilega þau sömu og sel frá heimalandi landnámsmanna, Noregi. Meginmunurinn er sennilega vegna ólíks landslags sem kröfðust ólíks skipulags. Af athugun hennar sé ljóst að meiri rannsóknar er þörf á seljum á Íslandi, bæði fornleifafræðilega og fornfræðilegra.

Þrátt fyrir framansagt misjafnlega gáfulegt um selstöður og sel á Reykjanesskaganum er eitt alveg heiðskýrt; haft var í seli á Skaganum um árhundraða skeið, enda bera öll áþreifanlegu ummerkin þess glögg vitni…

Heimildir:
-Örnefnalýsing fyrir Óttarsstaði – Ari Gíslason.
-Örnefnalýsing fyrir Óttarsstaði – Gísli Sigurðsson.
-Örnefnalýsing fyrir Straum – Ari Gíslason.
-Örnefnalýsing fyrir Straum – Gísli Sigurðsson.
-Fornasel – Prufuholugröftur í seljarústir suður af Straumsvík, Bjarni F. Einarsson, 2001.
-Íslenskir þjóðhættir eftir séra Jónas Jónasson.
-Andvari, tímariti Hins ísl. þjóðvinafélags, 1884 – Ferðir á Suðurlandi sumarið 1883 eftir Þorvald Thoroddsen, bls. 48.
-Lýsing Grindavíkursóknar 1840-41 – Geir Bachmann.
-Lýsing Árna Helgasonar á Garðaprestakalli 1842.
-Frásögur um Fornaldaleifar”, útg. af Stofnun Árna Magnússonar, 1983.
-Egon Hitzler, “Sel – Untersuchungen zur geschichte des isländschen sennwesens seit der landnahmzeit”, gefin út í Noregi árið 1979.
-Guðrún Sveinbjarnardóttir, grein í Acta Archaeologica 62 árið 1991.

Straumssel

Straumssel – bær skógavarðarins.