Tag Archive for: Selvogur

Herdísarvík

Þorvaldur Thoroddsen fjallar um „Ferðir sínar á Suðurlandi sumarið 1883“ í Andvara 1884. Hér segir af aðbúnaði vermanna í sjóbúðum í Selvogi og víðar á sunnanverðurm Reykjanesskaganum, sem og ágangi tófunnar, sem fæstir virtust sýna athygli þrátt fyrir ærið tilefni:

Sjóbúð

Sjóbúð í Herdísarvík.

„Selvogur er allmikið fiskipláss, þó æði sje þar brimasamt og skerjótt fyrir landi; graslendi er sáralítið, en beit allgóð í heiðunum; sandfok gjörir mikinn skaða, enda er lítið gjört til að hepta það, nei, pvert á móti, melgrasið er rifið upp og notað í meljur, og lyngið og víðirinn í heiðunum er rifinn í eldinn, og svo blæs náttúrlega hinn sendni jarðvegur allur í sundur, og þaðan fýkur svo yfir betri blettina. Það er hjer sem víða annarstaðar á Íslandi, par sem land gengur úr sjor, að það er mest mönnunum að kenna; hugsunarleysi og stundarhagnaður hafa gjört landinu mikinn skaða. Víða má sjá, að miklu meid byggð hefir verið í Selvogi fyrrum; stórkostlegar garðhleðslur sjást því nærri alstaðar í sandinum, en nú er par allt blásið upp, og ekkert stingandi strá; mest kveður að þessum garðhleðslum fram með ströndinni milli Strandakirkju og Vogsósa, og nálægt kirkjunni eru rústir og garðar af bænum Strönd, sem fyrir löngu er kominn í eyði.

Strandarkirkja

Strandarkirkja 1884.

Strandakirkja, sem svo margir heita á, stendur nú ein fjarri byggð á kringlóttum grasfleti (kirkjugarði), sem vindurinn hefir rifið sandinn frá, svo hátt er niður af honum til allra hliða, en enginn garður í kring. Fyrir framan Hlíðarvatn er sandrif og fellur sjór inn í vatnið um ósa hjá Vogsósum, en í útsynningi skefur sandinn svo upp af grandanum, að ósinn fyllir, svo þar verður þurrt; vatnið er því alltaf að grynnka að framanverðu og að austanverðu, en vestanmegin jetur það sig alltaf meir og meir inn í hraunið; tveir hólmar kváðu hafa verið í því, Hlíðarhólmi og Strandarhólmi, sem eru nú horfnir.

Hlíðarvatn

Horft á Hlíðarvatn úr Hlíðarskarði.

Á Vogsósum er töluverð selveiði. Bygging er mjög ljeleg í Selvogi, eins og í Grindavík, og allt öðruvísi en í verstöðunum norðan á nesinu. Í sjóplássum þessum sunnanfjalls liggja vermenn í sjóbúðum, og eru flestar þeirra miklu líkari peningshúsum en mannahíhýlum. Vanalega eru stein- og torfbálkar beggja megin, og á þeim reistar stoðir upp í ræfrið; milli stoðanna hafa sjómenn flet sín, en á stoðirnar hengja þeir skinnklæðin. Sumstaðar er lítil skvompa fyrir endanum, og er hún kölluð »kór«. Þar hvílir vanalega einhver hálfdrættingurinn. Mismunur er náttúrlega á því, hve hreinlega er um gengið í búðum þessum, en sumstaðar er það fremur sóðalegt, eins og við er að búast, þar sem svo mörgum mönnum er kasað saman; gluggar eru vanalega engir, nema lítil vindaugu með rúðubroti í; verður loptið því eigi gott. ef ekki er haft því meira hreinlæti, þar sem allt hlandast saman: svitalyktin af fólkinu og lyktin af grútmökuðum skinnklæðum. Betur færi, að menn færi að leggja þessar sjóbúðir niður, en höguðu heldur til eins og í sjóplássunum norðan á nesinu.

Tófa

Tófa.

Það stendur sauðfjárrækt mjög fyrir þrifum í þessum byggðarlögum, hve tóur eru fjarska algengar; í hraununum eru svo óteljandi holur, að mjög illt er að vinna grenin, enda er víðast lítið gjört að því; frá Vogsósum hefir nú á seinni árum verið töluvert unnið af grenjum, on það er til lítils gagns, úr því nábúarnir ekkert gjöra. Í sumum sveitum á Reykjanesi drepur tóan nærri hvert lamb, þannig t. d. í Höfnum, og þó eru menn svo rænulausir, að engin samtök oru gjörð til að eyða þessum ófögnuði.
Tvisvar í sumar reið jeg á förnum vegi fram á tóur, sera voru að drepa kind. Tóurnar eru líka víða svo spakar, að þær hlaupa um eins og hundar, og horfa grafkyrrar á ferðamenn, sem um voginn fara.“

Heimild:
-Andvari, 1. tbl. 01.04.1884, Ferðir á Suðurlandi sumarið 1883, Þorvaldur Thoroddsen, bls 21-24.

Selvogur - örnefna- og minjakort

Selvogur – örnefna- og minjakort – ÓSÁ.

Hlíð

Í Örnefnalýsingu fyrir Hlíð (höfundur ónafngreindur) segir m.a.: „Hlíð var fyrr góðbýli og landnámsjörð í Selvogi. Var hún um aldaraðir eign Strandarkirkju og er það enn. Jörðin hefur verið í eyði nú um 60 ára skeið. Þar eru nú rústir einar.

Bærinn stóð á Bæjarhól eða lágum hrygg, er lá fram í Hlíðarvatn.
Hlíðartún er nú óræktarskiki, en hafði verið mun stærra í eina tíð. Auk Bæjarhólsins eru í túninu Kirkjuhóll eða Bænhúshóll, en þar á hafa staðið bænhús í katólskri tíð. Fornmannshóll er í túninu norðaustan og ofan bæjarins.
Hlíðarvatn liggur undan túnfætinum og voru mikil hlunnindi að, enda galt Hlíðarbóndinn þangskurð og reka með silungi til annarra jarða í Selvogi.“

Hlíð

Hlíð – bæjarminjar.

Síðan er örnefnum við vatnið lýst, en auk þess segir: „Vestast voru mörkin milli Hlíðar og Stakkavíkur um vik niður undan Urðarskarði. Innar eða fyrir miðri Urðinni er Bleikjunef; þar var góður veiðistaður. Handan við Vondavik er Réttartangi, og eru þar Selvogsréttir, með safngirðingu, almenningi og dilkum. Í Réttartanga skerst vik, sem sumir kalla Selvik, en suður frá réttunum eru Selbrekkur.

Hlíðarsel

Hlíðarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Þar á að hafa verið sel frá Hlíð eða Hlíðarsel; ber þó ekki öllum saman.“ Þórarinn Snorrason á Vogsósum upplýsti FERLIR um að ofan við Selbrekkur hafi fyrrum verið heimasel frá Vogsósum, enda í þeirra landi. Selið hafi jafnan verið nefnt Vogsósastekkur, enda voru yfirleitt ekki önnur mannvirki í heimaseljum.
„Skútar nokkrir, sem fé leitaði skjóls í, voru uppi undir Hömrunum. Helgutorfa var flöt austan við Hlíðarskarð. Borgaskörð voru skörð í Hlíðarfjall austarlega. Á einum stað milli þeirra var Háhamar. Stekkatúnsbrekkur voru brekkur í fjallinu vestan við Háhamar, og þar hafði verið Stekkur [Hlíðarsel] og Stekkatún.“ Í Hlíðarseli eru greinilegar selminjar, nokkur hús, hlaðið smalaskjól og stekkur, sem stundum hefur verið nefnd Valgarðsborg, en hún ber öll einkenni stekks, þ.e. tvískipt aðhald. Skammt norðar er Hlíðarborgin, stekkkur, sem væntanlega hefur tekið við af selinu eftir að það lagðist af. Hlíðarsel er í landi Hlíðar. Þórarinn ók FERLIRsfélögum upp að Híðarborginni fyrir allnokkrum árum og benti þeim þá m.a. á seltóftirnar sunnan heiðargirðingarinnar.
„Hlíðargata lá frá Hlíð austur og inn með fjallinu.“

Hlíð

Hlíð, bæjarminjar.

Gísli Sigurðsson skráði örnefnalýsingu í landi Hlíðar. Þar kemur m.a. eftirfarandi fram:
„Hlíð var fyrr góðbýli og landnámsjörð í Selvogi. Var hún um aldaraðir eign Strandarkirkju og er það enn. Jörðin hefur verið í eyði nú um 60 ára skeið. Þar eru nú rústir einar.
Bærinn stóð á Bæjarhól eða lágum hrygg, er lá fram í Hlíðarvatn.
Hlíðartún er nú óræktarskiki, en hafði verið mun stærra í eina tíð. Auk Bæjarhólsins eru í túninu Kirkjuhóll eða Bænhúshóll, en þar á hafa staðið bænhús í katólskri tíð. Fornmannshóll er í túninu norðaustan og ofan bæjarins. Hlíðargata lá frá Hlíð austur og inn með fjallinu.“
Gísli Sigurðsson skráði einnig örnefni á Selvogsafrétti.

Aðalskráning fornleifa í Selvogi 2015.Í „Aðalskráningu fornleifa í sveitarfélaginu Ölfusi – Áfangaskýrsla I“, sem Fornleifastofnun Íslands gerði 2015, segir m.a: um einstakar minjar í landi Hlíðar:
[Hafa þarf í huga að talsvert virðist vanta í skráninguna og hún lítt gaumgæfð. Svo virðist sem ef örnefna eða minja sé ekki getið í örnefnalýsingum þá eru þær ekki til. Lítið sem ekkert virðist hafa verið gert til að rýna svæðið á vettvangi, t.d. út frá heilbrigðri skynsemi].

Hlíð

Hlíð

Hlíð – uppdráttur ÓSÁ.

Í Jarðabók Árna og Páls 1706 segir: „Jarðardýrleiki xx að sögn manna, en engin geldst hjer tíund af.“ JÁM II, 463 Ekki til túnakort. Í Jarðabók Árna og Páls 1706 segir: „Lyngrif til eldiviðar bjarglegt. Silúngsveiðivon er góð og hefur oft að merkilegu gagni verið. Eggver í vatnshólmum hefur að nokkru gagni verið, en fer mjög til þurðar. Sölvafjöru og grasafjöruítak á jörðin fyrir Vogshúsalandi sem áður segir, vide Vogshús. Túnunum grandar fjallsskriður og landbrot, sem Hlíðarvatn gjörir að neðan. Engjar, sem áður voru litlar með vatninu, hefur sama vatn eyðilagt.“ JÁM II, 464

Bæjarhóll – bústaður

Ölfus

Hlíð- minnismerkií bæjarhólnum.

„Hlíð var fyrr góðbýli og landnámsjörð í Selvogi. Var hún um aldaraðir eign Strandakirkju og er það enn. Jörðin hefur verið í eyði nú um 60 ára skeið. Þar eru nú rústir einar. Bærinn stóð á Bæjarhól eða lágum hrygg, er lá fram í Hlíðarvatn,“ segir í örnefnalýsingu. Bærinn fór í eyði árið 1906.
Slétt grund sem nær allt frá vatnsborðinu og upp að fjallsrótum. Þjóðvegurinn liggur um túnið um 70 m norðan við bæjarrústirnar. Enn er nokkur rækt í túninu. Það er ekki slegið, ógirt og sækja kindur í það. Veiðihús stendur á vesturenda bæjarrústanna og hefur sennilega raskað þeim að litlum hluta en miklar rústir eru á hólnum austan við húsið. Hefur bæjarröðin legið frá austri til vesturs og bærinn snúið með framhlið í suður.

Kirkjuhóll – bænhús

Kirkjuhóll

Kirkjuhóll (Bænhúsahóll).

„Auk Bæjarhóls eru í túninu Kirkjuhóll eða Bænhúshóll, en þar á hafa staðið bænhús í katólskri tíð,“ segir í örnefnalýsingu. Nú er ekki vitað hvar Bænhúshóll var. Yfirleitt voru kirkjur og bænhús í næsta nágrenni við bæjarhóla og með hliðsjón af því er helst að giska á ávalan hól í túni fast austan við bæjarhól. Óslegið tún. Hóllinn er sporöskjulaga og nokkuð ávalur en ekkert rústalag á honum, 15-20 m í þvermál. Enginn annar hóll virðist líklegri.

Hlíðarsel – sel [Vogsósasel]

Vogsósasel

Vogsósastekkur  ofan við Selbrekkur (heimasel).

„…suður frá [Selvogs]réttunum eru Selbrekkur. Þar á að hafa verið sel frá Hlíð eða Hlíðarsel; ber þó ekki öllum saman,“ segir í örnefnalýsingu. Í annarri lýsingu segir: „Selbrekkur. Á þeim stað könnuðust þeir [heimildamenn í Stakkavík] við Stekkjardældir.“ Engar dældir eru suður frá Selvogsréttum en hins vegar eru grösugar brekkur og dældir um 300 m austur af þeim og hlýtur að vera átt við þann stað. Þetta er rétt tæpan 1 km SA af bæjarhól. Vel grónar og fallegar valllendisbrekkur og -dældir mót vestri og gróin grund þar niður af.
Eina tóftin sem þekkt er á þessum slóðum er sú sem Þórarinn Snorrason í Vogsósum nefnir Vogsósastekk. Þess má geta að Ómar Smári Ármannsson hefur kallað aðrar tóftir Hlíðarsel. Sú túlkun er ekki útilokuð þótt tóftirnar teljist of langt í burtu til að passa við lýsingu örnefnaskrár.
[Þeir, sem lesið og metið hafa örnefnalýsingar, vita að þær eru takmarkandi, misvísandi og jafnvel rangar. Þær ber ávallt að taka með fyrirvara, þ.e. ekki allt of bókstaflega. Í heimildum eru framangreindar Selbrekkur nefndar Vatnsdalur upp af Selvik, ofan Réttartanga. Gísli minnist ekki á Hlíðarborg, einungis Hlíðafjallsbrekkur og Hlíðargil, sem þar eru efra. „Sunnan undir þeim eru Selbrekkur. Skammt suðaustar er Hlíðarsel“. Þ.S.]

Borgaskörð – fjárskýli

Borgarskarðsborg

Borgarskarðaborg – neðri fjárborgin.

„Borgaskörð voru skörð í Hlíðarfjall austarlega. Á einum stað milli þeirra var Háhamar,“ segir í örnefnalýsingu. Undir skörðunum er tóft sem skörðin gætu hafa dregið nafn sitt af, um 130 m austur af stekk. Hlíðarborg og Valgarðsborg eru sunnar.
Lyngmói, sumsstaðar með hraunnibbum og -hólum. Hlíðargata liggur áfram til austurs fast sunnan við tóftina.
Tóftin er í háum og gróskumiklum valllendishól sem er nokkuð áberandi og sést vel að. Hún er lítið uppbyggð en að mestu leyti grafin niður í hólinn. Hann sjálfur er nokkuð hringmyndaður en hólfið er aftur næstum ferkantað. Mögulegt er að byggingin hafi upphaflega verið fjárborg en síðan verið endurbyggð sem fjárhús.

Hlíð

Borgarskarðaborgin efri.

[Önnur fjárborg, miklu mun eldri, er skammt ofar, enda jafnan talað um Borgarskarðaborgir. Hún er nánast jarðlæg, en þó má enn sjá móta fyrir hringlaga hleðslum í henni.]

Stekkatúnsbrekkur – stekkur

Stekkur

Stekkur í Sekkjatúnsbrekkum.

„Stekkatúnsbrekkur voru brekkur í fjallinu vestan við Háhamar, og þar hafði verið Stekkur og Stekkatún,“ segir í örnefnaská. Stekkjartóft er einmitt á þessum stað, undir Hlíðarfjalli um 600 m ANA af bæjarhól. Smákvos í lyngmóa sem víða er grasi gróinn. Hraunnibbur stingast upp úr hér og þar og talsvert er um stórgrýti. Hraunhólar eru suðaustan við stekkinn. Varla er hægt að segja að túnblettur sé kringum stekkinn. Ljómandi falleg tóft, byggð utan í jarðfasta kletta. Hún er tvískipt og L-laga, alls um 9×8 m stór.
Rekið hefur verið inn að sunnanverðu í dálitla rétt sem er um 7×5 m stór frá norðri til suðurs að utanmáli. Klettarnir mynda norðurgafl réttarinnar. Úr henni er svo op til vesturs, nyrst við klettana, í heldur þrengri kró sem er rúmlega 4×3 m stór frá austri til vesturs. Mikið grjót sést í innanverðum veggjum sem eru mest um 1 m háir.

[Sagan segir að þarna hafi hokrað maður stuttan tíma og að Borgarskarðaborgirnar hafi tengst búrekstrinum – ÞS.]

Hlíðargata – leið

Hlíðargata

Varða við Hlíðargötu.

„Hlíðargata lá frá Hlíð austur og inn með fjallinu,“ segir í örnefnaskrá. Gatan sést enn vel austan túns, t.d. um 390 m austur af bæ en einnig fast við stekkjartóftina. Grónar valllendiskvosir eru næst fjallinu en síðan tekur við lyngmói í gömlu hrauni. Greinilegur kindatroðningur liggur til austurs inn með fjallinu og sést vel víðast hvar. Sennilega eru það leifar af gömlu Hlíðargötunni. Að sögn Þórarins Snorrasonar var ekki fært með hesta upp Hlíðarskarðið og því oft farið inn með fjallinu og síðan til norðurs.

Dísurétt

Dísurétt.

[Ofan við Borgarskörðin er Dísurétt í hraunkvos, fallega hlaðin og hefur haldið sér nokkuð vel frá árinu 1938. Erfitt er þó að finna réttina vegna legu hennar í hrauninu. Frá henni er ágætt útsýni upp Strandardal og yfir víðan Hliðardalinn vestan Svörtubjarga. Dísurétt var nefnd eftir stúlkubarni er fæddist í Torfabæ 2. október 1937 og síðar var skírð Eydís Eyðþórsdóttir. Hún lést í Reykjavík 2. apríl 2010. Faðir hennar var Eyþór Þórðarson í Torfabæ.]

Hlíðarborg – fjárskýli

Hlíðarborg

Hlíðarborg.

Hlíðarborg er fjárborg úti í hrauninu 1,7 km austan bæjarhóls. Hún er um 150 m norðan við girðingu sem liggur frá skilaréttinni við Hlíðarvatn og austur fyrir Urðarfell. Borgin er byggð vestan í hraunhól, sem er klofinn eftir endilöngu, og þjónar hraunið sem austurveggur. Umhverfis er hálfgróið hraun og sumstaðar valllendisblettir. Borgin sjálf er nokkurn veginn hringlaga, alls um 13×14-15 m að stærð. Veggir eru allir hrundir og mikið grjót í þeim, einna minnst þó að norðanverðu og þar er hleðslan best gróin. Ekki sjást dyr á borginni. Mannvirkið er mjög óvenjulegt að því leyti að tóft, sennilega af fjárhúsi, er inni í borginni og fyllir út í hana að mestu, alls um 6×5 m stór frá NA-SV. Sennilega er hún yngri en borgin og heldur meiri gróska er í veggjum hennar en borgarinnar. Hleðsla er fyrir húsdyrum, um 3 umför af stórum og þykkum hellum og er það að heita má eina heillega hleðslan í tóftinni. Hlaðið hefur verið frá norðausturhluta hústóftarinnar að klettinum sem er austar og er hleðslan um 3-4 m löng. Hvorki sést garði né jötur í fjárhúsinu og ekki hlaða heldur.

Valgarðsborg – sel [Hlíðarsel]

Valgarðsborg

Valgarðsborg í Hlíðarseli.

Tóftir eru tæpa 300 m suður af Hlíðarborg, á allgrösugum bletti vestan í klettahól. Sennilega eru þær nálægt mörkum móti Vogsósum en þau liggja úr Nefjavörðu austur í Hellholt. [Línan í Hellholt er mun sunnar]. Umhverfis er hálfgróið hraun og sumstaðar valllendisblettir. Milli Hlíðarborgar og umræddra tófta liggur girðing allt frá skilarétt við Hlíðarvatn og austur fyrir Urðarfell. Tóftirnar eru a.m.k. þrjár [dæmigert fyrir sel á þessu landssvæði] og ná yfir svæði sem er rúmlega 30×30 m stórt. Nyrst er greinileg en vallgróin tóft, dálítið grafin inn í brekkuna. Hún er einföld, um 7×5 m stór frá norðri til suðurs og dyr heldur sunnar en fyrir miðjum vesturvegg. Dýpt nemur allt að rúmum 1 m. Nokkrar dældir eru norðan og norðvestan við tóftina og gætu þar leynst fleiri mannvirki eða útbyggingar. Um 8 m austar, uppi á hól, er hleðsla, sem gæti verið yngri, sennilega refagildra. [Hleðslan ber engin einkenni refagildru]. Þetta er grunnur að hlöðnu hólfi sem er um 1,5 x 0,8 m stórt NA-SV og snýr op í SV. Hleðslan er aðeins eitt umfar og um 0,2 m há.

Hellir – fjárskýli [Áni]

Áni

Áni – fjárskjól.

Fjárhellir er úti í hrauni undir Borgarskörðum og um 1 km austur af bæjarhól. Hann er um miðja vegu milli Hlíðarfjalls og girðingar sem liggur frá Hlíðarvatni og austur fyrir Urðarfell. Hálfbert hraun. Hellisopið snýr mót norðaustri. Það er einfaldlega skúti, fyrst nánast beint niður og svo innundir hraunhelluna til suðvesturs. Laglega hefur verið hlaðið um munnann á allar hliðar en þó er hægt að komast að honum úr austri. Hleðslan er úr hraungrýti og myndar hólf sem er hér um bil ferkantað og um 4,5×3 m að stærð SV-NA. Hleðslan er hæst að suðvestan, allt að tæpur 1 metri. Lítil varðaer á hleðslunni að suðvestan og að auki liggur einföld hleðsla um 3 m til suðvesturs frá hólfinu. Ekki var farið niður í hellinn en hann sýnist manngengur.

Hellir

Fjárskjól ofan Ána.

[Annar svipaður fjárhellir er skammt norðar. Hleðslur eru við opið.]

[Hlíðardalur – tóft

Hlíðardalur

Tóft í Hlíðardal.

Í heimildum er getið um Sælubunu við Selvogsgötuna (Suðurferðaveginn). Þar segir m.a.: „Hlíðardalur stendur Strandardal ofar mót hækkandi heiðlendi. Hann er hvammslaga og vel grösugur upp á brún. Efst í dalnum stóð eitt sinn bær Indriða lögréttumanns, Jónssonar.“
Í Hlíðardal er greinileg tóft. Sjá má móta fyrir grunnsteinhleðslum í grónum aflíðandi hvammi.]

Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í sveitarfélaginu Ölfusi – Áfangaskýrsla I, Fornleifastofnun Íslands 2015, bls 240-250.
-Selvogsafréttur, Árnessýsla – Selvogshreppur, Örnefnalýsing
-Hlíð – Örnefnalýsing.
-Hlíð í Selvogi, Gísli Sigurðsson, Örnefnalýsing.

Hlíðarsel

Hlíðarsel.

Krýsuvík

Ólafur Þorvaldsson skrifaði um „Krýsuvíkurkirkju“ í Lögberg-Heimskringlu árið 1962:

Ólafur Þorvaldsson„Þegar þess var farið á leit við mig, að ég skrifaði fyrir þetta blað nokkuð um Krýsuvíkurkirkju, varð mér fyrst ljóst, hve lítið það er, sem ég veit í þessu efni, — en menn fara stundum enn þá í geitarhús að leita ullar. Ég er því smeykur um, að svipað hafi hent vin minn, þegar hann villtist til mín með þetta efni.
Og nú detta mér í hug sem oftar, þegar svipað stendur á sem hér, hendingar í einu kvæði Fornólfs, þar sem hann segir: „Þótt einhver verði ýtingin, er óviss lendingin“.
Ég er því miður illa að mér í sögu kirkna á Íslandi frá fornu og nýju, uppruna þeirra, endurbyggingu eða tilfærslu, og allt þar á milli. Það mun mála sannast, að erfitt mun vera að rekja sögu margra kirkna okkar frá fyrstu tíð, þótt sjálfsagt mætti fá úr mörgu skorið í því efni, en til þessa hefur mig skort hvort tveggja, tíma og tækifæri.
Eftir öllum líkum mun óhætt að segja, að kirkja hafi verið í Krýsuvík úrfallalítið í átta til níu aldir. Ég held, að Krýsuvíkurkirkja sé ein af þeim kirkjum, að erfitt sé að rekja sögu hennar í það minnsta fyrstu aldirnar, svo öruggt samhengi fengist í þá sögu.

Húshólmi

Húshólmi – Kirkjulágar; meint kirkjutóft vinstra megin.

Ég skal aðeins nefna eitt, upphaf þeirrar sögu. Ég held að margur myndi hnjóta um það spursmál, hvar fyrsta kirkja Krýsuvíkur hafi verið reist, hvenær og hver hana lét gera. Við þessum spurningum höfum við hvergi getað fengið fullnægjandi svar. Síðar kem ég lítillega að þessu óráðna spursmáli, ef rúm leyfir.
Lesendur þessa blaðs munu litlu nær um Krýsuvíkurkirkju af formálanum einum. Þess vegna skal nú sagt hér það helsta, sem ég veit og man um nefnda kirkju, og er því bezt að byrja á byrjuninni.

Landnám

Landnám Þóris haustmyrkurs.

Í Landnámabók Ara Þorgilssonar segir svo: „Þórir haustmyrkur nam Selvog og Krýsuvík.“ Einar Arnórsson prófessor telur líklegt, að Þórir haustmyrkur hafi komið nokkuð seint út. Fyrir þessu færir hann þau helst rök, að „Súgandi“, þriðji maður frá Þóri, ætti að vera uppi um 1000.

Landnám Þóris er því að nokkru í Gullbringusýslu, en þau sýslumörk komu löngu síðra. Líklegt má telja, að kirkja hafi ekki löngu eftir kristnitöku verið byggð í Krýsuvík. Yfir hinu mun hvíla algjör óvissa, svo sem fyrr er á minnst, hvar og af hverjum sú kirkja var byggð.
Elsta heimild, sem mér er kunn um kirkju í Krýsuvík er, að um 1200 er hennar getið í kirknaskrá Páls biskups. Kirkjan er talin Maríukirkja, og á heimaland allt ásamt Herdísarvík og níu mæla lands á Þorkötlustöðum auk ítaka.

Krýsuvík

Krýsuvík 1810.

Eftir það, er Krýsuvíkurkirkju getið í ýmsum máldögum allt fram undir 1600. Flestir máldagarnir fjalla um eignir kirkjunnar fastar og lausar, ítök o. fl. og ber víðast fátt þar á milli utan þá orðalag. Á tíma þeim, sem máldagarnir ná yfir, hefur lausafé kirkjunnar ekki ávallt verið það sama, munir gengið úr sér, og stundum aðrir komið í þeirra stað. Lifandi peningi fækkað, þar til horfinn var með öllu, og má segja, að svo hafi farið um flesta muni kirkjunnar.
Til að sýna megin efni í lestra máldaganna tek ég upp kafla úr máldaga Gísla biskups Jónssonar fré 1577 (í F. XV. 3, bls. 641). Þar segir:… „Ennfremur 6 kýr og 5 ásauðar kúgildi, (þ. e. 30 ær). Einnig þrjá hesta og eitt hross (þ.e. hryssa). Innan kirkju tvenn messuklæði alfær og kantara kápu eina. Einnig tvenn altarisklæði. Ein brún. Einn kaleik, þrjár klukkur, koparstiku með þremur pípum. Glóðker. Einn ampli. Paxspjald . Vatnsklukka. Kirkjustokkur, Þrjár merkur vax. Bækur nokkrar. — Innanstokks tvær skálar, tvo spæni, tvö trog, hægindi, hvíluvoðir og áklæði.“

Krýsuvíkurkirkja

Innansmíð Krýsurvíkurkirkju – teiknað árið 1810.

Allt bendir til, að Krýsuvíkurkirkja hafi aldrei rík verið að lausafé. Hitt mun heldur mega telja, að fram eftir öldum hafi hún eftir öllum bréfum að dæma mátt heita allvel á vegi í föstum eignum, þar sem hún hefur átt allt land sóknarinnar, byggt og óbyggt, og meira þó, þar eð hún átti einnig Herdísarvíkina, beztu verstöð í Selvogi, landríka vildisjörð, og lágu lönd saman. Auk þessa ýms ítök. Hitt er ljóst bæði af íslenzkum heimildum svo og ferðabókum erlendra, sem um landið reistu og til Krýsuvíkur fóru sem flestir munu hafa gert til athugunar á jarðhita og brennisteini, að meðal sóknarmanna hafi þar oftar ríkt fátækt en auður, jafnvel svo að til landauðnar dró á tímabili. Ég skal nefna hér eitt dæmi þessu til stuðnings.
Árið 1553—54 telur Marteinn biskup „kirkju þar góða, — en enginn bær er þá í sókninni“. Eitthvað hefur þetta ömurlega hlutskipti þessa byggðarlags varað, því að með bréfi 27. sept. 1563 leggur Páll Stígsson hirðstjóri í samráði við Gísla Jónsson biskup í Skálholti niður sóknarkirkju Krýsuvík og leggist hún og eitt kot, sem þar er hjá, til Strandarkirkju í Selvogi. Þó skal í Krýsuvík standa lítið húskorn Guðs vegna og þess heimilisfólks, sem þar kann að vera sjúkt eða gamallt. Og herra Gísli skyldi nokkur kúgildi til leggja, svo að Guðs orðs þénari mætti þar hvíld nætursakir hafa, þá hann þar kæmi eða þyrfti þar að koma Guðlegrar hjarðar að vitja.“

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1810.

Krýsuvíkurkirkja virðist þó standa eftir sem áður. Árni Magnússon telur hana útkirkju frá Strönd. Svo er og í kirkjuskrá 1748, og enn í prestakallaskipunarlögum frá 1880.
Með prestakallalögum 1907 er Krýsuvíkursókn lögð til Staðarprestakalls í Grindavík. Loks er með stjórnarráðsbréfi 21. okt. 1929 Krýsuvíkurkirkja lögð niður og sóknin sameinuð Grindavík (Stjt. 1929 B. 305).
Með þessari síðustu ráðstöfun mætti ætla, að lokið væri sögu Krýsuvíkurkirkju hinnar fornu. Þó má segja enn sem fyrr, að kirkjan stendur eftir sem áður, — en mennirnir viðurkenndu hana ekki lengur. — Ég fæ ekki betur séð en við þetta yfirgefna hús, sem einu sinni var guði vígt, hafi komið fram hinn sami ,,huldi verndar kraftur“, sem Jónas kveður um í Gunnarshólma, um „hólmann, þar sem Gunnar snéri aftur“, við að forða því frá að afmást með öllu svo enginn sæi þess lengur stað.

KrýsuvíkÞað má segja, að frá 1563—1929 hafi Krýsuvíkursókn verið í útlegð eða í 366 ár. Í 344 ár var hún á vist hjá Strandarkirkju í Árnessýslu og í tuttugu og tvö ár hjá Staðarkirkju í Grindavík, þ.e. frá 1907—1929. Það ár er kirkja lögð niður í Krýsuvík. Eftir það eiga Krýsvíkingar kirkjusókn til Grindavíkur. Löng kirkjuganga það.
KrýsuvíkÁrið 1929, þegar kirkjan er lögð niður, eru þrjár fjölskyldur í sókninni, ein mannmörg, tvær miðlungi stórar. Þá mun hafa verið búið að ákveða vegarlagningu um Krýsuvík, ef hún hefur ekki þegar verið hafin. Og vegurinn kom. Með veginum kom fólkið og nokkrar framkvædir, þótt eitthvað af þeim hafi farið nokkuð á annan veg en skyldi, — en þetta kemur í hendi, sagði karlinn. Vegurinn var kominn um eina samfellda stóra gróðursvæðið í hinni miklu hraunbreiðu Reykjanesskagas. Land með mikla möguleika í jörð og á allmikil hlunnindi við sjó, þótt enginn vilji nýta í dag.

Krýsuvík

Krýsuvík – Suðurtúnið.

Svo fóru gömlu Krýsvíkingarnir alfarnir. Flestir fóru þeir eftir hinum aldagömlu slóðum, sem þeir höfðu farið margir alla ævina, aðrir skemur. Svo kom nýtt fólk eftir nýja veginum, sumir til búsetu, aðrir sem farfuglar. Það var því enn komið fólk í hina fornu Krýsuvíkursókn, — en „kirkja fyrirfannst engin á staðnum“, en til staðar mun hann ekki hafa verið, sá sem fyrir kúgildunum hefur séð, — en síðustu prestar þar voru það ekki.

Magnús Ólafsson

Magnús Ólafsson – síðasti ábúandinn í Krýsuvík.

Eftir að síðasti ábúandinn var fluttur veikur burt frá Krýsuvík og átti þangað ekki afturkvæmt, var lokið allri umhirðu um hina fornu kirkju, er hann hafði búið í mörg síðustu árin þar. Það beið heldur ekki lengi, þar til þar fyrirfannst hvorki gluggar né hurð. Hurðarleysið kom sér líka betur fyrir þá hjörð, sem þá tók að sækja þetta forna guðshús. Þar inni fann skjól í hrakviðrum fjöldi nautgripa og hesta, er þarna voru til hagagöngu á sumrin. Flestir, sem þarna voru kunnugir, töldu víst, að um þetta forna vanhirta hús færi þá og þá sömu leiðina, sem önnur hús staðarins, hryndi í rúst eða fyki burt. Nei, hin forna, yfirgefna kirkja fauk hvorki né hrundi. Hún stóð af sér öll stórviðri og alla „hverakippi“. Hún bara beið, beið eftir sveini, er leysti hana úr böndum. Og sveinninn kom. Fyrir hans tilverknað stendur í dag á hlaði hinnar fornu stórjarðar fegurra hús heldur en þar hefur áður staðið og bíður nú þess að vígjast í kirkju eða kapellu Krýsuvíkursóknar. Vonandi bíður þess húss aldrei önnur eins niðurlæging sem hinnar síðustu kirkju staðarins.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja – legsteinn Árna Gíslasonar, sýslumanns.

Áður er þess getið í grein þessari, að óvíst væri hvar hin fyrsta Krýsuvíkurkirkja hafi staðið. Þótt allt þar um sé í mikilli óvissu enn sem komið er en sem ég veit að á eftir að skýrast áður en langt um líður, þá tel ég, að ekki sé hægt að skrifa svo um Krýsuvík og kirkju þar, að gengið sé með öllu fram hjá hinni aldagömlu sögu, að sú Krýsuvík, sem við þekkjum í dag hafi ekki í upphafi byggðarinnar verið þar sem nú er.

Til fróðleiks skal ég tilfæra hér í sem stytztu máli það helzta, sem vísinda og fræðimenn hafa um þetta efni skrifað.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Eggert Ólafsson segir í ferðabók sinni um jarðelda í Trölladyngju: „Að minnsta kosti er það víst, að Krýsvíkingar kunna að segja frá ægilegum jarðeldi, er brann í fjöllum þessum í fornöld.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – kort.

Eldflóðið féll í sjó niður og eyddi nokkrum bæjum á því svæði, sem nú heitir Ögmundarhraun. Meðal þeirra var kirkjustaður, sem Hólmastaður hét, og sjást þar enn minjar kirkjugarðsins og húsatóftanna“. Hér er vitanlega átt við þann stað, sem nú heitir Húshólmi. Hólmastaðar hef ég hvergi heyrt getið utan í bók Eggerts. Fullvíst má telja, að þetta nafn hafi til orðið eftir að hraunið hólmaði þennan blett af.
Þorvaldur Thoroddsen segir í ferðabók sinni I. bls. 186, um rústirnar í Húshólma: „Ein sú lengsta er 49 fet, en breidd hennar sést ei fyrir hrauni“.

Húshólmi

Húshólmi – meintur grafreitur.

Og enn segir hann: „Þessar tóttir, sem hraunið hefur runnið yfir, eru full sönnun fyrir því, að það hefur myndast síðan land byggðist, þótt hvergi finnist þess getið í sögum eða annálum“. Einnig getur Þorvaldur Thoroddsen um alllanga garða, sem sjáist þar enn. Þorvaldur Thoroddsen segir um Ögmundarhraun, að Jónas Hallgrímsson hafi gizkað á, að það hafi runnið kringum 1340, „án þess þó að færa heimildir fyrir því“.
Brynjólfur Jónsson frá Minna-Núpi skrifar í Árbók Hins ísl. fornleifafélags 1903 um Húshólma og fornminjar þar. Getur hann þa r garða og húsarústa á svipaðan hátt og Þorvaldur Thoroddsen. Í grein sinni kemst Brynjólfur þannig að orði á einum stað:

Húshólmi

Húshólmi og Gamla-Krýsuvík.

„Krýsuvík hefur til forna staðið niður undir sjó fyrir vestan endann á Krýsuvíkurbergi. Nafnið Krýsuvík bendir til þess“. Brynjólfur er sá eini af þessum þremur fræðimönnum, sem minnist á og telur víst, að Krýsuvík hafi verið upphaflega þar sem nú er Húshólmi. Það sem einkum styður þá kenningu, að Krýsuvíkin hafi í upphafi staðið við sjó, er aðallega þetta:

Krýsuvík

Krýsuvík – strandlínan fyrrum; tilgáta.

Nafn byggðarinnar — Krýsuvík eins og Brynjólfur Jónsson bendir á, því að lítt hugsanlegt er, hafi byggðin staðið frá landnámi þar sem nú er að hún hefði þá fengið þetta nafn því að þar er ekki um neina vík að ræða, ekki einasta að byggðin sé það nærri Kleifarvatni, að nafnið gæti þaðan verið komið. Í öðru lagi eru það hinar miklu húsarústir og önnur verksummerki í Húshólma með nöfnum svo sem Kirkjuflöt og Kirkjulág. Nöfn þessi benda til, að þar hafi kirkja verið en aldrei mun getið nema einnar kirkju í Krýsuvík.
Rúmsins vegna verð ég að láta staðar numið hér, en um þetta má nánar lesa í bókinni „Harðsporar“ frá 1951, bls. 109.
Vel veit ég, að í framangreindar frásagnir vantar vísindalegar sannanir og er það rétt svo langt sem það nær og þá er að afla þeirra. — Í Húshólma munu svo merkilegar fornminjar vera, að óvíst er hverju þær við rannsókn gætu aukið við hinar fornu sögu okkar. Þegar hér er komið lestri má vera, að einhverjum detti í hug þessi spurning: Hvað kemur þessi týnda byggð ef til hefur verið Krýsuvíkurkirkju við? Hér ber allt að einum brunni. Um þetta vantar aðeins órækar sannanir.
Eggert Ólafsson hafði engar sannanir þá hann skrifaði orð þau, sem að framan getur. En líkurnar hafa honum sýnst svo ljósar, að þar væri ekki um efamál að ræða.

Húshólmi

Húshólmi – einn hinna fornu garða.

Hafi fyrsta byggð Krýsuvíkur verið niður við sjó svo sem hin aldna saga hermir og minjar þar benda til, hefur vitanlega ekki liðið langur tími þar til þar hafi kirkja risið. Svo stór hefur Krýsuvíkurkirkja aldrei þurft að vera, að efni til hennar hafi skort, þar eð reka fjörur eru miklar og rekasælar, svo sem við vestasta hluta Krýsuvíkurbergs allt til Selatanga vestur.

Húshólmi

Húshólmi – kirkjugarður?

Skal nú vikið nokkrum orðum aftur til ársins 1200. Þá er sem fyrr segir Krýsuvíkurkirkju getið í kirknaskrá Páls biskups, og þar þess getið að kirkjan sé Maríukirkja svo og landaeigna hennar. Hér hefur þess ekki þótt þurfa við að tilgreina nánar hvar kirkjan væri staðsett, því vitanlega hefur það verið svo sem nafn hennar bendir til í Krýsuvík, og þá var engin nauðsyn að geta þess, hvar sú Krýsuvík væri vegna þess, að aldrei hefur verið nema ein byggð með því nafni, — en hvar var sú Krýsuvík, sem Páll biskup minnist á um árið 1200? Þessari gömlu og nýju spurningu er enn þá ósvarað, en við verðum að vona, að svarið komi von bráðar.

Húshólmi

Húshólmastígur um Ögmundarhraun.

Ef það væri nú svo, að Ögmundarhraun hafi runnið kringum 1340 svo sem Jónas Hallgrímsson gizkar á, er ekkert líklegra en að fólkið sem flýði eldana hafi leitað áður en eldurinn lokaði leiðum upp í landið inn milli fjallanna, þar sem eldar sem þá brunnu náðu því ekki. Vegarlengdin var ekki nema röskur stundargangur. Þetta land var þess heimaland, sjálfsagt fyrr nytjað á margan hátt. Þar var búsmali þess hagvanur, heyskaparlíkur meiri og betri, svörður til eldsneytis í mýrum og ef til vill fleira, sem nú er ekki gott að segja um.
Til endurbyggingar húsatimbur á víðáttumiklum rekafjörum, — en dálítið lengra til dráttar. Hafi þetta svona verið þá hefur fólkið flutt með sér nafn þeirrar byggðar, sem það af illri nauðsyn varð að yfirgefa og þá von bráðar komið sér upp kirkju, sem hefur verið Krýsuvíkurkirkja jafnt sem áður.

Krýsuvíkurkirkja

Þótt erfitt sé að fullyrða, hvar fyrsta kirkja þeirra fyrstu Krýsvíkinga hafi staðið, mun aftur á móti óhætt að telja fullvíst, að margar síðustu aldirnar hafi kirkja þeirra staðið þar sem hún stóð fram á þessa öld, — og stendur í rauninni enn.

Eggert Sigfússon

Eggert Sigfússon á Fongötu vestan Vogsósa.

Þeim mun nú óðum fækka, sem við messugerð voru hjá séra Eggert Sigfússyni presti Selvogsþinga, þá hann messaði í Krýsuvíkurkirkju, því eins og fyrr segir þá var Krýsuvíkurkirkja útkirkja frá Strönd til 1907. Sá er þetta skrifar var við eina guðsþjónustu í Krýsuvík hjá séra Eggert 1901. Margt var vel um séra Eggert þótt alleinkennilegur þætti í ýmsu. Ágætur ræðumaður var hann talinn á tækifærisræður, enda var hann gáfaður lærdómsmaður.
Aftur á móti voru flestar kirkjuræður hans mjög stuttar og var sem hohum lægi mikið á við flest verk í kirkju og viðurkenndi þetta sjálfur svo sem þetta dæmi sýnir. Eitt sinn þá hann kom úr kirkju í Krýsuvík segir hann strax þegar hann kom í bæinn: „Nú gerði ég það gott, nú hafði ég faðirvorið í einu andartaki.“

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja.

Margt mætti um séra Eggert segja og allt gott sérdeilis sem mann. Hann var vammlaus maður og heiðarlegur fram í fingurgóma. Hann var einn þeirra, sem samtíðin misskildi, þótt þar væru undantekningar. Á öðrum vettvangi gefst mér ef til vill tækifæri til að segja nánar frá þessum sérkennilega manni.

Ég ætla, að ég hafi verið við síðasta prestsverk, sem framkvæmt var í Krýsuvíkurkirkju, það um árið 1917. Þá var jarðsunginn þar síðasti maður í Krýsuvíkurkirkjugarði, og var ég einn af líkmönnunum. Verkið framkvæmdi sóknarpresturinn séra Brynjólfur Magnússon frá Stað.
Þessi síðasta Krýsuvíkurkirkja, sem hér um ræðir, mun að öllum líkindum vera fyrsta kirkja þar, er byggð er af timbri einu saman. Þessi kirkja var byggð 1857. Síðan er hennar getið í mörgum prófastavísitasíum og ávallt nefnd „timburhús“.

Krýsuvík

Krýsuvík 1920.

Í biskupsvísitasíu árið 1875 er Krýsuvíkurkirkju lýst all nákvæmlega. Þar kvartar biskup yfir, að ekki hafi þá verið gert við galla þá, sem á kirkjunni hafi verið við síðustu vísitasíu hans. Sér í lagi er það ytri klæðning á þaki, sem sé orðin léleg og þurfi endurnýjunar við.

Brynjólfur Magnússon

Brynjólfur Magnússon.

Hvenær viðgerð sú, er Pétur biskup hvetur til 1875 hefur fram farið hefur mér ekki auðnast að grafa upp, en á síðasta fjórðungi síðustu aldar hefur það verið gert. Þótt mér hafi ekki tekizt að finna reikninga yfir kirkjusmíðar 1857 má fullvíst telja að þar hafi aðalsmiður verið Benteinn Stefánsson bóndi að Arnarfelli í Krýsuvík og má heita skemmtileg tilviljun, að dóttursonur hans Sigurbent varð til þess að gera nú upp hina gömlu kirkju af nákvæmni og hagleik, sem þeim frændum mun báðum hafa verið í blóð borið. Með endurnýjun þessa rösklega hundrað ára gamla húss, sem lengst af var kirkja, hefst nýr kapítuli í sögu kirkjunnar í Krýsuvík, sem verður ekki sagður hér. Í þeim kapítula hlýtur ávallt að gnæfa hæst nafn þess manns, sem af svo mikilli höfðingslund og óeigingirni og þó í algerri kyrrþey hefur látið gera þetta hús eins og það er í dag, ásamt umbótum á kirkjugarðinum, algeriega fyrir fé úr eigin vasa. Maður þessi er Björn Jóhannesson fyrrverandi bæjarfulltrúi í Hafnarfirði. Þá mun heldur ekki gleymast nafn þess, sem verkið leysti af hendi, þjóðhagans Sigurbents Gíslasonar í Hafnarfirði. Verk það, sem þessir tveir menn hafa innt af hendi í Krýsuvík á síðustu árum, lofar báða þessa meistara.

Björn Jóhannesson

Björn Jóhannesson.

Ég hygg, að með húsi því í Krýsuvík, sem nú hefur verið þar endurbyggt og innan skamms mun albúið til vígslu á ný til guðsþjónustuhalds, hafi Björn Jóhannesson unnið það lofsverða verk, sem fá dæmi munu finnast fyrir hér á landi í seinni tíð, — og trúað gæti ég að „Fáir muni eftir leika“, og mætti þó gjarnan verða hrakspá.
Að lokum skal hér getið þeirra presta, sem kunnugt er um að þjónað hafi Krýsuvík og setið þar meðan sérstakt prestakall var, en talið er að prestur hafi verið þar allt til 1641. Prestarnir voru þessir: Kálfur Jónsson 1375, Þórarinn Felixson 1447, Guðmundur Steinsson 1525, Björn Ólafsson um 1528 til um 1580, Tómas Björnsson 1586 til um 1602, Bjarni Gíslason 1603, Gísli Bjarnason 1606, Eiríkur Stefánsson 1609.
Eftir að Krýsuvíkursókn var lögð til Strandar í Selvogi þjónuðu þar ýmsir prestar og munu margir enn kannast við nöfn margra þeirra. Má þar til nefna Eirík Magnússon hinn fróða, Jón Vestmann og síðast Eggert Sigfússon. Allir sátu þessir að Vogshúsum. Af síðari tíma prestum, er þjónuðu Krýsuvík um lengri eða skemmri tíma, má nefna Odd Gíslason að Stað í Grindavík, Kristján Eldjárn Þórarinsson að Stað, Ólaf Ólafsson að Vogshúsum síðar fríkirkjuprestur í Reykjavík, og Hafnarfirði og síðast Brynjólf Magnússon að Stað, er síðastur vann prestsverk í Krýsuvík.“ – (Tekið saman í janúar 1961 – Ólafur Þorvaldsson).

Sjá einnig hér frásögn Ólafs Þorvaldssonar um Krýsuvíkurkirkju að fornu og nýju í Alþýðublaði Hafnarfjarðar – jólablað 1961.

Heimild:
Lögberg-Heimskringla, 45. tbl. 22.11.1962, Krýsuvíkurkirkja, Ólafur Þorvaldsson, bls. 4 og 7
Lögberg-Heimskringa, 46. tbl. 29.11.1962, Krýsuvíkurkirkja, Ólafur Þorvalddson, bls. 1, 2 og 7.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1964.

Reykjanesskagi

Ólafur við Faxafen, eins og höfundur nefnir sig, skrifaði um „Hæð sjávarborðs við strendur Íslands“ í tvö tbl. Náttúrufræðingsins árið 1947:

Sjávarhæð

Sjávarhæð – mismundur.

„Landið stendur ekki kyrrt, það hækkar og lækkar undir fótum vorum. Það gerir það nú, það gerði það fyrir hundrað árum, fyrir tvö hundruð árum, og hefur sennilega gert það frá landnámstíð, ef það hefur þá ekki alltaf annað slagið dúað og vaggað, síðan þurrt land varð á þessum hluta jarðaryfirborðsins, sem nefndur er Ísland. Það er tvisvar stórstreymt og tvisvar smástreymt á hverjum tunglmánuði, alls staðar þar sem sjávarfalla gætir á jörðinni. Og hér við land, (en þó ekki hvarvetna á Iinettinum, þar sem munur er flóðs og fjöru) stígur sjórinn tvisvar og fellur á sólarhring. En þó að stórstraumsflóð séu misjafnlega mikil, aðallega af mismunandi ólgu sjávarins og áhlaðningi við land, breytist meðalhæð stórstraumsflóða ekki, miðað við ströndina, nema annað komi til. En af því að Ísland ýmist hækkar eða sígur, þó að hægt fari, þá hlýtur efsta fjöruborð að breytast í samræmi við það. En fjöruborðið hér við land er að breytast á ýmsa vegu. Því svo fjarri er það, að Foldin hreyfist alls staðar jafnt, að hún er sumsstaðar að síga, en rís á öðrum stöðum.
En hér verður rætt eingöngu um þær breytingar, er stafa af hreyfingu lands, og aðallega þær breytingar, sem eru að verða nú á vorum dögum. Nokkuð verður þó að seilast aftur á bak, jafnvel til landnámstíðar. En um sjávarborð, sem eru eldri en byggð landsins, verður ritað síðar og sér.
Þó að allnákvæmlega sé hér sums staðar frá sagt, er langt frá, að hér séu öll kurl látin til grafar koma — ekki einu sinni sviðið í hverri gröf.

Landnám Ingólfs

Þorlákshöfn

Gægst um í Þorlákshöfn.

Verður nú byrjað á landnámi Ingólfs austanverðu og haldið vestur með landi. Náði landnám hans í fyrstu að Ölfusá, er feður vorir nefndu Hvítá. Fellur áin nú til sjávar úr austurkrika lóns þess, er hún myndar við sjóinn. En ósinn var á landnámstíð nálægt miðri sandeyrinni, sem er framan við lónið og mun hafa verið nefndur Álfsós.

Víkarskeið

Víkarskeið – gleymt örnefni við Ölfusárósa.
Ós árinnar hefur hlaupið til og frá í tímans rás.

Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns — hér eftir til hægðarauka nefnd bara Jarðabók — getur ýmissa jarða í Ölfusi, er spillzt hafa af sjávarflóðum. En þeim verður sleppt hér, því betur á við að geta þeirra, þegar kemur að flata landinu, austan Ölfusár. Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, er þeir tóku saman á árunum 1702 til 1712, en ekki var prentuð fyrr en liðlega tveim öldum síðar. Hafa 1.—9. bindi verið prentuð í Kaupmannahöfn á árunum 1913 til 1943 og eru ekki enn komin öll.
Eini bærinn í Ölfusi, er stendur við sjálfan útsæinn er Þorlákshöfn, en hún er 6—8 rastir frá þeim bæjum, sem næstir eru. Jarðabók getur þess (ár 1706), að sjávarbrot grandi þar túni. Síðan fara litlar sögur af þess konar skemmdum þar, en landið þar virðist þó hafa verið að síga, því í stórflóðum flæðir inn yfir allan kamp. Varð mest þess konar flóð þar fyrir um 20 árum (að líkindum 1925).
Á þessum slóðum gerist ströndin klettótt, en endar sendna ströndin, er nær, svo að segja óslitin, meðfram landinu að sunnanverðu, austur undir Berufjörð.

Selvogur

Selvogur

Selvogur.

Engin byggð er í vestur frá Þorlákshöfn, fyrr en komið er í Selvog, og eru þarna um 15 rastir milli bæja. Selvogurinn er sérstakur hreppur, og eru þar aðallega tvær byggðir, auk nokkra einstakra bæja.

Selvogur

Selvogur – Nesborgir. Borgirnar eru nú nánast komnar undir kampinn.

Jarðabók (ár 1706) getur, að sjór grandi að framan túnunum á Nesi og Bjarnastöðum, og er líkt sagt um túnin í Götu og Þorkelsgerði. Um Bæjarbúð er sagt, að lendingin sé orðin ónýt, um Eimu, að sjór brjóti framan af túni, og um Vindás, að sjórinn sé búinn að brjóta svo af túninu, að bænum sé varla óhætt lengur. Voru bæði Eima og Vindás komin í eyði fyrir 1750. Um Snjóthús er sagt í Jarðabók, að sandur og sjávargangur spilli þar túninu ár frá ári, og um Sauðagerði, að sjávargangur skemmi árlega meir og meir túnið og sé nú svo komið, að hvorki sé óhætt húsum né mönnum og hafi fólkið oft þurft að flýja úr bænum í stórbrimum. Snjóthús og Sauðagerði voru bæði komin í eyði, þegar séra Jón Vestmann ritaði sóknarlýsingu Selvogs 1840 (en ekki er fullkunnugt, að það hafi allt verið Ægi að kenna, því að sandfok af landi hefur líka verið mikið í Selvogi).

Herdísarvík

Herdísarvík. Sjórinn hefur rofið grandann milli sjávar og Tjarnarinnar.

Vestasti bærinn í Selvogshreppi er Herdísarvík. Um hana segir Jarðabók, að tjörn, sem sé hjá bænum, grandi túninu, því að hún fyllist af sjávargangi, svo að bænum sé ekki óhætt fyrir flóði tjarnarinnar. Síðan hafa þar oft komið stór flóð, eitt þeirra skömmu eftir aldamótin og annað á fyrri stríðsárunum eða rétt á eftir. Tók þetta síðarnefnda flóð af bæinn, sem sennilega hefur staðið þarna frá landnámstíð. Að minnsta kosti er ólíklegt, að hann hafi verið fluttur nær sjó þaðan, sem hann fyrst var byggður. En vafalaust hafa mörg stærri flóð komið en þetta og hefðu tekið bæinn fyrr, hefði landið ekki staðið hærra þá.
Selvogur er enn að lækka. Má sjá það á því, að sker koma minna upp úr en áður, og á því, að kampar færast upp á við. Hefur sjór verið að brjóta f járborgir, sem byggðar hafa verið nokkuð fyrir ofan sjávarmál (til skjóls fyrir sauðfé, sem beitt er á fjöruna) í mikla flóðinu, sem kom fyrir liðlega tuttugu árum, braut sjórinn aðra af tveim fjárborgum í Nesi. Sjórinn er nú að brjóta þar fjárborg, og er sagt, að það sé sú, sem eftir stóð árið 1925.

Grindavík

Grindavík

Grindavík.

Frá Herdísarvík er engin byggð við sjó, fyrr en komið er að austasta bænum í Grindavíkurhreppi, og er sú vegalengd um 25 rastir, og er á þessari leið hið nafnkunna Krýsuvíkurberg.
Ísólfsskáli er þar austast við sjó.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – túnakort 1918 sett yfir nýlega loftmynd. Gamli brunnurinn er kominn undir kampinn. ÓSÁ

Getur Jarðabók þess (ár 1703), að vatnsból, sem þá er grafinn brunnur, sé háskalegt bæði mönnum og skepnum, enda sjórinn þá kominn svo nærri, að hætta sé á, að brunninn fylli af möl og grjóti, og þá jafnvel hætta á, að jörðin leggist í eyði af vatnsleysi. Svo illa hefur þó ekki farið. En að sjórinn hefur gengið upp í brunninn og fyllt liann, má sjá á því, að séra Geir Bachmann getur þess árið 1841, að mikill vatnsskortur sé á ísólfsskála og ekki annars kostur þar en fjöruvatna og sé það vatn haft bæði til neyzlu heimilisfólks og búpenings. En fjöruvötn eru nefndar þær uppsprettur, einatt aðeins seytlur, sem koma upp fyrir neðan flóðmál og ekki er hægt að ná til nema um fjöru. (Geir Bachmann: Lýsing Grindavíkursóknar 1840—41.) Líka getur séra Geir þess, að sjór brjóti land á ísólfsskála og sandur frá sjónum sé farinn að berast upp í selalátur jarðarinnar undir Festarfjalli og spilla þeim.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli.

Frá Ísólfsskála eru 4—5 rastir til hinnar eiginlegu Grindavíkurbyggðar, því að björg eru með sjónum, svo að ekki verður farin stytzta leið, heldur verður að fara kringum Festarfjall.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – brak.
Sjórinn hefur brotið framan af Nesinu.

Jarðabók (1703) getur þess, að sjór brjóti af túninu á Hópi, svo og land Þorkötlustaða, einkum hjáleigunnar Bugðungu, og sé hætt við enn meira landbroti. Fór það og svo, því að eitthvað liðlega 100 árum síðar, þurfti að flytja tvær hjáleigur Þorkötlustaða, sem voru í landsuður að sjá frá bænum, hærra upp á túnið, því að svo nærri þeim var sjórinn þá farinn að ganga. Var önnur þessara hjáleigna Bugðunga (Bullunga), en hin var Klöpp.
Selalátur hafði verið syðst í Þorkötlustaðanesi, en séra Geir segir (1841), að selurinn hafi „vegna brims og uppbrots á landið yfirgefið látrin“. Vera má, að fleira kunni að liafa komið til en landbrotið, að selurinn fór, en það skiptir engu máli. Aðalatriðið er, að séra Geir er kunnugt um, að þarna hefur brotið svo mikið land, að hann álítur það næga skýringu.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir.

En um 40 árum áður en séra Geir ritaði lýsingu Grindavíkur, hafði sjórinn gert mikinn usla á prestsetrinu Stað: skemmt þar tún, brotið mikið land og tekið alveg af tvær hjáleigur, er liétu Sjávarhús og Litlagerði. Sópaði þá burt öllum jarðvegi, þar sem Sjávarhús höfðu staðið, svo að þar var ekki annað eftir en ber klettur. „Fellur nú sjór á milli klettsins og naustanna í hverju stórstraumsflóði,“ segir séra Geir og ennfremur, að þar, sem Litlagerðishúsin stóðu, sé nú hár og stórgrýttur malarkambur.

Staðarhverfi

Staðarhverfi suðvestan við Grindavík. Litlagerði og Kvíadalur er nú nánast komnir í sjó fram.

Hann lýsir túnunum á prestssetrinu þannig, að þau séu „mikið slétt, og í gróandanum yfrið fögur,“ en þau skemmist nokkuð af sandfoki, og það sem verra sé, að þeim er „af sjávar ágangi líka mikill skaði búinn, af sunnanveðrum og brimi“. Um jörðina Húsatóttir er sagt í bréfi dags. 19. maí 1703, að hún sé skaðvænlegum grjóts- og sjávargangi undirlögð. En séra Geir segir um hana meðal annars: „Milli túnsins og sjávarins er landið mjög lágt, og í sjávargangi gengur löðrið svo að segja alveg upp undir klettana, (sem túnið er á). Hefur jörð þessi mjög liðið við það, því að smágrjót og sandur er nú nægur á láglendi þessu. Muna gamlir menn, að þar hafi verið aligott beitiland, ef ekki líka slægjuland.“ Loks getur Jarðbók Járngerðarstaða, að sjór brjóti nokkuð á land þeirra. Hið sama á sér enn stað í tíð séra Geirs, því að hann segir sjó brjóta þar og bætir svo við: „Ekki eru heldur hjáleigurnar á Járngerðarstöðum fríar fyrir sjávargangi, t. d, eru Hrafnshús, sem áður stóðu milli Akurhúsa og Kvíhúsa, í seinni tíð flutt þangað, sem þau nú eru. Kvíhús standa árlega í miklum voða fyrir sjávaráfalli, og það sama má segja um Akurhús, nema herrann vilji enn meiri miskunn gera.“ Það er að heyra á séra Geir, að hann hafi ekki búizt við neinu kraftaverki þarna, enda mun ekki hafa af því orðið, því að hjáleigan er liðin undir lok.
Um hina fornu höfn í Grindavík segir í sóknarlýsingu séra Geirs (1840): „Á milli Staðar og Húsatótta, þó nær Stað og rétt í austur þaðan, er höfn sú eður skipalægi, er forðum var siglt upp í Grindavík. Eru tveir festarhringir með boltunum, sá að austan og norðanverðu, enn þá óbrjálaðir í skerjum þeim er Húsatóttum tillieyra.

Staður

Staðarhverfi.

En hinn þriðji boltinn, en úr honum er hringurinn farinn, er á Staðarlóð í skeri austur af Sjávarhúsi. Var kaupskip þannig bundið á þrjá vegu, en atkerum varpað fram af því, og horfði svo á sjó út í landsuður.“ Tvö þessara skerja eru nú alvaxin þangi og eru mjög lág að sjá, þó að enn komi þau upp um fjöru.

Staðarhverfi

Kvíadalur.

Segir séra Brynjólfur Magnússon í Grindavík (1947), að segja megi um Staðarhverfið (og eiginlega allt byggðarlagið), að sjórinn smámylji niður landið og megi svo að segja árlega sjá mun einhvers staðar, þó að mest beri á þessu í stórflóðum, því að þá beri sjórinn kampinn hærra, og mest í flóðinu mikla, er kom 1925. En í því flóði braut víða stór skörð, er sjá má með allri ströndinni, en kampinn rak flóðið á undan sér nokkuð upp á tún. Nokkur hús lögðust þá í eyði, en sjórinn gekk eftir þetta svo upp í naustin, að nauðsynlegt þótti að steypa varnargarð fyrir framan þau.
Byggð er ekki önnur en sú, er lýst hefur verið, á allri ströndinni frá Þorlákshöfn til Reykjaness , og er vegalengdin um 70 rastir, þó að í lofti sé farið. En við Reykjanes fer landið að ganga sem næst beint til norðurs. Er vesturströnd þessa mikla útskaga 30 rasta löng norður á tá Garðskaga, en syðsti þriðjungur hennar er óbyggður frá fornu fari. Voru þarna enn tíu rastir með sjó óbyggðar frá Stað í Grindavík til Kalmanstjarnar í Höfnum, áður en Reykjanesviti var reistur.

Hafnir

Hafnir

Hafnir.

Fyrir um að bil 100 árum ritar Brandur Guðmundsson, að þurft hafi að fækka kúm í Kirkjuvogi og Kotvogi, af því að tún hafi gengið úr sér, meðal annars vegna sjávar landbrots, og um líkt landbrot talar hann í Junkaragerði. (Brandur Guðmundsson hreppstjóri: Lýsing á Höfnum.) Árnagerði er þá komið í eyði, og segir Brandur, að orsökin hafi verið sandfok frá sjó og landbrot.

Miðneshreppur

Stafnes

Stafnes.

Enn kemur nokkurt óbyggt svæði, þar til komið er að byggðu bóli í Miðneshreppi (eða Rosmhvalahreppi, er svo hér til forna. (Rosmhvalur þ. e. rostungur).
Segir Jarðabók, að sjötíu árum áður en hún er rituð hafi á jörðinni Stafnesi verið land það, er Snoppa (eða Snapa) var kallað, hafi það verið að stóru gagni til slægna og einnig verið notað til skipauppsátra, en nú sé það „af sandi aldeilis yfirfallið og með hverri stórflæði næstum því yfirflotið af sjó.“

Stafnes

Stafnes – örnefni. ÓSÁ.

En um túnin er sagt, að þau spillist ,,æ meir og meir af sandi og sjávargangi.“ Um hjáleigurnar þetta: Refakot fór í eyði 1663, og huldi sjórinn síðan allt túnið möl og sandi. Líklegast hefur það verið sama árið, sem Litla-Hólmahús fór í eyði, af því að sjór tók af graslendi það, er því fylgdi. Af sjó og sandi lagðist Halldórshús í eyði 1697 og sama ár Grímuhús vegna skemmda af sjávargangi. En fimm árum síðar var bæjarstæðið, þar sem Grímuhús hafði verið, brotið alveg af. Árið 1701 reisti maður, sem mun hafa heitið Steinn, sér nýbýli, er nefnt var Steinskot, í Stafneslandi. En tveim árum síðar braut sjórinn meiri hlutann af túninu þar. En eitthvað um 140 árum eftir að Jarðabók er rituð, segir sr. Sigurður B. Sívertsen um Stafnes, að það hafi áður verið 143 hundraða jörð,en hafi nú verið sett niður í 30 hundruð. (Sigurður B. Sivertsen: Lýsing Útskálaprestakalls 1839. Prentuð í Sýslulýsingum og Sóknalýsingum, Reykjavík 1937-39.)
Bætir svo við „má þar af sjá, hvað stórlega sú jörð hefur af sér gengið og gengur enn í stórflóðum af sandi og sjávarágangi.“
Um jarðirnar Lönd og Busthús er þess getið, rétt eftir 1700, að túnin skemmist af sjávargangi, og aftur 1839, um hina fyrrnefndu, að hún verði „fyrir sjávarbroti.“

Básendar

Básendar

Básendar.

Verzlunarstaðurinn Básendar var í fyrstu nýbýli úr Stafneslandi. En höfnin þar er vík, sem skerst um 600 stikur inn í landið til norðausturs. Er hún um 300 stikur á breidd fremst, en mjókkar, og er innri hluti hennar um 130—150 stikna breiður. Skerjaröð, sem er um 500 stikur, er fyrir framan víkina og nokkuð suður með landi, svo að leið inn á höfnina er krókótt. Verður fyrst að nálgast land um 500 stikum sunnar en víkin er opin, en síðan, þegar komið er austur fyrir skerin, halda til norð-norðvesturs, þó að víkin liggi til norðausturs, eins og fyrr var frá greint.

Básendar

Básendar. Land, sem áður var gróið, er nú nánast horfið.

Tvö skip gátu legið þarna í einu, ef þau voru vágbundin, en til þess voru hringir festir þarna í klettana. Lá þá það skipið, er utar var (á Ytri-Leið), á 9 stikna dýpi, við tvær taugar fram af, og lá önnur í austurlandið, en hin í sker þar beint vestur af. En aftur af skipinu var taug til noðurlandsins. En það skipið, er á Innri-Leið lá, var á 5 stikna dýpi og lá við fjórar taugar, tvær fram af, en tvær aftur af. Lágu stjórnborðstaugarnar til norðurlandsins, en á hitt borðið lágu þær til suðurstrandarinnar.
Segir Skúli Magnússon (árið 1784), að þegar mjög sé stórstreymt, hafi það borið við, að sjór hafi flætt inn í verzlunarhúsin á Básendum, en það hafi þó ekki valdið verulegu tjóni. En fimmtán árum síðar, nóttina milli 8. og 9. janúar 1799, verður mikla flóðið, sem nefnt hefur verið Básendaflóð og víða gerði mikinn skaða, bæði sunnan og vestan lands, en mestan þó á Básendum. Fórst þar ein gömul kona, sem ekki trúði fyrr en um seinan, að hætta væri á ferðum. En verzlunarhúsin tók alveg af. Voru þau þrjú talsins og stóðu 50—120 stikur frá fjöruborðinu inni undir botni vogsins norðanvert við hann. Engin byggð hefur verið í Básendum síðan.

Másbúðir

Másbúðir

Másbúðir.

Um jörðina Másbúðir fyrir norðan Hvalnes segir Jarðabók: „Túnið fordjarfast stórkostlega af sands- og sjávargangi, og hefur sjórinn síðustu sjötíu árin (þ. e. frá því um 1630 til 1700) brotið sig gegnum túnið á tvo vegu, þar sem áður var svarðfast land, svo nú stendur bærinn á umflotinni eyju, og fer þetta landbrot árlega í vöxt, svo þar er ekki fært yfir í stórstraumsflæði nema um brú, sem sjórinn brýtur um vetur.“

Másbúðarhólmi.

Másbúðarhólmi var áður landfastur.

Másbúðir entust þó lengur en á horfðist, því að það var ekki fyrr en um 56 árum eftir að Tarðabók er tekin saman, að bæinn tók af, að því er séra Sigurður B. Sivertsen segir, er getur um viðburðinn 80 árum síðar. Land Másbúða heyrir nú undir Nes (eða Nesjar), er áður var hjáleiga, og myndi Másbúða-nafnið gleymt, ef ekki væri þarna sund og lítill hólmi, er enn heita Másbúðasund og Másbúðahólmi.
Um Býjasker segir Jarðabók (1703), að tún gangi af sér af sandi og sjávargangi og hafi bóndinn þar orðið að leggja tún tveggja hjáleignanna undir sig (en þær mun u þá liafa verið sjö). Hjáleigan Glæsir var þá búin að vera í eyði frá því um 1620, og var ekki talið hægt að byggja hana upp aftur, því að sjórinn hafði brotið af túnstæðið og borið upp stóra sandhauga. Líka er getið þar um Flankastaði og Sandgerði, að tún spillist af sandi og sjó, en það er tekið fram um Sandgerði, að það sé ekki til stórmeina enn. En í Sandgerði og hjáleigum þess áttu þetta ár (1703) 26 manns heima samtals. En 1839 segir séra Sig. B. Siv. um Sandgerði: „Sjór brýtur þar og á Flankastöðum í stórflæðum og gerir skaða á túnum og görðum.“

Sandgerði

Sandgerði.

Um jörðina Fitjar er sagt 1703, að tún spillist af sjávargangi. Á þessum slóðum er nú ekkert, er sjá megi á, af hverju jörðin hefur nafn dregið, og munu sjávarfitjar þær, er hún heitir eftir, fyrir löngu vera komnar undir sjó. Um Lambastaði er sagt, að sjórinn hafi gert þar svo rækilegan usla, að þurft hafi að flytja bæinn, sé sjór enn að færast nær og hafi brotið á ný svo mikið og sé kominn svo nálægt bænum, að varla megi kalla, að skepnum og heyjum sé óhætt. En 1839 segir séra Sig B. Siv. um Lambastaði, að tvær af þrem hjáleigum þeirra séu komnar í eyði, brotnar af sjó og það svo gersamlega, að ekki sjáist nein. merki eftir þar, sem þær voru, og gangi jörðin mikið af sér af „sjávargangi og sjávar landbroti“. Hann segir, að Lambastaðir hafi sérstaka vör og sé þar útræði mikið, oft mörg aðkomuskip og bátar af suðurnesinu, „þegar þar ekki gefur og fiskur ei fyrir“. En þetta hefur breytzt mikið á þeim 100 árum, sem liðin eru frá því, er séra Sigurður ritaði þetta, því að búið er að flytja bæinn ofar, vörin brotin alveg af upp í túngarð og útræði þarna ekkert.

Kirkjuból

Kirkjuból – grafstæði. Sjórinn hefur verið að grafa sig inn í kirkjugarðinn.

Milli Fitja og Lambastaða er Kirkjuból. Um það segir séra Sigurður, að það hafi verið 67 hundraða jörð, en sé nú að mestu komið í eyði og hafi bærinn verið fluttur fyrir tveim árum heim á eina hjáleiguna (að nokkru leyti af skemmdum, sem ekki stöfuðu frá sjó).
Frá því sagt var hér á undan frá Stafnesi, syðsta bænum í Miðneshreppi, hefur byggð verið nær óslitin norður með sjó, og er nú komið fyrir nokkru inn í Gerðahrepp (en hér eru engin eðlileg takmörk milli hreppa) og norður á tá Garðsskagans. Gengur land nú til suðausturs.

Gerðahreppur

Gerðahreppur

Gerðahreppur.

Um Útskála segir Jarðabók: „Túnin spillast af sjávargangi, sem brýtur garðana, og af sandi, sem sjór og vindur ber á.“ Um 80 árum seinna ritar Skúli fógeti, að sjávargangur brjóti þar af túnum. Og enn, 60 árum eftir það, ritar séra Sigurður B. Sivertsen: Undir Útskála heyra 7 hjáleigur, en áður voru býlin 12, þar á meðal jörðin Naust, og var þar þríbýli 1759. En sjór braut svo þar á, að Naust voru óbyggileg ár 1762 og eyðilögð með öllu 1782. Þar, sem tún þessarar jarðar var fyrrum, heitir nú Naustarif. Gengur sjór þar alltaf yfir, og er þar ekki nema grjót og möl. En um Útskála sjálfa segir séra Sigurður: „Mælt er, að staðarins tún hafi mikið af sér gengið og tvívegis hafi túngarðurinn verið færður upp á túnin að norðanverðu. Núlifandi elztu menn [þ. e. ár 1839] muna eftir grastóm fremst fram í fjöru, sem sýnir, að fyrrmeir hafi allt það svið verið grasi vaxið og ef til vill tú.n. Hefur sjór þá ekki gengið lengra en að rifi því, sem nú brýtur á, fremst framan við fjörumál (þaragarð).“

Garður

Vatnagarður – loftmynd 2022. Sjórinn brítur ströndina.

Um Gerðar segir Jarðabók, að tún, hús og garðar jarðarinnar skemmist árlega af sjávar- og vatnagangi, því að þar sem menn ættu á þurru landi að ganga, verði stundum skinnklæddir menn að bera kvenfólk til nauðsynlegra heimilisverka innanbæjar og utan, þegar vetrarleysingar og sjávargangur hjálpist að, og sé stórt mein að þurfa jafnoft að byggja garðana upp aftur og bera sand og grjót af túninu.
Um aldamótin síðustu lét Finnbogi Lárusson í Gerðum gera þar fiskreit. (Skúli Magnússon landfógeti: Lýsing Gullbringu- og Kjósarsýslu. Rituð á dönsku á árunum 1782—84 til þess að sýna stjórninni fram á, að fátæktin og eymdin sé hvorki landinu eða þjóðinni að kenna, heldur einokuninni. Þýtt og prentað á íslenzku, Reykjavík, 1935—36.) Stendur hann óhaggaður, en það flæðir nú yfir hann um hvert stórstraumsflóð.
Um Gauksstaði segir Jarðabók, að sjórinn spilli túnum, görðum og hjöllum, og um Meiðastaði, að sjór grandi þar túni að neðan og hafi þrisvar á 30 árum orðið að færa naustin lengra upp á túnið.

Garður

Garður – kort 1903.

Þá segir og í Jarðabók, að góðir menn segi, að heyrt hafi þeir getið, að í þessari sveit hafi til forna verið tvær jarðir, sem hétu Darrastaðir og Stranglastaðir eða Straglastaðir, viti enginn, hvar þessar jarðir hafi verið, en þeirra sé getið í gömlum rekaskiptamáldaga Rosmhvalaneshrepps [er áður náði yfir núverandi Gerðahrepp] og standi þær þar í þeirri röð jarðanna í Garði, að ætla megi, að það séu hinar sömu, sem nú (1703) séu nefndar Kothús og Ívarshús, en hvorugt þetta nafn sé nefnt í gamla máldaganum.
Um jarðirnar í Leiru segir Jarðabók, að sjór grandi túni á Stóra Hólmi og brjóti svo neðan af túninu á Litla Hólmi, að þar hafi tvisvar á níu árum þurft að færa naustin lengra upp. Um Hrúðurnes er tekið fram, að lendingin sé góð, en sjávargangur „túnum og húsum til stórmeina“. Skúli fógeti getur þess líka (1784), að brotni af túni á Stóra Hólmi, og ennfremur, að jörð þessi verði fyrir ágangi af svörtum sandi, en á jarðirnar vestan við Skagann og alla leið að Útskálum sé ágangur af gráum eða hviileitum sandi, og komi hvor tveggja sandurinn, svarti og grái, úr fjörunni.

Leiran

Leiran – loftmynd.

Séra Sigurður segir um Hrúðurnes (1839), að bærinn hafi áður staðið nær sjó, en verið fluttur lengra upp vegna sjávargangs, hafi sjór þá áður brotið hjáleigu, sem undir jörðina lá.
Kunnugur maður segir svo frá: Þegar Garðskagavitinn var byggður, var langur, grasivaxinn tangi norður af honum. Nú er grasið löngu horfið og flæðir sjór nú þarna yfir í hverju flóði. En vitinn hefur verið færður ofar en hann var áður. Sjórinn gengur á við Síkið, og verður sú tjörn bráðum ekki til. Verður þarna þá aðeins rif, líkt og það, sem er þarna fyrir framan og mun vera leyfar tjarnar, sem þarna hefur verið enn framar.
Þar sem skip eru sett upp á flatar klappir, kemur far eftir í klappirnar. Þess konar för má sjá við Útskála í klöppum, sem eru nú svo neðarlega, að þær koma ekki upp nema um stórstraumsfjöru.

Keflavík og Njarðvíkur

Keflavík

Keflavík.

Þegar Jarðabók er rituð (1703), var Keflavík hjáleiga (ein af mörgum) frá Stóra-Hólmi og kóngseign eins og hann. Var afgjaldið 50 kg af harðfiski, sem skila átti í kaupstað landeiganda að kostnaðarlausu.

Bergsendi

Eystri-Bergsendi – útsýni til vesturs.

Íbúar í Keflavík voru þá samtals 6 (sex). Það fara því litlar sögur af Keflavík á fyrri tímum. En þegar Skúli Magnússon fógeti ritar lýsingu sína á Gullbringu- og Kjósarsýslu 1784, eru þar 4 kaupmannabúðir, 16 timburhús og íbúar 120. Má vera, að eitthvað mætti ráða af uppdráttum frá þeim tímum um breytt sjávarborð. En kunnugt er, að frá því um síðustu aldamót hefur orðið þar mikil breyting, og eru nú sums staðar berar klappir, sem sjór þvær um í hverju stórstraumsflóði, þar sem áður voru bakkar, sem sjávarhús stóðu á. Um Ytri-Njarðvík er sagt 1703, að sjór brjóti svo þar tún, að tvisvar hafi þurft að færa (það) á 17 árum. Landið gengur héðan til austurs.

Vatnsleysustrandarhreppur

Vatnsleysustrandarhreppur

Vatnsleysustrandarhreppur.

Þegar komið er fram hjá Vogastapa er svo að segja óslitin hraunströnd, þar til komið er inn undir Hafnarfjörð. Er sú vegalengd fullar 20 rastir, þó að farin sé skemmsta leið yfir holt, hæðir og víkur.
VogarJarðabók getur þess (1703), að sjávargangur spilli Vogunum, brýtur tún í Minni-Vogum, en um Stærri-Voga er kvartað undan, að skemmdirnar aukist þar ár frá ári. Einnig er sagt, að skemmdir fari í yöxt á Brunnastöðum, þ. e. sjórinn brýtur túnið og ber á sand. Þá er talin hjáleiga frá Brunnastöðum, Tangabúð, sem sjórinn sé að brjóta af, og mun hún hafa farið í eyði. Hjáleiga frá Stóru-Ásláksstöðum, sem hét Atlagerði, var líka að skemmast um þessar mundir. Er hún horfin, en enn heitir þar Atlagerðistangi.
Byggð er hér samhangandi á 5—6 rasta svæði meðfram ströndinni, og segir Jarðabók ennfremur frá skemmdum af völdum sjávarins á þessum jörðum: Hlöðunesi, Stóru- og Minni- Ásláksstöðum, Minna og Stóra-Knarrarnesi, Breiðagerði, Auðnum, Landakoti, Þórustöðum, Kálfatjörn, Bakka, Flekkuvík, Minni-Vatnsleysu (en ekki Stóru Vatnsleysu).
Jarðabók getur um forna jörð, Akurgerði, sem sé búin að vera í eyði frá því fyrir 1600. Álítur séra Pétur Jónsson, (1840), að Akurgerði muni hafa verið innst í Vatnsleysuvíkinni, innar (austar) en Kúagerði. (Pétur Jónsson: Njarðvíkur og Kálfatjarnarsóknir 1840.) Um Vogavík, sem er austan við Vogastapann (eða Kvíguvogabjörg, er forðum hétu), segir séra Pétur, að hún lengist hvað af öðru upp með Stapanum, því að þarna sé flatur sandur. Og mun hún enn vera að lengjast (1946). En um ströndina yfirleitt í Vatnsleysustrandarhreppi segir hann: „Sjórinn brýtur af túnum og landi,“ og munu þau orð hans einnig eiga við enn í dag.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður.

Hvaleyrargrandi er nefnd eyri, sem nú flæðir yfir og er sunnan megin fjarðarins inn með bænum (til austurs), og mun bilið milli hennar og landsins fyrir sunnan hana vera höfn sú, er Hafnarfjörður dregur nafn af. Voru verzlunarhúsin fyrst á eyri þessari. En á 17. öld er farið að bera svo mikið á því, að sjór gangi á eyrina, að óráðlegt þótti að hafa þau þar lengur, og voru þau flutt árið 1677 austur fyrir fjörðinn og reist á túni Akurgerðis, sem þá var hjáleiga frá Görðum.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – herforingjaráðsuppdráttur 1909.

En um höfnina við grandann segir Skúli fógeti 1784: „Sunnan megin fjarðarins fyrir ofan áður nefndan Hvaleyrargranda er lítil höfn, 225 faðma breið og nefnd Hvaleyrartjörn. Á henni liggja fiskiskúturnar á vetrum, lausar við sjógang með öllu. Fyrir innan Skiphól er dýpið í höfn þessari 8—9 fet, en fyrir utan hann 9 1/2—12 fet.“ (Eftir ísl. útgáfunni.) En Akurgerðistúnið var lítið hærra en eyrin, sem flúið var frá, og þegar Skúli fógeti ritar um þetta (sem var 107 árum eftir að húsin voru flutt), þá er sjórinn farinn að flæða upp í þau, þegar stórstreymt er. Og þegar séra Árni Helgason ritar um þetta, 58 árum á eftir Skúla, segir hann Akurgerðistúnið komið í sjó (sjá síðar). (Árni Helgason: Lýsing Garðaprestakalls 1842.) Á þeim liðlega hundrað árum frá því húsin voru flutt, þar til Skúli fógeti ritar, hafði sjávarhæð breytzt það, að sjórinn var sumsstaðar farinn að flæða yfir Hvaleyrargranda, þegar stórstreymt var.
Þegar landmælingar voru gerðar í Hafnarfirði, 1903, flæddi yfir mestan hluta hans. Samt var breiddur fiskur á honum, og mátti sjá þar á sumrin 2—3 fiskstakka fram undir 1910, en nú flæðir yfir hann allan. Hann er sýndur ofansjávar (en nokkuð mjór) á sjókorti, sem birt er í lýsingu hafna (Löwenörns) á suðvesturhluta landsins, eftir mælingum H. E. Minors skipstjóra, er mældi hér strendurnar í tvö ár, en drukknaði í Hafnarfirði þriðja árið, vorið 1778. (Beskrivelse over den islandske Kyst o. s. frv., Kjöbenhavn 1788.)

Garðahreppur

Garðahreppur

Garðahreppur.

Jarðabók getur þess ekki, að sjór sé neitt ásælinn við Lónakot, vestasta bæinn í hreppnum. En um sjötíu árum síðar (1776) eyddist það af sjávargangi. Segir Skúli fógeti, að sjórinn hafi þá rifið grassvörðinn af túninu og fyllt vörina“ og húsin af grjóti og möl. Var Lónakot þá álitið með öllu óbyggilegt og var í eyði um tvo mannsaldra.
Nú er komið að Straumi. Segir Jarðabók um Óttarsstaði, að sjór brjóti eitt hjáleigulandið, um Lambhaga, að túnin skemmist árlega af sjávaryfirgangi, og fari það sífellt í vöxt. (Er þessi hluti Garðahrepps fyrir sunnan Hafnarfjörð.) Af jörðum í Garðahverfi getur Jarðabók einkum um fimm, er sjór brjóti, Dysjar, Bakka, Hlíð, Sandhús og Lónshús, einkum þó Bakka, því að þar spillist túnið svo stórlega, að það hafi þurft þrisvar að færa bæinn frá sjónum, og sé þar þó enn svo illa statt, að það „sýnist sem að túnið, mestan part, muni með tíðinni undir ganga“.

Bessastaðahreppur

Álftanes

Bessastaðahreppur.

Eftir því sem Jarðabók skýrir frá (1703), er sjórinn að brjóta eða á annan hátt aðskemma margar jarðir á Álftanesi. Hlið: Tún jarðarinnar brotnar af sjávargangi, sífellt meir, og er hið sama sagt um þrjár hjáleigur þar. Möishús: Þar grandar sjávargangur túninu á tvo vegu. Skógtjörn: Sjórinn brýtur engi, og fer það ár eftir ár í vöxt. Brekka: Sjór spillir túninu og gerir jafnframt usla á hjáleigunni Svalbarða. Sviðholt: Sjávargangur spillir túni. Deild: Sjávargangurinn þar svo mikill, að varla er óhætt mönnum og fénaði fyrir stórflæðum, „og hafa menn fyrir þessum háska í þrjár reisur flúið bæinn“. Báruseyri: Brýtur á tvo vegu tún. Akrakot: Túnskemmdir af sjó. Breiðabólstaður: Sjórinn brýtur af landinu og ber sand á tún. Kasthús: Sjórinn skemmir. Bessastaðir: Túni ð brýtur að sunnan verðu Lambhúsatjörn, er gengur úr Skerjafirði. En norðanvert á Bessastaðalandi ganga flæðiskurðir úr Bessastaðatjörn og brjóta haglendið. Selskarð: Sjórinn spillir túnum.

Álftanes

Álftanes – kort frá 1796.

Skúli fógeti segir (1784), að túnin á Álftanesi hafi langflest minnkað verulega af sjávargangi.
Það er fróðlegt, að séra Árni Helgason, sem ritar nær sex áratugum á eftir Skúla, segir mikið til hið sama. Kemst hann svo að orði, að sjór sé smátt og smátt að þoka sér á landið og nuddi af bökkum og túnum meira eða minna á hverju ári, og að allar jarðir, sem tún eigi að sjó, verði að kalla árlega fyrir skemmdum á þeim af sjávargangi. Þannig sé Akurgerðistún, sem verzlunarhúsin í Hafnarfirði voru flutt á 1677, allt horfið, og að mestu leyti af völdum sjávar.
Báruseyri hafi tvívegis verið færð frá sjó (og að því er virðist á þeim 16 árum, sem hann hefur dvalizt á þessum slóðum). Fóðri þessi fyrrum 24 hundraða jörð nú aðeins eina kú. Engi, sem legið hafi undir Svalbarða, sé á síðustu árum orðið ónýtt og Bakkatún mikið skemmt.
Sandhús í Garðahverfi séu að mestu leyti farin í sjó, þótt leifar sjáist af þeim. En um þessa jörð segir Jarðabók 139 árum áður: Túnin skemmast á hverju ári stórlega, og hefur ábúandinn mikið ómak af því á hverju ári að bera og láta bera af sandinn. Árið 1701 hafi sjórinn varpað upp svo miklum sandi, að sýnilegt þótti, að bóndinn yrði ekki þess megnugur að ráða bót á, og hafi þá umboðsmaður konungs á Bessastöðum fyrirskipað nábúum hans að hjálpa honum. Samt brjóti sjávargangur árlega æ meir af jörðinni.

Álftanes

Álftanes 2021.

Landnorðan á Álftanesi var við Skerjafjörð (gegnt Skildingarnesi) hafskipahöfn, sém hét Seilan. Um hana ritar Björn á Skarðsá og segir frá því, að þegar fréttist til Tyrkjans 1627, hafi höfuðsmaðurinn á Bessastöðum sent eftir dönsku kaupförunum, er í nágrenninu voru. (Tyrkjaránssaga Björns á Skarðsa, samin 1643.) Komu tvö þeirra og var haldið inn á Seilu. Vofu þar þá þrjú skip, því að skip höfuðsmannsins lá þar fyrir. En er Tyrkir komu á tveim skipum og ætluðu inn á Seiluhöfn, rann annað skipið á grunn. Höfðu þeir sig á brott, er þeir náðu því út aftur.
Eggert Ólafsson getur um Seilu í ferðabók sinni (1757) og segir, að höfuðsmenn á Bessastöðum hafi notað höfn þessa sumarlangt, meðan siður var, að þeir kæmu á skipum, er þeir áttu sjálfir. (Eggert Olafsson: Reise igiennem Island, Soröe 1772.) Segir hann, að skipunum verði að halda inn í höfnina um flóð og það fjari úr mestum hluta hennar, en þarna sé öruggt vetrarlægi meðalstórum skipum og þaðan af minni.
Skúli fógeti ritar 1784: „Hin gamla skipahöfn, Seila, er alveg uppi undir virkinu á Bessastöðum, sem nú er með öllu niður fallið. Þarna er örugg lega handa skipum þeim, er fluttu lénsmenn konungs til Íslands fyrr á tímum og lágu þar að sumrinu til. Innsigling á höfn þessa er torveld og nálega ófær nema með vel kunnugum leiðsögumanni Annars er höfnin rúmgóð, laus við allan meiriháttar sjógang, hefur tvö stór skipalægi á 9 faðma dýpi og sandbotn, sem er þó nokkuð blandinn skeljum. Ég efast ekki um, að tíu skip gætu legið þar yfir veturinn, ef vel væri linað á köðlum, þegar sjógangur er Bessastaðátjörn fyrir innan Seiluna er vetrarlægi fyrir seglskútur og smáskip.“ Höfn þessi er nú ekki lengur til.

Sjávarvíkur, sem heita tjarnir

Hlið

Hlið á Álftanesi.

Á Álftanesi eru þrjár víkur, sem skerast inn frá sjónum, en allar heita þær tjarnir, Bessastaðatjörn, Lambhúsatjörn og Skógtjörn.

Hlið

Hlið – Álftanesi.

Skýringin á þessum nöfnum er sú, að þetta hafa upprunalega verið tjarnir nokkuð frá sjó, en með hækkandi fjöruborði hefur sjórinn brotizt inn í þær, þær orðið sjávarvíkur, en haldið nafninu.
Viðburðir gleymast stundum ótrúlega fljótt, en stundum eru þeir lengi í minnum manna, þar, sem þeir gerðust, ásamt öðrum munnmælum, sem oft eru uppspuni einn. Telur séra Árni Helgason (1842) upp ýmis munnmæli, er þar gangi í sveitinni og honum þyki ótrúleg, en segir svo: „Aðrar sögur segja menn, sem meiri líkindi eru til, að gæti verið satt, að Skógtjörn og Lambhúsatjörn hafi fyrrum verið engi.“ Bendir það á, að það hafi verið alllöngu fyrir tíð séra Árna, að þessi breyting varð, enda má sjá á Jarðabók, að 1703, þegar sá kafli hennar er ritaður, sem segir frá Álftanesi, eru bæði Lambhúsatjörn og Bessastaðatjörn sjávarvíkur. Hins vegar bendir sumt á, að í Skógtjörn hafi þá enn verið ósalt vatn.

Melshöfði

Álftanes

Álftanes – Melshöfði. Gömlu verbúðirnar eru nú komnar út í sjó.

Svo hét nes, er gekk vestur frá bænum Hliði á Álftanesi. Þar voru árið 1703 þrjú hús, og áttu þrjár fjölskyldur heima þar, eða alls 11 manns. En auk þess höfðu Bessastaðamenn þarna sjóbúðir, og voru þar stundum þrjátíu kóngshásetar, því að of langt þótti að róa frá Bessastöðum, þ. e. innan úr Skerjafirði og kringum Álftanesið. Melshöfði er nú gersamlega horfinn í sæ, en suðvestur frá Hliði ganga flúðir og má vera, að þær séu leyfar höfðans, sem átti reyndar eftir munnmælum að vera til vesturs, séð frá bæjarhúsunum á Hliði.

Laug í fjörunni

Laug var í fjörunni undan Hliði. Segir séra Árni, að hún sé í skeri, er verði þurrt um stórstraumsfjöru, og sjáist þá reykurinn úr henni. Eftir því, sem kunnugir menn segja, hefur ekki sézt rjúka úr henni í 30—40 ár. Hún er komin undir sjó.
Um Álftanes hefur landskunnur fræðimaður, Björn i Grafarholti, ritað mér í bréfi: „Hér syðra er sjórinn alls staðar að ganga á landið. Ber mest á því þar, sem láglent er eins og á Álftanesi. Þar er t. d. ekki lengur Bessastaðavík heldur vík, sama um Skógtjörn, hún er horfin. Á norðurhluta Álftanessins eru horfnar í sjó jarðirnar Bárekseyri (Báruseyri), Bakki (?) og Bakkakot. Um 1890 var hjá mér kaupamaður bóndinn í Bakkakoti. Ég kom þá þar, og var um 3 til 4 faðma bil frá bæjarvegg að sjávarbakkanum. Bóndinn í Gesthúsum, nú 76 ára, hefur alið þar allan aldur sinn, segir svo: Þar sem Bakkakot stóð, fellur nú yfir í hverju stórstraumsflóði. Var kálgarður fyrir ofan bæinn, einnig þar fellur nú yfir. Á þeim tíma (um 1890) var þar túnblettur, sem af fengust 25—30 kpl. af töðu, og allt þar til nú fyrir 20 árum, að allt er komið í sand og möl. Sama má segja um mikinn part af engjunum.

Álftanes

Hlið – túnakort 1917.

Þar voru fyrir 20 árum 2 tjarnir, sem ekki voru væðar, nú orðnar fullar af sandi og möl. Um Hlið segir Ólafur í Gesthúsum: „Rétt fyrir mína tíð gaf Jörundur, sem þá bjó á Hliði og var faðir ömmu minnar, hreppnum (þá Álftaneshreppi) svonefndan Sveitarpart, sem var 2 kúa gras. Af parti þessum er nú ekkert eftir, orðin fjara þar, sem hann var áður.“ Hliðsnes, sem var landfast við Hlið, er nú svo brotið, að ekki er eftir nema táin, sem er orðin eyja. Fram af Hliði var Melshöfði, sem nú er horfinn, og mest af Hliðslandi.“

Arnarnes

Arnarnes (MWL).

Ekki getur Jarðabók skemmda í Arnarnesi né Kópavogi. En sjór hefur frá því um 1916 brotið smám saman framan af túninu í Arnarnesi á að gizka hálfa þúfu á ári. Gras var á klettum þar fyrir neðan bakkann, en það er nú farið. Ekki nær Garðahreppur lengra en þetta á þennan veg, en hér mun skroppið snöggvast yfir í Seltjarnarneshrepp. Í Kópavogi hefur brotið land og það svo, að venjulega hefur sézt munur á missirum. Var brotið alveg upp að gamla bænum í Kópavogi, þegar hann var rifinn. Arnarnesvogur og Kópavogur ganga inn úr Skerjafirði, og leggur þangað aldrei inn haföldu og sízt inn í botn, þar sem tveir áður taldir bæir eru. Lækir renna fram í botn þessara voga, og kemur þar lækkun landsins fram á áberandi hátt á því, hve lengra flæðir upp eftir þeim en áður, og eru þarna brýr, sem auðvelt er að miða við. Þriðji vogurinn inn úr Skerjafirði er Fossvogur. Er þar líka þriðji lækurinn og þriðja brúin, og er einnig þarna greinilegt, hve sjórinn teygir sig lengra inn á við. Klettar eru þarna fyrir botni vogsins úr linu bergi, og hefur vogurinn teygzt þó nokkuð inn í landið, frá því vegur, sem ekki er notaður lengur, var lagður yfir Öskjuhlíð og upp á Digraneshálsinn. En það var á síðara helmingi nítjándu aldar, að hann var lagður. En hann lá þannig, að farið var fyrir framan klettana fyrir Fossvogsbotni, og þyrfti nú að sæta sjávarföllum, ef fara ætti þessa leið. Er þessi gamli vegur á hægri hönd, þegar farið er suður Öskjuhlíðarveginn, en á vinstri, þegar farið er upp Digranesháls.

Niðurlagsorð

Þórkötlustðahverfi

Þórkötlustaðahverfi .

Nú hefur verið farið yfir svæðið frá Ölfusá, vestur með ströndinni fyrir Reykjanes, og er nú komið inn með Faxáflóa, að Seltjarnarnesi, og verður þessi áfangi frásagnarinnar ekki lengri að sinni.
Alstaðar hefur verið sama sagan, sjórinn er að brjóta landið. Sumstaðar hefur verið sagt frá því, að þurft hafi að færa bæi undan sjávargangi og marga þeirra oft.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn 1913.

Víst er, að frásagnir gætu verið fleiri, ef skráðar hefðu verið. Bæjargerðin okkar hefur verið þannig, að það þurfti alltaf að vera að byggja bæina upp aftur. Væri sjórinn kominn óþægilega nálægt bænum, þegar þurfti að byggja hann upp, var bærinn byggður lengra frá sjávarbakkanum. En engum datt í hug að kalla það, að það hefði þurft að flytja bæinn vegna sjávarins.
Það var ekki nema þegar þurfti að flytja úr bænum, af því að sjórinn var farinn að brjóta hann, og að þar með var lagt í sérstakan kostnað, að þetta var kallaður flutningur vegna sjávar. Á sama hátt er flutningur túna upp á við, undan sjávargangi, miklu algengari, en í frásögur er fært. Það var ekki nema þegar svo mikið braut af túni á skömmum tíma, að það varð að mestu eða öllu leyti ónýtt, að slíkt varð skráð, eða þegar túnið varð á fáum árum ónýtt af því, að sjórinn bar á það sand og grjót. En hinu veittu menn litla eftirtekt, þótt dálítið bryti árlega framan af túni. Þá var borið í staðinn á móa eða mel ofan við það, og túnið færðist upp. En þau eru mörg túnin, sem þannig hafa skriðið jafnt og þétt upp frá sjónum og bæirnir smátt og smátt fylgt þeim. En breytingin hefur verið svo lítil á hverjum mannsaldri, að eftir þessu hefur varla verið tekið.

Selvogur

Selvogur – fjaran.

Vera má, að einhver myndi vilja spyrja, hvort allt þetta sjávarbrot, sem getið er um í Jarðabók, sé ekki barlómur fátæks almennings, sem hafi óttazt, að þessi yfirheyrsla um kosti jarða myndi
fyrirboði hærri skatta og gjafda. Því er að svara, að sams konar landbrot og lýst er í Jarðabók er enn þann dag í dag á allri þessari strönd, sumpart á sömu jörðunum, sumpart á næstu jprðum. En þegar komið er norður og vestur með landi, þar sem landið bersýnilega er að rísa, hætta líka að heita má allar umkvartanir í Jarðabók, um að sjórinn brjóti land.

Lindarsandur

Lindarsandur neðan Melabergs.

Rétt er að geta, að heyrzt hafa raddir um, að landið væri ekki að síga, hér væri eingöngu um landbrot að ræða. En landbrot getur ekki verið orsökin að sér sjálfu. Það er afleiðing einhvers, en hver er orsökin? Land, sem stendur kyrrt, miðað við sjávarborð, brýtur ekki sýnilega nema nokkrar aldir, því að sjórinn er þá búinn að taka allt, sem hann nær til, og hlaða með því undir sig við ströndina.
Ef sjór gæti haldið áfram að brjóta, væru flest lönd sæbrött nema þau, sem væru að rísa.
En hvaða skýringu væri að finna á því, að landið brýtur hér sunnanlands, aðra en þá, að það sé að síga? En hér hefur verið sagt frá landbrotinu, af því það er tákn þess, sem fram er að fara.
En sannanirnar fyrir því, að landið sé að síga, eru nægar. Sjór flæðir lengra og lengra upp á flatt land, sem enginn man til, að hafi flætt upp á, við voga, þar sem aldrei kemur úthafsalda. Sker, sem ekki flæddi yfir nema í stærstu flóðum, fellur nú allaf yfir. Önnur sker, sem alltaf komu upp um stórstraum, koma nú aldrei upp. Þari færist hærra upp eftir sjávarklettum, og hrúðurkarlabekkurinn hækkar á þeim og á flúðum. Allt eru þetta nægar sannanir þess, að land er að síga, og svo eru loks beinar mælingar, sem sýna það.
Verður frá því öllu skýrt, er tími vinnst til.“

Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn, 1. tbl. 01.04.1947, Hæð sjávarborðs við strendur Íslands, Ólafur við Faxafen, bls. 40-44.
-Náttúrufræðingurinn. 2. tbl. 01.06.1947, Hæð sjávarborðs við strendur Íslands, Ólafur við Faxafen, bls. 57-71.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi.

Herdísarvík

Laugardaginn 15. júní 2013, kl 14:00, var afhjúpað minningarskilti um búsetu þjóðskáldsins Einars Benediktssonar og Hlínar Johnson, síðustu ábúendur í Herdísarvík í Selvogi. Nemendafélagið Grimmhildur, félag HÍ-nemenda (e. mature students) á Hugvísindasviði við Háskóla Íslands, hafði með stuðningi hollvina Herdísarvíkur látið útbúa minningarskiltið.

Einar Ben-229

Sama dag, skömmu síðar, var og afhjúpað örnefna- og minjaskilti sem gönguhópurinn FERLIR hafði veg og vanda að – án þóknunar. Skiltastandurinn var hannaður hjá Martak í Grindavík að beiðni hópsins og myndflöturinn álprentaður hjá Stapaprenti í Keflavík. Á skiltinu er að finna margvíslegan fróðleik sem FERLIR hefur aflað á löngum tíma um staðhætti, tóftir sjóbúða og búskap á jörðinni, bæði með aðstoð örnefnalýsinga og staðbundnum leiðarlýsingum hinna elstu manna, s.s. Þórarins Snorrasonar á Vogsósum og Þórðar Sveinssonar úr Selvogi, er enn muna þá tíð er búskapur var í Herdísarvík. Auk þess veitti Ingólfur Árnason, barnabarn Hlínar góðar upplýsingar um svæðið.

Einar Benediktsson ánafnaði Háskóla Íslands jörðina Herdísarvík, sem í hans tíð var afskekkt. Með tilkomu Suðurstrandarvegar er Herdísarvík komin í alfaraleið. Við það opnast nýir möguleikar til að sinna verndun viðkvæmra sögu- og menningarminja sem þar eru. Uppbygging Herdísarvíkur getur orðið mikilvægt skref í átt til þess að minningu skáldsins sé haldið á lofti.

Á minningarskiltinu má m.a. lesa eftirfarandi: „Hér stendur síðasta heimili þjóðskáldsins Einars Benediktssonar og sómakonunnar Hlínar Johnson. Bæði voru þau sannir heimsborgarar sem fluttu til Herdísarvíkur, í lítið hús við sjóinn í afskektri sveit, þar sem útsærinn er á aðra hönd og klettahamrarnir á hina. Einar ánafnaði Háskóla Íslands jörðina með gjafarbréfi árið 1935.
Einar Benediktsson var fæddur 31. október 1864 að Elliðavatni, sonur hjónanna Benedikts Sveinssonar, sýslumanns og alþingismanns, og Katrínar Einarsdóttur frá Reynistöðum í Skagafirði. Einar nam við Lærða skólann og las síðan lög við Hafnarháskóla. Hann kvæntist Valgerði Zoëga (1881-1955) og varð þeim sex barna auðið. Þau skildu.
Einn þekktastur varð Einar Benediktsson fyrir skáldskap sinn en hann var einnig kunnur sem stórhuga frumkvöðull og lífskúnstner. Hann starfaði sem Hlin johnsson-229lögfræðingur og sýslumaður og var bæði fyrsti dagblaðsútgefandi og fasteignasali á Íslandi. Einar þótti örlátur og gjafmildur gleðinnar maður. Einar Benediktsson hefur verið kallaður „…einhver jötunefldasti andi sem fæðst hefur á Íslandi “ [Guðjón Friðriksson, 2000]. Síðustu átta árin dvaldi hann í Herdísarvík ásamt Hlín. Hér lést hann 12. janúar árið 1940.
Hlín Johnson (f. 16.11.1876, d. 15.10.1965) fæddist að Sandhaugum í Bárðardal. Hún giftist Ingólfi Jónssyni frá Jarlsstöðum í sömu sveit og varð þeim átta barna auðið. Þau skildu. Hlín þótti listagóð saumakona, sem saumaði bæði kven- og  karlmannsföt. Þau Einar og Hlín kynntust árið 1927 og fluttu til Herdísarvíkur í júlí 1932 og tók Hlín við bústjórninni. Hér í Herdísarvík var búskapur með kýr, sauðfé, hænsni og endur. Fiskur var veiddur úr tjörninni og seldur til erlendra sjómanna, ásamt lagnaðarís úr tjörninni sem geymdur var í sérstöku íshúsi [nú horfið] hér á staðnum. Lambakjöt og bleikja var reykt í reykofni og var frægt að gæðum, ekki síður en göróttur landinn sem Hlín bruggaði.
Halldór Laxness lýsti Hlín með þessum orðum: „…lík fornkonu, þolir ekki annað lögmál en sjálfrar sín, og þess vegna fer strandleingjan og fjallið og einveran og úthafið henni best“ [Björn Th. Björnsson]. Hlín bjó í Herdísarvík allt fram um 1960.
Höfundarverk Einars er æði mikið. Eftir hann liggja meðal annarra verka: Sögur og kvæði, Hafblik, Hrannir, Vogar og Hvammar, ásamt þýðingum, ritgerðum og fleiru. Margir íslenskir málshættir eiga rætur sínar í ljóðum Einars“.
Athöfnin var öllum opin. Erindi fluttu m.a. Halldór Blöndal, fyrrum alþingismaður, ráðherra og forseti Alþingis og Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra. Komst þeim báðum vel að orði, bæði til minningar um Einar og Hlín sem og tengsl þeirra við Herdísarvíkina á síðustu æviárum skáldsins. Lét Illugi þau orð falla í kjölfar tölu sinnar „að hann væri enn ekki búinn að venjast því að tala sem ráðherra“, en að teknu tilliti til tölunnar lærist honum það vonandi aldrei – því talan var bæði einstaklega einlæg og efnisrík.

Hlin - herdisarvik

Jafnframt var á þessum degi afhjúpað örnefnaskilti í Herdísarvík.
Jóhann Davíðsson hélt „velkomst“ við sögu- og minjaskiltið og bauð síðan Guðrúnu Ásmundsdóttur, leikkonu að afhjúpa það. Að orðum hennar loknum var eins og við manninn mælt; tók þá svo til samstundis sólin að skína með tilheyrandi yl og hlýju.
Jóhann þakkaði sérstaklega Ómari Smára Ármannssyni fyrir hans framlag við gerð uppdráttarins. Sjá upptökuna HÉR.

Herdísarvík

Jóhann við athöfnina.

Í lok formlegrar afhjúpunar leiddi FERLIR stutta göngu um svæðið. Að henni lokinni var boðið upp á kaffihressing í húsi skáldsins og Hlínar.

Frá 1895 til 1927 bjó í Herdísarvík með fjölskyldu sinni Þórarinn Árnason, sonur Árna Gíslasonar stórbónda í Krýsuvík og fyrrum sýslumanns Skaftfellinga. Hafði Þórarinn gagnsamt bú og bjó við rausn að fornum hætti.

Herdísarvík

Ómar Smári Ármannsson við athöfnina.

Árið 1908 eignast Einar skáld Benediktsson Herdísarvík (ásamt Krýsuvík, sem hann átti þó með erlendum mönnum), en mun lítt hafa skipt sér af högum landseta sinna. Árið 1927 leigir hann jörðina Ólafi Þorvaldssyni, síðar kunnum fræðimanni og rithöfundi, sem þar bjó með sinni fjölskyldu fram til 1933 en leigumáli hans var ekki endurnýjaður eftir það. Hafði Ólafi búnast prýðisvel á jörðinni og hefði, að eigin sögn, feginn vfljað vera þar lengur.

Herdísarvík

Guðrún Ásmundsdóttir afhjúpaði minja- og örnefnakort FERLIRs við Herdísarvík.

Í júlímánuði 1932 fluttist eigandi jarðarinnar, Einar Benediktsson, þá viðurkennt höfuðskáld þjóðarinnar með litríkan afhafna- og umsvifaferil að baki, til Herdísarvíkur ásamt sambýliskonu sinni, Hlín Johnson. Hófst þá smíði nýs íbúðarhúss (járnvarins timburhúss) á jörðinni, norðarlega í túninu og allnokkurn spöl frá gamla bænum. Var húsið fullbúið snemma í septembermánuði það ár. Stendur það enn, nú uppgert, og hefur um allmörg ár verið notað sem sumarorlofshús háskólastarfsmanna. Meðan á byggingu hússins stóð höfðust Einar og Hlín við í gamla bænum ásamt fjölskyldu Ólafs, en fluttu síðan inn í húsið nýja jafnskjótt og það varð íbúðarhæft. Yfirsmiður hússins var Sigurður Halldórsson úr Reykjavík, en allt byggingarefni var flutt sjóleiðina frá Reykjavík að Herdísarvík á strandferðaskipinu Skaftfellingi, en síðan á opnum báti frá skipshlið í lendingarvör. Bjuggu þau Einar og Hlín síðan í húsi þessu þar til Einar andaðist 12. janúar 1940, sem fyrr er getið, þá farinn að heilsu og kröftum eins og kunnugt er, en Hlín síðan, mest ein en stundum með aðkeyptri hjálp, nokkuð á annan tug ára, þar til hún brá búi og byggð lagðist af í Herdísarvík.“

Heimild:
-Morgunblaðið 15. janúar 2000, bls. 34-35.

Herdísarvík

Herdísarvík – skilti nemendafélags Grimmhildar.

Tag Archive for: Selvogur