Tag Archive for: Stafnes

Stafnes

Stafnes (Starnes, Sternes, Stapnes, Stafsnes) er lítið nes á Reykjanesskaga, nánar tiltekið vestast á Miðnesi, nálægt Hvalsnesi. Þar er samnefnd jörð sem tilheyrði Rosmhvalaneshreppi en í dag Suðurnesjabæ. Upphaflega hefur nesið heitið Starnes (líklega eftir melgresi sem vex þar í fjörunni) og kemur fyrir undir því nafni í heimildum frá því um 1270 og síðar. Nafnið Stafnes kemur fyrst fyrir í Jarðabókum undir lok 17. aldar. Stafnes er í Hvalsnessókn.

Stafnes

Stafneshverfi.

Jörðin Stafnes hefur verið stórbýli frá upphafi með margar hjáleigur og útgerð, þótt höfuðbólið Hvalsnes hafi verið stærra, en varð fyrir miklum skemmdum vegna stórflóða og sandblásturs á 17. og 18. öld. Stafnes var keypt af Magnúsi Einarssyni biskupi fyrir Skálholt kringum árið 1140, en hefur síðan gengið til Viðeyjarklausturs, hugsanlega við stofnun þess. Við siðaskiptin varð Stafnes konungsjörð. Jörðin var boðin upp í Reykjavík 27. júní 1792 ásamt 24 öðrum konungsjörðum á Miðnesi, en boðin sem fengust voru svo lág að stjórnin féllst ekki á neitt þeirra. 10. september 1805 var jörðin svo loks seld á kaupþingi í Keflavík og komst í bændaeigu.

Stafnes

Stafnesviti.

Á Stafnesi var ein mesta konungsútgerð á Miðnesi frá því fyrir 16. öld og fram um miðja 18. öld. Árið 1548 eru í skilagrein Kristjáns skrifara talin upp á staðnum fimm skip í eigu konungs; einn tólfæringur, tveir teinæringar og tveir áttæringar, en með tímanum minnkuðu skipin og undir lokin voru tvíæringar orðnir algengastir á Miðnesi. Auk konungs gerðu útvegsbændur báta sína út frá Stafnesi, eins og kauphöfninni Básendum lítt sunnan við. Útgerð frá Stafnesi hélst töluverð fram undir miðja tuttugustu öld, en eftir það sáralítil.

Við Stafnes hafa verið tíð sjóslys um aldir, enda skerjótt þar úti fyrir. Á síðustu öld má nefna strand togarans Jóns forseta árið 1928, en þá fórust 15 menn og 10 björguðust. Þetta sjóslys mun hafa valdið miklu um stofnun Slysavarnafélags Íslands og fyrstu björgunarsveitar þess, sem er Sigurvon í Sandgerði. Á Stafnesi var reistur viti árið 1925.

StafnesAri Gíslason skráði eftirfarandi um Stafnes eftir Metúsalem Jónssyni: „Beint vestur af heimabæ í Stafnesi er hóll, sem heitir Vallarhúsahóll. Þar hefur verið mikil byggð hér áður fyrr. Ofan við efra húsið á Stafnesi í túni er hringur, nefndur Lögrétta. Ekki er vitað, hvað þetta var, og má geta þess, að hann er ekki eins í laginu og slíkir lögréttuhringir eru vanir að vera. Rétt vestur af húsinu eru allmiklar rústir, sem ekki er vitað um, hvað er. Austur af Eystrahúsinu í Stafnesi heitir Lodduvöllur, og í honum er Loddubrunnur.
Kvíslarhóll er gamall öskuhaugur við Loddu. Býli voru mörg hér og hvar, og örugglega eru sum þeirra farin alveg í sjó. Má t.d. nefna, að 1703 er talað um landssvæði, sem hét Snoppa. Nú veit enginn, hvar það hefur verið. Krumfótsbúð var gömul sjóbúð, sem ekki er vitað, hvar var.“

Stafnes

Austur-Stafnes.

Magnús Þórarinsson skrifaði um Stafnes í „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi„: „Syðsta örnefni í Hvalsneslandi var Mjósund. Er þá komið að landareign Stafness og Stafneshverfis. Á góðu og gömlu, sjómannamáli bátverjanna á opnum áraskipum var öll hin stóra vík frá Ærhólmum að Stafnesrifi kölluð einu nafni, Hólakotsbót. Á henni eru eftirtalin örnefni: Landamerki milli Hvalsnes og Stafneshverfis eru í viki einu litlu sunnan við Ærhólma; heitir það Mjósund, stundum kallað Skiptivik. Á bakkanum er lítill grasblettur, sem heitir Ögmundargerði, og þar sunnan við er gamalt byrgisbrot, sem er kallað Stafnesstekkur. Víkin sunnan við Stekkinn heitir Stafnesvík. Sunnan við er Glaumbæjarvík, og skilur smágrjótrani víkurnar. Á bakkanum fyrir ofan er hóll grasi gróinn, sem heitir Glaumbæjarhóll, það er gömul rúst. Sunnan við Glaumbæjarvík er Glaumbæjarrif, öðru nafni Kúarif, í fjörunni. Sunnan við Kúarif er Nýlenduvík; nær hún suður að Hliðhólsklöpp, sem er í sjávarmáli niður af hliðinu á túngarðinum norðan við gamla Hólakot, ætíð nefnt af umfarendum „Hólakotshliðið“. Fram af Hliðhólsklöppum eru Selatangar. Það eru nokkur smásker í röð, sem koma upp úr um fjöru; þar á meðal eru Skjöldusker og Kringlótta-Sker.

Stafnes

Vestur-Stafnes.

Sunnan við allt þetta, sem nú hefir nefnt verið, er nafnlaus fjara suður að svo nefndum Hólakotshól, en það, er gömul rúst á sjávarbakkanum, niður af Hólakoti, sem var nyrzti bær í Stafneshverfi og nyrzta túnið, en bærinn hefir staðið í eyði um allmörg ár.
Öll túnin í Stafneshverfi eru samliggjandi flatneskja, en sundur greind með gaddavír á stólpum. Þess má geta um víkur þær, sem kenndar eru við Glaumbæ, og Nýlendu, að þarna var rekafjara þeirra og þangtekja, enda voru þetta gamlar hjáleigur frá Stafnesi.

Stafnes

Stafnes – minnismerki um Jón forseta.

Byrjar nú sjávarröndin í Stafneslandi: Nyrzt, rétt við mörkin, er hóll á bakkanum með gamalli bæjarrúst; heitir það Harðhaus. Þá liggur túnbakkinn bogadreginn til suðvesturs; heitir það Refar. Ná þeir yfir túnspildu talsverða neðan af túninu og fram á tanga þann, sem heita Refagarðar, en fremst heitir það Refstangi. Er þarna fjöldi af gömlum bæjarrústum. Má það eðlilegt kalla, að eitthvað sjáist af rústum, því 10 voru hjáleigurnar, sem Stafnesi fylgdu 1703, og auk þess 12 eyðihjáleigur og búðir, allar taldar með nafni í jarðabók. Þó eru nokkur nefnd nú, sem ekki eru þar talin; hafa líklega verið byggð síðar, en þó fyrir löngu í eyði komin.

Stafnes

Stafnesviti og minnismerki um Jón forseta.

Víkin fyrir framan Refagarða heitir Vallarhúsavík, og fremst í henni eru Sveinshöfðaklappir. Á þeim stóð áður bær með því nafni. Við sjóinn niður af Refagörðum er Borgarvör, gamall lendingarstaður. Upp af Sveinshöfðaklöppum er Kerlingarlón efst í fjörunni milli klappanna og túnbakkans, féll sjór upp í lón þetta á stórstraumsflóðum, en ekki þess í milli; fúlnaði þá í lóninu vegna þara og óþverra, og þótti heldur ami að. Vallarhúsarif liggur til suðvesturs frá Selatöngum; fremst á því er hnúður, sem heitir Vallarhúsahaus. Á Refstanganum er svo kölluð Litla-Rétt. Heitir hún svo, af því að önnur rétt stærri var þar nokkru sunnar, en Réttarkampur heitir moldarhryggur við sjóinn milli Réttanna.

Stafnes

Stafnes – Norðlingavör.

Á klöpp niður af Litlu-Rétt, beint fram af Refstanga, er stór svartur steinn, sem er mið á innsiglingu og verður síðar getið Fram af Litlu-Rétt er rif eitt, hátt nokkuð, sem heitir Bóndarif, en fram af Bóndarifi liggur sjálft Stafnesrif til suðvesturs. Milli Bóndarifs og Stafnesrifs er djúpt lón eða öllu heldur hylur; mun þar vera 12-14 faðma dýpi um lágflæði. Utan við hylinn er slétt sker, sem aðeins kemur upp úr um fjöru; heitir það Kolaflúð. Þar hafa strandað tvö botnvörpuskip, svo vitað sé, Jón forseti 1928 og Admiral Toco 1913. Strandaði hinn síðarnefndi í foráttu brimi, svo engin björgun var hugsanleg, enda fórust menn allir, og svo einkennilega bar við, að aldrei hefir lík rekið af því skipi. Sömu urðu afdrif þessara skipa, að þau limuðust sundur á Flúðinni, flökin hurfu niður í hylinn og bólar ekki á þeim síðan. Þarna virðist vera dauður blettur; aldrei fellur brim yfir hylinn sjálfan, og kyrrð virðist í botni, því ekkert rekur upp af því, sem þar sekkur niður.

StafnesSpöl norður af Kolaflúð eru Litli-Hásteinn og lítið eitt norðar Stóri-Hásteinn, hvorttveggja einstakir steinar upp úr sjó að sjá með lágsjávuðu. Eru nú talin örnefni í Hólakotsbót. Gelluklappir (frb. hart, eins og hella, fella) heita klappirnar háu og stóru, sem eru syðst og yzt fram af Stafnestúni. Þar stóðu fiskhús allra hverfismanna efst á klöppunum og ofan við þær. Var húsaþyrping þessi kölluð Garðarnir og var algengt mið út af Norður-Miðnesi, einkum á Skörðum. Stafnesvitinn stendur á Gelluklöppum, byggður 1925. Er hann góð leiðbeining sjófarendum fyrir hina hættulegu Stafnestanga, þó raunar hafi strönd orðið þar síðan. Fram af Gelluklöppum er Möngurif, fremur stutt, en nokkuð hátt, það liggur til suðvesturs út í Gjána, er síðar verður nefnd. Milli Gelluklappa og Möngurifs er mjó rás fast við klappirnar; flýtur þar bátur með hálfföllnum sjó. Var rásin oft notuð í ládeyðu, ef för var heitið norður á bóginn. Önnur rás var utan við Bóndarif; heitir hvor tveggja rásin „Hörmungasund“ , og sama mið á báðum, en það er, að Stóri-Básendahóll jaðri við Skiphólma.
Frá Gelluklöppum liggur sjávarmál til austurs, inn í svo nefnt Sandhúsavik , sem er sunnan við Stafnestúnið. Eru þar þessi örnefni.
Í suðurenda Gelluklappa myndast lítið vik, sem heitir Norðlingabaðstofa. Mun nafnið vera frá þeim tíma, er Norðlingar sóttu sjó á Stafnesi fyrir öldum síðan. Ýmsar sagnir eru skráðar um sjómennsku Norðlinga þar. Ein er sú (úr Sögu Íslendinga VI, 452), er Skúli Magnússon, síðar landfógeti, hafði ráðsmennsku Hólastóls.
„…Þá hafði Stóllinn 9 menn í veri á Stafnesi syðra um vetrarvertíð 1742. Var hlutur vermanna alls 30 hundruð stór og 70 fiskar, og vo afli þessi verkaður alls 70 vættir og 5 1/2 fjórðung, auk sundmaga og hausa.“

Stafnes

Stafnes – uppdráttur ÓSÁ.

Má nærri geta, að ekki hafa þetta verið einu Norðlingarnir, sem þá reru á Stafnesi. – Önnur sögn, sem er í ýmsum annálum, er hér tekin upp úr Suðurnesja annál séra Sigurðar B. Sívertsen á Útskálum (prentaður í Rauðskinnu 1953, III, 19): „1685. Mannskaðavetur. Skiptapar ógurlegir á Góuþrælnum. Sjö á Stafnesi. Drukknuðu 58 menn. Það sjöunda [hér er einhver villa] gat hleypt inn Hamarsund og björguðust menn. Á tíæringunum frá Stafnesi voru flestir útróðrarmenn að norðan og margir valdir menn . . . þar á meðal Ólafur yfirlestamaður frá Hólum, Þorsteinsson. – Þann 11. marz voru 42 menn jarðsettir við Útskálakirkju, en daginn eftir rak 47 upp, er einnig voru grafnir þar, í almenningi að kórbaki. Reiknaðist svo til, að í allt hafi drukknað 156 manns …“
Austan við Norðlingabaðstofu er Stokkavör, ævagömul, enda stundum nefnd Gamlavör. Þar innan við er Gosuvik; hefir þar verið gjörð lending, sem heitir Gosuvör, en er oft nefnd Skökk; mun það vera af því að hún stefnir skáhallt inn í grjótið. Þar uppi á bakkanum er hóll með rúst. Þar stóð bærinn Gosa. Innan við Gosuvör er Skiphólmi. Það er hár hóll, grasi gróinn að nokkru. Þar var áður býli, en nafnið er týnt, það kynni að vera Litlu-Hólmahús, sem var eitt af eyðibýlunum við Stafnes 1703. Til suðvesturs frá Skiphólma liggur grynningatunga út í Gjána. Hyldýpi er báðum megin við, en á tungu þessari eru þrjú sker, sem heita: Vatnasker, grynnst, þá Brúnkolla og Hvirfill, yzt, er Hvirfill aðeins þaratoppur. Austan við Skiphólma er annar hóll stór, með gömlum bæjarrústum; hét það Sandhús, en hóllinn heitir nú Sandhúsahóll. Sjór er enn góðan spöl inn í landið. Er það fremur mjótt vik og heitir Sandhúsavik. Það er inn af Gjánni eða innsti hluti hennar. Slétt láglendi er upp af vikinni, og fellur þar sjór langt upp á land í stórflóðum. Fyrir sunnan Sandhúsavik er stórt, slétt og fallegt graslendi; heitir það Flatir.

Stafnes

Stafnes – túnakort 1919.

Fram af Flötum er stór og breiður hraunfláki, sem nær langt út í sjó; nokkuð flatur yfir að líta, er það Urðin, er svo heitir. Fremst á Urðinni er stórt lón, heitir það Urðarlónið. Þvert yfir Urðina liggja tvær rennur eða rásir; heitir sú fremri, sem liggur þvert yfir Lónið, Ytri-Dyr. Hin, sem er nokkru ofar, heitir Innri-Dyr. Fara mátti í ládeyðu á bátum um Rennurnar og með því stytta sér leið, ef hæfilega hátt var í sjó. Fram yfir 1880 sáust grasblettir víða um Urðina, og í Lóninu sjálfu hafði verið stargresi. Mun þar af dregið hið forna nafn jarðarinnar: „Starnes“. Enn fremur er sagt, að áður fyrr hafi gengið í Urðarlón bæði silungur og lax. Hafi svo verið, hefir sjór ekki gengið svo að við Stafnes sem nú er. Yfir alla Urðina fellur í stórstraumsflóði, og svaði mikill er þar í brimi.
Þó muna elztu menn, að laxar fundust við Lónið, en það mun hafa verið fyrir aðgjörðir sela eða veiðibjöllu. Ofarlega á Urðinni er Sundvörðuklöpp, nokkuð stór klapparbunga; á henni stóð sundvarðan áður, en var síðar flutt hærra upp, vegna sjávarágangs. Urðin er nokkurn veginn ferköntuð í laginu, þó nokkuð lengri til sjávar en með landi. Útnorðurhornið er skarpast, nærri vinkilhorn; er það kallað Urðartáin.

Stafnes

Stafnes – Vallarhús.

Norðan í tánni er klettur, sem upp kemur með lágum sjó, kúpulagaður eins og skál á hvolfi; er hann nefndur „Steinninn“. Hann er við innri snúninginn á sundinu. Við hann er 10-12 faðma dýpi, og má fara fast við hann, því hann kastar frá sér. Þó mest beri á hnullungs grjóti á börmum Urðar, er hún svo snarbrött, að nærri er þverhnípt við tær þess, er stendur á brúninni, og hyldýpi fast upp að henni, bæði vestan og norðan, þess vegna er aldrei brim fyrir framan Urðina, en stórfellur á blábrúninni, sem að hafi veit. –

Skal nú reynt að lýsa innsigling á Stafnesi.

Stafnes

Stafnes – Grund.

Eins og áður segir er Bóndarif fram af Litlu-Rétt, en fram af Bóndarifi er Stafnesrif og stefnir til suðvesturs. Það nær lengst út allra skerja á þessu svæði eða fram undir miðið, Eldborg grynnri lausa, (sjá örnefni á Reykjanesi, í: Fiskimið opnu bátanna á Miðnesi). Er það alræmdur hættustaður. Hafa þar mörg skipströnd orðið og mannskaðar, sem kunnugt er. Sunnan megin er hraunflákinn, sem heitir Urðin; hún nær fram undir miðið Kerlingin.
Milli Stafnesrifs og Urðar er stórt lón; mætti næstum segja: lítill fjörður, heitir það Gjáin. Dálítil sjávarálma liggur úr Gjánni utan við Möngurif en innan við Stafnesrif, norður með Gelluklöppum í kverkina við Bóndarif og Refstanga. 18-20 faðma dýpi er víðast hvar á Gjánni. Oft er þar straumrugl og sjór tipplóttur, stundum svo, að varla er sjór skiplægur þar.

Stafnes

Stafnes – loftmynd 1954.

Sundið er oftast nefnt Stafnessund, en heitir Álsund, og liggur sundið um Álinn svo nefnda. Mið á Álnum (sundinu) eru: Hólakotsvarða, þó oftar nefnd Heiðarvarða, er stendur í hrauninu skammt fyrir ofan Hólakotstúnið, það er stór og allgild grjótvarða með sundtré eða þríhyrning ofan á. Önnur varða nákvæmlega af sömu gerð stóð á Urðinni, kölluð Urðarvarða. Þetta er þá Állinn (sundið): vörðurnar saman, og mun sundið oftast byrjað á miðinu Valahnúkur. Þegar farið er inn Álinn og komið er á miðið Kerlingin laus, er skammt upp að Urðinni, enda er þá snúið norður með henni (eða beðið lags, ef með þarf) og haldið undan Kerlingu, en þá er annað mið fram undan í sömu stefnu, en það mið var fjárrétt, sem var á Hvalsnestanga (nú horfin) í svarta steininn á klö[p]pinni fram af Refstanga eins og áður var getið. En þá er á bakborða hættulegasti boðinn „Stafurinn“, sem er fram af Urðinni. Hann tekur sig upp á miðinu, Eldborg grynnri, og stefnir upp á Urðina. Verður því að róa undir flötum Stafnum. Má segja, að skip og menn séu milli tveggja elda, þegar róið er fast við bak Urðarbrims, en Stafurinn, stór og hár, stefnir á flatt skipið. En öllu er óhætt, því að full vissa er fyrir, að Stafurinn dettur niður, nema mikil forátta sé, enda er sundið ófært, ef hann veður í land, en það kemur ekki fyrir nema í aftaka brimi. Sömu stefnu er haldið, þar til komið er norður fyrir „Steininn“ norðan í Urðartánni. Er þá snúið að og haldið inn Gjána, Heiðarvörðu um rofbakka ofan við Glaumbæ (nú í eyði). Suður úr Stafnesrifi er grynnsli nokkurt; á því fellur boði, sem stefnir upp á Gjána, heitir hann Hólmaflaga. Hann gengur allnærri sundinu um snúninginn við Steininn, en veldur þó eigi verulegum baga.

Stafnes

Stafnes – Stórarétt.

Eins og áður segir, var oft tipplóttur sjór á Gjánni í brimi og verri, er átt var vestlæg. Er þá farið þvert yfir hana að utan og haft skjól af rifinu inn Gjána norðanverða. Einkum er slæmur eitill norðan og innan við Steininn. Gýs eitill þessi upp snögglega, en fellur nærri ofan í sjálfan sig. Þetta er Hvirfillinn, sem er fremst á grynningatungunni, er liggur út í Gjána. Að öðru leyti verður ósjórinn af aðstæðum þarna. Gjáin er djúp og alllöng, en fremur þröng, brimöldurnar skella á Urð, rifi og Gelluklöppum, mynda frákast öllu megin, sem mætist á Gjánni. Auk þess veldur brimið ætíð sogadrætti í öllum þrengslum. Orsakar allt þetta straumköst og ósjó.
Annað sund eiga Stafnesingar. Það heitir Stafsund. Liggur það beint inn á Gjána, norðan við boðann, Stafinn, á miðinu Heiðarvarða um rofbakkann ofan við Glaumbæ. Þetta sund var aðeins notað í brimlausu til að stytta sér leið.

Stafnes

Stafnesbrunnur.

Þegar komið var inn úr Gjánni, var lent í Stokkavör, sem var aðallendingin. Þar var fiskurinn seilaður og borinn upp á skiptivöll við sjávarhúsin. Þegar búið var að losa skipin, voru þau færð að Skiphólmanum, sem var uppsátur skipanna. Var þá farið innan við Vatnasker og inn með Hólma sunnan megin og lent austan á Hólmanum. Þar eru sléttar klappir í flæðarmáli, svo nefndur Flór. Þegar góð var tíð og daglega róið, voru skipin látin standa á Flórnum yfir nóttina, en ef útlit versnaði, voru þau hækkuð upp meira eða minna eða sett alla leið upp á Hólmann. Var það ærið erfitt verk, meðan ekki voru önnur tæki en bök mannanna, því Skiphólmi er hár og snarbrattur. Efst uppi er
sléttur flötur, og þar stóðu skipin, en þykkur tvíhlaðinn grjótgarður er umhverfis flötinn, skipunum til skjóls fyrir ofviðri, enda var þeim óhætt í þessu ágæta nausti, hvað sem á gekk. Skiphólmi stendur neðan við flóðmál og fellur kringum hann á stórstraumsflóðum.
Var gjörð grjótbrú milli lands og Hólma, en með því að sogadráttur var sterkur í þröngri rásinni, vildi oft ruglast hleðslan, svo fótfesta varð óviss. Einkum var þetta illt, ef bera þurfti beitt lóðarbjóð yfir brúna í dimmu, en mjög fallið yfir. Var svo jafnan þar, sem slíkar brýr varð að nota.
Stakkavör eða Gamlavör hefír augsýnilega verið rudd inn í stórgrýtisurð einhvern tíma fyrir löngu síðan. Hún líkist nú mest gróinni götu, aflöguð af grjótburði og öll þangi vaxin, Á síðari árum útgerðar á Stafnesi var steypt gangbraut eða vagnvegur á austurbrún Gömlu-Varar, en aldrei var lokið verkinu til fulls. Útgerðinni lauk fyrr. Nú er sjórinn að brjóta skörð í steypuna og ónýta hana. Þannig eyðast og hverfa gömlu sporin, hvert sem litið er.

Stafnes

Stafnes – Ögmundagerði.

Hvergi á Miðnesi var eins gott til sóknar sem á Stafnesi. Þar var jafnan útgerð mikil, bæði fyrr og síðar, enda dugnaðarmenn, sem að henni stóðu og að unnu. Þar voru einnig sjávarhús mörg og myndarleg. – Gætu Stafnesklappir talað, mættu þær taka undir með gömlu konunni gigtveiku. „Önnur var mín ævi.“ Nú hefir Urðarvarða misst prýði sína, tréstólpann með þríhyrning. Eftir stendur enn grjótvarðan, óþekkjanleg frá öðrum systrum sínum, ef ekki verður að gjört. Grjótbyrgi hrunin. Sjómannakofar horfnir. Önnur hús, er enn standa, drúpa hnípin og afrækt. Svo er jafnan um það, sem hætt er að nota, enda mun útgerð á Stafnesi hafa lagzt niður fyrir fullt og allt um 1945, og þó áður mjög úr henni dregið.
Góðir Stafnesingar, sem enn eruð starfandi! Þið eruð afkomendur og eftirmenn mikilla formanna á Stafnesi. Má þar nefna Daða Jónsson og Eyleif Ólafsson, sem voru með þeim síðustu. Væntanlega setjið þið strax skautafaldinn á Urðarvörðu, til heiðurs við margar merkar minningar frá fornri útgerð á Stafnesi og til þess, að hún megi þekkjast frá óæðri systrum sínum um hraun og heiði. Hún heitir enn Urðarvarða og á að halda því nafni, þó flúin sé upp á Flatir.

Stafnes

Stafnes – sundmerki.

Sundmerkjum á Stafnesi á að halda við, svo lengi sem sögur eru til af einum merkasta útgerðarstað á Íslandi frá fyrri tíma.
Langt er enn til Djúpavogs í Ósabotnum, en þar endar Stafnesland. Eins og sjá má á öllum kortum, beygist landið austur á við fyrir sunnan Stafnestanga og er bogadregið allt inn í Ósa. Fyrst til suðurs, landsuðurs og loks í háaustur. Skal nú haldið með ströndinni og leitað örnefna.
Suður og inn af syðri Urðartánni er einkennilegt sker. Boði, sem á því fellur, heitir Svörfull. Sker þetta lítur helzt út fyrir að vera gamall eldgígur, því að í miðju skerinu er hylur, 10-12 faðma djúpur. Þegar Svörfull er uppi, fellur hann fyrst til norðausturs, svo í hring til suðurs og virðist þannig fylgja gígbarminum, og endar með því að falla beint á sjó út.
Í september 1881 strandaði á Svörful skip, 440 lestir að stærð, hlaðið ofnkolum. Menn björguðust í land á bátnum, komu heim að Stafnesi um kvöldið og voru þar um nóttina.

Stafnes

Stafnes – Hólakotsstekkur.

Um morguninn er komið var á fætur sást ekkert af skipinu, nema ofan á hæsta masturstoppinn. Brimið hafði fært briggskipið inn yfir gígbarminn, og það sokkið niður í hylinn í skerinu. Ekkert rak upp af því skipi, annað en það, sem lauslegt var á dekki og flotið gat. Enn eru menn á lífi, er höfðu glöggar frásagnir um þetta strand og frá því er sagt í Suðurnesjaannál (bls. 180), en síðar bætir annálshöfundur (sr. Sig. B. Sívertsen) við): „Skip það, sem sokkið hafði fyrir framan [sunnan] Stafnes með ofnkolin, var nú, þann 22. desember, loks selt við uppboð, þegar útséð var um, eftir brim, hroða og stórflóð, að ekkert mundi reka upp af því. Komst það í 45 krónur og þótti ráðleysa að kasta út meira fé í slíkan vonarpening, svo valtan.“
Sunnan við Urðina er í flæðarmáli stór og hár grashóll, sem heitir Stóri-Básendahóll. Framan við hann og aðeins nær Urðinni er sandblettur, sem heitir Gunnusandur. Framan við sandinn og eilítið sunnar eru svonefndar Róklappir, dálítill klapparbálkur; fellur ekki yfir þær á flóði nema brim sé. Framan við Róklappir er aftur lítil sandflúð, sem heitir Rósandur, en þar fram af er út í sjó kringlótt sker, sem heitir Rósker. Þar voru flestir selirnir skotnir af Stafnesbændum á fyrri tíð. Mér er sagt, að Eyvindur Pálsson, sem bjó á Stafnesi frá 1860, þar til tengdasonur hans Hákon Eyjólfsson tók við, hafi verið sundmaður ágætur. Hann hafði þann hátt á að synda með byssuna út í Rósker með útfalli og vera kominn, áður en selirnir lögðust upp á skerið. Vöruðust þeir ekki þessa veiðibrellu.

Stafnes

Stafnes – Bali.

Nokkru dýpra fram af Róskeri er skerjagarður, sem liggur til suðurs; heitir það einu nafni Básendasker. En víkjum nú aftur upp á land. 20 til 30 föðmum suður af StóraBásendahól er graslaus klapparhóll; heitir hann Litli-Básendahóll. Sunnan við þann
hól stóð Básenda-verzlunarstaður. Þar fram af er malartangi með sljóu horni. Á tanganum sér enn til rústa eftir meira en 150 ár, en 1799 var Básendaflóð. Sunnan við tanga þennan er ílangt lón; það var Básendahöfn. Leiðin inn á höfnina hefir verið löng milli skerja, en að mestu bein og djúp. Sundmerki eru nú gleymd. Má enn sjá leifar af umbúnaði, hringjum og stólpum, sem var tinsteyptur í klappir og sker til þess að svínbinda skipin.
Varla hefir þetta verið góð og örugg höfn, eins og nokkrir hafa talið, en það vita kunnugir bezt, hve hollt er að vera á vélarlausum dekkbát inni á milli skerja sunnan við Stafnes í sunnanátt og hroða, þó að sumri sé. En stundum dróst afgreiðsla skipanna fram á haust, enda brotnaði þar skip 1669, albúið til siglingar, og tvö skip 1714, hlaðin fiski, segir Suðurnesjaannáll.

Stafnes

Stafnes – Nýlenda.

Skúli Magnússon landfógeti ræðir í sýslulýsingu sinni nokkuð um Básenda, þar segir svo: „Verzlunarhöfnin Básendar er í Stafneslandi. Þar er höfn 2 skipum milli lands og skerjagarðsins, en þó hættuleg, einkum í vestanstormum, þegar hásjávað er. Nokkur skip hafa farizt þar, einkum fyrrum, enda var ekki siglt á höfn þessa um hríð. Höfnin er því eigi örugg nema um hásumar og með því að nota járnhringa þá, sem reknir hafa verið bæði í kletta í skerjagarðinum og í jarðfasta fjöruklettana. Eru þeir festir með blýi, svo að hægt sé að binda skipin í þá. Í innra skipalæginu eru 4 járnhringar og 3 í hinu ytra. Í fyrr nefndu skipalægi er dýpið 2 1/2 faðmur um fjöru, en 4 1/2 í hinu síðar nefnda. Þarna lækkar og lækkar í sjónum um 9 fet í góðu veðri, þegar stórstreymt er, en um 5 fet, þegar smástreymt er. Innsiglingin er hættuleg, og verður að gefa nánar gætur að siglingamerkjunum á landi … Kringum hinar lágu klappir, sem verzlunarhúsin standa á, er allt þakið svörtum sandi, og eru aðstæður því illar til fiskverkunar. Aftur á móti er fiskverkunarstæði því betra kringum Stafneslendingu, einkum á Refshalabæjum svo nefndum. Að vísu hafa þeir lagzt í eyði síðan konungsbátarnir voru lagðir niður 1769. Þó mætti byggja þá upp aftur, ef þörf væri á, því að á Stafnesi hefir þótt fremst fiskiver á Íslandi um vetrarvertíð á fyrri tímum og allt fram að því ári. En síðan hefir sjósókn þorrið þar mjög.“

Stafnes

Stafnes – Heiðarbær.

Efalaust hefir útgerð og sjósókn þorrið á Stafnesi, sem annars staðar á síðari hluta 18. aldar og framan af þeirri 19., þegar eymdarhagir voru á landi hér, enda mátti víst heita, að Stafnes væri í eyði um aldamótin 1800 (sjá um Básendaflóð eftir Vigfús Guðmundsson í Blöndu III, bls. 57). En á síðari hluta 19. aldar voru 20 til 25 stórskip gerð út á vetrarvertíðum af bændum á Miðnesi, og ætíð var Stafnes talið í fremstu röð, með þá merkismennina hvern fram af öðrum: Erlend Guðmundsson, Eyvind Pálsson og Hákon Eyjólfsson. Það hefir í annálum og öðrum ritum verið talað um útgerð og aflabrögð á Stafnesi, og yngsti annállinn, Suðurnesjaannáll, sem ritaður var á 19. öld, er fjölorður um mikil aflabrögð hjá Stafnesmönnum, enda var þar bezt til sóknar af Miðnesi á tíma áraskipanna.
Bátsendahöfn mun heita réttu nafni Brennitorfuvík, en Brennitorfa var þar fyrir ofan. Þar höfðu Básendamenn brennur sínar. Stendur þar nú varða á grjótholti, en Torfan sjálf er örfoka. Sunnan við Brennitorfu er Draughóll og Draughólskampur með sjó fram til suðurs. Fram af kampi þessum er stór klettahólmi úti í sjó; heitir hann Arnbjarnarhólmi. Þar eru suðurtakmörk Básendahafnar. Sunnan við Draughólskamp er stórgrýtishryggur, sem heitir Kuðungavíkurkampur, og Sandvík sunnan hans heitir Kuðungavík. Enn er dálítill kampur og sunnan hans er Djúpavík, allstór. Þar nokkuð úti í víkinni er stór klettur einstakur; heitir hann Svartiklettur; hann er mið á einni fiskiholu. Stafnesinga. Ofan við Djúpuvík eru svo nefndar Dauðsmannsklappir.

Stafnes

Stafnes – Hólakot.

Sunnan við Djúpuvík er mjög langur hrauntangi, sem nær langt út í sjó; heitir hann Skarfurðartangi. Fyrir sunnan tangann er á löngu svæði bein urðarfjara; heitir það Skarfurð. Fram af Skarfurðartanga er sker eða flúð, er sjaldan kemur upp úr; heitir það Vefja. Sjávarhræringar á Vefju eru óvenjulegar, líkt og á Svörful. Sunnan við Skarfurð er stór djúp vík, sem heitir Stólsvík; hún dregur nafn af einkennilegum kletti þar úti í víkinni, nokkuð frá landi; hann líkist mest prédikunarstól og heitir Tómasarstóll, en ókunnugt mun vera nú, af hverju nafnið er til orðið. Oftast er stóllinn alsetinn skörfum með útbreidda vængi.
Sunnan við Stólsvík er þröngt og djúpt vik inn í klettana, kallað af Stafnesmönnum Norðurvik Þórshafnar. Þar sunnan við er klettarani, mjög stórgrýttur fremst, en grasi gróinn ofan; heitir það Þórshafnarbali. Hann er vesturhlið á löngum bás, er liggur til norðausturs inn í landið. Básinn heitir Þórshöfn. Það er hin fornkunna höfn verzlunarskipanna á síðari hluta 19. aldar. Af sýslulýsingu Skúla fógeta (Landnám Ingólfs, bls. 117) vitum við, að „leiðin inn að henni er 55 faðma breið.

Stafnes

Stafnesgarðar.

Mesta lengd innsiglingar er 170 faðmar, en breidd 51 faðmur, þó ekki nema 26 faðmar, ef skipin rista meira en 6 fet [hér mun vera átt við Þórshöfn sjálfa frá mynni til botns]. Höfnin var að vísu notuð, þegar Hansakaupmenn eða Þjóðverjar ráku verzlun hér á landi.“ (1601 var síðasta verzlunarár þeirra, því einokunin byrjaði 1602, sem kunnugt er). Skúli gjörir lítið úr þessari höfn, segir að hún sé „lítil og léleg og komi ekki heldur sjómönnum að liði.“ Svo virðist, að hún hafi lítið eða ekkert verið notuð á hans dögum.
Eigi er vitað með vissu, hvenær dönsku skipin byrjuðu að hafa þar hafnlegu; þó varla fyrr en Básendar lögðust niður. Leiðin inn á Þórshöfn er tvær vörður saman; stóð önnur í norðvesturhorni Þórshafnar, en hin uppi á heiðinni; heitir sú Mjóavarða (93) og mun enn vera uppi standandi, enda algengt mið í Stafnesdjúpi. Höfn þessi er svo þröng, að ekki varð komizt inn eða út á seglskipi, nema einstefnu leiði væri, og skipin varð að svínbinda á allar hliðar. Flest voru þar 5 skonnortur í einu, sem mér er kunnugt um. Þau lágu þar öll saman bundin, hlið við hlið, og vissi framstafn allra til hafs. Ætíð var stillt í þessum mjóa og langa bás, og sogadráttur furðu lítill, þó nokkurt brim væri, enda eru Þórshafnarsker fyrir framan og braut brimið á þeim.
Austurhlið Þórshafnar er langur hrauntangi, en austan hans er stór og breið vík; heitir hún Hvalvík. Þar eru sandleirur í botni og þornar þar á stóru svæði um stórstraumsfjöru.

Stafnes

Stafnes – Refamýri.

Smávik er vestast í Hvalvíkinni, gengur vikið inn í hrauntangann austanmegin framarlega, gegnt Þórshöfn; er það kallað syðra Þórshafnarvik. Vikið er þurrt um fjöru, en skemmtilegt sjávarvik á flóði. Frá viki þessu er á austurhlið hrauntangans, Hvalvíkur megin, stórgrýttur kampur, sem heitir Skeljaurð; nær hann inn að botni Hvalvíkur, en upp af sjálfum botni hennar eru grasbakkar.
Úti í Hvalvíkinni er Hvalvíkurhólmi, allstór og hár nokkuð; hann var grasi gróinn.
Út að honum liggur grandi, eða öllu heldur röð af smáskerjum, en rásir eru á milli og var þarna mikil flæðihætta, meðan sauðfé var margt, en Miðnes var talinn fjárríkasti hreppur á Suðurnesjum um næstliðin aldamót.
Allbreiður tangi austan Hvalvíkur er í daglegu tali nefndur Torfan, en mun heita Preststorfa. Við Torfuna er lending, nefnd Grímsvör öðru nafni Bárðarvör, en fram af Torfunni er stór klettur; heitir hann Hestaklettur (101), en örskammt frá er Selsker. Af Torfunni er skemmst sjóleið yfir Ósana. Fólk, sem ferðaðist gangandi milli Miðness og Hafna, einkum prestarnir, kom oft á Torfuna og kallaði til Kirkjuvogs, sem vel heyrðist. Var fólkið þá sótt og flutt yfir á bát.

Stafnes

Vallarhúsabrunnur.

Það slys varð í þessum flutningum árið 1748, er ég tek hér upp úr Suðurnesja annál Sig. B. Sívertsen, orðrétt: „Fimmta sunnudag í föstu drukknaði presturinn á Hvalsnesi, séra Árni Hallvarðsson, er hann ætlaði til embættisgjörðar að Kirkjuvogi. Hafði hann farið af svo nefndri Prestatorfu í góðu veðri. En þeir, sem fluttu hann, höfðu farið of nærri skeri því, er Selsker kallast; hvirflar á því, en kemur upp úr um fjöru, en á móti því er klettur stór, er Hestaklettur kallast. Þar á milli liggur leiðin og allnærri klettinum, en þeir héldu nær skerinu en mátti.
Reisti sig þá upp boði, er hvolfdi bátnum, er hann kenndi grynninga. Drukknaði þar prestur og sjö menn aðrir. Var einn þeirra Einar, sonur Hákonar í Kirkjuvogi, bróðir Vilhjálms. Einn eða tveir menn komust af, og þeir heyrðu prest segja, þegar hann sá, hvernig fara mundi: „Herra Jesú, meðtaktu sálir okkar allra.“ Nýlega hafði þá síra Árni verið búinn að taka af jólagleðina, sem haldin var á Flankastöðum, nauðugt mörgum. Hann var 36 ára gamall“.

Stafnes

Nýlendubrunnur.

Austan við Torfuna er allmikil sandvík; í vík þessari er stór og hár grashólmi, sem heitir Einbúi (103), umflotinn á flóði. Hann er áberandi mið í Stafnesdjúpi. Mjög skammt fram af Einbúa er annar hólmi lítill, grasi gróinn; hann heitir Runkhólmi. Í öllum þessum hólmum, Hvalvíkurhólma, Einbúa og Runkhólma, var æðarvarp, meðan um var hirt. Frá Einbúa er sjávarmál skorið af smávikum en grjótranar á milli, allt að tanga þeim, sem heitir Fremri-Skotbakki.
Það bar við á hvítasunnudag 1881, að timburskip, mannlaust, tröllaukið að stærð, eftir því er þá var kallað, rak að landi í Ósum. Heyrði ég mikið talað um skip þetta á ungdómsárum mínum, enda var þá sem óðast verið að byggja baðstofur, timburhús, sjávarhús (timburskúra) og alls konar útihús úr efnivið þessum. Tvær eru heimildir, mér tiltækar, um skip þetta, en því miður ekki samhljóða um stærðina.

Stafnes

Stafnes – Refatjörn.

Ólafur Ketilsson hreppstjóri í Höfnum (hann var 16 ára, er strandið skeði, og vann við skipið) skrifaði skemmtilega og fróðlega grein um skip þetta í Lesbók Morgunblaðsins 44. og 45. tbl. 1936. Hann segir (þrisvar) í grein sinni, að skipið hafi verið 360 fet á lengd og 65 fet á breidd. Til samanburðar má hafa að nýi Gullfoss okkar er 355 fet á lengd, stafna milli, en 47 1/2 fet á breidd. – Hins vegar segir séra Sigurður B. Sívertsen í Suðurnesjaannál (sjá Rauðskinnu 1953, bls. 175) að eftir því sem hann komist næst; var lengd þessa skips 128 álnir (256 fet) og á breidd 27 álnir (54 fet) en setur svo milli sviga: allt að 30 álnir. Svo virðist, að Ólafur Ketilsson viti málið, en séra Sigurður hafi sennilegustu ágizkun eftir annarra sögn. Ólafur segir, að sér teljist svo til, að í skipinu hafi alltaf verið um 100 þúsund plankar, fyrir utan alla plankabúta og fleira, að meðaltali 16 feta lengd, 8 þumlunga breidd og 3 þumlunga þykkt. Þetta „fleira“, sem Ólafur telur, var afarstór borðabunki aftast í miðlestinni og einnig í sömu lest afarstór – eins og hann orðar það – hlaði af hvítum múrsteini, fleiri þúsundir að tölu, sem allur fór í sjóinn og loks var seglfesta skipsins silfurgrjót, sem talið var af sérfræðing (útlendum) meira virði en skipið sjálft með öllum öðrum farmi, það fór einnig í sjóinn. Skipið hét James Town.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – uppdráttur ÓSÁ.

Því er á þetta minnzt hér, að kjölsvínið af skipi þessu með hluta af annarri síðunni hefir legið og liggur enn við Skotbakka, en mun nú vera sokkið í sand eða leir.
Nokkurn spöl austur af Fremri-Skotbakka er annar tangi, sem heitir Innri-Skotbakki. Skammt innar er gamli Kirkjuvogur. Þar sér aðeins fyrir rústum, en engin önnur merki um fyrri byggð. Til marks um það, hve Vogur (107a) (gamli Kirkjuvogur) var mikil jörð, skal þess getið, að árið 1407 selur Björn Þorleifsson hirðstjóri manni einum, er Eyjólfur hét Arngrímsson, Voga á Rosmhvalanesi, sem þá var kirkjustaður, fyrir 5 jarðir á Vestfjörðum. (Árb. Esp. 2, 68.)
Nokkur fróðleiksauki er þáttur jarðabókar (Á. M. & P. Víd.) 1703. Þar segir svo: „Gamli Kirkjuvogur. Forn eyðijörð, um hana er skrifað síðast meðal Hafnahreppsbæja, að óvíst sé, hvort hún liggi í Kirkjuvogs- eða Stafneslöndum, item, að munnmæli séu, að Kirkjuvogsbær sé þaðan fluttur. Nú að fleirum kringumstæðum betur yfirveguðum sýnist að sitt hafi hvor bær verið. Kirkjuvogur sem nú er byggður, og þessi gamli Kirkjuvogur, sem af gömlum documentum ráða er að heitið hafi til forna Djúpivogur. Hvað sem hér um er að segja, þá er það víst, að þessi eyðijörð öldungis ekki kann upp aftur að byggjast, með því so vel túnstæðið sem landið allt um kring af sandi uppblásið er og að bláberu hrjóstri orðið. Svo er og lendingin, er þar sýnist verið hafa, af útgrynni öldungis fordjörfuð og ónýtt. Grastór, sem hér og hvar í landareigninni kunna til baka að vera, nýta sér Stafnesingar og Kirkjuvogsmenn og er hér ágreiningur um landamerki.“

Stafnes

Stafnesvegur.

Árið 1703 hefir gamli Kirkjuvogur legið í auðn yfir stórt hundrað ár, segir þar, þ. e. frá 1580 eða nokkru fyrr. Þegar hér er komið, er orðið grónara heiðarland með lyngklóm niður undir sjávarbakka. Útfiri er mikið innst í Ósum og sandleirur allmiklar um stórstraumsfjöru.
Djúpivogur er nyrzti, innsti og lengsti vogurinn í Ósabotnum. Þar voru landamerki milli Stafness og Hafna og um leið hreppamörk. Þeim mun þó hafa verið lítilsháttar breytt á síðari árum.
Yfir margt er að líta á langri ævi og umbreytingasamri. Frá strönd ég stari og sé í fjarska tímans: sjóinn og fjöruborðið með öllu Miðnesi, eins og rósótta ábreiðu, síbreytilega eftir sjávarhæð og ljósbroti sólar. Á lognblíðum dögum, þegar síkvik báran lék við þarann og sandinn, fóerlan söng sitt ljúfasta lag og æðurin ú-aði á útmánuðum, var yndislegt að vera ungur og lifa í óskadraumum, sem aldrei rættust. – En svo dró bliku á loft og bakka við hafsbrún. Þau sendu sterkan hvínandi storm, þá varð dimmt undir él, sjórinn úfinn og ægilegur, eins og reiður jötunn, er Hræsvelgur blakaði arnarvængjum sínum. Þannig er, í fáum orðum, myndin á spjaldi minninganna.

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Stafnes
-Rauðskinna (Sögur og sagnir), IX-X bindi, ritstj. Jón Thorarensen, Reykjavík, 1958.
-Landið þitt Ísland, 4. bindi S-T, Þorsteinn Jósepsson/Steindór Steindórsson, Reykjavík 1983
-Magnús Þórarinsson: „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi; Stafnes“, Frá Suðurnesjum. Frásagnir frá liðinni tíð, Félag Suðurnesjamanna í Reykjavík, Hafnarfirði, 1960, bls. 151 –165.
-Ari Gíslason skráði eftir Metúsalem Jónssyni.

Stafnes

Stafnes – lögrétta.

Stafnes

Í Árbók Hins ísl. fornleifafélags árið 1903 er að finna grein Brynjúlfs Jónssonar; „Rannsókn í Gullbringusýslu og Ánessýslu sumarið 1902„. Fjallar hann þar m.a. um Stafnes, Básenda, Þórshöfn og Gamla Kirkjuvog við Ósa.

Stafnes

Stafnes

Stafnes – uppdráttur ÓSÁ.

er í fornum máldögum oftast kallað »Starues«, og ef það er upprunanafn bæjarins, bendir það til þess, að þar hafi í fyrri daga verið starengi. En hafi svo verið, þá er líklegast, að það sé uú komið í sjó. Skal eg ekkert um það segja. En sannfróðir eru menn um það, að þar hafa margar hjáleigur lagzt í eyði og þar af sumar af sjógangi.
Nokkrar af eyðihjáleigunum heyrði eg nefndar, og eru þær þessar: Urðabær, Sandhús, Refabær, Hólmabær, Gosa (Gosabær=Gottsvinsbærr), Vallarhús, Lodda (þ. e. Loðvíksstofa). Þar hefir víst verið einna bezt lýsing um aldamótin 1800, því þangað flúði Bátsendakaupmaður er kaupstaðurinn fór af. Nú sjást varla merki til tófta í Loddu, því öskuhaugur hefir seinna verið borinn ofan á þær og gróið upp sem hóll í túninu hjá heimabænum.

Stafnes

Stafnes – dómhringur.

Í túninu er ein at þessum hringmynduðu fornbyggingum, sem kallaðar eru »lögréttur«. Þessi er líka kölluð það. Hún er einkennileg og frábrugðin öllum öðrum, er eg hefi séð, að því leyti, að á henni eru 6 dyr eða hlið, sem skifta henni í 6 jafna parta. Mundi svara því að 2 sæti hefði verið undir hverjum parti. Að öðru leyti er ekki hægt að gizka á hvaða tilgang hlið þessi hafa haft. Og því óskiljanlegri eru þau, ef maður vill geta þess til, að hringurinn sé sáðgarður eða fjárrétt. Og ekki lítur þó út fyrir, að það séu skörð. Þau eru hér um bil jafnstór og jafnlangt milli þeirra, eins og þau séu skipulega sett af mönnum. Annað er hér þó ekki, sem bendir á þingstað, hvorki munnmæli né búðatóftir. Þær gætu að vísu verið horfnar. Sumstaðar hefir sandfok sléttað túnið.
Sumstaðar geta kot verið bygð ofan á búðatóftir. Á tveim stöðum, skamt frá »lögréttunni«, var eins og vottaði fyrir tóftum, en mjög var það óglögt, enda var þá þessi hluti túnsins ósleginn. Skal eg ekkert frekara um þetta segja.

Bátsendar

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

heita skamt fyrir austan Stafnes. Þar liggur strandlengjan til austurs inn í Ásabotna. Á Bátsendum var kaupstaður, sem kunnugt er, og stóð á hraunnefi milli tveggja mjórra víka. Var höfnin á eystri víkinni. Var innsigling fremur vandasöm, en höfn trygg er inn var komið, þó svo, að binda varð skipin á 3 vegu, en með því móti gátu 2 skip legið þar undir eins. Sér enn um fjöru, járnbolta þá, sem greiptir cru í klappirnar, til að festa skipin við. Hafa verið höggnar holur í klappirnar fyrir þá og blýi rent utan með þeim. Hraunnefið, sem kaupstaðurinn stóð á, er hæst framantil og var þar bær. Sér þar enn nokkuð af rúst bæjarins á grastorfu lítilli. Þar fyrir ofan er lægð yfir þeim þvert milli víkabotnanna og í þeirri lægð sér leifar af undirstöðum verzlunarhússins. Hefir það verið hér um bil 12 fðm. langt og 6 fðm. breitt. Þó er ekki öldungis víst, að það hafi verið alt eitt hús, svo óslitin er undirstaðan ekki. En útlit er til þess. Af kaupstaðnum sjást nú ekki aðrar leifar en nú hefir verið sagt. En miklar girðingar hafa verið þar fyrir ofan, líklega bæði túngarðar og jurtagarðar. En nú er þar alt blásið.

Básendar

Festarkengir á Básendum.

Kaupstaðurinn eyddist í flóðinu mikla nóttina fyrir 9. jan. 1800. Fólkið komst nauðulega undan, nema ein gömul kona, sem heldur kaus að verða eftir og taka því er guð vildi verða láta, en að reynt yrði að hrökklast með hana heim að Stafnesi. Síðasti kaupmaður á Bátsendum er nefndur I. Hansen, danskur að ætt. Hann flúði til Loðvíksstofu, sem fyr getur. Um vorið fór hann utan og kom eigi aftur til Íslands.
Nafnið »Bátsendar« er óviðkunnanlegt og óefað afbökun. En hvað hefir það þá upprunalega veriðr Naumast getur það hafa verið »Bátsandar« (af: sandur), því að, þó þar sé blásið nú, þá hefir það eigi verið fyrrum, þá er nafnið var gefið. Og enn eru þar meiri klappir en sandar, bæði með sjónum og fyrir ofan, svo ástæðulítið virðist að gefa þar örnefni af söndum. Líklegra virðist mér, að þágufallsmyndin: »á Bátsendum« sé afbökun úr þágufallsmyndinni: að Bátsundum (af: sund). Það nafn hefði getað átt við sjávarsund þar fyrir framan. Og alkunnugt er, að bæjarnöfn og önnur örnefni eru langoftast nefnd í þágufalli hér á landi. Verður það því jafnan, eí þágufallið afbakast, að sú afbökun verður ósjálfrátt fram einnig í öðrum föllum.

Þórshöfn

Þórshöfn

Þórshöfn.

heitir vík ein, löngum spöl fyrir innan Bátsenda.

Hallgrímshellan

„Hallgrímshellan“ í geymslum Þjóðminjasafnsins.

Þar er þrautalending og óbrigðul höfn í öllum norðlægum áttum. Þó eru þar engin mannvirki að sjá, enginn vottur þess, að þar hafi bygð verið, enda er engin sögn um það. En því get eg Þórshafnar, að mér þykir það líklegt, að sveitarnafnið »Hafnir* sé þannig myndað, að miðað hafi verið við Þórshöfn og Kirkjuhöfn, sem eru andspænis hvor annari út með Hafnavík, sín hvorumegin. Mun þeirri sveit hafa verið tileinkað alt svæðið milli þessara hafna.

Milli Bátsenda og Þórshafnar var mér vísað á vörðubrot, er steinnværi í með áhöggnu fangamarki Hallgríms Péturssonar og ártali. Það er og svo; fangamarkið er HP; en ártalið er 1728.

Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – uppdráttur ÓSÁ.

hefir til forna staðið langt inn með Ósum að norðanverðu. Ósarnir eru sem dálítill fjörður, sem gengur til austurs inn úr Hafnavík. Inst skiftist hann í smávoga, og kallast þeir Ósabotnar. Er löng bæjarleið frá Þórshöfn inn að KirkjuVógi forna. Þar sem bærinn var, er rústabunga mikil. Þar er alt nú blásið hraun, þó er rústin að nokkru leyti grasgróin. Er eigi hægt að sjá grein á húsaskipun og eigi sést með vissu hvar kirkjan hefir verið. En kunnugir menn vita það, því mannabein hafa fundist þar, er kirkjugarðurinn blés upp. Voru þau flutt að Kirkjuvogi. Var það nálægt aldamótunum 1800, að bein voru síðast flutt þaðan, en sagt er að nokkuð hafi verið flutt áður, smátt og smátt.“

Heimild:
-Árbók Hins ísl. fornleifafélags, 01.01.1903, Rannsókn í Gullbringusýslu og Ánessýslu sumarið 1902 eftir Brynjúlf Jónsson, bls. 39-41.

Ósabotnar

Ósabotnar – götukort.

Básendar

Gengið var um Básenda frá Stafnesi í fylgd Magnúsar frá Bala. Farið var um gömlu steinbrúna austan Básendahóls á leið að gamla brunninum austan gömlu búðanna. Brunnurinn er greinilegur. Efstu hleðslur sjást, en að öðru leyti er hann fullur af sandi.

Básendar

Básendar – brunnur.

Í fornleifaskrá fyrir Básenda er brunnurinn sagður horfinn í sandinn. En raunin virðist önnur. Þá var gamla hústóttin á Básendum skoðuð, en bærinn, ásamt öðrum húsum, s.s. búðinni, lýsisbræðslunni, fjósinu og hlöðunni, eyðilögðust í Básendaflóðinu árið 1799. Verslunarhúsið var flutt í spýtum til Keflavíkur. Sjá má grunn hússins á Básendum.

Mesta flóð sem sögur fara af á Suðurnesjum og raunar landinu öllu er svokallað Básendaflóð, heitið eftir Básendum. Það er að öllum líkindum flóð sem aðeins gerist með mjög margra alda millibili.

Básendar

Básendar – festarhringur.

Í Suðurnesjaannál, Rauðskinnu hinni nýrri, er svohljóðandi lýsing:
„1799. Eftir nýár, aðfaranótt 9. janúar, gjörði ofsalegt sunnanveður af hafútsuðri, höfðu þó komið önnur lík, en eigi jafnmikil. Fylgdi veðri þessu mikið regn, þrumur og leiptranir í stórstraum og var himinninn allur ógurlegur að líta. Það með fylgdi óskaplegt stórbrim og hafrót með miklum fallþunga og ægilegri flóðbylgju. Urðu skemmdir miklar hvarvetna…. Í Grindavík eyðulögðust tún á tveim bæjum, og önnur stórskemmdust, fimm hjáleigur spilltust, sex skip brotnuðu, átta manns meiddust og hundruð fjár fórust….

Básendar

Básendar – bærinn.

Básendakaupstaðurinn hjá Stafnesi eyðilagðist alveg, því að öll höndlunarhús braut sjór og veður, svo að þar stóð ekkert eftir og rótaðist grundvöllurinn sjálfur, enda gekk sjór 164 faðma upp fyrir efstu hús kaupstaðarins. Fórst einn maður, en Hannes kaupmaður bjargaðist í dauðans angist með konu sína og börn hálfnakin heim að Loddu, hjáleigu frá Stafnesi. (Lodda er tóft austan við Stafnes, en fyrirhugað er að rissa Stafnessvæðið upp við tækifæri). Fiskigarðar og túngarðar á Nesinu sópuðust heim á tún, sums staðar tóku af skipsuppsátur og brunna og átta skip brotnuðu. Tveir bátar fuku í Njarðvíkursókn og fundust eigi síðan og einn brotnaði, 4 bátar í Útskálasókn. Miklir skaðar á Vatnsleysuströnd og Innnesjum og vestur um allt land, sem menn vissu ekki dæmi til eins stórkostlegt, um allt land á einni nóttu“.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Neðan tóttarinnar að norðanverðu er Básendavörin og má enn sjá för eftir kjalför bátanna á klöppunum. Austan tóttarinnar er gamla réttin og vestan hennar eru kengir, sem bátar í víkinni voru festir við allt frá því á 16. öld.

Básendar

Letursteinn við Básenda.

Ef vel er gáð má sjá einar 5 til 7 kengi með víkinni og á skerjum, en í allt eru þeir 9 talsins. Draughóll með dysinni upp á var skoðaður og síðan gengin gamla Hrossagatan yfir að Þórshöfn. Á leiðinni lýsti Magnús miðum og kennileitum, s.s. Svartakletti með ströndinni, en hann var notaður sem mið í Keili, Mjóuvörðu efst á Miðsnesheiðinni, en hún var notuð sem sundvarða o.fl. Á leiðinni fann göngufólk m.a. vínleirkúta í fjörunni og var tappinn enn í sumum þeirra.
Leitað var að áletruðu Hallgrímshellunni á holti norðan Þórshafnar og síðan litið á leturklöppina ofan hennar. Á henni má sjá ýmis ártöl og fangamörk. Í bakaleiðinni var komið við í Gálgum, gömlum aftökustað, sem heimildir eru
til um.
Gangan tók 2 klst og 2 mín. Gengið var í ágætu veðri. Rigningin beið uns göngunni var lokið. Til fróðleiks er gaman að geta þess að FERLIR hefur, þrátt fyrir reglulegar ferðir, einungis tvisvar lent í rigningu á ferðum sínum.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Básendar

Aðfararnótt 9. janúar árið 1799 gerði stórkostlegasta sjávarflóð um margar aldir. Bátsendakaupstaður eyddist og mörg býli fóru í auðn. Ein kona drukknaði, mörg hundruð bátar brotnuðu og fénaður fórst.

Stafnes

Við Stafnes – steinbrú.

“Sjór gekk á land um stærstan straum í stórviðri af útsuðri á allri strandlengjunni austan frá Þjórsá og allt vestur um Breiðafjörð. Varð í þessu flóði meira tjón á mannvirkjum, bátum, varpstöðvum og löndum en menn vita áður dæmi um á einni nóttu, auk þess, sem fórst af fénaði og matföngum. Fygldi flóðinu regn mikið, þrumur og eldingar, og fannst mörgum því líkast sem himinn og jörð væri að farast.

Stafnes

Stafnes – uppdráttur ÓSÁ.

Hést er svonefnd Háeyrarflóð til samjafnaðar við þessar hamfarir. Það varð að kvöldlagi í janúarmánuði árið 1653 í svipuðu veðri og nú og olli mestu tjóni á Eyrarbakka, í Selvogi og Grindavík. Þó mun það hvergi nærri hafa gert annan eins usla og þetta flóð.
Fólk allt gekk til hvílu að venju að kvöldi hins 8. Þessa mánaðar. Var þá aðfall og hávaðarok með miklum sjógangi og ógurlegu brimhljóði. Er skemmst frá því að segja, að veður færðist mjög í aukana upp úr lágnættinu, og litlu síðar tók sjór að ganga á land á strandlengjunni sunnan Reykjanesskaga, um Suðurnes öll, Innes, Kjalarnes, Akranes, Mýrar og Snæfellsnes.

Kaupstaðurinn í Bátsendum tók af með öllu, og flest kaupstaðahúsin á Eyrarbakka og Búðum á Snæfellsnesi eyddust. Nokkur býli á sjávarbökkum sættu sömu örlögum. Uggði fólk ekki að sér, fyrr en sjór tók að bylja á híbýlum þess og streyma inn í þau, og veggir hrundu í brimsúgnum. Björguðust menn víða mjög nauðulega úr þessu fári, og þoldu sumir mikla vosbúð og hrakninga.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Kaupmaðurinn á Bátsendum, Hinrik Hansen, vaknaði við það klukkan tvö um nóttina, að hrikti í hverju tré í húsinu. Litlu síðar heyrði hann, að þung högg tóku að dynja á því, líkt og veggbrjót hefði verið beint að því. Svartamyrkur var á, en kaupmaðurinn hafði ekki eirð í sér, snaraðist fram úr rekkju sinni og ætlað að líta út til þess að gæta að, hverju þetta sætti. En þegar hann opnaði húsdyrnar, flæddi sjórinn í fang honum.

Sjóvarnargarður, sem hlaðinn var í hálfhring um húsið og verslunarsvæðið, hafði sýnilega brostið, og sjór æddi um allt plássið. Með því að sífellt hækkaði í, streymdi sjórinn linnulaust inn í herbergin, og við það flúði heimilisfólkið, kaupmaðurinn, kona hans, Sigríður Sigurðardóttir frá Götuhúsum, börn þeirra fjögur, sjö til sextán ára, og stofuþerna þeirra, upp á húsloftið.
Þar hafðist það síðan við hálfnakið til klukkan sjö um morguninn. Var húsið þá allt laskað og skekkt af brimgangi og tekið að riða mjög, svo að ekki var annað sýnna en það hryndi þá og þegar.

Básendar

Básendar – gamli bærinn.

Kaupmaður braut þá glugga á loftinu og lét sig síga niður í hafsjóinn úti fyrir. Tókst honum að vað með sjö ára dóttur sína í fanginu að fjósi, er stóð lítið eitt hærra en íbúðahúsið, og fylgdu kona hans og synir þeirra þrír, þrettán til sextán ára, á eftir ásamt vinnukonunni. En þegar fólkið hafði aðeins verið örskamma stund í fjósinu, brast mæniás þess undan ágjöf á sjóblautt þakið, svo að þau urðu enn að hrökklast undan. Að þessu sinni var flúið í hlöðuna.

Básendar

Básendar – festarhringur.

Fólkið hélst ekki við í hlöðunni nema stutta stund. Þakið tættist af henni í hörðum sviptivindi, og leitarnar blöktu eins og pappírsarkir í storminum. Þóttist Hansen sjá fram á, að fólkið myndi ekki lifa af í tóftinni, svo að það ráð var tekið að yfirgefa kaupstaðinn með öllu, þótt ekki væri fýsilegt að leggja út í myrkur og fárviðri með konuna og börnin nálega klæðvana.
Hélst fjölskyldan í hendur svo að enginn týndist, og skreið jafnvel í hörðustu hrinunum, því að þá var óstætt með öllu. – Þannig náði fólkið loks um morguninn að Loddu, hjáleigu rétt hjá Stafnesi, nær dauða en lífi.
Þrjú hjú kaupmannsins á Bátsendum bjuggu í torfkofum skammt frá timburhúsinu, ásamt nær áttræðri konu, niðursetningi, sem lengi hafði legið í kör, Rannveigu Þorgilsdóttur að nafni.
Þessu fólki varð að sjálfsögðu ekki svefnsamt, en ekki uggði það þó að sér, fyrr en kofarnir voru umflotnir sjó. Þegar því varð ljóst, að hverju fór, rauf það þekjuna og skreið þar út. Rannveig var rifin upp úr körinni og dregin út um gatið, en veðrið lamdi hana niður, þegar hún kom út á plássið, og þar drukknaði hún. Vinnuhjúin komust hins vegar lífs af með harðfylgi.

Básendar

Festarkengur á Básendum.

Þegar flóðið rénaði og birti af degi, ást, að byggingar allar höfðu ýmist sópast brott eða falið í rúst, þar á meðal sölubúð, vöruskemma mikil, bræðsluhús og gripahús. Sex bátar höfðu brotnað í spón og sjóvarnargarðurinn gerfallið. Allt verslunarsvæðið er kafið grjóti, möl og sandi, og upp á brotnu þaki eins hússins, fjórum álnum ofar grundvelli, situr rekadrumbur fastur, en þangað hefur brimið slöngvað honum. Talið er, að sjór hafi gengið lengst 164 faðma á land upp fyrir kaupstaðinn.

Enn er ótalið mikið tjón, er varð á Suðurnesjum. Þar sópuðust fiskigarðar, sem fyrirskipað hafði verið að hlaða á undanförnum áratugum, heim á tún, brunnar fylltust, uppsátur eyðilögðust, og sums staðar fóru töðuvellir undir möl. Allmörg skip brotnuðu einnig og á Vatnsleysuströnd tíu bátar.
Í Keflavík skemmdist kaupmannshús, timburkirkjan á Hvalsnesi fauk, kirkjan í Kirkjuvogi skekktist, og Kálfatjarnarkirkja laskaðist.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

En má hnýta því hér við, að í Grindavík spilltust fimm hjáleigur, og tók af völl á tveimur, hundrað kindur drápust, og sex skip brotnuðu.”
Þótt nú sé fátt á Bátsendum (Básendum) er sýnt getur aðstæður þar þennan örlagaríka dag árið 1799 má þó enn sjá ýmislegt ef vel er að gáð. Brunnurinn er t.d. ofan við það sem húsin stóðu, sökkla timburhúsanna má sjá þar, tóftir ofan við vörina, a.m.k. þrjá festarkengi frá tímum konungsverslunarinnar, Brennuhól þar sem eldur var kyntur til leiðsagnar sjófarendum, auk þess sem aðstæður við Bátsenda gefa fólki mynd af því hvernig gæti hafa verið umhorfs þarna fyrr á öldum þegar umsvifin voru hvað mest. Garðar eru hlaðnir utan og ofan við Básenda um túnbleðla, þar er nokkuð heilleg hlaðin rétt og tóftir má sjá nálægt brunninum.

-Öldin okkar 1799.

Básendar

Básendar – gamli bærinn í sjó fram.

Vörðuhólmi

Í Vísi 1925 er sagt frá landamerkjadeilu Stafnesinga og eigenda Kirkjuvogs.

„Frá Hæstarétti í gær.

Vísir

Vísir 1925.

Þar var sótt og varið málið: „Eigendur Stafnness eigendum Kirkjuvogs. Mál þetta er risið út af ágreiningi um landamerki milli jarðanna Stafnness og Kirkjuvogs á Miðnesi, og er svo vaxið, sem nú skal greina“.
Árið 1884 var landamerkjaskrá Stafnness rituð og staðfest, lögum samkvæmt, og virðist þá enginn ágreiningur hafa orðið um landamerki jarðarinnar; þau eru sögð „hin sömu, sem verið hafa frá ómunatíð“, og síðan lýst í skránni.
Árið 1922 var svo komið, að ágreiningur var orðinn um landamerki milli Stafnness og Kirkjuvogs. Málsaðiljar áttu þá sáttafund með sér (10. apríl), og gerðu svolátandi sætt: „Landamerki á milli Stafnneshverfis og Kirkjuvogsjarða séu eins og þau eru ákveðin í landamerkjaskrá fyrir Stafnnes, frá 4. desbr. 1884, að viðbættri línu úr svonefndri „Gömlu þúfu“ á Háaleiti í Beinhól, og verða þá landamerkin þannig: „Úr svonefndri „Gömlu þúfu“ á Háaleiti í „Beinhól“, sem liggur fyrir botni Djúpavogs, úr „Beinhól“ í Djúpavog, þaðan beina línu í ós austanundir „Vörðuhólma“, þaðan sunnanundir „Selskeri“ og „Hestakletti“ og þaðan á sjó út.“

Hestaskjól

Hestaskjól (Hestaklettur).

Ekki höfðu aðiljar sjálfir gengið á merkin, þá er þeir gerðu sætt þessa, en munu hafa treyst því, að þar væri um ekkert að villast. En brátt kom það í ljós, að eigendur jarðanna urðu ekki á eitt sáttir um, hvar þeir staðir væri sumir, sem getið er í merkjaskránni. Eigandi Stafnness leitaði þess vegna til sýslumannsins í Gullbringu- og Kjósarsýslu, og beiddist þess, að kvatt yrði til annars sáttafundar með eigendum jarðanna, og var hann haldinn 10. desember 1922.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Sáttatilraun varð árangurslaus og málinu síðan vísað til landamerkjadóms, og sátu hann þeir Sigurgeir Guðmundsson hreppstjóri í Narfakoti og Þorsteinn Þorsteinsson, kaupm. í Keflavík, ásamt formanni dómsins, sýslumanni Gullbringu- og Kjósarsýslu.

Beinhóll

Beinhóll – LM-merking.

Dómur þeirra var á þessa leið: „Landamerki á milli Stafnnesjarða í Miðneshreppi annars vegar og Kirkjuvogsjarða í Hafnahreppi hins vegar skulu vera þau, er hér greinir: Úr Gömlu þúfu á Háaleiti í „Beinhól“, sem liggur fyrir botni Djúpavogs, úr Beinhól í miðjan Djúpavogsbotn við stórstraumsflóðmál, hvar varanlegt merki skal sett, auðkennt L.M. Þaðan bein lína um ósinn í vörðu þá, er stendur á suðurenda Vörðuhólma, er skal rauðkennd L.M. með varanlegu millimerki, er sett skal á Illaklif, einnig auðkennt L.M. – Frá Vörðuhólma sunnan um Selsker og; Hestaklett á sjó út.
Málskostnaður, samtals kr. 253.00, greiðist að helmingi af eigendum Stafnnestorfunnar, en að helmingi af eigendum Kirkjuvogstorfunnar.
Dóminum, að því er dæmdan málskostnað og setning landamerkja snertir, ber að fullnægja innan 15 daga frá lögbirtingu hans, undir aðför að lögum.“

Beinhóll

Beinhóll – merki.

Eigendur Stafnness skulu dómi þessum til Hæstaréttar og sótti Jón Ásbjörnsson málið. Krafðist hann þess a hinn áfrýjaði dómur yrði feldur úr gildi og merkjadómurinn skyldaður til þess að taka málið upp að nýju. Einkanlega lagði hann áherslu á það, að samkvæmt dómi þessum hefði landspilda nokkur, norðan Djúpavogs, gengið undan Stafnnesi. Segja munnmæli, að þar hafi áður staðið bærinn Kirkjuvogur (sem sjá má á uppdrætti herforingjaráðsins), en J.A. færði fram vottorð fyrir því, að land þetta hefði um langan aldur legið undir Stafnnes.
Verjandi var Sveinn Björnsson og krafðist hann þess, að dómurinn yrði staðfestur, og áfrýjandi dæmdur til að greiða allan málskostnað. Taldi hann Stafnnesinga enga heimild hafa til þessa áðurnefnda lands, samkvæmt sjálfu landamerkjabréfinu.

Ósar

Ósar – herforingjaráðskort 1903.

— En að öðru leyti er ekki kostur að skýra frá deilum þeirra hæstaréttarmálaflutningsmannanna, svo að ókunnugir hafi þess full not, nema birta jafnframt uppdrátt af þrætulandinu, en Vísir hefir hann ekki á takteinum, og lýkur hér frá þessu máli að segja.“

Heimild:
-Vísir, 6. tbl. 08.01.1925, Frá Hæstarétti – landamerki Kirkjuvogs og Stafness, dómur, bls. 2.

Vörðuhólmi

Vörðuhólmi – LM-merki.

Stafnes

Gengið var frá Sandgerði að Básendum undir leiðsögn Reynis Sveinssonar, forstöðumanns Fræðaseturs Sandgerðis, björgunarsveitarmanns, Lionsmanns og formann safnaðarnefndar Hvalsnessóknar, bæjarfulltrúa o.fl. Reynir kunni skil á öllu í nútíð og þátíð, auk þess sem hann hafði skoðun á hverju, sem fyrir augu bar.

Hvalsnes

Á Hvalsnesi með Reyni Sveinssyni.

Gengið var um Sandgerðisfjörur, Melgerðisfjörur (hvítar sandbaðstrendur), Másbúðarhólma, Fuglavík og skoðuð Hvalsneskirkja. Í kirkjunni lýsti Reynir kirkjum á staðnum frá öndverðu, viðkomu Hallgríms Péturssonar, letursteini Steinunnar dóttur hans og smíði þeirrar kirkju, sem nú stendur í Hvalsnesi.
Hvalsneskirkja var reist á árunum 1886-87 og sóknarpresturinn vígði hana á jóladag 1887. Ketill Ketilsson, hreppsstjóri í Kotvogi og eigandi Hvalsnessjarðarinnar, lét reisa kirkjuna. Hún er hlaðin úr tilhöggnum steini. Magnús Magnússon, múrari frá Gauksstöðum í Garði, hafði umsjón með því verki, en hann drukknaði veturinn 1887.
Þá tók við verkinu Stefán Egilsson, múrari úr Reykjavík. Magnús Ólafsson, trésmíðameistari úr Reykjavík, sá um tréverk. Kirkjan var tekin til gagngerra endurbóta 1945 undir umsjón Guðjóns Samúelssonar, húsameistara ríkisins.

Stafnes

Á Stafnesi.

Mesti dýrgripur kirkjunnar er vafalaust legsteinninn, sem séra Hallgrímur Pétursson hjó og setti á leiði Steinunnar, dóttur sinnar. Steinninn fannst, þegar grafið var fyrir stétt, sem steypa átti fyrir framan kirkjudyr 1964. Hann mun hafa legið þar alllengi, jafnvel verið fluttur á þann stað úr kirkjugarði þegar kirkjan var reist. Steinninn hefur einhvern tíma brotnað og vantar því stafi aftan á nafnið svo og síðasta staf ártalsins, en það mun eiga að vera 1649.
Þá gengið um Stafnes. Mikið er um minjar á svæðinu.

Stafnes

Á Stafnesi.

Stafnes var höfuðból að fornu. Þar var um aldir mikið útræði og fjölbýli á staðnum. Konungútgerð hófst þar um miðja 16. öld og stóð til 1769. Voru landsetar af konungsjörðum suðvestanlands skyldurgir til að róa á árabátum þaðan fyrir harla lítil laun. Á 17. og 18. öld var Stafnes fjölmennasta verstöð á Suðurnesjum.
Ótrúlega mikil og margbrotin saga af mannlífi fyrri alda birtist göngufólki á ekki lengri leið. Þótt Miðnesheiðin sé ekki há eða löng urðu t.d. 25 manns úti á henni á árunum 1860-1890.
Veður var frábært, sólskin og logn – Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

Jón forseti

Í Sunnudagsblaði Tímans árið 1967 má lesa eftirfarandi um strand Jóns forseta við Stafnes. Það er einn skipverjanna, Gunnlaugur Jónsson, sem segir frá:

Morgunblaðið birti veðurhorfur á sunnudeginum 26. febrúar, 1928: Snarpur sunnan og suðaustan. Hlókuveður.
Niðamyrkur var og stríð gola úr landsuðri. Jón forseti hefur verið tvo sólarhringa á veiðum í Jökuldjúpi og stefnir nú fyrir Reykjanesskaga.
Jon forseti - 221— Ég á vakt klukkan þrjú um nóttina, og halla mér því eftir kvöldsnæðing. Eftir fjögurra stunda væran svefn vakna ég snögglega við feiknlega skruðninga og bresti. Skipið nötrar, og skerandi málmhljóð nístir merg og bein. Mér verður þegar ljóst, að við höfum steytt á rifi. Ég snarast fram úr kojunni, þríf stígvélin og kemst í þau með erfiðismunum. Allt hrikktir og skipið skelfur, svo að varla er stætt. Í óðafári böðlast ég upp á dekk og sé, að skipið er við klettótta strönd og skammt undan klýfur vitageisli myrkrið. Allt um kring rísa og falla ógnvænlegir boðar, lemja utan skipið og kasta því til á grjótinu. Ég sé ekki yfir sjóina, og er þó lágfjara.
Ég staulaðist aftur þilfarið, og við áhafnarmenn tökum tal saman í brúnni. Skipið hefur rekizt á svonefnt Stafnesrif. Ljósgeislarnir koma frá vitanum í Stafnesi, en til lands eru um það bil þrjú hundruð og fimmtíu faðmar. Fyrir innan rifið er hyldjúpt lón, Hólakotsbót, og er þar stilltur sjór, þótt rifið sjálft sé umleikið hvæsandi brimgarði. Allir erum við vongóðir um að ná landi, komi björgunarsveitir fljótt á vettvang. Sent hefur verið neyðarkall, og er nú ekki um annað að ræða en að bíða, herða upp hugann og vera bjartsýnn.
Skipið er alónýtt. Fyrsti meistari segir mér, að stórt bjarg hafi skorizt inn í vélarúmið og megi geta nærri, hvað fylgt hafi á eftir. Nokkrir skipverja láta þau orð falla, hvort ekki sé reynandi að setja út bjargbátinn, og þykir mönnum sjálfsagt að fara til þessa. En þá er fjarað svo út, að báturinn lendir í urðargrjóti og spænist sundur undan boðunum. Megum við lofa guð og lukkuna, að enginn skyldi álpast strax í bátinn, því það hefði orðið hvers manns bani.
— Segðu mér Gunnlaugur, hvers vegna strandaði Jón forseti við Stafnes í hægu veðri og tiltölulega góðu skyggni?
— Þar voru óheilladísir að verki. Maðurinn við stýrið tók stefnu beint í klettana og hefur trúlega haldið, að Stafnesviti væri Reykjanesviti. Mér dettur engin önnur skýring í hug.
— Var skipstjóri ekki í brúnni?
— Nei. Magnús blundaði í klefa sínum, en hásetar á vakt höfðu sagt honum af Garðskagavita, og hann var í þann veg að fara upp. Að vísu er skipstjórans að tilkynna stefnubreytingu, en maðurinn við stýri átti að þekkja siglingaleiðina fyrir Reykjanesskaga svo vel, að hann gerði ekki skyssu eins og þessa. Ég man ljóslega, að Magnús sagði við okkur í brúnni: „Ég skil ekki í manninum.“ Hann var fátalaður eftir það.

Stafnes

Stafnes.

Jón forseti tók niðri um klukkan eitt á mánudagsnóttina tuttugasta og sjöunda febrúar, og barst váfregnin þegar til fjölmargra skipa, er á siglingu voru undan Suðvesturlandi. Tryggvi gamli, skipstjóri Kristján Schram, var næstur slysstaðnum, og kom hann þangað fyrstur klukkan sex um morguninn. Áhöfn Tryggva gamla sá þó ekki Jón forseta fyrr en klukkan hálf átta, og þá virtust engir vera þar ofan þilja. Hallaðist skipið mikið á bakborða og dundu á því sjóirnir.
Óheillatíðindi fara sem eldur á akri, og leið ekki langur tími, unz stjórnarmönnum h.f. Alliance í Reykjavík var tilkynnt um strandið. Þegar í stað byrjaði björgunarsveit undir forystu Halldórs Kr. Þorsteinssonar og Jóns Sigurðssonar ferð sína að Stafnesi. Var komizt á bifreiðum til Fuglavíkur, en þaðan var drjúg klukkustundar reið í Stafnesfjörur og torleiði mikið. Lauk ferðinni árla morguns hjá Stafnesi, og voru þá fyrir utan rifið þessi skip: Tryggvi gamli sem áður getur, Ver og Hafsteinn, og skömmu síðar komu Þór og Gylfi.
Veðurlag hélzt óbreytt, sunnanátt og hláka. Í Jóni forseta er vistin slæm. Enn grúfir vetrarmyrkrið yfir, og nú fellur að. Æsist brimrótið. Nær helmingur skipverja er í lúkarnum, en hinir standa í brúnni, þeirra á meðal Gunnlaugur.
— Ég er ekki rór, hvað sem veldur, og sný mér því að skipstjóranum og segi í hugsunarleysi: Ég held ég fari fram í til karlanna. Honum hnykkir við þessi orð. Hann lítur á mig hvasseygur og svarar þykkjuþungur: Nei, Gunnlaugur, þú verður hér kyrr. Ég fyrirbýð ykkur að brjótast á milli. Boðarnir eru svo slæmir. Mér þykir illt að hlýða banni Magnúsar, en læt þó talið niður falla og þoka mér frá honum. Er ég kominn að brúardyrunum, þegar mér heyrist rödd hvísla í síbylju: Þú ferð, þú ferð, þú ferð, þú ferð, . . . , og ég læðist út, í senn fífldjarfur og hikandi. Sjóirnir hafa magnazt, þrymja, svella og brotna á þilfarinu. Skipinu hallar, og er enginn hægðarleikur að beita sér til gangs. Ég gríp báðum höndum í ljósastagið, og með herkjum get ég þannig þumlungað mig fram í lúkarinn. Í lúkarnum er líðan allra góð. Þar er þurrt, og karlarnir í óða önn að búa um föggur sínar niður í poka og bera þá upp á hvalbak. Ég fer að dæmi þeirra. Nú birtir af degi. Komið er háflóð. Við verðum nauðugir að hreiðra um okkur á hvalbaknum og sláum þar utan yfir okkur trossu. Nokkrir fara í reiðann, en af þeim, sem eftir voru í brúnni, hafast þrír við uppi á stýrishúsinu. Brimið er geigvænlegt. Við á hvalbaknum erum betur settir en brúarmenn, þar eð við sjáum, hvað brotunum líður. Þeir snúa hins vegar í þau bökum og horfa gegnt okkur.

Stafnes

Stafnes – örnefni. ÓSÁ.

Líður svo af morguninn. Um klukkan tíu æðir válegur boði og feiknmikill að skipinu, og við öskrum til brúarmanna, að þeir skuli vera reiðubúnir, gefum bendingar og pötum út í loftið. Ef til vill hafa þeir ekki haft auga með okkur. Sjórinn brotnar tvisvar áður en hann skellur á skipinu, og ekki að síður rífur hann skorsteininn hálfan af, mélar brúna og tekur sjö menn út. Frá okkur hrekur einn mann, en við náum honum aftur inn. Þessi atburður dregur úr mörgum kjark um stund, og lífsvon, sem okkur hefur fylgt fram til þessa, virðist stunum jafnvel skopleg bjartsýni. Ég hugsa sem svo, að nú sé annað hvort líf eða dauði á næsta leyti og valið sé ekki mitt, en ég geti reynt að þrauka. Að þrauka og þrauka, að vilja ekki deyja, að þrauka, það er okkar hlutur. Sökum boðafalla er óhægt að dveljast lengur á hvalbaknum, og raða menn sér í reiðann. Er hann þröngskipaður svo hátt sem komizt verður. Förin í reiðann er flestum sæmilega greið, nema hvað þann, sem lestina rekur, hrifsar holskefla útbyrðis, og getum við enga hjálp honum veitt. Þetta er harðger maður, flugsyndur, og grípur hann þegar sundtök í átt til lands, en svo er straumur í Bótinni stríður, að félaga okkar hrekur andviðris á haf út, og eru dagar hans taldir.
Stafnes - 221Skipið sígur nú að framan og vagar á grjótinu. Stundum leggst reiðinn niður í urðina, og allir hljótum við einhver meiðsli. Ber ég þessa enn merki í andliti. Sérhvert skipti, sem reiðinn sígur, tauta ég við sjálfan mig: Nú fer mastrið, nú fer það, og þú ert dauður, karl minn, steindauður. — En Forsetinn reisir sig ætíð upp milli brotanna, og ekki lætur mastrið undan sjóganginum.
Nú tekur að falla út. Lægir brimrótið. Við sjáum tvo menn liggja á brúarvængnum, og þeir ríghalda sér, unz sjódrykkja ríður þeim að fullu. Greipar opnast, og tveimur skolar út í kalda röstina. Við hinir eigum að þrauka, og við skulum þrauka. Skip, sem á vettvangi voru, gátu lítið gert til björgunar. Hellt var niður lýsi og olíu í sjóinn, en brimið var meira en svo, að þessi austur kæmi nokkrum að haldi. Tóku þá skipverjar að slæða eftir líkum þeirra, sem útbyrðis höfðu fallið af Jóni forseta. Björgunarsveitin í landi fékk léðan áttæring og tvær skektur frá Stafnesi. Skyldi áttæringurinn liggja í landfestum, en smábátarnir notast sem dragferjur, ef takast mætti að koma línu út í hið strandaða skip. Tilraunir í þá átt báru þó engan árangur, og um hríð var lítil bjargvon. Strandfregnin birtist í glugga Morgunblaðsins árla dags, og dreif þangað múg manns. Sló óhug á Reykvíkinga við þessi sorgartíðindi, og í veðursæld vetrarins sáust engir brosa, nema börn. Var mánudegi þessum líkt við sjöunda apríl, árið nítján hundruð og sex, þegar drukknuðu nær sjötíu menn í Faxaflóa, tuttugu þeirra fyrir augum bæjarbúa hjá Engey og Viðey. Nú var Jón forseti, minnsta skip íslenzka togaraflotans, ofarlega í allra huga, og milli vonar og ótta biðu menn nýrra fregna af ættingjum, ástvinum og kunningjum, nýrra tíðinda frá Stafnesi.
Miðdegi. — Í reiðanum sjáum við, að áttæringur liggur fyrir landi, hjá honum tveir smábátar, og hafa björgunarmenn bundið átta lóðabelgi á aðra skektuna. Líður og bíður, og lánast þeim ekki að senda út línu til okkar í flakinu. Höfum við flestir glatað nær allri von um björgun úr landi. Þykir okkur einsætt, að viljum við lifa hljótum við að varpa okkur til sunds, kafa undir ólögin og reyna þannig að komast í ládeyðu. Að vísu skortir suma næga sundfimi en við erum þá dauðir hvort sem er. Ekki dettur mér í hug nokkurt líf, en ég er eigi að síður rólegur, og engin flýgur að mér hræðsla.

Jón forseti

Jón forseti.

Meðan við ráðgumst um þetta okkar á milli, rek ég augun í baujuræfil, sem hangir við mastrið. Eru af baujunni bæði sköftin, en kaðalhönkin virðist mér óröskuð. Ég lít upp til næsta manns og spyr, hvort ekki sé unnt að koma út baujunni í þeirri von að hana beri að bátunum inn á lónið. Nú sé fjara, brimrótiS stilltara en fyrr um daginn, og straumur ekki landstæður. Með aðgæzlu megi fikra sig að borðstokknum og fleygja út baujunni. Tillögu þessari er slælega tekið í fyrstu. En eftir stundarkorn kallar einhver til mín: Gunnlaugur, við skulum reyna þetta með baujuna. — Er hinar hafizt handa, og innan varpa ég baujunni út fyrir, hverfur og henni skýtur upp. Á baujunni hefur enginn augun, þar sem hana hrekur að lóninu og eftir fylgir visin líftaug þrettán manna. Fjöregg mitt er gúmmíbelgur, eymdarlegur gúmmíbelgur. Öldurnar henda honum milli sín, og stundum eins og þær vilji spotta mennina í reiðanum, geri leik að því að færa baujuna á kaf og halda henni þar lengi, svo að dauðans angist grípur alla. — Skorðast hún föst í grjótinu — Slitnar reipið? —Ber brimið hana til baka? — Skyldi reipið rekjast sundur á enda?
— Nær það nógu langt? — Tekst það? — Eða?
Enginn er til svars. í reiðanum ríkir þögn, og ekkert hljóð berst okkur til eyrna utan hryglandi hvæs boðanna. Það tekst. Ég setti líf mitt að veði fyrir einn gúmmíbelg, og aldrei hefur mér þótt jafn vænt um nokkurn dauðan hlut og þennan vesæla belg, þegar björgunarmennirnir slæða hann til sín í bátana. Nú birtir yfir svip okkar. Við höfum þraukað, og þetta eru launin. Í reipið er bundin taug, taugin fest í skektuna með lóðabelgjunum átta, og drögum við hana svo nærri flakinu sem vogandi þykir. Og þá er komið að hinum fyrstu að fara í bátinn. Einn okkar skipsfélaga i reiðanum er fátækur barnamaður, og finnst öllum miklu varða, að hann nái landi heilu og höldnu. Við segjum honum að varpa sér fyrstum í skektuna, en hann þvertekur fyrir það og svarar þrásinnis: „Ég fer næst, ég fer næst. Mér þykir ennþá af mikil ólga.“ Ég legg fast að manninum að yfirgefa flakið, en hann skeytir því engu og neitar sem áður. Ekki dugir að þjarka um þetta lengi, og annar maður hendir sér fyrstur útbyrðis. Hann er vel syndur, kafar undir
ólögin og kemst í bátinn. Næsti maður hverfur í brimið, hefur trúlega fengið krampa, og þá hikum við hinir um stund, svo að skektan er dregin strax að áttæringnum. Klukkan er fjögur. Lánast hefur að bjarga einum. Aftur togum við kænuna til okkar, en hún ee oftast í kafi og þung í drætti. Fara nú þrír úr reiðanum í skektuna, en þá brotnar stefnið við skipshlið, og slitnar samtímis taugin, sem höldum við í hinir. Björgunarmenn sjá þegar, hvað orðið hefur, og draga bátinn rösklega að landi, en við, skipsfélagar, sem eftir eru, hefjum leit að öðru dufli að binda við kaðalreipið og láta það reka inn á lónið. Að drjúgri stundu liðinni ber leitin árangur, og sagan endurtekur sig. Við togum til okkar nýja skektu, og komast nú fimm menn frá flakinu, þeirra á meðal ég sjálfur. Ég hef drukkið mikinn sjó og er vinglaður, svo að ég veiti því tæpast athygli, þegar björgunarmenn lyfta mér úr bátnum og ég er leiddur upp ströndina, en þar bíður okkar Helgi Guðmundsson, læknir í Keflavík og gerir að sárum manna.
Nú rökkvar óðum, enda liðið á sjötta tímann. Eru þrír skipverja eftir í reiðanum, og gengur þeim illa að draga skektuna að flakinu og halda henni þar kyrri í brimrótinu, sem æsist fremur en stillist. Fer svo að lokum, að dráttartaugin brestur, og er þá öll bjargvon úti, nema þessum þremur takist að synda í land. 

Jón forseti

Jón forseti á strandstað.

Tveir varpa sér fyrir borð, en hinn fátæka barnamann, sem áður kom við sögu, skortir áræði til sunds, og verður hann um kyrrt í reiðanum. Mennirnir tveir synda hins vegar lengi og knálega, og kemst annar í skektuna, og er hún dregin að áttæringnum. Náð er hinum nokkru síðar, og er þá svo af honum dregið, að hann deyr, þrátt fyrir lífgunartilraunir læknis. Vonlaust er nú talið, að bjarga megi þeim, sem í flakinu dvelur, og lætur sveitin af frekari björgunartilraunum. Henni eiga tíu menn líf sitt að launa, og er björgun þeirra mikið þrekvirki við slíkar aðstæður sem hjá Stafnesi.
Um kvöldið sigldu öll skip frá slysstaðnum, nema hvað strandgæzluskipinu Óðni var haldið í námunda við rifið um nóttina. Beindu skipverjar kastljósum að mastrinu á Jóni forseta, en þar lét hinn fátæki barnamaður fyrir berast og hreyfði sig hvergi. Klukkan tíu á mánudagskvöld kom Tryggvi gamli með lík fimm manna til Reykjavíkur. Þeim var þegar ekið í líkhús og um þau búið sem hæfa þótti.

Jón forseti

Jón forseti.

Nóttin hin næsta varð mörgum beizk og bitur, og mun þarflaust að lýsa hér tilfinningum þeirra, sem á bak sáu nánustu samferðamönnum og ástvinum. Svo er ritað í grein í Morgunblaðinu hinn fyrsta marz: En Reykvíkingar sýndu sorgbitnum samúð þá, og svo hygg jeg að enn muni verða. Því svo er háttað með okkur hjer í borginni, að þó við aðra stundina rífumst og bítumst, sem gráir seppar eða gaddhestar um illt fóður, þá kennum við samúðar hver með öðrum, þegar þungar raunir steðja að bræðrum vorum og systrum. Sýna Reykvíkingar þá oft í orði og verki, að það er sannur vitnisburður um þá, að þeir mega ekkert aumt sjá eða bágt heyra. Skipbrotsmenn sofa í Stafnesbænum þessa döpru nótt.
— Ég vakna árla morguns, og er þá vonlega velktur mjög og blámarinn innanvert á lærunum, en get þó skreiðzt á fætur. Geislarnir frá Óðni lýsa upp svefnstofuna, og kemur mér þá félagi okkar, barnamaðurinn, í hug. Þykir mér sjálfsagt að reyna að klöngrast niður að ströndinni og kanna, hvernig honum reiði af i flakinu. Förum við tveir, en hinir átta geta sig lítið hreyft sökum meiðsla. Vindur er snarpari en daginn áður og hafrótið meira. Þegar við göngum ofan í klettana, sjáum við félaga okkar í mastrinu. Lítur svo út, sem hann hafi bundið sig, því hann hreyfir einungis höfuðið og bifast hvergi, þótt flakið vagi á rifinu, Óefað er honum ekki lífs auðið. Í flæðarmálinu r

ekumst við á lík af einum skipverja. Hann hefur verið ásamt okkur í þrjá daga, og við þekkjum hann lítið.
Um klukkan átta stöndum við aftur hjá Stafnesbænum, og sjáum þá, að holskefla liðar flakið sundur, mastrið fellur, og innan stundar, sleikir hrá dagskíma bera klöppina.

Jón forseti

Jón forseti.

Hinn tuttugasta og áttunda febrúar birtust í Morgunblaðinu nöfn og heimilisföng þeirra, sem björguðust:
Bjarni Brandsson, bátsmaður, Selbrekkum.
Magnús Jónsson, Hverfisgötu 96.
Pétur Pétursson, Laugavegi 76.
Sigurður Bjarnason, Selbrekkum.
Kristinn Guðjónsson, Selbrekkum.
Steingrímur Einarsson, Framnesvegi.
Gunnlaugur Jónsson, Króki, Kjalarnesi.
Steinþór Bjarnason, Ölafsvík.
Frímann Helgason, Vík, Mýrdal.
Ólafur I. Árnason Bergþórugötu 16.
Fimmtán menn fórust á Stafnesrifi, og var hinn elzti fjörutíu og sjö ára að aldri, en tveir hinir yngstu sautján ára. Sjö hinna látnu voru kvæntir, og létu þeir eftir sig þrjátíu og fjögur börn, en bryti á Jóni forseta drukknaði ásamt átján ára syni sínum, sem var elztur níu systkina. Í Reykjavík var þegar efnt til samskota að styrkja föðurlaus heimili, og var fyrsta framlagið frá h.f. Alliance, fimmtán þúsund krónur.
Hinn áttunda marz voru tíu skipverja bornir til grafar, en þá voru fimm lík enn ófundin. Var útför allra gerð frá Fríkirkjunni, og mun það vera fjölmennust helgiathöfn á Íslandi fyrr og síðar. Sóttu hana sex til sjö þúsund manns, og náði líkfylgdin frá kirkjunni sjálfri í miðja Suðurgötu. Í gamla kirkjugarðinum í Reykjavík biðu níu opnar grafir. Hin níunda beið föður og sonar – jöm.“

Sjá umfjöllun RÚV af strandi Jóns forseta HÉR.

Heimild:

-Tíminn Sunnudagsblað, 2. júlí 1967, bls. 564-569.

Stafnes

Á Stafnesi.

Hallgrímshella

SG tók eftirfarandi saman um „Hallgrímshelluna„, byggt á heimildum og umfjöllun um helluna. Þar kemur m.a. fram að HPS-steinninn, sem nú er í geymslu Þjms. þarf ekki endilega að vera Hallgrímshella sú, sem um er getið í heimildum. Nafnið gæti einnig átt við um bungulaga klapparhæð, en nafnið síðan hafa færst yfir á nálægan ártalsssteininn – eða öfugt. Aðrar heimildir kveða á um að ártalssteinninn hafi verið í vörðu á Hallgrímshellu (Prestaklöpp). Spurningin er því; hvort kom á undan, eggið eða hænan.

Þórshöfn

Þórshöfn – áletrun.

„Í Árbók hins Ísl. Fornleifafélags árið 1903 er grein e. Brynjúlf Jónsson frá Minna-Núpi og þar segir: „Milli Básenda og Þórshafnar var mér vísað á vörðubrot, er steinn væri í með áhöggnu fangamerki Hallgríms Péturssonar og ártali. Það er og svo; fangmarkið er HP; en ártalið er 1728.“

(Jón Dan á Stafnesi segir 2005: “Hallgrímshellan” var í vörðubroti á Prestsklöpp.“ Flest það sem Brynjúlfur safnaði á Reykjanesi fékk hann frá heimafólki. Allflest skoðaði hann sjálfur með eigin augum og skráði. Mest af því sem hann skráði virðist hafa verið rétt staðsett sem og rétt skráð. Brynjúlfur vandaði sig mjög, en hann skráði m.a. þjóðsögur fyrir Jón Árnason, auk þess sem hann skráði til birtingar sögur, sem hann heyrði er hann dvaldi t.d. á vertíð hjá bóndanum í Klöpp í Grindavík (Guðmundi Jónssyni) fyrir aldamótin 1900. Hvernig hann fékk ártalið 17 hundruð er ekki gott að segja. Það gæti bent til þess að hann hafi ekki séð steininn sjálfur).

Ósar

Varða við Ósa.

Eftirfarandi er í endurriti frá Örnefnastofnun Íslands. Ritað eftir segulbandsupptöku, sem Guðleifur Sigurjónsson tók upp á heimili Guðm. Guðm. bónda (eldri) á Bala 24. nóv. 1986, en Guðmundur var fæddur 30. okt.árið 1902 og varð ca 95 ára gamall: „Annars var slóði hér suður með sjónum, og það er hérna á leiðinni, skammt fyrir utan Þórshöfn, hérna nær. Það er svona klapparbunga, sem er kölluð Hallgrímshella, og þar liggur vegaslóði, sem að hefur verið farinn einhverntíma, en hann er kominn undir sjó. Sjórinn gengur bara orðið yfir hann núna, en það sést fyrir því. Þegar farið er niður af þessari klapparbungu, þá sést slóði, og þar er vörðubrot og það er auðséð, að þessi vegur sem var nú farinn hérna seinna sem ég man eftir, að hann liggur mikið ofar í hrauninu heldur en þetta er. Og við þetta vörðubrot sem þarna er, þegar farið er niður af þessari klapparbungu. Þar var steinn og á honum stóð H.P.S. 1628, En það er búið að taka þennan stein, en hvert hann er kominn, það get ég ekki vitað. Ég hef verið að halda spurnum fyrir um hann, en einskis orðið vís, meira að segja ekki hjá þjóðminjaverði. Hvort setuliðið hefur tekið hann?. Hann er búinn að vera þarna síðan þetta var sett á hann.“

Hallgrímshella

Hallgrímshellan á vettvangi 1964.

(Í skráningu Þjóðminjasafnsins um “Hallgrímshelluna” segir m.a. „Þungur steinn aflangur sem í er klappað stöfunum HPS og beint þar fyrir aftan er klappað ártalið 1628. Steinn þessi var rétt vestan við Þórshöfn norðan Ósabotna, fast við gamla veginn. Menn hafa viljað halda, að Hallgrímur Pétursson hafi klappað þarna fangamark sitt, en hann kom ekki að Hvalsnesi fyrr en 1644 og er aðeins 14 ára árið 1628.“ Gripurinn hefur númerið 1974-120 í safninu.)

(Ljóst er að margir vegslóðar lágu jafnan næst ströndinni, en sjórinn braut þá jafnan undir sig. Nýir slóðar voru því gerðir ofan strandar jafnóðum. Klapparbungan “Hallgrímshella” hefur verið fyrir ofan gamlan vegslóða, en ofan hennar hefur annar myndast. Það passar við aðstæður nú því Guðmundur á Bala fór með FERLIRsfélögum að klapparbungu neðan núverandi “Gamlavegar” þegar hann var að leita að áletrunarsteininum. Þá sást enn móta fyrir hluta að gamalli götu neðan “hellunnar”.

Ósar

Varða við gömlu Kaupstaðagötuna.

Letursteinninn átti þá að vera á bungunni (væntanlega í vörðu). Það hafa því verið óljós nafnaskil milli bungunnar og vörðunnar (letursteinsins). Þess vegna gæti bungan alveg eins hafa dregið nafn sitt af letursteininum í vörðunni. Letursteinninn gæti einnig hafa verið í vörðu við gamla leið nær sjónum, en verið bjargað og færð ofar, yfir á holtið þar sem hún var 1974. Þá var hún ekki í neinni vörðu).

Næst kemur í sama viðtali við Guðmund:
„Ég var að halda að þetta gæti verið eftir Hallgrím Pétursson, því að hann átti nú leið þarna um þegar hann þjónaði Höfnunum, því að þessi Hallgrímshella hefur sennilega verið einhverskonar áningarstaður á leiðinni. Nú hann mynnist á hana hann Jón heitinn Thorarensen í bókinni Útnesjamenn.

Kaupstaðavegurinn

Kaupstaðavegurinn við Presthól.

Ég veit nú ekkert meira um þetta, en ártalið passar víst ekki, því að hann hefði þá ekki átt að vera nema 14 ára. Hann var fæddur 1614. En ártalið var greinilegt á steininum 16Z8, fyrst kom 16, þá Z í staðinn fyrir 2, og svo 8. Þá erum við komnir suður í Þórshöfn, þar er ósköpin öll af allra handa nöfnum á klöppunum fyrir ofan Þórshöfn, alveg skelfing.“

Svo kemur aðeins meira um Hallgrímshelluna: „. . . Skarfurð byrjar þarna fyrir utan þessa klapparbungu sem ég sagði þér um Hallgrímshelluna, en Hallgrímshella er rétt fyrir sunnan og ofan, fyrir endann á Skarfurð þar sem hún endar, því þetta er langur kampur, Skarfurðin, hún nær alla leið undir Djúpuvík . . . “

(Þessi athugasemd um tölustafinn 2 á letursteininum á vel rétt á sér því hann líkist meira bókstafnum Z. Jón Thorarsensen gæti ruglað fólk í rýminu með skáldsögugerð sinni, en skáldsögu má aldrei taka til jafns við “skráðar heimildir” sbr. meðfylgjandi).

Hallgrímshella

Hallgrímshellan í geymslu Þjóðminjasafnsins.

Í bókinni Útnesjamenn (skáldsögu) segir:„ Milli Grímvarar [Bárðarvarar, innsk.SG] og Útsala [Hvalsness, innsk. SG] er lág og hrjóstrug heiði, það er Tangaheiðin (Miðnesheiðin, innsk.SG). Hún er bungumynduð og ber hæst um miðbikið. Þar er á staðnum kúpt blágrýtishella, Hallgrímshellan. Við suðurenda hennar var djúpur, grasi gróinn bolli fyrrum, sem nú er löngu eyddur og uppblásinn.“ „ þegar þeir eru komnir að Hallgrímshellunni, heyrði sýslumaður til mannaferða nokkuð suður á heiðinni; …. “ Það var nokkuð áliðið dags, er hann lagði aftur af stað frá Útsölum. Hann fór aftur upp Tangaheiðina og stefndi til Hallgrímshellunnar. Þegar hann nálgaðist heiðarbunguna, blasti við honum mikið víðsýni. . .
Þegar Þorkell nálgaðist Hallgrímshelluna reikaði hugur hans til liðna tímans. Þar við helluna höfðu þau Ásdís bundizt heitum, og sameinuð sigruðu þau alla erfiðleika.“

Fornleifaskráning á Miðnesheiði

Fornleifaskráning á Miðnesheiði – skýrsla.

(Ekki er víst að Jón Thorarensen hafi verið meðvitaður um letursteinininn og vörðuna. Einnig gæti varðan þá hafa verið fallin og letursteinninn legið einn og yfirgefinn eftir um skeið, án þess að nokkur gæfi honum gaum, umkomulaus (skáldsagnalegt)…).

Í Fornleifaskrá Miðnesheiðar eftir Ragnheiði Traustadóttur árið 2000 segir á bls. 24-25: „S-181039-40-6…
Tegund og hlutverk: Fangamark…
Heiti: „Hallgrímshella“…
Lega: 21:42:29.75—- 63:57:12.76
..Staðhættir og lýsing: Í ritgerð Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-Núpi um Miðnesheiðina 1903 segir: „ Milli Básenda ….. og Þórshafnar …. “ Sjá tilvitnun hér ofar í skrif séra Brynjúlfs.
Svo segir Ragnheiður Traustadóttir: „Ritaðar heimildir geta ekki um heitið „Hallgrímshella“ sem menn eru teknir að kalla stein þennan. Engar vísbendingar fundust um aðrar mannvistarleifar en brýnt er að forvörður meti hvort og þá til hverra aðgerða þufi að grípa til þess að bjarga þessari áletrun frá glötun.
Hættumat: Hætta vegna veðrunar.“

Ósar

Ósar.

(Skráningin er í heild tekin með fyrirvara.
Uppgefnir GPS-punktar passa ekki – eiga sennilega að vera: 63571276 – 22422975, þ.e. 1 breytist í 2 í 21422975 (J.G. og V.G) því þá passar staðsetningin við HP-áletrunina ofan við Þórshöfn. Hitt hnitið er í Heiðinni há. Þá hafa rústir Gamla-Kirkjuvogs færst austar, eða í Djúpavog, en þar eru einnig tóftir o.fl.)

Hér koma mínar niðurstöður (S.G.), við fyrstu sýn:
a) Brynjólfur frá M-Núpi virðist fyrstur setja á prent villu varðandi letursteininn í vörðubrotinu með því að sleppa ESS-inu í skrifum sínum og hann nefnir ekki Hallgrímshelluna einu orði! Brynjólfur virðist hafa fengið fræið um Hallgríms Péturssonarletursteininn frá heimamönnum. Engin vafi er á því í mínum huga eftir lestur þessara heimilda að Hallgrímshellan er nokkur klöpp en ekki letursteinn. Nafn hennar þarf alls ekki að tengjast HPSletursteininum sem á henni var í eða við vörðubrot og við elstu þjóðleiðina (3 þjóðleiðir misgamlar eru þarna hver ofan annarrar). Enda segir Guðmundur greinilega að vörðubrotið og letursteinninn sé NEÐAN (nær sjó) Hallgrímshellunnar.

Ósar

Utan við Ósa.

(Reyndar nefndir Brynjúlfur bæði stein og vörðu, áletrun og ártal. Hann hefur varla komist hjá því því steinninn mun hafa verið þarna frá því um fyrri hlutar 17. aldar og því vel kunnur heimafólki. Brynjúlfur sleppir hins vegar ESS-inu, en hann hefur varla talið ástæðu til að gefa hellunni nafn, enda hefur hún (í vörðu) varla haft sérstakt nafn á þessum tíma (aldamótin 1900). Hann setur það sem hann telur réttast á prent, væntanlegast til að varðveitast.
Elsta þjóðleiðin er ekki til þegar Brynjúlfur er þarna, ekki heldur sú næstelsta. Sjórinn er búinn að margtaka til sín gamlar þjóðleiðir, enda má með réttu fullyrða að hann taki þarna til sín u.þ.b. 50 metra af landi á einni mannsævi (skv. upplýsingum heimamanna). Einungis frá því að elstu núlifandi menn voru ungir á þessu svæði hefur ströndin gjörbreyst, sbr. viðtöl við þá).

b) Séra Jón Thorarensen styður þetta með klöppina Hallgrímshellu margsinnis í bók sinni en nefnir ekki letursteininn.

(Séra Jón styður í rauninni ekki neitt með skáldsögu sinni því skáldsaga er eitt og nákvæm heimildarskráning annað. “Heimild” skáldsögunnar segir því í rauninni ekki neitt um sögulegar staðreyndir. Hún lýsir einungis frásagnalist og efnisumfjöllun höfundar, stundum þó með vísan til ónákvæmra staðhátta).
Ágætt dæmi um sambærilega tilfærslu á heitum er Hunangshellan. Þjóðsagan segir hana slétta grágrýtisklöpp fyrir Ósabotnum, en saga, sem um hana fjallar og landamerkjalýsing nefna vörðuna á hellunni „Hunangshellu“. Um er að ræða markavörðu, en mörk Sandgerðis (nú) og Hafna (nú) liggja einmitt um Hunangshelluna. Á henni (klöppinni) er einmitt fallin varða. Milli Hunangshellu og Hallgrímshellu eru Litla- og Stóra-Selhella, sléttir tangar við Djúpavog.

Þórshöfn

Þórshöfn.

c) Árið 1986 styður Guðm. á Bala þetta um að letursteinninn á Hallgrímshellunni, þ.e. að hann tengist séra Hallgrími og ósköp skiljanlegt því Brynjúlfur setur þetta á prent árið 1903 í virtu tímariti. Guðmundur heldur því alls ekki fram að Hallgrímshellan sé letursteinn!

(Brynjúlfur setur þetta fram með bestu vitund. Guðmundur á Bala hefur væntanlega orðið efins því búið var að fjarlægja letursteininn 12 árum fyrir viðtalið (1974)).

d) Ragnheiður Traustadóttir „finnur “ og staðsetur Hallgrímshelluna með fangamarkinu HP og nefnir að: „Ritaðar heimildir geti ekki um heitið “Hallgrímshella“.

(Ragnheiður er einungis að vitna í Brynjúlf – aðrar heimildir virðist hún ekki hafa. Hún veit ekki að leita beri frekari heimilda í gagnasafni (viðtalasafni) Örnefnastofnunar, enda byggir hún einungis á skráðum heimildum og hafði bæði lítinn tíma til verksins og lítið fjármagn (að eigin sögn). Heimildir virðast mjög af skornum skammti á þessu svæði, sbr. framangreint, sem og reyndar heimildir um annað gamalt á Suðurnesjum. Hér á Ragnheiður sennilega við „Hallgrímshelluna við Þórshöfn, en hnitið hennar (lagfært) gefur vísbendingu um staðsetningu áletrunarinnar til kynna).

Hallgrímshella

Hallgrímshellan.

(Í rauninni segir ekkert um það að “Hallgrímshellan” og letursteinninn séu ekki eitt og hið sama. Sumar ritaðar heimildir styðja sagnir um „letursteinn í vörðu”, á klapparholti (Prestaklöpp), aðrar að „Hallgrímshellan“ hafi verið klapparbunga. Hvort kom á undan; hænan eða eggið? Það er spurningin?

Þess má geta að Jón Ben á Stafnesi sagði nýlega, sem fyrr sagði, í eftirfarandi viðtali um „Hallgrímshelluna“: „Ég man vel eftir þessari hellu. Hún var í vörðu á Prestaklöpp þar sem prestar, og þar á meðal sr. Hallgrímur Pétursson, var sagður hafa beðið sjófars yfir Ósana til að geta þjónustað Hafnafólkið.“

Heimildir m.a.:
-Árbók hins Ísl. Fornleifafélags árið 1903 er grein e. Brynjúlf Jónsson frá Minna-Núpi.
-Endurrit frá Örnefnastofnun Íslands, ritað eftir segulbandsupptöku, sem Guðleifur Sigurjónsson tók upp á heimili Guðm. Guðm. bónda (eldri) á Bala 24. nóv. 1986, en Guðmundur var fæddur 30. okt.á rið 1902.
-Fornleifaskrá Miðnesheiðar e. Ragnheiði Traustadóttur árið 2000 .
-Viðtal við Jón Ben á Stafnesi 2005.

Hallgrímshella

Hallgrímshellan í Þjóðminjasafninu.

Kirkjuvogskirkja

Gott er að hefja gönguna við vitann á Stafnesi, þar sem Reykjanesskaginn skagar lengst til vesturs. Gengið er með ströndinni til suðurs. Á þessari leið eru margir áhugaverðir staðir að skoða. Fjaran er mjög falleg með öllu sínu lífríki. Þegar gengið hefur verið um 1 km er komið fram á nokkrar tóftir í þyrpingu, þar voru Básendar, verslunar- og útgerðarstaður á 15.öld. Verslun lagðist þar af eftir mikið sjávarflóð aðfararnótt 9. janúar 1799, þá missti kaupmaðurinn á staðnum allar eigur sínar og ein kona drukknaði. Áfram er gengið með ströndinni. Gálgar nefnast tveir háir klettar um 1 km suður af Básendum örlítið ofar í heiðinni, en á milli þeirra er nokkurra faðma breitt sund. Gamlar sagnir herma að sakamenn hafi verið hengdir þar og ef það á við rök að styðjast, má gera ráð fyrir að í nágrenninu hafi verið héraðsþing til forna.

Stafnesviti

Stafnesviti.

Margar víkur og vogar ganga inn í skagann á þessu svæði og þótti bátalægi þar gott fyrr á öldum. Einna þekktust er Þórshöfn, sem var einn helsti verslunarstaður Þjóðverja á 15. og 16. öld og sló þar stundum í brýnu milli þeirra og Englendinga. Með einokunarversluninni minnkaði mikilvægi Þórshafnar og lagðist hún þá af sem verslunarstaður. Á 19. öld hófust skipakomur þangað á nýjan leik og sóttu heimamenn það fast að hún yrði gerð að löggiltum verslunarstað en af því varð ekki.
Næsta vík við Þórshöfn nefnist Hvalvík þar má sjá hólma úti í sjó sem nefnist Hvalvíkurhólmi.

Þegar komið er lengra inn í Ósana er komið að tóftum sem nefnast Gamli Kirkjuvogur, forn kirkjujörð sem talin er hafa farið í eyði á 16.öld, hugsanlegt er að það hafi verið landnámsjörð Herjólfs Bárðarsonar.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – uppdráttur ÓSÁ.

Mikill og djúpur vogur gengur inn í landið þegar komið er enn innar og nefnist Djúpivogur. Þegar komið er fyrir Djúpavog er gengið fyrir Seljavog sem er öllu styttri. Á milli Djúpavogs og Seljavogs má sjá virðulegann klett uppi í heiðinni sem nefnist Hestaskjól. Þegar komið er fyrir Seljavog taka við margir litlir vogar sem nefnast Stóruselhelluvogur, Litluselhelluvogur og Brunnvogur, þar sveigir gangan til vesturs í átt að Höfnum.

Hafnir
HafnirUm miðja 18.öld hófst uppgangstími í Höfnum sem stóð fram á öndverða 20.öld. Á þessu tímabili bjuggu stöndugir útvegsbændur stórbúi í Kotvogi og Kirkjuvogi, þeir ráku þar mikla útgerð stórra áraskipa og húsuðu bæi sína með þeim hætti, að ekki var reisulegra um að litast í öðrum plássum. Á þessu tímabili fjölgaði fólki stöðugt í Höfnum, og margir fluttust þangað úr öðrum byggðarlögum á Reykajnesi. En blómaskeiðið tók enda þegar að ný tækni tók að riðja sér til rúms í íslenskum sjávarútvegi. Vélbátarnir þurftu betri hafnarskilyrði og meiri þjónustu en áraskipin, en þar stóðu Hafnarmenn höllum fæti. Þess vegna dróst útgerðin saman í Höfnunum á meðan að hún efldist annarsstaðar á svæðinu, í kjölfarið fór fólki að fækka. Má segja að Hafnir hafi orðið fórnarlamb vélvæðingar.

Margt áhugavert er að skoða í Höfnum:

Hafnir

Hafnir – uppgröftur.

• Fornleifauppgröft, árið 2002 fundust leifar af landnámsskála á túninu fyrir aftan Kirkjuvogskirkju. Við rannsóknir kom í ljós að þessi bústaður er frá því fyrir árið 900.
Í Landnámu segir að Herjólfur Bárðarson, frændi og fóstbróðir Ingólfs Arnarssonar hafi fengið land á milli „Vágs ok Reykjaness,“ sem þýðir líklegast að Herjólfur hafi átt land frá Ósum í Höfnum og alveg að Reykjanestá. Vegna þessara tengsla við orðið „vágr“ og nálægðar skálans við Kirkjuvogskirkju, Kirkjuvog og Kotvog var ákveðið að kalla bæjarstæðið Vog.
• Ankeri sem stendur á túni á móts við kirkjuna en það er úr skipi sem nefndist Jamestown sem rak inn Ósabotna árið 1881 eftir að áhöfnin hafði yfirgefið það úti á Atlantshafi, skipið var álíka stórt og fótboltavöllur, skipið var þríþilfarað, fullt af eðalvið og öðrum verðmætum. Varð þessi fengur til þess að farið var að byggja timburhús í Gulbringusýslu.

Jamestown

Annað ankeri Jamestown í Höfnum.

• Kirkjan í Höfnum var byggð af óðalsbóndanum í Kotvogi Vilhjálmi K. Hákonarsyni árið 1861 og er elsta kirkja á Suðurnesjum. Altaristöfluna málaði Sigurður Guðmundsson árið 1865. Kirkju á þessum stað er fyrst getið á ofanverðri 14.öld, en áður hafði kirkja verið norðan Ósabotna í Vogi (gamla Kirkjuvogi), gæti hafa verið þar fram á 16.öld.
Óhætt er að ætla sér 6-7 klst í þessa göngu.

Heimildir:
-www.sandgerdi.is ,Jón Þ. Þór, Hafnir á Reykjanesi.
-Skoðum kirkjur á Reykjanesi (bæklingur).

Kotvogur

Kotvogur í Höfnum.

Básendar

Farið var aftur á Básenda. Ljóst var að þar hlyti að vera mun meira að sjá en talið hafði verið í fyrstu. Reyna átti að leita að áletrunum er kynnu að leynast þar víða á klöppum úti í skerjum, en auk þess var litið á nokkra festarhringi og kengi í klöppum, sem nú eru í skerjum, en voru þó enn á 18. öldinni hluti af fastalandinu. Með í för var G. Sigurbergsson, en hann hefur áður borið fyrrnefndar áletranir augum.

Básendar

Svæðið hlýtur augljóslega að vera forvitnilegur vettvangur fornleifafræðinga því bæði á Básendum og í næsta nágrenni, Þórshöfn, er að finna áhugaverðar fornminjar, bæði áletranir og arfleið verslunarsögunar sem og einstaka þátta Íslandssögunnar. Í Þórshöfn var verslunarstaður. Þar eru áletranir frá þeim tíma og þar fyrir utan rak upp timburflutningaskipið Jamestown árið 1881.
Nefndar áletranir eru í Arnbjargarhólma. Á háhólmanum mátti bæði lesa skrifstafi og ártöl á klöppunum, en auk þess, þegar vel var leitað, mátti sjá slíkar áletranir á lausum steinum, sem virtust hafa verið á hólmanum áður fyrr, er hann var landfastur og væntanlega gróinn vel, en skolast til þegar sjórinn náði að aðskilja hann fastalandinu og leika frjálslegar um hólmann.
Í ljós kom að á einum lausa steininum stóð nafnið „BERTELANDERS“ og ártalið 1700. Á öðrum lausum steini var m.a. áletrað MVL og XX þar sem ör lá upp frá ártalinu 1590. Á klöppum mátti bæði lesa bókstafi er virtust vera upphafsstafir manna og ártöl, s.s. 1640, 1650, 1651 og 1694. Þessar áletranir á þessum stað benda til þess að þarna hafi verið athafnasvæði verslunar danskra kaupmanna, en þeir höfðu höfnina eftir 1602 út af fyrir sig. Þjóðverjar og Englendingar kepptust um hana fram yfir 1532 (Grindarvíkurstríðið) svo áletrunin Bertelanders gæti verið eftir einhvern kaupmanninn á Endunum eða hugsanlega nafn á skipi hans. Fróðlegt væri fyrir sagnfræðinga að reyna að grafa eitthvað upp um þetta.

Líklegt má telja að fleiri áletranir og ártöl kunni að leynast við Básenda er kunna að varpa ljósi á veru framangreindra á staðnum í gegnum aldirnar.
Básendar Samkvæmt gömlum uppdrætti af Básendahöfninni voru kaupskipin svínbundin (þríbundin) bæði á innri höfninni í Brennitorfuvík og á ytri höfninni. Samkvæmt teikningunni eiga að vera a.m.k. sex festahringir í klöppunum við Básenda.
Jón Ben Guðjónsson, eldri bróðirinn Stafnesbænda, sagðist hafa séð a.m.k. sjö festarkengi í og við höfnina. Sá sjöundi væri í skeri norðan við Básendatangann.
Við skoðun á vettvangi kom eftirfarandi í ljós: Þrír kengir eru í austanverðum Arnbjargarhólma. Sá syðsti er dýpstur. Í honum er hringur. Sá í miðið stendur hærra, á klöpp undir steini. Í honum er hringur. Nyrsti kengurinn er yst á skerinu. Í hann vantar hringinn.
Básendamegin, vestan við tóftirnar af verslunarstaðnum, eru tveir kengir. Annar, sá syðri er beint fyrir vestan þar sam kaupmannshúsið stóð. Sjá má grunn þess og stéttina framan við útidyrnar. Næsti grunnur er sunnar og austar. Á honum mótar einnig fyrir lítilli stétt þar sem dyrnar voru. Þriðja húsið var enn sunnar og austar. Að því liggur flóraður stígur upp frá flóruðu athafnasvæði ofan við höfnina. Hinn kengurinn er skammt norðar og mun neðar. Hann sést einungis á stórstraumsfjöru og þá helst um það leyti er flæðir frá. Í honum er hringur.
Þá er hringur úti í skeri, vestast í því, beint norður af víkinni. Í honum er hringur.
Á fyrrnefndum uppdrætti af höfninni sést vel innsiglingarleiðin; beint til suðurs vestan Básenda með stefnu á Gálga. Þegar komið var upp undir land var stefnan tekin til austurs innan skerja á Stóra Básendahól. Þá var komið inn á ytri höfnina. Beint á móti innri höfninni í Brennitorfuvíkinni er Brennitorfan. Á henni eru hleðslur þar sem sagnir kveða á um brennur þegar skyggja tók. Segja má að á hólnum hafi verið með fyrstu vitum hér á landi.

Básendar Í viðræðum við Leif Ölver Guðjónsson, yngri bóndabróðurinn á Stafnesi, kom fram að dýpið innan skerjanna er um 20-30 metrar, þó grynnst næst skerjunum. Einhverju sinni hafi verið kafað í víkinni og þá komið í ljós flök af tveimur verslunarskipum frá þeim tíma er Þjóðverjar og Englendingar nýttu höfnina. Á að hafa komið til átaka millum þeirra með þeim afleiðingum að skipum var sökkt. Liggja þau þarna á hafsbotni og mátti greina a.m.k. nokkrar fallbyssu á botninum. Sjór væri hins vegar ókyrr á þessum slóðum og umtalsverðir straumar. Þó bæri við stilltari sjór og þá væri lag að skoða þetta nánar, ef vilji væri fyrir hendi. Eitt slíkt fallstykki hefði skolað á land nokkru utar fyrir nokkrum árum og væri það nú við bæinn Nýlendu III utan við Stafnes. Tækifærið var notað í bakaleiðinni og fallstykkið skoðað. Lítið fer fyrir því þar sem það stendur við bæinn með skotstefnu til vesturs. Þarna er um greinilega fallbyssu af skipi að ræða. Á Nýlendu býr Arnbjörn Eiríksson. Hann sagði fallstykkið vera úr Jamestown, sem strandaði utan við Þórshöfn. Gripurinn hafi verið þarna heima við svo lengi sem hann myndi eftir sér, eða í 50 ár a.m.k.

Trébátsflak er ofan við Arnbjargarhólma. Að sögn Ölvers er það af bátnum Vörður ÞH er strandaði í Stóru Sandvík um 1960. Bátinn rak út þar sem hann klofnaði í tvennt. Rak annan helminginn þarna upp og sá sjórinn til þess að hann yrði þar fólki til sýnis um ókomin ár.

Básendar Ofan við Stafnes vakti athygli FERLIRsfélaga fjöldi grjóbyrgja, flest fallin. Jón Ben sagði það gömul fiskbyrgi. Þau væru sennilega þarna samtals á milli 30 og 40 talsins. Þarna hafi verið verkaður og þurrkaður fiskur Stafnesbænda um aldir. Svæðið er tiltölulega afmarkað og ætti að hafa varðveislugildi sem slíkt. Um aldamótin 1900 voru u.þ.b. 30 bæir á Stafnesi.
Aðspurður um Hallgrímshelluna svonefndu, sem FERLIRsfélagar hafa leitað að og m.a. notið ábendinga Guðmundar frá Bala á Stafnesi (sjá aðra FERLIRslýsingu), sagði Jón Ben eftirfarandi:
„Ég man vel eftir þessari hellu. Hún var í vörðu á Prestsklöpp þar sem prestar, og þar á meðal sr. Hallgrímur Pétursson, var sagður hafa beðið sjófars yfir Ósana til að geta þjónusta Hafnafólkið. Prestsklöpp var einnig nefnd Hallgrímshella. Hella þessi var þríhyrningslöguð, ekki stærri en svo að hægt var að taka hana í fangið. Áletrunin HPS var í hellunni og ógreinilegt ártal; 163?. Tilgreindur lögreglumaður á Keflavíkurflugvelli mun hafa bent einhverjum á helluna á sínum tíma. Síðan eru liðin a.m.k. 30 ár. Mig grunar að hellan hafi komist inn í geymslur Þjóðminjasafnsins og „gleymst“ þar.“
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Letursteinn