Tag Archive for: Straumsvík

Straumur

Nokkrir sumarbústaðir voru byggðir í Hraunum við Straumsvík nokkru fyrir miðja 20. öldina.
Meðal þeirra sem heilluðust af þessu sérstæða og að margra mati fallega landsvæði voru þrír félagar, straum-792bræðurnir Marinó og Kristinn Guðmundssynir sem voru báðir málarameistarar og Björn Jóhannesson doktor í jarðvegsfræði sem hafði mikinn áhuga á hegðun laxfiska. Þeir voru afar heillaðir af Lónakoti og tjörnunum sem þar eru en þar gátu þeir ekki fengið land á leigu eða til kaups. Gengu þeir þá eftir strandlengjunni frá Lónakoti og inn fyrir Straumsvík til Hafnarfjarðar og þaðan út á Álftanes í leit að ákjósanlegum stað til að reisa sumarkofa eins og þeir kölluðu það. Eftir að hafa grandskoðað strandlengjuna voru þeir sammála um að innsti hlutinn við norðaustanverða Straumsvík væri ákjósanlegasti staðurinn. Þar hafði staðið kotbýlið Litli-Lambhagi á tanga sem heitir Stróki og skammt frá honum voru Hólmarnir og Straumsvatnagarðar. Þar voru aflögð útihús og merkiklega vel hlaðið eldhús úr hraungrjóti frá því seint á 19. öld. Eftir nokkra eftirgrenslan  fengu þremenningarnir leyfi til að reisa lítið íveruhús innarlega á Stróka.
straum-793Bjarni Bjarnason skólastjóri Héraðsskólans á Laugarvatni átti þetta land allt, en hann eignaðist jarðirnar Straum og Þorbjarnarstaði ásamt Litla- og Stóra-Lambhaga árið 1919. Rak hann um árabil ágætis bú í Straumi og nytjaði allar jarðirnar til heyskapar og beitar. Bjarni lét byggja Straumshúsið sem enn stendur árið 1927 úr steinsteypu eftir að gamli bærinn brann. Sá sem teiknaði húsið var Guðjón Samúelsson húsameistari ríkisins, en húsið ber svipmót burstabæjar, en Guðjón hafði áhuga á að skapa nýja íslenska byggingarhefð með skírskotun til fyrri tíma.
Þegar Bjarni ákvað að selja jarðir sínar við Straumsvík rétt eftir seinni heimsstyrjöldina keypti Björn landspilduna umhverfis sumarkofa þeirra félaga, með landamerkjum nokkru austan Stróka. Höfðu þeir stækkað húsið það mikið að hægt var með sanni að tala um sumarhús enda dvöldu þeir oft ásamt vinum og ættingjum á þessum slóðum sumarlangt og lengur ef aðstæður leyfðu. 

straum-794

Ástæðan fyrir staðarvalinu var sú að við Stróka fannst þeim ríkja fágæt náttúrufegurð. Spilaði þar inn í  hversu merkilegt náttúrufarið er við hina lygnu og friðsælu Straumsvík þar sem ferskt vatn rennur framundan hrauninu og veldur því að sjórinn er afar tær á þessum slóðum. Grashólmar og sker innst í Straumsvík skipta stöðugt um svipmót þar sem sjórinn á það til að hylja landið á flóði og svo birtist það aftur þegar fellur út og fjarar. Fallaskiptin og mismunandi sjávarstaða eftir því hvernig stendur á flóði og fjöru hafa veruleg áhrif á umhverfi Stróka og valda síbreytilegu náttúruspili. Þarna var líka fjölskrúðugt fuglalíf, stundum sáust selir á sundi eða þeir sóluðu sig á skerjum rétt hjá Stróka alveg óhræddir. Sólarlagið var líka töfrandi og myndaði Snæfellsjökul og Snæfellsfjallgarðurinn handan Faxaflóans einskonar ramma sem sólin settist á bak við. Litbrigði náttúrunnar breyttust árið um kring og stundum var hafið ólgandi og skolaði þara og fiski upp á hólmana en á öðrum tímum var þetta kyrrðarinnar staður þar sem tíminn stóð nánast í stað. Refur átti það til að sjást á vappi í fjörunni og minkar gerðu sér greni framarlega á tanganum þar sem fiskur lónaði stutt frá landi.

straum-795

Landspildan var tekin eignarnámi þegar undirbúningur að álverinu hófst um miðjan sjöunda áratuginn en þá höfðu Björn og félagar stundað tilraunir með laxeldi í Straumsvík um nokkurt skeið. Þessar tilraunir grundvölluðust á einstæðum vatnabúskap svæðisins. Stuttu eftir að félagarnir byggðu sumarhúsið fóru þeir að mæla og efnagreina ferskt grunnvatnið sem fellur út í Straumsvík undan hrauninu við botn víkurinnar. Reiknuðu þeir út að talsverður hluti Kaldár, sem hverfur ofan í hraunið rúmlega kílómetra neðan upptaka sinna, félli til sjávar rétt vestan við Stróka. Allavega töldu þeir sig geta greint það á fjöru að allstraumhörð ferskvatnskvísl félli í þröngum stokki meðfram nyrsta hluta tangans. Þeir mældu hitastig grunnvatnsins sem streymdi undan hrauninu margsinnis og reyndist það vera nákvæmlega 4 gráður á Celsíus árið um kring. Stóðu mælingarnar árum saman og alltaf voru niðurstöðurnar þær sömu. Björn var sannfærður um að vatnið hefði hagstæða efnaeiginleika fyrir laxaklak og sökkti hann vírkörfum í lón við hraunjaðarinn til að sannreyna þetta. 

straum-796

Niðurstaðan var sú að laxaklakið skilað góðum árangri en ekki var alveg ljóst hvernig nýta mætti aðstöðuna við Straumsvík til laxaframleiðslu.
Þeir prófuðu sig áfram og fljótlega gerðu þeir tilraunapoll í litlu lóni sunnanvert við Stróka nálægt Keflavíkurveginum sem hlaut nafnið Pollurinn. Hann var dýpkaður með jarðýtu en þannig háttaði til að lónið tæmdist ekki þó að fjaraði út vegna þess hversu mikill vatnsstraumurinn var undan hraunjaðrinum. Steyptu þeir félagar einskonar hlið eða dyraumbúnað við mynni Pollsins þar sem hægt var að koma fyrir gildru. Laxar gátu þar með gengið í Pollinn en áttu þaðan ekki undankomu nema þeim væri hreinlega sleppt lausum í sjóinn. Pollurinn var hreinn og moldarlaus til að byrja með, en þegar vegur var lagður að álverinu rétt við hliðina á Pollinum barst talsvert magn af fokefnum í hann. Þar með varð botninn þakinn þykku leðjulagi sem hefði þurft að moka í burtu eða reyna að skola út með útfallinu. Þetta var hinsvegar ekki gert þannig að aðstæður í Pollinum breyttust með tíð og tíma.
Félagarnir eyddu mikilli vinnu, tíma og fjármunum í að flytja bleiklax frá Alaska til Íslands 1965 til 1966. Árangurinn varð neikvæður að öðru leyti en því að flutningur á 120.000 aughrognum frá Kódakeyju til Íslands tókst vel. Samvinna við Veiðimálastofnun tókst ekki um framkvæmd þessarar tilraunar, en vorið 1966 sýndu þeir fram á að laxaseiði silfrast við 4 gráðu hita á 6 vikum. Þegar Marinó og Kristinn féllu frá hélt Björn áfram að nýta aðstöðuna á Stróka og stunda þarna tilraunir sínar.
straum-797Sumarið 1980 var sjógönguseiðum sleppt úr Pollinum eftir 56 daga dvöl í körfu og sneri ein 4,5 punda hrygna aftur í Pollinn sumarið eftir. Gerð var hafbeitartilraun í Pollinum 1981 til 1982 og kom í ljós að eftir 84 daga svelti sjógönguseiða í körfu lifðu næstum því öll sumarið 1982. Sumarið áður var sjógönguseiðum haldið í körfu í Pollinum með sáralítilli fóðrun í 56 daga áður en þeim var sleppt til sjávar. Aðeins eitt af þessum seiðum rataði aftur heim í Pollinn árið eftir. Þá var búið að koma fyrir nokkrum laxaseiðum í körfu í Pollinum, en norðmaðurinn Nordeng varpaði þeirri tilgátu fram að lax gangi ekki í vatn nema þar séu fyrir laxaseiði eða lax. Taldi Björn að hrygnan sem skilaði sér í Pollinn um sumarið hefði sennilega ekki gert það ef þar hefðu ekki verið fyrir laxaseiði.
Laxeldisfyrirtækið Pólarlax var um árabil með aðstöðu Hafnarfjaðrarmegin við álverið og notaði meðal annars hvalalaug Sædýrasafnsins í eldisstarfinu. Sumarið 1981, sem var sama sumar og hrygnan skilaði sér í Pollinn, sleppti Pólarlax þó nokkrum stórum laxaseiðum úr kví sem var í Straumsvík. Sumarið eftir komu miklar laxagöngur inn í Straumsvík og stökk laxinn í víkinni svo að ekki fór á milli mála að þarna var eitthvað um að vera. Kom það fyrir þegar mest gekk á að hálfgert umferðaröngþveiti skapaðist á Reykjanesbrautinni því vegfarendur snarhemluðu og hlupu út úr bílum sínum til að fylgjast með þessari óvenjulegu sjón. Laxinn var að koma heim eftir vetrardvöl í hafinu og þetta sjónarspil var alveg einstakt.
straum-798Vonir manna um að laxinn gengi upp í ferskvatnslónin í Straumsvík gengu ekki eftir þar til Björn lagði til að komið yrði fyrir körfu með laxaseiðum í Pollinum. Þetta virkaði eins og segull og 5. ágúst 1982 höfðu 170 laxar gengið í Pollinn. Endurheimtur sjógönguseiðanna sem sleppt var 1981 og komu sem sjógengnir laxar sumarið eftir voru um 20% til 30% en stórar torfur gengu í ystu lónin í lok veiðitímans án þess að hægt væri að handsama þær. Heimtur reyndust ekki eins vel og reiknað var með en menn voru sannfærðir um að þær gætu gengið betur þar sem laxinn skilaði sér aftur á heimaslóðir þó hann gengi ekki allur inn Pollinn. Niðurstaðan var því sú að heimtur gætu vaxið með árunum ef réttum aðferðum væri beitt. Prófað var að sleppa seiðum næstu árin úr kvíunum utan við hvalalaugina en heimtur voru ekkert sérstakar.

straum-799

Næsta skipti sem sjógönguseiðum var slepp úr kvíum í Straumsvík var sumarið 1985. Sami háttur var hafður og fyrr. Seiðum komið fyrir í körfu í Pollinum sumarið 1986 sem hafði þau áhrif að laxar gengu í Pollinn og tilraunin sannaði sig í raun og veru. Eftir þetta gerðist ýmislegt sem varð til þess að fiskeldisfyrirtækið Pólarlax var tekið til gjaldþrotaskipta 20. janúar 1989 og lauk skiptunum 20. desember 1991 án þess að nokkuð hefði fengist greitt af lýstum kröfum. Þar með var botninn farinn úr þessum merku tilraunum með laxfiska í Straumsvík. Sumarhúsið á innanverðum Stróka grotnaði smám saman niður þar til það var ekki talið forsvaranlegt að láta það standa og var það rifið og efniviðurinn fjarlægður. Nú er ekkert annað eftir en steinsteyptar gólfplötur og gamla eldhúsið sem hlaðið var fyrir rúmlega einni öld. Þetta hús er nákvæmlega eins í lögun og að allri gerð og samsvarandi hús við Óttarstaði eystir og vestri, bara örlítið minna umfangs. Löngu var búið að breyta steinhlaðna húsinu í svefnhýsi með tilheyrandi veggklæðningum úr viði og innanstokksmunum. Húsið stendur nú opið fyrir veðrum, vindum og spellvirkjum og bíður þess sem koma skal, en það væri gustukaverk að halda því við og sjá til þess að síðasta heillega steinhlaðna húsið í Hraunum fengi að standa áfram um ókomna tíð.


Heimildir:
-Laxaseiði ganga til sjávar úr fjögurra stiga jafnheitu vatni eftir að hafa klæðst sjógöngubúningi. Veiðimaðurinn, 1966.
-Tilraunir með flutning á bleiklaxi frá Alaska til Íslands. Árbók áhugamanna um fiskirækt, 1968.
-Lax leitar á bernskustöðvarnar þótt kaldar séu. Veiðimaðurinn, 1982.
-Um laxalykt. Veiðimaðurinn, 1986.
-Straumsvík og leyndardómar laxins. Ægir, 1988.

Stóri-Lambhagi

Tóftir Stóra-Lambahaga við Straumsvík.

Básendar

Í Fornbréfasafninu, 287 og síðar, er m.a. fjallað um Grindavíkurstríðið 1532, aðdraganda og eftirmála:
287 – [Um 4. apríl 1532] – [Básendum]

Basendar-222

Básendar.

„Afrit af sættargerð milli Ludkens Schmidts og manna hans annars vegar og Roberts Leggde, Thomasar Hirlacks, Harije Fijtzerths og Bartrams Farors hins vegar. Þeir síðarnefndu koma til hafnar að Básendum á páskadag (þann 31. mars 1532), þar sem L. Sm. liggur fyrir, og spyrja hann, hvort hann muni þola þeim hafnarvist. Þeir fá það svar, að þeim sé óheimilt að koma inn í höfnina, sökum þess að L. Sm. hafi tilkynnt Hinriki nokkrum Berndes að hann mundi halda höfninni honum til handa. Þá fær Robert Legghe John Willers í lið með sér og freista þeir á miðvikudagsmorgun eftir páska (þann 3. apríl) að komast inn á höfnina með valdi, lögðu aftan og framan við skip L. Sm. og skutu og slógu hann og menn hans eftir beztu getu. Árásin mistekst, og gáfu árásarmenn upp skip og góss til að bjarga lífi sínu…“.

288 – 16. maí 1532, bls. 539

Basendar-223

Básendar.

„Óstaðsett viðurkenning Roberts Legghe og félaga hans á því, að þeir hafi afhent í skip Ludtkyns Smuthe fjörutíu lestir samkvæmt gerðum samningi og skulu það með lausir allra mála út af atburðunum á Básendum.“

290 – 18. júlí 1532 [Reykjavík], bls. 541-542
„Tylftardómur útnefndur af Erlendi Þorvarðarsyni lögmanni til þess að dæma um líflát Jóns Breens og manna hans í Grindavík. – Þar er borið, að Jón Breen hafi tekið með ofbeldi í Grindavík (góss) frá Katli Jónssyni og Þorgrími Halldórssyni, bundið þá og pínt, en hótað Þórði Guðmundssyni að höggva af honum höfuðið, ef hann léti nokkurn fisk af hendi við aðra en Jón og menn hans; einnig hefði hann gripið fisk frá þýzkum kaupmönnum, 20 lestir eða meir; einnig hefði hann hindrað með valdi, aðrir menn flytti fisk sinni burt, og dæmist Jón Breen eftir lögbókarinnar hljóðan ránsmaður og fyllilega af lífi tekinn ásamt fylgjurum sínum, en skip hans og góss fallið undir konung og umboðsmann hans Diðrik frá Mynden. Einnig eiga þeir að dæma um skip og góss, sem rak á land við Básenda í bardaga milli Lutken (Smith) og Joen Wyler og dæmist það fallið undir konung, ásamt öðru, sem bréfið greinir.“

bls. 544-545

Gerdavellir-222

Virki Jóhanns breiða á Gerðavöllum.

Um þessa atburði er nokkrum sinnum getið í íslenzkum heimildum; elzt mun frásögn biskupasagna talin frá því um 1593 (SJ Biskupasögur Bókmenntafélagsins II. b. bls. 237 og 240), merkt a), en textinn tekinn eftir ritgerð Jóns Gissurarsonar; þá kemur frásögn Jóns Egilssonar í Biskupaannálum frá því um 1605 merkt b) og að lokum annálsgrein Björns Jónssonar á Skarðsá frá Ps um 1639, hér merkt c).

a) Á þeim tima lá skip í hverri höfn fyrir sunnan og sums staða ij: þýzkir víðast, utan í Grindavík lágu engelskir. Það bar eitt sinn til á dögum biskups Ögmundar, að engelskir lágu eitt ár í Grindavík á fimm skipum og voru ómildir við íslenzka, svo fólk gat ekki það liðið; réði fólk engu sínu og fékk ekkert fyrir sitt; voru, fyrir mönnum þeirra ij Jónar, kallaður Eldri-Bragur og Yngri-Bragur. Tóku íslenzkir sig þá saman og riðu til Bessastaða, kröfðu höfuðsmanninn, Didrech van Minden, liðveizlu móti slíkum í mennum. Varð hann vel við og sendi strax í alla kaupstaði, því íslenzkir hefðu ella látið illa að honum sjálfum, ef hann hefði ekki við orðið; skipaði hann þýzkum að finna sig við Þórðarfell sem er hjá Grindavík.

Grindavikurhofn-222

Grindavík.

Komu þeir saman að kveldi dags í tilsettan tíma, Lxxx menn annars hundraðs og gengu þaðan í Víkina fyrir sólaruppkomu; höfðu engelskir búizt við og gjört sér virki um torf og grjót, en þeir höfðu lítið gagn af því. Hlupu þeir í skip sín, sem það gátu, og sigldu út með iiij skipum, fimmta gátu þeir þýzku náð og drápu xviij engelska, en vij létu þeir lifa og pilt. Fylgdu þeir engelska skipinu til Bessastaða með þeim þýsku sem á það voru látnir, en eitt af hinum fjórum forgekk í Víkinni strax í útsiglingunni, og sökk það þar strax, svo ekki neitt náðist af því.
Ritgjörð Jóns Gissurarsonar, Safn til sögu Íslands, I. b. bls.658, Biskupasögur gefnar út af Hinu ísl. bókmenntafélagi, II. b. Khöfn 1878, bls. 238—’39.
b) Á dögum biskups Ögmundar slógust þeir þýzkir og engelskir í Grindavík og unnu þeir þýzku, því hinir voru ekki við búnir og þýskir villtu fyrir þeim daginn og komu á þá óvart drukkna; þar féllu 14 engelskir, og hét sá Ríki-Bragi, sem fyrir þeim var. Þeir voru dysjaðir í virkinu.
Biskupsannálar Jóns Egilssonar, Safn til sögu Íslands, I. b. bls. 79.
c) Anno 1532. — Var hér á landi í Grindavík einn engelskur kaupmaður, hét Jóhann Breiði. Hann var missáttur við kóngsfóveta á Bessastöðum og vildi ekki gjalda honum toll, sem vera átti. Einninn kom misgreiningur í með þessum Jóhann og Hamborgurum, sem lágu til kaupskapar á Suðurnesjum, og keypti hann og hélt skreið nokkurri, er þeir áttu að hafa, og komu og komu orð með í hvorutveggjum um þessi efni. Gerði sagður Jóhann Breiði sér þá vígi eður virkisgarð skammt frá búðum á Járngerðarstöðum, sem enn sér merki, og gerði orð með spotti þeim Hamborgurum að sækja til sín skreiðina. Tóku þeir sig þá til hinir þýsku menn og Bessastaða fóveti og komu óvart um nótt upp í Grindavík, komust upp í virki Jóhanns og slógu hann til dauðs og alla hans menn, en tóku skip og góss og allt hvað þeir áttu. Þar sést kuml þeirra dysjar hjá virkisgarði.
Skarðsannáll, Annálar 1400—1800 I. b., bls. 92—93.)“

Gerdavellir-223

Fræðsluskilti um Grindavíkurstríðið á Gerðavöllum.

291 – 29. júlí 1532 [Lundúnum], bls. 545-546
Bréf öldurmanna kaupmannagildisins þýzka í Lundúnum (de Staalhof) til borgarstjóra og ráðs í Hamborg. Þeir segja, að á Síðasta ári hafi Englendingar kært fyrir Englandskonungi og ráði hans, að þýzkir sæfarar frá Hamborg og Brimum beittu sig ofbeldi á Íslandi, en af þeim sökum hafi þýskir kaupmenn í Englandi orðið fyrir óþægindum. Þeir fara þess á leit, að borgarstjórnin sjái til þess að Þjóðverjar, sem sigli til Íslands, ástundi friðsamleg samskipti við Englendinga. Nú segja þeir, að kæra hafi borist Englandskonungi á hendur Lutskenn Smith, William Kenet og Jóhanni Sowermer frá Biskups Lynn fyrir að hafa ráðist á skip frá Lynn, sært menn og drepið, rænt skipið, eyðilagt og sökkt því. Þeir senda Hamborgurum kæruskjal Englendinga og biðja þá að gera upptækt skip og góss L. Sm. og taka hann og menn hans höndum og senda Matthias van Emerszen, ritara sinn, til þess að fylgja fram máli sínu, auk annars sem bréfið greinir.“

Heimild;
Fornbréfasafn 287, bls. 537-546.

Skyggnisrétt

Skyggnisrétt á Gerðavöllum ofan Stóru-bótar.

 

Járngerðarstaðir
“Grindavíkurstríðið”
IV. hluti – 20. mars 2004.
Vettvangsferð.

Básendar

Básendar.

Farið var í vettvangsferð á Básenda og í Stóru-Bót undir leiðsögn Jóns Böðvarssonar og Reynis Sveinssonar. Í ferðinni komu m.a. fram eftirfarandi upplýsingar:
“Við erum nú á leiðinni í Sandgerði þar sem Reynir Sveinsson mun koma í bílinn til okkar og leiðsegja okkur um Básenda. Ég get sagt ykkur að Stafnes var eitt af höfðubólunum að fornu og þar var mikið útræði, en svo til engin selveiði. Þó segir sagan að nafngreind selskytta hafi verið á Stafnesi, farið jafnan út í Rósker, sem þar er skammt vestar, og setið fyrir selnum þar.
Um 1550-1760 var konungsútgerð á Básendum, en hún var bæði í Vestmannaeyjum og á Suðurnesjum. Ástæðan var mikil fiskimið út frá þessum landssvæðum. Konungsútgerðin var mikil tekjulind fyrir krúnuna. Aðallega var stunduð skreiðarverkun. Þegar útgerðin lagðist af seldu Danir skip sín. Dreifðust þau um Vesturlandið; flest fóru þó til Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafnarfjarðar. Má segja að íslensk þilskipaútgerð hafi komið í staðinn fyrir konungsútgerðina.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Þrír staðir á landinu voru svo til án landbúnaðar, en þar komu fiskveiðar í staðinn; Vestmannaeyjar, Suðurnes og Snæfellsnes. Á þessum svæðum var skreiðarverkun og skreiðarkaupmennska mikilvægust um langan tíma. Fiskveiðarnar voru stundaðar á grunnmiðum af Íslendingum, en lengra út frá landi af stærri skipum útlendinganna. Þar voru Englendingarnir atkvæðamestir, allt frá árinu 1420 og fram að Grindavíkurstríðinu árið 1532.

Básendar

Básendar – festarhringur.

Hægt er að rifja upp að atburðirnir á Básendum byrjuðu 2. apríl 1532 með komu Ludviks Smith. Þar reyndist stuðningur bróður hans og um 80 Íslendinga mikilvægur er kom til átaka milli þeirra og Englendinga, er bar að Básendum tveimur dögum síðar. Eru atburðirnir raktir nokkuð ítarlega hér að framan.
Á leiðinni út að Stafnesi var rifjað upp að Hallgrímur Pétursson hafi verið prestur í Hvalsnesi, en búið að Bolafæti í Njarðvíkum. Hafi hann jafnan þurft að fara yfir heiðina til messu. Núverandi steinkirkja að Hvalsnesi var vígð á jóladag 1887.

Til fróðeiks, svo þegar horft er á Miðnesheiðina þar sem á þriðja tug manna urðu úti á á sínum tíma á tiltölulega fáum áratugum (svo til allir á leiðinni frá kaupmanninum í Keflavík á leið heim til sín), má vekja athygli á því að orðið heiðingjar var í upphafi notað um heiðarbúa, fólks er bjó upp á heiðum. Síðan varð merking orðsins önnur. Svo er um mörg orð í íslenskunni. Má þar nefna orðið eldhús. Það var áður notað um stað þar sem eldur brann og matur var eldaður. Nú brennur enginn eldur í eldhúsi, en það heitir sama nafni eftir sem áður. En þetta var nú útúrdúr”.

Gengið var um Básenda, en þar eru nú engin ummerki þess tíma er átökin urðu þar árið 1532, einungs minjar eftir konungsverslunina og seinni tíma búskap (rétt, garðar, bæjartóftir, brunnur, götur og vör). Legan er þó enn á Básendavík (Brennutorfuvík) þótt landásýndin hafi verið þarna önnur en nú er. Bæði hefur sjórinn brotið talsvert land og þá hefur landið sigið frá því sem var (8mm á ári að jafnaði).
Gengið var um Stórubót og hóll þar barinn augum. Sagt er að hann sé leifar af virki Jóhanns breiða og hans manna. Sandlág er austan við hólinn. Mun þar vera Engelska lág skv. sömu sögnum. Vestar, sunnan Gerðisbrunnanna, eru garðar er þjóðsagan segir að sé svonefnt Junkaragerði, þ.e. aðsetur Þjóðverjanna.
Bæði þessi svæði “anga af sögu”.

ÓSÁ (lesið yfir af JG, VG og SJF).

Gerðavellir

Garður í Junkaragerði ofan við Stóru-Bót.

Básendar

Eftirfarandi lýsing var hraðskrifuð upp á námskeiði er Jón Böðvarsson hélt um Grindavíkurstríðið í Saltfisksetrinu í Grindavík. Hún er birt með fyrirvara – hugasanlega er þörf á einhverri leiðréttingu – eftir er að bera hana saman við skriflegar heimildir, s.s. í „Ensku öldinni„og „Tíu þorskastríð„, sbr. innihald texta:

“Grindavíkurstríðið”
III. hluti – 17. mars 2004.

“Filmurnar reyndust við leit vera á Þjóðskjalasafninu. Þær liggja hins vegar ekki á lausu.
Í Fornbréfasafninu (nr. 16, bls. 536-717) er heilmikið af skjölum og gögnum vegna eftirmála Grindavíkurstríðsins, langflest á latínu og þýsku, en örfá á íslensku. Friðarviðræðurnar fóru fram í bænum Bad Segenberg, skammt norðan borgarinnar Lübeck í Þýskalandi.
Þorskastríðin voru 10 talsins.
1.  1415-1425. Í lok þess varð Ísland opinn fiskmarkaður.
2.  1447-1449, en eftir það tengdist Ísland danska ríkinu.
3.  1467-1473. Björn Þorleifsson var drepinn og loks samið um óbreytt ástand.
4.  1484-1490. Englendingar fengu heimild Danakonungs til fiskveiða og verslunar við Ísland. Árið 1484 hófst flotavernd Englendinga á Íslandsmiðum. 1485 var orrustan við Bosworth. Á árunum 1485-1509 var Hinrik VII. við völd í Englandi og Hinrik VIII. á árunum 1509-1547.
5.  1532-1533 var Grindavíkurstríðið.
6.  1896-1897 voru firðir, víkur og flóar opnaðir öllum til veiða.
7.  1952-1956 var landhelgin færð út í 4 mílur til verndunar fiskistofnum.
8.  1958-1961 var hún færð út í 12 mílur. 1972-1973 var hún færð út í 50 mílur og loks
10. (1975-1977) út í 200 mílur.

Básendar

Húsgrunnur á Básendum.

Grindavíkurstríðinu sjálfu lauk í raun 21. júní er Þóðverjar létu úr höfn á Peter Gibson. Erlendur Þorvarðarson á Strönd og önnur stjórnvöld voru eindregið á því að líta á atburðina sem lögregluaðgerð gegn lögbrjótum, en stjórnvöld út í heimi voru hins vegar á öðru máli. Helstu borgir Þjóðverja voru þá Lübeck og Hamborg. Þýskaland var í raun mörg nokkuð sjálfstæð borgríki. Danir stóðu t.d. í stríði við Lübeck, en Hamborgarar voru hliðhollir Danakóngi. Danir vildu styrkja umboðsstjórn sína á Íslandi og víðar og þeim þótti því þægð í því að hafa þýskar skipshafnir hér, sér til halds og trausts. Danakóngur lék þó tveimur skjöldum því hann var tilbúinn til að semja við Englendinga ef þurfa þótti gegn því að þeir versluðu ekki hér á landi. Íslendingar vildu hins vegar fyrir alla muni halda í verslunina við Englendinga. Samkeppnin skapaði lægra verð fyrir innfluttan varning og hærra verð fyrir útflutninginn. Þetta kom berlega í ljós eftir að Englendingar fóru héðan því þá breyttust hlutföllin Íslendingum í óhag. Mikið var gert að því að prjóna sokka og vettlinga til að selja Englendingum, en Danir reyndu að banna alla slíka verslun. Þeim tókst þó ekki að framfylgja banninu. (Skv. vísindavef HÍ barst prjón fyrst til Íslands á fyrri hluta 16. aldar).
Enskir sjóræningar rændu bæði ensk og þýsk skip á þessum tíma. Hinrik VIII. samdi t.a.m. við þá um að ræna einnig spænsk skip. Talsverðar skærur hlutust af. Þegar enskir sökktu þýskum skipum brugðust Þjóðverjar ókvæða við og reyndu jafnan að hefna hatrammlega fyrir slíkt.
Í upphafi var litið á átökin á Básendum og í Grindavík sem sjóræningjaskærur. Þjóðverjar lögðu hald á enska skipið á Básendum og íslensk yfirvöld, Erlendur á Strönd og hirðstjóri Danakonungs, Diðrik af Minden, hikuðu t.d. ekki við að leggja hald á herfang sitt í Grindavík. Eitt skipanna fórst á skerjum á flóttanum, en þremur tókst að komast til Englands. Þar bar áhöfnin umsvifalaust fram kvörtun og kærur við Englandskonung.

Básendar

Brunnur á Básendum.

Í Hamborg voru margir Íslendingar á þessum tíma, s.s. Gissur Einarsson, fyrsti lútherski biskupinn á Íslandi. Líklegt er að þeir hafi verið Þjóðverjum til ráðgjafar vegna þess sem á eftir fylgdi. Yfirvöld hér á landi sendu Hinriki VIII. frekjulegt bréf og sögðust einungis hafa staðið í lögregluaðgerðum við Grindavík. Þjóðverjar í Hamborg skrifuðu einnig Hinriki VIII. bréf og töldu Englendinga á Íslandi hafa verið lögbrjótana, en ekki þá þýsku. Töldu þeir þar ýmislegt máli sínu til stuðnings, m.a. að Englendingar hefðu verið orðnir aðsópsmeiri við Ísland en Íslendingar sjálfir, lægju á djúpslóð og kæmu í veg fyrir fiskigengd í firði og víkur. Einnig að Englendingar neyddu Íslendinga til að afhenda sér fisk með illu og hefðu þar að auki á brott með sér fólk, settu það í land í Færeyjum eða hnepptu jafnvel í þrældóm. Þetta er kannski svolítið ýktar lýsingar hjá Þjóðverjum. Hið rétta er að fátækir bændur létu Englendinga stundum fá stráka um fermingu til að túlka fyrir þá. Þessir strákar fóru stundum út með þeim, ólust upp í Englandi og komu síðan með þeim sumir hverjir til landsins að vori þar sem þeir heimsóttu sitt fólk. Þá töldu Þjóðverjar upp að Englendingar ynnu leynt og ljóst gegn Danakonungi á Íslandi og teldu sig jafnvel eiga þar meiri rétt en aðrir. Stælu þeir fiski og jafnvel skatti frá Dönum.
Þjóðverjar ráku atvikin á Básendum í bréfi sínu til Hinriks VIII. og töldu síðan upp nokkur atvik um yfirgang Englendinga, sem þeir hefðu komist upp með fram að þessu vegna þess að ekkert lögregluvald væri til staðar í landinu, heldur “stjórnuðust viðbrögð af hefndum og gömlum vana”. Líklegt er að Gissur hafi hjálpað Þjóðverjum að semja bréfið til Hinriks VIII. Sá taldi hins vegar að þýskir hafi byrjað að skjóta á landsmenn sína og ritaði hástemmt bréf til baka og óskaði eftir samningaumræðum um skaðabætur og annað, sem tiltekið var. Friðrik II. Danakonungur svaraði hortugur fyrir sig og sagði sína þegna á Íslandi saklausa af öllum ásökunum Englendinga vegna lögregluaðgerðanna hér.
Hinrik VIII. vildi láta dæma Ludtkin Smith fyrir hans þátt í málinu, ekki síst fyrir að hafa haldið heljarinnar veislu í virkinu eftir drápin ofan við Stóru-Bót. Þjóðverjar svöruðu og bentu á að Englendingar hefðu nú áður ætlað að bjóða Íslendingum í “þjóðverjakjöt” eftir væntanlegan sigur þeirra yfir þýskum á Básendum. Englendingar reyndu þá að útskýra að þar væri um einhvern misskilning að ræða – kjöt frá Þjóðverjum hefði átt að vera þar í matinn.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir og Gerðavellir.

Hinrik VIII. sendi mann að nafni Thomas Lee til Danakonungs til viðræðna og samninga, en vegna tungumálaerfiðleika gekk hvorki né rak. Lee talaði einungis ensku og latínu. Úti í heimi voru átök um, verslun, trúarbrögð og stéttaskiptingu. Um var að ræða flókna blöndu. Hinrik VIII. var t.a.m. kaþólskur eins og meginþorri Evrópubúa, en Hansakaupmenn voru t.d. flestir lútherskir. Hinrik var studdur af borgarastéttinni, en lýðurinn bankaði á dyrnar. Inn í þett allt blönduðust kvennamál Hinriks.

Þannig stóðu málin við upphaf friðasamninga er fylgdu í kjölfarið. Fyrsti fundurinn var haldinn í Hamborg þann 30. janúar 1553. Hálfur mánuður fór í þýðingar gagna. Enski sendifulltrúinn var Thomas Lee. Hann skrifaði á latínu, en Þjóðverjar vildu hafa allt á þýsku. Kristján Friðriksson (Danakonungssonur) var einn fulltrúi Danakonungs. Hann hélt nokkuð vel á málstað Íslendinga, en þeir áttu sjálfir engan fulltrúa í viðræðunum.

Segeberg

Segeberg.

Nú kemur þar að er búið var að þýða öll gögn og undirbúningi lokið. Þá stóð í stappi um fundarstað. Varð úr að hann var fluttur til Segenbergs. Samningahöllin stóð þar sem nú er torg. Englendingar heimtuðu enn skaðabætur, en Þjóðverjar sögðust einungis hafa verið þátttakendur í lögregluaðgerðum. Lee dró þá upp drög að reglugerð um höndlun friðar vegna siglinga til Íslands. Þar sem minnst er á fiskveiðar í þeim eru þær taldar að hluta til jafngilda verslun. Annars var efni þeirra í megindráttum eftirfarandi:
1. Þeir sem fyrstir koma til hafnar á Íslandi mega ekki reka aðra er á eftir koma á brott, eins og verið hefur, heldur leyfa þeim að versla í friði.
2. Ef ekki er nægur fiskur á boðstólnum fyrir nógu mörg skip eiga þau forgang er fyrstir komu.
3. Sömu reglur gilda um öll skip.
4. Orðið viðskipti á einnig við um sölu á fiski.
5. Kaupmenn mega ekki sprengja upp verðið hver hjá öðrum.
6. Kaupmenn mega ekki merkja sér fisk áður en þeir greiða fyrir hann (flestar deilur milli kaupmanna höfðu stafað af því). Komi upp deildur eiga íslensk yfirvöld að fjalla um málið. (Hér er um merkilega viðurkenningu að ræða frá því sem var).
7. Skipstjórar skulu áminntir um að hafa ekki ofbeldismenn í áhöfn, einungis góða sjómenn.

Básendar

Letursteinn við Básenda.

Samningaviðræður hófust nú fyrir alvöru. Sáttarfundir stóðu í 3 daga, 15.-17. febrúar. Niðurstaðan varð sú að engar kröfur Englendinga voru teknar til greina. Þeir voru sagðir hafa sjálfir kallað yfir sig aðgerðirnar á Íslandi, auk þess sem Kristján hafði í hótunum um að svipta Englendinga öllum veiði- og verslunarheimildum á Íslandi. Lee varð auðsveipari og lofaði að Englendingar myndu ekki grípa til refisaðgerða gegn Þjóðverjum, en hann vildi í staðinn fá tryggingu fyrir áframhaldandi veiðiheimildum Englendingum til handa.
Skjöl og gögn frá viðræðunum eru varðveitt í ríkisbókasafninu í Hamborg. Björn Þorsteinsson er líklega eini Íslendingurinn (“Enska öldin – Fimm þorskastríð”) sem hefur skoðað þau. Friðarsamingurinn, sem loks var gerður, er þar í heild sinni. Í lok hans er samþykkt að “duggarasigling skipist burt undan landinu”, þ.e. að einungis verði leyft að fiskur verði keyptur hér, en ekki veiddur.
Að loknum samningum slógu Þjóðverjar upp mikilli veislu til heiðurs enska fulltrúanum, ekki síst vegna eftirlátssemi hans. Hann fór síðan til Englands mánuði síðar og í framhaldi af því skrifaði Hinrik VIII. Þjóðverjum bréf og þakkaði þeim beinan fulltrúa sínum til handa.

Englendingar höfðu haft 6 herskip tilbúin til Íslandssiglinga. Skotar voru um þessar mundir að hertaka ensk skip og ræna. Varð það til þess að verulega dró úr áhuga og getu Englendinga til siglinga til Íslands. Andstaðan gegn Englendingum hér var enn mikil eftir lætin fyrir og í kringum Grindavíkurstríðið og var ýmislegt fundið þeim til foráttu. Eymdi enn af fyrri reynslu. Kristján III. gerði loks erlenda fiskimenn brottræka af Íslandsmiðum.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Hinrik VIII. varð í raun til þess að bola Englendingum af Íslandsmiðum með aðgerðarleysi sínu. Völd þau er Englendingar höfðu haft á Íslandi með siglingum sínum voru ekki endurnýjuð. Kristján III. kvartaði enn yfir yfirgangi Englendinga við Hinrik VIII, einkum í Grindavík. Um 1539 hurfu Englendingar svo til af Íslandsmiðum. Danir voru þá orðnir staðráðnir í að ná undir sig versluninni til handa dönskum kaupmönnum. Á Alþingi 1545 voru eigur útlendra kaupmanna gerðar upptækar hér á landi. Englendingar urðu fyrir litlum skaða vegna þessa því þeir voru farnir frá öðrum stöðum en Vestmannaeyjum. Þær höfðu þeir fengið í spilaskuld frá Skálholtsbiskupi árið 1420, en urðu nú frá að víkja. Smám saman hröktu Danir einnig Þjóðverja frá landinu. Árið 1602 var einokun Dana til verslunar á Íslandi lögleidd.

Hafnarfjörður
Um 1500 voru í raun tveir “kaupstaðir” á Íslandi; Hafnarfjörður og Grindavík. Síðarnefndi staðurinn stóð betur að vígi því hann var aðalhöfn Skálholtssbiskups, sem hafði skip í förum. Bændur greiddu m.a. skatt sinn í osti, sem seldur var í Evrópu, en korn o.fl. flutt til landsins í staðinn. Grindavík var því mikil höfn um langan tíma og það löngu eftir að “Grindavíkurstríðinu” lauk. Enn má sjá minjar veru, sjósóknar og verslunar útlendra ofan við Stóru-Bót. Þar er hóll sem sagður er hafa verið virki Jóhanns breiða og manna hans og Engelska lág er þar undir hólnum þar sem enskir eru sagðir hafa verið grafnir af eftirlifandi félögum sínum. Vestar má sjá móta fyrir görðum Junkaragerðis. Á Kóngsklöppinni í Staðarhverfi, litlu vestar á nesinu, ráku Danir verslun eftir að þeir komu til landsins og tóku við af Þjóðverjum. Þar má enn sjá talsverðar minjar eftir þá verslun, m.a. tóftir húsa”.
Sjá IV. hluta.

Grindavík

Frá Grindavík.

Gerðavellir

Eftirfarandi lýsing var hraðskrifuð upp á námskeiði er Jón Böðvarsson hélt um Grindavíkurstríðið í Saltfisksetrinu í Grindavík. Hún er birt með fyrirvara – hugasanlega er þörf á einhverri leiðréttingu – eftir er að bera hana saman við skriflegar heimildir, s.s. í „Ensku öldinni„og „Tíu þorskastríð„, sbr. innihald texta:

“Grindavíkurstríðið”
II. hluti – 10. mars 2004.

Jón Böðvarsson

Jón Böðvarsson.

Jón sagðist í framhaldi af I. hluta hafa spurst fyrir um nefndar filmur. Ræddi hann m.a. við Heimi Stígsson. Sá sagðist muna eftir því að hafa fengið “langan” renning af filmu hjá Grindavíkurbæ og framkallað tvö eintök; Grindavíkurbær hefði fengið annað eintakið og Þjóðskjalasafnið hitt. Hann hafi síðan skilað filmunni. Mundi bara ekki hvort það hafi verið til Grindavíkur eða á Þjóðskjalasafnið. Jón sagðist hafa vitað til þess að Reykjanesbær hefði fengið hluta filmusafns Heimis að gjöf, en Heimir hafi aðspurður sagt að þessar filmur væru ekki þar. Nú væri verið að svipast um eftir þeim á nokkrum stöðum, m.a. í geymslum og á skrifstofu bæjarstjórans í Grindavík. Ekki væri enn vitað hvar eintak Grindavíkurbæjar væri niður komið.

“Í dag er ætlunin að fara betur yfir bardagana, bæði á Básendum og í Grindavík, en eftir viku yrði farið yfir friðarsamningana. Þeir höfðu gríðarleg áhrif á alla framvindu mála í Evrópu á þeim tíma. Hafa þarf í huga að eftir 1500 kom tími líkur þeim sem síðar kom á 20. öldinni. Ný heimsmynd varð til í kjölfar siglingar Kólumbusar til Ameríku. En gæta þarf vel að því að sú villa sem Ítalir og Spánverjar hafa reynt að koma inn hjá fólki að Kólumbus hafi fundið Ameríku væri algjör della. Í ævisögu Kólumbusar, sem skráð var af syni hans, kemur fram að hann hafi farið með sjómönnum frá Bristol til Íslands árið 1478. Hafi hann mest verið á Ingjaldssandi, en einnig í Hafnarfirði og í Reykjavík. Í Kólumbusarsafninu á Kanaríeyjum kæmi þetta einnig vel fram. Englendingar vissu bæði um Grænland og Norður-Ameríku á þessum tíma. Þeir stunduðu fiskveiðar við Grænland og Nýfundnaland.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Kólumbus fór til Íslands gagngert til að afla upplýsinga um þessi óráðnu lönd í vestri. Gekk hann síðan á fund Ferdinands Spánarkóngs til að fá stuðning hans til siglinga þangað, en látið var liggja að því að hann ætlaði að sigla til Kína og þaðan til vesturs. Uppgötvanir lágu þá fyrir að jörðin væri hnöttótt, en ekki flöt. Markmið Spánverja var að hasla sér völl í Nýja heiminum í vestri, enda fór það svo að þeir flykktust þangað í stórum stíl eftir að uppgötvun hans varð ljós heima fyrir. Lögðu þeir m.a. undir sig lönd eins og Filippseyjar og aðrar eyjar í Kyrrahafi á meðan Portúgalar lögðust á Manhattansvæðið og Bretar á miðja Ameríku þar sem þeir strádrápu Indíánana.
Um 1500 voru Spánverjar um 10 milljónir talsins og drottnuðuá höfunum. Frakkar voru helmingi fleiri, eða 20 milljónir, en Englendingar hins vegar helmingi færri, eða 5 milljónir talsins. Nú eru á Bretlandseyjum tvöfalt fleiri íbúar en á Spáni. England, sem í raun var einungis Wales, var á þessum tíma nokkurs kona nýlenda. Hansakaupmenn stjórnuðu t.d. allri verslun í London og voru ráðandi afl í verslun í heiminum. Ítalar áttu og stjórnuðu námuréttindum í Englandi og Ítalir réðu yfir kirkjunni þar í landi. Fleiri ríki nutu og áhrifa í Englandi á þessum tíma. Spánverjar voru nýbúnir að reka Márana af höndum sér og í Austur-Evrópu sátu Tyrkirnir sem fastast þrátt fyrir grimmilega tilraunir þarlendra, s.s. Rúmverja, að reka þá af höndum sér.

Hverjar voru helstu þjóðirnar í Evrópu á þessum tíma? Í fyrsta lagi Spánn með Ferdinand og Ísabellu í broddi fylkingar, tengdaforeldra Hinriks VIII. Í öðru lagi var Maximillian Þýskalandskeisari með Habsborgaraveldið og í þriðja lagi Lúðvík XII Frakklandskonungur. Loks var það páfinn í Vatikaninu í Róm. Öll þessi ríki voru kaþólks, en sátu að svikráðum hvert við annað í stórum stíl. Frakkland vildi leggja undir sig England með aðstoð Skota, en Þýskalandskeisari spyrnti gegn því.

Um 1530 áttu Englendingar 440 hafskip. Af þeim stunduðu um 150 veiðar eða siglingar til Íslands. En hvað var það sem var þeim svona dýrmætt hér? Á þessum tíma lögðu kaþólikkar áherslu á föstna og að einungis væri á henni etinn fiskur. Hinrik VIII. framfylgdi því að farið yrði að föstulögum. Englendingar bæði veiddu og keyptu vorur hér á landi, einkum skreið og brennistein (í Hafnarfirði). Hann var notaður í púður og skotfæri og þótti einka mikilvægur í stríðunum er þá geisuðu í Evrópu.

Eftir að hirstjóri Danakonungs var niðurlægður og drepinn á Rifi lokuðu Danir dönsku sundunum og bönnuðu verslun Englendinga í ríki sínu. Hinrik VIII. (1485-1509) brást illa við. Lagði hann m.a. á stríðsskatta og efldi aðalinn. Honum datt þó ekki í hug að fara í stríð heldur notaði fjármunina til að byggja upp og smíða skip, efla siglingar og gera út landkönnuði. Kapphlaup var hafið til Ameríku eftir að fréttist af heimsálfunni eftir siglingu Kólumbusar. Frá Íslandi fengu þeir fisk og brennistein, eins og áður sagði. Leiðin til að verða stórveldi á þessum tíma var að leita auðs í Vesturálfu.

Hinrik VIII

Hinrik VIII.

Hinrik VII og síðar Hinrik VIII lögðu mikla áherslu á að tryggja og styrkja áhrif sín þar. Hinn síðarnefndi giftist Katrínu, dóttur Ferndinands Spánarkóngs, ekkju Arthurs, bróður hans. Fyrstu árin var hann greinilega undir áhrifum tengdaföðursins, en eftir að hann hafði safnað saman við hirðina fulltrúum breska aðalsins, sem haldið hafði til í köstulum sínum víða um landið og fór að bjóða honum í veislur jókst sjálfstæði hans til muna. Kom hann m.a. með því í veg fyrir hugsanlegar uppreisnir heima fyrir. Auk þess naut hann hylli fyrir sigra sína í Frakklandi. Þá notaði hann tækifærið til að taka krúnuerfingja af lífi í stórum stíl. Hótaði hann Katrínu skilnaði, enda orðinn hundleiður á henni þegar hingað var komið, efldi borgarastéttina og styrkti sjálfstæði borga, en á þeim tíma voru þjóðríkin m.a. í mótun í Evrópu. Buðu konungar víða borgarstéttinni hin bestu kjör til að afla fylgis. Katrín eignaðist mörg börn, en þau dóu kornung. Þegar Ferndinand dó gerði Hinrik VIII. bandalag við Frakkakonung. Katrín reiddist, en hann hótaði aðs kilja við hana og giftast Önnu Boleyn, en páfagarður bannaði það. Hinrik lét þá þingð samþykkja að bannað væri að taka mark á tilmælum páfa eða bera nokkuð undir hann. Yfirmaður ensku kirkjunnar í Kantaraborg var gerður að yfirmanni kirkjunnar þar í landi. Hinrik lét ógilda hjónaband hans og Katrínar. Með því komst kaþólska kirkjan í miklar hremmingar og greiddi fyrir aðgengi hins lútherska siðar í Evrópu. Hinrik giftist Önnu Boleyn. Eignaðist hún stúlku þremur mánuðum síðar er skírð var Elísabet (Elísabet I.). Páfinn bannfærði Hinrik VIII, en konungur bannaði lestur tilkynningarinnar. Síðar giftist hann þriðju konunni. Hún ól honum son, en hún dó af barnsburðinum. Sú næsta var ákærð fyrir hórdóm og lét Hirnik hálshöggva hana og alla, sem tengdust því máli. Giftist hann fjórum öðrum eftir það.

Afskipti Hinriks VIII. af Íslandi; Danakóngur sá að ekki var nokkur leið að koma Englendingum af Íslandsmiðum. Ákvað hann þá að þeir sem kæmu með ódýrar vörur til Íslands fengju þol til fiskveiða. Hinrik afnam lögin, sem bannað höfðu Englendingum takmarkaðar Íslandssiglingar. Árið 1528 komu 148 ensk skip til Íslands. Fimm árum síðar voru þau 85 talsins, að meðaltali um 84 lestir hvert.
Árið 1532 voru einungis Básendar og Grindavík aðsetur Englendinga hér á landi. Búið var að hrekja þá frá öðrum höfnum við Faxaflóann, m.a. Hafnarfirði. Öðru hverju voru Englendingar að gera þýskum skráveifur. Hertóku þeir m.a. þýskt skip í Straumsvík (1486), færðu það til Galloway á Englandi og seldu. Árið 1511 kom til átaka og 1514 tóku Englendingar þrjú Hansaskip og hirtu allt af þeim (Björn Þorsteinsson – Fimm þorskastríð). Árið 1528 réðst enskt skip á Hamborgarafar í höfninni á Rifi og hirtu úr því öll vopn. Árið 1529 sökkti Willys nokkur, enskur, Hamborgarafari í Eyjafirði.

Þann 31. mars (páskadagur) árið 1532 sigldi enskt 150 lesta skip, Anna, inn á mjótt lónið utan við Básenda, en fór ekki inn á leguna. Básendar höfðu þá verið verslunarstaður Englendinga um alllangt skeið. Þýskir höfðu hins vegar orðið á undan þeim (komu hingað 30. mars, á laugardegi) og nutu því þeirrar reglur að þeir sem fyrstir urðu í höfn að vori nytu þar forgangs um sumarið. Englendingarnir á skipunu vörpuðu akkerum, bátur var settur út og róið var í land. Þjóðverjar voru þá um 150 talsins í landi. Englendingarnir báðum um leyfi til að hafa aðstöðu á Básenum, en foringi Þjóðverja, Ludtkin Smith, hafnaði því. Hann sagði að allar aðrar hafnir stæðu þeim opnar, en sjálfur hefði hann nú forréttindi á Básendum, auk þess sem félaga hans væri von hvað úr hverju. Englendingar virtust ekki taka þessum viðbrögðum illa og réru út í skip sitt, en sýndu ekki á sér neitt fararsnið. Daginn eftir (mánudag) kom annað enskt skip (Thomas) með áðurnefndan Willys við stýrið. Margir kaupmenn voru um borð, en áhöfnin var um 160 manns. Skipin höfðu lagt samhliða úr höfn í Englandi, en orðið viðskila í hafi.

Básendar

Básendar – loftmynd.

Englendingarnir komu sér saman um að ráðast á Þjóðverjana í landi og drepa þá. Voru þeir það öruggir um yfirburði sína að þeir sendu boð til nálægra Íslendinga að koma í veislu þeirra að Básendum og þar sem yrði “þjóðverjakjöt á borðum til hátíðarbrigða”. Bróðir Ludtkins, Hans Smith, hafði verið ásamt fleiri Þjóðverjum á Básendum um veturinn og vingast við Íslendingana svo þeir voru heldur hliðhollir Þjóðverjum á þessari stundu. Þeir hunsuðu því boð Englendinganna. Á þriðjudag, 2. apríl, hélt annað enska skipið (Thomas) inn á höfnina á Básendum. Skutu skipverjar þess á þýska skipið. Löskuðu þeir bæði stafn þess og búlka. Áhöfn Önnu hóf þá skothríð, en skipið rak stjórnlaust eftir að þjóðverjar höfðu náð að höggva í sundur akkerisfestina. Rak það upp í fjöruna. Þjóðverjarnir, sem voru mun færri (30 og 80 að auki sem voru þar fyrir) virtust hafa betur. Þó var komið á vopnahléi. Á flóðinu reyndu Englendingar að losa strandaða skipið, en Þjóðverjar hófu þá árás og skoruðu á Englendinga að leggja niður vopn sín og afhenda góssið gegn griða. Því var hafnað og lögðu Þjóðverjar undir sig strandaða skipið, en héldu hinu í herkví. Áhöfnin á skipinu beið næsta flóðs, en komst ekki út vegna norðlægsstrenginsvinds. Anna var því um kyrrt í höfninni, auk þess sem skipið komst ekki út nema sigla framhjá Hamborgarafarinu, sem lá utan við það. Þótti það ekki fýsilegu kostur. Enski skipstjórinn, sem eftir lifði, fór yfir í þýska skipið, en Ludtkin skipaði honum að afhenda öll vopn. Var gengið að því, en er Þjóðverjarnir ætluðu út í enska skipið mættu þeir mikilli mótspyrnu. Hjuggu þeir þá gat á byrðinginn, drápu nokkra Englendinga, handtóku aðra og skildu þá eftir klæðalitla.

Eftir átökin sendi Ludtkin eftir Hansakaupmönnum til Hafnarfjarðar. Englendingum var í framhaldi af því gert að gjalda sektir með skreið, en fengu að sigla skipi sínu til Grindavíkur. Erlendur Þorvaldsson, lögmaður, setti Tylftardóm og réttlætti formlega haldlagningu á góssi því er Englendingar skildu eftir á Básendum, m.a. hið sjórekna skip, sem þótti allnokkurs virði, metið á 1000 sterlingspund.
Englendingar báru því síðar við í skýrslum sínum að hafa þurft að leita hafnar að Básendum vegna óveðurs, en Ludtkin hafi þá ráðist á þá. Báðir kenndu þannig hvorum öðrum um upphaf átakanna.

Víkur þá sögunni enn og aftur til Grindavíkur. Englendingarnir, sem tekið höfðu þátt í átökunum á Básendum, en var griður gefinn, flúðu þangað. Tóku þeir allmikið af fiski til sín, sem tilheyrði m.a. Þjóðverjum. Erlendur lét þá enn og aftur setja dóm og dæmdi Englendinga í sektir. Um það leyti kom að landi í Grindavík John nokkur Braye, eða Jóhann Breiði, eins og landinn nefndi hann, á skipi sínu Peter Gibson. Lét hann þegar reisa virki á Járngerðarstöðum, ofan við Stóru Bót. Gerðust Englendingar bitrir út í Íslendinga vegna stuðnings þeirra við Þjóðverja á Básendum. Hótuðu þeir landanum og bönnuðu honum að selja þýskum fisk. Pyntaði Jóhann mann, hótaði öðrum og tók lömb og sauði frá manni sem sinnti ekki þessu verslunarbanni hans. Nam hann hest af manni og gerðist alldjarfur til kvenna. Flutti hann t.d. konu eina út í skip sitt og hélt eiginmanninum þar í böndum meðan hann hafði einhver not af henni.
Um þessar mundir var Diðrik af Minden fógeti á Bessastöðum. Skipaði hann þýskum og öðrum er hagsmuna áttu að gæta að finna sig við Þórðarfell ofan við Grindavík. Lofaði hann öllum þeim sem það gerðu mála í nafni konungs. Hafnarfjarðarkaupmenn tóku tilmælunum strax vel og safnaðist fljótt allnokkuð lið við Þórðarfell, eða um 280 menn (aðrar heimildir segja 180), þ.á.m. 8 skipshafnir frá Bremen, sveit Diðriks, liðsmenn frá Hafnarfirði, Njarðvíkum og frá Básendum. Diðrik lýsti Englendingana í Grindavík réttdræpa, en alla sem gegn þeim færu friðhelga að lögum. Ástæðuna fyrir aðförinni sagði hann m.a. virkisgerðina, sem hann taldi vera atlögu að sjálfum Danakonungi, auk yfirgangs Englendinganna og afbrota. Hér virtist því fyrst og fremst vera um nokkurs konar lögregluaðgerð að ræða.
Margir Englendinganna voru á sjó þennan dag, 10. júní 1532. Jóhann Breiði, fálkatemjari konungs, og 13 aðrir Englendingar voru í virkinu. Aðfararnótt 11. júní, kl. 02.00, læddust Hafnfirðingar og Njarðvíkingar að virkinu, en Básendamenn og Þjóðverjarnir héldu í átt að skipunum sem lágu utan við Stóru-Bót. Útsinningshraglandi var og úfinn sjór. Þegar menn nálguðust virkið var gert áhlaup á það með óhljóðum og látum. Vaknaði Jóhann Breiði og menn hans við vondan draum, en náðu ekki að verjast. Voru þeir allir drepnir á nýðingslegan hátt og lík Jóhanns illa leikið. Fimmtán voru drepnir. Náðist að kyrrsetja skip Jóhanns á legunni, en fjögur skip Englendinga lágu utar. Búðir annarra Englendinga voru þarna skammt frá og voru þeir, sem þar vorum, handteknir, átta talsins. Voru þeir látnir grafa félaga sínum undir virkisveggnum. Fjórum skipum tókst að leggja frá landi, en eitt fórst á grynningunum á leið út.
Diðrik sló upp veislu, en eftir nokkra daga gaf byr svo skipi Peter Gibson var siglt til Bessastaða, enda nú metið eign danska kóngsins. Erlendur setti enn einu sinni Tylftardóm með það að markmiði að réttlæta gjörningin og leggja “löglega” hald á allt góss Englendinganna, auk þess að dæma þá í sektir. Herinn var um kyrrt í Grindavík í 10 daga, enda Englendingarnir þar til alls vísir. Margir þeirra höfðu verið á sjó þegar atlagan var gerð og þótti þeim aðkoman að landi heldur kuldaleg.

Í styrjöldinni höfðu fjórar þjóðir tekið þátt; auk Englendinga voru það Þjóðverjar, Danir og Íslendingar. Með “Grindavíkurstríðinu” lauk ekki átökunum, því fór fjarri. Það var upphafið að átökum stórþjóða. Með því hófst “styrjöld”, sem átti eftir að standa í langan tíma.
Hinrik VIII. frétti fljótlega af átökunum. Svo virðist af skrifum hans um þetta mál að hann hafi verið mjög kunnugur hér á landi. Maximillian Þýskalandskeisari frétti einnig fljótlega af átökunum. Allar skýrslur Englendinga, Þjóðverja og Dana um aðdraganda átakanna á Básendum og í Grindavík, eða Grindaveg eins og það er ritað á þeim tíma, um átökin eru 70-80 skjöl. Friðarsamningarnir, sem fylgdu í kjölfarið, eru 33 blaðsíður og feikna merkilegir. Í fylgiskjölunum eru miklar upplýsingar, en þau eru svo til öll á latínu, þýsku og örfá á íslensku. Þessi skjöl þyrfti öll að þýða yfir á íslensku.

Gerðavellir

Gengið um söguslóðir Grindavíkurstríðsins.

Þetta er eina stríðið á Íslandi sem gera þurfti sérstaka friðasamninga um á milli voldugustu þjóða Evrópu á þeim tíma. Samningarnir gefa einnig góða sýn á lífskjörin á þessum tímum, einkum á Suðurnesjum.

Hinrik VIII. gafst síðar upp, m.a. vegna átaka annars staðar sem og innbyrðis átaka hans í kvennamálunum. Tímabilið er ekki einungis áhugavert fyrir Suðurnesin heldur og Ísland allt. Alveg frá 1420 til 1602 gerðust fleiri merkilegir atburðir á Suðurnesjum en nokkurs staðar annars staðar á Íslandi. Eftir Grindavíkurstríðið byrjuðu Danir að þoka Þjóðverjum á brott héðan og tókst það loks árið 1602 með tilkomu einokunarverslunarinnar, sem er síðan kapítuli út af fyrir sig.
Næst verður fjallað um friðarsamningana. Stuðst verður við gögn og ljósrit.
Loks verður farin ferð um söguslóðir Grindavíkurstríðsins, s.s. á Básenda og Stóru Bót”.
Sjá III. hluta.

ÓSÁ tók saman – yfirlestur: JG – VG og SJF.

Gerðavellir

Gerðavellir í Grindavík, virki Jóhanns Breiða – kort ÓSÁ.

Járngerðarstaðir

Eftirfarandi lýsing var hraðskrifuð upp á námskeiði er Jón Böðvarsson hélt um Grindavíkurstríðið í Saltfisksetrinu í Grindavík. Hún er birt með fyrirvara – hugasanlega er þörf á einhverri leiðréttingu – eftir er að bera hana saman við skriflegar heimildir, s.s. í „Ensku öldinni„og „Tíu þorskastríð„, sbr. innihald texta:

“Grindavíkurstríðið”
I. hluti – 3. mars 2004.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

“Atvinnuvegir á Íslandi voru aðallega landbúnaður. Þó voru þrjú svæði undanskilin; 1. Vestmannaeyjar, 2. Reykjanesskaginn (mikil hraun – gróðurspildur með ströndinni) og 3. undir Jökli. Á Reykjanesskaganum var þó merkilegur landbúnaður í Grindavík, alveg fram til 1800, en það var garðyrkja, s.s. á Skála og á Hrauni.

Gerðavellir

Gerðavellir við Grindavík – uppdráttur ÓSÁ.

Fiskveiðar voru aðallega stundaðar á framangreindum svæðum. Fram til 1300 veiddu Íslendingar aðallega við landið. Skömmu fyrir 1300 gjörbreyttist ástandið. Noregskóngur hafði einkaleyfi á veiðum við allar eyjar er tilheyrðu Noregi. Aðrir þurftu að fá leyfi til að veiða þar eða versla. Yfirleitt var slíkt leyfi ekki veitt. Síðast á 14. öld breyttist þetta ástand. Englendingar urðu fyrstir til að sækja á fiskimiðin við Ísland, en af þessum eyjum Noregskóngs. Fram yfir 1380 voru fiskiskip yfirleitt lítil og yfirleitt ekki vel fallin til úthafssiglinga. Ný siglingatækni kom fram. Norðurlandabúar töpuðu forystunni á höfunum, en Englendingar tóku yfir; fyrst með tvímastra, þrímastra og jafnvel fjórmastra skipum. Fyrir 1400 voru Englendingar farnir að sigla á slíkum skipum hingað. Fyrstu frásagnir af siglingum Englendinga hingað eru frá 1396 er maður í Vestmannaeyjum var drepinn, en skv. frásögnum lágu 6 skip, útlensk, í höfninni þá nótt. Sextán árum síðar kom skip af Englandi er þá statt við Dyrhólaey. Róið var út að því. Reyndist skipið vera frá Englandi. Sögur af Ríkharði nokkrum komu skömmu síðar, en sá hafði “konungsbréf frá Noregskonungi” til siglinga hingað. Árið 1413 er til frásögn skipa enskra í Reykjavík.

Gerðavellir

Tómas Þorvaldsson við virki Jóhanns Breiða ofan við Stóu-Bót.

Fiskur var aðallega hertur. Árið 1432 kom fyrsta þýska skipið hingað, en það var á vegum Hansakaupmanna. Noregskóngur hélt fast í einkaleyfi sitt til vöru-, veiði- og verslunarferða á sínum svæðum. En vegna þess að norsk skip gátu veitt nær markaðinum í Evrópu var hann ekki eins fastheldinn á þennan rétt sinn er fjær dró. Er Englendingar fóru að koma til Íslands bannaði Noregskóngur för þeirra til landsins. Englendingar og Íslendingar tóku ekki mark á því banni. Íslendingar ömuðust að vísu í fyrstu við fiskveiðum Englendinga, en fögnuðu vöruflutningum þeirra og verslun. En fyrir vöruflutninga Englendinganna fengu þeir “þol til fiskveiða”. Englendingar voru sterkastir við landið og víða með aðstöðu, alveg frá Flatey á Breiðafirði og suður með vesturströndinni, en höfuðvígi þeirra var í Hafnarfirði. Réðu þeir uppsátrum og festarhælum í öllum höfnum.

Straumsvík

Straumsvík.

Þjóðverjar, sem komu um 1430 urðu fljótlega vinsælli. Þeir keyptu fisk og skreið á allt að 70% hærra verði og seldu sína vöru ódýrari. Mikil eftirspurn var eftir fiski í Evrópu svo þeir gátu selt hann á margfalt hærra verði þar. Trúarbrögð, fastan, var aðalástæðan. Þjóðverjar voru einnig vinsælli en Englendingar vegna þess að hinir síðarnefndu stálu oft á tíðum fiski frá Íslendingum; fiski sem safnað hafði verið saman til sölu um vorið. Þetta varð til þess að Englendingar töpuðu smám saman öllum höfnum sínum (sem að vísu voru ekki eiginlegar hafnir í okkar skilningi, heldur viðleguaðstaða). Englendingar höfðu haft Hafnarfjörð fyrir aðalhöfn (Grindavík var nr. tvö), en þeir sigldu jafnan til Straumsvíkur.

Básendar

Básendar.

Um 1480 ráku Þjóðverjar Englendinga frá Hafnarfirði og Straumsvík (Þýskabúð) og tóku sér fasta búsetu í Hafnarfirði. Reistu þeir kirkju og vöruskála. Staðinn nefndu þeir Flensborg. Árið 1480 kom stórt þýskt vöruflutningaskip og lá við landfestar við Straumsvík. Sex ensk herskip komu og tóku skipið, fluttu það út og seldu áhöfnina m.a. í ánauð. Englendingar fluttu sig til Grindavíkur, en Þjóðverjar til Básenda. Sú regla gilti að sú áhöfn sem fyrst kom að höfn að voru átti einkaaðstöðu þar það sumarið. Upp spratt verslunarstétt, nefnd “verslunarduggarar”. Þeir fóru að sigla til Íslands, ekki bara yfir sumarmánuðina, heldur alveg fram í nóvember. Íslendingar unnu hjá þeim og sáum um veiðar og vinnslu aflans, t.d. í Grindavík, á Básendum og í Hafnarfirði. Eftir að Englendingar byrjuðu að sigla hingað komu þeir sér upp umboðsmönnum. Í Grindavík var það Marteinn Einarsson frá Stað. Stjórnaði hann verslun Englendinga hér. Systir hans var gift Englendingi. Lærði Marteinn m.a. listmálun í Englandi. Eftir að Þjóðverjar lögðu undir sig Hafnarfjörð fóru þeir að herja á Englendinga annars staðar, t.d. á Básendum við Stafnes (sem hét Starrnes til forna).

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Árið 1532 varð Grindavíkurstríðið” eða “Fimmta þorskastríðið” (sjá Enska öldin og Tíu þorskastríð eftir Björn Þorsteinsson (tvær bækur)).
Fyrsta þorskastríðið var 1415-1425 að sögn Björns. Þá var öllu útlendingum bannað af Noregskóngi að sigla til Íslands. Jafnvel innlendum mönnum var það bannað. Siglingar Englendinga uxu þó heldur, enda tók Englandskóngur ekki undir ósk mágs síns, Danakóngs, um bannið. Ítrekaði einungis að hans menn mættu ekki sigla til Íslands, enda væri fyrir slíku ekki forn venja. Við þetta jókst Englendingum ásmegin. Hirðstjóri Dana og Norðmanna, Hannes Pálsson (danskur, en með íslenskt nafn), var handtekinn hér á landi og fluttur til Englands. Leyfi danska Noregskóngsins var þá skilyrt vöruflutningum með þá heimild til fiskveiða við landið “en bannað aðvífandi aðilum”.

1467-1449 var annað þorskastríðið. Danakóngur lét hertaka nokkur ensk skip á Breiðafirði. Englendingar lofuðu þá að stunda ekki siglingar nema að hafa til þess leyfi konungs. Eftir þetta stríð tengdust Íslendingar alveg Danakóngi.

Básendar

Básendar – festarhringur.

1449-1490 var þriðja þorskastríðið. Þeir, sem keyptu sér leyfi til Íslandsferða, voru í fullum rétti til siglinga til Íslands. Árið 1465 voru öll slík leyfi úr gildi felld. Englendingar létu ekki segjast. Björn Þorleifsson, hirðstjóri að Skarði, fór árið 1467 að Rifi og ætlaði að hindra verslun Englendinga þar, en þeir gerðu sér lítið fyrir, festu hann við staur og drápu. Kona hans, Ólöf hin ríka, gerðist þá hirðstjóri og sagði þau fleygu orð: “Ekki skal gráta Björn bónda, heldur safna liði og hefna hans”. Lét hún handtaka Englendingana og gerði þeim m.a. að leggja stétt eina mikla að Skarði.
Danir reyndu að hrekja Englendinga héðan, en hömpuðu þýskum. Diðrik Píning hrakti t.d. Englendinga frá Hafnarfirði. Englendingar töpuðu þá flestum höfnum sínum.
Hinrik VIII. var við völd í Englandi. Aðalhafnir Englendinga voru á Básendum og í Grindavík. Þegar Þjóðverjar komu til landsins 2. apríl 1532 fóru þeir ekki til Grindavíkur heldur inn á Básenda. Fyrirliði þeirra, Ludtkin Smith, hafði sagst ætla að vinna eina höfn af Englendingum, en hann mun hafa verið skyldur fyrirliða þeim er enskir hertóku við Straumsvík og færðu í þrældóm. Samkvæmt reglunni átti hann rétt á aðstöðunni (fyrstur að vori). Básendar var aðalhöfnin á Romshvalanesi. Keflavík var ekki einu sinni orðið þorp. Skömmu síðar komu Englendingar að Básendum, réru í land og báðu um að fá að hafa þar aðstöðu. Ludtkin hafnaði beiðni þeirra, sagðist ætla að bíða eftir væntanlegu öðru þýsku skipi þangað. Englendingar virtust taka þessu furðu vel og réru til baka út í skip sitt. Skömmu síðar kom annað enskt skip þar að. Þá breyttist framkoma Englendinganna gagnvart Þjóðverjum. Annað skipið sigldi inn í höfnina og réðst á Þjóðverjana. Héldu Englendingar að þeir hefðu í fullu tré við þá. En þeir vissu ekki eitt, Bróðir Ludtkins, Hans Smith, hafði haft vetursetu á Básendum, varðveitt fiskistafla, sem ætlunin var að flytja út að vori, og vingast við heimamenn. Þegar Þjóðverjar sáu hvert stefndi, söfnuðu þeir liði, aðallega Íslendingum, og mikil orrusta verður með fylkingunum. Þjóðverjum og Íslendingum tókst að gersigra Englendinga. Öðru skipinu var sökkt, en Þjóðverjar náðu hinu.

Skipsstígur

Skipsstígur ofan Grindavíkur.

Þá víkur sögunni til Grindavíkur. Englendingar voru þar, um 15 að talið var. Foringi þeirra er Joen Breen (Brier), nefndur Jóhann Breiði af heimamönnum. Líklega var hann fjarskyldur Englandskóngi. Annar mjög merkilegur Englendingur var þarna líka, en sá var yfirfálkatemjari Englandskóngs. Sennilega í þeim erindagjörðum að fanga hér fálka og temja, en þeir voru bæði konungasport og útflutningsvara. Þessi Englendingar reistu virki að Járngerðarstöðum. Svolítið öðruvísi var þá umhorfs þar en nú er. Sjórinn er búinn að “éta” mikið af landinu. Virkið var sennilega þar sem nú er Stóra Bót á Hellunum. Englendingar uggðu ekki að sér. M.a. vegna þess að í höfninni (líklega Stóru Bót eða austar) voru 5 ensk skip. Af einhverri ástæðu fréttu Þjóðverjar að til stæði að halda drykkjusvall hjá Englendingum í Grindavík. Þjóðverjar tryggðu sér þá stuðning danskra yfirvalda á Bessastöðum og söfnuðu liði frá Hafnarfirði og Njarðvíkum, auk áhafna átta þýskra skipa. Söfnuðust þeir saman við Þórðarfell ofan við Grindavík og skiptu liði. Um nóttina, aðfararnótt 11. júní 1532, og héldu sumir suður Árnastíg (Skipsstíg) að virkinu (Hafnfirðingar og Njarðvíkingar) og aðrir að skipunum. Voru 15 Englendingar drepnir í Virkinu, þ.á.m. Jóhann Breiði, en lík hans var illa leikið eftir átökin. Átta voru teknir höndum. Voru þeir látnir dysja félaga sína undir virkisveggnum, í svonefndri Engelsku lág. Fjórum skipum tókst að leggja frá landi, eitt strandaði og árásarliðið náði einu, Peter Gibson, skip Jóhanns Breiða.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir og Gerðavellir.

Lagt var hald á skipin og aðrar eigur Englendinga. Frásagnir eru af þessum atburði í nefndri bók Björns Þorsteinssonar; “Enska öldin” og sú frásögn er tekin upp í “Sögu Grindavíkur” eftir Jón Þ. Þór. Í kjölfarið sigli þras og síðan friðasamningar á milli Dana, Englendinga og Þjóðverja. Með “Grindavíkurstríðinu” lauk svonefndri “ensku öld” á Íslandi.

Grindavík

Grindavík – Járngerðarstaðir.

Ólafur Ásgeirsson, núverandi þjóðskjalavörður, gerði gangskör í að fá skjöl varðandi átökin frá Hamborg til Íslands er til voru um nefnda atburði, a.m.k. afrit af þeim. Svar þýskra var út í hött í fyrstu, en síðar var Íslandi boðið að fá afrit af skjölunum ef það kostaði afritunina; um 500 arkir skjala (af þeim hafa um 30 verið þýdd). Þau eru flest á latínu, þýsku og 1-2 á íslensku. Engin fjárveiting var til svo Jón Bö. var sendur við annan mann til bæjarstjórans í Grindavík ( fyrir 15 árum) til að leita ásjár. Þeim var vel tekið og samþykkti bæjarstjórn að greiða kostnaðinn. Grindvíkingar fengu síðan filmur af skjölunum 500 og Þjóðskjalasafnið fékk afrit. Filmurnar eiga að vera til uppi á lofti í bæjarskrifstofunum, en enginn virðist vita hvað þær er nákvæmlega. Afrit af skjölunum er þó til á Þjóðskjalasafninu og mun Ólafur Ásgeirsson skýra þau nánar með Jóni í næstu fyrirlestrum. Tvö bréfanna eru undirrituð af Hinriki VIII., þ.á.m. skaðabótakrafan er fylgdi í kjölfar mannvíganna ofan við Stórubót þennan örlagaríka dag í júnímánuði árið 1532”.
Sjá II. hluta.

ÓSÁ skráði – yfirlestur JG – VG og SJF.

Grindavík

Grindavík.

Straumsvík

Eftirfarandi ábending barst FERLIR um hugsanlegan helli undir hluta álversins í Straumsvík:

Straumsvík

Straumsvík.

„Hef verið að reyna að grafast fyrir um hellinn sem er undir Ísal í Hafnarfirði. Það voru upphaflega þrjú stór síló (þessi rauðu og hvítu) en eitt var fjarlægt. Það síló var ekki notað nema að hluta til því að þegar þeir voru að setja það upp kom í ljós að það er líklega stór hellir undir. Það var sett mikið magn af steypu og sandi inn en virkaði ekki neitt. Steypan sást, sögðu þeir sem unnu við það, fljótandi fyrir utan höfnina. Það var ekki gerð nein hola niður en borarnir og gatið var rétt nóg fyrir steypuna til að renna niður. Gatið sem var gert er á milli mötuneytisins og Kerfóðrunar.“ Skömmu síðar bárust svohljóðandi viðbótaruppýsingar um staðsetninguna: „Staðsetningin er líklega ekki nógu góð, en það sem ég vildi segja er að hellirinn er mötuneytismegin þ.e. syðstur af þeim sílóum.“
Samningar um byggingu álvers á Íslandi voru undirritaðir árið 1966, en viðræður milli svissneska fyrirtækisins Alusuisse og ríkisstjórnar Íslands höfðu þá staðið yfir í nokkur ár. Íslenska álfélagið hf. var stofnað og framkvæmdir hófust í Straumsvík. Þremur árum síðar hófst framleiðsla en verksmiðjan var formlega vígð í maí 1970.
Framleiðslugeta álversins var í upphafi um 33.000 tonn á ári í 120 kerum, en síðar var verkmiðjan stækkuð fjórum sinnum. Árið 1970 voru 40 ker til viðbótar tekin í rekstur, eftir að fyrsti kerskálinnn hafði verið lengdur, og 1972 var fyrri áfangi kerskála 2 tekinn í notkun. Síðari áfanginn (40 ker) var svo byggður nokkrum árum seinna og þar hófst framleiðsla árið 1980.

Straumsvík

Straumsvík.

Hrannari Péturssyni, upplýsingafulltrúa Alcan, var send framangreind lýsing með von um frekari upplýsingar, ef einhverjar væru. Hann svaraði: „Ég gat ekki fundið út úr þessu en mér dettur í hug að benda þér á Sveinbjörn Sigurðsson, tæknifræðing og fyrrverandi starfsmann, sem var um áratugaskeið ábyrgur fyrir ýmsum framkvæmdum og byggingum á svæðinu.“
Sveinbjörn sagðist aðspurður muna vel eftir þessu. „Eitt sílóið tók að halla um allt að 30 cm á 40 metrum (var 58 m hátt) svo sást móta fyrir krumpu í hlið þess. Þá voru gerðar rannsóknir á undirstöðunni. Í ljós kom að þar undir, eftir að borað hafði verið 8-9 metrar niður í hraunið, var stærðar gýmald, sennilega stór sjávarrhellir. Reynt var að aka dæla steypu stöðugt niður um holuna í tvo daga, en þá sáu menn hvar sjórinn utan við ströndina var orðinn litaður af steypunni. Þá var steypudælingunni hætt, en síðar ákveðið að rífa sílóið, enda ekki lengur þörf fyrir það vegna breyttrar vinnsluaðferðar. Utar er búið að bæta nokkru við ströndina, en ekki var gert nein tilraun til að stækka borgatið og kíkja niður í dýpið. Það er því í raun enn óljóst hvað er þarna undir.“
Sveinbjörn var einn helsti forvígsmaður að kaupum og endurbyggingu Gerðis, sem þá varð að aðstöðu fyrir starfsfólk álversins. Ísal keypti einnig Tjarnarkot, sem var þarna skammt vestar. Fróðleikur um Gerði mun birtast fljótlega á vefsíðunni.
Heimild m.a.:
-alcan.is – upphafið
-Sveinbjörn Sigurðsson.

Straumsvík

Straumsvík.

Staðarborg
15. Straumsvík – Kálfatjörn
-Straumsvík – hver á álverið, hver margir vinna þar, hvað er framleitt þar, hve mikið, hvert selt og hvers vegna framleitt hér á landi
Íslenska álfélagið reisti álverið í Straumsvík um 1965. Síðan hefur það verið stækkað. Hver kerskálanna þriggja e rum eins km langir, eða með lengstu hú
sum á Íslandi. Nú er álverið í eigu Alcoa. Um 500 starfsmenn starfa á vegum fyrirtækisins hér á landi. Framleiðslan erum 170.000 tonn af áli til útflutnings. Fyrirhugð stækkun er á álverinu hér til suðurs, yfir veginn, en honum er ætlaður staður lengra upp í hraunið.
Ævintýrið um álverið í Straumsvík hófst í háloftunum yfir Íslandi og það hefði hugsanlega ekki orðið að veruleika ef ský hefðu verið á himni. Um borð í farþegaþotu á leið til Bandaríkjanna voru tveir af ráðamönnum svissnesks álfyrirtækis. Þar sem þeir sátu í vélinni og virtu fyrir sér landið úr lofti sáu þeir Vatnajökul, stærsta jökul Evrópu. Og þá kviknaði hugmyndin. Þar sem svona mikið er af jöklum hlýtur að vera gnótt af vatnsföllum sem hægt er að virkja. Þetta var upphafið af virkjunum Þjórsár við Búrfell, virkjuninni sem enn sér álverinu fyrir raforku.
Fyrirtækið hét áður Íslenska álfélagið en ber nú nafnið Alcan á Íslandi. Fyrirtækið er stærsti einstaki orkukaupandinn hér á landi og á síðasta ári nýtti Alcan 36% af allri orkuframleiðslu landsins. Rannveig segir að álverið hefði aldrei verið reist á sínum tíma nema vegna orkunnar sem hér er nóg af. „Það er ekki nóg að orkan sé til staðar, heldur er jafnvægi og stöðugleiki orkunnar forsenda þess að hægt sé að vinna ál. Fyrstu árin lenti fyrirtækið í ýmsum vandræðum, m.a. vegna ístruflana og klakahlaups í Þjórsá auk þess sem rafmagnið virtist stundum af skornum skammti á álagstímum, t.d. þegar allir landsmenn voru að elda jólamatinn. Þetta heyrir hins vegar sögunni til og er nú komið í gott horf.“ Rannveig segir að rafmagnsleysi geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir fyrirtækið og til útskýringar líkir hún kerunum við grautarpott á eldavél. „Ef rafmagnið fer byrjar fljótandi álið að storkna á skömmum tíma og það er mikil vinna að ná því í burtu, hreinsa kerin og koma framleiðslunni af stað aftur. Ef við hins vegar vitum af rafmagnsskorti með einhverjum fyrirvara þá er hægt að laga reksturinn smám saman að því og minnka framleiðsluna. Sú staða hefur komið upp nokkrum sinnum, t.d. árið 1998 þegar þurfti að slökkva á kerum þegar lítið vatn var í uppistöðulónum á hálendinu.“

Úr vatni í virkjanir
Rannveig Rist hefur tengst öllum grunnþáttum álframleiðslunnar. Hún vann með föður sínum, Sigurjóni Rist, við vatnamælingar og vann síðan við Búrfellsvirkjun áður en hún hóf störf í Straumsvík. Við síðustu stækkun álversins fékk fyrirtækið að gjöf frá Landsvirkjun gamlan kunningja Rannveigar úr Búrfellsvirkjun; nefnilega eitt af túrbínuhjólum virkjunarinnar. Hjólið skipar nú heiðursess á lóð álversins og er eitt af kennileitum þess. Þegar fyrirtækið var stofnað árið 1969 var framleiðslugeta þess 33.000 tonn á ári. Síðan þá hefur verksmiðjan verið stækkuð fjórum sinnum, síðast árið 1997, og framleiðslugetan nú er um 176.000 tonn á ári.
Súrál er flutt í duftformi til landsins, en hér er það blandað steinefnum og hitað upp þangað til það verður fljótandi. Þá er það unnið í ál og mótað. Ástæðan fyrir því að stóriðja er rekin hér á landi er fyrst og fremst nægileg raforka á viðráðanlegu verði.

-Straumsvík bær…
Undirbúningur að stofnun listamiðstöðvarinnar og endurbygging gömlu bæjarhúsanna í Straumi hófst árið 1988. Hér var áður rekið svínabú undir stjórn Bjarna Blomsterbergs, fyrrum eiganda Fjarðarkaupa, en Húsið er teiknað af Guðjóni Samúelssyni, húsameistara ríkisins fyrir Bjarna Bjarnason. Straumur var um tíma athvarf hafnfirskra kvenna í orlofi eða þangað þær til þær fluttust að Lambhaga skammt norðar.

-KaldáSumir segja að Kaldá uppi í Kaldárbotnum komi undan hrauninu við Straum, en sannara mun vera að hún kemur upp undan Hvaleyrarfjörum, skammt frá landi.

-Hraunin – Hraunabæirnir
Hraunin sunnan StraumsvíkurHraunin ná frá Straumsvík vestur að Hvassahrauni og tilheyrðu Álftaneshreppi frá fornu fari en árið 1878 urðu þau hluti Garðahrepps þegar Álftaneshreppi var skipt í Bessastaða- og Garðahrepp. Þegar Hafnarfjörður fékk kaupstaðaréttindi 1908 fleygaði bærinn Garðahrepp í tvennt, en Hraunin tilheyrðu áfram Garðahreppi. Árið 1948 keypti Hafnarfjarðarbær skika úr landi Straums sem var í eigu Bjarna Bjarnasonar fyrrum skólastjóra Flensborgar og Skógræktar ríkisins og 1955 var gerður makaskiptasamningur við Skógræktina um viðbótarhluta úr landi Straums. Árið 1964 höfðu Hafnarfjarðarbær og Garðahreppur makaskipti á löndum og komu Hraunajarðirnar sunnan bæjarins í hlut Hafnarfjarðar.
Hraunamenn og gamlar göturÍbúum Reykjanesskagans hefur löngum verið skipt í útnesjamenn sem bjuggu utan Kúagerðis og innnesjamenn sem bjuggu í Álftaneshreppi og innan hans. Í Hraunum bjuggu Hraunamenn sem voru jafnframt innnesjamenn.
Fornir stígar og götur vísuðu nesjamönnum og ferðalöngum veginn um Suðurnes fyrrum. Fjölförnustu göturnar voru svokallaðir Alfaravegir sem liggja út og inn Reykjanesið. Þvert á Alfaraveg eru síðan stígar eins og Rauðamelsstígur, sem liggja suður í Almenning og upp í fjöllin ýmist til Grindavíkur eða Krýsuvíkur. Innan Hraunahverfis voru einnig margir stígar og götur s.s. Sjávargata, Straumsvegur, Skógarstígur, Jónsbúðarstígur og Lónakotsgata.
Búsetu- og fornminjarEkki er vitað með vissu hvenær búskapur hófst í Hraunum. Þó er talið, útfrá fornum rústum og skipan þeirra, að búskapur hafi verið við Óttarsstaðir í kringum árið 1200.
Fáein bæjarhús frá síðustu öld standa enn í Hraunum, en mun algengara er að sjá tóftir býla, hjáleiga og gripahúsa. Helstu lögbýli í Hraunum voru (talið frá suðri til norðurs): Stóri Lambhagi, Þorbjarnarstaðir, Straumur, Óttarsstaðir og Lónakot. Þessum býlum fylgdu hjáleigur og þurrabúðir s.s. Gerði, Péturskot, Litli Lambhagi, Þýskabúð, Jónsbúð, Kolbeinskot, Óttarsstaðargerði og Eyðikot. Túnskikar voru yfirleitt girtir vandlega hlöðnum tvöföldum grjótgörðum sem sjást enn, þá má víða sjá upphlaðna brunna og skjólgarða sem marka kvíaból, fjárréttir og nátthaga.
Sunnan Reykjanesbrautar í Almenningi eru selin í 3 – 4 km fjarlægð frá bæjunum. Selin voru einskonar framlenging á búskap jarðanna. Snemma á sumrin flutti vinnufólk sig upp í selin með kindur og kýr og stundaði þar búskap til haustsins. Á þessum tíma var aflað matar og afurðir unnar fyrir komandi vetur.
Við helstu götur og við sum selin eru náttúrlegir brunnar í klöppum sem geymdu rigningarvatn fyrir ferðalanga, fjársmala, matselju og þá sem leið áttu hjá. Þá má ennfremur sjá nátthaga, fjárskjól og smalaskúta við selin.
Sauðfjárbúskapur var aðalbúgreinin í Hraunum. Sauðfé var haft á útigangi í Almenningi eða á fjörubeit. Sauðir voru ekki teknir á hús og leituðu sjálfir í skjól eða skúta í illviðrum. Fjárskjól leynast víða í Hraunum. Sauðamenn eða smalar fylgdu sauðum sínum og unnu einmanalegt og erfitt starf. Lömb sem sett voru á að hausti voru höfð í lambakofum og hrútar í hrútakofum. Víða má sjá réttir s.s. Þorbjarnarstaðarétt sem var haustrétt Hraunabænda, Óttarstaðarétt og réttina við Lónakot sem tók 70-80 fjár. Þessar réttir gegndu mikilvægu hlutverki þegar sá siður að færa frá var enn tíðkaður, en hann lagðist af seint á 19. öld.
Á 18. öld var algeng búfjáreign í Hraunum 1-3 kýr og 18-20 kindur en fækkaði þegar bráðapestir eða fjárkláðar geisuðu. Um miðja 19. öld og fram á 20. öldina fjölgaði sauðfé í Hraunum og héldu bændur þá 80-100 kindur að meðaltali.
Mjólkandi kýr gátu verið tvær og kvíga til viðbótar. Oft fylgdu kýrnar með í selið eða voru hafðar nær bæjum í kúarétt á sumrin. Flestir bændur áttu tvo hesta, en kotungar engan eða í besta falli einn hest til flutninga.
Búskapur lagðist af að mestu á kreppuárunum eða um 1930. Búið var í Óttarsstöðum eystri til ársins 1952 og í þeim vestri til 1965. Síðasti ábúandi Hraunanna var Guðmundur Sigurðsson bátasmiður, sem lést árið 1986. Í dag eru aðeins sumarbústaðir í Hraunum og eru þar elst húsa Óttarsstaðir vestri og Eyðikot.
Sjósókn var Hraunamönnum nauðsyn. Heimaræði kallaðist útræði sem stundað var frá jörðum sem lágu við sjó. Uppsveitarbændur fengu oft leyfi sjávarbænda til að stunda sjósókn frá jörðum þeirra og senda vermenn á vertíð. Var það kallað að hafa inntökuskip á jörðinni og bændur sem sendu menn í ver nefndust útvegsbændur. Minjar um útræði eru víða í Hraunum; þurrabúðir, vörslugarðar og fiskreitir. Í fjörunni innan skerjagarða mótar fyrir uppsátrum, fiskbyrgjum og vörum þar sem bátar voru dregnir upp öldum saman, t.d. Péturskotsvör, Straumsvör, Þýskubúðarvarir tvær, Jónsbúðarvör, Óttarsstaðavör og Eyðiskotsvör.
Söltekja, skeljafjara og hrognkelsafjara voru hlunnindi. Skelfiskur var oft notaður til beitu, en verðmeiri voru auðfönguð hrognkelsi, sem fjaraði undan í fjörupollum.
Sérhver þúfa, gjóta, hóll og hæð hefur sitt nafn, sem gefur umhverfinu merkingu og aukið gildi. Oft reyndust hólar og hæðir vera merkileg kennileiti eða vegvísar og gerðu mönnum auðveldara að ferðast um svæði og vísa til vegar þegar kennileiti hétu einhverjum nöfnum. Mörg örnefni hafa haldist óbreytt um aldir, en sum hafa breyst eftir búsetu fólks, t.d. er ekki óalgengt að kot eða túnskiki hafi breytt um nafn eftir því hvað ábúandinn hét.
Þá eru sum örnefni sem einungis hafa haft gildi fyrir afmarkað svæði. Í því sambandi má nefna nöfn hóla og hæða umhverfis bæjarhús Óttarsstaða, sem þjónuðu þeim tilgangi að segja til um sólargang, svokölluð eyktarmörk. Það eru örnefni eins og Hádegishæð (kl. 12:00), Miðmundarhæð (um kl. 13:30), Nónhóll (kl. 15:00), Miðaftansvarða (kl. 18:00) og Náttmálahóll (kl. 21:00). Slík eyktarmörk koma einnig fyrir að einhverju leyti við Þorbjarnarstaði og hafa þá einungis gilt fyrir það svæði. Svo eru mörg örnefni sem gefa skýra mynd af því hvaðan þau eru upprunnin, eins og t.d. Smiðjubali, Fjárhlið, Markhóll og önnur í svipuðum anda.

-Óttarstaðir
Óttarsstaðir vestri og Óttarstaðir eystri. Aðrir bæir í Hraunum voru t.d. Blikalón og Glaumbær og Litli- og Stór-Lambhagi, auk Þorbjarnastaða og Gerðis.

-Lónakot
Búið þar til stríðsloka. Sjá má minjar hins gamla bæjar, garðanna sem og útihúsanna. Fallegt umhverfi, lónin og fjaran og ströndin.

-Urtartjörn – sérstakt lífríki í tjörnum þar sem mikið ferskvatn blandast við sjó
Utratjörnin á hægri hönd er sérstök fyrir það að í henni gætir sjávarfalla. Þannig flýtur ferskvatnið ofan á þyngri sjónum. Við þær aðstæður vex fjölbreyttur gróður, bæði sjávar- og ferskvatnsgróður ofar á bökkunum, en einnig gróður er þolir hvorutveggja.

-Vatnsstraumur inn á flóði, út á fjöru
Ofan við straum streymir vatn undan hrauninu. Helstu ferskvatnsbyrðir Hafnfirðinga eru annars vegar í Kaldárbotnum og hins vegar hér beint fyrir ofan í Straumsseli. Þar hefur verið borið um 50 m djúp tilraunborhola, sem lofar góðu. Þá hefur álverið sýna eigin ferskvatnsborholu í hrauninu. Við Þorbjarnarstaði er brunnur í hraunkantinum. Þangað var sótt vatn fyrrum, auk þess sem ullin og annar þvottur var þveginn þar. Munur á flóði og fjöru geta verið allt að þremur metrum.

-Hvassahraun – Hraundríli – brugghellir
Á móts við eyðibýlið í Hvassahrauni (hægra megin við Reykjanesbraut þegar ekið er í átt að höfuðborgarsvæðinu) er sléttlendi nokkurt sem kallast Strokkamelur. Þar má finna nokkur hraundríli eða hraunkatla eins og þeir eru nefndir í Náttúruminjaskrá. Katlarnir eru mjög sýnilegir frá Reykjanesbrautinni og aðeins örfáum metrum ofan við nýtt vegstæði. Merkileg náttúrufyrirbæri sem líkjast einna helst gömlum strokkum. Nokkurs konar strompar sem hafa hleypt upp lofti/gastegundum þegar hraun rann um svæðið en um leið hefur hlaðist utan á þá og þeir stækkað. Í miðju þeirra er op sem nær niður í hraunhelluna.

-Fagravík
Svæðið er í landi Vatnsleysustrandarhrepps og Hafnarfjarðar. Um er að ræða um 500 metra breitt belti ásamt ísöltum tjörnum frá botni Fögruvíkur að Straumi. Um sérstætt umhverfi er að ræða ásamt miklu og óvenju fjölskrúðugu fjörulífi og gróðri. Tjarnirnar eru mismiklar að seltu og einstæðar að lífsskilyrðum. Þarna er fagurt útivistarsvæði og er rannsóknar- og fræðslugildi þess mikið ásamt nálægðinni við þéttbýlið.
Með skráningu svæða sem náttúruminja, er bent á sérstöðu svæðis eða sérkenni. Munurinn á friðlýstum náttúruminjasvæðum og öðrum svæðum á náttúruminjaskrá er aðallega sá að verndun svæðisins er lengra á veg komin ef um friðlýst svæði er að ræða.
Það sem helst ber að hafa í huga varðandi náttúruminjar er meðal annars, samkvæmt Náttúruvernd ríkisins:
“Ef hætta er á röskun náttúruminja vegna framkvæmda eða annarra athafna er sérstaklega kveðið á um að á friðlýstum náttúrminjasvæðum þurfi leyfi Náttúruverndar ríkisins og að leita þurfi umsagnar hvað aðrar náttúruminjar varðar áður en framkvæmdaleifi er veitt.” (Náttúruminjaskrá)

-ÞráinsskjöldurÞráinsskjaldarhraun (Vatnsleysuhraun). Skjaldlögun austan Fagradalsfjalls er dyngja. Dalur milli dyngnanna. Þar eru Afstapahraun (apal), áður nefndt Arnstapahraun. Eldra Hraun undir, en þar er líka frá sögulegum tíma (landnámslagið er undir því). Það eru u.þ.b. 12 söguleg hraun á skaganum, en litlar skráðar heimildir eru til um tilurð þeirra. Ástæður eru meðal annars þær, að bækur hurfu úr Viðeyjarklaustri. Þeim var rænt og hurfu í flutningi á 17. öld (skipstapi). Þráinsskjaldarhraun runnu við hærri sjávarstöðu skömmu eftir síðasta kuldaskeið. Það sést á rúlluðu grjóti ca 5m ofar núverandi sjávarstöðu (9000 ára). Þráinsskjöldur er bunga austan Fagradalsfjalls (9000-10000 ára). Erfitt er að ákveða hvenær kuldaskeiði lauk hér, áætlað fyrir 9000-10000 árum.

-Afstapahraun – rann á 12. öld

-Kúagerði – Akurgerði
Grasblettur við tjörn við gamla veginn í suðurjarði Afstapahrauns upp af Vatnsleysuvík. Þar var kunnur áningarstaður fyrrum og kúahagi frá Vatnsleysujörðum. Reykjanesbrautin liggum um blettin þveran. Þar var samneft býli um skeið.

-Vatnsleysa
Stóra- og Minni Vatnsleysa. Bæir á Vatnsleysuströnd, stórbýli fyrrum og miklar útvegsjarðir . Standa þeir vestanvert við allstóra vík sem Vatnsleysuvík heitir, milli Keilisness að vestan og Hraunsness að austan. Á Minni-Vatnsleysu er reikið eitt stærsta svínabú landsins (Ali). Til hlunninda þessara jarða eru talin hrognkelsveiði, reki og hverahiti. Á Vatnsleysu var kirkja í kaþólskum sið, helguð öllum heilögum og átti hún 15 hundruð í heimalandi jarðarinnar. Löngum mun Vatnsleysukirkja hafa verið þjónað frá Kálfatjörn.

Við Stóru-Vatnsleysu er m.a. forn letursteinn í túninu, sennilega við hina gömlu kirkju.

Það mun hafa verið nálægt 1850, sem Jón nokkur fór að byggja sér nýjan bæ á Stóru-Vatnsleysu. Hann gróf fyrir kjallara, en þegar komið var nokkuð langt niður, fundust mannabein mörg. Gamlir menn þóttust þá hafa heyrt þess getið að fyrrum hefði bænahús verið á Stóru-Vatnsleysu og var þess því getið til að kirkjugarður eða grafreitur mundi hafa verið þar, sem nú átti að byggja bæinn. Jóni var ráðlagt að hætta við að byggja á þessum stað; því sinnti hann ekki, en hann hætti við að grafa kjallarann.
Svo var bærinn byggður og var á þeim tíma ekki annar skrautlegri hér í hreppi. Það var loft í honum öllum og undir því voru afþiljuð tvö herbergi, sitt í hvorum enda. Fólkið allt svaf uppi á loftinu. Eina nótt um vorið vaknaði allt fólkið (nema húsbóndinn) við það að hurðunum að herbergjunum niðri var skellt svo hart, að bærinn skalf allur.
Gömul kona, Ingveldur að nafni, var þar þá vinnukona og hefur hún sagt þessa sögu. Ekki kvaðst hún hafa orðið vör við annað undarlegt á meðan hún var þar, en fyrrnefnda hurðaskelli, en ýmsa fleiri kynjaviðburði heyrði fólk sagða úr þessum bæ; þar á meðal var sá, að kona af næsta bæ gekk einu sinni um albjartan dag fram hjá stofugluggunum og leit inn um þá, um leið og hún ætlaði framhjá; sá hún þá sex menn sitja þar inni við borðið, og þekkti engan þeirra.
Jón nokkur var vinnumaður á þessum bæ hjá nafna sínum þau ár, sem bærinn var byggður. Einhverju sinni þegar mikið gekk á niðri fór hann ofan í stigann um bjarta sumarnótt; en hann sneri fljótt við aftur, því hann sagði að sér hefði sýnst allur bærinn niðri, og göngin, svo langt sem hann sá, svo troðfull af fólki, er hann þekkti ekki, að hvergi var hægt að smjúga út né inn. Húsbóndinn sjálfur varð aldrei neins var, og trúði því engu af því, sem fólk hans sagði honum um þessa fyrirburði í bæ hans; taldi hann það allt hérvillu og eintómar ýkjur. En á fyrsta eða öðru ári, er hann var á bænum, veiktist hann af einhverri óþekkjanlegri veiki, sem hann þjáðist af í fimm ár eða lengur. – Þá flutti hann burt úr bænum, af því hann þóttist viss um að hann fengi ekki heilsuna aftur, ef hann væri þar, enda batnaði honum nokkrum árum eftir að hann flutti úr bænum, þó hann væri fremur veiklulegur lengst af æfinni. Guðmundur bóndi á Auðnum ólst upp á næsta bæ við Stóru-Vatnsleysu; hann var kominn yfir tvítugt, þegar Jón byggði bæ sinn.
Með Guðmundi reri vinnumaður frá bænum, að nafni Magnús, þá orðinn gamall, fámálugur og dulur. Karlinn vildi lítið um þessa atburði tala, en sagði honum þó, að eina nótt sem hann vaknaði í rúminu, tók hann hendinni uppfyrir sig; þreifaði hann þá á alsberum, ísköldum mannsskrokk, sem lá fyrir ofan hann í rúminu. Ekkert gaf karl sig að þessum lagsmanni sínum, en fór að sofa aftur. Þegar hann vaknaði um morguninn til að klæðast var þar enginn.
„Varð þér ekki bilt við?“ spurði Guðmundur. „Ekki svo mjög,“ svaraði hann.
„Maður er orðinn þessu svo vanur,“ bætti hann við. Guðmundur sagði að bær Jóns hafi staðið í eyði, mannlaus, eftir að Jón flutti úr honum, að minnsta kosti eitt ár. Sú saga gekk, að ferðamaður, einn eða fleiri, hefðu um sumarnótt gengið um hlaðið á Stóru-Vatnsleysu; hefðu þá þrír menn staðið þar á stéttinni fyrir framan bæ Jóns; hafði einn þeirra haldið á öxi, annar á atgeir, og þriðji á hríslu;tveir voru fulltíða menn, en sá, sem á hríslunni hélt, var unglingur.

-Keilir
Móbergsfjall (379 m.y.s) á Reykjanesskaga. Keilir er til orðinn við gos undir jökli á ísöld. Hann er þekktur vegna sérkennilegrar strýtumyndunar lögunar sinnar sem er til komin vegna gígtappa eða bergstands á fjallinu miðju er ver það gegn veðrun. Útsýn er mikil af Keili yfir Reykjanesskagann og víðar.

-Vatnsleysuströnd
Byggðarlag við sunnanverðan Faxaflóa, frá Hvassahrauni að innan og út að Vogastapa, gjarnan nefnd Ströndin af heimamönnum. Alls er Vatnsleysuströnd 15 km löng. Upp frá henni liggur Strandarheiði sem öll er þakin hrauni, Þráinsskjaldarhrauni, er runnið hefur til sjávar fyrir um 9000 árum.
Byggðin á Vatnsleysustönd er eingöngu á örmjórri ræmu við ströndina að mestu í hverfum sem mynduðust við bestu lendingarnar.

-Silungseldisstöð
Norðan við Vatnsleysu er silungseldisstöð, fremur smá í vexti. Rekstur hennar hefur gengið brösulega, en nú virðist hann eitthvað vera að braggast.

-Hafnhólar
Taldir tengjast verslunarhöfn þýskra á Stóru Vatnsleysu.

-Flekkuvík
Flekkuleiði – vinsæll köfunarstaður – fjölskrúðugt fuglalíf.

-Borgarkot
Kot frá Viðeyjarklaustri – talsverðar minjar – stógripagirðing.

-Staðarborg
Fjárborg á Strandarheiði, 2-3 km frá Kálfatjörn, í stefnu þaðan og á Dyngju. Hún er hringlaga, hlaðin eingöngu úr grjóti og er hverjum steini hagrætt í hleðslunni af hinni mestu snilld. Vegghæðin er um 2 m og þvermál að innan um 8 m. Ummál hringsins að utanverðu er um 35 m. Gólfið inni í borginni er grasi gróið og rennislétt.
Ekki er vitað hvenær borgin var hlaðin en menn telja hana nokkur hundruð ára gamla. Munnmæli herma að maður að nafni Guðmundur hafi hlaðið borgina fyrir Kálfatjarnarprest. Guðmundur vandaði vel til verka, safnaði grjóti saman úr nágrenninu, bar það saman í raðir og gat einnig valið þá hleðslusteina sem saman áttu. Ætlun hans var að hlaða borgina í topp. En er hann var nýbyrjaður að draga veggina samað að ofanverðu kom húsbóndi hans í heimsókn. Sá hann þá strax í hendi sér að fullhlaðin yrði borgin hærri en kirkjuturninn á Kálfatjarnarkirkju og tilkomumeiri í alla staði. Reiddist hann Guðmundi og lagði brátt bann við fyrirætlan hans. En þá fauk í Guðmund svo hann hljóp frá verkinu eins og það var og hefur ekki verið hreyft við borginni síðan. Staðarborg var fiðlýst sem forminjar árið 1951.

-Kálfatjarnakirkja
Ein af fjölmörgum kirkjum á Reykjanesi sem vert er að skoða og er hún er með stærstu sveitakirkjum á landinu. Komast vel um 200 manns fyrir í kirkjunni þó að við vígslu hennar fyrir 100 árum hafi verið taldir út úr kirkjunni rúmlega 400 gestir.
Bær, kirkjustaður og áður prestsetur á Vatnsleysuströnd. Prestasetur var þar til 1907 er sóknin var lögð niður til Garða á Álftanesi. Á Kálfatjörn var kirkja helguð Pétri postula á kaþólskum sið. Núverandi kirkja var reist árið 1892-1893 og vígð 11. júní 1893. Kirkjan er byggð úr timbri, járni varin steinhlöðnum grunni. Kirkjan tekur 150 manns í sæti á báðum gólfum. Kálfatjarnarkikirkja tilheyrir Tjarnarprestkalli í dag.
Málningin innan dyra er upprunaleg að hluta, og píláranir á kirkjuloftinu voru handunnir af manni í sveitinni – meistarverk.
Altaristaflan er máluð af Sigurði Guðmundssyni, málara.
Ekki má láta hjá líða að ganga upp að Staðarborg miklu steinhleðsluvirki á miðri heiðinni. Leiðin að Staðarborg er merkt ofan við veginn hjá Kálfatjarnarkirkju.
Kauptúnið Vogar er framundan, en eins og flestir bæir á Reykjanesi orðið til fyrir breytingar á útgerðarháttum. Þegar vélbátaútgerðin gekk í garð og skip urðu stærri varð nauðsynlegt að finna betri lægi. Leiddi þá eitt af öðru og byggðin fluttist hægt og rólega að þessum stað. Sterkasti maður landsins Jón Daniesson bjó í Vogum og segir sagan að hann hafi af regin afli flutt til heljar bjarg sem nú er minnisvarði um hann og stendur við Vogaskóla. Flest fólk var á Vatnsleysuströnd um aldamótin eða tæplega 800 manns. Þar bjuggu þá fleiri en í Keflavík og Grindavík saman lagt. Í dag búa þar tæplega 700 manns.

Straumur

14. Vatnsskarð – Straumsvík

-Vatnsskarð – fallegur berggangur t.h. og Sveifluháls t.v.
Stundum nefnt Markrakagil eða Melrakkagil. Sveifluhálsinn á vinstri hönd og Undirhlíðar á þá hægri.

-Malarnám til hvers?
Ein af gömlu námunum. Svo virðist sem alltaf þurfi að fara utan í fjöllin á augljósustu stöðunum, en ástæðan er fyrst og fremst aðgengið sem og efnahagsleg. Þessi náma er í eigu ríkisins, en leigð út af einkaaðilum. Efnið er bólstraberg líkt og í Stapafelli. Það er aðallega notað í húsgrunna, lóðir, vegi og uppfyllingar. Önnur slík náma er skammt norðar undir Undirhlíðum.

-Umhverfisspjöll
Nú í seinni tíð er farið að huga betur að staðsetningu malalrnáms og útvíkkun eldri náma, sbr. námuna í Ingólfsfjalli. Margir gjallgígar, mjög fallegir, hafa farið undir vegi á Reykjanesskaganum og víðar um land. Má í því sambandi benda á Hraunhól hér vinstra megin, en hann er einn megingíganna, sem Nýjahraun, oft nefnt Kapelluhraun, rann úr 1151. Nú er hann ekki svipur hjá sjón. Aðrir gígar eru t.d. Óbrennishólar á hægri hönd. Úr þeim er Óbrennishólabruni runninn úr (á hærgi hönd).

-Móbergsjöllin í kring, gos undir jökli
Móbergsfjöll myndast við gos undir jökli, í sjó eða vatni. Meðan vatnsþrýstingur er nægur yfir eldstöðinni hleðst upp bólstraberg. Ljúki gosi á þessu stigi verður til bólstrabergshryggur, dæmi: Sigalda. Haldi gosið áfram, minnkar vatnsdýpið vegna upphleðslu gosefna undir yfirborði vatnsins/jökulsins og tekur þá fyrir bólstrabergsmyndun enda er vatnsþrýstingur þá ekki nægur til að halda vatnsgufu og gosgufum niðri. Gosvirkni breytist þá í þeytigos. Ofan á bólstrabergið leggst því gjóska sem er ýmist úr vikri, ösku eða brotabergi. Ef gosið hættir á þessu stigi verða til móbergshryggir, dæmi: Sveifluháls, eða keilulaga móbergsfjöll, dæmi: Keilir (ef um gos á kringlóttu goseopi eða stuttri sprungu er að ræða).Haldi gosið enn áfram, hlaðast gígrimar upp úr vatnsborðinu og vatn nær þá ekki lengur að komast í snertingu við bergkvikuna og snöggkæla hana og valda þeytigosi. Tekur þá að mestu fyrir myndun lausra gosefna og hraun fer að renna úr gígnum. Séu gígrimarnir umflotnir vatni, fyllir hraunið undir sig upp að vatnsborði með skálögðuð bólstra- og gjalllagi sem hraunhella leggst síðan ofan á. Móbergsfjöll, sem náð hafa þessu stigi nefnast móbergsstapar, dæmi: Eiríksjökull og Herðubreið.

-Undirhlíðar – Undirhlíðarvegur
Gengið er austur að Undirhlíðum og þar er komið á enn eina forna leið á milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur, Undirhlíðarveg. Héðan er leiðin greið og auðrötuð eftir gömlum götum með Undirhlíðum niður í Kaldársel. Þegar komið er á móts við Helgafell er farið fram hjá eldgígum á sprungu sem gaus á 12. öld. Vestan undir Undirhlíðum, suður undir Vatnsskarði, á Kapelluhraun hins vegar upptök sín. Það rann í sjó fram hjá Straumsvík eftir landnám.

-Óbrennishólar
Óbrinnishólar er röð gígaraða í hæð sem stendur upp úr hraunhafinu um 700 metra vestan við Undirhlíðar og tæpum 2 km sunnan við Kaldársel. Hólaröðin sjálf er um 900 metrar á lengd. Hæsti gígurinn er um 44 metra hár yfir næsta umhverfi og 124 metrar yfir sjó. Óbrinnishólar tilheyra Krísuvíkureldstöðvakerfinu.
Talið er að um tvö gos hafi verið að ræða sem sést af gróðurleifum sem fundust milli gosmyndanna. Um fyrra gosið í Óbrinnis­hólum er lítið vitað eða hvenær það gaus, en frá því eru a.m.k. 3 gígir og virðist gosið hafa verið á sama stað þá og í því síðara. Hraun frá þessu gosi er nú hulið yngri gosmyndun. Það er aðeins á einum stað sem fundist hefur hraun frá fyrra hosinu og var það í sjálfum gíghólnum. Þetta hraun er frábrugðið hinu hrauninu að það inniheldur verulega meira ólivín.
Síðara gosið hófst fyrir 1800 árum í og voru nyrstu gosstöðvarnar í Óbrinnishólum. Hæðin sem Óbrinnishólar eru á er að mestu úr bólstrabergi og grágrýti. Eftir endilangri hæðinni er um 50 metra breiður sigdalur. Að vestan takmarkast hann af 4-6 m háu misgengi. Rétt austan við sigdalinn rísa gígirnir og stefnir röðin eins og dalurinn. Óbrinnishólahraun er undir Kapelluhrauni við Straumsvík.

-Hraunið – gerð þess og aldur – 1150
Hraunið sem Álverið við Straumsvík stendur á heitir Kapelluhraun eða Nýjahraun og er allra yngsta hraunið á svæðinu í kringum Hafnarfjörð. Það er frá árinu 1151 Sjá á korti merkt fjólubláu H 97. Það á upptök undir Undirhlíðum og hefur komið úr gígaröðum, sem virðast vera tengdar misgengissprungum. Kapelluhraun er hluti af hraunum sem runnu hjá Krísuvíkurkerfinu. Þá opnaðist gossprunga undir Undirhlíðum sem var alls um 25 metra löng en slitin í miðjunni. Kapelluhraun rann norðan á skaganum og til sjávar og myndað þar tanga, en vestan undir honum er Straumsvík.
Kapelluhraun er ákaflega fallegt úfið og mosagróið apalhraun en hörmung er að sjá hvernig karganum hefur verið rutt af yfirborði þess á stórum svæðum. Hraunið er fínkornótt með einstaka tiltölulega stórum dílum. Dílarnir eru oftast plagioklas, pyroxen og einstaka ólivín. Stærð hraunsins er 11,6 km2. Eitt sinni var rudd braut í gegnum hraunið en hún hefur að mestu verið eyðilögð að undanskildum um 20 metra kafla við litla rúst í hrauninu, sem er nefnd Kapellan. Árið 1950 rannsakaði Kristján Eldjárn þessa kapellu og fannst þar m.a. lítið líkneski af heilagri Barböru sem er verndardýrlingur ferðamanna. Hún var góð til áheita gegn hvers konar eldsgangi. Einnig var hún verndardýrlingur stórskotaliðsmanna, slökkviliðs- manna, námumanna,verkfræðinga og jarðfræðinga. Þess má geta að Kapellutóftin er á fornminjaskrá og þar má sjá eftirlíkingu af líkneskinu.

-Tveir flokkar hrauna: apal- og helluhraun
Bráðin bergkvika (hraun) sem rennur frá eldstöð eftir yfirborði jarðar og storknar þar nefnist hraun. Þau hlaðast hvert yfir annað þannig að yngsta hraunið er ávallt efst. Jarðlagastafli Íslands er nær eingöngu orðinn til við slíka upphleðslu hrauna síðustu 20 milljón árin. Hraun geta verið ólík að útliti og stærð og stafar það af aðstæðum á gosstað, gerð kvikunnar og hegðun gossins. Eftir útliti eru hraun |1| flokkuð í apalhraun og helluhraun.
Apalhraun [aa] kallast úfin hraun sem mynduð eru úr einu lagi. Yfirborðið er þakið gjallkenndu hraungrýti en neðar tekur við grófstuðluð samfelld hraunklöpp. Oft má greina stórgerða garða eða múga á yfirborðinu sem myndast þvert á rennslisstefnu hraunsins og kallast þeir svigður. Jaðar apalhraunanna er jafnan mjög brattur þegar þau skríða eða velta fram og hrynur þá laust gjall úr honum og lendir undir hrauninu. Þannig myndast botnlag úr gjalli undir hrauninu og er það einkennandi fyrir apalhraun.
Súr og ísúr kvika er ávallt seigfljótandi og myndar því jafnan mjög úfin apalhraun sem geta verið tugir metra á þykkt. Sem dæmi um slík hraun má nefna Laugahraun í Landmannalaugum og Hekluhraunin. Basísk kvika myndar einnig apalhraun einkum kvika sem rennur við blönduð gos á sprungum. Þegar líða tekur á gosin hafa hraunin oft náð mikilli útbreiðslu og er þá mestur hluti þeirra storknaður. Leitar kvikan þá í vissa farvegi á leið sinni út frá gígnum. Við lok gossins tæmast farvegirnir oft og tíðum og kallast þeir þá hrauntraðir. Slíkar hrauntraðir sjást víða t.d. við Lakagíga, Þrengslaborgir og Búrfell ofan Hafnarfjarðar.
Skaftáreldahraun sem upp kom í gosi í Lakagígum 1783 er dæmigert apalhraun. Það er stærsta hraun sem runnið hefur á sögulegum tíma, 595 km2 að flatarmáli og 12 km3 að rúmmáli.
Helluhraun [pahoehoe] eru slétt og greiðfær yfirferðar. Þau myndast einkum þegar um hreint hraungos án kvikustrókavirkni er að ræða. Yfirborð hraunanna storknar oft og myndast þannig fremur þunn og seig skán sem sígur áfram með rennslinu á bráðnu undirlaginu. Við það gárast skánin þannig að yfirborðið verður alsett fíngerðum gárum sem líkjast helst kaðalhönk og kallast gárurnar því hraunreipi. Verði yfirborðsskánin þykkri brotnar hún oft upp í fleka við framskrið og hreyfingar á bráðnu undirlaginu. Við slíkar aðstæður myndast oft háir hólar í helluhraununum. Hólar og hæðir í helluhraunum stafa líka stafað af því að djúpir hraunstraumar kaffærðu hóla og hæðir sem fyrir voru í landslaginu. Mishæðirnar koma svo aftur í ljós þegar kvikan rennur undan storknaðri hraunskáninni í lok gossins. Kvika helluhraunanna kraumar oftast í kvikutjörn í gígnum. Frá gígnum rennur hún yfirleitt úr hrauntjörninni um göng og oft langar leiðir undir storknu yfirborðinu uns hún flæðir upp um augu á hraunþekjunni. Þannig renna ótal hraunspýjur hver yfir aðra og því eru helluhraun, einkum ættuð frá dyngjum, mjög lagskipt og er ekki að finna gjall eða önnur millilög milli laganna. Hraungöngin tæmast oftast eins og hrauntraðirnar að gosi loknu og verða þá til hraunhellar sem geta orðið mörg hundruð metrar á lengd. Þekktastir slíkra hella eru Surtshellir í Hallmundarhrauni og Raufarhólshellir í Þrengslum. Oft eru fallegar myndanir dropsteina og hraunstráa í slíkum hellum.
Dæmigerðan þverskurð af helluhrauni má sjá í Almannagjá. Þar mynda 0,5 – 2 m þykk hraunbeltin eitt og sama hraunið sem er tugir metra á þykkt.
Helluhraun finnast víða en sem dæmigerð helluhraun má nefna Hallmundarhraun, Hvaleyrarhraun við Hafnarfjörð og Eldhraun norðan Mývatns sem rann í Mývatnseldum 1724 – 1729.

-Fjallið eina
Stendur eitt sér norðan við Hrútfell. Ofan þess er Hrútargjárdyngja.

-Hrútargjárdyngja
Hellar – Húshellir – Híðið – minjar.

-Almenningur
Hraunspilda milli Kapelluhrauns og Afstapahrauns á Vatnsleyuströnd. Var þar fyrrum skógi vaxið en han eyddist af höggi og beit. Síðan um aldamót 19. og 20 . aldar hefur hraunið lítið verið breitt enda hefur það gróið nokkuð á ný. Á Almenningi er einn hinna mörgu Gvendarbrunna, við gamla veginn. Almenningsnafnið mun dregið af því að þar var sameiginlegt beitiland Hraunbæjanna.

-Hellnahraun
2200 ára og 4000 ára – kom úr Tvíbollum.

-Mosi og annar gróður
Á Íslandi eru nú þekktar um 600 tegundir af mosum. Meginhluti íslenzkra mosa er af tveim ólíkum flokkum sem nefnast laufmosar og soppmosar. Mun fleiri tilheyra laufmosum, en af þeim flokki eru bæði barðastrý og hraungambri sem sjást á myndunum hér að ofan. Líkami laufmosanna er neðantil myndaður af grænum sprotum sem eru þétt settir örsmáum, þunnum laufblöðum. Á toppi blaðsprotans myndast örsmáar egghirzlur og frjóhirzlur, og þar á sér stað frjóvgun eggfrumnanna. Af okfrumu þeirri sem myndast við frjóvgunina vex upp langur stilkur, sem getur verið grænn eða rauðbrúnn á litinn, og á toppi þessara stilka myndast hnapplaga gróhirzlur, sem oft eru nefndir baukar. Á toppi bauksins situr oft lausleg hetta, sem síðar dettur af. Þegar gróhirzlurnar þroskast, myndast lok á toppi þeirra, sem opnast þegar gróin þroskast. Það vaxtarlag sem hér hefur verið lýst má greina allvel á barðastrýinu á myndinni til vinstri.

Til hægri og vinstri má sjá þykka mosaþembu gerða af hraungambra, en það er tegundarheiti þess mosa sem oft myndar þykkar breiður á hrauni við Suðaustur-, Suður- og Vesturströnd landsins. Í daglegu tali er hann oftast nefndur grámosi eða gamburmosi.

-Trönur
Fiskur hefur verið þurrkaður hér á landi frá upphafi. Líklegast kemur verkunaraðferðin frá Noregi. Hún var sú eina varanlega áður en saltið kom til sögunnar hér á landi á 18. og síðan á 19. öld. Áður var fiskurinn lagður á steingarða, en seint á 20. öldinni var byrjað á þvía ð flytja inn trjávið frá útlöndum og byggja svona “komlexa”, þ.e. trönur, ti að hengja fiskinn í. Um er að ræða þosk og ýsu, en einnig löngu, keilu og jafnvel steinbít. Langmest af afurðunum hafa verið fluttar til Nígeríu. Til er gamall brandari, byggður á fyrirsögn í einu dagblaðanna: “Skeriðtil Nígeríu”.
Nú eru trönurnar á hallandi fæti og óðum að hverfa. Fiskur er þó þurrkaður áfram, aðallega innan dyra, með rafmagnsþurrkun eða jarðgufuþurrkun eins og sjámátti dæmi um úti á reykjanesi og einnig hefur það verið gert í Mývatnssveitinni.

-Skíðasvæði í Bláfjöllum
Skíðasvæðin í Bláfjöllum hafa verið skíðasvæði höfðuborgarsvæðisins og sveitarfélaganna á Suðurnesjum. Vinsæl þegar snjóar, sem hefur verið mjög lítið unadanfarin ár a.m.k., en hins vegar er Bláfjallasvæðið kjörið útivistarsvæði.

-Ásfjall
Ástjörn er friðuð sem náttúruvætti og 1997 var stofnaður fólkvangurinn Ásfjall og umhverfi Ástjarnar. Það er kjörið að ganga umhverfis Ástjörn á stíg sem þar hefur verið lagður eða leggja á fjallið sem er auðvelt uppgöngu. Þó Ásfjall standi aðeins 125 m.y.s. er þar góð sýn yfir næsta nágrenni Hafnarfjarðar og fjallahringinn umhverfis Faxaflóa, sem hægt er að glöggva sig betur á með aðstoð hringsjár á toppi fjallsins.
Ástjörn er vogskorin uppistöðutjörn í dalkvos undir Ásfjalli, sem hefur myndast þegar Hellnahraun rann fyrir um 2200 árum og stíflaði afrennsli hennar til sjávar. Lífríkið er fjölbreytilegt enda er tjörnin kjörlendi margra fuglategunda vegna mikils fæðuframboðs. Sést hafa 44 tegundir fugla við tjörnina og eru andfuglar mjög algengir, en mesta athygli vekur flórgoðinn. Ástjörn er að líkindum síðasti varpstaður flórgoðans á suðvestanverðu landinu.
Það er best að hefja gönguna umhverfis Ástjörn við vesturendann hjá Ásvöllum, athafnasvæði íþróttafélagsins Hauka. Gengið er rangsælis um Ástjörn eftir stíg sem liggur meðfram hlíðarfæti Grísaness, en það er hæðardrag sem umlykur suðvesturhluta tjarnarinnar. Fljótlega er komið að tóftarbroti á hægri hönd og Hádegisskarði, þar sem Stórhöfðastígur og Hrauntungustígur lágu fyrrum á milli vestri Ásfjallsaxlar og Grísaness. Hér er hægt að taka á sig krók, leggja á brattann og halda sem leið liggur upp vestari Ásfjallsöxl. Eftir stutta göngu er komið að rústum fjárborgar eða stekks á vinstri hönd. Haldið er áfram upp að Ásfjallsvörðu og skammt frá henni er hringjsá þar sem helstu fjöll og önnur kennileiti eru kyrfilega merkt. Þeir sem vilja heldur fylgja stígnum umhverfis Ástjörn halda sem leið liggur í áttina að heimatúni Ásbæjarins sem stóð undir fjallinu um aldir en var rifinn á áttunda áratug 20. aldar. Áður en komið er að bæjarhólnum er lítil steinbrú á einum smálækjanna sem renna í tjörnina. Yfirborðsrennsli lækjanna er breytilegt og hefur lítil áhrif á vatnsborðið. Þar sem Ásbærinn gamli stóð áður var nú síðast skógræktarstöðin Skuld og frá henni er gengið eftir stíg sem liggur neðan hins nýja byggðahverfis sem er risið í landi Stekks og hlíðum eystri Ásfjallsaxlar. Nú blasa Ásvellir aftur við og hringurinn lokast.

-Hafnarfjörður
Hafnarfjörður, sem gengur undir nafninu „Bærinn í hrauninu”, fékk ekki kaupstaðarréttindi fyrr en árið 1908 þó svo að staðurinn hafi verið einn mikilvægasti verzlunarstaður landsins um aldir. Nú búa í bænum um 22.000 íbúar (2005).

-Kapellan
Úfið og gróðursnautt hraun milli Hafnarfjarðar og Staums. Talið er að það hafi runnið snemma á sögulegum tíma. Í hrauninu, sunnan við

Reykjanesbrautina á móti álverinu í Staumsvík er lítið byrgi, hlaðið úr hraungrýti og nefnist kapella. Árið 1950 fannst þar við uppgröft lítið líkneski heilagrar Barböru og eru líkur til að þarna hafi verið bænastaður í kaþólskum sið. Á síðustu árum hefur mikið efni verið tekið úr hrauninu til uppfyllingar í húsgrunna og götur á Stór- Reykjavíkursvæðinu og það sléttað. Hraunhóllinn með kapellunni hefur verið látinn ósnortinn og er hún fiðlýst.

-Álverið
Íslenska álfélagið reisti álverið í Straumsvík um 1965. Síðan hefur það verið stækkað. Hver kerskálanna þriggja e rum eins km langir, eða með lengstu húsum á Íslandi. Nú er álverið í eigu Alcoa. Um 500 starfsmenn starfa á vegum fyrirtækisins hér á landi. Framleiðslan e rum 170.000 tonn af áli til útflutnings. Fyrirhugð stækkun er á álverinu hér til suðurs, yfir veginn, en honum er ætlaður staður lengra upp í hraunið.
Ævintýrið um álverið í Straumsvík hófst í háloftunum yfir Íslandi og það hefði hugsanlega ekki orðið að veruleika ef ský hefðu verið á himni. Um borð í farþegaþotu á leið til Bandaríkjanna voru tveir af ráðamönnum svissnesks álfyrirtækis. Þar sem þeir sátu í vélinni og virtu fyrir sér landið úr lofti sáu þeir Vatnajökul, stærsta jökul Evrópu. Og þá kviknaði hugmyndin. Þar sem svona mikið er af jöklum hlýtur að vera gnótt af vatnsföllum sem hægt er að virkja. Þetta var upphafið af virkjunum Þjórsár við Búrfell, virkjuninni sem enn sér álverinu fyrir raforku.
Fyrirtækið hét áður Íslenska álfélagið en ber nú nafnið Alcan á Íslandi. Fyrirtækið er stærsti einstaki orkukaupandinn hér á landi og á síðasta ári nýtti Alcan 36% af allri orkuframleiðslu landsins. Rannveig segir að álverið hefði aldrei verið reist á sínum tíma nema vegna orkunnar sem hér er nóg af. „Það er ekki nóg að orkan sé til staðar, heldur er jafnvægi og stöðugleiki orkunnar forsenda þess að hægt sé að vinna ál. Fyrstu árin lenti fyrirtækið í ýmsum vandræðum, m.a. vegna ístruflana og klakahlaups í Þjórsá auk þess sem rafmagnið virtist stundum af skornum skammti á álagstímum, t.d. þegar allir landsmenn voru að elda jólamatinn. Þetta heyrir hins vegar sögunni til og er nú komið í gott horf.“ Rannveig segir að rafmagnsleysi geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir fyrirtækið og til útskýringar líkir hún kerunum við grautarpott á eldavél. „Ef rafmagnið fer byrjar fljótandi álið að storkna á skömmum tíma og það er mikil vinna að ná því í burtu, hreinsa kerin og koma framleiðslunni af stað aftur. Ef við hins vegar vitum af rafmagnsskorti með einhverjum fyrirvara þá er hægt að laga reksturinn smám saman að því og minnka framleiðsluna. Sú staða hefur komið upp nokkrum sinnum, t.d. árið 1998 þegar þurfti að slökkva á kerum þegar lítið vatn var í uppistöðulónum á hálendinu.“

Úr vatni í virkjanir
Rannveig Rist hefur tengst öllum grunnþáttum álframleiðslunnar. Hún vann með föður sínum, Sigurjóni Rist, við vatnamælingar og vann síðan við Búrfellsvirkjun áður en hún hóf störf í Straumsvík. Við síðustu stækkun álversins fékk fyrirtækið að gjöf frá Landsvirkjun gamlan kunningja Rannveigar úr Búrfellsvirkjun; nefnilega eitt af túrbínuhjólum virkjunarinnar. Hjólið skipar nú heiðursess á lóð álversins og er eitt af kennileitum þess. Þegar fyrirtækið var stofnað árið 1969 var framleiðslugeta þess 33.000 tonn á ári. Síðan þá hefur verksmiðjan verið stækkuð fjórum sinnum, síðast árið 1997, og framleiðslugetan nú er um 176.000 tonn á ári.

En sér Rannveig fram á stækkun verksmiðjunnar í náinni framtíð?
„Það er vel mögulegt að stækka verksmiðjuna, framleiðslan gengur mjög vel hjá okkur og við framleiðum hér um 200 vörutegundir. Markaðurinn hlýtur hins vegar að ráða, því það er enginn hagur í því að framleiða ál ef eftirspurnin er ekki næg. Nú hefur Alcan Inc., eigandi verksmiðjunnar í Straumsvík, nýverið fest kaup mjög öflugu frönsku álfyrirtæki og framleiðir þar með miklu meira ál í Evrópu en áður. Það gæti frestað enn frekar ákvörðun um framtíðarþróun hér. En við höldum okkar striki og einbeitum okkur að því að gera framleiðsluna eins hagkvæma og kostur er. Eftir að verksmiðjan var stækkuð árið 1997 var framleiðslugetan 162.000 tonn á ári. Með breyttum áherslum í kerrekstri, tæknilegum lagfæringum og straumhækkunum hefur okkur hins vegar tekist að auka framleiðslugetuna upp í 176.000 tonn á ári og það án mikilla fjárfestinga. Þetta sýnir hve verksmiðjan er byggð á góðum grunni, því þær aðgerðir sem við höfum gripið til síðustu ár hefðu annars verið ómögulegar.“
Hjá Alcan á Íslandi eru um 500 starfsmenn og það hefur vakið athygli hvað starfsmannaveltan er lág. Starfsmönnunum virðist líða vel og lítið er um mannabreytingar. Rannveig segir starfsandann mjög góðan „og sem dæmi um það má nefna að þegar hafa vel á annað hundrað starfsmenn fengið afhent gullúr, en það fá þeir eftir 30 ára starf. Þetta er ótrúlega há tala miðað við að fyrirtækið tók til starfa árið 1969 og er aðeins rúmlega þrítugt.“

-Straumsvík
Vík sunnan Hafnarfjörð, gengt Straumi. Þar var verslunarhöfn á miðöldum og sigldu þýskir kaupmenn þangað. Árið 1966 var samþykkt á Alþingi að hefja þar álvinnslu með svissneska félaginu Alusuisse. Er það fyrsta stóriðjuver á Íslandi. Skyldi dótturfyrirtæki Alusuisse, íslenska álfélagið hf. (ISAL), byggja og reka álverið. Framkvæmdir hófust 1967 en starfræksla hófst 1969. Framleiddi álverið þá 30.000 lestir af hrááli á ári en síðan hefur það stækkað. Jafnframt byggingu álversins var gerð höfn í Staumsvík til að skipa upp hráefni til álframleiðslunar og útskipunar á áli og þá var ráðist í byggingu Búrfellsvirkjunar en sala á raforku til álversins var talin forsenda fyrir henni.

-Straumur
Undirbúningur að stofnun listamiðstöðvarinnar og endurbygging gömlu bæjarhúsanna í Straumi hófst árið 1988. Hér var áður rekið svínabú undir stjórn Bjarna Blomsterbergs, fyrrum eiganda Fjarðarkaupa, en húsið er teiknað af Guðjóni Samúelssyni, húsameistara ríkisins.

-Keflavíkurvegurinn
Keflavíkurvegurinn var lagður um 1960 af Bandaríkjamönnum. Þetta var í raun fyrsti vegurinn á Íslandi sem lagður var bundnu slitlagi utan þéttbýlis. Vegurinn vars teyptur í fyrstu og þótti nýlunda þá. Lengi á eftir var gjaldskýli við Straum, líkt og er við Hvalfjarðargöngin nú, þar sem gjald var heimt af ökumnönnum, sem um veginn fóru. Sjá má móta fyrir eldri veginum sunnan þess nýja, en Alfaraleiðin gamla, gamla þjóðleiðin minni Innnesja og Útnesja, er skammt sunnar í hrauninu, fallega vörðuð á kafla.

Kappella

Gengið var um Nýjahraun, síðar nefnt Kapelluhraun, frá kapellunni ofan við Álverið við Straumsvík. Skoðaðar voru m.a. leifar hins gamla krákustígs í gegnum hraunið, en enn sést móta fyrir honum á tveimur stöðum. Hraunið sjálft er margbrotið og víða í því hinar fuðurlegustu myndanir. Sjá má t.d., ef vel er að gáð, skapara þess birtast í því í ýmsum myndum, líkt og væri hann að líta yfir unnin afrek.

Kapella

Kapella – skilti.

Við kapelluna eru tvö skilti, annað frá Byggðasafni Hafnarfjarðar og hitt frá Þjóðminjasafninu. Upplýsingarnar eru svipaðar. Friðlýsingarmerki er við innganginn. Á öðru skiltinu segir að talið sé að Kapelluhraun hafi runnið á 11. öld. Á hinu segir að hraunið hafi runnið á 13. eða 14. öld. Nú liggur hins vegar fyrir að hraunið rann hvorki á 11. eða 13. öld, heldur árið 1151. Venjulegur ferðamaður gæti hæglega orðið ráðvilltur þarna og það áður en hann kemur að sjálfum „fornminjunum“. Á sama hátt og upplýsingarnar á staðnum eru misvísandi er kapellan sem fornleif varla „sjálfri sér samkvæm“. Grunnmynd á skilti sýnir ferhyrnda tóft, eins og dr. Kristján Eldján rissaði hana upp á sjötta áratug 20. aldar. Innanmálið er að vísu ferhyrnt svo fá má á tilfinninguna að þar og þannig hafi gólfflöturinn verið upphaflega, en utanmál kapellunnar, eins og hún er í dag, er fremur sporöskjulaga. Önnur, gömul mynd, tekin við sama tækifæri, sýnir að mestu hrunda mosavaxna kapelluna í úfnu hrauninu, en nú er hún svo formlega löguð, ber og svo vel uppi standandi að varla getur talist um forna leif sé að ræða – nema að hluta til. Endurgerð fornleif stendur þó ávallt fyrir sínu – a.m.k. að ákveðnu marki.

Kapella

Alfaraleiðin við kapelluna.

Annar hluti gamla stígsins, sem enn sést, er sunnan við kapelluna. Sennilega er um einskæra tilviljun að ræða að hann skuli hafa fengið að halda sér. Hinn hlutinn er þar sem komið er inn í hraunið af Alfaraleiðinni norðan við Gerði. Í örnefnalýsingu segir m.a. um stíg þennan: „Alfaraleiðin út á Útnes lá svo að segja um túnblettinn. Hann lá yfir Kapelluhraunið, eða Brunann, eins og það var stundum nefnt, síðan lá leiðin áfram, þar til komið er í Brunaskarð vestra. Við hvort skarð eru vörður, er nefnast Stóravarðan eystri og Stóravarðan vestri. Sagnir voru um, að einn sveina Kristjáns skrifara, sem drepinn var á Kirkjubóli á Miðnesi, hafi verið dysjaður við Kapelluna. Var því þarna stundum kölluð Dysin eða Kapelludys. Úr skarðinu liggur alfaraleiðin vestur um Hraunin ofan eða sunnan garðs á Þorbjarnarstöðum“.

Þorbjarnastaðaborg

Fjárborg Þorbjarnastaðafólksins.

Kapelluhraunið hefur að geyma marga fornleifina. Þá þar nefna Þorbjarnastaðaborgina neðan við Brunntorfur, garða og hleðslur ofan við Gerði, hlaðnar brýr og byrgi skammt norðan við gasstöðina. Þá liggja yfir hraunið fornar götur og syðst í því eru myndarlegar hrauntraðir.
Álverið við Straumsvík stendur á Kapelluhrauni, eða Nýjahrauni eins og það fyrst var nefnt, og er allra yngsta hraunið á svæðinu í kringum Hafnarfjörð. Það er frá árinu 1151 skv. upplýsingum frá Íslenskum orkurannsóknum. Það á upptök undir Undirhlíðum og hefur komið úr gígaröðum, sem virðast vera tengdar misgengissprungum. Kapelluhraun er hluti af hraunum sem runnu hjá Krísuvíkurkerfinu. Þá opnaðist gossprunga undir Undirhlíðum sem var alls um 25 metra löng en slitin í miðjunni.

Kapella

Kapellan.

Kapelluhraun rann norðan á skaganum og til sjávar og myndað þar tanga, en vestan undir honum er Straumsvík.
Kapelluhraun er ákaflega fallegt úfið og mosagróið apalhraun en hörmung er að sjá hvernig karganum hefur verið rutt af yfirborði þess á stórum svæðum. Hraunið er fínkornótt með einstaka tiltölulega stórum dílum. Dílarnir eru oftast plagioklas, pyroxen og einstaka ólivín. Stærð hraunsins er 11,6 km2. Gamli krákustígurinn, sem eitt sinni var ruddur í gegnum hraunið, hefur að mestu verið eyðilagður að undanskildum fyrrnefndum um 6 metra kafla við litla rúst í hrauninu, sem er nefnd kapellan og á fyrrnefndum stað í vestanverðum hraunjaðrinum.

Kapella

Kapellan 1964.

Árið 1950 rannsakaði Kristján Eldjárn þessa kapellu og fannst þar m.a. lítið líkneski af heilagri Barböru sem er verndardýrlingur ferðamanna. Hún var góð til áheita gegn hvers konar eldsgangi. Einnig var hún verndardýrlingur stórskotaliðsmanna, slökkviliðs- manna, námumanna, verkfræðinga og jarðfræðinga. Kapellutóftin er á fornminjaskrá og þar má sjá eftirlíkingu af líkneskinu. Fróðlegt er að skoða ljósmyndir, sem teknar voru af tóftinni við upphaf rannsóknar Kristjáns Eldjárns og félaga, en á þeim m.a. úfið mosahraunið og einungis hluti kapellunnar standa upp úr því.

Kapella

Kapella – skilti.

Miklar framkvæmdir hafa verið í kringum Álverið í Straumsvík, auk þess sem Skógrækt ríkisins, fyrrum eigandi svæðisins, hefur leyft töku á gífurlegu efnismagni úr hrauninu. Þá hefur það verið sléttað út á stóru svæði og óþarflega miklu magni efnis hefur verið rutt út yfir hraunjaðrana. Þegar horft er yfir svæðið virðast „skemmdirnar“ hafa bæði verið óstjórnlegar og að stórum hluta óþarfa ómarkvissar.
Nú eru jafnvel fyrirhuguð stækkun á Álverinu. Fyrirtækið hefur m.a. í því skyni fest kaup á landinu ofan þess.
Hjörleifur Guttormsson, fyrrum alþingismaður, skrifaði Skipulagsstofnun árið 2002 þar sem hann geldur vara við frekari framkvæmdum Álversins í Kapelluhrauni. Með bréfi sínu til stofnunarinnar gerir hann athugasemdir og bendir á náttúruvá sem steðjað getur að mannvirkjum við Straumsvík og lítil sem engin skil eru gerð í matsskýrslu vegna stækkunar álverksmiðju ÍSALs.

Kapella

Kapella – skilti.

Þegar álverksmiðja var staðsett og reist við Straumsvík fyrir um aldarþriðjungi gerðu menn sér litla sem enga grein fyrir samhengi eldvirkni og hraunstrauma á svæðinu. Síðan hafa verið gerðar ítarlegar rannsóknir á eldvirkni á Reykjanessskaganum, gosstöðvar frá nútíma verið staðsettar og hraunstraumar sem frá þeim hafa runnið eftir að ísöld lauk, sumpart eftir landnám.
Guðmundur Kjartansson fjallar m.a. um aldur Búrfellshrauns við Hafnarfjörð árið 1973. Grein hans birtist í Náttúrufræðingnum 42. 159-183. Jón Jónsson gerði jarðfræðikort af Reykjanesskaga 1978. Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson rituðu um Krýsuvíkureldaa I. – Aldur Ögmundarhrauns og Miðaldalagsins – í tímaritið Jökull árið 1989, 38. 71-87. Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson & Árný Erla Sveinbjörnsdóttir rituðu einnig um Krýsuvíkurelda II. – Kapelluhraun og gátan um aldur Hellnahrauns yngra – í Jökul árið 1991, 41. 61-80. Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson rituðu um hraun í nágrenni Straumsvíkur í Náttúrufræðinginn 1998, 67. 171-177.

Kapelluhraun

Kapelluhraun.

Páll Imsland ritaði um náttúruvár á Straumsvíkursvæðinu í Náttúrufræðinginn árið 1998, 67. 263-273. Hann taldi þar að Kapelluhraun væri frá 13. öld.
Af þessum rannsóknum og greinum höfunda má m. a. ráða, að líkur séu á að þunnfljótandi hraunstraumar geti runnið í sjó fram frá gosstöðvum vestan Undirhlíða og víðar yfir það svæði sem núverandi álverksmiðja stendur á auk þess sem önnur mannvirki svo sem raflínur og vegir eru í hættu á þessu svæði og víða í grenndinni.
Sem dæmi má nefna eftirfarandi úr grein Hauks Jóhannessonar og Sigmundar Einarssonar 1998, s. 175,

Kapella

Kapellan – uppdráttur KE.

„Yngsta hraunið á svæðinu er oftast nefnt einu nafni Kapelluhraun, þó svo að það heiti eigi í raun aðeins við nyrsta hluta þess. Syðri hluti hraunsins hefur gengið undir heitinu Nýibruni. Kapelluhraun er hluti af hraunum sem runnu í Krísuvíkurrein árið 1151 (Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1989). Þá opnaðist gossprunga sem er alls um 25 km löng en þó slitin í miðjunni. Sunnan á skaganum rann Ögmundarhraun í sjó fram og tók það af gamla Krísuvíkurbæinn. Norðan á skaganum rann Kapelluhraun, aðallega frá gígum við Vatnsskarð sem nú heyra sögunni til vegna gjallvinnslu. Hraunið rann til sjávar í Straumsvík … Álverið í Straumsvík stendur á hrauninu“.
Í niðurlagi greinarinnar segja höfundar m. a. (s. 177):

Kapeluhraun

Kapelluhraun – jarðfræðikort.

„Eldgos á Rekjanessskaganum virðast koma í hrinum og á milli er minni virkni. Hrinurnar verða á um þúsund ára fresti og hver hrina stendur yfir í nokkur hundruð ár. Síðasta hrinan hófst upp úr miðri tíundu öld og endaði um 1240. Í hverri hrinu verða umbrot í öllum eldstöðvareinunum á skaganum og í síðustu hrinu færðist virknin frá austri til vesturs. Einnig er nokkuð víst að verði eldgos í Brennisteinsfjöllum og í norðanverðum Móhálsadal munu hraun þaðan renna niður til strandar milli Hrútagjárdyngjunnar og Hvaleyrarholts, sömu leið og Hellnahraun eldra og yngra og Kapelluhraun.
Af ofansögðu er ljóst að hraun geta runnið til Straumsvíkur bæði frá Brennisteinsfjallarein, en þar gaus síðast á 10. öld, og frá Krísuvíkurein þar sem síðast gaus um miðja tólftu öld. Síðast urðu með vissu eldsumbrot á Reykjanesskaga á fyrri hluta 13. aldar í Reykjanesrein. Nær útilokað er að hraun frá gosum í þeirri rein geti runnið til Straumsvíkur en hins vegar gæti þar hugsanlega orðið vart landsigs vegna meðfylgjandi gliðnunar í reininni“.

Kapella

Kapellan áður en hún var grafin upp.

Í grein sinni um náttúruvár á Straumsvíkursvæðinu (sjá nr. 6 hér að ofan, s. 271) segir Páll Imsland m. a.:
„Eftir Krýsuvíkurelda á 13. öld hafa ekki komið upp hraun í nágrenni Straumsvíkursvæðisins. Landslagi er þannig háttað að hraun sem koma upp vestanundir Undirhlíðum eiga ekki annarra kosta völ en að renna út á hraunflákana til vesturs og norðurs og leita undan halla og þrýstingi frá kvikunni sem flæðir úr gígunum í átt til strandar, í átt að Straumsvík. Áður en að álverinu sjálfu kemur eru raflagnir, spennuvirki, þjóðvegur og fleira slíkt í rennslisleiðum hrauna; mannvirki sem skipta verulegu máli, bæði fyrir starfrækslu álversins og alla byggð sunnar á skaganum. Það er því ljóst að hraunflóðahætta er þarna til staðar, en ekkert er þekkt sem bendir til yfirvofandi hættu. Náttúran á svæðinu hefur ekki sýnt nein þekkjanleg merki þess að þarna séu eldgos í uppsiglingu. Á hitt ber samt að líta að þetta er afkastamikið, virkt eldgosasvæði þar sem ekki hefur gosið í um 850 ár, og til eru vísbendingar um að virknin á Reykjanesskaganum gangi í hrinum með nokkurra alda aðgerðarlitlum hléum. Hrinur þessar einkennast af jarðskjálftum, sprungumyndun og eldgosum.“

Kapelluhraun

Kapelluhraun – jarðfræðikort ISOR.

Í greininni „Hamfarir á höfuðborgarsvæðinu“ eftir Þórdísi Lilju Gunnarsdóttur, sem birtist í tímaritinu Ský, 6 2001-2002, s. 36, má lesa eftirfarandi:
„Í Kröflueldum í september 1984 rann glóandi hraunáin um tíu metra vegalengd á sekúndu. Það gera 36 kílómetrar á klukkustund. Að mati jarðfræðinganna Páls Imslands og Karls Grönvolds er það álíka hraði og væri á nýju hrauni við höfuðborgina í dag. Því myndi hraunelfan geta náð efstu byggðum borgarinnar á fáum klukkustundum … Ef eldgos brytist út í Húsfelli, Búrfelli eða Trölladyngju gæti hraun runnið niður Kúagerði og yfir Reykjanesbraut, yfir álverið í Straumsvík, rafstöðina við Hamranes og nýjustu byggð Hafnfirðinga sunnan við Reykjanesbraut sökum þess hve Reykjanesskaginn er mjór sunnan við Hafnarfjörð. Í miklum hamförum á þessum slóðum gæti hraun einnig náð til byggðar í Garðabæ og yfir Álftanesið.“
– Þótt hér sé stiklað á stóru af blaðamanni eru ábendingarnar þó umhugsunarverðar.“

Hraunkarl

Hraunkarl í Kapelluhrauni.

Fornleifavernd ríkisins segir að “hraunið dragi nafn sitt af Kapellunni, rúst af litlu húsi skammt frá veginum vinstra megin þegar ekið er suður Reykjanesbrautina. Sen fyrr segir rannsakaði Kristján Eldjárn kapelluna ásamt fleirum 1950 og segir svo frá:
„Fyrir sunnan Hafnarfjörð liggur leiðin yfir úfinn brunafláka sem á upptök sín í gígaröð meðfram Undirhlíðum og hefur runnið þaðan allt norður í sjó. Í þessu hrauni er Kapellan og eftir henni heitir hraunið Kapelluhraun, en hefur heitið Nýjahraun á miðöldum, því að það hefur runnið eftir að land byggðist, líklega þó mjög snemma á öldum. Kapellan er lítil opin húsarúst rétt við gamla krákustíginn, sem ruddur hefur verið þegar eftir að hraunið rann og hefur verið alfaraleið út á nes öldum saman.“
Kapellan er 2,40 m á lengd og 2,10 m á breidd að innanmáli.

Kapella

Kapellan í Kapelluhrauni.

Veggirnir eru hlaðnir úr hraunhellum og að mestu uppistandandi.
Við uppgröftinn 1950 fundust allmargir gripir. Sá merkasti þeirra er lítið líkneski af heilagri Barböru, brotið um mjaðmir en nú um 3,3 cm á hæð. Líkneskið er varðveitt í Þjóðminjasafni (Þjms. 14293). Þessi fundur bendir til þess að hús þetta sé í raun og veru kapella frá katólskum tíma og að ferðamenn um hraunið hafi komið þar við og gert bæn sína.
Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir frá því að einn af mönnum Kristjáns skrifara hafi verið drepinn í Kapelluhrauni og grafinn í kapellunni til hefnda eftir Jón biskup Arason og syni hans. Engin ummerki benda þó til þess að þessi sögn eigi stoð í raunveruleikanum, en sagan er góð búbót við annars sagnaríkt umhverfi á sögulegum tíma.

Kapellan

Kapellan – sjá má leifar Alfaraleiðarinnar, sem lá framhjá henni.

ISOR (Íslenskar orkurannsóknir) kveða á um á vefsíðu sinni að aldur Kapelluhrauns sé 1151. Miðgosið er nefnt Krýsuvíkureldar. Aðalgos þeirra var árið 1151 en minniháttar gos varð 1188. Í því fyrra opnaðist um 25 km löng gosspunga og rann hraunið til sjávar bæði sunnan og norðan megin á Reykjanesskaganum. Að sunnan heitir hraunið Ögmundarhraun en að norðan Kapelluhraun. Þetta ár tók af stórbýlið Krísuvík sem stóð niður á sjávarbakka. Hraunið rann allt um kring kirkjuna á staðnum.
Kapelluhraunið er stórbrotið í tvennum skilningi. Annars vegar hefur hraunið mikið gildi vegna þess að það rann á sögulegum tíma og því merkilegt náttúrfyrirbæri sem slíkt. Hins vegar hefur óhóflegum hluta þess verið spillt af mannavöldum. Á því hefur því verið stórlega brotið.

Kapella

Kapellan í Kapelluhrauni endurgerð.

Við þetta má bæta að fyrrnefnd kapella er ekki óhreifð eða óröskuð fornleif í þeim skilningi orðisins. Hún er ónákvæm endurgerð fornleifar frá því um 1960 og virðist nú stenda á sínum upprunalega stað – sem von um fyrirgefningu fyrir fyrrum eyðileggingu. En staðurinn, þar sem hin forna kapella var, er engu að síður merkilegur, bæði út frá fornleifalegum sem og sagnfræðilegum skilningi.
Hins vegar mætti vel, án tilfallandi skaða, ef byggja ætti á annars röskuðu hrauninu, endurreisa kapelluna á ósnortnu hrauninu vestan og ofan við Vestari Brunaskarð, við gömlu götuna skammt ofan við Gerði þar sem alfaraleiðin liggur upp á það. Kapellan yrði þar engu minni „fornleif“ en nú er. Mannvirkið „gekk úr sér“ á sínum tíma og „týndist“, en var síðan „endurvakið“ með fyrrnefndum uppgrefti.
KapellaSem slíkt hefur staðurinn einungis tilfinngalegt gildi líkt og hver annar staður gæti haft með sama tilgang, hvar sem hann er á hverjum tíma. Það hefði hvorki áhrif á sagnfræðina né fornleifafræðina sem slíkar. Í henni mætti taka upp hvaða kvikmynd sem er án þess að til mótmæla kæmi.
Kapellan á Hraunssandi, fyrrum einnig nefnd Dysin, er sambærilegt mannvirki, en öllu merkilegri. Hún var grafin upp á svipuðu tíma, urðuð á ný og hefur því ekki verið „endurgerð“. Við hana eiga að vera grafinn á þriðja tugur manna, án þess að staðnum sé sýnlega nokkur virðing sýnd.
Frábært veður. Gangan tók 2 kls. og 22 mín.

Heimildir m.a.:
-http://www.flensborg.is
-http://www.eldhorn.is
-http://www.isor.is/stadlar/hraun/allt_um_hraun.html
-http://www.reykjanesbaer.is
-Kristján Eldjárn: Heilög Barbara mær og kapella hennar. Hundrað ár í Þjóðminjasafni. Rvk. 1973, 88.
-Kristján Eldjárn. Kapelluhraun og Kapellulág. Fornleifarannsóknir 1950 og 1954. Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1955-1956. Rvk. 1957, bls. 5-34.
-Þjóðsögur Jóns Árnasonar. II bindi. Rvk. 1954, bls. 78.

Kapella

Kapellan með friðlýsingaskilti framan við.