sum á Íslandi. Nú er álverið í eigu Alcoa. Um 500 starfsmenn starfa á vegum fyrirtækisins hér á landi. Framleiðslan erum 170.000 tonn af áli til útflutnings. Fyrirhugð stækkun er á álverinu hér til suðurs, yfir veginn, en honum er ætlaður staður lengra upp í hraunið.
Ævintýrið um álverið í Straumsvík hófst í háloftunum yfir Íslandi og það hefði hugsanlega ekki orðið að veruleika ef ský hefðu verið á himni. Um borð í farþegaþotu á leið til Bandaríkjanna voru tveir af ráðamönnum svissnesks álfyrirtækis. Þar sem þeir sátu í vélinni og virtu fyrir sér landið úr lofti sáu þeir Vatnajökul, stærsta jökul Evrópu. Og þá kviknaði hugmyndin. Þar sem svona mikið er af jöklum hlýtur að vera gnótt af vatnsföllum sem hægt er að virkja. Þetta var upphafið af virkjunum Þjórsár við Búrfell, virkjuninni sem enn sér álverinu fyrir raforku.
Fyrirtækið hét áður Íslenska álfélagið en ber nú nafnið Alcan á Íslandi. Fyrirtækið er stærsti einstaki orkukaupandinn hér á landi og á síðasta ári nýtti Alcan 36% af allri orkuframleiðslu landsins. Rannveig segir að álverið hefði aldrei verið reist á sínum tíma nema vegna orkunnar sem hér er nóg af. „Það er ekki nóg að orkan sé til staðar, heldur er jafnvægi og stöðugleiki orkunnar forsenda þess að hægt sé að vinna ál. Fyrstu árin lenti fyrirtækið í ýmsum vandræðum, m.a. vegna ístruflana og klakahlaups í Þjórsá auk þess sem rafmagnið virtist stundum af skornum skammti á álagstímum, t.d. þegar allir landsmenn voru að elda jólamatinn. Þetta heyrir hins vegar sögunni til og er nú komið í gott horf.“ Rannveig segir að rafmagnsleysi geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir fyrirtækið og til útskýringar líkir hún kerunum við grautarpott á eldavél. „Ef rafmagnið fer byrjar fljótandi álið að storkna á skömmum tíma og það er mikil vinna að ná því í burtu, hreinsa kerin og koma framleiðslunni af stað aftur. Ef við hins vegar vitum af rafmagnsskorti með einhverjum fyrirvara þá er hægt að laga reksturinn smám saman að því og minnka framleiðsluna. Sú staða hefur komið upp nokkrum sinnum, t.d. árið 1998 þegar þurfti að slökkva á kerum þegar lítið vatn var í uppistöðulónum á hálendinu.“
Úr vatni í virkjanir
Rannveig Rist hefur tengst öllum grunnþáttum álframleiðslunnar. Hún vann með föður sínum, Sigurjóni Rist, við vatnamælingar og vann síðan við Búrfellsvirkjun áður en hún hóf störf í Straumsvík. Við síðustu stækkun álversins fékk fyrirtækið að gjöf frá Landsvirkjun gamlan kunningja Rannveigar úr Búrfellsvirkjun; nefnilega eitt af túrbínuhjólum virkjunarinnar. Hjólið skipar nú heiðursess á lóð álversins og er eitt af kennileitum þess. Þegar fyrirtækið var stofnað árið 1969 var framleiðslugeta þess 33.000 tonn á ári. Síðan þá hefur verksmiðjan verið stækkuð fjórum sinnum, síðast árið 1997, og framleiðslugetan nú er um 176.000 tonn á ári.
Súrál er flutt í duftformi til landsins, en hér er það blandað steinefnum og hitað upp þangað til það verður fljótandi. Þá er það unnið í ál og mótað. Ástæðan fyrir því að stóriðja er rekin hér á landi er fyrst og fremst nægileg raforka á viðráðanlegu verði.
-Straumsvík bær…
Undirbúningur að stofnun listamiðstöðvarinnar og endurbygging gömlu bæjarhúsanna í Straumi hófst árið 1988. Hér var áður rekið svínabú undir stjórn Bjarna Blomsterbergs, fyrrum eiganda Fjarðarkaupa, en Húsið er teiknað af Guðjóni Samúelssyni, húsameistara ríkisins fyrir Bjarna Bjarnason. Straumur var um tíma athvarf hafnfirskra kvenna í orlofi eða þangað þær til þær fluttust að Lambhaga skammt norðar.
-KaldáSumir segja að Kaldá uppi í Kaldárbotnum komi undan hrauninu við Straum, en sannara mun vera að hún kemur upp undan Hvaleyrarfjörum, skammt frá landi.
-Hraunin – Hraunabæirnir
Hraunin sunnan StraumsvíkurHraunin ná frá Straumsvík vestur að Hvassahrauni og tilheyrðu Álftaneshreppi frá fornu fari en árið 1878 urðu þau hluti Garðahrepps þegar Álftaneshreppi var skipt í Bessastaða- og Garðahrepp. Þegar Hafnarfjörður fékk kaupstaðaréttindi 1908 fleygaði bærinn Garðahrepp í tvennt, en Hraunin tilheyrðu áfram Garðahreppi. Árið 1948 keypti Hafnarfjarðarbær skika úr landi Straums sem var í eigu Bjarna Bjarnasonar fyrrum skólastjóra Flensborgar og Skógræktar ríkisins og 1955 var gerður makaskiptasamningur við Skógræktina um viðbótarhluta úr landi Straums. Árið 1964 höfðu Hafnarfjarðarbær og Garðahreppur makaskipti á löndum og komu Hraunajarðirnar sunnan bæjarins í hlut Hafnarfjarðar.
Hraunamenn og gamlar göturÍbúum Reykjanesskagans hefur löngum verið skipt í útnesjamenn sem bjuggu utan Kúagerðis og innnesjamenn sem bjuggu í Álftaneshreppi og innan hans. Í Hraunum bjuggu Hraunamenn sem voru jafnframt innnesjamenn.
Fornir stígar og götur vísuðu nesjamönnum og ferðalöngum veginn um Suðurnes fyrrum. Fjölförnustu göturnar voru svokallaðir Alfaravegir sem liggja út og inn Reykjanesið. Þvert á Alfaraveg eru síðan stígar eins og Rauðamelsstígur, sem liggja suður í Almenning og upp í fjöllin ýmist til Grindavíkur eða Krýsuvíkur. Innan Hraunahverfis voru einnig margir stígar og götur s.s. Sjávargata, Straumsvegur, Skógarstígur, Jónsbúðarstígur og Lónakotsgata.
Búsetu- og fornminjarEkki er vitað með vissu hvenær búskapur hófst í Hraunum. Þó er talið, útfrá fornum rústum og skipan þeirra, að búskapur hafi verið við Óttarsstaðir í kringum árið 1200.
Fáein bæjarhús frá síðustu öld standa enn í Hraunum, en mun algengara er að sjá tóftir býla, hjáleiga og gripahúsa. Helstu lögbýli í Hraunum voru (talið frá suðri til norðurs): Stóri Lambhagi, Þorbjarnarstaðir, Straumur, Óttarsstaðir og Lónakot. Þessum býlum fylgdu hjáleigur og þurrabúðir s.s. Gerði, Péturskot, Litli Lambhagi, Þýskabúð, Jónsbúð, Kolbeinskot, Óttarsstaðargerði og Eyðikot. Túnskikar voru yfirleitt girtir vandlega hlöðnum tvöföldum grjótgörðum sem sjást enn, þá má víða sjá upphlaðna brunna og skjólgarða sem marka kvíaból, fjárréttir og nátthaga.
Sunnan Reykjanesbrautar í Almenningi eru selin í 3 – 4 km fjarlægð frá bæjunum. Selin voru einskonar framlenging á búskap jarðanna. Snemma á sumrin flutti vinnufólk sig upp í selin með kindur og kýr og stundaði þar búskap til haustsins. Á þessum tíma var aflað matar og afurðir unnar fyrir komandi vetur.
Við helstu götur og við sum selin eru náttúrlegir brunnar í klöppum sem geymdu rigningarvatn fyrir ferðalanga, fjársmala, matselju og þá sem leið áttu hjá. Þá má ennfremur sjá nátthaga, fjárskjól og smalaskúta við selin.
Sauðfjárbúskapur var aðalbúgreinin í Hraunum. Sauðfé var haft á útigangi í Almenningi eða á fjörubeit. Sauðir voru ekki teknir á hús og leituðu sjálfir í skjól eða skúta í illviðrum. Fjárskjól leynast víða í Hraunum. Sauðamenn eða smalar fylgdu sauðum sínum og unnu einmanalegt og erfitt starf. Lömb sem sett voru á að hausti voru höfð í lambakofum og hrútar í hrútakofum. Víða má sjá réttir s.s. Þorbjarnarstaðarétt sem var haustrétt Hraunabænda, Óttarstaðarétt og réttina við Lónakot sem tók 70-80 fjár. Þessar réttir gegndu mikilvægu hlutverki þegar sá siður að færa frá var enn tíðkaður, en hann lagðist af seint á 19. öld.
Á 18. öld var algeng búfjáreign í Hraunum 1-3 kýr og 18-20 kindur en fækkaði þegar bráðapestir eða fjárkláðar geisuðu. Um miðja 19. öld og fram á 20. öldina fjölgaði sauðfé í Hraunum og héldu bændur þá 80-100 kindur að meðaltali.
Mjólkandi kýr gátu verið tvær og kvíga til viðbótar. Oft fylgdu kýrnar með í selið eða voru hafðar nær bæjum í kúarétt á sumrin. Flestir bændur áttu tvo hesta, en kotungar engan eða í besta falli einn hest til flutninga.
Búskapur lagðist af að mestu á kreppuárunum eða um 1930. Búið var í Óttarsstöðum eystri til ársins 1952 og í þeim vestri til 1965. Síðasti ábúandi Hraunanna var Guðmundur Sigurðsson bátasmiður, sem lést árið 1986. Í dag eru aðeins sumarbústaðir í Hraunum og eru þar elst húsa Óttarsstaðir vestri og Eyðikot.
Sjósókn var Hraunamönnum nauðsyn. Heimaræði kallaðist útræði sem stundað var frá jörðum sem lágu við sjó. Uppsveitarbændur fengu oft leyfi sjávarbænda til að stunda sjósókn frá jörðum þeirra og senda vermenn á vertíð. Var það kallað að hafa inntökuskip á jörðinni og bændur sem sendu menn í ver nefndust útvegsbændur. Minjar um útræði eru víða í Hraunum; þurrabúðir, vörslugarðar og fiskreitir. Í fjörunni innan skerjagarða mótar fyrir uppsátrum, fiskbyrgjum og vörum þar sem bátar voru dregnir upp öldum saman, t.d. Péturskotsvör, Straumsvör, Þýskubúðarvarir tvær, Jónsbúðarvör, Óttarsstaðavör og Eyðiskotsvör.
Söltekja, skeljafjara og hrognkelsafjara voru hlunnindi. Skelfiskur var oft notaður til beitu, en verðmeiri voru auðfönguð hrognkelsi, sem fjaraði undan í fjörupollum.
Sérhver þúfa, gjóta, hóll og hæð hefur sitt nafn, sem gefur umhverfinu merkingu og aukið gildi. Oft reyndust hólar og hæðir vera merkileg kennileiti eða vegvísar og gerðu mönnum auðveldara að ferðast um svæði og vísa til vegar þegar kennileiti hétu einhverjum nöfnum. Mörg örnefni hafa haldist óbreytt um aldir, en sum hafa breyst eftir búsetu fólks, t.d. er ekki óalgengt að kot eða túnskiki hafi breytt um nafn eftir því hvað ábúandinn hét.
Þá eru sum örnefni sem einungis hafa haft gildi fyrir afmarkað svæði. Í því sambandi má nefna nöfn hóla og hæða umhverfis bæjarhús Óttarsstaða, sem þjónuðu þeim tilgangi að segja til um sólargang, svokölluð eyktarmörk. Það eru örnefni eins og Hádegishæð (kl. 12:00), Miðmundarhæð (um kl. 13:30), Nónhóll (kl. 15:00), Miðaftansvarða (kl. 18:00) og Náttmálahóll (kl. 21:00). Slík eyktarmörk koma einnig fyrir að einhverju leyti við Þorbjarnarstaði og hafa þá einungis gilt fyrir það svæði. Svo eru mörg örnefni sem gefa skýra mynd af því hvaðan þau eru upprunnin, eins og t.d. Smiðjubali, Fjárhlið, Markhóll og önnur í svipuðum anda.
-Óttarstaðir
Óttarsstaðir vestri og Óttarstaðir eystri. Aðrir bæir í Hraunum voru t.d. Blikalón og Glaumbær og Litli- og Stór-Lambhagi, auk Þorbjarnastaða og Gerðis.
-Lónakot
Búið þar til stríðsloka. Sjá má minjar hins gamla bæjar, garðanna sem og útihúsanna. Fallegt umhverfi, lónin og fjaran og ströndin.
-Urtartjörn – sérstakt lífríki í tjörnum þar sem mikið ferskvatn blandast við sjó
Utratjörnin á hægri hönd er sérstök fyrir það að í henni gætir sjávarfalla. Þannig flýtur ferskvatnið ofan á þyngri sjónum. Við þær aðstæður vex fjölbreyttur gróður, bæði sjávar- og ferskvatnsgróður ofar á bökkunum, en einnig gróður er þolir hvorutveggja.
-Vatnsstraumur inn á flóði, út á fjöru
Ofan við straum streymir vatn undan hrauninu. Helstu ferskvatnsbyrðir Hafnfirðinga eru annars vegar í Kaldárbotnum og hins vegar hér beint fyrir ofan í Straumsseli. Þar hefur verið borið um 50 m djúp tilraunborhola, sem lofar góðu. Þá hefur álverið sýna eigin ferskvatnsborholu í hrauninu. Við Þorbjarnarstaði er brunnur í hraunkantinum. Þangað var sótt vatn fyrrum, auk þess sem ullin og annar þvottur var þveginn þar. Munur á flóði og fjöru geta verið allt að þremur metrum.
-Hvassahraun – Hraundríli – brugghellir
Á móts við eyðibýlið í Hvassahrauni (hægra megin við Reykjanesbraut þegar ekið er í átt að höfuðborgarsvæðinu) er sléttlendi nokkurt sem kallast Strokkamelur. Þar má finna nokkur hraundríli eða hraunkatla eins og þeir eru nefndir í Náttúruminjaskrá. Katlarnir eru mjög sýnilegir frá Reykjanesbrautinni og aðeins örfáum metrum ofan við nýtt vegstæði. Merkileg náttúrufyrirbæri sem líkjast einna helst gömlum strokkum. Nokkurs konar strompar sem hafa hleypt upp lofti/gastegundum þegar hraun rann um svæðið en um leið hefur hlaðist utan á þá og þeir stækkað. Í miðju þeirra er op sem nær niður í hraunhelluna.
-Fagravík
Svæðið er í landi Vatnsleysustrandarhrepps og Hafnarfjarðar. Um er að ræða um 500 metra breitt belti ásamt ísöltum tjörnum frá botni Fögruvíkur að Straumi. Um sérstætt umhverfi er að ræða ásamt miklu og óvenju fjölskrúðugu fjörulífi og gróðri. Tjarnirnar eru mismiklar að seltu og einstæðar að lífsskilyrðum. Þarna er fagurt útivistarsvæði og er rannsóknar- og fræðslugildi þess mikið ásamt nálægðinni við þéttbýlið.
Með skráningu svæða sem náttúruminja, er bent á sérstöðu svæðis eða sérkenni. Munurinn á friðlýstum náttúruminjasvæðum og öðrum svæðum á náttúruminjaskrá er aðallega sá að verndun svæðisins er lengra á veg komin ef um friðlýst svæði er að ræða.
Það sem helst ber að hafa í huga varðandi náttúruminjar er meðal annars, samkvæmt Náttúruvernd ríkisins:
“Ef hætta er á röskun náttúruminja vegna framkvæmda eða annarra athafna er sérstaklega kveðið á um að á friðlýstum náttúrminjasvæðum þurfi leyfi Náttúruverndar ríkisins og að leita þurfi umsagnar hvað aðrar náttúruminjar varðar áður en framkvæmdaleifi er veitt.” (Náttúruminjaskrá)
-ÞráinsskjöldurÞráinsskjaldarhraun (Vatnsleysuhraun). Skjaldlögun austan Fagradalsfjalls er dyngja. Dalur milli dyngnanna. Þar eru Afstapahraun (apal), áður nefndt Arnstapahraun. Eldra Hraun undir, en þar er líka frá sögulegum tíma (landnámslagið er undir því). Það eru u.þ.b. 12 söguleg hraun á skaganum, en litlar skráðar heimildir eru til um tilurð þeirra. Ástæður eru meðal annars þær, að bækur hurfu úr Viðeyjarklaustri. Þeim var rænt og hurfu í flutningi á 17. öld (skipstapi). Þráinsskjaldarhraun runnu við hærri sjávarstöðu skömmu eftir síðasta kuldaskeið. Það sést á rúlluðu grjóti ca 5m ofar núverandi sjávarstöðu (9000 ára). Þráinsskjöldur er bunga austan Fagradalsfjalls (9000-10000 ára). Erfitt er að ákveða hvenær kuldaskeiði lauk hér, áætlað fyrir 9000-10000 árum.
-Afstapahraun – rann á 12. öld
-Kúagerði – Akurgerði
Grasblettur við tjörn við gamla veginn í suðurjarði Afstapahrauns upp af Vatnsleysuvík. Þar var kunnur áningarstaður fyrrum og kúahagi frá Vatnsleysujörðum. Reykjanesbrautin liggum um blettin þveran. Þar var samneft býli um skeið.
-Vatnsleysa
Stóra- og Minni Vatnsleysa. Bæir á Vatnsleysuströnd, stórbýli fyrrum og miklar útvegsjarðir . Standa þeir vestanvert við allstóra vík sem Vatnsleysuvík heitir, milli Keilisness að vestan og Hraunsness að austan. Á Minni-Vatnsleysu er reikið eitt stærsta svínabú landsins (Ali). Til hlunninda þessara jarða eru talin hrognkelsveiði, reki og hverahiti. Á Vatnsleysu var kirkja í kaþólskum sið, helguð öllum heilögum og átti hún 15 hundruð í heimalandi jarðarinnar. Löngum mun Vatnsleysukirkja hafa verið þjónað frá Kálfatjörn.
Við Stóru-Vatnsleysu er m.a. forn letursteinn í túninu, sennilega við hina gömlu kirkju.
Það mun hafa verið nálægt 1850, sem Jón nokkur fór að byggja sér nýjan bæ á Stóru-Vatnsleysu. Hann gróf fyrir kjallara, en þegar komið var nokkuð langt niður, fundust mannabein mörg. Gamlir menn þóttust þá hafa heyrt þess getið að fyrrum hefði bænahús verið á Stóru-Vatnsleysu og var þess því getið til að kirkjugarður eða grafreitur mundi hafa verið þar, sem nú átti að byggja bæinn. Jóni var ráðlagt að hætta við að byggja á þessum stað; því sinnti hann ekki, en hann hætti við að grafa kjallarann.
Svo var bærinn byggður og var á þeim tíma ekki annar skrautlegri hér í hreppi. Það var loft í honum öllum og undir því voru afþiljuð tvö herbergi, sitt í hvorum enda. Fólkið allt svaf uppi á loftinu. Eina nótt um vorið vaknaði allt fólkið (nema húsbóndinn) við það að hurðunum að herbergjunum niðri var skellt svo hart, að bærinn skalf allur.
Gömul kona, Ingveldur að nafni, var þar þá vinnukona og hefur hún sagt þessa sögu. Ekki kvaðst hún hafa orðið vör við annað undarlegt á meðan hún var þar, en fyrrnefnda hurðaskelli, en ýmsa fleiri kynjaviðburði heyrði fólk sagða úr þessum bæ; þar á meðal var sá, að kona af næsta bæ gekk einu sinni um albjartan dag fram hjá stofugluggunum og leit inn um þá, um leið og hún ætlaði framhjá; sá hún þá sex menn sitja þar inni við borðið, og þekkti engan þeirra.
Jón nokkur var vinnumaður á þessum bæ hjá nafna sínum þau ár, sem bærinn var byggður. Einhverju sinni þegar mikið gekk á niðri fór hann ofan í stigann um bjarta sumarnótt; en hann sneri fljótt við aftur, því hann sagði að sér hefði sýnst allur bærinn niðri, og göngin, svo langt sem hann sá, svo troðfull af fólki, er hann þekkti ekki, að hvergi var hægt að smjúga út né inn. Húsbóndinn sjálfur varð aldrei neins var, og trúði því engu af því, sem fólk hans sagði honum um þessa fyrirburði í bæ hans; taldi hann það allt hérvillu og eintómar ýkjur. En á fyrsta eða öðru ári, er hann var á bænum, veiktist hann af einhverri óþekkjanlegri veiki, sem hann þjáðist af í fimm ár eða lengur. – Þá flutti hann burt úr bænum, af því hann þóttist viss um að hann fengi ekki heilsuna aftur, ef hann væri þar, enda batnaði honum nokkrum árum eftir að hann flutti úr bænum, þó hann væri fremur veiklulegur lengst af æfinni. Guðmundur bóndi á Auðnum ólst upp á næsta bæ við Stóru-Vatnsleysu; hann var kominn yfir tvítugt, þegar Jón byggði bæ sinn.
Með Guðmundi reri vinnumaður frá bænum, að nafni Magnús, þá orðinn gamall, fámálugur og dulur. Karlinn vildi lítið um þessa atburði tala, en sagði honum þó, að eina nótt sem hann vaknaði í rúminu, tók hann hendinni uppfyrir sig; þreifaði hann þá á alsberum, ísköldum mannsskrokk, sem lá fyrir ofan hann í rúminu. Ekkert gaf karl sig að þessum lagsmanni sínum, en fór að sofa aftur. Þegar hann vaknaði um morguninn til að klæðast var þar enginn.
„Varð þér ekki bilt við?“ spurði Guðmundur. „Ekki svo mjög,“ svaraði hann.
„Maður er orðinn þessu svo vanur,“ bætti hann við. Guðmundur sagði að bær Jóns hafi staðið í eyði, mannlaus, eftir að Jón flutti úr honum, að minnsta kosti eitt ár. Sú saga gekk, að ferðamaður, einn eða fleiri, hefðu um sumarnótt gengið um hlaðið á Stóru-Vatnsleysu; hefðu þá þrír menn staðið þar á stéttinni fyrir framan bæ Jóns; hafði einn þeirra haldið á öxi, annar á atgeir, og þriðji á hríslu;tveir voru fulltíða menn, en sá, sem á hríslunni hélt, var unglingur.
-Keilir
Móbergsfjall (379 m.y.s) á Reykjanesskaga. Keilir er til orðinn við gos undir jökli á ísöld. Hann er þekktur vegna sérkennilegrar strýtumyndunar lögunar sinnar sem er til komin vegna gígtappa eða bergstands á fjallinu miðju er ver það gegn veðrun. Útsýn er mikil af Keili yfir Reykjanesskagann og víðar.
-Vatnsleysuströnd
Byggðarlag við sunnanverðan Faxaflóa, frá Hvassahrauni að innan og út að Vogastapa, gjarnan nefnd Ströndin af heimamönnum. Alls er Vatnsleysuströnd 15 km löng. Upp frá henni liggur Strandarheiði sem öll er þakin hrauni, Þráinsskjaldarhrauni, er runnið hefur til sjávar fyrir um 9000 árum.
Byggðin á Vatnsleysustönd er eingöngu á örmjórri ræmu við ströndina að mestu í hverfum sem mynduðust við bestu lendingarnar.
-Silungseldisstöð
Norðan við Vatnsleysu er silungseldisstöð, fremur smá í vexti. Rekstur hennar hefur gengið brösulega, en nú virðist hann eitthvað vera að braggast.
-Hafnhólar
Taldir tengjast verslunarhöfn þýskra á Stóru Vatnsleysu.
-Flekkuvík
Flekkuleiði – vinsæll köfunarstaður – fjölskrúðugt fuglalíf.
-Borgarkot
Kot frá Viðeyjarklaustri – talsverðar minjar – stógripagirðing.
-Staðarborg
Fjárborg á Strandarheiði, 2-3 km frá Kálfatjörn, í stefnu þaðan og á Dyngju. Hún er hringlaga, hlaðin eingöngu úr grjóti og er hverjum steini hagrætt í hleðslunni af hinni mestu snilld. Vegghæðin er um 2 m og þvermál að innan um 8 m. Ummál hringsins að utanverðu er um 35 m. Gólfið inni í borginni er grasi gróið og rennislétt.
Ekki er vitað hvenær borgin var hlaðin en menn telja hana nokkur hundruð ára gamla. Munnmæli herma að maður að nafni Guðmundur hafi hlaðið borgina fyrir Kálfatjarnarprest. Guðmundur vandaði vel til verka, safnaði grjóti saman úr nágrenninu, bar það saman í raðir og gat einnig valið þá hleðslusteina sem saman áttu. Ætlun hans var að hlaða borgina í topp. En er hann var nýbyrjaður að draga veggina samað að ofanverðu kom húsbóndi hans í heimsókn. Sá hann þá strax í hendi sér að fullhlaðin yrði borgin hærri en kirkjuturninn á Kálfatjarnarkirkju og tilkomumeiri í alla staði. Reiddist hann Guðmundi og lagði brátt bann við fyrirætlan hans. En þá fauk í Guðmund svo hann hljóp frá verkinu eins og það var og hefur ekki verið hreyft við borginni síðan. Staðarborg var fiðlýst sem forminjar árið 1951.
-Kálfatjarnakirkja
Ein af fjölmörgum kirkjum á Reykjanesi sem vert er að skoða og er hún er með stærstu sveitakirkjum á landinu. Komast vel um 200 manns fyrir í kirkjunni þó að við vígslu hennar fyrir 100 árum hafi verið taldir út úr kirkjunni rúmlega 400 gestir.
Bær, kirkjustaður og áður prestsetur á Vatnsleysuströnd. Prestasetur var þar til 1907 er sóknin var lögð niður til Garða á Álftanesi. Á Kálfatjörn var kirkja helguð Pétri postula á kaþólskum sið. Núverandi kirkja var reist árið 1892-1893 og vígð 11. júní 1893. Kirkjan er byggð úr timbri, járni varin steinhlöðnum grunni. Kirkjan tekur 150 manns í sæti á báðum gólfum. Kálfatjarnarkikirkja tilheyrir Tjarnarprestkalli í dag.
Málningin innan dyra er upprunaleg að hluta, og píláranir á kirkjuloftinu voru handunnir af manni í sveitinni – meistarverk.
Altaristaflan er máluð af Sigurði Guðmundssyni, málara.
Ekki má láta hjá líða að ganga upp að Staðarborg miklu steinhleðsluvirki á miðri heiðinni. Leiðin að Staðarborg er merkt ofan við veginn hjá Kálfatjarnarkirkju.
Kauptúnið Vogar er framundan, en eins og flestir bæir á Reykjanesi orðið til fyrir breytingar á útgerðarháttum. Þegar vélbátaútgerðin gekk í garð og skip urðu stærri varð nauðsynlegt að finna betri lægi. Leiddi þá eitt af öðru og byggðin fluttist hægt og rólega að þessum stað. Sterkasti maður landsins Jón Daniesson bjó í Vogum og segir sagan að hann hafi af regin afli flutt til heljar bjarg sem nú er minnisvarði um hann og stendur við Vogaskóla. Flest fólk var á Vatnsleysuströnd um aldamótin eða tæplega 800 manns. Þar bjuggu þá fleiri en í Keflavík og Grindavík saman lagt. Í dag búa þar tæplega 700 manns.