Tag Archive for: Þingvellir

Þingvellir

Á Þingvöllum eru margar gamlar götur og stígar. Má þar nefna Tæpastíg, Langastíg, Leynistíg, Kárastaðastíg, Skógarkotsveg, Vatnskotsgötu, Veiðigötu, Sandhólastíg, Hrauntúnsveg, Leiragötu, Prestastíg, Kluggustíg o.fl.
SilfraÆtlunin er að feta nokkra þeirra og kíkja í leiðinni á nokkrar gjár, s.s. Silfru, Háugjá, Litlugjá, Hrafnagjá, Kolsgjá, Leiragjá, Brennugjá, Flosagjá, Snókagjá, Hvannagjá, Stekkjargjá, Almannagjá, Hestagjá, Lambagjá, Hrútagjá, Fjósagjá, Túngjá, Skötugjá, Kattargjá, Seiglugjá, Peningagjá, Nikulásargjá, Hellugjá, Sandhólagjá, Sleðagjá, Vallagjá, Söðulhólagjá, Hlíðargjá, Gildruholtsgjá, Bæjargjá og Gaphæðagjá.
Sprunguþyrpingar, þ. e. belti af opnum gjám og misgengjum, eru algengar í gosbeltum hér á landi, en finnast einnig á eldvirkum svæðum erlendis.
Almenn lýsing á öllum sprunguþyrpingum á íslandi er í grein Kristjáns Sæmundssonar (1978), en ítarleg lýsing á einstöku sprungusvæði er í grein Ágústs Guðmundssonar (1980) um sprungurnar við Voga á Vatnsleysuströnd. Jón Jónsson (1978) hefur einnig lýst sprungunum á Reykjanesskaga. Sprunguþyrpingar hér á landi eru allt að 20 km breiðar og 100 km langar. Flestar eru þó talsvert minni að flatarmáli, og almennt eru sprunguþyrpingarnar álíka að flatarmáli og rofnar gangaþyrpingar (Walker 1974).
FjosagjáÁ síðustu árum hafa umfangsmiklar rannsóknir farið fram á sprunguþyrpingunni við Kröflu (Axel Björnsson o. fl. 1979, Oddur Sigurðsson 1980, Torge 1981, Eysteinn Tryggvason 1980). Kröfluþyrpingin gliðnaði um nokkra metra á tímabilinu 1975-1983.
Gliðnunin er talin orsakast af göngum sem troðast lárétt inn undir þyrpinguna á nokkurra kílómetra dýpi (Páll Einarsson og Bryndís Brandsdóttir 1980, Pollard o. fl. 1983). Stundum ná þó gangarnir til yfirborðs og verða þá sprungugos. Utan íslands hafa sprunguþyrpingarnar á Hawaii einkum verið kannaðar og virðast að flestu leyti mjög áþekkar hinum íslensku (Duffield 1975, Pollard o. fl. 1983).
Thingvellir-123Sprunguaflfræði er vísindagrein sem hefur þróast ört á síðustu áratugum (Broek 1978). Beiting hennar í jarðfræði er þó nýtilkomin, en hefur þegar varpað ljósi á ýmsa þætti í myndun og þróun jarðsprungna sem áður voru óljósir (Rudnicki 1980). Enn er þó margt óskýrt, en aukin áhersla er nú
lögð á nákvæmar mælingar og tilraunir úti í náttúrunni ásamt athugunum á tilraunastofum (Logan 1979). Slíkar nákvæmar athuganir hafa meðal annars leitt til þess að menn gera sér nú betur grein fyrir því en áður, að allar jarðsprungur eru sundurslitnar eða ósamfelldar og því ber að fjalla um þær sem slíkar (Segall og Pollard 1980).

Thingvellir-124

Sprungumar á Þingvöllum eru hluti af mikilli sprunguþyrpingu sem kallast Hengilsþyrpingin (Kristján Sæmundsson 1978, Eysteinn Tryggvason 1982) og nær frá Langjökli í norðri til Reykjanesskaga í suðri. Þær sprungur sem hér verður rætt um liggja norðan við Þingvallavatn í um 9000 ára gömlu helluhrauni (Guðmundur Kjartansson 1964). Oft hefur verið talið að Þingvallahraunið sé frá Skjaldbreið. Svo mun þó ekki vera, heldur er það komið úr 15 km langri gossprungu á Tindfjallaheiði, vestan við Kálfstinda, og liggur það ofan á Skjaldbreiðshrauninu (Kristján Sæmundsson 1965). Þótt Þingvallahraunið sé úr gossprungu er það dæmigert helluhraun (dyngjuhraun), beltað og tuga metra þykkt, eins og best sést í veggjum Almannagjár.
Á undanförnum árum hafa margvíslegar jarðfræðilegar og jarðeðlisfræðilegar athuganir verið gerðar á Þingvallasprungunum, og verður helstu niðurstöðum lýst hér á eftir. Meginefni greinarinnar eru þó mælingar sem höfundur gerði á nokkrum af stærri sprungunum sumarið 1981 og tilgátur
um myndun og þróun þeirra.

Flosagja

Flosagjá er ein af megingjám Þingvalla með tæru vatni allt að 25 m djúpu. Á móts við þingið klofnar gjáin á löngum kafla og nefnist eystri kvíslin Nikulásargjá. Yfir hana var lögð brú 1907. Eftir það tóku ferðamenn að kasta 

smápeningum í vatnið fyrir neðan og smám saman var farið að kalla þann gjárhluta Peningagjá. Ekki er nein þjóðsaga tengd við Peningagjá en líta má á myntina í helköldu vatninu sem tákn um þá miklu auðlind sem vatnið er. Skötutjörn og Skötugjá eru framhald Flosagjár en Seiglugjá, Túngjá og Fjósagjá eru suður af Nikulásargjá. Silfra er litlu austar, að mestu sokkin í vatn. Um þessar gjár og víðar undan hrauninu rennur mesti hluti vatnsins sem myndar Þingvallavatn.
Jón Guðmundsson, Valhöll, sendi Bergmáli (Vísir 1954) eftirfarandi pistil: „Eg vil taka undir þau ummæli eftir Þingvelling, að leitt sé að hin fornu réttu nöfn haldist ekki á þessum stað. — Vil ég
leitast við að leiðrétta aðeins leiðan misskilning um Flosagjá. Nú er það svo að farið er að nefna Flosagjá Nikulásargjá og jafnvel „Peningagjá“. Í uppdrætti af Þingvelli er Nikulásargjá eða „Peningagjá“ nefnd gjáin, sem peningunum er kastað í.“

Almannagjá markar plötuskil Evrópuflekans og Ameríkuflekans að vestanverðu. Almannagjá er eitt þekktasta kennileiti Þingvalla og steypist Öxará niður í hana sem Öxarárfoss. Áður lá bílvegurinn frá Reykjavík til Þingvalla um Almannagjá en 1. nóvember 1967 var hún friðuð fyrir bílaumferð.

Songhellir„Bergskúti sá var í gjárbarminum eystri (Almannagjá), sem kallaður er (eða var) Sönghellir, sbr. uppdrátt B. G. og útgáfu hans í ísl. beskr. (við bls. 92—93). S. G. hefir ekki markað hann á sinn uppdrátt, en hann getur um hann (á bls. 56) í ritgerð sinni þannig: »Sönghellir í Almanaagjá hefir nafn sitt af því, að þegar stúdentar frá Hólum og Skálholti hittust á Þingvelli, þá reyndu þeir sig í söng í Sönghelli, en glímdu í Almannagjá (eftir sögn doctors Schevings 1861).« — Hleðslan er að sumu leyti vestur-hliðveggur, 3,80 m. að 1., að sumu leyti suðurgaflhlað, 2. m. Mátti vel tjalda hjer inn yfir bergið og gera allgott skýli.“

Öxará hefur mótað umgjörð þingsins frá upphafi. Í Haukdælaþætti Sturlungu segir að ánni hafi verið veitt í Almannagjá til þess að þingheimur hefði greiðan aðgang að vatni.

Thingvellir-125Reiðgötur á Þingvöllum  Prestagata eða Prestastígur lá um Lyngdalsheiði norður um Hrafnabjargarháls að Ármannsfelli. Skálholtsbiskupar fóru þessa leið er þeir héldu til sveita norðan Bláskógaheiðar eða til Maríuhafnar í Hvalfirði, sem var aðal höfnin á 14. öld. Götur þessar voru líka nefndar Biskupavegur eða Hrafnabjargarvegur. Til Maríuhafnar hafa menn farið fyrir norðan Stíflisdalsvatn og síðan Þrengslaleið niður með Laxá í Kjós en Maríuhöfn var nokkuð fyrir vestan þar sem Laxá rennur til sjávar.

Norðaustan í Hrafnabjörgum var eyðibýlið Hrafnabjörg. Það á fyrir svartadauða að hafa verið í miðri sveit en þá voru að sögn 50 býli í Þingvallasveit. Seinna taldi einhver ferðalangur leggja þar reyk upp frá 18 bæjum þarna. Um Þingvallasveit hefur verið sagt að þar sé afdalabyggð í alfaraleið.

Leið liggur hjá eyðibýlinu Hrauntúni á Þingvöllum og þaðan yfir akveginn skammt frá Þjónustumiðstöðinni og eftir fornum götum í Skógarkot. Úr Skógarkoti niður að Þingvallavatni þar sem heitir Öfugsnáði lá svonefnd Veiðigata. Við Ögugsnáða er í dag vinsæll veiðistaður, veiðist þar bæði murta og bleikja. Gamla þjóðleiðin um Langastíg inn af Stekkjargjá er einnig notuð af hestamönnum.

Thingvellir-126Á barmi Almannagjár austan Öxarár er lítil grjótvarða, sem er til merkis um merkan stað, því í ljós kemur, að þarna er skarð í gjárvegginn, og um hann liggur stígur niður í gjána. Stígurinn er lagður grjóti því um hann lá aðal leiðin að vestan og sunnan niður á Vellina. Frá fornu fari lá aðalleiðin meðfram vatninu að vestanverðu, en árið 1789 urðu jarðskjálftar á Þingvöllum, svo miklir, að vatnsbakkinn seig um alin (rúml. 60 cm) samkvæmt frásögn Sveins Pálssonar læknis. Þá fór þessi gata undir vatn og var ófær. Var þá reynt að komast með hesta niður Kárastaðarstaðastíginn, en hann var svo þröngur, að baggahestar komust ekki þar niður. Urðu menn þá að ríða hingað að skarðinu sem við erum stödd i. Þá var skarðið lagað og gert hestfært. Stígurinn heitir Langistígur.
Við göngum nú niður Langastíg og höldum suður gjána, sem heitir Stekkjargjá á þessum kafla. Brátt Thingvellir-127komum við að háum, klofnum kletti á hægri hönd. Þetta eru Gálgaklettar, en fyrrum var tré skorðað á milli þeirra, og þeir þjófar hengdir, sem dæmdir höfðu verið til lífláts á Alþingi. Nokkru sunnar við Gálgaklettar eru rústir af stekknum, sem gjáin er við kennd.

Frá Sleðaási, en hann er sunnanundir Ármannsfellinu, eru tröppur yfir þjóðgarðsgirðinguna stutt frá hinni gömlu skilarétt sveitarinnar, sem lauk hlutverki sínu fyrir alllöngu. Lagt er af stað eftir gömlu götunni að Hrauntúni, sem liggur skammt úti í hrauninu. Hlaðin varða vísar okkur rétta leið að götuslóðanum. Við röltum eftir henni í rólegheitum.
Innan stundar erum komið að túninu og bæjarrústunum. Fyrrum var hér allt fullt af lífi, búið myndarbúi og margt að sýsla. En nú er þetta allt horfið og túnið og rústirnar einar tala sínu máli. Túngarðarnir eru allir hlaðnir úr hraungrýti og sama er að segja um rústir íbúðar- og gripahúsa. Gaman er að skoða vatnsbólið, sem er í djúpri holu suðvestanvert við bæjarrústirnar.

Thingvellir-128

Eftir hæfilega dvöl í Hrauntúni leggjum við aftur af stað og nú göngum við suður hraunið í áttina að Skógarkoti eftir gömlu götunni milli bæjanna. Sunnarlega í túninu er skarð í túngarðinn. Við förum þar um og hittum um leið á götuna sem er skýr og greiðfær alla leið að Skógarkoti. Til gamans má geta þess, að í upphafi bílaaldarinnar skömmu fyrir 1930 var eina akfæra leiðin milli Suðurlands og Borgarfjarðar um Kaldadal að Húsafelli. Þá fóru bílarnir þennan veg, þótt ótrúlegt sé.
Nokkru áður en við komum að Skógarkoti förum við yfir veginn, sem lagður var þvert yfir hraunið frá Hrafnagjá að Völlunum í tilefni 11 alda afmælis byggðar á Íslandi. Þessi nútíma hraðbraut ætti að vekja okkur til nokkurrar umhugsunar um þær gífurlegu breytingar á samgöngum, sem hafa orðið á landinu á 20. öldinni, og ekki sér enn fyrir endann á.
Thingvellir-130Héðan frá þjóðveginum er stutt heim að Skógarkoti. Þar eru ummerkin mjög áþekk og í Hrauntúni, en þó hefur steinsteypan verið notuð hér við byggingu íbúðarhússins. Frá þessum stað blasir við hinn fagri fjallahringur sem umlykur Þingvallasveitina, og er sjálfsagt að gefa sér góðan tíma til að virða hann fyrir sér og rifja upp helstu örnefnin.
Thingvellir-129

Fyrrum lá þjóðleiðin að sunnan frá Vatnsviki (Vellankötlu) til Þingvalla fyrir neðan túnið í Skógarkoti. Um þessa fornu götu hefur margt stórmenni lagt leið sína í aldanna rás, en þekktastir og voldugastir voru feðgarnir og konungarnir Kristján 9. og Friðrik 8. Kristján kom sumarið 1874 og Friðrik sumarið 1907. Þeir fóru ríðandi austur að Gullfossi og Geysi og komu við á Þingvöllum í leiðinni. Gaman er að rifja upp frásögnina af komu Kristjáns. Það var mikið um að vera við Almannagjá 6. ágúst það ár. Um 1000 manns höfðu safnast þar saman til að halda þjóðhátíð. Bjuggu þeir í tjöldum.
Síðdegis þennan dag var von á konungi að austan og fylgdi honum hópur tiginna manna. Þegar konungsfylgdin nálgaðist var hraðboði sendur á undan til að flygja fundarmönnum fréttirnar. Stigu þá 12 mektarbændur á bak hestum sínum og riðu til móts við konung undir forystu Tryggva Gunnarssonar, síðar bankastjóra. Þeir mættu konungi fyrir neðan túnið í Skógarkoti og fluttu honum hollustukveðjur frá hátíðargestunum. Síðan riðu þeir fyrir konungsfylkingunni til baka á Þingvöll. Þá var ekkert gistihús til staðar, svo konungur var búinn næturstaður í Þingvallakirkju, sem þá var veglegasta húsið á staðnum.

Thingvellir-131

Þjóðvegurinn liggur niður á Leirurnar um svonefndan Tæpastíg Hvannagjár, sem er fyrir norðan veginn og Snjókagjár að sunnanverðu. Við göngum inn í norðurendann á Snókagjá. Þar eru lóðréttir hamraveggir til beggja handa en botn gjárinnar er víða vafirr gróðri. Hér er að finna rennisléttar flatir en þó þarf að klöngrast yfir stórgrýti á nokkrum stöðum, sem veldur töf. Þótt frá gjánni að veginum handan við gjárbarminn sé aðeins steinsnar, þar sem ys og þys umferðarinnar heyrist jafnt og stöðugt, erum við innilokuð í þessum klettasal í þögn og kyrrð.
Þessi mikla hraunsprunga liggur frá Þingvallavatni og allt norður að Ármannsfelli, misjafnlega breið og djúp. Hún heitir ýmsum nöfnum. Fyrir norðan veginn er Hvannagjá, sem fyrr er nefnd. Fyrir sunnan hana er Snókagjá, þá Stekkjargjá, Almannagjá, Hestagjá, Lambagjá og syðst er Hrútagjá, en hún er fyrir vestan og norðan Kárastaðanesið. Öll þessi nöfn minna á ákveðna starfsþætti þess fólks, sem fyrrum bjó og starfaði á Þingvöllum. Auk rústanna af stekknum í Stekkjargjá eru Gálgaklettar, aftökustaður þjófa, og vestur úr henni er Langistígur, sem við höfum skoðað áður. Í Almannagjá, fast við brúna, er Drekkingarhylur. Þar var sakakonum drekkt. Þannig minna næstum hvert spor sem við stigum, okkur á kafla Íslandssögunnar. Sumir þeirra vekja gleði og fögnuð, en aðrir þjáningar og tár.
Rétt áður en komið er að afleggjaranum heim að Þingvallabænum er grunn breið gjá á vinstri hönd. Heitir hún Brennugjá, því þar voru þeir menn brenndir á 17. öld, sem sakaðir voru um galdra. Eldsneytið var nærtækt, nokkrir hestburðir af hrísi úr Þingvallaskógi Gjárnar tvær eru hyldjúpar með kristalstæru vatni.
Brú er á Nikulásargjá og hafa Thingvellir-133margir haft þann sið að kasta smámynt af brúnni í vatnið. Hefur gjáin því oft verið nefnd Peningagjá. Þessi siður er ekki ýkja gamall. Nikulásargjá er kennd við Nikulás Magnússon sýslumann í Rangárvallasýslu sem drukknaði í gjánni á þingi árið 1742, en Flosagjá er kennd við höfðingjann Flosa Þórðarson frá Svínafelli í Öræfum, sem stjórnaði aðförinni að Njáli Þorgeirssyni og sonum hans á Bergþórshvoli og brenndi þá inni sumarið 1011. Árið eftir var þetta mál tekið fyrir, en þegar sættir tókust ekki með mönnum hófst bardagi. Hallaði á Flosa og menn hans. Segir sagan að Flosi hafi flúið undan óvinum sínum og á flóttanum hafi hann stokkið yfir gjána.
Frá Spönginni höldum við af stað áleiðis að bílnum og göngum eftir vestari barmi Flosagjár. Hún er víða hyldjúp og margra metra háir lóðréttir hamraveggir til beggja handa. Þetta minnir á, að hér þarf að fara að með gát því hrasi einhver og falli í vatnið er harla lítil von um skjóta björgun. Á móts við Stekkjargjá er haft á gjánni og þar var farið yfir gjána fyrrum þegar haldið var til Skógarhóla. Með þessum hætti röltum við áleiðis að bílnum.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Ágúst Guðmundsson: Sprungurnar á Þingvöllum og myndun þeirra, Náttúrufræðingurinn 56. árg. 1986, bls. 1-3.
-Mbl. 2. ágúst 1979.
-Mbl. 9. ágúst 1979.
-Mbl.16. ágúst 1979.
-Vísir, 10. sept. 1954 – Bergmál, bls. 4.

Flosagjá

Þingvellir – Flosagjá.

Þingvellir

Eftirfarandi texti eftir Matthías Þórðarson um búðartóftir á og við Þingvelli við Almannagjá, „Fornleifar á Þingvelli“, búðir, lögrjetta og lögberg, birtist í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1921-1922 og síðan aftur í Árb. 1941-1942. Textinn í fyrrnefndu greininni er 70 bls. svo einungis inngangurinn birtist hér til að leggja áherslu á tóftirnar, sem víða er að finna á og við hinn forna þingstað.

Logberg

„Eins og mörgum mun kunnugt, eru enn í dag sýnilegar allmargar búðarústir og tóttaleifar á Þingvelli, allar vallgrónar og lágar, sumar heillegar og greinilegar, aðrar mjög ógreinilegar. Enn fremur eru á hinum eystri barmi Almannagjár, rjett hjá búðatóttunum, leifar af mannvirki, er þar virðist hafa verið gert í sambandi við alþingishaldið, flatri upphækkun, sem af ýmsum fræðimönnum á síðustu öldum, Jóni Ólafssyni frá Grunnavík fyrstum, hefir verið álitin vera hið forna lögberg, eða eiginlega mannvirki, gert til umbóta á lögbergi svo sem það var frá náttúrunnar hendi. Niður undan þessari upphækkun, og þó litlu norðar, er útflatt, allstórt mannvirki, leifar lögrjettunnar, sem þar var bygð á 17. öldinni. Loks er á Spönginni svo nefndu, þar sem sumir nú um tveggja alda skeið hafa álitið lögberg hafa verið, og er hins vegar við sjálfan þingvöllinn, kringlótt upphækkun eða hringmynduð tótt og önnur ferhyrnd innaní; er þetta nefnt dómhringur (eða »dómhringar«), eða var nefnt svo til skamms tima að minsta kosti.
Thingvellir-137Sigurður málari Guðmundsson, höfundur Þjóðminjasafnsins, er einnig upphafsmaður fornfræðilegrar rannsóknar á Þingvelli, og hóf hann þær rannsóknir áður en safnið varð stofnað. Í brjefi til Jóns Sigurðssonar, líklega rituðu vorið 1863, kemst hann svo að orði um fyrstu upptök þessara rannsókna: »Árið 1860 fór eg til Geysis og skoðaði þá Þingvöll, og myndaði þar þá lögberg og fleira.
Síðan fór eg að fá eins konar áhyggjur út af því, að jafn-merkur staður í sögu landsins lægi þannig alveg órannsakaður, og skrifaði eg um haustið Guðbrandi (svo sem þjer víst hafið orðið varir við), og beiddi hann að komast eftir, hvort þar ytra væru til nokkrar upplýsingar um Þingvöll, en fjekk 13. október1 það svar, að þar væri ekkert til, því máli til upplýsingar. Eg hjelt þá, að enginn hugsaði neitt um það málefni, og fór eg þá um veturinn að rannsaka Þingvöll eftir sögunum*.
Thingvellir-138Vitanlega höfðu margir getið um Þingvóll og alþingishaldið þar í ritum sínum, svo sem sjá má t. d. í Landfr.s. Ísl.s, í ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar (á víð og dreif) o. fl. Tveir — þrír uppdrættir höfðu verið gerðir af Þingvelli; um einn sbr. Kálunds Ísl. beskr., L, 148, aths.; sá uppdráttur (mynd) er nú í vörzlum Þjóðminjasafnsins; og um annan sjá Ant. Ann. IV., bls., 450 (1827); er það uppdráttur, sem þjóðminjasafni Dana var gefinn 1824, en sá uppdráttur er nú ekki vís. — Sigurður málari hefir og getið þess í skrifum sinum, að Bjarni Thorsteinsson hafi átt mjög lítið kort af Þingvelli, en að lítið muni hafa verið á þvi að græða.
Thingvellir-139Eins og síðar skal vikið að nánar, lauk Sigurður málari ekki við rannsóknir sínar á Þingvelli eða rit sitt um hann; lá víst starf hans í þá átt mjög lengi niðri, sennilega 10 hin síðustu æviár hans; en ýmsu hafði hann safnað.
Síðan hafa ýmsir skrifað um Þingvöll. Einna fyrstur George Webbe Dasent, dálitla ritgerð, með uppdrætti, í I. b. af útleggingu sinni af Njáls-s., 1861, bls. cxxiii o. s. frv. Búðatóttunum hefir fæstum verið lýst nokkru sinni greinilega í ritgerðum um Þingvöll, en upphækkunina á gjárbarminum og mannvirkin á Spönginni, sem eru beint þar austurundan, 300 m. frá, rannsakaði Sigurður Vigfússon nokkuð með grefti og mældi, snemma sumars 1880; eru skýrslur um þær rannsóknir hans hið fyrsta, er ársrit þetta birti (Árb. 1880—81, bls. 8 o. s. frv.), enda gerðar að fyrirlagi Fornleifafjelagsins, sem hafði þá nýlega (8. nóv. 1879) verið stofnað, einmitt til þess fyrst og fremst, að fá framkvæmdar þessar og fleiri rannsóknir á Þingvelli.
Um leið rannsakaði S. V. 2 af hinum fornu búðatóttum, þær sem nefndar voru byskupabúð og Njáls-búð, og Thingvellir-139dálítið hina, Snorra-búð. í sambandi við skýrslur sínar um þessar rannsóknir, ritaði S. V. jafnframt um ýmislegt annað, viðvíkjandi Þingvelli og umhverfl hans, dró upp mynd af honum og jók nöfnum við á uppdrátt (»kort«), sem Björn Gunnlögsson hafði gert um 20 árum áður, 1861. Eftir að öll þessi 3 kort og 3 ritgerðir höfðu komið út, Kálunds og kort Björns 1877, S G. með korti hans (og B. Gr.) 1878 og S.V. með korti B. Gunnl, auknu af S. V. sjálfum 1881, varð aftur hlje á rannsóknunum á sjálfum staðnum, en almennt viðurkend niðurstaða ekki fengin í lögbergsmálinu.
Landmælingadeild herforingjaráðsins danska gjörði uppdrátt af Þingvelli árið eftir, 1908, og gaf hann út 1910; stærðin var 1 : 5000, miklum mun stærri en útgáfurnar af uppdrætti Björns Gunnlögssonar, (sem voru hluti af frumkortinu, 1 : 6912). Þessi nýi uppdráttur náði og yfir nokkru stærra svæði; jafnframt gerði landmælingadeildin uppdrætti af öllu umhverfinu og gaf út næsta ár (1909); voru það blöð af hinu stærra Íslands-korti hennar, stærðin 1 : 50000. Þessir uppdrættir eru vitanlega rjettir að því er mælingar og afstöðu snertir, en ekki með nægilega mörgum nje rjettum nöfnum á, og eiga þessi blöð að því leyti sammerkt við önnur blöð af þessum mikla lands-uppdrætti. — Á Þingvalla-kortinu eru flestar búðatóttirnar markaðar, en hvorki mannvirkið á gjárbarminum lægri fyrir norðan Snorra-búð, nje mannvirkin á hinu svonefnda Lögbergi, og að ýmsu leyti er kort þetta ekki nægilega nákvæmt til að sýna þennan margbreytta stað með öllum hans einkennum.
Thingvellir-143Í mörgum af fornsögum vorum og Sturlunga-sögu eru nefndar ýmsar búðir á Þingvelli, sumar austan ár, en aðrar vestan. Um enga þeirra er neins staðar tekið fram nákvæmlega, hvar hún hafi verið, svo nákvæmlega, að nú sje hægt að benda á staðinn, t. d. á búðartótt þar nú. Þó hefir Sigurður málari Guðmuudsson, eins og áður var drepið á, reynt að gera það í riti sínu um Þingvöll, bls. 9—27 (»búðir, eldri en Sturlunga tíð«) og 28—35 (»búðir Sturlunga«); reynir hann að ákveða, hvar búðirnar hafi verið, af frásögnunum, en einkum af katastasis Sigurðar lögmanns Björnssonar. Á uppdrætti sínum setur hann búðirnar með hinum fornu nöfnum, bæði þar sem nú sjást tóttir og þar sem nú verður á engan hátt sjeð, að búðir hafi nokkru sinni verið bygðar. — Björn Gunnlögsson setti
einnig samkvæmt katastaais Sigurðar Björnssonar, og líklega nokkuð eftir tillögum Sigurðar Guðmundssonar, fornbúðanöfnin sum á tóttir þær, er hann roarkaði á sinn uppdrátt.

Búðaskrá
Thingvellir-144Samanber meðfylgjandi uppdrátt af Þingvelli.
1. Búð Lýðs Guðmundssonar, sýslumanns í Vestur-Skaftafellssýslu 1755—1800.
2. Búð Jóns Helgasonar, sýslumanns í Austur-Skaftafellssýslu 1759—1798.
3. Búð Magnúsar Ketilssonar, sýslumanns í Dalasýslu 1754—1803.
4. Búð Guðmundar Ketilssonar, sýslumanns í Mýrasýslu 1778—1806.
5.—7. Óvíst hverra búðir. I Snorrabúð goða Þorgrímssonar. — Búð Sigurðar Björnssonar, lögmanns sunnan og austan 1677—1705, Sigurðar sonar hans, sýslumanns í Árnessýslu 1724—45, og síðast Magnúsar Ólafssonar lögmanns 1791 —1800.
10. Byrgi, tilheyrandi Snorra-búð að líkindum.
11.—12. Óvíst hverra búðir.
13. Búð Magnúsar Gíslasonar, lögmanns sunnan og austan 1732 — 1756; síðar amtmanns, sbr. amtmannsbúð, nr. 28. — Síðar mun Ólafur Thingvellir-145Stephánsson, seinna amtmaður og stiptamtmaður hafa tjaldað þessa búð, og loks dr. Magnús Stephensen, sonur hans, varalögmaður og lögmaður 1788—1800.
14. Búð Benedikts Þorsteinssonar, lögmanns norðan og vestan 1727 —1733.
15. Búð Þorleifs Nikulássonar, landþingsskrifara (1764—) 1780—1800. Önnurhvor var búð Odds Magnússonar, landþingsskrifara 1734—1738. Um hina er óvíst, hver tjaldað hafi.
18. (16. eða 17.) Búð Guðmundar ríka á Möðruvöllum (óvíst).
19. „Fógeta-búð“. Búð Povls Michaels Finne, landfógeta 1796—1804. Kann að hafa verið áður búð Skúla Magnússonar, landfógeta 1749—93.
20.—27. Óvíst hverra búðir. — Vatnsfirðinga-búð kann að hafa verið þar sem er 24. eða 25. búð, sbr. Njáls-s. og Laxd.-s.
28. Búð Christophers Heidemanns landfógeta, hlaðin ásamt 30. búð (amtmannsbúð) 1691, fyrstu búðirnar á síðari öldum. Um miðja 18. öld v
ar hér bygð „amtmannsstofa,, (— búð) úr timbri. — Hér á fyrrum að hafa verið búð Geirs goða.

29. Byrgi, sennilega tilheyrandi amtmannsbúð
30. Amtmannsbúð, bygð 1691 (sbr. 28. búð); fyrstur tjaldaði hana Christian Miiller amtmaður (d. 1720) og síðan eftirmenn hans fram á miðja 18. öld, er „amtmannsstofa“
var bygð (sbr. 28. búð). — Mosfellinga-búð (búð Gissurar hvíta) kann að hafa verið hér.
31. Búð Guðmundar Sigurðssonar, sýslumanns í Snæfellsnessýslu 1734—1753.
32. Búð Jens Madtzens Spendrups, sýslumanns í Skagafjarðarsýslu (1715—) 1718—1735.
33. Búð Bjarna Halldórssonar, sýslumanns í Húnavatnssýslu 1729—1773.
34. Búð Nikulásar Magnússonar, sýslumanns í Rangárvallasýslu (1727—) 1730 — 1742.
35. „Njáls-búð“, svo kölluð, en ekki er fullvíst, að Njáll hafi verið í henni.
36. Byskupa-búð, svo nefnd, eða Gyrðs-búð, eða Ogmundar-búð, kend við Gyrð Ivarsson, byskup í Skálholti 1349—1360, og Ogmund Pá!sson, byskup s. st. 1521 — 1542.
37. Byrgisbúð, á 11. og 12. öld; virki um, að því er virðist.

Þingstaðurinn forni á Þingvelli
Thingvellir-140Þau fimm ár, sem jeg var prestur á Þingvöllum, 1923—28, gekk jeg oft um þingstaðinn forna og var að hugleiða, hvar mestar líkur væru fyrir því, að »Lögberg« og »Lögrjetta« mundu hafa verið til forna, því að jeg var frá byrjun sannfærður um, að »Lögberg« var aldrei á þeim stað, sem nú er talið og merkt sem »Lögberg« á austurbarmi Almannagjár, norðan Snorrabúðar.
Það, sem fyrst benti mjer á, að sá staður væri vafasamur, var það, að tveir jafnmiklir fræðimenn og þeir prófessor Björn M. Ólsen og Matthías Þórðarson fornmenjavörður gátu ekki komið sjer saman um, hvar »Grýla«, búð Snorra Sturlusonar, sem byggð var samkv. Sturlungu: »upp frá Lögbergi«, stóð, og augljóst mál, að báðir höfðu á röngu að standa, ef farið væri niður til búðar þeirrar frá lögbergi, eins og þeir þó báðir telja, að hafi verið, er annar, Björn M. Ólsen, telur að Grýla hafi verið niður við á, fyrir neðan hallinn, en hinn, Matthías Þórðarson, að hún hafi verið niðri í gjánni, í vestur frá þessu svonefnda »Lögbergi«. Þeir virðast hafa slegið því föstu fyrirfram, að þessi staður á gjárbarminum eystra væri lögberg og orðið því í vandræðum með Grýlu.
Thingvellir-146Þetta mannvirki, sem nú er merkt »Lögberg«, segir M. P. að sje »langstærsta mannvirkið á hinum forna þingstað« (Árb. Fornl. fjel. 1921 — 22, bls. 80), en það er engan veginn rjett, flestar elztu búðaleifarnar virðast hafa verið eins stórar eða stærri, og mannvirkið milli Brennugjár og Flosagjár er til muna stærra. En það virðist hafa verið eitt með öðru, sem studdi að því, að M.Þ., vill telja þetta mannvirki á austurbarmi Almannagjár sem lögberg, að það var svo mikið mannvirki og erfitt að gjöra það, sem mjer virðist þó heldur benda í gagnstæða átt.
Við rannsókn Sigurðar Vigfússonar 1880 kom það í ljós, að í glufu undir þessu mannvirki fannst aska, og um það segir M.Þ. (Árbók, ’21 — 22, bls. 85): »mjer fyrir mitt leyti þykir líklegast, að þessi aska hafi verið borin þarna í glufuna til þess að koma henni frá einhverri búðinni, sennilegast frá Snorrabúð, sem næst var«, og er það án efa rjett á litið, nema því að eins, að þarna hafi staðið búð og askan sje frá henni sjálfri.
Thingvellir-146En hvort heldur sem er, þá er þessi aska sönnun þess, að lögberg hefur ekki verið þarna, þegar askan var flutt þangað. Það er vart hugsanlegt, að neinn maður hefði látið bera öskuna frá búð sinni á jafn-helgan stað sem lögberg var og fleygja henni þar, enda mundu höfðingjarnir hafa unað því illa, að sitja í öskuryki á lögbergi, ef vindur bljes. En hafi búð staðið þarna, er mannvirkið leifar hennar en ekki lögbergs.

Lögberg og lögrjetta

Það virðist ætla að verða erfitt, að sannfæra suma menn um það, að lögberg hafi verið þar á þingstaðnum forna við Öxará, sem Jón Ólafsson frá Grunnavík benti á og lýsti, og kvaðst álíta, að það hefði verið, bergið með áhleðslunni miklu á gjárbakkanum norðan við Snorrabúð.

Thingvellir-147

Að sönnu hefir mikið af því, sem ritað hefir verið um það, hvar lögberg hafi verið á þingstaðnum, snúizt um það, að sýna fram á, að það hafi ekki verið austan Öxarár, og því ekki á Spönginni, heldur vestan árinnar, enda mun það hafa á unnizt, að menn eru farnir að sjá sannleikann í þessu efni. Hitt sýnist þar á móti ekki hafa gengið í suma menn enn þá, að lögberg hafi verið þar, sem Jón frá Grunnavík áleit, og nokkrir aðrir fræðimenn á síðasta fjórðungi síðustu aldar og fyrsta fjórðungi þessarar. Því var það, er alþingishátíðin var haldin, að lítilfjörleg klettsnös í Hamraskarði var tekin til að vera hið forna lögberg, að því, er virtist; stóðu ræðumenn þarna og sneru bakinu að deginum og hinum forna þingstað, en áheyrendum var troðið ofan-í Almannagjá, svo mörgum, sem þar komust fyrir, og þar sem þeir að sjálfsögðu hefðu lítið eða sem ekkert heyrt til ræðumanna flestir, ef ekki hefði verið talað hátt og í »gjallarhorn«.
Thingvellir-148Geta menn nú sjeð, hversu eðlilegt það var, að einmitt næsta sumar, »anno 1504, samtóku allir þingmenn lögrjettuna að færa í annað pláss við 0xará, með kongs leyfi,« sem höfuðsmaður sjálfur vissi, að þeir höfðu fengið fyrir rúmum 30 árum, 1563. Ekki hvað sízt var það eðlilegt, ef lögrjettan hefur allt til þessa verið á sínum forna stað, og hann orðinn hólmi af vatnagangi. Það hefur ekki verið þægilegt að sitja þar, stundum í misjöfnu veðri, ef til vildi, og enginn furða, að reynt yrði að komast af með 1 dag eða 2 til þinghaldsins.
Eftir að notkun lögbergs lagðist niður, þingtíminn styttist og hætt var að tjalda hlaðnar búðir á Þingvelli, hefir þinghaldið farið fram í lögrjettu og þingmenn hafzt við nálægt henni, austan ár, tjaldað þar á völlunum og fyrir norðan ána, undir hallinum og uppi í Almannagjá. En eftir að lögrjetta var flutt vestur fyrir á, hefir þinghaldið farið fram þar og þingmenn flestir hafzt þar við, — síðustu 2 aldirnar, — þótt hina fyrri þeirra yrði lítið um löng þing og búðabyggingar, meðan lögrjetta var ekki heldur tjölduð.
En Thingvellir-149tvent var það, sem látið var fara fram mjög nálægt hinum gamla lögrjettustað austan ár, og benda örnefnin Brennugjá og Höggstokkseyri, nyrzt á hólmanum framundan mynni hennar, á það. Þegar jeg ritaði greinina um lögrjettuna í Árb. 1921—22, bls. 70—80, þótti mjer ekki næg rök til að halda þeirri skoðun fram, að hún hefði ekki verið færð nema einu sinni, þar eð sumt, sem þá og nú var getið, benti til, að hún hefði verið flutt tvisvar að minnsta kosti. En eins og þær athugasemdir, er hjer hafa verið settar fram, bera með sjer, virðast mjer nú allmiklar líkur til þess, að lögrjetta hafi verið færð að eins einu sinni, — svo sögur fari af, sumarið 1594. Apríl 1942. M.Þ.

Búðaskrár Jóns prófasts Steingrímssonar
Skrifaðar af honum sjálfum í bók þá, sem nú er í handritasafni Landsbókasafnsins nr. 574, 4to. Um búðastæði á alþingi við Öxará, fornaldarmanna, sem landsins sögur og annálar um geta. Þeim til Thingvellir-149fróðleiks og gamans, er það girnist að sjá eða heyra. Heimskur er sá, að öngu spyr. Flosabúð var norður lengst fyrir vestan ána, við fossinn í Öxará. Þorgeirs Ljósvetninga[-goða] búð þar vestar með hallinum. Snorra goða búð var þar, sem hún enn nefnist og stendur.
Guðmundar ríka [búð] næst Þorgeirs Ljósvetninga[-goða] búð, fyrir vestan ána. Áður var hans búð fyrir norðan ána, nærri því gamla lögbergi.  Eyjólfs Bölverkssonar biíð var á hól fyrir sunnan Snorrabúð, að stefna á Þingvelli.
Gissurs hvíta búð þar fyrir vestan; en næst fyrir norðan Heedemannsbúð var Geirs goða [búð].
Ásgríms Elliða-Grímssonar [búð] var norðar upp með gjánni, mótsvið Geirs goða búð.
Höskuldar Dala-Kollssonar búð var milli árinnar og Oeirs goða búðar.
Egils Skalla-Grímssonar [búð] milli Geirsbúðar og Hjalta Skeggjasonar [búðar].
Flosi hafði áður búð fyrir austan ána, skammt frá Síðu-Halls búð, sem síðar var Ogmundarbúð, [fyrir] vestan traðirnar á Þingvallatúni.
Thingvellir-150Lögbergið er fyrir austan ána; eru þar vatnsgjár á báðar síður.
Fyrir austan lögrjettutóftina á þvt er svo-kallað Flosahlaup yfir austari er einstigi að búð Skafta lögmanns Þóroddssonar, Markúsar Skeggjasonar og Gríms Svertingssonar.
Suður lengst með ánni, móts-við Þingvelli, stóð Njálsbúð, nærri ánni, fyrir sunnan Gissurs hvíta búð, [og] Rangvellinga [búð].
Marðar gígju búð [var] út-með berginu, fyrir ofan og vestan Gissurs hvíta búð.
Þá kristnin var í lög tekin, var lögrjettan færð á hólmann í ánni, en aftur þaðan færð í tíð Þórðar Guðmundssonar lögmanns og Jóns Jónsssonar vestur-yfir ána, í þann, stað, hvar hún hefur síðan verið.
Kross-skarð, sem næst er fyrir norðan Snorrabúð, þess hæð er eftir Ólafi kóngi Tryggvasyni og Hjalta Skeggjasyni. Hleðslan, sem þar er á milli á gjábarminum, var áður fjórðu[n]gsdóma-þingstaður. Menn kalla nú það pláss Kristna-lögberg.

Um búðastæði nú á alþingi, 1783

Þingvellir

Búð á Þingvöllum.

Eftir siðaskiptin aflögðust allar þær fornu búðir fyrir utan Snorrabúð, er sagt er ætíð hafi haldizt við lýði. Brúkuðu þá landsins yfirvöld sín tjöld allt fram á þessa öld, 1700, svo 1730 voru allfáar búðir á alþingi, en síðan hafa þær árlega fjölgað, og það í þeim stað, er þær voru ei til forna, sem er í svo-kallaðri Almannagjá, fyrir vestan og ofan hallinn, sem fornar sögur ei um geta. Mun þar þá ei hafa verið því-Iíkt graslendi í gjánni, sem það er nú. Þessar eru nú búðir í gjánni: Næst fyrir vestan fossinn í g[j]ánni, undir austara berginu, er búð og tjöld sýslumanna úr Skaftafellssýslu. Þar yfir-af og undir vestara berginu búð sýslumanna úr ísafjarðarsýslu. Þar næst undir austara berginu búð sýslumanns úr Barðastrandar-og Dala-sýslu. Par fyrir sunnan, frá uppgöngu fógetabúðar, er búð sýslumanns úr Rangárþingi, en syðst, fyrir vestan stíg frá Snorrabúð, stendur búð sýslumanns úr Þingeyjarsýslu. Þar sem Flosabúð var, við fossinn, er nú fógetabúð. Þar næst var lögmannsins búð, sem þjenaði að sunnan og austan á landinu. Þar til [forna] var Þorgeirs Ljósvetninga[goða] búð. En þar [sem varalögmanns búð]in nú stendur, var búð Guðmundar ríka. En þar sem að [var] búð Eyjólfs Bölvekssonar, má um tvíla, hvort heldur er landþings[sk]rifara búð, á hól fyrir austan götuna að Þingvöllum, eður stift[am]tmanns, sem er fyrir vestan sömu götu. Þar Gissurs hvíta búð var, er nú amtmannsins búð. Þar Geirs goða búð var, er nú [bú]ð sýslumanns úr Árnessýslu. Í Snorrabúð sýslumenn [úr] Mýra- og Borgarfjarðar-sýslu. Þar. Ásgrímur Elliða-Grímsson var, hafa sýslumenn úr Múlasýslu sinn aðsetursstað, og enn ofar í Hallinum sýslumaðurinn úr Kjósar- og Gullbringu-sýslu.
Höskuldar Dala-Kollssonar er nú sýs[!]umanns úr Strandasýslu. Njálsbúð tjaldar sýslumaður Skagafjarðarsýslu og klaust[ur]haldari þaðan. En Marðar gígju sýslumaður úr Húnavatnssýslu, nú síðast sá nafnfrsegi Bjarni Halldórsson. —
En fyrir austan ána eru aflagðar allar búðir. Eru þar hjer og þar tjöld geistlegra manna. Þar sem Síðu-Halls-búð var, standa nú biskups tjöld. Undir Thingvellir-153berginu að vestanverðu, þar sem a[ð] stóðu búðir Skafta, Markúsar og Oríms, eru tjaldstæði prófasta úr Skaftafells- og Barðastranda[r]-sýslum, en framar, á hólmunum, prófasta úr Gullbringu- og Rángárvalla-sýslum. En hinir aðrir, sem ei fá sjer verur á Þingvöllum, þar í heimahúsum, eru hjer og þar inn-á flötunum fyrir norðan ána, í svo-kölluðum Prestakrók, og þeim megin, næst við fossinn, eru svo-kölluð fálkafangaratjöld og bókaseljara frá Hólum.“
Af framangreindu má sjá að aldur og staðsetning einstakra búðatófta eru einungis getgátur. Full ástæða væri til að gera rannsóknaráætlun á öllum búðunum 37 (50) m.t.t. aldursgreiningar og staðfestingar á tilvist þeirra – svo langt sem það næði.

Thingvellir-160

Á skilti við Snorrabúð (vestan Lögbergs) á Þingvöllum eru m.a. eftirfarandi upplýsingar um búðir: „Hér er það Snorrabúð sem staðið er við, kennd við Snorra Þorgrímsson goða en hún er ein sýnilegasta búðatóftin á Þingvöllum. Hana nýttu sýslumenn Árnesinga á síðari öldum en búðin vakti einnig athygli þjóðskáldsins Jónasar Hallgrímssonar (1807-1845) þegar hann orti ljóðið Ísland. Jónas vissi að hinn forni þingstaður hefði mátt muna sinn fífil fegurri.
Uppgrónar tóftir finnast víða á Þingvöllum en þær voru híbýli þinggesta í þær tvær vikur sem þing stóð á hverju sumri. Búðatóftir og tóftabrot munu vera um fimmtíu talsins á svæðinu og finnast meðfram bakka Öxarár beggja vegna árinnar og með brekkunni inn að Valhöll.

Thingvellir-161

Búðir voru iðulega reistar á grunni eldri búða og því eru flestar búðarústir, sem sjást í þinghelginni, frá seinustu tveimur öldum þingsins, 17. og 18. öld. Erfitt er að geta til um nákvæmt byggingarlag búða á Þingvöllum. Þó má telja líklegt að veggir hafi verið hlaðnir úr torfi og grjóti og síðan reist timburgrind sem yfir var tjaldað með teppum eða vaðmáli. Lítið er vitað um búðir þjóðveldisaldar en lýsingar ritheimilda gefa tilefni til að þær hafi oft verið nokkuð miklar að umfangi. Víða stóðu búðir þröngt í þinghelginni og er stundum fjallað um „búðasund“ í heimildum.
Í lagasafninu Grágás og Íslendingasögum má finna ýmsar hugmyndir um stærð og notkun búða, m.a. að goðar skyldu tjalda búð þvera með vaðmáli og að þeir skyldu sjá þingmönnum sínum fyrir rými í búð. Þeir sem erindi áttu á þing munu einnig hafa reist sér margvísleg skýli, hreysi og tjöld á meðan þeir heimsóttu þingið. Búðir síðari alda hafa að öllum líkindum verið minni að umfangi en búðir þjóðveldistímans enda störf Alþings þá takmörkuð við dómsstörf.“
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild:
-Matthías Þórðarson, Fornleifar á Þingvelli. Búðir, lögrjetta og lögberg, Árbók HÍF 1921-1922, bls. 1-7.
-Guðmundur Einarsson: Þingstaðurinn forni á Þingvelli. Árbók HÍF 1941-1942, bls 34—39.
-Matthías Þórðarson: Lögrjetta og Lögberg. Árbók HÍF 1941-1942, fylgiskjöl: Búðaskrár Jóns prófasts Steingrímssonar. (Hjer með mynd, búðaskrá og kort), bls. 40—68.
-Skilti við Snorrabúð á Þingvöllum.

Þingvellir

Þingvellir – búðartóft.

Brúsastaðarétt

  Gengið var um fornjarðir Þingvallabæjarins, Grímastaði og Bárukot. Grímastaða er getið í Harðarsögu Hólmverja.
Tóftir BárukotsRústir þessara fornjarða voru friðlýstar árið 1927, en í dag vita fáir hvar þær er að finna.
Ætlunin var að fara yfir Öxará á Norðlingavaði, út með Brúsastaðabrekkum, upp í Grímasgil og síðan niður með Grímagilslæk og inn á fornra þjóðleið er lá um hlaðið á Bárukoti og Brúsastöðum, en eftir að rætt hafði verið við Ragnar, bónda á Brúsastöðum, var talið, vegna vatnavaxta í Öxará, áreiðanlegra að fara áleiðis upp að Svartagili frá Skógarhólum og þaðan yfir Grímagilslæk við Biskupsbrekkur, inn á hina fornu þjóðleið og fylgja henni síðan áleiðis að Norðlingavaði. Við hana ættu tóftir Bárukots að vera. Skv. kortum átti þær að vera við reiðgötu nokkru norðar.

Bárukot

Bárukot – uppdráttur ÓSÁ.

Heimatúnið og svæðið næst Brúsastöðum er fyrir margra sakir áhugavert. Í örnefnalýsingu fyrir bæinn segir m.a.: „Þá er komið upp að túni, upp að Trausta. Trausti er hóll eða hæð, sem rís framan við gamla bæinn á Brúsastöðum og liggur inn í túnið.  Haraldur hefur heyrt, að Jóhanna, amma Guðbjörns á Kárastöðum, hafi nefnt hæðina þetta, því að hún hafi alltaf vitað, hvar börnin voru, þegar þau voru þar að leika sér. Hóllinn hækkar í landslaginu, er mishár, en hæstur rétt austan við bæinn.  Hann nær inn að á og heitir Trausti alla leið.  Vestasti partur Trausta heitir Goðhóll.
Það er ekki gamalt nafn.  Þegar Halldór Einarsson (?) bjó á Brúsastöðum, var hesthús á hólnum, en var lagt niður. Reiðhestur frúarinnar var grafinn i hesthúsinu með öllum tygjum.  Hesturinn hét Goði, og fékk hóllinn nafn af honum.
Þar fyrir vestan, þar sem vegurinn lá heim, er Hádegisholt, eyktamark frá Brúsastöðum.  Það er endinn á Djúpugrófarásnum.  Klukkan var tólf, þegar sólin var yfir Hádegisvörðu á holtinu.  Varðan er nú horfin.
Túnið:  Túninu hallar niður í smálægð.  Þar er gamalt Hof, sem ekki mátti hreyfa við.  Það var ekki gert, og er þetta eins enn, hringmyndaður þúfnaklasi.  Matthías Þórðarson gróf þarna í eitt sinn. Þar fyrir ofan er Friðhóll, bungumyndaður hóll. Neðst í honum stendur bærinn.  Hóllinn er mjög sléttur að ofan og hefur líklega þótt „friður“.  Fyrir ofan Friðhól er laut og hóll þar fyrir ofan.  Utan í honum myndast falleg, slétt flöt.  Það er upp-hækkun, eins og hlaðið, myndað af framburði lækjarsprænu.  Þarna voru kvíar.  Haraldur sat yfir ám bæði uppi í fjalli, uppi í Dokkum, og niðri á  hrauni.  Hann man ekki nákvæmlega, hvenær hætt var að færa frá, en hann hefur líklega verið kominn undir fermingu þá.“

Þjóðleiðin um Norðlingavað - framhjá Bárukoti

Þegar komið var að reiðgötuna frá Skógarhólum (við hlið hennar liggur malarslóði) var henni fylgt spölkorn til vesturs. Þá blöstu við tóftir á hægri hönd, norðan bakka Grímagilslækjar. Reyndust þar vera heillegar tóftir veglegs kots. Það hefur verið reist á berangri, að því er virtist, en eflaust hefur svæðið allt verið skógi (í það minnsta kjarri) vaxið er það var byggt. Burstir hafa verið þrjár mót suðri, sú austasta með hurð, en hliðarburstirnar tvær einungis verið hálfgaflar með glugga. Veggir standa og vottar fyrir hleðslum. Sex rými hafa verið í kotinu og gerði eða garður vestan við það. Líklega hefur baðstofan verið innst, en svefnrými vinnufólks vestast.
Skammt sunnan við tóftirnar er hlaðinn lítill stekkur. Bendir hann til þess að þarna hafi verið geitur?
Ferðalangar á leið austur að Skógarhólum (Múlakoti) er fóru yfir Öxará héldu um Norðlingaveg framhjá þessu eyðibýli, Bárukoti, og um Leynistíg til Alþingis, en Leynistígur er rétt hjá rimlahliðinu á Þjóðgarðsgirðingunni skammt frá Skógarhólum, nema farið hafi verið um Langastíg og Stekkjargjá, sérstaklega ef menn voru einhesta. Bárukot mun ekki hafa verið í byggð síðan á 17. öld og þá aðeins í 8 ár. Þar þótti þó sæmilegt túnstæði, enda bera ummerkin þess dæmi.
Stekkur við BárukotSkammt suðvestar er mikil hlaðin rétt. Ekki er að sjá að hennar hafi sérstaklega verið getið í örnefnalýsingum eða öðrum heimildum. Ekki heldur annarri rétt, mun minni og eldri, skammt vestar. Fjallað verður um hana hér síðar.
Ragnar hafði sagt þessa rétt hafa verið hlaðna árið 1908. Hún hefði þjónað bæjunum í vestanverðri sveitinni. Þegar réttin í Skógarhólum hafi verið hlaðin eftir 1930 hafi þessi rétt lagst af að mestu. Skógarhólsréttin hefði leyst af Þingvallaréttina (Hrauntúnsréttina) undir Sleðaási ofan við Bolaklif. Þangað hefðu Borgfirðingar o.fl. sótt fé sitt, en þegar þjóðgarðurinn á Þingvöllum var stofnaður árið 1930 hefði þjóðgarðssvæðið verið girt af og réttin þá lagst af. Hún væri mun eldri en aðrar réttir í Þingvallasveit.
Nafnlausa réttin undir suðvesturjaðri Biskupsbrekkuhrauns er stór og nokkuð heilleg. Hún var hlaðin á sléttri hraunhellu og hefur undirstaðan því verið góð. Stórt gerði er vestan réttarinnar. Sjálf telur réttin 10 dilka með úrdráttarhólfi í miðjunni.
GrímasgilStefnan var tekin upp í Grímasgil.
Í heimildum er gerð grein fyrir hjáleigum í landi Þingvalla, eins og t.d. Vatnskoti, Hrauntúni, Skógarkoti og Svartagili. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín, sem samin hafði verið á árunum 1706-1711, segir að hjáleigurnar hafi verið byggðar úr landi Þingvalla og að afréttur hafi til forna verið brúkaður í Skjaldbreiðarhrauni. Af öðrum ummælum í jarðabókinni nefnir stefnandi að um hjáleiguna Vatnskot segi: „Haga á jörðin í betra lagi mikla og góða. Útigangur á vetur er hjer góður og er hverki sauðfje nje hestum fóður ætlað.“ Um hinar hjáleigurnar sé vísað til þess sem ritað var um Vatnskot. Í jarðabókinni segi jafnframt að Þingvellir hafi átt afrétt á „ … Skjaldbreiðarhrauni en hefur ekki verið brúkaður yfir 40 ár, lætur nú presturinn brúka fyrir afrétt Ármannsfell, Kvíindisfell og Gagnheiði“. Í jarðabókinni og sóknarlýsingu Þingvallasóknar sé að auki getið um fjölda annarra hjáleigna og eyðibýla, sbr. t.d. Fíflavelli, landsuður undir Skjaldbreið, Ölkofra, Þórallarstaði, Múlakot eða Mosastaði, Grímastaði, Bárukot og Þverspirnu.
Gamla réttinGrímastaðar er getið í Harðarsögu Hólmverja, en ekki er vitað hvar tóftir bæjarins gætu verið. Í Jarðabókinni 1703 segir: „Grimastader heitir hjer eitt örnefni, sem meinast bygt hafa verið fyrir stóru pláguna, en aldrei eftir hana; sjer hjer sumstaðar til garðaleifa og rústa, sem meinast verið hafi bæði túngarður og veggleifar, og vita elstu menn ekkert framar hjer um að segja. Á flötum nokkrum skammt fyrir neðan þessa Grímastaði er annað örnefni, kallað af sumum Bárukot, en af sumum Þverspirna, nokkrir hafa kallað þetta örnefni Fótakefli.“
Bóndinn á Brúsastöðum hafði sagst mikið hafa leitað að hugsanlegu bæjarstæði Grímastaða. Hann taldi sig nú vita hvar það væri að finna, undir hlíðunum langleiðina að Ármannsfelli. Nánari vísbendingu var ekki að fá. Ljóst er að gönguleiðin frá Langastíg um Leggjabrjót liggur um Kerlingarhraun og yfir smálæk sem kenndur er við Grímsgil. Einhversstaðar nálægt þessari litlu sprænu er talið að býlið Grímsstaðir hafi staðið. Í annarri heimild segir að „engar sjáist þar rústir nú“. Í Harðarsögu segir, að Grímur litli hafi keypt land „suður frá Kluptum, er hann kallaði á Grímsstöðum“. Sonur Gríms hét Geir. Grímur ól upp Hörð Grímkelsson, fóstbróður Geirs. Samkvæmt sögunni áttu þeir kappar sín bernskuspor á þessum slóðum.
Gamla réttin að sumarlagi - SGÞegar svæðið neðan undir Grímasgili var skoðað komu í ljós tveir staðir, sem gætu komið til greina að hafa hýst skála fyrrum. Austari staðurinn, nær Grímasgilslæk, virtist öllu sennilegri. Þar virðist, með góðum vilja, móta fyrir skálatóft, ofan mýrlendis sem þarna er neðanvert. Mögulega mótar þarna fyrir garðhlutum efra, en óljóst þó. Ekki verður gengið úr skugga um hvort þarna hafi verið bæjarstæði á 10. öld nema að undangengnum rannsóknaruppgreftri, sem vel væri til vinnandi. Leitað var eftir mögulegum minjaleifum ofar í gilinu, en án árangurs.
Fornminjar á Þingvöllum voru friðlýstar árið 1927, og þá sennilega að gefnum tilefnum. Að því tilefni sagði m.a.: „
Friðlýsingar fornminja: Þingvellir. 1. Þingbúðarústir allar og allar aðrar fornleifar og gömul mannvirki á hinum forna
alþingisstað, beggja vegna Öxarár. Sbr. Árb 1921-1922: 1-107. 2. Rústir allar þar sem verið hafa forðum býlin Grímsstaðir, Bárukot, Múlakot, Litla-Hrauntún, Ölkofrastaðir og enn eitt, norðvestanundir Hrafnabjörgum. Sbr. Árb. 1880-1881: 22, 98. Skjal undirritað af MÞ 05.05.1927. Þinglýst 07.09.1927.“
Veggur í BrúsastaðaréttinniGengið var til vetsurs af mögulegum Grímastöðum og þar upp á melhól. Á honum var hálffallin varða. Neðan hólsins var hestagata. Henni var fylgt inn á Biskupsbrekkuhraunið. Á ysta rana þess hafði verið rofið haft til að létta á leysingarvatni í mýrlendinu ofanvert við það. Skammt vestar var hin fyrrnefnda gamla rétt, að mestu nýtt úr hraunsprungu, en hlaðið um betur á nauðsynlegum stöðum. Norðan úr inngangnum var hlaðinn leiðigarður. Þarna hefur líklega verið rúningsrétt fyrrum – þótt hún hafi nú fallið í gleymsku, eins og svo margt í og við þjóðgarðinn. FERLIR hefur áður getið þess að mikilvægt væri að staðsetja og merkja merkilegar minjar í og við þjóðgarðinn á Þingvöllum. Ef þær yrðu gerðar aðgengilegar og um leið eftirsóknarverðar myndi lifna svo um munar yfir áhuga á svæðinu. Hingað til hefur þjóðgarðsnefndin allt að því sofið þyrnarrósarsvefni í þessum efnum.
Þjóðgarðurinn á Þingvöllum var stofnaður með lögum Skeifa við gömlu þjóðleiðinaárið 1930. Í lögunum segir að Þingvellir við Öxará skuli vera friðlýstur helgistaður allra Íslendinga, hið friðlýsta land skuli ævinlega vera eign íslensku þjóðarinnar undir vernd Alþingis og landið megi aldrei selja eða veðsetja.
Friðun Þingvalla átti sér aðdraganda. Í upphafi 20. aldar tóku að berast til Íslands fregnir um stofnun þjóðgarða í Bandaríkjunum. Þar voru augljósar þær hraðfara breytingar sem urðu á náttúrunni þegar Evrópubúar lögðu landið undir sig. Í þjóðgörðunum voru stór, óbyggð svæði tekin frá og friðuð og fólki hvorki leyft að nema þar land né nýta náttúruna á annan hátt en að ferðast um landið og njóta þess.
Hér á landi var bent á að mikilvægt væri að vernda einstaka náttúru- og sögustaði svo að komandi kynslóðir gætu notið þeirra óraskaðra. Fljótlega beindist umræðan að Þingvöllum sérstaklega og þeirri hugmynd að þar yrði stofnaður þjóðgarður, sem fyrr segir.
Í framhaldinu var litið á Múlakot í Skógarhálsum undir Ármannsgili í Ármannsfelli og síðan Þingvallaréttina fyrrnefndu. Austan í Básum, skammt undan réttinni er Grettissteinn er nefndur var til samnefndrar sögu. Steinninn er ferhyrningslaga og hið ákjósanlegasta tilefni til að staldra við á góðum degi og rifja upp kafla í Grettissögu. Í dag er steinninn, eins og svo margt annað í þjóðgarðinum, hulið þagnarhjúpi.
Frábært veður. Gangan tók 
2 klst og 2 mín.
Þingvallarétt
Heimildir m.a.:
-Örn H. Bjarnason.
-Þingvellir.is
-Örnefnalýsing fyrir Brúsastaði.
-Kjalnesingasaga.

Þingvallarétt

Þingvallarétt.

Hrauntún

Sigurveig Guðmundsdóttir skrifaði um Hrauntún á Þingvöllum í Lesbók Morgunblaðsins árið 1984. Þar lýsir hún m.a. Hrauntúnsbænum.
Hrauntun-baerinn„Það var orðið kvöldsett, bjart yfir fjöllum og bláleit sumarmóða brá undursamlegri mýkt yfir umhverfið. Túnið fyrir innan garðinn var allt í mjúkum öldum þar sem hraunhólarnir lágu undir grassverðinum.

Mitt í þessu fagra ilmandi grængresi reis bærinn Hrauntún, hlýr og vinalegur eins og torfbæir einir gátu orðið. Tvær burstir sneru til suðurs fram á hlaðið og bæjargöngin á milli. Baðstofan var með einum sexrúðu glugga á stafni og tveggjarúðu glugga til vesturs. Stofan var meðþrísettum glugga og klædd bárujárni.
Baðstofan með eldhúsið og fjósið afturaf var allt klætt torfi. Vandlega hlaðin stétt úr hraunhellum var fyrir framan bæinn. Hlaða, fjárhús og skemma með þvottahjalli lágu við heimtraðirnar sem lágu í norður í átt að Ármannsfelli. Þrennir fjárhúskofar voru dreifðir um túnið. Austur af túninu var afgirt gerði sem notast var við sem kúahaga. Brunnhola var vestan undir baðstofuveggnum. Var þar sæmilegt drykkjarvatn þó að vatnsmagnið væri lítið. Þegar þvottar voru þvegnir í Hrauntúni varð að fara niður á Leirur og þvo við lækinn sem þar rennur enn. Þar voru hlóðir og þar við soðinn þvotturinn.

hrauntun-gardur

Framan við bæinn var kálgarður með grónum vallargarði í kring. Allt var þarna með hinum mesta snyrtibrag, hver hlutur á sínum rétta stað. Upp við bæjarvegginn reis sleggja gerð úr blágrýtishnullungi með gati sem stungið var í vænum birkilurk. Þetta var fisksleggja. Mamma barði að dyrum og út kom dökkhærður maður lágvaxinn með yfirskegg, léttur í hreyfingum og alúðlegur. Þetta var Halldór sonur Jónasar bónda sem bjó hjá föður sínum. Þeir voru menn ekki líkir.
Halldór fylgdi okkur inn göngin. Hurð lá inn í stofuna til hægri og önnur hurð inn í geymslukompu þar innar af. Gengið var upp tvö þrep inn í baðstofu til vinstri en í eldhús og fjós fyrir enda ganganna. Í baðstofu voru fjögur rúm. Jónas bóndi svaf næst glugga og var borð undir glugganum. Lítil bókahilla, full af rímnakverum og riddarasögum, var yfir fótagafli á þili.
Okkur mæðgum var vísað á rúmið gegnt rúmi bónda. Aftur af okkar rúmi svaf Bjarni Gíslason vinnumaður og Halldór gegnt honum. Ofurlítil kabyssa og tvær hillur fyrir bollapör og diska voru í hinum enda baðstofu.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 22. desember 1984, bls. 40 – Sigurveig Guðmundsdóttir.

Hrauntún

Hrauntún – loftmynd.

Þingvellir

Fjölmargar fornar leiðir liggja um Þingvöllu – allt frá fyrstu tíð til þessa dags. Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1880-1881 er m.a. fjallað um hinar fornu götur að og frá Þingvöllum fyrir þá tíð:

thingvellir-oxararfoss

„Eitt af því, sem þarf að gjöra grein fyrir, svo vel sem unnt er, er það, hverja vegi fornmenn hafi riðið á þing og af þingi, bæði þeir, er kómu norðan og vestan, austan og sunnan. Eg hefi talað hér að framan um veg þann, er norðan og vestanmenn munu hafa riðið; enn sunnanmenn eða þeir, sem kómu úr Kjalarnesþingi, hafa varla getað farið niðr Kárastaðastíg, sem nú er aðalvegrinn; sá vegr var ekki gjörðr vel fær fyrr enn hér um bil 1831; þá var sprengt úr klettunum og vegrinn lagðr, svo að nú má fara með klyfjahross, sem kunnugt er; áðr varð þar að eins farið með lausa hesta. Ef söðull var t. d. á hestinum, varð að halda sveifinni, að hún eigi rækist í klett, er stóð fram úr berginu, enn sá klettr var sprengdr í burtu, og svo var víðar. Sama er að segja um Langastíg, sem liggr norðr og upp af Völlunum efri upp úr Almannagjá; hann var gjörðr ári síðar.
Enn í fyrri daga var annar vegr á Þingvöll fyrir Sunnanmenn; lá hann frá Skálabrekku og austr yfir hraunið að Almannagjá niðr við vatnið; mótar þar víða fyrir fornum götum eða troðningum; er þá farið yfir Öxarárfarveginn gamla. Niðr við vatnið er Almannagjá orðin lítil, eða klofnar þar í smágjár og sprungur; þar hefir legið vegr yfir, og heitir Ferðamannaklif enn í dag. Þar virðist víða vera eins og mannaverk úr grjóti yfir gjárnar. Síðan lá vegrinn upp með berghallanum upp með vatninu og upp í þingið, sem nú er kallað, fyrir vestan ána, þar sem búðatóttirnar eru mestar. Þessi vegr var kallaðr Hallvegr; þá var vað á Öxará leirunum eða söndunum við vatnið fyrir framan túnið á Þingvelli, og svo lá vegrinn austr eftir nálægt Vatnskotsveginum, sem nú er kallaðr, og svo til Vellankötlu, og síðan austr til Gjábakka. Það er að segja: þá lá vegrinn ekki yfir Gjábakkastíg sem nú, því að hann var fyrst gjörðr 1832 eða 1833, heldr sunnar fyrir utan, þar sem Hrafnagjá endar eða er orðin nær að engu; síðan lá vegurinn austr á Hrafnabjargaháls. Þessi Hallvegr lagðist af í jarðskjálftanum 1789 eða einkannlega vaðið á Öxará fram við vatnið; þar sprakk í sundr og kómu álar, sem eigi var fært yfir, enda fóru þá af að mestu hólmarnir fram undan Þingvallartúni, sem hafði áðr verið engi töluvert. Þegar vaðið lagðist af á ánni, vóru gjörðar traðirnar gegnum Þingvallartún og austr úr, því að annars staðar varð þá eigi vel farið. Þetta sögðu mér gamlir menn í Þingvallarsveit eftir sínu foreldri, sem lifði í jarðskjálftanum.
Eprestastigur-221nn þá einn vegr liggr frá Armannsfelli eða af Hofmannafleti austr yfir hraunið undir Hrafnabjörg og hjá Raftahlíð, sem kölluð er, og þaðan austr á Hrafnabjargaháls. Þessi vegr var kallaðr Prestavegr eða Byskupavegr, það er auðsjáanlega þessi vegr, sem talað er um við þingreið Þorgils Oddasonar: „Ok hugsa nökkut fyrir sér ráðit ok þykkir eigi ólíklegt at þeir Hafliði myndi þar fyrir sitja ok gæta svo hvárrar tveggju leiðarinnar, er önnur liggr fram undir Ármannsfell ok hjá Sleðaási: en önnur liggr. leiðin austr yfir hraun undir Hrafnabjörg, ok undir Reyðarmúla til Gjábakka, ok svo austan um hraunit til búða“. Eigi mun þetta eiga að skiljast þannig, að Presta- eða Byskupavegrinn hafi verið hin vanalega leið, er Norðlendingar fóru á þing, því að hún var miklu lengri, enn hana mátti þó koma á þing, ef hin var varin.
Nafnið Bláskógaheiði er nú týnt þannig, að það er eigi viðhaft í daglegu máli, enn það er víst, að Bláskógaheiði hét yfír höfuð í fornöld allar heiðar og aðalvegir, er liggja fyrir norðan og vestan Bláskóga (Þingvallarsveit); er það og eðlilegt, að fjallvegrinn í heild sinni hafi dregið nafn af Bláskógum.
Einn er aðalvegrinn, þegar farið er norðr eða vestr af Þingvelli; liggr hann upp hjá Ármannsfelli, sem kunnugt er, og upp Klyftir og hjá Sandvatni og yfir Tröllaháls. Norðrvegrinn liggr upp á Kaldadal. Fyrir ofan Brunna, sem eru efstu grös á þeim vegi, eða þar sem menn á, er af Kaldadal er komið, þar skiftist vegrinn, og er það kallað að fara fyrir Ok, er þá komið ofan í Reykholtsdal (Reykjadal nyrðra) eða Hálsasveit.“
Síðan framangreint var skrifað af kostgæfni í Árbókina á fyrrgreindum tíma, þótt ekki sé langur tími um liðinn, hefur mikið vatn áa runnið til sjávar. Um framhaldið má lesa á næstunni í „Reykjavíkurleiðir“. Ritið mun birtast á vefsíðu Vegagerðarinnar, líkt og „Grindavíkurleiðir„. 

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 1. árg. 1880-1881, bls. 32-42.

Þingvellir

Þingvellir – Langistígur.

Þingvellir

Almannagjá er líklega upprunalegt nafn. Framhald hennar er gjárnar Stekkjargjá, Snókagjá og Hvannagjá, sem teygir sig inn að Ármannsfelli. Samtals eru þessar gjár um 8 km langar. Suður undir Hakinu eru Hestagjá, Lambagjá og Hrútagjá, sem bera allar samnefnið Almannagjá. Enn austar er Háagjá og Flosagjá.

Thingvellir-gjar

Við austurjaðar sigdældarinnar eru Hrafnagjá, Guldruholtsgjá og Heiðargjá, Brennugjá er austan valla meðfram veginum og opnast að Öxará, þar sem vegurinn stendur á uppfyllingu í henni. Sagt er að níu menn hafi verið brenndir í gjármynninu á 17. öld. Flosagjá (Nikulásargjá, Peningagjá) er sunnan Spangarinnar. Kattargjá klofnar út úr Skötutjörn, sem er framhald Flosagjár. Kolsgjá er norðaustan Flosagjár.
Leiragjá er framhald Háugjár, austan Tæpastígs og Leirna. Sleðaásgjá er framhald Leirugjár inni undir Bolaklifi sunnan Sleðaáss. Vallargjá er framhald Flosagjár frá Spangarsporði norður vellina.
Framhald Nikulásargjár (Flosagjár) til vesturs um tún Þingvallabæjarins eru Seigla, Túngjá og Fjósagjá. Silfra, sem er aðeins austar, er horfið undir vatn. Þaðan kemur oftast meira vatn úr uppsprettunum en frá Öxará. Skötugjá er framhald Flosagjár í Þingvallatúni.

Þingvellir

Þingvellir – Almannagjá.

Þingvellir

Árni Björnsson þjóðháttafræðingur leiddi kvöldgöngu á Þingvöllum. Fræddi hann þátttakendur um, refsingar, aftökur og aftökustaði á þessum gamla þingastað.
Á LögbergiÍ útvarpsviðtali fyrr um daginn sagði hann m.a.: „Alþingi var á tímum nöturlegur staður. Þarna fóru fram refsingar. Skipta má refsingunum í tvennt; dauðrefsingar og aðrar líkamlegar refsingar sem ekki áttu að valda dauða.
Þingvellir; fyrst þarf að hafa í huga að fyrstu 300-400 árin voru engar opinberar refsingar, altso það var ekkert framkvæmdarvald til á þjóðveldistímanum. Það var ekki fyrrr en með komu Noregskonunga að refsingar urðu til. Sýslumenn framkvæmdu refsingarnar í fyrstu. Eftir Siðaskiptin jukust refsingar til muna.
Með því að beina refsingunum inn á Þingvöll var framkvæmdarvaldið að taka þær frá sýslumönnunum. Þegar kom fram á 17. öld var sýslumönnum ekki leyft að framkvæma aftökur. Þær urðu að fara fyrir Lögréttu.
Fjórar tegundir af dauðarefsingum voru; drekking, henging, hálshögg og brenna. Flestar voru aftökurnar á 17. og 18. öld. Konum var drekkt, þjófar hengdir, morðingar hálshöggnir og meintir galdramenn voru brenndir.
Menn voru húðstrýktir og einnig eru dæmi um að menn voru dæmdir til að slá sig upp á munninn. Í Alþingisbókum kemur fram dæmi að Jón Hreggviðsson hafi verið dæmdur til að „slá sig upp á munninn“. Jafnan voru menn dæmdir til refsingar, gjarnan aflimunar eða marðir, á þeim líkamsstöðum er afbrotið var framið með. Skrif gegn heilagri þrenningu kostaði einn mann t.d. þrjá fingur.
Ekki voru til atvinnuböðlar heldur voru gamalmenni, sem varla gátu valdið öxinni, eða brotamenn látnir hálshöggva. Hinir síðarnefndi gátu þannig fengið aflétt hluta refsinga sinna. Þá beit öxin ekki alltaf eins og skyldi og þurfti því stundum fleiri högg en æskilegt var.
Refsingar hér á landi voru yfirleitt vægari en víða erlendis. Hér var t.d. ekki raktar garnir úr mönnum í eiginlegum skilningi eða þeir grafnir lifandi. Hægt var að dæma menn á hjól og steglu (stöng). Eitt dæmi er um slíkt hé rá landi, en ekki var hægt að framkvæma dóminn því þegar til átti að taka fannst ekkert hjólið. Við þá refsingu voru með bundnir á hlól og útlimir brotnir. Tækjaleysi háði því refsiframkvæmd hér.“
Við DrekkingarhylAftökur á Þingvöllum voru 70-80 á 180 ára tímabili. Síðasta aftakan á Þingvöllum fór fram 1878. Síðasta brennan í Brennugjá varð þó 1685. Heimildir eru um að 15 hafi verið hengdir í Gálgaklettum í Stekkjargjá. Frá 1602 voru 30 hálshöggnir á Höggstokkseyri. Frá 1618 var 18 konum drekkt í Drekkingarhyl.
Gengið var á framangreinda staði með viðkomu á Lögbergi. Þar sagði Árni að jafnan hefði verið talið að Lögberg hefði verið í brekkunni austan við gjána, en líklegra hefði verið að almenningur hafi dvalið í Almannagjá. Sýndi hann stall (ræðustól) góðan austan í gjánni og mun ræðumenn skv. því hafa talað að gjáveggnum háa að vestanverðu. Þar undir er gróinn brekka, hin ágætustu sæti og skjólgóð.
Drekkingarhyl sagði Árni hafa verið breytt með vegagerðinni um gjána. Sprengt hafi verið í gjávegginn austanverðan og stallur sá, sem konunum hefði verið varpað fram af í poka, hefði þannig verið eyðilagður, auk þess fyllt hefði verið í hluta hylsins.
Á skiltum við Drekkingarhyl má m.a. lesa eftirfarandi fróðleik: „Til forna var drekking þekkt aftökuaðferð víða um heim. Sakamönnum var drekkt í fenjum og mýrum en einnig í ferskvatni eða í sjó. Á Íslandi voru lagaheimildir til fyrir drekkingum frá 1281 en ekki er getið um það í heimildum að drekkingum hafi veið beitt fyrr en eftir siðaskiptin.
Á þingvöllum var konum drekkt í Drekkingarhyl en vitað er um eina konu sem drekkt var í Öxará fyrir neðan Lögréttu. Ekki hafa varðveist áreiðanlegar lýsingar af drekkingum á Þingvöllum en sagnir erum um að konur hafi verið settar í poka, ýtt út í hylinn og haldið þar niðri.
Mörg önnur örnefni á Þingvöllum minna á harðar refsingar á Alþingi, Gálgaklettar og Gálgi eru örnefni sem lifa í Stekkjargjá við alfaraleið um Langastíg. Þjófar voru álitnir hinir fyrirlitslegu brotamenn og þeirra beið gálginn. Menn voru hálshöggnir á Höggstokksmýri sem sumir tekja að hafi verið hólmi í Öxará. Brennugjá liggur vestan Flosagjár og ber nafn hennar vitni galdarbrennum á síðari hluta 17. aldar. Á Kagahólma í Öxará er líklegt að sakamenn hafi verið hýddir og brennimerktir.“
GálgarUm Stóradóm segir:
„Eftir lögfestingu Stóradóms árið 1564 var hert mjög á líkamlegum refsingum á brotamönnum á Íslandi. Stóridómur fjallaði um viðurlög gegn frændsemis- og sifjaspellsbrotum, hórdómi og frillulífi. Við gildistöku dómsins árið eftir færðist dómsvald í slíkum siðferðismálum frá kirkjunni til veraldlegra yfirvalda.
Á 16. og 17. öld var ráðamönnum mikið í mun að refsa fyrir afbrot og syndir almennings, meðal annar tila ð koma í veg fyrir hræðilega reiði Guðs sem talin var geta beinst að samfélaginu ölli um leið og hið illa var æst upp með brotunum. Yfirvöld í Evrópu höfðu slíkar hugmyndir. Aftökum var samt einnig ætlað að koma í veg fyrir afbrot annarra ekki síður en nú til dags enda vöktu þær mikla athygli.
Fyrir vægari brot voru innheimtar sektir sem gengu til konungs og sýslumanna eða mönnum var refsað líkamlega, t.d. með hýðingu. Fyrir alvarlegstu frændsemi og sifjaspellsbrot voru menn ýmst hengdir eða þeim drekkt.“
Hökkstosskeyri er eyri við Öxará, beint austur af brúnni. Árni sagði ekki vitað nákvæmlega hvar höggstokkurinn (drumburinn) hafi verið á eyjunni, en líklega hefði hann verið færður til eftir aðstæðum. Árni taldi Kagahólma hafa verið annan hólmann vestan árinnar, handan Höggstokkseyrar.
StekkurBrennugjá er austan Höggstokkseyrar. Brennustæðið sjálft fór undir veg er hann var lagður þarna að Þingvallabænum á fyrri hluta síðustu aldar. Í Brennugjá hafa fundist mannabein, líkt og víða annars staðar í gjám, sprungum og gjótum. Líklegt er að líkamsleifar hinna 80 aftekinna hafi verið komið fyrir á þessum stöðum víðs vegar um svæðið.
Í Stekkjargjá er hlaðinn stekkur eða kví. Norðan við hana er klettadrangur. Þar staðnæmdist Árni og benti á Gálgakletta. Tveir staðir í gjánni eru sagðir koma til greina; hinn norðar í henni austanverðri, en þar hefði verið erfiaðra um vik, enda miklu mun hærra klof. Langistígur liggur við Klettana. Árni sagði að líklega hefði langtré (gálganum) verið komið fyrir milli gjárveggsins og klettsstandsins. Yfir100 gálga-örnefni eru til á landinu.
Bent var á að landshagir á Þingvöllum hafi breyst talsvert á umliðnum öldum og því bæri að skoða sögulega staði með hliðsjón af því. Verst er þó að hugsunarlaus eyðilegging hafi orðið svo síðla af mannavöldum á svo sögufrægum stöðum er að framan greinir. Þá kom á óvart að einungis einn staðanna er merktur svo ganga megi að honum vísum.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst.
Brennugjá

Þingvellir

Eftirfarandi saga um Skötutjörn á Þingvöllum birtist í Unga Ísland árið 1938:
„Við hittum umsjónarmanninn í Þingvallabænum — bærinn var byggður fyrir Alþingishátíðina 1930 — og fáum hjá honum leyfi til að tjalda. Líklega vísar hann okkur á tjaldstað austur í hrauninu. Við ætlum nefnilega að búa í tjaldi og vera sjálfum okkur nógir. Það er frjálsara, skotutjorn-991skemmtilegra og ódýrara.
Á leiðinni austur túnið göngum við fram hjá dálítilli tjörn. Hún er nærri kringlótt, bratt niður að henni og vatnið hyldjúpt, blágrænt og tært eins og í öllum gjám hérna. Þetta er Skötutjörn. Um nafnið er þessi þjóðsaga: Einu sinni fyrir löngu var gjá, er lá undir búrgólfið á prestssetrinu. Ef rennt var færi í gjána veiddist silungur, en álög voru það, að ekki mátti veiða meira í senn en sem svaraði nógu í eina máltíð handa öllu heimilisfólkinu. Var þess og vandlega gætt. Nú kom þar að, að prestaskipti urðu og var nýi presturinn ákaflega ágjarn. Dregur hann nú upp silung úr gjánni í búrgólfinu og er hann hefir veitt nóg í máltíð, rennir hann enn. Kemur þá á öngulinn skata – og var hún með níu hölum. Verður klerki allfelmt við; þrífur skötuna, hleypur sem fætur toga austur túnið og kastar henni í tjörnina.

Seinna átti skatan að hafa veiðst suður á Reykjanesi. En eftir þetta tók fyrir alla veiði í búrgjánni og hefndist presti þannig fyrir ágirnd sína.“
thingvellir - skotutjorn-995Þjóðsagan útskýrir nafnið svona: „Einu sinni náði Skötugjá alveg undir eldhúsið á Þingvallabæ. Hlemmur var á eldhúsgólfinu yfir gjánni. Hægt var að opna hlemminn og veiða silung upp úr gjánni. Veiðin var óþrjótandi, alltaf veiddist silungur þegar færi var dýft í gjána úr eldhúsinu. Hins vegar var sú kvöð á að aldrei mátti veiða meira en það sem þurfti í næstu máltíð. Svo kom nýr ábúandi að Þingvöllum. Sagt var að hann væri bæði illur og ágjarn. Hann vildi græða á veiðinni í gjánni. Hann opnaði því hlemminn í eldhúsgólfinu og settist við að veiða. Hann veiddi og veiddi, dag og nótt. Margir reyndu að vara hann við og segja honum að þetta mætti hann ekki en hann lét sig það engu skipta og veiddi hvern silunginn á fætur öðrum. Svo gerðist það loks að bitið var óvenju fast í færið. Maðurinn togaði af miklum krafti og dró loks upp úr gjánni stóra og ljóta skötu með sjö eða jafnvel níu hala. Búandinn varð dauðhræddur og þess fullviss að þarna væri kölski sjálfur kominn í skötulíki. Hann kastaði því færinu með öllu saman í tjörnina sem síðan er kölluð Skötutjörn. Eftir þetta hefur engin veiði verið í Skötutjörn eða -gjá.“

Heimild:
-Unga Ísland, 33. árg. 1938, 8. tbl., bls. 109-110.

Þingvellir

Þingvellir – Skötutjörn.

Þingvellir

Eftirfarandi fróðleikur um Öxará er finna má bæði í Sturlubók og Landnámu birtist í Tímariti Hins íslenska bókmenntafélags árið 1889:
oxararfoss 1935„Á eftir fer orðrjettur útdráttur úr Íslendingabók hinni yngri um þá feðga Ísleif og Gizur og Teit Ísleifsson. Alveg tilsvarandi kafli er í Landnámu vorri, og það vill líka svo vel til, að ættartala Ketilbjarnar, sem stóð í „ættartölu“ hinnar eldri Íslendingabókar, hefur geymst aftan við Íslendingabók hina yngri, og hef jeg áður tilfært hana orðrjett ásamt tilsvarandi kafla úr hinni yngri Íslendingabók. Í Sturlungu og Landnámu er grein sú, sem hjer ræðir um, svo látandi (Sturl. Oxf. 1878,1,203.bls. (Khöfn 1817,1, 202. bls.)): Ketilbjörn Ketilsson, maðr norænn ok frægr, fór til Íslands, þá er landit var víða bygt með sjó. Móðir hans hét Æsa Grjótgarðsdóttir, systir Hákonar Hlaðajarls. Hann átti Helgu, dóttur Þórðar Skeggja , Hrapps sonar, ok var með honum inn fyrsta vetr á Íslandi fyrir neðan Bláskógaheiði ok fór upp í landaleitan um várit eftir. Svá segir Teitr. En þeir görðu sér skála, þar er þeir höfðu náttból, ok kölluðu þat af því Skálabrekku. En er þeir vóru þaðan skamt farnir, þá komu þeir á árís, ok hjoggu þar á vök, ok felldu í öxi sína, ok kölluðu hana af því Öxará. Sú á var síðan veitt í Almannagjá, ok fellr nú eftir Þingvelli. Þá fóru þeir þar til, er nú er kallaðr Reyðarmúli. Þar urðu þeim eftir reyðar þær, er þeir fóru með, ok kölluðu þar af því Reyðarmúla.
Ketibjörn görði bú undir Mosfelli ok nam þar land umhverfis svá vítt sem hann vildi átt hafa. Frá þeim Ketilbirni ok Helgu eru Mosfellingar komnir.“
Áin kemur upp í Myrkavatni og fellur milli Búrfells og Leggjabrjóts og um Biskupsbrekkuhraun innan við Brúsastaði. Hún mun áður hafa runnið suður um Kárastaðahraun og í vatnið rétt hjá Skálabrekku en í Sturlungu segir að henni hafi verið veitt í Almannagjá til að þingmenn þyrftu styttra að fara til að sækja sér neysluvatn. Eftir það fellur hún ofan í gjána í fossi, Öxarárfossi.

Heimild:
-Tímarit Hins íslenska bókmenntafélags, 10. árg. 1889, bls. 229-230.

Öxará

Öxará – virkjun.

Þingvellir

Eftirfarandi áætlanir um friðun Þingvalla og undirbúning Alþingshátíðarinnar árið 1930 birtist bæði í Ísafold og Lögbergi árið 1925:
thingvelli-1771-2„Friðun og verndun Þingvalla – Nauðsynleg mannvirki sem gera þarf. Friðun skógarins. Eftir viðtali við Matthías Þórðarson þjóðminjavörð.
Er Matthías Þórðarson kom frá Þingvöllum í vikunni sem leið, hittum vjer hann að máli og spurðum hann um hitt og annað viðvíkjandi starfi Þingvallanefndarinnar, er skipuð var í vetur sem leið.
Tilgangurinn með skipun nefndarinnar er sá, að nefndin komi fram með tillögur um hvað gera skuli, til að friða staðinn, skóginn og annan gróður á Þingvöllum og í næsta umhverfi þeirra, svo og að athuga einhverjar, einkum verklegar framkvæmdir, sje nauðsynlegt að gera þar til undirbúnings hátíðahöldum árið 1930.
thingvellir 1789-2Nefndin tekur einnig til athugunar, hverjar ráðstafanir eru nauðsynlegar vegna hins mikla gestagangs á Þingvöllum. Eins og kunnugt er, hefir Matthías Þórðarson látið gera nokkrar verklegar umbætur á Þingvöllum undanfarin sumur. Unnið hefir verið þar að útgræðslu á völlunum, vegurinn hefur verið fluttur o.fl. Enn er þó talsvert eftir af framkvæmdum þeim, sem hann hefir ætlast til, að gerðar yrðu þarna. Það, sem á vantar, er m.a. að hækka eyrina vestanvið Öxará og dýpka árfarveginn. Setja gangbrú þar yfir ána og gangstíg meðfram ánni um túnið, ennfremur akveg alveg heim að prestssetrinu. Nöfn vill Matthías setja á margar búðartóptirnar og aðra fornminjastaði. Sjeu nöfnin höggin á steina.
En auk þessara aðgerða, sem nauðsynlegar eru á völlunum, verður eigi hjá því komist að reisa þar bæði kirkju og bæjarhús af flýju, og gera gistihús í námunda við sjálfan þingstaðinn, sem sje fullkomnara en Valhöll er nú. Allar þessar framkvæmdir eru nauðsynlegar, þó ekkert tillit sje tekið til alþingishátíðarinnar. En vegna hennar þarf að gera ýmsar fleiri byggingar og skýli, sem nefndin mun síðar gera tillögur um. Í vegalögunum frá 1924, er ákveðið að leggja nýja Þingvallabraut frá Mosfellssveitar-veginum skamt sunnan við Köldukvísl um Mosfellsdalinn eins og leið liggur lægst austur í Þingvallasveit.
Til þess þarf auk annara verulegra umbóta að gera thingvellir 1930-3nýjan akveg úr Mosfellssveitinni 15 — 16 km. á lengd, áður en komið verður á hinn núverandi Þingvallaveg. Með því móti yrði vegurinn akfær mikið lengri tíma á árinu en nú er.

Frumvarp til laga um friðun Þingvallaskógar var samþykt í Efri deild fyrir skömmu. En málið dagaði uppi í Neðri deild.
Eftir frumvarpi þessu átti að gerfriða alt landið, milli Almannagjár og Hrafnagjár, og svo langt uppeftir, að ábúð varð að leggjast niður á Þingvöllum, svo og í Vatnskoti, Skógarkoti og Hrauntúni. Þingvallanefndin lítur svo á, að alger friðun skógarins þurfi ekki að vera eins víðtæk og til var ætlast í frumvarpi þessu, og hefir það mál nú til frekari athugunar.
Nefndin telur einnig nauðsynlegt, að spilda úr Þingvalla- og Brúsastaðalandi verði numin undan ábúðarnotkun, það er Almannagjá öll og spilda fram með henni að austan. Í spildu þeirri er þingstaðurinn sjálfur og nánasta umhverfi hans. Hið núverandi tún prestsins ætti þó að fylgja ábúð jarðarinnar framvegis. Slík ráðabreytni er vitanlega ekki framkvæmanleg, nema samið verði við núverandi ábúendur jarðanna.

thingvellir 1930-2

Setja yrði sjerstakan skógarvörð til að gæta alls skógarins, grisja hann og vinna úr honum. Yrði skógarvörðurinn að hafa fastan bústað þar eystra. Annar vörður með lögregluvaldi er nauðsynlegur á þingstaðnum og í grend við hann um sumartímann, meðan gestagangurinn er mestur.
Hjer er þá tekið fram hið helsta, sem Matthías Þórðarson hafði um þetta mál að segja að svo komnu. Nánari grein mun nefndin gera fyrir áliti sínu. áður en þing kemur saman í vetur. Almenningur mun fylgja því öllu með hinni mestu athygli, sem gert verður til umbóta á Þingvöllum og þar í nágrenninu.
Senn er undirbúningurinn ekki orðinn langur undir hátíðahöldin 1930, og tími er til þess kominn að menn geri sjer grein fyrir því í aðalatriðum, hvernig þeim skuli haga.
Ef halda á þúsund ára hátíð Alþingis með þeim ummerkjum og þeirri viðhöfn, sem vera ber, þarf margskonar undirbúning, sem eigi verður gerður í fumi og flaustri á 1—2 árum.“

Heimildir:
-Ísafold 25. ágúst 1925, bls. 3.
-Lögberg 29. október 1925, bls. 8.

Þingvellir

Þingvellir – búðartóft.