Tag Archive for: Vatnsleysuströnd

Kvarnarsteinar hafa verið notaðir hér á landi frá fyrstu tíð, jafnvel fyrir norrænt landnám ef marka má frásögn Bjarna F. Einarssonar, fornleifafræðings v/landnámsskálann í Vogi, Höfnum – sjá umfjöllun í Víkurfréttum 19. mars 2010.
KvarnarsteinnKvarnarsteinn er úr kvörn, sem korn var malað í. Skiptir þá ekki máli hvort kornið, sem malað var með honum, var innflutt eða ekki. Kvarnarsteinar voru tveir, hvor ofan á öðrum, og var smíðaður um þá trékassi. Kornið var látið í gatið í miðjunni og efri steininum snúið. Þá malaðist kornið milli steinanna og sáldraðist ofan í kassann.
Á Efri-hellu ofan við bæinn Hraun í Grindavík, sunnan Húsafells, má enn sjá hraunhellusvæði þar sem kvarnarsteinar Grindvíkinga voru unnir fyrrum (mynd að ofan). Þótt mikið hafi verið fjarlægt af hraunhellum þarna síðari árin í garða og „sólarvé“ má þó enn sjá leifar handverksins á staðnum. Í raun ætti að friða staðinn m.t.t. þessa.

Knararnes

Minna-Knarrarnes – letursteinn; kvarnasteinn.

 

Snorrastaðatjarnir

Gengið var að Nýjaseli eftir að hafa skoðað Snorrastaðasel við Snorrastaðatjarnir. Tvær tóttir kúra þar undir Nýjaselsbjalla, misgengi, skammt austan við Snorrastaðatjarnir. Frá brún bjallans sést vel upp í Pétursborg á brún Huldugjár. Þangað er um 10 mínútna ganga. Borgin er nokkuð heilleg að hluta, þ.e. vestari hluti hennar. Austan við borgina eru tvær tóftir og ein norðan hennar. Þær munu hafa verið fyrrum fjárhús.

Nýjasel

Nýjasel.

Þá var haldið upp á brún Litlu-Aragjár og sést þá vel upp að Stóru-Aragjá í suðaustri. Rétt austan við hæstu brún hennar eru Arasel eða Arahnúkasel. Þetta eru 5 tóftir undir gjárveggnum. Skammt vestan þeirra er fallegur, heillegur, stekkur, fast við vegginn. Svæðið undir gjánni er vel gróið, en annars er heiðin víða mjög blásin upp á þessu svæði. Þaðan var haldið að Vogaseljum. Á leiðinni sést vel að Brunnaselstorfunni í suðaustri, en austan undir Vogaholti, sem er beint framundan, eru Vogasel eldri. Þau eru greinilega mjög gömul og liggja neðst í grasi vaxinni brekku norðan utan í holtinu.

Vogasel

Vogasel yngri.

Ofar í brekkunni, undir hraunkletti, eru Vogasel yngri. Þar eru þrjár tóftir, ein undir klettinum efst, önnur framar og enn önnur, sú stærsta, utan í grasbakka enn neðar. Austan við tóttirnar er stór stekkur á bersvæði. Frá seljunum var haldið á brattan til suðurs. Frá brúninni sést vel yfir að Kálffelli í suðri, berggangana ofar í hrauninu og Fagradalsfjöllin enn ofar.

Haldið var áleiðis suður fyrir fellið og er þá komið að Kálfafellsfjárhellunum suðaustan í því. Hleðslur eru fyrir opum hellanna.

Pétursborg

Pétursborg.

Gengið var til vesturs sunnanverðu fellinu og kíkt inn í gíg þess í leiðinni. Í honum eru garðhleðslur sunnanvert, en norðanvert í gígnum eru hleðslur í hraunrás. Sunnan til, utan í fellinu, eru tveir hraunhólar. Efri hóllinn er holur að innan og á honum tvö göt. Þetta er Oddshellir, sá sem Oddur frá Grænuborg hélt til í um aldramótin 1900. Enn má sjá bæði bein og hleðslur í hellinum, sem er rúmbetri en í fyrstu má ætla. Gangan upp að Kálffelli með viðkomu framangreindum seljum tók um tvær klst.
Nú var gengið svo til í beina stefnu á skátaskálann við Snorrastaðatjarnir, niður Dalina og áfram til norðurs með vestanverðum Brúnunum. Sú leið er mun greiðfærari en að fara yfir holtin og hæðirnar austar. Útsýni var gott yfir Mosana og Grindavíkurgjána.

Brandsgjá

Vörður við Brandsgjá.

Gengið var yfir Brúnagötuna og komið var við í Brandsgjá og Brandsvörðu, en í gjána missti Brandur á Ísólfsskála hesta sína snemma á 20. öldinni. Skógfellavegurinn liggur þarna yfir gjána.
Stefnunni var haldið að Snorrastaðatjörnum. Þegar komið var að þeim var haldið vestur fyrir þær og síðan gengið að Snorrastaðaseli norðan þeirra. Selið er lítið og liggur undir hraunbakkanum fast við nyrsta vatnið, gegnt skátaskálanum (sem nú er horfinn).

Heimild m.a.:
Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – SG – 1995.

Pétursborg

Pétursborg – uppdráttur ÓSÁ.

Vatnsleysuströnd

Þetta var fyrirsögn á frétt á mbl.is þann 8. desember 2004 kl 15:06. Fréttin fjallar um að þrjú hross hafi á undanförnum dögum drepist úr miltisbrandi á bænum Sjónarhóli á Vatnsleysuströnd. Fyrsta hrossið drapst sl. fimmtudag, tvö á sunnudag og fjórða hrossinu á bænum hefur verið lógað. Hross í nágrenni Sjónarhóls hafa verið sett í aðhald og fylgst verður með heilsufari þeirra.

Miltisbrandur

Á nágrannabæ eru einnig fáeinar sauðkindur og hefur héraðsdýralæknir gefið fyrirmæli um að þær verði hýstar. Að sögn embættis yfirdýralæknis og sóttvarnarlæknis hefur rannsókn á blóðsýni úr hrossunum á Tilraunastöðinni að Keldum leitt í ljós að um miltisbrand er að ræða.

Bóndinn á Minna-Knarrarnesi, Birgir Þórarinsson, og eigandi hrossanna telur landbrot í landi Sjónarhóls síðastliðinn vetur líklegustu skýringuna á því hvernig miltisbrandur barst í hrossin. Að sögn Birgis er hugsanlegt að þegar land náði lengra fram hafi sýktar skepnur verið urðaðar á þessum stað en miltisbrandsgró geta lifað áratugum, jafnvel öldum saman í jarðvegi.
„Það eina sem menn vita er að sjórinn braut bakkann neðan bæjarins síðastliðinn vetur í landi Sjónarhóls og að ekkert annað jarðrask hefur verið þarna.“

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd – kort.

Landbúnaðarráðuneytið hefur að tillögu yfirdýralæknis fyrirskipað bann við flutningi búfjár til og frá bænum, brennslu á hræunum á staðnum, auk hreinsunar og sótthreinsunar á svæðinu. Umferð fólks og dýra um svæðið er einnig takmörkuð um sinn.
Miltisbrandur er bráður og oftast banvænn bakteríusjúkdómur sem öll dýr með heitt blóð geta tekið. Hann er algengastur í grasbítum. Hann greindist síðast á Íslandi árið 1965.
Sjúkdómnum veldur, Bacillus anthracis, sem er grómyndandi baktería. Gróin geta lifað í áratugi eða jafnvel aldir í jarðvegi. Oftast kemur sjúkdómurinn upp í tengslum við jarðrask og því er sjúkdómurinn staðbundinn.

Skepnur smitast við að drekka mengað vatn, bíta mengað gras eða við að éta mengað kjöt- og beinamjöl.
Meðgöngutími sjúkdómsins er 1–3 sólarhringar, sauðfé og nautgripir drepast oft skyndilega án þess að hafa sýnt einkenni um sjúkdóm, hross drepast oftast 2- 3 dögum eftir að fyrstu einkenni sjást.
Sjúkdómurinn smitar ekki manna á milli. Þeir sem meðhöndla sýkt dýr eða afurðir sýktra dýra eru í mestri hættu á smiti og því er langalgengast að fólk smitist eftir snertingu við sýkt dýr.
Einkenni miltisbrands í fólki ráðast að nokkru af því hvernig smitið berst. Sýkillinn berst á þrjá vegu inn í líkamann: gegnum rofna húð með sýkingu í húð, gegnum meltingarveg með sýktri fæðu sem leiðir til meltingarfærasýkinga og um öndunarfæri sem veldur sýkingu í lungum. Bakterían berst í eitilvef og þaðan út í blóð. Lungnasýkingin er alvarlegasta sjúkdómsmyndin. Húðsýkingin er langalgengast sjúkdómsmyndin meðal manna en hún er jafnframt mildasta formið og leiðir til dauða í 10-20% tilvika ef hún er ekki meðhöndluð.

Ásláksstaðir

Ásláksstaðir og Móakot fjær.

Í tilkynningu frá lanbúnaðarráðuneytinu segir að afar ólíklegt sé að smit verði í mönnum nema bein snerting við sýkt dýr hafi orðið. Engin hætta sé á smiti hjá einstaklingum sem átt hafa leið hjá svæðinu.
Sjórinn er smám saman að brjóta af ströndum Reykjanesskagans og draga hann til sín. Víða má sjá í gamlar hleðslur, bein og annað undan bökkum þegar ströndin er gengin.
Miltisbrandur er ein þeirra vá, sem fornleifafræðingar þurfa jafnan að gæta varfærni við þegar grafið er í fornar dysjar, kuml eða svonefnda „álagbletti“ því þar er líklegt að grafið hafi verið sýkt dýr, en síðan saga verið búin til um staðinn varnaðarins vegna.

Vatnsleysuströnd

Ásláksstaðir á Vatnsleysuströnd.

Hrafnagjá

Gengið var um Háabjalla, Snorrastaðasel og upp að Pétursborg á Huldugjárbarmi.

Snorrastaðatjarnir

Snorrastaðasel við Snorrastaðatjarnir.

Ein heimild kveður á um að tóftirnar norðan stærstu tjarnarinnar hafi verið Snorrastaðasel og þá frá bæjum í Vogum. Í elstu heimildum eru þrjár aðaltjarnir Snorrastaðatjarna nefndar Snorrastaða-Vatnagjár eða einungis Vatnagjár. Munu þær oftlega hafa gengið undir því samheiti.
Svæðið er stórbrotið dæmi um misgengi og gliðnun jarðskorpunnar á sprungurein og því einstaklega áhugavert jarðfræðifyrirbæri. Þar sem þátttakendur áðu í borginni sáu þeir hvar þrír yrðlingar léku sér neðan Huldugjárinnar, sem hún stendur upp á eins og kastali líkust. Fjárhústóftir eru sunnan hennar.

Pétursborg

Pétursborg.

Pétursborg var fyrrum sauðabyrgi frá Tumakoti í Vogum, nefnt eftir Pétri Andréssyni, bónda þar (1839-1904) og er hann sagður hafa hlaðið borgina. Hæðin er um 180 cm og snúa dyr mót suðri. Þrjár tóftir eru við borgina.
Þá var Hólsselið skoðað sem og Ólafsgjá. Í bakaleiðinni var komið við í Hrafnagjá – lengstri gjáa á Reykjanesi. Hrafnagjá er misgengissprunga með fjölbreyttum gróðri. Þar sem veggurinn er hæstur ofan við Voga er hann u.þ.b. 30 metra hár. Hrafnagjá er mjög djúp á köflum. Fjölskrúðugur gróður, s.s. burkni, blágresi og brönugrös er í og við gjána og þar verpir hrafn ár eftir ár í hæsta bergveggnum.
Veður var með eindæmum gott – sól og 18° hiti. Gangan tók 2 og 1/2 klst.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Pétursborg

Pétursborg og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Vatnsleysa

Gengið var um Keilisnesið og skoðuð refagildra, sem þar er, ein af nokkrum.

Keflavíkurborg

Keflavíkurborg.

Þá var haldið til Keflavíkur þar sem Sturlaugur Björnsson fylgdi FERLIR um Hjalla. Gerð var leit að Ásrétt innan Vallargirðingar, en mikil spjöll hafa verið unnin þar á varnasvæðinu og erfitt að sjá hvar réttin gæti hafa verið. Þó mátti giska á hvar bærinn Hjallatún hafi verið. Skoðaðar voru tóttir austan Flugstöðvarinnar og er ein þeirra greinilega gömul fjárborg (Keflavíkurborg).
Skoðuð var gömul rétt sunnan við Bergvötn, brunnur vestan við vötnin og hugsanlega gamlar seltóttir þar nálægt. Mjög gróið er í kringum Bergvötn. Sunnan þeirra lá gamla þjóðleiðin milli Keflavíkur og Leiru.

Stapi

Stapi – landamerkjavarða.

Í bakaleiðinni var komið við á landmælingavörðu á Stapa, en í henni er gamall koparskjöldur með merki Landmælinga Íslands þar sem segir m.a. að „Röskun varði refsingu“. Þá var komið við í Hrafnagjá og skoðuð áletrunin ofan við Magnúsarsæti (SJ-1888-ME) og loks var ákveðið að líta betur á letursteininn dularfulla við Stóru-Vatnsleysu. Sæmundur bóndi á Stóru-Vatnsleysu hafði beið FERLIR um að gera sér nú þann greiða að ráða letrið áður en hann færi yfir um. Það hefði alltaf verið leyndardómur á bænum og hann og fleiri hefðu lengi reynt að ráða í hvað stæði á steininum.

Stóra-Vatnsleysa

Letursteinninn við Stóru-Vatnsleysu – á hvolfi.

FERLIRsfarar settu upp húfurnar máttugu og síðan var reynt að ráða gátuna, sem óleyst hefur verið í gegnum aldirnar þrátt fyrir margar tilraunir hinna hæfustu manna. Tvær gamlar sagnir eru til um stein þennan, en aldrei hefur tekist að lesa hvað á honum stendur – þangað til núna. Á steininn er klappað ártalið 1643 og á honum eru stafirnir GI er mætast í keltneskum krossi ofan við I-ið.
Galdurinn við ráðninguna var að lesa steininn „á röngunni“. Hann hefur einhvern tíman oltið um og snýr hann því einkennilega við mönnum þegar reynt er að lesa á hann. En sem sagt – þessi gáta er ráðin. Steinninn er því næst elsti ártalssteininn á Reykjanesi, sem enn er fundinn.

Vatnsleysa

Stóra-Vatnsleysa. Tóftir kirkju og kotbýlis.

Skammt frá, nær íbúðarhúsinu á Vatnsleysu, var áður kirkja. Á rústum hennar var reist hús, en svo mikill draugagangur var þar að hurðir héldust ekki á hjörum. Það var síðan rifið. Ekki er ólíklegt að steinnin hafi verið grafsteinn eða til minningar um einhvern tiltekinn atburð eða ábúanda/fólk á svæðinu.
Frábært veður.

Stóra-Vatnsleysa

Letursteinninn við Stóru-Vatnsleysu.

Sýrholt

Stefnan var tekin á Sýrholt. Norðvestan í horltinu eru gróðurtorfur og tóftir á þeim.

Fornusel

Fornusel í Sýrholti – uppdráttur ÓSÁ.

Um er að ræða a.m.k. tvö sel. Annað er á torfunum norðvestan í Sýrholtinu, tvær tóttir. Í norðnorðvestur frá því er annað sel, tótt í brekku og mjög gamall stekkur á holti. Bæði selin eru greinilega mjög gömul og því ekki að ástæðulausu sem þau eru nefnd Fornusel. Líklega er erfitt að ákvarða frá hvaða bæjum þau hafi verið gerð út. Á milli seljanna er hlaðinn stekkur á hafti í djúpri gjá, grasi gróinni. Svo virðist sem gengið hafi verið talsvert niður í enda gjárinnar og gæti þar vel hafa verið brunnur. Snór gæti hafa verið í henni fram eftir sumri.
Í bakaleiðinni var komið við hjá Tvíburum, tveimur vörðum við Flekkuvíkurselsstíginn. Ágætt veður hlémeginn við vindinn.
Á uppdrættinum hér til vinstri má sjá tóftirnar í holtinu neðst til hægri, stöku tóftina ofan við miðju og síðan stekkinn í gjánni miðsvæðis ofan við miðju. Uppdráttinn má einnig sjá stærri undir Uppdrættir á vefsíðunni.
Gangan tók um klukkustund.

Sýrholt

Sel í Sýrholti (Fornasel).

Kálfatjörn

Haldið var Kálfatjörn og farið þar niður í fjöru með fyrrum leturstein (hornstein) úr sjóbúð þar í huga. Ofan við Kálfatjarnarvör hafði verið steinhlaðið sjóbyrgi, sem sjórinn hafði tekið. Í birginu átti að vera ártalssteinn með áletruninni 1677 skv. Ægi, 9. tbl. árg. 1936.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – letursteinn/hornsteinn í fjörunni.

Á göngunni kom í ljós „Steinninn“. Hann lá efst í fjörunni og hafði jarðýtu nýlega verið ekið yfir hann. Á steininum stóð áletrað „A° 1674. Hann var ljósmyndaður og birtist frásögn um þann merkilega fund í MBL. Þá var skoðaður ártals- og skósteinn í brú vestan Kálfatjarnarkirkju. Á honum átti að vera ártalið 1776, en á honum er áletrunin A°1790. Loks var skoðaður gamall fallega hlaðinn brunnur norðvestan við kirkjuna.
Frá Kálfatjörn var haldið á Vatnaheiði og síðan farið að Vesturbæ á Þórkötlustöðum.

Heródes

Heródes – álaga- og rúnasteinn.

Vestan við Vesturbæinn er álagasteinn, Heródes, sem þar hefur verið óhreyfður í margar kynslóðir. Á meðan hann fær að vera í friði er íbúunum óhætt.

Þá var haldið vestur fyrir Járngerðarstaði og skoðað fjárskjól við vegkantinn og loks haldið að Klifi þar sem Helgi Gamalíasson tók á móti hópnum. Leiddi hann hópinn um gamla Reykjanesveginn (sem ekki var vitað að væri til) að Básum þar sem leitað var að ævargamalli steinrefagildru. Þjálfað liðið fann gildruna í hraunkanti skammt ofan við ströndina. Um er að ræða einstakar og heillegar minjar.
Frábært veður.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – ártalssteinninn.

Lynghólsborg

Farið var að Pétursborg og skoðað Hólssel, sem er u.þ.b. 1 km norðaustan hennar.

Pétursborg

Pétursborg

Pétursborg stendur á Huldugjárbarmi, heilleg og falleg aðkomu. Sunnan undir borginni eru fjárhústóftir. Frá Pétursborg er fallegt útsýni yfir heiðina að Hrafnagjá, Snorrastaðatjarnir og Háabjalla. Svæðið myndaðist á svipaðan hátt og Þingvellir, misgengi þar sem miðjan sígur á sprungurein og gliðnar um u.þ.b. 2 cm að jafnaði á ári.
Erfitt getur verið að finna Hólssel, en það er ofan gjárinnar í u.þ.b. kílómeters fjarlægð, sem fyrr sagði. Um er að ræða þrjá hraunhóla og í klofi eins þeirra eru hleðslur. Þá eru og hleðslur suðvestan undir hólnum.

Lynghólsborg

Lynghólsborg.

Nokkrar tóftir er umhveris hólinn sem og  í sprungunni, sem er vel gróin. Hins vegar er allnokkur landeyðing í kringum hólana.
Gengið var niður heiðina og komið var við í meintu Þóruseli, sem einnig er í háum grónum hraunhól. Í honum mótar fyrir tóftum.
Frá selinu var gengið ákveðið áfram norður heiðina að Lynghól. Undir honum er nokkuð stór fjárborg (hér nefnd Lynghólsborg), vel gróin, en til suðurs frá henni liggur hlaðinn leiðigarður. Neðan við borgina er nokkur jarðvegseyðing.
Veður var frábært, lyngt og hlýtt. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Pétursborg

Pétursborg.

Magnúsarsæti

Gengið var um Vogastapa. Enn má sjá móta fyrir gamla Suðurnesjaveginum (um Reiðskarð) upp Stapann og liðast (Stapagatan) síðan áfram áleiðis upp að Grímshól. Grímshóll kemur við sögu þjóðsögunnar af vermanninum norðlenska.

Grímshóll

Á Grímshól.

Þess er getið um norðanmenn að þá er þeir fóru suður í verið gerði byl á þá nálægt Grímshóli á Stapanum. Einn þeirra var heldur hjárænulegur og dróst hann aftur úr hjá hólnum og hvarf félögum sínum. En er hann var einn orðinn kom maður að honum og bað hann róa hjá sér. Norðlingurinn varð feginn boðinu og fór með hinum ókunna manni og réri hjá honum um vertíðina. En um lokin þegar Norðlendingar fóru heim fundu þeir hann í sama stað á leið sinni og þeir skildu áður við hann. Var hann þar þá með færur sínar og hafði ekki leyst þær upp því ekki hafði hann lagt sér neitt til um vertíðna.

Stapinn

Stapinn – uppdráttur ÓSÁ.

Landar hans gerðu nú heldur en ekki gys að honum að hann skyldi hafa setið þarna alla vertíðina og spurðu hvar hann hefði verið. Hann sagðist hafa róið eins og þeir og ef til vill ei hafa aflað minna. Tekur hann þá upp hjá sér sjóvettling einn fullan af peningum og segir að þarna sé hluturinn sinn. Blæddi þeim þá mjög í augum er þeir sjá það og sýndist aflinn ei alllítill. Fóru þeir síðan allir saman norður. Maðurinn réri suður margar vertíðir eftir þetta, og fór æ á sömu leið og fyrsta skipti. En aldrei sagði hann neitt greinilega hvar hann var og vissu menn það eitt um hann er allir sáu, að hann réri einhverstaðar þar sem hann aflaði vel.
Skoðaðar voru minjar eftir bæinn Brekku og heillegar sjóbúðir undir Stapanum; Hólmabúðir, Stapabúð og Kerlingarbúð, auk þess sem gengið var út í Hólmann og minjar þar skoðaðar. Gamall innrásarprammi marrar í fjöruborðinu. Sagan segir að honum hafi verið ætlað mikilvægt hlutverk, verið siglt þarna upp í fjöruna og síðan ekki söguna meir. Þarna hefur hann verið sem nátttröll gefinna vona.

Stapinn

Leifar Kerlingarbúða.

Kerlingarbúðir eru elstu sýnilegar minjar um búsetu manna á Ströndinni, að sagt er. Bæði við Brekku og Stapabúð eru hlaðnir brunnar. Ofar í hlíðinni eru hleðslur eftir menn. Nú er fuglinn í bjarginu næsta einráður á svæðinu, en selurinn vakir þó skammt utan við ströndina. Hann stingur ávallt upp hausnum þegar rautt vekur forvitni hans.
Í leiðinni, vegna þess hve veðrið var gott, var ákveðið að líta á Gíslaborg ofan Voga. Gengið var að stekknum í Kúadal og fjárborginni Hringnum innan við Knarrarnesholt. Þá var skoðaður rúnasteinninn við Knarrarnes (1700), ártalssteininn við Kálfatjörn (1706), legsteinninn á Flekkuleiði (?) og litið á áletranir (1888) yfir Magnúsarsæti í Hrafnagjá á Stóru-Vatnsleysu. Áletrunin er til minningar um nefndan Magnús, sem fann sér stað þarna við gjána til að friðþægjast við sjálfan sig. Sagt er þó að einhverju sinni hafi barn komið þar óvart undir. En það er nú önnur saga. Sem sagt: Margt og mikið merkilegt á skömmum tíma.
Frábært veður.

Stapinn

Stapinn – flugmynd.

Flekkuvíkursel

Skoðað var Flekkuvíkurselið.

Flekkuvíkursel

Stekkur í Flekkuvíkurseli.

Þar eru mikil mannvirki, fallegur stekkur framundan því og kví norðar í skjólsælli kvos. Annar stekkur er norðar sem og stök tóft, sem vakti sérstaka athygli.
Flekkuvíkursel er drjúgan spöl suðaustan Kolgrafarholts og Kirkholts en norðaustan Sýrholts. Selið stendur nokkuð neðan Grindavíkurgjár. Í því sjást sex kofatóftir og kví auk stekkjanna. Vatnsstæðið er í klapparholu uppi á ásnum norðan tóftanna. Fáeinir steinar eru við það. Í örefnaskrá frá árinu 1976 segja Gunnar og Ólafur Erlendssynir að „Herdís Jónsdóttir frá Flekkuvík, f: 1858, hafi komið í selið sem barn og voru þar þá bæði smali og selráðskona. Í selinu voru þá eingöngu hafðar kindur.“

Bræður

Bræður – vörður við stíginn í Flekkuvíkursel.

Norðan Flekkuvíkusels, svo til mitt á milli selsins og Reykjanesbrautar, eru tvær stórar vörður, sem standa mjög þétt saman. Heita þær Bræður. Sunnan þeirra er hlaðið hringlaga byrgi á litlum hraunhól.

Frábært veður. Gangan tók 2. klst og 2. mín.

Heimild m.a.
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel.