Tag Archive for: Vatnsleysuströnd

Gvendarborg

Gengið var að Gvendarborg, um Þráinsskjaldarhraun að Rauðhólsseli.

Kolhólasel

Kolhólasel.

Spurnir höfðu borist af tóftum í lítilli dalkvos nokkru suðvestan borgarinnar. Ekki er að sjá að þær hafi verið skráðar eða ljóst hvaða tilgangi þær hafi þjónað. Um er að ræða land frá Vatnsleysu svo líklegt má telja að þessi selstöð hafi tilheyrt þeim bæ. Nefndum hana Kolhólasel.
Eftir nokkra göngu fram og aftur um svæðið fundust minjarnar norðvestan undir hæðardragi. Gróið er undir hæðinni. Þrjár tóftir eru nokkuð þétt saman og enn ein skammt vestar. Hún gæti hafa verið stekkur, en hinar hús.

Kolhólasel

Kolhólasel – uppdráttur ÓSÁ.

Ekki er ósennilegt að þarna hafi verið sel fyrrum, en það fallið í gleymsku. Þannig hefði og orðið um mörg hin selin í heiðinni ef ekki hafi komið til áhugi og dugnaður örfárra heimamanna við að leita uppi og varðveita staðsetningu þeirra.
Haldið var upp heiðina austan Þórustaðastígs með stefnu í Rauðhólssel. Það er frekar lítið sel frá Vatnsleysu. Í Jarðabókinni 1703 er þess getið að oft hafi ekki verið vært í því vegna draugagangs. Líklegt er einnig að vatnsskortur hafi háð búskapnum þarna í þurrkum.
Gengið var til baka um Rauðhólsselsstíg, norður með vestanverðum hraunkanti Afstapahrauns.
Bakaleiðin var og nýtt til berja, enda af nógu að taka.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Rauðhólssel

Rauðhólssel.

Keilir

Gengið var á Keili í frábæru veðri. Lagt var af stað frá austurenda Oddafells, gengið að Höskuldarvallastíg og eftir honum yfir Höskuldarvallahraunið.

Keilir

Keilir.

Stígnum að fjallinu var fylgt eftir Þráinsskjaldarhrauni. Á leiðinni upp var áð um stund í Fyrstu búðum, ofarlega í klettunum til að jafna þrýstingsmuninn og virða fyrir sér Hrafnafell (raninn norður úr fjalinu) og Keilisbörnin.
FERLIRsfarar voru fyrstir til að skrá sig í gestabókina á toppnum þennan sumardaginn fyrsta. Sjá mátti smáa og stóra flokka mjakast áleiðis að fjallinu niður á sléttlendinu, sem hópurinn síðan mætti á leiðinni niður. Keilir er 379 m hár og tiltölulega auðveldur uppgöngu.

Keilir

Keilir – útsýnisskífa.

Niðurgangurinn er ekki síðri. Frábært útsýni er af fjallinu um norðan, austan og vestanverðan Reykjanesskagann. Þokan, sem hulið hafði topinn, vék frá stutt stund, í lotningu fyrir viljanum til að njóta.
Í bakaleiðinni var haldið til suðausturs yfir hraunið og eftir ónafngefnum stíg (Þórustaðastíg) austan Driffells yfir Höskuldarvallahraun að suðurenda Oddafells.
Gengið var austur með norðanverðu Oddafelli og skoðaðar hlaðnar kvíar og gamlar selsrústir, sem enn eru þar greinilegar, bæði utan í hraunkantinum og skammt austar, norðan í Oddafellinu.
Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Keilir

Keilir. Rauðhólar fremst.

Járngerðardys
Tómas Þorvaldsson, barnfæddur Grindvíkingur, nú nýlátinn [2. des. 2008], var manna fróðastur um sögu og örnefni í Grindavík.
Tómas ÞorvaldssonEkki er langt um liðið síðan hann gekk rösklega að Járngerðardysinni við Járngerðarstaði, staðnæmdist og sagði: „Hér er hún“. Um var að ræða gróna þúst undan beygju á veginum framan við Vík. „Sjómennirnir gengu til skips eftir sjávargötunni frá Járngerðarstöðum, staðnæmdust hér við dysina, tóku ofan og fóru með sjóferðarbæn. Síðan gengu þeir sjávargötuna áfram að Norðurvör, hérna fyrir neðan þar sem gamla bryggjan er nú.“
Nokkrum árum síðar lögðu ómeðvitaðir aðkomumenn malbik yfir dysina. Þeir höfðu ekki vit á því að ræða við Tómas áður en gengið var til verksins.
Framangreint er nú rifjað upp vegna þess að Tómas miðlaði af margvíslegum fróðleik um staðháttu í Grindavík fyrrum, benti á örnefni og sagði frá liðnum atburðum og horfnu fólki. Eitt af því, sem kom upp í samræðum við Tómas, voru gamlar þjóðleiðir til og frá Grindavík. Skipsstíginn þekkti hann eins og fingurna á sér, staðsetti Títublaðavörðuna og Dýrfinnuhelli, lýsti leiðinni í gegnum loftskeytastöðvarsvæðið o.m.fl. Skipsstígurinn var meginleiðin milli Járngerðarstaða og Njarðvíkna (Keflavíkur). Vogaveginn þekkti hann og mjög vel, enda meginliðin milli Járngerðarstaða og Innnesja.

Hemphóll

Varða á Hemphól.

Öðrum leiðum átti Tómas ekki jafn auðvelt með að lýsa, enda fæddur um það leyti er fyrsti bílvegurinn var lagður til Grindavíkur árið 1918 (fæddur 1919). Hann hafði þó farið Prestastíginn gömlu götuna norðan Sandfellshæðar) niður að Ósum, nokkrum sinnum austur í Krýsuvík eftir Krýsuvíkurleiðinni, um Hálsana ofan við Keili niður í Hraunin við Hafnarfjörð og auk þess hafði hann einu sinni ungur farið í fylgd manna um Brúnaveginn frá Hauni í Kúagerði og áfram inn til Reykjavíkur. Því miður var ekki rætt við hann nánar um síðastnefndu leiðina, hvorki um staðháttu né legu hennar. Eitt örnefni kom þó við sögu, en það var Presthóll [Hemphóll]. Ýmist var farið um hjallann (sunnan Húsfells) eða upp Skökugil og inn fyrir Mókletta. Hvar leiðin lá nákvæmlega um Brúnirnar efst í Strandarheiði liggur ekki ljóst fyrir. Það verður því verkefni næsta vors að sporrekja heiðina ofanverða með það að markmiði að reyna að staðsetja þennan svonefnda Brúnaveg.

Sigurður Gíslason

Líklega hefur leiðin ekki verið fjölfarin, en þó hefur hún verið farin af mönnum er þekktu vel til staðhátta og vissu hvernig og hvar væri hægt að fara auðveldlega á millum svæða á sem skemmstum tíma.
Sigurður Gíslason, bóndi á Hrauni, sagðist aðspurður oft hafa heyrt förður sinn, Gísla Hafliðason, tala um  Brúanveginn. Sjálfur hefði Sigurður ekki farið þá leið, en hún hefði verið aðalleiðin frá Hrauni niður í Kúagerði fyrrum. Farið var þá upp með Húsfelli og inn með því að vestanverðu, áfram inn á Sandakraveg og áfram norður með vestanverðu Fagradalsfjalli, inn á Brúnirnar og á ská niður í Kúagerði. Faðir hans, sem hafi verið frár á fæti, hefði yfirleitt farið þessa leið einn eða sem fylgdarmaður með öðrum fyrir og eftir aldamótin 1900.

Reykjanes

Reykjanesskagi – fornar götur.

Ólafsgjá

Gengið var að Pétursborg á Huldugjárbarmi. Ágætir Vogabúar slógust með í för. Eftir u.þ.b. 20 mín gang var komið að Huldugjá. Fjárborgin á barminum er bæði heilleg og falleg. Hún mun vera fyrrum sauðabyrgi frá Tumakoti í Vogum, nefnt eftir Pétri Andréssyni bónda þar (1839-1904), sem talinn er hafa hlaðið borgina. Vesturveggurinn hefur haldið sér nokkuð vel, en austurveggurinn hefur aðhyllst jörðinni – að hluta a.m.k. Fjárhústóftir eru sunnan við borgina.

Arasel

Ara(hnúka)sel – tilgáta.

Frá borginni var stefnan tekin að Arahnúkaseli undir Stóru-Aragjá þar sem hún er hæst. Gjáinn er ein margra er marka landssigið að sunnanverðu í Vogaheiði. Hrafnagjá og Háibjalli markar það að norðanverðu. Þarna eru heillegar tóftir vænlegs sels á skjólgóðum stað með hið ágætasta útsýni niður heiðina að Vogum. Hlaðnir stekkir eru við selið líkt og í öðrum hinum 140 seljum á Reykjanesskaganum.
Þá var stefnan tekin að Stapaþúfu, stundum nefnd Stapaþúfuhóll, norðan Brunnastaðasels. Þúfan er hár kringlóttur hóll. Gamlar sagnir frá 18. öld kveða á um manngerðar hleðslur undir hólnum. Tilgangur ferðarinnar var m.a. að kanna hvort svo gæti verið. Ljóst er að norðanundir hólnum hafa verið gamlar hleðslur er lognast hafa út af. Þó sást enn móta fyrir hleðslum í samræmi við heimildir. Fokið hefur að hólnum og hann gróið upp, en grjótið stendur út undan honum við fótstykkið. Á þúfunni var hreiður með þremur eggjum og bak við stein austan í henni fundust þrír torkennilegir peningar.

Gjásel

Gjásel í heiðinni.

Frá Stapaþúfu var haldið að Gjáslel, einu fallegasta selinu á Reykjanesskaganum. Þar eru, auk stekkjar og kvíar, átta keðjuhústóftir undir gjárveggnum. Líklega er þetta eitt fyrsta raðhús hér á landi. Óvíst er frá hvaða bæ selstaðan þarna var. Það er ekki nefnt í Jarðabókinni 1703. Talið er þó líklegt að Hlöðunesmenn hafi haft þarna í seli, en sel þeirra var þá þarna ofar í heiðinni, en aflagt. Enn sést þó móta fyrir tóftum og stekk hins gamla Hlöðunesssels á stakri torfu, sem nú er að blása upp.

Ólafsgjá

Ólafsgjá og Ólafsvarða.

Haldið var niður heiðina að Ólafsgjá (6357678-2218860) og bæði varðan og gjáin skoðuð. Í gjána féll Ólafur Þorleifsson úr Hlöðuneshverfi á aðfangadag árið 1900 er hann var að huga að fé. Mikil leit var gerð að honum, en hann fannst ekki fyrr en u.þ.b. 30 árum síðar er menn voru að vitja kindar, sem átti að hafa fallið í gjána. Þar sást þá hvar Ólafur sat enn á klettasyllu í gjánni, en fótleggirnir höfðu fallið dýpra niður í hana.

Ólafur Þorleifsson

Bein Ólafs eftir fundinn.

Af verksummerkjum að dæma virtist hann hafa lærbrotnað við fallið í gjána, en reynt að nota göngustaf sinn til að komast upp aftur, en hann þá brotnað. Lengi vel var talið að Ólafi hafi verið komið fyrir í heiðinni og hlutust af því nokkur leiðindi.
Gátan leystist hins vegar 30 árum seinna, sem fyrr sagði. Gjáin, sem er á sléttlendi, er fremur stutt og þröng, en æði djúp. Frásögn af Ólafi og atburði þessum má lesa í Lesbók Morgunblaðsins fyrir nokkrum árum sem og í bókinni Hrakningar og heiðarvegir, 3. bindi, eftir Pálma Hannesson og Jón Eyþórsson.

Loks var gengið í Hólssel ofan Huldugjár og tóftirnar og hleðslurnar í og við hraunhólinn skoðaðar. Hólssel er það sel, sem einna erfiðast er að ganga að sem vísu í heiðinni. Það er á milli þriggja hóla austan við Pétursborgina ofan við Huldugjá.

Pétursborg

Pétursborg.

Í bakaleiðinni var skyggnst eftir Þóruseli, sem á að var stutt frá Reykjanesbrautinni nálægt Vogaafleggjara. Einn staður kemur sterklegar til greina en aðrir; hár klofinn hraunhóll, gróinn bæði að utan- og innaverðu. Sjá má móta fyrir tóftarhlutum utan í honum, í skjóli fyrir suðaustanáttinni. Komið var við í Gvendarstekk skammt ofan við Voga. Ýmislegt bendir til að hann sé gömul fjárborg, en enginn veit nú frá hvaða bæ hann var. Gvendarbrunnur er þarna skammt rá, einn af fjórum á Reykjanesskaganum. Ekki er með öllu útilokað að nafngiftin tengist að einhverju leyti Guðmundi góða, líkt og brunnurinn. Hann gæti t.d. hafa átt viðdvöl þar í skjólinu á leið sinni um Ströndina, án þess að nokkurt sé um það fullyrt. Taldið t.a.m. að sá góði maður hafi aldrei litið marga brunnnafna sína augum, ekki frekar en Grettir grettistökin víða um land.
Að göngu lokinni var þátttakendum boðið í kaffihlaðborð í Vogunum.
Skínandi veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Pétursborg

Pétursborg.

Hvassahraun

Magnús Jónsson, bókavörður, skrifaði grein í jólablað Alþýðublaðs Hafnarfjarðar árið 1966, „Við veginn„. Þar fjallar hann um leiðina fyrrum milli Hafnarfjarðar áleiðis út á Suðurnes. Greinin endar við Gvendarbrunn. Framhaldsgrein skrifaði hann svo í sama blað árið 1968. Sú grein lýsir leiðinni áfram að Kálfatjörn á Vatnsleysuströnd. Hér verður drepið niður í þessar greinar:

Magnús

„Ein af mestu umferðaræðum landsins er sem kunnngt er vegurinn milli Reykjavíkur og Keflavíkur. Verður í þessu greinarkorni rabbað um eitt og annað, sem í hugann kemur á hluta af þeirri leið, þótt lesandinn megi ekki búast við að verða miklum mun fróðari eftir lesturinn en áður.
Nú liggur þar steyptur vegur, en á fyrsta tugi aldarinnar og lengur stóð þar yfir vegarlagning sem leysti reiðgötun af hólmi, því að um eiginlega lagða vegi var ekki að ræða hér á landi áður fyrr, heldur troðninga, sem ekki voru mótaðir af mannshöndinni, nema e.t.v. nokkrum steinum rutt frá.
Þegar halda skyldi t.d. frá Reykjavík til Suðurnesja, var farið um Hafnarfjörð með sjónum. Við Arahús – nánast þar sem nú er Strandgata 21 – var æði stutt bilið milli sjávarmálsins og hins byggða bóls. Þegar suður fyrir lækinn kom tók við samfell möl, allt að Hamrinum syðri. Gatan sveigði fljótlega upp á við, þar sem enn er farið að Ásmundarbakaríi og Prentsmiðju Hafnarfjarðar, því næst þar sem er Suðurgata 24, en síðan skáhallt upp hallan í átt til sjávar. Fljótlega hallaði undan fæti aftur og var þá komið á Flensborgarmöl.
Síðan lá leiðin með sjónum, líkt og þegar nú er farið að verksmiðjunni Lýsi og mjöl, og reyndar alveg suður að Hvaleyri. Var svo farið beint af augum framhjá Hjörskoti og komið niður þar, sem síðar var sandnámið verðmæta og umdeilda.
Þá tekur hraunið við. Það er með ávölum klettabungum og gróðri sízt minni en í HafnarfjörðurHafnarfjarðarhrauni. Er m.a. athyglisvert að skoða, hve langir geta orðið leggir blómanna, sem vaxa í klettasprungunum og teygja sig í birtuna.
Nokkurn veginn sézt hvar lestarvegurinn liggur, allmiklu nær sjónum en hinir, og hafa hófar og mannsfætur jafnvel unnið nokkuð á sléttum klöppunum. Þó er vegna gróðurs hraunsins ekki eins auðvelt að fylgja þessari slóð í Hellnahrauninu eins og var til skamms tíma, þegar í Kapelluhraunið kom. Það er miklu yngra, sennilega runnið á 12. öld að áliti jarðfræðinga, ólíkt hinu fyrra að allri gerð og liggur ofan á því. Í annálum er hraunbreiðan öll nefnd Nýjahraun. Í því er lítill gróður annar en mosi, og þess vegna var það, að elzta leiðin um það sást svo vel.
Hún þaktist öll grasi og öðrum lággróðri eins og græn rönd um gráan mosann, frá norðri til suðurs, sundurslitin af nýrri veginum sunnan til í hrauninu, – lá þar upp fyrir hann.
Flest sagnorð um þann hluta þessarar hraunbreiðu, sem hér er átt við, mætti hafa í þátíð. Hraunið er þar tæpast lengur til, en hefur verið rutt, flutt og sléttað með stórvirkum vélum.
LónakotEnn hefur þó verið þyrmt mannvirkinu gamla, Kapellunni, sem hraunið næst sjónum dregur nafn af. Það var vorið 1950 að lítið líkneski fannst þar af einum dýrlinga kaþólsku kirkjunnar, heilagri Barböru. Þótti hún góð til áheita gegn hvers konar eldsvoða, sprengingum og þvíumlíku.
Hraunin taka við þar sem Kapelluhrauni sleppir. Kapellan lá alveg við elzta veginn – reiðgötuna, – nýrri vegurinn var ofan við hana, en sá nýjasti – steypi – er fáa metra neðan við.
Í Hraunum voru allmargir bæir, en þó aldrei kirkjustaður.
Er nú Straumur í byggð og Óttarsstaðir tveir. Bærinn í Þýskubúð stendur enn, og ber hann og nánasta umhverfi vitni um hinn hverfandi eiginleika, nægjusemi. Ofar, þar sem vegirnir liggja nú, voru m.a. Stóri- og Litli-Lambhagi og Þorbjarnarstaðir.
KúagerðiEfst liggur reiðgatan gamla, en nú verður aftur erfiðara um vik að fylgja henni. Hraunið, sem við erum nú komin í, er ein af stærri hraunbreiðunum og nefnist Almenningur. Er það álíka gróið og Hellnahraun, en líkist enn meira Hafnarfjarðarhrauni. Elzti vegurinn liggur þar fjærst sjónum eins og áður er sagt, en nýrri vegurinn hjá rauðamelsnámum og síðan klettaborginni Smalaskála. Steypti vegurinn er enn neðar. Við elzta veginn, nokkru nær Hafnarfirði er rauðamelurinn er tekinn, er vatnsbólið Gvendarbrunnur. Þar var tilvalinn áningarstaður, alltaf vatn og svo grasi gróið sléttlendi umhverfis.
Er slíkt óvíða að finna á Reykjanesskaga. Hér hefur Guðmundur biskup Arason hvílt lúin bein, eftri að hafa vígt vatnslind þessa, öld[n]um og óbornum til blessunar.“
Gamla gatanHér lauk fyrri greininni og sú seinni tók við:
„Komin er sólin Keili á og kotið Lóna,
Hraunamennirnir gapa og góna
er Garðhverfinga sjá þeir róna.“
Í Lónakoti var búið langt fram á þessa öld, og áður var þar oft tvíbýli. Þá hefur verið treyst á sjófangið.
Nú mun Lónakot vera í Hafnarfjarðarlandi, en ekki í Garðahreppi. Við komum því úr Hafnarfjarðarlandi í Vatnsleysustrandarhrepp, um leið og farið er úr Lónakotslandi í Hvassahraunsland.
Ekki er nærri strax úr Almenningi komið, þó að Hafnarfjarðarland sé kvatt. Akvegirnir liggja samhliða hægra megin við ávala klettabungu sem Skyggnir heitir, og þar tekur við aflíðandi halli niður að býlinu Hvassahrauni. Þar var jafnan fleirbýli áður fyrr, og  byggð hélzt þar lengur en í Lónakoti. Það hefur líka þann mikla kost að vera alveg við akveginn. En einn ókostanna er sá, að túnið er á hinu ójafna hrauni, og því seinunnið.
Nú mun enginn búskapur vera í Hvassahrauni, en margir sumarbústaðir eru í grendinni.
Fáir leggja leið sína 20-30 mínútna gang þvert úr þjóðleið hér, upp í hraun og heiðardrög. Þar er grænn gróðurblettur, ekki ósvipaður þeim við Gvendarbrunn. En ær renna ekki lengur á stöðul á björtum vorkvöldum, né að fjármaðurinn flytji daglega saðsaman mólkurmat úr selinu.
Selráðskonuna hittum við ekki. Já, selráðskonuna, oft heimasætuna ungu, hverrar húsmæðraskóli seljalífið var, fyrir önn ævidagsins. Sú síðasta, sem þennan starfa hafði í Hvassahrauni, mun þó hafa lifað fram á þriðja tug þessarar aldar, Ingibjörg Pálsdóttir. Hún og síðan dóttir hennar, bjuggu í Hvassahrauni allan sinn búskap.

Hvassahraun

En við skulum aftur halda að þjóðleiðinni til Suðurnesja. Áður, eða svo að segja um leið og Almenningnum sleppir, erum við í Látrunum. Það eru grasgeirar sem eru undir sjó um stórstraum og fyrir vit okkar ber lykt af rotnandi þara. Loks erum við komin út úr Almenningum og tekur þá við á stuttum kafla hraun, sem Afstapahraun heitir. Það minnir mikið á Kapelluhraun, mosagróið, úfið og ungt, af hrauni að vera. Reyndar er til lítils að benda ökumanni um Keflavíkurveginn  á líka gerð þessara hrauna, eftir þá breytingu sem hefur átt sér stað í því síðarnefnda.

Leiði

Elzta veginn er auðvelt að sjá í Afstapahrauni, hlykkjóttan, grasi gróinn umhverfis. Sunnan til á leiðinni um Afstapahraun er Kúagerði – tærar ferskvatnsvætlur með gróðri umhverfis. Breitt belti þessa gróðurreits er þó horfið undir veginn. Sunnar – svo að málvenjan um áttir á þessum slóðum sé haldið – er Akurgerði. Það eru þyrrkingslegar grasflatir, takmarkaðar að norðan af allháum sjávarkambi. Líta má á Hraunsnesið sem lágan arma þríhyrning, þar sem annað grunnhornið er Straumsvík, en hitt hér.
Í Akurgerði var einu sinni býli, en löngu var það fyrir tíð þeirra sem nú lifa. Ekki er heldur á margra vitorði að þarna voru sýndar einskonar heræfingar. Stjórnandinn var aðfluttur frá Vestmannaeyjum, en þar var eitthvað í áttina við hervarnir, allt frá því eftir Tyrkjaránið. Þetta mun hafa verið á áttunda tug aldarinnar sem leið.
Þegar Starndarheiði tekur við vandast málið, því þars kilja leiðir. Þær eldri liggja með byggðum og allnærri sjó, en sem kunnugt er var steypti vegurinn lagður beinna og þar af leiðandi fjær minnkandi byggð Vatnsleysustrandar.

Kálfatjörn

Nokkuð mun vera á reiki hvað telzt vera hin eiginlega Vatnsleysuströnd. Það mun aðeins að réttu lagi vera sá hluti hreppsbyggðarinnar þar sem túnin eru að mestu samfelld, þ.e. frá Litlabæ að Halakoti. Minnst hefur verið á býlið Hvassahraun hér nær, og áður en að samfelldum túnum kemur eru býlin Stóra- og Minni-Vatnsleysa. Enn standa hús í Flekkuvík, en hún er í eyði.
Nokkur þurrabúðarkot voru þatna hér og hvar, m.a. við túnjaðarinn á Stóru-Vatnsleysu.
Farið er framhjá afleggjaranum að Flekkuvík og þegar byggð Vatnsleysustrandar blasir við af hæðadrögunum nokkru sunnar, virðist vitinn vera uppi á kirkjuturninum.
Við skulum ljúka þessu með því að fara inn í kirkjuna og taka okkur sæti á einum bekknum. Hann er nýr, en málning kirkjunnar að innan – marmaraeftirlíking – þykir svo vel af hendi leyst, að þótt þörf umbóta sé orðin brýn, veigra menn sér við því enn, eftir 75 ár.“ 

Heimildir:
-Magnús Jónsson, Við veginn – Alþýðublað Hafnarfjarðar, jólablað, 1966, bls. 21.
-Magnús Jónsson, Við veginn – Alþýðublað Hafnarfjarðar, jólablað, 1968, bls. 5-6.

Ferðalög

Auðnasel

Gengið var frá Skrokkum við Reykjanesbraut að Fornaseli. Selið er í vel grónum hól og sést hann vel frá brautinni. U.þ.b. 10 mínútna gangur er að því.

Fornasel

Fornasel – uppdráttur ÓSÁ.

Ýmist er sagt að selið hafi verið frá Þórustöðum eða Landakoti og þá heitið Litlasel. Í selinu er ein megintótt með tveimur vistarverum og hlöðnu gerði sunnan við. Vestar er hlaðinn stekkur. Ofan við hólinn er vatnsstæði í krika og minni tótt með tveimur vistarverum.
Gengið var áfram inn á heiðina að Auðnaseli. Selstæðið sást vel framundan, ofan við Klifgjána. Í því eru fjórar tóttir, tveir hlaðnir stekkir, auk kvíar. Varða er á holti vestan við tóttirnar. Handgert vatnsstæði er norðvestan við miðtóttirnar. Það var þurrt að þessu sinni líkt og önnur
vatnsstæði í heiðinni. Annar stekkurinn er uppi á holtinu ofan við selin.
Gengið var til suðsuðvesturs að Knarrarnesseli. Á leiðinni var gengið um Breiðagerðisslakka og tækifærið notað og kíkt á flak þýsku Junkervélarinnar, sem þar var skotin niður í aprílmánuði 1943.

Knarrarnessel

Í Knarrarnesseli.

U.þ.b. 20 mínútna gangur er á milli seljanna. Í Knarrarnesseli eru þrjár megintóttir, auk einnar stakrar, og þrír hlaðnir stekkir. Vatnsstæðið er í hól norðvestan við selið, fast við selsstíginn. Það var líka þurrt að þessu sinni, greinilega nýþornað. Í Knarrarnesseli er í heimildum getið um Litla-Knarrarnessel og Ásláksstaðasel.
Gengið var niður selsstíginn að Klifgjánni, yfir og niður hana við vörðu á brún hennar og áfram niður að Skrokkum.
Frábært veður.

Auðnasel

Auðnasel – stekkur.

Einiber

Ákveðið var að reyna að finna Skógarnefsskúta í Skógarnefi ofan við Krossstapa.
Gengið var frá Reykjanesbraut upp að Loftsskúta þar sem mikil hleðsla er fyrir skúta í jarðfalli vestan undir hraunhæð. Varða er á hæðinni er gefur vísbendingu hvar skútann er að finna. Þaðan var haldið beina leið upp í Hvassahraunssel. Þangað er u.þ.b. hálftíma gangur. Rjúpur á stangli.

Hvassahraunssel

Hvassahraunssel – uppdráttur ÓSÁ.

Hvassahraunssel-22

Hvassahraunssel – stekkur.

Há varða er á austanverðum hraunhrygg, sem selið er norðvestanundir. Tóttir tveggja heillegra húsa eru í selinu, hvort um sig þriggja herbergja. Gróinn stekkur er undir hraunásnum og annar hlaðinn, heillegur vestan við tóttirnar. Tækifærið var notað og selið rissað upp.
Í örnefnalýsingu Gísla fyrir Hvassahraun segir m.a. um Hvassahraunssel: „Heiman úr Tröðum liggur troðningur suður um Hellur, suður á hraunið. Það er Hvassahraunsselsstígur eða Selsstígur. Stígur þessi lá áfram suður hraun allt til Krýsuvíkur. Upp af Brennhólum er Hálfnaðarhæð. Þar er hálfnuð leið frá bænum í Selið. Þá tekur við sunnar nokkuð Selskrínshæð og þar sunnar er Viðunarhóll, skógi eða hrísi vaxinn. Þá er komið í Selið eða Hvassahraunssel, sem er vestan undir Selásum. Veggirnir standa enn nokkurn veginn uppi, og gróður er þar í kring. Vatnsbólið er undir skúta, eiginlega beint austur af Selinu, og er erfitt að finna það.“
Haldið var áfram til suðurs upp frá selinu, framhjá Snjódölum, djúpum fallegum hHvassahraunssel-21raunlægðum, upp Mosana meðfram Eldborgarhrauni. Þegar komið var að hraunhæð ofarlega í þeim svo til alveg við hraunkantinn, var gengið eftir stíg yfir hraunið og inn á Skógarnefið. Svæðið er mikið gróið og fegurð þess endurnýjar snarlega sérhverja orkulind þreytts ferðalangs. Klukkustund liðinn frá upphafi ferðar.
Gengið var niður með gróðursvæðinu og síðan svolítið inn á því. Mikið af rjúpu. Skömmu áður en komið var að landamerkjagirðingu Lónakots, sem liggur þarna niður að Krossstöpum, taka við brattur og gróinn hraunbakki. Ofan hans er nokkuð slétt Mosahraun, en ofar runnabrekkur Almennings.
Leitað var að Skógarnefsskútanum, en árangurslaust að þessu sinni.
Neðan við bakkann var hlaðið umhverfis greni (Skógarnefsgreni). Þrjár litlar vörður voru allt um kring. Norðar má sjá litla vörðu við mosahraunskantinn. Við vörðuna liggur stígur stystu leið í gegnum hraunið í áttina að einum Krosstapanum. Lítil varða var hlaðin við stígsendann að norðanverðu. Skammt norðar var hlaðið í kringum greni (Urðarásgreni) og litlar vörður um kring.

Urðarás

Urðarás.

Framundan var mikill stórgrýttur urðarás, merkilegt jarðfræðifyrirbrigði. Þegar komið er að krossstöpunum þessa leið má glögglega sjá þrjá slíka. Sá austasti er greinilega stærstur, en um hann liggur landamerkjagirðingin. Lítill krossstapi er skammt vestar og sá þriðji mun lægri skammt norðvestar. Norðvestan við neðsta krossstapann var hlaðið umhverfis tvö greni (Krossstapagrenin). Fallegt ílangt jarðfall var sunnan þeirra. Örn kom fljúgandi úr vestri á leið yfir að Skógarnefi og flaug lágt. Ótrúleg stærð. Hefur líklega komið úr Arnstapahrauni [Afstapahrauni] þarna vestan við.

Lónakotssel

Lónakotssel – uppdráttur ÓSÁ.

Sjá mátti háu vörðuna ofan við Lónakotssel í norðri. Önnur varða var á hraunhól í norðvestri. Gengið var að henni og áfram í sömu átt niður hraunið. Lónakotsselsstígnum var fylgt að hluta, en þegar stutt var eftir niður að Reykjanesbraut var beygt til norðurs og tvær hlaðnar refagildrur, sem þar eru á kjarrgrónum hraunhól, skoðaðar.
Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Lónakot segir m.a. um Lónakotssel: „Eins og segir í landamerkjalýsingu Lónakots og Óttarsstaða, liggur landamerkjalínan úr Sjónarhól í Vörðu eða Klett austan til við Lónakotssel. Þar höfðu í seli auk Lónakotsbónda hjáleigumenn frá Óttarsstöðum. Enda eru þarna þrjár aðgreindar seljatættur. Selið liggur rétt austan við Skorás, sem af þessum ástæðum er nefndur Lónakotsselshæð. Norðan í því er jarðfall nokkurt og nefnist Skorásbyrgi eða Lónakotsselshæðarbyrgi. Þar mátti nátta ásauðum.  Norður frá Skorás er Lónakotsselsvatnsstæði í flagi og þraut oftast í þurrkatíð. Skjöldubali, klapparhæð norður frá Hólbrunnshæð.“ 

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Lónakot
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Hvassahraun

Hvassahraunssel

Í Hvassahraunsseli.

Flekkuvíkursel
Gengið var frá Hafnhólum við Reykjanesbrautina með stefnu í Flekkuvíkursel. Tekið var mið af vörðunum Bræður, sem sjást vel frá brautinni.

Nafngiftin hefur verið óljós fram að þessu. Skammt norðan við vörðurnar er hlaðið byrgi á hól. Byrgið er greinilega hlaðið með það fyrir augum að veita skjól úr suðri. Skýringin á því kom í ljós síðar.

Flekkuvíkursel

Bræður.

Frá Bræðrum sést vel að Flekkuvíkur

seli í suðri. Um 10 mínútna gangur er að því frá vörðunum. Selið sjálft er undir löngu holti, Flekkuvíkurselási. Á því er varða, Selásvarða. Annars eru sjánlegar vörður á holtum þarna allt í kring, átta talsins. Í selinu má vel greina 8 tóftir. Stekkur er undir holtinu skammt sunnar, en vestan við selið eru hleðslur er gætu verið rétt og eldra gerði. Vel gróið er í kringum selið, Seltúnið. Norðan við selið er klapparhóll. Í kvos norður undir norðurholtinu er hlaðin kví. Norðan þess eru þrjár tóttir er benda til þess að þar hafi verið minna sel. Enn norðar er u.þ.b. metershár hóll með hleðslum. Talsverð landeyðing er í kringum hann, en þarna gæti hafa verið stekkur, lítil borg eða hlaðið hús.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Hugsanlega gæti þetta hafa verið sel frá öðrum Flekkuvíkurbæjanna, en Flekkuvík skiptist í Austurbæ og Vesturbæ, auk þess sem bærinn Refshali (Rifshali) var býli þar í túnkróknum (fór í eyði 1920). Tvær varir voru t.a.m. í Flekkuvík; Austurbæjarvör og Vesturbæjarvör.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel.

Flekkuvíkursel var reyndar fyrrum í landi Kálfatjarnar svo annað selið gæti líka hafa verið nýtt frá einhverjum Kálfatjarnarbæjanna, s.s. Naustakoti, Móakoti, Fjósakoti, Hátúni, Hliði, Goðhóli, Bakka, Bjargi, Króki eða Borgarkoti [B.S. ritgerð Oddgeirs Arnarssonar 1998].

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – selsvarðan.

Skýringin á vörðunum tveimur, „Bræðrum“, gæti mögulega verið sú að þarna hafi verið tvö sel frá sitthvorum Flekkuvíkurbænum eða öðrum bæjum. (Ekki verri en en hver önnur). Nyrðri rústirnar gætu einnig hafa verið sel frá Vatnsleysu því landamerki Vatnsleysu og Flekkuvíkur eru í vörðu á Nyrðri Selásnum [S.G.]. Úr því verður þó sennilega aldrei skorið með vissu.

Talsvert norðan við selið er klapparhóll. Á honum virðast vera þrjár fallnar vörður, en þegar betur er að gáð er líklegt að þarna hafi áður verið hlaðnar refagildrur. Hrúgurnar eru þannig í laginu.

Flekkuvíkursel

Flekkavíkursel – refagildra.

Svo virðist sem reynt hafi verið að lagfæra eina þeirra. „Gildrur“ þessar eru í beinni sjónlínu á byrgið, sem komið var að á leið í Flekkuvíkursel. Þarna hjá gætu hafa verið greni áður fyrr, sem bæði hefur verið reynt að vinna með gildrum, sem virðast hafa verið nokkuð algengar á Reykjanesskaga fyrrum. Þegar gengið var frá hólnum að byrginu var t.d. komið að nýgrafinni, rúmgóðri og djúpri, holu í móanum.
Gangan tók 1 og ½ klst.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel.

 

Afstapahraun

Gengið var til austurs upp úr Seltóu um stíg yfir Afstapahraun, að hryggjargrenjunum í Geldingahrauni, þaðan upp að Bögguklettum og Mosastígnum síðan fylgt áleiðis að Lambafelli. Áður en komið var yfir hraunið, eða öllu heldur hraunin, norðan hans, var beygt til vesturs og gengið yfir úfið Eldborgarhraunið yfir á Sóleyjarkrika.

Einir

Einir í Geldingahrauni.

Seltóan er efsta Tóan í Afstapahrauni. Neðar er Hrístóa. Tóustígur, eða Tóarstígur, gengur upp í gegnum þær. Í Seltóu eru Seltógrenin. Ekki er vitað til þess að hefðbundin selstaða hafi verið í Seltóu, en þó gæti þar hafa verið beitt frá Rauðhólsseli vestan við hraunið. Sel voru þó með ýmsu móti, s.s. kolasel og hríssel. Þannig gæti fólk hafa dvalið um tíma í Tónni til hrístöku og reitt hann síðan á hestum um stíginn er þræðir Tóurnar, Hrístóustíg og Tóustíg til norðurs.
Gengið var til austurs yfir Afstapahraunið um Seltóarstíg. Hann liggur yfir hraunið þar sem styst er að fara. Grænn einirinn var áberandi í umhverfinu. Komið var niður að sléttu mosahrauni inni í hrauninu, en eftir að hafa fylgt stígnum út úr því til norðurs um hraunhaft var fljótlega komið inn í Geldingahraun. Þar skammt austar eru Hryggjagrenin á lágum hraunhrygg í annars grónu hrauni. Fallegt og heillegt byrgi refaskyttu er þar á hryggnum, auk þess sem grenin tvö hafa verið mörkuð við opin. Skammt vestan við syðra grenið er hlaðið skeifulaga byrgi. Stígur liggur upp hraunið vestan grenjanna.

Hryggjargreni

Refaskyttubyrgi við Hryggjargrenin.

Haldið var til suðausturs og stefnan tekin á mikinn klofinn hraunhól, sem sést hafði greinilega á loftmynd. Þegar gengið var upp hraunið bar hóllinn í Dyngnahraunið neðan við Einihlíðar. Litlir hraunhólar eru beggja vegna klofans, sá að austanverðu þó sýnu stærstur þeirra. Klofinn, sem er gróin í botninn, liggur til austurs og vesturs. Allt um kring og talsverða fjarlægð er nokkuð slétt mosahraun, svonefndir Mosar.
Kletturinn hefur nafnið Bögguklettur. Klofinn er um 100 metra langur og allbreiður. Hann hefur staðið þarna nokkuð hár fyrrum, en slétta helluhraunið umhverfis hefur síðan runnið allt um kring og í gegnum klofann. Á leið sinni hefur það smurt klettaveggina beggja vegna. Þegar hraunið hjaðnaði skildi það eftir u.þ.b tveggja metra háan hraunvegg utan á klettunum. Ljóst er að hraunstraumurinn hefur komið með allnokkrum hraða að austuropinu, runnið upp á klettana, sen síðan runnið rólegar niður í gegnum klofann og klettana allt um kring.

Bögguklettar

Bögguklettar.

Bögguklettar eru bæði falleg og stórbrotin náttúrusmíð. Sú saga var sögð um nafngiftina að klettarnir hétu eftir Böggu gömlu frá Vigdísarvöllum eða öðrum bæ þar í sveit. Synir hennar tveir hafi haldið að Hvasshrauni um Mosastíg til róðra, en gleymt sjóklæðunum. Þegar það uppgötvaðist hafi móðir þeirra, Bagga, bundið þau á bak sér og haldið í humátt á eftir sonum sínum. Hún ætlaði sér þó um of á langri leið, hreppti vont veður og leitaði skjóls í klettunum, sem eru örskammt frá Mosastígnum. Við vesturenda þeirra er lítil skúti. Þar leitaði Bagga skjóls, en varð úti. Þegar hún fannst hélt hún fast um sjóklæðin því þeim skyldi þó komið til réttra eigenda, hvað svo sem um hana yrði. Hvort þarna hafi verið sagt satt skal ósagt látið.

Bögguklettar

Bögguklettar.

Frá Bögguklettum er fallegt útsýni yfir Mosana, upp á Einihlíðum þar sem má sjá hraunfossa Einihlíðabruna steypast fram af hlíðunum og þær sendnar og ljósari litum á milli. Þaðan má einnig sjá beint inn Lambafellsklofann þar sem hann ber í Dyngurnar (Grænudyngju og Trölladyngju). Þar sem staðið var við klettana varð til veðurleysa, þ.e.a. engu veðri var til að dreifa um stund. Mávahlíðarnar í suðri báru sig vel yfir umhverfið.
Haldið var upp Mosastíg, sem liggur þarna suður um hraunið með stefnu rétt austan við Lambafell og í endann á Dyngjuhálsi. Stígurinn er vel greinilegur vestan við Böggukletta, en sunnan við klettana skiptist hann og liggur hinn stígurinn norðar niður Mosana. Mosastígurinn stefnir niður að Skógarnefi og um Skógargötuna niður að Alfaraleið.

Sóleyjarkriki

Sóleyjarkriki efst. Horf frá Trölladyngju.

Í fyrstu er stígurinn á sléttu helluhrauni, en sunnar þarf að þræða úfnara apalhraun. Hann er þó vel greinilegur svo til alla leiðina í gegnum hraunið. Þarna eru nokkur hraun, hvert ofan á og utan í hverju öðru. Eldborgarhraunið er sýnu umfangsmest að vestanverðu og Dyngnahraunið að austanverðu.
Áður en komið var á stígnum út úr hrauninu að sunnanverðu var stefnan tekin til vesturs yfir úfið Eldborgarhraun og stefnan tekin á Sóleyjarkrika vestan þess.

Reynt göngufólkið var þó ekki í vandræðum með að finna greiðfærustu leiðina. Fljótlega birtist krikinn framundan, gulur og sléttur.

Trölladyngja

Trölladyngja og nágrenni.

Frá hrauninu var áhugavert að virða fyrir sér sléttuna, Höskuldarvelli og Sóleyjarkrika, sem vatnið hefur fært úr hlíðunum vestan Trölladyngju niður á sléttlendið og myndar stærðarinnar gróna og allslétta grasflöt. Lækurinn er enn að bera með sér leir, sand og mold úr hlíðunum og heldur gróðurferð sinni áfram norður með vestanverðu Eldborgarhrauni. Þegar hærra hraunið stöðvar hann á einum stað, flytur han sig yfir að þeim næsta þar sem auðveldara er að komast áfram, því hann ætlar sér ekki að lát stöðva sig fyrr en hann kemst til sjávar. Að lokum mun hann liðast niður um Tóurnar og úr þeim niður að ströndinni við Hvassahraun, hvenær sem það svo sem verður.

Höskuldarvallavegurinn var genginn að upphafsstað. Keilir bar herðar sínar vel í vestri.
Frábært veður – logn og hlýtt. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Keilir

FERLIRsfélagar – Keilir að baki.

Ólafsvarða

Eftirfarandi brot úr frásögn birtist í Menningarblaði Lesbókar Morgunblaðsins laugardaginn 3. febrúar 2001. Höfundurinn, Hanna María Kristjánsdóttir, var nemi í þjóð- og fjölmiðlafræði við HÍ.
Rafn Símonarson með líkamsleifar Ólafs Þorleifssonar 1931Hinn 21. desember árið 1900, eða fyrir rétt rúmum 100 árum, fór Ólafur Þorleifsson, bóndi í Miðhúsum á Vatnsleysuströnd að leita að kindum uppi á Strandarheiðinni. Hann kom aldrei til baka. Árið 1931 fann Rafn Símonarson, bóndi í Austurkoti, líkamsleifar Ólafs ofan í djúpri og dimmri gjá. Gjáin er örskammt ofan við brún Stóru-Aragjár, um 2.5 km ofan við núverandi Reykjanesbraut.
„Vatnsleysuströndin er ekki þekktust fyrir landbúnað fyrr á árum heldur hina geysimiklu útgerð sem þaðan var stunduð. En á flestum bæjum, þar sem grasnytjar voru, stunduðu ábúendur nokkurn búskap með útgerðinni. Flestir áttu sauðfé og voru sumarhagar þess á Strandarheiði en þar þóttu nokkuð góðir bithagar. Eftir heiðinni endilangri liggja sprungubelti sem einkennast af opnum sprungum og gjám og oftast er grunnur sigdalur á milli. Þessar gjár eru margar mjög tilkomumiklar þar sem annar gjárveggurinn er miklu hærri heldur en hinn svo munar mörgum metrum. Því er heiðin torfarin og víða hættuleg eftir að snjó festir á jörðu… Daginn sem Ólafur fór frá konu sinni, Valgerði Björnsdóttur fæddri 3. júní 1857, og tveimur dætrum sínum, þeim Jórunni 11 ára og Þóreyju 6 ára, var mikill snjór en veðrið annars ágætt. Þegar leið á daginn tók hins vegar að þykkna upp og með kvöldinu gerði svartasta byl sem stóð þó ekki mjög lengi. Þennan sama dag voru Vogamenn að leita kinda á heiðinni og sáu þeir Ólafsgjámann nálægt Dalselsenda skömmu áður en bylurinn skall á. Töldu þeir síðar víst að maðurinn hafi verið Ólafur. Miðað við fótspor sem fundust og talin voru vera Ólafs hefur hann verið á réttri leið þegar veðrið skall á en vegna blindhríðar og myrkurs fallið ofan í eina af hinum mörgu sprungum sem leynast á þessari leið á Strandarheiðinni. Daginn eftir var leitað að Ólafi og einnig á aðfangadag en án árangurs. Leitinni var hætt í bili en hélt svo áfram um áramótin. Þá var snjórinn farinn sem hulið hafði jörðina og gert leitarmönnum erfitt fyrir. Leitað var í marga daga, bæði í gjám og sprungum en allt kom fyrir ekki. Ólafur var horfinn og fannst ekki hvernig sem leitað var. Í langan tíma eftir slysið höfðu menn, sem gengu þarna um, það fyrir vana að svipast um í gjánum um leið og þeir gengu yfir þær en aldrei sást neitt sem bent gat til hvar maðurinn væri niðurkominn.
Næsta vor var maður að nafni Kristján Jónsson úr Grindavík á ferð um heiðina. Hann gekk frá Vatnsleysu og yfir til Grindavíkur. Á leiðinni þóttist hann hafa séð staf og fataræfla liggjandi á stalli í gjá einni. Hann gaf þessu ekki nánar gætur en hafði þó orð á því þegar hann kom heim. Þetta fréttist fljótlega niður á Vatnsleysuströnd og fóru þá Teitur Þorleifsson, bróðir Ólafs, sem bjó á Hlöðversnesi, og Benedikt Pétursson, bóndi á Suðurkoti í Vogum, til fundar við Kristján. Hann hafði hins vegar ekki lagt staðinn á minnið og treysti sér ekki til að finna hann aftur. Það var því ekki hægt að leita af neinu viti eftir þessum vísbendingum og allri leit hætt upp frá því.

Ólafsvarða

Árið 1930, rétt um 30 árum síðar, voru menn úr hreppnum að leita kinda uppi á heiðinni. Mikill snjór var sem gerði mönnunum erfitt fyrir. Þeir urðu oft að stoppa til að hreinsa snjó úr ull kindanna sem gerði þeim erfitt um gang og svo urðu þeir að fara varlega því snjórinn huldi margar hættur. Rekstrarmenn sáu að kindur féllu ofan í gjá eina og engin leið að bjarga þeim nema að síga niður, bæði vegna myrkurs og fátt sem hægt var að festa hendur eða fætur á. Þegar mennirnir komu til byggða báðu þeir Rafn Símonarson um að síga niður í gjána. Rafn hafði alltaf verið hræddur við þessar sprungur en í þetta sinn fannst honum hann verða að síga niður af einhverri ástæðu. Snemma næsta morgun var lagt af stað og þeir fóru fimm saman útbúnir nauðsynlegustu áhöldum. Þegar að gjánni kom voru fest bönd utan um Rafn og hann látinn síga niður eftir hlið gjárinnar. Hann seig niður í djúp svartnættis, myrkurs og kulda og fannst það ekki mjög aðlaðandi. Þó fannst honum svolítið ævintýralegt að vera kominn tólf til fjórtán metra ofan í jörðina, lifandi og í fullu fjöri. Þegar hann var kominn ofan í gjána þar sem kindurnar voru verður honum litið upp fyrir sig og sér þá, sér til mikillar undrunar, staf sem stungið hafði verið í bergið. Honum brá í fyrstu við þessa sýn og hann hugsaði um alla þá menn sem gengið höfðu um heiði þessa og aldrei komið til baka. Þegar hann ætlaði að skoða stafinn betur fannst honum sem hvíslað væri að þetta væri stafur Ólafs Þorleifssonar sem mikið var leitað en aldrei fannst og hér hlytu því leifar hans að liggja.

Kvöldsetur í Vogaheiði

Rafn kallaði til félaga sinna að hann hefði fundið göngustaf sem hann héldi að væri stafur Ólafs. Þeir svöruðu að það gæti tæplega verið því það væri svo langt síðan það slys átti sér stað. Rafn hugsaði með sér að þeir hefðu sjálfsagt svarað honum svona til að honum myndi ekki bregða og missa jafnvægið og traðka þá kannski á beinunum sem leynst gætu þarna niðri. Rafn bjargaði kindunum eins og hann átti að gera en aðgætti um leið hvort hann fyndi einhverjar vísbendingar en það var töluverður snjór þarna niðri og því ekkert að sjá. Rafn og félagar hans tóku stafinn með sér heim og ákváðu að fara aftur á þennan stað og rannsaka hann betur um leið og snjórinn færi.
OlafsgjaUm vorið, hinn 21. júní 1931, fóru þeir svo af stað. Þegar þeir komu að gjánni leist þeim betur á þetta því allur snjór var horfinn og mun auðveldara að leita. Vorsólin skein og lýsti upp dimmar og drungalegar sprungur heiðarinnar. Þar sem áður var nístingskuldi og myrkur var nú kominn vorylur og birta. Þeir hófust handa, bönd voru fest á Rafn og hann látinn síga niður í gjána til að leita Ólafs sem fór að heiman frá konu og dætrum glaður og heill heilsu en kom aldrei til baka. Þegar Rafn var kominn um það bil tíu metra ofan í gjána leit hann niður fyrir sig og sá þá hvar beinin lágu á litlum stalli sem stóð út úr berginu. Stallurinn var svo lítill ummáls að ekki var hægt að standa á honum á meðan verið var að tína beinin upp. Hann þurfti því að hanga í böndunum á meðan hann gerði það. Þegar Rafn hafði tekið allt sem á stallinum var sá hann að fótleggi og fótabein vantaði. Þau höfðu dottið fram af stallinum og lágu á jörðinni nokkru neðar. Rafn gaf því félögum sínum merki um að láta sig síga neðar. Rafn sagði að pallurinn þar sem beinagrindin var hafi verið svo lítill að ekki hafi verið unnt að sitja þar nema að láta fæturna hanga fram af. Lærleggirnir lágu líka þannig að endar þeirra stóðu út af pallbrúninni. Annar lærleggurinn var brotinn en lá þó þannig að brotin féllu saman og sennilega hefur Ólafur lærbrotnað um leið og hann féll ofan í gjána. Að öðru leyti voru beinin mjög lítið fúin, næstum allar tennurnar voru til dæmis fastar í kjálkunum.

Ólafsvarða-3

Á stallinum voru einnig leifar af fötum. Þetta sýnir vel hvað hlutir geta varðveist ótrúlega vel niðri í jörðinni þar sem hæfilegur kuldi og loft fær að leika um þá, en víða niðri í þessum gjám er snjór stóran hluta ársins.
Á meðan Rafn var að tína upp beinin velti hann því mikið fyrir sér hvað Ólafur hefur þurft að ganga í gegnum áður en hann lést. Hann hefur fallið ofan í gjána og líklega lærbrotnað við það að lenda á syllunni. Þegar stafurinn hans fannst stóð hluti hans út úr berginu. Ólafur hefur sennilega stungið honum í glufu í berginu og reynt að hífa sig upp en stafurinn brotnað við það. Þá hefur ekkert annað verið að gera en að bíða, bíða eftir því að deyja… Kvalirnar sem Ólafur þurfti að þola af meiðslum sínum voru eflaust litlar miðað við þær hugsanir sem kvöldu sálu hans. Það má þó ætla að Ólafur hafi látist fljótlega eftir að hann féll í gjána þar sem hann svaraði ekki köllum leitarmanna daginn eftir
Ólafur Þorleifsson var fæddur í Austurkoti hinn 10. júlí 1861 og var því aðeins 39 ára gamall þegar hann lést í desember árið 1900. Leifar hans voru bornar að Austurkoti í Brunnastaðahverfi og síðan fluttar að Kálfatjörn þar sem Ólafur var jarðaður að viðstöddu fjölmenni hinn 30. júní 1931… Gjáin, sem Ólafur féll í og týndi lífi sínu, er nokkuð fyrir austan Arahnjúk og kallast nú Ólafsgjá og þar hjá er einnig Ólafsvarða…“
Heimildir:
Guðmundur B. Jónsson (1987). Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi. Vogar: Guðmundur B. Jónsson.
Kirkjubók, Kálfatjörn 1894-1920.
Kristján Hannesson (munnleg heimild, 21. janúar 2001, handrit í fórum höfundar). Keflavík.
Rafn Símonarson (1936, 16. febrúar). Þrjátíu ár í gjáarsprungu. Vitinn, tímarit Ungmennafélagsins Þróttar, Vatnsleysustrandarhreppi.
Höfundurinn [Hanna María Kristjánsdóttir] er nemi í þjóðfræði og fjölmiðlafræði við Háskóla Íslands.
Vogaheiðin í síðdegisvetrarsólinni