Tag Archive for: Vatnsleysuströnd

Hvassahraun

Gengið var um Hvassahraun með það fyrir augum að reyna að finna Alfaraleiðina þar í gegn. Byrjað var að skoða hraundrílin á Strokkamelum. A.m.k. tvö þeirra eru alveg heil, tvö önnur eru fallega formuð og önnur hálfheil eða hrunin. Hraundrílin hafa myndast á svipaðan hátt og tröllakatlanir undir Lögbergsbrekkunni, en eru einungis minni í sniðum. Fegurð þeirra er þó engu minni eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Hvassahraun

Brugghellir ofan Hvassahrauns.

Þaðan var gengið að opi Brugghellisins, en til þess að komast niður í hann þarf a.m.k. 6 metra langan stiga. Þetta er greinilega rúmgóður hellir. Niður í honum eru hleðslur, bæði undir opinu og síðan út frá þeim beggja vegna. Flóðs og fjöru gætir í hellinum og flýtur ferska vatnið ofan á saltvatninu. Í háflæði er einungis hægt að tilla sér á hleðslurnar.

Sagt er að hellirinn hafi áður fyrr verið notaður til brugggerðar, enda erfitt er að finna opið. Björn Blöndal átti að hafa gert nokkrar árangursríkar tilraunir til að finna hellinn á sínum tíma. Hvað sem öðru líður er þarna hin ákjósanlegasta aðstaða til vínandaframleiðslu, hafi menn á annað borð áhuga á slíku.

Hvassahraun

Hraunstrýtur á Strokkamelum.

Gengið var upp Rjúpnadali og síðan austur Flatahraunið uns komið var að klofnum háum hraunhól í því austanverðu. Hægt er að ganga í gegnum hólinn og eru háir hraunveggir á báðar hendur. Þetta er mjög fallegt náttúrufyrirbæri, tiltölulega stutt frá Reykjanesbrautinni. Gjáin er u.þ.b. 60 metra löng, en beygir svo ekki er hægt að sjá á milli enda. Hún er hæst í miðjunni. Gras er í botninum og leiðin því greið í gegn. Trúlega er um einn af svonefndum Einbúum að ræða. Tekin var mynd í gjánni og kom hún skemmtilega út. Skammt austar eru Virkishólar, Virkið, Grænudalir og Loftskútahellir.
Þarna skammt frá er Hvassahraunsselsstígur. Lítil varða er á hæðarbrún skammt austar og önnur á hraunhrygg í vestri. Óljós stígur liggur þar á milli, en erfitt er að greina samfellda götu þarna í grónu hrauninu. Neðar má sjá leifar af tveimur hlöðnum refagildrum. Kjarr hefur vaxið í kringum þær og er önnur öllu heillegri.

Hvassahraun

Alfaraleiðin um Hvassahraun.

Alfaraleiðin sést óljóst á þessu svæði, en með þolinmæði og gaumgæfni má rekja hana niður að Reykjanesbrautinni, þar sem hún hefur verið lögð yfir gömlu götuna ofan við Hvassahraunsbæinn. Þegar komið er vestur fyrir Kúagerði nefnist leiðin Almenningsleið eða „Menningsleið“ vegna prentvillu prests. Vel sést móta fyrir henni vestan við Kúagerði áleiðis út á Vatnsleysuströnd.
Gangan tók um klukkustund í logni og hlýju veðri.

Hvasahraun

Strokkamelar – hraundríli.

Loftsskúti
Í leit að Grænhólshelli og Loftskúta í síðustu ferð um Óttarsstaða-, Lónakots- og Hvassahraunsland fundust hvorugir með vissu þrátt fyrir að beggja er getið í örnefnalýsingum. Hins vegar voru bæði Sjónahólsshellir og Grendalaskúta (Grændalahellir) barðir augum, en þeirra er einnig getið í lýsingunum, auk þess sem hægt var að ganga að þeim nokkurn veginn á vísum stað.
LoftskútiNú var haldið með áhöld; sög, skóflu, kúbein og ljósker, upp í Virkishóla, ofan Reykjanesbrautar. Ætlunin var að staðsetja Loftsskúta m.v. fyrirliggjandi lýsingu. Þrír staðir komu til greina með hliðsjón af fyrri ferðum um svæðið. Til að komast að þeim þurfti meðfylgjandi verkfæri. Við skoðunina fannst nokkuð stór hellir, hér nefndur Virkishólahellir. Í honum voru mannvistarleifar.

Í örnefnalýsingu um skútana tvo segir m.a.:
„Grænhólsskúti er suðaustur af Grænhól, stundum nefndur Stóri-Grænhóll“.
Þá segir um Loftsskúta: „Milli Smalaskála og Brennhóla er smáskúti rétt ofan við Virkið sem heitir Loftsskúti.“ „…Virkishólar eru þrír. Virkishóllinn vestasti er stærstur. Mið-Virkishóll er minnstur, og þar austur af er Virkishóllinn austasti. Milli þeirra er hringlaga jarðfall í hraunið, tveggja metra djúpt og þrettán metra vítt. Þetta er Virkið… Þar suður og upp af er hólaþyrping, Brennihólar. Loftsskúti er fjárbyrgi milli Smalaskála og Brennhóla…“

Loftskúti

Skammt ofan við Virkið milli Virkishóla eru grónir bollar. Í einum þeirra voru tvö göt utan í lágum gónum bakka. Ofan við hann var gat niður í jörðina undir birkihríslufléttu.
Byrjað var á að beita söginni á birkilurkana sem lágu yfir lítið op í litlu jarðfalli á yfirborði hraunsins. Í ljós kom tiltöllega grunnur skúti, líkari grenjaopi.
Þá var gripið til skóflunnar utan í lágum bakka á grasi grónu svæði örskammt ofar. Rofjarðvegur hafði fokið utan í bakkann og gróður; lyng og hrís, vaxið þar yfir lítið op niður í jörðina. Þar reyndist einnig vera um að ræða grunnan skúta, einna líkastan greni.
Örskammt vestar var enn eitt opið, þakið gróðri. Svo virtist sem þarna gæti verið enn eitt opið á sama „greninu“. Eftir að stungið hafði verið frá því kom í ljós vænlegur gangur. Luktin var tekin og henni beint hvatvíst inn undir hraunbakkann. Og sko, þarna virtist glytta í eitthvað skammt framundan. Lagst var á magann og rýnt – hvatvíst. —— Ekki var að sjá hvor varð meira hissa – skoðarinn eða skollinn. Sá fyrrnefndi hentist til baka, út undir bert loft (og dró djúpt andann), en luktin var eftir. Ennþá forvitnari og óundirbúnari skollinn hvarf inn undir hraunið. Skoðarinn teygði sig varfærnislega, og hálf óttarsleginn, eftir luktinni. Hann þurfti nauðsynlega á luktinni að halda því meira var enn óskoðað. Á öllu gat hann á von – en varla þessu – og þó. Þetta var áreiðanlega ekki Loftsskútinn – þetta var skollaskútinn. Og hana nú…
Gengið var áleiðis upp í Brennihóla. Því miður var gps-tækið ekki með í för að þessu sinni, en í u.þ.b. 283 metra fjarlægð ofan við Virkishólana kom í ljós op í litlu grónu jarðfalli. Þegar það var skoðað betur vitraðist vitringunum að stór steinn hafði fallið fyrir opið á stórum helli. Opið sneri mót suðri. Hægt var að komast niður í hann utan og austan við steininn, en þar fyrir innan voru greinilegar mannvistarleifar.
LoftskútiAð steininum fjarlægðum, sem ætti að vera auðvelt með kúbeini eða litlum járnkarli, er greinilega hægt að komast mætti niður undir hraunið og síðan þar enn lengra niður. Þarna virtist vera rúmgóður skúti. Ekki var farið niður að þessu sinni af varfærnisástæðum, en það verður gert fljótlega og hellirinn þá skoðaður betur.
Gengið var upp í Brennihæðir og þaðan til norðvesturs að skjóli, sem fundist hafði í fyrri ferðinni, undir háum hraunbakka í nokkuð stóru og grónu jarðfalli. Þar fyrir vestan er stórt jarðfall og greinilegur umgangur af ummerkjum í mosanum að dæma. Myndarleg varða er þar vestan við á hraunhólnum með Keili í bakgrunni. Varðan hefur andlitsmynd með augnsvip þegar horft er á hana úr austri.
Loks var kúbeinið handleikið og krækt með því í stóran stein, sem fallið hafi niður úr lofti skútans og lokað innganginum að mestu. Steinninn var laus og auðvelt að handleika hann til hliðar. Við það fóru tveir aðrir steinar af stað, en eftir að hafa forfært annan þeirra var leiðin greið. Inni var mold í gólfi og hið ákjósanlegasta fjárskjól fyri u.þ.b. 50 fjórfættar, þ.e. 200 fætur svo framarlega sem allar hafi verið eðlilegar (er að reyna að teygja svolítið á textanum svo rými verði fyrir fleiri myndir).
Í sunnanverðum skútanum, sem var lágur fyrir mann, en rýmilegur fyrir rollur, var gólfið flórað. Þarna hafði mannshöndin komið nærri og því líklegt að skútinn hafi verið notaður sem fjárskjól fyrrum. Ekki er þó kunnugt um heimildir um slíkt, sem og um svo margt annað, sem uppgötvað hefur verið á hraunsvæðum Reykjanesskagans.
Skammt norðan við skútann, í sama jarðfalli, er rúmgóður skúti. Þar hefur gólfið verið lagfært.
LoftskútiAnnars er fróðlegt að hlusta á lærða fræðinga fjalla um hitt og þetta, sem augljóst getur talist og jafnan hefur verið getið um í skráðum heimildum eða verið aflað eftir tiltölulega auðveldum leiðum, en enn fróðlegra væri að fá allar þær mannvitsbrekkur til að nota bókavitneskjuna á vettvangi þar sem skynvitin koma auk þess að mestu gagni. Fræðasamfélagið hefur yfirleitt, en þó ekki án undantekninga, litið niður á áhugafólk um ákveðin viðfangsefni; hvorki viljað viðurkenna rök þess né aðferðir. Áhugafólkið hefur hins vegar ekki eytt tíma sínum í að gagnrýna fræðasamfélagið – það hefur verið of upptekið af hinum spennandi daglegu viðfangsefnum sínum. Ef hins vegar þessir aðilar myndu sameinast um að nýta þekkingu, áhuga, færni og hæfileika hvers um sig á sem bestan og áhrifaríkastan hátt er ekki ólíklegt að ætla að út úr því gæti komið hin ágætasta niðurstaða er túlka mætti sem „árangur af hinu ánægjulegasta stefnumóti“.
Í rauninni er full ástæða fyrir fræðimenn/vísindamenn, sem vilja láta taka sig alvarlega, að brjóta odd af oflæti sínu og áræða að feta nýjar slóðir þar sem hliðsjón er haft af fyrirliggjandi vitneskju, með eða án forskriftar, áhuga, náttúrugáfum sem og eðlilegu mati á aðstæðum að teknu tilliti til breyttra breytinga í gegnum tíðina. Vitað er að skv. þróunarfræðum þurfa hlutirnir alltaf að heita eitthverjum fínum og nýbreyttum nöfnum, en er ekki kominn tími til að láta þá bara heita sínum eðlilegu náttúrunöfnum? (Nú hefur skapast nægilegt rými fyrir nauðsynlegar myndir – þakka þolinmæðina).
Ljóskerið kom að gagni í öllum tilvikum. Með því upplýstist að sumar grunsemdir gátu ekki átt við rök að styðjast, en varpaði ljósi á aðrar, sem gaumgæfa þarf betur síðar.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Loftsskúti

Loftsskúti.

Þráinsskjöldur

Á Vísindavef Háskóla Íslands er spurt: „Hvaðan koma örnefnin Þráinsskjöldur og Þráinsskjaldarhraun?“
Hallgrímur J. Ámundason, fyrrverandi verkefnisstjóri nafnfræðisviðs á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, svarar:

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur – gígar dyngjunnar láta ekki mikið yfir sér.

„Þráinsskjaldarhraun er mikið í fréttum þessa dagana vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga, ásamt Fagradalsfjalli, Keili, Litla-Hrút, Krýsuvík, Brennisteinsfjöllum og fleiri góðum örnefnum.
Heitið virðist sett saman úr þremur hlutum: Þráinn, skjöldur og hraun. Það síðastnefnda er auðskiljanlegt. Skjöldur er svo þekkt í örnefnum til að lýsa dyngjulaga fjöllum, samanber Lyngskjöld á sunnanverðum Reykjanesskaga og hina alkunnu Skjaldbreiði norðan við Þingvallavatn. Hins vegar er ekkert vitað um Þráin. Hver var Þráinn? Hvað var Þráinn? Var Þráinn yfirleitt til?

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur – einn gígurinn.

Örnefnin Þráinsskjöldur og Þráinsskjaldarhraun eiga sér ekki forna sögu eins og mörg önnur íslensk örnefni. Þau koma ekki fyrir í Landnámu eða Íslendingabók Ara fróða, á þau er ekki minnst í Íslendingasögunum og þjóðsögurnar eru sömuleiðis þöglar. Þau koma í raun fyrst fyrir í ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar frá miðri 18. öld. Þar segir: „Skolahraun er ævagamalt hraun, sem liggur vest-suðvestur af fjallinu Keili og niður til strandar, þar sem það heitir Þráinskjöldshraun.“ Góðri öld síðar segir Þorvaldur Thoroddsen í sinni ferðabók: „Sumir kalla hraunin vestur af Keili Þráinskjölds- eða Þráinskallahraun.“ Af orðum Eggerts og Bjarna er svo að sjá heitið hafi einkum átt við hraunið nær sjó í norðri en Þorvaldur virðist nota það í víðari skilningi, svipað og nú er gert.

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur og nágrenni.

Örnefnaskrár fyrir þetta svæði á Reykjanesskaganum kannast sömuleiðis ekki við Þráinsskjöld. Sesselja G. Guðmundsdóttir sem er heimakona úr Vogunum og hefur kannað þetta svæði mikið, bæði á bók og fæti, segir að heimamenn hafi aldrei kallað þetta svæði annað en Heiðina og náði það nafn allt frá sjó í norðri og suður í Reykjanesfjallgarð. Sjá rit Sesselju: Örnefni og gönguleiðir í Vatnleysustrandarhreppi sem Lionsklúbburinn Keilir gaf út 2007.
Örnefnið hefur væntanlega fest í sessi með skrifum jarðfræðinga um svæðið á 20. öldinni en fyrir þann tíma hafa verið áhöld um hvort það var yfirleitt notað af heimamönnum eða hversu vítt það náði. Nafnið er því ófyrirsegjanlegt eins og skjálftarnir sem skekja það nú.“

Heimild:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=81334

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur og aðrar dyngjur Reykjanesskagans.

Borgarkot

Krosshlaðin skjól má finna á a.m.k. þremur stöðum á Reykjanesskaganum, þ.e. við Borgarkot, á Njarðvíkurheiði og við Breiðagerði. Valdimar Samúelsson hefur skoðað þessi mannvirki með hliðsjón af því hvort þau hafi haft einhvern annan tilgang en að veita skepnum skjól fyrir veðrum og vindum. Hann hefur einnig verið í sambandi við FERLIR um önnur mannvirki á Skaganum er gætu tengst svipuðum mannvirkjum í öðrum löndum, einkum á víkingaslóðum vestanhafs.

Stóra-Krossskjól

Stóri-Krossgarður á Njarðvíkurheiði.

Samkvæmt mælingum Valdimars er Borgarkotskrossinn um 30 cm á hæð og lengdin er 14 metrar x 14 metrar. Garðar er mynda krossinn eru um 2 metrar á breidd. Mannvirkið er innan jarðlægs túngarðs um tóftir Borgarkots, skammt norðan þeirra. Því var raskað talsvert fyrir nokkrum árum er minkaveiðinn gengu þar berserksgang í leit að bráð sinni.
Breiðagerðiskrossinn er um 30 cm á hæð. Hann er hlaðinn á föstu bergi. Lengd á krossinum er 11 x 12 metrar og breidd garðanna er um 180 cm. Hann er því litlu minni en sá fyrrnefndi.
Krossinn fyrir innan og ofan Innri Njarðvík (sunnan Reykjanesbrautar) er hæstur eða um 60 til 70 cm þar sem hann er óhruninn og hefir sjálfssagt verið hærri fyrrum . Hann er stærstur af krossunum þrem eða 16 metra x 16 metrar, enda í enda. Garðar eru rúmir 2 metrar á breidd.
„Eftir þessar mælingar fór ég að spekúlera að það hlyti að vera einhvað meira við þessa krossa en það eina að vera skjólgarðar fyrir kindur þó ég viti hins vegar að kindur munu hafa notað þá sem skjólgarða.

Borgarkot

Krossskjól við Boargarkot – uppdráttur ÓSÁ.

Það sem kom í ljós eftir töluverða kortaskoðun og spekúlasjónir er það að allir þessir krossar eiga það sameiginlegt að hver og einn hefur mið af mjög sögulegum og landfræðilegum stöðum á sömu breiddarbaugslínu. Miðað við þessi gögn þá skera vestur og austur línur eftirtalda staði: Borgarkots kross á miðjan topp á Öræfajökli. Breiðagerðiskross á hæstu bungu á Ingólfsfjalli þ.e. Inghól sjálfan. Innri Njarðvíkurkrossinn fer beint í gegn um vörðurnar þrjár sunnan í Ingólfsfjalli.
Það væri gaman ef einhverjir geti sannreynt þetta en mér finnst þetta það merkilegt sögulega séð að þetta gæti orðið nánara rannsóknarefni.“
Að sjálfsögðu þurfa “krossskjólin” á Reykjanesskaganum ekki að hafa verið búin til fyrir kindur – upphaflega. Tilgangurinn gæti verið annar þótt skjólkenningin virðist nú nærtækust og sennilegust. En hvers vegna hlóðu menn þá ekki hringborgir á framangreindum stöðum til skjóls fyrir fé, eins og algengt var (þekktar eru um 70 slíkar á Skaganum)?

Borgarkot

Krossgarður við Borgarkot.

Borgarkotskrossinn er heima við bæ. Breiðagerðiskrossinn er skammt frá bæ. Innri-Njarðvíkurkrossinn er alllangt frá bæ. Þarna virðist því ekki vera um tengingu að ræða. Sá síðastnefndi er þó ekki langt frá Narfakotsborginni (Grænuborg), sem er hringhlaðin fjárborg.
Spurningin er hvort svarið við krosshleðslunum, ef það er annað en í fljótu bragði virðist, liggi í meiri nálægð við þau en að framan greinir – eitthvað sem menn gætu hafa haft í sjónlínu og verið þeim sameiginlegt gildi?
Krosshlaðin gerði veita skjól fyrir öllum áttum, líkt og hringhlaðnar fjárborgir. Þau hafa því þjónað sama tilgangi sem slík – en bara með öðru lagi.
En sem fyrr segir – hið augljósa og nærtækasta þarf ekki endilega að vera sennilegasta skýringin. Ef einhver hefur verið að velta þessu fyrir sér (því varla verður hjá því komist þar sem um áberandi mannvirki er að ræða) þá væri áhugavert að heyra frá hinum sama (ferlir@ferlir.is).

Stóri-krossgarður

Stóri-krossgarður.

Lynghólsborg

Gengið var um Kálfatjarnarheiði ofan og vestan Staðarborgar. Áður hafði Vatnsleysu- og Flekkuvíkurheiðar norðan og austan borgarinnar verið skoðaðar.
VarðaHnit voru tekin á vörður, en þegar staldrað var við og svæðið gaumgæft lá í loftinu að þarna væri annað og meira en sýndist í fljótu bragði. Enda fundust á göngunni m.a. tvær fjárborgir og gerði, sem ekki hafa verið skráð áður. Ljóst er að enn má finna gleymdar minjar í heiðunum ef vel er að gáð.
Skammt ofan við Staðarborgina eru grónar lágar. Ofan við þær er aflangt klapparholt. Undir því hefur verið ferhyrningslaga ílangt gerði. Sjá má móta fyrir hleðslum, en annars hefur svæðið gróið upp, ólíkt því sem er umleikis.
Vestar er Lynghóll. Norðar er Staðarborgin. Tækifærið var notað og borgin skoðuð.
Í grein Árna Óla í Lesbók MBL 1852 segir m.a. um Staðarborgina. „Einn góðviðrisdag í sumar fór ég að skoða borg þessa og fékk Erlend bónda á Kálfatjörn til þess að fylgja mér þangað. Þetta er mikið mannvirki og ber þess glöggt vitni að þar hefir handlaginn maður verið að  verki.

Staðarborg

Borgin er hringlaga og eru veggirnir eingöngu hlaðnir úr grjóti, valdir hleðslusteinar bæði í ytri og innri hleðslu, en tylt upp á milli með smágrjóti. Vegghæð er um 2 metrar og veggþykktin neðst er um 1 ½ metri, en 1 metri efst. Þvermál að innan er um 8 metra, ummál hringsins að innan um 23 metra, en 35 metra að utan. Efst slútir hleðslan að innan nokkuð, líkt og byggingarmeistarinn hafi hugsað sér að hlaða borgina upp í topp, eins og hinar smærri fjárborgir, sem voru víða um land. Segir í Íslenskum þjóðháttum að fram á 19. öld hafi það víða verið siður á Suðurlandi, að ekki voru til hús yfir sauði, önnur en jötunlausar fjárborgir. Borgir þessar voru venjulega kringlótt byrgi, hlaðin í topp og gátu verið 6 álna háar eða meira. Stundum var þó reft yfir þær og voru veggir þá ekki nema svo sem 2 álna háir. Dyr voru svo lágar, að fé var aðeins gegnt um þær, og engin hurð fyrir þeim. Inn í þessar borgir var fénu ætlað að hörfa í hríðum og ilviðrum, og stóðu þær því oft langt frá bæjum.
StaðarborgÞessi borg var öðru vísi, nema hvað hún er hringlaga. Hún er svo miklu stærri en aðrar fjárborgir, að henni svipar helst til hrossaborganna,s em fyrrum voru í Eyjafirði og Skagafirði. Dyrnar voru þó upphaflega svo lágar og þröngvar, aðeins 1 metri á hæð, að af því sést að þetta hefir verið sauðfjárborg en ekki hrossaborg. Einu sinni hafði þó tryppi [aðrir segja kálf] skriðið þar inn með einhverjum hætti, en komst ekki út sjálfkrafa og mönnum tókst ekki heldur að koma því út fyrr en dyrnar voru hækkaðar og ná þær nú upp úr tóftinni. En tveir stórir steinar, sem notaðir höfðu verið sem árefti yfir dyrnar, eru þar enn til sýnis, annar fyrir utan tóftina, en hinn við liggur á tveimur steinum innst við vegg inni í tóftinni og er þar eins og setubekkur.

Þórustaðastígur

Hleðslan að innan er mjög vandvirknislega af hendi leyst. Hafa verið valdir í hana aflangir steinar, með sléttum fleti á endanum, sem snúa inn í borgina. Víða eru smásteinar eða steinflísar hafðar til að skorða steina og yfirleitt er hleðslan slétt og holulítil. Ytri hleðslan er með nokkuð öðrum hætti. Þar hefir sýnilega verið kappkostað að binda hleðsluna sem bezt, þannig að hver steinn styddi annan. Þessi hleðsla er því ekki jafn slétt og hin. Stærst er grjótið neðst og skagar undirstaðan sums staðar nokkuð út úr veggnum og virðist svo sem hleðslumaður hafi ekki gætt nákvæmlega hringlögunarinnar þegar hann lagði undirstöðuna, en rétt það af á næsta hleðslulagi.
Enginn veit nú hve gömul þessi borg er og það mun sennilega reynast erfitt að kveða nokkuð á um aldur hennar. Sjálf veitir hún litlar upplýsingar um það, því að ekki hefir byggingameistarinn haft fyrir því að klappa ártal á stein til minningar um það hvenær hún var hlaðin, nema ef vera skyldi að hann hefði klappað það á klöppina inni í borginni. Hafi svo verið þá sést nú ekki fyrir því, vegna þess að taðskán þekur alla klöppina og hefðir fyllt upp allar ójöfnur, svo að gólfið er eggslétt. Er það nú allt grasi gróið og er mjög vistlegt þarna inni, enda er sagt, að þegar Stefán Thorarnesen var prestur á Kálfatjörn, þá hafi hann stundum farið með fólk sitt á sunnudögum upp í borgina og veitt því þar súkkulaði. Af því má ætla að þá hafi fyrir nokkru verið hætt að hýsa fé í borginni, því að tæplega hefði presti þótt þar aðlaðandi ef ber taðskán hefði verið að sitja á.
Gólfið hefir verið gróið. Inni í borginni er skjól fyrir öllum áttum og það hefir ekki verið Hleðsla amalegt að liggja þar í grænu grasinu og njóta sólarylsins, eða fara í leiki. Hefir þá sjálfsagt oft verið glatt á hjalla þarna.“
Þá var stefnan tekin yfir að Lynghól. Í Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi segir m.a. um þetta svæði: „Drjúgum ofar í heiðinni og suðaustur af Þórustaðaborg er hóll mikill um sig sem heitir Lynghóll eða Stóri-Lynghóll. Þórustaðastígur liggur fast norðan við Lynghól og er mjögf greinilegir þar. Á hólnum er varða við götuna og stórt vörðubrot á suðurenda hans sem gæti verið gömul landamerkjavarða. Hóllinn er rétt ofan við miðja vegu milli Strandarvegar og Reykjanesbrautar.“
Þegar upp að Lynghól var komið þurfti að fara yfir Þórustaðastíg, sem er einkar áberandi þar í öxlinni, sem fyrr sagði.

Hleðsla

Á hólnum eru leifar myndarlegrar hringlaga fjárborgar. Grjót hefur tekið úr henni. Í fyrstu virtust þar vera leifar vörðu, sem er fallin, en líklegra er að þar hafi verið kví eða skjól í austanverðri borginni. Borgin hefur verið grjóthlaðin neðst, en með torfi efra. Vel má sjá grjóthleðslur allan hringinn, sem mótað hefur borgina. Hún er gróin og gróðureyðing hefur sótt að. Hér eftir verður borg þessi nefnd Lynghólsborg. Hér gæti líka verið komin Þórustaðaborgin, þ.e. fast við Þórustaðastíginn, en Þórustaðaborgin neðar þá verið stekkur, enda hlaðin í skjóli neðan við hóla. Lynghólsborgin er hins vegar efst á hól, líkt og afstaða flestra fjárborga annarra á svæðinu.

Þórustaðaborg

Þórustaðaborg.

Þórustaðastíg var fylgt upp heiðina. Þegar stutt var eftir upp á Reykjanesbraut sáust miklar vörðuleifar á sléttri klöpp. Skammt austar var myndarlegur hóll, að því er virtist með fuglaþúfu í toppinn. Þegar betur var að gáð voru þar hleðsluleifar líkt og á sama stað og sést hafði á Lynghól, sennilega hlaðið skjól. Umleikis var hringlaga mannvirki, leifar fjárborgar, svipað að stærð og á Lynghól, eftirleiðis nefnt Strandarborg. Neðsta umfarið, úr grjóti, sást allgreinilega. Torfveggur hefur síðan myndað borgina. Gróðureyðing hafði nagað borgina að utan. Hóll þessi er í Kálfatjarnarheiði og því væntanlega verið mannvirki frá einhverjum Kálfatjarnarbæjanna. Vestan hólsins eru grónir blettir. Í einum þeirra mátti hugsanlega greina tóft á tvískiptu húsi, en um það er þó erfitt að fullyrða nema að undangenginni rannsókn.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín. Nýta þarf hverja mínútu vel þegar gengið er síðdegis í októbermánuði því einungis er ratljóst að aftanverðum miðaftan.

Heimild:
-Lesb. MBL, sunnudagur 20. júní 1952 – Árni Óla, bls. 357-360.
-Sesselja Guðmundsdóttir – Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – 2007, bls. 40.Strandarborg

Vatnsleysa
Gengið var um Vatnsleysuheiði og Flekkuvíkurheiði umhverfis Hafnhóla. Ástæðan var tvíþætt; annars vegar hafði FERLIR skömmu áður flogið yfir svæðið með Ólafi Erni og þá m.a. rekið augun í mikið vörðumannvirki á hól, fjárborg, gamlar götur og fleiri minjar og hins vegar var vitað um fjölmargar vörður á svæðinu sem að öllum líkindum höfðu ekki verið hlaðnar til einskis.
DigravarðaVið fyrstu sýn virðast heiðarnar lítt áhugaverðar tilsýndar, en þegar betur er að gáð mátti í þeim finna bæði fornar og áður óskráðar mannvistarleifar sem og áhugaverðar ábendingar um breytingar í gróðurfari umliðinna alda.
Í örnefnalýsingu fyrir Vatnsleysu segir m.a.: „Suður og nokkru ofar í heiðinni er hóll, sem heitir Svartavarða, og áfram ofar er hóll, sem heitir Digravarða. Hlaðnar vörður og vörðubrot eru á öllum þessum hólum. Heiðarslakkinn í austur af Digruvörðu er kallaður Digravörðulágar. Ofan Digruvörðu eru svo litlir hólar, sem heita Geithólar, og skammt þar frá aðrir, sem heita Svínhólar.“ Segja má með sanni að víða leynast vörður og vörðubrot. Með lagni má þó greina vörður frá öðrum „vörðum“. Norðan við Digravörðulágar eru t.d. slík mannvirki, en þegar betur er að gáð er augljóst að þar hafa refaveiðimenn verið að verki. Bæði hafa verið hlaðin skjól á hólum og gamlar hlaðnar refagildrur verið aflagaðar eftir að þær hættu að þjóna hlutverki sínu sem slíkar. Skjólin eru seinna tíma mannvirki, þ.e. eftir að byssan kom til sögunnar, en gildrurnar eru leifar enn eldri veiðiaðferða – þá þegar aflagðra.

Stekkur

Þegar gengið var um ofanverða Vatnsleysuheiðina var auðvelt að staðsetja Svörtuvörðu. Ofar í heiðinni var áberandi hóll. Þegar betur var að gáð reyndist á honum vera hið veglegasta mannvirki, fyrrum einkar stór varða. Hún var að vísu fallin og gróin umleikis, en augljóst var að þarna hafði fyrrum verið mikið mannvirki. Ekki var auðvelt að koma auga á mannvirkið úr fjarlægð, en þess greinilegra var það í návígi á hólnum. Standandi við vörðubrotið virtist sem þarna hafði fyrrum verið eyktarmark (hádegi) frá Stóru-Vatnsleysu eða mið af sjó í Keili.
Undir hólnum að suðaustanverðu var lítill hlaðinn stekkur eða kví. Austan við mannvirkið má ætla að hafi verið hús, líkum þeim er sjá má í seljum. Munurinn var þó sá að ekkert eldhús var þarna greinilegt, sennilega vegna nálægðar við bæinn. „Digravörðulágar“ munu þá heita gróningarnir góðu efra.
Haldið var áfram upp heiðina uns komið var að heillegum vörðum upp undir núverandi Reykjanesbraut. Þegar tekið var stöðumat á svæðinu var einna líklegast að ætla að þarna hafi fyrrum legið þjóðleið frá Kúagerði og áfram yfir heiðarnar áleiðis að Vogastapa. Bæði var leiðin einstaklega greiðfær og eðlileg í alla staði. Fyrir Grindvíkinga eða aðra Suðurnesjamenn myndu sparast nokkrar klukkustundir á göngu ef farin væri þessi greiðfæra leið millum staða en farin væri Ströndin. Um hefði verið að ræða svo til beina leið að Skógfellaleið eða Stapagötu. Og þá var bara að sannreyna áætlunina.
FjárborgÞegar leiðin var gengin var jafnan komið að vandlega hlöðnum vörðum eða greinlegum vörðubrotum. Til hægri handar, á klapparhryggjum, voru og heillegar vörður, sem erfitt var að sjá hvaða tilgangi öðrum hafi gegnt en að vera leiðarmerki yfir heiðarnar. Þegar komið var upp að Hafnhólum (þeim Stóra) mátti sjá að gatan hélt áfram til vesturs yfir heiðina. Ætlunin er að fylgja henni til enda síðar.
Í örnefnalýsingu fyrir Vatnsleysu segir m.a. um þetta svæði: „Heiðarslakkinn suðaustur og upp af þeim er kallaður Miðmundarlágar. Næsta kennileiti er nokkuð stór klapparhóll, sem er kallaður Litli-Hafnhóll. Annar hóll er nokkru ofar, og heitir sá Stóri-Hafnhóll. Báðir þessir hólar eru svipaðir að því leyti, að þeir hafa sprungið eftir endilöngu eða frá norðri til suðurs í jarðskjálftum eða eldsumbrotum. Breiðar gjár hafa þá skipt hólunum í tvennt. Nú eru þær að mestu uppfylltar jarðvegi. Hafnhólar eru á hæsta punkti heiðarinnar á nokkuð stóru svæði og sjást mjög vel af sjó. Þeir voru og eru sjálfsagt enn notaðir sem mið af grunnslóð. Frá Litla-Hafnhól er svo línan um hól, sem á eru vörður tvær, og kallast hann Bræður.“ Síðastnefna kennileitið er vel þekkt.
ARefaskyttubirgiuðvelt var að fylgja leið áfram til vesturs norðan núverandi Reykjanesbrautar. Mjög líklegt má telja að þar hafi fyrrum verið gata undir fótum Grindvíkinga millum Innnesja og Útnesja, aukinheldur Rosmhvalsnesinga. Reykjanesbrautin virðist hafa verið lögð með sömu hagsmuni og sjónarmið í huga og gilt hafa um aldir.
Og þá var bara eftir að leita að fyrrnefndri fjárborg í óravíddinni.
Gengið var til norðvesturs áleiðis niður Flekkuvíkurheiðina frá miðlægum Hafnhólum uns komið var að vandlega hlaðinni vörðu nokkru suðaustan Miðmundahóla í Flekkuvíkurlandi. Þar virðist vera um landamerki að ræða, enda eldri vörðuleifar skammt frá. Þarna hafði leið legið um fyrrum með stefnu á Staðarborg, sem blasti við sem kennileiti í suðvestri. Þegar hugsanleg leið var fetuð til baka upp heiðina að áleiðis að Hafnhólum kom fyrrnefnd „fjárborg“ í ljós. Um var að ræða hringlaga hleðslu á annars sléttu landi. Op virtist til suðurs.
Hér, á þessum stað, var í raun komið hið ágætasta viðfangsefni til verulegra skoðanaskipta. Mannvirkið var hringlaga. Veggir stóðu grónir að utanverðu, en grjótför að innanverðu. Mannvirkið hafði fallið bæði út á við og inn. Ef þarna hefði verið um fjárborg (sú 98. á Reykjanesskaganum) að ræða hefði hún verið hlaðin ofar, t.a.m. á nálægum klapparhólum. Óljós gata lá niður (eða upp) með tóftinni. Staðarborgin blasti við í suðvestri og Hafnhólar til beggja handa í norðaustri.

Varða

Eftir gaumgæftir mátti ætla að þarna hafi fyrrum verið áningarstaður Kálfatjarnarbænda (-presta) á leið þeirra í selstöðuna, hvort sem um var að ræða Kolhólssel, Oddafellssel eða Sogasels í Sogaselssgíg, nokkurs konar og kærkominn áningastaður á langri leið. Um langan veg var að fara frá bæ að selstöðu, hvort sem um var að ræða selstöðuna í Sogaselsgíg eða Oddafelli, og því hefði þarna gjarnan verð um kærkominn áfangastað að ræða á bakaleiðinni úr selstöðunni. Fornminjar, sem þarna má augum líta, gætu því verið hvort sem er aðhald fyrir skepnur ábúenda eða afdrep þeirra sjálfra. Þá gæti tóftin hafa verið sæluhús, jafnvel hof í heiðinni eða tengst gömlum sögnum um kaupstað í Hafnhólum. Erfitt er um það að segja nema að undangegnum frekari rannsóknum (sem Fornleifastofnun ríkisins virðist alls ekki svo áhugasöm um að fenginni reynslu). Umræddar minjar hafa hvergi verið skráðar sem fornminjar – líkt og svo fjölmargar aðrar á Reykjanesskaganum.

Varða milli borganna

Varðandi skráningu á minjum á Vatnsleysuheiðinni eða annars staðar, svona til að gæta sanngirnis, þá er það sennilega ekki vegna áhugaleysis að Fornleifavernd ríkisins skráir ekki minjarnar. Eins og staðan er í dag er enginn mannskapur til eða fjármagn til skráningarvinnu. Það er frekar sorglegt en satt að afar fá sveitarfélög hafa séð ástæðu til þess að leggja út í fornleifaskráningu af eigin hvötum og áhuga á verkefninu og varðveislu minjanna. Eins og staðan er í dag þá fer nánast engin skráning fram af hálfu opinberra aðila, sem ekki tengist mati á umhverfisáhrifum eða skipulagi, sem kostar skráninguna. Fornleifastonfun Íslands er stærst á þeim markaði, en er auðvitað rekin á markaðsgrundvelli og útseldri vinnu, eins og flestir aðilar sem sinna skráningu fornleifa hér á landi.
Hér má sjá lýsingu af göngu um Kálfatjarnarheiði, þá næstu að vestan, og óvæntum fornleifafundum þar.

Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín. HÉR má sjá myndband úr Strandarheiðinni.Heimildir m.a.
-Örnefnalýsingar fyrir Vatnsleysu, Flekkuvík og Kálfatjörn.

Fjárborg

Kolagröf eða skjól í Strandarheiði.

Virkishólar

Gengið var til suðurs frá Reykjanesbrautinni austan við Hvassahraun að svonefndum Virkishólum. Ætlunin var að skoða Virkið, sem þar er á milli hólanna. Virkishólarnir þrír eru áberandi skammt sunnan við veginn.

Virkishólar

Virkið í Virkishólum.

Skv. upplýsingum Kristján Sæmundssonar, jarðfræðings, myndast hólar sem Virkishólar þannig að glóandi kvikan safnast saman á einum stað og nær ekki að renna frá. Massi hraunsins þenst út vegna hitans og gúlpar og sprengir af sér harnaða hraunskorpuna.

Loftsskúti

Loftsskúti.

Djúp sprunga er í efsta hólnum. Greinilegur gróinn stígur lá frá Hvassahrauni áleiðis upp að hólunun. Liggur stígurinn í reglulega lagað, nokkuð djúp og gróið jarðfall; Virkið. Það var notað til að hleypa til í um fengitímann. Fyrirhleðslur eru í norðanverðu jarðfallinu þar sem farið er ofan í það og skúti norðarlega. Vel gróið er í kringum Virkið sem og inni á milli og utan í hólunum. Ekki er útilokað að Virkið hafi einnig verið notað sem nátthagi því greinlega hefur verið beitt þarna um nokkurn tíma.
Skammt austan við Virkishólana eru aðrir hraunhólar í hólóttu helluhraunnu. Suðvesturundir einum þeirra (varða ofan við) er jarðfall. Í því er hlaðið fyrir skúta, Lofstkúta. Þarna munu Hvasshraunsmenn hafa m.a. geymt rjúpur o.fl. þegar þeir voru við veiðar í hrauninu.
Gangan tók 53 mín. Blanka logn og sól.

Loftsskúti

Í Loftsskúta.

Virkishólar
Í örnefnalýsingum fyrir Hvassahraun er sagt frá nokkrum hellum og skútum. Þrír þeirra eru á tiltölulega afmörkuðu svæði, þ.e. Grænhólshellir, Loftsskúti og Grændalahellir (Grendalaskúti). Auk þeirra má telja til Sjónarhólshelli.
Í lýsingunum um skútana segir m.a.:
„Grænhólsskúti er suðaustur af Grænhól, stundum nefndur Stóri-Grænhóll“.

Loftsskúti

Loftsskúti.

Í örnefnalýsingu fyrir Óttarsstaði er hóll á mörkunum nefndur Sjónarhóll. „Þaðan liggur línan suðsuðaustur í Sjónarhól. Á honum er Sjónarhólsvarða, en suður frá honum er Sjónarhólshellir, fjárhellir stór inni í krika. Hann var áður yfirreftur, en nú er það dottið mikið niður.“
Þá segir um Grendalahelli og Loftsskúta: „Upp af Krapphólum ofan vegar koma svo Draugadalir, norðaustur af Virkishólum. Þar upp af eru svo Grendalir og Grendalahellir er ofarlega í þeim, norður af Brennihólum. Milli Smalaskála og Brennhóla er smáskúti rétt ofan við Virkið sem heitir Loftsskúti. Upp af Grendölum er stakur hóll sem heitir Skuggi.“
„Virkishólar eru þrír. Virkishóllinn vestasti er stærstur. Mið-Virkishóll er minnstur, og þar austur af er Virkishóllinn austasti. Milli þeirra er hringlaga jarðfall í hraunið, tveggja metra djúpt og þrettán metra vítt. Þetta er Virkið. Þarna var hrútunum hleypt til ánna um fengitímann.
Þar suður og upp af er hólaþyrping, Brennhólar. Loftsskúti er fjárbyrgi milli Smalaskála og Brennhóla. Norðaustur af Virkishólum eru Draugadalir. Þar eru einnig Grændalaflatir, Grændalir, Grændalahellir, sem er fjárskjól, og Grændalavarða. Upp af Grændölum er hóll, sem nefnist Skuggi.“
Gengið var frá Reykjanesbraut niður að Sjónarhól á mörkum Óttarsstaða og Lónakots. Þar suðaustan undir hólnum er fyrrnefnt fjárskjól; Sjónarhólshellir. Miklar hleðslur eru fyrir skútanum, sem í suðurendanum á stóru grónu jarðfalli.

Virkishólar

Virkið.

Þá var haldið yfir að Grænhól, eða Stóra-Grænhól. Þrátt fyrir leit sunnan við hólinn fannst svonefndur Grænhólsskúti ekki. Reyndar er ekki getið um Grænhólsskúta sem fjárskjól svo hann gæti verið einn af nokkrum tiltölulega litlum skútum sunnan við hólinn. Sá skúti gæti hafa fengið nafn vegna einhvers atburðar er þar á að hafa gerst, s.s. að maður hafi leitað þar skjóls undan veðri eða ö.þ.h. (Sjá um fund á skjólinu undir Lýsingar). Þá ber að hafa í huga að Lónakot kemur inn í markasetningu síðar en Óttarsstaðir. Talið er að Lónakot hafi fyrrum verið þar sem Svínakot var, undir Réttarklettum. Þar ofan við er enn eitt fjárskjólið.
Haldið var upp fyrir (suður fyrir) Reykjanesbraut og stefnan tekin á Virkishóla. Ofan við þá var leitað að Loftsskúta þeim er getið er í örnefnalýsingunum. Skv. lýsingum átti skútinn að vera ofan við hólana, milli Smalaskála og Brennhóla. Þarna eru nokkrir skútar og skjól, en ekki var að sjá miklar eða greinilegar hleðslur fyrir þeim. Brennhólar eru suðsuðaustan við Virkishóla, en Smalaskáli sunnan við þá. Utan í Smalaskála er hins vegar fjárskjól, sem ekki er getið um í örnefnalýsingum.
Svæðið ofan við Virkishóla og á milli Smalaskála og Brennhóla er tiltölulega lítið og afmarkað og því væri vænlegt að gaumgæfa svæðið betur. Ekki er ólíklegt að Loftsskúti kunni að leynast þar ofan við Virkið, eins og fram kemur í örnefnalýsingunni.
Þrír staðir ofan við Virkið eru sérstaklega áhugaverðir. Sá, sem er næst fyrir ofan, er með gróið svæði umhverfis gróið gat. Þegar lyngið og grasið er dregið frá sést niður í stóran skúta. Annað op er skammt austar, en fyrir það hefur gróið birkihrísla. Með aðstoð skóflu væri hægt að skoða þetta betur.
Annar staður er skammt sunnar. Þar er gömul varða ofan við skúta. Ekki virðist langt síðan grjót úr loftinu hefur fallið niður og lokað opinu að mestu.

Virkishólar

Virkishólar.

Með því að forfæra eitt grjótið með kúbeini væri hægt að komast niður og inn í skútann.
Þriðji staðurinn er skammt austar. Þar er gróið jarðfall og skúti inn undir berginu. Staðurinn hefur greinilega verið nýtt sem skjól fyrir fé.
Grændala- eða Grendalahellir var skoðaður ofarlega í Gren-/Grændölum). Ofan við hann er Grændalavarða.
Við leit í hrauninu neðan við Brennhóla fundust nokkur skjól og sum með mannvistaleifum í. Eitt þeirra hafði t.a.m. verið flórað og gott rými þar inni.
Þegar gengið er upp í Brennhóla frá Grænhól er gengið yfir a.m.k. þrjár greinilegar gamlar götur. Sú fyrsta liggur skammt norðan og samhliða Reykjanesbrautinni. Önnur liggur skammt sunnan brautarinnar og sú þriðja enn ofar. Hún kemur í austanverða Virkishóla og liggur ofan við þá. Sennilega eru tvær hinar síðarnefndu hlutar að gömlu Alfaraleiðinni áleiðis á Útnes; sá nyrðri angi af henni áleiðis niður að Hvassahrauni.
Í næstu ferð um svæðið þarf að muna eftir a.m.k; skóflu, sög, kúbeini eða járnkarli og hellaljósi.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Virkishólar

Virkishólar.

Búðarvatnsstæðið

Gengið var upp og suður um Almenning eftir landamerkjum Lónakots og Hvassahrauns austan Lónakotssels. Landamerkjagirðingunni var fylgt upp Taglhæð, um Hólbrunnshæð og áfram upp að Mið-Krossstapa. Girðingin liggur í gegnum stapann og áfam upp í Hraunkrossstapa.

Krossstapi

Neðri-Krossstapi.

Geldingahraunið er vestar, en þegar komið er upp fyrir efsta krossstapann taka við neðri Skógarnefsbrúnir. Skógarnefið sjálft er nokkuð stór kjarri vaxin hraunhvilft, vel gróin. Efri brúnirnar sjást við sjónarmörkin í suðri. Ofan þeirra tekur við tiltölulega slétt mosahraun þar sem fyrir eru heillegar hleðslur grenjaskyttu við a.m.k. tvö greni, sem þar eru. Ofar er Búðarvatnsstæðið.
Ef fylgt er landamerkjalínu Lónakots og Hvassahrauns lá landamerkjalínan úr Söndugrjóti í Markhól eða Hól, sprunginn, með Markhólsþúfu. Þar er sagt að áletrun hafi verið, en hana er ekki að finna í dag. Þaðan liggur landamerkjalínan milli, eða um, austustu lónanna og hólmanna, upp hraunið í Sjónarhól, sem er stór, sprunginn hraunhóll, sem víða sést að, bæði neðan frá sjó, vestan úr hrauni og austan og sunnan langt að. Landamerkjalínan lá um Sjónarhólsvörðu, sem er efst á Sjónarhólshæð, og þaðan áfram suður og yfir Högnabrekkur. Þar kom Lónakotsvegurinn á suðurveginn. En Lónakotsselsstígurinn lá áfram suður á alfaraleiðina, gömlu hestaslóðina á Suðurnes. Högnabrekkur liggja vestan Smalaskála, og ber ekki mikið á þessum brekkum.

Krossstapi

Efri-Krossstapi.

Neðan þjóðvegarins er nafnasnautt upp undir veginn, en um hann liggja hraunbrekkur þvert. Þær heita Högnabrekkur. Svo er þar á vesturmerkjum, nokkuð ofan vegar, Taglhæð og Hólbrunnshæðin, eða Hólabrunahæðin, fyrrnefnda. Enn ofar er svo Lónakotssel. Ofan þess liggur hraunás þvert yfir landið, sem heitir Skorás, og þar, sem landið nær lengst í suður, heitir Mið-Krossstapi. Línan liggur um Skorásvörðu á Skorás og þaðan í Mið-Krossstapa.
Eins og segir í landamerkjalýsingu Lónakots og Óttarsstaða, liggur landamerkjalínan úr Sjónarhól í Vörðu eða Klett austan til við Lónakotssel. Þar höfðu í seli auk Lónakotsbónda hjáleigumenn frá Óttarsstöðum. Enda eru þarna þrjár aðgreindar seljatættur. Selið liggur rétt austan við Skorás, sem af þessum ástæðum er nefndur Lónakotsselshæð. Norðan í því er jarðfall nokkurt og nefnist Skorásbyrgi eða Lónakotsselshæðarbyrgi. Þar mátti nátta ásauðum. Norður frá Skorás er Lónakotsselsvatnsstæði í flagi og þraut oftast í þurrkatíð. Skjöldubali er klapparhæð norður frá Hólbrunnshæð.
Gata liggur upp gróið hraunið um Almenning fast austan krossstapana. Staparnir áttu að hafa verið þrír. Sumir telja að þriðji og neðsti krossstapinn sé Álfakirkjan eða Álfaklettur norðaustan við Lónakotssel, en líklegra verður að telja hann norðan Mið-Krossstapa, í svo til beinni línu við Hraunkrossstapa.

Krossstapi

Krossstapar.

Fyrrnefnd gata liggur til suðurs austan hans.
Þegar komið var upp undir neðri brúnir Skógarnefsins var snúið við að þessu sinni. Vel gróið er undir brúnunum. Skógarnefsgrenin eru skammt vestar. Hraunið austan við krossstapana er úfið, mosavaxið, en tiltölulega greiðfært yfirverðar. Upp úr því rísa hraunklettar, sem taka á sig allskyns myndir í kvöldsólinni. Svo virðist sem vörður séu á stangli þarna í hrauninu, en þær eru klettar eða steinar, sem standa upp úr hrauninu.
Þrátt fyrir góða gaumgæfni á svæðinu vildi fyrrnefndur Skógarnefsskúti ekki sýna sig að þessu sinni. Ekki er ólíklegt að hann kunni að leynast svolítið sunnar og vestar við leitarlínuna. Norðan við hana er hraunið mosavaxið og úfið, en nokkuð greiðfært. Sunnan við það og vestan eru víða hraunhvilftir, sem vert er að skoða nánar.
Frábært veður. Kvöldsólin samstillti haustlitasetteringuna. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Skógarnefsgreni

Skógarnefsgreni.