Tag Archive for: Vatnsleysuströnd

Kálfatjörn

Úr fundargerðarbók sóknarnefndar Kálfatjarnarkirkju 1. mars árið 2014:
kalfatjorn-legsteinn„Á síðasta sóknarnefndarfundi barst mér í hendur áhugavert bréf frá Bryndísi Rafnsdóttur.
Þar er tíundað um elsta legstein Kálfatjarnarkirkjugarðs.
Þessi steinn er á vinstri hönd, liggjandi þegar gengið er upp tröppur Kálfatjarnarkirkju.
Kirkja hefur verið á Kálfatjörn allt frá upphafi. Hún kemur fyrir í kirknatali Páls biskups frá 1200 og var hún Péturskirkja í kaþólskri tíð.

Það sem á eftir kemur er ritað af Bryndísi Rafnsdóttur fyrrverandi kirkjugarðsverði.

„Hér undir hvílir greftrað ærlegt guðsbarn Eyjólfur Jónsson lögréttumaður.
Hans vegferðardagar voru 58 ár sofnaði Guði 14 september 1669.

Þér eruð gengnir til fjallsins Síon og til borgar Guðs lifanda.
Til himneskra Jerúsalem.
Heb=Hér er 1.Z

Þetta er skrifað orðrétt eftir Gunnari Erlendssyni bónda frá Kálfatjörn.
Um letur á elsta legsteini í kirkjugarðinum við Kálfatjarnarkirkju.
Honum var mikið í mun að ég skrifaði þetta upp, svo við mæltum okkur
mót eitt siðdegi í nóvember 1995.
Daginn eftir verður Gunnar bráðkvaddur á túninu við hlið kirkjunnar á Kálfatjörn.“

Kálfatjörn 1920

Kálfatjörn 1920.

 

Öskjuholtsskjól

Gengið var með Jónatani Garðarssyni um nokkra skúta í landi Hvassahrauns, Straums og Þorbjarnarstaða. Byrjað var á að rölta upp í skúta í Öskjuholti með viðkomu í Virkinu undir Virkishólum, þaðan var haldið í skúta í Smalaskála, þaðan eftir Alfaraleiðinni yfir að Þorbjarnarstöðum, að Loftskúta (Grænudalaskúta) og stefnan tekin á Gránuskúta og síðan Kápuskjól og Kápuhelli í Jónshöfða með viðkomu í stóru Tobburétt (Grenigjárrétt) og litlu Tobburétt.

Þorbjarnarstaðir

Gránuskúti – fjárskjól ofan Þorbjarnarstaða.

Virkið var nota til tilhleypinga í brundtíð.
Sunnan undir Öskjuholti, klofnum ílöngum hraunhól skammt ofan línuvegarins um Hvassahraun, er gat. Hleðsla er um gatið. Þegar inn var komið sást vel hvar hlaðið hafði verið efst fyrir skútann, en að utan er vel gróið yfir hleðsluna. Um er að ræða lágt, en rúmgott fjárskjól. Innst undir hlöðnum veggnum voru nokkur bein. Erfitt er að koma auga á opið, nema komið sé að holtinu úr suðri.
Á Smalaskálahæð er varða. Önnur er norðar og sú þriðja skammt austar. Sunnan undir holtinu, sem þar er miðsvæðis er gat. Hleðsla er um gatið. Þegar inn var komið blasti við rúmgott fjárskjól. Fyrirhleðsla er innar í því til að varna fé áframhaldandi för inn eftir hvolfinu. Skjólið er nokkuð þurrt. Nokkrir smalaskálar eru í hraununum. Yfirleitt var nafnið notað um skála eða skjól, en það virðist ekki eiga við á Reykjanesskaganum. Þar virðist heitið hafa verið notað um hæðir, nema nöfnin hafi verið tengd hæðum með skjólum í, líkt og þarna.
Skoðaðar voru landamerkjavörður milli Hvassahrauns og Lónakots sem og leiðarvörður við Alfaraleiðina og komið við í Loftskúta, fallegu fjárskjóli. Þar eru og sagnir um að menn frá Hvassahrauni hafi geymt rjúpnafeng sinn er þeir voru við veiðar í hrauninu.
Nokkur leit hefur verið gerð að Gránuskúta, Kápuskjóli og Kápuhelli, en tveimur þeirra er lýst í örnefnaslýsingu fyrir Þorbjarnastaði.

Kápuskjól

Kápuskjól (Kápuhellir).

Gengið var um heimatún Þorbjarnastaða, rústir síðasta torfbæjarins í landi Hafnarfjarðar. Búið var að Þorbjarnastöðum fram undir seinna stríð (1940). Þar bjuggu síðast Ingveldur Jónsdóttir, dóttir Guðmundssonar á Setbergi, og Þorkell Árnason frá Guðnabæ í Selvogi. Þau eignuðust 11 börn – og það þótt húsbóndinn hafi yfirleitt verið fjari bæ til að afla lífsviðurværis. Það færi vel að gera bæinn upp og hafa hann til sýnis sem dæmi um slíka bæi er voru víða í umdæminu. Hann hefur allt til að bera; heimagarð, vörlsugarð, heimtröð, brunn, selstíg, stekk og fjárskjól.
Gránuskúti er ekki auðfundinn. Hann er sunnan við Þorbjarnastaði, austan Miðmundarhæðrar. Falleg hleðsla er um munnann, en þegar inn er komið tekur við flórað gólf að hluta og fyrirhleðslur. Skjólið er mjög rúmgott og hefur verið vel lagfært. Þá er það óvenjuþurrt. Grána gæti verið nafn á á frá Þorbjarnarstöðum, líkt og Grákolla í frásögninni af Arngrímshelli í Klofningum, þeirri er allt fé Krýsuvíkurbænda átti að hafa verið komið frá.
Haldið var upp í gegnum Selhraun og upp í stóru Tobburétt í Grenigjá. Um er að ræða fallegar hleðslur í og um gjána. Greni er skammt norðan við hana. Steintröll vakir yfir gjánum. Svæðið er allvel gróið. Austar er litla Tobburétt. Gengið var að henni í bakaleiðinni.

Tobburétt

Tobba við Tobburétt.

Straumsselsstígnum var fylgt upp í Jónshöfða. Þar í Laufhrauni komu bæði Kápuskjól og Kápuhellir í ljós. Þessa skúta er einnig erfitt að finna. Lítil varða er á höfðanum ofan við skjólin. Hún er á landamerkum Þorbjarnarstaða og Straums. Skjólið er í landi Straums, en hellirinn í landi Þorbjarnastaða. Fallegar fyrirhleðslur er fyrir þeim báðum. Hellirinn er heldur stærri. Fjárkyn Þorkels á Þorbjarnastöðum var sagt kápótt og þótti allsérstakt. Þá var það ferhyrnt og snúið upp á hornin, sem einnig þótti sérstakt.
Straumsselsstíg var fylgt niður að litlu Tobburétt í Tobbuklettum. Fyrirhleðsla er í stórri hraunsprungu, en ef vel er að gáð má sjá að hlaðinn bogadreginn veggur hefur verið framan við hana. Hann hefur verið leiðigarður fyrir fé, sem rekið var að réttinni að ofanverðu. Stígurinn liggur nú í gegnum garðinn. Þegar horft var á þverklett sprungunnar mátti vel sjá móta fyrir andliti í honum. Ekki er ólíklegt að ætla að álfarnir hafi viljað með því láta vita af tilvist sinni á svæðinu með þeim skilaboðum að fólki gæti þar varfærni.
Annars eru álfa- og huldufólksáminningar víða í hraununum. Þeir, sem gaumgæfa og kunna að lesa landið vita og þekkja skilaboðin. Þegar farið er eftir þeim er engin hætta búin, en ef einhver gleymir sér að er ólæs á landið – guð hjálpi honum.
Gengið var til baka eftir Straumsselsstíg í gegnum Selhraunið og niður að Þorbjarnastöðum.

Öskjuholtsskúti

Í Öskjuholtsskúta.

Loftskúti

Á korti mátti sjá götu dregna upp frá Hvassahrauni áleiðis upp í Skógarnef. Gatan endar, skv. kortinu, á landamerkjum Hvassahrauns og Lónakots, nokkuð ofan við Lónakotssel. Á þessu korti eru merkin svolítið vestar en á nýrri kortum.
Veturinn að víkja fyrir vorinuÆtlunin var að reyna að skoða hvort þarna marki fyrir leið, og ef svo er, hvert hún liggur og í hvaða tilgangi. Ekki er ólíklegt að um „skógargötu“ hafi verið að ræða, líkt og nöfnur hennar frá Óttarsstöðum og Straumi.
Reyndar hafði Eggert Kristmundsson frá Stakkavík (Brunnastöðum) sagt að Skógarnefsskútinn væri „neðan við Nefið og á mörkum“. Þarna gætu leynst, við nánari leit, áhugaverðar minjar!
Þá var  ætlunin að koma við í Hvassahraunsseli og fylgja selsstígnum áleiðis að Hvassahrauni.
Gengið var upp með Virkishólum, Virkið barið augum og götu síðan fylgt upp hraunið til austurs. Stefnan á henni var ofan við Grændali og nokkuð norðan við Hálfnunarhæðir. Legan var áfram upp tiltölulega slétta hraungróninga millum Hvassahraunssel og Lónakotssel, svo til beint á áberandi vörðu á klapparhæð. Við götuna mátti víða sjá litlar mosagrónar vörður, jafnvel einungis einn stóran stein á öðrum jarðföstum eða tvo slíka.
KindÁ leiðinni voru rifjaðar upp örnefnalýsingar af göngusvæðinu.
Ari Gíslason skráði: „Upp af bænum, fast ofan við veginn [neðan núverandi Reykjanesbrautar], eru hólar sem heita Hjallhólar. Þetta eru allfyrirferðarmiklir hraunhólar með sprungum og undir þeim sem er næst vegi er Hjallhólsskúti, er fjárhellir. Svo taka við þar ofar Smalaskáli og Smalaskálahæðir. Á Smalaskála er varða sem blasir mjög vel við af Hjallhólum. Svo er þar austar, upp af Skyggni er fyrr getur, tveir hólar nefndir Virkishólar og milli þeirra er gömul fjárborg sem heitir Virki. Þar upp af er svo hólaklasi sem heitir Brennhólar. Beint upp af Öskjuholti í líkri fjarlægð og Smalaskáli heitir svo Öskjuholtsbruni.
Upp og suður af Öskjuholtsbruna er Jónsvarða, stendur þar á flatri klöpp [áberandi stök varða]. Þar upp af eru svo Grendalir og Grendalahellir er ofarlega í þeim, norður af Brennihólum er fyrr getur. Milli Smalaskála og Brennihóla er smáskúti rétt ofan við Virkið sem heitir Loftsskúti. Upp af Grendölum er stakur hóll sem heitir Skuggi. Upp af Brennihólum efst eru Hálfnaðarhæðir, þar hefur verið hálfnað upp í Hvassahraunssel, stórar hæðir tvær. Þar upp og austur af eru Selsskrínshæðir og austur af þeim er Viðunarhóll, þar var skógur. Þessi hóll er austur af Skugga.

Skúti undir vörðu á mörkum Hvassahrauns

Þá er í suðaustur af Selskrínshæðum Hvassahraunssel en það er milli Mosanna fyrrnefndu og Krossstapa en Neðsti-Krossstapi er á merkjum móti Lónakoti og Mið-Krossstapi er hornmark þar sem þrjár jarðir mætast. Krossstaparnir eru í suðaustur frá Skugga.
Upp af Hvassahraunsseli eru Selhæðir, þar austur og upp af er Snjódalaás, allstór ás með stóru keri í sem heitir Snjódalir. Þá beint upp og austur er Skógarnef, þar voru gren, það er hæð upp til fjalls, lyngi og skógi vaxin og nær upp að Búðavatnsstæði, þar er oftast vatn. Upp af því er Markaklettur þar mætast lönd Óttarsstaða og Krýsuvíkur.“
Í örnefnalýsingum Gísla Sigurðssonar Guðmundar Sigurðssonar má sjá eftirfarandi: „Lítið eitt vestar eru Hjallhólar og Hjallhólaskúti þar í. Hann var fjárbyrgi. Suður af þessu svæði er Smalaskáli og Smalaskálahæð. Þar á er varða, Smalaskálavarða. Hún sést vel af Hjallhólum. Í suðaustur frá Skyggni eru þrír miklir klapparhólar, sem heita Virkishólar. Virkishóllinn vestasti er stærstur. Mið-Virkishóll er minnstur, og þar austur af er Virkishóllinn austasti. Milli þeirra er hringlaga jarðfall í hraunið, tveggja metra djúpt og þrettán metra vítt. Þetta er Virkið. Þarna var hrútunum hleypt til ánna um fengitímann. Þar suður og upp af er hólaþyrping, Brennhólar. Loftsskúti er fjárbyrgi milli Smalaskála og Brennhóla. Norðaustur af  Virkishólum eru Draugadalir. Þar eru einnig Grændalaflatir, Grændalir, Grændalahellir, sem er fjárskjól, og Grændalavarða. Upp af Grændölum er hóll, sem nefnist Skuggi.
Heiman úr Tröðum liggur troðningur suður um Hellur, suður á hraunið. Það er Hvassahraunsselsstígur eða Selsstígur. Rúmgott skjól syðst í Skorási, skammt sunnan markaStígur þessi lá áfram suður hraun allt til Krýsuvíkur. Upp af Brennhólum er Hálfnaðarhæð. Þar er hálfnuð leið frá bænum í Selið. Þá tekur við sunnar nokkuð Selskrínshæð og þar sunnar er Viðunarhóll, skógi eða hrísi vaxinn. Þá er komið í Selið eða Hvassahraunssel, sem er vestan undir Selásum. Veggirnir standa enn nokkurn veginn uppi, og gróður er þar í kring. Vatnsbólið er undir skúta, eiginlega beint austur af Selinu, og er erfitt að finna það [það er í litlu, grónu jarðfalli, einu af þremur, sem þar eru, skammt austan við rana er liggur niður frá Selásnum].
Sunnan við Rjúpnadalahraun tekur við hraunhryggur, er liggur frá vestri til austurs. Heitir það Öskjuholt og nær vestur í Afstapabruna. Þar er að finna Öskjuholtsskúta [erfitt er að finna opið því gróið hefur fyrir það, en inni má sjá allmiklar fyrirhleðslur], Öskjuholtsgjá og Öskjuholtsbruna ofan til. Þar suður af eru Höfðar, allgott beitiland. Efst í Höfðunum er Sauðhóll og Sauðhólsskúti eða Sauðhólsbyrgi. Suður af Öskjuholti er svo Jónsvarða og stendur á hraunklöpp.“ Þá segir ennfremur: „Þaðan úr Búðarhól liggur línan um Klofningsklett, Skógarnef, Skógarnefsskúta, sem er fjárskjól, og Skógarnefsgren.“
Hér er Skógarnefsskúti sagður á landamerkjum Hvassahrauns og Lónakots/Óttarsstaða, en merki Lónakots ná skammt upp fyrir Lónakotssel. Skútans er ekki getið í örnefnalýsingum þeirra jarða, svo leiða má líkur að því að hann sé inni í Hvassahraunslandi.

Í Hvassahraunsseli

Eftir viðkomu í eiginlegri „Dauðagildru“, þ.e. litlu, en djúpu jarðfalli utan í klapparhæð (ef einhver hæð ætti að fá „Dauða“nafnbótina þá er það þessi staður) milli seljanna þar sem sjá mátti beinagrindur þriggja kinda, lá gatan upp með syðsta hluta mikillar klapparhæðar, þeirri sömu og Skorás er nyrsti hluti af. Undir honum er Lónakotssel. Þarna á hæðinni eru tvær háar vörður, auk selsvörðunnar. Þá eru þrjár minni í réttri röð, í beinni línu á mörkum jarðanna. Stærri vörðurnar tvær höfðu greinilega aðra þýðingu, enda sjást þær mjög langt að þegar komið er upp frá Hvassahrauni, einkum sú syðri. Þegar að var gætt kom ljós önnur lítil varða skammt suðaustan við syðri vörðuna, á brún á stóru, grónu og ílöngu jarðfalli. Við norðvesturenda þess, undir stóru vörðunni, er hið ágætasta fjárskjól. Ekki var að sjá manngerðar hleðslur framan við munnann, en þar er gróinn lyngbakki. 

Gatan, sem rakin var upp að sunnanverðum Skorás

Líklegt má telja að þarna hafi verið fjárskjól og/eða nátthagi og þá sennilega frá Hvassahraunsseli. Örskammt sunnar er stór og rúmgóður skúti með mold í botni – hið besta fjárskjól. Snjór huldi framanverðan innganginn, en aðrekstur að munnanum hefur verið mjög góður þar sem hann er í krika utan við fyrrnefnt jarðfall.
Nyrðri stóra varðan, skammt sunnan við Skorásvörðuna, er einmitt ofan við fjárskjól og nátthaga frá Lónakotsseli.
Haldið var yfir að Hvassahraunsseli, en selsvarðan norðaustan þess sést greinilega þar sem hún stendur við gjásprungu á klapparhæð, Selásnum.
Blankalogn, sól og friður var þarna í selinu þennan vordag. Tóftirnar í selstöðunum tveimur höfðu komið vel undan sjónum og böðuðu veggi sína í sólinni. Tíbráin lá yfir þeim í jarðvarmanum. Við skoðun á hugsanlegri götu upp úr selinu kom í ljós að ein slík liggur upp frá því sunnan við Selásinn áleiðis upp í Mosa. Sennilega hefur gatan, sem liggur framhjá Bögguklettum inn í gegnum Skógarnefið og áfram inn á Óttarsstaðaselsstíg, haft þvergötu sunnan við Skógarnefið er lá niður í Hvassahraunssel ogáfram til bæjar.
Selsstígurinn sést glögglega þar sem hann liggur vestur úr selinu, að Hálfnaðarhæð. Þegar komið er yfir línuveginn verður erfiðara að fylgja stígnum því tveir slíkir koma til greina; annars vegar um Smalaskála og hins vegar sunnan Grændala niður með Virkishólum.
Stök varða er á milli leitanna. Stendur hún á lágri hæð í krika hærri klapparhæðar. Erfitt er að sjá til hvers hún hefur verið hlaðinn, nema ef vera skyldi að greni gæti hafa verið þar í hæðinni. A.m.k. tók hundtík, sem var með í för, viðbragð, brá sér undir eini er slútti yfir skúta og virtist bæði óróleg og leitandi.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.
Virkið

Tóustígur

Malarvegurinn frá Keflavíkurveginum (Reykjanesbrautinni) upp á Höskuldarvelli lá í gegnum hraunnámur upp í gegnum Afstapahraun úr Kúagerði. Gífurlegt magn hrauns hefur verið fjarlægt þarna austan brautarinnar. Þegar Reykjanesbrautin var tvöfölduð voru gatnamótin færð sunnar og sameinuð gatnamótum Vatnsleysustrandarvegar. Frá þeim er nú ekið til austurs inn á línuveg, eftir honum inn á efnistökusvæðið og síðan í gegnum það til austurs, inn á fyrrnefndan veg austast á svæðinu.
TóustígMinna fer fyrir annarri gamalli götu upp hraunið; Tóustígnum. “Austan við fyrrnefndan veg [úr Kúagerði] upp í hraunið komum við að Tóustíg, Tóarstíg eða Tóustíg en hann lá upp í Tórnar eða Tóurnar eins og málvenja er orðið að segja. Stígurinn var eyðilegaður að mestu þegar efnistakan í Reykjanesbrautina fór fram en upphaf hans sést þó ennþá og þá rétt neðst þar sem hraunið er enn óraskað. Stígurinn kemur svo aftur í ljós fyrir ofan ruðningana.
Tóurnar eru nokkrir óbrennishólmar sem ganga í gegn um mitt hraunið [Afstapahraunið] til suðsuðausturs. Gróðursvæði þessi hafa líklega heitið Tór, samanber grastó (et.) eða grastór (ft.), en nafnið afbakast í tímans rás…
Tórnar eru aðgreindar í Tó eitt, Tó tvö, Tó þrjú, Tó fjögur, Hrísató og Seltó en tvö síðustu nöfnin spanna yfir efsta hluta Tónna sem er nokkuð stór.

Tóur

Tóustígur vestast.

Í Tónum er fallegur gróður s.s. brönugrös, blágresi, birkikjarr, víðibrúskar og ýmsar lyngtegundir.”
Í Tóu eitt er m.a. að sjá grjótgarða sem notaðir voru til að veita hríshestunum aðhald, auk þess sem hún gæti hafa verið notuð sem aðhald fyrir fé. Í Tóu tvö er lítið mosagróið grjótbyrgi, hlaðið af Vatnsleysubræðrum árið 1940. Í Tóu þrjú er Tóarker, fjárskjól. Í Tóunum eru greni og má sjá hleðslur eftir refskyttu í Seltónni.
Neðsti hluti Tóustígsins er enn ósnertur á u.þ.b. 150 metra kafla, sem fyrr er lýst. Þar sem stígurinn kemur inn í hraunið er hann vel gróinn. Hvítskófnar klappir Þráinsskjaldarhraunsins standa upp úr annars grónu hrauninu umhverfis.

Tóur

Tóur – garður vestast.

Ofar og norðar hefur Afstapahraunið, sem rann 1151, stöðvast. Jarðsíminn liggur þarna við mynnið. Lítil varða er á hraunhæð skammt norðan við “innganginn” og önnur hærri skammt norðvestan hennar. Auðvelt er að fylgja stígnum upp að veginum, sem lagður var yfir hann. Norðan vegarins birtist stígurinn síðan á ný og liggur þá austnorðaustur að hárri hraunbrún.

Tóur

Tóur – stígurinn vestast í gegnum hraunið…

Ofan hennar hefur öllu verið raskað, allt þangað til komið er suðvesturmörkum Tóu eitt. Þar sést stígurinn enn þar sem hann liggur niður í Tóuna, yfir fyrrnefndan grjótgarð.
Þegar unnið var við tvöföldun Reykjanesbrautarinnar hafði gröfustjóri tekið það upp hjá sjálfum sér að moka hrauninu á stóru svæði upp á grjótflutningsbílana. Náðist þó að stöðva stjórnlausa athafnasemina rétt áður en hann komst í garðinn. Kom þá í ljós að gröfumaðurinn var kominn langt út fyrir þau mörk sem heimil höfðu verið til efnistöku. Líklega er ekki um neitt einsdæmi að ræða í þessum efnum.

Tóur

Tóur vestanverðar.

Upp úr Tóu eitt má síðan fylgja Tóustígnum upp í gegnum Tóurnar til austurs, sem fyrr sagði.
Sjá meira um Tóurnar HÉR og HÉR

Fjölmargar sagnir eru til um áhugaleysi fornleifayfirvalda landins á Reykjanesskaganum. Oftar en ekki hafa þau leyft eyðileggingu fornra minja án hins minnsta tilefnis.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, SGG – 1995, bls. 85-87.

Varða við Tóustíg

Alfaraleiðin

Ætlunin var að ganga stuttan spöl eftir Alfaraleiðinni norðan Virkishóla að Hvassahrauni. Leiðinni, sem er hin gamla þjóðleið milli Innnesja og Útnesja, frá Gerði og Þorbjarnastöðum hefur áður verið lýst hér á vefsíðunni.

Alfaraleiðin

Alfaraleiðin frá Hafnarfirði að Þorbjarnastöðum.

Alfaraleiðin á þessum kafla er vel greinileg. Þegar ný misæg gatnamót voru gerð á tvöfaldri Reykjanesbraut var meira brotið af leiðinni en áður hafði verið gert. Hún hverfur á nýgatnasvæðinu, en kemur í ljós suðvestan þeirra. Þaðan er hægt að fylgja götunni til vesturs sunnan Skyggnis og niður að trérimlaréttarstæðinu norðaustan við Hvassahraun, sunnan gamla Keflavíkurvegarins. Þar hverfur gatan í útsléttu, en kemur aftur í ljós norðan Hjallhóla. Þar fylgir gatan hraunhólum uns hún hverfur á ný undir gamla Keflavíkurveginn. Hún sést síðan ekki aftur fyrr en vestan við Kúagerði þar sem nafnið breytist í Almenningsveg.
Þar sem staldrað var við Hjallhóla var ekki úr vegi að rifja upp helstu örnefni í nágrenninu. Eftirfarandi upplýsingar eru úr örnefnalýsingum fyrir Hvassahraun.
„Jörðin Hvassahraun er allmikil jörð að landrými og er meirihluti þess eldbrunnið land, bærinn sjálfur er nærri sjó, norðan þjóðvegarins sem liggur um Suðurnesin. Rétt er þar austan við bæ, er allhár hóll norðan við veg þar sem vegurinn liggur milli þess hóls og annarra sunnan vegar. Þessi hái hóll heitir Skyggnir, þetta er stór hraunhóll, sundursprunginn með vörðu á. Þaðan sést vítt um landið og er gott að svipast þaðan til örnefna en upphaflega hefur hann fengið nafn sitt af að þaðan var gott að skyggnast eftir kindum og öðrum búfénaði. Á veginum rétt þegar komið er inn í Hvassahraunsland að austan er hraunlendi nokkuð greiðfært og slétt af hrauni að vera, þar heitir Sprengilendi, nær alllangt niður fyrir veginn. Upp við veg og um veg er Sprengilendið, það er hæð ofan vegar, er þar nafnlaus lægð.
Nú færðum við okkur heim í tún. Hvassahraunsbær stóð á klapparrana. Þar var oftast í fyrri daga tvíbýli, Austurbær og Vesturbær. Hellur eru ofan vegar og ná þær niður í tún, slétt land, er þetta þar vestar. Ofan [við] veg er svo Hjallahóll er síðar getur. Stærsti hóllinn og efsti á því er stór hóll sem heitir Sönghóll. Á honum var eitt sinn býli, þar bjó kona er Margrét hét er átti 10 börn. Norður af Sönghól er lægð sem heitir Leynir, suður af Sönghól milli Traðarinnar sem var en er nú horfin, hét þar Rófa nær vegi. Svo er þar nær bæ Beinateigur, er svo laut þar norður af, var einnig meðfram heimreiðinni.

Leynir

Skjól í Leyni.

Vestur af Leyni er svo Langhóll, sprunginn hraunhóll áfastur við Sönghól og norðan undir honum er smádalur sem heitir Þjófagerði. Svo er annað gerði þar vestur af sem heitir Kotagerði. Þar er klöpp og stór hóll á bak við það og heitir það Miðmorgunshella. Svo eru þar norður af Hvassahraunskot, þar bjuggu áður fyrr fjórir menn og þar eru balar sem heita Kotatún. Vestur af Langhól heitir svo Norðurvöllur og þar næst er svo hóll sem heitir Kirkjuhóll rétt við húsið. Austur af honum er annar klettur grasivaxinn að ofan og heitir hann Einbúi, það er álfakirkja. Geta réttsýnir menn séð álfana þyrpast þangað til messuhalds á helgum dögum og þar er ekki messufall. Eitt sinn sá maður nokkur líkfylgd frá Miðmorgunshellu að Einbúa.
Upp af bænum, fast ofan við veginn, eru hólar sem heita Hjallhólar. Þetta eru allfyrirferðarmiklir hraunhólar með sprungum og undir þeim sem er næst vegi er Hjallhólsskúti, er fjárhellir. Vatnsgatan lá heiman frá bæ suðvestur í Vatnsgjárnar sunnan þjóðvegarins. Vatnsgatan var einnig kölluð Suðurtraðir. Vatnsgatan liggur í Lágarnar. Í þeim eru Vatnsgjárnar. Næst veginum er Helguhola. Þá er Þvottagjá og fjærst Ullargjá. Þar var þvegin ull.Sjávargatan lá heiman frá bæ niður í Víkina. Heiman úr Tröðum liggur troðningur suður um Hellur, suður á hraunið. Það er Hvassahraunsselsstígur eða Selsstígur. Stígur þessi lá áfram suður hraun allt til Krýsuvíkur.“
Heimalandi Hvassahrauns er lýst af nákvæmni annars staðar á vefsíðunni.
Frábært veður. Gangan tók 33 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar fyrir Hvassahraun.

Leynir

Byrgi í Leyni.

Spákonuvatn

Óvenju litlar heimildir virðast vera til um jafn stórbrotið svæði og umleikur Spákonuvatnið undir norðurhlíð Selsvallafjalls. Hér er þó getið a.m.k. tveggja:
Spakonuvatn-2„Norðausturendi Núpshlíðarháls er þríklofinn og heitir vestasti hlutinn Trölladyngja. Núpshlíðarháls er nær eingöngu úr móbergi en heita má að allt flatlendi á svæðinu sé þakið ungum hraunum. Lítill þverdalur, Sog, skilur nyrsta hluta Núpshlíðarháls frá meginhálsinum, þ. á m. Trölladyngju. Móbergið í Sogum er mikið ummyndað og framburður úr Sogum til vesturs hefur fyllt hraunin á flatlendinu á allstóru svæði og myndað Höskuldarvelli, framburðarsléttu á hraununum vestan við Trölladyngju.
Trölladyngja er í jaðri gos- og sprungureinar Krýsuvíkur. Allmiklar gossprungur eru á svæðinu og töluvert sést af sprungum og misgengjum í móbergi. Yngstu hraun á svæðinu eru
hugsanlega runnin eftir landnám. Jarðhiti er á allstóru svæði við Trölladyngju en nokkuð dreifður.
Til Spakonuvatn-3norðausturs frá dyngjunni stíga gufur upp úr hraunum og móbergi á um 1 km löngum kafla. Sunnan við Trölladyngju eru minniháttar leirugir vatnshverir og gufuaugu í Sogum. Í hrauni framan og vestan við Sogin er ungur sprengigígur og í nágrenni hans heit jörð með gufuaugum. Hverinn eini, sem er að mestu kulnaður, er um 2 km suðvestur með hálsinum, skammt norður af Selsvöllum. Þar er allmikið hverahrúður. Jarðhitasvæðið er í jaðri Reykjanesfólkvangs og að hluta á svæði sem er á náttúruminjaskrá (Keilir og Höskuldarvellir). Í auglýsingu um fólkvanginn (Stj.tíð. B, nr. 520/1975) er jarðrask óheimilt nema með leyfi Umhverfisstofnunar en þó er hagnýting jarðhita og mannvirkjagerð henni tengd undanskilin friðlýsingarákvæðum. Hlutar svæðisins njóta
sérstakrar verndar samkvæmt liðum a, b og d í 37. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd.

Spakonuvatn-4

Svæðið er að mestu þurrt á yfirborði. Lækir falla frá ummynduðum svæðum í Núpshlíðarhálsi um Höskuldarvelli og Selsvelli. Spákonuvatn er í lægð í móberginu skammt sunnan við Sog. Spákonuvatn er sennilega gígvatn. Úr Sogum fellur lækur norður á Höskuldarvelli og annar úr Núpshlíðarhálsi niður á Selsvelli.“
„Trölladyngja er fjall norðarlega í vesturhluta Núpshlíðarháls, en hún liggur rétt austur af Höskuldarvöllum og er vel gróið svæði. Norðan við Trölladyngju er Eldborg, gígur sem nú er löngu skemmdur vegna efnistöku.
Skammt sunnan við Trölladyngju er nokkur lægð í landslagið og er þar litskrúðugt háhitasvæði seSpakonuvatn-5m kallast Sog og er grasi gróið allt um kring. Í Sogunum er ekki mikil yfirborðsvirkni jarðhita en fróðlegar rofmyndanir er þar að finna í ummynduðu berginu. Þegar gengið er upp úr Sogunum að sunnanverðu og haldið til austurs, fæst útsýni yfir Móhálsadal á milli Sveifluháls og Núpshlíðarháls. Eldfjallalandslagið í dalnum er tilkomumikið og þar er mikið um fjölbreytileg eldvörp, gíga, gígaraðir og nútímahraun. Hugsanlega er eitt tilkomumesta útsýni fyrir eldfjallalandslagið á Reykjanesskaga á þessu svæði. Þarna eru nokkur minniháttar stöðuvötn eða tjarnir í landslaginu. Djúpavatn liggur í dalverpi skammt suðaustur af Sogum og minni vötn sem nefnast Grænavatn (sunnar) og Spákonuvatn (norðar) liggja upp á hálsinum sjálfum en líklega hefur eldgos úr gíg stíflað upp lítið dalverpi og myndað tjörnina sem kallast Spákonuvatn (Jón Jónsson, 1978). Vestan við Núpshlíðarhálsinn er eldfjallalandslagið ekki síður tilkomumikið. Þar er til að mynda að finna einn sérstæðasta gíg á Reykjanesskaga er Jón Jónsson hefur nefnt Moshól. Gígurinn er afar reglulegur og stendur mosavaxin upp úr grasi grónu sléttlendinu.

Spakonuvatn-6

Það er nokkuð lýti á þessu sérstæða náttúrufyrirbæri að reynt hefur verið að aka upp á gíginn að norðanverðu og þar hefur mosakápan skemmst nokkuð. Gígurinn er dæmi um eldvarp sem höfundur telur að ætti að njóta sérstakrar verndar þó ekki væri nema vegna fagurfræðilegs gildis. Eftir því sem haldið er í norður frá gígnum í átt að Trölladyngju eru það ýmsar gígmyndanir sem hraun hafa flætt úr á sögulegum tíma og runnið upp að móbergshryggjunum. Þessu svæði hefur nú verið raskað verulega með lagningu vega og slóða auk þess sem borstæði hefur verið komið fyrir á svæðinu og má leiða að því líkum að þetta dragi talsvert úr náttúrulegri upplifun á eldfjallalandslagi svæðisins. Svæðið var valið sem jarðminjasvæði í eldfjallagarð þar sem þar er hægt að sjá þar afar fjölbreytt eldvörp og litskrúðugt háhitasvæði á nokkuð stuttri og auðveldri göngu. Í öðru lagi er gróðursæld svæðisins sérstök og gefur eldfjallalandslaginu sérstaka ásýnd. Svæðið er nokkuð afskekkt og útsýni er stórbrotið þegar gengið er upp frá háhitasvæðinu og eftir móbergshryggnum.“

Heimild:
-Jarðminjar á háhitasvæðum Íslands – Jarðfræði, landmótun og yfirborðsummerki jarðhita Kristján Jónasson og Sigmundur Einarsson. Reykjavík, október 2009
-Eldfjallagarður og jarðminjasvæði á Reykjanesskaga. Helgi Páll Jónsson, HÍ 2011.

Spákonuvatn

Spákonuvatn. Keilir fjær.

Borgarkot

Borgarkot eru tóftir býlis austan Bakka og Litlabæjar, skammt austan Kálfatjarnar. Talið er að Borgarkot hafi tilheyrt Viðeyjarklaustri um tíma, eins og svo margar jarðir aðrar á norðanverðum Reykjanesskaganum. Þá mun Krýsuvík um sinn hafa haft þar stórgripi í skiptum fyrir afnot af landi innar á skaganum.

Borgarkot

Nautgripagirðingin ofan við Borgarkot.

Að þessu sinni var ætlunin að fylgja svonefndri stórgripagirðingu til austurs eftir móunum frá hlöðnum görðum ofan við Litlabæ. Girðing þessi eru stórir uppstandandi steinar með reglulegu millibili alveg að landamerkum Flekkuvíkur í austri. Girðingin beygir að vísu í tvígang á leiðinni lítilsháttar til norðurs, en neðan við Hermannavörðuna á landmerkjunum liggur hún í beina stefnu niður að sjávarmáli. Á einum stað, skammt vestan Vatnssteina (Vaðssteina), liggur þvergirðing milli hennar og sjávar.
Í sérhvern stein hafa verið höggvin eða borðuð tvö göt, annað efst og hitt skammt neðar. Í þessi göt hafa verið reknir trétappar. Á trétappana hafa verið hengdir strengir, girðing, sem hefur átt að halda gripunum innan hennar. Víða eru steinarnir fallnir niður, en sumir hafa verið reistir við á ný, svona til að hægt væri að gera grein fyrir stefnunni. Annars er merkilegt að sjá hvernig stóreflis steinum hefur verið velt úr sessi sínum.

Borgarkot

Trétappi og lykkja í einum steini stórgripagirðingarinnar ofan Borgarkots.

Gerð þessarar steinagirðingar hefur kostað mikla vinnu á sínum tíma. Færa og flytja hefur þurft þessa stóru steina um set og reisa þá upp á endann, gera í þá götin og negla í þá teglurnar.

Hvorki er vitað með vissu um aldur girðingarnar né í hvaða tilgangi hún var reist. Þó má álykta að girðingin hafi verið gerð til að halda fyrrgreindum stórgripum, annað hvort frá Viðey eða Krýsuvík. Þá er ekki með öllu útilokað að girðingin geti verið eitthvað yngri. Ólafur Erlendsson frá Kálfatjörn minnist ekki þessar girðingar og hennar er ekki getið í örnefnalýsingum af svæðinu. Fróðlegt væri að heyra frá einhverjum, sem kann skil á tilvist þessarar girðingar. Hliðstæð girðing er norðan og vestan við Minni-Vatnsleysu.
HÉR má sjá viðbótarfróðleik um girðinguna.

Borgarkot

Borgarkot – steingirðing.

Tóftir Borgarkots eru nú að mestu að hverfa í sjóinn. Sjá má mun á þeim frá ári til árs. Tóftir eru þó svolítið ofan bakkans. Þá er hlaðinn krosskjólgarður skammt austan þeirra, en tóftirnar eru umlyktar af hlöðnum görðum, nú að mestu jarðlægum.
Móarnir ofan Borgarkots geyma fjölmargar jurtir. Á einum stað mátti t.d. sjá þyrpingu af skarlatbikurum, sumir með gró. Fjaran er margbrotin og í henni margt að sjá. Á kafla er t.a.m. um fallega skeljaföru að ræða.

Borgarkot

Borgarkot – refagildra.

Ofan við Borgarkot má sjá hlaðnar refagildrur, vatnsstæði og hlaðin gerði. Minkurinn hefur víða komið sér vel fyrir. T.a.m. mátti að þessu sinni sjá hann leggjast á sund frá fjöruborðinu áleiðis út í sker skammt utar þar sem fugl sat og átti sér einkis ills von. Sundhraði minksins var órtúlegur. Slóðir hans í grasinu voru augljósar sem og holur hans.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Borgarkot

Borgarkot – uppdráttur ÓSÁ.

Kálfatjörn

Gengið var um Kálfatjörn frá kirkjunni, brunnurinn skoðaður sem og sjóbúð og tjörnin sjálf. Skoðaðar voru minjar með ströndinni til vesturs, komið við í tóftum Goðhóls og fiskbyrgjunum neðan við Þórustaði og síðan haldið út með einni fegurstu sandströnd á norðanverðum Reykjanesskaganum, neðan Þórustaða og Landakots. Þá var stefnan tekin á Norðurkot, en tilfærsla þess kl. 16.00 þetta síðdegi var einmitt tilefni göngunnar. FERLIR hafði lofað góðu gönguveðri og einnig að í ferðinni myndu þátttakendur sjá aldargömlu húsi lyft af grunni sínum og það fært um set. Auðvitað trúði enginn þeirri lýsingu sem fyrri daginn – og því varð staðreyndin áhrifaríkari en ella.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – gömlu húsin, um 1960, sett inn í mynd frá 2020.

Tilgangurinn með ferðinni var einnig að reyna að berja lóuna, vorboðann ljúfa, augum, en fréttir höfðu einmitt borist fyrr um daginn af ferðum hennar við Höfn í Hornafirði, tveimur dögum fyrr en venjulega. Það gefur von um gott vor.
Skoðaður var brunnurinn frá Kálfatjörn, en oft reynist erfitt að finna hann þegar líða tekur á sumarið vegna njóla og annars þróargróðurs. Ágætt kennileiti er þó eftir götu eða lögstum garði að honum út frá Víti til vesturs. Þar liggur gata vestan slóða niður að Kálfatjörninni sjálfri. Ef garðinum/götunni er fylgt að enda birtist brunnlokið. Tilraun var gerð til að finna brunninn síðsumars árið áður, en án árangurs. Þarna var hann hins vegar án þess að nokkuð skyggði á tilvist hans.

Kálfatjörn

Goðhóll.

Gengið var með syðri hluta Rásarinnar að tóft sjóbúðar sunnan Kálfatjarnar, hún skoðuð, og síðan haldið niður að skiparéttinni ofan við sjávarmál. Þar eru og hleðslur gamallar sjóbúðar, sem ártalssteinn 17. aldar fannst hjá fáum misserum fyrr. Steinn sá er nú við safnaðarheimiðið norðan kirkjunnar. Kunnugir segja, en vilja ekki staðfesta skriflega, að þegar grunnur safnaðarheimilisins hafi verið gerður, hafi komið upp ýmsir steinar sem og reglulegar hleðslur, en þá hafi blinda augað komið sér vel hjá nærstöddum, enda kirkjugarðurinn og gamlar minjar eigi alllangt undan.
Rifjuð var upp sögnin af sækúnum í Kálfatjörn. Með tóftir hinnar gömlu hæðbúnu sjóbúðar að baki og kirkjuna í bakgrunni var ekki komist hjá upprifjun sjósókna fyrri alda sem og aðbúnaðar vermanna á þeim tímum. Rifjuðu var upp ferð um svæðið á liðnu ári með Ólafi Erlendssyni á Kálfatjörn, en þá lýsti hann vel og vandlega kotunum norðan og austan við kirkjuna.

KálfatjörnÁ Kálfatjörn var bær, kirkjustaður og prestsetur. Prestasetur var þar til 1907 er sóknin var lögð niður til Garða á Álftanesi. Á Kálfatjörn var kirkja helguð Pétri postula á kaþólskum sið. Núverandi kirkja var reist árið 1892-1893 og vígð 11. júní 1893. Kirkjan er byggð úr timbri, járni varin steinhlöðnum grunni. Kirkjan tekur 150 manns í sæti á báðum gólfum. Sögu hennar og umhverfi hefur verið gerð góð skil í annarri FERLIRslýsingu.
Skoðaðar voru minjar Goðhólls, bæði gamla bæjarins og útihúsa auk garða, sem þar eru. Skammt norðvestar eru gamlar mógrafir frá Kálfatjörn. Hlið er sunnar og Tíðargerði vestan þess. Hvorutveggja eru gömul kot vestan við Kálfatjörn.

Kálfatjörn

Ártalssteinninn á Kálfatjörn í gömlu sjóhúsi.

En gömul kot geta orðið að gersemi sem og svo margt annað. Ekki er langt um liðið síðan sjá mátti síðanefnda kotið auglýst til sölu ásamt Norðurkoti, sem er þarna skammt vestar, á 40 milljónir króna. Stórhuga menn hafa haft áhuga á landinu, m.a. með fyrirhugaða sumarhúsabyggð og þróun golfvallarins að augnamiði. Staðreyndin er sú, hvað sem líður landkostum, að óvíða er fagurrra útsýni en á þessari, að því er virðist, flatneskjulegu strönd. Útsýnið er síbreytilegt og bæði ströndin og heiðin skammt undan eru tiltæk til uppbyggjandi gönguferða.
Lóan lét sjá sig, en erfiðara reyndist að ná mynd af henni. Það heyrðist hins vegar ágætlega í henni. Smánafna hennar, sandlóan, var hins vegar róleg þar sem hún stóð í hópum á skerjum, og leyfði góðfúslegar myndatökur. Lómur syndi utar og úmaði.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – Bakki og Litlibær fjær. Norðurkot lengst t.v.

Nú er Norðurkotið stekkur. Norðurkotið á Vatnsleysuströnd var flutt um set, í sólskinsblíðu, stafalogni og 12° hita. Húsið, sem að sögn var byggt árið 1903 sem skólahús, var híft á dráttarvagn og síðan ekið yfir að Kálfatjörn þar sem því verður ætlaður staður til frambúðar á fyrirhuguðum safnareit. Keilir lék baksviðs meðan á flutningnum stóð, en sólin umvafði þetta gamla hús geislum sínum er það notaði tækifærið og snéri sér í hring hangandi í kranavírunum. Andar genginna kynslóða fylgdust með. Fjórir svanir flugu yfir í fagurri fylkingu, snéru við og komu til baka, líkt og til að leggja áherslu á samþykkið að handan. Rifjað var upp minnistætt flug svananna 12 framan við áhorfendur á krirstnitökuhátíðinni á Þingvöllum árið 2000. Þeir snéru einmitt við, líkt og þessir, og endurtóku flugið fyrir áhorfendur. Fæstir skyldu þó tilganginn, en aðrir, sem bæði vita og skilja, gerðu sér grein fyrir honum. Aldur Norðurkots er ekki fullviss af nákvæmni. Það gæti verið eitthvað eldra en frá 1903. Ólafur Erlendsson frá Kálfatjörn segir t.d. að faðir hans, Erlendur Magnússon hafi gengið þar í skóla árið 1904 og að húsið gæti verið frá því rétt fyrir aldamótin 1900.

Norðurkot

Norðurkoti lyft af grunni sínum og síðan flutt að Kálfatjörn.

Það var Minjafélag Vatnsleysustrandarhrepps, sem lét flytja húsið með dyggri aðstoð verktaka. Það hrikti í vírum hífikranans við lyftinguna, en húsið hvorki æmti né skræmti þótt aldrað væri. Stoðir þess eru greinilega enn styrkar – og höfðu verið styrktar enn um betur að innanverðu af vönum verkmönnum.
Norðurkot var notað sem skólahús fram til 1910 eða ’11. Kennarahjón bjuggu þá á loftinu, en skólastofan var á jarðhæð. Hlaðinn kjallari var undir húsinu. Síðast mun húsið hafa verið notað til reglulegar íbúðar árið 1935.
Í húsinu voru fyrir merkar heimildir um skólahaldið, s.s. kennslubækur, ritgerðir og einkunnir einstakra nemenda. Þá hafði verið safnað í það ýmsum munum úr sveitinni, s.s. reiðtygum, veiðarfærum, handverkfærum o.fl. Eflaust mun eitthvað af því nýtast fróðleiksfúsum í framtíðinni. Afkomendur Erlendar Magnússonar frá Kálfatjörn gáfu Minjafélaginu húsið.
Uppgert Norðurkotið mun án efa setja svip sinn á hinn nýja safnareit við Kálfatjarnarkirkju í framtíðinni.
Til baka var gengið eftir gömlu kirkjugötunni að Kálfatjörn. Gatan hefur verið jöfnuð þar sem fyrir er golfvöllurinn nýmóðis, en kylfingarnir kunnu sig. Þeir lutu í lotningu fyrir göngufólkinu, sem gekk líkt og kirkjugestir vestan af Ströndinni forðum, áleiðis að Kálfatjarnarkirkju.

Norðurkot

Norðurkotsbrunnur.

Ofar, við gömlu götuna vestur á Strönd, mátti sjá klöpp huldukonunnar, sem getið er í þjóðsögu og á að hafa gerts þar árið 1892. Heimasætan, nýfermd, dreymdi að hún væri stödd suður á túninu á Kálfatjörn. Sá hún þá hinum megin við túngarðinn á Hliðstúninu grannleita konu, frekar fátæklega búna vera að reka kú. Hún hljóp til hennar og ætlaði að hjálpa henni að reka kúna en spyr hana um leið hvar hún eigi heima.
Þá svarar konan: „Ég er huldukona og á heima í þessari klöpp“, og bendir á klöpp sem fólk var vant að ganga yfir þegar það fór að heiman suður á Ströndina.
Stúlkan bauð huldukonunni að þiggja hring ömmu hennar, sem ég er með á hendinni. Huldukonan baðst undan svo góðri gjöf en bað um flauelspjötlur, sem stúlkan hafði. „Það á líka að ferma hjá mér dóttur mína, en ég er svo fátæk að ég get ekki keypt flauel á treyjuna hennar. Ég skal skila þeim öllum jafnóðum aftur, þegar ég hef notað þær“, sagði huldukonan. „Ég skal sjá til þess að þú verðir lánsmanneskja“, bætti hún við. Var svo draumurinn ekki lengri.
Líður svo tíminn fram á haust. Einn dag er það, er stúlkan opnar kistilinn sinn að allar pjötlurnar liggja þar eins og hún skildi við þær um vorið.
Þarna eru sögur til um hvern hól og sérhverja tóft.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11. mín.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – uppdráttur ÓSÁ.

Staðarborg

„Á manntalsþingi Vatnsleysustrandarhrepps 1961 var þinglesin eftirfarandi friðlýsing: – Í landi jarðarinnar Kálfatjarnar í Vatnsleysustrandarhreppi í Gullbringusýslu, eru samkvæmt lögum um verndun fornminja, dags. 16. nóv. 1907, skrásettar og friðaðar fornminjar þessar:

Staðarborg

Fjárborg, sem kölluð er Staðarborg í Vatnsleysustrandar-heiði, 2 – 3 km frá bænum að Kálfatjörn, í stefnu þaðan og á Dyngju [eyktamörk á Kálfatjörn: Sól yfir Dyngjum kl. 9, yfir Keili kl. 10 og yfir innri enda Fagradalsfjalls kl. 12]. Þetta kunngerist eigöndum og ábúöndum greindra jarðar nú og eftirleiðis. Ber eiganda að varðveita friðlýsingarskjal þetta og sjá um að ábúanda sé jafnan kunnugt um friðlýsinguna.- [Hafa ber í huga að enginn ábúandi er lengur á Kálfatjörn svo ábyrgð laganna hefur væntanlega flust yfir á kirkjuhaldarann eða golfvallahaldarann, sem svo mjög sóttist eftir landinu til afnota].
Einn góðviðrisdag í sumar fór ég að skoða borg þessa og fékk Erlend bónda á Kálfatjörn til þess að fylgja mér þangað. Þetta er mikið mannvirki og ber þess glöggt vitni að þar hefir handlaginn maður verið að  verki. Borgin er hringlaga og eru veggirnir eingöngu hlaðnir úr grjóti, valdir hleðslusteinar bæði í ytri og innri hleðslu, en tylt upp á milli með smágrjóti. Vegghæð er um 2 metrar og veggþyktin neðst er um 1 ½ metri, en 1 metri efst. Þvermál að innan er um 8 metra, ummál hringsins að innan um 23 metra, en 35 metra að utan. Efst slútir hleðslan að innan nokkuð, líkt og Staðarborgbyggingar-meistarinn hafi hugsað sér að hlaða borgina upp í topp, eins og hinar smærri fjárborgir, sem voru víða um land. Segir í Íslenskum þjóðháttum að fram á 19. öld hafi það víða verið siður á Suðurlandi, að ekki voru til hús yfir sauði, önnur en jötunlausar fjárborgir. Borgir þessar voru venjulega kringlótt byrgi, hlaðin í topp og gátu verið 6 álna háar eða meira. Stundum var þó reft yfir þær og voru veggir þá ekki nema svo sem 2 álna háir. Dyr voru svo lágar, að fé var aðeins gegnt um þær, og engin hurð fyrir þeim. Inn í þessar borgir var fénu ætlað að hörfa í hríðum og ilviðrum, og stóðu þær því oft langt frá bæjum.
Þessi borg var öðru vísi, nema hvað hún er hringlaga. Hún er svo miklu stærri en aðrar fjárborgir, að henni svipar helst til hrossaborganna, sem fyrrum voru í Eyjafirði og Skagafirði. Dyrnar voru þó upphaflega svo lágar og þröngvar, aðeins 1 metri á hæð, að af því sést að þetta hefir verið sauðfjárborg en ekki hrossaborg. Einu sinni hafði þó tryppi [aðrir segja kálf] skriðið þar inn með einhverjum hætti, en komst ekki út sjálfkrafa og mönnum tókst ekki heldur að koma því út fyrr en dyrnar voru hækkaðar og ná þær nú upp úr tóftinni. En tveir stóri steinar, sem notaðir höfðu verið sem árefti yfir dyrnar, eru þar enn til sýnis, annar fyrir utan tóftina, en hinn við liggur á Staðarborgtveimur steinum innst við vegg inni í tóftinni og er þar eins og setubekkur.
Hleðslan að innan er mjög vandvirknislega af hendi leyst. Hafa verið valdir í hana aflangir steinar, með sléttum fleti á endanum, sem snúa inn í borgina. Víða eru smásteinar eða steinflísar hafðar til að skorða steina og yfirleitt er hleðslan slétt og holulítil. Ytri hleðslan er með nokkuð öðrum hætti. Þar hefir sýnilega verið kappkostað að binda hleðsluna sem bezt, þannig að hver steinn styddi annan. Þessi hleðsla er því ekki jafn slétt og hin. Stærst er grjótið neðst og skagar undirstaðan sums staðar nokkuð út úr veggnum og virðist svo sem hleðslumaður hafi ekki gætt nákvæmlega hringlögunarinnar þegar hann lagði undirstöðuna, en rétt það af á næsta hleðslulagi.
Enginn veit nú hve gömul þessi borg er og það mun sennilega reynast erfitt að kveða nokkuð á um aldur hennar. Sjálf veitir hún litlar upplýsingar um það, því að ekki hefir byggingameistarinn haft fyrir því að klappa ártal á stein til minningar um það hvenær hún var hlaðin, nema ef vera skyldi að hann hefði klappað það á klöppina inni í borginni. Hafi svo verið þá sést nú ekki fyrir því, vegna þess að taðskán þekur alla klöppina og hefðir fyllt upp allar ójöfnur, svo að gólfið er eggslétt. Er það nú allt grasi gróið og er mjög vistlegt þarna inni, enda er sagt, að þegar Stefán Thorarnesen var prestur á Kálfatjörn, þá hafi hann stundum farið með fólk sitt á sunnudögum upp í borgina og veitt því þar súkkulaði. Af því má ætla að þá hafi fyrir nokkru verið hætt að hýsa fé í borginni, þvía ð tæplega hefði presti þótt þar aðlaðandi ef ber taðskán hefði verið að sitja á. Gólfið hefir verið gróið. Inni í borginni er skjól fyrir öllum áttum og Staðarborgþað hefir ekki verið amalegt að liggja þar í grænu grasinu og njóta sólarylsins, eða fara í leiki. Hefir þá sjálfsagt oft verið glatt á hjalla þarna.
Sumir munu nú ef til vill segja að einhverjar upplýsingar um aldur borgarinnar mætti fá með því að rannsaka hve þykk taðskánin er þar inni. En það er afar hæpið, enda þótt hægt væri að grafa upp hvenær hætt var að nota borgina. Menn vita ekert um hve margt fé hefir verið þarna að staðaldri á vetrum, og svo eru miklar líkur til að þarna sé ekki öll sú taðskán, sem safnast hefir í borginni. Það er einmitt mjög líklegt að stungið hafi verið út úr henni hvað eftir annað. Vatnsleysustrandarbúar hafa frá ómunatíð verið í hraki með eldivið, og því er líklegt að prestarnir á Kálfatjörn hafi notað sér það tað, sem safnaðist í borgina.
En annað aldurseinkenni væri ef til vill tryggara. Það er mosinn og skófirnar, sem sezt hafa utan á steinana í hleðslunni. Nú veit ég ekki hvort hægt er að ákveða um aldur skófa, með því að rannssaka þær, en leystar hafa þó verið ýmsar gátur, er ekki sýndust auðráðnari.
Stærð borgarinnar gefur nokkra vísbendingu um að hún sé gömul. Borgin er á landi Kálfatjarnar og heitir Staðarborg, kennd við kirkjustaðinn. Hún er reist handa fé prestins á Kálfatjörn. Fyrir ofan hana er lægð í heiðina og nefnist Lágar. Þar hefir alla jafna verið bezta beitilandið, síðan sögur fara af. Hún er því sýnilega reist í þeim tilgangi, að útigangsfé prestins gæti leitað þar skjóls, eða verið rekið þar inn á kvödlin. En þá sést líka, að sá sem bjó á Kálfatjörn um þær mundir, hefir verið vel fjáreigandi og átt margt útigöngufé, því að hægt mun að koma á annað hundrað fjár inn í borgina. Stærð borgarinar hefir auðvitað verið miðuð við það, hve margt fé þurfti að hýsa í henni. Menn voru ekki að byggja stærri skýli fyrir fé sitt en þeir þurft nauðsynlega.
StaðarstekkurUm 1700 var sá prestur að Kálfatjörn er Oddur Árnason hét. Sauðfjáreign hans var þessi (samkvæmt Jarðabokinni): 14 ær, 4 sauðir tvævetrir, 7 sauðir veturgamlir, 2 hrútar og 6 lömb. Ekki hefir hann þurft á hinni stóru fjárborg að halda.
Skúli Magnússon segir frá því, að á árunum 1750-1766 hafi verið mikill hugur í mönnum að auka sauðfjáreign sína og hafi tala ær og sauða í allri Kálfatjarnarsókn þá komist upp í 1200. Skiftist þessi fjáreign á 18 jarðir og verða þá 66 kindur að meðaltali á jörð. Árið 1703 voru til jafnaðar 30 kindur á hverri jörð og hefir þá ekki verið meðal fjárbú hjá prestinum að Kálfatjörn. En hann hafði þá þó fram yfir aðra, að hann átti beitiland í Keilisnesi og þar gekk fé sjálfala allan veturinn.
Árið 1756 lét Friðrik V. konungur stofna kynbótabú sauðfjár að Elliðavatni og voru sendir þangað hrútar af ensku kyni bæði frá Noregi og Svíþjóð. Gekk sú tilraun vel. En árið 1761 voru fluttir þangað hrútar frá Holtsetalandi og með þeim barst fjárkláðinn hingað og breiddist óðfluga út. Árið 1778 var allt fé í Gullbringu- og Kjósarsýslu skorið niður vegna kláðans. Menn reyndu þó að koma sér upp fjárstofni aftur, en þremur árum seinna (1781) voru þó ekki nema 180 ær og sauðir í allri Kálfatjarnarsókn. Síðan hefir enginn prestur að Kálfatjörn átt svo margt fé, að hann hefði þurft að láta hlaða hina stóru borg, enda eru til munnmæli um það frá því um 1800 hvernig borgin hefði verið gerð.
PrestsvarðaÞessi munnmæli segja að maður sem Guðmundur hét hafi hlaðið borgina fyrir Kálfatjanarprest. Dró hann grjót víða að, enda eru þarna víða krosssprungnar klappir, þar sem gott var að fá hleðslusteina. Guðmundur byrjaði á því að raða grjótinu í langar raðir á holtið, þar sem borgin stendur og valdi svo úr þá steina, sem honum líkaði bezt að hafa í vegginn á hverjum stað. Er þetta til sannindamerkis um það hve vandvirkur og verkhygginn hann hefir verið, enda ber borgin þess vitni enn í dag. Guðmundur ætlaði að hlaða borgina upp í topp og var byrjaður á því að láta innvegginn hlaðast á sig. En prestur komst að þessu og harðbannaði honum það. Mun presti hafa litist það allt of mikið verk að hlaða þessa stóru borg upp í topp, enda hefði hún hlotið að verða geisihá með því móti og miklu tilkomumeira hús en sjálf kirkjan að Kálfatjörn. Guðmundur reiddist þessu svo að hann hljóp frá verkinu þar sem hann var kominn og fór frá presti.
Af þessu, sem nú hefir verið sagt, má sjá að mestar líkur benda til þess að leita verið nokkuð aftur í aldir ef ákveða skal aldur borgarinnar. Það verður að byrja á því að leita að þeim presti, er var svo fjármargur, að hann þurfti á svona stórri fjárborg að halda. Sá prestur hefur ekki verið þar seinustu 250 árin. Er því rétt að telja borgina til fornminja. Og sjálfsgat var að friða hana, enda þótt hún kunni að vera yngri en líkur benda til. Hún á það skilið vegna þess hve hún er merkilegt mannvirki.
Lyng við StaðarborgSkúli landfógeti segir í sóknarlýsingu sinni að Strandarheiði sé “eitthvað hið bezta land til sauðfjárræktar, það er eg hef séð á Íslandi.” Og telur það vera fjórar mílur á lengd og tvær á breidd, eða 8 fermílur. Í sóknarlýsingu Péturs Jónssonar 1840 er ekki kveðið jafn ríkt að orði, en þó segir þar að sums staðar í heiðinni sé sæmilegir hagar.
Nokkrar aðrar fjárborgir eru í nágrenni Staðarborgarinnar, bæði skráðar og óskráðar. Og um alla ofanverða heiðina eru rústir af gömlum seljum og bendir það til þess að fyrr á öldum hafi landbúnaður verið allmikill á þessum slóðum. Þar eru sel kennd við vissa bæi, svo sem Flekkuvíkursel, Auðnasel og Knarrarnessel. Flekkuvíkursel lagðist ekki niður fyrr en um 1870, en þá höfðu öll hin selin verið aflögð fyrir löngu.

Staðarborg

Staðarborg.

Erlendur á Kálfatjörm er glöggur maður og mjög athugull. Hann sýndi mér hvernig eins og háttaði um þegar upp í heiðina dró, hvað gróður var miklu minni og beir berangur næst bæjunum. Þar segir enn til sín lyngrifið og mosatekjan fyrrum. Þó er þar allt að gróa upp nú. Hann sýndi mér stóra fláka, sem höfðu verið blásin leirflög fyrir nokkrum árum, en voru nú að safna gróðri. Fyrst kemur geldingahnappurinn og festir rætur á víð og dreif. Við rætur hans myndast smáir töðutoppar og svo kemur lyngið og tekur sér bústað þar. Er þess þá skammt að bíða að toddarnir stækki óðum og renni saman í samfelldar gróðurbreiður. Þar sem hraun er, hefir grámosinn einnig numið land að nýju, og þar fer eins, í skjóli hans festir annar gróður rætur.“
Ýmsar aðrar fornminjar tengdir Staðarborginni má efna, s.s. Prestsvörðuna ofan Kálfatjarnar og Staðarstekkinn, skammt norðnorðvestan borgarinnar.

Heimild:
-Lesb. MBL, sunnudagur 20. júní 1952 – Árni Óla, bls. 357-360.

Stad

Staðarborg

Á Vatnsleysuheiði, Kálfatjarnarheiði og ónefndu heiðunum þar vestur af ofan Vatnsleysustrandar-bæjanna má sjá leifar allnokkurra fjárborga, auk einnar uppgerðar, þ.e. Staðarborgarinnar.
LitlaborgFrá austri til vesturs má þarna m.a. sjá „Litluborg“ norðvestan Hafnhóla. Hún er nú gróin, en vel má sjá grjóthleðslur í henni. Vestar og norðvestar má sjá leifar tveggja borga á háum hraunhólum báðar í Þórustaðalandi. Norðan þeirra er svo Staðarborgin. Í Morgunblaðinu 1980 var varpað fram fróðleik um Staðarborgina, sbr.: „Á Íslandi eru fáar byggingar, sem teljast til fornminja, enda skiljanlegt, því það var ekki fyrr en um miðja 18. öld, sem Íslendingar fóru að reisa hús og aðrar byggingar úr varanlegu efni. Fram að þeim tíma, og raunar fram á þessa öld, var torfið og grjótið það byggingarefni, sem algengast var. 

Thorustadarborg-501

Þótt vel og vandvirknislega væri að unnið, þegar byggt var úr þessum efnum, skipti ekki síður máli að undirstaðan væri traust. En vel hlaðnir grjótveggir reistir á harðri klöpp, geta staðið áratugum saman án þess að þeir raskist. Slíkar hleðslur eru til og í þetta sinn skulum við skoða eitt slíkt mannvirki. Þá skreppum við suður á Vatnsleysustrandarheiði og skoðum Staðarborgina, en það er fjárborg, sem hlaðin var fyrir löngu síðan og stendur óhögguð enn. Gönguferðin er ekki löng að þessu sinni en ég vænti þess, lesandi góður, að þú teljir það ómaksins vert að skreppa þangað og skoða borgina.
Audnaborg 501Við ökum sem leið liggur áleiðis til Keflavíkur. Við Kúagerði greinast leiðir og skiptir engu hvor þeirra er valin. Ef við veljum gamla veginn meðfram ströndinni nemum við staðar ca. 3 km vestan við vegamótin. Þar förum við úr bílnum og göngum beint suður á hraunið. Næst veginum eru hæðir, sem skyggja á, en þegar yfir þær er komið blasir Staðarborgin við. Er þessi leið ekki nema tæpir 2 km alls. Hún er greiðfær, því hraunið er slétt og gróið víða.
En ef við höldum áfram upp á Strandarheiði Lyngholsborgblastir borgin við norður í hrauninu og ekki unnt að líta fram hjá henni, því hún ber þar við loft. Engin vandkvæði eru heldur, að nálgast hana úr þessari átt. Staðarborg er mikið mannvirki. Hún er eingöngu hlaðin úr völdum hleðslusteinum. Hæð veggjanna er um 2 m, þykkt þeirra um 1.5 m neðst. Borgin er hringlaga að innan. Þvermálið um 8 metrar og ummál hringsins að innan um 23 metrar. Að ofan eru veggirnir örlítið inndregnir, eins og byggingarmeistarinn hafi ætlað sér að hlaða hana upp í topp. Hleðsla steinanna og handbragðið allt er sannkallað meistaraverk og svo traust, að undrun sætir.
EnThorustadarborg-502 hvers vegna er þetta mannvirki hér langt uppi á heiði, fjarri öllum mannabyggðum? Fyrr á tímum var sauðfé ætlaðað bjarga sér á útigangi eins lengi og unnt var. Gripahús voru af skornum skammti heima við bæina, en skepnunum haldið þar til beitar sem best þótti hverju sinni.
Sauðamenn voru þá á flestum bæjum og var hlutverk þeirra að annast sauðféð og fylgjast með því dag og nótt, ef þurfa þótti. Til að spara húsbyggingar, voru hlaðnar borgir fyrir féð, þar sem það gat leitað skjóls í illviðrum og í þeim tilgangi hefur Staðarborgin verið byggð.

Refagildra-501

Gólfið í borginni er grasi gróið og bendir til þess að sauðfé hafi leitað þar skjóls eins og ætlað var. En hvenær var borgin byggð og hver vann það verk? Engar heimildir munu vera til um það aðeins munnmæli. Þar er sagt, að presturinn á Kálfatjörn hafi ráðið mann er Guðmundur hét til að hlaða borgina. Guðmundur valdi steinana af vandvirkni, dró þá víða að og raðaði þeim í langar raðir á holtinu, svo hann gæti betur áttað sig á því hvaða steinar ættu saman í hleðsluna. Síðan hóf hann verkið og ætlaði að hlaða borgina í topp, eins og snjóhús. Verkið sóttist vel og þar kom, að hann ætlaði að fara að draga veggina saman að innan. Þá kom Guðmundur prestur í heimsókn og leit á verkið. Sá hann þegar, að með því móti myndi fjárborgin verða stærra og myndarlegra hús en kirkjan á Kálfatjörn. Það gat hann ekki liðið og bannaði Guðmundi að fullkomna verkið. Við þetta bann reiddist Guðmundur heiftarlega, hætti á stundinni og gekk burtu. Enginn tók við af Guðmundi, svo borgin stendur nú, hálfkláruð eins og hann gekk frá henni. Enn í dag ber hún þessum óþekkta meistara sínum fagurt vitni um snilldar handbragð.
Skotbyrgi-501Staðarborgin var friðuð árið 1951 samkvæmt lögum um verndun fornminja. Engu má þar spilla á nokkurn hátt. Er þess að vænta að það verði virt um alla framtíð.“
Vestan Staðarborgarinnar er svo gróin Þórustaðaborg inni á milli hraunhóla. Þórustaðastígurinn liggur upp með henni. Vestar er Auðnaborgin eða Auðnastekkur. Sjá má leifar fjárborgarinnar á hól norðaustan stekksins (réttarinnar). Enn vestar er svo gróin Lynghólsborgin norðan undir Lynghól. Hún er greinilega mjög gömul, en enn má sjá hleðslur í veggjum og leiðigarð framan við opið mót suðri. Suðvestar er Hringurinn, allmiklar hleðslur, á lágum hól í hvylft á milli holta. Vestar er Gíslaborg. Henni hefur greinilega á einhverjum tíma verið breytt í gerði eða rétt á hól skammt austan iðnaðarhúsa ofan Voga. Vestan Vogavegar er svo Gvendarborg eða Gvendarstekkur.
Á allmörgum hólum milli fyrrnefndra fjárborga má bæði sjá leifar af hlöðnum refagildrum og nýrri skotbyrgjum eftir refaveiðimenn.

Heimildir:
-Morgunblaðið 31. júlí 1980.

Staðarborg

Staðarborg.