Tag Archive for: Vatnsleysuströnd

Kálfatjörn
Gengið var um Flekkuvík, Keilisnes, Borgarkot og Kálfatjörn.
Í Flekkuvík er Flekkuleiðið, gróin þúst yst (syðst) í heimatúninu. Segir sagan að Flekka gamla, sem samnefnd vík heitir eftir, hafi mælt svo fyrir um að hún skyldi dysjuð á þessum stað þar sem hún sæi yfir að Flekkuvörinni. Rúnarsteinn er á leiði Flekku, en sérfræðingar segja hann geta verið frá 17. öld.

Flekkuleiði

Flekkuleiði.

Fallega hlaðnir brunnar eru við bæinn og mikið af hlöðnum görðum og tóftum.
Gengið var um Keilisnesið og yfir að Borgarkoti. Landamerkjagirðing liggur þar niður að sjó við Hermannavörðuna. Innan við hana eru tóftir Borgarkots, hlaðinn krossgarður, gamlir garðar o.fl. Gömul stórgripagirðing liggur á mörkunum áleiðis upp heiðina, en beygir síðan til vesturs, áleiðis að Kálfatjörn. Steinarnir í girðingunni eru með u.þ.b. 20 metra millibili. Í hvern þeirra eru klappaðar tvær holur og í þær reknir trétappar. Á þessa tappa hafa síðan verið strengd bönd. Tilgangurinn var að halda stórgripum, s.s. kúm á beit innan afmarkaðs svæðis. Borgarkot heyrði um tíma undir Viðey og mun klaustrið m.a. hafa haft þar kálfa á beit. Þar hafa, eins og svo víða, kýr getað mælt mannamál á nýársnótt, sumir segja á þrettándanum skv. þjóðtrúnni. Um þjóðtrú tengda þrettándanum gildir flest hið sama og um nýjársnótt, meðal annars að selir fari úr hömum sínum, kirkjugarðar rísa, álfar flytjast búferlum og kýr tala mannamál. Hættulegt gat verið að hlusta á tal kúnna því þær reyndu að æra þá sem það gerðu.

Flekkuleiði

Flekkuleiðið.

Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar er meðal annars þessa sögn að finna: Á nýjársnótt verða margir hlutir undarlegir. Það er eitt að kýr mæla þá mannamál og tala saman. Einu sinni lá maður úti í fjósi og á nýjársnótt til þess að heyra hvað kýrnar töluðu. Hann heyrir þá að ein kýrin segir: „Mál er að mæla (aðrir: mæra).“ Þá segir önnur: „Maður er í fjósi.“ „Hann skulum vér æra,“ segir þriðja kýrin. „Áður en kemur ljósið,“ segir hin fjórða. Frá þessu gat maðurinn sagt morguninn eftir, en ekki fleiru því kýrnar höfðu ært hann.
Gengið var um Réttartanga, framhjá Litlabæ og Bakka, gömlu eyðibýlin austan Kálfatjarnar, s.s. Bjarg og Móakot. Móakotsbrunnurinn var m.a. barinn augum.
Kálfatjörn er lýst í annarri FERLIRslýsingu. Norðan bæjarins er Kálfatjörnin. Í henni áttu sækýr að búa. Árið 1892 gerðist eftirfarandi saga á Kálfatjörn. “Þegar ein heimasætan var fermd, fékk hún peysuföt eins og þá tíðkaðist. Yngri systirin hafði safnað saman nokkrum flauelspjötlum og náði sér í viðbót í það, er féll frá peysufötum systurinnar. Með þessu ætlaði hún að skreyta skautföt brúðu sinnar. Hún hafði þetta allt í litlum lokuðum kistli og hafði alltaf lykilinn í bandi um hálsinn því að enginn mátti komast í kistilinn.

Borgarkot

Borgarkot – stórgripagirðing.

Rétt eftir ferminguna dreymir litlu stúlkuna að hún sé stödd suður á túninu á Kálfatjörn. Sá hún þá hinum megin við túngarðinn á Hliðstúninu grannleita konu, frekar fátæklega búna vera að reka kú. Hún hljóp til hennar og ætlaði að hjálpa henni að reka kúna en spyr hana um leið hvar hún eigi heima.
Þá svarar konan: „Ég er huldukona og á heima í þessari klöpp“, og bendir á klöpp sem fólk var vant að ganga yfir þegar það fór að heiman suður á Ströndina.
Þá þykist stúlkan segja við hana: „En hvað ég er glöð að hitta huldukonu. Þiggðu nú af mér hringinn hennar ömmu sem ég er með á hendinni, því að mig hefur alltaf langað svo til þess að hitta huldukonu og gleðja hana“.
Þá mælti konan: „Ekki skaltu gera það, góða mín, því að þú færð illt fyrir það að glata honum. En þú getur gert mér annan greiða. Lánaðu mér flauelspjötlurnar þínar. Það á líka að ferma hjá mér dóttur mína, en ég er svo fátæk að ég get ekki keypt flauel á treyjuna hennar. Ég skal skila þeim öllum jafnóðum aftur, þegar ég hef notað þær“.
Stúlkan lofaði þessu með ánægju og segir: „Vertu nú sæl“. Þá segir hún ósköp hrygg: „Segðu ekki sæl við mig, við erum ekki sæl, en ég get ekki launað þér með öðru en því að ég skal sjá til þess að þú verðir lánsmanneskja“. Var svo draumurinn ekki lengri.

Borgarkot

Borgarkot – trétappi í stórgripagirðingunni.

Eftir nokkurn tíma ætlar stúlkan að fara að sauma á brúðuna sína. Hún lýkur upp kistlinum en bregður heldur en ekki, því að allar flauelspjötlurnar eru horfnar. Man hún þá ekkert eftir draumnum. Fór hún nú að grennslast eftir því, hvort nokkur hafi komist í kistilinn og sannfærðist um að enginn hafði farið í hann. Þá man hún allt í einu eftir draumnum og segir mömmu sinni frá honum.
Þá mælti hún: „Góða mín, vertu ekki að leita úr því að þetta er svona, álfkonan skilar þeim aftur“. Líður svo tíminn fram á haust. Einn dag er það, er stúlkan opnar kistilinn sinn að allar pjötlurnar liggja þar eins og hún skildi við þær um vorið.”
Þegar golfvöllurinn var gerður á Kálfatjörn var sléttað yfir klöppina svo hún sést ekki lengur.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimildir m.a.:
-http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=2435
-Jón Árnason. Íslenskar þjóðsögur og ævintýri I, 609.
-http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=150
-Rauðskinna II 301.

Borgarkot

Borgarkot – uppdráttur ÓSÁ.

Sogaselsgígur

Gengið var um Trölladyngjusvæðið, austur fyrir fjallið um Hörðuvallaklof, sunnan Grænudyngju niður í Sogasel, upp Sogin og að Spákonuvatni, um Grænavatnseggjar, niður á Selsvelli og til baka með Oddafelli.

Trölladyngja

Trölladynga og Grænadyngja.

Trölladyngja er fallega formað fjall, um 375 m.y.s. Vestari hnúkurinn heitir því nafni, en sá eystri (402 m.y.s.) heitir Grænadyngja. Í Trölladyngju hefur m.a. fundist silfurberg.. Milli dyngnanna er skarð, auðvelt uppgöngu, sem mun heita Söðull. Heyrst hefur og nafnið Folaldadalir eða Folaldadalur um skarðið sjálft, en það örnefndi mun einnig vera til á Austurhálsinum. Þegar komið er upp úr skarðinu tekur við grösug skál. Hún er grasi gróin. Líklega er þarna um að ræða gíginn sjálfan.

Núpshlíðarháls

A Núpshlíðarhálsi.

Gengið var austur með norðanverðum Dygnahálsi (eða Dyngjurana sem stundum er nefndur). Utan í honum eru margir gígar, sem hraunstraumar þeir hafa komið úr er liggja þarna langt niður í Almenning. Gamall stígur liggur við enda Dyngahálsins. Honum var fylgt yfir að Hörðuvöllum. Fallegur gígur er við enda Fíflvallafjalls, en að þessu sinni var gengið inn Hörðuvallaklofa milli Grænudyngju og Fíflvallafjalls. Um er að ræða fallegan dal, en gróðursnauðan. Uppgangan úr honum vestanverðum er tiltölulega auðveld. Þegar upp var komið blasti varða við á brúninni. Frá henni var ágætt útsýni yfir Djúpavatn. Haldið var niður með vestanverðri Grænudyngu með viðkomu í dyngjunni. Síðan var haldið niður með vestanverði Trölladyngju og niður í Sogagíg.

Grænavatnseggjar

FERLIRsfélagar í Grænavatnseggjum.

Sogagígur er vel gróinn og skjólsæll staður. Í honum er Sogasel, eða öllu heldur Sogselin, því tóftir selja má sjá á a.m.k. þremur stöðum sem og tvo stekki. Enn ein tóftin er utan við gíginn, uppi í Sogadal. Þarna var sel frá Kálfatjarnarhverfi og einnig áður frá Krýsuvík.
Gengið var upp Sogin. Þau eru 150-200 m djúpt leirgil sem mikill jarðhiti hefur verið í fyrrum og enn eimir af. Þarna má sjá merkilegt jarðfræðifyrirbæri. Svo til allur leir og mold, sem dalurinn hafði áður að geyma, hefur Sogalækur flutt smám saman á löngum tíma niður á sléttlendið og myndað Höskuldarvelli og Sóleyjarkrika, sléttar graselndur í hrauninu.

Sogalækur

Sogalækur.

Lækurinn er enn að og færir jarðveg úr Sogunum jafnt og þétt áfram áleiðis niður Afstapahraunið. Varla mun líða langur tími uns hann hefur hlaðið undir sig nægum jarðvegi til að ná niður í Seltóu, en þaðan mun leiðin greið niður í Hrístóur og áfram áleiðis niður í Kúagerði. Væntanlega mun síðasti áfanginn, í gegnum Tóu eitt, verða honum tímafrekastur.

Haldið var upp vestanverða hlíð Sogadals og upp að Spákonuvatni. Vatnið er í misgengi. Í því eru í rauninni tvö vötn. Sumir nefna þau Stóra-Spákonuvatn og Litla-Spákonuvatn, en aðrir nefna stærra vatnið einungis Spákonuvatn en hitt Sesseljutjörn eða Sesseljuvatn.

Sogin

Sogin.

Gengið var eftir Grænavatnseggjum til suðurs. Austan þeirra er Grænavatn í Krýsuvíkurlandi. Haldið var áfram suður á brún Selsvallafjalls (338 m.y.s.). Fjallið greinist frá Grænavatnseggjunum af smá dalverpi eða gili en um það liggur Þórustaðastígurinn upp á fjallið. Neðan undir vestanverðu fjallinu er eitt fallegasta gróðursvæðið á Reykjanesi, Selsvellirnir.
Á Selsvöllum var selstaða frá bæjum í Grindavík. Í sóknarlýsingu þaðan frá árinu 1840 er sagt að allir bæir í sókninni nema Hraun hafi þar í seli. Vogamenn hafa jafnan viljað halda því fram að Selsvellirnir hafi tilheyrt þeim, líkt og Dalsselið, en sá misskilningur hefur jafnan dáið út með gaumgæfninni.

Selsvellir

Horft að Selsvöllum frá Trölladyngju.

Seltóftir eru bæði á austanverðum Selsvöllum, undir Selsvallafjalli, og á þeim norðvestanverðum. Moshóll setur merkilegan og tignarlegan blæ á svæðið í bland við Keili.
Gengið var til norðurs með vestanverðum Selsvöllum, að Oddafelli. Þorvaldur Thoroddsen kallar það Fjallið eina. Þá er getið um útilegumenn nálægt Hvernum eina. Málið er að Fjallið eina er norðan undir Hrútargjárdyngju og þar er hellir, Húshellir, með mannvistarleifum í.
Oddafellið er lágt (210 m.y.s.) og um 3ja km langt. Tóftir Oddafellssels frá Minni-Vatnsleysu eru undir vesturrótum fellsins.
Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Spákonuvatn

Spákonuvatn og Keilir.

Staðarborg

Gengið var frá Prestsvörðu ofan við Strandarveg að Staðarstekk ofan við Löngubrekkur og að Staðarborg á Kálfatjarnarheiði, yfir að Þórustaðaborg og Þórustaðastígur fetaður til baka niður að Strandarvegi.

Staðarborg

Staðarborg.

Staðarborgin stendur nokkurn veginn miðja vegu milli Strandarvegar og Reykjanesbrautar. Í hana er u.þ.b. 15 mín. gangur. Hún er með stærri borgum á Reykjanesi og vel hlaðin fjárborg. Borgin tilheyrir Kálfatjörn og er að mestu óskemmd. Af nálægt 80 fjárborgum á Reykjanesi standa einungis nokkrar enn mjög heillegar, s.s. Hólmsborg (endurhlaðin 1918), Djúpudalaborg, Þorbjarnarstaðaborg, Óttarstaðaborg og Árnaborg ofan við Garð. Stór hella var yfir dyrum, sem snúa í norðvestur, en er nú inni í borginni öndvert. Vegghæðin er um 2 metrar. Þjóðsaga er til sem segir að hleðslumaðurinn hafi ætlað að hlaða borgina í topp en þá hafi prestur komið og stöðvað verkið svo borgin yrði ekki hærri en turn Kálfatjarnarkirkju.

Staðarborg

Staðarborg.

Staðarborgin er talin nokkur hundruð ára gömul og var friðlýst árið 1951.
Staðarstekkur er norðaustur af Staðarborginni. Hann er þar utan í grónum hraunhól.
Þórustaðaborgin er norðvestan við Staðarborgina. Hún hefur verið fjárborg eða stór stekkur og liggur suðvestan undir háum grónum hólum, Borginni hefur greinilega verið breytt til annarra nota.
Þórustaðastígur liggur þarna vestan hólanna frá túngirðingu Þórustaða og áfram yfir Núpshlíðarhálsinn. Stígurinn sést greinilega á köflum, en annars staðar er gróið yfir hann.
Gengið var eftir stígnum niður heiðina að læg við Strandarveginn skammt vestan við hliðið að Kálfatjarnarkirkju.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Staðarborg

Staðarborg.

Hvassahraun

Marta Valgerður Jónsdóttir skrifaði um Hvassahraun í Faxa árið 1961 undir yfirskriftinni „Horfinn gististaður„:
„Milli Vatnsleysu og Þorbjarnarstaða í Hraunum, er einstakt býli, Hvassahraun. Mun vera röskur Thorunn-21klukkutíma gangur til hvorrar hliðar, þó lengri til Hrauna. Bærinn stóð á hól, rétt neðan við þjóðveginn, sjávarmegin, sem liggur frá Reykjavík til Suðurnesja. Heimreiðin lá upp hólinn, fyrst í aflíðandi halla og í dálitlum boga, miðja vega var klifið og þar fyrir ofan brattara upp að bænum. Túnið lykkjaðist um hraunbolla og hóla meðfram ströndinni, en hraunið teygði sig milli fjalls og fjöru. Þar var góð beit fyrir fé og skjól fyrir veðrum í skútum og lautum, en fjörugrösin voru líka ágæt beit. Á skerjunum úti fyrir ströndinni, óx þangið, sem var ríkur þáttur í búskapnum, aðal-eldiviður búsins. Naustið og vörin, með hlöðnum kampi niður af bænum; hjáleigurnar, Hvassahraunskot og Sönghóll innan túns, Snæfellsjökull út við hafsrönd og hafið, vítt og voldugt, gulli líkt í roða sólarlagsins. Í fallegu lautunum meðfram túnjaðrinum, sýndist eins og hvíla væri búin þreyttum ferðalang. Það var eins og fyrirboði þess, er koma skyldi, er gengið var í bæinn.
Í Hvassahrauni var áningar- og gististaður ferðamanna og hressing ávallt til reiðu. Hafði svo verið frá því að menn fyrst mundu.
Það var löng leið, að ganga alla þessa strandlengju, með nesjum og vogum, milli Reykjavíkur og Suðurnesja. Stundum voru fæturnir ekki stórir, sem löbbuðu þessa leið, og mörg konan fetaði leiðina með börnum sínum, vor og haust.
Var þá farið í sumardvöl austur um sveitir. Vegurinn var vHvassahraun-992íðast hvar mjög vondur og líkari tröðum en vegi, því svo var gatan gengin niður í svörð og grjót. Frá ómunatíð, höfðu menn og hestar fetað sig eftir hraunhólum, hryggjum og lautum og myndað götuna, sem víða var orðin furðu djúp, einkum í Kapelluhrauninu og Almenningnum, en þar var gatan víða svo djúp, að baggar á hestum, námu við vegarbarmana og rákust þá oft í. Í rigningum var þarna einn vatnselgur, sem hestarnir ösluðu, en gangandi fólk varð að klöngrast á eggjagrjótinu uppi á vegarbrúninni. Það mun vera erfitt fyrir nútímamanninn, sem ekur bíl alla þessa strandlengju á einum klukkutíma, að átta sig á þeim reginmun á ferðalögum, eða var á fyrsta tug þessarar aldar, en ferðalög, eins og þau tíðkuðust þá, hafa sjálfsagt ekki verið ýkja mikið breytt frá Hvassahraun-993fyrri öldum.
Að sjálfsögðu fóru margir ríðandi, en það voru þeir efnameiri. Allur almenningur fór gangandi, en aðbúnaður þessa fólks var oftast slæmur og stundum hræðilegur, matur af skornum skammti og jafnvel enginn, skór þunnir og ónýtir, hlífðarföt óhentug og oft engin, en byrðar stórar og þungar bornar í bak og fyrir. Það var því gott að koma að byggðu bóli á þessari löngu leið og eiga vísa hressingu, jafnvel bæði andlega og líkamlega. Það hygg ég, að þeir, sem þekktu þessi ferðalög, um Suðurnesjaveg, nefni vart Hvassahraun svo, að þeim komi ekki í hug sú kona, sem gerði þar garðinn frægan, fyrir og eftir síðustu aldamót, en sú kona var Þórunn í Hvassahrauni.
Þórunn húsfreyja í Hvassahrauni, var fríð sýnum og gervileg á að líta og bar í svipmóti mikla persónu.

Hvassahraun-994

Strax við fyrstu sýn, vakti hún traust, enda varð hún víðfræg á þeim þrjátíu árum, sem hún var húsfreyja í Hvassahrauni, sakir höfðinglegrar fyrirgreiðslu og hjartagæzku við ferðafólk og alla þá, er hún náði til. Var það allra manna mál, að hún vildi hvers manns vandræði leysa, ef þess var nokkur kostur og lét margur svo um mælt, að manngæzkan vísaði henni veginn í mörgum vanda og hefði hún verið fundvís á leið til líknar, enda var hún dugnaðarkona, eins og hún átti kyn til. Þórunn var greind kona og ljómandi skemmtileg og laðaði að sér gesti. Þótti öllum tíminn fljótur að líða í návist hennar. Snauðu fólki var svo vel tekið í Hvassahrauni, að á orði var haft. Var því öllu svo innilega vel tekið, engu síður en embættismönnum og efnuðu fólki, en öllum hjálpað og líknað, eins og vinir og ættingjar væru. Átti Guðmundur bóndi Stefánsson, maður Þórunnar, þar jafnan hlut að máli, en hann var valmenni og samhentur konu sinni til allra góðra verka.

gudmundur-21

Stundum var þannig komið högum ferðafólks, að lífsnauðsyn bar til að þetta fólk kæmist í góðra manna hús. Það kom ekki ósjaldan fyrir að fólk félli í yfirlið, er það hafði t.d. lagt af sér þungar byrðar sínar og setzt niður til hvíldar í hlýjunni, svo aðfram komnir voru sumir eftir langa göngu, lítið viðurværi og margs konar erfiðleika. Fyrir kom það, að Þórunn tók á móti fæðandi konu í forstofu sinni. Mun þá hafa komið sér vel, að Þórunn var skjótráð og kunni vel að líkna í þeim vanda, þar að auki var Ingibjörg móðir hennar á heimilinu, kempa mikil, og ljósmóðir frá fyrri árum. Konan var lögð í hjónarúmið, Ingibjörg tók á móti barninu og allt fór vel og að sængurlegu lokinni fór konan heim þaðan alheil með barn sitt.
Foreldrar Þórunnar, þau Ingibjörg Pálsdóttir og Einar Þorláksson, höfðu búið allan sinn búskap í Hvassahrauni og sýnt ferðafólki sömu góðvild og fyrirgreiðslu og þau Þórunn og Guðmundur. Þau giftust 7. júlí 1855 og tóku þá við búi þar, af Önnu Jónsdóttur, móður Ingibjargar, en Einar hafði það sama vor komið frá Neðradal í Biskupstungum, föðurleifð sinn.
Frú Þórunn var fædd í Hvassahrauni 2. júní 1864. Var hún fimmta barn foreldra sinna. Mun það hafa verið ættgengt í Hvassahraunsætt. Frú Þórunn var fimmti ættliður, sem sat að búi í Hvassahrauni, óslitið.

Hvassahraun-995

Um miðjan október 1908 voru opnaðar sex landssímastöðvar á nýrri símalínu er lögð hafði verið frá Hafnarfirði suður með sjó til Gerða í Garði. Stöðvarnar voru: Hvassahraun, Auðnar, Hábær í Vogum, Keflavík, Litli-Hólmur í Leiru og Gerðar. Það féll í minn hlut að vinna við Keflavíkurstöðina. Kynntist ég því vel fólki á stöðvunum og varð þetta líkast stóru heimili, einkum fyrst í stað meðan lítið var að gera, og það var tekið þátt í önn og ys dagsins, gleði og sorg, öllu smáu og stóru, sem gerðist á hverju heimili. Við vissum, að húsbóndinn í Hvassahrauni lá á spítala í Reykjavík og við vorum kvíðin. Nógur var sá ógnar harmur, sem yfir þetta heimili hafði dunið, er efnilegum einkasyni var á burtu kippt. Þessi uggur varð að veruleika. Húsbóndinn kom heim, helsjúkur, rétt til þess að eiga síðustu dagana heima.
Hvassahraun-996Guðmundur bóndi andaðist 10. des. 1910. Þórunn tók þessum harmi með hetjudug. Hún hélt áfram búi með börnunum, móður sinni og Margréti Matthíasdóttur, er lengi hafði verið í Hvassahrauni, góð kona og fyrirtaks dyggðahjú. Vorið 1914, er yngstu börnin fermdust, seldi Þórunn jörð og bú og flutti til Reykjavíkur með hópinn sinn, ásamt Ingibjörgu móður sinni og Margréti. Var þá lokið búsetu þeirra fimm ættliða í Hvassahrauni.
Ekki mun Þórunn hafa verið rík af veraldarauði, er hún hætti búskap og greiðasölu, því sú fyrirgreiðsla við ferðafólk, sem var þar í té látin, mun aldrei hafa verið nein tekjulind, engum var gert að skyldu að greiða fyrir sig, og margir voru svo snauðir, að þeir áttu ekki eyri til, og aldrei fengu þau hjón neinn opinberan styrk til þess að halda uppi greiðasölunni.
Frú Þórunn andaðist í Reykjavík hjá Stefaníu dóttur sinni 8. febr. 1942. Hafði hún þjáðst af hjartabilun hin síðustu ár. (Morgunbl. 2. júní 1939).
Ennþá má sjá gamla veginn um Hraunin, bæði í Kapelluhrauninu og víðar. Er hann nú orðinn gróinn, en furðu glöggur. Gvendarbrunnur var í hrauninu, við veginn milli Hvassahrauns og Þorbjarnarstaða. Var það skál eða hola í hraunklöpp, en vatn sitraði í skálina, svo að alltaf var dreitill í skálinni, sem aldrei þornaði alveg. En þreytt og þyrst ferðafólki, sem um veginn fór, kraup niður við skálina, signdi sig og drakk svo, ýmist úr lófa sínum, eða að það lagðist alveg niður að vatnsfletinum.
Væri vel ef gamla veginum ásamt Kapellunni í Hrauninu og þessum Gvendarbrunni væri þyrmt, þegar nýr vegur verður lagður um Hraunin, sem þegar er byrjað á.“

Heimild:
-Faxi, 21. árg. 1961, 10. tbl., bls. 199-203.

Hvassahraun

Hvassahraun.

Flekkuvíkursel

Skoðað var Flekkuvíkurselið. Þar eru mikil mannvirki, fallegur stekkur framundan því og kví norðar í skjólsælli kvos. Annar stekkur er norðar sem og stök tóft, sem vakti sérstaka athygli.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Flekkuvíkursel er drjúgan spöl suðaustan Kolgrafarholts og Kirkholts en norðaustan Sýrholts. Selið stendur nokkuð neðan Grindavíkurgjár. Í því sjást sex kofatóftir og kví auk stekkjanna. Vatnsstæðið er í klapparholu uppi á ásnum norðan tóftanna. Fáeinir steinar eru við það. Í örefnaskrá frá árinu 1976 segja Gunnar og Ólafur Erlendssynir að „Herdís Jónsdóttir frá Flekkuvík, f: 1858, hafi komið í selið sem barn og voru þar þá bæði smali og selráðskona. Í selinu voru þá eingöngu hafðar kindur.“
Norðan Flekkuvíkusels, svo til mitt á milli selsins og Reykjanesbrautar, eru tvær stórar vörður, sem standa mjög þétt saman. Heita þær Bræður. Sunnan þeirra er hlaðið hringlaga byrgi á litlum hraunhól.

Heimild m.a.
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir:

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel.

Pétursborg

Gengið var að Nýjaseli. Tvær tóttir kúra þar undir Nýjaselsbjalla, misgengi, skammt austan við Snorrastaðatjarnir. Frá brún bjallans sést vel upp í Pétursborg á brún Huldugjár. Þangað er um 10 mínútna ganga.

Pétursborg

Pétursborg.

Borgin er nokkuð heilleg að hluta, þ.e. vestari hluti hennar. Sunnan við borgina eru tvær tóttir. Önnur þeirra, sú sem er nær, virðist hafa verið stekkur. Þá var haldið upp á brún Litlu-Aragjár og sést þá vel upp að Stóru-Aragjá í suðaustri. Rétt austan við hæstu brún hennar eru Arasel eða Arahnúkssel. Þetta eru 5 tóttir undir gjárveggnum.

Skammt vestan þeirra er fallegur, heillegur, stekkur, fast við vegginn. Arasel

Ara(hnúks)sel – uppdráttur ÓSÁ.

Svæðið undir gjánni er vel gróið, en annars er heiðin víða mjög blásin upp á þessu svæði. Þaðan var haldið að Vogaseljum. Á leiðinni sést vel að Brunnaselstorfunni í suðaustri, en austan undir Vogaholti, sem er beint framundan, eru Vogasel eldri. Þau eru greinilega mjög gömul og liggja neðst í grasi vaxinni brekku utan í holtinu.

Vogasel

Vogasel yngri.

Ofar í brekkunni, undir hraunkletti, eru Vogasel yngri. Þar eru þrjár tóttir, ein undir klettinum efst, önnur framar og enn önnur, sú stærsta, utan í grasbakka enn neðar. Austan við tóttirnar er stór stekkur á bersvæði. Frá seljunum var haldið á brattan til suðurs. Frá brúninni sést vel yfir að Kálffelli í suðri, berggangana ofar í hrauninu og Fagradalsfjöllin enn ofar.

Oddshellir

Oddshellir.

Haldið var áleiðis suður fyrir fellið og er þá komið að Kálfafellsfjárhellunum suðaustan í því. Hleðslur eru fyrir opum hellanna.

Gengið var til vesturs með sunnanverðu fellinu og kíkt inn í gíg þess í leiðinni. Í honum eru garðhleðslur sunnanvert, en norðanvert í gígnum eru hleðslur í hraunrás. Sunnan til, utan í fellinu, eru tveir hraunhólar. Efri hóllinn er holur að innan og á honum tvö göt. Þetta er Oddshellir, sá sem Oddur frá Grænuborg hélt til í um aldramótin 1900. Enn má sjá bæði bein og hleðslur í hellinum, sem er rúmbetri en í fyrstu má ætla. Gangan upp að Kálffelli með viðkomu framangreindum seljum tók um tvær klst.

Brandsgjá

Brandsgjá við Skógfellastíg.

Nú var gengið svo til í beina stefnu á skátaskálann við Snorrastaðatjarnir, niður Dalina og áfram til norðurs með vestanverðum Brúnunum. Sú leið er mun greiðfærari en að fara yfir holtin og hæðirnar austar. Útsýni var gott yfir Mosana og Grindavíkurgjána. Gengið var yfir Brúnagötuna og komið var við í Brandsgjá og Brandsvörðu, en í gjána missti Brandur á Ísólfsskála hesta sína snemma á 20. öldinni. Skógfellavegurinn liggur þarna yfir gjána. Stefnunni var haldið að Snorrastaðatjörnum. Þegar komið var að þeim var haldið vestur fyrir þær og síðan gengið að Snorrastaðaseli norðan þeirra. Selið er lítið og liggur undir hraunbakkanum fast við nyrsta vatnið, gegn skátaskálanum (sem nú er reyndar horfinn).
Gangan tók í allt um 3 klst. Frábært veður.

Oddshellir

Í Oddshelli.

Rjúpa

Dagurinn var jafnframt „Göngudagur fjölskyldunnar„.

Sýrholt

Sýrholt – tóftir.

FERLIR fóra að leita Fornuselja undir Sýrholti, jafnframt því sem ferðin var nýtt til berja.
Sýrholt er á milli Auðnasels og Flekkuvíkursels, svo til í beina stefnu. Mikill uppblástur og jarðvegseyðing er á svæðinu svo einungis gróðurtorfur eru þar á stangli.

Ferðin var ágætt dæmi um leit á svæði þar sem svo til engin vísbending er um mögulegar minjar og ef þær væru þarna einhvers staðar, þá hugsanlega hvar.
Hver hæðin tók við af annarri og auðvelt að ganga framhjá því sem leitað var að. Ef gengið er vinstra megin við hæð gætu tóftir auðveldlega leynst hægra megin – og öfugt.
Reynt var að nota áunna reynslu og þau skynfæri, sem duga oft best við þessar aðstæður; sjónina og sjötta skilningarvitið. Heyrn, lykt, tilfinning og málið koma yfirleitt að litlum notum við leit að minjum.

Sýrholt

Fornusel í Sýrholti.

Gengið var norðvestur fyrir Sýrholtið og gengið að því til suðausturs. Selin á Reykjanesskaganum eru yfirleitt í skjóli fyrir þeirri átt; rigningaráttinni, einkum þau elstu. Þegar farið var að nálgast svæðið var leitað að kenniletum, grasi og gróðurbollum. Það tók að þéttast mám saman. Þá var skyggnst eftir hugsanlegum hleðslum eða öðrum mannanna verkum. Fljótlega kom vörðubrot í ljós á litlum hraunhól.

Sýrholt

Sýrholt – hleðslur í gjá.

Óljós gata sást liggja framhjá því, með stefnu að öðru vörðubroti. Stefnan var á hæðina vestanverða. Þar utan í henni, á grasbala, komu tóftirnar í ljós, þrjár talsins. Erfitt er að koma auga á þær, en þær eru þó vel greinilegar þegar betur er að gáð.
Skammt norðvestar var önnur tóft á litlum grasbala. Mjög erfitt er að finna hana. Skammt norðar er hlaðinn stekkur í gróinni gjá.
Ekki er vitað hvaða bæ á Vatnsleysuströnd þessi selstaða tilheyrði, enda greinilega mjög gömul.
Frábært veður í haustlitunum. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Fornusel - Sýrholti

Fornusel í Sýrholti – uppdráttur ÓSÁ.

Staðarborg

Gengið var frá Prestvörðunni ofan við Kálfatjörn, yfir Almenningsveginn og áfram til austurs með stefnu austur fyrir Staðarborg. Þar er Staðarstekkur í klofnum hraunhól. Hlaðið hefur verið í miðja rásina og hleðslur eru einnig við austurenda hans.

Staðarborg

Staðarborg.

Það er stutt yfir í borgina. Hún hefur verið endurhlaðinn að hluta. Dyrasteinn, sem verið hefur fyrir ofan opið, liggur nú við innvegg borgarinnar gegnt dyrum. Sagt er að hann hafi þurft að fjarlægja eftir að kálfur komst inn í borgina, en ekki út aftur fyrr en steinninn hafði verið fjarlægður. Næst var stefnan tekin á Þórustaðaborg. Hún er á milli hraunhóla í um 15 mínútna fjarlægð til vestnorðvesturs. Borgin er mikið gróin, en þó sjást vel hleðslur í miðju hennar. Greinilegt er að borginni hefur á einhverju skeiði verið að hluta til breytt í stekk. Vatnshólar sjást vel í vestri. Vestan í þeim, í um 15 mínútna fjarlægð, eru miklar hleðslur. Þarna var Auðnaborg, en henni hefur síðar verið breytt í rétt utan í hólnum. Á hólnum sjálfum, sem er allgróin, eru tvær tóttir.

Auðnaborg

Auðnaborg.

Áfram er gengið í vestur. Framundan sést vel gróinn hóll í um 10 mínútna fjarlægð. Á honum er Borg, greinilega gömul fjárborg. Rétt norðvestan við hana á hólnum er gróin stekkur, Litlistekkur. Í nokkurra mínútna fjarlægð frá honum til vesturs er gamall stekkur á hól. Það mun vera Rauðstekkur. Í um 10 mínútna fjarlægð til vesturs, þó aðeins til hægri, er komið að brekkum. Fara þarf áður yfir girðingu.

Fornistekkur

Fornistekkur.

Framundan er vel gróið sléttlendi. Suðaustan í brekkunum er Fornistekkur.
Þá er haldið til suðurs. Þar ofan við Arnarbæli er Kúadalur. Syðst í honum, undir holti, er fallega hlaðinn stekkur. Frá honum var haldið spölkorn til baka til austurs, sunnan Arnarbælis.

Lynghólsborg

Lynghólsborg.

Á hægri hönd, uppi í heiðinni, er þá áberandi hóll, vel gróinn. Það er Lynghóll. Þegar komið var að greinilega fornum, lítt áberandi stekk á holti, hér nefndur “Arnarbælisstekkur”, var stefnan tekin á hólinn.

Hringurinn

Hringurinn – fjárborg.

Þar, norðan við Lynghól, er enn ein fjárborgin. Hún er greinilega gömul, enda gróin, en hleðslur sjást enn vel í henni miðri svo og leiðigarður suður úr henni.
Ofan Lynghólsborgar er fjárborgin Hringurinn, augljós.

Frá Lynghólsborginni er stefnan tekin til suðvesturs, upp í holtin. Fara þarf yfir girðingu á leiðinni. Þegar komið er upp á hraunhólana sést Hringurinn, á milli hóla. Borgin stendur í lægð, en sést þó vel. Hún hefur greinilega verið voldug á sínum tíma, en er nú að mestu fallin inn. Þó má enn sjá heillega hluta í henni.

Gíslaborg

Gíslaborg.

Stefnan er tekin til vesturs, í áttina að stóru verksmiðjuhúsi austan Voga. Gíslaborgin er þar á hól og ber í gaflinn á húsinu. Áður en gengið er upp á hólinn má sjá sérkennilega hlaðinn, nokkuð stóran, ferning neðan hans. Óvíst er hvað þetta gæti hafa átt að verða því mannvirkið er hlaðið á torfið, ótrausta undirstöðu.

Gvendarstekkur

Gvendarstekkur.

Eftir að hafa skoðað Gíslaborgina var stefnan loks tekin á Gvendarstekk, undir hraunhól skammt vestan Vogavegar. Þetta er gömul fjárborg.
Á leiðinni til baka var Vatnsleysustrandarvegurinn genginn að Gamlavegi og síðan eftir honum aftur yfir á Vatnsleysustrandarveg. Gamlivegur er svo til beinn upphlaðinn malarvegur, en hann hefur líklega þótt of beinn og of fjarri strandbæjunum og því verið aflagður þegar nýr hlykkjóttur vegur var lagður nær ströndinni. Við veginn voru nokkur lóu- og spóahreiður, sem gaman var að skoða.
Gangan tók um tvær og hálfa klst. í frábæru veðri.

Staðarborg

Staðarborg.

Kálfatjörn

Eftirfarandi er frásögn Magnúsar Jónssonar, fyrrverandi minjavarðar Byggðasafns Hafnarfjarðar, af ferð suður í Voga á Vatnsleysutrönd:
„Einu sinni vissi ég til þess, að ung hjón sem að segja mátti að væru á götunni, fóru suður í Voga í Vatnsleysustrandarhreppi til þess að líta á laust húsnæði sem þau töldu sig hafa séð auglýst í blaðaauglýsingu. Þetta var algjör misskilningur, því að átt var við húsnæði í Vogahverfinu í Reykjavík.

Lónakot

Lónakotsbærinn.

En í blöðunum sá ég að auglýst var eftir kennara við Stóru-Voga-skóla og svo alveg sömu villuna að hnýtt var aftan við . . . á Vatnsleysuströnd. En þetta byggðarlag, Vogarnir, er bara alls ekki á neinu, hvorki á Vatnsleysuströnd né annars staðar, en auðvitað er staðreynd að þeir eru í Vatnsleysustrandarhreppi. Og í þessum hreppi eru tvenn afmörkuð byggðarlög, Vogar og Vatnsleysuströnd og svo veit ég ekki . . . en nánast ætti þá að telja þriðja bæjarhverfið, þarna „innbæina“, og verður síðar komið að því.

Ekki er einasta það, að Vogarnir og Vatnsleysuströndin séu afmörkuð byggðarlög, heldur eru þau að mörgu leyti andstæður.

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd – kort.

Úr Vogunum er tiltölulega stutt og auðvelt að sækja vinnu til Keflavíkur eða í Njarðvíkurnar, nú eða þá á Völlinn, ef svo vill verkast. Þarna í Vogunum fjölgar því heldur íbúunum og hús eru byggð. Á Ströndinni er þetta öfugt, þar fækkar fólki og býli leggjast í eyði.
En auk þess að reyna að kveða niður þetta með Voga á Vatnsleysuströnd þá er nokkuð á reiki hvenær og hvar sé komið á hina eiginlegu Vatnsleysuströnd. Sumir telja sig komna þangað strax þegar er komið í álverið eða a.m.k. rétt framhjá því. En það er mikill misskilningur.

Hvassahraun

Hvassahraun – brugghellir.

Komið hefur fyrir að ég sé leiðsögumaður þegar farið er þarna suðurum. Ekki er það traustvekjandi þegar ég byrja míkrófónsmalið með því að segja að ég viti ekki hvað hann heiti fyrsti hraunflákinn sem leiðin liggur um. Annað hvort hafi hann ekkert heiti og að gerð hraunsins sé það sem nefnt er helluhraun, nú, eða þá að hér sé ákveðin nafngift, með stórum staf og þetta heiti Hellnahraun.
En fljótlega erum við komin í Kapelluhraunið, sem er gjörólíkt hinu, miklu úfnara og aðeins með mosagróðri, og því auðvitað ekki nærri eins gamalt og hitt. Um kapelluna, sem hraunið er kennt við, mætti margt segja, en hér verður aðeins minnst á eitt. Það er, að 1950 fannst þarna í tóttinni líkneski af kaþólskum dýrling, heilagri Barböru. Hún var einkum ákölluð við jarðskjálfta, eldsvoða og þessháttar ófyrirséða stórhættu. Hinum megin við veginn eru kerskálar álversins, taldir lengstu hús landsins en getur þá kapellan talist styzta húsið? Nú hefur verið látið töluvert stærra líkneski í tóftina.

Kapella

Kapella í Kapelluhrauni.

Þegar Kapelluhrauninu sleppir komum við að þeirri hraunbreiðu sem á þessari leið er stærst, gróðursælust, elzt og mestri tilbreytni er gædd, af þeim hraunflákum sem leiðin liggur um. Hér má til að minnast á byggðarlagið Hraunin eða í Hraununum. Í samtali við elzta innfædda Hafnfirðinginn, kveðst hann muna eftir tólf bæjum þarna, og finnst mér það ótrúlega mikið. Aldrei voru þarna neinar stórjarðir, en helzt mætti þá nefna Óttarstaði, þar sem oftast var fleirbýli. En ein bygging þarna hefur fengið „andlitslyftingu“ og er þar átt við húsakynnin í Straumi.

Straumur

Straumur.

Straumur er aðsetur listamanna. Íbúðarhúsið er í sama stíl og elztu byggingar á Laugarvatni, enda var víst á báðum stöðum þetta sett í samband við Bjarna Bjarnason, skólastjóra í Hafnarfirði og síðan á Laugarvatni, en hann var með landbúnaðarrómantík, svona í og með. Til Hraunabæjanna taldist líka Lónakotið, þótt það sé nokkru fjær vegi en hinir bæirnir. Það var í byggð fram á miðja þessa öld, sem nú senn kveður.
Ýmsir muna þrjár eða fjórar vísur eftir sr. Árna Helgason stiptprófast í Görðum. Ein er þessi:
Komin er sólin Keili á og kotið Lóna,
Hraunamennirnir gapa’ og góna
er Garðhverfinga sjá þeir róna.
Erum við nú ekki komin á Vatnsleysuströndina? Nei, hreint ekki, Hraunbyggðin taldist löngum vera í Garðahreppi, en nú er þetta víst allt saman Hafnarfjarðarland, og svo er það að við komum í hreppinn með langa nafninu, þegar við förum úr Lónakotslandi.

Keflavíkurvegur

Hleðslur við gamla Suðurnesjaveginn gegnt Gerði ofan Péturskots..

„Fyrst“ er þá þar eyðibýlið Hvassahraun. Við höfum næstum lokið leiðinni um Almenninginn og sjáum nú mjög greinilega hvernig miklu yngra hraun, Afstapahraunið, hefur steypst niðuryfir hitt. Hér höfum við því sem sagt bæði örnefnin Hvassahraun og Afstapahraun. Sumir halda að Afstapahraunið sjálft hafi fyrst heitið Hvassahraun, en þetta er upplagt vangaveltuefni fyrir grúskara. Afstapahraunið er jafnvel enn úfnara og ójafnara en Kapelluhraunið. Þegar við höfum næstum lagt allt þetta hraunhröngl að baki, komum við í Kúagerði svokallað, þ.e. smávegis gróðurteygingar, en vegurinn er svo breiður að hann hefur næstum kæft það. En þarna hafa orðið svo mörg umferðarslys, að komin er þar vandlega hlaðin varða, með krossi efst. Hér er um tvo vegi að velja, og er ekkert áhorfsmál að við veljum þann eldri og mjórri, og auðvitað rómantískari. Brátt höfum við hægra megin næstum heila húsþyrpingu, en það er býlið Stóra- Vatnsleysa.

Minni-Vatnsleysa

Minni-Vatnsleysa – flugmynd.

Minni-Vatnsleysa, með svínabúinu stóra, er svo lengra út með sjónum. (Eða er þar kannske ekkert svínabú lengur?) Svo er þarna eitt útvegsbóndabýlið ennþá, með húsum en engum íbúum, en það er Flekkuvík. Ég hætti nú brátt þessum skriftum, en a.m.k. er eftir svarið við því hvenær við erum komin á Ströndina. Það er þegar komið er á samfelldu túnin, og er það þá víst fyrst Litlabæjartúnið. Margir halda að túnin á Ströndinni séu aðeins einhverjir skæklar eða útnárar, en það er nú rétt einn misskilningurinn enn. Tún kirkjustaðarins, Kálfatjarnar, eru enginn smáskiki. Sem sagt, Vatnsleysuströndin er sá hluti hreppsins þar sem hvert túnið tekur við af öðru. Sízt er þó hægt að tala um ræktað tún í nánd við eyðibýlið Breiðagerði, en við „sjáum í gegnum fingur“ í því máli og teljum þetta allt vera samfellt og enda á túnunum umhverfis Halakot. Svo eru það sviplítil svæði sem um er að ræða unz komið er í Vogana.

Kálfatjarnarkirkja

Kálfatjarnarkirkja.

Hér var aðeins ætlunin að spyrna við fótum þegar sézt eða heyrist talað um Voga á Vatnsleysuströnd, og hvar hin eiginlega Vatnsleysuströnd sé. Smávegis sönn frásögn úr þessu byggðarlagi að lokum: Kálfatjörn var prestsetur til 1919 en árið eftir fluttust þangað ung hjón, bæði fædd í þessum margumtalaða hreppi, en það voru þau Erlendur Magnússon og Kristín Gunnarsdóttir, systir Ingvars kennara og umsjónarmanns Hellisgerðis í Hafnarfirði.
Erlendur var með afbrigðum vandaður maður til orðs og æðis. Hann hélt þeim fagra sið að lesa húslestur að morgni þá sunnudaga sem ekki var messað í kirkjunni. Var það aðeins nefnt að lesa en lögð virðing og allt að því lotning í það orð í þessu sambandi.
Kálfatjörn
Hjón úr Hafnarfirði voru þar í kaupavinnu sumrin 1929, ’30 og ’31. Sagt er, að í vætutíð komi helzt þurrviðrisstund um helgar, er svo sé þegar þurrviðri er, þá geri oft skúr um helgar. Sumarið 1930 var fremur votviðrasamt. En svo nánast um mánaðamótin ág./sept. á sunnudagsmorgni, stendur allt heimilisfólkið á Kálfatjörn úti á hlaði undir skafheiðríkum himni í norðangolu. Svo mikið hafði rignt undanfarið að segja mátti að bæði tún og hey lægi undir skemmdum. Kaupakonan víkur þá snarlega að Erlendi og segir: „Jæja, á ekki að fara að breiða!?“ Erlendur hikar lítið eitt, þar til hann segir: „Ja, við skulum nú koma inn fyrst. Ég ætla að lesa.“
Þannig hugsaði kirkjubóndinn á Kálfatjörn þá. Guðdómurinn skyldi ganga fyrir og fá sitt fyrst.“

-Magnús Jónsson, fv. minjavörður, Hafnarfirði.

Flekkuvík

Brunnur í Flekkuvík.

Gíslaborg

Gengið var að Gíslaborg í Vogaheiði, Hringnum, Lyngólsborg og Auðnaborg í Strandarheiði.

Auðnaborg

Auðnaborg.

Gíslaborg er rústir gamallar fjárborgar á grónum hól. Norðaustan hans eru Gíslholtslágar. Í þeim er ferhyrnd hleðsla, nokkur stór. Ekki liggur í augum uppi hvaða tilgangi þetta mannvirki gegndi, en einn heimamanna, sem var með í för sagðist hafa heyrt að þarna hafi í heiðni verið blótstaður og gæti þetta því verið altari frá þeim tíma. Hann gat þess sérstaklega að þetta væri einungis ágiskun hlutaðeigandi.

Hringurinn

Hringurinn.

Norðaustar er Brunnastaðalangholt. Suðaustan undir því, í svokölluðum Langholtsdal, er falleg hálfhrunin fjárborg, sem heitir Hringurinn eða Langholtsbyrgið. Þótt borgin standi í nokkurri lægð rís hún þó hæst á smáhæð í lægðinni. Best er að nálgast hana úr suðri.
Skammt ofan við Hringinn er klapparhryggur, sem heitir Smalaskáli. Á eystri enda hans er Smalaskálavarða.
Norðaustan hringsins er Hlöðuneslangholt og Lynghóll norðaustan þess. Á sléttlendi neðan hólsins eru rústir gamallar fjárborgar, sem nú er orðin allgróin. Erfitt er að koma auga á borgina svo vel hafa þær samlagast umhverfi sínu. Norðvestan við Lyngholt er Arnarbæli og Kúadalur skammt suðvestar.
Austar eru Geldingahólar með Vatnshólinn í miðið. Gengið var vestan við Nyrðri-Geldingahólinn að löngu grónu holti, nefnt Borg.

Hringurinn

Hringurinn.

Ofarlega í holtinu eru rústir af beitarhúsum, tvær tóftir hlið við hlið og ein þvert á þær. Aðeins neðar í holtinu er greinilega nýrri fjárhústóft. Rétt ofan og austan við efri rústirnar er lítið vatnsstæði í klöpp, vel falið í viki norðan undir lágum hólnum.
Auðnaborgin er skammt norðaustar í grasmóa sunnan í grónum hól. Hún er nú nokkuð heilleg fjárrétt með stórum almenningi og tveimur dilkum, en uppi á hólnum við réttina eru rústir af a.m.k. tveimur kofum. Lítill stekkur er rétt neðan og vestan við borgina, en engar heimildir eru til um nafn hans.
Gengið var norður um Fögrulág með Skálholt á vinstri hönd og niður á Þórustaðastíg þar sem hann liggur upp í heiðina ofan Strandarvegar.
Auk fyrrnefndra fjárborga eru fleiri slíkar í heiðunum milli Reykjanesbrautar og Strandavegar. Nokkru austan við Auðnaborg er t.a.m. Þórustaðaborgin og austan hennar Staðarborgin. Skammt vestan Vogavegar er einnig Gvendarborg. Þær eru því a.m.k. sjö talsins. Ekki tekur nema u.þ.b. tvær klukkustundir að ganga svæðið frá Gvendarborg í vestri að Staðarborg í austri.

Heimildir:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir – 1995.

Þórustaðaborg

Þórustaðaborg.