Tag Archive for: Vinnuskólinn

Krýsuvík

Í  Alþýðublaðinu 1963 mátt m.a. lesa eftirfarandi um Vinnuskólann í Krýsuvík:

Krýsuvík

„Starfsmaður“ Vinnuskólans við vinnu í gróðurhúsi.

„Barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar rekur á vegum Hafnarfjarðarbæjar Vinnuskóla í Krýsuvík og hefur gert það um 12 ára skeið. Alþýðublaðið skrapp upp í Krýsuvík í gær og heimsótti þar 55 drengi, sem eru þar á vinnuskólanum.
Vinnuskólinn í Krýsuvík byrjaði að þessu sinni hinn 18. júní síðastliðinn, en það er nokkru seinna en venja hefur verið. Ýmsar framkvæmdir og lagfæringar á staðnum ollu þessari töf.
Í sumar munu dveljast þarna tveir hópar drengja, hvor hópur í 25 daga. í fyrri hópnum, sem fór í vinnuskólann hinn 18. júní voru 55 röskir drengir á aldrinum 9 til 12 ára. Nú er þeirra tími á skólanum að verða útrunninn og fer þá annar álíka stór hópur upp í Krýsuvík til vinnu og leikja.

Krýsuvík

Starfsfólk Vinnuskólas í Krýsuvík. Rúnar er lengst til vinstri og Sævar lengst til hægri. Fróðlegt væri að fá nöfnin á annars myndarlegt starfsliðið.

Forstöðumaður vinnuskólans í Krýsuvík í sumar er Rúnar Brynjólfsson kennari og skátaforingi, en undanfarin fjögur ár hefur Haukur Helgason, skólastjóri, annast forstöðu skólans. Rúnar var starfsmaður skólans í fyrrasumar og kynntist þá háttum og starfsreglum hans, og taldi hann það hafa orðið sér til ómetanlegs gagns. Sævar Örn Jónsson heitir aðstoðarmaður Rúnars og skipuleggja þeir hvern dag og annast stjórn á drengjunum við hin daglegu störf. Sigurrós Skarphéðinsdóttir, kennari, er ráðskona skólans og hefur þrjár stúlkur sér til aðstoðar.

Stóriskógarhvammur

Piltar úr Vinnuskólanum í Krýsuvík í Stóraskógarhvammi ásamt Hauki Helgasyni.

Verkefni drengjanna eru hin margvíslegustu svo sem garða — og gróðurhúsavinna, trjárækt, vegavinna, ýmis fegrun og snyrting á umhverfinu og margt fleira, auk þess sem þeir hirða herbergi sín sjálfir, hjálpa til í eldhúsi og aðstoða við fleiri innanhússstörf. Vinnuskólinn hefur gróðursett yfir 100 þúsund trjáplöntur í Undirhliðum undanfarin ár.
KrýsuvíkDrengjunum er skipt í 10 flokka og er einn þeirra flokksstjóri fyrir hverjum flokki. —
Svo er verkefnum skipt á miili flokkanna. Vinnutíminn er um 4 klukkustundir á dag, og sagði Rúnar að drengirnir ynnu yfirleitt vel þennan tíma, meðan þeir voru að verki. Og kaup hafa drengirnir fyrir vinnu sína. Við, hin fullorðnu, myndum sennilega ekki vera ánægð með það fyrir okkur, en drengirnir eru ánægðir með sín daglaun, sem eru allt frá tveimur krónum og upp í 4.50 krónur. Upphæð launa fer ekki eftir aldri, heldur dugnaði.

Krýsuvík

Drengir í Krýsuvík við sundlaugagerð sunnan Bleikhóls.

Herbergin, sem drengirnir búa í eru fimm og er keppni milli herbergjanna, hvaða herbergi líti bezt út. Á hverju kvöldi ganga Rúnar og Sævar um herbergin og gefa fyrir, hvernig gengið hefur verið um það um daginn. Hæst eru gefin 10 stig. Þegar herbergið hefur náð samtals 100 stigum fær það verðlaunaskjal úr skinni, sem hengt er upp á einn vegginn í herberginu.
Seinasta kvöldið, sem hver hópur dvelst á skólanum, er athugað, hvaða herbergi hafi hlotið flest stig fyrir umgengnina allan tímann. Það herbergið, sem hlýtur hæstu stigatölu fær stóra og myndarlega rjómatertu í verðlaun og skipta íbúar herbergisins henni milli sín. Í gærkveldi, þegar úrslit voru birt í herbergjakeppninni, vildi svo til, að öll herbergin voru jöfn að stigum Þetta þýddi hvorki meira né minna en það, að fimm glæsilegar rjómatertur voru veittar í verðlaun og 55 drengir ljómandi af ánægju tóku hraustlega til matar síns.

Krýsuvík

Sundlaugin undir Bleikhól.

Þegar hver hópur kveður Vinnuskólann í Krýsuvík er skólanum slitið við hátíðlega athöfn og hver drengur fær í hendur einkunnabók frá skólanum, þar sem gefin er umsögn um vinnu, reglusemi, hreinlæti drengsins og framkomu hans við félaga sína. Í einkunnum eru fjórir möguleikar, prýðilegt, ágætt, gott og sæmilegt.
Einhver spyr kannski: Til hvers er þessi vinnuskóli? —
Svarið við þessu er skráð oftan á einkunnarbækur Vinnuskólans í Krýsuvík en þar stendur: „Vinnuskólinn vill leitast við að efla þroska nemenda sinna bæði í leik og starfi, kenna þeim gildi vinnunnar, vísa þeim leið til sjálfsbjargar og um leið efla félagsþroska þeirra”.

Krýsuvík

Krýsuvík – starfsmannahúsið. Í því dvöldu þátttakendur Vinnuskólans.

Að lokum skulum við athuga hvernig hver dagur er í stórum dráttum skipulagður í Vinnuskólanum í Krýsuvík. Fótaferð hefst klukkan 8 að morgni og morgunverður er snæddur klukkan 9. Klukkan 9.15 er fáninn dreginu að húni og síðan er unnið til hádegis. Þá er matur og hvíld. Klukkan 13.30 er aftur tekið til við vinnuna og unnið til klukkan 15.

Krýsuvík

Vinnan í gróðurhúsunum.

Svo er „kaffi” klukkan 15.30 og síðan leikir, íþróttir, gönguferðir og fleira. Kvöldverður er klukkan 19. Eftir kvöldmat er fáninn dreginn niður. Annað hvert kvöld er kvikmyndasýning, en hitt kvöldið fara fram margskonar íþróttir og keppnir. Klukkan 21.30 fá drengirnir „kvöldkaffið” sitt. Háttatími er klukkan 22. Þá er gengið í öll herbergin, umsjónarmennirnir fara með faðir vorið með drengjunum og bjóða góða nótt.
Drengirnir hverfa inn í draumalöndin, en framundan bíður þeirra heillandi og skemmtilegur dagur.“

Heimild:
-Alþýðublaðið 44. árg., laugardagur 13. júlí 1963, bls. 5.
-Alþýðublað Hafnarfjarðar 16. maí 1962, bls. 5.

Krýsuvík

Texti í Alþýðublaði Hafnarfjarðar 16. maí 1962, bls. 5, um Vinnuskólann.

Krýsuvík

Eftirfarandi grein birtist í Alþýðublaðinu árið 1951.

Krýsuvík

Drengir úr Vinnuskólanum á göngu – HH.

KRÝSUVÍK er eitt þeirra hverasvæða Iandsins, sem mestar framtíðarvonir eru við bundnar, og mestar tilraunir hafa verið gerðar á með virkjun fyrir augum. Í eftirfarandi grein, sem tímarit ungmennafélaganna, „Skinfaxi“ birti fyrir nokkru og byggð er á upplýsingum Jens Hólmgeirssonar, bústjóra í Krýsuvík, varðandi gróðurhús og búskap, og Valgarðs Thoroddsen, rafveitustjóra í Hafnarfirði, varðandi jarðboranir og raforkuframkvæmdir, er gerð allítarleg grein fyrir því, sem gert hefur verið í Krýsuvík.
Á SÍÐARI ÁRUM hefur margt og mikið verið rætt og ritað um framkvæmdir Hafnarfjarðarkaupstaðar í Krýsuvík. Verður hér stuttlega skýrt frá því, sem þegar hefur verið gert þar og helztu fyrirætlunum. Krýsuvík liggur um miðbik Reykjaness að sannanverðu, milli Grindavíkur og Herdísarvíkur, en suðvestan við Kleifarvatn. Fyrr á tímum var þar höfuðból með sex hjáleigum, og um síðustu aldamót lifðu bar um 40 manns. Var sauðfjárræktin undirstaða búskaparins þar og sömuleiðis sjósókn. —
Síðan tók fólki stöðugt  að fækka Seltúnog byggðin að eyðast. Olli því að sjálfsögðu breyttir búskaparhættir og þjóðarhættir, og auk þess samgönguleysi. Kom þá að lokum að aðeins einn maður dvaldi í Krýsuvík, og hafðist hann við í leifum af kirkjunni. Leið þó ekki nema einn vetur, að mannlaust væri í Krýsuvík, áður en starfsfólk Hafnarfjarðarbæjar settist þar að.
Hafnarfjarðarbær fékk eignarrétt á ræktunarlandi og hitasvæði í Krýsuvík árið 1937. Undirstaða framkvæmda þar hlaut að teljast vegarlagning þangað, en lög um Krýsuvíkurveg höfðu verið samþykkt á alþingi árið 1936. Síðan sá vegur tengist Suðurlandsundirlendinu, hefur hann komið í góðar þarfir á vetrum, — ekki hvað sízt á síðastliðnum vetri.
— Milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur eru 25 km. Framkvæmdir í Krýsuvík eru þríþættar, og hafa þessir þrír þættir frá upphafi verið aðskildir, þótt á síðasta ári hafi tveir þættirnir verið sameinaðir undir eina stjórn. Þessir þrír þættir eru: Ræktun í gróðurhúsum, grasrækt og kúabúsframkvæmdir og boranir eftir jarðhita.

GRÓDURHÚS
Vegna jarðhitans eru skilyrði til ræktunar í gróðurhúsum ótakmörkuð í Krýsuvík. Nú eru gróðurhúsin orðin fjögur, og eru ca. 1600 ferm. undir gleri. Tvö þessara gróðurhúsa (600 ferm.) voru tekin í notkun vorið 1949, en hin tvö er verið að ljúka við. Í gróðurhúsunum eru einkum ræktaðir tómatar, agúrkur, gulrætur“ cg blóm. Í sambandi við gróðurhúsin er auk þess hálfur hektari útiræktar, þar sem gert er ráð fyrir að rækta alls konar grænmeti.
Jarðhitinn, sem gróðurhúsin eru hituð Krýsuvíkmeð, er gufa, og er hún leidd í þró. þar sem katli hefur verið komið fyrir, og hitar gufan þannig vatnið í hitakerfi gróðurhúsanna, en það er venjulegt miðstöðvarkerfi. Í sambandi við gróðurhúsin hafa verið reist tvö íbúðarhús, ca. 360 ferm. að grunnflatarmáli, fyrir bústjóra og starfsfólk. Eru í húsunum öll þægindi, vatnsleiðsla, skolpræsi og rafmagn frá díselrafstöð.

BÚSKAPUR
í Krýsuvík eru ca. 300 ha. ræktanlegt graslendi, en auk þess melar, sem e. t. v. mætti rækta með sérstakri aðferð. Kom fljótt til tals að setja þarna á fót stórt kúabú, er jafnan gæti séð Hafnfirðingum fyrir ferskri og góðri barnamjólk. Á þessum grundvelli KRÝSUVÍK er eitt þeirra hverasvæða Iandsins, sem mestar framtíðarvonir eru við bundnar, og mestar tilraunir hafa verið gerðar á með virkjun fyrir augum.
Gosið úr nýjustu borholunni í Krýsuvík. hafa verið hafnar allmiklar búskaparframkvæmdir, þótt enn megi þær teljast á byrjunarstigi. Þegar hafa verið brotnir um 30 ha. lands, en vinnslu er misjafnlega langt á veg komið. Undirbúningur hefur verið undir Í fjósinugrasfræssáningu á þessu vori.
Grafnir hafa verið 8 km. langir opnir skurðir til landþurrkunar, en ca. 45 km. löng lokræsi (kílræsi). Tveir súrheysturnar hafa verið reistir. Eru þeir 5 m. í þvermál og 14 m. háir. Fjós fyrir 154 kýr og tilheyrandi ungviði er komið undir þak. Hér er komið framkvæmdum í búskaparmálum í Krýsuvík, en um framhaldið verður ekki sagt á þessu stigi málsins. Það er rétt að geta þess, að í Krýsuvík er mjög votviðrasamt, og verður því naumast gerlegt að vera háður náttúrunni með verkun á heyi. Gera má ráð fyrir, að þarna mætti hafa um 300 kýr. Öll mannvirki, sem hingað til hafa verið reist í Krýsuvík, bæði vegna rætkunar í gróðurhúsum og fyrirhugaðs búskapar, eru hin vönduðustu og af fullkomnustu gerð.

BORANIR EFTIR JARÐHITA
í Krýsuvík er eitt mesta jarðhitasvæði á landinu, enda ber Reykjanesskaginn allur ljósar menjar mikilla jarðumbrota og eldgosa. —Festi Hafnarfjarðarbær ekki hvað sízt kaup á Krýsuvík vegna jarðhitans, enda hafa yfrin nýjar vonir til hans staðið og standa enn. Fyrstu jarðbornir í Krýsuvík voru framkvæmdar af rannsóknaráði ríkisins árið 1941 og 1942. Var þá borað við
suðurenda Kleifarvatns. Þetta var aðeins gert í rannsóknarskyni til þess að kynnast jarðlögum. Festust borarnir tíðum, og engin gufa kom. Næst var borað 1945. Rafmagnseftirlit ríkisins hafði þær boranir með höndum, einnig í tilraunaskyni. Borað var við svonefndan Austurengjahver í Seltúni [??].

Seltún

Jarðborar voru grannir. Nokkurt gufumagn kom þó, en þar sem borrásir voru þröngar stífluðust þær fljótt, enda var hér um rannsókn að ræða.
Haustið 1948 var Ólafur Jóhannsson úr Hveragerði fenginn til að bora eftir gufu vegna væntanlegra gróðurhúsa. Þá voru boraðar 3 holur, ein með allgóðum árangri, og er íbúðarhús starfsfólks gróðurstöðvarinnar hitað með gufu þaðan.
Um áramótin 1946 og 47 tók til starfa í Krýsuvík nýr jarðbor, sem Hafnarfjarðarbær hafði keypt, en Rafveita Hafnarfjarðar var falið að annast rekstur hans. Þessi bor er fallbor, en fram til þess höfðu verið notaðir snúningsborgar. Fallborar geta borað víðaðri holur en snúningsborar, þótt vélaorkan, sem knýr þá, sé hin sama. Enn fremur er minni festuhætta fyrir þá gerð. en áður hafði það tafið mikið, hve borar vildu festast.

Seltún

Með fallbornum var fyrst borað vegna gróðarstöðvarinnar, skammt frá henni. Sú borhola mistókst. Var þá horinn fluttur í svonefnt Seltún og byrjað að bora með tilliti til væntanlegrar raforkuvirkjunar. Meðan á því stóð var aftur fenginn bor frá rafmagnseftirliti ríkisins til þess að bora uppi í fjallinu ofan við gróðurstöðina, í svonefndum Hveradölum.
Voru þær boranir vegna gróðurhúsanna og gáfu nægjanlegt gufumagn fyrir þau eins og þau voru þá. — Þessar holur hafa þó stíflazt, og hefur fallborinn þá verið fluttur upp í Hveradalina til bess að bora upp þessar sliflur. Enn fremur hafa víðari holur verið boraðar með fallbornum í Hveradölum, sem heppnazt hafa, og gefa þær samtals um 10 tonn af gufu á klst. Gufumagn, sem fyrir hendi er úr borholum í Hveradölum, er þrefalt meira en gróðurstöðin þarfnast, eins og hún er nú. Í Seltúni hafa borarnir gengið upp og ofan, enda er jarðvegur í Krýsuvík sérstaklega erfiður viðfangs fyrir jarðboranir.

Seltún

Með fenginni reynslu tókst þó að endurbæfa svo borvélina á síðastliðnu ári, að borun höfð gengið mun greiðar en áður. Hefur nú tekizt að bora allt að 13 m. á dag, en stundum áður varð ekki komizt nema nokkra centimetra niður á degi hverjum. Það var 12. sept. síðastl., að verulegur árangur varð af borunum í Seltún. Þá kom skyndilega gos úr holu, sem verið var að bora og orðin var 229 m, djúp. Hola þessi er fóðruð með 8 Baðstofatommu víðum járnpípum 100 m. niður. Gosið hefur sífellt haldið áfram. Í ráði er að virkja þarna í Seltúni og hefur ýmsum fyrirtækjum í Evrópu og Bandaríkjunum verið send greinargerð um þetta efni og óskað eftir tilboðum um vélar og tæki. Komið hefur í liós, að ítölsk og svissnesk fyrirtæki ein telja sig geta sinnt svo sérstæðu verkefni, sem hér um ræðir. Stendur Rafveita Hafnarfjarðar nú í sambandi við ítölsk fyrirtæki varðandi þessi mál.“
Þrátt fyrir stóra drauma og mikil áform varð allt að engu. Má að mörgu leyti líkja framangreindu við það sem nú er að gerast varðandi virkjunaráform í Eldvörpum – stórhuga framkvæmdarmenn blása tímabundið litlumhjarta stjórnmálamönnum ofgnótt í brjóst, en landið; náttúran, á ávallt síðasta orðið til lengri tíma litið. Hún talar gjarnan sínu máli sjálf, nú sem fyrrum.

Heimild:
-Alþýðublaðið – fimmtudagur 20. sept. 1951, bls. 5.
-Alþýðublaðið – sunnudagur 8. september 1957.Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvík

Í Alþýðublaði Hafnarfjarðar 10. des. 1949 er fjallað um framkvæmdir í Krýsuvík, s.s. vegagerð, garðyrkjubú, kúabú og raforkuvinnslu. Þar segir m.a.:

krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn.

“Þegar menn tóku að beita sér fyrir lagningu Suðurlandsbrautar um Kýsuvík til að fá snjóléttan vetrarveg milli Árnessýslu og Reykjavíkur, opnuðust möguleikar fyrir Hafnarfjörð, að færa sér í nyt auðsuppsprettur Krýsuvíkur.
Í Krýsuvík hefur verið byggð frá landnámstíð og allt fram á okkar daga. Samkvæmt manntali 1855 voru þá í Krýsuvíkursókn 12 býli með 72 manns, er þar höfðu sitt framfæri. Síðari hluta 19. aldar fækkaði svo þessum býlum ört, og byggð mun hafa lagst þar alveg af um 1935.

Krýsuvík

Krýsuvík.

Oft mun hafa verið vel búið í Krýsuvík, enda sauðland gott og ræktunarmöguleikar miklir. Hins vegar hafa erfiðar samgöngur, eða réttara sagt samgönguleysi, hafa valdið mestu um það, að byggðin lagðist niður. Með tilkomu hins nýja vegar var aftur þessari hindrun rutt úr vegi. Um fáa vegi á Íslandi mun hafa verið rifist meira. Og jafnvel eftir að vegagerðinni var að mestu lokið, s.sl. vetur, þegar vegurinn bjargaði mjólkurflutningunum um tveggja til þriggja mánaða skeið.

Krýsuvík

Vinnuskóladrengir við vinnu í fjósinu í Krýsuvík (HH).

Hafnfirðingar nutu góðs af vegarlagningu þessari á margan hátt. Í fyrsta lagi nutu þeir góðs af því, eins og Reykjavík, að hægt var að halda sambandi þessu opnu, þegar allir aðrir vegir austur voru lokaðir. Í öðru lagi nutu þeir, á erfiðum tímum, mikillar atvinnu við lagningu vegarins. Í þriðja lagi opnaði vegurinn þeim leiðina til Krýsuvíkur.
Næsta sporið var að eignast landið. Emil Jónsson bar fram á Alþingi 1935 frumvarp um eignarnám á þessu landi öllu, sem náði samþykki, þó ekki eins og upphaflega var ætlast, heldur var það nokkuð rýrt í meðferð þingsins, en Hafnarfjarðarbær eignaðist þó allt ræktarland milli Sveifluháls og Geitahlíðar, og milli Kleifarvatns og sjávar, sem er geysilegt landflæmi, fyrir lítið verð eða innan við 50 þús. kr. með rétti til að nytja allan jarðhita í landi jarðarinnar. Það má óhætt fullyrða, að þessi kaup, á jörð og hitaréttindum, eru einhver þau hagkvæmustu, sem Hafnarfjarðarbær hefir nokkurn tíma gert, miðað við allar aðstæður og miðað t.d. við verðið á jarðhitaréttindum þeim, sem Reykjavíkurbær hefir keypt í Mosfellssveit, og mikið lán að þessu skyldi vera lokið fyrir verðhækkun ófriðaráranna.

Krýsuvík

Krýsuvík – frá Vinnuskólanum.

Um leið og landið var keypt, var einnig frá því gengið, að það yrði innlimað í lögsagnaruymdæmi Hafnarfjarðar, svo að útsvör manna sem í Krýsuvík eiga heima, renna nú til Hafnarfjarðarbæjar, en ekki til Grindavíkurhrepps, en landið tilheyrði áður þeim hreppi.
Nú leið og beið, því ekki var hægt að hafast að, fyrr en vegurinn var fullgerður suður fyrir Kleifarvatn, en þá hófust líka framkvæmdir í stórum stíl. Árið 1945 og ’46 var allt landið girt. Um sama leyti var hafist handa um undirbúning gróðurhúsabygginga og húsbyggingar fyrir starfsfólk. Þessu verki var lokið um síðustu áramót eða uppúr þeim, og fyrstu gróðurhúsin voru tekin til notkunar í marsmánuði síðsatliðnum. Eru gróðurhús þessi um 600 fermetrar að flatarmáli. Í sumar hefir svo verið unnið að því að stækka þau, bæta við 1000 fermetrum. Garðyrkja á jarðhitasvæðum er talinn hinn arðvænlegasti rekstur hér á landi og er ekki vafi á að hún muni verða einn af hyrningarsteinunum undir búreksturinn í Krýsuvík.

Krýsuvík

Krýsuvík – Vinnuskólinn (HH).

Ráðgert er að stofna til búreksturs til mjólkurframleiðslu í Krýsuvík með ca. 100 mjólkandi kúm, til að byrja með. Síðar verði kúnum fjölgað fljótlega upp í 300, og meira síðar. Með 300 kúm í Krýsuvík, og þeirri mjólkurframleiðslu, sem nú er í bænum og næsta nágrenni hans má gera ráð fyrir að hægt verið að fullnægja mjólkurþörf bæjarins fyrst um sinn. Væri með því stigið mikið heillaspor fyrir bæjarbúa, að geta ávallt fengið nýja mjólk og góða, í stað þeirra, sem nú er flutt hingað um langan veg og vægast sagt er misjöfn að gæðum.

Krýsuvík

Vinna í gróðurhúsunum.

Framkvæmdir þessar hófust árið 1946. Jarðræktarframkvæmdir hafa verið fólgnar í skurðgrefti til að þurrka landið. Land hefir einnig verið brotið til ræktunar svo tugum hektara skiptir. Tveir votheysturnar byggðir. Fjós er í byggingu og sömuleiðis íbúðarhús fyrir bústjóra. Keyptar hafa verið vélar til jarðrækar, flutninga o.fl. Það sem vantar fyrst og fremst er íbúðarhús fyrir starfsfólk, að fullgera fjós og bústjórahús og kaupa gripi.
Bústjórinn var ráðinn fyrir þrem árum, Jens Hólmgeirsson, og hefir hann undirbúið framkvæmdir og stjórnað þeim. Er ekki vafi á að þegar búið tekur til starfa verður það í fremstu röð hvað fyrirkomulag og tækni snertir.
Kostnaður við framkvæmdir allar snertandi kúabúið, mun nú vera orðinn um 1 millj. kr., ræktunarkostnaður, byggingakostnaður og vélakaup, en þar af hafa vélar verið keyptar fyrir um 300 þús. kr. Bæjarútgerðin hefir greitt allan þenna kostnað.”

Vinnuskólin

Vinnuskólapiltar á leið í sundlaugagerð við Bleikhól. (HH)

Eins og kunnugt er varð aldrei af búrekstrinum í Krýsuvík. Bæði var það vegna þess að andstæð stjórnmálaöfl voru á móti honum og auk þess voru sett lög er skilyrti gerilseyðingu mjólkur til handa tilteknum leyfishöfum. Þar með varð framtíð kúabúsins í Krýsuvík dæmt til að mistakast. Fjósið hefur verið notað undir fé, svín og sem leiksvæði Vinnuskólabarnanna í Krýsuvík á sjöunda áratug 20. aldar.
Fjósbyggingin og súrheysturninn standa nú eftir sem minnismerki um háleita drauma og stjórnmálaleg umskipti.

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar 10. des. 1949.

Krýsuvík

Krýsuvík.

Krýsuvík

Krýsuvík er landnámsjörð. Þar nam Þórir haustmyrkur land. Þá hefur búsetan verið vestar en nú er, eða þar sem kölluð er gamla Krýsuvík í og við Húshólma í Ögmundarhrauni.

Krýsuvík

Drengir úr Vinnuskólanum á göngu – HH.

Nokkrar bæjarrústir, garðar og borgir eru þar í hrauninu, á svæði sem hefur verið talið óbyggilegt eftir að hraunið færði byggðina í kaf um miðja 12. öld. Meginbyggðin var m.a. færð að sunnanverðu Kleifarvatni, upp undir Gestsstaðavatn og austur fyrir Bæjarfell þar sem hún var allt fram á miðja 20. öld.

Um skeið var Krýsuvík höfuðból með mörgum hjáleigum – heimildir segja allt að 14 um tíma á 19. öld. Jörðin fóstraði margan manninn og skilaði sf sér dugmiklum afkomendum. Nú er hins vegar lítið orðið eftir af fornri frægð höfuðbólsins, en eftir stendur heilstætt búsetulandslag er minnir á mannlífið og atvinnuhættina fyrrum – allt frá upphafi byggðar hér á landi (og jafnvel eldri). Eftir að búseta lagðist af í Krýsuvík hófust framkvæmdir við áætlanir er jafnan fóru út um þúfur. Undantekning er þó starfsemi Vinnukólans Í Hafnarfirði þar sem ungir drengir frá Hafnarfirði elfdu hug og hönd, líkt og segir í söngtexta HZ, sem jafnan var á vörum drengjanna. Textinn gæti og vel lýst afstöðu Krýsvíkinga fyrrum:

Krýsuvík

Krýsuvík.

„Vasklega að verki göngum
vinir með gleðisöngvum
karlmennskan lokkar löngum
lífsglaðan hug.
Ræktum og byggjum, bætum,
brosandi þrautum mætum,
vonleysi, þrefi og þrætum,
þeytum á bug….

Kempur í kappasveit,
í Krýsuvík vinnum heit,
að duga og treysta vort drenglyndi og þor.
Vorhugans verkin kalla
verkglaða drengi snjalla.
Sindrar um sali fjalla
sólskin og vor.“

Mörgum leikur forvitni að vita eitthvað um örnefnið „Krýsuvík“. Ýmsar getgátur hafa verið uppi um tilurð þess, s.s. að heitið tengist orðinu „kross“ eða þarna hefðu í fyrstu búið „krýsverjar“ eða „Krýsir“. Ef skoðaðar eru gamlar orðabækur og orðatiltæki kemur í ljós að „krýs“ táknar einfaldlega grunn skora í ask, sbr. grunn vík. Þar sem nú er hraun vestan við sunnanverðan Húshólma mun fyrrum, að öllum líkindum, hafa verið grunn vík – neðan við þar sem nú eru tóftir „Gömlu Krýsuvíkur“. Ásgeir Blöndal telur að nafnið hafi verið fengið út frá lögun víkurinnar og nafnið sé í ætt við krús og krúsa (Íslensk orðasifjabók) og er það í ætt við aðrar fornar orðskýringar. Orðið „krís“ er einnig til, en í öðru samhengi; vandi eða óáran.

Indíáninn

Indíáninn í Kleifarvatni.

Núverandi akvegur frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur var lagður um 1944. Um svipað leyti var lagður vagnfær vegur frá Grindavík að Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík. Áður fyrr lágu hestagötur á milli staðanna. Segja má að Krýsuvík hafi verið í þjóðleið því vermenn og  bændur að austan komu þar við á leið þeirra í verstöðvarnar og verslunarstaðina við Grindavík, á Suðurnesjum og á Ströndinni. Erlendir ferðamenn lögðu jafnan leið sína til Krýsuvíkur, ekki síst vegna hveranna, sem þar eru fjölmargir í nágrenninu. Þá sýndu þeir fjölbreytilegum búskaparháttum bænda nokkurn áhuga.
Gamlar leiðir frá Hafnarfirði lágu t.d. um Undirhlíðaveg og Dalaleið frá Kaldárseli og um Hrauntungustíg og Stórhöfðastíg frá Ási. Þrjár þessara leiða mættust í Ketilsstíg um Sveifluháls.
Þá lágu götur yfir hálsinn að Vigdísarvöllum, vestur að Seltöngum og áfram að Ísólfsskála og austur um Deildarháls að Herdísarvík. Allar þessar götur eru enn vel greinilegar og áhugaverðar til göngu.

Norðurkot

Norðurkot í Krýsuvík.

Minjar má enn sjá eftir alla bæi, sem heimildir eru um að hafi verið í Krýsuvík frá upphafi. Mjög litlar rannsóknir hafa farið fram á aldri minjanna og því lítið vitað um sögulegt samhengi byggðarinnar í heild. Elstu tóftirnar eru að öllum líkindum, sem fyrr sagði, í Húshólma. Þar eru leifar þriggja skála, kirkju- eða bænhúss, grafreits, fjárborgar og langra garða, sem benda til langtíma búsetu. Rannsókn hefur sýnt að landnámsöskulagið (frá árinu 871) er í pælunni í einum garðanna, sem þarna er enn og hraunið hlífði fyrir átta og hálfri öld. Bendir það til þess að minjarnar getið verið allt að því frá upphafi norræns landnáms hér á landi – eða jafnvel eldri. Minjar í nálægum óbrennishólma styrkir þá tilgátu, en þar er m.a. að finna leifar af virki, topphlöðnu húsi og görðum.

Gestsstaðir

Gestsstaðir í Krýsuvík, sunnan Gestsstaðavatns – skáli.

Leifar elsta bæjarins utan Húshólmasvæðisins eru taldar vera í svonefndum Kaldrana suðvestan við Kleifarvatn og tóftum Gestsstaða sunnan við Gestsstaðavatn. Allar eru þessar minjar friðlýstar.
Auk þess má sjá leifar eftirfarandi bæja: Krýsuvík (Austurb/Vesturb.), Hnaus/a, Stóra-Nýjabæjar (Austurb/Vesturb.), Litla-Nýjabæjar, Norðurkots, Suðurkots, Læks (Austurbæjarr?), Snorrakots, Arnarfells, Fitja (Efri- / Neðri-), Eyrar, Vigdísarvalla, Bala og Fells. Þá má enn sjá leifar selja þessara bæja, s.s. Kaldranasels undir Hvammahlíð, Krýsuvíkursels austan Selöldu, selstöðu í og við Sogaselsgíg, selstöðu á Vigdísarvöllum og selstöðu á Seltúni. Verminjar eru á Seltatöngum og í Húshólma (ofan við Hólmasund) og víða eru fjárskjól og beitarhús því Krýsuvík þótti góð sauðajörð og urðu bændur og búendur því mest að treysta á sauðfjárrækt, enda bera minjarnar þess glögg merki. Útbeit er ágæt, þótt engin væri fjörubeit, en féð þurfti nákvæmrar hirðingar og varð maður alltaf að fylgja því á vetrum. Segja má með nokkrum sanni að ábúendur hafi lagt mikið á sig til að halda lífi í fénu því á því lifði fólkið. Fjárskjól og -gerði tengd fjárbúskapnum má t.d. sjá í Bæjarfelli, í Klofningum, á Krýsuvíkurheiði, í Stóra-Lambafelli og á Borgarhálsi. Mógrafir eru í Rauðhólsmýri, undir Baðstofu og í Innralandi.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja.

Krýsuvíkurkirkja er það kennileiti við bæjarhólinn í Krýsuvík, sem jafnan vekur hvað mesta athygli ferðalanga. „Elsta heimild um kirkju í Krýsuvík er, að um 1200 er hennar getið í kirknaskrá Páls biskups. Kirkjan er talin Maríukirkja, og á heimaland allt, ásamt Herdísarvík og níu mæla lands á Þorkötlustöðum, auk ítaka. Eftir það er Krýsuvíkurkirkju getið í ýmsum máldögum allt fram undir 1600. Flestir máldagarnir fjalla um eignir kirkjunnar fastar og lausar, ítök o.fl., og ber víðast fátt á milli, utan þá orðalag. Á tíma þeim, sem máldagarnir ná yfir, hefur lausafé kirkjunnar ekki ávallt verið það sama, munir gengið úr sér, og stundum aðrir komið í þeirra stað, lifandi peningi fækkað, þar til horfinn var með öllu, og segja má, að svo hafi farið um flesta muni kirkjunnar.
Allt bendir til, að Krýsuvíkurkirkja hafi aldrei rík verið af lausafé. Hitt mun helur mega telja, að fram eftir öldum hafi hún eftir öllum bréfum að dæma mátt teljast allveg á vegi stödd í föstum eignum, þar sem hún hefur átt allt land sóknarinnar, byggt og óbyggt, og meira þó, það er hún átti einnig Herdísarvíkina, bestu verstöð í Selvogi, landríka vildisjörð, og lágu lönd saman. Auk þessa ýmis ítök. Hitt er ljóst, bæði af íslenskum heimildum svo og ferðabókum erlendra, sem um landið reistu og til Krýsuvíkur fóru, flestir til athugunar jarðhita og brennisteini, að meðal sóknarmanna hafi þar oftar ríkt fátækt en auður, jafnvel svo, að til landauðnar dró á tímabili. Árið 1553-’54 telur Marteinn biskup “kirkju þar góða, – en enginn bær er þá í sókninni”. Með bréfi 27. sept. 1563 leggur Páll Stígsson hirðstjóri, í samráði við Gísla Jónsson biskup í Skálholti, niður sóknarkirkju í Krýsuvík, og leggist hún og eitt kot “sem þar er hjá”, til Strandarkirkju í Selvogi. Þó skal í Krýsuvík standa lítið húskorn, Guðs vegna og þess heimilisfólks, sem þar kann að vera sjúkt eða gamalt. “Og herra Gísli skyldi nokkur kúgildi til leggja, svo að Guðs orðs þénari mætti þar hvíld nætursakir hafa, þá hann þar kæmi eða þyrfti þar að koma guðlegrar hjarðar að vitja.” Krýsuvíkurkirkja virðist þó standa eftir sem áður. Í kirkjuskrá 1748 er kirkjan til, og enn í prestakallaskipunarlögum frá 1880 -og þá líklega einungis að nafninu til.
Núverandi timburkirkja var reist árið 1857, en lögð af sem sóknarkirkja 1929, notuð till íbúðar, endurbyggð og síðan endurvígð 1964. Hún tilheyrir nú Hafnarfjarðarprestakalli í Kjalarnesprófastsdæmi. Kirkjan er varðveitt af þjóðminjaverði. Þegar Krýsuvíkurbærinn, hið merka stórbýli um aldir, var orðinn svo hrörlegur á fyrri hluta 20. aldar að ekki var lengur hægt að hafast við í honum, flutti ábúandinn í kirkjuna. Hún var afhelguð og notuð sem bústaður um tíma. Þangað komu margir á ferðum sínum um Krýsuvík og nutu skjólsins þótt stundum væri vistin köld á vetrum. Ofn var þá í kirkjunni og var hann kyntur duglega, en kulnaði á milli.
Kirkjan er dæmi um einfalda sveitakirkju frá síðari hluta 19. aldar.
Krýsuvík er nú í eigu Hafnarfjarðarbæjar. Krýsuvík fór endanlega í eyði eftir 1950. Stórbýlið Krýsuvík hafði um tíma 14 hjáleigur, enda jarðgæði mikil áður en uppblástur tók að herja. Víða í Krýsuvík má sjá búsetuminjar, allt frá Selöldu í suðri að Kleifarvatni í norðri, Seljabót í austri og Selatöngum í vestri.
Sveinn Björnsson, listamaður og lögreglumaður, hafði vinnustofu í Krýsuvík. Þegar hann andaðist 28.04.1997, sjötíu og tveggja ára, var hann jarðaður í Krýsuvíkurkirkjugarði 9. maí. Þá hafði ekki verið jarðsett í garðinum síðan 1917.

Brennisteinsnám

Brennisteinsvinnslan í Seltúni.

Brennisteinn var unninn í Krýsuvík á 18. og 19. öld. Frægar eru ljósmyndir í ensku 19. aldar blaði er sýndu „arðvænlega“ vinnslu náttúruauðlinda á svæðinu. Á þeim sáust miklir hraukar brennisteins og allt virtist í fullum gangi. Tilgangurinn með myndunum var m.a. að selja enskum hlutabréf í námuvinnslufélaginu. Þeir félagar Eggert og Bjarni voru á ferð um Krýsuvík árið 1756 og var þá unninn brennisteinn í Krýsuvík. Til er uppdráttur af námuvinnslusvæðinu frá þessum tíma. Þau voru tvö; annars vegar í Baðstofu milli Hettu og Hatts og hins vegar við Seltún (Hveradal). Bændur höfðu í gegnum aldirnar grafið upp brennistein og selt ferðamönnum milliliðalaust. Þeir seldu síðan námuréttindin fyrir peninga og þótti þá í frásögu færandi. Upphæðin var þó lítil miðað við væntingar. Enn þann dag í dag má slá leifar brennisteinsnámsins í Krýsuvík, einkum við Seltún.

Ýmsar þjóðsögur og sagnir hafa spunnist í Krýsvík. Má þar nefna söguna um Herdísi og Krýsu. Dysjar þeirra má sjá í Kerlingardal undir Stóru-Eldborg. Þjóðsagan um Mókollu gerðist í Klofningum. Þar má sjá fjárhelli, fyrirhleðslur og hústóft. Tanga-Tómas var draugur á Selatöngum. Á Töngunum má sjá miklar verminjar frá fyrri öldum, einkum frá 19. öld. Séra Eiríkur á Vogsósum, prestur í Krýsuvík um tíma, mætti Tyrkjum utan við kirkjuna. Þeir eru grafir í Ræningjadys. Sagnir eru og um skímsli í Kleifarvatni. Sumir telja sig hafa séð það, jafnvel á síðari árum.

Hvað sem öðru líður geymir Krýsuvík heilstætt búsetulandslag fyrrum íbúa. Við bæina var t.a.m. garðar, matjurtargarður, brunnur eða vatnsstæði, fjárból, nátthagi, traðir og önnur mannanna verk. Í nágrenninu voru fjárskjól, gerði, borgir og beitarhús. Hlaðnar refagildrur má finna við greni, arnarhreiður og vörður við gamlar leiðir. Allt þarnast þetta varðveislu svo komandi kynslóðir fái tækifæri til að sjá og skilja betur aðbúnað og aðstæður þær er forveður þeirra lifðu við og dugðu til að bæta hag þeirra sem á eftir komu.

Heimildir m.a.:
-Ólafur Þorvaldsson.
-Árni Óla.
-Jarðabókin 1703.
-Hörður Zóhaníasson.

Krýsuvík

Krýsuvík – Vinnuskólinn.

Fjóla Eiðsdóttir

Í Fjarðarfréttum árið 1969 birtist fróðlegt viðtal við Fjólu Eiðsdóttur undir fyrirsögninni „Af sjónarhóli húsmóður – Að standa einn í stríði lífs er sterkra manna dyggð„. Viðtalið er ekki einungis athyglisvert vegna dugnaðar og elju einstæðrar móður við uppeldi sex barna, sem henni tókst að halda að sér þrátt fyrir mótlæti þar sem lítils stuðnings samfélagsins var að vænta, heldur og vegna þess að í því koma fram gildin um veru barnanna bæði í Vinnuskólanum í Krýsuvík og á Barnaheimilinu Glaumbæ í Hraunum á þeim tíma. Um báða staðina er fjallað ítarlega hér á vefsíðunni.

Fjarðarfréttir

Fjarðarfréttir 1969.

„Fjarðarfréttir rabba að þessu sinni við Fjólu Eiðsdóttur, Hún fluttist til Hafnarfjarðar fyrir átta árum. Hún var þá þegar fyrirvinna sex barna á aldrinum eins til sjö ára. Í þessi átta ár hefur hún barizt ein áfram af slíkum dugnaði og myndarskap, að aðdáun hefur vakið hjá öllum, sem til þekkja.
Hvenær fluttist þú til Hafnarfjarðar?
— Það eru nákvæmlega átta ár síðan, á Jónsmessunni 24. júní, ég man það svo vel. Þá fluttist ég hingað með börnin, sem voru þá á aldrinum 1 til 7 ára.
Mestu erfiðleikarnir voru, að maður hafði ekkert húspláss. Ekkert. Ég kalla það ekki húspláss, eitt herbergi og eldhús fyrir sjö manna fjölskyldu. Það var svo erfitt, að það var ekki hægt að búa við það, þó að við værum tilneydd. Þegar ég svo fékk það húsnæði, sem ég er nú í, fyrir tveimur árum, fannst mér öllum erfiðleikum vera lokið.
Áttir þú ekki við veikindi að stríða fyrstu árin þín hér?
Fjóla Eiðsdóttir— Jú, það voru afleiðingar taugaspennu, ég ætlaði að hafa réttinn mín megin, og ég tel veikindin ekki hafa verið mjög alvarleg, enda náði ég mér strax og ég hafði náð rétti mínum. Það gera sér ekki allir grein fyrir því, að það eru til lög, og ég þurfti að berjast harðri baráttu fyrir rétti mínum og barnanna. Ég var alveg gallhörð á því, að það væru til lög og ég skyldi fara eins langt eins og ég kæmist, og það hef ég gert og skammast mín ekkert fyrir það.
Það hefur oft á tíðum verið erfitt hjá þér og þröngt í búi?
— Já ég gat sjaldan hugsað lengra en að eiga til dagsins, hitt þýddi ekkert. Ég var alveg ánægð, ef ég átti einhvern bita til morgundagsins. Ég vissi alltaf að okkur myndi leggjast eitthvað til. Það voru miklu meiri erfiðleikar að eiga ofan í sig að borða, þegar ég var í Grindavík en eftir að ég flutti í Hafnarfjörð. Grindavík var þá annað verðlagssvæði hjá tryggingunum en Hafnarfjörður og það munaði töluvert miklu, hvað ég fékk meira til að lifa af, þegar ég kom hingað. Fjölskyldubætur fékk ég ekki fyrstu árin. Það eru aðeins rúm tvö ár síðan konur, sem eru einar með börnin sín fóru að fá fjölskyldubætur greiddar.
Fjóla Eiðsdóttir
Ég þurfti að liggja á sjúkrahúsi um skeið nokkru eftir að ég kom til Hafnarfjarðar. Það var að vísu erfitt að skiljast við börnin, en ég vissi, að ég varð að gera það til að jafna mig eftir taugaspennuna. Ég vissi líka, að það væru til lög og gott fólk, svo að það færi ekki illa um börnin þann tíma.
Eftir að þú komst í betra húsnæði og náðir fullri heilsu aftur, hefur þú þá unnið úti?
— Já ég vinn í Reykveri frá kl. 7.20 f.h. til 7 á kvöldin. Ég hef unnið þar síðan fyrirtækið var stofnað.
Er þá ekki geysileg vinna eftir, þegar komið er heim að lokinni vinnu?

Krýsuvík

Krýsuvík – Vinnuskólinn (HH).

— Jú, það er nú oft mikil vinna eftir. Ég verð að byrja á því að elda matinn og sameina fjölskylduna yfir einni heitri máltíð á dag. Ég verð alltaf að fara á fætur kl. 6.00 og taka til fötin, sem þau eiga að fara í, og segja þeim alveg hvað þau eiga að gera yfir daginn. Það bregst varla, að þau fari eftir því. Þegar þau voru í Glaumbæ og vinnuskólanum í Krýsuvík lærðu þau að brjóta saman fötin sín og ganga frá þeim. Mér finnst það hafa hjálpað okkur geysimikið allt, sem þau lærðu þar, auk þess, sem það var mikill hjálp að geta komið þeim þangað á sumrin. í hádeginu hef ég oft getað lagt mig, því að þau taka sjálf til hádegismatinn og elzti sonurinn, sem nú er kokkur á bát hefur stjórnað eldamennskunni.
Á kvöldin er föst regla, að hver gengur frá sínu. Þau brjóta fötin sín vel saman og laga til í herberginu. Það verður að vera föst regla og góð samvinna á heimilinu. Það eru margir, sem hneykslast á því, að ég skuli vinna úti og halda, að þetta sé ekki hægt. Já, það hneykslast margir. Fólk heldur, að maður vanræki börnin mikið með þessu, en ég vil meina, að þetta sé bæði skóli fyrir mig og krakkana líka. Þau læra mikið af þessu. Fyrst ætluðu þau að fara að klaga öll í einu, eitthvað sem hafði skeð yfir daginn, en nú kemur það aldrei fyrir, að það sé neitt. Ég þarf aldrei að skipta mér af heimanáminu hjá þeim. Þau eru samvizkusöm, sem betur fer og ég held, að ég fengi þau ekki í skólann, ef þau væru ekki búin að læra.
Hvað ræða börnin um framtíðina?

Glaumbær

Glaumbær í Hraunum.

— Þau náttúrulega ræða um framtíðina. Þessi ætlar að verða þetta og hinn hitt, en maður veit aldrei hvað verður. Ég ætlaði t. d. að verða kennari, en það fór allt á annan veg. Föðurbróðir minn kenndi mér í barnaskóla, og ég og dóttir hans vorum alltaf að keppa. Hún hafði það af að verða kennari, en ekki ég. Ég sagði oft, að það gæti verið, að ég kæmist í skóla, þegar ég væri orðin gömul og hef alltaf huggað mig við það, en krakkarnir verða nú að sitja fyrir, svo að ég kemst sjálfsagt aldrei í skóla,
Nú hefur þú barizt áfram ein með þín sex börn í átta ár. Hvaða hugsun er það, sem grípur þig, þegar þú lítur til baka?
— Ég hugsa bara ekkert um það. Ekki neitt. Það er nokkuð, sem ég forðast alveg að fara að hugsa um. Þá getur maður farið að hugsa margt. Ég hugsa fyrir morgundeginum. Ég set mér mark að keppa að, og þegar ég er búin að ná því, set ég mér annað mark, og svo koll af kolli. Ég hef lögin með mér, og ég hef notfært mér það, en um það, sem liðið er, hugsa ég ekki.“

Heimild:
-Fjarðarfréttir, 3. tbl. 02.06.1969, Af sjónarhóli húsmóður – „Að standa einn í stríði lífs er sterkra manna dyggð“, bls. 9.

Fjóla Eiðsdóttir

Fjóla Eiðsdóttir og börn 1960.

Krýsuvík

Viðurkenndar prófgráður hafa jafnan verið metnar til verðleika þegar sótt er um störf.

Krýsuvík

Krýsuvík – Vinnuskólinn (HH).

Höfundur lauk m.a. barnskólaprófi, gagnfræðiprófi, menntaskólaprófi, stúdentsprófi, prófi frá Lögregluskóla ríkisins, prófi frá stjórnunarskóla FBI í Bandaríkjunum og prófi í fornleifafræði við Háskóla Íslands, auk ótal prófgráða eftir hin og þessi námskeið í gegnum tíðina. Var auk þess í bæjarstjórn Hafnarfjarðar, nefndarmaður í ótal nefndum og formaður nokkurra.

Krýsuvík

Vinnuskóladrengir við vinnu í fjósinu í Krýsuvík (HH).

Sú „prófgráða“, sem þó hefur nýst honum hvað best í gegnum tíðina, er reynslan frá Vinnuskólanum í Krýsuvík. Þá var hann á aldrinum 8-11 ára. Að vísu var enginn „útskrifaður“ frá skólanum þeim arna með prófgráðu, en í lok hverrar annar fengu flestir þátttakendur viðurkenningarskjöl, sem hvert og eitt var verðskuldað og ígildi prófgráðu.

Auk viðurkenninganna fengu hlutaðeigendur laun fyrir vinnuframlag sitt. Jafnan þurfti sérhver að vinna hálfan dag á launum. Vinnuframlag hvers og eins var metið frá degi til dags, allt frá 25 aurum til einnar krónu. Verðbólgan lék Vinnuskólann illa, líkt og aðra slíka vinnustaði. Á síðasta ári Vinnuskólans voru hæstu daglaunin 5. kr.
Eftir hádegismat var farið í gönguferðir um nágrennið, landlagið metið og útskýrt.

Krýsuvík

Drengir í Krýsuvík við sundlaugagerð sunnan Bleikhóls.

Ratleikir eða aðrir slíkir voru um helgar. Þá var hópnum gjarnan skipt upp í hópa, sem hver og einn fékk það verkefni að stefna að ákveðnu marki. Oftar en ekki kom til átaka milli hópanna. Sérhver fékk „lífteygju“ á upphandlegg – ef hún varð slitin var viðkomandi úr leik.
Kofar voru byggðir í gilinu við Hettulækinn, sundlaug grafin sunnan Bleikhóls og silungsveiðar stundaðar í Kleifarvatni, gengið upp að Arnarvatni á Sveifluhálsi eða inn að Víti í Kálfadölum.
Einhverja daga, virka sem og um helgar, þurfti hver og einn að aðstoða í eldhúsi; skræla kartöflur, leggja á borð og vaska upp. Þar voru daglaunin best. Boðið var upp á morgunmat (hafragraut og mjólk), hádegismat (bjúgur, fiskibollur o.s.frv.), kvöldmat (sem ég man nú ekki hver var) og kvöldkaffi. Miðdegiskaffið (mjólk á glerflösku og brauðsneið) tókum við jafnan með okkur í gönguferðirnar um nágrennið.
Aukreitis þurfti sérhver að búa um sitt rúm, skúra herbergisgólf og ganga, þvo sinn þvott, hengja upp og strauja hann síðan með rúmfjölunum, sem fólust undir rúmdýnunni.

Krýsuvík

Drengir í Vinnuskólanum við Seltún. Drottningarholan í bakgrunni – HH.

Í fríum var leikið með tindáta í gólfskotstöðu á grámáluðu steingólfinu, lesið, spilað á mylluleik eða þátt tekin í úthugsuðum íþróttaviðburðum, s.s. fótboltamótum á milli herbergjanna, 1-5. Allan tímann voru foreldranir víðs fjarri.
Að kvöldi dags var kvöldvaka; kvikmyndasýning. Þá var setið með krosslagða fætur í röð á kjallaraganginum og horft á „Síðasta móhikanann“ eða einhverja aðra spennandi dásemd. Í framhaldinu var kvöldkaffi; kakó og kex. Áður en gengið var til náða var farið sameiginlega með „faðir vorið“.
Allt starfsfólk Vinnuskólans stóð sig frábærlega – ekki bara í einu heldur og öllu. Í seinni tíð hefur gjarnan verið kvartað yfir meðferð barna á meðferðarheimilum ríkis og sveitafélaga, en því var alls ekki til að dreifa í Krýsuvík. Skólastjórar og skátaforingjar frá Hafnarfirði höfðu forgöngu með skólanum. Má þar t.d. nefna Helga Jónasson, Hauk Helgason, Ólaf Proppe, Hörð Zóphaníesson, Birgi Friðleifsson, Rúnar Brynjólfsson o.fl.

Í Alþýðublaði Hafnarfjarðar 1962 er grein um Vinnuskólan í Krýsuvík undir fyrirsögninni „Unglingavinnan í Krýsuvík sómi Hafnarfjarðar“:

Unglingavinnan

Grein um Vinnuskólann í Alþýðublaði Hafnarfjarðar 1962.

„Undir forystu Álþýðuflokksins stofnaði bærinn sumarvinnuskóla í Krýsuvík fyrir 10 árum. Forstöðumaður vinnuskólans er Haukur Helgason, skólastjóri Öldutúnsskólans, og hefur hann unnið þar mjög gott starf ungum borgurum þessa bæjarfélags til heilla. Þar eru drengir bæði látnir vinna og leika sér. Þeir læra ýmis hagnýt vinnubrögð, eru undir góðum aga og er kennt að meta gildi vinnunnar. Þeim er einnig veitt tilsögn í leikjum, svo sem knattspyrnu. Drengirnir eru á aldrinum 8—12 ára. Þá er ótalin sú þjónusta, sem þetta er fyrir heimilin, sú hvíld, sem mæðurnar njóta á meðan synir þeirra eru við holl störf upp í Krýsuvík. Ekki má gleyma því heldur, hve drengirnir hafa miklu betra af því að vera við vinnu og leiki í Krýsuvík, en að vera að leika sér allan liðlangan daginn í göturykinu.
Vinnuskólinn var stofnaður fyrir 10 árum. Hafnarfjörður var fyrsta íslenzka bæjarfélagið, sem hóf rekstur vinnuskóla í þessari mynd, en síðan hafa fleiri bæjarfélög fylgt fordæmi Hafnarfjarðar.

Krýsuvík

Upphaf vinnudags utan við starfsmannahúsið í Krýsuvík.

Aðsókn að vinnuskólanum hefur verið mjög góð, og hafa færri drengir komizt en viljað hafa. Fyrir 3 árum voru 80 drengir í vinnuskólanum, en nú síðastliðið sumar 120.
Þess má geta, að í stærsta kaupstað landsins, Reykjavík, þar sem íhaldið hefur haft meirihluta í bæjarstjórn um tugi ára, mun engan vinnuskóla vera að finna hliðstæðan vinnuskólanum í Krýsuvík. En ætti Reykjavík að standa hlutfallslega jafnt Hafnarfirði í þessum málum, þyrfti hún að reka um 1200 barna vinnuskóla. Hamar hefur skiljanlega okki frætt Hafnfirðinga um þetta.
Vegna þess, hve vinnuskóli fyrir drengi hefur reynzt vel, hefur Alþýðuflokkurinn ákveðið, að láta einnig hefja rekstur vinnuskóla fyrir stúlkur nú á næsta kjörtímabili, fái hann umboð frá kjósendum til að stjórna bænum.“

Krýsuvík

Vinna í gróðurhúsunum.

Vinnuskólinn í Krýsuvík var aflagður vegna ómerkilegra þrætur stjórnmálamanna bæjarins, einkum að hálfu sjálfstæðismanna, og tilkomu nýrrar heilbrigðisreglugerðar af hálfu ríksins, sem gerði honum ómögulegt að halda áfram hinni merkilegu starfsemi við þær aðstæður, sem þá var boðið upp á í Krýsuvík – illu heilli.

Hér má lesa Krýsuvíkursönginn, sem jafnan var upphafinn við hátíðleg tilefni. Höfundurinn er Hörður Zóp.

Vasklega að verki göngum
vinir með gleðisöngvum
karlmennskan lokkar löngum
lífsglaðan hug.
Kempur í kampasveit
í Krýsuvík vinnum heitt,
að duga og treysta vort drenglyndi og heit
Ræktum og byggjum, bætum,
brosandi þrautum mætum,
vorinu þrátt við þrætum,
þeytum á bug….

Sjá meira um Vinnuskólann  HÉR og HÉR.

Heimild m.a.:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, 10. tbl. 16.05.1962, Unglingavinnan í Krýsuvík sómi Hafnarfjarðar, bls. 5.

Krýsuvík

Krýsuvík – Vinnuskólinn 2020.