Tag Archive for: Vogar

Snorrastaðatjarnir

Gengið var að Nýjaseli eftir að hafa skoðað Snorrastaðasel við Snorrastaðatjarnir. Tvær tóttir kúra þar undir Nýjaselsbjalla, misgengi, skammt austan við Snorrastaðatjarnir. Frá brún bjallans sést vel upp í Pétursborg á brún Huldugjár. Þangað er um 10 mínútna ganga. Borgin er nokkuð heilleg að hluta, þ.e. vestari hluti hennar. Austan við borgina eru tvær tóftir og ein norðan hennar. Þær munu hafa verið fyrrum fjárhús.

Nýjasel

Nýjasel.

Þá var haldið upp á brún Litlu-Aragjár og sést þá vel upp að Stóru-Aragjá í suðaustri. Rétt austan við hæstu brún hennar eru Arasel eða Arahnúkasel. Þetta eru 5 tóftir undir gjárveggnum. Skammt vestan þeirra er fallegur, heillegur, stekkur, fast við vegginn. Svæðið undir gjánni er vel gróið, en annars er heiðin víða mjög blásin upp á þessu svæði. Þaðan var haldið að Vogaseljum. Á leiðinni sést vel að Brunnaselstorfunni í suðaustri, en austan undir Vogaholti, sem er beint framundan, eru Vogasel eldri. Þau eru greinilega mjög gömul og liggja neðst í grasi vaxinni brekku norðan utan í holtinu.

Vogasel

Vogasel yngri.

Ofar í brekkunni, undir hraunkletti, eru Vogasel yngri. Þar eru þrjár tóftir, ein undir klettinum efst, önnur framar og enn önnur, sú stærsta, utan í grasbakka enn neðar. Austan við tóttirnar er stór stekkur á bersvæði. Frá seljunum var haldið á brattan til suðurs. Frá brúninni sést vel yfir að Kálffelli í suðri, berggangana ofar í hrauninu og Fagradalsfjöllin enn ofar.

Haldið var áleiðis suður fyrir fellið og er þá komið að Kálfafellsfjárhellunum suðaustan í því. Hleðslur eru fyrir opum hellanna.

Pétursborg

Pétursborg.

Gengið var til vesturs sunnanverðu fellinu og kíkt inn í gíg þess í leiðinni. Í honum eru garðhleðslur sunnanvert, en norðanvert í gígnum eru hleðslur í hraunrás. Sunnan til, utan í fellinu, eru tveir hraunhólar. Efri hóllinn er holur að innan og á honum tvö göt. Þetta er Oddshellir, sá sem Oddur frá Grænuborg hélt til í um aldramótin 1900. Enn má sjá bæði bein og hleðslur í hellinum, sem er rúmbetri en í fyrstu má ætla. Gangan upp að Kálffelli með viðkomu framangreindum seljum tók um tvær klst.
Nú var gengið svo til í beina stefnu á skátaskálann við Snorrastaðatjarnir, niður Dalina og áfram til norðurs með vestanverðum Brúnunum. Sú leið er mun greiðfærari en að fara yfir holtin og hæðirnar austar. Útsýni var gott yfir Mosana og Grindavíkurgjána.

Brandsgjá

Vörður við Brandsgjá.

Gengið var yfir Brúnagötuna og komið var við í Brandsgjá og Brandsvörðu, en í gjána missti Brandur á Ísólfsskála hesta sína snemma á 20. öldinni. Skógfellavegurinn liggur þarna yfir gjána.
Stefnunni var haldið að Snorrastaðatjörnum. Þegar komið var að þeim var haldið vestur fyrir þær og síðan gengið að Snorrastaðaseli norðan þeirra. Selið er lítið og liggur undir hraunbakkanum fast við nyrsta vatnið, gegnt skátaskálanum (sem nú er horfinn).

Heimild m.a.:
Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – SG – 1995.

Pétursborg

Pétursborg – uppdráttur ÓSÁ.

Stapi

Eftirfarandi er úr viðtali er birtist í tímaritinu Faxa nr. 7, 43. árg., bls. 84-85, við Karl Guðjónsson þar sem hann lýsir aðstæðum undir Stapanum á fyrri hluta 20. aldar. Karl var 88 ára þegar viðtalið var tekið, en hann var einn af þeim mönnum, sem höfðu upplifað tímanna tvenna þegar verkmenningin var bundin þeim tækjakosti, sem óháður var vélvæðingu og orkubúnaði nútíðar. Einnig hinar mestu tækniframfarir, sem orðið hafa hér á landi.

Karl Guðjónsson

Karl Guðjónsson.

Karl var nefndur ýmsum nöfnum um ævina, s.s. Kalli á Brekku, Kalli mótoristi, Kalli á stöðinni, Kalli sýningarmaður, Kalli rafvirki og Kalli útvarpsvirki.

„Ég er fæddur í Reykjavík árið 1895, þann 14. okt., þ.e.a.s. eftir kirkjubókunum, en það fer nú ekki alveg saman við það sem móðir mín og amma sögðu. Þær sögðu mig fæddan 1896, nú en bókstafurinn blífur sjálfsagt.“ Karl hét fullu nafni Karl Sigurður. Foreldrar hans voru María Bjarnadóttir og Guðjón Pétursson og var einkabarn móður sinnar, en „ég var ekki nema sex mánaða þegar ég var fluttur frá Reykjavik og hér suður í Voga til föðurömmu og afa, sem ólu mig upp. Þau hétu Pétur Jónsson og Guðlaug Andrésdóttir. Var hún ljósmóðir í Vatnsleysstrandarhreppi í um 50 ár.
Þegar ég kom til þeirra bjuggu þau í Vogunum, en fluttu skömmu síðar í Stapabúð. Þegar ég var fjögurra ára fluttum við svo að Brekku, austari bænum, sem þá var þarna undir Stapanum, því þá andaðist Guðmundur, bróðir afa, sem hafði haft jörðina áður. Bæði býlin lágu undir Stóru-Voga, en Stóru-Vogar átti mikið af torfunni í Vogunum og þurfti að greiða þangað eftirgjald.

Brekka

Brekka undir Stapanum.

Ábúð í Vogum lagðist niður um 1940. Þá bjuggu þar Magnús og Guðríður föðursystir mín. Þau hjónin voru orðin heilsulítil og fluttu í Vogana.
Þá rifu þau húsið á Brekku og fluttu efniviðinn inn eftir, því þó húsið væri að minnsta kosti orðið 100 ára gamalt voru viðirnir í því þannig að þeir voru nothæfir, eins og þetta gamla timbur var, það gat enst alveg ótrúlega lengi. Annars voru veggir Brekkuhússins hlaðnir úr grjóti, en port og ris úr timbri. Niðri var forstofa og eldhús, en svefnhús uppi. Loftinu var skipt í sundur, fremra loftið og innra loftið sem kallað var. Á loftinu voru lengst af fimm rúm, lítið borð undir gaflglugganum og einn stóll.

Stapabúð

Stapabúð.

Maður ólst upp við þessi venjulegu störf, sem gerðust á bæjum þá. Þar var t.d. heyskapurinn og skepnuhirðingin. Við höfðum mest 70 ær og vanalega var ein kýr og stundum kálfur. Féð gekk ákaflega mikið úti. Það var svo merkilegt að það voru oft hagar á Stapanum þó þeir væru ekki annars staðar, en það var vegna þess hvað hann stóð hátt og fauk af honum frekar en annars staðar þegar snjóaði og fjörubeit var góð.
Ef eitthvað var að veðri var féð alltaf hýst á hverri nóttu og gerði það sitt, þannig að það var miklu hressara á morgana þegar það hljóð í fjöruna til að ná í einhver snöp. Svo reyndi maður að koma fénu upp á Stapann eftir hádegi til að ná í einhver jórturefni í vömbina eins og sagt var.

Stapinn

Stapabúð.

Afi gerði út fjögurra manna far á hverri vetrarvertíð. Veiðarnar gengu nú misjafnlega, því fiskurinn þurfti að ganga undir Stapann til að hægt væri að ná í hann, því það var ekki hægt að fara í langróðra á þessum litlu fleytum. Nú, ég held að ég hafi ekki beint verið talinn til mikilla starfa á þessum árum, því ég var alltaf með hugann við eitthvað annað en ég átti að gera. – Ég fékk orð fyrir það að vera latur, en sannleikurinn var sá, að ég var alltaf að hugsa um eitthvað annað og það þótti nú ekki passa í þá daga að vera í einhverju grúski, sem ekkert gagn var talið af.
En svo vildi til að það komu á þessum árum vélbátar í Vogana og þeim var alltaf lagt í vetrarlægi uppi í sandinn í vikinu fyrir innan Hólmann, sem var alveg við bæinn Brekku, sem ég átti heima í.“ Grúsk Karls í bátunum, vélunum alveg sérstaklega, varð til þess að afla honum sérþekkingar á því sviði.

Stapinn

Horft niður á Stapabúð í Urðarskarði.

„Bærinn Brekka var syðsti bærinn í Vatnsleysustrandarhreppi, eftir að hætt var að búa í Stapabúð. Var hann alveg suður undir Stapanum, austast þar sem hann byrjar. Þar eru mörg kennileiti, t.d. skörð á milli strandbergs og er það fyrst þegar maður kemur innan að, að maður kemur að skarði, sem kallast Reiðskarð. Þar fóru menn sem voru á hestum. Næsta skarð heitir Kvennagönguskarð og þar var graslendi alveg uppá bjargbrúnina, svo kom Brekka og þar fyrir utan Brekkuskarð og þar fyrir utan kom svo Urðarskarð kallað, því það var svo grýtt. Þar var hægt að ganga upp á Stapann líka og síðast var Rauðistígur, sem kom upp úr Kerlingarbúðum, sem kallaðar voru. Það var gamall útræðisstaður, sem var fyrir vestan Stapabúðina. Þegar ég var drengur fann ég þar stein sem í var höggvið ártalið 1780 og sýnir það, að þá hefur verið byggð þarna.

Vogar

Vogar um 1950.

Ég hóf skólagöngu mína 10 ára og lauk henni á 13. árinu, og gekk ég í barnaskálann á Brunnastöðum. Yfirleitt hljóp maður megnið af leiðinni og minnir mig að ég hafi þurft að leggja af stað að heiman um níu leytið. Urðum við samferða öll börnin úr Vogunum. Þannig að fyrst kom ég að Bræðraparti, svo að Suðurkoti og Nýjabæ, síðan Stóru-Vogum, Hábæ, Austurkoti og Minni-Vogum. Alls staðar þarna voru skólabörn og við gengum, eða öllu heldur hlupum alltaf saman báðar leiðir þessi hópur“.
Þá segir Karl frá ferð sinni norður í Hrísey, vertíð í Dýrafirði og sveitamennsku austur í sveitum.

Heimildir:
-Tímaritið Faxi nr. 7, 43. árg., bls. 84-85 – viðtal við Karl Guðjónsson (Æviminningar).

Stapinn

Brekka.

Hrafnagjá

Gengið var um Háabjalla, Snorrastaðasel og upp að Pétursborg á Huldugjárbarmi.

Snorrastaðatjarnir

Snorrastaðasel við Snorrastaðatjarnir.

Ein heimild kveður á um að tóftirnar norðan stærstu tjarnarinnar hafi verið Snorrastaðasel og þá frá bæjum í Vogum. Í elstu heimildum eru þrjár aðaltjarnir Snorrastaðatjarna nefndar Snorrastaða-Vatnagjár eða einungis Vatnagjár. Munu þær oftlega hafa gengið undir því samheiti.
Svæðið er stórbrotið dæmi um misgengi og gliðnun jarðskorpunnar á sprungurein og því einstaklega áhugavert jarðfræðifyrirbæri. Þar sem þátttakendur áðu í borginni sáu þeir hvar þrír yrðlingar léku sér neðan Huldugjárinnar, sem hún stendur upp á eins og kastali líkust. Fjárhústóftir eru sunnan hennar.

Pétursborg

Pétursborg.

Pétursborg var fyrrum sauðabyrgi frá Tumakoti í Vogum, nefnt eftir Pétri Andréssyni, bónda þar (1839-1904) og er hann sagður hafa hlaðið borgina. Hæðin er um 180 cm og snúa dyr mót suðri. Þrjár tóftir eru við borgina.
Þá var Hólsselið skoðað sem og Ólafsgjá. Í bakaleiðinni var komið við í Hrafnagjá – lengstri gjáa á Reykjanesi. Hrafnagjá er misgengissprunga með fjölbreyttum gróðri. Þar sem veggurinn er hæstur ofan við Voga er hann u.þ.b. 30 metra hár. Hrafnagjá er mjög djúp á köflum. Fjölskrúðugur gróður, s.s. burkni, blágresi og brönugrös er í og við gjána og þar verpir hrafn ár eftir ár í hæsta bergveggnum.
Veður var með eindæmum gott – sól og 18° hiti. Gangan tók 2 og 1/2 klst.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Pétursborg

Pétursborg og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Vatnsleysa

Gengið var um Keilisnesið og skoðuð refagildra, sem þar er, ein af nokkrum.

Keflavíkurborg

Keflavíkurborg.

Þá var haldið til Keflavíkur þar sem Sturlaugur Björnsson fylgdi FERLIR um Hjalla. Gerð var leit að Ásrétt innan Vallargirðingar, en mikil spjöll hafa verið unnin þar á varnasvæðinu og erfitt að sjá hvar réttin gæti hafa verið. Þó mátti giska á hvar bærinn Hjallatún hafi verið. Skoðaðar voru tóttir austan Flugstöðvarinnar og er ein þeirra greinilega gömul fjárborg (Keflavíkurborg).
Skoðuð var gömul rétt sunnan við Bergvötn, brunnur vestan við vötnin og hugsanlega gamlar seltóttir þar nálægt. Mjög gróið er í kringum Bergvötn. Sunnan þeirra lá gamla þjóðleiðin milli Keflavíkur og Leiru.

Stapi

Stapi – landamerkjavarða.

Í bakaleiðinni var komið við á landmælingavörðu á Stapa, en í henni er gamall koparskjöldur með merki Landmælinga Íslands þar sem segir m.a. að „Röskun varði refsingu“. Þá var komið við í Hrafnagjá og skoðuð áletrunin ofan við Magnúsarsæti (SJ-1888-ME) og loks var ákveðið að líta betur á letursteininn dularfulla við Stóru-Vatnsleysu. Sæmundur bóndi á Stóru-Vatnsleysu hafði beið FERLIR um að gera sér nú þann greiða að ráða letrið áður en hann færi yfir um. Það hefði alltaf verið leyndardómur á bænum og hann og fleiri hefðu lengi reynt að ráða í hvað stæði á steininum.

Stóra-Vatnsleysa

Letursteinninn við Stóru-Vatnsleysu – á hvolfi.

FERLIRsfarar settu upp húfurnar máttugu og síðan var reynt að ráða gátuna, sem óleyst hefur verið í gegnum aldirnar þrátt fyrir margar tilraunir hinna hæfustu manna. Tvær gamlar sagnir eru til um stein þennan, en aldrei hefur tekist að lesa hvað á honum stendur – þangað til núna. Á steininn er klappað ártalið 1643 og á honum eru stafirnir GI er mætast í keltneskum krossi ofan við I-ið.
Galdurinn við ráðninguna var að lesa steininn „á röngunni“. Hann hefur einhvern tíman oltið um og snýr hann því einkennilega við mönnum þegar reynt er að lesa á hann. En sem sagt – þessi gáta er ráðin. Steinninn er því næst elsti ártalssteininn á Reykjanesi, sem enn er fundinn.

Vatnsleysa

Stóra-Vatnsleysa. Tóftir kirkju og kotbýlis.

Skammt frá, nær íbúðarhúsinu á Vatnsleysu, var áður kirkja. Á rústum hennar var reist hús, en svo mikill draugagangur var þar að hurðir héldust ekki á hjörum. Það var síðan rifið. Ekki er ólíklegt að steinnin hafi verið grafsteinn eða til minningar um einhvern tiltekinn atburð eða ábúanda/fólk á svæðinu.
Frábært veður.

Stóra-Vatnsleysa

Letursteinninn við Stóru-Vatnsleysu.

Spákonuvatn

Genginn var hringur frá Rauðhól í Afstapahrauni, að Oddafelli og inn með því að Driffelli, með Keili og áfram niður að Rauðhól.

Núpshlíðarháls

Á Núpshlíðarhálsi. Spákonuvatn og Keilir fjær.

Margt bar fyrir augu á þessari leið, sem jafnframt er að hluta til mikið notuð af fólki, sem gengur að og frá Keili. Gönguleið þessi er mjög auðveld, einkum með Oddafellinu og frá Keili niður að Rauðhól.

Á leiðinni upp að Rauðhól mátti sjá á hægri hönd, uppi á klapparbrúnunum utan við nýja hraunið, fallega hálffallna fjárborg, nefnd Gvendarborg. Borgina hlóð Guðmundur Hannesson er seinast bjó á Ísólfsskála og sá er sagður er hafa skotið síðasta hreindýrið á Reykjanesi.

Keilir

FERLIRsfélagar – Keilir að baki.

Margir hafa gengið á Keili eða ætla sér það. Sumir fara bara til að ganga, en eins og sjá má er margt að skoða þegar gengið er á fjallið, hvort sem farið er frá Oddafelli eða Rauðhól.
Þegar gengið er til vesturs norðan Oddafells, um svonefndan Oddafellsselstíg, er ljóst að þar fyrir innan hafa verið að a.m.k. tvö sel eða sel frá mismunandi tímum. Selin, eða selið, voru frá Minni-Vatnsleysu.
Þau eru greinilega bæði mjög gömul. Gengið er yfir fyrsta stekkinn þegar komið er að vikinu eftir fyrstu hæðina. Sér þaðan inn að Höskuldarvöllum.

Oddafellsel

Oddafellsel – stekkur.

Skammt frá stekknum er tótt og síðan annar hlaðinn stekkur á bak við hraunhrygg. Innar sjást vel tvær tóttir, sem nefna má Oddafellssel nyrðra.
Þar við virðist vera gamall brunnur. Fjórir stígar liggja yfir hraunið, sá fyrsti skammt fyrir innan fyrstu tóttirnar. Hann er greinilega nýjastur syðst og mest farinn af fólki, sem gengur á Keili. Ef haldið er áfram inn eftir hraunkantinum eru greinilegar tóttir, sem nefna má Oddafellssel syðra.
Ofan þeirra eru fallega hlaðnar kvíar utan í hraunkantinum og svolítið ofar má sjá tvöfaldan hlaðinn stekk utan í kantinum. Ef farið er upp á hraunbrúnina ofan við fyrstu kvíina má glöggt sjá gamla stíginn í gegnum hraunið. Sá stígur norður yfir hraunið sameinast síðan stígnum, sem liggur yfir það framar og fyrst var komið að.

Keilir

Keilir – stígur frá Oddafelli.

Enn ofar með Oddafellinu má sjá stíg liggja norður yfir hraunið í átt að Keili, en hann virðist vera nýrri en stígurinn frá seljunum og annar stígur, er liggur til norðurs skammt vestar, á móts við vikið áður en komið er að vestasta Oddafellinu, eða Fjallinu eina. Þar fyrir ofan er Hverinn eini. Hann var einn mesti gufuhver landsins um tíma, en nú er þar einungis litskrúðug lægð í hraunið og smá gufustrókur í henni miðri. Við hverinn er smágert hverahrúður í flögum við 4 eða 5 eldri hveraop.

Hverinn eini

Hverinn eini.

Frá hvernum má sjá í suðaustri inn í Sogagíg þar sem Sogaselið er, nokkrar tóttir og fallega hlaðinn stekkur utan í norðurhlið gígsins. Þarna var sel frá Kálfatjarnarhverfi og jafnvel Krýsuvík. Í suðri sér inn á Selsvellina, en suðvestast á völlunum eru ein þrjú sel og tveir hlaðnir stekkir. Skammt úti í hrauninu er enn ein tótt og lítil kví. Á ská á móti á völlunum austanverðum, undir hálsinum, eru þrjár tóttir eldra sels. Á Selsvöllum var selstaða frá bæjum í Grindavík. Frá þessum stað er um klukkustunda sérstaklega greiðfær gangur inn eftir völlunum og til baka. Tveir lækir renna eftir völlunum. Einnig er auðvelt að ganga frá þessum stað upp í Sogagýg.

Þórustaðastígur

Þórustaðastígur við Selsvelli.

Efsti stígurinn norður yfir hraunið liggur í átt að norðausturhorni Driffells og er hann styttstur stíganna. Að honum gengnum og þegar komið er yfir hraunið er leiðin greið að uppgöngustíg á Keili.
Margir halda að Keilir sé gamalt eldfjall, en svo er ekki. Hann hefur aldrei gosið. Strýtumyndað fjallið varð til við gos undir jökli og er úr móbergi með dólerít-klöppum efst uppi. Litlir mórauðir móbergstindar standa fyrir norðan rætur hans og eru þeir kallaðir Keilisbörn.

Ef gengið er austur eftir stígnum, sem liggur að uppgöngunni að Keili, er komið að vörðu.

Gvendarborg

Gvendarborg.

Við hana má sjá gamlan stíg, Þórustaðastíg, sem liggur til norðurs niður að Þórustöðum á Vatnsleysuströnd. Ef honum er fylgt kemur annar stígur inn á hann skammt norðar, Rauðhólsselsstígur. Liggur hann þar til austurs. Við hann er há og mjó varða. Stígurinn er vel greinilegur.
Þegar komið er niður grasbrekkur og að hraunkanti liggur stígurinn norður með kantinum.

Göngufólk á Keili styttir sér stundum leið með því að fara upp á hraunið þegar komið er að sléttri klöpp og ganga síðan áfram þar til austurs sunnan Rauðhóls.

Rauðhólssel

Rauðhólssel.

Ef hins vegar haldið er haldið áfram niður með hraunkantinum er gengið yfir gamlan stekk utan í sléttri skjólhellu og þaðan liggur leiðin niður að Rauðhólsseli. Það birtist í grashvammi undir hólnum.
Sel þetta var frá Stóru-Vatnsleysu. Sagan segir að ekki hafi verið vært í selinu eftir sextándu vikur sumar vegna draugagangs. Ekki er að sjá neitt vatnsból við selið, en þar nálægt má vel finna aðalbláberjalyng í þröngum gjám. Í norðanverðum hvamminum er yngsta tóttin og önnur eldri í honum miðjum. Þaðan er hægt að fylgja stígnum áfram til austurs með norðanverðum Rauðhól að upphafsreit.
Frábært veður – Gangan tók um 2 og 1/2 klst.

Sogasel

Sogasel – uppdráttur ÓSÁ.

Kálfatjörn

Haldið var Kálfatjörn og farið þar niður í fjöru með fyrrum leturstein (hornstein) úr sjóbúð þar í huga. Ofan við Kálfatjarnarvör hafði verið steinhlaðið sjóbyrgi, sem sjórinn hafði tekið. Í birginu átti að vera ártalssteinn með áletruninni 1677 skv. Ægi, 9. tbl. árg. 1936.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – letursteinn/hornsteinn í fjörunni.

Á göngunni kom í ljós „Steinninn“. Hann lá efst í fjörunni og hafði jarðýtu nýlega verið ekið yfir hann. Á steininum stóð áletrað „A° 1674. Hann var ljósmyndaður og birtist frásögn um þann merkilega fund í MBL. Þá var skoðaður ártals- og skósteinn í brú vestan Kálfatjarnarkirkju. Á honum átti að vera ártalið 1776, en á honum er áletrunin A°1790. Loks var skoðaður gamall fallega hlaðinn brunnur norðvestan við kirkjuna.
Frá Kálfatjörn var haldið á Vatnaheiði og síðan farið að Vesturbæ á Þórkötlustöðum.

Heródes

Heródes – álaga- og rúnasteinn.

Vestan við Vesturbæinn er álagasteinn, Heródes, sem þar hefur verið óhreyfður í margar kynslóðir. Á meðan hann fær að vera í friði er íbúunum óhætt.

Þá var haldið vestur fyrir Járngerðarstaði og skoðað fjárskjól við vegkantinn og loks haldið að Klifi þar sem Helgi Gamalíasson tók á móti hópnum. Leiddi hann hópinn um gamla Reykjanesveginn (sem ekki var vitað að væri til) að Básum þar sem leitað var að ævargamalli steinrefagildru. Þjálfað liðið fann gildruna í hraunkanti skammt ofan við ströndina. Um er að ræða einstakar og heillegar minjar.
Frábært veður.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – ártalssteinninn.

Sýrholt

Stefnan var tekin á Sýrholt. Norðvestan í horltinu eru gróðurtorfur og tóftir á þeim.

Fornusel

Fornusel í Sýrholti – uppdráttur ÓSÁ.

Um er að ræða a.m.k. tvö sel. Annað er á torfunum norðvestan í Sýrholtinu, tvær tóttir. Í norðnorðvestur frá því er annað sel, tótt í brekku og mjög gamall stekkur á holti. Bæði selin eru greinilega mjög gömul og því ekki að ástæðulausu sem þau eru nefnd Fornusel. Líklega er erfitt að ákvarða frá hvaða bæjum þau hafi verið gerð út. Á milli seljanna er hlaðinn stekkur á hafti í djúpri gjá, grasi gróinni. Svo virðist sem gengið hafi verið talsvert niður í enda gjárinnar og gæti þar vel hafa verið brunnur. Snór gæti hafa verið í henni fram eftir sumri.
Í bakaleiðinni var komið við hjá Tvíburum, tveimur vörðum við Flekkuvíkurselsstíginn. Ágætt veður hlémeginn við vindinn.
Á uppdrættinum hér til vinstri má sjá tóftirnar í holtinu neðst til hægri, stöku tóftina ofan við miðju og síðan stekkinn í gjánni miðsvæðis ofan við miðju. Uppdráttinn má einnig sjá stærri undir Uppdrættir á vefsíðunni.
Gangan tók um klukkustund.

Sýrholt

Sel í Sýrholti (Fornasel).

Skógfellavegur

Lagt var af stað frá Vogum og genginn 16 km langur Skógfellavegurinn til Grindavíkur.

Skógfellavegur

Skógfellavegur.

Í heimildum ber leiðin eftirfarandi nöfn: Skógfellavegur, Skógfellsvegur og Vogavegur (notað af Grindvíkingum). Hluti hans var nefndur Sandakravegur eða Sandakradalsvegur. Skógfellaleiðin lagðist af um 1920 þegar bílvegur var lagður til Grindavíkur. Björn Gunnlaugsson skráði Sanakraveg inn á kort sín árið 1831 og 1844 og þar er vegurinn strikaður frá vesturenda Vogastapa yfir Skógfellahraunið að Litla-Skógfelli, þaðan að syðri enda Fagradalsfjalls og síðan áfram suður úr.
Gengið var framhjá Snorrastaðatjörnum, Nýjaseli, yfir Brandsgjá og að Litla-Skógfelli. Bæði er yfir grófara hraun að fara og gróið, en gatan er greið.

Skógfellavegur

Skógfellastígur.

Leiðin frá Litla-Skógfelli að Stóra-Skógfelli er tiltölulega slétt helluhraun og er gatan mörkuð djúpu fari langleiðina. Hún er auk þess ágætlega vörðuð. Áður en komið er að fellinu er vörðubrot vinstra megin (en annars eru vörðurnar hægra megin á þessari leið). Vörðu ber við loft á hæð í suðri. Þarna liggur Sandakravegurinn áleiðis yfir að Slögu.
Vestan við Stóra-Skógfell taka Sundhnúkarnir við, en vestan þeirra hallar undan að Hópsheiði og áfram niður í Grindavík.
Veður var frábært, sól og hiti, svo og útsýni á leiðinni. Gangan tók nákvæmlega 4 klst.

Heimild m.a.
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Skógfellavegur

Skógfellavegur.

Lynghólsborg

Farið var að Pétursborg og skoðað Hólssel, sem er u.þ.b. 1 km norðaustan hennar.

Pétursborg

Pétursborg

Pétursborg stendur á Huldugjárbarmi, heilleg og falleg aðkomu. Sunnan undir borginni eru fjárhústóftir. Frá Pétursborg er fallegt útsýni yfir heiðina að Hrafnagjá, Snorrastaðatjarnir og Háabjalla. Svæðið myndaðist á svipaðan hátt og Þingvellir, misgengi þar sem miðjan sígur á sprungurein og gliðnar um u.þ.b. 2 cm að jafnaði á ári.
Erfitt getur verið að finna Hólssel, en það er ofan gjárinnar í u.þ.b. kílómeters fjarlægð, sem fyrr sagði. Um er að ræða þrjá hraunhóla og í klofi eins þeirra eru hleðslur. Þá eru og hleðslur suðvestan undir hólnum.

Lynghólsborg

Lynghólsborg.

Nokkrar tóftir er umhveris hólinn sem og  í sprungunni, sem er vel gróin. Hins vegar er allnokkur landeyðing í kringum hólana.
Gengið var niður heiðina og komið var við í meintu Þóruseli, sem einnig er í háum grónum hraunhól. Í honum mótar fyrir tóftum.
Frá selinu var gengið ákveðið áfram norður heiðina að Lynghól. Undir honum er nokkuð stór fjárborg (hér nefnd Lynghólsborg), vel gróin, en til suðurs frá henni liggur hlaðinn leiðigarður. Neðan við borgina er nokkur jarðvegseyðing.
Veður var frábært, lyngt og hlýtt. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Pétursborg

Pétursborg.

Magnúsarsæti

Gengið var um Vogastapa. Enn má sjá móta fyrir gamla Suðurnesjaveginum (um Reiðskarð) upp Stapann og liðast (Stapagatan) síðan áfram áleiðis upp að Grímshól. Grímshóll kemur við sögu þjóðsögunnar af vermanninum norðlenska.

Grímshóll

Á Grímshól.

Þess er getið um norðanmenn að þá er þeir fóru suður í verið gerði byl á þá nálægt Grímshóli á Stapanum. Einn þeirra var heldur hjárænulegur og dróst hann aftur úr hjá hólnum og hvarf félögum sínum. En er hann var einn orðinn kom maður að honum og bað hann róa hjá sér. Norðlingurinn varð feginn boðinu og fór með hinum ókunna manni og réri hjá honum um vertíðina. En um lokin þegar Norðlendingar fóru heim fundu þeir hann í sama stað á leið sinni og þeir skildu áður við hann. Var hann þar þá með færur sínar og hafði ekki leyst þær upp því ekki hafði hann lagt sér neitt til um vertíðna.

Stapinn

Stapinn – uppdráttur ÓSÁ.

Landar hans gerðu nú heldur en ekki gys að honum að hann skyldi hafa setið þarna alla vertíðina og spurðu hvar hann hefði verið. Hann sagðist hafa róið eins og þeir og ef til vill ei hafa aflað minna. Tekur hann þá upp hjá sér sjóvettling einn fullan af peningum og segir að þarna sé hluturinn sinn. Blæddi þeim þá mjög í augum er þeir sjá það og sýndist aflinn ei alllítill. Fóru þeir síðan allir saman norður. Maðurinn réri suður margar vertíðir eftir þetta, og fór æ á sömu leið og fyrsta skipti. En aldrei sagði hann neitt greinilega hvar hann var og vissu menn það eitt um hann er allir sáu, að hann réri einhverstaðar þar sem hann aflaði vel.
Skoðaðar voru minjar eftir bæinn Brekku og heillegar sjóbúðir undir Stapanum; Hólmabúðir, Stapabúð og Kerlingarbúð, auk þess sem gengið var út í Hólmann og minjar þar skoðaðar. Gamall innrásarprammi marrar í fjöruborðinu. Sagan segir að honum hafi verið ætlað mikilvægt hlutverk, verið siglt þarna upp í fjöruna og síðan ekki söguna meir. Þarna hefur hann verið sem nátttröll gefinna vona.

Stapinn

Leifar Kerlingarbúða.

Kerlingarbúðir eru elstu sýnilegar minjar um búsetu manna á Ströndinni, að sagt er. Bæði við Brekku og Stapabúð eru hlaðnir brunnar. Ofar í hlíðinni eru hleðslur eftir menn. Nú er fuglinn í bjarginu næsta einráður á svæðinu, en selurinn vakir þó skammt utan við ströndina. Hann stingur ávallt upp hausnum þegar rautt vekur forvitni hans.
Í leiðinni, vegna þess hve veðrið var gott, var ákveðið að líta á Gíslaborg ofan Voga. Gengið var að stekknum í Kúadal og fjárborginni Hringnum innan við Knarrarnesholt. Þá var skoðaður rúnasteinninn við Knarrarnes (1700), ártalssteininn við Kálfatjörn (1706), legsteinninn á Flekkuleiði (?) og litið á áletranir (1888) yfir Magnúsarsæti í Hrafnagjá á Stóru-Vatnsleysu. Áletrunin er til minningar um nefndan Magnús, sem fann sér stað þarna við gjána til að friðþægjast við sjálfan sig. Sagt er þó að einhverju sinni hafi barn komið þar óvart undir. En það er nú önnur saga. Sem sagt: Margt og mikið merkilegt á skömmum tíma.
Frábært veður.

Stapinn

Stapinn – flugmynd.