Tag Archive for: Vogar

Tyrkjabyrgi

Gengið var upp eftir Prestastíg frá Hjálmagjá ofan við Húsatóptir og upp að Rauðhól ofan við Eldvörp. Tilgangurinn var að reyna að staðsetja svonefndan „Hamrabóndahelli“, sem enn er ófundinn.

Prestastígur

Prestastígur – brú yfir Hrafnagjá.

Nefndur hellir er sagður verða sauðahellir, sem Þorsteinn, bóndi frá hjáleigunni Hamri, hlóð einhvers staðar uppi í hrauninu eftir að honum sinnaðist við hreppsstjórann á Húsatóptum. Þeim hafði samist um að Þorsteinn gætti fjár hreppsstjóra, en héldi sínu fé einnig til haga. Þegar hreppsstjóri sá að Þorsteinn beitti sínu fé í fjöruna gerði hann athugasemd við það. Þorsteinn, sem var stór upp á sig, rauk þá með sauði sína upp í efri hluta Húsatóptarlands, hlóð þar fyrir skúta og hélt sauði sína þar um veturinn. Sauðagangur Þorsteins hefur verið bæði reglulegur og takmarkaður. Nefndur Þorsteinn er sá hinn sami og hafði járnsmiðju í hellinum undir Hellunni í Sveifluhálsi, við Kleifarvatn.
Helgi Gamalílesson, fæddur á Stað, hafði farið um fermingu með föður sínum og bræðrum upp í Þórðarfell til að sækja þangað eftirsótta málma þess daga. Á leiðinni var stoppað, drengirnir hlupu til og leituðu skothylkja eftir Kanann, og sáu þá allt í einu í fallega hlaðið op fjárskjólsins. Síðan eru liðin mörg ár.

Prestastígur

Prestastígur – varða.

Helgi hefur fylgt FERLIR á hugsanlegt svæði, en minningin er orðin þokukennd. Helgi taldi að opið væri í litlu jarðfalli í sléttu hrauni er vísaði mót suðri. Það hafi verið nálægt hraunkanti.
Í örnefnaskrá fyrir Húsatóptir og hjáleigur þess segir m.a. að „vestur af Grýtugjá, upp undir jarðri apalhraunsins (Eldborgarhrauns), er Hrafnagjá.
Frá Hrafnagjá er einstigi um hraunið frá Sauðabæli út í Óbrennishóla. Troðningur þessi eða einstigi er fær öllum, þótt slæmur sé.“ Það segir að „gatan liggur í norðvestur upp frá vestanverðu túninu á Húsatóptum í Hafnir. Frá túninu á Húsatóptum að Eldvörpum liggur gatan um mosagróið hraun, mjög úfið á köflum. Norðan Eldvarpa er landið sléttara, grónara og auðveldara yfirferðar.“

Prestastígur

Gengið um Prestastíg.

Nú var Prestastígnum fylgt frá Hjálmagjá upp að Rauðhól ofan við Eldvörp. Á leiðinni vakti þrennt sérstaka athygli; nef út úr tveimur vörðunum bentu til norðurs, frá stígnum, litlar vörður voru á nokkrum stöðum á hraunkanti Sundvörðuhrauns, en Prestastígur liggur til norðvesturs sunnan hans, og loks mátti sjá litlar vörður liggja frá Hamri upp hraunranann vestan Húsatópta, upp heiðina og áleiðis upp í norðnorðvestanvert Sundvörðuhraun.

Prestastígurinn sjálfur liggur um móa ofan við Húsatóptir og er vel varðaður svo til alla leiðina. Víða hafa vörður verið endurreistar, en einnig má sjá fallnar vörður milli þeirra.
Gatan er sumsstaðar grópuð í klöppina eftir hófa, klaufir og fætur liðinna alda. Þegar komið er upp fyrir Skothól og hlaðna brú á Hrafnagjá tekur Sauðabælið við. Norðan þess er gróin sprunga í hraunkantinum; tilvalið sauðabæli. Hins vegar var ekki að sjá neinar hleðslur þar við. Lægð liggur inn í hraunið í gróna kvos, en síðan tekur ekkert við.

Prestastígur

Prestastígur.

Ofar er einnig slétt mosahraun með mörgum smáskútum. Þegar komið var upp fyrir Eldvörp tók einnig við nokkuð slétt mosahraun með mörgum smáskútum. Víða voru smávörður á hraunhólum, en að því er virtist án tilgangs.
Þegar leiðin var fetuð til baka var reynt að rýna í hraunkantinn. Hann gaf ekki tilefni til lausnar spurningunni um „Hamrabóndahelli“.
Fjórar gjár eru milli Hjálmagjár og Hrafnagjár. Grýtugjá er næst þeirri síðarnefndu. Í einni gjánni munu vera mannvistarleifar.
Þegar komið var niður að tóftum Hamars mátti sjá litlar vörður liggja þar upp heiðina vestan við Nónvörður. Við þar mátti sjá vörðurnar liggja áfram upp heiðina, með stefnu á norðnorðvestanvert Sundvörðuhraunið. Víða í heiðinni mátti einnig sjá hinar formfegurstu fuglaþúfur.
Það mun verða næsta verkefni FERLIRs að fylgja litlu vörðunum frá Hamri upp heiðina og jafnvel áleiðis í gegnum hraunið. Til þess mun þurfa flokk manna og kvenna.
Þess má geta að í Sundvörðuhrauni eru hin svonefndu Tyrkjabyrgi (útilegumannabyrgi), sem eru í raun gömul fiskibyrgi: sjá m.a. HÉR og HÉR.

Í Eldvörpum

Eldvörp.

Flekkuleiði

Eftirfarandi umfjöllun Árna Óla um „Rúnasteininn í Flekkuvík“ birtist í Lesbók Morgunblaðsins 1959:
„Utan við Hvassahraun á Reykjanesskaga gengur inn Vatnsleysuvík og inn úr henni utarlega skerst önnur lítil vík, sem Flekkuvík nefnist. Stendur bær samnefndur fyrir botni víkurinnar. Þar í túninu er lítill hóll, eða stór þúfa, sem kallast Flekkuleiði, og þar ofan á liggur hraunhella með rúnaletri. Stendur þar skráð: „Hér hvílir Flekka“.

Hver var Flekka?
flekka-22Sagnir herma að hún hafi verið landnámskona, komin frá Flekkufirði í Fjörðum, og eitthvað vensluð Ingólfi Arnarsyni, enda frá sama byggðarlagi og hann. Ingólfur fekk henni fyrst bústað í Kjós. Reisti hún þar bæ og heitir hann enn Flekkudalur, við hana kenndur. Hún var vitur kona og framsýn, en eigi mjög við alþýðuskap. Hún undi sér ekki í Kjósinni, vegna þess að hún sá ekki til sævar frá bæ sínum. Fluttist hún svo vestur á Vatnsleysuströnd og reisti sér þar bæ við eyðivík nokkra. Hefir víkin síðan verið við hana kennd og kölluð Flekkuvík og hlaut bærinn sama nafn. Þarna var þá afskekktur staður, víkin umgirt apalhrauni á þrjá vegu, en á hrauntöngum beggja megin víkurinn svarraði brimið og voru átök þess ekki mjúk. En í víkinni sjálfri var góð lending og mikill veiðiskapur var þar jafnan skammt undan landi. Þó var innsigling á víkina viðsjál og gat verið hættuleg, ef ekki var rétt farið. Þess vegna mælti Flekka svo fyrir, áður en hún andaðist, að sig skyjdi heygja þar efst í túni, fyrir opinni innsiglingarleiðinni. Lét hún svo um mælt, að aldrei skyldi skip farast þar á réttu sundi, meðan nokkuð sæist af kumli sínu. Hafa menn haft trú á þessu síðan.

Jónas Hallgrímsson rannsakar leiðið.

Sumarið 1841 fór Jónas skáld Hallgrímsson til Flekkuvíkur til þess að athuga rúnasteininn og rannsaka hvort hér gæti verið um fornt kuml að ræða. Mönnum kom ekki saman um hvernig lesa átti úr úr rúnunum. Að vísu gátu allir lesið nafnið Flekka, en yfir því voru skammstafanir, sem menn greindi á um hvernig skilja bæri.
sumir að lesa ætti „hér hýsi aðrir „hér hvílir“. Finnur Magnússon las: „hér hýsir“ og taldi áletrunina frá heiðni. Þótti Jónas að fýsilegt að fá úr því skorið hvort hér væri um að ræða grafreit frá fornöld, því væri rétt lesið „hvílir“, þá átti svo að vera. En Jónas rak sig á óvænta erfiðleika. Mönnum þar syðra stóð hinn mesti stuggur af komu hans þeir vissu erindið. Þeir vildu ekki láta hrófla við Flekkuleiði, því að þá væri hætt við að falla myndi úr gildi hin góðu ákvæði hennar um innsiglinguna á Flekkuvík. Jónas varð þá að útvega leyfi til rannsóknarinnar hjá séra Pétri Jónssyni á Kálfatjörn, sem kallaðist landsdrottinn, vegna þess að kirkjan á jörðina. En Páll bóndi Vigfússon í Flekkuvík mun lengi hafa verið tregur, því að Jónas segir: „Eg hét þeim að láta Flekku kyrra, ef eg fyndi hana, og kvaðst gera þetta í virðingarskyni, svo sem oft hefði verið gert við helga menn“. Lét Páll þá til leiðast og samþykkti að rannsókn færi fram „móti tilhlýðilegri borgun fyrir jarðusla í óslegnu túni“.
Jónas lýsir Flekkuleiði þannig: „(Það er) í hafsuður frá bænum, 6 faðma fyrir innan túngarðinn, í þúfnareit; snýr frá útsuðri til landnorðurs og hallast þangað lítið eitt. Það er 5 alna langt og lxk flekka-21al. breitt, svo sem álnar hátt. Hraunhella ein lítil og slétt ofan liggur á miðri hæðinni, sokkin í jörðu; á henni stendur með greinilegu letri (sjá mynd). Öll grasi 
gróin, en vottar samt í brúnunum fyrir grjóti, ekki ólíkt því sem það væri hleðsla . . . Letursteinninn er nú tekinn upp og mældur: Lengd 15—16% þuml, breidd 12 þuml, þykkt 4—5 þuml. Hann er því sem sjá má, lítil og heldur ólöguleg hraunhella . . Af því hingað og þangað var að sjá steinsnyddur út úr brúnum hæðarinnar, þótti líklegt, að vera mundi steinhleðsla. Grassvörðurinn var því allur af skorinn og moldinni sópað af grjótinu; var þetta jarðlag hvergi meira en hálft fet á þykkt. — Þá kom það í Ijós, að undir var einlæg, jarðföst klöpp, eður réttara sagt hraungarður, svo þar hefir aldrei nokkur maður heygður verið. 

flekka-32

Það er því ljóst, að annaðhvort hefir Finnur Magnússon rétt að mæla, eða þetta eru brellur einar, og hefir þá einhver hrekkjakarl látið hér steininn til þess að blekkja menn trúgjarna“. Sjálfsagt hefir Páll bóndi í Flekkuvík krafizt þess fyrirfram, að gengið yrði frá leiði Flekku að lokinni rannsókn, eins og það hafði áður verið. Og þótt Jónas geti ekki um það, hefir hann orðið að gera upp leiðið að nýu, enda þótt hann væri sannfærður um, að þetta væri enginn merkisstaður. Hann hefir ekki mátt ganga í berhögg við þá tröllatrú, sem menn höfðu á Flekkuleiði.
Matthías próf. Þórðarson hefir sagt, að skammstafanirnar á rúnahellunni eigi áreiðanlega að þýða „hér hvílír“, og hann álítur að áletrunin muni vera frá 17. eða 18. öld, gerð vegna munnmælanna um það, að þarna væri Flekka heygð. Flekkuleiði eins og það er nú í sumar kom eg að Flekkuvík og skoðaði Flekkuleiði, rúmum hundrað árum eftir að Jónas var þar.
Leiðið er mjög svipað og hann lýsir því, bæði að stærð og lögun, og bendir það til þess, að það hafi verið hlaðið upp þegar að rannsókn lokinni. En umhverfið er orðið breytt, þúfnareiturinn, sem Jónas talar um, er horfinn og er leiðið nú í sléttu túni. Ofan á leiðiskollinum liggur hraunhellan litla með áletruninni, og er sokkin í jörð, eins og þegar Jónas kom að henni. Af stærð hellunnar, eins og hér er að framan greint, geta menn dregið, að stafirnir sé ekki stórir. Og nú eru þeir ekki lengur „greinilegir“, eins og Jónas kallar þá. Á þessari rúmu öld hafa þeir eflaust máðst og slitnað. Kveður svo ramt að þessu, að sums staðar sér aðeins móta fyrir leggjum þeirra. Mosi og skófir hafa einnig sezt í risturnar, en yfirborð hellunnar hrufótt, svo að varla má greina á milli hvað ; eru holur í steininum og hvað er klappað. Þess verður naumast langt að bíða, að áletrunin máist af með öllu, ef stafirnir verða ekki skírðir.
flekka-41Eg reyndi að hreinsa mosa og skófir úr ristunum, eftir því sem unnt var, bar síðan krít í þær, svo að þær yrði gleggri. Því næst tók eg af þeim meðfylgjandi mynd. Ef mynd þessi er borin saman við uppdrátt Jónasar, sést nokkur munur á 4. rúninni og seinustu rúninni í nafninu. Um 4. rúnina er það að segja að Kaaland sagði að hún gæti ekki verið rétt hjá Jónasi, þar ætti ekki að standa heldur J,, eins og kemur líka fram á Ijósmyndinni. Þessi rún er nokkurn veginn glögg enn, en Jónasi hefir annaðhvort sést yfir annan skálegginn, eða þá að hann hefir ritað hana skakkt í minnisbók sína. Seinasta rúnin er nú einna máðust, og vottar aðeins fyrir stryki út úr aðalleggnum, en fráleitt held eg að þar hafi nokkurn tíma verið höggvinn bogi í líkingu við það, sem sýnt er á teikningu Jónasar. Þess má geta hér að á árunum 1937—39 ferðaðist Anders Bæksted hér um landið til að athuga rúnir og hefir skrifað bók um þær. Hann kom til Flekkuvíkur í júlí 1938 og tók mynd af Flekku-steininum og skírði síðan upp rúnastafina. Eru þeir allir eins og hér á myndinni, nema seinasta rúnin. Hann segir að rúnirnar sé „greinilegar“, en telur þær ungar, máske frá 18. öld, og miðar þá við gerð þeirra. Hann segir að annar bóndinn í Flekkuvík hafi kunnað söguna um að Flekka væri grafin þarna og vekti yfir innsiglingunni, en menn leggi nú ekki lengur trúnað á þá sögu.

Hvaðan er Flekkunafnið.
Mér finnst það augljóst á öllu, að nafnið Flekkuvík hafi komið með landnemum frá Noregi eins og fjölmörg önnur nöfn. Hér eru bæirnir Flekkudalur og Flekkuvík, og þeir eru báðir í landnámi Ingólfs Arnarsonar. Það er þegar athyglisvert, þegar þess er gætt, að suður úr Dalsfirði í Noregi. Litlu utar en þar sem Ingólfur átti heima, skerst fjörður, sem heitir Flekkufjörður. Hann er kenndur við bæinn Flekku, sem þar er. Nafnið er skrifað á ýmsan hátt í gömlum skjölum, svo sem Fleke, Flocke, Flecke og Fleche, en nú er það skrifað Flekke. Sagt er að það sé alveg einstætt meðal gamalla bæarnafna, og vita menn ekki hvað það þýðir. Sumir gizka á, að það sé dregið af „flek“ = blettur, en verði þó ekki skýrt. Getgáta hefir og komið um að það sé dregið af dílagrjóti (flekkóttu grjóti“) sem þar er, en þó þykir það ekki sennilegt, því að grjót hefði þá átt að vera í nafninu.
Annars úir og grúir af „Flekku“-nöfnum í Noregi. Þar er Flekkuvík, Flekkuós, Flekkuey, Flekkustaðir (og ýmis önnur, sem virðast dregin af karlkynsnafninu Flekkur: Flekkstveit, Flekshaug, Flekstad, Fleksvik). Ennfremur eru þar nöfn eins og Flikka, Flikke, Flikeid, Flikkerud, Flikkeshaug, Flikki, Flikkin, Flikkurud, Flikstade. Menn segja að ekki megi blanda þessum nöfnum saman við Flekkunöfnin, en bó verði þau ekki skýrð. Samt dregur bærinn Flekkefjord á Ögðum nafn sitt af bóndabænum Flikke.
flekka-45Hér skal ekkert fullyrt um hvort hér sé um einn nafngiftaflokk að ræða, en þótt Flikk-nöfnin sé undan skilin, þá eru Flekkunöfnin svo mörg, að eitthvað sérstakt mun hafa ráðið þeim. Er þá nokkur goðgá að hugsa sér að til hafi verið í forneskju einhver vættur sem Flekka hét, og við hana sé þessi staðanöfn kennd? Jafnvel að hún hafi átt sér bónda, sem Flekkur hét (sbr. nafnið Álaflekkur). Flekkuleiði ætti að varðveita Þótt Flekkuleiði sé ekki kuml, er það skemmtilegt og mætti helzt ekki glatast. Það segir sína sögu um það hvernig þjóðtrú myndast. Flekka vakir yfir útræðinu í Flekkuvík, eins og Þuríður sundafyllir vakir yfir byggðinni og miðum þeirra í Bolungavík.
Það er eflaust alþýðuskýring, að Flekkuvík dragi nafn af konu sem hét FJekka, alveg eins og menn sögðu að Krýsuvík dragi nafn af fjölkunnugri konu er þar bjó og hét Krýs. Þó er ekki loku fyrir það skotið að í Flekkuvík hafi einhvern tíma búið kvenskörungur, sem menn hafi kennt við bæ sinn og kallað Flekku. Menn hafa haft ýmsar sveiflur á því, allt fram á þessa öld, að kenna fólk þannig við bæi.
Við skulum ekki missa sjónar á þessum ímyndaða kvenskörung í Flekkuvík. Hún hefir búið þar rausnarbúi, haft margt fólk í heimili og rekið mikla útgerð. Flekkuvík hefir þá verið betri jörð og blómlegri en nú er. Þá hefir verið mikið og grösugt undirlendi fyrir botni víkurinnar og út með henni beggja vegna. Þetta land hefir sjórinn verið að brjóta um margar aldir, og í tíð þeirra manna. sem enn lifa, hefir sjórinn gert þarna mikil landspjöll. Þar sem háir heybólstrar stóðu á dögum Flekku húsfreyju, lemur nú brimið berar klappir. En útgerðin hefir þá, eins og síðar, verið helzti bjargræðisvegurinn.

Flekka-47

Húsfreyjan í Flekkuvík hefir borið umhyggju fyrir starfsfólki sínu. Ef til vill hefir einhver bátur farizt þar á víkinni, vegna þess að hann þræddi ekki rétta leið, og lenti upp á sker. Þá hefir húsfreyjan látið setja upp sundmerki, svo að slíkt slys henti þar ekki aftur. Sundmerkin hafa verið tvær vörður, önnur fram við sjó, en hin uppi í túni. Þá var rétt innsigling, ef þessar tvær vörður bar saman. Og þá hefir húsfreyjan látið svo um mælt, að aldrei mundi farast bátur á Flekkuvík, ef stýrt væri eftir sundmerkjunum.
Svo líða árin. Húsfreyjan í Flekkuvík hverfur til feðra sinna, en minning hennar lifir vegna ummæla hennar. Aldrei ferst bátur á réttri leið inn Flekkuvík. Menn skilja ekki, að það er sundmerkjunum að þakka, en halda að það sé að þakka ummælum húsfreyjunnar.
Ákvæði hennar Flekkusteinn-198haldi hlífiskildi yfir bátunum, og þau verði alltaf í gildi. Þess vegna vanrækja þeir að halda sundmerkjunum við. Neðri vörðuna tekur brimið, en efri varðan, uppi í túninu, molnar niður, af því að hún var úr torfi. Þar verður eftir dálítill hóll. Við hann er tengd minningin um Flekku húsfreyju, og þá er þess skammt að bíða að menn fari að trúa því að þessi rúst sé haugur Flekku, þarna hafi hún valið sér hvílustað til þess að geta alltaf vakað yfir innsiglingunni á víkina. Og þá hlýtur að draga að því, að menn fari að trúa, að ekki farist skip á víkinni meðan nokkur merki legstaðar Flekku sjást. Og svo kemur einhver framtakssamur maður, sem er Flekku hjartanlega þakklátur fyrir vernd hennar, höggur rúnir á litla hraunhellu og leggur helluna á leiði Flekku til þess að það gleymist aldrei.
Einhvern tíma löngu seinna eru hlaðnar nýar sundvörður. Önnur er nú niðri á sjávarbakkanum, en hin hátt uppi í hrauni. En þegar sigld er rétt leið inn á víkina og vörðurnar ber saman, þá er Flekkuleiði í beinni línu á milli þeirra.“

(Heimildir:
-O. Rygh: Norske gaardsnavne, Norsk alkunnabok (Fonna forlag).
-Jónas Hallgrímsson: Rit III, 1 og 2.
-Anders Bseksted: Islands Runeindíkriíter (Bibl Arna Magnaeana II) Á.Ó.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 20. september, 1959, Rúnasteinn í Flekkuvík, bls. 393-396.
Flekkuvík

Norðurkot

Gengið var um Kálfatjarnarsvæðið í fylgd staðþekkjaranna Sesselju Guðmundsdóttur og Sigrúnar Frjóns, en koma átti eftir í ljós að ekki var til sá blettur á landssvæðinu, sem þær ekki þekktu eða höfðu skoðað.

Litlibær

Litlibær – brunnur.

Byrjað var á því að ganga veginn niður að Liltabæ, Bjargi, Bakka og Gamla-Bakka austan Kálfatjarnar. Tekið var hús á Geir á Litlabæ, sem bauð þátttakendum til sólstofu. Þaðan var ágætt útsýni vestir að Bakka, norðvestur að Bjargi og norður að Gamla-Bjargi, eða öllu heldur tóttum þess bæjar, sem nú eru á sjávarkambinum. Eftir stutta dvöl var Geir kvaddur með fyrirheitum um að bera fljótt að garði aftur. Gengið var að tóttum Gamla-Bakka, en þar má vel sjá hleðslur garðs og tóttir bæjarins, sem sjórinn er nú smám saman að brjóta niður. Undir bakkanum mátti t.d. sjá gamlar ryðgaða hurðarlamir og bein úr haug.

Gengið var vestur tún Kálfatjarnar, að Móakoti. Í kringum tóttir kotsins eru allmiklar garðhleðslur og hlaðinn brunnur með steyptu loki vestan þeirra. Sjá mátti tóttir Fjósakots sunnar í túninu. Gengið var áfram að hól þeim, sem Hólkot stót eitt sinn á. Suðvestan undir hólnum er Víti, vatnsstæði, sem sjaldan þverr. Nú var það reyndar að mestu þurrt. Nafninu Víti var einhvern tímann komið á Hólkot með vísu er fjallaði um áfengi og munu menn hafa villst á vitum. Haldið var áfram til vesturs sunnan Kálfatjarnarinnar, að sjóbúð, sem þar er heilleg á hól, áfram til vesturs yfir Síkið og Rásina að hlaðinni bátarétt. Við enda heillegasta garðsins eru leifar gamla bátaspilsins, en Sigrún benti síðar á hvar afgangur þess var niður kominn. Litið vará hlaðin fjárhús á sjávarkampinum, ofan við Kálfatjarnarvörðina, en neðan þeirra hafði fjósið eitt sinn verið og skammt vestar Kálfatjarnabyrgið. Sjórinn hefur nú hirt hvorutveggja. Vestar er Hausaréttin gamla. Enn sér móta fyrir henni. Neðan hennar fannst Kálfatjarnarártalssteininn (A° 1674) fyrir nokkrum misserum síðan eftir að sjórinn hafði velgst með hann um 30 metra leið frá þeim stað, sem hann hafði síðast sést fyrir nokkrum áratugum síðan.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – ártalssteinn úr sjóbúð.

Gengið var til suðvesturs að sundvörðu á hól og fjárhústótt skammt vestar. Norðvestan hennar er Norðurkotsbyrgið og Tíðargerðisbyrgið norðan þess, alveg fram á sjávarkampinum.
KálfatjörnGoðhólstóttirnar voru skoðaðar, en hún er enn allheilleg. Norðaustan þeirra eru tveir hlaðnir garðar, gamlir matjurtargarðar. Gengið var yfir garða og þá komið að fallegum hringlaga hlöðnum brunni. Þar er Norðurkotsbrunnurinn, smart gerður, eins og Vala Matt myndi sagt hafa. Komið var að Tíðargerði. Gengið var að Norðurkoti, en þar mun fyrrum hafa verið barnaskóli. Inni er margt forvitnilegt að sjá.
Til baka var gengið yfir að Hliði, um garðana þar, að hlaðinni brú á kirkjugötu, sem í er ártalssteinn (A°1790) og að Landabrunni ofan Landa, fallegu vatnsstæði. Loks var komið við í Hestaréttinni. Þegar litið var yfir golfvöllinn á Kálfatjörn mátti sjá nokkra sjónumhrygga golfara leita kúlna. Eina (það einasta eina), sem þeir einblíndu á, voru litlar holur í sléttu grasinu – og allar eins.
Til ferðardrýginda var kíkt í gömlu hlöðuna á Kálfatjörn og þátttakendum sýnt þar fornt lóð er bar merki Kristjáns kóngs fimmta, sbr. meðfylgjandi mynd. Því mun hafa verið bjargar undan sjónumhryggum fyrr á árum. Skemmtileg leiðsögn um sagnaríkt og merkilegt svæði.
Veður var frábært – köflótt sól með vistvænum vindi. Gangan tók um 2 klst. Gerður var uppdráttur af svæðinu.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – uppdráttur ÓSÁ.

Skógfellavegur

Gengið var um Skógfellaveg frá Vogum til Grindavíkur. Þessi gamla þjóðleið milli byggðalaganna var einnig nefnd Vogavegur.

Skógfellavegur

Skógfellavegur – skilti.

Skógfellavegur er hluti gömlu þjóðleiðarinnar til Grindavíkur frá Hafnarfirði og dregur nafn sitt af tveimur fellum, sem hann liggur framhjá að austanverðu, Litla- og Stóra-Skógfelli. Þau eru við götuna um miðja vegu til Grindavíkur. Nafn götunnar hefur breyst í tímans rás því áður hét hluti hennar Sandakravegur. Sumir telja það þann hluta leiðar, sem liggur frá Stapahorni og langleiðina að Stóra- Skógfelli, en þar eru vegamót. Aðrir telja Sandakraveginn hafa legið með Fagradalsfjalli með Görninni og Kastinu um Nauthólaflatir skammt vestan Dalsels og þaðan um sléttar sandflatir niður í Mosa um Grindavíkurgjá og á Skógfellaveginn skammt ofan við Brandsgjá. Þannig er leiðin sýnd á kortum eftir aldamótin 1900.
Gangan inn á Skjógfellaveginn hófst við skilti skammt ofan Reykjanesbrautar, skammt austan við Háabjalla. Bílastæði eru skammt austan við skiltið. Gatan er nokkuð óljós framan af og vörður fáar og ógreinilegar. Leiðin hefur nú verið stikuð að Litla-Skógfelli af áhugagönguhópi á Suðurnesjum.

Skógfellavegur

Skógfellavegur.

Skammt sunnan við Reykjanesbrautina er gengið fram á sprungu sem heitir Hrafnagjá. Þarna við Skógfellaveginn lætur hún lítið yfir sér en þegar austar dregur er hún mjög falleg og tilkomumikil og þar er gjábarmurinn hæstur og snýr á móti suðri. Í gjárveggnum er hrafnslaupyr. Hrafnagjá nær alla leið niður á túnið á Stóru-Vatnsleysu. Þar í er svonefnt Magnúsarsæti með áletrunum. Þegar götunni er fylgt áfram er komið að nokkuð löngu grágrýtisholti, Nýjaselsbjalla, og liggur gatan yfir austurhluta þess. Skammt austan götunnar, áður en komið er upp á bjallann, eru litlar seltóftir, Nýjasel, undir lágum hamri sem snýr til norðurs og dregur bjallinn nafn af selinu.
Nokkrar gjár eru á leiðinni, auðveldar yfirferðar og snúa hamraveggir þeirra allra til norðurs.
Fyrsta gjáin sem eitthvað kveður að er Huldugjá en þar sem gatan liggur yfir gjána er sagt að Huldugjárvarða hafi staðið. Þarna liggur vel mörkuð leiðin nálægt austurjaðri Skógfellahraunsins.

Skógfellavegur

Varða við Skógfellaveg.

Áhugavert er að gera smá lykkju á leiðina austur með gjánni og skoða Pétursborg sem stendur á barmi Huldugjár. Fjárborgin stendur nokkurn spöl austan vegarins yfir gjána. Pétursborg er gamalt sauðabyrgi frá Tumakoti í Vogum nefnt eftir Pétri Andréssyni bónda þar (1839-1904) en hann er sagður hafa hlaðið borgina. Við Pétursborg að austanverðu eru tvær gamlar fjárhústóftir og ein nokkuð nýrri aðeins ofar.
Á milli Huldugjár og næstu gjár sem heitir Litla-Aragjá er gatan nokkuð óljós á kafla en hefur verið stikuð en gatan er skýrari þar sem hún liggur yfir Aragjána. Þar er tæpt til beggja handa en stór varða stendur á efri gjábarminum. Þegar líður á verður gatan greinilegri og næsta gjá á leiðinni sem eitthvað kveður að er Stóra-Aragjá. Grjótfylling og hleðsla er í Stóru-Aragjá þar sem leiðin liggur yfir hana og þar er varða sem heitir Aragjárvarða en gjáin þarna við vörðuna heitir Brandsgjá.

Brandsgjá

Brandsgjá við Skógfellastíg.

Eftirfarandi er frásögn um atvik sem henti á þessum stað: Á jólaföstu árið 1911 var Brandur Guðmundsson bóndi á Ísólfsskála (1862-1955) á leið heim úr Hafnarfirði og dró sú ferð dilk á eftir sér. Hann lagði á Skógfellaveginn og ætlaði síðan inn á Sandakraveginn og niður að Ísólfsskála. Veður versnaði er leið á daginn og lenti Brandur í umbrotafærð suður heiðina. Allt í einu gaf fönn sig undan hestinum og þeir hrösuðu ofan í Stóru-Aragjá. Þarna hafði Brandur leitt hestana utan við klifið og svo fór að bæði hrossin þurfti að aflífa á staðnum. Síðan heitir þarna Brandsgjá. Brand kól mikið á fótum og var á Keflavíkurspítala í nokkra mánuði eftir slysið.
Þegar komið er upp fyrir Stóru-Aragjá tekur fljótlega við helluhraun sem nær langleiðina að Litla-Skógfelli og er vegurinn vel varðaður á þessum slóðum. Á fyrsta spottanum þarna er gatan mjög djúp því grjóti hefur verið rutt úr henni í miklum mæli en þegar ofar kemur taka við sléttar klappir markaðar djúpum hófförum.

SkógfellavegurÁ hægri hönd eru Krókar, hraunhólar með kjarri í dældum, en á vinstri hönd, spöl sunnar, er Nyrðri-Mosadalagjá. Gjáin snýr bergvegg til suðausturs og þess vegna er erfitt að greina hana frá götunni. Milli hennar og Syðri-Mosadalagjár (með bergvegg til norðvesturs) er víðáttumikill misgengisdalur, þakinn mosa, og heitir sá Mosdalir eða Mosadalir. Við austurrætur Litla-Skógfells þarf að klöngrast yfir smá haft af grónu apalhrauni þar sem gatan liggur en þegar yfir það er komið liðast hún „milli hrauns og hlíðar” um skriðugrjót og grasteyginga. Skógfellin bera ekki nöfnin með réttu í dag því þau eru að mestu gróðurlaus.
Fyrir neðan og austan Litla-Skógfell er þó dálítið kjarr, bæði birkihríslur og víðir, og sjálfsagt hefur svæðið allt verið viði vaxið endur fyrir löngu. Við Litla-Skógfell endar Vatnsleysustrandarhreppur og Grindavíkurhreppur tekur við.
SkógfellavegurFrá hlíðum Litla-Skógfells er gaman að horfa á „vörðuskóginn” framundan en á milli Skógfellanna er einkennasnauð hraunbreiða sem auðvelt væri að villast um ef ekki væru vörðurnar. Þarna standa þær þétt saman eins og menn á mosagrónu taflborði og gatan er djúpt mörkuð af þúsundum járnaðra hesthófa.
Þegar komið er langleiðina að Stóra-Skógfelli greinist Sandakravegurinn út úr til suðausturs yfir hraunið og að Sandhól. Til gamans geta göngumenn leikið sér að því að telja vörðurnar frá Litla-Skógfelli að gatnamótunum en þær eru 22. Sandakravegurinn þarna yfir er fallegur, djúpmarkaður og skoðunarverður.
Vestan við Stóra-Skógfell er Gíghæðin og er stutt ganga frá fellinu yfir í gígana og þaðan yfir á Grindavíkurveginn. Í austri blasir Fagradalsfjallið við með sína fylgifiska s.s. Sandhól og Kastið.

Reykjanes

Reykjanes – Skógfellavegur – kort ÓSÁ.

Sunnan Stóra-Skógfells liggur vegurinn austan undir fallegri gígaröð, Sundhnúksgígum, sem er um 8 km löng og áfram að Sundhnúk sem er aðal gígurinn og stendur hann norðan við Hagafell. Gatan er slétt og sendin á kafla. Heitir þar Sprengisandur. Þegar komið er framhjá Hagafelli, þar sem í eru Gálgaklettar, að austanverðu fer að halla undan til Grindavíkur og spöl neðar greinst leiðin til „allra átta” um gamalgróið hraun niður til bæja. Í Gálgaklettum eru þeir þjófar sagðir hengdir, sem handamaðir voru á Baðsvöllum, en höfðu hafst við í Þjófgjá í Þorbjarnarfelli og herjað á Grindvíkinga.
Frábært veður. Gangan tók 6 klst og 6 mín.

Byggt m.a. á lýsingu Rannveigar Lilju Garðarsdóttur.

Heimild:
-Sesselja G. Guðmundsdóttir, Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi. Útg. 1995.

Skógfellavegur

Skógfellavegur – Litla-Skógfell framundan.

Stapagata

Gengið var um Stapagötu frá Reiðskarði við Vogavík og eftir Stapanum yfir að Stapakoti í Njarðvíkum.

Ferlir

FERLIRsfélagar á göngu um Almenningsveginn á Vatnsleysuströnd.

Gamla þjóðleiðin yfir Vogastapa til Njarðvíkur er framhald gömlu þjóðleiðarinnar (Almenningsvegarins, eða Menningsvegar, eins og gárungarnir kölluða hann eftir misritun). Alfaravegurinn (-leiðin) liggur frá Hafnarfirði og suður að Kúagerði þar sem Almenningsvegurinn tekur við. Hann liðast síðan um Vatnsleysustrandarhrepp að Vogastapa. Umferð um Stapagötuna hætti að mestu um 1912 þegar bílvegur var lagður til Keflavíkur. Árið eftir var hafist handa við gerð vegar frá Vogastapa til Grindavíkur. Þangað náði vegurinn fullgeðrur árið 1918. Við þann veg má sjá miklar minjar eftir vegagerðarmennina.

Stapinn

Stapadraugurinn.

Vogar eru bæði fallegt og snyrtilegt sjávarþorp. Þaðan var gengið suður að Stapanum. Þegar komið er að hlíð hans er gengið í átt að sjónum og þar má sjá merkið „Stapagata.”
Gatan liggur upp hlíðina um skarð sem heitir Reiðskarð en þar er hún hlaðin upp að hluta og er ytri vegkanturinn nokkuð hár og hleðslan þar bæði falleg og heilleg. Þegar gengið er upp gömlu götuna má sjá enn eldri götu á hægri hönd, sem kastað hefur verið duglega upp úr. Hæsti hluti Stapans austan Reiðskarðs heitir Fálkaþúfa en suður af þúfunni eru Lyngbrekkur. Þarna við gerðist m.a. saga sú, sem jafnan var sögð á Vatnsleysuströnd um fylgdarkonuna (huldukonuna þokumkenndu) í Skarðinu (sjá aðra FERLIRslýsingu).

Reiðskarð

Reiðskarð.

Reiðskarð er fyrsta skarðið af fjórum á austurhluta Stapans. Hin eru Kvennagönguskarð, Brekkuskarð og Urðarskarð í þessari röð til vesturs. Upp úr Reiðskarði er gatan djúp og sendin með miklum grjótruðningum til beggja handa. Í skarðinu vex töluvert af Gullkolli en það er sjaldgæf jurt á þessu svæði. Landið hækkar örlítið þegar komið er upp á Stapann. Þaðan lá gata til hægri, niður að bænum Brekku. Eftir stutta göngu sjást miklar grjóthleðslur á milli götunnar og Gamla-Keflavíkurvegarins. Þar var svonefndur „hreppsgarður,“ einn af þremur slíkum í Vatnsleysustrandarhreppi á seinni hluta 19.aldar. Við gerð þeirra og umhirðu var unnið í einskonar atvinnubótavinnu og einnig greiddu menn skuldir til hreppssjóðs með vinnu í görðunum. Sáralítill jarðvegur er nú innan hleðslanna. Garðurinn snýr mót suðri og liggur utan í löngum hjalla sem kallaður er Kálgarðsbjalli.

Stapagata

Stapagata ofan Reiðskarðs.

Nokkurn spöl vestar gengur Skollanef í sjó fram og vestan þess er Gilið, grasi gróið frá fjörugrjóti og upp á brún. Þegar komið er út fyrir Gilið fer landið hækkandi upp á Grímshól sem er hæsti hluti Stapans (74m) og þar er útsýnisskífa. Af Grímshól er gott útsýni yfir Faxaflóa og fjöllin í kring. Neðan Grímshóls gengur klettanef í sjó fram sem heitir Hólnef. Þjóðsaga er til um Grím nokkurn af Rangárvöllum sem réði sig í skipsrúm til huldumanns á þessum slóðum og varð að lokum bergnuminn í Grímshól. Mölvík er rétt vestan við Hólnefið, lítil bogmynduð malarfjara. Í víkinni vex gróskumikil hvönn.
Nú lækkar landið vestur af Grímshól og hér liggur gatan rétt sjávarmegin við Gamla-Keflavíkurveginn. Á móts við þar sem akvegurinn liggur yfir götuna eru landamörk Vatnsleysustrandahrepps og Reykjanesbæjar í viki sem gengur inn í Stapann og er ýmist nefnt Grynnri-Skor eða Innri-Skor.

Stapagata

Stapagata nær Njarðvík.

Þegar komið er nokkuð vestur fyrir Grynnri-Skor er landið aflíðandi til vesturs og gaman að skreppa út af götunni og ganga með bjargbrúninni en fara þarf varlega. Gróðurinn er mjög fjölbreytilegur á þessu svæði. Næst verður Dýpri-Skor eða Ytri-Skor á vegi okkar en þar var áður ruslahaugar Suðurnesja og sjást því miður enn skýr merki um þá. Rétt vestan við Ytri-Skor standa leifar af fiskihjöllum og liggur gatan um það svæði. Grænaborg heitir stór gömul og grasigróin fjárborg hér rétt við Gamla-Keflavíkurveginn og austan hesthúsahverfis Njarðvíkinga. Bærinn, sem stendur næst Stapanum af húsunum í Innri-Njarðvík, heitir Stapakot og þar við túnfótinn lýkur göngunni.
Ekki má gleyma Stapadraugnum, sem margar sagnir eru til um, enda mun hann oft hafa sést á gamla veginum um Stapann þars em hann stóð með höfuðið undir handleggnum.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Byggt m.a. á frásögn Rannveigar L. Garðarsdóttur.

Heimild:
-Sesselja G. Guðmundsdóttir, Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi. Útg. 1995.

Stapagata

Stapagata.

Strandarheiði

Ofan Arnarvörðu í Strandarheiði (Flekkuvíkurheiði) eru Miðmundahólar og ofan þeirra Miðmundalágar. „Hólarnir eru ekki eyktarmark frá Flekkuvík sem mætti ætla við fyrstu sýn né heldur eyktarmark frá öðrum bæjum í grennd að því er virðist.
TóftÍ Orðabók Menningarsjóðs segir að í fornu og úreltu máli geti miðmunda (ao.) þýtt „mitt á milli es!, og á jafnt við um tíma og vegalengdir, þannig að hólarnir gætu staðið miðja vegu á milli einhverra staða“.
Þegar umhverfið var skoðað mátti ganga að Miðmundastekk vísum undir Þrívörðuhól. Ofar liggur Almenningsvegurinn. Skammt ofan hans, vestan (sunnan) Arnarvörðu er varða á klapparholti. Þarna hefur að öllum líkindum  verið um landamerkjavörðu að ræða. Vörðufóturinn hefur verið stór (er heillegur), en úr vörðunni hefur verið búin til refagildra, sem síðan hefur verið aflöguð. Gangurinn sést vel og fallhellan er við leifarnar. Líklegt er að þarna séu mörk Flekkuvíkur og Kálfatjarnar. Mitt á milli þessarar vörðu og annarrar austar  (norðar) er önnur eins. Vörðufóturinn er eins og hinn, en grjót hefur verið tekið úr vörðunni, væntanlega í Eiríksveginn, sem er skammt frá. Þarna eru líklega mörk Flekkuvíkur og Kálfatjarnar. Flekkuvíkurselsstígurinn liggur upp heiðina rétt sunnan við vörðuna. Miðmundahólar gætu því hafa tekið nafn af því að vera miðsvæðis í miðju Flekkuvíkurlandi.

Varða

Önnur gata liggur af Almenningsveginum skammt ofar, áleiðis niður í Flekkuvík. Henni var fylgt langleiðina niður að bæ. Ofanvert er gatan mjög greinileg, en verður óljósari er nær dregur bæjum. Varða, gróin, er á hól á miðri leið. Gatan liggur austan við hólinn og sameinast Flekkuvíkurselsstígnum skammt neðar.
Þegar Miðmundahólar voru skoðaðir sást falleg gróin tóft sunnan undir hólunum. Hún hefur verið ca. 120 x 480 cm með op mót suðri, að Miðmundalágum, sem væntanlega hefur verið nátthagi. Þessi tóft gæti verið smalaskáli og tengst Miðmundastekk skammt norðar í heiðinni.
Lágarnar eru grasi vaxnar og ljóst að þarna hefur verið allgóð beit fyrrum.
Spóinn lék fluglistir sem mest hann lét, rjúpan flaug á millum með allan ungaskarann og krækiberin sáust stækka.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.
Í Miðmundalágum

Kúagerði 1912

„Fyrir botni Vatnsleysuvíkur, þar sem hraðbrautin nálgast sjóinn á stuttum kafla er Kúagerði. Að vestan eru hraun Strandarheiðarinnar, en að austan er Afstapahraunið, úfið og illt yfirferðar, enda miklu yngra að árum. Þarna fyrir víkurbotni er ferskt vatn, sem kemur úr lindum undan hrauninu. Þessi staður var þreyttum og vegmóðum ferðamönnum Í Flekkuvíkkærkominn áningarstaður, því vatnið úr uppsprettunum var þeim svalandi og lífgandi, eftir að hafa klöngrast yfir óslétt og úfið hraunið á langri leið milli byggðanna við Flóann, því þá voru ekki önnur farartæki tiltæk en hesturinn eða “hestar postulanna”.
Við yfirgefum bílinn í Kúagerði, því ætlunin er í þetta sinn að ganga út Vatnsleysuströndina út á Keilisnes og enda við kirkjuna að Kálfatjörn. Fyrst göngum við fram hjá Vatnsleysubæjunum. Þar hefur alltaf verið búið stórt, margar hjáleigur lágu undir höfuðbólið og mikil umsvif. Nú er á Minni-Vatnsleysu eitt stærsta og myndarlegasta svínabú landsins í eigu Þorvaldar Guðmundssonar. Glæsilegar byggingar og öll umgengni þar heima ber eiganda glöggt vitni.
Nokkru fyrir vestan Vatnsleysubæina ber okkur að Flekkuvík, Þetta er landnámsjörð, kennd við konu að nafni Flekka. Sagan segir að hún hafi komið til Íslands í fylgdarliði Ingólfs Arnarsonar. Fyrst fékk hann henni land í Kjós og reisti hún þar bæ, sem hún nefndi Flekkudal. Flekka undi sér þar ekki, því hún sá ekki til hafs frá bænum og eftir að hafa rætt þetta við Ingólf gaf hann henni þessa jörð. Í Flekkuvík bjó svo kerla til elli. Sagan segir, að er hún fann dauðann nálgast hafi hún lagt svo fyrir að sig skyldi grafa syðst í túninu, þar sem sést vel yfir innsiglinguna. Hún mælti þá svo um, að engum skyldi þaðan í frá hlekkjast á í innsiglingunni, tæki hann rétt mið af leiði sínu og færi eftir settum reglum. Þótti mönnum vissara að fara eftir fyrirmælum kerlingar, enda segir sagan að fá slys hafi hent í lendingunni undan Flekkuvík. Steinn er á Flekkuleiði og hefur þessi setning verið letruð á hann með rúnaletri: Hér hvílir Flekka. Telja fróðir menn, að þessi áletrun sé frá 17. eða 18. öld. Jónas Hallgrímsson skáld rannsakaði leiðið sumarið 1841. Gróf hann í það.
Rúnasteinn á FlekkuleiðiReyndist jarðvegurinn vera um það bil hálft fet á þykkt. En “undir var einlæg, jarðföst klöpp, eða réttara sagt hraungarður, svo að þar hefur aldrei nokkur maður heygður verið” segir orðrétt i skýrslu Jónasar um þessa ferð. Þannig fór það.  Auk þeirra minja sem minna á fortíðina er margt annað forvitnilegt að skoða á þessari gönguleið. Unnt er að dunda sér langtímum saman í fjöruborðinu. Þar er ýmislegt skoðunarvert að sjá s.s. trjáreka, glerflöskur, þang, pöddur og skorkvikindi ýmiskonar og ekki má gleyma selunum, sem svamla í sjónum skammt undan landi og skjóta upp kolli yfir vatnsflötinn við og við til að fylgjast með þessum óvæntu gestum. Allt er þetta umhugsunarefni fyrir ungan og spurulan göngumann,sem ef til vill er að kynnast landi sínu á þennan hátt í fyrsta sinn.
Næst liggur leiðin út á Keilisnes, en þar skagar landið lengst í norður milli Vatnsleysuvíkur og Stakksfjarðar. Líklega er þetta örnefni kunnugra fleiri mönnum en nokkur önnur slík hér um slóðir. Ástæðan er sú, að það kemur fyrir í kvæði Arnar Arnarssonar um Stjána bláa, en þar segir m.a.:

KálfatjarnarkirkjaSöng í reipum, sauð á keipum,
sá í grænan vegg til hlés.
Stjáni blái strengdi klóna,
stýrði fyrir Keilisnes.

Nú sést knörrinn ekki lengur, en efalaust leitar kvæðið á hugann, þegar gengið er um þessar slóðir, og hendingar úr því leita fram á varirnar. Nokkur spölur er frá Keilisnesi að Kálfatjörn. Kirkja hefur verið á Kálfatjörn frá öndverðu. Í kaþólskum sið var hún helguð Pétri postula. Þá var hún vel auðug, átti dýrgripi og lönd, en eftir siðaskiptin breyttist
hagur hennar eins og annarra eigna sem kirkjurnar áttu. Af því er mikil saga, sem ekki eru tök á að rekja hér. Þessi kirkja sem nú stendur var byggð rétt fyrir aldamótin 1900. Hún er hið fegursta guðshús og vel við haldið. Er því við hæfi að fá leyfi til að skoða hana nánar og enda þar með þessa fróðlegu gönguferð.“

Heimild:
-Mbl. 19. júlí 1981.

Bláfang

Almenningsvegur

„Vogar og Vatnsleysuströnd eiga sér merka sögu útvegsbúskapar og er hér fjársjóður minja um búsetu og horfna atvinnuhætti.
Skráning þessara minja er mjög skammt á veg komin og lítið um aðgengilegar upplýsingar. Nú er mikið byggt í Vogum og hætta á að merkar minjar fari forgörðum – og það hefur þegar gerst. Arkitektar og verktakar vita lítið Ásláksstaðastekkurum sögu þess lands sem þeir leggja undir mannvirki. Nú er vakning víða um land til að varðveita sýnilegar minjar um líf og störf forfeðranna, en sveitarstjórnin hér hefur sofið á verðinum. Í 9. grein fornleifalaga sem tóku gildi 2001 segir: Minjar 100 ára og eldri teljast til fornleifa, en heimilt er þó að friðlýsa yngri minjar. Í sömu grein laganna er skilgreint hvað eru fornminjar. Þar segir m.a. Til fornleifa teljast hvers kyns leifar fornra mannvirkja og annarra staðbundinna minja sem menn hafa gert eða mannaverk eru á, svo sem: búsetulandslag, byggðaleifar, bæjarstæði og bæjarleifar ásamt tilheyrandi mannvirkjum og öskuhaugum … leifar af verbúðum, naustum, leifar af seljum, verstöðvum, bólum, mógröfum, … gömul tún- og akurgerð … og leifar eftir veiðar til sjávar og sveita; gamlir vegir …varir, hafnir og bátalægi … vörður og vitar … brunnar, uppsprettur, álagablettir… áletranir … skipsflök eða hlutar úr þeim. Það sem hér er talið upp er til staðar í okkar sveitarfélagi. Ef litið er í Fornleifaskrá mætti halda að okkar sveit sé afar fátæk af fornleifum því skráningu þeirra hefur ekki verið sinnt .
NorðurkotNýlega var stofnað minjafélag í sveitarfélaginu og hefur það gengist fyrir að bjarga hlöðunni Skjaldbreið á Kálfatjörn og skólahúsinu í Norðurkoti. Hlaðan er elsta uppistandandi húsið í sveitarfélaginu (frá 1850) og ber mörg sérkenni byggninga frá fyrri öldum. Norðurkotsskóli er með elstu skólahúsum á landinu sem er sérstaklega byggt sem slíkt um 1900. Kálfatjarnarkirkju þarf vart að tíunda, byggð 1893 og er vel viðhaldið, þökk sé meðal annars Húsafriðunarnefnd ríkisins og sóknarnefnd. Elsta uppistandandi íbúðarhúsið í sveitarfélaginu er Ytri-Ásláksstaðir, byggt úr við úr James Town sem strandaði við Hafnir árið 1874. Klæðning þess er ónýt og liggur húsið undir skemmdum. Tvö af elstu húsunum í Vogum voru rifin fyrirvaralaust, Mýrarhús (byggt 1885) og Grænaborg (elsti hlutinn frá 1881). Bæði meira en 100 ára gömul og því friðuð samkvæmt fornminjalögum. Kjallari Stóru-Voga stendur enn og nýtist vel sem hluti af leiksvæði grunnskólans, en liggur undir skemmdum. Það hús á sér merka byggingarsögu. Í Vogum er brýnt að varðveita heillega veggi Norðurkots (hlaðnir um 1860) og tóft Suðurkots (síðast byggt þar um 1900). Á Vatnsleysuströnd  er nokkuð um uppistandandi útihús og aragrúi af tóftum og hleðslum sem eru eldri en 100 ára, en allt óskráð. Nokkuð er af brunnum, minjum um útræði, fornum vegum milli byggðarlaga, á annan tug seltófta og ýmsir álagablettir sem allt eru gersemar fyrir komandi kynslóðir. Búsetulandslag Vatnsleysustrandar er í heild stórmerkileg heimild um horfna tíma og bæri jafnvel að varðveita í heild sinni…“

Heimild:
-Bergur Álfþórsson og Oktavía J. Ragnarsdóttir.

Tóft

Eiríksvegur

Eiríksvegur liggur frá Akurgerðisbökkum upp í Flekkuvíkurheiði, áleiðis að Þrívörðuhól. Um er að ræða sýnishorn af vegagerð fyrri tíma.
Vegurinn er nefndur eftir verkstjóranum sem hét Eiríkur Ásmundsson (1840-1893) frá Grjóta í EiríksvegurReykjavík en Eiríkur þessi stjórnaði m.a. fyrsta akvegargerð um Kamba. Eiríksvegur er 3-4 m breiður og í honum er mikið af grjóthnullungum. Ekkert farartæki hefur hingað til nýtt sér „samgöngubótina“ því vegargerðin dagaði uppi í Flekkuvíkurheiðinni einhvern tímann fyrir síðustu aldamót. Almenningsvegurinn liggur svo til samsíða Eiríksvegi á þessum slóðum, ýmist ofan eða neðan hans, og á kafla liggja allir þrír vegirnir samsíða, Strandarvegur neðstur, svo Almenninsgvegur og Eiríksvegur efstur.
Ofan við Strandarveg á móts við Stóru-Vatnsleysu er túnblettur og suðvestan hans er mikil varða um sig en að nokkru leyti hrunin sem heitir Bergþórsvarða eða Svartavarða. Varðan hefur líklega verið innsiglingarvarða fremur en mið. Suðaustur og upp af Bergþórsvörðu er svo Slakkinn, mosalægð sem gengur upp undir Reykjanesbraut og um hann liggur nýja tengibrautin frá hringtorginu til Strandarinnar.
VatnsleysustekkurDigravarða og Digravörðulágar eru örnefni á þessum slóðum og líklega er Digravarða spöl sunnan við Bergþórsvörðu, á hól sem er vel gróinn í toppinn. Varðan hefur verið mikil um sig fyrrum en er nú aðeins grjóthrúga. Fyrir ofan Digruvörðu eru Digruvörðulágar.
Nefnd Digravarða sést tæpast nú orðið. Við Bergþórsvörðu beygir Almenningsvegurinn um 90° til norðurs. Þar hefur og nýr vegur (hugsanlega ofan í gamlan) verið lagður. Sá vegur liggur norðlægar með beina stefnu á Hrafnagjá. Á henni, þar sem vegurinn liggur yfir gjána, er náttúruleg steinbrú. Þaðan í frá er vegurinn augljós að Flekkuvíkurstíg (Refshalastíg).
Eiríksvegurinn liggur hins vegar þarna áfram upp upp með hólnum norðanverðum – áðeiðis upp í Flekkuvíkurheiði, langleiðina að Þrívörðhól. Líklegt má telja að gamli Almenningsvegurinn hafi að hluta legið undir Eiríksvegi. Rétt vestan Hrafnagjár og norðan Eiríksvegar er Vatnsleysustekkur í lítilli kvos. 

Byrgi

Eiríksvegargerðarmenn hafa látið óhreyft grjótið í stekknum sem segir okkur að líklega hafi hann verið í notkun þegar vinnan stóð yfir. Ekki er þó með öllu útilokað að eitthvert heimilisfólk að Vatnsleysu hafi meinað vegagerðarmönnum að hrófla við stekknum, enda hafi það haft taugar til hans frá fyrri tíð. Dæmi eru um að öðrum mannvirkjum í Vatnsleysulandi hafi verið hlíft þrátt fyrir að notkun þeirra hafi þá verið hætt.
Á móts við Flekkuvíkurafleggjarann hefur lítið grjótbyrgi verið byggt ofan í Almenninsgvegi en á þessum slóðum er sá vegur u.þ.b. 50 m fyrir ofan Strandarveg.
Eiríksvegur og hluti Skipsstígs undir Lágafelli eru að mörgu leyti líkar framkvæmdir. Um er að ræða 3-4 m breiðar götur, nánast beinar. Undirlagið er grjót, en ofaníburðurinn, mold, hefur að mestu fokið úr vegastæðunum. Hvorugri framkvæmdinni lauk án þess að koma að gagni. Annað hvort hefur mjög afmörkuðu fé verið ráðstafað til verkanna, sem síðan hefur ekki fengist endurtekið, eða að tilefni framkvæmdanna hafa dagað uppi.
Hvað sem öllu líður þá eru þarna ágæt dæmi um vegagerð um og í kringum aldamótin 1900, um það leyti er bændur voru að taka hestakerrur í gagnið sem samgöngutæki um leið og sjálfrennireiðin var að gera þær óþarfar.

Heimild m.a.:
-S. Guðmundsdóttir – Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi -2007.

Eiríksvegur

Stapinn

Gengið var upp Reiðskarð og niður Brekkuskarð að Brekku, Hólmabúðum, Stapabúð og Kerlingarbúð, upp Urðarskarð og á Grímshól. Þaðan var haldið eftir Stapagötunni að Grynnri-Skor (Innriskoru). Þá var ætlunin að fylgja landamerkjalínunni í tiltekinn vörðufót, þaðan í Arnarklett og síðan til baka að upphafsstað.
ReiðskarðStapinn virðist lítt áhugaverður, a.m.k. þegar ekið er eftir Reykjanesbrautinni. Hann lætur ekki mikið yfir sér (fer reyndar huldu höfði) þegar litið er til hans úr suðri, en úr vestri og norðri horfir allt öðruvísi við. Vogastapinn, sem er um 80 metra hár, hét fyrrum Kvíguvogabjarg og Kvíguvogastapi, en er stundum kallaður Stapi. Hann er á milli Voga og Njarðvíkur og þverhníptur í sjó framað norðanverðu. Uppi á hæstu brún trjónir Grímshóll. Sorpi af Keflavíkurvelli var löngum ekið út á Stapa og sturtað fram af berginu. Enn má sjá leifar þessa óþrifnaðar, en hann er þó á hverfanda hveli.
Stapinn er hvað kunnastur fyrir Stapadrauginn. Reykjanesbraut liggur um sunnanverða undirhlíð Stapans og enn þá verður næmt fólk, sem þar er á ferðinni, vart við eitthvað óhreint.
Brekka (nær) og HólmabúðirVegurinn lá fyrr á öldum nokkru norðar, þ.e. um Reiðskarð, en var síðar færður sunnar uns núverandi vegstæði varð fyrir valinu. Ástæðan fyrir órökkrinu er væntanlega sú að áður fyrr fóru sumir ferðamenn sér að voða á leiðinni og gengu jafnvel fyrir björg.  Eftir að bílvegurinn var lagður hafa sprottið upp alls konar draugasögur, s.s. að farþegi hafi skyndilega verið kominn í aftursætið eða gangandi vegfarandi hafi verið tekinn með á Stapanum og hann skyndilega horfið úr bílunum. Margir telja sig hafa séð þar mann á ferðinni með höfuðið undir hendinni. Einungis er vitað um að einu sinni hafi tekist að ná mynd af draugsa á Stapanum, en hún virðist óskýr.
Hvönn við BrekkuUndir Stapanum eru allnokkrar minjar, þ.á.m. Kerlingarbúðir. Búðirnar heita svo vegna þess að útróðramenn er þar voru tóku kerlingu er hjá þeim var matselja, drápu hana og notuðu í beitu. Einn mannanna vildi ekki taka þátt í ódæði þessu. Áður en vermenn þessir reru síðasta róðurinn birtist hún manni þessum í draumi og bað hann að róa ekki þennan róður. Gerði hann sér upp veiki og lá eftir. Vermennirnir drukknuðu allir í þessum róðri.
Fiskislóðin Gullkista er undir Stapanum. Nafn hennar varð til vegna mikillar og góðrar veiði á miðunum í Stakksfirði, en svo nefnist fjörðurinn, sem Stapinn stendur við, en Vogavík innar nær Vogum. Til er þjóðsaga, sem segir frá göngum undir Reykjanes frá Gullkistu til Grindavíkur, þar sem fiskur gekk greitt á milli. Nokkrar verstöðvar voru undir stapanum á dögum árabátaútgerðarinnar en ummerki þeirra eru óðum að hverfa. Meðal þessara verstöðva var Hólmabúð, sem kennd var við hólma skammt undan landi. Haraldur Böðvarsson hafði aðstöðu í þessum hólma, þegar hann byrjaði úrgerð sína á Suðurnesjum. Síðar flutti hann starfsemina til Sandgerðis og endanlega til Akranes. Hvorki Vogabúar né Sandgerðingar voru par ánægðir með viðskilnaðinn, hvorir á sínum tíma. Innar eru minjar Stapabúðar, enn einnar verstöðvarinnar.
Leifar herspítalansBandaríski herinn byggði fullkomið sjúkrahús í suðurhlíðum Stapans í síðari heimsstyrjöldinni en hann brann skömmu síðar. Herinn byggði og rak líka mikilvæga fjarskiptastöð á Stapanum og veggir þess húss standa enn þá. Uppi á efstu brúnum Stapans byggðu þeir vígi, þar sem þeir gátu fylgzt vel með umferð á Faxaflóa sunnanverðum. Hleðslurnar sjást enn utan í Grímshól.
Nokkurn spöl vestar gengur Skollanef í sjó fram og vestan þess er Gilið, grasi gróið frá fjörugrjóti og upp á brún. Þegar komið er út fyrir Gilið fer landið hækkandi upp á Grímshól. Neðan Grímshóls gengur klettanef í sjó fram sem heitir Hólnef. Þjóðsaga er til um Grím nokkurn af Rangárvöllum sem réði sig í skipsrúm til huldumanns á þessum slóðum og varð að lokum bergnuminn í Grímshól. Mölvík er rétt vestan við Hólnefið, lítil bogmynduð malarfjara. Í víkinni vex gróskumikil hvönn.
Nýmyndun landamerkja Voga og ReykjanesbæjarStapinn er bæði skjólgóður og sagnaríkur staður. Um hann ofanverðan liðast Stapagatan milli Reiðskarðs og Stapakots í Innri Njarðvík. Skammt frá henni má greina gamlar tóftir norðan undir Narfakotsborginni (Grænuborg), gróinni fjárborg við sjónarrönd. Líklegt er að þessar minjar og fleiri munu hverfa fyrir fullt og allt vegna framkvæmdargleði Njarðvíkurmegin.
Líklega eru mikilvægustu minjarnar á Njarðvíkurheiðinni gróinn fótur landamerkjavörðu. Þegar höfnin var byggð í Vogum var allt tiltækt grjót tekið og sturtað í höfnina, m.a. þessi varða. Stærsta og þyngsta grjótið varð jafnan eftir og má því sjá þess merki á lágum klapparhól skammt vestan við núverandi Reykjanesbæjarskilti og Rockvillestíl. Ef tekið væri af þessu kennileiti mið í Innri-Skoru annars vegar og Arnarklett við Snorrastaðatjarnir hins vegar – enda sjónhending þar á millum – myndi land Voga stækka sem því nemur. Ekki er óraunhæft að ætla, og eflaust eru til gögn þessu til staðfestingar. Bara það eitt væri hið ágætasta efni í enn eina þjóðsöguna.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Gerði

Leifar sorplosunar á Stapanum.