Almenningsvegur

“Vogar og Vatnsleysuströnd eiga sér merka sögu útvegsbúskapar og er hér fjársjóður minja um búsetu og horfna atvinnuhætti.
Skráning þessara minja er mjög skammt á veg komin og lítið um aðgengilegar upplýsingar. Nú er mikið byggt í Vogum og hætta á að merkar minjar fari forgörðum – og það hefur þegar gerst. Arkitektar og verktakar vita lítið Ásláksstaðastekkurum sögu þess lands sem þeir leggja undir mannvirki. Nú er vakning víða um land til að varðveita sýnilegar minjar um líf og störf forfeðranna, en sveitarstjórnin hér hefur sofið á verðinum. Í 9. grein fornleifalaga sem tóku gildi 2001 segir: Minjar 100 ára og eldri teljast til fornleifa, en heimilt er þó að friðlýsa yngri minjar. Í sömu grein laganna er skilgreint hvað eru fornminjar. Þar segir m.a. Til fornleifa teljast hvers kyns leifar fornra mannvirkja og annarra staðbundinna minja sem menn hafa gert eða mannaverk eru á, svo sem: búsetulandslag, byggðaleifar, bæjarstæði og bæjarleifar ásamt tilheyrandi mannvirkjum og öskuhaugum … leifar af verbúðum, naustum, leifar af seljum, verstöðvum, bólum, mógröfum, … gömul tún- og akurgerð … og leifar eftir veiðar til sjávar og sveita; gamlir vegir …varir, hafnir og bátalægi … vörður og vitar … brunnar, uppsprettur, álagablettir… áletranir … skipsflök eða hlutar úr þeim. Það sem hér er talið upp er til staðar í okkar sveitarfélagi. Ef litið er í Fornleifaskrá mætti halda að okkar sveit sé afar fátæk af fornleifum því skráningu þeirra hefur ekki verið sinnt .
NorðurkotNýlega var stofnað minjafélag í sveitarfélaginu og hefur það gengist fyrir að bjarga hlöðunni Skjaldbreið á Kálfatjörn og skólahúsinu í Norðurkoti. Hlaðan er elsta uppistandandi húsið í sveitarfélaginu (frá 1850) og ber mörg sérkenni byggninga frá fyrri öldum. Norðurkotsskóli er með elstu skólahúsum á landinu sem er sérstaklega byggt sem slíkt um 1900. Kálfatjarnarkirkju þarf vart að tíunda, byggð 1893 og er vel viðhaldið, þökk sé meðal annars Húsafriðunarnefnd ríkisins og sóknarnefnd. Elsta uppistandandi íbúðarhúsið í sveitarfélaginu er Ytri-Ásláksstaðir, byggt úr við úr James Town sem strandaði við Hafnir árið 1874. Klæðning þess er ónýt og liggur húsið undir skemmdum. Tvö af elstu húsunum í Vogum voru rifin fyrirvaralaust, Mýrarhús (byggt 1885) og Grænaborg (elsti hlutinn frá 1881). Bæði meira en 100 ára gömul og því friðuð samkvæmt fornminjalögum. Kjallari Stóru-Voga stendur enn og nýtist vel sem hluti af leiksvæði grunnskólans, en liggur undir skemmdum. Það hús á sér merka byggingarsögu. Í Vogum er brýnt að varðveita heillega veggi Norðurkots (hlaðnir um 1860) og tóft Suðurkots (síðast byggt þar um 1900). Á Vatnsleysuströnd  er nokkuð um uppistandandi útihús og aragrúi af tóftum og hleðslum sem eru eldri en 100 ára, en allt óskráð. Nokkuð er af brunnum, minjum um útræði, fornum vegum milli byggðarlaga, á annan tug seltófta og ýmsir álagablettir sem allt eru gersemar fyrir komandi kynslóðir. Búsetulandslag Vatnsleysustrandar er í heild stórmerkileg heimild um horfna tíma og bæri jafnvel að varðveita í heild sinni…”

Heimild:
-Bergur Álfþórsson og Oktavía J. Ragnarsdóttir.

Tóft