Tag Archive for: Vogar

Hvassahraunssel

Gengið var upp frá Óttarsstaðafjárborginni að Alfaraleið, henni fylgt til vesturs, að mótum Lónakotsselsstígs (tvær vörður), honum fylgt spölkorn til suðurs uns komið var að gamalli sauðfjárveikigirðingu á landamörkunum, en þegar varðan á Skorás ofan við Lónakotsselið blasti við í suðaustri var stefnan tekin til suðurs á Hvassahraunssel undir Selásnum.

Hvassahraunssel

Selsvarðan ofan við Hvassahraunssel.

Tvær vörður á honum austanverðum gefa selsstöðuna til kynna. Hún er vestan þeirra. Gangan upp í selið tekur u.þ.b. 40 mín.
Fallegar hleðslur eru víða undir sauðfjárveikigirðingunni. Þótt hún sé fallin sjást enn einstaka staurar, auk þess sem landamerkin eru vörðuð svo til á hverjum hraunhól. Birkikjarrið hefur víða tekið vel við sér og óvíða má sjá reyniviðarhríslur skjóta upp kollinum. Nokkur lóuhreiður urðu sýnileg á leiðinni. Væntanlega er stutt í ungana.
Selsstæðið í Hvassahraunsseli er nokkuð stórt og vel gróið. Það er norðvestan undir Selásnum eða Selhæðunum, eins og þær eru stundum nefndar. Tvennar tóftir eru þar með stuttu millibili. Kvíar eru bæði norðan undir hraunhól í vestanverðu seltúninu og austar undir Selásnum. Vörðurnar stóru gefa til kynna brú yfir langa hraunsprungu í ásnum. Um brúna og ofan við hana mótar vel fyrir mikið genginni fjárgötu. Líklega er hér um svonefnda Skógargötu að ræða, en hún stefnir upp í ætluðu vatnsstæði, sem á að vera þarna í jarðfalli skammt austar.
Jón Helgason frá Litlabæ á Vatnsleysuströnd (1895-1986) segir í sendibréfi árið 1984: „Ég tel að alllangt fram á 19. öldina hafi verið haft í seli frá Hvassahrauni, því móðir Þórunnar, sem þar bjó lengi, Ingibjörg, var þar selráskona þegar hún var ung að árum en hún lifði líklega fram á annan tug þessarar aldar“.

Hvassahraunssel

Tóftir í Hvassahraunsseli.

Sé þetta rétt hafa a.m.k. tveir bæir í hreppnum haft í seli vel frá á 19. öld; þ.e. Hvassahraun og Flekkuvík.
Einnig er líklegt að ámóta lengi hafi verið selsbúskapur í Arahnúkaseli og Gjáseli því tóftir þar eru nokkuð núlegar. Trúlega hafa öll sel lagst af í kjölfar fjárkláðans árið 1856, en þá var allt fé skorið niður á Vatnsleysuströnd.
Hvassahraunsselsstígur liggur frá Hvassahrauni og upp í selið og er nokkuð greinilegur á köflum þó erfitt geti reynst að finna hann næst Reykjanessbrautinni. Selstígurinn liggur áfram langt upp úr austan við Selásana og fellur þar inn í Skógargötuna sem liggur frá Hafnarfirði um Óttarsstaðasel og upp að fjallgarði. Gata þessi ber mismunandi nöfn. Í Hafnarfjarðarlandi heitir hún Rauðamelsstígur eða Óttarsstaðaselsstígur, fyrir ofan Hvassahraun heitir hún Skógargata og þegar ofar kemur heitir hún Mosastígur.
Heimildir um vatnsból við Hvassahraunssel og þá „undir skúta, eiginlega beint austur af selinu, og er erfitt að finna það.“

Hvassahraunssel

Hvassahraunssel – stekkur.

Til baka var gengið til norðausturs inn í gróið hraunið og stefnan síðan tekin til norðurs, áleiðis að upphafsstað.
Hraunið er víða stórbrotið á köflum. Bláklukka og ljónslappi léku sér við fífla og blóðberg í sólskininu. Rjúpan var söm við sig.
Þegar gengið er um hraunið, sem rann úr Hrútargjárdyngju fyrir rúmlega 5000 árum, er óhjákvæmilegt að hugurinn reiki aftur til þess tíma er gangandi fór þar um sinna erinda á fornfálegri skóbúnaði en nú er notaður. Mosinn, grasið og lyngið hefur löngum verið þægilegra ágöngu en hraunið, sem víða hefur rifið illilega í leðrið og sært iljarnar. Eflaust hefur fólk er þarna hefur þurft að eltast við fé eða fiðurfénað, haft með sér varaskóbúnað, því skólaus maður (eða kona) langleiðis uppi í hrauninu hefur væntanlega verið í slæmum málum. Mosinn hefur síður slitið skautauinu, þótt hann hafi verið fótalýjandi, en það sem harðara var undir. Harkan hefur verið slitsamari og ennþá erfiðari í þá daga. Ef óvanur nútímamaðurinn missti frá sér skó á þessu svæði var óvíst hvort hann kæmist aftur til byggða.
Hvassahraunsmenn voru iðnir við rjúnaveiðar fyrrum og eru til sagnir af harðfylgi þeirra í þeim efnum. Fótabúnaður, fé og fingurfimar konur komu þar mjög við sögu.

Heimildir m.a.:
-Örnfefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir – 1995.

Hvassahraunssel

Hvassahraunssel.

Coot

Stundum er gaman að fylgjast með störfum fornleifafræðinga – og heyra hvað þeir hafa að segja um ólíklegustu hluti. Hafa ber þó jafnan í huga að þeir eru bara mannlegir eins og allir aðrir þegar störf þeirra og orð eru metin.

Coot

Coot.

Ágætt dæmi um þetta er Coot, fyrsti togarinn, sem Íslendingar eignuðust. Hann kom til heimahafnar í Hafnarfirði þann 5. mars árið 1905. Þann 8. desember 1908 strandaði togarinn við Keilisnes. Mannbjörg varð, en ekki reyndist unnt að ná togaranum aftur á flot. Brak úr honum má enn finna á Keilisnesi. Gufuketill og stýri voru t.a.m. flutt til Hafnarfjarðar þar sem hvorutveggja hefur staðið við horn Strandgötu og Vesturgötu, skammt frá Byggðasafninu, sem verðugur minnisvarði um þennan fyrsta togara landsins.
Þegar spil var nýlega tekið úr leifum Coot á strandstað og flutt í Sjóminjasafn Íslands hefur án efa legið fyrir heimild frá Fornleifavernd ríkisins eða sú stofnun fylgst mjög náið með þeirri framkvæmd frá upphafi sbr. lagaákvæði þar að lútandi.
Samkvæmt gildandi Þjóðminjalögum teljast munir, sem náð hafa 100 ára aldri, til fornleifa. Með ákvæðum laganna njóta þeir þar með sérstakrar verndar.
Spurningin í þessu tilviki er; hvenær varð gufuketillinn úr Coot fornleif? Fornleifafræðingur einn svaraði því til fyrir skömmu, aðspurður, að ketillinn væri í raun ekki fornleif. Hann yrði það ekki fyrr en árið 2008, talið frá og með árinu sem togarinn strandaði við Keilisnes.

Coot

Skoðum þetta svolítið nánar. Torgarinn kom til landsins árið 1905. Þá var hann a.m.k. til sem slíkur, og ketillinn þar með. Ef betur er að gáð kemur í ljós að togarinn var smíðaður í Glaskow árið 1892. Þá var gufuketillinn settur í hann. Ketillinn er því a.m.k. frá þeim tíma og því óneitanlega orðinn fornleif. Og ekki er hægt að halda því fram með góðum rökum að einungis gripir eða minjar, sem búnir hafa verið til innanlands, gætu með réttu talist til fornleifa, hafi þeir náð 100 ára aldri. Hvað þá með alla þá gripi, sem fundist hafa og sannarlega verið innfluttir?
 Nei, þrátt fyrir framangreint svar, er gufuketillinn úr Coot löngu orðin fornleif og hefði átt að meðhöndlast sem slík.
Enska orðið „Coot“ þýðir blesönd á íslensku. Heimsfræg önd er sömu tegundar, þ.e. Andrés Önd og fjölskylda.
Saga Coots varð ekki löng, en þýðingarmikil fyrir íslenskt þjóðarbú. Það voru Íslendingar er stofnað höfðu Fiskiveiðahlutafélag Faxaflóa árinu áður sem keyptu og fluttu togarann til heimahafnar í Hafnarfirði.
„Iðnbyltingin“ á Íslandi á heimastjórnartímanum var fólgin í vélvæðingu og aukinni tæknivæðingu atvinnulífsins, en einkum þó við fiskveiðar og fiskverkun. Þilskipin sem farið var að nota á síðustu áratugum 19. aldar höfðu eflt sjávarútveginn og sjávarbyggðirnar, en þeim voru takmörk sett enda seglskip með fábrotin veiðarfæri. Notkun véla í fiskiskipum kynntust Íslendingar fyrst á tíunda áratug 19. aldar þegar breskir togarar (eða botnvörpungar eins og þeir voru nefndir vegna veiðarfærisins, botnvörpunnar) knúnir gufuafli úr kolum fóru að venja komur sínar á fiskimiðin við landið. En fyrirmyndir að fyrstu vélunum í íslenska báta voru þó sóttar til Danmerkur og í stað gufuvéla var notast við sprengihreyfla sem brenndu steinolíu.

Ketillinn

Er vélaöld í íslenskum sjávarútvegi yfirleitt talin hefjast árið 1902 þegar vél var sett í árabátinn Stanley á Ísafirði. Tóku útgerðarmenn og sjómenn um land allt þessari nýjung fagnandi enda skapaði hún möguleika á stórauknum fiskafla. Voru vélbátar orðnir vel á fjórða hundraðið aðeins tíu árum síðar.  Fyrsti íslenski togarinn, knúinn gufuvél, kom sem fyrr sagði, árið 1905 til Hafnarfjarðar. Var hann keyptur á Englandi og nefndur Coot. Útgerðin heppnaðist nema hvað skipið strandaði þremur árum síðar og var úr sögunni. Með Coot var ísinn brotinn og í kjölfarið fylgdi togararinn Jón forseti (1907) á vegum útgerðarfélagsins Alliance. Var hann sérsmíðaður utanlands. Er sagt að útgerðin hafi gengið svo vel að smíðaverðið hafi verið að fullu greitt á þremur árum. Næstu árin kom síðan hver togarinn á fætur öðrum til landsins. Voru þeir orðnir sex árið 1910 og tuttugu árið 1917. Vélbátar og gufutogarar leiddu til þess að miklu meiri fiskafli en nokkru sinni fyrr kom á land, og skapaði þar vinnu og síðan auknar útflutningstekjur.
Togarinn Coot var ekki stórt skip, jafnvel á sínum tíma, og var ekki eiginlegur úthafstogari heldur ætlaður til veiða á innsævi og veiddi hann því aðallega í Faxaflóanum, uns hann endaði „ævi“ sína við Keilisnesið á norðanverðum Reykjanesskaganum, líkt og Kópanesið og Haukurinn mörgum árum síðar.
En gufuketillinn úr Coot er sem sagt fornleif – hvað sem hver segir.

Heimildir m.a.:
-http://heimastjorn.is/heimastjornartiminn/atvinnulif/nr/19

Coot

Ketillinn úr Coot.

Skógarnefsgreni

Í örnefnalýsingu fyrir Hvassahraun segir að Skógarnefsskúti, fjárskjól, sé á mörkum Hvassahrauns og Óttarsstaða, í beina línu milli Hrauns-Krossstapa og Klofningskletts ofan Skógarnefs. Í skilgreiningunni er skógur sagður í Skógarnefi, kjarri vaxinni hlíð. Skógarnefsgren eru sögð neðar. Samkvæmt þessu á skútinn, sem svo mikið hefur verið leitað að, að vera svo til í beinni línu ofan við efsta Krossstapann, í gegnum grenin (sem hleðslur sjást við neðan norðurbrúnar Skógarnefs) og í sömu línu milli þeirra og Klofningskletts norðan Búðarvatnsstæðis. Hann leynist því, skv. þessu, í Skógarnefinu sjálfu, ofan við grenin.

Skógarnef

Hreiður í Skógarnefi.

Til eru a.m.k. þrjár örnefnalýsingar fyrir Hvassahraun er varða austurmörk jarðarinnar. Þar á hún land að Lónakoti upp að Krossstöpum, en ofan við þá á Hvassahraun land mót Óttarsstöðum, allt upp í Búðarvatnsstæði og Markhól þar fyrir ofan, að mörkum Krýsuvíkur.
Í upplýsingum gefnum af Sigurði Sæmundssyni frá Hvassahrauni og þá aðallega kona hans, sem Ari Gíslason skráði, segir m.a. um þessi austurmörk jarðarinnar:
„Á veginum, rétt þegar komið er inn í Hvassahraunsland að austan, er hraunlendi nokkuð greiðfært og slétt af hrauni að vera, þar heitir Sprengilendi, nær það alllangt niður fyrir veginn. Þar rétt neðar, aðeins vestan merkja, er hóll sem heitir Grænhóll. Þar enn neðar er hraunhóll eins og miðsvæðis milli sjávar og vegar, sá heitir Skógarhóll. Upp við veg og um veg er Sprengilendið, það er hæð ofan vegar, er þar nafnlaus lægð. Neðan við Skógarhól á merkjum er svo nes það sem heitir Hraunsnes.“ Þarna er sem sagt verið að lýsa mörkunum neðan hins gamla Keflavíkurvegar, sem nú sést þarna skammt ofan núverandi Reykjanesbrautar. Síðan segir:
„Svo byrjum við aftur við þjóðveginn við merki Lónakots. Þar er varða sem heitir Markavarða, upp af henni er með mörkum Taglhæð. Neðsti-Krossstapi er á merkjum móti Lónakoti og Mið-Krossstapi er hornmark þar sem þrjár jarðir mætast.“ Lengra til suðurs nær þessi lýsing ekki.
Í lýsingu Gísla Sigurðssonar koma hins vegar fram ítarlegri lýsingar á mörkunum:

Skógarnef

Í Skógarnefi.

„Landamerki milli Hvassahrauns í Vatnsleysustrandarhreppi og Lónakots í Álftaneshreppi, síðar Garðahreppi, eru talin þessi (1889): Markaklettur á innanverðu Hraunsnesi; úr Markakletti í Skógarhól uppi á hrauninu, úr Skógarhól í Stóra-Grænhól ofar á hrauninu, úr Stóra-Grænhól í Taglhæð, úr Taglhæð í Hólbrunnshæð, úr Hólbrunnshæð í Skorásvörðu, úr Skorásvörðu í Mið-Krossstapa.“ Hér erum við komin að þeim stað, sem hin fyrri lýsing endaði. Þá heldur áfram: „Landamerki milli Hvassahrauns og Óttarsstaða eru þessi (1889): Mið-Krossstapi, þaðan í Hraun-Krossstapa, úr Hraun-Krossstapa í Klofningsklett, úr Klofningskletti í Búðarvatnsstæði, úr Búðarvatnsstæði í Markhelluhól, og eru þar klappaðir stafirnar Ótta. Hvass. Krv.“
Í enn einni örnefnalýsingunni, sem fela í sér upplýsingar, sem Guðmundur Sigurðsson gaf í viðtali á Örnefnastofnun 16. júlí 1980, en hann hafði áður borið lýsingu Hvassahrauns undir Gústaf Brynjólfsson frá Eyðikoti, segir m.a.:
„Sunnan Einihlíða lá landamerkjalína Hvassahrauns og Krýsuvíkur í Markaklett, sem er austur af Búðarvatnsstæði. Hann er nefndur Markhelluhóll í landamerkjalýsingu. Stafirnir Hvassa.- Ótta. – Krv. eru þar markaðir á hellu, sem snýr við norðaustri. Á hólnum er varða, sem mun heita Markhelluhólsvarða. Þaðan liggur landamerkjalínan í norður um mitt Búðarvatnsstæði og Búðarhól, sem er hraunhóll. Þar vestur af er lægð í hrauninu, sem nefnist Helgulaut. Þar hafði kona að nafni Helga orðið úti. Þaðan úr Búðarhól liggur línan um Klofningsklett, Skógarnef, Skógarnefsskúta, sem er fjárskjól, og Skógarnefsgren. Skógur er í Skógarnefi.“

Skógarnef

Vatnsból í Skógarnefi.

Skv. framanskráðu ætti Skógarnefsskúti að vera ofan við grenin og neðan við Klofningskletts. Vandinn virtist einungis vera sá að feta sig eftir línunni milli þessarra tvegga staða (efsta Krossstapans) með stefnu á Búðarvatnsstæðið (WGA84 – 6359064-2201878). Í örnefnalýsingunni segir að „norðar er Snjódalaás, hraunás með keri, sem kallast Snjódalir. Þá tekur við Hraun-Krossstapi, Mið-Krossstapi og Krossstapi eða Neðsti-Krossstapi. Þá liggur lína um Skorás með Skorásvörðu. Þar norðar er svo Hólbrunnur, vatnsból í klöpp, sem heitir Hólbrunnshæð. Á henni er Hólbrunnsvarða, Þá er Taglhæð með Taglhæðarvörðu. Þá er Markavarða rétt við þjóðveginn.“ Og þá er hringnum lokað.
En nánar að leitinni sjálfri. Byggt var á þessum fyrrum skráðum upplýsingum. Hafa ber í huga að FERLIR hefur þegar gert nokkrar „atlögur“ að svæðinu með það að markmiði að finna og staðsetja nefndan skúta (sem hingað til hefur látið lítið yfir sér). Þorkell Kristmundsson á Efri-Brunnastöðum (nú látinn) í Vatnsleysustrandarhreppi, sem oft hafði smalað þetta svæði, taldi skútann vera heldur inni á Óttarsstaðalandi (að það hann minnti). Ekki mundi hann hvort sjást ættu hleðslur í eða við skútann. Skógarnefsskúta er hins vegar ekki getið í örnefnalýsingum fyrir Óttarsstaði. Af því mætti ætla að skútinn væri heldur til „vestlægur“, þ.e. inni í Hvassahraunslandi.
Mófuglasöngurinn hljómaði um kjarr, kvosir og kletta.
Haldið var upp frá Kristrúnarborg (Óttarsstaðaborg), gengið hiklaust framhjá Litluhellum, skoðað þrastarhreiður í brún lítils jarðfalls ofan Alfaraleiðar, fornrar þjóðleiðar milli Innnesja og Útnesja, haldið um Taglhæð og síðan austan Hólbrunnshæðar að Skorási. Austan við hann kúra tóftir Lónakotssels.

Skógarnef

Varða við vatnsból í Skógarnefi.

Gengið var framhjá Krossstapagrenjunum og upp að Hraunkrosstapa, efsta krossstapanum. Landamerkjahæll er í honum. Þaðan var línan tekin á Skógarnefsgrenin. Löngu fallin girðing, sem vera átti á mörkunum, er þarna skammt austan við „örnefnalýsingarmörkin“. Þegar komið var upp á norðurbrún Skógarnefnsins sást til vörðunnar á Klofningskletti í suðri, sem og vörðu á Krossstapanum og Skorási. Í þessari línu er svæðið nokkuð grasi gróið í skjólum. Á fremsta ásnum var fallin gömul varða. suðaustan við hana var vatn í grónum hraunbolla, það eina sem sást á þessu svæði. Önnur fallin gömul varða var norðvestan við hina. Norðan hennar var stórt gróið jarðfall. Þegar komið var niður reyndist þarna vera hið ákjósanlegasta skjól. Stórt, litskrúðugt, aðmírálsfiðrildi flögraði um að vild. Þegar grannt var skoðað virtist móta fyrir hleðslum, sem gróið var yfir, bæði í því austanverðu og einnig í því vestanverðu. Sú síðarnefnda virtist greinilegri. Í svo til beina stefnu til norðurs frá þessu skjóli liggur stígur yfir grannt mosagróið apalhraun, að Krossstöpunum.
Svæðið ofar var einnig skoðað, í þessari sömu línu, en ekkert fannst er gat gefið mannvistarleifar til kynna. Líta verður á framangreindan stað sem fyrrnefndan Skógarnefsskúta, m.v. örnefnalýsinguna – þangað til annað kemur í ljós.
Í bakaleiðinni var m.a. gengið fram á lóuegg og nýfædda sólskríkjuunga í hreiðri – og það á sjálfan þjóðhátíðardaginn.
Frábært veður. Gangan (og leitin) tók 4 klst. og 4 mín.

Skogarnefsskuti-231

Skógarnefnsskúti?

Skógfellavegur

Í fyrri lýsingu um leit að LM-merki á steini við gömlu götuna (Skógfellastíg/Vogaveg) – (sjá HÉR) – er sagt frá leitinni að staðfestu staðsetningar á réttum landamerkjum Vatnsleysustrandar-hrepps og Grindavíkur. Í framhaldi af henni var ákveðið að fara með upplýsingaraðila á vettvang merkjanna.
IsleifurÞegar inn á svæðið var komið virtist ljóst að málið var alls ekki auðvelt viðureignar. Forsagan lét þó tilfinningar leitenda ekki alveg ósnortnar. Það lá í loftinu að umrætt merki væri þarna á tiltölulega afmörkuðu svæði við götuna, en hvar nákvæmlega?
Þegar kennileiti á línunni milli Kálffells og Arnarkletts eru skoðuð kemur margt forvitnilegt í ljós. Hvarvetna eru fallnar grónar vörður á hólum, hæðum og á gjám eða ummerki um slíkt, s.s. uppreistar hellur, hringhleðslur o.fl. Á einum stað virtist augljóst að vörðu hafði verið raskað, af óljósri ástæðu.
IsleifurÍ landamerkjalýsingu Þórkötlustaða frá 1890, undirrituð af fulltrúum allra jarðanna og staðfest af sýslumanni, segir m.a. um markalínuna: „…sjónhending í toppinn á Stóra-Skógfelli, þá áfram sömu stefnu yfir Litla-Skógfell, að steini sem þar stendur við götuna, þaðan að Kálffelli… Einkennismark markalínunnar er L.M. er þýðir landmerki…“. Í lýsingunni er vitnað í landamerki frá 1270, endurnýjuðum 28. júní 1620.
Helsti heimildarmaður fyrir framangreindu er Ísleifur Jónsson, margrómaður verkfræðingur frá Einlandi í Þórkötlustaðahverfi í Grindavík. Kann hann margar skemmtilegar sögur af gegnum Grindvíkungum. Ísleifur er nú (2009) 82 ára (f:1927) og ern eftir aldri. Sagðist hann hafa farið að smala inn á Skógfellahraunið norðan við Litla-Skógfell fyrir u.þ.b. 65 árum.

Á leið

Þá hefðu smalarnir, hvort sem um var að ræða frá Vatnsleysuströnd eða Grindavík, safnast saman við „Steininn“, þ.e. landamerkjastein við gömlu götuna millum Grindavikur og Voga. Steinninn hafi verið nálægt mannhæða hár (m.v. hann þá) og á hann hafi verið klappað greinilegum stöfum LM. Grindvíkingar hefðu ekki mátt fara lengra en að Steininum því frá honum ráku þeir féð áleiðis til Grindavíkur en Strandarbúar niður á Vatnsleysuströnd. Stundum hefði verið bið eftir mönnum og var þá gott að skýlast við Steininn, sem reyndar hafi að nokkru verið smáhæð.
FerðinÁður en lagt var af stað staðfesti Elías Guðmundsson (nú íbúi í Reykjanesbæ, rúmlega fimmtugur) frá Efralandi í Grindavík frásögn Ísleifs. Sagðist hann fyrir mörgum árum verið sendur inn að Steininum til að smala, en lengra mátti hann ekki fara. Þar tækju Vogamenn við. Ofar hefði Stóravarða verið með stefnu í Kálffell. Steinninn hefði og verið áberandi á landamerkjunum við gömlu götuna. Hann hefði hins vegar heyrt á seinni árum að Kaninn, sem hafði æfingaraðstöðu í heiðinni, hefði notað Steininn sem skotmark. Hvort þeir hefðu hitt hann eður ei vissi hann ekki. Elías sagðist aðspurður vera orðinn lúinn til fótanna og gæti því ekki tekið þátt í þessari ferð – en kannski seinna.
Nú segir í stuttri lýsingu frá upphafi og endi ferðarinnar.
IsleifurSafnast var saman sunnan við Arnarklett (landamerki Grindavíkur og Voga). Kobbi (Jakob) frá fjórhjólaleigunni ATV 4×4 í Grindavík, sem hafði góðan stuðning af lögreglunni við endurheimtur þá og þegar til kastanna kom, hafði eitt hjólanna meðferðis. Óskar, frá Saltfisksetri Íslands, Sævarsson var einnig mættur, enda hafði hann undirbúið ferðina gaumgæflega Grindavíkurmegin. Allt stóð af efndum.
Á staðnum klæddist Ísleifur tilheyrandi skjól- og hlífðarfatnaði, settist á fjórhjólið aftan við ökumanninn og lagt var af stað eftir ruddum slóða í gegnum úfið Arnarseturshraunið (rann 1226). Á undan gengu sem sagt nefndur Óskar, sonur Ísleifs (Einar) og fulltrúi FERLIRs, sem bara fylgdi með svona til að skrá ferðina líkt og allir fjölmiðlar landsins hefðu að sjálfsögðu gert (ef þeim hefði bara verið boðið).
MörkinÞegar komið var inn að Litla-Skógfelli þurfti að finna tilheyrandi slóð fyrir fjórhjólið. Hleypt var lofti úr dekkjum og tilraun gerð hvort för sæjust eftir þau í mosanum, en það reyndist ekki vera. Gömlu götunni var því að mestu fylgt að áfangastað. Þegar þangað var komið kannaðist Ísleifur við sig frá fyrri tíð. Hann sagðist aðspurður ekki hafa fylgt gömlu götunni að Steininum heldur farið beint að augum – „þangað inneftir“. Dró hann upp landakort (danska herforingjakortið) upp úr tösku og sýni hvernig markalínan ætti að liggja skv. fyrrnefndri landamerkjalýsingu. Landamerki Þórkötlustaða voru dregin (skv. lýsingunni) um hæstu bungu Stóra-Skófell og hæstu bungu Litla-Skógfells til norðurs að „Steininum við gömlu götuna“. Skv. því virtist eiga að vera augljóst hvar Steininn væri að finna. Þó var svo ekki, enda fór drjúgur tími í leitir á tiltölulega litlu svæði.
SteinnMiðað við uppdrátt Ísleifs virtist ljóst hvar Steininn var að finna. Um það bil 160cm há klapparhrúga virtist líklegasti staðurinn. Ef áletrunin væri þar myndi hún eflaust vera sem sólstafir að síðdegi. Utan við við staðinn er gróin varða á hól. Í línu við hólinn, milli Kálffells og Arnarkletts eru fleiri standandi og fallnar vörður er gætu gefið hin fyrrum landamerki til kynna – enda eflaust ekki komnar af engu.
Steinninn er um 1.8 km norðan við Litla-Skógfell og alls ekki auðfundinn. Hins vegar má ætla, meðan smalamennskan var eðlilegur hluti búskaparins, hafi staðsetningin verið á allra hlutaðeigandi vitorði – svo stutt frá gömlu götunni, sem ekki var hægt að villast út frá. Teknir hafa verið steinar úr nærliggjandi hól og búið til skjól, væntanlega fyrir þá sem biðu hinna.
Grindavik-vogar-landamerki-2Og þá var að halda til baka. FERLIR var beðinn um að halda staðsetningunni leyndri, a.m.k. fyrst um sinn. Ef þetta reynist rétt mun umdæmi Grindavíkur stækka um 1.5 km til norðurs, um tugi hektara, á kostnað Vatnsleysustrandar-hrepps. Á móti myndi Vatnsleysustrandar-hreppur (Vogar) hins vegar fá sambærilega landspildu á móti úr Grindavíkurlandi.
Auk framangreinds má bæta við eftirfarandi skráðri heimild frá um 1500:

„SKRÁ um landamerki milli Voga og Grindavíkr. – Landsbókasafn 108. 4to bls. 543 með hendi séra Jóns Haldórssonar í Hítardal „Eptir atgömlum rotnum blöðum úr herra Gísla Jónssonar bréfabók“. Sbr. Dipl. IBI. II, bls. 76.
„Um Landamerke i millum Voga og Grindavijkur.
Úr máldaga sem skrifadur var i tijd Byskups Stephanar.
Grindavik-vogar-landamerki-3Voru þesse landamerke höfd og halldin i millum voga á strönd og grindavijkurmanna meir enn upp á 30 vetur ákallslaust. ad vogar ætte ecke leingra enn nedan fra ad Kálfsfelli og upp ad vatnskötlum fyrer innan fagradal og upp ad klettnum þeim sem stendur vid Skogfell hid nedra vid götuna enn Þorkötlustader og Jarngerdarstader ættu ofan ad þessum takmörkum.“
Skv. þessari heimild ættu landamerki að líta út eins og sjá má á meðfylgjandi korti. Hún staðfestir í raun frásögn Ísleifs í einu og öllu. Auk þess má enn sjá Steininn við „gömlu götuna“. Á hann er klappað merkið „LM“.
Frábær ferð. Gangan (aksturinn) tók 6 klst og 6 mín.

Heimildir m.a.:
-Ísleifur Jónsson, f: 1927.
-Elías Guðmundsson.
-Íslenskt fornbréfasafn, 7. b. (1170-1505), bls. 457-458.

Skógfellavegur

Merki við Skógfellaveg.

 

Þórustaðir

Í frétt Minja- og sögufélags Vatnsleysustrandar má lesa eftirfarandi um „brúsapalla“ í sveitarfélaginu:

Brúsapallur

Brúsapallur ofan Litlabæjar og Bakka.

„Brúsapallar voru víða um sveitir landsins á árunum 1940 til 1970. Þar þjónuðu þeir hlutverki sínu fyrir mjólk sem beið þess að verða sótt, á leið sinni í mjólkurbúið. Þar beið líka stundum heimasætan og annað fólk sem þurfti bílfar um sveitina.
Árið 2009 voru nokkrir brúsapallar friðaðir í Noregi þar sem talið var að þeir hefðu að geyma merkan hluta af menningarsögu sveitanna, hvað snerti bæði framleiðsluhætti og félagslíf.
Í Sveitarfélaginu Vogum eru enn uppistandandi tveir brúsapallar, smáhýsi sem standa við afleggjarana að Litla-Bæ og Bakka og Þórustöðum. Sannarlega merkur hluti menningarsögu sveitarfélagsins.
Er ástæða til að halda sögu þessara brúsapalla okkar lifandi? Hefðu vegfarendur um sveitina okkar hugsanlega gagn og gaman af að fræðast um hluta menningarsögu okkar við smáhýsin við Vatnsleysustrandarveg?“

Brúsapallur

Búsapallur ofan Þórustaða.

Á mbl.is var grein um brúsapalla undir fyrirsögninni „Kennari, hvað er brúsapallur?
„Nú eru komin ný orð yfir þetta, ferlega ljót, nánast afstyrmi að því er mér finnst: samnemendur eða samstúdentar .
Öllum er ljóst að samfélag okkar, sem og þau sem við höfum mest saman að sælda við, breytist ört. Það veldur því að við þörfnumst sífellt nýrra orða til að gera okkur jarðvistina léttbærari og skiljanlegri. Ný orð yfir ný fyrirbæri gera okkur kleift að vera virk í þessum nútíma sem þó staldrar svo stutt við áður en sá næsti birtist.
Í því augnamiði smíðum við nýyrði mörg, lögum erlend orð að íslensku beygingar- og hljóðkerfi og tökum gömul íslensk orð, sem misst hafa af hraðlestinni, orðið eins konar strandaglópar eins og orðið skjár svo dæmi sé nefnt. Mörg hinna nýju orða verða gildir þegnar málsamfélagsins, önnur týnast brátt; verða undir í samkeppninni.

Brúsapallur

Brúsapallur í Flóa.

Fylgifiskur alls þessa er náttúrlega sá að sum gömul og gegn orð glatast með öllu eða verða svo fágæt í munni manna og skrifum að þeir sem þau nota teljast til sérvitringa, eins konar fornmanna sem neita að hlýða kalli tímans.
Þessi orð verða úti og rata ekki til hinna nýju byggða af því að þeirra virðist engin þörf lengur. Þau verða samferða í útlegðina gömlum atvinnuháttum og verkmenningu sem gengin er sér til húðar.

Brúsapallur

Brúsapallur.

Þannig er það staðreynd að allsendis væri ómögulegt að kenna börnum vorum og unglingum ljóðið um Bjössa á mjólkurbílnum án þess að því fylgdu nákvæmar orðskýringar. Þannig stendur í Íslensku orðabókinni: „Brúsapallur: pallur á mótum þjóðvegar og heimreiðar að býli þar sem mjólkurbrúsar eru settir fyrir mjólkurbílinn.“
Það vekur athygli að sögnin, sem fylgir skýringunni, er í nútíð (eru). Nú er tími brúsapallanna liðinn og líklega væri réttara að nota þátíðina (voru).
Brotthvarf brúsapallanna úr íslensku þjóðlífi var fyrir nokkrum árum tilefni þessarar vísu manns sem virðist sakna ákaft horfins tíma:

Öðruvísi allt í gær;
aldni tíminn fallinn.
Okkar bíður engin mær
við engan brúsapallinn.

Brúsapallurinn horfni er einungis eitt dæmi ótal margra um orð sem látið hafa í minni pokann fyrir þessu óttalega skrímsli sem við köllum þróun, jafnvel framfarir, og engu eirir.
Stundum gerist það og að orð sem notuð hafa verið í áratugi, jafnvel aldir, um fyrirbæri sem enn eru í fullu gildi í samfélaginu, verða að víkja, gjarna vegna erlendra áhrifa. Að sumum þessara orða þykir mér mikil eftirsjá.“

Í Degi árið 1956 er stutt skrif um brúsapalla:

Brúsapallur

Brúsapallur.

„Brúsapallar ættu að vera á hverjum stað, þar sem mjólk þarf að skilja eftir við veginn og mjólkurbíllinn tekur síðan. Ef einhverjum finnst þetta hégómamál, ættu þeir að hugleiða það ofurlítið nánar og hafa þá jafnframt hreinlætið í huga. Brúsarnir eru settir á vegarbrún. Bílar fara um og aursletturnar ganga yfir brúsana þegar blautt er um. Í þurrki leggur rykmökkinn yfir þá. En verstur er þó staðurinn sjálfur, þar sem þeir standa á. Þar er traðk manna, hunda og stórgripa. Eitt og annað loðir svo við botngjörðina þegar brúsarnir eru látnir á pallinn. Það hristist að mestu af á leiðinni og þá gjarnan á aðra brúsa er neðar standa. En ef svo ólíklega skyldi vilja til, að eitthvað væri enn eftir þegar að því kemur að hella mjólkinni í vigtina við móttöku í mjólkursamlaginu, er hætt við að mjög óvelkomin óhreinindi verði nærgöngul við hina ágætu mjólk.
Ekki skal í efa dregið að vígreifar hersveitir Jónasar samlagsstjóra, sem hafa þrifnaðinn að vopni, auk sjóðandi vítisvéla, grandi sýklum og öllum þeim ósýnilegu og mögnuðu kvikindum, sem teljast óvinveittar heilbrigði dauðlegra manna og kynnu samkvæmt framansögðu að eiga greiðari leið en æskilegt væri inn á aðalstöðvar mjólkuriðnaðarins. En betra væri samt að loka þessari leið með þeirri þrifnaðarráðstöfun að hafa brúsapalla á hverjum bæ og eru þessar línur skrifaðar í því skyni að þeim mætti fjölga sem fyrst og sem mest. – Spói.“

Á vefsíðu Þjóðminjasafnsins er fjallað um brúsapalla:
Brúsapallur
„Árið 1960 var ekki langt þar til gjörbylting varð í landbúnaði á Íslandi. Vélvæðingin var skammt undan og vélknúin farartæki, dráttarvélar og jeppar leystu af hólmi þarfasta þjóninn við flutninga á landbúnaðarafurðum, jarðvinnu og heyskap. Fjósin stækkuðu, mjaltavélar komu til sögunnar og mjólkurframleiðsla jókst. Í fyrstunni var víða haldið áfram að setja mjólkina í brúsa og hún keyrð í veg fyrir mjólkurbílinn, sem var búinn sogdælu sem dældi mjólkinni í tank bílsins. Næsta stig þróunar varð að við hvert fjós skyldi vera mjólkurhús til þess að uppfylla gæðakröfur sem settar voru til framleiðslu mjólkurafurða. Þar með var því marki náð að mjólkurbíllinn kæmi heim á hvern bæ til þess að sækja mjólkina. Brúsapallar urðu við það svipur hjá sjón. Þeir gegndu þó áfram hlutverki eins konar póstkassa uns þeir hurfu alveg úr vegkantinum og póstkassar með samræmt útlit festir á þar til gerða staura við heimreiðar bæja.“

Á bloggsíðunni bilablogg.is segir m.a. af sannleiknum um Bjössa á mjólkurbílnum:
Brúsapallur
„Starf mjólkurbílstjóra var margþætt á þessum árum og fólst að hluta til í því að koma pökkum á milli staða. Ekki þurfti meira til en það og útkomuna þekkjum við í textanum við ítalska lagið Poppa Piccolino sem varð einfaldlega að: „Bjössi á mjólkurbílnum„.
Höfum í huga við lestur textans í heild hér fyrir neðan að Björn var kvæntur maður og faðir tveggja ungra barna, en alls urðu börnin fjögur. Björn var maður sem fólkið í sveitinni fagnaði þegar hann birtist með nauðþurftir og annað. Hann þótti með eindæmum lunkinn bílstjóri og í minningarorðum um Björn skrifaði dóttir hans að „[…] varla var til sú bíldrusla sem hann gat ekki gert gangfæra“.

Brúsapallur

Brúsapallur austur í sveitum.

Höfum líka í huga að maðurinn sem gerði Kolbein kaftein að hamfarakjafti í íslenskri þýðingu Tinnabókanna samdi textann um Bjössa og var það sem fyrr segir gert af glettni. Má sjá fyrir sér Loft Guðmundsson, sposkan á svip, hripa niður textann sem er svona:

Hver ekur eins og ljón
Með aðra hönd á stýri?
Bjössi á mjólkurbílnum,
Bjössi á mjólkurbílnum.
Hver stígur bensínið
í botn á fyrsta gíri?
Bjössi á mjólkurbílnum,
Hann Bjössi kvennagull.
Við brúsapallinn bíður hans mær,
Hæ, Bjössi keyptirðu þetta í gær?
Og Bjössi hlær, ertu öldungis ær,
Alveg gleymdi’ ég því.
Þér fer svo vel að vera svona’ æst
æ, vertu nú stillt ég man þetta næst.
Einn góðan koss, svo getum við sæst á ný.
Hann Bjössi kann á bil og svanna tökin.
Við brúsapallinn fyrirgefst mörg sökin.

Heimildir:
-https://www.facebook.com/510788858933519/photos/br%C3%BAsapallar-voru-v%C3%AD%C3%B0a-um-sveitir-landsins-%C3%A1-%C3%A1runum-1940-til-1970-%C3%BEar-%C3%BEj%C3%B3nu%C3%B0u-%C3%BEei/584589608220110/
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1364905/
-https://www.thjodminjasafn.is/syningar-vidburdir/adrar-syningar/ljosmynd-manadarins/hver-ekur-eins-og-ljon
-Dagur, 52. tbl. 06.10.1956, Fokdreifar, bls. 4.
-https://www.bilablogg.is/frettir/sannleikurinn-um-bjossa-a-mjolkurbilnum

Vatnsleysuströnd

Brúsapallurinn ofan Litlabæjar og Bakka 2022.

Eiríksvegur
Gengið var um Minni- og Stóru-Vatnsleysu í fylgd Sæmundar bónda með það fyrir augum að skoða það, sem ekki hafði verið litið sérstaklega á í fyrri ferðum um svæðið.
Árin 1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. Árið 1584 er landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs sögð vera 4 vættir fiska. 1703 er Minni-Vatnsleysa konungseign. Ein eyðihjáleiga er á jörðinni, Búð, og tómthús í eyði.

Stóra-Vatnsleysa

Fúli.

Grund hét hjáleiga norðan bæjar, en Miðengi, sem nánar verður vikið að á eftir, var einnig hjáleiga, í byggð á 19. öld og fram til um 1916. Það kemur m.a. fram í örnefnaskrá fyrir jörðina.
Á Vatnsleysu minni bjó oft mikill fjöldi vermanna á vertíð. Árið 1703 hafa “túnin fordjarfast merkilega af sands og sjáfar ágángi, item leir og vatnsrásum af landi ofan. Engjar eru öngvar. Útihagar lakir um sumur, um vetur nær öngvir nema lítið af fjöru.”
Allnokkrar, og heillegar grunn- og vegghleðslur eru í túninu sunnan Minni-Vatnsleysu, eða öllu heldur þar sem hún var, því nú er búið að raska svo til öllu bæjarstæðinu, en svínabú með tilheyrandi mannvirkjum komin þar í staðinn (Alisvín). Hleðslurnar í túni er frá bænum Miðengi, sem þar. Neðan þeirra og sunnar var Miðengisvörin, slæm. Stóru-Vatnsleysubóndinn sprengdi hana síðar, en vörin var í landi jarðarinnar, rétt sunnan við mörkin. Þau sjást enn þar sem fyrir er mikill grjótgarður. Áður lá hlaðin tröð frá Stóru-Vatnsleysu yfir að Minni-Vatnsleysu. Hana má m.a. sjá á túnakorti frá 1919. Hún var fjarlægð þegar túnin voru sléttuð.
Gamla Stóra-Vatnsleysuvörin var skammt norðan við núverandi vör. Við hana var spil af þýskum togara, sem notað var til að spila inn báta, og má sjá leifar þess enn ofan við nýju vörina.
“Neðan við Hólshjall er gamall hlaðinn brunnur, sem heitir Fúli. Það er ekki flæðibrunnur eins og aðrir runnar á bæjunum, heldur safnast í hann úr jarðveginum í kring, enda vatnið ekki neyzluvatn. Fúli var líka kallaður Hólsbrunnur.” segir í örnefnaskrá.
Á túnakortinu frá 1919 sést brunnurinn ofan við garðenda nyrst á hlöðnum garði ofan strandarinnar. Minni-Vatnsleysuvörin var þar skammt norðar. Þetta var hlaðinn, en grunnur, brunnur, ekki ólíkur Fjósabrunninum á Stóru-Vatnsleysu. Þegar að var gætt hafði kantinum á athafnasvæði austan svínabúsins verið rutt yfir brunninn, sennilega vegna óaðgæslu því hann á að vera svo til í jaðri hans.
“Fleiri brunnar eru nær bænum, sem hafa verið notaðir. Talað eru um brunninn Danska.” segir í örnefnaskrá. Þá er fjallað um Hólabrunn; “Í Norðurtúni voru Hólarnir. Þar var Hólabrunnur og þar var Minni-Vatnsleysubrunnur og brunnurinn Danskur. Engin þessara brunna var góður.” Hér er jafnframt fjallað um tvo aðra brunna, Minni-Vatnsleysubrunn og Danska. Minni-Vatnsleysubrunnur sést í bakkanum norðan við litla styttu við Minni-Vatnsleysu. Steypurör hefur verið sett yfir hann og járnlok yfir. Þessi brunnur var hlaðinn líkt og Stóru-Vatnsleysubrunnurinn, en dýpri. Til eru menn, sem muna eftir þessum brunni eins og hann var. Líklegt má telja að framangreindir brunnar hafi verið einn og hinn sami, en þó má vera að þarna hafi verið, í missléttu landi, vatnsstæði, sem nefnd hafa verið.
Í örnefnaskrá segir ennfremur: “Hér nokkru austar er gróinn hóll, sem heitir Stekkhóll. Þar var fyrrum Stekkur, en nú er þar Stekkhólsfjárhús og Stekkhólsrétt.” Stekkhóll er skammt ofan strandar, en nokkru austar, í landi Stóru-Vatnsleysu.
Norðan við Stekkhól sést grunnur fjárhússins, sem hefur verið nokkuð stórt. Líklega er staðsetningin á Stekkhólsréttinni ekki rétt, eða a.m.k. ónákvæm. Réttin, eins og hún var jafnan nefnd, er nokkru sunnan við hólinn, skammt ofan gamla Eiríksvegarins. Þar eru allnokkrar hleðslur og mótar enn fyrir gömlu réttinni. Leiðigarður er nyrst í henni, en að öðru leyti er hún tvískipt þar sem hún er norðan undir lágum klapparhól.
Stóra-Vatnsleysa var einnig í konungseign árið 1703.
Varðveist hefur gamall máldagi útkirkjunnar á Vatnsleysu frá um því um 1269, þar segir: “Allra heilagra kirkia a vatnslavsv a fimtan hvndrad j heima lande. tiolld vmhverfuis og allan sinn bvning.” Annar máldagi hefur varðveist frá því um 1367. Þar segir: “Allra hreilagra kirkia a Vatzlejsu a xvc j heimalande. kluckur ij.”
Árið 1375 segir í máldaga kirkjunnar í Krýsuvík að hún eigi fjórðungspart í Vatnsleysu. [1379]: “ok firr nefnd fleckvik aa allann þridivng j vatzleysv jord.” Síðasti varðveitti miðaldamáldi kirkjunar er frá árinu 1397 og segir þar að kirkjan eigi 15 hdr i heimalandi.” Þann 28.4.1479 er „Jörðin Vatnsleysa er í Kálfatjarnarkirkjusókn.“ Í þessu bréfi lýstir Arngerður Halldórsdóttir því yfir að engin ítök séu í jörðinni Vatnsleysu nema að kirkjan í Krýsuvík eigi þar 10 hundruð og jörðin Flekkuvík eigi þriðjung í hvalreka ásamt viðarreka og Vatnsleysa eigi tvo hluta í Flekkuvíkurreka sem og hvalreka. Árin 1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum líkt og Minni-Vatnsleysu. Árið 1515 kaupir Ögmundir ábóti Pálsson 20 hdr. í Vatnsleysu fyrir 25 hdr. Árið 1518 er Viðeyjarklaustri færð 10 hdr í Vatnsleysu til viðbótar. Það ár (1518) féll dómur um að „heimatíund af Vatnsleysu skuli greiðast heim ekki til Kálfatjarnar.“ Árið 1584 er landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 6 vættir fiska.
Minjar um fornbýli er að finna nálægt Kúagerði. Hefur það verið nefnd Akurgerði. Árið 1703 voru hjáleigur í byggð; Vatnsleysukot og tvær nafnlausar hjáleigur auk einnar nafnlausrar eyðihjáleigu. „Eyðibýlið Akurgerði var lagt undir Vatnsleysu á 16. – 17. öld. Austast og neðst var Naustakot, stundum kallað Pallakot … Þá var norðan og ofar Nýibær, Móabær, Sigurjónsbær og Jónasarbær.” Einnig var lítið kot nefnd Kofinn byggt utan í kirkjugarðshleðsluna.“ segir í örnefnalýsingu fyrir Stóru-Vatnsleysu. Garðbær er merktur inná túnakort frá 1919. Einnig var kotbýli nefnt Krókur. Garðhús er nefnt í bók GJ, en það gæti verið sama og Garðbær.
Í Jarðabókinni 1703 kemur fram að „heiðarland Vatnsleysubæja er víðáttumikið, nær frá sjó til fjalla. Túnum spillir nokkurn part vatnságángur f landi ofan og jarðfast grjót sem árlega blæs upp í túninu. Engjar eru öngvar. Úthagar lítilfjörlegir vetur og sumar.” Guðmundur B. Jónsson segir í bók sinni að Vesturbærinn hafi farið í eyði, lagðist undir Austurbæinn og var rifinn um 1940.
Tekið var hús á Sæmundi Þórðarsyni, bónda á Stóru-Vatnsleysu. Hann lýsti kotunum, sem voru á Kottúninu austan við bæinn. Þau eru m.a. dregin upp á túnkortið frá 1919; Móakot, Nýibær, Garðbær og Naustakot, sem jafnan var nefnt Pallakot eftir síðasta ábúandanum. Kotin stóðu þétt saman, en Pallakot fór síðast í eyði 1931.
“Vegur liggur frá bænum og niður að sjávarhúsum. Rétt við veginn norðan megi, rúmlega [ríflega] hálfa leið til sjávar, er gamall brunnur, sem var notaður þar til fyrir fáum árum. Þetta er flæðibrunnur og nokkuð saltur.” segir í örnefnaskrá.
Steypt er yfir brunninn, en hann var notaður til langs tíma. Hann er fallega hlaðinn.
“Rétt vestan bæjar er gamall og grunnur brunnur, sem nefndur er Fjósbrunnurinn.” segir í örnefnaskrá. Brunnur þessi, eða öllu heldur vatnsstæði, er í lægð í túninu vestan við íbúðarhúsið. Sæmundur sagði að alltaf hafi verið sótt vatn í hann til að brynna kúnum – kvölds og morgna. Svo merkilegt sem það hafi verið þá virtist alltaf nægilegt vatn í honum.
Örnefnaskrá segir og frá enn einum brunninum. “Á flötunum, rétt ofan þar sem kotablettirnir voru, er flæðibrunnur, vel hlaðinn innan. Þó mun eitthvað vera hrunið úr veggjum hans nú. Vatnið í honum var saltminna en í brunninum vestar í túninu, sem áður er sagt frá. Þessi brunnur var kallaður Kotbrunnur.”
Sæmundur sagði að brunnurinn hafi jafnan verið nefndur Pallabrunnur, eftir Palla í Pallakoti. Á túnkortinu frá 1919 er teiknaður annar brunnur skammt suðaustar, en þetta svæði var allt sléttað út fyrir allnokkrum árum, að sögn Sæmundar. Kotbrunnur hefur þó fengið að halda sér. Hann er alveg heill og fallega hlaðinn.
Sæmundur benti einnig á Stöðulbrunn, vatnsstæði í grónum hól, Stöðulsbrunnshól, syðst í túninu. Hlaðið er í vatnsstæðið og var vatn í því er aðgætt var.
Sæmundur sagði að tvíbýlt hafi verið á Stóru-Vatnsleysu; Vesturbær og Austurbær. Síðarnefndi bærinn (húsið) stæði enn, en sjálfur hafi hann rifið Vesturbæinn fyrir allnokkrum árum. Þar stóð þar sem nú er stórt hús norðvestan við húsið.
Áður hefur letursteini, sem er í sunnanverðu túninu, verið lýst sem og áletruninni á honum. Milli hans og íbúðarhússins mun hafastaðið kapella fyrr á öldum. Byggt var kot upp úr henni, en vegna draugagangs lagðist það fljótlega af.
Sæmundur sagðist vilja leiðrétta og benda á nokkur atriði varðandi örnefni með ströndinni austast í S-Vatnsleysulandi. Víkin austan laxeldisins væri jafnan nefnd Stekkjarvík eða jafnvel Kúagerðisvík. Vík með því Stekkjarvíkurnafninu (Stekkjarvíkur) væri í Flekkuvíkurlandi, vestan bæja, en þessi vík hefði jafnan verið nefnd Vatnsleysuvík.
Búðavík hefði verið sandfjara beint neðan við laxeldið. Starfsmenn þar hefðu tekið sand úr fjörunni undir vatnsleiðslur að stöðinni og eftir það hefði sandfjaran horfið að mestu.
Innan (austan) við laxeldið væri Steinkeravík, en hún dregur nafn sitt af náttúrulegum steinkerum er myndast höfðu er fljótandi hraunið rann þar út í sjó.
Jafnan hefði vík allnokkru austan við Arnarklett verið nefnd Fagravík. Þannig væri hún á kortum. Arnarklettur er beint fyrir neðan grunn af húsi, sem reist var norðan við Reykjanesbrautina sunnan Afstapahrauns (Arnstapahrauns). Rétt innan við hann er hin réttnefnda Fagravík, vestan við Látrin.
“Einhversstaðar hér í Heiðinni var Vatnsleysustekkur og hér er Litli-Hrafnhóll …” segir í örnefnaskrá “Við höldum okkur enn við gamla veginn og rétt vestan gjárinnar komum við að Vatnsleysustekk í lítill kvos fast við og neðan Eiríksvegar,” segir í Örnefnum og gönguleiðum eftir SG.
Enn sést vel móta fyrir tvískiptum stekknum sunnan undir lágum hólnum.
Loks var litið á Eiríksveginn svonefnda, en „hann var ein fyrsta tilraun til vegagerðar á landi hér, sem þó var aldrei notuð. Vegurinn er í raun sýnishorn af vegagerð fyrri tíma en vegarstæðið liggur þráðbeint frá Akurgerðisbökkum, en þeir eru neðan og vestan við Kúagerði, og síðan áfram vestur yfir holt og hæðir.
Um Akurgerði lá Almenningsgatan eða hestslóðin og héðan lá ein fyrsta tilraun til vegagerðar á landi hér, sem þó var aldrei notuð. Vegurinn kallast Eiríksvegur, því Eiríkur faðir Árna Kaupmanns og leikara í Reykjavík var verkstjóri. Vegurinn lá upp í Heiðina.” segir í örnefnaskrá.
„Eiríksvegur lá frá þeim stað sem nefndur er Akurgerði. Slóðinn var meðfram Steinkeravík/Kúagerðisvík og áfram til vesturs inn heiðina. Meðfram Kúagerðisvík liggur bílslóði samsíða Reykjanesbraut og endar hann í Strandavegi. Næstum fast frá slóða þessum má sjá leifar Eiríksvegar fast upp við fjörukambinn og svo til vesturs. Gatan er greinileg á grasi grónu svæði ofan við fjörukambinn en verður ógreinilegri þegar komið er út í meira hraunlendi norðvestar. Vegurinn er nefndur eftir verkstjóra vegagerðarmannanna sem hét Eiríkur Ásmundarson frá Grjótá í Reykjavík (1840-1893) … Eiríksvegur er 3-4 m breiður og í honum er mikið af grjóthnullungum. Ekkert farartæki hefur hingað til nýtt sér “samgöngubótina” því vegargerðin dagaði uppi í Flekkuvíkurheiðinni einhvern tíman fyrir síðustu aldamót. Almenningsvegurinn liggur svo til samsíða Eiríksvegi á þessum slóðum ýmist ofan eða neðan hans og á kafla liggja allir þrír vegirnir samsíða, Strandarvegurinn neðstur, síðan Almenningsvegurinn en Eiríksvegurinn efstur”, er lýsingin á Eiríksvegi í bók SG um Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi.
Frábært veður, sól og varmt veður.

Heimild m.a.:
-Menningarminjar í Vatnsleysustrandarhreppi, Svæðisskráning – Sædís Gunnarsdóttir – 2006.
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – SG – 1995.
-Örnefnalýsingar.
-Árni Óla: Strönd og vogar.
-Mannlíf og mannvirki – Guðmundur B. Jónsson.
-Túnakort 1919.
-JÁM 1703.
-Sæmundur Þórðarson.

Vatnsleysustekkur

Vatnsleysustekkur.

Vatnsleysuströnd

„Af Íslands næstum 5 þúsund kílómetra löngu strandlengju eru það ekki nema tiltölulega stuttir kaflar í ýmsum landshlutum, sem bera heitið strönd og gefin eru sérstök nöfn: Hornstrandir, Barðaströnd, Svalbarðsströnd o.s.frv. 

Kalfatjorn-505

Sumstaðar heitir önnur hliðfjarðanna strönd — hin ekki: Hvalfjarðarströnd, Berufjarðarströnd. Á það vitaralega sínar orsakir þótt ekki verði þær hér raktar. Og ekki er ætlunin að huigleiða frekar þessi strandanöfn heldur að bregða sér í heimsókn á þá ströndina, sem næst liggur Reykjavík —Vatnsleysuströndina — þennan óhjákvæmilega tengilið milli Innnesja og Suðurnesja þegar á landi er farið. Áður en steypti vegurinn var lagður, lá leiðin skammt ofan við bæina, sem standa í slitróttri röð niður undir sjávarmáli. Nú eru þeir nánast horfnir hinum fjölmenna hópi vegfarenda á hraðakstri þeirra suður Strandaheiði. Það er aðeins ef manni verður á að líta upp þegar sveigt er inn í Kúagerði. Þá blasa við hinar reisulegu byggingar á Vatnsleysunum báðum — hinni minni og stærri. Þannig er Ströndin að hverfa fjöldanum í hraða og flýti nútímasamgöngutækni. Við þessa löngu strönd hefur mörg fleytan farizt bæði stór og smá. Ágúst í Halakoti telur, að á árunum 185—1928 hafi 78 manns drukknað af bátum af Ströndinni. En fleiri skip hafa farizt á þessum slóðum en fiskibátarnir úr sjálfu plássinu. Hér rétt framundan Kálfatjörn var það, að póstskipið frá Danmörku — Svalan — strandaði í norðanbyl þann 6. desember 1791. Voru þá liðnir 72 dagar frá því að hún lagði út frá Kaupmannahöfn og farþegar eðlilega orðnir langþreyttir er þá hafði velkt svo lengi í hafi. Meðal þeirra var nýútskrifaður lögfærðingur Benedikt Gröndal Jónsson, sem hafði verið skipaður varalögmaður sunnan og austan. Hann vildi ekki taka sér gisting á Ströndinni, heldur hraða för sinni sem mest
hann mátti til Reykiavíkur til að taka við embætti sínu. En kapp er bezt með forsjá. Hann komst ekki lengra en að Óttarsstöðum, þar sem hann hneig máttvana niður í snjóskafl, kalinn á höndum og fótum. Var hann borinn til bæjar, þar sem hann fékk hjúkrun. Það sem eftir var vetrar dvaldi hann í Görðum hjá sr. Markúsi stiptprófasti í Görðum á Álftanesi. Svo var það 1. desember 1908, að fyrsti togari Íslands, Coot, var að draga kútterinn Kópanes til Hafnarfjarðar.
Þá tókst svo slysalega til að Kópanes slitnaði aftan úr, en dráttartaugarnar flæktust í skrúfu togarans. Rak síðan bæði Kalfatjorn-506skipin stjórnlaust undan straumi og vindi og bar að landi við Keilisnes sunnanvert eða á Réttartöngum seint um kvöldið. Mannbjörg varð, en hvorugu skipinu varð bjargað. Þannig varð Ströndin hinzti „hvílustaður“ fyrsta íslenzka togarans.
Em víkjum nú aftur til landsins. Ströndin er líka að hverfa í annarri merkingu heldur en þeirri, að við verðum hennar lítt eða ekki vör á ferð okkar til Suðurnesja. Hún er að verða önnur nú en áður hún var. Þetta pláss var áður aðalhlutinn, þungamiðjan í hátt í þúsund manna sveitarfélagi, sérstakt prestakall með skóla og landsfrægum homopata, aðsetur blómlegrar útgerðar og með talsverðum landbúnaði eftir því sem um er að ræða á hrjóstrum Suðurnesja.

rodur-501

Hér á þessari löngu strönd voru sumir mestu stórútgerðarmenn síðustu alda enda í nánd við fiskisælustu mið landsins — gullkistunia undir Vogastapa. — Þetta var áður en Englendingurinn kom og skóf botninn og tók lifibrauðið frá landsins börnum, sem horfðu uppgefin og úrræðalaus á eyðinguna úr landi. Það er átakanleg saga, einn skuggalegasti þátturinn í öllum okkar dapurlegu samskiptum við erlent ofurefli.
Stórútgerðarmenn Strandarinnar á síðustu öld hétu margir Guðmundar, hver Guðmundurinn öðrum meiri að útsjón og athafnasemi. Þar var t.d. Guðmundur frá Skjaldarkoti Ívarsson á Brunnastöðum, sem stundaði sjó í 50 ár. Hann átti og gerði út allt upp í 7 skip, gat valið úr mönmum en tók aldrei drykkjumemn á skip sín.

Coot-501

Um vertíðina hafði hann yfir 50 manns í heimili. Því stjórnaði af fyrirhyggju og skörungsskap, kona Guðmundar Katrín Amdrésdóttir. Hún var systir sr. Magnúsar á Gilsbakka. — Guðmundur á Auðnum var einn ríkasti bóndi á Ströndinni, varð formaðuir 17 ára, fljótt hinn „mesti útsjónarmaður til afla fanga og græddi á tá og fingri.“ Frostaveturinn 1881 gerði hann út 6 skip og 2 báta. Eitt Skipanna var sponhúsa nýtt. Það hét Framfari. Formaður á því var Ólafur Runólfsson úr Biskupstungum. Einn háseta hans var Kristleifur á Kroppi. Undir lokin „dreymdi mig,“ sagði Ólafur, „að ég væri kominn austur að Skálholti og væri að hátta þar ofan í rúm hjá henni mömmu minni.“ Næsta dag hvolfdi Framfara á heimsiglingu í ofsaveðri. Fórst Ólafur þar og skipshöfn hans nema 2 menn, sem bjargað var af kili. Annar þeirra var Kristleifur. Hefur hann gefið ógleymanlega lýsingu á þessum atburði í sagnaþáttum sínum, Mun sú frásögn ógjarnan hverfa úr minni þeim, sem lesið hafa.

Vatnsleysustrond-201

Einn, kunnasti Guðmundur Síðustu aldar á Vatnsleysuströnd og víðar var Guðmundur Brandsson alþingismaður í Landakoti. Hann drukknaði að eins 47 ára gamali á heimleið úr kaupstaðarferð til Hafnarfjarðar 11. október 1861. „Missti þar Suðurland einn af hinum merkustu og beztu bændum sínum“. (Annáll 19. aldar). Tvennum sögum fer um hvernig lík Guðmundar fannst. Árni Óla segir í Strönd og Vogar, að Þorkell í Flekkuvík sem þá var 11 ára heima hjá foreldrum sínum.“(Annáll 19. aldar). Stekkjarvík, rekið á þeim stað er bát þeirra Guðmundar hafði borið að landi slysdaginn. Hins vegar segir Kristleifur á Kroppi, að vorið 1914 hafi hann verið samskipa manni ofan úr Borgarnesi til Reykjavíkur. Sá hét Andrés, summan úr Keflavík, gamall og grár fyrir hærum.

Vatnsleysustrond-202

Hann hafði lengi verið formaður á Vatnsleysuströnd. Tal þeirra Kristleifs barst að drukknun Guðmundar Brandssonar. Daginn eftir slysið fóru bátarnir að reyna að slæða upp líkið. Andrés var meðal leitarmanna. „En það kom fyrir ekki,“ sagði gamli Andrés, „þangað til við tókum með okkur hana. Og þegar við vorum búnir að róa nokkurn tíma aftur og fram um sjóinn, þá fór haninn að gala. Var þá lík Guðmundar Brandssonar þar í botni, sem bátinn bar yfir, er haninn galaði. Var það þá slætt upp samstundis.“ Einn af sonum Guðmundar Brandssonar var Guðmundur, sem bjó eftir hann í Landakoti. Hann var ekki eins mikiu útgerðar- og aflamaður og nafnar hans, sem hér hafa verið nefndir, en hann var sjálfmenntaður félags- og menningarfrömuður sveitar sinnar, hreppstjóri, kirkjuhaldari og organisti á Kálfatjörn um áratugi.

Vatnsleysustrond-203

Mun þá óvíða hafa verið komið hljóðfæri í kirkjur utan Reykjavíkur. Kona Guðmundar var Margrét Björnsdóttir frá Búrfelli í Grímsnesi. Er skemmtileg og greinagóð frásögn um kvonfang Guðmundar í Árnesingaþáttum Skúla Helga sonar. Þau Margrét voru barnlaus. Hún var talin góð kona og mikil húsmóðir. Var umgengni öll og heimilisbragður í Landakoti til sannrar fyrirmyndar. Þessi Guðmundasaga er vitanlega framhliðin á blómaskeiði Vatnsleysustrandarinnar: Dugnaður, framtak, rúmur efnahagur, stórútgerðin, reisuleg hús, fjölmenn heimili, risna, höfðingsbragur. — En þarna átti lífið sínar skuggahliðar eins og alltaf. Þeim lýsir Kristleifur á Kroppi þanmig: „ Umhverfis þessi stórbændabýli voru fjöldamörg þurrabúðarhús — byggð úr torfi og grjóti — þröng og óvistleg í mesta máta, aleiga þeirra sem í þeim bjuggu og lifðu þar við sult og seyru.“

Vatnsleysustrond-204

En það væri ekki rétt mynd af lífinu á Ströndinni í gamla daga, ef ekki væri drepið á annað em útgerð og aflabrögð. Að vísu var sjósóknin draumur næturinnar og innihald daganna, það er að segja hinna rúmhelgu daga. En helgidagurinn bar annan svip — bar nafn með rentu — þá fjölmenntu Strandarmenn í helgidóm sinn — kirkjuna á Kálfatjörn. Þar hefur kirkja staðið frá öndverðri kristni og fram á þennan dag. Það þurfti að vera stórt hús, þar sem sóknin var svo fjölmenn og fjöldi aðkomusjómennina á vertíðinni.
Vatnsleysustrond-205Núverandi kirkja er frá árinu 1893, reist fynir forgöngu Guðmundar í Landakoti, stórt hús og reisulegt. Árið 1935 fékk hún mikla viðgerð og var útliti henmar þá mikið breytt. Fylgir grein þessari mynd af kirkjunni í hinu gamla formi. Mun margur minnast hennar ekki sízt vegna turnsins, sem var nokkuð sérstæður. Á hann voru málaðir gluggar sem úr fjarlægð líktust munkum eða prestum hemipuklæddum. En að innan er kirkjan eins og hún var í upphafi, meira að segja sama málningin. Hún var framkvæmd af dönskum manni, sem hét Bertelsen. Til hennar hefur ekki verið kastað höndunum. Á 75 ára afmæli kirkjunnar rakti Erlendur á Kálfatjörn sögu hennar í glöggu og skemmtilegu erindi. Gat hann þess, að fyrir byggingu grunnsins hefði staðið Magnús steinsmiður Árnason, Reykvíkingur að uppruna, en þá búandi í Holti í Hlöðuneshverfi. Er grunnurinn hið mesta snilldarverk og sér ekki á honum enn í dag. Það var líka haft eftir kirkjusmiðnum, Guðmundi Jakobssyni, að aldrei hefði hann reist húis á jafnréttum grunni sem þessum,

Kalfatjarnarkirkja-505

Efni allt til kirkjunnar var flutt á dekkskipi og skipað upp á árabátum, öllum unnum við, en stórtré öll lögð í fleka og róin til lands. Aðrir tóku svo við og báru upp og heim að Kálfatjörn. Hafði verið mikið kapp í ungum mönnum að vinna sem mest að þessu og að verkið gangi fljótt og vel. Gengu menn að morgni heiman frá sér um klukkutíma gang, þeir sem lengst áttu, og heim aftur að kvöld bóndi í Þórustöðuum. Hann var sonur Guðmundar alþingismann Brandssonar í Landakoti. Egill var lærður trésmiður, hagleiksmaður og þótti framúrskarandi vel virkur. Smíðaði hann mörg hús á Ströndinni á þessum tíma. Stendur eitt þeirra enn í dag, íbúðarhús á Þórustöðum.
Vatnsleysustrond-206Nú mun engri fleytu ýtt úr vör á Vatnsleysuströnd á vetrarvertíð. Samt er fjarri lagi að útgerðin og sjósóknin sé horfin úr hreppnum. Hún hefur öll flutzt suður í Voga, þar sem sköpuð hefur verið aðstaða til að stunda sjóinn á stórum vélbátum og verka aflann eins og markaðurinn krefst á hverjum tíma. Utan um þá aðstöðu er nú að rísa hið myndarlegasta þorp. En íbúarnir á Ströndinni sækja sumir vinnu sína út úr hreppnum eða stunda landbúskap — aðallega sauðfjárrækt. Þess má sjá merki og það þarf maður að muna þegar maður ekur að sumarlagi hratt og greitt suður steinsteypta veginn á Strandaheiði. Þá er það ekki óvenjulegt að dilkar — fleiri eða færri — séu á beit með fram veginum, gerandi sér erindi yfir hann án þess að gæta að umferðinni. En sjálfsagt fer nú þesum kindum að fækka, því að Stórráð sveitarfélanna í Reykjaneskjördæmi ku hafa það á stefnuskrá sinni að fækka sauðfé en fjölga sálfræðingum.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, Sr. Gísli Brynjólfsson,25. janúar 1970, bls. 8-9 og 14.

Ferlir

FERLIRsfélagar á göngu um Almenningsveginn á Vatnsleysuströnd.

Litlistekkur
Gengið var um Knarrarnesland og skoðaðar minjar, sem ekki hafði verið litið á áður í fyrri FERLIRsferðum. Þessarra minja er getið í örnefnalýsingum eða öðrum heimildum.
Fjóla Jóhannsdóttir (72 ára) dvelur nú í húsi skammt sunnan við Stóra Knarrarnes. Hún hefur verið tengd svæðinu í yfir hálfa öld, en hún er gift Guðmundi ÁrnastekkurViggó Ólafssyni frá Stóra Knarrarnesi. Kritur hafa löngum verið millum fólks á Knarrarnestorfunni vegna landamerkja-ágreinings – og það þrátt fyrir að nægt land virðist vera þarna til handa öllum lítilmátlegum til allra nútímaþarfa. Gömul fyrrum „Nes“ og „Höfði“ virðast hafa færst um set í baráttunni og jafnvel landamerkjasteinar lagt land undir fót. Þátttakendur í deilunni hafa og verið skipulagsyfirvöld í Vogum, sem varla hafa skilið hvað snýr upp eða niður í þeim málum. En í sæmilega litlu, en upplýstu sveitarfélagi, þar sem starfsfólk fær greitt fyrir að leysa vandamál frekar en að búa þau til, ætti að vera tiltölulega auðvelt að skapa sátt meðal þegnanna. Það er a.m.k. eitt af opinberum markmiðum stjórnsýslunnar.

Stóra-Knarrarnes

Stóra-Knarrarnes.

Þegar fulltrúi FERLIRs mætti á staðinn voru fyrstu viðbrögðin þessi: „Ertu frá skipulagsyfirvöldum í Vogum?“ „Nei“, var svarið. „Ertu að skoða eitthvað um landamerkin?“ „Nei“, var svarið. „Ertu sérfæðingur?“ „Nei“, var svarið enn sem fyrr. „Ég er áhugamaður um fornar minjar á Reykjanesskaganum og hef verið að reyna að staðsetja þær eftir því sem gamlar heimildir segja til um – og nútímaugað nær að sjálfsögðu“. Þetta dugði – að vera hvorki fulltrúi né sérfræðingur – til að fá hlýrra viðmót og viðhlítandi upplýsingar, sem leitað var að, enda áhugamaðurinn bæði afhuga deilnaþátttöku og launum fyrir verkið. Reyndar hefur þátttakendum FERLIRs hvarvetna verið vel tekið af fólki, sem búið hefur yfir upplýsingum um minjar og forna tíð.
Fjóla sýndi FERLIR í framhaldi af þessu gamla loftmynd af Stóra Knarrarnesi. Á henni voru tvo hús; Vesturbær, þ.e. hið gamla Stóra Knarrarnes, og Austurbær (jafnan nefndur Austurbær II), auk hinna gömlu tófta Stóra Knarrarness. Hið merkilega við loftmyndina er það að á henni séstvel móta fyrir Gamlabrunni, en hann var einmitt eitt af viðfangsefnum FERLIRs þessu sinni.

Knarrarnessel

Knarrarnessel.

Stóra Knararrness er getið í Jarðabókinni 1703. Jörðin er þá konungseign. Þann 9. september 1447 er jarðarinnar getið í bréfi um jarðaskipti Einar Þorleifssonar og Steinmóðar ábóta í Viðey. Einar lét klaustrið í Viðey hafa jarðirnar, Voga (20 hdr), Hlöðunes (20 hdr), tvenna Ásláksstaði (40 hdr, Knarrarnes tvö ( 30 hdr) og Breiðagerði fyrir (10 hdr). Árin 1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. Seinna, eða 1584 segir: „Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs eru 5 vættir fiska.“ Árið 1703 er ein hjáleiga í eyði sem heitir Helgahús.
Í Knarrarnesi var oft tvíbýli, nefndist Austurbær og Vesturbær 1703: “Túnin fordjarfast árlega af sjáfarágángi og stöðutjörnum þeim, sem innan garðs liggja, og það so frekt, að gamlir menn minnast til þar hafi fóðrast x kýr og i griðúngur, og nú eru þau so spilt, að ekki fóðrast meir en áður er sagt. Þar með blæs upp árlega stórgrýti í túninu. Engjar eru öngvar. Útihagar nær öngvir sumar nje vetur utan fjaran.”

Knarrarnes

Krosshólar.

Á milli Knarrarnessbæjanna var hlaðinn garður á landamerkjum. Hann sést enn að mestu leiti. Í örnefnalýsingur segir frá huldufólksbústað á mörkunum: “Milli Túna Litla-Knarrarness og Stóra-Knarrarness var merkjagarður. Hann lá um þrjá hóla sem nefndust Krosshólar og var á þeim mikil huldufólkstrú. Krosshóll syðsti, Mið-Krosshóll og Krosshóll nyrsti.” Þarna hafði átt að vera álfakirkja, líkt og svo víða í stökum hraunhólum í Vatnsleysustrandarhreppi.
Fjóla sagðist jafnan hafa heyrt þessa hóla nefna Hulduhóla. Sú trú hafi verið með heimilisfólki að at byggi huldufólk þótt hún hafi aldrei séð slíkt fólk þar á ferli, “ en það væri ekki að marka“. Ekki sagðist hún hafa heyrt „Krosshólanöfnin“ nefnd fyrr.
Tveir brunnar eiga að hafa verið við Stóra Knarrarnes skv. örnefnalýsingum – Gamli Brunnur og Nýi Brunnur: “Þá voru Brunnarnir, Gamli Brunnur og Nýi Brunnur.”
Fjóla sagði að Þuríður Guðmundsdóttir, húsfreyja í Stóra-Knarrarnesi, hafi sýnt henni Gamlabrunn. Þær hafi gengið niður gamla brunnstíginn, sem þá var augljós, og beint að brunninum. Hleðslur hafi á verið fallnar inn í hann. Hún væri hrædd um að brunnurinn væri nú kominn undir sjávarkambinn.

Knarrarnes

Stóri-Knarrarnesbrunnur. Nú kominn undir kampinn.

Þegar litið var eftir brunninum (2006) mátti sjá að hann var horfinn undir sjávarkambinn, enda hafði Fjóla ða orði að kamburinn hafi gengið þar verulega inn á umliðnum árum. Brunngötunni var fylgt sunnan við gömlu tóftirnar af Stóra Knarrarnesi. Hleðslur er norðan hennar. Þar sem brunngatan endar var brunnurinn, en þar er kamburinn nú. Hnit var tekið af staðnum þar sem brunnurinn var, skv. loftmyndinni.
Nýi Brunnur sést hins vegar vel enn skammt norðan Vesturbæjar. Steypt hefur verið ofan á lokið og er timburbretti ofan á því.
Aðspurð um önnur merkilegheit á svæðinu sagði hún að ágætt dæmi um vitleysuna þarna um kring vera nýreist sumarhús á holti austan við Knarrarnes. Leyfi hafi verið gefið fyrir hjólhýsi, en nú væri komið þar kofi auk trjáa. Yfirvöldum í Vogum hafi verið tilkynnt um að þar hefði fundist grunnur, sennilega undan fornri kirkju. „Þvílíkt og annað eins“. Þarna á holtinu hafi verið gamall skúr, sem nú væri löng horfinn, og væri um að ræða mótun eftir hann.

Knarrarnes

Knarrarnes. Minna-Knarrarnes nær.

Það verður nú að segjast eins og er að þær framkvæmdir, sem átt haf sér stað á holtinu, særa augu gamalla sjáenda er enn geta skynjað samhengi lands og búsetu á annars fornfrægri strönd.
Fjóla vildi einnig vekja athygli á gömlu mannvirki austar með ströndinni, sem væri svonefndur Halagarður. Þetta væri hlaðinn garður utan um matjurtagarð, sem hreppurinn hafi látið hlaða í atvinnubótavinnu skömmu eftir aldarmótin 1900. Hann stæði enn óhreyfður. Hleðslurnar sjást vel, enn þann dag í dag.
Í örnefnalýsingum er getið um Árnastekk. „Suður af Hellum og suðvestan Vorkvía er Árnastekkur sem snýr mót vestri og fast neðan hans er Árnastekkshæð. Sumar heimildir kalla stekkinn Arnarstekk og hæðina Arnarstekkshæð …,”
Austurbærinn Sesselja Guðmundsdóttir lýsir Árnastekk í bók sinni „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi“ (1995), bls. 31: „Suður af Hellum og suðvestan Vorkvía er Árnastekkur sem snýr mót vestri og fast neðan hans er Árnastekkshæð. Sumar heimidlir kalla stekkinn Arnarstekk og hæðina Arnarstekkshæð, en fleiri segja Árnastekkur og verður það nafn látið gilda hér.“ Hér er um að ræða svipaða lýsingu og af Árnarétt eða Arnarétt ofan við Garð.
Um Knarrarnes minna (sem nú virðist stærra, ef tekið er miða af húsastærð), segir m.a. í Jarðabókinni 1703: „Jarðadýrleiki er óviss, konungseign.“ Þann 9. september 1447 segir í fyrrgreindu bréfi um jarðaskipti Einar Þorleifssonar og Steinmóðar ábóta í Viðey: „Einar lét klaustrið í Viðey hafa jarðirnar, Voga (20 hdr), Hlöðunes (20 hdr), tvenna Ásláksstaði (40 hdr, Knarrarnes tvö (30 hdr) og Breiðagerði fyrir (10 hdr)… Árið 1703 hafa “túnin spillst af sjáfarágángi og tjörn þeirri, sem innan garðs er. Engjar eru öngvar. Útihagar í lakasta máta og nær öngvir um vetur nema fjaran.”
Breiðagerðis er jafnan getið sem eigarbýlis, en fjallað verður um þá jörð nánar í annarri FERLIRslýsingu (ásamt Auðnum og Höfða). Það er m.a. getið um brunn: “Breiðagerðisbrunnur var sunnan bæjar.” Enn sést móta fyrir honum sunnan gömlu tóftanna.

Litlistekkur

Litlistekkur.

Í örnefnalýsingum er getið um Litlastekk. Þar segir: “Þar var í Heiðinni Litlistekkur og Breiðagerðisskjólgarður.” Í annarri örnefnalýsingu segir: “Litlistekkur er beint upp af bæ og suður af Auðnaborg …” “Upp og suður af Skálholti er Auðnaborg í grasmóa sunnan í hól. Þar er nokkuð heilleg fjárrétt með stórum almenningi og tveimur dilkum, en uppi á hólnum við réttina eru rústir af tveimur kofum. Lítill stekkur er rétt neðan og vestan við borgina en engar heimildir eru til um nafn hans.”
Sesselja Guðmundsdóttir lýsir Litlastekk í bók sinni. Þar segir (bls. 35): „Fyrir ofan og austan Borg er stekkur sem gæti heitið Litlistekkur en það örnefni segja heimildir að sé í Breiðagerðislandi.“
Frábært veður – mófuglasöngur, kyrrð og angurværð á miðsumarskvöldi.Heimild m.a.:
-Menningarminjar í Vatnsleysustrandarhreppi, Svæðisskráning – Sædís Gunnarsdóttir – 2006.
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – SG – 1995.
-Örnefnalýsingar.
-Árni Óla: Strönd og vogar.
-Mannlíf og mannvirki – Guðmundur B. Jónsson.
-Túnakort 1919.
-JÁM 1703.
-Fjóla Jóhannsdóttir.

Knarrarnesholt

Knarrarnesholt.

Arahólavarða
Gengið var um Kirkjuholt í Vogum undir leiðsögn Voktors og JóGu. Hús þeirra stendur utan í norðaustanverðu holtinu. Í örnefnaskráningu Ara Gíslasonar segir um Kirkjuholtið: „Það sem myndar Aragerði að austan er holt sem heitir Kirkjuholt, en þar liggur vegurinn niður í Voganna.“ Þar á hann trúlega við Strandarveginn eins og hann er í dag.
Töðugerðisvarða

Töðugerðisvarða.

 

Gísli Sigurðsson nefnir holtið „Kirkjuhóll“ en líklega er það ekki rétt því heimamenn hafa jafnan talað um Kirkjuholtið. Heyrst hefur sú tilgáta um nafnið, að upp á holtinu hefði fyrst sést til kirkju (á Stóru-Vogum) þegar komið var Almenningsveginn niður í Voga fremur en að þar hafi fyrrum staðið kirkja. Ekki er vitað til þess að tilgátan hafi verið fest á prent. Á seinni tímum hafa einhverjir hugsað sér að sniðugt væri að reisa kirkju á Kirkjuholtinu, en það gæti varla talist sniðugt fyrir nálæga íbúa, sem hingað til hafa fengið að njóta holtsins. Þegar það er skoðað mætti ætla sneiðing götu í því norðanverðu. Ekki munu vera mannvistaleifar á holtinu.
Haldið var eftir gömlu götunni frá Vogum áleiðis að Kálfatjörn í gegnum Brunnastaðaland og m.a. skoðaðar minjar við Vatnsskersbúðir.
Í framhaldi af því var leitað upplýsinga hjá Símoni Kristjánssyni á Neðri-Brunnastöðum (f: 1916) um nokkra staði í Brunnastaðalandi og nágrenni þess að vestanverðu. Símon fæddist á Grund á Bieringstanga og þekkir vel staðhætti á svæðinu.

Bieringstangi

Grund – brunnur.

Þegar Bieringstangi var skoðaður í fylgd Magnúsar Ágústssonar í Halakoti og Hauks Aðalsteinssonar (móðir hans er fædd á Grund) var m.a. gengið að Vatnsskersbúðum, sem eru á ystu mörkum Brunnastaðalands í vestri.
Í örnefnalýsingu fyrir Brunnastaði segir m.a. um Vatnsskersbúðir: „Yst í Djúpaós er Dýpstiós. Nokkru innar er Vatnasker, þar upp af er Vatnsskersbúðir og Vatnsskersbúðarvör. Einnig Djúpavogsvör.” Í svæðaskráningarskýrslu fyrir Vatnsleysustrandarhrepp (2006) segir að „staðsetning minjanna hefur verið óljós enda hafa deilur verið innan sveitarfélagsins um staðsetningu þessara örnefna. Ása Árnadóttir kannaðist ekki við þessi örnefni, en gat þó aðstoð við að staðsetja örnefnin gróflega út frá staðsetningu annarra þekktra örnefna. Grýtt og víðfeðm fjara er á þessum slóðum og engin merki sjást um verbúð“.  Ágúst og Haukur bentu FERLIR hins vegar óhikað á gróinn tanga vestan Djúpavogs. Út frá honum eru mörkin, sem reyndar nú hafa fengist viðurkennd með dómi. Á tanganum er hlaðinn ferkantaður grunnur undan timburhúsi (Vatnsskersbúðum). Flóruð stétt sést við grunninn, auk annarra hleðslna. Ofan við rústirnar eru garðar, greinilegir þurrkgarðar. Í svæðaskráningarskýrslunni segir að „um 75 m ASA af Vatnsskersbúðum, eru mjög ógreinilega hleðsluleifar. Hleðslan er uppi á grónu lágu holti.

Umverfis er mosagróið hraun. Tvískipt tóft sem snýr norður-suður, og er alls 15 x 5 m á stærð. Að norðanverðu er stórt grjóthlaðið hólf. Op hefur verið á því syðst á vesturvegg.
Beint suður þessu hólfi eru ógreinilegar leifar af hleðslum, annars vegar er þar 2 m langur veggstubbur (norður-suður) og hins vegar, suður af honum, annar veggstubbur nokkuð lengri. Hann snýr austur-vestur og er um 5 m langur. Hleðsluhæð er mest 1 umfar, eða 0,2 metrar. Þessi ummerki eru fremur óljós en afar líklegt verður að telja að þarna séu leifar einhvers konar mannvirki, þó óljós séu þau.“
Norðan við hleðslur þessar eru leifar er virðast vera af hlöðnum brunni. Hlaðið hefur verið umhverfis stutta hraunsprungu og hefur verið gengið niður í innvolsið um eitt þrep. Hleðslan er að hluta til fallinn inn, en þó sjást þær enn vel umhverfis. Ferskt vatn streymir þarna undan klöppunum í fjörunni. Mannvirki þetta er í grasúfnu landi og því ekki auðvelt að koma auga á það. Magnús í Halakoti sagðist ekki hafa rekið augun í þetta mannvirki, en hann vissi til þess að þarna, a.m.k. á þessu svæði, hafi áður verið hænsnakofi.

Varða

Ragnar í Halakoti (f:1916) sagðist vera vel kunnugur þarna. Þetta hafi verið brunnur í lítilli hraunsprungu. Vatn hefði safnast saman í möldarlægð skammt ofar og þegar þar fylltist, einkum á vorin eftir snjóa, hafi vatn seitlast niður í sprunguna og fyllt brunninn. Hænsnakofinn hafi verið svo til alveg við Vatnsskersbúðirnar. Hann teldi þó sjálfu að nafnið hafi átt að vera Vatnskatlar því á klöppunum innan við búðirnar hafi við hringlaga katlar með mold og ýmsum gróðri, marglitum. Þessar tjarnir hafi jafnan fyllst af sílum.
Ofar liggur gamla kirkjugatan frá Vogum að Kálfatjörn. Enn sér móta fyrir henni. Vörður eru við götuna, bæði endurreistar og einnig fallnar og grónar.
Í örnefnaskrá segir að „tvær vörður eru í Djúpavogsheiði ofan við Bieringstanga og heitir önnur þeirra Kristmundarvarða, kennd við Kristmund Magnússon sem varð úti á heiðinni þar sem varðan er, svo til beint austur af svonefndum Voghól. Þessi atburður gerðist 1907 eða 1908 er verið var að smala fé.” (Sjá meira HÉR.)
Símon sagði þessa vörðu jafnan hafa verið mönnum kunn. Hún hafi verið nálægt gömlu kirkjugötunni, en fyrir nokkrum Kristmundarvarðaárum hafi Ragnar Ágústsson hlaðið hana upp.
Samkvæmt bestu vitund fróðra manna í Vogum er Kristmundarvarða ofan við Vorhús eða Grund, í lægð við hól einn með áberandi hundaþúfu. Um hana segir Sigurjón Sigurðsson frá Traðakoti í örnefnalýsingu; „Svo bar til, að haustið 1907 eða 1908 var farið í smölun í sveitinni. Einn af smölunum var unglingspiltur frá Goðhól hér í sveit, sem hét Kristmundur Magnússon. Það hafði verið mjög slæmt veður, suðaustan rok og mikil rigning (dimmviðri) og fór svo, að pilturinn týndist og fannst daginn eftir örendur á þeim stað sem Kristmundarvarða stendur nú.“ Sigurjón frá Traðakoti lýsir staðsetningu Kristmundarvörðu svo; „í suð-suðvestur frá Gilhólum (það eru tveir þúfuhólar suðaustur af Brunnastaðaafleggjara) er klapparhóll með þúfu á vesturendanum, heitir Boghóll. …. Í suður frá Boghól er hóll sunnan við þjóðveginn, …. Hóll þessi heitir Grænhóll. … Í norðvestur frá Grænhól er grjótvarða, sem heitir Halakotsvarða. Er hún ofan við veginn, sem notaður var sem þjóðvegur til 1912. Þar, nokkuð sunnar með veginum, er grjótvarða, sem heitir Kristmundarvarða.“
Vogshóll, sbr. framangreint, er líka til, inn á Bieringstanga, einnig nefndur Hvammsvogshóll.
HalakotsvarðaÖnnur varða væri við götuna og nefndist hún Töðugerðisvarða. Stendur hún heil á hól ofan við Töðugerði. Á milli hennar og annarrar endurhlaðinnar vörðu ofan við Grænuborgarrétt væru nokkrar fallnar og nú grónar.
Í örnefnalýsingu segir: „Hin varðan, Töðugerðisvarða eða Halakotsvarða stendur rétt ofan eða sunnan við Skipholt. Þar hjá er reiðgata sem notuð var sem þjóðbraut fram til 1912 og heitir Gamlivegur.”
Þá var Símon spurður um Gestsrétt og Skiparéttina, en í örnefnalýsingu segir að uppsátur sé rétt við fjöruna. “Svokölluð Skiparétt var fornt uppsátur í Skjaldarkotsfjöru, en Gestsrétt var ofan við Gestvör, einnig fornt uppsátur.”
Skiparétt er merkt inn á örnefnakort, rétt við sjávargarðinn.
Símon sagði mannvirki þessi nú vera komin undir kampinn. Fyllt hafi verið upp ofan við uppsátrið og varnargarður hlaðinn. Hann hafi sjálfur róið þaðan fyrsta sinni árið 1930 á Hafrenningi. Þá hafi vörin verið norðan við sjávarhúsin og réttin ofar. En nú væri þetta allt farið – eins og svo margt annað.
Haldið verður áfram að skoða nokkra minjastaði á Ströndinni.Heimild m.a.:
-Menningarminjar í Vatnsleysustrandarhreppi, Svæðisskráning – Sædís Gunnarsdóttir – 2006.
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – SG – 1995.
-Örnefnalýsingar.
-Árni Óla: Strönd og vogar.
-Mannlíf og mannvirki – Guðmundur B. Jónsson.
-Túnakort 1919.
-JÁM 1703.
-Símon Kristjánsson.
-Magnús Ágústsson.
-Ragnar Ágústsson.

Flekkuvík

Gengið var um Flekkuvík og nágrenni. Tilgangurinn var að skoða minjar, sem ekki höfðu verið skoðaðar í fyrri ferðum um svæðið. Þannig var t.a.m. ekki litið á Flekkuleiðið að þessu sinni, varirnar eða annað það er einnig gæti talist merkilegt í og við Flekkuvík.
Flekkuvík var Kálfatjarnarkirkjueign árið 1703. Árið 1379 átti kirkjan á Kálfatjörn þegar jarðirnar Bakka og Flekkuvík. Í bréfi frá 28.4.1479 segir m.a.: „Í þessu bréfi lýstir Arngerður Halldórsdóttir því yfir að Flekkuvík eigi þriðjung í hvalreka ásamt viðarreka og Vatnsleysa eigi tvo hluta í Flekkuvíkurreka sem og hvalreka.“ Jarðarinnar er getið í fógetareikningum árin 1553-48. Árið 1703 eru hjáleigur í Flekkuvík nefndar Sigurðarhjáleiga, Blíðheimur, Péturskot, Refshali og Úlfshjáleiga. “Þessar [hjáleigur] eru með vissu taldar. Vatnagarður syðst … og Tröð. Túnunum spillir sjáfarágángur merkilega, iteml vatnsrásir með leirágángi af vatni af landi ofan til stórskaða. Engjar eru öngvar. Útihagar lakir um sumar og enn þó minni um vetur.”
Tvíbýli var á jörðinni og var Vesturbær í eyði frá 1935, Austurbær frá 1959″skv. lýsingu GBJ í Mannlíf og mannvirki (343-347.) Einnig eru óljósar sagnir um tvö býli til, sem hétu Holt og Járnshaus. Jörðin er í eyði frá 1959.
Í örnefnalýsingu er minnst á Flekkuvíkurstekk. „Upp af Stekkjarvíkinni er Stekkjarmóinn, velgróinn og allstór um sig. Við austurjaðar hans, nokkurn spöl frá sjó, er Flekkuvíkurstekkur sunnan undir lágum hól, Stekkhólnum.”
Stekkjarvíkin (stundum talað um Stekkjarvíkur) eru vestan Flekkuvíkurtúna, sem afmörkuð eru með hlöðnum görðum.
Túnin voru minni þegar örnefnalýsingin var gerð, en voru síðar færð út og stækkuð, m.a. til vesturs. Stekkurinn, tvískiptur, er undir þessum lága hól. Hann er vel gróinn, en sjá má móta fyrir hleðslum í tóftunum. Annar stekkur, hlaðinn, einnig tvískiptur er skammt sunnan við suðvesturhorn túngarðsins. Hann er hlaðinn úr stórum steinum.
Á þessum slóðum eru m.a. heimild um skotbyrgi: “Um 200 m utar en Skottjörn og Skarfanes eru dálítið vik inn í kampinn. Það heitir Stekkjarvík. Norðan við hana er lítið, grasigróið klapparnef, Stekkjarnef. Sunnan undir því er grafin hola, hlaðin innan, Skothús. Lítið tóftarbrot er upp af Stekkjarnefi og gæti það verið af stekk.” segir í örnefnaskrá. Hér er önnur tilvísun í stekk þann er nefndur hefur verið Flekkuvíkurstekkur. Vel mótar enn fyrir gróinni tóftinni, skothúsinu, á Stekkjarnefi. Þegargengið er um Flekkuvíkurlandið má víða sjá hlaðin skotbyrgi, ýmist fyrir fuglaskotveiðimenn eða refaskyttur. Minjar þessar eru bæði gamlar og nýlegar, s.s. sú er er skammt ofan garðs, suðaustan við núverandi íbúðarhús.
Þarna er og Mógrafarhóll, örnefni; “Skammt utan við Stekkjarvíkina, rétt við kampinn er Mógrafarhóll. Þaðan út í Keilisnes (nesklett) er á að giska 500 m.” segir í örnefnaskrá. Enn vottar fyrir mógröfunum vestean við hólinn.

Víða ofan við þetta svæði má sjá hleðslur, einkum af fiskbyrgjum, en einnig af öðrum minjum; “u.þ.b. 300 metrum innan við Nesklett er hlaðin ílöng tóft ofan við kampinn. Þar var trjám flett með stórviðarsög.” segir í örnefnaskrá. Ofar og austar sjást enn myndarlegar hleðslur af fyrrum fiskbyrgjum. Sum hafa verið látin óáreitt, en öðrum hefur verið breytt í skotbyrgi.
Þegar FERLIR var þarna á ferð gullu við allnokkrir skothvellir. Menn við svartan bíl, er lagt hafði verið við fyrrum íbúðarhús í Flekkuvík, voru í óða önn að gera sér, þessa yndisfögru sumarnótt, að leik að skjóta á mófuglana. Þegar að var komið kom í ljós að þetta voru tveir ungir menn. Þeir höfðu verið að leika sér með 22 cal. riffil, göngufólki á svæðinu til skelfingar. Nú var það spurningin:; átti að hringja í 112 og boða óttarslegna lögreglumenn í umferðareftirliti á vettvang? Refsing við slíkum brotum er að jafnaði, eftir mikla fyrirhöfn (útkall, skýrslugerð, leitir að kærðum, frekari skýrslugerð, meðferð lögfræðinga, ákæru eða sektargerð saksóknara, eftirfylgju, leit að greiðendum, samkomulagi um greiðslu o.fl.) tiltölulega væg, sekt og upptaka skotvopna. Þar sem FERLIRsfélagar voru þrír á móti tveimur – og auk þess hundur er gæti mögulega verið grimmur (væri haldið aftur að fleðurlátunum í honum). Einn þeirra, orðfár, greip skotvopnið af öðrum mannanna, rak það óvart í annað að aðalljóskerið á bílnum svo það brotnaði og síðan skeftið utan í húshornið. Það brotnaði auðvitað, öllum öðrum að óvörum við það sama, og járndótið, sem eftir var, hrundi niður. Úps, svona gerast slysin. Mennirnir gætu þó alltaf kært slysið til lögreglu, ef þeir kærðu sig um. Ljóskerið kostar jú sitt og byssan er jú ónýt eftir og verður ekki notuð aftur.

Eitt af því sem er einkennandi fyrir Flekkuvík eru örnefni tengd álfum og huldufólki. Í lýsingu segir t.d.: “Í Vesturbæjartúni, skammt til útnorðurs frá bænum, er stór hóll, en ekki hár. Hann heitir Álfhóll. Þar var börnum bannað að vera að leikjum.” Hóll þessi er rétt til hliðar við aðra hólasamstæðu, gróin og lætur lítið yfir sér. Í honum má sjá klöpp. Nýlegt vatnsstæði er sunnan hans og gamlar hleðslur vestar.
Þá er huldufólksbústaðar getið í Kirkjuhólum. “Skammt utan gamla traðarhliðsins er grunnt vatnsstæði, kallað Vatnshellur, vatnsból ofan í klappir. Þar til vesturs, um 200 m frá túngarði, eru þrír strýtuhólar, kallaðir Kirkjuhólar. Þeir eru í stefnu rétt vestan við opna tröðina. Það var trú fólks, að í Kirkjuhólum væri álfabyggð og þar var betra að fara með gát.” Hólarnir eru vestan við reglulega strýtumyndaða hóla er raða sér austan þeirra til suðurs. Austasti hóllinn er ágætlega „kirkjuhugmyndamótandi“.
“Nokkru vestar en Kirkjuhólar og nær túngarði er stór strýtuhóll, kallaður Síðdegishóll“, en Síðdegishóll mun vera seinni tíma nafn. Arnarvarða er sögð vera röskan kílómetrar í suðvestur frá Hádegishólum. Hún sést ágætlega frá Kirkjuhólum.
Brunnar og vatnsstæði eru nokkur við Flekkuvík. Fjallað er um Austurbæjarbrunn (Brunninn), Flekkuvíkurbrunn og fyrrgreindar Vatnshellur, auk nýlegs vatnstæðis sunnan Álfhóls, sem áður var lýst.
“Nú liggur vegur heim Austurbæjartúnið og vestan við hann er Brunnurinn eða Flekkuvíkurbrunnur. … Austurbæjarbrunn er víst og óhætt að kalla Brunninn.” segir í örnefnaskrá. Brunnurinn er í túninu sunnan við gömlu heimreiðinna, sem allnokkru austan núverandi vegar að Flekkuvikurbæjunum. Hann er hlaðinn, ekki djúpur, en fallegur á að líta. Hann hefur verið látinn ósnortinn.
Hinn hlaðni brunnurinn við Flekkuvík er norðan húsanna. Brunnstígur liggur frá þeim að brunninum. Girt hefur verið í kringum hann til að forða slysum, en girðingin er fallin. Brunnurinn er hlaðinn niður, ennig hinn fallegasti. Líklegast er hér um að ræða svonefndan Vesturbæjarbrunn, sem getið er um í örnefnalýsingum.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 er getið um Sigurðarhjáleigu, hjáleigu í byggð. “Þessar [hjáleigur] eru með vissu taldar. Vatnagarður syðst, og Refshali innst. Þá var Sigurðarhjáleiga, Blíðheimar, Péturskot, Úlfshjáleiga og Tröð. … Við enda Traðanna var kotið Tröð.” segir og í örnefnaskrá. Hér er innig getið um sex aðrar hjáleigur í Flekkuvíkurlandi, sem verður að teljast vel í lagt miðað við gróin svæði á jörðinni. Að öllum líkindum hafa hér verið um kotbýli útvegsbænda að ræða, er byggt hafa lífsafkomu sína að langmestu leyti á sjávarfangi. Sjórinn hefur, líkt og annar staðar, rifið þarna smám saman af ströndinni og tekið til sín allmargar minjar, sem áður voru þekktar á þessu svæði.
Kotbýlið Refshali er eitt hið forvitnilegasta á svæðinu. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: “Refshale hefur í eyði legið fjögur ár … Nú er hjáleigan eyðilögð fyrir sands og sjáfar ágángi og leirfljóð af landi ofan, en grasnautnarleifar brúkar heimabóndinn og þykist ei að skaðlausu afleggja megia.”
“Austurbæjartún liggur í boga meðfram víkinni og mjókkar eftir því sem austar dregur. Þar í túnkróknum var býli, er Refshali hét, fór í eyði um eða laust fyrir 1920. Í seinni tíð var býlið alltaf nefnt Refshali en hefur sennilega upphaflega heitið Rifshali.” segir í örnefnaskrá GE. “Þessar [hjáleigur] eru með vissu taldar. Vatnagarður syðst, og Refshali innst. Þá var Sigurðarhjáleiga, Blíðheimar, Péturskot, Úlfshjáleiga og Tröð. … Við enda Traðanna var kotið Tröð.” segir í örnefnaskrá. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir að Rifshali hafi farið í eyði um 1922-23.
Þá er og forvitnilegt að grennslast fyrir um svonefnda Úlfarshjáleigu, sem getið er um í Flekkuvíkurlandi. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: “Ulfuhjáleiga hefur fyrir meir en tuttugu árum tóft hús verið, og nú um lánga stundir í auðn. … Kynni aftur að byggjast, en nokkur þyrði að ráða.” Í Vesturbæjartúni er Fjóshóll og enn er þar hóll nefnist Úlfshóll. Þar mun Úlfshjáleiga hafa staðið, en lengi var þar álfabyggð mikil.” segir í örnefnaskrá. Þarna er líklega átt við hinar miklu hleðslur á og við hólaþyrpinguna vestan við Álfhól.
Þá var gengið upp eftir Stekkjarmóa, áleiðis að Borgarkotsstekk, Mundastekk og Heimristekk, en þeirra allra er getið í örnefnalýsingum. Á leiðinni var gengið yfir hina gömlu Alfaraleið, eða Almenningsleið (Menningsleið) er lá fyrrum um Vatnsleysuströnd millum Innnesja og Útnesja.

Almenningavegurinn er elsta sjáanlega samgönguleiðin um hreppinn og liggur hún víðast hvar tiltölulega stutt frá byggðinni en þó yfirleitt ofan við Gamla-Keflavíkurveginn allt að Hvassahraunslandi, einnig fyrir ofan Reykjanesbrautina. … „Þetta nafn, Almenningsvegur, virðist helst (eða eingöngu) hafa verið notað af Voga- og Vatnsleysustrandarbúum því þar sem vegurinn liggur um Hvassahraunsland og innar var hann kallaður Alfaraleiðin.”
“Önnur gömul þjóðleið, eða sú sem liggur með sjónum milli Voga og Brunnastaðahverfis, var einnig kölluð Alfaraleið en ekki Almenningsvegur.” segir í örnefnalýsingu Straums. “Þá liggur hér vestur um hraunið Alfaraleiðin í miklum djúpum lægðum, sem nefnast Draugadalir.” segir í örnefnalýsingu Hvassahrauns. Draugadalir eru að mestu í landi Hvassahrauns. Dalirnir eru norðan Reykjanesbrautar, þar sem vegurinn sem er samsíða Reykjanesbraut norðan hennar sameinast brautinni, austarlega í landi Hvassahrauns. Ekki er greinilegur slóði á þessum stað en Alfaraleiðin er vel merkjanleg víða í hrauninu, t.d. nálægt skógarreit í landi Þorbjarnarstaða. Gatan liggur um hraun. Almenningsvegurinn var einnig nefndur Alfararleið og lá frá Vogum og inn í Hafnarfjörð. Leiðin var vörðuð og enn má sjá nokkur vörðubrot á fyrsta hluta leiðarinnar frá Vogum auk þess sem einstaka vörður standa enn við leiðina. Gatan sjálf er víða greinileg sem dæld í gróið hraunið og kemur breikkun Reykjanesbrautar víða til með að eyða meira af götunni en þegar er skemmt. Sunnan við Vatnsleysubæina liggur Almenningsvegurinn ofan nýrri vegar og er Eiríksvegur þar við. Almenningsleiðin sést vel þar sem hún líður um móann. Suðvestan við Vatnsleysubæina fer Almenningsleiðin norður fyrir veginn og liðast síðan þar um holtin, sunnan og framhjá Stefánsvörðu og áfram til vesturs. Gatan er sérstaklega áberandi sunnan Stóru-Vatnslesyu og síðan sunnan Flekkuvíkur þar sem hún hefur fengið að vera óáreitt.
MundastekkurBorgarkotsstekkur er norðan Almenningsleiðarinnar. “Tveir hólar skammt fyrir neðan [við] vörðuna [Stefánsvörðu], annar til vesturs hinn til norðurs, kallast Stefánsvörðuhólar. Norðan undir þeim nyrðri (hann kallast einnig Stekkhóll) er Borgarkotsstekkur.” segir í örnefnaskrá. Stekkurinn er reyndar nokkuð norðnorðvestan hólsins, í gróinni lægð, sem sést vel frá hólnum. Þetta er gróinn stekkur, tvískiptur. Í honum sést móta fyrir hleðslum. Lægðin, sem geymir Borgarkotsstekk, er einungis í nokkurra mínútna fjarlægð frá Stefánsvörðu.
Og þá er það Mundastekkur. Hann er ofan (sunnan) Almenningsleiðar, en fast norðan nýrrar reiðleiðar, sem lögð hefur verið sunnan núverandi þjóðvegar. “… og vestan undir honum [Strandaveginum] er Mundastekkur, sem líklega var frá Flekkuvík,” segir í Örnefnum og gönguleiðum (SG). Stekkur þessi er einnig nokkuð gróin, suðvestan við hólinn, einnig tvískiptur.
Heimristekkur var svolítið erfiðari viðfangs, einkum vegna óljósra staðsetninga. “Til suður frá Stefánsvörðu og nokkuð frá veginum er allhár hóll og brattur til norðurs. Hann heitir Grjóthól… Til suðvesturs frá Grjóthól og nær veginum er Heimristekkur, vestan undir Heimri-Stekkhól. Heimristekkur er um 200 m til austurs frá steinkofa þeim, sem stendur við veginn heim að Bakka.” segir í örnefnaskrá. Í Örnefnum og gönguleiðum (SG) segir: “Nú förum við aftur niður á Strandaveg fyrir neðan Hæðina um 200 m austan við afleggjarann að Bakka og Litlabæ er Heimristekkur austan undir Heimristekkhól.”
Fyrir leikmann hefði eflaust tekið nokkra daga að leita að og finna stekkinn eftir framangreindum lýsingum, en fyrir þjálfað auga FERLIRsþátttakanda tók það einungis 16,6 mínútur. Heimristekkur er vel gróinn sunnan undir austanverðum hólnum. Hann virðist tvískiptur líkt og aðrir stekkir á svæðinu. Stekksins er getið í örnefnalýsingu fyrir Kálfatjarnarhverfi og gæti því verið frá einhverjum þeirra bæja eða kota, sem þar voru (sjá aðra FERLIRslýsingu um Kálfatjarnarhverfið undir leiðsögn Ólafs Erlendssonar).
Frábært veður – bjart og hlýtt. Gengið var undir mófuglasöng þar sem viðlagið var lóukvak.

Heimildir m.a.:
-Menningarminjar í Vatnsleysustrandarhreppi, Svæðisskráning – Sædís Gunnarsdóttir – 2006.
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – SG – 1995.
-Örnefnalýsingar.
-Árni Óla: Strönd og vogar.
-Mannlíf og mannvirki – Guðmundur B. Jónsson.
-Túnakort 1919.
-JÁM 1703.

Fjaran