Tag Archive for: Vogar

Skógfellavegur

Gengið var um Skógfellaveg frá Vogum til Grindavíkur. Þessi gamla þjóðleið milli byggðalaganna var einnig nefnd Vogavegur.

Skógfellavegur

Skógfellavegur – skilti.

Skógfellavegur er hluti gömlu þjóðleiðarinnar til Grindavíkur frá Hafnarfirði og dregur nafn sitt af tveimur fellum, sem hann liggur framhjá að austanverðu, Litla- og Stóra-Skógfelli. Þau eru við götuna um miðja vegu til Grindavíkur. Nafn götunnar hefur breyst í tímans rás því áður hét hluti hennar Sandakravegur. Sumir telja það þann hluta leiðar, sem liggur frá Stapahorni og langleiðina að Stóra- Skógfelli, en þar eru vegamót. Aðrir telja Sandakraveginn hafa legið með Fagradalsfjalli með Görninni og Kastinu um Nauthólaflatir skammt vestan Dalsels og þaðan um sléttar sandflatir niður í Mosa um Grindavíkurgjá og á Skógfellaveginn skammt ofan við Brandsgjá. Þannig er leiðin sýnd á kortum eftir aldamótin 1900.
Gangan inn á Skjógfellaveginn hófst við skilti skammt ofan Reykjanesbrautar, skammt austan við Háabjalla. Bílastæði eru skammt austan við skiltið. Gatan er nokkuð óljós framan af og vörður fáar og ógreinilegar. Leiðin hefur nú verið stikuð að Litla-Skógfelli af áhugagönguhópi á Suðurnesjum.

Skógfellavegur

Skógfellavegur.

Skammt sunnan við Reykjanesbrautina er gengið fram á sprungu sem heitir Hrafnagjá. Þarna við Skógfellaveginn lætur hún lítið yfir sér en þegar austar dregur er hún mjög falleg og tilkomumikil og þar er gjábarmurinn hæstur og snýr á móti suðri. Í gjárveggnum er hrafnslaupyr. Hrafnagjá nær alla leið niður á túnið á Stóru-Vatnsleysu. Þar í er svonefnt Magnúsarsæti með áletrunum. Þegar götunni er fylgt áfram er komið að nokkuð löngu grágrýtisholti, Nýjaselsbjalla, og liggur gatan yfir austurhluta þess. Skammt austan götunnar, áður en komið er upp á bjallann, eru litlar seltóftir, Nýjasel, undir lágum hamri sem snýr til norðurs og dregur bjallinn nafn af selinu.
Nokkrar gjár eru á leiðinni, auðveldar yfirferðar og snúa hamraveggir þeirra allra til norðurs.
Fyrsta gjáin sem eitthvað kveður að er Huldugjá en þar sem gatan liggur yfir gjána er sagt að Huldugjárvarða hafi staðið. Þarna liggur vel mörkuð leiðin nálægt austurjaðri Skógfellahraunsins.

Skógfellavegur

Varða við Skógfellaveg.

Áhugavert er að gera smá lykkju á leiðina austur með gjánni og skoða Pétursborg sem stendur á barmi Huldugjár. Fjárborgin stendur nokkurn spöl austan vegarins yfir gjána. Pétursborg er gamalt sauðabyrgi frá Tumakoti í Vogum nefnt eftir Pétri Andréssyni bónda þar (1839-1904) en hann er sagður hafa hlaðið borgina. Við Pétursborg að austanverðu eru tvær gamlar fjárhústóftir og ein nokkuð nýrri aðeins ofar.
Á milli Huldugjár og næstu gjár sem heitir Litla-Aragjá er gatan nokkuð óljós á kafla en hefur verið stikuð en gatan er skýrari þar sem hún liggur yfir Aragjána. Þar er tæpt til beggja handa en stór varða stendur á efri gjábarminum. Þegar líður á verður gatan greinilegri og næsta gjá á leiðinni sem eitthvað kveður að er Stóra-Aragjá. Grjótfylling og hleðsla er í Stóru-Aragjá þar sem leiðin liggur yfir hana og þar er varða sem heitir Aragjárvarða en gjáin þarna við vörðuna heitir Brandsgjá.

Brandsgjá

Brandsgjá við Skógfellastíg.

Eftirfarandi er frásögn um atvik sem henti á þessum stað: Á jólaföstu árið 1911 var Brandur Guðmundsson bóndi á Ísólfsskála (1862-1955) á leið heim úr Hafnarfirði og dró sú ferð dilk á eftir sér. Hann lagði á Skógfellaveginn og ætlaði síðan inn á Sandakraveginn og niður að Ísólfsskála. Veður versnaði er leið á daginn og lenti Brandur í umbrotafærð suður heiðina. Allt í einu gaf fönn sig undan hestinum og þeir hrösuðu ofan í Stóru-Aragjá. Þarna hafði Brandur leitt hestana utan við klifið og svo fór að bæði hrossin þurfti að aflífa á staðnum. Síðan heitir þarna Brandsgjá. Brand kól mikið á fótum og var á Keflavíkurspítala í nokkra mánuði eftir slysið.
Þegar komið er upp fyrir Stóru-Aragjá tekur fljótlega við helluhraun sem nær langleiðina að Litla-Skógfelli og er vegurinn vel varðaður á þessum slóðum. Á fyrsta spottanum þarna er gatan mjög djúp því grjóti hefur verið rutt úr henni í miklum mæli en þegar ofar kemur taka við sléttar klappir markaðar djúpum hófförum.

SkógfellavegurÁ hægri hönd eru Krókar, hraunhólar með kjarri í dældum, en á vinstri hönd, spöl sunnar, er Nyrðri-Mosadalagjá. Gjáin snýr bergvegg til suðausturs og þess vegna er erfitt að greina hana frá götunni. Milli hennar og Syðri-Mosadalagjár (með bergvegg til norðvesturs) er víðáttumikill misgengisdalur, þakinn mosa, og heitir sá Mosdalir eða Mosadalir. Við austurrætur Litla-Skógfells þarf að klöngrast yfir smá haft af grónu apalhrauni þar sem gatan liggur en þegar yfir það er komið liðast hún „milli hrauns og hlíðar” um skriðugrjót og grasteyginga. Skógfellin bera ekki nöfnin með réttu í dag því þau eru að mestu gróðurlaus.
Fyrir neðan og austan Litla-Skógfell er þó dálítið kjarr, bæði birkihríslur og víðir, og sjálfsagt hefur svæðið allt verið viði vaxið endur fyrir löngu. Við Litla-Skógfell endar Vatnsleysustrandarhreppur og Grindavíkurhreppur tekur við.
SkógfellavegurFrá hlíðum Litla-Skógfells er gaman að horfa á „vörðuskóginn” framundan en á milli Skógfellanna er einkennasnauð hraunbreiða sem auðvelt væri að villast um ef ekki væru vörðurnar. Þarna standa þær þétt saman eins og menn á mosagrónu taflborði og gatan er djúpt mörkuð af þúsundum járnaðra hesthófa.
Þegar komið er langleiðina að Stóra-Skógfelli greinist Sandakravegurinn út úr til suðausturs yfir hraunið og að Sandhól. Til gamans geta göngumenn leikið sér að því að telja vörðurnar frá Litla-Skógfelli að gatnamótunum en þær eru 22. Sandakravegurinn þarna yfir er fallegur, djúpmarkaður og skoðunarverður.
Vestan við Stóra-Skógfell er Gíghæðin og er stutt ganga frá fellinu yfir í gígana og þaðan yfir á Grindavíkurveginn. Í austri blasir Fagradalsfjallið við með sína fylgifiska s.s. Sandhól og Kastið.

Reykjanes

Reykjanes – Skógfellavegur – kort ÓSÁ.

Sunnan Stóra-Skógfells liggur vegurinn austan undir fallegri gígaröð, Sundhnúksgígum, sem er um 8 km löng og áfram að Sundhnúk sem er aðal gígurinn og stendur hann norðan við Hagafell. Gatan er slétt og sendin á kafla. Heitir þar Sprengisandur. Þegar komið er framhjá Hagafelli, þar sem í eru Gálgaklettar, að austanverðu fer að halla undan til Grindavíkur og spöl neðar greinst leiðin til „allra átta” um gamalgróið hraun niður til bæja. Í Gálgaklettum eru þeir þjófar sagðir hengdir, sem handamaðir voru á Baðsvöllum, en höfðu hafst við í Þjófgjá í Þorbjarnarfelli og herjað á Grindvíkinga.
Frábært veður. Gangan tók 6 klst og 6 mín.

Byggt m.a. á lýsingu Rannveigar Lilju Garðarsdóttur.

Heimild:
-Sesselja G. Guðmundsdóttir, Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi. Útg. 1995.

Skógfellavegur

Skógfellavegur – Litla-Skógfell framundan.

Stapagata

Gengið var um Stapagötu frá Reiðskarði við Vogavík og eftir Stapanum yfir að Stapakoti í Njarðvíkum.

Ferlir

FERLIRsfélagar á göngu um Almenningsveginn á Vatnsleysuströnd.

Gamla þjóðleiðin yfir Vogastapa til Njarðvíkur er framhald gömlu þjóðleiðarinnar (Almenningsvegarins, eða Menningsvegar, eins og gárungarnir kölluða hann eftir misritun). Alfaravegurinn (-leiðin) liggur frá Hafnarfirði og suður að Kúagerði þar sem Almenningsvegurinn tekur við. Hann liðast síðan um Vatnsleysustrandarhrepp að Vogastapa. Umferð um Stapagötuna hætti að mestu um 1912 þegar bílvegur var lagður til Keflavíkur. Árið eftir var hafist handa við gerð vegar frá Vogastapa til Grindavíkur. Þangað náði vegurinn fullgeðrur árið 1918. Við þann veg má sjá miklar minjar eftir vegagerðarmennina.

Stapinn

Stapadraugurinn.

Vogar eru bæði fallegt og snyrtilegt sjávarþorp. Þaðan var gengið suður að Stapanum. Þegar komið er að hlíð hans er gengið í átt að sjónum og þar má sjá merkið „Stapagata.”
Gatan liggur upp hlíðina um skarð sem heitir Reiðskarð en þar er hún hlaðin upp að hluta og er ytri vegkanturinn nokkuð hár og hleðslan þar bæði falleg og heilleg. Þegar gengið er upp gömlu götuna má sjá enn eldri götu á hægri hönd, sem kastað hefur verið duglega upp úr. Hæsti hluti Stapans austan Reiðskarðs heitir Fálkaþúfa en suður af þúfunni eru Lyngbrekkur. Þarna við gerðist m.a. saga sú, sem jafnan var sögð á Vatnsleysuströnd um fylgdarkonuna (huldukonuna þokumkenndu) í Skarðinu (sjá aðra FERLIRslýsingu).

Reiðskarð

Reiðskarð.

Reiðskarð er fyrsta skarðið af fjórum á austurhluta Stapans. Hin eru Kvennagönguskarð, Brekkuskarð og Urðarskarð í þessari röð til vesturs. Upp úr Reiðskarði er gatan djúp og sendin með miklum grjótruðningum til beggja handa. Í skarðinu vex töluvert af Gullkolli en það er sjaldgæf jurt á þessu svæði. Landið hækkar örlítið þegar komið er upp á Stapann. Þaðan lá gata til hægri, niður að bænum Brekku. Eftir stutta göngu sjást miklar grjóthleðslur á milli götunnar og Gamla-Keflavíkurvegarins. Þar var svonefndur „hreppsgarður,“ einn af þremur slíkum í Vatnsleysustrandarhreppi á seinni hluta 19.aldar. Við gerð þeirra og umhirðu var unnið í einskonar atvinnubótavinnu og einnig greiddu menn skuldir til hreppssjóðs með vinnu í görðunum. Sáralítill jarðvegur er nú innan hleðslanna. Garðurinn snýr mót suðri og liggur utan í löngum hjalla sem kallaður er Kálgarðsbjalli.

Stapagata

Stapagata ofan Reiðskarðs.

Nokkurn spöl vestar gengur Skollanef í sjó fram og vestan þess er Gilið, grasi gróið frá fjörugrjóti og upp á brún. Þegar komið er út fyrir Gilið fer landið hækkandi upp á Grímshól sem er hæsti hluti Stapans (74m) og þar er útsýnisskífa. Af Grímshól er gott útsýni yfir Faxaflóa og fjöllin í kring. Neðan Grímshóls gengur klettanef í sjó fram sem heitir Hólnef. Þjóðsaga er til um Grím nokkurn af Rangárvöllum sem réði sig í skipsrúm til huldumanns á þessum slóðum og varð að lokum bergnuminn í Grímshól. Mölvík er rétt vestan við Hólnefið, lítil bogmynduð malarfjara. Í víkinni vex gróskumikil hvönn.
Nú lækkar landið vestur af Grímshól og hér liggur gatan rétt sjávarmegin við Gamla-Keflavíkurveginn. Á móts við þar sem akvegurinn liggur yfir götuna eru landamörk Vatnsleysustrandahrepps og Reykjanesbæjar í viki sem gengur inn í Stapann og er ýmist nefnt Grynnri-Skor eða Innri-Skor.

Stapagata

Stapagata nær Njarðvík.

Þegar komið er nokkuð vestur fyrir Grynnri-Skor er landið aflíðandi til vesturs og gaman að skreppa út af götunni og ganga með bjargbrúninni en fara þarf varlega. Gróðurinn er mjög fjölbreytilegur á þessu svæði. Næst verður Dýpri-Skor eða Ytri-Skor á vegi okkar en þar var áður ruslahaugar Suðurnesja og sjást því miður enn skýr merki um þá. Rétt vestan við Ytri-Skor standa leifar af fiskihjöllum og liggur gatan um það svæði. Grænaborg heitir stór gömul og grasigróin fjárborg hér rétt við Gamla-Keflavíkurveginn og austan hesthúsahverfis Njarðvíkinga. Bærinn, sem stendur næst Stapanum af húsunum í Innri-Njarðvík, heitir Stapakot og þar við túnfótinn lýkur göngunni.
Ekki má gleyma Stapadraugnum, sem margar sagnir eru til um, enda mun hann oft hafa sést á gamla veginum um Stapann þars em hann stóð með höfuðið undir handleggnum.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Byggt m.a. á frásögn Rannveigar L. Garðarsdóttur.

Heimild:
-Sesselja G. Guðmundsdóttir, Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi. Útg. 1995.

Stapagata

Stapagata.

Strandarheiði

Ofan Arnarvörðu í Strandarheiði (Flekkuvíkurheiði) eru Miðmundahólar og ofan þeirra Miðmundalágar. „Hólarnir eru ekki eyktarmark frá Flekkuvík sem mætti ætla við fyrstu sýn né heldur eyktarmark frá öðrum bæjum í grennd að því er virðist.
TóftÍ Orðabók Menningarsjóðs segir að í fornu og úreltu máli geti miðmunda (ao.) þýtt „mitt á milli es!, og á jafnt við um tíma og vegalengdir, þannig að hólarnir gætu staðið miðja vegu á milli einhverra staða“.
Þegar umhverfið var skoðað mátti ganga að Miðmundastekk vísum undir Þrívörðuhól. Ofar liggur Almenningsvegurinn. Skammt ofan hans, vestan (sunnan) Arnarvörðu er varða á klapparholti. Þarna hefur að öllum líkindum  verið um landamerkjavörðu að ræða. Vörðufóturinn hefur verið stór (er heillegur), en úr vörðunni hefur verið búin til refagildra, sem síðan hefur verið aflöguð. Gangurinn sést vel og fallhellan er við leifarnar. Líklegt er að þarna séu mörk Flekkuvíkur og Kálfatjarnar. Mitt á milli þessarar vörðu og annarrar austar  (norðar) er önnur eins. Vörðufóturinn er eins og hinn, en grjót hefur verið tekið úr vörðunni, væntanlega í Eiríksveginn, sem er skammt frá. Þarna eru líklega mörk Flekkuvíkur og Kálfatjarnar. Flekkuvíkurselsstígurinn liggur upp heiðina rétt sunnan við vörðuna. Miðmundahólar gætu því hafa tekið nafn af því að vera miðsvæðis í miðju Flekkuvíkurlandi.

Varða

Önnur gata liggur af Almenningsveginum skammt ofar, áleiðis niður í Flekkuvík. Henni var fylgt langleiðina niður að bæ. Ofanvert er gatan mjög greinileg, en verður óljósari er nær dregur bæjum. Varða, gróin, er á hól á miðri leið. Gatan liggur austan við hólinn og sameinast Flekkuvíkurselsstígnum skammt neðar.
Þegar Miðmundahólar voru skoðaðir sást falleg gróin tóft sunnan undir hólunum. Hún hefur verið ca. 120 x 480 cm með op mót suðri, að Miðmundalágum, sem væntanlega hefur verið nátthagi. Þessi tóft gæti verið smalaskáli og tengst Miðmundastekk skammt norðar í heiðinni.
Lágarnar eru grasi vaxnar og ljóst að þarna hefur verið allgóð beit fyrrum.
Spóinn lék fluglistir sem mest hann lét, rjúpan flaug á millum með allan ungaskarann og krækiberin sáust stækka.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.
Í Miðmundalágum

Kúagerði 1912

„Fyrir botni Vatnsleysuvíkur, þar sem hraðbrautin nálgast sjóinn á stuttum kafla er Kúagerði. Að vestan eru hraun Strandarheiðarinnar, en að austan er Afstapahraunið, úfið og illt yfirferðar, enda miklu yngra að árum. Þarna fyrir víkurbotni er ferskt vatn, sem kemur úr lindum undan hrauninu. Þessi staður var þreyttum og vegmóðum ferðamönnum Í Flekkuvíkkærkominn áningarstaður, því vatnið úr uppsprettunum var þeim svalandi og lífgandi, eftir að hafa klöngrast yfir óslétt og úfið hraunið á langri leið milli byggðanna við Flóann, því þá voru ekki önnur farartæki tiltæk en hesturinn eða “hestar postulanna”.
Við yfirgefum bílinn í Kúagerði, því ætlunin er í þetta sinn að ganga út Vatnsleysuströndina út á Keilisnes og enda við kirkjuna að Kálfatjörn. Fyrst göngum við fram hjá Vatnsleysubæjunum. Þar hefur alltaf verið búið stórt, margar hjáleigur lágu undir höfuðbólið og mikil umsvif. Nú er á Minni-Vatnsleysu eitt stærsta og myndarlegasta svínabú landsins í eigu Þorvaldar Guðmundssonar. Glæsilegar byggingar og öll umgengni þar heima ber eiganda glöggt vitni.
Nokkru fyrir vestan Vatnsleysubæina ber okkur að Flekkuvík, Þetta er landnámsjörð, kennd við konu að nafni Flekka. Sagan segir að hún hafi komið til Íslands í fylgdarliði Ingólfs Arnarsonar. Fyrst fékk hann henni land í Kjós og reisti hún þar bæ, sem hún nefndi Flekkudal. Flekka undi sér þar ekki, því hún sá ekki til hafs frá bænum og eftir að hafa rætt þetta við Ingólf gaf hann henni þessa jörð. Í Flekkuvík bjó svo kerla til elli. Sagan segir, að er hún fann dauðann nálgast hafi hún lagt svo fyrir að sig skyldi grafa syðst í túninu, þar sem sést vel yfir innsiglinguna. Hún mælti þá svo um, að engum skyldi þaðan í frá hlekkjast á í innsiglingunni, tæki hann rétt mið af leiði sínu og færi eftir settum reglum. Þótti mönnum vissara að fara eftir fyrirmælum kerlingar, enda segir sagan að fá slys hafi hent í lendingunni undan Flekkuvík. Steinn er á Flekkuleiði og hefur þessi setning verið letruð á hann með rúnaletri: Hér hvílir Flekka. Telja fróðir menn, að þessi áletrun sé frá 17. eða 18. öld. Jónas Hallgrímsson skáld rannsakaði leiðið sumarið 1841. Gróf hann í það.
Rúnasteinn á FlekkuleiðiReyndist jarðvegurinn vera um það bil hálft fet á þykkt. En “undir var einlæg, jarðföst klöpp, eða réttara sagt hraungarður, svo að þar hefur aldrei nokkur maður heygður verið” segir orðrétt i skýrslu Jónasar um þessa ferð. Þannig fór það.  Auk þeirra minja sem minna á fortíðina er margt annað forvitnilegt að skoða á þessari gönguleið. Unnt er að dunda sér langtímum saman í fjöruborðinu. Þar er ýmislegt skoðunarvert að sjá s.s. trjáreka, glerflöskur, þang, pöddur og skorkvikindi ýmiskonar og ekki má gleyma selunum, sem svamla í sjónum skammt undan landi og skjóta upp kolli yfir vatnsflötinn við og við til að fylgjast með þessum óvæntu gestum. Allt er þetta umhugsunarefni fyrir ungan og spurulan göngumann,sem ef til vill er að kynnast landi sínu á þennan hátt í fyrsta sinn.
Næst liggur leiðin út á Keilisnes, en þar skagar landið lengst í norður milli Vatnsleysuvíkur og Stakksfjarðar. Líklega er þetta örnefni kunnugra fleiri mönnum en nokkur önnur slík hér um slóðir. Ástæðan er sú, að það kemur fyrir í kvæði Arnar Arnarssonar um Stjána bláa, en þar segir m.a.:

KálfatjarnarkirkjaSöng í reipum, sauð á keipum,
sá í grænan vegg til hlés.
Stjáni blái strengdi klóna,
stýrði fyrir Keilisnes.

Nú sést knörrinn ekki lengur, en efalaust leitar kvæðið á hugann, þegar gengið er um þessar slóðir, og hendingar úr því leita fram á varirnar. Nokkur spölur er frá Keilisnesi að Kálfatjörn. Kirkja hefur verið á Kálfatjörn frá öndverðu. Í kaþólskum sið var hún helguð Pétri postula. Þá var hún vel auðug, átti dýrgripi og lönd, en eftir siðaskiptin breyttist
hagur hennar eins og annarra eigna sem kirkjurnar áttu. Af því er mikil saga, sem ekki eru tök á að rekja hér. Þessi kirkja sem nú stendur var byggð rétt fyrir aldamótin 1900. Hún er hið fegursta guðshús og vel við haldið. Er því við hæfi að fá leyfi til að skoða hana nánar og enda þar með þessa fróðlegu gönguferð.“

Heimild:
-Mbl. 19. júlí 1981.

Bláfang

Almenningsvegur

„Vogar og Vatnsleysuströnd eiga sér merka sögu útvegsbúskapar og er hér fjársjóður minja um búsetu og horfna atvinnuhætti.
Skráning þessara minja er mjög skammt á veg komin og lítið um aðgengilegar upplýsingar. Nú er mikið byggt í Vogum og hætta á að merkar minjar fari forgörðum – og það hefur þegar gerst. Arkitektar og verktakar vita lítið Ásláksstaðastekkurum sögu þess lands sem þeir leggja undir mannvirki. Nú er vakning víða um land til að varðveita sýnilegar minjar um líf og störf forfeðranna, en sveitarstjórnin hér hefur sofið á verðinum. Í 9. grein fornleifalaga sem tóku gildi 2001 segir: Minjar 100 ára og eldri teljast til fornleifa, en heimilt er þó að friðlýsa yngri minjar. Í sömu grein laganna er skilgreint hvað eru fornminjar. Þar segir m.a. Til fornleifa teljast hvers kyns leifar fornra mannvirkja og annarra staðbundinna minja sem menn hafa gert eða mannaverk eru á, svo sem: búsetulandslag, byggðaleifar, bæjarstæði og bæjarleifar ásamt tilheyrandi mannvirkjum og öskuhaugum … leifar af verbúðum, naustum, leifar af seljum, verstöðvum, bólum, mógröfum, … gömul tún- og akurgerð … og leifar eftir veiðar til sjávar og sveita; gamlir vegir …varir, hafnir og bátalægi … vörður og vitar … brunnar, uppsprettur, álagablettir… áletranir … skipsflök eða hlutar úr þeim. Það sem hér er talið upp er til staðar í okkar sveitarfélagi. Ef litið er í Fornleifaskrá mætti halda að okkar sveit sé afar fátæk af fornleifum því skráningu þeirra hefur ekki verið sinnt .
NorðurkotNýlega var stofnað minjafélag í sveitarfélaginu og hefur það gengist fyrir að bjarga hlöðunni Skjaldbreið á Kálfatjörn og skólahúsinu í Norðurkoti. Hlaðan er elsta uppistandandi húsið í sveitarfélaginu (frá 1850) og ber mörg sérkenni byggninga frá fyrri öldum. Norðurkotsskóli er með elstu skólahúsum á landinu sem er sérstaklega byggt sem slíkt um 1900. Kálfatjarnarkirkju þarf vart að tíunda, byggð 1893 og er vel viðhaldið, þökk sé meðal annars Húsafriðunarnefnd ríkisins og sóknarnefnd. Elsta uppistandandi íbúðarhúsið í sveitarfélaginu er Ytri-Ásláksstaðir, byggt úr við úr James Town sem strandaði við Hafnir árið 1874. Klæðning þess er ónýt og liggur húsið undir skemmdum. Tvö af elstu húsunum í Vogum voru rifin fyrirvaralaust, Mýrarhús (byggt 1885) og Grænaborg (elsti hlutinn frá 1881). Bæði meira en 100 ára gömul og því friðuð samkvæmt fornminjalögum. Kjallari Stóru-Voga stendur enn og nýtist vel sem hluti af leiksvæði grunnskólans, en liggur undir skemmdum. Það hús á sér merka byggingarsögu. Í Vogum er brýnt að varðveita heillega veggi Norðurkots (hlaðnir um 1860) og tóft Suðurkots (síðast byggt þar um 1900). Á Vatnsleysuströnd  er nokkuð um uppistandandi útihús og aragrúi af tóftum og hleðslum sem eru eldri en 100 ára, en allt óskráð. Nokkuð er af brunnum, minjum um útræði, fornum vegum milli byggðarlaga, á annan tug seltófta og ýmsir álagablettir sem allt eru gersemar fyrir komandi kynslóðir. Búsetulandslag Vatnsleysustrandar er í heild stórmerkileg heimild um horfna tíma og bæri jafnvel að varðveita í heild sinni…“

Heimild:
-Bergur Álfþórsson og Oktavía J. Ragnarsdóttir.

Tóft

Eiríksvegur

Eiríksvegur liggur frá Akurgerðisbökkum upp í Flekkuvíkurheiði, áleiðis að Þrívörðuhól. Um er að ræða sýnishorn af vegagerð fyrri tíma.
Vegurinn er nefndur eftir verkstjóranum sem hét Eiríkur Ásmundsson (1840-1893) frá Grjóta í EiríksvegurReykjavík en Eiríkur þessi stjórnaði m.a. fyrsta akvegargerð um Kamba. Eiríksvegur er 3-4 m breiður og í honum er mikið af grjóthnullungum. Ekkert farartæki hefur hingað til nýtt sér „samgöngubótina“ því vegargerðin dagaði uppi í Flekkuvíkurheiðinni einhvern tímann fyrir síðustu aldamót. Almenningsvegurinn liggur svo til samsíða Eiríksvegi á þessum slóðum, ýmist ofan eða neðan hans, og á kafla liggja allir þrír vegirnir samsíða, Strandarvegur neðstur, svo Almenninsgvegur og Eiríksvegur efstur.
Ofan við Strandarveg á móts við Stóru-Vatnsleysu er túnblettur og suðvestan hans er mikil varða um sig en að nokkru leyti hrunin sem heitir Bergþórsvarða eða Svartavarða. Varðan hefur líklega verið innsiglingarvarða fremur en mið. Suðaustur og upp af Bergþórsvörðu er svo Slakkinn, mosalægð sem gengur upp undir Reykjanesbraut og um hann liggur nýja tengibrautin frá hringtorginu til Strandarinnar.
VatnsleysustekkurDigravarða og Digravörðulágar eru örnefni á þessum slóðum og líklega er Digravarða spöl sunnan við Bergþórsvörðu, á hól sem er vel gróinn í toppinn. Varðan hefur verið mikil um sig fyrrum en er nú aðeins grjóthrúga. Fyrir ofan Digruvörðu eru Digruvörðulágar.
Nefnd Digravarða sést tæpast nú orðið. Við Bergþórsvörðu beygir Almenningsvegurinn um 90° til norðurs. Þar hefur og nýr vegur (hugsanlega ofan í gamlan) verið lagður. Sá vegur liggur norðlægar með beina stefnu á Hrafnagjá. Á henni, þar sem vegurinn liggur yfir gjána, er náttúruleg steinbrú. Þaðan í frá er vegurinn augljós að Flekkuvíkurstíg (Refshalastíg).
Eiríksvegurinn liggur hins vegar þarna áfram upp upp með hólnum norðanverðum – áðeiðis upp í Flekkuvíkurheiði, langleiðina að Þrívörðhól. Líklegt má telja að gamli Almenningsvegurinn hafi að hluta legið undir Eiríksvegi. Rétt vestan Hrafnagjár og norðan Eiríksvegar er Vatnsleysustekkur í lítilli kvos. 

Byrgi

Eiríksvegargerðarmenn hafa látið óhreyft grjótið í stekknum sem segir okkur að líklega hafi hann verið í notkun þegar vinnan stóð yfir. Ekki er þó með öllu útilokað að eitthvert heimilisfólk að Vatnsleysu hafi meinað vegagerðarmönnum að hrófla við stekknum, enda hafi það haft taugar til hans frá fyrri tíð. Dæmi eru um að öðrum mannvirkjum í Vatnsleysulandi hafi verið hlíft þrátt fyrir að notkun þeirra hafi þá verið hætt.
Á móts við Flekkuvíkurafleggjarann hefur lítið grjótbyrgi verið byggt ofan í Almenninsgvegi en á þessum slóðum er sá vegur u.þ.b. 50 m fyrir ofan Strandarveg.
Eiríksvegur og hluti Skipsstígs undir Lágafelli eru að mörgu leyti líkar framkvæmdir. Um er að ræða 3-4 m breiðar götur, nánast beinar. Undirlagið er grjót, en ofaníburðurinn, mold, hefur að mestu fokið úr vegastæðunum. Hvorugri framkvæmdinni lauk án þess að koma að gagni. Annað hvort hefur mjög afmörkuðu fé verið ráðstafað til verkanna, sem síðan hefur ekki fengist endurtekið, eða að tilefni framkvæmdanna hafa dagað uppi.
Hvað sem öllu líður þá eru þarna ágæt dæmi um vegagerð um og í kringum aldamótin 1900, um það leyti er bændur voru að taka hestakerrur í gagnið sem samgöngutæki um leið og sjálfrennireiðin var að gera þær óþarfar.

Heimild m.a.:
-S. Guðmundsdóttir – Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi -2007.

Eiríksvegur

Stapinn

Gengið var upp Reiðskarð og niður Brekkuskarð að Brekku, Hólmabúðum, Stapabúð og Kerlingarbúð, upp Urðarskarð og á Grímshól. Þaðan var haldið eftir Stapagötunni að Grynnri-Skor (Innriskoru). Þá var ætlunin að fylgja landamerkjalínunni í tiltekinn vörðufót, þaðan í Arnarklett og síðan til baka að upphafsstað.
ReiðskarðStapinn virðist lítt áhugaverður, a.m.k. þegar ekið er eftir Reykjanesbrautinni. Hann lætur ekki mikið yfir sér (fer reyndar huldu höfði) þegar litið er til hans úr suðri, en úr vestri og norðri horfir allt öðruvísi við. Vogastapinn, sem er um 80 metra hár, hét fyrrum Kvíguvogabjarg og Kvíguvogastapi, en er stundum kallaður Stapi. Hann er á milli Voga og Njarðvíkur og þverhníptur í sjó framað norðanverðu. Uppi á hæstu brún trjónir Grímshóll. Sorpi af Keflavíkurvelli var löngum ekið út á Stapa og sturtað fram af berginu. Enn má sjá leifar þessa óþrifnaðar, en hann er þó á hverfanda hveli.
Stapinn er hvað kunnastur fyrir Stapadrauginn. Reykjanesbraut liggur um sunnanverða undirhlíð Stapans og enn þá verður næmt fólk, sem þar er á ferðinni, vart við eitthvað óhreint.
Brekka (nær) og HólmabúðirVegurinn lá fyrr á öldum nokkru norðar, þ.e. um Reiðskarð, en var síðar færður sunnar uns núverandi vegstæði varð fyrir valinu. Ástæðan fyrir órökkrinu er væntanlega sú að áður fyrr fóru sumir ferðamenn sér að voða á leiðinni og gengu jafnvel fyrir björg.  Eftir að bílvegurinn var lagður hafa sprottið upp alls konar draugasögur, s.s. að farþegi hafi skyndilega verið kominn í aftursætið eða gangandi vegfarandi hafi verið tekinn með á Stapanum og hann skyndilega horfið úr bílunum. Margir telja sig hafa séð þar mann á ferðinni með höfuðið undir hendinni. Einungis er vitað um að einu sinni hafi tekist að ná mynd af draugsa á Stapanum, en hún virðist óskýr.
Hvönn við BrekkuUndir Stapanum eru allnokkrar minjar, þ.á.m. Kerlingarbúðir. Búðirnar heita svo vegna þess að útróðramenn er þar voru tóku kerlingu er hjá þeim var matselja, drápu hana og notuðu í beitu. Einn mannanna vildi ekki taka þátt í ódæði þessu. Áður en vermenn þessir reru síðasta róðurinn birtist hún manni þessum í draumi og bað hann að róa ekki þennan róður. Gerði hann sér upp veiki og lá eftir. Vermennirnir drukknuðu allir í þessum róðri.
Fiskislóðin Gullkista er undir Stapanum. Nafn hennar varð til vegna mikillar og góðrar veiði á miðunum í Stakksfirði, en svo nefnist fjörðurinn, sem Stapinn stendur við, en Vogavík innar nær Vogum. Til er þjóðsaga, sem segir frá göngum undir Reykjanes frá Gullkistu til Grindavíkur, þar sem fiskur gekk greitt á milli. Nokkrar verstöðvar voru undir stapanum á dögum árabátaútgerðarinnar en ummerki þeirra eru óðum að hverfa. Meðal þessara verstöðva var Hólmabúð, sem kennd var við hólma skammt undan landi. Haraldur Böðvarsson hafði aðstöðu í þessum hólma, þegar hann byrjaði úrgerð sína á Suðurnesjum. Síðar flutti hann starfsemina til Sandgerðis og endanlega til Akranes. Hvorki Vogabúar né Sandgerðingar voru par ánægðir með viðskilnaðinn, hvorir á sínum tíma. Innar eru minjar Stapabúðar, enn einnar verstöðvarinnar.
Leifar herspítalansBandaríski herinn byggði fullkomið sjúkrahús í suðurhlíðum Stapans í síðari heimsstyrjöldinni en hann brann skömmu síðar. Herinn byggði og rak líka mikilvæga fjarskiptastöð á Stapanum og veggir þess húss standa enn þá. Uppi á efstu brúnum Stapans byggðu þeir vígi, þar sem þeir gátu fylgzt vel með umferð á Faxaflóa sunnanverðum. Hleðslurnar sjást enn utan í Grímshól.
Nokkurn spöl vestar gengur Skollanef í sjó fram og vestan þess er Gilið, grasi gróið frá fjörugrjóti og upp á brún. Þegar komið er út fyrir Gilið fer landið hækkandi upp á Grímshól. Neðan Grímshóls gengur klettanef í sjó fram sem heitir Hólnef. Þjóðsaga er til um Grím nokkurn af Rangárvöllum sem réði sig í skipsrúm til huldumanns á þessum slóðum og varð að lokum bergnuminn í Grímshól. Mölvík er rétt vestan við Hólnefið, lítil bogmynduð malarfjara. Í víkinni vex gróskumikil hvönn.
Nýmyndun landamerkja Voga og ReykjanesbæjarStapinn er bæði skjólgóður og sagnaríkur staður. Um hann ofanverðan liðast Stapagatan milli Reiðskarðs og Stapakots í Innri Njarðvík. Skammt frá henni má greina gamlar tóftir norðan undir Narfakotsborginni (Grænuborg), gróinni fjárborg við sjónarrönd. Líklegt er að þessar minjar og fleiri munu hverfa fyrir fullt og allt vegna framkvæmdargleði Njarðvíkurmegin.
Líklega eru mikilvægustu minjarnar á Njarðvíkurheiðinni gróinn fótur landamerkjavörðu. Þegar höfnin var byggð í Vogum var allt tiltækt grjót tekið og sturtað í höfnina, m.a. þessi varða. Stærsta og þyngsta grjótið varð jafnan eftir og má því sjá þess merki á lágum klapparhól skammt vestan við núverandi Reykjanesbæjarskilti og Rockvillestíl. Ef tekið væri af þessu kennileiti mið í Innri-Skoru annars vegar og Arnarklett við Snorrastaðatjarnir hins vegar – enda sjónhending þar á millum – myndi land Voga stækka sem því nemur. Ekki er óraunhæft að ætla, og eflaust eru til gögn þessu til staðfestingar. Bara það eitt væri hið ágætasta efni í enn eina þjóðsöguna.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Gerði

Leifar sorplosunar á Stapanum.

Bergþórsvarða

Þegar FERLIR barst eftirfarandi ábending var talin ástæða til að skoða hana nánar, þ.e. örnefnin Gálgaklettar. Við þá leit álpaðist hlutaðeigandi leitandi inn á Flekkuvígurstíginn svonefnda, öðru nafni Refshalastíg skv. örnefnaskrám, stíg sem ekki átti að vera lengur til skv. nýjustu heimildum.
Gálgaklettur nyrðriÁbendingin var svona: „Reynir heiti ég og er mikill aðdáandi Reykjanessins. Les ég síðuna nokkrum sinnum í viku og hef reglulega gaman að. Ég sá að það var færsla um Stóru-Vatnsleysu og nágrenni um örnefni og ýmsu því tengdu. Þess vegna ákvað ég nú í gamni mínu að senda þér lítið örnefnakort sem ég vann í skólanum og fékk hjálp hjá bóndanum á Stóru-Vatnsleysu. Er þetta unnið eftir örnefnalýsingum en ekki skal ég ábyrgjast hvort þetta er hárrétt unnið. Mig langaði bara til að sýna þér þetta ef þú hefðir áhuga á þessu.“ Meðfylgjandi var loftmynd með örnefnum fyrir Minni-Vatnsleysu (og reyndar líka Stóru-Vatnsleysu). Á því voru örnefnin Gálgaklettur-syðri og Gálgaklettur nyrðri staðsett. Í örnefnalýsingu fyrir Vatnsleysu segir um þetta: „Rétt utan túngarðs Minni-Vatnsleysu eru klettar tveir, sem kallast Gálgaklettar. Þó eru þeir nefndir til frekari glöggvunar Gálgaklettur nyrðri og Gálgaklettur syðri. Klettar þessir standa í fjörubakkanum, og er þröngt vik á milli þeirra.“
Gálgaklettur-syðriNyrðri kletturinn er svo til beint niður af suðurtúngarði Minni-Vatnsleysu og sá syðri skammt sunnar. Þegar staðurinn var skoðaður kom í ljós að vik er neðan Gálgakletts-nyrði, en engu slíku er fyrir að fara við þann syðri. Hins vegar eru aðstæður á báðum stöðunum mjög svipaðar; sléttir klapparstandar, svipaðir að stærð, alveg niður við strandbrúnina, nú grónir. Hafa ber í huga að gjarnan er tekið miða af klofnum háum klettum þegar getið er um Gálga eða Gálgakletta, en slík örnefni eru fleiri en 100 talsins hér á landi. Ekki eru heimildir um að aftökur hafi farið fram á þeim öllum, en ef taka ætti þau öll alvarlega mætti ætla að fleir hafi verið hengdir hér á landi en skráðar heimildir eru til um. Einhverjir hafa þá verið hengdir án dóms og laga. Hafa ber og í huga að henging var einungis ein tegund aftöku og nutu aðallega þjófar þeirrar náðar. Og þeir voru ekki svo margir er örnefnastaðirnir gefa tilefni til. Og til eru jafnvel nokkrir slíkir í hverri sveit. Öðrum sakamönnum voru ýmist drekkt, þeir brenndir eða hálshöggnir. Sýslumenn framfylgdu dauðarefsingum í fyrstu (og þá um skamman tíma), en síðar fóru þær flestar fram á Alþingi (alls 15 manns).

Flekkuvíkurstígur

Þessi örnefni gefa þó tilefni til svolítillar íhugunar – og jafnvel endurskoðunar á tilefni örnefnisins. Gjarnan fylgir eftirfarandi skýring á örnefninu: „Sú saga er um Gálgakletta, að þar hafi fyrr á öldum verið hengdir sakamenn„. Eflaust hefur yfirvaldið sumstaðar nýtt sér náttúrulegar aðstæður til framkvæmdarinnar, s.s. í Gálgaklettum í Gálgahrauni gegnt Bessastöðum. Þar eru til heimildir um að menn hafi verið hengdir. En hvers vegna ætti að hengja fólk í klettaskoru neðan við Vatnsleysu. Þótt fólk hafi verið lágvaxnara fyrrum má samt ætla að viðkomandi hafi getað tyllt niður tá eftir fallið og staðið af sér henginguna. Til langs tíma gæti viðkomandi þó hafa kafnað til ólífis líkt og þeir sem brenndir voru á báli. Nýtínt prekið, allt að 25 hestburðir sem þurfti í einn bálkost, brann ekki svo augljóslega og má því ætla að sakamaðurinn hafi látist úr reykeitrun löngu áður en eldurinn náði skrokknum.
FlekkuvígurstígurinnAftur að Gálgaklettum. Sléttir klapparstandarnir gefa tilefni til að ætla, ef einhverjir hafa verið hengdir þar, að þar hafi verið reistir gálgar og þá líklega úr rekaviði. Stallarnir eru kjörnir til slíks og ekki erfitt að gera sér í hugarlund þá mynd að áhorfendur hafi staðið ofar í brekkunni og þannig haft góða yfirsýn um svæðið neðanvert. Líkunum gæti síðan hafa verið kastað fyrir klettana og sjórinn séð um að skola þeim út í stað þess að dysja þá í einhverri klettaskorunni, sem engum er reyndar fyrir að fara á svæðinu. Ekki hefur þurft mikinn efnivið í sæmilegan gálga. Stallarnir hafa ekki verið skoðaðir m.t.t. þess hvort þar kunni að leynast göt fyrir kaga. Hafa ber þó fyrirvara á öllu þessu að ekki eru heimildir um sýslumannssetur á Vatnsleysu, einungis kirkjustað fram á 18. öld. Það eitt gæti þó gefið tilefni til að ætla a.m.k. einhver tengsl milli örnefnisins og staðarins.
Eftir að hafa skoðað strandsvæðið umhverfis Gálgakletta var ráfað til suðvesturs, áleiðis upp á Almenningsveg. Þá – og allt í einu, birtist áberandi gömul gata vestan túngarða Vatnsleysu. Götunni var fylgt til norðvesturs, áleiðis niður að Flekkuvík. Hún liðaðist um neðanverða Flekkuvíkurheiði áleiðis að bæjarstæðunum við ströndina. Í götuna virtist enginn hafa stigið fæti um langa tíð. Kastað hafði verið upp úr götunni á köflum, hún lagfærð og greinilega hafði verið borið í hana, en jarðvegurinn fokið burt. Þegar götunni var fylgt til baka lá ljóst fyrir að hún myndi annað hvort sameinast Almenninsveginum eða þvera hann ofan við Stóru-Vatnsleysu. Gatan lá áleiðis að vesturtúngarði Stóru-Vatnsleysu, en beygði síðan svo til austurs, beint að svonefndri Bergþórsvörðu í heiðinni. Skammt þar frá var gróin tóft á fallegum stað er lætur lítið yfir sér. Bergþórsvarðan er skammt ofan við túnblett suðvestan bæjarins. Hún er að nokkru leyti hrunin. Varðan hefur einnig verið nefnd Svartavarða. Sumir hafa talið að varðan hefi verið innsiglingarvarða fremur en mið. Líklegri skýring er þó sú skv. framangreindu að þarna hafi verið viðsnúningur því Almenningsvegurinn greinist þarna, annars vegar beygir hann í 90° hjá vörðunni með stefnu á steinbrú yfir Hrafnagjá, og hins vegar beygir hann til suðvesturs áleiðis að gatnamótum Vatnsleysu og Strandarvegar. Þar heldur fyrrnefndi vegurinn áfram uns hann beygir aftur um 90° við gatnamót Almenningsvegar og Flekkuvígurstígs (Refshalastígs). Við vörðuna er einnig Eiríksvegur. 

Tóft við Flekkuvíkurstíg

Vegurinn er nefndur eftir verkstjóranum sem hét Eiríkur Ásmundsson (1840-1893) frá Grjóta í Reykjavík en Eiríkur þessi stjórnaði m.a. fyrsta akvegargerð um Kamba.
Ef skoðaðar eru örnefnalýsingar fyrir Flekkuvík segir m.a.: „Skammt utan gamla traðarhliðsins er grunnt vatnsstæði, kallað Vatnshellur, vatnsból ofan í klappir.  Þar til vesturs, um 200 m frá túngarði, eru þrír strýtuhólar, kallaðir Kirkjuhólar.  Þeir eru í stefnu rétt vestan við opna tröðina. Það var trú fólks, að í Kirkjuhólum væri álfabyggð og þar var betra að fara með gát.” Þá segir: Refshalastígur: “Frá býlinu [Refshala] lá í suður Refshalastígur á Flekkuvíkurstíg en hann lá suður í Heiðina og tengdist þar Almenningsgötum.” Hér er Almenningsvegurinn nefndur „Almenningsgötur“.
Í Fornleifaskrá fyrir Vatnsleysuströnd segir m.a.: „Flekkuvíkurselsstígur – heimild um leið 64°40.130-22°14.049: “Flekkuvíkurselsstígur lá úr Traðarhliði og upp Heiðarlandið, sem var óskipt milli Bæjanna.” segir í Eiríksvegurörnefnaskrá.
Ekki er til nánari lýsing á legu stígsins en vísast hefur hann legið um/við Flekkuvíkurheiði og svo áleiðis í átt að Flekkuvíkurseli. Líklegt er að stígurinn hafi þá legið við Reykjanesbraut í námunda við Stóra-Hrafnshól. Ekki sést neinn fornlegur slóði í námunda við Reykjanesbrautina á þessum stað
.“ Hér er verið að rugla saman Flekkuvíkurselstígnum annars vegar og Flekkuvíkurstígnum hins vegar. Hinn fyrrnefndi er þarna skammt vestar og má vel sjá hann í lágheiðinni ef vel er að gáð. Eftir að hafa fylgt Almenningsveginum frá Kúagerði upp Flekkuvíkurheiði má segja að hver sá einn verði ekki ósnortinn.
Almenningsgöturnar tvær er greinast við Bergþórsvörðu eru annars vegar gata, sem löguð hefur verið sem hestvagnavegur (vestari leiðin) og hins vegar gata, sem liggur upp heiðina framhjá Arnarvörðu.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar fyrir Flekkuvík og Vatnsleysu.

Hestar

Stefánsvarða

Þegar vegfarendur aka um Vatnsleysustrandarveg eða ganga um Almenningsveginn, hina fornu þjóðleið um Ströndina, er Stefánsvarðan eitt helsta kennileitið á leiðinni. Varðan er óvenjuheilleg og stendur skammt neðan þjóðvegarins á hæstu hæðinni norðan Kálfatjarnar, eða öllu heldur austan Litlabæjar.
StefánsvarðaVarðan er nánar tiltekið á há Hæðinni norðan Vatnsleysustrandarvegar. Almenningsvegurinn lá um Hæðina skammt sunnan við vörðuna og má enn sjá móta fyrir honum á köflum.
Varða þessi er kennd við Stefán Pálsson útgerðarmann á Stóru-Vatnsleysu. Stefán Pálsson fæddist í Hvassahrauni 5. febrúar 1838. Hann giftist 24. nóvember 1865 Guðrúnu Gísladóttur, þá 40 ára ekkju. Þau bjuggu á Minni-Vatnsleysu og síðan, að því er virðist, á Stóru-Vatnsleysu. Vegagerðarmenn er unnu við gerð þjóðvegarins ofan Strandarbæjanna í byrjun 20. aldar rifu vörðuna eins og svo margar aðrar á þessum slóðum og notuðu grjótið sem kanthleðslur í nýja veginn. Eftir að hæðin hafði verið vörðulaus í u.þ.b. hálfa öld tóku þeir Jón Helgason og Magnús sonur hans sig til árið 1970 og endurhlóðu vörðuna. Í stein í vörðunni mót austri er klappað nafnið Stefánsvarða. Magnús var um skeið minjavörður í Byggðasafni Hafnarfjarðar og skrifaði margar fróðleikslýsingar um mannlífið þar fyrrum, s.s. „Byggð í byrjun aldar.“ Til fróðleiks má geta þess að Magnús sótti áður steininn í vörðuna heim að gamla bænum á Minni-Vatnsleysu og markaði sjálfur áletrunina í hann til minningar um nefndan Stefán.
Tveir hólar eru neðan við vörðuna; Stefánshólar. Norðan undir þeim nyrðri er Borgarkotsstekkur.
Keilir er einkennisfjall Reykjanesskagans og frægt mið af sjó. Eftirfarandi vísa um Keili er eftir fyrrnefndan Jón Helgason frá Litlabæ í Vatnsleysu-
strandarhreppi.

Keilir fríður kennast skal,
Knappt þó skríði runnur,
fagran prýðir fjallasal
Fyrr og síðar kunnur.

Þekkti ég siðinn þann af sjón
Þekktan liði drengja
Keilir við um flyðrufrón
Fiskimiðin tengja.

Sæfarendur reyna rétt
Rata’ að lending heilir;
Til að benda’ takmark sett
Tryggur stendur Keilir.

Letursteinninn í Stefánsvörðu

Kolhólasel

Ákveðið var að reyna að rekja stíg, sem fannst nýlega þegar farið var í Kolhólassel undir Kolhólum.

Kolhólastígur

Kolhólastígur.

Stígur lá til norðurs úr selinu og niður Efri-Heiði í Vatnsleysuheiði. Nú átti að kanna hversu langt upp fyrir selið hægt væri að rekja stíginn og einnig hversu nálægt Vatnsleysu hann lægi. Heyrst hafði af svonefnum Höskuldarvallastíg er liggja átti upp heiðina og upp á Höskuldarvelli. Þegar Þórður Jónason, bóndi á Stóru-Vatnsleysu, hugðist leggja veg upp á Höskuldarvelli hafði hann augastað á hinni gömlu leið, um Efri-Heiði ofan Grindavíkurgjár og áfram yfir Kolhólagjár. Hann ákvað hins vegar (1953-’54) að leggja veginn um Afstapahraun frá Kúagerði. Hann hóf ræktun á Höskuldarvöllum með stórt kúabú í huga, en entist ekki aldur til þess að ljúka þeim áformum.
Reynt var að finna norðurenda stígsins norðan Reykjanesbrautar. Byrjað var að því að skoða tvær heillegar vörður og hálfri betur, en sennilega eru það markavörður við Flekkuvíkurland. Skammt austar er gróinn hóll. Á honum er fallin varða, sennilega sundvarða. Hana ber í aðra, stóra, á hól sunnan við Reykjanesbraut. Skammt austan við hana er lítil varða á hól, vestan hóls með hlöðnu byrgi refaskyttu.
Ákveðið var að byrja við uppþornuð vatnsstæði ofan við Brennhóla. Syðst í þeim eru Djúpidalur, áberandi gróin skeifulaga hvylft. Þar ofar eru vatnsstæðin. Ofan við þau er stígurinn áberandi í móanum. Honum var fylgt áleiðis upp í Kolhólaselið. Litlar vörður eru við stíginn, sumar fallnar. Vörðurnar, mannanna verk, benda til þess að stígurinn hafi haft ákveðinn tilgang.

Kolhólasel

Kolhólasel.

Stígurinn lá um brú á Kolhólagjám og upp í selið. Þar hélt hann spölkorn áfram vestan við það, beygði til vesturs og sameinaðist öðrum stíg þar skammt ofan við gjárnar. Líklega liggur hann áfram til vesturs og sameinast Þórustaðastíg, sem liggur þarna skammt vestar, áleiðis upp að Kolhól. Á honum er varða. Í honum miðjum er djúp skál. Talið er að í henni hafi verið unnin kol fyrrum.
Gengið var til norðurs frá Kolhólagjám og niður að Grindavíkurgjá. Við austurenda hennar er varða. Haldið var inn á selsstí
ginn og honum fylgt niður að fyrrnefndum vatnsstæðum ofan við Djúpadal. Þar fannst stígurinn á ný þar sem hann liggur austan við vatnsstæðin og liðast niður með austanverðum Brennhólum. Tvær litlar vörður er á hólunum, líkt og annars staðar við stíginn. Þær eru allar austan við hann.

Norðan við Brennhóla hverfur stígurinn, nema á u.þ.b. 20 m kafla vestan þeirra. Hann kemur síðan aftur í ljós við

Kolhólasel

Kolhólasel – stekkur.

vörðu á hól skammt norðar. Þar er hann áberandi niður móann. Vörðubrot er við hann á lágum klapparhól. Stígurinn endar loks skammt ofan við hin nýju undirgöng á Reykjanesbraut vestan Kúagerðis. Þar var rekinn niður tréhæll – stígnum til staðfestingar. Eflaust hefur ekki einn einasti, er skráði fornleifar við hina nýju Reykjanesbraut, látið sér detta í huga að þarna kynni að vera forn selstígur áður en vegurinn var lagður. Hins vegar gæti sá, sem er sæmilega vel að sér í umhverfi og sögu Reykjanesskagans, vitað að stígar hljóta að hafa legið að þeim u.þ.b. 250 selstöðum, sem enn má sjá leifar af á skaganum.
Nefndur selsstígur liggur vel við landinu. Þótt eftir sé að rekja hann að Vatnsleysu norðan Reykjanesbrautar er ljóst að hann hefur legið eðlilegustu leið með grónum hraunkantinum frá heimabæjunum og síðan tekið hentuga stefnu upp heiðina. Líklegt má telja að þar nyrst við hraunkantinn, skammt vestan Kúagerðis, séu gatnamót Kolhólastígs og Rauðhólastígs, en Rauðhólasel var einnig frá Vatnsleysu, ofar og austar en Kolhólasel. Líklegt má telja að hið síðarnefnda sé mun eldra og að bæði tilvist þess sem og stígurinn hafi fyrir löngu tapast úr munnmælum.

Kolhólasel

Í Kolhólaseli.

Fróðlegt væri að gefa sér tíma og skoða hinar fornu leiðir í heiðinni, bæði austan og vestan Þórustaðastígs. Norðvestan við Keili mótar t.d. vel fyrir mikið farinni götu, sennilega svonefndri leið um Brúnir. Norðaustan við stíginn mótar og fyrir götum, sem fróðlegt væri að reyna að skilgreina. Sennilega verður þó seint hægt að fá fram nöfn þeirra með óyggandi hætti.

Til fróðleiks væri gaman að velta fyrir sér hversu selstígurinn hafi verið langur á Reykjanesskaganum hér áður fyrr, líkt og vangaveltur fornleifafræðinga um lengd stekksstígsins (stekksgötunnar) almennt hefur verið hér á landi. Í stuttu máli er niðurstaðan þessi: Á Reykjanesskaganum (landnámi Ingólfs) eru þekktar 252 selstöður. Selsstígar þeirra eru mislangir. Meðaltal selstígsins hefur þó að jafnaði verið um 6 km langur.

Sogaselsgígur

Sogaselsgígur.

Yfirleitt voru u.þ.b. 1-2 klst gangur frá bæ að seli á Reykjanesskaganum. Það eru 4-8 km. Lengra var frá bæjum í Grindavík eftir að selsstaðan færðist frá Baðsvöllum inn á Selsvelli. Hraunsselið, sem síðast lagðist af á landssvæðinu (1914), er í rauninni dæmigert fyrir fyrrnefnan selsstíg. Syttra var þó í sum önnur sel, t.d. í Stakkavíkursel og Hlíðarsel. Krýsuvíkurbæirnir áttu mislangt í sel, allt frá Selöldu í suðri til Sogasels í norðri. Síðastnefnda selstaðan féll síðar til Kálfatjarnar í skiptum fyrir hlunnindi.

Brunnastaðasel

Brunnastaðasel.

Sel og selstöður hafa verið vanmetin í sögu Reykjanesskagans. Ástæðan er fyrst og fremst sú að lítið sem ekkert hefur verið skrifað um þann þátt búskaparsögunnar. Skýringin á því er að ekki var talin ástæða til að skrifa um það sem sjálfsagt þótti. Seljabúskapurinn var stundaður hér á landi fram undir aldamótin 1900. Prestar, annálahöfundar eða ferðamenn töldu ekki ástæðu til að minnast á hvað fólk borðaði, hverju það klæddist eða hvert lífsviðurværi þess væri. Þess vegna er lítið sem ekkert til um fyrrnefnt sem og það sem skiptir afkomendurnar hvað mestu máli – hið daglega líf og sjálfsagða strit forfeðranna.
Þegar selstígarnir af Ströndinni og frá Grindavík eru skoðaðir er ljóst að lengri leiðirnar tóku gjarnan mið af áberandi kennileitum, s.s. hæðum og fjöllum. Þannig er t.d. Keilir augljóst göngumið, líkt og Trölladyngja og Selsvallafjall ofan við Sogin.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir – 1995.

Kolhólaselsstígur

Kolhólastígur.