Tag Archive for: Vogar

Eiríksvegur

Eftirfarandi lýsing á leiðinni milli Reykjavíkur og Voga birtist frá vegfarenda í Ísafold árið 1890 undir fyrirsögninni „Sýsluvegurinn frá Reykjavík suður að Vogastapa“. Nefnir hann „Eiríksveginn“ svonefnda á Vatnsleysu- og Flekkuvíkurheiði „Vatnsleysuheiðarbrú“ eða „Svívirðinginn“ öðru nafni.
Alfaraleiðin vestan Kapelluhrauns„Ég las um daginn í Ísafold um póstveginn í Árnessýslu; og datt mér þá í hug, að einnig mætti rita fáein orð um sýsluveginn frá Reykjavík suður í sýsluna. Ég ætla þá að fara úr Reykjavík suður eftir, og geta um ýmislegt, sem fyrir augun ber, hvað veginn snertir.
Þegar maður kemur niður í Fossvog, verða fyrir manni rásirnar þar. Þær eru að vísu þannig á sumrum, að fáum ókunnugum mundi til hugar koma, að við þær væri neitt að athuga; en á vetrum í leysingum verða þær lítt færar eða stundum ófærar.
Þá kemur Fossvogslækur, lækur þessi, sem er á sumrum ekki nema ofurlítil spræna, verður stundum á vetrum svo, að naumast verður yfir hann komist, og það ber við, að hann verður með öllu ófær.
Vegurinn upp Kópavogsháls er óhæfilega brattur, lítt fær með vagn, en vagnvegur á vegurinn milli Rvíkur og Hafnarfjarðar að verða úr þessu. Með því að sneiða hálsins lítið eitt utar, má fá hann mjög hallalítinn.
Þegar kemur suður að Kópavogi, kemur ein torfæran, þótt stutt sé; hún er rétt við landnorðurhornið á túngarðinum í Kópavogi; þar eru götutroðningar, djúpir mjög, og verður þar á vetrum kafhlaup, þegar snjóþyngsli eru. Þá kemur brúin yfir Kópavogslæk. Að henni er mesta vegarbót, og er furða, að hún skyldi ekki vera á komin fyrir mörgum tugum ára; en trén í henni eru mikils til of veik; brúin skelfur undan gangandi manni, hvað þá heldur þegar hún er riðin.
Þá er nú úr því brýr yfir lækina, og vegur all góður þangað til kemur suður í Hafnarfjörð.
AlfaraleiðinÞar er vegurinn lagður yfir Hamarinn hér um bil þar sem hann er brattastur; en auk þess er vegur þessi óruddur, ekkert í hann borið, og er hann fullur af lausu grjóti, og má það kallast hættulegt að ríða hann ofan að norðanverðu; í sunnanverðum Hamrinum neðst er sjórinn búinn að taka burtu hleðsluna úr veginum, og er honum því einnig hætta búin úr þeirri átt. Svo er þess að gæta, að rétt við endann á veginum er skipa-uppsátur þeirra manna, er búa þar í grennd. Af því, að sjórinn gengur þar rétt upp að veginum, standa skipin svo hátt, að ókunnugum mönnum, sem í myrkri fara um veginn, getur verið af þeim hætta búin; skipa-uppsátur er ekkert annað til þar í grennd.
Svo kemur nú suður undir Flensborg. Þar standa þilskip, og liggja járnkeðjur af þeim yfir þveran veginn, og er furða, að ekki skuli oft hafa hlotist slys af þeim. En þess ber að geta, að þar er enginn vegur lagður, nema hvað hrossin hafa unnið þar að vegavinnu. Flensborgarskóli á þar lóðina, sem skipin standa á, og leigir þar uppsátrið, og tekur 10 kr. fyrir hvert skip yfir veturinn. Ef skipin mega ekki hafa þar landfestar, þá er ekki til neins að ljá manni uppsátur; hafa þar að undanförnu legið 4 skip á vetrum; gjaldið eftir þau eru þá 40 kr., eður sama sem að skólaeignin sé 1000 kr. meira virði en ella. Eitt af tvennu er: annaðhvort verður að banna að hafa þar skipauppsátur, eða að leggja veginn annarsstaðar.
En látum oss halda lengra.
Um stórstraumsflóð flæðir alveg upp undir túngarðinn í Flensborg, og verða menn þá að ríða sjóinn fram með garðinum, oft talsvert djúpt, og auk þess er þar mjög grýtt, svo að þar er mjög illt yfirferðar.

Almenningsvegur

En þá tekur ekki betra við, þegar Ásbúðarmegin kemur; þar er hár bakki, sem upp verður að klöngrast; vinnist sú þraut, þá tekur við dý, sem hver hestur liggur í.
Þegar búið er að draga þá upp úr því, er haldið suður Hvaleyrarholt. Þetta holt hefur ekki verið rutt í ár, og er það mjög seinfarið. En þegar kemur suður fyrir sandskörðin sunnanvert við Hvaleyrartjörn, þá liggur vegurinn svo lágt, að þar flóir yfir í stórstraumum.
Svo koma nú Hraunin, þ. e. Gráhelluhraun, Kapelluhraun, Almenningur og Afstapahraun. Um veginn gegnum þau ætla ég ekki að tala; hann er alkunnur, og líklega ekki þeirrar núlifandi kynslóðar meðfæri að bæta hann svo, að nokkru nemi; þó ætti það að vera vinnandi vegur, að ryðja veginn gegnum þau árlega; þegar það er gjört, er þó ólíku betra að fara yfir þau, heldur en þegar vegurinn er fullur af lausu grjóti og steinvölum.

Vatnsleysuheiðarbrú

Þegar Hraununum sleppir, kemur Vatnsleysuheiði. Yfir hana mestalla hefir verið lagður upphækkaður vegur, en hann er nú orðinn því nær ófarandi, og miklum mun verri en gamli vegurinn var. Þessi upphækkaði vegur er í daglegu tal oft kallaður Vatnleysu(heiðar)brú, en af sumum „Svívirðingin“, og þykir bera það nafn með rentu; það er sama smiðs-markið á henni og Svínahraunsveginum gamla, og þarf þá ekki lengra til að jafna.
Þessi upphækkaði vegur stefnir frá Kúagerði til Kálfatjarnar, og er honum sleppir, þá tekur við hinn gamli vegur suður með bæjunum á Vatnsleysuströnd; þessi gamli vegur er allgóður á sumrum, enda er hann oftast vel ruddur; en á vorum og haustum, þegar bleyta og leysingar eru, er hann mjög illur yfirferðar, liggur sá vegur allt suður að Vogastapa og lengra ætla ég ekki að fara að sinni.
Hvað skal nú gjöra við þennan veg? Eins og er, er illa við hann unandi.
Ég skal leyfa mér að láta í ljósi skoðun mína um það; það fara svo margir þennan veg, að vonandi er, að einhverjir fleiri en ég skýri frá, hvernig þeir álíti þessu best í lag hrundið.
Í Fossvogi má ef til vill leggja veginn fyrir ofan rásirnar allar, nema hina syðstu; hana þarf að brúa.
Fossvogslæk ber brýna nauðsyn til að brúa, og það sem allra fyrst, og væri það lítill kostnaður.
AlmenningsvegurGötutroðningana við Kópavogstún verður að brúa, og viðrist það auðgjört.
Kópavogslækjarbrúna þarf að athuga; það er of seint að gjöra það eftir að slys er búið að ljótast af því, hversu veikgjörð hún er. Í öllu falli væri nauðsynlegt að láta áreiðanlega menn, sem vita hafa á því, dæma um það, hvort henni sé treystandi eins og hún er.
Veginn yfir Hamarinn í Hafnarfirði, þar sem hann er, ætti alveg að leggja niður. Þar sem hann liggur upp Hamarinn, er mikils til of bratt; það er ógjörningur, og líklega heldur engin lagaheimild til, að vísa mönnum burtu með skip sín, sem uppsátur hafa rétt fyrir sunnan Hamarinn, en skipa-uppsátur þar og vegur geta ekki samrýmst. Sama er að segja um þilskipa-uppsátrið hjá Flensborg; annaðhvort er, að banna skólanum að hafa þar uppsátur, eða að leggja af sýsluveginn þar fram hjá. Og þegar þess er gætt, að vegurinn þar er afar-illa lagður, þ. e. undirorpinn sjávargangi, og menn verða að sæta sjávarföllum til að komast hann, þá virðist lítil eftirsjón í honum þar sem hann er.
En hvar ætti þá að leggja hann?
Hann ætti að leggjast sunnar upp Hamarinn en nú er, fyrir ofan bæinn „á Hamri“ neðan til í Jófríðarstaðaholti, fyrir sunnan Ásbúð og svo suður Hvaleyrarholt hér um bil beina stefnu á Hjörskot. Það, sem ynnist við að leggja veginn þannig, hjá því sem nú er, mundi verða: vegurinn upp Hamarinn yrði ekki eins brattur, hann yrði ekki undirorpinn sjávargangi; vegfarendum yrði engin hætta búin af bátum, sem nú standa því nær yfir þveran veginn; skólaeigninni í Flensborg yrði ekki meinað að hafa þann hag af þilskipa-uppsátri, sem hingað til hefir oftast samsvarað vöxtum af 1000 krónum; menn kæmust hjá hinni afarillu torfæru hjá Ásbúð, og um stórstraumsflóð þyrfti ekki að klifra upp sandskörðin hjá Hvaleyri.

Reiðskarð

Veginn suður Hraunin ætti sannarlega að ryðja á hverju ári; minna má það ekki vera; hann er full-illur samt.
Af hinum upphækkaða vegi suður Strandarheiði (eða Vatnsleysu-heiði), þar sem hann nú er, ætti sýslunefndin alls ekki að skipta sér. Sá vegur liggur vestur Ströndina, og ef menn ætla t. a. m. suður í Voga eða þaðan af lengra, þá er það sá afarkrókur, að ríða niður á Ströndina, að ég er viss um, að það nemur fullum þriðjungi, móti því að fara beint úr Kúagerði á Reiðskarð (upp Vogastapa). Strandarmenn mundu þá halda við gamla veginum sem hreppsvegi. En eigi að halda við hinum gamla vegi sem sýsluvegi, þá mundi sú aðgjörð, sem hann þarfnast, ef hann á að geta kallast viðunanlegur, dragast að verðinu til hátt upp í það, sem nýr vegur, beint frá Kúagerði á Reiðskarð, mundi kosta.
Sumir berja því við, að með slíku fyrirkomulagi þyrfti svo víða að leggja vegi frá Ströndinni upp á sýsluveginn. Þetta fæ ég ekki séð að sé nauðsynlegt. Sá, sem ætlar að koma við á Ströndinni, ríður hreppsveginn; en ætli maður beint frá Kúagerði suður, án þess að eiga erindi á Ströndina, þá fer maður sýsluveginn.
Ritað á Fidesmessu 1890.“

Heimild:
-Ísafold, 11. okt. 1890, 17. árg., 82. tbl., forsíða: Sýsluvegurinn frá Reykjavík suður að Vogastapa.
http://www.vegagerdin.is/um-vegagerdina/sagan/sogulegar-upplysingar/1890/nr/249

Eiríksvegur

Eiríksvegur.

Kúagerði

Þeir, sem fara um Reykjanesbrautina, veita gjarnan reglulega hlaðinni vörðu athygli þar sem hún stendur við Vatnsleysuvíkina ofan við Kúagerði, norðan brautarinnar.

Kúagerði

Varðan í Kúagerði.

Varða þessi var hlaðin að frumkvæði Áhugahóps um bætta umferðarmenningu í byrjun sumars 1990 til minningar um þá sem látist höfðu eða slasast alvarlega í umferðinni á Reykjanesbrautinni. Þessi kafli brautarinnar hafði sérstaklega háa slysatíðni og þess vegna var ákveðið að hlaða vörðuna þarna – bæði til minningar um þá látnu og jafnframt öðrum vegfarendum til áminningar um að fara gætilega. Það var hleðslumaður úr Hafnarfirði, sem hlóð mannvirkið, fyrir lítið.
Í Kúagerði voru fyrrum tveir bæir, að talið er, Kúagerði og Akurgerði. Síðarnefndi bærinn fór undir hraun er Afstapahraunið nýrra rann frá Trölladyngjusvæðinu og niður í víkina á 12. öld. Sá fyrrnefndi var þarna einungis um skamman tíma.
Gróinn hóll er skammt utar með ströndinni, ofan við víkina. Nefnist hann Fagurhóll og Akurgerðisbakkar innan hans. Almenningsvegurinn gamli lá þarna um Kúagerði og sést reyndar enn ef vel er að gáð.
Kúagerði var frægur áningarstaður áður, gott vatn í tjörninni og nógir hagar í kring.

Heimild:
-Ragnheiður Davíðsdóttir – meðlimur í ÁBU.

Kúagerði

Kúagerði.

Gjásel

Haldið var inn á og upp Vogaheiði með það fyrir augum að skoða og rissa upp selin, sem þar eru sunnan Knarrarnessels.

Brunnastaðasel

Brunnastaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Nýjaselsballi (af sumum í seinni tíð nefndur Níelsbjalli) liggur út úr efstu tveimur Snorrastaðatjörnunum til norðurs. Bjallinn er nokkuð langt grágrýtisholt, sem sker sig svolítið úr umhverfinu, og því í rauninni ekki eiginlegur bjalli. Hann dregur nafn sitt af litlu seli, sem staðið hefur rétt norðaustan við bjallann. Þar eru tóftir af Nýjaseli og kúra þær í lægð undir lágum gjárvegg, sem snýr til norðurs. Þegar farið er um Skógfellaveginn er selstæðið skammt austan við götuna. Á efri gjárbarminum þarna rétt við selið eru þrjár „hundaþúfur“ með stuttu millibili. Selið hefur tilheyrt bændum í Vogum og líklega byggst eftir að selstaða lagðist af ofar í heiðinni eða þá að þarna hafi eingöngu verið kúasel. Rétt norður af selinu eru grasgefnir hólar, sem gætu heitið Selhólar, en heimildir eru til um það örnefni á þessum slóðum.
Í Nýjaseli eru þrjár tóftir. Miðtófin er þremur rýmum og er sennilega hluti hennar stekkur eða kví. Tóftirnar sunnan og norðan við hana eru eitt rými hvor, nokkurn veginn jafn stórar. Þarna eru því dæmigerðar selstóftir frá fyrri tíð. Þær eru fremur litlar, en á skjólgóðum stað undir lágum hamrabakkanum, ekki svo langt frá norðurenda Snorrastaðatjarna. Aðskildar tóftirnar, og hversu lítil húsin eru, benda til þess að þara hafi verið kúasel, sem fyrr segir.
Snorrastaðasel er norðvestan tjarnanna. Ein heimild er til um selið sem segir að það hafi verið frá bæjum í Vogum. Í því eru einnig þrjár kofatóftir. Selið er einnig nálægt byggð og við vatn er bendir til að í þeim hafi eingöngu verið hafðar kýr. Tóftirnar voru ekki heimsóttar að þessu sinni, en verða rissaðar upp fljótlega.
Huldugjá er næsta gjá ofan við Nýjaselsbjalla. Huldur nefnast svæðið milli Hrafnagjár, sem er næst Reykjanesbrautinni að ofanverðu, og Huldugjár. Tvær skýringar hafa verið gefnar á nafninu. Önnur er sú að vegna þess að Huldur er jarðsig milli Hrafnagjár og Huldugjár (gjáveggirnir snúa andspænis hvor öðrum) er allt á „huldu“ um það sem fjær er, Hitt er þó líklegra að nafnið Huldur komi til af því að austast á svæðinu eru margar litlar, en djúpar sprungur, sem geta verið varasamar ef snjór liggur yfir og því er unnt að tala um „huldar hættur“ á þessum slóðum.
Á Huldugjárbarmi er Pétursborg, fyrrum sauðabyrgi frá Tumakoti í Vogum, nefnt eftir Pétri Andréssyni, bónda þar (1839-1904), en hann er sagður hafa hlaðið borgina. Hún er sporöskjulöguð og austurveggurinn er hrauninn að mestu. Lengd borgarinnar er 6-7 m, breidd 4-5 m, veggþykkt um 50 cm, hæð um 180 cm og dyr snúa í suðaustur. Við Pétursborg að austanverðu eru tvær gamlar fjárhústóftir og ein nokkuð nýrri aðeins ofar.

Gjásel

Gjásel – uppdráttur ÓSÁ.

Fjárhústóftirnar eru enn nokkuð greinilegar. Grjót hefur verið í útveggjum og sést það vel ó tóftunum. Hleðslurnar gefa vel stærð húsanna til kynna sem og legu þeirra. Efsta tóftin er ofan við borgina og snýr dyraopi til suðausturs. Austasta tóftin snýr dyraopi til suðvesturs og miðtóftin, milli hennar og borgarinnar, virðist hafa snúið dyrum til suðausturs. Allnokkur gróðureyðing er þarna, en tóftarsvæðið hefur haldið sér nokkurn veginn vegna tóftanna.

Norðaustur og upp af Pétursborg, en rétt neðan Litlu-Aragjár, er Hólasel eða Hólssel á milli þriggja hóla. Þar eru nokkuð heillegar hleðslur á grasbletti og einnig þvert á sprungu, sem liggur gegnum einn hólinn. Þarna hefur ólíklega verið sel, enda engar húsarústir sjáanlegar – eða hvað?
Ef vel er að gáð má sjá að þarna gæti hafa verið selstaða um skamman tíma. Hleðslurnar benda til stekks og að öllum líkindum hefur sprungan verið notuð sem skjól, hlaðið til endana og reft yfir. Ólíklegt má telja að selið hafi verið notað um langt skeið.
Næsta gjá fyrir ofan Litlu-Aragjá er Stóra-Aragjá. Þarna er bergveggurinn hæstur. Nefnist hann Arahnúkur. Hann sést vel af Vogastapa og víðar. Undir Arahnúk er Arahnúkssel eða Arasel. Í Jarðabók 1703 er ekki getið um þetta sel, en það kom fyrir að selstaða var færð neðar í heiðina eftir því sem vatnið minnkaði og gróðrinn eyddist.
Arahnúkaselstæðið er fallegt og grösugt í góðu skjóli við gjárvegginn. Þar má sjá tíu kofatóftir ásamt kví. Sagt er að bletturinn hafi síðast verið sleginn árið 1917. Ekkert vatnsból finnst við selið og líklega hefur vatn verið sótt í Snorrastaðatjarnir. Stór varða er á gjárbarminum skammt sunnan við selið og önnur minni (og nýrri) skammt austar.
Tóftirnar geyma fimm hús með átta til tíu kofa tóftum, sem fyrr segir. Kvíin, eða öllu heldur stekkur er undir hamraveggnum skammt suðvestan við tóftaþyrpinguna, sem er nokkurn veginn í beina línu undir veggnum. Eitt húsanna, tvískipt, stendur þá framar, lengra frá veggnum. Af ummerkjum að dæma virðast þrjár selstöður hafa verið í selinu. Stekkurinn er enda óvenjustór og er líklegt að hann hafi verið samnýttur. Svo er að sjá að þrjú hólf hafi verið í honum, auk safnhólfsins.

Hlöðunessel

Hlöðunessel – uppdráttur ÓSÁ.

Í bergveggnum á Arahnúk er hrafnsóðal og þar er sem uppgangan er á hnúkinn er Araselsgrenið. Svo virðist sem refurinn lifi þar enn góðu lífi því rjúpufiður á á víð og dreif ofan gjárinnar.
Vogheiði heitir svæðið einu nafni ofan Voga allt frá Gamla-Keflavíkurveginum upp úr og inn að landamörkum grannjarðanna. Vogaholtið er hins vegar á austurmörkum þess.
Í því er Jóhannesarvarða, er vestur undir Holtsgjá, aðeins norðan við austur frá Brandsgjá en v-n-v Vogasels. Í raun er Jóhannesarvarða á milli Arahnjúkssels og Vogasels. Varðan stendur hátt utan í litlum, en háum, klapparhól. Það eina sem vitað er um Jóhannesarvörðu er að þar hefði maður orðið úti.
Utan í Vogaholtinu að norðaustanverðu er Gamla-Vogasel eða Gömlu-Vogasel. Þar má sjá þrjár gamalgrónar tóftir og eina nýlega rétt fyrir ofan uppblásna kvos sem heitir Vogaselsdalur. Í Jarðabókinni 1703 segir að þarna hafi Stóru- og Minni-Vogar í seli. Ekkert vatnsból hefur fundist við Gamla-Vogasel. Norður af selinu er Vogaselsdalsgrenið og inn í „dalnum“ eru þrjú greni sem heita Dalsbotnsgrenin.

Tóftirnar á neðra svæðinu, í jaðri Vogaselsdals, sem nú er að verða jarðvegseyðingunni að bráð, mótar fyrir einu húsi með tveimur rýmum, auk þess það þriðja virðist óljóst austan þess. Þarna er greinilega um mjög gamlar tóftir að ræða, enda að mestu orðnar jarðlægar.
Efri tóftirnar, ofar í holtinu til suðausturs, geyma hús á þremur stöðum. Það nyrsta er tvískipt. Miðhúsið er byggt að hluta til í hól og er erfitt að greina útlínur þess svo vel sé. Efsta tóftin er fast undir háum kletti. Mikið er gróið í kringum hana og er ekki ólíklegt að húsið hafi verið stærra, en virðist. Austan efstu tóftarinnar er hlaðinn tvískiptur stekkur og sést lega hans vel.
Norðan við Gamla-Vogasel er Brunnastaðsel undir Brunnastaðaselsgjá. Um 15. mín. gangur er milli seljanna. Á efri gjárbarminum fyrir ofan selið er Brunnastaðaselsvarða. Heimildir eru til um Brunnastaðaselsvatnsstæði ofan ogs unnan selsins, en það hefur ekki fundist enn svo óyggjandi sé.

Nýjasel

Nýjasel – uppdráttur ÓSÁ.

Selstæðið er stórt og fallegt, snýr í norðvestur, og blasir við af Reykjanesbrautinni þegar ekið er um Stapann og inn úr (frá Reykjanesbæ til Voga). Af seljunum í heiðinni er Brunnastaðasel fjærst bygðinni. Upp undir gjánni eru nokkrar gamalgrónar tóftir, en aðeins norðar og neðar á grasblettinum eru tvær til þrjár nýrri. Í þröngri gjánni er lítil kví, óskemmd með öllu og hafa gjárveggirnir verið notaðir sem aðhald þegar ærnar voru reknar inn á mjaltartíma.
Tóftirnar undir hlíðinni, næst gjánni geyma þrjú hús. Tvö þeirra eru tvískipt og virðist kví vera við suðurenda þess efra. Milli þessara húsa er hús með einu rými. Vestan vestasta hússins er stekkur. Ytri tóftirnar eru tvískipt hús og þriðja rýmið er hlaðið reglulega úr grjóti aftan (norðan) við húsið. Lítill hóll er norðaustan við tóftirnar og er hlaðið gerði eða kví vestan undir honum, í skjóli fyrir austanáttinni.
Enn má sjá talsvert grjót í innveggjum húsanna í Brunnastaðaseli. Veggir standa yfirleitt vel og eru u.þ.b. 120 cm á hæð. Kvíin í gjánni er heilleg og hefur varðveist vel.
Brunnastaðaselsstígur lá frá bæ í selið. Milli Brunnastaðasels og Gamla-Vogasels er Markhóll, sem skiptir löndum Brunnastaða og Voga. Um tvo hóla er að ræða. Sennilega er sá efri (með vörðu á) endamörk, en sá neðri hinn eiginlegi Markhóll. Neðan hans er Markhólsgrenið.
Í Brúnum ofan og austan við Brunnastaðasel er Hemphóll eða Hemphólar, en þar áður fyrr áður smalar úr Brunnastaðahverfi um leið og skipt var í leitir. Hemphóllinn er mjög áberandi séður frá Kúagerði og á honum er varða. Heimild frá Grindavík segir hólinn heita Stóruvörðu. Sagt er að prestar Kálfatjarnarsóknar og Staðarsóknar í Grindavík hafi átt sameiginlega hempu og að hún hafi verið sótt á hólinn fyrir messu á hvorum stað og vegna þess sé nafnið Hemphóll tilkomið. Hemphólsvatnsstæðið er lítill mýrarpollur rétt austur af hólnum.

Pétursborg

Pétursborg – uppdráttur ÓSÁ.

Brunnastaðaselsgjá er efsta gjáin, sem eitthvað kveður að í heiðinni og liggur hún í sveig langt inn úr. Nokkuð inn með gjánni frá Brunnastaðaseli og neðan hennar er Hlöðuneskinn, en aðeins ein heimild er til um þetta örnefni (Jarðabókin 1703). Hlöðuneskinn er nokkuð brött brekka eða brekkur, sem liggja frá gjánni til norðurs og eru þar sundurgrafnar af moldargiljum, sem myndast hafa við framrás vatns.
Undir Hlöðuneskinn í lægð mót austri standa leifar Gamla-Hlöðunessels eða Hlöðunessels. Þar eru tvær gamlar tóftir, en túnið er svo til horfið vegna uppblásturs sem er mikil þarna. Í Jarðabókinni 1703 segir að selið í Hlöðuneskinn sé aflagt vegna vatnsskorts. Ekkert vatnsból er sjáanlegt við selið.
Vestari tóftin virðist hafa verið óskipt hús, sem bendir til þess að hún sé mjög gömul. Austan hennar, samsíða, er tvískiptur stekkur, nokkuð stór.
Enn má sjá móta fyrir grjóthleðslum þátt þær séu nú vel grónar og næstum jarðlægar, líkt og húsatóftin.
Neðan af Vatnsleysustrandarheiði sést vel til Gjásels, austan og sunnan við Knarrarnessel. Síðarnefnda selið er ofan við Klifgjá, en hið fyrrnefnda kúrir undir næstu gjá fyrir ofan Klifgjá, stundum nefnd Gjárselsgjá. Óvíst er frá hvaða bæ haft var í seli þarna því selstæðið er sagt í eða alveg við austurmörk Brunnastaðasels.

Vogasel

Vogasel – uppdráttur ÓSÁ.

Gjásel er ekki nefnt í Jarðabókinni 1703 og virðast tóftirnar þar vera með þeim yngstu í heiðinni. Heimildir nefna bæði Hlöðunesmenn og Brunnastaðamenn, en líklega hafa Hlöðunesmenn haft þarna í seli því árið 1703 er selstaða þeirra ofar í heiðinni aflögð vegna uppblásturs, en Brunnastaðir höfðu þá enn nothæfa selstöðu.
Tóftir húsanna standa þétt hlið við hlið í beinni röð undir gjárveggnum, sem bendir til þess að nokkrir bæir hafi haft þarna í seli. Heimildir geta um gott og mikið vatn í gjánni við Gjásel og sagt er að vatnið hafi bunað út úr berginu, en jarðskjálftar á fyrri hluta síðustu aldar hafi eytt þessum eina „fossi“ í hreppnum. Ein heikmild telur líklegt að selin umhverfis Gjásel hafi haft afnot af vatnsbólinu þar en áður fyrr hefur líklega verið vatnsstæði við hvert sel eða tiltölulega stutt frá þeim þó svo þau séu svo til vatnslaus nú.

Um er að ræða fjögur hús í selinu og stekk skammt sunnar. Hann er orðinn nokkuð óljós, en tóftirnar hafa varðveist vel. Húsin er öll í einni röð undir gjárveggnum, sem fyrr segir. Nyrsta húsið er utan í þrískiptu húsi. Hin húsin eru tvískipt með nokkuð stórum rýmum (af seljum að vera). Það bendir til þess að þau séu ekki mjög gömul miðað við sum önnur selin í heiðinni.

Arahnúkasel

Arahnúkasel – uppdráttur ÓSÁ.

Sjá má grjót í innveggjum. Vel gróið er í kringum tóftirnar og er selstaðan mjög vel greinileg þegar komið er að henni neðanfrá. Gjáselið er eitt hið fallegasta í heiðinni.
Gjáselsgjá og eins og aðrar gjár í heiðinni opnast þessi og lokast á víxl. Suðvestar er Holtsgjá, sem tengist að einhverju leyti Gjáselsgjá. Frá Gjáseli sést vel yfir til Knarrarnessels norðar í heiðinni.
Nokkurn veg norðvestur frá Arahnúk er Ólafsgjá og Ólafsvarða. Gjáin er í raun sprunga út úr vestasta hluta Klifgjár, en Ólafsgjá er mjög þröng og báðir veggir eru jafnháir landinu í kring. Hún sæist ekki fyrr en komi er að henni ef ekki væri varðan við hana. Um aldamótin 1900 hrapaði Ólafur Þorleifsson, bóndi úr Hlöðuneshverfi, þegar hann var að huga að fé rétt fyrir jól. Mikil leit var gerð að honum, en allt kom fyrir ekki. Árið 1931, eða um 30 árum seinna, fundust svo bein hans í gjánni þegar verið var að sækja kind, sem fallið hafði niður í sprunguna á nákvæmlega sama stað og Ólafur. Um atburðinn er ritað í bókinni Hrakningar og heiðarvegir, 3. bindi, eftir Pálma Hannesson og Jón Eyþórsson.
Í rauninni ætti óvant göngufólk ekki að fara eitt um Vogaheiðina – allra síst að vetrarlagi er snjór þekur jörð – því víða leynast sprungur og djúpar gjár opinberast oft skyndilega framundan, án minnsta fyrirvara. Það er a.m.k. mikilvægt að vera vel vakandi á göngum á þessu svæði. Þarna eru augun mikilvægasta skilningavitið.
Frábært veður. Fuglasöngur í heiði. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – SG – 1995.

Brunnastadassel-202

Brunnastaðasel.

 

Knarrarnessel

Knarrarnessel er nokkurn spöl ofan Klifgjár. Þar er flatlendast miðað við önnur selstæði á Vatnsleysustrandarheiðinni (Strandarheiðinni). Selstígurinn er ekki augljós frá Klifgjánni og upp í selið, en hann liggur fast við Knarrarnesselsvatnsstæðið, sem er um 100 metrum neðan og norðan við nyrstu tóftirnar. Þar er oftast vatn enda vatnsstæði þetta með þeim stærstu í heiðinni.

Knarrarnessel

Knarrarnessel.

Selstæðið er stórt með mörgum tóftum. Þar má finna átta slíkar, misjafnlega stórar og margflóknar. Þrjá hlaðna stekki er að sjá í selstöðunni. Fjöldi stekkja benda jafnan til fjölda selja á viðkomandi svæði. Hins vegar má geta þess að stekkir virðast ekki alltaf augljósir. Þannig má ætla að enn einn stekkurinn hafi fylgt austustu tóftunum þremur. Þær eru í grónum krika ofan við hinatr tóftirnar. Sjá má móta fyrir hleðslu milli tveggja húsa, en alls eru rýmin í þeim fimm að tölu. Tvær tóftanna eru nokkuð heillegar og jafnvel sjá hveru stór rýmin hafa verið. Í nyrstu tóftinni mældust innanrýmin 140×280. Það er svipað hlutfall og í öðrum rýmum annarra tófta, ekki einungis í þessu seli heldur og fleirum. Ein tóftin, sú syðsta í vestanverðri selstöðunni, er greinilega stærst umfangs. Hún hefur verið með fleiri rýmum en hinar, líklega einum fjórum, en það er óalgengt í seljum á Reykjanesskaganum, sem jafnan hefur þrjú slík, þ.e. eldhúsið með sérinngangi og búr og svefnaðstöðu með sameiginlegum inngangi.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – stekkur.

Því, sem hér er lýst, er einungis ályktun út frá því sem sést á yfirborðinu, en ef grafið yrði í rústirnar gæti ýmislegt annað komið í ljós, s.s. tengsl einstakra rýma innbyrðis. Stekkirnir eru svipaðir að gerð, tvö hólf. Þó má sjá móta fyrir bogadreginni hleðslu við endann á vestasta stekknum. Hlaðin kví er skammt norðan við selstæðið. Líklega höfðu flestir bæir í Knarrarnesshverfi selstöðu þarna og í heimildum er getið um Litla-Knarrarnessel og Ásláksstaðasel á þessum stað. Rétt fyrir ofan selið er nokkuð stór gjá sem snýr bergvegg til sjávar og er Gjáselsgjá framhald hennar til suðvesturs. Þegar bornar eru saman selstöður í landnámi Ingólfs sést að Vatnsleysuströnd og Grindavík hafa nokkra sérstöðu varðandi sel því þar er mörgum bæjum hrúgað saman á einn stað en svo virðist ekki vera annarsstaðar, hvorki á Rosmhvalanesi, Höfnum, né Hraunabæjum og ekki að sjá slíkt í Kjósarsýslu.
Nýleg lambaspörð voru í einni tóftinni (í apríl).

Breiðagerðisslakki

Brak á slysstað ofan Breiðagerðisslakka.

Norðaustur af selinu er flak úr þýskri Junkers könnunarherflugvél. Hún varð fyrir skotárás bandarískrar orrustuflugvélar í april 1943. Þrír fórust en loftskeytamaðurinn komst lífs af í fallhlíf. Hann var fyrsti þýski flugliðinn, sem bjargaðist úr flugvél sem skotin var niður yfir Íslandi og jafnframt sá fyrsti sem Bandaríkjamenn tóku höndum í Seinni heimstyrjödlinni. Sjá má merkingar á einstökum hlutum.
Auðnasel er norðaustur af Knarrrarnesseli, innan við slakkann, Breiðagerðisslakka, sem þýska flugvélin hrapaði í og er um 20. mín. gangur milli seljanna.

Breiðagerðissel - Auðnasel

Auðnasel – Uppdráttur ÓSÁ.

Selið liggur suðvestur við hæð eina, sem heitir Sýrholt. Margar tóftir eru þar mismikið grónar, en þarna var haft í seli frá bæjum í Auðnahverfi, s.s. Auðnum, Höfða og Breiðagerði. Á hæsta hólnum í seltúninu er varða. Vatnsstæði hefur ekki fundist við selið, en heimildir segja það vera norðvestur af því, nokkurn spöl neðan þess, og sunnan við háan og brattan klapparhól.

Tóftir í Auðnaseli eru á fjórum stöðum. Líklega eru þó austari tóftirnar tvær huti af sama selinu. Fjórða tóftin gæti mögulega verið tyrfður tvískiptur stekkur, en tveir aðrir, hlaðnir stekkir eru skammt norðar. Á tveimur stöðum við selstöðuna eru göt undir klapparhæðum. Svo virðist sem hleðslur séu niðri í þeim, en gróið er yfir þær að mestu.

Fornusel

Fornusel í Sýrholti – uppdráttur ÓSÁ.

Klofinn klapparhæð er vestan við selstöðuna, en ekki er að sjá hleðslur í henni. Vel hefði mátt nýta hana sem nátthaga og er ekki óliklegt að það hafi verið gert.

Fornuselshæða er getið í Jarðabókinni 1703 og þá þar sem Kálfatjörn og Þórustaðir höfðu í seli áður en þeir bæir fengu selstöðu í Sogaseli. Líklega eru Fornuselshæðir þær sömu og nefnt hefur verið Sýrholt. Þar eru fornar tóftir á a.m.k. tveimur stöðum, auk stekkst í gjá.
Hrafnslaupur er í Klifgjá neðan Auðnasels.
Strokkar heita klapparhæðir ofan Reykjanesbrautar. Í austurátt frá Strokkum er lítið selstæði, sem heitir Fornasel. Ein heimild segir það vera frá Þórustöðum, en önnur heimild segir að selið gæti heitið Litlasel og vera frá Landakoti. Í Jarðabókinni 1703 er ekki getið um Fornasel eða annaðs el á þessum slóðum, en bókin nefnir Fornuselshæðir, sem eru líklega nokkuð ofar í heiðinni, sbr. framangreint.

Fornasel

Fornassel – uppdráttur ÓSÁ.

Fornasel sést vel frá Reykjanesbrautinni, enda ekki langt ofan við hana. Sennilega er það eitt aðgengilegasta selið á Reykjanesskaganum – eitt hið minnsta, en jafnframt eitt hið fallegasta. Hæð (sem áreiðanlega hefur heitið eitthvað fyrrum) skilur að tóftir selstöðunnar. Þær eru annars vegar sunnan við hana og hins vegar norðan við hana. Á milli er vatnsstæðið.
Sunnanverðar tóftirnar eru umfangsmeiri. Þær eru vel grónar, en þó má ennþá sjá móta fyrir tveimur rýmum og því þriðja skammt sunnar. Líklegt er að þar hafi eldhúsið verið. Austan við tóftirnar er skeifulaga gerði, huganlega nátthagi.
Vatnsbólið hefur verið bæði áreiðanlegt og gott. Hlaðið hefur verið umhverfis það og sést enn móta fyrir hleðslunum austan þess og norðan.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – uppdráttur ÓSÁ.

Norðaustan við vatnsstæðið er tvískipt tóft, að öllum líkindum stekkur. Hann er mjög gróinn og ber merki húss, en ólíklegt er að svo hafi verið.
Fróðlegt er að skoða, bera saman og greina hinar ýmsu selstöður á Reykjanesskagnum, en FERLIR hefur nú skoðað 145 slíkar. Selin hafa ekki öll verið nýtt á sama tíma, en telja má, miðað við heimildir, að um helmingur þeirra hafi jafnan verið í notkun að jafnaði. Eldri selstöður voru gerðar upp aftur og aftur og síðan ný reist að teknu tilliti til nýrra krafna og aukins rýmis, enda verður að telja mjög líklegt að haft hafi verið í seli hér á landi allt frá fyrstu búsetu og þangað til selsbúskapurinn lagðist af að mestu skömmu fyrir aldamótin 1900. Merki um slíkt má sjá í nokkrum seljanna. Þannig má og sjá, miðað við stærð rýma og gerð seljanna, hvaða sel hafi verið í notkun á svipuðum tíma. Elstu selin eru greinilega einföldust að allri gerð, en seinni tíma selin eru formlegri og rýmin stærri.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – SG – 1995

Knarrarnessel

Knarrarnessel – vatnsstæðið.

Kálfatjörn

Úr fundargerðarbók sóknarnefndar Kálfatjarnarkirkju 1. mars árið 2014:
kalfatjorn-legsteinn„Á síðasta sóknarnefndarfundi barst mér í hendur áhugavert bréf frá Bryndísi Rafnsdóttur.
Þar er tíundað um elsta legstein Kálfatjarnarkirkjugarðs.
Þessi steinn er á vinstri hönd, liggjandi þegar gengið er upp tröppur Kálfatjarnarkirkju.
Kirkja hefur verið á Kálfatjörn allt frá upphafi. Hún kemur fyrir í kirknatali Páls biskups frá 1200 og var hún Péturskirkja í kaþólskri tíð.

Það sem á eftir kemur er ritað af Bryndísi Rafnsdóttur fyrrverandi kirkjugarðsverði.

„Hér undir hvílir greftrað ærlegt guðsbarn Eyjólfur Jónsson lögréttumaður.
Hans vegferðardagar voru 58 ár sofnaði Guði 14 september 1669.

Þér eruð gengnir til fjallsins Síon og til borgar Guðs lifanda.
Til himneskra Jerúsalem.
Heb=Hér er 1.Z

Þetta er skrifað orðrétt eftir Gunnari Erlendssyni bónda frá Kálfatjörn.
Um letur á elsta legsteini í kirkjugarðinum við Kálfatjarnarkirkju.
Honum var mikið í mun að ég skrifaði þetta upp, svo við mæltum okkur
mót eitt siðdegi í nóvember 1995.
Daginn eftir verður Gunnar bráðkvaddur á túninu við hlið kirkjunnar á Kálfatjörn.“

Kálfatjörn 1920

Kálfatjörn 1920.

 

Öskjuholtsskjól

Gengið var með Jónatani Garðarssyni um nokkra skúta í landi Hvassahrauns, Straums og Þorbjarnarstaða. Byrjað var á að rölta upp í skúta í Öskjuholti með viðkomu í Virkinu undir Virkishólum, þaðan var haldið í skúta í Smalaskála, þaðan eftir Alfaraleiðinni yfir að Þorbjarnarstöðum, að Loftskúta (Grænudalaskúta) og stefnan tekin á Gránuskúta og síðan Kápuskjól og Kápuhelli í Jónshöfða með viðkomu í stóru Tobburétt (Grenigjárrétt) og litlu Tobburétt.

Þorbjarnarstaðir

Gránuskúti – fjárskjól ofan Þorbjarnarstaða.

Virkið var nota til tilhleypinga í brundtíð.
Sunnan undir Öskjuholti, klofnum ílöngum hraunhól skammt ofan línuvegarins um Hvassahraun, er gat. Hleðsla er um gatið. Þegar inn var komið sást vel hvar hlaðið hafði verið efst fyrir skútann, en að utan er vel gróið yfir hleðsluna. Um er að ræða lágt, en rúmgott fjárskjól. Innst undir hlöðnum veggnum voru nokkur bein. Erfitt er að koma auga á opið, nema komið sé að holtinu úr suðri.
Á Smalaskálahæð er varða. Önnur er norðar og sú þriðja skammt austar. Sunnan undir holtinu, sem þar er miðsvæðis er gat. Hleðsla er um gatið. Þegar inn var komið blasti við rúmgott fjárskjól. Fyrirhleðsla er innar í því til að varna fé áframhaldandi för inn eftir hvolfinu. Skjólið er nokkuð þurrt. Nokkrir smalaskálar eru í hraununum. Yfirleitt var nafnið notað um skála eða skjól, en það virðist ekki eiga við á Reykjanesskaganum. Þar virðist heitið hafa verið notað um hæðir, nema nöfnin hafi verið tengd hæðum með skjólum í, líkt og þarna.
Skoðaðar voru landamerkjavörður milli Hvassahrauns og Lónakots sem og leiðarvörður við Alfaraleiðina og komið við í Loftskúta, fallegu fjárskjóli. Þar eru og sagnir um að menn frá Hvassahrauni hafi geymt rjúpnafeng sinn er þeir voru við veiðar í hrauninu.
Nokkur leit hefur verið gerð að Gránuskúta, Kápuskjóli og Kápuhelli, en tveimur þeirra er lýst í örnefnaslýsingu fyrir Þorbjarnastaði.

Kápuskjól

Kápuskjól (Kápuhellir).

Gengið var um heimatún Þorbjarnastaða, rústir síðasta torfbæjarins í landi Hafnarfjarðar. Búið var að Þorbjarnastöðum fram undir seinna stríð (1940). Þar bjuggu síðast Ingveldur Jónsdóttir, dóttir Guðmundssonar á Setbergi, og Þorkell Árnason frá Guðnabæ í Selvogi. Þau eignuðust 11 börn – og það þótt húsbóndinn hafi yfirleitt verið fjari bæ til að afla lífsviðurværis. Það færi vel að gera bæinn upp og hafa hann til sýnis sem dæmi um slíka bæi er voru víða í umdæminu. Hann hefur allt til að bera; heimagarð, vörlsugarð, heimtröð, brunn, selstíg, stekk og fjárskjól.
Gránuskúti er ekki auðfundinn. Hann er sunnan við Þorbjarnastaði, austan Miðmundarhæðrar. Falleg hleðsla er um munnann, en þegar inn er komið tekur við flórað gólf að hluta og fyrirhleðslur. Skjólið er mjög rúmgott og hefur verið vel lagfært. Þá er það óvenjuþurrt. Grána gæti verið nafn á á frá Þorbjarnarstöðum, líkt og Grákolla í frásögninni af Arngrímshelli í Klofningum, þeirri er allt fé Krýsuvíkurbænda átti að hafa verið komið frá.
Haldið var upp í gegnum Selhraun og upp í stóru Tobburétt í Grenigjá. Um er að ræða fallegar hleðslur í og um gjána. Greni er skammt norðan við hana. Steintröll vakir yfir gjánum. Svæðið er allvel gróið. Austar er litla Tobburétt. Gengið var að henni í bakaleiðinni.

Tobburétt

Tobba við Tobburétt.

Straumsselsstígnum var fylgt upp í Jónshöfða. Þar í Laufhrauni komu bæði Kápuskjól og Kápuhellir í ljós. Þessa skúta er einnig erfitt að finna. Lítil varða er á höfðanum ofan við skjólin. Hún er á landamerkum Þorbjarnarstaða og Straums. Skjólið er í landi Straums, en hellirinn í landi Þorbjarnastaða. Fallegar fyrirhleðslur er fyrir þeim báðum. Hellirinn er heldur stærri. Fjárkyn Þorkels á Þorbjarnastöðum var sagt kápótt og þótti allsérstakt. Þá var það ferhyrnt og snúið upp á hornin, sem einnig þótti sérstakt.
Straumsselsstíg var fylgt niður að litlu Tobburétt í Tobbuklettum. Fyrirhleðsla er í stórri hraunsprungu, en ef vel er að gáð má sjá að hlaðinn bogadreginn veggur hefur verið framan við hana. Hann hefur verið leiðigarður fyrir fé, sem rekið var að réttinni að ofanverðu. Stígurinn liggur nú í gegnum garðinn. Þegar horft var á þverklett sprungunnar mátti vel sjá móta fyrir andliti í honum. Ekki er ólíklegt að ætla að álfarnir hafi viljað með því láta vita af tilvist sinni á svæðinu með þeim skilaboðum að fólki gæti þar varfærni.
Annars eru álfa- og huldufólksáminningar víða í hraununum. Þeir, sem gaumgæfa og kunna að lesa landið vita og þekkja skilaboðin. Þegar farið er eftir þeim er engin hætta búin, en ef einhver gleymir sér að er ólæs á landið – guð hjálpi honum.
Gengið var til baka eftir Straumsselsstíg í gegnum Selhraunið og niður að Þorbjarnastöðum.

Öskjuholtsskúti

Í Öskjuholtsskúta.

Loftskúti

Á korti mátti sjá götu dregna upp frá Hvassahrauni áleiðis upp í Skógarnef. Gatan endar, skv. kortinu, á landamerkjum Hvassahrauns og Lónakots, nokkuð ofan við Lónakotssel. Á þessu korti eru merkin svolítið vestar en á nýrri kortum.
Veturinn að víkja fyrir vorinuÆtlunin var að reyna að skoða hvort þarna marki fyrir leið, og ef svo er, hvert hún liggur og í hvaða tilgangi. Ekki er ólíklegt að um „skógargötu“ hafi verið að ræða, líkt og nöfnur hennar frá Óttarsstöðum og Straumi.
Reyndar hafði Eggert Kristmundsson frá Stakkavík (Brunnastöðum) sagt að Skógarnefsskútinn væri „neðan við Nefið og á mörkum“. Þarna gætu leynst, við nánari leit, áhugaverðar minjar!
Þá var  ætlunin að koma við í Hvassahraunsseli og fylgja selsstígnum áleiðis að Hvassahrauni.
Gengið var upp með Virkishólum, Virkið barið augum og götu síðan fylgt upp hraunið til austurs. Stefnan á henni var ofan við Grændali og nokkuð norðan við Hálfnunarhæðir. Legan var áfram upp tiltölulega slétta hraungróninga millum Hvassahraunssel og Lónakotssel, svo til beint á áberandi vörðu á klapparhæð. Við götuna mátti víða sjá litlar mosagrónar vörður, jafnvel einungis einn stóran stein á öðrum jarðföstum eða tvo slíka.
KindÁ leiðinni voru rifjaðar upp örnefnalýsingar af göngusvæðinu.
Ari Gíslason skráði: „Upp af bænum, fast ofan við veginn [neðan núverandi Reykjanesbrautar], eru hólar sem heita Hjallhólar. Þetta eru allfyrirferðarmiklir hraunhólar með sprungum og undir þeim sem er næst vegi er Hjallhólsskúti, er fjárhellir. Svo taka við þar ofar Smalaskáli og Smalaskálahæðir. Á Smalaskála er varða sem blasir mjög vel við af Hjallhólum. Svo er þar austar, upp af Skyggni er fyrr getur, tveir hólar nefndir Virkishólar og milli þeirra er gömul fjárborg sem heitir Virki. Þar upp af er svo hólaklasi sem heitir Brennhólar. Beint upp af Öskjuholti í líkri fjarlægð og Smalaskáli heitir svo Öskjuholtsbruni.
Upp og suður af Öskjuholtsbruna er Jónsvarða, stendur þar á flatri klöpp [áberandi stök varða]. Þar upp af eru svo Grendalir og Grendalahellir er ofarlega í þeim, norður af Brennihólum er fyrr getur. Milli Smalaskála og Brennihóla er smáskúti rétt ofan við Virkið sem heitir Loftsskúti. Upp af Grendölum er stakur hóll sem heitir Skuggi. Upp af Brennihólum efst eru Hálfnaðarhæðir, þar hefur verið hálfnað upp í Hvassahraunssel, stórar hæðir tvær. Þar upp og austur af eru Selsskrínshæðir og austur af þeim er Viðunarhóll, þar var skógur. Þessi hóll er austur af Skugga.

Skúti undir vörðu á mörkum Hvassahrauns

Þá er í suðaustur af Selskrínshæðum Hvassahraunssel en það er milli Mosanna fyrrnefndu og Krossstapa en Neðsti-Krossstapi er á merkjum móti Lónakoti og Mið-Krossstapi er hornmark þar sem þrjár jarðir mætast. Krossstaparnir eru í suðaustur frá Skugga.
Upp af Hvassahraunsseli eru Selhæðir, þar austur og upp af er Snjódalaás, allstór ás með stóru keri í sem heitir Snjódalir. Þá beint upp og austur er Skógarnef, þar voru gren, það er hæð upp til fjalls, lyngi og skógi vaxin og nær upp að Búðavatnsstæði, þar er oftast vatn. Upp af því er Markaklettur þar mætast lönd Óttarsstaða og Krýsuvíkur.“
Í örnefnalýsingum Gísla Sigurðssonar Guðmundar Sigurðssonar má sjá eftirfarandi: „Lítið eitt vestar eru Hjallhólar og Hjallhólaskúti þar í. Hann var fjárbyrgi. Suður af þessu svæði er Smalaskáli og Smalaskálahæð. Þar á er varða, Smalaskálavarða. Hún sést vel af Hjallhólum. Í suðaustur frá Skyggni eru þrír miklir klapparhólar, sem heita Virkishólar. Virkishóllinn vestasti er stærstur. Mið-Virkishóll er minnstur, og þar austur af er Virkishóllinn austasti. Milli þeirra er hringlaga jarðfall í hraunið, tveggja metra djúpt og þrettán metra vítt. Þetta er Virkið. Þarna var hrútunum hleypt til ánna um fengitímann. Þar suður og upp af er hólaþyrping, Brennhólar. Loftsskúti er fjárbyrgi milli Smalaskála og Brennhóla. Norðaustur af  Virkishólum eru Draugadalir. Þar eru einnig Grændalaflatir, Grændalir, Grændalahellir, sem er fjárskjól, og Grændalavarða. Upp af Grændölum er hóll, sem nefnist Skuggi.
Heiman úr Tröðum liggur troðningur suður um Hellur, suður á hraunið. Það er Hvassahraunsselsstígur eða Selsstígur. Rúmgott skjól syðst í Skorási, skammt sunnan markaStígur þessi lá áfram suður hraun allt til Krýsuvíkur. Upp af Brennhólum er Hálfnaðarhæð. Þar er hálfnuð leið frá bænum í Selið. Þá tekur við sunnar nokkuð Selskrínshæð og þar sunnar er Viðunarhóll, skógi eða hrísi vaxinn. Þá er komið í Selið eða Hvassahraunssel, sem er vestan undir Selásum. Veggirnir standa enn nokkurn veginn uppi, og gróður er þar í kring. Vatnsbólið er undir skúta, eiginlega beint austur af Selinu, og er erfitt að finna það [það er í litlu, grónu jarðfalli, einu af þremur, sem þar eru, skammt austan við rana er liggur niður frá Selásnum].
Sunnan við Rjúpnadalahraun tekur við hraunhryggur, er liggur frá vestri til austurs. Heitir það Öskjuholt og nær vestur í Afstapabruna. Þar er að finna Öskjuholtsskúta [erfitt er að finna opið því gróið hefur fyrir það, en inni má sjá allmiklar fyrirhleðslur], Öskjuholtsgjá og Öskjuholtsbruna ofan til. Þar suður af eru Höfðar, allgott beitiland. Efst í Höfðunum er Sauðhóll og Sauðhólsskúti eða Sauðhólsbyrgi. Suður af Öskjuholti er svo Jónsvarða og stendur á hraunklöpp.“ Þá segir ennfremur: „Þaðan úr Búðarhól liggur línan um Klofningsklett, Skógarnef, Skógarnefsskúta, sem er fjárskjól, og Skógarnefsgren.“
Hér er Skógarnefsskúti sagður á landamerkjum Hvassahrauns og Lónakots/Óttarsstaða, en merki Lónakots ná skammt upp fyrir Lónakotssel. Skútans er ekki getið í örnefnalýsingum þeirra jarða, svo leiða má líkur að því að hann sé inni í Hvassahraunslandi.

Í Hvassahraunsseli

Eftir viðkomu í eiginlegri „Dauðagildru“, þ.e. litlu, en djúpu jarðfalli utan í klapparhæð (ef einhver hæð ætti að fá „Dauða“nafnbótina þá er það þessi staður) milli seljanna þar sem sjá mátti beinagrindur þriggja kinda, lá gatan upp með syðsta hluta mikillar klapparhæðar, þeirri sömu og Skorás er nyrsti hluti af. Undir honum er Lónakotssel. Þarna á hæðinni eru tvær háar vörður, auk selsvörðunnar. Þá eru þrjár minni í réttri röð, í beinni línu á mörkum jarðanna. Stærri vörðurnar tvær höfðu greinilega aðra þýðingu, enda sjást þær mjög langt að þegar komið er upp frá Hvassahrauni, einkum sú syðri. Þegar að var gætt kom ljós önnur lítil varða skammt suðaustan við syðri vörðuna, á brún á stóru, grónu og ílöngu jarðfalli. Við norðvesturenda þess, undir stóru vörðunni, er hið ágætasta fjárskjól. Ekki var að sjá manngerðar hleðslur framan við munnann, en þar er gróinn lyngbakki. 

Gatan, sem rakin var upp að sunnanverðum Skorás

Líklegt má telja að þarna hafi verið fjárskjól og/eða nátthagi og þá sennilega frá Hvassahraunsseli. Örskammt sunnar er stór og rúmgóður skúti með mold í botni – hið besta fjárskjól. Snjór huldi framanverðan innganginn, en aðrekstur að munnanum hefur verið mjög góður þar sem hann er í krika utan við fyrrnefnt jarðfall.
Nyrðri stóra varðan, skammt sunnan við Skorásvörðuna, er einmitt ofan við fjárskjól og nátthaga frá Lónakotsseli.
Haldið var yfir að Hvassahraunsseli, en selsvarðan norðaustan þess sést greinilega þar sem hún stendur við gjásprungu á klapparhæð, Selásnum.
Blankalogn, sól og friður var þarna í selinu þennan vordag. Tóftirnar í selstöðunum tveimur höfðu komið vel undan sjónum og böðuðu veggi sína í sólinni. Tíbráin lá yfir þeim í jarðvarmanum. Við skoðun á hugsanlegri götu upp úr selinu kom í ljós að ein slík liggur upp frá því sunnan við Selásinn áleiðis upp í Mosa. Sennilega hefur gatan, sem liggur framhjá Bögguklettum inn í gegnum Skógarnefið og áfram inn á Óttarsstaðaselsstíg, haft þvergötu sunnan við Skógarnefið er lá niður í Hvassahraunssel ogáfram til bæjar.
Selsstígurinn sést glögglega þar sem hann liggur vestur úr selinu, að Hálfnaðarhæð. Þegar komið er yfir línuveginn verður erfiðara að fylgja stígnum því tveir slíkir koma til greina; annars vegar um Smalaskála og hins vegar sunnan Grændala niður með Virkishólum.
Stök varða er á milli leitanna. Stendur hún á lágri hæð í krika hærri klapparhæðar. Erfitt er að sjá til hvers hún hefur verið hlaðinn, nema ef vera skyldi að greni gæti hafa verið þar í hæðinni. A.m.k. tók hundtík, sem var með í för, viðbragð, brá sér undir eini er slútti yfir skúta og virtist bæði óróleg og leitandi.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.
Virkið

Tóustígur

Malarvegurinn frá Keflavíkurveginum (Reykjanesbrautinni) upp á Höskuldarvelli lá í gegnum hraunnámur upp í gegnum Afstapahraun úr Kúagerði. Gífurlegt magn hrauns hefur verið fjarlægt þarna austan brautarinnar. Þegar Reykjanesbrautin var tvöfölduð voru gatnamótin færð sunnar og sameinuð gatnamótum Vatnsleysustrandarvegar. Frá þeim er nú ekið til austurs inn á línuveg, eftir honum inn á efnistökusvæðið og síðan í gegnum það til austurs, inn á fyrrnefndan veg austast á svæðinu.
TóustígMinna fer fyrir annarri gamalli götu upp hraunið; Tóustígnum. “Austan við fyrrnefndan veg [úr Kúagerði] upp í hraunið komum við að Tóustíg, Tóarstíg eða Tóustíg en hann lá upp í Tórnar eða Tóurnar eins og málvenja er orðið að segja. Stígurinn var eyðilegaður að mestu þegar efnistakan í Reykjanesbrautina fór fram en upphaf hans sést þó ennþá og þá rétt neðst þar sem hraunið er enn óraskað. Stígurinn kemur svo aftur í ljós fyrir ofan ruðningana.
Tóurnar eru nokkrir óbrennishólmar sem ganga í gegn um mitt hraunið [Afstapahraunið] til suðsuðausturs. Gróðursvæði þessi hafa líklega heitið Tór, samanber grastó (et.) eða grastór (ft.), en nafnið afbakast í tímans rás…
Tórnar eru aðgreindar í Tó eitt, Tó tvö, Tó þrjú, Tó fjögur, Hrísató og Seltó en tvö síðustu nöfnin spanna yfir efsta hluta Tónna sem er nokkuð stór.

Tóur

Tóustígur vestast.

Í Tónum er fallegur gróður s.s. brönugrös, blágresi, birkikjarr, víðibrúskar og ýmsar lyngtegundir.”
Í Tóu eitt er m.a. að sjá grjótgarða sem notaðir voru til að veita hríshestunum aðhald, auk þess sem hún gæti hafa verið notuð sem aðhald fyrir fé. Í Tóu tvö er lítið mosagróið grjótbyrgi, hlaðið af Vatnsleysubræðrum árið 1940. Í Tóu þrjú er Tóarker, fjárskjól. Í Tóunum eru greni og má sjá hleðslur eftir refskyttu í Seltónni.
Neðsti hluti Tóustígsins er enn ósnertur á u.þ.b. 150 metra kafla, sem fyrr er lýst. Þar sem stígurinn kemur inn í hraunið er hann vel gróinn. Hvítskófnar klappir Þráinsskjaldarhraunsins standa upp úr annars grónu hrauninu umhverfis.

Tóur

Tóur – garður vestast.

Ofar og norðar hefur Afstapahraunið, sem rann 1151, stöðvast. Jarðsíminn liggur þarna við mynnið. Lítil varða er á hraunhæð skammt norðan við “innganginn” og önnur hærri skammt norðvestan hennar. Auðvelt er að fylgja stígnum upp að veginum, sem lagður var yfir hann. Norðan vegarins birtist stígurinn síðan á ný og liggur þá austnorðaustur að hárri hraunbrún.

Tóur

Tóur – stígurinn vestast í gegnum hraunið…

Ofan hennar hefur öllu verið raskað, allt þangað til komið er suðvesturmörkum Tóu eitt. Þar sést stígurinn enn þar sem hann liggur niður í Tóuna, yfir fyrrnefndan grjótgarð.
Þegar unnið var við tvöföldun Reykjanesbrautarinnar hafði gröfustjóri tekið það upp hjá sjálfum sér að moka hrauninu á stóru svæði upp á grjótflutningsbílana. Náðist þó að stöðva stjórnlausa athafnasemina rétt áður en hann komst í garðinn. Kom þá í ljós að gröfumaðurinn var kominn langt út fyrir þau mörk sem heimil höfðu verið til efnistöku. Líklega er ekki um neitt einsdæmi að ræða í þessum efnum.

Tóur

Tóur vestanverðar.

Upp úr Tóu eitt má síðan fylgja Tóustígnum upp í gegnum Tóurnar til austurs, sem fyrr sagði.
Sjá meira um Tóurnar HÉR og HÉR

Fjölmargar sagnir eru til um áhugaleysi fornleifayfirvalda landins á Reykjanesskaganum. Oftar en ekki hafa þau leyft eyðileggingu fornra minja án hins minnsta tilefnis.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, SGG – 1995, bls. 85-87.

Varða við Tóustíg

Alfaraleiðin

Ætlunin var að ganga stuttan spöl eftir Alfaraleiðinni norðan Virkishóla að Hvassahrauni. Leiðinni, sem er hin gamla þjóðleið milli Innnesja og Útnesja, frá Gerði og Þorbjarnastöðum hefur áður verið lýst hér á vefsíðunni.

Alfaraleiðin

Alfaraleiðin frá Hafnarfirði að Þorbjarnastöðum.

Alfaraleiðin á þessum kafla er vel greinileg. Þegar ný misæg gatnamót voru gerð á tvöfaldri Reykjanesbraut var meira brotið af leiðinni en áður hafði verið gert. Hún hverfur á nýgatnasvæðinu, en kemur í ljós suðvestan þeirra. Þaðan er hægt að fylgja götunni til vesturs sunnan Skyggnis og niður að trérimlaréttarstæðinu norðaustan við Hvassahraun, sunnan gamla Keflavíkurvegarins. Þar hverfur gatan í útsléttu, en kemur aftur í ljós norðan Hjallhóla. Þar fylgir gatan hraunhólum uns hún hverfur á ný undir gamla Keflavíkurveginn. Hún sést síðan ekki aftur fyrr en vestan við Kúagerði þar sem nafnið breytist í Almenningsveg.
Þar sem staldrað var við Hjallhóla var ekki úr vegi að rifja upp helstu örnefni í nágrenninu. Eftirfarandi upplýsingar eru úr örnefnalýsingum fyrir Hvassahraun.
„Jörðin Hvassahraun er allmikil jörð að landrými og er meirihluti þess eldbrunnið land, bærinn sjálfur er nærri sjó, norðan þjóðvegarins sem liggur um Suðurnesin. Rétt er þar austan við bæ, er allhár hóll norðan við veg þar sem vegurinn liggur milli þess hóls og annarra sunnan vegar. Þessi hái hóll heitir Skyggnir, þetta er stór hraunhóll, sundursprunginn með vörðu á. Þaðan sést vítt um landið og er gott að svipast þaðan til örnefna en upphaflega hefur hann fengið nafn sitt af að þaðan var gott að skyggnast eftir kindum og öðrum búfénaði. Á veginum rétt þegar komið er inn í Hvassahraunsland að austan er hraunlendi nokkuð greiðfært og slétt af hrauni að vera, þar heitir Sprengilendi, nær alllangt niður fyrir veginn. Upp við veg og um veg er Sprengilendið, það er hæð ofan vegar, er þar nafnlaus lægð.
Nú færðum við okkur heim í tún. Hvassahraunsbær stóð á klapparrana. Þar var oftast í fyrri daga tvíbýli, Austurbær og Vesturbær. Hellur eru ofan vegar og ná þær niður í tún, slétt land, er þetta þar vestar. Ofan [við] veg er svo Hjallahóll er síðar getur. Stærsti hóllinn og efsti á því er stór hóll sem heitir Sönghóll. Á honum var eitt sinn býli, þar bjó kona er Margrét hét er átti 10 börn. Norður af Sönghól er lægð sem heitir Leynir, suður af Sönghól milli Traðarinnar sem var en er nú horfin, hét þar Rófa nær vegi. Svo er þar nær bæ Beinateigur, er svo laut þar norður af, var einnig meðfram heimreiðinni.

Leynir

Skjól í Leyni.

Vestur af Leyni er svo Langhóll, sprunginn hraunhóll áfastur við Sönghól og norðan undir honum er smádalur sem heitir Þjófagerði. Svo er annað gerði þar vestur af sem heitir Kotagerði. Þar er klöpp og stór hóll á bak við það og heitir það Miðmorgunshella. Svo eru þar norður af Hvassahraunskot, þar bjuggu áður fyrr fjórir menn og þar eru balar sem heita Kotatún. Vestur af Langhól heitir svo Norðurvöllur og þar næst er svo hóll sem heitir Kirkjuhóll rétt við húsið. Austur af honum er annar klettur grasivaxinn að ofan og heitir hann Einbúi, það er álfakirkja. Geta réttsýnir menn séð álfana þyrpast þangað til messuhalds á helgum dögum og þar er ekki messufall. Eitt sinn sá maður nokkur líkfylgd frá Miðmorgunshellu að Einbúa.
Upp af bænum, fast ofan við veginn, eru hólar sem heita Hjallhólar. Þetta eru allfyrirferðarmiklir hraunhólar með sprungum og undir þeim sem er næst vegi er Hjallhólsskúti, er fjárhellir. Vatnsgatan lá heiman frá bæ suðvestur í Vatnsgjárnar sunnan þjóðvegarins. Vatnsgatan var einnig kölluð Suðurtraðir. Vatnsgatan liggur í Lágarnar. Í þeim eru Vatnsgjárnar. Næst veginum er Helguhola. Þá er Þvottagjá og fjærst Ullargjá. Þar var þvegin ull.Sjávargatan lá heiman frá bæ niður í Víkina. Heiman úr Tröðum liggur troðningur suður um Hellur, suður á hraunið. Það er Hvassahraunsselsstígur eða Selsstígur. Stígur þessi lá áfram suður hraun allt til Krýsuvíkur.“
Heimalandi Hvassahrauns er lýst af nákvæmni annars staðar á vefsíðunni.
Frábært veður. Gangan tók 33 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar fyrir Hvassahraun.

Leynir

Byrgi í Leyni.

Spákonuvatn

Óvenju litlar heimildir virðast vera til um jafn stórbrotið svæði og umleikur Spákonuvatnið undir norðurhlíð Selsvallafjalls. Hér er þó getið a.m.k. tveggja:
Spakonuvatn-2„Norðausturendi Núpshlíðarháls er þríklofinn og heitir vestasti hlutinn Trölladyngja. Núpshlíðarháls er nær eingöngu úr móbergi en heita má að allt flatlendi á svæðinu sé þakið ungum hraunum. Lítill þverdalur, Sog, skilur nyrsta hluta Núpshlíðarháls frá meginhálsinum, þ. á m. Trölladyngju. Móbergið í Sogum er mikið ummyndað og framburður úr Sogum til vesturs hefur fyllt hraunin á flatlendinu á allstóru svæði og myndað Höskuldarvelli, framburðarsléttu á hraununum vestan við Trölladyngju.
Trölladyngja er í jaðri gos- og sprungureinar Krýsuvíkur. Allmiklar gossprungur eru á svæðinu og töluvert sést af sprungum og misgengjum í móbergi. Yngstu hraun á svæðinu eru
hugsanlega runnin eftir landnám. Jarðhiti er á allstóru svæði við Trölladyngju en nokkuð dreifður.
Til Spakonuvatn-3norðausturs frá dyngjunni stíga gufur upp úr hraunum og móbergi á um 1 km löngum kafla. Sunnan við Trölladyngju eru minniháttar leirugir vatnshverir og gufuaugu í Sogum. Í hrauni framan og vestan við Sogin er ungur sprengigígur og í nágrenni hans heit jörð með gufuaugum. Hverinn eini, sem er að mestu kulnaður, er um 2 km suðvestur með hálsinum, skammt norður af Selsvöllum. Þar er allmikið hverahrúður. Jarðhitasvæðið er í jaðri Reykjanesfólkvangs og að hluta á svæði sem er á náttúruminjaskrá (Keilir og Höskuldarvellir). Í auglýsingu um fólkvanginn (Stj.tíð. B, nr. 520/1975) er jarðrask óheimilt nema með leyfi Umhverfisstofnunar en þó er hagnýting jarðhita og mannvirkjagerð henni tengd undanskilin friðlýsingarákvæðum. Hlutar svæðisins njóta
sérstakrar verndar samkvæmt liðum a, b og d í 37. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd.

Spakonuvatn-4

Svæðið er að mestu þurrt á yfirborði. Lækir falla frá ummynduðum svæðum í Núpshlíðarhálsi um Höskuldarvelli og Selsvelli. Spákonuvatn er í lægð í móberginu skammt sunnan við Sog. Spákonuvatn er sennilega gígvatn. Úr Sogum fellur lækur norður á Höskuldarvelli og annar úr Núpshlíðarhálsi niður á Selsvelli.“
„Trölladyngja er fjall norðarlega í vesturhluta Núpshlíðarháls, en hún liggur rétt austur af Höskuldarvöllum og er vel gróið svæði. Norðan við Trölladyngju er Eldborg, gígur sem nú er löngu skemmdur vegna efnistöku.
Skammt sunnan við Trölladyngju er nokkur lægð í landslagið og er þar litskrúðugt háhitasvæði seSpakonuvatn-5m kallast Sog og er grasi gróið allt um kring. Í Sogunum er ekki mikil yfirborðsvirkni jarðhita en fróðlegar rofmyndanir er þar að finna í ummynduðu berginu. Þegar gengið er upp úr Sogunum að sunnanverðu og haldið til austurs, fæst útsýni yfir Móhálsadal á milli Sveifluháls og Núpshlíðarháls. Eldfjallalandslagið í dalnum er tilkomumikið og þar er mikið um fjölbreytileg eldvörp, gíga, gígaraðir og nútímahraun. Hugsanlega er eitt tilkomumesta útsýni fyrir eldfjallalandslagið á Reykjanesskaga á þessu svæði. Þarna eru nokkur minniháttar stöðuvötn eða tjarnir í landslaginu. Djúpavatn liggur í dalverpi skammt suðaustur af Sogum og minni vötn sem nefnast Grænavatn (sunnar) og Spákonuvatn (norðar) liggja upp á hálsinum sjálfum en líklega hefur eldgos úr gíg stíflað upp lítið dalverpi og myndað tjörnina sem kallast Spákonuvatn (Jón Jónsson, 1978). Vestan við Núpshlíðarhálsinn er eldfjallalandslagið ekki síður tilkomumikið. Þar er til að mynda að finna einn sérstæðasta gíg á Reykjanesskaga er Jón Jónsson hefur nefnt Moshól. Gígurinn er afar reglulegur og stendur mosavaxin upp úr grasi grónu sléttlendinu.

Spakonuvatn-6

Það er nokkuð lýti á þessu sérstæða náttúrufyrirbæri að reynt hefur verið að aka upp á gíginn að norðanverðu og þar hefur mosakápan skemmst nokkuð. Gígurinn er dæmi um eldvarp sem höfundur telur að ætti að njóta sérstakrar verndar þó ekki væri nema vegna fagurfræðilegs gildis. Eftir því sem haldið er í norður frá gígnum í átt að Trölladyngju eru það ýmsar gígmyndanir sem hraun hafa flætt úr á sögulegum tíma og runnið upp að móbergshryggjunum. Þessu svæði hefur nú verið raskað verulega með lagningu vega og slóða auk þess sem borstæði hefur verið komið fyrir á svæðinu og má leiða að því líkum að þetta dragi talsvert úr náttúrulegri upplifun á eldfjallalandslagi svæðisins. Svæðið var valið sem jarðminjasvæði í eldfjallagarð þar sem þar er hægt að sjá þar afar fjölbreytt eldvörp og litskrúðugt háhitasvæði á nokkuð stuttri og auðveldri göngu. Í öðru lagi er gróðursæld svæðisins sérstök og gefur eldfjallalandslaginu sérstaka ásýnd. Svæðið er nokkuð afskekkt og útsýni er stórbrotið þegar gengið er upp frá háhitasvæðinu og eftir móbergshryggnum.“

Heimild:
-Jarðminjar á háhitasvæðum Íslands – Jarðfræði, landmótun og yfirborðsummerki jarðhita Kristján Jónasson og Sigmundur Einarsson. Reykjavík, október 2009
-Eldfjallagarður og jarðminjasvæði á Reykjanesskaga. Helgi Páll Jónsson, HÍ 2011.

Spákonuvatn

Spákonuvatn. Keilir fjær.