Þórkötludys – Klöpp
Eins og fram kom í lýsingu í FERLIR-822 (Klöpp) var gengið fram á slökkviliðsstjórann í Grindavík á Klappartúninu með fornleifaskrá fyrir Þórkötlustaðahverfi undir höndum. Þegar að var gáð stóð þar á einum stað um dys Þórkötlu; „Á túninu austan við bæinn [Klöpp] er hóll; Þórkötludys. Ekki er nákvæmlega vitað hvar hún er“.
Kunnugt er að fornleifaskráningar eru ekki alltaf réttar (nokkur sárgrætileg dæmi sanna það), en þó er jafnan gengið út frá því að svo sé. Fram að þessu hefur jafnan verið horft á dys Þórkötlu í óslegnum hól í túninu austan við Hof. Þar hafa hinir elstu menn, sem vel þekkja til, talið hana hafa legið fram að þessu. Staðsetningin passar og við lýsinguna í sögunni þar sem segir að sú gamla hafi viljað láta grafa sig þar “sem hún sæi yfir Þórkötlustaðabótina.” Frá þeim stað sést vel yfir Bótina. Sambærileg sögn er um gröf Járngerðar sunnan við Járngerðarstaði. Slökkviliðsstjórinn hafði einmitt nýlega fjárfest í landsspildu þar sem nefnd dys á jafnan að vera. Þar ætlar hann að byggja sér hús, en skv. Þjóðminjalögum er svæðið friðað í a.m.k. 20 m fjarlægð frá fornleifinni.
Gengið var um Þórkötlustaðahverfið með framangreint í huga. Áður fyrr voru landshagir og staðsetning einstakra býla önnur en nú er. Hraunkot, sem var þurrabúð frá Klöpp, var t.d. í austurjarðri jarðarinnar. Nú eru rústir Hraunkots austan við Bjarmaland og Þórkötlustaði, en norðaustan við gamla Klapparbæinn. Þurrabúðamenn keyptur ekki jarðskikana, þeir áunnu sér þá með „hefðarrétti“.
Þjóðsaga Jóns Árnasonar segir að “Þorkatla hafi búið á Þorkötlustöðum í Grindavík, en Járngerður á Járngerðarstöðum. Báðar voru þær giftar.
Einu sinni sem oftar voru karlarnir þeirra báðir á sjó. Nú gjörði mikið brim og héldu báðir til lands. Þorkötlu karl fekk gott lag á Þorkötlustaðasundi og komst af. Þá varð Þorkatla fegin og mælti hún svo fyrir að á því sundi rétt förnu skyldi aldrei skip farast ef formann þess brysti hvorki hug né dug, og menn vita ekki til að þar hafi farizt skip á réttu sundi.
Það er að segja frá Járngerðar karli að hann drukknaði á Járngerðarstaðasundi. Þá varð Járngerður afar grimm og mælti svo um að þar skyldu síðan farast tuttugu skip á réttu sundi. Segja menn að nú sé fyrir víst nítján drukknuð, en þá er eitt eftir og má búast við að það farist þá og þá. Á götu þeirri sem til skips var gengin frá Járngerðarstöðum er leiði Járngerðar.”
Í austur frá Þórkötlustöðum eru nú slétt tún að hraunjaðri Slokahrauns. Þar í túninu eru a.m.k. tveir hólar, óslegnir. Þeir voru gaumgæfðir, en komu varla til álita.
Í túninu á Klöpp er gróinn rúnaður klapparhóll. Hann virðist jafnan hafa verið nýttur. Er hann ílangur til suðurs og norðurs. Sjávarkamburinn er kominn svo til alveg að suðurenda hans. Hafa ber í huga að kamburinn hefur gengið a.m.k. 30 metra á land s.l. 30 árin. Fyrrum hefur kamburinn verið lægri því utan hans var löng sandfjara er náði a.m.k. 50 metra út frá ströndinni í lágfjöru. Um hana lá t.d. gamla sjávargatan, Eyrargata, frá Hrauni út á Þórkötlustaðanes.
Rætt var við Ísleif og Guðnýju Erlu Jónsbörn frá Einlandi, Benóný Benediktsson frá Þórkötlustöðum (sem seldi slökkviliðsstjóranum landsspilduna) og fleiri um hugsanlega staðsetningu Þórkötludysjar, en ekkert þeirra virtist hennar minnug.
Þá var rætt við Óskar í Hofi og loks Sigurð Gíslason frá Hrauni, þann núlifandi sem manna best veit um sögu og staðhætti í austanverðri Grindavík. Sigurður, sem nú er nær blindur, var ekki í neinum vafa, sagðist alltaf hafa heyrt af Þórkötlu undir stórri þúfu í túninu neðan við gamla Lambúskotið. Hann lýsti staðsetningu Þórköltudysjar þannig: “Hún er upp af Sólbakka, vestan við girðingu sem liggur í norður frá húsinu, austan og ofan við Hof. Þetta er stór þúfa í túninu, neðan við gamla Lambhúskotið í suðaustur – í neðra túninu. Óskar í Hofi slær blett frá Austurbænum, en þúfan tilheyrði Vesturbænum, talsvert neðan við Garðbæ, neðan og austar þar sem Lambhúskotið var.”
Í framhaldi af þessu var Sigurður sóttur og gekk hann af öryggi að því búnu að dysinni. Þúfurnar eru tvær í túninu. Sigurður gekk að þeirri eystri. Áður hafði FERLIR verið bent á hina þúfuna ( Ól. Gamalíasson) sem hina meintu dys. Skýringin á henni er sögð vera sú að undir austari þúfunni hafi hundur Þórkötlu verið grafinn. Stutt er á milli þúfnanna.
Þar sem staðið var við dysina lýsti Sigurður staðháttum fyrrum: „Fjórar jarðir voru á Þórkötlustöðum; Tveir bæir voru í Vesturbæ, einn í miðbæ og tveir í Austurbæ. Þá voru Klöpp, Buðlunga og Einland á fjórðu jörðinni. Túnin náðu rétt upp fyrir dysina. Ofan við þau, í móunum, voru tómthúskotin, s.s. Lambhúskot og Hraunkot austast. Vestan við Sólbakka var kot sem hét Skarð. Þar kom Eyrargatan, sem nú er gleymd, upp úr fjörunni neðan við Buðlungu og Klöpp.
Gamli bærinn í Buðlungu var rétt vestan við Klapparbæinn. Nú má sjá í austurvegg hans sunnan við skemmuna. Skammt austar var Klöpp. Sjá má tættur bæjarins. Garður var milli bæjanna og sést hluti hans enn. Með honum að austanverðu lá sjávargatan. „Nýja“ húsið í Klöpp stóð sunnan við gamla bæinn, þar sem nú er steypt þró. Austan við gamla bæinn var byggt hús er nefndist Teigur. Marel í Klöpp og Árni í Teigi byggðu síðan samföst hús uppi á Leiti, sem enn standa. Eyvindarkot hafi þá verið skammt frá Klöpp, en var fært undir Leitið þar sem nú er skólahúsið. Sjá má hleðslur af hænsnakofanum við götuna. Vestan við leiði Þórkötlu lá gatan á milli bæjanna. Landnámstóft, að því er talið var, hafi sést þegar grafið var fyrir hlöðu milli Miðbæjar og Vesturbæjar. Hlaðan er hofinn sem og Vesturbærinn. (Sigurður vísaði á staðinn). Þar undir eru hinar fornu minjar. Brynjúlfur Jónsson segir m.a. frá athugun á þessari tóft í fornleifalýsingum sínum.
Ofar má sjá mikla steingarða, ofan við Heimaland, Efraland og Þórsmörk (Hvamm). Þá hlóð Þorsteinn Þorsteinsson frá Einlandi um 1930. Þeir hafa haldist nokkuð vel, en verið haldið við. Þeir voru á á mörkum Einlands. Fyrir aldarmótin 1900 voru Þórkötlustaðir hjáleiga frá Hrauni, sem og Buðlunga. Afi hans, frá Járngerðarstöðum, átti jarðirnar áður en hann fluttist að Hrauni. Hraun væri allt að því landnámsjörð því sagan segir að þar hafi búið Iðunn, dóttir Molda-Gnúps, þess er fyrstur byggði í Grindavík, sem síðar bjó á Þjósti. Líklegra væri að bær hans hefði verið á Járngerðarstöðum en á Hópi. Iðunn átti fóstursson er Svertingur hét og Svartsengi er nefnt eftir. Hann hafi tekið bú að Hrauni að Steinunni genginni. (Í Landnámu segir m.a. að „Hafur-Björn átti (Jórunni, stjúpdóttur Gnúps bróður síns). Þeirra son var Svertingur“).
Austan við Hraun voru miklar tættur. Þær voru allar sléttaðar út eftir miðja öldina. Kristján Eldjárn hafði mikinn áhuga á þessum tættum, en ekki síst hafði hann áhuga á manngerðum hól að hluta vestan við Hraun, sem hann taldi vera heiðna dys. Þær væru fáar á Reykjanesi og þessi hafi því verið sérstaklega áhugaverð. Ekkert varð þó úr að hann rannsakaði hólinn.“
Sigurður lýsti því er hann var við smölun austan við Krýsuvík, dvaldi í köldum og vindasömum hellisskúta við réttina norðan við Kleifarvatn (Lambhagaskúta), gisti í tjaldi á Blesaflöt, hvernig Grindavíkurbændur nýttu Arnarfellsréttina sem vorrétt og Krýsuvíkurréttina undir Bæjarfelli sem rúningsrétt, útigöngu og innitöku fjárins um áramót þegar illa áraði, ferðum fólks um Skógfellastíginn o.fl., en þær lýsingar munu bíða annarra ferða.