Trölladyngja – Sogin – Grænavatn – Krókamýri – Djúpavatn

Spákonuvatn

Gengið var frá norðvesturhorni Trölladyngju í dýrindisveðri.

Sogasel

Í Sogaseli – sel frá Krýsuvík og síðar frá Kálfatjörn í skiptum fyrir útræði.

Sogasel var skoðað í Sogaselsgíg, en þar eru rústir nokkurra húsa á a.m.k. þremur stöðum frá selstíð Kálfatjarnar, auk stekkjar og réttar. Ein rústin er sýnilega elst, en jafnvel er talið að Krýsuvík hafi haft þarna í seli um tíma. Utan við gíginn er enn ein rústin.

Gengið var áleiðis upp Sogadal, skoðuð heitavatnsuppspretta í hlíðinni og síðan upp að Spákonuvatni á Núpshlíðarhálsi, niður Grænavatnseggjar og að Grænavatni. Haldið var með vatninu og kíkt eftir hugsanlegum hleðslum norðan við það, en mjög gróið er þar við vatnið.

Grænavatn

Grænavatn á Núpshlíðarhálsi.

Uppi í hlíðinni gætu verið óljósar hleðslur og einhver mannanna verk gætu einnig verið þar við vatnið. Gengið var að Selsvallafjalli og beygt til austurs með hálsinum ofan við Krókamýri. Farið var á ská niður hálsinn og vegurinn genginn með Djúpavatni þar sem áð var á Lækjarvöllum norðan við vatnið. Að því búnu var gengið með hálsinum og frammeð Fíflvallafjalli. Við enda þess er mikill gígur. Vel sést hvar Rauðamelsselstígur liggur þaðan yfir hraunið að Hrútafelli og vestur fyrir það, en sunnan við fellið er vatn, sem Lækjarvallalækurinn hefur myndað utan í grónum völlum. Loks var gengið um Hörðuvelli, niður með eldgígum og hrauntröðum uns komið var að upphafsreit.
Frábært veður – Gangan tók 5 klst og 5 mín.

Sogasel

Sogasel – uppdráttur ÓSÁ.