Sveifluháls

Þröstur Sverrisson, starfsmaður Náttúruverndarráðs, skrifaði grein í aprílmánuði árið 2001 um sjálbæra þróun á nýrri öld og fjallaði um drög að stefnumörkun Umhverfisráðuneytisins fyrir tímabilið 2001-2020. Vakin er sérstök athygli á kaflanum um “Vernd sérstæðra jarðmyndana”.
“Náttúruverndarráð(NVR) sat Umhverfisþing dagana 26. – 27. janúar 2001 þar sem drög að sjálfbærri þróun á nýrri öld voru lögð fram til kynningar. NVR hefur farið yfir fyrrnefnd drög og meðfylgjandi eru athugasemdir, bæði almenn umfjöllun um drögin ásamt athugasemdum við einstaka kafla.

Almennt um drögin
GrænavatnNVR fagnar því að umhverfisráðuneytið leggi nú fram í annað sinn drög að stefnumörkun um sjálfbæra þróun. NVR telur mikilvægt samhliða þeim markmiðum sem hér hafa verið sett fram að lögð verði áhersla í stefnumörkuninni á aukna fræðslu um umhverfismál og náttúruvernd. Fræðsla um sjálfbæra þróun er lykill að aukinni vitund um skyldu og ábyrgð sem okkur er lögð á herðar gagnvart komandi kynslóðum.
NVR leggur áherslu á að stefnumörkunin sé byggð á skýrum og mælanlegum markmiðum og að betur megi gera í þeim efnum. Töluleg markmið og tímasetning aðgerða leggur grunninn að skýrum mælikvörðum á árangur. Stefnumörkunin nær til ársins 2020 og því er mikilvægt að samhliða verði tryggt að við endurskoðun á fjögurra ára fresti verði hægt að leggja mat á árangur hvers tímabils.

Vernd líffræðilegrar fjölbreytni
KleifarvatnTryggt verður að líffræðileg fjölbreytni vistgerða og vistkerfa á Íslandi verði viðhaldið með því að vernda tegundir dýra, plantna og annarra lífverna, erfðaauðlindirnar sem þær búa yfir og búsvæði þeirra. Öll nýting hinnar lifandi náttúru skal fara fram á sjálfbæran hátt. Við framkvæmdir sem raska eða breyta lifandi náttúru skal beita varrúðarreglu og vistkerfisnálgun, þ.e. að laga framkvæmdir að því vistkerfi sem fyrir er þannig að þær skaði ekki lykilþætti í gangverki þess. Gengið verður frá heildstæðri landsáætlun um verndun og sjálfbæra nýtingu líffræðilegrar fjölbreytni, sem nái til allra geira þjóðlífsins. Helstu vistgerðir á Íslandi verða skilgreindar og kortlagðar og unnið að skipulegri verndun þeirra. Lífverur á landi og í sjó verða skráðar og flokkaðar og válistar gerðir sem spanna lífríki Íslands og verða grunnur fyrir skipulega vöktun þess.
Tillögur um aðgerðir: Náttúruverndarráð telur ástæðu til þess að “varúðarreglan” verði skoðuð sérstaklega og kannað með hvaða hætti koma megi henni skýrar fyrir í íslenskum umhverfisrétti.

Sjálfbær gróðurnýting og endurheimt landgæða
MosiÞær auðlindir landsins sem felast í jarðveg og gróðri, þar með töldum náttúrulegum skógi, verða nýttar á sjálfbæran hátt samkvæmt bestu vísindalegri vitneskju. Beit verður stjórnað með tilliti til nýtingarþols og hættu á jarðvegseyðingu. Nýting skóga og meðferð þeirra skal vera þannig að líffræðilegri fjölbreytni, framleiðni, hæfni til endurnýjunar og þrótti þeirra sé viðhaldið, án þess að valda skemmdum á öðrum vistkerfum. (Ræða þarf ræktun nýrra skóga með tilliti til framangreindrar setningar) Vernda þarf og endurheimta líffræðilega fjölbreytni í náttúrulegum skógarvistkerfum og efla jarðvegsverndar- og vatnsmiðlunareiginleika skóga(r). Stöðva skal hraðfara jarðvegseyðingu, sérstaklega í byggð og á láglendi. Unnið verður skipulega að landgræðslu á eyddum og rofskemmdum svæðum, í samræmi við markmið landnýtingar og náttúruverndar á hverju svæði.
Hér vantar almennt inn umræðu um nýskógrækt. Í lögum um mat á umhverfisáhrifum er einungis gert ráð fyrir að skógrækt sem taki yfir stærra svæði en 200ha. fari í umhverfismat, NVR telur nauðsynlegt að þetta sé endurskoðað og miðað sé við mun minni framkvæmdir.

Vernd og endurheimt votlendis
UrriðakotsvatnForðast skal eftir föngum frekari skerðingu á votlendi á Íslandi. Þar sem skerðing er talin óhjákvæmileg skal endurheimta sambærilegt svæði sem hefur verið þurrkað upp (Hér þarf einnig að huga að því sem tapast vegna uppistöðulóna, sjá athugasemdir). Vinna skal að endurheimt votlendis, þar sem slíkt er talið mögulegt, með sérstaka áherslu á þau landsvæði þar sem eyðing hefur verið mest .
Tillögur um aðgerðir: Setja þarf fram heildstæða áætlun um endurheimt votlendis með skýrum markmiðum og tímasetningum, í árum og áratugum.
Rétt er að benda á að nefnd um endurheimt votlendis hefur starfað síðan 1996. Á þessum tíma hefur tekist að loka um 10 km af skurðum, en þeir eru samtals um 33 þúsund km langir og enn er verið að ræsa fram votlendi. [Heimild: Árni Bragason, “Þróun og nýjir straumar í náttúruvernd” Áratugur í umhverfisvernd, 13]
NVR telur einnig mikilvægt að komið verði inn á endurheimt votlendis sem farið hefur undir vatn og leggur áherslu á að tryggð verði verndun samfelldra votlendissvæða á hálendinu.

Vernd sérstæðra jarðmyndana
GosvarpViðhaldið skal fjölbreytileika jarðmyndana, varðveitt það sem er sérstakt, eða einstakt á svæðis-, lands- eða heimsvísu. Skipulagt starf að rannsóknum á náttúrufari landsins og yfirliti yfir það sem þar er sérstætt á lands- og heimsvísu, verður eflt, þannig að friðun jarðmyndana verði markviss.
Stuðla þarf enn frekar að verndun einstakra jarðmyndana. Stöðva þarf vinnslu lausra gosefna hérlendis í þeim námum sem verst eru útleiknar og koma í veg fyrir að nýjar verði opnaðar, nema að undangengnu mati sérfræðinga. Herða þarf friðlýsingar helstu landslagsfyrirbæra landsins frá núgildandi náttúruverndarlögum og banna þarf yfirborðsvinnslu hrauna.
Íslendingum ber skylda til að vernda sérstaklega jarðmyndanir sem eru sjaldgæfar eða óvenjulegar á heimsmælikvarða. Leggja þarf áherslu á að sérstæðum jarðmyndunum verði ekki spillt, né sérstökum steintegundum og steingervingum. Hið sama gildir um ýmsar jökulmenjar og tiltekin vatna- og jarðhitasvæði.
Eyðilagt eldvarpEfnistaka úr eldvörpum og gervigígum hefur á undanförnum árum að mestu leyti verið bundin við gosvörp í nágrenni þéttbýlis. Stærstu námurnar á Suðurlandi hafi verið í gígþyrpingum á Reykjanesskaga (Arnarsetur við Grindavík, Óbrinnishólar við Hafnarfjörð, Rauðhólarnir við Reykjavík) og í Grímsnesi (Seyðishólar). Einnig hefur gjall verið unnið úr stökum eldvörpum á þessu svæði, s.s. úr Litlu-Eldborg undir Geitahlíð og Eldborg við Trölladyngju. Sem dæmi um námur í öðrum landshlutum má nefna að súr vikur er unninn á Heklusvæðinu og umhverfis Snæfellsjökul en sú vinnsla er með nokkuð öðrum hætti.
Nú á síðustu árum hefur ásókn í gjall og vikur aukist til muna. Ýmis fyrirtæki sjá sér hag í því að vinna íslensk jarðefni til útflutnings. Talað er um útflutningsmagn í milljónum rúmmetra og hagnað í milljónum króna, en lítið fer fyrir sjónarmiðum náttúruverndar eða virðingu fyrir þjóðareinkennum okkar. Stundarhagsmunir sitja í fyrirrúmi og engin heildarstefna í námuvinnslu er til.
Ef stunda ætti vinnslu gjallgíga á Reykjanesskaga í anda sjálfbærrar þróunar þá væri hægt að taka einn gíg á nokkur hundruð ára fresti þar sem endurnýjun slíkra jarðmyndana er mjög hæg.
Eldborg við GrindavíkBetri skilgreiningar þarf í lög um vinnslu jarðefna. Í allri skipulagsvinnu, hvort sem um er að ræða svæðis- eða aðalskipulag, þá er efnistaka í flestum tilfellum ekki skilgreind sem sérstök landnotkun. Efnistaka er oft einungis háð leyfi landeiganda. Efnisnám hefur því verið að mestu leyti skipulags- og eftirlitslaust. Um allt land eru ljót sár eftir efnisvinnslu og enn er unnið í námum sem frá náttúruverndarsjónarmiðum ætti þegar í stað að loka.
Efnistaka er nauðsynleg og það er mikill kostur að innan hvers sveitarfélags séu vinnanleg jarðefni. Hafa þarf í huga sjónarmið náttúruverndar þegar staðið er að vinnslu jarðefna. Að mati NVR er skynsamlegt að beina efnisvinnslu á fáa staði þar sem vinna má mikið efni á sem hagkvæmastan hátt. Miklu skiptir að farið sé vel með þau verðmæti sem unnin eru.
Á síðastliðnum árum hefur ferðamannaþjónusta verið einn helsti vaxtarbroddur í íslensku atvinnulífi og hafa stjórnvöld bent á ferðamannaþjónustu sem eina af vænlegustu leiðum okkar til nýsköpunar. Eldfjöllin draga til sín erlenda ferðamenn sem koma til þess að njóta ósnortinnar náttúru og fræðast um jarðfræðilega þróun landsins. Að “gera út” á íslenska náttúru er meira í anda sjálfbærrar þróunar en að selja eldvörp í erlenda vegi.

Vernd víðerna
Tóftir í ÖgmundarhrauniTryggt verður að stór samfelld víðerni í óbyggðum Íslands haldist ósnortin. Reynt verður eftir föngum að byggja nauðsynleg mannvirki utan óbyggðra víðerna og þar sem slíkt er talið óhjákvæmilegt verður þess gætt sérstaklega að þau valdi sem minnstu raski og sjónmengun. Taka á tillit til víðerna í öllu skipulagi.
NVR telur mikilvægt að sett séu fram skýr markmið um verndun víðerna, því það er ekki aðeins líklegt heldur öruggt að mikilvægi þeirra fari vaxandi. Þar sem talið er óhjákvæmilegt að fórna hluta slíkra svæða verði það sett fram á skýran hátt með haldgóðum rökum.
Brýn þörf er á að gerð verði heildarúttekt á náttúrufari (jarð- og lífríki) miðhálendis Íslands, með það að markmiði að meta náttúruverndargildi þess. Telja verður að slík úttekt sé nauðsynlegur grundvöllur þess að hægt verði að framfylgja lögum um skipulag miðhálendis Íslands.
Of lítil áhersla hefur verið lögð á grunnrannsóknir á miðhálendi Íslands og samvinna á milli þeirra stofnanna sem þær Þingvellirhafa stundað oftar en ekki erfiðleikum bundin. Stjórnvöld hafa skorið fjárveitingar til almennra rannsóknarstarfa við nögl á sama tíma og rannsóknir á hugsanlegum virkjanasvæðum hafa fengið ríflegar fjárveitingar. Skýrslur Landsvirkjunar, Orkustofnunar og iðnaðarráðuneytisins um nýtingu innlendra orkulinda endurspegla það misvægi sem ríkir á milli virkjanaáætlana og verndaráætlana. Væntanleg Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma mun óhjákvæmilega endurspegla þetta ástand, þar sem hún byggir á fyrirliggjandi gögnum.
Efla þarf grunnrannsóknir á náttúrufari Íslands með það að markmiði að hægt sé að taka ákvarðanir um framtíð einstakra svæða frá sjónarmiðum umhverfisverndar jafnhliða hagkvæmnis- og hagnýtingarsjónarmiðum. Til þess að tryggja hlutleysi mats á umhverfisáhrifum í framtíðinni er mjög brýnt að auka almennar náttúrufarsrannsóknir á miðhálendi Íslands í þeim tilgangi að safna saman grunnupplýsingum í almennan gagnabanka. Eðlilegast er að rannsóknir á náttúrufari á miðhálendinu verði í framtíðinni stundaðar í samvinnu ráðuneyta, stofnana og fyrirtækja á viðkomandi fagsviðum, þannig að betur verði tryggt jafnvægi á milli mismunandi sjónarmiða.

Aukin nýting endurnýjanlegra orkugjafa (í sátt við náttúruna)
IllahraunStefnt verður að því að Ísland verði fyrst ríkja heims á öldinni til að hætta notkun jarðefnaeldsneytis í farartækjum og skipaflota landsins og nýta eingöngu hreina orkugjafa, sem unnir eru úr endurnýjanlegum orkulindum landsins. Öll staðbundin orkuframleiðsla á Íslandi verður þá með nýtingu endurnýjanlegra hreinna orkulinda. Markvisst verður fylgst með og unnið að þróun og innflutningi á tækni sem gerir mögulega nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa í farartækjum, s.s. rafgeymum, þróun vetnisnotkunar og efnarafala. Stefnt verður að því að a.m.k. fimmtungur bifreiða og skipa nýti sér slíka tækni árið 2020.
NVR telur að hér sé nauðsynlegt að fjalla um að beislun þessara endurnýjanlegu orkulinda hefur oft í för með sér alvarleg spjöll eða eyðileggingu merkra náttúruverðmæta.”

Hér verður ekki fjallað um hvað varð um Náttúruverndarráð og hvers vegna það var lagt niður. Þáverandi umhverfisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, getur svarað spurningum þess efnis. 

Heimild:
-Þröstur Sverrisson, starfsmaður Náttúruverndarráðs.

Arnarsetur