Kaðlakriki

Í Fornleifaskrá Hafnarfjarðar árið 2021 segir m.a. af Kaplakrika:

“Garðar

Kaplakriki

Kaðlakriki – álfaborg.

Skráningarsvæðið er innan lands Garða en nær þó einungis inn á örlítinn hluta þess, þannig hér á eftir verður stiklað á stóru.
Fyrstu heimildir um Garða eru frá árinu 1307 en það var skjal um rétt til rekafjöru í landi Garða: „ad stadur j Gördum a Alftanese ætte allan vidreka og hvalreka fra Ranganiogre ig (i) Leitu kvenna bása ad kalftiorninga fiouru.“
1367 var staðurinn metinn á 16 hndr. og átti kirkjan þá allt heimalandið.

Kaplakriki

Kaplakriki 1958 – loftmynd.

Í skjali frá 1558 var sagt að kirkjujörðin Hlíð var lögð til Bessastaða en Garðar fengu Vífilstaði í staðinn.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 var sagt að Garðar væru kirkjustaður í eigu kirkjunnar. Þá var sagt að jarðadýrleiki hafi verið óviss allt til ársins 1697 en þá var staðarins getið og var hann metinn af sex mönnum sem valdir voru til matsins af prófastinum á Kjalarnesþingi og sýslumanninum í Gullbringusýslu eftir tilmælum frá amtmanninum. Staðurinn var þá virtur að 60 hndr. að dýrleika. Ábúandinn var þá Sr. Ólafur Pétursson prófastur í Kjalarnesþingi, landskuld var engin og höfðu fyrrnefndir sexmenningar áætlað að leiga fyrir jörðina væri tveir hundruðustu. Kirkjan átti 20 kúgildi, þar af voru sum þeirra í leiguburði á kirkjunnar jörðum og líka á hjáleigum í kringum staðinn.
Garðar voru með selstöðu í Kaldárseli, þar voru bæði hagar og vatnsból mjög góð. Móskurður til eldiviðar var nægur en ef þurrt var fór hann og var erfiður. Heimræði var allt árið og lending góð. Róðrar voru fengsælir þegar fisk var að fá í Hafnarfirði.
Í Jarðabók Johnsens frá 1847 fékk jörðin númerið 185 og var kirkjujörð. Dýrleikinn var 40, landskuld 2 og kúgildi 1.
Árið 1912 gaf Jens Pálsson, prófastur í Görðum, Hafnarfjarðarbæ kost á að kaupa nokkuð af því landi sem bærinn stóð á með beitarlandi fyrir 52.000 kr. og heimilaði Alþingi þessi landakaup með lögum þann 22. október sama ár. Landstjórninni veittist heimild til að selja Hafnarfjarðarkaupstaði land Garðakirkju sunnan og vestan þessara marka:

Hádegisvarða

Hádegisvarða.

1. Bein lína úr Balaklöpp við vesturenda Skerseyrarmalar í veg inn frá Hafnarfirði til Reykjavíkur þar sem hann fer að fara lækkandi ofan af norðurbrún hraunsins.
2. Þaðan bein lína í Hádegishól, hádegismark frá Hraunholti, nálægt í hásuður frá bænum spölkorn frá hraunjaðrinum.
3. Úr Hádegishól bein lína í Miðaftanshól sem er gamalt miðaftansmark miðað frá Vífilsstöðum; þá tekur við:
4. Urriðakotsland; þá
5. Setbergsland allt til Lækjarbotna og loks
6. Selvogsmanna- eða Grindaskarðsvegur.

Garðahevrfi

Engidalsvegur aftan Fjarðarkaupa.

Árið 1927 skoraði bæjarstjórn Hafnarfjarðar á þingmenn Gullbringu- og Kjósarsýslu að flytja frumvarp á næsta Alþingi um að Hafnarfjarðarkaupstaður fengi það land sem Garðakirkja ætti í miðjum bænum. Alþingi samþykkti söluna 1928 og bærinn keypti landið árið 1930 fyrir 12.000 kr.
Ekki er vitað með vissu hvað sagan um álfaklettinn við Fjarðarhraun er gömul en það birtist frétt í Fjarðarpóstinum þann 20. ágúst 1992 sem hét „Meintir álfar fá grið“. Þar var tekið fram að Vegagerð ríkisins hafi ákveðið að leyfa klettaborginni að standa, a.m.k. á meðan hún truflaði ekki umferð um Fjarðarhraunið. Einnig var fjallað um álfaklettaborgina í bók Bryndísar Björgvinsdóttur og Svölu Ragnarsdóttur og þar var einnig tekið fram að ekki væri vitað hve gömul þessi álfasaga væri.
Landamerkjavarðan er horfin en hún mun hafa staðið á því svæði sem er aftan við verslun Fjarðarkaupa.”

FERLIR saknar minja og heimilda í skráningunni, annarra en getið er um í tilvitnuðum og sumum hverjum gölluðum eldri skýrslum Byggðasafns Hafnarfjarðar um fornleifar í Hafnarfirði.

Heimild:
Fornleifaskrá Hafnarfjarðar VI; Kaplakriki, 2021; – Fornleifaskra-Hafnarfjardar-VI-Kaplakriki-2021.pdf (byggdasafnid.is)

Hafnnarfjörður

Hafnarfjörður – örnefni.

Markhóll

Í Fornleifaskrá Hafnarfjarðar árið 2021 segir m.a. um Straum, Óttarsstaði og Lónakot:

“Straumur

Straumur

Straumur.

Straumur var ein af svonefndum Hraunjörðum en það voru þær jarðir sem voru innan staðarmarka Hafnarfjarðar suðvestur af kaupstaðnum. Þessar jarðir voru í eigu Viðeyjarklausturs og urðu því konungsjarðir með siðaskiptunum 1550. Konungsjarðirnar voru síðan seldar á árunum 1836-1839.10
Jarðarinnar var fyrst getið í fógetareikningum frá 1547-1548 og þar sagði: „Item met Ström j legeko. xij for. Landskyldt iij vetter fiske. ij lege vj förenger smör dt. oc ij landskyldt iij vetter fiske dt. Thet er jc xxx fiske.“

Straumur

Straumur – túnakort 1919.

Næst var jarðarinnar getið í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703. Þar segir að jarðardýrleikinn sé óviss, að jörðin var í konungseign og að ábúandi var Hans Ólafsson. Kúgildin voru þrjú og landskuldin var 75 álnir.

Straumssel

Straumssel – selið.

Jörðin átti selstöð sem hét Straumsel en þar voru hagar slæmir og vandræði af vatnsskorti þegar það voru þurrkar. Torfrista og stunga voru í skárra lagi og jörðin notaði skóg í almenningi til kolagerðar og eldiviðar. Heimræði var allt árið í kring, lending góð og skip ábúendans réru eftir hentugleika. Lambhúsgerði var þá eyðihjáleiga á jörðinni sem hafði verið í eyði eins lengi og menn mundu og var ekki talið að þar yrði búið aftur vegna þess að bóndinn á Straumi gat ekki komið túninu þar í lag án þess að það kæmi niður á hans eigin túni.
Í Jarðatali Johnsens frá 1847 var jörðin sögð í bændaeign, dýrleikinn var 12 ½ , landskuldin 0.75, tvö kúgildi, einn ábúandi og var hann eigandi jarðarinnar.
Samkvæmt Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar voru landmerki fyrir jörðina Straum:

Steinhes

Steinhes – (Steinhús).

Landamerki milli Straums og Óttarsstaða byrja við sjó á Vatnaskersklöpp yfir miðjan Markhól og þaðan beint í Stóra-Nónhól í Gvendarbrunn frá Gvendarbrunni í Mjósundsvörðu, frá Mjósundsvörðu í Klofaklett suður og upp af Steinhúsi.
Á Klofaklett er klappað Ótta Str. og varða hlaðin hjá. Frá Klofakletti í Markastein, suður og upp af Eyjólfshól, á þennan Markastein er klappað Ótta Str. Frá þessum Markasteini sömu stefnu upp að Krýsuvíkurlandi.
Á hina hliðina milli Straums og Þorbjarnarstað byrja landamerkin við sjó á Pjetursbyrgi á neðsta hólmanum, og þaðan beint í svonefnda Tóu, úr Tóu beint í Vestari-Tobbukletta yfir miðjum Jónshöfða og í vörðu vestarlega á há-Hafurbjarnarholtinu og þaðan beina stefnu mitt á milli Stóra-Steins og Fjárskjólskletts í vörðu á há-Fremstahöfða og þaðan hina sömu beinu stefnu þar til að Krýsuvíkurland tekur við (Undirritað í Straumi 31. maí 1890)“.
Norðan við Straum stóðu tvær þurrabúðir, Þýskabúð og Jónsbúð.

Þýskabúð

Þýskabúð

Þýskabúð.

Þýskabúð var hjáleiga frá Straumi og dró nafn sitt af því að þýskir kaupmenn munu hafa reist kaupbúðir á tanganum við Straumsvík og verslað þar á 14. og 15. öld.
Engar minjar um þær búðir sjást þó á svæðinu í dag.
Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum tók viðtal við Pál Hannesson, þáverandi eiganda Þýskubúða árið 1993:

Þýskabúð

Þýskabúð.

„Þýskubúð: Síðasti ábúandi Þýskubúðar hét Guðmundur (Björgúlfsson); hann átti allan Straum. Húsið var byggt 1915? (1910?), síðar innréttað og lagfært.
Tjörvi nokkur Guðmundsson bjó í Þýskubúð 1911-1912 [Innskot í texta frá SÁM: Skv. Manntalsvef Þjóðskjalasafns bjó Guðmundur Tjörfi Guðmundsson í Þýskubúð miklu fyrr(m.t. 1890 og 1901; Leigandi í Straumi í mt. 1910). J.H.].
Áður en Tjörvi var þarna byggði Björn, kallaður „þýski“ (Þýski Björn), [hús þar sem Þjóðverjar versluðu á 14. og 15. öld].
Það sem fylgir húsinu er baðstofa 11×16 álnir með steinsteyptum kjallara: frambær 6×6 álnir, líka steyptur kjallari.
Tún 2 dagsláttur (heyfang 20 hestar?); matjurtagarður.

Þýskabúð

Tóft við Þýskubúð.

Fiskimið út af Straumi: Í beina línu á Helgafell og miðja fjörumölina við tangan hjá Bala, ca. miðja víkina. (Á Bala átti bústað Loftur Bj[arnason] í hvalnum).
Þær minjar sem sjást á yfirborði við Þýskubúð eru allar seinni tíma og eru í samhengi við steypta húsið (2367-122) sem enn stendur að hluta. Í kringum húsið er að finna ýmis garðlög og matjurtagarða, naust og útihús, sem og gerði og brunn. Túngarðurinn er frekar illa farinn en hann hefur einnig virkað sem varnargarður við sjóinn og er hann þar að mestu kaffærður í fjörugrýti.

Jónsbúð

Jónsbúð

Jónsbúð – tilgáta ÓSÁ.

Jónsbúð var tæpum 200m norðan við Þýskubúð, sunnan við Jónsbúðartjörn, sem hefur verið vatnsból Jónsbúðar, og Markhól (2367-159) sem er sprunginn hraunhóll sem virkaði sem náttúruleg landamörk Straums og Óttarsstaða. Minjarnar við Jónsbúð eru mjög heillegar en þær hafa alveg sloppið við seinni tíma rask.
Árið 1999 gerði Fornleifafræðistofan, undir stjórn Bjarna F. Einarssonar, þrjár prufuholur í bæjartóftir Jónsbúðar og var markmið rannsóknarinnar að freista þess að ná að aldursgreina tóftina og að sjá í hvað hólfin voru notuð. Ekki fundust nægileg gögn til aldursgreiningar en rannsóknin leiddi í ljós að vestur hólfið var fjós og þaðan var gengið inn í baðstofu en algengt var að nota hita frá skepnum til þess að verma híbýli.

Jónsbúð

Jónsbúð – túnakort 1919.

Á túnakorti frá 1919 var sagt að kálgarðar væru 180m2 og að tún Jónsbúðar væru holótt og slétt, þau stæðu á klettanefi við sjó, vestur frá Jónsbúð og voru 0,2 teigar.
Jónsbúðar var ekki getið í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns en vert er að minnast á að ekki var alltaf minnst á þurrabúðir jarða þó að enginn vafi sé á að þær hafi verið til staðar.
Í manntali frá 1910 var minnst á Jónsbúð sem þurrabúð í landi Straums og þar bjó hann Gunnar Jónsson, sjómaður, Sigríður Hannesdóttir kona hans og Sigríður dóttir þeirra. Þau munu hafa komið til Jónsbúðar frá Meðalholti í Flóa 1882.
Í bókinni „Forðum gengin spor“ var tekið viðtal við Jón Magnússon í Skuld í Hafnarfirði:
„Síðan færum við okkur inn að Straumsvík en þar voru tvö kot, Jónsbúð og Þýskubúð. Þar voru Jón í Jónsbúð og Gunnar í Þýskubúð. Þessi kot voru búin að vera um tíma í eyði áður en þessir menn komu þangað. Þeir voru orðnir fullorðnir þegar þeir komu að þessum kotum og ég man eftir þeim en ég kynntist þeim mjög lítið. Þeir voru með nokkar kindur.“

Jónsbúð

Jónsbúð – brunnur.

Í skýrslu sinni velti Bjarni því upp að Jón þessi í Jónsbúð gæti hafa verið síðasti íbúi Jónsbúðar en að búðin hafi greinilega ekki verið kennd við hann. Hann sagði einnig að líklegt væri að búðin hafi borið ýmiss nöfn í gegnum árin, stundum eftir ábúendum og stundum eitthvað annað, en dæmi um það eru vel þekkt. Hann sagði einnig að Jónsbúð hafi ekki verið lengi í eyði áður en Jón byggði upp kotið, en algengt var að kot og smábýli hafi verið í eyði í smá tíma á milli íbúa.
Bæjarstæði Jónsbúðar er mjög heillegt og eru bæjarrústirnar vel greinanlegar sem og matjurtagarðurinn áfastur þeim. Rétt framan við bæjarrústirnar er vörslugarður en hann hefur verið til þess að beina búfénaðnum inn í fjósið. Fast NV við bæjarrústina er hjallur og túngarður umhverfis túnið. Útihús er áfast vestur hlið túngarðsins og er mögulega fjárhús sbr. viðtalið við Jón Magnússon.
Það er brunnur í Jónsbúðartjörn norðan við bæjarrústirnar og lághlaðin brú að honum en vatnsstaða tjarnarinar stjórnast af sjávarföllum.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir vestari

Óttarsstaðir efri.

Óttarsstaðir er jörð í hinum svonefndu Hraunum í landi Hafnarfjarðar. Þær jarðir sem eru innan staðarmarka Hafnarfjarðar suðvestur af kaupstaðnum voru nefndar áður einu nafni Hraunjarðir. Þetta voru jarðirnar Stóri Lambhagi, Þorbjarnarstaðir, Straumur, Óttarsstaðir, Lónakot og Svínakot. Jörðin Hvassahraun var ein af Hraunjörðunum en hún var í Vatnsleysuhreppi. Þessar jarðir voru allar í eigu Viðeyjarklausturs og urðu því konungsjarðir með siðaskiptunum 1550.
Konungsjarðirnar voru síðan seldar á árunum 1837-1839.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir – túnakort 1919.

Elsta heimild um Óttarsstaði er frá 1379 í vitnisburði Kára Þorgilssonar og tveggja annara manna um máldaga og reka kirkjunnar í Viðey frá Koleinsskor og inn að Hraunnessvötnum í millum Hvassahrauns og Óttarsstaða. Þar segir: „Svo felldann vittnisburd bervm vier kare þorgilsson, jon oddzson oc olafur kodransson, at vier hofvm heyrt lesinn maldagann j videy advr en kirkiann brann, oc firnefndur olafur kodransson las hann sialfur, at kirkiann j videy ætti fiordv hvoria vætt vr hval hvar m land kæme fra kolbeinsskor oc in at hravnnes vottvm j millvm hvassaravns oc ottastada nema kæme æ kalfatiarnar reka þeim frateknvm j millvm markkeltz oc nyia garda. hier epter villivm vier sveria ef þvrfa þycker. anno domini Պ iijc. lxxix ar.“
Einnig er sagt frá Óttarsstöðum í bréfi frá 9. september 1447 en það var bréf um jarðaskipti Einars Þorleifssonar og Steinmóðar ábóta í Viðey fyrir hönd klaustursins. Einar mun hafa keypt jarðir í Húnaþingi og selt jarðir á Vatnsleysuströnd til Viðeyjarklausturs og 10/100 í Óttarsstöðum.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir eystri.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 var sagt að jarðardýrleiki Óttarsstaða hafi verið óviss og að jörðin var í konungseign. Landskuldin var 500 álnir sem greiddist með sex vættum og tveimur fjórðungum fiska í kaupstað síðan leigan var hafin en áður greiddist hún til Bessastaða. Ábúandinn, Guðmundur Guðmundsson, lagði við til húsabóta. Kúgildi jarðarinnar voru þrjú og greiddust leigur í smjöri heim til Bessastaða eða með fiski í kaupstað, ábúandinn uppyngdi kúgildin sjálfur.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel – tilgáta.

Útigangur var í betra lagi, ef ekki var um hörkuvetur að ræða, kvikfénaður var fimm kýr og einn hestur. Túnið gat fóðrað fimm kýr en hafði verið í órækt og var úr sér gengið. Heimilismenn voru átta og sóttu þeir sér skóg til kolagerðar og eldiviðar í almenning greiðslulaust. Lyngrif var nýtanlegt, aðallega til eldkveikju, lítil rekavon, sölvafjaran nægði heimilisfólki og hrognkelstekja í lónum var vel nýtt. Heimræði var á Óttarsstöðum árið um kring og var lendingin í meðallagi. Jörðin átti tvær selstöður, eina í almenningi og voru hagar þar góðir en gat orðið vatnslaust á þurrum sumrum, hina í Lónakotslandi á móts við uppsátrið sem Lónakotsmenn fengu að nota í landi Óttarsstaða. Búfénaður fórst oft í gjám í hrauninu, sérstaklega á veturna þegar snjór lá yfir hrauninu. Torfstunga var svo gott sem engin til heyja, þaks og húsa. Tvær hjáleigur voru á Óttarsstöðum, báðar ónafngreindar í Jarðabókinni. Önnur var um sextíu ára gömul þegar Jarðabókin var skrifuð en hin eldri en elstu menn mundu.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir eystri – meintur kirkjugarður fremst.

Í Jarðatali Johnsen frá 1847 fékk jörðin númerið 163, Óttarsstaðakot 164, og var jörðin í bændaeign, dýrleikinn var 20 ⅙, landskuldin 1,5, kúgildin 3 og ábúendur 1 eigandi að jörð og 1 leiguliði.
Á túnakorti af Óttarsstöðum og Óttarsstaðakoti frá 1917 var sagt að tún væru holótt og grýtt, þó að miklu slétt og sléttuð. Túnin voru samtals 5,4 teigar og kálgarðar voru samtals 2650m2.
Í örnefnaskrá Óttarsstaða var gerð ítarleg lýsing á bæjarstæðinu:

Straumur

Óttarsstaðir/Straumur – örnefni og minjar. Uppdráttur ÓSÁ.

„Löngum var tvíbýli á Óttarsstöðum. Voru býlin nefndi Efri-Óttarsstaðir eða Vesturbær og Neðri-Óttarsstaði eða Austurbær. [í dag eru bæirnir helst þekktir sem Óttarsstaðir-Vestri og Óttarsstaðir-Eystri]. Bæirnir stóðu á Bæjarhól, nokkuð vestarlega í túninu. Vesturbærinn stendur ennþá, en Austurbærinn var rifinn fyrir aldamót. Var þá byggt nýtt hús nokkru austar og neðar í túninu, en gömlu bæjartóftirnar notaðar fyrir fjós og hlöðu. Túnið á Óttarsstöðum var allstórt og var því deilt milli bæjanna í Vesturbæjartún og Austurbæjartún. Kringum öll túnin var hlaðinn tvístæður túngarður, feiknamannvirki.
[…] Rétt austur af húsinu, sem nú er á Neðri-Óttarsstöðum, var Eyðikotið [Óttarsstaðakot], þurrabúð frá Óttarsstöðum. Það fór í eyði fyrir 30-40 árum, en bærinn stendur enn og er notaður sem sumarbústaður.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir eystri – eldhús.

Niður við Óttarsstaðavörina var önnur hjáleiga eða þurrabúð, nefnd Kolbeinskot. Kot þetta fór í eyði rétt eftir aldamót. […] Vestur af Eyðikotinu var djúpt jarðfall, Eyðikotsker eða Kerið. Neðst í því var hlaðinn brunnur, og var vatnið jafnan tekið þar. Alltaf fylltist þetta af snjó á veturna. Hleðslan í brunninum sést enn. Frá Kerinu lá Brunnstígurinn heim til bæjar. Eyðikotinu tilheyrði sérstök vör, Eyðikotsvör, og lá svokölluð Sjávargata frá kotinu að henni.
[…] Skammt frá Eyðikotinu, til hægri handar, þegar vestur var farið, var hóll sem hét Litlakofahóll. Vestan í honum var kofi, sem kallaður var Litlikofi eða Tótukofi. Þórunn nokkur, systir konunnar á Óttarsstöðum, hafði kindur í þessum kofa. […] Rétt norður af Neðri Óttarsstöðum er lágur rani. Á endanum á honum er smátúnblettur með grjóthleðslu í kring. Er þetta nefnt Rúnugerði […] Rétt austur af Rúnugerði er nokkuð stór hóll, sem kallaður var Fiskhóll. Uppi á þeim hól hafa verið breiðir grjótgarðar, sem enn sést vel móta fyrir, og þar hefur verið þurrkaður fiskur í gamla daga. […] Lengra vestur í túninu og nær sjónum voru fjárhús. Nefndist það efra Torfhús, en það neðra Langbakkahús. Langbakkahús var rifið, svo að veggir einir stóðu eftir, en þeir fóru alveg í stórflóði, líklega 1957.
Rétt fyrir ofan sjávarkampinn var hlið á vesturtúngarðinum, nefnt Fjárhlið, því að féð rann þar í gegn. Rétt fyrir sunnan hliðið var feiknamikið fjárgerði. Þaðan lá götuslóði frá báðum bæjum. […]Smiðjubali var rétt austur af kálgarðinum á Efri-Óttarsstöðum. Þar á að hafa verið smiðja.
Brunnurinn á Efri-Óttarsstöðum var alveg í horninu á kálgarðinum, smáspöl frá bænum. Þangað lá gata, sem kölluð var Brunngata. Í gamla daga var þetta hlaðin steinstétt, en er nú gróin upp.
[…]Í túninu á Neðri-Óttarsstöðum, alveg við mörkin, var kofi, upphaflega smiðja, seinna hesthús. Rétt austur af tóftinni eru þúfur miklar, og töldu menn, að þar væru leiði.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir 1950.

Skúli Magnússon landfógeti sagði í Chorographica Islandica að á Óttarsstöðum ætluðu sumir að hafði verið bænhús og í Örnefnalýsingu sagði að „Rétt norðan við Álfakirkju eða Stólpa var talið að verið hafi Kapella. Óttarsstaðakapella. Jafnvel Kirkja og austan eru þúfur miklar, nefnast Kirkjugarður.“
Ekki finnast aðrar heimildir um kirkju eða kapellu á Óttarsstöðum og er frásögn Skúla sú eina sem til er.
Árið 1966 samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar að nýta sér forkaupsrétt á öllum lóðum og fasteignum í Hafnarfirði vestan Krýsuvíkurvegar og var jörðin Óttarsstaðir þar á meðal.
Óttarsstaðir hafa að mestu sloppið við allar nútíma framkvæmdir og þar er að finna nánast ósnert menningarlandslag. Vegna þessa er svæðið frekar vinsælt útivistarsvæði í dag.

Lónakot

Lónakot

Lónakot – túnakort 1917.

Lónakot er jörð í hinum svonefndu Hraunum í landi Hafnarfjarðar. Þær jarðir sem eru innan staðarmarka Hafnarfjarðar suðvestur af kaupstaðnum voru nefndar áður einu nafni Hraunjarðir. Þetta voru jarðirnar Stóri Lambhagi, Þorbjarnarstaðir, Straumur, Óttarsstaðir, Lónakot og Svínakot. Jörðin Hvassahraun var ein af Hraunjörðunum en hún var í Vatnsleysuhreppi. Þessar jarðir voru allar í eigu Viðeyjarklausturs og urðu því konungsjarðir með siðaskiptunum 1550. Konungsjarðirnar voru síðan seldar á árunum 1837-1839.
Elsta heimildin um Lónakot er í fógetareikningum frá 1547-1548 en þar sagði: „Item met Lonakot en legeko. landskyld iij vetter fiske oc ij lege en vet fiske dt. oc ij landskyldt iij vether fiske dt. thet er jc lxxx fiske.“ Lónakot kom fram í öllum fógetareikningum frá 1547 til 1553.

Lónakot

Lónakot – bærinn.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 var sagt að jarðardýrleiki Lónakots sé óviss, því jörðin tíundaðist engum, og jörðin var í konungseign. Landskuldin var xl álnir sem voru borgaðar með átta tunnum af kolum heim til Bessastaða allt til þess að Andres Ívarsson varð umboðsmaður á Bessastöðum, þá kvartaði ábúandinn, Sigurður Oddleifsson, um að skógurinn í almenninginum væri svo foreyddur að hann treysti sér ekki að safna kolviði til landskuldargjaldsins. Eftir það var landskuldin greidd með tveim vættum fiska í kaupstað. Kvikfénaður var tvær kýr, tvær kvígur mylkar, ein tvívetra, hin þrívetra, tólf ær, fimm sauðir veturgamlir, sjö lömb, einn hestur og eitt hross. Túnin gátu fóðrað þrjár kýr og heimilismenn voru fimm. Jörðin átti selstöðu í eigin landi, Lónakotssel, og voru hagar þar góðir en stórt mein af vatnsskorti þegar það var þurrkur. Jörðin notaði rifhrís til kolagerðar og eldiviðar og jafnvel til að fóðra nautgripi um vetur, torfrista og stunga var í lakasta lagi og varla nýtanleg, lyngrif var nokkurt og var notað til eldiviðar og stundum til að fóðra sauðfé í heyskorti. Fjörugrastekja var nægileg heimilismönnum, rekavon var lítil, sölvafjaran hjálpleg, hrognkelsfjaran gagnleg en skelfiskfjara naumleg og erfiðissöm til beitu. Ekki var heimræði á Lónakoti því engin almenninleg lending var á jörðinni og hafði ábúandinn skipsuppsátur á Óttarsstöðum.

Lónakot

Lónakot – minjar.

Í Jarðatali J. Johnsen frá 1847 fékk Lónakot númerið 162 og var í bændaeign. Dýrleiki jarðarinnar var 10, landskuld var 0,4, kúgildið 1 og ábúendur einn eigandi.
Á túnakorti af Lónakoti frá 1917 töldust túnin vera 0,9 teigar (sléttir) og kálgarðarnir voru 500 m2. Þar kom einnig fram að sjór og sandur gekk yfir lágan tún-/varnargarðinn á stórflóðum.

Lónakot

Lónakot.

Í örnefnaskrá Lónakots, sem Gísli Sigurðsson skráði, var sagt að Lónakot hafi verið í eyði síðan um 1930. Í skránni er einnig ítarleg lýsing á bæjarstæðinu og svæðinu í kring: „Lónakotsbærinn stóð á Bæjarhólnum, sem var sprunginn klettur, því sem næst í miðju Lónakotstúni, sem skiptist í Austurtún, Norðurtún og Vesturtún, öðru nafni Seltún. Túnið lá innan Lónakotstúngarðs, en hann skiptist aftur á móti í suðurtúngarð með suðurtúngarðshliði, en þessi hluti túngarðsins lá um nyrztu hólma og granda Lónakotsvatnagarða, sem eru hólmar og lón í suðsuðaustur frá bænum, með fersku vatni jafnarðarlegast. Austurtúngarður lá á austurkanti túnsins frá einu lónanna um Krumfót, sem er klapparhóll, er einnig nefnist Vökhóll og Sönghóll. […] Sunnanvert við Krumfót var syðra túngarðshliðið, en norðan Krumfótar var nyrðra túngarðshliðið. Garðurinn lá frá Krumfæti út að Norðurfjárhúsi, en frá því lá norðurtúngarðurinn eða sjóvarnargarðurinn á sjávarbakkanum, vestur eftir með norðurtúngarðshliði, sem var vestarlega á garðinum og þar rétt hjá tóft, Hliðsbyrgið.

Lónakot

Lónakot – Norðurfjárhúsið.

Á vesturkant túnsins var vesturtúngarður eða Seltúnsgarður. […] Suðurtjörnin lá aftur á móti sunnan við Bæjarhólinn og þar í brunnurinn, en frá bænum lá Brunnstígurinn niður á Brunnstéttina, sem lá út í tjörnina að brunninum, sem var niðurgrafinn í mjúkan leirbotninn.

Vatnagarðahellir

Í Vatnagarðahelli.

Lónakotsvatnagarðar, hólmarnir og lónin suðsuðaustur frá Lónakoti, voru einnig nefndir Vatnagarðar eingöngu, Lónin, Lónakotslón, Hólmarnir, Lónakotshólmar, og syðst í Vatnagörðum er Vatnagarðahelli eða Vatnagarðafjárskjól, sem eiginlega liggur í landi Óttarsstaða, og nokkrar tjarnanna.
Þegar haldið var suður út af suðurtúngarðshliði, var þar við Lónakotsselsstíginn, sem seinna varð Lónakotsvegur, alldjúp gjóta, sem nú er fyllt með grjóti, Yrðlingabyrgi. Þar ól Hallgrímur Grímsson, bóndi í Lónakoti um aldamótin 1900, upp tófuyrðlinga. Byrgið er um 30 metra frá túngarðshliðinu. Suður frá því er svo Lónakotsréttin. Austur þar frá, á vinstri hönd við Lónakotsstíginn, er þúfnakargi með fjárhúskofa og kallast hér Kotið, einnig Dys í Koti.

Lónakot

Lónakot – Dys í Koti.

Austar þar var Kotagerði, fjárgerði. Allt lá þetta vestan hólma Vatnagarðanna. Sagnir voru um, að upphaflega hafi Lónakotsbærinn staðið þarna. Umhverfis þennan þúfnakarga var Kotagarðurinn, hlaðinn, einfaldur grjótgarður. Nokkru lengra upp í hrauninu var Hádegishæð, eyktarmark frá Lónakoti.“
Árið 1966 samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar að nýta sér forkaupsrétt á öllum lóðum og fasteignum í Hafnarfirði vestan Krýsuvíkurvegar og var jörðin Lónakot þar á meðal.
Flestar þær fornleifar sem skráðar voru á jörð Lónakots tengjast bænum og landbúnaði með einum eða öðrum hætti. Helst ber að nefna bæjarrústirnar sjálfar sem eru mjög heillegar. Í bæjarrústunum eru sjö hólf, þar af er nyrsta hólfið niðurgrafin hlaða og næst syðsta að öllum líkindum eldhús eða baðstofa, þar er að finna leifar af steyptum reykháf.

Lónakot

Lónakot – brunnur.

Túnið við Lónakot hefur fengið að kenna á ágangi sjávar og liggur fjöldinn allur sjóbörðum steinum yfir því og varnargarðurinn er horfinn að miklu leyti. Útihúsin eru þó nokkuð heilleg og er þar kannski helst að nefna Norðurfjárhúsið, sem er í norður enda túnsins, og Yrðlingabyrgið, sem er u.þ.b. 100m SV við bæjarrústirnar en þar ól Hallgrímur Grímsson, bóndi í Lónakoti um aldamótin 1900, upp tófuyrðlinga fyrir feldinn.”

FERLIR saknar minja og heimilda í skráningunni, annarra en getið er um í tilvitnuðum og sumum hverjum gölluðum eldri skýrslum Byggðasafns Hafnarfjarðar um fornleifar í Hafnarfirði.

Heimild:
Fornleifaskrá Hafnarfjarðar V; Straumur, Óttarsstaðir og Lónakot, 2021; – Fornleifaskra-Hafnarfjardar-V-Straumur-Ottarsstadir-og-Lonakot-2021.pdf (byggdasafnid.is)

Vatnagarðahellir

Vatnagarðahellir.

Sloki

FERLIR hefur tekið saman myndir af nokkrum fiskibyrgjum og fiskigörðum á Reykjanesskaganum. Um eru að ræða merkar minjar frá fyrri tíð – órjúfandi hluti sjósóknar allt fram á miðja 20. öld.
HÉR má sjá myndasafnið.

Strýthólahraun

Fiskbyrgi í Strýthólahrauni.

Vatnsendahæð

Sigurður Harðarson, rafeindavirki, sendi FERLIR eftirfarandi stórmerkilega samantekt um “Íslensku útvörpin” í framhaldi af heimsókn á Langbylgjustöðina á Vatnsenda, sem nú stendur til að rífa – sjá HÉR.
FERLIR þakkar Sigurði fyrir þennan mikilsverða fróðleik….

Íslensku útvörpin

LW sendir 1965

LW sendir 1965 á Vatnsendahæð.

“Íslendingar framleiddu útvarpstæki á árunum 1933 til 1949 þegar erfitt var að flytja inn vörur vegna kreppunnar og seinni heimsstyrjaldarinnar. Þessi merkilega saga verður rakin hér í stuttu máli. Ekki hafa fundist haldbærar heimildir um þessa framleiðslu nema nokkur viðtöl við menn sem unnu við þetta á þessum árum, auglýsingar og verðlistar yfir lampa og íhluti. Skoðuð hafa verið tæki sem enn eru til og þau borin saman við innflutt til að gera sér grein fyrir smíðinni. Hvergi hefur fundist verðlisti yfir íslensku tækin, aðeins þau innfluttu.
Saga útvarpsins er heillandi því útvarpið rauf einangrun og færði mönnum strax í upphafi fréttir og fróðleik. Við vitum kannski ekki með vissu hver setti saman fyrsta útvarpstækið, en vitum þó að árið 1893 sýndi uppfinningamaðurinn Nikolai Tesla þráðlaust útvarp í St. Louis, Missouri.
Þrátt fyrir þessa sýningu er Guglielmo Marconi sá aðili sem oftast er álitinn faðir og uppfinningamaður þráðlausra útvarpssendinga.
Fyrstu útvarpssendingar í heiminum eru taldar vera þegar Bandaríski uppfinningamaðurinn Lee De Forest útvarpaði tveim óperum í tilraunaskyni 1910. Þá notuðu menn kristaltæki sem þurftu aðeins loftnet og gott jarðsamband ásamt heyrnatóli. Aðeins einn gat hlustað í einu.
Daglangar útsendingar nokkurra útvarpstöðva í Bandaríkjunum hófust 1916 og stóðu allt upp í sex tíma samfleytt í tilraunaskini. Frakkar gerðu fyrstu opinberar tilraunir með útsendingar útvarps 24. des. 1921. Frá París hófust síðan reglulegar fréttasendingar 1925. Effelturninn var notaður sem loftnet útvarpsstöðvarinnar.
Í Bretlandi hófust útvarpsútsendingar árið 1922 með stofnun breska ríkisútvarpsins BBC í London. Útsendingarnar dreifðust fljótt um Bretland.
29. október 1923 var fyrst sent út útvarpsdagskrá í Þýskalandi frá Vox-Haus í Berlín.

Loftnetsstaugin á Seyðisfirði

Útvarp

LW Vatnsendir 1965 – stjórnborð.

Fyrstir Íslendinga til að hafa þráðlaus fjarskipti eru félagarnir Þorsteinn Gíslason og Friðbjörn Aðalsteinsson á Seyðisfirði á heimasmíðuð sendi og viðtæki árið 1913.
Þorsteinn varð síðan fyrstur Íslendinga til að ná útvarpssendingum frá Þýskalandi, London og París. Árið 1919 reisir Þorsteinn 25 m hátt mastur við íbúðarhús sitt á Seyðisfirði og náði þá tilraunasendingum útvarpsstöðva í Evrópu og sendingum loftskeytastöðvarinnar í Reykjavík á sín heimasmíðuðu viðtæki. Tæki þessi eru ennþá til á Tækniminjasafninu á Seyðisfirði.

Útvarp

Marconi sendirinn frá 1951 á Vatnsendahæð.

Veturinn 1920 gerir Otto B. Arnar loftskeytafræðingur fyrstur manna tilraun með útvarpssendingar á Íslandi, þá nýkominn frá námi hjá uppfinningamanninum Lee De Foster í Bandaríkjunum. Fyrst er vitað til þess að hér á landi hafi verið seld útvarpstæki 1924.

Útvarp

Fyrstu útvarpssendingar í heiminum eru taldar vera þegar Bandaríski uppfinningamaðurinn Lee De Forest útvarpaði tveim óperum í tilraunaskyni 1910. Þá notuðu menn kristaltæki sem þurftu aðeins loftnet og gott jarðsamband ásamt heyrnatóli. Aðeins einn gat hlustað í einu.

1926 tekur til starfa fyrsta útvarpsstöð Íslendinga. Otto B. Arnar stofnaði félagið HF útvarp og útvarpaði í tvö ár, en varð að hætta vegna fjárskorts.
Útsendingar náðust langt út á haf og allt austur í Rangárvallasýslu.
Sendirinn var staðsettur í húsi Loftskeytastöðvarinnar á Melunum í Reykjavík. Ekki er vitað hvað varð um þennan sendi eftir að stöðin hætti starfssemi.
1927 setur breski trúboðinn Arthur Gook upp útvarpsstöð á Akureyri með styrk frá breskri ekkju. Stöðin var það aflmikil að sendingar náðust í Kanada, Kaliforníu og í Ástralíu þegar skilyrði voru hagstæð.

Útvarp

Mynd frá 1930- fyrsti sendirinn á Vatnsendahæð.

Gook flutti inn talsvert af útvarpstækjum fyrir Akureyringa, bæði kristaltæki og lampatæki. Stöðin hætti útsendingum eftir tvö ár þar sem leyfi fyrir útsendingum hennar fékkst ekki framlengt. Loftnetsstangir Cook. Þá var búið að samþykkja lög á Alþingi um stofnun RUV.
Innflutningur á viðtækjum var ekki mikill enda kostaði útvarp á bilinu 260 til 550 krónur á meðan verkamannalaun voru aðeins 1 kr. á tímann og bændur fengu 40 til 80 aura fyrir eitt kíló af nautakjöti. Það hefði því tekið verkamanninn tvo til þrjá mánuði að vinna fyrir einu útvarpstæki og bóndinn þurft að selja rúmlega hálft tonn af kjöti.
Ríkisútvarpið er stofnað 1930 og hóf útsendingu 20. desember sama ár. Upphaflega átti að senda út dagskrá frá Alþingishátíðinni en vegna tafa á afhendingu búnaðar var það ekki hægt.
Fyrsti langbylgjusendirinn á Vatnsendahæð við Reykjavík var 16 Kw en stækkaður í 100 Kw 1938.
RUV fékk sama ár einkarétt á innflutningi og sölu viðtækja og stofnuð var Viðtækjaverslun Ríkisins 1931. Árið eftir er sett á laggirnar Viðtækjavinnustofa Ríkisins til að sjá um viðhald útvarpstækja og tók hún til starfa 1. október það ár. Tveim árum síðar, eða 1933 bætist við Viðtækjasmiðja.
Þar voru hönnuð og smíðuð ódýr útvarpstæki til að mæta Langbylgjustöðin Vatnsenda þörfum landsmanna svo ná mætti sendingum RUV.
Fyrst voru framleidd mjög einföld tæki sem náðu aðeins endingum RUV í Reykjavík og nágrenni. Tækin voru eingöngu drifin af rafhlöðum sem hægt var að hlaða. Flestir sveitabæir voru án rafmagns. Á örfáum bæjum voru þó komnar lágspenntar vindmyllur á þessum tíma. Menn fóru því jafnvel fótgangandi dagleið með rafgeymi á bakinu til að fá hann hlaðinn.

Útvarp á hvert heimili
Útvarp.Viðtækjastofa Ríkisútvarpsins var með sérstaka þjónustu í mörg ár til að hlaða rafgeyma fyrir útvarpsnotendur. Þetta ár 1933 er mikið auglýst slagorðið “Útvarp á hvert heimili“. Í blöðum og bæklingum.
Algengasta gerð tvöfaldrar rafhlöðu voru 1,5 v. og 90 volt.Í Árbók Félags útvarpsnotenda í janúar 1932 er kynnt að Viðtækjaverslun Ríkisins ætli að gefa mönnum kost á að kaupa útvarpstæki með afborgunum. „Sömu leiðis verði rafgeymar og þurrafhlöður á kostnaðarverði“. Í sömu grein segir „Þá mun Viðtækjaverslunin taka upp þá nýbreytni að flytja inn tæki óuppsett. Geta menn þá sjálfir ráðið gerð skápanna. Geta þá með þessum hætti tækin orðið notendum ódýrari og jafnframt skapast vinna í landinu sem óþarft er að borga útlendingum fyrir“.
ÚtvarpÁrið eftir er rifist um hátt afnotagjald sem var kr. 30 á ári. Skrifað er um í blöðum að nær væri að hafa þetta lágan nefskatt. Almennasta verð ódýrra tækja sé 140 til 170 kr. Rekstrakostnaður slíkra tækja sé á ári með afnotagjaldi 75 til 90 kr. „Þá upphæð geti fátækur fjölskyldufaðir með mikla ómegð ekki greitt. Útvarp geti því ekki orðið það menningartæki sem því sé ætlað“.
Þar sem útvarpstæki kostuðu mikið var oft lagður strengur milli húsa frá útvarpstæki í hátalara næsta húss. Eigi að síður þurfti að greiða fullt afnotagjald eins og af útvarpstækinu.
Þegar fyrsta útvarpstækið kom til Húsavíkur var lögð lína milli fimm húsa frá tækinu.
Fyrstu útvörpin sem smíðuð voru hjá Viðtækjasmiðjunni höfðu tvo lampa og voru aðeins fyrir heyrnartól.

Tveggja lampa tæki fyrir heyrnatól

Útvarp

Þessi fyrsta útgáfa náði ekki sendingum RUV til dæmis á Vestfjörðum. Þá var bætt við einum lampa í viðbót sem gerði tækið næmara og um leið komu þau með innbyggðum hátalara. Til að auðkenna tækin var fyrsta gerðin skýrð Suðri og næsta gerð fékk nafnið Vestri. Mest var framleitt af þeirri gerð. Árið 1938 var búið að framleiða 550 tæki og 200 fyrir skip, en þau tæki voru í málmkassa á meðan hin voru í trékössum. Eftirspurnin var mikil en erfitt var að fá íhluti frá Evrópu í smíðina þegar nær dró stríðsbyrjun sem hamlaði framleiðslunni. Þá var brugðið á það ráð að fá íhluti frá Ameríku og því eru tækin eftir 1940 blönduð evrópskum og amerískum íhlutum. Að jafnaði unnu 3–5 menn að þessari smíði. Viðtækjasmiðjan hætti störfum 1949 og þá var búið að framleiða nálægt 2000 viðtækjum eftir því sem næst verður komist.
Á Austfjörðum var erfitt að nota Vestra því þar voru sendingar erlendra útvarpsstöðva mjög sterkar og því var brugðið á það ráð að smíða vandaðri tæki sem gátu frekar einangrað sendingar RUV frá erlendu stöðvunum. Sú útgáfa fékk nafnið Austri. Þau tæki voru framleidd að mestu eftir pöntunum. Áfram var smíðin þróuð eftir því sem á leið. Smíðuð voru sérstök lítil tæki sem fengu heitið Sumri og var ætluð fyrir sumarhús í nágrenni Austri Reykjavíkur, enda fjölgaði þeim mikið upp úr 1940. Ástæða þess í mörgum tilfellum var að menn byggðu sér þessa bústaði til að eiga athvarf ef loftárás yrði gerð á Reykjavík.

Útvarp

Tvö tæki eru til í dag sem keypt voru eingöngu í slíka bústaði sem voru rétt ofan við Reykjavík. Allt voru þetta tæki sem gengu fyrir tvískiptum rafhlöðum, annar hlutinn var fyrir glóð og hinn fyrir háspennuna á lampanna. Með því að skoða öll þau tæki sem vitað er um kemur í ljós að hönnun Vestra var seinna notuð við smíði Suðra og Sumra sem fyrst voru aðeins tveggja lampa tæki. Sumarbústaður ofan við Rauðhóla Síðustu árin sem þessi framleiðsla var í gangi kom þriggja lampatæki sem heitir Sindri. Það var svipað uppbyggt og Vestri, en með vibrator spennugjafa sem gekk fyrir rafgeymi 6 – 12 eða 32 volta eftir auglýsingum að dæma frá þessum tíma. Þurfti þá ekki lengur tvískiptar rafhlöður. Nú dugði einn rafgeymir. Á þessum tíma var eingöngu farið að notast við efni frá USA vegna stríðsins, þétta, viðnám og lampa.

Sumri, tveggja lampa
Útvarp

Auglýsing í blaðinu „Útvarps tíðindi“ í ferbrúar 1947 er svohljóðandi: „Viðtækjasmiðja Ríkisútvarpsins smíðar eftir pöntun eftirfarandi gerðir af viðtækjum: Þriggja lampa tækið „Sindri“, fyrir 6, 12 og 32 volta rafgeyma, sparneytið og traust viðtæki sem gefur góð tóngæði. Þriggja lampa tækið „Suðri“ fyrir þurrrafhlöður með spari stilli sem gefur 30% möguleika á sparnaði rafhlöðunnar. Fjögra lampa super viðtækið „Austri“ fyrir 6, 12 og 32 volta rafgeyma spennu“. Eitt tæki hefur fundist af Sindra og er það fyrir 12 volta spennu.
Sama ár og smíði íslensku tækjanna hófst veitti Alþingi Blindrafélagi Íslands styrk til að eignast 10 útvarpstæki til að lána eða leigja blindum gegn vægu verði svo þeir gætu notið dagskrár RUV. Styrkurinn var kr.1500 sem gefur okkur vísbendingu um að hvert tæki hafi kostað kr.150.- Þetta er það eina sem hefur fundist um verð þessara íslensku tækja, ef rétt er. Á aðalfundi Blindrafélagsins 1935 er kynnt ákvörðun Alþingis að afhenda félaginu önnur 10 viðtæki og blindir fái undanþágu frá greiðslu afnotagjalda.
Eftir að innflutningur hófst frá Bandaríkjunum og Kanada komu tilbúnar einingar sem flýtt hafa fyrir samsetningu tækjanna. Vibrator spennugjafinn er ein af þeim, en hann framleiddi háspennu fyrir lampana. Við það losnuðu menn við tvískiptar rafhlöður. Ekki hafa fundist heimildir né tæki frá þessari íslensku framleiðslu sem hafa haft spennugjafa fyrir 220 volta rafmagn þéttbýlisins. Vibrator eining í útvarpi Á fyrstu árunum var sérstaklega tekið fram þegar innflutt tæki voru auglýst að lampar fylgdu með ásamt hátalara, sem hét „GELLIR“ í þá daga. Sendistöðin á Vatnsenda var stækkuð 1938 úr 16 kw. í 100 kw. Það breytti miklu fyrir afskekkta sveitabæi á landinu. Þrátt fyrir að erlendum útvarpsstöðvum fjölgaði eftir stríð með auknum sendistyrk nýttust þessi einföldu útvarpstæki ágætlega, sérstaklega inn til sveita. Ég veit dæmi þess að svona tæki var í notkun til ársins 1955 á sveitabæ í Húnavatnssýslu. Öll þessi tæki, hvort sem þau voru innflutt eða heimasmíðuð, þurftu loftnet sem var langur vír, 30 – 50 m ýmist milli húsa eða frá húsi í staur. Sumir notuðu efsta vír í nærliggjandi girðingu og fl. Í einstaka tilfellum stálust menn til að nota aðra símalínuna sem lá að bænum fyrir loftnet.

Útvarp

Vestri.

Ein gerðin af Vestra er einmitt með þéttum í seríu við loftnetsinntakið sem hefur verið bætt við, hugsanlega til að deyfa ekki sambandið á símalínunni. Það er þó ágiskun undirritaðs.
Einnig seldi Viðtækjaverslunin lausa þétta sem hægt var að tengja milli loftnets og útvarpsins, kannski í þessum tilgangi. Seldir voru einnig svokallaðir „Ljósnetsþéttar“ sem ætlaðir voru til að nota mætti rafleiðslur hússins sem loftnet. Þetta var ekki hættulegt því tækin voru eingöngu tengd við rafhlöður, ekki rafstraum hússins. Í blöðum og bæklingum eru víða góðar leiðbeiningar hvernig best er að ganga frá loftneti fyrir útvörpin. Hjá Viðtækjavinnustofunni starfaði maður að nafni Gunnar Sörensen í mörg ár, eingöngu við uppsetningu loftneta.
Margar sögur eru til af því hvernig menn björguðu sér í þeim málum. Jóhann Örn símaverkstjóri sagði undirrituðum frá að á bæ innarlega í Vatnsdal í A-Húnavatnssýslu var útvarpið tengt inn á símalínuna og truflaði sambandið, sérstaklega þegar spiluð var tónlist. Þá heyrðist jafnvel betur í sendingum RUV en á milli símtækja. Skúli Pálson símaverkstjóri á Blönduós var oft búinn að reyna að standa bóndann að verki en tókst ekki því hann var ávalt búinn að aftengja tækið þegar Skúli kom á staðinn. Á endanum fékk Skúli þessi Jóhann Örn til að fara á ómerktum bíl og þá sást hvað var í gangi. Ekki fylgdi sögunni hvort bóndinn setti upp sérstakt loftnet eftir þetta.

Þéttir fyrir afturverkun
ÚtvarpTæknilega ástæðan fyrir þessu er að tækin eru mjög einföld og merkið var látið fara tvisvar í gegnum sama stigið. Þetta er kallað „Afturverkun“.
Þegar styrkur útsendingar og skilyrði voru góð gat í útvarpstækinu magnast upp styrkur sem lak svo til baka út í loftnetsrás tækisins sem heyrðist þá vel í símtækjum nærliggjandi bæja.
Þar sem ekki var útvarpað allan sólahringinn var slökkt á tækjunum milli dagskráliða og loftnetin oftast aftengd með sérstökum rofa sem Viðtækjaverslunin seldi og hétu „Grunntengisnari“.
(Í dag köllum við þetta hnífrofa). Því var útvarpið ekki að trufla símasambandið nema einstaka sinnum. Önnur ástæða rofans var til að verja tækin skemmdum í eldingaveðri.
Þó svo Langbylgjusendirinn á Vatnsenda hafi verið stækkaður 1938 úr 16 Kw í 100 Kw dugði það ekki fyrir norður og austurland þar sem útvarpstöðvum fjölgaði ört í Evrópu og styrkur sendanna jókst. Því var gripið til þess ráðs að setja upp á Eiðum útvarpssendi á miðbylgju, 488 metra tíðni. Byggt var hús útbúið vönduðu viðtæki og sérstöku loftneti fyrir viðtöku frá Reykjavík um 700 metra frá sendinum á Eiðum. Sendirinn var tekinn í notkun 27. sept.1938 og breytti miklu fyrir austfirðina, sérstaklega á Djúpavogi og Þórshöfn. Þá hafði Viðtækjasmiðjan framleitt Vestra með bæði lang og miðbylgju. Þannig Vestrar hafa fundist og eru til á söfnum. Vestrarnir heita því, Vestri L3 og Vestri ML. Vestrinn, ML er með aukarofa umfram hinn til að skipta milli bylgjusviða. Austrarnir sem smíðaðir voru fyrir Austfirðinga eru bæði með lang- og miðbylgjum. Á framhlið þeirra er stilliskífa sem er ekki á neinum af hinum gerðunum.
Í blaðinu Útvarpstíðindi í mars 1940 er viðtal við Jón Alexandersson yfirmann Viðtækjasmiðjunnar. Hann segir frá því að sérstakur Vestri sé nú framleiddur fyrir Austfirði. Einnig kemur fram í viðtalinu að tilbúinn sé hönnun á Austra, en framleiðsla sé ekki hafin vegna skorts á íhlutum til smíðinnar.
Undirritaður á Austra sem framleiddur er í lok sama árs, eingöngu með íhlutum frá USA.
Það virðist því hafa ræst úr þessum skorti þegar leið á árið.

Útvarp

Sindri.

Í auglýsingu frá árinu 1942 kemur fram að Austri sé framleiddur eftir pöntunum. Hægt sé að fá hann bæði í eikar eða mahóní kössum Sennilega hefur dregið úr framleiðslu íslensku tækjanna fljótlega eftir að stríðinu lauk. Nokkur þeirra tækja sem undirritaður hefur skoðað eru stimpluð eða skrifuð dagsetning og ártal þegar tækin eru prófuð. Það eru viðgerðamiðar á botni tækjanna sem sýna hvenær þau voru í viðgerð hjá V.R. Síðasta ártalið sem fundist hefur er frá desember 1946.
Útvarp

Undirritaður og útvarpsvirkinn Helgi Jóhannesson sem býr á Akureyri hafa gert könnun og skoðað flest öll tæki sem vitað er um, bæði á söfnum og í einkaeigu. Helgi hefur einnig verið duglegur við að safna og gera upp gömul tæki sem hafa orðið eins og ný á eftir. Hann hefur því gott vit á þessum hlutum. Það hefur verið hægt að aldursgreina tækin að einhverju leyti eftir smíðinni og hvaða lampar ásamt íhlutum sem eru notaðir, þar sem við vitum að efniviður í smíðina fékkst ekki frá Evrópu eftir árið 1939. Viðtækjasmiðja Ríkisútvarpsins smíðaði fleira en útvarpstæki.

Ári áður en smiðjan er stofnuð formlega 1933 var Viðtækjaverkstæðið beðið að framleiða litlar talstöðvar fyrir fiskibáta. Tveimur árum síðar, 1934 er búið að smíða 45 talstöðvar með 4 w sendiorku í loftnet. Þessar talstöðvar reyndust mjög vel og breyttu miklu fyrir sjómenn. Þegar hér var komið er hafin smíði útvarpstækjanna og því var ákveðið að Radioverkstæði Landsímans tæki við þessari framleiðslu. Til er viðtæki frá þessum tíma sem er merkt viðtækjasmiðjunni og bætt svo við merki Landsímans sem segir okkur að Landsíminn hafi fengið hálfkláruð tæki og klárað þau. Ástæðan fyrir þessu öllu var að ekki voru framleiddar erlendis hentugar litlar talstöðvar fyrir fiskibáta. Landsíminn framleiddi talstöðvar til ársins 1980, aðallega fyrir báta og fiskiskip.
Árið 1958 var einnig hafin framleiðsla talstöðva til að nota í bílum. Landsíminn leigði út tækin sem smíðuð voru hjá þeim og er því ekki til verðskrá yfir þeirra framleiðslu frekar en íslensku útvarpstækin. Vitað er að leiga á talstöð var kr. 40 á ári 1945 en var kominn í 3 til 6 þúsund árið 1960, eftir hverslags tæki var um að ræða.

Útvarp

Austri.

Smíðasaga þessara íslensku viðtækja, Suðra, Vestra L3 og ML, Austra, Sumra og Sindra er stórmerkileg að því leyti að erfitt var að fá tæki erlendis frá og gjaldeyrir lítill í landinu. Þetta hefur því flýtt verulega fyrir að almenningur gæti notið dagskrár RUV svona snemma eftir stofnun þess.
Tækin voru framleidd í smá skömmtum eftir því sem komið hefur fram í viðtölum við starfsmenn Viðtækjavinnustofunnar. Þegar mikið var að gera við viðgerðir voru menn teknir úr smíðinni og öfugt þegar lítið var að gera var þeim fjölgað við smíðina.
Viðtækjasmiðjan og Viðtækjavinnustofan voru í raun eitt og sama fyrirtækið. Það var kannski efnað niður í 15 til 20 tæki og þau smíðuð í áföngum, útgangshlutinn fyrst og loftnetshlutinn síðar. Í lokin voru tækin sett í kassana og prófuð.
ÚtvarpHúsgagnasmiður sem vann hjá RUV á þeim tíma smíðaði alla kassana utan um þessi tæki. Kassarnir breyttust með tímanum og eru til dæmis fyrri gerðir Vestra í stærri kassa en seinni gerðirnar. Sama er með Sumra og Austra. Þar eru kassarnir ekki alltaf eins.
Eins og áður hefur komið fram virðist sem frumgerðin af Suðra sem var tveggja lampa tæki í upphafi hafi verið notuð óbreytt en endurbætt með þriðja lampanum og þá var kominn Vestri. Sú hönnun er síðan notuð áfram við smíði yngri tækjanna af Suðra, Sumra og Sindra.
Fyrst eru þessi tæki eingöngu fyrir langbylgju, enda smíðuð aðeins til að ná sendingum RUV. Seinna kemur svo Vestri með miðbylgju. Við sem erum að skoða þetta teljum að Vestri L3 þýði, „eingöngu langbylgja“ og Vestri ML sé auðkennið þar sem hann er með bæði mið og langbylgju. Hjá Helga á Akureyri er til kassi utan af Sumra með fjórum tökkum og er merktur Sumri ML 123. Það þýðir sennilega mið og langbylgja en við vitum ekki hvað 123 stendur fyrir. Einnig höfum við fundið Sumra með tveimur lömpum og annan með þremur lömpum. Þessi tveggja lampa Sumri er með raðnúmerinu 3002 sem þýðir að hann er nr. tvö í framleiðslunni og framleiddur 1943. Sama ár var hann keyptur til að hafa í sumarbústað við Rauðhólana ofan Reykjavíkur. Hinn Sumrinn er þriggja lampa og hefur raðnúmerið 3041og framleiddur í maí 1945. Það tæki var einnig í sumarbústað rétt ofan Reykjavíkur alla tíð. Íhlutir og lampar þeirra beggja er upphaflega efni frá USA. Skipt hefur verið um lampa í þeim yngri og settir Evrópulampar sem framleiddir voru eftir stríðsárin.
Útvarp
Í mörgum af þessum gömlu tækjum er sambland af Evrópu og USA lömpum eftir því hvenær þau biluðu og hvað til var á lager hérlendis.
Í flestum tilfellum er merkt við sökkla lampanna á tækjunum nöfn þeirra lampa sem notaðir voru í upphafi. Það eitt staðfestir svolítið hvenær tækið var smíðað ef ekki er stimpill eða skrifað framleiðsluárið. Sami lampi getur heitið mismunandi nöfnum eftir því frá hvaða framleiðanda.
Útvarp
Menn björguðu sér á aðdáanlegan hátt í kreppunni. Þegar lampi bilaði og ekki var til lampi með samskonar sökkli, en var að öðru leyti eins, mixuðu þeir einfaldlega nýjan lampa ofan í sökkul þess gamla til að þurfa ekki að skipta um sökkul í tækinu og umvíra það. Austri er Superheterodyne , mjög frábrugðinn öllum hinum. Hin tækin öll kallast Straight. Munurinn í stuttu máli er að Straight tækin eru nokkurs konar magnarar. Í inngangi þeirra er loftnetsaðlögunin stillt inn á tíðni sendistöðvarinnar og merkið síðan magnað í endastigið sem drífur hátalarann.
Rétt áður en það fer síðasta spölinn er merkið sent til baka inn í fyrstu rás og fer þá í gegnum sömu lampana aftur og endar með meiri styrk til hátalarans. Þetta kallast „Afturverkun“. Með þessari einföldu útfærslu er tækið ekki eins varið fyrir truflunum frá stöðvum nálægt tíðni t.d. RUV. Sem sagt, bandbreiðari en hin útfærslan. Þetta gerði ekkert til fyrstu ár útvarpsins þar sem erlendar stöðvar voru fáar.
Útvarp
Austri er með einum lampa í viðbót sem kallast ocillator (sveifluvaki). Fremsti hluti tækisins er samskonar og í hinum. Þessi ocillator býr til sína eigin tíðni sem blandast síðan tíðni sendistöðvarinnar í næsta lampa. Þar fyrir aftan eru mjög þröngar rásir sem magna mismunatíðni innkomumerkisins og ocillator merkisins sem fer áfram til hátalarans. Þar af leiðandi er tækið ekki að magna sendingar annarra stöðva til hátalarans, en bara hljóðið frá stöðinni sem stillt er á hverju sinni. Engin afturverkun er í þessari gerð. Í smíði Austra fara því talsvert fleiri íhlutir en í hin tækin. Sindri er þriggja lampa Straight tæki eins og Vestrinn, nema hann var ekki fyrir tvískiptar rafhlöður eins og komið hefur fram.
útvarpÍ honum er vibrator spennugjafi. Erlendir framleiðendur komu fyrst fram með Superheterodyne tækin árið 1933 og eftir 1934 finnast ekki Straight tæki auglýst, enda hefur það ekki gengið erlendis að nota slík tæki þó það hafi verið í lagi hér inn til sveita mikið lengur.
Í þeim hremmingum sem landinn bjó við í upphafi stríðsáranna er yfirmaður Viðtækjaverslunar Ríkisins sendur til Bandaríkjanna 1942 til að gera innkaup á amerískum útvarpstækjum þar sem ekkert fékkst frá Evrópu. Hann telur sig hafa náð samningum um kaup á 2700 tækum en ekki er vitað hvort þau skiluðu sér öll. Hörgull var á tækjum fyrir almenning vegna stríðsins við Japani og í Evrópu. Lítill hluti þeirra tækja sem til eru í dag hér á söfnum og í einkaeign eru frá USA. Flest eru Evrópu tæki framleidd fyrir og eftir stríð. Tækjunum sem komu frá USA þurfti að breyta til að ná RUV því eingöngu var notuð miðbylgja þar í landi.
Á hernámsárunum var mikið eftirlit með tæknimönnum sem höfðu eitthvað vit á sendi og viðtækjum. Til dæmis gerði herinn kröfu um að viðgerðamenn tækju mið og stuttbylgjur úr sambandi ef tæki kæmi til viðgerðar á stríðsárunum.
útvarpÞegar undirritaður hóf nám 1961 voru að koma í viðgerð tæki sem þannig var ástatt með. Það fór því smá tími í að lagfæra og breyta til baka tækinu ásamt því að gera við þau. Við þessa eftirgrennslan um hvernig framleiðslu íslensku tækjanna var háttað hefur margt fróðlegt komið í ljós.
Í Lesbók Morgunblaðsins 18. apríl 1926 er talað um að Víðvarp, (Útvarp) geti verið mikill friðarspillir þar sem fólk komi sér ekki saman um sömu dagskrá. Í sömu grein er vitnað er í viðtal við yfirmann lögreglunnar í Gautaborg sem heldur því fram að glæpum unglinga hafi fækkað mikið eftir að útvarp hóf starfsemi þar í landi. Menn hafa því ekki verið sammála um ágæti útvarps frekar en árið 2021.

Útvarp

Lampi.

Snorri B.P. Arnar auglýsir Philips B-Spennutæki með nýjum lömpum 26. jan. 1928. Lamparnir eiga að vera miklu betri en eldri lampar og fleira er minnst á. Ekki er gefið upp verð.
Auglýsing 19. mars 1929 byrjar eftirfarandi: „Hvers vegna MENDE? Vegna þess að það eru sterkustu, ódýrustu, hljómfegurstu og bestu radioviðtækin. Þau eru samt 270 kr. ódýrari en önnur sambærileg tæki“. Áfram hélt lofið og auglýsingin endar síðan á að leita skuli upplýsinga hjá Jóni Gunnarsyni hjá Eggerti Kristjánssyni og Co. 1930 koma fyrst á markað í Bandaríkjunum bílútvörp. Tveggja daga verk var að setja tækið í bíl, Taka þurfti mælaborðið í sundur til að koma fyrir tækinu og hátalara. Klippa þurfti gat á þakið fyrir loftnetið og þar sem tækin gengu fyrir eigin rafhlöðum varð að saga gat í gólfið fyrir auka rafgeyma. Handbókin sem fylgdi til leiðsagnar var 28 síður.
Fyrstu tveir bílarnir með útvarpstæki komu til landsins sama ár, 1930.
Bifreiðastöð Reykjavíkur auglýsir 30. nóv.1930. „B.S.R hefur fengið sér tvær bifreiðar með 5 lampa útvarpsviðtæki. Heyrist ágætlega á viðtækin þó bifreiðin sé á ferð. Bifreiðarnar eru báðar af gerðinni Studebaker“. Seinna var flutt mikið inn af útvarpstækjum sem smíðuð voru fyrir Buick bíla og ávallt kölluð hér „Buick tækin“. Þessi tæki voru þægileg að því leyti, allt tækið er í einu boxi og því auðveldara að setja í hvaða bíltegund sem var.
1931 er talið að til séu um 3000 útvarpstæki á landinu. Þar af 1360 í Reykjavík. 1932 eru skráðir um 5000 notendur.
Útvarp
Viðtækjaverslun Ríkisins auglýsir 21. sept. 1933. „Margar nýjar gerðir viðtækja fyrir bæjarspennuna eru nú komnar. Snúið ykkur til umboðsmanna“.
(Á sama ári hófst smíði Íslenskra útvarpstækja hjá sama aðila, eingöngu fyrir rafhlöður).
Árið 1933 voru aðeins þrír útvarpsvirkjar með réttindi. Það voru þeir Otto B. Arnar, bróðir hans Snorri P.B.Arnar og Jón Alexandersson.
ÚtvarpHjá Viðtækjaverkstæði Ríkisútvarpsins voru haldin námskeið og margir fengu réttindi þaðan.
1938 er síðan stofnað Félag Útvarpsvirkja í Reykjavík. Stofnfélagar voru 19.
20. des.1934 auglýsir Viðtækjaverslun Ríkisins í blaðinu Degi. „Nýjar tegundir útvarpstækja. Verðið er lægra en nokkru sinni áður. Fyrirliggjandi 3-4-5-6-7 lampa tæki“. (Geta má þess að þá kostuðu innflutt tæki frá 175 upp í 820 krónur. Verkamaður var með 1 krónu á tímann á þessum árum.)
Viðtækjaverslun Ríkisins auglýsir í Fálkanum 19. des. 1936. „Viðtæki á lægra verði hér á landi en í öðrum löndum álfunnar“. Myndin í auglýsingunni er af erlendu tæki.
Það kemur fram í texta auglýsingarinnar að Viðtækjaverslunin sé ekki rekin með hagnað í huga og takmarkið sé „ Viðtæki inn á hvert heimili“.
Undirrituðum dettur í hug hvort ekki sé verið að vitna í íslensku framleiðsluna án þess að þess sé getið sérstaklega þar sem áður hafði komið fram að þau væru 60% ódýrari en innflutt tæki. Hvergi hefur enn fundist verðlisti yfir þessi íslensku tæki.
Fyrstu árin er ekki viðgerðarþjónusta á landinu fyrir útvörp nema í Reykjavík. Komið var upp viðgerðarverkstæði á Akureyri 1934 og sá Grímur Sigurðsson um það verkstæði lengst af. Hann hafði starfað við útvarpsstöð Cook og var því vanur. Ísfirðingar kvarta mikið í dagblöðum um mitt árið 1940 að ekki sé þjónusta á staðnum þar sem þeir greiði 100 þúsund í afnotagjöld og 40 þúsund til Landsímans fyrir leigu á talstöðum.
„Hve lengi eigum við Vestfirðingar að vera afskiptir í þessum málum“, skrifa þeir.

Vatnsendahæð

Vatnsendahæð – langbylgjustöðin.

Útvarpið kom sér fljótlega upp umboðsmönnum víða á landinu og gátu sumir þeirra gert við einfaldar bilanir, ráðlagt meðferð tækjanna og sett upp loftnet.Í útvarpstíðindum 2. tölublaði 1946 er verið að afsaka að fyrstu útvarpstæki sem eru á leið til landsins frá Evrópu eftir stríð séu í raun úrelt hönnun. Það sé 10 mánaða bið í að nýrri útgáfur verði á markaði hérlendis. Framleiðsla viðtækja til afnota fyrir almenning hafi ekki verið leyfð á Englandi og í Ameríku fyrr en eftir uppgjöf Japana á síðastliðnu sumri, en þó með miklum takmörkunum.

Vatnsendahæð

Vatnsendahæð – viðtæki.

Í Útvarpstíðindum 1948 er sagt frá þeim nýungum að útvarpsframleiðendur á Englandi hafi fengið húsgagnasmiði í lið með sér við að hanna kassa utan um tækin. Þessi samvinna leiddi til fjörbreyttara útlits tækja árin á eftir.
Á fyrstu árum útsendingar útvarpsins þurfti nokkrum sinnum að skipta um senditíðni vegna truflana frá erlendum stöðvum. Einkum voru það rússneskar stöðvar og þegar stöðin í Luxemburg var stækkuð. Þetta olli sérstaklega gömlu fólki erfiðleikum sem ekki kunni að breyta stillingum tækja sinna. Fyrst var sent út á 1100 metrum, síðar á 1400,1638, 1639 og 1648 metrum. Viðtækjasmiðjan var lögð niður 1949 og framleiðslu útvarpstækja þar með hætt. Viðgerðavinnustofu Ríkisins var lögð niður 1960.
1967 er einkasala ríkisins á innflutningi og sölu útvarpstækja afnumin og Viðtækjaverslun Ríkisins þar með lögð niður á sama tíma, eftir 37 ára starfssemi.

Vatnsendahæð

Útvarpshúsið á Vatnsendahæð – teiknað af Guðjóni Samúelssyni.

Haldin var útsala á þeim lager sem til var og sagt er að valdir vinir hafi fengið tæki fyrir lítið.
Hugmyndin af þessari samantekt varð til þegar nokkrir eldri rafeindavirkjar stofnuðu „Hollvinafélag um sögu útvarpstækni á Íslandi“ í þeim tilgangi að bjarga útvarpstækjum og öðrum búnaði sem notaður hefur verið við útvarpssendingar frá því RUV var stofnað 1930, finna þeim varanlegan stað til varðveislu og sýningar fyrir almenning um ókomna framtíð.
Eftir 10 ár verður opinber útvarpsrekstur 100 ára og því dýrmætt að saga þess sé varðveitt.
Efni þetta er mikið til sótt í gömul tímarit og blaðagreinar frá því um aldamótin 1900 og síðar. Viðtöl við þá örfáu sem unnu hjá V.R. og enn eru á lífi. Síðan hefur undirritaður ásamt Helga Jóhannessyni rafeindavirkja á Akureyri skoðað tæki og getið í eyðurnar hvernig þessi framleiðsla fór fram. Myndirnar eru teknar af undirrituðum og sóttar í bækur og blöð. Markmið félagsmanna er að varðveita söguna og sem mest af gömlum tækjum sem sýna þróun útvarpstækja sem notuð hafa verið á Íslandi frá stofnun RUV árið 1930 til ársins 2000.”

Svar Sigurðar við viðleitni FERLIRs til birtingar efnisins var eftirfarandi: “Þú mátt nota þetta efni að vild því ég er bara ánægður að hafa getað náð þessum upplýsingum saman. Hvergi hefur verið skrifað um þessa merkilegu smíði svo ég viti og ég ekki fundið neitt nema smá brot sem ég tíndi saman ásamt því að vera  búinn að ræða við nokkra gamla menn sem unnu við þessi tæki en eru nú eru látnir. Ég og vinur minn höfum gert upp tæki sem við höfum komist yfir og þannig getað lýst þeim. Ég hef hjá mér nú allar gerðirnar og ætla að hafa tækin til sýnis á Skógarsafni í sumar. Útvarpið hefur ekki sýnt þessu neinn áhuga og kannski vita þeir sem ráða ekki af þessu þó ég hafi gefið safnstjóra RUV eintak.
Ef þig vantar fleiri myndir á ég mikið safn. – Kv. SH.

Apríl 2021.
F.h. Hollvinafélagsins,
Sigurður Harðarson, rafeindavirki

Vatnsendahæð

Vatnsendahæð – fornleifar…

Hafnarfjörður

Í Fornleifaskrá Hafnarfjarðar II árið 2021 segir eftirfarandi um Miðbæ og Hraun:

“Miðbær Hafnarfjarðar er gróflega innan þess landsvæðis sem áður var Akurgerði. Nafn jarðarinnar bendir til þess að einhverntímann hafi verið reynt við akuryrkju á henni en undir hraunbrúninni við fjörðinn var mikil veðursæld og skjól fyrir norðanátt. Engar heimildir eru þó til fyrir þessari akuryrkju fyrir utan nafn jarðarinnar.

Hanarfjörður 1882

Hafnarfjörður 1882.

Fram til 1677 var Akurgerði hjáleiga frá Görðum á Álftanesi en það ár eignaðist Hans Nansen, Hafnarfjarðarkaupmaður, jörðina í makaskiptum fyrir hálfa Rauðakollsstaði í Eyjahreppi í Hnappadalssýslu. Við eignaskiptin fluttist verslunarstaðurinn, sem hafði verið í Hvaleyrarlandi, til Akurgerðis og eftir þau voru þar einungis þurrabúðir og eignarráð landsins í höndum
Hafnarfjarðarkaupmanna og saga jarðarinnar er þá í raun saga verslunarstaðarins.

Akurgerði

Akurgerði og klettar ofan þess.

Í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 var sagt að Akurgerði hafi verið eign Garðakirkju til forna og hjáleiga í Garðalandi. Hafnarfjarðarkaupmaður hafði þar eignarráð og að dýrleiki gömlu hjáleigunnar hafi verið óviss, þar sem hún stóð í óskiptu landi og tíundaðist ekki. Þar bjuggu Guðmundur Þórðarson og Þorleifur Sveinsson og greiddur þeir enga húsaleigu en voru í staðin skyldir til handarvika sem kaupmaðurinn þurfti á sumri og eftirliggjarinn á vetri. Þeir viðhéldu búðinni með styrk kaupmanna og héldu engan kvikfénað vegna þess að þar gat enginn kvikfénaður fóðrast, því túnstæðið var allt farið undir byggingar.
Í sýslu- og sóknalýsingum sagði séra Árni Helgason að „Enginn veit nú, hvað mikið land Akurgerði fylgdi, og þingsvitni, sem tekið var nálægt 1790, gat engu orkað, það hefir dankað sona, að kaupmenn, sem eiga Akurgerði, eigna sér ströndina frá Fiskakletti og inn að Hamarskotslæk, og prestar í Görðum hafa ei ákært. Á þessu petti eru nú þrjú höndulráðssetur, grossera Knutzons, Thomsens og Linnets. Bæði Thomsen og Linnet betala þeim fyrstnefnda eiganda lóðatoll.
Auk þessara höfuðbýla eru á sömu lóð meir en 20 tómthús og fleiri en ein familie í sumum. Enginn sem býr í þessum höndlunarstað, hefir grasnyt. Tómthúsin fjölga og nöfnin breytast, þegar nýir íbúar koma.“

Hraunin

Kaldársel

Kaldársel – tilgáta ÓSÁ.

Hraunahverfið í Hafnarfirði er á því svæði sem áður var í eigu Garða. Fyrstu heimildir um Garða eru frá árinu 1307 en það er skjal um rétt til rekafjöru í landi Garða:
1307 „ad stadur j Gördum a Alftanese ætte allan vidreka og hvalreka fra Ranganiogre ig (i) Leitu kvenna bása ad kalftiorninga fiouru.“
1367 var staðurinn metinn á 16 hndr. og átti kirkjan þá allt heimalandið. Í skjali frá 1558 var sagt að kirkjujörðin Hlíð var lögð til Bessastaða, en Garðar fengu í staðinn Vífilstaði.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 var sagt að Garðar væru kirkjustaður í eigu kirkjunnar. Þá var sagt að jarðadýrleiki hafi verið óviss allt til ársins 1697 en þá var staðarins getið og var hann metinn af sex mönnum sem valdir voru til matsins af prófastinum á Kjalarnesþingi og sýslumanninum í Gullbringusýslu eftir tilmælum frá amtmanninum.
Staðurinn var þá virtur að 60 hndr. að dýrleika. Ábúandinn var þá Sr. Ólafur Pétursson prófastur í Kjalarnesþingi, landskuld var engin og höfðu fyrrnefndir sexmenningar áætlað að leiga fyrir jörðina væri tveir hundruðustu. Kirkjan átti 20 kúgildi, þar af voru sum þeirra í leiguburði á kirkjunnar jörðum og líka á hjáleigum í kringum staðinn. Garðar voru með selstöðu í Kaldárseli, þar voru bæði hagar og vatnsból góð. Móskurður til eldiviðar var nægur en ef þurrt var fór hann og var erfiður. Heimræði var allt árið og lending góð. Róðrar voru fengsælir þegar fisk var að fá í Hafnarfirði.
Í Jarðabók Johnsens frá 1847 fékk jörðin númerið 185 og var kirkjujörð. Dýrleikinn var 40, landskuld 2 og kúgildi 1.
Árið 1912 gaf Jens Pálsson, prófastur í Görðum, Hafnarfjarðarbæ kost á að kaupa nokkuð af því landi sem bærinn stóð á með beitarlandi fyrir 52.000 kr. og heimilaði Alþingi þessi landakaup með lögum þann 22. október sama ár. Landsstjórninni veittist heimild til að selja Hafnarfjarðarkaupstaði land Garðakirkju sunnan og vestan þessara marka:
1. Bein lína úr Balaklöpp við vesturenda Skerseyrarmalar í veg inn frá Hafnarfirði til Reykjavíkur þar sem hann fer að fara lækkandi ofan af norðurbrún hraunsins.
2. Þaðan bein lína í Hádegishól, hádegismark frá Hraunholti, nálægt í hásuður frá bænum spölkorn frá hraunjaðrinum.
3. Úr Hádegishól bein lína í Miðaftanshól sem er gamalt miðaftansmark miðað frá Vífilsstöðum; – þá tekur við:
4. Urriðakotsland; þá
5. Setbergsland allt til Lækjarbotna og loks
6. Selvogsmanna- eða Grindaskarðsvegur.
Hamarskot var innifalið í þessum kaupum en Hamarskotstún innan girðingar og Undirhamarstúnsblettur voru undanskilin. Átti presturinn að hafa þar grasnytjar ef hann flyttist til Hafnarfjarðar.
Árið 1927 skoraði bæjarstjórn Hafnarfjarðar á þingmenn Gullbringu- og Kjósarsýslu að flytja frumvarp á næsta Alþingi um að Hafnarfjarðarkaupstaður fengi það land sem Garðakirkja ætti í miðjum bænum. Alþingi samþykkti frumvarp um söluna 1928 og bærinn keypti landið árið 1930 fyrir 12.000 kr.

Einarsreitur

Einarsreitur,

Einnig er vert að minnast á Einarssreit, saltfiskreit sem Einar Þorgilsson útgerðarmaður lét útbúa árið 1913 og var hann stækkaður árið 1929, en þetta er líklega eini fiskreiturinn á landinu sem hefur verið metinn til fjár. Í dómi frá 1994, í eignarnáms máli Hafnarfjarðarbæjar og Einar Þorgilsson & Co. HF., er reiturinn metinn á 9,4 milljónir króna.”

FERLIR saknar minja og heimilda í skráningunni, annarra en getið er um í tilvitnuðum og sumum hverjum gölluðum eldri skýrslum Byggðasafns Hafnarfjarðar um fornleifar í Hafnarfirði.

Heimild:
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar II; miðbær og Hraun, 2021; – Fornleifaskra-Hafnarfjardar-II-Midbaer-og-Hraun-2021.pdf (byggdasafnid.is)

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – loftmynd.

Ferlir

Þegar fjallað er um Reykjanesskagann á vefmiðlum, s.s. á vefsíðu Reykjaness á https://www.visitreykjanes.is er verulegur skortur á raunhæfri umfjöllun um Skagann. Einungis lögð áhersla á fallegar myndir, sem segja fátt um allar dásemdirnar.

Reykjanes

Frá Reykjanesi.

Þá er verulega hallað á umfjöllun um svæðið á https://reykjanesgeopark.is/. Báðar síðurnar er dæmigerðar fyrir sjálfstýringar til friðþægingar hagsmunaaðila, en segja lítið um allt hið merkilegasta er svæðið í heild býður upp á – allt það ósagða, sem mestu máli skiptir.
Og þegar fjallað er um Reykjanesskagann í fjölmiðlum er jafnan getið um Reykjanes en ekki Skagann, sem rétt er – https://ferlir.is/reykjanes-og-reykjanesskagi/
Einu áreiðanlegu heimildirnar um yfirlit sögu og minjar á Reykjanesskaganum er að finna á www.ferlir.is.

Rauðshellir

Í Rauðshelli í Helgadal.

Hanarfjörður 1882

Í Fornleifaskrá Hafnarfjarðar I árið 2020 fyrir Vesturbæ, Norðurbæ, Víðistaði og Hleina segir m.a.:

“Víðistaðir

Víðistaðir

Víðistaðir.

Telja má líklegt að Víðistaðir hafi verið beittir allt frá landnámi, fyrst frá Görðum og síðar frá Akurgerði og greina örnefnaskrár frá seli Bjarna riddara að Víðistöðum, ekki er þó vitað hvar selið var.
Hafnarfjörður fékk kaupstaðarréttindi 1908 þá voru Víðistaðir innan bæjarmarkanna. Á svæðinu var einnig vegur út að Garðakirkju sem var sóknarkirkja Hafnfirðinga til 1914.

Víðistaðir

Víðistaðir – stakkstæði.

Vert er að minnast á fiskreit Bookless og Hellyers, sem er að finna á SV verðu útivistarsvæðinu á Víðistöðum en Bookless bræður og síðar Hellyers bræður störfuðu í Hafnarfirði á tímabilinu 1910-1929. Fyrirtækin létu leggja fiskreiti vestan við gamla Garðaveginn. Í námunda við reitinn var einnig fiskgeymslu og pökkunarhús og stóð það fram yfir 1985 en reiturinn eru einar síðustu áþreifanlegu minjar þessara erlendu stórútgerðar.

Víðistaðir

Víðistaðir – Minningarsteinn.

Fyrstu eiginlegu íbúar á Víðistöðum voru hjónin Bjarni Erlendsson og Margrét Magnúsdóttir en þau fengu útmælt land á svæðinu 1915 og byggðu þar íbúðarhús 1918 en efnið í húsið kom úr strönduðu skipi að nafni „Standard“ sem hafði strandað við Svendborg. Árið 1924 byggðu þau gripahús fyrir fjórar kýr og tvo hesta, ásamt hlöðu.

Hleinar

Langeyri

Langeyri og nágrenni.

Svæðið á Hleinum var friðlýst sem fólkvangur árið 2009 og var markmið friðlýsingarinnar að „vernda fjöru og útivistarsvæði í fögru hraunumhverfi sem vaxið er náttúrulegum gróðri svo sem mosa- og lynggróðri. Jafnframt er það markmið friðlýsingarinnar að vernda búsetulandslag og menningarminjar, en á svæðinu eru tóftir, fiskreitir, grjóthleðslur, gerði, garðar og vagnslóðar.“
Ekki kemur á óvart að lang flestar minjar innan skráningarsvæðisins sé að finna á Hleinum en svæðið hefur, vegna friðlýsingarinnar, fengið að vera að mestu ósnert af nútíma framkvæmdum. Hægt er að skipta svæðinu á Hleinum upp í fjögur svæði; Skerseyri, Brúsastaði, Eyrarhraun og Langeyri.

Skerseyri

Langeyrarstígur

Langeyrarstígur.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 var minnst á Skerseyri sem hjáleigu frá Görðum í eigu Garðakirkju, og leigukúkildi var 1.
Ábúandinn, Ásmundur Gissursson, nýtti hagbeitar og sölvafjöru staðarins í heimalandi.
Ekki er til túnakort af Skerseyri.

Skerseyri

Tóftir Skerseyrar.

Árið 1902 var Skerseyri komið í eyði en byggist aftur skömmu seinna af Nikulási Helgasyni og var hann enn búsettur þar árið 1920.
Halla Kristín Magnúsdóttir, sem bjó á Skerseyri, gaf ítarlega lýsingu á bænum og svæðinu í kring19 en þar sagði hún um bæinn:

Skerseyri

Skerseyri – tóftir.

„Bærinn stóð á balanum upp og austur frá malarvikinu, Skerseyrarvör, eða Skerseyrarmölum. Útveggir bæjarins voru allir af torfi og grjóti, sylla af sama efni var undir glugga, en timburþil þar upp af. Bærinn samanstóð af baðstofu, bæjardyrum og eldhúsi. […] Inn af bæjardyrunum var eldhúsið og var það hringeldhús sem kallað var. […] Veggir eldhússins voru af torfi og grjóti hlaðnir alveg í hring og beinir upp og síðan reft yfir í lágan topp, og þar á var eldhússtrompurinn. Moldarhólf var í eldhúsinu og gamaldagshlóðir hlaðnar úr sæbörðu hraungrýti. […] Þverveggur með dyrum á var innarlega í göngunum, en á vinstri hönd við þverveggin voru dyr og gangur gegnum millivegg í baðstofuna. Og var þá komið í miðja baðstofuna. Hún mun hafa verið um fimm álnir, en afþiljaður var norðurendinn fyrir geymslu. […] Gólfið í baðstofunni var ekkert annað en það, að þremur mjóum borðum var raðað milli rúmanna á gólfið en utan við borðin og undir rúmunum var moldargólf.“

Brúsastaðir

Sjávarhús (bústaður) við Brúsastaðir (Litlu-Langeyri).

Um svæðið í kring sagði hún að:
„Túnblettur var kringum bæinn og gaf hann af sér um sex hesta af heyi þegar bezt lét, og allt var nýtt, sem hægt var að slá með ljá, en líka skárum við grasið í hraunbollunum með sigð, er til þess var gerð. Þá voru þarna við kotið kálgarðar og voru þeir afgirtir með grjótgörðum. Grjótgarður var um túnið og eins rétt niðurundir sjávarkampinum, en undir garðinum lá Sjávar- eða Kirkjugatan og frá honum vesturkampurinn.“
Halla Kristín flutti frá Skerseyri 1902.
Í fasteignamati frá 1918 var húsakosti og lóðinni lýst svona:
Eigandi: Nikulás Erlendsson, þrbm. notar eignina sjálfur.
Eignin er:
1. Íbúðarbær stærð : 5.10 x 3.80m, hæð 1.3m. Veggir úr timbri og grjóti, með risi. Þak úr timbri járnvarið. Honum skipt í eitt herbergi og eldhús. Herbergið þiljað panel. Viðbygging stærð 8.15 x 3.50m, hæð 1.20m með risi veggir torf og grjót, þak úr timbri, tyrft.
2. Lóðin, hefur engin einstök réttindi, nema mótak í Garðakirkjulandi; var áður metið sem jörð 1kndr gal á landsnótu. Fylgir grasblettur, gefur af sér c. 7 hluta af töðu, matjurtargarðar gefa af sér 3 tunnur af jarðeplum. Árgjald kr. 10.00“

Brúsastaðir

Brúastaðir

Brúsastaðir (Litla-Langeyri) um 1975.

Halla Magnúsdóttir lýsti einnig bænum á Brúsastöðum:
„Bærinn var byggður af svipaðri stærð og Skerseyrarbærinn, og svipaður byggingarlagi. Ekki get ég fullyrt hvernig hann var innréttaður. Jón heitinn Oddsson, tengdafaðir Sigurgeirs Gíslasonar byggði bæinn, sem ég man eftir. Var hann þá búinn að missa konu sína, en hafði ráðskonu. Annálað var hve þrifin hún var og snyrtileg í umgengni. Hélt húsbænum öllum sópuðum og hreinum og reyndi að fremsta megni að punta hann að innan eftir föngum. Meðal annars safnaði hún punti af túninu, batt það í kross og vafði um kaffirótarbréfi og hengdi upp á vegg, þótti af þessu mikil híbýlaprýði.“

Hleinar

Brúsastaðir og Fagrihvammur á Hleinum 2022.

Í fasteignamati frá 1918 var húsakosti og lóð Brúsastaða lýst svona:
Eigandi: Eyjólfur Kristjánsson, þrbm. notar eignina sjálfur.
Eignin er:
1. Íbúðarbær, stærð: 6.80 x 4.60m, hæð 1.4m með risi. Veggir úr grjóti, þak úr timbri, járnvarið. Skipt í eitt herbergi og eldhús, þiljað panel. Inngönguskúr 1.5x2m, hæð 2.10m, með vatnshallaþaki, byggður úr timbri, járnvarinn, þiljaður innan með panel. Viðbygging, stærð: 4.85 x 3.30m, hæð 1m, með vatnshallaþaki, veggir torf og grjót, þak timbur tyrft.
2. Útihús: Hjallur stærð 4,60 x 2.30m, hæð 1.80m, veggir timburrimlar, þak járnvarið. Fjárhús, stærð 4.50 x 3.45m hæð 1.80m með risi, veggir úr torfi og grjóti, þak timbur pappavarið. Heyhlaða stærð 4.50 x 2.10m, hæð 1.20m, veggir torf og grjót, þak úr timbri pappavarið.

Gönguhóll

Gönguhóll (Sönghóll).

3. Lóðin: (: 2 dagsláttar að stærð, girt með grjótgarði, grasi gróin að mestu, grýtt, gefur af sér 6 hesta hey, 5 tunnur jarðávöxt, [ógreinilegt], árlegt gjald kr. 15.00 Virðingin skiptist svo þannig að íbúðarhúsið með viðbyggingum var metið á 1200kr., útihúsin á 400kr. og lóðin á 800 kr. Í örnefnaskrá var sagt frá hvalstöð sem var til skamms tíma á Rauðsnefstanga skammt vestan við Langeyrarmalir en hvalstöðin lagðist niður vegna slyss sem varð þar.25 Líklega er þar verið að tala um hvalstöð sem danski hvalfangarinn Otto Christian Hammer stofnaði ásamt Fiskifélagi Hammers árið 1866.
Slysið sem um ræðir er að öllum líkindum það sem sagt var frá í Norðanfarinu 1869: „[…] Um sömu mundir er sagt að einn góðan veðurdag hafi Captainlieutenant Hammer ásamt 2 yfirmönnum af Fyllu og nokkru af heimilisfólki kammerasseros Waywadts, gengið út á háan klett eður hamar, sem var skammt fyrir utan voginn eður höfnina. Þegar þangað var komið, er sagt að Hammer hafi stungið upp á að fara ofan á klettinn og niður í fjöru, sem honum tókst, ætlaði þá annar eður báðir Lieutenantarnir á eftir, en þá annar þeirra kom á ofan í hamarinn, er sagt að hann hafi misst fótana, en um leið gripið um stóran stein, er þar var nærri, en hann losnað; jafnframt er sagt að Hammer hafi sjeð í hvaða hættu Lieutenantinn var kominn of farið upp eptir hamrinum, en þá kom Lieutenantinn og steinninn ofan á Hammer svo hann stórskemmdist á andliti, en steinninn lennti á brjósti Lieutenantins, sem ásamt Hammar varð að bera fram á herskipið.“

Eyrarhraun

Langeyri

Varða við fyrrverandi Eyrarhraun.

Hluti Eyrarhrauns var skráð af þeim Karli Rúnari Þórssyni og Bjarna F. Einarssyni árið 2004 vegna deiliskipulagstillögu Hleina að Langeyramölum, en sú skráning náði einungis til lítils hluta jarðarinnar og búið er að uppfæra fornleifaskráningastaðla
síðan þá.
Eyrarhraun var byggt árið 1904 af Engilráð Kristjánsdóttur og Sigurjóni Sigurðarsyni, en íbúðarhúsið brann vegna íkveikju árið 2005, en hafði staðið mannlaust í ár fyrir það.
Í fasteignamati frá 1918 var húsakosti og jörð Eyrarhrauns lýst svona:
Eigandi: Sigurjón Sigurðsson, þrbm. notar eignin sjálfur.
Eignin er:
1. Íbúðarbær, stærð 6 x 3.90m hæð 1.45m með risi, byggður úr timbri, varinn pappa að veggjum, járn á þaki, skipt i eitt og eldhús, þiljaður panel. Inngönguskúr, stærð 2 x 1.40m, hæð 1.80m, með vatnshallaþaki, byggður úr sama og bærinn.
2. Útihús: Fjárhús, stærð 6 x 3.50m, hæð 1.45m með risi, veggir að mestu úr torfi og grjóti, þak úr járni á langböndum. Heyhlaða, stærð 8.35 x 3.25m, hæð 1.45m með risi, veggir úr grjóti, þak járnvarið á langböndum. Eldhús, stærð 4.40m x 3.35m, hæð 1m, m. risi, veggir úr grjóti, þak úr járni á langböndum.
3. Lóðin er réttindalaus, óræktuð og ógirt, er býlið hefur grasblett og matjurtagarða á lóð þeirri á Langeyrarmölum er Aug. Flygering á. [ógreinlinegt] árlega kr. 10.00.
Virðing Eyrarhrauns var að íbúðarhúsið með viðbyggingum var virði 800kr., útihúsin það sama, og lóðin 200kr. virði.

Langeyri

Langeyri

Langeyri um 1920.

Langeyri var hjáleiga frá Görðum og í Garðakirkjueign. Þar var rekin verslun á síðari hluta 18. og fyrri hluta 19. aldar, en þar á undan hafði verið þar þurrabúð, en ekki er vitað hve lengi.
Langeyri hafði verið í hvað stöðugastri byggð af þeim þurrabúðum sem voru á svæðinu, frá 18. öld og fram á þá 20.35 Langeyri var stundum nefnd Skóbót en það gæti verið afbökun eða stytting af nafninu Skómakarahús.
Ekki er minnst á jörðina Langeyri í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703 en þar segir frá 7 þurrabúðum og er Langeyrarbúð þar á meðal. Þegar jarðabókin var skrifuð voru sumar þessara þurrabúða orðnar um 50 ára gamlar. Fiskveiði í Hafnarfirði hafði eitthvað minnkað árin áður en jarðabókin var gerð og voru flestar þurrabúðirnar niðurfallnar.
Í bréfi frá 1776 bauð Thodal stiftamtmaður Guðmundi Runólfssyni sýslumanni að finna hentuga staði til þess að reisa geymsluhús og íbúðarhús handa verkafólki vegna húkkorta og jaktfiskveiða í Hafnarfirði. Það varð úr að Hvaleyri var valið til þess að byggja vetrarbústað fyrir stýrimenn og háseta á jöktunum en á Langeyri átti að byggja hús fyrir eftirlegumenn en Langeyri varð fyrir valinu vegna þess að þar var nógu víðáttumikil möl til salfiskverkunnar.
Ýmis starfsemi hefur átt sér stað í gegnum tíðina á Langeyrarmölum en þar var um tíma starfrækt fiskverkunarstöð sem August Flygenring lét reisa um aldamótin 1900 en hann var lengi vel einn stórtækasti athafnamaður í Hafnarfirði. Seinna voru Malirnar í eigu hlutafélagsins Höfrungs sem gerði þaðan út togara og verkaði þar fisk.

Langeyri

Langeyri um 1920.

Fiskverkunarstöðvarnar á Mölunum veittu því fólkinu í hraunkotunum vinnu við fiskverkun eftir því sem aðstæður leyfðu.
Í brunabótavirðingu frá 1916 var sagt að á Langeyri séu fimm hús: Íbúðarhús úr timbri, skúr úr grjóti og timbri, eldhús úr grjóti og timbri og tvö fjárhús, annað úr torfi, grjóti og timbri, og hitt úr torfi og grjóti.

Langeyri

Leifar lifrabræðslunnar vestan Gönguhóls.

Í fjörunni við Herjólfsbraut, rétt NV við Gönguhólfsklif er að finna leifar Grútarstöðarinnar og Grútarbryggjunnar, lifrabræðslu sem reist var á bæjarrústum 1903. Þar má enn sjá hleðslur, undirstöður fyrir bræðsluker og einna greinilegast er bólverkið, sem er hlaðið hafnarmannvirki og í skýrslu sinni frá 2005 sagði Karl Rúnar Þórsson að þetta séu fágætar minjar.”

FERLIR saknar minja og heimilda í skráningunni, annarra en getið er um í tilvitnuðum og sumum hverjum gölluðum eldri skýrslum Byggðasafns Hafnarfjarðar um fornleifar í Hafnarfirði.

Heimild:
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar I; Vesturbær, Norðurbær, Víðistaðir og Hleinar, 2020; – Fornleifaskra-Hafnarfjardar-I-Vesturbaer-Nordurbaer-Vidistadir-og-Hleinar-2020.pdf (byggdasafnid.is)

Langeyri

Langeyri og nágrenni – loftmynd.

Ísólfsskáli

Tvær örnefnalýsingar eru til af Ísólfsskála, auk tveggja spurningalista er fylgdu í kjölfarið. Fyrri lýsingin er höfð eftir Guðmundi Guðmundssyni, bónda á Ísólfsskála og hin síðari af Lofti Jónssyni frá Þórkötlustaðahverfi í Grindavík. Báðar athugasemdirnar við lýsingarnar eru skráðar eftir Ísólfi Guðmundssyni, bónda á Ísólfsskála árið 1982:

Guðmundur GuðmundssonÍsólfsskáli; örnefni – Ari Gíslason skráði eftir Guðmundir Guðmundssyni.
“Ísólfsskáli er næst austasta jörð í Grindavíkurhreppi og sú austasta, sem er í byggð 1954. Bærinn stendur niður við sjó, sunnan við allháa hæð, sem heitir Slaga.

Verður fyrst byrjað með sjó austast og haldið vestur eftir. Nokkuð fyrir austan bæinn á Ísólfsskála, sem svarar klukkutíma gang, gengur tangi fram í sjóinn. Hann heitir Selatangar (1). Þar eru merkin móti Krýsuvík í klett, sem heitir Dagon (2). Áður voru þeir tveir, og deildu menn um, hver væri sá rétti. Nú er annar hruninn og óþekkjanlegur. En þrætueplið var ekki stærra en það, að hvalur gat rétt fest sig þar. Á Selatöngum sjást byrgi og búðatættur, eldhús og önnur mannvirki, enda var þarna allmikil útgerð fyrir eina tíð, en lagðist fyrst niður um tíma eftir Básendaflóðið 1799, og svo að fullu og öllu milli 1880 og 1890.

Dágon

Dágon á Selatöngum.

Hraunið hér upp af og heim undir tún heitir Ögmundarhraun (3) . Er það mikill hluti hrauns þess, sem sagt var frá við Krýsuvík. Um það liggja margir troðningar, en hraun þetta er mjög úfið. Má þar víða sjá hófaförin mörkuð í klappirnar. En merkin móti Krýsuvík eru úr Dagon upp í austanverðan Núpshlíðarháls.

Vestur af Dagon er sandur með sjó fram og melhóll er þar, sem nefndur er Hóll (4),

Nótarhellir

Nótarhellir.

Þá er að geta Nótarhellis (5), sem er vestast á Selatöngum. Þar innar tekur svo við svæði, sem nefnt er Katlahraun (6). Er það fullkomið réttnefni á landssvæði þessu, sem allt er fullt af kötlum og hraunbollum, djúpum með grasi í botni. Milli þeirra eru háir drangar, en gjóturnar djúpar á milli.

Mölvík

Mölvík.

Vestar er svo vik inn í landið, sem heitir Mölvík (7). Vík þessi er með möl í botni. Þá tekur við berg með sjó, sem heitir ekki sérstakt, það er 1-2 mannhæðir, en svo ganga inn í það vik, básar og víkur. Þar vestar er svo Vondanef (8), og vestur og fram af því er Veiðibjöllunef (9). Þar hækkar hraunið og breytir um svip. Austar er það lágt og nokkuð sandborið. Þar vestar er bás, sem heitir Heimastibás (10). Hraun er þar vestur með, þar til kemur nafnlaus bás, svo er Rangagjögur (11). Austur og upp af honum er hóll, sem heitir Hattur (12). Enn vestar er hraun fram á kamb. Þar vestar er hraun fram á kamb. Þar vestar er vík, sem heitir Hattvík (13). Vestan við Hattvík tekur við skerjagarður, sem brýtur á um flóð, og heitir hann Trantar (14). Þar vestur af er sker, sem heitir Gvendarsker (15). Milli Tranta og Gvendarskers er mjó vör, sem breikkar þegar inn kemur, og heitir hún Gvendarvör (16).

Nótarhóll

Nótarhóll – byrgi.

Upp af Gvendarvör er hóll, sem heitir Nótarhóll (17), og miðið á vörina er, að austurhorn Gvendarskers á að jaðra við Nótarhólinn, þar til vörin opnast inn og hægt er að slá undan. Á Nótarhól var byrgi. Fram af Nótarhól var annar hóll með sama nafni. En hann er nú horfinn í sjó.

Lambastapi

Lambastapi.

Niður undan túninu er legan og ströndin kölluð Bót (18). En hæð vestur af túni með hömrum í hlíðum en grasi á kolli heitir Bjalli (19). Efst á Bjallanum er nú komið tún. Annars myndar Bjallinn klettahrygg norðan túns og að nokkru að austan. Þetta er mjög gamalt hraun. Þar vestur af er berg og allhár hnúkur, Lambastapi (20). Þar neðar er svo vík, sem heitir Lambastapavík (21). Þar er smáreki.

 

Festarfjall

Festi – Festarfjall. 

Á Selatöngum var sundmerkið þannig, að Dagon átti að bera í Litlabólið í Núpshlíð. Vestur af Lambastapa er berg og ekki undirlendi. Undir því bergi er nefnt Skálasandur (22). Vestar er stuðlabergsgangur, sem heitir Festi (23). Þaðan á Þórir haustmyrkur að hafa numið land austur í Selvog, og nú eru hér merki móti Hrauni.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli 1915-1930; Sæmundur G. Guðmundsson. Gamli bærinn neðst t.h.

Nú tökum við aðra umferð og byrjum enn austan frá. Upp af Selatöngum er hraunið nafna- og auðkennalítið, frekar jafnlent, þó ekki sé það slétt. Merkin eru hér línan úr Dagon í Trölladyngjurætur að vestanverðu, en Trölladyngja er útbrunnið eld-fjall. Hraun á ekki svo langt til norðurs. Núpshlíðarháls (24), sem reyndar vafi er, hvort Hraun á í. Hlíðin sunnan í hálsinum heitir Núpshlíð (25). Þar uppi er hið forna Vigdísarvallaland. Á móti þar austast er fjallshlíðin nefnd Skalli, og er það í Vigdísarvallalandi.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir – Krýsuvíkur-Mælifell fjær.

Vestur af því er smárauf nefnd Litlaból (26), lítið fjárból, er blasir vel við frá Selatöngum, enda innsiglingamið þar á leguna. Þar upp af er lægðin nefnd Dalur (27) og upp, og ofan eða austanvert við há-Núpshlíð heitir Langagörn (28). Hún liggur meðfram dalnum alla leið að Vigdísarvöllum, breytir þar um útlit og nefnist innst Litli-Hamradalur. Vel má vera, að öll Langagörn sé í Krýsuvíkurlandi, en ég set hana hér, því annars glatast hún. Vestar og hærra en Litlabót er Stórabót (29). Það er móhella. Þar austur og upp af er Skálagörn (30), skora, er liggur til norðurs. Þar er vinkilbeygja á gamla veginum.

Grákvíguhraun

Grákvíguhraun.

Vestan við Núpshlíð er hraunspilda, sem heitir Grákvíguhraun (3l) og nær vestur að allmikilli hæð, sem nefnd er Höfði (32). Við suðurenda hans er vegurinn allknappur og heitir þar Méltunnuklif (33). Er sagt, að þar hafi eitt sinn farið méltunna af hesti og niður fyrir.

Fram af Núpshlíð eru tveir hólar nefndir Moshólar (34), og vestan þeirra er eins og fyrr segir Grákvíguhraunið. Höfðinn fyrrnefndi nær svo, með mismunandi nöfnum, fram í Bjallan fyrir ofan bæinn á Skála. Suður af Méltunnuklifinu er Skála-Mælifell (35), ekki mikið um sig, en nokkuð hátt. Sunnan þess er svo hraunið fyrrnefnda, en vestan þess er djúpt skarð, sem heitir Mælifellsskarð (36). Vestan þess tekur svo við fjall allmikið, sem heitir Slaga (37).

Méltunnuklif

Méltunnuklif.

Rétt innan við bæinn skagar klapparnef fram úr Slögunni, sem heitir Skollanef (38). Niður af henni, austur af túni, út í hrauni, er klettur, sem sker sig úr að lögun og heitir Kista (39).

Slaga

Slaga að sunnanverðu.

Fremst í Slögunni, rétt við túnið innanvert, er Fjárból (40), við alllangan hamravegg. Vestur af Slögunni er gróðurlítið svæði, sem nefnt er Melar (41). Vestan við þá heitir Lágar (42). Þær eru vestan við veginn og langur grjótgarður hlaðinn þeim til varnar. Er mikið hér af slíkum görðum og víða með mjög fallegu handbragði. Nú er verið að græða lágarnar upp. Upp og vestur af Lágunum rís Lyngfjall (43), lítið um sig, en nokkuð hátt. Þar vestur af er Festarfjall (44), sem fyrr er getið. Suður af Lyngfjallinu er Lambastapinn fyrrnefndi, og uppi á honum er Lambastapabrekka (45).

Móklettar

Móklettar – áletrun á landamerkjum.

Sunnan í Festarfjalli er Festin fyrrnefnda, en norðan undir því eru móbergsstrýtur og hnúkar, sem heita Móklettar (46). Þeir eru sjávarmegin við veginn. Austan undir Lyngfjalli er smáhæð og hóll, sem heitir Litliháls (47). Norður frá Skála-Mælifelli er Skyggnir (48), hæð alláberandi (á korti nefnd Méltunnuklif).

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn í Drykkjarsteinsdal.

Norðanvert við Slöguna er Drykkjasteinn (49). Hans er víða getið, vegna þess að þar fengu ferðamenn oft svölun. Hans er einnig getið í þjóðsögum. Norðan í, vestur af Skyggni, er svonefndur Litli-Leirdalur (50). En lægðin, sem Drykkjarsteinn er í, heitir Drykkjarsteinsdalur (51).

Allmiklu skakkar hér um landlýsingu þeirra nágrannanna. En merkjabókin segir merki Ísólfsskála þannig: Úr fjöru við Festargnípu vestan við svonefndan Skálasand til norðurs að merktum kletti við götuna á Móklettum, svo til austurs í miðja suðuröxl á Borgarfjalli (52).

Selsvallafjall

Selsvallafjall.

Síðan sama sjónhending austur Selvallafjall að merkjum Krýsuvíkur og þá suður að Dagon. Þetta segir þar, en Gísli á Hrauni sagði, að línan væri úr Móklettum og beint í skarðið á Núpshlíð, þar sem vegurinn liggur gegnum, og skakkar það allmiklu. En ég hygg, að merkjabókin hafi hér rétt fyrir sér. Læt ég svo lokið talningu Ísólfsskálaörnefna.”

Ísólfsskáli – athugasemdir:
Jónína Hafsteinsdóttir skráði eftirfarandi svör við spurningum um örnefni í skrá Ara Gíslasonar eftir Ísólfi Guðmundssyni bónda á Ísólfsskála. Skráð var í Örnefnastofnun 20. okt. l982.

Selatangar

Selatangar.

“Selatangar (1): Selveiði var stundum við þá og útgerð í gamla daga.
-Dágon (2) (ekki Dagon): Ísólfur veit ekki, hvernig stendur á því nafni. Dágon var hraundrangi niðri við sjó, en er nú dottinn. Hann var suður af vestustu sjóbúð á Selatöngum. Ekkert sérstakt var við hann, sem skýrt gæti nafnið.

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

-Ögmundarhraun (3): Ögmundur nokkur lagði hug á dóttur bóndans í Krýsuvík. Bóndi lagði fyrir hann að ryðja veg yfir hraunið, og skyldi hann þá fá stúlkuna. En er verkinu var lokið, lét bóndi drepa Ögmund.
-Nótarhellir (5) er syðst og austast í Katlahrauni (6). Þar var sagt, að nætur hefðu verið þurrkaðar og gerðar upp.
-Veiðibjöllunef (9): Þegar mikið var um loðnu í Mölvík (7), sat veiðibjallan mikið á nefinu.
-Rangagjögur (11) er dálítíð fyrir austan Ísólfsskála. Þetta er sprunga, sem liggur frá suðri til norðurs og frá austri til vesturs, liggur í kross. Þetta er stór og mikil gjá, sem sjórinn gengur í.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – Hattur.

-Hattur (12) er klettur uppí á hrauninu, og er gras á honum.
-Trantar (14) eru austan við Gvendarvör. Hraun hefur runnið fram í sjó, en klettadrangar standa upp úr.
-Gvendarsker (15) og Gvendarvör (16): Ísólfur hefur heyrt sagt, að Guðmundur einhver hafi farizt á skerinu, en veit ekki um það nánar.
-Grákvíguhraun (31) er vestan undir Höfða. Þar eru hraunsteinar með gráum mosa, gráir tilsýndar, og mun nafnið dregið þar af.
-Skollanef (38): Skollahraun (53) er suður af því; þar var og er enn greni.
Moshólar (34) eru gamlir, útbrunnir gígar, en ekki meiri mosi á þeim en gengur og gerist. Ekki er vitað um nein not af mosanum.
-Núphlíðarháls (24) (ekkí Núps-) nær frá gamla veginum, sem lá til Krýsuvíkur og inn að Krossgili. Krossgil (54) er vestanverðu í Stóra-Hamradal (55), er í Vesturhálsi (56).
-Langagörn (28) er ekki öll í landi Krýsuvíkur. Landamerki Ísólfsskála og Krýsuvíkur eru eftir Löngugörn.”

Loftur JónssonÍsólfsskáli; örnefni – Loftur Jónsson skráði.
“Austan við Hraunsvík stendur bærinn Ísólfsskáli. Bærinn stendur niður við sjó framan við Bjalla, hamrahæð suðvestur af Slögu.
Fyrir botni Hraunsvíkur er fjallið Festi (1). Í áberandi stuðlabergsgangi austarlega í fjallinu eru landamerki Ísólfsskála og Hrauns. Heitir þar Festin (2). Þaðan eru merkin í móbergsstrýtur og hnúka norðan undir Festi. Þar eru tákn um landamerkin klöppuð á hellu norðan við veginn. Þeir heita Móklettar (3).
Ef farið er austur ströndina frá Festi tekur fyrst við Skálasandur (4), þangað er illfært nema um fjöru vestan frá. Lambastapi (5) er allhár grágrýtishnúkur með grastorfu í toppinn og þar austan við er smáhækkandi alda sem myndar fell austast og heitir Slaga (6). Þar sem Skálasandur endar að austan eru tveir melhólar upp á brúninni á milli Skálasandsbergs (7) og Lambastapa. Þeir heita Lambastapahryggir (8). Fyrir austan Lambastapa kemur smávik sem heitir Lambastapavik (9) og þar upp af er Lambastapabrekka (10). Frá vikinu og austur í Skálabót er lágt berg sem heitir Hjálmarsbjalli (11) og er eins og smátota fram í sjóinn. Skálabót (12) er víkin þar austur af og þaðan var róið áður fyrr.

Isólfsskáli

Ísólfsskáli – loftmynd.

Gamli Ísólfsskáli var upp af Skálabót undir Bjallanum vestast. Þar eru nú húsatættur. Austast í Skálabót eru klapparflúðir sem heita Vötnin (13). Þar kemur fram ósalt vatn um fjöru. Skammt austur af Vötnunum eru sléttar klappir; Gvendarklöpp (14) og beint suður af henni er Gvendarsker (15). Þar heitir lendingin Gvendarvör (16). Þar var lent þegar gott var í sjó. Miðið á vörina er að austurhorn Gvendarskers á að jaðra við Nótarhól þar til vörin opnast inn og hægt er að slá undan.
Nótarhóll (17) er hóll upp af Gvendarvör, vestan við hraunið. Nótarhóll dregur nafn af því að dregið var fyrir sel í Gvendarvör og nótin síðan geymd á hólnum. Norðvestur af Nótarhól er smágerði sem kallað er Hestagerði (18). Í fjörinni austur af Nótarhól eru tveir svartir klettar sem heita Svörtuklettar (19). Suður af þeim er skerjagarður sem brýtur á um flóð. Þar heita Trantar (20). Austan Tranta er Hattvík (21), smámalarvík. Rangagjögur (22) er lón inn í landið og fellur sjórinn um rifna klöpp. Þar austur af er klettur upp á kampinum með grastó í toppinn sem heitir Hattur (23).

Ísólfsskáli

Brimketill við Kvennagöngubása.

Þar austur af er smábás sem heitir Skálabás (24). Þar austur af er hraunnef í sjó fram og austur af því eru Kvennagöngubásar (25). Heimastibás (26) er vestasti básinn. Hraunsnes (27) skagar í sjó fram þar fyrir austan. Þar er talið hálfnuð leið frá Ísólfsskála að Selatöngum en þessi leið er talin um það bil klukkustundar gangur. Veiðibjöllunef (28), öðru nafni Vondanef (29) , er þar fyrir austan og er það í vesturmörkum á Mölvík (30). Víkin er með möl í botni og vestast í henni er berg með sjó, ein til tvær mannhæðir á hæð. Inn í það ganga vik, básar og víkur. Hraunið þar upp af Mölvík austan til heitir Katlahraun (31). Hraunið er fullt af kötlum og djúpum hraunbollum með grasi í botni. Austast í Katlahrauni er Nótarhellir (32) og gengur í sjó fram. Þar sem Katlahraun endar tekur við Bjallinn á Selatöngum (33). Það er frekar lágur bergstandur og nær í sjó að vestan en gengur síðan upp í landið. Fyrir austan Nótarhelli er sandfjara og síðan taka við Selatangar (34).

Selatangar

Selatangar – sjóbúðir.

Á Selatöngum var allmikil útgerð frá Skálholti í eina tíð en lagðist fyrst niður um tíma eftir Básendaflóðið 1799 og svo að fullu og öllu milli 1880 og 1890. Þarna eru byrgi og búðatættur sem eru nú friðlýstar.
Dágon (35) var klettur á kampinum suður af vestustu sjóbúðinni á Selatöngum en er nú hruninn. Hann skipti löndum og reka á milli Ísólfsskála og Vigdísarvalla. Skiptivöllur (36) er smáhæð fyrir austan Dágon, grasivaxin að ofan. Sjóbúðirnar standa austan undir Skiptivelli á hraunnefi.

Selatangar

Selatangar – Smíðahellir.

Austan undir hraunnefinu eru fjórir hellar og var einn þeirra smíðahellir og sést þar enn steinskál sem notuð var til kælingar. Fyrir norðaustan Dágon eru smátjarnir, kallaðar Brunnar (37). Vörin er að sjá á milli Dágons og Skiptivallar. Sundmerkið í vörina er þannig að Dágon átti að bera í Litlaból í Núphlíð. Hraunið þarna á milli fjalls og fjöru heitir Ögmundarhraun (38).
Ef farið er aftur vestast í landareignina þá eru móklettar vestast (norðaustan í Festi). Austan þeirra er Borgarhraun (39) og austan þess rís Borgarfjall (40) sem er syðsti hluti Fagradalsfjalls. Landamerki Hrauns og Ísólfsskála eru frá Móklettum og í miðja suðuröxl Borgarfjalls. Suður frá Móklettum er Lyngfell (41) og austur úr því er Litliháls (42). Þar austur af er Litla-Borgarhraun (43) og þar í er hlaðin hringmynduð fjárborg sem kölluð er Borgin (44).

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – örnefni.

Melar (45) er kallað fyrir ofan Skálasandsberg og ná þeir upp að Lyngfelli. Framan undan Lyngfelli er undirlendi með grastorfum á víð og dreif og heitir það Lágar (46). Lágarnar er nú verið að græða upp og eru að mestu orðnar grasivaxnar. Vestan við veginn þar er sprunginn hóll sem heitir Klofhóll (47).
Bjallinn (48) er klettastallur og nær frá Hjálmarsbjalla og inn í Ból (49) sem er undir fellinu Slögu vestast. Hæðarbunga vestan undir Slögu heitir Slögubringur (50). Stór klettur er þar sem Hattur (51) heitir en er skráður á kort Grettistak.
Austan við Bólið eru smálautir sem heita Bólkvosir (52). Lengra austur með Slögu að sunnan, ofan við skriður, er bergstallur sem heitir Hrafnshreiður (53).

Slaga

Slaga.

Stórusteinar (54) er stórgrýti sem fallið hefur hæst úr Slögu. Þar innan við er Langakvos (55). Upp af Löngukvos er móklettur sem kallaður er Móklettur (56). Fyrir austan Löngukvos er Skollanef (57) og er nokkurs konar öxl eða klapparnef fram úr Slögu. Skollahraun er þar suður af. Í hrauninu austan við túnið er sérstæður klettur sem heitir Kista (59). Hvammur austan Skollanefs með stórum steinum er Innri-Stórusteinar (60). Austan og uppi á Slögu fyrir norðan Innri-Stórusteina eru sjö grastorfur sem heita Sláttutorfur (61).
Skálamælifell (62) er austur af Slögu og skarðið þar á milli heitir Mælifellsskarð (63). Þar eru tvö vatnsstæði sem sjaldan þorna. Grasbrekkur austan Skálamælifells heita Fyrstabrekka (64), Önnurbrekka (65) og Þriðjabrekka (66). Og síðan tekur við Bjallinn í Klifinu (67). Við endann á Bjallanum í Klifinu að austan er gjá og nær hún langleiðina suður á Vondanef.

Méltunnuklif

Méltunnuklif.

Méltunnuklif (68) er norð-norðaustan í Skálamælifelli. Þar er gamli vegurinn í nokkuð brattri og þröngri brekku og segir sagan að þar hafi farið mjöltunna af hesti og niður fyrir. Leggjabrjótshraun (69) er hraunið norðaustur undir Skálamælifelli en sunnan þess og austur um er Ögmundarhraun. Moshólar (70) eru eldgígar úr brunnu hraungjalli austur frá Skálamælifelli. Þar liggur nú akvegur um. Aust-norðaustur frá Moshólum er Núphlíð (71). Er það suðurhlíð Núphlíðarháls (72). Skálagörn (73) er jarðsig suð-suðvestan í Núphlíð og liggur frá jafnsléttu að gamla veginum norðan Núphlíðar. Móklettur eða hella í hlíðinni að vestan heitir Stóraból (74). Skalli (75) er hnúkur sem gengur í suður úr Núphlíð og er hann á mörkum Vigdísarvalla og Ísólfsskála. Vestan Skalla er kvos þvert yfir Núphlíð sem heitir Langagörn (76) (Vallagörn (77)). Vestan undan Löngugörn fremst er klettur sem heitir Litlaból (78). Vestan Skalla er kvos sem heitir Dalur (79) og þar fyrir norðan kemur Vallagörn eða Langagörn sem nær norður fyrir Litla-Hamradal.

Ísólfsskáli

Rekagatan – Ísólfsskáli fjær.

Eystri-Tangagata (80) liggur frá Skalla og yfir hraunið fram á Selatanga en Vestri-Tangagata (81) frá Skálagörn og fram á Selatanga. Framan undir Núphlíð hét Mýrdalur (82) áður en hraun rann þar yfir allt. Frá Festi og allt austur í Selvog á Þórir haustmyrkur að hafa numið land.
Drykkjarsteinsdalur (83) er norðan við Slögu vestanvert. Þar í er Drekkjarsteinn (84). Það er stakur móklettur við fjallshlíðina með nokkuð djúpum skálum en litlum um sig og þar stóð oftast vatn í sem var kærkomin svölun ferðamönnum, því lítið er um yfirborðsvatn á þessum slóðum. Skálin er nú sprungin og ekkert vatn þar lengur að hafa.
Stóri-Leirdalur (85) er norðaustan undir Slögu. Norðan við hann er Lyngbrekka (86) og Langihryggur (87). (Fjall). Litli-Leirdalur (88) er þar austur af og norðan við Skálamælifell og vestan við Skyggni (89) sem er klettahæð. Fyrir austan Skyggni (öðru nafni Brattháls (90)) er Bratthálskrókur (91) og þar norður af er Einihlíðarkrókur (92) og síðan Einihlíðar (93) sem ná inn að Sandfelli (94).

Skála-Mælifell

Skála-Mælifell.

Á milli Brattháls og Höfða (95) heitir Leggjabrjótshraun. Fyrir austan Leggjabrjótshraun er fjall sem heitir Höfði. Norð-norðaustan af Einihlíðum er Sandfell. Austan við mitt Sandfell er götuslóði yfir hraunið austur í Hraunssel (96) fremst. Inn með Núphlíðarhálsinum að vestan eru tættur sem Hraunssel heita. Og þar skammt norður af nær hraunið upp að hálsinum og heitir þar Þrengsli (97) og síðan taka við Selsvellir (98) og Selsvallafjall (99). Núphlíðarháls nær frá gömlu götunni í Núphlíð og fremst í Krossgil (100). Krossgil er fremst í Stóra-Hamradal (101) og þar fyrir austan er Lyngkrókur (102).
Að kunnugra manna sögn þá er Leggjabrjótshraun vestan við Höfða en Grákvíguhraun (103) á milli Höfða og Núphlíðarháls. Á korti er Leggjabrjótshraun sagt austan Höfða og er það sennilegra því þar er hraunið úfið og illt yfirferðar en vestan Höfða er það tiltölulega slétt.” – Grindavík 07.10 ‘80, Loftur Jónsson [sign.].

Ísólfsskáli; athugasemdir:

Ísólfsskáli

“Hér eru tilfærð svör Ísólfs Guðmundssonar, Ísólfsskála, Grindavíkurhreppi, sem hann veitti við fyrirspurnum (ódagsettum) Örnefnastofnunar og dagsetti 20. apríl 1983 í Grindavík. Sennilega eru spurningarnar samdar með örnefnalýsingu Lofts Jónssonar í huga því sum örnefnin sem spurt er um koma aðeins fyrir þar (t.d. Skiptivöllur) eða notaður er ritháttur sem kemur aðeins fyrir þar (Lyngfell, en Lyngfjall hjá AG). Um er að ræða tvær spurningaskrár og fyrir kemur að nokkurn veginn sama spurningin er borin upp tvisvar. [HJÁ 15/10/2004.]
l. Er vitað um tilefni nafnanna Skálasandur, Skálabót, Skálabás o. s. frv.
Svar: Kennt við Ísólfsskála, sem oft er í daglegu tali nefndur Skáli.
2. Er vitað, hvers vegna Skiptivöllur var nefndur svo?
Sv.: Fiski var skipt í hluti á þessum stað eftir löndun.
3. Er Lyngfell hátt?
Sv.: Nei.
4. Er Hattur (5l) einnig þekktur undir nafninu Grettistak eða er það alrangt? Eru Hattarnir tveir?
Sv.: Hattur er nefndur Grettistak á landakorti (ekki talið rétt). Þeir eru tveir, annar vestan undir Slögu og hinn hjá Rangagjögri.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – Bólið.

5. Hvernig er Ból?
Sv.: Hellisskúti þar sem fé var geymt í.
6. Verpir hrafn á/í Hrafnshreiðri?
Sv.: Ekki nú.
7. Er Leggjabrjótshraun erfitt yfirferðar?
Sv.: Ekki svo mjög auk þess er vegur lagður yfir það

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli.

8. Er vitað, hvers vegna Slaga er nefnd svo?
Sv.: Nei.
9. Er Festarfjall oft nefnt Festi?
Sv.: Já.
l0. Koma fram í lýsingunum öll örnefni, sem þekkt eru í landareigninni? Eru öll örnefnin, sem skráð eru í lýsingunum, innan landareignarinnar?
Sv.: Óvíst.
Gott væri að fá svör við sem flestum eftirfarandi spurninga:

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – Refagildra í Skollahrauni.

1) Hverjir voru heimildarmenn að lýsingunni?
Sv.: ?
2) Er eitthvað vitað um menn þá, sem eftirtalin örnefni eru kennd við: Hjálmarsbjalli, Gvendarklöpp, Gvendarsker, Gvendarvör og Ögmundarhraun?
Sv.: Hjálmarsbjalli: Hjálmar Guðmundsson. Gvendarklöpp: Sagt var að einhver Guðmundur hefði farist í vörinni. Ögmundur var nafn þess manns, sem fyrst lagði slóða yfir hraunið og var síðan veginn austast í hrauninu.
3) Eru Trantar þröng leið á milli skerja?
Sv.: Hátt brunahraun í sjó fram.
4) Verpa veiðibjöllur í Veiðibjöllunefi?
Sv.: Nei.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – Kvennagöngubásar.

5) Er nokkuð vitað um tilefni nafnsins Kvennagöngubásar?
Sv.: Þar var kvenfólk sagt baða sig.
6) Af hverju ætli Skiptivöllur heiti svo?
Sv.: Fiski var skift þar í hluta.
7) Sjást stundum selir við Selatanga?
Sv.: Já oft.
8) Vex lyng í Lyngfelli, Lyngbrekku og Lyngkrók?
Sv.: Já þar er lyng.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – túnakort 1918.

9) Er vitað, hvers vegna Ból heitir svo?
Sv.: Ból var oft nefnt þar sem fé var geymt.
10) Voru Sláttutorfur slegnar?
Sv.: Já.
11) Eru Moshólar mosavaxnir?
Sv.: Já.
12) Af hverju ætli Leirdalir heiti svo? (Er jarðvegurinn leirborinn og gróður lítill sem enginn?)
Sv.: Já.
13) Vex einir í Einihlíðum?
Sv.: Já.

Hraunssel

Hraunssel.

14) Er Hraunssel í landi Ísólfsskála?
Sv.: Já.
15) Einihlíða- eða Einihlíðarkrókur?
Sv.: Einihlíðarkrókur.
16) Af hverju ætli Krossgil dragi nafn?
Sv.: Tvö gil sem mynda kross.” – Virðingarfyllst, Ísólfur Guðmundsson [sign.]

Hjónin Valur Helgason og Harpa Guðmundsdóttir hafa átt sumarbústað á jörðinni í um 27 ár. Í viðtali við Val kom í ljós að Hjálmar, bróðir Guðmundar á Skála, hafi um tíma búið í húsi undir Hjálmarsbjalla. Benti hann FERLIR á tóftirnar, sem nú eru að mestu komnar undir kampinn. Var þar kominn skýringin á örnefninu “Hjálmarsbjalli”.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli.

Heimildir:
-Örnefnalýsing fyrir Ísólfsskála; heimildarmaður: Guðmundur Guðmundsson, bóndi, Ísólfsskála. Ari Gíslason skráði.
-Ísólfsskáli; örnefni – Jónína Hafsteinsdóttir skráði eftirfarandi svör við spurningum um örnefni í skrá Ara Gíslasonar eftir Ísólfi Guðmundssyni bónda á Ísólfsskála. Skráð var í Örnefnastofnun 20. okt. l982.
-Örnefnalýsing fyrir Ísólfsskála; Loftur Jónsson skráði.
-Ísólfsskáli; örnefni – Hér eru tilfærð svör Ísólfs Guðmundssonar, Ísólfsskála, Grindavíkurhreppi, sem hann veitti við fyrirspurnum (ódagsettum) Örnefnastofnunar og dagsetti 20. apríl 1983 í Grindavík. Sennilega eru spurningarnar samdar með örnefnalýsingu Lofts Jónssonar í huga því sum örnefnin sem spurt er um koma aðeins fyrir þar (t.d. Skiptivöllur) eða notaður er ritháttur sem kemur aðeins fyrir þar (Lyngfell, en Lyngfjall hjá AG).

 

 

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – fiskbyrgi – og – garðar við Nótarhól.

 

 

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – uppdráttur ÓSÁ.

Ísólfsskáli

 

Í Lesbók Morgunblaðsins árið 1990 fjallar Ólafur E. Einarsson um Ísólfsskála:

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli 1990.

“Næsti bær við Krýsuvíkurlönd að vestanverðu er ísólfsskáli. Bærinn stendur undir lágu hamrabelti í góðu skjóli fyrir norðanáttinni. Í jarðamatsbók er jörðin talin vera 16 hundruð að dýrleika. Veglengd frá Þórkötlustöðum til ísólfsskála er um það bil 25 km og liggur upp svokallaða Hálsa, kringum Festarfjall og niður að sjó á hægri hönd. Hlunnindi jarðarinnar eru talin vera trjáreki og selalátur undir Festarfjalli. En eins og öllum mun nú ljóst vega slík hlunnindi ekki þungt nú þótt góð þættu fyrr á öldum. Landrými er mikið á Ísólfsskála en ákaflega hrjóstrugt og illt yfirferðar, hraun og sandur. Það má raunar teljast furðulegt að hægt skuli vera að búa þar góðu búi á landbúnaði eingöngu og einhvern veginn fínnst manni margir staðir ákjósanlegri til landbúnaðar. Þarf ekki að líta nema fáeina kílómetra í austurátt til að sannfærast um það.
ÍsólfsskáliÍ mínu ungdæmi bjuggu á Ísólfsskála hjónin Agnes og Guðmundur Guðmundsson, mikil ágætishjón. Í þá daga var það talin holl og góð skemmtun að fara um helgar þegar vel viðraði í útreiðartúra frá Grindavík til Krýsuvíkur. Var þá stundum komið við í heimleið á Ísólfsskála, þar sem vel var tekið á móti gestum. Á þeim árum stundaði Ísólfsskálabóndinn venjulega sjóróðra á vetrarvertíðum frá Þórkötlustöðum í Grindavík, og þá að venju hjá bróður sínum, Hjálmari á Þórkötlustöðum, miklum og aflasælum dugnaðarformanni. Það var að vísu ekkert óvanalegt í þá daga að bændur stunduðu sjóróðra á vetrarvertíðum til að afla búum sínum fiskmetis, sem allsstaðar var talið sjálfsagt og nauðsynlegt. En það er hollt fyrir nútímamenn að gera sér grein fyrir því hvað forfeður okkar þurftu oft mikið á sig að leggja. Guðmundur þurfti mjög oft að ganga frá Ísólfsskála til skips, vegalengd sem er um 25 kílómetrar, eins og áður er getið. Hvernig skyldi ungum mönnum lítast á að gera slíkt í dag.
Þau Ísólfsskálahjón, Agnes og Guðmundur, bjuggu góðu búi, þótt aðstæður væru oft þröngar frá náttúrunnar hendi. Fjölskyldan var stór, enda börnin mörg. Ég þekkti flest þeirra vel. Sum voru um tíma á heimili foreldra minna og önnur unnu undir minni stjórn í fyrirtæki föður míns. Öll voru þau öndvegismanneskjur, dugandi, heilbrigð og ráðvönd.
Ísólfsskáli
Ísólfur sonur þeirra ágætu hjóna er nú eigandi jarðarinnar ásamt konu sinni Herte, sem er af þýskum ættum. Þau búa þar myndarbúi.
Það er með ólíkindum, hversu búskapur á Ísólfsskála hefur dafnað vel á liðnum árum og lýsir það best dugnaði þeirra hjóna Hertu og Ísólfs. Bæði hafa þau starfað við búskapinn svo að segja myrkranna á milli.
Þess má geta, að Ísólfur er afbragðs grenjaskytta.
Það er athyglisvert hversu búskapurinn hefur blessast vel hjá þessu dugnaðarfólki, þrátt fyrir erfiðar aðstæður frá náttúrunnar hendi.” – Ólafur E. Einarsson

Í Víkurfréttum 1993 segir:  “Fjárbúskapur að Ísólfsskála til rannsóknar – Áttu bara hey til hálfs mánaðar“:

Ísólfsskáli
“Ákvörðun hvað verður um sauðfjárbúið að Ísólfsskála verður tekin á morgun, 12. mars. Lögregla og forðagæslumaður Grindavíkur könnuðu aðstæður að Ísólfsskála í síðustu viku í framhaldi af bréfi Dýraverndunarfélags Íslands til sýslumannsins í Gullbringusýslu. Þar var krafist að búreksturinn að Ísólfsskála yrði kannaður.
Sigurður Ágústsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á lögreglustöðinni í Grindavík sagði í samtali við Víkurfréttir að forðagæslumaður teldi ekkert vera að búfénaði að Ísólfsskála. Áður hefur komið fram hér í blaðinu getsakir um að ástand fjársins væri ekki gott, en það virðist ekki hafa verið á rökum reist samkvæmt þessu. Hins vegar þarf að laga göt á fjárhúsi og einnig þyrfti að útvega fóður fyrir búfénaðinn, þar sem heybirgðir voru eingöngu til hálfs mánaðar þegar könnun fór fram í síðustu viku.

Ísólfsskáli

Auglýsing í Morgunblaðinu 1996.

Á morgun verður það lögreglustjóra að taka ákvörðun um framhald búfjárhalds að Ísólfsskála ef ekki hefur orðið breyting til batnaðar sem aðilar geta sætt sig við. Þess má geta að Ísólfsskáli er eina búið á Suðurnesjum, þar sem ábúandinn hefur einu framfærslu sína af fjárbúskap. Þess má einnig geta að bóndinn, sem hefur legið á sjúkrahúsi, hefur gert ráðstafanir til úrbóta.”

Auglýsing í Morgunblaðinu 01.03.1996 segir að jörðin Ísólfsskáli sé til sölu.

Heimildir:
-Lesbók Morgunblaðsins, 13. tbl. 31.03.1990, Á Ísólfsskála – Ólafur E. Einarsson, bls. 6.
-Víkurfréttir. 10. tbl. 11.03.1993, Fjárbúskapur að Ísólfsskála til rannsóknar – Áttu bara hey til hálfs mánaðar, bls. 9.
-Ísólfsskáli til sölu – Morgunblaðið 01.03.1996, bls. 21 D.

Isólfsskáli

Ísólfsskáli 1920.

Ratleikur

Ratleikjakortið má m.a. finna í sumum verslunum, á flestum bensínstöðvum og sundlaugum í Hafnarfirði – ókeypis.

Þema Ratleiks Hafnarfjarðar  2021 er hraun og skyldi engan undra miðað við þann áhuga sem fólk hefur á eldgosinu á Reykjanesskaganum. Margar eldstöðvar eru ofan við Hafnarfjörð og mörg hraun hafa runnið og oft yfir eldri hraun. Þá hafa hraunin skapað aðstöðu til búskapar, auk þess sem um þau liggja ótal götur og leiðir frá fyrri tíð.
Þrátt fyrir að tilgreindu staðirnir 27 á ratleikskortinu þyki áhugaverðir eru jafnan í nágrenni þeirra engu að síður staðir eða svæði, sem vert er að gefa gaum í leiðinni.
Allt áhugasamt fólk um hreyfingu og heilsu er vill nýta nánasta umhverfi sitt til sögulegs fróðleiks sjálfu sér til handa er hvatt til þátttöku í ratleiknum. Og ekki er verra að vegleg verðlaun eru í boði fyrir heppna þátttakendur…

1.      Bali – Búrfellshraun:

Bali

Balavarða (landamerkjavarða) – Hafnarfjörður í bakgrunni.

Bali er nú austasti bærinn í Garðahverfi í Garðabæ. Balavarðan, fremst á hraunstrandarbrúninni, markar skil Hafnarfjarðar og Garðabæjar. Fyrrum náði þó Garðahreppur yfir allan Hafnarfjörð, allt að Hvassahrauni í vestri.

Gálgahraun

Hraunmyndanir í Gálgahrauni.

Búrfellshraun er samnefni yfir hraunasvæði sem teygir sig yfir stórt svæði ofan Hafnarfjarðar. Hraunin runnu fyrir um 8000 árum en þá varð eldgos sem myndaði eldborgina Búrfell ofan Garðabæjar. Hraunin nefnast ólíkum nöfnum eftir staðsetningu þeirra eða útliti, s.s. Smyrlabúðarhraun, Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Urriðakotshraun, Hafnarfjarðarhraun, Garðahraun, Stekkjahraun, Engidalshraun, Klettahraun, Svínahraun, Vífilsstaðahraun, Gálgahraun og Balahraun.  Sjá nánar  um hraunin HÉR og HÉR.

Guðmundur Kjartansson jarðfræðingur rannsakaði Búrfellshraun (1954) og lét aldursgreina það með geislakoli (1973). Niðurstaðan var að hraunið væri um 8000 ára. Fyrst rann taumur niður í Straumsvík – hann er nú grafinn undir yngri hraunum (t.d. Kapelluhrauni) utan smáskækill sem stendur upp úr og nefnist Selhraun. Næst rann taumurinn; Gráhelluhraun til sjávar í Hafnarfirði. Þá þriðji taumur til sjávar milli Álftaness og Arnarness (Urriðakotshraun, Vífilsstaðahraun, Gálgahraun). Og loks hinn fjórði, smáskækill til suðurs frá Búrfelli (Helgadalur), [Kaldársselshraun og Gjár].

2.      Víðistaðir – Búrfellshraun:

Víðistaðatún

Víðistaðatún.

Víðistaðir er óbrennishólmi í Hafnarfirði, umlukin Búrfellshrauninu, sem rann frá Búrfelli fyrir um 8000 árum. Til er skemmtileg þjóðsaga um tilurð þess að hraun rann ekki yfir Víðistaðatún sem má lesa í ítarupplýsingum á vef Ratleiksins, sjá HÉR. Hins vegar hefur þarna verið eyja sem hraunið hefur runnið í kringum en jarðvegurinn fokið í burtu og lækkað.

Víðistaðatún

Á Víðistaðatúni.

Þjóðsagan um tilurð Víðistaðatúns er á þá leið að smali frá Görðum var látinn gæta fjár á völlunum þar sem nú er Norðurbærinn í Hafnarfirði. Hann var utan við sig og átti til að gleyma sér við dagdrauma og svo var einmitt þegar hraunið rann. Þegar hann loks rankaði við sér hafði eimyrjan þegar lokað leiðinni heim til Garða og nálgaðist nú jafnt á þrjá vegu en rjúkandi sjór lokaði undankomuleiðinni í fjórðu áttina. Drengurinn sá að sér og hjörðinni sem honum hafði verið trúað fyrir var bani búinn og hann fengi ekkert að gert. I angist sinni leitaði hann til Drottins og fól honum allt sitt ráð. Þegar hann leit upp hafði hraunið klofnað og hraungarður hlaðist upp hringinn í kring þar sem hann og skepnurnar voru. Hann hafði hlotið bænheyrslu og Víðistaðir voru orðnir til.

Stefán Júlíusson, rithöfundur, komst svo að orði um Víðistaði í Jólablaði Alþýðublaðs Hafnarfjarðar árið 1959: „Ekki man ég svo langt aftur, að Víðistaðirnir væru mér ekki ráðgáta. Beinn og jafn vegurinn yfir hraunlausa svæðið stakk svo mjög í stúf við brekkurnar, bugður og sneiðinga, báðum megin við, að barnshugurinn hlaut að undrast. Og slétt og gróin túnin mitt í úfnu hrauni á alla vegu, þar sem á skiptust klettar og gjár, klungur og gjótur, harðbalar og djúpar lautir, urðu mér stöðugt umhugsunarefni. Hvernig gat staðið á þessari vin í hrikalegu hrauninu? Með hvaða hætti hafði þessari litlu spildu verið hlíft við yfirgangi hraunsins?

Það var sízt að undra, þótt fávís og forvitinn drengsnáði, sem leið átti þarna um dags daglega, velti þessu fyrir sér. Ekki vissi ég þá, að hér hafði átt sér stað furðulegt fyrirbæri í jarðmyndunarsögunni, þótt jafnan byggi það mér í grun, að merkileg undur hefðu hér gerzt.

Enginn, sem ég þekkti í bernsku, kunni skil á því, hvernig þessum bletti hefði verið þyrmt, þegar hraunið rann.“

Sjá meira HÉR.

3.      Klettahraun/Álfaskeið – Búrfellshraun:

Klettahraun

Klettahraun.

Klettahraun er hluti Garðahrauns. Í Klettahrauni eru álfaborgir, skv. heimildum, og ber því að umgangast það með varfærni. Þrátt fyrir byggð svæði í og ofan Hafnarfjarðar hafa skipulagsyfirvöld jafnan reynt að gæta þess að varðveita einstakar hraunmyndanir, líkt og finna má í Klettahrauni. Annað dæmi um slíkt er Hellisgerði.

Hluti Búrfellshrauns nefnist Garðahraun og skiptist í Engidalshraun og Klettahraun sem er líka nefnt Klettar. Allstórir ólivín-dílar eru helsta einkenni Búrfellshrauns en þeir eru fremur sjaldséðir á Reykjanesskaga og koma einkum fyrir í eldri hraunum en eru áberandi í nýja hrauninu í Geldingardölum. Upptakasvæðið er afar sérstakt, einkum fyrir hrauntröðina Búrfellsgjá og ummerki eftir stórar hrauntjarnir norðan (Búrfellsgjá og Selgjá) og austan (Lambagjá) vestan við Kaldársel (Gjárnar).

4. Hraun við Ástjörn – Eldra Hellnahraun:

Ástjörn

Ástjörn.

Eldra Hellnahraunið, sem lokar af Ástjörnina til vesturs, rann fyrir um 2200 árum. Nánast allt Vallarhverfið í Hafnarfirði er byggt á þessu hrauni. Ofan þess er Yngra Hellnahraunið, um 1100 ára.

Ástjörn og svæðið umhverfis hana var friðlýst árið 1978. Í desember 1996 var verndarsvæðið stækkað með stofnun fólkvangs við Ástjörn og Ásfjall umhverfis friðlandið. Ofan við Ástjörnina stóðu tveir bæir, Ás og Stekkur. – Sjá meira um Ástjörn HÉR.

Ástjörn er einstætt náttúrufyrirbæri sem á sér enga hliðstæðu í næsta nágrenni hins nær samfellda þéttbýlis höfuðborgarsvæðisins. Tjörnin og svæðið umhverfis hana einkennist af mjög auðugu gróður- og dýralífi. Þar er t.d. að finna flórgoðavarp, en tegundinni fækkað til muna frá því sem var á fyrri hluta 20. aldar og er flórgoði alfriðuð tegund og á válista. Honum hefur fjölgað í seinni tíð og má segja að flórgoðinn verpi nú á öllum vötnum höfuðborgarsvæðisins. Í Ástjörninni er mikið smádýralíf sem er þó lítt rannsakað. Bakkar tjarnarinnar eru raklendir og að norðaustanverðu er stórt mýrarstykki niður undan gamla Ásbænum. Upp af votlendinu taka við þurrir grýttir móar sem eru að gróa upp og hefur trjám verið plantað í þá norðan og austan megin við tjörnina.

5. Ásfjall – Ísaldarhraun:

Asfjall

Ásfjall.

Ásfjall er hæsti hluti móbergsfjallaklasa ofan Hafnarfjarðar. Neðri hluti þess er úr móbergi en á toppi þess og hlíðum er grágrýtishraunhetta. Móbergið myndaðist undir jökli á síðasta jökulskeiði en hraunhettan eftir að gosið náði upp úr ísaldajöklinum. Á fjallinu eru nokkur illa hlaðin skotbyrgi frá stríðsárunum.

Ásfjall

Á Ásfjalli.

Á heimasíðu Náttúrustofu Reykjaness er fjallað um jarðfræði og gróður á Reykjanesi. Þar segir m.a.: „Fyrir meira en 10.000 árum myndaðist Reykjanesskaginn út frá Lönguhlíðafjöllunum og Undirhlíðum, Öskjuhlíðin, Digranesið, Arnarnesið, Hálsarnir fyrir ofan Hafnarfjörð, Hvaleyrartanginn og Holtin, Vesturháls, Austurháls, Skógfellin, Þórðarfell, Þorbjarnarfell, Miðnesið og slík auðkenni. Síðan hlóðust hraungos allt í kring og fylltu inn á milli og myndaði Reykjaneskagann í þeirri mynd, sem við þekkjum hann í dag.“

6. Dalurinn, Hamranes – Eldra Hellnahraun:

Dalurinn

Fjárskjólið í Dalnum.

Dalurinn er lægð norðan Hamraness, að hluta til orpinn um 2200 ára hrauni. Um „Dalinn“ segir Gísli Sigurðsson m.a. í Örnefnalýsingu sinni um Ás: „Línan liggur af hálsinum yfir svonefnt Hellisdalshraun, sem liggur í Hellisdal, en austast, innst í hrauntungunni, er Hellirinn eða Hellishraunsskjól. Hann var í eina tíð vel upp hlaðinn, en er nú saman hruninn. Hellishraun, svo var hraunið í Hellisdal einnig nefnt.“

Dalurinn

Dalurinn – fjárskjólið.

Fjárskjólið er í Eldra Hellnahrauni og ágætt dæmi um hvernig fólk fyrrum nýtti sér náttúrulegar aðstæður til skjóls fyrir skepnur sínar. Nú hefur hraunþakið fallið niður, en eftir stendur hlaðinn gangurinn, sem fyrr er minnst á. Niðurfallið er í dag þakið plastdrusli og öðrum úrgangi – dæmigerð afurð nútímafólksins, sem engan áhuga virðist hafa á arfleiðinni.

7. Hraun við Þórðarvík – Eldra Hellnahraun:

Þórðarvík

Þórðarvík.

Í örnefnalýsingu fyrir Hvaleyri segir m.a.: „Þórðarvík, er þar við Brunann [Kapelluhraun/Nýjahraun]. Hér upp frá sjónum er allúfið brunahraun, sem heitir Hvaleyrarhraun eða Hellnahraun. Upp frá Þórðarvík opnast dalir, er ganga þaðan inn í hraunið, og heita þeir Leynidalir.“ Hraunið er um 2200 ára gamalt. – Sjá nánar á vef.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir í Hraunum.

Í örnefnalýsingu fyrir Þorbjarnarstaði segir m.a.: „Norðurtakmörk ofannefndrar jarðar er, samkvæmt máldaga Hvaleyrarkirkju frá 15. öld, norðurbrún Nýjahrauns milli fjalls og fjöru. Af þessari landareign á hver jörð sitt umgirta tún, en utantúns á Þorbjarnarstaðir 3/4 en Stóri-Lambhagi 1/4.“ (Bréfið dags. í Hafnarfirði 1890.) Landamerkjalínan liggur úr Þórðarvík suður og upp um Leynidali og síðan áfram upp austurbrún Brunans.

Jón Sigurðsson frá Skollagróf minntist Guðmundar Tjörva Guðmundssonar, sem bjó í Straumi í Litla Bergþóri árið 1999. „Tjörvi þótti góður bóndi. Sauðfjárbúskapur mun hafa verið traustasta undirstaða búskapar í Hraununum. Vetrarbeit reyndist þar farsæl og örugg í flestum árum, bæði til fjalls og fjöru. Sölvareki á hausti og í vetrarbyrjun var árviss við Þórðarvík skammt frá Lambhagabæjum. Kvist- og lyngbeit ágæt upp um hraunlandið.“ Lambhagabæirnir voru norðan Straumsvíkur.

8. Leynir – Hrútargjárdyngja:

Leynir

Skjól í Leyni.

Leynir eða Leynidalir eru í hraunklofa ofan við Þórðarvík mitt á milli Hvaleyrar og Straums. Ofan við víkina er Hellnahraun en við hana vestanverða er Bruninn. Upp með honum lágu landamerki Hvaleyrar og Þorbjarnarstaða í Hraunum – upp í gegnum Leynidali. Flestum landamerkjunum hefur verið eytt. Neðanvert í þeim er Hellnahraun, en í þeim ofanverðum er lágbruninn. Línan liggur (lá) upp með Brunahorninu. Alfaraleiðin lá suðvestur eftir Brunanum.

Skolpframræðslustöð er nú ofan við Þórðarvík. Sjá má þó eina vörðu ofan Reykjanesbrautar enn í dag; Háuvörðu. Hún var (er) á fyrrnefndum landamerkjum.

Í Leynidali lá Leynisstígur yfir Brunann frá Þorbjarnarstöðum ofan við Gerði. Fé sótti þangað yfir svo hlaðin voru þar smalaskjól, eitt á klettastandi og annað í hraunsprungu, sem sjá má enn í dag.

09. Þorbjarnarstaðir stekkur/rétt – Hrútargjárdyngja:

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – stekkurinn.

Stekkurinn ofan Þorbjarnarstaða er enn eitt dæmið um hvernig fólkið fyrrum hefur nýtt sér aðstæðurnar í hraununum til sjálfsbjargar. Stekkurinn (þar sem lömbin voru skilin frá mæðrum sínum í sumarbyrjun) er vel hlaðinn grjóti undir háu hraunhveli. Síðar var hlaðinn rétt út frá stekknum, enda stekkstíðin þá liðin undir lok. Skammt frá er Kápuskúti, fyrirhlaðið fjárskjól í gróinni hraunkvos. Ofar er Nátthagi í grónum hraundal. Segja má að fólk hafi kunnað að meta hvaðaneina er skjólgott hraunið umhverfis hafði upp á bjóða fyrrum.

10. Réttarklettar – Hrútargjárdyngja:

Réttarklettar

Réttarklettar.

Réttarklettar eru á millum Lónakots og Hvassahrauns. Þeir eru álitleg klettaborg í annars hlutlausu ofvöxnu hrauni. Augljóst er að þarna hafði Hrútarghárdyngjuhraunið runnið í sjó fram fyrir um 7500 árum síðan og eldur og vatn í sameiningu skapað þau náttúruundur, sem þarna sést. Umleikis Réttarkletta eru miklar mannvistaleifar.

Nípuskjól

Nípuskjól.

Þarna upp af í hrauninu var fjárskjól, Nípuskjól, og rétt, Nípurétt. Milli þeirra voru allvel grónar flatir og réttartættur, garðar og skjól, sem enn sjást vel. Dæmigerðar aðstæður er fólkið okkar fyrrum nýtti sér hugvitsamlega við náttúrulegar aðstæður – sjálfu sér og afkomendum þeirra til framdráttar. Talið er að undir Réttarklettum hafi kot það er Svínakot nefndist, síðar verið nýtt frá Lónakoti.

11. Draughólshraun:

Draughóll

Draughóll í Draughólshrauni.

Draughólshraun er að öllum líkindum eitt fáfarnasta hraunið á Reykjanesskaganum. Reyndar er hraunið ekki víðfeðmt, en nægilegt þó til þess að bæði fólk og skepnur, nema kannski refurinn, hafa löngum lagt lykkju á leið sína til að forðast að þurfa að ganga um það.

Draughólshraun.

Draughólshraun – varða.

Draughólshraun heitir eftir efsta stóra hólnum í hrauninu; Draughól. Það er dæmigerð afurð apalhrauns. Líklega hefur varða á brún Draughólshrauns komið til af því að fæla fólk að fara um svæðið af ástæðulausu, sem síðar átti eftir að koma í ljós, eða sem vísbending um að þangað væri ekki óhætt að fara. Í raun er hraunið hluti af stærra hrauni, eða hraunum, á svæðinu. Meginhraunið er Hrútagjárdyngjuhraunið. Öskulög í jarðvegi ofan á hrauninu benda til að það hafi myndast fyrir um 4500 árum.

Hraunin ná yfir 80 km² svæði. Neðarlega, skammt ofan við Þorbjarnastaði í Hraunum, eru nokkrar lítt áberandi hraunskellur, nefndar Selhraun 1, 2, 3 og 4. Hraun þessi eru öll yngri en Hrútagjárdyngjuhraunið, misgömul þó, en öll u.þ.b. 4000 ára. Svo virðist sem undirlag þeirra hafi orðið til í jarðhræringunum í kjölfar dyngjugossins í Hrútagjá, sum jafnvel um svipað leyti. Gróningar benda þó til þess að hraunin geti verið, það yngsta, allt að 2000 árum yngri. Elsti flákinn er Selhraun 4, svonefnt Gráhelluhraun. Í því er t.d. Kolbeinshæðaskjólið og Kolbeinshæðahellir. Þá koma þrjú Selhraun 3, annars vegar vestan í Brunanum (Nýjahrauni/Kapelluhrauni) og hins vegar Draughólshraunið.

12. Gjásels- og Fornaselsstígur – Búrfellshraun:

Gjáselsstígur

Gjásels- og Fornaselsstígur.

Um hraunin ofan Hafnarfjarðar liggur fjöldi stíga. Fyrstu „ferðamennirnir“ hér á landi fóru flestir alfaraleiðirnar milli áhugaverðra náttúru- og/eða minjastaða. Einn þeirra staða var t.a.m. hverasvæðið í Krýsuvík, þrátt fyrir að Sveinn Pálsson hafi lýst Reykjanesskaganum í ferðabók sinni seint á 19. öld með eftirfarandi orðum; „Hér er ekkert merkilegt að sjá…“
Selsstígarnir voru jafnan ekki alfaraleiðir, í þeim skilningi. Selstígurinn upp frá Þorbjarnastöðum að Gjáseli og Fornaseli (ofar) hefur augljóslega verið notaður um langt skeið. Á gróinni hraunsléttunni ofan við Tobburétt eystri má sjá hann grópaðan í hraunhelluna á kafla.
Stígurinn hefur af sumum verið, að hluta, einnig nefndur Straumselsstígur eystri.

Fornasel

Fornasel – uppdráttur BE.

Bjarni Einarsson, fornleifafræðingur hjá Fornleifafræðistofunni, gróf prufuholur í Fornaseli árið 2000 og birti skýrslu um árangurinn árið 2001.
Markmið rannsóknanna var að freista þess að ná viðarkolum eða húsdýrabeinum til geislakols-aldursgreininga (C-14) og að kanna í hvaða ástandi fornleifarnar að Fornaseli væru. Að öðru leyti verður að líta á þessar rannsóknir sem fyrsta skref í rannsóknum á staðnum. Allt bendir til þess að haft hafi verið í seli að Fornaseli frá því um 1600 og fram á 19. öld.
Ekki hefur verið gerð sambærileg rannsókn í Gjáseli.

13. Kápuskjól – Laufhöfðahraun:

Kápuskjól

Kápuskjól (Kápuhellir).

Í örnefnalýsingunni segir m.a.: „Austan við Katlana var Laufhöfðahraun með Laufhöfðavatnsstæði, sunnan undir Laufhöfða. Í brúninni á Gjáselsvarðanhrauni þessu var Kápuhellir/-skjól. Landamerkjalínan liggur um Katlana í Jónshöfða austast í Straumsselhöfðum ofan Kápuhellis (Gísli Guðjónsson).“

Kápuskjól (Kápuhellir) er grunnur hraunskúti með lágri mosavaxinni fyrirhleðslu í allstóru torförnu grónu jarðfalli. Auðveldast er að komast inn í það að norðanverðu.  Skjólin eru í rauninni tvö; skammt frá hvort öðru.

Kápuskjól hefur jafnan verið staðsett uppi í Laufhöfðahrauninu. Í örnefnalýsngum er það staðsett „í brúninni inni á hrauni þessu“. Aðalheimildin um Kápuskjól er örnefnalýsingar, upphaflega skráð af Gísla Sigurðssyni, örnefni eftir Ástvald Þorkelsson frá Þorbjarnarstöðum, Gísla Guðjónsson frá Hlíð, Magnúsi Guðjónsson frá Stóra-Lambhaga og Gústaf Brynjólfsson frá Eyðikoti. Laufhöfðahraun er lítið hraun í Hrútargjárdyngjuhrauni, eldra en 2400 ára.

14. Gjásel – Hrútagjárdyngjuhraun:

Gjásel

Gjásel.

Gjásel er eitt u.þ.b. 400 selja á Reykjanesskaganum – í fyrrum landnámi Ingólfs. Það er, líkt og nágrannar þess, Fornasel og Straumssel, í Hrútargjárdyngjuhrauninu.  Frá selinu lá Gjáselsstígur, en hann er nú óglöggur mjög, nema ef vera skyldi ofan eystri Tobburéttar. Skammt sunnan selsins er Gránuskúti. Hlaðinn hleðsla er niður í hann, en nú umlukin trjágróðri.

Straumsselsstígur

Gjáselsstígur ofan Tobburéttar vestari.

Hrútagjárdyngja er um 4.500 ára hraundyngja sem þekur um 80-100 km² lands. Alls rúmir 3 rúmkílómetrar af hrauni. Dyngjan er með stórum toppgíg og skorin djúpum gjám sem kunna að vera merki um ris vegna kvikuinnskota. Hrútagjárdyngja er einn af stærstu hraunskjöldum á Reykjanesi. Í hrauninu er hægt að finna allmarga hraunhella, þ.á.m Steinbogahelli, Maístjörnuna og Híðið. – Sjá nánar HÉR.

Eitt af stærstu hraununum í kringum Hafnarfjörð er komið úr Hrútagjárdyngju. Upptök þess eru nyrst í Móháls[a]dal. Á gígsvæðinu er allmikil gjá sem heitir Hrútagjá og við hana er dyngjan kennd. Hraunið hefur að mestu runnið til norðurs og til sjávar og hefur myndað ströndina milli Vatnleysuvíkur og Straumsvíkur. Í daglegu tali gengur stærsti hluti hraunsins undir nafninu Almenningur. Öskulög í jarðvegi ofan á hrauninu benda til að hún hafi myndast fyrir 4000- 5000 árum (leiðréttur aldur ~ 4500).

Hrútargjárdyngja

Hrútargjárdyngja – gígurinn áður en nýrra hraun rann í hann.

Ljóst er þó, þegar gengið er um Dyngjuna og umhverfis hana, að hér hefur ekki verið um eina goshrinu að ræða heldur a.m.k. tvær eða fleiri. Nýjustu ummerkin sjást hvað best suðaustast í Hrútagjárdyngjunni. Þar er gígur og hrauntröð. Verksummerki eftir miðkaflan sjást hins vegar gleggst vestan við mikla hrauntjörn sunnanlega á dyngjusvæðinu og í hrauntröð út frá henni til norðurs. Þar hefur glóandi hraunkvikan leitað út úr gamla dyngjusvæðinu nyrst í henni og myndað ábreiðu næst dyngjunni.

Gamli gígurinn í Hrútagjárdyngju, sem gaf af sér hina miklu kviku, sést enn, en hefur nánast fyllst af nýrra hrauni.

15. Brunntorfuskjól – Hrútargjárdyngja:

Brunntorfuskjól

Brunntorfuskjól.

Í Brunntorfum eru fjölmargar mannvistarleifar, flestar eru þær enn óskráðar. Ein þeirra er Stóra Brunntorfuskjólið. Vitund þess hefur einungis, hingað til a.m.k., verið til í huga örfárra.

Er þetta hugvitsamlega hlaðið fjárskjól í lágu jarðfalli í Hrútargjárdungjuhrauni. Hlaðinn er gangur að skjólinu, er greinist síðan til beggja hliða. Þegar inn er komið, hvoru megin sem er, má sjá að um talsvert mannvirki hafi verið um að ræða í þá tíð. Skjól, sem þetta, er þó ekkert sérstakt þegar horft er til Hraunanna. Víðs vegar í þeim má sjá slík skjól taka mið af náttúrulegum aðstæðum, sem bændur fyrrum nýttu sér og sínum í lífsbaráttu þess tíma. Fjárskjólið hefur að öllum líkindum tengst Fornaseli, sem er þarna skammt vestar.

16. Kapelluhraun:

Kapelluhraun

Kapelluhraun.

Kapelluhraun, líka nefnt Nýjahraun og Bruninn, er úfið og gróðursnautt milli Hafnarfjarðar og Staums. Talið er að það hafi runnið snemma á sögulegum tíma (1010-1020). Hraunið kom úr tveimur gígum norðvestan við Hraunhól undir Vatnsskarði (um 3500 ára). Undir því er hraun frá nefndum hól (hólum) svo og eldra hraun frá Sandfellsklofa (um  3000 ára). Í hrauninu, sunnan við Reykjanesbrautina, beint á móti álverinu í Staumsvík er lítið tóft, hlaðin úr hraungrýti, sem nefnist Kapella. Um var að ræða athvarf við gömlu Alfaraleiðina til og frá Suðurnesjum millum Hafnarfjarðar og Hvassahrauns.

KapellaÁrið 1950 fannst þar við uppgröft í henni lítið líkneski heilagrar Barböru. Á síðustu öld var mikið efni verið tekið úr hrauninu í húsgrunna og götur á Stór-Reykjavíkursvæðinu og það sléttað. Hraunhóllinn með endurhlaðinni kapellunni hefur verið látinn ósnortinn og er nú friðlýstur. Enn má sjá móta fyrir Alfaraleiðinni við kapelluna.

Sagnir voru um, að einn sveina Kristjáns skrifara, sem drepinn var á Kirkjubóli á Miðnesi, hafi verið dysjaður við Kapelluna. Var því þarna stundum kölluð Dysin eða Kapelludys.

17. Stórhöfði – Óbrinnishólabruni:

Stórhöfðahraun

Við hraunjaðar Stórhöfðahrauns.

Stórhöfði er móbergsstandur frá ísaldarskeiði, líkt og höfðarnir umleikis, Selhöfði, Húshöfði og Fremstihöfði. Framan við Stórhöfða eru Óbrennishólahraunin (Hellnahraun).

Guðmundur Kjartansson, jarðfræðingur, sagði eftirfarandi m.a. um Óbrinnishólahraun: „Ofan á gjalli eldri giganna í Óbrinnishólum er moldarlag nokkuð mismunandi þykkt, en víðast 5-8 cm. Þó er það á stöku stað 10-15 cm. Efsti hluti moldarlagsins er svartur af koluðum gróðurleifum. Virðist það að verulegu leyti hafa verið mosi, enda má víða greina heillega mosa í þessu. För eftir birkistofna og greinar sjást víða og hafa stofnarnir sums staðar náð 15-20 cm upp í gjallið.

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur.

Víða er sjálfur stofninn horfinn með öllu en eftir stendur börkurinn sem hólkur upp í gjallið. Gjallið hefur sums staðar verið svo heitt, að viðurinn hefur kolast algerlega og má því finna mikið af mjóum greinum og stofnum, sem eru kolaðir í gegn. Flestir eru slíkir stofnar eða greinar um 6 mm í þvermál og þaðan af mjórri. Vel gæti þetta hafa verið lyng, fjalldrapi eða víðir eins og birki. Sverari stofnar og greinar eru oftast kolaðir aðeins þeim megin, sem að gjallinu snýr, en fúnir eða horfnir með öllu nema börkurinn hinum megin: Norðan við syðsta gíghólinn, en úr honum var aðal hraunrennslið, fann ég allmarga stofna, sem voru alveg heillegir og 10-15 cm í þvermál. Þeir voru mjúkir og héldu formi á meðan þeir voru blautir, en urðu harðir sem grjót, þegar þeir höfðu þornað. Svo virðist sem hríslurnar hafi þarna vaxið í mosa líkt og birkihríslurnar, sem ennþá vaxa sunnan í nyrsta gíghólnum og á víð og dreif í hrauninu. Þegar stofninn lagðist til jarðar undir ofurþunga gosefnanna, pressaðist hann niður í mjúkan mosann og liefur varðveitzt þar, en mosinn einangrað hann það vel frá hitanum, að kolnun hefur ekki átt sér stað nema rétt þar sem hin heita gosmöl lagðist beint ofan á stofninn. Leifar af þessum forna birkiskógi hef ég sent til aldursákvörðunar á rannsóknastofu háskólans í Uppsölum, þar sem dr. Ingrid U. Olsson hefur gert á þeim C14 aldursákvörðun. Voru gerðar tvær ákvarðanir, eftir að efnið hafði fyrst verið meðhöndlað á mismunandi hátt. Útkoman varð þessi:

Sýni nr. U-2268 – 2370 ± 70 C1* ár

Sýni nr. U-2269 – 2100 ± 80 C14 ár

Með þeirri óvissu, sem við þessar ákvarðanir loðir enn, má telja að síðara gosið í Óbrinnishólum hafi því orðið um 650 árum f. Kr.“

18. Arnarklettar – Óbrinnishólabruni:

Arnarklettar

Arnarklettar.

Kapellu- og Óbrinnishólahraun (-bruni) eru með þeim yngstu í Hafnarfirði og skilja sig greinilega frá öðrum þar sem þau eru að miklum hluta úfin kargahraun með samfelldri mosaþembu. Óbrinnishólabruni rann 190 f. Kr. og Kapelluhraun (Nýjahraun/Bruninn) rann 1151 e.Kr. Hraunsvæðið suðaustan við Stórhöfða hefur stundum verið nefnt Arnarklettabruni í Stórhöfðahrauni. Upp úr því rísa þrír áberandi klettastandar; Arnarklettar. Feta þarf fótinn varlega um mosavaxið hraunið að klettunum. Í því felast m.a. hreiður auðnutittlingshreiður – auk þess sem rjúpan hvílir þar undir á hreiðri skammt frá.

19. Búrfell – Búrfellshraun:

Búrfell

Búrfellsgígur.

Búrfell upp af Hafnarfirði [Garðabæ] er eldstöð af þeirri gerð sem kallast eldborg. Eldborgir einkennast af því að gos hefur átt sér stað á stuttri sprungu eða pípulaga gosrás og myndar því stakan aðalgíg og stundum smærri gíga þar hjá. Engir hliðargígar eru hjá Búrfelli, það stendur eitt og stakt, 180 m hátt yfir sjó, hlaðið úr gjalli og hraunkleprum. Hraunstraumarnir sem runnu frá gígnum nefnast einu nafni Búrfellshraun en hafa fjölmörg sérnöfn eftir einstökum hlutum hraunsins, svo sem Smyrlabúðarhraun, Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Urriðakotshraun, Hafnarfjarðarhraun, Garðahraun og Gálgahraun. Út frá gígnum má sjá hraunrásir (Búrfellsgjá og Selgjá) til norðurs og hrauntjörnina Kringlóttugjá til vesturs.

Búrfell

Búrfellsgjá.

Þrjár stórar hrauntungur runnu frá Búrfelli til norðurs og allar náð til sjávar. Stærsta tungan rann niður með Vífilsstaðahlíð og náði í sjó bæði í Hafnarfirði og við Arnarnesvog. Mörg hverfi í Hafnarfirði og Garðabæ standa á þessum hluta hraunsins. Önnur hrauntunga rann í átt að Kaldárbotnum og síðan niður hjá Ásfjalli og í sjó við Hamarinn í Hafnarfirði. Þriðja hrauntungan rann suður fyrir Kaldárbotna og til sjávar í Straumsvík. Hún er nú að mestu hulin yngri hraunum. Þegar hraunið rann stóð sjór um 10 m lægra við landið en hann gerir í dag. Ystu totur hraunsins eru því sokknar í sæ og teygja sig nokkuð út fyrir núverandi strönd.

Kringlóttagjá

Kringlóttagjá.

Búrfell og Búrfellsgjá voru friðlýst árið 2020 – sjá HÉR.

20. Helgadalur – Búrfellshraun:

Helgadalur

Tóft í Helgadal.

Helgadalur er í um 8000 ára Búrfellshrauninu. Um dalinn gengur áberandi sveimsprunga, allt að 10 m há. Sprungukerfið er í misgengi, sem eru reyndar mörg á svæðinu. Má þar nefna Hjallamisgengið. Vatnsstreymið í gegnum hraunin ofan dalsins staðnæmast við sprungurnar og vatn safnast saman í gjánum. Á vatnasviðinu er Kaldárbotnar, er tengist væntanlega m.a. Vatnsgjánni sem er í Búrfellsgjá. Frá þessu vatnasviði fá Hafnfirðingar og fleiri hið daglega neysluvatn sitt – hið sjálfsagða, en jafnframt eina dýrmætustu lífsnauðsyn samtímans.

Helgadalur

Helgadalur – misgengi.

Hafnarfjarðarkaupstaður stendur hálfur á jökulsorfinni grágrýtisklöpp, hinn helmingurinn er í úfnu hrauni. Lækurinn, sem fyrrum hét fullu nafni Hamarskotslækur, en nú oftast Lækurinn, fylgir nákvæmlega mörkum þessara jarðmyndana. Að hafnfirskri málvenju er grágrýtissvæðið „fyrir sunnan læk“ en hraunið „fyrir vestan læk“. Raunar er grágrýtið, bæði sunnan lækjar í Hafnarfirði og um öll innnes allt til Kollafjarðar, einnig hraun að uppruna, en of gamalt og máð til að heita svo í daglegu máli. Þessum fornu grágrýtishraunum er hárrétt lýst í tveimur ljóðlínum í kvæði Arnar Arnarsonar um Hamarinn í Hafnarfirði:

„Jökulhefluð hamrasteypa,
hafi sorfin, stormi fægð“.

21. Helgafell – gígur:

Helgafell

Helgafell.

Helgafell er 338 metra hár móbergsstapi suðaustur af Hafnarfirði. Fjallið myndaðist við gos undir jökli seint á ísöld, fyrir 11000 árum. Efst uppi á fjallinu er varða, sem er í raun berggangur sem grjóti hefur verið hlaðið í kringum. Í suðaustri er klettadrangur í fjallinu, sem heitir Riddari. Fyrrum var Riddarinn sjómið af öðrum samnefndum ofan Straumsvíkur, sem því miður hefur verið fargað. Þaðan er fær gönguleið niður af fjallinu og liggur hún í gegnum stóran steinboga.

Nafn fjallsins kann að vera komið til vegna einhvers konar helgi á fjallinu til forna en einnig gæti það verið skylt mannsnafninu Helgi.

Helgafell

Á göngu um Helgafell.

Fjallið er vinsælt meðal Hafnfirðinga og annarra íbúa á höfuðborgarsvæðinu og er tiltölulega auðvelt uppgöngu. Greinileg slóð liggur að fjallinu frá Kaldárbotnum, þaðan sem flestir hefja för sína. Gengið er með sléttu helluhrauni upp að norðausturhlíð fjallsins, þar sem einfaldast er að hefja gönguna. Þaðan er gengið eftir troðinni slóð sem liggur upp með fjallshlíðinni. Fyrst er gengið upp gróna brekku en síðan eftir móbergsfláum þar til komið er upp á topp fjallsins.

Útsýnið af toppnum yfir höfuðborgarsvæðið sem og nánast Reykjanesskagann allan, er frábært, þó að fjallið sjálft sé ekki mjög hátt.

22. Kýrskarð – Ögmundarhraun:

Kýrgil

Kýrgil.

Um Kýrskarð rann hrauntunga frá Gvendarselsgígunum. Gígarnir þeir voru nyrstu útstöðvar Ögmundarhraunsgígaraðarinnar frá um 1151. Um það eldgos á einstakri sprungurein hafa verið skrifaðar fjölmargar lærðar ritgerðir. Hrauntröð er í Kýrskarði. Þar hefur hraun runnið úr tveimur syðstu gígum Gvendarselsgígaraðarinnar ofan Undirhlíða. Þeir eru hluti Ögmundarhrauns. – Sjá nánar HÉR.

Ögmundarhraun er komið upp í eldstöðvakerfi sem oftast hefur verið kennt við Krýsuvík, en stundum við Trölladyngju. Eldstöðvakerfið einkennist aðallega af gígaröðum og gapandi gjám og sprungum. Sprungureinin er víðast um og innan við 5 km breið og nær 50 km löng. Hún liggur frá Ísólfsskála í suðvestri, norðaustur um Núpshlíðarháls og Sveifluháls og áfram um Undirhlíðar og endar millum Helgafells og Kaldárhnúka fyrir ofan Hafnarfjörð. Þar endar gosvirknin að mestu, en sprungurnar ná lengra til norðausturs yfir Heiðmörk, Elliðavatn og Rauðavatn og enda í Mosfellssveit.

23. Kerin – Ögmundarhraun:

Kerið

Kerið – gígur.

Að minnsta kosti 12 hraun hafa runnið á Reykjanessskaga síðan land byggðist, s.s. Afstapahraun um 900, Hvaleyrarhraun og Svínahraun um 1000, Ögmundarhraun um 1151 og Kapelluhraun 1020 og Rjúpnadyngjuhraun og Mávahlíðahraun um 1188. Svartahraun við Bláa lónið er frá 1226. Yngra Afstapahraun er frá sögulegum tíma og Stampahraun og Arnarseturshraun eru frá 1226. Nýjasta er sennilega frá 14. öld, þ.e. hraun við Hlíðarvatn frá árinu 1340.

Kerin eru hluti sprungureinar er Ögmundarhraun rann um 1151 og þar með hluti af Gvendarselsgígunum stuttu efra. Ofan við Kerin hefur eitt elsta og stærsta villta grenitréð á Skaganum náð að dafna.

24. Óbrinnishólar:

Óbrinnishólar

Óbrinnishólar – “milli mjórra dranga”.

Tvisvar hefur gosið í Óbrinnishólum. Talið er að fyrra gosið hafi verið fyrir um 21 öld en síðara gosið hafi verið 650 árum f.Kr.

Jón Jónsson, jarðfræðingur, sagði eftirfarandi um Óbrinnishóla: „Hraun frá fyrra gosinu í Óbrinnishólum hef ég ekki fundið í næsta nágrenni þeirra, en um 1-2 km vestur af hólunum eru hólmar tveir, sem yngra hraunið hefur ekki runnið yfir. Vel má vera að eldra hraunið komi þar fram, en ekki hef ég haft tækifæri til að athuga það. Næst syðsti gígurinn í Óbrinnishólum er frá fyrra gosinu og eftir nokkra leit fannst þar allþétt hraunlag inni í gjallinu. Kom þá í ljós, að hraun það, er komið hefur í fyrra gosinu, er mjög ólíkt hrauninu úr því síðara. Aftur á móti er það svo líkt Búrfellshrauni, að það verður naumast frá því skilið. Kemur þetta hvað greinilegast fram, þegar taldar hafa verið steintegundir á báðum hraunum“.

Óbrinnishólar

Óbrinnishólar eru nú nánast óþekkjanlegri frá fyrri tíð vegna gífulegrar efnistöku.

Um aldur fyrra gossins í Óbrinnishólum er ekki vitað. Samkvæmt rannsóknum Guðmundar Kjartanssonar (1972) gæti fyrra gosið í Óbrinnishólum hafa orðið á sama tíma og Búrfellshraun. Vaknar því sú spurning: Er það tilviljun ein að hraunin eru svona lík að gerð eða er það kannski vegna þess, að samtímis gaus á báðum stöðum? Ekki verður með vissu sagt, hvað margir gígir hafa myndast í fyrra gosinu á þessum stað, en þrír hafa þeir verið a. m. k. Af þeim hafa tveir algerlega horfið undir gjall frá síðara gosinu.

Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur, taldi að Óbrinnishólahraun hafi runnið fyrir ~2100 árum.

25. Dauðadalir:

Dauðadalir

Dauðadalir – hellisop í jarðfalli.

Stórabollahraun er talið vera um 2700 ára. Hraunið ber keim af dyngjugosi. Gígurinn, mjög stór, er utan í vestanverðu Kóngsfelli í norðanverðum Grindaskörðum ofan Hafnarfjarðar. Hraunið er undir Tvíbollahrauni, komið úr gígum skammt sunnar.

Dauðadalahellarnir eru í Stórabollahrauni, Þeir eru nokkrir, þ.á.m. Flóki. Leiðarendi, einn mest sótti ferðamannahellir á landinu, er einnig í Stórabollahrauni. Yfir honum hvílir Tvíbollahraunið. Á einum stað hefur það náð að þröngva sér inn í hellinn.

Dauðadalir

Í Dauðadalahellum.

Upptök Tvíbollahrauns eru í framangreindum Tví-Bollum eða Mið-Bollum. Tví-Bollarnir þeir eru tveir samliggjandi gígar í brúnum Grindarskarða, í um 480 m hæð yfir sjó. Hraunið hefur fossað niður bratta hlíðina niður á láglendið en einnig runnið í lokuðum rásum. Hraunið flæmdist síðan til norðurs milli móbergshnúka og klapparholta allt niður undir Hvaleyrarholt við Hafnarfjörð.

Tvíbollahraun er runnið eftir landnám og er eitt af nokkrum hraunum sem brunnu í miklum eldum á 10.-11. öld.

26. Skúlatún – Skúlatúnshraun:

Skúlatún

Skúlatún – Helgafell fjær.

Skúlatún er Óbrennishólmi í Skúlatúnshrauni (Stórabllahrauni) sem rann fyrir um 2000 árum. Sumir vilja ætla að þar megi sjá til fornra minja, en slíkt verður að telja hæpið.

Nokkrir gervígígar í Skúlatúnshrauni sýna hvar ströndin hefur legið þegar fyrri hraun runnu út í sjó. Þessir gervigígar eru taldir myndaðir eftir ísöld og eldri en hraunin í kring, þar með talin Skúlatúnshraun og Tvíbollahraun.

Gervigígarnir eru til marks um að fyrir tíma Skúlatúnshrauns og Tvíbollahrauns hafa hraun runnið sömu leið til sjávar en þegar þeir myndast þeytast upp hraun og setlög. Er þetta ástæðan fyrir því að í gervigígunum í Skúlatúnshrauni megi meðal annars finna skeljar í bland við klepra og gjall en skeljarnar hafa verið undan ströndinni sem hraunið rann yfir.

Skílatún

Skúlatún norðanvert.

Skúlatúnshraun (Eldra Hellnahraun) og Tvíbollahraun (Yngra Hellnahraun) eru mjög lík í ásýndum og lengi hefur þótt erfitt að greina þau að. Skúlatúnshraunið, líkt og Tvíbollahraunið, hefur komið úr Brennisteinsfjallakerfinu og hefur það runnið svipaða leið til sjávar. Er hraunið komið suðaustan úr Stórabolla sem er, líkt og Tvíbollar, í Grindaskörðum. Breiddi hraunið mjög úr sér sunnan og austan við Helgafell og rann svo sömu leið og Tvíbollahraunið suður fyrir Helgafell, í norðvesturátt með Gvendarselshæð, vestur með Kaldárseli og til sjávar í Hraunavík. Er hraunið nú undir nýrri hraunum að miklu leyti en kemur fram á nokkrum stöðum, til dæmis við Hvaleyrarvatn, Ástjörn og við sjóinn vestan Hvaleyrarholts (Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson, 1998; Kristján Sæmundsson o.fl., 2010).

Skúlatúnshraun hefur verið þunnfljótandi helluhraun og myndaði það ströndina milli Hvaleyrarhöfða og Álversins í Straumsvík en þar tók Kapelluhraunið við strandmynduninni síðar meir. Hefur Skúlatúnshraunið einnig runnið fyrir mynni kvosarinnar milli Vatnshlíðar og Selhöfða og myndað þannig Hvaleyrarvatn og einnig runnið fyrir mynni kvosarinnar milli Grísaness og Hvaleyrarholts og myndað þannig Ástjörn (Árni Hjartarson, 2010; Landmælingar Íslands, 2011; Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson, 1998). Nær Skúlatúnshraunið því yfir stærra svæði nærri byggð en Tvíbollahraunið.

27. Búðarvatnsstæði – Yngra Afstapahraun:

Búðarvatnsstæðið

Búðarvatnsstæðið.

Vestan undir Búðarvatnsstæðinu er hár hraunkantur. Undir honum, þar sem einn síðasti girðingarstaur mæðiveikigirðingarinnar á mörkum Krýsuvíkur og Vatnsleysustrandarhrepps, stendur enn, er fyrrnefnt Búðarvatnsstæði. Markaði girðingin landaskil milli Óttarsstaða og Hvassahrauns, og þar með á milli Hafnarfjarðar og Voga. Hraunkanturinn er hluti af Yngra Afstapahrauni frá um 1325.

Vatnsstæðið er nokkuð stórt og virðist hafa verið lagað til af mannahöndum. Það kúrir í grasbletti ofan við úfið hraunið og þaðan er útsýnið vítt og fallegt til suðurs og austurs. Örnefnið er sérkennilegt og gæti bent til þess að við vatnsstæðið hafi verið áningarstaður. Ekki er ólíklegt að þeir sem unnu við kolagerð í Almenningi hafi hafst við tímabundið við Búðarvatnsstæðið og af því sé nafnið dregið.

Markhella

Áletrun á Markhellu.

Þegar farið er upp á hraunjaðarinn ofan við Búðarvatnsstæðið sést merkileg varða. Hún er hlaðin úr sléttum hraunhellum. Eðlilegt hefur verið að hlaða vörðuna þarna því hún er í beinni línu úr Markakletti, mörkum Hvassahrauns og Lónakots við Hraunsnes, og sést því vel þegar komið er úr norðri. Búðarvatnsstæðið hefur verið þungamiðjan í lýsingum fyrri alda, enda fáum slíkum til að dreifa svo ofarlega í Almenningi. Það hefur því óumdeilt verið eitt helsta kennileiti í heiðinni fyrrum. Ekki er óraunhæft að álykta að um þar hafi markalínan verið dregin og þar með hafa allar jarðirnar þrjár átt tilkall til þess, enda sennilega einn helsti áfangastaður á ferðum fólks milli byggðalaganna. Þar hefur og verið tilvalið að slá upp búðum, enda um „hálfnaðarleið“ að ræða.

Málið er hins vegar öllu verra; Þarna efra hefur sögufölsun átt sér stað. Einhver eða einhverjir hafa gert sér að leik að krota skammstöfun bæja á „Markhelluna“, ca. 1.5 km ofar, væntanlega í þeim tilgangi að útfæra bæjarlönd sín á kostnað Krýsuvíkurbænda.

Sjá Ratleik Hafnarfjarðar 2021 HÉR.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – örnefni.