„Margrét útilegumaður hafðist við í Nesjalaugum eða Ölfusvatnslaugum, en síðan í ýmsum stöðum nálægt þjóðveginum á Hellisheiði og stal þar af ferðamönnum. Af lýsingunni hér að neðan að dæma hafa þetta verið laugarnar á Ölkelduhálsi fremur en laugar nær byggð.
Hagavíkurhraun – loftmynd.
„Þegar Margrét hafði verið í Hagavíkurhrauni um nokkurt skeið, tók hún það ráð að færa sig nokkuð um set. Flutti hún sig þá vestur í Hengil og settist að í Nesjalaugum eða Ölfusvatnslaugum. Tók hún sér til framfærslu það, sem hún mátti hönd á festa, og sauð mat sinn við hveri að dæmi Fjalla-Eyvindar. Var hún í laugunum, það sem eftir var sumars og allt fram að hausti, og gerðist mjög illa þokkuð af Grafningsmönnum. Bundust þeir þá samtökum að veita henni heimsókn og taka hana höndum og hafa allt í sömu ferð og fyrstu fjallgöngu um haustið. En Margrét var sem margir aðrir, að hún átti vini með óvinum, og hafði einhver kunningi hennar gert hana vara við, hvað bændur ætluðust fyrir. Þeir fóru nú til fjalls og smöluðu fé sínu, en hversu vanldega sem þeir leituðu, þá urðu þeir hvergi varir við Margréti. Töldu menn hana því á burtu farna, og var því máli þá ekki frekari gaumur gefinn. En það er af Margréti að segja, að hún hafði hlaupið á burt úr laugunum litlu fyrir fjallleitina. Hélt hún þá austur yfir Ölfusá og fór heim til foreldra sinna [í Flóa]. Sat hún þá heima um veturinn, og er ekki annars getið en hún væri þá hin spakasta í héraði.“
Ölfusvatnslaugar.
Önnur þjóðsaga segir að Margrét útilegumaður hafi hafst við í Nesjalaugum eða Ölfusvatnslaugum, en síðan í ýmsum stöðum nálægt þjóðveginum á Hellisheiði og stal þar af ferðamönnum.
„Þegar nokkuð var liðið fram á næsta vor, tók Margrét að gá til veðurs og líta í kringum sig á nýjan leik. Hljóp hún loks aftur að heiman og hélt þá enn í vesturátt. … Hún lagði nú leið sína vestur yfir Ölfus og vestur á Hellisheiði og hafðist þar við í ýmsum stöðum nálægt þjóðveginum á suðurferðaleið manna. Var hún þar á slangri um sumarið, og stóð mörgum ógn af henni. Oft greip hún plögg ferðamanna, er þeir voru í tjaldstöðum, einkum þegar þoka var og dimmviðri, og svo gerðist Margrét stórtæk um afla, að hún kippti skreiðarböggum á bak sér og hljóp í burtu með. Tóku menn þá að ferðast margir saman í hóp, og hafði Margrét sig þá minna í frammi. En bæri svo við, að menn færu einir síns liðs eða svo fáir saman, að hún treysti sér til við þá, máttu þeir eiga vísa von á fundi hennar, og hlaut hún þá alla jafnan að ráð sköpum og skiptum þeirra í milli. … [Guðmundur Bjarnason á Gljúfri í Ölfusi fór í grasaferð þetta sumar og unglingspiltur með honum] Fara þeir sem leið liggur og ætla í Hverahlíð.
Hurðarásvötn.
En er þeir koma upp á Kambabrún eða í Hurðarásvötn, fór veður að þykkna og gerði kalsa slyddu, svo að háfjöll urðu gráhvít … héldu þeir … áfram ferðinni og allt suður fyrir Reykjafell. Gerir þá sólskin og logn og hið bezta veður. Halda þeir nú áfram, unz þeir koma niður í Svínahraun, en þangað var förinni heitið. Finna þeir þar nægtir fjallagrasa um daginn, svo að fullar klyfjar voru á reiðingshestinum og þó nokkuð um fram, er þeir bundu við söðla sína. Var þá nálægt miðjum aftni, er þeir höfðu lokið við að búa upp á hesta sína og bjuggust til heimferðar.
Er þeir Guðmundur og fylgdarmaður hans voru ferðbúnir, vildu þeir taka sér matarbita, áður en þeir legðu af stað, því að ekki höfðu þeir gefið sér tíma til þess fyrr um daginn. Fór Guðmundur og náði í malpoka þeirra og bjóst til að setja sig niður, meðan hann mataðist, og hélt á malnum í hendinni. Veit hann þá ekki fyrr til en þrifið er í malnum heldur sterklega. Guðmundur víkst við skjótt og sér, að þar er þá komin Margrét sú hin nafnkunna og vill kippa af honum malnum. En hann lá ekki á lausu, því að Guðmundur var vel fær að afli. Sviptast þau nú um stund og hnykkja malnum á víxl, svo að hvorugt vinnur neitt á. Gekk á þessu um hríð, en ekki er getið orða þeirra.
Svínahraunsleið.
Loksins sleppti Guðmundur malnum og réðst á Margréti. Hún sleppti þá líka og tók á móti, og það ekki með mjúkum meyjarhöndum. Áttust þau við um stund, og sparði hvorugt af, unz Guðmundi vili það til, að hann steytti fót sinn við steini. Hrasaði hann áfram og fell við, en Margrét á hann ofan. Guðmundur brauzt þá um, sem hann mátti, en svo var Margrét sterk, að hann gat með engu móti velt henni af sér, og fékk hún jafnharðan hlaðið honum. Loks tók Guðmundur að mæðast og sá nú sitt óvænna. Hét hann þá á fylgdarmenn sinn að veita sér lið. En pilturinn var svo hræddur, að hann þorði hvergi nærri að koma. Leizt honum eigi ráðlegt að hlutast til leiks þeirra, þar sem húsbóndi hans, tveggja manna makinn, lá undir, en Margrét, fjallaflagðið, gein yfir honum, svo grimmileg sem hún var. Duldist piltinum það eigi, að svo ólíklega hafði farið, að Guðmundur hafði beðið lægra hlut í viðskiptum þeirra Margrétar, þótt mikilmenni væri og harðfengur í meira lagi.
Svínahraunsleið – dys.
Guðmundur þóttist nú illa kominn, en vildi þó ógjarna griða biðja. Varð hér skjót úrræði að hafa, því að Margrét gerði sig líklega til að sýna honum í tvo heimana. Verður það þá fangaráð Guðmundar, að hann dregur hana af sér og bítur á háls henni fyrir neðan hökuna, allt það er tennur tóku. Vildi hún þá sem skjótast losna úr slíkum faðmlögum, en þess var enginn kostur. Lagði Guðmundur fast að hálsi hennar, og eigi létti hann fyrr en hann hafði bitið í sundur á henni barkann, og varð það hennar bani. Eftir það velti hann Margréti af sér og staulaðist á fætur, dasaður mjög eftir allar þessar aðfarir, en þó óskemmdur að mestu. Þeir félagar drógu síðan Margréti burt þaðan og huldu hræ hennar í hraunskúta nokkrum eða klettagjögri og báru á það grjót og mosa. Eftir það fóru þeir til hesta sinna og stigu á bak og héldu heimleiðis. Guðmundur bauð nú fylgdarmanni sínum mestan varnað á því að segja nokkrum frá atburði þeim, er gerðist í ferð þeirra, því það gæti kostað líf þeirra beggja, ef uppvíst yrði. Hét hann þagmælsku sinni fullkominni …
Ferðamenn hættu nú alveg að verða varir við Margréti, eins og við var að búast, og var talið víst, að hún myndi farin heim til sín austur í Flóa. En þegar lengra leið frá og það varð kunnugt, að hún hafði ekki komið heim til sín, kom sá kvittur upp, að Guðmundur á Gljúfri myndi hafa séð fyrir henni …
Arnarbæli í Ölfusi.
Það var annaðhvort á síðari árum síra Jóns prests Matthíassonar í Arnarbæli eða á fyrri árum síra Guðmundar Einarssonar þar, að Gísli [Jónsson á Sogni í Ölfusi] fann leifar af mannsbeinum suður í Svíanhrauni, sem höfðu verið hulin grjóti og mosa. Gísli fór þegar er heim kom á fund prests og sagði honum til beinanna og vildi láta sækja þau og jarðsetja í Reykjakirkju. En prestur kvað slíkt engu gegna og hæddist að þessum fundi Gísla, sagði vera mundu hrossbein, sem slátrað hfði verið og eitrað síðan fyrir refi … Talið var, að bein þau, er Gísli fann, mundu hafa verið bein Fjalla-Margrétar.“ Guðmundur banamaður Margrétar var fæddur 1765 en bjó á Gljúfri í Ölfusi 1805-1815 og hefur útlegð Margrétar þá verið á því tímabili. Guðmundur dó 3.5.1848. Önnur sögn er til um viðureign Guðmundar við útilegukonu en það á að hafa verið í Ólafsskarði og með öðrum atburðum“ –
Blanda VI, 187-89.
Heimildir:
-Íslenskir sagnaþættir III, 6-7.
-Íslenskir sagnaþættir III, 7-13.
Svínahraun – skúti.