Saga Elliðavatnsbæjarins er áhugaverð og samofin sögu Reykjavíkurborgar og þeim breytingum sem orðið hafa á síðustu öldum.
Fyrstu heimildir um Elliðavatnsjörðina finnast í máldaga frá 1234 en þar segir að Viðeyjarklaustur eigi Elliðavatnið hálft. Við siðaskipti varð jörðin konungseign en ekki fer miklum sögum af jörðinni þar til Innréttingar taka til starfa í Reykjavík upp úr miðri 18. öld. Eitt helsta verkefni þessa fyrirtækis var ullarvinnsla. Ákveðið var árið 1756 að stofna fjárræktarbú á Elliðavatni fyrst og fremst til að bæta þar með kynbótum þá ull, sem yrði tekin til vinnslu, en jafnframt til að tryggja fyrirtækinu næg verkefnið. Til kynbóta voru fluttir inn hrútar af enskum stofni. Sænskur maður, Hastfer barón, mikill áhugamaður um kynbætur sauðfjár rak þetta fyrirtæki fyrst í stað, en fjárbú Innréttinganna var aftur stofnað í Helliskoti þarna skammt frá árið 1757. Á ýmsu gekk með reksturinn; svo virðist þó brátt, að allt mundi fara skaplega, en þá dundi ólánið yfir. Í búinu kom upp veiki í sauðfénu, aðallega fjárkláði, sem breiddist út með miklum hraða, þannig að ekkert fékkst við ráðið. Um 1760 var sauðfjáreign landsmanna talin nálægt 360 þúsund, en 1770 var hún komin niður í um það bil 140 þúsund. Þetta er talið eitt mesta áfall, sem íslenskur landbúnaður hefur nokkur sinni orðið fyrir. Það er nokkuð sjálfgert að sögu fjárræktarbúsins á Elliðavatni var nú lokið. Var það formlega lagt niður 1764. Árið 1815 var jörðin seld eins og fjöldi konungsjarða þá um mundir.
Árið 1860 eignast Benedikt Sveinsson alþingismaður og yfirdómari í Landsyfirrétti jörðina og flutti þangað ásamt fjölskyldu sinni árið eftir. Þann 30. október 1864 fæddist sonur Benedikts og Katrínar konu hans, þjóðskáldið Einar Benediksson.
Benedikt hóf mikil umsvif á Elliðavatni; búskapur var þar fyrst í stað mikill, vinnufólk 11, en auk þess bætt við um sláttinn. Hann ákvað að ráðast í geysimiklar áveituframkvæmdir, réð tugi manna til að gera um eins km langan stíflugarð yfir Dimmu og Bugðu (nokkurn veginn þar sem stífla Rafmagnsveitunnar er nú). Með þessari áveitu á Elliðavatnsengin sem átti að ná yfir 200 ha lands, átti að vera unnt að margfalda heyfenginn. Svo fór þó að draumar Benedikts um að gera Elliðavatn að mestu bújörð á Íslandi vildu lítt rætast. Búskapur gekk saman og Benedikt hvarf úr embætti yfirdómara og fluttist norður að Héðinsflóa sem sýslumaður Þingeyinga.
Benedikt var mikill áhugamaður um byggingu steinhúsa, enda af sumum talinn sjúklega eldhræddur. Hann réðst í það að láta reisa steinhús á Elliðavatni úr hlöðnu grjóti. Hefur það nú um skeið verið notað sem hlaða. Þegar Benedikt var kominn í andstöðu við yfirvöldin hugðist hann stofna án tilskilins leyfis prentsmiðju á Elliðavatni, en næsta lítið varð úr því fyrirtæki. Var rekstur stöðvaður þegar í byrjun. Aðeins tveir ritlingar voru prentaðir þar og var Jón Ólafsson höfundur beggja.
Elliðavatn og Heiðmörk hafa af og til komist í kastljós fjölmiðla. Skógareldar hafa komið upp, óáran geisað og leyfislausar framkvæmdir hafa leikið hið friðaða svæði grátt.
Á árunum 1923, 1927 og 1928 eignaðist Rafmagnsveit Reykjavíkur Elliðavatn. Var jörðin keypt í sambandi við raforkuvinnslu, sem hófst við Elliðaárnar árið 1921. Búskapur var stundaður með hefðbundnum hætti þar til 1941, en þá tók þar til starfa vistheimili fyrir geðsjúklinga, og starfaði það um alllangt skeið. Að því kom að vistheimilið var lagt niður og búskap með öllu hætt. Árið 1963 var samið um það við Skógræktarfélag Reykjavíkur, að það skyldi fá jörðina til varðveislu, frá 1964 var bærinn aðsetur starfsmanns félagsins sem hafði eftirlit með Heiðmörk. Árið 2004 flutti Skógræktarfélag alla starfsemi sína í Heiðmörk og er bærinn nú notaður undir skrifstofur félagsins.
Saga Heiðmerkur er einnig áhugaverð fyrir margra hluta sakir en hún segir einnig sögu vaxandi byggðarlags í nágrenni svæðisins. Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur frá upphafi sinnt svæðinu sem var friðað 1950. Gróðursetning hefur verið í höndum starfsmanna félagsins, fjölmargra landnema en einnig hefur Vinnuskóli Reykjavíkur unnið ómetanlegt starf á svæðinu, en ungingar á þeirra vegum eru enn við störf á svæðinu að sumarlagi. Í dag einbeita starfsmenn sér í auknum mæli að grisjun þó svo að gróðursetning haldi áfram. Hafa ýmsir lagt þar hönd á plóginn, nú síðast Kópavogsbær.
Sigurður Guðmundsson málari hafi hug á því þegar árið 1870 að gera Heiðmörk að útivistarsvæði fyrir Reykvíkinga, en það mál varð ekki að veruleika fyrr en u.þ.b. 70 árum síðar þegar Hákon Bjarnason, þáverandi skógræktarstjóri, var í reiðtúr um Heiðmörkina þann 16. júní 1935. Erindi hans var að skoða þar kjarrleifar og gróður er leyndust milli hrauna og meðfram Hjöllunum þar sem Vatnsendaborgin trjónir fagurlega enn þann dag í dag.
Eftir þessa ferð kom Hákon fram með hugmynd um friðland og útivistarsvæði fyrir borgarbúa og verndun þeirra kjarrleifa á þessu svæði í grein sem hann skrifaði í ársrit Skógræktarfélags Íslands 1936 og nefndist: „Frá ferðum mínum sumarið 1935.“
Upp úr þessu tóku að þróast í einstökum atriðum hugmyndir um útivistarsvæði Reykvíkinga austan og sunnan Elliðavatns.
Árið 1941 gaf Skógræktarfélag Íslands út bækling, sem nefndist Friðland Reykvíkinga ofan Elliðavatns. Þar var birtur ýmis fróðleikur um svæðið og skýrt frá frumkvæði félagsins í þessum málum.
Nafnið Heiðmörk var fyrst sett fram í útvarpsþætti sem félagið stóð að til kynningar á hugmyndinni, vorið 1941 og var það prófessor Sigurður Nordal sem það gerði. Árið 1946 var Skógræktarfélag Íslands gert að landsambandi skógræktarmanna og var þá stofnað nýtt félag, Skógræktarfélag Reykjavíkur sem tók það við ýmsu sem Skógræktarfélag Íslands hafði unnið að, þar með talið hugmyndinni að stofnun Heiðmerkur. hefur félagið síðan haft umsjón með og annast framkvæmdir á svæðinu samkvæmt samningi sem gerður var við bæjarstjórn Reykjavíkur þann 3. mars 1949.
Fyrsta gróðursetningin fór fram árið 1949 en þá fóru nokkrir starfsmenn félagsins á hestum með plöntur og verkfæri og gróðursettu um 5000 plöntur. Voru það, skógarfura, rauðgreni og sitkagreni og nefnist þessi lundur Undanfari.
Sama ár var lokið við að girða 1350 hektara. Nú var verkið svo vel á veg komið að tímabært var að vígja það formlega. Það gerði þá verandi borgarstjóri Gunnar Thoroddsen á vígsluhátíð sem haldin var sunnudaginn 25. júní 1950, með því að gróðursetja sitkagreniplöntu á svokallaðri Vígsluflöt.
Fljótlega fór að vakna áhugi fyrir stækkun friðlandsins. Það er svo á árunum 1957 – 58 að suðurhluti núverandi Heiðmerkur er girtur, er það svæði úr landi Garðakirkju og Vífilsstaða. Við það stækkaði friðlandið í 2500 hektara. Það er svo árið 1963 Þegar Skógræktarfélag Reykjavíkur gerir samning um varðveislu Elliðavatnslands að girðingin er færð norður fyrir Rauðhóla. Við það stækkaði Heiðmörk í 2800 hektara og er það í dag að undanskildum þeim svæðum sem Orkuveita Reykjavíkur hefur girt af vegna nálægðar við brunnsvæði.
Árið 1956 hófu unglingar á vegum Vinnuskóla Reykjavíkur störf á Heiðmörk og hafa þeir unnið í um 2 mánuði á hverju ári, frá 100 og upp í 450. Þessir unglingar hafa unnið stórvirki í skógrækt, göngustígagerð o.fl. og má segja að Heiðmörk sé talandi dæmi um hverju unglingastarf getur skilað. Einnig ber að geta þess að mikið hefur verið gróðursett fyrir gjafafé frá fyrirtækjum og stofnunum og frá einstaklingum sem gefið hafa fé til minningar um nákomna.
Jörðin Elliðavatn var löngum ein sú þekktasta í nágrenni Reykjavíkur og höfðingjasetur á tímabili. Bæjarstæðið er glæsilegt, en umhverfið gerbreyttist þegar stíflað var vegna vatnsmiðlunar 1924. Þá stækkaði vatnið um helming, en hinar frægu Elliðavatnsengjar hurfu. Á þeim tíma stóð enginn styr um þessar umhverfisbreytingar.
Í Reykjavík og næsta nágrenni hafa eðlilega orðið stórfelldar umhverfisbreytingar; það fylgir því að byggja borg. Einhverjar mestu umhverfisbreytingar í borgarlandinu hafa orðið við Elliðavatn, en ekki vegna bygginga. Jafnframt er bújörðin Elliðavatn ekki til lengur, hún er orðin hluti af friðlandinu í Heiðmörk.
Flest nútímafólk hefur enga hugmynd um þær umhverfisbreytingar sem orðið hafa á bökkum Elliðavatns, eða hvernig vatnið leit út á fyrsta fjórðungi 20. aldarinnar. Því þarf að minnsta kosti ekki að lýsa fyrir fólki sem þekkir til á höfuðborgarsvæðinu að vatnið, sem bezt sést af hæðunum ofan við Vatnsenda, er mikil umhverfisprýði og náttúruperla. Ef nauðsynlegt yrði talið að minnka vatnið verulega vegna einhverra framkvæmda er hætt við að rekið yrði upp ramakvein. Vonandi kemur aldrei til þess. En í ljósi alls þess sem búið er að segja og skrifa um uppistöðulón á hálendinu er hins vegar er ekki úr vegi að minnast þess að í aldanna rás og allt fram til 1924 var Elliðavatn miklu minna. Raunar voru vötnin tvö en tveir mjóir álar tengdu þau saman eins og sést á korti frá árinu 1916. Vestara vatnið var kennt við Vatnsenda, en það eystra var nefnt Vatnsvatn, kennt við bæinn á Elliðavatni, eða á Vatni eins og sagt var.
Ásamt með beitarlandinu uppi á Elliðavatnsheiði voru víðáttumiklar og grasgefnar engjar beztu hlunnindi jarðarinnar á Vatni. Túnið var alltaf lítið, en hafi Elliðavatnsbændur náð í starung á engjunum; sem ekki er ólíklegt, þá var hann kúgæft hey og þótti geysileg búbót. Lítið eitt vestan við miðju vatnsins eins og það er nú var allstór eyja sem skildi vötnin nánast að. Úr vestara vatninu rann áin Dimma allar götur niður að brúnni við núverandi Seláshverfi. Þar rann í hana áin Bugða, en svo heitir neðsti og vestasti hluti Hólmsár. Tvö læmi tengdu þó árnar saman við hólinn Skyggni, skammt frá stíflunni sem síðar kom.
Hvað hefur eiginlega gerzt sem haft hefur í för með sér svo róttækar breytingar á umhverfi Elliðavatns? Ekki annað en það, að á árunum 1923-1928 eignaðist Rafmagnsveita Reykjavíkur jörðina Elliðavatn og 1924 var ráðizt í vatnsmiðlun með stíflu sem síðar var tvívegis hækkuð og flestir þekkja þessa stíflu núna. Við stíflugerðina hefur vatnsborð Elliðavatns hækkað hvorki meira né minna en um heilan metra og vatnið hefur stækkað um það bil um helming. Eyjan út af Þingnesi fór að stórum hluta í kaf, svo og hinar rómuðu Elliðavatnsengjar.
Starungur er að vísu ekki lengur eftirsóttur heyfengur og engjaheyskapur allur aflagður fyrir löngu, svo segja má að ekki hafi stór skaði verið skeður. En það er annað þessu tengt sem nútíminn telur verðmæti: Votlendi. Hér var sökkt stórum flæmum votlendis þar sem án efa hefur verið fjölskrúðugt fuglalíf.
Ekki verður séð að því hafi verið mótmælt árið 1924, eða að tilfinning hafi verið fyrir því að þarna væri verið að vinna náttúruspjöll. En var það svo?
Um það má ugglaust deila, en ljóst er að Elliðavatn, þessi náttúruperla við útmörk höfuðborgarsvæðisins, er að stórum hluta uppistöðulón. Því er á það bent, að í hita undangenginnar umræðu um virkjanir á hálendinu hafa öfgamenn haldið ákaflega fram þeirri skoðun að öll uppistöðulón séu beinlínis ljót. Að sjálfsögðu var skaði að missa votlendið. En í staðinn höfum við fengið stærra og fegurra Elliðavatn.
Í umhverfi Elliðavatns er víðast hvar fagurt um að litast og bærinn sem ber nafn af vatninu var byggður á fallegum stað á nesi sem skagar út í vatnið frá austri. Kvöldfegurð á Vatni er við brugðið; útsýnið fyrst og fremst yfir vatnið og til hæðanna ofan við Vatnsenda. Nú klæðir skógur baklandið; hlíðar Heiðmerkur sem búið var að ganga svo nærri með ofbeit að uppblástur var næsta þróunarskref. Þar er ævintýri líkast um að ganga og víða frábært útsýni yfir það land sem fyrrum tilheyrði jörðinni Elliðavatni, en var þó aldrei stórt. Vatnsendaland var mun stærra og Hólmsland var það einnig; það náði allar götur upp í Bláfjöll, sunnan við Elliðavatnsland.
Allt er þetta umhverfi mikilfenglegt, en einhver fegursti reiturinn er við smærri vötnin norðaustur og austur af Elliðavatnsbænum: hjá Helluvatni, Hrauntúnstjörn og Kirkjuhólmatjörn. Þessi undrafögru smávötn sjást þegar ekið er sem leið liggur að Elliðavatni framhjá Rauðhólunum. Vegurinn liggur á brú yfirálinn úr Helluvatni og áfram upp í Heiðmörk, en afleggjari er heim að Elliðavatnsbænum. Stöldrum aðeins við þarna áður en lengra er haldið..
Norðan við Helluvatn eru nokkrir lágir gjallhólar af sama uppruna og Rauðhólarnir, en óskemmdir, og verður þetta umhverfi ævintýralega fallegt í lok júnímánaðar þegar lúpínan, sem þar er útbreidd, blómstrar og breiðir bláan lit yfir umhverfi tjarnanna.
Rauðhólarnir urðu til fyrir 4.600 árum þegar glóandi og þunnfljótandi hraunstraumur rann úr eldstöðinni Leiti í Svínahrauni og fylgdi nokkurn veginn sömu slóð til sjávar og Suðurlandsvegurinn. Þorleifur Einarsson jarðfræðingur taldi að Elliðavatn, eða einhver hluti þess, hafi þá náð þangað sem Rauðhólarnir mynduðust og hefur það eflaust verið tilkomumikil sjón að sjá glóandi hraunstraum þurrka vatnið upp. Hraunstraumurinn hélt áfram niður í voginn sem 3.500 árum síðar var kenndur við Elliða, skip Ketilbjarnar hins gamla. Árnar bera og nafn skipsins og trúlega Elliðavatn einnig.
Vatnið í tjörnunum þremur sprettur fram undan hraununum í Heiðmörk, en að hluta er það úr Suðurá sem á upptök sín í Silungapolli og undir Selfjalli hjá Lækjarbotnum. Við erum hér í næsta nágrenni Gvendarbrunna; þeir eru suðaustan við Hrauntúnstjörn.
Elliðavatn í Seltjarnarneshreppi var lengst af meðal þekktustu bújarða í nágrenni Reykjavíkur. Vatn eins og bærinn var gjarnan nefndur var þó ekki höfuðból; til þess að svo væri þurftu jarðir að vera 60 hundruð, en Vatn var aðeins 12. Hlunnindin voru engjarnar fyrrnefndu sem nú sjást ekki lengur, kvistbeit í hraununum og veiði í vatninu og ánum Dimmu og Bugðu.
Elliðavatn var í landnámi Ingólfs og því ekki landnámsjörð. Ef til vill hefur Ingólfur ráðstafað þessari blómlegu og kjarri vöxnu engjajörð til frændfólks eða vina, en um það er ekkert vitað. Engar heimildir eru til um upphaf bæjarins á Elliðavatni, en í máldaga frá 1234 segir að Viðeyjarklaustur eigi hálft land jarðarinnar. Getið er um Elliðavatn í Kjalnesinga sögu, sem skrifuð var á 14. öld, en telst full ævintýraleg til þess að vera treystandi sem heimild. Þar segir að á þeim bæ „er heitir að Vatni, er síðan er kallat Elliðavatn“ hafi búið kona sem Þorgerður hét. Hún átti son þann er Kolfinnur hét og var kolbítur, eða með öðrum orðum: Hann lá í öskustó og hafðist lítt að. Þetta fyrirbæri er vel þekkt úr ævintýrum. Ef til vill þjáðist hann af þunglyndi, en síðan hefur bráð af honum; hann reis úr öskustónni og tók að líta í kringum sig eftir konuefni. Með tilliti til þess að kolbítar voru ekki í miklu áliti, verður að teljast að Kolfinnur hafi ekki ráðizt á garðinn þar sem hann var lægstur með því að leita eftir ástum Ólafar vænu, dóttur Kolla bónda í Kollafirði. Urðu vígaferli vegna bónorðsins og kolbíturinn sýndi að það voru töggur í honum, því hann nam Ólöfu á brott og hafði hana með sér heim að Elliðavatni.
Ekki hélst honum þó lengi á konunni. Ástmaður hennar, sá mikli kappi Búi Ástríðsson sem Kjalnesinga saga greinir frá, gerði sér lítið fyrir og felldi Kolfinn. Við konunni leit hann ekki meir, „síðan Kolfiðr hefir spillt henni“.
Klausturjarðir urðu konungseign eftir siðaskiptin og þeirra á meðal var Elliðavatn. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín sem gerð var skömmu eftir 1700 segir að eigandinn sé „kóngl. Majestat.“ Jarðardýrleiki er sagður óviss og á jörðinni er þá þríbýli. Ábúendur eru Einar Eyvindsson á hálfri jörðinni, Tómas Vigfússon á fjórðungi og sá þriðji er Snorri Snorrason, og býr hann á þeim fjórðungi jarðarinnar, sem áður var hjáleigan Vatnskot. Allir eru þeir leiguliðar hjá kónginum og er landskuld goldin með „iii vættum fiska eður í fríðu og átta tunnum kola“ (viðarkol).
Margvíslegar kvaðir eru og á jörðinni, enda þótti ekki gott að búa í næsta nágrenni við Bessastaðavaldið. Sem dæmi um þessar kvaðir má nefna að eitt mannlán er um vertíð, hestlán til alþingis eða austur á Eyrarbakka; einn hestur frá hverjum ábúanda. Enn gætir yfirráðanna frá Viðey, „tveir dagslættir“ renna þangað. Hægt er að kalla menn til formennsku á bátum ef þeir eru til þess hæfir og fá þeir formannskaup „ef þeim heppnast afli.“ Tvo til þrjá hríshesta verður jörðin að láta af hendi og tvö til þrjú lömb skulu tekin í fóður og láta verður tvo heyhesta „til fálkafjár í Hólmskaupstað“.
Tólf kýr má fóðra á allri jörðinni segir Jarðabókin, en rifhrís til eldiviðar og kolagjörðar „fer mjög í þurð“. Þrönglendi er í högum, engjar spillast af vatnsgángi, en torfrista og stúnga „lök og lítt nýtandi“.
Þessi lýsing bendir ekki til mikillar búsældar á Elliðavatni. Segir nú fátt af búskap á Vatni þar til brautryðjandinn Skúli Magnússon kom upp Innréttingum sínum í Reykjavík eftir 1750. Meðal verkefna þar var ullarvinnsla og þurfti þá að koma upp fjárræktarbúi, bæði til þess að tryggja vinnslunni næga ull, en einnig var ætlunin að bæta hana með blöndun á útlendu sauðfé.
Elliðavatn varð fyrir valinu og má ætla að ástæðan hafi einkum verið sú að þar hefur verið talin bezta fjárjörðin í nágrenni Reykjavíkur vegna beitarinnar í skóglendinu þar sem Heiðmörk er nú.Vegna kynbótanna voru fluttir inn hrútar af enskum sauðfjárstofni, en sænskur barón, Hastfer að nafni, átti að stýra kynbótunum fyrsta kastið. Ekki er alveg ljóst hvers vegna þessi kynbótatilraun var flutt að Helliskoti, skammt frá Elliðavatni árið 1757. En þar var reist „mikil stofa“ þó ekki sjái hennar stað, en einnig að sjálfsögðu vandaðasta fjárhús landsins, „meira en flestar kirkjur hér á landi og afþiljað“.
En ekki dugði þetta afburða fjárhús til þess að bægja óláninu frá, sem fólst í að upp kom veiki í fénu: Fjárkláði sem breiddist ört út og olli gífurlegum búsifjum. Á einum áratugi frá 1760-1770 hrapaði sauðfjáreign landsmanna úr 360 þúsundum í 140. Ugglaust er það eitthvert mesta efnahagsáfall sem Íslendingar hafa orðið fyrir, svo háðir sem þeir voru sauðfjárbúskap.
Fjárræktarævintýrinu á Elliðavatni lauk með þessu; búið var lagt formlega niður 1764. Ber nú lítt til tíðinda fram til 1815 að fjöldi konungsjarða var seldur og Elliðavatn þar á meðal.
Sextán árum síðar, 1836, var Paul Gaimard í öðrum Íslandsleiðangri sínum. Hann var maður ferðavanur; hafði þá tvívegis farið kringum hnöttinn. Í leiðangurinn til Íslands hafði hann með sér lið valinkunnra manna og þar á meðal var teiknarinn Auguste Mayer. Hann gerði fjölda teikninga og skyssa á Íslandi sem eru ómetanleg heimild, ekki sízt um húsakynni landsmanna, og þar á meðal er teikning af Elliðavatnsbænum.
Mayer var frábær teiknari, en ætla má að oft hafi hann fullunnið baksviðið, fjöll og annað úr umhverfi bæja, eftir að heim var komið. Fyrir kemur að þekkt kennileiti eru óþekkjanleg og þar á meðal er hæðin ofan við Elliðavatnsbæinn. Ætla má þó að myndin sé trúverðug heimild um bæinn og hún er einnig allnokkur vísbending um að Elliðavatn hafi þá þótt markverður bær. Kirkja var þó aldrei á Vatni; bærinn átti kirkjusókn að Laugarnesi ásamt Breiðholtsbænum, Vatnsenda, Bústöðum, Kleppi, Rauðará, Hólmi, Hvammskoti, Digranesi og Kópavogi.
Á teikningu Mayers af Elliðavatnsbænum er aðeins að sjá eina stæðilega byggingu. Hún er með hefðbundnu lagi torfbæja eins og það varð á síðustu öld og snýr stafninum fram. Prýði þessa húss er vindskeið og hefur verið lagður metnaður í að hafa hana viðhafnarlega. Slíkar vindskeiðar voru ekki á bæjum almennt. Skýringuna má ef til vill finna í því, að ábúendur á Elliðavatni voru þá Jón Jónsson silfursmiður og Ragnheiður Guðmundsdóttir. Kynni að vera að listrænn metnaður silfursmiðsins kæmi þarna í ljós. Að öðru leyti sýnir myndin venjulega og fremur bágborna torfkofa, en hjallur úr timbri stendur sér. Tröðin heim að bænum liggur meðfram hlöðnum grjótvegg sem sveigist til suðurs, enda var algengasta leiðin úr Reykjavík að Elliðavatnsbænum sunnan við vatnið.
Hægt var að fara aðra leið norðan vatnsins, en þá þurfti að komast yfir Elliðaárnar, Bugðu og álinn úr Helluvatni.
Bærinn á teikningu Mayers hefur trúlega verið á Elliðavatni 1841 þegar náttúrufræðingurinn og skáldið Jónas Hallgrímsson kom þar til að sjá og teikna upp minjar um þingstaðinn Þingnes sunnan við vatnið. Þaðan hélt Jónas för sinni áfram til Þingvalla og Skjaldbreiðar og lenti í frægri villu og útilegu, sem fór þó vel og gaf af sér eitt vinsælasta kvæði Jónasar.
Þingstaðurinn var þó ekki á sjálfu nesinu sem skagar út í vatnið, heldur í hallanum ofan við nesið. Þar hafa fornleifarannsóknir farið fram; stórt rannsóknarsvæði var grafið upp og komu í ljós leifar af stórum, hringlaga garði. Innan hans sást móta fyrir fleiri mannvirkjum. Garður og rústir voru taldar vera frá 11.-12. öld og undir þeim reyndust vera minjar frá 10. öld. Frá vegamótum austan við Elliðavatnsbæinn liggur vegur sem nefndur er Þingnesslóð út með vatninu og er ökufært alla leið að Þingnesi. Sunnan vegarins er Myllulækur og samnefnd tjörn, sem samkvæmt uppdrættinum frá 1916 virðist ekki hafa verið til þá, enda hefur hún orðið til við framkvæmdir Vatnsveitunnar. Ætla má að kornmylla hafi einhverju sinni verið við Myllulæk
Þingnes er talinn einn merkasti sögustaður í nágrenni Reykjavíkur, jafnvel á landsvísu og hafa fleiri en Jónas Hallgrímsson rannsakað hann. Þeirra á meðal er Sigurður Guðmundsson málari, sem gerði uppdrátt af staðnum, Brynjólfur frá Minna-Núpi, Daniel Bruun, Finnur Jónsson prófessor, svo og Þjóðminjasafnið að sjálfsögðu. Ari fróði segir í Íslendingabók sinni, að Alþingi hafi verið sett „at ráði Ulfljóts ok allra landsmanna þar es nú es, en áður var þing á Kjalarnesi, þat es Þorsteinn Ingólfssonr landnámsmanns, faðir Þorkels mána lögsögumanns, hafði þar ok höfðingjar þeir es at því hurfu“.
Því er verr, að ekki eru til neinar heimildir um það hvar Kjalarnessþing var háð, en vísir menn hafa talið að um tíma hafi það verið í Þingnesi. Rannsóknir sem fóru fram 1984 benda eindregið til þess að þar hafi mannfundir farið fram. Dr. Jakob Benediktsson telur ljóst í Sögu Íslands, 1. bindi sem út kom 1974, að Kjalarnesþing hafi verið eins konar undanfari Alþingis, enda þótt það hafi ekki verið löggjafarþing, heldur aðeins dómþing og „sennilegt sé að upptakanna að stofnun Alþingis sé að leita í hópi þeirra höfðingja, sem stóðu að þinginu á Kjalarnesi.“
Sé þetta rétt er Þingnes hinn allra merkasti staður á bökkum Elliðavatns.
Heimild m.a.:
-http://www.heidmork.is
-Gísli Sigurðsson – „Skin og Skúrir á Elliðavatni“ I. hluti – Lesbók Morgunblaðsins 12. febrúar 2000.