Þorlákshöfn

Í Sjómannadagsblaðinu 1982 er fjallað um „Sögu Þorlákshafnar„:

Höfundur Þorlákshafnar, höfðingjarnir tveir

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn 1913.

„Þorlákshöfn mun draga nafn sitt af Þorláki helga, er biskup var í Skálholti (1139—1193) en þar mun hann hann hafa stigið á land, eftir að hafa tekið biskupsvígslu, árið 1178. Hann þótti hinn skörulegasti biskup og reyndi mjög að efla kirkjuvaldið, sem kunnugt er. Önnur sögn segir á hinn bóginn að bóndi í Þorlákshöfn, er þá hét Elliðahöfn, hefði heitið á Þorlák biskup í sjávarháska, að breyta nafni jarðarinnar, ef hann næði landi, heilu og höldnu.
Miklar sögur eru um útgerð og siglingu í Þorlákshöfn og talið að Ögmundur Pálsson, biskup, sem var í Skálholti 1521—1540 (d. 1541) hafi siglt skipi sínu, Súðinni í Þorlákshöfn, en hann var nafntogaður skipstjórnarmaður og réði yfir Súðinni, haffæru skipi, en hann sigldi sjálfur, meðal annars margsinnis til Noregs.
ÞorlákshöfnEkki er unnt að rekja hér langa útgerðarsögu Þorlákshafnar, en einkennileg tilviljun er það, að tveir frægðarmenn koma þar seinast við sögu, Þorleifur ríki á Háeyri, útvegsbóndi, kaupmaður og alþingismaður, er segja má að væri seinasti ábúandi í gamla stíl, meðan róið var á áraskipum, og Egill Gr. Thorarensen í Sigtúnum, kaupfélagsstjóri Kaupfélags Árnesinga, er menn nefndu oft Jarlinn í Sigtúnum. Hann fékk kaupfélagið til að kaupa Þorlákshöfn og er réttur faðir Þorlákshafnar eins og hún er í dag.
Svo skemmtilega vildi til, að við hér á blaðinu hittum að máli syni þessara tveggja höfðingja, þá Benedikt Thorarensen, framkvæmdastjóra hjá Meitlinum hf. og Sigurð Þorleifsson, Guðmundssonar á Háeyri, en báðir eiga þeir heimili í Þorlákshöfn, og ennfremur Gunnar Markússon, bókavörð, en hann er einnig fróður mjög um sögu staðarins.
Og á frásögnum þeirra og öðrum upplýsingum, rituðum, skal hér reynt að gjöra nokkra grein fyrir Þorlákshöfn að fornu og nýju, það er Þorlákshöfn Þorvaldar á Háeyri og Þorlákshöfn Egils í Sigtúnum.

Þorlákshöfn í byrjun aldar

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – kort.

Þorlákshöfn liggur í vesturjaðri Árnessýslu og svonefnt Hafnarnes skýlir höfninni í suðlægum og suðvestlægum áttum og síðan er landvar frá hendi náttúrunnar allt að ASA. Landsynningur eða suðaustanáttin var erfiðasta áttin, því þá stóð upp í víkina. Að norðan og austanverðu markar Skötubótin og síðan Hafnarskeið Þorlákshöfn, eða „Höfninni“ bás, en fyrrgreint svæði, þótt opið sé, er einstakt í óvogskorinni og skjóllausri strönd Suðurláglendisins. Þorlákshöfn varð því snemma lífhöfn manna á þessum slóðum.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – verbúðir.

Þorleifur á Háeyri bjó í Þorlákshöfn á árunum 1914—1927 og gerði þar út. Í hans tíð munu skipin (áraskipin) flest hafa orðið 30 talsins. Þetta voru teinæringar, er sumir nefna 12 róin skip. Til eru góðar heimildir um skip í Þorlákshöfn á þessari öld og munu þau um aldamótin hafa verið um 20 talsins og árið 1901 voru þau 27. En flest urðu þau árið 1916, eða 30, en úr því fer skipum að fækka í Þorlákshöfn.
Nýir tímar fóru í hönd í útgerð, og menn leituðu á aðra staði, þar sem náttúruhafnir voru fyrir skútur og togara. Árið 1923 voru aðeins 5 skip eftir, sem réru frá Þorlákshöfn. Vélbátaútgerð var ekki stunduð í tíð Þorleifs á Háeyri. Bryggja var engin og allt varð að bera. Róið var út í saltiskip og saltið borið í sekkjum í hús og fiskinum var skipað út með sama hætti, róið var í skip. Út og uppskipun fór fram við Hellurnar, Norðurhellu og Suðurhellu. Aðallega var þó skipað út við Suðurhelluna, því þar var fiskinum pakkað í húsi, er þar stóð, og nefnt var Bakkapakkhús, en Einarshafnarverslun átti það hús. Saltinu var skipað upp í báðar varirnar, Norðurvör og Suðurvör, en á báðum stöðunum voru salthús.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – verbúðir.

Mjög fjölmennt var í Þorlákshöfn á vertíðum og að meðtöldu heimilisfólkinu hjá Þorleifi, mun hafa verið á fimmta hundrað manns í Þorlákshöfn á vetrarvertíð.
Sjómennirnir, eða skipshafnirnar bjuggu í sjóbúðum, sem voru grjótbyrgi með bárujárnsþaki. Veggir voru úr torfi og grjóti, áður en bárujárnið kom til sögunnar, voru sjóbúðirnar með torfþaki, eins og flest önnur hús á Íslandi. Upphitun var engin, en prímus var notaður við eldamennsku, sem aðallega mun hafa verið sú að laga kaffi. Sjóbúðin var eitt herbergi og flet meðfram veggjum og sváfu tveir í hverju fleti. Aðkomumennirnir voru flestir úr Ölfusinu og austan úr Árnessýslu. Margir komu frá Eyrarbakka, og ennfremur réru þarna Rangæingar.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – sjóbúð.

Þorleifur á Háeyri gerði út nokkra báta og verkaði fisk af sínum bátum og einnig tók hann að sér fiskverkun fyrir Einarshafnarverslun á Eyrarbakka. Fyrstu árin að minnsta kosti.
Í tíð Þorleifs voru tvö íbúðarhús í Þorlákshöfn. Gamli bærinn, sem svo var nefndur og svo tvílyft timburhús, eða íbúðarhús, bárujárnsklætt, sem stóð framar.
Umsvif Þorleifs á Háeyri í Þorlákshöfn voru mikil en fóru minnkandi. Hann þraukaði þó þarna til ársins 1927, en þá voru skipin aðeins orðin fjögur. Þorleifur fluttist síðan til Reykjavíkur og varð þar fisksölustjóri. Hann andaðist árið 1942.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – róðraskip um 1890.

Áraskipin voru á netaveiðum, einvörðungu, í tíð Þorleifs. Þá var hætt að verka í skreið á Íslandi, nema harðfisk til heimabrúks.
Allur fiskur var saltaður, og það sem ekki var saltað til útflutnings, var svokallaður matfiskur, morkinn fiskur og fiskur með lýti. Hann var hafður til manneldis og seldur í sveitirnar. Þorskhausar voru þurrkaðir og seldir innanlands.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – verbúð um 1917.

Þess má þó geta, að þorskanet voru fyrst notuð í Þorlákshöfn árið 1907. Sjómennskan var erfið og aldrei höfðu menn með sér bita á sjóinn, ekki einu sinni þótt tvíróið væri sama daginn, eða þríhlaðið, sem oft kom fyrir, ef verið var á leirnum, sem svo var nefnt. Fengust þá of 12000 fiskar á skip sama daginn, og þegar róið var hrærðu menn í þorski með árunum og oft gogguðu menn fiska upp úr sjónum á leiðinni í land.
Þorlákshöfn
Merkileg tilraun var gerð í Þorlákshöfn árið 1922, en þá reyndi frægur aflamaður Nes-Gísli (Gísli Jónsson) að veiða þorsk í hringnót. Gísli hafði þríhlaðið skip sitt þennan dag. Þegar lokið var við að landa, héldu þeir út með hringnót, sem gjörð var úr trolltvinna. Nóttina höfðu þeir á einu skipi, en kunnu ekki með að fara, enda sveitamenn, eins og flestir þeir sem réru á áraskipum á þessum stað. Þeir köstuðu nótinni og fengu 60 fiska. Ekki hugkvæmdist þeim að nota tvö skip til að kasta nótinni, en það er önnur saga. Er þetta líklega í fyrsta skipti, sem gerð er tilraun til þorskveiða með nót hér á landi. Ekki mun nótinni þó hafa verið kastað nema einu sinni.
Þess má einnig geta, að Gísli í Nesi, varð fyrstur manna til að nota þorskanet í Þorlákshöfn, en áður fóru skipin með lóðir.
Síðasti bóndinn í Þorlákshöfn var Guðmundur Jónsson, en hann flutti að Eyði-Sandvík í Flóa árið 1940. Þá lagðist sveitabúskapur af í Þorlákshöfn. Skúli Þorleifsson var ráðsmaður í Þorlákshöfn 1942—1943 og viðloðandi þar um skeið.
Lítil útgerð mun hafa verið í Þorlákshöfn í tíð Guðmundar Jónssonar.

„Nú skal byggja borg“
ÞorlákshöfnSem áður sagði, þá eru það einkum tveir héraðshöfðingjar, er setja svip sinn á Þorlákshöfn á þessari öld. Annar þeirra Þorleifur á Háeyri sér hina eldfornu útgerð áraskipa liðast í sundur í straumi tímans, hinn Egill í Sigtúnum tekur að sér að leiða Þorlákshöfn til nýrrar tíðar. Báðir þessir menn voru orðnir að þjóðsögu, áður en þeir voru allir, sem er fremur sjaldgæft á Íslandi, og ekki hafa þeir heldur meiðst í endurminningunni. — Standa þar fyrir sínu. Sem áður sagði þraukaði Þorleifur á Háeyri til ársins 1927 í Þorlákshöfn, enda staðurinn búinn að vera í bili, sem viðunandi verstöð.
Þá verða tímamót í sögu Þorlákshafnar. Árið 1929 mun fyrst hafa verið reynt að gjöra bryggju í Þorlákshöfn, og var hún 20 metra löng. Ekki skal fullyrt um gagnsemi hennar, en árið 1934 kaupir Kaupfélag Árnesinga jörðina. Um þetta segir Guðmundur Daníelsson, rithöfundur í grein á þessa leið. (Stytt):
„Á stjórnarfundi Kaupfélags Árnesinga 2. apríl 1934 var samþykkt að festa kaup á jörðinni Þorlákshöfn með þeim mannvirkjum, sem þar voru. Kaup þessi voru í upphafi mest hugsuð til að hefja útgerð í atvinnubótaskyni, hef ég einhvers staðar lesið, en tel mjög hæpið. Aftur á móti mun hafa vakað fyrir Agli að bæta svo lendingarskilyrði, að þar yrði brátt hægt að skipa upp flestum vörum Sunnlendinga, það er að segja að byggja hafskipahöfn.
Árið 1935 lét Egill kaupfélagið hefja útgerð í Þorlákshöfn. Ólafur bóndi Þorláksson á Hrauni í Ölfusi er einn af örfáum Íslendingum, kannski sá eini, sem vitni varð að því, þegar Egill kom fyrsta sinni út í Þorlákshöfn til þess að ræða við eina formann staðarins um væntanleg kaup K.Á. á jörðinni, umsvif og atvinnurekstur þar. Ólafur segir frá þessu í minningargrein, sem hann skrifaði um Egil látinn:

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – hafnaraðstaðan fyrrum.

„Það mun hafa verið síðari hluta vetrar 1933, að ég var við sjóróðra á vertíð í Þorlákshöfn, þá tvítugur unglingur. Staðurinn var þá kominn í slíka niðurníðslu, að aðeins einn bátur (opin trilla) reri þarna frá verstöðinni, þrátt fyrir það að þarna rétt upp við landsteina var sjórinn svo morandi af fiski, að einn daginn fengum við til dæmis á fjórða þúsund fiska, þrátt fyrir þær aðstæður sem þá voru fyrir hendi. Og þeir sem við þetta unnu voru aðeins menn úr nágrenninu. Slík var nú trúin orðin á framtíð staðarins.
ÞorlákshöfnÞað var snemma morguns einn dag áður en farið var á sjó, að inn í verbúðina vatt sér maður einn gustmikill og mikilúðlegur, og af honum sindraði orka og fjör. Hér var þá kominn forstjóri hins unga kaupfélags, sem nýbúið var að stofna í héraðinu. Maður þessi tók sér sæti á rúmi formanns og fékk sér hressilega í nefið. Síðan tóku þeir tal saman, og fór ég að leggja við eyra. Egill sagðist nú vera kominn í þeim erindagjörðum að skoða Þorlákshöfn, því að hann hefði hugsað sér að láta kaupfélagið kaupa jörðina. Síðan hann að lýsa á sinn alkunna hátt öllum þeim möguleikum, sem þarna væru fyrir hendi og verkefnum sem biðu þess að verða leyst. Og ég, unglingurinn, hlustaði þarna sem bergnuminn og fannst sem ég hlýddi á ævintýri „Þúsund og einnar nætur.“
Og kaupfélagsstjórinn var ekki að tvínóna við hlutina fremur en endranær. Strax um sumarið var hafizt handa um lendingarbætur og síðan útgerð. Fyrst í smáum stíl en síðan vaxandi. Þannig hefur þróunin haldið áfram, að vísu með nokkru hléi á stríðsárunum (þá dró „Bretavinnan“ til sín allt fáanlegt vinnuafl). En að lokinni styrjöldinni komst nýr og aukinn skriður á uppbyggingu Þorlákshafnar, og ekki hefur orðið lát á því síðan.“
Um þennan þátt í frumlegu og stórtæku sköpunarstarfi Egils á vegum verklegra framkvæmda hefur Þorsteinn Sigurðsson á Vatnsleysu þetta að segja:
„Egill Thorarensen gleymdi ekki sjónum og gjöfum hans. Hann var líka vel minnugur hafnlausu strandarinnar, sem umlykur mesta samfellda búnaðarhérað landsins. Hann sá, að höfn yrði að byggja í hinni gömlu verstöð við Eyrarbakkabugt, sem helguð var hinum sæla Þorláki biskupi, og hann sá fyrir sér stóra hafnarborg rísa upp á hinni gróðurlausu örfoka sandströnd. Og hann lét ekki sitja við hugsanir og orðin tóm, það gerði hann aldrei. K.Á. keypti þessa niðurníddu verstöð, hóf hafnarbætur og útgerð, þar sem fiskurinn gengur upp í landsteina á vetrarvertíð, svo að þríróa má hvern dag, þegar gæftir eru.
Þorlákshöfn
Eftir stríðið, sem endaði 1945, endurreisti Egill í annað sinn útgerð í Þorlákshöfn, og þá stofnaði hann sjálfur, K.Á., SÍS og fleiri aðilar hlutafélagið Meitilinn í Þorlákshöfn. Áður, árið 1938, hafði Egill látið K.Á. hefja þar byggingu hafskipahafnar. Að heimsstyrjöldinni lokinni vaknaði almennur áhugi á lengingu þessa hafnargarðs, sem kominn var. Þar með taldi Egill, að málið væri í rauninni orðið ofviða einu kaupfélagi, því að vissulega stefndi hann að hafskipahöfn með öruggri legu fyrir 40 til 50 stóra fiskibáta. Þá vann Egill það þrekvirki, sem ég persónulega er viss um, að enginn lifandi maður á Íslandi hefði getað leikið eftir honum: að fá Árnes- og Rangárvallasýslur til að kaupa Þorlákshöfn, það er að segja jörðina og hafnarmannvirkin. Meitillinn hélt aftur á móti áfram að vera hlutafélag. Þetta gerðist árið 1946. Hafnarnefnd var sett á laggirnar og formaður hennar kosinn Páll Hallgrímsson sýslumaður. Helmingur nefndarinnar mun hafa verið búsettur austan Þjórsár, meðal annarra sýslumaðurinn, Björn Fr. Björnsson.
ÞorlákshöfnNú var settur kraftur á framkvæmdirnar, og sýslusjóðir urðu auðvitað að galopna pyngjur sínar — og dugði stundum ekki til. Þá tókst Agli jafnvel að fá stjórn Mjólkurbús Flóamanna til að hlaupa undir bagga, eitt sinn þegar mikið reið á að koma niður bryggjukerum, sem búið var að steypa í landi.. . .“ Samþykkti Mjólkurbúið að leggja til 5 milljónir króna, sem var mikið fé á þessum tíma.
Samkvæmt upplýsingum Benedikts Thorarensen, framkvæmdastjóra, þá hóf Kaupfélag Árnesinga hafnargerð þegar árið 1934 og stóð sú framkvæmd til ársins 1946. Gerður var varnargarður í Norðurvör og ennfremur var hafist handa um gerð Suðurvarargarðs árið 1938, sem árið 1940 var orðinn 75 metra langur. Á þessum árum var hafin útgerð trillubáta og dekkbáta og reist var fiskhús til að salta aflann.
Voru verslunarhús Vesturbúðarinnar á Eyrarbakka flutt til Þorlákshafnar og endurreist þar. Trillurnar lönduðu aflanum við Norðurvararbryggju.
Árið 1950 urðu enn þáttaskil í sögu Þorlákshafnar. Keyptir voru fimm þilfarsbátar og einn 100 tonna bátur. Annars skammtaði höfnin stærð bátanna, og voru þeir 20—30 tonn hver. Minni bátarnir lágu fyrir legufærum, en stærri bátar voru á útilegu.
Næsti áfangi er svo að árið 1960 en þá byggði Meitillinn hraðfrystihús. Annar þáttur hafnarsögunnar var sá, að Sambandið setti snemma upp fóðurblöndunarstöð og landaði fóðurvörum, og Olíufélagið hf. setti upp olíugeyma og sendi olíu með skipum til Þorlákshafnar, en mikið hagræði var að geta landað varningi og skipað út vörum í Þorlákshöfn. Var t.d. mestu af föngum Búrfellsvirkjunar skipað upp í Þorlákshöfn, svo dæmi séu nefnd um almennt gildi hafnarinnar á þessum árum. Þá var Þorlákshöfn notuð til mjólkurflutninga út í Vestmannaeyjar og er enn.

Takmarkinu náð — Höfnin fullgerð

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn 1960 – Meitillinn.

Árið 1960 voru miklar framkvæmdir á vegum sýslufélaganna, sem nú áttu Þorlákshöfn. Fengið var lánsfé með ríkisábyrgð, en árið 1965 var Þorlákshöfn gjörð að landshöfn. Síðan er svo lokið við hafnargerðina með stórátaki í kjölfar Vestmannaeyjagossins.
Benedikt Thorarensen lýsir þessu svo í grein er hann ritaði í Sjómannablaðið Víking árið 1978:

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn 1965.

„Eftir eldgosið í Heimaey í janúar 1973, leit helzt út fyrir, að Þorlákshöfn yrði að taka við hluta Vestmannaeyjaflotans, og opnuðust þá möguleikar á lántöku hjá Alþjóðabankanum til uppbyggingar hafnarinnar í Þorlákshöfn. Höfnin var þá reyndar þegar alltof þröng orðin fyrir heimaflotann, en skipin stækkuðu og þurftu meira pláss.
Gifta hafnar heilags Þorláks var mikil morguninn eftir gosnóttina, þegar um 5000 eyjaskeggjar komust hér á fastalandið slysalaust með fiskibátum sínum og annarra, þ.á m. bátum héðan, sem legið höfðu í Eyjum daginn áður vegna óveðurs. Frá kl. 8 árdegis fram yfir hádegi munu hartnær 1 þús. manns á klukkustund hafa stokkið uppá bryggjurnar hér. Það var mikið lán.
Verksamningur um gerð nýrrar hafnar var undirritaður við Ístak h.f. 9/10 ’74, og þegar hafist handa. Á verðlagi þess árs átti verkið að kosta um 710 millj. Er óhætt að segja, að þetta vandasama verk hafi í öllum meginatriðum gengið samkvæmt áætlun.
Þorlákshöfn
1975, síðla hausts, var lokið hættulegasta áfanga hafnargerðarinnar, Suðurvarargarðs. Alls fóru í gerð beggja hafnargarðanna um 2900 steinakkeri (dolosar) sem vega hver um níu lestir eða alls 26.000 tonn. Um 380 þús. rúmmetrar af grjóti, af ýmsum ákveðnum stærðum fóru í garðana. Þá varbyggt ferjulægi fyrir ferjuskipið Herjólf, sem vígði svo höfnina hausið 1976 með því að slíta borða, sem strengdur hafði verið fyrir hafnarkjaftinn. Ferja þeirra eyjamanna hefur því verið starfrækt um tvö ár, og allt gengið vel.“ Síðan víkur Benedikt að vegamálum, nauðsyn á vegi með bundnu slitlagi til Reykjavíkur, en þeirri framkvæmd er nú lokið, þótt ýmsum hafi þótt miða heldur seint.
Nú því er við að bæta, að Þorlákshöfn hefur reynst vel. Þaðan eru gerðir út um 25 bátar og þrír togarar, en auk þess leggur fjöldi aðkomubáta þar upp afla, og á þessa vertíð munu um 50 skip landa afla í Þorlákshöfn.“ -JG

Heimild:
-Sjómannadagsblaðið, 1. tbl. 01.06.1982, Þorlákshöfn, bls. 31-41.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn.

Grindavík

 Á fyrri öldum, og allt undir síðari heimsstyrjöld, ýttu Grindvíkingar bátum sínum á sjó og lentu í vörum. Var þá oftast svo, að ein vör a.m.k. fylgdi hverju lögbýli. Þær voru flestar við vík eða víkur, sem gengu inn í ströndina. Í þeim var eilítið meira skjól en utar, brimaldan sumstaðar lítið eitt minni og setningurinn nokkru hægari. Í flestum þeirra var þó lending bæði bág og hættuleg.
Bátar í naustiEngum sögum fer af lendingabótum í Grindavík fyrir 1800. Bændur hafa vafalaust hreinsað varirnar eftir því sem þörf krafði og kostur var, en meira gátu þeir ekki. Gefur og auga leið, hve mikil og erfið vinna það hefur verið að halda vörunum sæmilega hreinum. Hafið er á sífelldri hreyfingu og skolar sandi og grjóti upp á ströndina, og þegar gerði stórbrim og flóð, bárust oft stórgrýtisbjörg upp í varirnar svo þær urðu ónothæfar.
Engar heimildir eru hedlur fyrir því, að hugað hafi verið að hafnargerð fyrr en kom fram á síðari hluta 18. aldar. Þá lét Guðmundur Runólfsson, sýslumaður, mæla Hópið og ósinn, en ekkert varð af framkvæmdum. Hefur verkfæraleysi og e.t.v. skortur á mannafla, að líkindum valdið mestu. Einu umtalsverðu framkvæmdirnar, sem sögur fara af, voru þær, að um 1840 réðist Jón Jónsson, hreppstjóri á Hrauni, í það stórvirki að gera nýja vör fyrir sunnan túnið á Hrauni.
GrindavíkurhöfnMeginástæða þeirra athafna var sú, að Hraunsmönnum þótti löng sjávargata fram í Þórkötlustaðanes, þar sem þeir höfðu átt uppsátur fram til þessa.
Á þessari öld hafa gríðarlegar breytingar orðið í harnarmálum í Grindavík og mun vart ofsagt, að hvergi annarsstaðar á landinu hafi skipt svo mjög um til hins betra í þessum efnum.
Það var ekki síðar en árið 1902 að hreppsnefnd fól þeim Einari Jónssyni, hreppsstjóra, og Erlendi Oddsyni, að mæla dýpi og stærð Járngerðarstaðavíkur og ef unnt er að gera uppdrátt af höfninni. Ári síðar ákvað hreppsnefndin að skoða Hópið og kanna hvað mundi kosta að gjöra innsiglingu fyrir haffær skip svo þar gæti orðið öruggt skipalægi. Ljúka átti því verki fyrir alþingi 1905.
Fjórtán árum síðar (1917) komust hafnarmálin aftur á dagskrá í Grindavík. Einar G. Einarsson, kaupmaður í Garðhúsum, tók sér penna í hönd og skrifaði Stjórnarráði Íslands. Í bréfinu óskaði hann eftir því, að varðskip yrði fengið til að gera frumkönnun á innsiglingu og höfn í Grindavík. Sumarið 1919 voru gerðar mælingar í Járngerðarstaðavík og lagt til að byggður yrði lítill steypugarður á rifið suðaustur af Akurhúsanefi til skjóls fyrir lendinguna. Þessari álitsgerð fylgdi uppdráttur, er sýndi legu garðsins. Dýrara var talið að dýpka Hópið og gera innsiglingu inn í það, og reyndar Bátarnir hafa stækkaðóvíst, hvort hugmyndin væri framkvæmanleg.
Árið 1925 gerði mikið sjávarfljóð í Grindavík er eyðilagði allmikið af húsum og skemmdi stórkostlega uppsátrið í annarri vörinni og eyðilagði hina að mestu. Einar G. Einarsson hélt áfram að ýta á Stjórnarráðið um úrbætur. Athuganir voru gerðar og tillögur lagðar fram. Einar lét gera teikningu af bryggju við varirnar í Járngerðarstaðahverfi og sendi Alþingi með beiðni um fjárstyrk. Benti hann m.a. á að allar vörur, sem fluttar voru til Grindavíkur sjóleiðis hafi orðið að bera á bakinu og klöngrast með langa leið yfir hált og óslétt fjörugrjót. Bryggjusmíði hófst þó ekki fyrr en á árunum 1931-1933, en þá voru gerðar þrjár bátabryggjur, ein í hverju hverfi. Þörf fyrir bryggju hafði vaxið í víkinni mjög er vélbátaútgerð hófst þar árið 1928.
Bryggjan í Járngerðarstaðahverfi var byggð á árunum 1931-1932. Hún var með steyptum veggjum og þekju, grjótfyllt og hallaði í sjó fram. Náði endi hennar u.þ.b. einn meter út fyrir stórstraumsfjöruborð. Alþingi greiddi þriðjung kostnaðarins en heimamenn tvo þriðju hluta. Þrátt fyrir mikinn fögnuð Grindvíkinga með bryggjuna þótti hún helst til of stutt. Árið 1933 var bryggjan lengd. Sama ár voru gerðar bryggjur í Þórkötlustaðahverfi og Staðahverfi, sem fyrr sagði.
Naust ofan við ÞórkötlustaðanesbryggjunaÞetta voru í rauninni löndunarbryggjur. Sem fyrr varð að setja bátana í naust að kvöldi. Næsta skref var að gera varanlega höfn, þar sem allur bátaflotinn ætti öruggt lægi í öllum veðrum. Enn tók Einar G. Einarsson sig til árið 1938 og ritaði vitamálsstjóra bréf. Bað hann um hæfan mann til að athuga hvort tiltækilegt væri að grafa skurð í gegnum grjót og malarrif það, sem lokar Hópinu. Einnig lagði hann til endurbætur á bryggjunni.
Árið 1939 hófust framkvæmdir við að opna Rifósinn. Get var ráð fyrir að reisa bráðabirgða stíflugarð við efra mynni væntanlegrar rásar, þannig að vatnið héldist inni í Hópinu um fjöru svo hægt væri að vinna 4-5 tíma að dýpkun um hverja fjöru. Handverkfæri voru notuð til að losa grjót og handbörur til að flytja það til. Í september var búið að gera 10 m breiða rás í gegnum eiðið og svo djúpt niður, að fiskibátarnir flutu inn og út um hálffallinn sjó. Hinn erfiði setningur bátanna eftir hvern róður heyrði þá sögunni til. Eftir affermingu voru bátarnir færðir inn í Hópið og lágu þar til næsta róðurs.
Löndun við GrindavíkurhöfnÁrið 1945 var “grafvél” Reykjavíkurhafnar notuð til að breikka og dýpka innsiglinguna og um leið grafin renna upp að bryggju í Hópinu, sem gerð var 1944. Árið 1947 var gerður skjólgarður frá svonefndum Svíra og fram á Rifið, auk þess sem byggð var ein bryggja af þremur, sem áætlæun hafði verið gerð um í Hópinu. Fé til framkvæmdanna var tekið að láni og þótti sumum nóg um. Aðkomubátum fjölgaði hins vegar svo ört við úrbæturnar að krafa var gerð um enn frekari framkvæmdir í höfnini. Síðan hefur stöðugt verið unnið að úrbótum og betrumbótum á hafnaraðstöðinni í Grindavík.
Byggingar- og framkvæmdarsaga Grindavíkurhafnar er ævintýri líkust. Árið 1939, þegar hafist var handa um dýpkun innsiglingarinnar, bjuggu grindvískir sjómenn enn við hafnleysi. Frá árinu 1939 hefur hver stórframkvæmdin rekið aðra, og þegar lauk því tímabili, sem hér er til umfjöllunar, áttu Grindvíkingar eina bestu og fullkomnustu höfn á suðurströnd landsins.

Grindavík - loftmynd

Heimild:
-Jón Þ. Þór – Árbók Sögufélags Suðurnesja IX. 1996-1997, bls 139 – 152.

Grindavíkurhöfn austanverð 2008

Garðhús

Í Grindavík standa nútíminn og fortíðin hlið við hlið, fjöldi nýrra íbúðarhúsa bera vott um góða afkomu, en niðri á sjávarkambinum standa nokkur rauðmáluð bárujárnshús og bera fortíðinni vitni.
Grindavik - gomlu husinLáta mun mærri að 30 bátar séu nú gerðir út frá Grindavík og sjálfsagt eru útgerðarmenn þar af leiðandi stærri hluti af bæjarbúum en víðast annars staðar. Nú færist þorpið upp á flatlendið ofan við gamla plássið og þar er víða fagurt, þegar sést austur mið ströndinni og þokan hylur ekki Þorbjörn. Frá fornu fari hefur byggð þarna verið skipt í þrennt, Staðahverfi, Járngerðarstaðahverfi, Þórkötlustaðarhverfi. Staðarhverfið mun nú vera komið í eyði. Þar stóð áður prestsetrið Staður.

Sagan um þær Járngerði og Þórkötlu er alkunn úr þjóðsögum og verður ekki rakin hér. Jafnframt því sem útgerð í Grindavík blómgast og nýbyggingar þjóta upp til norðurs og vesturs, hrakar þeim smám saman, gömlu húsunum á sjávarkambinum.
Þarna hafa orðið kapítulaskipti, ný kynslóð hefur tekið við og hún skeytir ekki alltaf sem skyldi um þau mannvirki, sem ekki eru lengur í notkun. En það er gagnlegt og fróðlegt að huga að fortíðinni og heiðra með því minningu þeirra manna, sem auðvelduðu öðrum lífsbaráttuna með framtaki sínu og brugðu stórum svip yfir dálítið hverfi. Einar í Garðhúsum var einn þessara manna. Hann var athafnamaður í beztu merkingu þess orðs og þess nutu Grindvíkingar og raunar fleiri um daga hans.

grindavik - einarsbud-231

Ennþá standa rauðmáluðu bárujárnshúsin á sjávarkambinum í Grindavík, sum ærið feiskin og veðruð eftir átök við storm og seltu. Þar á meðal er gamla búðin, verzlunarhús Einars í Garðhúsum og lengst af eina búðin í Grindavík. Nú er neglt fyrir glugga hennar og hún er sem hvert annað hrörnað gamalmenni á ytra borðinu. En öll eru þessi hús hjer af góðum viðum og gætu varðveizt um langan aldur, væri þeim sómi sýndur. Þarna voru pakkhús og netageymslur og ýmiskonar húsnæði vegna útgerðar Grindvíkinga fyrr á árum.
Skammt frá liggur gamall bátur, einnig hann fær að grotna þar niður í friði, en meðan eitthvað sézt eftir af honum, er hann brot af atvinnusögu Grindavíkur. Á sólbjörtum sumardegi ilmar þetta allt af seltu, en sumt er að fúna og hverfa í jörðina án þess að því sé gaumur gefinn. Sum þessara gömlu húsa eru í einhverri notkun. Þar geyma sumir hinna mörgu útgerðarmanna í Grindavík eitt og annað vegna útgerðar sinnar.
Þegar farið er frá gömlu húsunum vestur stíginn, blasa Garðshús við. Það má segja, að nú er hún Snorrabúð stekkur hjá því sem áður var. Andi Einars í Garðhúsum svífur að vísu ennþá yfir þeim gömlu byggingum, sem verða þó að teljast talsvert niðurníddar.
gardhus - byggt 1914Steinhús það, sem Einar í Garðhúsum byggði stendur enn með fullri reisn, og það er í rauninni erfitt að ímynda sér, hvað það hefur borið mikið af öðrum húsum í þessu plássi fyrir rúmlega hálfri öld. Yfir því hefur verið álíka reisn og húsi því, sem Thor Jensen byggði sunnan við Fríkirkjuna í Reykjavík á sínum tíma. Þeir Thor Jensen og Einar í Garðhúsum voru ef til vill ekki svo ólíkir um margt, hvorttveggja heiðarlegir framfaramenn, sem létu margt gott af sér leiða.
Bak við steinhúsið í Garðhúsum er lítið timburhús, sem raunar er áfast við aðalhúsið og lætur lítið yfir sér. Þetta hús á merkisafmæli um þessar mundir, það er 100 ára í ár, og mjög verðugt að þess sé minnst.
Til að segja sögu þess í fáum orðum, verður að byrja á Einari eldra Jónssyni í Garðhúsum, sem byggði þetta hús. Hann kvæntist Guðrúnu Sigurðardóttur árið 1860 og þau fóru að búa í Garðhúsum. Einar var innfæddur Grindvíkingur, og varð bráðlega frammámaður og hreppstjóri í Grindavík. Af þeim sökum var ærinn gestagangur þar, bæði af alþýðu manna og embættisstétt, og Einari þótti slæmt að geta ekki hýst menn sómasamlega. Þessvegna réðist hann í að byggja sérstakt gestahús árið 1868 og var efnið, rekaviður af fjörum, allt saman sagað niður á staðnum með stórviðarsög, sem enn er til í Garðhúsi. Þetta hús er eina og gefur að skilja ekki stórt að flatamáli, en það var gert úr góðum viði, sem enn er ófúinn með öllu, sex og allt upp í tíu tommu breið borð. Þar var lítið eldhús, svefnherbergi og stofa. Loft var haft yfir og þar er skarsúð.
gardhus - gestahusidEinar Jónsson var hin mesta driffjöður hvers konar athafna, og stundaði bæði búskap og útgerð. Einar yngri var orðinn formaður á báti hjá föður sínum kornungur og var formaður um nokkurra ára skeið áður en hann byrjaði að verzla áriS 1894. Þá verzlun rak hann ásamt útgerð fram á efri ár en, verzlun Einars í Garðhúsum var lögð niður árið 1959, fáum árum eftir dauða hans.
Einar yngri byggði steinhúsið árið 1914 og hann hélt áfram að nota gestahúsið, en síðar var það klætt að innan með pappír og málað. Er þetta tíræða hús án efa miklu fallegra í hinni upprunalegu gerð sinni og væri lítið verk að rífa niður pappírinn, svo gamla timburklæðningin fengi aftur að njóta sín. Um skeið var húsið notað sem sumarbústaður, en um allt langt árabil hefur það staðið tómt og gagnlaust að öðru leyti en því, að það eru geymdir nokkrir gamlir munir úr búi Einars í Garðhúsum. Þar er meðal annars gömul spunavél, handsmíðuð sem áður var í eign Kvenfélags í Grindavík, en Hlöðver sonur Einars bjargaði henni, þegar átti að henda henni þar eru einnig þrír kvensöðlar í góðu ástandi, harðviðarsögin, sem notuð var við húsbygginguna, skrifborð Einars í Garðhúsum og margt fleira. Þessi dugmikli framfaramaður hafði umsvif bæði á sjó og landi og vestan við bæinn standa vegleg peningshús, sem nú hafa raunar verið tekin til annarra nota. En allt hefur það verið vandlega gert á sínum tíma, og án efa talsvert á undan sinni samtíð.
gardhus - gestahus-3Atvikin höguðu því svo til að áframhald gat ekki orðið á verzlun Einars í Garðhúsum, því börn hans fluttust á aðrar slóðir. En Garðhús eru ennþá í þeirra eigu og nú hefur heyrzt að áhugamenn mundu vilja stuðla að því að koma upp einskonar byggðasafni í Garðhúsum. Mætti benda á, að þarna er líklega kjörið viðfangsefni fyrir Félag Suðurnesjamanna, hreppsfélagið í Grindavík, eða jafnvel Lionsklúbbinn þar á staðnum, sem skipaður er ágætum mönnum og hefur reynt að láta gott af sér leiða. Ýmsir gamlir Grindvíkingar hafa áhuga á því, að þarna gæti risið minjasafn um gamla atvinnuhætti í Grindavík. Hefur sumt af þessu fólki í fórum sínum merka gripi frá fyrri tíð og mundu þeir verða gefnir til safnsins yrði það stofnað. Kennir þar margra góðra grasa, og er einstakt að slíkir mumir skuli enn vera í eigu einstaklinga, en sýnir um leið, að ekki hafa allir til að bera skeytingarleysi gagnvart gömlum munum og minjum.
Það er smán og svívirða að láta húsið í Garðhúsum grotna niður í óhirðu og ekki á það síður við gestahúsið, sem áður er á minnst. Hér þarf að bregða við skjótt og bjarga því sem bjargað verður. Í fyrsta lagi þarf að flytja gömlu búðina af sjávarkambinum og koma henni fyrir nálægt Garðhúsabænum. Þar þarf að gera við glugga og að innan þyrfti að gera búðina sem líkasta því sem hún var. Vera má að önnur hús á sjávarkambinum séu þess virði að þau væru einnig flutt og ber að athuga það. Í hlöðunni, þar sem nú er netaverkstæði, væri hægt að koma upp sjóminjasafni Grindavíkur og þangað þyrfti að færa bátinn, sem nú er að fúna og grotna niður austur á fjöru. Án efa eiga Grindvíkingar enn merka hluti í sínum fórum, sem annað hvort ættu heima á sjóminjasafninu eða byggðarsafni Grindavíkur og eru raunar heimildir fyrir því, að fólk bíði með hluti, sem það ætlar að gefa þessu safni ef það verður stofnað.
Gestahús Einars eldra í Garðhúsum þarf að gera upp og hafa það sem líkast því, er það var. Í sjálfu steinhúsinu væri hægt að koma fyrir byggðasafni Grindavíkur og fengi þetta veglega hús þá verðskuldað hlutverk.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, Gísli Sigurðsson, 25. ágúst 1968, bls. 6-7.
Garðhús

Keflavík

„Herra Óskar Halldórsson hefur tekist það á hendur, sem mörgum hefur óað við. Það er hvorki meira né minna en að koma hafskipabryggju eða bryggju fyrir í Keflavík.

Keflavik-gamalt-21

Er sagt, að verkið vinnist vel og munu flestir óska þess, að Óskari heppnist að fullgera og leiða til lykta þetta fyrirtæki sitt. Það eru mörg ár síðan farið var að ræða um hafskipabryggju í Keflavik, og eflir því sem aflabrögð urðu meiri á Suðurnesjum, eftir því óx þörfin, að hún kæmi þar. — Á Fiskiþingum hefur mál þelta verið rætt, kostnaðaráætlun og ýmsar mælingar gerðar, en allt hefur staðið við sama. Salt hefur oftast orðið  dýrara og flutningur á sjávarafurðum til kaupenda sömuleiðis, allt vegna bryggjuleysis. Bryggjur þær, sem Óskar lætur gera, verða tvær og er önnur að mestu fullger, þegar þetta er ritað (8. júlí). —
Ætlast hann til að við hvora megi afgreiða togara, en vöruskip, sem lengri eru, liggi við báðar, þannig, að losa eða ferma megi úr 2—3 lúkum. Landssmiðjan hefur að mestu verk þetta með höndum og leggur til kafara, sem gengur frá neðri endum stálbjálka á hafsbotni, sem eru aðal-máttarstoðir bryggjunnar. Auk þess vinna þar nokkrir smiðir úr Hafnarfirði.“

Heimild:
-Ægir, 25. árg. 1932, 7. tbl. bls. 164.
Keflavík

Hamrahlíð

Hér eru tekin til frásagnar tvö smábýl, Hamrahlíð og Eiði, í Mosfellssveit. Hvorugt býlið stendur enn, einungis má sjá tóftir þeirra við fjölfarna vegi. Tóftir þess fyrrnefnda er nálægt Vesturlandsvegi ofan við Korpúlfsstaði og hið síðarnefnda á hæðarrana vestan við eiðið landmegin að Geldinganesi. Þau hafa verið svipuð að stærð og svipuð að gerð; lítið hús og matjurtargarður umleikis. Útihús stóðu skammt frá.
TóftirÍ bókinni Mosfellsbær, Saga í 1100 ár, er m.a. getið um smábýli þessi: „Smábýlið Hamrahlíð var á 19. öld í mólendinu ofan við Korpúlfsstaði og neðan við Úlfarsfell. Sumir þjófar létu sér ekki segjast þrátt fyrir dóma. Þannig var farið um Friðrik Þorkelsson (1834-1861) frá smábýlinu Hamrahlíð sem stóð skammt frá Blikastöðum. Hamrahlíð var í ábúð á síðari hluta 19. aldar og má enn sjá rústir bæjarins norðan Vesturlandsvegar á móts við samnefnt skógræktarsvæði. Árið 1857 var Friðrik í Hamrahlíð dæmdur til að greiða fjóra ríkisdali í fátækrasjóð fyrir að hagnýta sér 2-5 lítra af útskorinni kræklingabeitu. Þremur árum síðar var aftur kveðinn upp dómur yfir honum og skyldi hann hljóta 14 vandarhögg fyrir að hafa „snemma morguns í haust, er var, áður en fólk var komið á fætur á heimili hans, Gufunesi, stolið frá ekkjunni Helgu Hafliðadóttur (1790-1872) 3 dönskum specíum heilum, er voru í stokk í kistu hennar, sem stóð þar niður í stofuhúsi, var bæði stofan og kistan ólæst;… Enn fremur er það sannað, að hann hafi í fyrra vetur stolið frá húsbónda sínum Hafliða Hannessyni, gráum vaðmálsstúf…“
MosfellskirkjaÁrið 1850 bjó í Hamrahlíð Jón hreppstjóri er var dannebrogsmaður. Var hann sagður forlíkunarmaður og sáttargerðarmaður. Hann lenti þó sjálfur í illdeilum við sveitunga sína svo úr varð dómsmál. Í Hamrahlíð fæddist dóttir hans, Guðrún (1852-1936 sem er þekkt persóna í Innansveitarkróniku Halldórs Laxness í sögunni af brauðinu dýra. Þar segir frá vinnukonu prestsins á Mosfelli, Guðrúnu Jónsdóttur, sem hélt yfir Dalinn til að baka hverabrauð en villtist upp á Mosfellsheiði og fannst loks eftir nokkur dægur. Brauðið, sem henni hafði verið trúað fyrir, hafði hún ekki snert. Þessi kafli er nokkurs konar dæmisaga um að vera trúr yfir litlu en hér sækir Halldór hins vegar efniviðinn alls ekki í Mosfellsdal heldur á Suðurnes og var það allt önnur kona en Guðrún sem lenti í þeim hremmingum sem lýst er í bókinni. Guðrún bjó lengi í Mosfellsdal en það voru einmitt sex bændur úr Dalnum og einn að auki sem höfðuðu mál gegn föður hennar fyrir orðastríð í Kollafjarðarrétt hinn 27. september 1850.

Guðrún Jónsdóttir

Jón hreppstjóri átti að stjórna réttunum ásamt hreppstjóranum á Kjalaranesi en reiddist þegar bóndinn á Minna-Mosfelli fór ekki út úr almenningnum er féð var rekið inn í réttina. Bóndi kvaðst ekki fara eftir orðum hreppstjóra „til nokkurs hlutar, eða eftir því sem nokkur vitni hafa borið, ekki meira en hundi.“ Af þessu urðu orðaskipti og háreysti á milli hreppstjóra og Dalbúa. Jón hreppstjóri kallaði Ólaf Jónsson (1805-1855) á Hraðastöðum versta tíundaþjóf og alla í Mosfellsdalnum þjófa. Bændur svörðuðu um hæl og höfðu í hótunum um að binda hreppstjórann. Tugur vitna var ekki sammála um hvað sagt var og sérstaklega áttu orðin að hafa fallið í hálfkæringi og því ekki marktæk. Svo fór að bændur í Mosfellsdal voru dæmdir í eins til fimm ríkisdala sekt fyrir kjafthátt við yfirvald sitt.
Hamrahlíð var í Lágafellssókn. Fyrrnefnd Guðrún var eitt síðasta dæmið um að vandalausum Mosfellingi var komið fyrir á heimili gegn greiðslu. Það var árið 1935. Á hreppsnefndarfundi, sem haldinn var um haustið, upplýsti oddviti að „Guðrún Jónsdóttir  hefði verið sögð til sveitar frá 1. júní þ. árs og hefði hann komið henni fyrir hjá Hjalta Þórðarsyni bónda á Æsustöðum fyrir kr. 50.000 á mánuði.

Kaleikur

Hamrahlíð var þá komið í eyði fyrir löngu, en hún var á níræðisaldri er hér var komið við sögu. Guðrún lést árið síðar og var borin til grafar að Mosfelli þótt engin væri þar kirkjan. Tími sveitarmeðlima var liðinn en í fórum Guðrúnar Jónsdóttur fannst silfurkaleikur kirkjunnar að Mosfelli sem hafði verið jöfnuð við jörðu á horfinni öld. Helgigripnum var skilað til síns heima og prýðir nú Mosfellskirkju hina nýju. Eftir lifir örnefnið „Guddulaug“ við Köldukvísl neðan við Gljúfrastein. Innansveitarkronika er sérkennileg blanda af sagnfræði og skáldskap og einstök meðal verka skáldsins. Efniviðurinn er sóttur í Mosfellssveit og byggir m.a. á deilu sem varð vegna kirkjumála í Mosfellssveit á ofanverðri 19. öld. Þá náði sveitin niður að Elliðaám og kirkjur voru í Gufunesi og á Mosfelli. Kirkjuyfirvöld ákváðu hins vegar að leggja þær niður og byggja nýja kirkju miðsvæðis í sveitinni, að Lágafelli. Ekki voru allir hrifnir af þessum ákvörðunum, einkum var mikil andstaða í Mosfellsdal gegn niðurrifi Mosfellskirkju sem var alls ekki gömul bygging, byggð 1852.
Ákvörðun yfirvalda varð ekki hnekkt, Mosfellskirkja var rifin árið 1888 og sama árið reis GuddulaugLágafellskirkja af grunni. Hins vegar skiluðu einstakir gripir kirkjunnar sér ekki, menn söknuðu bæði kaleiks og kirkjuklukku sem var ævaforn. Kaleikurinn fannst, sem fyrr sagði, í fórum vinnustúlkunnar Guðrúnar Jónsdóttur, en klukkan var geymd að Hrísbrú í tæp 80 ár.
Í byrjun 20. aldar var þjóðvegur lagður ofan við Hamrahlíð. Árið 1957 gerði Skógræktarfélag Mosfellsbæjar samning við eigendur Blikastað um skógrækt í norðurhlíðum Úlfarsfells. Skógræktarreiturinn var nefndur Hamrahlíð til heiðurs smábýlinu skammt neðar, rétt ofan við mýrardrögin ofan Korpúlfsstaða.
Í Mosfellsveit var fjörugróður nýttur til beitar á fyrri öldum. Á bænum Eiði, sem stóð skammt frá Geldinganesi, var „Sölvafjara gagnvænleg til heimamanna brúkunar og þó óhæg mjög fyrir klúngri og klettum. ..Marálmur nokkur, …brúkast til að bjarga peningi í heyjaskorti.“ Nafnið fékk bærinn af eiðinu milli lands og Geldingarness.  Geldinganes er tengt landi með eiði þessu og var áður fyrr aðeins fært á fjöru. Geldinganes er óbyggt, en þar voru á sínum tíma geldsauðir aldir fyrir fálkarækt þá sem fór fram á Valhúsahæð á Seltjarnarnesi svo sem síðar er getið. Þessi geldsauðir áttu að verða fálkunum fóður þegar þeir voru fluttir utan. Er nafnið þannig tilkomið.
KollafjarðarréttKlaustur var stofnað í Viðey árið 1225 eða 1226. Ekki liðu mörg ár frá stofnun Viðeyjarklausturs þar til að það tók að leggja undir sig bújarðir í grennd eyjarinnar. Tíu árum eftir stofnun þess hafði það eignast fimm jarðir og voru tvær þeirra í Mosfellsveit. Alls eignaðist Viðeyjarklaustur 28 jarðir í Mosfellsveit áður en yfir lauk, og gáfu þær af sér um fjórðung af tekjum þess. Eiði (1313) var ein þeirra. Svonefndar fóðurkvaðir voru miklar á smábýlin. Átti bóndinn t.d. að láta klaustrinu í té helming af heyjum sínum. Árið 1704 voru þrjú kúgildi að Eiði. Skúli fógeti Magnússon settist að í Viðey um miðja 18 öld og lagði tilað spítali, sem þar var, yrði fluttur þaðan í Gufunes. Jörðin Eiði var þá, ásamt fleiri nálægum jörðum (Brandskot, Hólkot, Fjóskot og Helguhjáleiga) lögð undir spítalann. Eiði var notað til að ala kvikfé sem æti handa fálkum. Um miðja 18. öld var þar tvíbýli. Býlið var smátt og bústofninn lítill, hús voru gluggalaus, þiljulaus og allslaus að innan.
Enn má sjá í tóftum Eiðis útlínur býlisins. Því fylgja og aðrar búsetuminjar líkt og gerðist á nágrenninu, einkum á Blikastaðanesi. Þar má enn sjá bæði leifar sjóbúða, verslunar og gerðist frá fyrri tíð.

Gerði

Í Blikastaðansi eru minjar um sjósókn Mosfellinga á fyrri öldum. Þar eru friðlýstar rústir í svonefndu Gerði fremst á nesinu. Rústirnar eru grjóthlaðnar leifa sjóbúða og jafnvel verslunarstaðar fyrrum.
Sjóslys voru tíð fyrr á öldum. „Þann 15. maí 1776 drukknaði Árni Ánason frá Eiði út af Seltjarnarnesi og var jarðsettur í Neskirkjugarði. Á 3. áratug 20. aldar hugðu Reykvíkingar á landvinninga í Mosfellshreppi. Árið 1924 eignaðist Reykjavíkurborg jarðirnar Gufunes, Knútskot (innst í Grafarvogi) og Eiði. Kaupverðið var 150 þúsund krónur. Árið 1943 voru jarðirnar færðar undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur með lögum nr. 52, 14. apríl. Þá voru einnig jarðirnar Elliðavatn og Hólmur í Seltjarnarnehreppi lagðar r af smáhýsum og görðum. engar ritaðar heimildir eru um mannaferðir þarna en rústirnar benda þó til þess að hér hafi verið útræði.
undir Reykjavík.
Brautryðjendur í rekstri áætlunar- og flutningabíla í Mosfellssveit voru Víglundur Pálsson og Karl (1903-1975) bróðir hans.  Þeir voru frá bænum Eiði í Mosfellshreppi til 1923, en búskapur lagðist þar af um svipað leyti.“

Heimild:
-Bjarki Bjarnason og Magnús Guðmundsson, Mosfellsbær, Saga byggðar í 1100 ár, Pjaxi 2005, bls. 23, 73, 77, 78, 103, 105, 109, 122, 123, 132, 140, 156, 169, 174, 186.

Eiði

Lúpína

Efirfarandi fróðleikur um „Lækningajurtir og galdraplöntur“ birtist í Lesbók Morgunblaðsins árið 2000:

Gros-1„PLÖNTUR hafa fylgt manninum frá upphafi vega. Þær hafa gegnt veigamiklu hlutverki í sögu hans og menningu. Land-búnaðarbyltingin grundvallaðist á því að menn fóru að rækta korn og eftir það hófst myndun borga og nútímamenning varð til.
Í indversku spekiritunum Rig Veda segir að maðurinn hafi lært að þekkja ætar plöntur frá eitruðum með því að fylgjast með fæðuvali grasbíta. Síðan hefur hann lært að rækta og kynbæta plöntur til að fullnægja þörfum sínum. Á miðöldum var lækningajurtum safnað úti í náttúrunni af grasalæknum og þær voru ræktaðar í klausturgörðum. Munkar og grasalæknar sáu um að lfkna sjúkum og græða sár með jurtalyfjum og smyrslum.
Í seinni tíð hefur vegur grasalækninga vaxið mikið, og oftar en ekki í samfloti við svo nefnda nýaldarhyggju. Svo virðist sem vesturlandabúar leiti æ oftar til grasalækna í von um að þeir geti bætt mein sem læknavísindin standa ráðþrota frammi fyrir. Grasalækningar hafa í grófum dráttum þróast frá göldrum, þar sem seiðmenn ráku út illa anda með hjálp plantna, yfir í að vera vísindi. Í þessu ferli hafa komið fram allskyns hugmyndir um lækningarmát plantana. Á tímabili var því trúað að plöntur sem bæru blöð sem væru í laginu eins og lifur, væru góðar gegn lifrarsýkingum og að plöntur sem líktust kynfærum á einhvern hátt ykju kyngetuna.
Í einni athugun Osp-1kom í ljós að af 119 mikilvægustu plöntunum sem notaðar eru til lyfjagerðar eru 88 af tegundir þekktar meðal frumstæðra þjóðflokka sem lækningar-jurtir. Jurtalyf hafa ekki eingöngu verið notuð til lækninga, þau geta líka verið sterk eitur, og á tímum Grikkja og Rómverja voru þau mikið notuð til að ryðja pólitískum keppinautum úr vegi. Frú Lacusta eitursérfræðingur Neró keisara var einstaklega lagin við það og aðstoðaði hún hann í valdabaráttunni með því að eitra fyrir andstæðingum hans.
Náttúruþjóðir lifa að stórum hluta á jurtum. Þær eru notaðar til að komast í samband við guðina og til þess að fara sálförum yfir í andaheiminn. Einstaka trjátegundir voru og eru dýrkaðar sem guðir væru. Drúítar álitu að eikin væri tákn styrkleika og veitti vernd. Sedrusviðurinn naut á sínum tíma átrúnaðar kristinna manna, gyðinga og múslíma, þótt hver hefði sína ástæðu. Fíkjutré eru álitin heilög af búddhistum vegna þess að Siddharta Gautama öðlaðist nirvana undir einu slíku. Hindúar trúa því að guðinn Brahna hafi breyst í fíkjutré. Helgileikir í tengslum við árstíðir og uppskeru eru oft tengdir hlutum úr tré, þekkt dæmi um þetta eru jólatré og maístöngin. Fyrir tíma kristninnar þekktist það í Norður-Evrópu að unglingar færu út í skóg og kæmu til baka með skreyttar trjágreinar, reðurstákn – tákn frjósemi sem síðan var dansað kringum. Í kristni eru plöntur notaðar sem tákn og Jesú notaði þær oft í dæmisögum sínum. Fífillinn sem er bitur á bragðið og táknar pínu Krists og krossfestinguna. Samkvæmt helgisögninni var krossinn smíðaður úr ösp og þess vegna skjálfa lauf asparinnar án afláts. Rósir eru tákn Krists og María guðsmóðir var kölluð rós án þyrna vegna þess að hún var talinn syndlaus. En kristnir menn hafa ekki alltaf verið jafn sáttir við rósir. Rómverjar litu á hana sem merki um sigur og hún var tákn ástargyðjunnar Venusar. Rósin var eftirlætisblóm keisarans í Róm og heiðins háaðals og hafði táknrænt gildi.
Forn-Grikkir töldu að Adonis hefði fæðst af mytrustré og að börkur þess hafi rifnað eftir tíu mánaða meðgöngu. Alexander mikli á að hafa komið að talandi tré í einni herferð sinni, tréð ávítaði hann fyrir valdagræðgi og spáði fyrir um dauða hans í ókunnu landi.
AsBirki-2kurinn er heimstréð í norrænni goðafræði. Óðinn hékk níu nætur í tré til að öðlast visku og Adam og Eva borðuðu af skilningstrénu og voru rekin úr paradís fyrir vikið. Í norrænni goðafræði eru dæmi þess að menn hafi blótað tré og lundi í tengslum við Freysdýrkun.
Alþýðleg þekking á nýtingu plantna hélst við hér á landi fram undir síðustu aldamót en hefur nú að mestu fallið í gleymsku. Breyttir búskaparhættir og ör þróun læknavísinda ruddi henni til hliðar og gerði hana að mestu óþarfa. Nokkuð er um forn goðaheiti á íslenskum plöntum þó þau séu fá, þau eru m.a. baldursbrá, friggjargras og lokasjóður. Á hinum Norðurlöndunum eru allmargar tegundir plantna kenndar við Jesú Krist en ekkert hér á landi. Nokkur gömul íslensk plöntunöfn eru kennd við Maríu mey t.d. Maríugras og Maríuskór. Talsvert ber á því í sögum þar sem plöntur eru taldar til að ekki er getið um tegundarheiti, plantan er nefnd til sögunar án þess að vera kjarni hennar. Í Allrahanda samkvæmt Steindóri Steindórssyni frá Hlöðum eru tvær jurtir sem eru þeirri náttúru gæddar að geta opnað skrár og lása þ.e.a.s. tungljurt (Botrycium lunaria) og fjórlaufasmári
(Paris quadrifolia). „Hefir það vafalaust verið trú hér eins og í Noregi að lásar hrykkju opnir, ef tungljurt var borin að þeim.“ Og „hér á landi var mikil trú á töframætti ferlaufasmárans, talið var, að ef hann væri borin að læsingum, hvort heldur á húsum eða hirslum, hrykkju þær upp. Af því verða til nöfnin lásagras, skráagras, þjófagras og þjófarót.

Vallhumall-1

Nafnið lausnargras, [… ], gæti bent til trúar á, að plantan greiddi konum fæðing, sbr. lausnasteinn.“ Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar er að finna eftirfarandi sögu um þjófagras. „Þjófarót er gras eitt með hvítleitu blómi. Er það mælt að hún sé vaxin upp þar sem þjófur hefur verið hengdur og sé sprottin upp af náfroðu upp úr honum. En aðrir segja að hún sé sprottin upp af þjófadysinni. Rót gras þessa er mjög angótt. Þegar þjófarót er tekin verður að grafa út fyrir alla angana á henni án þess að skerða nokkurn þeirra nokkurstaðar nema miðangann eða meginrótina sem gengur beint í jörð niður, hana verður að slíta. En sú náttúra fylgir þeim anganum að sérhvert kvikindi sem heyrir hvellinn þegar hann slitnar liggur þegar dautt. Þeir sem grafa þjófarót binda því flóka um eyru sér. En til þess að þeir sé því ugglausari að þeir heyri alls ekkert hafa þeir þó varúð við að þeir binda um rótina og hinum endanum við hund sem þeir hafa með sér. Þegar þeir eru búnir að undirbúa allt hlaupa þeir frá greftrinum og þegar þeir þykjast komnir nógu langt burt kalla þeir á hundinn. Slitnar þá anginn við það að hundurinn gegnir og ætlar að hlaupa til mannsins, en hundurinn drepst þegar í stað er hann heyrir slithvell rótarinnar. Síðan er rótin tekin og geymd vandlega. Gras þetta hefur þá náttúru að það dregur að sér grafsilfur úr jörð eins og flæðamús dregur fé úr sjó. En þó verður fyrst að stela undir hana peningi frá bláfátækri ekkju milli pistils og guðspjalls á einhverri af þremur stórhátíðum ársins. En ekki dregur rótin aðra peninga en þá sem samkyns eru þeim er undir hana var stolið í fyrstu [… ].

Reynitre-1

Ekkert vandlæti hef ég heyrt að sé á því að geyma eða verða af með rót þessa: því fleygja má henni hvar og hvenær sem vill að ósekju. Þess má geta að í Evrópu er þekkt galdrajurt með kræklótta rót sem nefnist gaddepli (Datura stramonium). Þar er því trúað að hún spretti upp af sæði þjófs sem hefur verið hengdur og eru aðferðirnar við að ná rót hennar þær sömu.

Vallhumall þykir hin besta lækningarjurt og er sögð brúkleg gegn ýmsum kvillum, jurtin er mýkjandi, blóðleysandi og styrkjandi. Sé rótin þurrkuð og mulin er hún talinn góð gegn ígerð og tannpínu. Seyði jurtarinnar er talið gott gegn kvefi, hrukkum og fílapenslum í andliti þvoi menn andlit sitt með því fyrir svefninn.

Á Íslandi naut reyniviðurinn sérstakrar helgi, eins og sjá má á eftir farandi sögu. „Hér hafði í fyrndinni verið tígulegt, einstakt tré, talsvert hátt, með beinum og auk þess ílöngum blöðum og glæsilegum ávöxtum. Er það ætlun mín, að það hafi að vísu verið lárviður, sem þarna hafi verið gróðursettur af einhverjum dýrkanda forns átrúnaðar vegna þess, hvað staðurinn var hentugur, eða þá að hann hafi vaxið upp fyrir einstaka velgjörð Guðs, því að löngu fyrir vora daga flykktist almenningur að tré þessu með gjöfum, ljósum og ýmiss konar þjónustu, sem var öldungis runnin af rótum páfatrúar og hjáguðadýrkunar, þar til óhjákvæmilegt var að eyðileggja það, til þess að taka fyrir hjátrúna.

einir-21

En nú hefur það aftur blóðgat með blöðum og ávöxtum og er orðið hið yndislegasta að nýju. Þess vegna er nágrönnunum það óhæfa að skemma það.“ Þótt Gísli tali hér um lárvið þá er auðséð á lýsingunni að um reynivið er að ræða. Tréð er hátt með beinum greinum, ílöngum blöðum og glæsilegum ávóxtum. Allt þetta á við reynivið og svo ber þess að gæta að á tímum Gísla Oddssonar voru einungis tvær trjátegundir á Íslandi sem náðu einhverri hæð. Annað var birki og hitt reynir, allir sem eitthvað þekkja til trjáa sjá strax að lýsingin á ekki við birki en kemur vel saman við útlit reyniviðar. Þess má til gamans geta að talsverð hjátrú loðir við reyninn og var það trú manna að hann hefði níu náttúrur vondar og níu góðar og var það talið ógæfumerki að fella hann.
Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar stendur m.a. þetta um reynivið. „Af viðartegundum hafa einna mestar sögur farið að reyniviðnum enda hefur verið allmikil trú á honum bæði að fornu og nýju og jafnvel allt fram á okkar daga. Hann hefur haft einhvers konar helgi á sér og merkilegt er það að hann skyldi verða Ásaþór til lífs er hann óð yfir ána Vilmur til Geirröðargarða og er því reynir síðan kallaður sjálfsagt í heiðurs skyni „björg Þórs“ sem Edda segir.

Aetihvonn-1

Þó er það enn helgara og háleitnara sem stendur um hann í Sturlungu þar sem Geirmundur heljarskinn sá ávallt ljósið yfir reynilundi sem vaxinn var í hvammi einum er Skarðskirkja á Skarðsstönd var síðan byggð í. Af því að hann var heiðinn maður var honum ljós þetta ekki að skapi, en svo voldugur og ríkur höfðingi sem Geirmundur var dirfðist harm allt um það ekki að uppræta reynirunninn, en óskaði sér þess aðeins að hann væri horfinn burt úr landareign sinni og fékk ekki við gjört að heldur og hýddi smalamann sinn harðlega fyrir það að hann lamdi fé Geirmundar með reyniviðarhríslu.
Seinna á öldum hefur hann þótt einhver óbrigðulasti sakleysisvottur þegar hann hefur sprottið á leiðum þeirra manna sem sökum hafa verið bornir og af teknir án þess að hafa getað sannað sýknun sína í lifanda lífi og eru um það sögur.“
Í lokin má svo geta þess að nokkur bæjarnöfn eru kennd við reynivið, eins og Reynistaðir og Reynivellir og svo er auðvitað til mannsnafnið Reynir.

Sortulyng eða mulningur var notað til að drýgja tóbak (þetta er reyndar einnig þekkt meðal Sioux indíána Norður-Ameríku) og til að búa til blek, það var einnig notað sem litarefni. Í galdrabók frá 15. öld er það sagt gott til að fæla burt drauga. Nafnið lúsamulningar er einnig þekkt, en það stafar af því að menn töldu sig verða lúsuga af því að borða sortulyng.

sortulyng-1Birki er ein af þessum plöntum sem Íslendingar hugsa til í hálfgerðri lotningu, talað er um endurheimt birkiskóganna og skuldina við landið. Fyrirtæki og einstaklingar keppast við að koma nafni sínu á blað í tengslum við skógrækt. Seyði úr birkiberki þótti afar gott gegn niðurgangi og til að verja barnarassa sviða. Þá þótti einnig gott að brugga vín, svo nefnt birkivatn, úr birki.

Skarfakál, kálgresi, síonsjurt eða skyrbjúgsjurt er gömul lækningarjurt og mjög Cvítamínrík, henni var safnað á vorin og þótti hún hin besta lækning við skyrbjúg eins og eitt af nöfnum hennar gefur til kynna. Skarfakál var talið örva tíðir og þótti gott að leggja hana í mat til að varna rotnun.

Ætihvönn hefur alla tíð verið mikils metin hér á landi og reyndar víðar. Á latínu heitir hún Archangelca sem þýðir erkiengilsjurt. Síra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal talar um það í Grasnytjum sínum að hvönnin lækni milli 10 og 20 sjúkleika og Oddur Hjaltalín segir Í bók sinni íslenzk grasafræði. „Urtin hefir styrkjandi, vindeyðandi, svitaeyðandi, ormdrepandi, uppleysandi, forrotnum mótstandandi og blóðhreinsandi krapt. Hún er því góð ímót matarólyst, vindum í þörmum, innvortis tökum, gulu, hósta, skyrbjúgi, stöðnuðu tíðablóði, og mótstendr drepsóttum [… ].
Til manneldis má rótina brúka, er hún munntöm fæða með fiski og nýu smjöri; hún er og bezta sælgæti bSmari-1ituð og selltuð með sykri.“ Það er ekki ólíklegt að hvönn hafi verið ræktuð hér á landi allt frá landnámi, hún var að minnsta kosti mikið ræktuð í Noregi, og í fornsögum er minnst á hvannagarða. Hvannir hafa þótt hin mesta búbót og hafa mörg bæjarnöfn og örnefni hvönn sem hluta af nafni sínu, s.s. Hvanneyri, Hvanná, Hvannavellir og Hvanndalir. Nafngiftir að þessu tagi eru ómetanleg heimild um gróðurfar og plöntunytjar, hvönnin hefur sett svip á landið og verið mikilvæg nytjaplanta.

Göngum við í kringum einiberjarunn er þýðing á dönskum texta sem á frummálinu heitir Sá går vi rundt om en Enebærbusk. Flestir Íslendingar þekkja textann vel og syngja hann þegar þeir ganga kringum jólatré. Barr einis er einkar gott við aflleysi og tíðarteppu og það þykir hið hollasta reykelsi. Áður fyrr voru einiber brennd og reykurinn látinn leika um sængurkonur til að halda djöflinum í skefjum. Þess má einnig geta að það eru einiber sem gefa sénever og gini sitt sérstaka bragð

Grasafræðin er tvíþætt, annars vegar sá þáttur sem snýr að líffræði jurta og hinsvegar sá sem snýr að nýtingu þeirra og sögu. Hér að framan hafa verið tíndar til nokkrar þjóðsögur og sagnir um notkun plantna á Íslandi. Dæmin sýna tengsl þeirra við lækningar eða galdur.“

Heimildaskrá:
-Gísli Oddsson. 1942. Íslenzk annálabrot og undur Íslands. Akureyri, Þorsteinn M; Jónsson.
-Jón Árnason. 1980. íslenzkar þjóðsögur og ævintýri. Reykjavík, Þjóðsaga.
-Jón Norðmann. 1946. Allrahanda. Reykjavík, Leiftur.
-Oddur Hjaltalín. 1830. Íslenzk grasafræði. Kaupmannahöfn, Hið íslenzka Bókmenntafélag.
-Ólafur Davíðsson. 1940-1943. Galdur og galdramál á Íslandi. Reykjavík, Sögufélagið.
-Steindór Steindórsson. 1978. Íslensk plöntunöfn. Reykjavík, Menningarsjóður.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, Vilmundur Hansen, „Lækningajurtir og galdraplöntur“, 26. ágúst 2000, bls. 4-5.

Vetrarblóm

Vetrarblóm.

Þorvaldur Thoroddsen

Þorvaldur Thoroddsen ritaði m.a. ýmislegt fróðlegt um Reykjanesið í Ferðabók sinni (1913-1915). Hann fæddist 6. júní 1855 í Flatey á Breiðafirði. Hann var frumburður foreldra sinna, Jóns Thoroddsens skálds og sýslumanns og Kristínar Þorvaldsdóttur. Þekktustu verk Jóns eru skáldsögurnar Piltur og stúlka (1850) og Maður og kona (1876).

Þorvaldur Thoroddesn

Þorvaldur Thoroddsen.

Þorvaldur gekk í Lærða skólann í Reykjavík og lauk stúdentsprófi 1875, tvítugur að aldri, og hélt samsumars til háskólanáms í Kaupmannahöfn. Í fyrstu hugðist hann leggja stund á dýrafræði en á öðru námsári sneri hann sér að jarðfræði og landafræði.
Þegar starf losnaði á Íslandi hætti hann námi að ráði kennara sinna til þess að tryggja sér lifibrauð. Hann stundaði kennslu framan af, fyrst á Möðruvöllum og síðan í Reykjavík til ársins 1895 er hann fluttist til Kaupmannahafnar. Þar gaf hann sig mest að ritstörfum og er Landfræðissaga Íslands hið fyrsta í röð stórverka hans.
Þorvaldur var vísindamaður í náttúrufræði. Hann orti ekki ættjarðarljóð og hann gekk ekki fram fyrir skjöldu í stjórnmálabaráttu Íslendinga, en hann setti sér það mark að kanna og kynna ættjörðina sem frelsishetjur og skáld börðust fyrir og sungu lof.

Þorvaldur Thoroddsen

Þorvaldur Thoroddsen – Ferðabókin.

Hann vildi ekki að útlendingar einir ferðuðust til þess að rannsaka náttúru Íslands og lýsa henni. Það særði þjóðarmetnað hans. Þess vegna varði hann nærfellt 20 æviárum sínum til þess að ferðast um Ísland og rannsaka það, og næstu 20 árum varði hann til þess að rita um það, náttúru þess og sögu.
Einna kunnastur er Þorvaldur fyrir þessar ferðir sínar um Ísland og rannsóknir á landinu. Afrakstur þeirra eru m.a. grundvallarritin tvö, Ferðabók (ný útgáfa 1958) og Lýsing Íslands (1908-1911).
Síðla árs 1895 fluttist Þorvaldur Thoroddsen með fjölskyldu sinni til Kaupmannahafnar og átti þar heima til dauðadags, 28. september 1921. Hann varð því aðeins 66 ára gamall. Banamein hans var heilablæðing.

Þorvaldur Thoroddsen

Þorvaldur lést 28. september 1921. Hann og kona hans, Sigríður Thoroddsen, eru grafin í Solbjerg Parkkirkegård, Frederiksberg.

Selvogur

Farið var með Þórði Sveinssyni um Selvogssvæðið, en hann er (að öllum öðrum ólöstuðum) fróðastur núlifandi manna um minjar og sögu svæðisins. Ætlunin var m.a. að staðsetja Imphólaréttina, sem í fornleifaskráningu er sögð „horfin“, Fornugötu, Járnhellra, Víghól eða Dómshæð (dómsstað fyrrum), Víghólsrétt, Nesstekk og Bjarnastaðastekk o.fl.

Imphólarétt

Þórður les Selvogslandið eins og hverja aðra skruddu. FERLIRsfélagar höfðu örnefnalýsingar frá Nesi, Bjarnastöðum, Þorkelsgerði og Götu. Þær voru samdar með hliðsjón af skrám eftir Gísla Sigurðsson, sem lesnar voru yfir af Eyþóri Þórðarsyni. Eyþór fæddist í Torfabæ í Selvogi 1898 og ólst þar upp. Hann bjó í Torfabæ til 1962. Upplýsingarnar voru skráðar í okt. 1980. Eyþór var frændi Þórðar, en hann tók fram að lýsingarnar gætu mögulega verið misjafnlega nákvæmar og þyrfti að taka tillit til þess við leitir að minjum á svæðinu.
Byrjað var við Litlu-Hásteina og réttin skoðuð, haldið yfir í Imphólaréttina í Imphólum og síðan um Öldurnar í leit að framangreindum örnefnum og mannvirkjum. Þórður benti m.a. að austurmörk Bjarnastaða hafi legið austar en talið er, þ.e. um hólklöppina Fótalaus, sem hann tilgreindi skammt norðan þjóðvegarins, nokkur austan markagirðingarinnar, sem nú er að mestu horfin. Norðar er Sótahóll. Þá benti hann á þjóðleiðir, nýjar og gamlar; núverandi akveg og þann eldri sunnar og Fornugötu, enn sunnar. Hún er enn vel greinileg og má sjá vörður við hana, bæði endurreistar og fallnar fyrir löngu.
FornagataÍ lýsingum segir m.a. um Fornugötu: „Austur við Nesmörk er Fornagata, langur hraunhóll sprunginn eftir endilöngu.  Á honum var Fornugötuvarða, sem nú er fallin, og kringum hann Fornugötuflatir.“ Jafnframt að „ofar en Víghóll er Fornagata, klöpp með sprungu, sem líkist götutroðningi. Við Fornugötu mætast göturnar frá Vogsósum og neðan úr Selvogi. Hún er við götuslóðann austur á Sand, í slægjulöndin. Fornagata er bæði í landi Ness og Bjarnastaða, liggur yfir mörkin.“ Þórður sagði götuna liggja frá austri til vesturs. Gatan sést enn vel austan við Hlíðarenda í gegnum hraunið, um Djúpadalahraun sunnan við fjárborgina og ofan við Kvennagönguhól(a). Þar færi hún með Eggjunum neðan við Hellisþúfu, um Fornagötuklöpp eða – hæð, með stefnu á Fuglastapaþúfu og um Strandarhæð, sunnan Vogsósa, yfir ósinn og áfram í gegnum hraunið sunnan og vestan Stakkavíkur, um Herdísarvík og áfram til vesturs um slétt Herdísarvíkurhraunið. Víða sæist gatan greinilega, s.s. í Strandarhæð sunnan við Gap og á sléttu helluhrauninu suðvestan við Stakkavík. Þetta hefði verið hin forna gata með suðurströndinni. Faðir hans hefði getið þess að gatan suðvestan Stakkavíkur hefði áður sést sunnar en nú er og mun sjórinn hafa tekið þann kafla hennar.
FERLIR rakti þessa götu fyrir nokkrum árum frá Hlíðarenda og vestur yfir hraunið. Síðan í Djúpudalahrauni, ofan Kvennagönguhóls, á Strandarhæð og vestan Vogsósa. Gatan er vörðuð vestan Hlíðarenda óg um Djúpudali og víðar á leiðinni má sjá fallnar vörður. Hinn nýji Suðurstrandarvegur mun fara yfir þessa fornu götu á kafla þar sem hún er hvað mest mörkuð í harða hraunhelluna.
Þegar gatan var skoðuð núna má vel rekja sig eftir henni við flatirnar. Vörður sjást enn, sem fyrr sagði, sumar vel skófgrónar. Norðaustan við Fornugötu(hól) greinist gatan, annars vegar niður í Selvog og hins vegar eins og að framan er lýst. Norðan í Fornugötu(hól) er tvískipt hlaðin gróin tóft, gæti hafa verið stekkur.
Ef götunni er fylgt í átt að Selvogi er rétt (lík Imphólaréttinni) nokkur suðvestar. Hún er skammt Bjarnastaðamegin við gömlu girðinguna. Eyþór Þórðarson getur þess í sinni lýsingu að Víghóll hafi verið „Dómstaður [og] átti við Víghól að hafa farið fram víg eða aftökur.“ Er sagt, að Erlendur lögmaður Þorvarðarson hafi reiðst sveini sínum, er spáði því, að Strönd mundi eyðast af sandfoki. Hafi sveinninn flúið, en Erlendur elt hann upp að Víghól og drepið hann þar. Víghóll er skammt frá Fornugötu, hún liggur dálítið ofar en réttin. Gamla gatan lá framhjá Fornugötu. Ef þessi rétt er Víghólsréttin er gasi gróinn hóll örskammt norðaustan hennar umræddur Víghóll. Hafa ber í huga að mikla breytingar hafa orðið þarna á landsháttum frá því sem áður var því sandurinn fauk þar um fyrrum nánast óbeislaður. Þessi rétt er hins vegar mjög heilleg, en ekki auðfundin.
Víghólaréttin?Nefndir Hásteinar eru þrír hraunhólar við þjóðveginn. „Stóri-Hásteinn er efstur. Mörkin milli Ness og Bjarnastaða eru austan í honum. Þar er við hann klöpp, sem kölluð er Fótalaus, og var merki klappað í hana. [Hér virðist vera um misvísun að ræða hjá Eyþóri því ef þessi lína er notuð verður Bjarnastaðasel, sem er þarna ofan við, í Neslandi. Ef tekið er mið af eystri hólnum, sem Þórður benti á, þá er selið réttu megin við mörkin]. Ókunnugt er um tildrög þessa nafns. Litlu-Hásteinar eru tveir, og liggur vegurinn nú milli þeirra, utan í neðsta Hásteininum. Rétt var við neðsta Hásteininn. Hásteinahraun er milli Hásteina og kringum þá, og í því er Hásteinahellir. Það er smáskúti, kemst varla kind inn í hann. Hásteinsflag er fyrir neðan nýjasta veginn, undir neðsta Hásteininum. Það er gróið. Hásteinaflatir heita fyrir neðan Hásteina.
Austur með þjóðveginum eru Imphólar, lágir grashólar. Þar var Imphólarétt, sem nú er farin. Imphólaflatir og Klakksflatir ná saman, og Klakkur er þar fyrir austan.“ Imphólar eru grónir lágir hólar sunnan Litlu-Hássteina. Norðan utan í þeim vestari er falleg rétt með leiðigarði.
„Spölkorn fyrir ofan Kvennagönguhól eru aðrir hraunhólar og kringum þá grösugar flatir. Þarna var Nessel, og sést enn fyrir tóftum þess. Selið er innan sandgræðslugirðingarinnar. Nú hafa verið reist fjárhús á móti selinu (ofan vegar, í Austurslökkum). Norðan þjóðvegar, hærra í heiðinni, var Hafliðavarða, sem var smalavarða, þ. e. hlaðin af smala.
Hellisþúfa er hraunhóll mikill í vestur frá Háaleiti og í honum Hellisþúfuhellir. Í hellinum var eitt sinn búið, og er einhver hleðsla úti fyrir. Sá mun hafa heitið Gísli, er þarna bjó.“
Þórður sagðist hafa hafst við í tjaldi þegar hann var yngri skammt vestan við Kvennagönguhóla ásamt föður sínum og bróður. Þá hefðu þeir fundið tölur eða hnappa, sem taldar voru hafa komið upp úr dys í örfoka landi. Nú hefði sandurinn lagst yfir moldarflagið og hulið dysina. Hann vissi nokkurn veginn hvar hún væri. Hnapparnir væru enn til.
Mörk Ness og Bjarnastaða„Tveir brunnar voru á Bjarnastöðum. Eldri brunnurinn var í miðju Gerðinu, en annar yngri nær bæ, alveg við traðirnar.
Á sjávarkampinum niður af Bjarnastöðum, Bjarnastaðakampi, var hlaðinn sjóvarnargarður og hlið í hann niður af tröðunum. Garðbrot, sem lá frá bæjarhúsunum niður með sjávargötunni, var nefnt Bryggjan. Bryggjan var til að ganga eftir, því að tjörn myndaðist fyrir ofan kampinn. Þar yzt fyrir ofan kampinn var gömul sjóbúð, Þorsteinsbúð.  Tóftin af henni hefur staðið til skamms tíma og verið notuð sem kartöflugeymsla. Yngri brunnurinn var rétt við búðina.
Efst við traðirnar heim að Bjarnastöðum, vestan við þær, var Guðnabær, hjáleiga frá Bjarnastöðum, nú löngu komin í eyði.  Tún Guðnabæjar skiptist í tvennt, Austurgerði og Vesturgerði, og lágu traðirnar heim að Bjarnastöðum milli þessara stykkja. Efst í Austurgerði er Unhóll á landamerkjum móti Nesi, rétt innan við  eða í túngarðinum, sem liggur ofan við alla bæina. Alveg um landamerki Ness og Bjarnastaða, nokkru neðan við Unhól, var brunnur fyrir Guðnabæ og Þórðarkot, hjáleigu í Nesi.
Nokkru vestar en Guðnabær var þurrabúð, nefnd Klöpp, og stóð hún ofan garðs. Túnblettur var þar í kring og í honum vestast lítill hóll, Æshóll. Merkin milli Götu og Bjarnastaða liggja alveg um Æshól. Vestast í Bjarnastaðalandi var hjáleigan Beggjakot, nú í eyði. Sömu traðir voru að Götu og Beggjakoti. Tún Beggjakots lá upp með tröðunum, upp undir garð og spöl niður fyrir bæinn. Á því standa fjárhús á nokkrum stöðum. Neðst í túninu var brunnur fyrir kotið.
Nokkru vestar stóðu Bjarnastaðaborgir, tvær fjárborgir á kampinum, en þær tók af í flóðinu mikla 25. febr. 1925. Lítið vik milli klappa niður af þeim heitir Borga(r)vik, og vestur af því Borga(r)klettar. Þeir eru fram af borgunum. Þar var fjárrétt lengi. Á milli Borgaklettanna er Sandlón, og vestan Borgakletta er Djúpalón. U. þ. b. upp af Borgaviki er Bjarnastaðarétt eða Miðvogsrétt, neðst í Gerðinu innan við sjóvarnargarðinn.
Selvogsheiði tekur við ofan túngarða á Bjarnastöðum, og er kölluð Miðheiði upp frá Bjarnastöðum og vestur um Torfabæjarland, en Vesturheiði eða Útheiði þar fyrir vestan.
Ofan Bjarnastaðatúns eru Bjarnastaðaflatir. Vestast á þeim ofan við hjáleiguna Klöpp var Litlavarða og Litluvörðuflöt. Eitthvað mun vera eftir af vörðunni. Ofar en Litlavarða var önnur varða ofarlega á Flötunum (68), kölluð Digravarða, Stóravarða eða Austurvogsvarða. Hún var Sundvarða fyrir Útvogssund. Átti hana að bera í austustu Hnúkana.  Rúst við FornugötuVið túngarðshlið Bjarnastaða byrjaði leiðin suður og lá upp heiðina.
Spölkorn upp frá Flötunum eru Bjarnastaðahólar kringum Digruvörðu. Það eru þrír lágir hraunhólar. Vestasti hóllinn er í Götulandi, Mið-Bjarnastaðahóll e.t.v. einnig, en Austasti-Bjarnastaðahóll er í Bjarnastaðalandi.  Eitthvað er eftir af grónu landi milli hólanna, sandurinn er ekki kominn þangað.“ Ekki er fjallað um Bjarnastaðastekk í örnefnalýsingunni, en þar með er ekki sagt að hann hafi ekki verið til því hans er getið í lýsingu fyrir Götu.
„Á Nessandi er stórt svæði, nefnt Öldur. Sandurinn er þar gáróttur og lægðir á milli gáranna. Öldur liggja frá Flötum austur að landamerkjum, milli Heimasands og Sandamóta, en svo heitir, þar sem sandurinn mætir gróna landinu fyrir ofan og fer að hækka upp í heiðina.  Öldurnar voru slegnar frá Nesi og kotunum, hver hafði þar sitt stykki, en þetta var aðalslægjulandið utan túns. Vestust er Ertualda. Þá er Bartakotsalda. Á henni voru tættur, e.t.v. af býli.  Milli þessara tveggja eru Járnhellrar, sem svo voru nefndir. Járnhellrar eru klappir, og var í þær hellir, en hann fylltist af sandi.  Þarna voru jafnvel rústir gamlar. Járnhellrar fylgja aðallega Bartakotsöldu.“ Vegna framkominna upplýsinga um að hellirinn hafi lokast svo og vegna þess að Miðheiðin er einn sandur, var ekki gerð sérstök leit að honum að þessu sinni.
Farið var niður undir Strákhæðir. „Norður af þeim er Smalaskáli á Heimasandi. Þar var einhver hleðsla. Var talið, að þar hefði einhvern tíma verið búið. Þar norður af er Taðhóll. Ekki er vitað, hvers vegna hann heitir svo, e.t.v. hafa hross staðið í skjóli undir honum. Við Taðhól byrjar Ertualda, og þar eru takmörk Heimasands.
Vestur af Taðhól er Dómhæð.  Sagt var, að þar hefðu farið fram dómar.
Varða við FornugötuFrá túngarðshliði að austan lá gata upp í heiðina, upp hjá Víghólsrétt, upp á Klakksflatir. Tvær smávörður við götuna voru kallaðar Ljúf og Leið, ekki vitað hvers vegna. Ofar er klöpp, sem kallast Beð, og á henni Beðvarða. Vestan götunnar er Grænaskjól. Þar er hleðsla, hefur eitthvað verið byggt. Vestur og upp af Grænaskjóli eru Lambastekkshólar og Lambastekkur þar hjá.“ Vörður eru á þessari leið en erfitt er að sjá eftir lýsingunni hver hafi heitið hvað.
„Nesstekkur var vestan við Víghólsrétt, en hún er austan við Stóruvörðu, sem er ofarlega á Bjarnastaðaflötum. Nesstekkur er við mörk Ness og Bjarnastaða. Víghólsrétt er við Víghól, sem er svolítil hæð. Við Nesstekk er Nesstekkatún. Stekkir voru þarna í röð yfir landið, austast Nesstekkur, þá Bjarnastaðastekkur og Útvogsstekkur.“ Þessi lýsing frá Nesi gefur tilefni til að fara aftur á vettvang og gaumgæfa svæðið vestan við fyrrnefnda rétt (Víghólarétt), sem gæti einnig verið Bjarnastaðastekkur. Hins vegar var engar minjar að sjá austan við hana. Meira síðar.
„Fyrir ofan Götutún halda áfram Bjarnastaðaflatir, og á þeim eru Bjarnastaðahólar. Vestasti-Bjarnastaðahóll er í Götulandi og e. t. v. einnig Mið-Bjarnastaðahóll. Ofan við hólana var lægð eða flöt, sem nefnd var Skjaldbreið, en er nú orðin uppblásin og nefnd Grjót (ft.). Þar ofar var Bjarnastaðastekkur, alveg við mörkin í Götu og e.t.v.  í Útvogslandi. Sést fyrir honum enn. Við stekkinn var Stekkatún og Stekkatúnsflatir í kring. Þetta er við veginn niður að bæjunum.“ Þessi lýsing frá Götu bendir til að Bjarnastaðastekkurinn geti verið vestar en hér er tilgreind Víghólsrétt. Þá ætti Nesstekkur að vera á millum.
Ofar eru tveir hólar, Grænshólar (G.S. nefnir þá Grenshóla). Við þá mun áður fyrr hafa verið gren. Umhverfis hólana eru Grænshólaflatir. Þar austur af er Fornagata í Bjarnastaðalandi.“
Fornagata í MiðheiðinniÍ örnefnalýsingu fyrir Þorkelsgerði segir: „Áður fyrr var byggð í Selvogi skipt í Austurvog, sem var fyrir austan kirkjuna, og Vesturvog fyrir vestan kirkju, þ. e. frá kirkju og vestur að Vogsósum. Þá var Þorkelsgerði í Austurvognum. Í Þorkelsgerði voru Austurbær og Miðbær, sem var tómthús. Vestan við Þorkelsgerði er Torfabær. Hver bær átti sín tún, sem kennd voru við þá  og voru áður fyrr girt með görðum, en í seinni tíð eru komnar girðingar í þeirra stað. Traðir eða götur voru milli bæjanna. Ævagamall túngarður liggur fyrir ofan alla byggðina; hann nær alveg austur undir vita og vestur að Vogsósum. Víða hefur fokið mjög að honum sandur, svo að hann er nær á kafi, en þó sést hann sums staðar. Hlið voru á garðinum heim að hverjum bæ, gjarnan kennd við bæina.  Sagt er, að hliðin hefðu verið læst og grind í. Þorkelsgerðisbæir og Torfabær eiga hver sín tún, eins og fyrr segir, en land utan túns, í Selvogsheiði og fjalllendi er sameiginlegt.
Þorkelsgerði stóð áður neðarlega í túni, en var fært ofar undan sjó. Gömlu bæirnir sjást enn í Kampinum, svolítið uppi í túni, en nú standa bæirnir samhliða Torfabæ, sem var ofar. Sunnan eða framan við gamla bæinn hét Framtún eða Flötin. Í því var Þorkelsgerðisbrunnur, sem lengi vel var aðalbrunnur hverfisins. Síðar tók Eyþór brunn við Torfabæ einnig.  Frá brunninum lágu götur heim að bæjunum. Brunnurinn er til enn, en sjór fyllir hann í flóðum. Traðir fyrir kýr voru aðallega að austan, og var hlið á túngarðinum þar, rétt við hól, sem nefnist Kinn. Þaðan lágu traðir heim að bæ.
Þórður Sveinsson - t.h.Torfabær er vestan Þorkelsgerðis. Að sögn bjó þar Torfi lögréttumaður. Bærinn stendur uppi undir túngarði að norðan, það langt frá sjó, að hann var aldrei í hættu. Efst í norðvesturhorni túnsins er Mosakrókur, óræktarlaut vaxin mosa.  Þar voru tóttir, hefur e. t. v. verið þar býli. Neðst í túni er Krókur, þar stóðu fjárhúsin. Framtún var túnið neðan bæjar kallað, og í því var Torfabæjarbrunnur. Áður en hann var gerður, var sótt í Þorkelsgerðisbrunn.
Upp af Torfabæjartúni er Torfabæjarstekkur. Eyþór man ekki eftir fráfærum, þeim var hætt fyrir aldamót. Við stekkinn stendur Stekkjarvarða. Hún var mið fyrir Goltanga; átti hana að bera í Sundvörðuna á kampinum og í hæstu nípu á Björgunum (Svörtubjörgum).
Fyrir vestan Torfabæ var býli, sem hét Eima, komið í eyði fyrir löngu. Þar sem Eima stóð, heitir nú Eimuhóll.
Milli Torfabæjar og Eimu eru Útvogsréttir eða Þorkelsgerðisréttir, við túngarðinn í Torfabæ.
Ofan túngarða tekur við Selvogsheiði. Er kölluð Miðheiði upp frá Bjarnastöðum og vestur um Þorkelsgerðis- og Torfabæjarland, en Vesturheiði eða Útheiði er land Eimu og Vogsósa.
Ofan garðs er Gunnustekkur á merkjum Þorkelsgerðis og Eimu. Ormsstekkur var austarlega í Þorkelsgerðislandi, austur undir Götumörkum. Vestar og ofar var Brynkastekkur, sem nú er kominn í kaf. Þar nokkru ofar er Stekkjarvarðan, áður nefnd, mið á innra sundið.“
Af framangreindu má sjá að enn er að mörgu að hyggja á Selvogsheiðum.
Ferðin tók 3 klst og 3 mín. Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-Þórður Sveinsson (f: 1930), mars 2007.
-Eyþór Þórðarson, (f: 1898), 30. okt. 1981.
-Örnefnalýsingar fyrir Bjarnastaði, Nes, Þorkelsgerði og Götu.
-Brynjúlfur Jónsson, 1903, bls. 51.

Strandarkirkja

Mosfellssveit

„Leirurnar við Leiruvog hafa ætíð laðað að sér ríðandi fólk, bæði það er átti erindi milli héraða og þess sem vildi nota sléttar og mjúkar skeiðflatir. Þar var hægt að spretta úr spori eða stefna til hestaats. HestaþinghóllHestaþing, hestaat eða hestavíg voru samkomur þar sem menn öttu saman stóðhestum og létu þá bítast og slást. Stórir og reisulegir graðhestar voru valdir til að kljást og höfðu jafnvel verið þjálfaðir til slíkrar iðju. Nauðsynlegt þótti að leiða að þeim hryssur til að koma þeim í vígamóð. Þessi siður mun hafa flust með landnámsmönnum frá Noregi og þótti það hin besta skemmtun að koma saman og sjá þessar stóru og fallegu skepnur kljást, með prjóni, spörkum og biti. Hið viðkunnulega hnegg hestsins hvarf og öskur, frýs og fnæs komið í þess stað.
Þegar komið var ríðandi að Leiruvogi mátti stundum á fyrri tíð sjá fjölda manna og hesta við Hestaþinghól sem er stór tangi eða sandhóll og skagar fram í sunnanverðan Leiruvog, vestan við svonefndan Surtteig í landi Varmár. Engar skjalfestar sögur eru til um hestaat við Leiruvog og ekki er vitað hve lengi Mosfellingar stunduðu þar hestaat. Þó er líklegt að það hafi verið eitthvað fram yfir siðaskipti á 16. öld.
Í prestastefnusamþykkt Hestaat á ÞingvöllumOdds biskups Einarssonar (1559-1630) frá 1582 er amast við ýmsum leikjum og skemmtun alþýðunnar. Í skjali þessu, sem nefnt hefur verið Kýraugastaða-samþykkt, skyldu prestar setja út af sakramenti alla þá er færu með kukl, rúnir, ristingar, særingar og kveisublöð. Einnig skyldu prestar banna hestaþing, vökunætur og smalabúsreiðar á helgum dögum, hvort heldur að nóttu eða degi að viðlagri klögun til sýslumanns. Síðasta hestaat, sem sögur fara af, var háð árið 1623 að Illugastöðum í Fnjóskadal.
Það eina sem minnir á hestaat í Leiruvogi er örnefnið Hestaþinghóll. Það fer sérlega vel á því að örskammt þaðan er kappreiðarvöllur Hestamannfélagsins Harðar og hesthúsahverfi Mosfellinga. Áður komu menn saman til að horfa á stóðhesta í vígaham við Hestaþinghól og enn njóta Mosfellingar samskipta við þarfasta þjóninn á þessum slóðum.“
HestarVarla þarf að taka það fram að svæðinu hefur verið raskað verulega frá því sem áður var.
Hestaþingsflatir eru til í Hlíð í Grafningi. Þær eru nokkuð stórar valllendisflatir, niður undan Hellisgili, með gulvíðisrunnum í kring. Þar var áður haldið hestaþing. Hestaþingshóll er í landi Kaldaðarness í Flóa. Þar voru háð hestaþing til forna. Ef til vill hefur það einmitt gerst þar að Jóra bóndadóttir trylltist er hún sá hest föður síns bíða lægra hlut fyrir öðrum. Í Gullbringu- og Kjósarsýslu eru tveir Hestaþingshólar þekktir, annar fyrrnefndur í landi Varmár, tangi út í Leiruvog. Bendir nafn hans á forn hestaöt þarna niður við sjóinn. Hóll þessi er á tanganum, og ef vel er að gáð, virðist vera þarna um gamalt mannvirki að vera (Örnefnaskrá). Hinn Hestaþingshóllinn er á Eyri í Kjós.
Þá segir svolítið meira frá síðasta hestaatinu þótt ekki hafi það verið á Reykjanesskaga, ef frá Hestaþinghóller talið hestaatið á Þingvöllum 1930. „
Flaustur nefnist fornbýli um 17 km. sunnan við Reyki. Þar sést vel til mikilla tótta og garða, og telja munnmæli að verið hafi kirkjustaður og stórbýli með átján hurðir á járnum. Átján hurða sagan gengur líka um Skarðssel sem stóð 7 km. norðar. Sléttlendi og engjar eru um Flaustur, þar nefnast Flausturbalar með ánni. Skammt þar utan við heitir Vindhólaskál í fjalli og Vindhólanes við ána. Þar var háð síðasta hestavíg á Íslandi upp úr 1600 og sér enn garðinn um leiksvæðið.  Ástæður hestavígsins voru ósætti milli Sveins ríka á Illugastöðum og eyfirsks stórbónda.  Af Sveini ganga miklar sagnir og talið var að hann hafi átt 500 sauði þegar flest var, auk annars fjár.  Sveinn var talinn forspár því hann seldi alla sauði sína haust eitt fyrir fellisvetur. Örlög Sveins urðu að hann drukknaði í kíl einum milli Illugastaða og Kotungsstaða sem síðan er nefndur Sveins kíll. Talið er að Sveinn hafi falið fé í jörð í landi Illugastaða og er það þar enn fólgið.“

Heimild:
-Bjarki Bjarnason og Magnús Guðmundsson, Mosfellsbær, Saga byggðar í 1100 ár, Pjaxi 2005, bls. 31.
-(Jón Sigurðsson, Saga þingeyinga III. S. 150 og 146)
www.arnastofnun.is
-Hallgrímur Óli Helgason.
-Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur I, 173-175.

Steðji

Steðji í Kjós.

 

Sauðhóll

Fjallað er m.a. um Sauðhól í bókinni Mosfellsbær – Saga byggðar í 1100 ár.
Þar segir: „Það var um Sauðhóllveturnætur að bóndinn á Helgafelli í Mosfellssveit fór fram í Skammadal til að smala heim fé sínu. Veðurútlit var slæmt, kafaldskóf og skyggni því ekki gott. Bónda gekk vel að ná saman fénu, enda undan veðrinu að sækja heim til bæja, því vindur var af austri. Bónda fannst fé fleira en hann átti, en sá það ekki vel fyrir snjómuggunni. Hélt hann að þetta ókunna fé væri annaðhvort frá Reykjum eða Varmá.
Segir ekki af ferðum bónda fyrr en hann kom fram, á Hrísholt fyrir ofan Sauðhól. Þá taka sig útúr nokkrar kindur og sveigja niður að hólnum. Bóndi ætlar að hlaupa fyrir kindurnar og reka þær tilbaka, en nær ekki að stöðva þær. Kindurnar hlaupa beint að hólnum. Sér bóndi þá að dyr opnast á hólnum og renna kindurnar þar inn og svo lokast hóllinn.“

Heimild:
-Bjarki Bjarnason og Magnús Guðmundsson, Mosfellsbær, Saga byggðar í 1100 ár, Pjaxi 2005, bls. 135.

Mosfellsbær

Mosfellsbær.