Gengið var eftir Stórhöfðastíg frá Undirhlíðavegi að Stórhöfða.
Ólafur Þorvaldsson lýsir leiðinni í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48, reyndar frá Ási upp á Undirhlíðaveg. Þar segir hann að „Stórhöfðastíg fóru stundum lausríðandi menn frá Krýsuvík til Hafnarfjarðar. Fóru þá sem leið lá inn með hálsum, þar sem sú leið er allgóður reiðvegur, þar til kom á móts við þar sem Stórhöfðastígurinn lá vestur á milli Fjallsins eina og Sandfells. Sá stígur var stundum tekinn því að við það féll úr mikill krókur inn með Undirhlíðum um Kaldársel en hitt bein lína til Hafnarfjarðar. Þó að Stórhöfðastígur sé frekar slitróttur var gott að láta hestinn njóta ferðarinnar, en jafnsnemma komið til Hafnarfjarðar eða fyrr þrátt fyrir stirðari veg.“
Ólafur lýsir og stígnum þar sem hann liggur milli Sandfells og Fjallsins eina „og er þá Sandfellið á hægri hönd, allnærri“.
Stórhöfðastígurinn hefur nú verið stikaður að hluta, frá Undirhlíðavegi niður á Sléttuna.
Undirhlíðavegur sést vel í rótum móbergshróka Grænklofa ofan Djúpavatnsvegar – fast ofan Sandfellsklofa. Þar eru gatnamótin, í beygju á þjóðveginum, áður en komið er að bílastæðinu við Hrútagjá. Sjást þau vel. Þaðan liggur hann augljós niður með lágum grónum hraunhrygg austan utanverðrar gjáarbrúnarinnar.
Gjábrúnin er þarna bæði há og tilkomumikil. Auðvelt er að sjá í vegg hennar fyrrum hraunþakhelluna er lyfst hefur vegna mikils kvikuþrýstings undir niðri. Þegar kvikan síðan storknaði undir hélst veggurinn í rúmlega 45° halla. Endi gjárinnar sést í norðausturhorni „veggsins“, stór og mikilfenglegur. Hrútfell er þarna á hægri hönd. Stígurinn er augljós með rótum Sandfellsins. Reykjavegurinn hefur verið stikaður þarna eftir nýrri leið, en Stórhöfðastígurinn er svolítið norðaustan hans og liggur samhliða á nokkrum kafla. Hinar nýju stikur höfðu verið settar með Reykjaveginum, en voru nú færðar yfir á hinn eiginlega Stórhöfðastíg. Hann fylgir síðan rótum Sandfellsins að mikilli gjá. Sú liggur til norðurs með vestanverðu Sandfellinu og er jafnframt misgengi.
Á sumum kortum hefur þessi gjá, sem liggur alveg niður að gígaþyrpingu suðaustan við Sléttuna sunnan Krýsuvíkurvegar, nafnið Fjallgjá. Önnur gjá, með sömu stefnu, en nokkru vestar, hefur og verið nefnd því nafni. Einhvern veginn virðist Fjallgjárnafnið eðlilegra á þessari gjá því hún liggur upp með Sandfellinu vestanverðu og Fjallinu eina austanverðu, en hin kemur eiginlega hvergi að fjalli. En hvað um það. Stórhöfðastígur liggur þarna niður gróna hraunbrekku milli fellanna. Þar greinist hann í tvennt með hrauntungu. Sama er hvor leiðin er valin því þær koma saman neðan tungunnar. Þar fylgir stígurinn rótum Fjallsins eina og síðan gróinni vesturbrún gjárinnar. Bæði er skjólsælt þar fyrir austanáttinni (sem kom berlega í ljós í þessari ferð) og auk þess er fallegt að horfa til baka, upp eftir stígnum þar sem hann liggur á milli fellanna með Hrútargjána sem bakgrunn.
Einir er áberandi á þessu svæði og ekki spilltu nýtilkomnu haustlitirnir í birkilaufinu fyrir litadýrðinni. Hraunssvæðin eru engu lík við þessar aðstæður.
Þegar komið var skammt ofan við gígaþyrpinguna nafnlausu (hér er stungið upp á hún verði nefnd Ásar í höfuðið á Ásbirni þeim er hefur verið með þeim duglegri að rekja gamlar götur og leiðir á þessu svæði auk þess sem nafnið minnir á upphaf stígsins að norðanverðu) fer gatan beggja vegna við lága hraunhæð og síðan með henni að þyrpingunni vestanverðri. Neðan (norðan) hennar breytir hraunið bæði um svip og yfirbragð. Við tekur ógrónara, ósléttara hraun og mosavaxnara, án þess að í því séu hæðir og lægðir. Með fránum augum má sjá hvar stígurinn lá með stefnu í næsta hraunnef að vestanverðu. Austan við það kemur stígurinn aftur mjög glögglega í ljós. Smám saman „birtir“ meir og meir yfir honum á sléttri hraunhellu Sléttunnar. Á kafla greinist hann þar í tvennt, en kemur saman á ný skammt norðar. Þar liggur stígurinn yfir austurmörk Straumslands og inn á Ásland með vestanverði brún Brunans, framhjá og í gegnum fallegan „gróðurvog“ þar sem „Tvídrangar“, tveir háir hraunstöplar rísa upp úr Brunanum og halla sér hvor að öðrum. Þarna er einn af fáum stöðum í öllum hraununum þars em sjá má áþreifanlega kynjaskiptingu hraunsins. Yfirleitt er talað um það í hvorukyni, en á þessum stað er það bæði í karlkyni og kvenkyni. Því getur í raun enginn trúað nema líta það eigin augum. Undir hraunbrúninni má sjá mannanna verk á tveimur stöðum, þakin mosa. Annað gæti hafa verið skjól eða jafnvel hús og hitt aðhald fyrir hesta eða fé. Skammt norðar er fallin fyrirhleðsla yfir stíginn.
Stórhöfðastíg var fylgt með hraunkantinum að skógræktargirðingu við slóða vestan gatnamóta Krýsuvíkurvegar og Bláfjallavegar. Áður en komið er þangað virðist stígurinn hverfa á stuttum kafla, en þegar betur er að gáð má sjá hvar hann liggur yfir sléttan klapparhrygg og síðan áfram niður gróna lænu. Þar virðast vera gatnamót. Líklega eru þau til komin vegna þess að ferðalangar á leið suður Stórhöfðastíg gleymdu að taka þar vinstri beygju. Hafi þeir haldið áfram hefur leið þeirra legið um hæðir og lægðir uns komið var að þeirri Fjallgjá, sem vestari hefur verið nefnd. Með góðum vilja hefur verið hægt að fylgja henni upp með Fjallinu eina vestanverðu. Þar liggur reyndar gata, sem sumir hafa tekið sem Stórhöfðastíg, en er í raun eitt afsprengi hans.
Norðvestan slóðans liggur Stórhöfðastígur í gegnum skógræktargirðinguna á stuttum kafla, niður með henni utanverðri og beygir síðan til norðurs yfir Krýsuvíkurveginn skammt vestan gatnamóta Bláfjallavegar, niður í ofanverðar Brunntorfur (Brunatorfur/Brundtorfur). Þar sést hann greinilega. Stígurinn liggur framhjá fallega hlöðnu ferköntuðu gerði í góðu skjóli. Skjól þetta hefur væntanlega verið notað til tilhleypinga frá Straumi eða Þorbjarnastöðum. Brunntorfurnar (Brundtorfurnar) gætu hafa dregið nafn sitt af því. Markagirðing Straums og Áss er þarna skammt austar. Líklega má finna fleiri mannvirki á þessu svæði ef vel væri leitað. Áfram til norðurs liggur stígurinn í gegnum gróið hraun, vestan brunabrúnar. Frá henni liggur gata til austurs, inn í Snókalöndin. Skammt norðar eru gatnamót. Gata liggur af stígnum til suðurs og síðan vesturs, um grónar hraunlænu milli klapparhóla, yfir Krýsuvíkurveginn með stefnu á vörður handan hans. Að öllum líkindum er um að ræða leið að hlöðnu fjárskjóli, sem nú er innan svæðis Skógræktarinnar, og síðan áfram niður að Straumi. Þessi gata er sýnd á uppdrætti Ólafs, sem og mörkin.
Varða framundan segir til um hvar Stórhöfðastígur fer inn á brunann. Á og með brúninni er hlaðinn garður utan í henni, sennilega fyrirstaða þegar fé var rekið eftir stígnum. Í gegnum brunann er stígurinn augljós, bæði gróinn og greiðfær. Eftir stutta göngu rífa gamlar malargryfjur stíginn, en ef línu er fylgt beint yfir þær má sjá bút af honum handan við brúnina. Eftir göngu um þann hluta óskerta brunans er aftur komið að malargryfjum sem hafa tekið gamla Stórhöfðastíginn. Nú er nýbúið að slétta þar undir verðandi trönusvæði. Norðan þess er klettur. Vestan við klettinn er Stórhöfðastígur enn ósnertur. Hægt er að fylgja honum af öryggi áfram í gegnum hraunið að suðausturhorni Stórhöfða. Þaðan liggur stígurinn til norðvesturs vestan hans, áleiðis að Ási. Lengra var ekki farið að þessu sinni. Stígurinn um Hellnahraunin, yngra og eldra, verða geymd til betri tíma. Þá er og ætlunin að skoða Snókalöndin betur við fyrsta tækifæri.
Snókalöndin fyrrnefndu, austan Stórhöfðastígs og norðan núverandi Krýsuvíkurvegar vestan gatnamóta Bláfjallavegar, eru heimur út af fyrir sig. Ólafur segir frá Snókalöndunum í fyrrnefndri grein sinni: „Í nýja brunanum, spölkorn austur af stígnum, eru tveir dálitlir blettir eða hólmar, sem bruninn hefur ekki náð að renna yfir. Ekki ber þau hærra en umhverfið og sjást því ekki lengra til og helst ekki fyrr en að er komið. Hestfær götuslóð liggur norður í Snókalönd, nokkur austar en þar sem Stórhöfðastígurinn kemur suður úr brunanum. Ekki eru Snókalöndin jafnstór, það vestra nokkur stærra og slóð á milli. Hvað liggur til grundvallar þessu nafni veit víst enginn lengur en á tvennt mætti benda. Í fyrra lagi að þarna hafi vaxið villihvönn, snókahvönn – geitla. Í öðru lagi að blettir þessi, sem hafa verið miklu gróðurríkari en umhverfið, hafi fengið nafnið land af töngum þeim og hornum sem hinn ójafni brunakantur myndar þarna í grennd og gæti því þýtt „Krókalönd“. Í orðabók Blöndals segir að snókur sé angi eða útskiki út frá öðru stærra. Gætu því tangar þeir, sem út úr brunanum ganga, verið stofn að þessu nafni. Þó finnst mér fyrri tilgátan sennilegri. Líkur benda til að þarna hafi verið nokkur skógur og máske verið gert að kolum fyrrum.
Gatan út í Snókaköndin bendir á nokkra umferð þangað. Sökum fjarlægðar þessa staðar frá alfaraleið óttast ég að svo geti farið að hann gleymist og nafnið týnist þar sem þeir, er mest fóru þar um og héldu með því við mörgum örnefnum, voru fjármenn og smalar en þeim fækkar óðum um þessar slóðir sem víðar.“
Gatan, sem Ólafur nefnir, er enn greinileg. Vörður eru við hana. Hún liggur inn á brunann og inn í vestari Snókalöndin og úr þeim inn í þau austari.
Með grein Ólafs fylgir kort með fornum leiðum milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar. Á því er Stórhöfðastígur sýndur liggja frá Undirhlíðavegi ofan við Hrútagjá, niður með gjárbarminum að austan og norðanverðu, milli Sandfells og Fjallsins eina, niður með Fjallgjá, niður að Stórhöfða og áfram heim að Ási.
Ofan Snókalanda heldur Ólafur áfram að segja frá leiðinni: „Þegar suður úr brunanum kemur liggur stígurinn upp með suðvesturbrún hans og fylgir maður brunanum þar til komið er móts við Vatnsskarð í Undirhlíðum sem farið er þá að nmálgast. Úr því liggur stígurinn meira til suðurs þar til komið er að Fjallinu eina. Er það fremur lágt, hrygglaga fjall með klettaborg á suðurenda. Austan undir því liggur stígurinn og er þá Sandfell á vinstri hönd allnærri. Er nú stutt þar til komið er á Undirhlíðaveginn, skammt suður af Sandfellsklofa.“
Fyrr á öldum lágu margar leiðir milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur og voru það ýmist vegir, götur eða stígar. Sú leið sem mest var farin, og aðallega þegar farið var með hesta, lá úr Hafnarfirði öðru hvorum megin við Hamarinn upp yfir Öldur, þar sem nú er kirkjugarðurinn, framhjá Lækjarbotnum og upp í Kaldársel. Þaðan lá leiðin að Undirhlíðum og síðan ýmist norðan við Undirhlíðar eftir svonefndum Undirhlíðavegi eða sunnan við Undirhlíðar eftir svonefndri Dalaleið. Undirhlíðavegur var aðalvegurinn milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar og var oftast farinn á sumrin þegar farið var lausríðandi eða með lest. Var þessi leið talin vera um 8 stunda lestargangur. Þegar Undirhlíðavegur var valinn var farinn Ketilstígur yfir Austurhálsinn yfir í Krýsuvík, en ef Dalaleið var valin var farið með norðurströnd Kleifarvatns að Krýsuvík.
Gangandi menn fóru oft um tvo stíga, Stórhöfðastíg og nokkru vestar Hrauntungustíg, milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur, svo og ef farið var með fáa hesta að vetrarlagi.
Þegar ferðamenn ætluðu Stórhöfðastíg var farið frá Hafnarfirði upp hjá Jófríðarstöðum, umhlaðið í Ási, og oft gist þar ef menn komu t.d frá Reykjavík. Frá Ási var farið suður úr Skarði, yfir Bleiksteinsháls og suður yfir Selhraun að Stórhöfða og þaðan áfram að Fjallinu eina og komið inn á Undirhliðaveg við Norðlingaháls.
Ef menn völdu Hrauntungustíg var farið frá Ási um Skarð vestan Ásfjallsaxlar yfir hraunhaft milli Grísaness og Hamraness og stefnan tekin á Hrútafell, en skammt þar sunnan við er komið inn á Ketilstíg (Ólafur Þorvaldsson 1949).
Margir eiga erfitt með að átta sig á gömlum leiðum og víða eru þær fáfarnari að gróa upp og hverfa og þar af leiðandi er mikilvægt að halda þeim við með einum eða öðrum hætti. Hvort um höfuðleið, alfaraleið, sýsluveg eða hvað annað er að ræða er ekki aðal atriði. Þær leiðir sem lýsingar eru til af, t.d. frá Ólafi Þorvaldssyni, eiga jafn mikinn rétt á sér hvort sem hann hefur talið þær fáfarnar eða fjölfarnar. Greinina „Fornar slóðir…“ birti hann í Árbók Fornleifafélagsins 1943-1948 – og það er sú lýsing sem Ferðafélagið endurprentaði í sérriti. Með gömlu greininni fylgir ágætt kort af hinum gömlu leiðum, en í sérritinu var gerð tilraun til að merkja leiðirnar inn á kort, af mikilli ónámkvæmni vægast sagt. Sérritið kostar kr. 1000 og er það 999 kr. of mikið. Það er því varla krónu virði umfram gömlu prentunina.
Leiðir á þessu svæði hafa fyrst og fremst verið varðaðar með ókunnuleika ýmissa ferðalanga og vermanna í huga, á svipaðann hátt og sýsluvegirnir voru mjög vandlega varðaðir og breikkaðir um og eftir 1890, enda meginleiðir eða alfaraleiðir. Sama gildir um Selvogsgötuna, sem var ágætlega vörðuð, en er mun betur vörðuð í dag en hún var fyrir rúmlega einni öld. Ferðafélagsfólk tók sig til um miðja síðustu öld og bætti við fjölda varða sérstaklega í hrauninu milli Helgadals og Kerlingaskarðs, en vörðurnar á sjálfri heiðinni eru án efa mun eldri og hafa verið jafn þéttar og raun ber vitni vegna þess að þar getur verið erfitt að rata í þokuslæðingi og súldarsudda, sem skellur oft á með litlum fyrirvara þar efra eins og menn þekkja. Þá hefur líka verið nauðsynlegt að hafa leiðina vel varðaða á vetrum vegna snjóa sem sitja oft lengi í Leirdölunum og víðar.
Hrauntungustígur, Stórhöfðastígur og Straumsselsstígur voru ekki síður farnir af heimamönnum, íbúum á Innnesjum og Útnesjum og Krýsuvíkingum en þær leiðir sem í dag eru taldar hafa verið höfuðleiðir. Þessar leiðir voru varðaðar með allt öðru móti en alfaraleiðirnar. Vörðurnar eru smærri, jafnvel ekki annað en svonefndar þrísteinavörður, en með stöku stórum vörðum á milli á lykilstöðum. Stórhöfðastígurinn lá sannalega austan við Fjallið eina og sameinaðist Undirhlíðaleið við Grænklofa við brún Hrútadyngjuhrauns.
Þrátt fyrir þá fullyrðingu Ólafs Þorvaldssonar að vetraferðir með hesta milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar væru fátíðar, verður að hafa það í huga að hann bjó í Herdísarvík þegar byggð var að fara í eyði í Krýsuvík. Hans sýn miðast að sjálfsögðu við samtíð hans og það sem hann hefur numið af sér eldra fólki er hann var barn í Ási og seinna þegar hann var í vinfengi við fólkið í Stóra-Nýjabæ, sem voru síðustu ábúendur þar. Þetta fólk (og þar með Ólafur sjáflur) áttu það til að ná sér í aukatekjur með rjúpnaveiði og sölu á afurðunum fyrir jólin. Á þeirri tíð voru vetrarferðir næsta fátíðar á þessum slóðum. Engu að síður hefur Ólafur fyrir því að greina frá því að: “Ef snjó setti niður af austri eða norðaustri, t.d. meðan menn höfðu viðdvöl í kaupstaðnum, var venjulega snjóléttara á þessum leiðum (Hrauntungustíg og Stórhöfastíg) en með Undirhlíðum og Hálsum.”
Þar af leiðandi voru þessar leiðir farnar á hestum og gangandi, en á þeirri tíð þegar hestaferðir voru eingöngu tíðkaðar enda vagninn eða bíllinn ekki kominn til sögunnar. Ekki er gott að átta sig á því hvað voru tíðar eða fátíðar ferðir. Það eina sem er alveg á hreinu er að það var ekki ósjaldan farið með hesta milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar á vetrum. Og þá voru helstu leiðirnar Undirhlíðaleið og Hálsaleið (þegar snjóalög voru ekki til vandræða) eða Vatna- og Dalaleið (einkum þegar lágt var í Kleifarvatni) eins og sagan af Slysadalsnafninu ber með sér auk munnlegra heimilda afkomenda þeirra sem bjuggu í Krýsuvík. Það áttu samt ekki allir hesta, samanbera gamla konan sem hafði flutt til Hafnarfjarðar og fann að dauðinn nálgaðist. Hún tók sig til einn morguninn að vorlagi og hélt sína leið (þá stystu) um Hrauntungustíg til Krýsuvíkur, sótti sér vígða mold úr skjóðu og bar á baki sér heim í Hafnarfjörð. Hún vildi hafa sína mold úr Krýsuvík þegar rekunum var kastað.
Auðvitað hafa menn (og konur) ekki verið að flengjast þessa leið í erindisleysu. Undirhlíðaleiðin var örugglega oftar ófær á veturna vegna snjóa en nú er og þá hafa Stórhöfðastígur, Hrauntungustígur eða janfvel Straumsselsstígur eða Rauðamelsstígur verið betri kostur. Veðurlag og fleira réð ferðalögum í þá daga, bæði yfir sumartímann og á veturna. Þetta er haft eftir gömlu og frómu fólki. Jón “í Skuld” Magnússon var t.d. vanur að fara þessar leiðir á hestum ásamt föður sínum og bræðrum í æsku.
Þegar endanleg ganga um Stórhöfðastíg er næstum á enda við utanverðan Ás er komið að tóftarbroti á vinstri hönd, norðan Hádegisskarðs, þar sem Stórhöfðastígur og Hrauntungustígur lágu fyrrum á milli vestri Ásfjallsaxlar og Grísaness. Ólafur Þorvaldsson segir í grein sinni um leiðir þessar frá Hafnarfirði að: „Þegar ferðamenn ætluðu Stórhöfðastíg var farið frá Hafnarfirði upp hjá Jófríðarstöðum, um hlaðið á Ási, oft gist þar ef menn t.d. komu frá Reykjavík.
Frá Ási var farið suður úr Skarði, yfir Bleiksteinsháls, suður yfir Selhraun, vestan undir Stórhöfða, nokkurn spöl suðaustur með honum, lagt á hraunið frá suðurhorni hans, fyrst um gamalt klapparhraun þar til komið var á nýrra brunabelti sem á sínum tíma hefur runnið eða gata sem enginn veit hvenær ruddur hefur verið, annars með öllu ófær hestum.“
Nú er búið að undirbúa nýbyggingarsvæði í vestanverðum Dalnum þar sem Stórhöfðastígur og Hrauntungustígur lágu fyrrum til suðurs frá Hádegisskarði. Búið er að kroppa í þann sýnilega hluta gatnanna, sem enn var sýnilegur á þessum slóðum. Kroppið virðist hafa verið ónauðsynlegt vegna framkvæmdanna, en líklega vegna meðvitunarleysis skipulagsyfirvalda og verktaka hefur þarna farið forgörðum kærkomið tækifæri til að varðveita innan bæjarmarkanna hluta þeirrar sögu er hér að framan greinir.
Stikun stíga eins og Stórhöfðastígs undirstrikar í raun mikilvægi þess að halda hinum gömlu þjóðleiðum við, auka líkur á varanlegri verndun þeirra og efla vitund áhugafólks um nokun þeirra til heilsueflingar, fróðleiks, andgiftar og skemmtunnar. Um er að ræða leiðir, stíga og götur í svo mikilli nálægð við helstu þéttbýliskjarna landsins og það svo nærtæka að hjákátlegt er að sleppa því auðvelda tækifæri að notfæra sér möguleikann.
Sem fyrr segir var gerð sérstök ferð um Snókalöndin og er þeim lýst annars staðar á vefsíðunni. Þar er um að ræða hraunsvæði sem máttarvöldin, sem stóðu að jarðeldunum 1151 og skópu Nýjahraun (Kapelluhraun/Brunann) virtust hafa haft áhuga á að hlífa. Háir hraunhryggir hafa hlaðist upp með þeim og beint glóandi hrauninu frá. Eftir standa gróðurvinar þær er Ólafur lýsir.
Lagt var af stað í þessa Stórhöfðastígsgöngu síðdegis, eftir vinnu, að haustlagi. Dimman gerði að lokum vart við sig. Gangan tók 3 klst og 3 mín. Frábært veður – að ekki sé talað um sólsetrið yfir hraunbrúnini vestanverðri.
Heimildir m.a.:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, 7. tbl. 52. árg., 18. maí 1994.
-Ólafur Þorvaldsson 1949. Fornar slóðir milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar. Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48. Bis. 81-95.
-Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson & Árný Erla Sveinbjörnsdóttir 1991. Krýsuvíkureldar II. Kapelluhraun og gatan um aldur Hellnahrauns. Jökull 41. 61-80.
-Jónatan Garðason.
Stórhöfðastígur.