Bergangur

Bergganga má sjá víða á Reykjanesskaganum. Flestir hafa ekið fram hjá nokkrum slíkum á leið sinni um svæðið.
Einn berggangurinn er t.a.m. ofan við Vatnsskarðið í Sveifluhálsi, að norðanverðu, annar (og reyndar nokkrir) gengur Berggangur í Slöguupp úr Festisfjalli austan við Grindavík og sjá þriðji stendur sem kóróna á kolli S
lögu ofan við Ísólfsskála. Þannig má segja að þau systkin, Festisfjall og Slaga, skarti hvort sínum náttúrulega skartgrip. Fyrirbærið er í raun berg, sem hefur storknað í aðfærsluæð eldstöðvar eða fyllt upp í sprungu.
Berggangar eru sprungufyllingar, það er að segja bergkvika sem þrýst hefur út í sprungur í berginu og storknað þar. Berggangar eru því alltaf yngri en bergið í kring. Venjulega er þeim skipt í tvennt; ganga sem upphaflega voru sem næst lóðréttir og lagganga eða „sillur“ sem fylgja jarðlagamótum. Víðast hvar mynda berggangar „sveima“ eða „reinar“ sem tengjast ákveðinni eldstöð. Einn slíkur sveimur er áberandi upp af Tíðaskarði á Kjarnesi. Upp úr Sveifluhálsinum má víða sjá slíkar reinar.
Berggangar geta verið aðfærslukerfi bergkviku að eldstöð, eða þeir geta hafa myndast við lárétt „kvikuhlaup“ út frá eldstöð. Í goseldum stíga stundum brennisteinsgufur upp úr sprungum eftir skjálftavirkni. Kvika streymir síðan eftir sprungunum sem áður höfðu myndast. Eftir það brýtur hún bergið í leiðinni jafnframt því sem sprungur á yfirborði gleikka. Í Kröflueldum endurtók þetta sig margsinnis og kvika streymdi ýmist til norðurs eða suðurs. Stundum fylgdi eldgos en oft ekki. Þegar kvikan storknaði var orðinn til nýr berggangur.

Berggangur í Vatnsskarði

Með segulmælingum á gömlum göngum má stundum ákvarða hvort kvikan hafi streymt lárétt eða lóðrétt, og hvort tveggja er sem sagt þekkt. Í tertíera bergstaflanum á Austfjörðum og Vestfjörðum má ætla að gangar hafi yfirleitt verið lóðréttir í upphafi, það er hornréttir á hraunlögin, en 10-20 gráðu halli frá lóðréttu stafi þá af því að allur staflinn hallar.
Í kringum megineldstöðvar finnast oft keilugangar, það er gangar sem mynda öfuga keilu með „toppinn“ í miðju eldstöðvarinnar. Jafnframt er víða að finna lagganga, sem þá liggja samsíða hraunlögunum og hafa skotist inn á milli þeirra. Iðulega er ekki augljóst hvort um hraunlög eða innskotslög er að ræða. Það má þá greina af því að báðar brúnir ganganna eru glerjaðar, það er hraðkældar, en á hraunum er það bara neðri brúnin.

Heimild m.a.:
-hi.is/svar.asp%3Fid%3D2990+jar%C3%B0fr%C3%A6%C3%B0i+berggangur&hl=is&ct=clnk&cd=9&gl=is

Berggangur

Berggangur yst á Reykjanesi.

Krýsuvík
Fyrst voru tóttir Litla-Nýjabæjar skoðaðar vestan við þjóðveginn og síðan haldið að bæjarhól Stóra-Nýjabæjar.
Í túnkantinum norðan við hólinn eru upptök Eystrilækjar, sem síðan liðast niður Krýsuvíkurheiðina og steypist fram af Krýsuvíkurbergi austan við vitann.

Krýsuvík

Krýsuvík – mógrafir.

Norðar, utan í hæð sunnan Grænavatns eru tóttir. Talið er að þær geti verið leifar hjáleigu er nefndist Fell. Vestar eru tóttir elsta bæjar í Krýsuvík, að Kaldrana undanskildum, Gestsstaða. Þær eru undir hlíðinni skammt vestan Krýsuvíkurskóla.
Gengið var mógröfunum sunnan við vegamót þjóðvegarins og Ísólfsskálavegar og síðan yfir að Snorrakoti vestan Ísólfsskálavegar, en tóttir bæjarins eru vel greinilegar. Bæjargarðurinn snýr á móti suðri og sést enn vel. Suðvestar, inni á túninu undir Bæjarfelli, er Norðurkot, miklar tóttir og hefur sá bær einnig haft samfastan garð á móti suðri.

Krýsuvík

Lækur í Krýsuvík.

Handan vegarins, sunnan Vestarilækjar, er stórbýlið Lækur, miklar tóttir, garðar og falleg heimtröð. Gengið var frá bænum um hlaðna heimtröðina að Krýsuvíkurbænum, aftur yfir Vestarilæk, upp með tóttunum og að Krýsvíkurkirkju. Krýsvíkurbærinn, sá síðasti, stóð utan í og ofan við tóttirnar (sem munu vera af Hnausum). Hann var jafnaður við jörðu um 1960. Kirkjan, sögufræga, er opinn og öllum aðgengileg. Frá henni var gengið yfir veginn til suðurs og þá komið að Suðurkoti. Tóttir bæjarins er á og sunnan við grashólinn, sem hæst ber. Austan hans er Ræningadysin, sem sagt er frá í sögum af Eiríki á Vogsósum, auk tótta.

Krýsuvík

Krýsuvík 1789.

Þegar komið var að vörslugarðinum, sem liggur á milli fellanna, Bæjarfells og Arnarfells, var beygt til austurs að Arnarfellsbænum. Tóttir bæjarins eru sunnan í grasigróinni hlíð Arnarfells. Þaðan sést til Arnarfellsréttar í suðaustri. Gengið var að henni og hún skoðuð. Um er að ræða hlaðna, stóra og myndarlega, rétt í lægð og er erfitt að koma auga á hana úr fjarlægð.

Krýsuvíkursel

Krýsuvíkursel við Selöldu.

Stefnan var tekin á austanverða Selöldu. Þegar komið er yfir hálsin blasir við gróin brekka suðvestan undir honum. Mikið landrof hefur orðið þarna í gegnum tíðina, en þó markar enn fyrir hleðslum neðst í brekkunni er gætu hafa verið mjög gamall stekkur. Einhvern tímann hefur allstór lækur runnið austast vestur með sunnanverðri Selöldunni.

Krýsuvík

Krýsuvík 1789. Norðurkot er neðst t.v.

Vestar með hlíðunum er grasigróið svæði og tóttir. Hér er talið að Krýsuvíkursel hafi verið. Í Jarðabókinn frá 1703 er sagt að Krýsuvík hafi bæði haft í seli til fjalla og fjöru. „Hitt selið var á Seltúni undir Sveifluhálsi. Skammt vestan við tóttirnar er stór steinn. Við hann er talsvert gróið og líklegt er að þar hafi verið stekkur suður undir honum. Ummerki benda til þess“. Stekkurinn er reyndar skammt austan við Seltúnið. Þar er og hringlaga nátthagi. Sjálft selið var í austanverðu túninu, en hefur nú verið jafnað við jörðu í þá fyrirhugaðrar ræktunar á svæðinu.

Eyri og Krýsuvíkursel

Eyri undir Selöldu – uppdráttur ÓSÁ.

Skammt suðvestar við selið eru margar tóttir og sumar heillegar. Hér er talið að bærinn Eyri hafi staðið, rétt ofan við lækjarfarveginn. Bærinn fór í eyði árið 1775. Frá tóttunum ætti að vera best að ganga áfram vestur með Selöldunni, en ef gengið er frá þeim til suðurs kemur nokkuð merkilegt í ljós. Á grashól eru miklar hleðslur, greinileg fjárborg. Hennar er hvergi getið og verður því hér nefnd Neðri-Eyrarborg. Vestan í henni er stekkur eða löng og mjó hústótt. Ofar, til austurs, er önnur fjárborg, svolítið minni. Verður hún nefnd Efri-Eyrarborg.
Vestast í sunnanverðri Selöldunni, á Strákum, eru miklar hleðslur undir móbergskletti. Þetta er fjárhús og eru veggir þess svo til alveg heilir. Suðvestan undir Strákum eru svo heillegar tóttir gamals bæjar, er nefndist Fitjar.
Það merkilega gerðist að þessu sinni, sem og svo oft áður, að þrátt fyrir rigningu allt um kring, lék veðrið við göngufólkið alla leiðina.

Selalda

Selalda – minjar – uppdráttur ÓSÁ.

Slaga

Grindavík lætur sér ekki nægja að eiga bróðurpartinn af öllum fjöllum á Reykjanesskaganum heldur eru í umdæminu merkilegustu jarðfræðifyrirbæri svæðisins. Er þar einkum átt við gosminjar frá sögulegum tíma. Og einnig í þeim efnum slær umdæmið öðrum svæðum við því að öllum líkindum er á hraunssvæðum bæjarins að finna elstu mannsvistarleifar landsins, þ.e. í Húshólma í Ögmundarhrauni. Slaga ofan Ísólfsskála eru bæði áþreifanlegur og merkilegur staðfestingarvottur þess sem óútskýrt hefur verið (sjá síðar). Segja má með sanni að berggangur í henni miðri, auk aldurslagskiptingar syllumyndana, sé kóróna hennar líkt og festin er Festisfjallinu, nágranna hennar.
Höfði og nágrenni - loftmyndÖgmundarhraun var löngum talið í skriflegum heimildum hafa runnið á tímabilinu frá 1150 til 1340, en nútímarannsóknir hafa sýnt fram á að hraunið rann um haustið 1151. (Í ljósi þess að háskólanemum er jafnan gert að geta heimilda í ritgerðarskrifum sínum má af þessu sjá að heimildir geta reynst rangar – jafnvel skriflegar – og hver er þá tilgangurinn? Af hverju ekki að byggja á eigindlegum rannsóknum – sem ætti jú að vera megintilgangur nútíma háskólanáms). Í sumum skrifum má sjá að Afstapahraun hafi runnið árið 1325 [m.a. á vef Útivistar], en rétt er að geta þess að einungis eitt eldgos varð á Reykjanesskaganum á 14. öld, þ.e. í Brennisteinsfjöllum (um 1340). Hins vegar hefur komið í ljós, sem ályktað var, að Afstapahraun er úr sömu goshrinu og Ögmundarhraun. Kapelluhraun er enn eitt hraunið úr þeirri sömu goshrinu. En svo er einnig um nokkur önnur nálæg hraun á svæðinu.
Til að upplifa myndunarsöguna var stefnan tekin upp að Höfða í Grindavíkurlandi. Fellið, fjallið, eða hæðin sú lætur ekki mikið yfir sér, en fæddi samt sem áður af sér eina stórbrotnustu hrauntröð svæðisins sem og sýnishorn af flestum öðrum jarðmyndunum er verða við gjósku-, klepra- og hraungos á sprungureinum. Allt hraunið er þakið hraungambra. Af augnyfirliti gróðurvæðingarinnar að dæma virðist hraunheildin öll vera frá svipuðum tíma.
Höfði er á sprungurein með Sandfelli, Hraunssels-Vatnsfelli og Oddafelli. Sú myndun var á síðasta ísaldarskeiði, undir jökli, líkt og hálsarnir beggja vegna; Fagradalsfjall, Vatnsfell og Hagafell í langvestri, Mælifell, Langihryggur, Stórihrútur, Kistufell, Litlihrútur, Litlikeilir og Keilir á millum og síðan Núpshlíðarháls (Vesturháls) og Sveifluháls (Austurháls) í austri.

Hrauntröðin mikla úr Höfða

Á milli þeirra hefur orðið gos á sprungurein frá sama tímaskeiði; Latfell og fjöllin inn að Móhálsadal og norður af (Hrútafell, Fjallið eina). Utan í fellunum eru síðan sprungugígaraðir frá því eftir að ísa leysti fyrir u.þ.b. 11.000 árum. Fyrst á eftir urðu dyngjurnar fyrstar til að móta landi, en eftir landnám má sjá 12-15 gos á sprungureinum á svæðinu. Áþreifanlegur vitnisburður um eina goshrinuna á sögulegum tíma má sjá utan í Höfða. Sunnan hans eru misgengi þar sem sjá má ísaldarbergið, en skammt vestar er Slaga. Lengi vel var talið að hún hafi myndast á síðasta jökulskeiði, en Jón Jónsson, jarðfræðingur, var sannfærður um að undirstaða hennar væri frá enn eldra jökulskeiði því í brúnunum má sjá jökulrákir undir nýrra hraunlagi. Annars er Slaga, líkt og nágrennishlíðar, dæmi um gamla sjávarhamra, áður en nýrri hraun fylltu undirlendið og færðu sjóinn utar og stækkuðu þar með landið. En af líkum lætur mun Ægir endurheimta umdæmi sitt – þótt síðar verði.
Spölkorn suðvestan við Núpshlíðarháls úti í hrauninu er einn fallegasti hraungígurinn á Reykjanesskaga, Moshóll. Því miður er búið að skemma hann með efnistöku og er það sorglegt dæmi um virðingarleysi í umgengni mannsins við náttúruna. Jón Jónsson taldi hann einn merkilegastan hraungíga á landinu því í honum mátti sjá þversnið sprungureinar. En sammsýnin skemmir oft það skemmtilegasta.
Gata yfir SkolahraunFjallað hefur verið hér að framan um hraun. En hvað er það? Hraun er jarðskorpa eða möttulefni (einnig kallað bergkvika) sem flæðir upp á yfirborð jarðar við eldgos. Hitastig sem getur verið frá 700 – 1200°C. Kvikan verður til vegna hitamyndunar í iðrum jarðar sem einkum stafar af niðurbroti geislavirkra efna (t.d. úrans og þóríums). Kvikan er heit og því eðlisléttari en umhverfið, sem veldur því að hún tekur að stíga í átt til yfirborðs þar sem hún kemur upp í eldgosum og rennur sem hraun. Tegundir hrauna eru að meginefni til tvenns konar; basísk hraun (eða mafísk) eru venjulega fremur kísilsnauð og eru því fremur þunnfljótandi. Felsísk (eða súr) hraun eru yfirleitt kísilrík og seigfljótandi og mynda gjarnan straumflögótt berg. Hraun kólna eða storkna á yfirborði og mynda fast berg. Fasta bergið er samsett úr kristölluðum steindum, en kólnunarhraði hraunsins ræður mestu um það hversu grófgerðir kristallarnir verða. Þeim mun hægar sem hraun kólna þeim mun stærri verða kristallarnir. Kristallar verða einnig stærri þeim mun lengur sem kvikan er í kvikuhólfi.
Hraunæðar utan í HöfðaSnertifletir og yfirborð hrauna er oft gler- eða kargakennt, þar sem kólnun þessara flata er hraðari vegna snertingar við eldri og kaldari jarðmyndanir og andrúmsloft. Því ná kristallar ekki að myndast. Berg sem myndast við hraunrennsli á yfirborði kallast gosberg.
Basísk hraun mynda venjulega annaðhvort hellu- eða apalhraun sem vísar að mestu til yfirborðsásýndar hraunanna. Enskt heiti þessara hraungerða eru „Aa-lava“ (apalhraun) og „Pahoehoe“ (helluhraun), en ensku nafngiftirnar eru komnar frá Hawaii eyjaklasanum, þar sem eingöngu renna basalthraun.
Helluhraun (e. Pahoehoe; úr Hawai’isku) er nokkuð slétt hraun sem verða til við eldgos með þunnfljótandi basalt-kviku. Helluhraun eru að jafnaði auðveld yfirferðar og oft alsett hraunreipum sem myndast þegar efsta lag hraunsins storknar en massinn heldur áfram að hreyfast. Stærstu helluhraun heims eru á Hawaii en einnig eru helluhraun á Íslandi; svo sem Hallmundarhraun og Eldhraun við Mývatn. Það síðarnefnda rann á árunum 1724 til 1729.
Við mikið hraunrennsli getur myndast hraungöng yfir og undir yfirborðinu. Ef slík hraungöng tæmast myndast hellar og traðir sem standa eftir.
Jarðýturuðningur eftir gamalli þjóðleið yfir LeggjarbrjótshraunApalhraun (e. Aa, úr havaiísku) er úfið hraun sem verður til í þeim eldgosum þar sem er flæðigos með basískri hraunkviku. Þau eru jafnan með kaldari hraunkviku og brotna því frekar upp en þunnfljótandi helluhraunin.
Og þá svolítið um aldurinn; Ögmundarhraun rann árið 1151. Talið er þó að eldgosahrinan á svæðinu hafi staðið í a.m.k. 30 ár. Rjúpnadyngjuhraun og Mávahlíðahraun eru talin vera frá 1188.
Þegar skoðuð er loftmynd af svæðinu má vel sjá hvernig hrauntaumarnir hafa runnið. Um hefur verið að ræða goshrinur báðum megin við Núpshlíðarháls. Að austanverðu liggur gígaröðin upp frá Skalla (Núpshlíðarhorni) með stefnu á Gvendarselsgíga utan í Undirhlíðum vestan Helgafells. Að vestanverðu liggur gígaröð upp frá Moshól, utan í Höfða og áfram inn að Eldborg undir Trölladyngu, um Mávahlíðar og um Sauðabrekkugíga. Hraunin, sem gígaröðin fæddi af sér heita að vísu ýmsum nöfnum, en þau breyta ekki tilurðinni.
Þegar gengið er upp í Höfða frá Méltunnuklifi við Ísólfsskálaveg má á stutti leið lesa fyrrgreind aldursskil jarðsögunnar. Á vinstri hönd eru ísaldarleifar og á þá hægri nútímahraun.

Méltunnuklif - gamla þjóðleiðin

Þess á millum má lesa sögu gróðureyðingar á svæðinu. Á 1100 ára tímabili hefur það gerbreyst, frá því að vera algróið frá fjöru til fjalls, til þess að verða nær örfoka. Einstaka gróðurtorfur eru enn til merkis um öfugþróunina. Stundum hefur sauðkindinni verði kennt um, en þegar upp er staðið og staðreyndir skoðaðar eru afleiðingarnar einungis mannsins.
Aðkoman að Höfða er tilkomumikil. Bæði má sjá minni gosgíga (hliðargosop) með tilheyrandi myndunum (hraunæðum, gúlpum og kleprum), feiknamikla hrauntröð og svo gíginn sjálfan. Þegar staðið er upp á gígbrúninni má sjá upp og yfir Skolahraunið og niður Leggjarbrjótshraunið, allt niður að Katlahrauni við Selatanga. Gígurinn er opinn til suðurs og úr honum rann glóandi hraunkvikan um hrauntröðina stóru uns hún safnaðist saman í kvikuþró ofan Kinnar. Þegar þróin fylltist hefur kvikan fundið sér leið áfram til suðurs. Loks hefur fóðrið skort og kvikan runnið undan og tröðin orðið eftir. Fyrst í stað hefur kvikan verið bæði heit og þunnfljótandi, en þegar frá dró upphafinu hefur hún orðið kaldari og grófmyndaðri. Þannig má sjá helluhraun undir apalhrauninu, en augljóst má telja að hvorutveggja hafi komið úr sömu goshrinuni; á mismunandi tíma. Vel má sjá hvernig frumkvikan hefur lagst yfir landið, fyllt upp lægðir og flætt niður á við, í átt til sjávar, og hrauntaumar á jöðrum og síðar komnir hafa brotnað upp og dagað uppi á leiðum sínum sömu leiðir.Rofabarð ofan við Höfðaháls - við Méltunnuklif
Þetta ferðalag varð enn betur áberandi þegar haldið var til suðausturs niður Skolahraunið. Kinn er há hraunbrún gegnt Línkrók í Núpshlíðarhálsi. Þar hefur þunnfljótandi helluhraunið runnið fram af og kvikan þar með náð meiri ferð á niðurleiðinni. Hraunið er yfirleitt einungis nokkurra sentimetra þykkt svo sjá má fyrir sér hvernig landið hefur legið þarna fyrrum. Í Kinninni eru jarðfræðimyndanir, sem einnig má sjá við neðanverða Selatanga; slétta hraunkolla (kleprakolla), en Dágon (landamerki Krýsuvíkur og Ísólfsskála) hefur verið einn slíkur. Þarna uppi eru kollarnir hins vegar óspjallaðir af ágangi rofaflanna. (Auðvitað eiga háskólagengnu sérfræðingar eftir að rannsaka hraunin, aldursgreina og samræma þau með meiri nákvæmni).
Leitað var að hellum og skútum í Kinninni, en í því var einungis að finna fáa slíka. Jafnan var um að ræða litla skúta og stuttar yfirborðsrásir, enda hefur hraunið þarna verið þunnt, sem fyrr sagði. Ólíklegt er að finna megi hraunrásir í eldra hrauninu undir því, en þó er ekkert útilokað í þeim efnum.
GöngusvæðiðLeggjarbrjótshraunið milli Línkróks og Höfðahálsar er í rauninni rangnefni því óvíða er greiðfærara yfir hraun á Reykjanesskaganum. Auðvelt er að rölta yfir það neðan við ennið og virða fyrir sér hinar stórbrotnu hraunmyndanir í hlíðinni. Auk þess liggur falleg og breið gata þvert yfir Leggjarbrjótshraunið undir Kinninni, með stefnu á vörðu á Höfðahálsinum sunnanverðum.
Í bakaleiðinni var gengið um gömlu þjóðleiðina um Mjöltunnuklif. Þarna lá þjóðleið um aldir (sem af undirlaginu má sjá). Árið 1932 greiddi Hlín Johnsen í Krýsuvík 100 kr. fyrir endurgerð götunnar svo komast mætti leiðina með vagna. Þá götu má sjá frá suðurenda Einihlíða að Klifinu, en kaflinn yfir Leggjarbrjótshraun hefur nú verið ruddur með nútíma tækjabúnaði; jarðýtu – illu heilli. Þó má enn sjá gömlu götuna norðan og ofan ruðningsins á köflum, auk þess sem gömlu vörðurnar standa enn. Um er að ræða hluta af hinum þjóðsagnarkennda Ögmundarstíg handan við hálsinn. Í klifinu sjálfu, sem Jón Guðmundsson (f: 1921) á Skála, einn vegavinnumannanna, þurfti að sprengja klett er skagaði út í götuna. Í dag má, ef vel er rýnt (hér að neðan), sjá þar andlit – anda klettsins. (Í umfjöllun um Méltunnuklif er jafnan birtar ljósmyndir af misgenginu nokkru sunnar, sem verður í besta falli að teljast misvísun).
Óvíða vaxa hrútaber jafn mörg á litlu svæði og undir Mjöltunnuklifsmisgenginu.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst. og 11 mín.
Méltunnuklif - Höfði fjær - gróðureyðingin sést vel

Stórhöfðastígur

Gengið var eftir Stórhöfðastíg frá Undirhlíðavegi að Stórhöfða.
Ólafur Þorvaldsson lýsir leiðinni í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48, reyndar frá Ási upp á Undirhlíðaveg. Þar segir hann að „Stórhöfðastíg fóru stundum lausríðandi menn frá Krýsuvík til Hafnarfjarðar. Fóru þá sem leið lá inn með hálsum, þar sem sú leið er allgóður reiðvegur, þar til kom á móts við þar sem Stórhöfðastígurinn lá vestur á milli Fjallsins eina og Sandfells. Sá stígur var stundum tekinn því að við það féll úr mikill krókur inn með Undirhlíðum um Kaldársel en hitt bein lína til Hafnarfjarðar. Þó að Stórhöfðastígur sé frekar slitróttur var gott að láta hestinn njóta ferðarinnar, en jafnsnemma komið til Hafnarfjarðar eða fyrr þrátt fyrir stirðari veg.“
Ólafur lýsir og stígnum þar sem hann liggur milli Sandfells og Fjallsins eina „og er þá Sandfellið á hægri hönd, allnærri“.
Stórhöfðastígurinn hefur nú verið stikaður að hluta, frá Undirhlíðavegi niður á Sléttuna.
Undirhlíðavegur sést vel í rótum móbergshróka Grænklofa ofan Djúpavatnsvegar – fast ofan Sandfellsklofa. Þar eru gatnamótin, í beygju á þjóðveginum, áður en komið er að bílastæðinu við Hrútagjá. Sjást þau vel. Þaðan liggur hann augljós niður með lágum grónum hraunhrygg austan utanverðrar gjáarbrúnarinnar.
Gjábrúnin er þarna bæði há og tilkomumikil. Auðvelt er að sjá í vegg hennar fyrrum hraunþakhelluna er lyfst hefur vegna mikils kvikuþrýstings undir niðri. Þegar kvikan síðan storknaði undir hélst veggurinn í rúmlega 45° halla. Endi gjárinnar sést í norðausturhorni „veggsins“, stór og mikilfenglegur. Hrútfell er þarna á hægri hönd. Stígurinn er augljós með rótum Sandfellsins. Reykjavegurinn hefur verið stikaður þarna eftir nýrri leið, en Stórhöfðastígurinn er svolítið norðaustan hans og liggur samhliða á nokkrum kafla. Hinar nýju stikur höfðu verið settar með Reykjaveginum, en voru nú færðar yfir á hinn eiginlega Stórhöfðastíg. Hann fylgir síðan rótum Sandfellsins að mikilli gjá. Sú liggur til norðurs með vestanverðu Sandfellinu og er jafnframt misgengi.
Á sumum kortum hefur þessi gjá, sem liggur alveg niður að gígaþyrpingu suðaustan við Sléttuna sunnan Krýsuvíkurvegar, nafnið Fjallgjá. Önnur gjá, með sömu stefnu, en nokkru vestar, hefur og verið nefnd því nafni. Einhvern veginn virðist Fjallgjárnafnið eðlilegra á þessari gjá því hún liggur upp með Sandfellinu vestanverðu og Fjallinu eina austanverðu, en hin kemur eiginlega hvergi að fjalli. En hvað um það. Stórhöfðastígur liggur þarna niður gróna hraunbrekku milli fellanna. Þar greinist hann í tvennt með hrauntungu. Sama er hvor leiðin er valin því þær koma saman neðan tungunnar. Þar fylgir stígurinn rótum Fjallsins eina og síðan gróinni vesturbrún gjárinnar. Bæði er skjólsælt þar fyrir austanáttinni (sem kom berlega í ljós í þessari ferð) og auk þess er fallegt að horfa til baka, upp eftir stígnum þar sem hann liggur á milli fellanna með Hrútargjána sem bakgrunn.
Einir er áberandi á þessu svæði og ekki spilltu nýtilkomnu haustlitirnir í birkilaufinu fyrir litadýrðinni. Hraunssvæðin eru engu lík við þessar aðstæður.
Þegar komið var skammt ofan við gígaþyrpinguna nafnlausu (hér er stungið upp á hún verði nefnd Ásar í höfuðið á Ásbirni þeim er hefur verið með þeim duglegri að rekja gamlar götur og leiðir á þessu svæði auk þess sem nafnið minnir á upphaf stígsins að norðanverðu) fer gatan beggja vegna við lága hraunhæð og síðan með henni að þyrpingunni vestanverðri. Neðan (norðan) hennar breytir hraunið bæði um svip og yfirbragð. Við tekur ógrónara, ósléttara hraun og mosavaxnara, án þess að í því séu hæðir og lægðir. Með fránum augum má sjá hvar stígurinn lá með stefnu í næsta hraunnef að vestanverðu. Austan við það kemur stígurinn aftur mjög glögglega í ljós. Smám saman „birtir“ meir og meir yfir honum á sléttri hraunhellu Sléttunnar. Á kafla greinist hann þar í tvennt, en kemur saman á ný skammt norðar. Þar liggur stígurinn yfir austurmörk Straumslands og inn á Ásland með vestanverði brún Brunans, framhjá og í gegnum fallegan „gróðurvog“ þar sem „Tvídrangar“, tveir háir hraunstöplar rísa upp úr Brunanum og halla sér hvor að öðrum. Þarna er einn af fáum stöðum í öllum hraununum þars em sjá má áþreifanlega kynjaskiptingu hraunsins. Yfirleitt er talað um það í hvorukyni, en á þessum stað er það bæði í karlkyni og kvenkyni. Því getur í raun enginn trúað nema líta það eigin augum. Undir hraunbrúninni má sjá mannanna verk á tveimur stöðum, þakin mosa. Annað gæti hafa verið skjól eða jafnvel hús og hitt aðhald fyrir hesta eða fé. Skammt norðar er fallin fyrirhleðsla yfir stíginn.
Stórhöfðastíg var fylgt með hraunkantinum að skógræktargirðingu við slóða vestan gatnamóta Krýsuvíkurvegar og Bláfjallavegar. Áður en komið er þangað virðist stígurinn hverfa á stuttum kafla, en þegar betur er að gáð má sjá hvar hann liggur yfir sléttan klapparhrygg og síðan áfram niður gróna lænu. Þar virðast vera gatnamót. Líklega eru þau til komin vegna þess að ferðalangar á leið suður Stórhöfðastíg gleymdu að taka þar vinstri beygju. Hafi þeir haldið áfram hefur leið þeirra legið um hæðir og lægðir uns komið var að þeirri Fjallgjá, sem vestari hefur verið nefnd. Með góðum vilja hefur verið hægt að fylgja henni upp með Fjallinu eina vestanverðu. Þar liggur reyndar gata, sem sumir hafa tekið sem Stórhöfðastíg, en er í raun eitt afsprengi hans.
Norðvestan slóðans liggur Stórhöfðastígur í gegnum skógræktargirðinguna á stuttum kafla, niður með henni utanverðri og beygir síðan til norðurs yfir Krýsuvíkurveginn skammt vestan gatnamóta Bláfjallavegar, niður í ofanverðar Brunntorfur (Brunatorfur/Brundtorfur). Þar sést hann greinilega. Stígurinn liggur framhjá fallega hlöðnu ferköntuðu gerði í góðu skjóli. Skjól þetta hefur væntanlega verið notað til tilhleypinga frá Straumi eða Þorbjarnastöðum. Brunntorfurnar (Brundtorfurnar) gætu hafa dregið nafn sitt af því. Markagirðing Straums og Áss er þarna skammt austar. Líklega má finna fleiri mannvirki á þessu svæði ef vel væri leitað. Áfram til norðurs liggur stígurinn í gegnum gróið hraun, vestan brunabrúnar. Frá henni liggur gata til austurs, inn í Snókalöndin. Skammt norðar eru gatnamót. Gata liggur af stígnum til suðurs og síðan vesturs, um grónar hraunlænu milli klapparhóla, yfir Krýsuvíkurveginn með stefnu á vörður handan hans. Að öllum líkindum er um að ræða leið að hlöðnu fjárskjóli, sem nú er innan svæðis Skógræktarinnar, og síðan áfram niður að Straumi. Þessi gata er sýnd á uppdrætti Ólafs, sem og mörkin.

Varða framundan segir til um hvar Stórhöfðastígur fer inn á brunann. Á og með brúninni er hlaðinn garður utan í henni, sennilega fyrirstaða þegar fé var rekið eftir stígnum. Í gegnum brunann er stígurinn augljós, bæði gróinn og greiðfær. Eftir stutta göngu rífa gamlar malargryfjur stíginn, en ef línu er fylgt beint yfir þær má sjá bút af honum handan við brúnina. Eftir göngu um þann hluta óskerta brunans er aftur komið að malargryfjum sem hafa tekið gamla Stórhöfðastíginn. Nú er nýbúið að slétta þar undir verðandi trönusvæði. Norðan þess er klettur. Vestan við klettinn er Stórhöfðastígur enn ósnertur. Hægt er að fylgja honum af öryggi áfram í gegnum hraunið að suðausturhorni Stórhöfða. Þaðan liggur stígurinn til norðvesturs vestan hans, áleiðis að Ási. Lengra var ekki farið að þessu sinni. Stígurinn um Hellnahraunin, yngra og eldra, verða geymd til betri tíma. Þá er og ætlunin að skoða Snókalöndin betur við fyrsta tækifæri.
Snókalöndin fyrrnefndu, austan Stórhöfðastígs og norðan núverandi Krýsuvíkurvegar vestan gatnamóta Bláfjallavegar, eru heimur út af fyrir sig. Ólafur segir frá Snókalöndunum í fyrrnefndri grein sinni: „Í nýja brunanum, spölkorn austur af stígnum, eru tveir dálitlir blettir eða hólmar, sem bruninn hefur ekki náð að renna yfir. Ekki ber þau hærra en umhverfið og sjást því ekki lengra til og helst ekki fyrr en að er komið. Hestfær götuslóð liggur norður í Snókalönd, nokkur austar en þar sem Stórhöfðastígurinn kemur suður úr brunanum. Ekki eru Snókalöndin jafnstór, það vestra nokkur stærra og slóð á milli. Hvað liggur til grundvallar þessu nafni veit víst enginn lengur en á tvennt mætti benda. Í fyrra lagi að þarna hafi vaxið villihvönn, snókahvönn – geitla. Í öðru lagi að blettir þessi, sem hafa verið miklu gróðurríkari en umhverfið, hafi fengið nafnið land af töngum þeim og hornum sem hinn ójafni brunakantur myndar þarna í grennd og gæti því þýtt „Krókalönd“. Í orðabók Blöndals segir að snókur sé angi eða útskiki út frá öðru stærra. Gætu því tangar þeir, sem út úr brunanum ganga, verið stofn að þessu nafni. Þó finnst mér fyrri tilgátan sennilegri. Líkur benda til að þarna hafi verið nokkur skógur og máske verið gert að kolum fyrrum.
Gatan út í Snókaköndin bendir á nokkra umferð þangað. Sökum fjarlægðar þessa staðar frá alfaraleið óttast ég að svo geti farið að hann gleymist og nafnið týnist þar sem þeir, er mest fóru þar um og héldu með því við mörgum örnefnum, voru fjármenn og smalar en þeim fækkar óðum um þessar slóðir sem víðar.“
Gatan, sem Ólafur nefnir, er enn greinileg. Vörður eru við hana. Hún liggur inn á brunann og inn í vestari Snókalöndin og úr þeim inn í þau austari.
Með grein Ólafs fylgir kort með fornum leiðum milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar. Á því er Stórhöfðastígur sýndur liggja frá Undirhlíðavegi ofan við Hrútagjá, niður með gjárbarminum að austan og norðanverðu, milli Sandfells og Fjallsins eina, niður með Fjallgjá, niður að Stórhöfða og áfram heim að Ási.
Ofan Snókalanda heldur Ólafur áfram að segja frá leiðinni: „Þegar suður úr brunanum kemur liggur stígurinn upp með suðvesturbrún hans og fylgir maður brunanum þar til komið er móts við Vatnsskarð í Undirhlíðum sem farið er þá að nmálgast. Úr því liggur stígurinn meira til suðurs þar til komið er að Fjallinu eina. Er það fremur lágt, hrygglaga fjall með klettaborg á suðurenda. Austan undir því liggur stígurinn og er þá Sandfell á vinstri hönd allnærri. Er nú stutt þar til komið er á Undirhlíðaveginn, skammt suður af Sandfellsklofa.“
Fyrr á öldum lágu margar leiðir milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur og voru það ýmist vegir, götur eða stígar. Sú leið sem mest var farin, og aðallega þegar farið var með hesta, lá úr Hafnarfirði öðru hvorum megin við Hamarinn upp yfir Öldur, þar sem nú er kirkjugarðurinn, framhjá Lækjarbotnum og upp í Kaldársel. Þaðan lá leiðin að Undirhlíðum og síðan ýmist norðan við Undirhlíðar eftir svonefndum Undirhlíðavegi eða sunnan við Undirhlíðar eftir svonefndri Dalaleið. Undirhlíðavegur var aðalvegurinn milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar og var oftast farinn á sumrin þegar farið var lausríðandi eða með lest. Var þessi leið talin vera um 8 stunda lestargangur. Þegar Undirhlíðavegur var valinn var farinn Ketilstígur yfir Austurhálsinn yfir í Krýsuvík, en ef Dalaleið var valin var farið með norðurströnd Kleifarvatns að Krýsuvík.
Gangandi menn fóru oft um tvo stíga, Stórhöfðastíg og nokkru vestar Hrauntungustíg, milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur, svo og ef farið var með fáa hesta að vetrarlagi.
Þegar ferðamenn ætluðu Stórhöfðastíg var farið frá Hafnarfirði upp hjá Jófríðarstöðum, umhlaðið í Ási, og oft gist þar ef menn komu t.d frá Reykjavík. Frá Ási var farið suður úr Skarði, yfir Bleiksteinsháls og suður yfir Selhraun að Stórhöfða og þaðan áfram að Fjallinu eina og komið inn á Undirhliðaveg við Norðlingaháls.
Ef menn völdu Hrauntungustíg var farið frá Ási um Skarð vestan Ásfjallsaxlar yfir hraunhaft milli Grísaness og Hamraness og stefnan tekin á Hrútafell, en skammt þar sunnan við er komið inn á Ketilstíg (Ólafur Þorvaldsson 1949).
Margir eiga erfitt með að átta sig á gömlum leiðum og víða eru þær fáfarnari að gróa upp og hverfa og þar af leiðandi er mikilvægt að halda þeim við með einum eða öðrum hætti. Hvort um höfuðleið, alfaraleið, sýsluveg eða hvað annað er að ræða er ekki aðal atriði. Þær leiðir sem lýsingar eru til af, t.d. frá Ólafi Þorvaldssyni, eiga jafn mikinn rétt á sér hvort sem hann hefur talið þær fáfarnar eða fjölfarnar. Greinina „Fornar slóðir…“ birti hann í Árbók Fornleifafélagsins 1943-1948 – og það er sú lýsing sem Ferðafélagið endurprentaði í sérriti. Með gömlu greininni fylgir ágætt kort af hinum gömlu leiðum, en í sérritinu var gerð tilraun til að merkja leiðirnar inn á kort, af mikilli ónámkvæmni vægast sagt. Sérritið kostar kr. 1000 og er það 999 kr. of mikið. Það er því varla krónu virði umfram gömlu prentunina.
Leiðir á þessu svæði hafa fyrst og fremst verið varðaðar með ókunnuleika ýmissa ferðalanga og vermanna í huga, á svipaðann hátt og sýsluvegirnir voru mjög vandlega varðaðir og breikkaðir um og eftir 1890, enda meginleiðir eða alfaraleiðir. Sama gildir um Selvogsgötuna, sem var ágætlega vörðuð, en er mun betur vörðuð í dag en hún var fyrir rúmlega einni öld. Ferðafélagsfólk tók sig til um miðja síðustu öld og bætti við fjölda varða sérstaklega í hrauninu milli Helgadals og Kerlingaskarðs, en vörðurnar á sjálfri heiðinni eru án efa mun eldri og hafa verið jafn þéttar og raun ber vitni vegna þess að þar getur verið erfitt að rata í þokuslæðingi og súldarsudda, sem skellur oft á með litlum fyrirvara þar efra eins og menn þekkja. Þá hefur líka verið nauðsynlegt að hafa leiðina vel varðaða á vetrum vegna snjóa sem sitja oft lengi í Leirdölunum og víðar.

Hrauntungustígur, Stórhöfðastígur og Straumsselsstígur voru ekki síður farnir af heimamönnum, íbúum á Innnesjum og Útnesjum og Krýsuvíkingum en þær leiðir sem í dag eru taldar hafa verið höfuðleiðir. Þessar leiðir voru varðaðar með allt öðru móti en alfaraleiðirnar. Vörðurnar eru smærri, jafnvel ekki annað en svonefndar þrísteinavörður, en með stöku stórum vörðum á milli á lykilstöðum. Stórhöfðastígurinn lá sannalega austan við Fjallið eina og sameinaðist Undirhlíðaleið við Grænklofa við brún Hrútadyngjuhrauns.
Þrátt fyrir þá fullyrðingu Ólafs Þorvaldssonar að vetraferðir með hesta milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar væru fátíðar, verður að hafa það í huga að hann bjó í Herdísarvík þegar byggð var að fara í eyði í Krýsuvík. Hans sýn miðast að sjálfsögðu við samtíð hans og það sem hann hefur numið af sér eldra fólki er hann var barn í Ási og seinna þegar hann var í vinfengi við fólkið í Stóra-Nýjabæ, sem voru síðustu ábúendur þar. Þetta fólk (og þar með Ólafur sjáflur) áttu það til að ná sér í aukatekjur með rjúpnaveiði og sölu á afurðunum fyrir jólin. Á þeirri tíð voru vetrarferðir næsta fátíðar á þessum slóðum. Engu að síður hefur Ólafur fyrir því að greina frá því að: “Ef snjó setti niður af austri eða norðaustri, t.d. meðan menn höfðu viðdvöl í kaupstaðnum, var venjulega snjóléttara á þessum leiðum (Hrauntungustíg og Stórhöfastíg) en með Undirhlíðum og Hálsum.”
Þar af leiðandi voru þessar leiðir farnar á hestum og gangandi, en á þeirri tíð þegar hestaferðir voru eingöngu tíðkaðar enda vagninn eða bíllinn ekki kominn til sögunnar. Ekki er gott að átta sig á því hvað voru tíðar eða fátíðar ferðir. Það eina sem er alveg á hreinu er að það var ekki ósjaldan farið með hesta milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar á vetrum. Og þá voru helstu leiðirnar Undirhlíðaleið og Hálsaleið (þegar snjóalög voru ekki til vandræða) eða Vatna- og Dalaleið (einkum þegar lágt var í Kleifarvatni) eins og sagan af Slysadalsnafninu ber með sér auk munnlegra heimilda afkomenda þeirra sem bjuggu í Krýsuvík. Það áttu samt ekki allir hesta, samanbera gamla konan sem hafði flutt til Hafnarfjarðar og fann að dauðinn nálgaðist. Hún tók sig til einn morguninn að vorlagi og hélt sína leið (þá stystu) um Hrauntungustíg til Krýsuvíkur, sótti sér vígða mold úr skjóðu og bar á baki sér heim í Hafnarfjörð. Hún vildi hafa sína mold úr Krýsuvík þegar rekunum var kastað.
Auðvitað hafa menn (og konur) ekki verið að flengjast þessa leið í erindisleysu. Undirhlíðaleiðin var örugglega oftar ófær á veturna vegna snjóa en nú er og þá hafa Stórhöfðastígur, Hrauntungustígur eða janfvel Straumsselsstígur eða Rauðamelsstígur verið betri kostur. Veðurlag og fleira réð ferðalögum í þá daga, bæði yfir sumartímann og á veturna. Þetta er haft eftir gömlu og frómu fólki. Jón “í Skuld” Magnússon var t.d. vanur að fara þessar leiðir á hestum ásamt föður sínum og bræðrum í æsku.
Þegar endanleg ganga um Stórhöfðastíg er næstum á enda við utanverðan Ás er komið að tóftarbroti á vinstri hönd, norðan Hádegisskarðs, þar sem Stórhöfðastígur og Hrauntungustígur lágu fyrrum á milli vestri Ásfjallsaxlar og Grísaness. Ólafur Þorvaldsson segir í grein sinni um leiðir þessar frá Hafnarfirði að: „Þegar ferðamenn ætluðu Stórhöfðastíg var farið frá Hafnarfirði upp hjá Jófríðarstöðum, um hlaðið á Ási, oft gist þar ef menn t.d. komu frá Reykjavík.
Frá Ási var farið suður úr Skarði, yfir Bleiksteinsháls, suður yfir Selhraun, vestan undir Stórhöfða, nokkurn spöl suðaustur með honum, lagt á hraunið frá suðurhorni hans, fyrst um gamalt klapparhraun þar til komið var á nýrra brunabelti sem á sínum tíma hefur runnið eða gata sem enginn veit hvenær ruddur hefur verið, annars með öllu ófær hestum.“
Nú er búið að undirbúa nýbyggingarsvæði í vestanverðum Dalnum þar sem Stórhöfðastígur og Hrauntungustígur lágu fyrrum til suðurs frá Hádegisskarði. Búið er að kroppa í þann sýnilega hluta gatnanna, sem enn var sýnilegur á þessum slóðum. Kroppið virðist hafa verið ónauðsynlegt vegna framkvæmdanna, en líklega vegna meðvitunarleysis skipulagsyfirvalda og verktaka hefur þarna farið forgörðum kærkomið tækifæri til að varðveita innan bæjarmarkanna hluta þeirrar sögu er hér að framan greinir.
Stikun stíga eins og Stórhöfðastígs undirstrikar í raun mikilvægi þess að halda hinum gömlu þjóðleiðum við, auka líkur á varanlegri verndun þeirra og efla vitund áhugafólks um nokun þeirra til heilsueflingar, fróðleiks, andgiftar og skemmtunnar. Um er að ræða leiðir, stíga og götur í svo mikilli nálægð við helstu þéttbýliskjarna landsins og það svo nærtæka að hjákátlegt er að sleppa því auðvelda tækifæri að notfæra sér möguleikann.
Sem fyrr segir var gerð sérstök ferð um Snókalöndin og er þeim lýst annars staðar á vefsíðunni. Þar er um að ræða hraunsvæði sem máttarvöldin, sem stóðu að jarðeldunum 1151 og skópu Nýjahraun (Kapelluhraun/Brunann) virtust hafa haft áhuga á að hlífa. Háir hraunhryggir hafa hlaðist upp með þeim og beint glóandi hrauninu frá. Eftir standa gróðurvinar þær er Ólafur lýsir.
Lagt var af stað í þessa Stórhöfðastígsgöngu síðdegis, eftir vinnu, að haustlagi. Dimman gerði að lokum vart við sig. Gangan tók 3 klst og 3 mín. Frábært veður – að ekki sé talað um sólsetrið yfir hraunbrúnini vestanverðri.

Heimildir m.a.:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, 7. tbl. 52. árg., 18. maí 1994.
-Ólafur Þorvaldsson 1949. Fornar slóðir milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar. Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48. Bis. 81-95.
-Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson & Árný Erla Sveinbjörnsdóttir 1991. Krýsuvíkureldar II. Kapelluhraun og gatan um aldur Hellnahrauns. Jökull 41. 61-80.
-Jónatan Garðason.

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur.

Straumur

Björn Hróarsson hellafræðingur, stofnandi Hellarannsóknafélags Íslands og FERLIRshúfuhafi fékk árið 2007 erlend rannsóknaverðlaun fyrir verk sitt, Íslenskir hellar.
Björn við gerð bókarinnar Enska hellafélagið The Shepton Mallet Caving Club velur og verðlaunar árlega mesta stórvirki félagsmanna í hellarannsóknum. Verðlaunin eru kennd við hellarannsóknarmanninn Bryan Ellis en hann teiknaði einmitt kortið af Raufarhólshelli árið 1970. Það kort er í bókinni Íslenskir hellar.
Verðlaunin eru bæði peningaverðlaun og farandstytta af hellakönnuði. Fyrir nokkrum árum fékk Hayley Clark þessi verðlaun fyrir kort af hellinum Flóka sem birt er í bókinni Íslenskir hellar ásamt upplýsingum um verðlaunin. Á aðalfundi félagsins nýverið fékk Björn Hróarsson þessi verðlaun fyrir bókina Íslenskir hellar. Er það í fyrsta sinn sem einstaklingur sem ekki er Breti fær þessi verðlaun. Á heiðursskjali sem verðlaunum fylgdu segir: „The SMCC Bryan Ellis Award – 2007 – Presented to Björn Hróarsson for the outstanding Íslenskir hellar“.
Á verðlaunaskjalinu er einnig ljósmynd af verðlaunastyttunni.
Björn er vel að verðlaununum kominn, enda bók hans bæði stórvirki á íslenskan mælikvarða og einstök í sinni röð í veraldarsögunni.

Raufarhólshellir

Raufarhólshellir.

 

Ísólfsskáli

Viðtalið er við hjónin á Ísólfsskála, Agnesi Jónsdóttur og Guðmund Guðmundsson. Það birtist í Vísi árið 1967:

Isolfsskali-23„Á milli brattra gróðurlítilla hæða, skammt ofan við brimsorfna strönd nokkru austar en Grindavíkurþorp, stendur snoturt og vel umgengið býli sem heitir ísólfsskáli. Þangað hef ég nú lagt leið mína og notið til þess atbeina tveggja systkina, sem slitið hafa þar barnsskónum á bröttum brimlúðum mölum. Og í notalegri stofu, þar sem ég get hreiðrað um mig í mjúku hægindi, situr andspænis mér kona. — Já, víst er aldurinn orðinn hár, því nú á hún 90 ár að baki. — En hvort aldurinn segir alla sögu tel ég vafasamt og nú skulum við heyra stutta þætti úr lífssögu þessarar konu, og blik bjartra augna segir mér að þar á megi nokkurt mark taka — ennþá sé minnið trútt og dómgreindin óbiluð.
— „Ég heiti Agnes Jónsdóttir og er fædd á Þórkötlustöðum í Grindavík. Foreldrar mínir voru Jón Þórðarson og Valgerður Gamalíelsdóttir, sem þar bjuggu, og þar ólst ég upp.
— Það er sennilega orðin mikil breyting á frá þeim tíma?
— Já, það er meira millibilið. Þá voru bara nokkrar torfbaðstofur í Þórkötlustaðahverfinu, og öll útgerð á áraskipum. Veiðarfærin voru handfæri og lína. Afli var oft ágætur, einkum á vertíðinni, og fiskurinn gekk  mjög nærri landi. Þó brimlending sé í Grindavik og oft tvísýn landtaka kom mjög sjaldan fyrir að ekki væri fært Þórkötlustaðasund.
— Manst þú eftir mikilli fátækt í æsku þinni?
Isolfsskali-24— Ójá. Það höfðu nú margir lítið fyrir framan hendurnar. Flestir höfðu mjög fáar kindur, t. d. höfðu foreldrar mínir 11. Þegar ég var 23ja ára gömul fór ég frá foreldrum mínum og réðist til manns og var hjá honum í 11 ár og áttum við saman 6 börn. — En svo sundraðist það samband og fór ég þá aftur til foreldra minna og var hjá þeim um tíma. En svo vorið 1910 fór ég til hans Guðmundar míns, sem þá var lausamaður á Hrauni og þar vorum við í 6 ár, en fluttum þá hingað að ísólfsskála og höfum verið hér síðan eða 51 ár, þann 4. júní í vor.
— Hvernig var nú um að litast þegar þú komst hingað?
— Það var nú ekkert björgulegt. Jörðin hafði þá verið þrjú ár í eyði og fremur köld aðkoman. Baðstofan var lítil.
— Þú manst hörðu árin um 1880?
— Já. Þá var af skaplega mikill snjór, t.d. man ég það að grafa þurfti göng til að komast út úr bæjunum. Þeir voru að vísu ekki háreistir.
Isolfsskali - 25— Hvenær ert þú fædd?
— Þann 3. desember 1876.
— Þú ert þá orðin vaxin kona um aldamót?
— Já, og ég man eftir slysförum sem urðu hér á sjó aldamótaárið, það var úti á rúmsjó — ekki við land. Þetta var 28. október um haustið. Af þessum báti var einum manni bjargað en þrír fórust. Hann var þó ekki langlífur því á vertíðinni lézt hann. Og ævilok hans urðu þau, að hann fór fram í Þórkötlustaðanes, og hafði með sér byssu. Það var oft siður að skjóta fugl til bjargræðis heimilum. Skot hljóp úr byssunni. — Meðan við dvöldum á Hrauni hafði Guðmundur þar útgerð á stóru áraskipi, sem á voru 11 menn og höfðum við þá 18 manns í heimili. Fyrstu árin eftir að við fluttum hingaö hafði hann áfram útgerð á Hrauni yfir vertíðina, og þá var ég ein heima með krakkana. — En það, að við fluttum hingað orsakaðist nokkuð af því, að ég hygg, að Guðmundur er hér fæddur og uppalinn. Hann er nú 83 ára og við höfum átt saman 6 börn. Mín börn eru því 12 og af þeim 11 á lífi.
Isolfsskali-29— Þetta er orðið þó nokkuð ævistarf?
— Já, það hefur stundum orðið að taka til hendinni. Fyrst þegar við komum hér var aðeins örlítill túnblettur kringum húsið. En hér er nú orðin töluverð ræktun og mest unnin upp úr sandi.
— Hvað er þér nú sérstaklega minnisstætt frá þessari 50 ára veru hér í Ísólfsskála?
— Hér í skálanum hefur okkur liðið mikið vel. Aldrei orðið fyrir neinum óhöppum eða undan neinu að kvarta. Við vorum að vísu mjög fátæk fyrstu árin meðan börnin voru í æsku. Hjá okkur voru tvö börn mín frá fyrra sambandi og svo öll börn okkar Guðmundar. Auk þess tókum við tvö börn í fóstur.
– Bættuð við það sem lítið var?
— Já, þess var þörf vegna barnanna.
— Þú manst þá tíð þegar askar voru matarílát fólksins?
— Já, heima hjá pabba og mömmu var ætíð borðað úr öskum og með hornspónum, og á þá voru Isolfsskali-31grafin fangamörk eigendanna. Ljósabúnaður á heimilinu voru fýsislampar — kveikurinn í þá var snúinn úr ljósagarni. — Og fræðin mín — Helgakverið — lærði ég við lýsislampa. — Eldiviðurinn sem brennt var í eldhúsinu var mosi og þang. — Ég man mjög vel eftir því að ég var þar að lesa kverið mitt og þá féll sótkökkur úr mæninum niður á bókina.
— Fékkst þú tilsögn í skrift á þínum uppvaxtarárum?
— Já, ég var látin í skóla, sem þá starfaði í Garðhúsum og vorum við tvær systur þar sína vikuna hvor. – Og hérna getur þú séð skriftina mína, — og nú réttir hún mér bók sem er þannig frágengin að margur 70 árum yngri gæti verið hreykinn af. — Og þessi bók hefur að geyma mikinn og merkilegan fróðleik, í hana er skrifuð dagleg veðurlýsing síðustu 30 ára. — Og það virðist svo sem höndin sé þvi nær jafnstyrk á síðustu og fyrstu síðum bókarinnar.
Isolfsskali-30— Finnst þér minni þitt nokkuð farið að förlast?
— Nei, ekki held ég það, ennþá man ég flesta atburði sem nokkurs er um vert í lífshlaupi mínu — og ég get fylgzt með því sem fram fer í kringum mig og haft full not af blöðum og útvarpi.

Og nú er hér kominn bóndi Agnesar, Guðmundur Guðmundsson, en foreldrar hans, Guðmundur Hannesson og Guðrún Jóelsdóttir, bjuggu hér í Ísólfsskála í 20 ár — en þegar setjast undir svo stórar árar á þeim aldri?
— Jú, náttúrlega var það erfitt, og svo að setja skip og bera upp fiskinn. En skipin varð öll að setja af handafli, spil voru ekki komin fyrr en á síðustu sjófaraárum mínum, en þau voru nú fremur ófullkomin í fyrstu.
Hraun-91— Og hvað segir þú svo um fimmtíu ára samstarf ykkar hjóna hér á Ísólfsskála?
— Mér finnst það hafa verið gott og lífið hér ánægjulegt og boðið okkur marga góða kosti, þótt örðugt væri í fyrstu.
— Hefur þú aldrei róið héðan að heiman?
— Það er tæpast teljandi. Fyrstu árin reri ég frá Hrauni — lá þar við, en hún var ein heima með börnin og satt að segja var ég þá aldrei í rónni þegar vond voru veður. — En vorum að reyna að rétta okkur við þetta hlutskipti meðan við vorum að reyna að rétta okkur úr kútnum og börnin að komast á legg. — Öll innkaup varð að spara til að geta staðið í skilum og borgað allt upp einu sinni á ári — þá hlaut maður líka nokkra tiltrú í viðskiptum.
— Eru engin selalátur eða lagnir hér í nágrenninu?
— Jú, líklega hefur það nú verið, því hér framan við tána hérna er hóll, sem hét Nótarhóll. Svo hér fyrri — 1703 — var stunduð selveiði í látrum hér austur á Selatöngum — en þann veiðirétt áttu Krýsuvíkingar að nokkru.
Notarholl-2— Þú manst eftir byggð í Krýsuvík?
— Já, en hún var þó farin að dragast saman þá. Faðir minn bjó þar nokkur ár á Vígdísarvöllum.
— Hefur þú aldrei lent í neinum verulegum erfiðleikum á sjó, Guðmundur?
— Nei, ég hef nú verið formaður hér og svo líka verið austur á fjörðum, bæöi Borgarfirði, Seyðisfirði og Fáskrúðsfirði og reri út í Seley, en aldrei lent í neinu sem í frásögur er færandi og á sér ekki ótal hliðstæður í lífi íslenzkra sjómanna.
— En þú hefur oft aflað vel?
— Já, svona eftir mætti en mig skorti efni til að hafa nægilega góðan útbúnað hvað veiðarfæri snerti. Ég þurfti að fá allt að láni hjá kaupmanninum — Einari í Garðhúsum. Hann var svo sem ágætur ef maður stóð í skilum og eins og ég sagði áðan, þannig hafðist þetta. — En svo þurfti að byggja hér upp, þá fór ég til Tryggva Þórhallssonar og hann aðstoðaði mig við að fá til þeirra framkvæmda 6000 króna lán úr byggingar- og landnámssjóði.
— Voru það ekki talsverðir peningar þá?
— Jú, en það var nú sama. Það var nú ekki nóg.
— Tengst af ykkar búskap hér á Ísólfsskála, að frá teknum fyrstu árunum, hafið þið haft ykkar aðalframfæri af landbúnaði?
— Já, það hefur verið svo, en við höfum alrei haft stórt bú, til þess eru engin skilyrði,
Thorkotlustaðanes-305— Nei, en faðir minn gerði héðan út tvo báta einu sinni. Það var vegna þess að hann fékk ekki uppsátur úti i nesi. Þetta gekk nú ágætlega, það var í tvö skipti sem þeir hleyptu til út i nes. Annað skiptið fyrir brim — en annað skipti vegna þess að hann var svo hvass á norðan og þá börðu þeir upp í nesið.
— Hvernig lending er hér?
— Hún getur nú ekki talizt góð. Með landinu er alltaf geysilegur austanstraumur. Og þegar komið var úr róðri var aflinn allur settur á seilar utan við lendinguna, færi bundið við og dufl sett á, en færið var í hnykli í skipinu og rakti sig þegar tekinn var landróðurinn, um leið og lagið kom. Þegar
skipið kenndi grunns, stukku allir út og brýndu því undan sjó. Þurfti hér oft mikið snarræði og örugg handtök. Síðan voru seilarnar dregnar í land og bornar á bakinu hér upp á kambinn, þar sem aflanum var skipt. — Það var stórt atriði að formaðurinn væri öruggur.
— Þú hefur haft sauði?
— Já, ég held þeir hafi komizt upp í 40. Hvað sumarhaga snertir er hér mikið landrými.
Seltangar-905— Hér kemur ekki hafís?
— Aldrei hefur það komið fyrir svo langt sem við munum, en af því höfum við haft sagnir frá eldri tímum.
— Hvað gerði fólkið sér til skemmtunar á ykkar æskuárum?
— Það þætti nú held ég fábreytt núna. Gíslakeðja — Höfrungaleikur og feluleikur. — Fullorðna fólkið lagði sig í rökkrinu og þá fengu unglingarnir að leika sér með því móti að hafa ekki hátt.
— Þú segist ekki hafa gert út héðan?
– Það var gert út frá Seltöngum.
— Var þaðan útræði?
— Já, ég hef heyrt að fyrir Bátsendaflóðið hafi gengið þaðan 14 skip og ennþá sjást glögg merki verbúðanna.
— Já, það er margs að minnast frá fyrri árum, t.d. á haustin, þá var „þangað“ í fjörunni og reitt upp á fleiri hesta.
— Þangað? — Hvað kallarðu að þanga?
Mosi-4— Nú, þangið í fjörunni var tekið og reitt upp og svo þurrkað til eldiviðar. — Svo var reittur mosi. — Þetta var aðaleldsneytið, og svo dálítið af taði. Þetta var svo allt borið heim til bæjar á bakinu og þar var eina eldstóin hlóðir. t.d. þegar konan fór í mosatekju, þá bar hún hann heim í „fætli“ og prjónaði á leiðinni. — Svona var nú vinnumennskan þá.
— Er ekki hægt að fara með sjó úti í Grindavík?
— Nei. Það er ógengt, verður að fara hér efra — eins er það inn til Krýsuvíkur.
— Hvernig voru skiptin á þessum áraskipum hér?
— Væru 11 á þá var skipt í 14 staði. — Þrír hlutir dauðir, einn fyrir skipið og tveir fyrir veiðarfærin — formannshlutur þekktist ekki, enginn aukapartur fyrir það. — En nú skal ég segja þér nokkuð: — Einu sinni rauk hann upp í suðvestan veður að næturlagi, þeir fara allir ofan og þá er báturinn farinn en skipið komið á hliðina — Þeim tókst að bjarga því við illan leik. — En hvar heldurðu að bátinn hafi rekið? — Hann rak vestur á Hraunssand á móti þessu stórviðri

Guðmundur og Agnes

Guðmundur og Agnes á Skála.

— Svona sterkur er straumurinn. —
— Hve langa línu höfðuð þið?
— Það var nú dálítið misjafnt — stundum á vorin lögðu þeir 300 króka hérna í leirinn og fylltu bátana. Og eftir því man ég, að pabbi reri stundum á vorin með 60 króka skötulóð hérna austur á Mölvíkina — og það var oft skata á hverju einasta járni — kannski ber svona einn öngull. — Allt saman stór skata. — Það er góður matur vel verkuð skata. — Þá var svo mikið lifað á harðæti og bræðingi. Þetta kom mergnum í mann — sérstaklega bræðingurinn — en hann var búinn til úr bræddri tólg og sjálfrunnu þorskalýsi. — Hver útvegsbóndi varð að leggja háseta til eitt fat undir lifur og ég held einnig fjórðung af rúgi og fjórðung af fiski. — Svo fékk hver maður 50 pund af mjöli, sem átti að duga í kökumat yfir veturinn, og einn sauð, sem átti að duga í kæfu, hvort sem menn vildu heldur stykkjakæfu eða soðkæfu — svo tvo fjórðunga af tólg og einn af smjöri — eða þrjá af smjöri. — Þetta var matan. Soðninguna tóku menn af afla. Það voru tveir í hverju rúmi, þeir höfðu kastið Selatangar-923saman og tóku af því. — Fiskurinn var svo verkaður sem harðfiskur eöa skreið á þeirra tíma vísu, en með nokkuð ólíkum hætti og nú er gert. Salt var þá ekki fáanlegt.
-Ég tók eftir mjög vel hlöðnum grjótgörðum víða hér umhverfis túnið og niður við sjóinn. — Eru þeir þín verk?
— Já, flestir eru þeir hlaðnir eftir mig.
— Er ekki trjáreki hér?
— Jú, dálítill. T. d. get ég sagt þér að báturinn sem brotnaði hérna vestur á Hraunssandinum var smiðaður úr einu rekatré. Já, það er margt sem rifjast upp þegar litið er til baka um langan veg — og víst væri fróðlegt að heyra meira úr lífssögu þeirra Ísólfsskálahjóna — sem svo margt er frábrugðin þeirri sögu sem skráð yrði um hagi þeirra, sem nú eru ungir eða innan við miðjan aldur.
— Ungir? — Það er nú spurningin.
— Er það gamalt fólk, sem hér hefur talað? — ánægt með sitt hlutskipti — laust við andlega lífsþreytu, að vísu með rúnir áranna ristar í skurnið.
— Hver er ungur? „Oft hefur sjötugur fyrir tvítugs manns tær stigið“.

Heimild:
-Vísir, 12. júní 1967, bls. 16-17, Fimm tugir ára á bröttum kambi við brimlúðar flúðir, vital við Guðmund Guðmundsson og Agnesi Jónsdóttur á Ísólfsskála.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – uppdráttur ÓSÁ.

Kristjánsdalir

Viktor og Jóhanna (FERLIRsfélagar) voru nýlega á ferð um Brennisteinsfjöll. Þau komu m.a. við í námunum vestan Draugahlíða.

Tóftin

Tóft undir Skörðum.

Á leið þeirra niður Kerlingarskarð gengu þau óhefðbundna leið niður með rótum Tvíbolla (Miðbolla) og Stórabolla. Ofarlega, undir Tvíbollum, eru leifar af húsi námumannanna (hleðsluhús). Neðar taka við gróningar í rótum. Skammt neðan við mesta brettann má vel greina tóft á hægri hönd, fast upp við hlíðina. Hún er ferköntuð (2×3.50 m að innanmáli). Hleðslur sjást vel, einkum að þeirri hlið er snýr að hlíðinni. Hæð á hleðslum eru um 60-80 cm. Þær standa grónar.
Þegar tóftin var skoðuð komu í ljós a.m.k. þrjú umför í tvíhlaðinni hleðslu. Það bendir til þess að þarna sé um að ræða neðri hluta (hlaðinn) af timburhúsi. Grjót hefur fallið inn og út úr veggjum, en hvergi er að sjá timbur. Bendir það til þess að húsið getið verið a.m.k. frá fyrri hluta síðustu aldar eða eldra. Ekki er að sjá dyr á vegghleðslunni. Hurð hefur því einungis verið á timburveggnum (hugsanlega þó á austanverðum suðurveggnum).

Selvogsgata

Selvogsgata neðan Kerlingarskarðs.

Tilgangur hússins gæti verið einhver eftirfarandi: Athvarf fyrir rjúpnaveiðimenn í Lönguhlíðum og Brennisteinsfjöllum. Á fyrri hluta síðustu aldar gerðu athvæðamiklir veiðimenn út á rjúpuna á þessu svæði, enda leitaði sú litla gjarnan niður í hlíðarnar eftir að snjóa tók efra. Sagnir eru til af mikilli veiði. Þá héldu veiðimennirnir til í húsum undir hlíðunum, sem gott hefur verið að leita í, einkum þegar veður tóku skyndilega að versna þarna efra. Slíkar tóftir má t.s. sjá í Kristjánsdölum þarna skammt norðar með hlíðunum. Önnur tóftin þar (sú nyrðri) er svo til eins og þessi.
Þá gæti þarna hafa verið skjól eða sæluhús fyrir ferðamenn um Selvogsgötuna eða geymsla og/eða athvarf fyrir „aðflutningsmenn“ aðdrátta og afurða til og frá námumönnum í Brennisteinsfjöllum. Fyrstnefnda tilgátan er væntanlega sú er helst kemur til greina.
Frábært veður.

Varða

Varða við Selvogsgötu.

Gullbringuhellir

Gengið var upp með Gullbringu yfir að Hvannahrauni og spölkorn norður eftir gömlu þjóðleiðinni að Vatnshlíð. U.þ.b. í miðju hrauninu var haldið til austurs upp hraunið og komið staðnæmst við op á löngum helli, sem þar er. Í honum er m.a. halið bæli er bendir til þess að hann hafi verið notaður sem athvarf, t.s. fólks sem átti leið um þessa gömlu þjóðleið.

Gullbringuhellir

Bæli í Gullbringuhelli.

Hellirinn var ekki skoðaður að þessu sinni heldur haldið á hlíðina, austur með norðanverðu Vörðufelli og áfram upp að Eldborg. Staldrað var við á hrikalegri gígbrúninni með útsýni um svo til allt vestanvert Reykjanesið. Sást vel yfir að Hvirfli, Grindarskarðshnjúkum og Syðstubollum í norðri, Æsubúðum í suðri og yfir Sveifluhálsinn, Núpshlíðarhálsinn, Keilir, Fagradalsfjall, Þórðafell og Súlur í vestri. Haldið var niður með Eldborginni og í Brennisteinsfjöll austan við Kistufell. Á leiðinni blasti hinn formfagri Kistudalur við á vinstri hönd. Þegar komið var niður í hlíðina suðaustan undir Kistufelli sást flugvélabrak dreift um urðina, stór hreyfill, vænghluti og skrokkhluti skammt frá. Í hraunrás sáust skrúfublöðin í mosanum. Sagt er frá flugslysi þessu í Flugsögu Íslands.

Brennisteinsfjöll

Kistufellsgígur.

Skýjabakki stefndi inn yfir landið úr austri. Ákveðið var að halda suður með Brennisteinsfjöllum – með hlíðina á hægri hönd og hrikalegt hraunið á vinstri hönd. Morgunsólin varpaði þarna sérstakri birtu á umhverfið svo það var í rauninu engu líkt. Í einu orði sagt var frábært að standa þarna við þessar aðstæður. Áður en komið var á móts við Vörðufellið var haldið þaðan til vesturs og komið niður að Gullbringu í þá mund er regnið byrjaði að láta vita af sér.
Gangan tók rúmlega 4 klst. Frábært veður.

Gullbringuhellir

Í Gullbringuhelli.

Sauðabrekkuskjól

Helstu leiðir milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur voru Stórhöfðastígur, Undirhlíðavegur, Dalaleið, Straumsselstígur og Rauðamelsstígur. Flestar leiðirnar lágu saman við Ketilinn þar sem Ketilsstígur tekur við.
HrauntungustígurÆtlunin var að fylgja enn einni leiðinni af Ketilsstíg/Rauðamelsstíg frá Hrúthólma að Hrauntungum. Þessi kafli leiðarinnar hefur einnig verið nefndur Hrúthólmastígur.
Götur og stígar, sem legið hafa saman, hafa gengið undir fleiru en einu nafni. Þannig var stígurinn er lá upp frá Óttarsstöðum, yfir Alfaraleið og um Óttarsstaðasel ýmist nefndur Óttarstaðaselsstígur, Skógargata, Raftastígur eða Rauðamelsstígur. Ein leiðin lá áfram upp úr selinu inn í Hrúthólma og önnur um Skógarnefið. Þar greindist hún í tvennt og hét hin anginn Mosastígur er lá upp að Dyngjum þar sem Hálsagötur taka við ýmist með eða yfir hálsinn eftir því hvert leiðin lá þaðan.
Lagt var af stað frá Katlinum með Hrútafelli í Hrúthólma, niður með Mávahlíðahnúk að Sauðabrekkugjá, framhjá Fjallsgreni, um Almenning, niður í og inn í Hrauntungur og að Krýsuvíkurvegi. Áætlaður göngutíma var 5 klst og 5 mín. Í leiðinni var tilgangurinn m.a. að rekja og staðsetja stíginn í hraununum ofan og neðan við Almenning, en þar greinist hann í nokkrar leiðir og er hvað ógreinilegastur í mosa, lyngi og kjarri. Hefur sérhver valið sér hentuga leið, allt eftir tilgangi og tilefni ferðar hverju sinni. Gatan er greinileg í sléttu hellihrauninu, en ógreinlegri þar sem hraunið verður fjölgrónara og óreglulegra. Með lagni er þó hægt að rekja nokkra anga hennar áleiðis niður í Hrauntungur, þar sem þær sameinast ofan þeirra.
Leiðin frá Katlinum liggur um veg undir vestanverðum Sveifluhálsi, að Djúpavatnsvegi. Við gatnamótin er hlið á beitarhólfsgirðingu. Í dag má þar sjá stikur Undirhlíðavegar sem liggur undir hlíðunum að Kaldárseli og Ketilsstígs er liggur áfram niður hraunið til norðurs. Í Hrúthólma liggja saman Rauðamelsstígur og Hrauntungustígur, sem fyrr segir.
sveppurKetilsstígurinn hefur, sem fyrr segir, verið stikaður spölkorn til norðurs, eða að mótum Reykjavegar (stika 58). Reykjavegur er nútímagöngustígur, 114 km langur, er stikaður var af stórhug milli Nesjavalla og Reykjanestáar. Færa þarf þær stikur ca. 30 m til austurs svo einungis ein leið verði stikuð þessa leið á þessu svæði. Gatan þar er greinileg þar sem hún liggur um slétt helluhraunið.
Þarna, austan Hrútafells, er gott útsýni til Fíflavallafjalls og gíganna norðvestan Hrútafells. Teljast verður til tíðinda að svona mikilfenglegir, mosavaxnir, hraungígar skuli vera nafnlausir. Norðar, undir Fíflavallafjalli, eru Stórusteinabrekkur.
Norðaustan Hrútafells eru gatnamót „Ketilsstígs“ og Reykjavegar. Þar eru um nýlega tilbúna götu að ræða þar sem Reykjavegur liggur að norðurhlíðum Hrútafells. Skammt norðar (GPS: 6356145-2203351) eru gömul gatnamót „Ketilsstígs“ og götu er liggur að Lækjarvöllum norðan Hrútafells. Eðlilegra hefði verið að láta Reykjaveginn liggja eftir þeiri götu, sem vel er mörkuð í landslagið.
Auðvelt er að rekja stíginn (sem enn er óstikaður) að Hrúthólma. Hann er í rauninni óbrennishólmi (hæð) umlukinn hrauni frá nútíma (sennilega 1151). Norðvestar eru Mávahlíðar, ílangar og tignarlegar. Norðar er Mávahlíðahnúkur. Á leiðinni er fallegur, stór, rauðleitur gjallgígur, enn einn slíkur frá nútíma – nafnlaus. Segja má með sanni að svona stór gjallgígur verði að hafa nefnu. Það myndi auka gildi hans til mikilla muna – og jafnframt varðveislugildi til lengri framtíðar (aldrei að vita hvað stórhuga athafnamenn með mikilvirk véltæki dettur í hug á skömmum tíma þegar efni eru annars vegar). Seinni tíma ferðalangar hafa reyndar gefið gíg þessum nafn: „Norðan götunnar er fallegur eldgígur (Drekagígur – sagt er að drekinn hafi rutt úr sér hrauni á daginn, en flogið um og spúið eldi á nóttunni)“. Sagan er vel við hæfi því þarna eru nokkur hraunskil er orðið hafa til á tiltölulega skömmu tímabili (á jarðsögulegum tímakvarða).
Hrauntungustígur Hrúthólmi er vel grasi gróinn í hlíðum, en ber á „skalla“ vegna gróðureyðingar seinni tíma. Af honum er gott útsýni til allra átta. Má af honum kenna fjallahringinn. Leiðin um stíg niður að Búðarvatnsstæði og áfram niður í Óttarsstaðarsel liggur norðvestur af honum, en gatan um Hrauntungustíg liggur til norðurs. Leiðin liggur með austanverðum hólmanum. Þaðan er auðvelt að glöggva sig á framhaldinu.
Í Hrúthólma er sérstakur sveppur á haustin (hér nefndur Hrúthólmasveppur). Hann er gulari, minni og fagurleitari en aðrir sveppir á og við leiðina sem og víðasthvar á þessu svæði.
Mávahlíðar eru norðvestan við Mávahlíðar og Mávahlíðahnúkur norðar. Ágætt útsýni er þarna yfir að Trölladyngju, Grænudyngju og Fíflvallafjalli. Ofar er Hrútargjárdyngja. Eitt af stærstu hraununum í kringum Hafnarfjörð er komið úr Hrútagjárdyngju. Upptök þess eru nyrst í Móhálsdal. Dyngjan er kennd við gjána við vesturjarðar hennar. Hraunið hefur að mestu runnið til norðurs og til sjávar og hefur myndað ströndina milli Vatnleysuvíkur og Straumsvíkur.
Í daglegu tali gengur stærsti hluti hraunsins undir nafninu Almenningur. Öskulög í jarðvegi ofan á hrauninu benda til að hún hafi myndast fyrir 5000 árum.
Á leiðinni er þarflegt vatnsstæði. Það er hægra megin götunnar, í skjóli við skeifulaga hraunhóla. Við þá eru gatnamót götu er liggur í gegnum úfið hraunið frá Hrútargjárdyngjubrúninni.
Skammt norðan við Hrúthólma er bæði sérkennilegt og stórbrotið jarðfræðifyrirbæri, ekki ólíkt brotahring. Hér mætti kalla fyrirbærið „brotaberg“. Það er austan götunnar. Um er að ræða afmarkað hraunssvæði. Hraunhellan, um 30-40 cm þykk, þá nýstorknuð, hefur brotnað upp vegna mikils undirliggjandi þrýstings glóandi hraunkviku er ekki hefur fundið sér auðveldari áframhaldandi leið undan hallanum. Glóandi kvikan hefur síðan náð að bræða grannbergið og þrýstingurinn minnkað. Í látunum, sem væntanlega hefur tekið mjög skamman tíma á jarðsöglegan mælikvarða, reis brotna hraunhellan upp í einingar og má berja þær augum á þessu tilkomumikla svæði.
Gatan er slétt og stefnir á Sauðabrekkur, sem sjást vel framundan. Varða á hraunbrún á hægri hönd. Við hana liggur gata upp með fyrrnefndri brotahraunraönd, að vesturbrún Hrútargjárdyngju (Reykjaveginum).
Sauðabrekkuskjól Að þessu sinni var ekki leitað að fyrri uppgötvun FERLIRs. Þá fundust í nálægri hraunæð gömul bein, m.a. stuttur, en mjög sver, leggur og stórt mjaðaspjald. Þá eru þarna rifbein og fleiri bein. Leggurinn var á sínum tíma tekinn til handargangs til að reyna að greina af hvers konar „dýri“ beinin gætu hafa verið. Að mati Sigurðar Sigurðarsonar, dýralæknis á Keldum, virðist vera um bóglegg af hrossi (hryssu) að ræða. Annað hvort hefur hún orðið til þarna eða refaveiðimenn borið út hræ og þetta verið leifarnar af því.
Hrauntungustígurinn liggur að og vestan við Sauðabrekkuskjólin. Syðsta skjólið er stærst og tilkomumest. Stundum haf skjólin verið nefnd Sauðabrekkuhellar. Smalar Hraunamanna nýttu þessi skjól fyrir sauði sína og nærsveitunga þegar veður voru válynd og ekki hundi út sigandi. Þá er og ekki ólíklegt að ferðalangar um Hrauntungustíg hafi haft þar athvarf um stund þegar veður voru hundum óhagstæð.
Í nyrsta skjólinu má sjá leifar beina af hrossi. Ekki er ólíklegt að þarna geti verið um hluta af fyrrnefna hrossinu að ræða. Beinin eru mosavaxin, en vel greinileg.
Frá Sauðabrekkukjólunum er gatan ógreinileg. Með lagni má þó rekja hana áleiðis að Sauðabrekkugjárgígunum, norðvestan gjárinnar. Gjáin sjálf er fallegt og tilkomumikið misgengi (N og S). Þegar sólin skín er veggurinn, sem snýr mót austri, ljós yfirlitum, en í regni verður hann svarleitur. Um svo til miðja gígaröðina liggur Hrauntungustígur þvert á gjána á greiðfærasta stað. Varða vísar leiðina.
Áður en komið er að gjánni, þ.e. austan við hana, liggur gata áfram til norðurs. Hægt er að velja hana ef halda á niður að Fornaseli. Þetta er beinasta leiðin þangað, en býsna óljós á köflum.

Ofan við Sauðabrekkugjár er gígaröð. Í syðri röðinni er bæli í einum gígnum. Gólfið hefur verið sléttar, hellur lagðar innst í fletið og steinhella felld fyrir glugga. Þegar hún er fjarlægð birtir verulega í skjólinu. Ekki er auðvelt að finna opið. Norðvestan við gígaröðina er nokkuð slétt helluhraun. Í því er varða. Skammt norðan og vestan við hana eru tvö hlaðin byrgi fyrir refaskyttu. Byrgi þessi eru greinilega mjög gömul. Stórholtsgrenin eru nokkru norðar, vestur undir Hafurbjarnarholti, en Gamlaþúfa er þar skammt vestar.
Þarna er Hrauntungustígurinn vel greinilegur, uns komið er að lágri hraunbrún. Með lagni, og réttum birtuskilyrðum, má sjá stíginn í gegnum mosahraunið, stundum grannan og stundum breiðan. Þá virðist hann hverfa, en Fjallsgrensvarðan framundan segir til um leiðina. Við hana greinist gatan í tvennt; annars vegar til hægri og hins vegar til vinstri. Hægri leiðin liggur beinna við Hrauntungunum, en hún er ógreinilegri. Vinstri leiðin, sem hér var valin, er greiðfærari og liggur með holtum og hæðum, áleiðis að Straumsselsstíg og Straumsseli. Vörður vísa leiðina (stundum reyndar litlar á löggiltan vörðumælikvarða alfaraleiðanna). Sú leið er rakin var greinir götuna á köflum þar sem hún kemur upp úr gróningunum og myndar áför á hraunhryggjum. Hún hlykkjast áleiðis að og austru fyrir Hafurbjarnaholt. Það mun vera kennt við Björn Gnúps-Bárðarson, Hafur-Björn, sem samninginn gerði við bergbúann forðum. Gerðu þeir helmingaskipti í fjáreign. Segir sagan að þá hafi komið hafur og hrútur í féð og var þá sem tvö höfuð væru á hverri skepnu. Gerðist Björn þá fjárríkasti bóndi á Suðurnesjum. Ekki má tengja þá frásögn Hafurbjarnastöðum innan við Sandgerði þar sem beinin fundust fyrrum og sjá má nú undir glergólfi Þjóðminjasafnsins.
Héðan verður að nota öll þau skilningavit, sem Guð gaf, ef rata á rétta leið. Með mikilli gaumgæfni, hiki, efassemdum og niðurstöðum er hægt að rekja sig eftir landslaginu, áleiðis niður að Brunntorfum. Gatan er hlykkjótt, en jafnan farið um lænur og gróninga. Jarðhallinn er bæði eðlilegur og sanngjarn; hvorki yfir sprungur að fara né brúnir.
Þegar komið var að brúnum Brunntorfanna var hægt að velja a.m.k. þrjár leiðir; um vestanvert Fornasel, leið um hraunlægð vestan hennar eða leið millum Fornasels og Gjásels. Þar eru gatnamót leiðar milli seljanna, vel greinileg og vörðuð. Valin var leiðin „á millum“. Þá var komið að skógarbrún Skógræktar ríkisins.
Hrauntungustígur Með góðu móti var hægt að rekja sig niður gróna hraunhlíðina og gegnum skóginn. Ljóst er að þar þarf að ráðast í léttvægt skógarhögg á einstaka stað til að greiða fyrir einni rein Hrauntungustígsins eins og hann var fyrrum. Það ætti bæði að þykja eðlilegt og sjálfsagt því skógræktarfólk hefur fyrr á áratugum farið allfrjálslega með staðsetningu sína á nýgræðlingum. Víða hefur verið plantað í gamlar götur og jafnvel fornminjar. En vitund og vitneskja hinna sömu hefur vonandi breyst með betri upplýsingu í seinni tíð.
Þegar komið var norður fyrir skógræktarlundinn lá gatan augljós framundan – í gegnum Hrauntungur. Á landakortum eru Hrauntungur rangt staðsettar (en það er nú önnur saga, eða sögur, því mörg eru rangnefnin á þeim greyjunum). Við götuna er Hrauntunguhellrar, fyrirhleðsla um skúta er birkihrísla hefur nú hlulið. Varða er ofan við. Sagt er að í Hrauntungum sé óhreint, þ.e. fólk hefur á ferðum sínum bæði séð og skynjað ýmislegt er „óhreint“ getur talist. Frásagnir um slíkt hleypti þátttakendu kappi í kinn, enda ekki vanþörf á eftir langa göngu.
Við enda Hrauntungustígsins, áður en hann fór upp á Brunabrúnina, situr nú settlegur hraunkarl er fylgist bæði vel með öllu er gerist og ekki gerist.
Í dag kemur Hrauntungustígurinn upp í nútímagryfjur Skógræktar ríksisins í Brunanum (Nýjabruna/Háabruna). Þær eru sem minnisvarði, eða a.m.k. áþreifanlegur vitundarvottur um það er þröngsýn hagsmunaöfl selja ómetanleg framtíðarverðmæti sýnum eigin metnaði til framdráttar. Ólafur Þorvaldsson segir í grein sinni um „Fornar leiðir…“ í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48, að í gegnum Brunann hafi verið „rudd allgreiðfær gata, sennilega gerð á svipuðm tíma og Stórhöfðastígur, en hver það hefur látið gera veit víst enginn, en mjög gamlar eru þessr vegabætur og eru þær sennilega fyrstu vegabætur sem gerðar hafa verið til Krýsuvíkur“.
Vörðu hefur verið þyrmt á hraunhól í gryfjunum. Líklega hefur sú varða verið við stíginn í gegnum fyrrum hraunið. Önnur varða er norðvestanvert við gryfjurnar. Þar liggur Hrauntungustígurinn niður á slétt hellurhraun Hellnahrauns og áleiðis að skarðinu á Ásfjallsöxinni. Tilkomumikill hraunkarl er á hægri hönd við götuna.
Hrauntungustígur Í þessari ferð endaði gangan við sunnanverðan Krýsuvíkurveginn. Þar er slétt helluhraun á kafla milli úfins aplahrauns Nýjahrauns (Kapelluhrauns). Gatan lá áfram til norðurs norðan vegarins, en nú er búið að gera veg ofan í hann að fiskhjöllum. Frá þeim lá leiðin um Dalinn norðan Grísaness og um fyrrnefnt skarð (Hádegisskarð) á Ásfjallsöxlinni – að Ási og áfram niður til Hafnarfjarðar.
Áður fyrr lá leiðin millum staða, sem ferðalangar eða „þurfalingar“ þurftu að fara af ýmsum ástæðum. Þá var hún langt torfæri. Í dag er leiðin kærkomið tækifæri til að sjá og skynja, bæði fyrrum sögu og ekki síður stórbrotið útsýni og jarðsögu svæðisins. Það að ganga þessa leið, sem og aðrar, kostar í rauninni einungis þægilegt strit og eðlilegt skóslit, en ávinningurinn er slíkur að enginn, sem á annað borð er sæmilega göngufær og getur slitið sig frá sjónvarpsglápi eða öðrum ávana, ætti að láta slíkt tækifæri fram hjá sér fara.
Ekki er raunhæft að nefna Hrauntungustíg svo nema frá Hrúthólma. Þar koma saman Rauðamelsstígur, sem fyrr segir, og er liggur síðan áfram að Ketilsstíg. Hvort og hvaða götur megi telja svonefnda “heilsársstíga” er erfitt um að segja. Að öllum líkindum voru þeir allir, meira og minna eða misjafnlega, eftir aðstæðum, farnir allt árið. Ljóst er að Hrauntungustígurinn er einungis ein leiðin af nokkrum á þessu svæði. Auk þess ber að hafa í huga að Hrauntungustígurinn norðanverður var ekki „einn“ heldur og nokkrar leiðir milli sömu endamarka.
Hrauntungustígur„Gangandi menn fóru oft um tvo stíga, Stórhöfðastíg og nokkru vestar Hrauntungustíg, milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur, svo og ef farið var með fáa hesta að vetrarlagi.
Þegar ferðamenn ætluðu Stórhöfðastíg var farið frá Hafnarfirði upp hjá Jófríðarstöðum, umhlaðið í Ási, og oft gist þar ef menn komu t.d frá Reykjavík. Frá Ási var farið suður úr Skarði, yfir Bleiksteinsháls og suður yfir Selhraun að Stórhöfða og þaðan áfram að Fjallinu eina og komið inn á Undirhliðaveg við Norðlingaháls. Ef menn völdu Hrauntungustíg var farið frá Ási um Skarð vestan Ásfjallsaxlar yfir hraunhaft milli Grísaness og Hamraness og stefnan tekin á Hrútafell, en skammt þar sunnan við er komið inn á Ketilstíg“ (Ólafur Þorvaldsson 1949).
Það áttu samt ekki allir hesta, samanber gamla konan sem hafði flutt til Hafnarfjarðar og fann að dauðinn nálgaðist. Hún tók sig til einn morguninn að vorlagi og hélt sína leið (þá stystu) um Hrauntungustíg til Krýsuvíkur, sótti sér vígða mold úr skjóðu og bar á baki sér heim í Hafnarfjörð. Hún vildi hafa sína mold úr Krýsuvík þegar rekunum var kastað.
Ólafur Þorvaldsson greindi m.a. frá því að: “Ef snjó setti niður af austri eða norðaustri, t.d. meðan menn höfðu viðdvöl í kaupstaðnum, var venjulega snjóléttara á þessum leiðum (Hrauntungustíg og Stórhöfastíg) en með Undirhlíðum og Hálsum.” Þar af leiðandi voru þessar leiðir farnar á hestum og gangandi á þeirri tíð þegar hestaferðir voru eingöngu tíðkaðar enda vagninn eða bíllinn ekki kominn til sögunnar. Og ekki var ósjaldan farið með hesta milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar á vetrum (JG).
Gengnir voru 18 km, þ.e. milli Ketilsins í vestanverðum Sveifluhálsi að Krýsuvíkurvegi.
Frábært veður – sól og blíða. Gengið var í 4 klst og 40 mín. Alls tók ferðin, með leitum og áningum, 6 klst og 30 mín.

Heimildir m.a.:
-Ólafur Þorvaldsson 1949. Fornar slóðir milli Krísuvíkur og Hafnarfjarðar. Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48. Bls. 81-95.
-Jónatan Garðason

Kvöldútsýni úr Hrauntungunum

Kvöldsýn í Hraunum.