Þjófadalir

Ákveðið hafði verið að líta á helli í brún Þríhnúkahrauns ofan við Þjófadali, en gengið hafði verið fram á opið á sínum tíma á leið ofan af Þríhnúkum (FERLIR-398). Opið er utan í mikilli hraunrás talsvert norðan við hnúkana. Rásin sjálf er fallin og liggur til norðurs frá stóra gígnum. Í henni er mikið og líklega um 12 metra ókannað djúpt jarðfall. Ekki verður komist niður nema á bandi. Snjór er á botninum. Fallna rásin lokast síðan með hafti uns hún beygir til norðvesturs. Mikill geymur hefur verið í beygjunni áður en þakið féll niður.
Haldið var því á ská upp hlíðina þangað til komið var í nýrra hraun ofan við hana. Í því eru miklir hraunhólar fremst á brúninni. Skjól var á milli hólanna og svo til alveg að hellisgatinu. Það er uppi og utan í norðurbrún föllnu hraunrásarinnar. Opið er u.þ.b. mannhæðar hátt og snýr á móti suðri. Grófur brúnleitur hraunlækur hefur runnið niður rásina og myndar hann gólfið. Frauðkennt hraunið lét undan þegar stigið var í það svo ljóst er að þarna hefur ekki verið mikil umferð.

Þjófadalir

Þjófadalahellar.

Rásin sjálf er nokkuð slétt. Hún hallar niður á við og beygir aflíðandi til vinstri. Fallegar bergmyndanir eru í henni. Eftir u.þ.b. 100 metra lækkar rásin en hækkar síðan á ný.

Ekki var farið lengra að þessu sinni, enda þyrfti góðan galla til að koma í veg fyrir að koma ekki allur rifinn og tættur út aftur. Á leiðinni var komið við í fallegri hraunrás undir nýja hraunkantinum í Þjófadölum. Rásin er greinilega endinn á hraunrás, sem komið hefur niður hlíðina því nokkur jarðföll eru á henni á leiðinni niður. Veggirnir eru rauðleitir og fallegir. Rásinni var fylgt u.þ.b. 60 metra, en þá var snúið við. Hún virðist beygja áfram til norðvesturs undan hallanum. Þetta er falleg rás, sem vert væri að skoða nánar.
Gangan tók 2 klst og 21 mín. Frábært veður.

Þjófadalir

Í einum Þjófadalahellanna.

Árni Óla

„Einn góðviðrisdag í sumar kom jeg á skemtilegan og fallegan stað hjerna í nágrenninu. Sunnan við Hafnarfjörð er fell nokkurt sem Ásfjall heitir. Vestan undir því er dalverpi og hefir Kapelluhraun runnið inn í það að norðan og hlaðið hraunborð þvert fyrir það. Þess vegna hefir myndast dálítil tjörn innst í krikanum, uppi undir fjallinu.

asfjall-221

Hraunið er þarna helluhraun með mörgum sprungum. Í hverri sprungu var köngulóarvefur við köngulóarvef og glóði á þá eins og silfurvíravirki þar sem sól skein á. Í miðjum hverjum vef sátu „maddömurnar“, sleiktu sólskinið og biðu eftir bráð. En undir vefunum var fagurgrænt burknastóð. Umhverfis tjörnina var mikið fuglalíf. Þar voru lóur, stelkar, tjaldur, kríur, duggandir, stóru móandir, óðinshanar, hettumáfar. Auk þess grámávar, svartbakar og hrafnar, sem sýnilega höfðu komið í heimsókn. Öll tjörnin moraði af hornsílum. Smáhólmi er í henni og var nú fagurgulur af vatnasóley. Blástör vex í þriðjungi tjarnarinnar og eru þar smátoddar og tappir á víð og dreif og eins meðfram löndum. Þarna var líf og fjör, en mest bar á hettumávunum. Þeir voru á annað hundrað og lintu ekki gargi og skrækjum og gerðu sig heimaríka með árásum á hinn óboðna gest, því að þarna hafa þeir valið sjer varpstað. Á hverri smátöpp meðfram landi mátti líta hreiður með 4 eggjum hvert. Úti í hólmanum voru hreiðrin víst álíka þjett og kríuhreiðrin hjer í Tjarnarhólmanum. Og alls staðar voru þeir að setjast niður í störina, og hafa þar verið toddar með hreiðrum, þótt þeir sæist ekki.
Hettumávurinn er fallegur fugl, harðskeyttur og ráðríkur og ryður sjer til landa með mestu frekju. Ekki veit jeg hvað langt er síðan hann hefir sest þarna að, en varla eru það mörg ár. Og hann hefir lagt undir sig besta landið þarna, eins og annars staðar þar sem hann kemur og bolað öðrum frá. Sjálf krían hefir orðið að hörfa úr hólmanum fyrir ráðríki hans, og er ýmist flúin eða hefir flutt sig upp í mýri ofan við tjörnina. Þangað hafa andirnar víst einnig orðið að flytja til þess að fá afdrep fyrir hreiður sín.
Þótt hettumávurinn sje leiðinlegur til lengdar, var unaðslega skemtilegt þetta sólbjarta sumarkvöld þarna hjá litlu starartjörninni. Handan við hana í ásunum blöstu við iðgræn tún, bæir og sumarbústaðir og spegluðust í vatninu.

Ástjörn

Ástjörn.

Þarna var líf og fjör. Innan um jassgargið í hettumávunum heyrðist margraddaðiir kliður af söng annara fugla og í loftinu stóð hinn fallegi tjaldur og rak upp sín hvellu bjölluhljóð, sem yfirgnæfðu alt annað. Og á meðan jeg sat þaraa og horfði og hlustaði hugfanginn, og naut þess að láta blessaða sólina verma mig, hvarflaði sú hugsun að mjer, hve undarlegt það væri, að slíkir staðir sem þessi færi fram hjá augum fjöldans. Hve undarlegt það væri, að menn þeyttust langar leiðir út og suður, austur og vestur, til þess að fá að sjá fegurð náttúrunnar, en hugsuðu ekkert um þá fögru staði sem hjer eru á næstu grösum. Og þá fanst mjer sem það mundi þarft verk, að benda Reykvíkingum á það, að hjer eru margir fagrir staðir, rjett við bæjarvegginn hjá þeim, staðir, sem fæstir þeirra hafa sjeð og vita ekkert um. Fanst mjer að slíkt gæti orðið góð leiðbeining fyrir þá, sem ekki hafa annan frítíma en vikulokin til þess að lyfta sjer upp.
Reykjanesskaginn er ekki jafn ómerkilegur og sumir hyggja. Hjer er bæði stórbrotin og fjöbreytt náttúrufegurð. Fjöllin eru að vísu ekki há, en þau eru undrafögur og margbreytileg. Hjer eru fagrir firðir og svo hin dásamlegu Sund og eyjarnar. En skaginn þykir heldur gróðurlítill.
Merkilegastur er Reykjanesskaginn fyrir hinar miklu eldstöðvar, sem þar eru, og hraunin. Milli Vogastapa og Hvaleyrar er norðan á nesinu um 15 km. breitt undirlendi upp að Fagradalsfjalli, Keili, Trölladyngju og Undirhlíðum. og er alt þetta svæði samfeld hraunbreiða, sem kallast Almenningur. En tvö yngri hraun hafa flætt þarna yfir gömlu hraunin og alla leið fram í sjó, Afstapahraun milli hrauns og Vatnsleysu og Kapelluhraun milli Hvaleyrar og Hrauns. Almenningshraun eru mjög gömul og eru sennilega komin úr gígum hjá Undirhlíðum, sum eru margir. Frá miðgígunum þar og gígum hjá Helgafelli er Kapelluhraun komið. Það er í annálum nefnt Nýjahraun og draga menn af því þá ályktun að það muni hafa runnið eftir landnámstíð. Afstapahraun er komið úr miklum gígum hjá Trölladyngju.
Þá er Hafnarfjarðarhraun eða Garðahraun. Það er komið úr stórum gíg norður af Helgafelli, skamt frá Kaldárseli. Landspildan fyrir vestan gíginn, með tröðum og hrauni, og líklega gígurinn sjálfur, hefir sigið eftir gosið, og þess vegna má sjá þar þá einkenilegu sjón, að aðalhraunið er hærra heldur en uppvarpið. Hraunstraumarnir frá þessum gosstöðvum hafa beljað niður milli ása niður að Hafnarfirði og út á Álftanes ofanvert.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi.

Fyrir neðan Bláfjöll og Grindaskörð er samanhangandi hraunhaf að Elliðavatni og Lækjarbotnum, og standa aðeins fáir móbergshnúkar upp úr svo sem Helgafell, Valahnúkur og Húsfell. Hafa hraun þessi komið úr mörgum stórum gígum uppi á brúnum við Kóngsfell, hjá Bláfjöllum, við Kerlingarskarð og Grindaskörð og runnið niður hlíðarnar í mörgum stórum elfum og fossum, sem enn má sjá. Það eru ekki vatnsföllin á Reykjanesskaga, en þurár eru þar margar. En þurár munu fornmenn hafa kallað hraunstrauma, sbr. bæjarnafnið Þurá í Ölfusi. Hraun þessi úr Bláfjöllum eru mjög misgömul, komin upp við mörg gos, líklega öll fyrir landnámstíð. Vestan til í þeim eru ýmsar stórar gjár, og heitir ein Gullkistugjá. Við hana er kend Gjáarrjett. Um nafnið Kóngsfell er það að segja, að fellið er kent við fjallkóng eða gangnaforingja, sem hafði þann sið að skifta leitarmönnum þar.

Hellnahraun

Hraun í nágrenni Hafnarfjarðar.

Öll þessi hraun eru í námunda við Reykjavík og öll eiga þau sammerkt um það, að vera mjög girnileg til fróðleiks, svo sannarlega sein fjölbreytni í landslagi er girnileg til fróðleiks. Hraunin eru heimur út af fyrir sig, og margir einkennilegustu og fegurstu staðir þessa lands eru í hraunum. Oft eru þau nokkuð óblíð á svipinn og ógestrisin, En öll geyma þau sjerstaka töfra, sem menn finna fyrst þegar þeir fara að kynnast þeim. Og í þessum hraunum má margt læra, eigi aðeins um eldsumbrot, hamfarir og tortímingu, heldur einnig um gróðrarsögu landsins, hvernig hin þolinmóða móðir náttúra byrjar aftur að græða og klæða. Þar sjest einna best hvað hún hefir „hendur sundurleitar“ og að „önnur er mjúk en önnur sár“. Yfir gróðurlendur falla logandi hraunelfur og brenna og kaffæra alt sem fyrir verður. En ekki hefir hraunið storknað fyrr en gróðurinn tekur að nema þar land. Fyrst koma fljetturnar eða skófirnar, sem bíta sig fastar í bert hraunið og mynda á því hvíta og gula bletti. Svo kemur grámosinn og tyllir sjer á skófirnar og myndar þar smám saman smáþúfur, sem síðan renna saman og verða að dyngjum, eða mosaþembum, þessum einkennilega gróðri, sem Jóhannes Kjarval málari hefir skynjað manna best hve fagur er í látleysi sínu og lífskrafti. Grámosinn hefir það hlutverk að skapa jarðveg í hraununum. Hann vex og vex, en fúnar jafnframt að neðan og með því að kappkosta að lifa er hann þannig að útrýma sjálfum sjer, því að nú kemur nýr gróður og sest að í þeim jarðvegi, er mosinn hefir skapað. Í því landnámi er fyrst og fremst krækiberjalyngið og aðrar lyngtegundir, móasef, sauðvingull, geldingalauf o. fl. Þessi gróður kæfir svo smám saman mosann og myndar fastan jarðveg og þá koma enn nýir landnemar: fjalldrapi, víðir og birki, og grastegundir þar sem rakara er, svo sem í bollum og gjótum. Á þennan hátt klæðast hraunin, þangað til þar er kominn skógur og blómskrúð. Og öll þessi gróðurstig má sjá í hraununum hjer umhverfis Reykjavík. Þau eru bæði fögur og fjölbreytileg. Mestur gróður er í Almenningshraununum og Hafnarfjarðarhrauni og hrauninu fyrir ofan Elliðavatn. En Afstapahraun er enn á grámosastiginu. Hvergi eru hraun þessi sandorpin. Sumum finst nú máske upp á lítið boðið að skoða hraun. En það er misskilningur.

Reykjanes

Reykjanesskagi – nefnur.

Þótt hraunin sje heldur fáskrúðug yfir að líta, eru þau sífeld uppspretta fjölbreytni þcgar inn í þau er komið. Þau taka engum vel sem flanar að þeim. En íhugulum gestum veita þau skjól og hvíld og leika við þá með því að sýna þeim hinar furðulegustu kynjamyndir. Það getur og trauðla skemtilegra ferðalag, en að ganga meðfram hraunjaðri. Farið t.d. með jaðri Afstapahrauns frú Vatnsleysu og alla leið upp á móts við Keili. Yður mun langa til að ganga það oftar en einu sinni. Hvers vegna eru menn að fara inn á öræfi, dýrar og erfiðar ferðir þegar þeir hafa öræfanáttúruna rjétt við bæjarvegginn? Viljið þið ekki reyna að skreppa einhvern tíma hjerna suður í Trölladyngju? Best og fyrirhafnarminst er að fara með bíl vestur með Sveifluhálsi, eins langt og ekið verður.

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort af Reykjanesskaga. ISOR

Hraunið þar á milli og Mávahlíða er allörðugt yfirferðar, en skemtilegt að fara það. Það er að vísu skófrekt og ef þjer viljið spara skóna, þá skuluð þjer fara lengra vestur, þangað sem leiðin liggur vfir Sveifluhálsinn til Krýsuvíkur. Þar er Ketillinn og getið þjer skoðað hann um leið. Þaðan liggur svo gata vestur og norður að Vigdísarvöllum, undir Núpshlíð. Er sú hlíð rómuð fyrir það, segir Eggert Ólafson, hve margt fagurra jurta vex þar. Mikið vex þar af blágresi, maríustakk, hjúnagrasi, muru, sjerstakri tegund af lyfting o. s. frv. Þar finnast og jarðarber. Þaðan er svo farið inn með hlíðinni að Djúpavatni, sem er eitt af hinum fáu stöðuvötnum á Reykjanesskaga. Þar er ágætur tjaldstaður og ef þjer hafið farið úr Reykjavík á laugardegi, þá er sjálfsagt að tjalda þar, og hafa svo sunnudaginn fyrir sjer. Áreiðanlega er það meira en dagsverk að skoða Trölladyngju og umhverfi hennar, hinar stórkostlegu eldstöðvar og jarðhitann. Þeir, sem hafa gaman af því að ganga á fjöll, fá þar ósk sína uppfylta, því að tveir hæstu tindarnir á Trölladyngju eru bæði girnilegir og ögrandi. Þaðan mun vera víð og tilkomumikil útsýn, betri en af Keili, þótt margir dásami útsýnina þaðan. Eru þeir og fleiri, sem gengið hafa á Keili heldur en Trölladyngju. Af Trölladyngju blasir við auga öll dýrð öræfanna, alt nema jöklar.
Vilji menn fara víðar yfir, er hægt að ganga vestur í Fagradal, en þangað fara Grindvíkingar stöku sinnum í skemtiferðir. Norðan og sunnan Trölladyngju eru tvö graslendi, vinjar hjer í eyðimörkinni, Vigdísarvellir að sunnan, en Höskuldarvellir að norðan. Á Vigdísarvöllum var bygð fram yfir aldamót.
Fyrir sunnan og austan Hafnarfjörð eru nokkrir dolerításar með stefnu frá norðvestri til suðausturs og dalir á milli. Í grjótinu í ásum þessum er mikið af „olivirí’, gulum krystöllum, og heldu útlendingar lengi vel, að hjer væri um sjerstaka tegund af grjóti að ræða, og kendu hana við Hafnarfjörð og kölluðu „Havnefjordit“.

Reykjanesskaginn

Reykjanesskaginn.

Vestasti ásinn nær frá Hvaleyri og hamrinum við Hafnarfjörð áfram á móts við Undirhlíðar. Aðskilur hann Hafnarfjarðarhraun og Kapelluhraun. Um uppruna nafnsins Kappelluhraun er svo sagt: Yfir Kapelluhraun er vegur svó vel lagður, að hann má skeiðríða. (Var það áður en bílvegurinn kom). En enginn veit af hverjum eða hvenær hann hefir verið lagður. Nálægt í miðju þessu hrauni er upphlaðin grjóthrúga rjett við veginn, sem fólk kallar Kapellu og segir, að þar sjeu dysjaðir þeir menn frá Bessastöðum, sem drepnir voru í hefnd eftir Jón biskup Arason 1551. En ólíklegt er að það muni satt vera.
Skamt fyrir sunnan Hafnarfjörð er Ásfjall og er það hæsti hnúkurinn á þessum ásum. Fyrir sunnan það heitir hraunið Brunahraun eða Bruni. Þar er vegur til Kaldársels og var kallaður Stórhöfðavegur.

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort af Reykjanesskaga – sýnir áætlaðan aldur yngri hrauna.

Næsti ásinn er nefndur Setbergshlíð, og sá þriðji Vífilstaðahlíð, en Vífilstaðaháls er austur frá Vífilstöðum frá suðri til norðurs og þá Arnarnesháls. Frá Setbergi og fram undir Kaldársel gengur daldrag, sem gjarna mætti kalla Kaldárdal, því sennilega hefir Kaldá runnið um hann áður en hraunflóðið kom, sem fallið hefir um dalinn niður að Hafnarfirði og þaðan fram á Álftanes og er fyrst kallað Gráhelluhraun og síðan Hafnarfjarðarhraun og Garðahraun. Eftir þessum dal liggur akvegur suður að Kaldárseli meðfram vesturbrún hraunsins. Er hraunið víða úfið og brotið, hef ir sporðreist og hlaðist upp á sumum stöðum, en sums staðar með djúpum skvompum og skorum. Heiðin að sunnan heitir vestast Sljettahlíð. Er hún kjarri vaxin og graslendisræma milli hennar og hraunsins. Þarna hafa Hafnfirðingar reist sumarbústaðahverfi, og eru þar nú milli 20 og 30 snotrir sumarbústaðir í röð undir hlíðinni. Er þarna viðkunnanlegt og verður með tímanum mjög fagurt, því að hver maður er að rækta hlíðina upp frá sínum bústað og gróðursetja þar blóm og trje.
Milli Setbergshlíðar og Vífilstaða hlíðar er annar dalur, og eftir honum hefir runnið önnur kvísl af Hafnarfjarðarhrauni og dreifir úr sjer á sljettunni fyrir vestan Vífilstaði. Liggja traðir úr Vífilstaðahlaði þar þvert yfir hraunið, og víða meðfram þeim eru bekkir fyrir sjúklinga hælisins. Er hraunið þarna gróið og kjarri vaxið og eru þar margir yndis fagrir staðir, sem sjúklingar munu áreiðanlega lengi minnast af hlýum huga, því að þessir staðir hafa sjálfsagt veitt þeim hugfró og unað í mótlæti þeirra. Dalurinn þarna fram af er svipaður hinum, nema hvað hraunið er öllu stórbrotnara og þegar vestur úr dalnum kemur og það nálgast upptök sín verður það æ hrikalegra og þó fegurra, með mörgum gjám og kötlum. Er víða mikill gróður þarna innan um hinar furðulegustu klettaborgir. Fyrir mynni dalsins er lágt fell, sem Smalafell nefnist. Af því er góð útsýn yfir hraunið og lægðina þar fyrir sunnan, þar sem mikið landsig hefir orðið einhvern tíma. Rjett fyrir vestan Smalafell liggur gamli vegurinn frá Hafnarfirði til Selvogs. Heitir hann Grindaskarðavegur. Göturnar eru nú horfnar og gleymdar, þótt þetta væri áður alfaraleið, en vegurinn segir þó til sín. Hafa verið sett ýmis merki við hann, svo sem smávörður, trjestaurar, eða járnhælar, sem reknir hafa verið niður með stuttu millibili. Og svo hefir á löngum köflum verið raðað steini við stein meðfram götunni. Kemur þessi langa steinaröð, hjer í óbygðum, ókunnugum einkennilega fyrir sjónir, því að hun líkist mest gangstjett. Liggur hún þvert suður yfir jarðfallið með stefnu á eldgíg nokkurn fyrir austan Valafell. Er þetta víst eina færa leiðin með hesta þarna þvert yfir, til þess að komast fram hjá tveimur hrikalegum gjam, sem eru sin hvoru megin við jarðfallið. Þegar komið er upp undir hlíðarnar að sunnan beygir vegurinn vestur að Kaldárseli. Einu sinni var bygð í Kaldárseli. Bjó þar seinast einsetumaður og dó þar, svo að engin vissi fyr en nokkuð seinna að einhverja menn bar þar að garði. Eftir það fór kotið í eyði. En fyrir nokkrum árum reistu skátar þarna skála og höfðu þar bækistöð sína. Í fyrra var skálinn stækkaður um helming, og í sumar hafa Hafnfirðingar haft þar barnaheimili með 27 börnum. Er viðkunnanlegt þarna og hafa börnin unað sjer vel, enda frjálst um svo fjarri mannabygð og í návist fjallanáttúrunnar. Yfir Kaldárseli gnæfir Helgafell. Það er nokkuð hátt og ilt uppgöngu nema að austan. Af því er ágætt útsýni yfir hraunin og gosstöðvarnar þar um kring.

Helgafell

Helgafell og nágrenni – örnefni (ÓSÁ).

Undir Helgafelli eru Kaldárbotnar í kvos nokkurri. Eru þar margar uppsprettur og mynda fyrst dálítið lón. Þangað sækir Hafnarfjarðarbær vatn sitt, og er sú vatnsleiðsla eldri en vatnsveita Reykjavíkur. Stíflugarður hefir verið hlaðinn fyrir lónið og frá honum liggur opinn timburstokkur norður yfir sljetta hraunið og Gullkistugjá, fyrir norðan Kaldársel. Hefir orðið að hlaða geisimikinn og háan steinvegg þvert yfir gjána undir stokkinn. Þar skamt frá er svo vatnið tekið í pípur og leitt til Hafnarfjarðar. En það er nú orðið viðsjárvert að hafa þennan langa opna stokk, og uppspretturnar ógirtar. Stokkurinn er víða farinn að gefa sig og lekur drjúgum. Er einkennilegt að sjá það efst, að vatnið, sem niður lekur rennur í þveröfuga átt við renslið í stokknum, og sameinast Kaldá. Rennur hún svo niður hjá Kaldárseli og þar í hálfhring, eins og hún sje að villast, en steypir sjer svo á kaf niður í hraunið og sjest ekki meir. Jörðin gleypir hana með öllu.

Kaldá

Kaldá.

Hefir mörgum þótt þetta furðulegt, og hefir þjóðtrúin spunnið út af því hinar furðulegustu sögur. Getur Eggert Ólafsson þess í ferðabók sinni, að menn haldi að Kaldá renni neðanjarðar alla leið vestur á Reykjanestá og þar til hafs, en af straumi hennar myndist Reykjanesröst. Getur hann þess einnig, að í samræmi við þessa tilgátu mahna sje farvegur hennar þannig sýndur á hinu nýasta Íslandskorti, sem gert var á konungs kostnað. Brynjulfur Jónsson á Minna-Núpi segir, að það sje almælt, að á fyrri öldum hafi á sú runnið úr Þingvallavatni, er Kaldá er nefnd, eitthvert hið mesta vatnsfall á Íslandi. Hún á að hafa runnið norðan við Hengil og ofan þar sem nú eru Fóelluvötn og svo suður með hlíðum og í sjó á Reykjanesi. Sje sagt að hún komi upp í Reykjanesröst og að Kaldá hjá Helgafelli sje úr henni. Er það haft til sannindamerkis, að hinir svonefndu Vesturvellir ofan frá Hengli til Litlafells, Fóelluvötn og þaðan niður undir Holm líkist gömlum árfarvegi. En svo þurfti að fá skýringu á því, hvernig á því stóð, að þetta mikla vatnsfall skyldi hverfa, og eru um það ýmsar sögur. Ein er sú, að karl nokkur, sem var kraftaskáld, misti í hana tvo sonu sína, og kvað hana því niður. Önnur sögn, og öllu vísindalegri er sú, að Kaldá hafi horfið eitt sinn er suðurfjöll brunnu, svo einn var eldur ofan úr Hengli og út í sjó á Reykjanesi og hafi bá jörðin gengið upp fyrir sunnan Elliðavatn.

Skamt fyrir austan Kaldársel er Helgadalur, djúp hvos með dálítilli tjörn. Er þráðbeint hamrabelti að norðan en grösugar hlíðar á tvo vegu. Er þarna tilvalinn og skemtilegur áfangastaður fyrir þá, sem kanna vildu fjallaslóðir þar um kring. Þaðan má fara t. d. Grindaskarðaveg upp undir f jöllin og síðan austur á við milli hrauns og Kaldárselhlíða um svonefnda Kristjánsdali. Þar er ekkert vatn, en mjög grösugt. Þar voru áður geymdir hestar lestamanna þeirra, er sóttu brennistein í Brennisteinsfjöll, og var þá bygður kofi þar. Er svo haldið austur með yfir hraunfossana, og niður með Vífilfelli á Suðurlandsbraut. Þá er og skemtilegt að fara Grindaskarðaveg, yfir Heiðina há. Það er geisimikil elddyngja, lík í lögun og Skjaldbreiður, og um 700 metrar á hæð. Útsýn er þar víð og fögur í góðu veðri, sjer yfir alt Suðurlandsundirlendið að Eyjafjöllum, inn til jökla og vestur á Snæfellsnes. Vegurinn suður af liggur niður í Selvog, og er þar á brúninni fyrst komið að vörðu þeirri, er hinn alkunni galdramaður, síra Eiríkur í Vogsósum hlóð á sínum tíma Frá Kaldárseli er hæfileg gönguför upp í Brennisteinsfjöll. Er það aflangur fjallahryggur uppi á Lönguhlíð. Í austurhlíð þeirra eru óteljandi gígar og standa mjög þjett, og frá þeim hafa hraunfossar steypst niður hlíðina. Breiða hraunin síðan úr sjer yfir mikla sljettu, sem er þar á milli og Bláfjalla og Heiðarinnar há, en sljettu þessari hallar suður að brúnum fyrir ofan Stakkavík í Selvogi og Herdísarvík, og halda menn að hraunfossarnir sem steypst hafa þar fram af hengifluginu, sje komnir úr gígunum í Brennisteinsfjöllum.

Traðarfjöll

Reykjanesskagi – jarðfræðikort.

Mundi það hafa verið hrikaleg sjón, ef einhver hefði verið til að horfa á, er glóandi hraunið kastaðist í stórum fossum fram af bjargabrún. Upp úr hrauninu í austurhlíð Brennisteinsfjalla, koma gufur sums staðar og litlir brennisteinsblettir eru utan í rönd þess. Á því haf a menn þóst vita að þarna væri brennisteinsnámur og hafa svo gefið fjöllunum nafn af því. Sumarið 1851 ferðaðist Jón Hjaltalín landlæknir nokkuð hjer um land til að rannsaka brennisteinsnámur, þar á meðal námurnar í Krýsuvík. Frjetti hann þá um þessar námur uppi í Brennisteinsfjöllum, og fór að spyrjast fyrir um það hvar þau væri, en svorin voru mjög sitt á hvað, sagði einn þetta annar hitt. Var það ekki fyr en að áliðnu sumri, að hann fann mann úr Selvogi, sem kvaðst þekkja fjöll þessi. Bauðst hann til að fylgja Jóni þangað, og lögðu þeir á stað í það ferðalag skömmu fyrir veturnætur. Fann Jón þarna fjórar námur og leist mjög vel á 3 þeirra. Þær eru í Krýsuvíkurlandi. Sjö árum seinna (1858) keypti Englendingur nokkur, J. W. Busby að nafni þessar námur og Krýsuvíkurnámurnar fyrir milligöngu dr. Jóns Hjaltalíns. Eftir kaupbrjefinu máttu Englendingar taka allan brennistein í Herdísarvíkur og Krýsuvíkur landareignum svo og allar málmtegundir, er þar kynni að finnast, og ýmis önnur rjettindi voru þeim áskilin. Seljendur voru þeir síra Sig. B Sivertsen á Útskálum og Sveinn Eiríksson í Krýsuvík og var söluverðið 1400 dalir. Var nú stofnað námuhlutafjelag í Englandi og hafið brennisteinsnám. En fjelagið tapaði og gengu hlutabrjefin kaupum og sölum, og óvíst hvar þau eru nú niður komin. En í Brennisteinsfjöllum má enn sjá verks ummerki eftir brennisteinsnámið. Á dálítilli grasflöt við læk eru rústir húsanna, sem Englendingar reistu og skamt þar fyrir sunnan eru námurnar. Hefir ekki verið neinn hægðarleikur að vinna þær, því að þær eru undir hrauninu. Hafa Englendingar brotið þar stórar skvompur í hraunið, urðu að brjóta um tveggja mannhæða þykkt blágrýtishraunið til þess að komast að brennisteininum, því að hann hefir sest í glufur og hraunholur niður undir jörð. Hitinn í gufuholunum þarna er talinn vera 26—78 gráður. Hefir gufan soðið og etið hraunið í sundur allavega og umbreytt því, svo að þar hafa myndast krystallar og marglitir steinar, sem gaman er að eiga.

Selvogsgata

Kerlingarskarð framundan.

Leiðin frá Kaldárseli upp í Brennisteinsfjöll liggur um Kerlingarskarð, sem er rjett fyrir sunnan Grindaskarðaveginn. Eru þar á brúninni margir gígar og úr þeim hafa komið hraunin fyrir neðan Langahlíð. Einn af stærstu gígunum á þessum slóðum er Kistufell. Er af því víð og mikil útsýn. Gígurinn er mikill um sig og um 70 metra á dýpt. Vestan við Kistufell er viðsjált hraun. Eru þar sums staðar hringlaga gígop, þverhnýpt niður og svo djúp, að jökull er í botni þeirra.
Óteljandi gjár og hellar eru í hraununum á öllu þessu svæði, er nú hefir verið lýst, alt frá sjó og upp á Heiðina há. Kann jeg ekki nöfn á þeim, enda yrði það of löng upptalning, eigi heldur allar gjár skírðar, nje allir hellar fundnir enn.

Helgadalur

Helgadalur.

Þegar Árni prófastur Helgason var í Görðum á Álftanesi samdi hann sóknarlýsingu og segir í henni: „Gjár eru víða í þessum hraunum, sumar bæði langar og djúpar. Merkilegastar þekki jeg tvær, sem liggja samsíða frá austri til vesturs fyrir ofan Setbergshlíð, og er ei lengra á milli en svo sem 100 faðmar, að jeg ætla. Í vatn sjer niður í þeim og er langt niður að því; sums staðar eru þetta fremur sprungur en gjár og sums staðar vottar ekki fyrir þeim. — Svo kallaðir Norðurhellar eru hjá Vífilstaðahlíð og Kjötshellir í Setbergshlíð. Rauðshellir er skamt fyrir norðan Helgafell. Í honum eru pallar sjálfgerðir er bæði má sitja á og smjúga undir, og ná þeir yfir þveran hellirinn. Margir hafa grafið nöfn sín í bergið í Rauðshelli, sem þangað hafa komið. Sum staðar er hvað skrifað ofan í annað.“
Eins hellis enn verður hjer að geta, ekki vegna þess að hann sje stór nje merkilegur frá náttúrunnar hendi, heldur vegna þess að Farfuglar hafa gert hann að bústað sínum. Hellir þessi er uppi í kletti nokkrum austan undir Valahnúk. Hann er rjett manngengur þar sem hann er hæstur. Þeir hafa sett fyrir hann hurð og komið fyrir tveimur gluggum, og síðan gert þar fjalagólf. Geta 8—10 menn sofið þarna á gólfinu í svefnpokum, og mun oft svo gestkvæmt þarna, bæði sumar og vetur. Umhverfis er afgirtur dálítill blettur, klettakvosir og brekka sem hefir verið ræktuð. Hafa þeir sáð þarna blómum og gróðursett trjáplöntur, og gert staðinn einkennilega fallegan og aðlaðandi. Verður þó betra seinna, því að alt er þetta svo að segja í byrjun. En alt, sem þarna hefir verið gert, lýsir smekkvísi og ást á náttúrunni, en hún er aðalsmerki allra farfugla.“

Heimildir:
-Lesbók Morgunblaðsins, 1. september 1946, bls. 349-353.
-Lesbók Morgunblaðsins, 25. ágúst 1946, bls. 341-347.
-Lesbók Morgunblaðsins, 18. ágúst 1946, bls. 334-337.

Valaból

Valaból.

 

Heiðmörk

Í Vikunni árið 1951 var m.a. fjallað um formlega opnun Heiðmerkur: „Heiðmörk var formlega opnuð Reykvíkingum með liátíðlegri athöfn, sem fram fór á Mörkinni um Jónsmessuna í fyrra. Ræður voru fluttar, lúðrar þeyttir og ættjarðarljóð sungin. Borgarstjórinn í Reykjavík flutti vígsluræðu og gróðursetti eina Sitkagrenisplöntu nálægt ræðustólnum, til merkis um það, að Reykvíkingum væri ætlað að skrýða Heiðmörk vænum skógi. Sjálf var Heiðmörkin í fögrum sumarskrúða og veður hið ákjósanlegasta.
heidmork-222Senn munu Reykvíkingar flykkjast inn á Heiðmörk í mörgum hópum til skógræktarstarfa — í annað sinn.
Tuttugu og átta félög Reykvíkinga námu land á Heiðmörk í fyrra vor, spildur frá fjórum upp í tuttugu hektara að stærð, sem félögin hafa eignað sér. Vafalaust hugsa allir Heiðmerkurlandnemar gott til þess, að eiga margar ánægjustundir þar efra á ókomnum árum. En Heiðmerkurlandnemar búa jafnframt í haginn fyrir ókomnar kynslóðir Reykvíkinga með því að planta skógi á Mörkinni. Í fyrra voru gróðursettar á Heiðmörk rúmlega 50 þúsund plöntur, mestmegnis fura, og í vor er ráðgert að gróðursetja þar um 100 þúsund plöntur, aðallega furu og greni, enda munu væntanlega 10 til 15 félög bætast við landnemahópinn í vor. Heiðmörk er eign Reykjavíkurbæjar, en í umsjá Skógræktarfélags Reykjavíkur, sem jafnframt hefur forustu um skógræktarframkvæmdir á Mörkinni.
Reykjavíkurbær veitir Skógræktarfélagi Reykjavíkur ríflegan styrk til starfsemi sinnar, og veitir auk þess fé til skógræktar og annarra framkvæmda á Heiðmörk. Þannig er því varið, að Skógræktarfélag Reykjavíkur getur látið Heiðmerkurlandnemum í té ókeypis plöntur til gróðursetningar. Mestur hluti þeirra plantna sem gróðursettar eru á Heiðmörk eru uppaldar í Fossvogi, en þar eru nú yfir hálf milljón plantna í uppeldi.
heidmork-treSkógræktarfélag Reykjavíkur verður fimm ára í október næstkomandi. Stjórn þess er þannig skipuð: Formaður: Guðmundur Marteinsson verkfræðingur. Varaformaður: Helgi Tómasson dr. med. Ritar: Ingólfur Davíðsson magister Gjaldkeri: Jón Loftsson stórkaupmaður. Meðstjórnandi: Sveinbjörn Jónsson hæstaréttarlögmaður. Framkvæmdarstjóri félagsins er Einar S. E. Sæmundsen skógræktarfræðingur. Fyrir tveimur árum voru tiltölulega mjög fáir Reykvíkingar sem nokkurntíma höfðu ferðazt um landssvæði það sem kallað er Heiðmörk, eða vissu nokkur veruleg deili á því, en á síðasta ári varð á þessu gerbreyting. Mikill fjöldi Reykvíkinga lagði leið sína inn á Heiðmörk allt sumarið og fram á haust, og allir sem þangað koma undrast og dáðst að því hve þarna er fallegt og viðkunnanlegt. Mikill meirihluti þeirra sem á Heiðmörk komu í fyrra sumar munu þó aðeins hafa farið um takmarkaðan hluta hennar, en vafalaust læra Reykvíkingar smám saman færa sér í nyt og meta að verðleikum þessa víðáttumiklu og vingjarnlegu landareign sína.“

Heimild:
-Vikan, 14. árg. 1951, 19. tbl, bls. 1 og 3.

Heiðmörk

Heiðmörk – tóft.

Herdísarvíkurbjarg

Gengið var um Herdísarvíkurberg frá Herdísarvík, eftir Háabergi og yfir á Eystri-Bergsenda þar sem það mætir Krýsuvíkurbergi.

Keflavík

Herdísarvíkurbjarg við Keflavík.

Á leiðinni voru skoðaðar hina fjölbreyttustu bergmyndanir, magnþrungið afl sjávar, sérstakur gróður og fuglalíf. Komið var við í Keflavík. Frá henni vestanverðri liggur rekagata til Krýsuvíkur. Þá var komið við í fjárskjólunum í Fjárskjólshrauni og í Krýsuvíkurhrauni (Arngrímshelli/-Gvendarhelli). Hvorutveggja eru merkirlegir fulltrúar slíkra á Reykjanesskaganum.
Austanvert bergið við Rauðhól er um 5 m.y.s., Háaberg er hæstum 35 m.y.s. og austanvert Krýsuvíkurbergið er um 46 m.y.s.
Frábært veður. Gengnir voru 15 km og tók gangan 4 klst og 4 mín.

Herdísarvíkurbjarg

Í Herdísarvíkurbjargi.

 

 

Reykjanesskagi

Eftirfarandi upplýsingar um Reykjanesskagann birtust í upplýsingariti Ferðamálasamtaka Íslands 2005: Suðurnes / Reykjanesskagi – MANNLÍF, NÁTTÚRA OG SAGA / SOCIETY, NATURE AND HISTORY.

Inngangur
„Þegar tímar jafnréttis eru runnir upp þá er ekki úr vegi að minna á að fyrsti femínistinn á Íslandi var frá Suðurnesjum. Það var landnámskonan Steinunn gamla sem vildi eiga sig sjálf og þáði því ekki að gjöf landið frá Hvassahrauni til Sandgerðis af frænda sínum Ingólfi Arnarsyni heldur greiddi fyrir með heklu flekkóttri.
Annar landnámsmaður á Suðurnesjum var Herjólfur Bárðarson fóstbróðir Ingólfs en hann fékk frá honum land frá Ósabotnum suður á Reykjanestá. Talið er að rústir sem fundust við kirkjuna í Höfnum árið 2003 séu hús Herjólfs sem hann reisti á 9. öld. Herjólfur var afi Bjarna Herjólfssonar þess sem fyrstur Evrópumanna barði Ameríku augum. Frá fornu fari hafa sjósókn og fiskverkun verið höfuðatvinnuvegir Suðurnesjamanna og byggðin og mannlífið mótast af sjónum kynslóð fram af kynslóð. Náttúran á Reykjanesinu býður upp á gróðurvinjar, fagrar strendur, náttúruperlur og hrífandi umhverfi. Við tökum vel á móti ferðamönnum og bjóðum öllum að kynnast sögu okkar, menningu og náttúru. Matsölustaðir og veitingahús bjóða bæði innlenda og erlenda rétti úr íslensku úrvals hráefni og gistihúsin eru af þeim gæðaflokki sem hver vill hafa. Vertu velkomin.“
Undir framangreint ritar Kristján Pálsson, formaður Ferðamálasamtaka Suðurnesja.

Náttúran og gönguleiðir
Náttúran er einstök. Nakin eldhraun í bland við gróðurvinjar, fuglabjörg, sandfjörur og ólgandi brim eru ferðamönnum áskorun um útivist. Hverasvæðin eru meðal öflugustu jarðhitasvæða landsins. Eldvörpin eru um tíu km löng gígaröð með jarðhita. Suður af Hafnarbergi eru skil Ameríku og Evrópu þar sem jarðflekarnir mætast. Fuglalíf er fjölbreytt. Stærstu fuglabyggðirnar eru í Hafnarbergi, Krýsuvíkurbergi og Eldey. Við Vogastapa og Hólmsberg eru brattar og brimasamar fjörur en sandfjörur eru m.a. í Sandvíkum og við Garðskagavita. Tilvalið er að bregða sér í göngutúr. Frá Keili er útsýni stórfenglegt, forn gönguleið liggur frá Vogum yfir Stapann til Njarðvíkur og önnur til Grindavíkur. Vinsælar gönguleiðir til fuglaskoðunar eru frá Garðskaga suður í Sandgerði, um Stafnes til Hafna. Og á Berginu í Keflavík hefur verið gerð skemmtileg gönguleið meðfram sjónum.

Kirkjurnar, söfnin og fornminjar
Saga kynslóðanna er heillandi. Tilvalið er að skoða fornminjar, söfn og gamlar kirkjur sem ilma af fortíðinni. Á Hafurbjarnarstöðum fannst konukumbl. Á Stóra-Hólmi var ein elsta verstöð landsins og Skagagarður er forn garðhleðsla. Stafnes var fjölmennur útgerðarstaður og að Básendum var rekin einokunarverslun til 1799.

Á skeri utan friðlýstra bæjarrústanna eru festarboltar sem kaupskipin voru bundin við. Í Þórshöfn var verslunarstaður Þjóðverja. Á Selatöngum eru forn fiskbyrgi. Á Reykjanesi eru fimm kirkjur frá 19. öld sem geyma gamla muni og sögu. Ógleymanlegt er að skoða Hvalsneskirkju þar sem séra Hallgrímur Pétursson þjónaði. Síðan er upplagt að koma við á einhverju safnanna. Í Garði er byggðasafn. Duushús er í Reykjanesbæ. Saltfisksetur er í Grindavík en Fræðasetrið í Sandgerði tengir saman umhverfi, náttúru og sögu. Þá eru í flestum bæjarfélögum lista- og handverksstaðir sem fróðlegt er að heimsækja.

Virkjun orku
Á Reykjanesi eru mikil jarðhitasvæði og er Reykjanesvirkjun sem nú er í byggingu til vitnis um hve Íslendingar standa framarlega í virkjun jarðvarma. Hitaveita Suðurnesja virkjar heitan jarðsjó í Svartsengi til húshitunar fyrir allt Reykjanes auk þess sem hún virkjar gufu á öðrum stö›um á nesinu og framleiðir rafmagn í gufuhverflum. Í Eldborg, sem staðsett er við virkjunina í Svartsengi, er Gjáin sem er upplýsingamiðstöð um jarðfræði Íslands. Þar er jarðfræði Íslands, framleiðsluferli rafmagns og hitaveituvatns kynnt á lifandi og skemmtilegan máta.

Jarðhitasvæði
Heilsulindin er vel þekkt víðs vegar um heiminn og hefur meðal annars fengið verðlaun fyrir að vera besta náttúrulega heilsulind heims, einn af tíu ótrúlegustu baðstöðum heims og ein af 25 bestu heilsulindum í heimi. Það er einstök upplifun að slaka á í hlýju lóninu (37 – 39°C) á meðan virku efni BLUE LAGOON jarðsjávarins, steinefni, kísill og þörungar, leika um húðina. Eimböð, sauna og foss sem tilvalið er að bregða sér undir er meðal þess sem bíður gesta heilsulindar. Úrval spa- og nuddmeðferða er í boði. Að lokinni slökun og endurnæringu er tilvalið að njóta veitinga í einstöku umhverfi.

Útivist
Möguleikar til útivistar og afþreyingar eru ótalmargir. Hafið út af Reykjanesi er eitt besta svæðið hér við land til hvalaskoðunar. Skip fer daglega á sumrin og haustin í hvalaskoðunarferðir út á dimmbláan sjóinn og leitar uppi hvali. Hvað er stórfenglegra en að sjá þessi tignarlegu dýr koma upp til að anda. Einnig er hægt að fara í sjóstangaveiði og skemmtisiglingu. Þetta eru öllum ógleymanlegar ævintýraferðir. Fjórir góðir golfvellir eru á Reykjanesi en þeir sem gefnir eru fyrir hraða og spennu heimsækja Go-Kart brautina í Njarðvík þar sem brunað er á litlum bílum á öruggri braut. Hægt er að skipuleggja keppni fyrir hópa. Tilvalið að reyna hæfileikana til kappaksturs við öruggar aðstæður.

Byggðirnar og mannlífið

Fyrrum var blómleg byggð á Vatnsleysuströnd, bændabýli og útræði. Töluverð byggð var á Leirunni en nú er þar einn besti golfvöllur landsins. Hafnir anga af sögu liðins tíma og Stekkjarkot, gömul endurbyggð þurrabúð, er minnisvarði um gamla búskaparhætti. Í sveitarfélögunum fimm: Grindavík, Vogum, Reykjanesbæ, Garði og Sandgerði byggist afkoman sem fyrr á sjávarútvegi en í Reykjanesbæ skiptir þjónusta og upplýsingatækni líka miklu máli.
Mannlífið er fjölbreytt og blómlegt. Á Suðurnesjum er fjöldi kaffihúsa og veitingastaða og glæsileg hótel. Sjóarinn síkáti í Grindavík er vinsæl sjómanna- og fjölskylduhátíð á sjómannadaginn. Sandgerðisdagar eru í ágúst og með Ljósanóttinni í Reykjanesbæ í september kveðja Suðurnesjamenn sumarið.

Íslendingur – Víkingaskipið – víkingasetur

Norrænir menn námu Ísland á ofanverðri 9. öld. Hingað komu þeir á knörrum og hraðskreiðum víkingaskipum. Árið 1996 smíðaði Gunnar Marel Eggertsson víkingaskipið Íslending sem er nákvæm eftirlíking Gaukstaðaskipsins sem var smíðað í Noregi um 870 og fannst árið 1882. Íslendingur er 23m á lengd, 5,25m á breidd og mælist 80 brúttótonn. Hann er miðlungsstórt víkingaskip og á slíkum skipum voru 70 manns í áhöfn. Gunnar sigldi Íslendingi til Ameríku og heim aftur árið 2000 til að minnast 1000 ára afmælis siglinga og landafunda Íslendinga í Ameríku. Reyknesingar vilja halda afrekum forfeðranna á lofti. Eftir heimkomuna keypti Reykjanesbær skipið. Nú er verið að vinna að því að koma því fyrir til frambúðar á glæsilegu víkingasetri.“

Framangreint lýsir vilja til að vekja athygli á því stóra er fólk gæti haft áhuga á þegar það vill sækja Reykjanesskagann heim, en allt hið smáa og merkilegra er látið ferðalöngunum eftir að finna að eigin frumkvæði – því sjaldnast er leiðbeinandi merkingum fyrir að fara.

Heimild:
-http://www.icetourist.is/upload/files/sudurnes.pdf21

Skoðað

Arnarseturshraun
Vísbending hafði borist um helli austan Arnarseturs í Arnarseturshrauni. FERLIR þangað.
Byrjað var á því að ganga eftir stígum til suðausturs í átt að Stóra-Skógfelli, en enginn hellir fannst á eða við þær leiðir.

Hnappur

Hnappur – opið.

Þá var gengið í boga til norðurs austan við Arnarsetursgíg. Gígurinn sjálfur austan við Arnarsetrið er stórbrotinn. Einnig annar stærri skammt austar. Hellirinn fannst norðan við gíginn. Frá honum liggur stígur til vesturs norðan við Arnarsetrið.

Op hellisins er stórt. Botninn er sléttur og gott rými inni í honum. Hann er opinn til beggja enda, kannski um 30 metra langur. Í heildina er hann sennilega um 100 metra langur, ef jarðföll og rásir sunnan við hann eru taldar með. Þetta er hið ágætasta afdrep. Um 5 mínútur tekur að ganga stíginn frá hellinum yfir á Arnarsetursveginn.
Bent skal á að þegar staðið er norðvestan við sjálft Arnarsetrið og horft til suðausturs er stór klettur utan í setrinu eins og mannsandlit.

Arnarsetur

Arnarsetursrásir.

Norðar og vestar í Arnarseturshrauni eru nokkrir fallegir hellar þótt þeir geti hvorki talist langir né stórir. Vestast er Kubburinn (falleg hraunsrás á tveimur hæðum), en nyrstur er Hestshellir (með fyrirhleðslu skammt austan við Grindavíkurveginn).

Arnarsetur

Hellir í Arnarsetri.

Milli hans og Arnarseturshellis er Hnappurinn (Geirdalur – ber nafn af þeim er fyrstur kíkti niður í hann). Fara þarf niður þröngt uppstreymisop, fylgja lágri brúnleitri fallegri rás, halda niður í víðan og háan geymi (lítið loftop efst) og út úr honum liggja nokkrir angar. Hægt er að komast upp úr a.m.k. tveimur þeirra.
Gangan milli hellanna tekur u.þ.b. 1 og 1/2 klst.

Gíghæð

Gíghæð vestan Arnarseturs.

Spenastofuhellir

Spenastofuhellir er um 100 metra langur hraunhellir í Tvíbollahrauni. Völundarhúsið er helmingi lengri sexmunnahellir í sama hrauni með mikilli litadýrð, fallegum hringleiðum með ýmsum storknunartilbrigðum, miklum flór og öðrum myndarlegheitum.
SpenastofuhellirHraunið er einna merkilegast fyrir að hafa runnið um svipað leyti og fyrstu landnámsmennirnir voru að koma sér fyrir á Reykjanesskaganum. Aldur þess er því svipaður og elstu minjar á Skaganum. Upptökin eru í Tvíbollum (Miðbollum) milli Grindarskarða og Kerlingarskarðs. Stærð hraunsins er um 18 km2. Vel má sjá hvernig elfurinn hefur runnið niður norðanverða hlíðina að Helgafelli og þaðan áfram suðvestan við það. Líklega er þarna um tvö hraun að ræða sem komið hafa upp með tiltölulega stuttu millibili, stundum nefnd Hellnahraun neðra. Erfitt er að greina skil þeirra, en þó má sjá hvernig úfnara hraunlag hefur lagst á og að því þynnra. Meginrás fyrra hraunsins sést vel norðvestan í Stórabolla og þess síðara norðvestan í Tvíbollum. Hún er fallin niður á nokkrum stöðum svo eftir standa rúmgóð jarðföll. Stærsta jarðfallið í rásinni er neðan fjallsrótanna. Af henni að merkja hefur þar verið um verulega fóðuræð að ræða.
Nokkrir hellar eru í Tvíbollahrauni. Má þar nefna Flóka í Dauðadölum, en hann er einn margflóknasti og sérkennilegasti hellir landsins. Heildarlengd hans er yfir einn kílómetri.
Hjartartröðin er nokkur vestar, en hann er hluti gróinnar hrauntraðar í eldra hrauninu. Heildarlengd hans er hátt í 500 m.
Þá má nefna Gashelli, Spenastofuhelli, Syðri lautarhelli, Spánverjahelli, Nyrðri lautarhelli, Elginn, Rósaloftshelli, Balahelli og nokkra stutta hella, sem jafnan hafa verið nefndir Selvogsgötuhellar.
Spenastofuhellir Spenastofuhellir dregur nafn sitt af sannkallaðri spenastofu í einni hliðarrásinni. Þar má líta augum spena í öllum stærðum og af öllum gerðum. Op lautarhellanna eru í grónum bölum. Spánverjahellir fékk nafn vegna þátttöku þarlendra við fyrstu skoðun hans. Elgurinn fékk nafn af hraunmynd líkri elgshaus sem kemur´“óvænt“ út úr einum veggnum og Rósaloftshellir heitir eftir einstaklega fallegu rósamynstri í lofti hellisins, sem er líklega einsdæmi í hraunhelli hér á landi.
Og þá var stefnan tekin á Völundarhúsið. Neðsta opið horfir mót norðri. Fallegar storkumyndanir eru á gólfi svo og líkt og bátur á hvolfi. Annað op er skammt ofar. en ca. 10 m suðaustan við neðra niðurfallið er 1-2 m breitt op. Innan við það tekur við rúmgóður hellir með nokkrum opum. Út frá rásinni er ýmis göng og þverrásir í allar áttir, jafnvel í hálfhringi. Hliðarrásir eru víða þröngar, en litfagrar. Í einum ganginum eru mjó undirgöng sem óvíst er hvort fara má um. Hellirinn er líklega um 100 metra í heildina. Hann hefur þó ekki verið skoðaður til hlýtar. Að þessu sinni helltu veðurguðirnir úr skolfötum sínum, en þegar farið var eftir rásinni fór það alveg fyrir ofan garð og neðan. Svo margt bar fyrir augu á skammri leið að allt annað gleymdist.
Þótt Sepastofuhellir sé hluti af sömu rásaröngum út frá hinni fyrrnefndu meginrás Tvíbolla og beri þess litbrigðarmerki eru myndanir í honum ólíkar því sem annars staðar má sjá. Þegar komið er inn fyrir munnann, sem er bæði hár og breiður, tekur við hraun framan við fallega sepaumgjörð. Í fyrst mætti ætla að rásin væri ekki lengri en þessir 10 m, en þegar betur er að gáð má sjá gat inn í rásinni. Það er nægilega stórt til þess að hægt er að renna sér áfram á maganum sléttri hraunhellunni inn í rúmgóða rás. Hrun er á gólfi, en hægt er að fylgja rásinni spölkorn upp eftir.
Spenastofuhellir Annað op er inn úr norðaustanverðum framhellinum. Þegar þangað inn er komið tekur spenastofan við. Sama sagan var þarna og í Völdunarhúsinu; gólf og veggir þurrir þótt framhellirinn gréti í rigningunni. Í rauninni er þarna um ótrúlega fallega umgjörð brúnleitra jarðmyndana að ræða.
Þessir fallegu spenar hafa orðið til við mikinn hita í hraunrásinni. Bæði hefur bráðheitt hraunið í henni brætt veggi og þak rásarinnar og mikill hiti hefur haldist inni í henni eftir að hún lokaðist í báða enda með fyrrgreindum afleiðingum. Áhrifin urðu bergbráðnir spenar (separ).
Bergkvikan frá gígnum rennur yfirleitt úr honum ofanjarðar eða um göng og oft langar leiðir undir storknu yfirborðinu uns hún flæðir upp um augu á hraunþekjunni. Þannig renna ótal hraunspýjur hver yfir aðra og því eru helluhraun oft mjög lagskipt. Ekki er að finna gjall eða önnur millilög milli laganna. Hraungöngin tæmast oftast eins og hrauntraðirnar að gosi loknu og verða þá til hraunhellar sem geta orðið mörg hundruð metrar á lengd. Á Reykjaneskaganum eru þekktastir slíkra hella Raufarhólshellir í Þrengslum, en óþekktastur Búri í Búrfellshrauni. Oft eru fallegar myndanir dropsteina og hraunstráa í slíkum hellum, auk framangreindra sepa og flóra.
Spenamyndanir sem þessar má víða sjá í hellum á Reykjanesskaganum, s.s. í efri hluta Rebba á Herdísarvíkurfjalli og í Kistuhellunum í Brennisteinsfjöllum. Litbrigðin í Rebba eru svipuð og í Spenastofuhelli, en þau eru rauðleitari í Brennisteinsfjöllum, sennilega vegna nálægðar við upprunann.
Frábært veður. Gangan að hellunum frá Bláfjallavegi tók 12 mín, enda ekki nema um 900 m leið að fara.

Spenastofuhellir

Hrútagjárdyngja

Gengið var um meginhrauntröð Hrútagjárdyngju, gígtappi dyngjunnar barinn augum og ályktað um jarðfræði myndunarinnar. Ætlunin var að kíkja inn í Steinbogahelli, líta í Húshelli og í Maístjörnuna, Aðventuna og auk þess renna eftir tveimur langrásum nokkur hundruð metra inn undir yfirborðið. Í lokin var svo dáðst að útsýninu að Fjallinu eina og að Sauðabrekkum áður en haldið var til baka um Stórhöfðastíg milli Sandfells og Hrútargjárdyngjubarms.

Fjallið eina

Hrútagjá er sigdalur sem liggur í norðvesturjaðri eldstöðvarinnar Hrútagjárdyngju í Móhálsadal sunnan við Fjallið eina. Gjáin sjálf líkist tröð með mosagrónum hraunbotni á milli klofinna hraunhryggja. Allt svæðið er í umdæmi Grindavíkur.
Eitt af stærstu hraununum í kringum Hafnarfjörð er komið úr Hrútagjárdyngju. Upptök þess eru nyrst í Móhálsdal. Á gígsvæðinu er allmikil gjá sem heitir Hrútagjá og við hana er dyngjan kennd. Hraunið hefur að mestu runnið til norðurs og til sjávar og hefur myndað ströndina milli Vatnleysuvíkur og Straumsvíkur. Í daglegu tali gengur stærsti hluti hraunsins undir nafninu Almenningur. Öskulög í jarðvegi ofan á hrauninu benda til að hún hafi myndast fyrir 4000- 5000 árum (leiðréttur aldur ~ 4500). Hraunin ná yfir 80 km2 svæði.
Ef hraungosunum er skipt upp í sprungugos og dyngjugos kemur fram athyglisverður munur á goshegðuninni. Nánast öll hin stærri dyngjugos urðu strax á síðjökultíma í kjölsogi jökulleysingarinnar og framleiðni þeirra var í hámarki fyrir meira en 11.000 árum. Síðan dvínaði hún og á síðustu 4000 árum hafa einungis orðið þrjú dyngjugos.
OpDyngjutímabilið hófst fyrir um 14000 árum spannaði því 10.000 ár. Engin stór sprungugos eru þekkt frá síðjökultíma. Hins vegar komu upp mikil hraun snemma á nútíma og þá náði framleiðni gossprungnanna hámarki. Á tímabili um miðbik nútímans, frá því fyrir 6000 árum og þar til fyrir 4000 árum, urðu engin stór sprungugos en síðan fór eldvirkni og hraunaframleiðsla vaxandi og náði nýju hámarki á sögulegum tíma. Svipað mynstur sést í tíðni súrra, plíniskra gjóskugosa. Á fyrstu árþúsundunum eftir að ísa leysti er vitað um fjögur slík gos. Um miðbik nútímans varð lengsta goshléið en síðan jókst gosvirknin og hefur hún verið mikil á sögulegum tíma.
Meginhrauntröð Hrútagjárdyngjunnar var fylgt að gígrótunum, fallegum hringlaga tappa í henni miðri. Þá var hrauntröðinni fylgt áfram til norðurs út úr „upprisu“ hraunsins í kringum og út frá gígnum. Landið hefur risið þarna allnokkuð vegna þrýstings kvikuhólfsins undir niðri og sést það berlega á „upphluta“ hennar á jöðrunum.
Þegar komið var út úr tröðinni blasti höfuðborgarsvæðið við – sólbaðað. Fjallið eina var í forgrunni – formlagað sem fyrr.
Hellasvæðið norðan Hrútagjárdyngju tekur við rétt handan við meginformið. Næst er Steinbogahellir. Hann ber nafn sitt af steinboga, sem enn stendur yfir jarðfallinu, sem opið er í. Niðri er hin myndarlegasta rás, en fremur stutt. Hún endar í hruni.
MaistjarnanÞá var litið á op Neyðarútgöngudyrahellis áður en stefnan var tekin á Maístjörnuna. Þegar komið var að opinu sást vel hversu mikinn varma hellar sem þessi geyma í sér fram eftir vetri. Úti var -9°C, en þegar inn var komið var hitinn milli + 10°C-15°C. Hitinn hafði brætt af sér snjóinn fyrir opinu svo inngangan var auðveld. „Augað“ í Maístjörninni er alltaf jafn áhrifamikið. Um er að ræða tiltölulega þrönga rás, sléttbotna. Fyrir innan taka við rásir til beggja handa. Þegar farið er til hægri er um formfagra rás að ræða. Hún skiptist fljótlega í tvennt. Sé farið niður eftir vinstri rásinni skiptist hún í tvennt – og þrengist beggja vegna.
Hægri rásin liggur að þverrás, lægri. Ef henni er fylgt til hægri er komið upp þar sem farið er inn í „augað“. Ef haldið er áfram er komið inn í litskrúðugan hraunsal. Úr honum má vel leita leiða til annarra átta. Það var hins vegar ekki gert að þessu sinni.
Þegar haldið er til vinstri er komið er inn úr „auganu“ taka við dropsteinar. Sæta þarf lagni til að komast framhjá þeim án þess að valda skemmdum. Ofan við er komið inn í rás. Hún liggur annars vegar upp á við og skiptist þar í tvennt. ÞverhellirSé haldið til hægri niður rás er komið niður í fyrrnefnda rás. Hún leiðir viðkomandi áfram niður einstaklega fallega formmyndun. Í henni er m.a. litskrúðugur flór. Þegar horft er til baka frá þessum stað er að sjá tvískipta rás. Þetta sjónarhorn getur ruglað margan nýliðann í rýminu. Hvaðan kom ég? Hvert á ég eiginlega að fara til að komast til baka? Augnabliks hræðsla getur gripið um sig – en það er óþarfi. Með því að fara til baka með rásvegginn á vinstri hönd er auðvelt að finna útgönguleiðina.
Formfegurðin þarna í rásum Maístjörnunnar er óvíða meiri. Litadýrðin er engu öðru lík. Í rauninni er um slíka gersemi að ræða að sem fyrr er ástæða til að takmarka aðgengi að hellinum. Því miður er reynslan sú að fólk kann yfirleitt ekki að umgangast gersemar sem þessar eins og ætlast er til.
Næst var leitað að helli, sem FERLIR fann fyrir nokkrum árum og var gefið númer í samræmi við hellaskráningarkerfi HRFÍ. Um er að ræða myndarlegt op. Þegar komið er inn tekur við nokkuð víð rás, en stutt. Þarna er galdurinn að fara til hægri um leið og inn er komið. Þar liggur um 400 metra löng rás til norðurs. Henni var fylgt nokkurn spöl. Að þessu sinni settu ljósgráir dropsteinar umluktir svarleitu klakaumleitan skemmtilegan svip á rásina. Gólfið er ljósbrúnt svo gráir veggirnir njóta sín vel í slíku umhverfi. Og ekki skemmdu hin fallegu grýlukerti fyrir stemmingunni.

Húshellir

Í Húshelli.

Kíkt var á opið á Híðinu, einum af fallegustu hellum svæðisins. Þrátt fyrir lengdina er hann fremur lágur og þarf að hafa góðar hnéhlífar við skoðun hans.
Húshellir var næstur. Einnig þar hafði undirliggjandi hitinn brætt snjóinn frá opinu svo inngangan var greið. Hlaðið hús úr grjóti er innan við innganginn. Rásir liggja til beggja hliða. Loftin eru heil og ekkert hrun er á gólfi. Bein eru í vinstri rásinni, bæði kindabein og stórgipabein, líklega af hreindýri.
Við skoðun á mannvirkinu var að sjá sem það hafi verið hlaðið af gefnu tilefni. Stórir steinar, a.m.k. þriggja mann tak, eru neðst. Það grjót hefur væntanlega verið sótt í munnann. Síðan hefur verið hlaðið ofan á með hraunhellum fengnum utan við hellinn.
Ljóst er að húsið hefur ekki verið hlaðið af refaskyttum eða hreindýraveiðimönnum. Líklegasta skýringin er sú að útilegumenn, eða einhverjir aðrir, sem hafa þurft að dvelja þarna um lengri tíma, hafi komið að verkinu. A.m.k. er um að ræða hina vandlegustu hleðslu er standa hefur átt til lengri tíma.
Tjaldað hefur verið yfir veggina og mosi verið settur í gólfið. Fróðlegt væri að aldursgreina beinin og jafnvel athuga nánar gólflagið í húsinu. Þarna er um að ræða eina af óleystum ráðgátum Reykjanesskagans – sem fáir sérfræðingar og fjárveitingahaldsmenn virðast hafa haft áhuga á fram að þessu.
Allt þetta svæði er í umdæmi Grindavíkur – jafnvel þótt sumir vildu staðsetja það annars staðar. Húshellir er algerlega óhreyfður. Loft eru heil og gólf slétt. Stærð hans er umtalsverð í rúmmetrum.
Að þessu búnu var haldið yfir á Stórhöfðastíg og honum fylgt upp með Sandfelli og milli Hrútfells og Hrútagjárdyngju. Stígurinn hefur verið merktur, en stikurnar á honum sunnanverðum hafa eitthvað verið aflagaðar. Þær eiga að vera svolítið vestar og koma inn á Undirhlíðaveginn skammt vestan núverandi staðsetningar. Þar er gatan augljós. Vonandi verður þetta lagað.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimildir m.a.:
-www.isor.is

Hrútagjárdyngja

Grindaskörð

Haldið var upp eftir Selvogsgötunni frá Bláfjallavegi í átt að Grindaskörðum. Ætlunin var að skoða tótt skiptistöðvar brennisteinsmanna þar undir skörðunum. Á leiðinni var komið við í helli, sem nefndur hefur verið Elgurinn. Um er að ræða tiltölulega lítið jarðfall. Reipi þarf til að komast niður. Hins vegar einfaldaði hár snjóskafl neðan við opið niðurgönguna að þessu sinni.

Selvogsgötuhellar

Í Rósaloftshelli.

Rás liggur um 30 metra til norðurs. Fremst eru nokkuð fallegar hraunmyndanir. Á botni rásarinnar er brúnt hraun, en rásin er annars dökkleit. Út úr veggnum hægra megin kemur steinn, sem lítur út eins og elgshaus. Til suðurs er hellirinn um 70 metrar. Fremst er fallega brúnt gólfið og fallegar myndanir í lofti.
Ofar í hlíðinni er mikið og djúpt jarðfall. Ekki verður komist niður í það nema á reipi. Inngangur virðist vera í norðanverðu jarðfallinu. Það var hins vegar ekki skoðað að þessu sinni.
Farið var í Rósaloftshellir. Hann er fremur stuttur, en rás liggur upp hann vinstra megin. Ef loftið er skoðað með góðu ljósi sést hversu stórbrotið rósamynstrið þar er. Þátttakendur hafa ekki séð slíkt í öðrum helli.

Spenastofuhellir

Í Spenastofuhelli.

Skammt ofar er Spenastofuhellir. Í honum innanverðum er litadýrð með fallegum sléttum jarðmyndunum.

Kristjánsdalir

Tóft í Kristjánsdölum.

Tótt af skiptistöð brennisteinsmanna er austan við Selvogsgötuna undir hlíðum Grindaskarða. Gengið var austur og niður með hlíðunum. Ofan frá þeim mátti sjá móta fyrir gamalli þvergötu úr austri inn á Selvogsgötuna neðar.
Í Kristjánsdölum er ein tótt af húsi og einnig sést móta fyrir öðru. Það hefur líklega verið timburhús og nokkuð stórt. Hitt er hlaðið úr torfi og grjóti.
Á leiðinni til baka var gengið á ská yfir Tvíbollahraunið og þar rakin gömul leið spölkorn í hrauninu. Sést vel móta fyrir henni á klapparhæð þar sem hún er mörkuð í bergið. Leiðin er frá Selvogsgötunni þar sem hún mætir Bláfjallavegi og í ská upp að vatnsstæðunum vestan Kristjánsdala. Þar virðist vera gömul leið upp með fjallsöxlinni, sem er nokkuð gróin, og beygir hún síðan upp með Tvíbolla.
Frábært veður – 8°C hiti og nánast logn.

Grindaskörð

Tóft undir Grindaskörðum.

Reykjanes

Litur loftsins um sólsetur.
Þegar himininn er gráleitur og myrkur um sólsetur, eða slái á, hann grænum eða gul-grænum lit, er regn í vændum. Rautt sólarlag með skýjum, er verða myrkari, þegar fram á nóttina líður boðar einnig regn.

kalfatjarnarkirkja-231Baugur um sólina.
Með baug um sólina meinum vér hina stóru hringi, eða hringparta, er liggja um sólina. Þegar baugurlsést umísólina eftir gott veður, má búast við regni.

Kóróna.
Með kórónu meinum vér smáa hringi, er sjást oft um sólina eða tunglið. Þegar kórónan fer minkandi, bendir það á regn, stækki hún, er fagurt veður í vændum.

Regnbogar.
Regnbogi að morgni dags er álitinn boða regn; regnbogi að kveldi, fagurt veður.

Litur himinsins.
Þegar þykkur, djúpur blámi sést á himninum, jafnvel þótt hann sjáist gegnum skýjað loft, boðar það fagurt veður; verði bláminnfljósari (hvítari), er stormur í nánd.

Þoka.
Þokur benda á staðviðri. Morgunþoka er vanalega horfin um hádegi.

Skafheiður himinn.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn.

Þegar gufuhvolfið er óvanalega skírt, og mjög stjörnubert og þær sýnast eins og deplar, er regn í vændum.

Skýin.
Þegar vér athugum skýin, gefum vér gætur að, hvers konar ský það eru, hvernig þau hreyfast og hvernig þau eru í lögun. Ský þau, er menn oft nefna „hestatögl“ köllum vér þráðaský (Cirri). Einkenni þeirra er, að þau sýnast eins og þunnur vefur, er hangir lauslega saman eins og tagl á hesti, eða þau sýnast fléttuð saman eins og hin fjarlægu ský, er mynda sólarhringina. Litlar, reglulega myndaðar þyrpingar af skýum þessum sjást oft fyrir stöðugu blíðviðri. En þráða-ský eru líka stundum fyrirboði storms. Þegar þau boða storm, eru þau vanalega þéttari (fleiri) og hliðar þeirra skörðóttar, og þá verða þau oftast að hvítleitum, löngum skýbakka. Ský þau er alment eru kölluð „baðmullarsekkir“, eða „þrumuhöfuð’, köllum vér skýja-þyrping (Cumulus). Þegar þau sjást um heitasta tíma dagsins, en hverfa með kvöldinu, er framhaldandi blíðviðri í vændum. Þegar þau aukast skyndilega, síga hægt niður í gufuhvolfið, og hverfa ekki undir kvöldið, mun brátt von á regni. Þegar sérstök smáský virðast eins og slitna frá þeim, má búast við skúrum. Ský þau er sjást vanalegast eftir miðnætti, sýnast liggja marflöt og taka yfir mikið svæði, boða fagurt veður. Lítil svört vindaský eru fyrirboði regns.

Heimild:
-Almanak Ólafs S. Thorgeirssonar, 24. árg. 1918, bls. 5.

Jónsmessa

Sólsetur á Jónsmessu.