Reykjanesviti

“Sjólaug þessi er þegar orðin mörgum kunn síðustu árin, síðan ferðafólk fór að leggja leið sína út á Reykjanes. Þar geta menn tekið bað í sjó, sem er álíka heitur og við baðstaðina á ítalíu og Suður-Frakklandi við Miðjarðarhaf. Þessar volgu sjávaruppsprettur koma fram í hraunjaðri bak við Valahnúkamöl, 1—200 m. frá sjó. —
Sjólaugin

Þar hefir myndast mjótt lón bak við malarkambinn, er hækkar í við flæði. í og við norðurenda þess koma uppspretturnar fram. Streymir volgur sjór þar í lónið og verður laugin þar 17—20° (C.) heit. Sunnar í lóninu er sjórinn mun kaldari, og í syðsta hluta þess, eigi heitari en sjórinn við ströndina (ca. 10°). — Árið 1928 sprengdi Ólafur Sveinsson vitavörður op á hraunið norðanvert við lónið, og kom þar niður á volgar uppsprettur; gjörði hann þar þró í hrauninu, sem má synda í um flæði og hálffallinn sjó, og þakti yfir, svo þar er komið baðhús, sem nota má, hvernig sem viðrar.
Í október síðastl. haust mældi eg hitann, bæði í laugarhúsinu og aðaluppsprettunni í norðurenda lónsins. Er fyrsta mælingin gerð, þegar aðfall var að byrja. Í laugarhúsinu var um 28°C.
StaðsetninginÞegar kl. var 4, var svo hátt orðið í lóninu, að eigi varð komist að aðaluppsprettunni til að mæla hitann. 1 dálitlu keri, ofanvert við grjótgarðinri, austanvert við lónið, var hitinn kl. 41/2 21° (C), og í uppsprettu undan grjótstíg frá túnjaðrinum fram á grjótgarðinn, 25°. Lofthitinn inni í laugarhúsinu var 17°, en lofthitinn úti 5—6°. Því miður var selta sjávarins í uppsprettunum ekki mæld, en eg tel líklegt, að hún sé hin sama og í sjónum við ströndina.
Við aðfallið kemur sjórinn með allstríðum straumi úr uppsprettunum, og er vatnsmagnið talsvert mikið. Sjórinn er tær og hreinn í uppsprettunum. Stöku sinnum hefi eg þó séð marflær í sjónum í laugarhúsinu; þær voru dauðar, en heilar og óskaddaðar, eins og þær væru nýdauðar, og hefðu látið lífið á leiðinni í gegnum hraunið. Af hraðstreymi sjávarins úr uppsprettunum um aðfallið, virðist mega ráða, að sjórinn hafi greiða rás í gegnum hraunið. Á þeirri leið hitnar hann allt að því um 20 stig.

Reykjanesviti

Sjór sá, sem fyrst kemur inn um aðfallið, er lítið eitt hlýrri en síðar á aðfallinu. Stafar það líklega af því, að sjórinn sem kemur með fyrsta rennslinu, hafi staðið lengur í hrauninu, þar sem hitastöðvarnar eru. Skammt frá laugarhúsinu er ylur í sprungum í hrauninu, vottar fyrir gufum niðri í sprungunum. Sýndi hitamælir þar 20 stig. Annaðhvort mun sjórinn fá innrásfrá ströndinni um sprungur, eða um rásir milli hraunlaga.
Geysir á Reykjanesi, sem er 13—1400 m. spöl frá sjó, hefir undanfarin ár gosið sjóðheitu saltvatni*, sem var eins salt eða saltara en sjórinn við ströndina. Orsökin til þess er án efa sú að sjónum hafi verið opin leið neðanjarðar gegnum hraunin, frá ströndinni, inn að hverastöðvunum.
Á Reykjanesi er jarðhitasvæðið minnst 3—4 ferkílómetrar. Víða á þessu svæði, í nánd við hverina, þar sem eigi sést gufa úr jörðu, og jörðin er þakin gróðri, er svo grunnt á hitanum, að eigi þarf að stinga nema 1—2 skóflustungur niður til að ná 80-90° hita. Væri nóg rennandi vatn hér nærri, sem leiða mætti um jarðhitasvæðið, myndi mega hita hér vatn, er nægja myndi stórri borg til híbýlahitunar. En hér í nánd er engin lækjarsitra. Öll úrkoma hripar niður í gegnum hraunin og hraunsprungurnar, og kemur hvergi fram aftur á yfirborði sem ferskt, rennandi vatn. —
Aðstreymi vatns neðanjarðar virðist aðeins mögulegt úr sjónum, og þess gætir aðeins í GeyReykjanesvitisir og í leirhver þar rétt hjá, sem myndaðist 1919, og heldur hefir eflst síðan Geysir hætti að gjósa. Allir aðrir hverir þar í nánd, eru gufuhverir. Er Gunnuhver mestur þessara gufuhvera. Þeytir hann gufustrókum með miklu afli í loft upp, og heyrist gnauð og dunur í blástursholinu eða gufurásinni neðanjarðar. Væri hægt að leiða vatn í hver þennan, myndi hann að öllum líkindum breytast í voldugan goshver.
Sjólaugin á Reykjanesi virðist ágætur stofn að baðstað. Væri volga sjónum safnað í steyptar þrær, og þakið yfir þær, mætti nota þessi böð, hvernig sem viðraði. Þá mundi og læknum erlendis takast að nota sér hveragufurnar og heita hveraleirinn á þessu jarðhitasvæði til lækninga á ýmsan hátt, og takast að laða þangað sjúklinga víða að. Þegar sólar nýtur, eru þarna líka hentugir staðir til sólbaða í gjám og kvosum í hraununum. — Gígarnir og gosmyndanirnar þarna umhverfis eru margskonar og sérkennilegar, og mundi mörgum útlendingum, er þar dveldu, þykja þar margt nýstárlegt að sjá, enda þótt staðurinn sé afskekktur og eyðimörk umhverfis að kalla má.”

4./5. 1931.
G. G. B.

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn 01.05.1931.

Reykjanes

Sundlaugin á Reykjanesi.

Herdísarvíkurfjara

“Herdísarvíkurhraun eru mikil og ná ofan frá fjalli allt niður að sjó, og er rétt að deila þeim nokkuð. Herdísarvíkurhraunið eldra er klapparhraun og er fornt mjög. Herdísarvíkurhraunið yngra er það hraun, sem runnið hefur fram vestan Lyngskjaldar, og Herdísarvíkurbruni, sem liggur austan bæjarins og hefur runnið ofan um Mosaskarð í sjó fram.”

Herdísarvík

Framangreint kemur fram í örnefnalýsingu sem hér verður stuðst við.
Gengið var niður með vestanverðum bæjarleifum Herdísarvíkur og áfram til suðurs vestan Brunna. Ætlunin var að ganga niður að Hádegisvörðu, um Alnboga og Háaberg að Herdísarvíkurseli.
Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar um Herdísarvík segir m.a. um svæðið suður og vestur af bænum:
“Haldið er nú vestur ofan túngarða, þar er Kátsgjóta, út frá Jöfurshliði. Upp frá Bæjarhliðinu var Kúavegur fram hjá Kúavörðu og lá allt upp undir fjallið.

Hádegisvarða

Upp frá vesturtúngarði er í hrauninu Hvolpatjörnin. Sjávarkampurinn forni er þarna í hrauninu, því vestur frá túninu má sjá mikið af lábörðum steinum, eins og í Urðinni, og áfram liggur kampur þessi austur um Gerðin. Vestan túngarðins var Nýigarður, maturtagarður. En úr Skarðinu lá Brunnastígur, og þar suður af eru tjarnir, sem nefnast Brunnar. Milli tjarnanna voru stiklur nefndar Steinbogi.  Þar vestur af er hrauntangi kallaður Langitangi.
Sunnan við Brunna voru á hrauninu tvær fjárborgir, sem nefndust Borgin efri og Borgin neðri. Matjurtagarðar voru í báðum Borgunum, kallaðir Borgararðar. Þarna á klöppunum er Sundvarða vestari, sem einnig er kölluð Hádegisvarða. Nú taka við gjögur mikil og klappir, en ofan við eru Flatirnar allt út á Alboga, þar um liggja fjárgötur. Á Alboga beygir ströndin til Háabergs.

Hnyðja

Ofanvert við það er djúp gjóta, Háabergsgjóta. Eftir berginu eru Háabergsflatir allt vestur í Seljabót. Á Seljabót eru landa- og sýslumörk. Landamörk milli Herdísarvíkur og Krýsuvíkur og sýslumörk milli Gullbringusýslu og Árnessýslu. Seljabótarnef er staður þessi nefndur. Þarna má sjá selrústir gamlar, og þarna rétt hjá er hellir, Seljabótarhellir. Þá er þess að geta, að í máldaga Strandarkirkju má finna nafnið Selstaður, og hygg ég þar sé átt við þennan stað.
Norðvestur og upp frá Alboga eru Langhólar; Langhóll fremri og Langhóll efri. Þá er Hvíthóll upp af Háabergi. Gamlivegur er götuslóði, er liggur upp frá Seljabót, upp undir austurhorn Geitahlíðar. Milli Kolhrauns og Seljabótarbruna, en yfir suðurenda þess, liggur landamerkjalínan.
Selvegur er slóði, sem liggur út af Gamlavegi upp undir Löngubrekkum, sem eru nokkrir hraunhryggir uppi í hrauninu. Austur með Selvegi er Selhóll og Selhólsbruni. Þá eru Ingimundarhæðir ofanvert við Selhól og þá Hrísbrekkur þar enn ofar og skiptast í Litlu-Hrísbrekku og Stóru-Hrísbrekku.

Varða

Alfaravegurinn gamli liggur þarna um hraunið um Klifhæð, sem einnig ber eftirtalin nöfn: Klifið, Háaklif, Illaklif og Vondaklif. Nú hefur mikil og stæðileg varða verið hlaðin í Klifið, Klifsvarða, og ofan hennar er svo Sýslusteinn, og liggur (svo) þar um landa- og sýslumörk. Austur af Klifhæð er lítill hellisskúti, nefndur Sængurkonuhellir. Þar var eitt sinn förukona á ferð, dró sig inn í skútann og eignaðist barn.” 

Varða er við fyrrnefnda Háabergsgjótu. Einnig voru fleiri vörður á leiðinni ofan við Háabergið, einkum um Gjögrin. Í fyrstu mátti ætla, vegna stopulleika, að þarna væru hlaðin kennileiti fyrir rekastaði eða jafnvel greni/refagildrur, en svarið felst í annarri örnefnalýsingu þar sem m.a. er getið um selstíg á þessum slóðum: “Áður er frá því skýrt, að leiðin til selja lá eftir Gjögrunum og um Háaberg. En einnig lá Seljavegur beint frá Seljabót í Brunna.”
Þessi leið milli bæjar og sels Seljabóthefur verið mjög greiðfær, auk þess sem ferðin hefur þá gjarnan verið notuð til að athuga með nýlegan reka, sem gnægð er af á köflum. Hér eftir, til aðgreiningar frá efri selstígnum, verður þessi leið nefnd Neðri-Selstígur. Ætlunin er að ganga hinar Herdísarvíkurgöturnar fljótlega, þ.e. Herdísarvíkurgötu frá Geitahlíð svo og efri-selstíginn að selinu og Seljaveginn um Gamlaveg til baka að upphafsstað. 

Í annarri örnefnalýsingu GS um þetta svæði segir:
“Rétt sunnan við Brunna eru fjárborgirnar tvær, nefnast Borgin efri og Borgin neðri. Kartöflugarðar voru í Borgunum og nefndust Borgagarðar. Á klöppum rétt utar var svo varða, eyktamark, Hádegisvarða, einnig nefnd Sundvarða. Þá var rétt tekin stefna í Vörina, þegar skutur skips sneri í vörðu þessa, en stafn í Sundvörðuna á kampinum upp af Vörinni.
TófusporVið Herdísarvík voru berar klappir allt innan frá Brunnrásinni út á Alboga. Gjögur var strandlengjan kölluð. Út af Alboga var klettur í fjörunni, er nefndist Svartbaksklettur. Ofan Gjögranna var nafnlaust sandflæmi allt út á Alboga, en ofan við sandinn tóku við Flatirnar, og eftir þeim lágu fjárgöturnar, sem líka voru Selsgötur til Herdísarvíkursels í Seljabót. Frá Alboga beygir ströndin til vesturs, og nefnist þar Háaberg. Spölkorn vestan Alboga er Háabergsgjóta, mikið gjögur, þar sem sjórinn spýtist upp í stórbrimi, líkt og gos úr hver. Háaberg er eggslétt hraunklöpp, en uppi á klöppinni liggja víða gríðarstórir steinar, sem brimið hefur brotið úr berginu og velt upp á klappirnar.  Í norðvestur og upp frá Alboga eru Langhólar, Langhóll fremri og Langhóll efri.
Upp frá Háabergi eru Háabergsflatir. Hér ofar á hrauninu er Hvíthóll. Áður er frá því skýrt, að leiðin til selja lá eftir Gjögrunum og um Háaberg. En einnig lá Seljavegur beint frá Seljabót í Brunna. Þegar austur var haldið úr Seljabót, var á vinstri hönd Selhóll, en hrauntunga lá niður undir hann og nefnist Selhólsbruni. Á brunanum voru svo Ingimundarhæðir og þar upp af Hrísbrekkur, Litla-Hrísbrekka og Stóra-Hrísbrekka. Litlu vestar en Sýslusteinn lá alfaraleiðin gamla um Klifið, sem eiginlega var vestan landamarka. Það nefndist ýmsum nöfnum, svo sem Háaklif, Illaklif og Vondaklif.
Nú hefur verið hlaðin varða í Illaklifi, nefnist Klifsvarða. Sunnan yngra hraunsins er hellisskúti, nefnist Sængurkonuhellir.Herdísarvíkursel Þar leitaði kona einu sinni skjóls og fæddi þar barn. Niður frá Geitafellsendanum eystri lá stígur milli Krísuvíkurhrauns eða Krísuvíkurbruna og Herdísarvíkurbruna, neðan brunans austur í Brunna. Þótti hann betri en að fara um Háaklif. Neðrileið var hún nefnd.”
Fyrrnefndar fjárborgir eru nú uppgrónar þótt enn megi sjá móta fyrir svonefndum Borgargörðum.

Á leiðinni bar fjölmargt fyrir augu, s.s. margslungnar hnyðjur, sæbarin björgin og ýmsar grjótmyndanir. Mávager setti svip sinn á bjargsýnina og refur reyndi að komast undan á flótta ofan við Seljabót. Þegar staðið var á bjargbrúninni austan víkurinnar neðan Seljabótar mátti vera augljóst að hún heitir því nafni, enda bótanefnan jafnan notað fyrir víkur og smávoga.
Frábært veður. Gangan, sem var 9.3 km, tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing I GS fyrir Herdísarvík.
-Örnefnalýsing II GS fyrir Herdísarvík

Mávager

Garðar

“Í Görðum hefur verið kirkja frá fornu fari. Í kaþólskum sið var þar Péturskirkja, helguð Pétri postula. Garðakirkju er fyrst getið í heimildum um 1200 í kirknamáldaga Páls biskups Jónssonar. (ísl. fornbréfasafn 12, 1923-32:9). Á fyrri öldum var Garðakirkja allvel efnuð að jarðeignum og lausum aurum. Garðaprestar höfðu umráð yfir eignum kirkjunnar og fengu af þeim allar tekjur. Í staðinn áttu þeir að halda við kirkjunni og byggja hana upp þegar þurfa þótti.
Gardakirkja-teikningSagt er, að Garðar og Garðakirkja hafi einu sinni verið á Garðaflötum, sem eru skammt fyrir innan Hafnarfjörð, en hafi verið flutt, þegar hraunið rann á. Sagan segir, að fólkið í Görðum hafi flúið undan hrauninu með ljós í hendi, en svo hafi verið um mælt, að kirkjuna skyldi reisa þar, sem ljósið slokknaði, en það var þar, sem nú er kirkjan og
Garðastaður. Gráskinna hin meiri 1, 1983:257.
Í Garða- og Bessastaðamáldaga frá 1397 er tilgreint að Garðakirkja eigi heimaland allt, Hausastaði, Selskarð, Hlið, Bakka, Dysjar, Hraunsholt, Hjallaland og afrétt í Múlatúni. (ísl. fornbréfasafn 4, 1897:107-8). Árið 1558 eignaðist Garðakirkja Vífilsstaði er áður höfðu talist til reita Viðeyjarklausturs, í skiptum fyrir jörðina Hlið sem lögð var til Bessastaða. (ísl. fornbréfasafn 1.3, 1933-39:317-18). Jafnframt átti Garðakirkja rekaítök á fjörum austan Grindavíkur, frá Rangagjögri og í Leitukvennabás að fjörum Kálfatjarnarmanna (sbr. ísl. fornbréfasafn 2, 1883:361-62 og 4, 1897:8).
Árið 1914 var Garðakirkja aflögð og Garðasókn sameinuð Hafnarfjarðarsókn. Nokkru síðar, árið 1928, var prestsetrið flutt til Hafnarfjarðar. Síðasta guðsþjónustan í Garðakirkju var haldin 15. nóvember 1914 og skömmu síðar fékk hin nýreista Hafnarfjarðarkirkja kirkjugripi Garðakirkju til varðveislu og eignar (Ásgeir Guðmundsson 2, 1983: 386-87).
Garðasókn var upptekin að nýju 1960 en Garðagrestakall fáum árum síðar — eða árið1966. Í dag eiga Garðbæingar sókn til Garðakirkju, en undir Garðaprestakall heyra, auk Garðakirkju, kirkjurnar á Bessastöðum og Kálfatjörn, en Kálfatjarnarsókn var upphaflega lögð til Garða 1907.”

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 21. des. 1992, bls. 39-40.
Garðakirkja

Húshólmi

“Enskur sagnfræðingur, A. L. Rowse, segir á einum stað, að sá, sem vilji kynnast sögu lands síns, eigi ekki að byrja á því að lesa þykkar bækur. Hann eigi að fá sér góða gönguskó, blýant, vasabók og landabréf.
husholmi-267Um hverja helgi leita Reykvíkingar þúsundum saman úr bænum, og hafa einatt lítinn fróðleik upp úr ferðunum. Oftast vill brenna við, að menn fari sömu leiðina og þeir hafa farið ótal sinnum áður, (t.d. Þingvallahringinn), eða menn keppast við að komast sem lengst burtu, en þá vill allur tíminn fara í bílakstur. Af þessum sökum má búast við, að ýmsum yrði þökk á uppástungum og leiðsögn um skemmtilegar og fróðlegar bíl- og gönguferðir um nágrenni bæjarins.
Að þessu sinni skulum við halda af stað í bíl kl. 1 e.h. á laugardegi eða sunnudegi og aka sem leið liggur til Krýsuvíkur, beygja út af þjóðveginum til hægri og aka heim að gamla bænum í Krýsuvík. Þaðan er unnt að aka spölkorn suður fyrir túnið eftir melum, allt að braggarúst einni frá stríðsárunum. Síðasta spottann verður þó að fara varlega vegna stórgrýtis.
Hér förum við út bílnum og göngum í suðvesturátt, meðfram bæjarlæknum í Krýsuvík. Þarna er hægt að fylgja bílförum, en þau liggja þó í fullmiklum krókum. Þegar komið er suður undir fellið Stráka og bæjarlækurinn beygir í hásuður, höldum við þvert í vestur frá læknum og göngum í áttina að Ögmundarhrauni, yfir mela og móa. Þegar við komum að hraunjaðrinum, verðum við að gæta vel að til að finna stíginn, sem  liggur inn í hraunið. Hann er merktur með tveimur litlum vörðum í hraunbrúninni.
Stígurinn er fallega grænn í gráum husholmi-345mosanum, og er greiðfær fárra mínútna gangur eftir honum, þar til komið er í Húshólma, grænan óbrennishólma inni í hrauninu.
Við göngum í suðvestur yfir hólmann. Í jaðri hans að suðvestan sjáum við glögglega mikla túngarða forna, sem hverfa undir hraunið. Skammt sunnan við þá sjáum við tvo græna bletti lítið eitt inni í hrauninu. Þar heita Kirkjulágar. Þegar þangað er komið, rekum við upp stór augu, því að hér eru afar greinilegar bæjarrústir, sem hraunið hefur hlaðizt allt í kringum og sums staðar runnið inn í. Í syðri rústunum er austasta tóftin e.t.v. kirkjurúst, en í nyrðri rústunum er vesturtóftin sennilega skáli með setum meðfram báðum veggjum (sjá Árbók Fornleifafélagsins 1903, bls. 49).Talið er, að hér hafi upphaflega verið höfuðbólið Krýsuvík, þar sem Þórir haustmyrkur nam land, enda er staðurinn stundum nefndur Gamla Krýsuvík. En bærinn hefur verið fluttur, þegar Ögmundarhraum rann. Jónas Hallgrímsson telur það hafa gerzt árið 1340, en það er óvíst. Getið er um eldsumbrot á Reykjanesskaga í fornum heimildum bæði á 12. og 14. öld.
Ef við göngum nú niður að sjónum, sjáum við ljóslega, hvað gerst hefur. Ofan frá fjöllunum (frá gígum skammt sunnan við Vigdísarvelli, sbr. Ferðabók Þorvalds Thoroddsens I, 187) hefur ógurlegt  hraunflóð runnið suður til sjávar og breiðzt austur Og vestur yfir feiknamikið flæmi. Það helfur umlukt bæinn í Krýsuvík, en skilið eftir allstóran hólma austan hans og annan allmiklu vestar (Óbrennishólma).
Framan við bæinn hefur krysuvik-teikninghraunflóðið náð saman og steypzt fram af sjávarbökkunum alllangt út í sjó og fyllt hina gömlu Krýsuvík. Þar með hefur útræði frá víkinni verið úr sögunni. Má enn sjá hinn gamla sjávarkamb syðst í Húshólma. Margur num nú spyrja, hvort ekki væri vert að rannsaka fræðilega hinar fornu rústir Krýsuvíkur. Það væri sjálfsagt mjög forvitnilegt og verður eflaust gert, áður en langt um líður. Þangað fóru fundarmenn „víkingafundarins” í Reykjavík í fyrra til að athuga rústirnar. Óþarft er að taka fram, að óheimilt er almenningi að hreyfa við rústunum.
Frá Húshólma er greiðfærast að ganga sömu leið til baka, eftir hraunstígnum. Aðrir mundu vilja klöngrast yfir hraunið með sjónum, en það er mjög ógreiðfært og betra að vera á góðum skóm með gúmsólum. En hvor leiðin sem farin er, er sjálfsagt að ganga nú austur á Krýsuvíkurberg. Það er allt að 30—40 metra hátt fuglabjarg, þar sem verpir svartfugl og ryta. Þarna með sjónum má víða sjá kynlegar klettamyndir, og stórfenglegt getur verið að sjá brimið þeytast tugi metra upp um alls konar glufur í hrauninu. Að þessu sinni látum við nægja að ganga þangað austur, sem bæjarlækurinn fellur í litlum fossi fram af berginu. Síðan höldum við upp með læknum, fram hjá eyðibýlinu að Fitjum, vestan við Stráka, og loks sömu leið til baka vestan með læknum.
Hæfilegt mun að ætla fjóra tíma til þessarar gönguferðar með hvíldum, en gönguleiðin er alls 12—13 km, og er þá klukkan orðin 6 þegar komið er að bílnum aftur. Gott er að hafa með sér nesti til að borða í Húshólma. Þeir, sem í ferðina leggja, ættu að klippa þennan leiðarvísi og hafa með ser. Góða ferð! – H.”

Heimild:
-Frjáls þjóð 31. ágúst 1957, bls. 4

Húshólmi

Húshólmi – skálar.

Sandgerði

Eftirfarandi frásögn frá Sandgerði birtist í Alþýðublaðinu árið 1965:
sandgerdi-222“Sandgerði er ekki gamalt pláss, frekar en svo mörg önnur kauptúná Íslandi. Fyrstu drög að þorpsmyndun á staðnum munu hafa verið gerð, þegar Matthías Þórðarson, faðir Ástþórs Matthíassonar útgerðarmanns í Vestmannaeyjum, stofnaði þar til útgerðar með vélbáti rétt eftir aldamótin. Þá var ekki önnur byggð á staðnum, en jörðin Sandgerði og frá henni mun hafa verið sóttur sjór frá því hún byggðist. Hvenær það var, veit enginn og ekki er vitað til að hún sé landnámsjörð.
Mesta útræði í nágrenni Sandgerðisjarðarinnar var um aldaraðir frá Stafnesi. Þaðan var ívið styttra á miðin, en sá litli munur var mikill á tímum áranna og seglanna. Þegar vélbátarnir komu til sögunnar var engin leið að koma þeim við á Stafnesi, vegna þess, hve höfn er þar ótrygg, en hins vegar er dágóð smábátahöfn frá náttúrunnar hendi í Sandgerði. Varð því úr að útgerðin fluttist þangað, en Stafnes lagðist af sem verstöð, þó að þar hafi efalaust vérið ein allra stærsta útgerðarstöð á landinu um aldabil.

sandgerdi-223

Skammt sunnan við Stafnes stóð verzlunarstaðurinn Básendar, þar til nóttina milli 8. og 9. janúar 1799, að staðurinn eyddist í ægilegu flóði, sem einnig eyddi þá verzlunarstaðnum í Hraunhöfn á Snæfellsnesi, þar sem nú standa Búðir. Er þetta mesta flóð sem um getur á Suðurnesjum og jafnframt það afdrifaríkasta. Það mun hafa verið á Básendum, þar sem Skúli Magnússon síðar landfógeti var innanbúðar hjá danskinum og neitaði að pretta viðskiptavinina. Næst kemur það sögu Sandgerðis að árið 1913 selur Matthías Þórðarson Lofti Loftssyni útgerðarmanni aðstöðu sína í verstöðinni og skömmu síðar settist Haraldur Böðvarsson þar að með sinn útgerðarrekstur og einnig fleiri. Haraldur var í Sandgerði um skamma hríð milli þess sem hann hætti útgerð frá Vogum á Vatnsleysuströnd og flutti til Akraness. 

sandgerdi-224

Segir sagan að meðan Haraldur stóð við, hafi verið hörð keppni milli hans og Lofts um útgerðaraðstöðuna í landi. Ekki fer hjá því að öll þessi umbrot í útgerðinni hafi kallað á hafnarframkvæmdir og var fyrst gerð trébryggja og bólverk, en byrjað var á núverandi hafnargarði einhvern tímann á árununum upp úr 1940 og er hann nú orðinn 300 metra langur.”
Innsiglingin inn til Sandgerðis hefur löngum verið örðug stærri bátum. Hafa þeir gjarnan orðið að sæta sjávarföllum til að komast út og inn um Hamarssund, en svo heitir innsiglingin. Síðan 1962, eða sl. 3 ár hefur stöðugt verið unnið að hafnarbótum. Garðurinn lengdur um 42 metra og Grettir hefur unnið að dýpkun á sundinu 4-6 mánuði á ári hverju. Það er seinunnið verk og erfitt, enda stórgrýtt í botni. Til þessa hafa framkvæmdirnar kostað um 20 milljónir króna. Sú sögn er til um Hamarssund að þar eigi aldrei að farast skip, en sá fyrirvari fylgir, að fara verði rétt í sundið. Þjóðsagan segir, að kerling ein, sem bjó á Bæjarskerjum hafi átt börn tvö, pilt og stúlku. Þeim barst á í sundinu og fórust bæði. Kerlingu varð svo um þetta slys, að hún mælti svo um, að aldrei skyldi farast þar skip, væri rétt farið. Boðar tveir, sem þar norðan og sunnan við sundið heita eftir börnum kerlingar, Þorvaldur og Bóla. Raunin hefur líka orðið sú, að bát hefur aldrei svo vitað sé hlekkst á í sundinu sjálfu, en komið hefur fyrir að borið hefur út úr því og getur þá verið tvísýnt um afdrifin.
sandgerdi-225Verzlunarstaður myndaðist fyrst í Sandgerði um leið og útgerð hófst þaðan, eða á árunum 1907-1908 og þar hefur verið verzlað stöðugt síðan. Búsettu fólki fer fyrst að fjölga fyrir alvöru á árunum upp úr 1940 og nú eru um 1000 íbúar í Miðneshreppi, en svo heitir sveitarfélagið.
Hér áður á árum var fjörugt verbúðalíf í Sandgerði. Þá mátti heita að tvöföld áhöfn væri á hverjum báti. Helmingur áhafnarinnar var í landi og beitti línuna, gerði að fiskinum og vann önnur aðkallandi störf, en sjómennirnir réru yfirleitt með skrínukost. Þá hafði hver bátur sína verbúð, þar sem mennirnir nutu svefns og matar og höfðu ráðskonu til halds og trausts. — Yfirleitt voru verbúðir þannig innréttaðar að fiskhús og beitingaaðstaða var niðri, en íbúðir uppi. Frægust hrakningasaga tengd við Sandgerði, er um það, þegar vélbáturinn Kristján hraktist vélarvana um hafið í vondum veðrum í hálfan mánuð eða meira og var löngu búið að telja hann af. Þá barg það lífi áhafnarinnar, að vélstjórinn hafði fengizt eitthvað við brugg og gat eimað drykkjarvatn úr sjó í litlum mæli þó. Þegar þeir loks gátu hleypt bátnum á land við Stafnes í vitlausu veðri voru þeir búnir að brenna hann hér um bil upp til agna til að halda þessari einstæðu bruggun í gangi.
sandgerdi-227Nú hefur orðið ákaflega mikil breyting á. Verbúðalífið, eins og það þekkist fyrr á árum er að mestu horfið, enda línuvertíð úr sögunni svona hér um bil. Nú munu skráðir 10 stórir vélbátar í Sandgerði og urmull smærri báta og trilla. Sú var þó tíðin, að vertíðarbátar voru þar miklu fleiri, en smærri. 1918 voru til dæmis gerðir 90 bátar út frá Sandgerði, en ekki voru það allt merkilegar fleytur að stærðinni til. Nú landa 40—60 bátar í Sandgerði á hverri vertíð, en sú breyting hefur orðið á, að bátarnir eru lausari við en áður og geta notfært sér löndunarmöguleika víðar jafnframt. – Fyrir tveimur árum eða svo byggði Guðmundurdur Jónsson á Rafnkelsstöðum síldarverksmiðju í Sandgerði, þá fyrstu á staðnum. Fyrir var lítil beinamjölsverksmiðja,- sem Garðar h.f. hafði reist í upphafi, en Guðmundur keypti hana og stækkaði og breytti. Bátar hans lenda allir í Sandgerði, þó að þeir séu skráðir í Garðinum.
Aðal útgerðarfélögin á staðnum í dag eru Miðnes og Garður: Miðnes er stöðin, sem Haraldur Böðvarsson byggði upphaflega, en Guðmundur á Rafnkelsstöðum á Garð, sem Matthías Þórðarson lagði grundvöllinn að, og Loftur Loftsson eignaðist síðar. En þetta eru aðeins stærstu aðilainir sem reka útgerð frá Sandgerði. Aðrir minni eru ótaldir, fyrirtæki eins og Djúpáll h.f., Arnar h.f. og Barðinn á Húsavík, sem á útgerðaraðstöðu í Sandgerði. Og líklega eru þeir fleiri.
Þó að Sandgerðishöfn hafi nú í áraraðir ekki verið talin með öndvegishöfnum landsins, er nú svo komið eftir stöðugar hafnarbætur og dýpkun á innsiglingunni, að hafskipafært er orðið inn á flóði. 1000-1500 tonna skip geta hiklaust farið þar inn og athafnað sig við garðinn, sem er öruggur legugarður í öllum veðrum. Sú tíð er löngu liðin að formenn flýðu með báta sína frá garðinum og út á leguna í vondum veðrum.”

Heimild:
-Alþýðublaðið 17. sept. 1965, bls. 7-10.
Sandgerði

Brúnavörður

Árni Óla skrifaði um vörður í Lesbók Morgunblaðsins árið 1972:
Varda-221“Það mun hafa verið forn siður í Noregi, að menn einkenndu ákveðna staði, með því að hlaða þar vörður. Þennan sið fluttu landnámsmenn með sér hingað, og hann hélzt um aldir, enda má víða finna gamlar vörður og vörðubrot hér á landi. Allar höfðu vörður þessar sinn ákveðna tilgang, þá er þær voru hlaðnar, en tilgangurinn gat verið ærið mismunandi.
Þegar menn voru að kanna ókunna stigu, hvort heldur var á landi eða með ströndum fram, þá hlóðu þeir vörðu þar sem þeir höfðu komizt lengst og höfðu orðið að snúa aftur. Vörðurnar gátu þá bent til þess seinna, er aðra bar að þeim, að þarna hefðu menn komið áður. Þessi siður varð meðal annars til þess að sanna frásagnir um hina fornu íslenzku landnema í Grænlandi. Sagt er að þeir hafi farið óraleiðir norður með strönd Grænlands til veiða, þangað sem þeir kölluðu Norðursetu.
Brigður Varda-222voru bornar á að þetta gæti verið rétt, þar til fyrir rúmri öld, að á ey norður á 73. breiddargráðu, (um 30 sjómílum norðan við Upernivík), fundust þrjár vörður, mjög fornar og voru sýnilega á þeim handverk norrænna manna. Og til þess að taka af öll tvímæli um það, fannst þarna lítill rúnasteinn og stóð á honum, að þessar vörður hefði hlaðið „Erlingur Sighvatsson, Bjarni Þórðarson og Indriði Oddsson laugardaginn fyrir gangdaginn (líklega 24. apríl 1333).
Árið 1876 ætlaði Sir George Nares að komast til Norðurpólsins og fann þá á leið sinni tvö vörðubrot á Washington Irvingey, lítilli klettaey hjá Ellesmerelandi á 79. gr., 35. mín. nbr., og síðar fundust enn tvær vörður á Ellesmerelandi á 72. gr., 58. mín. nbr. Öllum fræðimönnum ber saman um, að á þessum vörðum sé norrænt handbragð. En þessir staðir eru fyrir vestan Melvilleflóa. Hvað gátu Grænlendingar verið að gera þar? — Nú er sögn að árið 1266 hafi Grænlendingar haft úti leiðangur til að njósna um Skrælingja, og þykir líklegt að menn úr þeim leiðangri hafi hlaðið þessar vörður. Svo segir Vilhjálmur Stefánsson.
Þá má geta þess, að vörður voru hlaðnar sem siglingamerki og lendingamerki, ennfremur við vöð á ám og á ýmsum kennileitum, þar sem menn gætu áttað sig, ef þeir væru villtir, og eins voru vörður hlaðnar á landamerkjum. Færu menn í rannsóknarferðir, svo sem að kanna stóra hella, en fundu ekki botn í þeim, þá hlóðu þeir vörðu þar sem þeir höfðu lengst komizt, og ef menn gengu á há fjöll, eða dranga, þá hlóðu þeir þar vörður fræknleik sínum til sönnnnar.
varda-223Enn var siður að hlaða vörður þar sem einhverjir merkisatburðir höfðu gerzt, og má nefna Hallbjarnarvörður á Uxabryggjaleið, þar sem þeir börðust Hallbjörn Oddsson frá Kiðjabergi og Snæbjörn galti. Eru þar tvær hæðir, er þeir börðust, og felldu þar átta menn. Segir Landnáma að þess vegna séa fimm vörður á annarri hæðinni, en þrjár á hinni, til þess að tákna mannfallið. En ekki er þess getið hverjir hafi hlaðið þær vörður. Örnefnið er kunnugt enn, en vörðurnar eru horfnar. Á þessum stað hafa vörðurnar verið minnismerki þeirra, er þar féllu.
Þá var það og siður, að hlaða vörður sér til verndar, einkum á torsóttum og hættulegum fjallvegum. Menn trúðu því, að það myndi blíðka skap dulvætta þeirra, er þar voru allsráðandi.
Sá, sem hlóð vörðu í fyrsta skipti er hann fór um fjallveginn, vættunum til heiðurs, mátti eiga víst að hann henti aldrei neitt óhapp á þeirri leið. Seinna var svo farið að varða vegi, svo að þeir væru ratandi í hvaða veðri sem væri, ef til vill fyrst leiðina á beitarhúsin, síðan leiðir milli bæja og- seinast óralanga heiðarvegi.
Vörðuhleðsla var upphaflega þjóðlegur siður og hafði margs konar tilgang, eins og hér hefir verið lýst. Siðurinn hefst með landnemum og eftir nokkrar aldir hefir verið kominn vörðugrúi í öllum landsfjórðungum.
varda-225En elztu frásögnina um vörðuleðslu er að finna í Landnámu og er sagan svo merkileg, að vel mætti hún vera í heiðri höfð meðan íslenzk tunga er töluð og Íslendinguni er annt um þjóðmenningu sína. Sagan er þannig sögð í Landnámu og hún gerðist í fremstu byggðum Skagafjarðar snemma á landnámsöld: Merkastur landnámsmaður þar var Eiríkur Hróaldsson í Goðdölum. Hann var eigi aðeins falinn vitrastur maður í Skagafjarðarhéraði á seinni tíð, heldur er hann talinn meðal ágætustu landnámsmanna í Norðlendingafjórðungi. Hann nam land frá Gilsá um Goðdali alla og ofan til Norðurár.
Hann bjó að Hofi í Goðdölum og var kvæntur Þuríði dóttur Þórðar skeggja, en hún var systir Helgu, er átti Ketilbjörn gamla á Mosfelli í Grímsnesi. Hrosskell hét maður, er nam Svartárdal allan og Írafellslönd, með ráði Eiríks. Hann átti þræl þann er Roðrekur hét. Hann sendi þrælinn upp eftir Mælifellsdal í landaleitan suður á fjöll. Hann komst að gili því er verður suður frá Mælifelli og nú heitir Roðreks gil. Þar setti hann niður staf nýbirktan, er þeir kölluðu Landkönnuð. Og eftir það snýr hann aftur.
varda-226Annar nágrannii Eiríks var Vékell hinn hamrammi, er land nam ofan frá Gilsá til Mælifellsár og bjó að Mælifelli. Hann spurði til ferða Goðreks (spottaði hana, segir í Hauksbók). Þá fór hann litlu síðar suður á fjöll í landaleitan. Hann kom til hauga þeirra, er nú heita Vékelshaugar. Hann skaut milli hauganna og hvarf þaðan aftur. En er þetta spurði Eiríkur í Goðdölum, sendi hann þræl sinn suður á fjöll, er hét Rönguður. Fór hann enn í landaleitan. Hann kom suður til Blöndukvísla og fór þá upp með á þeirri, er fellur fyrir vestan Vínverjadal, og vestur á hraunið milli Reykjavalla og Kjalar, og kom þar á mannsspor, og skyldi að þau lágu sunnan að. Hann hlóð þar vörðu þá, er nú heitir Rangaðarvarða. Þaðan fór hann aftur, og gaf Eiríkur honum frelsi fyrir ferð sína. Og þaðan af tókust upp ferðir um fjallið milli Sunnlendingafjórðungs og Norðlendinga.
varda-227Saga þessi er bæði skemmtileg og fróðleg. Upphafið er skemmtilegt vegna þess, að
það afsannar þá firru, er margir hafa verið haldnir, að elztu rithöfundar vorir hafi verið gjörsneiddir allri gamansemi. Er ekki notaleg glettni í sögunni af Roðrek, sem sendur er að kanna firnindi Íslands og leggur af stað hinn borginmannlegasti með nýbirktan staf í hendi? Hannn kemst á hvarf við byggðina, stingur þar niður stafnum og hverfur aftur, en stafurinn fékk nafnið „Landkönnuður!” Og svo er sagan um Mælifellsbóndann. Hann spottaði Roðrek fyrir ferð sína og hugðist nú gera heldur betur. Það er ekki út í bláinn að hann er kallaður hinn hamrammi. Hann komst að vísu lengra en Roðrekur, rakst þar á tvo hóla og skaut á millU þeirra. Við það hvarf hann aftur. Ekki er þess getið hvað skotið átti að þýða.
Niðurlag sögunnar er mjög fróðlegt, því að það sýnir með hverjum hætti fannst fyrsta leiðin yfir öræfi Íslands milli landsfjórðunga og hver árangur af því varð. Og hún sýnir líka, að Rönguður sendimaður hefir verið athugull og glöggskyggn. Hann fer þar til hann finnur slóð manns að sunnan.
Hann veit þá varda-228að ætlunarverki hans er lokið, sú leið er fær, sem hann á enn ófarna, og þess vegna hleður hann vörðu þar sem hann rakst á slóðina. Hann hefir einnig tekið glöggt eftir landslagi og staðháttum og getur lýst því öllu greinilega, er heim kemur. Vitrasta manninum í Skagafirði var trúandi til að kunna að meta þetta. Hann vissi að hinn ófrjálsi maður hafði unnið það frægðarverk, að opna alfaraleið þvert yfir landið, og veitti homum fyrir hin dýrustu laun, sem í hans valdi stóð að veita. Hann gaf þrælnum frelsi.
Vegna þess, að Garðar Svavarsson, hafði sigl umhverfis landið, munu flestir landnámsmenn hafa haft spurnir af því, áður en þeir fluttust hingað, að Ísland væri eyland. En fæsta mun hafa órað fyrir hve stórt það er og erfitt yfirferðar. Það er ekki fyrr en þeir hafa setzt hér að og komizt að raun um, að landið var ekki byggilegt nema með ströndum fram, að þeim urðu samgönguerfiðleikarnir ljósir. Hér var ekki hægt að treysta á samgöngur á sjó, eins og í Noregi. Hér var enginn skerjagarður úti fyrir, sem hlífði strandlengjunni. Hér voru ekki langir og veðursælir firðir að ferðast eftir. Hér var víðast opin brim strönd og hafnir fáar. Leiðir með ströndum fram, eða um byggðir, voru langar og krókóttar og þar voru margir farartálmar, enda þótt stórárnar hafi þá verið mörgum sinnum vatnsminni heldur en þær eru nú. Það var því eðlilegt nð landnámsmönnum væri mjög í mun að finna leiðir þvert yfir hálendið, og sendu því menn sína víða til að kanna landið. Og það hefir þótt svo merkur atburður, er fyrsta leiðin yfir öræfin fannst, að frásögn um það hefir verið skráð, enda þótt ekki sé minnst á aðrar rannsóknaferðir, sem farnar hafa verið, að undanteknu því, er synir Gnúpa-Bárðar fundu veg um Vonarskarð úr Bárðardal suður í Fljótshverfi.
varda-229Leið sú, er Rönguður fór, virðist hafa verið mjög hin sama og síðar var alfaraleið um margar aldir, um Mælifellsdal, Haukagilsheiði, Eyvindarstaðaheiði, yfir Blöndukvíslar að Reykjavöllum, sem nú kallast Hveravellir. Þar leggur hann á Kjalhraun. Í hrauninu rakst hann á mannsspor „og skildi að þau lágu sunnan að”. Vera má, að þetta hafi verið síðsumars og komið föl á hálendið og slóðin hafi því verið auðrakin. En ekki þarf svo að vera, hann gat hafa fundið sporin í sandi. En hver var þá maðurinn, er hafði skilið eftir spor sín þarna? Allar líkur benda til þess, að hann hafi verið þarna í sömu erindagerðum og Rönguður, sendur af sunnanmönnum til þess að finna leið norður yfir öræfin, og er þá varla öðrum til að dreifa en landnámsmönnum í Hrunamannahreppi. Landnáma segir svo frá þeim: „Bröndólfur og Már Naddoddssynir og Jórunnar dóttur Ölvis barnakarls, komu til Íslandsbyggðar snemma. Þeir námu Hrunamannahrepp svo vítt sem vötn deila.” Þeir voru synir fyrsta norræna mannsins, sem talið er að hafi stigið fótum á Ísland. Af góðum ættum hafa þeir verið og urðu sjálfir kynsælir. Út af Bröndólfi var kominn Hallur í Haukadal og Þorlákur biskup Runólfsson, en af Má var kominn Hjalti Skeggjason. Þessum landnámsmönnun er vel til þess trúandi eins og Eiríki í Goðdölum, að hafa haft mikinn hug á að kanna landið og finna veg norður yfir hálendið.
varda-230Rönguður hlóð vörðu þar sem hann rakst á slóð sunnanmannsins. Sú varða var við hann kennd og kölluð Rangaðarvarða, svo að ekki gleymdist nafn þess manns, er fyrstur fann þennan fjallveg. En ekki er þess getið hvar varðan stóð og gleymt er það nú. Varla hefir hann haft tíma til að hlaða háa og gilda vörðu og því er ólíklegt að hann hafi hlaðið hana inni í hrauninu. Hann muni hafa valið henni stað þar sem mest bar á henni og auðveldast var að finna hana. Þess vegna mun hún hafa staðið í hraunjaðrinum, ef til vill ekki langt frá þeim merka stað Hveravöllum.
Vörðum þeim, sem stóðu hjá fjallvegum, var haldið við, vegna þess að þær voru vegfarendum til leiðbeiningar. Fór þá tíðum svo, að þessar vörður urðu bæði háar og digrar, og af stærðinni voru þeim gefin nöfn og kallaðar Kerlingar. En Kerling þýddi þar sama sem skessa eða tröllkona. Um vörðu, sem stóð á Mýrdalssandi, var t.d. þessi vísa kveðin:
Kerling ein á kletti sat
Kötlusands á stræti,
vísað mönnum veginn gat,
var þó kyrr í sæti.
varda-231Enginn vafi mun á því vera, að Rangaðarvarða hefir verið endurnýjuð og stækkuð svo, að hún átti skilið að heita Kerling og hefir verið kölluð svo um aldir, því að til þess bendir gömul vísa, að hún hafi staðið langt fram á 18. öld. Um þá heimild er það að segja, að í Kjalhrauni er hellir, sem nefnist Grettishellir og á Grettir að hafa hafzt þar við um þær mundir er hann hitti Loft á Kili og Loftur strauk hendur hans af beizlistaumum sínum. Hellir þessi er í hrauninu sunnan við Rjúpnafell og um 7 km fyrir sunnan Hveravelli. Hann var allstór fyrrum og leituðu ferðamenn þar oft náttstaðar, en nú er hann fullur af roksandi.
Vísan var kveðin í þessum helli eigi seinna en á 18. öld:
Hér er Grettis gamla borg,
sem gott er við að una,
en eg er hryggur út af sorg
eftir Kerlinguna.
Þetta virðist benda til þess, að varðan hafi þá verið hrunin. Og varla hefir hún verið hresst við aftur, því að eftir óhappaför Reynistaðarbræðra 1780, tóku ferðir um Kjalveg að leggjast niður og má segja að hann hafi verið týndur sem ferðamannaleið allt framundir seinustu aldamót, að Daniel Bruun „fann” veginn að nýju. Og þótt hann hafi síðar verið varðaður, þá er Rangaðarvarða týnd. Slíkt hugsunarleysi getur ekki verið skammlaust þeirri þjóð, sem vill hafa menningarsögu sína í heiðri. Rangaðarvörðu verður að reisa að nýju, þetta elzta íslenzka minnismerki um afrek unnið á sviði landkönnunar.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 24. sept. 1972, bls. 12-13.

Varda-221

Krýsuvík

Skoðaður var fjárhellir Krýsuvíkurbænda í Bæjarfelli, rakin kennileiti og gengið eftir vörslugarðinum mikla á milli Bæjarfells og Arnarfells, yfir Vestari læk og framhjá Arnarfellsbænum. Tóftir hans eru vel greinilegar sunnan undir fellinu. Auk þeirra eru tóftir miðja vegu uppi í fellinu. Efst er Eiríksvarðan, nefnd eftir Eiríku galdrapresti í Selvogi. Nokkrar sögur honum tengdum gerðust í Krýsuvík, s.s. viðureign hans við Tyrkina, sem nú eru dysjaðir í svonefndum Ræningjahól neðan kirkjunnar, en allar eru þær því miður rangfeðraðar í tíma.

Bæjarfell

Bæjarfell.

Haldið var yfir ísilagða Bleiksmýrina og stefnt á heiðina. Eftir stutta göngu var komið að Jónsvörðuhúsi, stórri tótt á miðri Krýsuvíkurheiði. Sagt er að Magnús í Krýsuvík hafi verið hafður þar fyrrum yfir sauðum sumarlangt.

Jónsbúð

Jónsbúð á Krýsuvíkurheiði.

Þaðan var haldið að hlöðnu húsi, sem gæti annað hvort hafa verið sæluhús (smalabyrgi) eða húsi tengt mannvirkjunum í Litlahrauni og öðrum nytjum í og við Krýsuvíkurbjarg (-berg), sem þarna er suðaustan undan hæðinni.

Krýsuvíkurheiði

Smalabyrgi í Krýsuvíkurheiði.

Húsið er sunnan í heiðinni með útsýni um Krýsuvíkurberg frá Keflavík að Selöldu. Þá var haldið á Litla-hraun, skoðaðar minjarnar þar (tóft, hlaðið fjárskjól og rétt) og yfir í Klofninga þar sem komið var við Arnsgrímshelli, fornum fjárhelli, sem þar er á sléttlendi sunnan undir hraunkanti. Arngrímur, bóndi á Læk, hafði fé í hellinum fram undir 1700, er sylla úr berginu féll á höfuð hans – með tilheyrandi afleiðingum.

Gvendarhellir

Hústóft framan við Gvendarhelli.

Þar gerist þjóðsagan um Grákollu o.fl. góðar sögur. Í hellinum eru hleðslur sem og fyrir opum hans. Við eitt opið er tótt undan húsi Krýsuvíkur-Gvendar, sem einnig nýtti hellinn sem fjárhelli um 1830. Gengið var í gegnum Bálkahelli, sem var klakaprýddur og skartaði sínu fegursta. Leitað var tveggja fjárskjóla efst í Eldborgarhrauni. Vitað er nú hvar þau eru og er ætlunin að finna þau óvænt síðar.

Dysjar

Dysjar Krýsu, Herdísar og smalans í Kerlingadal.

Loks var staldrað við hjá dysjum Herdísar og Krýsu og rifjuð upp þjóðsaga þeirra kvenna.
Veðrið var gott – sól og lognið í bakið.
Gvendarhellir

Í Gvendarhelli.

Tvíbollar

Einfarinn, einn áhugasamasti hellakoðunarmaðurinn um þessar mundir, gekk fyrir skömmu áleiðis upp í Brennisteinsfjöll. Leiðin lá um Tvíbollahraun um Kerlingarskarð og upp með Syðstubollum. Á þeirri leið var gengið fram á tvo áður óskráða hella, í Tvíbollahrauni og við Syðstubolla.

Hellir

Tvíbollahraun, stundum nefndt Miðbollahraun, er talið hafa runnið ~950. Það er blandhraun; helluhraun að ofanverðu en apalhraun eftir því sem neðar dregur. Líklegast er því að finna rásir, hella eða skúta í því ofanverðu.
EE fór í hellaferðina fyrrnefndu, frjáls eins og fuglinn vegna frestunar á verkefni. Hann lagði upp í ferð í Brennisteinsfjöll, en stórlega vanmat náttúrufegurðina og vegalengdina og náði ekki lengra en upp að Draugahlíðum. Veðrið var hins vegar eins og best verður á kosið.
Eins og góðum hellamanni sæmir var auðvitað leitað í hverri holu og fundust við það tvær sem ekki höfðu leitað á hellalistann hingað til. Fyrri hellirinn er í Tvíbollahrauni rétt ofan við veginn upp í Bláfjöll og seinni upp á hæðinni rétt þegar komið er upp á fjallið. Báðir hellarnir eru stuttir og teljast kannski frekar til skúta, en eru þó um 20 metra langir. Báðir eru hluti af lengri hraunrásum.
Áður fyrr var einungis talað um Bollana og/eða Grindaskarðshnúka, sem reyndar er rangnefni því Grindaskörð eru utar (norðan við Stóra bolla), en Kerlingarskarð þar sem nefndir Grindarskarðshnúkar eru. Reyndar hafa menn kallað Kerlingarskarðið Grindarskörð í seinni tíð.
Á landakortum eru tilgreindir Stóribolli, Miðbollar og Syðstubollar. Stóribolli er greinilegur úr fjarlægð sem og Miðbollar. Um er að ræða nokkra gíga utan í aðalgígnum (Miðbolla), einum þeim fallegasta á brúninni.
HellisopUm Syðstubolla gildir annað því þeir sjást ekki neðan frá. Þeir eru minni og rétt innan (ofan) við Grindarskarðshnúka. Þeir koma í ljós þegar komið er upp á brúnina, vestan við Hlíðarveginn og beygt er til vesturs, að ofanverðum Draugahlíðum. Grindarskarðshnúkarnir eru hins vegar tindarnir vestan Kerlingarskarðs og  eru ekki gígar. Um þá liggur leið (styttingur) ofan frá námusvæðinu í Brennisteinsfjöllum.
Í einni lýsingunni segir: “Á leiðinni upp í skarðið blasir Stóri bolli, Tvíbolli og Þríbolli við, en eru einu nafni nefndir Bollar eða Grindaskarðshnúkar.” Hér er talað um Tvíbolla og Þríbolla, auk Stóla bolla. Hægt væri að tala um, líkt og Jón gerði, Tvíbolla vestan Stórabolla. Miðbolli og Syðstubollar eru þó aðskilin gígasvæði, bæði með nokkrum gígum (3-5). Kóngsfellið (sunnan Miðbolla) er hluti af þessum gígum og mætti því vel teljast til Bollanna. Þar hittust fjárkóngar Grindvíkinga, Hafnfirðinga (Seltjerninga) og Ölfusmanna við upphaf leita á haustin.
Hér eru framangreindir hellar nefndir Tvíbolli í Tvíbollahrauni og Syðstibolli við Syðstubolla. Fyrrnefndi hellirinn er dæmigerð hraunrás frá afurð upprunans, rauðleit í bland við gulgrátt. Síðarnefndi hellirinn er eftirbreytileg yfirborðsrás þar sem hægt er að láta ímyndunaraflið ráða framhaldsför um þrengri anga.
Annars var útsýnið ofan frá Kerlingarhnúkum stórkostlegt þessa haustblíðu.
Framangreindir hellar eru nr. 612 og 613 á hellaskrá FERLIRs á Reykjanesskagnum.

Tvíbolli

Bollar.

Múlasel

Í jarðabókinni 1703 segir m.a. um Skorhaga í Brynjudal: “Var hinn forni bær kallaður Múli, og er þar nú auðn, en í staðinn komin þessi jörð, Skorhagi, fyrir meir en hundrað árum. Aldrei hafði þar verið bær sem nú stendur hann”.
Brynjudalur-22Vísa, sem Sveinbjörn Beinteinsson afhenti Þórhalli Vilmundarsyni í desember 1992.  Höfundur er ókunnur.

Bær hét Múli í Brynjudal,
berst það víða um sveitir.
Skriðan gerði skemmdarpal,
Skorhagi síðan heitir.

Ekki er minnst á selstöður frá þessum bæjum í Jarðabókinni 1703.
Brynjudalur-23Ari Gíslason skráði örnefnalýsingu fyrir Skorhaga. Þar segir m.a.: “Árið 1705 segir jarðabókin frá því, að fyrir meira en 100 árum hafi bærinn verið fluttur hingað vegna skriðu og gamli bærinn hafi heitið Múli. Má og geta þess, að var kvöð  á bónda í Múla að gæta fjár, sem Reynivallaklerkur átti í Maríuhelli við Brynjudalsá. Brynjudalsá liggur í sveig austan og sunnan við bæinn og túnið. Láglendið, sem tilheyrir jörðinni, er mest holt og hæðir, svo og Múlafjall, sem gengur hér fram milli Brynjudalsvogs og Botnsvogs.
Inn á merkjum móti Ingunnarstöðum var býlið Múli, er fór í skriðu fyrir löngu síðan. Svo er hér mýri,sem heitir Skorhagamýri. Upp undan mýrinni uppi í klettum er sléttur vellisblettur, sem heitir Jónsblettur. Urð er allt í kringum hann og hlýtur að hafa sigið að honum. Klettar eru fyrir ofan þessa brekku, og heita þeir Sneiðarklettar. Þeir eru eins og sneið, sem hækkar vestur eftir og endar út á móts við Stórahjalla, sem er í miðri hlíð. Ofan við Stórahjalla er Lambaskarð í klettana, en neðan við Stórahjalla var tjörn, sem synt var í. Eyri milli tjarnarinnar og árinnar er Stórahjallaeyri.
Brynjudalur-24Niður undan vesturenda Stórahjalla er Ás, sem liggur upp og niður, og við ána er nefnt Svartibakki. Upp með honum að vestanverðu er væn vellisbrekka, sem vantar nafn á. Ofan hennar er lítið gróið land vestur að aðalklettunum. Í brún á Múla eru klettabelti; í þeim eru skörð. Lambaskarð hefur fyrr verið nefnt; svo eru þrjú önnur. Þau heita Austastaskarð, Miðskarð og Seldalsskarð, sem var utast. Upp þessi skörð fóru kvíaærnar. En þegar Einar Jónsson var að smala, gat hann sent tík eftir þeim, og allt kom þetta  niður um Seldalsskarð og aldrei neitt af geldfé, þó nóg væri af því uppi á fjalli.

Brynjudalur-25

Klettar neðan skriðu eru nafnlausir, og þar vestan Svartabakka er nokkuð breið nafnlaus eyri. Þar utar koma börð, sem heita Klifbörð. Efst við Skorhagamýri var farið yfir Klifholt), og börðin voru ofan við Klifið, en það var þar sem gatan lá yfir holtið. Vestan við Klifholt var Réttarholt; undir því var fjárrétt. Réttarholtið er rétt fyrir ofan bæinn. 

Vestan við Réttarholt eru börð sundurskorin. Þau heita Blettir; þetta er heldur vestur af túninu. Réttarholt er norður af mýrinni, upp af túni. Vestur af klettum er Seldalsholt, og þar vestur af er Seldalur.

Brynjudalur-26

Múlasel – uppdráttur ÓSÁ.

Áin tekur á sig allmikinn sveig kringum túnið. Þess má og geta, að einhver sagði, að nafnið hafi upphaflega verið Skyrhagi, vegna þess hve landið er gott hér. Um þetta er ekki annað að segja en það, að þetta nafn finnst hvergi. Niður að túni frá Seldal niður að á eru grjótholt niður með túni, nefnd einu nafni Holt. Þó eru á þeim ýmis nöfn. Mýri er fyrst vestur af bæ, sem heitir ekki neitt.”
Páll Bjarnason skráði upplýsingar um Skorhaga eftir Halldóru Guðmundsdóttur, Brávallagötu 48, fædd í Skorhaga 13. jan. 1903, átti þar heima til 16 ára aldurs. Hún hafði samráð við eldri systkin sín, einkum Snæbjörn, sem átti þar heima til 1921, og Þorkel.
“Hinn forni bær Múli var undir Múlafjalli mitt á milli Ingunnarstaða og Skorhaga eins og nú er, vestan og ofan til við Skorhagamýri. Þar er gróin skriða og hólar, sem bærinn er talinn hafa staðið.” Ekkert er minnst á sel, selstöður eða “selja”örnefni í lýsingunni.
Við leit á svæðinu norðan Skorhaga komu m.a. í ljós meint dys/kuml, forn gata, tvær fjárhústóftir, stöðull og/eða rétt og selið, sem leitað hafði verið að og tilheyrt höfðu bæjunum Múla og Skorhaga. Um eru að ræða tvær selstöður frá mismunandi tímum, líkt og sjá má á meðfylgjandi uppdrætti.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir:
-Jarðabókin 1703.
-Örnefnalýsing fyrir Skorhaga, Ari Gíslason skráði.
-Páll Bjarnason, örnefnalýsing fyrir Skorhaga, Reykjavík 9. febrúar 1977.

Brynjudalur

Brynjudalur.

Suðvesturlínur

Þann 17. september 2009 gaf Skipulagsstofnun álit sitt vegna svonefndra Suðvesturlína.
“Skipulagsstofnun hefur fallist á mat á umhverfisáhrifum Suðvesturlína með skilyrðum. Í áliti stofnunarinnar sem gert var opinbert í dag er í meginatriðum tekið undir niðurstöður matsskýrslu Landsnets og einungis talin þörf á að setja frekari skilyrði um áflugshættu fugla á nokkrum stöðum á línuleiðinni.”
SuðvesturlínurSegjast verður eins og er að hér er farin sú ódýrasta leið, sem farin hefur verið í álitsgerð hér á landi, sennilega frá því að land byggðist, um alveg sérstaklega afdrifaríkt mál – eyðileggingu náttúru- og fornminja á einu verðmætasta svæði landsins.
“Um er að ræða mjög umfangsmikla framkvæmd og nær áhrifasvæði hennar allt frá Hellisheiði og út á Reykjanesskaga. Fyrirhugað er að reisa 507 ný möstur og leggja milli 180 og 190 km af loftlínum og um 50 km af jarðstrengjum en á móti verða rifin 403 eldri möstur. Gert er ráð fyrir að framkvæmdunum verði skipt upp í fimm áfanga á árunum 2010 til 2017.
Skipulagsstofnun telur að neikvæðustu áhrif fyrirhugaðra framkvæmda verði sjónræn áhrif og áhrif á landslag og þar með einnig á útivist og ferðaþjónustu. Skipulagsstofnun telur að heildaráhrif fyrirhugaðra framkvæmda m.t.t. þessara umhverfisþátta verði óhjákvæmilega verulega neikvæð.
Skipulagsstofnun telur að þegar litið er til heildaráhrifa fyrirhugaðra framkvæmda á jarðmyndanir og gróður verði áhrifin talsvert neiHáspennumösturkvæð þar sem nútímahraun munu raskast á óafturkræfan hátt á alls tæplega 30 ha landssvæði og nútímahraun eins og um er að ræða á áhrifasvæði framkvæmdanna, þekja lítinn hluta jarðar og sá gróður sem þar vex því frekar fátíður.
Skipulagsstofnun telur að nýlagning lína geti haft talsverð neikvæð áhrif á fugla á löngum köflum fyrirhugaðar línuleiðar vegna áflugshættu og búsvæðaröskunar, auk þess sem línuleið mun á kafla liggja í nálægð við gamlan varpstað hafarna. Á móti koma jákvæð áhrif vegna fyrirhugaðs niðurrifs núverandi lína um Heiðmerkursvæðið. Það er því niðurstaða Skipulagsstofnunar að heildaráhrif á fuglalíf verði nokkuð neikvæð vegna lagningar Suðvesturlína.”
Af eðlilegum ástæðum með hliðsjón af framangreindu kvað umhverfisráðherra upp eftirfarandi úrskurð: “Umhverfisráðherra hefur fellt úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar um að ekki skuli fara fram sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum framkvæmda vegna Suðvesturlínu og öðrum tengdum framkvæmdum. Málinu hefur verið vísað aftur til Skipulagsstofnunar til efnislegrar meðferðar og úrlausnar.”
Vonandi gerist eitthvað gott í framhaldinu…

Heimild:
-www.sudvesturlinur.is

Háspennumöstur

Háspennumöstur.