Miðvogsstekkur

Í heimsókn til Þórarins Snorrasonar á Vogsósum komu upp við undirleik slátursuðunnar vangaveltur um staðsetningu Bjarnastaðastekks í Selvogi.
Þórarinn sagðist hafa skoðað örnefnalýsingar Götu og Bjarnastaða og skv. hans bestu vitund, með hliðsjón af nálægum örnefnum, gæti stekkurinn varla Þórarinnverið annars staðar en milli Snældhóla og Stóraklifs austan núverandi vegar niður að Selvogi. Ákveðið var í framhaldi af því að slá til og fara á vettvang, enda var veður hið ákjósanlegasta í kvöldhúminu, logn og haustangan.
Í örnefnalýsingu fyrir Götu segir m.a.: „Örnefnaskrá þessi er samin með hliðsjón af skrám eftir Gísla Sigurðsson, sem lesnar voru yfir með Eyþóri Þórðarsyni, Hraunbæ 56, Reykjavík. Eyþór er fæddur í Torfabæ í Selvogi 1898 og ólst þar upp. Hann bjó í Torfabæ til 1962. Skráð var að heimili Eyþórs 15. og 21. okt. 1980.
Gata er næst fyrir vestan Bjarnastaði. Landamerki Götu og Bjarnastaða eru: Mörk Götu og Þorkelsgerðis eru: Markhella, sem er klöpp í fjöru, þaðan í Markklett við túngarð, þ.e. jarðfastur klettur við Litlu-Götuhlið (M er bæði í hellunni og klettinum), þaðan í Markhól austan Stóra-Klifs, þaðan í miðjan Gjáardal, sem er dalverpi ofan vegar, þaðan í Svarthól og loks í Kálfahvamm í Geitafelli (ekki Kálfahvammsöxl). Tveir bæir voru í Götu, Stóra-Gata og Litla-Gata. Stóra-Gata stóð neðarlega í túni, u. þ. b. mitt á milli landamerkja, en Litla-Gata ofar og vestar, skammt frá landamerkjum Þorkelsgerðis, rétt við Markklett. Tún bæjanna eru kennd við hvorn um sig.
StóraklifVestast í fjöru er Markhella  á mörkum móti Þorkelsgerði. Upp frá fjörunni er Kampurinn, sjávarkampur, sem hér er kallaður Götukampur. Fyrir ofan hann er Grásteinn á merkjum móti Bjarnastöðum. Upp frá Kampinum liggur Götubryggja, garður, sem nær upp undir Stóru-Götu. Hann var gerður til að ganga á vetrum, en þá var oft tjörn fyrir ofan Kampinn.  U.þ.b. beint upp frá Stóru-Götu var brunnur bæjanna. Ofan við tún er túngarður, kenndur við Götu. Traðir liggja niður með merkjunum að austan. Göturás rann niður mitt tún, kom innan að. Vatn var í henni í leysingum, en var annars þurr.
Ofan túngarða tekur Selvogsheiði við, og er nefnd Miðheiði upp af Bjarnastöðum og Götu  og vestur um Torfabæjaland, en Útheiði eða Vesturheiði þar fyrir vestan. Fyrir ofan Götutún halda áfram Bjarnastaðaflatir, og á þeim eru Bjarnastaðahólar. Vestasti-Bjarnastaðahóll er í Götulandi og e. t. v. einnig Mið-Bjarnastaðahóll. Ofan við hólana var lægð eða flöt, sem nefnd var Skjaldbreið, en er nú orðin uppblásin og nefnd Grjót (ft.). Þar ofar var Bjarnastaðastekkur, alveg við mörkin í Götu og e.t.v.  í Útvogslandi. Sést fyrir honum enn. Við stekkinn var Stekkatún og Stekkatúns-flatir í kring. Þetta er við veginn niður að bæjunum.“
ÞórarinnÞegar á vettvang var komið sagði Þórarinn hólana fyrir ofan stekkinn heita Snældhóla. Á þeim austasta er varða. Um þriggja mínútna gangur er að stekknum frá veginum. Þegar að var komið var augljóst að þarna voru stekkjarleifar. Þær virðast í fjarlægð vera lágur, gróinn, hóll, en í nærsýn má vel sjá efstu lög veggja. Gott útsýni er frá stekknum heim að Bjarnastöðum. Neðar má sjá gömlu leiðina sem og vörðuna á Stóraklifi suðvestar. Neðar (sunnar) eru Bjarnastaðahólar.
Í fyrrnefndri örnefnalýsingu segir auk þessa: „Ofar eru tveir hólar, Grænshólar (G.S. nefnir þá Grenshóla). Við þá mun áður fyrr hafa verið gren. Umhverfis hólana eru Grænshólaflatir. Þar austur af er Fornagata í Bjarnastaðalandi. Mörkin milli Útvogs og Götu eru úr Markhól austan Stóraklifs í Þorkelsgerðislandi í miðjan Gjáardal, sem er kringlótt ker ofan við ferðamannaveginn út að Vogsósum, austur af Bjargarhelli. Milli Gjáardals og Torfdals er mjótt haft, líklega tíu metrar. Þar er Miðvogsstekkur í Götulandi. Línan liggur úr Gjáardal um þúfu á Götugjá.“
FERLIR skoðaði Miðvogsstekkinn s.l. vetur ásamt fleiri minjum á svæðinu.
ÞórarinnÍ örnefnalýsingu fyrir Bjarnastaði segir um þetta sama svæði m.a.: „Selvogsheiði tekur við ofan túngarða á Bjarnastöðum, og er kölluð Miðheiði upp frá Bjarnastöðum og vestur um Torfabæjarland, en Vesturheiði eða Útheiði þar fyrir vestan. Ofan Bjarnastaðatúns eru Bjarnastaðaflatir. Vestast á þeim ofan við hjáleiguna Klöpp var Litlavarða og Litluvörðuflöt. Eitthvað mun vera eftir af vörðunni. Ofar en Litlavarða var önnur varða ofarlega á Flötunum, kölluð Digravarða, Stóravarða eða Austurvogsvarða. Hún var Sundvarða fyrir Útvogssund.  Átti hana að bera í austustu Hnúkana. Við túngarðshlið Bjarnastaða byrjaði leiðin suður og lá upp heiðina. Spölkorn upp frá Flötunum eru Bjarnastaðahólar kringum Digruvörðu. Það eru þrír lágir hraunhólar. Vestasti hóllinn er í Götulandi, Mið-Bjarnastaðahóll e.t.v. einnig, en Austasti-Bjarnastaðahóll er í Bjarnastaðalandi. Eitthvað er eftir af grónu landi milli hólanna, sandurinn er ekki kominn þangað. Austur við Nesmörk er Fornagata, langur hraunhóll sprunginn eftir endilöngu. Á honum var Fornugötuvarða, sem nú er fallin, og kringum hann Fornugötuflatir.“
Allt framangreint má sjá enn.
Til að nota ferðina var stefnan tekin á Strandarkirkju. Í viðtali við Þórarinn fyrir nokkrum árum (sjá HÉR) hafði komið fram að hann hafði fyrrum farið sinna ferða á sauðskinnsskóm. Kirkjugatan millum Vogsósa og Strandarkirkju hefði verið u.þ.b. 1/2 klst löng. Rétt áður en komið var að kirkjunni hefðu gestir farið úr hversdagsskónum og sett spariskó á fætur sér. Það hefði verið gert við svonefndan „Skóstein“. Þrátt fyrir aðgát þá hafði skósteinninn sá ekki opinberast svo augljóslega. Skammt frá eru t.d. Fornigarður og Sveinagerði.

Þórarinn

Þórarinn gekk óhikað frá Strandarkirkju eftir sandorpinni götunni fyrrum, nú ósýnilegri, áleiðis að vörðu og áfram í gegnum seinni tíma tilkomna lúpínubreiðu. Þar staðnæmdist hann á klapparhrygg og sagðir: „Hér er það – þetta er skósteinninn. Hann er reyndar bara sléttbökuð klöpp, en hér skiptum við um skó á leiðinni. Kirkjan er þarna“, bætti hann við og benti í átt að henni. „Segja má að ég tilheyri þeirri kynslóð er brúar bilið millum gamla bændasamfélagsins hér á landi og þess nútíma, sem flestir þekkja nú til dags.“
Í viðræðum við Þórarinn kom m.a. fram mikilvægi örnefna fyrrum – þegar fé gekk sjálfala allt árið. Mikilvægt var að huga vel að því og þurfti þá oft að fara um lönd og heiðar til eftirlits. Sérhver hóll og sérhvert kennileiti hafði þá nefnu svo auðvelda mætti eftirlitið eða bregðast við ef þurfa þótti. Benti hann sem dæmi á „ómerkilegan“ hól efst í Vogsósalandi að austanverðu, svonefndan Hatthól. „Hvers vegna Hatthóll?“, var spurt. „Af því hann er eins og hattur í laginu“, var svarið, enda það augljósasta þegar betur var að gáð. „Svona var um mörg örnefnin, þau komu til af sjálfu sér, líkt og Snældhólar, þ.e. snældulaga hólar.“
Seinna verður rakið áhugavert viðtal við Þórarinn um tilurð og gildi örnefna fyrr á öldum.
Hnit voru tekin á „Skósteininum“ líkt og á Bjarnastaðastekknum.
Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-Þórarinn Snorrason á Vogsósum.
-Örnefnalýsing fyrir Götu.
-Örnefnalýsing fyrir Bjarnastaði.

Þórarinn

Kistufellsgígur

Ætlunin var að berja augum hina sjaldgæfu hákolla Brennisteinsfjalla snævislausa, jarðfastar eldborgir, mannvistarleifar (sem fáir vita af) og helstu undirheima þessa ómetanlega og jafnframt ósnortna náttúrundurs við fótskör höfðuborgarsvæðisins, s.s. dropsteins-, litabrigða- og jökulhella. Líklegt má telja að svæðinu verði fórnað innan fárra missera á altari sjóndaprar stóriðjustefnu vegna áhugaleysis meirihluta „hinna 63. bekkjarsystkina“, sem ættu þó skv. ákvæðum stjórnarskráar landsins og allra annarra skynsemissjónarmiða að standa einarða vörð um varðveislu þess. Brennisteinsfjallasvæðið er ómetanlegt, jafnvel á heimsvísu, ekki síst út frá náttúru- og jarðfræði þess. Einhverjir hafa tjáð sig um svæðið, en sumir þeirra hafa ekki komið þangað.

Leiðin

Gengið var upp frá Sýslusteini við Herdísarvíkurveg og stefnan tekin á Jafndægur suðvestan við Sandfell. Þaðan átti að ganga um Vörðufellsgíg, Vörðufellsborgir, Eldborg, Kistu, Kistufell, niður í Námuhvamm að brennisteinsnámunum og síðan um Kerlingahnúka og Kerlingarskarð niður að Bláfjallavegi. Í leiðinni átti og að skoða nokkra hella og önnur sjaldséð náttúrufyrirbæri.
Spáð hafði verið sól á svæðinu, en auk þess hafði að semja um sérstaklega áhrifarík áttaskil þar (meðan á göngunni stóð), lygnu og 16° hita.
Nafnið Brennisteinsfjöll er tiltölulega ungt eða frá því á 18. öld. Áður var hryggurinn, sem mynda þau, nefndur Fjallaháls og jafnvel fleiri nöfnum. Hann er myndaður á sprungurein (oft talað um Brennisteinsfjallareinina) líkt og Sveifluháls (Austurháls) og Núpshlíðarháls (Vesturháls) undir jökli að hluta, en síðan gosið víða eftir honum á nútíma eins og sjá má hinum mörgu eldborgum og gígum. Kistufellsgígurinn er sá stærsti. Miklar hrauntraðir liggja frá gígunum og víða eru langar rásir undir hraunhellunni. Vitað er að gos varð í Kistu árið 1000, en síðast er talið að hafi gosið í Brennisteinsfjöllum um 1340 (Draugahlíðagígshraunið/Stakkavíkurhraunið). Í Kistu má sjá gíga frá öllum tímabilum nútímans, grónar hrauntraðir og berar, mosavaxin hraun og hraun án mosa.

Aðkoman að Brennisteinsfjöllum fer eftir því hvað á að skoða hverju sinni. Nú var haldið inn Fagradal til austurs með suðurjaðri Breiðdalshrauns, sem rann úr Kistu á sínum tíma (árið 1000), og síðan fetaður stígur upp hlíðina innanverða. Þegar komið var upp á brún var vent til vinstri eftir stíg rjúpnaveiðimanna inn á úfið apalhraun. Eftir stutta göngu var komið inn á slétt helluhraun. Þaðan var leiðin greið upp í Brennisteinsfjöll.
Í leiðinni upp var m.a. kíkt á hraunskjól í Fagradal. Hleðsla er við opið. Frá skjólinu er ágætt útsýni yfir dalinn. Ekki er ólíklegt að þarna hafi refaskytta átt athvarf. Slitrur úr dráttartógi, mosavaxið, lá innan við munnann.
Þegar staðnæmst var á hraunbrún á miðri sléttu Kistuhraun sást vel til Brennisteinsfjallanna; eldborgirnar í suðaustri, Kistu í austri og Kistufells í norðaustri, var ekki hjá því komist að rifja upp ásókn virkjunarverktaka í þessa dásemd.
Hjá iðnaðarráðuneytinu liggja fyrir umsóknir frá orkufyrirtækjum um rannsóknarleyfi á þremur svæðum á suðvesturhorninu sem ekki hafa verið virkjuð. Eitt þeirra eru Brennisteinsfjöllin. Um þessar mundir virðast þau eftirsóttasti virkjunarkosturinn.
Forstjóri Hitaveitu Suðurnesja hefur m.a. gagnrýnt seinagang í umsóknarferli vegna rannsóknarleyfa og undraði sig á því að staðið skildi á umsögn umhverfisráðuneytisins. „Í lögum sé kveðið á um skjóta afgreiðslu en ráðuneytið virðist ekki hafa nokkrar áhyggjur af því að brjóta lög með því að draga að klára sína umsögn, mun hann hafa látið út úr sér vegna þessa.“
Á svæðinu eru merkar gosminjar sem nánast eru ósnortnar, t.d. gígar, hraun, sprungur og hellar. Í Brennisteinsfjöllum er háhitasvæði sem er nánast ósnortið. Á svæðinu má rekja opnar jarðskjálftasprungur og misgengi. Eldvirkt svæði nær frá sjó norður í Rauðuhálsa ofan við Sandskeið.
Víðáttumikil dyngjuhraun eru á svæðinu. Frá gíg sunnan í Draugahlíðum hefur runnið hraun niður að Hlíðarvatni. Gos á sögulegum tíma. Í Herdísarvíkurhrauni er kjarrlendi fyrir opnu Atlantshafi og er það eitt heilsteyptasta kjarrið sem eftir er á Reykjanesskaga. Meðal menningarminja á svæðinu er hluti Selvogsgötu, sem liggur frá Hafnarfirði í Selvog og brennisteinsnámur í Brennisteinsfjöllum.
Verndartillögur ná yfir austasta hluta þess háhitakerfis sem kennt er við Krýsuvík en ákvörðum um nýtingu liggur ekki fyrir.
Brennisteinsfjöll eru sunnan Lönguhlíðar á Reykjanesi. Þau eru mjög eldbrunnin og hraunfossar frá þeim liggja niður fjallahlíðar í átt að Herdísarvík. Þessi fjallshryggur hefur verið eldvirkur fyrir og eftir landnám.
Englendingar hófu brennisteinsnám austanverðum Brennisteinsfjöllum í kringum 1880 fyrir atbeina Skotans W.C. Spence Paterson, sem kenndi á Möðruvöllum í tvo vetur og varð síðan ræðismaður í Hafnarfirði (sjá umfjöllun á annarri FERLIRssíðu). Það þurfti að brjótast í gegnum 3-4 m þykka hraunskorpu til að komast að brennisteininum og flutningar voru erfiðir, þannig að þessi starfsemi varð ekki langvinn. Flutningaleiðin var um Grindaskörð til Hafnarfjarðar. Enn má sjá brennisteinskjarnana, göturnar og afkastið í námunum, auk ofnsins, sem notaður var til að móta afurðirnar áður en þær voru fluttar til hafnar.
Umhverfisstofnun vakti athygli á að í bréfi, dagsettu 26. nóvember 2003, fór rektor Háskóla Íslands þess á leit við umhverfisráðherra að auglýsingu um friðland í Herdísarvík verði breytt á þann veg að mögulegt verði að rannsaka og nýta jarðhita sem er að finna í Brennisteinsfjöllum.
Umhverfisráðuneytið óskaði eftir afstöðu Umhverfisstofnunar til málsins með bréfi dagsettu 20. janúar sl. Fram kom að „í Brennisteinsfjöllum er jarðfræðileg fjölbreytni mikil, þar er að finna merkar og nánast ósnortnar eldgosaminjar, jarðskjálftasprungur, misgengi og háhita. Brennisteinsfjöll, og raunar allt Herdísarvíkurfriðland, eru hluti af stærra svæði sem fjallað er um í tillögu Umhverfisstofnunar um náttúruverndaráætlun, þ.e. Brennisteinsfjöll-Herdísarvík, en lagt er til að svæðið allt verði friðlýst sem náttúruvætti eða friðland.“
Í þingsályktunartillögu var svæðum meðal annars forgangsraðað með tilliti til jarðfræðilegra minja með einkunnagjöf. Þar fékk svæðið Brennisteinsfjöll-Herdísarvík næsthæstu einkunn og á eftir Geysi, en Reykjanes-Eldvörp-Hafnarberg og Grændalur fengu þriðju hæstu einkunnina. Þegar vinnuhópur umhverfisráðuneytis var að störfum lág fyrir að umhverfisráðuneyti hafði með bréfi dags 13. júní 2003, til iðnaðarráðuneytis, lagst gegn því að veitt yrði rannsókna- og nýtingarleyfi í Brennisteinsfjöllum. Í þingsályktunartillögunni var einungis fjallað um Geysi og Reykjanes- Eldvörp-Hafnarberg en ekki þótti ástæða til að fjalla um Brennisteinsfjöll-Herdísarvík að sinni, þar sem ekki voru áform uppi um nýtingu þessa svæðis.

Í ljósi framangreindrar beiðni um breytingu á auglýsingu um friðland í Herdísarvík, telur Umhverfisstofnun æskilegt að fjallað verði um Brennisteinsfjöll-Herdísarvík í náttúruverndaráætlun 2004-2008.
Umhverfissamtökin Landvernd hafa sett fram sýn til framtíðar um verndun Reykjanesskagans og að frá Þingvallavatni út á Reykjanestá verði stofnaður „Eldfjallagarður og fólkvangur“. Framtíðarsýnin grundvallast á náttúruvernd samhliða fjölbreyttri nýtingu á auðlindum skagans. Hvatt er til nýtingar jarðvarma til orkuframleiðslu þar sem þegar hefur verið virkjað en ósnortin jarðhitasvæði verði vernduð. Þar er horft til tilrauna sem sýna að með djúpborunum sé jafnvel hægt að tífalda þá orku sem fæst úr hverri borholu í dag.
Bergur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Landverndar, segir að í framtíðarsýn samtakanna sé rými fyrir allt og alla, en bara ekki á sama stað. „Menn verða að taka frá svæði fyrir ólíkar nýtingarleiðir. Það hafa þegar verið tekin frá svæði til orkuvinnslu en það hafa hins vegar ekki verið tekin frá svæði til náttúruverndar með fullnægjandi hætti.“ Bergur segir að Brennisteinsfjöll séu ósnortið víðerni sem þurfi að taka frá fyrir náttúruvernd og koma þurfi í veg fyrir rannsóknaboranir þar. „Á Reykjanesi eru fjögur eldstöðvakerfi. Tvö af þessum kerfum hafa þegar verið virkjuð að talsverðu leyti og það eru komnar af stað rannsóknaboranir á þriðja svæðinu sem er Trölladyngjusvæðið.
Brennisteinsfjöllin eru síðasta kerfið sem er ósnortið. Við leggjum áherslu á rannsóknir og djúpboranir á þeim svæðum sem þegar eru nýtt til orkuvinnslu með jarðvarma því hver virkjun; Hellisheiðarvirkjun, Reykjanesvirkjun og Svartsengi, getur orðið ígildi Kárahnjúkavirkjunar.“
Ólafur G. Flóvenz, forstjóri Íslenskra orkurannsókna, segir að hafa beri í huga að djúpboranir muni ekki leysa einhvern bráðavanda en staðfestir að yfirgnæfandi líkur séu á að mögulegt sé að margfalda orkuframleiðslu úr borholum sem fyrir eru með nýrri tækni í framtíðinni.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, hefur lagt til að gera Brennisteinsfjöll að friðlandi en Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sagðist í viðtali við Fréttablaðið nýlega ekki geta tjáð sig um þær hugmyndir á meðan umsóknir Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja um rannsóknaboranir í Brennisteinsfjöllum eru til afgreiðslu hjá iðnaðarráðuneytinu??? Það ætti a.m.k. að gefa ákveðna vísbendingu um það sem ætlað er.
Þegar horft er til Brennisteinsfjalla (sem sjást vel víðasthvar af Reykjanesskaganum) má með sanni segja að sjaldan hafi jafn merkilegu svæði verið jafn lítill gaumur gefinn. Á svæðinu er að finna merkar gosminjar sem nánast eru ósnortnar, t.d. gígar, hraun, sprungur og hellar. Í Brennisteinsfjöllum er háhitasvæði sem er nánast ósnortið. Náttúrustofa Íslands telur að á svæðinu megi “rekja opnar jarðskjálftasprungur og misgengi. Eldvirkt svæði nær frá sjó norður í Rauðuhálsa ofan við Sandskeið. Víðáttumikil dyngjuhraun eru á svæðinu. Frá gíg sunnan í Draugahlíðum hefur runnið hraun niður að Hlíðarvatni. Gos hafa orðið þarna á sögulegum tíma, sbr. Kistuhraunið og Draugahlíðagígshraunið, sem neðst hefur fengið nafnið Stakkavíkurhraun. Stærð þessa svæðis er um 198,7 km.” Drög hafa verið lögð að því að friðlýsa hluta Brennisteinsfjallasvæðisins.
Á Brennisteinsfjallasvæðinu eru nánast ósnortnar og merkar eldgosaminjar, jarðskjálftasprungur og misgengi. Þar er og háhitasvæði. Það mun hafa alþjóðlegt náttúruverndargildi. Fjölbreyttur gróður er og á svæðinu. Eldgosaminjar eru og miklar í Brennisteinsfjöllum, s.s. opnar jarðskjálftasprungur og misgengi. Eldvirki hlutinn nær frá sjó og norður í Rauðuhálsa ofan við Sandskeið. Oft hefur gosið á þessari sprungurein og hafa hraunin runnið niður í Heiðmörk í vestri, á Sandskeið í norðri og suður til Herdísarvíkur. Austurhlutinn er markaður af Bláfjöllum og Vífilsfelli sem mynduðustu við gos á ísöld. Á heildarsvæðinu eru ummerki um 3-4 eldgos á sögulegum tíma. Mikið er um hrauntraðir, hrauntjarnir, hraunæðar, niðurföll, hraunfossa, hraunhella og aðrar jarðminjar í eldstöðvakerfinu.
Kistufellsgígurinn er sérkennilegur, girtur háum hömrum og liggja nokkrar hrauntraðir frá honum til vesturs. Eldborg á Brennisteinsfjöllum er hæsti gígurinn í gígaröð sem kemur í beinu framhaldi af Kistufelli til suðvesturs. [Hér er reyndar um misvísun að ræða. Augað blekkir. Elborgargígurinn svonefndi stendur hæst eldborganna í Brennisteinsfjöllum, en Eldborgin (drottningin) sjálf er skammt vestan hennar, rislítil en með drjúgum stærri gígskál. Úr henni hefur meginhraunið runnið til vesturs].

Háhitasvæði í Brennisteinsfjöllum er nánast ósnortið. Merki um háhitann sjást ekki mikið á yfirborði. Umhverfið er þó stórbrotið, með ósnortnum gígum, eldhraunum og opnum sprungum. Leifar námuvinnslu eru enn til staðar, ef vel er að gáð. Ofninn í brennisteinsnámunum er falinn undir moldarbakka. Einungis þarf að skafa ofan af ofninum og þá kemur hann í ljós.
Búðir námumanna voru skammt ofar og sjást tóftir þeirra enn.
Náttúrufræðistofnun Íslands hefur fjallað um Brennisteinsfjöll í tengslum við Herdísarvíkurfriðland. Þar segir m.a. “Á svæðinu eru háhitasvæði í Svartsengi, Krýsuvík, Brennisteinsfjöllum og Hengli. Innan þeirra er mikil eldvirkni og háhitasvæði tilheyrir hverri rein. Brennisteinsfjöll eru eina sprungureinin og háhitasvæðið sem enn er að mestu er ósnortið – öllum hinum hefur verið raskað að meira eða minna leyti vegna jarðhitanýtingar. Í Brennisteinsfjöllum og nærliggjandi svæði eru einstakar gos- og jarðminjar, þar á meðal stakir eldgígar (t.d. gígurinn í Þríhnjúkum), gígaraðir, dyngjugígar, eldborgir og a.m.k. níu nútímahraun oft með fallegum hrauntröðum og einstökum hraunfossum þar sem hraunin hafa flætt fram af fjöllunum til suðurs.

Vörðufellsborgir

Brennisteinsfjöll og svæðið þar í kring eru síðasta ósnortna víðernið á Reykjanesi þangað sem þéttbýlisbúar á SV-horninu o.fl. geta sótt afdrep, innblástur og menntun – verðmæti ósnortinna útivistarsvæða sem þessa munu vafalítið aukast á næstu árum og áratugum. Umrætt svæði er nú þegar friðað að stærstum hluta innan Herdísarvíkurfriðlands. Í tillögum Umhverfisstofnunar að náttúruverndaráætlun 2004-2008 er lagt til að Herdísarvíkurfriðland verði stækkað verulega til vesturs og austurs til að tryggja vernd mikilvægra jarðminja og landslags.”
Náttúrufræðistofnun Íslands gerir ekki lítið úr gildi rannsókna en bendir á að fyrirhugaðar jarðhitarannsóknir í Brennisteinsfjöllum, eins og þeim er lýst í greinargerð, munu skaða náttúruminjar og ímynd hins ósnortna svæðis verulega. Við fyrirhugaðar rannsóknir, sem byggja á borunum, þarf að leggja vegi og slóða um úfin nútímahraun inn á svæðið, byggja 2–3 borplön (hvert um sig u.þ.b. 1 ha), bora eftir grunnvatni til skolunar því ekkert yfirborðsvatn er á svæðinu, farga skolvatni, flytja inn eða taka efni úr gígum og hraunum á svæðinu til ofaníburðar og byggingar borpalla. Ef virkjanlegur jarðhiti finnst er stefnt að því að fjölnýta svæðið svipað og gert er í Svartsengi og á Nesjavöllum til framleiðslu á rafmagni, hitaveituvatni, grunnvatni, iðnaðargufu og til útivistar. Slík fjölnýting kallar á enn meiri mannvirki svo sem varanlega vegi og byggingar, hitaveituleiðslur og raflínur.

Að mati Náttúrufræðistofnunar Íslands hafa Brennisteinsfjöll og nærliggjandi svæði mikið verndargildi og eru til langs tíma mun verðmætari þjóðinni og þéttbýlinu á SV-landi ósnortin en sem fjölnýtt orkuvinnslusvæði. Í því sambandi má benda á að innan seilingar verða a.m.k. þrjú fjölnýtt orkuvinnslusvæði, þ.e. Svartsengi, Nesjavellir og Hengilssvæðið.
Eftir jarðhitarannsóknir, eins og fyrirhugaðar eru í Brennisteinsfjöllum, verður svæðið ekki lengur ósnortið og forsendur fyrir frekari vernd þess breyttar að sama skapi.
Rannsóknaleyfi jafngildir því stefnumörkun um framtíðarnýtingu. Þess vegna er brýnt, áður en farið er í að breyta friðlýsingu Herdísarvíkurfriðlands, að umhverfisyfirvöld marki stefnu um framtíð svæðisins m.a. hvort ástæða sé til að taka frá og friða a.m.k. eina sprungurein og háhitasvæði í vestra gosbeltinu.
TóftÍ samtölum Náttúrufræðistofnunar Íslands og umhverfisráðuneytis haustið 2003 í aðdraganda að gerð þingsályktunartillögu um náttúruverndaráætlun 2004–2008 var spurt um forsendur fyrir vali á jarðfræðisvæðum á Reykjanesi – m.a. hvers vegna ákveðið hefði verið að velja Reykjanes fremur en Brennisteinsfjöll. Í svari ráðuneytisins kom m.a. fram að orkuvinnsla í Brennisteinsfjöllum væri framtíðarmál og nægur tími til ákvarðanatöku varðandi landnýtingu þar. Í ljósi þessa telur Náttúrufræðistofnun Íslands ekki tímabært að breyta friðlýsingu Herdísarvíkurfriðlands í þá veru að leyfa
umræddar jarðhitarannsóknir.”
Í ritgerð fyrir meistaranám í umhverfis- og auðlindafræðum, Háskóla Íslands, er fjallað um Reykjanesskagann og Brenisteinsfjöll. “Reykjanesskagi er eldbrunninn og hrjóstrugur með fjölbreyttu landslagi sem minnir um margt á miðhálendið. Þar eru hraun, sandar, vötn, hverasvæði, móbergshryggir og stök fjöll en fuglabjörg við sjóinn.
Landið er lítt til ræktunar fallið og byggð að mestu bundin við sjávarsíðuna. Stór hluti skagans er án mannvirkja s.s. uppbyggðra vega, bygginga eða háspennulína. Á skaganum eru tvö friðlýst útivistarsvæði, Bláfjallafólkvangur (84 km²) sem fyrst og fremst þjónar sem skíðaland höfuðborgarsvæðisins, og Reykjanesfólkvangur (300 km²). Reykjanesfólkvangur tekur m.a. yfir Kleifarvatn, Brennisteinsfjöll, Ögmundarhraun, Krýsuvík og Krýsuvíkurberg. Þrátt fyrir nálægð við mesta þéttbýli landsins eru víðáttumikil lítt snortin svæði innan fólkvangsins en Brennisteinsfjöll og nágrenni eru stærsta óbyggða víðernið á suðvesturhorni landsins.
Aðdráttarafl Reykjanesfólkvangs liggur ekki síst í fjölbreyttu og sérstæðu landslagi en lega fólkvangsins í útjaðri höfuðborgarsvæðisins eykur útivistargildi hans. Hvort tveggja gerir svæðið að áhugaverðum efnivið til rannsókna á landslagi. Landslag hefur á undanförnum áratugum fengið síaukið vægi í þjóðmálaumræðu og sem viðfangsefni rannsókna. Fimmtán þjóðir, þar á meðal allar Norðurlandaþjóðirnar nema Íslendingar, hafa undirritað evrópska landslagssáttmálann (frá árinu 2000) og þannig viðurkennt mikilvægi landslags sem þjóðararfleifðar og sem uppsprettu lífsgæða fyrir almenning. Kannanir sýna að sérstök og óspillt náttúra landsins, einkum í óbyggðum, er það sem dregur langflesta erlenda ferðamenn til landsins. Ákaflega litlar rannsóknir hafa þó enn farið fram á íslensku landslagi, einkennum þess og verðmætum.

Spenar

Rannsóknum á landslagi má skipta í þær sem taka til náttúrufars (eðlisrænna þátta) annars vegar og upplifunar hins vegar. Kerfi til flokkunar á landslagi byggja fyrst og fremst á eðlisrænum þáttum en matskerfi þurfa að taka tillit til samspils eðlisrænna og huglægra þátta. Mörg flokkunarkerfi fyrir landslag eru til erlendis en fæst þeirra henta fyrir íslenskt landslag vegna þess hve óvenjulegt það er. Lítið hefur verið reynt að aðlaga þessi kerfi að íslensku landslagi eða vinna fræðilegan grunn að íslensku matskerfi. Slík vinna er þó brýn, m.a. til að meta verndargildi svæða, fyrir skipulagsvinnu tengda stórframkvæmdum, og vegna hagsmuna útivistar. Markmið þessarar rannsóknar er að greina og flokka helstu drætti og breytileika í landslagi innan Reykjanesfólkvangs. Byrjað verður á því að skilgreina helstu landslagsgerðir út frá kortum en sérkennum hverrar gerðar verða síðan lýst að loknum rannsóknum á vettvangi. Að lokum verður beitt mismunandi flokkunarkerfum (áströlsku, ensku, norsku, svo og matskerfi Rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma) til að flokka helstu landslagsgerðir en slík vinna gæti nýst sem grunnur að almennu kerfi sem hentar íslensku landslagi.”

Kistufellsgígur

Á 126. löggjafarþingi (2000–2001) er m.a. fjallað um Brennisteinsfjöll (Þskj. 816 — 520. mál). Þar segir m.a: að markmið Hitaveitu Suðurnesja er að: „– að stuðla að nýtingu jarðhitaauðlinda á Reykjanesskaga, þar með talið í Krýsuvík, við Trölladyngju, Brennisteinsfjöll og eftir atvikum víðar á landinu.“
Varabæjarfulltrúi í Reykjavík, Dofri Hermannsson, fjallar einn fárra meðvitaðra um Brennisteinsfjöll á vefsíðunni http://www.samfylking.is/.
Yfirskriftin er „Einkavædd stóriðjustefna“. „Inni á borði nýja ráðherrans bíða umsóknir um rannsóknarleyfi á 13 stöðum á landinu [m.a. í Brennisteinsfjöllum]. Þessir staðir bíða þess að ráðherra gefi leyfi til orkurannsókna.“
Í BrennisteinsfjöllumÞað er ljóst að margir bíða spenntir eftir að láta greipar sópa. Stóriðjustefnan hefur skotið rótum fyrir utan veggi ráðuneytisins og lifir nú sjálfstæðu lífi á hinum frjálsa markaði. Lagaramminn sem vernda á náttúruperlur Íslands er hins vegar engan veginn tilbúinn fyrir frelsið. Hann er líka ófær um að segja stopp vegna skuldbindinga Íslands um losun gróðurhúsalofttegunda. Það er ekki heldur kominn lagarammi sem kveður á um afnotagjald þeirra sem vinna orkuauðlindabingó ríkisstjórnarinnar.“ Orkuveitan reiknað með því að orka fáist í fyrsta lagi úr Brennisteinsfjöllum árið 2010, sbr. árskýrslu hennar árið 2002.
TröllabarnHelgi Torfason og Magnús Á. Sigurgeirsson gerðu eftirfarandi grein fyrir svæðinu árið 2001: „Jarðhitasvæðið í Brennisteinsfjöllum liggur í 40–500 m hæð yfir sjó. Virkur jarðhiti kemur fram sem gufur í um 450 m hæð, en köld ummyndun er á fjórum stöðum og vitnar um meiri virkni á fyrri tíð. Jarðhiti á yfirborði er óverulegur og miðað við útbreiðslu jarðhita og ummyndunar er svæðið um 3 km2. Viðnámsmælingar benda til þess að svæðið sé um 18 km2 á 700 m dýpi undir sjávarmáli, um 1200 m undir yfirborði þar sem jarðhita verður vart.  Háhitasvæðið í Brennisteinsfjöllum liggur í samnefndri sprungurein og hefur gosið þar a.m.k. 30–40 sinnum eftir að ísöld lauk. Brotalínur eru ungar á svæðinu frá sjó og norður á Mosfellsheiði og verða oft jarðskjálftar á um 5 km breiðu og um 40 km löngu belti.
Jarðskjálftar í Brennisteinsfjöllum geta orðið nokkuð stórir. Megingerð jarðlaga er móberg, og þar sem gosstöðvar hafa náð upp úr jökli hafa runnið hraun og myndast stapar eða hraunahryggir. Allar bergmyndanir eru basalt og ekkert súrt eða ísúrt berg hefur fundist á yfirborði.“

Í Brennisteinsfjöllum

Ljóst er að Brennisteinsfjöllin búa yfir miklum verðmætum, ekki síst náttúruverðmætum. En reynslan hefur sýnt að þegar ásókn í jarðvarma og von um arðsemi fjármagns er annars vegar mega gildi náttúruverðmætanna sín lítils – og sérfræðingar slá feilnótur.
Í þessari ferð var m.a. gengið fram á stórt op á þykkri hraunhellu Kistufellshrauns. Af ummerkjum að dæma virðist jörðin þarna hafa opnast nýlega. Um 10 metrar eru niður á gólf. Rásin þar undir er um 6 m breið og virðist heilleg. Til að komast niður þar u.þ.b. 6 m langan stiga eða kaðal til að komast niður á hrunið. Þarna er um að ræða eitt af verkefnum nánustu framtíðar.
Frábært veður. Gangan tók 9 klst og 51 mín. (þar af 7.07 á göngu). Gengnir voru 23.3 km.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll.

Selatangar

„Við vorum á leið suður á Reykjanesskaga, ætluðum að koma við hjá Magnúsi Hafliðasyni á Hrauni, þeirri kempu. Ferðinni var heitið að Selatöngum, þar sem gamlar búðatóttir standa enn og vitna um lífsbaráttu fólks með seltu í blóði. Nú hafa þeir safnazt til feðra sinna, sem fundu kröftum sínum viðnám í Tangasundi.

Magnús Hafliðason

Magnús Hafliðason.

„Þarna er Þorbjörn,“ sagði Eyjólfur, „fjall þeirra Grindvíkinga.“
„Þá er nú Esja tilkomumeiri,“ sagði ég.
„Ég reri eina vertíð í Grindavík,“ hélt Eyjólfur áfram, „þú varst þar líka, Jóhannes.“
„Já, ég reri þaðan eina vertíð. Það gekk ágætlega. Eg reri frá Nesi – það hefur verið 1927. Við höfðum útræði um Járngerðarstaðastund. Það gat verið varasamt á opnum árabátum.“
„Hvenær rerir þú frá Grindavík, Eyjólfur?“
„Ég man það nú ekki, jú, það hefur líklega verið 1904. Eg reri úr Þórkötlustaðahverfinu.“
„Það var aldrei stórbrim þessa vertíð,“ sagði Jóhannes.
„Ekki man ég heldur eftir því,“ sagði Eyjólfur.
„Eyjólfur sagði: „Eg þekkti vel Gísla, bróður Magnúsar á Hrauni, og Margréti konu hans Jónsdóttur frá Einlandi. Þetta var ágætisfólk. Ég var heimilisvinur á Einlandi. Við strákarnir vorum allir skotnir í Möggu.“
„Þau eru bæði dáin,“ sagði Jóhannes.
„Já, þau Gísli eru bæði farin,“ sagði Eyjólfur og bætti við: „Hún var glæsileg stúlka. Ég hélt að Margrímur Gíslason ætlaði að ná í hana. Hann varð seinna lögregluþjónn í Reykjavík, mesti myndarmaður. Þá datt engum í hug að keppa við hann. En hún giftist Gísla.“
Jóhannes sagði: „Þeir bjuggu báðir á Hrauni, bræðurnir Gísli og Magnús. Hafliði, faðir þeirra, var lengi formaður.“
selatangar-224„Hann var eftirminnilegur karl,“ sagði Eyjólfur. „Eitt sinn þegar gefin voru saman hjón, bæði ósköp lítil fyrir mann að sjá, var Hafliði svaramaður. Þegar prestur snýr sér að konunni og spyr, hvort hún vilji manninn, svarar hún ekki. Þá er sagt að Hafliði hafi hnippt í hana og sagt: „Segðu já – segðu já – segðu bara já.“
Og hún álpaðist til að segja já.“
„Ætli þetta hafi verið Hákon í Bakka,“ sagði Jóhannes. „Það var kot í túnjaðrinum á Hrauni. Ég held að rústirnar standi ennþá. Hákon reri hjá Hafliða og síðan hjá Magnúsi. Eg held þeir hafi naumast róið nema Hákon væri með.“
Við vorum komnir að Hrauni. Ég snaraðist út úr bílnum, gekk upp tröppurnar og bankaði. Magnús kom til dyra. Hann var ekki eins hress og oft áður. Þegar ég hafði hitt hann, var hann alltaf nýr eins og Passíusálmarnir.
„Nú erum við komnir,“ sagði ég.
„Komnir, hverjir?“
„Eg er með tvo gamla sjómenn úr Grindavík, Eyjólf Eyfells og Jóhannes Kolbeinsson.“
„Jæja,“ sagði Magnús.
„Við erum að fara að Selatöngum. Þú ferð með.“
„Það efast ég um. Það er víst einhver illska hlaupin í mig. Læknirinn segir að það sé eitthvað í öðru nýranu.“
selatangar-226„Nú, finnurðu til,“ spurði ég.
„Onei, ég hef aldrei fundið til.“
„Þetta eru skemmtilegir karlar,“ sagði ég.
„Ha, já er það,“ sagði Magnús og klóraði sér á hvirflinum. Svo strauk hann yfirskeggið og fór í gúmmískóna. Eyjólfur kom í gættina. Þeir heilsuðust. Magnús virti hann fyrir sér. Þeir tóku tal saman. Það var selta í Eyjólfi, hann var ekkert blávatn. Það hefur Magnús fundið. Einu sinni munaði mjóu að Eyjólfur drukknaði í Loftsstaðasundi.
Karlarnir gengu út í bílinn. Ég á eftir. Svo héldum við af stað.
„Eg var hrifinn af Margréti mágkonu þinni á Einlandi, þegar ég var á vertíð hér strákur,“ sagði Eyjólfur.
„Hún hefur verið ung þá,“ sagði Magnús.
„Já, um fermingu,“ sagði Eyjólfur.
„Og varstu skotinn í henni strax,“ sagði Magnús og hló.
Við ókum sem leið lá að Selatöngum.
„Ég sé ekki betur en þú sért sæmilegur til heilsunnar, Magnús,“ sagði ég. Því að nú kjaftaði á honum hver tuska, ekki síður en okkur hinum.
„Ég er alveg stálhraustur,“ fullvissaði hann okkur og sjálfan sig, „mér hefur aldrei orðið misdægurt. En ég á að fara í rannsókn til Snorra Hallgrímssonar. Það er gott að eiga góða menn að. Við hófum farið í rjúpu saman.“
selatangar-226„Þú varst oft á sjó með Hákoni á Bakka,“ sagði ég.
„Ojá,“ sagði Magnús. „En af hverju dettur þér hann í hug?“
„Þeir muna eftir því, þegar hann var giftur.“
„Ha? Hann giftist aldrei.“
„Hvað segirðu?“
Og nú sperrtu Jóhannes og Eyjólfur eyrun.
„Nei, hann bjó með konu, en þau voru aldrei gefin saman í hjónaband.“ Eyjólfur segir honum nú söguna um giftingu litlu hjónanna. Magnús slær á lær sér: „En þetta er ekki rétt. Það voru gift þarna hjón, en þau sögðu bæði nei.“
„Ha?“
„Eg sagði að þau hefðu bæði sagt nei.“
„Nú, og hver voru þau,“ spurði Eyjólfur.
„Það voru Einar Árnason póstur og Katrín Þorkelsdóttir.“
„Var sú gifting ekki ólögleg?“
„Nei, nei. Þetta var látið duga í þá daga. Menn voru ekki að gera veður út af öllum hlutum. Það þótti skrítið. En Hákon bjó með konu sem hét Guðmunda Gísladóttir, þau komust vel af.“
Fagradalsfjall blasti við okkur. Þangað höfðum við Magnús eitt sinn farið, gengið upp á fjallið, litazt um eins og landnámsmenn. Eg benti í áttina þangað.
„Það dregur undir sig,“ sagði Magnús. „Þetta er lengri leið en maður heldur.“
selatangar-228Mig rak minni til þess.
„Einar póstur og Katrín, voru þau lítil,“ spurði Eyjólfur hugsi.
„Já,“ sagði Magnús.
„En Hákon og Guðmunda?“
„Guðmunda var há kona og snör. Hún var köttur þrifinn, og prýðilega útlítandi baðstofan, þó hún væri lítil. En þau Einar bjuggu í moldarkofa.“
„Það hefur þá ekki verið Hákon,“ sagði Eyjólfur. „Það hafa verið Einar og Katrín.“
„Það hafa verið þau,“ sagði Magnús.
„Er Einland uppistandandi?“ spurði Eyjólfur.
„Já, þekkirðu ekki Ísleif Jónsson, verkfræðing í Reykjavík?“
„Við erum skyldir,“ sagði Eyjólfur.
„Jæja,“ sagði Magnús og virti Eyjólf fyrir sér. „Nú sé ég, að það er sami bjarti svipurinn. Hann er að skinna Einlandið upp,“ bætti hann við.
„Já, einmitt,“ sagði Eyjólfur.
Við ókum fram hjá Ísólfsskála, Selatangar eru skammt þar fyrir austan.
Á leiðinni töluðu þeir um sitthvað. Og það var engu líkara en maður væri kominn hálfa öld aftur í tímann. Þeir töluðu um karl einn sem „þótti gott að smakka það“, um fólk, sem „hafði orðið bráðkvatt“.
selatangar-229Og margt fleira skröfuðu þeir, sem ómögulegt var fyrir ókunnugan að henda reiður á. Magnús minntist á konu, sem hafði átt hálfsystur, „og hún varð sama sem bráðkvödd líka.“ Og síðan barst talið að Jóni heitnum á Einlandi, föður Margrétar, og hann varð einnig bráðkvaddur.
„Hann var dugandi sjósóknari,“ sagði Magnús, ,,-áður en hann varð bráðkvaddur.“
„Já og myndarmaður,“ sagði Eyjólfur.
„Og aðsækinn við sjó,“ bætti Magnús við. „En viljið þið ekki sjá leiðið hans Ögmundar, sem hraunið er kennt við. Það stendur norðan við veginn.“
„Förum fyrst niður að Selatöngum.“
„Heyrðu Eyjólfur, lenturðu nokkurn tíma í Stokkseyrardraugnum,“ spurði Magnús.
„Nei, ég var svo ungur. Þegar við strákarnir heyrðum fyrst af honum, treystum við á, að hann kæmist ekki yfir mýrarnar, því að þær voru á ís og flughálar.“
„Hvað ætli þetta hafi verið?“ spurði Magnús.
„Þetta voru engir aumingjar, sem urðu fyrir barðinu á draugnum,“ skaut Jóhannes inn í samtalið. „Fólk var með margvíslegar skýringar,“ sagði Eyjólfur. „Sumir töluðu um kolsýrueitrun í andrúmsloftinu, en það veit enginn.“ „Það flýðu allir úr einni verbúðinni,“ sagði Jóhannes, um leið og bíllinn stöðvaðist við Selatanga.
selatangar-230Við lituðumst um. „Hvar er Magnús?“
„Hann skrapp niður á kampinn að tala við veiðibjölluna,“ sagði Jóhannes.
„Þeir þekkjast, mávurinn og Magnús. Hann er búinn að skjóta þá svo marga um dagana.“
„Honum er ekki fisjað saman,“ sagði Eyjólfur. „Hann er líkur föður sínum, kempukarl.“
Við skoðuðum tóttirnar af verbúðunum og fiskhjöllunum. Í fyrravor var jörðin algræn, þar sem fiskurinn hafði legið við byrgin.
Tólf til fimmtán menn hafa verið við hvern bát, hafði ég lesið mér til. Bragur er til um alla útróðrarmenn, sem eitt sinn voru á Selatöngum, og eru þeir taldir með nafni og hafa þá verið yfir 60. Tóttirnar eru litlar og ég gizkaði á, að þrír til fjórir hefðu verið í hverri verbúð. Þeir sögðu það hefðu minnsta kosti verið sjö, ef ekki fleiri. Af tóttarbrotunum að dæma er hver búð um fimm metrar að lengd og tveir á breidd. Sumar búðirnar hafa jafnvel verið minni. Kannski þeir hafi haft verbúðirnar svona litlar til að halda á sér hita, datt mér í hug. Þarna sáum við einnig hellisskúta. Jóhannes sagði að hellarnir væru reyndar tveir, og hefði annar verið kallaður Sögunarkór, þar sem var smíðað, en hinn Mölunarkór, þar var malað korn.
selatangar-231Selatangar eru skarð eða afdrep í Ögmundarhrauni. Þar fundu Krýsuvíkurmenn hentugt athafnasvæði eftir hraunflóðið mikla.
Dákon var hraunstandur uppi í kampinum á Selatöngum. Í honum voru landamerki milli Ísólfsskála og Krýsuvíkur. Næst austan við Dákon er Vestrihlein, en þá Eystrihlein. Sundið hefur líklega verið vestan undir Eystrihlein og uppsátrið þar beint upp af. Þar upp með hleininni voru bátarnir settir undan sjó. Vegalengdin frá Krýsuvík á Selatanga er um 6-7 km, og um þriðjungur þess vegar apalhraun, svo það hefur ekki verið skipsganga, sem kallað var, að fara þá leið kvölds og morgna. Þess vegna hafa verbúðirnar verið reistar þar. Og enn tala þær sínu máli.
Magnús var kominn í leitirnar. Við horfðum yfir kampinn og sundið. Ólög riðu yfir hleinarnar, en ekki á sundið. Það var hreint.
„Þeir þekktu sjóina, karlarnir,“ sagði Magnús.
„Ungt fólk nú á dögum mundi líklega deyja af einni saman tilhugsuninni að eiga að sofa í svona hreysum,“ sagði ég og virti fyrir mér tóttarbrotin.
„Manneskjan gerir það, sem hún verður að gera,“ sögðu þeir.
„Verbúðirnar hafa verið vindþéttar,“ sagði Eyjólfur.
Ég hryllti mig ósjálfrátt í herðunum. „Þeir hafa sótt í þetta hey og mosa,“ sagði Magnús.
selatangar-234Svo benti hann út á sundið. „Þeir hafa lent eitthvað eftir áttum,“ sagði hann. „Í útsynningi hafa þeir lent vestar, en austar í landnyrðingnum. Það er ekki mikil lá við hleinina núna. Þeir hefðu lent í svona sjó. Þarna er eystri hleinin og þarna sú vestri. Þeir lentu á milli hleinanna, í Tangasundi. Og nú er Dákon horfinn.“
„Það er talsvert brim núna,“ sagði ég. „Þú segir að þeir hefðu lent í þessu.“
„Ætli ekki það, þetta er svaði,“ sagði Magnús. „Þeir kunnu svo sem að bíða eftir lagi. En hafið þið ekki heyrt að hér átti að vera draugur,“ og hann sneri sér að Eyjólfi.
„Jú,“ sögðu þeir.
„Hann var kallaður Tanga-Tómas,“ sagði Magnús.
„Hefurðu séð hann Eyjólfur?“ spurði ég.
„Nei,“ sagði Eyjólfur, „séð hann – nei, nei.“
„Þú ættir að spyrja hann Þórarin Einarsson um hann,“ sagði Magnús. „Hann býr í Höfða á Vatnsleysuströnd. Hann er sonur seinasta formannsins hér á Seljatöngum. Þórarinn er faðir Þorvalds Þórarinssonar, lögfræðings í Reykjavík, svo hann á ekki langt að sækja það, að vera þéttur fyrir!

selatangar-236

Einar, faðir Þórarins, var óbágur að segja frá Tanga-Tómasi. Einu sinni var Einar að smíða ausur úr rótarkylfum hjá okkur á Hrauni, þá sagði hann okkur þessa sögu: Guðmundur, bróðir hans, svaf fyrir framan hann og lá með höfuðið útaf koddanum, en sneri sér við í svefnrofunum, og færðist upp á koddann, en í sömu andránni kom vatnskúturinn, sem þeir höfðu með sér á sjóinn en geymdur var í verbúðinni, af alefli þar sem Guðmundur hafði legið með höfuðið. Þetta bjargaði auðvitað lífi hans.“
„Það var gott að draugurinn drap ekki Guðmund,“ sagði Jóhannes. „Hann átti eftir að eignast 18 börn.“
„Nei, það var ekki hann, þú átt við Guðmund í Nýja Bæ,“ sagði Magnús.
„Já,“ sagði Jóhannes, og áttaði sig. „Guðmundur í Nýja Bæ var Jónsson, hann reri 1917 úr Húshólma, en þeir urðu að lenda hér á Töngunum.“
„Guðmundur í Nýja Bæ var skírleikskarl,“ sagði Magnús, „það var gaman að vera með honum einum. En þegar fleiri voru, varð hann öfgafullur. Lífsbaráttan varð honum þung í skauti, hann varð að treysta á útigang. Tvö barna hans dóu í vetur.“
Við vorum komnir upp á þjóðveginn aftur, og ætluðum sem snöggvast að skreppa að gröf Ögmundar. Á leiðinni þangað segir Magnús allt í einu: „Þessi klettur þarna í hrauninu heitir Latur.“
„Hvers vegna,“ spurði ég.
„Það gekk erfiðlega að miða hann – hann gekk illa fyrir, eins og sagt var. Hann bar lengi í sama stað.“
Og nú blasti við Ögmundarhraun milli Latsfjalls og Krýsuvíkur-Mælifells og fyllir hálfan dalinn. Niður við sjó stóð bærinn Krýsuvík, en uppi í dalnum Vigdísarvellir, fjallajörð í hvammi með hlíðinni norðvestan við Mælifell. Þar sjást tóttir.
„Ég man vel eftir byggð þar,“ sagði Magnús. „Gömul sögn segir, að smali hafi, þegar hraunið brann, bjargazt upp í Óbrennishólma, sunnarlega í hrauninu, vestan við Húshólma.“
Jóhannes sagði að þjóðsagan um Ögmund væri á þá leið, að hann hafi átt að vinna sér það til kvonfangs að ryðja veg yfir hraunið, en var drepinn að verki loknu. Aðstandendur konunnar treystu sér víst ekki til að vinna á honum fyrr en hann var orðinn örmagna af þreytu. Þá hertu þeir upp hugann og drápu hann. „Ögmundur sofnaði við hraunbrún, þar sem leiðið er og þar drápu þeir hann,“ bætti Magnús um frásögn Jóhannesar. „Nú er hrunið úr leiðinu. Þeir ættu að varðveita það betur. Ég er að vísu ekki fylgjandi því að raska ró þeirra dauðu, en það mætti vel ganga betur um leiðið.“
Ég ætlaði eitthvað að fara að minnast frekar á Ögmund, en þeir fóru þá að tala um sjómennsku í gamla daga og ég komst ekki upp með moðreyk. Það var eins og bíllinn breyttist skyndilega í gamlar verbúðir. Það er munur að róa nú eða áður, sögðu þeir.
ogmundardys-231„Þá var alltaf andæft á árunum,“ sagði Magnús til að uppfræða mig.
„Þá var línan tvö til þrjú pund og geysisterk og vont að draga hana. Einhverjum hefði minnsta kosti þótt það sárt í dag. Sumir fengu blöðrur.
„Betur á bak og báðum áfram“ var sagt þegar austanátt var og vesturfall, og þegar línan festist sló alltaf á bakborðið. Það þurfti alltaf manni meira á bakborða í andófi. Þess vegna var sagt, Betur á bak, þá þurfti að nota árarnar til að róa að línunni.“ Og svona héldu þeir áfram að tala saman um löngu liðna daga. Ögmundur var gleymdur. Eg var að hugsa um að koma við hjá Þórarni gamla í Höfða.
Eyjólfur hafði, okkur öllum á óvart, komið með flösku af líkjör.
Hann var farinn að hvessa, eða setja í, eins og karlarnir hefðu sagt. Eg sá verbúðirnar gömlu fyrir mér, og skinnklædda karlana. Eg hugsaði um það sem Magnús hafði sagt: „Það er ekki mikil lá við hleinina; það heitir öðru nafni: sogadráttur og þar er lending stórháskaleg. Eg mundi vel eftir lýsingum Magnúsar Þórarinssonar, sem oft kom niður á Morgunblað, á meðan hann var og hét. Hann var einbeittur og ákveðinn, með auga á hverjum fingri. Hann var fyrsti mótorbátsformaður í Sandgerði. Það var eins og sjór og reynsla hefðu lagzt á eitt um að tálga persónu hans inn að hörðum kjarnanum.
Magnús tók saman bók, sem heitir „Frá Suðurnesjum“. Merkisrit. Þar segir, að ef skip tók niður að framan, þegar mikil lá var, stóð það strax svo fast, að ómögulegt var að ýta því út aftur, svo þungu. Sogaði þá óðara undan, svo að skipið varð á þurru og lagðist á hliðina. Næsta aðsog fyllti þá skipið, og allt var í voða. Það varð því sífellt að halda þeim á floti og ýta frá fyrir hvert útsog, en halda í kollubandið. Næsta ólag kom svo með skipið aftur, en þrekmennin settu axlirnar við, svo að ekki tæki niður; stóðu þeir oft í þessum stympingum, þó að sjór væri undir hendur eða í axlir, en klofbundnir voru þeir oftast, er þetta starf höfðu.
Þetta hugsaði ég um og myndin skýrðist í huga mínum. Eg sá karlana standa í kampinum á Selatöngum í brók og skinnstakk, hvorttveggja heima saumað úr íslenzkum skinnum. Brókin upp á síður, en stakkurinn niður á læri. Mátti vel svalka í sjó þannig búinn án þess að verða brókarfullur, eins og kallað var ef ofan í brókina rann. Stundum kom fyrir að láin var svo mikil að ólendandi var á venjulegan hátt. Þá var fiskurinn seilaður úti á lóninu, seilarnar bundnar saman og færi hnýtt við, en einum manni falið að gefa út færið og annast seilarnar að óllu leyti.

Dagon-231

Og svo var beðið eftir lagi til að lenda skipinu tómu, tóku þá allir til ára eftir skipun formanns, á þriðju stóröldunni, sem var jafnan hin síðasta í ólaginu, eftir hana kom dálítið hlé á í stórbrotum; var það kallað lag. Þá var róið með fullum krafti, árar lagðar inn í skipið í fljótheitum. Þegar krakaði niður, hlupu allir útbyrðis og brýndu skipinu upp úr sjó, áður en næsta ólag kæmi.
Stundum komu aðrir, sem tækifæri höfðu og hjálpuðu til. Þannig stóðu Selatangar mér fyrir sjónum. Hver myndin tók við af annarri, reis og hneig í huga mínum eins og úthafsaldan við ströndina.
„Ég var oftast aðeins með eitt skinn,“ sagði Magnús upp úr þurru.
„Jæja,“ sagði Eyjólfur.
„Ég var oft holdvotur,“ sagði Magnús.
„Það vorum við aldrei fyrir austan,“sagði Eyjólfur.
„Ojú, maður var oft þvalur, þetta var helvítis vosbúð,“ sagði Magnús. Aftur hljóp í mig hrollur.
Ég var farinn að hlakka til að koma heim og leggjast eins og hundur við sjónvarpið.
selatangar-240Við höfðum ekið fram hjá Ísólfsskála á heimleið. Körlunum hafði ekki orðið orðs vant. Nú töluðu þeir um Guðmund á Háeyri.
Magnús sagði: „„Rólegir drengir, ekki liggur mér á,“ sagði hann þegar var að verða ófært, hann vissi hvað það gilti.“
Eyjólfur sagði: „Guðmundur var kominn að Eyrarbakkasundi og búið að flagga frá, talið ófært. Þá sagði hann: „Við skulum stöðva snöggvast hér rétt utan við sundið,“ og stendur upp og horfir þegjandi fram á brimgarðinn og segir svo enn: „Nei, sko andskotans brimið“ – og rétt í sömu svifum: „Takið brimróður inn,“ og þeir höfðu lífið. Hann umgekkst ólögin eins og leikföng. En þau voru það ekki fyrir óvana,“ bætti Eyjólfur við og vissi af eigin reynslu, hvað hann söng.
Magnús sagði að Guðmundur hefði stundum hikað við að fara inn af ótta við að önnur skip kæmu kannski á eftir og mundu ekki hafa það. Þá segir Eyjólfur: „Jón Sturlaugsson á Stokkseyri hikaði stundum líka, vegna þess að hann bjóst við að aðrir mundu fylgja sér eftir. Hann var einnig afbragðs sjómaður. Og honum var ekki heldur fisjað saman, honum Hafiiða föður þínum. „0, þetta er bara þurraslydda, þurraslydda,
sagði hann…
selatangar-241„Þetta hefur þú heyrt,“ sagði Magnús og glaðnaði við.
Svona göntuðust karlarnir, meðan myrkrið datt á. Þeir töluðu um Berg í Kálfhaga og söðgu, að Guðmundur á Háeyri hefði haft hann handa körlunum sínum til að grínast með. Einhvern tíma segir Bergur, „það er óhætt upp á lífið að róa hjá Guðmundi á Háeyri, en aðköllin ósköpin.“ „Róðu nú Bergur, róðu nú Bergur, og róðu nú helvítið þitt Bergur,“ sagði Guðmundur víst eitt sinn í róðri.
Og í annað skipti bar það til tíðinda, eins og oft var, að bóndi ofan úr sveit fékk að róa hjá Guðmundi tfl að fá í soðið fyrir heimfli sitt. Þegar þeir höfðu ýtt á flot var venja að taka ofan sjóhattinn og lesa sjóferðabæn. Bóndinn hafði bundið á sig hattinn og átti erfitt með að ná honum af sér. Þá kallar Guðmundur formaður og segir: „Ég held þú getir lesið Andrarímur eða einhvern andskotann, þó þú sért með helvítis kúfinn á hausnum.“
Og nú blasir við Hraun. Þarna á ströndinni hafa orðið skipstapar. Magnús hefur áður sagt mér af þeim: Franska togararnum Cap Fagnet, sem strandaði sunnan undir Skarfatöngum aðfaranótt 24. marz 1931, og St. Louis, enskum togara, sem strandaði senmma í janúar 1940 í Vondu fjöru. Öll skipshöfnin var dregin í land í björgunarstól, nema skipstjórinn. Hann kom ekki út úr brúnni nærri strax. Björgunarmenn biðu eftir honum í allt að 10 mínútur áður en hann sást á brúarvængnum. Hann fetaði sig niður á dekkið og fram að vantinum. En þegar hann var kominn að björgunarstólnum, féll hann allt í einu aftur yfir sig og ofan í ólgandi brimlöðrið. Þar varð hann til.
Magús á Hrauni hefur margt séð og margt lifað. Hann hefur marga fjöruna sopið.“

Heimild:
-Morgunblaðið 3. janúar 2000, Matthías Johannessen bls. 95-98.

Selatangar

Sjóbúð og byrgi á Selatöngum.

Straumssel

Gengið var um þvottastíginn að tóttum Þorbjarnastaða (fóru í eyði um 1939) og þaðan að Þorbjarnastaðaréttinni undir hraunhól sunnan við bæinn. Um er að ræða stóra hlaðna rúningsrétt. Í henni er heilleg lambakró.

Straumsselsstígur

Straumsselsstígur – Fornasels- og Gjáselsstígur.

Gengið var um Kúadal og áfram inn á eystri Straumsselsstíg (sem er reyndar eldri selstígur að Gjáseli og Fornaseli frá Þorbjarnastöðum).
Um miðja vegu að selinu var ákveðið að halda til vesturs út af honum og kanna hraunsvæðið. Þar inn á milli hólahyrpingar var komið að stórumhlöðnum nátthaga – Toppuklettum (Tobbuklettum). Eftir að punktur hafði verið tekinn þar var haldið í selið um Flárnar. Upp frá því var leitað Neðri-Straumsselshella. Þeir eru nokkuð sunnan selsins, hlaðinn gangur og nokkuð stór fjárhellir.
Eftir að hafa skoðað hellinn var Efri-Straumsselshella leitað og fundust þeir enn á ný nokkur ofar. Þeir eru þarna í lægð í Almenningum og er stór fjárhellir innan af henni. Hlaðið er í kringum opið, auk þess sem fyllt er að bakdyrum. Í kringum lægðina er hlaðinn garður. Upp af honum að norðanverðu er hlaðið byrgi, sem Jónas Bjarnason hlóð er hann var á refaveiðum á þessu svæði. Efri-Straumsselshellar voru notaðir sem nátthagi og síðan rétt undir hið síðasta og bera hleðslunar þess glögg merki.

Straumsselshellar

Í Efri-Straumselsshellum.

Þegar FERLIR kom síðast í Efri-Straumsselshella var þar greinilegt krafs eftir ref. Haldið var áfram norðvestur að Stóra-Fjárskjóli. Þar er hlaðið fyrir aflangan skúta. Þá var gengið að Óttastaðaseli og umhverfi þess skoðað áður en haldið var til norðurs eftir hrauninu. Á leiðinni var m.a. skoðað hlaðið refaskyttuskjól á neðsta hluta Straumsselsstígs.
Frábært veður.

Straumssel

Straumssel.

 

Herrdísarvík

Sje farið frá Krýsuvík, austur í Herdísarvík, liggur vegurinn ofan við Arnarfell og yfir sand að Geitahlíð. Hún er 386 metra há og efst á henni er þríhyrningamælinga varða herforingjaráðsins.
herdisarvik-222Svo liggur leiðin meðfram hlíðinni Og yfir Deildarháls, milli hennar Og Eldborgar (180 m.), sem er gamall eldgígur. Framan við er hraun, allt út á Krýsuvíkurberg og nokkuð úti í hrauninu er annar gamall eldgígur (122 m.). Síðan liggur vegurinn milli hrauna og hlíðar, austur að Sýslusteini, en þar mætast Árnessýsla og Gullbringusýsla og þar eru einnig landamerki Krýsuvíkur og Herdísarvíkur. Er þarna víða fallegt, hraunið talsvert gróið og smákjarr víða og hunangsilmur úr jörð, eins og Grelöð sagði, enda bregður manni við eftir gróðurleysið umhverfis Krýsuvík. Frá Sýslusteini liggur vegurinn yfir hraunið. Eru þar víða sljettar hraunhellur á löngum köflum, en það er merkilegt við þær, að eftir þeim eru djúpar, troðnar hestagötur, sem sýna að þarna hefir verið meiri umferð áður. „Ennþá sjást í hellum hófaförin, harðir fætur ruddu braut í grjóti“. Hið sama sjer maður einnig í hellum víða hjá Undirhlíðum á leiðinni frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur. Mun skáldið hatfa haft þær einkennilegu götur í huga, er það kvað „Skúlaskeið“? Sá, sem einu sinni hefur sjeð þær, gleymir þeim trauðla aftur. Og þegar bílar og önnur nýtísku farartæki hafa gert hesta óþarfa til flutninga og ferðalaga, og allar aðrar hestagötur eru löngu grónar, þá eru þessar götur í hörðum klöppunum enn til minja um þá daga, þegar hesturinn var þarfasti þjónninn og á hontum var alt flutt, sem flytja þurfti bæja, bygða og landshorna á milli.
Fyrir austan Sýslustein taka við báar hamrahlíðarar á vinstri hönd og ná þær óslitið alla leið austur að Hlíðarvatni. Klettarnir eru háir, svartir og ógrónir, og þótt þeir sjeu skammt frá sjó, verpir bjargfugl þar ekki. Mun því valda gróðurleysið, að hann kann þar ekki við sig. Hamrabrúnirnar eru 210—250 metra yfir sjó og sýnast gnæfandi háar vegna þess, hvað hraunið er lágt fyrir framan. Undir þeim eru skiður miklar, því að mikið hrynur úr þeim. Í jarðskjálftanum, sem varð þegar hverinn mikli í Krýsuvík braust út, haustið 1924, varð svo geysilegt hrunn í þessum björgum, að undir tók í fjöllunum víðs vegar í grend og laust upp svo miklum rykmekki, að ekki glórði í hamrana lengi dags. — Daginn eftir var mökkurinn enn sýnilegur, en hafði þá borist út yfir Herdísarvíkina.
hedisarvik-223Má enn sjá stórar ljósleitar skellur í björgunum hingað og þangað. Er það sárin eftir bjarghrunið. Til marks um, hvað það var mikið, segja kunnugir menn, að hefði það borið að í náttmyrkri, myndi allir hamrarnir hafa verið til að s.á sem eitt eldhaf, vegna neistaflugsins. Það er sömu söguna að segja um leiðina milli Krýsuvíkur og Herdísarvíkur og flestar aðrar leiðir um Reykjanes, að þar er ekkert vatn, hvorki pollur nje lind frá sleppir bæjarlæknum í Krýsuvík og þangað til kemur að Herdísarvíkurtjörn, sem bærinn stendur við.
Tjörnin er ekki stór, en ljómandi falleg. Hún hefir ekkert afrensli, en í henni er fljóð og fjara vegna þess að sjór síast í gegn um kampinn, sem er fyrir framan hana. Þó fylgist ekki að flóð og fjara í tjörninni og sjónum, heldur er þar alt seinna. Með hálfútföllnum sjó er t. d. háflóð í tjörninni. og mun það stafa af því, hvað sjórinn or lengi að síast í gegnum sævarkampinn. Fyrir 70— 75 árum var flutt bleikja í tjörnina og hefir hún þrifist þar vel og er þar tiltölulega mikil veiði, þegar tekið er tillit til þess, hvað tjörnin er lítil. Silungurinn, sem nú veiðist er vænn, 5—6 pund hver. Veiðina tók þó undan einu sinni, og lá við sjálft að hún mindi alveg fara forgörðum, og skal þess getið bráðum. Í tjörninni er líka mikið af ál. Er hann vænn, en hefir ekki verið veiddur til þessa. Andir og æðarfugl sækja í tjörnina og munu eyða miklu af hrognum og silungsseiðuni. Áður voru ernir og tíðir gestir, en nú sjást þeir ekki fremur þar en annars staðar.
hedisarvik-224Herdísarvíkurbær er snotur þótt ekki sje hann stór. Þar er baðstofa, bygð forkunnar vel og úr völdum viðum að mestu. Er það unninu rekaviður þar úr fjörunni. Tvöföld súð er í baðstofunni og tróð á milli. Bærinn stendur á ofurlítilli flöt rjett á tjarnarbakkanum og stendur lágt. Hefir það oft hefnt sín að hann stendur ekki hærra, því að þegar stormflóð koma af hafi, gengur sjór yfir malarkambinn, inn í tjörnina og fyllir hana svo, að hún flóir yfir alla bakka og inn í bæ. Stórfenglegasta flóðið kom veturinn 1925. Þá gerði hafstorm í stórstraum og belgdi sjóinn inn á víkina, svo að hann gekk yfir allan kambinn og langt út í hraun í allar áttir. Flóðið kom þegar inn í bæinn óg varð fólkið að flýja þaðan. Bóndi tók eitthvað af sængurfötum og batt þau upp í sperrukverk. Hafðist fólkið svo við, meðan mesta flóðið var, í hlöðu úti á túninu, og stendur hún miklu hærra en bærinn. En þó komst flóðið þangað. Þegar fjaraði og fólkið leitaði til bæjarins, voru sængurfötin uppi í sperrukverkinni rennblaut og sýndi það að baðstofan hafði fylst af sjó upp í mæni. Og þungi vatnsins inni í bænum hafði orðið svo mikill þegar fjaraði frá úti, að hann sprengdi gaflinn úr baðstofunni fram á hlað, og skolaði vatnið þar út með sjer körfustól og ýmsum öðrum húsgögnum, sem var í baðstofunni. Austan við bæinn stóð stór timburskemma á háum grunni og var í henni geymt mikið af þungavöru. Þó var flóðið svo aflmikið, að það velti skemmunni um koll og setti hana rjett fyrir framan fjósdyrnar, svo að ekki varð komist í fjósið í í nokkra daga. Eftir þetta mikla flóð hvarf silungur úr tjörninni um nokkur ár. Ætla menn að ýmist hafði flóðið skolað honum alt sjávar, eða þá víðsvegar upp um hraun.

herdisarvik-225

Eitthvað hefir þó orðið eftir af hrognum og seiðum, því að nú er veiðin orðin álíka mikil og hún var áður.
Herdísarvík er gæðajörð til lands og sjávar. Þar gengur sauðfje sjálfala allan ársins hring, ef ekki koma þeim mun harðari klakavetur. Fjörubeit er góð og varla tekur fyrir beit í hrauninu, enda kem ur það sjer vel, því að ekki er hægt að slá eitt einasta högg utan túngarðs. En fjárgeymsla er mjög erfið. Ólafur Þorvaldsson, sem þar býr nú, hefir rausnarbúi og er fyrirmyndarbragur á öllu hjá honum. Hann setur um 500 fjár á, vetur hvern. En hann segir, að ekki veiti af tveimur fullorðnum mönnum til þess að fylgja fjenu allan veturinn, myrkranna á milli, bæði í fjöru og hrauni, að koma því í hús á kvöldin og til beitar snemma á morgnana. Haun kveðst þó oftast taka lömb á gjöf, og í vetur öll lömbin nema 20, sem gengu algerlega úti, en þau bera af öllum hinum, enda munu þau hafa verið tápmest. En hjer er sama sagan nú og annars staðar, að sauðfjárræktin er dýr, en veitir lítið í aðra hönd. Það er af sú tíðin er menn gátu fætt og klætt sig og sína með afurðum 50—60 fjár. Í haust varð Ólafur að borga 150 dilka upp í landskuld og kaup eins manns. Hugsið ykkur það, 150 dilka fyrir utan alt, sem þurfti til bús að leggja!
Túnin í Herdísarvík eru tvö og fást af þeim í meðalári um 170 hestar. Ekki kemur til mála að tvíslá, því að kúnum þarf að beita á túnin undir eins og þau eru hirt, því að kúahagar eru þar engir, og hestahagar ekki heldur. Veitti ekki að að gefa kúm og hestum allan ársins hring. Hestar eru því verstu ómagar þarna, en ekki verður komist hjá því að hafa þá, vegna þess hvað bærinn er afskektur og langt til aðdrátta. Nú seinustu árin hefir Óafur þó fengið vörur“ sínar með bíl til Grindavíkur og þaðan með „trillubáti“ til Herdísarvíkur. Er það kostnaðarsamt, en verður þó ódýrara heldur en að flytja alt á hestum þessa löngu leið, og verða fyrir vikið að hafa marga hesta á fóðrum.
Í Herdísarvík eru miklar og merkilegar fornleifar frá þeim tímum, er útgerð var stunduð þar í stórum stíl. Þar standa enn fornar sjóbúðatættur frá þeim tíma er allur fiskur var hertur, og í brunahrauni austan við bæinn og alla leið upp undir fjall má líta óteljandi hraungarða hvern við annan, hlaðna af manna höndum. Þetta er þurkreiturinn, þar sem fiskurinn var hertur. Fiskverkunaraðferðin í þá daga var þannig, að fiskurinn var fyrst slægður og flattur og síðan „kasaður“. Þótti það mikill vandi að kasa vel og öll verkun komin undir því. Ekkert vatn mátti komast í fiskinn og hann varð að kasast þannig, að hann yrði ekki „maltur“ við þurkinn, en til þess þurfti allur safi að síga úr honum áður en hann var breiddur til þerris. Fiskurinn var kasaður þannig, að eftir að hann var flattur, var hann lagður saman aftur og stungið niður á hnakkakúluna, hver fiskur utan á annan og skaraðir þannig, að vatn gæti ekki komist á milli þeirra. Í þessum kösum stóðu þeir svo allan veturinn, eða þangað til vorþurrkar komu. Þá voru þeir bornir á bakinu upp um alt hraun og breiddir á garðana. Var þetta oft langur burður, en sá var kostur við það að hafa þerrigarðana úti í brunanum, að minni hætta var á, að fje færi í fiskinn, en það er sólgið í hann, ef það kemst á bragðið.
Herdisarvik-226Af hinum fornu sjóbúðum er nú fátt eftir, en þær nafa verið rambyggilega hlaðnar úr brimsorfnu hnullungagjóti og standa þykkir veggirnir lítt hrundir enn í dag. Eru sumar búðirnar 30 fet á lengd að innanmáli og má á því sjá, að þar hafa verið stórar skipshafnir. Svo lagðist útgerð að mestu niður í Herdísarvík um alllangt skeið, svo að þar var oft ekki nema eitt skip. En fyrir aldamótin hófst útgerð þar aftur með nýjum krafti. Veturinn 1896 gengu þaðan t. d. 8 skip. En þá var fiskverkunar-aðferðin hreytt, og var þá farið að salta allan fisk. Nú risu þarna upp nýjar sjóbúðir og standa tvær þeirra enn, en annari hefir verið breytt í hlöðu, hinni í fjárhús og verður því ekki lengur sjeð hvernig umhorfs hefir verið þar inni, meðan þetta voru mannabústaðir.
Allir sjóbúðaveggir eru hlaðnir út hnullungagrjóti og þykkir mjög. Búðirnar eru 30—40 fet að innanmáli og munu oft hafa verið 15—16 manns í hverri, því að þá var róið þarna á tíæringum og auk þess voru landmenn við söltun og aðgerð og svo þjónusta. Búðirnar snúa frá norðri til suðurs Og á suðurstafni eru dyr og reft þar yfir með þrælsterkum viðum. Stafnar eru hlaðnir úr gróti, eins og veggir og mænisás lagður á milli þeirra og nokkrar stoðir undir, sem standa auðvitað á miðju gólfi. Í sumum sjóbúðum voru sperrur og skarsúð, en flestar munu hafa verið þannig, að síreft hefir verið báðum megin á mænisás úr klofnum rekaviði. Hafa raftarnir verið nokkuð mislangir og sköguðu því sumir út úr þekjunni, sitt á hvað. Heldur munu sjóbúðir þessar hafa verið óvistlegar, en sjálfsagt hefir verið hlýtt í þeim.
Fram á sjávarkamhinn er þyrping af húsarústum. Nokkuð af þeim hefir sjórinn brotið, en sumar tætturnar standa óhaggaðar. Þarna var salt- og beitugeymsla, lýsisgeymsla o. s. frv., en beitt munu menn hafa úti, engu síður en inni. Er þar til marks um það, sem sagt er um áleitni sauðfjár við útróðramenn. að þeir máttu ekki víkja sjer frá beitutrogunum inn í sjóbúðirnar. Gerði þeir það, þá var ,,kind á hverjum öngli“ þegar þeir konm út aftur.
herdisarvik-227Herdísarvík var löngum happasælt fiskver. Oftast nær var ekki róið lengra en út á víkina og fékst þó góður afli. Á seinni árum voru menn farnir að róa í Selvogssjó. Fiskgöngur koma þar oftast beint úr hafi, og voru þær taldar bestar þegar ekki fylgdi síli. Eftir sumarmál var fiskur vanur að draga sig frá landi út í svonefndar „Forir“ og aflaðist þá oft vel þar í vertíðarlok.
Nú hefir engin útgerð verið í Herdísarvík um mörg ár, en fiskur gengur þar að ekki síður en áður. Er þar til marks um, að í vetur reru þar tveir menn um tíma á svolitlu bátkríli. Fóru þeir rjett fram fyrir landsteinana með handfæri og drógu þar bandóðan rígaþorsk. Voru þeir fljótir að hlaða, því að báturinn lá með horðstokknum þegar komnir voru í hann 100 fiskar. En alls fengu þeir um 1500 til hlutar — og alt fast upp við landsteinana.
Þegar maður heyrir slíkt, verður manni á að hugsa hvort ekki mundi það borga sig betur að taka upp á slíkum stöðum gömlu veiðiaðferðina á opnum skipum og gömlu fiskverkunaraðferðina, að herða fiskinn, heldur en að láta verstöðvarnar ónotaðar og helga sig hinni rándýru vélbátaútgerð og hinni enn þá dýrari saltfiskverkun.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 10. júlí 1932, bls. 205-207.

Herdísarvík

Herdísarvík.

Seltúnssel

M.a. var litið á „trúlegt sel“ á Seltúni, sem þar mun hafa verið skv. Jarðarbókinni 1703, þ.e. sel frá Krýsuvík. Eftir endurtekna leit á svæðinu fundust  tóftir er gætu verið eftir sel á tveimur stöðum, beggja vegna þjóðvegarins.

Seltún

Seltúnsselið sést á þessari mynd Sigfúsar Eymundssonar frá 1884 – myndin er tekin frá Lambafelli að Seltúni.

Annars vegar er um að ræða jarðlægar tóftir, sem sléttaðar voru út við túnræktina á svæðinu um 1960. Sú tóft sést vel á ljósmynd Sigfúsar Eymundssonar, sem tekin var frá Lambafelli að Seltúni árið 1884. Hins vegar er  um að ræða tvær tóftir, önnur nú fótum troðin af hestum Hafnfirðinga og hin hringlaga gerði skammt sunnar, einnig illa farin af ágangi hrossa. Þessar minjar hafa ekki verið skráðar sem slíkar – svo vitað sé.
Ofan við Seltúnið er lítil ferkantlaga tóft á grasbala sunnan við hverasvæðið. Hún gæti hafa tengst athöfnum námumanna á hverasvæðinu á sínum tíma. Sjáanlegar leifar námuvinnslunnar er hluti einnar stíflunnar austan þjóðvegarins. Hana má m.a. sjá á ljósmynd, sem Englendingar tóku í þeim tilgangi að selja hlutabréf í námuvinnslufyrirtækinu erlendis. Þá eru norðan við Seltúnið a.m.k. þrjár tóftir og gerði er tengdust brennisteinsvinnslunni á sínum tíma. Sagt er frá þessum minjum annars staðar á vefsíðunni, auk þess sem brennisteinsvinnslunni er gerð góð skil.

Krýsuvík

Fell – tóftir.

Kíkt var á „hugsanlega sel eða mögulega hjáleiguna Fell“ sunnan Grænavatns. Tóftir bæjarins kúra í dalkvos skammt sunnan við vatnið. Hann ku hafa verið í ábúð einungis skamman tíma.
Litið var á „afar fallegan brunn“ við Litla-Nýjabæ suðvestan við Augun og síðan var gengið frá Ræningjahól og þaðan að „vel farinni og fallegri rétt“ sunnan Arnarfells. Um er að ræða nokkuð stóra og heillega rétt í slakka í beina línu á milli Krýsuvíkurkirkju og vörðu á nyrsta Trygghólnum, svo til miðja vegu milli hans og Arnarfells.

Arnarfellsrétt

Arnarfellsrétt.

Réttin er svonefnd Arnarfellsrétt. Um er að ræða almenning og níu misstóra dilka. Frá henni sér í Bæjarfellsréttina í norðvestri.

Bæjarfellsrétt.

Bæjarfellsrétt í Krýsuvík.

Gengið var upp að Bæjarfellsréttinni (Krýsuvíkurrétt), norður með austanverðu Bæjarfelli og að svonefndum Hafliðastekk norðan undir Bæjarfelli. Hann er þar hlaðinn undir stórum steini. Tóft er þar hjá.

Hafliðastekkur

Hafliðastekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Á leiðinni var gengið framhjá nokkrum gömlum tóftum í norðurhlíðum Bæjarfells. Guðað var eftir Drumbsdalaveginum vestan Bæjarfells yfir Sveifluhálsinn við Drumb. Augljóst er þaðan sést hvar vegurinn hefur legið yfir melana vestan sunnanvert Bæjarfell og áfram yfir sunnanverðan hálsinn.

Til gamans má velta fyrir sér hvernig nafnið Krýsuvík er til komið. Áður hefur heyrst og verið skráð að um hefði verið að ræða svonefnda „Krýsa“ er byggt hafi Krýsuvík þar sem Húshólmi er nú. Þá hefur verið skráð að nafnið væri komið af „Krossavík“. Ekki er ólíklegra að álykta að nafnið „krýsa“ sé til komið vegna deilna, sem sprottið hafa, hugsanlega milli frumbyggja og síðari tilkomandi norrænna manna. Skýringin á nafninu Krýsuvík væri því einfaldlega „Deiluvík“. Sennilegast er þó orðskýringin „krýsa“, sem er gamalt orð yfir grunna vík eða fjörð, sbr. grunn skora, t.d. í ask.
Sól, lygnt og roðagylltur himinn.

Krýsuvík

Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Haust

Haust er þriðja af árstíðunum fjórum. Hinar eru vetur, vor og sumar. Á norðurhveli jarðar eru mánuðirnir september, október og nóvember almennt taldir til hausts, en á suðurhveli eru mánuðurnir mars, apríl og maí haustmánuðir. HaustVeðurstofa Íslands telur haust vera október og nóvember. Á haustin styttir dag mjög hratt og í kjölfarið kólnar og gróður sölnar. Þá verður litadýrð náttúrunnar hvað tilkomumest.
Veður eru annars hvers kyns fyrirbrigði, sem verða í lofthjúpum, einkum jarðar. Yfirleitt á veður við skammtímafyrirbrigði í veðrahvolfi jarðar, sem sjaldan vara lengur en nokkra daga. Veðurfyrirbrigði eiga oftast rætur sínar að rekja til hitamismunar á mismunandi stöðum á hnettinum, sem orsakast meðal annars af því að svæði nálægt miðbaug fá meiri orku frá sólinni en svæði sem eru nær heimskautunum. Önnur orsök hitamismunar á jörðinni er að mismunandi yfirborð, svo sem úthöf, skóglendi og jöklar, drekka í sig mismikið ljós og hitna því mismikið þegar sólin skín á þá.
Vor er önnur af árstíðunum fjórum. Á norðurhveli jarðar eru mánuðirnir mars, apríl og maí oftast taldir til vors, en á suðurhveli eru mánuðirnir september, október og nóvember vormánuðir. Veðurstofa Íslands telur vor vera mánuðina apríl og maí. Vor er sá tími ársins þegar daginn er að lengja hvað mest og í kjölfar þess hækkar meðalhitinn dag frá degi og gróður tekur við sér.
Sumar er sú þriðja af árstíðarheitunum fjórum á tempraða beltinu. Sumur á norðurhveli jarðar miðast oftast við mánuðina júní, júlí og ágúst, en á suðurhveli við desember, janúar og febrúar. Veðurstofa Íslands telur sumar vera mánuðina júní, júlí, ágúst og september, en þetta eru þeir fjórir mánuðir ársins, sem að jafnaði hafa hæstan meðalhita.
Á norræna tímatalinu hefst sumarið á sumardaginn fyrsta, sem er fyrsti fimmtudagurinn eftir 18. apríl. Sumartímabilinu lýkur á föstudegi á tímabilinu 20. til 27. október. Í þessu kerfi eru aðeins tvær árstíðir: sumar og vetur.
VeturÁrið var talið 52 vikur eða 364 dagar. Til þess að jafna út skekkjuna sem varð til vegna of stutts árs var skotið inn einni aukaviku, svokölluðum sumarauka, sjöunda hvert ár. Þannig var sumarið talið 27 vikur þau ár sem höfðu sumarauka, en 26 vikur annars. Í lok sumars voru tvær svonefndar veturnætur og var sumarið alls því 26 (27) vikur og tveir dagar. Allar vikur sumars hefjast á fimmtudegi, en vetrarvikurnar á laugardegi. Með þessu móti verður veturinn styttri en sumarið, eða 25 vikur og 5 dagar.
Í mánuðum taldist árið vera 12 mánuðir þrítugnættir og auk þeirra svonefndar aukanætur, 4 talsins, sem ekki tilheyrðu neinum mánuði. Þær komu inn á milli sólmánaðar og heyanna á miðju sumri. Sumaraukinn taldist heldur ekki til neins mánaðar en hann lenti á milli haustmánaðar og gormánaðar.
Í Íslendingasögum er algengt orðalag að tala um „þau missiri“ þegar átt er við heilt ár, en orðið ár kemur hins vegar varla eða ekki fyrir þegar rætt er um tíma.
Norræna tímatalið hefur verið lífseigt að ýmsu leyti. Í Danmörku voru gömlu mánaðaheitin löguð að nýja tímatalinu og á Íslandi eru ýmsar hátíðir haldnar sem tengjast því. Gömlu mánaðarheitin voru: Vetur; gormánuður, ýlir, mörsugur, þorri, góa og einmánuður, en sumar; harpa, skerpla, sólmánuður, heyannir, tvímánuður, haustmánuður.
Vetur er fyrsta árstíðin af fjórum. Á norðurhveli jarðar eru eftirtaldir mánuðir taldir til vetrarmánaða: desember, janúar, febrúar og mars, en þetta eru þeir fjórir mánuðir ársins, sem að jafnaði hafa lægstan meðalhita.
HVoraustmánuður er síðasti mánuður sumars að fornu tímatali og hefst með fimmtudegi í 23. viku eða 24., ef sumarauki er, þ.e. 21.-27. september. Hann er nefndir svo í Snorra Eddu, en hefur einnig verið kallaður garðlagsmánuður. Hjá Guðbrandi og Arngrími heiti september hinsvegar aðdráttamánuður.
Haustmánuður byrjast næst jafndægrum en sólin gengur um þann tíma í vigtarmerki. Líka var þessi mánuður kallaður garðlagsmánuður því þessi þótti hentugur tími að bæta túngarða, engigarða, haga- eða skjólgarða og grannagarða … Nú er tími að velta landi því, sem sáð skal í einhverju fræi að vori. Vatnsveitingaskurði á nú að stinga svo ekkert vatn geti staðið yfir landi á vetrum heldur að það súra vatn fái gott afrennsli. Jarðarávexti, sem menn vilja geyma niðurgrafna úti eða inni, skal nú upp taka og láta nokkuð þorrna, grafa þá síðan niður hvar frost má ei að þeim koma. Um þessa tíma fellir melur fræ, má nú safna því áður og sá strax í sendið land og breiða mold yfir, kemur upp næsta vor. Hvannafræi og kúmeni má nú líka sá þar sem menn vilja þær jurtir vaxi síðan.

Samkvæmt gömlum heimildum voru mánaðanöfn á Íslandi til forna eftirfarandi;
gaukmánuður/sáðtíð u.þ.b. 12. apríl – 11. maí
eggtíð/stekktíð u.þ.b. 12. maí – 11. júní
sólmánuður/selmánuður u.þ.b. 12. júní – 11. júlí
miðsumar/heyannir u.þ.b. 12. júlí – 11. ágúst
tvímánuður/heyannir u.þ.b. 12. ágúst – 11. september
Sumarkornskurðarmánuður/haustmánuður u.þ.b. 12. september – 11. október
górmánuður u.þ.b. 12. október – 11. nóvember
ýlir/frermánuður u.þ.b. 12. nóvember – 11. desember
jólmánuður/mörsugur/hrútmánuður u.þ.b. 12. desember – 11. janúar
þorri u.þ.b. 12. janúar – 11. febrúar
gói u.þ.b. 12. febrúar – 11. mars
einmánuður u.þ.b. 12. mars – 11. apríl
Nákvæm dagsetning er mismunandi eftir árum.

Síðar þróuðust þessi nöfn í það sem við heyrum nú oftast talað um sem hin gömlu mánaðanöfn. Þau eru þessi;
þorri hefst föstudag í 13. viku vetrar (19. – 26. janúar)
góa hefst sunnudag í 18. viku vetrar (18. – 25. febrúar)
einmánuður hefst þriðjudag í 22. viku vetrar (20. – 26. mars)
harpa hefst sumardaginn fyrsta, fimmtudag í 1. viku sumars (19. – 25. apríl)
skerpla hefst laugardag í 5. viku sumars (19. – 25. maí)
sólmánuður hefst mánudag í 9. viku sumars (18. – 24. júní)
heyannir hefjast á sunnudegi 23. – 30. júlí
tvímánuður hefst þriðjudag í 18. viku sumars (22. – 29. ágúst)
haustmánuður hefst fimmtudag í 23. viku sumars (20. – 26. september)
gormánuður hefst fyrsta vetrardag, laugardag í 1. viku vetrar (21. – 28. október)
ýlir hefst mánudag í 5. viku vetrar (20. – 27. nóvember)
mörsugur hefst miðvikudag í 9. viku vetrar (20. – 27. desember).

Heimildir m.a.:
-http://is.wikipedia.org/wiki/Haust
— Árni Björnsson, 1993. Saga daganna. Reykjavík: Mál og menning.
– Björn Halldórsson í Sauðlauksdal.
http://www.visindavefur.hi.is/svar.asp?id=1132

Lífssteinar að vori

Þingvellir

Í Íslendingabók er m.a. fjallað um stofnun Alþingis: „Alþingi var sett at ráði Úlfljóts ok allra landsmanna, þar er nú er, en áðr var þing á Kjalarnesi, þat er Þorsteinn Ingólfssonr landnámamanns, faðir Þorkels mána lögsögumanns, hafði þar ok höfðingjar þeir, er at því hurfu.
Spongin-4En maðr hafði sekr orðit of þræls morð eða leysings, sá er land átti í Bláskógum. Hann er nefndr Þórir kroppinskeggi, en dóttursonr hans er kallaðr Þorvaldr kroppinskeggi, sá er fór síðan í Austfjörðu ok brenndi þar inni Gunnar, bróður sinn. Svá sagði Hallr Órækjusonr. En sá hét Kolr, er myrðr var. Við hann er kennd gjá sú, er þar er kölluð síðan Kolsgjá, sem hræin fundust.
Land þat varð síðan allsherjarfé, en þat lögðu landsmenn til alþingis neyzlu. Af því er þar almenning at viða til alþingis í skógum ok á heiðum hagi til hrossahafnar. Þat sagði Úlfheðinn oss.
Svá hafa ok spakir menn sagt, at á sex tigum vetra yrði Ísland albyggt, svá at eigi væri meir síðan.
Því nær tók Hrafn lögsögu Hæingssonr landnámamanns, næstr Úlfljóti, ok hafði tuttugu sumur. Hann var ór Rangárhverfi. Þat var sex tigum vetra eftir dráp Eadmundar konungs, vetri eða tveim, áðr Haraldr inn hárfagri yrði dauðr, at tölu spakra manna.
Þórarinn Ragabróðir, sonr Óleifs hjalta, tók lögsögu næstr Hrafni ok hafði önnur tuttugu. Hann var borgfirzkr.“

Jónas Jónsson frá Hriflu skrifaði „Um Þingvelli“ í Skinfaxa árið 1932. Hér má lesa hluta frásagnarinnar:

thingvellir-323

„Þingvellir er einhver kunnasti staður á Íslandi, bæði sökum sögufrægðar og náttúrufegurðar. Þar hafa Íslendingar lengst af æfi þjóðarinnar átt höfuðstað sinn og hið eiginlega setur löggjafar og dómsvalds. Frá Þingvöllum fluttist höfuðstaðurinn að Bessastöðum, þann tíma, þegar þjóðin var allra mest máttvana, og þaðan aftur til Reykjavíkur, eftir að kauptún og kaupstaðir tóku að myndast á Íslandi.
Náttúrufræðingum og listamönnum hefir þótt Þingvallahéraðið merkilegt, þótt eigi væri litið á sögufrægðina. Myndunarsaga Þingvallahéraðs er einhver tilkomumesti þátturinn í sögu íslenskrar jarðmyndunar, og um þann þátt í jarðsögunni hefir eitt af mestu skáldum landsins ort eitt af sínum fegurstu kvæðum, sem jafnan mun lifa á vörum þjóðarinnar.
Eftir að Ísland eignaðist þjóðlega og vel menntaða málara, hafa þeir gert Þingvelli að höfuðstað sínum. Þangað koma yngstu listamehn landsins og búa í tjöldum að fornmanna sið og leitast við að skýra með litum hina stórfenglegu, breytilegu og fögru náttúru.
Og þangað koma engu síður reyndustu og þroskuðustu listamenn Thingvellir-321landsins. Frá engum stað á Íslandi eru nú þegar til jafn mörg merkileg málverk og frá Þingvöllum, og þó eru engin tvö af þessum listaverkum beinlínis lík. Fjölbreytni náttúrunnar á Þingvöllum, og hin skjótu og undursamlegu litbrigði virðast vera ótæmandi gullnáma fyrir íslenzka málara og líkleg til að geta verið það, meðan menning helzt í landinu.
Í fornöld virðist mestallt láglendi í Þingvallasveit hafa verið vaxið skógi, nema grundir þær meðfram Almannagjá, sem Öxará hefir myndað með framburði sínum og staðurinn dregur nafn af. Í þessu skóglendi voru mörg býli, allt norður til fjalla, þar sem nú eru blásin hraun og eyðisandar. Engjar voru litlar á nálega öllum þessum jörðum og búskapurinn hlaut fyrst og fremst að byggjast á því, að beita skóginn. Þetta var gert. Búsmalinn eyddi skóginn meir og meir. Að sama skapi blés landið upp og býlin eyddust hvert af öðru. Þegar Alþingi hélt þúsund ára hátíð sína voru jarðirnar í Þingvallahrauni ekki nema þrjár, prestsetrið Þingvellir, Skógarkot og Hrauntún.

thingvellir-324

Á öllum þessum jörðum byggðist atvinnulífið fyrst og fremst á því, að beita skóginn, enda voru tvær af þessum jörðum næsta engja-litlar. Sauðfjárbeitin var þess vegna vel á veg komin með að eyðileggja hið forna skóglendi í þessari frægustu byggð á Íslandi.
Og Þingvellir urðu á ný fyrir aðsteðjandi hættu. Akvegur hafði verið lagður til Þingvalla. Ferðamannastraumurinn fór að beinast þangað. Um aldamótin hafði verið byggt fremur lítilfjörlegt gistihús, í miðri þinghelginni, skírt veglegu nafni og kallað Valhöll. Litlu síðar lét landið reisa fremur ólaglegt timburskýli við vellina, neðan við fossinn. Þetta skýli var kallað konungshús, af því að konungur landsins hafði eitt sinn gist þar. Annars var hús þetta einstaka sinnum notað sem sumarbústaður forsætisráðherra, en af og til sem almennt veitingahús. Til umgengni í kring og viðbótarbygginga var ekki vandað.
Heima á Þingvöllum var óreglulega byggt bárujárnshús, með fjölmörgum ósmekklegum skúrum úr bárujárni, thingvellir-326steypu og torfi. Í Þingvallabænum endurspeglaðist allt það fálm og stefnuleysi og smekkleysi í byggingum, sem einkenndi mikið af þeim heimilum, sem byggð voru í rigningahéruðum landsins, frá því hætt var við bæi með torfveggjum og torfþökum og þartil komu vönduð steinsteypuhús. En sunnan undir þessum hrörlega bæ hafði prestur staðarins gróðursett nokkur reyni- og víðitré og hirt þau með mestu alúð. Þessi tré þrifast ágætlega, og verða stærri og blómlegri með hverju ári. Þau urðu í einu tákn þess gróðurs, sem hafði verið og á að koma í Þingvallahrauni, og lofsamlegur minnisvarði um þann mann, sem gróðursetti þau og hlúði að þeim meðan þau voru ung.
Þingvellir og gróður byggðarinnar voru nú orðnir milli tveggja elda. Annars vegar sótti sauðbeitin að skóginum og eyddi honum meir og meir. Og á hinn bóginn óx ferðamannastraumur til staðarins. Léleg bráðabirgðarskýli voru reist, án þess að líta hið minnsta á það, hvern svip þau gáfu Þingvöllum. Um sama leyti var Reykjavík í örum vexti. Einn kaupsýslumaður byggði sér ofurlítið sumarhús í Fögrubrekku.
Margir Reykvíkingar fundu, að þarna var gott að vera. Margir fleiri vildu thingvellir-326byggja sér skúra við gjárnar eða á völlunum. Við sjálft lá, að gamla Valböll fæddi af sér óreglulega og ósmekklega byggð um alla þinghelgina, um leið og búsmali frá þremur bæjum fullkomnaði eyðingu skógar og gróðurs í hrauninu. Menn sáu, að hinn frægi og glæsilegi sögustaður var að verða allri þjóðinni til minnkunar. Hin nýja skúrabyggð á Þingvöllum var enn hættulegri staðnum heldur en börn og hrafnar.
Nú liðu nokkur ár, þar sem örlög Þingvalla svo að segja hengu á þræði. Annars vegar var sótt á að yfirbyggja Þingvelli með lélegum bráðabirgðaskúrum til sumardvalar fyrir Reykvíkinga. A hinn bóginn efldist flokkur þeirra álmgamanna, sem vildu friða Þingvöll, þingstaðinn og skóglendið.
Og svo kom afmæli Alþingis 1930. Meðal þeirra manna, sem undirbjuggu hátíðahöldin, voru nokkrir þeir menn, sem  vildu að Þingvöllur yrði viðurkenndur sem helgistaður þjóðarinnar.
Og nú kom hreyfing á málið. Alþingi samþykkti lög um friðun og verndun Þingvalla. Landsstjórninni var heimilað að láta girða af hraunið milli Almannagjár og Hrafnagjár, og að bæta bændunum á jörðunum í hrauninu það tjóni, er þeir kynnu að bíða við að hætta sauðbúskap á þessum jörðum.
thingvellir-328Eins og við mátti búast, mætti þetta friðunarmál töluverðri mótspyrnu. Menn sögðu, að það væri hart að leggja niður sauðbúskap á tveim jörðum, en gleymdu um leið, að sá hinn sami sauðbúskapur var búinn að eyðileggja fjölda býla og mestallan skóg í sveitinni. Þeir sögðu, að það yrði afar dýrt, að girða Þingvallahraun, og girðingin myndi standa illa, vegna fannkomu. En reynslan hefir orðið sú, að þessi girðing mun vera hin dýrasta, sem ríkið hefir gert, miðað við landstærð, vegna þess, að tvær gjár og vatnið skapa sjálfheldu nálega á þrjár hliðar. Og af því girðingin er á hrauni, er hún líkleg til að endast í bezta lagi. Margar fleiri mótbárur komu fram, en reyndust álíka léttvægar.
Nú mun eg víkja að þeim breytingum, sem gerðar voru á Þingvöllum vegna alþingishátíðarinnar, og sem hafa varanlega þýðingu, og þar næst að þeim ráðstöfunum, sem gerðar hafa verið vegna friðunarlaganna.
thingvellir-331Langdýrasta umbótin, sem gerð var vegna hátíðarinnar, var nýi vegurinn gegnum Mosfellssveit og yfir Mosfellsdal. Þeim veg átti að gera, hvort sem var, en það myndi annars hafa dregizt nokkur ár. Vegna þessa vegar er akfært á Þingvöll nálega allt árið. Þá var vegur lagður frá Þingvöllum inn á Leirur, þar sem tjaldborgin stóð, og áleiðis að ruðningnum yfir Kaldadal. Er þessi nýi vegur nú orðin ein hin fjölfarnasta sumarleið hér á landi, fyrir ferðafólk.
Næsta aðgerðin var við sjálfa vellina. Upprunalega höfðu þeir verið slétt grund, mynduð af framburði árinnar, og átt þátt í að gefa staðnum nafn. En nú voru þeir orðnir kargaþýfi og sundurgrafnir af vatni. Hátíðarnefndin lét slétta nálega 10 ha. og breyta í tún, eftir því, sem efni voru til, og á þessum hinum miklu grundum hafði mannstraumurinn olbogarúm hátíðisdagana. Þá voru hin misheppnuðu bráðabirgðahús mitt í þinghelginni, Valhöll og Konungsskálinn færð suður yfir ána, og komið þar svo fyrir að þau eru fremur til prýði fyrir staðinn. Valhöll var stækkuð og endurbætt til stórra muna, auk þess byggður áfastur við gistihúsið stór og myndarlegur samkomusalur. Er öll aðstaða í Valhöll nú orðið til að taka vel á móti gestum, þó að margir séu, og þar má nú efna til funda miklu fremur en áður var. Að lokum var bærinn á Þingvöllum rifinn og endurbyggður úr steini, með þremur burstum og torfþaki. Gamli bærinn hefði orðið landinu til óafmáanlegrar minnkunnar, ef hann hefði staðið, og lifað um langan aldur á myndum úti um allan heim, sem vottur um virðingu Íslendinga fyrir sínum sögufrægasta stað. Nýi bærinn þykir aftur hinn prýðilegastí, og landi og þjóð til sæmdar bæði á hátíðinni og síðar.
Nokkur hluti hússins stendur enn með venjulegum útbúnaði, til að hægt sé þar að taka á móti gestum landsins, einkum lista- og thingvellir-329fræðimönnum. Þar bjuggu um stund Sigrid Undset með syni sínum og Gunnar Gunnarsson með fjölskyldu sinni allri. Meta margir slíkir menn eigi lítils, sem sóma frá landinu, að mega búa nokkra stund á rólegu heimili á Þingvöllum.
Undirstaða að verndun Þingvalla var þannig lögð með hátíðinni. Síðan hefir enn verið bætt við, að girða hraunið, eins og fyr er sagt, og borga tveim bændum bætur eftir mati, fyrir að hætta sauðfjárbúskap nú á yfirstandandi vori. Auk þess hafa verið girtar hinar nýgerðu sléttur, og á að freista að halda þeim í rækt, svo að þær verði, eins og í fornöld, grónir vellir. Eftir að slætti er lokið, geta ferðamenn gengið um túnin að vild.
Þingvöllur framtíðarinnar verður, eins og nú horfir, eitthvað á þessa leið: Vellirnir haldast grænir og sléttir. Skógurinn fyllir hraunið á einum mannsaldri og sækir heim undir vellina. Engin hús verða í þinghelginni, nema bærinn og kirkjan. Vestan árinnar verður gistihúsið, nokkur sumarhús, og bílatorgið. Mitt í skóginum verða tvö býli, en ekkert sauðfé. Umönnun mannanna kemur fram í að láta náttúruna njóta sín, án þess að skyggja með veikum mannaverkum á tign og dýrð héraðsins.“

Heimild:
-Skinfaxi, 23. árg. 1932, 5. tbl,  bls. 97-105.

Þingvellir

Þingvellir – Almannagjá.

Hraun

Þann 1. júlí opnaði „Markaðsstofa Suðurnesja“ nýja skrifstofu ferðamála í Reykjanessbæ á afskekktum stað. Um var að ræða nýtt látún á eldri stöpul. Samhliða opnuninni var ný vefsíða opinberuð. Með því var verið, skv. kynningu, að bæta vefsíðuna www.reykjanes.is (enda ekki vanþörf á). Vefsíðan sú hefur hvorki verið fugl né fiskur um langt skeið. Við fyrstu sýn lofar nýja vefsíðan reyndar litlu umfram það sem var, en ekki skal vanmeta viljann… Reyndar á slíkt hið sama um aðrar sambærilegar vefsíður hér á landi.
BæklingurHér var sem sagt verið að sameina Ferðamálsamtök Suðurnesja og Upplýsingamiðstöð ferðamanna í Reykjanesbæ á einum stað. En hvers vegna? Og hvað með hin sveitarfélögin á svæðinu, sem hvert um sig gera sér miklar vonir um frambærilega markaðssetningu – t.d. Grindavík með alla sína fjölbeytilegu og margvíslegu möguleika, eða Garður með allar sínar áþreifanlegu mannvistarleifar og sögu, eða Sandgerði með allt sjónumrýdda dýraríkið, eða Hafnir með alla sjósóknarsöguna, þjóðsögurnar og selstöðurnar.
Opnunin var skv. bókinni; bæjarstjóri Reykjanesbæjar mætti við athöfnina, en aðrir bæjarstjórar á Suðurnesjum féllu í skuggann. Líklega verður að telja það thingsins tákn. Reyndar er sárt til þess að vita því svæðin – allra bæjarstjóranna í heild sinni – bíður upp á eina áhugaverðustu ferða- og afþreyingamöguleika sem ÍSLAND hefur fram að færa; stórbrotna náttúru, óraskað umhverfi, víðerni sem á sér fáa líka, hraunhella, minjar frá upphafi landnáms og veðurfar til þess að njóta alls þessa allt árið um kring.
FrásögnÍ litskrúðugum, og eflaust rándýrum, kynningar- og ferðapésum einstakra landshluta er getið um fjölmargt fánýtið sem gleymst hefur að tengja við nándina, fólkið og vettvangsraunveruleikann sjálfan. Til er þó dæmi um hið gagnstæða. Ekki má gleyma því að á Suðurnesjum liggur raunveruleiki ferðamannavaxtarins þegar horft er til landsins í heild. Um svæðið fer mikill meginhluti allra ferðamanna til og frá landinu. Ferðaþjónustuaðilar miða á krepputímum í auknum mæli tilboð sín við að nýta umhverfi dvalarstaða gestanna á sem hagkvæmastan hátt. Svæðið í heild bíður því margfaldrar nýtingar frá því sem verið hefur – ef rétt er að málum staðið.
Í kynningu með fréttinni um opnun MS segir m.a.: „Markaðsstofa Suðurnesja var stofnuð í byrjun þessa árs að frumkvæði Ferðamálasamtaka Suðurnesja. [Hafa ber í huga að fyrrum formaður Ferðamálasamtakanna er nú í forsvari fyrir Markaðasstofuna.] Tilgangur hennar er að innleiða faglegt og samræmt markaðsstarf meðal ferðaþjónustuaðila á Suðurnesjum, byggja upp öflugan gagnabanka um hvaðeina er lýtur að þjónustu við ferðamenn og markaðssetja Suðurnes og Reykjanesið fyrir ferðamönnum. Er upplýsingamiðstöðin liður í þeirri áætlun. Markaðsstofan mun einnig hafa með höndum samskipti við opinbera aðila eins og Ferðamálastofu um markaðssetningu svæðisins erlendis og innanlands.“
Svo mörg voru þau orð… Í rauninni eru bæði Ferðamálastofa og Samtök ferðamálasamtaka lítið annað en hjóm eitt þegar horft er til nýtingar þeirra fjármuna, sem til þeirra er varið. Þess vegna er ekki bara þörf heldur og nauðsyn á að endurskoða margt og betrumbæta frá því sem verið hefur.
MosaskarðshellirF
ERLIR vill að því tilefni minna á a.m.k. þrennt; í fyrsta lagi ætti það að vera hlutverk svæðisbundinnar „Markaðsstofu“ að sýna frumkvæði við að leita uppi áhugaverð viðfangsefni og virkja einstaklinga er hafa eitthvað áhugavert og markvert fram að bjóða, styðja þá og styrkja. Í öðru lagi að koma á framfæri og kynna áhugaverða möguleika og nýtingu svæðisins til áhugasamra sem og ferðamanna er vilja nýta sér svæðið með einum eða öðrum hætti, og í þriðja lagi að samhæfa alla þá, hvort sem um er að ræða fagaðila, opinbera styrktaraðila eða áhugasamt fólk um svæðið í sameiginlegri viðleytni til að koma upplýsingum og fróðleik um það til væntanlegra neytenda. Á allt þetta skortir verulega eins og staðan er í dag. Litskrúðugur og rándýr kynningarbæklingur gerir lítið fyrir Suðurnesin ef áður lýst bæklun hráir ferðamálaferlið í heild.
FERLIR hefur kynnt sér hvað aðrir landshlutar hafa verið að gera – og hafa áhuga á að gera til að kynna og laða að ferðamenn, innlenda og útlenda. Af viðtölum við ferðaþjónustuaðila er augljóst að mikil vakning er fyrir ferðalögum landsmanna innanlands. Í Skaftafellli hefur ferðamönnum t.a.m. fjölgað til mikilla muna á milli ára. Sömu sögu er að segja af öðrum helstu áfangastöðum ferðamanna á landinu. Ferðaþjónustuaðilar nýta sér í auknum mæli nándina og allt sem hún hefur upp á að bjóða.
ÞórunnarselÞegar skoðaðar eru aðstæður og möguleikar einstakra landshluta í samhengi hlutanna má segja að möguleikar Reykjanesskagans séu bæði einstaklega stórkostlegir og stórlega vanmetnir. Sú vitund og vitneskja, ef tekið er mið af frumkvæði og eftirfylgni, virðist ekki hafa skilað sér til aðstandenda „Markaðsstofu Suðurnesja“ – hingað til að minnsta kosti. Að vísu má geta einstakra frumkvæðisverkefna, sem vakið hafa athygli, s.s. útgáfa heilstæðs gönguleiðakorts af svæðinu, sem notið hefur æ meiri vinsælda, stikun á mörgum þeirra, útgáfa bæklinga um einstakar fornar þjóðleiðir og styrki til einstakra verkefna því tengdu – en miklu mun betur má gera í þeim efnum.
Hafa ber í huga að Reykjanesskaginn hefur upp á allt að bjóða, sem aðrir landshlutar eru hvað stoltastir af. Ef áhugi væri t.d. að auka verðmæti Húshellirsvæðisins sögulega séð m.t.t. þess að laða að ferðamenn framtíðarinnar, mætti með tiltölulega litlum tilkostnaði byggja upp eina selstöðu (af þeim 255 er finna má leifar af) og eina verstöð (af þeim 87 er finna má leifar af), eina fjárborg (af u.þ.b. 90) til að gefa innlendum og útlendum ferðamönnum svolitla innsýn í aldargamla búskaparsögu þjóðarinnar. Verstöðin við Bolungarvík og aðsóknin að henni ætti varla að letja hlutaðeigandi til verkefnanna.
Þegar framangreint er lesið ber að hafa í huga að markmið FERLIRs hefur um áratuga skeið fyrst og fremst að leita heimilda og fróðleiks, skoða vettvang, upplýsa og leggja sitt af mörkum til að ferðaþónustan á Reykjanesskaganum megi eflast og dafna. Allt efnið á vefsíðunni, u.þ.b. 3000 síður, er lesendum að kostnaðarlausu. Telja verður það a.m.k. svolítið verðugt framlagt í framangreindri viðleytni.

Gunnuhver

Við Gunnuhver.